Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

39/2012 Lindargata

Árið 2013, fimmtudaginn 21. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 39/2012, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 11. apríl 2012 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Skuggahverfis, staðgreinireit 1.152.4, vegna lóðar nr. 36 við Lindargötu. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 7. maí 2012, kæra D og K, Lindargötu 25, Reykjavík, ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 11. apríl 2012 um breytingu á deiliskipulagi Skuggahverfis, staðgreinireit 1.152.4, vegna lóðar að Lindargötu 36 í Reykjavík.  Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Reykjavíkurborg hinn 27. september 2012. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 17. febrúar 2012 var lögð fram umsókn Rent leigumiðlunar ehf., dags. 16. s.m., um breytingu á deiliskipulagi Skuggahverfis, staðgreinireit 1.152.4, vegna lóðar nr. 36 við Lindargötu.  Breytingin fólst í dýpkun byggingarreits úr 8 m í 10 m, nema á þriggja metra kafla næst Vatnsstíg 11.  Þá var gert ráð fyrir að byggingin myndi tengjast Vatnsstíg 11, en rishæð yrði inndregin frá Lindargötu 34 um 2,5 m í samræmi við gildandi deiliskipulag.  Þá fól breytingin í sér hækkun nýtingarhlutfalls lóðarinnar úr 2,06 í 2,6.  Að síðustu voru tvö bílastæði, sem gert hafði verið ráð fyrir á byggingarreit, felld niður.  Á fundinum var bókað að samþykkt væri að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Lindargötu 31, 33, 34 og 34a.  Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir að nýju hjá skipulagsfulltrúa á afgreiðslufundi hinn 23. mars 2012.  Á fundinum lágu fyrir athugasemdir,  m.a. frá kærendum, og var málinu vísað til umsagnar verkefnisstjóra.  Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 30. mars s.á. var lögð fram umsögn skipulagsstjóra, dags. sama dag, þar sem fram komnum athugasemdum var svarað, og samþykkt að vísa málinu til skipulagsráðs.  Áðurnefndar athugasemdir og umsögn skipulagsstjóra voru kynntar á fundi skipulagsráðs hinn 11. apríl 2012.  Jafnframt voru lagðar fram upplýsingar um skuggavarp.  Breytingartillagan var samþykkt á fundinum með vísan til umsagnar skipulagsstjóra og tók hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 27. apríl 2012.

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að hin kærða deiliskipulagsbreyting geti ekki talist óveruleg í skilningi gr. 7.2.3 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998. 

Aukning á nýtingarmagni á lóð muni hafa fordæmisáhrif gagnvart öðrum lóðum sem séu óbyggðar á reitnum og þar með hafa í för með sér verulega breytingu á deiliskipulagi svæðisins, sem samþykkt hafi verið árið 2004.  Þá komi fram í gr. 5.4.1 reglugerðarinnar að útfærsla stefnu og ákvæði aðalskipulags í deiliskipulagi skuli vera bindandi fyrir viðkomandi skipulagssvæði, en telja megi að áður nefnd breyting setji markmið aðalskipulags fyrir svæðið í hættu.  Breytingin standist ekki með hliðsjón af gr. 3.1 í skipulagsreglugerð, þar sem skýrt sé  kveðið á um að ef færri en tvö bílastæði séu á íbúð þurfi að sýna fram á að þörfin sé minni eða unnt sé að uppfylla hana með öðrum hætti.  Mikilvægt sé að huga að aukningu umferðar sem breytingin muni hafa í för með sér m.t.t. fordæmisgildis á nýtingu annarra lóða.  Lindargata sé nú þegar þröng og fjölfarin gata, bílastæði fá og nýtt bæði af íbúum og fólki sem nýti þjónustu miðborgarinnar eða sæki þangað vinnu.  Þá sé ekki tekið tillit til almenningssvæða til útivistar og leiks, sem nú þegar séu af mjög skornum skammti við götuna, sbr. gr. 4.5.2 og 4.2.2 fyrrnefndrar reglugerðar. 

Að lokum sé gerð athugasemd við rekstur gistiheimilis að Lindargötu 36 og þess krafist að íbúar við Lindargötu fái afhentar upplýsingar um fjölda gistirýma í byggingunni.  Lindargata sé í blandaðri byggð en gistirými í nálægð við götuna séu orðin fjölmörg, með tilheyrandi fjölgun rútubifreiða á Skúlagötu, Hverfisgötu og Veghúsastíg, sem skapi hættu bæði fyrir akandi og gangandi vegfarendur. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á frávísun málsins en að öðrum kosti að ógildingarkröfu kærenda verði hafnað. 

Kærendur geti ekki talist eiga kæruaðild að málinu enda uppfylli þeir ekki skilyrði laga um að eiga lögvarða hagsmuni af úrlausn þess fyrir úrskurðarnefndinni, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.  Kærendur búi í húsi nr. 25 við Lindargötu í umtalsverðri fjarlægð frá skipulagsreitnum.  Þeir hafi ekki verið tilnefndir sem hagsmunaaðilar í grenndarkynningunni og hafi því ekki átt beina aðild að umræddu máli.  Deiliskipulagsbreytingin snerti þá á engan hátt með beinum hætti og beri af þessum sökum að vísa kærunni frá. 

Um efnishlið máls sé vísað til þess að umrædd deiliskipulagsbreyting hafi verið óveruleg.  Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skuli við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg eða veruleg taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis.  Skipulagsbreytingin breyti engu um landnotkun á umræddum lóðum, sem samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 sé blönduð byggð.  Á blönduðum svæðum sé gert ráð fyrir íbúðarbyggð, ásamt tilheyrandi nærþjónustu, í bland við fjölþætta atvinnustarfsemi og hrófli breytingin í engu við þeirri landnotkun. 

Nýtingarhlutfall hækki úr 1,45 í 2,6 enda sé byggingarreitur dýpkaður nokkuð.  Ekkert flatarmál innan byggingarreits verði tekið undir bílastæði, eins og gert sé í gildandi deiliskipulagi, en við það hækki nýtingarhlutfallið.  Lóðin sé mjög lítil og þar af leiðandi verði nýtingarhlutfall hærra en á aðliggjandi lóðum.  Breytingin ætti því ekki að vera fordæmisgefandi fyrir lóðir að Lindargötu 28, 30, 32 og 34, en á þeim lóðum sé hámarksdýpt byggingarreits 10 m.  Hæpið sé að telja hækkun nýtingarhlutfallsins verulega.  Með breytingunni sé heimilað að byggja rishæð hússins að gafli Vatnsstígs 11, en samkvæmt deiliskipulagi hafi þar áður verið u.þ.b. 2 m bil milli þakhæða.  Sú útlitsbreyting hafi þó engin áhrif á nærliggjandi byggð hvað varði skuggavarp.  Hvorki í gildandi deiliskipulagi né umræddri breytingu á því sé fjallað um útlit hússins nema varðandi hæð þess og stærð innan byggingarreits.  Frá götu líti byggingarreiturinn nánast eins út eftir breytingu og verði hún því ekki talin það mikil að rétt sé að meta hana verulega frá fyrra útliti hússins.  Þá breytist form Skuggahverfis lítið við umrædda deiliskipulagsbreytingu.  Ekki sé ljóst til hvaða óbyggðu reita kærendur vísi varðandi fordæmisáhrif breytingarinnar, en telja megi Skuggahverfið fullbyggt.  Þó sé enn verið að byggja neðan Lindargötu og búast megi við uppbyggingu á nokkum stöðum í samræmi við heimildir í deiliskipulagi.  Ólíklegt megi þó telja að 2 m dýpkun byggingarreits að Lindargötu 36 geti haft áhrif á það. 

Varðandi athugasemd kærenda um bílastæði sé vísað til umsagnar skipulagsstjóra, dags. 30. mars 2012, en þar hafi m.a. verið bent á nálægð við bílageymslu í Kolaporti og á Lindargötu og það markmið borgaryfirvalda að stuðla að umhverfisvænni ferðamáta, auk þess sem stutt sé í alla þjónustu í þessu hverfi.  Einnig sé bent á að þegar litið sé til öryggis gangandi vegfarenda sé það frekar til bóta að fjarlægja bílastæði þar sem bakka þurfi yfir gangstétt út úr stæði.

Því sé mótmælt að við skipulagsbreytinguna hafi þurft að taka sérstakt tillit til almenningssvæða til útivistar og leiks í samræmi við ákvæði gr. 4.2.2 og 4.5.2 í skipulagsreglugerð.  Breytingin hafi verið smávægileg og ekki kallað á sérstaka umfjöllun um almenningssvæði af því tagi.  Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sé það lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu sem gefi út rekstrarleyfi fyrir gistiheimili og sé kærendum bent á að snúa sér til þess embættis varðandi upplýsingar um rekstur gistiheimilis að Lindargötu 36. 

Málsrök lóðarhafa:  Lóðarhafi krefst þess aðallega að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að kröfum kærenda verði hafnað og er málatilbúnaður hans mjög á sömu lund og Reykjavíkurborgar. 

Sérstaklega er vísað til þess að Skipulagsstofnun hafi ekki gert athugasemdir við að tillagan yrði grenndarkynnt og að nýtingarhlutfall nærliggjandi lóða spanni allt frá 0 til 4,29, en í fyrirliggjandi máli sé hækkun nýtingarhlutfalls úr 2,06 í 2,60.  Verði það ekki talið í ósamræmi við það nýtingarhlutfall sem fyrir sé á einstökum lóðum á reitnum.  Telja verði að fordæmi úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 21/2006 (Brákarbraut) hafi beina þýðingu við úrlausn málsins hvað varði mat á því hvort um verulega breytingu sé að ræða.  Sá rökstuðningur kærenda að breytingin teljist ekki óveruleg, þar sem hún hafi fordæmisgildi vegna annarra lóða á skipulagsreitnum, hafi í eðli sínu ekkert að gera með það hvort breyting deiliskipulags sé metin veruleg eða óveruleg og hafi því enga þýðingu.  Þá sé bent á að með breytingunni sé verið að laga byggingarheimildir að þeim heimildum sem til staðar séu á næstu lóðum í sömu götu. 

Að lokum sé vísað til þess að valdsvið úrskurðarnefndarinnar nái ekki til kröfugerðar kærenda um afhendingu upplýsinga um fjölda gistirýma í byggingunni, auk þess sem upplýsingarnar séu ekki til staðar þar sem hvorki hafi verið sótt um byggingarleyfi fyrir nýbyggingu á lóðinni né leyfi fyrir rekstri gistiheimilis. 

————–

Frekari rök og sjónarmið aðila liggja fyrir í málinu sem ekki verða rakin hér nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Kærendur búa við Lindargötu en þar stendur lóð sú sem hin kærða deiliskipulagsbreyting tekur til.  Ekki er loku fyrir það skotið að breytingin geti snert lögvarða hagsmuni kærenda og teljast þeir því eiga kæruaðild í málinu skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. 

Með hinni umdeildu skipulagsbreytingu er byggingarreitur baka til á lóðinni að Lindargötu 36 dýpkaður um 2 m á um 10 m bili til samræmis við byggingarreiti næstu lóða.  Við þá breytingu stækkar grunnflötur heimilaðs húss á lóðinni um rúmlega 21 m2, og gólfflötur hússins um 85 m2.  Með því eykst nýtingarhlutfall lóðarinnar um rúmlega 26%.  Heimilað hús á lóðinni verður áfram þrjár hæðir og ris.  Ekki verður séð að umdeild breyting geti raskað svo nokkru nemi grenndarhagsmunum kærenda sem búa í húsi fjórum lóðum frá Lindargötu 36 til vesturs, handan götu, eða hafi að öðru leyti grenndaráhrif að marki á næsta nágrenni.  Við breytinguna fækkar bílastæðum á lóðinni um tvö en í umsögn skipulagsstjóra, þar sem andmælum við kynningu skipulagsins var svarað, var færð fram skýring á ástæðum þess.  Við staðfestingu skipulagsins er vísað í nefnda umsögn.

Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er heimilað að gera breytingar á deiliskipulagi með grenndarkynningu í stað almennrar auglýsingar, sem kveðið er á um í 1. mgr. lagaákvæðisins, þegar breyting telst óveruleg.  Við mat á því hvort breyting teljist óveruleg eða ekki skal taka mið af því að hve miklu leyti breytingin víkur fá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis.  Þótt hin umdeilda breyting feli í sér nokkra hækkun nýtingarhlutfalls lóðarinnar að Lindargötu 36 eru aðstæður með þeim hætti, eins og fyrr er rakið, að áhrif breytingarinnar á umhverfið eru hverfandi.  Verður því fallist á að heimilt hafi verið að fara með umdeilda breytingu á deiliskipulagi svæðisins samkvæmt málsmeðferð 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. 

Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar skipulagsráðs Reykjavíkur frá 11. apríl 2012 um breytingu á deiliskipulagi Skuggahverfis, staðgreinireit 1.152.4, vegna lóðar að Lindargötu 36 í Reykjavík. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson