Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

23/2013 Aðalskipulag Langanesbyggðar

Með

Árið 2013, föstudaginn 19. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 23/2013, kæra varðandi gerð Aðalskipulags Langanesbyggðar 2007-2027.

Í málinu var kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. febrúar 2013, sem barst nefndinni sama dag, framsendir umhverfis- og auðlindaráðuneytið erindi Skipulagsstofnunar til ráðuneytisins, dags. 7. s.m., þar sem ráðuneytinu er framsend kæra G, Lyngbrekku 13, Húsavík, varðandi gerð Aðalskipulags Langanesbyggðar 2007-2027.  Með bréfi, dags. 5. apríl 2013, er barst nefndinni sama dag, framsendir umhverfis- og auðlindaráðuneytið erindi Jónasar Þ. Jónassonar hrl., f.h. G, o.fl. eigenda Syðra-Lóns í Langanesbyggð, auk eigenda jarðanna Fells og Hellulands, þar sem kærð er ákvörðun sveitarstjórnar Langanesbyggðar frá 10. janúar 2013 um að samþykkja endanlegt Aðalskipulag Langanesbyggðar 2007-2027.  Sömu sjónarmið eiga við um úrlausn beggja þessara erinda og er síðara málið, nr. 34/2013, sameinað hinu fyrra, sem er nr. 23/2013. 

Málsatvik og rök:  Hinn 28. júlí 2010 samþykkti sveitarstjórn Langanesbyggðar til auglýsingar tillögu að Aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007-2027.  Mun tillagan hafa verið send Skipulagsstofnun til athugunar skv. 2. mgr. 17. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og fer því um meðferð málsins að þeim lögum, sbr. 2. mgr. 56. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 

Af hálfu kærenda er því haldið fram að ákvæði í hinu umdeilda Aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007-2027 fari í bága við rétt þeirra sem eigenda tilgreindra jarða og gera þeir í báðum málunum þá kröfu að skipulagið verði ekki staðfest meðan ekki hafi verið bætt úr þeim ágöllum sem þeir telja vera á því.  Var skipulagstillagan send umhverfis- og auðlindaráðuneytinu til staðfestingar með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 12. febrúar 2013, og er málið þar til meðferðar. 

Niðurstaða:  Í máli þessu eru til meðferðar erindi sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur framsent úrskurðarnefndinni og varða meðferð aðalskipulagstillögu sem ráðuneytið hefur nú til staðfestingar.  Er það mat ráðuneytisins að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála beri að taka umræddar kærur til meðferðar í „… ljósi 5. mgr. 8. gr. skipulagslaga nr. 73/1997.“ (sic). 

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingararmála var komið á fót með setningu skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og sagði um verksvið nefndarinnar í 2. mgr. 8. gr. laganna að hún kvæði upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum.  Þrátt fyrir þetta víða orðalag varð það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar, þegar á árinu 1999, að úrskurðarvald hennar næði ekki til ákvarðana sem sættu staðfestingu ráðherra að lögum, svo sem um aðalskipulag eða breytingar á því, og vísaði nefndin nokkrum málum frá á þeim grundvelli.  Álitaefni þetta um valdmörk úrskurðarnefndarinnar var borið undir umboðsmann Alþingis, sem lauk málinu með bréfi, dags. 29. maí 2001, og gerði ekki athugasemdir við niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar.  Tók umboðsmaður einnig fram að þar sem aðalskipulag tæki ekki gildi fyrr en við staðfestingu ráðherra teldi hann enn fremur ekki unnt að bera samþykkt sveitarstjórnar á aðalskipulagstillögu, eða meðferð Skipulagsstofnunar við álitsgjöf til ráðherra, undir úrskurðarnefndina.  Hefur úrskurðarnefndin frá þessum tíma kveðið upp fjölmarga úrskurði þar sem málum er varða aðalskipulag eða breytingar á því hefur verið vísað frá nefndinni. 

Með lögum nr. 74/2005 voru gerðar verulegar breytingar á 8. gr. skipulags- og byggingarlaga um úrskurðarnefndina.  Var þar m.a. tekið fram að ákvarðanir sem ráðherra bæri að lögum að staðfesta sættu ekki kæru til nefndarinnar og var í greinargerð með frumvarpi til nefndra laga m.a. vísað til áðurnefnds álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2906/2000 og þeirra sjónarmiða sem lágu því til grundvallar.  Er sambærilegt ákvæði í 52. gr. skipulagslaga, sem nú gildir um kærur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, þar sem segir að ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra beri að staðfesta samkvæmt lögunum sæti ekki kæru til nefndarinnar. 

Auk þess sem að framan er rakið er kröfugerð í máli því sem hér er til úrlausnar með þeim hætti að ekki kemur til álita að úrskurðarnefndin taki afstöðu til hennar, en þar er þess m.a. krafist að Skipulagsstofnun og umhverfis- og auðlindaráðuneytið staðfesti ekki hina umdeildu aðalskipulagstillögu.  Loks er það að athuga að meðferð málsins er ekki lokið og girðir það eitt og sér fyrir málskot, hvað sem líður öðrum skilyrðum þess. 

Að virtu því sem að framan greinir verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

__________________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

56/2012 Hólaberg

Með

Árið 2013, fimmtudaginn 4. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 56/2012, kæra á niðurstöðu borgarráðs Reykjavíkur frá 3. maí 2012 um að hafna því að Reykjavíkurborg skuli skylt að útvega tengingu fyrir frárennsli frá mannvirki á lóðinni Hólabergi 84 í Reykjavík inn fyrir lóðarmörk í heppilegri hæð til að skolp geti runnið frá húsinu án dælingar.

Í málinu var kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. júní 2012, sem barst nefndinni sama dag kærir, Garðar Briem hrl., f.h. Félags eldri borgara, Stangarhyl 4, Reykjavík, þá niðurstöðu borgarráðs Reykjavíkur frá 3. maí 2012 að hafna því að Reykjavíkurborg skuli skylt að útvega tengingu fyrir frárennsli frá mannvirki á lóðinni Hólabergi 84 í Reykjavík inn fyrir lóðarmörk í heppilegri hæð til að skolp geti runnið frá húsinu án dælingar.

Málsatvik og rök:  Kærandi fékk úthlutað lóðinni Hólaberg 84 í Reykjavík undir fjölbýlishús fyrir eldri borgara og hófust byggingarframkvæmdir þar á árinu 2011.  Í lok þess árs fór kærandi fram á að Reykjavíkurborg útvegaði tengistút inn fyrir lóðarmörk við nothæfa fráveitulögn.  Borgaryfirvöld höfnuðu hins vegar þeirri beiðni og vísuðu til þess að fyrir hendi væri stofnlögn innan umræddrar lóðar sem unnt væri að tengjast og hefðu skyldur að þessu leyti verið uppfylltar af hálfu borgarinnar.  Nokkrar viðræður áttu sér stað milli aðila um málið en svo fór að kærandi skaut málinu til borgarráðs, með heimild í gr. 1.22 í almennum lóða- og framkvæmdaskilmálum sem tóku til umræddrar lóðar, og gerði kröfu um að Reykjavíkurborg útvegaði tengingu fyrir frárennsli inn fyrir lóðarmörk.  Staðfesti borgarráð fyrirliggjandi álits borgarlögmanns sem taldi að Reykjavíkurborg hefði uppfyllt skyldur sínar gagnvart kæranda til uppbyggingar fráveitulagna og tilkynnti kæranda um þá niðurstöðu. Skaut kærandi þessari afgreiðslu borgarráðs undir úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Kærandi vísar til þess að hann hafi þegar greitt fráveitugjald til borgarinnar við úthlutun umræddrar lóðar og að enginn fyrirvari hafi verið gerður í úthlutunarbréfi um frekari gjaldtöku vegna fráveitu.  Beri borgaryfirvöldum því að sjá til þess að nothæf tenging við fráveitu sé innan lóðar og eigi engu að breyta þótt um sé að ræða lóð í grónu hverfi.  Verðlagning íbúða í fjölbýlishúsinu sem byggt hafi verið á lóðinni hafi tekið mið af þessum forsendum og sé því ljóst að kærandi verði fyrir verulegu tjóni þurfi hann að bera kostnað af tengingunni sem nemi milljónum króna.  Til þess að ná nothæfri fráveitulögn frá húsi kæranda þurfi að tengjast fráveitulögn í um 70 m fjarlægð frá lóðarmörkum þar sem stofnæð sú sem fyrir sé innan lóðar liggi hærra en bílakjallari hússins.  Óásættanlegt sé að kæranda verði gert að koma upp dælubúnaði fyrir vatn og skolp frá húsinu sem nauðsynlegur væri ef notast ætti við stofnlögnina sem fyrir sé innan lóðar.

Sjónarmið Reykjavíkurborgar koma einkum fram í áliti borgarlögmanns, sem borgarráð staðfesti við hina kærðu afgreiðslu.  Kemur þar fram að kæranda hafi verið kunnugt um legu lagna á svæðinu við hönnun húss þess sem reist hafi verið á lóð hans.  Þá hafi blasað við, þar sem um hafi verið að ræða gróið hverfi, að ekki mætti vænta þess að lagnir og möguleikar á tengingum við þær væru með sama hætti og í nýbyggingarhverfum.  Sú stofnæð sem liggi innan lóðar kæranda komi í stað heimæðar sem lögð sé inn fyrir lóðarmörk frá stofnæð þegar stofnæð liggi utan lóðarmarka.  Hafi borgaryfirvöld því uppfyllt skyldur sínar í þessu efni, m.a. í samræmi við 4. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna.  Kjósi lóðarhafi að tengjast fráveitu með öðrum hætti, m.a. vegna hönnunar húss, sé það á hans kostnað.  Með tilliti til aðstæðna hafi þótt rétt að endurgreiða kæranda innheimt gjöld vegna heimæðar, að því marki sem greiðslan næmi hærri fjárhæð en kostnaði við tengingu við fráveitukerfi borgarinnar innan lóðar.

Niðurstaða:  Samkvæmt 4. og 5. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna bera sveitarstjórnir ábyrgð á uppbyggingu og rekstri þeirra í sínu sveitarfélagi.  Eigandi fráveitu sér um lagningu og viðhald stofnlagna, safnkerfa og fráveitutenginga en einstakir fasteingareigendur annast á sinn kostnað lagningu og viðhald heimæða frá húsi að tengingu við fráveitukerfi á þeim stað og með þeirri hæðarsetningu sem fráveita tilgreinir, sbr. 12. gr. laganna.  Kostnaður vegna fráveitna er greiddur með álögðum þjónustugjöldum sem ákveðin eru í gjaldskrá, sem taka skal mið af rekstrarkosnaði, sbr. 14. gr. laganna.  Þá gilda almennir lóða- og framkvæmdaskilmála Reykjavíkurborgar frá ágúst 2009 um réttindi og skyldur aðila að þessu leyti en vísað var  til þessara skilmála við úthlutun byggingarréttar kæranda á lóðinni nr. 84 við Hólaberg.

Í gr. 1.22 í nefndra skilmála segir að borgarráð skeri úr um ágreining sem kunni að rísa um túlkun einstakra ákvæða í skilmálunum. Neytti kærandi þessarar heimildar og bar ágreining sinn við borgaryfirvöld undir borgarrráð með bréfi dags. 17. apríl 2012.  Liggur það eitt fyrir í málinu að borgarráð hafi á fundi sínum hinn 3. maí 2012 samþykkt umsögn borgarlögmanns í málinu, þar sem lagt var mat á réttarstöðu aðila.   Ekki liggur hins vegar fyrir nein stjórnvaldsákvörðun sem sætt gat kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og verður máli þessu vísað frá.

Uppkvaðning úrskurðar í málinu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

__________________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

124/2012 Álftanesvegur

Með

Árið 2013, föstudaginn 22. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 124/2012, kæra vegna ákvörðunar Vegagerðarinnar um að halda óbreyttum áformum um lagningu nýs Álftanesvegar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. nóvember 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Skúli Bjarnason hrl., f.h. íbúa og eigenda fasteigna að Mosprýði 1 og 2 og Dalprýði 4 og 8 í Garðabæ, þá ákvörðun Vegagerðarinnar „…að halda óbreyttum áformum um lagningu nýs Álftanesvegar þrátt fyrir útrunnin framkvæmdaleyfi.“

Kærendur krefjast þess að úrskurðað verði að Vegagerðinni sé óheimilt að halda óbreyttum áformum um lagningu nýs Álftanesvegar um svokallað Gálgahraun nema aflað verði nýrra framkvæmdaleyfa vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar. 

Þá var þess jafnframt krafist, með vísan til 1. mgr. 5. gr. laga um úrkurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011, sbr. einnig 29. gr. laga nr. 37/1993, að úrskurðað yrði svo fljótt sem kostur væri að fresta bæri yfirvofandi framkvæmdum þar til endanlegur úrskurður gengi í kærumálinu, enda fælu þær í sér veruleg og óafturkræf umhverfisspjöll. 

Ekki hefur verið byrjað á neinum framkvæmdum sem kæran tekur til og hefur krafa kærenda um stöðvun framkvæmda því ekki verið tekin til úrlausnar.

Málavextir:  Í Aðalskipulagi Garðabæjar 1995-2015, sem staðfest var af umhverfisráðherra árið 1998, var gert ráð fyrir lagningu Álftanesvegar yfir Garðahraun.  Mat á umhverfisáhrifum vegarins hófst á árinu 2000 miðað við legu hans samkvæmt þágildandi aðalskipulagi Garðabæjar og Bessastaðahrepps og samþykkti Skipulagsstofnun í úrskurði sínum á því ári tvær tillögur að legu vegarins.  Síðar ákvað stofnunin að fram skyldi fara sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum fyrir áformaðan Álftanesveg og fyrirhugaðan Vífilsstaðaveg.  Með úrskurði hinn 22. maí 2002 féllst Skipulagsstofnun á þrjá valkosti á legu Álftanesvegar.  Var sá úrskurður kærður til umhverfisráðherra sem staðfesti hann 3. febrúar 2003.

Á árunum 2002 og 2003 var unnið að gerð deiliskipulags fyrir nýtt íbúðarhverfi í Garðahrauni við Álftanesveg og var auglýsing um gildistöku skipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda 20. nóvember 2003.  Á þessu svæði fengu kærendur úthlutað lóðum við göturnar Mosprýði og Dalprýði með skriflegum samningum í febrúar 2007.  Segir m.a. í þessum samningum að lóðarhafar hafi kynnt sér skipulagsskilmála fyrir Garðahraun, en þar er m.a. gerð grein fyrir nýrri legu Álftanesvegar og er hún sýnd á uppdrætti á forsíðu skilmálanna.

Í Aðalskipulagi Garðabæjar 2004-2016, sem samþykkt var í bæjarstjórn á árinu 2006, var veglínu Álftanesvegar breytt til samræmis við einn þeirra valkosta er Skipulagsstofnun hafði fallist á.  Sama ár var samþykkt nýtt aðalskipulag Sveitarfélagsins Álftaness þar sem Álftanesvegur fylgir núverandi legu frá sveitarfélagamörkum við Garðabæ að vegamótum Bessastaðavegar og Norður- og Suðurnesvegar. 

Í apríl 2008 var samþykkt í bæjarstjórn Garðabæjar breyting á aðalskipulagi sem fól í sér færslu á legu hins nýja Álftanesvegar til suðurs á 1,5 km löngum kafla um Garðaholt og vestasta hluta Garðahrauns í Garðabæ.  Var breytingin staðfest af umhverfisráðherra 2. febrúar 2009.  Umrædd breyting á aðalskipulagi var tilkynnt Skipulagsstofnun og leitað eftir afstöðu stofnunarinnar til matsskyldu breytingarinnar í samræmi við 6. gr. og 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.  Með ákvörðun, dags. 18. febrúar 2009, komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að breytingin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. 

Í kjölfar þessa veitti Sveitarfélagið Álftanes Vegagerðinni framkvæmdaleyfi til lagningar Álftanesvegar fyrir sitt leyti og sama gerði bæjarstjórn Garðabæjar með samþykkt þar um hinn 5. mars 2009 með tilteknum skilyrðum.  Framkvæmdaleyfi Garðabæjar var síðan gefið út hinn 7. apríl 2009.  Var veiting þess auglýst í dagblöðum og birtist auglýsing sama efnis í Lögbirtingarblaðinu hinn 20. maí s.á.

Nokkrar kærur bárust úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála þar sem kært var framkvæmdaleyfi Garðabæjar til lagningar Álftanesvegar, þar á meðal frá íbúa við Mosprýði í Garðahverfi.  Kvað úrskurðarnefndin upp fimm úrskurði í þessum kærumálum hinn 16. júní 2009.  Var kröfum kærenda um ógildingu framkvæmdaleyfisins hafnað og var í úrskurðunum vísað til þess að mat á umhverfisáhrifum vegarins og ákvörðun í aðalskipulagi um legu hans hefðu sætt lögmætisathugun og staðfestingu ráðherra sem æðsta handhafa stjórnsýsluvalds og væri úrskurðarnefndin bundin af þeim niðurstöðum.  Þá lægi ekki annað fyrir en að leyfið væri í samræmi við aðalskipulag og staðfestan úrskurð Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegarins og að málsmeðferð við útgáfu leyfisins hefði verið í samræmi við lög.

Í framhaldi af þessu var lagning Álftanesvegar boðin út og mun hafa verið samið við lægstbjóðanda um framkvæmd verksins.  Framkvæmdum var hins vegar frestað að öðru leyti en þvi að á árinu 2009 hófust framkvæmdir á þeim hluta verksins sem fólst í gerð hringtorgs, svonefnds Fógetatorgs, á Álftanesi og tengingum við það.  Framkvæmdum var síðan haldið áfram á árinu 2011 þegar unnið var við endurgerð gatnamóta í Engidal í Garðabæ.

Með samþykkt í bæjarstjórn Garðabæjar hinn 4. október 2012 var ákveðið að ekki væri ástæða til að falla frá fyrri ákvörðun frá árinu 2009 um að heimila framkvæmdir við nýjan Álftanesveg í samræmi við Aðalskipulag Garðabæjar.  Í kjölfarið var því lýst yfir í bréfi Garðabæjar til lögmanns kærenda, hinn 17. október 2012, að framkvæmdaleyfi sem sveitarfélagið hefði gefið út hinn 7. apríl 2009 væri enn í fullu gildi.  Með samþykkt Sveitarstjórnar Álftaness frá 1. nóvember 2012, var og áréttað að öll leyfi væru enn til staðar.  Með bókun bæjarráðs Garðabæjar 27. nóvember 2012 var áréttað að ekki væru fyrir hendi þær aðstæður sem greini í 53. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Fyrir liggur að kærendur hafa á árinu 2012 átt í bréfaskiptum við Skipulagsstofnun um gildi framkvæmdaleyfa og mögulega endurskoðun á umhverfisáhrifum Álftanesvegar.  Var það niðurstaða stofnunarinnar að ekki hefðu skapast forsendur til þess að unnt væri að taka í málinu formlega ákvörðun skv. 6. mgr. 11 gr. eldri laga um mat á umhverfisáhrifum.

Með bréfi Vegagerðarinnar, dags. 2. nóvember 2012, var svarað erindi lögmanns kærenda, dags. 24. október 2012, vegna framkvæmdaleyfa.  Kom þar fram að leyfishafi liti svo á að útgefin framkvæmdaleyfi væru enn í fullu gildi, framkvæmdir hefðu hafist á gildistíma leyfanna, málin hefðu verið unnin í samráði við leyfisveitendur og framkvæmdir verið boðnar út.  Væri því ekki unnt að verða við kröfu kærenda um frestun framkvæmda.  Væri það von Vegagerðarinnar að kærendur teldust nú að fullu upplýstir um afstöðu stofnunarinnar í málinu.

Er það í raun þessi afstaða Vegagerðarinnar sem kærð er í málinu.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er áréttað að úrlausnarefni það sem hér sé krafist úrskurðar um sé í eðli sínu sára einfalt, spurningin sé hvort framkvæmdaleyfin sé fallin úr gildi.  Sú einfalda spurning hafi að mati kærenda lítið með forsögu málsins að gera.

Sérstakt tilefni kæru þessarar sé hins vegar sú staðreynd að nú liggi fyrir að Vegagerðin hyggst halda sig við óbreytt áform um vegalagninguna þrátt fyrir að nú sé orðið ljóst að framkvæmdaleyfi séu fallin úr gildi.  Nánar vísist til bréfs lögmanns kærenda til vegamálastjóra, dags. 24. október, og svarbréfs Vegagerðarinnar, dags. 2. nóvember 2012.  Í tilvitnuðu bréfi Vegagerðarinnar felist að mati kærenda ákvörðun um að virða að vettugi þá staðreynd að umrædd framkvæmdaleyfi séu bæði fallin úr gildi og framhald framkvæmda að óbreyttu því löglaus og óheimil.

Nánar sé um það að ræða annars vegar að framkvæmdaleyfi, útgefið 7. apríl 2009 af Garðabæ, sé fallið úr gildi, en algerlega ágreiningslaust sé í málinu að engar framkvæmdir séu hafnar Garðabæjarmegin.  Ástæða sé til að vekja sérstaka athygli á því að lagfæringar á svokölluðu Fógetatorgi komi tilvitnuðu framkvæmdaleyfi Garðabæjar ekkert við, enda sé torg þetta í Sveitarfélaginu Álftanesi.  Sjálfkrafa brottfall leyfisins gildi hvort heldur horft sé til eldri eða yngri laga og vísist þar m.a. til 1. ml. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 123/2010 og 9. mgr. 27. gr. laga nr. 73/1997.  Loks taki framkvæmdaleyfið sjálft af skarið í þessum efnum, en í niðurlagi þess segi svo:  „Framkvæmdaleyfi þetta fellur úr gildi ef framkvæmdir hafa ekki hafist innan 12 mánaða frá dagsetningu þess.“  Sérstaklega sé vakin athygli á 53. og 55. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um viðbrögð og refsinæmi ef framkvæmdir verði hafnar á grunni útrunnins leyfis. 

Kærendur telji einnig með vísan til sömu lagaheimilda að framkvæmdaleyfi útgefið af Sveitarfélaginu Álftanesi 4. júní 2009 vegna Álftaneshluta framkvæmdanna sé útrunnið.    Nauðsynlegar framkvæmdir við Fógetatorgið breyti engu í því sambandi, enda þjóni torg þetta sjálfstæðu hlutverki við að tengja saman þá vegi sem þar mætist nú þegar og hafi gert um áratuga skeið, algerlega óháð hinum nýja Álftanesvegi.  Þær lagfæringar á torginu geti því ekki markað upphaf framkvæmdanna, enda hafi þær ekki verið í neinum tengslum við neitt útboð vegna hinna fyrirhuguðu vegaframkvæmda.  Þá vísi kærendur m.a. til þess að nokkru áður en komi er að umræddu hringtorgi falli nýi vegurinn algerlega inn í þann gamla, eins og glögglega sjáist á yfirlitsmyndum.

Með vísan til framanritaðs sé ítrekuð sú krafa að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð sem feli í sér að ákvörðun Vegagerðarinnar um hiklaust framhald fyrirhugaðrar vegagerðar, þrátt fyrir þá staðreynd að leyfi fyrir framkvæmdinni séu fallin úr gildi, sé ólögmæt.

Málsrök Vegagerðarinnar:  Vegagerðin gerir þá kröfu að kærunni í máli þessu verði vísað frá.  Í fyrsta lagi sé ekki um neina kæranlega ákvörðun að ræða.  Í öðru lagi komi ekki fram í kæru hvaða lögvörðu hagsmuni kærendur hafi í málinu.  Samkvæmt kæru sé kærð sú afstaða Vegagerðarinnar að halda óbreyttum áformum um lagningu nýs Álftanesvegar þrátt fyrir að kærendur telji framkvæmdaleyfi vera útrunnin.  Vegagerðin sé framkvæmdaraðili og leyfishafi samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 en framkvæmdaleyfi Garðabæjar og Álftaness hafi verið gefin út í gildistíð eldri laga, nr. 73/1997.

Framkvæmdaleyfi hafi ekki verið afturkallað af hálfu útgefenda leyfisins heldur hafi Garðabær þvert á móti, sem leyfisveitandi staðfest með samþykkt bæjarstjórnar Garðabæjar frá 4. október 2012 að ekki sé ástæða til að falla frá fyrri ákvörðun um útgáfu leyfisins og um sama efni hafi verið bókað í bæjarráði 27. nóvember 2012.  Veitingarvaldið sé hjá Garðabæ.  Útgáfa framkvæmdaleyfa fari samkvæmt skipulagslögum nr.123/2010, sbr. áður lög nr. 73/1997 um skipulags- og byggingarmál.

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga nr. 123/2010, sbr. lög nr. 131/2011, sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar stjórnvaldsákvarðanir sem teknar séu á grundvelli laganna.  Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segi um valdsvið nefndarinnar:  Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Valdsvið nefndarinnar takmarkist því við efnisatriði annarra laga en laga um nefndina sjálfa. 

Í 6. mgr. 52. gr. laga nr. 123/2010, sem áður hafi gilt, hafi verið kveðið svo á um að kæru til nefndarinnar sættu stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga, nema annað væri sérstaklega tiltekið í lögunum.  Efnislega virðist engin breyting hafa orðið á kæruheimild skipulagslaga með lögum nr. 131/2011.  Ekki verði séð að nokkra lagaheimild sé að finna í skipulagslögum eða öðrum lögum á þessu sviði, til að kæra afstöðu framkvæmdaraðila til nýtingar útgefins framkvæmdaleyfis.  Augljóst sé að sú athöfn að svara lögmanni kærenda bréflega um að Vegagerðin, sem framkvæmdaraðili og leyfishafi, hyggist halda framkvæmdum áfram í samræmi við útgefið framkvæmdaleyfi feli ekki í sér stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg sé skv. skipulagslögum nr. 123/2010 eða öðrum lögum.

Samkvæmt framangreindu liggi ekki fyrir nein kæranleg stjórnvaldsákvörðun í skilningi laga eða ágreiningur milli kærenda og kærða sem valdsvið úrskurðarnefndar nái til og beri því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Í öðru lagi sé á það bent að hvergi í kærumálsgögnum komi fram hvaða lögvörðu hagsmuni kærendur hafi til að geta átt kæruaðild, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.  Það eitt sé sagt að þeir séu eigendur fasteigna í Prýðahverfi.  Til þess að eiga lögvarða hagsmuni í málinu, sem þriðji aðili, verði kærendur að sýna fram á með ótvíræðum hætti að þeir eigi einstaklingsbundna lögvarða hagsmuni af málinu, umfram aðra. Vegagerðin leggi það í hendur úrskurðarnefndarinnar að meta hvort kærendur uppfylli skilyrði til að geta átt kæruaðild með vísan til lagaskilyrða og gagna málsins.  Ef ekki sé um kæruaðild að ræða beri að vísa kærunni frá nefndinni.

Verði ekki fallist á frávísunarkröfu Vegagerðarinnar er þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað að öllu leyti.

Framkvæmdaleyfi, bæði hvað varði Álftanes og Garðabæ, hafi verið gefin út tímanlega og gildi framkvæmdaleyfis Garðabæjar hafi þegar verið staðfest af úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála.  Framkvæmdin sem fjallað sé um í máli þessu sé ein framkvæmd þótt vegarkaflinn liggi um fleiri en eitt sveitarfélag. Þegar um vegaframkvæmdir sé að ræða sé oft óhjákvæmilegt að sama framkvæmdin liggi um mörg sveitarfélög og afla þurfi framkvæmdaleyfa hjá viðkomandi stjórnvöldum eins og lög geri ráð fyrir.  Hins vegar virðist sem kærendur byggji á því að ef ekki séu hafnar framkvæmdir innan frests í hverju sveitarfélagi fyrir sig þá falli leyfin úr gildi. Slík lagatúlkun sé ótæk, enda ekki studd neinum efnislegum rökum af hálfu kærenda.

Verkið hafi verið boðið út á árinu 2009 og tilboð opnuð 7. apríl það ár.  Vegna efnahagsástandsins hafi verið ákveðið að fresta framkvæmdum að mestu leyti en óumdeilt sé að byrjað hafi verið á framkvæmdum á nyrðri enda vegarkaflans á árinu 2009, við svokallað Fógetatorg.  Torgið sé innan sveitarfélagsmarka Álftaness en framkvæmdasvæðið hafi náð inn fyrir mörk Garðabæjar.  Framkvæmdir við torgið séu ótvírætt hluti heildarframkvæmdarinnar innan beggja sveitarfélaganna og hafi verið um hana fjallað í mati á umhverfisáhrifum.  Fyrir liggi uppdráttur af framkvæmdinni eins og hún hafi verið 2009 og nái útboðsmörk þar út fyrir hringtorgið.  Skipulagsstofnun hafi áður gert kærendum grein fyrir þessum staðreyndum, sbr. gögn málsins.

Ljósmyndir frá framkvæmdatímanum sýni glögglega hvernig málum hafi verið háttað.  Sýni þær m.a. efnishauga innan sveitarfélagsmarka Garðabæjar sem notaðir hafi verið við framkvæmdina.  Á þessum stað hafi jarðefni verið geymt á framkvæmdatímanum og þar verið fyrirhuguð efnisvinnsla.  Í útboðsgögnum sé þessu svæði nánar lýst sem hluta af framkvæmdasvæðinu, en þar kom fram að svæði undir efnisvinnslu í Gálgahrauni verði við nýjan Álftanesveg milli Garðaholtsganga og Garðastekksganga.  Hluti efnisvinnslusvæðisins hafi því verið notaður og þar með hafi hluti framkvæmdasvæðisins verið innan bæjarmarka Garðabæjar.  Einnig hafi átt sér stað framkvæmdir innan sveitarfélagsmarka Garðabæjar, í syðri enda framkvæmdasvæðisins við Engidal.

Af ákvæðum laganna, hvort sem litið sé til 27. gr. eldri skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 eða núgildandi skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. og reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012, sé markmið framkvæmdaleyfis fyrst og fremst að sjá til þess að leyfisskyldar framkvæmdir séu í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélaga, mat á umhverfisáhrifum, ef um það sé að ræða, og að framkvæmdir séu í samræmi við útgefin leyfi.   Framkvæmdaleyfi séu því stjórntæki stjórnvalda sem fari með valdið á hverjum stað.  Fari framkvæmdaraðili ekki að þeim skilyrðum sem sett séu í framkvæmdaleyfi hafi leyfisveitandi tiltekin úrræði til að bregðast við.

Í skipulagslögum eða reglugerð um framkvæmdaleyfi sé hvergi skilgreint eða afmarkað hvað felist í hugtakinu „framkvæmd“.  Að mati Vegagerðarinnar sé verkefnið sem hér um ræði ein framkvæmd enda hafi úrskurður um mat á umhverfisáhrifum fjallað um alla framkvæmdina sem legið hafi um tvö sveitarfélög.  Ekki hafi verið um aðskilin verkefni að ræða.  Að mati Vegagerðarinnar verður því ekki önnur ályktun dregin af lögum um mat á umhverfisáhrifum, skipulagslögum og nýlegri reglugerð um framkvæmdaleyfi en að lagning Álftanesvegar um land Garðabæjar og inn í Álftanes sé ein framkvæmd.  Skipulagsstofnun hafi og með bréfi, dags. 16. ágúst 2012, staðfest þennan skilning Vegagerðarinnar og leyfisveitenda að um eina framkvæmd sé að ræða sem hófst árið 2009.  Kærendur vilji leggja sína eigin mælistiku á hvað sé eðlilegur hluti af vegaframkvæmdinni og telji að hringtorg skipti þar ekki sköpum.  Telji kærendur sig þess umkomna að velja og hafna í þeim efnum hvað sé nauðsynlegt við vegaframkvæmdina.  Enginn grundvöllur sé fyrir þessum röksemdum kærenda og sé þeim að sjálfsögðu mótmælt.

Í reglugerð nr. 772/2012 sé nú skilgreint hvenær framkvæmd teljist hafin.  Í 1. mgr. 14. gr. komi fram að framkvæmd teljist hafin þegar hreyft hafi verið við yfirborði jarðvegs á framkvæmdastað.  Samkvæmt því sé augljóst að ekki séu gerðar miklar kröfur til þess að framkvæmd teljist hafin.  Í því máli sem hér um ræði hafi verið ráðist í gerð hringtorgs á öðrum enda framkvæmdasvæðisins, með tilheyrandi jarðvegsframkvæmdum og efnisflutningum, og aðrar framkvæmdir hafi verið við Engidal.  Framkvæmdir hafi stöðvast tímabundið vegna efnahagsástandsins.  Samkvæmt 2.-3. mgr. 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé sveitarstjórn veitt heimild til að fella framkvæmdaleyfi úr gildi ef framkvæmd hafi stöðvast í eitt ár eða lengur en framkvæmdaleyfi falli ekki sjálfkrafa úr gildi þegar þannig standi á.  Það sé hins vegar í höndum sveitarstjórnar að ákveða hvort krafist verði nýs framkvæmdaleyfis eða ekki þegar svo hátti til.  Í málinu liggi fyrir afstaða beggja sveitarstjórna til framkvæmdaleyfisins.  Hvorugt sveitarfélagið hafi beitt heimildum sínum til að hlutast til um framkvæmdina, heldur þvert á móti sýnt aðstæðum framkvæmdaraðila skilning og endurstaðfest heimild hans til verksins.  Í tilviki Garðabæjar hafa stjórnvöld verið hvött til að halda áfram með verkið þaðan sem frá hafi verið horfið með því að tryggja fjárveitingar til þess.

Í 15. gr. skipulagslaga sé sveitarstjórn falið vald til að bregðast við ef framkvæmdir stöðvist tímabundið eða liggi niðri.  Með samræmistúlkun á ákvæðum skipulagslaga og nýlegrar reglugerðar um framkvæmdaleyfi verði að telja að eftir að framkvæmd sé hafin geti leyfi ekki fallið úr gildi nema sveitarstjórn krefjist þess, enda hafi framkvæmdir þá legið niðri um langan tíma.  Í því máli sem hér sé til umfjöllunar hafi leyfisveitendur ekki gripið til þess úrræðis heldur þvert á móti hvatt framkvæmdaraðila til að halda áfram með verkið og ljúka því og sýnt skilning á þeim töfum sem orðið hafi á framkvæmdum.

Andmæli kærenda við málsrökum Vegagerðarinnar:  Af hálfu kærenda er málatilbúnaði Vegagerðarinnar mótmælt.  Er áréttað að framkvæmdir í einu sveitarfélagi jafngildi ekki því að framkvæmdir teljist hafnar í öðru sveitarfélagi og skipti huglæg afstaða leyfisveitenda eða leyfishafa engu í því sambandi.  Alveg sé ljóst að framkvæmdaleyfi Garðabæjar sé fallið úr gildi.  Hvað aðild varði þá eigi kærendur allir fasteignir sem næst standi hinum fyrirhugaða vegi.  Það liggi því í augum uppi og þarfnist ekki frekari skýringa að tilkoma fjórfaldrar hraðbrautar um 50 metra frá húsum kærenda hafi veruleg áhrif á hljóðvist, útsýni og loftgæði sem og önnur gæði og skapi kærendum þar með kæruaðild.  Fyrir liggi að hljóðvistin ein og sér stæðist ekki kröfur þær sem nú séu gerðar, en öll þau hús sem næst standi veginum myndu lenda langt yfir leyfilegum mörkum.

Ákvörðun stjórnvaldsins Vegagerðarinnar um að hefja framkvæmdir þrátt fyrir að framkvæmdaleyfi séu fallin úr gildi sé auðvitað alvarleg og kæranleg stjórnvaldsákvörðun sem falli undir valdsvið úrskurðarnefndar  umhverfis- og auðlindamála skv. 1. gr. laga nr. 130/2011.  Því sé svo við að bæta að það hafi takmarkaða þýðingu að velta sér upp úr því hvort um sé að ræða stjórnvald eða ekki stjórnvald og stjórnsýsluákvörðun eða ekki stjórnsýsluákvörðun þegar við blasi að það sé skýrt hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana sem og „…annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála…“ eins og segi orðrétt í tilvitnaðri 1. gr. laganna.  Ekki verði í fljótu bragði séð hvernig nefndin ætti að víkja sér undan því hlutverki að úrskurða um það hvort margumrædd framkvæmdaleyfi séu fallin úr gildi.  Hvað sem þessu líði leiði af 1. mgr. 53. gr. laga nr. 123/2010 að úrskurða þurfi allt að einu um gildi leyfisins.

————————

Aðilar hafa fært fram frekari rök í máli þessu og hefur úrskurðarnefndin haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þess. 

Gögn í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni frá Vegagerðinni hinn 21. desember 2012 og markar sú dagsetning upphaf lögbundins þriggja mánaða frests til uppkvaðningar úrskurðar.  Eftir þann tíma hefur átt sér stað frekari gagnaöflun í málinu. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið kvað úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála upp úrskurð hinn 16. júní 2009 í máli íbúa í Prýðahverfi þar sem leitað var eftir ógildingu á framkvæmdaleyfi Garðabæjar fyrir Álftanesvegi vegna grenndaráhrifa sem vegurinn myndi hafa gagnvart nálægum lóðum í hverfinu.  Hafnaði úrskurðarnefnin kröfu um ógildingu leyfisins og var í úrskurðinum vísað til þess að mat á umhverfisáhrifum vegarins og ákvörðun í aðalskipulagi um legu hans hefðu sætt lögmætisathugun og staðfestingu ráðherra sem æðsta handhafa stjórnsýsluvalds og væri úrskurðarnefndin bundin af þeim niðurstöðum.  Þá lægi ekki annað fyrir en að leyfið væri í samræmi við aðalskipulag og staðfestan úrskurð Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegarins og að málsmeðferð við útgáfu leyfisins hefði verið í samræmi við lög.  Var með þessum úrskurði í raun fengin sú niðurstaða að ekki yrði hróflað við legu Álftanesvegar samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi, hvað sem liði grenndaráhrifum hans gagvart nálægum lóðum í hverfinu.

Kærendur sækjast í máli þessu í raun eftir staðfestingu á því áliti sínu að framkvæmdaleyfi fyrir Álftanesvegi séu úr gildi fallin og að Vegagerðinni sé óheimilt að ráðast í framkvæmdir við gerð vegarins eins og ástatt sé.  Þegar litið er til þess að fyrir liggur í málinu sú afstaða leyfisveitenda að umrædd framkvæmdaleyfi séu í gildi, svo og sú afstaða Skipulagsstofnunar að ekki hafi skapast forsendur til þess að taka í málinu formlega ákvörðun um það hvort mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar skuli fara fram að nýju, er vandséð að úrlausn um gildi umræddra framkvæmdaleyfa varði einstaklingsbundna hagsmuni kærenda, svo sem grenndarhagsmuni, enda verður ekki séð að ógilding framkvæmdaleyfanna myndi leiða til endurskoðunar á ákvörðunum um legu vegarins.  Verður og að líta til þess við mat á hagsmunum kærenda að við úthlutun lóða þeirra lágu fyrir upplýsingar um áform um lagningu fyrirhugaðs vegar og legu hans.  Er því vandséð að kærendur hafi átt rétt til að knýja fram breytingu á ákvörðunum um legu vegarins eftir að fengin var úrlausn æðra stjórnvalds um lögmæti þeirra ákvarðana um skipulag og mat á umhverfisáhrifum sem liggja til grundvallar fyrirhugaðri mannvirkjagerð.  Lýtur vafi um gildi framkvæmdaleyfanna fyrst og fremst að gæslu almannhagsmuna er varða eftirliti með framkvæmdum, frágang þeirra og úttekt en snertir ekki einkaréttarlega hagsmuni kærenda.  Verður samkvæmt framansögðu að fallast á að kærendur eigi ekki þá einstaklingbundnu og lögvörðu hagsmuni tengda gildi umdeildra framkvæmdaleyfa sem eru skilyrði kæruaðildar samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Kæra í máli þessu beinist að Vegagerðinni vegna ákvörðunar um að halda óbreyttum áformum við lagningu nýs Álftanesvegar þrátt fyrir útrunnin framkvæmdaleyfi eins og segir í kærunni.  Er í þessu efni vísað til bréfs Vegagerðarinnar til lögmanns kærenda, dags. 2. nóvember 2012, en fallast verður á með Vegagerðinni að í bréfinu sé aðeins lýst afstöðu stofnunarinnar í málinu og að ekki sé um kæranlega ákvörðun að ræða.  Leiðir sú niðurstaða einnig til frávísunar.

Loks þykir rétt að árétta að með lögum nr. 131/2011 um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins er gerð grein fyrir þeim kæruheimildum í lögum sem færðar voru undir valdsvið úrskurðarnefndar umhverfis- og  auðlindamála við stofnun nefndarinnar.  Er kæruheimild veglaga nr. 80/2007 ekki þar á meðal en í 57. gr. laganna er kveðið á um að stjórnsýsluákvörðunum Vegagerðarinnar megi skjóta til ráðherra.  Bar kærendum að beina erindi sínu til ráðherra að því marki sem um kæranlega ákvörðun gat verið að ræða.

Að því virtu sem að framan er rakið verður máli þessu vísað frá. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Aðalheiður Jóhannsdóttir

78/2012 Lindarbraut

Með

Árið 2013, föstudaginn 22. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 78/2012, kæra á afgreiðslu skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 17. júlí 2012 um að hafast ekki frekar að vegna kröfu um að verkstæðisskúr er standi að hluta á lóð nr. 9 við Lindarbraut, Seltjarnarnesi, verði fjarlægður.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. júlí 2012, er barst nefndinni sama dag kærir H, eigandi lóðarinnar Lindarbrautar 9, Seltjarnarnesi þá afgreiðslu skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 17. júlí 2012 að aðhafast ekkert frekar vegna beiðni kæranda um að verkstæðisskúr, sem sé að hluta á lóðinni nr. 9 við Lindarbraut, yrði fjarlægður.  Gerir kærandi þá kröfu að umræddur skúr verði fjarlægður og að þeim hluta lóðar hans sem skúrinn standi á verði komið í eðlilegt horf, kæranda að kostnaðarlausu.

Málavextir:  Forsaga máls þessa er sú að árið 1976 var samþykkt á fundi byggingarnefndar Seltjarnarnesbæjar svonefnt bráðabirgðabyggingarleyfi til fimm ára fyrir viðbyggingu verkstæðis er tilheyra myndi Lindarbraut 11, sem er einbýlishúsalóð.  Var og sett það skilyrði fyrir útgáfu leyfisins að þinglýst samþykki lóðarhafa Lindarbrautar 9 lægi fyrir.  Síðar mun hafa komið upp ágreiningur milli leyfishafa og lóðarhafa Lindarbrautar 9 um staðsetningu skúrsins og lóðamörk og óskaði Seltjarnarnesbær eftir álitsgerð lögmanns um réttarstöðu lóðarhafa.  Niðurstaða álitsgerðarinnar, dags. 2. nóvember 2005, var sú að þinglýst samþykki lóðarhafa Lindarbrautar 9 lægi ekki fyrir og að stærð lóðanna væri í samræmi við þinglýst lóðarblað frá árinu 1971.  Gæti eigandi lóðar nr. 11 ekki borið fyrir sig lóðarblað, dags. í júlí 1990, þar sem enginn samningur lægi fyrir milli eigenda lóðanna um breytt lóðamörk.  Stæði því umrædd viðbygging að Lindarbraut 11 að hluta til innan lóðar Lindarbrautar nr. 9 og bæri að víkja sem því næmi. 

Með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 8 maí 2008, fór þáverandi eigandi lóðarinnar nr. 9 við Lindarbraut fram á að hin umdeilda viðbygging yrði fjarlægð af lóð hans.  Skipulagsyfirvöld svöruðu erindi þessu með bréfi, dags. 22. maí 2009.  Þar var m.a. tekið fram að hin umdeilda bygging hefði staðið um áratuga skeið og fyrirkomulag lóða verið óbreytt.  Jafnframt sagði svo:  „[Seltjarnarnesbær] lítur svo á að um sé að ræða ágreining um eignarhald og eignamörk sem hann á ekki aðild [að] og getur skorið úr um. [Seltjarnarnesbær] telur því að hann geti ekki aðhafst í málinu og […] verði að beina kröfum sínum að eiganda lóðarinnar nr. 11.“  Jafnframt var veittur 14 daga frestur til að koma að athugasemdum vegna fyrirhugaðrar afgreiðslu sveitarfélagins í málinu.  Þá var þess sérstaklega óskað að færð yrðu fram lagarök fyrir því á hvaða grundvelli Seltjarnarnesbær ætti að skera úr um ágreining milli lóðarhafa eða kveða á um niðurrif viðbyggingarinnar, teldi erindishafi að sveitarfélagið hefði heimildir til þess.  Ekki liggur fyrir að lóðarhafi Lindarbrautar 9 hafi svarað fyrrgreindu bréfi en með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 23. febrúar 2011, var lóðarhafanum veittur að nýju frestur til andmæla.  Málið var næst tekið fyrir á 157. fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 1. apríl 2011 og eftirfarandi bókað:  „Með vísan til þeirra raka sem fram koma í bréfi […], dags. 22. maí sl., og ekki hefur verið andmælt af hálfu lóðarhafa, telur skipulags- og mannvirkjanefnd ekki ástæðu til að aðhafast frekar í málinu, enda um [að ræða] einkaréttarlegan ágreining milli eigenda lóða nr. 9 og 11 við Lindarbraut.“. 

Hinn 5. október 2011 mat forvarnarsvið slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, að beiðni kæranda, aðstæður að Lindarbraut 9 vegna umrædds skúrs.  Var niðurstaðan sú að nokkur sambrunahætta væri milli bílskúrs á lóð Lindarbrautar 9 og verkstæðisskúrs úr timbri á lóð Lindarbrautar 11.  Í framhaldi af því, eða með bréfi, dags. 11. s.m., óskaði kærandi eftir því að Seltjarnarnesbær beitti þeim úrræðum sem bærinn hefði yfir að ráða til að umræddur skúr yrði fjarlægður eða minnkaður þannig að hann yrði allur inni á lóðinni Lindarbrautar 11 og í lögboðinni fjarlægð frá mörkum lóðar kæranda.  Einnig var farið fram á að sveitarfélagið upplýsti um og merkti mörk lóða Lindarbrautar 9 og 11 eins og þau væru samkvæmt fyrirliggjandi gögnum.  Þá var óskað skýringa teldi sveitarfélagið mörkin vera önnur en fram kæmi í þinglýstum skjölum, fasteignaskrá eða mæliblaði frá árinu 1971.  Erindi kæranda var tekið fyrir á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 18. október 2011 og fært til bókar að óska skyldi eftir skýringum lóðarhafa Lindarbrautar 11 á því hvers vegna viðbyggingin hefði ekki verið fjarlægð og var það gert með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 15. nóvember s.á.  Jafnframt var í bréfinu skorað á lóðarhafann að bæta eldvarnir á lóðinni í samræmi við athugasemdir slökkviliðsins.

Engin svör munu hafa borist frá lóðarhöfum Lindarbrautar 11 við bréfi þessu og var erindi kæranda næst tekið fyrir á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 17. júlí 2012 og afgreitt með svofelldri bókun:  „Lóðamörk eru samkvæmt þinglýstu mæliblaði.  Mæliblaði sem gert var 1991 (sic) hefur ekki verið þinglýst og er því ekki í gildi.  Varðandi spurningu um að fjarlægja verkstæðisskúr vísast til svars nefndarinnar til eiganda Lindarbrautar 9 frá 157. fundi.“ 

Hefur kærandi skotið nefndri afgreiðslu til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að aldrei hafi verið fullnægt skilyrðum um samþykki lóðarhafa Lindarbrautar 9 sem áskilið hafi verið fyrir samþykkt hins tímabundna byggingarleyfis fyrir skúrnum.  Standi skúrinn nánast alveg upp við hús kæranda og sé af honum sambrunahætta.  Rýri það gæði lóðar hans að á henni sé skúr sem sé kæranda óviðkomandi og til almennrar óprýði.  Þá sé bent á að í hinni kærðu afgreiðslu hafi hvorki verið fjallað um greinda sambrunahættu né útskýrt hvernig skúrinn, sem sé óleyfisbygging og hýsi starfsemi sem ekki eigi heima í íbúðarhverfi, sé skipulagsyfirvöldum óviðkomandi. 

Málsrök Seltjarnarnesbæjar:  Sveitarfélagið gerir kröfu um að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni eða að hin kærða ákvörðun verði staðfest.  Úrskurðarnefndin úrskurði í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmála vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt sé fyrir um í lögum nr. 130/2011.  Álitaefni það sem hér sé til meðferðar feli í sér úrlausn ágreinings um réttindi sem leidd séu af samningi einkaréttarlegs eðlis.  Sé ekki á færi Seltjarnarnesbæjar að aðhafast í slíkum málum og enn síður á færi úrskurðarnefndarinnar að skera úr slíkum ágreiningi enda nefndin ekki til þess bær að taka stjórnvaldsákvörðun um þetta.

Fallist nefndin ekki á frávísun málsins byggi sveitarfélagið á því að það eigi ekki aðild að kröfu um fjarlægingu skúrsins.  Um sé að ræða ágreining um eignarhald og eignamörk milli einkaaðila.  Slíkur einkaréttarlegur ágreiningur milli eigenda lóða, á grundvelli einkaréttarlegra kaupsamninga, stofni ekki til athafnaskyldu af hálfu sveitarfélagsins.

Þá vilji sveitarfélagið benda á að það sé á ábyrgð eiganda mannvirkis að það fullnægi kröfum um brunavarnir, sbr. 1. mgr. 23. gr. laga um brunavarnir nr. 75/2000.  Þá sé eiganda jafnframt skylt að hlíta fyrirmælum eftirlitsmanna sveitarfélaga og opinberra stofnana um úrbætur, sbr. 2. mgr. sama ákvæðis.  Hafi Seltjarnarnesbær skorað á eiganda Lindarbrautar 11 að bæta úr eldvörnum á lóð sinni í samræmi við athugasemdir slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. 

Málsrök lóðarhafa Lindarbrautar 11:  Lóðarhafar benda á að hin umdeilda verkstæðisbygging standi inni á lóð Lindarbrautar 11 og vísa til mæliblaðs sem undirritað sé af byggingarfulltrúanum á Seltjarnarnesi í júlí 1990 máli sínu til stuðnings.  Megi þetta vera hverjum manni ljóst þar sem áratuga gömul tré varði lóðarmörk Lindarbrautar 11 við lóð nr. 9.  Á téðum lóðarmörkum sé verkstæðishluti og geymsluhluti en ekki verði séð hvaða byggingu kærandi vilji láta fjarlægja enda sé kæran það ruglingsleg og ónákvæm að henni hljóti að verða vísað frá. 

Hafi lóðin að Lindarbraut 9 verið í eigu föður lóðarhafa sem hafi átt margar byggingarlóðir á svæðinu og hafi ráðið ráðstöfun þeirra.  Einnig hafi hann haft talsvert með að segja um stærð, skipulag og lögun lóða á svæðinu.  Sé bent á að þarna hafi verið starfrækt trésmíðaverkstæði í meira en fimm áratugi og hafi verkstæðið verið reist áratugum á undan húsinu að Lindarbraut 9.  Þá sé tekið fram að í vetur muni veggur er snúi að Lindarbraut 9 verða gerður eldþolinn.  

Niðurstaða:  Með hinni kærðu samþykkt ákváðu bæjaryfirvöld Seltjarnarness bregðast ekki við kröfu kæranda um að fjarlægja óleyfismannvirki af lóð hans.  Var ákvörðunin studd þeim rökum að um væri að ræða einkaréttarlegan ágreining milli eigenda lóða nr. 9 og 11 við Lindarbraut.
Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki ber sveitarstjórn ábyrgð á að stjórnsýsla og eftirlit byggingarfulltrúa sé í samræmi við ákvæði laganna og annast byggingarfulltrúi eftirlit með mannvirkjagerð er fellur undir 1. og 2. mgr. 9. gr. sömu laga.  Jafnframt skal byggingarfulltrúi eftir föngum hafa eftirlit með því að viðhald húsa og mannvirkja í umdæmi hans sé viðhlítandi, sbr. gr. 3.10.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.  Þá er samkvæmt 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 óheimilt að skipta jörðum, löndum eða lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórnar komi til. 
Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki annað ráðið en að hinn umdeildi skúr sé án tilskilins byggingarleyfis.  Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði en í gildi er hnitsett mæliblað, m.a. fyrir lóðir 9 og 11 við Lindarbraut, dags. í ágúst 1971, þar sem sýndir eru byggingarreitir, fjarlægð þeirra frá lóðarmörkum og mörk lóða.  Stendur skúr sá sem um er deilt í málinu út fyrir byggingarreit lóðarinnar nr. 11 við Lindarbraut og jafnframt út fyrir mörk lóðarinnar og inn á lóð nr. 9.  Er því þá hafnað að breyting á mörkum lóðanna nr. 9 og 11 við Lindarbraut í júlí 1990 hafi nokkra þýðingu enda lá ekki fyrir þinglýstur samningur lóðarhafa.

Fyrir liggur í málinu álit slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins um að sambrunahætta sé milli bílskúrs á lóð kæranda og umdeilds timburskúrs á lóð nr. 11.  Verður ekki á það fallist að bæjaryfirvöld hafi getað synjað erindi kæranda um afskipti af málinu með þeim rökum að um einkaréttarlegan ágreining væri að ræða þegar litið er til þess að erindi hans var stutt haldbærum rökum um gæslu öryggishagsmuna og eftirfylgni skipulags- og byggingarmálefna sem sveitarfélagið fer með að lögum.  Var rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar að þessu leyti verulega áfátt og leiðir þessi annmarki til ógildingar hennar.  Það fellur hins vegar utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar að mæla fyrir um úrbætur og kemur krafa kæranda í því efni ekki til álita í málinu.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 17. júlí 2012 um að bregðast ekki við kröfu kæranda um að fjarlægja óleyfismannvirki af lóð hans er felld úr gildi.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Þorsteinn Þorsteinsson

61/2012 Eyrarbraut

Með

Árið 2013, fimmtudaginn 14. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 61/2012, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar um að breyta stærð og mörkum lóðarinnar  Eyrarbrautar 10 á Stokkseyri. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. júní 2012, er barst nefndinni 15. s.m., kærir A, Eyrarbraut 10, Stokkseyri þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar að breyta stærð og mörkum lóðarinnar Eyrarbrautar 10 á Stokkseyri. 

Skilja verður kröfugerð kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust málsgögn frá Sveitarfélaginu Árborg hinn 3. ágúst 2012.

Málsatvik:  Með bréfi, dags. 23. desember 2011, tilkynnti skipulags- og byggingarfulltrúi Árborgar sýslumanninum á Selfossi um breytta stærð lóða í sveitarfélaginu til samræmis við gildandi lóðarblöð.  Í tilkynningunni kom m.a. fram að skráð stærð lóðar kæranda að Eyrarbraut 10 væri 900 m² en ný stærð væri 1.065,8 m².  Var tilkynningunni þinglýst hinn 11. febrúar 2012.  Kærandi kom á framfæri athugasemdum og óskaði frekari upplýsinga um greinda stækkun lóðarinnar með tölvubréfi til sveitarfélagsins hinn 18. maí s.á.  Mun kæranda ekki hafa borist svar við fyrirspurn sinni þegar kæra barst úrskurðarnefndinni. 

Málsrök kæranda:  Kærandi kveðst hafi fengið lóð sinni úthlutað árið 1976 og hafi hún verið sögð 30×30 m.  Hafi engin kvöð verið á úthlutuninni eða nokkuð komið fram um að ekki ætti að fara eftir uppdrætti sem kæranda hafi þá verið sýndur.  Líti kærandi svo á að téður uppdráttur sé enn í gildi en ekkert annað hafi verið gert með lögformlegum hætti sem breyti honum.  Ekkert deiliskipulag sé í gildi fyrir lóðina.  Sé gerð athugasemd við að hin umdeilda breyting hafi hvorki verið kynnt kæranda né haft samráð við hann vegna þessa.  Leiði óvissa um rétt lóðarmörk til þess að kærandi hafi ekki getað hafið framkvæmdir á lóðinni að norðanverðu og sé eign hans í reynd verðlaus þar sem ekki séu til staðar rétt útmæld lóðarmörk. 

Málsrök Árborgar:  Af hálfu Sveitarfélagsins Árborgar er farið fram á að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Ekki hafi verið tekin kæranleg stjórnvaldsákvörðun um lóðarmörk Eyrarbrautar 10.  Kæranda hafi verið kynnt lóðarblað og gerð hafi verið tilraun til að setja út lóðarmörk.  Verði með vísan til framangreinds trauðla ráðið að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn ágreinings í máli þessu.  Þá verði ekki séð að neitt hafi verið tekið af upphaflegum lóðarréttindum kæranda samkvæmt lóðarleigusamningi frá 1977.

Niðurstaða:  Samkvæmt 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er óheimilt að skipta jörðum, löndum eða lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórnar komi til.  Fyrir liggur í málinu tilkynning skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar um stækkun lóðarinnar að Eyrarbraut 10 og um breytta afmörkun hennar samkvæmt lóðarblaði.  Tilkynningin tekur til allmargra lóða og er hún árituð um þinglýsingu hinn 11. febrúar 2012.  Ekki liggur fyrir að sveitarstjórn hafi samþykkt hina umdeildu breytingu á stærð og mörkum lóðar kæranda og var því ekki fullnægt skilyrðum 48. gr. skipulagslaga um breytt mörk lóðarinnar. 

Hin kærða ákvörðun um breytingu á stærð og afmörkun lóðarinnar felur í raun í sér breytingu á tvíhliða lóðarleigusamningi sveitarfélagsins við kæranda.  Bar nauðsyn til þess að gerð yrði breyting á þeim samningi áður en tilkynnt var um breytta stærð og mörk lóðarinnar, en þessa var ekki gætt við meðferð málsins.

Þá liggur ekki fyrir að byggingarfulltrúa hafi verið falið að afgreiða erindi um breytingar á lóðamörkum með sérstakri samþykkt um embættisafgreiðslur og brast hann því vald til þess að taka ákvörðun sem fól í sér breytingu á mörkum lóðar kæranda, enda verður ekki talið að einungis hafi verið um minni háttar leiðréttingu á skráningu að ræða.

Þrátt fyrir þá annmarka sem að framan er lýst var tilkynningu um hina kærðu ákvörðun þinglýst og getur hún þannig haft áhrif á þinglýst lóðarréttindi kæranda.  Verður, með tilliti til þessa, að fallast á kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunarinnar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar, sbr. tilkynningu, dags. 23. desember 2011, um að breyta stærð og mörkum lóðarinnar Eyrarbrautar 10, á Stokkseyri. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________           ______________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                 Þorsteinn Þorsteinsson

92/2012 Laufásvegur

Með

Árið 2013, fimmtudaginn 14. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 92/2012, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. ágúst 2012 um að synja erindi kæranda vegna girðingar á mörkum lóðanna Laufásvegar 70 og Smáragötu 13 í Reykjavík og beiðni um úrskurð um leyfisskyldu greindrar girðingar. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. september 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Ingimar Ingimarsson hrl., f.h. S, eiganda Laufásvegar 70, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. ágúst 2012 að synja erindi kæranda um að girðing á mörkum lóðanna Laufásvegar 70 og Smáragötu 13 verði lækkuð.  Krefst kærandi þess að úrskurðarnefndin endurskoði hina kærðu ákvörðun.  Jafnframt er þess krafist að úrskurðað verði að framkvæmdir við umrædda girðingu séu háðar byggingarleyfi.  Í kærunni var vísað til greinargerðar er úrskurðarnefndinni yrði send á næstu dögum.  Barst úrskurðarnefndinni greinargerð kæranda ásamt 17 fylgiskjölum hinn 20. desember 2012 þar sem gerð er grein fyrir málavöxtum, málsástæðum og lagarökum hans. 

Málsatvik:  Með bréfi kæranda til byggingarfulltrúa, dags. 11. júlí 2012, var óskað eftir afriti af byggingarleyfi fyrir nýrri 2,22 m hárri girðingu er reist hefði verið við mörk lóðanna nr. 70 við Laufásveg og nr. 13 við Smáragötu.  Taldi kærandi að girðingin væri inni á lóð hans og fór fram á að hún yrði fjarlægð, kæmi í ljós að gerð hennar hefði verið ólögmæt.

Byggingarfulltrúi svaraði ofangreindu erindi með bréfi, dags. 2. ágúst s.á.  Var þar m.a. tilgreint að til væru mjög takmörkuð gögn um gerð girðingarinnar.  Á fundi byggingarnefndar á árinu 1996 hefði verið tekið jákvætt í fyrirspurn þáverandi eiganda Laufásvegar 70, þ.e. sendiráðs Sambandslýðveldisins Þýskalands, um hvort leyft yrði að endurgera girðingu sem væri til staðar á milli lóðanna.  Hafi málið ekki komið aftur til kasta nefndarinnar en framkvæmdir við girðinguna hafi verið á vegum sendiráðsins og án afskipta embættis byggingarfulltrúa, en hún hafi verið reist í þeirri gerð sem hún væri og í núverandi hæð.  Þá væri girðingin á mörkum greindra lóða samkvæmt mælingu sem gerð hafi verið í júlí 2012 af eftirlitsmönnum embættisins. 

Kærandi ritaði í framhaldi af svari þessu bréf til byggingarfulltrúa, dags. 3. s.m., og óskaði m.a. nánari upplýsinga um fyrirspurn þáverandi eiganda Laufásvegar 70.  Þá var tekið fram að kærandi samþykkti ekki hærri girðingu en 1,80 m og var þess krafist að embætti byggingarfulltrúa hlutaðist til um að eigandi Smáragötu 13 færði girðinguna niður í þá hæð. 

Afgreiddi byggingarfulltrúi erindi kæranda með bréfi, dags. 29. ágúst 2012, og taldi ekki ástæðu til að verða við beiðni um aðgerðir í málinu af hálfu embættisins í ljósi þess langa tíma sem liðinn væri frá framkvæmdinni.

Hefur kærandi kært téða afgreiðslu byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi skírskotar til þess að hann hafi keypt fasteignina að Laufásvegi 70 í júní 2011 og hafi frá þeim tíma ítrekað beint athugasemdum til eiganda Smáragötu 13 vegna girðingar á mörkum lóða þeirra.  Sé girðingin byggingarleyfisskyld, óháð afstöðu rétthafa aðliggjandi lóðar og gangi gegn lögvörðum eignarrétti hans og grenndarrétti.

Liggi ekkert fyrir um að þáverandi eigandi Laufásvegar 70 hafi samþykkt þá hæð sem girðingin sé í, en hann hafi á sínum tíma sótt um leyfi til að reisa girðingu með hæsta mál 1,93 m frá jörðu.  Sú girðing sem nú standi á milli lóðanna hafi ekki verið reist árið 1997 heldur árið 2009 eða síðar og hafi þá ekki verið um endurnýjun hennar að ræða heldur nýja girðingu eins og hún beri með sér.  Hafi hæð hennar þá væntanlega verið aukin í 2,22 m en hvorki liggi fyrir að byggingarfulltrúi hafi veitt samþykki fyrir svo hárri girðingu né 1,93 m girðingu.

Engu skipti þótt þáverandi eigandi hússins að Laufásvegi 70 hafi samþykkt þá hæð sem girðingin standi nú í, sú framkvæmd sé alltaf byggingarleyfisskyld, sbr. ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr 73/1997 og byggingarreglugerðar 441/1998.  Komi fram í 1. mgr. 67. gr. nefndrar reglugerðar  að leita skuli samþykkis byggingarnefndar á gerð og frágangi girðingar sé hún hærri en 1,80 m eða nær lóðarmörkum en nemur hæð hennar.  Þá segi ennfremur að girðing á mörkum lóða sé háð samþykki beggja lóðarhafa.  Einnig sé vísað til gr. 2.3.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og til úrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 61/2009. 

Verði eigandi Smáragötu 13 að bera hallan af því að ekki hafi verið gengið frá byggingarleyfi fyrir girðingunni í þeirri mynd sem hún sé nú í.  Engin sjáanleg þörf sé fyrir svo hárri girðingu á milli lóðanna.  Leiði girðingin í núverandi mynd til skerðingar á hagsmunum kæranda, spilli útsýni og valdi skuggamyndun auk þess sem gróður þrífist ekki á lóðinni við girðinguna.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Borgaryfirvöld krefjast þess að kröfum kæranda í máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en að öðrum kosti að þeim verði hafnað. 

Ekki sé um neina kæranlega ákvörðun að ræða sem skotið verði til úrskurðarnefndarinnar skv. ákvæðum laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.  Aðeins þær stjórnvaldsákvarðanir sem bindi endi á meðferð máls sæti kæru til æðra stjórnvalds, en ákvörðun byggingarfulltrúa hafi ekki hlotið neina lokaafgreiðslu hjá borgaryfirvöldum, s.s. staðfestingu borgarráðs.  Ekki liggi því fyrir kæranleg ákvörðun og sé bent á að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hafi margsinnis komist að þessari niðurstöðu í úrskurðum sínum.  Nefndin sé auk þess ekki bær til að kveða á um skyldu til athafna eða athafnaleysis sveitarfélaga heldur geti aðeins fjallað um gildi ákvarðana.  Ennfremur sé kæran allt of seint fram komin, eða u.þ.b. 16 árum eftir byggingu girðingarinnar. 

Málsrök lóðarhafa Smáragötu 13:  Lóðarhafi fer fram á að kröfum kæranda verði hafnað eða kæru vísað frá úrskurðarnefndinni.

Bent sé á að lóðarhafa hafi ekki borist neinar kvartanir eða athugasemdir vegna umræddrar girðingar eða haft nokkurn pata af því að ágreiningur væri um girðinguna. 

Þegar hann hafi fest kaup á fasteign sinni árið 1996 hafi verið hrörleg há girðing á lóðamörkum og hafi hún verið jafn há steinveggjum sem þá og enn í dag skilji að annars vegar lóðirnar nr. 68 og 70 við Laufásveg og hins vegar lóðir Laufásvegar 70 og 72.  Hafi lóðarhafi fljótlega óskað eftir samvinnu við þáverandi eiganda Laufásvegar 70 um að girðingin yrði lagfærð.  Ný girðing hafi verið reist árið 1997 í sömu hæð og hin fyrri en það hafi verið skýlaus krafa þáverandi eiganda, þ.e. sendiráðsins, að girðingin yrði ekki lækkuð eins og lóðarhafi hafi farið fram á.  Girðingin hafi verið óhreyfð í 12 ár en hafi þá þurft lagfæringar við.  Hafi það orðið að samkomulagi milli aðila að lóðarhafi Smáragötu 13 lagfærði girðinguna á eigin kostnað en með fullu samþykki þáverandi lóðarhafa Laufásvegar 70.  Ekki hafi verið talið að óska þyrfti eftir umsögn byggingarfulltrúa þar sem hæð girðingarinnar hafi verið óbreytt og engin ágreiningur um málið. 

Þegar núverandi lóðarhafi Laufásvegar 70 hafi keypt fasteign sína hafi girðingin verið til staðar eins og hún sé í dag.  Ekkert hefði því átt að koma honum á óvart í því efni. Girðingin sé enn í sömu hæð, séð frá lóðinni Smáragötu 13, líkt og hún hafi verið frá árinu 1996, en kærandi hafi ráðist í umfangsmiklar framkvæmdir á fasteign sinni og hafi á tímabili allur jarðvegur í lóðinni verið fjarlægður niður á klöpp. 

Hafi afstaða lóðarhafa Smáragötu 13 ekkert breyst frá árinu 1996 og sé tekið fram að hann hefði verið fús til viðræðna um breytta ásýnd girðingarinnar þegar að viðhaldi kæmi í nánustu framtíð, ef eftir því yrði leitað. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 55. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er byggingarfulltrúa heimilt að mæla fyrir um niðurrif óleyfisframkvæmdar.  Þá segir í 56. gr. laganna að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant að mati byggingarfulltrúa eða Mannvirkjastofnunar skuli gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé.  Eru ákvarðanir byggingarfulltrúa samkvæmt þessum ákvæðum ekki háðar staðfestingu sveitarstjórnar og sæta þær því kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Ákvæði þessi lúta fyrst og fremst að gæslu almannahagsmuna og er beiting þeirra háð mati byggingarfulltrúa eða Mannvirkjastofnunar eftir atvikum hverju sinni.  Verður ekki annað ráðið en að hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa hafi verið studd málefnalegum rökum og kemur hún ekki til endurskoðunar úrskurðarnefndarinnar. 

Í III. kafla mannvirkjalaga er að finna ákvæði um byggingarleyfi og ber 9. gr. yfirskriftina „byggingarleyfisskyldar framkvæmdir“, en í 1. mgr. ákvæðisins er sett fram sú meginregla að óheimilt sé að hefja nánar tilgreindar framkvæmdir nema að fengnu leyfi byggingarfulltrúa eða eftir atvikum Mannvirkjastofnunar.  Innan sama kafla, eða í 4. mgr. 9. gr. laganna, er kveðið á um að leiki vafi á hvort mannvirki sé háð byggingarleyfi, eða falli undir 2. eða 3. mgr. ákvæðisins, skuli leita niðurstöðu úrskurðarnefndar.  Skuli niðurstaða nefndarinnar liggja fyrir innan eins mánaðar frá því að slíkt erindi berst.  Með ákvæði þessu er vikið frá þeirri meginreglu að einungis stjórnvaldsákvarðanir eða ákvarðanir er bindi endi á mál verði bornar undir úrskurðarnefndina.  Liggja hagkvæmnisjónarmið að baki ákvæðinu þar sem ekki verður gerð sú krafa að hverjum þeim sem vill ráðast í minni háttar framkvæmd sem hann telur ekki háða byggingarleyfi verði gert að sækja um leyfi, þrátt fyrir vafa um leyfisskylduna.  Er þess í stað unnt að leita úrlausnar úrskurðarnefndarinnar sem þá lætur í raun í té bindandi álit um leyfisskylduna.  Eðlilegt er að slíks álits sé leitað í tengslum við framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru eða hafnar, eða í beinu og eðlilegu framhaldi af öðrum framkvæmdum.  Verður hins vegar ekki séð að það samræmist tilgangi þessa ákvæðis að óska úrlausnar um byggingarleyfisskyldu mannvirkja sem reist hafa verið og staðið hafa um árabil.  Verður því ekki skorið úr um það í þessu máli hvort  bygging umræddrar girðingar hafi verið háð byggingarleyfi á þeim tíma þegar hún var reist.

Loks er til þess að líta að kærandi keypti eignina að Laufásvegi 70 um mitt ár 2011.  Umrædd girðing, sem að stofni til mun hafa reist af fyrri eiganda Laufásvegar 70, var þá á mörkum lóðanna Laufásvegar 70 og Smáragötu 13.  Verður ekki séð að neinar athugasemdir hafi þá komi fram af hálfu kæranda, en þær hefðu þurft að koma fram án ástæðulauss dráttar eins og atvikum var hér háttað.  Fullt ár leið hins vegar þar til kærandi setti fram athugasemdir um girðinguna og verður að virða honum það til tómlætis.

Með vísan til framanritaðs verður kröfum kæranda í máli þessu hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að úrskurðarnefndin endurskoði ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. ágúst 2012 um að synja erindi kæranda varðandi girðingu á mörkum lóðanna Laufásvegar 70 og Smáragötu 13.

Einnig er hafnað kröfu kæranda um að úrskurðað verði að framkvæmdir við umrædda girðingu séu háðar byggingarleyfi.
 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________             ___________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                            Þorsteinn Þorsteinsson

128/2012 Bugavirkjun

Með

Árið 2013, miðvikudaginn 6. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson, forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Kristín Svavarsdóttir vistfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 128/2012, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 22. nóvember 2012 um að veita leyfi til vatnsmiðlunar við Bugalæk í landi Eystri- Leirárgarða, í Hvalfjarðarsveit. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. desember 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir B hrl., f.h. Leirárskóga ehf., þá ákvörðun Orkustofnunar frá 22. nóvember 2012 að veita leyfi fyrir gerð miðlunarlóns við Bugalæk í landi Eystri-Leirárgarða, í Hvalfjarðarsveit.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn í málinu frá Orkustofnun 19. desember 2012.
 
Málavextir:  Forsaga máls þessa er sú að hinn 24. september 2012 tók gildi breyting á deiliskipulagi Eystri-Leirárgarða er gerði m.a. ráð fyrir gerð vatnsaflsstífu í Bugalæk, fyrir virkjun lækjarins.  Kærandi í máli þessu skaut þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar.  Jafnframt var ákvörðun Hvalfjarðarsveitar um byggingarleyfi og framkvæmdaleyfi vegna fyrirhugaðra virkjunarframkvæmda skotið til nefndarinnar og þess krafist að framkvæmdir yrðu stöðvaðar meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Með úrskurði uppkveðnum hinn 16. nóvember 2012 voru framkvæmdir við Bugavirkjun stöðvaðar með vísan til þess að ekki lægi fyrir leyfi Orkustofnunar til vatnsmiðlunar Bugavirkjunar og léki því vafi á því hvort fullnægt hefði verið lagaskilyrðum til að veita mætti leyfi til framkvæmda við mannvirkjagerð, sem m.a. fæli í sér gerð miðlunarlóns.

Virkjunaraðili sótti í framhaldi af því með bréfi, dags. 21. nóvember 2012, um leyfi Orkustofnunar fyrir gerð miðlunarlóns samkvæmt 68. gr. vatnalaga nr. 15/1923 vegna fyrirhugaðrar virkjunar á Bugalæk og var með bréfi Orkustofnunar, dags. 22. nóvember s.á., veitt leyfi til vatnsmiðlunar við Bugavirkjun.  Tekur leyfið til gerðar miðlunar- og inntakslóns allt að 15.000 m2 að flatarmáli í landi Eystri- Leirárgarða. 

Skaut kærandi ákvörðun Orkustofnunar til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á því byggt að Orkustofnun hafi með ákvörðun sinni brotið gegn ákvæðum 10. gr. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Jafnframt hafi ákvörðunin falið í sér vanrækslu á að gæta lögmætisreglu stjórnsýsluréttar með réttarbroti eða lagasniðgöngu á 7. gr. vatnalaga nr. 15/1923.  

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga hvíli sú skylda á stjórnvaldi að sjá til þess að málsatvik séu nægilega upplýst áður en stjórnvaldsákvörðun sé tekin til að tryggja að hún sé bæði lögleg og rétt.  Virkjunaraðilar hafi leitað leyfis til stíflugerðar 19. nóvember 2012 og tveimur dögum síðar hafi umrætt virkjunarleyfi verið gefið út.  Leiði af eðli máls að Orkustofnun hafi vart haft ráðrúm til að skoða gögn málsins á svo skömmum tíma.  Hafi Orkustofnun átt að rannsaka sjálfstætt hvaða hagsmunir myndu raskast við téða mannvirkjagerð, hverjir ættu land að Leirá sem umræddur lækur rennur í og kanna sjálfstætt viðhorf þeirra aðila til málsins.  Sé vísað til álita umboðsmanns Alþingis í málum nr. 4340/2005 og 4341/2005 þessu til stuðnings en þar hafi umboðsmaður talið það brot á rannsóknarreglu að opinber aðili kannaði ekki afstöðu tiltekinna landeiganda sem sættu skerðingu vegna banns við veiði sjógöngusilungs.

Samkvæmt 2. mgr. 143. gr. vatnalaga nr. 15/1923 fari Orkustofnun með stjórnsýslu og eftirlit samkvæmt vatnalögum og af því leiði að stofnuninni hafi borið að líta til annarra þátta löggjafarinnar en 68. gr. vatnalaga og gæta þess að ákvörðunin samræmdist öðrum greinum laganna, svo sem 7. gr., en það hafi ekki verið gert.

Einnig sé skírskotað til þess að gróflega hafi verið brotið á andmælarétti kæranda sem tryggður sé í 13. gr. stjórnsýslulaga.  Hefði andmæla notið við hefði kærandi m.a. getað vakið athygli á villandi upplýsingum sem fram komi í umhverfisskýrslu er gefi t.d. ranga mynd af vægi Bugalækjar fyrir vatnsbúskap Leirár, en rétt sé að árétta að óbreytt vatnsmagn í Leirá séu stjórnarskrárvarin eignarréttindi og að með umdeildum framkvæmdum sé farið gegn 7. gr. vatnalaga.  Þá verði ekki framhjá því litið að framkvæmdir þær sem leyfi sé veitt fyrir af hálfu Orkustofnunar stefni að því marki að gerstífla Bugalæk og leyfi fyrir miðlunarlóni feli í sér að  breyta eigi vatnsmagni í Leirá að fullu og öllu.  Slík inngrip séu óheimil að eigendum Leirár forspurðum.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. vatnalaga sé kveðið á um „…að öll vötn skuli renna sem að fornu hafa runnið“.  Bugalækur muni ekki renna í sinn forna farveg eftir gerstíflun hans og vatnsmagn hans muni algerlega þverra.  Af eðli málsins leiði að vatnsmagn og vatnsflæði lækjarins muni hverfa í núverandi farvegi og vatnsflæði í Leirá þverra að sama skapi á löngum kafla.  Þegar hugað sé að lögskýringargögnum varðandi skýringu á nefndu ákvæði sé ljóst að miðlunarlón það sem Orkustofnun hafi heimilað feli í sér beint brot á þessari fornu lagareglu eða að minnsta kosti gróflega lagasniðgöngu.  Þá sé óheimilt skv.1. og 2. tl. 2. mgr. 7. gr. vatnalaga að breyta straumstefnu eða vatnsmagni eða að gerstífla straumvatn nema sérstök heimild og lagaleyfi sé fyrir slíku.  Ekki sé kunnugt um að lagaleyfi sé til þeirra athafna sem hér um ræði og ekki hafi verið leitað heimildar eða samþykkis kæranda fyrir þeirri skerðingu á vatnsmagni Leirár sem af stíflugerð og virkjun leiði.  Jafnframt sé ekki kunnugt um að leitað hafi verið samþykkis annarra eiganda að Leirá sem verði fyrir skerðingu á vatni í ánni við væntanlega framkvæmd.  

Með orðunum „sérstök heimild“ í fyrrnefndri 7. gr. sé einkum átt við heimildir þeirra sem eigi þau réttindi sem raskað sé við gerstíflun eða breyttu vatnsmagni.  Í orðunum felist ekki að almennt lagaákvæði heimili stjórnvaldi að taka stjórnarskrárvarin réttindi af eiganda þeirra og afhenda þau þriðja aðila.  Virðist virkjunaraðilar hafa haldið slíkum sjónarmiðum fram á fyrri stigum málsins þegar túlkun þeirra hafi verið sú að samþykkt á deiliskipulagi fæli í sér slíka heimild.  Sé þetta augljóst þegar lagaákvæði vatnalaga séu skoðuð og ennfremur lögskýringargögn.  Vatnalögin heimili ekki heldur slíka forsvörun af hálfu Orkustofnunar.  Talið hafi verið að með „lagaleyfi“ eigi lögin fyrst og fremst við þau ákvæði vatnalaganna sjálfra sem heimili vatnseiganda vegna einhverra sérstakra vatnsnota aðra meðferð á vatni en 7. gr. leyfi.  Því fari fjarri að vatnalögin geymi slíka heimild sem geti átt við í máli þessu.

Vatnsréttindi njóti verndar samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar og hafi eignarnámi verið beitt samkvæmt vatnalögum og öðrum lögum þegar vatnsréttindi í einkaeign hafi verið tekin í þágu virkjana.  Vatnsréttindi í Leirár séu því í sameign þeirra landeiganda sem land eigi að ánni.  Verði þeirri skipan eða breytingum á vatnsmagni árinnar ekki breytt nema með eignarnámi eða samkomulagi eiganda. 

Þótt stjórnvald hafi heimild til tiltekinna leyfisveitinga verði það ætíð að gæta að lögmætisreglu stjórnsýsluréttar við aðgerðir sínar, þ.e. að stjórnvaldið sé bundið af lögum við ákvarðanir sínar.  Þannig geti stjórnvald ekki látið skeika að sköpuðu við leyfisveitingar heldur verði að gæta þess að ákvarðanir samræmist öðrum ákvæðum laga og þá ekki síst þeirra sem ákvörðunin byggist öðrum þræði á og sé auk þess öðrum að skaðlausu.

Ákvæðum vatnalaga hafi ekki verið framfylgt og hafi Orkustofnun, sem eftirlitsaðila, borið að gæta að þessu atriði áður en hið umdeilda leyfi hafi verið veitt.  Að öllu framangreindu sé ljóst að öll lagaskilyrði hafi brostið fyrir téðri leyfisveitingu og beri því að ógilda ákvörðunina. 

Málsrök Orkustofnunar:  Af hálfu Orkustofnunar er bent á að í desember 2011 hafi stofnuninni borist umsókn virkjunaraðila um virkjunarleyfi vegna fyrirhugaðrar virkjunar í Bugalæk.  Í framhaldi af því hafi með bréfi Orkustofnunar, dags. 18. janúar 2012, verið óskað frekari upplýsinga vegna umsóknarinnar, sbr. 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga, m.a. um verkáætlun, og samkomulag við landeigendur.  Jafnframt hafi þess verið getið að umsóknin yrði auglýst í Lögbirtingarblaðinu þannig að þeir sem hefðu athugasemdir við umsóknina gætu komið þeim að.  Síðar hafi komið í ljós að ekki væri þörf á virkjunarleyfi og hafi umsóknin því ekki verið tekin til efnismeðferðar.  Hinn 21. nóvember 2012 hafi borist umsókn virkjunaraðila með vísan til 68. gr. vatnalaga þar sem sótt hafi verið um leyfi til að gera miðlunarlón við Bugalæk í landi Eystri-Leirárgarða.  Umsókninni hafi fylgt yfirlýsing landeigenda þar sem fram komi að þeir, fyrir sitt leyti, leyfi og samþykki umsókn virkjunaraðila um afnot af landi Eystri-Leirárgarða vegna fyrirhugaðrar virkjunar.  Að könnuðum öllum fylgigögnum og fram komnum upplýsingum hafi Orkustofnun talið þau fullnægjandi varðandi undirlag, gerð og frágang fyrirhugaðrar stíflu og ekkert því til fyrirstöðu að gefa út leyfi.  Fjalli leyfið aðeins um stíflugerð til vatnsmiðlunar.

Í ljósi þess er að framan greini sé því hafnað sem röngu að Orkustofnun hafi brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga um rannsóknarskyldu og sé í því sambandi vísað til áðurnefnds bréfs Orkustofnunar til virkjunaraðila í janúar 2012.

Vakin sé sérstök athygli á því að sérstakt leyfi til stíflugerðar komi þá aðeins til álita í því tilfelli að ekki sé þörf á virkjunarleyfi vegna viðkomandi framkvæmdar, en yrði ella hluti af því.  Það hafi einmitt verið þetta sérstaka leyfi til stíflugerðar sem komið hafi til skoðunar eitt og sér en ekki sem hluti af virkjunarleyfi.  Væri svo kæmu til álita skilyrði 5. gr. raforkulaga nr. 65/2003 fyrir veitingu virkjunarleyfis en þau eigi ekki við varðandi stíflugerðina.  Í ljósi þessa sé því mótmælt að brotið hafi verið á andmælarétti kæranda enda sé hann ekki aðili máls vegna stíflugerðar í landi Eystri-Leirárgarða.

Velji landeigandi að nýta vatnsmiðlun til virkjunarframkvæmda á eigin vegum sé honum það heimilt að teknu tilliti til gildandi lagaákvæða.  Slíkar framkvæmdir séu alfarið á ábyrgð landeiganda.  Í 3. gr. leyfisins komi fram að með leyfinu sé leyfishafa heimilt með vísan til 49. gr. vatnalaga að nota það vatn, sem miðlað sé samkvæmt leyfinu, til að vinna úr því orku, enda sé enginn fyrir það sviptur því vatni, sem hann þurfi að nota samkvæmt III. og IV. kafla laganna, eða neinum bakaðir óhæfilegir örðugleikar um slíka notkun.  Þá segi einnig í 3. gr. laganna að leyfishafa sé heimilt, með vísan til 50. gr. vatnalaga, að veita vatni úr eðlilegum farvegi vegna vatnsorkunota samkvæmt 49. gr. laganna, en ekki megi veita meira vatni úr eðlilegum farvegi í þessu skyni en þörf sé á, en öllu skuli því veitt í fornan farveg áður en landareigninni sleppi, nema samlög séu á milli fleiri landareigna um orkuvinnslu. 

Sé því mótmælt að hin kærða ákvörðun skerði sem slík, réttindi kæranda á grundvelli gildandi lagaheimilda, m.a. 49. gr. vatnalaga, eða hafi í för með sér eignatjón fyrir hann af þeim ástæðum.  Orkustofnun hafi hvorki heimilað að kærandi sé sviptur því vatni sem hann þurfi að nota samkvæmt III. og IV. kafla laganna, né leyft að honum séu bakaðir óhæfilegir örðugleikar um slíka notkun, líkt og segi í 49. gr. laganna.  Telji kærandi sig vanhaldinn af gjörðum annarra landeigenda á sameiginlegu vatnasviði þeirra og kæranda geti hann leitað réttar síns eftir hefðbundnum leiðum, en slík réttarúrræði séu alls óviðkomandi hinni kærðu leyfisveitingu.

Um notkun vatnsorku landeiganda fari eftir ákvæðum V. kafla vatnalaga.  Eigi menn tilkall til orku úr sama vatnsfalli, án þess að merkivötn skilji að fasteignir, fari um þá skiptingu eftir 53. gr. laganna.  Sé ítrekað að hin kærða leyfisveiting varði stíflugerð í landi Eystri- Leirárgarða og að eigendur þess séu aðilar málsins en ekki kærandi.  Hann væri hins vegar aðili að öðru máli, þ.e. um samskipti og samkomulag við eigendur Eystri-Leirárgarða samkvæmt 1. mgr. 51. gr. vatnalaga sem kveði á um að þar sem merkivötn skilji landareignir, hafi eigendur beggja jafnan rétt til að nota vatn úr þeim samkvæmt 49. og 50. gr. laganna.

Í ljósi ofanritaðs telji Orkustofnun ekki ástæðu til að rekja ákvæði vatnalaga eða veita andmæli við sjónarmiðum kæranda sérstaklega, að því er varði réttindi og skyldur sameigenda að vatnsréttindum í Leirá þar sem leyfisveiting Orkustofnunar taki ekki til þeirra lagaákvæða.  Byggist hin kærða ákvörðun á lögmætum sjónarmiðum sem samræmast þeim hagsmunum sem vatnalögum sé ætlað að vernda.  Með hinni kærðu ákvörðun hafi verið stefnt að því lögmæta markmiði að tryggja öryggi stíflugerðar í Bugalæk fyrst og fremst en ekki að taka afstöðu til annarra atriða vatnalaga, sem af nýtingu vatnsmiðlunar leiddi eða skert gætu vatnsréttindi kæranda í Leirá samkvæmt ákvæðum sömu laga, en vakin sé athygli á takmörkunum leyfisins í 3. gr. þess, þ.e. takmörk sem m.a. varði möguleg réttindi kæranda.  

——————————

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum og sjónarmiðum að í málinu en greinargerð af hans hálfu hefur ekki borist úrskurðarnefndinni. 

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu, sem ekki verða rakin hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þess. 

Niðurstaða:  Í 1. mgr. 68. gr. vatnalaga nr. 15/1923 m.s.br. segir að leita skuli leyfis Orkustofnunar til vatnsmiðlunar eða breytinga á henni ef flatarmál miðlunarlóns að því loknu sé 1.000 m2 eða stærra við hæstu vatnsstöðu.  Skuli framkvæmdaraðili láta fylgja með umsókn sinni til Orkustofnunar fullnægjandi gögn um undirlag, gerð og frágang fyrirhugaðrar stíflu.  Gildi það einnig ef miðlunarlón sé minna en 1.000 m2 og stífluframkvæmdin tilkynningarskyld skv. 144. gr.

Í greinargerð með 51. gr. frumvarps til laga um breytingu á vatnalögum nr. 15/1923, sem síðar varð að lögum nr. 132/2011, var það rakið að í greininni væru lagðar til breytingar á 68. gr. vatnalaga er varðaði stíflugerð til vatnsmiðlunar.  Samkvæmt greininni þyrfti skilyrðislaust leyfi Orkustofnunar til vatnsmiðlunar eða breytinga á henni ef flatarmál miðlunarlóns að því loknu yrði 1.000 m2 eða stærra við hæstu vatnsstöðu. Þó skyldi miðlunarleyfið talið hluti af virkjunarleyfi samkvæmt raforkulögum ef framkvæmd vatnsmiðlunar væri liður í virkjun fallvatns til raforkuframleiðslu.  Þá sagði í greinargerðinni að ákvæði um leyfi eða tilkynningu til Orkustofnunar, áður en að stíflugerð kæmi, til veitu vatns eða vatnsmiðlunar, væri fyrst og fremst ætlað að fyrirbyggja flóðahættu vegna mögulegs stíflurofs og auka þannig öryggi almennings og forða tjóni.  Með því að farið væri yfir gögn um undirlag, gerð og frágang fyrirhugaðrar stíflu væri tryggt eins og kostur væri af opinberri hálfu að slík hætta skapaðist ekki.  Hefur Orkustofnun, með vísan til þessa, talið að með hinni kærðu ákvörðun hafi verið stefnt að því lögmæta markmiði að tryggja öryggi stíflugerðar í Bugalæk fyrst og fremst en ekki að taka afstöðu til annarra atriða vatnalaga sem af nýtingu vatnsmiðlunar leiddi eða skert gætu vatnsréttindi kæranda í Leirá samkvæmt ákvæðum sömu laga.  Sé kærandi því í raun ekki aðili máls vegna stíflugerðar í landi Eystri-Leirárgarða og komi því ekki til álita að andmælaréttur hafi verið brotinn á honum.

Í 2. mgr. 144. gr. vatnalaga er kveðið á um að skylt sé að tilkynna Orkustofnun um allar framkvæmdir sem fyrirhugað sé að ráðast í og tengist vatni og vatnafari, þar á meðal framkvæmdir sem ekki séu sérstaklega leyfisskyldar samkvæmt þessum lögum eða öðrum.  Í greinargerð með 79. gr. frumvarps til laga um breytingu á vatnalögum, sem kvað á um breytingar á 144. gr. laganna, var tekið fram að þörfin á tilkynningarskyldunni byggðist á því að framkvæmdir gætu haft veruleg og óafturkræf áhrif á vötn og vatnsréttindi annarra og skert nýtingarhagsmuni og almannahag fyrir utan önnur spjöll sem þeim gætu fylgt.  Sagði og að Orkustofnun væru ætlaðar heimildir til að setja skilyrði fyrir framkvæmdum og starfsemi í vötnum, m.a. ef þess væri talin þörf af tæknilegum ástæðum eða vegna varðveislu nýtingarmöguleika vatnsins.

Úrskurðarnefndin telur að þegar litið sé til orðalags 144. gr. vatnalaga og tilvitnaðrar greinargerðar um breytingu á því ákvæði, verði ekki fallist á að hlutverk Orkustofnunar sé bundið eingöngu við athugun á öryggi mannvirkja í tengslum við vatnsmiðlun, heldur beri stofnunni einnig að rannsaka sjálfstætt áhrif fyrirhugaðrar mannvirkjagerðar á vötn og vatnsréttindi annarra, skerta nýtingarhagsmuni og almannahag.  Forsvarsmönnum Orkustofnunar var kunnugt um andstöðu kæranda við fyrirhugaða framkvæmd og bar stofnuninni að gefa honum kost á að neyta andmælaréttar samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og taka afstöðu til athugasemda hans. 

Að framangreindu virtu verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.     

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun Orkustofnunar frá 22. nóvember 2012 um að veita leyfi til vatnsmiðlunar við Bugalæk í landi Eystri-Leirárgarða í Hvalfjarðarsveit. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Kristín Svavarsdóttir                                                    Þorsteinn Þorsteinsson

65/2011 Seljavegur

Með

Árið 2013, föstudaginn 27. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson, varaformaður nefndarinnar, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 65/2011, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. janúar 2011 um að veita byggingarleyfi til að síkka glugga og fella út glugga á norðvestur- og norðausturhlið í matshluta 01 á 5. hæð fasteignarinnar að Seljavegi 2 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni 2. september 2011, kærir Linda Bentsdóttir hdl., f.h. Seljavegar ehf., ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. janúar 2011 um að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á ytra útliti, nýtingu og innra skipulagi hluta fasteignarinnar að Seljavegi 2 í Reykjavík. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt var þess krafist að framkvæmdir yrðu stöðvaðar til bráðabirgða og að leyfishafa yrði gert að koma fasteigninni í fyrra horf.  Þykir málið nú nægilega upplýst til að taka það til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu enda umdeildum framkvæmdum að mestu lokið þegar kæra barst í málinu. 

Málavextir:  Fasteignin að Seljavegi 2 stendur á viðskipta- og þjónustulóð og eru fjórir matshlutar í húsinu, þ.e. hlutar nr. 01, 02, 03 og 04.  Leyfi til breytinga á 5. hæð hússins var veitt hinn 31. júlí 2007 þegar samþykkt var umsókn um byggingarleyfi sem síðar var staðfest í borgarráði þann 2. ágúst 2008.  Byggingarleyfið heimilaði að atvinnuhúsnæði á 5. hæð í matshluta 01 væri breytt í íbúð, bætt væri við glugga á norðvestur- og norðausturhlið ásamt svölum á 5. hæð.  Byggingarleyfið var gefið út 17. apríl 2008 og endurútgefið 26. mars 2009 þar sem framkvæmdir höfðu þá ekki hafist.  Þá var leyfið enn endurútgefið hinn 12. ágúst 2011 vegna meistaraskipta. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 25. janúar 2011 var samþykkt umsókn um byggingarleyfi þar sem sótt var um síkkun glugga og að gluggar á norðvestur- og norðausturhlið fyrrgreindrar fasteignar á 5. hæð yrðu felldir brott.  Var sú ákvörðun byggingarfulltrúa staðfest í borgarráði 27. s. m. 

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er því haldið fram að byggingarfulltrúi hafi ekki haft lagaheimild til að samþykkja þær breytingar á fasteigninni sem lagðar voru fyrir hann án samþykkis meðeigenda.  Um sé að ræða meiri háttar útlitsbreytingu á utanverðu húsinu og innra skipulagi, þ.e. breytingu á atvinnuhúsnæði í íbúð.  Vísar kærandi til 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 12. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, um að umsókn um byggingarleyfi beri að skila inn til hlutaðeigandi byggingarfulltrúa ásamt hönnunargögnum og öðrum nauðsynlegum gögnum, þ.m.t. gögnum um samþykki meðeigenda skv. 1. og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.  Ljóst sé að fyrirsvarsaðilar byggingarleyfishafa hvorki hafi né hafi haft  heimild til að taka bindandi ákvarðanir fyrir aðra meðeigendur varðandi sameign eða innra skipulag. 

Ekki þurfi að fjölyrða um hvaða vandamál geti komið upp þar sem saman fari atvinnustarfsemi og heimili fólks í sama húsi.  Ein íbúð sé þegar í húsinu en hún hafi staðið auð síðustu árin.  Allt ytra byrði húss, þ.e. útveggir og gaflar, séu sameign skv. 1. tl. 8. gr. laga um fjöleignarhús.  Skv. 3. tl. sömu greinar sé allur ytri gluggaumbúnaður, bæði á séreignarhlutum og sameign, í sameign.  Ytra byrði svala og stoð- og burðarvirki þeirra, svo og svalahandrið, sé einnig sameign skv. 4. tl. sömu greinar.  Byggingarfulltrúi hafi með samþykkt leyfisins lagt viðbótarbyrðar, þ.e. framkvæmdakostnað og aukinn framtíðarviðhaldskostnað, á kæranda sem eigi langstærsta eignarhluta heildarfasteignarinnar eða 95,7%.  Verði byggingarleyfið látið standa raski það lögvörðum hagsmunum kæranda, m.a. með auknum álögum og skyldum vegna sameignar.  Einnig megi reikna með að möguleikar kæranda á nýtingu lóðar í norðvesturenda fasteignarinnar minnki en þar hyggist kærandi sækja um aukinn byggingarrétt.  Nýbygging á þeirri lóð kæmi til með að skyggja á útsýni úr þeim gluggum á 5. hæð sem ólöglega hafi nú verið komið fyrir og sé réttarstaða aðila því ekki sú sama og áður.  Ljóst sé að um stórtjón geti verið að ræða hjá kæranda vegna þessa. 

Málið hafi ekki fengið faglega og vandaða málsmeðferð í stjórnsýslunni, gróflega hafi verið brotið á kæranda og almennar málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ekki verið virtar, t.d. rannsóknarregla 10. gr. laganna.  Þá hafi það markmið laga um mannvirki, að vernda eignir og umhverfi með því að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar, skv. 1. gr. a. og það markmið skipulagslaga nr. 123/2010 að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar við gerð skipulagsáætlana varðandi útlit bygginga og form skv. 1. gr. e. verið haft að engu við afgreiðslu málsins hjá Reykjavíkurborg.

Að lokum bendir kærandi á að enga stoð sé að finna í lögum fyrir ítrekaðri endurútgáfu byggingarfulltrúa á byggingarleyfinu og það án þess að samþykki nýrra meðeigenda lægi fyrir.  Í öllu falli hafi átt að leita samþykkis nýrra meðeigenda þegar ný og breytt byggingarleyfi voru gefin út af Reykjavíkurborg, þ.e. hinn 26. mars 2009 og í janúar 2011.  Kærandi hafi fyrst orðið var við breytingarnar á húsvegg fasteignarinnar 4. ágúst 2011 og óskað þá þegar eftir gögnum frá Reykjavíkurborg um framkvæmdirnar.  Þá fyrst hafi legið fyrir að byggingarfulltrúi hefði veitt leyfishafa hið kærða byggingarleyfi hinn 25. janúar 2011. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að byggingarfulltrúa hafi verið fullkomlega heimilt að afgreiða málið með þeim hætti sem gert hafi verið.  Hinn 31. júlí 2007 hafi verið samþykkt byggingarleyfisumsókn sem hafi lotið að breytingum á húsnæði umsækjanda.  Byggingarleyfi hafi í kjölfarið verið gefið út og úttekt farið fram.  Byggingarleyfið hafi verið í gildi þegar sótt hafi verið um breytingu á leyfinu í janúar 2011. 

Í samþykkt byggingarfulltrúa frá 25. janúar 2011 hafi ekki falist breyting á notkun, þ.e. úr atvinnuhúsnæði í íbúð, heldur hafi sú breyting verið samþykkt 31. júlí 2007.  Hin kærða samþykkt sé breyting á fyrri samþykkt og hafi því verið talið að nýtt samþykki meðeigenda þyrfti ekki að koma til því ekki hafi verið gengið lengra í breytingum en áður hafi verið samþykkt.  Það að starfsmaður byggingarfulltrúa hafi gert þá athugasemd á umsóknarblaði að samþykki meðeigenda vantaði hafi að mati byggingarfulltrúa verið léttvæg þar sem um breytingu á áður útgefnu byggingarleyfi hafi verið að ræða.  Starfsmaðurinn hafi einfaldlega ekki áttað sig á þeirri staðreynd.  Breytingarnar séu auk þess svo smávægilegar að þær hafi engin áhrif á hagsmuni kæranda í málinu.  Hann hafi ekki verið eigandi fasteignarinnar á þeim tíma er fyrri samþykkt byggingarfulltrúa var gerð hinn 31. júlí 2007.  Samkvæmt upplýsingum úr Landskrá fasteigna hafi kærandi verið að eignast eignarhluti sína á tímabilinu 27. september 2007 til 30. janúar 2008.  Hafi kæranda því mátt vera ljóst að búið væri að samþykkja umræddar breytingar og sé ekki við aðra en kæranda sjálfan að sakast hafi hann ekki kynnt sér samþykkta uppdrætti af eigninni við kaupin. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi gerir aðallega kröfu um frávísun málsins þar sem kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra barst nefndinni 2. september 2011, sbr. 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.  Framkvæmdir við gerð glugganna, sem ekki hafi getað farið fram hjá kæranda, hafi verið gerðar 11. til 13. maí 2011.  Samkvæmt tilgreindu ákvæði skipulagslaga sé frestur til að skjóta máli til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra eigi þegar um sé að ræða byggingarleyfisskyldar framkvæmdir.  Kæranda hafi í síðasta lagi mátt vera leyfisveitingin ljós 11. maí 2011 þegar hafist hafi verið handa við að saga gluggaop utan á húsinu.  Framkvæmdir hafi staðið við húsið í nokkra daga með stórum tækjum á áberandi stað og ljóst sé að hávaði vegna þeirra hafi verið mikill.  Kæranda hafi því orðið kunnugt á þeim tíma, eða a.m.k. mátt verða kunnugt, um leyfið. 

Til vara geri byggingarleyfishafi þá kröfu að úrskurðarnefndin synji kröfu kæranda um ógildingu leyfisins.  Leyfi fyrir breyttri notkun og gerð glugga og svala á húsið hafi fyrir löngu verið samþykkt, þ.e. 31. júlí 2007, fjórum og hálfum mánuði áður en kærandi hafi eignast þá tvo eignarhluta sem hann eigi í matshluta 01.  Ljóst sé því að ekki hafi þurft samþykki kæranda eða annarra meðeigenda fyrir breyttri notkun eða breyttu innra fyrirkomulagi húsnæðisins skv. ákvæðum laga um fjöleignarhús.  Ekki hafi heldur þurft samþykki fyrir gerð glugga eða svala í samræmi við eldri samþykktir sem í gildi hafi verið, sbr. umsögn skipulags- og byggingarsviðs.  Hið kærða leyfi hafi eingöngu falið í sér smávægilegar breytingar á gildu leyfi.  Ekki hafi þurft að leita samþykkis kæranda eða annarra meðeigenda fyrir þessum breytingum enda hafi þær verið óverulegar og ekki haft nein áhrif á hagsmuni kæranda eða annarra meðeigenda.  Því sé mótmælt að um meiri háttar breytingu á útliti og notkun hússins sé að ræða.  Breytingin hvað varði útlit hússins sé mjög óveruleg bæði miðað við áður gildandi byggingarleyfi og eins núverandi útlit hússins.  Breyting á notkun hússins hafi verið samþykkt 31. júlí 2007 og feli því hið kærða leyfi ekki í sér neina breytingu á notkun.  Minnt sé á að á hæðinni fyrir neðan eignarhluta leyfishafa hafi þegar verið samþykkt íbúð.  Auk þess þurfi ekki samþykki meðeigenda fyrir breyttri notkun sem samræmist skipulagi en gert sé ráð fyrir íbúðum á efri hæðum og atvinnustarfsemi, sem ekki trufli íbúðabyggð, í deiliskipulagi reitsins sem samþykkt hafi verið 8. febrúar 2007.

Því sé alfarið hafnað að breytingin leiði til aukins viðhaldskostnaðar fyrir aðra eigendur.  Eingöngu sé um að ræða breytingu frá áður samþykktum gluggum sem samþykki hafi verið veitt fyrir áður en kærandi hafi eignast sinn hlut í húsinu.  Breytingin varðandi viðhald sé óveruleg ef nokkur.  Þá hafi verið samþykkt á húsfundi í matshluta 01 hinn 24. september 2008 að hver eigandi standi straum af kostnaði við glugga og gler á sinni hæð, að utan sem innan.  Gluggarnir hafi því engar viðhaldsskyldur í för með sér fyrir kæranda.  Á grundvelli sömu sjónarmiða sé heldur ekki meiri hætta á skemmdum á húsnæðinu vegna glugganna.  Því sé einnig hafnað að breytingin hafi í för með sér röskun á nýtingarmöguleikum kæranda í norðvesturenda fasteignarinnar.  Umræddir gluggar komi ekki í veg fyrir að hægt verði að byggja á því svæði.  Nú þegar séu fleiri gluggar í þá átt og verði því ekki séð að gluggar á húsnæði byggingarleyfishafa takmarki slíkar framkvæmdir.  Að auki sé bent á að eignarhald á byggingarrétti lóðarinnar sé skipt samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu matshluta 01.  Þá sé ekki gert ráð fyrir að byggt verði upp að umræddri húshlið samkvæmt deiliskipulagi svæðisins.  Gluggarnir hafi því engin áhrif á uppbyggingarmöguleika samkvæmt gildandi deiliskipulagi. 

Niðurstaða:  Samkvæmt þágildandi 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 59. gr. laga um mannvirki nr. 130/2010, er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á, sbr. nú 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.  Í 2. mgr. ákvæðisins er þó tekið fram að kæra verði ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.  Af orðalagi 5. mgr. 52. gr. laga nr. 123/2010 má ráða að við það verði að miða hvenær kæranda varð fyrst ljóst, eða mátti verða ljóst, að leyfið hafi verið veitt. 

Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík var tekin á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 25. janúar 2011.  Þykir eins og atvikum máls þessa er háttað óvarlegt að fullyrða að kæranda hafi verið kunnugt, eða mátt vera kunnugt um, að veitt hafi verið byggingarleyfi til breytinga á gluggum hússins fyrr en 4. ágúst 2011, en þann dag óskaði hann eftir upplýsingum um málið frá byggingarfulltrúa og fékk þær upplýsingar að umrætt byggingarleyfi hafi verið veitt.  Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 2. september 2011 og verður með hliðsjón af framangreindu að telja að hún hafi borist innan lögmælts kærufrests, skv. þágildandi 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga, sbr. 59. gr. laga um mannvirki.  Verður mál þetta því tekið til efnismeðferðar.  Eldri ákvarðanir byggingarfulltrúa varðanda breytingar á fasteigninni, þ.m.t. þær breytingar sem samþykktar voru 31. júlí 2007 og endurútgáfa þess leyfis hinn 26. mars 2009, koma ekki til skoðunar í máli þessu enda kærufrestir vegna þeirra ákvarðana löngu liðnir samkvæmt fyrrnefndum lagaákvæðum um kærufresti. 

Hin kærða ákvörðun fól í sér samþykki umsóknar um leyfi til að síkka glugga og fella út glugga á norðvestur- og norðausturhlið í matshluta 01 á 5. hæð fasteignarinnar að Seljavegi 2.  Samþykki umsóknarinnar getur ekki falið annað og meira í sér en það sem sótt var um, þ.e. breytingar á fyrirkomulagi glugga. 

Skv. 2. mgr. 1. gr. laga um fjöleignarhús telst fjöleignarhús vera hvert það hús sem skiptist í séreignir í eigu fleiri en eins aðila og í sameign sem bæði getur verið allra og sumra.  Skv. 5. mgr. 1. gr. gilda lögin um lögskipti eigenda fullgerðra fjöleignarhúsa að lóðum meðtöldum.  Fellur fasteignin að Seljavegi 2 undir lögin.  Allt ytra byrði húss, m.a. útveggir þess, falla undir sameign fjöleignarhúss í sameign allra skv. 1. tl. 1. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 6. gr. laganna.  Hin kærða samþykkt, dags. 25. janúar 2011, tók til breytinga á útveggjum, þ.e. á fyrirkomulagi glugga á tveimur hliðum hússins, og á 30. gr. laga um fjöleignarhús um breytingar á sameign því við í málinu.  Þar er gerð krafa um samþykki eigenda fyrir breytingum á sameign sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í upphafi og á samþykktri teikningu.  Slíkt samþykki meðeigenda lá ekki fyrir þegar umsókn byggingarleyfishafa var samþykkt hinn 25. janúar 2011. 

Samkvæmt 10. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 skulu með umsókn um byggingarleyfi fylgja hönnunargögn og önnur nauðsynleg gögn, þ.m.t. samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga um fjöleignarhús.  Í máli þessu lá ekki fyrir samþykki meðeigenda, sem þó var áskilið samkvæmt því sem að framan er rakið.  Skorti því lagaskilyrði fyrir veitingu hins umdeilda byggingarleyfis og verður það því fellt úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. janúar 2011 um að veita byggingarleyfi til að síkka glugga og fella út glugga á norðvestur- og norðausturhlið í matshluta 01 á 5. hæð hússins að Seljavegi 2 í Reykjavík. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

115/2012 Bugavirkjun

Með

Árið 2013, fimmtudaginn 28. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Kristín Svavarsdóttir vistfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 115/2012, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar frá 23. október 2012 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir Bugavirkjun í landi Eystri-Leirárgarða í Hvalfjarðarsveit og á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar frá 8. nóvember 2012 um að veita byggingarleyfi fyrir stíflu Bugavirkjunar. 

Í málinu er nú kveðinn upp til svofelldur

úrskurður:

Með bréfum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. október og 15. nóvember 2012, er bárust nefndinni 31. október og 15. nóvember s.á., kærir B hrl., f.h. Leirárskóga ehf., þá ákvörðun sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar frá 23. október 2012 að veita framkvæmdaleyfi fyrir Bugavirkjun í landi Eystri-Leirárgarða í Hvalfjarðarsveit og ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar frá 8. nóvember 2012 um að veita byggingarleyfi fyrir stíflu Bugavirkjunar.

Af hálfu kæranda er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinum kærðu leyfum á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Fallist var á kröfuna um stöðvun framkvæmda með bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 16. nóvember 2012, en í þeim úrskurði voru málin vegna byggingarleyfisins, nr. 121/2012, og framkvæmdaleyfisins, nr. 115/2012, sameinuð.  Verður málið nú tekið til efnisúrlausnar.

Málavextir:  Kærandi á land að eystri bakka Leirár gegnt þeim stað þar sem Bugalækur rennur í ána, en leyfishafi hefur umráð lands sem lækurinn rennur um og að bökkum Leirár.  Hin kærðu leyfi heimila gerð stíflu, í tilefni af fyrirhugaðri 40 kW virkjun þar sem Bugalæk verður veitt um 1.750 m pípu að stöðvarhúsi og þaðan veitt aftur í Leirá.

Með bréfi, dags. 15. júní 2011, tilkynntu forsvarsmenn leyfishafa Skipulagsstofnun um fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir og tók stofnunin þá ákvörðun hinn 27. júlí 2011 að framkvæmdirnar væru ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.  Í kjölfarið var unnin og auglýst tillaga að breytingu á deiliskipulagi fyrir jörðina Eystri-Leirárgarða sem gerði ráð fyrir virkjuninni.  Var skipulagstillagan send Skipulagsstofnun til yfirferðar og gerði stofnunin athugasemdir við tillöguna og málsmeðferð hennar.  Breytingar voru gerðar á skipulagstillögunni og hún auglýst að nýju til kynningar.  Sveitarstjórn samþykkti deiliskipulagsbreytinguna 28. ágúst 2012 og öðlaðist skipulagið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 24. september s.á.  Skaut kærandi máls þessa skipulagsákvörðuninni til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 22. október 2012, og krafðist ógildingar.
Hinn 15. október 2012, var sótt um framkvæmdaleyfi fyrir stíflugerð, lögnum og stöðvarhúsi vegna Bugavirkjunar.  Á fundi sama dag samþykkti umhverfis-, skipulags og náttúruverndarnefnd Hvalfjarðarsveitar að leggja til við sveitarstjórn að veitt yrði framkvæmdaleyfi fyrir stíflugerðinni og féllst sveitarstjórn á það á fundi sínum 23. s.m.  Hinn 7. nóvember 2012 sótti leyfishafi síðan um byggingarleyfi fyrir stíflu, lögnum og stöðvarhúsi og samþykkti byggingarfulltrúi að veita byggingarleyfi fyrir gerð stíflunnar 8. s.m.  Hefur kærandi skotið þessum leyfisveitingum til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar um málsatvik til kæru sinnar vegna deiliskipulagsákvörðunar fyrir umrætt svæði sem telja verði ógilda, m.a. sökum margvíslegra brota á málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ákvæðum vatnalaga nr. 15/1923.  Þar sem hin kærðu leyfi byggi á ógildu deiliskipulagi beri að fella þau úr gildi.  Þá sé sá annmarki á afgreiðslu umdeilds framkvæmdaleyfis að umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd Hvalfjarðarsveitar hafi lagt til við sveitarstjórn að samþykkja leyfi fyrir stíflugerð umræddrar virkjunar en sveitarstjórn hafi gefið víðtækara samþykki, eða framkvæmdaleyfi fyrir Bugavirkjun, sem virðist því ná til allra virkjunarframkvæmdanna. 

Málsrök Hvalfjarðarsveitar:  Af hálfu sveitarfélagsins er farið fram á að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að kröfum kæranda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana verði hafnað.

Frávísunarkrafan sé studd þeim rökum að kærandi eigi hvorki einstaklegra né verulegra hagsmuna að gæta af úrlausn kæruefnisins sem réttlætt geti aðild hans að málinu.  Um rök er varði efnishlið máls megi vísa til greinargerðar Hvalfjarðarsveitar í kærumáli vegna deiliskipulagsbreytingar fyrir umrætt svæði sem rekið sé fyrir nefndinni.

Á 16. fundi umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefndar hinn 15. október 2012 hafi verið samþykkt að leggja til við sveitarstjórn að hún veitti leyfi fyrir stíflugerð vegna Bugavirkjunar.  Á 136. fundi sveitarstjórnar hinn 23. s.m. hafi sú tillaga verið samþykkt.  Framkvæmdaleyfi, dags. 30. október 2012, sem fjalli um stíflugerð að Eystri-Leirárgörðum sé í samræmi við framangreindar bókanir.  Af þeim sökum gæti ekki misræmis milli greindra afgreiðslna.

Sú framkvæmd sem umdeild leyfi varði sé í samræmi við lögmætt deiliskipulag Eystri-Leirárgarða, Bugavirkjun, sem samþykkt hafi verið hinn 28. ágúst 2012.  Því hafi sveitarstjórn verið heimilt og raunar skylt að gefa út umrædd leyfi lögum samkvæmt.

Andmæli framkvæmdaaðila:  Af hálfu framkvæmdaaðila er kröfum kæranda mótmælt enda eigi málatilbúnaður hans fyrir ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar, sem leyfin styðjist við, ekki við rök að styðjast.  Að öðru leyti megi vísa til málsástæðna framkvæmdaaðila í kærumáli vegna deiliskipulagsbreytingar fyrir Eystri-Leirárgarða, sem rekið sé fyrir úrskurðarnefndinni.

Sérstaklega sé mótmælt fullyrðingum kæranda um misræmi milli samþykkta skipulagsnefndar og sveitarstjórnar við afgreiðslu framkvæmdaleyfisins enda hafi sveitarstjórn ekki gert annað en að staðfesta afgreiðslu nefndarinnar.  Jafnvel þótt litið væri svo á að samþykkt sveitarstjórnar gangi lengra en tillaga skipulagsnefndar hafi það ekki þýðingu enda sé sveitarstjórn slíkt heimilt.

Niðurstaða:  Í bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 16. nóvember 2012, tók úrskurðarnefndin afstöðu til kröfu Hvalfjarðarsveitar um frávísun málsins og var þeirri kröfu hafnað. 

Hin kærðu framkvæmda- og byggingarleyfi heimila einungis gerð stíflu fyrir vatnsmiðlun Bugavirkjunar sem fyrirhuguð er í landi Eystri-Leirárgarða og í máli þessu er fyrst og fremst deilt um hvort nefnd leyfi styðjist við gilt deiliskipulag.

Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í kærumáli vegna deiliskipulagsbreytingar umrædds svæðis sem heimilar umdeildar framkvæmdir og mannvirkjagerð vegna virkjunar Bugalækjar.  Í þeim úrskurði var kröfu um ógildingu deiliskipulagsbreytingarinnar hafnað.  Að þeirri niðurstöðu fenginni eiga hinar kærðu ákvarðanir stoð í gildandi deiliskipulagi.

Samkvæmt 68. gr. vatnalaga nr. 15/1923 ber að afla leyfis Orkustofnunar til vatnsmiðlunar eða breytinga á henni ef flatarmál miðlunarlóns að því loknu er 1.000 m2 eða stærra við hæstu vatnsstöðu  Miðlunarlón fyrirhugaðrar virkjunar í Bugalæk verður yfir þessum viðmiðunarmörkum og er vatnsmiðlun virkjunarinnar því leyfisskyld samkvæmt tilvitnuðu ákvæði, en slíkt leyfi lá ekki fyrir er hin kærðu leyfi fyrir stíflugerð voru veitt. 

Í 1. mgr. 7. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 er tilgreint hvaða gögn skuli fylgja umsókn um framkvæmdaleyfi og er þar m.a. í 5. tl. ákvæðisins mælt fyrir um að fyrir þurfi að liggja samþykki og/eða leyfi annarra leyfisveitenda sem framkvæmd kann að vera háð samkvæmt öðrum lögum. 

Með hliðsjón af því að fyrirmæla fyrrgreindrar reglugerðar um framkvæmdaleyfi var ekki gætt við ákvörðun um veitingu hins kærða framkvæmdaleyfis verður það fellt úr gildi.  Að teknu tilliti til þess að heimiluð mannvirkjagerð í hinu kærða byggingarleyfi tengist stíflugerð þeirri sem framkvæmdaleyfið tekur til þykir einnig verða að fella það úr gildi.   

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar frá 23. október 2012 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir stíflugerð Bugavirkjunar í landi Eystri-Leirárgarða í Hvalfjarðarsveit og ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar frá 8. nóvember 2012 um að veita byggingarleyfi fyrir sömu stíflu.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                        Kristín Svavarsdóttir

22/2011 Laugavegur

Með

Árið 2013, föstudaginn 27. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 22/2011, kæra á synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. mars 2011 á umsókn um leyfi til að klæða götuhæð hússins að Laugavegi 15 í Reykjavík með póleruðu graníti. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. mars 2011, er barst nefndinni 1. apríl s.á., kærir M, f.h. Menningar- og framfarasjóðs Ludvigs Storr, Háskóla Íslands, synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. mars 2011 á umsókn um leyfi til að klæða götuhæð hússins að Laugavegi 15 með póleruðu graníti.  Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 8. mars 2011 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að klæða götuhæð hússins að Laugavegi 15 með póleruðu graníti. Umsókninni var synjað með vísan til umsagnar skipulagsstjóra frá 3. mars 2011, sem og athugasemda byggingarfulltrúa.  Afgreiðsla byggingarfulltrúa var síðan staðfest í borgarráði hinn 10. mars 2011. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að húsið að Laugarvegi 15, a.m.k. götuhlið þess, sé byggt í tveimur áföngum á árunum 1920 til 1936.  Í fyrri áfanga húsbyggingarinnar sé austari hluti hennar, með mjög breiðum glugga á jarðhæð, þar sem nú sé til húsa úraverslun.  Biti yfir glugganum sé steinsteyptur en ekki sé vitað um innri gerð hans en telja megi víst að í honum séu innsteyptir stálbitar.  Bitinn virðist ekki siginn en í honum séu láréttar sprungur sem virðist á sífelldri hreyfingu og valdi miklum leka.  Einnig séu miklar sprungur á hreyfingu í steyptum veggbút austan við gluggann.  Ítrekað hafi verið reynt að þétta þessar sprungur en það hafi ekki tekist til langframa.  Þá hafi einnig verið reynt fyrir nokkrum árum að gera við sprungur og endursteina en það hafi enst stutt.  Lekinn valdi verulegum vandkvæðum og umtalsverðu tjóni.  Í ljósi fenginnar reynslu sé ljóst að viðgerð sú sem byggingaryfirvöld bendi á muni ekki duga nema í besta falli í skamman tíma. 

Það sé því mat kæranda og tækniráðgjafa hans að eina varanlega lausnin sé að klæða umrætt svæði með sjálfstæðri klæðningu, sem ekki sé háð hreyfingum burðarvirkisins, og lofti á bakvið.  Með vísan til skipulagsskilmála sem vitnað sé til í greinargerð skipulagsstjóra sé hugsanlega um sérstakar aðstæður að ræða. 

Sé varðveisla eldri húsa talin mikilvæg í ljósi þess að þau séu fulltrúar eldri húsagerða, ein sér eða í aldursröð byggðar, þyki kæranda eðlilegt að það byggi á einhvers konar friðun eða reglum fremur en skoðunum einstakra embættismanna.  Varðandi fagurfræðilegt mat um hvað hæfi húsinu vilji kærandi benda á að núverandi steining jarðhæðarinnar sé ekki upprunaleg og verulega ólík þeirri steiningu sem sé á efri hæð hússins, en eftir því sem best sé vitað hafi upphafleg steining á jarðhæð verið sú sama og á efri hæðum.  Tekist hafi að fá granít með kornamynstri og litasamsetningu, sem líkist mjög þeirri steiningu sem sé á efri hæðunum, og hafi verið fallist á að verja auknum fjármunum til verksins til að ná fram því samræmi. 

Þá megi benda á að endurbætur húsa geti verið með ýmsum hætti og ekki sjálfgefið að breytt tækni í útfærslu einstakra atriða skaði sögulegt eða menningarlegt gildi þeirra.  Það sé mat kæranda að sú steinklæðning sem hér um ræði bæti verulega samræmi í útliti hússins og sé nær upphaflegu útliti en núverandi steining.  Auk þess að duga ekki sem tæknileg lausn megi telja óraunhæft og líklega útilokað að fá sama lit og kornasamsetningu steiningarefnis eins og það sé á efri hæðum hússins. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að úrskurðarnefndin hafni kröfum kæranda. 

Í umsögn skipulagsstjóra er liggi fyrir í málinu komi fram að í gildi sé deiliskipulag reits 1.171.1.  Á lóðinni Laugavegi 15 sé gefinn kostur á byggingarreit fyrir tveggja hæða viðbyggingu á norðaustur horni lóðar.  Húsið sem snúi að götu sé óbreytt.  Í skilmálum sé tekið fram að vanda skuli mjög til hönnunar viðbygginga og breytinga á miðborgarsvæðinu.  Skuli þær endurspegla nánasta umhverfi sitt og vernda og styrkja heildarmynd svæðisins.  Við hönnunina skuli tekið mið af sérkennum svæðisins.  Meðal þess sem hafa skuli til hliðsjónar sé að stærðarhlutföll, hönnun og efni skuli að jafnaði vera í samræmi við stíl og aldur upphaflegrar byggingar nema sérstakar ástæður og aðstæður leiði til annars. 

Fyrir liggi bókun frá fundi Húsafriðunarnefndar ríkisins 16. desember 2010 vegna hugmynda um að klæða jarðhæð hússins að Laugavegi 15 með steinflísum.  Þar segi m.a. að þó að ekki hafi verið gerð sérstök tillaga að verndun umrædds húss sé það mikilvægur hlekkur í keðju húsa við Laugaveg, sem spanni nær alla byggingarsöguna á Íslandi.  Það sé því mikilvægt að við allt viðhald húsa við Laugaveg verði þessi sögulega skírskotun virt og að við allar framkvæmdir verði unnið í samræmi við aldur og gerð viðkomandi húss.  Húsafriðunarnefnd mæli því eindregið gegn því að jarðhæð hússins að Laugavegi 15 verði klædd með steinflísum. 

Í minnispunktum frá byggingarfulltrúa Reykjavíkur sé tekið fram að það hæfi þessu húsi alls ekki að klæða það allt eða að hluta með plötum.  Því beri að leggja alla áherslu á að það sé endursteinað eftir að viðgerðum hafi lokið og það haldi þannig sínum upphaflega karakter.  Endursteining sé ekki flókið mál með nútímatækni. 

Í samræmi við umsagnir húsafriðunarnefndar og byggingarfulltrúa, sem og ákvæði um hönnun breytinga í skilmálum deiliskipulagsins sem byggi á þróunaráætlun Reykjavíkur, sé lagt til að tekið verði neikvætt í erindið og mælst til þess að hæðin sem óskað sé eftir að klæða verði í staðinn endursteinuð. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 26. júlí 2013. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um réttmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa að synja umsókn kæranda um að klæða götuhæð hússins að Laugavegi 15 með póleruðu graníti.

Í 3. gr. laga nr. 104/2001 um húsafriðun segir að húsafriðunarnefnd stuðli að varðveislu byggingararfs þjóðarinnar og meti hvaða hús sé rétt að friða hverju sinni og geri um það tillögur til ráðherra.  Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. framangreindra laga er eigendum húsa sem reist eru fyrir 1918 skylt að leita álits hjá húsafriðunarnefnd með góðum fyrirvara ef þeir hyggjast breyta húsi sínu, flytja það eða rífa.  Samkvæmt 9. gr. laganna er óheimilt að gera nokkrar breytingar á friðaðri húseign án leyfis húsafriðunarnefndar og ef nefndin setji það skilyrði fyrir samþykki sínu að verk sé framkvæmt á tiltekinn annan hátt en tilgreint er í umsókn er eiganda skylt að hlíta því en eigandi skal fá greiddan aukakostnað sem leiði af fyrirmælum nefndarinnar.  Húseign sú sem hér er deilt um hefur ekki verið friðuð á grundvelli laga um húsafriðun með þeim réttindum og skyldum sem því fylgir. 

Í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 gr. 4.22.1 er tekið fram að um hverfisverndarsvæði gildi sérstök ákvæði í skipulagsáætlunum, sem sveitarstjórnir hafi sett, er kveði á um verndun sérkenna eldri byggðar eða annarra menningarsögulegra minja án þess að um lögformlega friðun sé að ræða. 

Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.171.1 og er þar tekið fram að stefnt sé að því að efla reitinn í borgarmyndinni, bæði starfrænt og formrænt.  Segir í skipulaginu að í því felist m.a. að gefa megi kost á auknu byggingarmagni og styrkja götumyndir við Hverfisgötu, Klapparstíg, Laugaveg og Smiðjustíg.  Heimilt sé að gera minni háttar breytingar á húsum á reitnum, s.s. gera skyggni, svalir, minni kvisti og lagfæringar, án þess að breyta þurfi deiliskipulaginu.  Slíkar minni háttar breytingar skuli vera í samræmi við ákvæði Þróunaráætlunar Reykjavíkur varðandi hönnun breytinga og viðbygginga á miðborgarsvæði Reykjavíkur.  Í Þróunaráætluninni segir að við meðferð byggingaleyfisumsókna á miðborgarsvæði verði lagt til grundvallar m.a. að efnisnotkun sé að jafnaði í samræmi við stíl og aldur upphaflegrar byggingar, nema sérstakar ástæður eða aðstæður leiði til annars. 

Kærandi hefur skírskotað til þess að ástæða umsóknar hans um leyfi fyrir því að klæða ytra byrði fyrstu hæðar umrædds húss með póleruðu graníti hafi verið sú að endursteining með sama hætti og fyrir sé hafi verið reynd en ekki dugað til að koma í veg fyrir leka og varna þannig tjóni á eign kæranda.  Við undirbúning og afgreiðslu hinnar kærðu ákvörðunar var ekki vikið að þessari athugasemd kæranda.  Þá kom ekki fram við skoðun á vettvangi að umsótt klæðning breytti að marki götumynd þeirri sem fyrir er við umræddan hluta Laugavegar, en hús og ytra byrði þeirra er með ýmsu móti á svæðinu.  Meðal annars er hús það sem stendur neðan Laugavegar 15 klætt að utan með steinflísum.  Af þessum sökum verður að telja rökstuðning fyrir hinni kærðu ákvörðun ábótavant.  Með hliðsjón af fyrrgreindum ástæðum kæranda var sérstök þörf á því að taka fram með skýrum og ótvíræðum hætti hvaða almannahagsmunir stæðu því í vegi að samþykkja umsókn hans í ljósi þess sveigjanleika sem felst í orðalagi deiliskipulags svæðisins sem fyrr er að vikið. 

Að öllu framangreindu virtu verður fallist á kröfu kæranda um ógildingu umdeildrar ákvörðunar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. mars 2011 á umsókn um leyfi til að klæða götuhæð hússins að Laugavegi 15 í Reykjavík með póleruðu graníti. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson