Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

73/2009 Austurbyggð

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 13. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson formaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 73/2009, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 24. júní 2008 um synjun á leyfi til byggingar bílskýlis á lóðinni nr. 3 við Austurbyggð, Laugarási í Bláskógabyggð.  Þá er kærð afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar frá 24. október 2008 um synjun á umsókn um breytt deiliskipulag Laugaráss.  Loks er kærð sú afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar frá 24. september 2009 að leggja fyrir kærendur að fjarlægja bílskýli af lóðinni nr. 3 við Austurbyggð innan þriggja mánaða að viðlögðum dagsektum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. október 2009, er barst nefndinni hinn 2. nóvember s.á., kæra G og S, Austurbyggð 3, Laugarási í Bláskógabyggð, afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps varðandi byggingu bílskýlis að Austurbyggð 3 og þá kröfu að bílskýlið skuli fjarlægt“.  Af gögnum málsins má ráða að kæran taki til ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar frá 24. júní 2008, er staðfest var í byggðaráði 9. júlí s.á., um synjun á leyfi til byggingar bílskýlis á lóðinni nr. 3 við Austurbyggð.  Þá sé kærð afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar frá 24. október 2008 um synjun á breyttu deiliskipulagi Laugaráss, er staðfest var í byggðaráði 3. nóvember s.á., en fundargerð byggðaráðs frá þeim fundi var staðfest í sveitarstjórn 10. nóvember s.á. Loks að kærð sé sú afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar frá 24. september 2009 að leggja fyrir kærendur að fjarlægja bílskýli á fyrrgreindri lóð innan þriggja mánaða, að viðlögðum dagsektum.  Staðfesti byggðaráð þá ákvörðun 29. s.m.  Sveitarstjórn staðfesti síðan fundargerð byggðaráðs frá þeim fundi á fundi sínum 6. október s.á. 

Skilja verður málsskot kærenda svo að þess sé krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Málavextir:  Forsaga máls þessa er sú að í júní 2008 voru framkvæmdir á lóðinni nr. 3 við Austurbyggð stöðvaðar á þeim forsendum að þær væru ekki í samræmi við byggingarleyfi sem samþykkt hefði verið árið 2004.  Hinn 24. júní s.á. var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar umsókn lóðarhafa umræddrar lóðar um leyfi fyrir téðum framkvæmdum, þ.e. um byggingu 57 m² bílskýlis með 14,9 m² gróðurskála og 6,1 m² geymslu utan byggingarreits.  Var málið afgreitt með svofelldri bókun:  „Hafnað þar sem teikningin er ekki í samræmi við deiliskipulag.“  Nokkru síðar, eða hinn 19. september s.á., var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar umsókn kærenda, sem og lóðarhafa lóða nr. 5 og 7 að Austurbyggð, um breytingu á deiliskipulagi Laugaráss, en skipulagið tekur m.a. til greindra lóða.  Fólst breytingin í því að heimilt yrði að reisa bílskúr/bílskýli á lóðunum, utan við núverandi byggingarreiti.  Var afgreiðslu málsins frestað en á fundi nefndarinnar hinn 24. október 2008 var fært til bókar að ósk um breytingu á deiliskipulagi væri hafnað.  Einnig var bókað að til skoðunar væri hvort fjarlægja ætti hina ólöglegu byggingu og að lóðarhafa væri af þeim sökum gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum varðandi það úrræði áður en ákvörðun yrði tekin.  Var hönnuði hinnar umsóttu skipulagsbreytingar send bókun skipulags- og byggingarnefndar með bréfi, dags. 28. október 2008.

Með bréfi skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps til kærenda, dags. 13. maí 2009, var fyrrgreind afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar áréttuð og veittur frestur til 27. maí s.á. til að koma að andmælum.  Komu kærendur á framfæri athugasemdum til skipulagsfulltrúa með tölvubréfi hinn 26. s.m.
 
Málið var næst tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 24. september 2009 þar sem var m.a. var bókað:  „Að mati nefndarinnar koma ekki fram upplýsingar í [ofangreindum] svörum lóðarhafa sem réttlæta umrædda framkvæmd og því fer skipulags- og byggingarnefnd fram á að hin ólöglega bygging verði fjarlægð í samræmi við 5. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga innan þriggja mánaða frá móttöku bréfs þessa að viðlögðum dagsektum að fjárhæð kr. 25.000 hafi lóðarhafi ekki orðið við þessari skyldu fyrir þann tíma.“

Byggðaráð staðfesti þá ákvörðun 29. s.m. en sveitarstjórn staðfesti síðan fundargerð byggðaráðs frá þeim fundi á fundi sínum 6. október s.á.  Var lóðarhafa send bókun nefndarinnar með bréfi, dags. 14. s.m., og leiðbeint um kærurétt.

Hafa kærendur skotið framangreindum ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar eins og fyrr greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur tefla ekki fram neinum málsrökum í kæru en sjónarmið þeirra liggja fyrir í málsgögnum.  Þar kemur m.a. fram að á samþykktri teikningu að húsinu Austurbyggð 3 hafi verið sýnt bílskýli og hafi engin athugasemd verið gerð við það.  Bent sé á að séu teikningar ekki að öllu leyti í samræmi við skipulag þá sé yfirleitt farið fram á að teikningum verði breytt.  Byggð hafi verið bílskýli neðar í götunni og því hafi ekki hvarflað að kærendum að umrædd framkvæmd væri ekki í lagi.  Þá standi húsin nr. 3, 5 og 7 við Austurbyggð á brekkubrún og rúmist þau naumlega innan byggingarreits, síðan taki við brött og óbyggileg brekka.

Málsrök Bláskógabyggðar:  Af hálfu sveitarstjórnar er tekið fram að um sé að ræða byggingu bílskýlis/geymslu sem hvorki hafi verið veitt byggingarleyfi fyrir né sé í samræmi við deiliskipulag.  Þó svo að sýnt sé bílastæði, sem e.t.v. sé yfirbyggt, á samþykktri teikningu sé ekki heimilt að reisa bílskýli á þeim stað sem gert hafi verið.  Einnig sé mannvirkið mun stærra en það sem sýnt sé á teikningunni.  Í ljósi þessa, og með vísun til 56. gr. skipulags- og byggingarlaga, hafi verið farið fram á að umrætt bílskýli/geymsla yrði fjarlægt. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 16. júlí 2012.
 
Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem við eiga hér, er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra skal.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að taka hana til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Kæru verður þó ekki sinnt berist hún meira en ári eftir að ákvörðun var tilkynnt aðila skv. 2. mgr. tilvitnaðrar lagagreinar. 

Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 2. nóvember 2009.  Samkvæmt tilvitnuðum lagaákvæðum voru ekki lengur, er kæran barst, skilyrði til að bera undir nefndina ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 24. júní 2008, sem samþykkt var í byggðaráði 9. júlí s.á., um synjun á leyfi til byggingar bílskýlis, og verður þeim þætti málsins því vísað frá nefndinni.  

Hins vegar verður kæra á afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar frá 24. október 2008, er staðfest var í byggðaráði og sveitarstjórn 11. nóvember s.á., um að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi Laugaráss, tekin til efnismeðferðar með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, þótt kærufrestur hafi verið liðinn er kæra barst.  Er það gert í ljósi þess að kærendum var ekki leiðbeint um kærufrest í tilkynningu um afgreiðsluna, svo sem mælt er fyrir um í 2. tl. 20. gr. stjórnsýslulaga, fyrr en með bréfi, dags. 14. október 2009.  Þykir því afsakanlegt að kæra á þeirri ákvörðun hafi borist að liðnum kærufresti.  Óumdeilt er að kæra á þeirri ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 24. september 2009, sem staðfest var á fundi byggðaráðs 29. s.m., um að leggja fyrir kærendur að fjarlægja bílskýli á lóð sinni að viðlögðum dagsektum, barst innan kærufrests. 

Eins og að framan er rakið óskuðu kærendur eftir breytingu á deiliskipulagi í kjölfar þess að umsókn þeirra um byggingarleyfi var hafnað.  Deiliskipulag fyrir Austurbyggð í Laugarási tók gildi 7. maí 2008 og féll þá úr gildi deiliskipulag frá árinu 1999, sem í gildi var þegar samþykkt var byggingarleyfi fyrir Austurbyggð 3.  Í hinu eldra skipulagi voru engin ákvæði um bílastæði á lóðum, en á samþykktri teikningu að húsinu er gert ráð fyrir tveimur bílastæðum, e.t.v. yfirbyggðum, á vesturhluta lóðar, framan við aðalinngang hússins.  Í gildandi deiliskipulagi frá 2008 er einnig gert ráð fyrir tveimur bílastæðum á svipuðum stað.  Fól umsótt breyting á deiliskipulagi í sér að gert var ráð fyrir stækkun byggingarreits í norðvesturhorni lóða nr. 3, 5 og 7 við Austurbyggð þar sem reisa mætti bílskúr, bílskýli og eða geymslu, en jafnframt var gert ráð fyrir tveimur bílastæðum í suðvesturhorni lóðanna. 

Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 var landeiganda eða framkvæmdaraðila heimilt að gera tillögu til sveitarstjórnar að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað.  Á grundvelli þessa ákvæðis var kærendum, ásamt lóðarhöfum Austurvegar 5 og 7, rétt að óska eftir breytingu á deiliskipulagi, svo sem þeir gerðu, og bar sveitarstjórn að taka afstöðu til tillögu þeirra.  Ekki liggur fyrir að umrædd breyting hafi mætt andstöðu annarra lóðarhafa á svæðinu en líta verður til þess að deiliskipulag svæðisins hefur aðeins að litlu leyti komið til framkvæmda.  Þá verður einnig að líta til þess að með umræddri breytingu hefði skipulagið verið fært að nokkru til samræmis við það byggingarleyfi sem veitt hafði verið á árinu 2004 fyrir bílastæðum, e.t.v. yfirbyggðum, á lóðinni nr. 3 við Austurbyggð.  Telur úrskurðarnefndin að ekki hafi verið færð fram málefnaleg rök fyrir þeirri niðurstöðu að hafna umsókn kærenda og fleiri lóðarhafa um breytt deiliskipulag og að meðalhófs hafi ekki heldur verið gætt þegar ákveðið var að hafna erindi þeirra, með eða án breytinga á tillögunni.  Verður hin kærða ákvörðun um að synja umræddri umsókn um breytt deiliskipulag því felld úr gildi og er þá lagt til grundvallar að skipulags- og byggingarnefnd hafi út af fyrir sig verið til þess bær að synja umsókninni án frekari atbeina sveitarstjórnar en þeim er fólst í staðfestingu byggðaráðs á fundargerð nefndarinnar.   

Fyrir liggur að kærendur öfluðu sér ekki byggingarleyfis áður en framkvæmdir hófust við umdeilt bílskýli.  Með bréfum skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps, dags. 28. október 2008 og 13. maí 2009, var kærendum gefinn kostur á að koma að andmælum, en í bréfunum sagði m.a:  „Nefndin hefur einnig til skoðunar hvort fjarlægja skuli hina ólöglegu byggingu á lóðinni Austurbyggð 3 samkvæmt 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Af þeim sökum er lóðarhafa gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum varðandi þetta úrræði áður en ákvörðun verður tekin.“  Málið var næst tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 24. september 2009 og m.a. bókað:  „… fer skipulags- og byggingarnefnd fram á að hin ólöglega bygging verði fjarlægð í samræmi við 5. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga innan þriggja mánaða frá móttöku bréfs þessa að viðlögðum dagsektum að fjárhæð kr. 25.000 hafi lóðarhafi ekki orðið við þessari skyldu fyrir þann tíma“. 

Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. skipulags- og byggingarlaga var það á valdsviði sveitarstjórnar að ákveða dagsektir til að knýja fram fyrirmæli byggingarfulltrúa eða byggingarnefndar.  Í málinu liggja aðeins fyrir tilmæli skipulags- og byggingarnefndar um þvingunarúrræði, að viðlögðum dagsektum, en nefndin fer ekki með fullnaðarafgreiðslu slíkra ákvarðana, enda hefur ekki verið sett um hana nein samþykkt er hefði getað fært henni slíkt vald.  Ekki verður séð að sveitarstjórn hafi tekið ákvörðun um dagsektir í máli þessu og breytir engu þar um þótt byggðaráð hafi samþykkt án umræðu fundargerð skipulags- og byggingarnefndar um málið og sveitarstjórn síðar samþykkt fundargerð byggðaráðs þar um. Var ályktun skipulags- og byggingarnefndar um dagsektir ekki lokaákvörðun í málinu og verður hún því ekki borin undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður þeim kærulið því vísað frá nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Vísað er frá kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 24. júní 2008, er staðfest var í byggðaráði Bláskógabyggðar 9. júlí s.á., um synjun á leyfi til byggingar bílskýlis á lóðinni nr. 3 við Austurbyggð.

Einnig er vísað frá kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 24. september 2009 um að leggja fyrir kærendur að fjarlægja bílskýli á lóð nr. 3 við Austurbyggð innan þriggja mánaða, að viðlögðum dagsektum.

Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 24. október 2008 um að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi fyrir Austurbyggð í Laugarási sem staðfest var í byggðaráði Bláskógabyggðar 3. nóvember s.á.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                                         Þorsteinn Þorsteinsson

32/2008 Suðurgata

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 13. september kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 32/2008, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 26. febrúar 2008 á breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar varðandi lóðina nr. 18 við Suðurgötu.  Jafnframt er kærð ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 29. apríl 2008 um að veita byggingarleyfi fyrir 40 herbergja hóteli á lóðinni.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. maí 2008, er barst nefndinni 6. s.m., kærir Björgvin Þórðarson hdl., f.h. K, Suðurgötu 19, Hafnarfirði, samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 26. febrúar 2008 á breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar varðandi lóðina nr. 18 við Suðurgötu og ákvörðun bæjarstjórnar frá 29. apríl 2008 um að veita byggingarleyfi fyrir 40 herbergja hóteli á lóðinni. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsákvörðun og ákvörðun um veitingu byggingarleyfis verði felldar úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Engar framkvæmdir hafa átt sér stað samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi og hefur því ekki komið til þess að taka þyrfti afstöðu til stöðvunarkröfunnar.

Málavextir:  Með auglýsingu birtri í Lögbirtingarblaðinu hinn 25. október 2007 auglýsti Hafnarfjarðarbær kynningu á breytingu á deiliskipulagi frá árinu 2002 fyrir Hafnarfjörð, miðbæ, svæði R4, skv. 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Kærandi, ásamt öðrum aðilum, skilaði inn athugasemdum á kynningartíma sem var til 6. desember s.á.  Umrædd deiliskipulagsbreyting var samþykkt hinn 26. febrúar 2008 og birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 3. apríl s.á.

Ekki var í deiliskipulagi gert ráð fyrir uppbyggingu á lóðinni nr. 18 við Suðurgötu fyrir hina umdeildu skipulagsbreytingu.  Kom fram í sérskilmálum fyrir lóðina að hún væri 229 m² og á henni væri 452,2 m² þjónustuhús á tveimur hæðum með risi.  Nýtingarhlutfall væri 1,98 og yrði aðkoma almennings og aðfanga frá Strandgötu.  Með hinni kærðu skipulagsákvörðun er lóðin stækkuð í 713,5 m², byggingarreitur stækkaður og hámarksgólfflötur byggingar á lóðinni heimilaður 1.700 m².  Byggja má við núverandi hús og endurbyggja það að hluta, en sunnan við kjallara er heimiluð einnar hæðar bygging.  Hámarksnýtingarhlutfall verður 2,38.  Bifreiðastæði innan lóðar verða átta en nokkrum bílastæðum við íþróttahús er breytt í rútustæði og bifreiðastæðum austan við íþróttahús fjölgað um fjögur.

Byggingarleyfishafi sótti hinn 14. apríl 2008 um leyfi til að rífa húsið við Suðurgötu 18 að mestu leyti og byggja á lóðinni 40 herbergja hótel í samræmi við framlagðar teikningar.  Var umsóknin tekin fyrir og samþykkt á fundi skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 23. apríl 2008 og staðfest í bæjarstjórn 29. s.m.  Engar framkvæmdir hafa átt sér stað í kjölfar samþykktar bæjarstjórnar um byggingarleyfið.

Málsrök kæranda:  Kærandi byggir málatilbúnað sinn á því að með hinni umdeildu hótelbyggingu sé útsýni frá húsi hans verulega skert og draga muni úr birtu og sól með auknu skuggavarpi í götunni.  Umferð á svæðinu, sem sé of mikil fyrir, muni aukast verulega á öllum tímum sólarhrings og ekki eingöngu við breytta aðkomu hússins að Suðurgötu 18.  Nú þegar sé veruleg starfsemi af allskyns toga á svæðinu, s.s. leikhús, hótel, íþróttahús og tónlistarskóli, sem stuðli að mikilli umferð á öllum tímum sólarhrings.  Þá verði að hafa í huga umferð um svæðið vegna Flensborgarskóla, St. Jósepsspítala og íbúðarhverfa fyrir ofan Suðurgötuna.  Akstur einka-, leigu- og bílaleigubíla auk rútubíla um svæðið sé nú þegar nægur þótt ekki bætist við 1.700 m² hótel með 40 herbergjum.  Við umrædda götu, og nærliggjandi götur, búi barna- og fjölskyldufólk og því sé aukin umferð afar óskynsamleg.  Loks sé á það bent að líklegt sé að helmingur þeirra níu bílastæða sem áætlað sé að fylgi hótelinu verði komin í notkun þegar starfsfólk hótelsins sé mætt til vinnu.

Jafnframt bendi kærandi á að umgangur á svæðinu muni aukast verulega.  Flug séu allan sólarhringinn og hótelum fylgi flugrútur, leigu- og bílaleigubílar.  Rekstri hótelsins sjálfs muni fylgja talsverð umferð og ónæði vegna þrifa á herbergjum og flutningi á þvotti, veitingum og birgðum, sem hafi í för með sér stöðuga umferð.  Jafnframt megi reikna með útleigu á aðstöðu fyrir ráðstefnur o.fl. og óraunhæft sé því að áætla að þeir sem sæki í þjónustu hótelsins tilheyri aðeins einum markhópi og séu allir miklir notendur almenningssamgangna.

Þá bendi kærandi á að hús Prentsmiðju Hafnarfjarðar að Suðurgötu 18 sé 60 ára gamalt, með langa og merkilega sögu sem eitt elsta iðnaðarhús bæjarins.  Það standi við götu með mörgum gömlum húsum þar sem íbúarnir hafi margir hverjir lagt talsvert á sig til að halda götumynd og útliti húsa í sinni upprunalegu mynd.  Skipulagsyfirvöld myndu enda leggjast gegn miklum breytingum á flestum þessara húsa.  Því sé algjörlega óásættanlegt að breyta prentsmiðjuhúsinu með því að hækka það og setja á það fjóra kvisti með svalagluggum, stækka það um 1.100 m², fjölga gluggum og byggja við það fjögurra hæða lyftuhús.

Framangreind upptalning, sem byggð sé á áralangri reynslu kæranda af sambýli við alla þá starfsemi sem þegar sé á svæðinu við Suðurgötu, leiði í ljós að starfsemi af þessari stærðargráðu sé ofaukið á umræddu svæði.

Loks telji kærandi augljóst, með vísan til ofanritaðs, að hið kærða deiliskipulag rýri verðmæti eignar hans og brjóti því gegn ákvæðum skipulags- og byggingarlaga og 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:  Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að Suðurgata 18 sé skráð sem atvinnuhúsnæði og sé á miðbæjarsvæði Hafnarfjarðar.  Hótelrekstur sé hluti af miðbæjarstarfsemi og samræmist vel notkun annarra bygginga á umræddum reit.  Almennt sé ekki gert ráð fyrir bílastæðum í tengslum við hótel í miðbæjum, s.s. fjöldi dæma sýni, bæði erlendis og í Reykjavík.  Einnig sé bent á að lenging á umræddu húsi hafi óveruleg áhrif á útsýni til vesturs.  Húsið hafi verið lækkað um 10 cm frá auglýstri tillögu.  Það sé nú 1,4 m hærra en íþróttahúsið en verði 2,2 m hærra en það eftir stækkun.  Hækkun Suðurgötu 18 skerði eitthvað útsýni af efstu hæðum húsa beint fyrir ofan, en skuggavarp sýni að skuggi vegna hækkunar þess nái vart inn á lóðir húsanna kl. 17:00 á jafndægrum.

Rétt hafi verið staðið að öllum afgreiðslum í umræddu máli.  Erindið hafi verið auglýst skv. 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga og kynningarfundur haldinn á auglýstum tíma.  Fundurinn hafi einnig verið boðaður með bréfum til íbúa allra húsa í nágrenninu.  Athugasemdir hafi borist og þeim verið svarað eftir bestu vitund.  Byggingarnefndarteikningar, sem samþykktar hafi verið 23. apríl 2008, séu í samræmi við samþykkta deiliskipulagsbreytingu. 

Athugasemdir byggingarleyfishafa: Af hálfu byggingarleyfishafa er vísað til þess að sérstakt tillit hafi verið tekið til byggðar við Suðurgötu og í næsta nágrenni þegar breytingar á umræddu húsnæði hafi verið hannaðar.  Margir íbúar í nágrenni lóðarinnar séu ánægðir með ætlaða starfsemi í húsinu.  Fyrirhugaðar breytingar á húsnæðinu og notkun þess hafi verið samþykktar einróma á öllum stigum stjórnsýslunnar, sem sé afar óvenjulegt fyrir skipulagsbreytingar í miðbæ.  Mótmæli kæranda séu ekki byggð á faglegum staðreyndum eða rökstuddum efnislegum ástæðum.

Bent sé á að samkvæmt samþykktum teikningum sé húsið 1.527 m² og nýtingarhlutfall 2,04, en í kæru sé ranglega sagt að húsið verði 1.700 m².  Ýmislegt hafi verið gert til að halda heildarsvip hverfisins og láta húsið falla sem best að umhverfi sínu.  Stærsta breytingin á húsinu sé stækkun þess til norðurs, á lóð við hlið hússins, en þessari lóð hafi verið úthlutað til stækkunar hússins árið 1958.  Jafnframt sé ástæða til að nefna að í húsinu verði eitt lítið fundarherbergi fyrir u.þ.b. sex til átta manns, en misskilnings gæti í andmælum kæranda þegar hann nefni að í húsinu verði 500 manna ráðstefnu- og fundaraðstaða, enda hafi á heimasíðu hótelsins verið auglýst að slíkur fjöldi myndi rúmast í íþróttahúsi, safnaðarheimilinu og tónlistarskólanum í miðbæ Hafnarfjarðar en ekki í aðstöðu hótelsins.

Hafa verði í huga við mat á fram komnum athugasemdum við hina kærðu deiliskipulagsbreytingu að á undirskriftarlista þann er kærandi hafi útbúið hafi aðilar víðsvegar úr bænum ritað nafn sitt, auk íbúa í Kópavogi og Reykjavík.  Þau andmæli gefi ekki rétta mynd af afstöðu nágranna við umdeilt deiliskipulag. 

Rétt sé hjá kæranda að húsið sé gamalt en það sé jafnframt í slæmu ásigkomulagi.  Það sé ekki friðað en byggingarleyfishafi vilji halda því í upprunalegri mynd að mestu leyti.  Loks sé því mótmælt að sólskin og birta breytist.

Aðkoma að húsinu sé flutt niður fyrir það að Strandgötu þannig að aðkomu frá Suðurgötu verði lokað.  Það þýði að engin umferð verði Suðurgötumegin, sem hljóti að vera betra en núverandi fyrirkomulag samkvæmt eldra deiliskipulagi.  Bent sé á að verð íbúðarhúsnæðis sé oft hærra nær miðbæjum, líkt og í Reykjavík, þar sem ætíð sé mikil eftirspurn eftir húsnæði næst miðbæ.  Þingholtin og svæði með póstnúmer 101 séu t.a.m. með dýrari hverfum borgarinnar, en þar séu mörg hótel í góðu sambýli við byggðina í kring.  Hótel þyki góður kostur í nágrenni við íbúðarbyggð, enda séu hótel, og verði, svefn- og kyrrðarstaður þeirra sem þau sæki.  Því megi halda fram að umdeild breyting á deiliskipulagi lóðarinnar við Suðurgötu 18 muni gera hús í nágrenninu verðmætari og umhverfið meira aðlaðandi, enda sé um að ræða endurbyggingu gamals hrörlegs húss sem taki mið af einkunnum húsa í götumyndinni. 

Niðurstaða:  Með hinni kærðu skipulagsákvörðun er lóðin Suðurgata 18 stækkuð um hátt í 500 m² og verður hún 713,5 m2. Þá verður byggingarreitur stækkaður og samanlagður hámarksgólfflötur byggingar á lóðinni ákvarðaður 1.700 m².  Hámarksnýtingarhlutfall samkvæmt skipulaginu verður 2,38.  Bílastæði innan lóðar eru átta en nokkrum bílastæðum við íþróttahús er breytt í rútustæði og stæðum austan við íþróttahús fjölgað um fjögur. Samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi er fyrirhugað hús á lóðinni 1.527 m2 og eykst byggingarmagn á henni um 1.075 m2. 

Umrædd deiliskipulagstillaga var auglýst og kynnt lögum samkvæmt, kynningarfundur haldinn með íbúum, afstaða tekin til fram kominna athugasemda og gagna aflað, svo sem um skuggamyndun, áður en ákvörðun var tekin í málinu.  Verður ekki séð að formlegri meðferð skipulagstillögunnar hafi að ráði verið ábótavant en þó hefðu gögn um skuggavarp mátt vera ítarlegri og sýna skuggavarp við fleiri tímamörk en gert var. 

Í deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar, sem öðlaðist gildi hinn 19. október 2001, og breytt er með hinni kærðu ákvörðun, er kveðið á um bílastæði miðbæjarins.  Segir þar m.a. að á verslunar- og þjónustusvæðum miðbæjarins séu öll bílastæði til almennrar notkunar fyrir svæðið í heild.  Segir þar einnig að fyrir nýtt verslunar- og þjónustuhúsnæði skuli reikna eitt bílastæði fyrir hverja 50 m², en fyrir hvert stæði utan lóðar skuli koma gjald í bifreiðastæðasjóð.  Átti þetta fyrirkomulag sér nokkra stoð í þágildandi Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015 þar sem sagði að á ýmsum stöðum væri hægt að reikna með samnýtingu bifreiðastæða, einkum á miðsvæðum, og að í eldri hverfum væri hægt að víkja frá reglum skipulagsins um bifreiðastæði ef til þess lægju önnur veigamikil skipulagsleg sjónarmið.

Þegar bæjaryfirvöld samþykktu hina kærðu skipulagsákvörðun hinn 26. febrúar 2008 var tilvitnað aðalskipulag ekki lengur í gildi.  Þess í stað gilti þá Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2005-2025, en þar segir að bifreiðastæðaþörf skuli almennt vera leyst innan lóðar.  Er ekki að finna í greinargerð þess skipulags ákvæði um samnýtingu bílastæða á miðsvæðum eða önnur ákvæði er sérstaklega lúta að lausn á bílastæðaþörf slíkra svæða.  Segir hins vegar í greinargerð þess að varðandi bílastæði á atvinnu- og þjónustulóðum sé vísað til 3. kafla skipulagsreglugerðar. 

Að því marki sem hinar kærðu ákvarðanir heimila aukið byggingarmagn á umræddri lóð verður við það að miða að þörf fyrir bílastæði vegna aukningarinnar verði leyst innan lóðar í samræmi við gildandi reglur um fjölda bílastæða.  Í greinargerð með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu, sem færð er inn á uppdrátt að breytingunni, segir aðeins að átta bílastæði verði á lóðinni.  Þá segir að nokkrum bílastæðum við íþróttahús verði breytt í rútustæði en bílastæðum austan við það verði fjölgað um fjögur.  Bílastæðum fækki um þrjú frá því sem verið hafi.

Ljóst er að hvorki er fullnægt kröfum skipulagsreglugerðar né aðalskipulags um fjölda bílastæða fyrir umdeilda nýbyggingu samkvæmt hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.  Í 7. mgr. gr. 3.1.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 segir þó að unnt sé að víkja frá þessum lágmarksákvæðum í deiliskipulagi ef sýnt sé fram á að bílastæðaþörf sé minni eða unnt sé að uppfylla hana með öðrum hætti.  Hafa bæjaryfirvöld vísað til þess að almennt sé ekki gert ráð fyrir bílastæðum fyrir hótel í miðbæjum og vísa jafnframt til athugunar sem gerð hafi verið á umferð um reitinn á álagstímum.  Þrátt fyrir þessar ábendingar verður hins vegar ekki talið að bílastæðaþörf vegna fyrirhugaðrar starfsemi sé minni en gengur og gerist um ýmsa þjónustustarfsemi eða að hún sé svo óveruleg að leysa megi hana með átta bílastæðum innan lóðar.  Samræmist hin kærða deilskipulagsbreyting því hvorki ákvæðum skipulagsreglugerðar né skilmálum þess aðalskipulags sem við á og verður hún því felld úr gildi.

Samþykkt sveitarstjórnar um að veita hið kærða byggingarleyfi var gerð hinn 29. apríl 2008.  Í 5. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga, sem giltu á þeim tíma, var kveðið á um að staðfesting sveitarstjórnar félli úr gildi ef byggingarleyfi hefði ekki verið gefið út innan 12 mánaða.  Þá sagði í 1. mgr. 45. gr. laganna að byggingarleyfi félli úr gildi ef framkvæmdir væru eigi hafnar innan 12 mánaða frá útgáfu þess.  Engar framkvæmdir hafa átt sér stað á grundvelli hinnar kærðu samþykktar um byggingarleyfi og er hún því fallin úr gildi samkvæmt framangreindum ákvæðum.  Verður kröfu um ógildingu hennar því vísað frá úrskurðarnefndinni.    

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna tafa við gagnaöflun og sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:  

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 26. febrúar 2008 um að samþykkja  breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar varðandi lóðina nr. 18 við Suðurgötu.  Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar frá 29. apríl 2008, um að veita byggingarleyfi fyrir 40 herbergja hóteli á lóðinni, er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                    Hildigunnur Haraldsdóttir

51/2012 Fannafold

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 4. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 51/2012, kæra á afgreiðslu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 10. maí 2012 er varðar hundahald að Fannafold 179 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. maí 2012, er barst nefndinni 29. sama mánaðar, kærir Jónas A. Þ. Jónsson lögfræðingur, f.h. V og B, Logafold 28, Reykjavík, afgreiðslu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 10. maí 2012 er varðar hundahald að Fannafold 179.  Gera kærendur kröfu um að hin kærða afgreiðsla verði ógilt og að kveðið verði á um sviptingu leyfis til hundahalds og aflífun hunds. 

Málavextir:  Samkvæmt skýrslu lögreglu, dags. 1. apríl 2012, tilkynnti annar kærenda að tveir stórir hundar hefðu ráðist á kött kærenda fyrir utan heimili þeirra og sært illa.  Hundarnir hafi ekki sinnt ítrekuðum köllum en verið síðan króaðir af í bakgarði af lögreglu.  Þeir hafi ekki sýnt lögreglumönnunum neina grimmd heldur hafi þeir virst hinir spökustu þegar lögreglumennirnir hafi náð að hefta för þeirra í garðinum.  Eigendur hundanna búi að Fannafold 179 og hafi íbúi þaðan komið á staðinn og sett ólar á hundana og hafi það orðið niðurstaða lögreglu að afhenda eigendum þá.  Í lok skýrslunnar kemur fram að annar hundurinn, Birna, hafi verið blóðugur um kjaftinn en að öðru leyti er ekki lýsing af atburðum öðrum en handsömun og afhendingu hundanna.  Samkvæmt skýrslu lögreglu, dags. 2. s.m., var atvikið kært til lögreglu af öðrum kærenda í máli þessu.  Kæran beindist að eigendum hundanna og var krafist refsingar vegna lausagöngunnar. Að auki áskildi kærandi sér rétt til skaðabóta vegna kattarins sem hafi drepist skömmu eftir árásina. 

Með bréfum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 3. apríl 2012, til eigenda hundanna Birnu og Ísbjarnar var þeim gert að skila ítarlegu skapgerðarmati sérfróðra aðila um hundana til heilbrigðiseftirlitsins.  Þá var tekið fram í bréfinu að ávallt bæri að mýla hundana utan heimilis og að reglur um hundahald væru í öllu virtar þar til heilbrigðiseftirlitið tæki ákvörðun um afdrif þeirra.  Eigandi hundsins Birnu tók í kjölfarið ákvörðun um að láta aflífa hundinn.

Niðurstaða skapgerðarmats um hundinn Ísbjörn var sú að hann væri ekki árásarhneigður gagnvart fólki, en ekki væri hægt að fullyrða um viðbrögð hans gagnvart öðrum hundum, köttum eða öðrum litlum dýrum.  Þjálfa þyrfti Husky hunda mjög vel og hleypa þeim aldrei lausum þar sem önnur dýr gætu verið á ferli.

Með bréfi, dags. 10. maí 2012, til eiganda hundsins Ísbjarnar fór Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fram á það við eigandann að fara að leiðbeiningum dýralæknis þess er gert hefði skapgerðarmatið svo ekki skapaðist hætta af hundinum og ekki þyrfti að koma til frekari aðgerða af hálfu heilbrigðiseftirlitsins.  Var í lok bréfsins vakin athygli viðtakanda á því að vísa málinu til úrskurðarnefndar ef hann vildi ekki una ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur.  Er það þessi afgreiðsla sem kærð er í máli þessu.

Málsrök kærenda:  Kærandi kveður hina kærðu ákvörðun lítt rökstudda og að hún uppfylli ekki kröfur laga um form slíkra ákvarðana, en bréfið með hinni kærðu ákvörðun sé t.a.m. óundirritað og beri ógreinilega með sér að um formlega stjórnvaldsákvörðun sé að ræða.  Ekki hafi verið aðhafst annað í málinu af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur en að senda bréf um skapgerðarmat vegna hundanna og hundarnir því áfram í vörslu eigenda sinna eins og ekkert hafi í skorist.  Sé hin kærða ákvörðun aðeins ávísun á óbreytt ástand.  Það sé athugavert við skýrslu dýralæknisins að hann hafi gefið sér að hundurinn Birna hafi ráðist á og drepið kött í Grafarvogi en ekki sé ljóst að hve miklu leyti hundurinn Ísbjörn hafi tekið þátt í athæfinu.  Þetta sé merkilegt í ljósi þess að eina vitnið að árásinni hafi verið kærandi sem hafi borið fyrir lögreglu að báðir hundarnir hafi ráðist á köttinn og haft hann í kjöftum sér.  Af afgreiðslu málsins virðist mega draga þá ályktun að hundaeigandi, dýralæknir og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi ákveðið að skella skuldinni á annan hundinn, honum hafi verið fórnað og það talin nægileg friðþæging í málinu.  Þetta sætti kærendur sig ekki við.  Þeir telji að það hafi sýnt sig að hundaeigendum þessum sé ekki treystandi til hundahalds og þá sér í lagi að halda marga stóra og hættulega Husky úlfhunda.  Í tveimur bréfum frá heilbrigðiseftirlitinu til hundaeigendanna, dags. 3. apríl 2012, hafi komið fram að áður en atburður þessi hafi átt sér stað hafi borist kvartanir vegna lausagöngu hunda frá heimilinu og ógnandi framkomu þeirra.  Það sé með miklum ólíkindum að heilbrigðiseftirlitið skuli telja ásættanlegt að eitt heimili innan borgarmarka í fjölmennu íbúðarhverfi hafi getað fengið leyfi fyrir mörgum hundum af hættulegri tegund.  Þegar við bætist brot á leyfum í formi lausagöngu ómýldra hunda auk árásar á saklaust dýr þá hljóti grundvöllur leyfis til hundahalds að vera brostinn. 

Fyrirliggjandi skapgerðarmat segi ekkert til um skapgerð hundsins og breyti ekki þeirri staðreynd að hundurinn hafi tekið þátt í grófri árás á minna dýr.  Hundaeigendurnir hafi ítrekað brotið reglur um hundahald og litlar líkur séu á að breyting verði þar á.  Í máli þessu hafi hugsmunir hundaeigandans verið settir ofar hagsmunum almennings og dýra. 

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur:  Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er tekið fram að umrædd ákvörðun hafi verið tekin í samræmi við það verklag sem hafi tíðkast í heilbrigðiseftirlitinu og með hliðsjón af 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Þar sé kveðið á um að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti.  Skuli þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til.  Hins vegar myndu ítrekuð brot eða atvik leiða til endurskoðunar ákvörðunarinnar og þá mögulega til annarra og hertari krafna, s.s. aflífunar.  Ekki sé ljóst hvað kærandi eigi við með fullyrðingu um að ákvörðun hafi ekki verið rökstudd og uppfylli ekki kröfur laga um form og um óundirritað bréf.  Engin bréf er málið varði séu óundirrituð, eins og haldið sé fram í kærunni, auk þess sem í bréfum sé vísað til þeirra greina í samþykkt um hundahald í Reykjavík er varði ákvörðun Heilbrigðiseftirlitsins. 

Kærandi haldi því fram að heilbrigðiseftirlitið hafi ekki aðhafst annað í málinu en að senda hundaeigendunum bréf með kröfu um skapgerðarmat á hundunum.  Þessi fullyrðing sé röng eins og sjá megi af gögnum sem kærandi leggi sjálfur fram.  Bæði hafi átt sér stað samtöl og samskipti við hundaeigendur, kæranda, dýralækna sem framkvæmt hafi skapgerðarmat og aflífun, sem og lögreglu.  Hafi heilbrigðiseftirlitið hafið rannsókn á málinu hinn 2. apríl 2012 og hafi niðurstaðan orðið sú að eigandi annars hundsins, Birnu, hafi tekið ákvörðun um aflífun líkt og gr. 19.2 í þágildandi samþykkt um hundahald í Reykjavík nr. 52/2002 hafi kveðið á um.  Í millitíðinni hafi farið fram ítarlegt skapgerðarmat á báðum hundum.  Niðurstaða skapgerðarmats á hundinum Ísbirni hafi verið sú að hann væri ekki hættulegur mönnum en ekki hafi verið hægt að fullyrða um viðbrögð hans gagnvart öðrum dýrum.  Í kjölfar þessa hafi heilbrigðiseftirlitið tekið þá ákvörðun gagnvart eigandanum að hundurinn Ísbjörn, sem ekki hafi verið kvartað yfir áður, skyldi hvergi innan borgarmarka fá að vera laus og ekki heldur á skilgreindum lausagöngusvæðum. 

Kærandi hafi gert athugasemdir við skapgerðarmat á hundinum Ísbirni.  heilbrigðiseftirlitið tjái sig ekki um faglegar ályktanir í skapgerðarmatsskýrslu sérfræðings í dýraatferli sem liggi fyrir, en geri athugasemd við órökstuddar ályktanir um mat dýralæknisins þar sem vitnað sé til símaviðtals við hundaeiganda.  Hafi dýralæknirinn ekki verið með þetta málsgagn undir höndum og í minnisblaði heilbrigðiseftirlitsins um það samtal sé einungis haft eftir viðkomandi það sem komið hafi fram, en ekkert mat hafi verið lagt á það að öðru leyti.  Ekki sé heldur lagt mat á vitnisburð kæranda, en það sé lögreglunnar að rannsaka hann.  Kærandi segi að draga megi þá ályktun að m.a. heilbrigðiseftirlitið „… hafi ákveðið að skella allri skuldinni á annan hundinn, honum fórnað og málið leyst!“  Heilbrigðiseftirlitið mótmæli svona ómálefnalegum upphrópunum og vísi til þess sem áður hafi komið fram að samkvæmt rannsókn málsins af þess hálfu og þeim lögum, reglum og verklagi sem því sé uppálagt að fara eftir hafi niðurstaðan orðið eins og raun ber vitni. 

Í málsrökum kæranda sé staðhæft að ákvörðun kærða sé „aðeins ávísun á óbreytt ástand“ og að um „friðþægingu“ sé að ræða.  Heilbrigðiseftirlitinu finnist miður að kærandi skuli nota svo ómálefnaleg „rök“ og vísist aftur til þeirrar skyldu að gæta skuli meðalhófs og gefa skuli aðilum máls tækifæri til að bæta sig.  Heilbrigðiseftirlitið veigri sér ekki við að taka á málum eins og þau þróist hverju sinni og til þess hafi það þau tæki og takmarkanir sem felist í lögum, reglum og samþykktum, en það stjórnist ekki af geðþóttaákvörðunum á hverjum tíma.  Varðandi gagnrýni kæranda á heilbrigðiseftirlitið fyrir að hafa gefið leyfi fyrir sex hundum að Fannafold 179 þá sé ekkert í hundasamþykkt sem banni fyrirfram ákveðinn fjölda hunda á heimili.  Á það sé sérstaklega bent að fjórir lögráða aðilar, en ekki einn, hafi verið eigendur sex hunda (nú fimm) að Fannafold 179.  Á það sé líka bent að Husky hundar séu ekki bannaðir í Reykjavík samkvæmt samþykkt um hundahald.  Það hvort íbúum að Fannafold 179 sé treystandi til að halda hunda sé annað mál og þurfi að skoða hverju sinni þegar mál komi upp, en hundarnir séu í eigu mismunandi lögráða aðila og atvik sem tengist hundinum Ísbirni hafi ekki komið upp áður.  Kærandi bendi réttilega á að ítrekuð brot geti leitt til afturköllunar leyfa, sbr. ákvæði 20. gr. samþykktar um hundahald. 

—————————–

Gögn í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hinn 25. júní 2012.

Niðurstaða:  Í 1. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 er kveðið á um að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki sé fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram komi í þeim, enda falli þau undir lögin.  Sé m.a. heimilt að setja í slíkar samþykktir ákvæði um bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds.  Á grundvelli þessarar heimildar var sett samþykkt um hundahald í Reykjavík nr. 52/2002 er gilti á þeim tíma er hér um ræðir.  Í 2. gr. samþykktarinnar sagði að hundahald væri heimilað í Reykjavík að fengnu leyfi og að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett væru í henni. 

Í 20. gr. samþykktarinnar var kveðið á um að ef hundaeigandi bryti gegn lögum um dýravernd, dýrahald, samþykktinni sjálfri eða öðrum reglum sem um dýrahald giltu, gæti umhverfissvið afturkallað leyfi hans og/eða bannað honum að vera með hund í lögsagnarumdæmi Reykjavíkurborgar.  Þá sagði í 19. gr. samþykktarinnar að tjónþoli eða forráðamaður hans gæti krafist þess að hundur yrði aflífaður ef hann teldist hættulegur og var þá skylt að verða við þeirri kröfu, enda hefði verið leitað álits sérfróðra aðila, s.s. dýralæknis eða hundaþjálfara, sem viðurkenndur væri af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, áður en ákvörðun um aflífun væri tekin.  Er sambærilegt ákvæði í 19. gr. núgildandi samþykktar um hundahald í Reykjavík nr. 478/2012.

Í máli þessu krefjast kærendur ógildingar á því sem þeir telja vera ákvörðun í máli hundaeiganda að Fannafold 179.  Um er að ræða tilmæli sem beint var til eiganda umrædds hunds um að fara að leiðbeiningum í skapgerðarmati dýralæknis svo ekki skapaðist hætta af hundinum og ekki þyrfti að koma til frekari aðgerða af hálfu heilbrigðiseftirlitsins.  Er vandséð að í erindinu hafi verið fólgin stjórnvaldsákvörðun sem bundið hafi endi á meðferð máls, en hafi svo verið þá var það ákvörðun í máli eiganda hunds, til þess gerð að gæta almannahagsmuna, og áttu kærendur ekki aðild að málskoti hennar til æðra stjórnvalds. 

Þá krefjast kærendur þess að hundaeigandi sá sem málið varðar verði sviptur leyfi til hundahalds og að umræddur hundur verði þegar í stað aflífaður.  Hvað fyrra atriðið varðar þá er það háð mati Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur hvort svipta skuli hundaeiganda leyfi til að halda hund og verður ekki ráðið af ákvæði 20. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík nr. 52/2002 að gert hafi verið ráð fyrir að þriðji maður, s.s. tjónþoli, ætti aðild að slíkri ákvörðun.  Hvað seinna atriðið varðar þá var tjónþola veittur réttur til þess, skv. 19. gr. tilvitnaðrar samþykktar, að krefjast þess að hundur yrði aflífaður, en skilja verður það ákvæði svo að beina hefði þurft slíkri kröfu að heilbrigðiseftirlitinu eða heilbrigðisnefnd.  Er ekki að finna í málinu nein gögn um að kærendur hafi borið fram kröfu við heilbrigðisyfirvöld um aflífun umrædds hunds og liggur því ekki fyrir nein ákvörðun í máli kærenda af því tilefni sem þeim hefði verið unnt að bera undir úrskurðarnefndina.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður máli þessu vísað frá.

Uppkvaðning úrskurðar í málinu hefur dregist lítillega sökum anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                               Þorsteinn Þorsteinsson

95/2011 Útey II

Með

Árið 2012, miðvikudaginn 1. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson formaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 95/2011, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 6. janúar 2011 um deiliskipulag lóðar fyrir fjarskiptamannvirki í landi Úteyjar II í Bláskógabyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. nóvember 2011, er barst nefndinni hinn 24. s.m., kæra S og M, eigendur lóða nr. 2 og 4 í landi Úteyjar I, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 6. janúar 2011 að samþykkja deiliskipulag lóðar fyrir fjarskiptahús og fjarskiptamastur í landi Úteyjar II í Bláskógabyggð.  Auglýsing um gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar birtist í B-deild Stjórnartíðinda 28. október 2011.  Verður að skilja málatilbúnað kærenda svo að krafist sé ógildingar deiliskipulagsins.  Þá krefjast kærendur þess að undanþága frá ákvæðum skipulags reglugerðar nr. 400/1998 um fjarlægð mannvirkja frá vegi, sem umhverfisráðherra veitti hinn 22. ágúst 2011, verði einnig felld úr gildi.

Málavextir:  Hinn 23. september 2010 var á fundi skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi lóðar fyrir fjarskiptamannvirki í landi Úteyjar II.  Fól tillagan í sér að afmörkuð yrði 15 m² lóð í landi Úteyjar II og þar heimilað að reisa fjarskiptahús og allt að 24 m hátt fjarskiptamastur.  Samþykkti byggðaráð Bláskógabyggðar fundargerð nefndarinnar á fundi sínum hinn 7. október s.á.  Sveitarstjórn samþykkti síðan fundargerð þess fundar byggðaráðs hinn 11. s.m.  Bárust athugasemdir við framlagða tillögu þar sem m.a. var á það bent að framkvæmdin félli undir tilskipun Evrópuráðsins frá 27. júní 1985 um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kynnu að hafa á umhverfið.

Að loknum kynningartíma var tillagan tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps hinn 17. desember s.á. og afgreidd með eftirfarandi bókun:  „Lögð fram að lokinni kynningu tillaga að deiliskipulagi lóðar fyrir fjarskiptamastur í landi Úteyjar II, á svæði sunnan þjóðvegar nr. 364 á móts við aðkomuvegi að frístundabyggð úr landi Úteyjar I.  Tillagan var auglýst til kynningar 14. október sl. með athugasemdafresti til 26. nóvember. Á kynningartíma barst athugasemdabréf, dags. 10. nóvember, með undirskrift 60-70 eigenda frístundahúsa í landi Úteyjar I.  Þá liggur einnig fyrir sameiginleg yfirlýsing norrænna geislavarnastofnana frá 16. nóvember 2009 og bréf frá framkvæmdaraðila NOVA. Með vísun í upplýsingar sem fram koma í bréfi frá framkvæmdaraðila og yfirlýsingu geislavarnastofnana á norðurlöndum er deiliskipulagið samþykkt skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Skipulagsfulltrúa falið að svara athugasemdum.“  Samþykkti byggðaráð fundargerð nefndarinnar á fundi sínum hinn 30. desember 2010.  Hinn 6. janúar 2011 samþykkti sveitarstjórn fundargerð framangreinds fundar byggðaráðs.

Í framhaldi af því var deiliskipulagið sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu.  Gerði stofnunin athugasemd við að skipulagið yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda þar sem m.a. fyrirhuguð staðsetning masturs samræmdist ekki ákvæðum gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 er varðar fjarlægð mannvirkja frá þjóðvegi.  Var skipulagsfulltrúa falið, á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 17. febrúar 2011, að fara þess á leit við umhverfisráðuneytið að veitt yrði undanþága frá umræddu reglugerðarákvæði í samræmi við heimild 12. mgr. 45. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar um.  Með bréfi umhverfisráðuneytisins, dags. 22. ágúst 2011, var fallist á að veita undanþáguna, en leitað hafði verið umsagnar Skipulagsstofnunar og Vegagerðarinnar um erindið.  Var skipulagið að því búnu sent Skipulagsstofnun að nýju, sem gerði nú ekki athugasemd við birtingu þess að því tilskildu að gögn yrðu lagfærð.  Voru ný gögn send Skipulagsstofnun með bréfi, dags. 28. september 2011, og auglýsing um skipulagið birt í B-deild Stjórnartíðinda 28. október s.á.  Skutu kærendur málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 21. nóvember s.á., svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að hvorki hafi verið leitað álits hjá lóðareigendum aðlægrar sumarhúsabyggðar í landi Úteyjar I áður en deiliskipulagið hafi verið samþykkt né þegar veitt hafi verið undanþága frá gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Þá má af gögnum málsins ráða að kærendur telji að fjarskiptamastrið sé staðsett of nálægt sumarhúsabyggð.  Rafsegulgeislar frá því geti haft heilsuspillandi áhrif, það valdi sjónmengun og um verulega breytingu á umhverfinu sé að ræða.

Málsrök Bláskógabyggðar:  Af hálfu skipulagsyfirvalda Bláskógabyggðar er bent á að ekki hafi verið óskað eftir undanþágu á gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð í upphafi ferilsins þar sem ekki hafi verið talin nauðsyn á undanþágu, en ekki sé um hefðbundið mannvirki (hús) að ræða.  Að öðru leyti er í greinargerð sveitarfélagsins rakið hvernig meðferð málsins var háttað og vísað til málsgagna þar um.

Málsrök framkvæmdaraðila:  Sjónarmið framkvæmdaraðila liggja fyrir í málsgögnum.  Bendir hann á að nauðsynlegt sé að koma upp fjarskiptamastri á umræddu svæði til að tryggja góða þjónustu.  Ekki hafi fengist staðfest nein atvik sem bendi til þess að hætta geti stafað af farsímamöstrum.  Sendistyrkur frá slíkum loftnetum sé 20W að hámarki og minnki styrkur eftir því sem fjær dragi.  Fjarlægð frá umræddu mastri að næsta húsi sé margfalt meiri en almennt gerist í þéttbýli.  Einnig sé umgjörð í kringum fjarskiptamannvirkin eins lítil og unnt sé og framkvæmdin afturkræf.

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 16. júlí 2012.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi deiliskipulags í landi Úteyjar II í Bláskógabyggð, en með hinu samþykkta skipulagi var heimilað að reisa fjarskiptahús og fjarskiptamastur á 15 m² lóð í um 200 m fjarlægð frá mörkum frístundabyggðar þar sem kærendur eiga tvær lóðir.  Þá er krafist ógildingar á undanþágu er umhverfisráðherra veitti frá reglum um fjarlægð mannvirkja frá vegi.

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála endurskoðar ekki lögmæti þeirrar ákvörðunar umhverfisráðherra að veita undanþágu frá grein 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, enda fellur það utan valdsviðs nefndarinnar að fjalla um ákvarðanir sem umhverfisráðherra tekur á grundvelli skipulagslaga eða reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim.  Verður kröfu kærenda er undanþáguna varðar því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Samkvæmt Aðalskipulagi Laugardalshrepps 2000-2012 er umrædd lóð á skilgreindu landbúnaðarsvæði.  Samkvæmt gr. 4.14.1 í skipulagsreglugerð skal á landbúnaðarsvæðum fyrst og fremst gera ráð fyrir byggingum og starfsemi sem tengist búrekstri.  Er jafnframt kveðið á um í 2. tl. gr. 4.14.2 sömu reglugerðar að í deiliskipulagi landbúnaðarsvæða skuli gera grein fyrir byggingarreitum fyrir íbúðar- og atvinnuhúsnæði, vatnsveitu, fráveitu, byggingarmagni, aðkomu og öðru hliðstæðu.  Telja verður að fjarskiptamastur geti fallið þar undir og er hið kærða deiliskipulag því ekki í andstöðu við gildandi aðalskipulag hvað landnotkun varðar.

Heimilt er samkvæmt deiliskipulaginu að reisa á lóðinni fjarskiptahús allt að 2,5×3 m að grunnfleti og er mesta leyfileg hæð þess 2,4 m.  Jafnframt er heimilt að reisa mastur úr stáli, allt að 18 m hátt, og ofan á það allt að 1,5 m hátt loftnet.  Einnig er gert ráð fyrir því í skipulaginu að gróðri verði plantað umhverfis húsið.  Þá kemur fram í fyrirliggjandi gögnum að mastrið sé svokallaður prjónn eða ljósamastur og að allir kaplar verði inni í mastrinu.

Umrædd fjarskiptamannvirki eru í töluverðri fjarlægð frá lóðum kærenda.  Þó svo að sjónræn áhrif vegna þeirra séu nokkur verður að telja að umfang þeirra og umgjörð sé innan þeirra marka sem eigendur fasteigna í nágrenninu þurfi að sæta.  Þá liggur fyrir álit frá norrænu geislavarnarstofnununum frá árinu 2009 þar sem m.a. kemur fram að geislun frá búnaði eins og þeim sem hér um ræði sé langt undir viðmiðunarmörkum og að ekki liggi fyrir vísindalegar sannanir um heilsutjón vegna útvarpsgeislunar í umhverfinu við venjulegar aðstæður.  Verður því ekki fallist á að mannvirkin hafi slík áhrif í umhverfinu að leiða eigi til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Í 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem við eiga í málinu, var kveðið á um það að þegar frestur til athugasemda við tillögu að deiliskipulagi væri liðinn skyldi sveitarstjórn fjalla um tillöguna á nýjan leik að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar.  Í þeirri umfjöllun skyldi taka afstöðu til athugasemda sem borist hefðu og þess hvort gera skyldi breytingar á tillögunni.  Þá sagði enn fremur að ef engar athugasemdir væru gerðar við tillöguna væri ekki skylt að taka hana til annarrar umræðu í sveitarstjórn heldur skyldi senda hana Skipulagsstofnun skv. 3. mgr.

Fyrir liggur í máli þessu að sveitarstjórn tók hina umdeildu tillögu ekki til umfjöllunar á nýjan leik, þrátt fyrir að athugasemdir hefðu borist.  Þess í stað var látið við það sitja að samþykkja í byggðaráði fundargerð skipulags og byggingarnefndar þar sem bókuð hafði verið samþykkt nefndarinnar um tillöguna meðal fjölda annarra dagskrárliða.  Var fundargerð byggðaráðs síðan samþykkt í sveitarstjórn en hvorki var tekin efnisleg afstaða í sveitarstjórn til tillögunnar né fram kominna athugasemda.  Samræmdist þessi málsmeðferð ekki 25. gr. þágildandi skipulags og byggingarlaga, en engin samþykkt var í gildi um skipulags og byggingarnefnd uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps sem hefði getað fært nefndinni vald til fullnaðarafgreiðslu mála.

Samkvæmt framansögðu skortir á að hin kærða skipulagsákvörðun hafi hlotið lögboðna samþykkt sveitarstjórnar og að sveitarstjórn hafi tekið afstöðu til fram kominna athugasemda, svo sem henni var skylt.  Leiða þessir annmarkar til þess að fella verður hina kærðu deiliskipulagsákvörðun úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um ógildingu á undanþágu umhverfisráðherra í máli þessu frá ákvæðum skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 um fjarlægð mannvirkja frá vegi er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Samþykkt Bláskógabyggðar um deiliskipulag 15 m² lóðar fyrir fjarskiptamannvirki í landi Úteyjar II í Bláskógabyggð er felld úr gildi.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

46/2012 Fannafold

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 4. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 46/2012, kæra á afgreiðslu heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 12. apríl 2012 vegna sviptingar leyfis til hundahalds að Fannafold 176 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. maí 2012, er barst nefndinni 16. s.m., kærir R, Fannafold 176, Reykjavík, þá afgreiðslu heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 12. apríl s.á. að ítreka fyrri samþykkt um afturköllun leyfis kæranda til að halda hund að Fannafold 176 í Reykjavík.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni frá heilbrigðisyfirvöldum hinn 1. júní 2012.

Málavextir:  Forsaga máls þessa er sú að með bréfi, dags. 3. ágúst 2011, tilkynnti Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur kæranda um fyrirhugaða sviptingu leyfis hans til hundahalds.  Málið var tekið fyrir á fundi heilbrigðisnefndar Reykjavíkur hinn 1. september s.á. þar sem nefnt bréf heilbrigðiseftirlitsins var lagt fram og bókaði nefndin á að hún staðfesti ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur einróma.  Kæranda var tilkynnt þessi niðurstaða með bréfi heilbrigðiseftirlits, dags. 2. september 2011, og gefinn kostur á andmælum.  Kom kærandi á framfæri athugasemdum sínum í tilefni af þeirri tilkynningu með bréfi, dags. 16. s.m.  Þeim athugasemdum var svarað með bréfi heilbrigðiseftirlitsins, dags. 7. október s.á., þar sem m.a. var tekið fram að kærandi hefði ekki lengur leyfi borgaryfirvalda til að halda umræddan hund.  Kærandi skaut fyrrgreindri afgreiðslu heilbrigðisnefndar til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir með kæru, dags. 31. október 2011.  Hinn 12. mars 2012 kvað sú úrskurðarnefnd upp frávísunarúrskurð í því máli með þeim rökum að ekki lægi fyrir lokaákvörðun um að svipta kæranda leyfi til hundahalds.

Á fundi heilbrigðisnefndar Reykjavíkur hinn 12. apríl 2012 var lagður fram fyrrgreindur úrskurður úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir og bréf Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til kæranda frá 3. ágúst 2011.  Bókaði nefndin að hún ítrekaði fyrri samþykkt sína um að afturkalla leyfi kæranda til að halda hund, skráningarnúmer 4505, að Fannafold 176.  Með bréfi, dags. 16. s.m., var kæranda tilkynnt að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hefði samþykkt áðurnefnda bókun og var kæranda leiðbeint um kæruleið og kærufrest. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að fyrir liggi úrskurður þar sem einungis hafi verið staðfest boðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um að svipta kæranda leyfi til hundahalds en ekki ákvörðun um sviptingu.  Það að „ítreka“ ógilda ákvörðun geri hana ekki gilda og breyti þar engu þó heilbrigðisnefndin skýri skilning sinn á upphaflegri „ákvörðun“. 

Kærandi telji að í máli þessu hafi bæði Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur brotið gegn ákvæðum 10., 12., 13., og 14. gr og 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Andmælaréttar kæranda hafi ekki verið gætt og hann ekki nægjanlega upplýstur um fyrirhugaðar aðgerðir áður en ákvörðun hafi verið tekin.  Þannig hafi kærandi ekki haft vitneskju um, eftir úrskurð úrskurðarnefndarinnar, að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hygðist samt sem áður svipta hann leyfi til hundahalds.  Ekki hafi verið gætt jafnræðis deiluaðila og heilbrigðisnefndin hafi ekki framkvæmt sjálfstæða skoðun á málinu áður en hin kærða ákvörðun hafi verið tekin, en slíkt ætti að vera grundvallaratriði til að geta fellt hlutlægan úrskurð í málinu.

Heyrt hafi til undantekninga að hundur kæranda hafi sloppið úr gæslu og gengið laus og fullt tillit hafi verið tekið til athugasemda heilbrigðiseftirlitsins þegar á árinu 2009.  Ónæði af gelti hundsins sé ekki meira en almennt gerist og eigi kvartanir sumra nágranna yfir hundahaldi kæranda ekki við rök að styðjast og orsakist m.a. af nágrannaerjum.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur:  Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað. 

Heilbrigðisnefnd hafi brugðist við niðurstöðu úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir og hafi fjallað aftur um málið á fundi sínum hinn 12. apríl 2012, ítrekað fyrri ákvörðun sína um afturköllun hundaleyfis kæranda frá 1. september 2011 og gert niðurstöðuna skýrari í bókun fundargerðar.  Með hliðsjón af forsögu málsins hafi ekki verið veittur andmælaréttur í bréfi, dags. 16. apríl 2012, en hins vegar hafi kæranda verið leiðbeint um kæruleiðir.  Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vilji jafnframt taka fram að í bréfi til kæranda, dags. 2. september 2011, hafi ákvörðun heilbrigðisnefndar verið skýr og bent sé á að ákvörðunin standi þar sem heilbrigðiseftirlitið vinni í umboði heilbrigðisnefndar samkvæmt 14. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. 

Niðurstaða:  Hin kærða samþykkt heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 12. apríl 2012 var gerð með svofelldri bókun nefndarinnar: „Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur ítrekar fyrri samþykkt sína um að afturkalla leyfi [R….] til að halda hund, skráningarnúmer 4505, að Fannafold 176.“  Ekki liggur fyrir í málinu önnur samþykkt nefndarinnar en sú sem gerð var hinn 1. september 2011 og var til umfjöllunar í úrskurði úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir, uppkveðnum hinn 12. mars 2012. 

Gera verður þá kröfu til stjórnvalda við töku stjórnvaldsákvörðunar að bókun ákvörðunar og tilkynning til málsaðila beri með sér með skýrum hætti að um ákvörðun sé að ræða en eftir atvikum ekki aðeins ráðagerð um töku slíkrar ákvörðunar.  Ekki síst á þetta við þegar um er að ræða íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun.  Fyrir liggur að fyrri samþykkt heilbrigðisnefndar Reykjavíkur, sem tengist máli þessu, fól í sér staðfestingu á meintri ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í bréfi þess til kæranda frá 3. ágúst 2011, þar sem kæranda var tilkynnt um fyrirhugaða sviptingu leyfis til hundahalds.  Í fyrrgreindum úrskurði úrskurðarnefndar samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 var sú samþykkt heilbrigðisnefndar ekki talin fela í sér kæranlega ákvörðun og málinu af þeim sökum vísað frá.  Hin kærða afgreiðsla heilbrigðisnefndar í máli því sem hér er til meðferðar fól aðeins í sér ítrekun fyrri samþykktar nefndarinnar um að staðfesta fyrirhugaða leyfissviptingu gagnvart kæranda og verður því ekki, fremur en fyrri samþykkt, talin hafa að geyma ákvörðun sem bindi enda á málið en það er skilyrði þess að það verði borið undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá nefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist lítillega vegna anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Þorsteinn Þorsteinsson

28/2012 Túnsberg

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 20. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 28/2012, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps frá 29. nóvember 2011 um að hafna umsókn kæranda um niðurfellingu sorpgjalds fyrir árið 2011 vegna eldra íbúðarhúss, fastanúmer 216-0435 að Túnsbergi í Svalbarðsstrandarhreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. apríl 2012, er barst nefndinni 12. s.m., framsendi innanríkisráðuneytið þann þátt stjórnsýslukæru S, Grund, Akureyri, dags. 20. mars s.á., er laut að synjun Svalbarðsstrandarhrepps á umsókn hans um niðurfellingu álagðs sorpgjalds fyrir árið 2011 vegna eldra íbúðarhúss að Túnsbergi.  Gerir kærandi þá kröfu að hinni kærðu ákvörðun verði hnekkt.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn í máli þessu frá Svalbarðsstrandarhreppi hinn 29. maí 2012 og viðbótargögn hinn 30. ágúst s.á. 

Málsatvik:  Kærandi mun vera eigandi fasteigna að Túnsbergi í Svalbarðsstrandarhreppi.  Var honum gert að greiða sorpgjald samkvæmt álagningu fasteignagjalda fyrir árið 2011 vegna svonefnds eldra húss að Túnsbergi.

Með bréfi til sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps, dags. 7. nóvember 2011, fór kærandi fram á niðurfellingu fasteignaskatta vegna jarðarinnar Túnsbergs fyrir árin 2008-2012 auk niðurfellingar álagðs sorpgjalds af eldra íbúðarhúsi, sem á jörðinni stendur, vegna ársins 2011 og áfram.  Erindið var tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar hinn 29. s.m. og því synjað.  Var kæranda tilkynnt um þá afgreiðslu með bréfi, dags. 27. desember s.á.  Kærandi skaut þeirri ákvörðun til innanríkisráðuneytisins með bréfi, dags. 20. mars 2012, og framsendi ráðuneytið þann þátt kærunnar er laut að sorpgjaldinu til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi bendir á að ekki sé búið að staðaldri í eldra íbúðarhúsinu að Túnsbergi og komi þaðan afskaplega lítið sorp.  Sé sorpinu skilað í sorpgám á Svalbarðseyri og nýti kærandi sér því ekki þá þjónustu sveitarfélagsins að hirða sorp frá húsinu. Það hafi hann ekki gert sl. 14 ár.  

Málsrök Svalbarðsstrandahrepps:  Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps tekur fram að ekki verði séð að gjaldskrá sveitarfélagsins gefi heimild til lækkunar eða niðurfellingar á sorpgjaldi þegar svo hátti til sem í tilviki kæranda.  Sorpgjaldið sé lagt á hverja íbúðareiningu samkvæmt skráningu í fasteignaskrá en sé ekki miðað við magn sorps frá hverju húsi eða hvernig nýtingu húsnæðis sé háttað.  Samningur sveitarfélagsins við verktaka um sorphirðuna sé miðaður við fjölda íbúða og inna þurfi verktakagreiðslur af hendi án tillits til þess hvort þjónustan sé nýtt eða ekki.  Á umræddri jörð séu tvö íbúðarhús og sorpgjald lagt á í samræmi við það.  Losun kæranda á heimilissorpi í gáma valdi sveitarfélaginu auknum kostnaði og fari gegn gildandi reglum um flokkun þess.  Hafi kærandi notið afsláttar af gjaldinu árið 2011 í samræmi við heimild gjaldskrárinnar um afslátt af gjaldi til elli- og örorkulífeyrisþega. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs er sveitarfélögum heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, en undir meðhöndlun fellur m.a. söfnun úrgangs skv. 3. gr. sömu laga.  Í 2. mgr. tilvitnaðs ákvæðis segir að sveitarfélögum sé heimilt að miða gjaldið við magn úrgangs, gerð úrgangs, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafi á kostnað við meðhöndlun úrgangs viðkomandi aðila.  Einnig er sveitarfélögum veitt heimild til að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig.  Skal sveitarfélag láta birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda skv. 4. mgr. 11. gr. sömu laga. 

Fyrir liggur gjaldskrá nr. 67/2011 um sorphirðu og förgun úrgangs í Svalbarðsstrandarhreppi, er birt var í B- deild Stjórnartíðinda 28. janúar 2011 og gilti fyrir það ár.  Samkvæmt gjaldskránni skal lagt sorpgjald á hverja íbúð en skv. 3. gr. gjaldskrárinnar er heimilt að veita 50% afslátt til elli- og örorkulífeyrisþega vegna íbúða.  Fyrir liggur að kæranda hefur verið boðinn þessi afsláttur en ekki er heimild í gjaldskrá til að veita afslátt af sorpgjaldi, eða fella það niður, á öðrum grundvelli en að framan greinir.  Var sveitarstjórn því rétt að synja kæranda um niðurfellingu álagðs sorpgjalds og verður kröfu hans um ógildingu þeirrar ákvörðunar því hafnað. 

Uppkvaðningu úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar Svalbarðsstrandarhrepps frá 19. nóvember 2011 um að synja beiðni um niðurfellingu álagðs sorpgjalds vegna ársins 2011 á eldra íbúðarhús að Túnsbergi.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson

91/2008 Miðbær Selfoss, Árborg

Með

Árið 2012, föstudaginn 15. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt

Fyrir var tekið mál nr. 91/2008, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar frá 20. desember 2007 um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi miðbæjarins á Selfossi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. september 2008, er barst nefndinni sama dag, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. Á,  og N, persónulega og fyrir hönd S ehf., Sigtúnum 2, Þ og Ó, Sigtúnum 7, B, Sigtúnum 9 og H, Tryggvagötu 14, Selfossi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar frá 20. desember 2007 að samþykkja tillögu að deiliskipulagi miðbæjarins á Selfossi.

Gera kærendur þá kröfu að ákvörðun bæjarstjórnar verði felld úr gildi.

Málavextir:  Forsaga málsins er sú að í september 2006 efndi bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar til samkeppni um skipulag miðbæjar á Selfossi.  Samkvæmt aðalskipulagi er svæðið hluti af skilgreindu miðsvæði Selfoss.  Niðurstöður lágu fyrir í febrúar 2007 og í framhaldinu var haldinn opinn kynningarfundur þar sem vinningstillagan var kynnt og gefinn kostur á athugasemdum og umræðum.  Tillaga að deiliskipulagi miðbæjarins var síðan auglýst til kynningar frá 19. júlí 2007 til 16. ágúst s.á., með athugasemdafresti til 30. s.m.  Athugasemdir bárust, m.a. frá kærendum, og var tillögunni í kjölfarið breytt.  Deiliskipulagstillagan var samþykkt í skipulags- og byggingarnefnd sveitarfélagsins hinn 13. desember 2007 og af bæjarstjórn hinn 20. s.m.  Var auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 18. ágúst 2008.

Hið samþykkta deiliskipulag byggir á fyrrgreindri verðlaunatillögu, en tekur þó aðeins til hluta samkeppnissvæðisins.  Afmarkast það af Kirkjuvegi, Eyravegi, Austurvegi og Tryggvagötu, en suðurmörk þess liggja að svæði sem skilgreint er í aðalskipulagi sem almenningsgarður og þjónustusvæði.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að hús þeirra séu á eignarlóðum við Tryggvagötu og Sigtún og hafi þeir því augljósra lögvarinna hagsmuna að gæta.  Í Aðalskipulagi Árborgar 2005-2025 sé landnotkun á umræddu svæði skilgreind sem verslunar- og þjónustusvæði/miðsvæði.  Komi þar m.a. fram að á svæðinu sé gert ráð fyrir styrkingu miðbæjar Selfoss sem aðalþjónustusvæðis alls sveitarfélagsins með miðstöð stjórnsýslu, verslunum, skrifstofum, þjónustu- og menningarstofnunum, veitingarekstri, og „nokkurri íbúðarbyggð“.  Á þessu svæði sé reiknað með nýtingarhlutfalli á bilinu 1,0-2,0.  Á því svæði sem deiliskipulagið taki til hafi verið í gildi deiliskipulag sem samþykkt hafi verið 24. febrúar 1993, Selfoss-Miðbær – Tryggvagata – Árbakkasvæði, og sé um að ræða verulega breytingu á því með hinu nýja skipulagi.

Kærendur telji hið kærða deiliskipulag ólögmætt þar sem það sé í ósamræmi við aðalskipulag Árborgar.  Samkvæmt samþykktum deiliskipulagsuppdrætti sé gert ráð fyrir umferð af hringtorgi við Austurveg inn á svæðið um stút, sem hafi verið nefndur fjórði stúturinn á hringtorginu.  Á uppdrættinum sé stúturinn utan afmarkaðs deiliskipulagssvæðis þrátt fyrir að deiliskipulagið geri ráð fyrir honum til að dreifa umferð inn á svæðið.  Í greinargerð með deiliskipulaginu komi fram að þessi tenging sé forsenda þess.  Í greinargerðinni segi einnig að framkvæmdir skuli hefjast fyrst við byggingar næst hringtorgi og niður með Eyravegi og nauðsynlegt sé að ganga frá framkvæmdum á torgi um leið og byggingarframkvæmdum næst torginu sé lokið.  Samkvæmt upplýsingum kærenda hafi þessi tenging umferðar inn á svæðið sætt mikilli andstöðu Vegagerðarinnar og Skipulagsstofnunar.  Gildandi aðalskipulag geri einungis ráð fyrir þremur stútum af hringtorginu.  Ljóst sé að ekki hafi átt að samþykkja deiliskipulagið með þessum hætti eða sýna hringtorg á deiliskipulagsuppdrætti, líkt og gert hafi verið.  Því sé misræmi milli aðal- og deiliskipulags og verði ekki úr því bætt nema með breytingu á aðalskipulagi.  Slík málsmeðferð sé í andstöðu við ákvæði 7. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem mæli fyrir um að deiliskipulag skuli gera á grundvelli aðalskipulags, sbr. einnig 2. mgr. gr. 6.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.

Á deiliskipulagsuppdrætti sé enn fremur sýndur vegur sem tengi saman Kirkjuveg og Tryggvagötu.  Sé honum ætlað að dreifa umferð inn á svæðið frá Kirkjuvegi og Austurvegi með því að taka við umferð úr hringtorginu um fjórða stútinn.  Í ljósi þessarar tengingar við Austurveg, sem og að samkvæmt skilgreiningu aðalskipulags tengi þessi vegur hinn svonefnda miðbæ við aðra bæjarhluta, hafi borið að gera grein fyrir honum í aðalskipulagi, sbr. gr. 4.16.1 og 4.16.2 í skipulagsreglugerð.

Þá samrýmist deiliskipulagið ekki gr. 4.4.1 og gr. 5.5.1 í skipulagsreglugerð um landnotkun á miðsvæðum og verslunar- og þjónustusvæðum.  Samkvæmt greindum ákvæðum skuli á slíkum svæðum fyrst og fremst gera ráð fyrir verslun og þjónustu.  Þó sé heimilt að gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði þar sem aðstæður leyfi, sérstaklega á efri hæðum.  Ljóst sé að deiliskipulagið samrýmist ekki greindum fyrirmælum þar sem það geri ráð fyrir að 50-60% húsnæðis á svæðinu verði til íbúðar.

Kærendur telji útreikning nýtingarhlutfalls lóða á hinu deiliskipulagða svæði hafa verið ólögmætan.  Einungis sé sýnt meðaltalsnýtingarhlutfall á reitnum öllum en ekki nýtingarhlutfall innan lóðarmarka, sem miða beri við.  Nýtingarhlutfall lóða á skipulagassvæðinu sé mun hærra en gerð sé grein fyrir og fari í sumum tilvikum yfir hámarksnýtingarhlutfall samkvæmt aðalskipulagi.  Útreikningur nýtingarhlutfalls með þessum hætti sé ólögmætur þegar verið sé að kynna byggingarmagn nýframkvæmda innan fyrirhugaðs byggingarreits.

Gerð sé gríðarleg breyting á byggðarmynstri svæðisins sem verði að byggjast á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum.  Telji kærendur að brotið sé gegn fyrirmælum gr. 4.2.2 í skipulagsreglugerð þar sem segi að við deiliskipulagningu íbúðarsvæða skuli þess jafnan gætt að í íbúðum og á lóðum íbúðarhúsa sé sem best hægt að njóta sólar, útsýnis, skjóls og friðsældar.

Brotið sé svo freklega gegn grenndarhagsmunum kærenda að það varði ógildingu deiliskipulagsins.  Sé þar t.d. gert ráð fyrir 33 metra háum, tíu hæða turni.  Muni hann gnæfa yfir umhverfið og varpa skugga á Ráðhúsið, torgið og alla nærliggjandi byggð og verða í ósamræmi við heildaryfirbragð svæðisins.  Þá verði um mikla skerðingu að ræða á útsýni, birtu og eignaréttindum kærenda með byggingu blokka á svæðinu, sem og gerð nýrrar einstefnugötu.  Selfoss standi á einu virkasta jarðskjálftabelti á Suðurlandi og byggingar sem fyrir séu á skipulagssvæðinu væru því í mikilli hættu þegar og ef farið yrði að sprengja fyrir bílakjöllurum fyrir þessar blokkir.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar:  Af hálfu Sveitarfélagsins Árborgar er þess krafist að öllum kröfum kærenda verði hafnað.  Sveitarfélagið hafni því að deiliskipulagið sé í ósamræmi við gildandi aðalskipulag.  Grein 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 mæli fyrir um að á þéttbýlisuppdrætti aðalskipulags skuli gera grein fyrir stofnbrautum og tengibrautum.  Í grein 4.16.1 séu stofnbrautir skilgreindar sem aðalumferðarbrautir í þéttbýli og tengist þær stofnvegakerfi utan þéttbýlis.  Tengibrautir tengi einstaka bæjarhluta við stofnbrautakerfið og nálæga bæjarhluta saman innbyrðis og séu helstu umferðargötur í hverjum bæjarhluta.

Á þéttbýlisuppdrætti Selfoss í gildandi aðalskipulagi sjáist að skilgreindar stofnbrautir á þessu svæði séu Suðurlandsvegur inn á hringtorgið við Ölfusárbrú og hins vegar þær tvær götur sem taki við af honum, Eyravegur, sem tengi Selfoss við Eyrarbakkaveg, og Austurvegur, sem liggi í gegnum Selfoss til austurs og haldi þar áfram sem þjóðvegur nr. 1.  Ártorgið, gatan sem muni eiga upptök sín við fjórða stútinn á hringtorginu og liggja þaðan í gegnum miðbæinn, sé hvorki stofnbraut né tengibraut, heldur einstefnugata/torg og falli því ekki undir götur þær sem beri að gera grein fyrir á þéttbýlisuppdrætti aðalskipulags.  Það að gert sé ráð fyrir götu í deiliskipulaginu sem liggi að fyrirhuguðum fjórða stút á hringtorginu við Ölfusárbrú sé því ekki í andstöðu við gildandi aðalskipulag.

Þá sé Ártorgið vistgata/gönguhraðagata samkvæmt deiliskipulagi og muni gatnahönnunin miðast við 15 km umferðarhraða, sbr. gr. 2.12 í greinargerð með deiliskipulaginu.  Slík gata geti ekki fallið undir skilgreiningu skipulagsreglugerðar um stofn- eða tengibraut.

Umrætt svæði sé á miðsvæði í aðalskipulagi og skv. gr. 4.4.1 skipulagsreglugerðar skuli þar fyrst og fremst gert ráð fyrir verslun og þjónustu.  Heimilt sé þó að gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði þar sem aðstæður leyfi, sérstaklega á efri hæðum.  Umrætt deiliskipulag falli að skilgreiningu þessari.  Í gr. 2.3 í greinargerð með deiliskipulagi komi fram að verslun sé yfirleitt eingöngu leyfð á 1. hæð og íbúðir á efri hæðum.  Þó séu íbúðir leyfðar í einstaka tilfellum á 1. hæð.  Almennt sé gert ráð fyrir að skrifstofustarfsemi sé á 2. hæð og ofar.  Í turni skuli eingöngu vera verslun/þjónusta, stofnanir eða skrifstofustarfsemi.  Í byggingum sem liggi næst turni sé heimilt að hafa skrifstofustarfsemi eða þjónustu á öllum hæðum og tengja þær turni.

Nýtingarhlutfalli í reit sé ætlað að sýna þéttleika byggðar á skilgreindu afmörkuðu svæði eða reit.  Í hinu kærða skipulagi sé verið að deiliskipuleggja á heildstæðan hátt miðbæ Selfoss.  Afmörkun skipulagssvæðisins sé skýr.  Nýtingarhlutfall á svæðinu sé reiknað þannig að tekin sé stærð reits (hluti af miðbæjarreit) og fundið hlutfallið milli byggingarmagns og stærðar reits.  Fullyrðingar kærenda um að útreikningur nýtingarhlutfalls sé ólögmætur standist því ekki.  Stærð skipulagssvæðis sé 45.000 m2 og hámarksbyggingarmagn 45.100 m2.  Nýtingarhlutfallið sé því 1,0 (1,002) fyrir svæðið í heild.  Til þess að skapa gott almenningsrými, s.s. vistgötu, göngustíga, hjólastíga, bílastæði, torg og græn svæði, auk miðstöðvar fyrir almenningssamgöngur, sé leitast við að takmarka lóðastærðir einstakra húsa.  Leiði það til þess að nýtingarhlutfall á ákveðnum lóðum kunni að virðast nokkuð hátt en nýtingarhlutfall á deiliskipulagssvæðinu í heild sé langt innan viðmiðunarmarka.

Umrætt svæði sé nú skilgreint sem miðsvæði á aðalskipulagi en hafi í eldra aðalskipulagi Selfoss 1987-2007 verið skilgreint sem blandað svæði íbúða, verslunar og opinberrar þjónustu.  Á hluta svæðisins hafi verið í gildi deiliskipulag, samþykkt í bæjarstjórn Selfoss 8. desember 1993.  Það skipulag hafi ekki komið til framkvæmda nema hvað varði lóðirnar að Austurvegi 4-10.  Ekki sé hægt að fallast á að við skipulag miðbæjar Selfoss sé sveitarfélagið bundið af eldra deiliskipulagi sem enginn hafi hingað til sýnt áhuga á að byggja eftir.

Hugleiðingar kærenda um hættuástand sem fylgja kunni framkvæmdum geti ekki leitt til þess að deiliskipulagið verði fellt úr gildi, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 22/2005.  Þá sé skerðing sú sem kunni að verða á grenndarhagsmunum kærenda ekki slík að raskað geti gildi umrædds skipulags en komi til slíkrar skerðingar tryggi bótaákvæði 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 kærendum bætur.
——-

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök fyrir málatilbúnaði sínum sem ekki verða rakin hér nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem gilti á þeim tíma sem hér um ræðir, skyldi gera deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði og reiti þar sem framkvæmdir væru fyrirhugaðar.  Í 9. gr. sömu laga sagði og að svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlanir skyldu vera í innbyrðis samræmi.  Þá er kveðið á um það í 2. mgr. gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 að í aðalskipulagi skuli gera grein fyrir þegar byggðum og fyrirhuguðum samgöngumannvirkjum, s.s. þjóðvegum og höfnum, svo og helstu umferðaræðum og tengingum við þær, og í 5. mgr. sömu greinar kemur fram að á þéttbýlisuppdrætti aðalskipulags skuli gera grein fyrir stofnbrautum og tengibrautum.  Verður að skilja ákvæði þessi svo að ekki nægi að sýna á þéttbýlisuppdrætti aðalskipulags stofn- og tengibrautir heldur þurfi einnig að sýna tengingar við þær.

Á þéttbýlisuppdrætti Selfoss í Aðalskipulagi Árborgar 2005-2025, sem liggur til grundvallar hinu kærða deiliskipulagi, er ekki gert ráð fyrir nema þremur örmum við hringtorg það sem nefnt er Brúartorg.  Er þar auk þess gert ráð fyrir göngu- og hjólastíg frá hringtorginu að miðbæjartorgi.  Í hinu nýja deiliskipulagi er hins vegar gert ráð fyrir fjórðu tengingunni við hringtorgið, sem mun opna fyrir umferð ökutækja eftir einstefnugötu til suðurs frá Brúartorgi, inn á miðbæjarsvæðið, svokallað Ártorg, og liggur þessi gata á svipuðum stað og nefndur göngu- og hjólastígur samkvæmt aðalskipulaginu.  Er þessi einstefnugata forsenda þess í hinu nýja deiliskipulagi að unnt sé að dreifa umferð um miðbæjarsvæðið.  Samræmist hið nýja deiliskipulag að þessu leyti hvorki gildandi aðalskipulagi né nefndu ákvæði skipulagsreglugerðar um samgöngur í skipulagsáætlunum.

Hið kærða deiliskipulag tekur til landsvæðis sem auðkennt er sem miðsvæði á þéttbýlisuppdrætti Selfoss í aðalskipulagi Árborgar.  Samkvæmt gr. 4.4.1 í skipulagsreglugerð skal á miðsvæðum fyrst og fremst gera ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu, en þar sem aðstæður leyfa má þó gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði, sérstaklega á efri hæðum bygginga.  Í grein 3.6 í skilmálum hins kærða skipulags kemur fram að gert sé ráð fyrir að 50-60% húsnæðis á svæðinu sé til íbúðarnota og dæmi eru um íbúðir á 1. hæð.  Orkar tvímælis að þessar heimildir skipulagsins samræmist tilvitnuðum ákvæðum skipulagsreglugerðar um landnotkun á miðsvæðum, en að minnsta kosti leiðir þetta fyrirkomulag til þess að taka verður ríkara tillit til íbúðarnota á svæðinu en almennt gerist á miðsvæðum.

Í gr. 4.4.2 í tilvitnaðri skipulagsreglugerð er fjallað um miðsvæði í skipulagáætlunum.  Segir þar að þegar gert sé ráð fyrir íbúðum í deiliskipulagi miðsvæða skuli gera grein fyrir hvernig íbúum verði tryggður aðgangur að útivistar- og leiksvæðum og bílastæðum.  Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að eiginleg leiksvæði innan lóða séu í lágmarki.  Þá segir í greinargerð með aðalskipulagi Árborgar að gert sé ráð fyrir að fjöldi bílastæða verði í samræmi við ákvæði í gr. 3.1.4 í skipulagsreglugerð en deiliskipulag kveði nánar á um bílastæðafjölda, staðsetningu stæða og útfærslu þeirra.  Í greinargerð með hinu kærða deiliskipulagi segir hins vegar að gert sé ráð fyrir minni bílastæðakröfum en byggingarreglugerð segi til um og megi færa rök fyrir því vegna mikillar samnýtingar bílastæða.  Segir þar og m.a. að tekin hafi verið ákvörðun um að miða við eitt bílastæði fyrir hverja 60 m² og að allar íbúðir sem séu stærri en 80 m² skuli hafa a.m.k. eitt stæði í bílastæðakjallara eða yfirbyggðri bílgeymslu.  Þegar haft er í huga að á svæðinu er gert ráð fyrir yfir 200 íbúðum, auk umfangsmikilla bygginga fyrir verslun og þjónustu, verður ekki fallist á að séð hafi verið fyrir leiksvæðum og bílastæðum, svo sem áskilið er í skipulagsreglugerð, eða að sýnt hafi verið fram á að bílastæðaþörf sé minni en þar er tilgreint.  Er hinu kærða deiliskipulagi áfátt hvað þetta varðar.

Loks er það athugavert að í hinu kærða deiliskipulagi er nýtingarhlutfall sett fram sem reitanýtingarhlutfall, en í aðalskipulagi Árborgar er almennt miðað við nýtingar hlutfall lóða, þegar þess er á annað borð getið á hvaða grundvelli nýtingarhlutfall skuli reiknað.  Þótt heimilt sé að setja nýtingarhlutfall fram sem reitanýtingarhlutfall leiðir af misræmi í framsetningu aðal- og deiliskipulags í þessu efni að erfitt er að staðreyna hvort nýtingarhlutfall deilskipulags sé innan marka aðalskipulags og er óvissa um hvort svo sé í öllum tilvikum í hinu kærða deiliskipulagi.

Samkvæmt framansögðu samræmist hið kærða deiliskipulag ekki aðalskipulagi, svo sem áskilið er.  Að auki er það haldið öðrum efnislegum annmörkum, svo sem að framan er lýst.  Verður af þeim sökum fallist á kröfu kærenda um ógildingu þess.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar um deiliskipulag miðbæjar Selfoss frá 20. desember 2007 er felld úr gildi.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                      Hildigunnur Haraldsdóttir

20/2012 Brekknaás

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 20. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 20/2012, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. febrúar 2012 um að synja umsókn um leyfi til að breyta innra skipulagi hússins á lóðinni nr. 9 við Brekknaás í Víðidal, Reykjavík, úr dýrahóteli í veitinga- og verslunarhúsnæði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. mars 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir A, f.h. Brekknaás 9 ehf., R og G, synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. febrúar 2012 á umsókn um leyfi til að breyta innra skipulagi hússins að Brekknaási 9 í Víðidal úr dýrahóteli í veitinga- og verslunarhúsnæði.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 31. janúar 2012 var tekin fyrir umsókn kærenda um leyfi til að breyta dýrahóteli í veitinga- og verslunarhúsnæði í húsinu nr. 9 við Brekknaás.  Var málinu frestað og því vísað til umsagnar skipulagsstjóra.  Tók hann það fyrir á fundi sínum hinn 3. febrúar s.á. og færði eftirfarandi til bókar:  „Neikvætt.  Notkunarbreyting samræmist hvorki aðalskipulagi né deiliskipulagi.“  Umsóknin var tekin fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 7. s.m. og lá fyrir á fundinum útskrift úr gerðabók frá fyrrnefndum embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra.  Var svohljóðandi bókað:  „Synjað. Samræmist ekki deiliskipulagi.“  Staðfesti borgarráð afgreiðsluna hinn 9. s.m. 

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa til þess að óskað hafi verið eftir breytingu á innra skipulagi hússins að Brekknaási 9 í samræmi við breytta notkun þess og lóðarleigusamning við Reykjavíkurborg.  Sé lóðin leigð fyrir atvinnuhúsnæði og samkvæmt skrám Fasteignamats ríkisins sé um viðskipta- og þjónustulóð að ræða.  Hugmyndin sé að í húsinu verði m.a. starfrækt verslun með hestavörur, hestaleiga, kaffihús og önnur þjónusta fyrir hestamenn.  Í deiliskipulagi fyrir umrætt svæði sé lóðin skráð „Dýraspítali Watsons“, en hann hafi verið lagður niður fyrir tæpum áratug og nýr dýraspítali reistur á öðrum stað í Víðidal.  Síðastliðin ár hafi verið starfrækt hundahótel og leikskóli fyrir hunda í húsinu að Brekknaási 9.  Sé ekki lengur grundvöllur fyrir rekstri dýraspítala á lóðinni enda standi húsið engan veginn undir þeim kröfum sem gerðar séu í dag til slíkrar starfsemi.  Komin sé hefð á aðra starfsemi í húsinu sem hafi verið starfrækt með vitund og vilja borgarinnar, en hún hafi m.a. undirritað nýjan lóðarsamning vegna hennar.  Þá standi húsið á stórri lóð og séu engar byggingar í allra næsta nágrenni þess.

Næsta bygging við umrætt hús sé Reiðhöllin í Víðidal, sem Reykjavíkurborg sé eigandi að en láti Fáki í té endurgjaldslaust.  Þar sé m.a. veislusalur og kaffihús/bar og til standi að innrétta þar verslun og skrifstofuaðstöðu til útleigu.  Megi velta því fyrir sér hvort forsvaranlegt sé að Reykjavíkurborg niðurgreiði húsnæði sem nýtt sé undir starfsemi sem sé í samkeppni við aðra starfsemi eða hvort sú staða hafi haft áhrif á ákvörðun borgarinnar. 

Kærendur telji að synjun byggingarfulltrúa sé byggð á mjög þröngri túlkun á skilmálum deiliskipulags fyrir umrætt svæði og að ekki hafi verið tekið tillit til aðstæðna og annarrar starfsemi þar.  Fyrirhugaður rekstur að Brekknaási 9 sé í samræmi við annan rekstur í dalnum, þ.e. þjónusta við hestamenn.  Einnig sé bent á aðra starfsemi á svæðinu sem kærendur telji að sé ekki að öllu leyti í samræmi við skilmála deiliskipulagsins. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að kröfum kærenda verði hafnað.  Synjun byggingarfulltrúa hafi verið lögmæt og byggi á því að fyrirhuguð nýting umræddrar lóðar sé ekki í samræmi við deiliskipulag svæðisins.  Sé ekki heimilt að leyfa aðra starfsemi í húsinu en dýraspítala nema deiliskipulagi fyrir lóðina verði breytt.  Breyti lóðarleigusamningur um greinda lóð engu í þessu tilliti þar sem notkun lóða þurfi ávallt að vera í samræmi við skipulag.  Þá hafi heldur ekki neina þýðingu að í Reiðhöllinni í Víðidal sé önnur starfsemi en sú sem beint lúti að þjálfun og hýsingu hesta.  Séu fjölmörg fordæmi fyrir því að önnur starfsemi sé einnig leyfð í tengslum við rekstur íþróttahalla af þessari stærðargráðu.  Séu dæmi þau sem kærendur vitni til einnig í samræmi við skipulag svæðisins.  Þá sé ennfremur á það bent að kærendur hafi þegar hafist handa við að framkvæma breytingar í þá veru sem sótt sé um og að þeim sé að mestu lokið.

                                                                                                                          ————
 
Gögn í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 2. maí 2012 og markar sú dagsetning upphaf lögbundins frests til uppkvaðningar úrskurðar. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er um það deilt hvort heimila megi veitinga- og verslunarrekstur í húsi á lóð nr. 9 við Brekknaás í Víðidal, en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum laut umsókn kærenda eingöngu að því.  Er hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa á því byggð að umsókn kærenda samræmist ekki deiliskipulagi umrædds svæðis.  Ekki er þar hins vegar tekið undir staðhæfingu í umsögn skipulagsfulltrúa frá 3. febrúar 2012 um að fyrirhuguð starfsemi samræmist ekki aðalskipulagi, enda verður ekki séð að sú staðhæfing eigi við rök að styðjast. 

Núgildandi deiliskipulag fyrir svæðið var samþykkt í borgarráði 22. september 2005 og nefnist Athafnasvæði hestamanna í Elliðaárdal. Er tiltekið í skipulaginu að með því sé átt við svæði þar sem sérstaklega sé gert ráð fyrir tilvist hesta og hestamanna.  Í greinargerð með deiliskipulaginu kemur fram að í samkomulagi milli Hestamannafélagsins Fáks og Reykjavíkurborgar, sem samþykkt hafi verið 22. október 1981, sé athafnasvæði hestamanna skilgreint sem útivistarsvæði til sérstakra nota og sé það í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024.  Á uppdrætti skipulagsins eru sýnd lóðarmörk fyrir Brekknaás 9 og núverandi bygging á lóðinni, en lóðin er jafnframt auðkennd með árituninni „Dýraspítali Watsons“.  Í greinargerð deiliskipulagsins segir um lóðina:  „D. Sjálfseignarfélagið Dýraspítali Watsons.  Lóð dýraspítala er sýnd óbreytt frá fyrra skipulagi.“  Hinn 25. febrúar 1997 var samþykkt í borgarráði afmörkun lóðar dýraspítala á horni Vatnsveituvegar og Breiðholtsbrautar og er sú lóð auðkennd á uppdrætti sem Dýraspítali Watsons.  Í gildandi deiliskipulagi er gerð grein fyrir þessari lóð og segir í greinargerð skipulagins að þar hafi verið reistur dýraspítali.  Er þar nú rekinn Dýraspítalinn í Víðidal ehf., en Dýraspítali Watsons mun ekki hafa starfað um árabil. 

Samkvæmt ákvæðum skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 um framsetningu skipulagsáætlana er heimilt að skilgreina landnotkun þrengra í deiliskipulagi en gert er í aðalskipulagi.  Jafnframt er gert ráð fyrir því að ákveða megi landnotkun einstakra lóða í deiliskipulagi.  Sé um að ræða svæði þar sem mannvirki eru fyrir ber að gera grein fyrir þeim. 

Auðkenning lóðar með nafni tiltekinnar lögpersónu getur ekki talist fela í sér bindandi ákvörðun um landnotkun heldur er þar fremur um að ræða lýsingu á því hvað fyrir er á lóðinni.  Fyrirliggjandi gögn benda eindregið til þess að áformað hafi verið að stafsemi dýraspítala yrði flutt frá Brekknaási 9, enda hefur það gengið eftir.  Einnig liggur fyrir að ekki hefur verið rekinn dýraspítali á lóðinni svo árum skiptir heldur hefur þar verið rekið dýrahótel.  Loks liggur fyrir að Dýraspítali Watsons er ekki lengur lóðarhafi að Brekknaási 9, en með lóðarleigusamningi, dags. 27. janúar 2012, var lóðin leigð tveimur einstaklingum.  Segir í tilgreindum samningi að lóðin sé leigð fyrir atvinnuhúsnæði og að hús hafi þegar verið byggt á hinni leigðu lóð. 

Þegar allt framanritað er virt verður að hafna þeirri túlkun borgaryfirvalda að landnotkun fyrir lóðina að Brekknaási 9 sé skilgreind í deiliskipulagi sem dýraspítali.  Þess í stað hefði átt að líta til hinnar almennu skilgreiningar sem fram er sett í skipulaginu, þar sem segir að athafnasvæði hestamanna sé skilgreint sem útivistarsvæði til sérstakra nota.  Ekki var tekin afstaða til þess hvort umsókn kærenda samræmdist þeirri landnotkun við afgreiðslu hennar og var hin kærða ákvörðun því ekki reist á réttum forsendum.  Verður hún því felld úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna tafa við gagnaöflun og mikilla anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. febrúar 2012 um að synja umsókn um leyfi til að breyta innra skipulagi hússins á lóðinni nr. 9 við Brekknaás í Víðidal í Reykjavík.

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________             _________________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson

62/2011 Austurvegur

Með

Árið 2012, miðvikudaginn 9. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson formaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 62/2011, kæra á ákvörðunum sveitarstjórnar Mýrdalshrepps frá  17. febrúar 2011 um að veita byggingarleyfi fyrir húsi á lóð nr. 11d við Austurveg í Vík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. ágúst 2011, er barst nefndinni sama dag, kærir J, eigandi Kirkjuvegar 3 í Vík, ákvörðun sveitarstjórnar Mýrdalshrepps frá 17. febrúar 2011 um að veita byggingarleyfi fyrir húsi á lóð nr. 11d við Austurveg í Vík.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Kærandi er eigandi fasteignarinnar að Kirkjuvegi 3 í Vík.  Vestanmegin við lóð hans er lóðin Austurvegur 11c en norðanmegin er lóðin Austurvegur 11d.  Milli lóðar kæranda og lóðarinnar Austurvegar 11c mun hafa verið 90 cm breiður göngustígur er lá að Austurvegi 11d.  Að þeirri lóð liggur hins vegar engin innkeyrsla fyrir bifreiðar.  Ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir hverfið, Hjallahverfi, þar sem fasteignir þessar eru staðsettar. 

Á árinu 2009 var eiganda lóðarinnar nr. 11d við Austurveg veitt leyfi til að byggja hús á lóðinni.  Jafnframt var samþykkt breytt aðkoma að henni.  Ákvörðunum þessum skaut kærandi til úrskurðarnefndarinnar og krafðist ógildingar þeirra.  Með úrskurði 4. ágúst 2011 vísaði úrskurðarnefndin kærunni frá að því er byggingarleyfið varðaði með þeim rökum að samþykkt sveitarstjórnar um leyfið væru fallin úr gildi vegna lögbundins tímafrests.  Þá felldi nefndin úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar um breytta aðkomu að Austurvegi 11d.

Stuttu eftir að úrskurður gekk í málinu bárust úrskurðarnefndinni upplýsingar um að sveitarstjórn hefði endurnýjað umdeilt byggingarleyfi innan tímafrests, fyrst með ákvörðun 27. janúar 2010 og síðan með ákvörðun 17. febrúar 2011.  Í kjölfar þeirra upplýsinga vísaði kærandi málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 18. ágúst 2011, svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi tekur fram að honum hafi ekki verið tilkynnt um ákvarðanir sveitarstjórnar um endurnýjun hins umdeilda byggingarleyfis og hafi honum ekki verið kunnugt um þær fyrr en eftir að úrskurður hafi gengið í fyrra máli hinn 4. ágúst 2011.  Þar hafi verið fallist á rök hans um að óheimilt væri að skerða lóð hans svo sem gert hafi verið þegar aðkomu að lóðinni Austurvegi 11d hafi verið breytt.  Því sé ljóst að sveitarfélagið þurfi að gera nýjar tillögur að aðgengi fyrirhugaðrar fasteignar að Austurvegi 11d, enda geti aðgengið aldrei verið vestan megin við lóð kæranda.

Ætli lóðarhafi Austurvegar 11d að reisa hús á lóðinni þurfi hann að uppfylla ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Að mati kæranda séu skilyrði reglugerðarinnar um aðgengi að lóðinni með engu móti uppfyllt, en í henni sé m.a. áskilið að greið aðkoma sé að lóðum, m.a. fyrir sjúkra- og slökkvibíla og til almennra flutninga.  Þar sem Mýrdalshreppur hafi hvorki gert tillögur að nýju aðgengi að lóðinni né grenndarkynnt slíkar tillögur sé ljóst að núgildandi byggingarleyfi fari í bága við ákvæði byggingarreglugerðar.

Þá hafi í ýmsum efnum skort á að gætt væri ákvæða stjórnsýslulaga við meðferð málsins og eigi þeir ágallar sem séu á efni og undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar að leiða til ógildingar hennar.

Málsrök Mýrdalshrepps:  Af hálfu Mýrdalshrepps er því hafnað að skort hafi á að sveitarstjórn upplýsti um afgreiðslur á erindum byggingarleyfishafa um endurnýjun leyfis.  Hefði sveitarstjórn hins vegar hafnað því að framlengja umrætt leyfi og þannig breytt um afstöðu til þess máls sem verið hafi til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni hefði þurft að gera öllum hlutaðeigandi grein fyrir þeirri breyttu afstöðu.  Rétt sé að fram komi að ekki hafi verið ágreiningur um hvort byggja ætti á umræddri lóð heldur hafi ágreiningurinn lotið að þeirri ákvörðun sveitarstjórnar að breyta mörkum lóðar kæranda til að auðvelda aðkomu að Austurvegi 11d.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Sjónarmið byggingarleyfishafa liggja fyrir í samantekt hans í fyrra máli.  Er þar rakinn aðdragandi málsins og kemur þar fram að bætt aðkoma að lóð byggingaleyfishafa ráði miklu um byggingaráform hans.  Það sé einlæg von hans að sátt geti skapast um að gera umhverfið þarna fallegra en það hafi verið í mörg ár. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið endurnýjaði sveitarstjórn tvisvar ákvörðun sína um byggingarleyfi fyrir nýju húsi að Austurvegi 11d meðan mál um gildi upphaflegs byggingarleyfis var til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Er hin síðari endurnýjun frá 17. febrúar 2011 sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.  Er hún enn í gildi en líta verður svo að í henni felist samþykkt byggingaráforma skv. 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, en slík samþykkt gildir í tvö ár frá útgáfu, sbr. 4. mgr. gr. 2.4.2 í byggingarreglugerð nr. 112/2012.  Var þetta gert án þess að kæranda eða úrskurðanefndinni væri gert kunnugt um þessar ráðstafanir.  Mátti sveitarstjórn þó vera ljóst að þessar ákvarðanir skiptu kæranda máli og gátu haft þýðingu við úrlausn málsins fyrir úrskurðarnefndinni.  Bar sveitarstjórn því, með vísan til 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að gefa kæranda kost á að tjá sig um fyrirhugaðar endurnýjanir umdeilds byggingarleyfis og jafnframt að upplýsa úrskurðanefndina um þær, enda lá fyrir sveitarstjórn beiðni nefndarinnar um gögn og upplýsingar varðandi málið.  Þá liggur fyrir að eftir að úrskurðarnefndin felldi úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar um að breikka aðkomu að lóð byggingarleyfishafa, færa umrætt hús og breyta mörkum lóða verður ekki stuðst við áður útgefið byggingarleyfi, enda þarf að gera grein fyrir hvernig aðkomu að húsinu verður háttað, en aðkoma að lóð er meðal þess sem gera skal grein fyrir á aðaluppdráttum mannvirkis, sbr. þágildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998, gr. 18.14.  Er hin kærða ákvörðun þannig haldin slíkum annmörkum að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Ákvörðun sveitarstjórnar Mýrdalshrepps frá 17. febrúar 2011, um að veita byggingarleyfi fyrir húsi að Austurvegi 11d, er felld úr gildi.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________      _____________________________
Ásgeir Magnússon                               Þorsteinn Þorsteinsson

14/2008 Strandgata

Með

Ár 2012, föstudaginn 1. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 14/2008, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 11. desember 2007 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar er fól í sér heimild til byggingar sjö hæða húss á lóðinni að Strandgötu 26-30 í Hafnarfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfum til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5., 10. og 11. mars 2008, er bárust úrskurðarnefndinni hinn 6., 10. og 11. sama mánaðar, kæra E, eigandi hússins að Gunnarssundi 4, Þ, eigandi eignarhluta í Strandgötu 32 og Þ, Efstuhlíð 12, Hafnarfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 11. desember 2007 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar, er fól í sér heimild til byggingar sjö hæða húss á lóðinni að Strandgötu 26-30 í Hafnarfirði.  Tók ákvörðunin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 11. febrúar 2008.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi.

Málavextir:  Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag miðbæjar Hafnarfjarðar frá árinu 2001.  Breyting var gerð á skipulaginu árið 2004 þar sem gert var ráð fyrir fjögurra hæða húsum, með risi og bílakjallara, á lóðunum að Strandgötu 26-28 og Strandgötu 30, með nýtingarhlutfall 2,6 og 3,2.  Á árinu 2006 lagði rétthafi framangreindra lóða fram tillögu að breytingu lóðanna með ráðagerð um sameiningu þeirra, byggingu tólf hæða húss, með verslunar- og þjónustustarfsemi á fyrstu þremur hæðunum, en íbúðum í tveimur turnum á fjórðu til tólftu hæð.  Nýtingarhlutfall sameinaðrar lóðar yrði 5,1.  Eftir umfjöllun og kynningu málsins ákváðu skipulagsyfirvöld bæjarins í júní 2007 að auglýsa til kynningar skipulagstillögu þar sem gert var ráð fyrir níu hæða húsi á sameinaðri lóð að Strandgötu 26-30, með nýtingarhlutfall 4,47.  Mikill fjöldi andmæla gegn tillögunni barst á kynningartíma hennar.

Hin auglýsta skipulagstillaga var síðan til frekari umfjöllunar hjá skipulagsyfirvöldum og urðu lyktir þær að bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti hana með breytingum á fundi sínum hinn 11. desember 2007.  Var nú gert ráð fyrir að húsið að Strandgötu 26-30 yrði sjö hæða og nýtingarhlutfall lóðarinnar 4,2.

Skutu kærendur skipulagsbreytingunni til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur bera fyrir sig að umdeildri deiliskipulagsbreytingu sé áfátt að formi og efni til.

Ekki hafi legið fyrir fullnægjandi upplýsingar við kynningu tillögunnar.  Skýrsla um vindáhrif hafi ekki legið fyrir og ekki hafi verið sýnt fram á að mótvægisaðgerðir vegna vindáhrifa muni duga.  Aðeins hafi verið gerð grein fyrir áhrifum skuggavarps að sumri en ekki að vetri þegar sól sé lægst á lofti.  Ekki verði séð að skipulagstillagan geri ráð fyrir bílastæðum fyrir heimilað verslunar- og þjónusturými að Strandgötu 26-30 og ekkert sé fjallað um hvernig bregðast eigi við aukinni umferð sem auknu byggingarmagni muni fylgja.  Þá sé ekki að finna upplýsingar um stærðir íbúða í fyrirhuguðum íbúðarturnum og hvort reglum um lágmarksfjölda bílastæða sé fylgt.  Auk þess séu engin ákvæði um gerð og útlit bygginga, hvernig sorpmálum og vörumóttöku vegna atvinnuhúsnæðisins verði hagað og hvort skipulagsbreytingin sé í samræmi við gildandi aðalskipulag.

Með deiliskipulagi séu settar fram langtímaforsendur um byggð og umhverfi sem íbúar eigi að geta treyst.  Engin málefnaleg eða lögmæt sjónarmið hafi verið færð fram fyrir hinni umdeildu breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar frá árinu 2001 eða bent á skipulagsrök að baki henni. Gengið sé gegn stefnu upphaflegs skipulags um að efla miðbæinn með því að skapa skjólsæla staði, en þar segi jafnframt að skuggavarp leiði til þess að slíkir staðir nýtist ekki nema lítinn hluta dags.  Skipulagsbreytingin njóti ekki stuðnings bæjarbúa enda hafi engin mælt henni bót á kynningarfundum sem haldnir hafi verið.   Með breytingunni séu bæjaryfirvöld að láta undan þrýstingi eins fyrirtækis vegna fjárhagslegra hagsmuna þess á kostnað grenndarhagsmuna annarra lóðarhafa.  Gangi breytingin eftir sé skapað fordæmi um nýtingu annarra lóða í miðbænum, en hann sé annar tveggja miðbæjarkjarna sem eftir séu á suðvestur horni landsins.

Fyrirhugaðar sjö hæða turnbyggingar muni hafa veruleg grenndaráhrif vegna útsýnisskerðingar og sjónmengunar og falli byggingin ekki að byggðamynstri og ásýnd miðbæjarins.  Verð- og notagildi fasteigna í nágrenninu muni rýrna vegna aukins skuggavarps og vindmögnunar, sem m.a. muni hafa bein áhrif á fasteignina að Gunnarsundi 4.  Aukningu húsnæðis á svæðinu muni jafnframt fylgja aukin umferð og bílastæðavandi með tilheyrandi hávaða og loftmengun.   

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:  Bæjaryfirvöld skírskota til þess að umrædd skipulagsbreyting hafi verið mjög vel kynnt.  Forstigskynningarfundur hafi verið 2. apríl 2007 og hafi tilkynning um hann verið borin í hús.  Þá hafi tillagan verið kynnt á fundi 16. ágúst 2007, sem auglýstur hafi verið í Lögbirtingablaði, Fréttablaði og Víkurfréttum og með bréfum til íbúa við Strandgötu 17-18, Austurgötu 22-36, Linnetsstíg, Gunnarssund og Mjósund 1-3.  Kynning skipulagstillögunnar hafi verið á vegum Hafnarfjarðarbæjar en ekki lóðarhafa Standgötu 26-30, en eðlilegt hafi þótt að arkitektar tillögunnar kynntu hana á fundunum.  Gerð hafi verið grein fyrir öllum tiltækum upplýsingum á kynningarfundum og þeir sem þess hafi óskað hafi fengið þær sendar.  Viðbótargagna hafi verið aflað eftir þörfum, m.a. vegna spurninga um veðurfar sem fram hafi komið, endurunnið skuggavarp í tilefni af lækkun húsa o.fl.

Skuggamyndun vegna íbúðarturna aukist eitthvað, samanborið við skugga frá fjögurra hæða byggingu á lóð nr. 26-30 við Strandgötu, sem eldra skipulag hafi gert ráð fyrir. Þá breytist vindafar einnig.  Athygli sé vakin á að nýbyggingin verði þrjár hæðir og verði þriðja hæðin inndregin.  Húsið hafi verið lækkað um tvær hæðir í kjölfar kynningar og skýrslu Veðurvaktarinnar ehf. um vindskilyrði í miðbæ Hafnarfjarðar.  Í deiliskipulagi miðbæjar sé kveðið á um að ef ekki sé hægt að uppfylla bílastæðaþörf við einstök hús megi reikna öll opinber bílastæði í miðbænum til almennrar notkunar fyrir svæðið í heild.  Verið sé að vinna að lausn á bílastæðavanda miðbæjarins í samvinnu við verkfræðistofu.

Með hinni kærðu skipulagsbreytingu sé ekki verið að raska heildarsvip byggðar.  Sá heildarsvipur felist í að samræmi sé í húsagerðum og byggingarstílum, þótt öll húsin þurfi ekki að vera nákvæmlega eins.  Byggðin við Strandgötu, milli Lækjargötu og Reykjavíkurvegar, sé samansafn ólíkra byggingarstíla sem sé sundurlaus.  Vart sé því hægt að tala þar um ákveðinn heildarsvip.  Bakland Strandgötunnar, þ.e. Austurgata og Hverfisgata, hafi á sér mun heildstæðari svip bárujárnshúsa í smágerðum skala, þó að þar séu að sjálfsögðu undantekningar.  Það yfirbragð beri að varðveita.  Eini samfelldi hluti Strandgötunnar sem falli að þessari gömlu byggð sé hins vegar húsaröð austan götunnar, milli Gunnarssunds og Linnetstígs.  Aðrar byggingar við Strandgötu séu  misgamlar og í mismunandi stílbrigðum.  Því megi halda fram að umrædd nýbygging feli í sér málamiðlun milli Strandgötu 24 og 32, en hvorug þeirra bygginga hafi teljandi „arkitektóniskt“ gildi.  Þegar um slíkt sé að ræða gefist oft betur að nýbygging skeri sig frá hinum hvað útlit varði og hafi sjálfstætt „arkitektóniskt“ gildi, en fylgi húsalínum og þakkantshæðum að götu til að tryggja þar samfellu.  Strandgatan hafi það gildi að sýna þróun bygginga á hinum ýmsu tímum.  Umrædd nýbygging teljist til nýmódernisma og sé þannig viðbót við þá mörgu stíla sem Strandgatan hafi að geyma.

Með hinni kærðu ákvörðun sé verið að stuðla að auknu verslunarrými í miðbæ Hafnarfjarðar, en erfiðlega hafi gengið að fá fjárfesta til að byggja á umræddum lóðum og í miðbænum yfirleitt.  Aukið verslunarrými sé til hagsbóta fyrir Hafnarfjörð í samkeppni við aðra miðbæi og verslunarmiðstöðvar.  Til að sú fjárfesting sé arðbær verði að fylgja íbúðarhúsnæði, en umfang þess hafi verið minnkað mjög mikið frá upphaflegum tillögum.  Við skipulag miðbæja hafi markaðslögmál yfirleitt áhrif á lóðaverð og húsastærðir.  Þetta sé alþekkt lögmál í borgarhagfræði sem William Alonso hafi sett fram árið 1964.  Helstu breytur séu þar tekjur einstaklinga og fyrirtækja, ferðakostnaður á lengdareiningu og fjarlægð frá borgarmiðju.  Landverð sé þannig hæst næst borgarmiðju (miðbæ) og mestar kröfur þar gerðar um nýtingu til að mæta eðlilegum kröfum um arðsemi fjárfestingarinnar.  Eðlisrök búi því að baki deiliskipulagsbreytingunni.

———————

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Lóðarhafa Strandgötu 26-30 var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum í málinu en ekkert svar hefur borist frá honum.

Niðurstaða:  Fyrir hina umdeildu skipulagsbreytingu var í deiliskipulagi heimild fyrir allt að 1.765 m² fjögurra hæða húsi með lágu risi að Strandgötu 26-28 og 2.035 m² fjögurra hæða húsi ásamt kjallara að Strandgötu 30.  Var hámarks nýtingarhlutfall fyrrgreindu lóðarinnar 2,6 en þeirrar síðarnefndu 3,2.  Með hinni kærðu ákvörðun eru lóðir þessar sameinaðar og sameinuð lóð stækkuð.  Er og heimiluð bygging þriggja hæða húss með bílakjallara og tveimur fjögurra hæða turnbyggingum upp úr húsinu.  Hámarksbyggingarmagn er 7.360 m² og nýtingarhlutfall lóðarinnar 4,2.  Gert er ráð fyrir verslun og þjónustu á fyrstu tveimur hæðum hússins, íbúðum og þjónustu á þriðju hæð og íbúðum á 4.-7. hæð í turnunum.

Umrædd deiliskipulagstillaga var auglýst og kynnt lögum samkvæmt, kynningarfundir haldnir með íbúum, afstaða tekin til fram kominna athugasemda og gagna aflað, svo sem um vindafar og skuggamyndun, áður en ákvörðun var tekin í málinu.  Verður ekki séð að formlegri meðferð skipulagstillögunnar hafi verið ábótavant.

Hin kærða ákvörðun felur í sér heimild til að auka byggingarmagn á umræddum reit.  Er og heimilað að fjölga íbúðum frá því sem var í eldra skipulagi, m.a. með byggingu tveggja íbúðarturna á 4.-7. hæð.
Í gr. 4.4.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 er fjallað um miðsvæði í skipulagáætlunum.  Segir þar að þegar gert sé ráð fyrir íbúðum í deiliskipulagi miðsvæða skuli gera grein fyrir hvernig íbúum verði tryggður aðgangur að útivistar- og leiksvæðum og bílastæðum og hvernig ákvæðum mengunarvarnareglugerðar um hljóðvist verði fullnægt.  Í hinni kærðu ákvörðun er ekkert fjallað um aðgang nýrra íbúða að útivistar- og leiksvæðum en fyrir liggur að í nágrenni umræddrar lóðar eru torg og opin svæði.  Ekki er þar heldur fjallað um bílastæði að öðru leyti en því að heimilað er að byggja bílakjallara á einni hæð undir nýbyggingum á lóðinni.
Í deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar, sem öðlaðist gildi hinn 19. október 2001, og breytt er með hinni kærðu ákvörðun, er kveðið á um bílastæði miðbæjar.  Segir þar m.a. að aukinni bílastæðaþörf verði mætt með nýjum bílastæðakjöllurum, en stæði verði að verulegu leyti samtengd og samnýtt.  Átti þetta fyrirkomulag nokkra stoð í ákvæði um bifreiðastæði í þágildandi Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015 þar sem sagði að á ýmsum stöðum væri hægt að reikna með samnýtingu bifreiðastæða, einkum á miðsvæðum, og að í eldri hverfum væri hægt að víkja frá reglum skipulagsins um bifreiðastæði ef til þess lægju önnur veigamikil skipulagleg sjónarmið.
Þegar  bæjaryfirvöld samþykktu hina kærðu ákvörðun hinn 11. desember 2007 var tilvitnað aðalskipulag ekki lengur í gildi.  Þess í stað gilti þá Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2005-2025, en þar segir að bifreiðastæðaþörf skuli almennt vera leyst innan lóðar.  Er ekki að finna í greinargerð þess skipulags ákvæði um samnýtingu bílastæða á miðsvæðum eða önnur ákvæði er sérstaklega lúta að lausn á bílastæðaþörf slíkra svæða. 
Að því marki sem hin kærða ákvörðun heimilar aukið byggingarmagn og fjölgun íbúða verður við það að miða að þörf fyrir bílastæði vegna aukningarinnar og nýrra íbúða verði leyst innan lóðar í samræmi við gildandi reglur um fjölda bílastæða, enda hefur ekki verið sýnt fram á að bílastæðaþörf sé minni en af reglunum leiðir eða unnt sé að uppfylla hana með öðrum hætti, sbr. gr. 3.1.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.
Ekki kemur fram í hinni kærðu skipulagsbreytingu hver sé fjöldi eða stærð fyrirhugaðra íbúða, eða hvernig rými fyrirhugaðrar byggingar skiptist milli notkunarflokka, og er því ekki unnt að reikna bílastæðakröfu fyrir bygginguna af nákvæmni.  Hins vegar má áætla að 130-200 stæði þurfi til að fullnægja kröfum um bílastæði fyrir fyrirhugaðar byggingar á lóðinni en varla er hægt að gera ráð fyrir meira en 85 stæðum í áformuðum bílakjallara.  Skortir þannig mikið á að fullnægt sé kröfum skipulagsreglugerðar og gildandi aðalskipulags um bifreiðastæði.  Er hin kærða ákvörðun þannig haldin svo verulegum ágöllum að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega.  Valda því miklar annir hjá úrskurðarnefndinni, auk þess sem afla þurfti nokkurra nýrra gagna í málinu.

Úrskurðarorð:


Hin kærða ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 11. desember 2007, um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar, er felld úr gildi.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                      Hildigunnur Haraldsdóttir