Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

67/2007 Frostaþing

Með

Ár 2009, föstudaginn 12. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 67/2007, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 25. janúar 2007 um að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 12 við Frostaþing í Kópavogi og til vara á afturköllun byggingarfulltrúans, dags. 9. júlí 2007, á fyrri ákvörðun um að fella byggingarleyfi úr gildi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. júlí 2007, er barst nefndinni samdægurs, kærir Sigurbjörn Þorbergsson hdl., f.h. G og G, lóðarhafa Frostaþings 10 í Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 25. janúar 2007 að veita leyfi til að reisa einbýlishús á lóðinni nr. 12 við Frostaþing.  Ákvörðunin var staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 13. febrúar 2007.

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Til vara er þess krafist að afturköllun byggingarfulltrúans í Kópavogi, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 9. júlí 2007, á fyrri ákvörðun um að fella byggingarleyfi úr gildi verði ógilt.  Jafnframt gerðu kærendur þá kröfu að kveðinn yrði upp úrskurður um stöðvun framkvæmda en þar sem þeim framkvæmdum sem einkum er um deilt í málinu var að mestu lokið er kæra barst nefndinni þótti ekki tilefni til að taka afstöðu til þeirrar kröfu.

Málavextir:  Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs hinn 16. maí 2006 var tekið fyrir erindi lóðarhafa að Frostaþingi 12 um leyfi til að byggja hús út fyrir byggingarreit til norðurs, austurs og suðurs, um 1,0-1,7 m, aðkomuhæð hússins yrði hækkuð um 0,18 m og að heimilt yrði að hækka húsið um 9 cm, þ.e. húsið færi 9 cm upp fyrir mestu leyfilegu hæð samkvæmt skipulagsskilmálum.  Var ákveðið að senda málið í kynningu til lóðarhafa Frostaþings 10, 11, 13 og 15, Fróðaþings 24 og Dalaþings 15.  Málið var kynnt sem útfærsla deiliskipulags og var á skýringarmynd m.a. sýndur stoðveggur er lægi þvert á lóðarmörk.  Engar athugasemdir bárust við tillöguna og á fundi skipulagsnefndar hinn 4. júlí 2006 var hún samþykkt sem og á fundi bæjarráðs hinn 13. júlí s.á.  Mun auglýsing um gildistöku breytts deiliskipulags ekki hafa verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Á fundi byggingarfulltrúans í Kópavogi hinn 25. janúar 2007 var veitt leyfi til að byggja einbýlishús á lóðinni nr. 12 við Frostaþing og staðfesti bæjarstjórn þá ákvörðun á fundi sínum hinn 13. febrúar s.á.

Með umsókn, dags. 18. maí 2007, sótti lóðarhafi Frostaþings 12 um leyfi til að reisa veggi á norður- og austurmörkum lóðar sinnar auk breytinga á útitröppum og var umsóknin samþykkt af byggingarfulltrúa hinn 31. maí 2007.  Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 28. júní s.á., var fyrrgreindum lóðarhafa tilkynnt að við afgreiðslu málsins hefði láðst að leggja fram samþykki lóðarhafa Frostaþings 10 og í ljósi þessara mistaka væri samþykkt leyfisins frá 31. maí 2007 felld úr gildi.  Nokkru síðar, eða með bréfi, dags. 9. júlí 2007, tilkynnti byggingarfulltrúi lóðarhafa Frostaþings 12 að komið hefði í ljós að framangreind afgreiðsla hefði verið á misskilningi byggð og væri hún af þeim sökum afturkölluð með vísan til 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Jafnframt sagði svo í bréfinu:  „Vakin er athygli yðar á því hér með að lóðarhafi að Frostaþingi 10 telur að á rétti sínum hafi verið hallað við samþykkt byggingarleyfis fyrir einbýlishúsi að Frostaþingi 12.  Af hans hálfu er því haldið fram að ekki hafi komið fram við grenndarkynningu að stoðveggur yrði á lóðarmörkum, en slíkir veggir eru háðir samþykki annarra lóðarhafa.  Í umsókn um byggingarleyfi kom ekki fram að sótt væri um stoðvegg á lóðarmörkum, en slíkir veggir koma ekki fram á deiliskipulagi.“

Hafa kærendur kært áðurgreindar ákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur byggja á því að hið kærða byggingarleyfi samræmist ekki ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þar sem umræddur veggur sé ekki í samræmi við samþykkt deiliskipulag svæðisins.  Í skipulagsskilmálum skuli, sbr. ákvæði 5.4.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, kveða m.a. á um byggingarmagn á lóð og frágang lóða og lóðamarka en í skipulagi sé hvergi minnst á umræddan stoðvegg á lóðamörkum.  Nái byggingarleyfið til hans beri að fella það úr gildi þar sem veggurinn sé ekki í samræmi við deiliskipulag.

Jafnframt sé á því byggt að byggingarteikningar stangist á við ákvæði 20. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 þar sem téður stoðveggur sé ekki málsettur og hafi því ekki verið möguleiki fyrir kærendur að átta sig á stærð hans og umfangi.  Hafi byggingarfulltrúa borið að synja um útgáfu leyfisins þar sem teikningar hafi ekki verið í samræmi við tilvitnuð ákvæði.

Byggingarleyfið sé ennfremur í andstöðu við 1. mgr. 67. gr. byggingarreglugerðar.  Um sé að ræða stoðvegg sem rísi á lóðarmörkum, um þriggja metra háan mælt frá yfirborði lóðar kærenda.  Hann sé aðeins í um þriggja metra fjarlægð frá stofuglugga kærenda og rísi hærra en gólfflötur í stofu á efri hæð.  Því sé um verulega skerðingu á gæðum húseignar kærenda að ræða.  Girðing á mörkum lóða sé háð samþykki beggja lóðarhafa og ekki verði gerðar minni kröfur til stoðveggja.  Hafi kærendur aldrei samþykkt slík mannvirki á lóðamörkum.  Byggingarfulltrúa hafi borið að synja um útgáfu leyfis þar sem samþykki hafi ekki legið fyrir.

Um kærufrest sé byggt á því að kærendum hafi ekki verið ljóst að leyfi fyrir slíkum vegg hefði verið veitt fyrr en hann hafi verið reistur, síðustu vikuna í júní og í byrjun júlí 2007.

Krafa um að felld verði úr gildi afturköllun byggingarfulltrúa á fyrri ákvörðun sé á því byggð að afturköllunin sé ekki í samræmi við ákvæði 25. gr. stjórnsýslulaga en ekki hafi verið haldið fram að um ógildanlega ákvörðun sé að ræða.  Hafi umrædd ákvörðun verulega íþyngjandi áhrif fyrir kærendur.  Verði að telja kærendur aðila máls í samræmi við meginreglu stjórnsýslulaga, enda hafi þeir lögmætra hagsmuna að gæta þar sem umrætt byggingarleyfi snúi m.a. að mannvirki á mörkum lóðar þeirra.

Ekki hafi verið sýnt fram á að fyrri ákvörðun hafi verið byggð á röngum gögnum.  Að auki hafi málið ekki verið nægilega upplýst, sbr. ákvæði 10. gr. stjórnsýslulaga, svo taka mætti ákvörðunina.  Þá hafi verið brotinn andmælaréttur á kærendum en þeim hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um meintan „misskilning“.  Sé vísað til ákvæða 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í því sambandi.  Samræmist umþrætt ákvörðun hvorki ákvæðum stjórnsýslulaga né ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Kærendur taka fram að samkvæmt teikningum muni yfirborð lóðar þeirra hækka um ca. 90 cm frá núverandi ástandi.  Á móti sé gert ráð fyrir álíka háu handriði á umræddan vegg.

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er þess aðallega krafist að kröfum kærenda verði vísað frá nefndinni.  Til vara er þess krafist að kröfum verði hafnað og til þrautavara að kröfum kærenda verði hafnað að hluta.

Samkvæmt 2. gr. reglugerðar um úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála sé kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda var kunnugt um þá samþykkt sem hann kæri.  Byggingarleyfi hafi verið samþykkt í janúar 2007 og nýtt deiliskipulag ári áður.  Kæra sé því of seint fram komin og í ljósi þess beri að vísa málinu frá nefndinni.

Þess sé krafist að kröfu um að byggingarleyfið verði fellt úr gildi verði hafnað en til vara að leyfið verði aðeins ógilt að því er varðar umdeildan stoðvegg á lóðamörkum.  Bent sé á að með kynningargögnum við grenndarkynningu hafi fylgt uppdráttur af fyrirhuguðu mannvirki að Frostaþingi 12.  Þar hafi mannvirkið verið sýnt og gerð grein fyrir hvað fælist í breytingunni.  Á uppdrættinum sé jafnframt gert grein fyrir frágangi á lóðamörkum en sérstaklega sé tilgreindur og sýndur stoðveggur við lóðamörk.  Engar athugasemdir hafi borist frá kærendum við kynninguna né hafi samþykkt deiliskipulagsins verið kærð.  Málsmeðferð við töku ákvörðunar hafi að öllu leyti verið í samræmi við 2. mgr. 26. gr. laga nr. 73/1997.  Byggingarleyfið hafi verið gefið út í samræmi við hið breytta deiliskipulag og sé því í fullu gildi samkvæmt 2. mgr. 43. gr. sömu laga.

Krafa kærenda um að fella úr gildi þá ákvörðun byggingarfulltrúa að afturkalla byggingarleyfi frá því í maí 2007 sé á misskilningi byggð auk þess sem þeir eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta vegna þeirrar ákvörðunar.  Hinn 21. maí 2007 (sic) hafi byggingarfulltrúi gefið út leyfi fyrir stoðveggjum á austur- og norðurmörkum lóðarinnar Frostaþing 12.  Í framhaldi af kvörtun kærenda hafi útgáfa leyfisins verið afturkölluð en um mistök hafi verið að ræða þar sem byggingarleyfið frá 21. maí 2007 (sic) hafi ekki tekið til þess stoðveggjar sem kvörtun kærenda hafi beinst að, þ.e. á lóðamörkum Frostaþings 10 og 12, heldur að stoðveggjum á austur- og norðurmörkum lóðarinnar, sem ekki snúi að lóð kærenda.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi bendir á að leyfi það er afturkallað hafi verið af hálfu byggingarfulltrúi varði stoðveggi á lóðarmörkum að opnum svæðum er tilheyri Kópavogsbæ, en ekki stoðvegg á lóðamörkum Frostaþings 10 og 12. Stoðveggur á lóðarmörkum hafi verið reistur í maí og júní og verið fullbúinn í byrjun júlí 2007.

Teikningar hafi verið lagðar fram til skipulagsnefndar 5. mars 2006.  Þá hafi hæðarkóti fyrir neðri hæð Frostaþings 10 verið 100,20 skv. hæðarblaði tæknideildar Kópavogsbæjar.  Umræddur stoðveggur sé í kóta 100,90 og hæðarmismunur því 70 cm.  Í mars 2007 hafi lóðarhafi Frostaþings 10 fengið samþykktar teikningar þar sem hæðarkóti neðri hæðar sé 98,80, þ.e. 140 cm neðar en skilmálar segi til um, og hæðarmismunur því orðinn 210 cm.  Efri brún stoðveggjarins sé því 210 cm fyrir ofan gólfflöt neðri hæðar Frostaþings 10 og standi 10 cm inn á lóð Frostaþings 12. 

Þá sé bent á að kærendum hafi allan tímann verið fullkunnugt um stoðvegginn á lóðamörkunum og hafi þeir m.a. nefnt við arkitekt hússins að Frostaþingi 12 í apríl 2007 að veggurinn væri fyrirferðarmikill.  Hafi lóðarhöfum Frostaþings 10 staðið til boða að skoða aðra mögulega útfærslu.  Telji byggingarleyfishafi sig hafa öll tilskilin leyfi fyrir framkvæmdunum, teikningar hafi verið grenndarkynntar og engar athugasemdir borist.

Andsvör kærenda vegna málsraka byggingarleyfishafa:  Kærendur taka fram að húsið að Frostaþingi 10 fari ekki upp fyrir leyfilega hæð.  Hins vegar sé byggt niður fyrir hæðarlínu, en það sé ekki í andstöðu við byggingarreglugerð.  Aldrei hafi verið samþykkt að reisa mætti vegg á lóðamörkum Frostaþings 10 og 12.  Í greinargerð með skipulagsbreytingu hafi einungis verið fjallað um að byggt væri út fyrir byggingarreit en hvergi minnst á umræddan stoðvegg.  Vísað sé til ákvæða gr. 5.4.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Þar sem ekki sé getið um téðan stoðvegg í greinargerð með tillögunni geti samþykki á skipulagstillögunni ekki falið í sér samþykki á byggingu hans. 

———–

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í máli þessu sem ekki verða rakin nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér aðstæður á vettvangi með óformlegum hætti. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti leyfis byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 25. janúar 2007 til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 12 við Frostaþing.  Snýr ágreiningsefnið fyrst og fremst að stoðvegg er liggur við norðurmörk lóðar kærenda, þ.e. á mörkum lóðanna nr. 10 og 12 við Frostaþing.

Af hálfu Kópavogsbæjar er aðallega krafist frávísunar málsins á þeirri forsendu að kærufrestur hafi verið liðinn er kæra barst úrskurðarnefndinni.  Þá hefur byggingarleyfishafi haldið því fram að kærendum máls þessa hafi verið kunnugt um fyrirhugaða framkvæmd í apríl 2007. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er frestur til að skjóta máli til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Ekki nýtur við gagna í málinu um það hvenær kærendum mátti fyrst vera kunnugt um hæð og umfang stoðveggjar við mörk lóðanna.  Þykir rétt, m.a. vegna óvissu um það hvenær gengið var frá skjólvegg á brún stoðveggjarins og með hliðsjón af efni bréfs byggingarfulltrúa til byggingarleyfishafa frá 9. júlí 2007, að fallast á að kærufrestur hafi ekki verið liðinn þegar kæra barst nefndinni.  Verður kröfu um frávísun því hafnað og málið tekið til efnislegar úrlausnar.

Á svæðinu Vatnsendi-Þing í Kópavogi er í gildi deiliskipulag frá árinu 2005.  Samkvæmt því er heimilt á lóðinni að Frostaþingi 12 að byggja einbýlishús á einni hæð auk kjallara.  Í almennum ákvæðum fyrir einbýlishús, raðhús og parhús á reit 1, er gilda m.a. fyrir lóðirnar að Frostaþingi 10 og 12, segir í lið 3c um frágang lóða að öll stöllun á lóð skuli gerð innan lóðar í beinni línu milli uppgefinna hæðartalna nema annað sé tekið fram eða um annað semjist við lóðarhafa aðliggjandi lóða.  Komi upp ágreiningur um frágang á sameiginlegum lóðamörkum skuli hlíta úrskurði byggingarnefndar um lausn málsins.  Flái við lóðamörk skuli að jafnaði ekki vera brattari en 1:2.  Þá segir enn fremur í lið 3d að stoðveggir og skábrautir í bílakjallara skuli vera í samræmi við skilmála skipulagsins (sérákvæði) og skuli sýna á byggingarnefndarteikningum.  Stoðveggir séu hluti af hönnun húsa og skuli efni og yfirbragð vera í samræmi við þau. 

Úrskurðarnefndin telur með vísan til ofangreinds að túlka beri skilmála skipulagins á þann veg að þar sé gert ráð fyrir stoðveggjum á lóðamörkum.  Er þar ekki gerð krafa um að stoðveggir séu sýndir á skipulagsuppdráttum en slíka veggi þarf hins vegar að sýna á byggingarnefndarteikningum.  Bar því ekki nauðsyn til að sýna eða geta sérstaklega um hinn umdeilda stoðvegg í skipulagi eða að grenndarkynna áform um byggingu hans og verður ekki fallist á að veggurinn hafi verið reistur í andstöðu við gildandi deiliskipulag. 

Fyrir liggur að hæðarmunur lóðanna að Frostaþingi 10 og 12 er meiri en orðið hefði að óbreyttu skipulagi en bæði kærendur og eigandi Frostaþings 12 fengu samþykktar breytingar á hæðarkótum á lóðum sínum.  Var samþykkt breyting á hæðarkóta neðri hæðar húss kærenda að Frostaþingi 10 þannig að hann yrði 98,80 í stað 100,20.  Að auki var samþykkt hækkun á aðkomuhæð Frostaþings 12 um 18 cm, en þeirri hækkun mótmæltu kærendur ekki.  Þótt fallast megi á að umdeildur veggur sé hár þá er hann í samræmi við skipulag með áorðnum breytingum.  Veggurinn stendur allur innan marka lóðarinnar nr. 12 og er hann sýndur og málsettur á samþykktum byggingarnefndarteikningum líkt og almennir skilmálar skipulagsins gera ráð fyrir.  Verður því ekki fallist á að byggingarleyfi hússins að Frostaþingi 12 fari gegn skilmálum deiliskipulags hvað umræddan vegg varðar og verður það því ekki fellt úr gildi af þeim sökum.

Kærendur telja ennfremur að byggingarleyfið sé í andstöðu við ákvæði 67. gr. byggingarreglugerðar og að ekki skuli gera vægari kröfur til stoðveggja en til girðinga á lóðamörkum.  Úrskurðarnefndin fellst ekki á þessi sjónarmið.  Umrætt ákvæði tekur til girðinga en ekki stoðveggja.  Auk þess er beinlínis gert ráð fyrir því í 2. lið tilvitnaðs ákvæðis að kveðið sé á um það í skipulagi að girt sé með tilteknum hætti og verður að skilja ákvæðið svo að víkja megi frá skilyrðum þess í skipulagi.  Er áður rakið hvernig gerð er grein fyrir stöllun lóða, stoðveggjum o.fl. í gildandi skipulagi og ganga þau ákvæði framar ákvæðinu í 1. lið gr. 76 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.     

Þá hafa kærendur krafist þess til vara að afturköllun byggingarfulltrúans í Kópavogi, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 9. júlí 2007, á fyrri ákvörðun um að fella byggingarleyfi úr gildi verði ógilt.  Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að umrætt byggingarleyfi varði stoðveggi á norður- og austurmörkum lóðarinnar að Frostaþingi 12, sem ekki snúi að lóð kærenda.  Verður ekki séð að gerð þeirra raski svo lögvörðum hagsmunum kærenda að þeir eigi rétt á að fá úrlausn um lögmæti umræddrar afturköllunar, sbr. 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997.  Tekur úrskurðarnefndin því ekki afstöðu til þess hvort hin kærða afturköllun á fyrri afturköllun hafi verið lögmæt heldur verður þessum kröfulið vísað frá.

Samkvæmt öllu framansögðu verður ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis.   

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.  

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á samþykkt byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 25. janúar 2007, sem staðfest var á fundi bæjarstjórnar hinn 13. febrúar 2007, um að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 12 við Frostaþing í Kópavogi.

Vísað er frá varakröfu kærenda um ógildingu á afturköllun byggingarfulltrúans í Kópavogi, dags. 9. júlí 2007, á fyrri ákvörðun um að fella byggingarleyfi úr gildi.

__________________________
 Hjalti Steinþórsson

_____________________________    ____________________________
       Ásgeir Magnússon                                  Þorsteinn Þorsteinsson 

77/2008 Lambhóll við Starhaga

Með

Ár 2009, föstudaginn 29. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 77/2008, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að aðhafast ekki vegna breytinga á gluggum hússins Lambhóls við Starhaga.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. ágúst 2008, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir K, Löngubrekku 5, Kópavogi, eigandi íbúðar í húsinu Lambhól við Starhaga í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúa að aðhafast ekki vegna breytinga á gluggum hússins Lambhóls.

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málvextir og rök:  Í nokkur ár virðist sem deilur hafi staðið milli eigenda fasteignarinnar Lambhóls við Starhaga m.a. um endurgerð glugga í eldri hluta hússins.  Með bréfi kæranda til byggingarfulltrúa, dags. 13. apríl 2006, var óskað eftir því að byggingarfulltrúi skæri úr deilum eigenda hússins varðandi glugga.  Var erindi þessu svarað með bréfi, dags. 15. janúar 2007, þar sem sagði m.a:  „Í fyrrnefndu bréfi yðar er óskað eftir úrskurði á því hvert skuli vera útlit glugga í eldra húsi, þeirri beiðni er hér með hafnað þar sem ekki er á valdsviði embættisins að kveða upp dóma.  Er yður leiðbeint um að leita til dómstóla vegna þessa ágreiningsefnis.“ 

Á fundi skipulagsráðs hinn 18. júní 2008 var lagt fram bréf byggingarfulltrúa, dags. 16. s.m., þar sem rakin voru deiluefni eigenda hússins.  Varðandi ágreining um endurgerð glugga í eldri hluta þess sagði m.a. eftirfarandi:  „Jafnframt hefur byggingarfulltrúi leiðbeint málsaðilum að leita til dómstóla með deilumálið, þar sem ekki er á valdsviði embættisins að dæma í málinu.  Er afskiptum embættisins af þeim þætti málsins lokið.“  

Hefur kærandi kært þessa ákvörðun byggingarfulltrúa svo sem að framan greinir. 

Af hálfu kæranda er bent á að kærunefnd fjöleignarhúsamála hafi í áliti sínu komist að þeirri niðurstöðu að leggja beri til grundvallar teikningar hússins frá árinu 1951 hvað gluggagerð þess varði.  Hafi byggingarfulltrúi verið beðinn um að aðhafast í málinu.  Hann hafi neitað því en samkvæmt byggingarreglugerð beri byggingarfulltrúa að bregðast við ef útliti húss er breytt án byggingarleyfis. 

Af hálfu borgaryfrvalda er krafist frávísunar málsins með þeim rökum að ekki sé um endanlega ákvörðun að ræða sem bindi enda á mál heldur fyrirspurn sem ekki sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Kærandi kom á framfæri mótmælum sínum vegna kröfu Reykjavíkurborgar um frávísun málsins og heldur því fram að hann kæri þá ákvörðun byggingarfulltrúa um að aðhafast ekkert í málinu en ekki svar hans, dags. 15. janúar 2007. 

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök máli sínu til stuðnings sem ekki verða reifuð hér frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda máls þessa, dags. 15. janúar 2007, kemur fram að hann telji það ekki vera á valdsviði embættis síns að kveða upp dóma og er þar vísað til deilna eigenda hússins um breytingar á gluggum.  Framangreinda afstöðu sína kynnti byggingarfulltrúi síðar í bréfi til skipulagsráðs, dags. 16. júní 2008, þar sem reifaðar eru deilur eigenda hússins Lambhóls við Starhaga.

Í 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.  Gildir þá einu þótt fyrir hendi kunni að hafa verið ástæður sem réttlætt hafi drátt á því að mál væri kært.  Verður að líta svo á að með bréfi byggingarfulltrúa 15. janúar 2007 hafi kæranda verið tilkynnt um þá niðurstöðu byggingarfulltrúa að það væri ekki á valdsviði hans að skera úr ágreiningi eigenda um breytingar á gluggum umrædds húss og að kæranda hafi þá þegar mátt vera ljóst að byggingarfulltrúi myndi ekkert aðhafast í tilefni af erindi hans.  Þar sem meira en ár var liðið frá dagsetningu bréfs byggingarfulltrúa þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni ber samkvæmt 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga að vísa málinu frá.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.       

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.  

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________    _____________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson   

84/2008 Lambhóll við Starhaga

Með

Ár 2009, föstudaginn 29. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 84/2008, kæra á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 17. júlí 2008 um að leggja fyrir kæranda að fjarlægja óleyfisglugga á þakhæð (risi) hússins Lambhóls við Starhaga innan 42 daga að viðlögðum dagsektum og að láta af óleyfisbúsetu í bílgeymslu á lóðinni innan 60 daga að viðlögðum dagsektum.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. ágúst 2008, er barst nefndinni samdægurs, kærir K, Löngubrekku 5, Kópavogi, eigandi íbúðar í húsinu Lambhól við Starhaga og bílskúrs á lóðinni, þá samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 17. júlí 2008 að leggja fyrir kæranda að fjarlægja óleyfisglugga á þakhæð (risi) Lambhóls innan 42 daga að viðlögðum dagsektum og að láta af óleyfisbúsetu í bílgeymslu á lóðinni innan 60 daga að viðlögðum dagsektum.  

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Í nokkur ár virðast hafa staðið deilur milli eigenda hússins Lambhóls við Starhaga í Reykjavík um endurgerð glugga, svalir á rishæð og þakglugga í risi.  Með bréfi kæranda til byggingarfulltrúa, dags. 13. apríl 2006, var óskað eftir því að byggingarfulltrúi kvæði upp úrskurð um hver væri lögleg gluggagerð í húsinu og athugasemdir gerðar við óleyfisframkvæmdir.    

Með bréfi embættis byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 19. júlí 2006, var honum tilkynnt að meirihluti hússtjórnar hússins hefði sent embættinu erindi þar sem fram kæmi að kærandi hefði í hyggju að setja þakglugga á geymsluherbergi og nýta það sem íbúðarherbergi.  Var í bréfinu bent á að slíkar framkvæmdir væru byggingarleyfisskyldar og vísað til ákvæða fjöleignarhúsalaga varðandi samþykki meðeigenda.

Hinn 13. mars 2008 fór fulltrúi embættis byggingarfulltrúa á vettvang, í tilefni kvörtunar íbúa hússins, vegna framkvæmda við það.  Í skýrslu um vettvangsskoðunina kemur fram að engar framkvæmdir hafi verið sjáanlegar á staðnum.  Hins vegar hafi komið í ljós við nánari eftirgrennslan að hafist hafi verið handa við að setja þakglugga á geymsluloft ásamt því skúr á lóðinni væri nýtur til íbúðar. 

Af þessu tilefni ritaði byggingarfulltrúi kæranda bréf, dags. 14. mars 2008, þar sem framkvæmdir við gerð þakglugga á húsinu voru stöðvaðar og þess krafist að gengið yrði frá rofi sem gert hefði verið í þakið.  Var kæranda veittur frestur til að tjá sig um málið.  Með bréfum kæranda til embættis byggingarfulltrúa, dags. 22. og 24. mars 2008, var bent á að eigendur neðri hæðar hefðu sett þakglugga á sitt herbergi.  Vitnaði kærandi til samkomulags sem hefði verið gert á milli eigenda hússins þess efnis að þakgluggi yrði einnig settur á herbergi efri hæðar.  Taldi kærandi það augljóst að hann hefði ekki samþykkt þakglugga hjá öðrum nema hann fengi að einnig að setja glugga á þakið sín megin.  Taldi kærandi sig með framkvæmdinni uppfylla ákvæði gr. 79.1  byggingarreglugerðar þar sem segði m.a. að á hverju íbúðarherbergi skuli vera gluggi.

Með bréfi byggingarfulltrúa til skipulagsráðs, dags. 16. júní 2008, voru deilur eigenda hússins raktar sem m.a. lúta að þakgluggum og breyttri notkun bílgeymslu.  Var í bréfinu lagt til að kæranda yrði veittur 42 daga frestur til að fjarlægja þakglugga sem hann hefði sett á þakið í óleyfi þrátt fyrir stöðvun byggingarfulltrúa.  Yrði tímafrestur ekki virtur yrði beitt dagsektum kr. 15.000 fyrir hvern dag sem það kynni að dragast að vinna verkið.  Var einnig lagt til að kæranda yrði veittur 60 daga frestur til að láta af ólögmætri notkun bílgeymslu, að viðlögðum dagsektum kr. 20.000 fyrir hvern dag sem það kynni að dragast að láta af hinni ólögmætu notkun.  Að lokum var lagt til að kæranda yrði veittur 14 daga frestur til að tjá sig um framangreint.  Á fundi skipulagsráðs hinn 18. júní 2008 var tillagan samþykkt með eftirfarandi bókun:  „Lagt fram bréf byggingarfulltrúa dags. 16. júní 2008 vegna óleyfisframkvæmda við Lambhól við Starhaga.  Bréf byggingarfulltrúa samþykkt.“  Kom kærandi á framfæri sjónarmiðum sínum vegna framangreinds.  Á fundi skipulagsráðs hinn 16. júlí sama ár var eftirfarandi fært til bókar:  „Lagt fram að nýju bréf byggingarfulltrúa, dags. 16. júní 2008, vegna óleyfisframkvæmda við Lambhól við Starhaga. Lagt fram bréf Kristjáns Kristjánssonar til byggingarfulltrúa, dags. 2. júlí 2008.  Lagt fram minnisblað lögfræði- og stjórnsýslu, dags. 8. júlí 2008, vegna óleyfisframkvæmda við Lambhól við Starhaga.  Bréf byggingarfulltrúa samþykkt.“  Á fundi borgarráðs hinn 17. júlí 2008 var framangreint til umfjöllunar og eftirfarandi bókað:   „Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 16. þ.m. sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d. um beitingu dagsekta vegna Lambhóls við Starhaga til að knýja á um framkvæmdir. R08070072.  Samþykkt.“

Í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 28. júlí 2008, sagði eftirfarandi:  „Á fundi borgarráðs Reykjavíkur þann 17. þ.m. var staðfest samþykkt skipulagsráðs frá 16. þ.m. um að gefa yður tímafrest að viðlögðum dagsektum til þess að:  1.  Fjarlæga óleyfisglugga á þakhæð (risi) eldri húshluta Lambhóls.  Tímafrestur til framkvæmda er gefinn 42 dagar frá móttöku bréfs þessa og verði tímafrestur ekki virtur verði beitt dagsektum kr. 15.000 á hvern dag sem það kann að dragast að ljúka verki.  2.  Láta af óleyfisbúsetu í bílgeymslu.  Tímafrestur til þess er gefinn 60 dagar frá móttöku bréfs þessa og verði hann ekki virtur verður beitt dagsektum kr. 20.000 á hvern dag sem það kann að dragast að láta af búsetunni.  Komi til dagsekta verða þær innheimtar sbr. ákvæði gr. 210.3 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Berist ekki tilkynning frá yður um verklok verða dagsektir sendar lögfræðistofu án frekari viðvörunnar.

Hefur kærandi kært ákvörðun þessa til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Með innheimtubréfi Gjaldheimtunnar ehf. til kæranda, dags. 27. apríl 2009, var hann áminntur um greiðslu skuldar að fjárhæð kr. 8.001.685. 
 
Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er því aðallega haldið fram að hann hafi ítrekað bent byggingarfulltrúa á þakglugga á húsinu sem aldrei hafi verið veitt byggingarleyfi fyrir.  Hafi kærandi farið fram á að byggingarfulltrúi hlutaðist til um að þakið yrði fært til fyrri vegar.  Erindið hafi kærandi margítrekað.  Byggingarfulltrúi hafi ekki aðhafst neitt í málinu.  Ákvörðun borgaryfirvalda um að krefjast þess að kærandi fjarlægi þakglugga, á meðan látið sé undir höfuð leggjast að krefjast þess sama af meðlóðarhafa hans, sé brot á jafnræðisreglu.  Meðhöndla verði alla á sama hátt.

Samkvæmt gr. 79.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 sé skylt að hafa glugga á íbúðarherbergjum og því hafi byggingarfulltrúa borið, í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti, að benda kæranda á að sækja um leyfi til ísetningar glugga sem hugsanlega fengist án samþykkis annarra eigenda.  

Engin tilraun sé gerð til að sanna að um óleyfisbúsetu sé að ræða í bílskúr kæranda og sé fullyrðingum þess efnis mótmælt.  Ekki sé búið í skúrnum og hafi hann ekki verið tekinn til íbúðar.  Bent sé á að aldrei hafi verið kvartað vegna notkunar skúrsins.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að hin kærða ákvörðun varði staðfest en til vara er gerð sú krafa að sá hluti ákvörðunarinnar er lýtur að beitingu dagsekta vegna óleyfisþakglugga verði staðfestur telji úrskurðarnefndin að dagsektir vegna óleyfisbúsetu hafi ekki sætt réttri málsmeðferð eða sé ósönnuð. 

Vísað sé til þess að byggingarnefnd hafi samþykkt árið 1951 teikningar að íbúðarhúsinu  Lambhóli.  Á þeim teikningum hafi verið gert ráð fyrir tveimur þakgluggum til suðurs.  Í dag séu sex aðrir þakgluggar á húsinu, einn til norðurs, tveir til vesturs og þrír til austurs, þar af tveir nýlegir.  

Hvað jafnræðisreglu varði komi fram í 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti.  Þó stjórnsýslulög kveði á um skýra jafnræðisreglu borgaranum í hag geti hann ekki vænst þess að öðlast rétt á grundvelli óréttar annars með vísan til jafnræðis.  Tilefni bréfs byggingarfulltrúa til kæranda hafi verið óleyfisframkvæmdir á hans vegum.  Einnig sé bent á að í bréfi kæranda, dags. 2. mars 2008, hafi hann vitnað til samkomulags sem gert hefði verið milli eigenda hússins þess efnis að þakgluggi yrði síðar einnig settur á herbergi (geymslu) í hans eigu.  Hafi kærandi talið augljóst að hann hefði ekki samþykkt þakglugga hjá öðrum nema hann fengi einnig að setja upp glugga.  Framangreint bendi til þess að kærandi hafi þannig með einhverjum hætti samþykkt þakglugga hjá eigendum risíbúðar í húsinu.  Muni byggingarfulltrúi við fyrsta hentugleika kanna málið og gera þær ráðstafanir sem þurfa þyki.

Skilmálafulltrúi embættis byggingarfulltrúa hafi með skýrslu sinni, dags. 13. mars 2008, upplýst að um búsetu væri að ræða í bílskúr á lóðinni.  Hafi kæranda verið veittur 60 daga frestur til að láta af óleyfisbúsetu og tilkynna embættinu þar um.  Kærandi hafi svaraði embættinu með bréfi, dags. 18. ágúst 2008, þar sem fram hafi komið að notkuninni á bílskúrnum hefði aldrei verið mótmælt af húsfélagi Lambhóls.  Jafnframt hafi kærandi bent á fjöldann allan af bílskúrum í borginni sem breytt hefði verið í íbúðir og krafist jafnræðis sér til handa.  Þurfi því vart að velkjast í vafa um að um óleyfisbúsetu sé að ræða.

Reykjavíkurborg minni á þá meginreglu að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, í þessu tilfelli álagningar dagsekta skipulags- og byggingaryfirvalda Reykjavíkurborgar, sbr. 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema veigamiklar ástæður mæli með því, sbr. 2. mgr. sama ákvæðis.  Þegar ákvörðun sé tekin um hvort fresta eigi réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar verði að leggja heildstætt mat á þau andstæðu sjónarmið sem mætist.  Í þessu tilviki séu annars vegar sjónarmið meirihluta hússtjórnar að Lambhóli sem sé ósamþykkur framkvæmdinni og hins vegar sjónarmið kæranda sem ráðist hafi í framkvæmd án byggingarleyfis, þrátt fyrir skýr fyrirmæli byggingarfulltrúa um stöðvun þeirra framkvæmda.  Verði að telja að kærandi hafi þannig fyrirgert öllum rétti til afsláttar af dagsektum og séu engar veigamiklar ástæður fyrir hendi er réttlæti slíka frestun á réttaráhrifum.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök máli sínu til stuðnings sem ekki verða reifuð hér frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar borgarráðs Reykjavíkur frá 17. júlí 2008 þess efnis að leggja fyrir kæranda að fjarlægja óleyfisglugga á þakhæð (risi) hússins Lambhóls við Starhaga innan 42 daga að viðlögðum dagsektum og að láta af óleyfisbúsetu í bílgeymslu á lóðinni innan 60 daga að viðlögðum dagsektum.  

Umdeildar breytingar kæranda á þaki fasteignarinnar Lambhóls við Starhaga eru byggingarleyfisskyldar skv. 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga og liggur fyrir að kærandi aflaði ekki byggingarleyfis fyrir framkvæmdunum.  Ákvörðun borgarráðs um að leggja fyrir kæranda að fjarlægja óleyfisframkvæmdirnar að viðlögðum dagsektum var því í samræmi við heimildir 56. og 57. gr. skipulags- og byggingarlaga og ekki liggur fyrir í málinu að annmarkar hafi verið á málsmeðferð þeirrar ákvörðunar.  Verður því ekki fallist á ógildingu ákvörðunarinnar hvað þennan þátt varðar.  Breytir það ekki þeirri niðurstöðu þótt kærandi hafi bent á að sambærilegri ákvörðun sem beindist að meðlóðarhafa hafi ekki verið fylgt eftir með innheimtu, enda liggur ekki fyrir að frá því hafi verið fallið.

Fullyrðingar byggingaryfirvalda þess efnis að búseta sé viðhöfð í bílgeymslu á lóðinni eru lítt rökstuddar og engin gögn eru lögð fram um hana í málinu önnur en staðhæfing starfsmanns byggingarfulltrúa.  Verður að telja að rannsókn þessa þáttar málsins sé alls ófullnægjandi.  Verður ákvörðun borgarráðs, með vísan til framanritaðs, felld úr gildi hvað varðar ætluð íbúðarnot bílskúrs.

Framangreind ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndarinnar án ástæðulauss dráttar og hefur málið síðan verið til meðferðar hjá nefndinni.  Að þessu virtu, og þegar litið er til þess að gögn Reykjavíkurborgar er málið vörðuðu bárust ekki úrskurðarnefndinni fyrr en 13. maí 2009, þykir rétt, með hliðsjón af 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að fresta réttaráhrifum ákvörðunar borgarráðs, er varðar þakglugga, frá móttöku kæru í máli þessu til úrskurðardags. 

Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og tafa við gagnaöflun.   

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 17. júlí 2008 um að leggja fyrir kæranda að fjarlægja óleyfisglugga á þakhæð (risi) hússins Lambhóls við Starhaga innan 42 daga að viðlögðum dagsektum, en réttaráhrifum þeirrar ákvörðunar er frestað frá móttöku kæru hinn 28. ágúst 2008 til uppkvaðningar úrskurðar þessa.

Samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 17. júlí 2008, um að krefjast þess að látið verði af meintri óleyfisbúsetu í bílgeymslu á lóð að viðlögðum dagsektum, er felld úr gildi.  

 

 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_______________________________        _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

 
 

 

 

 

162/2007 Gulaþing

Með

Ár 2009, þriðjudaginn 19. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 162/2007, kæra á afgreiðslu skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 6. nóvember 2007 um synjun á breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 25 við Gulaþing. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. desember 2007, er barst nefndinni samdægurs, kærir Gunnar Guðmundsson hdl., f.h. Efrihlíðar ehf., lóðarhafa Gulaþings 25 í Kópavogi, þá afgreiðslu skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 6. nóvember 2007 að synja beiðni um breytt deiliskipulag lóðarinnar nr. 25 við Gulaþing.  

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir og málsrök:  Á fundi skipulagsnefndar 29. maí 2007 var lögð fram beiðni lóðarhafa Gulaþings 25 um breytt deiliskipulag vegna lóðarinnar þannig að henni yrði skipt í tvær lóðir.  Var erindinu frestað.  Í gildi er deiliskipulag á svæðinu, Vatnsendi-Þing, sem samþykkt var árið 2005.  Samkvæmt því er lóðin nr. 25 við Gulaþing 1.845 m² að stærð og heimilt að byggja þar 400 m² einbýlishús á tveimur hæðum.  Á fundi nefndarinnar hinn 3. júlí sama ár var samþykkt að tillaga að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar yrði auglýst og bárust skipulagsyfirvöldum athugasemdir frá næstu nágrönnum.  Var erindi kæranda til umfjöllunar á fundum skipulagsnefndar hinn 4. september 2007 og 18. sama mánaðar, en á fundi nefndarinnar hinn 6. nóvember sama ár var erindinu hafnað með vísan til innsendra athugasemda og umsagnar bæjarlögmanns.  Var kæranda tilkynnt um þessi málalok með bréfi, dags. 8. nóvember 2007, og var í niðurlagi bréfsins vakin athygli á því að ákvörðunin væri kæranleg til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. 

Á fundi bæjarráðs 8. nóvember 2007 var fundargerð skipulagsnefndar frá 6. sama mánaðar til umfjöllunar, sem og á fundi bæjarstjórnar hinn 13. sama mánaðar, án þess að hin umdeilda afgreiðsla skipulagsnefndar væri sérstaklega rædd.     

Af hálfu kæranda er krafist ógildingar á framangreindu og vísar hann m.a. til þess að hagsmunir nágranna hvað varði útsýni yfir Elliðavatn og umferð um götuna muni ekki skerðast þótt fallist yrði á beiðni hans um skiptingu lóðarinnar.

Af hálfu skipulagsyfirvalda er krafist frávísunar málsins og því haldið fram að kæran hafi borist að liðnum kærufresti.  Verði ekki fallist á frávísunarkröfuna sé bent á að deiliskipulag svæðisins, Vatnsendi-Þing, sé nýlega samþykkt og ekki séu fyrir hendi veigamiklar ástæður eða skipulagsleg rök sem réttlæti breytingar á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 25 við Gulaþing.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var beiðni kæranda um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 25 við Gulaþing synjað á fundi skipulagsnefndar hinn 6. nóvember 2007.  Var fundargerðin til umfjöllunar á fundum bæjarráðs hinn 8. sama mánaðar og bæjarstjórnar hinn 13. sama mánaðar án þess þó að erindi kæranda fengi þar sérstaka afgreiðslu.

Í 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 kemur fram sú meginregla að sveitarstjórn beri ábyrgð á og annist gerð deiliskipulags og hið sama gildir um breytingu þess, sbr. 26. gr. laganna.  Þá segir í gr. 2.4 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 að skipulagsnefndir fari með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórnar.  Ennfremur segir þar m.a. að meginverksvið skipulagsnefnda sé að fjalla um stefnumörkun í skipulagsmálum, hafa forgöngu um gerð og breytingar á skipulagsáætlunum og fjalla um skipulagstillögur.  Þá fjalli nefndirnar um athugasemdir við auglýstar skipulagstillögur, geri tillögu til sveitarstjórnar um endanlega afgreiðslu skipulagstillagna og veiti umsagnir um hvort leyfisskyldar framkvæmdir séu í samræmi við skipulagsáætlun.  Loks segir í gr. 2.5 að ákvarðanir skipulagnefnda skuli leggja fyrir sveitarstjórn til afgreiðslu.

Skilja verður framangreind ákvæði á þann veg að skipulagsnefnd sveitarfélags sé ekki falin fullnaðarafgreiðsla erinda er varða nýtt eða breytt deiliskipulag, hvort sem er til samþykkis eða synjunar.  Það er sveitarstjórnar einnar að taka slíkar ákvarðanir, nema fyrir hendi sé sérstök samþykkt sveitarfélagsins um annað fyrirkomulag, sbr. 44. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, en slík samþykkt er ekki fyrir hendi í hinu kærða tilviki. 

Samkvæmt framansögðu verður ekki litið svo á að hin kærða afgreiðsla skipulagsnefndar hafi falið í sér stjórnvaldsákvörðun er sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda var nefndin aðeins bær til þess að gera tillögu til sveitarstjórnar um endanlega afgreiðslu málsins.  Engin ákvörðun liggur fyrir af hálfu sveitarstjórnar í málinu og gildir einu þótt fundargerð skipulagsnefndar hafi verið afgreidd í heild án umræðu í bæjarráði og bæjarstjórn enda var ekki með því tekin afstaða til þess erindis sem um ræðir í máli þessu.  Skorti því á að tekin væri kæranleg lokaákvörðun í málinu og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________     _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                  Aðalheiður Jóhannsdóttir

91/2006 Hleinar

Með

Ár 2009, þriðjudaginn 19. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 91/2006, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 5. september 2006 um breytt deiliskipulag Hleina að Langeyrarmölum er tekur til lóðanna nr. 30-34 við Herjólfsgötu, Hafnarfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála er barst nefndinni hinn 15. nóvember 2006, kærir W, Drangagötu 1, Hafnarfirði samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 5. september 2006 um breytingu á deiliskipulagi Hleina að Langeyrarmölum vegna lóða nr. 30-34 við Herjólfsgötu.  Auglýsing um gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 7. febrúar 2007.  Krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Árið 2001 tók gildi sameiginlegt deiliskipulag Garðabæjar og Hafnarfjarðar fyrir Hleina að Langeyrarmölum er felldi úr gildi eldra deiliskipulag og tekur skipulagið m.a. til Herjólfsgötu í Hafnarfirði.  Í sérákvæðum skipulagsskilmála segir svo:  „Gert er ráð fyrir einni nýrri lóð (30) meðfram Herjólfsgötu og er stærð hennar sýnd á deiliskipulagsuppdrætti.  Herjólfsgata 30 liggur að Eyrarhrauni að hluta, sem lagt er til að verði hverfisverndað svæði, vegna sérstakrar náttúru og umhverfisgæða.  Húsið skal vera tveggja hæða íbúðarhús með innbyggðri bílgeymslu...“  Er stærð lóðar samkvæmt deiliskipulagsuppdrætti 2.261 m².  Ekki er í skipulaginu sérstaklega vikið að lóðum nr. 32 og 34 við Herjólfsgötu en tekið fram í sérákvæðum skipulagsskilmála um Herjólfsgötu, Drangagötu og Klettagötu að ákvæði skilmálanna gildi einnig um þá eldri fastmótuðu byggð sem liggi við ofangreindar götur. 

Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar hinn 29. mars 2005 var lögð fram til kynningar hugmynd lóðarhafa um byggingu fjöleignahúss á lóðunum nr. 30-34 við Herjólfsgötu og var umhverfis- og tæknisviði falið að vinna deiliskipulagsforsögn fyrir lóðirnar þar sem m.a. yrði tekið tillit til hverfisverndar á svæðinu.  Málið var til meðferðar næstu mánuði hjá bæjaryfirvöldum og lagði m.a. umhverfisnefnd til að farið yrði eftir núgildandi deiliskipulagi við uppbyggingu svæðisins en óskaði jafnframt umsagna Fornleifaverndar ríkisins, Húsafriðunarnefndar og Byggðasafns Hafnarfjarðar vegna málsins. 

Hinn 6. september 2005 var samþykkt skipulagsforsögn á fundi skipulags- og byggingarráðs.  Gerði hún ráð fyrir að á 3.394,4 m² lóð að Herjólfsgötu nr. 30-34 yrði heimilað að reisa þrjú íbúðarhús með allt að 200 m² grunnfleti.  Nýtingarhlutfall lóðar skyldi miðast við hámark 0,6.  Á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 18. október 2005 var lögð fram ný tillaga af hálfu lóðarhafa og samþykkt að haldin yrði svonefnd forstigskynning á tillögunni sem og á samþykktri skipulagsforsögn.  Haldinn var kynningarfundur í nóvember 2005 og á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 17. janúar 2006 var lóðarhafa heimilað að vinna tillögu með þeim breytingum að mesta hæð húss nr. 30 yrði lækkuð og hús nr. 32 lækkað um eina hæð.  Þá var samþykkt á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 31. janúar og aftur hinn 14. febrúar s.á. að auglýsa tillöguna með áorðnum breytingum skv. 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Breyting á deiliskipulagi, er tekur til umræddra lóða, var kynnt á skipulagsþingi er skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðar boðaði til í apríl 2006.  Skipulagstillagan var  að nýju til umræðu á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 9. maí 2006 þar sem lagt var fram yfirlit athugasemda er settar höfðu verið fram á fyrrgreindu skipulagsþingi.  Var tillagan afgreidd með svofelldri bókun:  „Skipulags- og byggingarráð samþykkir skipulagstillöguna með áorðnum breytingum og að málinu verði lokið skv. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Tillaga til bæjarstjórnar:  „Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir tillögu að breytingu á deiliskipulagi Hleina að Langeyrarmölum, hvað varðar lóðirnar nr. 30-34 við Herjólfsgötu dags. 20.01.2006 og að málinu verið lokið skv. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga“.“ 

Á fundi bæjarstjórnar hinn 16. maí 2006 var tillagan tekin fyrir en hlaut hins vegar ekki þá afgreiðslu sem skipulags- og byggingarráð hafði lag til heldur samþykkti bæjarstjórn samhljóða að vísa málinu aftur til skipulags- og byggingarráðs, en ekki kom fram af hvaða ástæðum það var ákveðið.

Hinn 22. maí 2006 var umrædd tillaga að breyttu deiliskipulagi auglýst til kynningar og veittur frestur til 3. júlí s.á. til að koma á framfæri athugasemdum.  Bárust athugasemdir, m.a. frá kæranda máls þessa, er taldi til að mynda að með breyttu skipulagi myndi ásýnd götunnar gjörbreytast, umferð um hana aukast og útsýni minnka til muna.  Þá myndu fyrirhugaðar byggingar skerða verulega hraunmyndanir er skæru sig úr landslagi á lóðinni. 

Tillagan var til frekari umfjöllunar hjá skipulagsyfirvöldum í Hafnarfirði sumarið 2006.  Jafnframt var hún tekin fyrir og samþykkt á fundi skipulagsnefndar Garðabæjar hinn 21. júní 2006 og í bæjarráði Garðabæjar hinn 27. s.m.  Var tekið fram í bókun skipulagsnefndar að skipulagssvæðið lægi beggja vegna bæjarfélagamarka en breytingin næði til lóðanna nr. 30-34 við Herjólfsgötu innan bæjarmarka Hafnarfjarðar.

Hinn 29. ágúst 2006 var enn á ný tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs tillaga að breyttu deiliskipulagi lóðanna nr. 30-34 við Herjólfsgötu og lögð fram drög skipulags- og byggingarsviðs að svörum við framkomnum athugasemdum.  Gerði skipulags- og byggingarráð tilgreinda umsögn að sinni, samþykkti skipulagið og gerði þá tillögu til bæjarstjórnar að svo yrði gert.  Í svörum vegna athugasemda kemur eftirfarandi fram:  „Á skipulagstímanum var leitast við að koma til móts við óskir íbúanna, íbúðum var fækkað og húsin lækkuð.  […]  Til að koma enn frekar til móts við íbúa hefur verið ákveðið að minnka grunnflöt húsanna samtals um 110 m² og byggingarreitur á lóð nr. 30 verður færður um 1 m lengra frá kletti í suðausturhluta lóðar.  Með þessu minnkar nýtingarhlutfall á lóðunum, meira verður eftir af hrauni og kletturinn nýtur sín betur. Einnig opnast betur fyrir útsýni frá aðliggjandi lóðum.“ 

Samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar greinda tillögu á fundi sínum hinn 5. september 2006 og hinn 7. desember s.á. var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar breytt deiliskipulag vegna umrædda lóða.  Birtist auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 7. febrúar 2007. 

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til 9. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þar sem fram komi að við gerð skipulagsáætlana skuli eftir föngum leita eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa og annarra þeirra sem hagsmuna eigi að gæta um mörkun stefnu og skipulagsmarkmið.  Níu einstaklingar hafi gert athugasemdir við tillöguna en í svarbréfum umhverfis- og tæknisviðs Hafnarfjarðar sé mjög óljóst fjallað um viðbrögð við framlögðum athugasemdum og á hvaða stigi eða hvort lagfæringar á tillögunni hafi verið gerðar.  Mótmæli íbúa hafi verið skýr og hafi bæjaryfirvöld ekki óskað eftir neinum hugmyndum þeirra til málamiðlunar. 

Bæjaryfirvöld hafi m.a. vísað til þess að eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem skert geti t.d. útsýni og valdið aukningu á umferð.  Sé þessi röksemd tekin orðrétt úr niðurstöðu í eldra kærumáli fyrir úrskurðarnefndinni.  Sorglegt sé að bæjaryfirvöld skuli á þennan hátt nýta sér úrskurð annars máls til að geta breytt samþykktu skipulagi í trássi við ofangreint lagaákvæði eftir hentugleika.  Spurt sé hvers vegna íbúum sé veitt færi á að tjá sig um tillögu að breyttu deiliskipulagi þegar ekki sé farið að óskum þeirra eða vilja, hvort sem er. 

Undarlegt misræmi sé milli umdeildrar tillögu og þess að á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 7. nóvember 2006 sé gerð sú tillaga til bæjarstjórnar að Hleinar að Langeyrarmölum verði friðlýstar.  Þá sé athyglisvert að á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 9. maí 2006 hafi verið lagt fram yfirlit athugasemda frá einum íbúa og samþykkt tillaga að breytingu en frestur til að skila inn athugasemdum hafi verið til 3. júlí s.á.  Með breyttu skipulagi muni umferð um svæðið enn aukast og útsýni skerðast.  Þá muni verða vandamál vegna bílastæða. 

———-

Hafnarfjarðarbæ var gefinn kostur á að tjá sig um framkomna kæru.  Engin greinargerð hefur borist af hans hálfu en bæjaryfirvöld hafa sent úrskuðarnefndinni gögn er málið varða.  Lóðarhafa Herjólfsgötu 30-34 var jafnframt tilkynnt um framkomna kæru en sjónarmið hans liggja ekki fyrir í málinu. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 2. apríl 2009. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er krafist ógildingar á samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 5. september 2006 um breytt deiliskipulag Hleina að Langeyrarmölum hvað snertir lóðirnar nr. 30-34 við Herjólfsgötu.  Ber kærandi fyrir sig að málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið áfátt og efni ákvörðunarinnar muni raska hagsmunum hans. 

Deiliskipulag það sem breytt er með hinni kærðu ákvörðun er sameiginlegt deiliskipulag Hafnarfjarðar og Garðabæjar frá árinu 2001 fyrir tiltekið svæði.  Ekki verður í máli þessu tekin afstaða til lögmætis þessa fyrirkomulags enda er það ekki til úrlausnar í málinu og verður því að leggja til grundvallar að deiliskipulagið frá 2001 hafi lögformlegt gildi.

Samkvæmt 26 gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. 25. gr. sömu laga, þarf sveitarstjórn að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi sem auglýsa á til kynningar.  Fyrir liggur að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafði ekki samþykkt umrædda tillögu þegar hún var auglýst til kynningar hinn 22. maí 2006.  Ekki verður heldur séð að bæjarstjórn Garðabæjar hafi tekið ákvörðun um að auglýsa tillögu að breytingu á hinu sameiginlega skipulagi og hvorki kemur fram í kynningarauglýsingu né í gildistökuauglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 7. febrúar 2007 að um sé að ræða breytingu á sameiginlegu deiliskipulagi Hafnarfjarðar og Garðabæjar fyrir umrætt svæði.

Enda þótt hin umdeilda deiliskipulagsbreyting varði einungis lóðirnar nr. 30-34 við Herjólfsgötu í Hafnarfirði telur úrskurðarnefnin að tillagan hefði þurft að fá lögboðna meðferð samkvæmt 26. gr. sbr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 af hálfu beggja þeirra sveitarfélaga sem hlut eiga að hinu sameiginlega skipulagi.  Þessa var ekki gætt og var málsmeðferð við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar verulega áfátt.  Verður hún af þeim sökum felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 5. september 2006 um breytt deiliskipulag Hleina að Langeyrarmölum. 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________    _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                  Aðalheiður Jóhannsdóttir

26/2007 Unubakki

Með

Ár 2009, þriðjudaginn 19. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 26/2007, kæra á afgreiðslu bæjarráðs Sveitarfélagsins Ölfuss frá 8. mars 2007 um að synja að svo stöddu umsókn um breytta notkun hússins að Unubakka 24 í Þorlákshöfn og uppsetningu tveggja ósontanka að Unubakka 26-28.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. mars 2007, er barst nefndinni hinn 30. sama mánaðar, kærir Sigurbjörn Magnússon hrl., f.h. Lýsis hf., lóðarhafa lóðanna að Unubakka 24 og 26-28 í Þorlákshöfn, þá afgreiðslu bæjarráðs Sveitarfélagsins Ölfuss frá 8. mars 2007 að synja að svo stöddu umsókn Lýsis hf. um breytta notkun hússins að Unubakka 24 og uppsetningu ósontanka að Unubakka 26-28. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Með bréfi kæranda máls þessa til skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 25. ágúst 2006, var óskað eftir heimild til að setja upp þvottatanka við þurrkverksmiðju kæranda.  Sagði í bréfinu að um væri að ræða viðurkenndan búnað til að eyða lykt.  Þá sagði ennfremur að óskað væri eftir bráðabirgðaleyfi til 18 mánaða á meðan bygging nýrrar verksmiðju stæði yfir.  Var umsókn kæranda tekin til umfjöllunar á fundum skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar sveitarfélagsins hinn 2., 18. og 31. október 2006 og 19. desember s.á. án þess að umsóknin væri afgreidd.  Á fundi nefndarinnar hinn 16. janúar 2007 var eftirfarandi fært til bókar:  „Mál fyrir Unubakka 26-28, uppsetning á ósontönkum og breytingar á Unubakka 24, rædd.  Fyrir liggja teikningar af Unubakka 26-28, byggingum og afstöðumynd og af innra skipulagi, breytingar á Unubakka 24.  Starfleyfisveitingin er í vinnslu hjá lögmanni sveitarfélagsins.  Afgreiðsla á þeim málum er varða starfsemi Lýsis, hausaþurrkun og þá leyfi fyrir uppsetningu á ósontönkum og breytingar á Unubakka 24, verður tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar 25. janúar n.k. til afgreiðslu.“  Á fundi bæjarstjórnar hinn 25. janúar 2007 var eftirfarandi fært til bókar:  „Á fundi skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar þann 16. janúar sl. tók nefndin fyrir erindi Lýsis hf. um breytta notkun á Unubakka 24 og uppsetningu á tveimur ósontönkum við Unubakka 26-28.  Bæjarstjórn felur lögmanni sveitarfélagsins að skila áliti um hvort þörf sé á deiliskipulagi fyrir umrætt svæði áður en framkvæmdir verði heimilaðar.  Þá er lögmanni sveitarfélagsins einnig falið að kanna hvort fyrirhugaðar framkvæmdir séu í samræmi við gildandi aðalskipulag svæðisins.“  

Á fundi bæjarráðs hinn 8. mars 2007 var fjallað um umsókn kæranda og samþykkti meirihluti ráðsins eftirfarandi bókun:

Erindi Lýsis hf. um breytta notkun á Unubakka 24 og uppsetningu á tveimur ósontönkum við Unubakka 26-28 var tekin fyrir í bæjarstjórn síðast þann 25. janúar sl.  Á þeim fundi var lögmanni sveitarfélagsins falið að skila áliti sínu um hvort þörf væri á deiliskipulagi fyrir umrætt svæði áður en framkvæmdir yrðu heimilaðar.  Þá var lögmanni sveitarfélagsins einnig falið að kanna hvort fyrirhugaðar framkvæmdir væru í samræmi við gildandi aðalskipulags svæðisins.  Álit lögmanns sveitarfélagsins hefur verið lagt fram til bæjarstjórnar.

Að íhuguðu máli þá hafnar bæjarráð Ölfuss að svo stöddu framkominni umsókn Lýsis hf. um breytta notkun á Unubakka 24 og uppsetningu á tveimur ósontönkum við Unubakka 26-28.

Bæjarráð bendir á þá meginreglu sem orðuð er í 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 (sbl) og mælir fyrir um að skylt er að gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Sú heimild sem fram kemur í 2. mgr. 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. (sbl) þess efnis að sveitarstjórn getur heimilað framkvæmdir á þegar byggðum svæðum, þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag, að undangenginni grenndarkynningu, er undanþága frá þessari meginreglu.

Bæjarráð bendir á að sú málsmeðferð að láta fara fram deiliskipulag áður en byggingarleyfi er gefið út í þegar byggðu hverfi er mun vandaðri málsmeðferð en sú að láta fara fram grenndarkynningu.  Tryggir sú leið því betur að nágrönnum og hagsmunaaðilum sé gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum. Hins vegar er gerð deiliskipulags þyngra í vöfum og tímafrekara en grenndarkynning.

Bæjarráð bendir á að málefni Lýsis hf. hafa verið mikið í umræðu í sveitarfélaginu.  Þá hafa sveitarfélaginu borist kvartanir um ólykt frá starfsemi verksmiðju Lýsis hf, vegna þessara kvartana verður að telja að útgáfa byggingarleyfis geti haft áhrif á fleiri aðila en hægt er að flokka sem nágranna skv. grenndarkynningu.

Bæjarráð metur það sem svo að hagsmunir íbúa sveitarfélagsins á að fá að koma sjónarmiðum sínum á framfæri vegi þyngra en hagsmunir Lýsis á því að fá skjótari úrlausn sinna mála.

Bæjarráð bendir Lýsi hf. á ákvæði 2. ml. 1. mgr. 23. gr. sbl er mælir fyrir um að framkvæmdaraðila er heimilt að gera tillögu til sveitarstjórnar að deiliskipulagi.“

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er krafist ógildingar á ofangreindri afgreiðslu bæjarráðs og því m.a. haldið fram að vandséð sé nauðsyn á gerð deiliskipulags vegna fyrirhugaðra framkvæmda.  Telji kærandi það vera meginreglu að veita beri lóðarhafa byggingarleyfi í samræmi við umsókn hans sé hún í samræmi við gildandi skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulag viðkomandi svæðis.  Þá standist ekki afgreiðslan þar sem hún geri ráð fyrir að deiliskipulag takmarkist eingöngu við lóð kæranda en túlka verði úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarlaga á þann veg að deiliskipulag skuli ná yfir stærra svæði. 

Málsrök Sveitarfélagsins Ölfuss:  Af hálfu sveitarfélagsins er kröfum kæranda hafnað og því m.a. haldið fram að framkvæmdir þær sem kærandi óski eftir séu þess eðlis að gera þurfi deiliskipulag, grenndarkynning sé ekki nægileg.  Byggingarleyfi skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Lögfest sé því sú meginregla að byggingarleyfi verið ekki gefin út nema í samræmi við samþykkt deiliskipulag.  Með því að benda kæranda á heimild til að gera tillögu að deiliskipulagi sé fyrirtækinu gefið færi á að koma með tillögur eða hefja viðræður um gerð deiliskipulags fyrir svæðið.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök máli sínu til stuðnings sem ekki verða reifuð hér frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var á fundi skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar hinn 16. janúar 2007 bókað að umsókn um uppsetningu ósontanka á lóð kæranda og breytingar að Unubakka 24 yrði tekin til afgreiðslu á fundi bæjarstjórnar 25. sama mánaðar.  Á þeim fundi fól bæjarstjórn lögmanni sveitarfélagsins að skila áliti um hvort þörf væri á deiliskipulagi fyrir umrætt svæði áður en framkvæmdir yrðu heimilaðar ásamt því að kanna hvort fyrirhugaðar framkvæmdir væru í samræmi við gildandi aðalskipulag.  Að áliti þessu fegnu afgreiddi bæjarráð umsókn kæranda og hafnaði henni að svo stöddu.  Verður að skilja bókun ráðsins svo að það hafi talið að vinna þyrfti tillögu að deilskipulagi í tilefni af umsókn kæranda.

Í  2. mgr. 38. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að byggingarnefnd fjalli um byggingarleyfisumsóknir sem berist og álykti um úrlausn þeirra til viðkomandi sveitarstjórnar.  Þá segir í 2. mgr. 39. gr. laganna að nefndinni sé skylt að rökstyðja afgreiðslu á erindum sem henni berast og að ákvarðanir nefndarinnar skuli leggja fyrir sveitarstjórn til afgreiðslu.

Fyrir liggur að skipulags-, byggingar- og umhverfisnefnd ályktaði aldrei um umsókn kæranda heldur tók bæjarráð ákvörðun í málinu án þess að fyrir lægi rökstudd ályktun nefndarinnar um úrlausn þess.  Er þessi málsmeðferð andstæð tilvitnuðum ákvæðum skipulags- og byggingarlaga um meðferð byggingarleyfisumsókna.  Þar við bætist að með hinni kærðu ákvörðun bæjarráðs var umsókn kæranda hafnað að svo stöddu án þess að gerð væri grein fyrir því með skýrum hætti við hvað væri átt. 

Samkvæmt framansögðu var undirbúningi hinnar kærðu afgreiðslu áfátt en auk þess skorti á að hún væri fyllilega skýr að efni til.  Þykja þessir annmarkar svo verulegir að leiða eigi til ógildingar og verður hin kærða afgreiðsla því felld úr gildi.  

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Afgreiðsla bæjarráðs Sveitarfélagsins Ölfuss frá 8. mars 2007, um að synja að svo stöddu umsókn um breytta notkun hússins að Unubakka 24 og uppsetningu ósontanka að Unubakka 26-28, er felld úr gildi. 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________      _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                   Aðalheiður Jóhannsdóttir

 
 
 

134/2007 Brúarland

Með

Ár 2009, miðvikudaginn 29. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 134/2007, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Eyjafjarðarsveitar frá 4. september 2007 um að hafna tillögu um deiliskipulag í landi Brúarlands í Eyjafjarðarsveit. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. október 2007, er barst nefndinni hinn 9. s.m., kærir Karl Axelsson hrl., f.h. S og M, eigenda jarðarinnar Brúarlands í Eyjafjarðarsveit, þá afgreiðslu  skipulagsnefndar Eyjafjarðarsveitar frá 4. september 2007 að hafna tillögu um deiliskipulag í landi þeirra.  Samþykkti sveitarstjórn greinda bókun hinn 11. september 2007.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Fyrir nokkrum árum var samþykkt deiliskipulag fyrir tvo reiti í landi Brúarlands, annars vegar árið 2001 fyrir svonefnda Brúnahlíð og hins vegar árið 2005 vegna svokallaðs Brúnagerðis, áfanga A.  Með bréfi, dags. 31. janúar 2007, óskuðu kærendur máls þessa eftir samþykki sveitarstjórnar fyrir tveimur nýjum lóðum úr landi Brúarlands.  Í bréfinu segir svo:  „Háspennulína liggur um Brúarland og verið er að kanna möguleika á því að flytja línuna til, eða setja hana í jörð.  Fyrirhugaðar lóðir eru samkvæmt áfanga B, Brúnagerðis úr landi Brúarlands.  Upphaflega var gert ráð fyrir fimm lóðum í áfanganum, en framkvæmdin hefur dregist á langinn vegna tafa á flutningi línunnar.  Við erum þeirrar skoðunar að mögulegt sé, að gera til að byrja með tvær íbúðarhúsalóðir aðra í austurhluta spildunnar við landamerki Leifsstaða og hina í vesturhluta spildunnar norður við læk, við landamerki Leifsstaða.“ 

Erindið var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar hinn 19. febrúar 2007 og svohljóðandi fært til bókar:  „Í erindinu er farið fram á að skipuleggja svæði norðan Brúarlands að Þingmannalæknum fyrir tvö íbúðarhús.  Með vísan til fyrri samskipta nefndarinnar og landeiganda sem og skilmála sem settir eru fram í deiliskipulagi frá 27. sept. 2005 áskilur nefndin sér fullan rétt til að skoða skipulag þessa svæðis og hugmyndir þar að lútandi mun nánar áður en hún tekur afstöðu til erindisins.“ 

Á fundi skipulagsnefndar hinn 1. mars 2007 var erindið til skoðunar að nýju og eftirfarandi bókað:  „Með vísan til afgreiðslu erindisins samþykkir skipulagsnefnd meðfylgjandi drög að greinargerð til frekari áréttingar á afstöðu sinni.“  Með bréfi, dags. 7. mars s.á., var kærendum máls þessa kynnt afgreiðsla nefndarinnar sem og tilvitnuð greinargerð.  Í henni var m.a. tekið fram að til að skipulagsnefnd gæti tekið tillögu að skipulagi svæðisins til formlegrar umfjöllunar og afgreiðslu þyrfti framkvæmdaaðilinn, þ.e. kærendur, að leggja fram tillögu er tæki mið af ákveðnum forsendum sem nánar voru tilgreindar í greinargerðinni.  Afgreiðsla þessi var staðfest á fundi sveitarstjórnar 6. mars 2007.  Nokkru síðar, eða á fundi skipulagsnefndar hinn 3. apríl s.á., var tekið fyrir erindi frá lögmanni kærenda og svohljóðandi bókað:  „Í erindinu er farið fram á að skipulagsnefnd falli frá þeim skilyrðum sem sett eru fram í greinargerð til eigenda Brúarlands og samþykkt var á fundi nefndarinnar hinn 1. mars 2007.  Nefndin telur engar efnislegar forsendur til að breyta þeirri afstöðu sem þar kemur fram.“ 

Af hálfu kærenda var gerð grein fyrir þeim tillögum sem lagðar höfðu verið fram að deiliskipulagi í landi Brúarlands á fundi skipulagsnefndar hinn 7. júní 2007 og bókað að nefndin væri tilbúin að taka til skoðunar nýja tillögu sem hagsmunaaðilar gætu hugsanlega náð samkomulagi um.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 27. ágúst s.á. var lögð fram hugmynd að deiliskipulagi svæðis milli Þingmannalækjar og Brúnagerðis.  Var afgreiðslu málsins frestað og tekið fram að tillagan væri hliðstæð tillögu sem áður hafði verið kynnt. 

Hinn 4. september 2007 var í skipulagsnefnd samþykkt eftirfarandi bókun:  „Skipulagsnefnd vill að gefnu tilefni enn ítreka að gerð deiliskipulags fyrir frekari íbúðarbyggð í landi Brúarlands skuli lúta þeim skilmálum sem fram eru settir í tillögu að Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2005-2025.  Þetta sjónarmið hefur margoft verið kynnt landeiganda bæði munnlega og skriflega [og] á þar af leiðandi að vera honum fullljóst.  Í deiliskipulagi fyrir umrætt svæði ber því að taka fullt tillit til fjarlægðarmarka og ákvæða um klasa eins og um ræðir í kafla “2.2.1 Íbúðarsvæði“ í greinargerð I með aðalskipulagstillögunni.  Nefndin bendir á í þessu samhengi að lega háspennulínu þvert yfir fyrirhugað skipulagssvæði mun augljóslega hafa áhrif á nýtingu þess á þann hátt að íbúðarlóðir norðan hennar virðast ekki koma til álita þegar tekið er tillit til fyrrgreindra ákvæða.  Vilji landeigandinn koma í veg fyrir þær hömlur sem lega línunnar setur á nýtingu landsins þarf hann því að færa línuna.“  Samþykkti sveitarstjórn greinda afgreiðslu hinn 11. september s.á.  Kærendum var kynnt afgreiðsla málsins með bréfi, dags. 5. september 2007, og þar vísað til erindis um málefnið, dags. 7. mars s.á. 

Hafa kærendur skotið ofangreindri afgreiðslu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur taka fram að hin kærða ákvörðun sé stjórnvaldsákvörðun sem sé ólögmæt enda haldin verulegum efnisannmörkum og því ógildanleg.  Lúti ákvörðunin að efni málsins og uppfylli að öðru leyti hugtaksskilyrði stjórnvaldsákvörðunar.  Hún sé tekin í skjóli stjórnsýsluvalds, hafi bindandi réttaráhrif um úrlausn tiltekins máls, sé beint út á við að borgurunum og bindi enda á stjórnsýslumál.  Þá beinist hún að tilteknum aðilum, sé ákvörðun í ákveðnu og fyrirliggjandi máli og sé ákvörðun um rétt eða skyldu manna.  Líta verði svo á að hin kærða ákvörðun bindi enda á stjórnsýslumálið.  Fallist kærendur ekki á að lúta hinum ólögmætu skilmálum sem settir séu fram í ákvörðun nefndarinnar verði ekki af skipulagi Brúnagerðis, áfanga B, og málinu því lokið.  Ákvörðunin snúi enda að efni málsins en ekki formi þess. 

Verði ekki talið að um stjórnvaldsákvörðun sé að ræða sé byggt á því að ákvörðunin sé eðlislík slíkri ákvörðun og beri því að fara að sams konar reglum við töku hennar og sæti hún kæru til úrskurðarnefndar.  Í 7. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997 sé vísað til stjórnsýslulaga um málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd.  Bent skuli á að við úrlausn vafatilvika sé einmitt litið til þess hvort ákvörðun sé eðlislík stjórnvaldsákvörðun auk þess sem haft sé í huga að markmið stjórnsýslulaga sé að tryggja réttaröryggi manna í samskiptum við stjórnvöld og því þurfi að huga að því hvort í málinu sé nauðsynlegt að veita aðila þá réttarstöðu sem stjórnsýslulögin veiti.  Í athugasemdum með 1. gr. frumvarps þess sem varð að stjórnsýslulögum segi að í algerum vafatilvikum beri fremur að álykta svo að lögin gildi heldur en að þau gildi ekki. 

Ákvörðun um að synja tillögu þessari samþykkis feli í sér brot á bæði almennum og sérstökum efnisreglum stjórnsýsluréttarins.  Með henni sé brotin lögmætisregla og reglan um að ákvörðun skuli vera byggð á málefnalegum sjónarmiðum.  Þá sé ákvörðunin í ósamræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, m.a. 2. mgr. 23. gr. laganna.  Jafnframt sé afgreiðsla þessi andstæð þeirri grundvallarreglu að stjórnvaldsfyrirmælum, er sæti birtingu að lögum, verði ekki beitt fyrr en birting hafi farið fram, sbr. 8. gr. laga nr. 15/2005.  Þessir annmarkar leiði til þess að ákvörðunin sé ógildanleg. 

Skipulagsnefnd hafi gert það að skilyrði að farið væri að skilmálum sem sé að finna í tillögu að Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2005-2025.  Þannig sé lögð til grundvallar tillaga að aðalskipulagi sem hvorki hafi hlotið lögboðna málsmeðferð Skipulagsstofnunar og staðfestingu ráðherra né verið auglýst í samræmi við lög.  Komi krafa þessi víða fram. 

Einnig sé á því byggt að ómálefnaleg sjónarmið hafi legið til grundvallar umræddri ákvörðun en sveitarstjórn hafi beitt sér til hagsbóta fyrir annan fasteignaeiganda á svæðinu með ómálefnalegum hætti. 

Málsrök Eyjafjarðarsveitar:  Tekið er fram að breytingu hafi þurft að gera á aðalskipulagi til að deiliskipulag vegna Brúnagerðis, áfanga A, næði fram að ganga þar sem ekki hafi verið gert ráð fyrir íbúðarbyggð á þessum stað.  Hafi að beiðni kærenda í máli þessu verið auglýst slík breyting. 

Ljóst sé að kærendur hafi aldrei farið með formlegum hætti fram á það á þessu stigi málsins að allt svæðið sunnan Brúnahlíðar yrði skipulagt sem íbúðarbyggð og landnotkun breytt í aðalskipulagi til samræmis við það, heldur aðeins syðri hluti svæðisins, sunnan heimreiðar, þ.e.a.s. Brúnagerði, áfangi A.  Skipulagsnefnd hafi hins vegar gert ráð fyrir því við endurskoðun aðalskipulagsins að í framtíðinni yrði svæðið norðan heimreiðarinnar, áfangi B, einnig tekið til íbúðarbyggðar og hafi verið við það miðað í tillögum nefndarinnar.  Í staðfestu Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2005-2025 sé gert ráð fyrir allt að fimm lóðum fyrir íbúðarhús á nefndum reit. 

Þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin hafi verið í gildi Aðalskipulag Eyjafjarðarsveitar 1994-2014.  Samkvæmt því hafi ekki verið gert ráð fyrir íbúðarbyggð á svæðinu og því hefði þegar af þeirri ástæðu ekki verið hægt að samþykkja deiliskipulagstillögu kærenda, þar sem slíkt hefði brotið gegn gildandi aðalskipulagi. 

Vinna við nýtt aðalskipulag hafi verið á lokastigi þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin og í því hafi verið gert ráð fyrir íbúðarbyggð á reitnum.  Það hafi því verið eðlileg og málefnaleg ákvörðun að vísa til væntanlegs aðalskipulags og í raun kærendum til hagræðis að vinna deiliskipulagið þannig, í stað þess að fara fyrst fram á breytingu á aðalskipulagi sem verið væri að klára endurskoðun á.  Því sé mótmælt að sveitarfélagið hafi á óeðlilegan hátt gengið erinda annars aðila í máli þessu. 

Bent sé á varðandi umfjöllun um klasa að vísað hafi verið til þeirra í bréfi sveitarstjóra til kærenda, dags. 7. mars 2007, og jafnframt tilkynnt að skipulagsnefnd væri tilbúin að taka til meðferðar deiliskipulagstillögu sem byggðist á þessum og öðrum forsendum hins væntanlega aðalskipulags.  Hafi í umræddu bréfi jafnframt komið fram mjög ítarlegar skýringar og ábendingar til kærenda um framhald málsins.  Leiðbeiningarskyldu stjórnvaldsins hafi því verið vandlega gætt.  Af kærunni megi ráða að eftir þetta hafi hönnuðir á vegum kærenda verið í sambandi við skipulagsnefnd og lagt fram mismunandi tillögur að útfærslu á þessum svokölluðu klösum.  Ljóst sé því að kærendum hafi verið fullkunnugt um þessi skilyrði og hafi verið að vinna með skipulagsyfirvöldum, að því er virðist, að því að finna lausn er rúmaðist innan þeirra.  Augljóst sé að staðhættir á vettvangi séu þannig að Þingmannalækurinn sé mjög eðlilegt viðmið til að mynda klasaskil.  Eitt af markmiðum skipulagsins sé að það falli að náttúrulegum staðháttum.  Það sé því málefnaleg afstaða og byggð á rökum að fallast ekki á að breyta þessum klasaskilum. 

Því sé mótmælt að stjórnsýslulög eða önnur lög hafi verið brotin við meðferð málsins.  Ákvörðunin hafi verið byggð á málefnalegum rökum.  Hún hafi verið í fullu samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga þar sem á þessum tíma hefði samþykkt tillögunnar verið í andstöðu við gildandi aðalskipulag sveitarfélagsins og því ólögmæt.  Kærendur hafi ekki óskað eftir því að aðalskipulagi yrði breytt sérstaklega vegna þessarar tillögu þeirra, heldur aðeins óskað eftir deiliskipulagi nýs svæðis.  Það hafi því verið málefnalegt og eðlilegt að vísa til væntanlegs aðalskipulags.  Ákvörðunin hafi verið tekin á lögmætan hátt, bæði hvað varði form og efni.  Um sé að ræða ákvarðanir sem teknar hafi verið af réttum og til þess bærum stjórnvöldum.  Málið hafi verið rannsakað vandlega og hafi kærendur haft öll tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.  Sú málsástæða kærenda að ekki hafi verið heimilt að vísa til stjórnvaldsfyrirmæla sem ekki hefðu verið birt eigi hér ekki við. 

Að lokum sé bent á að nú liggi fyrir nýtt aðalskipulag þar sem gert sé ráð fyrir íbúðarbyggð og því ekkert sem standi því í vegi að kærendur geti sent inn nýja tillögu að deiliskipulagi til meðferðar. 

—–

Niðurstaða:  Af þeim gögnum sem liggja fyrir í máli þessu verður ráðið að samskipti hafi verið milli skipulagsyfirvalda og kærenda um mótun deiliskipulags fyrir spildu úr landi þeirra í kjölfar erindis þeirra þar að lútandi.  Meðal annars ber orðalag hinnar kærðu bókunar skipulagsnefndar Eyjafjarðarsveitar á fundi hinn 4. september 2007 það með sér að þar hafi verið til umfjöllunar breytt útfærsla á deiliskipulagstillögu frá upphaflegri hugmynd.  Að teknu tilliti til greinds aðdraganda og orðalags hinnar kærðu bókunar verður hún ekki skilin svo að með henni hafi erindi kærenda verið endanlega hafnað heldur hafi verið um að ræða áréttingu á skoðun nefndarinnar á tilhögun skipulagsins. 

Telja verður, með hliðsjón af framangreindu, að hin kærða bókun hafi ekki falið í sér stjórnvaldsákvörðun sem bindi enda á meðferð máls í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_______________________________    _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                 Aðalheiður Jóhannsdóttir

115/2007 Skipholt

Með

Ár 2009, þriðjudaginn 28. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 115/2007, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 17. janúar 2008 um að samþykkja breytt deiliskipulag á lóðinni nr. 11-13 við Skipholt í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni hinn 7. september 2007 og áréttað var í tölvubréfi, dags. 4. febrúar 2008, kæra B og J, Skipholti 15, Reykjavík þá ákvörðun borgarráðs frá 17. janúar 2008 að samþykkja breytt deiliskipulag lóðar nr. 11-13 við Skipholt í Reykjavík.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Forsaga máls þessa er sú að tillaga að breytingu á deiliskipulagi er varðar lóðina nr. 11-13 við Skipholt var grenndarkynnt hagsmunaaðilum á fyrrihluta árs 2007 og bárust athugasemdir frá fjölda aðila, m.a. frá kærendum máls þessa.  Vegna framkominna athugasemda um galla á málsmeðferð var samþykkt á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 1. júní 2007 að tillagan yrði grenndarkynnt að nýju og að athugasemdir þær er borist hefðu héldu gildi sínu og að fjallað yrði um þær þegar málið yrði afgreitt. 

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 3. ágúst 2007 voru athugasemdir er borist höfðu við tillöguna lagðar fram og á fundi skipulagsráðs hinn 15. ágúst s.á. var tillagan samþykkt með vísan til a-liðar 12. gr. samþykktar um skipulagsráð og umsagnar skipulagsstjóra.  Var tillagan send Skipulagsstofnun til yfirferðar skv. 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Með bréfi, dags. 31. ágúst 2007, gerði stofnunin athugasemdir við að birt yrði auglýsing um breytinguna í B-deild Stjórnartíðinda, m.a. þar sem ekki væri fallist á að farið væri með tillöguna sem óverulega breytingu á skipulagi.  Í framhaldi af því var ákveðið á fundi skipulagsráðs hinn 3. október 2007 að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi umræddrar lóðar og var sú afgreiðsla samþykkt á fundi borgarráðs hinn 18. s.m.  Tillagan var auglýst til kynningar frá 24. október 2007 til 7. desember s.á.  Á fundi skipulagsráðs hinn 9. janúar 2008 var hún samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsstjóra og málinu vísað til borgarráðs, er samþykkti greinda afgreiðslu á fundi hinn 17. janúar 2008.  Auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar birtist síðan í B-deild Stjórnartíðinda hinn 19. maí 2008.  Gerir hið breytta skipulag m.a. ráð fyrir að byggt verði við hús það sem fyrir er á lóðinni og heimilað að hækka það í fimm hæðir.  Hafa kærendur kært framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur taka fram að þeir hafi gert alvarlegar athugasemdir við umdeilda skipulagstillögu en ekki hafi verið tekið tillit til þeirra athugasemda fremur en annarra er borist hafi.  Ákveðið hafi verið að ganga gegn eindregnum vilja nágranna með því að samþykkja hið breytta deiliskipulag.  Hafi svör skipulagsstjóra verið ófullnægjandi og engin rök hafi verið færð fram fyrir því að tillagan yrði samþykkt. 

Í svari skipulagsstjóra við framkomnum athugasemdum komi eftirfarandi m.a. fram:  „Kynnt tillaga að stækkun hússins að Skipholti 11-13 er talin vera í samræmi við byggðamynstur svæðisins, enda tekur hún mið af stærðarhlutföllum húsa og er ekki talin minnka gæði þeirra eigna sem fyrir eru í næsta umhverfi.“  Þetta feli ekki í sér svar við athugasemdunum og engar forsendur séu færðar fram fyrir staðhæfingum sem m.a. séu settar fram um byggðamynstur og stærðarhlutföll húsa.  Þá sé það deginum ljósara að sólar muni njóta skemur í mörgum íbúðum í næsta nágrenni vegna fyrirhugaðrar stækkunar umrædds húss svo fátt eitt sé nefnt.  Telji kærendur sig verða fyrir eignatjóni og þurfi þeir að búa við minni lífsgæði gangi hin kærða breyting fram. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að hin kærða samþykkt verði staðfest.  Borgaryfirvöld telji að rétt hafi verið staðið að samþykkt tillögunnar.  Farið hafi verið yfir framkomnar athugasemdir og þeim svarað með fullnægjandi hætti.  Hin kærða ákvörðun sé í samræmi við stefnumörkun aðalskipulags um þéttingu byggðar ásamt því að stuðla að minni bílaumferð. 

Bent sé á að orðið hafi verið við athugasemdum vegna formgalla tillögunnar sem hafi verið kynnt að nýju og hagsmunaaðilar upplýstir um það. 

Reykjavíkurborg harmi að kærendur telji sig verða fyrir eignatjóni og minnkun lífsgæða en telji breytingu þá er hér um ræði ekki það umtalsverða að hún valdi kærendum tjóni eða óhagræði að marki.  Það sé eðli borga að taka breytingum og vera í stöðugri þróun og verði eigendur fasteigna staðsettra miðsvæðis að gera ráð fyrir slíkum breytingum. 

Það sé hlutverk Reykjavíkurborgar sem skipulagsyfirvalds að tryggja hagsmuni heildarinnar og að ekki sé svo langt gengið á eignir borgaranna að um óþolandi skerðingu á gæðum eða eignum sé að ræða.  Telji borgaryfirvöld að ekki sé um slíka skerðingu að ræða og engin rök séu til þess að ógilda hina kærðu ákvörðun.  Telji kærendur sig verða fyrir tjóni vegna gildistöku skipulagins geti þeir átt rétt á bótum skv. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 verði tjón sannað.  Um slíkan bótarétt sé úrskurðarnefndin ekki bær að fjalla. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi deiliskipulagsbreytingar er tekur til lóðarinnar nr. 11-13 við Skipholt í Reykjavík.  Lóðin tilheyrir skilgreindu miðsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, sem nefnt er M2, Hlemmur/Grensás.  Á árinu 2006 var samþykkt breyting á skilgreiningu miðsvæðis í aðalskipulagi fyrir umrætt svæði á þann veg að þar sem aðstæður leyfðu væri íbúðarhúsnæði heimilt, einkum á efri hæðum bygginga, í samræmi við gr. 4.4 í skipulagsreglugerð og nánari útfærslu í deiliskipulagi. 

Árið 1968 var reist tveggja hæða iðnaðarhús að Skipholti 11-13 sem samkvæmt upplýsingum úr fasteignamati er um 1.500 m².  Stóð húsið á sameiginlegri lóð Brautarholts 10-14 og Skipholts 11-13, sem var deiliskipulögð á árinu 1998 sem sérstakur skipulagsreitur.  Með deiliskipulagsbreytingu sem samþykkt var í janúar 2007 var umræddri lóð skipt upp í tvær lóðir, Brautarholt 10-14 og Skipholt 11-13, en framangreint hús stendur á síðargreindri lóð, en stærð hennar er 2.147 m². Var  heimilað að byggja við og ofan á húsið á lóðinni en tilgreint byggingarmagn var óbreytt frá eldra skipulagi eða 2.253 m².

Hin kærða deiliskipulagsbreyting felur m.a. í sér heimild til aukins byggingarmagns og hækkunar hússins að Skipholti 11-13 í fimm hæðir og verður byggingarmagn eftir breytinguna 5.035 m².  Fer nýtingarhlutfall lóðarinnar úr 1,05 í 2,07 að undanskildum bílakjallara.  Á skilgreindum miðsvæðum í skipulagi er almennt miðað við nokkuð hátt nýtingarhlutfall lóða og mun hærra en tíðkast á íbúðasvæðum.  Ekki liggur fyrir að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Skipholti 11-13, eftir umdeilda skipulagsbreytingu, sé til muna hærra en heimilað hefur verið í nágrenninu. 

Að framangreindu virtu og þar sem ekki liggur fyrir að ógildingarannmarkar hafi verið á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar verður kröfu kærenda um ógildingu hennar hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs frá 17. janúar 2008, um að samþykkja breytt deiliskipulag lóðar nr. 11-13 við Skipholt í Reykjavík. 

 

 

____________________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

______________________________               _______________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                        Þorsteinn Þorsteinsson

33/2007 Drekavellir

Með

Ár 2009, þriðjudaginn 28. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 33/2007, kæra á samþykki skipulags- og byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 7. mars 2007 og bókun skipulags- og byggingarráðs frá 20. s.m. varðandi teikningu lóðarinnar nr. 8 við Drekavelli. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. apríl 2007, er barst nefndinni samdægurs, kærir Lilja Jónasdóttir hrl., f.h. eigenda fjöleignarhússins að Drekavöllum 10 í Hafnarfirði, samþykki skipulags- og byggingarfulltrúa frá 7. mars 2007 og bókun skipulags- og byggingarráðs frá 20. s.m. varðandi teikningu lóðarinnar nr. 8 við Drekavelli. 

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu afgreiðslur verði felldar úr gildi. 

Málavextir:  Upphaflegt byggingarleyfi hússins að Drekavöllum 8 var veitt á árinu 2005.  Á árinu 2006 fór lögmaður kærenda þess á leit við embætti skipulags- og byggingarfulltrúa að lóðarframkvæmdir yrðu stöðvaðar en ekki var fallist á þá kröfu.  Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 21. febrúar 2007 var fjallað um bréf lögmanns kærenda, þar sem m.a. var kvartað yfir stöðu mála og málsmeðferð.  Var eftirfarandi fært til bókar:  „Skipulags- og byggingarfulltrúi frestar erindinu og mun framkvæma vettvangsmælingar á hæð og umfangi hleðslu á lóðarmörkum.“  Á þessum sama fundi voru teknir til umfjöllunar séruppdrættir að lóð Drekavalla 8.  Í fundargerðinni sagði um þann lið:  „Skipulags- og byggingarfulltrúi endursendir uppdrættina þar sem þeir eru ekki í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti hvað varðar hæðir á lóðarmörkum og uppdrættir uppfylla ekki skilyrði skv. kafla 4.7 í deiliskipulagsskilmálum.“ 

Erindi kærenda var tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 28. febrúar 2007.  Í fundargerð sagði m.a. eftirfarandi:  „Lóðarmörk milli Drekavalla 8 og 10 hafa verið mæld upp.  Komið hefur í ljós að lóð nr. 10 hefur verið hækkuð frá lóðarblaði, og mælingar sendar byggingarstjóra Drekavalla 8 til viðmiðunar við gerð lóðarteikningar.  Vísað til skipulags- og byggingarráðs.“  Erindið var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 6. mars 2007 og var eftirfarandi fært til bókar:  „Erindið var til umfjöllunar á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 28.02.07, sem vísaði því til skipulags- og byggingarráðs.  Lóðarmörk milli Drekavalla 8 og 10 hafa verið mæld upp.  Komið hefur í ljós að lóð nr. 10 hefur verið hækkuð frá lóðarblaði og mælingar sendar byggingarstjóra Drekavalla 8 til viðmiðunar við gerð lóðarteikningar.  Ný lóðateikning hefur borist dags. 27.02.07.  Skipulags- og byggingarráð frestar erindinu þar til skipulags- og byggingarsvið hefur yfirfarið nýja lóðateikningu.“  Var lóðarteikningin tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarfulltrúa 7. mars 2007 og var eftirfarandi bókað:  „Skipulags- og byggingarfulltrúi bendir á misræmi á skeringum sem sýndar eru á grunnmynd aðaluppdrátta og framlagðri lóðarteikningu.  Þar sem skeringar á aðaluppdrætti standast ekki vegna hæðarmunar milli lóðanna nr. 8 og 10, telst útfærsla framlagðs lóðaruppdráttar réttari og uppfylla ákvæði 3. kafla byggingarreglugerðar nr. 441/1998 m.s.br. um lóðafrágang.  Skipulags- og byggingarfulltrúi telur hlaðinn kant vera í samræmi við frágang á mörkum aðliggjandi lóða, og samþykkir því framlagðan uppdrátt, en með skilyrði um frágang hlaðins kants milli lóða nr. 8 og 10 með tilvísan í heimild í grein 8.2 í byggingarreglugerð.  Skipulags- og byggingarfulltrúi telur núverandi frágang kantsins mjög til lýta, og þar sem hann er framkvæmdur án tilskilins leyfis, gerir skipulags- og byggingarfulltrúi byggingarstjóra Drekavalla nr. 8 að fjarlægja hann eða bæta frágang hans.  Bent skal á að betur fer á að nota fleygað grjót í stað sprengigrjóts, í samræmi við frágang lóðamarka nr. 6 og 12.“ 

Erindi kærenda var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs 20. mars 2007 og sagði í fundargerð m.a:  „Skipulags- og byggingarráð felur skipulags- og byggingarfulltrúa að svara bréfinu í samræmi við afgreiðslu hans á lóðarteikningu fyrir Drekavelli 8.“  Var framangreint staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 27. mars 2007.  Bréf skipulags- og byggingarfulltrúa til lögmanns kærenda er dagsett 22. mars 2007. 

Hafa kærendur kært framangreint svo sem áður var getið. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að framkvæmdir á lóð Drekavalla 8 séu ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag, samþykktar aðalteikningar, hæðarblöð og veitt byggingarleyfi.  Í fyrsta lagi hafi lóðin verið hækkuð frá hæðarblöðum og samþykktum aðaluppdráttum.  Í öðru lagi hafi lóðin nr. 8 verið sléttuð að lóðamörkum í stað þess að vera aflíðandi niður að mörkunum og því sé hár stallur á lóðamörkum.  Í þriðja lagi hafi sá hái stallur sem myndast hafi á lóðamörkum verið afmarkaður með stórgrýti.  Þá hafi í fjórða lagi verið byrjað á að reisa girðingu nálægt lóðamörkum án samþykkis kærenda.  Allar þessar framkvæmdir, hver fyrir sig og allar saman, leiði til þess að íbúðir að Drekavöllum 10, sérstaklega á neðstu hæð, verði meira niðurgrafnar en ef farið hefði verið að samþykktum teikningum og gildandi deiliskipulagi og skerði því hagsmuni kærenda verulega. 

Almenna skipulagsskilmála vegna þriðja áfanga Vallahverfis megi finna í deiliskipulagi.  Í kafla 4.7 um frágang lóða segi m.a. að frágangur lóða skuli almennt vera í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti og 3. kafla byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Þá komi fram að hönnun fjölbýlishúsalóða skuli liggja fyrir samtímis aðalteikningum þar sem m.a. skuli koma fram yfirborðsfrágangur lóðar og hæðarsetningar.  Lóðarhafi beri ábyrgð á að framkvæmdir og frágangur á lóð sé í samræmi við samþykktar hæðartölur og teikningar.  Öll stöllun á lóð skuli gerð innan lóðar og skuli fjarlægð stalla/fláa frá lóðamörkum vera a.m.k. jöfn hæð þeirra, nema þar sem óhreyft landslag bjóði upp á betri lausnir.  Ef flái sé notaður skuli hann ekki vera brattari en 1:3. 

Fyrir liggi aðalteikningar vegna Drekavalla 8.  Hin kærða ákvörðun sé í ósamræmi við samþykktar aðalteikningar.  Meginrökstuðningur yfirvalda sé eftirfarandi:  „Þar sem skeringar á aðaluppdrætti standast ekki vegna hæðarmunar milli lóðanna nr. 8 og 10, telst útfærsla framlagðs lóðaruppdráttar réttari og uppfylla ákvæði 3. kafla byggingarreglugerðar nr. 441/1998 m.s.br. um lóðafrágang.“  Með þessu sé verið að leggja hið ólögmæta ástand á lóðinni nr. 8 til grundvallar sem hið „rétta“ ástand.  Á samþykktum aðalteikningum af Drekavöllum 8 komi fram að hönnuður stalli lóðina eins og gert sé ráð fyrir í skipulagi.  Lóðarhafar hafi því alltaf mátt vita hvernig ganga átti frá lóðinni. 

Eins og fram komi í bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 22. mars 2007, sé almenna reglan sú að byggingarnefndarteikningar skuli vera það réttar að leiðréttinga þurfi ekki við.  Í deiliskipulagsskilmálum sé tekið fram að sérteikning af lóð megi almennt ekki víkja frá samþykktum aðalteikningum hvað varði hæðir og fláa.  Útilokað sé að líta á þessar breytingar sem leiðréttingar heldur sé beinlínis verið að leggja blessun yfir ólögmætar framkvæmdir á lóðinni nr. 8.  Almennt skuli séruppdrættir ekki víkja frá aðaluppdráttum.  Þó viðurkennt væri að slíkt væri mögulegt sé frávikið í því tilviki sem hér um ræði viðamikið ásamt því að vera til tjóns fyrir kærendur. 

Byggingarfulltrúi hafi samþykkt lóðarteikningu sem sé með nýjan hæðarkóta á lóðarmörkum.  Kærendur telji að byggingarnefnd geti ekki samþykkt þær breytingar sem gerðar hafi verið á hæðarlegu lóðar nr. 8 án samþykkis þeirra sem hagsmuna eigi að gæta í málinu.  Þá sé mótmælt þeirri framkvæmd sem viðhöfð hafi verið við mælingu lóðanna og jafnframt séu niðurstöður mælinga varðandi lóðina að Drekavöllum 10 dregnar í efa.  Ekkert samráð hafi verið haft við kærendur um að hæðarlegu lóðar þeirra sé breytt á teikningum. 

Ástæða sé til að benda á að hleðslan sé mjög ótrygg, nokkrir steinar í hleðslunni séu við það að falla.  Þeir standi ofar en lóðamörkin og á moldarjarðvegi. 

Að lokum sé bent á að stjórnvöld séu bundin af lögmætisreglunni sem feli í sér bæði form- og efnisreglu, þ.e. ákvarðanir stjórnvalda megi ekki ganga í berhögg við lög og verði jafnframt að eiga sér heimild í lögum.  Meðalhófsreglan verði ekki notuð í því skyni að taka ólögmætar ákvarðanir af því að hin lögmæta ákvörðun sé óþægileg.  Ákvarðanir stjórnvalda í Hafnarfirði séu í andstöðu við lög í rúmri merkingu og eigi sér þar enga stoð. 

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:  Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar hefur ekki verið skilað inn sérstakri greinargerð í tilefni kærumáls þessa.  Í málinu liggja aftur á móti fyrir gögn þar sem sjónarmiðum bæjarins eru gerð skil.  Þar á meðal er bréf byggingarfulltrúa til kærenda, dags. 22. mars 2007.  Þar segir m.a:  „Því hefur aldrei verið synjað að framkvæmdirnar yrðu fjarlægðar, heldur reynt að komast að samkomulagi milli íbúanna, sem íbúar Drekavalla 10 höfnuðu í raun með því að mæta ekki á fundinn, heldur senda lögfræðing í sinn stað. Hugsanlega hefði verið hægt að ljúka málinu á þeim fundi, þar sem íbúar Drekavalla 8 mættu allir.  Ég er ósammála þeirri túlkun í enda bréfsins að meðalhófsreglan eigi ekki við, þar sem ekki sé stefnt að lögmætu markmiði.  Markmiðið er að sjálfsögðu að leysa málið, og ég taldi að það væri hægt að leysa með samkomulagi, sem er mildari aðgerð en valdbeiting, og vinnuregla hjá Hafnarfjarðarbæ að reyna þá leið á undan öðru. 

Þegar ljóst var að ekki næðist samkomulag, var ákveðið að bíða með frekari aðgerðir þar til eigendur nr. 10 hefðu gengið frá sinni lóð og endanleg hæðarlega hennar væri fengin.  Í mælingu sem mælingamaður Hafnarfjarðarbæjar framkvæmdi á frágenginni lóð Drekavalla 10 kom í ljós að sú lóð var eilítið hærri en lóðablað segir til um.  Ég hef tilkynnt Hauki Ásgeirssyni, sem virðist vera í forsvari fyrir íbúa Drekavalla 10, að ég samþykki þá breytingu sbr. 66.1 grein byggingarreglugerðar.  Jafnframt var byggingarstjóra Drekavalla 8 send sú mæling til viðmiðunar. 

Sú fullyrðing að framkvæmdir séu ekki í samræmi við deiliskipulag er hæpin.  Deiliskipulag kveður ekki á um hæðartölur, heldur eru þær ákvarðaðar á mæliblaði, en í skilmálunum segir m.a.:  „Öll stöllun á lóð skal gerð innan lóðar og skal fjarlægð stalla/fláa frá lóðarmörkum vera a.m.k. jöfn hæð þeirra, nema þar sem óhreyft landslag býður upp á betri lausnir.  Ef flái er notaður þá skal hann ekki vera brattari en 1:3.“  Sú staðhæfing að lóðin nr. 8 hafi verið sléttuð að lóðarmörkum í stað þess að vera aflíðandi að mörkunum er röng, þar sem lóðarmörkin eru fyrir neðan stallinn og fláinn tekinn á lóð nr. 8 eins og venja er.  Sýnist mér misskilningur vera í gangi, að efri brún hleðslunnar sé á lóðarmörkum, en í raun er neðri brún hleðslunnar greinilega innan lóðarmarka nr. 8, eins og sjá má á meðfylgjandi ljósmynd og mælingar mælingamanns Hafnarfjarðarbæjar staðfesta.  Stöllunin er því innan lóðar nr. 8.  Varðandi það að fjarlægð stalla/fláa skuli vera jöfn fjarlægð frá lóðarmörkum, á þetta ákvæði á að sjálfsögðu við efri hluta stalls. 

Í skilmálum segir enn fremur:  „Frágangur lóða skal almennt vera í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti og 3. kafla byggingarreglugerðar (441/1998) (undirstrikun mín).“  Þar sem sú stöllun sem sýnd er á byggingarnefndarteikningu Drekavalla 8 var ekki í neinu samræmi við hæðir í landi, féllst ég á að láta fráganginn á lóðarteikningunni gilda sem leiðréttingu á byggingarnefndarteikningunni.  Þar sem byggingarreglugerð kveður ekki á um annað, lítum við á lóðarteikningar sem nánari útfærslu á byggingarnefndarteikningum sem gefi rúm fyrir leiðréttingar, þótt almenna reglan sé að byggingarnefndarteikningar skuli vera það réttar að leiðréttinga þurfi ekki við. 

Ekki er að finna neitt í byggingarreglugerð varðandi það að fólk hafi íhlutunarrétt um frágang á nágrannalóðum, nema hvað varðar girðingar á lóðamörkum.  Ekki liggur fyrir leyfi fyrir girðingu á lóðamörkunum, og lét ég stöðva þær framkvæmdir sl. sumar.  Ég hef reynt að milda áhrifin af grjóthleðslunni með því að uppáleggja byggingarstjóra Drekavalla 8 að laga hana, og beitti þar ákvæði greinar 8.2 í byggingarreglugerð.  Það er samdóma álit okkar arkitekta og landslagsarkitekts Hafnarfjarðarbæjar að hleðsla úr fleyguðu grjóti samræmist landslagseinkennum Hafnarfjarðar, enda víða notuð í bænum, og í samræmi við frágang á aðliggjandi lóðamörkum. 

Í bréfi ykkar er vitnað til þess að lóðarteikningar hefðu átt að liggja fyrir samtímis byggingarnefndarteikningum, sem er rétt, og tekin er afstaða til þess í afgreiðslunni á lóðateikningum Drekavalla 8 á afgreiðslufundinum 07.03.07. 

Varðandi síðustu síðuna í bréfi ykkar, er það rétt að lóðarteikningar nr. 10 voru komnar inn, og leiðréttist það hér með.  Varðandi mælingu á moldarhaug, sem vitnað er í, hefur mæling verið endurtekin á frágenginni lóð.  Samskipti þeirra byggingarstjóranna eru samkvæmt upplýsingum frá byggingarstjóra Drekavalla 8, en ekki skal ég staðhæfa neitt frekar í því máli.“ 

_ _ _

Frekari rök hafa verið sett fram í máli þessu og hefur úrskurðarnefndin haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þess. 

Vettvangur:  Úrskurðarnefndin kynnti sér með óformlegum hætti aðstæður á vettvangi hinn 2. apríl 2009. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er annars vegar deilt um gildi samþykktar skipulags- og byggingarfulltrúa frá 7. mars 2007 um samþykki teikningu lóðarinnar nr. 8 við Drekavelli og hins vegar bókun skipulags- og byggingarráðs frá 20. mars 2007 þar sem skipulags- og byggingarfulltrúa er falið að svara bréfi kærenda í samræmi við afgreiðslu hans á fyrrgreindri lóðarteikningu.  Framangreind bókun frá 20. mars felur ekki í sér ákvörðun sem bindur enda á meðferð máls heldur er að mati úrskurðarnefndarinnar einungis um að ræða áréttingu á fyrri ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa.  Sætir bókun þessi því ekki kæru, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður þessum hluta kærunnar því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Kærendur, sem eru eigendur húss nr. 10 við Drekavelli, halda því m.a. fram að með hinni kærðu ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa sé hæðarmunur lóðanna aukinn og fyrir vikið standi hús þeirra mun lægra en upphaflega hafi verið gert ráð fyrir.  Samkvæmt upphaflegu byggingarleyfi hússins nr. 8 við Drekavelli, frá árinu 2005, var gert ráð fyrir að hæðarmun yrði mætt með stöllun innan lóðar, nær húsinu en heimilað er samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa frá 7. mars 2007.  Deiliskipulag svæðisins, Vellir 3, var samþykkt árið 2004 og á uppdrætti þess eru m.a. sýndar hæðarlínur og mörk lóða tilgreind.  Á uppdrætti þessum er vísað til greinargerðar skipulagsins og segir þar m.a. að öll stöllun skuli gerð innan lóðar og að fjarlægð stalla eða fláa frá lóðarmörkum skuli a.m.k. vera jöfn hæð þeirra. 

Ljóst er af skoðun á vettvangi að húsin á lóðunum nr. 8 og 10 standa mishátt.  Úrskurðarnefndin telur að hinn umdeildi frágangur sé ekki óvenjuleg lausn þar sem jafna þarf hæðarmun milli lóða og að aðrar útfærslur myndu ekki breyta stöðu kærenda svo nokkru nemi.  Þá verður ekki ráðið af þeim gögnum er lögð hafa verið fyrir úrskurðarnefndina að hin kærða ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa frá 7. mars 2007 sé í andstöðu við ákvæði deiliskipulags og var af þeim sökum ekki skylt að kynna kærendum hana sérstaklega.  Verður samkvæmt framansögðu ekki fallist á kröfur kærenda um ógildingu ákvörðunarinnar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna verulegra tafa við gagnaöflun. 

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kæru á bókun skipulags- og byggingarráðs frá 20. mars 2007 varðandi teikningu lóðarinnar nr. 8 við Drekavelli.  

Hafnað er kröfu um ógildingu samþykktar skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 7. mars 2007.

 

___________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

_____________________________                  ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Aðalheiður Jóhannsdóttir

23/2006 Lónsbraut

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 2. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 23/2006, kæra á ákvörðunum skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 6. október 2004, 3. nóvember 2004, 8. desember 2004, 15. júní 2005 og 10. ágúst 2005 um að veita byggingarleyfi fyrir endurbyggingu og breytingum á bátaskýlum á lóðunum nr. 52, 54, 60, 64 og 68 við Lónsbraut í Hafnarfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. mars 2006, er barst nefndinni sama dag, kærir E, eigandi bátaskýlis nr. 58 við Lónsbraut, Hafnarfirði, þær ákvarðanir skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 6. október 2004, 3. nóvember 2004, 8. desember 2004, 15. júní 2005 og 10. ágúst 2005 um að veita byggingarleyfi fyrir endurbyggingu og breytingum á bátaskýlum á lóðunum nr. 52, 54, 60, 64 og 68 við Lónsbraut í Hafnarfirði.  Staðfesti bæjarstjórn veitingu byggingarleyfanna fyrir Lónsbraut 60 og 68 hinn 7. mars 2006.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærðu byggingarleyfi verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á þeim tíma er hinar kærðu ákvarðanir voru teknar var í gildi deiliskipulag fyrir suðurhöfn Hafnarfjarðar frá árinu 2000 er tekur til umrædds svæðis.  Í skilmálum deiliskipulagsins kemur m.a. fram að hæð bátaskýla við Lónsbraut megi vera samræmi við þau nýjustu sem standi austast á svæðinu og að heimilt sé að hækka sökkla þeirra skýla sem lægst standa um allt að 1,5 metra vegna sjávarhæðar. 

Hinn 6. október 2004 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Hafnarfjarðar umsókn er fól m.a. í sér hækkun bátaskýlis að Lónsbraut 64 um 1,5 metra.  Var sú ákvörðun staðfest í skipulags- og byggingarráði hinn 7. mars 2005.  Þá tók hann fyrir og samþykki á afgreiðslufundi sínum hinn 3. nóvember 2004 umsókn vegna Lónsbrautar 52 um leyfi til að lengja hús um 1,0 metra og hækka það um 80 sentimetra.  Staðfesti skipulags- og byggingarráð þá ákvörðun hinn 7. mars 2005.  Skipulags- og byggingarfulltrúi samþykkti hinn 21. desember 2005 breytingu á því leyfi er fól í sér hækkun skýlisins um 25 sentimetra.  Var sú ákvörðun lögð fram á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 6. janúar 2006 og staðfest í bæjarstjórn hinn 10. janúar s.á.  Ennfremur var samþykkt umsókn um hækkun og viðbyggingu bátaskýlis að Lónsbraut 54, til samræmis við hús nr. 52, á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 8. desember 2004.  Skipulags- og byggingarráð staðfesti erindið hinn 7. mars 2005. Hinn 15. júní 2005 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi leyfi fyrir endurbyggingu og stækkun bátaskýlis að Lónsbraut 60.  Var sú afgreiðsla lögð fram á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 24. febrúar 2006 og staðfesti bæjarstjórn afgreiðsluna hinn 7. mars s.á. Hinn 10. ágúst 2005 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Hafnarfjarðar umsókn um leyfi fyrir endurbyggingu og stækkun bátaskýlis að Lónsbraut 68.  Skipulags- og byggingarráð staðfesti afgreiðsluna hinn 24. febrúar 2006 og bæjarstjórn hinn 7. mars s.á. 

Kærandi máls þessa skaut veitingu byggingarleyfa varðandi greind bátaskýli til úrskurðarnefndarinnar í lok árs 2005, sem vísaði málinu frá hinn 9. febrúar 2006 með vísan til þess að lokaákvörðun hefði ekki verið tekin um veitingu þeirra þar sem á skorti að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefði staðfest umdeild leyfi. 

Málsrök kæranda:  Kærandi styður kröfu sína þeim rökum að búið sé að hækka sökkla umdeildra bygginga verulega og stefni í að mænishæð þeirra verði allt að 2,5 – 3,0 metrum hærri en skýli kæranda og séu þau í engu samræmi við hæðir annarra skýla á svæðinu og gildandi deiliskipulag.  Kærandi hafi átt í vandræðum vegna aur- og vatnsflæðis að skýli sínu, sem hann hefði vænst að úr rættist þegar Lónsbrautin yrði hönnuð og lögð lægra en nú sé með hliðsjón af ákvarðaðri hæð bátaskýlanna í gildandi skipulagi.  Umræddar byggingar skemmi heildarsvip svæðisins vegna hæðar sinnar en auk þess sé þakhalli skýlisins að Lónsbraut 52 í engu samræmi við þakhalla annarra skýla. 

Málsrök bæjaryfirvalda:  Bæjaryfirvöld benda á að eigendur sumra bátaskýla á svæðinu hafi nýtt sér heimild í skipulagsskilmálum um að hækka gólf skýlanna um 1,5 metra og hafi skýlunum þá verið lyft til að gæta samræmis í þakhalla annarra skýla.  Á gildandi mæliblaði fyrir umrætt svæði sé gólfkóti greindur á einum stað 3,9 metrar sem gildi fyrir öll skýlin og sé kótinn miðaður við að gólf skýlanna sé yfir stórstreymi. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi Lónsbrautar 68 bendir á að hann hafi byggt skýlið í góðri trú en byggingaryfirvöld hafi stimplað teikningar af skýli hans.  Byggingarleyfishafi bátaskýlis að Lónsbraut 54 tekur fram að aðeins sé búið að byggja sökkul og því hvorki komin gólfhæð né mænishæð á húsið svo óljóst sé hvað verið sé að kæra.  Hafi alfarið verið farið að reglum og leyfum hvað varði byggingu hússins.  Öðrum byggingarleyfishöfum var veitt færi á að tjá sig en ekki liggja fyrir í málinu athugasemdir þeirra. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi í tilefni af fyrra kærumáli um sama efni. 

Niðurstaða:  Kærandi ber fyrst og fremst fyrir sig að með hinum kærðu byggingarleyfum sé vikið frá gildandi skipulagi um gólfhæð umræddra bátaskýla sem hafa muni áhrif á mótun aðkomu að skýlunum sem verði hærri en ella hefði orðið. 

Sveitarstjórn skal afgreiða byggingarleyfisumsóknir, sbr. t.d. 2. mgr. 38. gr., 2. mgr. 39. gr. og 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið að afgreiðslur skipulags- og byggingarfulltrúa frá 6. október, 3. nóvember og 8. desember 2004 á umsóknum um byggingarleyfi vegna Lónsbrautar 52, 54 og 64 hafi verið staðfestar í bæjarstjórn.  Af þessum ástæðum hafa greind byggingarleyfi ekki hlotið lögboðna meðferð samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 og verður því að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni hvað umdeild leyfi varðar, með skírskotun til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem lokaákvörðun hefur ekki verið tekin um veitingu byggingarleyfanna. 

Deiliskipulag það er í gildi var er umdeild byggingarleyfi varðandi bátaskýlin að Lónsbraut 60 og 68 voru veitt þykir að ýmsu leyti óljóst að því er tekur til heimilaðrar hæðar skýlanna og hæðarsetningar þeirra í landi.  Á skipulagsuppdrætti er ekki að finna upplýsingar um landhæð eða hæðarsetningu gólfplötu umræddra skýla.  Í greinargerð skipulagsins segir um yfirbragð bygginga á svæðinu í kafla 5.2 að þakform þeirra sé bundið núverandi A-formi en heimilt verði að hækka þau skýli sem lægst standi í landi um allt að 1,5 m vegna sjávarhæðar.  Þar segir þar ennfremur: „Hæð skýlanna sjálfra má vera skv. þeim nýjustu austast á svæðinu.“ 

Af greindum upplýsingum og fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið með afdráttarlausum hætti að greind byggingarleyfi hafi farið í bága við skipulag svæðisins.  Verður því ekki fallist á kröfu kæranda um ógidingu umræddra byggingarleyfa. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun. 

Úrskurðarorð:

Kæru vegna byggingarleyfisákvarðana skipulags- og byggingarfulltúa Hafnarfjarðar frá 6. október, 3. nóvember og 8. desember 2004 vegna bátaskýla við Lónsbraut 52, 54 og 64 er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Kröfu um ógilndingu ákvarðana skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 15. júní og 10. ágúst 2005 um veitingu byggingarleyfa vegna bátaskýla að Lónsbraut 60 og 68 er hafnað. 

 

 

___________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

_____________________________             ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                     Aðalheiður Jóhannsdóttir