Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

10/2013 Vogafjós Skútustaðahreppi

Árið 2013, mánudaginn 30. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður,  Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 10/2013, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá  10. janúar 2013 um að heimila viðbyggingu við Vogafjós á jörðinni Vogum 1 í Mývatnssveit. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 8. febrúar 2013, kærir H, Hólmum í Mývatnssveit, þá ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 10. janúar 2013 að heimila viðbyggingu við Vogafjós á jörðinni Vogum 1 í Mývatnssveit.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Með bréfi til nefndarinnar, mótteknu sama dag, kærir Þ, og B í Mývatnssveit, einnig áðurgreinda ákvörðun, en engin rök hafa borist af hans hálfu fyrir kærunni. 

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Skútustaðahreppi hinn 15. mars 2013. 

Málavextir:  Hinn 8. október 2012 var sótt um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Vogafjós, þ.e. stækkun á núverandi byggingu Vogafjóss um 8 m til vesturs. 

Á fundi sínum 15. október 2012 samþykkti skipulags- og umhverfisnefnd Skútustaðahrepps að leggja til við sveitarstjórn að þar sem ekkert deiliskipulag lægi fyrir af svæðinu yrði erindið grenndarkynnt fyrir nágrönnum og öðrum hagsmunaaðilum skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Samþykkti sveitarstjórn þá afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum 25. s.m.  Var erindið grenndarkynnt frá 30. október til 27. nóvember s.á. 

Athugasemdir bárust frá þremur aðilum, m.a. frá kærendum.  Skipulags- og umhverfisnefnd fjallaði um athugasemdirnar á fundi sínum 17. desember 2012 og bókaði svör við þeim.  Lagði nefndin til við sveitarstjórn að fallist yrði á fyrirhugaðar framkvæmdir enda væru þær fyrst og fremst ætlaðar til að uppfylla starfsleyfisskyld skilyrði sem gerð væru til reksturs veitingahúsa.  Nefndin setti þó fram tiltekin skilyrði, þ.e. að skipulagsfulltrúa yrði falið að ræða við eigendur Vogafjóss um hvernig koma mætti til móts við sjónarmið nefndarinnar, sem fram kæmu í svörum við athugasemdum, að engar frekari byggingarframkvæmdir yrðu leyfðar í Vogum nema fyrir lægi samþykkt deiliskipulag og að Umhverfisstofnun féllist á fyrirhugaðar framkvæmdir, sbr. lög nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár. 

Á fundi sveitarstjórnar hinn 10. janúar 2013 var afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar, um heimild til viðbyggingar við Vogafjós, samþykkt.  Varðandi áðurgreind skilyrði áréttaði sveitarstjórn að gera yrði greinarmun á umferð landbúnaðartækja við fjósið vegna búrekstrarins og umferð vinnuvéla á framkvæmdatíma byggingarinnar.  Staðsetning rúllustæðu við fjósið yrði ekki talin efnisleg athugasemd við grenndarkynninguna og hafi átt að vísa henni frá á þeim forsendum.  Þá hafi sveitarstjórn ekki borist svar Umhverfisstofnunar um framkvæmdina. 

Skútustaðahreppi barst bréf frá Umhverfisstofnun hinn 11. janúar 2013 þar sem fram kom að stofnunin gerði ekki athugasemdir við breytingu hússins þar sem um væri að ræða óverulega stækkun á þeim mannvirkjum sem fyrir væru.  Þá voru þeim sem komið höfðu að athugasemdum við grenndarkynninguna send bréf 15. janúar s.á. þar sem athugasemdum var svarað og greint frá afgreiðslu sveitarstjórnar á málinu. 

Málsrök kæranda:  Kærandi kveðst hafa verið mótfallin byggingu umrædds fjóss frá upphafi.  Síðar hafi verið bætt við veitingastað og honum veitt vínveitingaleyfi og loks hafi veitingaaðstaðan verið stækkuð.  Eigi nú enn að bæta við og gangi sögur um að næst eigi að gera húsið að hóteli.  Þeim vinnubrögðum, að veita leyfi fyrir litlu og bæta svo ítrekað við með þeim rökum að það þurfi að bæta þjónustuna og styrkja reksturinn, sé mótmælt. 

Ólykt berist frá fjósinu.  Mest beri á henni í suðlægum áttum, en þá sé veður jafnan hvað best til útivistar.  Lyktin berist yfir hús kæranda og inn í það, þegar gluggar séu opnir, og valdi kæranda og gestum hans óþægindum.  Í fjósinu séu viftur sem dæli út fjósaloftinu til að draga úr lykt innandyra og komi það niður á kæranda.  Vogafjós sé skammt frá húsi kæranda og fylgi atvinnurekstrinum þar hávaði af umferð bíla og vinnuvéla, oft frá morgni og langt fram á kvöld.  Þá myndi heyrúllur þar virkisvegg og sé það ekkert augnayndi.  Útsýni kæranda frá húsi sínu til Bláfjalls, sem sé ein aðalperla Mývatnssveitar, hverfi endanlega með hinni fyrirhuguðu viðbyggingu.  Þá telji kærandi að verðgildi fasteignar hans rýrni eftir því sem umfang Vogafjóss aukist. 

Kærandi geri athugasemd við að grafið hafi verið fyrir viðbyggingunni haustið 2012.  Framkvæmdaaðilar telji greinilega fullvíst að framkvæmdin verði heimiluð og sé byggingarefni komið á staðinn.  Aldrei hafi verið rætt við kæranda um fyrirhugaða stækkun Vogafjóss, hvorki af hálfu framkvæmdaaðila né byggingarfulltrúa. 

Málsrök Skútustaðahrepps:  Það sé mat skipulags- og umhverfisnefndar og sveitarstjórnar að umrædd viðbygging sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi.  Með hliðsjón af því og að ekki hafi verið fyrir hendi deiliskipulag á svæðinu hafi þótt rétt að grenndarkynna tillöguna fyrir nágrönnum, þ.e. öllum eigendum fasteigna með fasta búsetu vatnsmegin vegar í Vogum. 

Stækkun Vogafjóss sé eingöngu ætluð til að auka og bæta vinnuaðstöðu í veitingasölu en ekki til stækkunar á veitingasal eða fjölgunar gesta.  Vakin sé athygli á því að kærandi hafi undirritað yfirlýsingu, dags. 3. september 2008, og hafi þar ekki gert neinar athugasemdir við stækkun Vogafjóss, sem þá hafi verið fyrirhuguð.  Engar hugmyndir um hótel á staðnum hafi verið kynntar sveitarfélaginu.  Þá sé bent á samþykkt sveitarstjórnar um að frekari framkvæmdir í Vogum skuli háðar því að fyrir liggi samþykkt deiliskipulag.  Vakin sé athygli á því að stækkunin miði einungis að því að bæta vinnuaðstöðu í veitingasölu. Stækkunin muni ekki hafa áhrif á ólykt frá fjósinu, og á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 17. desember 2012 hafi verið bókað að nefndin myndi gera þær kröfur til eigenda Vogafjóss að umferð véla og tækja utan venjulegs dagvinnutíma yrði haldið í algjöru lágmarki og einungis leyfð í undantekningartilfellum.  Jafnframt yrði farið fram á að heyrúllum yrði fundinn staður sem nágrannar gætu sætt sig við. 

Athugasemd kæranda varðandi skerðingu á útsýni sé talin réttmæt en ekki hafi verið sýnt fram á með neinum rökum að verðgildi húss kæranda muni minnka við stækkun Vogafjóss. 

Framkvæmdaaðila hefði verið gerð grein fyrir því að engar framkvæmdir yrðu heimilaðar fyrr en skilyrði til útgáfu byggingarleyfis hefðu verið uppfyllt.  Að hans sögn hefði verið farið í jarðvegsskipti, sem þurft hefði að ráðast í hvort sem af viðbyggingunni yrði eða ekki. 

Bent sé á að grenndarkynning sé hin lögboðna leið til að kynna fyrirhugaðar byggingarframkvæmdir.  Í grenndarkynningarbréfi sem sent hafi verið viðkomandi aðilum hafi verið tekið fram að skipulagsfulltrúi gæfi nánari upplýsingar ef eftir þeim yrði leitað.  Það sé ekki hlutverk skipulagsfulltrúa að hafa frumkvæði að frekari kynningum nema eftir því sé leitað sérstaklega. 
_____

Byggingarleyfishafa var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum í máli þessu en engar athugasemdir eða andmæli hafa borist frá honum. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 10. janúar 2013 um að veita leyfi til að reisa viðbyggingu við Vogafjós á jörðinni Vogum 1 í Mývatnssveit.  Á umræddu svæði er ekki í gildi deiliskipulag og var erindi byggingarleyfishafa grenndarkynnt með vísan til 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 

Þegar hin kærða ákvörðun var tekin var Aðalskipulag Skútustaðahrepps 1996-2015 í gildi.  Samkvæmt því er jörðin Vogar 1 skilgreind sem landbúnaðarsvæði/heimalönd.  Í greinargerð skipulagsins segir m.a. varðandi framtíðarbyggð í Vogum að áhersla sé lögð á að halda svæðinu vatnsmegin við þjóðveginn óbreyttu hvað landnýtingu varði.  Þá sé ekki gert ráð fyrir nýbyggingum af neinu tagi þeim megin vegar öðrum en byggingum vegna landbúnaðar.  Umdeild viðbygging er ætluð undir aðstöðu starfsfólks við þá starfsemi sem þegar er rekin á umræddri jörð og tengist m.a. þjónustu við ferðamenn.  Sú starfsemi og húsakostur er henni fylgir var heimiluð á sínum tíma og sæta ákvarðanir þar að lútandi ekki endurskoðun í máli þessu.  Telja verður, eins og hér stendur sérstaklega á, að viðbyggingin sem ætluð er fyrir starfsfólk búsins fari ekki í bága við gr. 4.14.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, sem í gildi var þegar hin kærða ákvörðun var tekin, þar sem kveðið er á um að á landbúnaðarsvæðum skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir byggingum og starfsemi sem tengist búrekstri á jörðinni. 

Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu þegar sótt er um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi.  Samkvæmt III. hluta 1. kafla greinargerðar þágildandi Aðalskipulags Skútustaðahrepps 1996-2015 er svæðið Vogar skilgreint sem þéttbýliskjarni.  Umfang og staðsetning hinnar umdeildu byggingar verður ekki talin fela í sér breytingu á þéttleika byggðar eða byggðamynstri í skilningi áðurnefnds ákvæðis.  Eins og atvikum er háttað var því heimilt að afgreiða umsókn um hið kærða byggingarleyfi að undangenginni grenndarkynningu. 

Umrædd bygging er rúmlega 116 m2 að flatarmáli, á einni hæð.  Vegghæð er 2,60 m og hæsta mænishæð 4,53 m og stendur byggingin í töluverðri fjarlægð frá næstu húsum.  Þótt byggingin hljóti eðli máls samkvæmt að hafa einhver grenndaráhrif, svo sem skerðingu á útsýni, verða þau áhrif ekki slík að valdið geti ógildingu hins kærða byggingarleyfis. 

Að öllu framangreindu virtu liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem leiða eigi til ógildingar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 10. janúar 2013 um að heimila viðbyggingu við Vogafjós á jörðinni Vogum 1 í Mývatnssveit. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

________________________________              ________________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson