Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

15/2012 Flekkudalsvegur

Með

Árið 2012, föstudaginn 16. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 15/2012, kæra á afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar Kjósarhrepps frá 31. janúar 2012 um að synja um leyfi til endurbyggingar sumarhúss að Flekkudalsvegi 18a, Kjósarhreppi. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. mars 2012, er barst nefndinni sama dag, kæra J og H, eigendur sumarhúss að Flekkudalsvegi 18a, Kjósarhreppi, þá afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar Kjósarhrepps frá 31. janúar 2012 að synja um leyfi til endurbyggingar nefnds sumarhúss.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á árinu 1996 festu kærendur kaup á sumarhúsi við Flekkudalsveg 18a en á lóðinni eru einnig aðrar stakstæðar byggingar.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Kjósarhrepps hinn 4. júlí 2011 var tekin fyrir umsókn kærenda um leyfi til að endurbyggja og stækka nefnt sumarhús og fylgdi umsókninni teikning að um 70 m² sumarhúsi er tengt yrði svokölluðu svefnrými sem fyrir er á lóðinni, um 20 m² að stærð.  Í umsókninni kom fram að stefnt væri að því að flytja tilbúið hús á lóðina og rífa það sem fyrir væri.  Var afgreiðslu málsins frestað og fært til bókar að gera þyrfti grein fyrir öllum byggingum á lóðinni og heildarstærð þeirra.  Kærendur sendu Kjósarhreppi bréf, dags. 27. ágúst s.á., þar sem fram kemur að umbeðin gögn fylgi.  Var erindið tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 18. október 2011 þar sem vísað var til fyrri bókunar nefndarinnar um málið. 

Með bréfi til byggingarnefndar, dags. 26. október 2011, óskuðu kærendur eftir umsögn nefndarinnar við hugmyndum um endurbyggingu sumarhúss á lóð kærenda samkvæmt teikningum að 55,3 m² sumarhúsi, sem bréfinu fylgdu, og fyrirhugað væri að tengja fyrrnefndu svefnrými.  Var erindið tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 16. nóvember s.á. og afgreitt með svofelldri bókun:  „[Kærendur] leggja fram fyrirspurn um endurbyggingu á sumarhúsi sínu við Flekkudalsveg nr. 18A. Lögð er fram teikning sem sýnir fyrirhugaða endurbyggingu hússins og hvort það samræmist gr. 4.4. í gildandi deiliskipulagi. Hafnað. Samræmist ekki deiliskipulagi.“ 

Annar kærenda kom á framfæri athugasemdum við greinda afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar með bréfi til nefndarinnar, dags. 5. desember 2011.  Í bréfinu sagði m.a: „Undirritaður fer þess góðfúslega á leit að byggingarnefnd Kjósarhrepps endurskoði afstöðu sína frá 16. nóvember 2011 er snýr að endurbyggingu frístundahúss við Flekkudalsveg 18a.  Óska ég eftir því að umsókn mín um endurbyggingu, skv. teikningum sem fylgdu erindinu, verði samþykkt.“  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 31. janúar 2012 var erindið tekið fyrir og afgreitt með eftirfarandi bókun:  „Synjað.  Þegar byggð hús sem standa innan 50 m frá ám og vötnum er leyfilegt að endurnýja/endurbyggja og skulu stærðar og hæðarmörk miðast við núverandi hús.“ 

Hafa kærendur kært synjun skipulags- og byggingarnefndar frá 31. janúar 2012 til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur taka fram að ekki verði séð að skipulagsákvarðanir komi í veg fyrir að leyfi verði veitt fyrir endurbyggingu sumarhúss þeirra að Flekkudalsvegi 18a.  Skipulags- og byggingarnefnd hafi t.d. í október 2011 samþykkt leyfi fyrir 120 m² húsi við Flekkudalsveg þar sem byggingarreitur hafi verið 35 m frá vatni.  Telja verði að málsmeðferð Kjósarhrepps á umsókn kærenda hafi í mörgu verið ábótavant og í andstöðu við lög á þessu sviði og stjórnsýslulög, svo sem jafnræðisreglu þeirra laga.  Kærendur vísi til úrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 5/2002 máli sínu til stuðnings. 

Málsrök Kjósarhrepps:  Kjósarhreppur fer fram á að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar á erindum kærenda á fundum hinn 16. nóvember 2011 og 31. janúar 2012 hafi ekki tekið til umsóknar um byggingarleyfi heldur hafi verið um að ræða afgreiðslu á fyrirspurnum frá kærendum.  Enn fremur beri að vísa kæru frá þar sem annar kærenda hafi ekki verið aðili að umsókn um byggingarleyfi í júní 2011. 

Athugasemdir kærenda við málsrökum Kjósarhrepps:  Kærendur mótmæla því að vísa beri kæru þeirra frá og benda á að með bréfi til byggingarnefndar Kjósarhrepps, dags. 5. desember 2011, hafi verið óskað formlega eftir því að umsókn um endurbyggingu sumarhússins yrði samþykkt.  Sé í því sambandi einnig vísað til þess að erindi þeirra hafi verið synjað en svo hefði tæpast verið gert ef um afgreiðslu á fyrirspurn hefði verið að ræða.  Jafnframt sé bent á að í bréfi byggingar- og skipulagsfulltrúa til kærenda, dags. 2. febrúar 2012, þar sem tilkynnt hafi verið um afgreiðslu málsins, hafi verið bent á kæruleiðir ef ekki yrði unað við úrskurð nefndarinnar. 

Gögn í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni frá Kjósarhreppi 11. apríl 2012.  Óskuðu kærendur eftir fresti til að koma að athugasemdum í málinu og bárust þær nefndinni 13. ágúst 2012. 

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu sem ekki verða rakin hér frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Kærendur sóttu um leyfi til að endurbyggja og stækka sumarhús sitt að Flekkudalsvegi 18a í júlí 2011 og var umsóknin tekin til meðferðar af skipulags- og byggingaryfirvöldum Kjósarhrepps.  Í október sama ár óskuðu kærendur eftir afstöðu byggingarnefndar til breyttra teikninga að fyrirhuguðum mannvirkjum og á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 16. nóvember s.á. var erindi þeirra hafnað.  Loks lögðu kærendur inn erindi til byggingarnefndar í desember s.á. með ósk um að umsókn þeirra yrði samþykkt með skírskotun til þegar framlagðra teikninga.  Liggur því fyrir í máli þessu að tekist er á um synjun skipulags- og byggingarnefndar á umsókn kærenda um byggingarleyfi sem lögð var fram í desember 2011. 

Samkvæmt lögum um mannvirki nr. 160/2010, sem tóku gildi 1. janúar 2011, annast byggingarfulltrúi meðferð byggingarleyfisumsókna og veitir leyfi með samþykki byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis, sbr. 9.-11. og 13. gr. laganna.  Sveitarstjórn er þó heimilt skv. 1. mgr. 7. gr. nefndra laga að setja sérstaka samþykkt um að í sveitarfélaginu skuli starfa byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsóknir áður en byggingarfulltrúi gefur út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar.  Þá er sveitarstjórn heimilað í 2. mgr. ákvæðisins að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að byggingarnefnd og/eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna.  Samþykkt sem sett er skv. 7. gr. mannvirkjalaga skal lögð fyrir ráðherra til staðfestingar og birt af sveitarstjórn í B-deild Stjórnartíðinda.  Kjósarhreppur hefur ekki sett sér sérstaka samþykkt með heimild í 7. gr. laga um mannvirki og fer því um meðferð og afgreiðslu byggingarleyfisumsókna í sveitarfélaginu eftir ákvæðum þeirra laga.  Brast skipulags- og byggingarnefnd Kjósarhrepps því vald til afgreiðslu byggingarleyfisumsókna kærenda. 

Hin kærða ákvörðun um synjun byggingarleyfisumsóknar kærenda var ekki tekin af byggingarfulltrúa Kjósarhrepps, svo sem lög standa til, sbr. 11. gr. laga um mannvirki, og liggur því ekki fyrir í máli þessu lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem borin verður undir úrskurðarnefndina.  Af þeim sökum verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna tafa við gagnaöflun og anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

46/2010 Hásteinn

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 25. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 46/2010, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 21. apríl 2010 um breytingu á deiliskipulagi íþrótta- og útivistarsvæðis við Hástein, Vestmannaeyjum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur 

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. júlí 2010, er barst nefndinni 13. s.m., kæra tólf íbúar og eigendur að Bessahrauni 15, 16, 18, 20, 22 og 26, Vestmannaeyjum, þá ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 21. apríl 2010 að samþykkja tillögu að breyttu deiliskipulagi íþrótta- og útivistarsvæðis við Hástein.  Skilja verður málskot kærenda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Hinn 18. febrúar 2010 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja að auglýsa breytingu á deiliskipulagi íþrótta- og útivistarsvæðis við Hástein.  Fól tillagan í sér að afmarkað yrði 18.000 m² svæði sunnan við Þórsheimili og austur að íþróttamiðstöð við Illugagötu er nýtt yrði fyrir tjaldsvæði.  Var fyrirhugaðri breytingu andmælt með bréfi er 61 maður ritaði undir, þ.á m. allir kærendur. 

Tillagan var næst tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 7. apríl s.á. og samþykkt með þeim breytingum að syðstu hlutar tjaldsvæðisins yrðu færðir fjær byggð, til norðurs.  Á fundi bæjarstjórnar hinn 21. apríl 2010 var greind fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs lögð fram til umræðu og staðfestingar og hún samþykkt og öðlaðist breytingin gildi með auglýsingu þar að lútandi í B-deild Stjórnartíðinda 25. júní s.á. 

Kærendur telja að verði tjaldsvæði bæjarins til framtíðar staðsett í svo mikilli nálægð við fasteignir þeirra muni það hafa í för með sér verulegt ónæði, óþrifnað og jafnvel eignaspjöll fyrir íbúa á svæðinu.  Sveitarfélagið bendir hins vegar á að hin kærða samþykkt sé í fullu samræmi við þá landnotkun sem skilgreind sé fyrir svæðið í Aðalskipulagi Vestmannaeyja 2002-2014.  Staðið hafi verið að umræddri breytingu með þeim hætti sem lög og reglugerðir kveði á um. 

Niðurstaða:  Fyrir liggur að hin kærða ákvörðun um breytt deiliskipulag íþrótta- og útivistarsvæðis við Hástein var afturkölluð á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja hinn 29. mars 2012 og var auglýsing um ógildingu þeirrar ákvörðunar birt í B-deild Stjórnartíðinda 20. apríl s.á.  Hefur ákvörðunin því ekki lengur þýðingu að lögum og eiga kærendur ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar. 
Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________   ___________________________
Ásgeir Magnússon                              Þorsteinn Þorsteinsson

23/2012 Brákarbraut

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 8. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 23/2012, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar um álagningu sorpgjalds vegna fasteignarinnar nr. 11 við Brákarbraut í Borgarnesi fyrir árið 2012. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. mars 2012, er barst nefndinni 27. s.m., kærir I, þá ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar að hækka álagt sorpgjald vegna fasteigar hans nr. 11 við Brákarbraut fyrir árið 2012.  Verður að skilja kröfugerð kæranda svo að kærð sé álagning sorpgjalds 2012 og að gerð sé krafa um að hún verði felld úr gildi. 

Kærandi krefst þess einnig að viðurkennt verði að eðlilegra hefði verið að lækka gjöld vegna uppsafnaðs hagnaðar af innheimtu sorpgjalds áranna á undan eða að endurgreiða oftekin gjöld.  Jafnframt verði viðurkennt að ljóst hafi mátt vera af reikningsskilum áranna 2009-2011 að sveitarfélagið hafi oftekið sorpgjöld stórlega árin á undan og að svo verði einnig árið 2012.  Þá verði viðurkennt að endurkröfu megi gera á sveitarfélagið vegna oftekins sorpgjalds og að lög heimili ekki að stofnkostnaður vegna sorphirðu sé fjármagnaður með sorpgjaldi.  Loks krefst kærandi þess að sveitarfélaginu verði eftirleiðis gert að vanda betur til áætlanagerðar, reikningshalds, innheimtu og upplýsingagjafar til íbúa um tekjur og gjöld vegna sorphirðu ár hvert. 

Úrskurðarnefndinni bárust gögn í málinu frá Borgarbyggð hinn 27. apríl 2012. 

Málavextir:  Með auglýsingu, sem birt var m.a. í héraðsblaðinu Skessuhorni hinn 24. janúar 2012, tilkynnti sveitarstjórn Borgarbyggðar að lokið væri álagningu fasteignagjalda í sveitarfélaginu árið 2012 og að álagningarseðlar hefðu verið sendir til gjaldenda.  Þá sagði að ef gjaldendur teldu álagninguna ekki rétta væri hægt að fara fram á endurálagningu með rökstuddum hætti en skrifleg beiðni þar um skyldi berast skrifstofu Borgarbyggðar eigi síðar en mánuði eftir álagningu.  Hvorki var í auglýsingunni getið kæruheimildar samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 né lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, en álagningin tók bæði til fasteignaskatts og sorpgjalds.  Með álagningarseðli fasteignagjalda fyrir árið 2012, dags. 24. janúar s.á., var kæranda gert að greiða 31.000 krónur í sorpgjald vegna fasteignarinnar að Brákarbraut 11.  Kærði hann álagningu gjaldsins til sveitarfélagsins með bréfi, dags. 22. febrúar 2012, og krafðist þess að álagt sorpgjald yrði í samræmi við rökstuddan kostnað við sorphirðu og sorpeyðingu.  Þá krafðist hann gagna um kostnað þennan og gerði athugasemd við að ekki væri getið um kæruheimild á álagningarseðlinum.  Kröfu kæranda var hafnað með bréfi, dags. 27. febrúar 2012, og honum bent á að sú ákvörðun væri kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með eins mánaðar kærufresti.  Í bréfinu kom jafnframt fram að í auglýsingu um álagninguna, sem bæði hefði birst á heimasíðu Borgarbyggðar og í fjölmiðlum, væri gjaldendum bent á leið til að fara fram á endurálagningu ef þeir teldu álagninguna ekki rétta.  Því væri ekki ástæða til að geta þess einnig á álagningarseðli. 

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að í 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 segi m.a. að heimilt sé að setja gjaldskrá um innheimtu gjalda skv. 1. mgr. að fenginni umsögn hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar.  Gjöld megi aldrei vera hærri en sem nemi rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum.  Í 7. gr. samþykktar um meðhöndlun úrgangs í Borgarbyggð nr. 295/2007 segi að gjöld í hverjum flokki skuli vera sem næst meðal raunkostnaði við þá þjónustu sem veitt sé, en þó aldrei hærri en sem nemi rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu, umsýslu og eftirlit með einstökum þáttum.  Ekkert mæli gegn því að þjónustugjöld séu lægri kjósi stjórnvöld að greiða hluta kostnaðar af öðrum tekjum.  Þá geri lög um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda nr. 29/1995 ráð fyrir að séu þjónustugjöld oftekin megi þolandi krefjast endurgreiðslu.  Þá heimili lögin ekki að stofnkostnaður vegna sorphirðu sé reiknaður inn í þjónustugjald vegna hennar. 

Fram komi í rökstuðningi Borgarbyggðar að sé raunkostnaður við sorphirðu hærri en álögð gjöld séu gjaldendur ekki krafðir um mismun þess vegna.  Í því felist að sveitarfélagið telji ekki heimilt að innheimta sorpgjald aftur í tímann þótt fyrir liggi að það hafi ekki staðið undir raunkostnaði.  Í téðum rökstuðningi sé einnig dregið í efa að bókhald sveitarfélagsins sé nægjanlega nákvæmlega fært til að gefa rétta mynd af kostnaði vegna sorphirðu.  Efasemdir um bókhald sveitarfélagsins séu athyglisverðar og þarfnist nánari skoðunar.  Meint ónákvæmni hljóti að teljast ámælisverð enda nemi hún tugum prósenta af tekjum, eins og hagnaður af sorpgjaldi sum árin beri með sér. 

Ekki verði annað ráðið af gögnum málsins en að sveitarfélagið hafi oftekið verulega sorpgjald undanfarin ár og að óbreyttu haldi sú þróun áfram.  Á árinu 2010 hafi hreinn hagnaður af innheimtu sorpgjalds numið 29 prósentum af tekjum og árið 2011 tæpum 17 prósentum.  Ef meðalhagnaður áranna 2006-2011 sé skoðaður sem hlutfall meðaltekna á sama tíma reynist hagnaðurinn um 6,5 prósent og 9,8 prósent sé tap vegna áranna 2006-2008 gert upp á núlli. 

Að reikna hagnað af þjónustugjaldi eigi sér ekki lagastoð og órökstudd ákvörðun um hækkun gjalds til viðbótar miklum uppsöfnuðum hagnaði sé lagalega og siðferðislega röng og ábyrgu stjórnvaldi ekki sæmandi.  Ekki hafi verið lögmætar ástæður að baki ákvörðun um að hækka gjaldskrá sorpgjalds sveitarfélagsins vegna ársins 2012. 

Málsrök Borgarbyggðar:  Af hálfu Borgarbyggðar er þess krafist að aðalkröfu kæranda verði hafnað en öðrum kröfum hans vísað frá.  Í niðurlagi kærunnar séu settar fram mjög óljósar kröfur sem beinist ekki að einni ákveðinni ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar sem kæranleg sé til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.  Þá beinist þær einnig að því hvernig sveitarfélagið skuli haga stjórnsýslu sinni í framtíðinni, en ekki sé hlutverk nefndarinnar að taka ákvörðun um það nema að því leyti sem hún snúi að ákvörðun sem sé kæranleg til nefndarinnar.  Af þessum ástæðum aðallega verði að vísa þessum óljósu kröfum kæranda frá nefndinni. 

Í gildi sé samþykkt nr. 295/2007 um meðhöndlun úrgangs í Borgarbyggð, sem sett sé samkvæmt ákvæðum laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.  Samkvæmt 7. gr. samþykktarinnar sé sveitarstjórn heimilt að innheimta gjald fyrir meðhöndlun úrgangs og sorphirðugjald samkvæmt gjaldskrá.  Haga megi gjaldskrárflokkum eftir þjónustustigi.  Þá segi í 7. gr. að gjöld í hverjum flokki skuli ,,… vera sem næst meðal raunkostnaði við þá þjónustu sem veitt er, en þó aldrei hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu, umsýslu og eftirliti með einstökum þáttum“.

Á fyrrgreindri samþykkt byggi gjaldskrá Borgarbyggðar fyrir söfnun, förgun, móttöku og flokkun sorps í Borgarbyggð fyrir árið 2012.  Samkvæmt henni sé sorpgjald árið 2012 31.000 krónur á hvert heimili í þéttbýli. 

Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003 skuli rekstraraðili förgunarstaðar innheimta gjald fyrir förgun úrgangs.  Skuli gjaldið nægja fyrir öllum kostnaði við förgun úrgangsins, þ.m.t. við uppsetningu og rekstur viðkomandi förgunarstaðar.  Þá skuli gjaldið einnig duga að svo miklu leyti sem unnt sé fyrir kostnaði sem fylgi því að setja fjárhagslega tryggingu fyrir áætluðum kostnaði við lokun förgunarstaðar og nauðsynlegu eftirliti í kjölfar lokunar í 30 ár, sbr. 43. gr. laganna.  Því sé ljóst að sorphirðugjald skuli ekki aðeins standa undir kostnaði við sorphirðuna sem slíka heldur einnig undir ýmsum kostnaði sem fylgi förgun sorps, þ.m.t. stofnkostnaði förgunarstaðar og eftirliti með honum í allt að 30 ár eftir lokun hans.  Þá skuli sorphirðugjald einnig standa undir kostnaði við stjórnsýslu vegna sorphirðu og tengdrar starfsemi. 

Eins og fyrr greini skuli álögð gjöld, samkvæmt samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Borgarbyggð, vera sem næst meðal raunkostnaði við þá þjónustu sem veitt sé.  Eins og fram komi í bréfi Borgarbyggðar til kæranda, dags. 27. febrúar 2012, hafi rekstrartap verið á sorphirðu í sveitarfélaginu árin 2006-2008 samtals að fjárhæð rúmlega 10 milljónir króna, en á árunum 2009-2011 hafi rekstrarhagnaður hins vegar numið tæplega 30 milljónum.  Þannig hafi árlegur hagnaður verið að meðaltali rúmlega 3,4 milljónir króna á þessu sex ára tímabili.   Á þessum árum hafi sorphirðan, sem rekin sé sem B-hluta fyrirtæki, verið að greiða af skuldabréfi sem sorphirðan hafi tekið árið 2002.  Afborganir hafi verið 2-3 milljónir króna á ári og hafi þær numið rúmlega 3 milljónum króna árin 2010 og 2011.  Síðasta greiðsla þessa skuldabréfs sé á árinu 2012.  Inni í rekstrarkostnaði hvers árs sé hins vegar hvorki stjórnsýslukostnaður, nema að litlu leyti, né eftirlitskostnaður, þ.m.t. eftir lokun förgunarstaða, sbr. framanritað.  Borgarbyggð hafi aðeins fært um 1 milljón króna á ári vegna kostnaðar við umsýslu fyrir sorphirðuna.  Megi fullyrða að þar sé mjög varlega reiknað þannig að bókhald sveitarfélagsins endurspegli í raun ekki nægjanlega vel umsýslukostnað sveitarfélagsins vegna sorphirðunnar.  Endurskoðendur sveitarfélagsins hafi bent á að rétt væri að færa þennan kostnað með skýrari hætti og verði það gert á árinu 2012. 

Það skuli tekið fram að rekstrarniðurstaða ársins 2011 hafi orðið talsvert betri en áætlanir hafi gert ráð fyrir.  Samkvæmt áætlunum hafi verið búist við að niðurstaðan yrði nálægt núlli en í raun hafi hagnaður orðið um 10 milljónir króna.  Það hafi hins vegar ekki legið fyrir þegar gjaldskrá fyrir sorphirðu árið 2012 hafi verið samþykkt í sveitarstjórn Borgarbyggðar.  Um síðustu áramót hafi staðan verið sú að sorphirðan hafi átt inni hjá aðalsjóði rúmar 15 milljónir króna, sem að stærstum hluta skýrist af afkomu ársins 2011.  Í raun megi segja að þetta sé ekki há fjárhæð miðað við rekstrarkostnað sorphirðunnar á liðnum árum.  Þessi inneign verði fljót að fara komi eitthvað óvænt upp á.  Eigið fé sorphirðunnar í lok árs 2011 hafi verið rúmar 14 milljónir króna sem vart geti talist mikið.  Fjárhagsáætlun ársins 2012 geri ráð fyrir að rekstrarafgangur verði 4,8 milljónir en á móti komi að sorphirðan sé með skuldabréf að eftirstöðvum um 3,7 milljónir sem greiðist upp á árinu 2012.  Að teknu tilliti til þessa standi eftir um 1 milljón króna, sem sé innan við 2% af veltu sorphirðunnar.  Þessar staðreyndir hljóti að skipta töluverðu máli þegar horft sé á heildarmyndina hvað sorphirðugjöldin varði. 

Þess megi geta að í vetur hafi verið lagt fram á Alþingi frumvarp til breytinga á lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.  Verði það frumvarp að lögum óbreytt muni það þýða stóraukinn kostnað sveitarfélaga við meðhöndlun sorps, auk stofnkostnaðar vegna hertra krafna um söfnun sorps. 

Þau ár sem tap sé á sorphirðu séu gjaldendur ekki krafðir um það en sé hagnaður einhver ár gangi það upp í hugsanlegt tap önnur ár.  Þá sé ljóst að það sé ekki hægt að áætla með nákvæmum hætti ýmsan kostnað við sorphirðu, svo sem stjórnsýslu- og eftirlitskostnað.  Því megi alltaf gera ráð fyrir einhverjum frávikum frá áætlun til raunkostnaðar.  Við ákvörðun sorphirðugjalda verði því ekki aðeins að líta til niðurstöðu næsta árs á undan heldur lengra tímabils, þ.e. til nokkurra ára.  Þannig sé því heimilt að nota hagnað eins árs til að greiða tap annars árs eða ára.  Samkvæmt rekstraráætlun fyrir árið 2012 sé gert ráð fyrir rekstrarafgangi að fjárhæð 4,8 milljónir króna og gangi sú áætlun eftir sé mjög líklegt að sveitarstjórn Borgarbyggðar taki tillit til stöðu sorphirðunnar við álagningu gjalda fyrir árið 2013. 

Loks sé því sérstaklega mótmælt að ekki sé heimilt að gera ráð fyrir stofnkostnaði þegar sorphirðugjald sé ákveðið, sbr. sérstaklega 11. gr. laga nr. 55/2003. 

Niðurstaða:  Í auglýsingu um hina umdeildu álagningu, er birtist hinn 24. janúar 2012, var tekið fram að ef gjaldendur teldu álagninguna ekki rétta væri hægt að fara fram á endurálagningu með rökstuddum hætti innan mánaðar frá álagningunni.  Neytti kærandi þessa endurskoðunarréttar innan tilskilins frests og kærði síðan til úrskurðarnefndarinnar innan mánaðar frá því að honum barst synjun Borgarbyggðar á endurskoðun álagningarinnar.  Þótt umrætt málskot til sveitarstjórnar eigi sér ekki lagastoð leiðir það til þess að afsakanlegt verður að telja að kæra í máli þessu barst að liðnum kærufresti og er þá einnig til þess að líta að kæranda var ekki gerð grein fyrir kæruheimildum og kærufrestum við birtingu hinnar kærðu ákvörðunar.  Verður málið því tekið til efnismeðferðar með stoð í 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Í málinu er deilt um álagningu sorpgjalds vegna fasteignarinnar að Brákarbraut 11.  Borgarbyggð hefur sett samþykkt nr. 295/2007 um meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu með stoð í 3. ml. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, sbr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.  Í 5. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir er kveðið á um að sveitarfélög geti sett gjaldskrár á grundvelli slíkra samþykkta og skulu þær birtar í B-deild Stjórnartíðinda.  Með stoð í þessari lagaheimild hefur Borgarbyggð sett gjaldskrá fyrir söfnun, förgun, móttöku og flokkun sorps í sveitarfélaginu með auglýsingu nr. 1337/2011, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 17. janúar 2012. 

Samkvæmt 5. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir mega gjöld aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum. 

Í 11. gr. laga um meðhöndlun úrgangs er kveðið á um gjald fyrir meðhöndlun úrgangs.  Þar segir í 3. mgr. að innheimt gjald skuli aldrei vera hærra en sem nemi þeim kostnaði sem falli til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laganna.  Í greinargerð með frumvarpi til nefndra laga segir um ákvæðið að ljóst sé að heildartekjur sveitarfélags á grundvelli framangreinds gjalds megi ekki vera hærri en nemi heildarkostnaði þess við meðhöndlun úrgangsins. 

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafa tekjur Borgarbyggðar verið talsvert hærri en nemur kostnaði vegna sorphirðu undanfarin þrjú ár og benda áætlanir sveitarfélagsins til að svo verði einnig árið 2012.  Verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á það af hálfu sveitarfélagins að álagt sorpgjald fyrir árið 2012 sé ekki hærra en nemi þeim kostnaði sem falla muni til í sveitarfélaginu á árinu í skilningi 11. gr. laga nr. 55/2003 og 25. gr. laga nr. 7/1998.  Samkvæmt því fer álagning sorpgjalda Borgarbyggðar fyrir árið 2012 í bága við framangreind lagaákvæði.  Ber því að fallast á kröfu kæranda um að felld verði úr gildi álagning sorpgjalds á fasteign hans að Brákarbraut 11 að fjárhæð 31.000 krónur samkvæmt álagningarseðli, dags. 24. janúar 2012.

Aðrar kröfur kæranda lúta ekki að ákvörðun eða álitaefnum er sæta kæru til úrskurðarnefndarinnar og koma þær því ekki til álita við úrlausn málsins. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi álagning sorpgjalds vegna fasteignar kæranda að Brákarbraut 11 að fjárhæð 31.000 krónur samkvæmt álagningarseðli, dags. 24. janúar 2012.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson

1/2011 Tjarnarmýri

Með

Árið 2012, þriðjudaginn 25. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 1/2011, kæra á ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 14. maí 2010 um að veita byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi á tveimur hæðum á lóðinni nr. 2 við Tjarnarmýri og ákvörðun nefndarinnar að samþykkja breytt byggingarleyfi fyrir greindu húsi hinn 2. desember s.á.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. desember 2010, er barst nefndinni 3. janúar 2011, kæra Á, B, H, M og S, Suðurmýri 16 og E, Suðurmýri 14, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 14. maí 2010 að veita byggingarleyfi fyrir tveggja hæða íbúðarhúsi á lóðinni nr. 2 við Tjarnarmýri og ákvörðun nefndarinnar að samþykkja breytt byggingarleyfi fyrir greindu húsi hinn 2. desember s.á.  Bæjarstjórn Seltjarnarness staðfesti nefndar ákvarðanir hinn 26. maí og 6. desember 2010.  Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. 

Málavextir:  Umsókn byggingarleyfishafa um leyfi til að byggja tveggja hæða einbýlishús barst skipulags- og mannvirkjanefnd Seltjarnarness 21. janúar 2010.  Umrætt svæði hefur byggst upp án þess að hafa verið deiliskipulagt.  Hinn 16. mars s.á. var samþykkt á fundi nefndarinnar að grenndarkynna umsóknina með ákveðnum breytingum.   Athugasemdir bárust og voru þær lagðar fram á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 14. maí 2010.  Var umsóknin samþykkt og sú ákvörðun staðfest í bæjarstjórn 26. maí s.á.  Byggingarleyfi var gefið út 30. júní 2010.  Sótt var um breytingar á veittu byggingarleyfi hússins og samþykkti skipulags- og mannvirkjanefnd að grenndarkynna umsóknina en síðar var sú grenndarkynning dregin til baka og framkvæmdir við byggingu hússins stöðvaðar. 

Hinn 12. október 2010 var tekin fyrir í skipulags- og mannvirkjanefnd ný umsókn um breytingar á byggingarleyfi hússins að Tjarnarmýri 2 sem samþykkt var að grenndarkynna.  Að grenndarkynningu lokinni var umsóknin samþykkt á fundi nefndarinnar hinn 2. desember 2010 og sú afgreiðsla staðfest í bæjarstjórn 6. s.m.  Nýtt byggingarleyfi var síðan gefið út 9. desember 2010 og hafa kærendur skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa til þess að hin kærða leyfisveiting og framkvæmdir gangi gegn grenndarhagsmunum þeirra.  Um sé að ræða nýtt og mikið breytt byggingarleyfi fyrir Tjarnarmýri 2.  Á lóðinni hafi átt að rísa tveggja hæða einbýlishús en þegar liðið hafi á uppsteypu þess hafi komið í ljós að framkvæmdir hafi ekki verið í samræmi við hinar grenndarkynntu teikningar frá 22. mars 2010, sem sýni húsbygginguna samsíða lóðarlínu milli Tjarnarmýrar 2 og Suðurmýrar 14 og 16. 

Í ágúst 2010 hafi byggingarfulltrúa Seltjarnarness verið greint frá grunsemdum kærenda um að húsið sem verið væri að reisa að Tjarnarmýri 2 væri ekki í samræmi við grenndarkynningargögn og útgefið byggingarleyfi.  Standi húsið m.a. innan við þrjá metra frá lóðarmörkum, sem snúi að Suðurmýri 14 og 16, og væru þrjú gluggaop á lagnakjallara á þeirri hlið.  Fyllt hafi verið í gluggaopin með einangrunarplasti og dregið yfir með múrblöndu.  Stigahús sé milli fyrstu hæðar hússins og lagnakjallarans auk þess sem útitröppur hafi verið settar við kjallarainngang Tjarnarmýrarmegin.  Loks væri dyraop ásamt tröppum utan á einum útvegg lagnakjallarans. 

Í grenndarkynntum gögnum frá 13. október 2010 komi fram að húsið að Tjarnarmýri 2 standi ekki samsíða lóðarmörkin og sé 3 til 33 cm nær lóðarmörkum Suðurmýrar 14 og 16 en gert hafi verið ráð fyrir við fyrri grenndarkynningu.  Við seinni grenndarkynningu hafi kærendur gert athugasemdir við nýtingarhlutfall lóðarinnar, staðsetningu hússins á lóðinni og vegghæð þess, en hvoru tveggja varpi auknum skugga á lóðir Suðurmýrar 14 og 16. 

Allri málsmeðferð vegna byggingar hússins að Tjarnarmýri 2 hafi verið ábótavant af hálfu bæjaryfirvalda og hafi lögvörðum hagsmunum kærenda verið raskað.  Byggingarfulltrúi bæjarins hafi framselt eftirlitsskyldu sína á úttektum á húsinu til aðila sem sjálfur hafi gert teikningarnar að húsinu og hafi hann því haft eftirlit með sjálfum sér.  Ekki hafi verið grenndarkynnt að nýju og gefið út nýtt, breytt byggingarleyfi samkvæmt nýjum teikningum fyrr en að lokinni uppsteypu hússins.   Þá hafi einnig reynst erfitt að fá svör við erindum sem send hafi verið bæjaryfirvöldum vegna málsins.  Stærð og staðsetning umdeildrar byggingar valdi auknu skuggavarpi og takmarki möguleika kærenda til nýtingar fasteigna sinna. 

Málsrök Seltjarnarness:  Af hálfu Seltjarnarness er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað og að samþykkt skipulags- og byggingarnefndar frá 2. desember 2010 verði staðfest. 

Í byrjun júní 2010 hafi lóðarhafi óskað eftir leyfi til að breyta innra fyrirkomulagi húss ásamt afleiddum útlitsbreytingum samkvæmt uppdráttum.  Ekki hafi verið fjallað um málið á formlegan hátt vegna sumarleyfa og hafi því, að höfðu samráði við bæjarstjóra, verið veitt leyfi til að halda framkvæmdum áfram samkvæmt nýjum uppdráttum, með tölvubréfi 8. júlí 2010, með þeim fyrirvara að umsóknin yrði tekin fyrir á næsta fundi skipulags- og mannvirkjanefndar að loknum sumarleyfum.  Nefndin hafi ítrekað með tölvupósti 26. júní s.á. að kjallaratröppur á uppdrætti væru ekki innan þeirrar heimildar. 

Í ágúst s.á. hafi umsókn um framangreindar breytingar og uppdrættir verið lagðir fram.  Samþykkt hafi verið að vísa umsókninni til grenndarkynningar.  Áður en tímabili grenndarkynningar væri lokið hafi komið í ljós að settur hafði verið kjallaragluggi á austurhlið kjallararýmis.  Við nánari skoðun hafi einnig komið í ljós að kjallari væri mun dýpri en tilkynnt hefði verið um, auk þess sem vísbendingar hefðu verið um að nýta ætti hann til búsetu.  Þar sem umræddar framkvæmdir hafi ekki verið í samræmi við fyrirliggjandi uppdrætti hafi þær verið stöðvaðar þegar í stað og það tilkynnt eiganda og byggingarstjóra í bréfi, dags. 18. ágúst 2010.  Auk þess hafi annar úttektaraðili verið fenginn til að taka framvegis að sér úttektir á framkvæmdum, því engar tilkynningar um misræmi hafi borist byggingarfulltrúa frá fyrri úttektaraðila.  Málið hafi verið tekið aftur upp á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 31. ágúst 2010 og eftirfarandi bókað:  „Grenndarkynning dags. 18.8. 2010 dregin til baka.  Framkvæmdastöðvun gildir enn.  Eiganda gert að framvísa nýjum uppdráttum – Formanni nefndarinnar gefið umboð til að afgreiða málið milli funda.“  Loks hafi umsókn um breytingu á áður útgefnu byggingarleyfi verið samþykkt á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 2. desember 2010 og staðfest af bæjarstjórn Seltjarnarness 6. s.m. 

Varðandi fjarlægð hússins frá lóðarmörkum til austurs sé byggingin staðsett samkvæmt aðaluppdrætti en þegar hún hafi verið komin vel á veg hafi nágrannar talið að skekkja væri á útsetningu hússins.  Í ljós hafi komið að lóðin væri örlítið minni en fram kæmi á mæliblaði.  Þar sem langhliðar lóðar til austurs og vesturs væru ekki samsíða hafi húsið verið stillt af miðað við legu götu vestan húss en þess gætt að suðausturhorn væri rétt, þ.e. í þriggja metra fjarlægð frá lóðamörkum.  Áhrifin af þessu séu þó hverfandi ef skuggavarpslíkan sé skoðað.  Ekkert athugavert sé við staðsetningu hússins að Tjarnarmýri 2 og hún sé í samræmi við gildandi afstöðumynd.  Því hafi í raun ekki verið ástæða til að upplýsa nágranna um endanlega útsetningu þess. 

—————-

Lóðarhöfum Tjarnarmýrar 2 var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum í máli þessu en engar athugasemdir eða andmæli hafa borist frá þeim. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi ákvarðana skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 14. maí og 2. desember 2010 um veitingu byggingarleyfa vegna hússins að Tjarnarmýri 2, sem bæjarstjórn staðfesti 26. maí og 6. desember s.á. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem í gildi voru þegar hinar kærðu ákvarðanir voru teknar, er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kæranlegu ákvörðun.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema afsakanlegt þyki að kæra hafi borist of seint eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran sé tekin til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 3. janúar 2011, eða rúmum sjö mánuðum eftir að bæjarstjórn staðfesti fyrri ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar um byggingarleyfi fyrir umræddu húsi og rúmum sex mánuðum eftir útgáfu byggingarleyfisins.  Þá mun uppsteypu hússins hafa verið lokið í ágústmánuði 2010.  Af þessum ástæðum verður að telja að kæra vegna hins fyrra byggingarleyfis hafi borist að liðnum kærufresti og ekki liggja fyrir þær ástæður sem réttlæti að málið verði tekið til efnismeðferðar að því er varðar greint byggingarleyfi.  Verður þeim þætti málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar frá 2. desember 2010, um að veita heimild fyrir breyttu byggingarleyfi vegna Tjarnarmýrar 2, fól fyrst og fremst í sér þá breytingu frá fyrra byggingarleyfi að heimiluð lofthæð kjallararýmis hússins, sem er 97,2 m² að flatarmáli, fór úr 1,8 m í 2,65.  Ekki er í hinni kærðu ákvörðun heimilað að setja glugga eða dyraop á útveggi kjallararýmisins.

Í 74. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sem í gilda var við töku hinnar kærðu ákvörðunar, er sett fram það viðmið að hver hæð í íbúðarhúsi skuli vera 2,7-2,8 m frá gólfi að yfirborði næstu gólfplötu, en þó þannig að lofthæð verði aldrei minni en 2,5 m.  Átti þessi regla við þegar ekki var til að dreifa ákvæðum í deiliskipulagi um vegghæðir húsa.  Samkvæmt 9. mgr. 2. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga skal miða við brúttóflatarmál húss við útreikning nýtingarhlutfalls.  Hugtakið brúttóflatarmál er skilgreint í ÍST 50, gr. 4.4, á þann veg að um sé að ræða samanlagt brúttóflatarmál allra hæða byggingar, sem m.a. geta verið að hluta eða að öllu leyti niðurgrafnar.  Samkvæmt þessu telst kjallari hússins hæð sem taka skal tillit til við útreikning nýtingarhlutfalls lóðar.  Samkvæmt aðaluppdrætti er lóðin að Tjarnarmýri 2  413,5 m2 og brúttóflatarmál húss að kjallara meðtöldum 318,3 m2.  Nýtingarhlutfall lóðarinnar verður því 0,77 en ekki 0,53 eins fram kemur á samþykktum teikningum.  Miðað við upplýsingar úr fasteignaskrá er nýtingarhlutfall einbýlishúsalóða á þeim götureit sem Tjarnarmýri 2 tilheyrir um og innan við 0,5 að tveimur lóðum undanskildum, sem hafa nýtingarhlutföllin 0,57 og 0,75. 

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga sem og 9. og 43. gr. sömu laga, verður byggingarleyfi að eiga sér stoð í deiliskipulagi.  Frá þeirri meginreglu er að finna undantekningu í 3. mgr. 23. gr. laganna, um heimild sveitarstjórnar til að veita leyfi til framkvæmda í þegar byggðum hverfum að undangenginni grenndarkynningu.  Við afmörkun undantekningarreglunnar gagnvart meginreglunni hefur verið talið að skýra beri ákvæðið til samræmis við 2. mgr. 26. gr. sömu laga þar sem heimilað er að gera óverulegar breytingar á deiliskipulagi með grenndarkynningu.  Þegar meta skal hvort bygging teljist einungis hafa í för með sér óverulegar breytingar verður m.a. að líta til byggðamynsturs og þéttleika byggðar og þess hversu umfangsmikil hún er í hlutfalli við þær byggingar sem fyrir eru á umræddu svæði og hver grenndaráhrif hennar eru á nærliggjandi eignir. 

Telja verður að með umdeildu byggingarleyfi sé vikið svo frá nýtingarhlutfalli því sem almennt gildir um sambærilegar lóðir á svæðinu að óheimilt hafi verið að veita byggingarleyfið á grundvelli undantekningarreglu 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Hefði það jafnframt verið í betra samræmi við stefnu núgildandi aðalskipulags Seltjarnarness, um að unnið verði deiliskipulag fyrir einstök svæði þar sem mörkuð verði stefna um þéttingu byggðar í eldri hverfum, að unnið hefði verið deiliskipulag fyrir umræddan götureit áður en afstaða var tekin til umsóknar um umdeilt byggingarleyfi. 

Með hliðsjón af framansögðu verður hin kærða ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 2. desember 2010, um að veita byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Tjarnarmýri 2, felld úr gildi.  Aðrar kröfur kærenda er snúa að tilteknum aðgerðum vegna byggingar umdeilds húss heyra ekki undir úrskurðarnefndina og verður því engin afstaða tekin til þeirra í máli þessu. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 14. maí 2010, um að veita byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi á tveimur hæðum á lóðinni nr. 2 við Tjarnarmýri, er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 2. desember 2010, sem bæjarstjórn staðfesti 6. s.m., um að veita byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi með sambyggðum bílskúr á lóð nr. 2 við Tjarnarmýri. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

37/2012 Hafnarteigur

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 18. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 37/2012, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 28. mars 2012 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi iðnaðarsvæðis við Bíldudalshöfn vegna lóðarinnar að Hafnarteigi 4, Vesturbyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. maí 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Óttar Yngvason, f.h. Rækjuvers ehf., eiganda fasteignarinnar að Strandgötu 2, Bíldudal, þá ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 28. mars 2012 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi iðnaðarsvæðis við Bíldudalshöfn vegna lóðarinnar nr. 4 við Hafnarteig. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi að öllu leyti eða að hluta og að réttaráhrifum hennar verði frestað, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011. 

Með tilliti til þess að hin kærða ákvörðun er skipulagsákvörðun, sem ekki leggur grunn að framkvæmdum nema áður komi til byggingarleyfi eða framkvæmdaleyfi sem sæta kæru til úrskurðarnefndarinnar, kemur krafa kæranda um frestun réttaráhrifa ekki til álita í máli þessu.      

Úrskurðarnefndinni bárust gögn í málinu frá Vesturbyggð hinn 1. júní 2012.

Málavextir:  Á lóðinni nr. 4 við Hafnarteig í Bíldudal er starfrækt kalkþörungaverksmiðja Íslenska kalkþörungafélagsins ehf. en fasteign kæranda liggur að umræddri lóð.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Vesturbyggðar hinn 12. september 2011 var tekið jákvætt í beiðni um að byggingarreitur á lóðinni yrði stækkaður en jafnframt var á það bent að þá væri þörf á nýju deiliskipulagi af svæðinu.  Í framhaldi af því var á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 29. nóvember s.á. lögð fram til kynningar tillaga lóðarhafa að breyttu deiliskipulagi umrædds svæðis.  Fól tillagan m.a. í sér stækkun byggingarreits og lóðar til norðvesturs og stækkun lóðar á fyllingu til norðurs.  Jafnframt var lagt til að lóðamörkum Hafnarteigs 1 og Strandgötu 2 yrði breytt og að hætt yrði við gerð fyrirhugaðrar götu á milli lóðanna.  Þá var tilgreint í gögnum að fyrir svæðið gilti deiliskipulag er samþykkt hefði verið á árinu 2005.  Var tillagan samþykkt og henni vísað til hafnarstjórnar Vesturbyggðar, er samþykkti hana á fundi hinn 13. desember s.á.  Samþykkti bæjarstjórn fundargerð hafnarstjórnar hinn 14. s.m. 

Jafnhliða þessu var unnin umhverfisskýrsla fyrir Íslenska kalkþörungafélagið ehf. vegna tillögunnar.  Óskaði byggingarfulltrúi með bréfi, dags. 14. desember s.á., eftir athugasemdum Skipulagsstofnunar við téða skýrslu í samræmi við 7. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum áætlana nr. 105/2006.  Jafnframt var leitað umsagna Siglingastofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar um framlagða tillögu. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Vesturbyggðar hinn 16. mars 2012 var tillagan tekin fyrir og svohljóðandi bókað:  „Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkti að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir Hafnarteig 4 á Bíldudal 14. desember 2011. Tillagan á uppdrætti og umhverfisskýrsla bæði merkt 24. nóvember 2011, voru auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Auglýst var frá 12. janúar 2012 til 20. febrúar 2012 og með framlengingu til 2. mars 2012. Athugasemdir bárust frá eftirtöldum aðilum: Sigurði Erni Hilmarssyni hdl. fyrir hönd íbúa við Tjarnarbraut 10, Óttari Yngvasyni forsvarsmanni Rækjuvers ehf. og Umhverfisstofnun. Skipulagsstofnun og Siglingastofnun gerðu ekki athugasemdir við tillöguna. Athugasemdir voru teknar fyrir og ræddar. Skipulags- og byggingarnefnd frestar erindinu og felur byggingarfulltrúa að gera drög að svörum og kynna á næsta fundi.“  Staðfesti bæjarstjórn téða fundargerð skipulags- og byggingarnefndar hinn 21. s.m. 

Hinn 27. mars 2012 var tillagan tekin fyrir að nýju í skipulags- og byggingarnefnd og m.a. fært til bókar:  „Byggingarfulltrúi leggur fram drög að svörum. Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir svör byggingarfulltrúa. Skipulags- og byggingarnefnd fer fram á að Íslenska kalkþörungafélagið sýni fram á hvernig spornað verði við foki vegna aukins uppsáturs efnis á fyrirhugaðri landfyllingu og að vöktun á hávaðamengun á nærliggjandi lóðum fari jafnan fram. Að því loknu felur nefndin byggingarfulltrúa deiliskipulagið til fullnaðarafgreiðslu skv. skipulagslögum nr. 123/2010.“  Á fundi bæjarstjórnar hinn 28 s.m. var tekið undir fyrrgreindar kröfur skipulags- og byggingarnefndar en tillagan að öðru leyti samþykkt og byggingarfulltrúa falið deiliskipulagið til fullnaðarafgreiðslu.  Birtist auglýsing um gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar í B-deild Stjórnartíðinda 24. maí 2012, að undangenginni lögboðinni afgreiðslu Skipulagsstofnunar.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er því haldið fram að afgreiðsla og samþykkt hinnar kærðu ákvörðunar hafi ekki verið í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Þar sé kveðið á um að sveitarstjórn skuli taka deiliskipulagstillögu til umræðu að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar þegar frestur til athugasemda sé liðinn.  Hafi athugasemdir borist skuli niðurstaða sveitarstjórnar auglýst.  Sé það því hvorki á valdsviði skipulagsnefndar né byggingarfulltrúa að taka endanlega afstöðu til athugasemda eða að taka ákvörðun um að auglýsa ekki tillögu.

Allur annar undirbúningur sveitarfélagsins að hinni kærðu ákvörðun sé miklum annmörkum háður.  Ákvörðunin sé unnin eftir fyrirsögn Íslenska kalkþörungafélagsins ehf. og ekkert sjálfstætt mat hafi verið lagt á málið af hálfu sveitarfélagsins, t.d. á umhverfisskýrslu félagsins.  Þá hafi ekkert verið hugað að hagsmunum annarra aðila eða heildarhagsmunum sveitarfélagsins, svo sem hvílík áhrif svo mikil framkvæmd hefði fyrir ásýnd sveitarfélagsins. 

Athugasemdir kæranda hafi verið afgreiddar án þess að rannsóknarreglu hafi verið gætt og án rökstuðnings svo sem vera beri, sbr. málsmeðferðareglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Þá hafi meðalhófsregla verið þverbrotin, en sem dæmi megi nefna að engin þörf sé á því að skerða lóð kæranda í þessu skipulagsferli.  Sé sú breyting með öllu órökstudd, enda óþörf.  Enga nauðsyn hafi borið til að ætla Íslenska kalkþörungafélaginu ehf. svo stórt athafnasvæði sem gert sé með tillögunni.  Sé óþarflega þrengt að öðrum aðilum, þ.á m. kæranda, með þessari ráðstöfun.  Hafi óskum kæranda um að aðkoma hans að sjó yrði óbreytt í engu verið sinnt.  Sé óviðunandi að samþykkt sé ný lóð þar sem starfrækja eigi rykmengandi starfsemi fyrir framan starfsstöð kæranda í átt til sjávar.  Verði af þeim áformum sé líklegt að verksmiðjuhús kæranda verði ónothæft til vinnslu matvæla.  Beri öllum sem komi að skipulagi byggðar að hafa í huga markmið skipulagslaga eins og þeim sé lýst í 1. gr. laganna.  Hafi markmiðin ekki verið höfð í huga við gerð og afgreiðslu hinnar kærðu ákvörðunar.  Þá telji kærandi að ekki hafi verið gerð nægileg lagaleg grein fyrir umhverfisáhrifum framkvæmdanna í umhverfisskýrslu. 
  
Málsrök Vesturbyggðar:  Af hálfu bæjaryfirvalda er farið fram á að ógildingarkröfu kæranda verði hafnað.  Afgreiðsla Vesturbyggðar á hinni umdeildu ákvörðun hafi verið að öllu leyti í samræmi við ákvæði 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Skipulags- og byggingarnefnd hafi tekið afstöðu til framkominna athugasemda og jafnframt metið hvort ástæða væri til að gera breytingar á tillögunni.  Bæjarstjórn hafi síðan tekið tillöguna til umræðu á fundi og samþykkt með formlegum hætti hið breytta deiliskipulag.  Að því loknu hafi málið verið sent Skipulagsstofnun í samræmi við ákvæði 42. gr. laganna og þeim svarað er gert hefðu athugasemdir.  Hafi Skipulagsstofnun talið að engir form- eða efnisgallar væru á tillögunni og hafi stofnunin ekki gert athugasemd við að breytingin yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.  Niðurstaða sveitarstjórnar hafi síðan verið auglýst eins og lög geri ráð fyrir. 

Því sé alfarið hafnað að sveitarfélagið hafi við meðferð fyrrgreindrar deiliskipulagsbreytingar hvorki rækt rannsóknarskyldu sína né gætt meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.  Tillagan hafi verið auglýst og kallað eftir athugasemdum við hana en auk þess hafi verið leitað umsagna frá t.d. Umhverfisstofnun.  Hafi umsagnir og athugasemdir verið teknar til faglegrar og efnislegrar umfjöllunar í skipulags- og byggingarnefnd þar sem m.a. hafi verið kallað eftir frekari skýringum frá Íslenska kalkþörungafélaginu ehf. um varnir gegn mengun á hráefni á athafnasvæði utan dyra, auk þess sem gerð hafi verið krafa um vöktun á hávaðamengun á nærliggjandi lóðum.  Nauðsynlegt hafi verið að ráðast í fyrrgreinda breytingu á deiliskipulaginu með hliðsjón af áformum um að fullnýta starfsleyfi kalkþörungaverksmiðjunnar og auka rekstraröryggi hennar.  Hafi kærandi ekki sýnt fram á að hægt væri að ná markmiðum sem að sé stefnt með öðrum hætti.

Með öllu sé órökstudd sú fullyrðing kæranda að umræddri starfsemi sé ætlað mun stærra landsvæði en þörf sé á og að þrengt sé að öðrum aðilum á svæðinu.  Hafi við ákvörðun um stærð á athafnasvæði kalkþörunga verksmiðjunnar verið tekið tillit til umfangs starfseminnar.  Sé ekki á nokkurn hátt gengið á rétt annarra á svæðinu.

Fullyrðing um að verksmiðjuhús kæranda verði ónothæft til vinnslu matvæla sé með öllu órökstudd.  Í starfsleyfi fyrir verksmiðjuna frá 12. júlí 2006 séu mjög ítarleg ákvæði um varnir gegn mengun frá verksmiðjunni.  Sé rekstraraðili bundinn af þeim ákvæðum og beri að fylgja þeim fyrirmælum um mengunarvarnir sem þar komi fram, svo og ákvæðum laga, reglugerða og samþykkta sem snúi að mengunarvörnum.  Verði geymslu á hráefni á lóð þannig háttað að mengun verði ætíð innan leyfilegra marka.  Sé gert ráð fyrir að stoðveggir verði notaðir til að skerma af hráefni og hindra þannig rykdreifingu frá því.

Fyrir liggi ítarleg umhverfisskýrsla þar sem fjallað sé um umhverfisáhrif þeirra breytinga sem deiliskipulagstillagan hafi í för með sér.  Miði tillagan að því að fullnýta núverandi starfsleyfi verksmiðjunnar en áður en leyfið hafi verið gefið út á sínum tíma hafi farið fram ítarleg skoðun af hálfu hlutaðeigandi stjórnvalda á umhverfisáhrifum vegna verksmiðjunnar og fyrirhugaðra framkvæmda.  Verði ekki séð að um matsskyldar framkvæmdir sé að ræða skv. III. kafla laga nr. 106/2000 og hafi Skipulagsstofnun metið það með sama hætti, þ.e. að ekki væri þörf á að meta umhverfisáhrif breytinganna.

Þá sé bent á að lóð kæranda nái ekki að sjó og afnot kæranda að lóð fram á sjávarkamb byggi ekki á sérstakri lóðarúthlutun, að því er séð verði.  Virðist því um misskilning kæranda að ræða vegna athugasemda um breytingar á mörkum lóðar hans.

Niðurstaða:  Í máli þessu er krafist ógildingar ákvörðunar um breytingu á deiliskipulagi iðnaðarsvæðis við Bíldudalshöfn.  Hinn 16. júní 2004 var samþykkt í bæjarstjórn Vesturbyggðar deiliskipulag landfyllingar og iðnaðarsvæðis við Bíldudalshöfn og hinn 14. september 2005 var samþykkt breyting á því skipulagi í bæjarstjórn.  Leitt hefur verið í ljós að umrætt deiliskipulag var ekki birt í B-deild Stjórnartíðinda, svo sem áskilið var í 4. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem í gildi voru þegar deiliskipulagið var samþykkt í sveitarstjórn.  Var slík auglýsing skilyrði þess að deiliskipulagið öðlaðist gildi, sbr. 2. mgr. gr. 6.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, og hefur það því enga þýðingu að lögum.  Með tilliti til þess að auglýsing um gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar, sem fól í sér breytingu á hinu óbirta deiliskipulagi, var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 24. maí 2012 þykir rétt að ógilda ákvörðunina með úrskurði þessum.

Uppkvaðningu úrskurðar í máli þessu hefur dregist lítillega vegna mikilla anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 28. mars 2012, um breytingu á deiliskipulagi iðnaðarsvæðis við Bíldudalshöfn, er felld úr gildi.

________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________       _____________________
Ásgeir Magnússon                       Þorsteinn Þorsteinsson

33/2012 Skútuvogur

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 18. október kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 33/2012, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. febrúar 2012 um að veita leyfi til að innrétta hjólbarðaverkstæði í matshluta 030102 í húsinu nr. 12 J-K við Skútuvog í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. apríl 2012, er barst nefndinni 26. s.m., kærir S, eigandi eignarhluta í húsinu að Skútuvogi 12 K, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. febrúar 2012 að samþykkja umsókn um leyfi til að innrétta hjólbarðaverkstæði í matshluta 030102 í húsinu nr. 12 J-K við Skútuvog og gera breytingu á brunavörnum hússins.  Gerir kærandi þá kröfu að ákvörðunin verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Matshluti 030102 að Skútuvogi 12 J-K mun hafa verið notaður fyrir vörulager heildverslunar, en lóðin er skráð sem viðskipta/þjónustulóð í fasteignaskrá Þjóðskrár.  Er lóðin á skilgreindu athafnasvæði samkvæmt gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík hinn 24. janúar 2012 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að innrétta hjólbarðaverkstæði í rými 0102, matshluta 03, og gera breytingar á brunavörnum í húsinu nr. 12 J-K við Skútuvog. Erindinu var frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði.  Umsóknin var næst tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 7. febrúar s.á. og afgreidd með svohljóðandi bókun:  „Samþykkt. Samræmist ákvæðum laga nr. 160/2010. Áskilið samþykki heilbrigðiseftirlits. Áskilin lokaúttekt byggingarfulltrúa.“  Með tölvubréfi kæranda til byggingarfulltrúa, dags. 8. mars 2012, kom fram að kærandi hefði haft spurnir af því að fyrrgreint leyfi hefði verið veitt án samráðs við aðra eigendur hússins og var óskað nánari upplýsinga.  Ítrekaði kærandi fyrirspurn sína með bréfi, dags. 12. apríl s.á., og fór m.a. fram á að upplýst yrði með rökstuddum hætti hvers vegna ekki hefði verið haft samráð við aðra eigendur hússins áður en ákvörðun var tekin.  Barst kæranda svar frá skipulags- og byggingarsviði með tölvubréfi hinn 16. s.m., ásamt upplýsingum um kærurétt.  Skaut kærandi eftir það fyrrgreindri ákvörðun byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar eins og áður er getið. 

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að hún sé eigandi rýmis sem staðsett sé fyrir ofan samþykkt hjólbarðaverkstæði og hafi eiginmaður hennar haft þar vinnuaðstöðu síðastliðin níu ár.  Hafi ekkert samráð verið haft við hana eða aðra eigendur að húseigninni vegna umræddrar leyfisveitingar.  Telji kærandi að starfsemi sú er heimiluð hafi verið í húsinu muni valda verulegum óþægindum, s.s. vegna aukinnar umferðar, hávaða og lyktar, auk eldhættu.  Með hinni kærðu ákvörðun sé gengið á rétt sameigenda umrædds fjöleignarhúss og verðgildi eignar kæranda rýrt verulega. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Í greinargerð Reykjavíkurborgar, er barst úrskurðarnefndinni hinn 14. júní 2012, er tekið fram að ekki hafi verið þörf á samþykki meðeigenda fyrir umræddri starfsemi, sem sé í samræmi við skipulag svæðisins.  Um atvinnuhúsnæði sé að ræða á skilgreindu athafnasvæði samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur, en á athafnasvæðum sé gert ráð fyrir verkstæðum, vörugeymslum og iðnaði sem ekki hafi í för með sér mengun.  Almennt sé ekki gert ráð fyrir íbúðum á athafnasvæðum, nema íbúðum sem tengdar séu starfsemi á svæðinu.  Engin lagaskylda hafi því hvílt á skipulagsyfirvöldum til að hafa samráð við kæranda.  Sé húsnæði tekið til íbúðarnota á skilgreindum athafnasvæðum megi íbúar alltaf búast við að starfsemi á svæðinu geti haft í för með sér einhver óþægindi, s.s. vegna umferðar, lyktar og hávaða. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er áréttað að gerðar hafi verið umfangsmiklar úrbætur á umræddu húsnæði til að fullnægja kröfum um eldvarnir og hafi eftir það verið veitt byggingarleyfi og starfsleyfi fyrir þeirri stafsemi sem um sé að ræða.  Áður hafi verið lager fyrir heildverslun í húsnæðinu og hafi töluvert af gámum fylgt þeirri starfsemi. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er meðal skilyrða fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu.  Í máli þessu er af hálfu borgaryfirvalda vísað til gildandi aðalskipulags og virðist lagt til grundvallar að ekki sé í gildi deiliskipulag að umræddu svæði.

Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er kveðið á um að deiliskipulag skuli gera fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Þó er heimilt að undangenginni grenndarkynningu skv. 44. gr. laganna að veita byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag enda sé fyrirhuguð framkvæmd í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar.  Segir jafnframt í ákvæðinu að skipulagsnefnd sé heimilt að falla frá grenndarkynningu ef sýnt sé fram á að breyting á deiliskipulagi eða leyfisskyld framkvæmd varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjanda. 

Eins og atvikum er hér háttað verður að telja að heimilt hafi verið að falla frá grenndarkynningu enda verður ekki séð að umdeild breyting á notkun húsnæðis á skilgreindu athafnasvæði hafi verið til þess fallin að raska hagsmunum nágranna.  Er þá við það miðað að kærandi og aðrir sameigendur byggingarleyfishafa að fasteigninni að Skútuvogi 12 teljist ekki nágrannar í skilningi 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga, enda ræðst réttarstaða þeirra af ákvæðum laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 þar sem kveðið er á um réttindi þeirra og skyldur varðandi fjöleignarhúsið. 

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. tilvitnaðra laga um fjöleignarhús eru breytingar á hagnýtingu séreignar frá því sem verið hefur eða ráð var fyrir gert í upphafi, sem hafa í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður var og gengur og gerist í sambærilegum húsum, háðar samþykki allra eigenda hússins.  Samkvæmt ákvæðinu er ekki þörf á samþykki sameigenda fyrir breytingu á hagnýtingu séreignarhluta sé breytingin í samræmi við það sem verið hafi eða gert hafi verið ráð fyrir í upphafi.  Eins og áður hefur verið rakið er húsið að Skútuvogi 12 á skilgreindu athafnasvæði og samræmist rekstur dekkjaverkstæðis slíkri landnotkun.  Að því gættu verður að telja að notkunin samræmist því sem ráð hafi verið gert fyrir í upphafi og ekki hafi því verið skylt að afla samþykkis sameigenda í húsinu vegna umræddrar breytingar, enda snertir hún aðeins notkun séreignarhluta en varðar ekki sameiginlegt rými í húsinu.  Var byggingarfulltrúa því rétt að veita hið umdeilda byggingarleyfi og verður kröfu kæranda um ógildingu þess þar af leiðandi hafnað.  

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist lítillega sökum anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. febrúar 2012 um að samþykkja leyfi til að innrétta hjólbarðaverkstæði í matshluta 030102 í húsinu nr. 12 J-K við Skútuvog í Reykjavík. 

 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________          ______________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

60/2009 Traðarland

Með

Árið 2012, þriðjudaginn 25. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 60/2009, kæra á samþykktum borgarráðs Reykjavíkur frá 18. júní 2009 um deiliskipulag Fossvogsdals vegna göngu- og hjólastíga og um breytingu á  deiliskipulagi Traðarlands 1, íþróttasvæðis Víkings. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. september 2009, er barst nefndinni sama dag, kærir D, Traðarlandi 2, Reykjavík, samþykktir borgarráðs Reykjavíkur frá 18. júní 2009 um deiliskipulag Fossvogsdals vegna göngu- og hjólastíga og um breytingu á deiliskipulagi Traðarlands 1, íþróttasvæðis Víkings.  Auglýsing um gildistöku skipulagsákvarðananna birtist í B-deild Stjórnartíðinda 11. ágúst 2009.  Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. 

Málavextir:  Forsaga málins er sú að hinn 22. febrúar 2007 var samþykkt í borgarráði Reykjavíkur breyting á deiliskipulagi vegna íþróttasvæðis Víkings að Traðarlandi 1, sem fól m.a. í sér að malarvelli er fyrir var á svæðinu yrði breytt í grasæfingarsvæði.  Þá yrði gert ráð fyrir 85 nýjum álagsbílastæðum á opnu svæði, norðaustan við íþróttahús sem þar var fyrir.  Breytingin var kærð til úrskurðarnefndarinnar, sem með úrskurði sínum uppkveðnum 21. maí 2008 vísaði kærunni frá þar sem kæra barst að liðnum kærufresti. 

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúans í Reykjavík hinn 23. janúar 2009 var lögð fram tillaga að deiliskipulagi Fossvogsdals, sem sýnir legu göngu- og hjólreiðastíga er tengja saman Öskjuhlíð og Elliðaárdal.  Í skilmálum tillögunnar segir m.a. að í Traðarlandi og hluta af Stjörnugróf verði hjólreiðastígurinn í götustæði.  Jafnframt var á sama fundi lögð fram tillaga um breytingu á deiliskipulagi Traðarlands 1, íþróttasvæðis Víkings.  Tillögurnar gerðu ráð fyrir að 85 álagsbílastæðum norðaustan við íþróttahús yrði fækkað í 61 og að þau yrðu felld út af deiliskipulagi Traðarlands 1 en féllu þess í stað undir hið nýja deiliskipulag Fossvogsdals fyrir göngu- og hjólastíga.  Að öðru leyti yrðu eldri skilmálar Traðarlands 1 í gildi.  Tillögunum var vísað til skipulagsráðs þar sem þær voru til umfjöllunar 28. janúar og 4. mars 2009 en þá var lagt til við borgarráð að auglýsa þær til kynningar.  Þá var einnig lögð fram bókun skipulagsnefndar Kópavogs, dags. 17. febrúar 2009, þar sem ekki var gerð athugasemd við erindin.  Hinn 12. mars 2009 samþykkti borgarráð að auglýsa tillögurnar til kynningar og bárust athugasemdir við þær, m.a. frá kæranda. 

Skipulagstillögurnar voru til umfjöllunar á nokkrum fundum skipulagsyfirvalda á tímabilinu 25. mars til 29. maí 2009 og þann dag var athugasemdum kæranda svarað með bréfi skipulags- og byggingarsviðs.  Í bréfinu sagði m.a. að sú prentvilla hefði slæðst í auglýsta tillögu að bílastæðum fækkaði niður í 61 en hið rétta væri að álagsbílastæðum yrði fækkað um 5 stæði eða úr 85 í 80.  Á fundi 10. júní 2009 samþykkti skipulagsráð tillögurnar og hið sama gerði borgarráð hinn 18. s.m.  Með bréfum, dags. 9. og 23. júlí 2009, tilkynnti Skipulagsstofnun að ekki væru gerðar athugsemdir við birtingu auglýsinga um gildistöku tillagnanna í B-deild Stjórnartíðinda.  Benti stofnunin þó á varðandi deiliskipulag Fossvogsdals að áður þyrfti að lagfæra skipulagsgögn þannig að gerðir yrðu breytingauppdrættir í samræmi við gr. 5.5 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að deiliskipulagi Traðarlands 1, íþróttasvæðis Víkings, hafi verið breytt árið 2007, þrátt fyrir mótmæli íbúa handan við götuna.  Þá hafi tæplega 400 bílastæði verið aflögð þegar malarvelli, sem nýttur hafi verið undir álagsbílastæði, hafi verið breytt í æfingasvæði með grasi.  Í staðinn hafi íþróttasvæði Víkings verið stækkað í austur og 85 nýjum bílastæðum komið fyrir austan við Stjörnugrófina.  Með þeirri breytingu sem nú sé gerð fækki bílastæðum enn frekar og ekki séu tilgreind bílastæði til samnýtingar, svo sem gert sé ráð fyrir á öðrum íþróttasvæðum. 

Þá virðist borgin ekki hafa tekið afstöðu til erindis lögreglunnar frá 2007 vegna bílastæðavandamála á Víkingssvæðinu.  Ekki hafi verið gert faglegt áhættumat vegna umferðar miðað við nýtt deiliskipulag eins og íbúar hafi krafist.  Í svari borgarinnar sé aðeins fjallað um fortíðina en það teljist varla áhættumat fyrir framtíðina í breyttu skipulagi.  Þegar 2.500 áhorfendur séu á kappleik megi reikna með ríflega 400 bílum við íþróttasvæðið.  Skipulögð stæði séu aðeins 138 samkvæmt svari borgarinnar.  Önnur samnýtanleg stæði gætu verið á milli 20 til 50.  Þá vanti bílastæði fyrir rúmlega 200 bíla og verði þeim þá lagt víða um íbúðarhverfið.  Fyrir utan óþægindi fyrir íbúana af þeirra völdum verði ómögulegt fyrir sjúkrabíla eða slökkvilið að komast leiðar sinnar, en samkvæmt vafasamri aðferðafræði skipulagsyfirvalda megi ætla að þar sem ekki hafi komið upp veikindi eða eldur í hverfinu á heimaleikjum Víkings hingað til muni það ekki gerast hér eftir. 

Loks orki tvímælis hvort heimilt sé að lögum að skipta hverfinu í mörg aðskilin deiliskipulagssvæði.  Gatan Traðarland hafi tilheyrt Fossvogshverfi, svæði 4.  Nú sé gatan hins vegar í öðru skipulagssvæði með göngustíg sem nái yfir langt útivistarsvæði, án þess að auglýst hafi verið breyting á svæði 4 samhliða. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að ógildingarkröfum kæranda verði hafnað. 

Þegar lagt hafi verið mat á bílastæðaþörf svæðisins hafi m.a. verið tekið mið af öðrum sambærilegum íþróttasvæðum, s.s. KR-svæðinu, sem sé með um 130 stæði á lóð og Fram-svæðinu með um 102 stæði á lóð.  Í öllum tilvikum sé gert ráð fyrir ákveðinni samnýtingu stæða, t.d. við opinberar stofnanir, og samnýtingu almennra götustæða sem séu mismörg.  Í deiliskipulagi fyrir Traðarland 1, íþróttasvæði Víkings, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 22. febrúar 2007, hafi verið gert ráð fyrir samtals 143 bílastæðum við íþróttasvæðið, 58 stæðum innan lóðar Víkings og 85 álagsbílastæðum sunnan við Lækjarás.  Fækkun álagsbílastæða samkvæmt hinu samþykkta skipulagi séu fimm stæði.  Heildarfjöldi stæða sé því 138, sem sé sambærilegt við önnur íþróttasvæði í borginni.  Umrædd álagsbílastæði nýtist fyrst og fremst til að koma til móts við álagstoppa á leikdögum.  Einnig sé stefnt að því að koma fyrir fleiri álagsbílastæðum við Bústaðaveg, á móts við veitingastaðinn Sprengisand, þegar útfærsla á gatnamótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar liggi fyrir. 

Bent sé á að hinni samþykktu tillögu um álagsbílastæði sunnan Lækjaráss og tillögu til skoðunar um álagsbílastæði sunnan Bústaðavegar og Sprengisands hafi verið ætlað að létta á og koma til móts við þann bílastæðavanda sem skapist í tengslum við kappleiki Víkings.  Umferð vegna kappleikja hafi ekki haft í för með sér fjölgun umferðaróhappa og aðkoma sjúkra- og slökkvibíla á svæðinu verði skoðuð í samvinnu við þá aðila sem málið varði. 

Að lokum skuli á það bent að skipulagsvaldið sé samkvæmt lögum hjá sveitarfélögunum.  Ekkert hafi komið fram sem valdi því að ekki hafi verið heimilt að skipuleggja svæðið með þeim hætti sem gert hafi verið.  Ljóst sé að umrædd skipulagsbreyting, sem feli í sér fækkun bílastæða um fimm, sé algerlega minni háttar og vandséð hvaða hagsmuni sé verið að skerða með henni. 

Niðurstaða:  Með hinni kærðu breytingu á deilskipulagi fyrir Traðarland 1, íþróttasvæði Víkings í Fossvogi, var gerð breyting á mörkum skipulagssvæðisins til norðausturs og svæðið látið enda við Stjörnugróf.  Með breytingunni voru 85 svokölluð álagsstæði og 20 götubílastæði austan við Stjörnugróf skilin frá umræddu skipulagssvæði, en þess í stað sýnd 80 álagsstæði innan marka nýs deiliskipulags fyrir stígakerfi í Fossvogsdal, sem einnig er kært í málinu.  Umrædd 20 götubílastæði falla eftir breytinguna utan beggja skipulagssvæðanna, án þess að nokkur grein sé gerð fyrir þeirri tilhögun.

Í 7. mgr. gr. 3.1.4 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 segir að ákvæði um fjölda bílastæða skuli sett hverju sinni í deiliskipulagi á grundvelli stefnu aðalskipulags.  Eru í ákvæðinu settar fram kröfur um lágmarksfjölda bílastæða miðað við stærð og notkun mannvirkja, en unnt er að víkja frá þessum kröfum um bílastæði í deiliskipulagi ef sýnt er fram á að bílastæðaþörf sé minni eða unnt að uppfylla hana með öðrum hætti. 

Fyrir liggur að ekki er fullnægt kröfum skipulagsreglugerðar um fjölda bílastæða í deiliskipulagi fyrir umrætt íþróttasvæði Víkings.  Skorti því skilyrði til að fækka svonefndum álagsstæðum um fimm stæði, svo sem gert var með hinni kærðu ákvörðun um breytt mörk skipulagssvæðisins.  Þá skorti á að gerð væri grein fyrir því hvað yrði um 20 bílastæði við Stjörnugróf, en eftir hina umdeildu breytingu virðast þau falla utan deilskipulagðra svæða.  Verður hin kærða ákvörðun um breytingu á  deiliskipulagi Traðarlands 1, íþróttasvæðis Víkings, því felld úr gildi.

Í málinu er einnig krafist ógildingar á deiliskipulagi Fossvogsdals vegna göngu- og hjólastíga.  Er með því skipulagi lítillega hróflað við mörkum eldri skipulagssvæða og má fallast á að nokkuð hafi skort á að gerð væri grein fyrir þeim breytingum á skilmerkilegan hátt.  Við yfirferð skipulagsins benti Skipulagsstofnun á að lagfæra þyrfti skipulagsgögn þannig að gerðir yrðu uppdrættir að breytingum í samræmi við gr. 5.5 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Má fallast á að með því að sinna þeirri ábendingu hafi borgaryfirvöld bætt úr þeim ágöllum sem á skipulagstillögunni voru og verður því hafnað kröfu kæranda um ógildingu hennar.   Þó leiðir af ógildingu ákvörðunar um breytingu á deiliskipulagi fyrir Traðarland 1, íþróttasvæði Víkings, að mörk skipulagssvæðis vegna göngu- og hjólastíga í Fossvogsdal, austan við Stjörnugróf, breytast til samræmis við þá niðurstöðu.
 
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hin kærða samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 18. júní 2009, um breytt deiliskipulag Traðarlands 1, íþróttasvæðis Víkings, er felld úr gildi.  Hafnað er kröfu um ógildingu deiliskipulags Fossvogsdals vegna göngu- og hjólastíga.

________________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson

57/2012 Dvergahraun

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 4. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 57/2012, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 4. apríl 2012 um að hafna sameiningu frístundalóðanna nr. 26 og 28 við Dvergahraun í landi Miðengis. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. júní 2012, er barst nefndinni 6. s.m., kærir G, Lækjarási 5, Garðabæ, þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 4. apríl 2012 að hafna sameiningu frístundalóða nr. 26 og 28 við Dvergahraun.  Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Úrskurðarnefndinni bárust gögn í málinu frá Grímsnes- og Grafningshreppi 5. júlí 2012 og viðbótargögn hinn 12. september 2012 s.á. 

Málavextir:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps 22. mars 2012 var tekin fyrir beiðni kæranda um sameiningu lóðanna nr. 26 og 28 við Dvergahraun í landi Miðengis.  Samkvæmt Fasteignaskrá er lóð nr. 26 skráð 6.500 m² og lóð nr. 28 skráð 7.500 m².  Erindinu var hafnað og var sú afgreiðsla  staðfest í sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps hinn 4. apríl 2012.  Kæranda var tilkynnt um niðurstöðu skipulags- og byggingarnefndar í bréfi, dags. 27. mars s.á. 

Málsrök kæranda:  Kærandi, sem er rétthafi samliggjandi frístundalóða við Dvergahraun 26 og 28 í Grímsnes- og Grafningshreppi, vísar til þess að hann hafi keypt lóðirnar í því skyni að sameina þær fyrir hús sem standi á lóðinni nr. 28, en ekki hafi verið reist hús á lóðinni nr. 26.  Erindinu hafi verið synjað á þeirri forsendu m.a. að við það myndi falla niður félagsgjald fyrir eina lóð á svæðinu við sameininguna.  Aðrar lóðir á svæðinu hafi fengið samþykki fyrir samskonar sameiningu og kæranda hafi verið synjað um og ekki verði séð hvað réttlæti þessa mismunun sem felist í afgreiðslu samskonar mála. 

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps:  Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að við afgreiðslu á erindi kæranda hafi verið tekin fyrir tvö önnur sambærileg mál sem einnig hafi verið hafnað.  Í gildandi aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps sé ákvæði sem kveði á um að ekki sé heimilt að skipta upp sumarhúsalóðum í þegar byggðum sumarhúsahverfum.  Ekki sé tekið sérstaklega á því hvort heimilt sé að sameina sumarhúsalóðir, en undanfarin ár hafi verið nokkuð um að óskað hafi verið eftir sameiningu sumarhúsalóða.  Í sumum tilvikum hafi það verið heimilað en í öðrum ekki og hafi þær ákvarðanir verið byggðar á mismunandi ástæðum og stundum á niðurstöðu grenndarkynningar.  Það sem af sé árinu 2012 hafi beiðnum um sameiningu lóða fjölgað nokkuð og hafi í kjölfar þess verið skoðað hvort æskilegt væri að heimila sameiningu lóða í sumarhúsahverfum.  Niðurstaðan hafi orðið sú að svo væri ekki þar sem það breytti forsendum uppbyggingar á svæðinu m.t.t. vegagerðar, lagningu veitna o.s.frv.  Þá sé nauðsynlegt að ákveðinn stöðugleiki ríki í skipulagsmálum og að ekki sé ráðist í breytingar nema að veigamikil rök mæli með breytingum á samþykktu deiliskipulagi.  Í flestum sumarhúsahverfum miðist byggingarmagn við ákveðið nýtingarhlutfall og myndi sameining lóða gera það að verkum að heimilt yrði að byggja mun stærra hús á sameinaðri lóð en ella.  Varðandi fordæmi fyrir sambærilegri afgreiðslu máls og hér um ræði, megi benda á úrskurð úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í málinu nr. 15/2010. 

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun var tekin í skipulags- og byggingarnefnd uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps hinn 22. mars 2012 og var kæranda tilkynnt um þá afgreiðslu með bréfi, dags. 27. s.m.  Þar kom fram sá fyrirvari að ákvörðunin væri háð staðfestingu sveitarstjórnar á næsta fundi hennar.  Í tilkynningunni er ekki að finna leiðbeiningar til kæranda um kæruheimild og kærufrest vegna ákvörðunarinnar.  Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps staðfesti ákvörðunina hinn 4. apríl 2012 en kæranda mun ekki hafa verið tilkynnt sérstaklega um þá afgreiðslu. 

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema að afsakanlegt þyki að kæra hafi borist of seint eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran sé tekin til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 6. júní 2012, eða rúmum tveimur mánuðum frá því að kæranda var tilkynnt um niðurstöðu skipulags- og byggingarnefndar og frá staðfestingu sveitarstjórnar á afgreiðslu nefndarinnar.  Með hliðsjón af því verður að líta svo á að kæran hafi borist meira en mánuði frá því að kæranda mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun og kærufrestur því liðinn.  Hinsvegar var kæranda ekki leiðbeint um kærurétt og kærufrest af hálfu sveitarfélagsins svo sem bar að gera skv. 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.  Verður kærumál þetta því tekið til efnismeðferðar með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga þar sem afsakanlegt þykir að kæran hafi borist að liðnum kærufresti. 

Samkvæmt 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er óheimilt að skipta jörðum, löndum eða lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórnar komi til.  Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag fyrir Farborgir í landi Miðengis í Grímsnes- og Grafningshreppi frá árinu 2005 og því yrði ákvörðun samkvæmt fyrrgreindri 48. gr. gerð með deiliskipulagsbreytingu. 

Með deiliskipulagi eru fest í sessi skipulagsmarkmið viðkomandi svæðis, m.a. með afmörkun lóða og byggingarreita og eiga fasteignaeigendur að geta treyst því að ekki verði ráðist í skipulagsbreytingar sem geti raskað forsendum og réttarstöðu þeirra sem fasteignareigenda nema að ríkar málefnalegar ástæður búi þar að baki. 

Með breytingu þeirri sem um var sótt er raskað samræmi í stærð lóða og skiptingu sameiginlegs kostnaðar sumarhúsaeigenda á svæðinu.  Verður ekki annað séð en að umdeild ákvörðun sveitarstjórnar, sem fer með skipulagsvald í sveitarfélaginu, hafi verið lögmæt og til þess fallin að fylgja skipulagsmarkmiðum gildandi deiliskipulags umrædds svæðis.  Ekki þykir það eiga að ráða úrslitum í máli þessu þótt dæmi séu um að sameining lóða hafi verið heimiluð á svæðinu.  Virðist þar vera um undantekningu að ræða sem verður ekki talin hafa skapað fordæmi sem víki til hliðar markmiðum gildandi deiliskipulags. 

Að öllu framangreindu virtu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 4. apríl 2012 um að synja sameiningu frístundalóðanna nr. 26 og 28 við Dvergahraun í landi Miðengis. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________   ___________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                   Þorsteinn Þorsteinsson

73/2009 Austurbyggð

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 13. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson formaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 73/2009, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 24. júní 2008 um synjun á leyfi til byggingar bílskýlis á lóðinni nr. 3 við Austurbyggð, Laugarási í Bláskógabyggð.  Þá er kærð afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar frá 24. október 2008 um synjun á umsókn um breytt deiliskipulag Laugaráss.  Loks er kærð sú afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar frá 24. september 2009 að leggja fyrir kærendur að fjarlægja bílskýli af lóðinni nr. 3 við Austurbyggð innan þriggja mánaða að viðlögðum dagsektum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. október 2009, er barst nefndinni hinn 2. nóvember s.á., kæra G og S, Austurbyggð 3, Laugarási í Bláskógabyggð, afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps varðandi byggingu bílskýlis að Austurbyggð 3 og þá kröfu að bílskýlið skuli fjarlægt“.  Af gögnum málsins má ráða að kæran taki til ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar frá 24. júní 2008, er staðfest var í byggðaráði 9. júlí s.á., um synjun á leyfi til byggingar bílskýlis á lóðinni nr. 3 við Austurbyggð.  Þá sé kærð afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar frá 24. október 2008 um synjun á breyttu deiliskipulagi Laugaráss, er staðfest var í byggðaráði 3. nóvember s.á., en fundargerð byggðaráðs frá þeim fundi var staðfest í sveitarstjórn 10. nóvember s.á. Loks að kærð sé sú afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar frá 24. september 2009 að leggja fyrir kærendur að fjarlægja bílskýli á fyrrgreindri lóð innan þriggja mánaða, að viðlögðum dagsektum.  Staðfesti byggðaráð þá ákvörðun 29. s.m.  Sveitarstjórn staðfesti síðan fundargerð byggðaráðs frá þeim fundi á fundi sínum 6. október s.á. 

Skilja verður málsskot kærenda svo að þess sé krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Málavextir:  Forsaga máls þessa er sú að í júní 2008 voru framkvæmdir á lóðinni nr. 3 við Austurbyggð stöðvaðar á þeim forsendum að þær væru ekki í samræmi við byggingarleyfi sem samþykkt hefði verið árið 2004.  Hinn 24. júní s.á. var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar umsókn lóðarhafa umræddrar lóðar um leyfi fyrir téðum framkvæmdum, þ.e. um byggingu 57 m² bílskýlis með 14,9 m² gróðurskála og 6,1 m² geymslu utan byggingarreits.  Var málið afgreitt með svofelldri bókun:  „Hafnað þar sem teikningin er ekki í samræmi við deiliskipulag.“  Nokkru síðar, eða hinn 19. september s.á., var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar umsókn kærenda, sem og lóðarhafa lóða nr. 5 og 7 að Austurbyggð, um breytingu á deiliskipulagi Laugaráss, en skipulagið tekur m.a. til greindra lóða.  Fólst breytingin í því að heimilt yrði að reisa bílskúr/bílskýli á lóðunum, utan við núverandi byggingarreiti.  Var afgreiðslu málsins frestað en á fundi nefndarinnar hinn 24. október 2008 var fært til bókar að ósk um breytingu á deiliskipulagi væri hafnað.  Einnig var bókað að til skoðunar væri hvort fjarlægja ætti hina ólöglegu byggingu og að lóðarhafa væri af þeim sökum gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum varðandi það úrræði áður en ákvörðun yrði tekin.  Var hönnuði hinnar umsóttu skipulagsbreytingar send bókun skipulags- og byggingarnefndar með bréfi, dags. 28. október 2008.

Með bréfi skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps til kærenda, dags. 13. maí 2009, var fyrrgreind afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar áréttuð og veittur frestur til 27. maí s.á. til að koma að andmælum.  Komu kærendur á framfæri athugasemdum til skipulagsfulltrúa með tölvubréfi hinn 26. s.m.
 
Málið var næst tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 24. september 2009 þar sem var m.a. var bókað:  „Að mati nefndarinnar koma ekki fram upplýsingar í [ofangreindum] svörum lóðarhafa sem réttlæta umrædda framkvæmd og því fer skipulags- og byggingarnefnd fram á að hin ólöglega bygging verði fjarlægð í samræmi við 5. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga innan þriggja mánaða frá móttöku bréfs þessa að viðlögðum dagsektum að fjárhæð kr. 25.000 hafi lóðarhafi ekki orðið við þessari skyldu fyrir þann tíma.“

Byggðaráð staðfesti þá ákvörðun 29. s.m. en sveitarstjórn staðfesti síðan fundargerð byggðaráðs frá þeim fundi á fundi sínum 6. október s.á.  Var lóðarhafa send bókun nefndarinnar með bréfi, dags. 14. s.m., og leiðbeint um kærurétt.

Hafa kærendur skotið framangreindum ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar eins og fyrr greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur tefla ekki fram neinum málsrökum í kæru en sjónarmið þeirra liggja fyrir í málsgögnum.  Þar kemur m.a. fram að á samþykktri teikningu að húsinu Austurbyggð 3 hafi verið sýnt bílskýli og hafi engin athugasemd verið gerð við það.  Bent sé á að séu teikningar ekki að öllu leyti í samræmi við skipulag þá sé yfirleitt farið fram á að teikningum verði breytt.  Byggð hafi verið bílskýli neðar í götunni og því hafi ekki hvarflað að kærendum að umrædd framkvæmd væri ekki í lagi.  Þá standi húsin nr. 3, 5 og 7 við Austurbyggð á brekkubrún og rúmist þau naumlega innan byggingarreits, síðan taki við brött og óbyggileg brekka.

Málsrök Bláskógabyggðar:  Af hálfu sveitarstjórnar er tekið fram að um sé að ræða byggingu bílskýlis/geymslu sem hvorki hafi verið veitt byggingarleyfi fyrir né sé í samræmi við deiliskipulag.  Þó svo að sýnt sé bílastæði, sem e.t.v. sé yfirbyggt, á samþykktri teikningu sé ekki heimilt að reisa bílskýli á þeim stað sem gert hafi verið.  Einnig sé mannvirkið mun stærra en það sem sýnt sé á teikningunni.  Í ljósi þessa, og með vísun til 56. gr. skipulags- og byggingarlaga, hafi verið farið fram á að umrætt bílskýli/geymsla yrði fjarlægt. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 16. júlí 2012.
 
Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem við eiga hér, er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra skal.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að taka hana til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Kæru verður þó ekki sinnt berist hún meira en ári eftir að ákvörðun var tilkynnt aðila skv. 2. mgr. tilvitnaðrar lagagreinar. 

Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 2. nóvember 2009.  Samkvæmt tilvitnuðum lagaákvæðum voru ekki lengur, er kæran barst, skilyrði til að bera undir nefndina ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 24. júní 2008, sem samþykkt var í byggðaráði 9. júlí s.á., um synjun á leyfi til byggingar bílskýlis, og verður þeim þætti málsins því vísað frá nefndinni.  

Hins vegar verður kæra á afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar frá 24. október 2008, er staðfest var í byggðaráði og sveitarstjórn 11. nóvember s.á., um að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi Laugaráss, tekin til efnismeðferðar með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, þótt kærufrestur hafi verið liðinn er kæra barst.  Er það gert í ljósi þess að kærendum var ekki leiðbeint um kærufrest í tilkynningu um afgreiðsluna, svo sem mælt er fyrir um í 2. tl. 20. gr. stjórnsýslulaga, fyrr en með bréfi, dags. 14. október 2009.  Þykir því afsakanlegt að kæra á þeirri ákvörðun hafi borist að liðnum kærufresti.  Óumdeilt er að kæra á þeirri ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 24. september 2009, sem staðfest var á fundi byggðaráðs 29. s.m., um að leggja fyrir kærendur að fjarlægja bílskýli á lóð sinni að viðlögðum dagsektum, barst innan kærufrests. 

Eins og að framan er rakið óskuðu kærendur eftir breytingu á deiliskipulagi í kjölfar þess að umsókn þeirra um byggingarleyfi var hafnað.  Deiliskipulag fyrir Austurbyggð í Laugarási tók gildi 7. maí 2008 og féll þá úr gildi deiliskipulag frá árinu 1999, sem í gildi var þegar samþykkt var byggingarleyfi fyrir Austurbyggð 3.  Í hinu eldra skipulagi voru engin ákvæði um bílastæði á lóðum, en á samþykktri teikningu að húsinu er gert ráð fyrir tveimur bílastæðum, e.t.v. yfirbyggðum, á vesturhluta lóðar, framan við aðalinngang hússins.  Í gildandi deiliskipulagi frá 2008 er einnig gert ráð fyrir tveimur bílastæðum á svipuðum stað.  Fól umsótt breyting á deiliskipulagi í sér að gert var ráð fyrir stækkun byggingarreits í norðvesturhorni lóða nr. 3, 5 og 7 við Austurbyggð þar sem reisa mætti bílskúr, bílskýli og eða geymslu, en jafnframt var gert ráð fyrir tveimur bílastæðum í suðvesturhorni lóðanna. 

Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 var landeiganda eða framkvæmdaraðila heimilt að gera tillögu til sveitarstjórnar að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað.  Á grundvelli þessa ákvæðis var kærendum, ásamt lóðarhöfum Austurvegar 5 og 7, rétt að óska eftir breytingu á deiliskipulagi, svo sem þeir gerðu, og bar sveitarstjórn að taka afstöðu til tillögu þeirra.  Ekki liggur fyrir að umrædd breyting hafi mætt andstöðu annarra lóðarhafa á svæðinu en líta verður til þess að deiliskipulag svæðisins hefur aðeins að litlu leyti komið til framkvæmda.  Þá verður einnig að líta til þess að með umræddri breytingu hefði skipulagið verið fært að nokkru til samræmis við það byggingarleyfi sem veitt hafði verið á árinu 2004 fyrir bílastæðum, e.t.v. yfirbyggðum, á lóðinni nr. 3 við Austurbyggð.  Telur úrskurðarnefndin að ekki hafi verið færð fram málefnaleg rök fyrir þeirri niðurstöðu að hafna umsókn kærenda og fleiri lóðarhafa um breytt deiliskipulag og að meðalhófs hafi ekki heldur verið gætt þegar ákveðið var að hafna erindi þeirra, með eða án breytinga á tillögunni.  Verður hin kærða ákvörðun um að synja umræddri umsókn um breytt deiliskipulag því felld úr gildi og er þá lagt til grundvallar að skipulags- og byggingarnefnd hafi út af fyrir sig verið til þess bær að synja umsókninni án frekari atbeina sveitarstjórnar en þeim er fólst í staðfestingu byggðaráðs á fundargerð nefndarinnar.   

Fyrir liggur að kærendur öfluðu sér ekki byggingarleyfis áður en framkvæmdir hófust við umdeilt bílskýli.  Með bréfum skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps, dags. 28. október 2008 og 13. maí 2009, var kærendum gefinn kostur á að koma að andmælum, en í bréfunum sagði m.a:  „Nefndin hefur einnig til skoðunar hvort fjarlægja skuli hina ólöglegu byggingu á lóðinni Austurbyggð 3 samkvæmt 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Af þeim sökum er lóðarhafa gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum varðandi þetta úrræði áður en ákvörðun verður tekin.“  Málið var næst tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 24. september 2009 og m.a. bókað:  „… fer skipulags- og byggingarnefnd fram á að hin ólöglega bygging verði fjarlægð í samræmi við 5. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga innan þriggja mánaða frá móttöku bréfs þessa að viðlögðum dagsektum að fjárhæð kr. 25.000 hafi lóðarhafi ekki orðið við þessari skyldu fyrir þann tíma“. 

Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. skipulags- og byggingarlaga var það á valdsviði sveitarstjórnar að ákveða dagsektir til að knýja fram fyrirmæli byggingarfulltrúa eða byggingarnefndar.  Í málinu liggja aðeins fyrir tilmæli skipulags- og byggingarnefndar um þvingunarúrræði, að viðlögðum dagsektum, en nefndin fer ekki með fullnaðarafgreiðslu slíkra ákvarðana, enda hefur ekki verið sett um hana nein samþykkt er hefði getað fært henni slíkt vald.  Ekki verður séð að sveitarstjórn hafi tekið ákvörðun um dagsektir í máli þessu og breytir engu þar um þótt byggðaráð hafi samþykkt án umræðu fundargerð skipulags- og byggingarnefndar um málið og sveitarstjórn síðar samþykkt fundargerð byggðaráðs þar um. Var ályktun skipulags- og byggingarnefndar um dagsektir ekki lokaákvörðun í málinu og verður hún því ekki borin undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður þeim kærulið því vísað frá nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Vísað er frá kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 24. júní 2008, er staðfest var í byggðaráði Bláskógabyggðar 9. júlí s.á., um synjun á leyfi til byggingar bílskýlis á lóðinni nr. 3 við Austurbyggð.

Einnig er vísað frá kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 24. september 2009 um að leggja fyrir kærendur að fjarlægja bílskýli á lóð nr. 3 við Austurbyggð innan þriggja mánaða, að viðlögðum dagsektum.

Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 24. október 2008 um að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi fyrir Austurbyggð í Laugarási sem staðfest var í byggðaráði Bláskógabyggðar 3. nóvember s.á.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                                         Þorsteinn Þorsteinsson

32/2008 Suðurgata

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 13. september kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 32/2008, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 26. febrúar 2008 á breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar varðandi lóðina nr. 18 við Suðurgötu.  Jafnframt er kærð ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 29. apríl 2008 um að veita byggingarleyfi fyrir 40 herbergja hóteli á lóðinni.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. maí 2008, er barst nefndinni 6. s.m., kærir Björgvin Þórðarson hdl., f.h. K, Suðurgötu 19, Hafnarfirði, samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 26. febrúar 2008 á breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar varðandi lóðina nr. 18 við Suðurgötu og ákvörðun bæjarstjórnar frá 29. apríl 2008 um að veita byggingarleyfi fyrir 40 herbergja hóteli á lóðinni. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsákvörðun og ákvörðun um veitingu byggingarleyfis verði felldar úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Engar framkvæmdir hafa átt sér stað samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi og hefur því ekki komið til þess að taka þyrfti afstöðu til stöðvunarkröfunnar.

Málavextir:  Með auglýsingu birtri í Lögbirtingarblaðinu hinn 25. október 2007 auglýsti Hafnarfjarðarbær kynningu á breytingu á deiliskipulagi frá árinu 2002 fyrir Hafnarfjörð, miðbæ, svæði R4, skv. 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Kærandi, ásamt öðrum aðilum, skilaði inn athugasemdum á kynningartíma sem var til 6. desember s.á.  Umrædd deiliskipulagsbreyting var samþykkt hinn 26. febrúar 2008 og birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 3. apríl s.á.

Ekki var í deiliskipulagi gert ráð fyrir uppbyggingu á lóðinni nr. 18 við Suðurgötu fyrir hina umdeildu skipulagsbreytingu.  Kom fram í sérskilmálum fyrir lóðina að hún væri 229 m² og á henni væri 452,2 m² þjónustuhús á tveimur hæðum með risi.  Nýtingarhlutfall væri 1,98 og yrði aðkoma almennings og aðfanga frá Strandgötu.  Með hinni kærðu skipulagsákvörðun er lóðin stækkuð í 713,5 m², byggingarreitur stækkaður og hámarksgólfflötur byggingar á lóðinni heimilaður 1.700 m².  Byggja má við núverandi hús og endurbyggja það að hluta, en sunnan við kjallara er heimiluð einnar hæðar bygging.  Hámarksnýtingarhlutfall verður 2,38.  Bifreiðastæði innan lóðar verða átta en nokkrum bílastæðum við íþróttahús er breytt í rútustæði og bifreiðastæðum austan við íþróttahús fjölgað um fjögur.

Byggingarleyfishafi sótti hinn 14. apríl 2008 um leyfi til að rífa húsið við Suðurgötu 18 að mestu leyti og byggja á lóðinni 40 herbergja hótel í samræmi við framlagðar teikningar.  Var umsóknin tekin fyrir og samþykkt á fundi skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 23. apríl 2008 og staðfest í bæjarstjórn 29. s.m.  Engar framkvæmdir hafa átt sér stað í kjölfar samþykktar bæjarstjórnar um byggingarleyfið.

Málsrök kæranda:  Kærandi byggir málatilbúnað sinn á því að með hinni umdeildu hótelbyggingu sé útsýni frá húsi hans verulega skert og draga muni úr birtu og sól með auknu skuggavarpi í götunni.  Umferð á svæðinu, sem sé of mikil fyrir, muni aukast verulega á öllum tímum sólarhrings og ekki eingöngu við breytta aðkomu hússins að Suðurgötu 18.  Nú þegar sé veruleg starfsemi af allskyns toga á svæðinu, s.s. leikhús, hótel, íþróttahús og tónlistarskóli, sem stuðli að mikilli umferð á öllum tímum sólarhrings.  Þá verði að hafa í huga umferð um svæðið vegna Flensborgarskóla, St. Jósepsspítala og íbúðarhverfa fyrir ofan Suðurgötuna.  Akstur einka-, leigu- og bílaleigubíla auk rútubíla um svæðið sé nú þegar nægur þótt ekki bætist við 1.700 m² hótel með 40 herbergjum.  Við umrædda götu, og nærliggjandi götur, búi barna- og fjölskyldufólk og því sé aukin umferð afar óskynsamleg.  Loks sé á það bent að líklegt sé að helmingur þeirra níu bílastæða sem áætlað sé að fylgi hótelinu verði komin í notkun þegar starfsfólk hótelsins sé mætt til vinnu.

Jafnframt bendi kærandi á að umgangur á svæðinu muni aukast verulega.  Flug séu allan sólarhringinn og hótelum fylgi flugrútur, leigu- og bílaleigubílar.  Rekstri hótelsins sjálfs muni fylgja talsverð umferð og ónæði vegna þrifa á herbergjum og flutningi á þvotti, veitingum og birgðum, sem hafi í för með sér stöðuga umferð.  Jafnframt megi reikna með útleigu á aðstöðu fyrir ráðstefnur o.fl. og óraunhæft sé því að áætla að þeir sem sæki í þjónustu hótelsins tilheyri aðeins einum markhópi og séu allir miklir notendur almenningssamgangna.

Þá bendi kærandi á að hús Prentsmiðju Hafnarfjarðar að Suðurgötu 18 sé 60 ára gamalt, með langa og merkilega sögu sem eitt elsta iðnaðarhús bæjarins.  Það standi við götu með mörgum gömlum húsum þar sem íbúarnir hafi margir hverjir lagt talsvert á sig til að halda götumynd og útliti húsa í sinni upprunalegu mynd.  Skipulagsyfirvöld myndu enda leggjast gegn miklum breytingum á flestum þessara húsa.  Því sé algjörlega óásættanlegt að breyta prentsmiðjuhúsinu með því að hækka það og setja á það fjóra kvisti með svalagluggum, stækka það um 1.100 m², fjölga gluggum og byggja við það fjögurra hæða lyftuhús.

Framangreind upptalning, sem byggð sé á áralangri reynslu kæranda af sambýli við alla þá starfsemi sem þegar sé á svæðinu við Suðurgötu, leiði í ljós að starfsemi af þessari stærðargráðu sé ofaukið á umræddu svæði.

Loks telji kærandi augljóst, með vísan til ofanritaðs, að hið kærða deiliskipulag rýri verðmæti eignar hans og brjóti því gegn ákvæðum skipulags- og byggingarlaga og 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:  Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að Suðurgata 18 sé skráð sem atvinnuhúsnæði og sé á miðbæjarsvæði Hafnarfjarðar.  Hótelrekstur sé hluti af miðbæjarstarfsemi og samræmist vel notkun annarra bygginga á umræddum reit.  Almennt sé ekki gert ráð fyrir bílastæðum í tengslum við hótel í miðbæjum, s.s. fjöldi dæma sýni, bæði erlendis og í Reykjavík.  Einnig sé bent á að lenging á umræddu húsi hafi óveruleg áhrif á útsýni til vesturs.  Húsið hafi verið lækkað um 10 cm frá auglýstri tillögu.  Það sé nú 1,4 m hærra en íþróttahúsið en verði 2,2 m hærra en það eftir stækkun.  Hækkun Suðurgötu 18 skerði eitthvað útsýni af efstu hæðum húsa beint fyrir ofan, en skuggavarp sýni að skuggi vegna hækkunar þess nái vart inn á lóðir húsanna kl. 17:00 á jafndægrum.

Rétt hafi verið staðið að öllum afgreiðslum í umræddu máli.  Erindið hafi verið auglýst skv. 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga og kynningarfundur haldinn á auglýstum tíma.  Fundurinn hafi einnig verið boðaður með bréfum til íbúa allra húsa í nágrenninu.  Athugasemdir hafi borist og þeim verið svarað eftir bestu vitund.  Byggingarnefndarteikningar, sem samþykktar hafi verið 23. apríl 2008, séu í samræmi við samþykkta deiliskipulagsbreytingu. 

Athugasemdir byggingarleyfishafa: Af hálfu byggingarleyfishafa er vísað til þess að sérstakt tillit hafi verið tekið til byggðar við Suðurgötu og í næsta nágrenni þegar breytingar á umræddu húsnæði hafi verið hannaðar.  Margir íbúar í nágrenni lóðarinnar séu ánægðir með ætlaða starfsemi í húsinu.  Fyrirhugaðar breytingar á húsnæðinu og notkun þess hafi verið samþykktar einróma á öllum stigum stjórnsýslunnar, sem sé afar óvenjulegt fyrir skipulagsbreytingar í miðbæ.  Mótmæli kæranda séu ekki byggð á faglegum staðreyndum eða rökstuddum efnislegum ástæðum.

Bent sé á að samkvæmt samþykktum teikningum sé húsið 1.527 m² og nýtingarhlutfall 2,04, en í kæru sé ranglega sagt að húsið verði 1.700 m².  Ýmislegt hafi verið gert til að halda heildarsvip hverfisins og láta húsið falla sem best að umhverfi sínu.  Stærsta breytingin á húsinu sé stækkun þess til norðurs, á lóð við hlið hússins, en þessari lóð hafi verið úthlutað til stækkunar hússins árið 1958.  Jafnframt sé ástæða til að nefna að í húsinu verði eitt lítið fundarherbergi fyrir u.þ.b. sex til átta manns, en misskilnings gæti í andmælum kæranda þegar hann nefni að í húsinu verði 500 manna ráðstefnu- og fundaraðstaða, enda hafi á heimasíðu hótelsins verið auglýst að slíkur fjöldi myndi rúmast í íþróttahúsi, safnaðarheimilinu og tónlistarskólanum í miðbæ Hafnarfjarðar en ekki í aðstöðu hótelsins.

Hafa verði í huga við mat á fram komnum athugasemdum við hina kærðu deiliskipulagsbreytingu að á undirskriftarlista þann er kærandi hafi útbúið hafi aðilar víðsvegar úr bænum ritað nafn sitt, auk íbúa í Kópavogi og Reykjavík.  Þau andmæli gefi ekki rétta mynd af afstöðu nágranna við umdeilt deiliskipulag. 

Rétt sé hjá kæranda að húsið sé gamalt en það sé jafnframt í slæmu ásigkomulagi.  Það sé ekki friðað en byggingarleyfishafi vilji halda því í upprunalegri mynd að mestu leyti.  Loks sé því mótmælt að sólskin og birta breytist.

Aðkoma að húsinu sé flutt niður fyrir það að Strandgötu þannig að aðkomu frá Suðurgötu verði lokað.  Það þýði að engin umferð verði Suðurgötumegin, sem hljóti að vera betra en núverandi fyrirkomulag samkvæmt eldra deiliskipulagi.  Bent sé á að verð íbúðarhúsnæðis sé oft hærra nær miðbæjum, líkt og í Reykjavík, þar sem ætíð sé mikil eftirspurn eftir húsnæði næst miðbæ.  Þingholtin og svæði með póstnúmer 101 séu t.a.m. með dýrari hverfum borgarinnar, en þar séu mörg hótel í góðu sambýli við byggðina í kring.  Hótel þyki góður kostur í nágrenni við íbúðarbyggð, enda séu hótel, og verði, svefn- og kyrrðarstaður þeirra sem þau sæki.  Því megi halda fram að umdeild breyting á deiliskipulagi lóðarinnar við Suðurgötu 18 muni gera hús í nágrenninu verðmætari og umhverfið meira aðlaðandi, enda sé um að ræða endurbyggingu gamals hrörlegs húss sem taki mið af einkunnum húsa í götumyndinni. 

Niðurstaða:  Með hinni kærðu skipulagsákvörðun er lóðin Suðurgata 18 stækkuð um hátt í 500 m² og verður hún 713,5 m2. Þá verður byggingarreitur stækkaður og samanlagður hámarksgólfflötur byggingar á lóðinni ákvarðaður 1.700 m².  Hámarksnýtingarhlutfall samkvæmt skipulaginu verður 2,38.  Bílastæði innan lóðar eru átta en nokkrum bílastæðum við íþróttahús er breytt í rútustæði og stæðum austan við íþróttahús fjölgað um fjögur. Samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi er fyrirhugað hús á lóðinni 1.527 m2 og eykst byggingarmagn á henni um 1.075 m2. 

Umrædd deiliskipulagstillaga var auglýst og kynnt lögum samkvæmt, kynningarfundur haldinn með íbúum, afstaða tekin til fram kominna athugasemda og gagna aflað, svo sem um skuggamyndun, áður en ákvörðun var tekin í málinu.  Verður ekki séð að formlegri meðferð skipulagstillögunnar hafi að ráði verið ábótavant en þó hefðu gögn um skuggavarp mátt vera ítarlegri og sýna skuggavarp við fleiri tímamörk en gert var. 

Í deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar, sem öðlaðist gildi hinn 19. október 2001, og breytt er með hinni kærðu ákvörðun, er kveðið á um bílastæði miðbæjarins.  Segir þar m.a. að á verslunar- og þjónustusvæðum miðbæjarins séu öll bílastæði til almennrar notkunar fyrir svæðið í heild.  Segir þar einnig að fyrir nýtt verslunar- og þjónustuhúsnæði skuli reikna eitt bílastæði fyrir hverja 50 m², en fyrir hvert stæði utan lóðar skuli koma gjald í bifreiðastæðasjóð.  Átti þetta fyrirkomulag sér nokkra stoð í þágildandi Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015 þar sem sagði að á ýmsum stöðum væri hægt að reikna með samnýtingu bifreiðastæða, einkum á miðsvæðum, og að í eldri hverfum væri hægt að víkja frá reglum skipulagsins um bifreiðastæði ef til þess lægju önnur veigamikil skipulagsleg sjónarmið.

Þegar bæjaryfirvöld samþykktu hina kærðu skipulagsákvörðun hinn 26. febrúar 2008 var tilvitnað aðalskipulag ekki lengur í gildi.  Þess í stað gilti þá Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2005-2025, en þar segir að bifreiðastæðaþörf skuli almennt vera leyst innan lóðar.  Er ekki að finna í greinargerð þess skipulags ákvæði um samnýtingu bílastæða á miðsvæðum eða önnur ákvæði er sérstaklega lúta að lausn á bílastæðaþörf slíkra svæða.  Segir hins vegar í greinargerð þess að varðandi bílastæði á atvinnu- og þjónustulóðum sé vísað til 3. kafla skipulagsreglugerðar. 

Að því marki sem hinar kærðu ákvarðanir heimila aukið byggingarmagn á umræddri lóð verður við það að miða að þörf fyrir bílastæði vegna aukningarinnar verði leyst innan lóðar í samræmi við gildandi reglur um fjölda bílastæða.  Í greinargerð með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu, sem færð er inn á uppdrátt að breytingunni, segir aðeins að átta bílastæði verði á lóðinni.  Þá segir að nokkrum bílastæðum við íþróttahús verði breytt í rútustæði en bílastæðum austan við það verði fjölgað um fjögur.  Bílastæðum fækki um þrjú frá því sem verið hafi.

Ljóst er að hvorki er fullnægt kröfum skipulagsreglugerðar né aðalskipulags um fjölda bílastæða fyrir umdeilda nýbyggingu samkvæmt hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.  Í 7. mgr. gr. 3.1.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 segir þó að unnt sé að víkja frá þessum lágmarksákvæðum í deiliskipulagi ef sýnt sé fram á að bílastæðaþörf sé minni eða unnt sé að uppfylla hana með öðrum hætti.  Hafa bæjaryfirvöld vísað til þess að almennt sé ekki gert ráð fyrir bílastæðum fyrir hótel í miðbæjum og vísa jafnframt til athugunar sem gerð hafi verið á umferð um reitinn á álagstímum.  Þrátt fyrir þessar ábendingar verður hins vegar ekki talið að bílastæðaþörf vegna fyrirhugaðrar starfsemi sé minni en gengur og gerist um ýmsa þjónustustarfsemi eða að hún sé svo óveruleg að leysa megi hana með átta bílastæðum innan lóðar.  Samræmist hin kærða deilskipulagsbreyting því hvorki ákvæðum skipulagsreglugerðar né skilmálum þess aðalskipulags sem við á og verður hún því felld úr gildi.

Samþykkt sveitarstjórnar um að veita hið kærða byggingarleyfi var gerð hinn 29. apríl 2008.  Í 5. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga, sem giltu á þeim tíma, var kveðið á um að staðfesting sveitarstjórnar félli úr gildi ef byggingarleyfi hefði ekki verið gefið út innan 12 mánaða.  Þá sagði í 1. mgr. 45. gr. laganna að byggingarleyfi félli úr gildi ef framkvæmdir væru eigi hafnar innan 12 mánaða frá útgáfu þess.  Engar framkvæmdir hafa átt sér stað á grundvelli hinnar kærðu samþykktar um byggingarleyfi og er hún því fallin úr gildi samkvæmt framangreindum ákvæðum.  Verður kröfu um ógildingu hennar því vísað frá úrskurðarnefndinni.    

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna tafa við gagnaöflun og sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:  

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 26. febrúar 2008 um að samþykkja  breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar varðandi lóðina nr. 18 við Suðurgötu.  Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar frá 29. apríl 2008, um að veita byggingarleyfi fyrir 40 herbergja hóteli á lóðinni, er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                    Hildigunnur Haraldsdóttir