Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

48/2018 Brynjureitur

Árið 2018, föstudaginn 29. júní tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 48/2018 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Kæra vegna ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 7. september 2017 um að samþykkja breytingu á skilmálum deiliskipulags Brynjureits vegna lóðar nr. 29 við Klapparstíg.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. mars 2018, er barst nefndinni 20. s.m., kæra eigendur 2., 3. og 4. hæðar hússins að Klapparstíg 29, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. september 2017 að samþykkja breytingu á skilmálum deiliskipulags Brynjureits vegna lóðar nr. 29 við Klapparstíg. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi

Málsatvik og rök: Hinn 27. júní 2017 var óskað eftir breytingu á gildandi deiliskipulagi  Brynjureits, staðgreinireits 1.172.0, á þann veg að heimilað yrði að hafa veitingastað í flokki II á jarðhæð Klapparstígs 29. Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa var samþykkt að grenndarkynna tillögu að breytingu á skipulagi reitsins fyrir hagsmunaaðilum að Klapparstíg 25-27, 28, 30 og 31, Laugavegi 23 og Hverfisgötu 40. Að lokinni grenndarkynningu var tillagan lögð fram að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 30. ágúst 2017 ásamt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 21. s.m. Var hin kynnta deiliskipulagstillaga samþykkt með þeim breytingum sem lagðar voru til í umsögn skipulagsfulltrúa. Borgarráð samþykkti deiliskipulagsbreytinguna á fundi 7. september 2017 og tók hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 13. október 2017.

Kærendur vísa til þess að grenndarkynning hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafi verið ólögleg þar sem hún hafi ekki náð til eigenda fasteigna í húsinu að Klapparstíg 29 og þannig hafi verið brotið á andmælarétti þeirra. Þeim hafi ekki verið leiðbeint um kærufrest og ekki fengið aðgang að gögnum málsins sem hafi torveldað þeim að leita réttar síns. Þá hafi undirbúningur og rannsókn máls verið í andstöðu við skipulagslög nr. 123/2010 og almennar reglur stjórnsýsluréttar.

Niðurstaða: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 2. maí 2018 var samþykkt tillaga að breytingu á skilmálum deiliskipulags Brynjureits vegna lóðarinnar nr. 29 við Klapparstíg með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 27. apríl 2018. Felur breytingin í sér heimild til að hafa veitingastað í flokki II á jarðhæð Klapparstígs 29. Öðlaðist sú skipulagsbreyting gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. júní 2018.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Eftir að hin nýja breyting á deiliskipulagi vegna Klapparstígs 29 tók gildi hefur hin kærða ákvörðun ekki réttarverkan að lögum. Eiga kærendur af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar enda stæði síðari ákvörðunin óhögguð hvað sem öðru liði. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson