Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

54/2013 Glammastaðir

Árið 2014, föstudaginn 22. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 54/2013, kæra á drætti á afgreiðslu Hvalfjarðarsveitar á umsókn Glammastaða ehf., dags. 18. mars 2013, um skiptingu á landi Glammastaða í Hvalfjarðarsveit.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til innanríkisráðuneytisins, dags. 11. júní 2013, er framsent var 12. s.m. til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem móttekið var 14. s.m., kæra Glammastaðir ehf., Rauðarárstíg 1, Reykjavík, drátt á afgreiðslu Hvalfjarðarsveitar á umsókn félagsins frá 18. mars 2013 um skiptingu á landi Glammastaða í Hvalfjarðarsveit.

Þess er krafist að lagt verði fyrir sveitarfélagið að taka nú þegar áðurgreinda umsókn til efnislegrar afgreiðslu.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Hvalfjarðarsveit 15. júlí 2013, og viðbótargögn 23. desember s.á. og 23. ágúst 2014.

Málavextir: Hinn 19. febrúar 2013 var tekið fyrir í umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd Hvalfjarðarsveitar erindi kæranda þar sem sótt var um skiptingu lands úr jörðinni Glammastaðir. Hinn 18. mars s.á. var ný umsókn lögð fram af hálfu kæranda til Hvalfjarðarsveitar og var fyrra erindi kæranda afturkallað með bréfi, dags. 4. apríl s.á. Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar, dags. 17. apríl 2013, var Félagi landeigenda í Glammastaðalandi gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum vegna umsóknar kæranda og lýsti lögmaður félagsins sjónarmiðum þess í bréfi, dags. 14. maí s.á. Á fundi umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefndar hinn 5. júlí s.á. var lagt til að fresta afgreiðslu á umsókn kæranda þar til fyrir lægi samþykki eigenda aðliggjandi lands. Er því lýst í minnisblaði sveitarfélagsins, dags. 26. ágúst s.á., að á fundi með skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins 21. s.m. hafi eigandi jarðar aðliggjandi Glammastöðum lýst ákveðnum áhyggjum varðandi uppdrátt landspildu Glammastaða 2 og var niðurstaða fundarins skráð hvað varðar hnitpunkta, línur á milli hnitpunkta og texta uppdráttarins. Hinn 30. september 2013 átti kærandi fund með skipulagsfulltrúa og sveitarstjóra Hvalfjarðarsveitar og mun kærandi hafa gert grein fyrir því að hann ætlaði ekki að afla samþykkis umræddra aðila og óskaði þess jafnframt að málið yrði aftur tekið fyrir í umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd. Skipulagsfulltrúi sendi kæranda bréf, dags. 2. október 2013, þar sem því er lýst að sveitarfélagið ætli að koma til móts við kæranda og óska eftir samþykki eigenda aðliggjandi lands fyrir stofnun fasteignarinnar Glammastaða 2 í fasteignaskrá. Skipulagsfulltrúi ítrekaði við kæranda með bréfi, dags. 28. október s.á., að sveitarfélagið ætlaði að óska eftir samþykki eigenda aðliggjandi lands og var þess óskað að kærandi myndi senda lagfærðan uppdrátt svo hægt yrði að afla greinds samþykkis.

Málsrök kæranda: Kærandi gerir athugasemd við málshraða Hvalfjarðarsveitar við afgreiðslu á umsókn hans. Hafi óútskýrður dráttur verið á málinu af hálfu sveitarfélagsins og telji kærandi að sveitarfélagið hafi á ólögmætan hátt dregið að afgreiða erindið með tilvísanir í ótengd atriði. Máli sínu til stuðnings bendi kærandi á athugasemdir skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins við uppdrætti, en uppdráttum hafi verið breytt allt að sex sinnum að ósk fulltrúans. Þá hafi aðkoma Félags landeigenda í Glammastaðalandi og fulltrúa greindra nágrannajarða ekki verið þörf og málsástæður þeirra að auki verið tilhæfulausar. Almennar útskýringar á drætti á afgreiðslu Hvalfjarðarsveitar séu haldlausar.

Málsrök Hvalfjarðarsveitar: Af hálfu Hvalfjarðarsveitar er tekið fram að mál kæranda hafi tafist í upphafi vegna nýs erindis frá kæranda sem orðið hafi til þess að fyrra erindi var afturkallað og nýtt mál tekið til meðferðar. Eftir að leitað hafi verið eftir sjónarmiðum Félags landeigenda í Glammastaðalandi hafi málið verið tekið fyrir á fundi umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefndar Hvalfjarðarsveitar hinn 21. maí 2013. Í lok maímánaðar 2013 hafi skipulags- og byggingarfulltrúi Hvalfjarðarsveitar hætt störfum og mannabreytingar sem í kjölfarið hafi fylgt með tímabundnum ráðningum og ráðningu nýs byggingarfulltrúa tafið málið. Þá hafi sveitarfélaginu ekki borist gögn þau er beðið var um með bréfi til kæranda, dags. 28. október 2013.

Niðurstaða: Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er unnt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Kæran í máli þessu lýtur að drætti á afgreiðslu Hvalfjarðarsveitar á umsókn Glammastaða ehf. um skiptingu á landi Glammastaða í Hvalfjarðarsveit, sbr. 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Er málinu því réttilega beint til úrskurðarnefndarinnar.

Þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 14. júní 2013 voru um þrír mánuðir liðnir frá því að umsókn kæranda barst Hvalfjarðarsveit. Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að síðan þá hafi sveitarfélagið unnið að málinu þrátt fyrir tafir vegna mannabreytinga. Fyrir liggur að hinn 5. júlí 2013 hafi umhverfis-, skipulags og náttúruverndarnefnd lagt til að fresta afgreiðslu á umsókn kæranda þar til fyrir lægi samþykki eigenda aðliggjandi lands, að því hafi verið unnið og kærandi upplýstur þar um á fundi 30. september s.á. og með bréfi, dags. 2. október s.á. Var kæranda send beiðni um frekari gögn með bréfi, dags. 28. s.m.

Að mati úrskurðarnefndarinnar eru viðhlítandi skýringar á þeim drætti sem orðinn var á afgreiðslu umsóknar kæranda þegar kæra barst úrskurðarnefndinni. Frá þeim tíma og til loka október s.á. var málið í vinnslu og kærandi upplýstur þar um á fundum og í bréfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Með bréfi, dags. 28. október 2013, óskaði skipulagsfulltrúi eftir lagfærðum uppdrætti frá kæranda og lítur úrskurðarnefndin svo á að með því hafi sveitarfélagið leitast við að uppfylla skyldur sínar samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga áður en ákvörðun yrði tekin í málinu. Verður að telja að kærandi hafi, með því að verða ekki við þeirri beiðni, að hluta til verið valdur að þeim töfum sem urðu á afgreiðslu málsins í framhaldinu.

Hins vegar leiðir það af málshraðareglunni að sveitarfélaginu ber að sjá til þess að máli sé eðlilega fram haldið og felst í því m.a. að gefa ekki lengri fresti en til þarf. Kæranda var ekki gefinn frestur til að skila umbeðnu gagni og liggur ekki fyrir að sveitarfélagið hafi ítrekað þá beiðni sína. Þá liggur fyrir að á fundi með fulltrúum sveitarfélagsins lýsti kærandi því yfir að hann myndi ekki afla samþykkis eigenda aðliggjandi lands og óskaði þess jafnframt að málið yrði tekið fyrir aftur af umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd. Verður að telja að í ljósi framangreinds hafi sveitarfélaginu verið skylt að gera reka að því með virkum hætti að ljúka gagnaöflun, eftir atvikum með því að leiðbeina kæranda um möguleg réttaráhrif þess að umbeðin gögn yrðu ekki látin í té fyrir tiltekinn tíma, og komast að því loknu að niðurstöðu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Verður ekki hjá því komist að telja að nú, tæpum tíu mánuðum frá því að kærandi var beðinn um gögn, sé dráttur á afgreiðslu málsins orðinn óhæfilegur, enda hefur ekkert gerst í málinu frá þeim tíma samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu. Er því lagt fyrir umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd og sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar að taka umsókn kæranda til efnislegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd og sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar að taka umsókn kæranda frá 18. mars 2013 um skiptingu á landi Glammastaða í Hvalfjarðarsveit til efnislegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                  Þorsteinn Þorsteinsson