Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

29/2013 Aðalstræti Patreksfjörður

Árið 2013, miðvikudaginn 18. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 29/2013, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Vesturbyggðar um álagningu sorpgjalds fyrir árið 2013 vegna fasteignarinnar nr. 120 við Aðalstræti á Patreksfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. mars 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl., f.h. Eignarhaldsfélagsins Fagrahvamms ehf., Fagrahvammi, Patreksfirði, þá ákvörðun sveitarstjórnar Vesturbyggðar að leggja sorphirðu- og sorpeyðingargjald fyrir árið 2013 á íbúðarhúsnæði félagsins að Aðalstræti 120, Patreksfirði, fnr. 212-3788 og 212-3787.  Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar vegna fasteignar sem er með fastanúmer 212-3787. 

Málavextir:  Álagningarseðlar fasteignagjalda fyrir árið 2013 bárust kæranda 28. janúar það ár.  Honum var gert að greiða 40.800 krónur í sorpgjald vegna Aðalstrætis 120, fnr. 212-3787, og sömu upphæð vegna fasteignar á sama stað, með fnr. 212-3788.  Í bréfi er fylgdi álagningarseðlunum kom fram að sorpgjald væri lagt á fyrir bæði sorphirðu og sorpeyðingu.  Með bréfi kæranda til sveitarfélagsins, dags. 11. febrúar 2013, krafðist hann þess m.a. að frá sorpgjaldi fyrir Aðalstræti 120 drægjust samtals 40.800 krónur, þar sem aðeins væri notast við eina tunnu.  Kærandi ítrekaði erindi sitt með bréfi, dags. 27. s.m., en ekki verður ráðið af gögnum málsins að bréfunum hafi verið svarað af hálfu sveitarfélagsins. 

Málsrök kæranda:  Kærandi bendir á að við álagningu nefndra gjalda beri að byggja á útgjöldum sveitarfélaganna vegna hinnar veittu þjónustu, sbr. 5. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og 1. og 3. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. 

Sorphirðu- og sorpeyðingargjöld falli í flokk þjónustugjalda.  Slík gjöld verði að meginreglu að byggja á lagaheimild og megi ekki vera hærri en sem nemi kostnaðinum sem almennt fylgi því að veita þjónustuna.  Séu þau hærri sé ekki lengur um þjónustugjöld að ræða heldur almenna tekjuöflun hins opinbera sem byggja verði á fullnægjandi skattlagningarheimild, sbr. 40. og 77. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944.  Þjónustugjöld verði þannig að miðast við þá þjónustu sem sveitarfélagið hafi sannanlega innt af hendi. 

Fyrirsvarsmenn kæranda hafi aðsetur í þeim fasteignarhluta sem sé nr. 212-3788.  Hluti nr. 212-3787 hafi aðeins verið nýttur sem geymsla og því sé sorphirðu- eða sorpeyðingarþjónusta sveitarfélagsins ekki nýtt vegna hans.  Kærandi hafi aðeins eina sorptunnu við húsið. 

Með vísan til framangreindra lagaheimilda og eðlis þjónustugjalda krefjist kærandi þess að frá kröfu sveitarfélagsins vegna fasteignagjalda fyrir 2013 dragist 15.800 krónur vegna sorphirðugjalds og 25.000 krónur vegna sorpeyðingargjalds fyrir fasteignina nr. 212-3787.  Í gjaldskrá sveitarfélagsins vegna fasteignagjalda árið 2013 sé miðað við ákveðið verð fyrir hverja nýtta tunnu. 

Málsrök sveitarfélagsins Vesturbyggðar:  Af hálfu Vesturbyggðar er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað.  Umhverfisgjöld hafi verið lögð á í sveitarfélaginu skv. gjaldskrá umhverfisgjalda í Vesturbyggð nr. 1237/2012.  Sé þar kveðið á um álagningu og innheimtu árlegs eyðingargjalds, sem sé 25.000 krónur fyrir íbúðarhúsnæði, og árlegs hirðingargjalds, 15.800 krónur fyrir hverja sorptunnu í þéttbýli.  Sé hið álagða gjald í samræmi við a-lið 2. gr. gjaldskrárinnar.  Heimilt sé samkvæmt samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Vesturbyggð nr. 214/2004 að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu, sbr. 2. mgr. 9. gr.  Þá skuli gjöld lögð á hverja fasteign skv. 3. mgr. 9. gr. samþykktarinnar. 

Vesturbyggð veiti þjónustu við að safna sorpi, sækja það til íbúðarhúsa og flytja til eyðingar á sorpurðunarstað.  Umhverfisgjaldi sé ætlað að standa undir kostnaði við að sækja og eyða sorpi sem falli til frá íbúðarhúsnæði.  Gjaldið sé lagt á hverja íbúðarhúsaeiningu eða fastanúmer og sé við það miðað að sveitarfélagið láti hverri íbúð í té eina sorptunnu.  Sumir þeirra sem búi í fasteign sem skráð sé sem tvö fastanúmer hafi kosið að nota aðeins eina sorptunnu þótt þeir eigi rétt á tveimur. 

Sveitarfélagið vísi einnig til þess að tekjur vegna sorphirðu í Vesturbyggð á árunum 2009-2011 hafi verið 76.874.329 krónur og gjöld 101.557.111 krónur.  Innifalin í þessum fjárhæðum sé gatnahreinsun og hreinsun opinna svæða.  Kostnaður sé þannig mun hærri en tekjur og gjaldskráin hafi verið of lág á þessum árum. 

Niðurstaða:  Álagningarseðlar bárust kæranda 28. janúar 2013 og var tekið fram í bréfi er fylgdi seðlunum að kærufrestur vegna álagningarinnar væri til 28. febrúar 2013 en ekki var tilgreint hvert kæra skyldi.  Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að ákvörðun var tilkynnt, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, en kæra barst úrskurðarnefndinni 15. mars 2013 eða um hálfum mánuði eftir lok kærufrests.  Krafðist kærandi endurskoðunar á hinni umdeildu álagningu með bréfum til sveitarfélagsins, dags. 11. og 27. febrúar 2013, en ekki verður af málsgögnum ráðið að þeim bréfum hafi verið svarað.  Var því kærufrestur ekki liðinn þegar kæra barst nefndinni, sbr. 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Í málinu er deilt um álagningu sorpgjalds vegna Aðalstrætis 120 á Patreksfirði.  Um sorphirðu gilda ákvæði laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs.  Í 11. gr. nefndra laga er mælt fyrir um heimildir sveitarfélaga til gjaldtöku fyrir meðhöndlun úrgangs.  Heimilt er að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi.  Unnt er að miða gjaldið við mælanlega þætti sem hafa áhrif á kostnað, svo sem magn úrgangs, en einnig má ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, sbr. 2. mgr. 11. gr.  Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. skal gjaldið aldrei vera hærra en nemur kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, en í greinargerð með ákvæðinu segir að heildartekjur sveitarfélags á grundvelli gjaldsins megi ekki vera hærri en heildarkostnaður við meðhöndlun úrgangsins.  Birta skal gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 4. mgr. 11. gr. 

Vesturbyggð hefur, með vísan til 3. ml. 5. mgr. 4. gr. laga um meðhöndlun úrgangs og 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sett samþykkt nr. 214/2004 um meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu.  Samþykktin var staðfest af ráðherra og birt í B-deild Stjórnartíðinda 10. mars 2004.  Þá hefur sveitarfélagið, með vísan til 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, sett gjaldskrá fyrir umhverfisgjöld í Vesturbyggð nr. 1237/2012, sem birt var 4. janúar 2013.  Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum var heildarkostnaður Vesturbyggðar við sorphirðu og sorpeyðingu árin 2009 til og með 2012 123.546.133 krónur og álögð gjöld vegna sorphirðu og sorpeyðingar sömu ár námu 109.523.640 krónum.  Er álagningin samkvæmt því í samræmi við skilyrði laganna um að álagning umræddra gjalda fari ekki fram úr  kostnaði sveitarfélagsins við veitta þjónustu. 

Í framangreindri samþykkt segir að heimilt sé að ákveða gjald fyrir meðhöndlun úrgangs sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta eða þjónustustig, sbr. 2. mgr. 9. gr.  Einnig segir að gjöld skuli lögð á hverja fasteign, stofnun eða fyrirtæki sem njóti þjónustunnar, sbr. 3. mgr. 9. gr.  Í gjaldskránni er kveðið á um að umhverfisgjald að fjárhæð 25.000 krónur skuli innheimt árlega fyrir einstakar íbúðir, sbr. a-lið 1. mgr. 2. gr. a.  Þá skuli hirðingargjald innheimt árlega, að fjárhæð 15.800 krónur á hverja sorptunnu, sbr. a-lið 2. mgr. greinds ákvæðis. 

Samkvæmt framangreindu ákvæði 2. mgr. 11. gr. laga um meðhöndlun úrgangs og 2. og 3. mgr. 9. gr. samþykktar sveitarfélagsins er heimilt að haga gjaldtöku svonefnds umhverfisgjalds á þann veg að heildarkostnaði sveitarfélagsins sé jafnað á hverja gjaldskylda fasteign.  Hirðingargjaldið að fjárhæð 15.800 krónur miðast hins vegar samkvæmt gjaldskrá við fjölda sorptunna.  Ekki er fyrir hendi heimild fyrir sveitarfélagið til þess að ákveða fjölda sorptunna fyrir hverja fasteign en óumdeilt er að aðeins ein tunna er við hús kæranda.  Skortir því lagastoð fyrir því að leggja hirðingargjald vegna tveggja sorptunna á eiganda Aðalstrætis 120 og verður umdeild álagning af þeim sökum felld úr gildi að því er varðar sorpílát umfram eitt. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi álagning hirðingargjalds vegna fasteignar kæranda að Aðalstræti 120, Patreksfirði, að fjárhæð 15.800 krónur. 

______________________
Ómar Stefánsson

_______________________________              ______________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson