Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

42/2012 Eyrarbraut

Með

Árið 2012, miðvikudaginn 1. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.  

Fyrir var tekið mál nr. 42/2012, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 13. mars 2012 um að veita stöðuleyfi til sex mánaða til að reisa á lóðinni að Eyrarbraut 37 á Stokkseyri sumarhús til flutnings. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. maí 2012, er barst nefndinni 11. sama mánaðar, kærir A, Eyrarbraut 10, Stokkseyri, þá samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 13. mars 2012 að veita stöðuleyfi til að reisa á lóðinni að Eyrarbraut 37 á Stokkseyri sumarhús til flutnings. 

Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.  Jafnframt fer kærandi fram á stöðvun framkvæmda og að húsið verði fjarlægt.  Málið er nú nægilega upplýst til að taka megi það til endanlegs úrskurðar og kemur krafa kæranda um stöðvun framkvæmda því ekki til sérstakrar úrlausnar. 

Málavextir:  Samkvæmt gildandi skipulagi er lóðin Eyrarbraut 37 skilgreind sem iðnaðar- og athafnalóð.  Leyfishafi sótti um stöðuleyfi til að reisa sumarhús til flutnings á lóðinni og samþykkti skipulags- og byggingarnefnd þá umsókn hinn 13. mars 2012 og veitti umsækjanda stöðuleyfi til sex mánaða.  Hófst hann eftir það handa við byggingu húss á lóðinni en kærandi skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 5. maí 2012, svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er því haldið fram að hann hafi orðið fyrir verulegu ónæði vegna framkvæmdanna, sem hafi hafist í apríl 2012, s.s. vegna hávaða.  Kærandi fari fram á að upplýst verði hvort ekki hafi þurft byggingarleyfi fyrir umræddu sumarhúsi samhliða stöðuleyfinu, hvort ekki hafi þurft framkvæmdaleyfi og eftirlit skipulags- og byggingarfulltrúa viðkomandi sveitarfélaga til að reisa heilu húsin, þó þau séu ætluð til flutnings, hvaða aðili taki út mannvirki af þessu tagi á byggingarstigi, hvort ekki hafi þurft að leggja fyrir skipulags- og byggingarnefndir teikningar þó mannvirkin séu ætluð til flutnings, hvort ekki hafi þurft að grenndarkynna framkvæmdina og loks hvort ekki hafi þurft að auglýsa hana sérstaklega.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar:  Af hálfu sveitarfélagsins er gerð krafa um að málinu verði vísað frá nefndinni, en til vara að kröfum kæranda verði hafnað.  Sveitarfélagið telji kæruna of seint fram komna, en skv. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 sé kærufrestur einn mánuður.  Kæran hafi verið móttekin af nefndinni 11. maí 2012, eða tæpum tveimur mánuðum eftir að stöðuleyfið hafi verið veitt og framkvæmdir við byggingu hússins hafist. 

Þá byggi sveitarfélagið frávísunarkröfu sína á því að kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.  Þrátt fyrir að kærandi sé íbúi við Eyrarbraut sé ljóst að milli lóðar kæranda og Eyrarbrautar 37 liggi ein helsta umferðargatan á Stokkseyri, auk þess sem hús kæranda sé staðsett við botnlanga inn af Eyrarbraut 12. 

Fallist nefndin ekki á að vísa kærunni frá geri sveitarfélagið kröfu um að nefndin hafni málatilbúnaði kæranda þannig að umdeilt stöðuleyfi haldi gildi sínu að fullu.  Byggi sveitarfélagið þessa kröfu sína á því að öll skilyrði hafi verið uppfyllt til útgáfu leyfisins skv. kafla 2.6 í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sbr. 9. tl. 1. mgr. 60. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.  Stöðuleyfi hafi verið veitt á grundvelli b-liðar gr. 2.6.1 þar sem fyrir hafi legið fullnægjandi upplýsingar til útgáfu þess og hafi sveitarfélagið ekki orðið vart við að forsendur hafi brostið fyrir veitingu leyfisins.  Rétt sé að fram komi að lóðin að Eyrarbraut 37 sé skilgreind sem athafnasvæði bæði í aðal- og deiliskipulagi og sé rekið trésmíðaverkstæði í núverandi húsnæði á lóðinni.  Megi því búast við að íbúar í nærliggjandi hverfi verði fyrir ónæði frá atvinnustarfsemi umfram það sem væri ef um hreina íbúðarhúsabyggð væri að ræða. 

Málsrök leyfishafa:  Handhafi hins kærða stöðuleyfis mótmælir málatilbúnaði og kröfum kæranda og krefst þess að þeim verði hafnað.  Um sé að ræða tímabundna framkvæmd og hafi tilskilinna leyfa verið aflað.  Ekki hafi stafað meira ónæði af framkvæmdunum en búast megi við að stafi frá starfsemi á skilgreindu athafnasvæði. 

Niðurstaða:  Ekki verður með vissu ráðið af málsgögnum hvenær kæranda mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun og verður að telja að kæra í máli þessu hafi komið fram innan kærufrests.  Þá verður ekki fallist á framkvæmdir samkvæmt leyfinu geti ekki snert hagsmuni kæranda.  Verður því ekki fallist á að vísa beri málinu frá úrskurðarnefndinni. 

Samkvæmt b-lið 1. mgr. gr. 2.6.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 skal sækja um stöðuleyfi fyrir frístundahúsum í smíðum sem ætluð eru til flutnings.  Af ákvæðinu leiðir að ekki er áskilið byggingarleyfi fyrir slíkum húsum á smíðastað, en byggingarleyfi þarf hins vegar fyrir þeim á þeirri lóð sem þeim er ætlað að standa á til frambúðar.  Hið kærða stöðuleyfi á sér stoð í tilvitnuðu ákvæði í byggingarreglugerð og er í samræmi við gildandi reglur um byggingu húsa til flutnings.  Þá á vinna við smíði hússins sér stað á skilgreindu athafnasvæði samkvæmt skipulagi.  Verður ekki fallist á að kærandi verði fyrir meira ónæði af smíði hússins en búast má við frá starfsemi á slíku svæði og verður því ekki fallist á kröfur hans um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu þeirrar ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 13. mars 2012 um að veita stöðuleyfi til sex mánaða til að reisa á lóðinni að Eyrarbraut 37 á Stokkseyri sumarhús til flutnings. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

49/2010 Bjargartangi

Með

Árið 2012, miðvikudaginn 4. apríl kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson formaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 49/2010, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 8. júní 2005 um að heimila breytingar og breytta notkun rýmis á neðri hæð undir bílskúr á lóðinni nr. 10 við Bjargartanga, Mosfellsbæ. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. júlí 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir Katrín Theodórsdóttir hdl., f.h. B og L, eigenda efri hæðar Bjargartanga 10, Mosfellsbæ, þá samþykkt bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 8. júní 2005 að heimila breytingar og breytta notkun rýmis á neðri hæð undir bílskúr á lóðinni nr. 10 við Bjargartanga.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Til vara er þess krafist að hún taki aðeins til þess sem þegar hafi verið framkvæmt samkvæmt úttekt, dags. 31. maí 2007, og að samþykkja þurfi nýtt byggingarleyfi vegna frekari framkvæmda. 

Málsatvik og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 27. maí 2005 var samþykkt umsókn þáverandi eigenda neðri hæðar hússins að Bjargartanga 10 um leyfi til að „…fá að setja bílskúrshurð á norðurhlið bílskúrs, Álfatangamegin, setja upp burðarbita inni í rými, fjarlægja súlu og klappir og gera fullgildan bílskúr úr því rými sem nú er skráð sem geymsla“.  Veittu kærendur samþykki sitt fyrir framkvæmdinni með bréfi, dags. 18. apríl 2005.  Staðfesti bæjarstjórn téða afgreiðslu byggingarfulltrúa hinn 8. júní s.á. 

Með bréfi, dags. 6. júlí 2005, fólu kærendur Húseigendafélaginu að rita leyfishöfum bréf vegna samþykktra teikninga sem þeir töldu ólögmætar.  Munu þær teikningar m.a. hafa sýnt frágang á bílskúr og nýtt fyrirkomulag á nýtingu lóðarinnar að Bjargartanga 10.  Var þess m.a. krafist í bréfinu að ákvæði um sérafnotarétt innan lóðar yrði afmáð af teikningum og nýjar teikningar yrðu lagðar fyrir byggingarfulltrúa.  Var nýjum og breyttum teikningum, sem sátt var um með íbúum hússins,  skilað inn og bókað um málið á fundi byggingarfulltrúa hinn 12. september 2005. 

Úttektir á framkvæmdum fóru fram 14. nóvember 2006 og 31. maí 2007 og sagði  m.a. í athugasemdum við síðari úttektina: „Stöðuúttekt á bílskúr, súla í miðju rými brotin niður. Stálbiti undir miðri plötu milli veggja. Stálbiti í lofti á (götu)vegg.“  Á árinu 2009 munu kærendur hafi óskað eftir að fá upplýsingar „um þau hönnunargögn sem lágu til grundvallar útgáfu byggingarleyfis“ og voru þeim af því tilefni afhentar járnbitateikningar.  Í kjölfar þessa fór þáverandi lögmaður kærenda fram á það með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 6. febrúar 2009, að kærendur fengju m.a. afrit þeirra hönnunargagna sem lágu fyrir þegar umrætt byggingarleyfi var veitt“, afrit  byggingarlýsingar sem fylgdi umsókn um byggingarleyfi og yfirlit yfir úttektir byggingarfulltrúa.  Jafnframt var þess óskað að sérstaklega yrði upplýst hvort búið væri að taka út frágang á styrkingu gólfplötu í bílskúr kærenda og hvort hún væri í samræmi við nýjustu samþykktar teikningar.  Einnig var þess farið á leit að upplýst yrði hvers vegna umrætt byggingarleyfi hefði verið veitt ef fullnægjandi gögn hefðu ekki legið fyrir.  Var enn fremur tilgreint að kærendur teldu sig hafa réttmæta ástæðu til að óttast að umrædd framkvæmd gæti verið ótraust og ekki grundvölluð á fullnægjandi hönnunargögnum.  Væru forsendur fyrir samþykki þeirra brostnar og það hefði í raun aldrei verið gilt ef í ljós kæmi að lögum hefði ekki verið fylgt við veitingu „framkvæmdaleyfis“.  Þá var bent á að nú væru senn liðin fjögur ár frá útgáfu byggingarleyfisins og framkvæmdin væri enn skammt á veg komin. 

Í svarbréfi byggingarfulltrúa, dags. 17. febrúar 2009, kom m.a. fram að í september 2005 hefði verið samþykkt byggingarleyfi fyrir breytingum á neðri hæð umrædds bílskúrs.  Einnig kom fram að í nóvember 2006 hefði farið fram úttekt á styrkingu loftplötunnar í samræmi við samþykkta uppdrætti, en að engir uppdrættir, hönnunargögn né beiðnir um úttekt á öðrum verkþáttum hefðu borist embætti byggingarfulltrúa.  Með bréfi þáverandi lögmanns kærenda til byggingarfulltrúa, dags. 20. apríl 2009, voru gerðar ýmsar athugasemdir við fyrrnefnt svarbréf.  Kom þar jafnframt fram sú afstaða kærenda að þar sem aðeins lægju fyrir hönnunargögn er lytu að því að fjarlægja súlu í bílskúr og saga op á vegg yrði að telja að byggingarleyfið heimilaði aðeins þá framkvæmd.  Var farið fram á að byggingarfulltrúi staðfesti þennan skilning kærenda.  Þá var áréttað að fjögur ár væru liðin frá því að leyfið hefði verið veitt og að framkvæmdir hefðu nú stöðvast um lengri tíma og að í ljósi þess léki vafi á að veiting byggingarleyfis hefði verið lögmæt í upphafi.  Var þess krafist að byggingarfulltrúi tæki afstöðu til þess hvort rétt væri að fella byggingarleyfið úr gildi, og eftir atvikum að leggja það til við sveitarstjórn, ella staðfesta að nýtt leyfi þyrfti til frekari framkvæmda og nýtt samþykki sameigenda. 

Með bréfi Húseigendafélagsins, f.h. kærenda, til núverandi eigenda neðri hæðar hússins að Bjargartanga 10, dags. 26. maí 2010, var ferill málsins rakinn.  Einnig kom m.a. fram að kærendur teldu nauðsyn á að gerð yrði áætlun um hvernig hagnýtingu rýmisins skyldi háttað svo öruggt væri og að útbúin yrðu vönduð hönnunargögn og verklýsing.  Ekkert svar mun hafa borist við bréfi þessu.  Með bréfi, dags. 22. júní 2010, svaraði byggingarfulltrúi fyrrgreindu bréfi lögmanns kærenda frá 20. apríl 2009.  Kom þar fram að hvorki væri fallist á að „veitt hafi verið ólögmætt byggingar- og framkvæmdaleyfi né heldur að byggingarleyfið verði fellt úr gildi“.  Þá sagði þar jafnframt að áframhaldandi framkvæmdir við verkið væru háðar því að nánari hönnunargögn yrðu lögð fram og að iðnmeistarar staðfestu ábyrgð sína á verkinu. 

Kærendur halda því fram að með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 22. júní 2010, hafi þeim fyrst orðið kunnugt um atriði þau sem þeir telji að leiði til ógildingar á byggingarleyfinu.  Þar hafi jafnframt birst sú afstaða bæjaryfirvalda að hvorki væri litið svo á að leyfið hafi verið ógilt frá upphafi né að fyrir hendi væru þær ástæður sem leiða ættu til ógildingar þess.  Sé á því byggt að hin kærða ákvörðun hafi verið haldin form- og efnisannmörkum.  Ennfremur sé bent á að skilja megi bréf byggingarfulltrúa frá 22. júní 2010 svo að einungis hafi verið gefið leyfi fyrir takmörkuðum verkþáttum. 

Af hálfu Mosfellsbæjar er krafist frávísunar málsins þar sem kæra sé of seint fram komin samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga.  Verði ekki fallist á frávísunarkröfu er þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað og áskilnaður gerður um frekari reifun málsins. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, er hér eiga við, er frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Fram kemur í gögnum málsins að kærendur gerðu athugasemd við samþykktar teikningar á árinu 2005 og í bréfi  þáverandi lögmanns kærenda til byggingarfulltrúa, dags. 6. febrúar 2009, er komið á framfæri athugasemdum vegna byggingarleyfis sem staðfest hafi verið í júní 2005.  Verður því lagt til grundvallar að kærendum hafi verið kunnugt, eða mátt vera kunnugt, um efni hinnar kærðu ákvörðunar þegar á árinu 2005 og að þeir hafi frá þeim tíma getað metað lögmæti hennar, eða í allra síðasta lagi í febrúar 2009, hvað sem leið svörum byggingaryfirvalda til þeirra. 

Kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni hinn 22. júlí 2010 og var kærufrestur þá liðinn. Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.  Samkvæmt 2. mgr. tilvitnaðrar 28. gr. skal kæru þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var kynnt aðila.  Þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni var meira en ár liðið frá því að kærendum mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun og verður það lagt að jöfnu við það að meira en ár hafi verið liðið frá því ákvörðun hafi verið kynnt aðila.  Ber því, með hliðsjón af 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Þeir liðir í málatilbúnaði kærenda, er lúta að því að framkvæmdir hafi ekki verið í samræmi við útgefið byggingarleyfi og að skort hafi á lögboðið eftirlit með framkvæmd verks, koma ekki til álita í málinu, enda liggja ekki fyrir neinar kæranlegar ákvarðanir er þá liði varða.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                ________________________
  Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson

50/2009 Nönnugata

Með

Árið 2012, miðvikudaginn 25. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson lögfræðingur, varaformaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 50/2009, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 10. júní 2009 um að ógilda byggingarleyfi frá 29. júní 1989, sem heimilaði byggingu ofan á vesturhluta hússins nr. 10 við Nönnugötu í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. júlí 2009, er barst nefndinni sama dag, kærir B, Miðbraut 30, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 10. júní 2009 að ógilda byggingarleyfi frá 29. júní 1989, sem heimilaði byggingu ofan á vesturhluta hússins nr. 10 við Nönnugötu í Reykjavík.  Borgarráð staðfesti þá ákvörðun hinn 11. júní 2009.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum bárust byggingaryfirvöldum í Reykjavík tvær umsóknir um hækkun sambyggðra húsa nr. 10 og 10a á lóðinni að Nönnugötu 10 í Reykjavík á árinu 1988.  Í kjölfar þess var samþykkt deiliskipulag þar sem heimilað var að byggja eina hæð ofan á Nönnugötu 10a og hálfa hæð, þ.e. nýtanlegt ris, á húsið Nönnugötu 10.  Byggingarnefnd afgreiddi síðan nefndar umsóknir hinn 29. júní 1989 með því að heimila sömu hækkun beggja húsa og að undirgangi yrði lokað, m.a. með innbyggðri sorpgeymslu.  Var húsið Nönnugata 10a í kjölfarið hækkað í samræmi við samþykktar teikningar.  Ekki var hins vegar ráðist í hækkun hússins Nönnugötu 10, en byrjað var á framkvæmdum við sorpgeymslu á lóðinni og gerði byggingarfulltrúi úttekt á botnplötu hennar hinn 17. desember 1992. 

Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 30. maí 2007, var kæranda veittur fjögurra mánaða frestur til að ljúka framkvæmdum við áðurgreinda sorpgeymslu og jafnframt veittur eins árs frestur til að leggja fram og fá samþykkt hönnunargögn vegna ofan á byggingar á Nönnugötu 10.  Hinn 19. júní 2007 gaf embætti byggingarfulltrúa út yfirlýsingu um að byggingarleyfið frá árinu 1989 væri í samræmi við samþykkt deiliskipulag, en ef framkvæmdir yrðu ekki hafnar fyrir 19. júní 2008 félli leyfið til framkvæmda sjálfkrafa úr gildi.  Úttekt mun hafa verið gerð á sökkulveggjum sorpgeymslunnar hinn 10. júlí 2007. 

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 4. apríl 2008 var lagt fram bréf eigenda Nönnugötu 10a, dags. 26. mars 2008, þar sem m.a. var óskað eftir að fallið yrði frá leyfi fyrir fyrirhugaðri hækkun hússins Nönnugata 10 samkvæmt samþykktum teikningum frá 1989. 

Hinn 11. júlí 2008 sendi byggingarfulltrúi kæranda bréf þar sem tilkynnt var um áform um að fella byggingarleyfið frá 1989 úr gildi á grundvelli 14. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Kom þar og fram að ekki hefði verið beðið um úttekt á þeim verkþætti við sorpgeymslu sem kæranda hefði verið gert að ljúka samkvæmt fyrirmælum í bréfi embættisins frá 30. maí 2007 og væri leyfi til framkvæmda frá 19. júní s.á. því fallið úr gildi. 

Á fundi skipulagsráðs hinn 10. júní 2009 var lagt fram bréf byggingarfulltrúa, dags. 15. mars s.á., þar sem gerð var tillaga um ógildingu á samþykkt byggingarnefndar frá 29. júní 1989 um ofanábyggingu vesturhluta húss að Nönnugötu 10.  Skipulagsráð samþykkti tillögu byggingarfulltrúa með eftirfarandi bókun:  „Tillaga byggingarfulltrúa sem fram kemur í bréfi dags. 15. mars 2009 samþykkt m.a. með vísan til ákvæða 14. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Jafnframt er lóðarhafa leiðbeint um að hann getur sótt um byggingarleyfi í samræmi við ákvæði deiliskipulags og ákvæði gildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998.“  Borgarráð staðfesti þessa afgreiðslu skipulagsráðs hinn 11. júní 2009.  Hefur kærandi skotið þessari ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Kærandi bendir á að áætlað hafi verið að hefjast þegar handa við áformaðar byggingarframkvæmdir að Nönnugötu 10 eftir útgáfu byggingarleyfisins frá 19. júní 2007, líkt og úttekt hinn 7. júlí 2007 staðfesti.  Gerð séruppdrátta, sem hafi verið forsenda frekari framkvæmda, ásamt öðrum ástæðum hafi hins vegar tafið þá ætlan. 

Eftir útgáfu byggingarleyfisins hinn 19. júní 2007 hafi þeir frestir sem veittir hafi verið, í bréfi byggingarfulltrúa frá 30. maí s.á., fallið niður.  Þrátt fyrir að kærandi hafi leitast við að klára málið í samræmi við þessa fresti, sem gefnir hafi verið í umræddu bréfi byggingarfulltrúa, hafi þeir frestir enga þýðingu í máli þessu og geti því ekki verið forsenda fyrir afturköllun byggingarleyfisins.  Einu tímamörkin sem kærandi sé bundinn af að lögum sé sá frestur sem settur hafi verið í byggingarleyfinu sjálfu, en þar komi fram að hafi framkvæmd ekki hafist fyrir 19. júní 2008 falli leyfið sjálfkrafa úr gildi.  Í málinu liggi fyrir að framkvæmdir hafi hafist fyrir tilgreindan frest, eins og úttekt hinn 7. júlí 2007 beri með sér.  Leyfið sé því enn í gildi, þrátt fyrir fullyrðingar um annað í bréfi byggingarfulltrúa, sbr. grein 14.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Verði af einhverjum ástæðum litið svo á að framkvæmdir hafi ekki verið hafnar innan tilskilins frests sé a.m.k. ljóst að séruppdráttum hafi verið skilað fyrir 19. júní 2008, eða hinn 5. s.m.  Vegna afstöðu byggingarfulltrúa til þess að settum skilyrðum hans hafi ekki verið fylgt hafi ekki verið lokið við yfirferð séruppdráttanna og kæranda því verið ómögulegt að hefjast handa við frekari vinnu við verkið fyrir 19. júní 2008. 

Í fyrrnefndu bréfi byggingarfulltrúa frá 11. júlí 2008 sé fullyrt að leyfið frá 19. júní 2007 sé sjálfkrafa fallið úr gildi.  Jafnframt sé boðað að fellt verði úr gildi leyfið frá 29. júní 1989.  Ekki sé því ljóst hvaða ákvörðun sé verið að fella úr gildi, enda áhöld um hvort borgin líti svo á að um tvö byggingarleyfi hafi verið að ræða, þ.e. annað frá 2007 og hitt frá 1989.  Byggingarleyfið frá 1989 hafi ekki verið bundið neinum tímaskilyrðum svo vitað sé og hafi því verið ólögmætt að fella það úr gildi.  Þá vakni einnig sú spurning hvort heimilt hafi verið við útgáfu leyfisins hinn 19. júní 2007 að bæta inn slíku skilyrði. 

Þá verði ekki séð hvaða þýðingu afturköllun byggingarleyfisins hafi.  Kærandi gæti sótt um leyfi að nýju enda til samþykkt skipulag af svæðinu sem heimili þá framkvæmd sem leyfið byggi á.  Ekki verði séð að neinar lögmætar forsendur væru til að hafna slíkri umsókn bærist hún að nýju.  Sé hins vegar verið að boða afturköllun staðfestingar sveitastjórnar sé slíkt ekki mögulegt enda engar lagaheimildir til staðar samkvæmt almennum reglum stjórnsýslulaga.  Samþykkt byggingarleyfi falli eingöngu niður hafi framkvæmdir ekki verið hafnar, sbr. 4. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Fyrir liggi að framkvæmdir hafi verið hafnar og ljóst að engar forsendur séu fyrir hinni kærðu afturköllun byggingarleyfis kæranda. 

Engin lögmæt eða málefnaleg sjónarmið hafi verið færð fyrir því að afturkalla umrætt leyfi, en um sé að ræða íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem þurfi að eiga stoð í ótvíræðum lagasjónarmiðum.  Það valdi kæranda miklu fjárhagslegu tjóni að fella leyfið úr gildi og áskilji hann sér allan rétt af því tilefni. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað og að staðfesting borgarráðs, dags. 11. júní 2009, á ógildingu byggingarleyfis frá 29. júní 1989 verði staðfest. 

Málið eigi sér nokkra forsögu eða allt aftur til ársins 1988.  Við skoðun málsins árið 2006 hafi það verið trú embættis byggingarfulltrúa að hægt væri að fá húseiganda til að ljúka framkvæmdum við sorpgeymslu.  Ljóst hafi verið að með bréfi embættisins til kæranda hinn 30. maí 2007 hafi verið álitið að byggingarleyfi vegna sorpgeymslu væri enn í gildi þar sem framkvæmdir hafi verið hafnar við hana, þrátt fyrir þann ágalla að yfirsést hafi við úttekt 17. desember 1992 að leyfið væri fallið úr gildi.  Með þessu hafi verið veitt heimild til að halda áfram framkvæmdum við sorpgeymsluna og gefinn fjögurra mánaða frestur til að ljúka þeim.  Í bréfi byggingarfulltrúa hafi verið skýrt tekið fram að áður en lengra yrði haldið með byggingu ofan á umrætt hús yrði að skila inn og fá samþykkt hönnunargögn og hafi verið veittur eins árs frestur til þess. 

Við samþykkt byggingarleyfis á árinu 1989 hafi verið sett tvö skilyrði fyrir framhaldi byggingaráforma að Nönnugötu 10, annars vegar fjögurra mánaða tímafrestur vegna sorpgeymslu og hins vegar að öllum hönnunargögnum vegna frekari framkvæmda skyldi skilað og þau samþykkt innan eins árs.  Bent sé á að kærandi hafi ekki gert athugasemdir við framangreind skilyrði þegar þau hafi verið sett.  Hinn 19. júní 2007 hafi verið gefið út byggingarleyfi fyrir sorpgeymslunni og í því tekið fram að hafi framkvæmdir ekki hafist fyrir 19. júní 2008 félli leyfið sjálfkrafa úr gildi.  Skyldi framkvæmdum lokið innan áðurgreinds fjögurra mánaða frests, en það hafi ekki gengið eftir. 

Bent sé á að með útgáfu umrædds byggingarleyfis hafi einungis verið veitt leyfi fyrir áframhaldandi framkvæmdum við sorpgeymslu, enda hafi byggingarfulltrúi, með bréfi, dags. 30. maí 2007, gert kæranda grein fyrir því að skila þyrfti inn hönnunargögnum vegna byggingar ofan á umrætt hús.  Kærandi hafi því mátt vita að ekkert byggingarleyfi lægi fyrir vegna hennar.  Úttekt á sökkulveggjum sorpgeymslu hafi verið gerð hinn 10. júlí 2007, en engin úttekt hafi farið fram vegna ofanábyggingar, enda skilyrði um skil hönnunargagna ekki uppfyllt.  Veittur frestur til að skila inn hönnunargögnum hafi runnið út 30. maí 2008.  Embætti byggingarfulltrúa hafi móttekið burðarvirkisuppdrætti hinn 5. júní 2008 en aðrir uppdrættir hafi ekki borist. 

Í 14. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 sé kveðið á um að byggingarleyfi falli úr gildi hafi byggingarframkvæmdir ekki hafist innan 12 mánaða frá útgáfu þess en þær teljist hafnar þegar undirstöður hafi verið steyptar eða byggingarfulltrúi hafi eftir atvikum lokið úttekt á einum eða fleirum úttektarskyldum verkþáttum.  Ekki sé í ákvæðinu gerður sérstakur áskilnaður um að lögmæt sjónarmið þurfi að liggja að baki afturköllun byggingarleyfa heldur sé um hlutlægt ákvæði að ræða sem byggi á tímamörkum.  Sé sú regla eðlileg svo ekki sé hægt að draga að hefja framkvæmdir svo árum skipti, líkt og hér eigi við.  Fullgild og lögmæt sjónarmið hafi legið að baki þeirri ákvörðun að fella byggingarleyfið úr gildi enda hafi kærandi ekki sinnt framkvæmdum, nema til málamynda, í um 20 ár.  Kæranda hafi í bókun skipulagsráðs verið leiðbeint um að hægt væri að sækja á ný um byggingarleyfi en hann hafi kosið að gera það ekki.  Í ljósi þess langa tíma sem liðinn hafi verið frá samþykki byggingaráforma árið 1989 hafi það verið mat embættis byggingarfulltrúa að taka yrði tillit til m.a. ákvæða byggingarreglugerðar við byggingarframkvæmdina.  Ekki verði annað ráðið af reglugerðinni en að byggingarfulltrúi geti sett tímafresti varðandi verklok eða frágang á lóðum.  Fyrir liggi að einhverjar framkvæmdir hafi átt sér stað við sorpgeymslu en þeim ekki lokið, með tilheyrandi neikvæðum umhverfisáhrifum og óþægindum fyrir nágranna og almenning. 

Niðurstaða:  Með hinni kærðu ákvörðun var fellt úr gildi byggingarleyfi frá 29. júní 1989 fyrir hækkun vesturhluta húss á lóðinni að Nönnugötu 10 í Reykjavík.  Var leyfið gefið út með áritun byggingarnefndar á aðaluppdrætti fyrrnefndan dag.  Ekki hefur verið ráðist í þá heimiluðu hækkun hússins, en í desember 1992 voru hafnar framkvæmdir við byggingu sorpgeymslu á lóðinni samkvæmt úttekt á botnplötu hennar, sem fram fór hinn 17. desember það ár. 

Er byggingarleyfið fyrir breytingum á umræddu húsi var veitt voru í gildi byggingarlög nr. 54/1978.  Samkvæmt 15. gr. þeirra laga féll byggingarleyfi úr gildi ef framkvæmdir hófust ekki innan 12 mánaða frá útgáfu þess og var þar miðað við að þær teldust hafnar þegar undirstöður hefðu verði steyptar.  Fyrir liggur að framkvæmdir við heimilaða hækkun umrædds húss hófust ekki innan 12 mánaða frá útgáfu byggingarleyfisins og féll það því úr gildi hinn 29. júní 1990 samkvæmt fyrrgreindu ákvæði byggingarlaga.  Úttekt sem síðar var gerð á botnplötu sorpgeymslunnar breytir engu þar um og ekki liggur fyrir að nýtt byggingarleyfi fyrir hækkun hússins hafi síðar verið veitt eða gefið út í samræmi við gildandi reglur.  Hefur hin kærða ákvörðun því enga þýðingu um gildi byggingarleyfisins frá árinu 1989.  Samkvæmt því hefur kærandi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar og verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

48/2008 Kiðjaberg

Með

Árið 2012, miðvikudaginn 4. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson formaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 48/2008, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 8. maí 2008 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi frístundasvæðis í landi Kiðjabergs. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. júlí 2008, er barst nefndinni sama dag, kærir Ívar Pálsson hrl., f.h. Þ og Þ, Glaðheimum 14, Reykjavík, eigenda sumarhúss á lóð nr. 111 (áður 120) í landi Kiðjabergs í Grímsnesi, þá ákvörðun hreppsnefndar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 8. maí 2008 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi frístundasvæðis í landi Kiðjabergs.  Auglýsing um gildistöku breytingarinnar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 23. júní 2008.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik:  Mál þetta á sér nokkra forsögu en deilur hafa verið um deiliskipulags ákvarðanir sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps er varða frístundasvæði í landi Kiðjabergs, en upphaflegt deiliskipulag svæðisins er frá árinu 1990.  Hinn 23. ágúst 2006 öðlaðist gildi breyting á umræddu deiliskipulagi er varðaði stærð og legu sumarhúsalóða á svæðinu og hinn 9. október 2006 tók gildi deiliskipulagsbreyting er laut að stærð og hæð sumarhúsa þar.  Voru breytingar þessar kærðar til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sem með úrskurði uppkveðnum 4. júlí 2007 vísaði frá kæru á fyrri skipulagsbreytingunni en felldi þá síðari úr gildi.  Þá voru einnig felld úr gildi leyfi til bygginga tveggja sumarhúsa á skipulagssvæðinu. 

Hinn 24. september 2007 öðlaðist enn á ný gildi breyting á deiliskipulagi svæðisins er varðaði stærð, hæð og útlit sumarhúsa þar.  Var breytingin kærð til úrskurðarnefndarinnar, sem með úrskurði uppkveðnum hinn 8. janúar 2008 felldi hana úr gildi.  Þá voru jafnframt felld úr gildi leyfi til bygginga fyrrgreindra sumarhúsa.  Á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu 30. janúar 2008 var lögð fram að nýju tillaga að breytingu á skilmálum deiliskipulags í landi Kiðjabergs, orlofs- og sumarhúsasvæðis Meistarafélags húsasmiða.  Í fundargerðinni kom m.a. fram eftirfarandi:  „Í tillögunni felst að gerð er breyting á skilmálum er varða stærð og útlit húsa, h. lið í greinargerð deiliskipulagsins.  Gert er ráð fyrir að heimilt verði að reisa allt að 350 m2 frístundahús að grunnfleti og 40 m2 aukahús á hverri lóð, þó þannig að nýtingarhlutfall verði ekki hærra en 0,03.  Einnig verða breytingar er varða hæðir húsa, mænishæð og þakhalla.  Sambærileg breyting á skilmálum svæðisins var samþykkt í sveitarstjórn 6. september 2007 og tók hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 24. september 2007.  Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála felldi breytinguna síðan úr gildi að kröfu lóðarhafa á lóð nr. 111 í landi Kiðjabergs með úrskurði þann 8. janúar 2008 með vísan til þess að formlegri afgreiðslu sveitarstjórnar hefði verið ábótavant.  Af hálfu greindra lóðarhafa hafa athugasemdir fyrst og fremst beinst að sumarhúsabyggingum á lóðum nr. 109 og 112.  Ákvæði 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga stendur ekki í vegi umræddrar breytingar á skilmálum svæðisins.  Er því tillagan lögð fram að nýju.  Samþykkt að auglýsa tillöguna skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.“ 

Fundargerð skipulagsnefndar var samþykkt í sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps 7. febrúar 2008.  Var tillagan auglýst til kynningar í Lögbirtingablaðinu hinn 21. s.m.  Auglýsingin birtist einnig í Glugganum, 24 stundum og á heimasíðu skipulagsfulltrúa.  Kærendur gerðu athugasemdir við tillöguna með bréfum, dags. 2. og 3. apríl sama ár.  Hinn 23. apríl 2008 var málið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar þar sem eftirfarandi var bókað:  „Tillagan var í kynningu frá 21. febrúar til 20. mars 2008 með athugasemdafresti til 3. apríl 2008.  Þrjú athugasemdarbréf bárust á kynningartíma.  Fyrir liggur umsögn skipulagsfulltrúa um innkomnar athugasemdir.  Samþykkt skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga og er umsögn skipulagsfulltrúa samþykkt.“ 
Hinn 8. maí 2008 var fundargerð skipulagsnefndar samþykkt í sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps.  Með bréfum, dags. 29. maí 2008, var málið sent Skipulagsstofnun og umsögn skipulagsfulltrúa send þeim aðilum sem gert höfðu athugasemdir.  Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 11. júní 2008, kom fram að stofnuninni væri kunnugt um að byggingar sem væru ekki í samræmi við gildandi deiliskipulagsskilmála hefðu verið reistar á svæðinu og með vísan til 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga gerði stofnunin athugasemd við að auglýsing um gildistöku skipulagsins yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda. 
Kærendur höfðuðu mál fyrir Héraðsdómi Suðurlands, með stefnu þingfestri 4. júní 2008, þar sem þess var krafist að felld yrði úr gildi samþykkt um breytingu á deiliskipulagi Kiðjabergs, er öðlast hafði gildi 23. ágúst 2006 og tók til lóðarstærða.  Jafnframt var þess krafist að hús á lóðum nr. 109 og 112 yrðu fjarlægð.  Lauk meðferð málsins með dómi Hæstaréttar 9. desember 2010 þar sem öllum kröfum kærenda var hafnað. 
Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé ólögmæt með vísan til þess að samkvæmt 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé óheimilt „… að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hefur verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hefur verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.“ 

Margar byggingar hafi verið reistar og framkvæmdir átt sér stað á svæðinu í ósamræmi við gildandi skilmála.  Sambærilegir skilmálar hafi áður verið samþykktir en felldir úr gildi með úrskurði nefndarinnar frá 4. júlí 2007.  Sveitarstjórn hafi aftur samþykkt skilmálana hinn 6. september 2007, en þeir hafi enn verið felldir úr gildi með úrskurði nefndarinnar frá 8. janúar 2008.  Þá hafi kærendur þrisvar kært byggingarleyfi fyrir sumarhúsum á lóðunum nr. 109 og 112, sem haldið sé fram að byggð hafi verið eftir umræddum skilmálum.  Með úrskurði nefndarinnar frá 4. júlí 2007 hafi byggingarleyfi þessara húsa verið felld úr gildi þar sem leyfi þeirra hafi byggt á skilmálum sem þá hafi verið samþykktir á ólögmætan hátt.  Byggingarleyfi fyrir framangreindum húsum hafi aftur verið gefin út 25. september 2007.  Með úrskurði nefndarinnar 8. janúar 2008 hafi byggingarleyfi húsanna enn á ný verið felld úr gildi af sömu ástæðum.  Byggingarleyfi fyrir báðum þessum húsum hafi verið samþykkt löngu áður en umræddir skilmálar hafi verið samþykktir.  Hafi sveitarfélagið fyrst þurft að hlutast til um að hinar ólögmætu byggingar yrðu fjarlægðar áður en skipulaginu hafi verið breytt.  Þar sem það hafi ekki verið gert sé breytingin í beinni andstöðu við umrætt lagaákvæði, sem sett hafi verið til að koma í veg fyrir háttsemi af þessum toga.  Tilgangur samþykktar skilmálanna virðist því hafa verið sá að koma sér hjá bótaskyldu gagnvart eigendum allra þeirra húsa sem reist hafi verið í trássi við skipulag, þ.m.t. á lóðunum nr. 109 og 112. 

Kærendur telji deiliskipulagsbreytinguna ólögmæta þar sem ólögmætt sé að breyta tiltölulega nýlegu deiliskipulagi, eins og hér um ræði, enda verði eigendur fasteigna að geta treyst því að því umhverfi og þeim réttindum sem þeim séu sköpuð með skipulagsáætlunum sé ekki breytt nema fyrir því liggi sterk málefnaleg og lögmæt sjónarmið.  Með breytingu sem þessari sé raskað öllum þeim væntingum sem kærendur hafi haft er þau sóttu um og fengu lóð á svæðinu og hófu þar uppbyggingu. 

Þá sé því haldið fram að hin kærða breyting á skilmálum sé andstæð reglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og stjórnsýsluréttar um samræmi og jafnræði borgaranna.  Með því að breyta skilmálum eftir á sitji lóðarhafar ekki við sama borð. 

Þegar kærendur hafi keypt lóð á Kambasvæðinu í landi Kiðjabergs hafi verið heimilt að byggja þar 60 m² hús.  Útivistarsvæði hafi verið mikil í nágrenni lóðar þeirra og flestar lóðir á svæðinu hafi verið um 0,5-0,7 ha og 50 m breiðar.  Hafi væntingar kærenda við lóðarkaupin verið í samræmi við þágildandi skipulag.  Nú hafi lóðir í kring um lóð kærenda verið stækkaðar allt upp í 1,55 ha og útivistarsvæði tekið undir nýjar lóðir.  Hin kærða breyting muni því skerða mjög friðhelgi og grenndarrétt kærenda.  Hærri og stærri hús kalli á meiri yfirsýn yfir lóð þeirra, og gera megi ráð fyrir fleira fólki í hverju húsi og aukinni umferð.  Hægt verði að reisa 350 m² hús að grunnfleti, þriggja hæða, með flötu þaki, 6 m að hæð frá gólfi að mæni og kjallara þar undir, eða samtals 1050 m², auk 40 m² geymslu eða gestahúss.  Að auki hafi þegar verið leyfðar tengibyggingar á milli aðalhúss og aukahúss sem ekki séu taldar með í stærðartölu.  Í nýju skipulagi séu lóðir norðan við lóð kærenda aðeins 65 m á breidd, þrátt fyrir mikla stækkun, en stækkunin sé öll á lengdina og séu þær því óvenju langar og mjóar, eða 160 og 200 m langar.  Byggingarreitir efst á lóðarmörkum séu stækkaðir og séu jafn nálægt lóðarmörkum og fyrr.  Lóðir sunnan við lóð kærenda séu 34-50 m breiðar og tvær lóðir liggi samsíða þeirra lóð.  Þéttleiki byggðar á svæðinu umhverfis lóð kærenda verði því mjög mikill þótt byggingarmagn hverrar lóðar sé takmarkað við 3% af stærð hennar. 

Ekki séu fordæmi fyrir að leyfð sé bygging svo stórra húsa á svæði skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu, hvorki í þegar byggðum sumarhúsahverfum né nýjum.  Sumarhús kærenda verði komið inn í ígildi stóreinbýlishúsasvæðis og megi þeir eiga von á fastri búsetu fólks þar.  Það sé þvert ofan í væntingar kærenda um friðsæla sumarhúsabyggð eins og upphaflegt skipulag hafi gert ráð fyrir.  Með breytingunni séu leyfð flöt þök sem samræmist engan veginn þeirri byggð sem fyrir sé og opni möguleika á viðverurými á háum þökum húsa með óhindruðu útsýni yfir á næstu lóðir.  Þá séu leyfðir geymslukjallarar undir hús og þegar hafi verið reist hús sem sé orðið þriggja hæða.  Sé það byggt við brekkurætur og auki það yfirsýn yfir útivistarsvæði þar sem síður verði næði til útivistar.  Ákvæði um ákveðinn lit og efni á þökum og veggjum sé fellt úr gildi.  Því sé nú allt leyfilegt sem skapi ósamræmi og raski heildrænni sýn svæðisins.  Á lóðum nr. 109 og 112 séu t.d. komin hús með glerveggi og álveggi.  Glerveggir skapi ekki aðeins óhefta yfirsýn heldur sé gífurlegt endurvarp af sólargeislum og einnig sé mikil birtumengun að kvöldlagi frá ljósum innandyra.  Álveggir skapi sömuleiðis endurvarp ljóss. 

Þá mótmæli kærendur því harðlega að jafn róttæk tillaga að breyttum skilmálum deiliskipulags hafi ekki verið kynnt lóðarhöfum áður en hún hafi verið auglýst til kynningar.  Auglýsing í staðarblöðum á Suðurlandi nái ekki til sumarhúsaeigenda á höfuðborgarsvæðinu. 

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps:  Af hálfu sveitarfélagsins er þess aðallega krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en til vara að ákvörðun sveitarstjórnar verði staðfest. 

Aðalkrafa um frávísun sé byggð á því að kærufrestur samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi verið liðinn þegar kæran barst úrskurðarnefndinni hinn 24. júlí 2008.  Þá eigi kærendur ekki einstaklega og lögvarða hagsmuni af ógildingu skilmálanna, sbr. tilvitnað lagaákvæði, sökum þess að dómsmál, höfðað af kærendum á hendur sveitarfélaginu, byggi á sömu málsástæðum og fram komi í kæru, þ.e. fyrst og fremst 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Þá eigi kærendur ekki lögvarða hagsmuni af ógildingu skilmála fyrir allt það svæði sem viðkomandi breyting taki til.  Bæði aðal- og deiliskipulag sé í gildi á umræddu svæði en ágreiningur afmarkist nú við skilmálana sem slíka, þ.e. stærðir tveggja húsa.  Þrátt fyrir það sé ekki að finna rökstuðning fyrir því með hvaða hætti húsin, sem nú séu fullbúin, hafi áhrif á hagsmuni kærenda. 

Þeirri málsástæðu kærenda að fjarlægja þurfi byggingarnar á grundvelli 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga áður en hægt sé að samþykkja nýja deiliskipulagsskilmála fyrir svæðið sé harðlega mótmælt.  Byggingarnar séu í samræmi við skipulag, þ.e. aðalskipulag og deiliskipulag frá 7. desember 2005 sem hafi tekið gildi 23. ágúst 2006. 

Benda megi á að framkvæmdir við hús á lóð nr. 112 hafi hafist eftir að breytingar á skilmálum deiliskipulagsins hafi tekið gildi haustið 2006.  Frá þeim tíma og allt til 4. júlí 2007 hafi framkvæmdirnar verið í samræmi við byggingarleyfi og gildandi deiliskipulag.  Húsin sem hafi risið á lóðum nr. 109 og 112 séu í góðu samræmi við hús sem hafi verið leyfð á öðrum svæðum innan sveitarfélagsins.  Það geti ekki talist skynsamlegt að rífa húsin til þess eins að leyfa uppbyggingu þeirra þegar nýir skipulagsskilmálar hafi tekið gildi. 

Skipulagið í Kiðjabergi sé eitt elsta deiliskipulag frístundabyggðar í sveitarfélaginu.  Á þeim tíma þegar upphaflegt deiliskipulag hafi verið unnið hafi ekki verið heimilt að byggja stærri frístundahús en 60 m² samkvæmt lagafyrirmælum og hafi skipulagið miðast við þá stærð.  Í dag sé ekki kveðið á um hámarksstærð frístundahúsa í lögum og sé litið til þróunar síðustu ára þá hafi frístundahús smám saman verið að stækka í samræmi við kröfur húsbyggjenda.  Ekki sé talið óeðlilegt að þessi þróun nái einnig til byggðarinnar í Kiðjabergi. 

Þá séu skilmálar eðlilegir í samræmi við fordæmi.  Leyfilegt byggingarmagn á hverri lóð megi samkvæmt deiliskipulagsskilmálunum ekki vera meira en 3%.  Þetta þýði t.d. að á lóð sem sé 0,5 ha megi byggingarmagn ekki fara upp fyrir 150 m².  Gildi það fyrir allt svæðið.  Sé það í góðu samræmi við þróun annarra svæða í Grímsnes- og Grafningshreppi, sem og nágrannasveitarfélögum.  Því til stuðnings sé bent á nýlegar breytingar á skilmálum eldri frístundabyggðar í landi Norðurkots (200 m²) og Ormsstaða (150 m²).  Á mörgum svæðum sé nú miðað við nýtingarhlutfallið 0,03 eins og í landi Kiðjabergs. 

Sveitarfélagið telji að ekki hafi verið gengið gegn 4. mgr. 56. gr. laga nr. 73/1997 þar sem í ákvæðinu sé ekki gerður áskilnaður um að byggingar séu fjarlægðar í öllum tilvikum.  Í ljósi þess að framangreint ákvæði sé undantekningarregla verði að beita þröngri lögskýringu við túlkun þess.  Þröng skýring leiði til þess að nægjanlegt sé að starfsemi sé hætt og ljóst sé að engin starfsemi hafi verið á umræddum lóðum eða framkvæmdir í gangi á meðan hin kærða breyting á skilmálum hafi verið til meðferðar. 

Túlkun kærenda á framangreindu ákvæði fari gegn sjálfsstjórnarrétti sveitarfélaga skv. 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, þar sem segi að sveitarfélög skuli sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveði.  Í 2. mgr. 3. gr. skipulags- og byggingarlaga sé sveitarstjórnum, með gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana, falið skipulagsvald á landinu öllu.  Í þessu felist að efnislegar ákvarðanir sveitarstjórna sæti ekki endurskoðun dómstóla svo framarlega sem réttum málsmeðferðarreglum hafi verið fylgt.  Fyrir liggi að öllum málsmeðferðarreglum hafi verið fylgt og hvorki úrskurðarnefndin né dómstólar hafi vald til að endurskoða þá ákvörðun sveitarfélagsins að auglýsa umrædda deiliskipulagsbreytingu. 

Skipulags- og byggingarnefnd sé ekki skylt að lögum að láta fjarlægja sumarhús á greindum lóðum eða öðrum lóðum á svæðinu áður en gerð sé breyting á deiliskipulaginu, þrátt fyrir að byggingarleyfi hafi verið afturkölluð vegna einhverra formgalla við afgreiðslu á breytingu skilmála.  Ekki sé hægt að túlka ákvæði 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga með þeim hætti.  Í tilvitnaðri 56. gr. laganna sé ekki með skýrum hætti kveðið á um hvernig með skuli fara þegar mannvirki sé reist á grundvelli byggingarleyfis sem síðar sé ógilt eða afturkallað.  Engin fyrirmæli séu í skipulags- og byggingarlögum sem skyldi byggingarnefnd til að taka ákvörðun um að fjarlægja mannvirki sem þegar hafi verið reist á grundvelli byggingarleyfis.  Þá verði að skoða ákvæði 4. mgr. 56. gr. í samhengi við önnur þvingunarúrræði greinarinnar.  Ákvæði 2., 3. og 4. mgr. 56. gr. eigi fyrst og fremst við um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir samkvæmt 4. kafla skipulags- og byggingarlaga og taki fyrst og fremst til framkvæmda sem hafnar séu án þess að fengin hafi verið tilskilin leyfi.  Ákvæði 4. mgr. 56. gr. eigi því ekki við í því tilviki er bygging hafi verið reist á grundvelli gilds byggingarleyfis, sem talið hafi verið í samræmi við skipulag á þeim tíma sem það hafi verið veitt.  Ákvæðinu sé fyrst og fremst ætlað að taka á þeim tilvikum þegar framkvæmt sé án allra tilskilinna leyfa.  Slík túlkun sé í samræmi við forsögu ákvæðisins og tilgang þess. 

Einnig sé vert að hafa í huga að þegar mannvirki hafi verið reist á grundvelli byggingarleyfis komi til önnur sjónarmið, m.a. um eyðileggingu verðmæta, sem geti staðið því í vegi að unnt sé að rífa eða fjarlægja viðkomandi eign.  Einnig verði að líta til skipulagssjónarmiða og hagsmuna eiganda viðkomandi eignar, en niðurrif eignar hans væri augljóslega verulega íþyngjandi fyrir hann.  Þá verði að gæta meðalhófs og jafnræðisreglu við töku slíkra ákvarðana.  Beitt hafi verið málefnalegu mati við afgreiðsluna og á þeim hagsmunum sem í húfi hafi verið, sem verði ekki hnekkt af úrskurðarnefndinni eða dómstólum. 

Sveitarfélagið hafni röksemdum kærenda byggðum á 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga enda sé ómöguleiki fyrir hendi.  Fyrir liggi að á lóðunum tveimur standi fullbúnar fasteignir.  Við þessar aðstæður sé fráleitt að rífa eða fjarlægja slíkar fasteignir einungis vegna ágreinings um skilmála.  Þetta úrræði sé einnig ótækt og ekki hægt að beita því þar sem eignarréttindi viðkomandi eigenda njóti verndar samkvæmt stjórnarskrá.  Telja verði að hagsmunir kærenda séu nægilega tryggðir með ákvæði 33. gr. skipulags- og byggingarlaga geti þeir sýnt fram á tjón vegna bygginganna á lóðum nr. 109 og 112.  Í nýju frumvarpi til skipulagslaga sé ekki að finna ákvæði sambærilegt 4. mgr. 56. gr. og sýni það afstöðu löggjafans til þessa.  Þá sé ekki hægt að ógilda deiliskipulag fyrir allt það svæði sem deiliskipulag Kiðjabergs nái yfir, þ.e. svæði A-háls, B-holt og C-kambar, þegar ágreiningsefni kærenda lúti einungis að skilmálum fyrir stærð húsa á tveimur lóðum á svæði C.  Í ljósi alls framangreinds sé ekki hægt að fallast á túlkun kærenda á 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga vegna breytinga á deiliskipulagsskilmálum. 

———–

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur nefndin haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í málinu er deilt um gildi ákvörðunar sveitarstjórnar frá 8. maí 2008 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi frístundasvæðis í landi Kiðjabergs er varðar stærð, hæð og útlit húsa. 

Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps er krafist frávísunar málsins með þeim rökum að kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæran barst úrskurðarnefndinni hinn 24. júlí 2008.  Frestur til að kæra ákvarðanir til nefndarinnar sem sættu opinberri birtingu var einn mánuður frá birtingu samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem giltu á þeim tíma er hér um ræðir.  Auglýsing um gildistöku breytingarinnar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 23. júní 2008, en samkvæmt 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 telst sá dagur ekki með í frestinum. Var upphafsdagur kærufrests því 24. júní 2008 og var fresturinn þar af leiðandi ekki liðinn er kæran var árituð um móttöku hinn 24. júlí s.á. 

Frávísunarkrafan er einnig á því byggð að kærendur hafi höfðað dómsmál á hendur sveitarfélaginu og byggi í því máli á sömu málsástæðum og í kærumáli þessu.  Kröfur kærenda í dómsmálinu snéru að deiliskipulagsbreytingu er öðlaðist gildi hinn 23. ágúst 2006 og varðaði stærðir lóða.  Er þar um aðra ákvörðun að ræða en þá sem kærð er í máli þessu og verður ekki fallist á að nefnd málshöfðun hafi staðið því í vegi að kærendur bæru hina kærðu ákvörðun undir úrskurðarnefndina, þrátt fyrir að þeim kunni að hafa verið unnt að koma ágreining um hana að í dómsmálinu.  Verður því ekki fallist á að vísa beri málinu frá. 

Af hálfu kærenda er á því byggt að óheimilt hafi verið að gera hina umdeildu skipulagsbreytingu þar sem þágildandi ákvæði 4. mgr. 56. gr. tilvitnaðra skipulags- og byggingarlaga hafi staðið því í vegi, en þar kemur fram að óheimilt sé að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hafi verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 80/2010, var komist að þeirri niðurstöðu að ekki samræmdist tilgangi tilvitnaðs ákvæðis 4. mgr. 56. gr. að skýra það svo að það tæki til tilvika eins og þeirra sem um ræddi í málinu, en framkvæmdir þær sem um væri að ræða hefðu hafist á grundvelli nýsamþykkts skipulags sem ekki hefði öðlast gildi.  Byggingarleyfi fyrir sumarhúsum þeim er hér um ræðir voru endurnýjuð hinn 25. september 2007, eftir að breytt deiliskipulag með rýmkuðum skilmálum hafði öðlast gildi, og studdust framkvæmdir við þau eftir það ótvírætt við formlega gilt deiliskipulag fram til 8. janúar 2008, er úrskurðanefndin felldi umrædda deiliskipulagsbreytingu úr gildi.  Mun húsið á lóð nr. 112 þá hafa verið fullbyggt en leyfi fyrir húsinu á lóð nr. 109 hafa verið endurnýjað með samþykkt sveitarstjórnar 11. júlí 2008.  Verður samkvæmt framansögðu ekki fallist á að ákvæði 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga hafi átt að koma í veg fyrir að heimilt væri að samþykkja hina kærðu ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi frístundasvæðis í landi Kiðjabergs og verður því ekki fallist á að ógilda beri hana af þeim sökum.

Þá halda kærendur því fram að breytingin á skilmálunum skerði grenndarrétt þeirra og að með henni hafi jafnræðisregla stjórnsýslulaga verið brotin.  Á þetta verður ekki fallist.  Með hinni kærðu ákvörðun var horfið frá ákvæðum um útlit húsa og úreltri viðmiðun um stærð þeirra, en með ákvæði skilmálanna um nýtingarhlutfall og ákvæði gr. 4.11.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 um lámarksfjarlægð frá lóðarmörkum er tryggt að ekki sé um of gengið gegn grenndarhagsmunum lóðarhafa á svæðinu.  Breytingin er almenn og getur því komið öllum lóðarhöfum að notum, þar á meðal kærendum.  Verður því ekki fallist á að með hinni kærðu ákvörðun hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu eða grenndarhagsmunum kærenda. 

Sá galli er á hinni kærðu ákvörðun að ekki er í skilmálum getið um leyfilegan fjölda hæða í húsum heldur segir þar aðeins að möguleiki sé á að byggja geymslukjallara undir húsi þar sem aðstæður í landi gefi tilefni til.  Getur þessi ágalli leitt til vafa um túlkun skilmálanna en ekki þykja efni til að ógilda hina kærðu ákvörðun af þessum sökum. 

Samkvæmt framansögðu eru ekki á hinni kærðu ákvörðun slíkir annmarkar að ógildingu varði og verður kröfu kærenda þar um því hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar hreppsnefndar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 8. maí 2008 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi frístundasvæðis í landi Kiðjabergs. 

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________           _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

62/2012 Friðarstaðir

Með

Árið 2012, þriðjudaginn 17. júlí, var með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2011 tekið fyrir af Hjalta Steinþórssyni, formanni úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, mál nr. 62/2012, kæra á erindi skipulags- og byggingarfulltrúa Hveragerðisbæjar dags. 21. maí 2012 varðandi úrbætur á mannvirkjum á jörðinni Friðarstöðum í Hveragerði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. júní 2012, er barst nefndinni 15. s.m., kærir D, Friðarstöðum í Hveragerði, erindi skipulags- og byggingarfulltrúa Hveragerðisbæjar, dags. 21. maí 2012, varðandi úrbætur á mannvirkjum að Friðarstöðum í Hveragerði.

Málsatvik og rök:  Hinn 21. maí 2012 ritaði skipulags- og byggingarfulltrúi Hveragerðisbæjar bréf til kæranda þar sem skorað var á hann að koma ástandi mannvirkja á jörðinni Friðarstöðum í viðunandi horf.  Kom þar fram að ásigkomulagi og viðhaldi mannvirkja væri verulega ábótavant svo að hætta stafi af.  Var í bréfinu tekið fram að afhendi eða póstleggi ábúandi ekki aðgerðaráætlun fyrir 20. júní og hefji ekki tafarlaust framkvæmdir við úrbætur,  verði beitt sektum til að knýja á um aðgerðir, sbr. 2. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.  Þar kom og fram að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar séu á grundvelli laga um mannvirki séu kæranlegar til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. 

Kærandi vísar til þess að efni bréfs skipulags- og byggingarfulltrúa sé svo almennt orðað að erfitt sé að átta sig á því nákvæmlega hvað við sé átt og verulegum vafa sé undirorpið að um kæranlega stjórnvaldsákvörðun sé að ræða.  Þó megi af bréfinu ráða að  annars vegar sé verið að fjalla um hús sem skemmst hafi í suðurlandsskjálftanum árið 2008 sem ekki sé búið að meta af hálfu Viðlagatryggingu Íslands og  hins vegar gróðurhús sem ekki hafi fengist heimild hjá bæjaryfirvöldum til að breyta í hesthús.  Ekki eigi við rök að styðjast að hætta stafi af ásigkomulagi mannvirkja á jörðinni sem sé afgirt.  Stafi mál þetta að stærstum hluta af því að staðið hafi verið í vegi fyrir eðlilegri uppbyggingu á jörðinni af hálfu bæjaryfirvalda.  Ef gera eigi við hús eða rífa áður en uppgjöri við Viðlagatryggingu Íslands sé lokið sé verið að spilla sönnunargögnum.  Þá bendi kærandi á að honum hafi í tvígang verið synjað af hálfu Hveragerðisbæjar með ólögmætum hætti um að gera úrbætur á húsakosti á jörðinni.

Af hálfu Hveragerðisbæjar er á það bent að flest öll mannvirki á jörðinni séu í niðurníðslu.  Af gróðurhúsum stafi t.d. mikil slysahætta en í því séu flestar rúður brotnar og glerbrot liggi út um allt.  Umhirðu jarðarinnar hafi til margra ára verið ábótavant eins og áskoranir allt frá árinu 2000 beri með sér ásamt bréfi Matvælastofnunar frá 15. maí 2009 varðandi aðbúnað og umhirðu dýra á Friðarstöðum.  Bæjaryfirvöld hafi á árinu 2011 samþykkt að endurskoða deiliskipulag  jarðarinnar í samráði við ábúendur en þeir hafi ekki sýnt áhuga eða vilja til að taka þátt í því samstarfi.  Fullyrðingar kæranda um að verið sé að krefjast þess að sönnunargögnum í máli hans og Viðlagatryggingar Íslands verði spillt séu órökstuddar.  Matsmenn Viðlagatryggingar Íslands hafi nú þegar skoðað og lagt mat á mannvirkin en ekki hafi þó verið samið um upphæð tjónabóta að sögn kæranda.  Að mati bæjaryfirvalda sé ekkert sem standi í vegi fyrir því að hreinsunar- og endurbótastarf geti hafist.  Ef um einhver álita mál sé að ræða verði þau skoðuð og fullt tillit tekið til þeirra.  Ekki sé hægt að una við hættuástand og vanhirðu mannvirkja í mörg ár á meðan langvinnar deilur um tjónabætur standi yfir. 

Niðurstaða:  Í 1. mgr. 56. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 segir að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafi hætta eða það teljist skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa eða Mannvirkjastofnunar, eða ekki sé gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé.  Í 2. mgr. 56. gr. sömu laga er mælt fyrir um að Mannvirkjastofnun og byggingarfulltrúa sé heimilt að leggja á dagsektir til þess að knýja menn til þeirra aðgerða.  Samkvæmt 59. gr. mannvirkjalaga eru stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.  Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að ákvörðun sem ekki bindi enda á mál verði ekki kærð fyrr en málið hafi verið til lykta leitt. 

Tilefni máls þessa er bréf byggingarfulltrúa til kæranda með áskorun um úrbætur vegna mannvirkja á jörð kæranda innan tiltekins frests.  Segir þar jafnramt að verði kærandi ekki við áskoruninni innan frestsins megi hann búast við að gripið verði til aðgerða skv. 56. gr. mannvirkjalaga til þess að knýja fram úrbætur.  Í bréfinu er bent á leiðbeiningarskyldu sveitarfélagsins gagnvart kæranda og andmælarétt hans skv. stjórnsýslulögum nr. 37/1993.
 
Á skortir að í bréfinu komi fram með skýrum hætti til hvaða úrbóta kærandi skuli grípa.  Þá verður ekki talið að bréfið feli í sér lokaákvörðun sem skotið verði til úrskurðarnefndarinnar heldur aðeins tilkynningu um að til álita komi að beita þvingunarúrræðum 56. gr. mannvirkjalaga verði kærandi ekki við áskorun byggingarfulltrúa um úrbætur.  Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________
Hjalti Steinþórsson

56/2010 Brálundur

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 22. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson formaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 56/2010, kæra á ákvörðun bæjarráðs Akureyrarbæjar frá 8. júlí 2010 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Brálundar og kæra á samþykkt skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 14. september 2011 um að veita leyfi til framkvæmda við að malbika og tengja götuna Brálund við Miðhúsabraut

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. september 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir Ólafur Kjartansson hdl., f.h. H og M, Brálundi 2, Akureyri, þá ákvörðun bæjarráðs frá 8. júlí 2010 að samþykkja breytt deiliskipulag Brálundar.  Öðlaðist breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 10. ágúst s.á.  Með bréfi, dags. 20. september 2011, hafa kærendur jafnframt skotið til nefndarinnar ákvörðun skipulagsnefndar frá 14. september 2011 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir malbikun og tengingu götunnar Brálundar við Miðhúsabraut. 

Þar sem lögmæti hins umdeilda framkvæmdaleyfis veltur fyrst og fremst á lögmæti fyrrgreindrar deiliskipulagsbreytingar verður kærumálið vegna framkvæmdaleyfisins, sem er nr. 69/2011, sameinað máli þessu enda standa hagsmunir kærenda í nefndum málum því ekki í vegi. 

Krefjast kærendur þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að kveðinn verði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda meðan beðið sé niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar.  Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda, en til þeirra mun ekki hafa komið eftir að kæra barst vegna hins umdeilda framkvæmdaleyfis. 

Málavextir:  Hinn 10. júní 2009 tók gildi deiliskipulag fyrir Brálund á Akureyri, en þar var m.a. gert ráð fyrir tengingu Brálundar við Miðhúsabraut.  Með úrskurði uppkveðnum 18. nóvember s.á. felldi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrarbæjar frá 5. maí 2009 um greint deiliskipulag að því er laut að nefndri vegtengingu.  Taldi nefndin að ekki væri heimild fyrir umræddri tengingu í Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 og því væri ekki samræmi milli aðalskipulags og deiliskipulags, svo sem lög áskildu.  Í kjölfar þessa var samþykkt á fundi bæjarstjórnar hinn 16. febrúar 2010 að auglýsa tillögu að breytingu á aðalskipulagi Akureyrar, er fólst m.a. í því að gerð var nánari grein fyrir helstu tengingum við stofn- og tengibrautir innra gatnakerfis bæjarins.  Var jafnframt samþykkt að auglýsa, samhliða breytingu á aðalskipulagi, breytt deiliskipulag Brálundar þar sem gert var ráð fyrir tengingu Brálundar við Miðhúsabraut.  Voru tillögurnar auglýstar til kynningar frá 17. mars 2010 og veittur frestur til 28. apríl s.á. til að koma að athugasemdum, sem kærendur og gerðu.  Tillaga að breyttu deiliskipulagi var næst tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar hinn 12. maí s.á.  Lagði nefndin til við bæjarstjórn að tillagan yrði samþykkt og að skipulagsstjóra yrði falið að annast gildistöku hennar.  Jafnframt þessu var vísað til fyrirliggjandi svara við þeim athugasemdum er borist höfðu á kynningartíma.  Hinn 8. júlí 2010 var tillaga að breyttu deiliskipulagi Brálundar samþykkt á fundi bæjarráðs og fært til bókar að bæjarráð hefði fullnaðarafgreiðsluheimild í sumarleyfi bæjarstjórnar, sbr. bókun í 3. lið fundargerðar bæjarstjórnar frá 29. júní 2010.  Öðlaðist breyting á aðalskipulagi Akureyrar gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 6. júlí 2010 og 10. ágúst s.á. birtist auglýsing um gildistöku hins breytta deiliskipulags Brálundar.  Hinn 14. september 2011 var á fundi skipulagsnefndar samþykkt á grundvelli 4. gr. Samþykktar um skipulagsnefnd leyfi til framkvæmda við malbikun og tengingu Brálundar við Miðhúsabraut. 

Skutu kærendur framangreindum samþykktum, um breytt deiliskipulag Brálundar og um framkvæmdaleyfi, til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að hin kærða ákvörðun hafi ekki hlotið málsmeðferð í samræmi við ákvæði 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Sveitarstjórn skuli skv. tilvitnuðu ákvæði fjalla um tillögu að deiliskipulagi á nýjan leik, að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar, þegar frestur til athugasemda sé liðinn.  Skuli í þeirri umfjöllun taka afstöðu til athugasemda sem borist hafi og hvort gera skuli breytingar á tillögunni.  Sveitarstjórn hafi ekki fjallað um tillöguna að nýju eftir að umsögn skipulagsnefndar hafi legið fyrir.  Bæjarráð Akureyrarbæjar, en ekki bæjarstjórn, sem sé sveitarstjórn lögum samkvæmt, hafi samþykkt umdeilda tillögu.  Geti málsmeðferð fyrir bæjarráði, sem sé byggðarráð, sbr. IV. kafla laga nr. 45/1998, ekki komið í stað lögbundinnar umfjöllunar í sveitarstjórn. 

Einnig sé vísað til þess að samþykkt skipulagsins sé í andstöðu við ákvæði 4. mgr. 56. gr. tilvitnaðra laga, en samkvæmt ákvæðinu sé óheimilt að „…breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hefur verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hefur verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt“.  Um sé að ræða breytingu á deiliskipulagi til samræmis við það sem þegar hafi verið framkvæmt en gerð tengingarinnar sé nær lokið.  Sé því ranglega haldið fram í svörum Akureyrarbæjar að engar framkvæmdir hafi verið við umrædda vegtengingu.  Loka þurfi veginum með hindrun til að koma í veg fyrir umferð um hann, ljósastaurar hafi verið settir upp og aðeins eigi eftir að malbika.  Á myndum teknum 8. nóvember 2008 sjáist að unnið sé við gerð vegarins. 

Enn fremur bendi kærendur á að bæjaryfirvöld hafi hvorki haft samráð við íbúa við Brálund né aðra hagsmunaaðila við gerð tillögunnar og gengið framhjá eigin reglum um samráð við hverfisnefnd.  Bæti tilkynning sveitarfélagsins til hverfisnefndar Lunda- og Gerðahverfis, dags. 15. febrúar 2010, ekki úr, en degi síðar hafi verið ákveðið í bæjarstjórn að auglýsa framkomna tillögu.  Hafi ekki verið um raunverulegan vilja til samráðs að ræða.  Tillagan hafi verið gerð með vísan til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar frá 18. nóvember 2009.  Sé ótrúverðugt, líkt og haldið hafi verið fram, að tillagan hafi verið rædd og útskýrð á hverfafundi um skipulagsmál sem haldinn hafi verið 5. mars 2009, þegar ekkert hafi legið fyrir um að aðalskipulagi yrði breytt.  Sérstaklega skuli bent á að samkvæmt fundargerð umrædds fundar komi fram í kynningu skipulagsstjóra að fyrirhugað sé að gera nýja götu, Daggarlund, innan við Brálund en í engu sé þar getið um tengingu Brálundar við Miðhúsabraut.  Hafi skipulagsstjóri svarað því svo, aðspurður á greindum fundi, að umrædd tenging hefði lengi verið sýnd í skipulagi.  Fullyrðing um að tillagan hafi verið rædd og útskýrð á fundinum sé því röng.  Þvert á móti hafi afstaða skipulagsstjóra og sveitarfélagsins verið sú að ekki væri þörf á skipulagsbreytingu vegna tengingarinnar. 

Kærendur byggi jafnframt á því að um brot á meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar sé að ræða.  Tengingin leiði til þess að umtalsverð breyting verði á eiginleikum Brálundar sem götu, en um sé að ræða rólega íbúðarhúsagötu innst í hverfi sem verði við breytinguna önnur af tveimur leiðum inn í það.  Íbúðarhúsagötu sé þannig breytt í tengigötu við stóra umferðaræð.  Hafi ekki komið fram fullnægjandi rökstuðningur fyrir gerð þessarar tengingar.  Sé verið að fórna meiri hagsmunum kærenda fyrir minni meðan ekki hafi verið sýnt fram á þörf fyrir nefnda tengingu.  Rík þörf sé á að sýna fram á nauðsyn hennar, enda muni umrædd breyting hafa í för með sér verulegt rask á högum kærenda.  Þá hafi ekki verið kannað hvort þörf sé á umdeildri breytingu verði t.d. ráðist í lagningu Dalsbrautar.  Bent sé á að gert sé ráð fyrir að umferðarþungi verði eitt til tvö þúsund bílar á dag um Brálund, eða allt að tólffaldur núverandi umferðarþungi, en kærendur telji að umferð geti orðið mun meiri. 

Vakin sé athygli á að komið hafi fram að tengingin sé færð aftur inn á skipulag til samræmis við eldri og nákvæmari aðalskipulagsuppdrætti.  Sé þessi afstaða sveitarfélagsins athyglisverð í ljósi fyrrgreinds úrskurðar nefndarinnar.  Vegna kæru um framkvæmdaleyfi sé bent á að um sé að ræða malbikun umræddrar vegtengingar og sé það í samræmi við þann málatilbúnað kærenda að framkvæmdum hafi í raun verið lokið fyrir samþykkt umrædds skipulags. 

Málsrök Akureyrarbæjar:  Af hálfu Akureyrarbæjar er þess krafist að kærunni verði vísað frá með vísan til sjónarmiða um litis pendens.  Úrskurðarnefndin hafi þegar fjallað um deiliskipulag í Brálundi í úrskurði frá 18. nóvember 2009 og talið að hin kærða ákvörðun ætti að standa óröskuð, nema hvað varði vegtengingu Brálundar við Miðhúsabraut.  Hafi komið fram að ekki yrði séð að deiliskipulagið væri að öðru leyti haldið neinum þeim annmörkum er leiða ætti til ógildingar þess í heild sinni.  Nú hafi verið samþykkt aðalskipulag þar sem umræddrar vegtengingar sé getið.  Sé því ekki hægt að hafa uppi kröfur í öðru máli sem þegar hafi verið fjallað um og lokið hafi með úrskurði nefndarinnar.  Sé vísað til þess að kröfugerð kærenda sé sú sama nú og í fyrra kærumáli. 

Til vara sé þess krafist að hafnað verði kröfum kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarráðs enda hafi deiliskipulagið fengið þá löglegu meðferð sem skipulags- og byggingarlög mæli fyrir um. 

Því sé mótmælt að deiliskipulagstillagan hafi ekki fengið lögboðna meðferð á fundi bæjarráðs 8. júlí 2010.  Sé vísað til 3. mgr. 39. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, sbr. 1. gr. laga nr. 69/2004, en þar komi fram að meðan sveitarstjórn sé í sumarleyfi fari byggðarráð með sömu heimildir og sveitarstjórn hafi ella.  Á fundi bæjarstjórnar 29. júní 2010 hafi verið samþykkt, í samræmi við 7. og 47. gr. Samþykktar um stjórn Akureyrarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar, að bæjarstjórn yrði í sumarleyfi í júlí og ágúst 2010.  Jafnframt hafi bæjarráði á þessum tíma verið heimiluð fullnaðarafgreiðsla þeirra mála sem það teldi nauðsynlegt að fengju afgreiðslu.  Allar ákvarðanir og heimildir bæjarráðs séu því eins og bæjarstjórn hefði samþykkt þær.  Þá hafi bæjarráð heimild til töku fullnaðarákvarðana, sbr. 44. gr. laga nr. 45/1998. 

Jafnframt sé á því byggt að ákvæði 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga eigi ekki við í máli þessu.  Hið kærða deiliskipulag sé nýtt deiliskipulag að því er varði téða vegtengingu, en ekki sé um að ræða breytingu á áður gerðu skipulagi eins og tilvitnað ákvæði geri ráð fyrir.  Jafnframt verði að skoða 4. mgr. 56. gr. með vísan til orðalags 1. mgr. 56. gr. sömu laga.  Samkvæmt því eigi ákvæðið aðeins við um framkvæmd sem þurfi framkvæmdaleyfi fyrir og/eða mannvirki sem þurfi byggingarleyfi fyrir.  Hvorugt skilyrðið eigi við um vegtengingu.  Þá séu á tæmandi hátt talin upp í 4. mgr. 56. gr. laganna nokkur skilyrði, en eitt af þeim sé að starfsemi sé hætt.  Umræddri starfsemi hafi verið hætt um leið og ljóst hafi verið að athugasemd hafi komið fram, hinn 16. október 2007.  Hafi nefnd vegtenging aldrei verið framkvæmd og aldrei gerð virk og enn eigi eftir að gera nauðsynlegar framkvæmdir til að tenging geti átt sér stað. 

Þeim staðhæfingum að skort hafi á samráð sé andmælt sem röngum.  Deiliskipulagið hafi hlotið lögboðna meðferð og verið auglýst skv. 25. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 18. gr., laga nr. 73/1997.  Með bréfi, dags. 17. mars 2010, hafi hverfisnefnd Lunda- og Gerðahverfis verið tilkynnt að auglýsa ætti tillögu að breyttu deiliskipulagi Brálundar.  Hafi verið óskað eftir viðbrögðum en engar athugasemdir hafi borist.  Þá hafi tillagan verið rædd og útskýrð á hverfafundi um skipulagsmál sem haldinn hafi verið 5. mars 2009 í Brekkuskóla. 

Því sé mótmælt sem röngu að verið sé að breyta Brálundi í tengigötu og að gatan verði önnur af tveimur leiðum inn í hverfið.  Gatan Brálundur sé í deiliskipulagstillögunni skilgreind sem 30 km íbúðargata með hraðahindrun.  Með breytingunni sé verið að tengja götuna inn á tengibrautina Miðhúsaveg til að dreifa umferð inn og út úr hverfinu.  Aðalleiðirnar inn í Lundahverfið verði áfram um Skógarhlíð við Þingvallastræti og Skógarhlíð við Mýrarveg.  Með tengingunni sé verið að dreifa umferð um svæðið, létta álagi af Mýrarvegi og Skógarlundi og nýta Miðhúsabraut sem best.  Almannahagsmunir innan Lundahverfis og nálægra hverfa vegi því þungt í þessu máli.  Sé undirbúningur hafinn að lagningu Dalsbrautar, frá Miðhúsabraut að Þingvallastræti, og muni þá umferðarþungi um Brálund minnka enn frekar. 

Þá sé kröfum kærenda vegna framkvæmdaleyfis hafnað enda sé útgáfa þess í fullu samræmi við aðalskipulag og deiliskipulag svæðisins. 

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu sem ekki verða rakin hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar bæjarráðs Akureyrarbæjar frá 8. júlí 2010 um breytt deiliskipulag Brálundar, en hin kærða ákvörðun fól í sér heimild til tengingar götunnar Brálundar við Miðhúsabraut.  Af hálfu Akureyrarbæjar er þess krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til sjónarmiða um litis pendens.  Er þar vísað til þess að úrskurðarnefndin hafi þegar fjallað um deiliskipulag í Brálundi og talið að hin kærða ákvörðun ætti að standa óröskuð, nema hvað varði vegtengingu Brálundar við Miðhúsabraut.  Eins og rakið hefur verið voru í framhaldi af nefndum úrskurði gerðar breytingar á aðalskipulagi Akureyrar og ný ákvörðun tekin er fól í sér breytingu á deiliskipulagi Brálundar.  Er það sú ákvörðun sem kærð er í málinu og er hún að miklu leyti reist á öðrum forsendum en hin fyrri.  Verður ekki séð að fyrri úrskurður geti, með vísan til sjónarmiða um litis pendens eða res judicata, haft réttaráhrif er standi því í vegi að hin nýja ákvörðun verði borin undir úrskurðarnefndina og verður kröfu Akureyrarbæjar um frávísun því hafnað.   

Kærendur tefla fram þeim rökum að hin kærða ákvörðun fari gegn 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Fyrir liggur að veitt var leyfi til framkvæmda við hina umþrættu vegtengingu hinn 4. september 2007 og hófust framkvæmdir í kjölfar þess.  Þær voru síðar stöðvaðar þar sem ekki var fyrir hendi deiliskipulag að íbúðarsvæði milli Eskilundar og Miðhúsabrautar, sem vegtengingin liggur um.  Var eftir það unnið deiliskipulag að svæðinu en úrskurðarnefndin felldi það úr gildi að hluta með úrskurði hinn 18. nóvember 2009 þar sem talið var að ákvæði skipulagsins um hina umdeildu vegtengingu væru ekki í samræmi við Aðalskipulag Akureyrar 2005-2018.  Líkt og rakið hefur verið var aðalskipulaginu breytt í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar frá 18. nóvember 2009 á þann veg að sýnd var tenging Brálundar við Miðhúsabraut á uppdrætti, líkt og gert er ráð fyrir í hinu kærða deiliskipulagi.  Ákvörðun þessi um breytt aðalskipulag var borin undir úrskurðarnefndina með kæru, dags. 3. ágúst 2010, en með úrskurði 17. sama mánaðar vísaði nefndin því máli frá með þeim rökum að ákvarðanir sem sættu staðfestingu ráðherra yrðu ekki bornar undir nefndina.  Af þessu leiðir að það er ekki á færi úrskurðarnefndarinnar að skera úr um hvort ákvæði 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga hefðu átt að standa í vegi fyrir því að skipulagi svæðis væri breytt, en umrædd breyting á aðalskipulagi er eina skipulagsákvörðunin varðandi umdeilda vegtengingu sem ákvæðið getur átt við.  Gerð nýs deiliskipulags og síðari breyting á því, sem miðar að því að laga það að breyttu aðalskipulagi, verður hins vegar ekki talin falla undir umrætt ákvæði og kemur það því ekki til álita í máli þessu.  Verður samkvæmt þessu ekki talið að skylt hafi verið að fjarlægja eða afmá umrædda vegtengingu áður en hin kærða ákvörðun um breytt deiliskipulag var tekin. 

Hin kærða skipulagsákvörðun var auglýst í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga og hlaut hún samþykki bæjarráðs í umboði bæjarstjórnar hinn 8. júlí 2010.  Fallast má á með kærendum að vanda hefði mátt betur til kynningar á tillögu að hinu umdeilda skipulagi með vísan til 4. mgr. 9. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Hins vegar var tillagan auglýst, svo sem áskilið er í 1. mgr. 25. gr. sömu laga, og verður ekki annað ráðið af málsgögnum en að meðferð málsins hafi eftir það verið í samræmi við ákvæði laganna.  Þá var bæjarráði réttilega falið vald til ákvarðana í sumarleyfi bæjarstjórnar og ekki verður annað séð en að stefnt hafi verið að lögmætum markmiðum með hinni kærðu skipulagsákvörðun.  Er og til þess að líta að við undirbúning ákvörðunarinnar var m.a. metin þörf á umræddri breytingu og lagt mat á áhrif hennar af sérfróðum aðilum.  Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið þykir ekki hafa verið sýnt fram á þá annmarka á hinni umdeildu deiliskipulagsbreytingu sem leitt gætu til ógildingar hennar og verður kröfu kærenda þar að lútandi því hafnað. 

Að þessari niðurstöðu fenginni telst hið kærða framkvæmdaleyfi eiga stoð í gildu deiliskipulagi.  Þar sem ekki verður séð að það sé haldið ágöllum er varði form þess eða efni verður kröfu kærenda um ógildingu þess einnig hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarráðs Akureyrarbæjar frá 8. júlí 2010 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Brálundar og á samþykkt skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 14. september 2011 um að veita leyfi til framkvæmda við að malbika og tengja götuna Brálund við Miðhúsabraut. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

___________________________  ___________________________
Ásgeir Magnússon                         Þorsteinn Þorsteinsson

35/2012 Fiskislóð

Með

Árið 2012, þriðjudaginn 17. júlí, var með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2011 tekið fyrir af Hjalta Steinþórssyni, formanni úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, mál nr. 35/2012, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. nóvember 2008 um samþykkja umsókn um leyfi til að byggja flóttastiga, skyggni yfir inngang, milligólf yfir anddyri og afgreiðslu 1. hæðar og til að innrétta með geymslueiningum og tilheyrandi millipöllum og stigum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. apríl 2012, er barst nefndinni 27. sama mánaðar, kæra H, f.h. HF Fasteigna ehf., og J, f.h. G1 ehf., þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að samþykkja byggingaráform að Fiskislóð 11-13 í Reykjavík. 

Af hálfu kærenda er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði tekin til efnislegrar meðferðar og úr því skorið hvort hinar viðbættu millihæðir séu leyfilegar. 

Málsatvik og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 18. nóvember 2008 var samþykkt umsókn um leyfi til að byggja flóttastiga, skyggni yfir inngang, milligólf yfir anddyri og afgreiðslu 1. hæðar og til að innrétta atvinnuhús á lóðinni nr. 11-13 við Fiskislóð með geymslueiningum og tilheyrandi millipöllum og stigum, nýsamþykkt BN035034, dags. 12. desember 2006.  Umsóknin var samþykkt með skilyrði um þinglýsingu yfirlýsingar þess efnis að samþykktin gilti fyrir núverandi notkun hússins sem geymsluhúsnæðis.  Yrði henni breytt bæri að sækja um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun sem yrði innan marka ákvæða deiliskipulags um nýtingarhlutfall. 

Af hálfu kærenda er því haldið fram að um brot á byggingarreglugerð nr. 441/1998 hafi verið að ræða þegar byggingarfulltrúi hafi samþykkt að bæta við tveimur millihæðum að Fiskislóð 11-13.  Sú byggingaráætlun þýði að heildarfermetrar hússins séu komnir yfir tvöfalt leyfilegt hámark samkvæmt deiliskipulagi.  Þá virðist sem byggingarfulltrúi hafi réttlætt framkvæmdina með því að um geymsluhúsnæði væri að ræða en ekki  aðra gerð af húsnæði.  Þrátt fyrir að hafa verið hluthafar í fasteignafélaginu sem þá hafi átt húsið hafi upplýsingum um þessar framkvæmdir verið haldið frá kærendum af framkvæmdastjóra og stjórnarformanni FF 11-13, sem jafnframt hafi verið leigutaki hússins.  Eftir að kærendur hafi komist að umræddum framkvæmdum hafi þeir leitað til byggingarfulltrúans í Reykjavík.  Hafi þeir óskað eftir að fá úr því skorið hvort umræddar viðbætur hafi verið samþykktar eða ekki og hafi svarbréf þess efnis borist hinn 14. apríl 2012. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfum kærenda í máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Samkvæmt 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 teljist kærufrestur vera einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti verða kunnugt, um að ákvörðun þá sem kæra á.  Liðin séu u.þ.b. þrjú og hálft ár frá samþykkt byggingarfulltrúa í málinu.  Frestur til að kæra áðurgreinda ákvörðun byggingarfulltrúa í máli þessu hafi því verið löngu liðinn þegar kæra hafi borist úrskurðarnefndinni.  Verði ekki fallist á að 5. mgr. 52. gr. eigi við í tilviki þessu sé á því byggt að skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli bera fram stjórnsýslukæru innan þriggja mánaða frá því að aðila máls hafi verið tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun.  Í 28. gr. stjórnsýslulaga sé svo allur vafi tekinn af um að vísa beri kærunni frá, en samkvæmt ákvæðinu sé óheimilt að sinna kæru ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun hafi verið tekin. 

Af hálfu byggingarleyfishafa er þess krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni annars vegar vegna þess að kærendur eigi ekki lögvarða hagsmuni og hins vegar vegna þess að kæran sé of seint fram komin. 

Kærendur, eða félög þeirra, hafi verið hluthafar í Fasteignafélaginu Fiskislóð 11-13 ehf. frá hausti 2007 og fram til 25. febrúar 2010 en hafi ekki verið hluthafar  í félaginu síðan.  Þá hafi kærendur setið í stjórn Fasteignafélagsins Fiskislóð 11-13 ehf. frá 15. nóvember 2007 og fram til 25. febrúar 2010 en hafi ekki setið í stjórn félagsins síðan.  Kærendur hafi því ekki lögvarinna hagsmuna að gæta. 

Niðurstaða:  Samkvæmt  5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem gilti á þeim tíma sem hér um ræðir, sbr. nú 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á. 

Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.  Í 2. mgr. ákvæðisins er þó tekið fram að kæra verði ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík var tekin á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 18. nóvember 2008 og var fasteignafélaginu FISK 11-13 ehf. tilkynnt um ákvörðunina með bréfi sama dag.  Verður að telja, með hliðsjón af málsgögnum  og tengslum kærenda við byggingarleyfishafa, að þeim hafi mátt vera kunnugt um  hina kærðu ákvörðun fljótlega eftir að fasteignafélaginu var tilkynnt um hana.  Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn  27. apríl 2012 og var kærufrestur þá löngu liðinn.  Þá voru ekki lengur skilyrði til að víkja frá lögboðnum kærufresti.  Ber því að vísa máli þessu frá. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

50/2012 Láland

Með

Árið 2012, miðvikudaginn 11. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 50/2012, beiðni um úrskurð um hvort framkvæmdir fyrir framan lóðina nr. 14 við Láland í Reykjavík séu háðar byggingarleyfi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. maí 2012, er barst nefndinni sama dag, fer Ó, Lálandi 14, Reykjavík, fram á að tekin verði afstaða til þess hvort framkvæmdir fyrir framan lóðina nr. 14 við Láland séu háðar byggingarleyfi. 

Málsatvik og rök:  Í deiliskipulagi Fossvogsdals frá árinu 2009 er gert ráð fyrir áningarstað fyrir framan lóð kæranda að Lálandi 14.  Snemma á árinu 2012 virðist hafa verið ráðist í framkvæmdir við frágang áningarstaðarins.  Þar liggja tveir stígar, nokkurn veginn samsíða, og eru 5-6 m á milli þeirra.  Hellulagt svæði er við stíg þann sem er nær lóð kæranda, en nokkur æfingartæki eða líkamsræktartæki eru á svæðinu milli stíganna, nokkru fjær lóðinni en hellulagða svæðið.  Ekki var veitt leyfi fyrir framkvæmdunum samkvæmt lögum um mannvirki nr. 160/2010 og halda borgaryfirvöld því fram að ekki sé um leyfisskyldar framkvæmdir að ræða.  Voru framkvæmdirnar kærðar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem með úrskurði uppkveðnum 23. maí 2012 vísaði málinu frá þar sem ekki lægi fyrir kæranleg ákvörðun í málinu.  Málshefjandi fer nú fram á að úrskurðarnefndin skeri úr um það skv. 4. mgr. 9. gr. laga um mannvirki hvort byggingarleyfi þurfi fyrir framkvæmdum sem feli í sér gerð líkamsræktaraðstöðu eins og þá er hér um ræði. 

Borgaryfirvöldum var gefinn kostur á að tjá sig um málið en engar athugasemdir bárust frá þeim. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki gilda þau um öll mannvirki sem reist eru á landi, ofanjarðar eða neðan, innan landhelginnar og efnahagslögsögunnar, sbr. þó 2. mgr.  Lögin gilda einnig um gróður á lóðum, frágang og útlit lóða, girðingar í þéttbýli, skilti, möstur, þ.m.t. fjarskiptamöstur, móttökudiska og tengivirki, gáma og leik- og íþróttasvæði. 

Í 1. mgr. 9. gr. laganna segir að óheimilt sé að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr., eða Mannvirkjastofnunar, sbr. 3. mgr.  Jafnframt segir þar að ráðherra geti í reglugerð kveðið á um að minni háttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar skuli undanþiggja byggingarleyfi.  Í 60. gr. laganna segir að ráðherra setji að tillögu Mannvirkjastofnunar og í samráði við hagsmunaaðila reglugerðir sem nái til alls landsins þar sem nánar sé kveðið á um framkvæmd laganna.  Í reglugerðinni skuli kveðið á um tiltekin atriði, sem talin eru upp í þrettán tölusettum liðum.  Í 10. töluliðnum segir að í reglugerðinni skuli kveðið á um frágang leiksvæða, íþróttasvæða og annarra opinna svæða. 

Í samræmi við framanritað er í byggingarreglugerð nr. 112/2012 ákvæði um opin svæði í gr. 7.2.5 og segir þar að til opinna svæða teljist leiksvæði, íþróttasvæði og önnur manngerð svæði sem séu opin almenningi.  Við frágang búnaðar allra opinna svæða skuli þess gætt að öryggi og aðgengi notenda sé sem best tryggt.  Þá segir í gr. 7.1.6 um dvalar- og leiksvæði innan lóða eða opinna svæða við mannvirki að slík svæði skulu henta til útivistar, hvíldar og leikja og skuli staðsett og gerð með tilliti til skjóls, sólar og birtuskilyrða, hljóðvistar og annarra umhverfisáhrifa.  Öryggi fólks skuli tryggt á öllum dvalar- og leiksvæðum.  Um kröfur til öryggis dvalarsvæða og opinna svæða gildi ákvæði 12. hluta reglugerðarinnar og eftir því sem við eigi ákvæði reglugerðar um öryggi leiktækja og leiksvæða og eftirlits með þeim. 

Úrskurðarnefndin telur að með ákvæðum þeim sem að framan eru rakin séu settar reglur um frágang útivistarsvæða á vegum sveitarfélaga og að í þeim felist krafa um að minni háttar mannvirki á slíkum svæðum, sem ekki hafa umtalsverð umhverfisáhrif, skuli fullnægja kröfum um öryggi og aðgengi notenda, en það felst í lögbundnu eftirlitshlutverki sveitarfélaganna að gæta þess að þessar kröfur séu uppfylltar.  Hins vegar verður að skilja ákvæði þessi svo að slíkar framkvæmdir séu ekki háðar byggingarleyfi og er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að það eigi við um æfingartæki eða líkamsræktartæki þau sem um ræðir í máli þessu.  Er þá einnig til þess að líta að ýmsar minniháttar framkvæmdir í húsum og á lóðum eru undanþegnar byggingarleyfi, sbr. gr. 2.3.5 í tilvitnaðri byggingarreglugerð, en ekki er þar um tæmandi talningu að ræða. 

Úrskurðarorð: 

Uppsetning æfingar- og líkamsræktartækja þeirra er um ræðir í máli þessu telst ekki byggingarleyfisskyld. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                       Þorsteinn Þorsteinsson

7/2010 Borgarholtsbraut

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 22. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson formaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 7/2010, kæra á synjun bæjarráðs Kópavogs frá 21. janúar 2010 á beiðni um breytta aðkomu að fasteigninni að Borgarholtsbraut 15 í Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. febrúar 2010, sem barst nefndinni 12. sama mánaðar, kærir Ólafur Örn Svansson hrl., f.h. S, eiganda fasteignarinnar að Borgarholtsbraut 15 í Kópavogi, þá ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 21. janúar 2010 að synja beiðni kæranda um breytta aðkomu að greindri fasteign.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi  og að viðurkenndur verði réttur hans til breytinga á aðkomu að Borgarholtsbraut 15 í samræmi við fyrirliggjandi teikningar.

Með bréfi, dags. 16. júní 2011, sem barst úrskurðarnefndinni 21. sama mánaðar, skaut kærandi jafnframt til nefndarinnar ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 24. maí 2011 um að synja beiðni kæranda um breytta aðkomu að fasteigninni að Borgarholtsbraut 15.  Krefst kærandi þess að sú ákvörðun verði felld úr gildi og að kærumálið verði sameinað máli þessu.  Þar sem bæði kærumálin snúast um afgreiðslu Kópavogsbæjar á sömu beiðni kæranda verður kærumálið nr. 45/2011  sameinað kærumáli þessu.

Málsatvik og rök:  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var reist íbúðarhús á lóðinni að Borgarholtsbraut 15 á árunum 2002-2003, en áður hafði staðið þar sumarhús.  Aðkoma að íbúðarhúsinu er um tröppur sem liggja yfir kamb við húsið norðanvert.   Kærandi sótti um leyfi til að leggja veg að húsinu á árinu 2007 en skipulagsnefnd Kópavogs hafnaði erindinu hinn 2. október sama ár.  Kærandi leitaði enn eftir að fá leyfi fyrir innkeyrslu að húsi sínu á árinu 2009 og hóf jafnframt framkvæmdir við hana en var gert að stöðva þær.  Urðu málalyktir þær að skipulagsnefnd hafnaði erindinu á fundi hinn 19. janúar 2010 og tók bæjarráð undir þá afgreiðslu á fundi 21. sama mánaðar.  Í kjölfar þess óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins en þeirri málaleitan var hafnað af bæjaryfirvöldum.  Skaut kærandi synjun bæjaryfirvalda um breytta aðkomu að umræddri fasteign hans til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.  Eftir það ákvað skipulagsnefnd bæjarins að taka málið upp að nýju og samþykkti á fundi sínum hinn 17. maí 2011 aðkomu fyrir ökutæki og gangandi vegfarendur að fasteign kæranda í samræmi við tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðarinnar sem hafði verið grenndarkynnt.  Bæjarráð samþykkti þá afgreiðslu hinn 19. maí sama ár og vísaði málinu til bæjarstjórnar. Bæjarstjórn hafnaði hins vegar skipulagstillögunni á fundi hinn 24. sama mánaðar.  Hefur kærandi einnig skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar.

Til stuðnings kröfum sínum bendir kærandi á að núverandi aðkoma að lóð hans og húsi fari í bága við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um greiða aðkomu slökkviliðs og sjúkrabíla, auk þess sem núverandi aðkoma torveldi aðgang fatlaðra, fólks með barnavagna og eldra fólks að fasteigninni.  Brýnt sé að gildandi deiliskipulag svæðisins taki mið af áðurnefndum kröfum um aðgengi að íbúðarhúsum.  Hinar kærðu ákvarðanir hafi verið teknar þrátt fyrir fyrirliggjandi umsögn og álit sem styðji málstað kæranda og eftir grenndarkynningu þar sem engar athugasemdir hafi borist.  Synjun skipulagsyfirvalda Kópavogsbæjar um breytta aðkomu að fasteign kæranda sé með öllu ómálefnaleg, enda bendi allt til þess að um sé að ræða geðþóttaákvörðun sem reist sé á pólitísku og persónulegu hagsmunamati eins bæjarfulltrúa.

Úrskurðarnefndin kallaði eftir gögnum vegna kærumálanna og gaf Kópavogsbæ kost á að tjá sig um kæruefnið en gögn og greinargerð hafa ekki borist frá bæjaryfirvöldum.  Hins vegar upplýstu þau úrskurðarnefndina hinn 5. mars 2012 um að kærandi hefði höfðað mál á hendur bæjaryfirvöldum vegna umdeildrar synjunar á breyttri aðkomu að húsi kæranda og að málið hefði verið dómtekið.   

Niðurstaða:  Beiðni kæranda um breytta aðkomu að fasteign hans að Borgarholtsbraut, sem synjað var með ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 21. janúar 2010, var tekin til meðferðar að nýju og henni synjað með ákvörðun  bæjarstjórnar Kópavogs hinn 24. maí 2011.  Verður að líta svo á að með því hafi bæjaryfirvöld endurupptekið hina fyrri afgreiðslu sína á erindi kæranda og að lokinni málsmeðferð tekið nýja stjórnvaldsákvörðun hinn 24. maí 2011, sama efnis og hina fyrri.  Af þeim sökum hefur eldri ákvörðunin ekki lengur þýðingu að lögum og á kærandi því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar.

Fyrir liggur að hin kærða synjun bæjarstjórnar Kópavogs á erindi kæranda hinn 24. maí 2011 var borin undir dómstóla með þingfestingu máls á hendur Kópavogsbæ hinn 28. september 2011, þar sem krafist er ógildingar á téðri ákvörðun. 

Ágreiningsmál sem geta komið til kasta úrskurðarnefndarinnar verða borin undir dómstóla án þess að kæruleið innan stjórnsýslunnar sé tæmd.  Er því aðilum máls í sjálfsvald sett hvort þeir nýti sér þann kærurétt eða beri ágreining sinn um kæranlegar stjórnvaldsákvarðanir beint undir dómstóla, sem skera úr slíkum ágreiningi samkvæmt 60. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.  Kærandi hefur borið lögmæti ákvörðunar Kópavogsbæjar frá 24. maí 2011 undir dómstóla og verður ekki séð að hann eigi nú einstaklega og lögvarða hagsmuni því tengda að úrskurðarnefndin taki afstöðu til þess sama réttarágreinings. 

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er ekki fullnægt lagaskilyrðum um aðild máls fyrir nefndinni skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem hér eiga við.  Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________                  ____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

8/2012 Akrakór

Með

Árið 2012, föstudaginn 29. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.     

Fyrir var tekið mál nr. 8/2012, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 10. janúar 2012 um breytt deiliskipulag varðandi lóðina nr. 6 við Akrakór í Kópavogi og á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 7. febrúar s.á. um að veita leyfi til breytinga á húsi á þeirri lóð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. febrúar 2012, er barst nefndinni 10. s.m., kæra Ó og J, Aflakór 7, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 10. janúar 2012 að samþykkja breytt deiliskipulag varðandi lóðina nr. 6 við Akrakór.  Með bréfi, dags. 13. apríl s.á., kæra sömu aðilar ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 7. febrúar 2012 um að veita leyfi til breytinga á húsi á þeirri lóð.  Hefur það mál, sem er nr. 29/2012 í málaskrá nefndarinnar, verið sameinað máli þessu.  Loks gerðu kærendur með bréfi, dags. 15. maí 2012, kröfu til þess að framkvæmdir yrðu stöðvaðar meðan mál þetta væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Féllst nefndin á þá kröfu með úrskurði uppkveðnum 5. júní 2012.

Málsatvik:  Hinn 20. september 2011 var á fundi skipulagsnefndar Kópavogs tekið fyrir erindi lóðarhafa Akrakórs 6 þar sem óskað var eftir leyfi til að breyta einbýlishúsi á lóðinni í tvíbýlishús og fjölga bílastæðum um eitt.  Samþykkti nefndin að grenndarkynna erindið og var frestur til athugasemda veittur til 4. nóvember 2011.  Athugasemd barst frá kærendum, sem töldu að breytingin gæti skapað fordæmi fyrir breyttri byggð.  Í umsögn skipulags- og byggingardeildar Kópavogsbæjar, dags. 14. nóvember 2011, segir m.a. að það breyti ekki heildaryfirbragði hverfisins þótt einu einbýlishúsi verði breytt í parhús, en hverfið sé nú þegar byggt upp af einbýlishúsum og parhúsum.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 14. desember 2011 var tillagan samþykkt og henni vísað til bæjarstjórnar, sem staðfesti hana á fundi sínum hinn 10. janúar 2012.  Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 13. s.m. 

Byggingarleyfi til breytinga á húsinu að Akrakór 6 var gefið út hinn 7. febrúar 2012 í kjölfar skipulagsbreytingarinnar.  Er með leyfinu heimilað að gera tvær íbúðir í húsinu, annars vegar á efri hæð og hins vegar á neðri hæð hússins.  Þá er með leyfinu heimilað að lækka yfirborð lóðar við suður- og norðurenda hússins niður í plötuhæð neðri hæðar og reisa stoðveggi, tröppur og geymslur sem nái allt að lóðarmörkum til suðurs og norðurs.  Þá er heimiluð nýting á rými, sem á upphaflegum teikningum er sagt vera óráðstafað, gluggalaust rými, og séu gluggar jafnframt settir á það. 

Kærendur skuti hinum kærðu ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar með bréfum, dags. 8. febrúar og 13. apríl 2012, svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa til þess að í skipulagi svæðisins hafi aðeins verið gert ráð fyrir einbýlishúsum og parhúsum við Akrakór og Aflakór.  Í umsögn skipulags- og byggingardeildar komi fram að einbýlishúsi sé breytt í parhús, en kærendur telji að með hinni kærðu ákvörðun sé verið að breyta þegar byggðu einbýlishúsi í tvíbýlishús.  Um sé að ræða grundvallarbreytingu og sé því alfarið hafnað að það geti talist óveruleg breyting að breyta einbýlishúsi í tvíbýlishús. Breytingin hafi fordæmisgildi vegna einbýlishúsa við Akrakór og Aflakór, jafnt byggðra sem óbyggðra húsa.  Kærendur telji að standi hin kærða breyting á deiliskipulagi óhögguð muni reynast erfitt að hafna óskum um breytingar á öðrum einbýlishúsum, standi vilji eigenda þeirra eða byggingaaðila til þess að breyta þeim í tvíbýlishús. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað.  Sótt hafi verið um breytingu á deiliskipulagi varðandi lóðina nr. 6 við Akrakór og hafi verið samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir lóðarhöfum Akrakórs 1-3, 2-4, 5, 7, 8, 10, 12 og 14, svo og lóðarhöfum Aflakórs 1-3 og 5-7.  Kópavogsbæ hafi borist ódagsett sameiginlegt erindi frá lóðarhöfum Akrakórs 1, 3, 7, 10 og 14 og Aflakórs 5 þar sem fram hafi komið að þeir gerðu engar athugasemdir við skipulagstillöguna og lýstu yfir samþykki sínu.  Engar athugasemdir hafi borist frá lóðarhöfum Akrakórs 2-4, 5, 8 og 12 og geri þeir því engar athugasemdir fyrir sitt leyti.  Hins vegar hafi borist athugasemdir og ábendingar frá kærendum á kynningartíma. 

Meginreglan sé sú að skipulag sé bindandi bæði fyrir stjórnvöld og almenning um framtíðarnot tiltekins svæðis og sé því almennt ætlaður langur gildistími.  Hönnun og bygging mannvirkja sé meðal annars reist á forsendum sem fram komi í skipulagi.  Verði almenningur að geta treyst því að festa sé í framkvæmd skipulags.  Á hinn bóginn sé skipulag stjórntæki stjórnvalda um þróun byggðar og landnotkun.  Þannig sé mælt fyrir um í skipulagslögum nr. 123/2010 að sveitarfélög, landeigendur og framkvæmdaaðilar geti lagt fram tillögu eða beiðni um breytingar á deiliskipulagi.  Þar af leiðandi standi vilji löggjafans ekki til þess að deiliskipulag skuli standa óhaggað um aldur og ævi.  Það sé eðli borga og bæja að geta tekið breytingum og vera í stöðugri þróun.  Því verði eigendur húsa að gera ráð fyrir að skipulag í hverfum geti tekið óverulegum breytingum að því er varði einstakar fasteignir, uppbyggingu hverfa og þéttingu byggðar.  Hlutverk skipulagsyfirvalda sé að tryggja hagsmuni heildarinnar og að aldrei sé svo langt gengið á eignir borgaranna að um skerðingu eða rýrnun á þeim verði að ræða vegna framkvæmda á annarri fasteign.  Sú breyting á deiliskipulagi varðandi Akrakór 6, sem ágreiningur sé uppi um í máli þessu, sé óveruleg.  Þannig víki hið breytta skipulag nánast að engu marki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti eða formi viðkomandi svæðis. 

Enda þótt vikið sé frá fyrra deiliskipulagi, að því leyti að heimila byggingu parhúss í stað einbýlishúss, sé það frávik frá eldra deiliskipulagi ekki svo verulegt að það raski hagsmunum kærenda.  Ekki sé gert ráð fyrir breytingu á stærð fasteignarinnar og hæð hennar sé óbreytt frá fyrra deiliskipulagi.  Þá verði ásýnd og ímynd hverfisins óbreytt.  Rétt hafi verið staðið að gerð hinnar kærðu ákvörðunar um breytt deiliskipulag, bæði hvað varði form og efni, og beri því að hafna kröfu kærenda um ógildingu þess.  Þá hafi verið staðið rétt að útgáfu hins kærða byggingarleyfis og beri einnig að hafna kröfu kærenda um ógildingu þess. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi vísar til þess að framkvæmdir hans styðjist við lögmætt byggingarleyfi.  Vandséð sé að kærendur verði fyrir fjárhagslegu tjóni vegna hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar.  Leitað hafi verið óformlega eftir áliti nokkurra löggildra fasteignasala í þessu máli og séu þeir sammála um að ótti kærenda um verðrýrnun eignar þeirra eigi ekki við rök að styðjast.  Hafa verði í huga að eftir kreppu hafi sú stefna verið tekin hjá bæjaryfirvöldum að reyna að minnka íbúðir og eigi það bæði við í fjölbýlishúsum og einbýlishúsum.  Í raun hafi skapast hálfgert neyðarástand þar sem stór hús hafi staðið hálfbyggð og ekki verið fyrirsjáanlegt að eigendur réðu við að ljúka byggingu þeirra eins og til hafi staðið.  Það hafi því verið hálfgert neyðarúrræði hjá bæjarfélögum að heimila breytingar eins og hér um ræði. 

———————————

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin hér nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Vettvangur:  Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér aðstæður á vettvangi í máli þessu.

Niðurstaða:  Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er heimilað að breyta þegar byggðu einbýlishúsi að Akrakór 6 í tvíbýlishús, fjölga bílastæðum um eitt og koma fyrir tröppum og geymslum við norður- og suðurmörk lóðar.  Af skýringarmynd verður ráðið að yfirborð lóðar sunnan og norðan hússins verði lækkað niður í plötuhæð neðri hæðar og að inngangur í íbúð á neðri hæð verði fyrir miðri austurhlið hússins, andspænis húsi kærenda.  Með hinni umdeildu breytingu er því ekki aðeins vikið frá skilmálum gildandi skipulags um fjölda íbúða í húsinu heldur er einnig heimilað að reisa áberandi byggingarhluta út fyrir ytri byggingarreit, auk þess sem vikið er frá þeim viðmiðum sem sett eru um hæðarsetningu lóða á svæðinu.  Loks er vikið frá því fyrirkomulagi sem almennt gildir á svæðinu, að aðkoma að íbúðum sé frá götuhlið húss.  Breyta háir stoðveggir, frá húsi að lóðarmörkum til suðurs og norðurs, og tröppuvirki meðfram þeim, verulega ásýnd hússins að Akrakór 6, séð frá lóð kæranda. 

Í 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segir að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. skuli fara fram grenndarkynning. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis.  Telur úrskurðarnefndin að með hinni umdeildu breytingu sé vikið svo verulega frá notkun,  og útliti viðkomandi svæðis að ekki hafi verið skilyrði til að fara með málið eftir undantekningarákvæði tilvitnaðrar 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga.  Er þá einnig haft í huga það fordæmisgildi sem í ákvörðuninni felst.  Telur úrskurðarnefndin að með tilliti til jafnræðissjónarmiða hefði fremur átt að taka afstöðu til þess hvort unnt væri að gera almenna breytingu á skilmálum skipulagsins og heimila tvær sjálfstæðar íbúðir í einbýlishúsum á svæðinu, en engin afstaða er tekin í úrskurði þessum til þess hvort skilyrði hefðu verið til svo umfangsmikilla breytinga á nýlegu deilskipulagi, eftir atvikum í bága við væntingar lóðarhafa á svæðinu.

Fleira er athugavert við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar.  Þannig segir í umsögn  skipulags- og byggingardeildar um breytinguna að það að breyta einbýlishúsi í parhús geti haft fordæmisgildi þar sem enn séu óbyggð tvö einbýlishús við Akrakór og fjögur við Aflakór.  Ekki sé talið að umrædd breyting raski heildaryfirbragði hverfisins þar sem hverfið sé byggt bæði einbýlishúsum og parhúsum.  Við þetta er það að athuga að húsið að Akrakór 6 verður ekki parhús heldur tvíbýlishús við umrædda breytingu og fær því sérstöðu í hverfinu hvað þetta varðar.  Vísast um skilgreiningu þessara húsagerða til svonefndrar fitjuskrár mannvirkja samkvæmt íslenskum staðli, ÍST 120/2007, sbr. og reglugerð nr. 918/2009 um innihald IS 50V landfræðilegs gagnasafns um Ísland.  Þá fær það heldur ekki staðist að fordæmisgildi hinnar kærðu ákvörðunar sé bundið við þau hús sem enn eru óbyggð heldur verður að ætla að unnt væri í einhverjum tilvikum að breyta þegar byggðum einbýlishúsum í tvær íbúðir.  Má í því sambandi benda á að húsið að Akrakór 6 var þegar byggt þegar sótt var um hina umdeildu breytingu, en fram kemur í greinargerð með skipulagbreytingunni að sótt sé um að breyta þegar byggðu einbýli í tvíbýli.  Eru forsendur hinnar kærðu ákvörðunar beinlínis rangar hvað þessi atriði varðar.

Loks skal á það bent að við ákvörðun skipulagsnefndar um grenndarkynningu var tekið fram að erindið skyldi m.a. kynnt fyrir lóðarhöfum Akrakórs 2-4 og 8, en þær lóðir liggja að lóðinni Akrakór 6.  Felur hin kærða ákvörðun m.a. í sér að byggt er að mörkum þessara lóða og reistir stoðveggir til þess að unnt sé að koma fyrir tröppum og lækka yfirborð lóðar Akrakórs 6, en mikill hæðarmunur verður milli umræddra lóða eftir breytinguna.  Engar athugasemdir komu þó fram af hálfu lóðarhafa vegna lóða þessara, en við meðferð málsins fyrir úrskurðanefndinni var upplýst að þær væru í eigu Kópavogsbæjar.  Verður ekki ráðið af málsgögnum að skipulagsnefnd eða bæjarstjórn hafi verið kunnugt um ástæður þess að ekki komu fram athugasemdir af hálfu rétthafa nefndra lóða og er ekki útilokað að vitneskja þar um hefði getað haft áhrif á niðurstöðu málsins eða gefið tilefni til frekari athugunar á því.  Var rannsókn málsins áfátt hvað þetta varðar.

Samkvæmt framansögðu voru svo verulegir annmarkar á undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar um breytt deiliskipulag að fella ber hana úr gildi.  Miðað við þá niðurstöðu samræmist hið kærða byggingarleyfi ekki gildandi deiliskipulagi og verður það því einnig fellt úr gildi.

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 10. janúar 2012 um breytt deiliskipulag varðandi lóðina nr. 6 við Akrakór í Kópavogi.  Jafnframt er felld úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 7. febrúar s.á. um að veita leyfi til breytinga á húsi á þeirri lóð. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson