Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

54/2018 Eikjuvogur 27

Árið 2018, fimmtudaginn 14. júní kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 54/2018, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 25. janúar 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vogahverfis vegna Eikjuvogs 27.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. apríl 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra A og B, Eikjuvogi 29, Reykjavík, og D og E, Eikjuvogi 25, Reykjavík  þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 25. janúar 2018 að staðfesta samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. s.m. um breytingu á deiliskipulagi Vogahverfis vegna Eikjuvogs 27. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. apríl 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra sömu aðilar ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. s.m. um að veita leyfi fyrir byggingu tveggja húsa á tveimur hæðum með samtals þremur íbúðum á lóð nr. 27 við Eikjuvog. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður síðara kærumálið, sem er nr. 66/2018, sameinað máli þessu þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sömu aðilar standa að kærunum. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 25. apríl og 9. maí 2018.

Málavextir:
Á fundi borgarráðs Reykjavíkur 25. janúar 2018 var staðfest samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. s.m. um breytingu á deiliskipulagi Vogahverfis vegna Eikjuvogs 27, að undangenginni auglýsingu á tillögu þar um. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 13. apríl s.á. Breytingin felur í sér að í stað einbýlishúss verði heimilaðar þrjár íbúðir í tveimur húsum á lóðinni sem tengjast saman með sameiginlegum stigagangi. Byggingarmagn og nýtingarhlutfall lóðar helst óbreytt, sem og fjöldi bílastæða.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. apríl 2018 var samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir tveimur tveggja hæða húsum með þremur íbúðum á lóðinni Eikjuvogi 27 og var sú afgreiðsla staðfest af borgarráði Reykjavíkur 26. s.m. 

Málsrök kærenda:
Kærendur byggja á því að um sé að ræða deiliskipulagsbreytingu í rótgrónu hverfi þar sem öll hús austan götunnar Eikjuvogs, utan endahússins nr. 1, séu einbýlishús. Vakin sé sérstök athygli á fyrirhugaðri vegghæð og að húsið sé hærra en samþykkt hús samkvæmt áðurgildandi deiliskipulagi, auk þess sem breytingunni fylgi aukið skuggavarp fyrir aðliggjandi lóðir. Ekki sé gert ráð fyrir því í aðalskipulagi að byggðinni neðan/austan Eikjuvogs verði breytt úr sérbýlishúsabyggð í fjölbýlishúsabyggð. Um sé að ræða fordæmisgefandi ákvörðun sem muni þá gilda gagnvart öllum eigendum húsa í hverfinu. Þannig sé um að ræða grundvallarbreytingu á skipulagi og nýtingu hverfisins sem stoð þurfi að eiga í aðalskipulagi. Jafnframt sé vísað til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 120/2014, þar sem sambærileg breyting á deiliskipulagi hafi verið felld úr gildi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgarinnar er því alfarið hafnað að um sé að ræða grundvallarbreytingu á skipulagi og nýtingu hverfisins. Eina breytingin sem hin kærða skipulagsákvörðun heimili, umfram fyrri heimildir, sé fjölgun íbúða úr einni í þrjár. Engin breyting sé á byggingarmagni, heildarhæð bygginga eða nýtingarhlutfalli frá áðurgildandi deiliskipulagi fyrir Vogahverfi. Mörg hús í Eikjuvogi séu tví- og þríbýlishús, auk einbýlishúsa, og sé breytingin því í fullu samræmi við byggðamynstur. Skuggavarp við breytingu á mænisstefnu hússins verði óhjákvæmilega meira á nálægar lóðir en frá fyrri tillögu. Engin áhrif verði á lóð Eikjuvogs 25 á hásumri, en áhrifin séu meiri við jafndægur. Ekki sé þó um að ræða meira íþyngjandi skuggavarp á nálægar lóðir en því sem búast megi við í byggð borgarinnar. Þá sé fyrirhugað hús í samræmi við önnur hús í götunni og hverfinu. Umrædd deiliskipulagsbreyting sé ekki til þess fallin að skapa fordæmi fyrir auknum byggingarheimildum umfram þær heimildir sem þegar séu fyrir í eldra skipulagi.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi krefst frávísunar málsins varðandi deiliskipulagið þar sem kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæran barst úrskurðarnefndinni. Þá mótmælir hann ógildingu deiliskipulagsins. Fleiri hús í götunni skiptist í fleiri en einn eignarhluta og nýtingarhlutfall lóðar, byggingarreitur og hæð hússins séu í samræmi við fyrra deiliskipulag. Þá séu áhrif af skuggavarpi ekki meiri en búast megi við í byggð í borg.

Niðurstaða:
Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Hin kærða ákvörðun var birt í B-deild Stjórnartíðinda 13. mars 2018. Í samræmi við 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 tók kærufrestur að líða 14. mars s.á. og var síðasti dagur kærufrests hinn 16. apríl s.á. þar sem 14. þess mánaðar bar upp á laugardag, sbr. 2. mgr. nefnds ákvæðis. Kæra í máli þessu barst 11. apríl 2018, eða innan kærufrests. Kröfu kærenda varðandi hina kærðu deiliskipulagsbreytingu verður því ekki vísað frá úrskurðarnefndinni á þessum grundvelli.

Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Vogahverfis vegna Eikjuvogs 27 og samþykki byggingarleyfis á grundvelli þeirrar breytingar, þar sem gert er ráð fyrir byggingu tveggja samtengdra húsa með þremur íbúðum í stað einbýlishúss.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð aðalskipulags og deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna, en þess ber að gæta að breyting rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. sömu laga og að stefnt sé að lögmætum markmiðum með breytingunni.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting var kynnt með almennri auglýsingu í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga, afgreidd í umhverfis- og skipulagsráði að kynningu lokinni og staðfest í borgarráði lögum samkvæmt. Framkomnum athugasemdum var svarað og tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni meðferð Skipulagsstofnunar. Eftir hina kærðu ákvörðun var nýtingarhlutfall umræddrar lóðar, byggingarreitur og hámarkshæð bygginga óbreytt frá eldra deiliskipulagi. Felur hin kærða deiliskipulagsbreyting einungis í sér þá breytingu að heimilt er að byggja tvö samtengd hús með þremur íbúðum í stað einbýlishúss á umræddri lóð. Verður af þessum ástæðum ekki séð að deiliskipulagsbreytingin hafi að marki aukin grenndaráhrif umfram það sem vænta mátti að óbreyttu skipulagi. Telji hagsmunaaðilar sig hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna breytinga á deiliskipulagi þarf það ekki að raska gildi skipulagsbreytingarinnar en getur eftir atvikum orðið grundvöllur bótakröfu, sbr. 51. gr. skipulagslaga.
 
Umrædd lóð er á skilgreindu íbúðarsvæði ÍB27 Vogar, sbr. gildandi Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030. Um svæðið segir nánar að það sé fullbyggt og fastmótað og hafi það byggst upp að mestu á árunum 1945-1955. Yfirbragð byggðarinnar sé nokkuð fjölbreytt en lágreist byggð einkenni svæðið. Það að tilgreint sé í aðalskipulagi að hverfi sé fullbyggt og fastmótað girðir ekki fyrir byggingarframkvæmdir. Gerði enda fyrra deiliskipulag ráð fyrir uppbyggingu á lóðinni. Samkvæmt deiliskipulagi Vogahverfis eru á svæði B einbýlis- og sambýlishús, m.a. við Eikjuvog, og er tekið fram í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu að Eikjuvogur 27 sé á svæði B. Þá eru í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands skráðar tvær íbúðir í húsinu Eikjuvogi 29, þar sem hluti kærenda er búsettur. Verður því ekki séð að yfirbragð byggðar breytist í trássi við aðalskipulag, enda er þar tekið fram að yfirbragð sé nokkuð fjölbreytt. Áskilnaði laga um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana er að öllu framangreindu virtu fullnægt.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir ágallar á efni eða málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar sem raskað geta gildi hennar og verður kröfu þess efnis því hafnað.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni á hið kærða byggingarleyfi stoð í gildandi deiliskipulagi umrædds svæðis, svo sem því var breytt með áðurgreindri skipulagsákvörðun. Með vísan til þess og þar sem ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð við þá ákvörðun, verður gildi leyfisins ekki raskað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 25. janúar 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vogahverfis vegna Eikjuvogs 27.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. apríl 2018 um að samþykkja umsókn um byggingu tveggja húsa á tveimur hæðum með samtals þremur íbúðum á lóð nr. 27 við Eikjuvog.

____________________________________
Nanna Magnadóttir (sign)

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson (sign)                                  Þorsteinn Þorsteinsson (sign)