Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

23/2013 Aðalskipulag Langanesbyggðar

Árið 2013, föstudaginn 19. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 23/2013, kæra varðandi gerð Aðalskipulags Langanesbyggðar 2007-2027.

Í málinu var kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. febrúar 2013, sem barst nefndinni sama dag, framsendir umhverfis- og auðlindaráðuneytið erindi Skipulagsstofnunar til ráðuneytisins, dags. 7. s.m., þar sem ráðuneytinu er framsend kæra G, Lyngbrekku 13, Húsavík, varðandi gerð Aðalskipulags Langanesbyggðar 2007-2027.  Með bréfi, dags. 5. apríl 2013, er barst nefndinni sama dag, framsendir umhverfis- og auðlindaráðuneytið erindi Jónasar Þ. Jónassonar hrl., f.h. G, o.fl. eigenda Syðra-Lóns í Langanesbyggð, auk eigenda jarðanna Fells og Hellulands, þar sem kærð er ákvörðun sveitarstjórnar Langanesbyggðar frá 10. janúar 2013 um að samþykkja endanlegt Aðalskipulag Langanesbyggðar 2007-2027.  Sömu sjónarmið eiga við um úrlausn beggja þessara erinda og er síðara málið, nr. 34/2013, sameinað hinu fyrra, sem er nr. 23/2013. 

Málsatvik og rök:  Hinn 28. júlí 2010 samþykkti sveitarstjórn Langanesbyggðar til auglýsingar tillögu að Aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007-2027.  Mun tillagan hafa verið send Skipulagsstofnun til athugunar skv. 2. mgr. 17. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og fer því um meðferð málsins að þeim lögum, sbr. 2. mgr. 56. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 

Af hálfu kærenda er því haldið fram að ákvæði í hinu umdeilda Aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007-2027 fari í bága við rétt þeirra sem eigenda tilgreindra jarða og gera þeir í báðum málunum þá kröfu að skipulagið verði ekki staðfest meðan ekki hafi verið bætt úr þeim ágöllum sem þeir telja vera á því.  Var skipulagstillagan send umhverfis- og auðlindaráðuneytinu til staðfestingar með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 12. febrúar 2013, og er málið þar til meðferðar. 

Niðurstaða:  Í máli þessu eru til meðferðar erindi sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur framsent úrskurðarnefndinni og varða meðferð aðalskipulagstillögu sem ráðuneytið hefur nú til staðfestingar.  Er það mat ráðuneytisins að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála beri að taka umræddar kærur til meðferðar í „… ljósi 5. mgr. 8. gr. skipulagslaga nr. 73/1997.“ (sic). 

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingararmála var komið á fót með setningu skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og sagði um verksvið nefndarinnar í 2. mgr. 8. gr. laganna að hún kvæði upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum.  Þrátt fyrir þetta víða orðalag varð það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar, þegar á árinu 1999, að úrskurðarvald hennar næði ekki til ákvarðana sem sættu staðfestingu ráðherra að lögum, svo sem um aðalskipulag eða breytingar á því, og vísaði nefndin nokkrum málum frá á þeim grundvelli.  Álitaefni þetta um valdmörk úrskurðarnefndarinnar var borið undir umboðsmann Alþingis, sem lauk málinu með bréfi, dags. 29. maí 2001, og gerði ekki athugasemdir við niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar.  Tók umboðsmaður einnig fram að þar sem aðalskipulag tæki ekki gildi fyrr en við staðfestingu ráðherra teldi hann enn fremur ekki unnt að bera samþykkt sveitarstjórnar á aðalskipulagstillögu, eða meðferð Skipulagsstofnunar við álitsgjöf til ráðherra, undir úrskurðarnefndina.  Hefur úrskurðarnefndin frá þessum tíma kveðið upp fjölmarga úrskurði þar sem málum er varða aðalskipulag eða breytingar á því hefur verið vísað frá nefndinni. 

Með lögum nr. 74/2005 voru gerðar verulegar breytingar á 8. gr. skipulags- og byggingarlaga um úrskurðarnefndina.  Var þar m.a. tekið fram að ákvarðanir sem ráðherra bæri að lögum að staðfesta sættu ekki kæru til nefndarinnar og var í greinargerð með frumvarpi til nefndra laga m.a. vísað til áðurnefnds álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2906/2000 og þeirra sjónarmiða sem lágu því til grundvallar.  Er sambærilegt ákvæði í 52. gr. skipulagslaga, sem nú gildir um kærur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, þar sem segir að ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra beri að staðfesta samkvæmt lögunum sæti ekki kæru til nefndarinnar. 

Auk þess sem að framan er rakið er kröfugerð í máli því sem hér er til úrlausnar með þeim hætti að ekki kemur til álita að úrskurðarnefndin taki afstöðu til hennar, en þar er þess m.a. krafist að Skipulagsstofnun og umhverfis- og auðlindaráðuneytið staðfesti ekki hina umdeildu aðalskipulagstillögu.  Loks er það að athuga að meðferð málsins er ekki lokið og girðir það eitt og sér fyrir málskot, hvað sem líður öðrum skilyrðum þess. 

Að virtu því sem að framan greinir verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

__________________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson