Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

87/2013 Lambastaðahverfi

Árið 2014, föstudaginn 5. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 87/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 12. júní 2013 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Lambastaðahverfi á Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. ágúst 2013, er barst nefndinni 30. s.m., kæra J og K, Tjarnarbóli 14, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 12. júní 2013 að samþykkja deiliskipulag fyrir Lambastaðahverfi á Seltjarnarnesi. Gerð er krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar og að á lóðinni nr. 1 við Skerjabraut verði einungis heimiluð bygging þriggja hæða húss. Með bréfi, dags. 26. mars 2014, mótteknu sama dag, krefjast sömu aðilar þess að framkvæmdir á lóðinni að Skerjabraut 1-3 verði stöðvaðar með vísan til 5. gr. laga nr. 130/2011. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar og því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkæru kærenda.

Gögn í  máli þessu bárust frá Seltjarnarnesbæ 24. janúar 2014.

Málavextir: Vinna við gerð deiliskipulags Lambastaðahverfis hófst á árinu 2008. Hinn 28. apríl 2010 samþykkti bæjarstjórn Seltjarnarness deiliskipulag fyrir hverfið og í nóvember s.á. voru samþykktar breytingar á skipulaginu. Auglýsing um gildistöku þess var þó ekki birt í B-deild Stjórnartíðinda og í desember 2010 var samþykkt í bæjarstjórn að auglýsa að nýju tillögu að deiliskipulagi umrædds svæðis. Hinn 22. júní 2011 samþykkti bæjarstjórn nefnt skipulag og tók það gildi í október s.á. Var skipulagið kært til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála er vísaði málinu frá hinn 25. október 2012 með vísan til þágildandi 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem kvað á um ógildi skipulagsákvarðana væri auglýsing um gildistöku ekki birt í B-deild Stjórnartíðinda innan lögboðins frests.

Í kjölfar þess var ákveðið af hálfu sveitarfélagsins að hefja skipulagsferlið að nýju. Var skipulagslýsing vegna svonefndrar endurauglýsingar deiliskipulags Lambastaðahverfis kynnt, m.a. á íbúafundi hinn 10. janúar 2013, og veittur nokkurra daga frestur til að koma að athugasemdum. Í nefndri lýsingu var tekið fram að gert væri ráð fyrir að nýtt deiliskipulag Lambastaðahverfis yrði í samræmi við deiliskipulagstillögu Lambastaðahverfis sem samþykkt var í bæjarstjórn 22. júní 2011, að öðru leyti en því að skipulag fyrir lóðina að Skerjabraut 1-3 yrði í samræmi við tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina, dags. 17. júlí 2012. Þá myndi við gildistöku skipulagsins falla úr gildi deiliskipulag lóðarinnar Skerjabrautar 1-3 sem samþykkt hafi verið í bæjarstjórn árið 2007 og skipulags- og byggingarskilmálar fyrir Hamarsgötu 2, 4 og 6 frá árinu 1973.

Tillaga að deiliskipulagi Lambastaðahverfis var kynnt á íbúafundi hinn 14. febrúar 2013 og á fundi bæjarstjórnar hinn 27. s.m. var samþykkt að auglýsa hana til kynningar og var frestur til athugasemda til 26. apríl 2013. Á þeim tíma bárust 13 bréf og umsagnir með athugasemdum, þ. á m. frá kærendum. Bæjarstjórn tók málið fyrir hinn 12. júní 2013 að undangenginni umfjöllun skipulags- og mannvirkjanefndar 4. s.m. og afgreiddi málið með svofelldri bókun: „Bæjarstjórn samþykkir samhljóða smávægilega breytingu á deiliskipulagstillögum og tillögur um svör frá skipulags- og mannvirkjanefnd vegna deiliskipulags Lambastaðahverfis. Skipulagsstjóra falið að senda svörin til íbúa og afrit ásamt deiliskipulagstillögu með smávægilegri breytingu til umsagnar Skipulagsstofnunar.“ Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsins og öðlaðist það gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 1. ágúst 2013.

Málsrök kærenda: Kærendur andmæla heimild til byggingar fjögurra hæða húss á lóðinni nr. 1-3 við Skerjabraut og telja að með því sé brotið á grenndarrétti þeirra. Húsið muni, vegna nálægðar við fasteign kærenda, skerða útsýni þeirra, hafa áhrif á lífsgæði kærenda og rýra verðmæti fasteignar þeirra. Geri skipulagið ráð fyrir að á milli húsanna að Tjarnarbóli 14 og Skerjabraut 1 verði aðeins 11 m og að veggir þeirra verði samhliða. Samrýmist húsið ekki byggðamynstri á svæðinu en þær fjögurra hæða blokkir sem þar séu fyrir liggi ekki samhliða og skerði útsýni íbúa lítið.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er farið fram á að öllum kröfum kærenda um ógildingu hins kærða deiliskipulags, í heild eða að hluta, verði hafnað. Bent sé á að árið 2007 hafi verið samþykkt í bæjarstjórn deiliskipulag er heimilaði að reisa á lóðinni að Skerjabraut 1-3 fjölbýlishús á allt að fjórum hæðum með meira byggingarmagni og nær húsi kærenda en núverandi deiliskipulag geri ráð fyrir. Séu grenndaráhrif hins nýja deiliskipulags því minni en fyrra skipulags og rýri síst verðmæti íbúðar kærenda miðað við fyrra skipulag sem hafi verið í gildi þegar kærendur hafi keypt íbúð sína á árinu 2011. Þá séu grenndaráhrifin á almennan mælikvarða ekki meiri en íbúar í þéttbýli þurfi almennt að sætta sig við en þeir megi búast við breytingum í samræmi við þróun byggðar og aðstæður allar. Slíkar almennar takmarkanir, sem breytingar á skipulagi hafi í för með sér, s.s. eins og skerðing á útsýni, verði íbúar í þéttbýli að þola bótalaust og sé í því sambandi vísað til dóms Hæstaréttar Íslands frá 1. mars 2012, í máli nr. 478 frá 2011, einkum rökstuðnings héraðsdóms.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 2. september 2014.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi deiliskipulags Lambastaðahverfis er samþykkt var í bæjarstjórn Seltjarnarness 12. júní 2013 og tók gildi 1. ágúst s.á. Tekur deiliskipulagið til íbúðarsvæðis sem afmarkast af Nesvegi til norðausturs, bæjarmörkum að Reykjavík til austurs og sjó til suðvesturs, og af Skerjabraut til norðvesturs. Í skipulaginu eru byggingarreitir markaðir og tekin afstaða til nýtingarhlutfalls einstakra lóða.

Kæruheimild er að finna í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, svo sem henni var breytt með 20. gr. laga nr. 131/2011. Einskorðast valdheimildir úrskurðarnefndarinnar við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana er undir hana eru bornar. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, en telur það falla utan valdheimilda sinna að taka nýja ákvörðun verði hinni kærðu ákvörðun hnekkt.

Lýsing á skipulagsverkefni Lambastaðahverfis var kynnt á almennum fundi sem og tillaga að deiliskipulagi umrædds svæðis. Tillagan var auglýst til kynningar og afstaða tekin til athugasemda er bárust við tillöguna og þeim svarað. Samþykkt tillaga var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda. Var málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að formi til í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Hið umdeilda deiliskipulag tekur til svæðis þar sem er mótuð byggð sem risið hefur á löngum tíma. Er í greinargerð Aðalskipulags Seltjarnarness 2006-2024 m.a. tekið fram að ekki sé gert ráð fyrir grundvallarbreytingum á yfirbragði eldri hverfa en að þétting byggðar sé talin jákvæð þar sem henta þyki. Á lóðunum við Tjarnarból nr. 2, 4, 6 og 8 sem og 10 og 12 eru fjölbýlishús á 3½-5 hæðum. Kærendur eru eins og fyrr greinir búsettir í fjölbýlishúsinu að Tjarnarbóli 14 sem er á fjórum hæðum og snýr gafl hússins að lóðinni að Skerjabraut 1-3 sem er hornlóð. Með deiliskipulagi fyrir lóðina er tók gildi 2007 var veitt heimild til niðurrifs þáverandi bygginga Skerjabrautar 1 og 3 og var lóðin óbyggð um nokkurt skeið frá því að sú heimild var nýtt. Jafnframt var veitt heimild í deiliskipulaginu frá 2007 til að reisa á lóðinni eitt fjölbýlishús, allt að fjögurra hæða, með nýtingarhlutfalli allt að 1,27. Með hinni umdeildu skipulagsákvörðun er nú heimilað að reisa á umræddri lóð tvö fjölbýlishús, annars vegar tveggja til þriggja hæða hús með kjallara og hins vegar fjögurra hæða hús með inndreginni efstu hæð og kjallara. Hærra húsið er í beinu framhaldi af fjölbýlishúsunum við Tjarnarból en það lægra er við Skerjabrautina þar sem byggð fer lækkandi niður að sjó. Er nýtingarhlutfall lóðar með kjallara 1,05 en án kjallara 0,95. Er ekki annað að sjá en að deiliskipulag sé í samræmi við aðalskipulag. Ráða má af framangreindu, sem og af staðsetningu byggingarreita, að hinar kærðu breytingar munu fela í sér óveruleg ef nokkur aukin grenndaráhrif gagnvart kærendum, m.a. hvað varðar útsýni, frá því sem verið hefði að óbreyttu deiliskipulagi. Þá er ekki til að dreifa ákvæðum í lögum eða reglugerðum sem kveða á um lágmarks fjarlægð milli húsa, en í gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er aðeins tekið fram að bil á milli bygginga skuli vera nægjanlega mikið svo ekki sé hætta á að eldur nái að breiðast út á milli þeirra.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki talið að þeir annmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun að ógildingu varði. Verði hins vegar sýnt fram á að umdeild skipulagsákvörðun valdi kærendum fjártjóni kann það að leiða til bótaréttar skv. 51. gr. skipulagslaga, en úrlausn um álitaefni þar að lútandi er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 12. júní 2013 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Lambastaðahverfi á Seltjarnarnesi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                    Þorsteinn Þorsteinsson