Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

52/2024 Móstekkur

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 20. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Halldóra Vífilsdóttir arkitekt og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 52/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 17. apríl 2024 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir parhús á lóð nr. 61–63 við Móstekk.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. maí 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir Fortis ehf., lóðarhafi Móstekks 61–63, Selfossi, landnúmer L236631, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 17. apríl 2024 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir parhúsi á lóð nr. 61–63. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 21. maí 2024.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar 17. apríl 2024 var tekin fyrir umsókn kæranda um leyfi fyrir byggingu parhúss á lóð nr. 61–63 við Móstekk á Selfossi. Á framlögðum uppdráttum kom fram að um væri að ræða parhús með tveimur íbúðum. Í fundargerð afgreiðslufundarins var bókað að umsókninni væri synjað þar sem teikning gæfi til kynna að hægt verði að nýta matshluta 0102 sem tvær aðskildar „íbúðareiningar“ með tveimur aðskildum inngöngum, en í gr. 5.1. í deiliskipulagi svæðisins væri kveðið á um að í einbýlis-, par- og raðhúsum skuli vera ein íbúð í hverju húsi og að ekki sé heimilt að hafa aukaíbúð á lóðum.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að ekki verði séð að byggingarfulltrúi hafi leitað umsagnar skipulagsfulltrúa í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þar sem mælt sé fyrir um að það sé skylt leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins. Eignarhluti 0102 í parhúsinu sé hannaður þannig að um sé að ræða tvö rými með tveimur aðskildum inngöngum. Bílgeymsla tengi rýmin saman og sé innangengt frá henni að báðum rýmunum. Miði hönnunin að því að gera söluvænni vöru fyrir væntanlega kaupendur, s.s. fyrir foreldra með unglinga eða uppkomin börn. Þótt fallast megi á það með byggingarfulltrúa að hugsanlega væri unnt að nýta eignarhlutann sem tvær aðskildar „íbúðareiningar“ gæti slíkt þó ekki orðið án breytinga á hönnun mannvirkisins og að uppfylltum öðrum lagalegum skilyrðum sem varði stofnun nýrrar fasteignar.

Af lögum nr. 160/2010 leiði að byggingaryfirvöld skuli við ákvörðun um útgáfu byggingarleyfis meta hvort mannvirkið og notkun þess samrýmist gildandi skipulagsáætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna. Ákvörðun um að synja umsókn um byggingarleyfi verði ekki á því reist að teikning gefi til kynna að hugsanlega megi nýta mannvirki með hætti sem ekki samrýmist deiliskipulagi. Ekki sé farið leynt með að vilji sé til að eiga möguleika á að fjölga íbúðum í parhúsinu og að vonir séu bundnar við að skipulagsyfirvöld samþykki það í framtíðinni. Slíkt sé alþekkt og feli í sér annað sjálfstætt umsóknarferli. Staðreyndin sé sú að eignarhluti 0102 sé á aðaluppdrætti skilgreindur sem ein íbúð og séu engar fyrirætlanir um að nýta hann sem aðskildar íbúðareiningar í andstöðu við gildandi deiliskipulag.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að ljóst megi vera að eignarhluti 0102 sé hannaður sem tvær aðskildar íbúðareiningar og að áætlanir standi til að nýta rýmin sem slíkar. Frumskilyrði útgáfu byggingarleyfis sé að mannvirki og notkun þess samrýmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Samkvæmt gildandi deiliskipulag í landi Bjarkar við Selfoss (Björkurstykki) sé skýrlega kveðið á um að í einbýlis- par- og raðhúsum skuli vera ein íbúð í hverju húsi að ekki sé heimilt að hafa aukaíbúð á lóðum. Kærandi hafi staðfest að nýta megi matshluta 0102 sem sér­íbúðar­hluta. Öllum sem skoða aðaluppdrætti sem fylgt hafi byggingarleyfisumsókn kæranda megi ljóst vera að um sé að ræða aukaíbúð. Í þeim hluta sé að finna sérútgang, eldhúskrók, sérbaðherbergi og á milli hennar og bílgeymslu sé teiknaður EI60 veggur. Hvort sem viðurkennt sé að nýta eigi þennan hluta sem séríbúðarhluta strax eða síðar, sé ljóst að um sé að ræða rými sem með engu móti verði skilgreint sem annað en aukaíbúð í skilningi skipulagsskilmála og erfitt sé að ímynda sér skýrara dæmi um aukaíbúð við parhús. Er og vísað til úrskurða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 28. júlí 2009 í máli nr. 95/2008 og frá 19. október 2011 í máli nr. 66/2010.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Reynt hafi á sambærilegt álitaefni og hér um ræði í dómi Hæstaréttar frá 17. desember 2020 í máli nr. 25/2020. Ágreiningur þess máls hafi m.a. lotið að því hvernig túlka bæri skipulagsskilmála sem kváðu á um að óheimilt væri að hafa meira en eina íbúð í húsi og hvort aðaluppdrættir mannvirkis gerðu ráð fyrir einni eða tveimur íbúðum. Af niðurstöðu dómsins megi ráða að sjónarmið þau sem tiltekin hafi verið af Sveitarfélaginu Árborg skipti ekki höfuðmáli heldur fyrst og fremst hvernig skráningu fasteigna sé háttað. Eignarhluti 0102 í fyrirhuguðu parhúsi sé skilgreindur sem ein íbúð á aðaluppdrætti og ætti sú skráning að vera ráðandi við úrlausn málsins en ekki ályktanir um hugsanlega nýtingu hans. Þá verði ekki séð að þeir úrskurðir úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem vísað hafi verið til hafi þýðingu við úrlausn málsins.

Samkvæmt 4. mgr. 17. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús beri að afhenda byggingarfulltrúa eignaskiptayfirlýsingu til staðfestingar og komi þá til skoðunar hvort hún sé í samræmi við skipulagsskilmála, sbr. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar. Augljóst sé að byggingarfulltrúi myndi ekki staðfesta eignaskiptayfirlýsingu sem mælti fyrir um að eignar­hlutinn skiptist í tvær aðgreindar íbúðir. Muni bann við aukaíbúðum í skipulagsskilmálum því áfram hafa þýðingu þótt hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar á byggingarleyfis­umsókn vegna húss á lóð nr. 61–63 við Móstekk. Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skulu aðaluppdrættir byggingarleyfis uppfylla ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Þá verða byggingaráform aðeins samþykkt og gefið út byggingarleyfi ef fyrirhuguð mannvirkjagerð er í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis, sbr. 11. gr og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna.

Samkvæmt Aðalskipulagi Árborgar 2020–2036 er landnotkun umrædds svæðis skilgreind sem íbúðarsvæði, ÍB7, Björkurstykki. Kemur fram að um sé að ræða óbyggt svæði og að í gildi sé deiliskipulag fyrir hluta svæðisins og að gert sé ráð fyrir fjölbreyttum íbúðakostum. Deiliskipulag í landi Bjarkar við Selfoss (Björkurstykki) tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 14. júní 2019. Um hönnun mannvirkja og uppdrætti er tiltekið í kafla 4.1. í greinargerð deiliskipulagsins að húsagerðir séu frjálsar að öðru leyti en því sem mæli- og hæðarblöð, skilmálar skipulagsins, byggingarreglugerð og aðrar reglugerðir segi til um. Jafnframt er tekið fram að þar sem hús séu samtengd skuli samræma útlit, þakform, lita og efnisval. Það eigi einnig við um hús sem séu á sömu lóð en séu ekki samtengd. Á aðaluppdráttum skuli sýna skipulag lóðar, þ. á m. bílastæði. Á grundvelli deiliskipulagsins gefi sveitarfélagið út mæli- og hæðablöð sem sýni nákvæmar stærðir lóða, lóða­mörk og byggingarreiti húsa. Í kafla 4.7 greinargerðarinnar segir um bílastæði og bílageymslur að gert sé ráð fyrir tveimur bílastæðum við hverja íbúð í einbýlis-, par- og raðhúsum. Þá kemur fram í kafla 5.1 að í einbýlis-, par- og raðhúsum skuli vera ein íbúð í hverju húsi og að ekki sé heimilt að hafa aukaíbúð á lóðum. Um parhús, gerð P1, segir að innan byggingarreits sé heimilt að reisa einnar hæðar parhús ásamt sambyggðri bílgeymslu og að koma skuli fyrir tveimur bílastæðum á lóð.

Óyggjandi er af aðaluppdráttum sem fylgja byggingarleyfisumsókn kæranda að um sé að ræða þrjár aðskildar íbúðareiningar. Af hálfu kæranda hefur verið vísað til stuðnings málsrökum til dóms Hæstaréttar frá 17. desember 2020 í máli nr. 25/2020, sem varðaði aukaíbúð í einbýlishúsi. Þar er með almennum hætti fjallað um að ekki sé að finna í skipulagslögum eða öðrum réttarheimildum um fasteignir fyrirmæli um hvenær fleiri en ein íbúð teljist óhjákvæmilega vera í húsi. Þá sé heldur ekki að finna neinar haldbærar vísbendingar um að hlutlægt mat á innra skipulagi og öðrum eiginleikum húss samkvæmt aðaluppdráttum eigi að ráða við mat á því hvort hús teljist einbýli og fullnægi þar með skilmálum deiliskipulags sem mæli fyrir um að óheimilt sé að hafa fleiri en eina íbúð í húsi. Í ljósi þessa hefði rökstuðningur byggingar­fulltrúa mátt vera með ítarlegri hætti, en þó að teknu tilliti til þess að aðstæður eru aðrar.

Af hálfu úrskurðarnefndarinnar er gerð bending um að á uppdrætti deiliskipulagsins, þ.e. við götu 15, er gert ráð fyrir parhúsi, P1, á tveimur jafn stórum lóðum, að heildarstærð 1.260 m2 ásamt tveimur samliggjandi bílastæðum. Á mæliblaði lóðarinnar, sem áritað var af skipulagsfulltrúa 22. nóvember 2023, eru bílastæðin sýnd með sambærilegum hætti en húsið sýnt á einni lóð, L236631, þar sem önnur íbúðin er stærri og tekur til sín aukinn hluta lóðarinnar um leið og tilhögun bílastæða er breytt.

Með vísan til framangreinds verður að líta svo á að rökstuðningi og undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið áfátt og því sé rétt að fella hana úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 17. apríl 2024 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir parhúsi á lóð nr. 61–63 við Móstekk.

42/2024 Eiríksgata

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 20. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Halldóra Vífilsdóttir arkitekt og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 42/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum á fjöleignarhúsi á lóð nr. 19 við Eiríksgötu.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 5. apríl 2024, kærir Arnarbakki ehf., eigandi húss á lóð Eiríksgötu 19, Reykjavík, ákvörðun um að synja umsókn hans um byggingarleyfi fyrir að breyta kjallara í íbúðir í fjöleignarhúsi því er stendur á lóðinni. Verður að skilja málskot kæranda svo að kærð sé ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík þess efnis frá 5. mars 2024 og að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 18. apríl 2024.

Málavextir: Á lóðunum nr. 19–23 við Eiríksgötu er sambyggt fjöleignarhús. Með umsókn, dags. 30. janúar 2024, óskaði kærandi eftir byggingarleyfi fyrir breytingum á kjallara þess hluta hússins sem er á lóð nr. 19 þannig að þar yrðu tvær einstaklingsíbúðir í stað geymslna og sameignar. Botnplata hússins yrði lækkuð, innra skipulagi íbúða á fyrstu og annarri hæð jafnframt breytt og stigahús yrði aðeins á milli fyrstu og annarrar hæðar.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 13. febrúar 2024, var erindinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa sem á fundi sínum 15. s.m. vísaði því til umsagnar verkefnastjóra hjá embættinu. Var erindið aftur tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 22. s.m. og bókað í fundargerð: „Neikvætt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 22. febrúar 2024, samræmist ekki hverfisverndarákvæði aðalskipulags“. Er sú umsögn fylgigagn fundar­gerðarinnar og kemur þar m.a. fram að með byggingaráformunum sé gert ráð fyrir að gengið verði inn í fyrirhugaðar kjallaraíbúðir um framhlið hússins, sem krefðist þess að grafið yrði frá stórum hluta framhliðarinnar og gerðar tröppur niður. Slík framkvæmd breyti húsinu mikið að utan og raski hlutföllum þess sem væri ekki í anda hverfisverndar, en í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 er skilgreind hverfisvernd á umræddu svæði, þ.e. innan Hringbrautar, sem hefur það að markmiði að varðveita og styrkja heildaryfirbragð gamla bæjarins. Þá kæmi fram í rammaskipulagi sem gert hefði verið fyrir reitinn að ekki skyldi samþykkja eða gera nýjar íbúðir í kjöllurum eða á rishæðum. Almennt væru þó ekki gerðar athugasemdir við fjölgun íbúða ef forsendur gæfu tilefni til, þ. á m. næg birtugæði og að útliti verndaðra húsa væri ekki raskað. Þær aðstæður væru ekki fyrir hendi í þessu tilfelli, rýmið væri mikið niðurgrafið, gluggar litlir og ekki yrði heimilað að grafa frá húshlið í suðurgarði þar sem það myndi breyta útliti hússins of mikið sem og heildarmynd götunnar. Þá var bent á gr. 6.7.4. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012, sem fjallar um íbúðir með niðurgrafna útveggi.

Byggingarfulltrúi tók umsóknina á ný fyrir á afgreiðslu­fundi 5. mars 2024 og synjaði henni með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa. Er í máli þessu deilt um þá ákvörðun.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að ráðast þurfi í umfangsmiklar aðgerðir til endurbóta á húsi á lóð nr. 19 við Eiríksgötu, m.a. þurrka út kjallaraveggi og hafi skýrsla verkfræðistofu frá árinu 2019 sýnt fram á nauðsyn þess. Öruggast sé að moka frá útveggjum og lækka þannig jarðveg en um leið auka loftun og birtugæði í kjallara með því að stækka glugga til suðvesturs. Nauðsynlegt sé að brjóta upp kjallaragólf, endurnýja lagnir í jörð og koma fyrir jarðvegslögnum við suðvestur hlið hússins.

Skipulagsfulltrúi hafi í umsögn sinni ekki gert athugasemd við fjölgun íbúða á reitnum ef forsendur gæfu tilefni til, m.a. næg birtugæði sem umsóttar breytingar lúti að. Þá hafi íbúðir verið leyfðar í sama fjöleignarhúsi, á lóðum nr. 21 og 23, með sambærilegum breytingum á gluggum og kærandi hafi hug á að gera. Eins hafi íbúð verið leyfð í kjallara í húsinu við hliðina, þ.e. á lóð nr. 17 og í fjölda annarra sambærilegra húsa í sömu húsaröð og nærliggjandi húsa­röðum. Yrðu breytingarnar lítt eða ekki sjáanlegar frá götu og gangi allar í þá átt að tryggja heilbrigði og loftgæði í fjöleignarhúsinu öllu og séu þær mjög til bóta fyrir alla íbúa Eiríksgötu 19–23 þar sem augljóst sé að raki fari á milli eininga undir húsinu, líkt og komið hafi í ljós í kjallara á lóðum nr. 19 og 21.

Birtuskilyrði í kjallara húss á lóð nr. 19 við Eiríksgötu batni til mikilla muna og bæti þannig búsetuskilyrði og notkunarmöguleika, í stað þess að viðhalda húsnæði með takmarkaðri birtu og lítilli lofthæð sem þó yrði nýtt með ýmsum hætti. Markmið eiganda sé fyrst og fremst að tryggja heilbrigði íbúa ásamt því að gæta að útliti þessara fallegu bygginga.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að ekkert hafi komið fram sem valdið geti ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Árið 1987, í tíð eldri byggingar­reglugerðar, hafi verið samþykkt að breyta kjallara húss á lóð nr. 23 við Eiríksgötu í íbúð en slík breyting hafi ekki verið samþykkt á lóð nr. 21. Landhalli liggi niður Eiríksgötuna og kjallarinn á lóð nr. 23 sé mun minna niðurgrafinn og með stærri kjallaraglugga en kjallarinn á lóð nr. 19. Í gr. 6.7.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 komi fram þau skilyrði sem íbúðir í kjallara þurfi að uppfylla og hafi í afgreiðslu byggingarfulltrúa ekki verið tekin afstaða til þess hvort þau væru uppfyllt. Samkvæmt a.-lið framangreinds ákvæðis skuli minnst ein hlið íbúðar­rýmis ekki vera niðurgrafin. Til þess að uppfylla skilyrði a.-liðar þyrfti að grafa frá stórum hluta framhliðar hússins. Slík framkvæmd myndi breyta útliti hússins mikið að utan og hlutföll þess myndu raskast auk þess sem þetta hefði áhrif á heildarmynd götunnar sem væri ekki í anda hverfisverndar aðalskipulags.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík að synja umsókn kæranda um leyfi fyrir breytingum á fjöleignarhúsi á lóð nr. 19 við Eiríksgötu. Ráðgert var að breyta notkun kjallararýmis og fjölga eignarhlutum með stofnun tveggja nýrra fasteigna þannig að í húsinu yrðu fjórar íbúðir í stað tveggja. Um leið var óskað heimildar fyrir breytingum á innra skipulagi og á útliti hússins, þ.e. með gerð nýrra dyra og stækkun glugga sem og til breytinga á lóð með greftri frá húsinu.

Samkvæmt 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 skulu aðaluppdrættir byggingarleyfis upp­fylla ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Þá verða byggingaráform aðeins samþykkt og gefið út byggingarleyfi ef fyrirhuguð mannvirkjagerð er í samræmi við skipulags­áætlanir viðkomandi svæðis, sbr. 11. gr og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna. Samþykki byggingaráforma felur með þessu í sér það sem kalla má óbeina ákvörðun samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010, en í 3. málsl. 2. mgr. 10. gr. laga um mannvirki er mælt fyrir um að ef mannvirki er háð byggingarleyfi skuli byggingarfulltrúi leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 er landnotkun umrædds svæðis, ÍB12, skilgreind sem íbúðarbyggð. Ekki er í gildi deiliskipulag á svæðinu. Svæði sem lúta borgarvernd í aðal­skipulaginu eru skilgreind sem hverfisverndarsvæði en hverfisverndin byggir á 2. gr. skipulags­laga um ákvæði í skipulagi um m.a. verndun sérkenna eldri byggðar. Umrætt svæði,  innan Hringbrautar, er slíkt svæði og eru sett markmið og ákvæði um hverfisvernd í skipulaginu. Meðal þeirra er að varðveita skuli og styrkja einkenni og heildaryfirbragð gamla bæjarins og að við þróun byggðar verði gætt ítrustu varúðar og meginmarkmiðum borgarverndarstefnu fylgt í hvívetna. Þá kemur m.a. fram að svipmóti húsa á tilgreindum verndarsvæðum, sem verði nánar afmörkuð í deili- og/eða hverfisskipulagi, varðandi ytra byrði, veggáferð, gluggagerðir og þak, verði sem minnst raskað og endurbygging miðist sem mest við upphaflega gerð hússins. Sama gildi t.a.m. um afmörkun lóða, svo sem garðveggi og girðingar. Þá kemur fram í viðauka 8. við aðalskipulagið að á svæðinu innan Hringbrautar séu samstæður húsa og heildir sem lagt sé til að vernda með hverfisvernd í deiliskipulagi vegna umhverfislegrar sérstöðu þeirra.

Í umsögn skipulagsfulltrúans í Reykjavík, dags. 22. febrúar 2024, var vísað til markmiða hverfisverndar innan Hringbrautar um að varðveita og styrkja heildaryfirbragð gamla bæjarins. Því markmiði yrði náð með því að gæta ýtrustu varúðar við þróun byggðar innan svæðisins og fylgja meginmarkmiðum borgarverndarstefnu í hvívetna. Í því felist m.a. breytingar á ytra útliti bygginga og lóða. Fram kom að með byggingaráformunum væri gert ráð fyrir að gengið yrði inn í íbúðir í kjallara um framhlið hússins á lóð nr. 19 við Eiríksgötu og að til þess að það væri hægt þyrfti að grafa frá stórum hluta framhliðarinnar og gera tröppur niður. Slík fram­kvæmd myndi breyta húsinu mikið að utan og hlutföll þess myndu raskast sem ekki væri í anda hverfisverndar. Þá var vísað til þess að gert hafi verið rammaskipulag fyrir reitinn þar sem gert hafi verið ráð fyrir því að ekki yrðu samþykktar eða gerðar nýjar íbúðir í kjöllurum eða á rishæðum. Í umsögn skipulagsfulltrúans, sem var lögð til grundvallar við töku hinnar kærðu ákvörðunar, var með þessu færð fram efnisleg afstaða til byggingaráformanna á grundvelli sjónarmiða aðalskipulags um hverfisvernd. Í ljósi þess að ekki hefur verið unnið hverfis- eða deiliskipulag fyrir svæðið, svo sem gert er ráð fyrir í aðalskipulagi, hefði rökstuðningur þessi mátt vera ítarlegri, sem þó verður ekki látið varða gildi ákvörðunarinnar.

Þar sem í téðri umsögn skipulagsfulltrúans var vísað til rammaskipulags var átt við ramma­skilmála að breytingum á húsum á staðgreinireitum 1.195.0-1-2-3, sem saman markast af Egilsgötu, Barónsstíg, Eiríksgötu og Þorfinnsgötu, og samþykktir voru af borgarráði 8. nóvember 1988. Úrskurðarnefndin leitaði upplýsinga hjá Skipulagsstofnun um hvort þessir skilmálar hefðu borist stofnuninni með vísun til 5. tl. ákvæðis til bráðabirgða í skipulagslögum nr. 123/2010 og barst svar þess efnis að ekki yrði séð að svo væri. Verður því ekki á þeim byggt sem skipulags­skilmálum þrátt fyrir að þeir kunni að vera leiðbeinandi. Er það í samræmi við umsögn skipulagsfulltrúans þar sem greint var frá ákvæðum rammaskilmálanna um nýjar íbúðir í kjöllurum um leið og tekið var fram að almennt séu ekki gerðar athugasemdir við fjölgun íbúða, gefi forsendur tilefni til, s.s. ef ekki þurfi að raska útliti friðaðra húsa og næg birtuskilyrði séu til staðar.

Kærandi hefur vísað til þess að veitt hafi verið leyfi fyrir íbúðum í kjöllurum á svæðinu og m.a. í kjallara í sama fjöleignarhúsi á lóðum nr. 21 og 23 ásamt því að íbúð sé í kjallara húss á lóð nr. 17 við sömu götu, þ.e. í næsta húsi. Við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar verður ekki séð að fjallað hafi verið um þessar röksemdir. Í umsögn borgaryfirvalda til úrskurðar­nefndarinnar hefur af þessu tilefni verið greint frá því að af hálfu borgarinnar hafi ekki verið samþykkt að breyta kjallara húss á lóð nr. 21 við Eiríksgötu í íbúð. Árið 1987 hafi þó verið samþykkt að breyta kjallara húss á lóð nr. 23 í íbúð. Það hafi verið í tíð eldri byggingar­reglugerðar. Þá liggi landhalli niður Eiríksgötuna og sé því kjallarinn í húsi nr. 23 mun minna niðurgrafinn og með stærri kjallaraglugga en á lóð nr. 19. Þá séu í núgildandi byggingar­reglugerð, gr. 6.7.4., gerðar aðrar kröfur en í eldri byggingarreglugerðum um hvaða skilyrði íbúðir í kjallara þurfa að uppfylla auk þess sem hverfisvernd aðalskipulags hafi ekki verið til staðar. Samkvæmt fasteignaskrá voru árið 2001 skráðar íbúðir í kjallara á lóðum nr. 17, 21 og 23 við Eiríksgötu. Eru slíkar íbúðir sýndar í kjallara húsa á lóð nr. 23 á samþykktum aðal­uppdrætti árið 1987 og á lóð nr. 17 árið 2017. Verður í ljósi þessara skýringa, þar sem dregin eru fram aðdragandi og einkenni endurbóta í kjöllurum á svæðinu og með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa að öðru leyti, ekki álitið að ástæða sé til að ætla að hin kærða ákvörðun stríði gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Sú ábending er að lokum gerð að skv. 1. mgr. 10. gr. laga um mannvirki skal umsókn um byggingarleyfi m.a. fylgja samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús og verður ekki ráðið af gögnum málsins að þessa hafi verið gætt, sbr. 21. gr., 1. og 3. mgr. 27. gr. og 1. mgr. 30. gr. laganna, eftir því sem við á. Hefði því verið óheimilt við svo búið, þegar af þeirri ástæðu, að samþykkja téð byggingaráform.

Með vísan til alls framangreinds verður hafnað kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum á fjöleignarhúsi á lóð nr. 19 við Eiríksgötu.

54/2024 Laugarásvegur

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 6. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 54/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. apríl 2024 um að krefjast þess að kærendur fjarlægi skjólvegg við lóðarmörk Laugarásvegar 61 innan 14 daga, en verði ekki orðið við þeirri kröfu áformi embættið að leggja á dag­sektir að fjárhæð kr. 25.000.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. maí 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra lóðarhafar Laugarásvegar 63, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. apríl 2024 að krefjast þess að þeir fjarlægi skjólvegg við mörk lóðarinnar og lóðar nr. 61 við sömu götu innan 14 daga, en verði ekki orðið við þeirri kröfu áformi embættið að leggja á dagsektir að fjárhæð kr. 25.000. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 24. maí 2024, var réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar frestað að kröfu kærenda á meðan mál þetta er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 23. maí 2024.

Málavextir: Samkvæmt gögnum máls þessa er nokkur ágreiningur milli lóðarhafa lóða nr. 61 og 63 við Laugarásveg vegna framkvæmda á síðarnefndu lóðinni. Reistur hefur verið skjólveggur á mörkum lóðanna og hafa borgaryfirvöld til meðferðar mál er varða m.a. heitan pott á lóð nr. 63 við Laugarásveg. Auk þess kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í máli nr. 31/2024 hinn 30. maí 2024 sem varðaði stoðvegg á mörkum lóða nr. 59 og 63 við Laugarásveg.

Í bréfi byggingarfulltrúa til kærenda, dags. 2. febrúar 2024, kom fram að þeim væri gert að leggja fram byggingarleyfisumsókn og skriflegt samþykki lóðarhafa lóðar nr. 61 við Laugarásveg vegna girðingar á mörkum lóðanna innan 14 daga. Var bent á að yrði tilmælunum ekki sinnt yrði tekin ákvörðun um framhald málsins sem gæti falið í sér að ráðist yrði í úrbætur á kostnað kærenda eða dagsektum beitt. Í tölvubréfi kærenda til byggingarfulltrúa, dags. 28. febrúar 2024, kom fram að gerð yrði „lokatilraun á allra næstu dögum til að ná samkomulagi á milli lóðarhafa, ef það náist ekki verði girðingin færð eða fjarlægð með deildum kostnaði þegar frost fari úr jörðu.“ Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa degi síðar var framangreint fært til bókar. Í tölvubréfi til kærenda, dags. 1. mars s.á., kom fram að veittur væri frestur til 31. s.m. til að reyna að ná samkomulagi við eiganda Laugarásvegar 61 um girðingu á mörkum lóðanna og senda það til byggingarfulltrúa. Að öðrum kosti þyrfti að fjarlægja vegginn, líkt og kærendur hefðu sagst ætla að gera. Með tölvubréfi, dags. 4. apríl 2024, var sá frestur framlengdur til 18. s.m. Slíkt samkomulag barst ekki til byggingarfulltrúa og sendi hann kærendum bréf, dags. 23. s.m., þar sem fram kom að veittur væri lokafrestur til að fjarlægja skjólvegg við mörk lóðar nr. 61 en yrði hann ekki fjarlægður innan 14 daga frá móttöku bréfsins áformaði byggingarfulltrúi að leggja á dagsektir að fjárhæð kr. 25.000 fyrir hvern þann dag sem það drægist. Var jafnframt veittur 14 daga frestur til að koma að andmælum. Í bréfinu var vísað til 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Jafnframt var bent á kæruheimild til úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess á að hinn umdeildi skjólveggur hafi staðið í þrjú og hálft ár og kostnaður við hann hafi verið um tvær milljónir króna. Veggurinn hafi verið reistur í góðu samkomulagi og að hluta til í samstarfi við eiganda aðliggjandi lóðar. Þegar kærendur hafi óskað skriflegs samþykkis hafi það þó ekki fengist og munnlegt samþykki afturkallað með textaskilaboðum 20. júní 2023. Þar hafi jafnframt komið fram að skriflegt samþykki yrði ekki veitt. Eigendur Laugarásvegar 61 hafi ekki krafist stöðvunar framkvæmda þegar skjólveggurinn var reistur og hafi fyrst með málarekstri þessum verið óskað eftir því að veggurinn yrði fjarlægður.

Skjólveggurinn ógni ekki almannahagsmunum og af honum stafi ekki slysahætta. Ekki standi því málefnaleg rök til að beita verulega íþyngjandi þvingunarúrræðum líkt og dagsektum. Þá samræmist það ekki venjubundinni framkvæmd að leggja á dagsektir í málum sem þessum, sbr. m.a. úrskurði úrskurðarnefndarinnar í málum nr. 98/2022, 116/2022 og 52/2023. Hin kærða ákvörðun gangi því gegn meginreglum stjórnsýsluréttarins um réttmæti, jafnræði og meðalhóf sem lögfestar séu að hluta í 1. mgr. 11. gr. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Taka verði mið af munnlegu samþykki eigenda Laugarásvegar 61 sem og tómlæti þeirra.

Málsmeðferð byggingarfulltrúa sé háð verulegum annmörkum. Hann hafi hvorki gefið kærendum færi á að nýta lögvarinn rétt til andmæla áður en hin kærða ákvörðun hafi verið tekin né hafi hann leiðbeint kærendum um rétt þeirra til rökstuðnings hinnar kærðu ákvörðunar. Samrýmist það ekki 13. gr. og 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að ekki hafi verið veitt byggingarleyfi fyrir hinum umdeilda skjólvegg samkvæmt ákvæðum III. kafla laga nr. 160/2010 um mannvirki, en hann sé ekki undanþeginn byggingarleyfi samkvæmt e-lið 1. mgr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og ekki sé til staðar samkomulag um vegginn samkvæmt 3. mgr. gr. 7.2.3. reglugerðarinnar. Hvorki ákvæðum laga um mannvirki né byggingarreglugerðar hafi því verið fylgt við framkvæmdina.

Við töku ákvörðunar um að aðhafast ekki vegna stoðveggjar á mörkum lóða nr. 59 og 63 við Laugarásveg, dags. 29. febrúar 2024, sem fjallað hafi verið um í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 31/2024 frá 30. maí 2024, hafi sérstaklega verið bókað að kærendur hygðust fjarlægja hina umdeildu girðingu ef ekki næðist samkomulag við lóðar­hafa aðliggjandi lóðar nr. 61. Byggi bókunin m.a. á loforði kærenda.

Það sé hlutverk byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með mannvirkjagerð í sínu umdæmi, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 160/2010. Í 55. og 56. gr. laganna sé kveðið á um þvingunarúrræði þau sem honum séu tiltæk til að fylgja eftir ákvörðunum sínum. Þannig sé í 1. mgr. 55. gr. m.a. tekið fram að byggingarfulltrúi geti gripið til aðgerða sé ekki farið að ákvæðum laganna eða reglugerða sem settar séu samkvæmt þeim við byggingarframkvæmdina. Þá sé kveðið á um það í 2. mgr. að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi fengist fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu sé heimilt að beita dagsektum eða vinna slík verk á hans kostnað.

Ákvörðun um beitingu þessara þvingunarúrræða sé háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið fram í athugasemdum við frumvarp það sem orðið hafi að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Byggingarfulltrúi hafi reynt til hins ítrasta að finna niðurstöðu sem aðilar gætu sætt sig við og hafi beðið lengi eftir því að samkomulag myndi nást vegna girðingarinnar á sameiginlegum lóðamörkum þeirra og veitt fresti í því skyni. Það hafi verið mat byggingarfulltrúa að meðalhófi hefði verið beitt með því að fara ekki fram á að steyptur veggur á lóð kærenda yrði fjarlægður en í staðinn yrði hin umdeilda girðing fjarlægð eða færð innar á lóðina. Á þann hátt mætti mæta kröfum beggja aðila þannig að sem minnst tjón hlytist af fyrir þá sem þegar höfðu lagt í kostnað vegna óleyfisframkvæmdarinnar. Kærendur hafi virst sáttir við þá niðurstöðu allt þar til komið hafi að því að fjarlægja girðinguna.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur er benda á að hin kærða ákvörðun verði ekki byggð á meintum yfirlýsingum um að þeir myndu fjarlægja skjólvegginn. Því sé hafnað að ummæli þeirra feli í sér bindandi yfirlýsingu um að veggurinn verði fjarlægður, líkt og lagt sé út af í umsögn Reykjavíkurborgar og bókun byggingarfulltrúa. Ummælin hafi verið háð skilyrði um kostnaðarskiptingu, sbr. orðalagið „með deildum kostnaði“. Ekkert liggi fyrir um slíka skiptingu.

Hin kærða ákvörðun verði ekki byggð á sjónarmiðum um að koma til móts við lóðarhafa Laugarásvegar 61 og breyti engu í því sambandi að þeim líki illa niðurstaða annars máls um steyptan vegg á mörkum Laugarásvegar 59 og 63. Sé framangreint sjónarmið ómálefnalegt og gangi gegn réttmætisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. apríl 2024 um að krefjast þess að kærendur fjarlægi skjólvegg við lóðarmörk Laugarásvegar 61 innan 14 daga, en verði ekki orðið við þeirri kröfu áformi embættið að leggja á dagsektir að fjárhæð kr. 25.000.

Gildissvið laga nr. 160/2010 um mannvirki nær skv. 1. mgr. 2. gr. til allra mannvirkja á landi og eru girðingar í þéttbýli þar nefndar í dæmaskyni. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna er óheimilt að reisa mannvirki nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingar­fulltrúa. Í 2. mgr. 55. gr. er svo mælt fyrir um að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki sé fjarlægt.

Í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er fjallað um mannvirkjagerð sem undanþegin er byggingarheimild og -leyfi. Er beiting greinarinnar háð því skilyrði að framkvæmdir séu í samræmi við deiliskipulag, en á umræddu svæði er ekki í gildi deiliskipulag. Þá eru skilyrði e-liðar nefndrar greinar, svo sem um undirritað samkomulag, ekki uppfyllt. Í 2. og 3. mgr. gr. 7.2.3. í reglugerðinni er kveðið á um að afla skuli byggingarleyfis vegna girðinga og skjólveggja á lóðum nema framkvæmdirnar séu undanþegnar byggingarleyfi skv. áðurnefndri gr. 2.3.5. og að alltaf skuli liggja fyrir samþykki beggja lóðarhafa áður en hafist er handa við smíði girðingar eða skjólveggjar. Samkvæmt framansögðu er hinn umdeildi skjólveggur byggingar­leyfis­skyldur og óumdeilt að ekki hefur fengist byggingarleyfi fyrir honum. Var byggingar­fulltrúa því heimilt að krefjast þess af kærendum að þeir fjarlægðu skjólvegginn.

Samkvæmt 2. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 er byggingarfulltrúa heimilt að beita dagsektum allt að kr. 500.000 til að knýja menn til þeirra verka sem þeir skulu hlutast til um samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim eða láta af ólögmætu athæfi. Líta verður svo á að með hinni kærðu ákvörðun hafi byggingarfulltrúi ekki tekið lokaákvörðun um álagningu dagsekta heldur einungis krafist þess af kærendum að aðhafast með tilgreindum hætti og tilkynnt þeim jafnframt að áformað væri að leggja á dagsektir ef kærendur myndu ekki verða við kröfunni. Þeim áformum hefur ekki verið hrint í framkvæmd með ákvörðun um álagningu dagsekta og liggur því ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Verður þeim hluta málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. apríl 2024 um að krefjast þess að kærendur fjarlægi skjólvegg við lóðarmörk Laugarásvegar 61. Að öðru leyti er máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

24/2024 Túngata

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 6. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 24/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. janúar 2024 um að samþykkja umsókn um leyfi fyrir áður gerðri breytingu á íbúðarhúsi á lóð nr. 36a  við Túngötu í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 28. febrúar 2024, kærir eigandi að Marargötu 7, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. janúar 2024 að samþykkja umsókn um leyfi fyrir áður gerðri breytingu á íbúðarhúsi á lóð nr. 36a við Túngötu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. mars 2024.

Málavextir: Á Túngötu 36 og 36a er parhús. Hinn 26. ágúst 2022 kvað úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála upp úrskurð í máli nr. 22/2022 þar sem felld var úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. mars s.á. um að samþykkja leyfi fyrir áður gerðum breytingum á húsinu að Túngötu 36a. Fólust þær breytingar í því að í stað glugga á norðurhlið hússins voru settar dyr sem stækkaði opið auk þess sem gerðar voru svalir eða pallur með tröppum niður á lóðina. Í niðurstöðu nefndarinnar kom fram að ekki væri loku fyrir það skotið að umdeildar framkvæmdir gætu haft grenndaráhrif gagnvart fasteign kæranda, s.s. vegna auk­innar innsýnar og breyttrar umferðar um lóð leyfishafa. Ætti undantekningarregla 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 því ekki við og hefði borgaryfirvöldum borið að grenndar­kynna hina umdeildu umsókn fyrir kæranda og öðrum er gætu átt hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 30. janúar 2024 var samþykkt umsókn um leyfi fyrir áður gerðri breytingu á húsinu að Túngötu 36a. Fólst hún í það sinn aðeins í síkkun glugga á norðurhlið hússins. Var umsóknin talin samræmast ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010. Jafnframt var tekið fram að um væri að ræða samþykkt á framkvæmd sem gerð hefði verið án byggingarleyfis. Fékk framkvæmdar­aðili sent bréf, dags. 5. febrúar 2024, þar sem fram kom að umsókn hans um byggingarleyfi hefði verið samþykkt.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að með hinni kærðu ákvörðun sé hunsaður úrskurður úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 22/2022. Við undirbúning ákvörðunar­innar hafi ekki farið fram grenndarkynning en innsýn í íbúð sé óbreytt frá fyrra máli. Þá fáist ekki séð að Minjastofnun Íslands hafi fjallað um breytinguna, en hús á lóðum Túngötu 36 og 36a hafi verið reist fyrir árið 1940 og falli því undir áskilnað 30. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar. Jafnframt verði hvorki séð hvort sameigandi parhússins hafi samþykkt umrædda framkvæmd né hvers vegna vísað hafi verið til þess við afgreiðslu málsins að fyrir lægi samþykki lóðarhafa Túngötu 23. Sé um rökstuðning fyrir kæru vísað til rökstuðnings úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 22/2022.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgarinnar er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað. Engir þeir form- eða efnisannmarkar liggi fyrir sem leiða eigi til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Sérstaklega hafi verið horft til þess að fyrirliggjandi umsókn væri talsvert frábrugðin fyrri umsókn frá árinu 2022. Í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 22/2022 hafi umsækjandi lagt fram nýja umsókn um byggingarleyfi, dags. 18. október 2023, þar sem einungis hafi verið sótt um leyfi fyrir áðurgerðum breytingum er fólust í síkkun glugga á norðurhlið hússins. Litið hafi verið til þess að á húsinu hafi verið minni gluggi frá byggingu þess og staðfestu upphaflegar teikningar það. Eftir vettvangsskoðun byggingarfulltrúa og mat á umfangi og grenndaráhrifum breytingarinnar gagnvart fasteign kæranda hafi umsóknin verið samþykkt. Byggingar­­fulltrúi hafi talið breytinguna í engu skerða hagsmuni nágranna hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn og því hafi ekki verið tilefni til að grenndarkynna umsóknina, sbr. loka­málslið 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umsókninni hafi fylgt samþykki sameiganda að Túngötu 36 og þar með hafi skilyrði um samþykki meðeiganda samkvæmt ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús verið uppfyllt, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, en tilvísun til samþykkis lóðar­hafa Túngötu 23 í fundargerð byggingarfulltrúa frá 30. janúar 2024 hafi verið ritvilla sem búið sé að lagfæra.

Breytingin muni ekki hafa aukin grenndaráhrif í för með sér gagnvart fasteign kæranda, hvorki hvað varði innsýn né önnur grenndaráhrif. Snúi umræddur gluggi að bakgarði og girðingu milli Túngötu 36a og fasteignar kæranda. Framkvæmdir á Túngötu 36a hafi verið gerðar á árinu 2021 en þá hafi verið við það miðað í 30. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar að leita skyldi umsagnar Minjastofnunar Íslands væru hús byggð árið 1925 eða fyrir þann tíma. Það hafi ekki verið fyrr en með breytingarlögum nr. 126/2022 sem tekið hafi gildi 1. janúar 2023 sem miðað hafi verið við að leita skyldi umsagnar vegna húsa sem byggð væru fyrir árið 1940. Þar sem samþykki byggingarfulltrúa hafi tekið til áðurgerðra breytinga hafi hann ekki talið sig skyldan til að fylgja því eftir hvort umsækjandi hefði leitað álits Minjastofnunar Íslands. Samkvæmt athugasemdum með frumvarpi því sem orðið hafi að lögum nr. 80/2012 skyldu eigendur leita álits stofnunarinnar áður en ráðist væri í verulegar breytingar, flutning eða niðurrif. Um hafi verið að ræða minniháttar breytingu á einum glugga sem falli þar af leiðandi ekki undir 30. gr. laganna.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Af hálfu framkvæmdaraðila, fyrri eiganda Túngötu 36a, er tekið fram að eftir úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 22/2022 hafi eigendur hætt við þau áform sín að byggja stigapall og tröppur niður á plan norðan megin við húsið en eftir hafi staðið síkkun glugga í stofu. Slík framkvæmd sé ekki byggingar­leyfisskyld en skuli tilkynnt byggingarfulltrúa. Þar sem síkkunin hafi verið framkvæmd áður en byggingarfulltrúa hafi verið tilkynnt um fyrirhugaða síkkun hafi embættið ákveðið að sækja skyldi um byggingarleyfi. Ekki hafi verið gefið út byggingarleyfi enda framkvæmdin eingöngu tilkynningaskyld.

Marargata 7 standi töluvert hærra en Túngata 36a og hafi því innsýn frá Marargötunni verið mikil áður en glugginn hafi verið síkkaður. Snúi sex stórir stofugluggar að Túngötu 36a þar sem á móti hafi verið fimm misstórir gluggar. Standist húsin ekki alveg á og að auki séu 30 m frá glugganum á Túngötu 36a að húsi kæranda og nokkur gróður á milli húsanna. Vegna fjarlægðar og afstöðu verði ekki séð hvernig innsýn kæranda inn um einn síkkaðan glugga í stofu Túngötu 36a geti haft nokkur slík grenndaráhrif að tilefni sé til kærunnar.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að meðal þeirra gagna sem fylgt hafi umsögn Reykjavíkurborgar sé teikning arkitekts sem dagsett sé 18. október 2023. Geri kærandi ráð fyrir að umrædd teikning sé flokkuð sem byggingarleyfisumsókn sem tekin hafi verið afstaða til á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 30. janúar 2024. Ný umsókn um byggingarleyfi hafi því borist frá tilgreindum arkitekt rúmi ári eftir að úrskurðarnefndin hafi kveðið upp úrskurð sinn í máli nr. 22/2022. Þegar umsóknin hafi verið lögð inn hjá Reykjavíkurborg hafi lög nr. 126/2022 sem breytt hafi lögum nr. 80/2012 um menningarminjar tekið gildi. Sú lagaskylda að leita skuli umsagnar Minjastofnunar Íslands hafi ekki verið uppfyllt. Það sé útilokað að það sé hlutverk Reykjavíkurborgar að leggja mat á það hvaða breytingar á húsum sem falli undir 30. gr. laganna teljist minniháttar eða meiriháttar, verulegar eða óverulegar. Slíkt mat sé í höndum Minjastofnunar, ef það eigi yfirleitt að fara fram. Hafi starfsmaður Reykjavíkurborgar óskað eftir afstöðu stofnunarinnar til umsóknarinnar og í svari 21. mars 2024 hafi m.a. komið fram að stofnunin teldi umræddar breytingar umsagnarskyldar skv. 30. gr. laga nr. 80/2012. Reykjavíkurborg hafi hunsað þessa niðurstöðu og upplýst nefndina um að byggingarfulltrúi teldi að ekki væri þörf á því að leita álits Minjastofnunar.

Fyrir óleyfisframkvæmd fyrri eigenda Túngötu 36a hafi gluggi á norðurvegg hússins við Túngötu 36a verið þannig staðsettur að eigendur íbúða gegn nefndri íbúð hafi ekki séð inn í hana. Hafi framkvæmdirnar falist í því að téður gluggi hafi í það minnsta verið tvöfaldaður að stærð. Eftir breytinguna hafi innsýn aukist verulega inn í íbúðina frá íbúðum við Marargötu 7.

Eigendaskipti hafa orðið að Túngötu 36a og hafa nýir eigendur tekið undir málatilbúnað borgaryfirvalda.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 6. júní 2024.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. janúar 2024 að samþykkja umsókn um leyfi fyrir áður gerðri breytingu sem fólst í því að gluggi á 1. hæð norðurhliðar íbúðarhúss á lóð nr. 36a við Túngötu var síkkaður.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Með hinu umdeilda leyfi var fallist á stækkun glugga á norðurhlið hússins að Túngötu 36a. Á þremur hæðum hússins á þeirri hlið hafa frá byggingu þess árið 1937 verið níu gluggar. Sá gluggi sem um er deilt í málinu nær nú niður á gólf. Glugginn er í stofu hússins og við hlið hans er stærri stofugluggi og er sambærilegur gluggi í hinum hluta parhússins, þ.e. í þeim hluta sem er á lóð nr. 36 við Túngötu. Hvorki verður séð að innsýn yfir á lóð kæranda aukist að neinu marki né að aukin innsýn hans vegna síkkunar gluggans snerti lögvarða hagsmuni hans með þeim hætti að játa verði honum kæruaðild vegna hinnar umdeildu ákvörðunar. Þá teljast sjónarmið um verndun mannvirkja samkvæmt lögum nr. 80/2012 um menningarminjar til almanna­hagsmuna en slík sjónarmið teljast að jafnaði ekki til einstaklingsbundinna hagsmuna. Verður kærumáli þessu af framangreindum sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

46/2024 Hestagerði við Markarveg

Með

Árið 2024, föstudaginn 31. maí, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 46/2024, kæra vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu Kópavogsbæjar vegna erindis kæranda um hestagerði austan við lóð Markavegar 9.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 14. apríl 2024, kærir eigandi lóðarinnar Markavegar 9 í Kópavogi, aðgerðarleysi Kópavogsbæjar vegna hestagerðis austan við lóð kæranda. Er þess krafist að úrskurðarnefndin geri sveitarfélaginu að bregðast við erindi kæranda og taka ákvörðun í málinu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 16. maí 2024.

Málsatvik og rök: Í ágúst 2019 sendi kærandi bréf til umhverfissviðs Kópavogsbæjar þar sem gerðar voru athugasemdir við hestagerði Hestmannafélagsins Spretts sem staðsett er austan við lóð kæranda að Markavegi 9. Lutu athugasemdirnar aðallega að hæð gerðisins og skorti á dreni og niðurfalli, en það taldi kærandi að myndi leiða til snjó- og vatnssöfnunar á lóð hans. Óskaði hann eftir svörum við tilteknum spurningum og krafðist aðgerða af hálfu sveitarfélagsins, m.a. um að bærinn myndi byggja nýtt hringgerði í eðlilegri hæð. Svaraði sveitarfélagið fyrirspurnum kæranda 2. september s.á. en ekki var tekin afstaða til krafna hans. Hinn 12. júlí 2022 sendi kærandi bréf til umhverfissviðs og byggingarfulltrúa Kópavogs þar sem ítrekaðar voru athugasemdir um hestagerðið, m.a. að það væri í ósamræmi við byggingarreglugerð nr. 112/2012. Fór kærandi fram á að sveitarfélagið myndi bregðast við „þessari óleyfisframkvæmd og tryggja að gengið verði frá málum í samræmi við lög“. Einnig krafðist hann þess að sveitarfélagið myndi klára að leggja gangstéttir og steypa veggi á tilgreindum stöðum á svæðinu. Kærandi og sveitarfélagið voru svo í frekari samskiptum vegna málsins á árinu 2023 en í október það ár tilkynnti lögmaður sveitarfélagsins kæranda að málið væri í skoðun. Hinn 6. desember 2023 var af hálfu kæranda óskaði eftir svari við því hvort byggingarfulltrúi hygðist bregðast við erindi hans. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni sem fyrr segir 14. apríl 2024. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 15. maí s.á., var kröfum kæranda um aðgerðir af hálfu sveitarfélagsins hafnað.

Í kæru sinni bendir kærandi á að umdeilt hestagerði sé ekki í samræmi við byggingarreglugerð en hæðarmunur valdi snjó-, aur- og steinfoki á lóð hans auk þess sem vatn renni inn á hana með tilheyrandi tjóni og óþægindum. Ítrekað hafi hann reynt að fá byggingarfulltrúa eða Kópavogsbæ til að bregðast við í samræmi við lög en aldrei hafi verið brugðist við eða gefnar viðunandi skýringar á því af hverju ekki sé þörf á því. Slíkt sé í andstöðu við lög nr. 160/2010 um mannvirki, byggingarreglugerð, málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og góða stjórnsýsluhætti.

Kópavogsbær krefst þess að úrskurðarnefndin vísi kærumálinu frá þar sem brugðist hafi verið við erindum kæranda og hafi hann því ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Ákvörðun byggingarfulltrúa um að aðhafast ekki frekar sé kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Verði ekki fallist á frávísun málsins sé þess krafist að kröfum kæranda um aðgerðir af hálfu Kópavogsbæjar verði hafnað með vísan til þeirra raka sem fram komi í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 15. maí 2024.

Niðurstaða: Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er unnt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Kæra í máli þessu lýtur að drætti á afgreiðslu Kópavogsbæjar á erindi kæranda um að sveitarfélagið bregðist við í tilefni af hestagerði Hestamannafélagsins Spretts sem staðsett er austan við lóð kæranda að Markavegi 9. Líta verður svo á að í erindinu felist beiðni um beitingu þvingunarúrræða á grundvelli laga nr. 160/2010 um mannvirki, en skv. 59. gr. laganna sæta stjórnvaldsákvarðanir teknar á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Er málinu því réttilega beint til úrskurðarnefndarinnar.

Fyrir liggur að eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni brást sveitarfélagið við og afgreiddi umrætt erindi kæranda. Var það gert með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 15. maí 2024, þar sem fram kom það mat byggingarfulltrúa að umrætt hestagerði væri hvorki í ósamræmi við byggingarreglugerð nr. 112/2012 né byggingarleyfisskyld framkvæmd. Kröfum kæranda um gerð gangstétta og veggja var svarað á þann veg að slíkar framkvæmdir væru ekki í samræmi við deiliskipulag. Væri það mat embættisins að um einkaréttarlegan ágreining væri að ræða og að ekki væri tilefni til að grípa til þvingunarúrræða af þeim sökum, enda yrði ekki séð að öryggis- eða almannahagsmunir knýi á um slíkar aðgerðir. Það væri ekki á ábyrgð Kópavogsbæjar að kosta úrbætur, s.s. með gerð stoðveggjar. Að lokum var kæranda leiðbeint um kæruheimild og kærufrest vegna ákvörðunarinnar.

Samkvæmt framansögðu hefur byggingarfulltrúi brugðist við erindi kæranda með fullnægjandi hætti. Hefur það því ekki þýðingu að úrskurða um drátt á afgreiðslu erindis hans, eftir atvikum til að knýja á um afgreiðslu málsins,  og verður kröfu kæranda því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

56/2024 Leiðhamrar

Með

Árið 2024, föstudaginn 31. maí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 56/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. apríl 2024 um að stöðva framkvæmdir við „byggingu skúrs“ á lóðamörkum Leiðhamra 52 og 54.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. maí 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Leiðhömrum 54, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. apríl 2024 að stöðva framkvæmdir við „byggingu skúrs“ á lóðamörkum Leiðhamra 52 og 54. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 30. maí 2024.

Málsatvik og rök: Hinn 11. apríl 2024 barst byggingarfulltrúanum í Reykjavík ábending um að framkvæmdir væru hafnar á lóðinni Leiðhamrar 54 án tilskilins leyfis. Hinn 15. s.m. sendi embættið bréf til kæranda þar sem fram kom að hafnar væru framkvæmdir við byggingu skúrs á lóðarmörkum án leyfis aðliggjandi lóðarhafa, sbr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Með bréfinu var tilkynnt um að allar byggingarleyfisskyldar framkvæmdir væru stöðvaðar með vísan til 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.9.1. í byggingarreglugerð. Yrði þeim tilmælum ekki sinnt myndi byggingarfulltrúi taka ákvörðun um framhald málsins sem gæti falist í aðstoð lögreglu, sbr. 4. mgr. 55. gr. laganna. Loks var leiðbeint um heimild til að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Hinn 23. s.m. fóru starfsmenn embættisins á vettvang og tóku myndir af framkvæmdunum.

Af hálfu kæranda er byggt á því að hann sé alls ekki að reisa smáhýsi sem þarfnist byggingarleyfis eða samþykki nágranna í skilningi gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Hið rétta sé að hann hafi sett upp skjólvegg fyrir heitan pott og útisturtu og hafi það verið gert að mestu fyrir nokkrum árum síðan og það eftir að hann hafi fengið leyfi eiganda nærliggjandi lóðar til að reisa 1,8 m hátt grindverk á lóðamörkum. Skjólveggirnir nái ekki yfir hið samþykkta grindverk og sé því ekki þörf á byggingarleyfi. Úrskurðað hafi verið um hæð grindverksins í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 98/2022. Auk þess sé bent á að aðstæður hafi ekki verið rannsakar nægjanlega áður en ákvörðun hafi verið tekin í málinu, en slíkt sé brot á 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæranda hafi ekki gefist færi á því að andmæla ákvörðuninni áður en hún hafi verið tekin, sem feli í sér brot á 13. og 14. gr. sömu laga. Einnig feli ákvörðunin í sér brot á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga þar sem ekki hafi verið tekið til skoðunar hvort beita hefði mátt vægari úrræðum.

Reykjavíkurborg fari fram á að kröfum kæranda verði vísað frá þar sem um málsmeðferðarákvörðun sé að ræða en ekki stjórnvaldsákvörðun sem bindi enda á mál, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Byggingarfulltrúi hafi stöðvar framkvæmdirnar svo unnt væri að rannsaka og taka afstöðu til þess hvort og þá að hve miklu leyti væri um að ræða byggingarleyfisskyldar framkvæmdir. Enn hafi ekki verið tekin lokaákvörðun í málinu þar sem vafi leiki á því hvort framkvæmdirnar séu byggingarleyfisskyldar. Hafi því sú ákvörðun verið tekin að leita niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um það álitamál með vísan til 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð sú ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. apríl 2024 að stöðva framkvæmdir við „byggingu skúrs“ á lóð Leiðhamra 54 við mörk þeirra lóðar og lóðar nr. 52.

Samkvæmt 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er byggingarfulltrúa heimilt að stöðva byggingarleyfisskyldar framkvæmdir skv. 9. gr. laganna ef ekki liggur fyrir tilskilið leyfi. Ákvörðun um stöðvun framkvæmda á grundvelli þeirra heimildar er bráðabirgðaákvörðun sem taka skal tafarlaust leiki grunur á því að framkvæmd sé án tilskilins leyfis. Í framhaldi hefur byggingarfulltrúi undirbúning endanlegrar ákvörðunar, sem eftir atvikum getur falist í að aflétta stöðvun eða beina tilmælum til framkvæmdaraðila um að bæta úr því sem áfátt er eða fjarlægja byggingarhluta.

Fyrir liggur að byggingarfulltrúi er enn með til athugunar hvort hinar umræddu framkvæmdir teljist byggingarleyfisskyldar og hefur hann af því tilefni óskað eftir áliti úrskurðarnefndarinnar þar um á grundvelli 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010. Er það mál til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og hefur það hlotið málsnúmerið 58/2024, en tekið skal fram að samkvæmt 2. málsl. ákvæðisins skal niðurstaða nefndarinnar liggja fyrir innan eins mánaðar frá móttöku erindisins. Með hliðsjón af framangreindu verður því að líta svo á að ákvörðun byggingarfulltrúa um að stöðva framkvæmdir sé bráðabirgðaákvörðun sem ekki sé kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og verður af þeim sökum að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

31/2024 Laugarásvegur

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 30. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 31/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. febrúar 2024 um að aðhafast ekki frekar vegna steypts veggjar á lóðamörkum Laugarásvegar 63 og 59, Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 21. mars 2024, kærir eigandi Laugarásvegar 61, þá ákvörðun byggingar­fulltrúans í Reykjavík frá 29. febrúar 2024 að aðhafast ekki frekar vegna steypts veggjar á lóðamörkum Laugarásvegar 63 og 59, Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 19. apríl 2024.

Málavextir: Lóðarhafar Laugarásvegar 63 munu hafa reist steyptan vegg á lóðamörkum Laugarásvegar 63 og 59, en síðarnefnda lóðin er borgarland sem gengur einnig undir nafninu Gunnarsbrekka. Kærandi sendi umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar ábendingu vegna veggjarins í júlí 2023 og var lóðarhöfum Laugarásvegar 63 sent bréf 17. nóvember 2023 þar sem skýringa var óskað. Var erindið ítrekað 5. desember s.á. Engin viðbrögð bárust við bréfinu og var það sent með birtingapósti 18. s.m. Lóðarhafar Laugarásvegar 63 óskuðu með tölvubréfi, dags. 20. s.m., eftir 14 daga fresti til að bregðast við efni bréfsins. Viðbrögð bárust 10. janúar 2024 þar sem fram kom að lóðarhafar Laugarásvegar 63 hefðu ekki áttað sig á að sækja þyrfti um leyfi fyrir veggnum en til stæði að láta gera aðaluppdrætti og afstöðumynd sem myndi fylgja með leyfisumsókn. Byggingarfulltrúi sendi lóðarhöfunum ítrekunarbréf með birtingarpósti 2. febrúar s.á. og tókst sú birting 8. s.m. Í kjölfarið sendu lóðarhafar Laugarás­vegar 63 byggingarfulltrúa samþykki Reykjavíkurborgar sem lóðarhafa Laugarásvegar 59 ásamt teikningum hinn 28. s.m. Kom þar jafnframt fram fyrirspurn þess efnis hvort þörf væri á byggingarleyfi ef undirritað samkomulag lægi fyrir. Byggingarfulltrúi tók ákvörðun hinn 29. s.m. um að aðhafast ekki frekar hvað varðaði umdeildan vegg og bókaði:

„Upplýsa þarf eiganda að hann þarf að tilkynna til embættis byggingarfulltrúa heitapottinn. Komið samþykki frá Reykjavíkurborg sem aðliggjandi lóðarhafa lóð nr. 59 fyrir steypta stoðveggnum. Ekki þarf samþykki eiganda á lóð nr. 61 þar sem stoðveggurinn er fjær en 3 m. Bókað að byggingarfulltrúi mun ekki aðhafast frekar að því er varðar steypta vegginn. Eigandi lóðar nr. 63 hyggst gera lokatilraun til að ná samkomulagi með eiganda lóðarhafa nr. 61 varðandi girðingu á lóðarmörkum. Náist það ekki mun hann fjarlægja umrædda girðingu.“

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er byggt á því að umræddur veggur sé byggingarleyfis­skyldur, auk þess sé heitur pottur á lóð leyfishafa tilkynningarskyldur samkvæmt byggingar­reglugerð nr. 112/2012. Hvorki hafi verið sótt um byggingarleyfi fyrir umræddum vegg né útiskýli og hafi engin slík leyfi verið veitt. Þá hafi heitur pottur ekki verið tilkynntur til byggingarfulltrúa með lögformlegum hætti.

Rannsóknarregla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið þverbrotin í málinu þar sem augljóst sé að lítil sem engin rannsókn hafi farið fram á áhrifum framkvæmdanna á lóð kæranda eða á almenna öryggishagsmuni. Þannig hafi engin formleg afstaða verið tekin af hálfu embættis byggingarfulltrúa til ábendinga kæranda. Ákvörðun byggingarfulltrúa um að aðhafast ekki sé órökstudd með öllu og með engum hætti hægt að gera sér grein fyrir á hverju hún sé byggð.

Óvænt og skyndilegt „eftir á samþykki“ eignaskrifstofu Reykjavíkurborgar á því að fram­kvæmdin nái yfir lóðamörk gæti verið mögulegt skilyrði fyrir veitingu byggingarleyfis, en geti ekki verið nægjanleg ástæða þess að byggingarfulltrúi aðhafist ekki í málinu. Sú teikning sem eignaskrifstofan hafi fengið í hendurnar rétt fyrir afgreiðslufund byggingarfulltrúa sé án málsetningar og ekki sé getið um byggingarefni stoðveggjar og ekkert fjallað um breytingu á landslagi vegna jarðvegsrasks á borgarlandi á lóð Laugarásvegar 59. Óljóst sé hvort tölulegar upp­lýsingar um stærð mannvirkisins á lóðarmörkum hafi legið fyrir þegar eignaskrifstofan hafi samþykkt vegginn og teikninguna. Þá hafi borgarráð ekki veitt samþykki eins og venja sé fyrir þegar borgarlandi sé ráðstafað. Um byggingarleyfisskylda framkvæmd sé að ræða sem sé háð grenndarkynningu samkvæmt ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010, en ekkert deiliskipulag sé í gildi á lóðinni. Engar skipulagslegar heimildir séu þannig fyrir hendi.

Byggingarfulltrúi hafi sent lóðarhafa Laugarásvegar 63 bréf, dags. 2. febrúar 2024, þar sem veittur hafi verið 14 daga frestur til að leggja inn byggingarleyfisumsókn, m.a. fyrir hinum umdeilda vegg. Svo virðist sem byggingarfulltrúi hafi horfið frá þeirri kröfu án þess að ákvörðunin hafi verið afturkölluð með formlegum hætti. Kæranda hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um þá ákvörðun.

Ákvörðun byggingarfulltrúa um að aðhafast ekki í máli þessu sé líklega lagalega fordæmis­gefandi. Þannig geti lóðarhafar í Reykjavík reist stóran steyptan vegg og útiskýli á lóðar­mörkum án þess að sækja um byggingarleyfi. Þá sé gerð athugasemd við óeðlilegan drátt á afgreiðslu máls hjá byggingarfulltrúa sem hafi fengið málið í hendurnar 11. júlí 2023 og lokið málinu í lok febrúar 2024. Engar teikningar séu til af útiskýli á lóð Laugarásvegar 63 og geti lóðarhafi því stækkað skýlið að vild, líkt og hann hafi gert hingað til.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Kvartanir kæranda sem hafi verið til meðferðar hjá byggingar­fulltrúa séu margþættar og varði hin kærða ákvörðun í máli þessu, sem snúi að steyptum vegg, einungis einn þátt þeirra umkvartana. Kvartanir sem snúi að heitum potti á lóð Laugarásvegar 63 og grindverki á lóðamörkum Laugarásvegar 61 og 63 séu enn í vinnslu. Þá hafi kærandi einnig kvartað yfir timburpalli á lóð Laugarásvegar 63 eftir að kæra í máli þessu hafi borist.

Byggingarfulltrúi hafi það hlutverk að hafa eftirlit með mannvirkjagerð, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og í 55. og 56. gr. laganna sé kveðið á um þvingunarúrræði sem mögulegt sé að nýta svo fylgja megi ákvörðunum eftir. Byggingarfulltrúi hafi haft mál er varðaði steyptan stoðvegg á lóðarmörkum til meðferðar frá 17. nóvember 2023 til 29. febrúar 2024. Málinu hafi lokið með ákvörðun þess efnis að aðhafast ekki frekar og þar með ákvörðun um að þvingunarúrræðum yrði ekki beitt til að knýja fram byggingarleyfis­umsókn eða að stoðveggurinn yrði fjarlægður.

Fyrir liggi að umræddur stoðveggur hafi verið reistur án leyfis. Rannsókn byggingarfulltrúa í málinu hafi snúið að því hvort tilefni væri til að beita þvingunarúrræðum mannvirkjalaga en 2. mgr. 55. gr. fjalli t.a.m. um þau úrræði sem í boði séu þegar byggingarframkvæmd sé hafin án þess að leyfi sé fyrir henni. Ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða sé háð mati byggingar­fulltrúa hverju sinni, en í athugasemdum við frumvarp það sem orðið hafi að mannvirkjalögum komi fram að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs.

Ákvörðun byggingarfulltrúa í máli þessu hafi byggt á málefnalegum sjónarmiðum. Líkt og fram komi í tölvubréfi til kæranda, dags. 5. mars 2024, hafi byggingarfulltrúi ekki talið forsendur fyrir því að halda málinu til streitu í ljósi samþykkis aðliggjandi lóðarhafa og vegna þess að ekki verði séð að hinn umþrætti veggur ógni öryggis- eða almannahagsmunum. Kæranda sé ekki tryggður lögvarinn réttur til þess að knýja byggingarfulltrúa til beitingar þvingunarúrræða.

Loftmynd af svæðinu sýni að umþrættur veggur nái ekki inn á lóð nr. 59 við Laugarásveg. Þá hafi ekkert komið fram í málinu sem renni stoðum undir þá kenningu kæranda að yfirborðsvatn renni nú í átt að Laugarásvegi 61. Veggurinn standi a.m.k. þrjá metra frá lóðamörkum kæranda og 13 m frá því húshorni kæranda sem næst standi veggnum.

 Athugasemdir eigenda Laugarásvegar 63: Af hálfu eigenda Laugarásvegar 63 er bent á að fyrir liggi samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar, Laugarásvegar 59, vegna veggjarins, í sam­ræmi við e-lið gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Staðfesting byggingarfulltrúa þess efnis að ekki sé um byggingarleyfisskylda framkvæmd að ræða liggi einnig fyrir. Aðrar fram­kvæmdir á lóð falli undir c- og d-lið gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar, en viðhald vegna lóða, girðinga, gerð palla og annar frágangur sé undanþeginn byggingarheimild og -leyfi, sem og tilkynningarskyldu.

Framkvæmdir á baklóð svipi til annarra minniháttar framkvæmda á lóðum í hverfinu. Skjól­veggi, palla og heita potta sé að finna við meirihluta einbýlishúsa í götum ofan Laugardals. Ekki verði séð hvernig framkvæmdin í heild sé frábrugðin þeim eða að hún skerði að einhverju marki hagsmuni kæranda. Inngangur og bílastæði séu á baklóð kæranda og þaðan séu 20 m að stoð­veggnum.

Leyfishafar telja nauðsynlegt að leiðrétta ýmsar rangfærslur sem fram komi í kæru. Teikning sú sem samþykkt hafi verið af Reykjavíkurborg sé í kvarða og innihaldi mál. Veggurinn, sem sé 2,2 m á hæð, sé allur á lóð nr. 63 og borgarlandi hafi því ekki verið ráðstafað. Stoðveggurinn sjáist ekki greinilega frá lóð kæranda. Þegar lauf séu á trjám sé veggurinn varla sýnilegur frá inngangi og bílastæði kæranda. Meira sjáist í vegginn á veturna. Ekki fáist séð að veggurinn skerði útsýni frá lóð eða gluggum kæranda að nokkru ráði. Þá sé það skoðun kæranda að veggurinn sé lýti í umhverfinu. Aðrir nágrannar og arkitektar hafi hrósað framkvæmdinni. Veggnum hafi verið slegið upp í anda hússins í takt við umsögn skipulagsfulltrúa við fyrirspurn leyfishafa. Horft hafi verið til gr. 6.5.4. í byggingarreglugerð við frágang á veggnum, en endanlegum frágangi sé ekki lokið. Útiskýli það sem kærandi vísi til sé pergóla sem sé opin að miklu leyti en lokuð yfir heitum potti með glæru plexígleri og svipi helst til skjólveggjar sem sé undanskilinn leyfum og tilkynningarskyldu skv. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Fullyrðing kæranda um að veggurinn beini vatni frá Gunnarstúni í átt að Laugarásvegi 61 sé ekki á rökum reist. Samkvæmt áliti fagaðila sem leyfishafi hafi aflað hafi komið fram að drenun við vegginn ætti frekar að losa vatn frá lóðinni en að auka það. Kærandi hafi í a.m.k. tvígang upplýst leyfis­hafa um leka í kjallara áður en stoðveggurinn hafi verið byggður, en ekki hafi verið upplýst um nýjan leka. Viðhald á eign kæranda sé einnig lítið sem ekkert, þakskyggni yfir svölum sé að hruni komið og þakið leki. Líklegt sé að löngu sé tímabært að drena lóðina við hús kæranda, en það standi á lægsta punkti fyrir neðan Gunnarstún. Þá beinast sleðaferðir niður Gunnarstún ekki í átt að veggnum, heldur fremur að lóð kæranda. Ekki þurfi að fá leyfi fyrir heitum potti, hann sé tilkynningarskyldur.

Baklóð kæranda snúi að Gunnarstúni og þar sé að finna inngang, bílastæði, ónýt grindverk og gróðurhús í niðurníðslu. Útsýni kæranda frá baklóð takmarkist einna helst af framangreindu, sem og gróðri. Þeir gluggar kæranda sem snúi að brekkunni séu stigagangsgluggi og langur eldhúsgluggi sem endi í brjósthæð. Erfitt sé að átta sig á hvaða útsýni kærandi missi enda liggi veggurinn ekki við lóð hans.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að afstaða byggingarfulltrúa að aðhafast ekki í málinu feli ekki í sér samþykki fyrir veggnum og því sé enn um óleyfisframkvæmd að ræða. Samþykki lóðarhafa Laugarásvegar 59 sé ekki það sama og að byggingarfulltrúi hafi samþykkt vegginn enda sé hann of hár og valdi slysahættu hjá börnum og varði því almanna­heill, ásamt því að valda leka í húsi kæranda.

Kærandi verði fyrir beinni og verulegri útsýnisskerðingu, ónæði og leka vegna veggjarins og sé öll sú óleyfisframkvæmd byggingarleyfisskyld. Samþykki skrifstofustjóra hafi verið óvænt þar sem frestur til að skila inn byggingarleyfisumsókn hafi verið liðinn.

Ósannað sé að fram hafi komið símleiðis að hinn umdeildi veggur þyrfti ekki byggingarleyfi. Þá hafi kærandi ekki orðið var við túnskriðu við lóðarmörk. Kærandi hafi látið framkvæma mælingu sem sýni að veggurinn sé á borgarlandi að hluta. Hann hafi verið reistur í óleyfi árið 2021 og fyrsti leki í húsi kæranda hafi orðið í norðausturhluta kjallara hússins árið 2022. Óljóst sé hvort og hvernig drenað sé við vegginn, enda ekki til neinar teikningar fyrir hann. Þá séu dæmi um að börn hafi klesst á vegginn í sleðaferðum niður brekkuna.

Varðandi athugasemdir Reykjavíkurborgar sé bent á að öryggis- og almannahagsmunum sé ógnað. Lína dregin á loftmynd sé ekki nægjanlega nákvæm til að kveða á um hvort veggurinn nái inn á borgarland og hafi kærandi undir höndum mælingaskýrslu frá skipulagssviði Reykjavíkurborgar þar sem fram komi að veggurinn nái inn á borgarland.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að aðhafast ekki frekar í tilefni af steyptum vegg á lóðamörkum Laugarásvegar 63 og 59. Ýmis önnur deiluefni eru nefnd í málsrökum lóðahafa Laugarásvegar 61 og 63, svo sem heitur pottur og timburpallur á lóð Laugarásvegar 63. Eru þau deiluefni enn í vinnslu hjá borgaryfirvöldum og hefur ekki verið tekin stjórnvaldsákvörðun í þeim málum, en skv. 1. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Deilur um grindverk á lóðamörkum Laugarásvegar 61 og 63 hafa ratað til úrskurðarnefndarinnar í öðru kærumáli, nr. 54/2024, og verður því ekki vikið frekar að þeim deilum í úrskurði þessum.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 geta þeir einir sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar. Kærandi í máli þessu er lóðarhafi Laugarásvegar 61 og liggur hinn umdeildi veggur ekki að lóðarmörkum hans. Hafa lóðarhafar Laugarásvegar 63 vísað til þess að veggurinn sjáist lítið sem ekkert frá inngangi kæranda, gluggum hans eða bílastæði. Í málinu liggja fyrir allnokkrar myndir af hinum umdeilda vegg, teknum frá lóð kæranda. Verður að líta svo á að veggurinn breyti ásýnd umhverfisins og útsýni kæranda að nokkru. Þá er ekki útilokað að tilvist veggjarins veiti vatni í auknum mæli á lóð kæranda, en halli er á landi ofan við vegginn. Með vísan til framangreinds verður litið svo á að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn máls þessa.

Það er hlutverk byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með mannvirkjagerð í sínu umdæmi, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og í 55. og 56. gr. laganna er kveðið á um þvingunarúrræði þau sem honum eru tiltæk til að fylgja ákvörðunum sínum eftir. Í 1. mgr. 55. gr. er m.a. tekið fram að byggingarfulltrúi geti gripið til aðgerða ef ekki er fylgt ákvæðum laganna eða reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim við byggingarframkvæmdir. Þá er kveðið á um það í 2. mgr. ákvæðisins að ef byggingarframkvæmd sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu sé heimilt að beita dagsektum eða vinna slík verk á hans kostnað, sbr. 3. mgr. 55. gr. laganna.

Tekið er fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að sú breyting sé gerð frá fyrri lögum að byggingarfulltrúa sé heimilt að beita þvingunarúrræðum en sé það ekki skylt eins og verið hafði. Kemur þar fram að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Er ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða því háð mati stjórnvalds hverju sinni og gefur sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Fer það því eftir atvikum hvort nefndum þvingunarúrræðum verði beitt í tilefni af framkvæmd sem telst vera ólögmæt. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingshagsmuna enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting þvingunarúrræða sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki fyrrgreindum lagaheimildum, og fylgja þarf meginreglum stjórnsýsluréttarins, s.s. um rannsókn máls og að málefnaleg sjónarmið búi að baki ákvörðun.

Hugtakið mannvirki er skilgreint í 13. tl. 3. gr. laga nr. 160/2010 sem hvers konar jarðföst, manngerð smíð, sbr. einnig 55. tl. gr. 1.2.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Er hinn um­deildi veggur mannvirki í skilningi framangreindra ákvæða. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Í ákvæðinu er þó tekið fram að ráðherra geti í reglugerð kveðið á um að minni háttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar á mannvirkjum skuli undan­þiggja byggingarleyfi, að slíkar framkvæmdir séu einungs tilkynningarskyldar eða að gera skuli vægari kröfur um fylgigögn eða umsóknarferli.

Af ljósmyndum og samskiptum sem fyrir liggja í máli þessu er ljóst að hinn umdeildi veggur er steyptur og er fyrst og fremst gerður til að styðja við jarðveg, en landhalli er nokkur á svæðinu. Hugtökin skjól- og stoðveggur eru ekki skilgreind í byggingarreglugerð en í gr. 4.4.4. um lóðauppdrætti kemur fram að á uppdráttum skuli m.a. gera ráð fyrir skjólveggjum, sbr. c-lið, og stoðveggjum, sbr. d-lið. Er því í reglugerðinni gert ráð fyrir að um tvær gerðir af veggjum sé að ræða. Í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð er fjallað um minniháttar mannvirkjagerð sem undanþegin er byggingarheimild og -leyfi. Er þar fjallað um skjólveggi í e-lið en stoð­veggir ekki nefndir sérstaklega. Skilyrði þess að heimilt sé að beita gr. 2.3.5. er að þau mannvirki eða framkvæmdir sem þar eru upp talin séu í samræmi við deiliskipulag. Í e-lið er svo tiltekið að lóðarhöfum samliggjandi lóða sé heimilt án byggingarleyfis að reisa girðingar eða skjólveggi allt að 1,8 m að hæð á lóðarmörkum enda leggi þeir fram hjá leyfisveitanda undirritað samkomulag þeirra um framkvæmdina. Miðað skuli við jarðvegshæð lóðar sem hærri er ef hæðarmunur sé á milli lóða á lóðarmörkum.

Óumdeilt er að hinn kærði stoðveggur var byggður án þess að byggingarleyfi hafi verið veitt. Af hinni kærðu ákvörðun byggingarfulltrúa má ráða að niðurstaða hans um að aðhafast ekki hafi ráðist af því að samþykki eiganda aðliggjandi lóðarinnar Laugarásvegar 59 hafi legið fyrir þegar sú ákvörðun var tekin. Kemur sú afstaða jafnframt fram í tölvupósti frá Reykjavíkurborg til kæranda 1. mars 2024.

Meginregla laga nr. 160/2010 er að byggingarleyfi þurfi fyrir mannvirkjagerð og verður að túlka undantekningar þær sem finna má í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð þröngt. Verður orðalag e-liðar nefndrar greinar um samþykki lóðarhafa vegna skjólveggja ekki túlkað svo rúmt að það nái einnig til stoðveggja, en líkt og áður segir er gerður greinarmunur á þeim tegundum veggja í reglugerðinni. Sambærilegt ákvæði er ekki að finna um stoðveggi í reglugerðinni og getur samþykki því ekki haft réttaráhrif umfram það sem skýrlega er mælt fyrir um í greininni. Byggði ákvörðun byggingarfulltrúa um að aðhafast ekki frekar þar sem samþykki lægi fyrir því á röngum lagagrundvelli. Rétt þykir einnig að benda á að ekki er til staðar deiliskipulag fyrir svæðið, sem er forsenda þess að unnt sé að beita gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Þá virðist byggingarfulltrúi ekki hafa tekið efnislega afstöðu til sjónarmiða kæranda um ógn við almanna- og öryggishagsmuni, svo sem um slysahættu barna.

Í ljósi framangreinds verður að telja að rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar sé haldin slíkum ágöllum að ekki verði hjá því komist að fella hana úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. febrúar 2024 um að aðhafast ekki frekar vegna steypts veggjar á lóðamörkum Laugarásvegar 63 og 59, Reykjavík.

29/2024 Svínabú að Torfum

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 30. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.

Fyrir var tekið mál nr. 29/2024, kæra á ákvörðun Eyjafjarðarsveitar frá 14. febrúar 2024 um synjun á viðurkenningu á bótaskyldu vegna deiliskipulags svínabús að Torfum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags, 15. mars 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra Holt ehf. og Ljósaborg ehf., eigendur jarðanna Grundar I og Grundar II A í Eyjafjarðarsveit, synjun Eyjafjarðarsveitar frá 14. febrúar 2024 á bótaskyldu vegna deiliskipulags svínabús að Torfum. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að málinu vísað aftur til sveitarfélagsins til efnislegrar meðferðar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Eyjafjarðarsveit 17. apríl 2024.

Málavextir: Hinn 25. nóvember 2019 tók gildi deiliskipulag fyrir svínabú í landi Torfa í Eyjafjarðarsveit. Samkvæmt auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda er á skipulagssvæðinu gert ráð fyrir byggingu tveggja gripahúsa samtals u.þ.b. 5.700 m² að stærð auk tilheyrandi fóðursílóa, hauggeymslu og starfmannahúss. Ráðgert er að á hverjum tíma verði fjöldi grísa í eldi 2.400 og fjöldi gylta 400. Með bréfi kærenda, eigenda nábýlisjarðarinnar Grundar, til Eyjafjarðarsveitar, dags. 24. nóvember 2023, voru lagðar fram kröfur um viðurkenningu sveitarfélagsins á bótaskyldu vegna deiliskipulags svínabúsins. Erindinu var svarað með bréfi, dags. 14. febrúar 2024, þar sem kröfum kærenda var hafnað og m.a. tekið fram að ekki yrði séð að kærendur yrðu fyrir tjóni vegna fyrirhugaðs svínabús. Var sú afstaða áréttuð með tölvubréfi til kærenda 14. mars s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur hafna því að sveitarfélög geti synjað bótakröfum í heild vegna deiliskipulagsáætlana þegar tjón sé bersýnilega til staðar en umfang þess verði ekki auðveldlega ákvarðað. Í 51. og 51. gr. a. skipulagslaga nr. 123/2010 sé að finna lögbundna skyldu sveitarfélaga til að dómkveðja matsmenn til að meta slíkt tjón. Feli hin kærða synjun í sér að þessi fyrirmæli séu sniðgengin. Augljóst sé að tjón sé til staðar. Vísað sé til dóms Hæstaréttar Íslands frá 26. apríl 2012 í máli nr. 523/2011 þar sem talið hafi verið að nágrannajörð við nýbyggt svínabú hefði orðið fyrir tjóni. Atvik umræddra mála séu nokkuð sambærileg en svínabúið í hinu dæmda máli hafi verið mun lengra frá nágrannajörðinni en í hinu kærða máli. Þá sé einnig að finna ákvæði í 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti sem skerði verulega nýtingarrétt kærenda til að byggja húsnæði nálægt fyrirhuguðu svínabúi.

Hin kærða ákvörðun beri fremur einkenni stjórnvaldsákvörðunar en úrlausnar á einkaréttarlegri bótakröfu enda varði ákvörðunin málsmeðferðarskyldu stjórnvalda sem kunni að koma upp í kjölfar gerðar deiliskipulags. Sveitarfélaginu hafi verið bent á umfjöllun í frumvarpi til stjórnsýslulaga um að málsmeðferðarákvarðanir vegna eignarnámsbóta teldust til stjórnvaldsákvarðana. Sterk tengsl séu á milli eignarnáms og bóta á grundvelli 51. gr. skipulagslaga, sbr. athugasemdir við núverandi 51. gr. í frumvarpi að breytingalögum nr. 59/2014 á skipulagslögum.

Málsrök Eyjafjarðarsveitar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfum kærenda verði vísað frá en annars hafnað. Ákvörðun sveitarfélags um bótaskyldu skv. 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé einkaréttarlegs eðlis og þar með ekki kæranleg til æðra stjórnvalds. Stjórnvaldsákvarðanir séu ákvarðanir teknar á grundvelli opinbers réttar um rétt eða skyldur aðila. Í frumvarpi því sem orðið hafi að stjórnsýslulögum komi fram að lögin taki ekki til ákvarðana sem séu einkaréttarlegs eðlis en orðrétt segi: „Á sömu sjónarmiðum er byggt að því er varðar bótakröfur sem beint er að hinu opinbera. Þannig taka lögin til ákvarðana varðandi eignarnámsbætur og bætur frá almannatryggingum svo að dæmi séu nefnd, meðan ákvarðanir um skaðabætur af öðrum orsökum falla flestar utan gildissviðs þeirra.“ Ekki verði séð að ákvörðun um eignarnám eða eignarnámsbætur séu sambærilegar við bótakröfur skv. 51. gr. skipulagslaga. Byggi bótaskylda skv. 51. gr. skipulagslaga á almennum reglum skaðabótaréttar en ákvörðun um eignarnámsbætur byggi á þvingunaraðgerð og því á íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun. Þegar skipulag sé samþykkt þurfi eigendur aðliggjandi eigna að þola takmörkun á eignarrétti.

Einnig sé því mótmælt að í 51. og 51. gr. a. skipulagslaga felist lögbundin skylda sveitarfélaga til að láta dómkveðja matsmenn þegar farið sé fram á skaðabætur samkvæmt greininni. Þvert á móti segi í 1. mgr. 51. gr. laganna að sá „er getur sýnt fram á tjón af þeim sökum rétt á bótum frá viðkomandi sveitarfélagi.“ Þetta sé í samræmi við þá meginreglu skaðabótaréttar að sá sem telji sig verða fyrir tjóni verði að sýna fram á tjón sitt. Ekki verði séð að önnur sjónarmið eigi við um bótakröfur samkvæmt umræddu ákvæði. Þá sé engin lagaheimild til þess að nefndin vísi málinu aftur til sveitarfélagsins sem eigi að leggja út í kostnað og vinnu við að útbúa matsbeiðni til héraðsdóms og bera kostnað af dómkvaðningu og vinnu matsmanna. Kærendur hafi alls ekki sýnt fram á að þeir verði fyrir tjóni. Svínabúið og land kærenda sé á skipulögðu landbúnaðarsvæði og eldi svína teljist landbúnaður. Þá eigi dómur Hæstaréttar Íslands frá 26. apríl 2012 í máli nr. 523/2011 ekki við enda málsatvik önnur en í máli þessu.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur telja að sveitarfélög hafi vítt svigrúm til að viðurkenna hvort bótaskylda sé til staðar vegna skipulags. Þó sé ljóst að slík ákvörðun sé stjórnvaldsákvörðun, sambærileg t.d. ákvörðun um hvort standa eigi að eignarnámi. Slíkar ákvarðanir lúti meginreglum stjórnsýsluréttar, þ. á m. meginreglunum um skyldubundið mat og réttmætisregluna. Augljóst sé að kærendur verði fyrir tjóni við það að eitt stærsta svínabú landsins sé skipulagt á landamörkum jarða þeirra. Verði talið að ákvörðun um að viðurkenna bótaskyldu eða ekki sé ekki stjórnvaldsákvörðun sé ljóst að sveitarfélög geti undantekningarlaust skotið sér undan þeirri ábyrgð sem felist í 51. gr. a. skipulagslaga nr. 123/2010.

 Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli skipulagslaga nr. 123/2010 sæta kæru til úrskurðarnefndarinnar að undanskildum ákvörðunum sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að staðfesta, sbr. 52. gr. laganna. Í máli þessu er kærð sú ákvörðun Eyjafjarðarsveitar frá 14. febrúar 2024 að synja kröfu kærenda um viðurkenningu sveitarfélagsins á bótaskyldu vegna deiliskipulags fyrir svínabú að Torfum í Eyjafjarðarsveit. Til álita kemur hvort synjun sveitarfélagsins á viðurkenningu um bótaskyldu teljist stjórnvaldsákvörðun sem tekin sé á grundvelli skipulagslaga og sé þar með kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Gildissvið stjórnsýslulaga nr. 37/1993 markast af stjórnvaldsákvörðunum, en með þeim er átt við ákvarðanir stjórnvalda sem teknar eru í skjóli stjórnsýsluvalds um rétt eða skyldu manna, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Í athugasemdum við 1. gr. í frumvarpi því er varð að þeim lögum var rakið að þeim væri ekki ætlað að taka til ákvarðana stjórnvalda sem teldust einkaréttarlegs eðlis. Voru þessu til skýringar tilfærð nokkur dæmi og var þar m.a. nefnt að þótt lögunum væri ætlað að ná til ákvarðana varðandi eignarnámsbætur og bætur frá almannatryggingum mundu þau ekki taka til ákvarðana um skaðabætur af flestum öðrum orsökum. Ráða má af þessari umfjöllun að huga verður að þeim lagagrundvelli sem ákvörðunin byggist á og hvers eðlis og efnis ákvörðunin er. Hefur þar einnig þýðingu hver staða stjórnvalds er við ákvarðanatöku. Skylda sveitarstjórnar til að taka afstöðu til bótaskyldu vegna skipulagsgerðar samkvæmt bótareglu 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er þáttur í rækslu lögbundinna verkefna og getur sveitarstjórn þar ekki talist í hliðstæðri stöðu og einkaaðili. Verður því talið að afstaða til bótakröfu á grundvelli lagagreinarinnar verði að teljast til stjórnvaldsákvörðunar, sem með því sé kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Hinn 24. nóvember 2023 fóru kærendur í máli þessu fram á það að Eyjafjarðarsveit viðurkenndi skaðabótaskyldu á grundvelli 51. og 51. gr. a. skipulagslaga vegna deiliskipulags svínabús að Torfum og var m.a. vísað til skertra landnotkunarmöguleika og ætlaðrar lyktarmengunar. Með bréfi sveitarfélagsins, dags. 14. febrúar 2024, var þessum kröfum hafnað og m.a. vísað til þess að land kærenda væri á skipulögðu landbúnaðarsvæði samkvæmt aðalskipulagi þar sem væri löng hefð fyrir landbúnaði. Liggur með þessu fyrir rökstudd afstaða stjórnvaldsins til kröfu sem reist var á grundvelli tilvísaðra lagagreina og var ákvörðunin því studd efnislegum sjónarmiðum sem ekki verða talin ómálefnaleg. Þessu mati verður ekki hnekkt við lögmætiseftirlit úrskurðarnefndarinnar skv. 52. gr. skipulagslaga. Til þess er jafnframt að líta að skv. 51. gr. skipulagslaga bera kærendur sönnunarbyrðina fyrir því tjóni sem þeir telja sig hafa orðið fyrir. Með vísan til þessa og þar sem að öðru leyti liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem varðað geta ógildingu hennar verður kröfu um ógildingu hennar hafnað

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun Eyjafjarðarsveitar frá 14. febrúar 2024 um synjun á viðurkenningu á bótaskyldu vegna deiliskipulags svínabús að Torfum.

 

Sérálit Ómars Stefánssonar: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli skipulagslaga kæru til úrskurðarnefndarinnar að undanskildum ákvörðunum sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að staðfesta, sbr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er ákvörðun stjórnvalds sem tekin er í skjóli stjórnsýsluvalds um rétt eða skyldu manna, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Er það jafnframt talið einkenni slíkra ákvarðana að þeim er beint milliliðalaust út á við að tilteknum aðila eða aðilum í ákveðnu og fyrirliggjandi máli. Í athugasemdum við 1. gr. í frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum segir að lögin taki ekki til ákvarðana stjórnvalda sem teljast einkaréttarlegs eðlis. Þar er og tekið fram að bótakröfur sem beint sé að hinu opinbera geti fallið undir lögin svo sem ákvarðanir varðandi eignarnámsbætur og bætur frá almannatryggingum meðan ákvarðanir um skaðabætur af öðrum toga falli flestar utan gildissviðs þeirra. Af framangreindu má ráða að synjun stjórnvalds á kröfu um greiðslu skaðabóta teljist ekki stjórnvaldsákvörðun þegar ákvörðunin er einkaréttarlegs eðlis og ekki tekin í skjóli stjórnsýsluvalds.

Í 51. gr. skipulagslaga segir að leiði skipulag eða breyting á því til þess að verðmæti fasteignar skerðist verulega, umfram það sem við eigi um sambærilegar eignir í næsta nágrenni, eigi sá er geti sýnt fram á tjón af þeim sökum rétt á bótum frá viðkomandi sveitarfélagi. Þá er mælt fyrir um það í 2. mgr. 51. gr. a. sömu laga að sá sem telur sig eiga rétt á bótum skuli senda kröfu sína til sveitarstjórnar. Viðurkenni sveitarstjórn bótaskyldu og ekki næst samkomulag um bætur skal hún annast um að dómkvaddir verði matsmenn til að ákveða bætur. Hins vegar er í engu getið í nefndum ákvæðum um formlegan undirbúning eða málsmeðferð að baki ákvörðunar um að hafna bótaskyldu.

Að öllu framangreindu virtu verður að telja að hin kærða afstaða stjórnvalds til skaðabótaskyldu feli í sér ákvörðun einkaréttarlegs eðlis sem ekki er tekin í skjóli stjórnsýsluvalds og bindur á engan hátt hendur meints tjónþola til að fylgja bótakröfu sinni eftir. Það fellur einnig utan valdsvið úrskurðarnefndarinnar að taka til endurskoðunar afstöðu stjórnvalda til skaðabótaskyldu eða eftir atvikum til upphæðar bóta sem ráðast af reglum íslensks skaðabótaréttar. Slíkur ágreiningur á eftir atvikum undir dómstóla. Tel ég því úrskurðarnefndina bresta vald til að taka kæruefnið til efnismeðferðar og beri af þeim sökum að vísa kærumáli þessu frá.

55/2024 Sandeyri

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 29. maí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 55/2024, kæra á ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 11. apríl 2024 um að gefa út byggingarleyfi fyrir fiskeldiskvíar og tengd mannvirki í sjó við Sandeyri á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. maí 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi jarðarinnar Sandeyri, þá ákvörðun  Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 11. apríl 2024 að gefa út byggingarleyfi fyrir fiskeldiskvíar í sjó við Sandeyri á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu, sbr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Málavextir: Hinn 1. apríl 2015 gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi til handa Arctic Sea Farm ehf. fyrir framleiðslu á 4.000 tonnum á ári af regnbogasilungi, með 5.300 tonna hámarkslífmassa, í sjókvíaeldi við Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi. Matvælastofnun gaf svo út rekstrarleyfi (FE-1127) fyrir sama hámarkslífmassa 4. september 2020. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála en með úrskurði, uppkveðnum 26. febrúar 2021 í máli nr. 89/2020, var kröfu um ógildingu hennar hafnað.

Í september 2020 lagði Arctic Sea Farm fram matsskýrslu til Skipulagsstofnunar um 8.000 tonna laxeldi og/eða silungseldi í Ísafjarðardjúpi og þar með framleiðsluaukningu um 3.800 tonn. Álit Skipulagstofnunar um matsskýrsluna lá fyrir 28. janúar 2021. Taldi stofnunin að matsskýrslan uppfyllti skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum og að umhverfisáhrifum hefði verið lýst á fullnægjandi hátt.

Hinn 3. nóvember 2023 sótti Arctic Sea Farm um byggingarleyfi fyrir fiskeldiskvíar við Sandeyri á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gaf síðan út byggingarleyfi 11. apríl 2024. Í leyfinu kemur fram að byggingarfulltrúi stofnunarinnar hafi yfirfarið og staðfest aðaluppdrætti í samræmi við 2. tölul. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Hafi það verið mat hans að önnur skilyrði fyrir veitingu byggingarleyfis skv. 13. gr. sömu laga séu jafnframt uppfyllt.

Málsrök kæranda: Kærandi álítur að með hinu kærða leyfi hafi verið heimiluð stóriðja í netlögum eignarjarðar hans, en skipulagsyfirvöld hafi lagt rangt mat á umfang þeirra og legu. Þá muni framkvæmdin hafa veruleg áhrif á nýtingu jarðarinnar, m.a. vegna mengunar í hafi og við strönd, hávaða, ljósmengunar og sjónmengunar. Sé þess krafist að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð um að framkvæmdir skuli stöðvaðar og mannvirkjunum verði lokað. Auk þessa fari framkvæmdirnar í bága við skipulag og lög um vitamál nr. 132/1999 sem og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands um siglingaöryggi þar sem mannvirkin séu staðsett í ljósgeisla frá Óshólavita.

Málsrök Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar: Stofnunin telur að ekki sé ástæðu til að stöðva framkvæmdir þar sem stofnunin hafi staðið rétt að afgreiðslu hins kærða byggingarleyfis, sbr. stjórnsýslulög nr. 37/1993. Jafnframt standist byggingarleyfið þær kröfur sem gerðar séu til þess í lögum nr. 160/2010 um mannvirki.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að kærandi byggi málatilbúnað sinn nær eingöngu á því að umrædd framkvæmd hafi átt sér stað í netlögum jarðarinnar Sandeyri, en framkvæmdin sé í raun alfarið utan þeirra. Við þær aðstæður teljist kærandi ekki aðili þess stjórnsýslumáls sem lúti að umsókn leyfishafa um hið kærða byggingarleyfi og beri því að vísa kærunni frá heild, en ella hafna kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. Vakin sé athygli á því að frumskilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála séu ekki uppfyllt, en þar sé mælt fyrir um heimild kæranda til að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða „séu þær hafnar eða yfirvofandi.“ Í úrskurðarframkvæmd nefndarinnar hafi eðlilega verið lagt til grundvallar að þegar framkvæmdum sé lokið sé þegar af þeirri ástæðu ekki tilefni til að fallast á kröfu um stöðvun framkvæmda. Fyrir liggi að leyfishafi hafi nú þegar reist og tekið í notkun þau mannvirki sem heimilt hafi verið að reisa á grundvelli leyfisins.

 Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. lagagreinarinnar, og getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem ekki felur í sér stöðvun framkvæmda, sbr. 3. mgr. Um undantekningu er að ræða frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir úrskurðarnefndina var framkvæmdum á grundvelli hins kærða byggingarleyfi lokið þegar kæra þessa máls barst úrskurðarnefndinni. Með hliðsjón af því verður að líta svo á að ekki sé til dreifa þeim lögbundnu skilyrðum fyrir stöðvun framkvæmda á grundvelli 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 að framkvæmdir séu annað hvort hafnar eða yfirvofandi. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfum kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

32/2024 Efnistaka í Svarfaðardalsá

Með

Árið 2024, föstudaginn 24. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. Geir Oddsson auðlindafræðingur tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 32/2024, kæra á ákvörðunum Fiskistofu frá 2. og 12. maí 2023 um að veita framkvæmdaleyfi til efnistöku úr árfarvegi Svarfaðardalsár vegna 37.000 m3 í landi Bakka og 20.000 m3 í landi Grundar og ákvörðun sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar frá 6. júní 2023 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistökunnar í landi Bakka.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. mars 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur jarðanna Grafar og Brautarhóls í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð, ákvarðanir Fiskistofu frá 2. og 12. maí 2023 um að veita framkvæmdaleyfi til efnistöku úr árfarvegi Svarfaðardalsár vegna 37.000 m3 í landi Bakka og 20.000 m3 í landi Grundar og ákvörðun sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar frá 6. júní s.á. um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistökunnar í landi Bakka. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Dalvíkurbyggð og Fiskistofu á tímabilinu 2. til 19. apríl 2024.

Málavextir: Í Aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008–2020 er greint frá því að Svarfaðardalsá, með Skíðdalsá sem í hana renni, sé 34 km löng dragá með 450 km2 vatnasvið og renni til sjávar við Dalvík. Í henni veiðist bleikja, urriði og einstaka lax. Veitt hafa verið leyfi til töku malarefnis úr árfarvegi Svarfaðardalsár og er í máli þessu deilt um slíkar heimildir, sem veittar voru af Fiskistofu á grundvelli 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði, og Dalvíkurbyggð á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með útgáfu framkvæmdaleyfa þar að lútandi.

Með umsókn, dags. 20. apríl 2023, var óskað eftir heimild Fiskistofu til töku 37.000 m3 af möl úr eyrum Svarfaðardalsár í landi Bakka og kom fram að tilgangurinn væri að hreinsa upp nánar tilgreindar eyrar, þegar þær mynduðust, til að varna landbroti sem yrði þegar áin kastist frá þeim upp að bökkum hennar. Þá var hinn 2. maí 2023 sótt um leyfi Dalvíkurbyggðar til framkvæmdanna. Kom fram að óskað væri eftir leyfi til bakkavarna og malartöku í og við Svarfaðardalsá. Hinn 21. apríl 2023 var óskað heimildar Fiskistofu til töku á 20.000 m3 af möl úr þremur áreyrum á þremur samliggjandi stöðum í Svarfaðardalsá í landi Grundar. Um sama leyti var sótt um leyfi Dalvíkurbyggðar til efnistökunnar, en afgreiðslu þeirrar umsóknar var frestað á meðan unnið væri að breytingu á aðalskipulagi. Mun þeirri vinnu vera ólokið.

Téðum umsóknunum fylgdu skýrslur sérfræðings í veiðimálum, dags. 11. og 21. apríl s.á., þar sem fram kom að meginmarkmið framkvæmda í landi Bakka væru að minnka álagið á vatnsleiðslu sem liggi undir ána í landi Bakka og á þá varnargarða sem verji hana ásamt því að draga sem mest úr landbroti aðliggjandi svæða. Meginmarkmið framkvæmda í landi Grundar væri að draga sem mest úr landbroti aðliggjandi svæða. Þá fylgdu umsóknunum jafnframt umsagnir Veiðifélags Svarfaðardalsár, dags. 17. og 21 apríl 2023, þar sem ekki voru gerðar athugasemdir við framkvæmdirnar.

Hinn 2. maí 2023 gaf Fiskistofa út leyfi til fimm ára vegna „malartekju og bakkavarnar“ í landi Bakka. Var þar heimiluð efnistaka 37.000 m3 eða um 7.500 m3 á ári. Á fundi sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar 6. júní 2023 var umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistökunnar samþykkt og framkvæmdasviði falið að gefa út leyfið þegar umsækjandi hefði skilað inn efnistökuáætlun. Var það gefið út 19. s.m. og kom þar m.a. fram að efnisnám væri aðeins heimilt á tímabilinu 1. desember til 15. júní ár hvert, gera skyldi seiðamælingu fyrir og eftir framkvæmdir og að tryggt skyldi að hrygningarstöðvar í farveginum þorni ekki upp vegna efnisnámsins sem og að farvegur lokist ekki þannig að fiskur verði innlyksa. Þá gaf Fiskistofa hinn 12. maí 2023 út leyfi til fimm ára vegna efnistöku í landi Grundar. Var þar heimiluð efnistaka á 20.000 m3 af möl, eða um 4.000 m3 á ári. Í leyfum Fiskistofu var lögð á það áhersla að farið yrði eftir fyrirliggjandi ráðleggingum sérfræðings í veiðimálum og gengið snyrtilega frá svæðunum að framkvæmdum loknum. Einnig var lögð áhersla á að ekki yrði farið í framkvæmdir í ánni á tímabilinu 15. júní til 1. desember ár hvert.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að kærufestur samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi ekki byrjað að líða eða sé a.m.k. óliðinn. Hinar kærðu ákvarðanir hafi ekki verið auglýstar í blöðum eða kynntar kærendum. Annar kærenda hafi ekki heyrt af ákvörðunum fyrr en í mars 2024 og hinn hafi heyrt af ákvörðunum Fiskistofu fyrr á árinu, með eigin gagnaöflun, en um leyfi Dalvíkurbyggðar hafi hann heyrt 20. mars 2024. Kærendum hafi ekki á neinu tímamarki verið veittur kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og grenndarkynning skv. 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 hafi ekki farið fram.

Annmarkar hafi verið á málsmeðferð umsókna um framkvæmdaleyfi og ákvarðanirnar stangist á við ákvæði laga, þ. á m. 10. gr. stjórnsýslulaga 37/1993 og 8. og 10. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Þá stangist ákvörðun sveitarstjórnar einnig á við ákvæði 2. og 4. mgr. 13. gr. laga nr. 123/2010. Ekki verði ráðið að fjallað hafi verið um áhrif framkvæmdanna á vatnshlotið Svarfaðardalsá eða önnur vatnshlot sem fyrir áhrifum kunni að verða, sbr. lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Efnistökusvæðin séu í ósamræmi við Aðalskipulag Dalvíkurbyggðar 2008–2020, en þar sé ekki gert ráð fyrir námu í landi Grundar og náman sem gert sé ráð fyrir í landi Bakka sé mun minni en nú hafi verið veitt heimild til. Hvorki virðist hafa verið leitað umsagnar Orkustofnunar né Hafrannsóknarstofnunar, en skylt kunni að vera að leita leyfis Orkustofnunar samkvæmt vatnalögum nr. 15/2023 og auðlindalögum nr. 57/1998. Leyfi skv. 1. mgr. 75. gr. vatnalaga og nýtingarleyfi skv. 6. gr. auðlindalaga virðist ekki hafa legið fyrir, en í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 26. október 2023, í máli nr. 74/2023, Hvammsvirkjun, hafi verið skorið úr um að við útgáfu framkvæmdaleyfis sveitarfélags verði leyfi annarra aðila að liggja fyrir. Þá stangist ákvörðun sveitarfélagsins á við 2. og 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga þar sem ekki sé getið stærðar efnistökusvæðis, vinnsludýpis eða efnisgerðar auk þess að hún uppfylli ekki áskilnað reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi.

Áður hafi verið gefin út leyfi til efnistöku á sama svæði. Þannig hafi á fundi sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar 23. febrúar 2021 verið veitt leyfi til efnistöku í landi Bakka og Grundar og Fiskistofa hafi gefið út leyfi fyrir efnistöku í landi beggja jarðanna árið 2020, vegna þúsunda rúmmetra sem hafi runnið út í lok árs 2021. Annað leyfi hafi verið gefið út vegna 10.000 m3 efnistöku í landi Bakka árið 2022 sem hafi runnið út í júlí 2023. Í hinum kærðu ákvörðunum sé þrátt fyrir þetta ekki litið til heildarmagns og hugsanlegrar umhverfismatsskyldu, en skv. 2. viðauka við lög nr. 111/2021, sem varði viðmiðanir við mat á framkvæmdum tilgreindum í flokki B í 1. viðauka, skuli m.a. líta til heildarumfangs og samlegðaráhrifa framkvæmda.

Samkvæmt ákvörðun Fiskistofu vegna efnistöku í landi Bakka, dags. 2. maí 2023, sé stærð efnistökusvæðisins 7,2 ha. Stærð efnistökusvæðisins í landi Grundar sé 3,1 ha og ljóst að þau séu yfir viðmiðunarmörkum laga nr. 111/2021. Ákvarðanir Fiskistofu og Dalvíkurbyggðar hafi því verið í ósamræmi við lög nr. 111/2021.

 Málsrök Dalvíkurbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að umsókn um framkvæmda­leyfi til efnistöku í landi Grundar hafi enn ekki verið tekin til afgreiðslu hjá sveitarstjórn enda kalli hún á að Aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008–2020 verði breytt. Unnið sé að slíkri breytingu, en sú vinna sé skammt komin. Kærendur skorti því lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um þá kæruliði sem snúi að Grund. Þá geti kærendur ekki talist eiga aðild að málinu samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála og sé rétt að fram komi að með tilvísun til hagsmuna kærenda sem landeigenda „skammt neðan þeirra svæða er mál þetta fjallar um“ sé væntanlega átt við 2,5 km og 3 km. Aðild þeirra verði því ekki byggð á nálægð við Bakka enda jarðirnar langt neðan framkvæmda­­svæðisins og tilvísun til þess að framkvæmdirnar hafi áhrif á veiðiréttindi kærenda sé ekki útskýrð. Þá sé kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 liðinn, en kærendum hafi í síðasta lagi hinn 6. júní 2023 mátt vera kunnugt um ákvörðunina enda hún þá birt á heimasíðu Dalvíkurbyggðar.

Ekkert hafi komið fram sem leiða eigi til ógildingar ákvörðunar sveitarstjórnar um útgáfu framkvæmdaleyfis til efnistöku í landi Bakka. Við meðferð málsins hafi verið gætt að öllum formsatriðum og séu öll skilyrði laga uppfyllt, sbr. m.a. ákvæði laga nr. 60/2013 um náttúru­vernd, 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmda­leyfi og gildandi skipulags. Allur undirbúningur útgáfu framkvæmdaleyfisins hafi verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Fjallað hafi verið um þau atriði sem tilgreind séu í 8. og 9. gr. laga nr. 60/2013 í skýrslu sérfræðings í veiðimálum vegna framkvæmdarinnar og umsögn Fiskistofu. Þá séu skilyrði leyfisins afar ströng og sem slík í samræmi við þær kröfur sem fram komi í 9. gr. laganna.

Skýrsla sérfræðings í veiðimálum hafi legið fyrir við afgreiðslu málsins og hafi þar verið lögð áhersla á að fylgst yrði með áhrifum framkvæmdarinnar á framkvæmdatímanum og þannig fylgst með vísitölu seiða og veiðitölum. Að auki séu lagðar til mótvægisaðgerðir og tekið fram að rask á farvegi árinnar sé eingöngu utan veiðitíma. Ekki sé gert ráð fyrir að efnistaka fari fram í árfarveginum sjálfum heldur áreyrum og um leið sé tryggt að áin geti runnið óhindruð um kvíslar og farvegi hennar. Þá sé lögð á það áhersla að ekki verði skilið við ána í stokki eða beinum þröngum farvegi heldur að farvegur eða -vegir hennar verði áfram jafn breiðir og hlykkjóttir og fyrir framkvæmdir. Með þessum mótvægisaðgerðum telji skýrsluhöfundar að hægt verði að tryggja að farvegurinn verði áfram eðlilegur og fjölbreyttur með búsvæðum fyrir seyði, stoppistöðum fyrir göngufisk og hrygningarstöðum. Í umsögn Fiskistofu frá 2. maí 2023 hafi ekki verið gerðar athugasemdir við framkvæmdina og vísað til þess að fara skyldi eftir ráðleggingum sem fram hefðu komið í fyrrnefndri skýrslu. Þá hafi þar verið lagt til að ekki yrðu framkvæmdir í ánni á tímabilinu frá 15. júní til 1. desember ár hvert. Framkvæmdaleyfið hafi verið gefið út 19. júní 2023 og séu þar sett skilyrði í samræmi við niðurstöður og ráð­leggingar Fiskistofu og fyrrnefndra sérfræðinga, sem gangi að einhverju leyti lengra. Þannig sé í leyfinu lögð áhersla á að hrygningarstöðvar í farvegi árinnar þorni ekki upp og að farvegur hennar lokist ekki þannig að fiskur eigi hættu á að verða innlyksa. Þá séu ströng fyrirmæli um meðferð olíu- og olíuáfyllingar auk þess sem gerð sé krafa um að halda skuli fjölda tækja í lágmarki. Þá séu ennfremur ýmis ákvæði er varði notkun og ástand þeirra tækja sem notast verði við auk þess sem kveðið sé á um frágang við lok framkvæmdatíma.

Umfang efnistöku fari ekki yfir þau viðmið sem getið sé um í 2. viðauka laga nr. 111/2021 né heldur sé svæðið stærra en 2,5 ha. Allar vangaveltur um eldri efnistöku og möguleg heildaráhrif innan jarðarinnar eigi ekki við. Byggi kærendur á atvikum sem teygi sig mörg ár og jafnvel áratugi aftur í tímann og séu þar um að ræða sjónarmið og röksemdir sem beri þegar af þeirri ástæðu að hafna.

 Málsrök Fiskstofu: Af hálfu Fiskistofu er bent á að í umsögnum Veiðifélags Svarfaðardalsár, dags. 17. og 21. apríl 2023, sem veittar hafi verið á grundvelli 2. mgr. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði, hafi ekki verið gerðar athugasemdir við framkvæmdirnar. Samkvæmt lögunum sé hlutverk veiðifélaga að halda utan um hagsmuni veiðirétthafa og félagsmanna. Það sé því höndum félagsins að tryggja að félagsmenn séu nægjanlega upplýstir um slíkar framkvæmdir. Veiðifélaginu hafi gefist kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri fyrir hönd veiðiréttarhafa áður en Fiskistofa hafi tekið ákvörðun um veitingu hinna kærðu leyfa. Því fái Fiskistofa ekki séð að afla hafi þurft sjónarmiða hvers og eins veiðirétthafa.

Fiskistofa hafi lagt mat á áhrif efnistökunnar á fiskigengd, afkomu fiskistofna, aðstæður til veiði og lífríki vatnsins að öðru leyti en stofnuninni sé m.a. ætlað að leggja mat á áhrif framkvæmda og mótvægisaðgerða á fiskistofna við leyfisveitingu samkvæmt 33. gr. laga nr. 61/2006. Í ákvörðunum Fiskistofu hafi ekki verið tekin afstaða til framkvæmdanna m.t.t. vatnsverndar samkvæmt lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, umhverfismats skv. lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana eða skipulags samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010, en Fiskistofa hafi ekki talið það falla undir sitt starfssvið enda sé efnistakan háð leyfum fleiri stjórnvalda.

 Leyfishöfum var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu en þeir hafa ekki tjáð sig um kærumál þetta.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um efnistöku úr áreyrum Svarfaðardalsár fyrir landi jarðanna Bakka og Grundar. Hinar kærðu ákvarðanir í málinu voru teknar á grundvelli 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði, um leyfi Fiskistofu til framkvæmda við ár og vötn, og 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, um framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar. Verða þær bornar undir úrskurðarnefndina á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laga nr. 61/2006 og 52. gr. skipulagslaga.

Það er skilyrði aðildar í málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta tengda viðkomandi ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nema lög mæli á annan veg. Kærendur eru landeigendur í Svarfaðardal og eru um 1–2  km í landareignir þeirra frá  ráðgerðum efnistökusvæðum, sem næst eru. Af þeim gögnum sem við nýtur í málinu verður að ætla að framkvæmdin geti haft nokkur áhrif á lögvarða hagsmuni þeirra, s.s. vegna veiðihagsmuna í Svarfaðardalsá sem og breytinga á straumhraða, straumstefnu eða annarra skyldra áhrifa á ánna fyrir landi þeirra. Verður þeim því játuð kæruaðild.

Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kveðið á um að kærufrestur til nefndarinnar sé almennt einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Af skýringum sem fylgdu frumvarpi til laganna má ráða að ástæða þess að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga er að brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og var áréttað í því sam­hengi að eftir því sem framkvæmdir væru lengra komnar áður en skorið yrði úr ágreiningi um þær skapaðist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga.

Af gögnum þessa máls má ráða að kærendum hafi fyrst orðið kunnugt um hina kærðu ákvörðun Dalvíkurbyggðar í marsmánuði ársins 2024. Verða kærur á þeirri ákvörðun því taldar hafa borist úrskurðarnefndinni innan kærufrests. Hvað varðar ákvarðanir Fiskistofu verður við það miðað samkvæmt gögnum þessa máls að eigandi Grafar hafi í marsmánuði 2024 fyrst orðið kunnugt um þær og að kæra hans hafi því borist innan kærufrests. Eigandi Brautarhóls hefur á hinn bóginn upplýst fyrir nefndinni að hann hafi öðlast aðgang að téðum leyfum 18. janúar 2024. Verður við það miðað að honum hafi þá fyrst orðið kunnugt um leyfin og kærufrestur vegna þeirra hafi byrjað að líða 19. s.m. Var kærufrestur með því liðinn þegar kæra hans barst nefndinni 21. mars 2024.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Ljóst er að úrlausn kærumáls þessa varðar ekki einungis hagsmuni kærandans heldur einnig leyfishafa. Ekki verður þó litið framhjá því að kæranda var ekki leiðbeint um kærufrest til úrskurðarnefndarinnar, svo fullnægjandi væri, vegna ákvarðana Fiskistofu samkvæmt 7. gr. og 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Með hliðsjón af þessu verður að telja afsakanlegt að greind kæra eiganda Brautarhóls hafi ekki borist fyrr.

Svæðið sem hin kærðu framkvæmdaleyfi taka til hefur ekki verið deiliskipulagt. Þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og deiliskipulag liggur ekki fyrir getur sveitarstjórn veitt framkvæmdaleyfi að undangenginni grenndarkynningu sé um að ræða framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag og í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar, sbr. 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Að auki skal sveitarstjórn leita umsagna viðeigandi umsagnaraðila áður en tekin er afstaða til útgáfu framkvæmdaleyfis. Tekið er fram að um grenndarkynningu fari þá skv. 44. gr. laganna með þeim undantekningum sem þar eru tilgreindar. Jafnframt er tekið fram að heimilt sé að falla frá grenndarkynningu sé gerð grein fyrir framkvæmdinni og fjallað ítarlega um hana í aðalskipulagi. Nánari skilyrði fyrir því að fallið sé frá grenndarkynningu eru mörkuð í 1. mgr. 7. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.

Í Aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008–2020 er gert ráð fyrir efnistöku í Svarfaðardalsá og slík svæði sýnd á aðalskipulagsuppdrætti. Í greinargerð skipulagsins segir m.a. um efnistöku í ám að veitt hafi verið tímabundin framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í þeim og við efnistöku úr ár­farvegum skuli þess gætt að hafa sem minnst áhrif á lífríki ánna. Taka beri mið af væntanlegum rannsóknarniðurstöðum þar að lútandi við gerð áætlana um slíka efnistöku og tekið fram að efnistökusvæði í árfarvegum geti að vissu marki talist endurnýjanleg auðlind. Er á skipulags­uppdrættinum gert ráð fyrir efnistökusvæði í Svarfaðardalsá fyrir landi Bakka og kemur fram í greinargerð aðalskipulagsins að þar sé setnáma í árfarvegi. Stærð hennar er ekki tilgreind. Með þessu er í aðalskipulagi sveitarfélagsins að nokkru gerð grein fyrir efnistöku í landi Bakka, en þó naumast svo ítarlega að heimilt hafi verið að falla frá grenndarkynningu vegna hennar, sem þó var gert.

Á aðalskipulags­upp­drættinum er ekki sýnt efnistökusvæði í landi Grundar og hefur sveitar­félagið upplýst að það sé ástæða þess að ekki hafi enn verið samþykkt beiðni um heimildir til efnistöku þar.

Hvoru tveggja leyfi sem veitt eru skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 og 13. gr. skipulagslaga geta talist til leyfa til framkvæmda í skilningi laga nr. 111/2021, ef þær framkvæmdir sem leyfin heimila kunna að hafa eða eru líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. 1. viðauka við lögin. Í flokki A í viðaukanum eru tilgreindar þær framkvæmdir sem ávallt eru háðar umhverfismati. Í flokki B eru tilgreindar þær framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og metið er í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort þær skulu háðar slíku mati. Meðal framkvæmda í flokki B telst efnistaka þar sem áætlað er að raska 2,5 ha svæði eða stærra eða efnismagn er 50.000 m3 eða meira. Til þessa telst einnig efnistaka þar sem fleiri en einn efnistökustaður vegna sömu framkvæmdar og á sama svæði nær samanlagt yfir 2,5 ha svæði eða stærra, sbr. lið 2.02.

Af hálfu Dalvíkurbyggðar hefur verið bent á að umfang efnistöku yfirstígi ekki þessi viðmið. Það stangast á við upplýsingar í Hafsjá Fiskistofu um útgefin leyfi, en þar má sjá að í Svarfaðardalsá eru í gildi leyfi til efnistöku á töluverðu svæði sem öll virðast innan jarðanna Bakka og Grundar. Samanlagt heimila þau efnisnám sem nemur allt að 57.000 m3 á að minnsta kosti 10 ha svæði. Þá er ótalin efnistaka sem heimiluð var samkvæmt leyfum sem eru útrunnin á sama svæði. Af þessu verður ráðið að áformuð efnistaka í Svarfaðardalsá á svæðinu hafi yfirstigið þau mörk sem tilgreind eru í lið 2.02 í 1. viðauka við lög nr. 111/2021. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. þeirra laga skal framkvæmdaraðili tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B í 1. viðauka við lögin. Í 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga og 1. mgr. 25. gr. laga nr. 111/2021 er mælt fyrir um að óheimilt sé að gefa út leyfi til framkvæmda fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir eða ákvörðun um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Verður með vísan til þess að þeirrar skyldu var eigi gætt að fella hinar kærðu ákvarðanir úr gildi.

Í úrskurði þessum verður ekki fjallað um önnur sjónarmið sem kærendur hafa fært fram fyrir nefndinni, en sú bending þó gerð að úrskurðir nefndarinnar í málum nr. 127/2023 og 128/2023, frá 21. desember 2023, geta haft leiðbeinandi þýðingu að því marki sem þar var til að dreifa áþekkri leyfisveitingu.

 Úrskurðarorð:

Felldar eru úr gildi ákvarðanir Fiskistofu frá 2. og 12. maí 2023 um að veita framkvæmdaleyfi til efnistöku úr árfarvegi Svarfaðardalsár vegna 37.000 m3 í landi Bakka og 20.000 m3 í landi Grundar.

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar frá 6. júní 2023 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku í landi Bakka.