Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

50/2018 Grunnvatn í Hvammi

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 25. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 50/2018, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 23. febrúar 2018 um að veita nýtingarleyfi á grunnvatni í landi Hvamms.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. mars 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir Hvammsland ehf., eigandi jarðarinnar að Hvammi, Skorradalshreppi, þá ákvörðun Orkustofnunar frá 23. febrúar s.á. að veita nýtingarleyfi á grunnvatni í landi Hvamms. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi að öllu leyti eða að hluta og að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar frestunarkröfu kæranda.

Málsatvik og rök: Í skipulagsskilmálum fyrir hluta frístundasvæðisins í Hvammi kemur fram að stofna skuli félag um frístundabyggðina sem annist sameiginleg hagsmunamál, s.s. rekstur vatnsveitu, viðhald vegar, lýsingu á sameiginlegum svæðum og umhirðu á útivistarsvæði.

Fyrri eigendur landeignarinnar að Hvammi í Skorradal munu hafa boðið sumarhúsaeigendum að taka yfir rekstur vatnsveitu á sínum tíma, en því var hafnað. Þegar kærandi keypti landið, sem er lögbýli, í ágúst 2010 mun vatnsbólið hafa verið skemmt eftir skriðuföll og vatnið mengað af yfirborðsvatni, og mun kærandi hafa lagt talsvert fjármagn í úrbætur á vatnsbólinu.

Hinn 16. nóvember 2017 sótti Félag sumarhúsaeigenda í Hvammi um leyfi til Orkustofnunar til nýtingar á 0,5 l/s af grunnvatni úr vatnsbóli í landi Hvamms. Hinn 23. febrúar 2018 samþykkti Orkustofnun umsókn um nýtingarleyfi þess efnis.

Kærandi gerir þá kröfu að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað meðan kæran sé til meðferðar hjá nefndinni með vísan til 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Frekari aðgerðir Félags sumarhúsaeigenda á grundvelli nýtingarleyfis geti skert hagsmuni kæranda til frambúðar. Þannig sé unnt að krefjast eignarnáms á grundvelli leyfisins takist samningar ekki og gæti leyfishafi jafnframt aðhafst í tengslum við auðlindina í landi kæranda svo hagsmunir hans skerðist. Sé því gerð sú krafa að réttaráhrifum sé frestað. Þá hafi kæranda borist bréf frá leyfishafa þar sem fram komi að hann hafi þegar hafist handa við að beita nýtingarleyfinu án samningaumleitana við kæranda, sem sé skylt samkvæmt X. kafla laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, og án nokkurs tillits til eignarhalds kæranda á mannvirkjum við vatnsbólið.

Orkustofnun bendir á að nýting auðlinda úr jörðu sé háð leyfi stofnunarinnar, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 57/1998, m.a. til nýtingar auðlinda í eignarlöndum. Landeigandi, kærandi í þessu máli, hafi ekki forgang að nýtingarleyfi vegna auðlindar í eignarlandi sínu, nema hann hafi áður fengið útgefið rannsóknarleyfi. Engu slíku leyfi sé til að dreifa í þessu tilviki en kaupsamningur við landeiganda um eignarlóðir liggi fyrir við einstaklinga í félagi leyfishafa. Hin kærða ákvörðun feli í sér heimild til nýtingar á grunnvatni vegna þarfa vatnsveitu fyrir sumarhúsabyggð á skipulögðu frístundasvæði í landi Hvamms í Skorradalshreppi. Nýtingarleyfið feli í sér heimild til að vinna úr og nýta viðkomandi auðlind á leyfistímanum í því magni og með þeim skilmálum öðrum sem tilgreindir séu í framangreindum lögum og Orkustofnun telji nauðsynlega, sbr. 6. gr. laganna. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun þurfi leyfishafi að sækja um sérstakt framkvæmda- og starfsleyfi fyrir vatnsveituna og ná samkomulagi við umráðahafa vatnsréttinda á svæðinu um endurgjald fyrir auðlindina eða afla sér eignarnámsheimildar, sbr. 7. gr. laganna, liggi slíkt samkomulag ekki fyrir.

Leyfishafi tekur fram að engin rök séu fyrir því að fresta réttaráhrifum nýtingarleyfisins á meðan kæran sé til umfjöllunar. Rekstur vatnsveitunnar verði áfram með óbreyttu sniði í höndum leyfishafa, eina sem breytist sé að félagsmenn snúi sér nú til stjórnar leyfishafa í stað landeiganda ef bilanir verði og rekstrarkostnaður falli á leyfishafa.

Niðurstaða:
Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Einnig að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili séu að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun er íþyngjandi fyrir hann, veldur honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu, enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi.

Mál þetta snýst um ákvörðun Orkustofnunar um að veita leyfi til nýtingar á 0,5 l/s af grunnvatni í landi Hvamms í Skorradal. Vatni er nú þegar veitt, og því hefur verið veitt til sumarhúsabyggðarinnar um nokkurt skeið, úr greindu vatnsbóli. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að áframhaldandi vatnstaka samkvæmt hinu kærða leyfi muni hafa þau áhrif á grunnvatnsauðlindina að hætta sé á slíku óafturkræfu tjóni fyrir kæranda að kæra yrði þýðingarlaus yrði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar ekki frestað. Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og efnis hins kærða nýtingarleyfis verður þannig ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa þess.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa til bráðabirgða samkvæmt hinni kærðu ákvörðun er hafnað.

77/2016 Bullunga

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 25. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 77/2016, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 20. apríl 2016 um að hafna umsókn um starfsleyfi á grundvelli reglugerðar nr. 460/2015 um baðstaði í náttúrunni.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. júlí 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Laugarvatn Fontana ehf., Hverabraut 1, Laugarvatni, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 20. apríl 2016 að hafna umsókn kæranda um starfsleyfi til reksturs náttúrulaugarinnar Bullungu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir heilbrigðisnefndina að veita kæranda starfsleyfi til reksturs Bullungu sem náttúrulaugar, sbr. reglugerð nr. 460/2015 um baðstaði í náttúrunni.

Gögn málsins bárust frá heilbrigðisnefnd Suðurlands 19. ágúst 2016.

Málavextir: Kærandi rekur sund- og baðstað við Laugarvatn í Bláskógabyggð. Starfsleyfi kæranda var gefið út af Heilbrigðiseftirliti Suðurlands 19. júlí 2011 og er fyrir lítinn sundstað, baðhús og krá/kaffihús. Á árinu 2013 var jarðvarmalauginni Bullungu bætt við starfsemina og ákvað heilbrigðisnefnd Suðurlands að ekki þyrfti að taka upp starfsleyfið vegna þeirrar viðbótar. Laugin er manngerð en vatnið kemur úr heitri laug á svæðinu og er ekki meðhöndlað með efnum eða geislum. Samkvæmt gögnum málsins var gengið út frá því að laugin félli í C flokk skv. 4. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum, en skv. ákvæðinu eru það laugar án hreinsibúnaðar. Vatn er tekið beint úr veitu eftir kælingu niður í a.m.k. 55°C og leitt í laug og þaðan í útrennsli. Stýring á klórmagni og sýrustigi er jafnan ekki með sjálfvirkum hætti. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar er hægt að sækja um heimild til heilbrigðisnefndar um að nota ekki sótthreinsiefni í laugar í C flokki. Leyfi má veita að undangenginni rannsókn á örveruinnihaldi baðvatnsins, sbr. 1. viðauka reglugerðarinnar. Við úttekt á baðstaðnum á vegum heilbrigðiseftirlitsins 15. október 2013 var gerð athugasemd við að ekki hefði verið sótt um undanþágu á grundvelli framangreinds ákvæðis fyrir laugina Bullungu, þar sem ekki væri notað sótthreinsiefni í baðvatnið.

Með tölvupósti, dags. 1. nóvember 2013, var kæranda veittur frestur til 1. febrúar 2014 til að koma á reglubundnu þrifakerfi á óklóruðum potti. Að þeim tíma liðnum væri reiknað með að farið yrði í reglubundnar sýnatökur á baðvatninu í lauginni með tilliti til þess hvort það uppfyllti ákvæði í IV. viðauka reglugerðar nr. 814/2010 um gæði vatns í laugum. Ef niðurstöður yrðu jákvæðar gæti kærandi sótt um leyfi til undanþágu frá því að nota sótthreinsiefni í umrædda laug, sbr. ákvæði 4. gr. reglugerðarinnar. Sýnatökur fóru fram á árunum 2014 og 2015 og skiluðu þær allar niðurstöðu um að gæði vatns í Bullungu væru óviðunandi, sbr. skilyrði í I. og IV. viðauka reglugerðar nr. 814/2010.

Með bréfi til Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, dags. 20. nóvember 2015, óskaði kærandi eftir breytingum á starfsleyfi sínu. Reglugerð nr. 460/2015 um baðstaði í náttúrunni hafði þá tekið gildi og var óskað eftir því í bréfinu að laugin Bullunga yrði skilgreind sem baðstaður í náttúrunni í 1. flokki samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar. Óskaði kærandi jafnframt eftir því að hann fengi útgefið starfsleyfi á grundvelli ákvæða 3. og 4. gr. hinnar nýju reglugerðar til viðbótar við gildandi starfsleyfi.

Með bréfi, dags. 28. apríl 2016, var kæranda kynnt bókun heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 20. s.m. varðandi framangreinda umsókn. Þar var bókað: „Umsókn [kæranda] um leyfi til að skilgreina eina laug á svæðinu sem „baðstað í náttúrunni“. Kynnt var skýrsla varðandi niðurstöður sýna úr þessari laug ásamt skýringum og skilgreiningum á annars vegar sund- og baðstað á grundvelli reglugerðar nr. 814/2010 um sund- og baðstaði og hins vegar baðstað í náttúrunni skv. reglugerð nr. 460/2015. Með vísun í ofangreindar reglugerðir leggst nefndin gegn afgreiðslu starfsleyfisins þar sem verið er að blanda saman rekstri sund- og baðstaðar annars vegar og náttúrulaugar hins vegar.“

Með bréfi, dags. 6. júní 2016, tilkynnti heilbrigðiseftirlitið kæranda að heilbrigðisnefnd Suðurlands hefði hafnað umsókn hans um leyfi til reksturs náttúrulaugar inni á baðstað hans. Kærandi kærði framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar 4. júlí s.á., eins og áður kom fram.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst byggja á því að ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar, sem kynnt hafi verið kæranda með bréfi, dags. 6. júní 2016, hafi verið haldin svo verulegum form- og efnisannmörkum að það beri að ógilda hana og taka nýja ákvörðun í málinu.

Atvinnufrelsið njóti verndar 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar, en í því felist að öllum sé frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósi. Þá megi einvörðungu setja því skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess. Við takmörkun á atvinnufrelsi þurfi samkvæmt þessu að vera til staðar skýr lagaheimild og almannahagsmunir. Markmið laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir sé að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felist í heilnæmu og ómenguðu umhverfi. Til að stuðla að hollustuvernd sé ráðherra heimilað í 4. gr. laganna að setja í reglugerð almenn ákvæði um eftirlit með atvinnurekstri, þ. á m. sund- og baðstöðum, sem og útgáfu og efni starfsleyfis.

Ráðherra hafi sett tvær reglugerðir um baðstaði þar sem framangreindar takmarkanir á atvinnufrelsi séu útfærðar. Á árinu 2010 hafi tekið gildi reglugerð nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum, þar sem sund- og baðstöðum sé skipt í flokka. Þá hafi tekið gildi á árinu 2015 reglugerð nr. 460/2015 um baðstaði í náttúrunni. Athygli sé vakin á því að eðlismunur sé á þeim gæðakröfum sem gerðar séu til vatns eftir því hvort það sé talið falla undir hina fyrrgreindu eða síðargreindu reglugerð. Slíkt leiði af eðli máls, enda sé verulegur munur á þeim kröfum sem unnt sé að gera til vatns sem sé meðhöndlað, svo sem með sótthreinsiefnum, og ómeðhöndlaðs vatns í náttúrulaugum.

Kærandi byggi á því að hin kærða ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands sé ósamrýmanleg lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, sem feli í sér að allar ákvarðanir stjórnvalda þurfi að vera á samræmi við lög.

Þegar Bullungu hafi verið bætt við starfsemi kæranda hafi reglugerð nr. 460/2015 ekki tekið gildi. Bullunga hafi verið náttúrulaug í skilningi 14. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 814/2010. Það virðist hafa verið stefna Heilbrigðiseftirlits Suðurlands að fella starfsemi laugarinnar undir C flokk 3. gr. reglugerðar nr. 814/2010, þannig að hægt yrði að viðhafa eftirlit á grundvelli reglugerðarinnar, enda þótt fram komi í 3. mgr. 1. gr. hennar að hún taki ekki til náttúrulauga. Jafnframt sé ljóst að laugin falli ekki undir skilgreiningu C flokks, eins og hún sé fram sett, og ekki heldur undir aðra flokka 3. gr. reglugerðarinnar. Hafi því ekki verið lagaskilyrði til að láta reglugerðina taka til Bullungu og sé staðan sýnilega sú sama í dag.

Þar sem lagalegt tómarúm hafi verið til staðar hvað varðaði náttúrulaugar hafi falist mikil réttarbót í setningu reglugerðar nr. 460/2015, sem tekið hafi gildi 28. apríl 2015. Kærandi telji ljóst að starfsemi hinnar umdeildu laugar falli undir gildissvið reglugerðarinnar og að gæðakröfur sem gerðar séu til vatns í reglugerðinni taki mið af því að eðli slíkra lauga sé annað en þeirra er falli undir reglugerð nr. 814/2010. Eins og áður hafi komið fram telji kærandi að starfsemi laugarinnar falli undir 1. flokk 4. gr. reglugerðar nr. 460/2015. Athygli sé vakin á því að í 4. gr. reglugerðarinnar sé skýrt tekið fram að baðstaðir sem falli undir 1. flokk séu starfsleyfisskyldir. Í 5. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um starfsleyfi. Þar segi að þeir sem hyggist starfrækja baðstað í náttúrunni í 1. flokki skuli sækja um starfsleyfi til viðkomandi heilbrigðisnefndar. Kærandi hafi fylgt þeirri lagaskyldu er hann hafi sótt um starfsleyfi á grundvelli reglugerðar nr. 460/2015 vegna Bullungu eftir gildistöku reglugerðarinnar, enda telji hann náttúrulaugina uppfylla allar þær kröfur sem gerðar séu til slíks starfsleyfis.

Sú ákvörðun að synja kæranda um útgáfu starfsleyfis eigi sér ekki stoð í lögum. Svo virðist sem synjunin styðjist eingöngu við þá röksemd að verið sé að blanda saman rekstri sund- og baðstaðar annars vegar og náttúrulaugar hins vegar. Þannig hafi því ekki verið mótmælt að Bullunga sé náttúrulaug í skilningi viðkomandi reglugerða, en svo virðist sem heilbrigðisyfirvöld telji óheimilt að reka náttúrulaug í skilningi reglugerðar nr. 460/2015 og sundlaugar í skilningi reglugerðar nr. 814/2010 á sama svæði. Slíkt standist enga skoðun. Hvergi sé í lögum nr. 7/1998 eða áður tilvitnuðum reglugerðum sé lagt bann við því að gefið sé út starfsleyfi vegna reksturs náttúrulaugar og sundlaugar í skilningi reglugerðanna. Þannig standi því ekkert í vegi að gefið sé út starfsleyfi vegna starfsemi sem falli undir 1. flokk 4. gr. reglugerðar nr. 460/2015 að hluta og að hluta undir reglugerð nr. 814/2010. Slík takmörkun geti ekki stuðst við nokkur málefnaleg rök. Raunar virðist 3. mgr. 5. gr. nr. 460/2015 styðja að unnt sé að fella laugar á sama starfsvæði undir mismunandi reglugerðir og að starfsleyfi taki mið af því. Synjun heilbrigðiseftirlitsins eigi sér ekki lagastoð og feli í sér óhóflega takmörkun á atvinnufrelsi, sem valdi kæranda fjárhagslegu tjóni.

Starfsemi kæranda njóti ákveðinnar sérstöðu þar sem hann sé að öllum líkindum eini aðilinn á landinu sem starfræki baðstað þar sem bæði sé að finna náttúrulegar laugar og laugar sem falli undir ákvæði reglugerðar nr. 814/2010 og hafi starfsemi sína opna baðgestum allt árið um kring. Svo virðist raunar sem heilbrigðisnefndir flokki nú ýmsar laugar, sem séu sambærilegar við Bullungu, sem náttúrulaugar, sbr. lista um náttúrulaugar sem Umhverfisstofnun beri að birta skv. 4. gr. reglugerðar nr. 460/2015. Þannig séu sambærilegar laugar taldar falla undir reglugerðina en á sama tíma þurfi kærandi að sæta því að sú náttúrulaug sem hann starfræki sé talin falla undir reglugerð nr. 814/2010 af heilbrigðisyfirvöldum. Þetta sé í verulegu ósamræmi við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Starfsemi kæranda sé virðisaukaskattsskyld með sama hætti og rekstur Bláa lónsins og Jarðbaðanna við Mývatn en sæti ekki skattalegri meðferð eins og sundlaug.

Loks sé byggt á því að fyrirliggjandi ákvörðun hafi verið haldin verulegum formannmörkum sem hafi haft áhrif á efni ákvörðunarinnar og eigi að leiða til ógildingar hennar. Annars vegar hafi stjórnvaldinu borið, á grundvelli rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins, að rannsaka hvort starfsemi Bullungu félli undir reglugerð nr. 460/2015 áður en tekin var ákvörðun um að synja um starfsleyfið, en ekki verði séð af gögnum málsins að fullnægjandi rannsókn hafi verið viðhöfð. Hins vegar hafi heilbrigðisyfirvöldum borið, hafi umsókn kæranda verið talið ábótavant, að beina því til kæranda að afla frekari upplýsinga, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga. Hefði stjórnvaldið viðhaft slíka málsmeðferð verði að telja að niðurstaðan hefði orðið sú að starfsleyfi vegna náttúrulaugarinnar á grundvelli reglugerðar nr. 460/2015 hefði verið veitt, enda hafi stjórnvaldinu borið lagaskylda til að veita það að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Málsrök heilbrigðisnefndar Suðurlands: Heilbrigðisnefndin kveður það vera mat sitt að með vísan til niðurlags 5. gr. reglugerðar nr. 460/2015 um baðstaði í náttúrunni falli laug sú sem deilt sé um í málinu undir skilgreiningu C flokks laugar, sbr. reglugerð nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum. Í reglugerð nr. 814/2010 sé jafnframt heimild til að sækja um undanþágu frá notkun á sótthreinsiefnum, sbr. 3. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar. Laugin falli því ekki undir skilgreiningu náttúrulaugar skv. 3. gr. reglugerðar nr. 460/2015, enda sé hún að öllu leyti manngerð, eins og komi fram í gögnum málsins, og sé m.a. með dælingu baðvatns.

Samkvæmt niðurlagi 5. gr. reglugerðar nr. 460/2015 geti rekstraraðili staðar í 2. flokki, þ.e. þar sem tilfallandi rekstur fari fram, óskað eftir því að laug verði flokkuð sem baðstaður í náttúrunni, en ekki sem C laug skv. reglugerð nr. 814/2010. Það eigi ekki við um laugina Bullungu hjá kæranda, enda  sé þar um að ræða baðstað í flokki 1 með mikla aðsókn allt árið og laug í C flokki, eins og komið hafi fram.

Bent sé á að samkvæmt reglugerð nr. 460/2015 sé ekki gert ráð fyrir sótthreinsun baðvatns nema sérstaklega standi á, sbr. 3. mgr. 11. gr. Hins vegar sé sótthreinsun meginreglan skv. reglugerð nr. 814/2010. Varðandi C flokk lauga sé möguleiki á undanþágu frá sótthreinsun að uppfylltum skilyrðum um hreinleika baðvatns, sem skuli staðfestur með sýnatökum, þ.e. 10 sýni, sem skuli standast kröfur í 90% tilvika, sbr. 1. mgr. I. viðauka. Því telji heilbrigðisnefndin það þjóna almannahagsmunum að fram fari sótthreinsun baðvatns í Bullungu eins og í öðrum laugum kæranda.

Kærandi hafi bent á  að starfsemi hans sé virðisaukaskattsskyld en lúti ekki skattalegri meðferð eins og sundlaug, sbr. reglugerð nr. 814/2010. Rekstur vínveitingarstaðar eins og þess sem rekinn sé í tengslum við böðin sé háður rekstrarleyfi sem sýslumaður gefi út á grundvelli laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Reksturinn sé þar af leiðandi virðisaukaskattsskyldur og eigi ekkert skylt við rekstur sund- og baðstaðar sem slíks, enda sé ekki heimilt að veita áfengi í laugunum, heldur einungis á veitingastaðnum.

Niðurstaða: Stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. þágildandi 31. gr. laganna, nú 65. gr. Einskorðast valdheimildir úrskurðarnefndarinnar við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana er undir hana eru bornar. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar en það fellur utan valdheimilda hennar að fjalla um aðrar kröfur kæranda.

Í máli þessu er deilt um synjun heilbrigðisnefndar Suðurlands á umsókn kæranda um starfsleyfi fyrir rekstri náttúrulaugar samkvæmt reglugerð nr. 460/2015 um baðstaði í náttúrunni, en kærandi hefur nú þegar starfsleyfi fyrir rekstri baðstaðar samkvæmt reglugerð nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum. Hugðist kærandi sameina rekstur náttúrulaugar þeim rekstri sem hann stendur nú þegar fyrir við Laugarvatn.

Hinni kærðu ákvörðun er lýst í málavöxtum og verður af bókun heilbrigðisnefndar ráðið að hún hafi einkum byggst á því að ekki ætti að blanda saman rekstri baðstaðar samkvæmt reglugerð nr. 814/2010 og náttúrulaugar samkvæmt reglugerð nr. 460/2015. Ljóst er samkvæmt gögnum málsins að heilbrigðisnefnd hafði fram að umsókn kæranda litið svo á að hin umdeilda laug væri í C flokki lauga samkvæmt flokkun í 3. gr. reglugerðar nr. 814/2010 og hafði verið unnið að því af hálfu kæranda að reyna að uppfylla skilyrði 3. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar fyrir undanþágu frá þeirri almennu reglu að nota skuli sótthreinsiefni í laugar.

Um hollustuhætti og mengunarvarnir gilda lög nr. 7/1998 og er markmið þeirra að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi, sbr. 1. gr. laganna. Samkvæmt 4. gr. laganna setur ráðherra, til að stuðla að framkvæmd hollustuverndar, í reglugerð almenn ákvæði um eftirlit með atvinnurekstri sem fellur undir greinina, sem og um útgáfu og efni starfsleyfa. Samkvæmt 15. tölul. ákvæðisins fellur undir ákvæðið m.a. rekstur sundstaða, baðhúsa, gufubaðstofa, sólbaðsstofa og almennra baðstaða, baðvatns og þess háttar. Samkvæmt þágildandi 4. gr. a í lögunum skyldu stofnanir, fyrirtæki og önnur starfsemi sem talin væri upp í fylgiskjali III með lögunum hafa gilt starfsleyfi gefið út af heilbrigðisnefnd, en þar voru sundstaðir felldir undir nefnt ákvæði. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. a skyldi starfsleyfi gefið út til tiltekins tíma og samkvæmt 3. mgr. skyldi í starfsleyfi tilgreina rekstraraðila og staðsetningu starfsemi, tegund hennar, skilyrði, gildistíma og endurskoðun starfsleyfis, auk ákvæða um eftirlit, umgengni, hreinlæti, öryggisráðstafanir, sóttvarnir, gæðastjórnun og  innra eftirlit eftir því sem við ætti hverju sinni.

Almenn ákvæði um starfsleyfi samkvæmt 4. gr. laga nr. 7/1998 er að finna í III. kafla reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002, en reglur um starfsleyfi fyrir sund- og baðstaði er að finna í III. kafla reglugerðar nr. 814/2010, þar sem vísað er til reglugerðar nr. 941/2002. Um starfsleyfi fyrir baðstaði í náttúrunni þar sem reglubundinn rekstur fer fram (1. flokkur) eða þar sem tilfallandi rekstur fer fram (2. flokkur) gildir II. kafli reglugerðar nr. 460/2015, en samkvæmt 1. mgr. 5. gr. skulu þeir sem hyggjast starfrækja baðstað í náttúrunni skv. 1. og 2. flokki sækja um starfsleyfi til viðkomandi heilbrigðisnefndar. Gefur heilbrigðisnefnd út starfsleyfi að uppfylltum skilyrðum reglugerðarinnar, reglugerðar nr. 814/2010 og reglugerðar nr. 941/2002, eftir því sem við á, enda samræmist starfsemin skipulagsáætlunum. Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 460/2015 telst baðstaður í náttúrunni náttúrulaug eða baðströnd sem séu notuð til baða af almenningi og vatn sé ómeðhöndlað af sótthreinsiefnum, geislun eða á annan hátt. Þá er í 3. gr. einnig að finna eftirfarandi skilgreiningu á náttúrulaug: „Laug ásamt bakka hennar, mynduð af náttúrunnar hendi þar sem böð eru stunduð og vatn er ekki meðhöndlað með sótthreinsiefnum, geislun eða á annan hátt. Þó framkvæmdir á náttúrulaug hafi verið gerðar til þess að styrkja stoðir hennar, til dæmis með lítils háttar hleðslu, steypuverki, eða laugin lagfærð með hleðslu á steinum til að stífla eða stýra rennsli á baðvatni og steyptir botnar og hliðar, telst laugin vera náttúrulaug.“ Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 814/2010 gildir reglugerðin ekki um sjóböð og náttúrulaugar.

Laug sú sem um ræðir er manngerð að öllu leyti og getur ekki talist falla undir skilgreiningu á náttúrulaug skv. 3. gr. reglugerðar nr. 460/2015 eða 15. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 814/2010. Myndi rekstur hennar því almennt falla undir reglugerð nr. 814/2010. Í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 460/2015 er að finna ákvæði um að rekstraraðili laugar, sem hann óski eftir að verði flokkuð sem baðstaður í náttúrunni en ekki sem C laug samkvæmt reglugerð nr. 814/2010, geti sótt um starfsleyfi til heilbrigðisnefndar fyrir baðstað í náttúrunni í 2. flokki, svo framarlega sem hann tilheyri ekki 1. flokki eða heilbrigðisnefnd meti sem svo að um C laug sé að ræða. Af framangreindu má ráða að óski aðili eftir því að laug, sem heilbrigðisnefnd hefur flokkað sem C laug, verði flokkuð sem baðstaður í náttúrunni sé eingöngu möguleiki á að fá starfsleyfi fyrir  rekstri hennar sé hún flokkuð í 2. flokk, það er sem baðstaður þar sem tilfallandi rekstur fer fram. Svo virðist því sem reglugerðin geri ekki ráð fyrir þeim möguleika að fá laug flokkaða sem 1. flokk baðstaðar í náttúrunni í stað laugar í C flokki, eins og umsókn kæranda til heilbrigðisnefndar snerist um. Sú afstaða heilbrigðisnefndar Suðurlands að leggjast gegn starfsleyfisveitingu á þeim forsendum að verið væri að „blanda saman rekstri sund- og baðstaðar annars vegar og náttúrulaugar hins vegar“ var því í samræmi við nefnt ákvæði reglugerðar nr. 460/2015, sem jafnframt stóð því í vegi að fallist yrði á umsókn kæranda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið var heilbrigðisnefnd Suðurlands rétt að hafna umsókn kæranda. Þá verður ekki annað séð en að nægar upplýsingar hafi legið fyrir, málsmeðferð hafi verið í samræmi við lög og skilyrðum laga og reglna hafi verið fullnægt að öðru leyti áður en ákvörðun var tekin í málinu. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 20. apríl 2016 um að synja umsókn um starfsleyfi á grundvelli reglugerðar nr. 460/2015 um baðstaði í náttúrunni.

49/2018 Þingvallavegur

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 25. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 49/2018, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. febrúar 2018 um að tilteknar endurbætur á Þingvallavegi skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. mars 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir Landvernd þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. febrúar 2018 að endurbætur á Þingvallavegi á milli þjónustumiðstöðvar og syðri vegamóta við Vallarveg í Bláskógabyggð skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi, að umrædd framkvæmd skuli sæta mati á umhverfisáhrifum og að framkvæmdir við endurbætur Þingvallavegar verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan úrskurðarnefndin hafi málið til umfjöllunar. Verður nú tekin afstaða til framkominnar kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik og rök: Síðla árs 2017 barst Skipulagsstofnun tilkynning um fyrirhugaðar endurbætur Vegargerðarinnar á tilgreindum kafla Þingvallavegar, sem kynni að teljast framkvæmd sem háð væri mati á umhverfisáhrifum, sbr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun leitaði umsagna um framkvæmdaáformin og tók í kjölfarið ákvörðun um að fyrirhugaðar endurbætur á veginum væru ekki líklegar til þess að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldu því ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Ákvörðunin er frá 16. febrúar 2018 og í henni tilgreint að kærufrestur vegna hennar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sé til 23. mars s.á.

Kærendur gera þá kröfu að framkvæmdir við fyrirhugaðar endurbætur Þingvallavegar verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan úrskurðanefndin hafi málið til meðferðar. Náttúruspjöll séu yfirvofandi og fyrir liggi að framkvæmdaraðili sé tilbúinn að hefja verkið á næstu vikum eða mánuðum.

Skipulagsstofnun taldi ekki tilefni til að veita umsögn um stöðvunarkröfuna.

Af hálfu Vegagerðarinnar, sem er framkvæmdaraðili fyrirhugaðra framkvæmda, er farið fram á að kröfu um stöðvun framkvæmda verði hafnað. Verkið sé hvorki hafið né sé það yfirvofandi, í skilningi 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, og muni ekki hefjast fyrr en tilskilin leyfi liggi fyrir. Vísað sé til þeirrar meginreglu stjórnsýsluréttar að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum. Allar undantekningar þar frá beri að skýra þröngt. Kærandi hafi ekki ríka hagsmuni af því að krafa um stöðvun framkvæmda nái fram að ganga enda hafi almenningi og hagsmunaaðilum gefist fullt tækifæri til að koma sjónarmiðum og athugasemdum á framfæri.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar, en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda

Mál þetta snýst um hvort Skipulagsstofnun hafi borið að kveða á um að fyrirhugaðar framkvæmdir við endurbætur Þingvallavegar skyldu háðar mati á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar þar um felur ekki í sér heimild til þess að hefja framkvæmdir heldur þurfa að koma til sérstakar stjórnvaldsákvarðanir, m.a. um framkvæmdaleyfi, sem kæranlegar eru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna slíkrar stjórnvaldsákvörðunar er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði er ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi ákvarðana sem veita ekki heimild til þess að framkvæmdir hefjist.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og hinnar kærðu ákvörðunar, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda, enda veitir hin kærða ákvörðun ekki heimild til þess að þær hefjist.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um stöðvun fyrirhugaðra framkvæmda við endurbætur á hluta Þingvallavegar er hafnað.

129/2017 Gagnheiði

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 25. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 129/2017, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar frá 5. október 2017 um að synja beiðni um beitingu þvingunarúrræða vegna óleyfisframkvæmda við eignarhluta 0103 í fjöleignarhúsinu að Gagnheiði 19, Selfossi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. október 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir ÞGÁ trésmíði slf., eigandi eignarhluta 0102 að Gagnheiði 19, Selfossi, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar frá 5. október 2017 að synja beiðni kæranda um beitingu þvingunarúrræða vegna óleyfisframkvæmda við eignarhluta 0103 í fjöleignarhúsinu að Gagnheiði 19, Selfossi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 12. janúar 2018.

Málavextir:
Árið 2009 fékk einn eigenda hússins Gagnheiði 19 byggingarleyfi fyrir gerð innkeyrsludyra í séreign sína. Ekki var ráðist í framkvæmdir og féll byggingarleyfið því úr gildi ári eftir útgáfu þess skv. þágildandi 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Sótt var um byggingarleyfi fyrir sömu framkvæmd á árinu 2013 en hún fékkst ekki samþykkt þar sem samþykki meðeigenda skorti. Þrátt fyrir það munu framkvæmdir hafa byrjað og eru nú fyrrgreindar innkeyrsludyr í séreign umsækjanda. Einn sameigenda fjöleignarhússins gerði í kjölfar þess þá kröfu á hendur sveitarfélaginu að innkeyrsludyrnar yrðu fjarlægðar. Skipulags- og byggingarfulltrúi sveitarfélagsins aflaði álits tveggja byggingatæknifræðinga af því tilefni og var niðurstaða þeirra sú að framkvæmdirnar hefðu ekki teljandi áhrif á burðarvirki hússins. Einnig var öllum eigendum hússins að Gagnheiði 19 tilkynnt um málið og þeim veittur andmælaréttur. Athugasemdir bárust og á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 1. júlí 2015 var tekin sú ákvörðun að ekki væri tilefni til þess að beita þvingunarúrræðum skv. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Sú ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 7. ágúst 2015, og fór hann fram á rökstuðning fyrir henni með bréfi, dags. 20. s.m. Umbeðinn rökstuðningur barst honum með bréfi, dags. 21. september s.á. Var ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar í kjölfarið kærð til úrskurðarnefndarinnar, sem með úrskurði í máli nr. 73/2015, uppkveðnum 23. febrúar 2017, vísaði því máli frá nefndinni þar sem hin kærða ákvörðun væri ekki tekin af þar til bæru stjórnvaldi.

Með bréfi, dags. 5. október 2017, fékk kærandi tilkynningu ásamt rökstuðningi um að byggingarfulltrúi hefði tekið þá ákvörðun að beita ekki þvingunarúrræðum skv. 55. og 56. gr. laga um mannvirki vegna innkeyrsludyra á eignarhluta 0103 að Gagnheiði 19.

Málsrök kæranda:
Kærandi vísar til þess að hann telji skipulags- og byggingarfulltrúa hafa veitt eiganda rýmis 0103 að Gagnheiði 19 leyfi sem ekki standist lög á kostnað annarra eigenda hússins. Embættinu beri að ganga eftir því að samþykki sameigenda vegna fyrirhugaðra framkvæmda sé skilað inn, eins og kveðið sé á um í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Sé ekki eftir slíku samþykki gengið sé verið að brjóta freklega á rétti annarra eigenda. Sé vísað til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 116/2014 þessu til stuðnings, þar sem fjallað hafi verið um nauðsyn á samþykki meðeigenda.

Ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa um að hafast ekki frekar að gagnvart lögmætum kröfum kæranda feli í raun í sér leyfi fyrir óleyfisframkvæmd eftir á án þess að tilskilin gögn liggi fyrir. Um sérlega ámælisverða og hættulega vegferð sé að ræða, sér í lagi þar sem útliti húss sem og burðarvirki hafi verið breytt og nýting hússins hafi breyst í kjölfarið. Því sé hafnað að meðalhófsregla stjórnsýsluréttar eigi við um slíkar óleyfisframkvæmdir. Sú regla ætti fremur við þegar koma ætti í veg fyrir órétt í stað þess að beita henni með skipulegum hætti þeim til hagsbóta sem brotið hafi lög og gengið á rétt sameigenda.

Í máli þessu sé um að ræða óleyfisframkvæmd sem háð sé byggingarleyfi, sem sé forsenda þess að 55. gr. laga um mannvirki verði beitt. Auk þess hafi ekki verið sótt um leyfi fyrir breyttri notkun mannvirkis. Sé byggingarfulltrúa rétt í slíkum tilfellum, í krafti valds síns skv. 56. gr. laga um mannvirki, að leggja fyrir eiganda rýmis 0103 í umræddu húsi að ganga frá ytra byrði þess samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, að viðlögðum dagsektum. Verði að gera þá kröfu að byggingarfulltrúi og skipulags- og byggingarnefnd kunni skil á þeim lögum og kröfum sem framfylgja skuli í hverju og einu verkefni. Verði sveitarfélagið jafnframt að gæta þess að samþykki meðeigenda liggi fyrir í samræmi við ákvæði laga um fjöleignarhús, sé um að ræða fasteign í eigu tveggja eða fleiri.

Um sé að ræða breytingu á ytra byrði hússins, sem sé í sameign allra, sbr. 8. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Þar komi efnislega fram að ytra byrði hússins, útveggir, þak, gaflar og útidyr, burðarvirki þess, grunnur, grunnplata, sökklar, burðarveggir og þakburðarvirki séu sameign. Helstu skyldur fasteignareigenda skv. lögum um fjöleignarhús sé m.a. skyldan um að taka eðlilegt og sanngjarnt tillit til annarra við hagnýtingu eignar, sem og skylda til að virða rétt og hagsmuni annarra eigenda við hagnýtingu sameignar. Byggi kærandi á því að um verulega breytingu sé að ræða þar sem bæði sé um að ræða breytingu á útliti og gerð, sem og hagnýtingu sameignar. Skipulags- og byggingarfulltrúi hafi með öllu hunsað lög um fjöleignarhús. Reglur um töku ákvarðana sé að finna í 39. gr. og 41. gr. laganna. Ekki hafi verið gengið eftir því að eigandi rýmis 0103 myndi afla slíks leyfis, hvorki fyrr né síðar. Sveitarfélagið virðist hafa kosið að líta á fundarboð sem fundargerð og ekki kallað eftir slíkum gögnum. Sé það ámælisvert þar sem ágreiningur hafi staðið um þetta mál í nokkuð mörg ár.

Svo virðist sem í umræddum framkvæmdum hafi verið átt við burðarvirki hússins, sem sé í sameign allra eigenda, en verkfræðingar hafi komist að þeirri niðurstöðu að sú breyting hafi ekki umtalsverð áhrif á burðarvirki þess. Við það megi ekki búa. Ákvörðun sem byggð sé á röngum gögnum sé í eðli sínu ógildanleg, enda sé hún haldin svo afdrifaríkum annmarka að líta beri á hana sem markleysu og því ógildanlega frá öndverðu. Efnisreglur um tilskilin leyfi meðeigenda fyrir óleyfisframkvæmd eiganda rýmis 0103 hafi ekki verið virtar. Við mat á því hvort annmarkinn hafi verið verulegur eða ekki sé litið til bæði almenns og sérstaks mælikvarða. Verði að telja að ákvörðun sveitarfélagsins í þá veru að leyfa óleyfisframkvæmd uppfylli bæði fyrrgreind skilyrði. Réttarreglan sem hafi ekki verið virt eigi að tryggja að efni stjórnvaldsákvörðunar verði bæði rétt og lögmætt. Jafnframt sé á það bent að óleyfisframkvæmdin hefði aldrei hlotið samþykki sameigenda Gagnheiðar 19. Leiði sjónarmið sveitarfélagsins því til rangrar efnislegrar niðurstöðu miðað við að farið hefði verið að lögum.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Sveitarfélagið bendir á að skipulags- og byggingarfulltrúi hafi látið framkvæma skoðun á umdeildri framkvæmd til að ganga úr skugga um að hún rýri ekki öryggi mannvirkisins. Ekki hafi verið sýnt fram á að slíkir annmarkar væru á framkvæmdinni að leiða ættu til kröfu um úrbætur vegna öryggissjónarmiða skv. 3. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Ákvæði 2. mgr. 55. gr. og 56. gr. feli í sér heimild til handa skipulags- og byggingarfulltrúa til að taka ákvörðun um úrbætur og eftir atvikum beita þvingunarúrræðum til þess að knýja þær fram. Skipulags- og byggingarfulltrúi ítreki að hér sé um að ræða íþyngjandi heimildarákvæði og fari um þessa ákvörðun eftir ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglum stjórnsýsluréttar, m.a. meðalhófsreglu.

Í athugasemdum um meðalhófsreglu 12. gr. í frumvarpi til stjórnsýslulaga segi: „Er stjórnvaldi því ekki aðeins skylt að líta til þess markmiðs sem starf þess stefnir að, heldur ber því einnig að taka tillit til hagsmuna og réttinda þeirra einstaklinga og lögaðila sem athafnir stjórnvaldsins og valdbeiting beinist að. Ber stjórnvaldi að fara ákveðinn meðalveg á milli þessara andstæðu sjónarmiða. Í 12. gr. felst í fyrsta lagi að efni íþyngjandi ákvörðunar, sem stjórnvald tekur, verður að vera til þess fallið að þjóna lögmætu markmiði sem að er stefnt. Þetta þýðir þó ekki að markmiðinu verði að ná að fullu. Í öðru lagi felur ákvæðið í sér að ef fleiri úrræða er völ er þjónað geta því markmiði, sem að er stefnt, skal velja það úrræði sem vægast er. Íþyngjandi ákvörðun skal þannig aðeins taka að ekki sé völ vægara úrræðis sem þjónað geti markmiðinu. Í þriðja lagi byggir ákvæðið á því að hóf verði að vera í beitingu þess úrræðis sem valið hefur verið og má því ekki ganga lengra en nauðsyn ber til. Stjórnvaldi er sem fyrr segir skylt að vega og meta þau andstæðu sjónarmið sem hér vegast á. Slíkt mat er ekki alltaf auðvelt, en löggjöf á einstök um sviðum og meginreglur laga geyma þó oft vísbendingar um vægi hagsmuna. Almennt verður að ganga út frá því að hagsmunir einstaklinga, sem verndar njóta í mannréttindaákvæðum stjórnarskrár eða alþjóðlegum mannréttindasáttmálum, vegi þungt og þá sérstaklega hagsmunir er varða frelsi manna og friðhelgi.“

Með setningu núgildandi laga um mannvirki hafi orðalagi þvingunarúrræðis 2. mgr. 55. gr. laganna vegna mannvirkja sem reist séu í óleyfi verið breytt svo að það fæli aðeins í sér heimild en ekki skyldu, eins og kveðið hafi verið á um í 56. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Með þessari breytingu hafi verið lögð áhersla á að úrræðinu yrði beitt eftir atviksbundnu mati, m.a. með tilliti til meðalhófs. Ljóst sé af athugasemdum með 55. gr. laganna að það eitt að framkvæmd sé gerð „í óleyfi“ leiði ekki sjálfkrafa til þess að gripið sé til þeirra ráðstafana sem nefnd séu í ákvæðinu.

Af framangreindu leiði að túlkun kæranda, um að beita eigi úrræðinu þar sem skort hafi á tilskilið leyfi, sé ekki rétt. Þá sé áréttað að brot á ráðstöfunarrétti eiganda skv. lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús leiði ekki af sér sjálfstæða heimild til handa skipulags- og byggingarfulltrúa til beitingar íþyngjandi þvingunarúrræða, þótt slíkt kunni að hafa áhrif við mat á hagsmunum aðila. Þá hafi aðilum verið leiðbeint um einkarréttarleg úrræði sem þeir hafi í þessum efnum.

Með skoðun á aðstæðum og mati á hagsmunum aðila sé ljóst að öryggi mannvirkisins sé ekki ábótavant, breytingin sé ekki til þess fallin að hindra aðgengi eða hafa neikvæð áhrif á ásýnd eða umhverfi á staðnum og ekki sé að sjá að umrædd framkvæmd hafi slík áhrif á hagsmuni kæranda að rétt sé að beita íþyngjandi úrræðum 2. mgr. 55. gr. og 56. gr. laga um mannvirki. Þrátt fyrir að ljóst sé að ekki hafi verið formlega rétt staðið að framkvæmdinni sé það mat skipulags- og byggingarfulltrúa að annmarkar framkvæmdarinnar séu ekki þess eðlis, m.t.t. markmiða sem liggi að baki reglum um byggingarleyfi, sbr. t.d. markmiðsákvæði 1. gr. laga um mannvirki, að vegið séð að hagsmunum sameigenda eða nágranna á þann hátt að beita skuli íþyngjandi heimildarákvæði laganna.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar um að beita ekki þvingunarúrræðum samkvæmt ákvæðum laga nr, 160/2010 um mannvirki vegna uppsetningar innkeyrsludyra í séreignarhluta í fjöleignarhúsinu að Gagnheiði 19 án lögmælts byggingarleyfis.

Ef ráðist hefur verið í byggingarskylda framkvæmd án slíks leyfis er byggingarfulltrúa heimilt að stöðva framkvæmdir eða breytta notkun, loka mannvirkinu, krefjast úrbóta eða beita dagsektum sé ekki farið að tilmælum hans samkvæmt 55. og 56. gr. laga um mannvirki, sbr. og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Ákvörðun um beitingu þessara þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið er fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé í hverju tilviki tekin, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umrædd ákvæði gefa sveitarfélögum kost á að bregðast við ef gengið er gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingshagsmuna, enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki ákvæðum laga um mannvirki.

Fyrir liggur að fasteigninni að Gagnheiði 19 var breytt með gerð innkeyrsludyra á útvegg fyrrgreinds fjöleignarhúss án lögboðins byggingarleyfis skv. 9. gr. laga um mannvirki og án þess að samþykki sameigenda hússins fyrir framkvæmdinni lægi fyrir.

Í rökstuðningi fyrir ákvörðun byggingarfulltrúa um að beita ekki þvingunarúrræðum kemur fram að samkvæmt áliti tveggja byggingatæknifræðinga hafi breytingar á húsnæðinu ekki haft umtalsverð áhrif á burðarvirki hússins og að ekki stafaði hætta af þeim. Þá var það mat byggingarfulltrúa að breytingin hafi ekki valdið kæranda neinum óþægindum, ónæði eða skaða. Um væri að ræða iðnaðarhúsnæði þar sem nágrannar verði almennt að þola umferð vinnuvéla, bifreiða o.fl. Þá hafi þegar verið fyrir innkeyrsludyr í umræddan eignarhluta, þannig að nýjar innkeyrsludyr breyti ekki notkun húsnæðisins að því leyti. Í þessum rökstuðningi hafa komið fram þau efnisrök sem bjuggu að baki hinni kærðu ákvörðun.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar frá 5. október 2017 um að synja beiðni um beitingu þvingunarúrræða vegna óleyfisframkvæmda við eignarhluta 0103 í fjöleignarhúsinu að Gagnheiði 19, Selfossi.

78/2016 Grashagi

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 25. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 78/2016, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 6. maí 2015 um veitingu byggingarleyfis vegna byggingar bílskúrs að Grashaga 10, Selfossi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. júlí 2016, er barst nefndinni 6. s.m., kæra A og B, Grashaga 12, Selfossi, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 6. maí 2015 að samþykkja byggingarleyfi fyrir bílskúr að Grashaga 10, Selfossi. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Sveitarfélaginu Árborg 16. ágúst 2016.

Málavextir: Forsaga þessa máls er sú að á lóðunum Grashaga 10 og 12 standa einbýlishús sem byggð voru árið 1973. Á árinu 1981 var reistur bílskúr við húsið að Grashaga 12, við lóðamörkin að Grashaga 10. Á svipuðum tíma voru steyptir sökklar og botnplata vegna fyrirhugaðs bílskúrs að Grashaga 10 við hlið bílskúrsins að Grashaga 12. Frá því að þessum framkvæmdum lauk hafa orðið eigendaskipti á báðum eignunum. Umræddar lóðir eru á ódeiliskipulögðu svæði.

Lögð var fram umsókn um byggingarleyfi hjá Sveitarfélaginu Árborg, dags. 10. apríl 2015, þar sem óskað var eftir leyfi til byggingar bílskúrs við Grashaga 10. Fyrir væru steyptir sökklar og plata ásamt brunavegg REI-120 á lóðamörkum. Bílskúr hafi þegar verið reistur við Grashaga 12 og að leitast verði eftir að fylgja þeirri hönnun. Umsóknin var síðar samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar 6. maí s.á. með fyrirvara um samþykki meðeiganda bílgeymslu.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er því haldið fram að samþykkis meðeigenda bílgeymslunnar, sem áskilið hafi verið við samþykkt hinnar kærðu ákvörðunar, hafi aldrei verið aflað. Þegar þeir hafi komið að heimili sínu eftir páskafrí vorið 2016 hafi framkvæmdir við bílskúrinn verið hafnar, m.a. með uppslætti útveggjar sem væri framlenging á útvegg þeirra eigin bílskúrs inni á þeirra lóð. Haft hefði verið samband við byggingarfulltrúa í framhaldinu og þess krafist að hann hlutaðist til um að samþykkis þeirra yrði aflað fyrir framkvæmdinni. Sú krafa hafi verið ítrekuð við embætti byggingarfulltrúa, þ. á m. í bréfi, dags. 24. apríl 2016. Viku áður en kæra hafi verið send til úrskurðarnefndarinnar hafi kærendur tjáð byggingarfulltrúa ásetning sinn um að kæra byggingarleyfið, en hann hafi þá loks brugðist við með því að tilkynna um stöðvun framkvæmda og að von væri á svari frá bæjarlögmanni við fyrrgreindu bréfi kærenda frá 24. apríl. Óásættanlegt sé að útveggur bílskúrs þeirra sé notaður án þeirra samþykkis og að hann hafi verið framlengdur innan lóðar þeirra án samþykkis. Þess sé krafist að byggingarleyfið verði fellt úr gildi og að bílskúrinn við Grashaga 10 verði byggður með sjálfstæðum útvegg.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að samþykki það sem áskilið hafi verið við samþykkt byggingaráforma umrædds bílskúrs hafi ekki borist til byggingarfulltrúa, en framkvæmdir engu að síður hafist. Eigendum Grashaga 10 hafi verið kunnugt um athugasemdir byggingarfulltrúa vegna þessa en hafi ekki bætt úr. Samkvæmt upplýsingum frá upphaflegum eigendum Grashaga 10 og 12 hafi útveggur bílskúrs Grashaga 12 verið byggður og fjármagnaður sameiginlega, enda hafi ætlunin verið að nýta hann einnig fyrir bílskúr sem rísa ætti að Grashaga 10. Þessar upplýsingar hafi fengist á fundi sem haldinn hafi verið með fyrri eigendum 11. ágúst 2016.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafar krefjast frávísunar málsins þar sem  kærufrestur hafi verið liðinn er kæra barst úrskurðarnefndinni. Til vara er þess krafist að kröfum kærenda verið hafnað.

Leyfishafar hafi í byrjun árs 2015 hafið undirbúning að því að reisa bílskúr á lóð sinni Grashaga 10, en til staðar hafi verið samþykktir aðaluppdrættir frá byggingartíma hússins, dags. 8. apríl 1973, sem geri ráð fyrir slíkum bílskúr. Umsókn þar um hafi verið samþykkt af skipulags- og byggingarnefnd Áborgar hinn 6. maí 2015. Ekki hafi verið á það minnst við leyfishafa að þeim bæri að afla samþykkis kærenda. Um sumarið 2015 hafi framkvæmdir hafist með vinnu í sökkli og með hreinsun málningar af hinum sameiginlega millivegg. Kærendur hafi engar athugasemdir gert þótt augljóst væri að til stæði að reisa bílskúr þar sem hinn sameiginlegi veggur yrði nýttur. Framkvæmdir hafi hafist að nýju vorið 2016, en þá hafi aðstoðarbyggingarfulltrúi haft samband og greint frá umkvörtun kærenda og farið fram á að samþykkis þeirra yrði aflað. Það samþykki hafi ekki fengist.

Leyfishafar telji að kærendum hafi mátt vera ljóst hvað til stæði þegar sumarið 2015 þegar framkvæmdir hófust. Óskað hafi verið eftir skriflegu samþykki þeirra 31. mars 2016 og hafi kærendur sent erindi vegna byggingarleyfisins til skipulags- og byggingarfulltrúa 24. apríl s.á. Kæran sé hins vegar dagsett 5. júlí 2016 og móttekin 6. s.m. og hafi því borist utan kærufrests. Ekki séu uppi neinar ástæður sem afsaki að kæran sé svo seint fram komin.

Mikið óhagræði og umtalsverður kostnaður fylgi því að reisa annan útvegg. Brjóta þyrfti gólfplötu, steypa nýjan sökkul, rjúfa þak og útvegg og stytta stálbita sem haldi uppi þaki. Gólfflötur bílskúrsins myndi í kjölfarið minnka. Ekki sé teljanlegt óhagræði af sameiginlegum notum milliveggjarins fyrir kærendur.

Niðurstaða: Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kæranlegu ákvörðun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kærendur hafa sjálfir lýst því sem svo að þeir hafi fyrst orðið varir við framkvæmdir upp úr páskum vorið 2016. Þeir hafi í kjölfarið leitað upplýsinga hjá skipulags- og byggingarfulltrúa en fá svör fengið. Fyrir liggur að kærendur sendu formlegt erindi um málið til skrifstofu skipulags- og byggingardeildar Árborgar með bréfi, dags. 24. apríl 2016, og má af því ráða að þeim var á þeim tíma kunnugt um efni hinnar kærðu ákvörðunar. Kæra barst úrskurðarnefndinni hins vegar ekki fyrr en 6. júlí 2016, eða meira en mánuði eftir að kærendum varð sannanlega kunnugt um efni hinnar kærðu ákvörðunar. Kæran barst því að liðnum kærufresti.

Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá sem berst að liðnum kærufresti, nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Eins og hér stendur á verður ekki séð að yfirvöld sveitarfélagsins hafi leiðbeint kærendum um kæruleiðir þegar þeir tóku að grennslast fyrir um þær framkvæmdir sem hafnar voru við bílskúrsbyggingu við lóðarmörk þeirra og að hluta innan lóðar þeirra. Kærendur höfðu ástæðu til þess að ætla að samþykkis þeirra þyrfti að afla áður en framhald yrði á framkvæmdum og að það væri yfirvalda sveitarfélagsins að sjá til þess að því skilyrði sem þau sjálf settu við samþykkt byggingaráforma yrði fullnægt. Því hefur ekki verið mótmælt af hálfu sveitarfélagsins að kærendur hafi ítrekað leitað viðbragða sveitarfélagsins við þeirri stöðu sem upp var komin og ekki verður séð að brugðist hafi verið við þeirri málaleitan kærenda með markvissum hætti. Í ljósi framangreindra atvika verður að telja afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr en raun ber vitni og verður hún því tekin til efnislegrar meðferðar með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Fyrir liggur að umræddar lóðir tilheyra svæði sem ekki hefur verið deiliskipulagt. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er heimilt að veita byggingarleyfi án þess að fyrir liggi deiliskipulag ef framkvæmdin samræmist landnotkun, byggðamynstri og þéttleika byggðar. Í slíkum tilvikum skal þó viðkomandi skipulagsnefnd grenndarkynna áformin fyrir nágrönnum sem taldir eru eiga hagsmuna að gæta af framkvæmdinni. Óumdeilt er að kærendur eiga hagsmuna að gæta af þeim framkvæmdum sem hér um ræðir, enda snúa þær að nýtingu útveggjar bílgeymslu þeirra og framlengingu veggjarins innan lóðar þeirra. Hefði því skipulagsnefnd sveitarfélagsins borið að grenndarkynna áformin áður en þau voru samþykkt. Ekki liggur fyrir að slík kynning hafi farið fram. Telst það verulegur annmarki á hinni kærðu ákvörðun, enda hefði slík kynning getað dregið tímanlega fram upplýsingar sem hefðu getað skipt þar máli.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja hina kærðu ákvörðun slíkum annmörkum háða að varði ógildingu hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 6. maí 2015 um veitingu byggingarleyfis fyrir bílskúr að Grashaga 10, Selfossi.

 

20/2018 Laxar, Þorlákshöfn

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 17. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 20/2018, kæra á ákvörðun Matvælastofnunar frá 13. nóvember 2017 um útgáfu rekstrarleyfis fyrir 500 tonna seiðaeldi Laxa fiskeldis ehf. í Þorlákshöfn, með kynbættum norskum laxi.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. febrúar 2018, sem barst nefndinni sama dag, kæra Veiðifélag Árnesinga, Náttúruverndarsamtök Íslands og Náttúruverndarfélagið Laxinn lifi þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 13. nóvember 2017 að gefa út rekstrarleyfi fyrir 500 tonna seiðaeldi Laxa fiskeldis ehf. að Laxabraut 9, Þorlákshöfn, með kynbættum norskum laxi af SAGA stofni. Kærendur gera þá kröfu að ákvörðunin verði ógilt og jafnframt er þess krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað eða framkvæmdir stöðvaðar.

Gögn málsins bárust frá Matvælastofnun 21. febrúar 2018.

Málsatvik og rök:
Matvælastofnun gaf hinn 13. nóvember 2017 út rekstrarleyfi fyrir 500 tonna seiðaeldi Laxa fiskeldis ehf. í Þorlákshöfn. Rekstrarleyfið er gefið út skv. lögum nr. 71/2008 um fiskeldi. Áður hafði Umhverfisstofnun gefið út starfsleyfi til handa sama aðila, dags. 8. nóvember s.á. og hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar. Kærendur kröfðust einnig stöðvunar réttaráhrifa þeirrar ákvörðunar, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði úrskurðarnefndarinnar kveðnum upp 6. febrúar 2018.

Kærendur kveðjast eiga þeirra hagsmuna að gæta, að ekki sé stefnt í hættu lífríki Ölfusár og vatnakerfis hennar og hinum villtu lax- og silungsstofnum vatnakerfisins, m.a. með lúsafári, sjúkdómasmiti og erfðamengun frá erlendum og framandi laxastofni, sem fáir mótmæli að muni sleppa í meira eða minna mæli úr fyrirhuguðu seiðaeldi leyfishafa. Krafa um að réttaráhrifum hins kærða leyfis verði frestað eða framkvæmdir stöðvaðar sé fram komin þar sem gera megi ráð fyrir töluverðum afgreiðslutíma úrskurðarnefndarinnar og áður en afgreiðsla nefndarinnar liggi fyrir geti hafist framkvæmdir við umrætt sjókvíaeldi eða eldið aukið. Leyfinu sé ætlað að hafa réttaráhrif þegar í stað og þau áhrif þurfi að stöðva áður en lengra sé haldið. Hvað varði þau rök í fyrri úrskurði, þar sem hafnað hafi verið frestun réttaráhrifa, að frestun þeirra hefði í för með sér mikið tjón fyrir leyfishafa, bendi kærendur á að ekki hafi farið fram mat á hagsmunum aðila.

Af hálfu Matvælastofnunar er bent á að ef litið sé til skýringarsjónarmiða með 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þá sé almennt talið mæla gegn því að réttaráhrifum ákvörðunar verði frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi andstæðra hagsmuna að gæta. Þá verði að leggja heildstætt mat á þau sjónarmið er fjallað sé um við útgáfu leyfisins, réttmæta hagsmuni aðila og hversu líklegt sé að ákvörðuninni verði breytt. Matvælastofnun telji að við útgáfu hins kærða rekstrarleyfis hafi stofnunin fylgt ákvæðum laga nr. 71/2008 um fiskeldi og ekki sé tilefni til að fallast á kröfu um að leyfið verði ógilt. Af þeim sökum og með hliðsjón af réttmætum væntingum leyfishafa verði ekki séð að tilefni sé til að fresta réttaráhrifum leyfisins.

Leyfishafi bendir á að ljóst sé að ef leyfishafa verði gert að stöðva rekstur á grundvelli hins kærða rekstrarleyfis, yrði tjón hans gríðarlegt. Liggi þannig fyrir að farga þyrfti þeim seiðum sem nú séu í ræktun í stöðinni, með tilheyrandi mengun og tjóni. Slíkt myndi auk þess hafa veruleg áhrif á afkomu leyfishafa til framtíðar. Þegar af þeirri ástæðu sé ljóst að hagsmunir leyfishafa af því að fá að halda áfram rekstri á grundvelli hins kærða leyfis séu miklum mun meiri en hagsmunir kærenda af því að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan kæra sé til umfjöllunar.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi og getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem ekki felur í sér stöðvun framkvæmda, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar. Um undantekningu er að ræða frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 segir um 5. gr. að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum hennar, þó sé  mikilvægt að gætt sé að því að efnislegar forsendur liggi að baki kæru, þ.e. að horft sé til þess hversu líklegt sé að kæra breyti efni ákvörðunar.

Kærendur byggja í kæru sinni á því að hætta sé á lúsafári, sjúkdómasmiti og erfðamengun sleppi eldisfiskur úr stöðinni. Fyrir liggur matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar frá 3. ágúst 2016 og hefur hún ekki verið kærð. Komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að helstu neikvæðu áhrif eldisins yrðu losun næringarefna út í sjó, en að ekki væru líkur á að næringarefni söfnuðust upp að neinu ráði vegna staðhátta. Væri eldið ekki líklegt til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og væri framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Verður með hliðsjón af framangreindu að telja litlar líkur á að þau áhrif komi fram á umhverfið á meðan á meðferð málsins stendur að kæruheimild verði þýðingarlaus, en að sama skapi er ljóst að frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar myndi hafa í för með sér mikið tjón fyrir leyfishafa. Þá skal á það bent að verði eldið aukið umfram það sem þegar hefur verið leyft kemur til nýrra stjórnvaldsákvarðana sem einnig eru kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar. Eru því ekki forsendur til að beita undantekningarheimild 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 og fresta réttaráhrifum hins kærða rekstrarleyfis.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa á ákvörðun Matvælastofnunar frá 13. nóvember 2017 um útgáfu rekstrarleyfis fyrir 500 tonna seiðaeldi Laxa fiskeldis ehf. í Þorlákshöfn, með kynbættum norskum laxi.

21 og 22/2018 Kvosin

Með

Árið 2018, föstudaginn 20. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 21 og 22/2018, kærur á ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 5. desember 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar, Landsímareits.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. febrúar 2018, sem barst nefndinni sama dag, kærir Sóknarnefnd Dómkirkjunnar í Reykjavík ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 8. nóvember 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar, Landsímareits. Samþykkti borgarstjórn greinda breytingu 5. desember 2017 og öðlaðist hún gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 12. janúar 2018. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Með tölvupósti til úrskurðarnefndarinnar 14. febrúar 2018 er jafnframt farið fram á að framkvæmdir í landi hins forna Víkurkirkjugarðs verði stöðvaðar til bráðabirgða eða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni skv. heimild í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. febrúar 2018, er móttekið var hjá nefndinni sama dag, kærir félagið Kvosin einnig fyrrgreinda ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 8. nóvember 2017. Gerð er krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Með tölvupósti til úrskurðarnefndarinnar 14. febrúar 2018 er þess jafnframt krafist að framkvæmdir í landi hins forna Víkurkirkjugarðs verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni skv. heimild í 5. gr. laga nr. 130/2011.

Verður nú tekin afstaða til framkominna stöðvunarkrafna kærenda.

Málsatvik og rök:
Hinn 12. janúar 2018 tók gildi breyting á deiliskipulagi Kvosarinnar, Landsímareit. Samkvæmt auglýsingu í B- deild Stjórnartíðinda felur breytingin m.a. í sér „að borgarlandinu/lóðinni á milli lóðanna Vallarstrætis 4 og Aðalstrætis 7 er skipt upp á milli þeirra og lóðirnar stækkaðar sem því nemur og leyfilegt verður að fjarlægja viðbyggingu frá 1967 við Landsímahúsið/Thorvaldsensstræti 6 og byggja hana í sömu mynd.“

Kærendur skírskota til þess að framkvæmdaraðili bíði eftir byggingarleyfi frá Reykjavíkurborg og muni hefjast handa jafnskjótt og það liggi fyrir. Framkvæmdir séu því yfirvofandi. Muni þær í byrjun beinast m.a. að því að grafa fyrir kjallara í hluta hins forna Víkurkirkjugarðs. Þeim framkvæmdum muni fylgja stórfellt jarðrask sem ekki verið aftur tekið og bætt. Verði ekki brugðist við verði því ekki aðeins grafið fyrir kjallara í þeim hluta kirkjugarðsins sem sé sunnan við Landsímahúsið, þ.e. milli þess og Kirkjustrætis, heldur og steyptur þar kjallari og byggt ofan á hann nokkurra hæða hús. Sé kirkjugarðurinn í umsjón Dómkirkjunnar. Tilgangur félagsins Kvosarinnar sé að stuðla að umhverfisvernd í Kvosinni í Reykjavík og vernda sögulegar minjar sem þar sé að finna og með hliðsjón af þeim tilgangi séu hagsmunir félagsins af stöðvun framkvæmda augljósir.

Reykjavíkurborg mótmælir kröfu um stöðvun framkvæmda og telur að vísa beri henni frá úrskurðarnefndinni. Feli gildistaka deiliskipulags ekki í sér heimild til framkvæmda heldur þurfti til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar og útgáfa byggingar- eða framkvæmdaleyfa í skjóli slíkrar ákvörðunar. Hafi engin byggingar- eða framkvæmdaleyfi verið gefin út. Þá sé bent á að með hinni kærðu ákvörðun hafi m.a. engar breytingar verið gerðar á stærðum og hæðum húsa og húshluta aðrar en að núverandi kjallara Vallarstrætis 4 sé bætt við.

Lóðarhafi vísar til þess að skv. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé það meginregla að kæra fresti ekki réttaráhrifum. Hins vegar geti úrskurðarnefndin, að kröfu kæranda, stöðvað framkvæmdir sem hafnar séu eða yfirvofandi. Í því felist að framkvæmdir verði að geta átt sér stað á grundvelli og með stoð í hinni kærðu ákvörðun en svo sé ekki í umræddu tilviki. Veiti hin kærða ákvörðun ekki beina heimild til framkvæmda heldur séu framkvæmdir á deiliskipulögðum svæðum að jafnaði háðar byggingarleyfi skv. lögum um mannvirki nr. 160/2010, eða framkvæmdaleyfi skv. skipulagslögum nr. 123/2010. Meðan slík leyfi hafi ekki verið veitt geti framkvæmdir hvorki hafist né talist yfirvofandi og verði því að hafna kröfum kærenda um stöðvun framkvæmda hvað sem öðru líði.

Ekki séu heldur skilyrði til að beita heimild í 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um frestun réttaráhrifa. Séu skipulagsákvarðanir í eðli sínu stjórnvaldsfyrirmæli en ekki stjórnvaldsákvarðanir og gildi því ekki um þær almennar reglur stjórnsýsluréttarins um frestun réttaráhrifa, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Feli frestun réttaráhrifa deiliskipulagsákvörðunarinnar í heild í sér allt of mikið inngrip í rétt eigenda fasteigna á svæðinu, enda væri með því girt fyrir útgáfu allra leyfa til mannvirkjagerðar á reitnum, óháð því hvort sú mannvirkjagerð varðaði hagsmuni kærenda. Væri slíkt inngrip ólögmætt og andstætt meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga. Sé stöðvun framkvæmda skv. 5. gr. laga nr. 130/2011 settar afar þröngar skorður og séu í máli þessu engin skilyrði til að fallast á kröfu um slíkt. Hafi úrskurðarnefndin túlkað heimildir til stöðvunar framkvæmda og frestunar réttaráhrifa til samræmis við þau sjónarmið sem að framan séu rakin, t.a.m. í úrskurði í máli nr. 31/2016.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar, en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar. Heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar fela í sér undantekningu frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.
Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, og útgáfa byggingar- eða framkvæmdaleyfis í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna slíkra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana. Þegar litið er til eðlis þeirra ákvarðana og fyrrgreindra lagaákvæða, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kærenda um stöðvun þeirra framkvæmda sem hin kærða deiliskipulagsbreyting tekur til.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða er hafnað.

42/2018 Markviss

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 17. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 42/2018, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Norðurlands Vestra frá 9. febrúar 2018 um útgáfu starfsleyfis fyrir skotfélagið Markviss á Blönduósi til að starfrækslu skotvallar.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. mars 2018, sem barst nefndinni sama dag, kæra eigendur jarðarinnar Hjaltabakka í Húnavatnshreppi, sem og Veiðifélag Laxár á Ásum ákvörðun heilbrigðisnefndar Norðurlands Vestra frá 9. febrúar 2018 um útgáfu starfsleyfis til starfrækslu skotvallar. Kærendur gera þá kröfu að ákvörðunin verði ógilt og jafnframt er þess krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað eða framkvæmdir stöðvaðar.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands Vestra 16. mars 2018.

Málsatvik og rök:
Heilbrigðisnefnd Norðurlands Vestra auglýsti 14. nóvember 2017, í héraðsblaðinu Feyki, drög að starfsleyfisskilyrðum fyrir skotfélagið Markviss vegna starfrækslu skotvallar. Starfsleyfið var gefið út af heilbrigðisnefndinni 9. febrúar 2018 og gildir til 9. febrúar 2030. Kærendum var tilkynnt um útgáfu starfsleyfisins með tölvupósti, dags. 13. febrúar 2018.

Kærendur byggja á því að heilbrigðisnefnd Norðurlands Vestra hafi verið óheimilt að gefa út starfsleyfi fyrir greindum skotvelli, m.a. þar sem heimild til notkunar umrædds landsvæðis fyrir skotvöll liggi ekki fyrir frá landeigendum, lögskylt umhverfismat hafi ekki farið fram og ónæði og hætta fyrir nágranna sé augljós. Hvað varði kröfu um frestun réttaráhrifa hins kærða starfsleyfis, þá sé hún fram komin þar sem gera megi ráð fyrir töluverðum afgreiðslutíma úrskurðarnefndarinnar og áður en niðurstaða nefndarinnar liggi fyrir kunni að verða fram haldið framkvæmdum við umræddan riffilskotvöll.

Heilbrigðisnefnd Norðurlands Vestra kveður skotvelli vera starfrækta um allt land og séu starfsleyfisskilyrðin með svipuðu sniði fyrir þá velli og fyrir það leyfi sem gefið hafi verið út fyrir leyfishafa. Nefndin fer fram á að kröfum kærenda verði hafnað.

Leyfishafi gerir þær kröfur að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en til vara að öllum kröfum kærenda verði hafnað. Kröfugerðin sé ruglingsleg og án nokkurs lagalegs rökstuðnings og því erfitt eða ómögulegt að svara kröfugerðinni eða gera sér grein fyrir á hvaða lagarökum hún byggi. Engin rök standi til þess að ógilda umrætt starfsleyfi eða kveða á um frestun réttaráhrifa.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frestar kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr.  Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til stöðvunar framkvæmda í tengslum við meðferð kærumáls. Er greint heimildarákvæði undantekning og ber að skýra þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 er tekið fram að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar. Eins og fram hefur komið byggja kærendur kröfur sínar helst á því að heimild til notkunar umrædds landsvæðis fyrir skotvöll liggi ekki fyrir frá landeigendum, lögskylt umhverfismat hafi ekki farið fram og ónæði og hætta fyrir nágranna sé augljós. Krafa um frestun réttaráhrifa hins kærða starfsleyfis sé fram komin þar sem gera megi ráð fyrir töluverðum afgreiðslutíma úrskurðarnefndarinnar og að áður en niðurstaða nefndarinnar liggi fyrir kunni að verða fram haldið framkvæmdum við umræddan riffilskotvöll.

Ekkert þessara atriða er þess eðlis að líkur séu á að það hafi í för með sér óafturkræf áhrif á umhverfið þannig að forsendur séu til að beita undantekningarheimild 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 og fresta réttaráhrifum hins kærða starfsleyfis. Veita enda starfsleyfi ekki heimild til framkvæmda heldur til að hefja atvinnurekstur sem sjálfhætt er verði viðkomandi leyfi fellt úr gildi. Er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa á ákvörðun heilbrigðisnefndar Norðurlands Vestra frá 9. febrúar 2018 um útgáfu starfsleyfis fyrir skotfélagið Markviss á Blönduósi til að starfrækslu skotvallar.

51/2018 Eyrarvegur

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 18. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 51/2018, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 21. febrúar 2018 um að samþykkja deiliskipulag miðbæjarins á Selfossi, Sveitarfélaginu Árborg, að því er varðar lóðina að Eyravegi 5.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. mars 2018, er móttekið var hjá nefndinni 27. s.m., kærir Knútsborg ehf. ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 21. febrúar um að samþykkja deiliskipulag miðbæjarins á Selfossi vegna lóðarinnar að Eyravegi 5. Skilja verður kröfugerð kæranda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar að því er varðar fyrrgreinda lóð. Jafnframt er farið fram á stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. heimild í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu kæranda.

Málsatvik og rök:
Hinn 21. febrúar 2018 samþykkti bæjarstjórn Árborgar deiliskipulag miðbæjarins á Selfossi. Samkvæmt greinargerð þess afmarkast skipulagssvæðið af Eyravegi og Austurvegi til norðurs og aðliggjandi íbúðarlóðum við Tryggvagötu til austurs, Sunnuvegi til suðurs og Kirkjuvegi til vesturs. Er m.a. gert ráð fyrir að húsið að Eyravegi 5 geti vikið með tímanum og að uppbygging eigi sér stað á lóðinni.

Kærandi vísar til þess að hann eigi bæði bein og óbein eignarréttindi á lóðinni Eyravegi 5. Virðist sem stærsti hluti lóðarinnar sé skilgreint sem grænt svæði sem rýri mjög verðmæti eignarinnar, en kærandi hafi hugsað sér að byggja á lóðinni. Sé það kæranda mikið hagsmunamál að framkvæmdir hefjist ekki fyrr en efnislegur úrskurður nefndarinnar liggi fyrir.

Sveitarfélaginu Árborg var tilkynnt um framkomna stöðvunarkröfu en hefur ekki látið málið til sín taka innan þess frests sem veittur var til athugasemda þar um.

Niðurstaða
: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.

Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar og útgáfa byggingar- eða framkvæmdaleyfis í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana. Þegar litið er til eðlis þeirra ákvarðana og fyrrgreindra lagaákvæða, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda sem heimilaðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun er hafnað.

53/2018 Skemmubygging í Bjarnarflagi

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 17. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 53/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps frá 7. mars 2018 um að veita byggingarleyfi fyrir byggingu skemmu á lóð í Bjarnarflagi, Skútustaðahreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. apríl 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir  A, þá ákvörðun  byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps frá 7. mars 2018 að veita byggingarleyfi fyrir byggingu skemmu á lóð í Bjarnarflagi, Skútustaðahreppi. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að heimilaðar framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til framkominnar kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik og rök
: Með bréfi byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps, dags. 7. mars 2018, var Léttsteypunni ehf. tilkynnt að umsókn félagsins um byggingu skemmu í Bjarnarflagi hefði verið samþykkt sama dag.  Er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Kærandi vísar til þess að hann sé sameigandi að lóðarréttindum þeirrar lóðar sem heimiluð skemma skuli standa á. Með hinni kærðu ákvörðun sé því brotið gegn stjórnarskrárvörðum eignarétti hans. Auk þess fari ákvörðunin í bága við ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki og sé málsmeðferð að öðru leyti svo ábótavant að ógildingu varði.

Af hálfu sveitarfélagsins hefur verið upplýst að eftir athugun málsins hafi verið ákveðið að kanna hvort tilefni sé til að afturkalla umdeilda ákvörðun. Í ljósi þess sé ekki gerð athugasemd við kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda innan tiltekins frests, en hann hefur ekki nýtt sér það tækifæri.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Fyrir liggur að byggingarleyfi fyrir umdeildum framkvæmdum hefur verið gefið út og geta því framkvæmdir hafist hvenær sem og teljast því yfirvofandi í skilningi greinds lagaákvæðis.

Ýmis álitaefni eru uppi í málinu sem áhrif geta haft á gildi hinnar kærðu ákvörðunar, m.a. um lóðarréttindi byggingarleyfishafa yfir þeirri lóð þar sem byggingunni er ætlað að rísa. Hefur stjórnvald það sem tók hina kærðu ákvörðun ekki lagst gegn því að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða og jafnframt upplýst að af hálfu sveitarfélagsins sé nú verið að kanna hvort tilefni sé til að afturkalla ákvörðunina í ljósi þess sem fram er komið í málinu.

Með hliðsjón af þeim atvikum sem að framan er lýst þykir rétt að fallast á kröfu kæranda um stöðvun þeirra framkvæmda sem hin kærða ákvörðun heimilar.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi skulu stöðvaðar á meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.