Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

97/2011 Ánabrekka

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 1. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 97/2011, kæra vegna dráttar á afgreiðslu erindis um að Borgarbyggð hlutist til um að vegur í sumarhúsabyggð í landi Ánabrekku, verði lagður í samræmi við gildandi deiliskipulag. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. nóvember 2011, er barst nefndinni 30. sama mánaðar, kæra J og E, eigendur lóðar að Selási 7 í landi Ánabrekku, Borgarbyggð, drátt á afgreiðslu erindis, dags. 19. maí 2010, þar sem krafist var að Borgarbyggð hlutist til um að vegur í sumarhúsabyggð á nefndri jörð verði lagður í samræmi við gildandi deiliskipulag.  Þess er krafist að lagt verði fyrir sveitarfélagið að taka nú þegar áðurgreint erindi til efnislegrar afgreiðslu. 

Málsatvik og rök:  Í júnímánuði 2010 fjölluðu skipulagsyfirvöld Borgarbyggðar tvívegis um erindi kærenda, dags. 19. maí s.á., þar sem krafist var atbeina skipulagsyfirvalda sveitarfélagsins að því að vegir í sumarhúsahverfi Seláss yrðu lagðir í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins frá árinu 1990.  Var leitað umsagnar lögmanns vegna erindis kærenda og með bréfi, dags. 26. ágúst 2010, var landeigandi umrædds sumarhúsasvæðis upplýstur um málið.  Kærendur ítrekuðu erindi sitt í maí 2011 og kvörtuðu yfir aðgerðarleysi sveitarfélagsins í málinu.  Með bréfi, dags. 27. júní s.á., leitaði byggðarráð Borgarbyggðar álits Skipulagsstofnunar á því hvað sveitarfélaginu bæri að gera í tilefni af málinu og svaraði stofnunin því erindi með bréfi, dags. 18. júlí 2011.  Hinn 4. ágúst s.á. var málið til umfjöllunar á fundi byggðarráðs sem ákvað að fela umhverfis- og skipulagssviði að funda með málsaðilum.  Sá fundur var haldinn af hálfu bæjaryfirvalda hinn 6. september 2011 þar sem reynt var að leita lausna í málinu og m.a. lagt til að tilnefndir yrðu þrír aðilar af hálfu sveitarfélagsins, kærenda og landeiganda í því skyni, en það gekk ekki eftir.  Í kjölfarið var unnið að lausn málsins án þess að niðurstaða fengist.  Byggðarráð tók síðan málið fyrir á fundi 10. nóvember 2011 og bókaði að reynt yrði að ná sátt í málinu sem allra fyrst.  Umhverfis- og skipulagsnefnd fjallaði einnig um málið á fundi hinn 14. nóvember s.á. þar sem kynnt var tillaga landeiganda að breyttu skipulagi Seláss.  Fundargerðir þessara funda voru lagðar fram á fundi sveitarstjórnar hinn 17. nóvember s.á. 

Kærendur vísa til þess að vegur sem liggja eigi austan megin við umrædda sumarhúsabyggð samkvæmt gildandi deiliskipulagi hafi aldrei verið lagður.  Vegur sem liggi frá norðri til suðurs á svæðinu, milli lóða nr. 5, 7, 9 og 11 annars vegar og nr. 6, 8, 10 og 12 hins vegar, hafi aftur á móti verið ruddur af hálfu landeiganda í bága við skipulagið.  Liggi sá vegur innan marka lóðar kærenda og hafi í för með sér skerðingu eignarréttinda.  Þá hafi hann í för með sér bílaumferð við lóðina sem ekki hafi verið gert ráð fyrir í skipulagi, en eina aðkoma að lóðum nr. 8, 9, 10, 11 og 12 sé um hinn ólögmæta veg.  Þrátt fyrir ítrekuð tilmæli kærenda hafi landeigandi ekki fengist til að fara að gildandi skipulagi og leggja veginn austan við byggðina.  Hafi kærendur því leitað til Borgarbyggðar til að knýja á um nauðsynlegar úrbætur og að farið yrði að gildandi deiliskipulagi.  Hafi sú krafa kærenda fengið stuðning í fyrirliggjandi álitum lögmanns bæjarins og Skipulagsstofnunar.  Erindi kærenda hafi borist bæjaryfirvöldum í maí 2010 og hafi enn ekki verið afgreitt.  Telja verði þetta óhæfilegan drátt á afgreiðslu málsins og því sé sú krafa gerð að lagt verði fyrir Borgarbyggð að taka erindið án tafar til efnislegrar afgreiðslu. 

Af hálfu Borgarbyggðar er á það bent að sveitarfélagið hafi hvatt til þess að málsaðilar leituðu lausna í málinu og hafi Skipulagsstofnun einnig gert tillögu í þá átt.  Það hafi valdið vonbrigðum að kærandi hafi neitað að taka þátt í hópi til lausnar á málinu eins og lagt hafi verið til á fundi aðila í september 2011.  Í kjölfar þess hafi landeigandi óskað eftir því að leggja fram hugmynd að lausn málsins og hafi verið ákveðið að hann kynnti hana fyrir lóðarhöfum við Selás.  Sátta hafi verið leitað en auk funda vegna málsins hafi aðilar verið í samskiptum allt fram í nóvember 2011.  Málið hafi síðan verið til umfjöllunar á fundum byggðarráðs og umhverfis- og skipulagsnefndar í nóvember s.á. þar sem lögð hafi verið áhersla á að ná sátt í málinu sem fyrst.  Þá hafi verið kynnt tillaga landeiganda að breyttu skipulagi Seláss.  Hafi sveitarstjórn ekki gert athugasemdir við greindar bókanir en haldið áfram að vinna að lausn málsins.  Sé þess vænst að unnt verði að leggja fram tillögu í því skyni innan skamms. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er unnt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til.  Mál þetta snýst um kröfur á hendur Borgarbyggð um töku ákvarðana gagnvart þriðja aðila um beitingu ákvæða í skipulagslögum nr. 123/2010 og gæti ákvörðun við afgreiðsla þess eftir atvikum átt undir úrskurðarnefndina skv. 52. gr. skipulagslaga.  Er máli þessu því réttilega beint til úrskurðarnefndarinnar. 

Þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 30. nóvember 2011 var um eitt og hálft ár liðið frá því að umrætt erindi kærenda barst Borgarbyggð.  Erindið, sem dagsett er 19. maí 2010, var tekið til umfjöllunar hjá skipulagsyfirvöldum Borgar-byggðar í júní sama ár.  Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að síðan hafi sveitar-félagið unnið að málinu með samskiptum við málsaðila, öflun umsagna og sátta-umleitunum og var það til meðferðar á fundum skipulagsyfirvalda í nóvember 2011. 

Verður með hliðsjón af framangreindu að telja að viðhlítandi skýringar séu fyrir þeim drætti sem orðinn var á afgreiðslu erindis kærenda þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni.  Samkvæmt því, og með tilliti til eðlis erindis kærenda, verður dráttur sá sem orðinn var á afgreiðslu þess ekki talinn óhæfilegur.  Hins vegar er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki liggi fyrir ástæður sem réttlæti frekari drátt á afgreiðslu málsins og beri því að taka það til efnislegrar afgreiðslu. 

Úrskurðarorð

Lagt er fyrir Borgarbyggð að taka til efnislegrar afgreiðslu, án ástæðulauss dráttar, erindi kærenda, dags. 19. maí 2010, þess efnis að hlutast verði til um að vegur í sumarhúsabyggð á nefndri jörð verði lagður í samræmi við gildandi deiliskipulag. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________   ___________________________
Ásgeir Magnússon                            Þorsteinn Þorsteinsson

17/2012 Naustabrekka

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 21. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 17/2012, kæra á álagningu umhverfisgjalds árið 2012 vegna sumarhúss að Naustabrekku í Vesturbyggð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 6. mars 2012, kærir G, Strandgötu 15, Patreksfirði, álagningu á umhverfisgjaldi 2012 Vesturbyggðar fyrir Naustabrekku á Rauðasandi, samkvæmt álagningarseðli, dags. 27. janúar 2012.  Úrskurðarnefndinni bárust málsgögn frá sveitarfélaginu hinn 4. apríl 2012. 

Skilja verður kröfugerð kærenda svo að krafist sé að hin kærða álagning umhverfisgjalds verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Kæranda, sem er eigandi sumarhúss á eyðibýlinu Naustabrekku, landnúmer 139908, var gert að greiða umhverfisgjald að upphæð 23.000 krónur samkvæmt álagningarseðli fasteignagjalda 2012.  Póststimpill álagningarseðilsins er 30. janúar 2012.  Með tölvupósti hinn 21. febrúar s.á. fór kærandi fram á við bæjarstjóra Vesturbyggðar að álagt umhverfisgjald yrði fellt niður áður en kæra yrði send til úrskurðarnefndarinnar.  Með bréfi, dags. 27. s.m., var kröfu kæranda hafnað.  Kærandi kærði álagninguna til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan er getið, og vísar til þess að þar sem ekki sé vegsamband við sumarhúsið sé ekki hægt að þjónusta það með sorphirðu.  Stofnunum og sveitarfélögum sé óheimilt að innheimta gjöld fyrir þjónustu sem ekki sé innt af hendi. 

Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að álagning umhverfisgjalda vegna ársins 2012 sé byggð á gjaldskrá umhverfisgjalda í Vesturbyggð nr. 122/2012.  Í A-lið 2. gr. gjaldskrárinnar sé kveðið á um álagningu og innheimtu árlegs umhverfisgjalds á orlofshús að upphæð 23.000 krónur.  Fasteignin Naustabrekka sé skráð í bækur Þjóðskrár Íslands sem sumarhús.  Sorp sé ekki sótt til sumarhúsa á sama hátt og innan skipulegrar íbúðarhúsabyggðar.  Umhverfisgjaldi á orlofshús sé ætlað að standa undir kostnaði við eyðingu sorps en ekki við að sækja það.  Gjaldendum sé gert að koma sorpi frá orlofshúsum sínum á þar til gerðar sorpmóttökustöðvar eða í sorpgáma sem staðsettir séu á nokkrum stöðum í sveitarfélaginu.  Tekjur við söfnun og meðhöndlun sorps í Vesturbyggð á árunum 2009-2011 hafi verið 76.874.329 krónur og gjöld 101.557.111 krónur.  Kostnaður sé allmiklu hærri en tekjur eða sem nemi tæpum 25 milljónum króna á einungis þremur árum.  Gjaldskráin hafi því verið talsvert of lág á þessum árum til að standa undir kostnaði við söfnun og meðhöndlun sorps í sveitarfélaginu.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti álagningar umhverfisgjalds vegna orlofshúss kæranda í Vesturbyggð. 

Sveitarfélögum er heimilt að innheimta gjald fyrir veitta þjónustu við meðhöndlun og eyðingu sorps og úrgangs með stoð í sérstakri samþykkt sem staðfest skal af ráðherra, sbr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og 3. ml. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.  Sveitarfélög geta sett gjaldskrár á grundvelli samþykktanna sem birta skal í B-deild Stjórnartíðinda skv. 5. mgr. 25. gr. laga 7/1998.  Í gildi er samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Vesturbyggð nr. 214/2004 og á grundvelli þeirrar samþykktar hefur verið sett gjaldskrá umhverfisgjalda í Vesturbyggð nr. 122/2012, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 9. febrúar 2012.  Í 1. gr. gjaldskrárinnar kemur fram að innheimt gjöld skuli standa straum af kostnaði við hirðu, endurvinnslu og eyðingu sorps.  Álagningarseðill fasteignagjalda kæranda árið 2012, sem felur m.a. í sér umdeilt gjald, er dagsettur 27. janúar 2012, með fyrsta gjaldaga 1. febrúar s.á. 

Í 8. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað er kveðið á um að fyrirmælum, er felast í lögum, auglýsingum, reglugerðum, samþykktum eða öðrum slíkum ákvæðum almenns efnis og birta skal í Stjórnartíðindum, megi ekki beita fyrr en birting hafi farið fram nema þau geymi ákvæði algerlega einkamálaeðlis og aðilar hafi komið sér saman um að skipti þeirra skuli fara eftir óbirtum fyrirmælum.  Þar er og ákvæði um að birt fyrirmæli bindi alla frá og með deginum eftir útgáfudag þeirra Stjórnartíðinda þar sem fyrirmælin voru birt ef þau geyma ekki aðrar ákvarðanir um gildistöku sína. 

Fyrir liggur samkvæmt framangreindu að hin kærða álagning fór fram áður en gjaldskráin sem stuðst var við hafði verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, eins og fyrir er mælt í 5. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998.  Ber af þeim sökum að fella hina kærðu álagningu úr gildi með hliðsjón af fortakslausu orðalagi 8. gr. laga nr. 15/2005. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi álagning umhverfisgjalds ársins 2012 vegna sumarhúss að Naustabrekku í Vesturbyggð samkvæmt álagningarseðli, dags. 27. janúar 2012. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson

41/2011 Reykjamörk

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 1. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 41/2011, kæra á samþykkt bæjarráðs Hveragerðisbæjar frá 1. júní 2011 um að halda áfram verkefni við frágang lóðarinnar nr. 11 að Reykjamörk í Hveragerði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem barst nefndinni 15. júní 2011, kærir J, Reykjamörk 14, Hveragerði, samþykkt bæjarráðs um að halda áfram verkefni við frágang lóðarinnar nr. 11 við Reykjamörk sem samþykkt voru á fundi bæjarráðs Hveragerðisbæjar 1. júní 2011. 

Málsatvik og rök:  Íbúðarlóðin Reykjamörk 11 er nú óbyggð, en íbúðarhús er þar stóð var rifið í kjölfar jarðskjálfta árið 2008.  Í maímánuði 2011 sendi skipulags- og byggingarfulltrúi Hveragerðisbæjar íbúum í nágrenni nefndrar lóðar bréf þar sem kynnt voru áform bæjaryfirvalda um að nota lóðina til skamms tíma sem garð til almenningsnota.  Í kjölfarið andmælti kærandi þessum áformum.  Málið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs hinn 1. júní 2011 og var þar samþykkt að vinna áfram að greindu verkefni.  Skaut kærandi þeirri afgreiðslu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Af hálfu kæranda er vísað til þess að umdeild breyting á notkun lóðarinnar Reykjamörk 11 sé ólögmæt.  Lóðin standi andspænis lóð kæranda að Reykjamörk 14 og óttist hann grenndaráhrif sem breytingin muni hafa í för með sér.  Vænta megi ónæðis vegna hópamyndana að kvöld- og næturlagi og þá sérstaklega um helgar með tilheyrandi háreysti.  Þá séu einu bílastæðin næst lóðinni staðsett við lóð kæranda og lóðina nr. 16 við Reykjamörk. 

Bæjaryfirvöld Hveragerðisbæjar benda á að kynningarbréf sem kærandi hafi fengið hafi ekki verið eiginleg grenndarkynning í skilningi skipulagslaga.  Hins vegar hafi þótt rétt að fá fram athugasemdir nágranna við áformum um nýtingu umræddrar lóðar, sem einungis skyldi vera til bráðabirgða.  Ef í ljós kæmi að áformum um nýtingu lóðarinnar fylgdi röskun eða truflanir á högum þeirra væri unnt að gera ráðstafanir til að koma til móts við þá.  Vegna athugasemda kæranda hafi verið fallið frá fyrri hugmyndum um að nýta lóðina til útivistar fyrir aldraða og verði ekki séð að kærandi muni verða fyrir auknu ónæði vegna úrbóta á umræddri lóð.  Ekki liggi fyrir hvort ráðist verði í umdeildar framkvæmdir sem hafi verið til þess fallnar að bæta útlit lóðarinnar þar til byggt yrði á henni að nýju. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, er giltu á þeim tíma sem hér um ræðir, sættu stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar og er það í samræmi við 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kveður á um að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds.  Aðeins þær stjórnvaldsákvarðanir sem binda endi á meðferð máls sæta kæru til æðra stjórnvalds. 

Í máli þessu eru kærð samþykkt bæjarráðs Hveragerðisbæjar um að halda áfram verkefni við frágang lóðarinnar nr. 11 við Reykjamörk.  Hins vegar liggur ekki fyrir endanleg ákvörðun bæjaryfirvalda samkvæmt skipulagslögum eða lögum um mannvirki nr. 160/2010 um framkvæmd verkefnisins.  Telst hin kærða samþykkt því ekki stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg sé úrskurðarnefndarinnar og verður kærumáli þessu því vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                  ____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

16/2012 Dalsbraut

Með

Árið 2012, föstudaginn 8. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 16/2012, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Akureyrar frá 15. febrúar 2012 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir lengingu Dalsbrautar, frá Þingvallastæti að Miðhúsabraut á Akureyri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. mars 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. fjögurra íbúa og eigenda fasteigna að Kolgerði 3, Hörpulundi 19 og Grenilundi 11, Akureyri, þá ákvörðun skipulagsnefndar Akureyrar frá 15. febrúar 2012 að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Dalsbrautar, frá Þingvallastæti að Miðhúsabraut á Akureyri.  Af hálfu kærenda er gerð sú krafa að hið kærða framkvæmdaleyfi verði fellt úr gildi. 

Málavextir:  Hinn 6. desember 2011 samþykkti bæjarstjórn Akureyrar nýtt deiliskipulag fyrir svæði við Dalsbraut, frá Þingvallastræti að Miðhúsabraut og tók það gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 16. janúar 2012.  Fól skipulagið í sér að Dalsbraut var framlengd um 800 m frá aðkomuvegi Lundarskóla og tengd Miðhúsabraut um hringtorg við Kjarnagötu og þannig gerð að tengibraut milli Þingvallastrætis og Miðhúsabrautar.  Skipulagsákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndarinnar og stóðu kærendur í máli þessu meðal annarra að því kærumáli.  Hinn 9. febrúar 2012 sótti framkvæmdadeild bæjarins um leyfi til framkvæmda vegna lagningar Dalsbrautar og samþykkti skipulagsnefnd þá umsókn 15. febrúar s.á. 

Hinn 14. mars 2012 tók úrskurðarnefndin fyrir kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi á meðan málinu væri ólokið hjá nefndinni.  Var þá kveðinn upp úrskurður þar sem fallist var á kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða. 

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa um málsatvik og málsástæður til kærumáls síns vegna fyrrgreinds deiliskipulags Dalsbrautar, en í því máli sé höfð uppi krafa um ógildingu skipulagsins.  Hið kærða framkvæmdaleyfi styðjist að mati kærenda við deiliskipulag sem haldið sé ógildingarannmörkum og fari jafnframt gegn skýrum fyrirmælum Aðalskipulags Akureyrar 2005-2018 um skilyrði fyrir því að hefja megi umdeildar framkvæmdir.  Heimilaðar framkvæmdir muni hafa í för með sér skerðingu á mikilvægum grenndarhagsmunum og fjárhagslegum hagsmunum kærenda sem eigenda fasteigna. 

Málsrök Akureyrarbæjar:  Af hálfu bæjaryfirvalda er á það bent að krafa kærenda í máli þessu sé samofin ógildingarkröfu þeirra í fyrra kærumáli vegna deiliskipulags umrædds svæðis, en í því máli hafi verið færðar fram málsástæður og rök fyrir því að hið kærða deiliskipulag sé hvorki haldið form- né efnisgöllum.  Styðjist hið kærða framkvæmdaleyfi því við gildandi skipulagsáætlanir. 

Niðurstaða:  Hið kærða framkvæmdaleyfi heimilar bæjaryfirvöldum á Akureyri að framlengja Dalsbraut um 830 m, frá núverandi aðkomuvegi að Lundarskóla til suðurs að hringtorgi sem fyrir er á mótum Miðhúsabrautar og Kjarnagötu.  Í málinu er um það deilt hvort framkvæmdaleyfið sé í samræmi við gildandi skipulag. 

Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í kærumáli um gildi deiliskipulags þess  sem hið kærða framkvæmdaleyfi styðst við og var skipulagið fellt út gildi að hluta.  Hefur hið kærða framkvæmdaleyfi því ekki lengur fullnægjandi stoð í gildandi skipulagi og verður það því fellt úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulagsnefndar Akureyrar frá 15. febrúar 2012, um að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Dalsbrautar, frá Þingvallastræti að Miðhúsabraut. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson

25/2009 Borðeyri

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 1. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 25/2009, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Bæjarhrepps frá 5. nóvember 2008 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Borðeyri í Bæjarhreppi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. apríl 2009, er barst nefndinni 17. s.m., kærir K, eigandi svonefnds BM húss á Borðeyri, þá ákvörðun hreppsnefndar Bæjarhrepps frá 5. nóvember 2008 að samþykkja tillögu að nýju deiliskipulagi Borðeyrar.  Öðlaðist samþykktin gildi hinn 17. mars 2009 við birtingu auglýsingar þar að lútandi í B-deild Stjórnartíðinda.  Gerir kærandi þá kröfu að ákvörðunin verði felld úr gildi.  Jafnframt er þess krafist að fjarlægt verði sumarhús er flutt hafi verið á svæði þar sem ekki hafi verið gert ráð fyrir frístundabyggð.  Eftir að kæra barst úrskurðarnefndinni mun umrætt sumarhús hafa verið fjarlægt og verður því ekki vikið nánar að kröfu kæranda er að því snýr. 

Málavextir:  Hinn 8. nóvember 2007 var á fundi skipulags- og byggingarnefndar Bæjarhrepps samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir Borðeyri.  Skyldi það leysa af hólmi eldra deiliskipulag frá árinu 1997 og taka til heldur stærra svæðis en það skipulag.  Var fundargerð nefndarinnar samþykkt á fundi hreppsnefndar hinn 15. s.m. og var tillagan auglýst til kynningar frá 2. mars til 20. júní 2008.  Nokkrar athugasemdir bárust við tillöguna, þ.á m. frá kæranda, og á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 13. júlí s.á. var samþykkt að vísa framkomnum athugasemdum til hreppsnefndar til afgreiðslu.  Á fundi hreppsnefndar hinn 6. ágúst s.á. var fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 13. júlí s.á. lögð fram og samþykkt.  Jafnframt fóru fram umræður um athugasemdir þær er borist höfðu á kynningartíma tillögunnar og var oddvita, varaoddvita og lögfræðingi sveitarfélagsins falið að svara öllum athugasemdum.  Var kæranda kynnt afstaða hreppsnefndar vegna framkominna athugasemda hans með bréfi, dags. 11. ágúst 2008.

Hinn 5. nóvember 2008 var á fundi hreppsnefndar samþykkt tillaga að deiliskipulagi Borðeyrar.  Var skipulagið því næst sent Skipulagsstofnun í samræmi við 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem gerði með bréfi, dags. 5. desember s.á., athugasemdir við að tillagan yrði samþykkt, m.a. þar sem ekki væri gerð fullnægjandi grein fyrir efni skipulagsins, en í sumum tilvikum væri óljóst hvaða ákvarðanir væri verið að taka.  Eins væru skilmálar ófullnægjandi um t.d. byggingarreiti, byggingarmagn, stærðir lóða og nýtingarhlutfall.  Jafnframt var bent á að skipulagið væri ekki að öllu leyti í samræmi við breytt aðalskipulag.  Að teknu tilliti til ábendinga Skipulagsstofnunar var auglýsing um hið greinda deiliskipulag birt í B-deild Stjórnartíðinda. 

Samhliða vinnu við deiliskipulagið var unnin tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Bæjarhrepps, Borðeyri 1995-2015 og öðlaðist sú breyting gildi í B-deild Stjórnartíðinda hinn 19. september 2008. 

Framangreindri ákvörðun um deiliskipulag hefur kærandi skotið til úrskurðarnefndarinnar eins og áður er rakið. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er bent á að hann telji sig eiga lögvarinna hagsmuna að gæta en í hinu kærða skipulagi sé gert ráð fyrir götu er fari inn á þinglýsta leigulóð hans.  Hafi ekkert samráð verið haft við kæranda hvað þetta varði.  Þá vanti í skipulagið afmarkaðar lóðir við nokkur hús á eyrinni, þ.m.t. hús hans.  Hafi kærandi gert athugasemdir á kynningartíma tillögunnar en sveitarstjórn Bæjarhrepps hafi látið hjá líða að svara þeim efnislega þrátt fyrir athugasemdir Skipulagsstofnunar þess efnis.  Séu þetta með öllu óásættanleg vinnubrögð og framkoma af hálfu sveitarstjórnar.  Jafnframt sé fundið að því að hvorki hafi verið haldinn kynningarfundur um aðalskipulag Bæjarhrepps né umrætt deiliskipulag áður en skipulagstillögurnar hafi verið auglýstar, eins og lög geri þó ráð fyrir. 

Ennfremur sé vísað til þess að samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi sé gert ráð fyrir frístundabyggð svo að segja í miðju þorpinu á Borðeyri, en þaðan séu aðeins um 60 metrar að íbúðarhúsi kæranda.  Muni umferð um svæðið aukast verulega vegna þessa með tilheyrandi ónæði fyrir íbúa í næsta nágrenni.  Jafnframt muni útsýni breytast.  Hafi ekki verið gert ráð fyrir þessari landnotkun á umræddu svæði þegar kærandi hafi keypt fasteign sína fyrir þremur árum og rýri þetta ráðslag eign hans til muna.

Málsrök Bæjarhrepps:  Af hálfu Bæjarhrepps er vísað til þess að samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sæti stjórnvaldsákvarðanir sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndar.  Ágreiningur sé uppi meðal fræðimanna hvort samþykkt skipulags sé stjórnvaldsfyrirmæli eða stjórnvaldsákvörðun.  Bæjarhreppur byggi á því að með samþykkt deiliskipulags af þeirri stærðargráðu sem hér um ræði séu sett stjórnvaldsfyrirmæli sem beinist að ótilteknum fjölda manna.  Sé ekki hægt að líta á samþykki þeirra sem stjórnvaldsákvörðun gagnvart kæranda, sem þar með sé kæranlegt til úrskurðarnefndar, nema að svo miklu leyti sem með samþykktu skipulagi sé tekin sérstök ákvörðun í ákveðnu og fyrirliggjandi máli, þar sem kærandi hafi sérstaklegra, einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta.  Einnig verði að líta til þess sem fram komi í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2906/2000 að skýra verði úrskurðarvald kærunefndar þröngt með þeim rökstuðningi sem þar sé vísað til.  Bæjarhreppur telji því að ekki sé unnt að líta á deiliskipulagið í heild sinni sem stjórnvaldsákvörðun sem beint sé að kæranda sérstaklega í ákveðnu og fyrirliggjandi máli og hafi kærandi því ekki lögvarða hagsmuni af þeirri kröfu að deiliskipulagið í heild sinni sé fellt úr gildi. 

Einnig bendi Bæjarhreppur á að gata sú, sem kærandi nefni svo, sé aðkoma að húsum sem liggi norðan við hús kæranda og hafi verið með þeim hætti a.m.k. áratugum saman.  Með skipulaginu sé því einungis verið að staðfesta það ástand sem verið hafi svo lengi sem elstu menn muni.  Ástæða þess að lóðir séu ekki afmarkaðar á skipulagsuppdrætti sé sú að eigandi landsins, þ.e. íslenska ríkið, hafi ekki enn tekið endanlega afstöðu til afmörkunar lóða þótt fyrir liggi að lóð kæranda sé 651 m².  Hafi sveitarfélagið þrýst mjög á að þessari vinnu yrði lokið vegna skipulagsmála en verið tjáð að ekki væri unnt að ljúka henni fyrr en niðurstaða skipulagsvinnu lægi fyrir.  Málið hafi því verið komið í óþolandi pattstöðu sem ekki hafi verið hægt að láta tefja nauðsynlega skipulagsvinnu í sveitarfélaginu. 

Því sé alfarið hafnað að kærandi geti haft einhverjar væntingar til þess að skipulag sem nái yfir svo stórt svæði, og sé svo mikil miðstöð í heilu sveitarfélagi, taki engum breytingum.  Sérstaklega skuli vegna þessa bent á að hús kæranda, sem sé á umþrættri lóð, sé gamalt skólahús og hafi því ekki verið breytt í íbúðarhús fyrr en umsókn kæranda þar um hafi verið samþykkt í hreppsnefnd í janúar 2007. 
 
—————– 

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu sem ekki verða rakin hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þess. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem við eiga í máli þessu, kvað úrskurðarnefndin upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.  Átti það því undir nefndina að skera úr um ágreining um lögmæti deiliskipulagsákvarðana.  Verður ekki fallist á að orðalag 5. mgr. ákvæðisins hafi átt að skilja svo að úrskurðarvald nefndarinnar væri einskorðað við stjórnvaldsákvarðanir í svo þröngri merkingu sem Bæjarhreppur byggir á.  Er m.a. til þess að líta að í ákvæðinu var kveðið á um upphaf kærufrests þeirra ákvarðana sem sættu opinberri birtingu og verður af lögunum ráðið að það ákvæði hafi fyrst og fremst átt við um deiliskipulagsákvarðanir.  Þá var í ákvæðinu áréttað að ákvarðanir sem ráðherra bæri að lögum að staðfesta sættu ekki kæru til nefndarinnar, en slíkt hefði verið óþarft ef úrskurðarvald hennar hefði verið takmarkað með framangreindum hætti.  Verður ekki heldur ráðið af því áliti umboðsmanns Alþingis sem vísað er til að úrskurðarvald nefndarinnar sé takmarkað með þeim hætti sem haldið er fram.  Ber nefndinni þvert á móti að rannsaka lögmæti kærðar ákvörðunar án þess að sú rannsókn takmarkist við þá þætti eina er varðað geti hagsmuni kæranda. 

Sveitarstjórn bar ábyrgð á og annaðist gerð deiliskipulags samkvæmt 1. mgr. 23. gr. greindra laga og bar eftir föngum að leita eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa og annarra þeirra sem hagsmuna áttu að gæta um mörkun stefnu og markmið við skipulagsgerðina, sbr. 4. mgr. 9. gr. laganna.  Í hinu umþrætta deiliskipulagi er sýndur vegslóði, sem ekki var í eldra skipulagi, milli íbúðarhúss kæranda og svo nefnds Ris-húss.  Telur kærandi að vegur þessi fari inn á leigulóð hans, en ekkert samráð hafi verið haft við hann vegna þessarar nýtingar á lóðinni.  Verður að telja, eins og atvikum er hér háttað, að kærandi eigi hagsmuna að gæta um nýtingu lóðarinnar og að hreppsnefnd hafi borið að leita samráðs við hann við gerð hins umþrætta deiliskipulags, enda kunni skipulagið að fela í sér skerðingu á lóð kæranda, sem ekki verði gerð nema með samningi eða að undangengnu eignarnámi, séu fyrir hendi skilyrði til þess.  Kærandi kom að athugasemdum sínum við auglýsta tillögu, en samkvæmt 1. mgr. 25. gr. tilvitnaðra laga skal sveitarstjórn fjalla um auglýsta tillögu að deiliskipulagi þegar frestur til athugasemda er liðinn.  Skal í þeirri umfjöllun taka afstöðu til athugasemda sem borist hafa og þess hvort gera skuli breytingar á tillögunni.  Verður ekki af málsgögnum ráðið að sveitarstjórn hafi tekið efnislega afstöðu til athugasemda kæranda um legu ætlaðs vegar um lóð hans sem þó gat haft verulega þýðingu fyrir hagsmuni hans.  Var málsmeðferð við gerð hinnar kærðu ákvörðunar að þessu leyti áfátt.

Kærandi byggir málatilbúnað sinn ennfremur á því að ekki séu í öllum tilvikum sýndar afmarkaðar lóðir í deiliskipulagi eins og beri að gera lögum samkvæmt en samkvæmt greinargerð sveitarfélagsins var slíkt ekki gerlegt.  Deiliskipulag er skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reiti innan sveitarfélags sem byggð er á aðalskipulagi og kveður nánar á um útfærslu þess.  Skal í deiliskipulagi m.a. sýna lóðamörk á skipulagsuppdrætti, sbr. gr. 5.1.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Þá skal í skipulagsskilmálum deiliskipulags m.a. kveða á um landnotkun, lóðastærðir, frágang lóða og lóðamarka og kvaðir, s.s. vegna umferðarréttar.  Skortir á að í hinu umdeilda skipulagi sé gerð fullnægjandi grein fyrir þessum þáttum og er það að því leyti haldið verulegum efnisannmörkum. 

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að svo verulegir annmarkar hafi verið á málsmeðferð og efni hinnar kærðu ákvörðunar að leiða eigi til ógildingar hennar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun hreppsnefndar Bæjarhrepps frá 5. nóvember 2008 nýtt deiliskipulag fyrir Borðeyri í Bæjarhreppi. 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________                  ____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

7/2012 Dalsbraut

Með

Árið 2012, föstudaginn 8. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2012, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar frá 6. desember 2011 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Dalsbraut, frá Þingvallastræti að Miðhúsabraut, á Akureyri. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. febrúar 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. fimm íbúa og eigenda fasteigna að Hjarðarlundi 11, Kolgerði 3, Hörpulundi 19 og Grenilundi 11, Akureyri, þá ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar frá 6. desember 2011 að samþykkja deiliskipulag fyrir Dalsbraut, frá Þingvallastræti að Miðhúsabraut.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á fundi skipulagsnefndar Akureyrar 9. febrúar 2011 óskaði formaður nefndarinnar eftir því að vinna við deiliskipulag vegna fyrirhugaðrar gerðar Dalsbrautar yrði hafin.  Var skipulagsstjóra falið að hefja undirbúning þess og var verkefnisnefnd skipuð í því skyni.  Á fundi skipulagsnefndar 1. júní 2011 var lögð fram tillaga að skipulagslýsingu vegna fyrirhugaðs deiliskipulags og á fundi nefndarinnar 29. júní var lagt til við bæjarstjórn að skipulagslýsingin yrði kynnt almenningi og leitað umsagnar Skipulagsstofnunar og annarra umsagnaraðila um skipulagslýsinguna og matsskyldu framkvæmdarinnar.  Bæjarráð samþykkti þá tillögu í umboði bæjarstjórnar hinn 7. júlí s.á. 

Á fundi skipulagsnefndar 24. ágúst 2011 kynntu höfundar skipulagslýsingarinnar tillögu að deiliskipulagi og veghönnun fyrirhugaðrar Dalsbrautar.  Þá var og lögð fram umsögn Skipulagsstofnunar ásamt ábendingum íbúa sem borist höfðu við kynningu skýrslunnar.  Ábendingunum var vísað áfram til vinnuhópsins við skipulagsgerðina til frekari úrvinnslu og lagt til að haldinn yrði íbúafundur um fyrirhugaða skipulagstillögu.  Sá fundur var haldinn 8. september 2011 þar sem m.a. var kynnt ný aðkoma að Lundarskóla.  Hinn 14. s.m. samþykkti meirihluti skipulagsnefndar á fundi sínum að leggja til við bæjarstjórn að tillaga að deiliskipulagi um fyrirhugaða Dalsbraut, dags. 12. s.m., yrði auglýst til kynningar, en þá lá frammi húsakönnun, dags. sama dag.  Samþykkti bæjarstjórn þá tillögu 20. september 2011.

Deiliskipulagstillagan var auglýst frá 28. september til 10. nóvember 2011 og lá þá frammi húsakönnun, ásamt skipulagslýsingu, dags. 30. maí s.á., og skýrslum um hljóðstig við Dalsbraut og Miðhúsabraut frá árinu 2003, athugun á þörf fyrir lagningu Dalsbrautar frá árinu 2010, umsögn um ávinning og kostnað og endurskoðun hljóðvarna við Dalsbraut frá sama ári. 

Að lokinni kynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 23. nóvember 2011 og fjallað um 54 athugasemdir sem borist höfðu.  Hinn 30. s.m. voru tillögur að svörum skipulagsnefndar við fram komnum athugasemdum til umfjöllunar ásamt umsögnum Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar.  Af hálfu Umhverfisstofnunar voru ekki gerðar athugasemdir við tillöguna, en Skipulagsstofnun taldi  að rökstyðja þyrfti betur hvers vegna svokallaður núllkostur, sem fól í sér óbreytt ástand, hefði neikvæð áhrif á samgöngur.  Lögð voru til svör við þeim athugasemdum sem borist höfðu og gerðar tillögur um breytingar á hinni kynntu skipulagstillögu.  Ákveðið var að fella niður tillögu að nýrri aðkomu að Lundarskóla, útfærslu vegtengingar að skólanum frá Dalsbraut var breytt, kvöð var sett um girðingu milli íþróttasvæðis og Dalsbrautar og settir inn skilmálar um hámarkshæð bygginga á þegar byggðum lóðum.  Lagði nefndin til við bæjarstjórn að skipulagstillagan svo breytt yrði samþykkt.  Bæjarstjórn samþykkti hana síðan hinn 6. desember 2011 og öðlaðist hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 16. janúar 2012, að undangenginni athugun Skipulagsstofnunar lögum samkvæmt. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Á því er byggt að skilyrði Aðalskipulags Akureyrar 2005-2018 fyrir afgreiðslu hins kærða deiliskipulags séu ekki uppfyllt.  Í aðalskipulaginu séu sett fram tiltekin skilyrði sem skipulagsyfirvöld þurfi að uppfylla áður en ráðist verði í umdeilda tengibraut og ákvörðun um nýtingu svæðisins tekin í deiliskipulagi.  Þau skilyrði séu að áhrif af lagningu Miðhúsabrautar verði könnuð, aðrir möguleikar hafi verið reyndir til þrautar og að samráð hafi verið haft við íbúa og hverfisnefndir um hönnun. 

Raunveruleg samfélagsþörf og nauðsyn fyrir umræddri tengibraut séu ekki til staðar.  Fram komi í nýlegri skýrslu að Dalsbraut sunnan Þingvallastrætis sé ekki nauðsynleg vegna umferðarþunga í fyrirséðri framtíð.  Núverandi gatnakerfi anni umferð nema á mótum Þingvallastrætis og Miðhúsabrautar, en við þeim vanda megi bregðast, t.d. með gerð hringtorgs.  Af því myndi leiða að umferð á götum eins og Mýrarvegi minnkaði.  Þá komi einnig fram í umræddri skýrslu að tilkoma Dalsbrautar sunnan Þingvallastrætis myndi ekki nema að litlu leyti draga úr umferð á Þórunnarstræti.  Við mat á því hvort Dalsbraut kunni að létta á eða draga úr umferð, t.d. á Þórunnarstræti og Hlíðarbraut, þurfi að líta til þess að stór hluti umferðar um Þórunnarstræti eigi sér upphaf eða endi við þá götu og því sé ekki víst að tilkoma Dalsbrautar myndi draga þar úr umferð.  Þá liggi fyrir að Naustahverfi, sem umræddri tengibraut sé ætlað að þjóna, sé ekki eins fjölmennt og stefnt hafi verið að og sé fyrirséð að uppbygging hverfisins verði hægari en gert hafi verið ráð fyrir.  Ljóst sé að tilkoma þessarar  fyrirhuguðu tengibrautar muni að litlu eða engu leyti létta á umferð um Þórunnarstræti þar sem bein leið í miðbæinn úr Naustahverfi sé um þá götu en ekki Dalsbraut. 

Framangreindar niðurstöður séu í samræmi við eldri skýrslu sem einnig liggi fyrir í málinu.  Þar komi fram að ekki sé þörf á lagningu Dalsbrautar heldur ætti fremur að draga úr umferðarhraða á Þórunnarstræti og leggja Mjólkursamlagsveg þegar umferðin um Þórunnarstræti og um megin gatnamót þeirrar götu yrði of mikil.  Að öllu þessu virtu verði ekki talin raunveruleg samfélagsleg þörf eða nauðsyn fyrir tengibrautinni og því ekki uppfyllt skilyrði aðalskipulags fyrir slíkri framkvæmd. 

Bent sé á að Skipulagsstofnun hafi gert athugasemdir við þá afstöðu bæjaryfirvalda að óbreytt gatnakerfi hefði neikvæð umhverfisáhrif með tilliti til samgangna fremur en óveruleg áhrif.  Með því að fallast á þessa athugasemd Skipulagsstofnunar eftir auglýsingu tillögunnar hafi bæjaryfirvöld í raun samþykkt að ekki væru forsendur fyrir umræddri framkvæmd miðað við skilyrði aðalskipulags. 

Þá liggi fyrir að ekki hafi verið haft samráð við íbúa eða hverfisnefndir um hönnun umræddrar tengibrautar, líkt og áskilið sé í aðalskipulagi, en í þeim áskilnaði felist aukin samráðsskylda fyrir sveitarfélagið frá því sem mælt sé fyrir um í 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 

Á fundi bæjaryfirvalda með íbúum, sem haldinn hafi verið 8. september 2011, hafi verið kynntur annar skipulagsuppdráttur en sá sem bæjarstjórn hafi samþykkt að auglýsa á fundi sínum 20. s.m.  Meirihluti skipulagsnefndar hafi þá lagt til við bæjarstjórn að tillagan yrði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga.  Sú tillaga hafi ekki verið í samræmi við þá tillögu sem kynnt hafi verið íbúum skv. 40. gr. sömu laga.  Annmarkar séu því á málsmeðferð deiliskipulagstillögunnar og afgreiðsla hennar í andstöðu við fyrirmæli þeirrar lagagreinar.  

Talsverðar breytingar hafi verið gerðar á áður auglýstum skipulagsgögnum við afgreiðslu skipulagstillögunnar.  Sú ákvörðun bæjarstjórnar að auglýsa ekki tillöguna að nýju hafi því verið í andstöðu við 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga, en í ákvæðinu felist skylda sveitarstjórnar til að auglýsa deiliskipulagstillögu að nýju sé henni breytt í grundvallaratriðum.  Ekki sé skýrt hvað felist í þessu hugtaki en hafa beri í huga að skipulagslög byggi á þeirri meginreglu að gefa skuli hagsmunaaðilum kost á að gera athugasemdir við efni skipulagstillagna áður en þær séu endanlega afgreiddar.  Verði að telja heimild sveitarstjórnar til að auglýsa ekki breytta tillögu undantekningarreglu sem skýra eigi þröngt.  Skyldan til að auglýsa breytta tillögu sé enn ríkari en ella þegar sérstök eða ströng skilyrði séu sett fyrir málsmeðferð í aðalskipulagi og þegar mál varði hagsmuni íbúa í nágrenni hins umrædda deiliskipulags og um sé að ræða framkvæmdir í þegar byggðu, rótgrónu íbúðarhverfi.  Með deiliskipulaginu sé verið að breyta nærliggjandi byggð mikið enda sé verið að kljúfa skóla- og íbúðarhverfi með tengibraut.  Slíkar brautir eigi ekki erindi inn á slíkt svæði og framkvæmdin sé í mótsögn við t.d. fyrirkomulag tengibrauta í nýrri hverfum á Akureyri.

Hafa verði í huga þau réttaröryggissjónarmið sem bundin séu við opinbera kynningu deiliskipulags.  Borgarar þurfi að geta gert sér grein fyrir umfangi tillögunnar með skýrum hætti.  Umboðsmaður Alþingis hafi ítrekað lagt áherslu á þessi sjónarmið og hið sama hafi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála gert í sínum úrskurðum.  Farist slík kynning fyrir að meira eða minna leyti, verði að telja slíkt verulegan ágalla á málsmeðferð tillögunnar, sem leitt geti til ógildingar hennar.  Hin umdeilda tillaga sem hér um ræði sé íþyngjandi í garð kærenda og annarra eigenda fasteigna og íbúa í næsta nágrenni, sem geri kröfu til vandaðrar málsmeðferðar í hvívetna. 

Ekki hafi verið efnisleg skilyrði fyrir hinni kærðu ákvörðun og jafnframt brjóti hún gegn lögmætum væntingum íbúa, sem hafi mátt treysta því að fyrirmælum og skilyrðum aðalskipulags yrði mætt, færi svo að ráðist yrði í gerð tengibrautar á þessu svæði.  Hin umdeilda ákvörðun feli í sér skerðingu á verðmæti fasteigna kærenda og einnig inngrip í fjölskyldulíf þeirra. 

Af öllu framangreindu sé ljóst að fyrirliggjandi deiliskipulag uppfylli hvorki skilyrði aðalskipulags né taki tillit til réttmætra hagsmuna kærenda og ekki sé þar heldur gætt meðalhófs.  Ákvörðun bæjarstjórnar feli í sér verulegt inngrip í réttindi kærenda og brotið sé gegn grenndar- og nábýlisrétti þeirra og lögmætum væntingum.  Ákvörðunin fari gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 í mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og beri með hliðsjón af greindum ágöllum að ógilda hana. 

Málsrök Akureyrarbæjar:  Af hálfu bæjaryfirvalda er farið fram á að ógildingarkröfu kærenda verði hafnað. 

Gert hafi verið ráð fyrir tengibrautinni Dalsbraut í aðalskipulagi Akureyrar allt frá árinu 1975, þó að í Aðalskipulagi 1998-2018 hafi skipulagi svæðis Dalsbrautar verið frestað.  Hafi íbúum því mátt vera ljóst að ráðist yrði í vegtenginguna enda hafi uppbygging á íbúðarsvæðunum í nágrenni vegstæðisins borið þess merki.  Árið 2004 hafi fyrsti hluti Dalsbrautar, frá Borgarbraut að Þingvallastræti, verið lagður og hafi núverandi meirihluti bæjarstjórnar lofað fyrir kosningar að vegtengingin yrði kláruð. 

Í Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 sé gert ráð fyrir lagningu Dalsbrautar og byggi hið kærða deiliskipulag á því aðalskipulagi.  Áætlun um hana sé ekki ný af nálinni og margar skýrslur hafi verið unnar á meðgöngutíma hennar.  Sú skýrsla sem kærendur vitni til máli sínu til stuðnings sé frá árinu 2000 og sé þar nánast ekkert tillit tekið til uppbyggingar í Naustahverfi og þarfa íbúa þess hverfis fyrir góðar tengingar á milli hverfa enda hafi hverfið þá ekki verið byggt.  Þá hafi ýmislegt breyst síðan þau ákvæði aðalskipulags hafi verið sett sem kærendur vísi til.  Megi í því sambandi benda á skýrslu um athugun á þörf fyrir lagningu Dalsbrautar, dags. 29. mars 2010, þar sem segi að Dalsbraut sunnan Þingvallastrætis sé ekki nauðsynleg vegna umferðarþunga í fyrirséðri framtíð, en lagning hennar muni engu að síður létta á eða draga úr vexti umferðar á öðrum leiðum eins og á Þingvallastræti, Þórunnarstræti og Hlíðarbraut.  Jafnframt sé í skýrslunni talið að aðrar ástæður en umferðarþungi kunni að liggja því að baki að leggja Dalsbraut sunnan Þingvallastrætis.  Augljósasti kostur Dalsbrautar sunnan Þingvallastrætis sé að leiðir muni styttast, samgöngur milli hverfa verða greiðari og umferðarkerfi Akureyrar heilsteyptara, sem stuðli að jafnari dreifingu umferðar.  Einnig megi nefna skýrsluna  „Dalsbraut/Miðhúsabraut – hvaða leið skuli valin m.t.t. umferðartækni og hljóðvistar, maí 2004“, en þar sé lagt til að fyrst verði farið í lagningu Dalsbrautar og síðar, ef uppbygging nýrra hverfa í norðvesturhluta bæjarins hefjist, verði farið að huga að lagningu Miðhúsabrautar.  Þó hafi sú ákvörðun verið tekin á árinu 2006 að leggja Miðhúsabraut fyrst. 

Hvað varði samfélagslega þörf fyrir Dalsbraut sé tekið fram að tengibrautum sé ætlað að tengja saman hverfi og auka þægindi íbúa í fleiri hverfum en þeim sem tengibrautir liggi um.  Þannig verði íbúar einstakra hverfa að sæta því að um hverfi þeirra liggi tengibrautir sem þjóni því hverfi aðeins að hluta.  Sérstaklega eigi það við þegar ný hverfi séu að byggjast upp sem kalli á betri tengingar.  Uppbygging Naustahverfis muni taka lengri tíma en upphaflegar áætlanir hafi gert ráð fyrir, en I. og II. hluti Naustahverfis séu nánast fullbyggðir og þar séu nú 1.628 íbúar með lögheimili.  Hverfisnefnd Naustahverfis hafi ítrekað sent áskorun til bæjaryfirvalda um að Dalsbraut yrði lögð sem fyrst.  Uppbygging hverfisins muni halda áfram á næstu árum með væntanlegum auknum þrýstingi um lagningu Dalsbrautar ef ekki hefði verið brugðist við.  Þess megi einnig geta að þegar tillaga að Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 var auglýst fyrst hafi ekki verið gert ráð fyrir Dalsbraut sem tengibraut en vegna mótmæla frá um 1.270 manns við þeirri tillögu hafi ný tillaga verið auglýst, þar sem gert hafi verið ráð fyrir Dalsbrautinni.  Að lokum sé vert að geta þess að legið hafi fyrir álit um að áætlaður fjárhagslegur ávinningur við lagningu Dalsbrautar yrði um 15-43 milljónir króna árlega. 

Forhönnun götunnar, þ.e. lega hennar og umfang í landi, gönguleiðir, umferðarstýringar og umferðarhraði, hvar hljóðvarnir yrðu og útfærsla þeirra, hafi verið kynnt á opnum íbúafundi í Lundarskóla 8. september 2011, þar sem tillaga að deiliskipulaginu hafi einnig verið kynnt.  Lokahönnun götunnar hafi þá ekki legið fyrir þar sem deiliskipulagið hafi enn verið í vinnslu.  Fáar athugasemdir hafi þar komið fram og hafi þær ekki snúist efnislega um hönnun götunnar.  Hafi hún því í framhaldi verið fullhönnuð í samræmi við kynnta hugmynd.  Hugmynd um að setja götuna í stokk að hluta við Lundarskóla hafi verið slegin út af borðinu vegna kostnaðar og með hliðsjón af því að með umferðarljósum og hraðatakmörkun við skólalóðina yrði umferðaröryggi fullnægjandi.  Fyrirliggjandi skipulagstillaga, sem kynnt hafi verið á fyrrgreindum íbúafundi, hafi falið í sér hugmyndir um breytingar á aðkomu að Lundarskóla sem sýnd hafi verið á viðkomandi uppdrætti til skýringar.  Við endanlega vinnslu deiliskipulagstillögunnar, sem auglýst hafi verið til kynningar, hafi ekki verið gert ráð fyrir þeirri vegtengingu, en hún hefði náð inn á annað deiliskipulagssvæði.  Þess í stað hafi verið sýndur stútur, innan marka skipulagstillögunnar, sem möguleiki fyrir nýja aðkomu.  Síðar hafi verið fallið frá þeirri tengingu. 

Skipulagslög geri ráð fyrir að tillögur geti tekið breytingum frá kynningarfundi þar til að ákvörðun sé tekin um að auglýsa hana, enda vandséð hvaða markmið væri með slíkri kynningu ef ekki væri unnt að taka til skoðunar athugasemdir sem fram kæmu.  Hafi íbúar athugasemdir við breytingar sem kunni að hafa verið gerðar á tillögu, á tímabilinu frá kynningarfundi og þar til hún sé auglýst, geti þeir alltaf sent inn athugasemdir sínar sem skipulagsyfirvöld þurfi að taka afstöðu til og meta hvort gera skuli breytingar á tillögunni eftir auglýsingu, sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga. 

Að lokinni kynningu skipulagstillögunnar hafi verið ákveðið, vegna fjölda athugasemda, að falla frá tillögu að nýrri aðkomu að Lundarskóla og gera aðrar tilteknar breytingar til að koma til móts við þær athugasemdir.  Með þeim breytingum, sem telja verði minni háttar, hafi verið dregið úr vægi og áhrifum skipulagstillögunnar á umhverfi grunnskólans og hafi því ekki verið þörf á að auglýsa tillöguna að nýju skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga.  Akureyrarkaupstaður hafi síðan auglýst samþykkt deiliskipulagsins, þar sem umræddar breytingar séu taldar upp, eins og tilskilið sé í 41. gr. laganna. 

Dalsbrautarsvæðið hafi verið skilgreint fyrir tengibraut í aðalskipulagi frá árinu 1975, þó framkvæmd hennar hafi verið frestað í nokkur skipti eins og heimilt hafi verið samkvæmt þágildandi skipulagslögum.  Íbúum í nágrenninu hafi því mátt vera ljóst frá þeim tíma að gatan kæmi.  Öll uppbygging á íbúðarsvæðunum í nágrenni vegstæðisins beri þess einnig merki að gert hafi verið ráð fyrir lagningu hennar.  Þegar á árinu 2004 hafi fyrsti hluti Dalsbrautar, frá Borgarbraut að Þingvallastræti, verið lagður.  Hið kærða deiliskipulag byggi á gildandi aðalskipulagi og skipulagsstefnu bæjaryfirvalda og hafi þverpólitísk samstaða verið fyrir lagningu Dalsbrautar. 

Þrír af kærendum búi við götur sem séu næst hinu fyrirhugaða vegstæði Dalsbrautar, við Hjarðarlund, Hörpulund og Grenilund.  Tveir af kærendum hafi hins vegar enga lögmæta hagsmuni, með vísan til grenndarsjónarmiða og væntinga, en þeir búi við Kolgerði í Gerðahverfi, sem sé fjarri vegstæði Dalsbrautar.  Því sé eðlilegt að vísa kærumáli þessu frá hvað þá kærendur varði, enda eigi þeir engra hagmuna að gæta með tilliti til grenndarsjónarmiða eða mögulegrar skerðingar á verðmæti fasteigna þeirra. 

Hvað varði mögulega skerðingu á verðmæti fasteigna þeirra þriggja kærenda sem búi næst umræddu vegstæði verði að hafa í huga að þeim sé tryggður réttur til skaðabóta skv. 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, ef um slíkt sé að ræða.  Möguleg skerðing á verðmæti fasteigna geti því ekki leitt til þess að ógilda eigi umdeilt deiliskipulag. 

Með deiliskipulagi Dalsbrautar, sunnan Þingvallastrætis að Miðhúsabraut, hafi verið unnið að lögmætum skipulagsmarkmiðum, sem séu í samræmi við gildandi aðalskipulag.  Skipulagsferillinn hafi verið í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010.  Skipulagshugmyndir fyrir svæðið hafi verið kynntar á íbúafundi og skipulagstillagan hafi verið auglýst til kynningar lögum samkvæmt.  Hin kærða ákvörðun sé því hvorki haldin þeim form né efnisannmörkum sem raskað geti gildi hennar. 

—-

Málsaðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Í máli þessu er tekist á um gildi ákvæða hins kærða deiliskipulags um framlengingu Dalsbrautar á Akureyri til suðurs, frá vegtengingu við Lundarskóla að Miðhúsabraut.  Með þeim framkvæmdum myndi Dalsbraut tengja Þingvallastræti við Miðhúsabraut. 

Við undirbúning deiliskipulagsgerðarinnar var tekin saman lýsing, þar sem fram komu áform bæjarstjórnar, forsendur og stefna að baki skipulagsgerðinni ásamt áformum um fyrirhugaða kynningu og samráð við skipulagsgerðina.  Kynningarfundir voru haldnir með einstökum hagsmunaaðilum og almenningi og leitað var umsagnar Skipulagsstofnunar um skipulagslýsinguna áður en bæjarstjórn tók ákvörðun um að auglýsa deiliskipulagstillögu til kynningar.  Þótt vikið sé frá kynntum fyrirætlunum í skipulagslýsingu eða skipulagsdrögum breytt áður en sveitarstjórn samþykkir að auglýsa skipulagstillögu til kynningar, er ekki gerð krafa í lögum um að endurtaka þurfi undirbúningsferlið, líkt og kveðið er á um í 5. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þegar auglýstri skipulagstillögu er breytt í grundvallaratriðum.  Var undirbúningur tillögunnar því í samræmi við ákvæði 40. gr. skipulagslaga. 

Skipulagstillagan var auglýst til kynningar með lögboðnum athugasemdafresti, hún tekin til umfjöllunar í bæjarstjórn að þeim fresti loknum, að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar, og afstaða tekin til fram kominna athugasemda skv. 1. og 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga.  Niðurstaða bæjarstjórnar var auglýst, svo sem áskilið er í 4. mgr. sömu lagagreinar.  Með tilliti til fram kominna athugasemda ákvað bæjarstjórn að gera breytingar á hinni kynntu skipulagstillögu þar sem fallið var frá nýrri aðkomu að Lundarskóla og aðrar breytingar gerðar í tengslum við þá ákvörðun.  Lega Dalsbrautar var hins vegar í samræmi við kynnta tillögu og þykir áðurgreind breyting á aðkomu að nefndri skólalóð ekki breyta tillögunni í grundvallaratriðum þannig að auglýsa hefði þurft tillöguna að nýju skv. 5. mgr. 41. gr. skipulagslaga.  Ekki liggur annað fyrir en að skipulagstillagan hafi fengið lögboðna meðferð skv. 42. gr. laganna eftir að bæjarstjórn hafði samþykkt hana. 

Hin kærða deiliskipulagsákvörðun fékk samkvæmt framangreindu lögformlega rétta málsmeðferð eftir ákvæðum skipulagslaga. 

Gert hefur verið ráð fyrir umdeildri legu Dalsbrautar í aðalskipulagi Akureyrar um árabil og er enn gert ráð fyrir henni í núgildandi Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 Hefur hluti brautarinnar þegar verið lagður.  Ákvæði deiliskipulags um lagningu brautarinnar fer því ekki gegn réttmætum væntingu kærenda um þróun samgöngumannvirkja á skipulagssvæðinu. 

Í gr. 7.3.3 skipulagsgreinargerðar gildandi Aðalskipulags Akureyrar 2005-2018 kemur fram að í tillögu að því skipulagi hafi verið lagt til að Dalsbraut sunnan Þingvallastrætis yrði felld út, en vegna innsendra athugasemda hafi verið fallið frá því.  Hins vegar hafi verið ákveðið að framkvæmdir við götuna yrðu ekki hafnar fyrr en áhrif af lagningu Miðhúsabrautar hafi verið könnuð og aðrir kostir reyndir til þrautar og að samráð yrði haft við íbúa og hverfisnefndir um hönnun götunnar ef ráðist yrði í framkvæmdir.  Hafa kærendur skírskotað til þess að við hina kærðu ákvörðun hafi ekki verið farið að þessum fyrirmælum í aðalskipulagi. 

Skipulagsvald innan marka sveitarfélags er í höndum viðkomandi sveitarstjórnar og í skipulagsáætlunum er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, þar á meðal varðandi samgöngukerfi, sbr. 1. mgr. 28. gr. skipulagslaga.  Bera sveitarstjórnir þannig ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags.  Við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar lágu fyrir skýrslur um kosti og galla Dalsbrautar sem tengibrautar og um umhverfisáhrif hennar, ásamt mögulegum öðrum kostum.  Með ákvörðuninni tók sveitarstjórn afstöðu til þess hvaða kostur skyldi valinn í samgöngumálum viðkomandi svæðis, að undangenginni umfjöllun og samráði samkvæmt núgildandi skipulagslögum, sem hafa að geyma mun formfastari og ítarlegri reglur um samráð við skipulagsgerð en í gildi voru við afgreiðslu gildandi aðalskipulags Akureyrar.  Að því virtu verður ekki fallist á að gengið hafi verið gegn fyrirmælum aðalskipulags að þessu leyti við deiliskipulagsgerðina. 

Á uppdrætti gildandi aðalskipulagi er Dalsbraut auðkennd sem tengibraut.  Ekki er þar gert ráð fyrir tengingum inn á brautina, milli Skógarlundar og Þingvallastrætis.  Hins vegar eru á þeim kafla markaðar þrjár tengingar við brautina á uppdrætti hins kærða deiliskipulags, og eru þær að Lundarskóla og íþróttasvæði KA.  Er því misræmi milli aðalskipulags og hins kærða deiliskipulags að þessu leyti. 

Í gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 er kveðið á um að tengingar við stofn- og tengibrautir skuli sýndar á uppdrætti aðalskipulags og standa umferðarskipulagsleg rök að baki því ákvæði.  Í 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga er tekið fram að gildandi skipulagsáætlanir skuli vera í innbyrðis samræmi og er aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag.  Af þessum sökum verður ekki hjá því komist að hnekkja hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun vegna þess misræmis sem er milli aðal- og deiliskipulags hvað varðar framangreindar tengingar við Dalsbraut.  Svæði það sem hið kærða deiliskipulag tekur til skiptist með skýrum hætti um Skógarlund, í suður- og norðurhluta, og eru nefndir ágallar bundnir við norðurhluta svæðisins.  Þykir með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga rétt að ógilda hina kærðu ákvörðun aðeins hvað varðar svæðið norðan Skógarlundar en deiliskipulag suðurhluta svæðisins, milli Miðhúsabrautar og Skógarlundar, skal standa óhaggað. 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar frá 6. desember 2011, um að samþykkja deiliskipulag fyrir Dalsbraut frá Þingvallastræti að Miðhúsabraut, er felld úr gildi að því er tekur til svæðisins milli Skógarlundar og Þingvallastrætis.  Að öðru leyti skal hin kærða ákvörðun standa óröskuð. 

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson

51/2009 Útkot III

Með

Árið 2012, föstudaginn 24. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 51/2009, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 11. júní 2009 um að synja umsókn um að spildur D og E í landi Útkots verði sameinaðar undir eitt landnúmer með nafninu Útkot III. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. júlí 2009, er barst nefndinni sama dag, kærir J hrl., f.h. H, Stararima 29, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 11. júní 2009 að hafna umsókn kæranda um að tvær spildur merktar D og E í landi Útkots á Kjalarnesi verði sameinaðar undir eitt landnúmer með nafninu Útkot III. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Forsaga máls þessa er sú að með samþykki borgarráðs hinn 26. mars 2002 var jörðinni Útkoti skipt upp í sex spildur samkvæmt beiðni eigenda.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 6. janúar 2009 var síðan tekin fyrir umsókn þar sem óskað var eftir því að tvær af spildunum, merktar D og E í landi Útkots, yrðu sameinaðar undir eitt landnúmer svo hægt yrði að þinglýsa nafninu Útkoti III á þær.  Erindinu var synjað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. júní 2009 með vísan til umsagnar lögfræði- og stjórnsýslu þar sem fram kemur að samkvæmt uppdrætti liggi mörk umræddra spildna ekki saman, en slíkt sé forsenda þess að af samruna þeirra geti orðið.  Auk þess liggi Hvalfjarðarvegur á milli spildnanna og myndi þá samruninn ná yfir veginn sem sé í eigu ríkisins.  Borgarráð staðfesti afgreiðslu byggingarfulltrúa á fundi hinn 11. júní 2009. 

Málsrök kæranda:  Kærandi byggir á því að ekki hafi verið heimilt að lögum að synja beiðni hans.  Fyrir liggi að landbúnaðarráðherra hafi árið 2004 samþykkt stofnun lögbýlis til skógræktar og þjónustu á spildum kæranda samkvæmt heimild í 16. gr. jarðalaga nr. 81/2004.  Hafi það verið gert á grundvelli meðmæla frá Reykjavíkurborg sem hafi ekki gert athugasemd við að skógræktar- og þjónustubýli yrði stofnað á landi kæranda, sem væri á skipulögðu landbúnaðarsvæði.  Auk þess hafi örnefnanefnd veitt heimild til að nota nafnið Útkot III.  Beiðni kæranda hafi lotið að því að lögbýlið (jörðin) Útkot III, sem stofnað hafi verið með tveimur landspildum, yrði skráð í fasteignaskrá sem ein jörð (lögbýli) en ekki tvær spildur. 

Bent sé á að heimild landbúnaðarráðherra samkvæmt 16. gr. jarðalaga hafi í raun falið í sér sameiningu á tveimur spildum í eina eign, sem beri heitið Útkot III, samkvæmt lögum um bæjarnöfn nr. 35/1953.  Því hafi skort lagaheimild til afskipta borgarinnar af því hvort spildurnar yrðu sameinaðar eða ekki enda hafi það þá þegar verið gert með ákvörðun ráðherra.  Vísað sé til þess að samkvæmt 15. gr. jarðalaga sé heimilt að sameina jarðarhluta með leyfi landbúnaðarráðherra.  Eina lögmæta takmörkunin á því sé ef spildurnar séu ekki í sama sveitarfélagi.  Með gagnályktun frá þessu ákvæði sé óheimilt að synja um sameiningu lóða innan sama sveitarfélags sé skilyrði ákvæðisins uppfyllt að öðru leyti. 

Því sé ranglega haldið fram í umsögn lögfræði- og stjórnsýslu að spildurnar liggi ekki saman.  Það sé misskilningur eða vísvitandi rangtúlkun.  Kærandi hafi verið eigandi tveggja spildna, merktar D og E, ásamt landinu undir Hvalfjarðarvegi sem liggi um land hans.  Við mælingu á stærð spildnanna sé tekið mið af vegstæðinu sem Vegagerðin hafi umráð yfir og svonefndu veghelgunarsvæði, sem muni vera 15 metrar frá miðlínu vegar til beggja hliðar.  Viðurkenna megi að uppdráttur sá sem sýni spildur kæranda og stærðarútreikning þeirra áður en þær hafi verið sameinaðar í eitt lögbýli geti verið villandi ef málið sé ekki rannsakað með viðhlítandi hætti.  Það réttlæti þó ekki órökstudda staðhæfingu í umsögninni og þá ákvörðun sem á henni byggi. 

Enn fremur sé á því byggt að með hinni kærðu ákvörðun hafi verið brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en samkvæmt henni beri stjórnvaldi að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því.  Fjarri sé að byggingarfulltrúi hafi kynnt sér til hlítar þau gögn sem lögð hafi verið fyrir embættið við afgreiðslu á beiðninni.  Ekki hafi verið aflað upplýsinga frá kæranda við meðferð málsins.  Þá hafi honum heldur ekki verið veitt tækifæri til að tjá sig um þá fyrirætlun borgarinnar að synja beiðninni.  Það sé án nokkurs vafa brot á andmælarétti 13. gr. stjórnsýslulaga. 

Árétta verði að erindi kæranda hafi einvörðungu lotið að því að fá eign sína rétt skráða í fasteignaskrá, sbr. lög nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, í samræmi við ákvörðun landbúnaðarráðherra um lögbýli á spildunum.  Samkvæmt 4. gr. nefndra laga skuli skráning fasteignar fela í sér nýjustu upplýsingar sem á hverjum tíma séu tiltækar og fasteignina varði auk nauðsynlegra greinitalna hverrar fasteignar.  Í 19. gr. laganna segi að sveitarstjórn og þeir sem sveitarstjórn feli upplýsingagjöf, í þessu tilviki byggingarfulltrúi, beri ábyrgð á að fasteignaskrá berist réttar upplýsingar um lönd og lóðir og breytingar á þeim og eyðingu þeirra.  Byggingarfulltrúinn í Reykjavík hafi ekki farið að lögum varðandi skráningu á lögbýlinu Útkoti III.  Beri því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir hann að hlutast til um að eignin verði þegar í stað rétt skráð í fasteignaskrá í samræmi við fyrirliggjandi skjöl málsins. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.  Synjunin byggi á því að kærandi hafi verið að sækja um sameiningu tveggja spildna í eina lóð með einu landnúmeri.  Ljóst sé að skráning þessara spildna undir eitt landnúmer jafngildi sameiningu þeirra þar sem þær verði þá ein lóð.  Hafi synjunin verið á því byggð að ekki hafi verið heimilt að sameina spildur sem ekki lægju saman.  Auk þess lægi Hvalfjarðarvegur á milli spildnanna og myndi þá samruninn ná yfir veginn sem væri í eigu ríkisins.  Ekki væri heimilt að sameina þessar tvær spildur yfir eignarhluta annars aðila.  Í kæru komi nú fram sú afstaða að kærandi hafi alls ekki verið að sækja um sameiningu spildnanna, heldur hafi beiðni hans einungis lotið að því að skrá spildurnar rétt, þ.e. í einu lagi sem lögbýlið Útkot III.  Það sé þó mat byggingaryfirvalda að með því að sækja um skráningu spildna í eitt landnúmer sé í raun verið að sameina þær. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 11. júní 2009 um að hafna beiðni kæranda um að tilgreindar spildur hans verði skráðar með einu landnúmeri með nafninu Útkot III. 

Ákvörðun borgarráðs var tekin á grundvelli 30. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem giltu á þeim tíma er hér um ræðir, þar sem kveðið var á um að óheimilt væri að skipta jörðum, löndum eða lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórnar kæmi til. 

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 er svæðið þar sem spildurnar eru skilgreint sem landbúnaðarsvæði, en þar er ekki í gildi deiliskipulag.  Standa ákvæði í aðalskipulagi ekki í vegi fyrir því að umræddar spildur verði sameinaðar.  Hins vegar verður að telja að sveitarfélagið eigi að öðru jöfnu frjálst mat um það hvort lóðir verði sameinaðar eða ekki, enda sé ákvörðun um það studd haldbærum rökum og reist á málefnalegum sjónarmiðum. 

Fyrir liggur að borgarráð reisti synjun sína á rökstuðningi þeim sem fram kemur í umsögn skipulags- og byggingarsviðs, dags. 5. júní 2009, þar sem segir að mörk umræddra spildna liggi ekki saman en það sé forsenda þess að af samruna þeirra geti orðið.  Auk þess liggi Hvalfjarðarvegur milli spildnanna og myndi samruninn þá ná yfir veginn, sem sé í eigu ríkisins.  Á þessi rök verður ekki fallist og verður m.a. til þess að líta að umræddur vegur mun hafa legið um land Útkots og þannig skipt landinu í reynd áður en því var formlega skipt upp í spildur með samþykkt borgarráðs á árinu 2002.  Þá er alkunna að vegir hafa víða verið lagðir um eignarlönd bújarða og lögbýla án þess að af því leiddi að skipta þyrfti landinu upp í aðskildar spildur með aðgreindum fasteignanúmerum.  Var hin kærða ákvörðun að þessu leyti ekki studd haldbærum rökum og verður hún því felld úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi synjun borgarráðs Reykjavíkur frá 11. júní 2009 á umsókn kæranda um að spildur D og E í landi Útkots á Kjalarnesi verði sameinaðar undir eitt landnúmer með nafninu Útkot III. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________    ___________________________
     Ásgeir Magnússon                           Þorsteinn Þorsteinsson

47/2012 Úlfarsfell

Með

Árið 2012, þriðjudaginn 5. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 47/2012, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 30. nóvember 2011 um að veita framkvæmdaleyfi til lagningar rafmagnsheimtaugar og ljósleiðara í jörðu upp suðausturhlíð Úlfarsfells. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. maí 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir I, Urðarbrunni 14, Reykjavík, samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 30. nóvember 2011 um að veita framkvæmdaleyfi til lagningar rafmagnsheimtaugar og ljósleiðara í jörðu upp suðausturhlíð Úlfarsfells, að tækjaskýli á toppi fellsins.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða samþykkt verði felld úr gildi.  Jafnframt er gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að taka megi það til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. 

Málsatvik:  Forsaga þessa máls er sú að á afgreiðslufundi skipulagsstjóra hinn 27. maí 2011 var lagt fram erindi Fjarskipta ehf. varðandi framkvæmdaleyfi vegna uppsetningar á fjarskiptabúnaði á Úlfarsfelli og var málinu vísað til skipulagsráðs.  Á fundi ráðsins hinn 29. júní s.á. var umsókninni vísað til umsagnar hjá Mosfellsbæ, Skipulagsstofnun, Geislavörnum ríkisins og Póst- og fjarskiptastofnun.  Í kjölfarið var sótt um umrætt framkvæmdaleyfi.  Í greinargerð með umsókninni kom fram að um væri að ræða ríflega 30m hátt stálmastur og 15m² tækjaskýli.  Yrði rafmagnsheimtaug lögð í jörðu að tækjaskýlinu og ljósleiðari plægður niður með henni.  Skipulagsstofnun tilkynnti með bréfi, dags. 18. ágúst 2011, að stofnunin teldi að vinna þyrfti deiliskipulag fyrir framkvæmdasvæðið og gerði að auki aðrar athugasemdir.  Framangreind umsókn um framkvæmdaleyfi kom ekki til afgreiðslu í skipulagsráði. 

Ný umsókn, dags. 14. nóvember 2011, þar sem sótt var um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu rafmagnsheimtaugar og ljósleiðara í jörðu upp á koll Úlfarsfells var lögð fyrir og samþykkt á fundi skipulagsráðs hinn 30. s.m. 

Á grundvelli þessarar samþykktar gaf skipulagsstjóri út framkvæmdaleyfi fyrir lögnunum hinn 1. desember 2011.  Samþykktin var bundin því skilyrði að verkið yrði unnið í samráði við framkvæmda- og eignasvið Reykjavíkurborgar og að frágangur að verki loknu yrði með fullnægjandi hætti að mati þess.  Leyfið var jafnframt háð því skilyrði að leyfishafi færði eða fjarlægði lagnirnar á eigin kostnað kæmi til þess að slíkt yrði nauðsynlegt vegna framtíðarskipulags svæðisins eða ef hætt yrði notkun þeirra. 

Málsrök kæranda:  Kærandi krefst ógildingar á umræddri samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 30. nóvember 2011.  Vísar hann til þess að kærð framkvæmd snerti hagsmuni hans sem íbúa í Reykjavík, húseiganda og íbúa í suðurhlíðum Úlfarsfells, útivistarsvæðis Reykvíkinga.  Kærandi búi í nálægð við Úlfarsfell og noti svæðið til útiveru og íþróttaiðkunar. 

Byggt sé á því að umrædd framkvæmd sé ekki í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024 og að vinna hefði þurft deiliskipulag vegna umræddra strengja.  Þá hafi rannsóknarreglu ekki verið gætt sem skyldi.  Hvorki hafi verið óskað eftir meðmælum Skipulagsstofnunar með framkvæmdinni né hafi þau verið veitt og því uppfylli leyfið ekki skilyrði laga.  Ljósleiðari muni liggja um opið svæði til sérstakra nota við rætur Úlfarsfells og um óbyggt svæði í efri hluta eystri hnjúks þess.  Í bréfi Skipulagsstofnunar til Reykjavíkurborgar, dags. 18. ágúst 2011, séu tilvitnanir í skilmála greinargerðar aðalskipulags Reykjavíkur fyrir slík svæði.  Á fyrra svæðinu sé gert ráð fyrir mannvirkjagerð tengdri útivistarnotkun en á því síðara sé ekki gert ráð fyrir mannvirkjagerð heldur sé svæðið ætlað til útivistar.  Af þeim sökum rúmist umræddir strengir ekki innan skipulagsins.  Þá takmarki strengirnir hönnun og staðsetningu síðari tíma mannvirkja er tengist útivist, ef einhver verði, vegna helgunarsvæðis strengjanna.  Strengjunum sé jafnframt ætlað að tengjast fjarskiptamastri og húsi undir fjarskiptabúnað og standi þeir því ekki einir og sér heldur sé endabúnaður, sem sé fjarskiptmannvirki í formi mastra og tækjaskúrs, forsenda framkvæmdarinnar.  Umrætt fjarskiptamastur og hús fyrir slíkan búnað samræmist ekki landnotkun um óbyggð svæði. 

Þótt raftaug og ljósleiðari yrði tengd við núverandi hús og mastur á Úlfarsfelli, og framkvæmdaleyfi vegna rafstrengja og ljósleiðara rökstutt með hliðsjón af því, þá standist stöðuleyfi, sem Reykjavíkurborg hafi fyrst gefið úr árið 2009 fyrir þau mannvirki, ekki skilyrði byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sem þá hafi verið í gildi, né síðari lög um mannvirki nr. 160/2010 eða byggingarreglugerð nr. 112/2012.  Því þurfi að fjarlægja þau mannvirki. 

Um þá athugasemd borgaryfirvalda að draga megi í efa að kærandi eigi einstaklega og lögvarða hagsmuni í málinu tekur kærandi fram að borgaryfirvöld rökstyðji ekki þá staðhæfingu sína að fyrirhugað mastur á toppi Úlfarsfells hafi ekki áhrif á lögvarða hagsmuni hans, en það muni verða í um tveggja km fjarlægð frá heimili hans.  Gönguleiðir séu og um fellið og útivistarsvæði í hlíðum þess, sem kærandi nýti sér og hafi allar framkvæmdir sem skerði þessi gæði áhrif á hagsmuni hans.  Þá séu það og hagsmunir hans að uppbygging Úlfarsfellssvæðisins verði eins og að hafi verið stefnt en fyrirhuguð mannvirki á toppi fellsins hafi neikvæð áhrif á þá uppbyggingu.  Þá hafi kærandi kært án ástæðulauss dráttar eftir að honum hafi orðið kunnugt um hina kærðu ákvörðun og sé kæra hans því fram komin innan kærufrests, eða sé a.m.k. tæk eftir ákvæðum 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Komist nefndin hins vegar að þeirri niðurstöðu að kærandi eigi ekki lögvarða hagsmuni í málinu þá telji hann að nefndinni beri samkvæmt rannsóknarreglu stjórnsýslulaga að taka til úrlausnar þau atriði er varði lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar.  Úrlausnarefnið takmarkist þannig ekki við þær málsástæður sem kærandi setji fram heldur nái það einnig til byggingarleyfis fyrir húsi og möstrum á Úlfarsfelli, stöðuleyfis fyrir núverandi fjarskiptamannvirki á fjallinu og feli í sér kröfu um að fjarlægja ljósleiðara og rafstreng og tengdar framkvæmdir í samræmi við skipulagslög, hvað sem líði skilyrðum sem tilgreind séu í bréfi Reykjavíkurborgar frá 23. maí 2012. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að málinu verði vísað frá, en að öðrum kosti að ógildingakröfu kæranda verði hafnað.  Frávísunarkrafa Reykjavíkurborgar sé byggð á því að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra eigi, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.  Í þessu máli liggi fyrir að kærandi búi í tveggja kílómetra fjarlægð frá fyrirhuguðu mastri á tindi Úlfarsfells.  Af þeim sökum eigi hann ekki lögvarða hagsmuni í málinu. 

Þá sé á því byggt að meðferð framkvæmdaleyfisumsóknarinnar hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010.  Bent sé á að umsóknir um framkvæmdir við Úlfarsfell hafi verið tvær og einungis sú síðari hafi verið samþykkt.  Þá hafi fyrirhugaður fjarskiptabúnaður á tindi fjallsins minnkað mikið að umfangi frá fyrri umsókn.  Við vinnslu síðari umsóknarinnar hjá Reykjavíkurborg hafi niðurstaðan orðið sú að ákvæði 1. tl. til bráðabirgða í skipulagslögum ætti ekki við.  Framkvæmdin sé ekki í ósamræmi við meginstefnu Aðalskipulags Reykjavíkur 2001-2024.  Þar sé ekki tekin afstaða til lagningar minni háttar jarðstrengja af því tagi sem hér sé fjallað um og gefin hafi verið út framkvæmdaleyfi fyrir stærri strengjum eða lögnum án þess að þær hafi verið sýndar í aðalskipulagi.  Í kafla um veitur sé fyrst og fremst fjallað um framkvæmdir við stærri stofn- og dreifilagnir.  Ekki sé talið nauðsynlegt að vinna deiliskipulag vegna minni háttar jarðstrengja og ekki hafi verið gerð krafa um deiliskipulagsgerð vegna stofnlagna í gildandi aðalskipulagi.  Umrætt framkvæmdaleyfi byggist því á 13. gr. skipulagslaga.  Framkvæmdin sem deilt sé um sé í samræmi við aðalskipulag varðandi alla ofangreinda þætti, auk þess sem hún sé það langt frá byggð að ákvæði um grenndarkynningu hafi ekki átt við. 

Auk framangreinds komi til álita hvort þessi framkvæmd, þ.e. lagning strengjanna upp fjallið, sé yfirleitt framkvæmdaleyfisskyld.  Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga sé einungis skylt að afla framkvæmdaleyfis vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafi á umhverfið og breyti ásýnd þess.  Ásýnd Úlfarsfells muni lítið sem ekkert breytast. 

Um gildi stöðuleyfis fyrir núverandi fjarskiptamannvirki á tindi Úlfarsfells séu allir tímafrestir varðandi kæru löngu liðnir, auk þess sem kærandi eigi enga lögvarða kröfu á hendur Reykjavíkurborg til að þau mannvirki verði fjarlægð.  Þá bresti úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að auki vald til að kveða á um slíkt niðurrif. 

——————————-

Framkvæmdaleyfishafa var gefinn kostur á að koma að í málinu athugasemdum sínum og sjónarmiðum en greinargerð af hans hálfu hefur ekki borist úrskurðarnefndinni. 

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu, sem ekki verða rakin hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þess. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu rafstrengs og ljósleiðara upp suðausturhlíð Úlfarsfells.  Ekki felst hins vegar í hinni kærðu ákvörðun nein heimild til mannvirkjagerðar uppi á fellinu, hvorki við tækjaskýli og möstur né til uppsetningar búnaðar. 

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á.  Er það í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins að aðild í kærumálum innan stjórnsýslunnar eigi þeir einir sem eigi einstaklingsbundinna og lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi kærða ákvörðun, sbr. 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Framkvæmd sú sem heimiluð er með hinu kærða leyfi felur aðeins í sér lagningu strengja í jörðu á svæði sem fyrir er raskað með vegslóðum og troðningum og verður ekki séð að með henni hafi verið gengið gegn einstaklingsbundnum og lögvörðum hagsmunum kæranda, þrátt fyrir að hann búi í nálægð við framkvæmdasvæðið.  Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson

55/2011 Hólabraut

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 16. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 55/2011, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar frá 21. júní 2011 um að breyta deiliskipulagi norðurhluta miðbæjar Akureyrar, er tekur til lóða við Hólabraut og Laxagötu, og ákvörðun skipulagsstjóra Akureyrar frá 11. október 2011 um að samþykkja byggingarleyfisumsókn fyrir viðbyggingu að Hólabraut 16.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. júlí 2011, er barst úrskurðarnefndinni 20. s.m., kærir Ó hrl., f.h. 14 íbúa og eigenda fasteigna við Hólabraut 15, 17, 18 og 19 og Laxagötu 3b og 6, Akureyri, þá ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar frá 21. júní 2011 að breyta deiliskipulagi norðurhluta miðbæjar Akureyrar, er tekur til lóða við Hólabraut og Laxagötu á reit nr. 18.  Auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 18. júlí 2011.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi.

Með bréfum til úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. og 16. ágúst 2011, sem bárust 15. og 19. s.m., kæra þrír íbúar og eigendur fasteigna að Laxagötu 3a og 4, Akureyri, framangreinda deiliskipulagsbreytingu með kröfu um að hún verði felld úr gildi.  Þar sem hagsmunir kærenda standa því ekki í vegi verða kærumál þeirra, sem eru nr. 61 og 63/2011, sameinuð kærumáli þessu.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. nóvember 2011, skutu allir 17 kærendur í framangreindum kærumálum til nefndarinnar til ógildingar ákvörðun skipulagsstjóra Akureyrar frá 12. október 2011 um að samþykkja byggingarleyfisumsókn fyrir viðbyggingu að Hólabraut 16 á grundvelli hins breytta deiliskipulags.  Kröfðust þeir þess jafnframt að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi yrðu stöðvaðar.  Kærumálið vegna byggingarleyfisins byggir á sömu málsrökum og málið vegna hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar og hefur úrskurðarnefndin því ákveðið að sameina það kærumál, sem er nr. 79/2011, kærumáli þessu.

Ekki hefur komið til neinna framkvæmda á grundvelli hins kærða byggingarleyfis.  Kemur krafa kærenda um stöðvun framkvæmda því ekki til álita og verður ekki frekar um hana fjallað í málinu.

Málavextir:  Forsaga máls þessa er sú að árið 1961 hóf lóðarhafi Hólabrautar 16 rekstur vínbúðar þar.  Síðar keypti hann lóðina Gránufélagsgötu 1-3 og fasteignina að Laxagötu 1.  Húsið sem þá stóð að Laxagötu 1 var síðar rifið.  Auk greindra lóða fékk lóðarhafinn árið 2003 afnot lóðarinnar Gránufélagsgötu 5 undir bílastæði.  Í samningi um þá lóð var sett kvöð um að bílastæði á lóðinni yrðu aðgengileg almenningi utan opunartíma verslunarinnar.  Á árinu 1981 tók gildi deiliskipulag miðbæjar Akureyrar og tilheyra nefndar lóðir, sem eru samliggjandi, reit sem merktur var nr. 18 á skipulagsuppdrætti.  Var þar gert ráð fyrir uppbyggingu reitsins eftir því sem eldri byggð viki.  Byggingarreitur var markaður fyrir reitinn í heild og nýtingarhlutfall ákvarðað 0,7.  Norðurhluta miðbæjardeiliskipulagsins var breytt á árinu 1996 og tók sú breyting m.a. til nefnds reits nr. 18.

Árið 2010 var samþykkt sameining lóðanna að Hólabraut 16 og Laxagötu 1 og veitt byggingarleyfi fyrir tveggja hæða viðbyggingu við húsið að Hólabraut 16 sem var 7,00×18,06 m að stærð, eða 126,4 m2 að grunnfleti, og að heildarflatarmáli 211 m2.  Var byggingarleyfið kært til úrskurðarnefndarinnar sem felldi það úr gildi með úrskurði uppkveðnum 21. janúar 2011 þar sem það færi í bága við skilmála gildandi deiliskipulags um nýtingarhlutfall.

Hinn 17. febrúar 2011 var haldinn íbúafundur þar sem kynnt var tillaga að breyttu deiliskipulagi norðurhluta miðbæjar Akureyrar er tók til Hólabrautar og Laxagötu. Var tillagan síðan auglýst til kynningar hinn 9. mars 2011 með athugasemdafresti til 20. apríl s.á.  Í tillögunni var gert ráð fyrir sameiningu lóðanna að Hólabraut 16, Gránufélagsgötu 1-3 og Gránufélagsgötu 5 í eina lóð, Hólabraut 16, og var aðkomu að lóðinni breytt.  Lóðarmörk, byggingarreitir og nýtingarhlutfall var skilgreint fyrir allar lóðir sem breytingin tók til og gert var ráð fyrir að Laxagata yrði einstefnugata en Hólabraut og Smáragata botngötur.  Athugasemdir bárust við tillöguna, m.a. frá kærendum.  Skipulagsnefnd tók málið fyrir á fundi hinn 1. júní 2011 þar sem lágu fyrir framkomnar athugasemdir og voru svör nefndarinnar við athugasemdunum bókuð á fundinum.  Meirihluti nefndarinnar ákvað að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja deiliskipulagsbreytinguna og fela skipulagsstjóra að annast gildistöku hennar.  Meirihluti bæjarstjórnar samþykkti tillögu skipulagsnefndar hinn 21. júní s.á.

Hinn 10. október 2011 samþykkti skipulagsstjóri Akureyrarbæjar veitingu byggingarleyfis fyrir sömu stækkun hússins að Hólabraut 16 og hið fyrra byggingarleyfi hafði heimilað.  Var leyfið síðan gefið út hinn 2. nóvember s.á.

Kærendur skutu greindum ákvörðunum um breytingu á deiliskipulagi og veitingu byggingaleyfis til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda.  Kærendur benda á að ekki verði ráðið af skipulagsgögnum að ákvæði 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem fjalli um gerð deiliskipulags, kynningu og samráð, hafi verið fylgt.  Samkvæmt ákvæðinu skuli sveitarstjórn taka saman lýsingu þar sem m.a. komi fram upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu.  Slíka lýsingu hefði sveitarstjórn þurft að samþykkja sérstaklega og leita umsagnar um hana hjá Skipulagsstofnun og umsagnaraðilum auk þess kynna lýsinguna fyrir almenningi.

Í eldra deiliskipulagi umrædds svæðis komi fram að ekki séu ráðgerðar frekari nýbyggingar.  Auk þess sé skýrlega mælt svo fyrir að komi til endurskoðunar á skipulagi reitsins verði slíkt einungis gert samkvæmt nánara deiliskipulagi, sem unnið verði í samhengi við reit nr. 17 í deiliskipulaginu.  Farið sé gegn þessum fyrirmælum án þess að lögmæt og málefnaleg sjónarmið búi þar að baki.  Kærendur hafi treyst því að fyrirmælum gildandi deiliskipulags frá árinu 1996 yrði fylgt og að ekki yrði ráðist í breytingar á því nema lögmætar ástæður byggju þar að baki.  Deiliskipulagsbreytingin taki ekki til Hólabrautar 15, 17 og 19, sem hljóti að teljast hluti af þeirri heildstæðu einingu sem deiliskipulag eigi að taka til eins og fyrir sé mælt í gr. 3.1.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, og afmörkuð sé í aðalskipulagi.

Ekki verði séð að gerð hafi verið viðhlítandi könnun á áhrifum breytinganna á umferð og bílastæðaþörf né hafi athugun verið gerð á þeim breytingum sem gerðar séu í deiliskipulaginu á aðkomu sem og vegtengingum.  Undirbúningi tillögunnar hafi því verið áfátt.  Loks hafi ekki verið gerð athugun á skuggamyndun á næstu lóðum við þá nýju byggingu sem skipulagið heimili.

Þá feli hin kærða skipulagsákvörðun í sér mismunun á nýtingarmöguleikum einstakra lóðarhafa og fari því í bága við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar.  Ráðgerð viðbygging við vínbúð að Hólabraut 16 og viðamiklar breytingar á vegtengingum auk fleiri atriða séu langt umfram það sem næstu nágrannar hafi mátt vænta þegar þeir hafi orðið eigendur fasteigna sinna.  Um sé að ræða róttækar breytingar á grónu íbúðarhverfi með húsagerð og hverfamyndun sem sé í samræmi við það skipulag sem í gildi hafi verið, en nú sé verið að heimila nýbyggingu með tilheyrandi skuggavarpi og aukinni umferð.

Umdeild ákvörðun sé íþyngjandi fyrir kærendur og feli ekki aðeins í sér verulega skerðingu á verðmæti fasteigna þeirra heldur einnig inngrip í fjölskyldulíf.  Samkvæmt dómafordæmum og viðurkenndum sjónarmiðum í stjórnsýslurétti beri að gæta sérstakrar varkárni og gera strangar kröfur til málsmeðferðar í slíkum málum.  Við mat á efnislegu réttmæti hinnar umdeildu ákvörðunar verði því að hafa þetta í huga.  Ekki séu efnisleg skilyrði fyrir ákvörðuninni, en hún brjóti gegn grenndarreglum eignarréttar, sem og lögmætum væntingum íbúa, sem verndar njóti skv. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 í mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Af framangreindu megi ljóst vera að ógilda beri hina kærðu deiliskipulagsbreytingu sem fari í bága við lög bæði að formi og efni til.  Hið kærða byggingarleyfi styðjist þar af  leiðandi ekki við gilt deiliskipulag og beri af þeim sökum að fella það úr gildi.

Málsrök Akureyrarbæjar:  Af hálfu bæjaryfirvalda er farið fram á að ógildingarkröfum kærenda verði hafnað enda séu hinar kærðu ákvarðanir hvorki haldnar form né efnisannmörkum.

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu hafi verið tekið mið af forsendu að baki niðurstöðu úrskurðarnefnar skipulags- og byggingarmála í úrskurði nr. 78/2010, þar sem byggingarleyfi fyrir viðbyggingu að Hólabraut 16 hafi verið fellt úr gildi.  Með breytingunni sé einnig verið að skilgreina og festa í sessi þær lóðir sem nú séu á umræddum reit.  Einnig sé fallið frá fyrri hugmynd eða möguleika á að fjarlægja öll núverandi hús og byggja upp reitinn sem eina heild, með nýtingarhlutfalli 0,7.  Við breytinguna séu því skilgreindir nýir byggingarreitir og nýtingarhlutfall fyrir hverja lóð út frá stækkunarmöguleikum og aðstæðum.  Jafnframt hafi verið gerðar breytingar innan reitsins til hagræðis fyrir íbúa, m.a. með því að gera Laxagötu að einstefnugötu til norðurs og Hólabraut að botngötu með snúningshaus.  Þá sé ný aðkoma að lóð byggingarleyfishafa frá Gránufélagsgötu.  Eingöngu sé leyfður útakstur frá lóðinni inn á Laxagötu fyrir vöruflutninga en þar verði rafstýrt hlið.

Í 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga sé gert ráð fyrir að við deiliskipulagsgerð sé tekin saman lýsing á skipulagsverkefni en í 1. mgr. 43. gr. laganna segi að ekki sé skylt að gera slíka samantekt þegar um breytingu á deiliskipulagi sé að ræða.  Hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi verið kynnt á fyrri stigum á íbúafundum og yfirfarin af Skipulagsstofnun án athugasemda.  Skipulagsnefnd bæjarins hafi á fundi, þar sem fyrir lágu svör við fram komnum athugasemdum, lagt til við bæjarstjórn að samþykkja umrædda skipulagstillögu.  Í því hafi falist að málið eins og það hafi legið fyrir hlyti samþykki, þar með talin fyrirliggjandi svör við athugasemdum.  Bæjarstjórn hafi ekki séð ástæðu til að breyta þeim svörum og hafi því fallist á tillögur skipulagsnefndar.

Vegna tilvísana kærenda í ákvæði eldra deiliskipulags fyrir umræddan reit frá árinu 1996 sé rétt að taka fram að þar sé vísað til hugsanlegrar allsherjar endurnýjunar á reitnum vegna stærri framkvæmda í tengslum við miðbæjarreitinn í heild sinni.  Slíkar vangaveltur geti ekki haft áhrif á gildi skipulagsbreytinga sem síðar komi til.  Með umdeildri skipulagsbreytingu sé verið að festa í sessi núverandi byggingar á reitnum til framtíðar en engin breyting sé gerð á skipulagsreit nr. 17.  Deiliskipulag sé í eðli sínu breytingum undirorpið í tímans rás vegna framþróunar og breyttra hugmynda.

Við meðferð hinnar kærðu skipulagsákvörðunar hafi sérstaklega verið gætt að flæði umferðar um reitinn, m.a. vegna ábendinga íbúa um mikla umferð um Hólabraut og Laxagötu.  Vegna þeirra ábendinga hafi verið gerðar meiri háttar breytingar í umferðarstýringu í því skyni að koma í veg fyrir umferðaröngþveiti og tryggja að umferðin hafi í för með sér sem minnsta röskun fyrir nágranna á álagstímum.  Þá séu mun fleiri bílastæði á lóðinni að Hólabraut 16 en reglur geri ráð fyrir, eða 28 talsins.

Hvað varði skuggamyndun á næstu lóðir vegna ráðgerðrar viðbyggingar að Hólabraut 16 verði að hafa í huga að viðbyggingin sé aðeins 7 m á breidd og 6 m á hæð.  Að Laxagötu 3a, sem sé næsta lóð við Hólabraut 16, sé 18 m há alaskaösp en skuggavarp af henni sé mjög mikið á lóðirnar Laxagötu 3a, Laxagötu 3b og Hólabraut 18.  Viðbyggingin muni ekki hafa í för með skuggavarp nema á lóðina Laxagötu 3a, sem sé í raun ekkert miðað við skuggavarp frá hinni 18 m háu alaskaösp sem sé á lóðinni.  Jafnvel án asparinnar myndi skuggavarp af viðbyggingunni verða hverfandi.

Umræddur reitur hafi byggst upp allt frá árabilinu 1932 til 1935.  Á honum séu mismunandi stórar lóðir og ekki síður misstórar húsbyggingar.  Á sumum lóðum sé því lítið svigrúm fyrir frekari byggingar en á öðrum sé hægt að auka umfang þeirra og hækka nýtingarhlutfall.  Málefnalegar ástæður geti verið fyrir því að nýtingarhlutfall sé ekki hið sama á lóðum innan deiliskipulagssvæðis og eigi það sérstaklega við þegar um sé að ræða þegar byggð hverfi.  Með breytingunni sé verið að bregðast við áðurgreindum úrskurði úrskurðarnefndarinnar varðandi lóðina að Hólabraut 16 og um leið taka á umferðarmálum í ljósi athugasemda íbúa.  Séu því lögmætar ástæður fyrir skipulagsbreytingunni.

Í gr. 4.4.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 segi að á miðsvæði skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjóni heilu landsvæði, þéttbýlisstað eða fleiri en einu bæjarhverfi.  Líta verði til þess að hér sé um að ræða miðbæjarsvæði og megi því kærendur búast við breytingum, þéttingu byggðar og þjónustu á svæðinu.  Áréttað sé að starfsemi byggingarleyfishafa hafi verið við Hólabraut 16 í 50 ár, eða lengur en eignarhald flestra ef ekki allra kærenda að fasteignum á svæðinu hafi varað.

Hið kærða byggingarleyfi styðjist samkvæmt framangreindu við gilt deiliskipulag sem sé í samræmi við gildandi aðalskipulag og séu því engin rök fyrir ógildingu þess.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfu um ógildingu hins kærða byggingaleyfis mótmælt.

Verslunarrekstur byggingarleyfishafa á umræddum stað sé rótgróinn, enda hafi hann verið þar um áratuga skeið.  Í tímans rás hafi starfsemin vaxið og fyrir löngu hafi verið orðið brýnt að stækka húsnæði verslunarinnar.  Ítrekað hafi verið leitað eftir því við bæjaryfirvöld á Akureyri að fundið yrði fullnægjandi húsnæði undir verslunina í miðbæ eða á öðrum hentugum stað í bænum en það hafi ekki tekist.  Hafi því verið  brugðið á það ráð að nýta möguleika á stækkun núverandi verslunarhúsnæðis.  Byggingarleyfi fyrir stækkuninni hafi verið veitt en úrskurðarnefndin hafi fellt það úr gildi með umdeilanlegri túlkun á deiliskipulagi svæðisins.  Húsið að Hólabraut 16 hafi verið byggt áratugum fyrir gildistöku deiliskipulagsins og hafi ákvæði þess um nýtingarhlutfall því engin áhrif átt að hafa gagnvart þeirri lóð.  Nýtingarhlutfall lóðar byggingarleyfishafa að Laxagötu 1 hafi við veitingu fyrra byggingaleyfis farið úr 0,0 í 0,53 sem hafi verið talsvert undir hámarksnýtingarhlutfalli skipulagsins.  Miðað við forsendur umrædds úrskurðar hafi byggingarleyfishafi í reynd tapað rétti til frekari bygginga á lóðunum með sameiningu þeirra og þar með verið sviptur stjórnarskrárhelguðum eignarrétti.

Hið kærða byggingaleyfi hafi verið veitt í kjölfar breytingar á deiliskipulagi svæðisins sem einnig sé til meðferðar í kærumáli þessu.  Óumdeilt sé að byggingarleyfið sé í samræmi við breytt deiliskipulag, en kærendur hafi ekki fært fram sérstakar málsástæður til stuðnings kröfu sinni um ógildingu þess.  Þeir vísi hins vegar til málsraka sem færð hafi verið fram til stuðnings kröfu um ógildingu deiliskipulagsbreytingarinnar.

Athugasemdir byggingarleyfishafa við einstakar málsástæður kærenda varðandi gildi hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar eru á sömu lund og fram komnar athugasemdir Akureyrarbæjar í því efni.  Benda þeir á að umdeild deiliskipulagsbreyting sé í raun aðeins staðfesting á fyrra ástandi í lóðamálum hvað byggingarleyfishafa áhræri, en hann hafi um langt skeið rekið verslun sína á umræddum stað og haft umráð þeirra lóða sem nú hafi verið sameinaðar.  Í hvívetna hafi verið farið að lögum við meðferð hinnar kærðu skipulagsákvörðunar og því séu engar forsendur fyrir því að taka kröfu kærenda um ógildingu hennar til greina.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum en hér hefur verið rakið en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn kærumálsins.

Niðurstaða:  Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu voru lóðir markaðar auk þess sem byggingarreitir og nýtingarhlutfall hverrar lóðar var ákvarðað í stað eins byggingarreits og nýtingarhlutfalls fyrir umræddan reit í heild í eldra skipulagi.  Þá voru lóðir að Gránufélagsgötu 1-3 og 5, sem nýttar hafa verið undir bílastæði, sameinaðar lóðinni að Hólabraut 16, viðbygging heimiluð við fasteign lóðarhafa hinnar sameinuðu lóðar og breytingar gerðar á skipulagi umferðar á svæðinu.  Af málatilbúnaði kærenda verður ráðið að fyrst og fremst sé deilt um heimilaða viðbyggingu að Hólabraut 16, með vísan til þess að hún festi rekstur vínbúðar í sessi á staðnum, með tilheyrandi ónæði og óþægindum fyrir íbúa í nágrenninu.

Hugmyndir að hinni kærðu breytingu á deiliskipulagi lóða við Hólabraut og Laxagötu var kynnt á íbúafundi, breytingartillagan síðan auglýst til kynningar og húsakönnun gerð.  Að lokinni kynningu var tillagan tekin fyrir í skipulagsnefnd, sem bókaði svör við fram komnum athugasemdum og lagði til við bæjarstjórn að hún samþykkti deiliskipulagsbreytinguna, sem hún og gerði.  Verður að telja að bæjarstjórn hafi með samþykkt sinni fallist á svör við fram komnum athugasemdum í fyrirliggjandi bókun skipulagsnefndar.  Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er ekki skylt að taka saman lýsingu þá á skipulagsverkefni, sem fjallað er um í 1. mgr. 40. gr. laganna, þegar um er að ræða breytingu á deiliskipulagi.  Var því ekki þörf á samantekt slíkrar lýsingar við meðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar, sem að öðru leyti virðist hafa verið farið með í samræmi við ákvæði 40. – 43. gr. um meðferð deiliskipulagsákvarðana  í skipulagslögum.

Í eldra deiliskipulagi svæðisins voru ráðagerðir um niðurrif húsa á umræddum reit og enduruppbyggingu hans í tengslum við nærliggjandi svæði.  Ákvæði deiliskipulagsins um tilhögun breytinga á því, sem taka mið af skipulagsáformum sem þá voru uppi, geta ekki bundið hendur sveitarstjórnar við endurskoðun deiliskipulags til framtíðar, enda gera skipulagslög ráð fyrir að til breytinga geti komið á deiliskipulagi.  Geta t.d. breytt viðhorf, byggðaþróun og skipulagsrök kallað á slíkar breytingar.  Eins og hér stóð á lá fyrir umsókn um leyfi fyrir nýrri byggingu á svæðinu og verður að telja að bæjaryfirvöldum hafi verið rétt að taka deiliskipulag umrædds reits til endurskoðunar, enda var það nauðsynlegt til að fullnægt yrði kröfum skipulagslaga og skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 um framsetningu skipulagsáætlana.

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er ekki hróflað við þeirri byggð sem fyrir er á umræddum reit og með skilgreiningu lóða, auk byggingarreita og nýtingarhlutfalls innan hverrar lóðar, er réttarstöðu hvers lóðarhafa gerð betri skil en áður var.  Nýtingarhlutfall sameinaðrar lóðar að Hólabraut 16 verður við breytinguna 0,6.  Nýtingarhlutfall lóða kærenda innan reitsins verður 0,93 að Hólabraut 18, 0,65 að Laxagötu 3a og 0,75 að Laxagötu 3b, 4 og 6.  Nýtingarhlutfall nefndra lóða víkur ekki að marki frá fyrra nýtingarhlutfalli reitsins og verður ekki séð að á kærendur halli borið saman við rétt annarra lóðarhafa á reitnum.

Kærendur vísa til þess að umdeild breyting á skipulagi og fyrirhuguð nýbygging hafi umtalsverð grenndaráhrif gagnvart þeim eignum sem næst standi hinni nýju byggingu.  Þegar þess er gætt að nýtingarhlutfalli nýrrar sameinaðrar lóðar nr. 16 við Hólabraut er í hóf stillt og að um miðbæjarsvæði er að ræða verða þessi áhrif þó ekki talin meiri en íbúar gátu vænst.

Nokkrar breytingar eru gerðar á skipulagi umferðar á svæðinu sem eru til þess fallnar að hafa áhrif á umferðarflæði þar, svo sem með því að ákvarða einstefnu um Laxagötu og loka Hólabraut til norðurs.  Þá er þess ekki að vænta að heimilaðri viðbyggingu að Hólabraut fylgi aukin umferð í ljósi þess að ekki er gert ráð fyrir að þjónustusvæði verslunarinnar stækki vegna breytingarinnar.

Að öllu framangreindu virtu eru ekki fyrir hendi þeir annmarkar á málsmeðferð eða efni hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar sem leiða eigi til ógildingar hennar.  Þá verður að telja að lögmætar ástæður hafi búið að baki skipulagsbreytingunni.  Verður kröfu kærenda um ógildingu hennar því hafnað.

Að þessari niðurstöðu fenginni telst hið kærða byggingarleyfi eiga stoð í gildandi deiliskipulagi og þar sem ekki verður séð að það sé haldið ágöllum er varði form þess eða efni verður kröfu kærenda um ógildingu þess einnig hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Akureyrar frá 21. júní 2011 um að breyta deiliskipulagi norðurhluta miðbæjar Akureyrar er tekur til lóða við Hólabraut og Laxagötu.

Jafnframt er hafnað kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulagsstjóra Akureyrar frá 12. október 2011 um að samþykkja byggingarleyfisumsókn fyrir viðbyggingu að Hólabraut 16.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

8/2012 Akrakór

Með

Árið 2012, þriðjudaginn 5. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 8/2012, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 10. janúar 2012 um breytt deiliskipulag varðandi lóðina nr. 6 við Akrakór í Kópavogi og á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi um að veita leyfi til breytinga á húsi á þeirri lóð.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður:


um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. febrúar 2012, er barst nefndinni 10. s.m., kæra Ó og J, Aflakór 7, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 10. janúar 2012 að samþykkja breytt deiliskipulag varðandi lóðina nr. 6 við Akrakór.  Með bréfi, dags. 13. apríl s.á., kæra sömu aðilar ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi um að veita leyfi til breytinga á húsi á þeirri lóð.  Hefur það mál, sem er nr. 29/2012 í málaskrá nefndarinnar, verið sameinað máli þessu.  Loks gera kærendur með bréfi, dags. 15. maí 2012, er barst úrskurðarnefndinni 16. s.m. kröfu til þess að framkvæmdir verði stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu.

Málsatvik og rök:  Hinn 20. september 2011 var á fundi skipulagsnefndar Kópavogs tekið fyrir erindi lóðarhafa Akrakórs 6 þar sem óskað var eftir að breyta einbýlishúsi á lóðinni í tvíbýlishús og fjölga bílastæðum um eitt.  Samþykkti nefndin að grenndarkynna erindið og var frestur til athugasemda veittur til 4. nóvember 2011.  Athugasemd barst frá kærendum, sem töldu að breytingin gæti skapað fordæmi fyrir breyttri byggð.  Í umsögn skipulags- og byggingardeildar, dags. 14. nóvember 2011, segir m.a. að það breyti ekki heildaryfirbragði hverfisins þó svo einu einbýlishúsi verði breytt í parhús en hverfið sé nú þegar byggt upp af einbýlishúsum og parhúsum.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 14. desember 2011 var tillagan samþykkt og vísað til bæjarstjórnar, sem staðfesti hina umdeildu skipulagsbreytingu á fundi sínum hinn 10. janúar 2012, og tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 13. s.m.

Byggingarleyfi mun hafa verið gefið út í kjölfar skipulagsbreytingarinnar.  Að sögn kærenda hófust framkvæmdir við breytingar á húsinu í byrjun apríl, en upplýsingar liggja ekki enn fyrir um byggingarleyfið eða framvindu verks.  Kærendur skutu ákvörðun byggingarfulltrúa um byggingarleyfið til úrskurðarnefndarinnar, með bréfi dags. 13. apríl 2012, og kröfðust síðan stöðvunar framkvæmda með bréfi, dags. 15. maí s.á., sem barst nefndinni 16. s.m.

Kærendur vísa til þess að í skipulagi svæðisins hafi aðeins verið gert ráð fyrir einbýlishúsum og parhúsum við Akrakór og Aflakór.  Í umsögn skipulags- og byggingardeildar komi fram að einbýlishúsi sé breytt í parhús, en kærendur telji að með hinni kærðu ákvörðun sé verið að breyta þegar byggðu einbýlishúsi í tvíbýlishús.  Um sé að ræða grundvallarbreytingu sem skapi fordæmi og rýri eign kærenda.  Af hálfu bæjaryfirvalda er því haldið fram að um sé að ræða óverulega breytingu sem ekki muni raska heildaryfirbragði hverfisins, sem sé nær fullbyggt.  Byggingaleyfishafi vísar til þess að framkvæmdir hans styðjist við lögmætt byggingarleyfi.  Vandséð sé að  kærendur muni verða fyrir fjárhagslegu tjóni vegna hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar, en hins vegar muni stöðvun framkvæmda hafa í för með sér mikið tjón fyrir byggingarleyfishafa.

———————————

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin frekar í bráðabirgðaúrskurði þessum en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þessa þáttar málsins.

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frestar kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum ákvörðunar.  Kærandi getur þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi.  Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til stöðvunar framkvæmda í tengslum við meðferð kærumáls. 

Úrskurðarnefndin ritaði umhverfisssviði Kópavogsbæjar bréf hinn 14. febrúar 2012 þar sem tilkynnt var um kæru á hinni umdeildu skipulagsákvörðun og var veittur 30 daga frestur til að senda nefndinni gögn málsins, svo sem lögskylt er, sbr. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.  Var frestur jafnframt veittur til sama tíma til að koma að sjónarmiðum bæjaryfirvalda í málinu.  Sambærilegt bréf var sent umhverfissviði hinn 16. apríl 2012 með tilkynningu um fram komna kæru á byggingarleyfi. Hinn 16. maí s.á. var byggingarfulltrúa sent tölvubréf þar sem tilkynnt var um fram komna kröfu um stöðvun framkvæmda og frestur veittur til 23. s.m. til að skila gögnum og koma að athugasemdum.  Sama dag var byggingarleyfishafa ritað bréf og honum gefinn kostur á að andmæla fram komnum kröfum.  Andmæli bárust frá byggingarleyfishafa hinn 29. s.m. þar sem hann mótmælir kröfum kærenda og gerir grein fyrir sjónarmiðum sínum.  Krefst hann þess að kærendum verði gert að setja tryggingu komi til þess að framkvæmdir hans verði stöðvaðar.

Þrátt fyrir að beiðni nefndarinnar um gögn í málinu hefði verið ítrekuð, m.a. með tölvubréfi til skipulagsstjóra og byggingarfulltrúa hinn 21. maí 2012, bárust engin viðbrögð frá bæjaryfirvöldum fyrr en með bréfi, sem móttekið var hjá úrskurðarnefndinni hinn 1. júní s.á.  Fylgdu því gögn sem þó aðeins varða hina umdeildu skipulagsbreytingu og eru að mati nefndarinnar ekki fullnægjandi.  Engin gögn fylgdu um útgefið byggingarleyfi.  Í bréfinu, sem dagsett er 30. maí 2012, er boðað að greinargerð Kópavogsbæjar muni berast innan sjö virkra daga frá dagsetningu bréfsins.

Í máli þessu er krafist ógildingar deiliskipulagsákvörðunar og byggingarleyfis sem við hana styðst.  Eins og að framan greinir bárust úrskurðarnefndinni gögn vegna málsins ekki fyrr en 1. júní 2012 og þá ekki nema að hluta til.  Af þeim gögnum sem þegar liggja fyrir verður þó ráðið að uppi séu álitaefni í málinu sem gætu varðað gildi hinna kærðu ákvarðana.

Eins og atvikum er háttað þykir rétt að verða við kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi en byggingarleyfishafi getur óskað þess að málið sæti flýtimeðferð, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011.  Lagaheimild skortir til að gera kærendum að leggja fram tryggingu og verður kröfu byggingarleyfishafa þar að lútandi því hafnað.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir sem hafnar eru við breytingar á húsinu nr. 6 við Akrakór á grundvelli hinna kærðu ákvarðana skulu stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Kröfu byggingarleyfishafa um tryggingu er hafnað. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                      Þorsteinn Þorsteinsson