Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

91/2012 Kaplaskjól

Árið 2013, föstudaginn 31. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 91/2012, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 11. október 2012 um breytingu á deiliskipulagi Kaplaskjóls í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. september 2012, er barst nefndinni 26. s.m., kærir J, Víðimel 68, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 30. ágúst 2012 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kaplaskjóls.  Hin kærða ákvörðun var staðfest að nýju í borgarráði hinn 11. október 2012 og birtist auglýsing um gildistöku hennar í B-deild Stjórnartíðinda 28. nóvember 2012.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Málsgögn bárust frá Reykjavíkurborg 5. desember 2012.
 
Málsatvik:  Á árinu 2007 tók gildi deiliskipulag Kaplaskjóls er fól í sér að opnu grænu svæði norðan við húsið nr. 80 við Víðimel yrði breytt í fjórar lóðir og að parhúsin nr. 116 og 118 við Hringbraut og nr. 10 og 12 við Vesturvallagötu yrðu flutt á lóðirnar.  Aðkoma að lóðunum yrði frá Meistaravöllum um aðkomugötu, en um eins konar vistgötu yrði að ræða og ekki yrði gegnumakstri að Víðimel.  Einnig var gert ráð fyrir fjórum bílastæðum á lóðunum, einu fyrir hverja íbúð í parhúsunum.  Breyting var gerð á deiliskipulaginu á árinu 2010 og nefndum lóðum fækkað í tvær, með tveimur íbúðum á hvorri lóð.  Hinn 30. maí 2012 var á fundi skipulagsráðs Reykjavíkur samþykkt að auglýsa enn tillögu að breytingu umrædds deiliskipulags og samþykkti borgarráð þá tillögu 7. júní s.á.  Fól tillagan m.a. í sér að aðkomu að húsunum yrði breytt í þá veru að hún yrði um göngustíg milli Meistaravalla og Víðimels en ekki yrði ekið að húsunum.  Tillagan var auglýst til kynningar frá 18. júní til 30. júlí 2012 og bárust m.a. athugasemdir frá kæranda, fyrir hönd 41 íbúa við Víðimel, og frá 38 íbúum við Meistarvelli 5 og 7.  Lutu athugasemdir einkum að því að aukinn skortur yrði á bílastæðum á svæðinu við breytta tilhögun. 

Á fundi skipulagsráðs hinn 22. ágúst s.á. var tillagan tekin fyrir að nýju og hún samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsstjóra, dags. 10. s.m. 2012.  Samþykkti borgarráð þá afgreiðslu 30. s.m.  Í framhaldi af því var skipulagið sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu, er taldi með bréfi, dags. 5. september s.á., skorta á að færður væri fram rökstuðningur fyrir greindri breytingu í greinargerð deiliskipulagsins.  Jafnframt var talið að í svörum við athugasemdum þyrfti að gera betur grein fyrir því af hverju breytingin myndi ekki hafa veruleg áhrif á bílastæðamál götunnar.  Var umsögn skipulagsstjóra breytt í kjölfar þessa  hinn 17. september 2012, og samþykkti skipulagráð breyttan uppdrátt að tillögunni ásamt breyttri umsögn skipulagsstjóra á fundi sínum hinn 1. október 2012.  Samþykkti borgarráð á fundi sínum 11. október 2012, samþykkt skipulagsráðs á afgreiðslu skipulagsstjóra vegna athugasemda við málsmeðferð við áður samþykkta deiliskiplagsbreytingu.  Var tillagan eftir það send Skipulagsstofnun til yfirferðar að nýju og gerði stofnunin ekki athugasemd við birtingu hennar í B-deild Stjórnartíðinda.

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að skipulagsstjóri beri ábyrgð á framlagningu hinnar kærðu tillögu.  Hann hafi veitt umsögn um fram komnar athugasemdir, sem sé grundvöllur að afgreiðslu skipulagsyfirvalda í málinu. Umræddur skipulagsstjóri sé íbúi við Víðimel.  Hann hafi því óeðlilega aðkomu að málinu og sé samkvæmt stjórnsýslulögum vanhæfur til að veita umsögn um innkomnar athugasemdir.  Af þessari ástæðu beri að ógilda hina kærðu ákvörðun.

Í gr. 6.2.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 segi að komi ekki fram krafa um ákveðna staðsetningu bílastæða eða stæða fyrir reiðhjól í skipulagi beri að hafa þau á sem öruggustu svæði innan lóðar og brjóti ákvörðun skipulagsyfirvalda augljóslega gegn greindu ákvæði.  Ætti það eitt og sér að valda ógildingu umræddrar ákvörðunar.

Hin kærða breyting sé einkum gerð vegna fjárhagslegra útgjalda bogarinnar við  færslu tveggja húsa.  Þótt skipulagsyfirvöld leggi áherslu á að minnka útgjöld við flutning húsanna sé ekki ásættanlegt að slíkt sé íþyngjandi fyrir eigendur nágrannalóða.

Aukin umferð um Víðimel muni verða í kjölfar breytinganna.  Vegna skorts á bílastæðum þurfi íbúar við götuna nú þegar að leggja bifreiðum beggja vegna hennar og að hluta upp á gangstéttum.  Þetta útiloki tvístefnuakstur í götunni, sem sé botngata, og valdi umferðarvanda nú þegar.  Sé með breytingunni aukið á þann vanda sem fyrir sé.  Auk þess sé augljóst óhagræði og óþægindi fyrir íbúa flutningshúsanna og gesti þeirra að akstursleið og bílastæði sé um aðra götu en þá sem húsin standi við.  Hafi kærandi vegna framangreindra þrengsla og skorts á bílastæðum þurft að taka hluta lóðar sinnar undir bílskúr og bílastæði með tilheyrandi kostnaði.  Með hinni kærðu breytingu séu áhrif þessarar aðgerðar að engu gerð og sé óviðunandi að borgaryfirvöld skuli benda íbúum annarra gatna á að leggja bifreiðum sínum við Víðimel.

Sérstaklega sé bent á að um 80 íbúar nærliggjandi húsa hafi undirritað mótmæli vegna fyrirhugaðrar breytingar á deiliskipulaginu.  Sé því um að ræða mjög víðtæka óánægju fólks sem málið snerti beint.  Svör skipulagsyfirvalda við athugasemdum séu efnislega rýr og byggi hvorki á faglegum né rökum eða rannsóknum.  Þá hafi raunverulegu samráði við íbúa á svæðinu verið ábótavant.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað. 

Rétt sé að þáverandi skipulagsstjóri sé búsettur í nágrenni við umræddan reit en því sé harðlega mótmælt að honum hafi borið að víkja sæti í máli þessu.  Sé vísað til ákvæða 5. og 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, er kveði á um vanhæfi starfsmanns, en jafnframt sé vísað til 2. mgr. sömu lagagreinar sem segi að eigi sé um vanhæfi að ræða ef þeir hagsmunir sem málið snúist um séu það smávægilegir, eðli málsins með þeim hætti eða þáttur starfsmanns í meðferð málsins það lítilfjörlegur að ekki sé talin hætta á að ómálefnaleg sjónarmið hafi áhrif á ákvörðun.  Umræddur embættismaður hafi ekki notfært sér aðstöðu sína til að standa í vegi fyrir fyrirhuguðum breytingum og því fráleitt að saka hann um að hafa brotið hæfisreglur stjórnsýslulaga.  Hafi það enda verið skipulagsráð sem tekið hafi lokaákvörðun í málinu en ekki skipulagsstjóri.

Vegna athugasemda kæranda um 2. mgr. gr. 6.2.5 í byggingarreglugerð sé bent á að í upphafi tilvitnaðs ákvæðis segi að stæði fyrir bíla skuli vera í samræmi við ákvæði gildandi deiliskipulags.  Deiliskipulagsbreytingin geri ráð fyrir að bílum sem tengist umræddum flutningshúsum verði lagt við nærliggjandi götur.  Hafi Skipulagsstofnun engar athugasemdir gert við þetta fyrirkomulag.

Vissulega sé rétt að Reykjavíkurborg sé að spara sér að leggja sérstaka götu að þeim húsum sem um ræði.  Spyrja megi hvort réttlætanlegt sé að leggja þær byrðar á skattgreiðendur að leggja sérstaka götu til að þjóna svo fáum íbúum þegar hinir sömu geti auðveldlega komist að húsum sínum með því að ganga stutta vegalengd.  Séu „íþyngjandi“ áhrif fyrir nágranna vegna þessa óveruleg.

Telja verði að breytingin muni ekki hafa áhrif á bílastæðamál og umferð um Víðimel svo neinu nemi.  Víðimelur sé lokaður fyrir bílaumferð að vestan og sé því ekki um gegnumumferð að ræða þar.  Við flest húsin séu bílgeymslur og bílastæði séu fyrir framan þær.  Götunni hafi verð breytti í botngötu fyrir allmörgum árum en hluti hennar hafi áður verið Kaplaskjólsvegur.  Þar hafi verið gerð bílastæði og sé því bílastæðaálag á Víðimel, einkum í vesturenda götunnar, talsvert mina en í öðrum götum í hverfinu.  Þar af leiði að gatan þoli að við hana bætist fjórar íbúðir með þeirri umferð sem þeim fylgi.  Ekki sé ráðgert að hverri íbúð fylgi að jafnaði fleiri en ein bifreið þar sem húsin séu vel staðsett, bæði hvað varði samgöngur með almenningsvögnum og nálægð við miðborgina, verslanir og Háskóla Íslands.

Umrædd hús muni standa við Meistaravelli og tilheyra þeirri götu og ekki sé brýn þörf á að íbúar húsanna hafi aðgang að bílastæðum út við Hringbraut.  Þar að auki sé ekki hægt að koma þar við bílastæðum, eins og aðstæðum sé háttað, vegna beygjuakreina á Hringbraut, gegnt þessum lóðum.

Loks sé því mótmælt að svör skipulagsyfirvalda hafi verið óskýr.  Umsögn skipulagsstjóra hafi verið leiðrétt og bætt og sé fram komnum athugasemdum svarað með rökstuddum hætti. 

Niðurstaða:  Ekki verður fallist á með kæranda að skipulagsstjóri Reykjavíkur hafi verið vanhæfur við meðferð umdeildrar skipulagtillögu, enda verður ekki talið að draga hafi mátt óhlutdrægni  hans í efa þótt fyrir liggi að hann hafi búið í námunda við svæði það sem umdeild skipulagsbreyting tekur til.  Verður hin kærða ákvörðun borgarráðs því ekki ógilt af ástæðum er varða hæfi skipulagsstjóra til aðkomu að málinu.

Í kæru er vísað til þess að ekki sé gerð fullnægjandi grein fyrir bílastæðum og umferð í hinni umdeildu skipulagbreytingu. Í 7. mgr. gr. 3.1.4 tilvitnaðrar skipulagsreglugerðar nr. 400/1998, sem við á í málinu, segir að ákvæði um fjölda bílastæða skuli sett hverju sinni í deiliskipulagi á grundvelli stefnu aðalskipulags.  Eru í ákvæðinu settar fram kröfur um lámarksfjölda bílastæða miðað við stærð og notkun mannvirkja, en unnt er að víkja frá þessum kröfum í deiliskipulagi ef sýnt er fram á að bílastæðaþörf sé minni eða unnt sé að uppfylla hana með öðrum hætti.  Fyrir liggur að framangreindum kröfum reglugerðarinnar um fjölda bílastæða innan lóðar er ekki fullnægt í hinni kærðu ákvörðun.  Í skipulagstillögunni segir það eitt að gert sé ráð fyrir að bílum verði lagt í nærliggjandi götum og eru tilgreind dæmi um svipaða fjarlægð að inngöngum húsa annars staðar í borginni.  Þrátt fyrir þetta verður hvorki talið að í tillögunni hafi með fullnægjandi hætti verið sýnt fram á að leysa megi bílastæðaþörf með öðrum hætti en með stæðum innan lóða né að þörf fyrir bílastæði sé minni en áskilið er í tilvitnuðu ákvæði.  Þá er misræmi milli bókana skipulagsráðs og skipulagsfulltrúa í málinu og texta hinnar kærðu tillögu um það hvernig nýta eigi nýjar lóðir á svæðinu fyrir flutningshús varðandi fjölda húsa og um hvaða hús er að ræða og eru rangfærslur um það efni jafnframt í svörum borgaryfirvalda, dags. 10. ágúst, breytt 17. september s.á, við fram komnum athugasemdum við tillöguna.

Samkvæmt framansögðu fullnægði hin kærða ákvörðun ekki ákvæðum þágildandi reglugerðar um bílastæðakröfu.  Þá voru verulegir ágallar á meðferð málsins svo sem að framan er lýst.  Þykja þessir ágallar eiga að leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og verður hún því felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 11. október 2012 um breytingu á deiliskipulagi Kaplaskjóls í Reykjavík er felld úr gildi. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                          Hildigunnur Haraldsdóttir