Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

13/2013 Steinkerstún minkabú

Árið 2013, mánudaginn 22. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður nefndarinnar, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 13/2013, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 8. febrúar 2013 um að samþykkja byggingaráform fyrir 1.930 m2 loðdýraskála á lóðinni Steinkerstúni í landi jarðarinnar Ása í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og útgáfu byggingarleyfis fyrir þeim skála hinn 11. febrúar s.á.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. febrúar 2013, er barst nefndinni hinn 12. s.m., kærir Guðjón Ármannsson hrl., f.h. sjö eigenda jarðarinnar Stóra-Núps, Skeiða- og Gnúpverjahreppi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps að samþykkja byggingaráform fyrir 1.930 m2 loðdýraskála á lóðinni Steinkerstúni í landi jarðarinnar Ása í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og útgáfu byggingarleyfis fyrir þeim skála hinn 11. s.m. 

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.  Jafnframt er gerð krafa um að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða leyfi á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda. 

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi hinn 19. febrúar 2013. 

Málsatvik og rök:  Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti hinn 7. febrúar 2012 tillögu að lýsingu skipulagsverkefnis skv. 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 vegna deiliskipulagningar spildu úr landi Ása, sem nefnd er Steinkerstún.  Í tillögunni var gert ráð fyrir að á spildunni mætti reisa sex hús, samtals um 8.800 m2, undir minkarækt, en á svæðinu er þegar fyrir minkabú á aðliggjandi spildu úr landi jarðarinnar, er nefnist Mön. 
Við kynningu deiliskipulagstillögunnar bárust athugasemdir, m.a. frá kærendum í máli þessu.  Sveitarstjórn samþykkti skipulagstillöguna hinn 4. september 2012 og tók skipulagið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 29. nóvember s.á.  Skutu kærendur þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 24. desember 2012.  Hinn 8. janúar 2013 var sótt um samþykki byggingaráforma fyrir 1.930 m2 loðdýraskála á grundvelli hins samþykkta skipulags.  Var umsóknin samþykkt 8. febrúar s.á. og byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni gefið út 11. s.m.

Kærendur vísa til þess að hinar kærðu ákvarðanir byggi á ógildanlegu deiliskipulagi sem þeir hafi kært til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu þess.  Deiliskipulagið muni leiða til stórfelldrar eignarskerðingar á landi þeirra ef heimildir skipulagsins gangi eftir og við málsmeðferð þess hafi verið gengið gegn rannsóknar- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.  Kærendur hafi fært fram ítarlegan rökstuðning fyrir ólögmæti umrædds skipulags og vísi til þess sem þar komi fram. 

Af hálfu Skeiða- og Gnúpverjahrepps er skírskotað til þess að við samþykki byggingaráforma og útgáfu hins kærða byggingaleyfis hafi verið farið að form- og efnisreglum sem um slík leyfi gildi.  Kæra í máli þessu byggi einvörðungu á því að leyfið eigi sér ekki stoð í lögmætu deiliskipulagi en kærumál sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni um gildi þess.  Vísað sé til greinargerðar sveitarfélagsins í því kærumáli þar sem sé að finna greinargóð rök fyrir lögmæti skipulagsins. 

Byggingarleyfishafi fer fram á að kröfu um ógildingu hins kærða byggingaleyfis verði hafnað.  Málsástæðum kærenda hafi verið andmælt af hálfu leyfishafa og eigenda minkabúsins að Mön í kærumáli því sem snúist um deiliskipulag það sem heimili umdeilt minkabú.  Þar séu færð fram rök fyrir því að deiliskipulagsákvörðunin skuli standa óhögguð.  Ekki sé ástæða til að endurtaka þær röksemdir hér en vísað sé til þess er nefndir aðilar hafi fært fram í því kærumáli. 

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun um veitingu leyfis fyrir byggingu minkaskála á spildunni Steinkerstúni var tekin með stoð í deiliskipulagi, sem samþykkt var í sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hinn 4. september 2012 og tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 29. sama mánaðar. 

Úrskurðarnefndin hefur fyrr í dag kveðið upp úrskurð í kærumáli vegna greinds deiliskipulags þar sem fallist var á kröfu um ógildingu þess.  Að þeim úrskurði gengnum á hin kærða ákvörðun um samþykki byggingaráforma ekki lengur stoð í gildu deiliskipulagi, svo sem lög gera ráð fyrir, sbr. 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 2. mgr. 10. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.  Ber af þeim sökum að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. 

Ekki þykir ástæða til að kveða sérstaklega á um ógildingu á útgáfu umdeilds byggingarleyfis hinn 11. febrúar 2013 enda er útgáfa þess í skjóli fyrri ákvörðunar um samþykki byggingaráforma. 

Úrskurðarorð: 

Ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps, um að samþykkja byggingaráform fyrir 1.930 m2 loðdýraskála á lóðinni Steinkerstúni í landi jarðarinnar Ása í Skeiða- og Gnúpverjahreppi er, felld úr gildi. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson