Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

130/2012 Hafnargata Bolungarvík

Árið 2014, mánudaginn 28. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 130/2012, kæra á ákvörðun umhverfismálaráðs Bolungarvíkur frá 23. október 2012 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir endurbyggingu húss og byggingu bátaskýlis á lóðinni nr. 122 við Hafnargötu í Bolungarvík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. desember 2012, er barst nefndinni 18. s.m., kæra B, Hafnargötu 121, Bolungarvík, þá ákvörðun umhverfismálaráðs Bolungarvíkur frá 23. október 2012 að samþykkja byggingarleyfi fyrir endurbyggingu húss og byggingu bátaskýlis á lóðinni nr. 122 við Hafnargötu í Bolungarvík. Staðfesti bæjarstjórn þá ákvörðun hinn 8. nóvember s.á. Skilja verður kröfugerð kærenda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn frá Bolungarvíkurkaupstað 21. janúar 2013. Þá aflaði nefndin frekari gagna frá kaupstaðnum sem bárust 29. janúar og 7. apríl 2014.

Málavextir: Á lóðinni nr. 122 við Hafnargötu stendur hús sem samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár var reist árið 1900. Árið 2010 var á fundi umhverfismálaráðs tekið jákvætt í erindi um breytingar á umræddu húsi og óskað eftir fullnægjandi teikningum. Jafnframt var byggingarfulltrúa falið að vinna lóðarblað fyrir umrædda lóð og aðliggjandi lóðir. Í framhaldi af fundinum mun hafa verið gefið leyfi bæjarins til að rífa skúr og hjall við norðurhlið hússins. Á fundi umhverfismálaráðs hinn 11. janúar 2011 var lagt til við bæjarstjórn að samþykkja tillögu að lóðarblaði lóða nr. 120,122 og 124 við Hafnargötu og samþykkti bæjarstjórn fundargerð ráðsins 28. s.m.

Hinn 10. júlí 2012 var á fundi umhverfismálaráðs tekin fyrir umsókn um leyfi til að endurbyggja húsið að Hafnargötu 122. Jafnframt var sótt um leyfi fyrir byggingu bátaskýlis við húsið „þar sem áður var minna sambærilegt skýli“. Var erindinu vísað til umsagnar húsafriðunarnefndar.

Á fundi umhverfismálaráðs hinn 31. júlí s.á. var umsóknin tekin fyrir að nýju og endurbygging hússins samþykkt samkvæmt framlögðum teikningum. Þá var fært til bókar að taka skyldi mið af fram komnum ábendingum húsafriðunarnefndar og haft samráð við hana um útlit og frágang glugga. Stuttu síðar komu kærendur á framfæri skriflegum athugasemdum við umhverfismálaráð vegna fyrirhugaðra breytinga og bentu m.a. á að framkvæmdirnar hefðu ekki verið grenndarkynntar. Erindi kærenda var tekið fyrir á fundi ráðsins hinn 21. ágúst 2012 og eftirfarandi bókað: „Þó umhverfismálaráð hafi ekki talið ástæðu til að breytingar á Hafnargötu 122 þyrftu að fara í grenndarkynningu fellst ráðið á mótmæli bréfritara og samþykkir að afturkalla samþykkt sína frá 31. júlí sl. á meðan grenndarkynning fer fram. Samþykkt að senda húseigendum að Hafnargötu 117, 119, 120, 121, 123 og 124 gögn vegna grenndarkynningarinnar.“ Málið var tekið fyrir að nýju á fundi umhverfismálaráðs hinn 23. október 2012 og svohljóðandi fært til bókar: „Umhverfismálaráð hefur farið yfir athugasemdir [kærenda] sem var eina athugasemdin sem barst. Umhverfismálaráð tekur ekki undir rök bréfritara enda breytingin á húsinu Hafnargötu 122 óveruleg og staðfestir því fyrri samþykkt um byggingarleyfi vegna breytinga á Hafnargötu 122, samkvæmt teikningu sem lögð var fram á fundi ráðsins 31. júlí sl. Byggingarfulltrúa falið að senda rökstutt svar til bréfritara um afgreiðslu ráðsins.“ Staðfesti bæjarstjórn greinda bókun 8. nóvember s.á. Var kærendum tilkynnt um afgreiðslu málsins og athugasemdum þeirra svarað með bréfi, dagsettu 14. nóvember 2012.

Hafa kærendur kært framangreinda ákvörðun umhverfismálaráðs frá 23. október 2012 til úrskurðarnefndarinnar.

Málsrök kærenda: Kærendur telja hæpið að hjallur og sambyggð geymsla hafi verið byggð árið 1900 en sé svo fari niðurrif hjallsins líklega í bága við húsafriðunarlög. Samþykktar breytingar skerði verulega útsýni kærenda yfir Ísafjarðardjúp. Ný staðsetning og hæð reykháfs muni eyðileggja útsýni kærenda og muni notkun hans valda mengun. Virðist kærendum sem „hér sé leikur að tölum og háfur sé færður nær hallandi þaki til að geta hækkað hann“. Þá sé bent á að umhverfismálaráð túlki orðið bátaskýli á sama hátt og orðin bílskýli og bílageymsla, en hvergi sé að finna skilgreiningu á því í reglugerðum hvað og til hvers bátaskýli sé. Eigi geymsla á bátum frekar að vera á skipulagssvæði iðnaðarlóðar eða geymsluhúsnæðis. Einnig sé bent á að framkvæmdin hafi ekki verið grenndarkynnt, svo sem borið hafi að gera, fyrr en kærendur hafi kvartað. Þá sé sett spurningarmerki við að sömu aðilar í umhverfismálaráði komi að málinu eftir að kvartað hafi verið yfir vinnubrögðum þeirra.

Málsrök Bolungarvíkurkaupstaðar: Sveitarfélagið telur að unnið hafi verið vel og faglega að afgreiðslu umræddrar byggingarleyfisumsóknar. Lögum og reglugerðum hafi verið fylgt. Talið hafi verið að breytingar á húsinu væru það litlar að ekki bæri að grenndarkynna umsóknina. Slíkt hafi þó verið sjálfsagt að gera þegar beiðni hafi borist um það og hafi ein athugasemd borist.

Fallast megi á að nokkur breyting verði á útsýni úr húsi kærenda eftir breytinguna. Sé miðað við það útsýni sem hafi verið áður en geymsla og hjallur hafi verið fjarlægð sé breytingin óveruleg. Bátaskýlið breikki um 52 cm og lengist um 224 cm miðað við þau mannvirki er fyrir hafi verið. Mænir bátaskýlisins verði í sömu hæð og mænir geymslunnar en nái að vísu lengra í átt til sjávar en áður hafi verið. Sjáist geymslan, hjallurinn og e.t.v. önnur mannvirki á ljósmyndum sem teknar hafi verið árið 1988, sem og á skipulagsuppdrætti fyrir lóðir við Hafnargötu 117, 119, 121 og 123 frá árinu 1992. Hafi nefnd mannvirki og húsið verið byggð árið 1900 samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár. Þá verði reykháfur endurbyggður á öðrum stað en hann sé í dag en í samræmi við staðsetningu fyrri tíðar.

Málsrök byggingarleyfishafa: Byggingarleyfishafi tekur fram að við endurteikningu hússins og geymsluskúrs í formi „bátaskýlis“ hafi verið haft í huga að mænishæð yrði sú sama og á skúr þeim sem fyrir var. Því sé vart hægt að vísa til þess að skert útsýni verði af efri hæð húss kærenda. Hvað varði útsýni frá neðri hæð hússins, þ.e. úr eldhúsglugga, sé vísað til missis útsýnis sem ekki hafi verið til staðar. Húsið í núverandi ástandi hljóti að teljast sjónmengun fyrir alla og lýti á bænum. Fyrirhugaðar breytingar geti því aðeins verið til bóta og bætt útsýni. Sé enginn munur á því hvort geymsluskúr og hjallar breytist í bátaskýli eða geymsluskúrar verði endurreistir og skjólgirðing jafnvel sett meðfram lóðamörkum húsanna nr. 122 og 124. Við kaup á húsi leyfishafa hafi staðið til að endurbyggja skúrinn. Skúrinn hafi þegar til kom verið svo illa farinn að hann hafi verið rifinn í samráði við byggingarfulltrúa. Ætlunin sé að geyma bát í skýlinu en enginn atvinnustarfsemi muni fara þar fram. Sé leyfishafa ókunnugt um að óheimilt sé að notast við skilgreininguna bátaskýli eða að geyma báta inni á einkalóðum, í bílageymslum eða geymsluhúsnæði hvers konar. Í húsinu sé reykháfur sem ekki hafi verið nýttur af fyrri eiganda hússins og búið sé að loka fyrir. Með því að nýta hann sé húsið, að því marki sem hægt sé, best varðveitt. Þurfi reykháfurinn að ná 0,8 m yfir hæsta mæni. Sé það leyfishafa að meinalausu að lækka reykháfinn sé það heimilt og að breyta útliti þannig að sem minnst sjónmengun sé af. Búið sé að fjarlægja hinn reykháfinn. Þá séu engin hagsmunatengsl milli eigenda Hafnargötu 122 og aðila í umhverfismálaráði.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar umhverfismálaráðs Bolungarvíkur frá 23. október 2012 um að samþykkja endurbyggingu húss og byggingu bátaskýlis að Hafnargötu 122 í Bolungarvík. Mun bátaskýlið staðsett þar sem hjallur og skúr voru áður, við norðurhlið umrædds húss. Eins og rakið hefur verið voru skúr og hjallur rifinn árið 2010 og telja kærendur að niðurrif mannvirkjanna fari í bága við húsafriðunarlög. Með hliðsjón af þessu og þar sem kærufrestur er liðinn skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 sætir lögmæti ákvörðunar um niðurrif ekki endurskoðun nefndarinnar í máli þessu. 

Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir lóðina að Hafnargötu 122. Sé sótt um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi skal skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var endurbygging hússins samþykkt á fundi umhverfismálaráðs hinn 31. júlí 2012 án þess að framkvæmdirnar hefðu verið grenndarkynntar. Málið var tekið fyrir að nýju og samþykkt á fundi umhverfismálaráðs hinn 23. október s.á., að undangenginni grenndarkynningu, eftir að kærendur höfðu komið á framfæri athugasemdum við afgreiðslu málsins. Var áskilnaði skipulagslaga hvað form varðar þar með fullnægt. Þá er ekkert sem bendir til annars en að skilyrði um að hin leyfða framkvæmd væri í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar væru uppfyllt en eftir hina samþykktu breytingu, sem húsafriðunarnefnd veitti jákvæða umsögn um, verður nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,35. Verður ekki annað séð en að meðferð málsins hafi í samræmi við lög og að engar þær ástæður hafi verið til staðar sem valdið hafi vanhæfi þeirra aðila sem að afgreiðslu málsins komu.

Af hálfu kærenda er því haldið fram að ógilda beri hina kærðu ákvörðun sökum þess að með henni sé með íþyngjandi hætti gengið gegn grenndarhagsmunum þeirra, m.a. með skerðingu á útsýni. Lóðin að Hafnargötu 122 liggur að sjó og stendur hús kærenda skáhallt handan götunnar. Með hinni kærðu ákvörðun er m.a. heimilað að reisa bátaskýli við húsið að Hafnargötu 122, þar sem áður stóðu skúr og hjallur. Er bátaskýlið um 0,5 m breiðara og nær 2,24 m lengra í átt til sjávar en mannvirki þau er fyrir voru. Mun mænishæð bátaskýlisins verða sú sama og var á skúrnum, en meiri en var á einhalla þaki því er var á hjallinum. Samkvæmt hæðarmælingum er byggingarfulltrúi framkvæmdi að ósk úrskurðarnefndarinnar er nokkur hæðarmunur á téðri lóð, sem liggur neðan götu að sjó, og lóð kærenda, sem liggur ofan götu. Af fyrirliggjandi gögnum má og ráða að sjónarhorn kærenda að húsinu að Hafnargötu 122 sé í suðausturstefnu frá húsi þeirra. Mun reykháfurinn á húsinu vera vel sýnilegur en af fyrirliggjandi gögnum verður ekki annað ráðið en að hæð hans og gerð sé eðlileg, staðsetning hans í samræmi við fyrri tíma staðsetningu, og að hæð hans og staðsetning miðist við það að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru vegna brunavarna. Úrskurðarnefndin telur að fyrirhugaðar breytingar muni hafa nokkur grenndaráhrif, einkum sökum þess að bátaskýlið mun ná töluvert lengra í átt til sjávar en mannvirki þau er fyrir voru, en slíkt mun skerða útsýni kærenda til sjávar miðað við það sem áður var. Útsýnisskerðing verður þó ekki talin svo veruleg umfram það sem kærendur þurftu að þola þegar fyrri mannvirki voru til staðar að raskað skuli gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Með vísan til alls framangreinds er hafnað kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að ógilda ákvörðun umhverfismálaráðs Bolungarvíkur frá 23. október 2012 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir endurbyggingu húss og byggingu bátaskýlis á lóðinni nr. 122 við Hafnargötu í Bolungarvík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson