Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

59/2013 Þormóðseyri, Siglufjörður

Árið 2013, miðvikudaginn 4. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 59/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá 15. maí 2013 um að samþykkja deiliskipulag grunnskólareits á Þormóðseyri, Siglufirði.  Jafnframt er kærð sú ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar frá 19. júní 2013 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu skólahúsnæðis að Norðurgötu 10, Siglufirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. júlí 2013, er barst nefndinni 4. s.m., kærir Guðmundur Siemsen hdl., f.h. Sögu ráðgjafar ehf., Eyrargötu 3, Siglufirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá 15. maí 2013 að samþykkja deiliskipulag grunnskólareits á Þormóðseyri, Siglufirði.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað.

Með bréfi, dags. 29. október 2013, er móttekið var 30. s.m., kærir sami aðili ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar frá 19. júní 2013 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við skólahúsnæði að Norðurgötu 10, Siglufirði, með kröfu um ógildingu.  Gerð var og krafa um að kveðinn yrði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða leyfi meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Verður síðari kæran, sem fékk málsnúmerið 105/2013, sameinuð máli þessu.  Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að það verði tekin til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu. 

Málavextir:  Í lok árs 2012 mun hafa verið grenndarkynnt tillaga að viðbyggingu við Grunnskóla Fjallabyggðar á Siglufirði.  Bárust nokkrar athugasemdir, m.a. frá kæranda, og í framhaldi af því var á fundi bæjarráðs Fjallabyggðar hinn 5. febrúar 2013 samþykkt að fela skipulags- og umhverfisnefnd bæjarins að vinna deiliskipulag að lóð skólans og götureits sem hann stendur á.  Samþykkt var á fundi skipulags- og umhverfisnefndar hinn 6. s.m. að fela arkitektastofu að vinna tillögu að deiliskipulagi, kynna fyrirliggjandi skipulagslýsingu og leita umsagnar Skipulagsstofnunar um hana.  Staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu nefndarinnar hinn 13. febrúar s.á.  Gerði Skipulagsstofnun nokkrar athugasemdir við nefnda lýsingu í bréfi, dags. 6. mars s.á., og taldi frekari upplýsinga þörf, t.d. um samráð við hagsmunaaðila. 
Hinn 6. mars 2013 var á fundi skipulags- og umhverfisnefndar lögð fram tillaga að deiliskipulagi fyrir grunnskólareit á Þormóðseyri, sem afmarkast af Norðurgötu, Eyrargötu, Vetrarbraut og Aðalgötu.  Fól tillagan m.a. í sér að heimilað yrði að reisa við grunnskólann að Norðurgötu 10 tveggja hæða viðbyggingu til norðurs að Eyrargötu.  Samþykkt var að auglýsa tillöguna og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu hinn 13. s.m.  Var þá og fært til bókar að ekki væri talin þörf á forkynningu þar sem meginforsendur hennar lægju fyrir í aðalskipulagi.  Á kynningartíma tillögunnar bárust andmæli, annars vegar frá kæranda sem eiganda hússins að Eyrargötu 3 og hins vegar frá eiganda Eyrargötu 7, og taldi kærandi m.a. að fyrirhuguð viðbygging hefði í för með sér veruleg grenndaráhrif gagnvart húsi hans.  Tillagan var einnig send Minjastofnun Íslands og Siglingastofnun Íslands til umsagnar og samkvæmt fyrirliggjandi gögnum vakti Siglingarstofnun í umsögn sinni athygli á flóðahættu á Þormóðseyri en ekki voru að öðru leyti gerðar athugasemdir af hálfu umsagnaraðila. 

Tillagan var tekin fyrir að nýju hjá skipulags- og umhverfisnefnd hinn 8. maí 2013, ásamt athugasemdum sem borist höfðu á kynningartíma og greinargerð sveitarfélagsins um þær.  Var tillagan samþykkt með þeirri breytingu að gangstétt við bílastæði við Norðurgötu yrði færð inn fyrir bílastæðin.  Staðfesti bæjarstjórn Fjallabyggðar afgreiðslu nefndarinnar á fundi hinn 15. maí 2013.  Birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda 13. júní s.á., að undangenginni lögboðinni afgreiðslu Skipulagsstofnunar er gerði ekki athugasemd við birtingu hennar.  Í kjölfar þess samþykkti skipulags- og umhverfisnefnd umsókn um viðbygginguna við skólann í samræmi við nýsamþykkt deiliskipulag og voru nefndar ákvarðanir kærðar til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að helstu áhrif fyrirhugaðrar byggingar séu gagnvart fasteign hans að Eyrargötu 3.  Viðbyggingin liggi nærri mörkum lóðar hans og sé á svæði sem hafi verið óbyggt um margra ára skeið.  Hún sé umtalsvert stærri að allri gerð en önnur mannvirki á svæðinu, að grunnskólahúsinu frátöldu.  Áætluð fjarlægð milli viðbyggingarinnar og íbúðarhúss kæranda sé minni en hefðbundin fjarlægð á milli húsa á sama svæði, en stærð hennar hefði átt að leiða til þess að gert yrði ráð fyrir meiri fjarlægð milli húsanna.  Þrátt fyrir að engar upplýsingar liggi fyrir um skuggavarp af viðbyggingunni seinni hluta dags gagnvart fasteign kæranda, og halli þannig verulega á rétt hans í því efni, sé ljóst að skuggavarpið verði umtalsvert eftir kl. 13 og muni byggingin koma nær algjörlega í veg fyrir að hægt verði að njóta kvöldsólar á lóð hússins. 

Gerðar séu alvarlegar athugasemdir við að sveitarfélagið, sem rekstraraðili grunnskólans og skipulagsyfirvald, geri ráð fyrir að uppbygging á svæðinu miði öðru fremur að því að varðveita hagsmuni sveitarfélagsins og skólans á kostnað kæranda.  Sé þannig gert ráð fyrir að byggt verði norðan við núverandi húsnæði skólans, þar sem ekki verði skyggt á suðurhlið hans, og ekki gengið á skólalóð sem sé sunnan við skólabygginguna. 

Fram komi í greinargerð með tillögunni að ekki sé þörf á jafn mikilli uppbyggingu á skólahúsnæði á Siglufirði eftir sameiningu sveitarfélaga og því vandséð hvernig fyrirhuguð viðbygging fari saman við það.  Þá sé eðlilegt að sveitarfélagið sýni fram á að ekki sé unnt að uppfylla þær kröfur sem eðlilegt þykir að gera til nútíma skólahúsnæðis, s.s. um mötuneyti og verknámsstofur, í núverandi húsnæði skólans.  Hafi ekkert komið fram um nauðsyn svo viðamikillar viðbyggingar sem gert sé ráð fyrir, en í það minnsta sé ekki nauðsynlegt að stækka húsnæði skólans um þriðjung til að koma þar fyrir mötuneyti og verknámsstofum. 

Lóð kæranda að Eyrargötu 3 sé skilgreind sem svæði fyrir þjónustustarfsemi í gildandi aðalskipulagi.  Það hafi komið kæranda á óvart enda hafi þess í engu verið getið af sveitarfélaginu þegar hann hafi keypt hluta íbúðarhússins að Eyrargötu 3, þrátt fyrir að sveitarfélaginu hafi verið ljóst að hann hygðist nota húsið sem íbúðarhúsnæði.  Í greinargerð skipulagsins segi að þeir sem búi á svæðum sem liggi að opinberum lóðum megi búast við því að á slíkum svæðum séu byggðar umfangsmiklar byggingar sem geti verið í öðrum kvarða en íbúðarbyggð í nágrenninu.  Sé því alfarið mótmælt að þessi fullyrðing geti átt við í málinu.  Sveitarfélagið hafi selt kæranda húsið sem íbúðarhúsnæði og samþykkt umsóknir hans um umtalsverðar og kostnaðarsamar endurbætur á húsinu, sem miðuðu að því að það nýttist sem slíkt, og með því hafi sveitarfélagið útilokað að það gæti byggt á greindu sjónarmiði við afgreiðslu málsins. 

Þá geti skilgreind landnotkun ekki rýrt rétt kæranda samkvæmt almennum meginreglum grenndarréttar og ákvæðum skipulagsreglugerðar, sem kveði á um að við deiliskipulagningu íbúðarsvæða skuli þess að jafnaði gætt að í íbúðum og á lóðum íbúðarhúsa sé sem best hægt að njóta sólar, útsýnis, skjóls og friðsældar.  Fasteign kæranda sé skráð sem íbúðarhúsnæði og nýtt sem slík og sé lóð hennar því óumdeilanlega íbúðarlóð, eins og deiliskipulagið geri raunar ráð fyrir, hvað sem aðalskipulagi svæðisins líði. 

Átalið sé að sveitarfélagið réttlæti umrædda viðbyggingu með vísan til þess húss sem áður hafi staðið að Eyrargötu 5, en það hafi verið umtalsvert minna en fyrirhuguð viðbygging, sem og bílgeymsla þess, sem áður hafi staðið næst fasteign kæranda.  Umtalsvert lengri vegalengd hafi einnig verið milli húsanna sjálfra. 

Vegna staðsetningar byggingarreits viðbyggingar, einkum m.t.t. lóðar kæranda, verði að líta á reitinn sem sjálfstæða, staka lóð, á horni Norðurgötu og Eyrargötu.  Nýtingarhlutfall þeirrar lóðar yrði því á bilinu 2,0-3,0, sem sé langt umfram það sem tíðkist á öðrum lóðum við Eyrargötu.  Ekki sé tekið nægilegt tillit til ákvæða skipulagsreglugerðar um fjarlægðir milli byggingarreita og lóðamarka, en fyrirhugað sé að mannvirkið nái alveg að lóðarmörkum á horni Norðurgötu og Eyrargötu og að það standi aðeins í 1,9 m fjarlægð frá lóðarmörkum Eyrargötu 3.  Í skipulagsreglugerð sé gert ráð fyrir að við ákvörðun um fjarlægð á milli byggingarreita skuli taka tillit til sólarhæðar, skuggavarps, vindstrengja o.fl., eftir því hver notkun bygginga sé.  Verulega hafi skort á að tekið væri tillit til þess í hinu umdeilda skipulagi að fasteign kæranda sé íbúðarhúsnæði.  Verði fjarlægð viðbyggingarinnar frá fasteign hans ekki réttlætt með vísan til legu annarra mannvirkja innan skipulagsreitsins, sem séu víðsfjarri fasteign kæranda, eða til húss sem áður hafi staðið skammt frá lóðarmörkum Eyrargötu 3. 

Deiliskipulagið samræmist því á engan hátt byggðamynstri, götumynd og þéttleika byggðarinnar við Eyrargötu.  Þá sé gagnrýnisvert að sveitarfélagið hafi vanrækt skyldu sína til að gera húsakönnun á svæðinu samhliða gerð deiliskipulags en aðeins sé vísað til húsaskráningar á Siglufirði sem sé enn í vinnslu.  Ekkert sérstakt mat sé lagt á varðveislugildi eða svipmót byggðar eða einstakra bygginga á svæðinu. 
Bent sé á að yrði byggt við grunnskólann til suðurs yrði ekki gengið jafn freklega gegn rétti eigendum íbúðarhúsa í nágrenni hans, auk þess sem hægt hefði verið að gera ráð fyrir bílastæðum innan marka skipulagssvæðisins, eins og verið hafi, í stað þess að reiða sig á að samningar takist við eigendur fasteigna utan svæðisins um bílastæði.  Sé tekið undir athugasemdir annarra hagsmunaaðila á svæðinu að því er varði bílastæði grunnskólans. 

Loks telji kærandi að unnt hefði verið að ná sama markmiði og stefnt sé að með deiliskipulaginu með því að grípa til úrræða sem ekki séu jafn verulega íþyngjandi fyrir kæranda og sú leið sem deiliskipulagið geri ráð fyrir.  Hvorki hafi verið færð rök fyrir að svo umfangsmikil stækkun sé nauðsynleg á sama tíma og dregið hafi úr fjölda nemenda né hvers vegna stækka þurfi húsnæði grunnskólans um tæplega 500 m² til að koma megi þar fyrir mötuneyti og verknámsstofu.  Virðist sveitarstjórn ekki hafa lagt nokkurt mat á það hvort önnur minna íþyngjandi úrræði hefðu komið til álita til að ná þessu sama markmiði.  Sé samþykkt sveitarstjórnar skýlaust brot gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Kærandi styður kröfu sína um ógildingu byggingarleyfisins við það að deiliskipulagið sem leyfið á stoð í beri að ógilda af þeim ástæðum sem raktar hafa verið.

Málsrök Fjallabyggðar:  Af hálfu Fjallabyggðar er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað.  Telji úrskurðarnefndin að einhver afmarkaður hluti deiliskipulagsins stangist á við lög að efni eða formi sé gerð sú krafa að skipulagið verði eingöngu fellt úr gildi hvað varði þann afmarkaða þátt. 

Viðurkennt sé að byggingarreitur samkvæmt skipulaginu sé stutt frá mörkum lóðar kæranda.  Á skipulagsreitnum séu hús reist mjög nálægt lóðamörkum og sum þeirra hvert upp að öðru.  Það eitt sé hvorki einsdæmi á reitnum né í byggðamynstri nálægðra reita.  Hæð viðbyggingar sé nokkur en þó ekki meiri en hæð hússins að Eyrargötu 3.  Mælikvarði fyrirhugaðrar viðbyggingar sé hins vegar annar en íbúðarhúsanna á svæðinu enda sé um stofnun að ræða.  Mælikvarðinn sé hins vegar í góðu samræmi við núverandi skólahús. 

Byggingin muni auka skuggavarp seinnipart dags þegar sól sé hæst á lofti en líta þurfi til landfræðilegra aðstæðna, þ.e. fjallanna í kringum bæinn sem sólin hverfi á bak við á þeim tíma.  Af þeim sökum hafi ekki verið talið nauðsynlegt að sýna skuggavarp seinnipart dags. 

Í greinargerð komi fram ástæður þess að byggt sé norðan en ekki sunnan við skólann.  Viðbygging sunnan við skólann myndi skyggja á suðurhlið hans, sem setji sterkan svip á umhverfið og hafi ákveðið varðveislugildi.  Þá myndi byggingin einnig rýra skólalóðina að sunnanverðu en þar sé aðalleiksvæðið.  Að auki hefði sú staðsetning sömu áhrif gagnvart öðrum húsum og nú gagnvart kæranda.  Þá hafi viðbygging á þessum stað verið talin falla betur að skipulagi núverandi húss. 

Tillagan taki mið af því að ekki sé gert ráð fyrir frekari uppbyggingu en umræddri viðbyggingu í samræmi við stefnu sveitarstjórnar í skólamálum.  Tilgangur umræddrar stækkunar sé að bæta aðstöðu nemenda, þ.e. með matsal og rými fyrir verknámsstofur, en ekkert húsnæði í grunnskólanum sé laust fyrir slíka starfsemi.  Ekki sé hægt að sýna fram á slíka nauðsyn frekar en nauðsyn á bættri aðstöðu almennt.  Ljóst megi vera að málefnaleg og lögmæt sjónarmið búi að baki ákvörðuninni, þ.e. betri kennsluaðstaða.  Ekki sé verið að byggja við skólann til þess eins að stækka hann eða af öðrum hvötum.  Fyrir liggi m.a. skýrsla um framtíðarskipan fræðslumála í Fjallabyggð frá árinu 2009 og byggi tillagan m.a. á niðurstöðu hennar um þörf fyrir húsnæði. 

Í grenndarrétti sé það viðurkennt að aðilar þurfi að búa við mismunandi aðstæður í grenndarréttarlegu tilliti eftir staðsetningu eigna.  Þannig sé mælikvarði, stærð og útlit húsa mjög mismunandi eftir því hvaða starfsemi fari þar fram, sem og með tilliti til áhrifa starfseminnar sjálfrar.  Í því tilviki sem hér um ræði verði vart séð að grenndaráhrif skipulagsins séu meiri en eigendur húsa, sem standi á eða við svæði fyrir opinberar stofnanir, megi búast við.  Þá sé aðstaðan sú að lóð kæranda sé umlukin skólalóð á þrjá vegu og ljóst að staða hennar sé nokkuð sérstök.  Allt framangreint hafi eiganda hússins á lóðinni nr. 3 við Eyrargötu mátt vera ljóst við kaup hússins.  Sé málið skoðað almennt sé ljóst að grenndaráhrif skipulagsins, að því er varði skólalóðina, séu ekki meiri en fólk sem búi í þéttbýli þurfi almennt að þola.  Hvorki skuggavarp, nálægð hússins né önnur áhrif af mögulegri viðbyggingu fari út fyrir slík mörk né séu þess eðlis að brjóti gegn grenndarrétti kæranda.  Ekki verður heldur séð að notkunarmöguleikar hússins rýrni frá því sem sé í dag.  Grenndarsjónarmið geti því ekki leitt til þess að skipulagið verði talið ólögmætt og ógildanlegt. 

Að baki þeirri ákvörðun að leyfa viðbyggingu við skólann búi lögmæt, málefnaleg og samfélagsleg sjónarmið.  Þá sé bent á 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 

Í skipulagi verði aldrei tryggt að allir geti notið ótakmarkaðrar sólar eða friðsældar, eða ótakmarkaðs útsýnis eða skjóls.  Skipulagsreglugerð mæli heldur ekki fyrir um það, en frekar að horfa beri til þessara þátta við gerð skipulags. 

Athugasemd kæranda um nýtingarhlutfall styðjist hvorki við efnisleg rök né ákvæði laga og reglugerða.  Hugtakið sé skýrt í skipulagslögum og reglugerð og beri að miða við það.  Samkvæmt því sé nýtingarhlutfall á skólalóðinni 0,45.

Ekkert hámark eða lágmark á fjarlægð milli húsa sé tiltekið í skipulagsreglugerð.  Fjarlægð milli umræddra bygginga sé ekki minni en almennt á reitnum eða reitum í nágrenninu.  Staðsetning byggingarreitsins sé með þeim hætti að hann sé ekki í höfuðsólarátt séð frá húsi kæranda og áhrif skuggavarps séu því ekki veruleg.  Ljóst megi vera að ekki sé hægt að tryggja í skipulagi í þéttbýli útsýni í allar áttir.

Hvað húsakönnun varði sé bent á að í deiliskipulaginu sé vísað til húsaskráningar fyrir Siglufjörð og gerð grein fyrir þeim húsum sem gert sé ráð fyrir að verði sett undir hverfisvernd í deiliskipulagi.  Í deiliskipulaginu sé tekið mið af þessu og húsin Aðalgata 14, 16 og 18 hverfisvernduð sem slík.  Skuli álit húsafriðunarnefndar liggja fyrir áður en samþykktar séu breytingar á þeim húsum.  Í sérákvæðum gr. 4.2 í skipulaginu sé og tekið fram að við breytingar eða endurbyggingar húsa á reitnum skuli byggingarmagn og hæð vera í samræmi við núverandi hús.  Jafnframt að við breytingar, endurbætur og endurbyggingu skuli upphafleg gerð, byggingarstíll og hlutföll virt.  Það sé því ekki rétt að ekki hafi farið fram könnun á varðveislugildi húsa á svæðinu og ekki hafi verið lagt mat á varðveislugildi einstakra húsa í skipulaginu.  Tillagan geri þannig ráð fyrir að öll húsin sem nú standi á reitnum standi þar áfram og að þeim húsum sem verndargildi hafi verði ekki breytt nema að fenginni umsögn Minjastofnunar Íslands.  Minnt sé á að tillagan hafi einnig verið send til Minjastofnunar Íslands til skoðunar, sem hafi ekki gerð athugasemd. 

Fjallabyggð telji að meðalhófs hafi verið gætt enda gangi skipulagið ekki á hagsmuni kæranda umfram það sem gera megi ráð fyrir í þéttbýli, m.t.t. fyrirliggjandi aðstæðna og aðalskipulags.  Áréttað sé að umdeild viðbygging við skólann sé til að mæta þörfum nemenda um betri aðstöðu við skólann til samræmis við nútíma kennsluhætti. 

Hið kærða byggingarleyfi eigi samkvæmt framansögðu stoð í lögmætu deiliskipulagi. 

Niðurstaða:  Hið kærða deiliskipulag tekur m.a. til skólalóðarinnar að Norðurgötu 10 á Siglufirði og í máli þessu er fyrst og fremst deilt um heimild fyrir viðbyggingu við skólahúsið sem þar stendur.  Með skipulaginu eru lóðir skilgreindar innan götureitsins, svo og byggingarreitur fyrir fyrirhugaða viðbyggingu, ásamt því að kveðið er á um fyrirkomulag bílastæða. 

Í 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segir að sveitarstjórn beri ábyrgð á og annist gerð deiliskipulags, en skv. 2. mgr. 37. gr. laganna skal gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Samkvæmt ákvæðum þessum hvílir á sveitarstjórnum sú skylda að hlutast til um gerð deiliskipulags þegar við á. 

Lóð grunnskólans við Norðurgötu 10 er á svæði sem skilgreint er í Aðalskipulagi Fjallabyggðar 2008-2028 sem svæði fyrir þjónustustofnanir og kemur þar fram að gert sé ráð fyrir að skólastofnanir geti stækkað á núverandi landnotkunarreitum á skipulagstímabilinu.  Samkvæmt 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga skal við gerð deiliskipulags byggja á stefnu aðalskipulags og er fyrirhuguð stækkun á húsnæði skólans því ekki í andstöðu við það ákvæði aðalskipulags.  Þá mátti vænta þess að breytingar yrðu gerðar á skólahúsnæðinu með hliðsjón af breyttum kröfum um umhverfi og aðstöðu.  Verður og að telja að málefnaleg sjónarmið hafi búið að baki ákvörðun bæjarstjórnar um stækkun húsnæðisins og staðsetning viðbyggingarinnar norðan við skólann tekur mið af lóð og leiksvæði barna. 

Hámarksbyggingarmagn nefndrar viðbyggingar er samkvæmt deiliskipulagi 470 m², hæð hennar skal að hámarki vera 8,7 m yfir gólfkóta 1. hæðar og vegghæð að hámarki 6,3 m og fjarlægð milli viðbyggingarinnar og húss kæranda verður 7,5 m.  Nýtingarhlutfall fyrir skólalóðina, að teknu tilliti til viðbyggingarinnar, verður 0,43.  Mun viðbyggingin af þessum sökum hafa töluverð grenndaráhrif gagnvart fasteign kæranda.  Verður þó ekki fallist á að sú skerðing sé svo veruleg að hinar kærðu ákvarðanir teljist af þeim sökum ólögmætar.  Leiði gildistaka hinnar umdeildu skipulagsákvörðunar hins vegar til þess að verðmæti eignar kæranda lækkar, nýtingarmöguleikar hennar skerðast frá því sem áður var heimilt eða hún rýrnar svo að hún nýtist ekki til sömu nota og áður kann það að leiða til bótaréttar skv. 51. gr. skipulagslaga, en úrlausn um álitaefni þar að lútandi er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar. 

Í hinu kærða deiliskipulagi er vikið að því hvaða hús skuli sett undir hverfisvernd, s.s. Norðurgata 10, en jafnframt er tilgreint að gert sé ráð fyrir að öll íbúðarhús sem þegar standi á skipulagssvæðinu standi þar áfram.  Við skipulagsgerðina var stuðst við húsaskráningu Fjallabyggðar í þessu efni og var eins og sakir stóðu ekki tilefni til frekari húsakönnunar við deiliskipulagsgerðina. 

Að öllu framangreindu virtu verður ekki séð að hið kærða deiliskipulag sé haldið slíkum annmörkum að ógildingu varði. 

Að framangreindri niðurstöðu fenginni liggur fyrir að hið kærða byggingarleyfi styðst við gilt deiliskipulag.  Þar sem ekki liggur fyrir að nokkrir þeir annmarkar hafi verið á meðferð málsins hjá byggingaryfirvöldum Fjallabyggðar að ógildingu geti varðað verður kröfu kæranda þar um hafnað. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá 15. maí 2013 um að samþykkja deiliskipulag grunnskólareits á Þormóðseyri á Siglufirði. 

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar frá 19. júní 2013 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við skólahúsnæði að Norðurgötu 10, Siglufirði.

____________________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson