Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

106/2008 Fjárborg

Með

Ár 2009, þriðjudaginn 10. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 106/2008, kæra á samþykkt umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar frá 27. ágúst 2008 um staðfestingu ákvörðunar byggingarfulltrúa um stöðvun framkvæmda við byggingu hesthúss á lóðinni nr. 10 við Fjárborg á Hellissandi og bókun nefndarinnar frá 19. nóvember 2008 þess efnis að ekki verði samþykkt að gengið verði frá hesthúsinu í þeirri mynd sem það sé.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. nóvember 2008, er barst nefndinni hinn 27. sama mánaðar, kærir L, Munaðarhóli 18, Snæfellsbæ, lóðarhafi Fjárborgar 10 á Hellissandi, samþykkt umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar frá 27. ágúst 2008 um staðfestingu ákvörðunar byggingarfulltrúa um stöðvun framkvæmda við byggingu hesthúss á lóðinni nr. 10 við Fjárborg á Hellissandi og bókun nefndarinnar frá 19. nóvember 2008 þess efnis að ekki verði samþykkt að gengið verði frá hesthúsinu í þeirri mynd sem það sé.

Verður að skilja erindi kæranda svo að gerð sé krafa um að ofangreint verði fellt úr gildi.  

Málavextir:  Í júní árið 2006 var kæranda máls þessa úthlutað lóð í Hraunskarði fyrir tómstundabúskap og var byggingarleyfi samþykkt 27. júní 2006.  Samkvæmt upplýsingum kæranda lét hann það ár slétta lóð og grafa fyrir grunni hússins.  Ári síðar var grunnur steyptur og húsið reist árið 2008. 

Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 21. ágúst 2008, voru framkvæmdir við bygginguna stöðvaðar og m.a. vísað til þess að húsið væri hvorki í samræmi við deiliskipulag né samþykktar teikningar.  Var á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar hinn 27. sama mánaðar eftirfarandi fært til bókar:  „Bréf dags. 21.08.2008 hefur verið sent lóðarhafa að Fjárborg 10 og framkvæmdir stöðvaðar.  Lóðarhafi hefur hafið byggingu við Fjárborg 10 á Hellissandi og er sú bygging ekki í samræmi við samþykkt deiliskipulag né samþykktar teikningar.  Lóðarhafa hefur verið gefinn kostur á að gefa skýrslu á þessari framkvæmd og skila inn teikningum eins og byggingin er í dag.  Umhverfis- og skipulagsnefnd samþykkir stöðvun framkvæmda meðan byggingin er ekki í samræmi við teikningar.  Einnig að skrifa byggingarstjóra verksins bréf og óska skýringa á stöðu verksins.  Nefndin felur byggingarfulltrúa einnig að undirbúa frekari aðgerðir.“  Var samþykkt þessi staðfest á fundi bæjarráðs hinn 28. ágúst 2008. 

Í gildi er Aðalskipulag Snæfellsbæjar 1995-2015.  Með breytingu þess hinn 24. október 2008 var svæði því er hér um ræðir breytt úr opnu óbyggðu svæði í opið svæði til sérstakra nota, þ.e. tómstundabúskap.  Í bréfi Skipulagsstofnunar til skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 22. október sama ár, var vísað til erindis Snæfellsbæjar þar sem óskað hafði verið meðmæla stofnunarinnar samkvæmt 3. tl. bráðabirgðaákvæða skipulags- og byggingarlaga til veitingar leyfis til byggingar 200 m² hesthúss á svæðinu, með hæstu leyfilegu þakhæð 5,0 m yfir gólfi.  Gerði stofnunin ekki athugasemd við að leyfi yrði veitt en benti á að vinna þyrfti deiliskipulag fyrir svæðið yrði af frekari uppbyggingu.  Með hliðsjón af þessu var á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 30. október 2008 endurútgefið byggingarleyfið frá 27. júní 2006. 

Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar hinn 19. nóvember s.á. lagði tæknideild bæjarins fram fyrirspurn til nefndarinnar þess efnis hvort kærandi myndi geta fengið leyfi fyrir hesthúsinu eins og það var þá.  Var eftirfarandi bókað:  „Umhverfis- og skipulagsnefnd samþykkir ekki að gengið verði frá húsinu í þeirri mynd sem það er í dag.  Byggingarnefnd fer fram á það að skilað verði inn teikningum í samræmi við byggt hús án turns og hann verði fjarlægður.“  Var bókun staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 20. nóvember 2008. 

Hefur kærandi kært til úrskurðarnefndarinnar fyrrgreinda samþykkt umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar frá 27. ágúst 2008 og bókun nefndarinnar frá 19. nóvember s.á. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að þegar húsið, sem hafi verið þrjú ár í byggingu, hafi verið orðið fokhelt hafi framkvæmdir verið stöðvaðar af byggingaryfirvöldum með þeim rökum að húsið væri ekki í samræmi við teikningar sem unnar hefðu verið af Bændasamtökunum árið 2001, en samtökin kannist ekkert við það. 

Hafi kærandi komist að því að byggingaryfirvöldum hafi ekki verið heimilt að veita leyfi til byggingarinnar þar sem deiliskipulag hafi ekki verið fyrir hendi.  Þeim hafi verið bent á að sækja um undanþágu fyrir húsi kæranda úr því það hafi verið komið upp og hafi sú undanþága fengist þar sem gert hafi verið ráð fyrir fimm metra háu, 200 m² húsi.  Verið sé að byggja annað hús sem ekki sé á deiliskipulagi og ekki með teikningar en sá húsbyggjandi fái að halda áfram.  Þá sé því ranglega haldið fram af byggingaryfirvöldum að húsið sé 5,32 metrar á hæð en hið rétta sé að það sé fimm metrar. 

Málsrök Snæfellsbæjar:  Af hálfu Snæfellsbæjar er vísað til þess að við vinnslu á deiliskipulagi svæðisins árið 1999 hafi verið ákveðið að fá teikningu frá Bændasamtökum Íslands sem nýtast myndi öllum lóðum á svæðinu og hafi kærandi fengið þess háttar teikningu.  Svo líði og bíði, ekkert gerist og engar framkvæmdir eigi sér stað.  Engum gögnum sé skilað inn til byggingarfulltrúa og ekki sé haft samband við hann um fyrirhugaða byggingu.  Það sé ekki fyrr en byggingarfulltrúi komi úr sumarfríi í byrjun ágúst 2008 að honum sé tilkynnt um framkvæmdir við hesthúsabygginguna.  Hafi kæranda verið tilkynnt að byggingarleyfi sem hann hafi fengið á árinu 2006 hafi aldrei tekið gildi þar sem aldrei hafi verið skilað inn tilskildum gögnum. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um samþykkt umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar frá 27. ágúst 2008 um staðfestingu á ákvörðun byggingarfulltrúa um stöðvun framkvæmda við byggingu hesthúss á lóðinni nr. 10 við Fjárborg á Hellissandi og bókun nefndarinnar frá 19. nóvember s.á. þar sem hafnað var breytingum á hinu umdeilda hesthúsi. 

Fyrir liggur að á fundi umhverfis- og byggingarnefndar hinn 27. júní 2006 var kæranda máls þessa úthlutað fyrrgreindri hesthúsalóð og leyfi til byggingar hesthúss samþykkt.   Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að hús það sem nú er risið á umræddri lóð sé bæði stærra og hærra en samþykktar teikningar heimila og stöðvaði byggingarfulltrúi byggingu þess eins og fyrr er vikið að. 

Um heimild byggingarfulltrúa til að stöðva framkvæmdir við byggingu húss, sem ekki hefur fengist leyfi fyrir eða byggt er á annan hátt en leyfi stendur til, er mælt fyrir um í 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Er þar um að ræða bráðabirgðaákvörðun sem tekin er tafarlaust en skal þó staðfest í byggingarnefnd svo fljótt sem við verður komið.  Í kjölfar slíkrar ákvörðunar þarf að taka afstöðu til afdrifa byggingarframkvæmdanna, eftir atvikum með veitingu byggingarleyfis eftir ákvæðum skipulags- og byggingarlaga eða ákvörðun um að bygging eða byggingarhluti verði fjarlægður, sbr. 2. og 4. mgr. 56. gr. laganna.  Unnt er að bera þær ákvarðanir undir úrskurðarnefndina      

Bókun umhverfis- og skipulagsnefndar frá 19. nóvember 2008 fól í sér svar við fyrirspurn til nefndarinnar þess efnis hvort kærandi myndi geta fengið leyfi fyrir hesthúsinu í samræmi við raunstærðir þess, en ekki liggur fyrir að byggingarleyfisumsókn þar að lútandi hafi verið lögð fram.

Að framangreindu virtu felur hin kærða ákvörðun um stöðvun framkvæmda og bókun umhverfis- og skipulagsnefndar, í tilefni af fyrirspurn varðandi umdeilt hesthús, ekki í sér lokaákvörðun um efni máls og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________           _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                      Aðalheiður Jóhannsdóttir

7/2009 Bústaðavegur

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 26. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 7/2009, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. maí 2008 um að veita leyfi fyrir smáhýsi úr timbri á lóðinni nr. 9 við Bústaðaveg.  Ennfremur er kærð synjun byggingarfulltrúans frá 8. janúar 2009 á beiðni kærenda um grenndarkynningu vegna ofangreinds byggingarleyfis. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. febrúar 2009, er barst nefndinni sama dag, kærir Dögg Pálsdóttir hrl., f.h. S, Stigahlíð 87 og S, Stigahlíð 89, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. maí 2008 að veita leyfi fyrir smáhýsi úr timbri á lóðinni nr. 9 við Bústaðaveg.  Þá er til vara kærð synjun byggingarfulltrúans frá 8. janúar 2009 um að verða við kröfu kærenda um grenndarkynningu vegna umdeildra framkvæmda. 

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.  Þá er þess krafist að úrskurðarnefndin kveði upp til bráðabirgða úrskurð um stöðvun framkvæmda.  Þar sem kærumálið þykir nú nægjanlega upplýst verður það tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi skipulagsstjóra Reykjavíkur hinn 29. febrúar 2008 var lögð fram fyrirspurn Geislavarna ríkisins um byggingu 20 m² skúrs á lóð Veðurstofu Íslands að Bústaðavegi 9.  Skipulagsstjóri afgreiddi fyrirspurnina með eftirfarandi bókun:  „Ekki eru gerðar athugasemdir við að fyrirspyrjandi láti vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi í samráði við embætti skipulagsstjóra, á eigin kostnað, sem síðar verður grenndarkynnt án þess tekin sé afstaða til staðsetningu samkvæmt skissu.“ 

Fyrirspurnin var tekin fyrir að nýju á afgreiðslufundi skipulagsstjóra hinn 4. apríl 2008 og svohljóðandi bókað:  „Leiðrétt bókun frá afgreiðslufundi skipulagsstjóra frá 29. febrúar 2008. Ekki eru gerðar athugasemdir við erindið. Byggingarleyfisumsókn verður grenndarkynnt þegar hún berst.“ 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 6. maí 2008 var tekin fyrir umsókn þar sem sótt var um leyfi fyrir 24,3 m² smáhýsi úr timbri fyrir Geislavarnir ríkisins á lóð nr. 9 við Bústaðaveg og fylgdi umsókninni samþykki lóðarhafa.  Var umsóknin afgreidd með svohljóðandi bókun:  „Samþykkt. Samræmist ákvæðum laga nr. 73/1997.“  Staðfesti borgarráð afgreiðsluna á fundi hinn 15. maí 2008. 

Hinn 22. desember 2008 höfðu kærendur máls þessa samband við embætti byggingarfulltrúa og mótmæltu framkvæmdum á lóð Veðurstofu Íslands og með tölvupósti byggingarfulltrúa, dags. 26. desember s.á., var þeim m.a. tilkynnt að embættið hefði samþykkt byggingu á smáhýsi á umræddri lóð og hafi þá legið fyrir umsagnir ýmissa aðila, m.a. skipulagsstjóra.  Væri ekki annað að sjá en að starfsmönnum hefði við yfirferð umsóknar yfirsést bókun þess efnis að umsókn um byggingarleyfi yrði grenndarkynnt ef hún bærist.  Þegar þetta hefði komið í ljós hefðu framkvæmdir verið stöðvaðar. 

Í kjölfar þessa var kærendum sendur aðaluppdráttur, er samþykktur hafði verið 6. maí 2008, af umræddu smáhýsi til óformlegrar kynningar á málinu og þeim bent á að hefðu þeir einhverjar athugasemdir fram að færa myndi fara fram grenndarkynning. 

Með tölvupósti til byggingarfulltrúa, dags. 5. janúar 2009, fóru kærendur fram á að formleg grenndarkynning ætti sér stað.  Með svarbréfi byggingarfulltrúa, dags. 8. janúar s.á. var þeim tilkynnt að fallið hefði verið frá grenndarkynningu á byggingarleyfisumsókn og að stöðvun framkvæmda hefði verið aflétt, með vísan til minnisblaðs skipulagsstjóra, dags. 8. janúar 2009. 

Málsrök kærenda:  Aðalkrafa kærenda byggist fyrst og fremst á þeirri málsástæðu að í umdeildri ákvörðun felist röskun á hagsmunum þeirra.  Enn fremur hafi skýr réttur verið brotinn á kærendum sem og öðrum er hagsmuna eigi að gæta þegar ákvörðun um byggingarleyfi hafi verið tekin án þess að grenndarkynning færi fram.  Hljóti slíkir annmarkar að leiða til þess að ákvörðunin verði felld úr gildi. 

Allur ferill málsins sé mjög einkennilegur og málsmeðferðin afar gagnrýnisverð.  Hafi kærendum fyrst orðið kunnugt um umræddar framkvæmdir þegar þær hafi byrjað í desember 2008.  Hafi þeir þá strax leitað upplýsinga og hafi byggingarfulltrúi stöðvað framkvæmdir enda hafi hann talið að um mistök væri að ræða. 

Vísi kærendur til 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en í 7. mgr. ákvæðisins sé fjallað um grenndarkynningu.  Eigi grenndarkynning annars vegar við þegar um sé að ræða minniháttar framkvæmdir í þegar byggðum hverfum, í þéttbýli eða dreifbýli, þar sem aðal- eða svæðisskipulag sé fyrir hendi en ekki deiliskipulag og fyrirhuguð framkvæmd víki ekki frá notkun, nýtingarhlutfalli eða yfirbragði hverfisins í verulegum atriðum.  Hins vegar eigi hún við þegar um sé að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi.  Grenndarkynning hafi þannig verið talin eiga við um stakar, óverulegar framkvæmdir í fullbyggðum hverfum í þéttbýli.  Felist grenndarkynningin í því að skipulagsráð kynni nágrönnum fyrirhugaða framkvæmd sem varðað geti hagsmuni þeirra, t.d. skert útsýni, og veiti þeim rétt til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.  Meti skipulagsnefnd í hverju tilviki hvort framkvæmd teljist það óveruleg að grenndarkynning sé nægileg og byggi það m.a. á eðli, staðsetningu og umfangi framkvæmdarinnar og hvaða áhrif hún hafi á nærliggjandi svæði. 

Að mati kærenda sé ekki hægt að túlka ákvæði annars vegar 7. mgr. 43. gr. laganna og hins vegar 2. mgr. 26. gr. sömu laga á annan veg en svo að skylt sé, í öllum tilfellum þegar byggingarleyfi sé veitt og um óverulega breytingu á deiliskipulagi sé að ræða, að grenndarkynna umsókn.  Ekki sé þannig gert ráð fyrir því í tilvitnuðum lögum að unnt sé að sneiða hjá afdráttarlausu orðalagi lagaákvæðis um grenndarkynningu vegna þess að framkvæmdir hafi „hverfandi“ grenndaráhrif að mati skipulagsfulltrúa.  Sé þessi niðurstaða í samræmi við það er fram komi í bókun afgreiðslufundar skipulagsstjóra hinn 4. apríl 2008, þar sem segi að ekki séu gerðar athugasemdir við erindið og að umsókn verði grenndarkynnt þegar hún berist.  Einnig sé þessi túlkun í samræmi við álit byggingarfulltrúans í Reykjavík, þ.e. að um mistök hafi væri að ræða. 

Hafi kærendur og aðrir íbúar götunnar verulegra hagsmuna að gæta.  Um sé að ræða svæði sem hingað til hafi verið óbyggt og hafi framkvæmdir veruleg áhrif á alla íbúa götunnar bæði sjónrænt sem og á útivist á svæðinu.  Umræddar framkvæmdir séu beint fyrir utan stofuglugga kærenda, blasi við þeim, og sé því um verulega sjónmengun að ræða auk þess sem framkvæmdirnar hafi verulegt rask í för með sér.  Byrgi þær sýn til suðurs frá lóðum kærenda og fyrirsjáanlegt sé að einnig verði um hljóðmengun að ræða en loft sé stöðugt sogað inn í skúrinn með tilheyrandi hávaða. 

Til vara sé þess krafist að ákvörðun byggingarfulltrúans um að hafna grenndarkynningu verði felld úr gildi og sé vísað til sömu röksemda hvað varakröfu varði og áður hafi verið fram settar.  Ljóst sé að reglur hafi verið brotnar þegar kærendum og öðrum sem hagsmuna eigi að gæta hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig og taka afstöðu til umræddrar framkvæmdar eins og skipulags- og byggingarlög geri ráð fyrir. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Borgaryfirvöld krefjast þess að kröfum kærenda verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að þeim verði hafnað.  Sé krafa um frávísun á því byggð að kærendur eigi enga lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð nefndarinnar um álitaefnið.  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga geti þeir „…einir skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.“  Í máli því sem hér um ræði verði ekki séð í hverju hinir einstaklegu lögákveðnu hagsmunir kærenda séu fólgnir, en hin umdeilda bygging sé í meira en 60 m fjarlægð frá íbúðarhúsum þeirra.  Við yfirferð á uppdráttum hafi komið í ljós að grenndaráhrif vegna umrædds smáhýsis séu hverfandi og hafi því ekki þótt ástæða til að grenndarkynna umsókn um byggingarleyfi.  Á það skuli einnig sérstaklega minnt að lóð Veðurstofu Íslands sé ekki skilgreint útivistarsvæði fyrir íbúa hverfisins og börn þeirra og eigi því íbúarnir ekkert tilkall til slíkra hagsmuna á lóðinni. 

Verði ekki fallist á frávísunarkröfu Reykjavíkurborgar í málinu sé á því byggt að ekki hafi verið skylt að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina í upphafi þar sem grenndaráhrif smáhýsisins séu svo óveruleg að þau raski ekki hagsmunum kærenda né annarra íbúa að neinu leyti.  Synjun á ósk kærenda um grenndarkynningu síðar hafi því einnig verið fullkomlega heimil.  Bent sé á að smáhýsið sé aðeins um 20 m² og um fjórir metrar á hæð en á vettvangi sjáist glöggt að útsýniskerðing vegna þess sé engin og aðeins sjáist glitta í efri hluta þess úr fjarlægð.  Umrætt smáhýsi sé staðsett innarlega á lóðinni, varði aðeins hagsmuni lóðarhafa og ekki sé nokkur leið að sjá hvaða réttmætu athugasemdir kærendur hefðu getað haft uppi við grenndarkynningu hefði hún farið fram.  Á það skuli sérstaklega bent að grenndarkynning skuli fara fram skv. 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 ef einhverjir finnast sem telja megi að hagsmuna hafi að gæta.  Það hafi verið mat skipulagsyfirvalda að engum hagsmunaaðilum hefði verið til að dreifa í málinu og því heimilt að samþykkja umsóknina án sérstakrar grenndarkynningar. 

Fari svo ólíklega að úrskurðarnefndin telji að hagsmunum kærenda hafi með einhverjum hætti verið raskað svo að kynna hefði átt þeim málið sérstaklega með grenndarkynningu skuli minnt á að eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar í nágrenni þeirra sem haft geti í för með sér útsýnisskerðingu, skuggavarp eða önnur óþægindi.  Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum. 

Þá hafi sú aðgerð byggingarfulltrúa, að stöðva framkvæmdir tímabundið á meðan kvörtun kærenda og mögulegur grunur um mistök borgarinnar í málinu hafi verið uppi, verið fullkomlega eðlileg í ljósi aðstæðna.  Sú aðgerð að aflétta stöðvun hafi einnig verið réttmæt og eðlileg í ljósi minnisblaðs skipulagsstjóra, dags. 8. janúar sl. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi bendir á að kærendur búi í meira en 60 m fjarlægð frá umræddum skúr sem sé fyrirferðarlítill, aðeins um 20 m² að flatarmáli og 4 m á hæð, sem leiði af sér hverfandi grenndaráhrif, jafnvel engin.  Vísi byggingarleyfishafi til 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 þar sem m.a. komi fram að í grenndarkynningu felist að nágrönnum sem hagsmuna eigi að gæta sé kynnt málið og gefinn kostur á að tjá sig innan ákveðins frests sem skuli vera a.m.k. fjórar vikur. 

Vert sé að árétta að lóð nr. 9 við Bústaðaveg sé í ódeiliskipulögðu hverfi og að samræmisskýring kærenda á 2. mgr. 26. gr. laga nr. 73/1997 um breytingu á deiliskipulagi og 7. mgr. 43. gr. sömu laga eigi ekki við.  Það að kærendur geti fallist á að um óverulegar breytingar á deiliskipulagi sé að ræða eigi ekki við þar sem ekkert deiliskipulag hafi verið samþykkt fyrir svæðið.  Aftur á móti beri að grenndarkynna umsóknir á ódeiliskipulögðum svæðum fyrir þeim nágrönnum sem hagsmuna eigi að gæta og sé það afstaða byggingarleyfishafa að þeir grenndarhagsmunir séu ekki til staðar, þ.e. illmögulegt sé að tilgreina þá aðila sem hagsmuni geti haft af framkvæmdinni.  Framkvæmdin muni ekki fela í sér skert útsýni fyrir kærendur, hún sé ekki í óþægilegri nálægð við kærendur og muni hún ekki varpa skugga á lóðir þeirra eða á annan hátt skerða hagsmuni þeirra. 

Bent sé á að skúrinn gegni hlutverki mælistöðvar er mæli geislavirkar svifagnir í andrúmslofti og séu strangar kröfur gerðar um að finna staði er hæfi.  Vegi veðurfarsleg skilyrði hvað þyngst auk þess sem sjónlína þurfi að vera við gervihnött.  Hvað hávaða af notkun skúrsins varði, þá beri að taka það fram að byggingarleyfishafi hafi gert sérstaka kröfu til hönnuða um að tryggja að hávaði verði innan ásættanlegra marka, enda skúrinn nærri fjölmennum vinnustað.  Því sé alfarið vísað á bug að búnaðurinn hafi þann hávaða í för með sér að hann hafi áhrif á kærendur.  Þá sé talið nauðsynlegt að árétta að afgreiðsla skipulagsstjóra frá 4. apríl 2008, þar sem bókað hafi verið að byggingarleyfisumsókn yrði grenndarkynnt þegar hún bærist, hafi ekki verið stjórnvaldsákvörðun heldur leiðbeiningar sem stjórnvald hafi gefið fyrirspyrjanda.  Breytt afstaða skipulagsstjórans í Reykjavík feli ekki í sér afturköllun á stjórnvaldsákvörðun og sé stjórnvald í fullum rétti til að breyta afstöðu sinni telji það fyrri afstöðu ranga. 

—————

Aðilar hafa fært fram frekari rök í málinu sem ekki verða rakin hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér óformlega aðstæður á vettvangi hinn 20. febrúar 2009. 

Niðurstaða:  Lóð Veðurstofu Íslands, er hin umdeilda bygging stendur á, er á ódeiliskipulögðu svæði, en hún er skilgreind sem stofnanalóð í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur.  Um er að ræða mótaða byggð nærri miðju þéttbýli höfuðborgarsvæðisins en engar byggingar standa á milli fasteigna kærenda og umdeilds skúrs.

Reykjavíkurborg hefur krafist þess að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar eð kærendur hafi ekki neina lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð nefndarinnar í málinu. Við vettvangsskoðun kom í ljós að hin umdeilda bygging blasir við úr stofugluggum og frá suðurverönd fasteigna kærenda. Verður samkvæmt því að telja að kærendur hafi tvímælalaust lögvarða hagsmuni af úrlausn máls þessa þótt ekki verði hér tekin afstaða til þess hversu ríkir þeir hagsmunir eru. Verður því að hafna kröfu um frávísun málsins frá nefndinni.

Samkvæmt meginreglu, sem fram kemur í 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, skal gera deiliskipulag þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Sú undantekning er gerð í 3. mgr. ákvæðisins, þegar um er að ræða þegar byggð hverfi, að sveitarstjórn getur veitt heimild til framkvæmda þótt deiliskipulag liggi ekki fyrir, en þá að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt 7. mgr. 43. gr. laganna.  Í því ákvæði kemur fram að grenndarkynning sé í því fólgin að nágrönnum, sem hagsmuna eiga að gæta, sé kynnt málið og gefinn kostur á að tjá sig innan ákveðins frests.  Hið kærða byggingarleyfi var veitt án þess að grenndarkynning hefði átt sér stað.  Hafa borgaryfirvöld skýrt þær málalyktir með því að grenndaráhrif byggingarinnar væru hverfandi. 

Telja verður eins og hér háttar að umrætt smáhýsi hafi grenndaráhrif.  Samkvæmt fyrirmælum 3. mgr. 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, bar því að grenndarkynna umrædda framkvæmd fyrir kærendum og öðrum hugsanlegum hagsmunaaðilum áður en hið kærða byggingarleyfi var veitt.  Sá annmarki að þess var ekki gætt leiðir til ógildingar byggingarleyfisins enda ekki útilokað að hugsanlegar athugasemdir nágranna hefðu getað haft áhrif á efni hinnar kærðu ákvörðunar. 

Að þeirri niðurstöðu fenginni þykir ekki ástæða til að fjalla um varakröfu kærenda í máli þessu. 

Úrskurðarorð:

Byggingarleyfi fyrir smáhýsi úr timbri á lóðinni að Bústaðavegi 9 í Reykjavík, er byggingarfulltrúi veitti hinn 6. maí 2008 og staðfest var í borgarráði hinn 15. maí sama ár, er fellt úr gildi.

 

 

___________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

_____________________________                  ____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson

34/2008 Bergstaðir

Með

Ár 2009, föstudaginn 20. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 34/2008, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 2. október 2007 um að samþykkja deiliskipulag frístundabyggðar í landi Bergstaða í Biskupstungum.  Jafnframt er kærð ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 18. mars 2008 um að samþykkja leyfi til byggingar frístundahúss á landspildu þeirri sem deiliskipulagið tekur til. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. maí 2008, er barst nefndinni 8. sama mánaðar, kærir B, eigandi landspildu með landnúmer 167201 í landi Bergstaða, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 2. október 2007 að samþykkja deiliskipulag fyrir frístundahúsalóðir við Bergás í landi Bergstaða í Biskupstungum.  Var auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 8. apríl 2008.  Jafnframt er kærð ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 18. mars 2008, er sveitarstjórn staðfesti hinn 8. apríl s.á., um að samþykkja leyfi til byggingar frístundahúss á landspildu þeirri sem hin kærða skipulagsákvörðun tekur til.  Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. 

Málavextir:  Á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 20. september 2007 var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi þriggja frístundahúsalóða við Bergás, spildu með landnúmer 167203 úr landi Bergstaða í Biskupstungum, og staðfesti sveitarstjórn Bláskógabyggðar greinda afgreiðslu á fundi hinn 2. október s.á.  Tillagan var auglýst til kynningar frá 16. nóvember 2007 til 14. desember s.á. en engar athugasemdir bárust og var skipulagið í framhaldi af því sent Skipulagsstofnun í samræmi við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Gerði Skipulagsstofnun ekki athugasemd við að gildistaka skipulagsins yrði auglýst og birtist sú auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda hinn 8. apríl 2008. 

Gerir deiliskipulagið ráð fyrir þremur frístundahúsalóðum, um 5.000 m² hverri, á spildu í landi Bergstaða með landnúmer 167203, og þar af fái eldra frístundahús á spildunni skilgreinda lóð.  Skulu frístundahús að jafnaði ekki vera stærri en 150 m².  Um aðkomu að svæðinu segir svo í greinargerð skipulagsins:  „Svæðið tengist með aðkomuleið frá safnvegi 358.  Aðkomuleið verður framlenging á núverandi heimreið að frístundahúsum og er sameign lóðarhafa.“  Eru vegir og bílastæði sýnd á uppdrætti. 

Hinn 18. mars 2008 var tekin fyrir í skipulags- og byggingarnefnd umsókn um leyfi til byggingar 82 m² sumarhúss í landi Bergáss á Bergstöðum og hún samþykkt með fyrirvara um athugasemdir byggingarfulltrúa.  Staðfesti sveitarstjórn afgreiðsluna hinn 8. apríl 2008. 

Málsrök kæranda:  Kærandi tekur fram að hluti hins nýja vegar sé inni á landi hans.  Skerði vegurinn bæði aðkomu og bílastæði við sumarbústað hans og auki umferð.  Einnig fari lóð sem merkt sé nr. 3 í skipulaginu inn á landareign kæranda.  Meðal markmiða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulags- og byggingarmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. ákvæði 3. mgr. 1. gr. laganna og grein 1.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Hafi við gerð skipulagsins verið horft fram hjá skýrum ákvæðum jarðaskiptalýsingar sem allir eigendur Bergstaða hafi gert árið 2001.  Þá hafi tillagan ekki verið kynnt kæranda sérstaklega en eðlilegt hefði verið að gera það þar sem beinlínis sé um að ræða nýtingu á eignarrétti hans.  Vísar kærandi m.a. til ákvæða 9. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 í því sambandi sem og til meginreglu tilvitnaðra laga. 

Málsrök Bláskógabyggðar:  Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að það hafi verið metið svo að auglýsingin hafi fullnægt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga og skipulagið hafi ekki verið kynnt kæranda sérstaklega.  Í landi Bergstaða séu í gildi ákveðnar kvaðir um aðgengi að landi sem og leyfilegan fjölda frístundahúsa á mismunandi eignarhlutum og hafi verið talið að deiliskipulagið samræmdist þeim.  Ekki sé rétt að lóð nr. 3 fari inn á land kæranda sé miðað við landamerki samþykkts deiliskipulagsuppdráttar.  Þá verði umræddur vegur færður ef í ljós komi að hann fari inn á land kæranda. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi bendir á að á uppdrætti nýs deiliskipulags virðist upptök hins nýja vegar liggja að hluta til inni á landi kæranda en eftir mælingar löggilts landmælingamanns hafi komið í ljós að svo væri ekki.  Í einu og öllu hafi verið staðið eðlilega að framkvæmdum á eignarlandinu og lögbýlinu Bergási, til að mynda við lagningu téðs einkavegar og við byggingu frístundahúss á spildunni.  Hafi byggingarleyfishafi í því ferli öllu staðið að framkvæmdum samkvæmt bestu vitund, farið að lögum og fylgt ráðleggingum löggiltra fagmanna og fyrirmælum þar til bærra stjórnvalda. 

—————

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök í máli þessu sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 20. september 2007 var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Bergstaða í Bláskógabyggð.  Var samþykktin staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 2. október s.á. Tillagan var auglýst til kynningar frá 16. nóvember til 14. desember 2007 með athugasemdafresti til 28. desember s.á., án þess að athugasemdir bærust.  Var tekið fram í auglýsingunni að hver sá sem ekki gerði athugasemdir við tillöguna innan tilskilins frests teldist vera samþykkur henni.  Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að kærandi máls þessa hafi fyrst með bréfi til skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps, dags. 25. apríl 2008, komið á framfæri athugasemdum sínum vegna hins kærða deiliskipulags. 

Í 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að þegar sveitarstjórn hefur samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi skuli hún auglýst og kynnt á sama hátt og kveðið er á um varðandi auglýsingu aðalskipulags í 1. og 2. mgr. 18. gr. laganna.  Þar segir m.a. að í auglýsingu skuli hverjum þeim aðila sem telji sig eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna innan ákveðins frests sem eigi skuli vera skemmri en sex vikur frá birtingu auglýsingar.  Taka skuli fram hvert skila skuli athugasemdum og að hver sá sem eigi geri athugasemdir við auglýsta tillögu innan tilskilins frests teljist samþykkur henni. 

Fyrrnefnd ákvæði skipulags- og byggingarlaga verða ekki skilin öðruvísi en svo að þeir sem ekki koma á framfæri athugasemdum sínum á auglýstum kynningartíma deiliskipulagstillögu teljist vera samþykkir henni og verður að leggja það til grundvallar í máli þessu.  Eins og atvikum er hér háttað verður ekki fallist á að kærandi, sem að lögum telst hafa verið samþykkur umdeildri skipulagstillögu, geti síðar haft uppi í kærumáli kröfu um ógildingu skipulagsákvörðunar, sem samþykkt hefur verið á grundvelli tillögunnar, án breytinga er varðað geta hagsmuni hans.  Ber því að vísa kröfu hans um ógildingu hins umdeilda deiliskipulags frá úrskurðarnefndinni. 

Kærandi hefur einnig kært ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 18. mars 2008 um leyfi til byggingar sumarhúss á landspildu þeirri er deiliskipulagið tekur til. 

Í máli þessu liggur fyrir að skipulags- og byggingarnefnd samþykkti leyfi til byggingar frístundahúss hinn 18. mars 2008 og var það staðfest af sveitarstjórn hinn 8. apríl s.á. eða sama dag og auglýsing um gildistöku ofangreinds skipulags var birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Samkvæmt 8. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingarblað skulu birt fyrirmæli binda alla frá og með deginum eftir útgáfudag þeirra Stjórnartíðinda þar sem fyrirmælin voru birt ef þau geyma ekki aðrar ákvarðanir um gildistöku sína.  Af þeim sökum átti hið kærða byggingarleyfi sér ekki stoð í gildandi skipulagi svo sem áskilið er í 2. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 þegar ákvörðun um veitingu þess hlaut fullnaðarafgreiðslu í sveitarstjórn og verður það því fellt úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu um ógildingu deiliskipulags frístundabyggðar í landi Bergstaða í Biskupstungum, sem samþykkt var af sveitarstjórn Bláskógabyggðar 2. október 2007, er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Hið kærða byggingarleyfi, er skipulags- og byggingarnefnd uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps samþykkti hinn 18. mars 2008, og sveitarstjórn staðfesti 8. apríl sama ár, er fellt úr gildi. 

 

 

_________________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Aðalheiður Jóhannsdóttir

143/2007 Helluhraun

Með

Ár 2009, föstudaginn 20. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 143/2007, kæra eiganda hússins að Helluhrauni 16, Reykjahlíð, Skútustaðahreppi, synjun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 23. ágúst 2007 um leyfi til sölu gistingar að Helluhrauni 16 í Reykjahlíð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. október 2007, er barst nefndinni hinn 26. sama mánaðar, kærir J, f.h. eiganda hússins að Helluhrauni 16, Reykjahlíð, Skútustaðahreppi, synjun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 23. ágúst 2007 um leyfi til sölu gistingar að Helluhrauni 16 í Reykjahlíð. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir og rök:  Með umsókn til sýslumannsins á Húsavík, dags. 25. júlí 2006, óskaði kærandi máls þessa eftir leyfi til sölu gistingar á einkaheimilum að Helluhrauni 15 og 16 í Reykjahlíð.  Með leiðréttu bréfi embættis sýslumanns, dags. 20. september 2006, var óskað umsagnar sveitarstjórnar um umsóknina.  Á fundi sveitarstjórnar 12. október 2006 var samþykkt beiðni kæranda er laut að Helluhrauni 15 en varðandi Helluhraun 16 var samþykkt að fela sveitarstjóra að láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Bárust þrjár athugasemdir fyrir tilskilinn tíma og ein degi síðar.  Á fundi sveitarstjórnar hinn 23. ágúst 2007 var eftirfarandi samþykkt:  „Sveitarstjórn getur tekið undir með íbúum Helluhrauns að aukinn gistirekstur í götunni þýði aukna umferð og ónæði.  Þá tekur sveitarstjórn undir með íbúum götunnar að gistirekstur að Helluhrauni 16 getur að óbreyttu teppt aðgengi að Heilsugæslustöðinni.  Sveitarstjórn hafnaði með þremur atkvæðum gegn tveimur að verða við óskum Eldár ehf. um leyfi til reksturs gistingar að Helluhrauni 16.“  Með bréfi, dags. 27. september 2007, var framangreind bókun tilkynnt embætti sýslumanns. 

Hefur kærandi kært framangreinda samþykkt svo sem að framan greinir. 

Af hálfu kæranda er vísað til þess að bókun meirihluta sveitarstjórnar sé ekki studd haldbærum rökum ásamt því að vera að öllum líkindum brot á jafnræðisreglu. 

Af hálfu sveitarfélagsins er tekið undir athugasemdir þær er bárust við kynningu á erindi sýslumanns. 

Niðurstaða:  Í máli þessu liggur fyrir að kærandi lagði fram umsókn hjá sýslumannsembættinu á Húsavík, m.a. um leyfi til sölu gistingar í þremur herbergjum í húsinu að Helluhrauni 16 í Reykjahlíð, og óskaði embættið eftir umsögn sveitarstjórnar.  Kaus sveitarstjórn að grenndarkynna erindið með vísan til 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, án þess þó að beiðni um byggingarleyfi eða skipulagsbreytingu lægi fyrir sveitarstjórn.  Var afgreiðsla sveitarstjórnar á umsagnarbeiðni sýslumanns aðeins liður í málsmeðferð á fyrrgreindri umsókn um leyfi til sölu gistingar.  Hin kærða afstaða sveitarstjórnar var því ekki lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og verður hún af þeim sökum ekki kærð til úrskurðarnefndarinnar.  Máli þessu er því vísað frá nefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

____________________________________
Ásgeir Magnússon

 

______________________________               _______________________________
 Þorsteinn Þorsteinsson                                         Aðalheiður Jóhannsdóttir

23/2008 Dugguvogur

Með

Ár 2009, þriðjudaginn 10. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 23/2008, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. mars 2008 um að hafna umsókn um breytta notkun tiltekinna eignarhluta í atvinnuhúsinu nr. 10 við Dugguvog í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. apríl 2008, er barst nefndinni sama dag, kærir R ehf. þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. mars 2008 að hafna umsókn kæranda um að breyta notkun eignarhluta 0206, 0207 og 0211 á annarri hæð, ásamt eignarhluta 0107 og 0111 á fyrstu hæð, í húsinu nr. 10 við Dugguvog, úr atvinnuhúsnæði í gistiheimili.  Hin kærða ákvörðun var staðfest í borgarráði 6. mars 2008.  Gerir kærandi þá kröfu að ákvörðunin verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 19. febrúar 2008 var tekin fyrir umsókn kæranda um leyfi til að breyta tilteknu atvinnuhúsnæði á lóð nr. 10 við Dugguvog í gistiheimili.  Málinu var frestað og vísað til umsagnar skipulagsstjóra sem tók málið fyrir á embættisafgreiðslufundi 29. febrúar 2008.  Á þeim fundi var bókað að leyfisumsóknin samræmdist ekki ákvæðum Aðalskipulags Reykjavíkur 2001-2024.  Erindið var síðan tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 4. mars 2008 þar sem því var synjað með vísan til fyrrgreindrar afgreiðslu skipulagsstjóra.  Mun kærandi hafa borið þessa niðurstöðu undir skipulagsráð sem tók málið fyrir hinn 7. maí 2008, en taldi ekki ástæðu til að breyta ákvörðun byggingarfulltrúa. 

Málsrök kæranda:  Kærandi skírskotar til þess að umsóttur gistiheimilisrekstur að Dugguvogi 10, sem falli undir reit A1 í aðalskipulagi, falli vel að áherslum og markmiðum skipulagsins, sem sett séu fram í greinargerð 1 og á uppdrætti.  Þar sé lögð áhersla á þéttingu íbúðabyggðar innan atvinnusvæða og þá sérstaklega innan eldri iðnaðarsvæða, auk þess sem gert sé ráð fyrir blandaðri byggð íbúða og atvinnustarfsemi í Elliðaárvogi.  Um reit A1 sé tekið fram að íbúðarhúsnæði sé heimilað í tengslum við atvinnustarfsemi á svæðinu og ráðagerð sé um að heimila fjölgun íbúða á reitnum um 40 með breytingu atvinnuhúsnæðis í íbúðir. 

Gistiheimilisrekstur að Dugguvogi 10 falli vel að framangreindum áherslum og markmiðum aðalskipulagsins.  Fjöldi atvinnufyrirtækja sé í næsta nágrenni og gæti gistiheimili, sem starfsmenn fyrirtækja í nágrenninu gætu nýtt sér, jafnframt þjónað markmiðum aðalskipulagsins um vistvænar samgöngur.  Þegar hafi verið heimilaður gistiheimilisrekstur í húsinu nr. 7 við Dugguvog og beri afgreiðslur embættis byggingarfulltrúa með sér að unnið sé að framangreindum markmiðum aðalskipulags þar sem heimilaðar hafi verið íbúðir í fjölda húsa við Dugguvog og Súðavog.  Af framangreindum ástæðum sé réttmæti hinnar kærðu ákvörðunar dregið í efa. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 sé umrædd fasteign staðsett á skilgreindu athafnasvæði.  Í gr. 4.6 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 sé tekið fram að almennt skuli ekki gera ráð fyrir íbúðum á athafnasvæðum.  Þó sé unnt að gera ráð fyrir íbúðum er tengist starfsemi fyrirtækja, s.s. fyrir húsverði.  Ekki sé átt við gistiheimili, opin almenningi, enda sé slíkur rekstur ekki í samræmi við skilgreiningu svæðisins. 

Markmið gildandi aðalskipulags um þéttingu byggðar, sem kærandi skírskoti til, feli ekki í sér þéttingu og fjölgun íbúða á skipulögðum athafnasvæðum eins og Dugguvogur 10 tilheyri og vart verði séð að tilvitnuð markmið um öruggar og vistvænar samgöngur eigi við eða náist fram með umbeðnum gistiheimilisrekstri kæranda.  Skrifstofur og vinnustofur hafi verið leyfðar á umræddu svæði og íbúðir í tengslum við starfsemi þar.  Því sé vísað á bug að Reykjavíkurborg stefni að þéttingu byggðar á athafnasvæðum enda sé slíkt ekki í samræmi við gildandi Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024. 

Umsókn um gistiheimilisrekstur að Dugguvogi 7 hafi verið synjað á sínum tíma en samþykki fengist á árinu 2005 fyrir þegar gerðum breytingum á innra fyrirkomulagi hússins, úr verkstæði í gistiheimili með átta gistirýmum.  Ekki sé ljóst af fyrirliggjandi gögnum af hvaða ástæðum mál Dugguvogar nr. 7 hafi fengið þá afgreiðslu sem um ræði.  Hafa verði í huga að um hafi verið að ræða umsókn um leyfi fyrir áður gerðum breytingum á húsnæði í gildistíð eldra skipulags og gæti það skýrt leyfisveitinguna.  Þrátt fyrir jafnræðisreglu stjórnarskrár og stjórnsýslulaga geti borgarar ekki vænst þess að öðlast rétt á grundvelli jafnræðis með tilvísun til einstakra tilfella sem kunni að stafa af mistökum eða misskilningi. 

Af framangreindu verði að telja að umrædd synjun á byggingarleyfi fyrir gistiheimili að Dugguvogi 10 sé byggð á málefnilegum sjónarmiðum, enda engin heimild í lögum eða gildandi aðalskipulagi fyrir veitingu slíks leyfis. 

Niðurstaða:  Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 er svæði það sem fasteignin að Dugguvogi 10 tilheyrir skilgreint sem athafnasvæði, en ekki hefur verið samþykkt deiliskipulag að svæðinu.  Í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, gr. 4.6.1, er athafnasvæði skilgreint svo að þar skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir atvinnustarfsemi, svo sem léttum iðnaði, vörugeymslum, hreinlegum verkstæðum og umboðs- og heildverslunum.  Þar er og tekið fram að almennt skuli ekki gera ráð fyrir íbúðum á athafnasvæðum þótt unnt sé að heimila íbúðir tengdar starfsemi fyrirtækja, svo sem fyrir húsverði.  Samkvæmt aðalskipulagsuppdrætti er fyrrnefnd fasteign að Dugguvogi 10 á athafnasvæði, merkt A1, og segir um það svæði í greinargerð skipulagsins að þar sé fyrst og fremst gert ráð fyrir léttum iðnaði, skrifstofum, vinnustofum og íbúðarhúsnæði í tengslum við starfsemi á svæðinu. 

Telja verður að skilgreind landnotkun í gildandi aðalskipulagi, sem túlka ber til samræmis við áðurnefnda skilgreiningu skipulagsreglugerðar á athafnasvæðum, heimili ekki gistiheimilisrekstur að Dugguvogi 10.  Slíkum rekstri er fyrst og fremst ætlaður staður á miðsvæðum samkvæmt gr. 4.4.1 í skipulagsreglugerð.  Verður þröngum heimildum reglugerðarinnar um einstakar íbúðir á athafnasvæðum ekki jafnað til þess að þar sé heimilaður gistiheimilisrekstur.  Þótt dæmi kunni að vera um að veitt hafi verið byggingarleyfi, er fari í bága við skilgreinda landnotkun aðalskipulags og skipulagsreglugerðar, víkur slík framkvæmd ekki greindum ákvæðum um landnotkun til hliðar. 

Að framangreindum ástæðum var borgaryfirvöldum rétt, með hliðsjón af ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, að synja umsókn kæranda um að nýta hluta fasteignarinnar að Dugguvogi 10 undir gistiheimili. 

Meðal málsgagna sem kærandi vísar til er blað, sem virðist vera hluti greinargerðar aðalskipulags, og mun hafa verið aðgengilegt á vef skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkur.  Upplýst var undir rekstri málsins að þar væri um að ræða hugmyndir eða tillögur að breytingum á skipulaginu við endurskoðun þess.  Skjal þetta hefur því enga þýðingu við úrlausn málsins en birting þess á vefsvæði skipulags- og byggingarsviðs, án skýringa eða fyrirvara, var til þess fallin að villa um fyrir kæranda og verður að finna að birtingu þess með þessum hætti. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. mars 2008 um að synja umsókn kæranda um að breyta notkun eignarhluta 0206, 0207 og 0211 á annarri hæð, ásamt eignarhluta 0107 og 0111 á fyrstu hæð, í húsinu nr. 10 við Dugguvog, úr atvinnuhúsnæði í gistiheimili. 

 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

150/2007 Hnúksnes

Með

Ár 2009, miðvikudaginn 21. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 150/2007, kæra á ákvörðun byggðarráðs Dalabyggðar frá 4. júlí 2007 um að veita framkvæmdaleyfi til byggingar flotbryggju í Hnúksnesi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst hinn 5. nóvember 2007, kæra S og E, eigendur jarðarinnar Hnúks í Dalabyggð, þá ákvörðun byggðarráðs Dalabyggðar frá 4. júlí 2007 að veita framkvæmdaleyfi til byggingar flotbryggju í Hnúksnesi, sem er hluti jarðarinnar Hnúkur. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða samþykkt verði felld úr gildi.

Málavextir og rök:  Á fundi byggðarráðs Dalabyggðar hinn 4. júlí 2007 var lögð fram umsókn leigutaka hluta jarðarinnar Hnúks, svokallaðs Hnúksness, um að veita  framkvæmdaleyfi til byggingar flotbryggju.  Var umsóknin samþykkt.

Af hálfu kærenda er vísað til þess að hin kærða ákvörðun sé tekin án nokkurs samráðs við þá sem landeigendur og að þeim hafi ekki verið gefin kostur á að kynna sér framkvæmdina að nokkru leyti.  Þeim sé t.d. ekki kunnugt um í hverju umrædd framkvæmd sé fólgin, umfang hennar, hvernig mannvirkið komi til með að líta út eða hvar ætlunin sé að staðsetja það, en kærendur hafi augljósa, lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.  

Bent sé á að framkvæmdin sé einkaframkvæmd, væntanlega unnin á vegum einkahlutafélagsins Hnúksness, og því ekki unnin á vegum opinberra aðila.  Leiki vafi á hvort framkvæmdin sé ekki byggingarleyfisskyld, sbr. 3. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Land það sem framkvæmdaleyfið taki til, þ.e. Hnúksnes, tilheyri jörðinni Hnúki og sé því mótmælt að byggðarráð geti heimilað hina umdeildu framkvæmd án nokkurs samráðs eða samþykkis landeigenda, þ.á.m. að virtum grenndar- og nábýlisrétti, svo og að virtum skipulagsskyldum sveitarfélagsins lögum samkvæmt.  Sé m.a. bent á að ekki hafi verið gætt að andmælarétti landeigenda samkvæmt 1. mgr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kanna þurfi hvort fyrirhuguð mannvirkjagerð í Hnúksnesi sé í samræmi við gildandi deiliskipulag sveitarfélagsins, sbr. 1. mgr. 6. gr. hafnalaga nr. 61/2003 ásamt því hvort fyrir Siglingastofnun hafi verið lögð gögn um gerð mannvirkjanna til samþykktar áður en framkvæmdir hefjist.   

Málsrök Dalabyggðar:  Af hálfu Dalabyggðar er vísað til þess að Hnúksnes ehf. sé með á leigu land úr jörðinni Hnúki og þar séu mannvirki, þ. á m. bryggja, sbr. leigusamning og afsal, dags. 15. október 1967 og dags. 26. febrúar 1972.  Hnúksnes ehf. muni hafa leitað til Siglingastofnunar og óskað eftir heimild til byggingar flotbryggju við gamla bryggju, sem þar sé, í tengslum við ferðaþjónustu á svæðinu.  Hafi Siglingastofnun samþykkt framkvæmdina og styrk til verkefnisins.  Tekið sé fram að fyrstu hugmyndir hafi gert ráð fyrir því að endurbyggja gömlu bryggjuna en þær síðan breyst í að byggja litla flotbryggju við hana.  Hnúksnes ehf. hafi sótt um framkvæmdaleyfi og hafi það verið samþykkt enda sé Hnúksnes ehf. með land á leigu á umræddum stað og mannvirki á því landi.  Þá sé ekki annað vitað en að öll tilskilin leyfi Siglingastofnunar séu fyrir hendi. 

Varðandi fullyrðingu kærenda þess efnis að þeim hafi ekki verið veittur kostur á að kynna sér málið sé tekið fram að maður sá er hafi ætlað að annast framkvæmdina fyrir Hnúksnes ehf. hafi farið sérstaklega á fund annars kærenda til að kynna honum málið.  Á þeim fundi hafi engar athugasemdir komið fram. 

Niðurstaða:  Í máli þessu liggur fyrir samningur, dags. 15. október 1967, þar sem leigður er á erfðafestu hluti úr jörðinni Hnúki undir verslunarhús, sláturhús, frystihús o.fl.  Með afsali, dags. 26. febrúar 1972, voru mannvirki á lóðinni seld hlutafélaginu Hnúksnesi ásamt því að lóðarréttindum var afsalað.  Þá liggur og fyrir í málinu dómur Hæstaréttar í máli nr. 43/2006 þar sem hafnað er kröfu kærenda máls þessa um uppsögn eða riftun áðurnefnds samnings og verður hann því lagður til grundvallar.   Samkvæmt samningnum er lóðin 1.500 m² að stærð og nær til sjávar.  Er leigutaka heimilt að reisa á lóðinni hver þau mannvirki sem hann óskar.  Verður að telja að flotbryggja sú, sem heimilað var að koma fyrir með hinu kærða leyfi, rúmist innan heimilda leigutaka samkvæmt lóðarleigusamningi og að ekki hafi því borið nauðsyn til þess að afla sérstaks samþykkis kærenda umfram það sem í samningnum fólst.  Þá var hið umdeilda leyfi í samræmi við    Svæðisskipulag Dalasýslu og Austur-Barðastrandarsýslu 1992-2012, en þar er gert ráð fyrir smábátahöfn og lendingarstað í Hnúksnesi og máttu kærendur vænta þess að mannvirki væru gerð þar í samræmi við skipulag.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki talið að sveitarstjórn Dalabyggðar hafi borið að kynna kærendum umsókn Hnúksness ehf. um framkvæmdaleyfið, eða afla samþykkis þeirra áður en leyfið var veitt.  Ekki verður heldur séð að aðrir þeir annmarkar hafi verið á undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar að ógildingu varði og verður kröfu kærenda því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggðarráðs Dalabyggðar frá 4. júlí 2007 um að veita framkvæmdaleyfi til byggingar flotbryggju í Hnúksnesi. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________        ____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

 

57/2006 Norðurstígsreitur

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 29. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 57/2006, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 17. maí 2006 um breytingu á deiliskipulagi reits 1.132.0, svonefnds Norðurstígsreits, er varðar lóðina nr. 24 við Vesturgötu í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 13. júlí 2006, er barst nefndinni sama dag, kærir L, Vesturgötu 23, Reykjavík, auk 34 íbúa við Vesturgötu, fjögurra íbúa við Nýlendugötu og tveggja við Norðurstíg, ákvörðun skipulagsráðs frá 17. maí 2006 um breytingu á deiliskipulagi reits 1.132.0, svokallaðs Norðurstígsreits, vegna lóðarinnar að Vesturgötu 24 í Reykjavík.  Auglýsing um gildistöku breytts deiliskipulags var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 15. júní 2006.  Krefjast kærendur þess að hin kærða ákvörðun verði ógilt.

Málavextir:  Á árinu 2004 tók gildi deiliskipulag fyrir Norðurstígsreit.  Í því var m.a. gert ráð fyrir að Reykjavíkurborg leysti til sín 346, m² lóð að Vesturgötu 24 er skipt yrði í 151, m² íbúðarhúsalóð, þar sem markaður yrði byggingarreitur fyrir nýbyggingu eða flutningshús, og svæði þar sem afmörkuð yrðu fjögur bílastæði.  Nýtingarhlutfall hinnar nýju byggingarlóðar yrði 1,1. 

Hinn 18. febrúar 2005 var á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa lögð fram umsókn um breytt deiliskipulag vegna ofangreindrar lóðar og var málinu vísað til umsagnar hverfisarkitekts.  Var það í vinnslu næstu mánuði hjá borgaryfirvöldum og lóðarhafa og í júlí s.á. setti lóðarhafi fram tillögu að breyttu skipulagi lóðarinnar.  Í framhaldi af því fór skipulagsfulltrúi fram á að lögð yrðu fram gögn um breytingar á skuggavarpi auk samþykkis rétthafa þeirra lóða er lægju að byggingarreit fyrir bílastæðakjallara. 

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 16. september 2005 var lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi varðandi umrædda lóð og samþykkt að grenndarkynna hana fyrir hagsmunaaðilum að Vesturgötu 21, 21b, 22, 23, 26a, 26b, 26c, Nýlendugötu 4, 5, 5a, 6 og 9 ásamt Norðurstíg 5 og 5b. 

Með bréfi embættis skipulagsfulltrúa, dags. 20. september 2005, var hagsmunaaðilum gefinn kostur á að tjá sig um tillöguna með vísan til 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og veittur frestur til að koma að athugasemdum til 20. október s.á.  Fólst breytingin á deiliskipulaginu í því að leyft yrði að byggja á 350 m² lóð 420 m² íbúðarhús fyrir 6-8 íbúðir, fullar þrjár hæðir með hámarksnýtingarhlutfalli 1,2.  Þá var heimilað að gera kjallara undir húsinu fyrir geymslur og 6-8 bíla.  Birt flatarmál skyldi ekki vera meira en 400 m² og byggingarhlutfall ekki hærra en 0,5.  Komu níu aðilar á framfæri athugasemdum við tillöguna. 

Athugasemdir er borist höfðu voru kynntar á fundi skipulagsráðs hinn 11. janúar 2006 ásamt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 5. janúar 2006, og í kjölfar þess voru gerðar breytingar á tillögunni.  Var nú gert ráð fyrir að heimild til að gera kjallara undir framhúsið yrði skilyrt á þann veg að ekki yrði gerður kjallari nær húsinu að Vesturgötu 26a en sem næmi einum metra.  Þá var bakhúsið lækkað um 70 cm.  Að auki var gert ráð fyrir bílalyftu frá Vesturgötu í stað rampa við austurlóðarmörk. 

Á fundi skipulagsráðs hinn 17. maí 2006 var tillagan lögð fram að nýju.  Einnig var lögð fram fyrrgreind umsögn skipulagsfulltrúa, bréf frá lóðarhafa ásamt uppdrætti, minnisblað skipulagsfulltrúa, dags. 12. maí 2006, umsögn framkvæmdasviðs, dags. 15. maí 2006, ásamt umsögn lögfræði og stjórnsýslu skipulags- og byggingarsviðs, dags. 16. ágúst 2005.  Var eftirfarandi bókað:  „Kynnt tillaga samþykkt með þeim breytingum sem fram koma á uppdráttum mótt. 25. apríl og með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa dags. 12. maí 2006, sbr. 12. gr. samþykktar fyrir skipulagsráð.“ 

Hafa kærendur skotið fyrrgreindri ákvörðun skipulagsráðs til úrskurðarnefndarinnar eins og áður hefur fram komið. 

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að byggð á umræddu svæði sé gríðarlega þétt og vísa til deiliskipulags um svæðið frá árinu 2003 þar sem segi svo:  „Áberandi skortur er á útiaðstöðu, bílastæðum og frágangi nær allra útisvæða og lóða.  Sum húsin á reitnum eru nær lóðarlaus.  Óhætt er að fullyrða að um 20% íbúa reitsins hafa enga útiaðstöðu á lóðum sínum, svalir né garðholu þar sem sólar nýtur.“  Byggð sem svo sé lýst þoli ekki frekari þéttingu, lífsgæði þeirra íbúa sem fyrir séu muni skerðast verulega og eignir lækka í verði.  Hafi verið farið út fyrir öll skynsemismörk hvað þéttingu byggðar varði. 

Um sé að ræða byggingu tveggja húsa sem muni skyggja svo rækilega á húsin í kring að dagsbirtu muni varla njóta lengur nema að mjög litlu leyti í sumum þeirra og sú litla sólarglæta sem þó komist að lóðum annarra muni nær alveg hverfa. 

Vesturgatan sé ein af elstu götum borgarinnar og götumyndin á þeim hluta sem um ræði sé friðuð.  Framhlið fyrirhugaðra nýbygginga sé ekki í samræmi við útlit húsanna beggja vegna og húsin auk þess óhóflega umfangsmikil.  Í kringum byggingarnar séu nokkur hús sem byggð hafi verið á 19. öld með hlöðnum grunni og fráveituæðum úr steini.  Fyrirhugað sé að sprengja og/eða fleyga fyrir djúpum kjallara í harða klöpp innan um viðkvæm, gömul hús, aðeins einum metra frá því sem næst standi en ljóst sé að húsin verði ónýt ef hlaðnir grunnar þeirra verði fyrir hnjaski. 

Í svo þéttri byggð sem fyrir sé á svæðinu muni einnig skapast gífurlegur hávaði og óbærilegt ónæði af byggingarframkvæmdum og áskilji kærendur sér allan rétt til skaðabóta vegna þessa sem og vegna þeirra fyrirætlana borgaryfirvalda að skerða verðmæti eigna þeirra. 

Þá sé á það bent að stórhætta myndi skapast ef eldur kæmi upp í einu af timburhúsunum á reitnum en slökkvibílar kæmust hvergi að og öll timburhúsabyggðin væri því í mikilli hættu.  Endanlega yrði lokað fyrir aðgönguleið slökkviliðs að húsum við Nýlendugötu.  Þá hafi í október 2005 verið fluttur háreistur, hálfhruninn timburhjallur á örsmáan reit að Nýlendugötu 5a, en reynslan sýni að mikil brunahætta fylgi auðum timburhjöllum.  Enn sé spurt og þess krafist að svarað verði hver beri ábyrgðina ef tjón verði vegna bruna svo ekki sé minnst á ef einhver deyi af hans völdum. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest. 

Bent sé á að það sé eðli borga að geta tekið breytingum og vera í stöðugri þróun.  Því verði eigendur húsa á miðborgarsvæðinu að gera ráð fyrir því að hvorki óbreytt útsýni né sólarljós sé sjálfgefið í þéttri byggð og geti ávallt tekið breytingum í uppbyggingu hverfa og við þéttingu byggðar.  Það sé aftur á móti hlutverk skipulagsyfirvalda að tryggja hagsmuni allrar heildarinnar og að aldrei sé svo langt gengið að um óþolandi skerðingu á gæðum eða verðrýrnun á eignum borgaranna verði að ræða vegna framkvæmda á annarri eign. 

Það sé í samræmi við stefnumörkun varðandi þéttingu byggðar að veita heimild til uppbyggingar á lóðinni að Vesturgötu 24.  Þyki til bóta fyrir götumynd Vesturgötu á þessu svæði að byggt verði í núverandi skarð að Vesturgötu 24 í samræmi við framlagða tillögu, sem geri ráð fyrir að umrætt hús sé í sömu hæð og timburhúsið að Vesturgötu 22. 

Reykjavíkurborg bendi á ákvæði 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 telji aðilar sig verða fyrir tjóni vegna tillögunnar. 

Gert sé ráð fyrir bílastæðakjallara undir húsinu að hluta og ætti skipulagsbreytingin því, að öllu jöfnu, ekki að auka á bílastæðavanda á svæðinu. 

Hvað varði málsástæður kærenda varðandi ónæði af völdum framkvæmda sé tekið fram að haga beri þeim m.t.t. aðstæðna hverju sinni og séu framkvæmdaaðilar ábyrgir ef tjón hljótist vegna þeirra.  Fari um slík mál, sem og um bætur vegna mögulegs brunatjóns, eftir reglum íslensks réttar um skaðabótaábyrgð.  Fullyrðingum kærenda um að slökkvibílum verði ekki komið að húsum verði ekki svarað hér að öðru leyti en því að um brunatæknileg mál sé að ræða sem farið verði yfir þegar byggingarleyfisumsókn berist. 

Minnt sé á að eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að einhverjar breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér skerðingu á útsýni, aukið skuggavarp, umferðaraukningu eða aðrar breytingar.  Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra að einhverju leyti verið skertir með slíkum breytingum. 

Skipulagsráð skuli, samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga, taka faglega afstöðu til breytinga á deiliskipulagi og meta hvort breyting sé veruleg eða óveruleg.  Talið hafi verið að ef breytingin sé ekki í ósamræmi við þá byggð sem fyrir sé, t.d. hvað varði notkun, nýtingarhlutfall og yfirbragð, og að hún hafi ekki áhrif á aðra en nágranna, þá megi grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi.   Hafi m.a. verið talið að grenndarkynning ætti við þegar byggingarmagni á afmörkuðu svæði væri breytt lítilsháttar, byggingarreit breytt, lóðum fækkað eða lóðamörkum breytt, notkun húshluta breytt, aðkomu breytt sem og ef um fjölgun bílastæða væri að ræða.  Hin kærða ákvörðun hafi falið í sér svo takmarkaða breytingu frá gildandi deiliskipulagi að eðlilegt hafi verið að meta hana sem óverulega, m.a. með vísan til ofangreindra atriða.  

Þá skuli við fyrrgreint mat líta til þess hversu umfangsmikil breytingin sé í hlutfalli við þær heimildir sem fyrir séu og hver grenndaráhrif hennar verði á nærliggjandi eignir.  Í gildandi deiliskipulagi hafi verið heimilt að byggja tveggja og hálfs hæða hús með kjallara en tillaga um breytingu geri ráð fyrir að á lóðinni rísi þriggja hæða hús.  Jarðhæð hússins skuli vera múruð en aðrar hæðir bárujárnsklæddar.  Aðliggjandi byggingar séu allar bárujárnsklæddar og þar séu hæðir frá tveimur upp í þrjár, ásamt risíbúðum.  Einstaka byggingar innan reitsins séu fullar fjórar hæðir.  Talið sé því að hin kynnta breyting sé óveruleg, að teknu tilliti til þeirra heimilda sem nú þegar sé að finna í samþykktu deiliskipulagi, og hafi aðeins áhrif á nánustu grennd.  Hafi ekki verið gerð athugasemd við hæð hússins þegar gildandi deiliskipulag hafi verið auglýst.  Skuggavarp aukist vissulega lítillega með byggingunni, en aukningin þyki ásættanleg í svo þéttri byggð.  

Málsrök lóðarhafa:  Arkitekt lóðarhafa bendir á að á lóðinni að Vesturgötu 24 hafi staðið tvílyft timburhús á hlöðnum grunni í 94 ár en það hafi brunnið 1989.  Meðalnýting lóða á Norðurstígsreitnum, auk lóða meðfram Vesturgötu nr. 15-27 að sunnan, sé 1,43 og því sé nýtingarhlutfall lóðarinnar, þ.e. 1,2, vel innan meðalmarka heildarskipulagsins, að húsaröðinni sunnan Vesturgötu (nr. 15-27) meðtalinni.  Lóðin sé talin vera 350 m² eða nálægt meðaltali og ljóst sé að nýting hennar sé minni en að meðaltali á reitnum  Ef aðeins séu bornar saman lóðir í næsta nágrenni við umrædda lóð sé meðaltal nýtingarhlutfalls 1,21, meðalstærð lóða sé 301,1 m² og meðtalstærð bygginga á lóð sé 365,5 m².  Það sé því ekki með nokkru móti hægt að fullyrða að hið umdeilda skipulag fyrir lóðina nr. 24 við Vesturgötu heimili byggingarmagn umfram það sem hæfilegt sé.  Þá sé bent á að nýtingarhlutfall í hverfinu sé frá 0,5 til 2,7.

Í gildandi heildarskipulagi sé kvöð um varðveislu götumyndar, sem ekki sé útfærð nánar í skilmálum.  Við lauslega húsakönnun á götumyndinni sjáist að hún sé ósamstæð, endurgerð á mismunandi tímum og oftast í hróplegri andstöðu við ríkjandi viðhorf í endurbyggingu gamalla húsa.  Varðveislugildi margra eldri húsa hafi því verið skert með röngum viðgerðum og endurbyggingum.  Annað einkenni sé ófullgerð skipulagshugmynd frá 1920-1930 þar sem fyrirhugað hafi verið að skapa randbyggð þriggja til fjögurra hæða steinsteyptra húsa. 

Fyrirhuguð framkvæmd muni ekki framkalla skugga á nálægar byggingar í sama mæli og byggingar sunnan megin á Vesturgötunni (nr. 15-27) geri nú.  Lega nýbyggingar á lóðinni kasti skuggum á Nýlendugötu 5 eftir kl. 16:00 og skömmu síðar á vesturhlið Vesturgötu 22, en þar sé rými sem nýtt sé sem geymslur. 

Útsýni yfir sundin sé þegar takmarkað og sé aðeins frá efri hæðum hæstu húsa í hverfinu.  Byggingin muni skerða útsýni frá húsunum nr. 21 og 23 við Vesturgötu en þar sem fyrirhugað sé að láta gaflinn snúa að Vesturgötu verði skerðing aðeins á litlum hluta heildarútsýnis.  Ekki sé hægt að fullyrða að fyrirhuguð nýbygging taki fyrir allt útsýni frá áðurnefndum húsum og sé tekið mið af öllum nærliggjandi húsum verði ekki sagt að fyrirhuguð nýbygging skeri sig úr hvað skerðingu útsýnis varði.  Vesturgata 22 og fyrirhuguð bygging séu t.d. með sömu mænishæð.  Bílastæði séu vandamál í hverfinu en hins vegar hafi mótmæli nágranna gefið tilefni til að hætta við smíði bílakjallara.  Fái rökstuðningur kærenda ekki staðist og sé beinlínis villandi.  Þá sé slegið fram fullyrðingum sem séu ósannar og byggist að mestu á huglægu mati en ekki hlutlægum staðreyndum. 

————–

Aðilar hafa fært fram frekari rök sem ekki verða reifuð nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 29. ágúst 2008. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Norðurstígsreits en á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag frá árinu 2004.  Afmarkast skipulagið af Vesturgötu til suðurs, Ægisgötu til vesturs, Tryggvagötu til norðurs og Norðurstíg til austurs, en umdeild breyting tekur einungis til lóðarinnar nr. 24 við Vesturgötu.

Borgaryfirvöld kusu að fara með breytinguna eins og um óverulega breytingu á deiliskipulagi væri að ræða og var breytingin því grenndarkynnt með vísan til undantekningarákvæðis 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Samkvæmt deiliskipulagi Norðurstígsreits frá 20. janúar 2004 er lóðinni að Vesturgötu 24 skipt í tvær lóðir.  Á vestari hluta lóðarinnar er sérgreind 151 m² lóð fyrir flutningshús eða nýbyggingu en austurhluti lóðarinnar er lagður undir fjögur opin bílastæði.  Sé nýtingarhlutfall reiknað fyrir lóðina í heild miðað við fyrirliggjandi gögn er það 0,46.  Skipulag þetta hefur ekki komið til framkvæmda hvað umrædda lóð varðar.  Með hinni umdeildu breytingu var fallið frá áformum um að skipta lóðinni og þess í stað heimilað að byggja á henni 6 – 8 íbúða hús og er hámarksnýtingarhlutfall lóðarinnar eftir þessa breytingu 1,2.  Með breytingunni er jafnframt fallið frá gerð þeirra opnu bílastæða sem áður var gert ráð fyrir.

Þegar litið er til þess að með hinni umdeildu ákvörðun var notkun umræddrar lóðar breytt verulega, og hámarksnýtingarhlutfall meira en tvöfaldað, verður ekki fallist á að aðeins hafi verið um óverulega breytingu að ræða.  Þykir og sýnt að breytingin hafi talverð áhrif til óhagræðis fyrir eigendur og íbúa aðliggjandi húsa.  Er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið heimilt að fara með málið eftir ákvæði 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga heldur hafi borið að auglýsa tillöguna svo sem mælt er fyrir um í 1. mgr.  26. gr. laganna.

Samkvæmt framasögðu var undirbúningur hinnar kærðu ákvörðunar ekki reistur á réttum lagagrundvelli og verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 17. maí 2006, um breytingu á deiliskipulagi reits 1.132.0, svonefnds Norðurstígsreits, er varðar lóðina nr. 24 við Vesturgötu í Reykjavík, er felld úr gildi. 

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________             _________________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

 

105/2008 Sléttuhlíð

Með

Ár 2009, miðvikudaginn 21. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 105/2008, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 15. október 2008 um að veita leyfi til að byggja sumarhús á lóðinni nr. C-O í Sléttuhlíð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 13. nóvember 2008, er barst úrskurðarnefndinni samdægurs, kærir K, Reykjavíkurvegi 39, Hafnarfirði, eigandi sumarbústaðar á lóðinni nr. B-6 í Sléttuhlíð í Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 15. október 2008 að veita leyfi til að byggja sumarhús á lóðinni nr. C-O í Sléttuhlíð.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 28. október 2008. 

Kærandi krefst þess að hin kærða samþykkt verði felld úr gildi ásamt því að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú tækt til lokaúrskurðar og verður því ekki fjallað sérstaklega um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda, en ekki er vitað til þess að þær séu hafnar. 

Málsatvik:  Á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 23. september 2008 var lögð fram umsókn um leyfi til að byggja sumarhús á lóðinni nr. C-O í Sléttuhlíð, sem samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025 er svæði fyrir frístundabyggð.  Samkvæmt deiliskipulagi svæðisins, sem samþykkt var á árinu 2007, er þar gert ráð fyrir 37 lóðum undir sumarhús.  Erindið hafði áður verið til umfjöllunar á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 17. sama mánaðar, sem vísaði því til skipulags- og byggingarráðs.  Var afgreiðslu ráðsins frestað.  Á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 7. október 2008 var eftirfarandi fært til bókar:  „Þar sem vafi leikur á túlkun á skilmálum skipulagsins óskar skipulags- og byggingarráð eftir umsögn lögfræðings skipulags- og byggingarsviðs og umsögn skipulagshöfundar.“  Á fundi ráðsins hinn 13. október 2008 var erindið tekið fyrir og var eftirfarandi bókað:  „Skipulags- og byggingarráð tekur jákvætt í erindið og felur skipulags- og byggingarsviði endanlega afgreiðslu málsins.  Jafnframt er sviðinu falið að gera tillögu að breytingu texta í greinargerð skipulags í kafla 3 til að gera hann skýrari.“  Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 15. október 2008 var erindið samþykkt og tekið fram að umsóknin samræmdist lögum nr. 73/1997.  Var framangreint staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 28. október s.á.

Hefur kærandi kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er því haldið fram að með hinni kærðu samþykkt hafi Hafnarfjarðarbær brotið gegn Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025 og samþykktu deiliskipulagi Sléttuhlíðar frá árinu 2007.  Í greinargerð aðalskipulags segi m.a. um svæðið:  „Svæði fyrir frístundabyggð er á svonefndu Sléttuhlíðarsvæði.  Tillaga að deiliskipulagi nær til um 230 ha svæðis og er hluti þess ætlaður undir eiginlega frístundabyggð.  Afmörkun svæðisins helgast af því að öll þau frístundahús sem eru í Sléttuhlíð og Klifsholti falli innan þess.  Í deiliskipulagstillögunni er gert ráð fyrir því að núverandi frístundabyggð sé viðahaldið og fest í sessi en ekki er gert ráð fyrir frekari uppbyggingu.   Ákveðið hefur verið að þau örfáu stöku hús sem reist hafa verið utan aðal frístundasvæðisins fái að halda sér en ekki er gert ráð fyrir frekari mannvirkjagerð umfram það sem orðið er.“  Þá segi í auglýsingu um samþykkt bæjarstjórnar á deiliskipulagi Sléttuhlíðar m.a:  „Deiliskipulagið gerir ráð fyrir að núverandi frístundabyggð verði viðhaldið og fest í sessi en ekki er gert ráð fyrir frekari uppbyggingu.“ 

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:  Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er vísað til þess að deiliskipulagstillaga fyrir Sléttuhlíð hafi verið í vinnslu á sama tíma og textinn í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025 og þar sé vissulega gert ráð fyrir nýjum byggingum.  Það að „…núverandi frístundabyggð sé fest í sessi og ekki gert ráð fyrir frekari uppbyggingu“  vísi til þess að svæðið/frístundabyggðin verði ekki stækkað frá því sem það sé í dag.  Ákveðið hafi verið að bæta mætti við takmörkuðum fjölda sumarhúsa innan svæðisins og hafi öllum sumarhúsaeigendum margítrekað verið gerð grein fyrir því, bæði á kynningarfundum og í bréfum. 

Í greinargerð aðalskipulags varðandi svæðið segi m.a. eftirfarandi:  „…ekki er gert ráð fyrir frekari mannvirkjagerð umfram það sem orðið er.“  Þetta vísi í raun aðeins til þeirra húsa sem séu utan frístundasvæðisins, m.a. húss í Gjánum sem sé á hverfisvernduðu svæði. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafa var veittur kostur á að tjá sig um kæruefnið en hann hefur ekki gert það. 

Niðurstaða:  Samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025, sem samþykkt var í bæjarstjórn 12. desember 2006, er í Sléttuhlíð gert ráð fyrir frístundabyggð.  Í greinargerð aðalskipulagsins er vísað til tillögu að deiliskipulagi fyrir svæðið og segir þar að gert sé ráð fyrir því að núverandi frístundabyggð sé viðhaldið og hún fest í sessi en ekki sé gert ráð fyrir frekari uppbyggingu.  Ákveðið hafi verið að þau örfáu, stöku hús sem reist hafi verið utan aðal frístundasvæðisins fái að halda sér en ekki sé gert ráð fyrir frekari mannvirkjagerð umfram það sem orðið sé.  Verður ekki annað ráðið af greinargerð aðalskipulagsins en að ekki sé gert ráð fyrir nýjum byggingum á svæðinu, en afar óheppilegt er að vísa til tillögu að deiliskipulagi í greinargerð aðalskipulags enda á deiliskipulagstillagan að byggja á aðalskipulaginu en ekki öfugt.  Að auki liggur ekki fyrir hvað nákvæmlega fólst í þeirri tillögu að deiliskipulagi svæðisins sem vísað var til þegar greinargerð aðalskipulagsins var samin eða samþykkt, en af gögnum málsins verður ráðið að fleiri en ein tillaga að deiliskipulagi hafi komið fram auk, þess sem breytingar hafi verið gerðar á endanlegri deiliskipulagstillögu meðan hún var til meðferðar hjá bæjaryfirvöldum.  Leiðir þetta til þess að túlka verður efni aðalskipulagsins eftir orðalagi þess texta sem fram kemur í greinargerð þess.

Misræmi er milli greinargerða aðalskipulags og deiliskipulags svæðisins, en skilja verður ákvæði deiliskipulagsins á þann veg að þar sé gert ráð fyrir nýjum byggingum, þrátt fyrir að kveðið sé á um hið gagnstæða í aðalskipulagi.  Þó segir í gildistökuauglýsingu deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda hinn 28. ágúst 2007 að deiliskipulagið geri ráð fyrir að núverandi frístundabyggð verði viðhaldið og hún fest í sessi en ekki sé gert ráð fyrir frekari uppbyggingu.  Leiðir þessi árétting í auglýsingunni til þess að vafi leikur á um það hvernig skýra beri heimildir deiliskipulagsins um nýjar byggingar á svæðinu.  Hafa ekki komið fram viðhlítandi skýringar á því misræmi sem er í skipulagsgögnum og að framan er lýst, en ákvörðun um deiliskipulag svæðisins hefur hvorki verið borin undir úrskurðarnefndina né dómstóla.  

Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skulu framkvæmdir sem háðar eru byggingarleyfi vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Verður ekki séð að hin kærða ákvörðun samræmist ákvæðum í staðfestu aðalskipulagi og fullnægir hún því ekki framangreindum lagaskilyrðum 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Leiðir sá annmarki til ógildingar.

Að auki skortir á að umdeilt byggingarleyfi samræmist skilmálum deiliskipulags um hámarksflatarmál bygginga á lóð, sem má mest vera 100 m², en samkvæmt skráningartöflu er fyrirhugað hús 100 m² auk 20 m² gestahúss og er heildarflatarmál bygginga á lóðinni því 120 m².  Myndi þetta misræmi eitt og sér hafa leitt til ógildingar þótt ekki hefðu verið þeir annmarkar á framsetningu skipulags sem að framan er lýst.

Með vísan til framanritaðs verður hin kærða ákvörðun ógilt. 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 15. október 2008, um að veita leyfi til að byggja sumarhús á lóðinni nr. C-O í Sléttuhlíð, er felld úr gildi.   

 

__________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________   ______________________________
Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson

15/2007 Leiðhamrar

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 15. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 15/2007, kæra á samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 10. janúar 2007 um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 46 við Leiðhamra, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. febrúar 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir Dögg Pálsdóttir hrl., f.h. H, Leiðhömrum 48, samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 10. janúar 2007 um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 46 við Leiðhamra.  Hin kærða ákvörðun öðlaðist gildi við auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 26. janúar 2007. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á  embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 16. júní 2006 var tekin fyrir fyrirspurn þess efnis hvort heimilt yrði að byggja við húsið á lóðinni nr. 46 við Leiðhamra sem er einnar hæðar einbýlishús ásamt bílskúr.  Var fyrirhugað að í viðbyggingunni yrði gróðurskáli er kæmi í stað eldri skála.  Á fundinum var jafnframt lagt fram samþykki lóðarhafa Leiðhamra 44 og 48 og umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 9. júní 2006.  Var bókað að ekki væri gerð athugasemd við erindið með vísan til skilyrða í umsögn skipulagsfulltrúa. 

Á svæði því er um ræðir er í gildi deiliskipulag Hamrahverfis frá árinu 1988.  Samkvæmt því er heimiluð stærð húsa 190 m² ásamt kjallara.  Tillaga að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar að Leiðhömrum 46 var lögð fram á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 27. október 2006 og samþykkt að grenndarkynna hana hagsmunaaðilum.  Fól tillagan m.a. í sér að aukið yrði við grunnflatarmál hússins og byggingarreitur stækkaður til vesturs.  Stóð kynning frá 2. nóvember til 30. nóvember 2006 og bárust athugasemdir frá kæranda og íbúum að Leiðhömrum 42.  Í athugasemdum þeirra sagði m.a. eftirfarandi:  „Við hús umsækjanda var sólskáli (byggður í óleyfi) sem nú hefur verið rifinn.  Undirritaður eigandi húss nr. 48 hafði gefið skriflegt samþykki sitt fyrir því að sá skáli yrði endurgerður í svipaðri stærð, en sú samþykkt nær alls ekki til kynntrar tillögu og er hér með afturkölluð.“  Voru athugasemdir kynntar á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 8. desember 2006 og var hverfisarkitekt falið að funda með aðilum.  Á fundi skipulagsráðs 10. janúar 2007 var tillagan samþykkt með eftirfarandi bókun:  „Samþykkt með vísan til 12. gr. samþykktar fyrir skipulagsráð og með þeim breytingum sem fram koma í umsögn skipulagsfulltrúa.“

Auglýsing um gildistöku breytts deiliskipulags var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 26. janúar 2007 að undangenginni lögbundinni afgreiðslu Skipulagsstofnunar.

Hefur kærandi skotið áðurnefndri ákvörðun skipulagsráðs til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu samþykktar byggir kærandi á því að breytingin sé svo umfangsmikil að hún kalli á nýtt deiliskipulag, sbr. ákvæði 1. mgr. 26. gr. laga nr. 73/1997.  Málsmeðferð sé mismunandi eftir því hvort um sé að ræða verulega eða óverulega breytingu á deiliskipulagi.  Hvorki í tilgreindu ákvæði né í greinargerð með því sé skilgreint hvað teljist veruleg breyting.  Um matsatriði sé því að ræða og sé sveitarstjórn, skipulagsnefnd eftir atvikum, veitt heimild til að meta í hverju tilviki fyrir sig hvort breyting teljist veruleg eða ekki.  Við mat á því hvort um verulega breytingu sé að ræða beri þó að hafa í huga m.a. stærð og staðsetningu þess sem breytingin nái til, hversu umfangsmikil breytingin sé, hvort hún varði hagsmuni margra og hvaða áhrif hún hafi á nærliggjandi svæði.

Því sé haldið fram að um svo stórfellda breytingu sé að ræða að fara hefði átt með umsókn um breytt deiliskipulag vegna lóðarinnar eins og um nýtt deilskipulag væri að ræða, enda um að ræða verulega breytingu á stærð hússins sem og umfangi.  Breytingin varði þannig hagmuni ekki einungis nærliggjandi húsa heldur einnig ásýnd alls hverfisins enda ljóst að með því að samþykkja breytinguna hafi verið gefið fordæmi fyrir aðra húseigendur við götuna.  Ljóst sé að við meðferð umsókna annarra húseiganda yrði því að gæta meginreglna stjórnsýsluréttar um jafnræði og fara með umsókn um breytingu á sama hátt og gert hafi verið í máli þessu.  Það telji kærandi óeðlilegt og óásættanlegt enda beri að fylgja meginreglum deiliskipulagsins frá árinu 1988.

Um verulega stækkun byggingarreits sé að ræða.  Húsið sé nú þegar 210 m² að grunnflatarmáli auk 57,9 m² kjallara eða alls 268,7 m², en samkvæmt deiliskipulagi svæðisins frá 1988 hafi verið miðað við að flatarmál húsa væri 190 m².  Stækkunin valdi því að byggingarreiturinn verði 40% stærri en gert sé ráð fyrir í samþykktu deiliskipulagi.  Flest húsin við götuna séu í samræmi við deiliskipulag eða 190 m² en Leiðhamrar 46 sé eitt af fjórum stærstu húsunum við götuna.

Með hinni kærðu breytingu sé fallið bæði frá stærðarmörkum og útliti sem gildandi skipulag kveði á um.  Viðbyggingin sem sótt sé um hafi til að mynda þak í gagnstæða átt en samkvæmt skipulagi sé skilyrðislaust talað um pýramídalag þaks.  Breytingin víki því verulega frá fyrirliggjandi skipulagi.  Því til viðbótar megi benda á að stækkunin sé í engu samræmi við þær viðbyggingar sem samþykktar hafi verið hingað til á húsum við götuna. 

Kæranda sé óskiljanlegt hvernig unnt sé að líta á þessar breytingar sem minniháttar.  Um verulegt hagsmunamál sé að ræða fyrir alla íbúa götunnar en með nýju deiliskipulagi sem sett væri í samræmi við 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga væri hægt að tryggja hagsmuni þeirra og gera ráð fyrir stækkun fleiri húsa og samræma þannig hugmyndir um stækkun húsa á svæðinu.

Ljóst sé að samkvæmt skipulags- og byggingarlögum skuli deiliskipulag gert þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar og skuli allar leyfisskyldar framkvæmdir vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Fái eigendur Leiðhamra 46 byggingarleyfi í samræmi við hina kærðu breytingu á deiliskipulagi verði byggingarreiturinn liðlega 260 m² eða hátt í 60% stærri en viðmiðunarbyggingarreiturinn sé samkvæmt samþykktu deiliskipulagi fyrir svæðið.  Þá hafi skipulagsfulltrúi í bréfi sínu, dags. 9. júní 2006, talið að fyrirspurn lóðarhafa Leiðhamra 46 væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag og að hugmyndin þarfnaðist í það minnsta breytinga.  Hafi sú breyting sem lögð hafi verið til við skipulagsráð hinn 26. október 2006 verið óveruleg og hefði ekki átt að duga til þess að samþykkt yrði að breyta deiliskipulaginu með þeim hætti sem gert hafi verið.
 
Þegar deiliskipulag fyrir svæðið frá 1988 hafi verið samþykkt hafi verið haft í huga að um útsýnisstað væri að ræða og hafi húsin m.a. verið hönnuð með tilliti til þess.  Þannig sé til að mynda gert ráð fyrir sérstökum útsýnisglugga í átt til Esjunnar, eyjanna og út á sundin.  Í samþykktri breytingu sé t.d. gert ráð fyrir stórum útsýnisglugga á húsinu nr. 46 við Leiðhamra til að tryggja eigendum þess hámarksútsýni.  Útsýni kæranda sé aftur á móti verulega skert og minnki það verulega frá norðurhlið hússins, einkum úr svefnherbergi og stofu.
 
Staðsetning húss kæranda, og þar með talið útsýnið sem staðsetningin hafi upp á að bjóða, sé metið eitt og sér á um kr. 10 milljónir við ákvörðun söluverðs.  Fái kærandi með engu móti séð hvernig réttlætanlegt sé að fórna hagsmunum hans til hagsbóta fyrir eiganda hússins nr. 46 við Leiðhamra með þeim hætti sem raun beri vitni.  Á allt þetta hafi verið bent áður en ekkert tillit hafi verið tekið til framlagðra ábendinga og tillagan verið samþykkt.

Verði ekki fallist á framangreint krefjist kærandi þess að breytingin verði engu að síður felld úr gildi þar sem í henni felist slík röskun á meginreglum þess deiliskipulags sem samþykkt hafi verið árið 1988 sem og á hagsmunum kæranda og annarra íbúa við götuna.  Vísi kærandi til áðurgreindra röksemda máli sínu til stuðning.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg hafnar því alfarið að um verulega breytingu á deiliskipulagi sé að ræða sem kalli á nýtt deiliskipulag og þá heildarendurskoðun á skipulagi.  Engin fordæmi séu fyrir því að á einbýlishúsalóðum sé deiliskipulag tekið til heildarendurskoðunar þó fram komi óskir einstakra lóðarhafa um breytingar.  Matsatriði sé hverju sinni hvort breyting á deiliskipulagi teljist veruleg eða óveruleg og sé hin kærða deiliskipulagsbreyting í öllum skilningi minniháttar.  Áhrif breytingarinnar séu lítil á deiliskipulagið í heild og grenndaráhrif hennar óveruleg.  Breytingin varði einungis eina lóð og hafi áhrif á hagsmuni mjög fárra einstaklinga.

Mótmælt sé að framkomnar athugasemdir hafi að engu verið hafðar.  Hámarkshæð hafi t.d. verið lækkuð úr 3,6 m í 3,4 m en einnig hafi verið dregið úr dýpt byggingarreits um 50 cm og þar með byggingarmagni um 6 m².
 
Einnig sé því hafnað að breytingin feli í sér þvílíka röskun á hagsmunum kæranda að það varði ógildingu hinnar samþykktu tillögu.  Ljóst sé að útsýni muni skerðast eða breytast frá aðliggjandi húsum en sérstaklega sé minnt á að eigendur fasteigna í þéttbýli geta ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér útsýnisskerðingu, enda sé beinlínis gert ráð fyrir því í skipulags- og byggingarlögum að deiliskipulag geti tekið breytingum.  Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum.

Vert sé að benda á að áður hafi verið sólstofa á þessum stað, um 3,8 m að dýpt, sem hafi haft áhrif á hús kæranda.  Dýpkun byggingar á þessum stað sé því um 1,4 m.  Þá sé bent á að skjólveggir umhverfis hús kæranda hafi töluverð áhrif til útsýnisskerðingar en ekkert í gildandi skipulagi frá 1988 segi að aldrei megi breyta því með tilliti til útsýnis og sólar.

Séu fordæmi fyrir því að sambærilegar breytingar hafi verið heimilaðar, en árið 2004 hafi verið samþykkt breyting á deiliskipulagi fyrir sambærilegt hús að Leiðhömrum 22.  Auk þess séu í borginni mörg fordæmi um breytingar á deiliskipulagi á einstökum lóðum í framhaldi af óskum eigenda og verði skipulagsyfirvöld að gæta jafnræðis gagnvart borgarbúum í þeim efnum.

Málsrök eiganda hússins að Leiðhömrum 46:  Af hálfu eiganda hússins að Leiðhömrum 46 er bent á að áður en ráðist hafi verið í breytingar á húsinu hafi legið fyrir samþykki kæranda fyrir stækkun garðskálans og hafi eiganda hússins ekki verið kunnugt um breytta afstöðu fyrr en langt hafi verið liðið á hönnunarferli breytinganna.  Kröfur kæranda séu þess eðlis að ekki sé unnt að koma til móts við þær nema með því að breyta viðbyggingunni í kjallara eða hætta við hana. 

Bent sé á að samþykki kæranda hafi legið fyrir áður en eldri garðskálinn hafi verið rifinn og því mótmælt að ástand hans hafi verið lélegt.  Fullyrðingum kæranda þess efnis að ekki hafi verið greint rétt frá áætlunum um breytingar hússins sé vísað á bug. 

Stækkun hússins samkvæmt teikningum sem lagðar séu til grundvallar sé innan við 30 m² og fjarri lagi að vera um 83 m² eins og gefið sé í skyn í kæru.

Í kæru sé því m.a. haldið fram að breytingin sé stórfelld, veruleg og svo umfangsmikil að hún kalli á nýtt deiliskipulag ásamt því að fullyrt sé að við breytinguna verði byggingarreiturinn 60% stærri en viðmiðunarbyggingarreiturinn.  Það sé von húseiganda að úrskurðarnefndin láti ekki blekkjast af stóryrðum og ýkjum heldur fari yfir staðreyndir og fyrirliggjandi teikningar.  Það sé mat húseigandans að stækkun garðskálans samkvæmt fyrirliggjandi teikningum sé minniháttar og hægt sé að haga málum þannig að útsýni frá Leiðhömrum 48 skerðist óverulega, ef nokkuð.     

Tekið sé undir með kæranda að haga hefði mátt málum þannig að útsýni skertist óverulega.  Frá byrjun hafi eigandi hússins verið tilbúinn til að koma til móts við kröfur kæranda og hafi teikningum verið margbreytt samkvæmt ábendingum hans og hverfisarkitekts.  Aftur á móti sé ekki unnt að koma til móts við þær kröfur að kærandi sjái yfir viðbygginguna þar sem hús kæranda sé nánast í sömu hæð og Leiðhamrar 46.  Fullyrðing kæranda þess efnis að sjá hafi mátt yfir eldri garðskálann, sem hafi að mestu verið í fullri mannhæð, sé því augljóslega ósönn. 

———–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir rökum og sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin hér frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.   

Vettvangur:  Úrskurðarnefndin kynnti sér með óformlegum hætti aðstæður á vettvangi hinn 5. desember 2008.
 
Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar skipulagsráðs Reykjavíkur frá 10. janúar 2007 um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 46 við Leiðhamra í Reykjavík, þar sem m.a. er veitt heimild til að byggja við húsið.  

Af hálfu kæranda er því haldið fram að hin kærða samþykkt sé þess eðlis að borgaryfirvöldum hafi verið óheimilt að fara með hana sem óverulega breytingu á deiliskipulagi samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, heldur hafi borið að auglýsa hana svo sem um nýtt deiliskipulag væri að ræða, sbr. 1. mgr. 26. gr. laganna. 

Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag frá árinu 1988 og kusu borgaryfirvöld að neyta heimildar í 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga og grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi vegna greindrar lóðar. 

Samkvæmt deiliskipulagi er heimilaður grunnflötur húsa á svæðinu 190 m² auk kjallara þar sem landhalli leyfir.  Aðalhæð hússins að Leiðhömrum 46 er um 211 m² að grunnfleti og var það því upphaflega byggt nokkru stærra en skipulag gerði ráð fyrir.  Með hinni kærðu samþykkt er veitt heimild fyrir núverandi stærð hússins, auk 41 m² viðbyggingar við vesturhlið þess.  Eftir þá breytingu yrði aðalhæð hússins um 252 m² eða um þriðjung umfram heimildir skipulags.  Við mat á áhrifum þeirrar breytingar verður og að líta til þess að lóðin að Leiðhömrum 46 er 1.070 m² að stærð, staðsett innst í götu, og norðan og vestan hennar er óbyggt svæði og útsýni mikið.  Suðvestan hennar er lóð kæranda en þaðan er einnig mikið útsýni.  Af deiliskipulagi svæðisins má ráða að hús á þessum tveimur lóðum hafi verið staðsett með það fyrir augum að njóta mætti þaðan útsýnis til sjávar en með hinni umdeildu samþykkt mun útsýni kæranda skerðast að nokkru.  Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið verður hin umrædda breyting ekki talin óveruleg og var því óheimilt, eins og þarna stóð á, að grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi.  Þess í stað bar borgaryfirvöldum að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi svæðisins ef vilji stóð til þess að fallast á erindi eiganda eignarinnar nr. 46 við Leiðhamra.  Verður hin kærða samþykkt því felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 10. janúar 2007 um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 46 við Leiðhamra, Reykjavík.

 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_______________________________          ____________________________
Ásgeir Magnússon                                                 Þorsteinn Þorsteinsson

78/1007 Dverghamar

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 15. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 78/2007, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar frá 21. júní 2007 um breytingu á deiliskipulagi vesturbæjarins vegna lóðar nr. 27-29 við Dverghamar, Vestmannaeyjum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 31. júlí 2007, er barst nefndinni 3. ágúst sama ár, kærir H, Dverghamri 33, samþykkt bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar frá 21. júní 2007 um breytt deiliskipulag vesturbæjar, að því er tekur til lóðar nr. 27-29 við Dverghamar.  Var auglýsing um gildistöku breytts deiliskipulags birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 25. júlí s.á.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en lóð kæranda liggur að umræddri lóð.

Málavextir:  Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar hinn 4. apríl 2007 var tekið fyrir erindi um úthlutun lóðar nr. 27-29 við Dverghamar til byggingar einbýlishúss á lóðinni.  Var erindið samþykkt enda yrði fullnægjandi teikningum skilað fyrir 1. júní 2007.  Þá var lögð áhersla á að bygging yrði, eins og fram kæmi í umsókn, í samræmi við húsin að Dverghamri 24-42.

Hinn 18. apríl s.á. var lagt fyrir umhverfis- og skipulagsráð nýtt lóðarblað fyrir umrædda lóð.  Var samþykkt að gera óverulega breytingu á skipulagi við Dverghamar og skipulags- og byggingarfulltrúa falið að grenndarkynna breytingartillögu skv. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga sem hann og gerði með bréfi, dags. 20. apríl 2007.

Barst athugasemdabréf frá 37 aðilum er töldu m.a. að breytingin gæti ekki talist óveruleg en nú væri heimiluð bygging einbýlishúss í stað parhúss, byggingarreiturinn væri stækkaður og að breytt aðkoma að lóðinni fæli í sér aukna slysahættu.

Umhverfis- og skipulagsráð fór yfir framlagðar athugasemdir á fundi sínum hinn 12. júní 2007 og var svohljóðandi bókað:  „Fyrirhugað er að byggja á lóðunum einbýlishús í stað parhúss og telur ráðið það ívilnandi fyrir íbúa svæðisins en ekki íþyngjandi.  Fram kemur í bókun ráðsins frá 4. apríl 2007 að fyrirhuguð bygging skuli taka mið af og vera í samræmi við önnur hús við Dverghamar 24-42, sbr. ákvæði um byggingarefni, útlit, hæðir og þakform hússins í greinargerð deiliskipulagstillögu.  Heildarbyggingarreitur á lóðum Dverghamars nr. 27-29 er minnkaður og færður til suðurs vegna umferðaröryggissjónarmiða.  Innkeyrsla og bílskúr muni taka mið af öðrum byggingum í hverfinu.  Ráðið samþykkir deiliskipulagsbreytinguna.  Afgreiðsla þessi er skv. skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997.“  Samþykkti bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar greinda afgreiðslu hinn 21. júní 2007.

Skaut kærandi áðurnefndri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi bendir á að í bænum séu um 70 lausar lóðir fyrir einbýlishús en aðeins tvær parhúsalóðir.  Nú eigi að taka aðra lóðina undir byggingu einbýlishúss þrátt fyrir að þar hafi til margra ára staðið steyptur grunnur fyrir parhús.  Þar með sé ásýnd hverfisins, sem sé eina parhúsahverfi bæjarins, fórnað fyrir minni hagsmuni.  Um einstakt hverfi sé að ræða sem skipulagt sé og hannað af sama arkitekt og hafi byggðin þótt falla einstaklega vel inn í umhverfið.

Kærandi bendi jafnframt á að fjöldi íbúa hafi mótmælt fyrirhugaðri breytingu á deiliskipulagi.  Þá átelji kærandi þau vinnubrögð umhverfis- og tæknisviðs að úthluta lóðinni undir einbýlishús án þess að hafa áður grenndarkynnt málið eða boðað til almenns fundar um það.  Um gerræðisleg vinnubrögð sé að ræða sem angi af einhverju allt öðru en faglegum vinnubrögðum.

Málsrök Vestmannaeyjarbæjar:  Af hálfu bæjaryfirvalda er farið fram á að kröfum kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar verði hafnað.

Vestmannaeyjabær bendir á að umrætt hverfi sé íbúðahverfi, skipulagt fyrir einbýlis- og parhúsabyggð, og sé hluti af byggingaráætlun fyrir Vestmannaeyjar sem samþykkt hafi verið árið 1973 en þar hafi verið gert ráð fyrir talsvert meiri byggð en raun hafi orðið á.  Umrædd breyting á notkun lóðarinnar sé óveruleg og hafi grenndarkynning farið fram skv. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Sé engan veginn talið að heildarmynd hverfisins sé raskað með samþykktri breytingu.

Ekki hafi verið talin rök fyrir því að verða við framkomnum mótmælum íbúa en tekið skuli fram að það skilyrði hafi m.a. verið sett að mannvirkið á umræddri lóð tæki mið af þegar reistum mannvirkjum við Dverghamar.  Því hafi verið talið að ekki væri um íþyngjandi ákvörðun að ræða fyrir hagsmunaðila.  Ítrekað sé að í öllu hafi verið farið eftir ákvæðum tilvitnaðra laga, sbr. sérstaklega 26. og 43. gr. laganna.

Niðurstaða:  Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna og annast þær og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags, sbr. 2. mgr. 3. gr. og 23. gr. laganna.  Skal í deiliskipulagi útfæra nánar ákvæði aðalskipulags um viðkomandi svæði svo sem segir m.a. í 4. mgr. 23. gr. sömu laga.

Í máli þessu er deilt um lögmæti breytts deiliskipulags vesturbæjar vegna lóðar nr. 27-29 við Dverghamar.  Á svæði því er um ræðir er í gildi byggingaráætlun fyrir Vestmannaeyjar er samþykkt var í bæjarstjórn í desember 1973.  Verður að líta svo á að áætlunin hafi gildi sem deiliskipulag fyrir svæði það sem hér skiptir máli, sbr. ákvæði 11. tl. til bráðabirgða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir byggingu allt að 350 íbúða af mismunandi stærðum og í mismunandi húsagerðum í nýju byggðahverfi í hrauninu vestan Illugagötu.  Við Dverghamar er gert ráð fyrir parhúsum og einbýlishúsum og var lóðin nr. 27-29  parhúsalóð en með hinni kærðu ákvörðun er heimilað að reisa á henni eitt einbýlishús í stað parhúsa.  Í samþykkt skipulags- og umhverfisráðs frá 12. júní 2007, er bæjarstjórn staðfesti 21. júní 2007, er áskilið að fyrirhuguð bygging taki mið af og verði í samræmi við önnur hús við Dverghamar 24-42.  Telur úrskurðarnefndin að með þessu ákvæði sé tryggt að ekki sé vikið verulega frá byggðamynstri svæðisins með hinni kærðu ákvörðun og verður hún ekki talin veruleg.  Verður því ekki talið að hagsmunum kæranda sé raskað með þeim hætti að ógildingu varði og ekki verður séð að aðrir þeir annmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun er leitt geti til ógildingar hennar.  Verður kröfu um ógildingu því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á samþykkt bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar frá 21. júní 2007 um breytingu á deiliskipulagi vesturbæjar vegna lóðar nr. 27-29 við Dverghamar.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________         ______________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson