Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

47/2014 Torfunefsbryggja

Árið 2014, fimmtudaginn 21. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 47/2014 með heimild í 3. mgr. 3. gr. 1. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júní 2014, sem barst nefndinni 5. s.m., kærir N, Álfabyggð, Akureyri, þá ákvörðun Akureyrarkaupstaðar frá 6. maí 2014 að samþykkja deiliskipulag fyrir miðbæ Akureyrar. Deiliskipulagið var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 22. júlí s.á.

Verður að skilja kæruna svo að krafist sé ógildingar á þeim hluta hins kærða deiliskipulags sem við kemur því svæði sem Torfunefsbryggja er staðsett á.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn í málinu frá Akureyrarbæ 23. og 30. júní 2014.

Málsatvik og rök: Kærandi er íbúi á Akureyri. Hinn 18. febrúar 2014 samþykkti bæjarstjórn Akureyrarbæjar að auglýsa nýtt deiliskipulag fyrir miðbæ Akureyrar. Samkvæmt deiliskipulagstillögunni var gert er ráð fyrir þremur austur-vestur ásum sem myndu liggja þvert á helstu umferðaræðar til að styrkja leiðir á milli miðbæjarins og Torfunefsbryggju. Koma átti fyrir nýjum safnstæðum á vegum Akureyrarbæjar á fyllingu við Torfunef, fyllingu austan Hofs, við Ráðhús, Hólabraut og Smáragötu. Að auki átti að samtvinna miðbæinn betur við hafnarsvæðið með byggingum fyrir almenning og skapa umgjörð um líf á svæðinu. Var miðað við að efla höfnina og Pollinn sem útivistarsvæði t.d. með lægi fyrir skemmtiferðaskip, aðstöðu fyrir smábáta, skútur og aðra skemmtibáta sem og brottfararstað fyrir skoðunarferðir á sjó. Að lokum var gert ráð fyrir nýjum byggingum á svæði Torfunefs til að skapa umgjörð endurbættrar hafnar.

Frestur til að skila inn athugasemdum var frá 21. febrúar til 6. apríl 2014. Alls bárust 22 athugasemdir, þ.á m. frá kæranda þar sem hann gerði athugasemd við þau áform bæjarins að afmá og eyða sögulegum menningarminjum Torfunefsbryggju. Var athugasemd kæranda svarað með bréfi skipulagsstjóra dags. 8. maí s.á. þess efnis að deiliskipulagstillagan gerði ekki ráð fyrir að afmá og eyða Torfunefsbryggju heldur væri þvert á móti gert ráð fyrir að hún yrði endurbyggð og lengd. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi vegna greinds svars og var hann veittur með bréfi skipulagsstjóra, dags. 3. júní s.á, þar sem nánari grein var gerð fyrir deiliskipulagstillögunni hvað varðaði Torfunefsbryggju. Var áréttað að ekki væri um endanlega útfærslu á svæðinu að ræða og að fullt samráð yrði haft við Hafnasamlag Norðurlands og Minjastofnun Íslands í samræmi við minjalög þar sem elsti hluti bryggjunnar væri eldri en 100 ára.

Deiliskipulagstillagan var samþykkt af bæjarstjórn Akureyrarbæjar 6. maí 2014 og tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 22. júlí s.á.

Kærandi telur að áformað sé að taka bryggjusvæðið undir bílastæði auk þess sem gera eigi langan viðlegukant fyrir skemmtiferðaskip. Hafi það í för með sér að gera þurfi háa mannhelda girðingu til að uppfylla alþjóðareglur um hafnaröryggi. Sé ekki hægt að fallast á að um endurgerð mannvirkis, sem teljist til fornminja, sé að ræða. Virðist sem fara eigi á svig við almennan vilja bæjarbúa um að haldið verði í bryggjuna og sé einnig farið gegn landslögum þar sem bryggjan sé orðin meira en 100 ára og njóti því verndar skv. lögum um menningarminjar. Framkvæmdirnar muni því hafa í för með sér varanlega eyðileggingu á mannvirki sem hafi mikið sögulegt og menningarlegt gildi. Hljóti að þurfa að fara fram ítarleg úttekt og skráning á minjunum.

Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að samkvæmt deiliskipulagstillögunni, nú samþykktu deiliskipulagi, sé gert ráð fyrir uppfyllingu á milli dælustöðva og bryggju til að hægt sé að koma fyrir bílastæðum og byggingarreitum fyrir aðstöðuhús sem muni tengjast ferðamannaiðnaði. Ekki sé gert ráð fyrir skemmtiferðaskipum við Torfunefsbryggju heldur minni bátum s.s. fyrir hvalaskoðun og útsýnissjóferðir. Þá sé áréttað að ekki sé um endanlega útfærslu á svæðinu að ræða. Framkvæmdarleyfi mun byggja á frekari hönnunargögnum sem unnin verði í fullu samráði við Hafnasamlag Norðurlands og Minjastofnun Íslands. Þótt gert sé ráð fyrir breytingum samkvæmt deiliskipulagi á umhverfi við Torfunefsbryggju muni staða og útlit bryggjunnar halda sér. Þá muni lenging bryggjunnar ekki hafa áhrif á eldri hluta Torfunefsbryggju. Sá skortur sem kærandi nefni varðandi samráð við opinberar stofnanir hafi farið fram í skipulagsferlinu og muni einnig fara fram m.a. við Minjastofnun Íslands áður en framkvæmdir hefjist.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Í kæru vísar kærandi til almenns vilja bæjarbúa sem og hættu á að menningararfleifð og sögu Akureyrar verði raskað og spillt. Eins og málið liggur fyrir úrskurðarnefndinni er hins vegar ekki ljóst með hvaða hætti hin kærða deiliskipulagsákvörðun, hvað Torfunefsbryggju varðar, snertir lögvarða hagsmuni kæranda þannig að skapi honum kæruaðild. Þá eiga undantekningartilvik nefndrar lagagreinar ekki við í málinu. Þar sem ekki þykir sýnt fram á kæruaðild í málinu verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir