Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

96/2012 Skólavörðustígur

Árið 2014, miðvikudaginn 16. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 96/2012, kæra á samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. september 2012 á umsókn um endurnýjun leyfis til að rífa tvö hús og reisa í þeirra stað steinsteypt íbúðar- og verslunarhús á lóð nr. 40 við Skólavörðustíg í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. október 2012, er barst nefndinni 5. s.m., kæra B, Lokastíg 22, E, Skólavörðustíg 38 og D, Lokastíg 19, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. september 2012 að samþykkja umsókn um endurnýjun á leyfi til að rífa tvö hús og reisa í þeirra stað steinsteypt íbúðar- og verslunarhús á lóð nr. 40 við Skólavörðustíg. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um að framkvæmdir samkvæmt hinni kærðu ákvörðun yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Málavextir: Hinn 10. desember 2009 samþykkti borgarráð Reykjavíkur deiliskipulag Lokastígsreita 2, 3 og 4. Öðlaðist það gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 8. júní 2010 og tekur m.a. til lóðarinnar að Skólavörðustíg 40. Sú skipulagsákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 14. ágúst 2012 var tekin fyrir umsókn um endurnýjun á erindi þar sem veitt var leyfi til að rífa tvö hús og reisa í þeirra stað steinsteypt íbúðar- og verslunarhús, fjórar hæðir og kjallara, á lóðinni nr. 40 við Skólavörðustíg. Var afgreiðslu málsins frestað og því vísað til umsagnar skipulagsstjóra. Tók hann málið fyrir á fundi 24. s.m. og færði til bókar að ekki væri hægt að afgreiða erindið þar sem beðið væri úrskurðar æðra stjórnvalds í kærumáli vegna deiliskipulags þess er tæki til umrædds skipulagsreits. Erindið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsstjóra hinn 31. s.m. og afgreitt með eftirfarandi bókun: „Umsóknin samræmist gildandi deiliskipulagi en vakin er athygli á því að það deiliskipulag hefur verið kært til æðra stjórnvalds og er beðið úrskurðar þess.“ Byggingarfulltrúi samþykkti umsóknina á afgreiðslufundi hinn 18. september 2012 með vísan til þess að hún samræmdist ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010 og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu hinn 20. s.m. Veitti byggingarfulltrúinn hinn 3. október s.á. umsóknaraðila takmarkað byggingarleyfi vegna niðurrifs húsa á umræddri lóð og graftrarleyfi fyrir fyrirhugaðri byggingu, með stoð í hinni kærðu ákvörðun um veitingu byggingarleyfisins.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að ekki hafi verið veitt fullnægjandi svör við því hvers vegna umrætt byggingarleyfi hafi verið samþykkt en afgreiðslu á því hafi áður ítrekað verið frestað. Hafi kærendur með bréfi til byggingarfulltrúa, dagsettu 17. ágúst 2012, farið fram á að byggingarleyfið yrði ekki endurnýjað að svo stöddu. Jafnframt hafi verið bent á að nokkur óvissa væri um deiliskipulag umrædds svæðis sem sætt hefði kæru til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Enn fremur hafi verið tilgreint að kærendur væru ósáttir við fyrirhugað byggingarmagn á lóðinni og óttuðust verulegt ónæði og óhagræði meðan á framkvæmdum stæði. Í svari byggingarfulltrúa hafi komið fram að afgreiðsla á umsókn væri í fresti, m.a. vegna þeirra atriða er kærendur hefðu tiltekið í bréfi sínu. Jafnframt hafi verið tekið fram að skoðuð yrðu öll atriði málsins áður en það yrði afgreitt.

Kærendur telji að brotið hafi verið gegn ákvæðum 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um leiðbeiningarskyldu stjórnvalds, en þar segi að stjórnvald skuli veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál er snerti starfssvið þess. Verði deiliskipulag fyrir reitinn fellt úr gildi sé ekki lengur grundvöllur fyrir útgáfu byggingarleyfisins, sem standi og falli með deiliskipulaginu.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kærenda verði hafnað. Á það sé bent að í gildi sé deiliskipulag fyrir Lokastígsreiti 2, 3 og 4. Sé þar gert ráð fyrir að heimilað byggingarmagn ofanjarðar á lóðinni að Skólavörðustíg 40 verði allt að 680 m² og nýtingarhlutfall 1,97. Megi nýbygging vera allt að þrjár hæðir, ris og kjallari. Bygging sú sem nú hafi verið þar leyfð sé innan marka gildandi deiliskipulags. Byggingarmagn ofanjarðar sé 660,7 m² og kjallarinn sé 203,1 m², eða samtals 863,7 m². Nýtingarhlutfall ofanjarðar sé 1,91 og heildarnýtingarhlutfall 2,5. Þá hafi Húsafriðunarnefnd ríkisins og Minjasafn Reykjavíkur ekki gert athugasemdir við niðurrif húss á lóðinni.

Kæra á deiliskipulagi Lokastígsreita til úrskurðarnefndar fresti ekki réttaráhrifum þess og hafi byggingarfulltrúa því bæði verið rétt og skylt að veita byggingarleyfi í samræmi við heimildir deiliskipulagsins. Ekki sé fullyrt um hvort íbúar í nágrenninu verði fyrir ónæði eða óþægindum á framkvæmdatíma umfram það sem gangi og gerist við framkvæmdir af þessu tagi, en íbúar í þéttbýli megi alltaf búast við að einhverjum slíkum hagsmunum verði raskað á framkvæmdatíma. Slíkt valdi þó ekki eitt og sér ógildingu byggingarleyfisins. 

—–

Byggingarleyfishafa var veitt færi á að koma athugasemdum sínum og sjónarmiðum að í málinu en greinargerð af hans hálfu hefur ekki borist úrskurðarnefndinni.

Vettvangsskoðun:  Staðhættir á vettvangi voru kannaðir hinn 8. ágúst 2013. 
 
Niðurstaða: Hinn 10. apríl 2014 kvað úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála upp úrskurð í máli nr. 44/2010, þar sem tekist var á um lögmæti deiliskipulags Lokastígsreita, en það tekur m.a. til lóðarinnar að Skólavörðustíg 40. Var kröfu kæranda í því máli um ógildingu skipulagsins hafnað.

Ekki liggur annað fyrir en að málsmeðferð hins kærða byggingarleyfis hafi verið lögum samkvæmt. Í málinu liggja m.a. fyrir samskipti kærenda við Reykjavíkurborg þar sem þeim er leiðbeint um feril málsins og lagagrundvöll. Með hliðsjón af því sem þar kemur fram verður að telja að leiðbeiningarskyldu skv. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið fullnægt. Þá verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að leyfið sé í samræmi við gildandi deiliskipulag. Með vísan til framangreinds verður kröfu kærenda um ógildingu hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. september 2012 um að samþykkja umsókn um endurnýjun á leyfi til að rífa tvö hús og reisa í þeirra stað steinsteypt íbúðar- og verslunarhús á lóð nr. 40 við Skólavörðustíg.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson