Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

93/2015 Kiðjaberg

Með
Árið 2017, föstudaginn 29. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 93/2015, kæra á samþykkt Grímsnes- og Grafningshrepps á breyttu deiliskipulagi Kiðjabergs.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. október 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir A, þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 2. september s.á. að samþykkja breytt deiliskipulag Kiðjabergs í nefndum hreppi. Tók sú ákvörðun gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 25. september s.á. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Grímsnes- og Grafningshreppi 15. desember 2015.

Málavextir: Á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps 2. júlí 2014 var tekin fyrir afgreiðsla á tillögu skipulags- og byggingarnefndar Uppsveita BS frá 30. júní s.á. að endurskoða gildandi deiliskipulagi Kiðjabergs frá árinu 1990. Var sú afgreiðsla staðfest og samþykkt að auglýsa deiliskipulagstillöguna til kynningar með vísan til 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var tillagan auglýst 21. ágúst 2014 með athugasemdafresti til 3. október s.á. og bárust athugasemdir frá kæranda á kynningartíma.

Að kynningu lokinni tók sveitastjórn tillöguna fyrir að nýju á fundi sínum 6. maí 2015 og samþykkti hana samhljóða með eftirfarandi bókun: „Lögð fram að nýju að lokinni auglýsingu tillaga að endurskoðun deiliskipulags fyrir jörðina Kiðjaberg í Grímsnes- og Grafningshreppi. Tillagan var auglýst 21. ágúst 2014 með athugasemdafresti til 3.október. Tvö athugasemdabréf bárust á kynningartíma auk þess sem fyrir liggja nýjar umsagnir frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands og Minjastofnun Íslands. Deiliskipulagsgögnin er lögð fram með minniháttar breytingum varðandi neysluvatn og fráveitu til að koma til móts við ábendingar Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Þá liggja fyrir drög að umsögn um inn komnar athugasemdir. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða ofangreinda tillögu að deiliskipulagi með breytingum sem gerðar hafa verið í tengslum við ábendingar Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og einnig með breytingu á byggingarreit lóðar nr. 78 sbr. samþykkt sveitarstjórnar frá 4. mars 2015. Ekki er gerð athugasemd við drög að umsögn um athugasemd og er skipulagsfulltrúa falið að klára hana í samvinnu við lögfræðing sveitarfélagsins.“

Með bréfi, dags. 26. júní 2015, var skipulagstillagan send Skipulagsstofnun til yfirferðar lögum samkvæmt. Tilkynnti stofnunin með bréfi, dags. 4. ágúst s.á., að hún gerði athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda þar sem skilmálum og framsetningu gagna væri ábótavant í nokkrum atriðum. Sveitastjórn tók deiliskipulagið fyrir á fundi sínum 2. september 2015 og samþykkti það að nýju með nokkrum breytingum sem ætlað var að koma til móts við athugasemdir Skipulagsstofnunar. Skipulagsstofnun gerði kunnugt með bréfi, dags. 10. september, s.á. að ekki væru lengur gerðar athugasemdir við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt skipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að samráði og kynningu við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið áfátt með tilliti til 4. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Hvorki hafi verið haft samráð við hagsmunaaðila á skipulagssvæðinu né verið leitað eftir sjónarmiðum þeirra. Skipulagslýsing hafi ekki verið unnin vegna deiliskipulagsins svo sem mælt sé fyrir um í 1. og 2. mgr. 40. gr. laganna og tillagan hafi ekki verið kynnt með þeim hætti sem 4. mgr. 40. gr. þeirra gerir ráð fyrir. Meginforsendur skipulagsins hafi ekki legið fyrir í aðalskipulagi og því eigi undanþáguheimild vegna slíkrar kynningar ekki við. Þá telur kærandi að borið hefði að auglýsa skipulagstillöguna að nýju eftir að breytingar hafi verið gerðar á henni vegna athugasemda Skipulagsstofnunar. Auk þess hefði átt að gera húsakönnun, sbr. 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Svör vegna athugasemda kæranda sem borist hafi með bréfi, dags. 26. júní 2015, hafi verið ófullnægjandi. Mörgum athugasemdum sé ekki svarað og snúið út úr öðrum. Lóð kæranda og byggingarreitur á henni hafi ekki verið stækkuð nægilega mikið samanborið við aðrar lóðir á svæðinu og með því sé farið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Skipti þar engu vilji eigenda landsins, enda sé skipulagsvaldið hjá sveitarfélaginu.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að á svæðinu sé í gildi aðalskipulag frá árinu 2010 þar sem gerðar hafi verið verulegar breytingar á stefnuákvæðum um frístundabyggðir. Í tengslum við gerð aðalskipulagsins hafi verið unnið umhverfismat þar sem niðurstaðan hafi orðið sú að breytt stefna og stækkun einstakra svæða hefði ekki veruleg umhverfisáhrif í för með sér. Þá væri tiltekið í greinargerð aðalskipulagsins að meðalstærð sumarhúsa færi vaxandi sem þyrfti að mæta með hærra nýtingarhlutfalli eða stærri lóðum. Hið breytta deiliskipulag sé í samræmi við stefnu aðalskipulags.

Umrædd deiliskipulagstillaga hafi verið auglýst og kynnt í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Óþarft hafi verið að taka saman skipulagslýsingu þar sem um breytingu á deiliskipulagi hafi verið að ræða og sama eigi við um framkvæmd húsakönnunar. Þær breytingar sem gerðar hafi verið á deiliskipulagstillögunni að beiðni Skipulagsstofnunar hafi ekki verið svo stórvægilegar að þurft hefði að auglýsa hana að nýju, sbr. 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Þá hafi athugasemdum kæranda verið svarað með fullnægjandi hætti í bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 26. júní 2015.

Stærð lóðar kæranda sé í samræmi við stærð lóða í nágreninu og töluvert yfir viðmiði aðalskipulags um lágmarksstærð lóða. Lóðin hafi verið stækkuð úr 6.762 m2 í 7.561 m2 með deiliskipulagsbreytingunni. Í tilefni af fullyrðingu kæranda um brot á jafnræðisreglu sé vísað í dóm Hæstaréttar í máli nr. 80/2010. Þar hafi sjónarmiðum kæranda, sem hafi verið annar stefnanda í málinu, verið hafnað. Athugasemd kæranda um byggingarreitinn á lóð hans sé vísað á bug, enda hafi verið tekið tillit til athugasemda hans um það atriði áður en endanleg tillaga hafi verið samþykkt.

Loks verði að telja að kærandi eigi ekki lögvarða hagsmuni af ógildingu deiliskipulagsbreytingarinnar í ljósi þess að hann sé einungis leigutaki á einni lóð á svæði sem taki til þriggja hverfa frístundahúsa. Þá verði ekki séð að gengið sé á grenndarrétt kæranda eða að hagnýtingarmöguleikar hans skerðist með breytingunni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti samþykktar sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps á breyttu deiliskipulagi Kiðjabergs. Kærandi er handhafi leigulóðarréttinda á svæði því sem hin kærða deiliskipulagsbreyting tekur til. Breytingar á stærðum lóða og byggingarreita á svæðinu, sem m.a. taka til leigulóðar kæranda, geta snert hagsmuni hans með þeim hætti að hann telst eiga kæruaðild í máli þessu samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Verður málið því tekið til efnismeðferðar.

Lóð kæranda á umræddu svæði er eftir fyrrgreinda deiliskipulagsbreytingu 7.561 m2 og því töluvert umfram 0,5 hektara lágmarksstærð frístundalóða samkvæmt gildandi aðalskipulagi. Tilkall kæranda til stærri lóðar ræðst af samningi hans við landeiganda, en hvorki beinum né óbeinum eignarréttindum verður ráðstafað með deiliskipulagi. Samkvæmt skipulagsuppdrætti hins breytta deiliskipulags er stærð byggingarreits á lóð kæranda svipuð byggingarreitum sumra lóða í nágrenninu en heldur minni en á öðrum, en sveitarstjórn samþykkti stækkun byggingarreitsins til samræmis við samþykkt byggingaráform í tilefni af athugasemdum kæranda. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að jafnræðis hafi ekki verið gætt að þessu leyti við meðferð deiliskipulagsbreytingarinnar.

Fram komnar athugasemdir kæranda voru teknar fyrir á fundi sveitarstjórnar að lokinni kynningu deiliskipulagstillögunnar í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum voru honum send efnisleg svör við þeim athugasemdum jafnhliða því sem skipulagið var sent til Skipulagsstofnunar, sbr. 1. mgr. 42. gr. laganna. Þær breytingar sem gerðar voru á deiliskipulaginu eftir athugasemdir Skipulagsstofnunar snéru einkum að nákvæmari útfærslu tiltekinna atriða í greinargerð skipulagsins en fólu ekki í sér grundvallarbreytingu á efni tillögunnar í skilningi 4. mgr. 41. gr. laganna. Var því ekki þörf á að auglýsa hana til kynningar að nýju.

Í auglýsingu um gildistöku hinnar kærðu skipulagsákvörðunar í B-deild Stjórnartíðinda kemur fram að um endurskoðun á eldra deiliskipulagi Kiðjabergs frá árinu 1990 sé að ræða en það skipulag falli úr gildi við gildistöku hins nýja deiliskipulags. Í gr. 5.8.1 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er tekið fram að við heildarendurskoðun deiliskipulags, sem fellir eldri áætlanir úr gildi, skuli framsetning og málsmeðferð vera sem um nýtt deiliskipulag sé að ræða. Hið kærða deiliskipulag fól í sér heildarendurskoðun eldra skipulags sem tók til stórs landsvæðis með nokkrum hverfum frístundabyggðar og með því var eldra skipulag fellt að öllu leyti úr gildi. Við málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar bar því að fara eins og um nýtt skipulag væri að ræða.

Í 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga er veitt heimild til að víkja frá skyldu til að taka saman lýsingu við upphaf deiliskipulagsgerðar ef allar meginforsendur deiliskipulagsins liggja fyrir í aðalskipulagi. Í gr. 5.2.2. í skipulagsreglugerð er tekið fram að með meginforsendum sé átt við stefnu um áherslu og uppbyggingu landnotkunarreita, svo sem varðandi nánari notkun á einstökum reitum, þéttleika og byggðamynstur eða umfang auðlindanýtingar. Í greinargerð Aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 er á bls. 50-51 ítarleg stefnumörkun um frístundabyggðir þar sem m.a. koma fram viðmið um lágmarksstærð og nýtingarhlutfall einstakra lóða. Stór hluti þess deiliskipulagssvæðis sem um ræðir er skilgreindur sem frístundabyggð í aðalskipulaginu, en nokkur hluti þess er skilgreindur sem opið svæði til annarra nota, þ.m.t. svæði sem í deiliskipulaginu og aðalskipulagi er tiltekið sem golfvöllur. Verður af framansögðu ráðið að allar meginforsendur deiliskipulagsins hafi legið fyrir í aðalskipulagi og því hafi sveitarfélaginu verið heimilt að nýta fyrrgreinda undanþáguheimild frá því að gera skuli skipulagslýsingu.

Í 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga er kveðið á um að við gerð deiliskipulags í þegar byggðu hverfi skuli framkvæma húsakönnun til að meta varðveislugildi einstakra húsa og svipmót byggðar. Á umræddu deiliskipulagssvæði var þegar allnokkur byggð frístundarhúsa og annarra bygginga sem hefði borið að leggja mat á með tilliti til varðveislugildis óháð því hvort málsmeðferðin fór eftir reglum um gerð nýs eða breytts deiliskipulags. Ekki verður séð að slíkt mat hafi farið fram og telst það annmarki á málsmeðferð deiliskipulagsins. Uppbygging frístundabyggðarinnar hófst upp úr 1990 og var því elsti hluti hennar yngri en 25 ára þegar deiliskipulagið var samþykkt. Deiliskipulagið gerir ekki ráð fyrir að mannvirki á svæðinu víki og að teknu tilliti til aldurs og eðlis byggðarinnar telst ólíklegt að hún hafi að svo stöddu á sér svipmót sem hafi byggingar- eða menningarsöguleg gildi. Að þessu virtu er nefndur ágalli ekki þess eðlis að hann geti haft áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem raskað geta gildi hennar. Verður ógildingarkröfu kæranda því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 2. september 2015 um að samþykkja endurskoðað deiliskipulag Kiðjabergs í nefndum hreppi.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Þorsteinn Þorsteinsson

9/2016 Kalkþörungaset í Miðfirði

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 3. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 9/2016, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 9. desember 2015 um að nýting kalkþörungasets í Miðfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. janúar 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Húnaþing vestra þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 9. desember 2015 að nýting kalkþörungasets í Miðfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 22. febrúar 2016.

Málavextir: Með umsókn, dags. 14. maí 2015, sótti Icecal ehf. um leyfi til Orkustofnunar fyrir hagnýtingu á 1.200 m³ af kalkþörungaseti á ári innan ákveðins svæðis í Miðfirði. Óskað var eftir nýtingarleyfi til 30 ára, eða frá 2015 til 2045. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins skal gætt ákvæða laga um mat á umhverfisáhrifum við veitingu leyfa samkvæmt lögunum.

Framkvæmdin var talin falla í flokk C, samkvæmt lið 2.04 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Liðurinn tekur til efnistöku og/eða haugsetningar á landi eða úr hafsbotni þar sem áætlað er að raska minna en 25.000 m² svæði eða efnismagn er minna en 50.000 m³. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laganna skal framkvæmdaraðili tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki C í 1. viðauka sé hún háð öðrum leyfum en samkvæmt skipulagslögum eða lögum um mannvirki eða háð leyfi Mannvirkjastofnunar.

Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu, með ákvörðun dags. 9. desember 2015, að umrædd framkvæmd væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Kærandi hefur nú kært þá ákvörðun með kæru, dags. 19. janúar 2016, eins og áður segir.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst vera sveitarfélag við Húnaflóa þar sem hin fyrirhugaða nýting kalkþörungasets sé fyrirhuguð og að efnisnám úr sjó innan sveitarfélagsins, sem hafi áhrif á og raski svæðinu, varði eðli málsins samkvæmt hagsmuni þess. Kærandi hafi því ríka ástæðu og lögvarða hagsmuni af málinu og að fram fari mat á umhverfisáhrifum á áhrifum framkvæmdanna. Auk þess sé eitt af markmiðum laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum að stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hafi hagsmuna að gæta eða láti sig málið varða, sbr. 1. gr. laganna.

Samkvæmt 2. viðauka laga nr. 106/2000 hafi Skipulagsstofnun, við ákvörðun sína, borið að taka mið af eðli framkvæmdanna, staðsetningu framkvæmdanna og eiginleikum hugsanlegra áhrifa framkvæmdanna. Þetta hafi ekki verið gert með fullnægjandi hætti.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er því haldið fram að kærandi, sem sé sveitarfélag, eigi ekki lögvarða hagsmuni í málinu. Í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra eigi. Almennt hafi verið litið svo á í stjórnsýslurétti að stjórnvald sé ekki aðili máls. Við sérstakar aðstæður geti stjórnvald verið aðili þegar það eigi sambærilegra hagsmuna að gæta og einstaklingur eða fyrirtæki. Skipulagsstofnun fái ekki séð að framangreind rök kæranda geti leitt til þess að sveitarfélagið eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun stofnunarinnar um að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Það sé framkvæmdaraðili sem eigi hina lögvörðu hagsmuni og hann sem ákvörðunin varði. Staðsetning framkvæmdasvæðisins og markmiðsákvæði í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum skapi kæranda ekki aðild. Í málinu séu ekki fyrir hendi sérstakar aðstæður, á borð við þær sem nefndar séu að framan, sem réttlæti það að sveitarfélagið eigi aðild.

Stofnunin hafi við ákvörðun sína tekið mið af þeim viðmiðum sem skylt sé að líta til samkvæmt 2. viðauka við lög nr. 106/2000, sem og öðrum viðmiðum.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili bendir á að samkvæmt bráðabirgðaákvæði í 11. gr. laga nr. 138/2014, um breytingu á lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, séu framkvæmdir þær sem falli í flokk C í 1. viðauka við lögin ekki háðar ákvörðun um mat á umhverfisáhrifum skv. 6. gr. laganna fyrr en 1. júní 2015. Varðandi aðra starfsemi á svæðinu þá sé þar engin starfsemi, sem framkvæmdaraðila sé kunnugt um, sem ætti að verða fyrir skakkaföllum vegna fyrirhugaðrar efnistöku, en við mat á slíku skuli líta til jafnræðis og meðalhófs.

Niðurstaða: Kæruheimildir til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er að finna í ýmsum sérlögum, þ. á m. í 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Samkvæmt lagaákvæðinu sæta ákvarðanir skv. 6. gr. um matsskyldu framkvæmdar, sem tilgreind er í flokki B og flokki C í 1. viðauka við lögin, kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefndina. Þau lög eru nr. 130/2011 og er fjallað um kæruaðild í 3. mgr. 4. gr. þeirra. Þar er tekið fram að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra eigi. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök geta þó kært nánar tilgreindar ákvarðanir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Kærandi í máli þessu er ekki slík samtök heldur sveitarfélag og er lögfesta kæruheimild honum til handa hvorki að finna í lögum nr. 130/2011 né lögum nr. 106/2000.

Í kæru vísar kærandi til þess að það svæði sem hið umdeilda leyfi til kalkþörungavinnslu taki til sé innan sveitarfélagins. Efnisnám sem þetta hafi áhrif og raski svæðinu og varði því eðli málsins samkvæmt hagsmuni sveitarfélagsins. Kærandi hafi því lögvarða hagsmuni í málinu sem og af því að fram fari mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna.

Samkvæmt meginsjónarmiðum stjórnsýsluréttarins um það hverjir geti átt aðild að stjórnsýslumáli hefur verið litið svo á að sá sem eigi einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta sem beinlínis reyni á við úrlausn máls verði hann yfirleitt talinn eiga aðild að því. Sama máli gegni um lögaðila. Þeim hagsmunum sem sveitarfélagið telur sig eiga af úrlausn málsins er lýst hér að framan. Um almannahagsmuni er að ræða sem hvorki geta talist einstaklegir né sérstakir, enda er sveitarfélagið sjálfstætt stjórnvald, sbr. 3. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, og ber því að vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúa þess, sbr. 7. gr. laganna. Slík almannahagsmunagæsla skapar kæranda ekki kæruaðild.

Að öllu framangreindu virtu er ljóst að kærandi á ekki aðild að kærumáli þessu og verður kæru hans af þeirri ástæðu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

 

87/2015 Selsund í landi Svínhaga

Með
Árið 2017, föstudaginn 29. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 87/2015, kæra á ákvörðun byggðarráðs Rangárþings ytra frá 19. ágúst 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina SH-17 í landi Svínhaga.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. október 2015, er barst nefndinni 9. s.m., kæra eigendur jarðarinnar Selsunds, Rangárþingi ytra, þá ákvörðun byggðarráðs Rangárþings ytra frá 19. ágúst 2015 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina SH-17 í landi Svínhaga. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi en að auki var farið fram á að framkvæmdir sem þegar væru hafnar yrðu stöðvaðar. Var þeirri kröfu hafnað með úrskurði úrskurðarnefndarinnar uppkveðnum 3. nóvember 2015.

Gögn málsins bárust frá sveitarfélaginu í maí og júlí 2017.

Málavextir: Í maí 2014 var auglýst tillaga að deiliskipulagi lóða úr landi Svínhaga, SH-17 og SH-21. Að loknum kynningartíma var málið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar Rangárþings ytra 7. júlí 2014 og hafði þá borist athugasemd frá landeigendum Selsunds þar sem lýst var ágreiningi um eignarhald á tilteknum landspildum. Samþykkti skipulagsnefnd tillöguna og færði til bókar að hún teldi sig ekki hafa forsendur til að vefengja eignarhald umsækjanda og rétt hans til að deiliskipuleggja land sitt þrátt fyrir framkomnar athugasemdir. Tók deiliskipulagið gildi hinn 14. október s.á. Fól það í sér heimild fyrir allt að 200 m² íbúðarhúsi og þremur gestahúsum á hvorri lóð. Aðkoma að lóðunum yrði af Þingskálavegi nr. 268 og um nýjan aðkomuveg.

Með bréfi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins til Rangárþings ytra, dags. 8. maí 2015, veitti ráðuneytið undanþágu frá gr. 5.3.2.14. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 um 50 m fjarlægðar-mörk mannvirkja frá vötnum, ám eða sjó vegna byggingar íbúðarhúss á lóðinni SH-17. Í bréfi ráðuneytisins var m.a. vísað til þess að í bréfi sveitarfélagsins til ráðuneytisins, dags. 12. mars 2015, kæmi fram að búið væri að steypa hluta hússins, um 92 m² kjallara/geymslu í 36 m fjarlægð frá Selsundslæk sem ekki væri innan afmarkaðs byggingarreits samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Byggðist niðurstaða ráðuneytisins m.a. á því að bygging hússins væri þegar hafin og að verið væri að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi svæðisins í samræmi við staðsetningu byggingarinnar.

Eigendur jarðarinnar Selsunds komu á framfæri athugasemdum við byggingarfulltrúa Rangárþings ytra með bréfi, dags. 15. maí 2015, vegna afgreiðslu sveitarfélagsins á erindum sem vörðuðu skipulags- og byggingarmál á jörðunum Svínhaga og Selsundi. Vakin var athygli á því að þeir hefðu mótmælt á öllum stigum skipulagningar lands Svínhaga og tilkynnt sveitarfélaginu að verið væri að ganga á land þeirra. Jafnframt var í bréfinu bent á að samkvæmt fyrri bókunum sveitarstjórnar ætti að fá samþykki eigenda Selsunds fyrir ákveðinni deiliskipulagsvinnu er m.a. hafi tekið til lóðarinnar SH-17. Var skorað á sveitarfélagið að afgreiða ekki fleiri erindi á hinu umdeilda svæði og afturkalla þær ákvarðanir sem þegar hefðu verið teknar.

Á fundi skipulagsnefndar Rangárþings ytra 8. júní 2015 var lagt til að auglýsa til kynningar tillögu að breytingu á umræddu deiliskipulagi vegna lóðarinnar SH-17. Fól tillagan í sér að aðkomuvegi innan lóðarinnar yrði breytt sem og bílastæðum og byggingarreitum fjölgað í tvo. Á byggingarreit B1 var gert ráð fyrir íbúðarhúsi sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafði veitt undanþágu fyrir vegna fjarlægðar þess frá Selsundslæk. Á byggingareit B2 var gert ráð fyrir þremur smáhýsum og yrði fjarlægð byggingarreits 50 m frá Selsundslæk. Var greind afgreiðsla staðfest af sveitarstjórn Rangárþings ytra 10. s.m.

Kærendur komu á framfæri athugasemdum á kynningartíma tillögunnar og bentu m.a. á að nú lægju fyrir opinber gögn um sölu Svínhaga og kort og hefði skipulagsnefnd því forsendur til að meta hvort rétt væri að halda áfram með skipulagsvinnu á svæðinu gegn mótmælum eigenda Selsunds. Væri sveitarfélaginu skylt að stöðva skipulagsferlið. Skipulagsnefnd tók málið fyrir 17. ágúst 2015 og var eftirfarandi m.a. fært til bókar: „Áréttað er að deiliskipulags-breytingin tekur til lóðarinnar Svínhagi SH-17, landnr. 218364 eins og hún er afmörkuð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands og í þinglýstum gögnum. Eðli málsins samkvæmt verður skipulagsnefnd að leggja hina opinberu skráningu til grundvallar við meðferð skipulags-tillögunnar. Þá er rétt að líta til þess að fyrir liggur óáfrýjaður dómur Héraðsdóms Suðurlands frá 18. október 2010 í máli nr. E-189/2010 um landamerki milli Selsunds og Svínhaga. Í málinu voru eigendur landspildna úr jörðinni Svínhaga sýknaðir af dómkröfum eigenda Selsunds. Skipulagsnefnd tekur að öðru leyti enga afstöðu til þess ágreinings sem er uppi meðal landeigenda á svæðinu.“ Staðfesti byggðarráð afgreiðslu skipulagsnefndar 19. ágúst 2015 Í kjölfar þess var tillagan send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og gerði stofnunin ekki athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt tillögunnar. Öðlaðist deiliskipulagsbreytingin gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 5. október 2015.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að fyrir liggi að landamerki Svínhaga og Selsunds hafi verið teiknuð upp á kort og samþykkt af kaupanda Svínhaga árið 2002. Leiði núverandi eigendur skipulagssvæðisins rétt sinn til lands úr landi Svínhaga til ofangreindra kaupa. Beri opinber gögn með sér að skipulagssvæðið liggi innan merkja Selsunds að nær öllu leyti. Geti sveitarfélagið ekki hundsað fram komin gögn og skorist undan því að hafa skoðun á málinu. Þurfi sveitarfélagið að taka rökstudda ákvörðun um það hvort halda eigi áfram með skipulags-ferlið á landi sem öll gögn bendi til að tilheyri ekki þeim er óski breytinga á skipulagi þótt viðkomandi hafi þinglýsta eignarheimild.

Skipulagsnefnd hafi áður samþykkt að halda ekki áfram með skipulag á því svæði sem núverandi breytingartillaga taki til nema samþykki landeigenda Selsunds lægi fyrir. Aldrei hafi verið leitað eftir nefndu samþykki.

Í Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2010-2022 sé umrætt svæði skipulagt sem landbúnaðar-svæði. Geri breytingartillagan ráð fyrir að reist verði einbýlishús og þrjú smáhýsi á lóðinni án þess að þar komi fram hvernig þær byggingar tengist landbúnaðarstarfsemi. Sé breyting þessi í andstöðu við fyrrnefnt aðalskipulag og samræmist ekki skilgreiningu þess. Hefði þurft að breyta skilgreiningu landsins í aðalskipulagi og afla samþykkis viðkomandi ráðuneytis fyrir lausn þess úr landbúnaðarnotum skv. II. kafla jarðalaga nr. 81/2004 áður en tillagan fengi samþykki.

Umrædd lóð liggi að veiðivatni og framkvæmdir séu hafnar á henni. Samkvæmt 33. gr. lax- og silungsveiðilaga nr. 61/2006 sé áskilið að sérstakt leyfi Fiskistofu þurfi áður en heimilaðar séu framkvæmdir á, í eða við veiðivatn. Hafi sveitarfélaginu borið að kanna hvort umrætt leyfi til framkvæmda hafi legið fyrir, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Rotþró fyrir umrætt einbýlishús liggi utan byggingarreits. Hún sé í 16 m fjarlægð frá Selsundslæk og siturlögn um 7 m frá læknum. Leiða megi líkur að því að siturlögnin eða affall hennar sé í raun komið undir grunnvatnsstöðu vegna hæðar lagnarinnar miðað við yfirborð lækjar. Ekki liggi fyrir að undanþága sú er veitt hafi verið frá fjarlægð byggingarreits frá vatni heimili slíkt.

Málsrök Rangárþings ytra: Sveitarfélagið tekur fram að Hæstiréttur Íslands hafi í janúar 2017 vísað frá dómi máli kærenda er lotið hafi að landamerkjum milli Svínhaga og Selsunds. Ástæða þess sé sú að Héraðsdómur Suðurlands hafi sýknað eigendur Svínhaga af sömu dómkröfum árið 2010. Verði sá ágreiningur ekki borinn að nýju undir dómstóla. Sé því vart lengur ágreiningur um að umþrættar framkvæmdir séu allar innan merkja Svínhaga og að hið umdeilda deiliskipulag sé utan við merki Selsunds.

———-

Leyfishafa var tilkynnt um framkomna kæru en hann hefur ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Fyrir liggur að með dómi í máli E-189/2010, uppkveðnum 18. október 2010, voru eigendur lands jarðarinnar Svínhaga sýknaðir af kröfu kærenda um tiltekin landamerki jarðanna Selsunds og Svínhaga og var þeim dómi ekki áfrýjað. Á árinu 2015 var máli vegna sama landamerkjaágreinings vísað frá Héraðsdómi Suðurlands og var sá úrskurður staðfestur með dómi Hæstaréttar frá 13. janúar 2017 í máli nr. 837/2016. Var ástæða frávísunar málsins sú að um sama sakarefni væri að ræða og dæmt hefði verið í fyrrgreindu dómsmáli frá árinu 2010. Afmörkun skipulagssvæðisins og lóðarmörk samkvæmt hinni kærðu deiliskipulags-breytingu eru óbreytt frá eldra deiliskipulagi svæðisins frá árinu 2014. Af framangreindum ástæðum, auk þess að eignarréttindum verður ekki ráðstafað með deiliskipulagi, verður í máli þessu einungis tekin afstaða til lögmætis þeirra breytinga sem hin kærða ákvörðun fól í sér en ekki tekin afstaða til annarra álitaefna vegna eldra deiliskipulags, svo sem um mörk lóða að landi kærenda og landamerki milli jarðanna Selsunds og Svínhaga.

Hin kærða ákvörðun lýtur einungis að breytingum innan lóðar SH-17 í landi Svínhaga sem fólust í nýjum byggingarreit vegna færslu íbúðarhúss, sem heimilað var að byggja samkvæmt eldra deiliskipulagi, auk breytinga á bílastæðum og aðkomu að húsi af því tilefni. Veitti umhverfis- og auðlindaráðuneytið undanþágu frá gr. 5.3.2.14. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 frá 50 m fjarlægðarmörkum mannvirkja frá vötnum, ám eða sjó vegna nýrrar staðsetningar íbúðarhússins í um 36 m fjarlægð frá Selsundslæk. Var sú undanþága veitt samkvæmt heimild í 12. mgr. 45. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar.

Samkvæmt 33. gr. laga um lax- og silungsveiði nr. 61/2006 er sérhver framkvæmd í eða við veiðivatn, allt að 100 m frá bakka, sem áhrif getur haft á fiskigengd þess, afkomu fiskistofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti, háð leyfi Fiskistofu. Í 59. tl. 1. mgr. 3. gr. laganna er hugtakið veiðivatn skýrt með þeim hætti að það sé „Á eða stöðuvatn sem veiði er í eða mætti í vera ef fiskur væri ræktaður þar.“ Fyrirliggjandi gögn og upplýsingar bera ekki með sér að Selsundslækur geti talist veiðivatn í skilningi fyrrgreindra laga og var af þeim sökum ekki þörf á að afla leyfis Fiskistofu fyrir staðsetningu fyrrgreinds íbúðarhúss.

Gert er ráð fyrir að staðsetning rotþróa sé sýnd á lóðaruppdrætti, sbr. gr. 4.4.4. í byggingar-reglugerð nr. 112/2012 sem er hluti byggingarleyfisteikninga. Um frágang og búnað rotþróa gilda lög um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og ákvæði laga um fráveitur nr. 9/2009 ásamt reglugerðum settum samkvæmt þeim. Við veitingu byggingarleyfis ber að ganga úr skugga um að farið sé að þeim reglum um rotþrær og frágang þeirra en ekki við gerð deiliskipulags.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þær ástæður sem raskað geta gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður kröfu þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggðarráðs Rangárþings ytra frá 19. ágúst 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina SH-17 í landi Svínhaga.

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________            ____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                Þorsteinn Þorsteinsson

 

55/2015 Kvosin

Með
Árið 2017, föstudaginn 29. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 55/2015, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. maí 2015 um að breyta skilmálum deiliskipulags Kvosarinnar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. júlí 2015, er barst nefndinni 16. s.m., kærir Guðmundur Jónsson hrl., fyrir hönd Strjúgs ehf. og Hafnarstrætis 1 ehf., þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. maí 2015 að breyta skilmálum deiliskipulags Kvosarinnar. Hin kærða ákvörðun tók gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 25. júní 2015, Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 26. janúar 2017.

Málavextir: Landnotkunarheimildir innan deiliskipulags Kvosarinnar voru skilgreindar með þeim hætti að þær færu eftir landnotkunarheimildum í gildandi aðalskipulagi hverju sinni. Hinn 6. maí 2015 samþykkti umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar tillögu að breytingu á landnotkunarskilmálum deiliskipulagsins og staðfesti borgarráð þá ákvörðun 21. s.m. Var breytingartillagan á þá leið að áfram var vísað til landnotkunarheimilda samkvæmt gildandi aðalskipulagi hverju sinni, en þó með þeim takmörkunum að hámarkshlutfall gistiþjónustu á deiliskipulagssvæðinu og hluta deiliskipulagsvæðis Grjótaþorps yrði 23% hlutfall af birtri stærð eigna. Við ákvörðun hámarkshlutfallsins var höfð hliðsjón af gististarfsemi sem fyrir var á svæðinu við samþykkt breytingatillögunnar, samkvæmt þegar útgefnum byggingarheimildum, og heimildum í þegar samþykktum deiliskipulagsáætlunum. Í greinargerð með tillögunni var vísað til markmiða aðalskipulags um fjölbreytileika miðborgarinnar og þess að marka eigi stefnu um hótel og gististaði samkvæmt aðalskipulagi.

Tillagan að breyttu deiliskipulagi var auglýst frá 16. febrúar með athugasemdafresti til 30. mars 2015. Hinn 26. s.m. sendi kærandi inn athugasemd fyrir hönd eigenda svonefnds Fálkahúss, sem stendur við Hafnarstræti 1-3, en húsið fellur innan umrædds deiliskipulagssvæðis Kvosarinnar. Með athugasemdinni var gerð sú krafa að „ekki verði án bóta gerð frekari inngrip í eignarrétt og afnotarétt af hálfu stjórnsýslunnar en þegar hefði verið gert með friðun hússins“, en elsti hluti þess var reistur 1868 og var það friðað árið 1991. Í húsinu hefur að sögn kæranda verið rekin verslun og veitingasala.

Skipulagsfulltrúi gerði umsögn um deiliskipulagstillöguna að loknum auglýsingafresti, dags. 4. maí 2015, og gat athugasemdar kæranda án þess þó að taka afstöðu til hugsanlegs tjóns kæranda. Í umsögninni var hins vegar bent á möguleika kæranda til að leita bóta í samræmi við 1. mgr. 51. gr. skipulagslaga. Eftir beiðni fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og skipulagsráði, frá 28. janúar 2015, gerði skrifstofa sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs lögfræðiálit um þær leiðir sem sveitarfélög hafa til að stýra starfsemi og uppbyggingu með þeim hætti sem tillagan gerði ráð fyrir. Í álitinu kemur meðal annars fram það mat að starfsemistakmörkunin sem tillagan snýr að sé almenn og því utan gildissviðs bótaákvæða skipulagslaga, enda sé þar gert ráð fyrir að eignatjón mögulegs tjónþola þurfi að vera umfram eignatjón sambærilegra aðila á deiliskipulagssvæðinu. Þá kemur í álitinu fram það mat að starfsemistakmarkanir sem miðast við tiltekinn fjölda fermetra á deiliskipulagssvæði sé í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030. Við afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs hinn 6. maí 2015 var tillaga um breytingu á skilmálum deiliskipulags Kvosarinnar samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa. Borgarráð staðfesti samþykktina hinn 21. maí 2015 og hefur þeirri ákvörðun verið skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda: Til stuðnings kröfu sinni bendir kærandi í fyrsta lagi á að lengra sé gengið í að takmarka eignarrétt en samrýmst geti eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrár. Eign hans að Hafnarstræti 1-3 sæti þegar takmörkunum á umráðarétti vegna friðunar og takmarkaðra vínveitingaheimilda og að viðbættum takmörkunum á heimild til nýtingar undir gistiþjónustu láti nærri að möguleikar eigenda húsnæðisins séu að engu gerðir. Í það minnsta gangi þessar skerðingar á nýtingarheimildum lengra en lög leyfi án bóta.

Í öðru lagi uppfylli hin kærða ákvörðun ekki skilyrði um skýrleika skipulagsákvarðana þar sem ekki verði ráðið af greinargerð ákvörðunarinnar á hvaða heimild í aðalskipulagi hún byggi. Stafar þessi óskýrleiki að mati kæranda af tilvísun í ranga útgáfu aðalskipulags sem hefur öðruvísi blaðsíðuskipan en sú útgáfa sem miða ætti við.

Í þriðja lagi skorti hina kærðu ákvörðun stoð í gildandi aðalskipulagi. Að mati kæranda byggi breytingin á tvennskonar tilvísunum í aðalskipulag. Annars vegar á að ætlunin sé samkvæmt aðalskipulagi að vinna stefnu og úttekt á málefnum hótel og gististaða sem klára skuli áður en ráðist verði í gerð hverfisskipulags miðborgar. Hins vegar á tilvísun í starfsemiskvóta sem skilgreindir séu út frá götuhliðum húsa. Varðandi hið fyrra verði að telja að þessa boðuðu stefnumörkun þurfi að taka upp í aðalskipulag, eigi hún að geta orðið grundvöllur að deiliskipulagsbreytingu. Að öðrum kosti verði að fara með takmarkanir á gististarfsemi eftir svokölluðum starfsemiskvótum sem skilgreindir séu í aðalskipulagi, enda verða skerðingar af þessu tagi að eiga beina stoð í aðalskipulagi. Varðandi hið síðara sé á það bent að jafnvel þó aðalskipulag heimilaði skerðingu á gististarfsemi með þeim hætti sem hin kærða ákvörðun geri, fái aðferðin sem notuð sé við útreikning skerðingarinnar ekki staðist. Í ákvörðuninni sé miðað við samtölu á birtri stærð eigna á tilteknu svæði, en samkvæmt reiknireglum aðalskipulags skuli miða við hlutfall af skilgreindum götuhliðum. Reiknireglur hinnar kærðu ákvörðunar samræmist því ekki viðeigandi ákvæðum aðalskipulags.

Í fjórða lagi telur kærandi að í hinni kærðu ákvörðun felist ólögmæt mismunun sem fari gegn jafnræðisreglu. Með ákvörðuninni hafi heimildir til gistiþjónustu verið bundnar við þá starfsemi sem þegar sé í gangi, við útgefnar byggingarheimildir til slíkrar starfsemi og við samþykktar deiliskipulagsáætlanir sem geri ráð fyrir slíkri starfsemi. Með því að taka frá kvóta fyrir aðila sem hafa fengið samþykkt deiliskipulag sem heimili gististarfsemi sé verið að mismuna þeim eigendum húsnæðis sem fyrir breytinguna var heimilt að nota það fyrir gististarfsemi, en verði það ekki eftir hina kærðu ákvörðun.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld hafna fyrstu málsástæðu kæranda með vísan til þess valds sem sveitastjórnum er falið með skipulagslögum til að takmarka hagnýtingu fasteigna, sbr. 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hin kærðu ákvörðun hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum sem hafi það að markmiði að tryggja fjölbreytta starfsemi í miðborginni, auk þess sem eigendur fasteigna geti búist við því að borgin bregðist við örri þróun sem stefni settum markmiðum í tvísýnu. Þá hafi ákvæðum skipulagslaga um málsmeðferð verið fylgt í einu og öllu við vinnslu málsins. Hafa verði í huga að með auknu byggingarmagni á deiliskipulagssvæðinu geti síðar myndast svigrúm til að taka fasteignir undir gistiþjónustu og hið sama eigi við ef núverandi gististaðir hætti rekstri. Telji kærandi sig hafa orðið fyrir tjóni umfram aðra vegna breytingarinnar sé honum tiltækt bótaákvæði 51. gr. skipulagslaga.

Rétt sé hjá kæranda að vísað hafi verið í rangt blaðsíðutal í aðalskipulagi í greinargerð hinnar kærðu ákvörðunar. Þau mistök geti hins vegar ekki talist ógildingarannmarki á kærðu ákvörðuninni, enda hafi í greinargerð verið vísað til viðeigandi umfjöllunar aðalskipulags, sem kærandi hafi getað fundið. Vísan til greinds blaðsíðutals hafi verið til hægðarauka en í þessu tilviki hafi tilvísun í blaðsíðutal aðalskipulagsins verið óþörf.

Heimild til takmarkana á tiltekinni starfsemi við deiliskipulagsgerð sé í aðalskipulagi. Bent sé á að tilvitnaður áskilnaður um stefnumörkun og úttekt á málefnum hótel og gististaða eigi við um gerð hverfisskipulags og að í öllu falli hafi aðalskipulag ekki kveðið á um skyldu að slík úttekt yrði gerð, heldur einungis að það væri mikilvægt að svo yrði gert. Fullt tillit hafi verið tekið til rétthæðar skipulagsáætlana, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Það sé í höndum stjórnvalds að velja leiðir til að ná markmiðum laga enda sé sérstakrar leiðar ekki getið í lögum. Það sé málefnalegt að miða við reiknireglu hinnar kærðu ákvörðunar enda gefi hún gleggstu mynd af nýtingu fasteigna á svæðinu og sé auk þess hentug almenningi til glöggvunar. Svonefnd götuhliðastýring eigi við um annars konar takmörkun á notkun fasteigna og á henni sé grundvallarmunur miðað við þá leið sem farin var með hinni kærðu ákvörðun.  Ákvörðunin mismuni ekki fasteignaeigendum á svæðinu og sé staðhæfing kæranda í þá veru tilhæfulaus og órökstudd.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um hvort ákvörðun borgarráðs frá 21. maí 2015, um breytingu á skilmálum deiliskipulags Kvosarinnar, sé haldin annmörkum sem varði ógildingu. Einnig er deilt um hvort að hin kærða ákvörðun hafi skert ótilhlýðilega eignarréttindi kæranda samkvæmt 72. gr. stjórnarskrár og hvort fasteignaeigendum á svæðinu hafi með ákvörðuninni verið mismunað með ólögmætum hætti.

Í skilgreiningu á landnotkun í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 kemur fram að í miðborg og á miðsvæðum séu gististaðir almennt heimilaðir. Á landnotkunarsvæðinu M1a, sem tekur til umrædds svæðis, er lögð áhersla á að gistiþjónusta sé á efri hæðum bygginga. Til viðbótar þessari almennu skilgreiningu á landnotkun svæðisins, gilda sérstök ákvæði um hótel- og gistirými. Þar kemur fram að hótel og gistiheimili séu almennt heimil í miðborginni og á miðsvæðum nema annað sé sérstaklega tekið fram í töflu í greinargerð aðalskipulagsins sem vísað er til. Þar er tiltekið að á landnotkunarsvæðinu M1a sé heimilað að reka gististaði í flokki I-V án sérstakra skilyrða.

Samkvæmt 2. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er deiliskipulag „[s]kipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reiti innan sveitarfélags sem byggð er á aðalskipulagi og kveður nánar á um útfærslu þess.“ Í 7. mgr. 12. gr. laganna er kveðið á um að skipulagsáætlanir skuli vera í innbyrðis samræmi og að aðalskipulag sé rétthærra en deiliskipulag. Í þessu felst að heimilt er að skilgreina landnotkun þrengra í deiliskipulagi en í aðalskipulagi svo lengi sem hin þrengri landnotkun falli innan þess sem aðalskipulag heimilar.

Í miðborgarkafla Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 (bls. 191) kemur fram það stefnumið að vernda skuli miðborgina gagnvart ótakmarkaðri gistirýmauppbyggingu. Af því leiðir að takmörkun á starfsemi gististaða í miðborginni samræmist stefnu aðalskipulags. Landnotkunarkafli aðalskipulagsins skiptist í almennar skilgreiningar á landnotkun og sérstök ákvæði sem takmarka eða víkja frá hinum almennu skilgreiningum og gilda sérstök ákvæði um ýmsar tegundir starfsemi. Ákvæði um götuhliðar í miðborginni eru á meðal þessara sérstöku ákvæða um takmarkanir á tegundum starfsemi auk sérstakra ákvæða um hótel- og gistirými. Ákvæði um götuhliðar ná yfir skilgreindar götuhliðar í miðborginni og gilda á þeim svæðum starfsemiskvótar á jarðhæðum húsa sem snúa að þessum götuhliðum. Þær sérstöku takmarkanir sem aðalskipulag leggur við gististarfsemi koma fram í umfjöllun Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 á bls. 220. Þar er ekki tilgreind sérstök aðferð sem styðjast skuli við ef setja eigi takmarkanir á uppbyggingu gistirýma. Því er heimilt að útfæra nánar í deiliskipulagi aðferð til að stýra eða takmarka gistirýmauppbyggingu til að tryggja fjölbreytileika í starfsemi miðborgarsvæðis.

Í 5.5.2. gr. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 kemur fram að í greinargerð deiliskipulags skuli geta um samræmi deiliskipulags við stefnu aðalskipulags og í 5.8.5.2. gr. reglugerðarinnar er tekið fram að í greinargerð með breytingu deiliskipulags skuli lýsa samræmi breytingarinnar við aðalskipulag. Af greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar má ráða að hún byggi á umfjöllun aðalskipulags um fyrirhugaða stefnu og úttekt um hótel og gististaði, auk markmiða um fjölbreytileika miðborgarinnar sem skuli stuðla að og viðhaldið með blandaðri miðborgarstarfsemi. Fram er komið að sú stefnumótun og úttekt liggi ekki fyrir og í greinargerðinni eru tilvísanir til tiltekinna blaðsíðna í aðalskipulagsgreinargerð rangar. Rökstuðningi um samræmi skipulagsáætlana, sem gerð er krafa um í gr. 5.8.5.2. í skipulagsreglugerð, er að þessu leyti áfátt. Þrátt fyrir annmarkan verður ráðið af greinargerð skipulagsbreytingarinnar við hvaða stefnumið aðalskipulags hún styðst líkt og að framan er rakið og bjuggu þau efnisrök að baki henni að takmarka frekari uppbyggingu gististarfsemi á viðkomandi svæði.

Í 51. gr. skipulagslaga er tekið á álitamálum vegna skerðingar eignarréttinda í kjölfar skipulagsákvarðana og í 2. mgr. 51. gr. a. sömu laga er kveðið á um hvernig haga skuli framlagningu bótakrafna í slíkum álitamálum. Telji fasteignaeigendur sig verða fyrir skerðingu eignarréttinda umfram aðra, geta þeir leitað til viðkomandi sveitarfélags um bætur. Það er hins vegar utan valdsviðs úrskurðanefndarinnar að taka afstöðu til bótaskyldu sem kann að skapast vegna skipulagsákvarðana eða um embættistakmörk yfirvalda við beitingu skipulagsvalds með tilliti til eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrár. Á slíkur ágreiningur eftir atvikum undir dómstóla.

Samkvæmt 11. gr. stjórnsýslulaga skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í ákvörðunum. Í því felst að aðilar í sambærilegum aðstæðum skuli hljóta sambærilega afgreiðslu. Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu voru settar takmarkanir á notkun fasteigna svæðisins fyrir gististarfsemi. Takmarkanirnar voru við það miðaðar að þeir sem þegar höfðu fengið samþykkt leyfi til rekstrar eða til uppbyggingar gistiþjónustu eða höfðu rétt til þess samkvæmt sérstakri heimild í deiliskipulagi, héldu þeim réttindum við skipulagsbreytinguna. Kærandi var ekki þar á meðal og því ekki í sambærilegri stöðu og þeir sem þegar höfðu öðlast rétt til að reka gististarfsemi á svæðinu við deiliskipulagsbreytinguna. Í ljósi þessa var jafnræðis gætt við hina kærðu ákvörðun.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. maí 2015 um breytingu á skilmálum deiliskipulags Kvosarinnar.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Þorsteinn Þorsteinsson

102/2017 Nónhæð

Með
Árið 2017, föstudaginn 29. september, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 102/2017 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 18. september 2017, kærir A, Foldarsmára 18, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. júní 2017 að auglýsa breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 og ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 10. ágúst s.á. um að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir Nónhæð. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Málsatvik og rök: Á fundi sínum 13. júní 2017 samþykkti bæjarstjórn Kópavogs að auglýsa til kynningar tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins og á fundi 10. ágúst s.á., samþykkti bæjarráð, í umboði bæjarstjórnar, að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi Nónhæðar. Frestur til athugasemda beggja skipulagstillagnanna var auglýstur til 29. september 2017.

Kærandi telur auglýsingu tillögu að breyttu aðalskipulagi ólögmæta þar sem í skipulagslögum sé gert ráð fyrir endurskoðun þess að loknum sveitarstjórnarkosningum og að tilkynna skuli Skipulagsstofnun um þá endurskoðun. Hin auglýsta tillaga að breyttu deiliskipulagi Nónhæðar byggi á greindri aðalskipulagsbreytingu og beri því að afturkalla hana.

Bæjaryfirvöld Kópavogs benda á að ekki hafi verið tekin endanleg ákvörðun í hinum kærðu málum. Bæði deiliskipulags- og aðalskipulagstillagan séu ennþá í auglýsingu með athugasemdafrest til 29. september 2017.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. málsl. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að lögum að staðfesta ekki kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar, en það á við um hina kærðu aðalskipulagsbreytingu skv. 3. og 5. mgr. 32. gr. laganna.

Einungis ákvörðun sem bindur enda á mál verður kærð til æðra stjórnvalds, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðun um að auglýsa fyrrgreinda deiliskipulagstillögu er er liður í málsmeðferð en ekki lokáákvörðun í skilningi stjórnsýsluréttar. Ákvörðun um deiliskipulag tekur ekki gildi fyrr en að undangenginni samþykkt sveitarstjórnar og að lokinni birtingu auglýsingar um gildistöku hennar í B-deild Stjórnartíðinda.

Af framangreindum ástæðum  verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

__________________________________________
Ómar Stefánsson

3/2016 og 8/2016 Kalkþörungaset í Miðfirði

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 3. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2016, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 9. desember 2015 um að nýting kalkþörungasets í Miðfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. janúar 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra Veiðifélag Miðfirðinga og Kvísl ehf., eigandi Króksstaða og hluta Miðfjarðarár, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 9. desember 2015 að nýting kalkþörungasets í Miðfirði, 1.200 m³ á ári í 30 ár, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 18. janúar 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Landssamband veiðifélaga fyrrgreinda ákvörðun. Er gerð sú krafa að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þar sem hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verður það kærumál, sem er nr. 8/2016, sameinað máli þessu.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 22. febrúar 2016.

Málavextir: Með umsókn, dags. 14. maí 2015, sótti Icecal ehf. um leyfi til Orkustofnunar fyrir hagnýtingu á 1.200 m³ af kalkþörungaseti á ári innan ákveðins svæðis í Miðfirði. Óskað var eftir nýtingarleyfi til 30 ára, eða frá 2015 til 2045. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins skal gætt ákvæða laga um mat á umhverfisáhrifum við veitingu leyfa samkvæmt lögunum. Orkustofnun leitaði umsagna Umhverfisstofnunar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra, Húnaþings vestra, Minjastofnunar Íslands, Náttúrustofu Norðurlands vestra, Náttúrustofu Vestfjarða og Samgöngustofu. Umsækjanda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við framkomnar umsagnir og bárust þær Orkustofnun með bréfi, dags. 13. ágúst 2015. Í bréfi til umsækjanda, dags. 20. nóvember s.á., benti Orkustofnun á að tilkynna þyrfti um fyrirhugaða framkvæmd til Skipulagstofnunar og var það gert 4. desember 2015.

Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu 9. desember 2015 að umrædd framkvæmd væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum og var leiðbeint um kærufrest til 19. janúar 2016. Hafa kærendur kært þá ákvörðun, eins og áður segir.

Málsrök kærenda: Kærendur kveðast eiga þeirra hagsmuna að gæta að ekki verði stefnt í hættu lífríki Miðfjarðarár, ósa hennar og nánasta umhverfi til lands og sjávar, þar á meðal lífríki Miðfjarðar, sem áin renni í. Enginn viti hvaða áhrif fyrirhuguð námuvinnsla af botni Miðfjarðar, rétt fyrir utan ós Miðfjarðarár, geti haft á laxagöngur og bleikjugöngur í ána og annað lífríki vatnasvæðis árinnar og fjarðarins. Miðfjarðará sé í flokki mestu laxveiðiáa landsins og gæti verið í stórhættu ef af nefndri námuvinnslu yrði, með tilheyrandi uppróti og kalkþörungaskoli í firðinum. Sérstaklega hljóti sú hætta að eiga við á göngutíma seiða til sjávar og á göngutíma lax og silungs í ám.

Áður en til greina komi að heimila framkvæmdina sé brýn nauðsyn á að framkvæma margvíslegar rannsóknir á náttúru svæðisins og láta fara fram mat á umhverfisáhrifum hennar. Sérstaklega sé þar um vísað til varúðarreglu 9. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013 og 73. gr. EES-samningsins, þar sem fjallað sé um aðgerðir samningsaðila á sviði umhverfismála.

Framkvæmdaraðili hafi tilkynnt um vinnslusvæði rétt undir viðmiðunarmörkum flatarmáls námusvæðisins samkvæmt gr. 2.04 í 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, sem fjalli um röskun hafsbotns á minna en 25.000 m² svæði, og flokki slíka röskun undir C-flokk framkvæmda. Samkvæmt 2. viðauka laganna skuli athuga eðli framkvæmdar, staðsetningu framkvæmdar og eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdar. Samkvæmt framangreindu eigi ekki aðeins að taka tillit til stærðar námusvæðis, sem oft sé tilgreind rétt undir viðmiðunarmörkum. Þessi ákvæði laga nr. 106/2000 séu í samræmi við ákvæði 1. mgr. 2. gr. tilskipunar 85/337/EBE, þar sem segi að gera skuli allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að áður en leyfi sé veitt sé þess krafist að framkvæmdir, sem haft geti í för með sér veruleg áhrif á umhverfið, séu háðar kröfum um leyfi til framkvæmda og mati á áhrifum þeirra.

Evrópudómstóllinn hafi jafnframt fjallað um framangreind ákvæði tilskipunar 85/337/EBE, nú tilskipunar 2011/92/ESB í nokkrum dómum sínum. Í dómum í málunum C-392/96, framkvæmdastjórnin gegn Írlandi, og C-435/09, framkvæmdastjórnin gegn Belgíu, bendi dómstóllinn t.d. á að lítil framkvæmd geti haft mikil áhrif á umhverfið ef framkvæmdin sé staðsett þar sem umhverfisþættir eins og dýralíf, jurtalíf, jarðvegur, vatn, loftslag eða menningarleg arfleifð séu viðkvæmir fyrir minnstu breytingum. Í dómi í máli C-87/02, framkvæmdastjórnin gegn Ítalíu, komist dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að hvaða aðferð sem aðildarríki ákveði að nota til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdar megi sú aðferð ekki grafa undan markmiðum tilskipunarinnar um að engin framkvæmd, sem sé líkleg til að hafa veruleg áhrif á umhverfið, verði undanþegin mati á umhverfisáhrifum nema að sú framkvæmd hafi á grunni víðfeðmrar skimunar ekki verið talin hafa slík áhrif.

Greinilegt sé af hinni kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar að stofnunin hafi ekki rannsakað málið sérstaklega og með sjálfstæðum og víðfeðmum hætti, með tilliti til allra lögmæltra atriða, áður en hún tók ákvörðun sína. Ekki dugi, eins og stofnunin geri, að fullyrða um málið í ákvörðun. Ákvörðunin verði að bera það með sér að málið hafi verið rannsakað til hlítar.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun bendir á að samkvæmt 5. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sé Skipulagsstofnun heimilt að leita álits leyfisveitanda áður en hún taki ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar í C-flokki. Samkvæmt þessu sé stofnuninni ekki skylt að leita umsagnar leyfisveitanda, eins og gildi um framkvæmdir í B-flokki. Í almennum athugasemdum í greinargerð sem fylgt hafi frumvarpi því sem orðið hafi að lögum nr. 138/2014, um breytingu á lögum nr. 106/2000, komi fram að væntanlega muni stærstur hluti nýrra tilkynninga á grundvelli flokks C fela í sér umfangsminni framkvæmdir og/eða framkvæmdir á svæðum sem séu síður viðkvæm. Það leiði m.a. til þess að ekki verði þörf á umsagnarferli í öllum tilfellum. Framkvæmd sú sem hin kærða ákvörðun lúti að sé umfangslítil og hafi Skipulagsstofnun því ekki talið þörf á að leita umsagna leyfisveitanda.

Þótt Skipulagsstofnun hafi ákveðið að leita ekki umsagnar leyfisveitanda hafi hún fengið frá Orkustofnun umsagnir fagstofnana í tilefni af umsókn leyfishafa um breytingu á töku á kalkþörungaseti í Miðfirði. Stofnunin hafi, áður en hún hafi tekið ákvörðun sína, kynnt sér umsagnir sem borist hafi Orkustofnun frá Umhverfisstofnun, Hafrannsóknastofnun, Minjastofnun, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra, Húnaþingi vestra og Fiskistofu. Í umsögn Fiskistofu komi fram að hin fyrirhugaða efnistaka sé fremur lítil að umfangi og til langs tíma, efnistökusvæðið sé afmarkað og nokkuð fjarri árósi Miðfjarðarár. Því sé ekki líklegt að hún myndi hafa mikil áhrif á afkomu laxfiska á svæðinu. Miðað við þetta sé ekki rétt það sem kærendur haldi fram að hin fyrirhugaða námuvinnsla sé rétt utan við ós Miðfjarðarár. Nefnd umsögn og aðrar umsagnir gefi ekki til kynna að Miðfjarðará geti verið í stórhættu og að hætta skapist á göngutíma seiða til sjávar og göngutíma lax og silungs í ána, eins og kærendur fullyrði.

Kærendur fari ekki rétt með efni 9. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013, sem hafi að geyma varúðarreglu laganna. Eftir breytingu á efni ákvæðisins, sem gerð hafi verið með lögum nr. 109/2015, gildi reglan einungis um ákvarðanir sem teknar séu á grundvelli náttúruverndarlaga, eins og skýrt komi fram í orðalagi 1. málsl. 9. gr. Hin kærða ákvörðun sé tekin á grundvelli laga nr. 106/2000. Varðandi varúðarregluna, eins og hún komi fram í aðfararorðum EES-samningsins, þá skuli hafa hana í huga við beitingu 73. gr. samningsins. Reglan feli í sér að fyrir hendi þurfi að vera óvissa um hvaða áhrif framkvæmd hafi á umhverfið eða náttúruna. Með tilliti til þess sem komi fram í tilkynningu framkvæmdaraðila og í umsögnum Umhverfisstofnunar, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra og Fiskistofu verði ekki séð að slík óvissa sé til staðar. Þá beri að líta til þess að beiting varúðarreglunnar sé yfirleitt íþyngjandi í garð framkvæmdaraðila.

Kærendur vísi í tiltekna dóma Evrópudómstólsins en þar sé m.a. vikið að þáttunum eðli, stærð eða staðsetningu. Að mati kærenda staðfesti dómarnir, ákvæði í 2. viðauka við lög nr. 106/2000 og ákvæði 1. mgr. 2. gr. tilskipunar 85/337/EBE, að námuvinnslan á botni Miðfjarðar eigi að sæta mati á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun bendi á að áður en hún hafi tekið hina kærðu ákvörðun hafi hún litið til þeirra viðmiða sem fram komi í 2. viðauka, þ.e. til þeirra atriða sem falli undir eðli framkvæmdar, staðsetningu framkvæmdar og eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdar. Með tilliti til þeirra, og að teknu tilliti til tilkynningar framkvæmdaraðila og umsagna framangreindra fagstofnana, hafi það verið niðurstaða stofnunarinnar að hin kærða framkvæmd skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Þessi aðferðarfræði sé í samræmi við tilskipunina og umrædda dóma. Þar sem hin fyrirhugaða framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa í för með sér veruleg umhverfisáhrif sé ekki verið að grafa undan markmiðum tilskipunarinnar.

Kærendur haldi því fram að Skipulagsstofnun hafi ekki rannsakað málið sjálfstætt með tilliti til allra þeirra atriða sem máli skipti. Stofnunin andmæli þessu. Í 5. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 segi að við ákvörðun um matsskyldu skuli stofnunin fara eftir viðmiðum í 2. viðauka laganna. Eins og nefnt sé að framan hafi stofnunin gert það. Hún hafi m.a. farið yfir umsagnir sem Orkustofnun hafi haft undir höndum í tilefni af umsókn framkvæmdaraðila um breytingu á töku á kalkþörungaseti í Miðfirði og rannsókn frá 2004, sem hafi lotið að kalkþörungaleit með endurvarpsmælingum í Miðfirði og Bitrufirði. Stofnunin hafi talið að framangreind gögn og tilkynning framkvæmdaraðila væru fullnægjandi og gæfu rétta mynd af atvikum málsins. Að mati stofnunarinnar hafi málið verið nægilega upplýst áður en hún hafi tekið ákvörðun. Þegar ákvörðunin sé lesin megi sjá að í henni sé m.a. vísað til umræddra umsagna. Það sé því rangt að ákvörðunin beri ekki með sér að málið hafi verið rannsakað.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili bendir á að samkvæmt bráðabirgðaákvæði í 11. gr. laga nr. 138/2014, um breytingu á lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, séu framkvæmdir þær sem falli í flokk C í 1. viðauka við lögin ekki háðar ákvörðun um mat á umhverfisáhrifum skv. 6. gr. laganna fyrr en 1. júní 2015. Varðandi aðra starfsemi á svæðinu þá sé engin starfsemi á svæðinu, sem framkvæmdaraðila sé kunnugt um, sem ætti að verða fyrir skakkaföllum vegna fyrirhugaðrar efnistöku, en við mat á slíku skuli líta til jafnræðis og meðalhófs.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að nýting kalkþörungasets í Miðfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum, en kærendur telja að slíkt mat skuli fara fram, enda óttist þeir áhrif framkvæmdarinnar á lífríki Miðfjarðarár. Byggja þeir aðild sína á því að þeim hagsmunum sé stefnt í hættu.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins er óheimilt að taka eða nýta efni af hafsbotni eða úr honum, sbr. 1. gr. laganna, nema að fengnu skriflegu leyfi Orkustofnunar. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. skal leyfi til hagnýtingar efna á, í eða undir hafsbotni bundið við ákveðið svæði og gilda til ákveðins tíma sem ekki má vera lengri en 30 ár. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. skal við veitingu leyfa samkvæmt lögunum gæta ákvæða laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í 1. mgr. 13. gr. þeirra laga kemur fram að óheimilt sé að gefa út leyfi til framkvæmdar skv. 5. eða 6. gr. laganna fyrr en álit Skipulagstofnunar liggi fyrir eða ákvörðun um að framkvæmd skv. 6. gr. sé ekki matsskyld.

Í umsókn framkvæmdaraðila kemur fram að sótt sé um leyfi til hagnýtingar á 1.200 m³ af kalkþörungaseti á ári innan tiltekins svæðis í Miðfirði. Sótt er um leyfi til 30 ára og því nemur umsótt heildarmagn nýtts kalkþörungasets 36.000 m³. Samkvæmt lið 2.04 í 1. viðauka laga nr. 106/2000, sbr. breytingalög nr. 138/2014, fellur framkvæmdin því undir efnistöku og/eða haugsetningu á landi eða úr hafsbotni þar sem áætlað er að raska minna en 25.000 m² svæði eða efnismagn er minna en 50.000 m³ og á undir framkvæmdaflokk C. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 106/2000 tekur Skipulagsstofnun ákvörðun samkvæmt 6. gr. laganna um hvort aðrar framkvæmdir í flokki C í 1. viðauka en þær sem kveðið er á um í skipulagslögum og lögum um mannvirki, eða slíkar framkvæmdir sem háðar eru leyfi Mannvirkjastofnunar, skuli háðar mati á umhverfisáhrifum. Flokkur C kom til með lögum nr. 138/2014 um breytingu á lögum nr. 106/2000 og skv. 11. gr. breytingalaganna skyldu framkvæmdir þær sem falla í flokk C háðar ákvörðun um mat á umhverfisáhrifum frá 1. júní 2015. Þar sem framkvæmd leyfishafa er háð leyfi Orkustofnunar, eins og áður sagði, og meðferð stofnunarinnar var ekki lokið fyrir framangreint tímamark, var framkvæmdaraðila réttilega leiðbeint um tilkynningarskyldu vegna framkvæmdarinnar og tilkynnti hann um hana, eins og nánar greinir í málavaxtalýsingu.
 
Framkvæmdir í flokki C urðu matsskyldar í kjölfar breytinga á lögum nr. 106/2000, sem til komu m.a. vegna dómaframkvæmdar Evrópudómstólsins. Er nánar tiltekið í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að breytingalögum nr. 138/2014 að tilefni lagasetningarinnar séu athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA við innleiðingu Íslands á ákvæðum tilskipunar 85/337/EBE og að í flokki C séu þær framkvæmdir sem fallið hafi utan viðmiðunarmarka þeirra framkvæmda sem tilgreindar séu í 2. viðauka og nauðsynlegt þyki í ljósi athugasemdanna að bæta við gildandi lög. Varðandi þær framkvæmdir sem fallið hafi utan viðmiðunarmarka núgildandi laga, og gerð sé tillaga um að verði tilkynningarskyldar og falli í flokk C, sé í frumvarpinu gerð tillaga að einfaldari málsmeðferð en lagt sé til varðandi þær framkvæmdir sem falli í flokk B. Markmið einfaldari málsmeðferðar sé að stytta þann tíma sem taki að taka ákvörðun um matsskyldu. Varðandi þær framkvæmdir sem falli í flokk C verði gerðar vægari kröfur til framkvæmdaraðila um skil á gögnum með tilkynningu um framkvæmd til Skipulagsstofnunar og sveitarfélaganna og styttri tímafresti þessara aðila til að taka ákvörðun um matsskyldu en verið hafi varðandi þær tilkynningarskyldu framkvæmdir sem nú sé að finna í 2. viðauka laganna. Enn fremur verði Skipulagsstofnun og sveitarstjórnum heimilt en ekki skylt að leita umsagnar. Í athugasemdum með 4. gr. frumvarpsins, sem breytti 6. gr. laga nr. 106/2000, er áréttað að eins og með framkvæmdir sem falli í flokk B sé lagt til að sveitarstjórn og Skipulagsstofnun fari eftir viðmiðum þeim sem fram komi í 2. viðauka við ákvörðun um matsskyldu framkvæmda sem falli undir flokk C. Einnig að í samræmi við að gert sé ráð fyrir einfaldari og fljótlegri málsmeðferð framkvæmda sem falli í flokk C sé gerð lágmarkskrafa til þeirra gagna sem fylgja skuli tilkynningu um framkvæmd.

Um málsmeðferð Skipulagsstofnunar við mat á því hvort framkvæmdir í flokki C skuli háðar mati á umhverfisáhrifum er fjallað í 6. gr. laga nr. 106/2000, sbr. breytingalög nr. 138/2014. Í 1. mgr. segir að framkvæmdir sem tilgreindar séu í flokki B og flokki C í 1. viðauka við lögin skuli háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Í 5. mgr. 6. gr. segir að vegna framkvæmdar í flokki C, sem tilkynna beri til Skipulagsstofnunar, skuli stofnunin innan tveggja vikna frá því fullnægjandi gögn um framkvæmdina berist taka ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati samkvæmt lögunum. Við ákvörðun sína skal Skipulagsstofnun fara eftir viðmiðum í 2. viðauka laganna. Stofnuninni er heimilt að leita álits leyfisveitanda og annarra aðila eftir eðli máls hverju sinni. Skal Skipulagsstofnun gera hlutaðeigandi grein fyrir niðurstöðu sinni og kynna hana almenningi. Eins og áður kom fram tók Skipulagsstofnun hina kærðu ákvörðun 9. desember 2015 og var það niðurstaða stofnunarinnar að framkvæmdin væri ekki matsskyld.

Viðmið í 2. viðauka laga nr. 106/2000, sem fara skal eftir við ákvörðun um matsskyldu, eru talin upp í þremur töluliðum og varða eðli framkvæmdar, staðsetningu og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar. Undir hverjum tölulið eru tilgreindir allt að sex aðrir töluliðir og undir tveimur þeirra stafliðir, annars vegar sex talsins og hins vegar tíu. Eru þannig talin fjöldi atriða sem taka skal mið af við matið. Skipulagsstofnun hefur útbúið eyðublað og sniðmát ákvörðunar um framkvæmd í flokki C. Þar skal koma fram heiti framkvæmdar, framkvæmdaraðili, sveitarfélag, tegund framkvæmdar og stutt samantekt framkvæmdalýsingar. Einnig hvort umsagna var leitað og þá frá hverjum, sem og hverjar helstu ábendingar þeirra séu sem áhrif hafi á ákvörðunina. Þá er gátlisti þar sem spurt er hvort framkvæmdin hafi áhrif á þætti sem taldir eru í 21 lið. Gert er ráð fyrir því að svarað sé já eða nei, spurt hvort áhrifin séu líkleg til að verða mikil og ætlast til þess að það sé skýrt nánar. Jafnframt er gert ráð fyrir dagsetningu ákvörðunar, hver hún sé, þ.e. matsskyld framkvæmd eða ekki háð mati, og hver kærufrestur sé.

Nefnt eyðublað var notað í máli þessu og sniðmátið fyllt inn, svo sem að framan er lýst. Um umsagnarferli er tekið fram að Skipulagsstofnun hafi ekki talið tilefni til að óska sérstaklega eftir umsögnum þar sem Orkustofnun hefði óskað eftir umsögnum og að Skipulagsstofnun hafi fengið þau gögn í hendur við meðferð málsins. Tók Skipulagsstofnun fram að Umhverfisstofnun, Hafrannsóknastofnun og Minjastofnun Íslands hafi ekki gert athugasemdir við leyfisumsókn framkvæmdaraðila. Rakti Skipulagsstofnun svo atriði úr umsögnum Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra, Húnaþings vestra og Fiskistofu, sem og svör framkvæmdaraðila við þeim. Svaraði Skipulagsstofnun gátlistanum svo til að því var neitað að mestu að framkvæmdin hefði áhrif á þá þætti sem þar voru taldir. Þó var því játað að framkvæmdin hefði áhrif á svæði sem njóti verndar samkvæmt alþjóðlegum samningum og tekið fram að þar væri um OSPAR-samninginn að ræða, eða samninginn um verndun Norðaustur-Atlantshafsins. Einnig var játað að gróður og gróðurlendi yrði fyrir áhrifum af völdum framkvæmdarinnar og tekið fram að þar væri um að ræða rask kalkþörunga, en að umfang rasks væri óverulegt. Frekari texta eða tilvísanir var ekki að finna um mat Skipulagsstofnunar á því að framkvæmdin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum, en um matskennda ákvörðun var að ræða um það hvort að einhver þau viðmið sem fram koma í 2. viðauka laga nr. 106/2000 gerðu það að verkum að umrædd framkvæmd teldist matsskyld.

Þau atriði sem talin eru upp í 21 lið í gátlista samsvara að meginstefnu til þeim atriðum sem fram koma í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Gátlistinn tekur þó ekki til allra þeirra þátta. Hann tekur t.a.m. ekki til eðlis framkvæmdar, að teknu tilliti til sammögnunaráhrifa með öðrum framkvæmdum og nýtingar náttúruauðlinda. Ekki heldur til staðsetningar framkvæmdar með tilliti til magns, gæða og getu til endurnýjunar náttúruauðlinda eða til eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdar með tilliti til tímalengdar, tíðni og óafturkræfi áhrifa, sem og sammögnunar ólíkra umhverfisáhrifa á tilteknu svæði.

Umhverfisstofnun gerði ekki athugasemdir við framkvæmdina í umsögn sinni frá 5. júní 2015 en tók jafnframt fram að hún teldi að stærðarviðmið, sem ætlað væri að gefa vísbendingar um líkleg áhrif efnistöku á landi, ættu að öllum líkindum ekki við þegar um efnistöku á hafsbotni væri að ræða, sérstaklega þegar efni væri dælt upp af hafsbotni úr seti sem væri jafn viðkvæmt og kalkþörungar. Hafrannsóknastofnun gerði sömuleiðis ekki athugasemdir við framkvæmdina í sinni umsögn, dags. 11. s.m., en lagði áherslu á að vegna óvenju hægs vaxtar kalkþörunganna myndi það væntanlega taka hundruð ára fyrir þá og lífríkið tengt þeim að jafna sig. Það væri því ekki um að ræða sjálfbæra nýtingu þeirra.

Verður að telja að framangreindar athugasemdir umsagnaraðila hafi gefið Skipulagsstofnun tilefni til að taka afstöðu til þeirra, enda um að ræða atriði sem vörðuðu annars vegar tilefni breytingalaga nr. 138/2014, þ.e. að þó að framkvæmd væri undir viðmiðunarmörkum bæri að leggja mat á hana að teknu tilliti til viðmiða 2. viðauka laga nr. 106/2000, og hins vegar atriði sem ekki komu til skoðunar með gátlistanum, s.s. nýting náttúrurauðlindar, endurnýjun hennar og óafturkræfi áhrifa. Ekki er vikið að þessu efni umsagnanna í hinni kærðu ákvörðun eða að áðurnefndum viðmiðum 2. viðauka. Varð ekki úr því bætt með því að tiltaka í ákvörðuninni að umfang rasks kalkþörunga sé óverulegt. Þá játar Skipulagsstofnun því í hinni kærðu ákvörðun að áhrif verði á svæði sem njóti verndar samkvæmt alþjóðlegum samningum og tilgreinir OSPAR-samninginn í því sambandi. Hins vegar er þar engin afstaða tekin til þess hvort og þá hvaða þýðingu sú vernd hefur. Loks er enga heimfærslu til laga eða annarra réttarreglna að finna í ákvörðuninni.

Samkvæmt reglum stjórnsýsluréttar skal stjórnvaldsákvörðun fullnægja lágmarksskilyrðum um rökstuðning og efnisinnihald. Í 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir um efni rökstuðnings að í rökstuðningi skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds sé byggð á. Að því marki, sem ákvörðun byggist á mati, skuli í rökstuðningnum greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið. Í athugasemdum við ákvæðið segir að um sé að ræða þau lágmarksskilyrði sem ávallt séu gerð til rökstuðnings.

Þrátt fyrir að ljóst sé að stefnt sé að einfaldari málsmeðferð við matsskylduákvarðanir vegna framkvæmda sem falla í flokk C verður ekki fram hjá því litið að lög nr. 106/2000 gera þá kröfu að lagt sé mat á það hvort þær framkvæmdir hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, að teknu tilliti til lögbundinna viðmiða 2. viðauka laganna. Slíkt mat getur aldrei orðið að fullu vélrænt og að mati úrskurðarnefndarinnar koma eyðublöð, sniðmát og gátlistar ekki í þess stað þótt slík verkfæri geti komið að góðum notum við matið og stuðlað að samræmi í ákvarðanatöku.

Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðunin snýst um hvaða viðmið 2. viðauka laga nr. 106/2000 koma til skoðunar, en svo sem áður er rakið verður ekki ráðið af hinni kærðu ákvörðun og rökstuðningi hennar að mat Skipulagsstofnunar, þess efnis að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum, hafi með fullnægjandi hætti farið fram samkvæmt nánar tilgreindum viðmiðum 2. viðauka. Er ekki hægt að útiloka að efni hinnar kærðu ákvörðunar hefði orðið annað ef svo hefði verið. Með hliðsjón af öllu framangreindu verður því að telja hina kærðu ákvörðun slíkum annmörkum háða að ekki verði komist hjá ógildingu hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 9. desember 2015 um að nýting kalkþörungasets í Miðfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

53/2017 Tryggvagata Selfossi

Með
Árið 2017, mánudaginn 28. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 53/2017, kæra vegna dráttar á afgreiðslu erindis þar sem krafist er að sveitarfélagið Árborg láti fjarlægja gáma af lóðinni Tryggvagötu 6 á Selfossi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. júní 2017, er barst nefndinni 9. s.m., framsendi Neytendastofa kæru A, Tryggvagötu 4a, Selfossi, sem varðar drátt á afgreiðslu erindis kæranda, þar sem krafist er að sveitarfélagið Árborg láti fjarlægja gáma af lóðinni Tryggvagötu 6 á Selfossi.

Umsögn sveitarfélagsins Árborgar vegna málsins barst úrskurðarnefndinni 27. júní 2017.

Málsatvik og rök: Snemma árs 2014 keypti kærandi fasteign við Tryggvagötu á Selfossi. Síðar sama ár hafði kærandi samband við skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar og óskaði eftir upplýsingum um stöðuleyfi vegna tveggja gáma á næstu lóð, Tryggvagötu 6, sem er íbúðarlóð samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Í janúar 2015 fékk kærandi þær upplýsingar frá sveitarfélaginu að stöðuleyfi hefði verið gefið út fyrir staðsetningu gámanna í janúar s.á. og að sú ákvörðun væri kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála skv. 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Kærandi skaut þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með bréfi er barst nefndinni 23. janúar 2015. Var á það bent að gámarnir væru staðsettir á lóðinni Tryggvagötu 6, þremur metrum frá lóðarmörkum kæranda og í beinni sjónlínu frá gluggum fasteignar hans. Staðsetning þeirra væri óviðunandi og hefðu þeir mikla sjónmengun í för með sér. Því kærumáli var vísað frá úrskurðarnefndinni hinn 25. október 2016, þar sem hið kærða stöðuleyfi var þá fallið úr gildi og hafði því ekki lengur réttarverkan að lögum.

Kærandi kveðst hafa sent byggingaryfirvöldum Árborgar tölvupóst hinn 2. nóvember 2016 með kröfu um að umræddir gámar yrðu fjarlægðir, en því erindi hafi í engu verið svarað.

Sveitarfélagið tekur fram að ekki hafi verið tekin önnur ákvörðun í málinu síðan 7. janúar 2015, þegar stöðuleyfi fyrir umdeildum gámum hafi verið samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar, sem tilkynnt hafi verið leyfishafa hinn 12. s.m. Leyfið hafi verið veitt til tólf mánaða, sbr. ákvæði gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Liggi því ekki fyrir stjórnvaldsákvörðun í málinu sem borin verði undir úrskurðarnefndina. Hið veitta stöðuleyfi sé runnið út og hafi ekki verið endurnýjað. Leyfishafa hafi verið tilkynnt um að fyrirhugað sé að taka ákvörðun um hvort gerð verði krafa um að gámarnir verði fjarlægðir af lóðinni í samræmi við gr. 2.6.2. í byggingarreglugerð, þar sem ekki sé í gildi stöðuleyfi fyrir þá.

Niðurstaða: Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er heimilt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Ákvörðun um hvort þvingunarúrræðum samkvæmt 55. og 56. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 skuli beitt verður eftir atvikum borin undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. 59. gr. laganna. Ástæða málskots kæranda er sú að erindi hans frá 2. nóvember 2016 til bæjaryfirvalda Árborgar, vegna stöðu gáma á næstu lóð við fasteign hans, hafi í engu verið sinnt. Er kæranda rétt eins og atvikum er háttað að bera drátt á afgreiðslu erindisins undir úrskurðarnefndina samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum stjórnsýslulaga.

Mál þetta á sér nokkurn aðdraganda, svo sem greinir í málavaxtalýsingu. Samkvæmt upplýsingum kæranda voru tæpir sjö mánuðir liðnir frá erindi hans þegar hann kærði drátt á afgreiðslu þess. Hefur því ekki verið andmælt af sveitarfélaginu. Umsókn um stöðuleyfi vegna nefndra gáma var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 2. ágúst 2017 og þar samþykkt að grenndarkynna erindið, m.a. fyrir kæranda. Stendur grenndarkynning enn yfir samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu. Úrskurðarnefndin hefur hins vegar ekki verið upplýst um lyktir þess erindis kæranda sem hér um ræðir. Verður því við það að miða að svör við kröfu kæranda, þess efnis að fjarlægðir verði áðurnefndir gámar, hafi ekki borist honum. Þrátt fyrir að umsókn um stöðuleyfi fyrir gámana liggi nú fyrir sveitarfélaginu verður ekki séð að efni hafi verið til að slá á frest ákvörðun um erindi kæranda og tilkynna honum þar um.

Eins og atvikum er háttað verður því að telja drátt á afgreiðslu málsins orðinn óhæfilegan. Verður því lagt fyrir byggingarfulltrúa að taka erindið til efnislegrar meðferðar án frekari tafa.

Úrskurðarorð:

Óhæfilegur dráttur hefur orðið á afgreiðslu erindis kæranda frá 2. nóvember 2016 og er lagt fyrir byggingarfulltrúa Árborgar að taka það til efnislegrar afgreiðslu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir (Sign.)

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir (Sign.)                               Ásgeir Magnússon (Sign.)

 

56/2017 Ásar Húnavatnshreppi

Með
Árið 2017, mánudaginn 28. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 56/2017, kæra á ákvörðun Húnavatnshrepps frá 8. maí 2017 um álagningu á sorphirðugjöldum fyrir árið 2017 vegna fasteignar á jörðinni Ásum með fastanúmer 213-7356 og landnúmer 145277.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. maí 2017, er barst nefndinni 31. s.m., kærir A, Brekkubyggð 12, Blönduósi, þá ákvörðun Húnavatnshrepps frá 8. maí 2017 að leggja sorphirðugjöld sumarhúsa á fasteign hennar á jörðinni Ásum með fastanúmer 213-7356 og landnúmer 145277. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Húnavatnshreppi 12. júní og 16. ágúst 2017.

Málavextir:
Álagningarseðlar fasteignagjalda í sveitarfélaginu Húnavatnshreppi fyrir árið 2017 eru dagsettir 8. maí 2017. Var kæranda með slíkum seðli gert að greiða kr. 10.200 í sorpgjald vegna fasteignar sinnar Ása í Húnavatnshreppi, sem ber fastanúmerið 213-7356. Er það ársgjald samkvæmt gjaldskrá vegna sumarhúsa, íbúða og íbúðarhúsa þar sem ekki er sorpílát. Með tölvupósti til skrifstofu sveitarfélagsins, dags. 17. maí 2017, mótmælti kærandi gjaldinu og fór fram á að það yrði fellt niður. Með tölvupósti 22. júlí s.á. var þeirri kröfu hafnað af hálfu sveitarfélagsins, m.a. vegna þess að litið væri svo á að húsið væri notað sem sumarhús þar sem ljósleiðari hefði verið lagður í það á síðasta ári.

Málsrök kæranda: Kærandi kveður enga búsetu hafa verið á Ásum frá 1984 og sé um eyðibýli að ræða. Íbúðarhúsið sé ekki íbúðarhæft, hvorki rennandi vatn né upphitun, húsið sé skemmt og fengist ekki samþykkt sem vistarvera við úttekt. Sorphirðugjöld hafi ekki verið lögð á fasteignina svo lengi sem hún hafi verið í eigu kæranda, þar til nú. Sá búskapur sem stundaður sé á jörðinni sé með öllu sjálfbær og falli ekki til sorp af þeim sökum.

Við hreinsun á landinu hafi kærandi leigt gáma eða keyrt á Blönduós með sorpið og greitt þar fyrir förgun ef sorpið hafi verið þess eðlis. Þeir gámar sem Húnavatnshreppur staðsetji séu mjög úr leið fyrir kæranda og hafi hann af þeim sökum ekki notfært sér þá.

Málsrök Húnavatnshrepps: Sveitarfélagið byggir á því að gjaldtakan sé lögmæt og óháð notkun þeirra fasteigna sem séu á jörðinni Ásum. Samkvæmt fyrirmælum laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs séu það sveitarstjórnir sem fari með ákvörðunarvald um fyrirkomulag söfnunar á heimilisúrgangi. Þá sé þeim, skv. 23. gr. sömu laga, heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi. Í samræmi við þá heimild hafi sveitarstjórn samþykkt gjaldskrá fyrir sorphirðu- og sorpeyðingargjöld í Húnavatnshreppi nr. 35/2017, sem birt hafi verið í B-deild Stjórnartíðinda 23. janúar 2017.

Sveitarfélagið geri athugasemdir við fullyrðingar kæranda um að umrædd fasteign sé eyðibýli og að þar sé engin búseta. Jörðin hafi verið í notkun sem skógræktarjörð. Hús þau sem standi á jörðinni hafi ekki verið metin óíbúðarhæf og rafmagn hafi verið tengt í einhver húsanna fyrir fáeinum árum síðan. Þá sé óumdeilt að nýlega hafi verið óskað eftir ljósleiðaratengingu og lagt hafi verið fyrir ljósleiðara. Af framangreindu dragi sveitarfélagið þá ályktun að fullyrðingar um að jörðin sé lítið sem ekkert nýtt séu rangar.

Mismunur á álögðum sorpgjöldum og kostnaði sveitarfélagsins af málaflokknum hafi verið eftirfarandi á síðustu árum:

                                                   2016                  2015                2014
Álögð gjöld                          6.159.794    11.374.048           7.780.275
Kostnaður v. sorphr.        17.344.845    19.384.898        12.962.471   
Tap                                     -11.185.051    -8.010.850          -5.182.196    

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs er sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í sveitarfélaginu. Ber hún ábyrgð á flutningi hans og skal sjá til þess að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem til fellur í sveitarfélaginu. Setur sveitarstjórn samþykkt þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs, umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum samkvæmt þeim, sbr. 2. mgr. 8. gr., sbr. einnig 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Húnavatnshreppur hefur sett sér slíka samþykkt og er hún nr. 56/2008.

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 skulu sveitarfélög innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs. Jafnframt er sveitarfélögum heimilt að innheimta gjald fyrir tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laganna, svo sem tækni við meðhöndlun úrgangs, rannsóknir, fræðslu og kynningarmál. Heimilt er að miða gjaldið við mælanlega þætti sem hafa áhrif á kostnað, svo sem magn úrgangs, en einnig má ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, sbr. nefnda lagagrein. Gjaldið skal aldrei vera hærra en sem nemur kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laganna, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar, og skal birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 4. mgr.

Húnavatnshreppur setti, með vísan til 25. gr. laga nr. 7/1998, gjaldskrá fyrir sorphirðu- og sorpeyðingargjöld í Húnavatnshreppi, nr. 35/2017, sem birt var 23. janúar 2017. Samkvæmt 1. gr. gjaldskrárinnar er bæjarstjórn sveitarfélagsins heimilt að leggja á árlegt sorphirðu- og sorpeyðingargjald, sem innheimta skal með fasteignagjöldum. Samkvæmt 3. gr. er sorpgjald kr. 10.200 fyrir sumarhús, íbúð og íbúðarhús þar sem ekki er sorpílát og kemur fram að þeir notendur geti losað sig við sorp á gámasvæðum sveitarfélagsins. Með álagningarseðli var kærandi krafinn um sorpgjald sumarhúsa í samræmi við framangreint.

Meðhöndlun sorps er grunnþjónusta í sveitarfélagi. Hún þarf að vera í föstum skorðum og er þess eðlis að hún má ekki falla niður þótt einhverjir íbúar nýti sér hana ekki. Almennt getur sá sem greiðir þjónustugjöld ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita þjónustuna sé reiknaður nákvæmlega út. Sveitarfélagi er þannig ekki talið skylt að reikna út kostnað við meðhöndlun sorps hvers íbúa eða fasteignar og er heimilt að jafna heildarfjárhæð niður á áætlaðan fjölda notenda, eins og raunar er skýrt tekið fram í 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003. Þannig verður að telja að heimilt sé með vísan til framangreinds ákvæðis að haga gjaldtöku svo að um sé að ræða jafnaðargjald á hverja gjaldskylda fasteign.

Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er jörðin Ásar í byggð og skráð lögbýli. Á jörðinni er m.a. að finna íbúðarhús með fastanúmerið 213-7356, sem byggt var 1956. Var sveitarstjórn því heimilt að ákveða að tiltekið fast gjald yrði lagt á fasteign kæranda. Samkvæmt þeim gögnum sem sveitarfélagið hefur lagt fram eru álögð gjöld að jafnaði ekki hærri en kostnaður af veittri þjónustu og telst gjaldið því lögmætt þjónustugjald samkvæmt áður tilvitnuðum ákvæðum 23. gr. laga nr. 55/2003 og 25. gr. laga nr. 7/1998.

Að framangreindu virtu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Húnavatnshrepps frá 8. maí 2017 um álagningu á sorphirðugjöldum fyrir árið 2017 vegna fasteignar á jörðinni Ásum með fastanúmer 213-7356 og landnúmer 145277.

____________________________________
Nanna Magnadóttir (Sign.)

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir (Sign.)                                Ásgeir Magnússon (Sign.)

 

34/2017 Traðarland

Með

Árið 2017, föstudaginn 21. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 34/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. október 2016 um að veita byggingarleyfi fyrir breytingum og stækkun íbúðarhússins að Traðarlandi 12 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. mars 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir J, Traðarlandi 14, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. október 2017 að veita byggingarleyfi fyrir breytingum og stækkun íbúðarhússins að Traðarlandi 12. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 28. mars 2017.

Málsatvik og rök: Hinn 10. maí 2016 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík umsókn um leyfi fyrir 246,1 m2 viðbyggingu vestan við einbýlishús nr. 12 á lóðinni nr. 10-16 við Traðarland. Sótt var um breytingu á samþykktum byggingaráformum sem fólust í að notaðar yrðu forsteyptar einingar í stað staðsteypu, komið yrði fyrir innsteyptum styrktarbita í þaki viðbyggingar og útliti suðurhliðar hússins yrði breytt. Var breytingin samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 4. október 2016 og byggingarleyfi gefið út 21. s.m.

Kærandi bendir á að honum hafi fyrst orðið kunnugt um útgáfu hins kærða byggingarleyfis 27. febrúar 2017 þegar svar byggingarfulltrúa hafi borist við erindi hans, dags. 21. s.m. Hafi kæra í máli þessu því borist innan kærufrests. Grenndarkynna hefði átt umdeilda breytingu og afla samþykkis sameigenda umræddrar lóðar. Heimiluð breyting fari í bága við gildandi deiliskipulag og í raun sé um að ræða tvö hús með takmarkaðri tengingu og líti út fyrir að aðkoma að þeim verði aðallega frá Sævarlandi. Vesturhlið hússins að Traðarlandi 12, sem snúi að húsi kæranda, hafi verið gluggalaus en nú séu þar nokkrir gluggar og sú hlið hússins sé mun nær fasteign kæranda með tilheyrandi grenndaráhrifum.

Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á frávísun kærumálsins. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komi fram að kærufrestur til nefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda var kunnugt eða mátti vera kunnugt um kærða ákvörðun. Hin kærða ákvörðun sé að stofni til frá 10. maí 2016 og byggingarleyfi gefið út 21. október s.á. Framkvæmdir hafi byrjað í kjölfarið og búið hafi verið að gera sex áfangaúttektir á byggingarframkvæmdum á tímabilinu 3. nóvember til 1. desember 2016. Kærandi hafi því haft vitneskju um framkvæmdina frá þeim tíma enda búi hann í næsta húsi við fasteign leyfishafa. Hann hafi hins vegar látið hjá líða að nýta sér kærurétt sinn til 22. mars 2017 þegar tæpir fimm mánuðir hafi verið liðnir frá útgáfu leyfis og byrjun framkvæmda.

Leyfishafi telur að málsástæður kæranda eigi ekki við rök að styðjast. Heimilað sé að byggja við einbýlishús á lóðinni, en ekki sé um annað hús að ræða. Viðbyggingin samræmist skilmálum gildandi deiliskipulags, svo sem um nýtingarhlutfall. Hún sé innan byggingarreits og fordæmi séu fyrir sambærilegum viðbyggingum í hverfinu. Veggur sá sem kærandi vitni til sé inni á lóð kæranda, nokkuð frá lóðarmörkum og sé til þess að takmarka sýn milli fasteigna leyfishafa og kæranda. Aðkoma að húsinu verði eftir sem áður frá Traðarlandi.

Niðurstaða: Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Gögn málsins bera með sér að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi hófust í kjölfar útgáfu þess hinn 21. október 2016. Úttektir vegna botnplötu viðbyggingarinnar fóru fram 7. og 10 nóvember s.á., úttekt á tengingu við skolpveitu 17. s.m., úttekt á veggjum 1. hæðar 29. s.m. og á gólfhita 1. hæðar og bílskúrs 1. desember s.á. Kærandi, sem býr á næstu lóð við hliðina á lóð leyfishafa, mátti ætla með hliðsjón af greindum framkvæmdum að byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir þeim og gat hann þá þegar aflað sér upplýsinga hjá byggingaryfirvöldum um framkvæmdir þær sem hafnar voru. Í ljósi þessa verður við það að miða að kærufrestur í málinu hafi byrjað að líða í síðasta lagi um mánaðarmótin nóvember-desember 2016 þegar veggir viðbyggingarinnar voru þegar reistir. Var kærufrestur því liðinn þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 22. mars 2017.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram sú meginregla að vísa skuli kæru frá berist hún að liðnum kærufresti. Þær undantekningar eru gerðar frá nefndri meginreglu í 1. og 2. tl. ákvæðisins að taka megi mál til meðferðar að liðnum kærufresti þegar afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum kemur m.a. fram í athugasemdum með nefndri 28. gr. að líta þurfi til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni, en undir þeim kringumstæðum sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algerum undantekningartilvikum. Í máli þessu fara hagsmunir kæranda og handhafa hins kærða byggingarleyfis ekki saman.

Það var fyrst hinn 23. febrúar 2017 sem kærandi sendi byggingaryfirvöldum erindi í tilefni af umdeildum framkvæmdum sem þá voru vel á veg komnar og barst úrskurðarnefndinni kæra hans tæpum mánuði eftir að greindu erindi hans var svarað af hálfu byggingaryfirvalda. Eins og málsatvikum er háttað verður ekki talið afsakanlegt að kæra í máli þessu hafi borist svo seint sem raun ber vitni. Af þeim sökum og með tilliti til hagsmuna leyfishafa, sem hafði þá að mestu lokið byggingarframkvæmdum í skjóli opinbers leyfis og í góðri trú, eru ekki skilyrði til þess að taka mál þetta til meðferðar á grundvelli áðurgreindra undanþáguákvæða 28. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Þorsteinn Þorsteinsson

55/2017 Brekkuhvarf

Með
Árið 2017, föstudaginn 21. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 55/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. mars 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna Brekkuhvarfs 20 og ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 1. júní s.á. að samþykkja byggingarleyfi fyrir húsi á lóðinni Brekkuhvarfi 20a.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. maí 2017, er barst 26. s.m., kæra M og Þ, Brekkuhvarfi 22, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. mars 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi sem fól í sér að lóðinni Brekkuhvarfi 20 var skipt upp í tvær lóðir.

Með bréfi, dags. 11. júní 2017, kæra fyrrgreindir aðilar þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 1. júní 2017 að samþykkja byggingarleyfi fyrir húsi á lóðinni Brekkuhvarfi 20a. Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Verður það kærumál, sem er nr. 62/2017, sameinað þessu máli þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og kærendur þeir sömu í báðum málunum.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 20. júní 2017.

Málavextir: Hinn 23. febrúar 2016 samþykki bæjarstjórn Kópavogsbæjar breytingu á deiliskipulagi vegna Brekkuhvarfs 20 og hinn 26. júlí s.á. samþykkti byggingarfulltrúinn í Kópavogi byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni Brekkuhvarfi 20a. Með úrskurði, uppkveðnum 24. nóvember 2016 í máli nr. 34/2016 felldi úrskurðarnefndin úr gildi framangreindar ákvarðanir.

Á fundi skipulagsnefndar Kópavogsbæjar 5. desember 2016 var tekin fyrir tillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna Brekkuhvarfs 20, en gildandi deiliskipulag svæðisins er frá árinu 1992. Í breytingunni fólst að lóðinni yrði skipt í tvær lóðir, Brekkuhvarf 20 og Brekkuhvarf 20a, og að á lóðinni nr. 20a yrði heimiluð bygging einbýlishúss á einni hæð. Hámarksnýtingarhlutfall lóðarinnar yrði 0,3 og heildarbyggingarmagn 220 m2. Samþykkti nefndin að kynna tillöguna í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og vísaði henni til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi bæjarstjórnar 13. desember 2016 var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest.

Að lokinni kynningu var tillagan lögð fyrir skipulagsnefnd að nýju hinn 20. mars 2017. Athugasemdir höfðu borist m.a. frá kærendum og var lögð fram umsögn skipulags- og byggingardeildar um framkomnar athugasemdir, dags. 17. mars 2017. Tillagan var samþykkt með vísan til umsagnar skipulags- og byggingardeildar og henni vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi bæjarstjórnar 28. mars s.á. var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest. Deiliskipulagsbreytingin öðlaðist svo gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 28. apríl 2017.

Hinn 1. júní 2017 samþykkti byggingarfulltrúinn í Kópavogi byggingarleyfi fyrir 190,2 m2 einbýlishúsi ásamt bílskúr á einni hæð að Brekkuhvarfi 20a með stoð í hinu breytta deiliskipulagi.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að Kópavogsbær hafi kosið að hafa að engu niðurstöður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 24. nóvember 2016. Enn á ný sé samþykkt tillaga að breyttu deiliskipulagi er fól í sér lóðarskiptingu og heimild til að reisa allt að tveggja hæða íbúðarhús á lóðinni Brekkuhvarfi 20a, þrátt fyrir ítrekuð mótmæli frá íbúum aðliggjandi lóða. Því hljóti að vera takmörk sett hvað hægt sé að kalla deiliskipulag. Hér sé greinilega búið að teikna hús á nýrri lóð, Brekkuhvarfi 20a. Verið sé að þrengja húsinu inn á lóðina og teikningin af húsinu kölluð deiliskipulag. Einnig sé látið óátalið að íbúum séu kynntir mismunandi skipulagsuppdrættir með mismunandi byggingarreitum við grenndarkynningu, en með sömu dagsetningu, þ.e. 29. október 2015.

Sú faglega regla, að í öllu skipulagi skuli fyrst og fremst hugsað um almenna hagsmuni og að skipulagsvinna skuli ætíð aðskilin hönnunarvinnu á viðkomandi lóð, virðist hér þverbrotin á íbúum aðliggjandi lóða sem hafi harðlega mótmælt þessum gerningi. Þaðan af síður sé sýnt fram á hvaða almannahagsmunir kalli á þessa breytingu. Með tilvísun til 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé heldur ekki hægt að fallast á að hér sé um óverulega breytingu á deiliskipulagi að ræða þar sem margir aðilar eigi hér hlut að máli.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er tekið fram að með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu sé lóð nr. 20 við Brekkuhvarf skipt í tvær lóðir, þ.e. nr. 20 og 20a, og sé á hinni nýju lóð gert ráð fyrir byggingarreit fyrir einbýlishús á einni hæð. Heildarbyggingarmagn sé 220 m2 og hámarksvegghæð og þakhæð 5 m. Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, uppkveðnum 24. nóvember 2016, hafi samhljóða skipulagsbreyting verið felld úr gildi þar sem talið var að breytingin gæti ekki talist óveruleg og því ekki heimilt að grenndarkynna tillöguna. Í niðurstöðu úrskurðarins hafi hins vegar verið tekið undir þau sjónarmið að hin ógilda deiliskipulagsbreyting hafi verið í samræmi við upphaflega skipulagsskilmála svæðisins, nýtingarhlutfall lóðanna eftir breytingu sambærilegt við aðrar lóðar og að fordæmi hafi verið fyrir því að stærri lóðum hafi verið skipt upp í tvær eða fleiri á skipulagssvæðinu. Fyrri skipulagsbreyting hafi því fallið á ágalla við málsmeðferð en ekki vegna efnis hennar. Með þeirri skipulagsbreytingu sem nú sé kærð sé verið að bæta úr þeim ágalla sem hafi verið á fyrri málsmeðferð. Hafi því ekki verið farið með skipulagsbreytinguna sem óverulega, líkt og kærandi haldi fram, heldur hafi málsmeðferð verið í fullu samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Bent sé á að sveitarstjórn beri ábyrgð á og annist gerð deiliskipulags, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga, og hafi heimild til að gera breytingar á deiliskipulagi ef að hún telji þörf á, sbr. 43. gr. sömu laga. Taldi Kópavogsbær að ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að kynna sama uppdrátt enda um samhljóða breytingu að ræða en málsmeðferð tillögunnar sé ekki sú sama. Þá sé skýrt tekið fram í skilmálum þeirrar deiliskipulagsbreytingar sem nú sé kærð að gert sé ráð fyrir byggingarreit fyrir einbýlishús á einni hæð en ekki á tveimur eins og kærendur haldi fram. Þá sé því mótmælt að annar byggingarreitur hafi verið kynntur, byggður á sama uppdrætti. Sá byggingarreitur sem verið sé að bæta við í skipulag sé sá hinn sami og hafi verið grenndarkynntur í fyrri breytingartillögu.

Fyrirhugað einbýlishús verði með öllu innan hins nýja byggingarreits og verði ekki séð að hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi í för með sér veruleg grenndaráhrif gagnvart kærendum. Líkt og að framan greini, sé fyrirhuguð bygging í fullu samræmi við gildandi skipulagsskilmála, t.a.m. hvað varði lágmarksfjarlægðir og nýtingarhlutfall, og þá sé að finna fordæmi fyrir álíka skipulagsbreytingum á svæðinu. Jafnframt sé bent á að upphaflega hafi verið gert ráð fyrir hærra húsi og meira byggingarmagni á umræddri lóð. Hins vegar hafi verið gerðar breytingar á upphaflegri tillögu til að koma til móts við athugasemdir kærenda, þ.á m hafi verið dregið úr byggingarmagni, húsið lækkað og jafnframt hafi verið gert ráð fyrir breytingum á innra skipulagi.

Hin kærðu byggingaráform hafi verið samþykkt með stoð í umræddri deiliskipulagsbreytingu. Séu þau því í fullu samræmi við gildandi skipulag og áskilnaður um innbyrðis samræmi uppfyllt, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Athugasemdir leyfishafa:
Leyfishafi bendir á að lóðin Brekkuhvarf 20 hafi verið 2.344 m2 og hafi verið skipt í tvær lóðir. Ný lóð að Brekkuhvarfi 20a sé 937,7 m2 og rúmi hún vel fallegt u.þ.b. 180 m2 einbýlishús á einni hæð. Sé það í samræmi við heildaryfirbragð hverfisins sem hafi tekið breytingum frá því að það hafi verið deiliskipulagt árið 1992 í þá veru að stórum lóðum hafi verið skipt upp, ný hús risið og íbúum fjölgað á svæðinu. Þá muni nýbyggingin rúmast að öllu leyti innan upphaflegs byggingarreits Brekkuhvarfs 20. Verulega hafi verið komið til móts við athugasemdir frá lóðarhöfum Brekkuhvarfs 22 með því að breyta og draga verulega úr stærð byggingarreits og hæð húss.

Niðurstaða: Hin kærða deiliskipulagsbreyting var kynnt með almennri auglýsingu í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í henni felst að lóð Brekkuhvarfs 20 er skipt í tvær lóðir, nr. 20 og 20a, og á lóð 20a má reisa allt að 220 m2 einbýlishús á einni hæð ásamt bílskúr. Þó svo að í fundargerðum sveitarfélagsins komi fram að um sé að ræða einbýlishús á einni til tveimur hæðum, kemur skýrt fram í hinum breyttu skilmálum skipulagsins á samþykktum deiliskipulagsuppdrætti að húsið verði á einni hæð.

Nýtingarhlutfall umræddra lóða eftir hina kærðu breytingu er sambærilegt við aðrar lóðir í götunni og fordæmi eru fyrir því á skipulagssvæðinu að stærri lóðum hafi verið skipt í tvær eða fleiri lóðir. Þá er fyrirhugað einbýlishús á lóðinni Brekkuhvarfi 20a einnig í samræmi við upphaflega skipulagsskilmála svæðisins sem samþykktir voru árið 1992. Heimilað hús á lóðinni er jafnframt staðsett innan þess byggingarreits sem fyrir var áður en ráðist var í umrædda deiliskipulagsbreytingu. Felur hin kærða deiliskipulagsbreyting, að því er varðar umfang byggingar, ekki í sér frávik frá gildandi deiliskipulagi svæðisins.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið og að ekki liggja fyrir þeir ágallar á málsmeðferð skipulagsbreytingarinnar sem raskað geta gildi hennar, verður ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu hennar.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni á hið kærða byggingarleyfi stoð í gildandi deiliskipulagi umrædds svæðis, svo sem því var breytt með áðurgreindri skipulagsákvörðun. Með vísan til þess, og þar sem ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð við þá ákvörðun, verður gildi leyfisins ekki raskað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. mars 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna Brekkuhvarfs 20.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 1. júní 2017 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir Brekkuhvarf 20a.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Þorsteinn Þorsteinsson