Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

100/2017 Þrastargata

Með
Árið 2017, föstudaginn 22. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 100/2017, kæra vegna ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. ágúst 2017 um að veita byggingarleyfi fyrir kvisti á húsi nr. 7b við Þrastargötu og vegna breytinga á þeirri ákvörðun frá 19. september og 3. október s.á.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. september 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir, eigandi húss að Þrastagötu 7, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. ágúst 2017 um að veita byggingarleyfi fyrir kvisti á hús nr. 7b við Þrastargötu. Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. október 2017, sem barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili enn fremur samþykki leyfisins eins og því var breytt með ákvörðunum byggingarfulltrúa hinn 19. september og 3. október 2017. Er þess krafist að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi að hluta.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 21. september og 11. október 2017.

Málavextir: Í gildi er deiliskipulag Fálkagötureita, sem samþykkt var á árinu 2008 og tekur m.a. til lóðarinnar Þrastargötu 7b. Í almennum skilmálum skipulagsins kemur fram að heimilt sé að byggja kvisti á risþök á helmingi þakflatar og skuli fjarlægð þeirra frá þakenda eigi vera minni en 1 m. Gæta skuli að því að kvistur fari húsum vel og falli vel að byggingarstíl þeirra. Fyrir fasteignina að Þrastargötu 7b gildir sérskilmáli um að heimilt sé að byggja þar litla viðbyggingu, pall, kvist og geymsluskúr.

Á árinu 2015 var sótt um leyfi til byggingarfulltrúa fyrir áður byggðum kvisti á suðurhlið hússins við Þrastargötu 7b, auk nýs kvists á norðurhliðinni og sólskála við húsið. Minjastofnun veitti af því tilefni álit sitt, dags. 24. mars 2015, og gerði ekki athugasemd við byggingaráformin með þeim rökstuðningi að nýr kvistur yrði sambærilegur að gerð og stærð og sá kvistur sem fyrir væri á suðurhlið hússins og að gluggar kvistsins tækju mið af gerð þeirra sem fyrir væru.

Með umsókn, dags. 7. júní 2017, var umsóknin frá árinu 2015 lögð fram að nýju með vísan til þess að einungis sá hluti erindisins sem sneri að þegar byggðum kvisti hefði hlotið samþykki. Væri því sótt um leyfi til byggingar viðbyggingar og nýs kvists og vísað til fyrrnefnds álits Minjastofnunar. Erindið var tekið fyrir á nokkrum afgreiðslufundum byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa í júní, júlí og ágúst 2017. Niðurstaðan varð sú að bókað var á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 11. ágúst að sækja þyrfti um breytingu á deiliskipulagi vegna sólskála sunnan hússins. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 29. s.m. var leyfi fyrir áður gerðum breytingum samþykkt og umsókn um byggingu nýs kvists á norðurhlið hússins sömuleiðis.

Kæra vegna þessarar samþykktar byggingarfulltrúa barst úrskurðarnefndinni 14. september 2017 og í kjölfarið var málið tilkynnt borgaryfirvöldum. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. s.m. var erindi leyfishafa um breytingu á fyrra byggingarleyfi samþykkt, en sú breyting fól í sér að málsetning umrædds kvists var leiðrétt á uppdráttum. Byggingarfulltrúi tilkynnti hinn 26. s.m. að hann hefði farið á vettvang og skoðað framkvæmdina. Hefði hann í kjölfarið stöðvað framkvæmdir þar sem kvistur hefði farið hærra í þaki en samþykktir uppdrættir sýndu. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. október s.á. var erindi leyfishafa um frekari breytingu á byggingarleyfinu samþykkt, sem fól í sér að mænishæð á uppdráttum var breytt. Jafnframt var bókað að um óverulegt frávik frá deiliskipulagi væri að ræða, sbr. 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kjölfarið var stöðvun framkvæmda aflétt.

Málsrök kæranda: Kærandi tiltekur að kæran snúi einungis að þeim hluta byggingarleyfisins sem varði heimild til byggingar kvists norðanmegin hússins að Þrastargötu 7b, en sú hlið hússins snúi að lóð hans að Þrastargötu 7. Framkvæmdin snerti grenndarhagsmuni kæranda í ljósi þess að fyrirhugaður kvistur muni varpa skugga á lóð hans. Byggingarleyfið sé í andstöðu við skilmála gildandi deiliskipulags fyrir Fálkagötureiti, enda nái fyrirhugaður kvistur yfir 74% þakflatar og muni vera 0,77 m og 0,85 m frá þakendum hvorum megin. Brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu og jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins. Byggðarmynstur Þrastargötu njóti verndar samkvæmt skilmálum deiliskipulags og hefði því borið að leita álits Minjastofnunar eða annars sérfróðs aðila um stækkunina, líkt og kæranda hafi borið að gera við framkvæmdir á húsi sínu að Þrastargötu 7 nokkrum árum fyrr.

Veita hefði átt kæranda andmælarétt í tilefni af samþykkt byggingarfulltrúa á nýjum aðaluppdrætti vegna breytinga á hinu kærða byggingarleyfi, enda væri hann aðili máls. Þá hafi ekki verið til staðar heimild til að breyta eða endurskoða hina kærðu ákvörðun, sbr. 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þrátt fyrir breytingu á byggingarleyfi, með lagfæringu á aðaluppdráttum, séu samþykkt byggingaráform í andstöðu við deiliskipulagsskilmála. Enda þótt lengd þaks hafi verið breytt úr 6,30 m, samkvæmt uppdrætti samþykktum 29. ágúst 2017, í 6,68 m, á uppdrætti samþykktum 19. september s.á., og í 6,87 m á uppdrætti samþykktum 3. október s.á., séu kvistir enn innan við 1 m frá þakbrún. Miðað við breytta þaklengd á aðaluppdrætti sé grunnflötur kvists 65% af þakfleti. Kvistir séu hærri en gefið sé upp á aðaluppdrætti.

Gerðar séu athugasemdir við umsögn Reykjavíkurborgar til úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. september 2017. Þannig sé því mótmælt að hagsmunir kæranda skerðist ekki að því er varði útsýni, skuggavarp eða innsýn. Engin rannsókn hafi verið gerð á þessu, en augljóst megi telja að hækkun á kvisti og stækkun á flatarmáli hans hafi áhrif á útsýni frá Þrastargötu 7 og á skuggavarp inn á þá lóð og á hús sem þar standi. Þá sé ósamræmi aðaluppdrátta við deiliskipulag umfram það sem heimilað sé, með vísan til 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en Reykjavíkurborg hafi ekki lagt mat á þetta ósamræmi. Því sé og hafnað að húsið við Þrastargötu 7b sé bakhús, en það sé mjög áberandi, séð frá Hjarðarhaga. Loks liggi fyrir að yfirstandandi framkvæmdir séu í verulegu ósamræmi við þau áform sem Minjastofnun hafi veitt álit sitt um á árinu 2015.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er á það bent að umræddur kvistur standi meira en 1 m frá þakbrúnum í samræmi við deiliskipulag. Þótt hann fari yfir meira en helming þakflatar sé frávikið það óverulegt að það falli undir 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ákvæðið heimili að við útgáfu byggingarleyfis megi víkja óverulega frá deiliskipulagi, enda skerðist hagsmunir nágranna í engu að því er varði útsýni, skuggavarp eða innsýn. Kvisturinn standi lægra en þakbrún og muni ekki varpa meiri skugga en þegar sé til staðar. Álits Minjastofnunar hafi verið leitað um sömu teikningar á árinu 2015 og hafi það álit verið jákvætt. Ósk kæranda um niðurrif hússins að Þrastargötu 7 og byggingu nýs staðsteypts húss sé ekki sambærileg við ósk leyfishafa um að byggja lítinn kvist. Rannsóknarreglu hafi því verið gætt og jafnræðisregla ekki verið brotin.

Athugasemdir leyfishafa: Byggingarleyfishafi segir umræddan kvist þegar risinn í fullu leyfi yfirvalda, í samræmi við gildandi deiliskipulag. Fjarlægð kvista frá þakendum hafi verið leiðrétt á uppdráttum og sé 1,12 m. Álits arkitekts hafi verið leitað um skuggavarp á húsið og lóðina að Þrastargötu 7 og hafi það verið talið ólíklegt. Ekki sé hægt að sjá hvaða grenndarhagsmuna kærandi hafi að gæta. Á suðurhlið húss hans séu hvorki svalir né þakgluggi sem skuggi geti fallið á. Þá sé suðurlóð hans 1,14 m á breidd, mælt frá húsi, og girt af með þéttri 2,20 m hárri girðingu. Álits Minjastofnunar hafi verið leitað vegna byggingarleyfisumsóknarinnar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis vegna kvists á norðurhlið hússins að Þrastargötu 7b. Kærendur telja leyfið fara út fyrir heimildir í gildandi deiliskipulagi, en Reykjavíkurborg telur leyfið falla innan skipulagsheimilda, m.a. með tilliti til heimildarákvæðis 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Upphaflegt byggingarleyfi var útgefið af byggingarfulltrúa 29. ágúst 2017. Leyfinu var breytt í tvígang með ákvörðunum byggingarfulltrúa hinn 19. september og 3. október s.á. Líta verður svo á að með nefndum breytingum séu eldri leyfi úr gildi fallin. Fram hefur komið hjá kæranda að kæran nái eftir atvikum til allra þessara þriggja ákvarðana. Í ljósi þess að tvær fyrrnefndu ákvarðanirnar hafa í reynd fallið úr gildi verður þeim þætti málsins vísað frá úrskurðarnefndinni. Eftir stendur hið kærða byggingarleyfi eins og það stóð efnislega eftir síðustu samþykkt afgreiðslufundar byggingarfulltrúa hinn 3. október 2017.

Af aðaluppdrætti þeim sem samþykktur var af byggingarfulltrúa hinn 3. október 2017 má ráða að fjarlægð umrædds kvists frá þakendum skuli vera 1,12 m hvorum megin. Lengd þaksins er málsett 6,87 m, grunnflötur risþaks 5,00 m og mænishæð 2,24 m. Að teknu tilliti til lengdar frá þakendum er lengd norðurkvistsins því 4,63 m og á breiddina nær hann alveg frá mæni að þakbrún. Kvistur á suðurhlið hússins er svipaður þeim kvisti. Reiknuð breidd hvors þakflatar risþaksins út frá málsetningu aðaluppdráttar er 3,36 m. Hvor þakflötur risþaksins án kvista er því 23,1 m2, en sá flötur sem fer undir hvorn kvist er 15,6 m2. Hvor kvistur þekur því um 67,5% þess þakflatar sem hann stendur á.

Í gildandi sérskilmálum fyrir húsið að Þrastargötu 7b, í deiliskipulagi Fálkagötureita frá árinu 2008, kemur fram að heimilt sé að byggja kvist á húsið. Í almennum skilmálum skipulagsins er enn fremur heimilað að byggja kvisti á risþök á helmingi þakflatar og skuli fjarlægð þeirra frá þakenda eigi vera minni en 1 m. Umræddir aðaluppdrættir uppfylla þá skipulagsskilmála að kvistur sé meira en 1 m frá þakenda. Reykjavíkurborg lagði fram útreikning á hlutfalli kvistar á norðurhlið af heildarþakfleti hússins. Þar er þakflötur kvists sagður vera 15,5 m2, en að heildarþakflötur sé 40,2 m2. Hann sé því 39% af heildarþakfleti hússins. Í þeim útreikningi er þakflötur lágreistrar viðbyggingar lagður við heildarþakflöt risþaksins, en sá hluti þaksins sem fer undir kvistinn dreginn frá. Þá reiknast áður byggður kvistur ekki inn í hlutfallstölu kvista þaksins. Með hliðsjón af texta skilmála skipulagsins verður ekki á þessum forsendum byggt. Þak viðbyggingarinnar getur ekki talist hluti risþaks. Sú hlutfallstala sem vísað er til í skipulagsskilmálunum getur annað hvort átt við um hlutfall kvista á þeirri hlið risþaks sem við á hverju sinni eða eftir atvikum hlutfall allra kvista á öllum þakflötum viðkomandi risþaks. Á hvorn veginn sem er teldist hlutfall kvista á því risþaki sem hér um ræðir vera um 67,5% og því nokkuð umfram þá heimild sem tilgreind er í deiliskipulagsskilmálum. Af framangreindu má ljóst vera að aðaluppdrættir hins kærða byggingarleyfis frá 3. október 2017 eru í ósamræmi við heimild skipulagsins til byggingar kvista, sem takmarkast við helming þakflatar.

Samkvæmt 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 getur sveitarstjórn heimilað að gefið sé út byggingarleyfi sem víki óverulega frá deiliskipulagi, enda skerðist hagsmunir nágranna í engu að því er varðar nánar tiltekin atriði. Í bókun á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa um samþykkt umrædds byggingarleyfis hinn 3. október 2017 kemur fram að byggingarleyfið feli í sér óverulegt frávik frá deiliskipulagi. Af gögnum málsins verður hins vegar ekki ráðið að samþykkis sveitarstjórnar, samkvæmt nefndu ákvæði, hafi verið aflað áður en hið kærða byggingarleyfi var samþykkt af byggingarfulltrúa. Þar að auki verður frávik frá heimilaðri stærð kvists, sem hlutfall af stærð risþaks, úr 50% í 67,5%, ekki talið óverulegt og ekki liggur fyrir að útilokað sé að umræddur kvistur geti haft grenndaráhrif gagnvart kæranda.

Skilyrði fyrir samþykki byggingarleyfis er að viðkomandi mannvirki samræmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Svo sem að framan greinir verður hið kærða byggingarleyfi ekki talið vera í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags Fálkagötureita og ber því að fella það úr gildi.

Úrskurðarorð:

Hinum kærðu ákvörðunum byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. ágúst og 19. september 2017 er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. október 2017 um að veita  byggingarleyfi fyrir kvisti á norðurhlið hússins að Þrastargötu 7b.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________               ______________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson

39/2017 Ásgarður og Bæjargarður í Garðabæ

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 14. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 39/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 17. nóvember 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Ásgarðs og deiliskipulagi Bæjargarðs í Garðabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. mars 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Stekkjarflöt 20, Garðabæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 17. nóvember 2016 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Ásgarðs og deiliskipulagi Bæjargarðs. Auglýsingar um gildistöku hinna kærðu deiliskipulagsbreytinga birtust í B-deild Stjórnartíðinda 3. mars 2017. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. maí 2017, er barst úrskurðarnefndinni sama dag kærir eigandi, Túnfit 1, Garðabæ, þá ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 9. maí 2017, sem samþykkt var í bæjarstjórn 18. s.m., að veita framkvæmdaleyfi fyrir gerð gervigrasvallar á svæði vestan Hraunsholtslækjar í Garðabæ. Með bréfum, dags. 2., 3., og 20. júní 2017, sem bárust nefndinni samdægurs og 21. s.m., lýstu ellefu íbúar við Túnfit, Lækjarfit, Lynghóla og Hraunhóla yfir aðild sinni að greindu kærumáli. Þá kærir eigandi, Túnfit 2, sömu ákvörðun í kæru, dags. 1. júní s.á. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Með bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 22. júní 2017, var kröfu um stöðvun framkvæmda synjað. Verða kærumál þessi, sem eru nr. 58 og 59/2017, sameinuð máli þessu þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 15. og 26. júní 2017.

Málavextir: Hinn 31. maí 2016 var haldinn sérstakur kynningarfundur um fyrirhugaðar breytingar á deiliskipulagi Bæjargarðs sem auglýstur var m.a. á vef Garðabæjar og í Garðapóstinum. Í auglýsingu kom fram að í tillögunni væri gert ráð fyrir íþróttavelli og strandblakvöllum við húsið Garð. Auk þess var kynnt tillaga að breytingu á deiliskipulagi Ásgarðs sem gerði ráð fyrir tilfærslu æfingavalla og ljósamastra, stækkun lóðar íþróttasvæðis og breytingu á legu göngustígs meðfram húsum við Stekkjarflöt.

Á fundi sínum 5. júlí 2016 samþykkti bæjarráð Garðabæjar að auglýsa tillögur að breytingu á deiliskipulags Bæjargarðs og Ásgarðs skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 1. mgr. 41. gr. sömu laga. Tillögurnar voru auglýstar í Garðapóstinum, Fréttablaðinu, Lögbirtingablaðinu og á vef Garðabæjar. Athugasemdafrestur var til og með 19. október s.á. Engar athugasemdir bárust og samþykkti bæjarráð á fundi 15. nóvember 2016 að senda tillögurnar til meðferðar Skipulagsstofnunar og var sú afgreiðsla staðfest í bæjarstjórn 17. s.m.

Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemd við að auglýsing um breytingu á deiliskipulagi Bæjargarðs yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda. Stofnunin gerði hins vegar athugasemdir við birtingu gildistökuauglýsingar vegna samþykktrar breytingar á deiliskipulagi Ásgarðs í bréfi, dags. 20. janúar 2017. Athugasemdirnar lutu að því að ónógar og ónákvæmar upplýsingar kæmu fram í greinargerð á uppdrætti er fylgdi tillögunni. Bréfið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs 7. febrúar 2017 sem vísaði því til skipulagsnefndar sem tók það til umfjöllunar á fundi sínum 16. s.m. Málið var að nýju á dagskrá fundar bæjarráðs 21. s.m. og jafnframt voru haldnir fundir með íbúum við Stekkjarflöt til að upplýsa þá nánar um fyrirhugaðar framkvæmdir á sama tímabili. Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 2. mars 2017 var uppfærður uppdráttur samþykktur og ákveðið að birta auglýsingu um gildistöku hinna samþykktu deiliskipulagsbreytinga í B-deild Stjórnartíðinda.

Málsrök kærenda: Benda kærendur á að þeir telji hina kærðu ákvörðun vera haldna slíkum annmörkum, jafnt að formi sem efni, að óhjákvæmilegt sé að ógilda hana.

Samkvæmt 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skuli haft samráð við íbúa og aðra hagsmunaaðila í skipulagsferlinu og í gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sé samráðsferlið útlistað nánar. Segi þar að við gerð deiliskipulags skuli eftir föngum leita eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa, umsagnaraðila og annarra þeirra sem hagsmuna eigi að gæta. Slíkt samráð hafi ekki verið haft við kærendur í skipulagsferlinu. Þeir hafi fyrst fengið fregnir um hinar fyrirhuguðu breytingar stuttu áður en deiliskipulagið hafi verið samþykkt í bæjarstjórn. Raunar hafi skipulagsstjóri sjálfur sett sig í samband við kærendur vegna málsins og leitað viðbragða þeirra við breytingunni. Hafi það komið honum á óvart að kærendur hafi ekki skilað inn athugasemdum við breytingarnar líkt og þeir hafi gert árið 2012 er skipulaginu hafi verið breytt. Þegar ljóst hafi þótt að tillagan hafi farið framhjá íbúum Stekkjarflatar, hafi íbúar verið boðaðir á tvo fundi þar sem tillagan og forsendur hennar hafi verið kynntar. Þær athugasemdir sem kærendur og fleiri hafi gert hafi verið svarað munnlega á fundunum án þess að frekari afstaða hafi verið tekin til þeirra. Í ljósi atvika hefði verið rétt og í samræmi við góða stjórnsýsluhætti að auglýsa tillöguna á nýjan leik með nýjum athugasemdafresti.

Þá sé byggt á því að hin kærða ákvörðun stríði gegn því meginmarkmiði skipulagslaga að tryggja réttaröryggi í skipulagsmálum, sbr. c-lið 1. mgr. 1. gr. laganna, með því að hagsmunir kærenda hafi verið fyrir borð bornir með hinum stórtæku breytingum á Ásgarðsreitnum.

Sú deiliskipulagsbreyting sem nú hafi öðlast gildi geri m.a. ráð fyrir tilfærslu íþróttavalla og tveggja ljósamastra, stækkun lóðar íþróttasvæðis og breytingu á legu göngustígs meðfram húsum við neðanverða Stekkjarflöt. Það segi þó ekki alla söguna um raunveruleg áhrif breytinganna á nálæga íbúðabyggð. Það sem raunverulega felist í breytingunum sé að æfingavöllur sem breyta eigi í keppnisvöll færist átta metra nær lóðum við Stekkjarflöt. Við breytinguna í keppnisvöll þurfi meiri lýsingu á völlinn og ljósamöstur fyrir vallarlýsingu færist nær lóðunum. Hvinhljóð, ljósmengun og rafmagnshljóð frá ljósabúnaði muni aukast verulega við að færa og breyta svæðinu í keppnisvöll. Niðurstaðan sé sú að ástand á svæðinu, sem hafi verið slæmt fyrir, verði enn verra nái breytingarnar fram að ganga.

Skipulagsstofnun hafi gert margvíslegar athugasemdir við deiliskipulagsbreytinguna og lagt til að tillagan yrði auglýst að nýju vegna efnisgalla á henni. Skipulagsyfirvöld hafi gert nýjan uppdrátt og bæjarstjórn hafi talið að með honum hefðu öll þau atriði sem hafi gefið tilefni til athugasemda verið upplýst og leiðrétt. Hins vegar hafi bæjarstjórn hunsað tilmæli Skipulagsstofnunar um að auglýsa tillöguna að nýju.

Kærandi að Túnfit 1 bendir á að samkvæmt Aðalskipulagi Garðabæjar 2004-2016 standi hönnun Bæjargarðsins ennþá yfir og engar frekari hugmyndir um hönnunina hafi verið kynntar íbúum. Af því leiði að enginn „Bæjargarður“ sé til enn sem komið er. Í framkvæmdaleyfi segi: Bæjarráð samþykkir að veita leyfi til framkvæmda við þrjá gervigrasvelli við Ásgarð og í Bæjargarði. Með hliðsjón af því að enginn „Bæjargarður“ sé til sé ekki hægt að veita leyfi til framkvæmda í slíkum garði. Ekki sé hægt að taka afstöðu til þess hvort gervigrasvöllur falli innan hönnunar á Bæjargarði í samræmi við aðalskipulag á meðan engin hönnun liggi fyrir.

Bæjargarðurinn falli innan svokallaðra „Grænna geira“ sem skilgreindir séu í gildandi aðalskipulagi Garðabæjar. Þar komi fram: „Grænir geirar skilja að byggðasvæði á höfuðborgarsvæðinu og mynda samfelldar útivistarleiðir milli fjalls og fjöru. Í Garðabæ er það fyrst og fremst umhverfi Hraunsholtslækjar sem er ætlað þetta hlutverk, enda landslagsaðstæður mjög aðlaðandi til útivistar og tengingar byggðar við uppland og strandsvæði í Gálgahrauni. Á þessum græna geira eru tveir áherslustaðir, bæjargarður við Hraunsholt (Fitjar) og náttúrugarður í Vatnsmýri sunnan Vífilsstaða. Þá sé í svæðisskipulagi ekki gert ráð fyrir að reistar verði byggingar eða mannvirki á grænu geirunum sem dragi úr tengslum upplandsins við ströndina.“

Umræddur gervigrasvöllur sé brot á því ákvæði aðalskipulags að ekki skuli reisa mannvirki á þeim grænu geirum sem Bæjargarður eigi að verða hluti af. Gera þurfi þá kröfu að lokið verði við heildarhönnun Bæjargarðsins og hún kynnt áður en hægt sé að taka afstöðu til þess hvort gervigrasvöllur dragi úr tengslum upplandsins við ströndina.

Í greinargerð með deiliskipulagi sé að finna lýsingu á Bæjargarði á því svæði sem um ræði ásamt uppdrætti. Breyting hafi verið gerð á deiliskipulagi hinn 3. mars 2017 þar sem gert sé ráð fyrir íþróttavelli og strandblakvöllum í Bæjargarði. Þegar hönnun garðsins ljúki megi gera ráð fyrir slíku þegar hönnunin verði kynnt bæjarbúum. Garðabær hafi auglýst útboð vegna gervigrasvallarins í mars 2017. Útboðsgögnin hafi ekki verið birt opinberlega heldur eingöngu aðgengileg þeim sem hafi skráð sig sem þátttakendur í útboðinu. Garðabær hafi þó sent kæranda afrit af gögnunum og þar komi fram að um sé að ræða upphitaðan gervigrasvöll, a.m.k. tveggja metra háa girðingu umhverfis völlinn og fjögur 15 m há möstur fyrir ljóskastara. Þá sé ekki gert ráð fyrir neinum bílastæðum við gervigrasvöllinn.

Þegar deiliskipulagið ásamt uppdrætti af svæðinu séu borin saman við þá framkvæmd sem Garðabær hafi veitt leyfi fyrir sé ljóst að ekkert samhengi sé þar á milli. Framkvæmdin leggi stóran hluta af túnum Hraunsholts undir gervigrasvöll sem komi í veg fyrir aðra notkun á svæðinu, s.s. vegna annarra fjölbreytilegra leikja og útivistar. Þá verði útsýnishæð sú sem um sé rætt í deiliskipulagi fjarlægð vegna gervigrasvallarins.

Lega vallarins geri það að verkum að svæðið allt sé slitið sundur svo varla verði möguleiki á að útbúa þann Bæjargarð sem gert sé ráð fyrir í deiliskipulaginu. Á því 16,2 ha svæði sem fyrirhugað sé fyrir Bæjargarð, sé langstærstur hluti þess hraun sem vart verði nýtt undir mannvirki eða til landmótunar. Með gervigrasvellinum sé enn fremur búið að taka afdrifaríka ákvörðun vegna fyrirhugaðs Bæjargarðs. Deiliskipulag geri ráð fyrir íþróttavelli sem þýði að fjöldi íþrótta geti komið til greina innan slíks vallar. Deiliskipulagið heimili ekki að ákvörðun sé tekin um að einungis knattspyrna verði stunduð á vellinum án þess að endanleg hönnun Bæjargarðs liggi fyrir. Þá muni tveggja metra há girðing og fimmtán metra há ljósamöstur setja afgerandi svip á svæðið.

Árið 2015 hafi Garðabær látið gera úttekt á staðsetningu fjölnota íþróttahúss í bæjarfélaginu þar sem m.a. hafi verið til umfjöllunar að staðsetja slíkt mannvirki á svæðinu vestan Hraunsholtslækjar. Í umfjöllun um svæðið hafi komið fram að „[ö]rtröð er í umferðinni á svæðinu á álagstímum“ og viðvarandi vandræði væru vegna skorts á bílastæðum. Í ljósi þessara aðstæðna verði að gera þá kröfu til Garðabæjar að við útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir gervigrasvöll liggi fyrir greining á aukningu umferðar á svæðinu og hvernig mæta skuli henni á viðunandi hátt.

Bæjarstjórn Garðabæjar hafi samþykkt framkvæmdaleyfi á fundi 18. maí 2017. Strax daginn eftir hafi borist dreifibréf inn um bréfalúgur í nágrenni framkvæmdasvæðisins og hafi það jafnframt verið í fyrsta og eina skiptið sem íbúar hafi fengið að vita um framkvæmdirnar.

Árið 2013 hafi kærandi keypt húsið að Túnfit 1 sem standi rétt hjá fyrirhuguðum Bæjargarði. Við ákvörðun um kaupin hafi kærandi kynnt sér nákvæmlega aðalskipulag Garðabæjar og deiliskipulag í nágrenni húsnæðisins og hafi ákvæði um Bæjargarð verið mikilvægur þáttur í þeirri ákvörðun. Sú umbreyting á svæðinu sem nú standi yfir, þar sem heillandi útivistarsvæði með fjölbreyttum trjá- og runnagróðri sé skipt út fyrir áberandi íþróttamannvirki, sé grundvallarbreyting á þeim gæðum sem kærandi hafi mátt búast við í næsta nágrenni við heimili sitt.

Kærandi að Túnfit 2 flutti inn í fasteign sína í maí 2017. Hafi hann þegar aflað sér upplýsinga frá seljanda og bæjaryfirvöldum varðandi hvað stæði til á því græna svæði sem um ræði. Allar upplýsingar hafi verið í samræmi við gildandi aðal- og deiliskipulag þar sem kveðið sé á um Bæjargarð og útivistarsvæði. Engar stórar breytingar megi finna í aðalskipulagi eða deiliskipulagi, utan breytingar á deiliskipulagi frá því í mars 2017 þar sem samþykktir hafi verið blakvellir og íþróttavöllur í Bæjargarði. Engin heimild sé fyrir svo umfangsmiklu íþróttamannvirki sem fyrirhugað sé skv. gildandi skipulagi, en af einhverjum ástæðum virðast bæjaryfirvöld vera áfjáð í að teygja skilgreiningar Bæjargarðs yfir í að vera æfingasvæði fyrir knattspyrnu. Það þurfi ekki að taka fram hvers konar áhrif þetta muni hafa á gæði fasteigna og íbúa á svæðinu, en sjónmengun, hljóðmengun, umferð og lagning bifreiða á svæðinu muni án efa aukast til muna vegna framkvæmdanna sem hafi lítið verið bornar undir íbúa svæðisins.

Málsrök Garðabæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er því mótmælt að skort hafi á samráð við íbúa við meðferð umdeildra skipulagstillagna. Þær hafi verið auglýstar með áberandi hætti í aðdraganda kynningarfundar og samþykkt þeirra hafi verið auglýst eins og áskilið sé í 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 1. mgr. 41. gr. sömu laga. Auglýsing um kynningarfund og samþykkt tillagnanna hafi verið birt í staðarblaðinu Garðapóstinum og borin í öll hús í Garðabæ. Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 20. janúar 2017, þar sem gerðar hafi verið athugasemdir við framsetningu gagna, hafi engar athugasemdir verið gerðar um skort á samráði eða samvinnu við íbúa að því undanskildu hvað varði áhrif af ljóskösturum. Sú athugasemd hafi verið óþörf enda hafi við samþykkt breytingar á deiliskipulagi Ásgarðs frá 2012 komið fram upplýsingar um birtumagn og jafnframt skilmálar um að lampar skuli vera með stefnuvirkri lýsingu með skermingu til að tryggja að lýsing trufli ekki íbúðabyggð.

Um árabil hafi svæðið vestan við lóð kærenda verið íþróttasvæði með æfingavöllum og keppnisvöllum. Á tímabili hafi aðalkeppnisvöllur svæðisins verið á sama stað og núverandi æfingavöllur við Stekkjarflöt með áhorfendasvæði í grasbrekku við lóð kærenda. Tillaga um breytingu á deiliskipulagi svæðisins með tilfærslu á ljósamöstrum, legu vallarins og göngustígs verði ekki talin hafa að neinu marki frekari grenndaráhrif en sé nú þegar og ekki umfram það sem almennt verði talið eðlilegt í tilviki ljósa sem liggi að skóla- og íþróttasvæðum. Á það megi benda að þó einstaka viðburðir á íþróttasvæði geti valdið ónæði í næsta nágrenni, fylgi því líka kostir að vera í nálægð slíkra svæða þar sem þá sé ekki þrengt að næstu byggð vegna bygginga eða annarra mannvirkja.

Á fundi bæjarráðs Garðabæjar 9. maí 2017 hafi verið samþykkt að veita leyfi til framkvæmda við þrjá gervigrasvelli við Ásgarð og í Bæjargarði. Varðandi framkvæmdir við Ásgarð hafi verið samþykkt að horfa frá því að breikka og stækka núverandi völl við Stekkjarflöt þannig að einungis verði um endurnýjun á gervigrasi vallarins að ræða. Í breytingunni felist að ekki komi til færslu á ljósamöstrum, girðingu eða göngustíg sem liggi utan girðingar meðfram baklóðum húsa við Stekkjarflöt. Á fundi bæjarstjórnar 18. s.m. hafi samþykkt bæjarráðs verið staðfest.

Hið kærða framkvæmdaleyfi hafi verið gefið út með stoð í deiliskipulagi Bæjargarðs eins og áskilið sé, sbr. 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Í Aðalskipulagi Garðabæjar 2004-2016 sé gert ráð fyrir garði á umræddu svæði, sem skilgreint sé sem opið svæði til sérstakra nota. Komi þar m.a. fram að gert sé ráð fyrir aðstöðu til útivistar og leikja. Á skipulagsuppdrætti með gildandi aðalskipulagi megi sjá að sá hluti Bæjargarðsins, þar sem verið sé að gera umræddan gervigrasvöll og blakvelli, sé skilgreindur með sama hætti og íþróttasvæðið við Ásgarð.

Á uppdrætti er fylgdi tillögu að breytingu á deiliskipulagi Bæjargarðs komi skýrt fram að á svæðinu sé gert ráð fyrir íþróttavelli og sé lega hans afmörkuð með mjög skýrum hætti, stærð hans tilgreind og þar komi fram að um sérútbúna boltaflöt sé að ræða. Í því felist heimild fyrir upphituðum, afgirtum og upplýstum gervigrasvelli eins og hér um ræði. Almennt séu framkvæmdaleyfi og byggingarleyfi ekki sérstaklega kynnt og ekki mælt fyrir um að svo skuli gera samkvæmt lögum nema í þeim tilvikum að deiliskipulag liggi ekki fyrir. Í kynningarbréfi sem sent hafi verið íbúum við upphaf framkvæmda hafi eingöngu verið ætlunin að upplýsa um fyrirhugaðar framkvæmdir með tilliti til þeirrar tímabundnu röskunar sem þær óhjákvæmilega muni hafa fyrir íbúa í nærliggjandi hverfum.

Almennt sé í deiliskipulagi ekki nákvæm lýsing á gerð mannvirkja eða útfærslu einstakra svæða, heldur sé deiliskipulagið grundvöllur fyrir hönnun og framkvæmdum samkvæmt þeirri meginstefnu sem fram komi í lýsingu þess. Hönnun gervigrasvallarins sé sambærileg hönnun gervigrasvalla sem staðsettir séu í hverfum bæjarins eins og í Ásahverfi, við Sjálandsskóla, við Hofsstaðaskóla og við Ásgarð, að öðru leyti en því að hann sé stærri en hefðbundinn battavöllur.

Í málinu sé vísað til tölvupóstsamskipta fyrrum eiganda Túnfitjar 2 við skipulagsstjóra varðandi girðingu og lýsingu vallarins og því haldið fram að heimildir samkvæmt framkvæmdaleyfi Garðabæjar séu í andstöðu við þau svör. Því sé mótmælt af hálfu bæjarins en í greindum svörum komi fram að gerð girðingar hafi ekki verið til umræðu við deiliskipulagsgerðina en hún komi til greina af augljósum ástæðum við notkun vallarins en ekki í því skyni að loka honum fyrir almenningi. Hvað varði svar skipulagsstjóra við fyrirspurn um flóðlýsingu vallarins komi skýrt fram að ekki eigi að flóðlýsa völlinn en til greina komi að hafa lága lýsingu sambærilega við götulýsingu. Í útboðsgögnum sé gert ráð fyrir fimmtán metra háum ljósamöstrum en við útsendingu útboðsgagna hafi ljósamöstrin verið skýjuð út og séu ekki hluti af samningi um framkvæmd verksins og að svo stöddu ekki hluti framkvæmdaleyfis. Ástæða þess sé að Garðabær hafi leitað sér ráðgjafar til að láta kanna nánar hvaða lýsing henti best á íþróttavöllum til að draga almennt úr ljósmengun gagnvart næsta nágrenni.

Íþróttavöllur eins og hér um ræði hafi eðli máls samkvæmt ákveðin grenndaráhrif en Garðabær mótmæli því að umræddur völlur valdi grenndarröskun umfram það sem eðlilegt megi teljast. Bæjaryfirvöld hafi í samráði við íbúa lagt til ýmsar aðgerðir til að milda hugsanleg grenndaráhrif með því að draga úr sýnileika vallarins með landmótun, leita allra leiða til að ljósmengun verði sem minnst með hönnun lýsingar í sátt við íbúa og setja reglur sem takmarki notkun hans að kvöldi til. Þess beri að geta að fram komi í greinargerð með aðalskipulagi að svæðið tengist Ásgarðssvæðinu sem sé skilgreint sem skóla- og íþróttasvæði og almennur íþróttavöllur geti ekki farið í bága við ákvæði svæðisskipulags um græna geira. Í deiliskipulagsuppdrætti Hraunsholts eystra, sem gildi um lóð kæranda og samþykkt hafi verið í bæjarstjórn 7. september 2006, komi fram að svæði innan þá fyrirhugaðs Bæjargarðs þar sem umræddir íþróttavellir séu staðsettir, sé merkt sem möguleg stækkun íþróttasvæðis við Ásgarð.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þær ákvarðanir Garðabæjar að breyta deiliskipulagsáætlunum Bæjargarðs og Ásgarðs ásamt því að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdum á deiliskipulagssvæðunum.

Samkvæmt Aðalskipulagi Garðabæjar 2004-2016 er kveðið á um blandaða landnotkun útivistarsvæðis og þjónustustofnana fyrir Ásgarð ásamt þeim hluta Bæjargarðs þar sem gert er ráð fyrir gervigrasvelli og blakvöllum samkvæmt hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu. Að öðru leyti er landnotkun Bæjargarðs útivistarsvæði.

Með auglýsingu birtri í B-deild Stjórnartíðinda 3. mars 2017 tók gildi breyting á deiliskipulagi Ásgarðs annars vegar og Bæjargarðs hins vegar. Fengu þær deiliskipulagsbreytingar málsmeðferð samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Engar athugasemdir bárust á kynningartíma tillagnanna. Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 18. janúar 2017, kom fram að engar athugasemdir væru gerðar við að auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingar Bæjargarðs yrði birt. Ekki liggja fyrir þeir annmarkar á málsmeðferð eða efni deiliskipulagsbreytingar Bæjargarðs sem raskað geta gildi hennar.

Með bréfi, dags. 20. janúar 2017, gerði Skipulagsstofnun athugasemdir við birtingu deiliskipulagsbreytingar Ásgarðs. Lutu athugasemdirnar að því að óljóst væri hvaða deiliskipulagsskilmálar væru í gildi sættu breytingum. Skilmálar væru misvísandi eða vantaði fyrir byggingarreit íþróttamannvirkis, ljósamöstur og kastara, ekki kæmi fram hvaða skilmálar séu í gildandi skipulagi, á skorti að gerð væri grein fyrir umhverfisáhrifum breyttrar staðsetningar, hækkunar og fjölgunar ljósamastra og þá sé ekki gerð grein fyrir húsum þeim sem virðast eiga að víkja. Taldi stofnunin að auglýsa þyrfti deiliskipulagið að nýju vegna framangreindra efnisgalla. Á fundi sínum 2. mars 2017 samþykkti bæjarstjórn Garðabæjar breyttan deiliskipulagsuppdrátt.

Í gr. 5.8.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er að finna reglur um framsetningu breytinga á deiliskipulagi. Í gr. 5.8.5.1. kemur fram að gera skuli skýra grein fyrir því í hverju breyting felst, í greinargerð og á uppdrætti. Þá skulu vera upplýsingar um hvaða ákvæði gilda um svæðið í aðalskipulagi. Í gr. 5.8.5.2. kemur fram að í greinargerð skuli m.a. lýsa samræmi við aðalskipulag og við breytingar á skilmálum skuli bæði birta gildandi skilmála og tillögu að breytingum. Í gr. 5.8.5.3. er kveðið á um að sýna skuli á uppdrætti gildandi deiliskipulag og tillögu að breytingu á deiliskipulaginu. Þrátt fyrir hinn breytta skipulagsuppdrátt, skortir á að hin kærða deiliskipulagsbreyting fyrir Ásgarð uppfylli framangreind skilyrði skipulagsreglugerðar en breytingarnar lutu einungis að greinargerð skipulagsbreytingarinnar. Eru slíkir annmarkar á framsetningu uppdráttar umræddrar deiliskipulagsbreytingar að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni á hið kærða framkvæmdaleyfi sér ekki stoð í deiliskipulagi hvað varðar nýjan æfingavöll í Ásgarði. Verður leyfið því fellt úr gildi hvað þann þátt framkvæmdarinnar varðar.

Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 96/2017, uppkveðnum 7. nóvember 2017, var komist að þeirri niðurstöðu að fyrirhugaðar tveggja metra háar girðingar samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi væru háðar byggingarleyfi skv. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Verður hið kærða framkvæmdaleyfi því einnig fellt úr gildi að því er varðar hina byggingarleyfisskyldu girðingar. Þykir rétt með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að framkvæmdaleyfið haldi gildi sínu að öðru leyti en að framan greinir.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 17. nóvember 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Bæjargarðs.

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 17. nóvember 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Ásgarðs.

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 18. maí 2017 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir uppbyggingu íþróttasvæðis, að því er varðar framkvæmdir við nýjan æfingavöll á Ásgarðssvæðinu og heimild fyrir að reistar verði tveggja metra háar girðingar á framkvæmdasvæðinu.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson

118/2015 Eftirlitsgjöld á Suðurnesjum

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 5. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 118/2015, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 17. nóvember 2015 um álagningu gjalda vegna heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlits.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. desember 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir IGS ehf., Fálkavelli 13, Reykjanesbæ, ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 17. nóvember 2015 um álagningu gjalda vegna heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlits. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að nefndin ákvarði lækkun gjaldanna.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja 2. febrúar 2016.

Málavextir: Með reikningi, dags. 17. nóvember 2015, var kæranda gert að greiða alls kr. 981.790 í heilbrigðiseftirlitsgjöld fyrir árið 2015. Var heildarupphæð gjaldanna samansett af níu liðum í samræmi við gjaldskrá nr. 927/2015 fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnareftirlit á Suðurnesjasvæði. Nánar tiltekið voru innheimt gjöld fyrir bifreiða- og vélaverkstæði, kr. 23.843, mötuneyti með móttökueldhúsi (stórt), kr. 105.774, sala á tilbúnum mat (stór), kr. 287.150, mötuneyti með móttökueldhúsi (miðlungs), kr. 47.945, vörugeymslur (stórar), kr. 57.829, vöruflutningamiðstöðvar, kr. 43.350, vatnsafgreiðsla flugvéla, kr. 80.890, mötuneyti með móttökueldhúsi (stórt), kr. 105.774, matsölustaðir (stórir), kr. 229.235, alls kr. 981.790.

Málsrök kæranda: Kærandi kveður Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hafa með ákvörðun sinni farið út fyrir þann ramma sem settur sé með almennum reglum stjórnsýsluréttar um töku þjónustugjalda, en þær séu áréttaðar í 3. mgr. 12. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í ákvæðinu komi fram að gjaldskrá skuli byggð á rekstraráætlun, þar sem þau atriði séu rökstudd sem ákvörðun gjalds við viðkomandi eftirlit byggist á, og megi gjaldið ekki vera hærra en sá kostnaður. Að mati kæranda sé gríðarmikil hækkun hinna kærðu eftirlitsgjalda frá fyrri árum órökstudd og fari langt fram úr þeim kostnaði sem hljótist af því að veita umrædda þjónustu.

Ekki sé hægt að sjá að raunverulegur kostnaður á bak við tímagjald starfsmanna kæranda nemi kr. 17.340. Sé miðað við þá fjárhæð myndu mánaðarlaun þeirra starfsmanna, ásamt starfstengdum gjöldum, nema kr. 2.774.400. Þá fái kærandi ekki séð að gjald fyrir rannsókn á hverju sýni nemi raunverulega kr. 20.200. Ljóst sé að útreikningar kæranda á þjónustugjöldunum hafi breyst á milli ára. Mikilvægt sé að lögaðilar búi við ákveðinn fyrirsjáanleika í rekstri sínum. Verði því að tryggja að handhafar opinbers valds raski ekki þeim fyrirsjáanleika með tilviljunarkenndum breytingum á stjórnsýsluframkvæmd.

Það sé kæranda óviðkomandi að halli hafi verið á rekstri heilbrigðiseftirlitsins á árunum 2013 og 2014. Heilbrigðis- og mengunareftirlitsgjöld megi ekki nýtast til þess að leiðrétta rekstrarhalla með afturvirkum hætti. Heilbrigðiseftirlitið sé bersýnilega að nýta sér gjaldskrárhækkun sína til þess að innheimta rekstrarkostnað sem ekki tengist með beinum hætti því eftirliti sem gjöldunum sé ætlað að standa undir. Beri það ábyrgð á því að sýna fram á nákvæma útreikninga gjaldanna.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja: Heilbrigðiseftirlitið telur að vísa beri málinu frá í heild sinni þar sem kröfugerðin sé ekki studd neinum efnislegum röksemdum. Álagning gjalda á kæranda sé í níu liðum og því örðugt að fjalla efnislega um kæruna, eins og málið sé úr garði gert.

Samkvæmt 10. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir beri sveitarfélög ábyrgð á heilbrigðiseftirliti á sínu svæði og greiði kostnað við það. Heimild sveitarfélaganna til að innheimta gjöld á móti eftirliti og rekstri sé að finna í 3. mgr. 12. gr. og 5. mgr. 25. gr. laganna. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja byggi gjaldskrá sína á framangreindum lagaheimildum og fari eftir þeim. Ekki sé ágreiningur um að gjaldtaka eigi að endurspegla raunkostnað eftirlitsaðila við að sinna lögbundnu eftirliti með starfsemi, enda komi það fram í 3. mgr. 25. gr. laganna.

Fjárhagsleg endurskipulagning Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja hafi staðið yfir um nokkra hríð, en ljóst hafi verið orðið að taka yrði gjaldskrá eftirlitsins til gagngerrar endurskoðunar svo rekstur heilbrigðiseftirlitsins stæði undir sér. Breytingar á gjaldskrá undanfarinna ára endurspegli þetta, en ljóst sé að of stutt skref hafi verið tekin í hvert sinn og þess ekki gætt nægilega vel að gjaldskráin endurspeglaði raunkostnað embættisins. Ákveðið hafi verið að breyta framsetningu gjaldskrár þannig að tímagjald yrði ráðandi þáttur, en magn tímaeininga á hvern eftirlitsþátt ráðist svo af umfangi hvers þáttar. Fjárhæð tímagjalds verði því að taka mið af heildarrekstrarkostnaði embættisins, jafnað niður á þann hluta sem fari í þjónustu við eftirlitsskylda aðila. Þá verði að innheimta kostnað við rannsóknir og sýnatöku í samræmi við útlagðan kostnað. Samhliða breytingu á framsetningu hafi allt skipulag eftirlits og eftirlitsferða verið tekið til endurskoðunar og leitast við að hagræða eftir fremsta megni við framkvæmd eftirlits. Þannig hafi óverulegar breytingar verið á milli ára, þrátt fyrir breytingar sem gerðar hafi verið á tímagjaldi heilbrigðiseftirlitsins.

Álagning heilbrigðiseftirlitsgjalda á kæranda fyrir árið 2014 hafi numið kr. 927.470 en eftirlitsþættirnir sem greitt sé þar fyrir hafi verið átta talsins. Fyrir árið 2015 nemi álögð gjöld kr. 981.790 en þar sé um að ræða níu eftirlitsþætti. Hækkun aðfanga og launa komi óhjákvæmilega fram í rekstrarkostnaði heilbrigðiseftirlitsins og þar með eftirlitsgjöldum. Mestu breytingarnar séu þó vegna hækkunar gjalds fyrir sýnatökur. Verð á mælingum fari eftir gjaldskrá MATÍS á hverjum tíma. Þannig hafi gjaldaliðurinn vatnsafgreiðsla flugvéla hækkað um ríflega kr. 30.000 á milli ára, en ástæðan fyrir því sé fyrst og fremst sú að sýnatökum hafi verið fjölgað úr einni í tvær á ári. Aðrar breytingar séu óverulegar og ýmist til hækkunar eða lækkunar. Verði heildaráhrif gjaldahækkana án vatnsafgreiðslu flugvéla um 2,6%.

Álögð eftirlitsgjöld hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja byggist á þeim fjölda tímaeininga (jafnaðarreikningur) sem verja þurfi í hvert eftirlitsverkefni, en heilbrigðiseftirlitið hafi tímamælt þá þætti sem sinna þurfi eftirliti með. Gjaldið sé síðan reiknað út sem fjöldi tímaeininga, margfaldað með gildandi tímagjaldi og tíðni eftirlits.

Gjald fyrir hvern eftirlitsþátt samkvæmt gjaldskrá sé samansett úr fjórum þáttum: Undirbúningi, ferð, viðveru á eftirlitsstað og frágangi eftir eftirlitsheimsókn. Þessir þættir séu tímamældir og fundinn út meðaltími fyrir hvern fyrirtækjaflokk, eða ISATnúmer. Tíminn sé síðan margfaldaður með gildandi tímagjaldi, nú kr. 17.340. Samanlagt segi þetta til um kostnað við hverja eftirlitsferð. Tíðni eftirlitsins ráðist hinsvegar af áhættumati heilbrigðiseftirlitsins. Ef sýnataka sé hluti af eftirliti bætist kostnaður vegna hennar við útreiknaðan kostnað. Í gjaldskránni sé kostnaður við sýnatöku innifalinn í gjaldaliðnum.

Í eftirfarandi töflu megi sjá sundurliðun á forsendum fyrir eftirlitsgjöld sem kærandi hafi verið krafinn um fyrir árið 2015.

                                                                               Samt. klst.     Tíðni    Fjöldi sýna    Árlegt eftirlitsgjald
Bifreiða- og vélaverkstæði                                   5,5                 0,25                                           23.843 kr.
Mötuneyti m. móttökueldhúsi, stórt                    6,1                 1                                              105.774 kr.
Sala á tilbúnum mat, stórt                                   8,28               2                                              287.150 kr.
Mötuneyti m. móttökueldhúsi, miðl.                   5,53              0,5                                              47.945 kr.
Vörugeymslur stórar                                             6,67              0,5                                              57.829 kr.
Vöruflutningamiðstöðvar                                      5                   0,5                                              43.350 kr.
Vatnsafgreiðsla flugvéla                                       2,33             1                      2                         80.804 kr.
Mötuneyti m. móttökueldhúsi, stórt                    6,1                1                                                105.774 kr.
Matsölustaðir, stórir > 100 gestir                        6,61             2                                                229.235 kr.
                                                                                                                                       Samtals    981.704 kr.

Af gögnum sem lögð hafi verið fram sé ljóst að ekki sé um rekstrarafgang að ræða hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja. Ekkert bendi því til að með álagningu eftirlitsgjalda á kæranda fyrir árið 2015 sé komið út fyrir ramma þjónustugjalda og inn á svið skattheimtu. Hækkun álagðra gjalda á kæranda sé hófleg og eðlileg miðað við verðlags- og launaþróun á tímabilinu og verð fyrir aðkeypta þjónustu. Enginn ágreiningur sé um það að kærandi hafi fengið þá þjónustu sem greitt sé fyrir.

Mismunur á rekstrartekjum og rekstrarkostnaði hafi verið eftirfarandi á síðustu árum í krónum talið:

Ár                                              2015                2014              2013
Rekstrartekjur             88.556.707    86.807.178    85.560.152
Rekstrarkostnaður    92.302.918    95.066.578    88.602.856
Rekstrarhalli                 3.746.211       8.259.400      3.042.704

Niðurstaða: Kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna ágreinings um framkvæmd laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, reglugerða settum samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir yfirvalda er að finna í þágildandi 31. gr. laganna, nú 65. gr. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk hennar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Tekur nefndin því aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, en telur það falla utan valdheimilda sinna að ákveða um lækkun hins álagða gjalds.

Samkvæmt þágildandi 10. gr. laga nr. 7/1998, nú 44. gr., skal ekkert sveitarfélag vera án heilbrigðiseftirlits og greiða sveitarfélögin kostnað við eftirlitið, að svo miklu leyti sem lög mæla ekki fyrir á annan veg. Samkvæmt þágildandi 3. mgr. 12. gr. laganna, nú 46. gr., er sveitarfélögum heimilt að setja gjaldskrá og innheimta gjald fyrir eftirlitsskylda starfsemi, svo sem fyrir eftirlit, útgáfu starfsleyfa og vottorða, sé eftirlitið á vegum sveitarfélaga. Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 12. gr. bera sveitarfélög ábyrgð á fjármálum og rekstri heilbrigðiseftirlits á viðkomandi svæði. Þau hafa umsjón með fjármálum þess, skiptingu kostnaðar milli sveitarfélaga og álagningu eftirlitsgjalda. Við kostnaðarskiptingu skal miða við að allar tekjur af eftirlitsskyldri starfsemi á svæðinu renni í sameiginlegan sjóð til greiðslu rekstrarkostnaðar heilbrigðiseftirlits á svæðinu. Lögin mæla nánar fyrir um hvernig ákvarða skuli fjárhæð nefndra eftirlitsgjalda, en í 3. mgr. 12. gr. segir að upphæð gjaldsins skuli byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði séu rökstudd sem ákvörðun gjalds við viðkomandi eftirlit byggist á. Megi gjaldið ekki vera hærra en sá kostnaður. Samkvæmt framangreindu eru gjöld fyrir eftirlitsskylda starfsemi svokölluð þjónustugjöld og lúta reglum sem um þau gilda.

Gjaldskrá fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á Suðurnesjasvæði hefur verið sett og er hún nr. 927/2015. Gjaldskráin var birt í B-deild Stjórnartíðinda 19. október 2015. Samkvæmt 2. gr. gjaldskrárinnar er tímagjald heilbrigðiseftirlitsins kr. 17.340 og gjald vegna rannsóknar fyrir eitt sýni kr. 20.200. Samkvæmt gjaldskránni byggjast öll gjöld sem innheimt eru af heilbrigðiseftirlitinu á nefndu tímagjaldi. Í fylgiskjali með gjaldskránni er listi yfir tegundir fyrirtækja og eftirlitsgjöld sem þau skulu standa skil á. Samkvæmt gögnum málsins hafa framangreind eftirlitsgjöld verið reiknuð út, miðað við fjölda tíma sem varið er í viðkomandi eftirlit yfir árið og eftir atvikum fjölda sýna sem tekin eru og rannsökuð. Í athugasemdum heilbrigðiseftirlitsins kemur fram hverjar forsendur þeirra gjalda sem kærandi er krafinn um eru.
 
Í samræmi við það sem fram kom um fjármögnun heilbrigðiseftirlits samkvæmt þágildandi 12. gr. laga nr. 7/1998 stendur tímagjald undir fleiri þáttum en launum starfsmanna heilbrigðiseftirlitsins og tengdum gjöldum, en samkvæmt ákvæðinu er skýrt að leyfilegt er að miða við að gjöldunum sé varið til reksturs eftirlitsins í heild. Má gera ráð fyrir að hluta þess sé varið til annars rekstrarkostnaðar, svo sem reksturs skrifstofu. Miðað við þetta telst tímagjaldið vera eðlilegt. Jafnframt kemur fram í gögnum að fyrir hvert sýni innheimtir rannsóknaraðili kr. 19.800, en þar við bætist kr. 1.850 fyrir einnota áhöld, alls kr. 21.650. Kostnaður við sýni er því hærri en sú fjárhæð sem innheimt er af heilbrigðiseftirlitinu.

Séu rekstrartölur Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja fyrir árin 2013, 2014 og 2015 skoðaðar sést að rekstrarkostnaður er hærri en rekstrartekjur fyrir öll árin og er sú niðurstaða í samræmi við áskilnað þágildandi 3. mgr. 12. gr., nú 46. gr., um að álögð gjöld megi ekki vera hærri en kostnaður af rekstri heilbrigðiseftirlits.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur tafist verulega vegna mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 17. nóvember 2015 um álagningu gjalda vegna heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlits.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

61/2017 Hundahald Kópavogi

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 5. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 61/2017, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 10. maí 2017 um að láta ekki fjarlægja hundinn X, af heimili hans.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. júní 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir A, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 10. maí 2017 að láta ekki fjarlægja hundinn X, af heimili hans. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis 28. júní 2017.

Málavextir: Kærandi býr á efri hæð tvíbýlishúss ásamt tveimur hundum sínum. Á neðri hæð eru fjórir hundar á heimilinu. Sameiginleg lóð er bak við húsið. Hundum kæranda lenti  hinn 22. mars 2017 saman við hunda neðri hæðar á baklóðinni. Var kærandi við það tilefni bitinn af hundinum X, sem einnig beit annan hund kæranda. Kærandi gaf lögregluskýrslu vegna atviksins og lagði fram kvörtun hjá Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis 27. s.m.

Í niðurlagi ákvörðunar heilbrigðiseftirlits, dags. 10. maí 2017, kemur fram að þegar hið kærða atvik hafi átt sér stað hafi ekki nægilega verið gætt að ákvæðum samþykktar nr. 154/2000 um hundahald í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi, þar sem segi m.a. að hundeiganda eða umráðamanni hunds sé skylt að sjá til þess að hundur hans valdi ekki hættu eða óþægindum. Ástæða hafi verið til sérstakrar varkárni gagnvart öðrum dýrum í ljósi fyrri hegðunar. Vitað hafi verið að aðrir hundar væru haldnir í húsinu og að garðurinn væri einnig nýttur til útiveru fyrir þá. Í ljósi þessa var lagt fyrir hundaleyfishafa að sjá til þess að hundur hans væri ávallt í öruggri gæslu utan dyra. Þar sem gera yrði ráð fyrir að hundurinn hitti aðra hunda eða dýr yrði að múlvenja hann. Nauðsynlegt væri að hundurinn fengi þjálfun undir leiðsögn og að leyfishafi tæki hegðun hans gagnvart öðrum hundum alvarlega. Skilyrðislaust yrði því að vera með hundinn í taumi á göngu utan dyra meðan þjálfun væri á fyrstu stigum. Heilbrigðiseftirlitið féllst hins vegar ekki á þá kröfu kæranda að hundurinn yrði fjarlægður af heimili sínu. Hefur kærandi kært þá ákvörðun, eins og áður segir.

Málsrök kæranda:
Kærandi krefst þess að ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis verði felld úr gildi. Hundur leyfishafa hafi ráðist á og bitið illa hund í eigu kæranda. Hafi hann og bitið kæranda í höndina í sama skipti og fellt hann í jörðina. Þetta hafi gerst 22. mars 2017, en sex mánuðum áður hafi umræddur hundur einnig bitið annan hund í eigu kæranda. Eftir að kærandi hafi verið bitinn hafi hann leitað aðstoðar lögreglu og sjúkraliða.

Kærandi búi á efri hæð í tvíbýlishúsi og sé sameiginleg lóð bak við húsið. Kærandi noti hluta lóðarinnar til að leika við hunda sína, en íbúar á neðri hæðinni noti lóðina til að hleypa sínum fjórum hundum út. Kærandi hafi ítrekað kvartað við íbúa neðri hæðarinnar vegna óþrifnaðar og lélegrar umgengni um lóðina. Eftir að hundur kæranda hafi verið bitinn í október 2016 hafi hann ávallt athugað vel hvort aðrir hundar séu á lóðinni áður en hans hundum sé hleypt þangað. Íbúar neðri hæðar hleypi hinsvegar sínum hundum út án aðgæslu með þeim afleiðingum sem að ofan greini.

Eftir árás viðkomandi hunds á kæranda og hund hans hafi kærandi kært atvikið til lögreglu og tilkynnt það til heilbrigðiseftirlitsins og Matvælastofnunar. Áverkavottorð, ljósmyndir, lögregluskýrslur og önnur gögn hafi fylgt. Hin kærða ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins sé byggð á þeim gögnum, viðtali við eiganda hundsins, sem ekki hafi verið á staðnum þegar umrædd atvik hafi átt sér stað, mati dýralæknis á hundinum og einni vettvangsheimsókn. Ekki hafi verið rætt við kæranda í þeirri heimsókn. Í niðurstöðu heilbrigðiseftirlitsins virðist ekki vera tekið tillit til þess að kæranda, sem eigi rétt á að nýta eign sína, standi ógn af hundinum. Kærandi geri athugasemdir við mat dýralæknisins á hundinum, þar sem eingöngu sé byggt á frásögn eiganda hans, sem ekki hafi verið á staðnum, eins og áður segi. Það sé rangt að kærandi hafi hleypt sínum hundum inn á lóðina án þess að athuga hvort einhver væri þar fyrir.

Kærandi þori ekki inn á lóðina nema hann viti að enginn sé heima á neðri hæðinni þar sem íbúar þar hafi haldið áfram að hleypa hundunum eftirlitslausum út, einnig hundinum sem hafi bitið kæranda. Kærandi hafi nú sett upp girðingu sem skipti lóðinni í tvennt til að reyna að halda umræddum hundi af þeim hluta lóðarinnar sem tilheyri kæranda. Íbúar neðri hæðar hafi ekki tekið tilmæli heilbrigðiseftirlitsins varðandi hundinn alvarlega. Honum sé ítrekað sleppt lausum á lóðina án þess að athugað sé hvort aðrir séu þar. Kærandi upplifi mikla hættu af hundinum og hafi umrædd atvik haft mikil áhrif á hann, bæði líkamlega, fjárhagslega og andlega.

Málsrök heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis: Af hálfu heilbrigðis-nefndar er þess krafist að hafnað verði kröfu kæranda um að nefndin komi frekar að málinu. Aðkoma Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis hafi hafist með því að kærandi hafi haft samband við eftirlitið símleiðis 23. mars 2017 vegna árásar hunds á hann á lóð við heimili hans daginn áður. Hafi kæranda verið bent á að leita til lögreglu vegna málsins og hafi hann síðan komið með lögregluskýrslu til heilbrigðiseftirlitsins 27. s.m. Skýrslunni hafi fylgt gögn um áverka hans og á hundum hans.

Heilbrigðiseftirlitið hafi tekið málið til meðferðar með vísan til 10. gr. samþykktar nr. 154/2000 um hundahald í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi, en þar segi að hundeiganda eða umráðamanni hunds sé skylt að sjá til þess að hundur hans valdi ekki hættu, óþægindum, óþrifnaði eða að hann raski ekki ró manna. Framgangur málsins hafi verið með þeim hætti að 29. mars 2017 hafi framkvæmdarstjóri eftirlitsins haft samband við skráðan eiganda umrædds hunds, en hundurinn sé skráður hjá eftirlitinu samkvæmt gildandi reglum. Hafi leyfishafi komið að vörmu spori á skrifstofu heilbrigðiseftirlitsins til viðtals og hafi honum verið kynnt gögn málsins. Hafi komið fram hjá honum að á umræddum tíma hafi fimm hundar verið lausir í garðinum, þar af þrír sem tilheyrðu hans fjölskyldu og tveir hundar kæranda. Hafi honum verið tjáð að rannsókn heilbrigðiseftirlitsins myndi beinast að því hvort hundur hans teldist grimmur og gæti verið hættulegur umhverfi sínu. Hafi honum verið leiðbeint um að láta fara fram atferlismat á hundinum. Hafi nánar tilgreind dýralæknastofa upplýst síðar að hún hefði tekið það verkefni að sér og sé skýrsla dýralæknis um matið frá 12. apríl 2017.

Tveir starfsmenn heilbrigðiseftirlitsins hafi farið í vettvangsheimsókn að heimili leyfishafa 10. maí s.á. Aðstæður hafi verið skoðaðar, þ. á m. baklóðin, og örmerki hundsins lesið. Jafnframt hafi heimsóknin miðað að því að kanna hvernig umræddur hundur hagaði sér. Ekkert óeðlilegt hafi komið fram hjá hundinum. Hann hafi verið rólegur og tekið vinsamlega á móti viðkomandi. Í framhaldinu hafi þeim hluta málsins er snúið hafi að heilbrigðiseftirlitinu og heilbrigðisnefnd verið lokið með bréfi til lögreglu og kæranda, dags. 10. maí s.á.

Heilbrigðisnefnd byggi afstöðu sína í málinu á því að ekki hafi komið til meðferðar hjá heilbrigðiseftirlitinu ítrekuð eða alvarleg brot á samþykkt nr. 154/2000 af hálfu leyfishafa. Til álita hafi því ekki komið að afturkalla skráningu hundsins eða beita öðrum þvingunarúrræðum, sbr. 14. gr. samþykktarinnar. Við ákvörðun í málinu hafi verið gætt ákvæða 11. gr. samþykktarinnar og gætt meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, þar sem lögð sé áhersla á að ekki sé gengið lengra í íþyngjandi aðgerðum en nauðsyn beri til.

Heilbrigðisnefnd leggi áherslu á að nefndin fari ekki með eftirlit samkvæmt ákvæðum laga um fjöleignarhús og tjái sig ekki um hvort mál séu löglega tekin til afgreiðslu samkvæmt þeim. Í því máli sem hér sé til umfjöllunar fari heilbrigðisnefnd aðeins með eftirlit samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að enginn annar en kærandi hafi verið viðstaddur þegar kærandi hafi verið bitinn og því sé hann einn til frásagnar um að hundur leyfishafa hafi bitið. Hundar kæranda séu ekki skráðir til heimilis í húsinu.

Umræddur hundur leyfishafa sé aldrei án eftirlits og alltaf í taum á opnum svæðum. Honum standi ógn af öðrum hundum og bregðist við á árásargjarnan hátt sýni þeir honum ögrandi hegðun. Kæranda hafi verið gert þetta ljóst á sínum tíma og í kjölfarið hafi því verið ákveðið að hundarnir yrðu ekki saman á baklóðinni. Þó hafi verið rætt í upphafi um að venja hundana saman, en kærandi hafi sýnt því lítinn áhuga. Í bæði skiptin sem óhöpp hafi orðið hafi hundar neðri hæðar verið fyrir á baklóðinni, en kærandi hafi samt sem áður sleppt sínum hundum þangað. Ávallt sé athugað hvort kærandi sé á lóðinni áður en hundum neðri hæðar sé sleppt út. Leyfilegt sé að hafa hunda lausa á afgirtum einkalóðum svo framarlega sem þeir séu ávallt undir eftirliti. Í fyrra skiptið sem hundur leyfishafa hafi glefsað í hund kæranda hafi hundur kæranda verið laus utan girðingar og stungið höfðinu í gegnum girðinguna. Leyfishafi hafi þá greitt helming af dýralæknakostnaði.

Niðurstaða heilbrigðiseftirlitsins byggi á rannsókn eftirlitsins og atferlismati dýralæknis, sem sé hundinum kunnugur. Matið hafi ekki farið fram á heimili hundsins, heldur í hlutlausu umhverfi með ókunnugum hundi. Niðurstaða heilbrigðiseftirlitsins hafi verið tekin mjög alvarlega af leyfishafa og öðru heimilisfólki. Ávallt hangi múll á taumi hundsins þannig að hægt sé að grípa til hans. Þegar hundinum sé hleypt út í garð sé ávallt fylgst með honum. Hundurinn hafi einnig farið á hlýðninámskeið.

Niðurstaða: Í þágildandi 1. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, nú 59. gr., sbr. lög nr. 66/2017, er kveðið á um að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki sé fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram komi í þeim, enda falli þau undir lögin. Sé m.a. heimilt að setja í slíkar samþykktir ákvæði um bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds. Á grundvelli þessarar heimildar var sett samþykkt nr. 154/2000 um hundahald í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi. Þar segir í 1. gr. að hundahald sé takmarkað í lögsagnarumdæminu með skilyrðum samkvæmt samþykktinni. Í 4. gr. segir að allir hundar sem haldnir eru á eftirlitssvæðinu séu skráningarskyldir og í 2. gr. segir að Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis í umboði heilbrigðisnefndar sjái um skráningu og annist framkvæmd og eftirlit með hundahaldi á eftirlitssvæðinu. Samkvæmt 10. gr. samþykktarinnar er hundeiganda eða umráðamanni hunds skylt að sjá til þess að hundur hans valdi ekki hættu, óþægindum, óþrifnaði eða að hann raski ekki ró manna með stöðugu eða ítrekuðu gelti eða ýlfri. Í 14. gr. er fjallað um valdsvið heilbrigðisnefndar og þvingunarúrræði. Þar segir að sé um alvarlegt eða ítrekað brot á samþykktinni að ræða eða sinni hundeigandi eða umráðamaður hunds ekki fyrirmælum eftirlitsaðila um úrbætur eða breytingu á hegðan hunds geti heilbrigðisnefnd afturkallað skráninguna, bannað viðkomandi eiganda að vera með hund á eftirlitssvæðinu, gert hundeiganda eða umráðamanni að koma hundi fyrir á öðrum stað, viðurkenndum af eftirlitsaðila, eða látið fjarlægja hundinn.

Heilbrigðisnefndir starfa skv. áðurnefndum lögum nr. 7/1998. Samkvæmt þágildandi 13. gr. laganna, nú 47. gr., ber heilbrigðisnefnd að sjá um að framfylgt sé ákvæðum þeirra og reglugerða settra samkvæmt þeim, samþykktum sveitarfélaga og ákvæðum í sérstökum lögum eða reglum sem nefndinni er eða kann að vera falið að annast um framkvæmd á. Gilda og stjórnsýslulög nr. 37/1993 um störf nefndarinnar. Heilbrigðiseftirlit starfar í umboði heilbrigðisnefndar, sbr. þágildandi 15. gr. laga nr. 7/1998, nú 49. gr.

Ljóst er af gögnum málsins að grundvöllur kvartana kæranda vegna hundahalds leyfishafa var kannaður. Farið var á vettvang, aðstæður skoðaðar og rætt við leyfishafa og hegðun umrædds hunds metin. Jafnframt fór fram atferlismat dýralæknis, sem er sérfræðingur í meðferð hunda og katta, og liggur skýrsla hans frá 12. apríl 2017 fyrir í málinu. Samkvæmt skýrslunni hefur hundurinn verið áður til meðferðar á dýralæknastofunni og aldrei stafað af honum nein vandræði. Hundurinn var bæði metinn við skoðun en einnig voru settar upp aðstæður þar sem ókunnugur hundur nálgaðist hann utan húss. Kom í ljós að hundurinn var var um sig gagnvart öðrum hundum og fljótur að sýna merki um andúð og spennu en hefur aldrei sýnt fólki merki um óöryggi eða fjandskap. Niðurstaða skýrslunnar er sú að eigendur umræddra hunda hafi auðveldlega átt að geta komið í veg fyrir þann atburð. Þeir hafi báðir vitað um vandamálið sem verið hafi til staðar í samskiptum hundanna og hefðu áður upplifað rimmur á milli þeirra. Hefðu þeir mátt vita að ef hundarnir hittust myndi ekki fara vel. Sá hundur sem um væri deilt hefði ekki sýnt að hann væri hættulegur fólki, þar sem bitið sem kærandi hefði orðið fyrir hefði orðið í hita slagsmála á milli margra hunda. Mælti dýralæknirinn með því að umræddur hundur væri ávallt í taumi utandyra svo auðvelt væri að hafa stjórn á honum. Einnig væri hægt að nota munnkörfu á fyrstu stigum þjálfunar. Þá var á meðal gagna þeirra sem niðurstaða hinnar kærðu ákvörðunar byggðist á lögregluskýrsla um hundsbit og hnjask sem kærandi varð fyrir og var kærandi jafnframt í samskiptum við heilbrigðiseftirlitið á meðan á málinu stóð. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið var hvorki brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins né andmælarétti kæranda, enda hafði hann tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum að í málinu.

Á grundvelli framangreindra gagna var tekin sú ákvörðun að ekki skyldi láta fjarlægja hundinn af heimili sínu, enda um talsvert íþyngjandi þvingunarráðstöfun að ræða. Var farin sú leið að leggja fyrir leyfishafa að gæta betur að því að hundur hans væri ávallt undir eftirliti og þess gætt að af honum stafaði ekki hætta. Jafnframt var lagt fyrir leyfishafa að sjá til þess að hundur hans fái þjálfun undir leiðsögn vegna atferlis síns. Verður ekki annað séð en að framangreind niðurstaða hafi byggst á lögmætum og málefnalegum forsendum og það mat að ekki væri um alvarlegt brot að ræða í skilningi 14. gr. samþykktar nr. 154/2000 hafi verið forsvaranlegt, svo sem atvikum var háttað.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 10. maí 2017 um að láta ekki fjarlægja hundinn X, af heimili hans að.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

 

64/2017 Skólavegur Fáskrúðsfirði

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 14. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 64/2017, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Fjarðarbyggðar frá 16. maí 2017 um að eigendum verði gert að fjarlægja óleyfisframkvæmd við sólpall innan lóðarinnar að Skólavegi 12, Fáskrúðsfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. júní 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Skólavegar 12, Fáskrúðsfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar frá 16. maí 2017 að óleyfisframkvæmd á lóð þeirra verði fjarlægð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að réttaráhrifum hennar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fjarðarbyggð 29. og 30. nóvember 2017.

Málavextir:
Umsókn eins kærenda um byggingu sólpalls og 140 cm hárrar skjólgirðingar úr timbri á lóðinni við Skólaveg 12 á Fáskrúðsfirði var móttekin af skipulags- og byggingarfulltrúa Fjarðarbyggðar hinn 13. júní 2016. Umsóknin var tekin fyrir á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar sveitarfélagsins 15. s.m. og samþykkt að grenndarkynna hana fyrir hagsmunaaðilum á aðliggjandi lóð að Skólavegi 14 með athugasemdafrest frá 20. júní til 18. júlí 2016.

Í bréfi, dags. 16. júní 2016, sem sent var út í tilefni grenndarkynningarinnar, kemur fram að sótt sé um leyfi til byggingar 40 m2 sólpalls með 1,4 m hárri skjólgirðingu á austur-, vestur- og suðurhlið hans. Pallurinn verði staðsettur syðst og vestast á lóð Skólavegar 12 og standi 0,5 m frá mörkum lóðarinnar í vestri og 1,5 m í suðri. Hæð pallsins verði rétt yfir hæð lóðar. Nefndin tók umsóknina fyrir að lokinni grenndarkynningu hinn 21. júlí 2016 og lágu þá fyrir athugasemdir frá eiganda Skólavegar 14 er borist höfðu og umsögn skipulags- og byggingarfulltrúa um þær. Samþykkti nefndin umsóknina með vísan til þess að fram komnar athugasemdir væru ekki þess eðlis að hafna bæri henni. Bæjarráð, í umboði bæjarstjórnar, staðfesti þá afgreiðslu nefndarinnar hinn 25. s.m. Byggingarfulltrúi tilkynnti umsækjanda þá niðurstöðu með bréfi, dags. 9. ágúst 2016, þar sem jafnframt kom fram að leyfið tæki gildi þegar byggingarleyfisgjöld hefði verið greidd.

Eigandi Skólavegar 14 spurðist fyrir um hvort framkvæmdin samræmdist samþykktu byggingarleyfi með bréfi, dags. 13. september 2016. Fyrirspurnin var tekin fyrir hinn 19. s.m. á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar og bókað að nefndin teldi framkvæmdirnar ekki samræmast samþykktu leyfi. Var skipulags- og byggingarfulltrúa falið að fylgja ákvörðun nefndarinnar eftir. Hann ritaði bréf til kærenda, dags. 19. janúar 2017, þar sem gefinn var kostur á að koma á framfæri andmælum vegna fyrirhugaðrar ákvörðunar um að þeim yrði gert að fjarlægja þann hluta framkvæmda sem samræmdust ekki útgefnu byggingarleyfi. Það skyldi gert að viðlögðum dagsektum, eða eftir atvikum á kostnað lóðarhafa. Vísað var til mannvirkjalaga nr. 160/2010, skipulagslaga nr. 123/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012 til grundvallar ákvörðuninni. Kærendur andmæltu fyrirhugaðri ákvörðun með bréfi, dags. 17. febrúar s.á. Töldu þeir framkvæmdina vera innan veittra heimilda og að boðuð þvingunarráðstöfun myndi vega að eignarrétti þeirra sem verndaður væri í stjórnarskrá.

Með bréfi, dags. 16. maí 2017, að undangengnum allnokkrum bréfaskiptum og óformlegum samskiptum við eigendur Skólavegar 12 og 14, tilkynnti skipulags- og byggingarfulltrúi kærendum um þá ákvörðun að fjarlægja bæri pallaefni á milli skjólveggjar og grindverks á mörkum lóðanna Skólavegar 12 og 14 innan tiltekins frests. Ákvörðun um dagsektir eða niðurrif á kostnað lóðarhafa væri frestað þar til kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála væri liðinn. Vísað var í gr. 2.9.1. í byggingarreglugerð, X. kafla mannvirkjalaga og X. kafla skipulagslaga til stuðnings þeirri ályktun að um óleyfisframkvæmd væri að ræða. Þessari ákvörðun hafa kærendur vísað til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er á því byggt að hin kærða ákvörðun brjóti gegn eignarrétti þeirra sem varinn sé af 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár. Andmælum þeirra hafi ekki verið svarað af framkvæmdasviði Fjarðarbyggðar sem brjóti gegn góðum stjórnsýsluháttum auk þess sem ekki sé vikið að málsástæðum og rökstuðningi kærenda í hinni kærðu ákvörðun. Látið sé nægja að vísa til bréfaskipta í málinu. Útfærslu á endanlegum frágangi sólpallsins hafi verið ætlað að koma til móts við athugasemdir sem komu fram við grenndarkynningu frá eiganda aðliggjandi lóðar. Því hafi bil milli sólpalls og girðingar á lóðarmörkum verið klætt af með snyrtilegum hætti til að koma í veg fyrir uppsöfnun laufs og rusls. Þessi útfærsla hafi verið kostnaðarsamari en upphafleg útfærsla og hafi verið gerð af tillitssemi við eiganda aðliggjandi lóðar. Það skjóti því skökku við að kærendum sé nú gert að fjarlægja þessa viðbót að undirlagi þessa sama nágranna. Frágangurinn sé ekki í andstöðu við fyrirliggjandi byggingarleyfi og það væri á skjön við sanngirnissjónarmið að gera kærendum að fjarlægja og breyta snyrtilegum frágangi pallsins sem engum sé til ama.

———-

Yfirvöldum Fjarðarbyggðar var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum vegna kærumáls þessa en þau hafa ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúa Fjarðarbyggðar um að eigendur lóðarinnar að Skólavegi 12 fjarlægi þann hluta sólpalls við mörk aðliggjandi lóðar að Skólavegi 14 sem fólst í framlengingu pallsins frá skjólgirðingu að lóðamörkum. Ákvörðunin byggir á því að nefndur frágangur sólpallsins hafi ekki verið í samræmi við samþykkt byggingarleyfi og sé því óhjákvæmilegt að krefjast þess að honum verði komið í lögmætt horf, sbr. gr. 2.9.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, X. kafla mannvirkjalaga nr. 160/2010 og X. kafla skipulagslaga nr. 123/2010.

Byggingarfulltrúa er í 56. gr. mannvirkjalaga heimilað að leggja fyrir eiganda byggingarleyfisskylds mannvirkis að koma því í lögmætt horf samkvæmt samþykktum teikningum og byggingarlýsingu að viðlögðum dagsektum, eða að öðrum kosti að slíkt sé gert á kostnað eiganda, sbr. einnig 55. gr. mannvirkjalaga og gr. 2.9.1. og 2.9.2. í byggingarreglugerð. Skilyrði þess að nefndum þvingunarráðstörfunum sé beitt, er að um sé að ræða byggingarleyfisskylda framkvæmd sem sé ekki í samræmi við útgefið byggingarleyfi.

Fyrir liggur að einn kærenda sótti um byggingarleyfi fyrir byggingu sólpalls með 140 cm hárri skjólgirðingu á lóð sinni. Við grenndarkynningu var við það miðað að pallurinn stæði 1,5 m frá suðurmörkum lóðarinnar og 0,5 m frá vesturmörkum hennar. Fram kemur í umsögn skipulags- og byggingarfulltrúa að lokinni grenndarkynningu, dags. 18. júlí 2016, að sökum þess að fyrirhuguð framkvæmd væri nær lóðamörkum en 1 m og að fyrirhuguð girðing væri hærri en sem næmi fjarlægð hennar frá lóðarmörkum, félli hún ekki undir undanþágu byggingarreglugerðar frá leyfisskyldu vegna minniháttar framkvæmda og væri því byggingarleyfisskyld. Styðst sú ályktun við grenndarkynningargögn.

Fyrirliggjandi ljósmyndir af endanlegum frágangi pallsins bera með sér að hann nær alveg að mörkum aðliggjandi lóðar í vestri. Einnig liggur fyrir að kærendur hafi að eigin frumkvæði breytt hönnun pallsins eftir að upphafleg umsókn um byggingarleyfi var lögð fram með það fyrir augum að bregðast við athugasemd sem fram kom við grenndarkynningu. Endanlegur frágangur pallsins á lóðamörkunum er því ekki í samræmi við hina grenndarkynntu umsókn og samþykkt byggingarleyfi. Fyrir liggur í málinu að ekki hefur verið gefið út byggingarleyfi vegna viðbótarinnar sérstaklega. Með hliðsjón af framangreindu voru því fullnægjandi skilyrði til þess að skipulags- og byggingarfulltrúa Fjarðarbyggðar væri heimilt að taka hina kærðu ákvörðun, sbr. 55. og 56. gr. mannvirkjalaga og gr. 2.9.1. og 2.9.2. í byggingarreglugerð.

Hin kærða ákvörðun var tekin af skipulags- og byggingarfulltrúa í kjölfar ábendingar nágranna og með bréfi hans, dags. 19. janúar 2017, var kærendum veittur andmælaréttur í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann rétt nýttu kærendur sér og komu á framfæri athugasemdum með bréfi, dags. 17. febrúar s.á. Í tilkynningu til kærenda um hina kærðu ákvörðun voru færð fram rök að baki ákvörðuninni með vísan til málsatvika og viðeigandi réttarheimilda. Var því áskilnaði 21. og 22. gr. stjórnsýslulaga um rökstuðning ákvörðunar gætt.

Eðli máls samkvæmt er hagnýtingu fasteigna settar skorður í ýmsum lögum með tilliti til almannahagsmuna. Skipulagslög og mannvirkjalög hafa m.a. það hlutverk að setja slíkar almennar skorður. Í 15. gr. mannvirkjalaga kemur fram að lóðarhafi og byggingarleyfishafi beri ábyrgð á að við hönnun og byggingu mannvirkis sé farið eftir ákvæðum mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar. Óleyfisframkvæmd í skilningi mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar getur þannig ekki orðið andlag eignarréttinda sem njóta verndar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár. Verður því ekki fallist á þá málsástæðu að hin kærða ákvörðun brjóti gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti kærenda.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Fjarðarbyggðar frá 16. maí 2017 um að fjarlægja skuli óleyfisframkvæmd innan lóðarinnar að Skólavegi 12, Fáskrúðsfirði.

____________________________
Ómar Stefánsson

____________________________                      ____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                          Þorsteinn Þorsteinsson

102/2015 Bollagarðar Hofgarðar

Með
Árið 2017, mánudaginn 4. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 102/2015, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar frá 9. september 2015 um að samþykkja deiliskipulag Bollagarða og Hofgarða.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. nóvember 2015, er barst nefndinni 13. s.m., kæra eigendur, Bollagörðum 49, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar frá 9. september 2015 að samþykkja deiliskipulag Bollagarða og Hofgarða. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi að hluta og að lóðarhöfum Bollagarða 1-41 og Seltjarnarnesbæ verði gert að framkvæma tilteknar úrbætur á mörkum lóðanna Bollagarða 1-41 og Bollagarða 43-63 að viðlögðum dagsektum.

Gögn málsins bárust frá Seltjarnarnesbæ 17. mars 2016.

Málavextir: Deiliskipulag Bollagarða og Hofgarða tekur m.a. til lóðanna Bollagarða 1-41 og Bollagarða 43-63 og eru þær samliggjandi. Lóðirnar voru ódeiliskipulagðar fyrir gildistöku nýja deiliskipulagsins, en fyrirkomulag þeirra byggði á aðaluppdráttum sem samþykktir voru af byggingarnefnd Seltjarnarness við uppbyggingu lóðanna í kringum 1980. Á aðaluppdrætti lóðarinnar Bollagarða 1-41 frá 1978 er gert ráð fyrir göngustíg á mörkunum við aðliggjandi lóð Bollagarða 43-63.

Annar kærenda ritaði bréf, dags. 25. september 2012, til formanns skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness þar sem óskað var skýringa á hvers vegna göngustígur sá er finna mætti á uppdráttum nefndra lóða hefði ekki verið lagður. Var þess óskað að bæjaryfirvöld kæmu svæðinu í það horf sem uppdrættir svæðisins gerðu ráð fyrir. Haldinn var íbúafundur 27. júní 2013 vegna vinnu við fyrirhugað deiliskipulag á svæðinu. Þar var meðal annars varpað upp glæru sem gaf til kynna að ein af helstu gönguleiðum skipulagssvæðisins gæti legið á mörkum framangreindra lóða. Sami kærandi ritaði bæjarstjóra Seltjarnarnessbæjar bréf, dags. 12. júní 2014, þar sem hann ítrekaði fyrra erindi og greindi jafnframt frá því að hann hefði í millitíðinni verið í samskiptum við formann skipulags- og mannvirkjanefndar, sem og skipulagsfulltrúa, sem báðir hefðu sýnt erindi hans fálæti, ekki svarað því skriflega og ekki afhent umbeðin gögn.

Tillaga að deiliskipulagi Bollagarða og Hofgarða var auglýst 27. janúar 2015 með athugasemdafresti til 16. mars s.á. Kærendur komu að athugasemdum innan frests og átöldu meðal annars að ekki væri gert ráð fyrir göngustíg á mörkum lóðanna Bollagarða 1-41 og Bollagarða 43-63. Kærendur röktu einnig að ágreiningur væri um girðingarframkvæmdir á lóðamörkunum og létu að því liggja að svæði sem ætti að nota undir göngustíg hefði verið girt af og lagt undir lóðir húsanna við Bollagarða 13, 27 og 41. Á fundi skipulags- og umferðanefndar 16. júní 2015 var bókað að átta athugasemdir hefðu borist við deiliskipulagstillöguna og að fyrir lægi umsögn þar sem athugasemdum væri svarað. Var deiliskipulag Bollagarða og Hofgarða, ásamt svörum við athugasemdum, samþykkt skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar. Samþykkti bæjarstjórn tillögu nefndarinnar á fundi sínum 24. s.m. með fimm atkvæðum, en tveir sátu hjá. Fól bæjarstjórn skipulagsstjóra að senda svör við athugasemdum. Var það og gert sama dag og var kærendum svarað því til að umrætt svæði væri innan eignarlóðar og að ekki væri skipulagskvöð um göngustíg á lóðarmörkunum. Stíg mætti hins vegar leggja eftir samkomulagi lóðarhafa. Á fundi sínum 9. september 2015 tók bæjarstjórn skipulagið, lagfært að teknu tilliti til ábendinga Skipulagsstofnunar, fyrir að nýju og samþykkti með sex atkvæðum, en einn sat hjá. Bæjarstjóri Seltjarnarnessbæjar tók þátt í báðum afgreiðslum bæjarstjórnar á deiliskipulaginu. Samþykkt skipulagsins var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 15. október s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur telja hið kærða deiliskipulag fela í sér stækkun lóðarinnar Bollagarðar 1-41 á kostnað göngustígs á mörkunum við lóðina Bollagarðar 43-63. Ljósastaurar, sem settir hafi verið upp fyrir göngustíginn, séu eftir landtöku þessa inni í garði Bollagarða 13, 27 og 41. Benda kærendur á að skipting lóðar nr. 1-63 við Bollagarða hafi verið ákveðin samkvæmt samþykkt byggingarnefndar Seltjarnarness 23. ágúst 1978. Upphaflegir aðaluppdrættir lóðarinnar Bollagarðar 1-41 hafi gert ráð fyrir göngustíg sem verið sé að leggja af með nýju skipulagi. Hafi kærendur í samskiptum sínum við Seltjarnarnesbæ allt frá árinu 2011 bent á að svæðið eigi að vera undir göngustíg, enda auki það umferðaröryggi.

Vinnubrögð bæjarins hafi verið óásættanleg í málinu. Ábendingum um mistök bæjarins hafi hvorki verið svarað né andmælaréttur kærenda verið virtur. Þá sé bent á að bæjarstjóri Seltjarnarness búi á Bollagörðum 1-41.

Málsrök Seltjarnarnessbæjar: Af hálfu Seltjarnarnesbæjar er bent á að stærð lóðarinnar Bollagarðar 1-41 sé óbreytt samkvæmt nýja skipulaginu, líkt og fram komi í greinargerð þess. Óbreytt stærð hafi auk þess fengist staðfest af hönnuði skipulagsins og utanaðkomandi sérfræðingi sem fenginn hafi verið til að yfirfara mæligögn af tilefni umkvörtunar kærenda. Lóðamörkum lóðanna Bollagarða 1-41 og Bollagarða 43-63 hafi því ekki verið breytt með skipulaginu. Kvöð sé ekki til staðar um göngustíg á lóðamörkunum og það sé undir ákvörðun lóðarhafa komið hvort lagður sé göngustígur innan lóðar. Þá sé úrskurðarnefndin ekki til þess bær að knýja sveitarfélagið til lagningar göngustígs að viðlögðum dagsektum.

Niðurstaða:
Ágreiningur máls þessa lýtur að því að samþykkt deiliskipulag Bollagarða og Hofgarða geri ekki ráð fyrir göngustíg á mörkum lóðanna Bollagarða 1-41 og 43-63 á Seltjarnarnesi. Kærendur gera einnig athugasemdir við málsmeðferðina við undirbúning og samþykkt hins kærða deiliskipulags.

Við upphaf deiliskipulagsgerðar hafði annar kærenda vakið athygli bæjaryfirvalda á skorti á gönguleið á mörkum þeirra lóða sem hér um ræðir með tveimur bréfum. Við kynningu á skipulagslýsingu var gert ráð fyrir skilgreindri gönguleið á mörkum þeirra lóða. Við deiliskipulagsvinnuna féll þessi gönguleið út og var ekki á auglýstri skipulagstillögu sem bæjarbúum gafst kostur á að gera athugasemdir við. Lutu tvær af átta athugasemdum ásamt öðru að frágangi girðingar og gönguleiðar á mörkum nefndra lóða.

Í 2. mgr. 20. gr. sveitastjórnarlaga nr. 138/2011 kemur fram að sveitastjórnarmanni, nefndarfulltrúa eða starfsmanni sveitarfélags beri að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann svo sérstaklega að almennt megi ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af. Bæjarstjóri Seltjarnarness, sem er æðsti embættismaður Seltjarnarnessbæjar og jafnframt oddviti bæjarstjórnar, tók þátt í afgreiðslu deiliskipulagsins í bæjarstjórn án þess að víkja sæti, en hann er einn lóðarhafa Bollagarða 1-41 og á samkvæmt lóðaskiptasamningi 4,25% eignarhluta í lóðinni. Verður að telja að sem lóðarhafa á eignarlóð sem til greina kom snemma í skipulagsferlinu að tekin yrði að hluta undir skilgreinda gönguleið hafi bæjarstjóri haft hagsmuni af afgreiðslunni umfram þorra þeirra lóðarhafa sem féllu innan deiliskipulagssvæðisins. Bar honum því að víkja sæti við undirbúning, meðferð og afgreiðslu deiliskipulagsins vegna vanhæfis í skilningi 2. mgr. 20. gr. sveitastjórnarlaga.

Við mat á því hvort nefndur annmarki á afgreiðslu bæjarstjórnar á deiliskipulaginu teljist svo verulegur að ógildingu varði ber m.a. að horfa til stöðu bæjarstjórans sem oddvita meirihlutans í bæjarstjórn. Sem slíkur var hann í betri aðstöðu en aðrir til að hafa áhrif á afstöðu annarra bæjarfulltrúa til málalykta. Það verður þó ekki fram hjá því litið að samkvæmt 2. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga ræður afl atkvæða úrslitum mála á sveitarstjórnarfundum og falli atkvæði jafnt þá ræður hlutkesti en ekki atkvæði oddvita. Þá telst hjáseta þátttaka í atkvæðagreiðslu en þegar deiliskipulagstillagan kom til kasta bæjarstjórnar féllu atkvæði annars vegar þannig að fimm greiddu atkvæði með tillögunni og tveir sátu hjá og hins vegar greiddu sex atkvæði með tillögunni og einn sat hjá. Verður því ekki séð að afstaða bæjarstjórans við afgreiðslu deiliskipulagsins fyrir bæjarstjórn hafi ráðið úrslitum um lyktir þess eða að vanhæfi hans hafi leitt til niðurstöðu sem var efnislega önnur en annars hefði orðið. Verður deiliskipulagið því ekki ógilt af þeim sökum.

Málsmeðferð hins kærða deiliskipulags var að öðru leyti í samræmi við ákvæði skipulagslaga. Komu kærendur m.a. að athugasemdum við deiliskipulagstillöguna á kynningartíma hennar sem svarað var að liðnum athugasemdafresti. Var andmælaréttur kærenda við deiliskipulagsgerðina, sem leiða má af 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, því virtur.

Í 20. tl. 1. mgr. 2. gr. skipulagslaga segir að skipulagskvaðir séu kvaðir sem lagðar séu á einstakar lóðir eða landsvæði í deiliskipulagi um t.d. umferðarrétt. Hið nýja deiliskipulag tilgreinir sérstaklega í greinargerð að það taki ekki afstöðu til þess hvort göngustígur skuli liggja á lóðamörkum Bollagarða 1-41 og 43-63 og leggur því ekki nýja kvöð á lóðareigendur um umferðarrétt gangandi vegfarenda, en útilokar jafnframt ekki að mögulegt væri að leggja slíkan stíg samkvæmt skipulaginu eftir samkomulagi lóðarhafa.

Gert var ráð fyrir göngustíg á samþykktum aðaluppdráttum nefndra lóða frá uppbyggingartíma þeirra, en óumdeilt er að hann var ekki lagður í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti. Samkvæmt málsetningu á uppdráttunum, sem samþykktir voru 23. ágúst 1978, skyldi göngustígur liggja í tveggja metra fjarlægð frá austurhlið húsanna við Bollagarða 13, 27 og 41 og ná að lóðamörkum í 3,15 m fjarlægð frá húsunum. Ódagsettu mæliblaði Bollagarða 1-41 ber saman um að mörk lóðarinnar liggi 3,15 m austan við þessi sömu húsum. Stígur sá sem deilt er um var því frá upphafi sýndur innan marka lóðarinnar Bollagarða 1-41. Þá ber mæliblaði, þinglýstum lóðaskiptasamningi frá 3. júlí 1979 og upplýsingum í greinargerð nýs deiliskipulags saman um að umrædd lóð sé 9266 m2 að stærð. Ekki er því misræmi á milli nýs deiliskipulags og annarra gagna um stærð lóðarinnar Bollagarðar 1-41. Loks er kvöð um stíginn ekki að finna í þinglýstum skjölum hjá fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Í ljósi þess sem að framan greinir verður ekki séð að efnislegur annmarki sé á skipulaginu hvað umþrættan göngustíg varðar, enda heimilar skipulagið slíkan stíg án þess þó að um hann sé kvöð.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar hafnað.

Í málinu er einnig deilt um gróður og grindverk á mörkum þeirra lóða sem áður eru nefndar og um skyldur bæjarins vegna þess. Hefur m.a. verið krafist að úrskurðarnefndin hlutist til um úrbætur að því tilefni. Valdheimildir úrskurðarnefndarinnar einskorðast hins vegar við lögmætisathugun þeirra ákvarðana sem kærðar eru til hennar. Þá er það byggingarfulltrúa að knýja á um úrbætur, m.a. ef frágangi lóðar er ábótavant, sbr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að kærendur hafi beint því til byggingarfulltrúa að knýja á um slíkar úrbætur. Liggur því ekki fyrir kæranleg ákvörðun af hálfu byggingarfulltrúa hvað þetta atriði varðar. Af framangreindum sökum verður þeim kæruliðum sem snúa að frágangi við lóðamörk því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu að hluta á ákvörðun Seltjarnarnessbæjar um samþykkt deiliskipulags Bollagarða og Hofgarða.

Kröfu kærenda um að úrskurðarnefndin hlutist til um úrbætur á lóðamörkum Bollagarða 1-41 og Bollagarða 43-63 er vísað frá.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Þorsteinn Þorsteinsson

126/2017 Mímisvegur

Með
Árið 2017, föstudaginn 1. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 126/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. ágúst 2017 um að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á þaki hússins að Mímisvegi 4.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. október 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur., Freyjugötu 44, Reykjavík, og eigendur, Freyjugötu 42, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. ágúst 2017 að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á þaki hússins að Mímisvegi 4. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að Reykjavíkurborg verði gert að bæta úr öllum annmörkum á meðferð málsins.

Kærendur gera jafnframt þá kröfu að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 26. október 2017.

Málavextir: Á fundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur 27. febrúar 2015 var lögð fram fyrirspurn, dags. 25. s.m., um það hvort heimilað yrði að breyta þaki hússins að Mímisvegi 4 úr valmaþaki í risþak til samræmis við upphaflega hönnun hússins, sem samþykkt hafði verið af byggingarnefnd 31. október 1931. Húsið var síðar byggt með valmaþaki, en það mun vera eina húsið með slíkri þakgerð í röð fjögurra húsa suðaustanmegin við Mímisveg. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 5. mars 2014, er húsið talið sóma sér vel eins og það sé, en að það myndi ekki stinga í stúf við umhverfið ef það yrði byggt upp í samræmi við fyrirspurnina. Ekki var gerð skipulagsleg athugasemd við erindið og fyrirheit gefin um að umsókn í samræmi við fyrirspurn yrði grenndarkynnt. Mælst var til þess að umsagnar Minjastofnunar yrði aflað. Í umsögn hennar, dags. 19. mars 2015, var ekki gerð athugasemd við fyrirhugaðar breytingar, enda væru þær í samræmi við upphaflega hönnun. Hækkun á þaki færi ágætlega og myndi sóma sér vel í götumynd Mímisvegar. Gerð var krafa um að ytri frágangur yrði í samræmi við upphaflegan stíl hússins.

Lögð var fram umsókn á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 14. júlí 2015 um leyfi vegna tvíbýlishússins að Mímisvegi 4 til byggingar 3. hæðar og riss, innréttingar nýrrar íbúðar í risi, byggingar svala á suðurgafli 1.-3. hæðar, gerðar nýs inngangs og innréttingar íbúðarherbergis í kjallara. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 23. október s.á. var ákveðið að grenndarkynna umsóknina fyrir hagsmunaaðilum að Mímisvegi 2, 2a og 6, Fjölnisvegi 15, Sjafnargötu 14, og Barónsstíg 78 og 80. Á fundinum var lögð fram fyrrnefnd umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 5. mars 2014, og ný umsögn, dags. 2. október 2015. Í síðarnefndu umsögninni var lagt til að uppdrættir yrðu lagfærðir lítillega og að grenndarkynnt yrði fyrir þeim hagsmunaaðilum sem ákvörðunin tiltók.

Að lokinni grenndarkynningu, sem fram fór dagana 6. nóvember til 4. desember 2015, var erindið tekið fyrir að nýju á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 11. desember s.á. Engar athugasemdir höfðu borist og var erindið því samþykkt og vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa. Byggingarleyfisumsóknin var síðan samþykkt á afgreiðslufundi hans hinn 15. desember s.á. og var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði 17. s.m. Byggingarleyfið var loks gefið út af byggingarfulltrúa 9. ágúst 2017.

Málsrök kærenda: Kærendur telja málsmeðferð hinnar kærðu leyfisveitingar annmörkum háða. Þær breytingar sem fyrirhugaðar séu húsinu að Mímisvegi 4 verði að teljast umtalsverðar, enda um að ræða verulega útlitsbreytingu með tilkomu svala á öllum hæðum suðurhliðar hússins, auk þess sem þak hússins verði hækkað um allt að 4 m. Þessi hækkun muni skerða útsýni kærenda, valda auknu skuggavarpi í hverfinu og sé til þess fallin að rýra verðgildi viðkomandi fasteigna. Skipulagsfulltrúi hafi ekki fjallað um þessi atriði í umsögn sinni. Umrætt svæði njóti hverfisverndar í aðalskipulagi og gangi breytingin gegn þeirri vernd. Byggingarfulltrúa hafi því verið óheimilt að gefa út byggingarleyfi, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Í ljósi umfangs breytinganna hefði leyfisveitingin þurft að eiga stoð í deiliskipulagi, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 51/2015.

Gefa skuli út byggingarleyfi innan árs frá því að sveitarstjórn afgreiði leyfisumsókn að lokinni grenndarkynningu, sbr. 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Grenndarkynnt hafi verið 6. nóvember til 4. desember 2015, byggingarfulltrúi hafi samþykkt umsóknina 15. s.m. og borgarráð hinn 17. s.m. Byggingarleyfi hafi hins vegar verið gefið út tæpum 20 mánuðum síðar, eða hinn 9. ágúst 2017, og hafi þá verið liðinn lögmæltur frestur. Hefði átt að grenndarkynna umsóknina að nýju í samræmi við ofangreinda lagagrein. Þessi ágalli eigi einn og sér að leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Þá hafi grenndarkynningin, sem fram hafi farið síðla árs 2015, verið ólögmæt þar sem hún hafi ekki tekið til kærenda, þrátt fyrir að þeir hafi töluverða hagsmuni af þeirri útsýnisskerðingu sem af framkvæmdinni hljótist. Vísað sé í þessu sambandi í leiðbeiningablað Skipulagsstofnunar nr. 8b um grenndarkynningar, þar sem kemur m.a. fram að kynna skuli hækkun þaks fyrir næstu nágrönnum og öðrum þeim sem geti orðið fyrir áhrifum af henni, t.d. vegna útsýnis eða skuggavarps. Bent sé á að einn kærenda hafi á svipuðum tíma ráðist í tugmilljóna króna framkvæmdir að Freyjugötu 44, að fengnu byggingarleyfi, sem nú verði til einskis. Skipulagsyfirvöldum hafi því verið kunnugt um grenndarhagsmuni kærenda og því borið að leita sjónarmiða þeirra vegna fyrirhugaðra framkvæmda, sem ekki hafi verið gert. Því hafi verið brotið gegn málsmeðferðarreglum skipulagslaga, rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins og gegn andmælarétti kærenda.

Kæra í máli þessu hafi borist innan kærufrests. Byggingarleyfið hafi verið gefið út 9. ágúst 2017 og kærendur hafi fyrst orðið varir við framkvæmdir í byrjun október s.á. Upphaf kærufrests beri að miða við það þegar byggingarfulltrúinn í Reykjavík hafi sent afrit af byggingarleyfinu með tölvupósti til lögmanns kærenda hinn 18. október s.á., eftir eftirgrennslan af þeirra hálfu.

Kærendur telji mörg álitamál vera uppi um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar, sem hvert um sig geti leitt til ógildingar hennar. Horfa beri til svipaðra viðmiða og gert hafi verið í úrskurðum nefndarinnar í málum nr. 1/2015 og 61/2015.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að kröfum kærenda verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Hin kærða ákvörðun hafi verið tekin hinn 15. desember 2015 og hafi því kæran borist að liðnum kærufresti skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Hið sama eigi við ef miðað sé við 27. gr. og 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem tilgreini að stjórnsýslukærur skuli bera fram innan þriggja mánaða, eða í allra síðasta lagi innan árs, frá því aðila hafi verið tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun. Ekki sé fallist á að kærufrest skuli miða við útgáfu byggingarleyfis hinn 9. ágúst 2017, enda skuli miða við daginn þegar ákvörðun um að veita leyfið hafi verið tekin. Útgáfa byggingarleyfis sé aðeins formlegs eðlis til að tryggja að tiltekin skilyrði leyfisins hafi verið uppfyllt. Kærendum hafi verið kynnt byggingaráformin. Þeir hafi hins vegar ekki gert athugasemd við þau og því hafi leyfishafi haft réttmætar væntingar til þess að geta hafið undirbúning framkvæmda.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafar krefjast frávísunar málsins þar sem kæra hafi ekki borist innan kærufrests, auk þess sem kærendur hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Húseignirnar að Freyjugötu 42 og 44 séu í töluverðri fjarlægð frá Mímisvegi 4 og standi hærra í holtinu. Tvö fjögurra hæða hús með risþaki byrgi sýn séð frá Freyjugötu 42 og hávaxinn trjágróður, sem nái hátt yfir efstu þök, takmarki útsýni frá Freyjugötu 44. Um sé að ræða afar litla skerðingu á útsýni við hækkun efsta punkts þaks um 2,7 m og breytingu á lögun þess. Því sé ranglega haldið fram að byggingarleyfið snúi að byggingu nýrrar 3. hæðar og rishæðar, sem hækka muni húsið um 4 m. Um sé að ræða rishæð ofan á 2. hæð hússins í stað valmaþaks. Útsýnisskerðing sú er eigendur Freyjugötu 44 telji sig verða fyrir sé út um glugga á nýjum þakkvisti, sem ekkert hafi legið fyrir um þegar leyfishafar hafi sótt um leyfið, enda hafi fyrirhugaðar framkvæmdir að Mímisvegi 4 þegar verið samþykktar þegar gefið hafi verið út leyfi fyrir nýjum þakkvisti að Freyjugötu 44. Ekki hafi þótt ástæða til að grenndarkynna síðarnefndu byggingaráformin fyrir eigendum Mímisvegar 4. Ekki sé skylt að grenndarkynna vegna þess eins að framkvæmd sjáist frá öðrum húsum.

Lögð sé áhersla á að breytingarnar séu í samræmi við upprunalega hönnun hússins og að Minjastofnun hafi gefið jákvæða umsögn um áformin. Breytingarnar séu í samræmi við skipulagsáætlanir og ekki þess eðlis að vera deiliskipulagsskyldar. Sá frestur til útgáfu byggingarleyfis sem gefinn sé í 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga sé helst til knappur og beri að túlka rúmt með hliðsjón af meðalhófsreglu, enda miklir hagsmunir í húfi hjá leyfishafa. Í öllu falli verði að líta svo á að slíkur ágalli sé minniháttar.

Kæra í máli þessu hafi borist eftir lok kærufrests, þar sem upphaf frestsins beri að miða við samþykkt afgreiðslufundar byggingarfulltrúa hinn 15. september 2015. Hið sama eigi við þótt miðað sé við útgáfu byggingarleyfis hinn 9. ágúst 2017, enda hafi framkvæmdir hafist þá þegar með niðurrifi eldra þaks og uppslætti hins nýja. Kærendum hefði því strax átt að verða ljóst að leyfi hefði verið veitt fyrir framkvæmdum og hefði kærufrestur því átt að hefjast í síðasta lagi í ágústmánuði. Allt að einu hafi verið staðið rétt að undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar, byggingarleyfisumsóknin hafi hlotið jákvæða umsögn, verið grenndarkynnt og sé í fullu samræmi við hverfisverndarákvæði aðalskipulags, sem og ákvæði laga.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 16. nóvember 2017.

Niðurstaða: Fyrir liggur í málinu að hið kærða byggingarleyfi var gefið út 9. ágúst 2017, en að sögn leyfishafa hófust framkvæmdir skömmu síðar, m.a. með niðurrifi þaks Mímisvegar 4. Kærendur segjast fyrst hafa orðið varir við framkvæmdir í byrjun október s.á. og að þeir hafi fyrst fengið staðfest umfang þeirra hinn 18. október 2017, er þeir fengu afrit af byggingarleyfinu sent með tölvupósti frá starfsmanni byggingarfulltrúa.

Kærufrestur fyrir úrskurðarnefndinni er einn mánuður frá því að kæranda varð eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. Byggingarleyfi sætir ekki opinberri birtingu og því miðast kærufrestur við það tímamark þegar kærendum var sannanlega kunnugt, eða hefði mátt vera kunnugt, um efni hinnar kærðu ákvörðunar. Kærendum og leyfishafa greinir á um upphaf framkvæmda við þak Mímisvegar 4 og hvenær af þeim mátti ráða hvert efni hins kærða leyfis var. Varhugavert þykir að draga þá ályktun af því sem fyrir liggur í málinu að kærendum hafi mátt vera ljóst efni byggingarleyfisins fyrr en þeir fengu sent afrit af því hinn 18. október 2017. Barst kæran samkvæmt því innan kærufrests.

Kærendur, sem eru eigendur íbúða að Freyjugötu 42 og 44, telja sig verða fyrir skerðingu á útsýni til sjávar vegna þeirrar hækkunar sem hlýst af breyttu þakformi Mímisvegar 4. Styðja framlagðar ljósmyndir af uppslætti þaksins og skoðun á vettvangi þá ályktun. Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga er heimilað að víkja frá deiliskipulagsskyldu við veitingu byggingarleyfis en þá skal grenndarkynna byggingarleyfisumsókn. Í 2. mgr. 44. gr. sömu laga er kveðið á um að grenndarkynna skuli fyrir nágrönnum sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta af leyfisumsókn. Í 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga er heimilað að vikið sé frá kröfu um grenndarkynningu ef framkvæmd sé svo óveruleg að hún skerði í engu hagsmuni nágranna að því er varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp og innsýn. Í ljósi áhrifa á útsýni frá fasteignum kærenda, sem fylgja heimiluðum breytingum hússins að Mímisvegi 4, teljast þeir eiga hagsmuna að gæta í skilningi ákvæða skipulagslaga um grenndarkynningu. Hefði því borið að grenndarkynna fyrir þeim byggingaráformin í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga, en það var ekki gert. Til þess ber einnig að líta að meira en ár leið frá afgreiðslu borgarráðs, í kjölfar grenndarkynningar á umræddu byggingarleyfi, þar til byggingarleyfi var útgefið af byggingarfulltrúa. Með vísan til 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga hefði því borið að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina að nýju áður en leyfið var veitt.

Með tilliti til þess að grenndarkynningu er ætlað að veita hagsmunaaðilum andmælarétt auk þess sem hún er liður í rannsókn máls, leiða greindir ágallar á grenndarkynningu umræddrar byggingarleyfisumsóknar til þess að ógilda verður hina kærðu ákvörðun.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. ágúst 2017 um veitingu byggingarleyfis vegna breytinga á þaki hússins að Mímisvegi 4.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson
 

116/2015 Fífuhvammur

Með

Árið 2017, föstudaginn 1. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 116/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 26. nóvember 2015 um að synja umsókn um leyfi fyrir viðbyggingu ofan á bílskúr á lóðinni nr. 25 við Fífuhvamm í Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. desember 2015, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Fífuhvammi 25, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 26. nóvember 2015 að synja umsókn um leyfi til að byggja viðbyggingu ofan á bílskúr á nefndri lóð. Í kæru var boðað að frekari rökstuðningur bærist síðar og barst hann nefndinni með bréfi, dags. 12. júlí 2017, sem móttekið var sama dag. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 8. febrúar 2016.

Málavextir: Á lóðinni nr. 25 við Fífuhvamm er tveggja hæða hús og er hvor hæð um sig einn eignarhluti, 80 m² að stærð, samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Austan hússins, og sambyggður því að hluta, er 56,8 m² bílskúr. Tilheyrir hann íbúð kærenda og var hann reistur töluvert síðar en húsið. Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 15. janúar 2015 var felld úr gildi synjun byggingarfulltrúa Kópavogs á umsókn um leyfi til að reisa 56,8 m² viðbyggingu ofan á fyrrnefndan bílskúr. Var niðurstaða nefndarinnar á því reist að undirbúningi og rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar væri svo áfátt að leiða ætti til ógildingar hennar. Benti nefndin í því sambandi á að ástæða hefði verið til að kanna nánar skuggavarp og hvort jafnræðis hefði verið gætt hvað varðaði heimildir til nýtingar lóða á svæðinu.

Í kjölfar þessa var umsókn kærenda um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu ofan á bílskúr lögð fram að nýju. Vísaði byggingarfulltrúi erindinu til skipulagsnefndar, sem frestaði afgreiðslu málsins á fundi sínum 16. febrúar 2015 og óskaði þess m.a. að gögn yrðu uppfærð. Erindið var tekið fyrir á ný á fundi skipulagsnefndar 16. mars s.á. og samþykkt að grenndarkynna það fyrir nánar tilgreindum lóðarhöfum við Fífuhvamm og Víðihvamm. Í kynningarbréfi vegna grenndarkynningar kom m.a. fram að umrædd viðbygging væri tvö herbergi og gangur. Væri hún tengd við 2. hæð íbúðarhússins. Hámarkshæð viðbyggingar og bílageymslu yrði 5,9 m, þar af væri vegghæð viðbyggingar á 2. hæð 3 m. Fjarlægð frá lóðarmörkum Fífuhvamms 27 væri 0,4 m. Hámarksbyggingarmagn á lóð yrði um 217 m² og nýtingarhlutfall um 0,27. Bárust athugasemdir á kynningartíma frá lóðarhöfum Fífuhvamms 27, er lutu m.a. að ætluðum grenndaráhrifum viðbyggingarinnar. Jafnframt var tekið fram að samkvæmt gildandi lóðarleigusamningi fyrir Fífuhvamm 27 lægi bílskúr Fífuhvamms 25 alveg upp að lóðamörkum, en ekki í 0,4 m fjarlægð frá mörkum lóðarinnar.

Erindið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar 4. maí 2015, því frestað og vísað til úrvinnslu skipulags- og byggingardeildar. Skipulagsnefnd tók erindið fyrir á ný 18. s.m. Fært var til bókar að komið hefði í ljós að misræmi væri á milli samþykkts mæliblaðs og samþykktra byggingarnefndarteikninga hvað varðaði fjarlægð bílskúrs frá lóðamörkum Fífuhvamms 25 og 27. Ekki væri unnt að ljúka afgreiðslu málsins fyrr en umrædd gögn hefðu verið yfirfarin. Komu kærendur að athugasemdum vegna þessa með bréfi, dags. 16. júlí 2015, og skírskotuðu til þess að fyrir lægi fjöldi samþykktra teikninga er sýndu að umrædd lóðamörk hefðu alltaf verið 40 cm frá húsvegg Fífuhvamms 25. Niðurstaða skipulags- og byggingardeildar eftir skoðun málsins mun hafa verið sú að lóðarmörk Fífuhvamms 27 lægju við bílskúr á lóð Fífuhvamms 25. Málið var síðan til umfjöllunar á þremur fundum skipulagsnefndar í júní, ágúst og október s.á.

Enn var erindið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 9. nóvember 2015. Lagt var fram minnisblað lögfræðideildar, dags. 4. s.m., um málið. Hafnaði skipulagsnefnd framlagðri tillögu með vísan til fyrrgreinds minnisblaðs og vísaði málinu til bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi bæjarráðs 12. s.m. var málinu vísað til bæjarstjórnar, sem staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar á fundi 24. nóvember 2015. Hafnaði byggingarfulltrúi umsókninni 26. s.m. með vísan til greindrar afgreiðslu skipulagsnefndar og bæjarstjórnar.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að útreikningar bæjaryfirvalda á nýtingarhlutfalli lóðarinnar séu rangir. Þar sé lagt til grundvallar að lóðin að Fífuhvammi 25 sé 780 m² þrátt fyrir að fyrir liggi eftir uppmælingu hennar að hún sé a.m.k. 891 m². Vanræki bæjaryfirvöld enn og aftur rannsóknarskyldu sína og hirði ekki um að styðjast við rétt gögn eða upplýsingar.

Grenndaráhrif vegna viðbyggingarinnar séu óveruleg. Engir gluggar séu á austurhlið hennar og því séu engin önnur áhrif af henni en skuggavarp. Það sé óverulegt og hverfandi yfir hásumarið. Loks sé ekki að sjá að samþykkt fyrir byggingunni geti skapað fordæmi. Ekki sé verið að víkja sem neinu nemi frá meðalnýtingarhlutfalli lóða, auk þess sem alltaf þurfi að skoða hvert tilvik fyrir sig. Ætti krafa 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, um samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar, að nægja til þess að komast að niðurstöðu um nýjar byggingarleyfisumsóknir, óháð afgreiðslu annarra umsókna. Haldi því ekki rök bæjaryfirvalda hvað fordæmi varði.

Að framangreindu virtu sé ljóst að hin kærða ákvörðun sé ekki studd haldbærum rökum auk þess sem hún sé að miklu leyti reist á röngum forsendum.

Málsrök Kópavogsbæjar: Sveitarfélagið telur að hafna beri kröfu kærenda. Hafi öll meðferð málsins verið í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010 og lög nr. 160/2010 um mannvirki. Auk þess hafi hin kærða ákvörðun verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum og í samræmi við meginreglur stjórnsýsluréttar.

Umrædd lóð sé á svæði sem skilgreint sé í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 sem ÍB-2 Digranes. Meðalnýtingarhlutfall lóða á svæðinu sé 0,29. Með nefndri viðbyggingu fari nýtingarhlutfall að Fífuhvammi 25 úr 0,28 í 0,35, sem sé í hærra lagi miðað við það sem almennt sé í nágrenni lóðarinnar. Við meðferð málsins hafi verið gerð ítarleg húsakönnun. Í nágrenninu sé að finna lóðir með hærra nýtingarhlutfall en núverandi nýtingarhlutfall Fífuhvamms 25. Hins vegar sé það mat bæjaryfirvalda að ekki sé um sambærileg tilvik að ræða, bæði með tilliti til húsagerðar, legu þeirra lóða og fjarlægðar bygginga frá mörkum næstu lóðar. Að auki hafi verið kannað hvort fordæmi væri fyrir svipuðum viðbyggingum á svæðinu, en svo hafi ekki verið. Einnig sé nálægð við aðliggjandi hús á lóð nr. 27 mikil og hafi það verið mat skipulagsnefndar að töluverð grenndaráhrif yrðu af umræddri viðbyggingu, t.a.m. skuggavarp. Jafnframt hafi verið talið að með því að heimila viðbygginguna væri verið að gefa ákveðið fordæmi, sem hefði neikvæð áhrif á svæðið. Byggð sé nú þegar mjög þétt á svæðinu og hverfið fullbyggt.

Niðurstaða: Lóðin Fífuhvammur 25 er á svæði ÍB-2 Digranes í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024. Segir svo um það svæði í aðalskipulaginu að þar sé nokkuð fastmótuð byggð en um sé að ræða þéttustu byggð Kópavogs með mjög blönduðum húsagerðum, þó mest fjölbýli.

Samkvæmt meginreglu 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal gera deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Undanþágu frá þeirri skyldu er að finna í 1. mgr. 44. gr. laganna, en þar segir að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir þá geti skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar, enda fari áður fram grenndarkynning. Felst grenndarkynning í því að skipulagsnefnd kynnir nágrönnum, sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta, umsókn um leyfi og gefur þeim kost á að tjá sig um hana innan tilskilins frests, sbr. 2. mgr. 44. gr. sömu laga. Grenndarkynning er því þáttur í því að rannsaka mál og veita hagsmunaaðilum andmælarétt. Kusu skipulagsyfirvöld að grenndarkynna umsókn kærenda, en umrædd lóð er á svæði sem ekki hefur verið deiliskipulagt.

Sveitarstjórnir og skipulagsnefndir í hverju sveitarfélagi fara með skipulagsvald skv. 3. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga. Er íbúum sveitarfélags almennt ekki tryggður lögvarinn réttur til að knýja fram leyfisveitingu. Eins og fyrr greinir hafnaði byggingarfulltrúi umsókn kærenda með vísan til minnisblaðs frá lögfræðideild Kópavogs. Í minnisblaðinu kom m.a. fram að umtalsverð aukning yrði á nýtingarhlutfalli lóðarinnar, en það færi úr 0,28 í 0,35 eftir breytinguna. Einnig yrðu grenndaráhrif viðbyggingarinnar töluverð, m.a. vegna nálægðar við húsið að Fífuhvammi 27. Þá væri ekki um sambærileg tilvik að ræða á umræddu svæði. Enn fremur gæti samþykkt byggingarinnar haft í för með sér að ákveðið fordæmi yrði sett og erfiðara yrði að hafna svipuðum umsóknum. Var talið að samþykkt umsóknarinnar hefði í för með sér töluverð íþyngjandi áhrif fyrir Kópavogsbæ og lóðarhafa í aðliggjandi húsum og væri því réttast að hafna umsókninni.

Kærendur telja að ákvörðun Kópavogsbæjar sé ekki studd haldbærum rökum, auk þess sem hún sé að miklu leyti reist á röngum forsendum. Benda kærendur t.a.m. á að útreikningar bæjaryfirvalda á nýtingarhlutfalli lóðarinnar að Fífuhvammi 25 séu rangir. Lagt sé til grundvallar að lóðin sé 780 m² þrátt fyrir að fyrir liggi eftir uppmælingu hennar að hún sé stærri. Máli sínu til stuðnings leggja kærendur fram óundirritaðan lóðarleigusamning milli Kópavogsbæjar og eigenda lóðarinnar, þar sem fram kemur að umrædd lóð sé 891 m², samkvæmt mæliblaði frá tæknideild Kópavogs, dags. 31. maí 2012. Taka kærendur fram að umræddur samningur hafi ekki verið undirritaður þar sem þeir hafi talið að lóðin væri í raun 905 m², og að bæta ætti við stærð hennar 14 m², eða 0,4 m ræmu meðfram austurmörkum lóðarinnar, þar sem lóðarmörk eigi að vera.

Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er lóðin að Fífuhvammi 25 skráð 780 m², en kærendur halda því fram að lóðin sé stærri. Það verður þó ekki séð að kærendur hafi krafist endurskoðunar á þeim upplýsingum sem fyrir liggja um fasteignina hjá fasteignaskrá, sbr. 3. mgr. 21. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Ekki liggur heldur fyrir að byggingarfulltrúi hafi í samræmi við ákvæði 19. gr. laganna tilkynnt Þjóðskrá Íslands um breytta stærð lóðarinnar að Fífuhvammi 25. Miðað við opinbera skráningu myndi nýtingarhlutfall hennar hækka úr 0,28 í 0,35, ef af leyfisveitingu yrði, en miðað við þær stærðir sem kærendur leggja til grundvallar málatilbúnaði sínum yrði um að ræða hækkun á nýtingarhlutfalli í 0,30, sé miðað við lóðarstærð 905 m2, en 0,31, sé miðað við 891 m2 lóðarstærð. Framangreindar lóðarstærðir hafa hvorki verið staðfestar með opinberri skráningu né samningi milli aðila, en ljóst má vera að gögn þar um hafa legið fyrir Kópavogsbæ. Með hliðsjón af framangreindu, sem og því að allt að einu yrði um hækkun á nýtingarhlutfalli að ræða umfram meðaltal á svæðinu, verður ekki talið að hin kærða ákvörðun hafi verið reist á röngum forsendum hvað nýtingarhlutfall varðar. Þá gefur ekkert í gögnum málsins það til kynna að sú niðurstaða Kópavogsbæjar, að ekki sé að finna í nágrenninu sambærileg tilvik við umsótta framkvæmd kærenda, hafi verið studd ófullnægjandi rökum, þrátt fyrir að dæmi finnist um hærra nýtingarhlutfall.

Umsótt viðbygging yrði á eða nærri mörkum lóðarinnar að Fífuhvammi 27. Er ljóst að af byggingunni yrðu grenndaráhrif. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var skoðað skuggavarp um sumarsólstöður og vorjafndægur og mun viðbyggingin valda auknu skuggavarpi á umrædda lóð kl. 16.00. Þrátt fyrir að fallast megi á að grenndaráhrif umræddrar byggingar séu ekki mikil verður ekki fram hjá því litið að hin kærða ákvörðun er studd efnisrökum að þessu leyti.

Með hliðsjón af öllu framangreindu og því jafnframt að í skipulagsvaldi sveitarfélagsins felst bæði vald þess til að samþykkja umsókn um leyfi eða synja, verður ógildingarkröfu kærenda hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Kópavogs frá 26. nóvember 2015 um að synja umsókn um leyfi fyrir viðbyggingu ofan á bílskúr á lóðinni nr. 25 við Fífuhvamm í Kópavogi.

 

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

1/2017 Hringvegur um Hornafjörð

Með

Árið 2017, mánudaginn 20. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri, Geir Oddsson umhverfis- og auðlindafræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hornafjarðar frá 1. desember 2016 um að veita framkvæmdaleyfi vegna Hringvegar um Hornafjörð milli Hólms og Dynjanda.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. janúar 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra Hollvinir Hornafjarðar og Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hornafjarðar frá 1. desember 2016 að veita framkvæmdaleyfi vegna Hringvegar um Hornafjörð milli Hólms og Dynjanda. Með bréfi til nefndarinnar, dags. 4. janúar 2017, sem móttekið var sama dag, kæra 11 eigendur jarða og lóða, sem fyrirhugað vegstæði mun liggja um, einnig áðurnefnda ákvörðun. Jafnframt kærir Akurnesbúið ehf. sömu ákvörðun með bréfi, dags. 7. janúar 2017, er barst úrskurðarnefndinni 9. s.m. Verða síðari kærumálin, sem eru nr. 3 og 7/2017, sameinuð máli þessu, enda standa hagsmunir kærenda því ekki í vegi.

Kærendur krefjast þess allir að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Fyrrnefndir landeigendur gera að auki kröfu um stöðvun framkvæmda meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Með bréfi Hollvina Hornafjarðar og Landverndar til úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. september 2017, sem móttekið var sama dag hjá nefndinni, var krafist stöðvunar framkvæmda. Nefndin hefur fylgst með áætlunum um upphaf framkvæmda og var síðast upplýst um það með tölvubréfi 10. nóvember 2017 að framkvæmdir við verkið hæfust 13. s.m. Fælist það aðallega í fyllingum og ræsum á milli Hólms og Djúpár, það er framkvæmdum á vestari kafla nýja vegarins. Verður málið nú tekið til efnislegrar meðferðar og verður því ekki tekin sérstök afstaða til kröfu um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Hornafirði 1. febrúar 2017.

Málavextir: Forsaga málsins er sú að í júlí 2006 kynnti Vegagerðin drög að tillögu að matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum veglagningar á Hringvegi um Hornafjarðarfljót. Voru þrír kostir kynntir, leið 1, 2 og 3, auk þess væri mögulegt að skeyta leiðum saman við Hornafjarðarfljót, þannig að ein leið vestan Hornafjarðarfljóta yrði sett saman við aðra leið austan við fljótin. Tillaga að matsáætlun vegna fyrirhugaðra framkvæmda var send Skipulagsstofnun í október s.á. Þar kom fram að vegarkaflinn á Hringvegi á milli Hólms að vestanverðu og Haga að austanverðu væri 30,3 km langur og á honum þrjár einbreiðar brýr, yfir Djúpá, Hornafjarðarfljót og Hoffellsá. Jafnframt var tekið fram að í undangengu samráðsferli hefðu komið fram ýmsar tillögur að nýjum veglínum og hefðu landeigendur lagt fram tvo kosti, leið 4 og 5. Vegagerðin legði hins vegar fram þrjár veglínur til skoðunar í mati á umhverfisáhrifum, þ.e. leið 1, 2 og 3. Bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar og var gerð krafa um að lagt yrði mat á fleiri kosti en ráðgert væri auk þess sem lagðir voru fram aðrir kostir, þ.e. veglínur 4a og 5b.

Hinn 5. desember 2006 lá fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar um fyrrgreinda tillögu að matsáætlun. Féllst stofnunin á matsáætlunina með athugasemdum. Lutu þær að því að birtar yrðu í frummatsskýrslu niðurstöður mats á umhverfisáhrifum veglína 4, 4a, 5 og 5a með samanburði við veglínur 1, 2 og 3 og einnig endurbyggingu núverandi vegar, að teknu tilliti til áhrifa á viðeigandi umhverfisþætti.

Vegagerðin skaut ákvörðun Skipulagsstofnunar til umhverfisráðherra og gerði kröfu um að úr gildi yrði felldur sá hluti hennar að meta skyldi þá framkvæmdarkosti sem landeigendur höfðu lagt til, sem og endurbyggingu núverandi vegar. Féllst umhverfisráðherra á kröfu Vegagerðarinnar með úrskurði, dags. 11. maí 2007. Í kjölfarið höfðuðu landeigendur mál gegn íslenska ríkinu og Vegagerðinni og kröfðust þess að úrskurður umhverfisráðherra yrði ógiltur. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 11. nóvember 2008 voru stefndu sýknuð af kröfum stefnenda og var sú niðurstaða staðfest með dómi Hæstaréttar 22. október 2009, í máli nr. 22/2009.

Skipulagsstofnun var send frummatsskýrsla vegna framkvæmda við Hringveg um Hornafjörð í janúar 2008. Var hún auglýst í kjölfar þess og umsagna leitað. Lagðar voru fram þrjár veglínur til skoðunar í mati á umhverfisáhrifum, leið 1, 2 og 3. Í desember s.á. var kynnt, m.a. á opnum kynningarfundi, útfærsla á leið 3 í mati á umhverfisáhrifum, þ.e. leið 3b.

Matsskýrsla vegna fyrirhugaðra framkvæmda lá fyrir í apríl 2009 og mun hún hafa borist Skipulagsstofnun í júní s.á. Í henni var m.a. tekið fram að umrædd framkvæmd væri 11-18 km löng veglagning. Næði hún frá bænum Lambleiksstöðum yfir Hornafjarðarfljót á nýju brúarstæði og að Hringvegi, við bæinn Haga, skammt austan Hafnarvegar, sem lægi að Höfn í Hornafirði. Lagðar væru fram þrjár leiðir til skoðunar í mati á umhverfisáhrifum, þ.e. leið 1, 2 og 3. Þá hefði, að teknu tilliti til umsagna og athugasemda er borist hefðu við frummatsskýrslu, verið gerð útfærsla á leið 3, þ.e. leið 3b. Með þeirri leið væri dregið úr neikvæðum umhverfisáhrifum miðað við leið 3.

Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 7. ágúst 2009. Í því var greint frá helstu niðurstöðum stofnunarinnar með eftirfarandi hætti: „Það er niðurstaða Skipulagsstofnunar að áhrif leiða 2, 3 og 3b á landslag, ásýnd, jarðmyndanir og gróður verði óhjákvæmilega verulega neikvæð. Þessar leiðir hafa talsverð neikvæð áhrif á fugla og áhrifin á landslag, ásýnd og jarðmyndanir verða varanleg og óafturkræf. Skipulagsstofnun telur að áhrif leiðar 1 á landslag, ásýnd, jarðmyndanir, gróður og útivist verði talsvert neikvæð. Áhrif leiðar 1 á landslag, ásýnd og jarðmyndanir verða varanleg og óafturkræf. Skipulagsstofnun telur að efnistaka úr námunni Friðsæld við Dynjanda hafi verulega neikvæð sjónræn áhrif á landslag, sem verði varanleg og óafturkræf. Skipulagsstofnun telur að neikvæð umhverfisáhrif leiðar 1 séu minni en annarra kynntra kosta. Auk þess leiðir veglagning samkvæmt leið 1 til minnstrar efnistöku úr nærliggjandi námum og skapar þar með bestu möguleika á að komast megi hjá efnistöku úr námunni Friðsæld við Dynjanda. Með vali á leið 1 væri dregið eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og samræmdist sú leið því best markmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun telur að öðru leyti að hvernig til tekst um áhrif framkvæmdarinnar og starfsemi sem henni fylgir á umhverfið sé háð verktilhögun og mótvægisaðgerðum sem kynnt hafa verið við meðferð málsins og vöktun á aðgerðum og áhrifum á byggingartíma/rekstrartíma.“ Lagði Skipulagsstofnun til að við veitingu framkvæmdaleyfis yrði sett það skilyrði að Vegagerðin myndaði formlegan samráðshóp fagaðila, m.a. með aðild Landgræðslu ríkisins og Umhverfisstofnunar, um endurheimt votlendis vegna framkvæmdarinnar. Samráðshópurinn hefði það hlutverk að fylgjast með endurheimt votlendis á framkvæmdasvæðinu og ynni að því markmiði að votlendi endurheimtist til jafns við það sem framkvæmdin hefði raskað.

Með umsókn, dags. 21. júní 2016, sótti Vegagerðin um framkvæmdaleyfi til Sveitarfélagsins Hornafjarðar til lagningar á nýjum Hringvegi um Hornafjörð, milli Hólms og Dynjanda samkvæmt veglínu 3b. Leitaði sveitarfélagið umsagna Umhverfisstofnunar og umhverfisnefndar í kjölfar þess. Jafnframt bárust sveitarfélaginu nánari upplýsingar frá Vegagerðinni um framkvæmdina með bréfum í ágúst og október s.á. Umsóknin var tekin fyrir og samþykkt á fundi bæjarstjórnar 8. september 2016. Á fundi bæjarstjórnar 13. október s.á. var hins vegar afturkallað samþykki hennar fyrir framkvæmdaleyfinu, með hliðsjón af úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í kærumáli nr. 46/2016 vegna Kröflulínu 4. Var samþykkt að vísa umsókninni aftur til nefnda sveitarfélagsins til nánari skoðunar í ljósi umfjöllunar um náttúruverndarlög í umræddum úrskurði. Umsókn um framkvæmdaleyfið var tekin fyrir á fundi umhverfisnefndar 29. nóvember 2016 og á fundi skipulagsnefndar 30. s.m. Að lokinni umfjöllun nefndanna lögðu þær til að fyrirliggjandi umsókn yrði samþykkt með skilyrðum.

Bæjarstjórn tók umsóknina fyrir á fundi sínum 1. desember 2016. Var m.a. fært til bókar að bæjarstjórn teldi ljóst, með vísan til bókana umhverfisnefndar og skipulagsnefndar frá 29. og 30. nóvember s.á. um málið, að nefndirnar hefðu kynnt sér ítarlega umsótta framkvæmd og fylgigögn og komist að rökstuddri niðurstöðu í framhaldi þess, líkt og áskilið væri í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Auk þess hefðu nefndirnar talið að skilyrði 13. gr. skipulagslaga væru uppfyllt. Samþykkti bæjarstjórn umsóknina með nánar tilgreindum skilyrðum og fól skipulagsstjóra að gefa út framkvæmdaleyfi. Auglýsing um samþykkt leyfisins var birt 8. desember 2016 í prentmiðlum, þ. á m. Lögbirtingablaðinu.

Í framkvæmdaleyfi, dags. 4. janúar 2017, er að finna eftirfarandi lýsingu á framkvæmdunum: „Hringvegur um Hornafjörð milli Hólms og Dynjanda, samkvæmt veglínu 3b. Framkvæmdin felur m.a. í sér lagningu 18 km langan veg, T-vegamót verða við núverandi Hringveg á móts við Hólm, tengingar að Brunnhóli og Einholti aðlagaðar nýjum vegi, tengivegur verður meðfram Djúpá, varnargarður austan Hornafjarðarfljóta verður gerður, sem og áningastaður í Skógey, ný T-vegamót verða við Hafnarveg, áningastaður austan Hafnarvegar og tenging að Hafnarnesi aðlöguð nýjum vegi. Þegar hafist verður handa við framkvæmdir austan við Hafnarveg verður Hafnarvegur norðan nýs Hringvegar tengdur við hann með T-vegamótum. Fjórar brýr verða í fyrirhuguðum útboðum, yfir Djúpá, Hornafjarðarfljót, Hoffellsá/Laxá og Bergá. Efnistaka vegna framkvæmda verður 883 þ. m³ í 7 námum.“

Hafa kærendur kært samþykkt framkvæmdaleyfisins, eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að ekki sé hægt að byggja ákvörðun um framkvæmdaleyfi á því mati á umhverfisáhrifum sem fram hafi farið. Matsskýrsla framkvæmdaraðila og gögn þau sem álit Skipulagsstofnunar sé grundvallað á séu úrelt. Sé það afar alvarlegt ef fyrirhuguð framkvæmd sé byggð á úreltum gögnum. Muni veglína 3b gjörbreyta ásýnd Hornafjarðar. Hún muni fara um fágætt og verðmætt svæði sem verndað sé sérstaklega bæði samkvæmt innlendri náttúruverndarlöggjöf og alþjóðasamningum sem Ísland sé bundið af. Beri að gæta ströngustu málsmeðferðarreglna við töku allra ákvarðana, sem snerti framkvæmdir á svæðinu. Fullyrðing um að umrædd matsskýrsla sé fullnægjandi til að byggja ákvörðun um framkvæmdarleyfi á sé afar hæpin, enda fylgi henni ekki nokkur rökstuðningur. Til þess að komast að slíkri niðurstöðu hafi þurft að fara fram heildstæð endurskoðun á matsskýrslunni. Gerðar séu alvarlegar athugasemdir við val á veglínu, en í áliti Skipulagsstofnunar komi fram að neikvæð umhverfisáhrif leiðar 1 séu minni en annarra kynntra kosta.

Verulegar breytingar hafi orðið á aðstæðum frá því að álit Skipulagsstofnunar var kynnt, t.a.m. hvað umferð og umferðaröryggi varði. Ný lög um náttúruvernd nr. 60/2013 hafi tekið gildi en þau séu talsvert viðameiri en eldri lögin. Komi fram í greinargerð með frumvarpi að nýju lögunum að aukin aðgæsluskylda sé lögð á framkvæmdaraðila samkvæmt ákvæðum þeirra. Auk þess geri lögin auknar kröfur um vandaða málsmeðferð stjórnvalda og að ákvarðanir sem varði náttúruna verði eins og kostur sé byggðar á vísindalegum grundvelli. Þá sé fullyrt í matsskýrslu að aldrei hafi flætt yfir flugbrautarenda Árnanesflugvallar, en 30. desember 2015 hafi orðið mikið vatnsflóð í firðinum vegna hárrar sjávarstöðu og flætt hafi yfir svonefndan Hólaveg. Árnanesið hafi verið umflotið vatni. Flóð í september 2017 hafi haft mikil áhrif á svæðið.

Sveitarfélagið hafi brotið gegn skráðum sem óskráðum reglum stjórnsýsluréttar við útgáfu framkvæmdaleyfisins. Verulegar líkur séu á því að málið hafi ekki verið nægilega upplýst eða rannsakað. Jafnframt hafi ekki verið gætt að andmælareglu og reglum um meðalhóf. Bæjarstjórn hafi ekki aðeins borið að rannsaka málið í samræmi við stjórnsýslulög nr. 37/1993 heldur einnig að sjá til þess að sú rannsókn væri ítarleg og vönduð, m.a. vegna fyrrnefndra breytinga er orðið hefðu frá því að álit Skipulagsstofnunar hafi verið kynnt. Jafnframt skipti máli að Hæstiréttur hafi talið að leiðir 4 og 4a ætti a.m.k. óbeint að meta og að ekki hefði verið tekin efnisleg afstaða til endurbyggingar vegar í núverandi vegstæði í dóminum.

Brotið hafi verið gegn grundvallarreglum umhverfislöggjafar, en meginreglur hennar hafi verið skýrðar í dómi Hæstaréttar í máli nr. 671/2008. Sú meginregla gildi í umhverfisrétti að lög um mat á umhverfisáhrifum skuli túlka rúmt og með hliðsjón af markmiðum þeirra, sbr. dóma Evrópudómstólsins í málum nr. C-72/95, C-227/01 og C-50/09. Hafi bæjarstjórn borið að taka mið af markmiðum laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og þeim meginreglum sem þau byggi á. Jafnframt hafi framkvæmdaraðili brotið gegn markmiðsreglum sömu laga. Bæjarstjórn hafi ekki farið eftir ákvæðum reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012. Engan viðhlítandi rökstuðning sé að finna fyrir ákvörðun bæjarstjórnar um að heimila veglagningu samkvæmt leið 3b þegar aðrir kostir komi til greina, sbr. að nokkru 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi, en þó aðallega með hliðsjón af b-lið 1. mgr. 9. gr. tilskipunar 2011/92/ESB.

Leyfisveitanda hafi borið að taka mið af meginreglum náttúruverndarlaga. Hefði hann þurft að afla gagna um það hvort matsskýrsla Vegagerðarinnar og álit Skipulagsstofnunar væru enn í fullu gildi út frá vísindalegri þekkingu, sbr. 8. gr. laganna. Hvorki hafi verið horft til svonefndrar varúðarreglu skv. 9. gr. sömu laga við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar né tekið mið af þeim reglum er fram komi í 10. og 11. gr. laganna. Fram komi í 10. gr. að áhrif á náttúruna skuli meta út frá heildarálagi. Hljóti ákvæðið að hafa átt að koma til skoðunar. Eigi þetta ekki síst við þar sem bæði matsskýrsla Vegagerðarinnar og álit Skipulagsstofnunar hafi verið gefið út áður en reglan kom til.

Í greinargerð sveitarfélagsins sé hvergi að finna heildstæða umfjöllun um það hvort matsskýrsla framkvæmdaraðila standist ákvæði laga nr. 60/2013, enda skorti bæjarstjórnina vald og sérþekkingu til að ákvarða slíkt. Bæði framkvæmdaraðila og sveitarfélaginu hafi verið skylt að líta til mats á umhverfisáhrifum og velja þá leið sem þar hafi minnst áhrif. Geti þessir aðilar hvorki borið fyrir sig að kostir leiðar 3b séu studdir af vegtæknilegum ástæðum né að kostnaður af henni sé minni en af leið 1, en fram komi í matsskýrslunni að kostnaður af leið 3b sé 800 milljónum kr. hærri en af leið 1. Þá nemi áætluð arðsemi af leið 1 um 17%, en aðeins 11% af leið 3b.

Fram komi í greinargerðinni að bæjarstjórn hafi lagt áherslu á að kanna hvort unnt væri að draga úr neikvæðum áhrifum á votlendi. Niðurstaða matsskýrslu sé að leið 1 valdi minnstu raski á votlendi, en það sé 20 ha í stað 32 ha fyrir leið 3b. Heildarröskun vegna leiðar 1 á votlendi hafi verið metin um 52 ha, en 77 ha í tilviki leiðar 3b. Efasemdir hafi verið uppi um árangur sem hljótist af endurheimt votlendis. Þannig liggi fyrir takmarkaðar upplýsingar um losun frá framræstu votlendi og hverju aðgerðir sem þessar gætu skilað. Eðlilegt hefði verið að niðurstaða starfshóps um endurheimt votlendis hefði legið fyrir áður en leyfi til framkvæmdanna væri veitt.

Óumdeilanlegt sé að leið 1 leiði til minnstu neikvæðu umhverfisáhrifanna fyrir utan núllkost og þann kost að leggja nýjan veg í núverandi vegstæði. Samrýmist sú leið því best markmiði umhverfismatsins. Ný veglagning sé um 40% styttri en hinar leiðirnar. Raski hún því ekki jafnmiklu af þeim svæðum sem sérstakrar verndar njóti samkvæmt náttúruverndarlögum og einnig sé þar ekki að finna í viðlíka mæli þau fyrirbrigði sem verndar njóti lögum samkvæmt. Í ljósi dóms Hæstaréttar í máli nr. 22/2009 séu jafnframt líkur á því að leiðir 4 og 4a valdi sambærilegum umhverfisáhrifum og leið 1. Þá liggi leyfi landeigenda ekki fyrir að öllu leyti.

Leggi hin afdráttarlausa niðurstaða Skipulagsstofnunar í áliti hennar, um verulega neikvæð, varanleg og óafturkræf áhrif allra leiða umfram núverandi veglínu og leiðar 1, sem og væntanlega leiða 4 og 4a, ríkar skyldur á leyfisveitanda um að leggja fram málefnaleg og vísindaleg gögn og röksemdir til stuðnings þeirri ákvörðun sinni að heimila annað leiðarval. Sé það ekki gert sé farið á svig við markmið laga um mat á umhverfisáhrifum, náttúruverndarlög og fyrrnefndan dóm Hæstaréttar. Leyfisveitandi eða umhverfisnefnd hans sé ekki bær til að ákveða að ganga gegn áliti Skipulagsstofnunar án þess að láta fara fram ítarlega rannsókn. Í þessu tilviki hafi það verið gert án viðhlítandi og málefnalegs rökstuðnings.

Í 61. gr. laga nr. 60/2013 sé kveðið á um að ekki skuli raska ákveðnum vistkerfum og jarðminjum nema brýna nauðsyn beri til. Bendi orðalag ákvæðisins og lögskýringargögn til þess að um afar þrönga heimild sé að ræða. Geti einungis mjög ríkir hagsmunir réttlætt röskun og þá fyrst og fremst brýnir almannahagsmunir. Hafi löggjafinn því ætlast til að ríkar kröfur séu gerðar til þess að sýnt sé fram á að aðrar leiðir séu annað hvort ekki mögulegar eða þær a.m.k. nánast útilokaðar. Uppfylli hin kærða ákvörðun ekki skilyrði ákvæðisins þegar af þeirri ástæðu að framkvæmdaraðili hafi ekki sýnt fram á, með málefnalegum hætti og með viðurkenndum aðferðum, að ekki sé kostur á annarri útfærslu vegagerðar sem uppfylli markmið framkvæmdarinnar samkvæmt samþykktri matsáætlun. Þar sem fyrir liggi að a.m.k. ein tiltekin leið nái raunverulega markmiðum vegagerðar sé ekki hægt að halda því fram að brýn nauðsyn sé að raska umræddum svæðum. Leið 3b sé hvorki óhjákvæmileg til að ná markmiðum framkvæmdar né þjóni hún með sannanlegum hætti brýnum almannahagsmunum auk þess sem mótvægisaðgerðir geti ekki bætt úr.

Kveðið sé á um afdráttarlausari vernd sjávarfitja og leira í lögum nr. 60/2013 en verið hafi í eldri lögum. Verði ekki séð að leyfisveitandi hafi tekið afstöðu til þeirrar breytingar. Það hefði þó verið nauðsynlegt, enda sé um að tefla veruleg og óafturkræf spjöll á verndarandlagi skv. 61. gr. laganna. Hafi hin aukna vernd gefið brýnt tilefni til þess að leyfisveitandi hlutaðist til um sérstaka rannsókn á heimildum sínum, en svo hafi ekki verið gert. Hvílt hafi á framkvæmdaraðila að sýna fram á með vísindalegum aðferðum og á leyfisveitanda að staðreyna með málefnalegum hætti og rökstuðningi að mjög ríkir hagsmunir réttlættu röskun verndarandlags ákvæðisins. Verði það varla gert nema með málsmeðferð skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum. Þá hafi ekkert mið verið tekið af því er fram komi í sérfræðiáliti um áhrif á sjávarfitjar og leirur. Sé jafnframt vísað til þess er fram komi í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi því er orðið hafi að lögum nr. 60/2013.

Mat á umhverfisáhrifum hafi leitt í ljós aðra sanngjarna og eðlilega kosti í stöðunni. Auk þess hafi landeigendur frá upphafi bent á aðra kosti, sem enn hafi ekki verið metnir með beinum hætti. Það sama eigi við um aðrar leiðir sem gætu hafa bæst við frá árinu 2009 vegna margvíslegra breyttra forsendna. Þá sé bent á að ekki liggi fyrir bindandi úrlausn um umhverfisáhrif núllkosts og þess kosts að leggja nýjan veg.

Leið 3b hafi ekki verið umhverfismetin. Engin lagaheimild hafi verið fyrir þeirri málsmeðferð sem Skipulagsstofnun hafi heimilað framkvæmdaraðila á árinu 2008 varðandi leiðina, þ.m.t. að bera hana ekki saman við núllkost og leiðir 1, 2, 3, 4 og 4a og lýsa þeim þáttum og áhrifum sem mælt sé fyrir um í 9. gr. laga nr. 106/2000. Óumdeilt sé að í samþykki Skipulagsstofnunar fyrir matsáætlun hafi ekki falist að metin yrði leið 3b. Þá hafi leiðin heldur ekki verið meðal þeirra kosta sem settir hafi verið fram í frummatsskýrslu. Engin heimild sé til að víkja frá málsmeðferð mats á umhverfisáhrifum við undirbúning ákvarðana um matsskyldar framkvæmdir. Til hliðsjónar þessu sé vísað til ákvörðunar umhverfis- og auðlindaráðherra frá 26. maí 2016 varðandi umhverfismat lagningar háspennulínu frá Blöndu til Akureyrar. Í þeirri ákvörðun hafi ráðuneytið beint því til Skipulagsstofnunar að endurskoða að eigin frumkvæði ákvarðanir sínar í tengslum við umhverfismat framkvæmdarinnar vegna annmarka sem hefðu verið á málsmeðferð Skipulagsstofnunar. Sambærileg atvik séu í máli þessu.

Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé það skilyrði fyrir samþykkt framkvæmdaleyfis að leyfisveitandi hafi áður kannað hvort umsótt framkvæmd sé sú sama og sætt hafi umhverfismati, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Hafi bæjarstjórn skyldum að gegna í samræmi við það og þeim mun ríkari rannsóknarskyldur því neikvæðara sem álit Skipulagsstofnunar sé. Verði ekki séð að bæjarstjórn hafi uppfyllt þá lagaskyldu sína að gera nefnda könnun. Hafi henni borið að skoða álit Skipulagsstofnunar í ljósi dóms Hæstaréttar í máli nr. 22/2009. Einnig hefði verið rétt af henni að bíða með ákvörðun um leyfisveitingu þar til niðurstaða fengist í kærumáli vegna endurskoðunar matsskýrslu. Hafi bæjarstjórn mátt vera kunnugt um framangreind atvik og henni því borið enn ríkari skylda en ella til að gera ítarlega könnun. Þá beri hvorki bókanir um málið, framkvæmdaleyfið né önnur gögn með sér að bæjarstjórn hafi tekið rökstudda afstöðu til fyrirliggjandi umhverfismats eða síðari atvika sem orðið hafi eftir útgáfu álitsins, svo sem áskilið sé í 14. gr. skipulagslaga.

Að því er umferðaröryggi varði þá hafi nýr vegur enga þýðingu heldur einungis girðing sem sett sé upp meðfram vegi. Ekki hafi verið sýnt fram á nein jákvæð áhrif veglína 1, 2 og 3 og 3b eða tilbrigða við þær umfram núverandi vegstæði að því er umferðaröryggi varði. Þá hafi engin rannsókn verði lögð fram við meðferð umsóknarinnar á óhöppum eftir 2005, en eldri rannsóknir hljóti að vera úreltar.

Ekki sé samræmi milli markmiða í samþykktri matsáætlun og frummatsskýrslu. Umfjöllun í frummatsskýrslu um núllkost og þann kost að endurbyggja nýjan veg í núverandi vegstæði uppfylli ekki skilyrði Skipulagsstofnunar. Forsenda þess að slá núllkost út af borðinu sé ekki lengur til staðar. Enginn skóli sé í Nesjum heldur sé þar starfrækt ferðaþjónusta. Hafi röksemdir fyrir því að velja ekki núllkost byggst á markmiðum sem ekki hafi verið þau markmið sem samþykkt matsáætlun hafi lagt til grundvallar. Séu því röksemdir framkvæmdaraðila fyrir því að velja ekki núllkost að þessu leyti í ósamræmi við matsáætlun. Hafi Skipulagsstofnun borið að vísa frummatsskýrslu frá og leiði sá annmarki til ógildingar.

Sjónarmið skipulagsnefndar, sem bæjarstjórn hafi staðfest, um að telja verði að jákvæð samfélagsleg áhrif sem hljótist af leið 3b vegi þyngra en minni neikvæð umhverfisáhrif annarra leiða, samrýmist ekki náttúruverndarlögum og sé ekki unnt að byggja ákvörðun á þeim. Þá liggi ekki fyrir gögn sem séu yngri en tíu ára um meint jákvæð samfélagsleg áhrif. Jafnframt stangist ályktanir skipulagsnefndar um umferðaröryggi á við það sem fram komi í matsskýrslu framkvæmdaraðila.

Umhverfisnefnd hafi borið að fjalla um framkvæmdina út frá vernd og verndarmarkmiðum, þ.m.t. með hliðsjón af mikilvægi minjanna og sérstöðu í íslensku og alþjóðlegu samhengi, sbr. 61. gr. náttúruverndarlaga. Það hafi hún ekki gert og verði því vart byggt á umsögn hennar. Ekkert komi fram í umsögninni um það hvaða mjög svo ríku og brýnu almannahagsmunir geti réttlætt röskun með leið 3b þegar aðrar leiðir séu tækar sem þjóni yfirlýstum markmiðum framkvæmdarinnar.

Þá virðist bæjarstjórn m.a. hafa látið hjá líða að kanna hvort leita þyrfti álits annarra umsagaraðila, hvort afla þyrfti frekari upplýsinga um málið eða hvort framkvæmdin væri í samræmi við aðrar skipulagsáætlanir en aðalskipulag, sbr. lög nr. 105/2000 um umhverfismat áætlana, þar á meðal deiliskipulag og landsskipulagsstefnu. Vísað sé til þess er fram komi í matsskýrslunni um fuglalíf, sem sýni hve fráleitt það sé að ákvörðun bæjarstjórnar hafi uppfyllt lög um mat á umhverfisáhrifum eða náttúruverndarlög. Loks varði umsókn um framkvæmdaleyfi ekki beiðni um efnislosun eða efnistöku samkvæmt efni sínu.

Þeir kærendur sem eru eigendur jarða og lóða sem fyrirhugað vegstæði mun liggja um benda á að aðild þeirra og hagsmunir hafi verið staðfestir í dómum Hæstaréttar í málum nr. 114/2008 og 22/2009. Starfræki þeir kartöflurækt á svæðinu, neðan við ármót Hoffellsár og Laxár, og við Dilksnes. Þeir einstaklingar sem standa að baki kæru Akurnesbúsins ehf. taka fram að þeir hafi með höndum fjölþætta landbúnaðarframleiðslu á landi sínu í Árnanestorfu. Kartöflurækt sé stunduð í stórum stíl á landssvæðinu, ekki síst á þeim svæðum nær sjó þar sem tilfærsla veglínu muni valda mestri röskun. Benda umræddir kærendur á að ef áform framkvæmdaraðila nái fram að ganga þá geti það haft mjög mikil áhrif á hagsmuni þeirra og valdið þeim miklu fjárhagstjóni. Alvarlegustu áhrifin af umræddri veglagningu verði þó á ásýnd og náttúrufar Hornafjarðar.

Taka fyrrnefndir landeigendur fram að í matsskýrslu framkvæmdaraðila sé aðeins að litlu leyti fjallað um áhrif framkvæmdanna á landbúnað á svæðinu. Hafi þeir gríðarlega hagsmuni af því að slík áhrif séu metin til fulls. Af þessum ástæðum hafi þeir leitað til Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, sem hafi unnið álitsgerð sem þeir hafi kynnt fyrir framkvæmdaraðila. Helstu niðurstöður álitsins séu þær að vegleið 3b muni auka tíðni flóða yfir og við kartöflugarða. Megi áætla að vegleiðin geti haft neikvæð áhrif á kartöflurækt og annan landbúnað. Mikil óvissa sé um líkur eða tíðni þess að áhrifin muni valda uppskerubresti, uppskerurýrnun eða uppskerutími verði seinna en ella. Vegleið 3b muni takmarka mjög framtíðarmöguleika á því að taka gott óræktað land til nýtingar. Telji Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins óljóst hversu ofarlega í landinu áhrifanna kunni að gæta, en alls séu 40 ha ræktaðir neðan ármótanna og vestan afleggjara í Árnanesi. Sé kartöflurækt mun viðkvæmari fyrir breytingum í umhverfinu en annar hefðbundinn landbúnaður. Geti litlar breytingar rýrt uppskeru svo um muni.

Í Dilksnesi, sem sé í eigu eins kærenda, sé jafnframt mikilvæg stofnræktun á kartöflum, en slík ræktun sé aðeins stunduð á þremur svæðum á landinu. Sé hún afar mikilvæg í ljósi þess að Hornafjörður sé eina svæðið á landinu sem sé laust við kartöflumyglu og hringrot. Þrátt fyrir þetta hafi framkvæmdaraðili látið hjá líða að meta áhrif framkvæmdarinnar á þetta landssvæði.

Á milli Hafnarness og Árnaness séu sjávarfitjar og leirur sem njóti sérstakrar verndar samkvæmt ákvæðum laga nr. 60/2013. Þar sem sjávarfitjar séu hæstar við Hrafnsey sé allmikið æðavarp og vorið 2016 hafi landnotkun þar breyst þegar tveir kærenda hafi hafið þar dúntekju. Í matsskýrslu sé hvorki fjallað um áhrif framkvæmdanna og fyrirhugaðs vegstæðis á sjávarfitjar og leirur né dúntekju á svæðinu. Hins vegar komi fram að leið 1 muni hafa óveruleg áhrif á fuglalíf í Hornafirði, en leiðir 2, 3 og 3b talsverð neikvæð áhrif og vegi þar þyngst röskun á fæðuöflunarsvæði fugla.

Málsrök sveitarfélagsins: Sveitarfélagið krefst þess að kröfum kærenda verði hafnað. Málsmeðferð á umsókn framkvæmdaleyfishafa hafi verið í samræmi við lög og reglur og vandaða stjórnsýsluhætti. Nefndir sveitarfélagsins og bæjarstjórn hafi fjallað með ítarlegum hætti um gögn málsins, m.a. um álit Skipulagsstofnunar og sjónarmið sem fram komi í náttúruverndarlögum nr. 60/2013 og lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Tekið hafi verið mið af meginreglum náttúruverndarlaga og þá sérstaklega varúðarreglunni.

Álit Skipulagsstofnunar sé fullnægjandi og uppfylli skilyrði laga nr. 106/2000. Sveitarfélagið hafi með vönduðum hætti rökstutt sjónarmið sín, sérstaklega þar sem þau fylgi ekki áliti stofnunarinnar. Ákvörðun sveitarfélagins sé reist á lögmætum grundvelli.

Sé í Aðalskipulagi Hornafjarðar 2012-2030, matsskýrslu Vegagerðarinnar og áliti Skipulagsstofnunar gerð ítarleg grein fyrir upplýsingum um framkvæmdasvæðið og umhverfisþáttum sem njóti verndar. Með umsókn hafi fylgt ítarleg efnistökuáætlun.

Rangt sé að matsskýrsla framkvæmdaraðila og umhverfismatið sé úrelt. Forsendur fyrir nýjum Hringvegi um Hornafjörð hafi ekki breyst og löggjöfin hafi ekki breyst að því marki að matsskýrslan verði sjálfkrafa úrelt. Engar verulegar breytingar hafi orðið á framkvæmdasvæðinu. Endurskoðun á áliti Skipulagsstofnunar skuli aðeins fara fram séu framkvæmdir ekki hafnar innan tíu ára frá því að álit hennar um mat á umhverfisáhrifum hafi verið gefið út.

Umsótt framkvæmd fyrir veglínu 3b sé í fullu samræmi við gildandi aðalskipulag Hornafjarðar. Í maí 2009 hafi verið samþykkt breyting á aðalskipulagi Hornafjarðar, sem hafi m.a. falið í sér að veglína syðst í Skógey hafi verið færð á hagstæðara vegstæði. Samfara breytingunni hafi verið unnin ítarleg umhverfisskýrsla. Meginmarkmið með breytingunni hafi verið umhverfissjónarmið, en sveigt hafi verið hjá flóa í Skarðsfirði, sem sé á náttúruminjaskrá, en leið 3 hafi þverað flóann að hluta til. Þannig sé flóanum og því lífríki sem þar sé ekki raskað. Sé það niðurstaða sveitarfélagsins að leið 3b þjóni hagsmunum samfélagsins best, hún stytti þjóðveg 1 umtalsvert og meira en aðrar leiðir sem skoðaðar hafi verið, aðgengi íbúa að þjónustukjarna sveitarfélagsins verði stórbætt og umferðaröryggi og greiðfærni aukið, auk þess sem leið 3b hafi í för með sér minni neikvæð umhverfisáhrif en aðrar leiðir. Umrædd leið sé innan rannsóknarsvæðis leiðar 3 og athugunarsvæðis sem kynnt hafi verið í tillögu að matsáætlun. Hafi Umhverfisstofnun talið að með henni sé dregið úr áhrifum á umhverfið. Sé stytting Hringvegar í fullu samræmi við Samgönguáætlun 2011-2022.

Skipulagsvald hverju sinni sé í höndum sveitarfélagsins, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Beri sveitarfélaginu að gæta meðalhófs við beitingu þess og hafi sú meginregla verið höfð að leiðarljósi við undirbúning og ákvarðanir í málinu.

Sú fullyrðing að hvergi sé að finna heildstæða umfjöllun um það hvort matsskýrsla framkvæmdaraðila standist ákvæði náttúruverndarlaga sé röng. Við ákvörðun um veitingu leyfisins hafi sérstaklega verið fjallað um ákvæði laganna og nýjar áherslur þeirra hafðar til hliðsjónar. Meðal skilyrða sem sett hafi verið fyrir framkvæmdinni séu mótvægisaðgerðir, sem fram komi í matsskýrslunni vegna leiðar 3b. Áhrif á jarðmyndanir séu staðbundin og komi fyrirhuguð framkvæmd ekki til með að rýra verndargildi þeirra.

Sérstaklega hafi verið litið til verndarmarkmiða 3. gr., sem eigi við um jarðminjar, vatnasvæði, landslag og víðerni, sem mögulega hafi átt við um framkvæmdina og fyrirhugað framkvæmdasvæði. Hafi d-liður 3. gr. fyrst og fremst átt við um fyrirhugaða framkvæmd. Allir kostir muni valda neikvæðum áhrifum á landslag. Með því að binda framkvæmdaleyfið ákveðnum skilmálum hafi sveitarfélagið stuðlað að því að dregið verði úr áhrifum á landslag og jafnframt muni kröfur um endurheimt votlendis að einhverju leyti móta nýtt vatnalandslag.

Samkvæmt 61. gr. laga nr. 60/2013 falli sjávarfitjar og leirur ekki undir jarðminjar heldur séu þær hluti af mikilvægum vistkerfum eins og votlendi. Sveitarfélagið hafi því ekki talið vera mun á áhrifum valkosta á jarðmyndanir, andstætt því sem fram komi í áliti Skipulagsstofnunar. Áhrif valkosta séu því sambærileg og séu fyrst og fremst vegna efnistöku í grónum áreyrum og skriðum. Eins og fram komi í gögnum sé dregið verulega úr efnistöku úr námunni Friðsæld og samkvæmt umsókn verði ekki nýtt rask í hlíðum eða skriðum. Sjónræn áhrif framkvæmdarinnar á fjallshlíðina við námuna Friðsæld verði því óbreytt. Framkvæmdir komi ekki til með að raska jarðmyndunum eða jarðminjum, sem njóti verndar skv. 2. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013. Það sé því mat sveitarfélagsins að áhrif framkvæmdar á jarðmyndanir verði neikvæð, þó ekki verulega. Þá hafi verið litið til niðurstaðna Náttúrufræðistofnunar Íslands um að leiðin liggi ekki að marki yfir viðkvæman sjávarfitjagróður.

Hafi framkvæmdaraðili lagt áherslu á að sneiða framhjá vistkerfum þar sem það hafi reynst mögulegt. Efni í vegfyllingu verði valið með tilliti til lektar svo að vatnsbúskapur sjávarfitja, mýra og flóa raskist sem minnst. Einnig sé lögð áhersla á að tryggja full vatnsskipti með hönnun brúaropa og ræsa.

Sveitarfélagið hafi kannað hvort unnt væri að draga enn frekar úr neikvæðum áhrifum á votlendi og tryggja að efnisval stuðlaði að gegndræpi vegarins um votlendi. Hægt sé að draga talsvert úr neikvæðum áhrifum á gróður og votlendi, m.a. með aðgerðum til að endurheimta votlendi. Óskað hafi verið eftir ítarlegri lýsingu framkvæmdaraðila á fyrirkomulagi framkvæmda og því hvar mójarðvegur væri á framkvæmdasvæðinu. Sveitarfélagið hafi fengið minnisblað frá Vegagerðinni, dags. 11. nóvember 2016, um vegi í votlendi eða mjúkri undirstöðu. Það hafi m.a. kynnt sér niðurstöður rannsókna Votlendisseturs Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og litið hafi verið til skýrslu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um endurheimt votlendis frá 2016. Þar segi eftirfarandi: „Mikið er um að vötn og tjarnir hafi verið endurheimt eða alls í 15 verkefnum. Verkefni við endurheimt mýra eru 13. Alls eru sex dæmi um endurheimt flæðiengja. Ekki eru dæmi um endurheimt leira. Árangur er í flestum tilvikum góður.“ Varðandi rask á öðrum gróðursvæðum vísi sveitarfélagið í svar Umhverfisstofnunar, dags. 2. nóvember 2016, við álitsumleitan bæjarstjórnar.

Eftir yfirferð gagna hafi bæjarstjórn ákveðið að leggja til ákveðna skilmála í framkvæmdaleyfinu, m.a. að leitað verði samráðs við Umhverfisstofnun og Landgræðslu ríkisins um endurheimt votlendis í samræmi við það sem tapist og að efni í vegfyllingu verði valið með tilliti til lektar til að hefta ekki vatnsbúskap. Sé raunhæft að meta það svo að með réttu efnisvali og verklagi við gerð vegfyllingar muni lagning vegar um votlendi skila tilætluðum árangri. Þá sé það einnig skoðun sveitarfélagsins að með samvinnu fagstofnana um útfærslu á endurheimt votlendis verði stuðlað að því að umfang, endurheimt og virkni verði eins og best verði á kosið.

Rétt sé að ekki sé fjallað sérstaklega um dúntekju í matsskýrslu framkvæmdaraðila. Hins vegar sé fjallað um það hvaða áhrif framkvæmdin hafi á fuglalíf. Muni mótvægisaðgerðir hafa í för með sér að dregið verði úr neikvæðum áhrifum á fuglalíf, þar sem ný fæðuöflunarsvæði verði mynduð. Einnig hafi verið litið til nýlegrar rannsókna Náttúrufræðistofnunar Íslands um endurheimt votlendis.

Sú fullyrðing að sveitarfélaginu og framkvæmdaraðila sé skylt að líta til mats á umhverfisáhrifum og velja þá leið sem þar hafi minnst áhrif stangist á við lög og dómafordæmi. Sveitarfélaginu sé rétt að líta til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar og hafi það verið gert við undirbúning ákvörðunar. Álit stofnunarinnar sé lögbundið en ekki bindandi fyrir bæjarstjórn og sé sú fullyrðing í samræmi við dóm Hæstaréttar í máli nr. 22/2009. Jafnframt sé fallist á að framkvæmdaraðili hafi, að meginstefnu til, forræði á því hvaða framkvæmdakosti hann telji uppfylla markmið tiltekinnar framkvæmdar, enda sé mat hans á því byggt á málefnalegum og hlutlægum grunni.

Sú skoðun að framkvæmdaraðila sé skylt að meta umhverfisáhrif núllkosts í frummatsskýrslu og bera saman við aðra kosti um veglínu standist ekki skoðun, sbr. fyrrnefndan dóm Hæstaréttar. Auk þess gangi núllkostur þvert gegn markmiðum gildandi aðalskipulags Hornafjarðar og tilgangi og markmiðum framkvæmdar, sem fram komi í matsskýrslu framkvæmdaraðila.

Vegagerðin skilgreini tilgang og markmið framkvæmda hverju sinni og beri ábyrgð á því að framfylgja stefnu og markmiðum í samgöngumálum. Af tillögu að matsáætlun verði glögglega ráðið hvers vegna Vegagerðin hafi valið þær þrjár leiðir sem hún hafi lagt fram til skoðunar við mat á umhverfisáhrifum og hafnað öðrum kostum. Það sé skylda Vegagerðarinnar að skilgreina hvaða leiðir teljist færar með hliðsjón af markmiðum framkvæmda. Hvergi í lögum sé að finna heimild til að skylda hana til að meta umhverfisáhrif framkvæmdakosta sem stríði gegn markmiðum sem unnið sé eftir. Í máli þessu hafi sveitarfélagið og Vegagerðin byggt ákvarðanir sínar á málefnalegum sjónarmiðum og ítarlegum gögnum, sem styðji val á leið 3b umfram aðrar leiðir.

Niðurstaða framkvæmdaraðila sé að leið 3b komi til með að auka umferðaröryggi verulega, en leið 1 talsvert. Fjöldi vegtenginga sé talsvert meiri á leið 1 en leið 3b. Hafi framkvæmdaraðili leitað leiða til að fækka vegtengingum á leið 1, en ekki getað lagt fram tillögu sem sé hagkvæm eða raunhæf. Sveitarfélagið hafi m.a. litið til umsagnar vinnuhóps um mat á umferðaröryggi vega.
Sveitarfélagið hafi um árabil lagt megináherslu á að lagning á nýjum Hringvegi um Hornafjörð stuðli að auknu umferðaröryggi og styttingu leiða innan sveitarfélagsins. Sé því hafnað að stytting vegalengda hafi ekki verið markmið samkvæmt samþykktri matsáætlun.

Athugasemdir leyfishafa: Sjónarmið leyfishafa eru á sömu lund og fyrrgreind sjónarmið sveitarfélagsins. Fjöldi sérfræðinga hafi komið að borðinu og upplýst hafi verið um áhrif vegarins á umhverfið.

Leyfisveitandi hafi sannarlega litið til ákvæða 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 við veitingu framkvæmdaleyfisins. Fullyrðing um að leyfisveitandi hafi ekki tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar eigi sér enga stoð. Hafi dómur Hæstaréttar í máli nr. 22/2009 engin áhrif í þessu sambandi. Í dóminum sé ekki gerð athugasemd við þá röksemdafærslu leyfishafa að óþarft sé að meta sérstaklega leiðir 4 og 4a þar sem þær liggi innan rannsóknarsvæðis leiðar 1. Komi fram að ekki sé ástæða til að ógilda úrskurð ráðuneytisins á þeim grunni að þessar leiðir hafi ekki verið metnar, þar sem þær hafi verið metnar með óbeinum hætti.

Nokkurs misskilnings gæti hjá hluta kærenda um tilgang laga um mat á umhverfisáhrifum og forræði veghaldara við mat á valkostum. Liti misskilningur þessi alla umfjöllun þeirra um málið. Vísi leyfishafi í þessu sambandi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 280/2003 þar sem fjallað sé um markmið og tilgang nefndra laga. Fram komi í dóminum að markmið laganna sé ekki að banna almennt framkvæmdir vegna umhverfisáhrifa heldur að tryggja ákveðna málsmeðferð áður en ákvörðun sé tekin um framkvæmd. Það eitt að náttúrunni sé raskað dugi ekki til að koma í veg fyrir framkvæmd, en um sé að ræða heildarmat á fleiri þáttum. Sé vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 148/2016 í því sambandi.

Leyfishafi hafi sem veghaldari forræði á því hvaða kosti hann telji uppfylla markmið framkvæmdarinnar, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 22/2009. Í þeim dómi komi einnig fram að við mat á valkostum hafi leyfishafi gætt málefnalegra sjónarmiða. Hafi umfjöllun kærenda um aðra valkosti enga þýðingu í málinu. Þá verði ekki framhjá því horft að lega þjóðvega í skipulagi skuli ákveðin að fenginni tillögu leyfishafa, að höfðu samráði leyfishafa og skipulagsyfirvalda, sbr. 2. mgr. 28. gr. vegalaga nr. 80/2007. Fyrir liggi að vilji sveitarfélagsins, sem fari með skipulagsvald á svæðinu, standi til þess að fara leið 3b. Fari hagsmunir sveitarfélagsins og leyfishafa þannig saman við þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar séu.

Í matsskýrslu komi fram niðurstöður um fækkun ekinna kílómetra á ári á Hringvegi. Miðað við áætlun fyrir 2025 muni 116.000 km á ári á leið 1 og leið 3b, hinni síðarnefndu í hag. Skipti því máli hvort Hringvegur styttist um 11,8 km, eins og raunin sé samkvæmt leið 3b, eða 11,0 km, líkt og leið 1 stytti hann. Við styttingu leiða á vegum úti felist jafnan að umferðaröryggi aukist. Stytting vegarins sé því í samræmi við það markmið 1. gr. vegalaga að stuðla að greiðum og öruggum samgöngum. Höfn sé eini þéttbýliskjarninn með fjölbreytta þjónustu á mjög stóru svæði. Því hafi leiðarval á nýjum Hringvegi mikil áhrif á þjónustu innan sveitarfélagsins. Hafi í samgönguáætlun um árabil verið lögð áhersla á styttingu leiða, aukinn hreyfanleika og aðgengi í samgönguáætlun. Auk þess hafi stytting leiða þau áhrif að losun á koltvísýringi verði minni og hafi það jákvæð áhrif á umhverfið.

Varðandi meint brot á grundvallarreglum umhverfislöggjafar sé vísað til umfjöllunar um tilgang laga um mat á umhverfisáhrifum, sbr. og dóm Hæstaréttar í máli nr. 280/2003. Þá sé ekki þörf á að taka upp umhverfismatið, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000.

Gætt hafi verið ákvæða náttúruverndarlaga nr. 60/2013 við undirbúning og útgáfu hins kærða leyfis. Í tíð eldri laga nr. 44/1999 um náttúruvernd hafi sömu svæði notið sérstakrar verndar, sbr. t.d. 37. gr. þeirra laga. Því sé mótmælt að ákvörðun um að fara leið 3b fari gegn náttúruverndarlögum enda hafi matsferlið verið í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum. Eðli málsins samkvæmt verði að raska náttúrunni við vegagerð í landinu. Jafnframt sé því andmælt að umhverfisnefnd hafi ekki gætt ákvæða 61. gr. náttúruverndarlaga við umsögn sína. Sé hins vegar einhver óverulegur annmarki á umsögn nefndarinnar þá leiði hann einn og sér ekki til ógildingar á hinni kærðu ákvörðun.

Leið 3b sé í raun mótvægisaðgerð. Í tillögu að matsáætlun hafi verið kynntir þrír kostir. Miðað sé við að veglínur geti færst til innan rannsóknarsvæðisins ef matsvinnan leiðir í ljós að það sé nauðsynlegt. Þrátt fyrir þetta hafi leyfishafi í samráði við Skipulagsstofnun kynnt leið 3b út frá frummatsskýrslu og hafi hagsmunaaðilum verið gefinn kostur á að gera athugasemdir. Ljóst megi því vera að leið 3b hafi fengið umfjöllun í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum. Því hafi verið tekið tillit til áhrifa vegarins á sjávarfitjar og leirur.

Fullyrðing kærenda um að ekki hafi verið sýnt fram á nein jákvæð áhrif veglína 1, 2 og 3 og 3b að því er umferðaröryggi varði sé byggð á misskilningi. Rétt sé að slysatíðni hafi lækkað á Hringvegi um Hornafjörð frá samþykkt matsskýrslu. Enn sé þó langt í land til að ná landsmeðaltali fyrir þjóðvegi í dreifbýli. Innan við 30% slysa á árunum 2011-2015 hafi orðið við að ekið hafi verið á dýr. Girt verði meðfram nýjum vegi þar sem hann liggi um beitarsvæði. Í umferðaröryggismati frá 2008 komi fram að á leið 1 séu veg- og slóðatengingar mun fleiri en á hinum leiðunum. Þetta sé þó ekki sýnt nema í stöku tilfellum.

Ekkert ósamræmi sé á milli matsáætlunar og frummatsskýrslu. Stytting vegalengda sé einhver áhrifaríkasta aðferð til að auka umferðaröryggi og draga úr slysahættu.

Núllkostur, þ.e. óbreytt ástand, sé alltaf metið. Vísist um þetta til kafla 6.2.1. í matsskýrslu. Þar komi m.a. fram að óbreytt ástand sé ekki í samræmi við samgönguáætlun 2007-2010. Engu skipti þótt skólahaldi hafi verið hætt í Nesjum. Þar sé ferðaþjónusta og mikil umferð fólks. Matið á núllkosti sé því í fullu gildi.

Samningar séu í gangi við landeigendur í samræmi við ákvæði VII. kafla vegalaga. Sé landeigendum skylt að láta land af hendi til þjóðvegagerðar og hvers kyns veghalds, enda komi fullar bætur fyrir, sbr. 1. mgr. 37. gr. laganna. Hvorki komi fram í ákvæðum skipulagslaga né reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 að skilyrði fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis sé að umráðataka hafi farið fram, að einhverju eða öllu leyti, á því landi sem framkvæmd lúti að.

Aðstæður séu aðrar í kærumálum þeim sem hér séu til umfjöllunar en í dómum Hæstaréttar í málum nr. 796/2015 og 246/2017. Hvorki ákvæði laga né dómar Hæstaréttar leiði til þeirrar niðurstöðu að umráðataka lands þurfi að liggja fyrir þegar framkvæmdaleyfi sé veitt. Þá styðjist það við áratuga venju að leyfishafi fái framkvæmdaleyfi þótt ekki hafi verið samið við alla landeigendur þegar leyfi sé veitt. Megi færa gild rök fyrir því að framkvæmdaleyfi sé forsenda þess að eignarnám nái fram að ganga þar sem framkvæmd þurfi að vera í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi sveitarfélags lögum samkvæmt.
Viðbótarathugasemdir kærenda: Þeir kærendur sem eiga jarðir og lóðir þar sem fyrirhugað vegstæði liggur um telja að niðurstöður matsskýrslu framkvæmdaraðila um vatnafar séu í meginatriðum rangar þar sem rennsli úr Hoffellsá og Laxá í Nesjum sé stórlega vanmetið. Framkvæmdaraðili hafi metið hönnunarflóð árvatns fyrir fyrirhugaðar brýr í Hornafirði á grundvelli flóðagreiningar vatnshæðarmælis VHM-146 í Fossá í Berufirði, þar sem Orkustofnun hafi mælt rennsli síðan 1968. Flóðagreining Orkustofnunar fyrir þennan mæli sé frá desember 2006 og hafi verið endurskoðuð og yfirfarin vegna þessa verkefnis. Framkvæmdaraðili líti svo á að Fossá sé dragá, eins og Laxá og að engin ástæða sé til að ætla annað en að áætla megi flóð í Laxá á grundvelli mælinganna frá Fossá. Sé þessi aðferðafræði stórkostlega varasöm og beinlínis röng eins og sjá megi af athugasemd frá framkvæmdastjóra athugana og tækni hjá Veðurstofu Íslands. Þar komi fram að vatnasvið Laxár sé að mörgu leyti svipað og vatnasvið Fossár, en jafnframt sé ljóst að vatnasviðin séu mjög mismunandi útsett fyrir úrkomuáttum. Þá sýni gögn frá Veðurstofu að mikil flóð og vatnavextir á Suður- og Suðausturlandi, líkt og í októberbyrjun 2017, séu ekki einsdæmi og hafi hámarksrennsli Laxár oft mælst meira en þá frá árinu 2006.

Við þessar aðstæður sé ótækt að framkvæmdaleyfi standi óhreyft, þar sem verið sé að veita leyfi til framkvæmda án þess að afleiðingar þeirra hafi verið metnar með fullnægjandi hætti. Veki það jafnframt upp spurningu um hvort áhrif leiðar 3b á vatnsflæði Bergár, sem renni norðan við voginn milli Árnaness og Dilksness/Hafnarness, hafi verið metin með fullnægjandi hætti.

Svör leyfishafa við viðbótarathugasemdum: Leyfishafi telur að viðbótarathugasemdir þær er fram hafi verið færðar breyti engu um þær forsendur sem fram komi í matsskýrslu vegna framkvæmdarinnar, m.a. varðandi flóðahættu í tengslum við framkvæmdina. Í því sambandi sé vísað til umfjöllunar í matsskýrslu um vatnafar á bls. 129 og áfram. Ekki sé hægt að túlka athugasemdir sérfræðings Veðurstofunnar í þá veru að aðferðafræði sem notuð sé við mat á hönnunarflóði sé „stórkostlega varasöm og beinlínis röng“. Taki hann enda enga afstöðu til aðferðafræðinnar eða fjalli um hana sem slíka, en um sé að ræða þekkta aðferð. Miðað við fyrirliggjandi reynslu virðist vera ágætt samræmi á milli vatnasviðs Fossár í Berufirði og Laxár í Nesjum þegar komi að mati á flóðum og sé vísað til minnisblaðs sérfræðings leyfishafa, dags. 10. október 2017, hvað þetta varði.

Svör sveitarfélagsins við viðbótarathugasemdum: Sveitarfélagið vísar í svör leyfishafa og tekur undir þau sjónarmið sem þar koma fram.

——-

Færð hafa verið fram frekari sjónarmið í máli þessu sem ekki verða rakin nánar hér en höfð hafa verið til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Eins og fram hefur komið hefur undirbúningur framkvæmda vegna veglagningar Hringvegar um Hornafjörð staðið yfir í ríflega áratug. Sem hluti af þeim undirbúningi fór fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna, þar sem metin voru áhrif mismunandi framkvæmdakosta. Álit Skipulagsstofnunar vegna þessa lá fyrir 7. ágúst 2009 og var það niðurstaða hennar að með vali á leið 1 væri dregið eins og kostur væri úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdanna og samræmdist því best markmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum. Væru neikvæð umhverfisáhrif leiðar 1 minni en annarra kynntra kosta, auk þess sem veglagning samkvæmt leið 1 leiddi til minnstrar efnistöku úr nærliggjandi námum. Taldi stofnunin að áhrif leiða 2, 3 og 3b á landslag, ásýnd, jarðmyndanir og gróður yrðu óhjákvæmilega verulega neikvæð. Er í máli þessu deilt um lögmæti framkvæmdaleyfis, sem sveitarstjórn Hornafjarðar samþykkti 1. desember 2016 að veita fyrir lagningu Hringvegar um Hornafjörð milli Hólms og Dynjanda. Veitir það leyfi heimild til lagningar vegarins eftir veglínu 3b.

Um veitingu framkvæmdaleyfis, málsmeðferð og skilyrði er fjallað í skipulagslögum nr. 123/2010. Þannig gildir 13. gr. almennt um framkvæmdaleyfi en að auki kemur til kasta 14. gr. þegar um framkvæmdaleyfi vegna matsskyldra framkvæmda er að ræða, sbr. og 13. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Með lögum nr. 74/2005 var lögum nr. 106/2000 breytt. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að breytingarlögum nr. 74/2005 var tilgreint að helstu breytingar er fælust í frumvarpinu væru þær að í matsferlinu yrði ekki tekin afstaða til þess hvort fallast beri á með eða án skilyrða eða leggjast gegn framkvæmd sem lýst hafi verið með fullnægjandi hætti í matsskýrslu framkvæmdaraðila. Nánar er fjallað um hlutverk leyfisveitenda og Skipulagsstofnunar í athugasemdum með 10. og 13. gr. nefnds frumvarps. Í athugasemdum með 10. gr. er tekið fram að lagt sé til að í stað þess að Skipulagsstofnun kveði upp úrskurð um mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar gefi stofnunin álit sitt á endanlegri matsskýrslu framkvæmdaraðila. Það sé ekki hlutverk stofnunarinnar að ákveða hvort hafna eða leyfa skuli framkvæmd, heldur sé slík ákvörðun í höndum viðkomandi leyfisveitenda. Í athugasemdum með 13. gr. kemur fram að lagt sé til að leyfisveitandi skuli kynna sér skýrslu framkvæmdaraðila og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Leyfisveitendum beri þannig að fjalla um álit Skipulagsstofnunar og taka afstöðu til þess og kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila sem því liggi til grundvallar. Sé leyfi veitt þar sem tekið sé á einhverjum eða öllum þáttum með öðrum hætti en fram kemur í álitinu þurfi leyfisveitandi þannig að geta fært rök fyrir niðurstöðu sinni. Þetta sé í samræmi við nánar tilgreind ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins, sem kveði á um að niðurstöður mats skuli teknar til athugunar við útgáfu leyfis til framkvæmda. Ákvæðið hafi verið túlkað á þann veg að stjórnvaldið skuli, í ákvörðun um útgáfu leyfis til framkvæmda, vísa til framkominna upplýsinga og athugasemda úr matsferlinu og taka afstöðu til þeirra og geta þess sérstaklega hvaða sjónarmið liggja þar að baki. Álit Skipulagsstofnunar eða niðurstaða matsskýrslu bindi því ekki hendur þess stjórnvalds sem fari með útgáfu leyfis til framkvæmda.

Af því sem að framan er rakið er ljóst að skyldur leyfisveitenda eru ríkar og ná þær m.a. til þess að kanna hvort einhverjir þeir efnisannmarkar séu á áliti Skipulagsstofnunar, eða svo verulegir annmarkar á málsmeðferð, að bæta verði úr eða að á álitinu verði ekki byggt. Lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar beinist þannig ekki eingöngu að eiginlegri málsmeðferð og efnislegri niðurstöðu leyfisveitanda, heldur einnig eftir atvikum að málsmeðferð og efnislegri niðurstöðu Skipulagsstofnunar.

———-

Því er m.a. haldið fram í málinu að málsmeðferð Skipulagsstofnunar hafi verið ábótavant. Vísa hafi átt frummatsskýrslu frá þar sem hún hafi ekki verið í samræmi við matsáætlun hvað varðaði markmið framkvæmdar. Auk þess hafi ekki verið lagaheimild fyrir þeirri málsmeðferð sem viðhöfð hafi verið við kynningu á leið 3b.

Í tillögu að matsáætlun frá október 2006 er í kafla 1.3. fjallað um markmið framkvæmda. Tiltekið er að tilgangur framkvæmdar með nýjum vegi sé að bæta samgöngur á Suðausturlandi og styrkja byggðarlög á Suðaustur- og Austurlandi með bættu vegasambandi á Hringvegi. Vegalengdir milli Austurlands og Suðurlands styttist um a.m.k. 11 km með nýjum vegi. Markmiðið með gerð vegarins sé fyrst og fremst að auka umferðaröryggi, draga úr slysahættu og tryggja góðar samgöngur á svæðinu. Á bls. 9 í frummatsskýrslu frá janúar 2008 er tilgangi og markmiði framkvæmda lýst á þann veg að tilgangur þeirra sé að bæta samgöngur á Suðausturlandi og styrkja byggðarlög á Suðaustur- og Austurlandi með bættu vegasambandi á Hringvegi. Vegalengdir milli Austurlands og Suðurlands styttist um a.m.k. 10 km með nýjum vegi. Markmiðið með gerð vegarins sé fyrst og fremst að auka umferðaröryggi, draga úr slysahættu, stytta vegalengdir og tryggja góðar samgöngur á svæðinu. Samkvæmt þessu liggur fyrir að framangreindar lýsingar eru nánast samhljóða og því engin stoð fyrir þeirri fullyrðingu kærenda að stytting vegalengda hafi fyrst komið til sögunnar í frummatsskýrslu sem hluti af markmiðum framkvæmdar.

Í drögum að tillögu að matsáætlun frá júlí 2006 voru kynntir þrír framkvæmdakostir, þ.e. leið 1, 2 og 3. Einnig var vikið að þeim kosti að hafa óbreytt ástand, svonefndan núllkost, og tekið fram að fjallað yrði um hann í matsskýrslu. Enn fremur kom fram að framkvæmdaraðili teldi þann kost ekki raunhæfan. Í tillögu að matsáætlun eru lagðar fram þrjár leiðir til skoðunar í mati á umhverfisáhrifum, þ.e. fyrrnefndar leiðir 1, 2 og 3. Segir svo að kynntar leiðir séu afrakstur af samstarfi Vegagerðarinnar og Sveitarfélagsins Hornafjarðar og afmarkist valkostir m.a. af legu flugvallar. Geri allar framlagðar tillögur ráð fyrir að núverandi vegur verði nýttur sem innansveitarvegur. Var tekið fram að mögulegt væri að skeyta leiðum saman við aðrar framlagðar leiðir við Hornafjarðarfljót, t.d. þannig að leið 1 yrði fyrir valinu vestan Hornafjarðarfljóta en leið 2 austan þeirra. Gerð yrði grein fyrir mögulegum samsettum leiðum í frummatsskýrslu. Einnig var að finna umfjöllun um núllkost, sem var sem fyrr ekki talinn raunhæfur. Þá kom fram að í erindi sem Vegagerðinni hefði borist frá landeigendum væru lagðar fram tvær leiðir, leiðir 4 og 5. Kæmi leið 4 ekki til greina þar sem hún lægi innan þess svæðis sem Flugmálastjórn krefðist vegna flugvallarins. Leið 5 lægi norðar í landi, norðan við fyrirhugaða námu í Skógey, og sameinaðist núverandi vegi norðan Nesjahverfis. Legði Vegagerðin áherslu á að nýr vegur yfir Hornafjarðarfljót lægi ekki um Nesjahverfi og að hann stytti Hringveginn eins mikið og kostnaðarhagkvæmni leyfði, að teknu tilliti til umhverfis.

Lagðar eru fram þrjár leiðir til skoðunar í frummatsskýrslu. Er sem fyrr um að ræða leiðir 1, 2 og 3. Gerir skýrslan grein fyrir þessum leiðum og umhverfisáhrifum þeirra, sem og kostum sem fela í sér samsettar leiðir. Einnig er að því vikið að í athugasemdum um tillögu að matsáætlun hafi samtök fasteignaeigenda í Nesjum gert kröfu um að umhverfisáhrif fjögurra kosta yrðu metin til viðbótar við þá sem Vegagerðin hafi lagt fram, þ.e. leiðir 4, 4a, 5 og 5a, sem framkvæmdaraðili telji ekki koma til greina, m.a. að teknu tilliti til markmiða um greiðar samgöngur og umferðaröryggi.

Í desember 2008 var á opnum kynningarfundi á Höfn í Hornafirði kynnt „Ný útfærsla á leið 3 í mati á umhverfisáhrifum – Leið 3b.“ Var tiltekið að ástæður nýrrar útfærslu væru annars vegar óskir sveitarfélagsins um tilfærslu leiðar 3 norður fyrir Flóa, utan svæðis á náttúruminjaskrá, og hins vegar athugasemdir frá almenningi um að land sunnar í Skógey væri þurrara en þar sem leið 3 væri áætluð. Munu hafa verið veittar tvær vikur til að gera athugasemdir og jafnframt mun hafa verið óskað umsagnar Umhverfisstofnunar og Fornleifaverndar ríkisins vegna leiðar 3b.

Í kafla 6 í matsskýrslu frá apríl 2009 er fjallað um framkvæmdakosti. Tiltekið er að fram séu lagðar þrjár leiðir til skoðunar í mati á umhverfisáhrifum, leið 1, 2 og 3. Samráð við Sveitarfélagið Hornafjörð og athugasemdir og ábendingar frá almenningi hafi leitt til þess að framkvæmdaraðili hafi talið unnt að breyta veglínu 3 á þá leið að áhrif hennar yrðu minni á umhverfið. Því hafi verið gerð útfærsla á leið 3, þ.e. leið 3b, og sé sérstaklega gerð grein fyrir þessari útfærslu samhliða allri umfjöllun um leið 3. Er og svo gert í kafla 6.1.4. en leiðum 1, 2 og 3 gerð skil í köflum 6.1.1.-6.1.3. Í umfjöllun um leið 3b er tekið fram að hún sé innan rannsóknarsvæðis leiðar 3 og athugunarsvæðis sem kynnt hafi verið í tillögu að matsáætlun. Er veglínunni lýst þannig að hún þveri Hornafjarðarfljót sunnar en upphafleg leið, sbr. einnig mynd 6.1., og liggi sömuleiðis sunnar í Skógey. Frá Hrísey liggi veglínan líkt og upphafleg leið 3 í sunnanvert Árnanes, síðan norðan við Hrafnsey, suður fyrir Hafnarnes og fylgir eftir það línu skv. aðalskipulagi Hornafjarðar að Hringvegi norðan við Haga, sbr. mynd 6.1. og kort 4.

Um málsmeðferð vegna matsskyldra framkvæmda er fjallað í IV. kafla laga nr. 106/2000. Í tillögu framkvæmdaraðila að matsáætlun skal m.a. lýsa framkvæmdinni, framkvæmdasvæði og öðrum möguleikum sem til greina komi, sbr. 1. mgr. 8. gr. laganna. Frummatsskýrsla skv. 9. gr. skal vera í samræmi við matsáætlun og skal þar ávallt gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina koma og umhverfisáhrifum þeirra og bera þá saman. Frummatsskýrsla skal auglýst til kynningar samkvæmt fyrirmælum í 10. gr. laganna og vinnur framkvæmdaraðili matsskýrslu á grundvelli hennar. Skal í matsskýrslu gera grein fyrir fram komnum athugasemdum og umsögnum og taka afstöðu til þeirra. Telji Skipulagsstofnun að matsskýrsla framkvæmdaraðila víki frá frummatsskýrslu hvað varði mikilvæga þætti málsins skal hún auglýst að nýju, sbr. 3. mgr. 11. gr. Er í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að breytingarlögum nr. 74/2005 tekið fram að með þessu sé settur varnagli þar sem að öðrum kosti fengju verulegar breytingar á matsskýrslu ekki þá umfjöllun sem eðlilegt sé, af sérfróðum aðilum og öðrum sem kynnu að vilja tjá sig um þær.

Svo sem að framan er lýst var í matsskýrslu fjallað um nýja útfærslu leiðar 3, leið 3b, en hún var ekki tilgreind sérstaklega í frummatsskýrslu. Kom fram í matsskýrslu að hún væri til komin vegna athugasemda við frummatsskýrslu, annars vegar frá sveitarfélaginu og hins vegar frá almenningi. Með nýrri útfærslu væri m.a. komist hjá því að raska Skarðsfirði, sem er á náttúruminjaskrá. Leið 3b var kynnt af framkvæmdaraðila á opnum fundi og var óskað umsagna um hana áður en matsskýrsla var fullunnin.  Ekki var tekin ákvörðun um að auglýsa skýrsluna að nýju skv. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000 og verður að líta svo á að með því hafi Skipulagsstofnun talið að matsskýrslan viki ekki frá frummatsskýrslu hvað varðaði mikilvæga þætti málsins.

Markmið laga nr. 106/2000 eru tíunduð í 1. gr. þeirra. Meðal þessara markmiða er að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar. Einnig er meðal markmiða að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar, að stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða vegna framkvæmda sem falla undir ákvæði laganna, sem og að kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif slíkra framkvæmda og mótvægisaðgerðir vegna þeirra og gefa almenningi kost á að koma að athugasemdum og upplýsingum áður en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar liggur fyrir.

Ljóst er að gert er ráð fyrir ákveðnu samræmi á milli matsáætlunar, frummatsskýrslu og matsskýrslu og að Skipulagsstofnun hafi með því eftirlit. Í leiðbeiningum Skipulagsstofnunar frá desember 2005 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, sem gefnar voru út samkvæmt fyrirmælum í 2. mgr. 20. gr. laga nr. 106/2000, er m.a. fjallað um framsetningu framkvæmdarkosta í matsáætlun. Er tekið sem dæmi að þar sem framkvæmdaraðili hafi svigrúm til þess að velja marga kosti á útfærslu framkvæmdar, t.d. á legu vega, sé æskilegt að afmarka athugunarsvæði í tillögu að matsáætlun, þ.e. nokkurs konar belti á uppdrætti. Þannig sé gert ráð fyrir að mannvirkin verði innan beltisins þó svo að endanleg staðsetning hafi ekki verið ákveðin. Við þessa framsetningu hafi eiginlegir kostir enn ekki verið ákveðnir, heldur verði þeir valdir í matsferlinu og þá m.a. með tilliti til niðurstöðu þess. Með þessu móti sé hægt að hnika staðsetningu framkvæmdar, t.d. vegi, vegna umhverfisáhrifa sem koma í ljós við matið, t.d. vegna náttúrufars. Framkvæmdaraðili fylgdi þessari aðferðafræði og þegar leið 3b var kynnt til sögunnar var lögð áhersla á að um útfærslu á leið 3 væri að ræða og að hún lægi innan rannsóknarsvæðis framkvæmdarinnar. Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir nefndinni mun svo vera, að því undanskildu að 250 m löng brú á stöplum yfir Hornafjarðarfljót, sem fyrirhuguð er á leið 3b, virðist vera utan þess athugunarsvæðis sem sýnt var á uppdrætti með tillögu að matsáætlun. Þegar litið er til þess að vegurinn er að öðru leyti innan þess svæðis þykir það frávik þó ekki valda því að leiðin sem slík hafi ekki komið til mats.

Að áliti úrskurðarnefndarinnar var samfella í málsmeðferð frá matsáætlun til matsskýrslu vegna framkvæmdarinnar og er jafnframt ljóst að leið 3b kom til mats, a.m.k. með óbeinum hætti allt frá upphafi. Má í þessu sambandi vísa til dóms Hæstaréttar í máli nr. 22/2009, þar sem tiltekið var að í úrskurði umhverfisráðherra frá 11. maí 2007 fælist að leiðir 4 og 4a kæmu til mats með óbeinum hætti og væru því ekki forsendur til að ógilda úrskurðinn á þeim grunni að þær leiðir yrðu ekki metnar. Einnig verður að líta svo á að þótt leið 3b hafi verið kynnt til sögunnar með málsmeðferð sem ekki átti sér beina stoð í ákvæðum laga nr. 106/2000 hafi meðferð málsins fylgt almennum reglum stjórnsýsluréttarins um rannsókn máls, m.a. með því að leita athugasemda og umsagna. Var og stefnt að þeim markmiðum laga nr. 106/2000 sem áður er lýst, þ.e. samvinnu aðila og samráði við almenning, auk þess að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar með því að sneiða fram hjá svæði á náttúruminjaskrá.

Verður og að líta svo á að leið 3b hafi sætt mati á umhverfisáhrifum, enda lá hún að langmestu leyti innan þess athugunarsvæðis sem markað var í byrjun, auk þess sem gerð var grein fyrir henni sérstaklega í matsskýrslu og áliti Skipulagsstofnunar og umhverfisáhrif hennar borin saman við áhrif annarra leiða. Þannig er í matsskýrslu fjallað um þá kosti sem framkvæmdaraðili leggur fram til skoðunar, þ.e. leið 1, 2 og 3, auk leiðar 3b, sem sögð er vera ný útfærsla á leið 3. Gerð er grein fyrir núllkosti og öðrum kostum sem samtök landeigenda í Nesjum lögðu fram. Tekið er fram að í núllkosti felist óbreytt ástand. Tiltekin eru umhverfisáhrif leiða 1, 2 og 3, sem og mismunandi samsettra leiða, auk leiðar 3b, og þau borin saman. Hins vegar er ekki fjallað um umhverfisáhrif þess að endurbyggja veginn, enda var framkvæmdaraðila það ekki skylt skv. úrskurði umhverfisráðherra sbr. og dóm Hæstaréttar í máli nr. 22/2009. Tekur Skipulagsstofnun fram í áliti sínu að umfjöllun um framlagða kosti í matsskýrslunni sé góð.

Að öllu framangreindu virtu liggur ekkert annað fyrir en að fyrirhuguð framkvæmd hafi verið metin með fullnægjandi hætti í því mati á umhverfisáhrifum sem fram fór og gefur álit Skipulagsstofnunar hvað valkosti varðar ekki tilefni til athugasemda.

———-

Því er einnig haldið fram að mat það sem fram fór á umhverfisáhrifum hinnar umdeildu framkvæmdar sé úrelt fyrir aldurs sakir og er jafnframt tilgreint að ýmsar forsendur hafi breyst frá því að matið fór fram. Úrskurðarnefndin kvað upp úrskurð 13. nóvember 2017 í kærumáli nr. 77/2017, þar sem hafnað var kröfu um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 4. júlí 2016 um að vísa frá beiðni um endurskoðun matsskýrslu fyrir Hringveg um Hornafjörð. Var sú niðurstaða úrskurðarnefndarinnar á því reist að skilyrði 12. gr. laga nr. 106/2000, m.a. um að tíu ár væru liðin frá því að álit Skipulagsstofnunar lægi fyrir, hefðu ekki verið uppfyllt. Mat á umhverfisáhrifum Hringvegar um Hornafjörð og álit Skipulagsstofnunar þar um eru því ekki úrelt fyrir það eitt að langt sé um liðið. Það leysir þó ekki leyfisveitanda undan þeirri skyldu að kynna sér álitið og það sem því liggur til grundvallar og þá eftir atvikum að meta hvort forsendur hafi breyst að því marki að rétt sé að hann geri gangskör að því að upplýsa málið betur. Eru þær skyldur í samræmi við ákvæði 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga, sbr. og 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000, um að við leyfisveitingu skuli leyfisveitandi, hér sveitarstjórn, kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar.

Við afgreiðslu málsins hjá umhverfisnefnd Sveitarfélagsins Hornafjarðar var bókað að nefndin hefði kynnt sér matsskýrslu framkvæmdar frá apríl 2009, sem og álit Skipulagsstofnunar, dags. 7. ágúst s.á., um mat á umhverfisáhrifum. Í bókun skipulagsnefndar við afgreiðslu málsins er tekið fram að nefndin hafi borið saman fyrirliggjandi umsókn og matsskýrslu framkvæmdar, sem og áðurnefnt álit Skipulagsstofnunar, og hafi samanburðurinn leitt í ljós að umsótt framkvæmd væri í samræmi við matsskýrsluna. Tæki nefndin undir álit Skipulagsstofnunar um að matsskýrsla Vegagerðarinnar uppfyllti skilyrði laga um mat á umhverfisáhrifum og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt. Telji nefndin að matsskýrslan sé fullnægjandi til að byggja ákvörðun á um veitingu framkvæmdaleyfis, ásamt áliti Skipulagsstofnunar, umsögnum og sérfræðiskýrslum. Í matsskýrslunni sé m.a. gerð grein fyrir framkvæmd samkvæmt veglínu 3b, sem væri sú veglína sem umsótt framkvæmd sýndi. Einnig væri gert ráð fyrir efnistökusvæðum, umfangi þeirra og frágangi. Þá tók skipulagsnefnd fram að það væri mat hennar að álit Skipulagsstofnunar fullnægði lágmarksskilyrðum um rökstuðning og efnisinnihald, þannig að bæjarstjórn gæti tekið ákvörðun. Við afgreiðslu málsins hjá bæjarstjórn var gerð grein fyrir afgreiðslum umhverfisnefndar og skipulagsnefndar í málinu. Var fært til bókar að bæjarstjórn teldi með vísan til fyrrgreindra bókana ljóst að nefndirnar hefðu kynnt sér ítarlega umsótta framkvæmd og fylgigögn og komist að rökstuddri niðurstöðu í framhaldi þess, líkt og áskilið væri í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga. Hefði bæjarstjórn kynnt sér umsótta framkvæmd og umhverfisáhrif hennar, matsskýrslu og álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Kemur og fram í bókun bæjarstjórnar að unnin hafi verið greinargerð sem bæjarstjórn hafi haft til hliðsjónar við afgreiðslu málsins. Er af öllu ljóst að bæjarstjórn hefur kynnt sér fyrirhugaða framkvæmd, umhverfisáhrif hennar, sem og þau gögn sem búa að baki mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Er og ljóst af tilvitnaðri bókun skipulagsnefndar að við samþykkt hins kærða framkvæmdaleyfis leit nefndin ekki svo á að álit Skipulagsstofnunar væri haldið slíkum ágöllum að ekki yrði á því byggt, en kærendur hafa m.a. haldið því fram að svo sé.

Hinn 22. október 2009 kvað Hæstiréttur upp dóma í málum nr. 671/2008 og nr. 22/2009, sem hafa m.a. þýðingu í kærumáli þessu um það hvaða rök teljast málefnaleg, sem og um það hvaða atriði skuli skoða við leyfisveitingu fremur en í mati á umhverfisáhrifum. Varðar fyrri dómurinn mat á umhverfisáhrifum veglagningar um Teigsskóg, en sá síðari þá framkvæmd sem hér er deilt um.

Með dómi sínum í máli nr. 22/2009 féllst Hæstiréttur á að framkvæmdaraðili hafi forræði á því hvaða framkvæmdakostir uppfylli markmið framkvæmdar, enda sé mat hans í þeim efnum reist á hlutlægum og málefnalegum grunni. Fjallar Hæstiréttur síðan m.a. um val Vegagerðarinnar á leiðum og tekur fram að ástæður hennar fyrir vali á leiðum 1, 2 og 3 hafi allar verið málefnalegar og að ekkert gefi það til kynna að leiðarvalið hafi ekki verið reist á málefnalegum sjónarmiðum. Þá er tiltekið að Vegagerðin hafi rökstutt að leið 5 félli ekki að tilgangi og markmiðum framkvæmdarinnar, meðal annars vegna þess að hún stytti leiðina minna en aðrir kostir og að umferðaröryggi væri áfátt, þar sem hún lægi nærri þéttbýlinu á Nesjum og að á henni væru margar tengingar við hliðarvegi. Tók Hæstiréttur loks fram að þessi sjónarmið væru málefnaleg og vörðuðu tilgang og markmið framkvæmdarinnar með þeim hætti að ekki yrði haggað því mati Vegagerðarinnar að hafna þessum kosti til mats.

Í dómi sínum í máli nr. 671/2008 túlkaði Hæstiréttur lög nr. 106/2000 svo að þeim væri fyrst og fremst ætlað að hindra spjöll á náttúru og umhverfi af völdum mengunar og framkvæmda og að skýra yrði skilgreininguna á hugtakinu umhverfi með hliðsjón af þessum megintilgangi laganna. Um þá framkvæmd sem um var deilt var tekið fram að tilhögun hennar hefði meðal annars augljós áhrif á vegalengd og ferðatíma á milli staða, kostnað vegfarenda af slíkri för og kostnað veghaldara af viðhaldi mannvirkisins, snjóhreinsun og hálkuvörnum, auk slysahættu og umferðaröryggis að öðru leyti, en allt þetta gæti skipt máli við heildarmat á hagkvæmni framkvæmdarinnar. Eðli máls samkvæmt ættu atriði af þessum meiði það sammerkt að þau væru grundvallarþættir í tilgangi og markmiði vegalagningar. Af þeim sökum gætu þau ekki jafnframt talist sjálfstætt til afleiðinga slíkrar framkvæmdar, sem horft verði til við mat á umhverfisáhrifum hennar, en til þeirra mætti á hinn bóginn líta við mat á því hvort veitt skuli leyfi fyrir henni. Tók Hæstiréttur fram að þótt atriði sem þessi hefðu vissulega með ýmsu móti áhrif á aðstæður manna, samfélag þeirra, heilbrigði og atvinnu, gætu þau af þessum sökum ekki talist til umhverfisáhrifa í skilningi laga nr. 106/2000, enda væri ljóst af fyrrgreindum tilgangi laganna að þeim væri einungis ætlað að taka til mats á afleiðingum framkvæmdar fyrir umhverfið en ekki á kostum hennar sjálfrar og göllum. Yrði þannig að líta svo á að þótt framkvæmd hefði í för með sér ávinning breytti það ekki umhverfisáhrifunum. Yrði tekið tillit til umferðaröryggis nýja vegarins væri því tekið tillit til þáttar sem í raun sé ávinningur af framkvæmdinni, en umhverfisáhrifin yrðu áfram óbreytt.

Í greinargerð þeirri sem bæjarstjórn hafði til hliðsjónar við afgreiðslu sína 1. desember 2016 er gerð ítarleg grein fyrir forsendum og niðurstöðu sveitarfélagsins. Í samantekt er niðurstaða bæjarstjórnar dregin saman svo: „Bæjarstjórn telur að jákvæð áhrif af leið 3b vegi meira en þau neikvæðu áhrif sem af framkvæmd verða umfram aðrar leiðir (aðra valkosti). Bæjarstjórn telur að sýnt hafi verið fram á að ekki sé unnt að ná markmiðum um samgöngubætur, aukið umferðaröryggi og styttingu leiða, með öðrum hætti sem valdi umfangsminni umhverfisáhrifum. Fyrirhuguð framkvæmd mun hafa jákvæð áhrif á samgöngur til frambúðar. Nýr vegur kemur í stað vegar sem uppfyllir ekki kröfur Vegagerðarinnar um umferðaröryggi. Nýr vegur mun bæta umferðaröryggi verulega vegna betri legu vegarins og styttingu vegalengda. Óhjákvæmilegt er að vegaframkvæmdir hafi neikvæð áhrif á náttúru og í þessu tilviki munu þær m.a. hafa neikvæð áhrif á landslag og ásýnd svæðisins, og votlendi. Með hliðsjón af hagsmunum samfélagsins er það mat bæjastjórnar að neikvæð áhrif séu ásættanleg miðað við þann ávinning sem framkvæmdin hefur í för með sér.“

Nánar er fjallað um þessi atriði í greinargerðinni og segir m.a. að með skoðun á áliti Skipulagsstofnunar, gagna sem fylgt hafi mati á umhverfisáhrifum, útfærslu framkvæmda samkvæmt framkvæmdaleyfisumsókn og annarra gagna sem bæjarstjórn hafi aflað sé komist að þeirri niðurstöðu að dregið hafi verið úr neikvæðum umhverfisáhrifum sem kostur sé á leið 3b og að þau teljist ásættanleg, m.t.t. ávinnings sem verði vegna framkvæmdanna. Stefna Aðalskipulags Hornafjarðar 2012-2030 sé að stuðla að öflugum og öruggum samgöngum innan sveitarfélagsins og yfir í aðra landshluta. Gert sé ráð fyrir breytingum á Hringvegi til að stytta leiðir og stuðla að auknu umferðaröryggi, m.a. í samræmi við samgönguáætlun 2011-2022. Það sé niðurstaða bæjarstjórnar að leið 3b uppfylli markmið um aukið umferðaröryggi mun betur en aðrar leiðir geti gert. Að mati sveitarfélagsins séu ekki kostir fyrir hendi sem nái markmiðum sveitarfélagsins um umferðaröryggi og styttingu vegalengda eins vel og leið 3b. Ljóst sé að leið 1 muni á heildina litið hafa minni áhrif á náttúrfar en leiðir 2, 3 og 3b. Ákveðnir annmarkar séu þó á þeirri leið. Lega leiðarinnar skeri t.d. í sundur ræktunarlönd, auk þess sem hún skerði núverandi félags- og útivistarsvæði í Nesjum. Leið 1 stytti vegalengdir að þjónustukjarna sveitarfélagsins mun minna en leiðir 2, 3 og 3b, en stytting vegalengda að þjónustukjarna sveitarfélagsins á Höfn sé forsenda áframhaldandi byggða- og atvinnuþróunar á Mýrum, í Suðursveit og Öræfum. Að stytta leiðir að þjónustukjarna sveitarfélagsins styðji við þá viðleitni að gera sveitarfélagið að einu búsetu- og atvinnusvæði. Jákvæð samfélagsleg áhrif yrðu því mest fyrir Sveitarfélagið Hornafjörð ef farin yrði leið 3b. Leið 3b leiði til aukins umferðaröryggis fram yfir aðrar leiðir, m.a. vegna fækkunar vegtenginga við þjóðveg. Í greinargerðinni er jafnframt greint frá samráðsferli sveitarfélagsins þegar unnið hafi verið að breytingu á aðalskipulagi 1998-2018. Hafi komið fram mikill vilji íbúa til þess að valin yrði sú leið sem stytti vegalengdina til Hafnar sem mest. Skiptar skoðanir hafi hins vegar verið um málið á borgarafundi í Nesjum og þar hafi m.a. komið fram áhyggjur hjá nokkrum landeigendum vegna þeirra áhrifa sem veglagning myndi hafa á náttúrufar, sem og á starfsemi þeirra, hvort heldur sem um væri að ræða ferðaþjónustu eða landbúnað. Bæjarstjórn sé sammála um að stytting vegalengda, og þar með bætt aðgengi að þjónustukjarna sveitarfélagsins, bætt umferðaröryggi og greiðfærni séu grundvallarmarkmið fyrir sveitarfélagið. Þeim markmiðum verði best náð með því að fara leið 3b. Þrátt fyrir að leið 1 hafi á heildina minni neikvæð umhverfisáhrif en leið 3b þá sé sú stytting á vegalengdum innan sveitarfélagsins, sem leið 3b skili umfram leið 1, það mikil að bæjarstjórn telji að þau jákvæðu samfélagslegu áhrif sem hljótist af leið 3b með bættu aðgengi að þjónustukjarnanum á Höfn vegi þyngra en minni neikvæð umhverfisáhrif á leið 1.

Við ákvörðun um veitingu hins kærða framkvæmdaleyfis leit bæjarstjórn til sjónarmiða tengdum umhverfi og samfélagi, svo sem að framan er lýst. Vóg hún og mat þann ávinning og þá galla sem af framkvæmdinni hlytust og komst að þeirri niðurstöðu að jákvæð samfélagsleg áhrif yrðu mest fyrir sveitarfélagið ef valin yrði leið 3b. Vógu þar þyngst sjónarmið um umferðaröryggi og styttingu vegalengda að þjónustusvæði sveitarfélagsins. Hefur sveitarstjórn um þetta mat við leyfisveitingu sína, eins og nánar er rakið í upphafi niðurstöðukafla þessa, og sjónarmið þessi eru málefnaleg, sbr. og dóm Hæstaréttar í máli nr. 22/2009. Þá komu þau til skoðunar á réttum tíma, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 671/2008.

Kemur þá til skoðunar hvort að breyttar forsendur hafi verið til staðar frá því að mat á umhverfisáhrifum lá fyrir, og þá eftir atvikum viðbrögð leyfisveitanda við þeim.

Umferðaröryggi er einn þeirra þátta sem vega verður og meta við leyfisveitingu og þrátt fyrir að ekki sé um þátt að ræða sem taka ber til skoðunar við mat á umhverfisáhrifum geta gögn sem aflað er við þá málsmeðferð rennt stoðum undir ákvörðun leyfisveitanda. Er ályktun bæjarstjórnar varðandi umferðaröryggi m.a. studd þeim gögnum. Í kafla 27 í matsskýrslu er bent á að allar framlagðar leiðir séu álíka hvað varði vegtækni og umferðaröryggi. Í sama kafla er og lagt mat á mismunandi leiðir og tekið fram að jákvæð áhrif framkvæmdarinnar á umferðaröryggi séu veruleg, að undanskilinni leið 1, þar sem jákvæð áhrif séu talsverð. Í greinargerð vegna veitingar framkvæmdaleyfis er tekið fram að slysatíðni á Hringvegi um Hornafjörð sé enn fremur há, miðað við landsmeðaltal, og að umferð hafi aukist hraðar en ráð hafi verið gert fyrir. Því til stuðnings er sýnt yfirlit yfir sumardagsumferð árin 2005 og 2015 á einstökum köflum vegarins. Er og tekið fram í greinargerðinni að fjöldi vegtenginga á hverjum vegkafla sé mikilvægur þáttur í umferðaröryggi og sé fjöldi þeirra talsvert meiri á leið 1 en leið 3b. Hafi Vegagerðin leitað leiða til að fækka vegtengingum á leið 1 en ekki getað lagt fram hagkvæma eða raunhæfa tillögu.

Við leyfisveitingu lá þannig fyrir að að fleiri tengingar eru á leið 1, en það hefur áhrif á umferðaröryggi. Bent var á nýjar tölur um aukningu umferðar og tekið fram að slysatíðni væri enn yfir landsmeðaltali. Þá liggur fyrir að þótt að Nesjaskóli hafi lagst af þá er á því svæði enn þéttbýli.

Að áliti Skipulagsstofnunar var fullnægjandi grein gerð fyrir vatnafari á svæðinu og hönnun mannvirkja miðað við það. Er m.a. tekið fram að vegur eftir leiðum 2, 3 og 3b, ásamt samsettum leiðum 1v/2a og 1v/3a, komi til með að hafa nokkur áhrif í voginum á milli Hríseyjar og Árnanes nema í aftakaflóðum, 100 ára flóð, en þau geti orðið talsverð. Er álitið í samræmi við það sem fram kemur í matsskýrslu að ekki verði „hjá því komist að mannvirkin valdi talsverðri hækkun á vatnsborði í aftakaflóðum (flóð með 100-ára endurkomutíma)“. Var það heildarniðurstaða Skipulagsstofnunar, að teknu tilliti til mótvægisaðgerða, að neikvæð áhrif allra leiða á vatnafar kæmu til með að verða nokkur. Meðal gagna málsins er minnisblað Vegagerðarinnar frá október 2016 þar sem fram kemur að vegna fyrirhugaðrar útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir nýjan Hringveg um Hornafjörð hafi sveitarfélagið óskað eftir að Vegagerðin kynnti framkvæmdaáætlun og breytingar frá umhverfismati fyrir Umhverfisstofnun. Í minnisblaðinu er leiðrétt það sem fram kom í matsskýrslu um að ekki hefði flætt upp á suðurenda flugvallar né vatnað upp á tilgreinda vegi, þar sem þeir séu lægstir, og er tekið fram að þetta hafi gerst í sjávarflóði veturinn á undan. Er jafnframt tekið fram um grjótvarnargarða að flái 1:3 verði ekki notaður við þessar aðstæður. Í stað þess að reikna með 1,93 m hönnunarflóði við utanverða vegfyllingu sé miðað við 2,00 m. Grjótvörn á innanverðri fyllingu verði með fláa 1:4. Leitaði sveitarfélagið þannig eftir frekari upplýsingum og var upplýst um það af hálfu framkvæmdaraðila að hönnun verks hefði í nokkru verið breytt til að bregðast við þekktum aðstæðum. Að því loknu var sveitarstjórn rétt að byggja á áliti Skipulagsstofnunar um vatnafar og verður í því samhengi ekki séð að þótt aftakaflóð hafi orðið á svæðinu haustið 2017 hafi forsendur breyst að þessu leyti frá mati þar til hin kærða leyfisveiting fór fram. Var enda fjallað í matsskýrslu og áliti Skipulagsstofnunar um umhverfisáhrifin við þær aðstæður og að þau gætu þá orðið talsverð.

Í matsskýrslu er fjallað um samræmi framkvæmdar við aðalskipulag í kafla 9.2.1 og kemur þar fram að fyrirhugaðar veglínur fari aðallega um landbúnaðarland, en það sé að mestu tún og beitarland. Að öðru leyti er fjallað um landbúnaðarland í kaflanum um landslag í mati á umhverfisáhrifum. Er þannig tiltekið í kafla 18.3.3 að slegin tún, beitilönd, skurðir, kartöflugarðar og skógrækt falli undir flokkinn landbúnaðarland. Landið hafi greinilega verið meðhöndlað og því umbylt af mönnum í þeim tilgangi að nýta til landbúnaðar og skeri þessi svæði sig vel úr landinu. Landbúnaðarlandslag njóti ekki sérstakrar verndar sem slíkt. Svæðið ofan við núverandi Hringveg í Nesjum sé sérstaklega áberandi landbúnaðarland, en svo sé einnig á hvora hönd þegar ekið sé í gegnum Mýrarnar á vesturhluta framkvæmdasvæðisins. Í matsskýrslu er einnig greint frá athugasemdum þess efnis að ekki hafi verið fjallað um landbúnað með fullnægjandi hætti og er greint frá þeim svörum framkvæmdaraðila að matsáætlun hafi ekki gert ráð fyrir frekari umfjöllun þar um.

Umhverfi er þannig skilgreint í 3. gr. laga nr. 106/2000 að það sé samheiti fyrir m.a. atvinnu og fellur landbúnaður þar undir. Hefur áður verið rakið að samkvæmt dómaframkvæmd skuli í mati á umhverfisáhrifum meta afleiðingar framkvæmdar fyrir umhverfið en ekki kosti hennar sjálfrar og galla. Það komi eftir atvikum til skoðunar við leyfisveitingu. Í því sambandi er rétt að benda á að þrátt fyrir að mikilvæg stofnræktun á kartöflum sé stunduð á svæðinu þá er það ræktun sem fyrst og fremst er þáttur í atvinnu manna. Leiðir af því að vart er hægt að bera fyrir sig að verði af framkvæmdinni feli það að þessu leyti í sér spjöll á náttúru og umhverfi í skilningi laga nr. 106/2000, sbr. og dóm Hæstaréttar í máli nr. 671/2008. Verður því ekki fallist á að ónóg umfjöllun sé um landbúnað í mati á umhverfisáhrifum þótt hún einskorðist við landslagsumfjöllun. Skal og á það bent að áhrif á fuglalíf komu til mats, en missir á dúntekju getur vissulega orðið samhliða slíkum áhrifum. Þá er ljóst af undirbúningi málsins af hálfu bæjarstjórnar, m.a. með samþykkt skipulagsáætlana, og af rökstuðningi hennar að hún hefur m.a. haft til skoðunar áhyggjur landeigenda af áhrifum á starfsemi sína, hvort sem er á ferðaþjónustu eða landbúnað. Enn fremur verður að líta svo á að við mat á ávinningi og neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar komi fyrst og fremst til skoðunar almannahagsmunir fremur en hagsmunir einstaklinga, enda eru þeir verndaðir með öðrum reglum, s.s. um eignarnám og bætur vegna þess.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið tók sveitarstjórn upplýsta ákvörðun um umrædda leyfisveitingu og rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar í skilningi ákvæða skipulagslaga og laga nr. 106/2000.

———-

Í 3. mgr. 13. gr. skipulagslaga er kveðið á um að umsókn um framkvæmdaleyfi skuli fylgja nauðsynleg gögn sem nánar séu tiltekin í reglugerð og er mælt fyrir um þau í 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Fram kemur í bókun umhverfisnefndar við afgreiðslu hennar 29. nóvember 2016 að framlögð gögn séu fullnægjandi og í samræmi við fyrrnefnd laga- og reglugerðarákvæði. Í bókun skipulagsnefndar við afgreiðslu málsins 30. s.m. er tekið fram að nefndin hafi fjallað um öll fylgigögn með umsókn framkvæmdaraðila og af þeirri yfirferð verði ekki annað ráðið en að umsókn um framkvæmdaleyfi fullnægi áðurnefndum ákvæðum. Samþykkti bæjarstjórn nefndar bókanir á fundi sínum 1. desember s.á. Af þessu og öðrum gögnum málsins verður ráðið að umsókn Vegagerðarinnar ásamt fylgigögnum hafi fullnægt framangreindum ákvæðum. Þá er rétt að benda á að þrátt fyrir að ekki liggi fyrir samningar við alla landeigendur þá stendur það leyfisveitingu ekki í vegi, enda veitir framkvæmdaleyfi ekki heimild til framkvæmda sem brjóta í bága við rétt annarra, sbr. 5. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 772/2012.

Sveitarstjórn skal við útgáfu framkvæmdaleyfis einnig fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd er í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga, auk þess að ganga úr skugga um að gætt hafi verið ákvæða laga um náttúruvernd og annarra laga og reglugerða sem við eiga.

Eftirfarandi var fært til bókar við afgreiðslu bæjarstjórnar á umsókn um framkvæmdaleyfið: „Með hliðsjón af gildandi aðalskipulagi og breytinga sem gerðar voru árið 2009 á Aðalskipulagi Hornafjarðar 1998-2018, er fjölluðu um nýtt vegstæði Hringvegar (1) um Hornafjörð er hefði það að meginmarkmiði að stuðla að auknu umferðaröryggi og styttingu leiða innan sveitarfélagsins, uppfyllir umsótt framkvæmd skipulagsáætlun sveitarfélagsins.“ Í greinargerð framkvæmdaleyfis er að finna yfirlit um helstu forsendur og viðfangsefni sem Sveitarfélagið Hornafjörður leit til við ákvörðun um veitingu umrædds framkvæmdaleyfis, svo sem segir í kafla 1 í greinargerðinni. Þar kemur og fram að vegur og námur í umsókn Vegagerðarinnar séu í fullu samræmi við legu vegar, staðsetningu náma og umfang þeirra í Aðalskipulagi Hornafjarðar 2012-2030. Hefur úrskurðarnefndin gengið úr skugga um að svo sé. Hinn 10. júlí 2009 tók gildi breyting á Aðalskipulagi Hornafjarðar 1998-2018, er m.a. fól í sér breytingu á legu Hringvegar milli Hólms á Mýrum og Skarðshóla í Nesjum samkvæmt veglínu 3b. Samfara breytingunni var unnin umhverfisskýrsla í samræmi við lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Umhverfisskýrsla var einnig unnin við gerð Aðalskipulags Hornafjarðar 2012-2030 og er lítillega vikið að umræddum framkvæmdum í henni. Í framkvæmdaleyfinu er meðal skilyrða að vinna þurfi deiliskipulag fyrir nánar tilgreindar námur.

Samgönguáætlun fyrir árin 2015-2026 sætti umhverfismati áætlana, sbr. lög nr. 105/2006 þar um. Tillögur að þingsályktunum um annars vegar 12 ára samgönguáætlun fyrir árin 2015-2026 og hins vegar um fjögurra ára samgönguáætlun 2015-2018 voru lagðar fram á Alþingi haustið 2016. Var sú síðari samþykkt 12. október s.á., en sú fyrri hlaut ekki afgreiðslu þingsins. Hringvegur um Hornafjarðarfljót er tilgreindur sem framkvæmd í þeim báðum, sem og í umhverfisskýrslu vegna áætlunarinnar 2015-2026. Er og gerð grein fyrir framkvæmdinni í samgönguáætlun 2011-2022 sem einnig sætti umhverfismati áætlana. Var þingsályktun um þá áætlun samþykkt af Alþingi 19. júní 2012.

Fram kemur í matsskýrslu í kafla um samantekt umhverfisáhrifa að helstu einkenni gróðurfars á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði sé vel gróið land og umfangsmikið votlendi, sem samanstandi að mestu af deiglendi, mýrum og sjávarfitjum. Raski allar leiðirnar votlendi, þó mismikið sé. Leiðir 2, 3 og 3b valdi mestu beinu raski á votlendi og samsetta leiðin 3v/1a fylgi þar fast á eftir. Beint rask á votlendi nái þó ekki til nema 2-3% af heildarflatarmáli votlendis á rannsóknarsvæðinu. Þá nái áhrifasvæði vegarins, miðað við leiðbeiningar Umhverfisstofnunar, til 4-5% af heildarflatarmáli votlendis á rannsóknarsvæðinu. Valdi leiðir 2, 3 og leið 1v/3a mestu raski á sjávarfitjum, sem teljist fágætar á landsvísu, og njóti sérstakrar verndar skv. 37. gr. náttúruverndarlaga nr. 44/1999, nú 61. gr. gildandi náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Leið 3b raski sjávarfitjum mun minna en upphaflega útfærslan, leið 3. Að þessu virtu bar sveitarstjórn, sem leyfisveitanda, að fylgja ákvæðum 61. gr. náttúruverndarlaga við málsmeðferð sína.

Í nefndri 61. gr. náttúruverndarlaga er fjallað um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja o.fl. Falla þar undir m.a. votlendi, svo sem hallamýrar, flóar, sjávarfitjar og leirur, sbr. a-lið 1. mgr. 61. gr., og njóta þau þá sérstakrar verndar í samræmi við markmið 2. gr. laganna, sbr. og c-lið 3. gr. Fram kemur í 3. mgr. 61. gr. að forðast beri að raska vistkerfum og jarðminjum, sem taldar séu upp í 1. og 2. mgr., nema brýna nauðsyn beri til. Skylt sé að afla framkvæmdaleyfis, eða eftir atvikum byggingarleyfis, vegna framkvæmda sem hafi í för með sér slíka röskun. Áður en leyfi er veitt skal leyfisveitandi leita umsagnar Umhverfisstofnunar og viðkomandi náttúruverndarnefndar nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag, þar sem umsagnir skv. 1. og 2. mgr. 68. gr. laganna liggi fyrir. Samkvæmt 4. mgr. 61. gr. skal við mat á leyfisumsókn líta til verndarmarkmiða 2. og 3. gr. laganna og jafnframt huga að mikilvægi minjanna og sérstöðu í íslensku og alþjóðlegu samhengi. Loks skal leyfisveitandi skv. 5. mgr. 61. gr. rökstyðja sérstaklega þá ákvörðun að heimila framkvæmd fari hún í bága við umsagnir umsagnaraðila.

Í bókun umhverfisnefndar segir m.a. að nefndin hafi gætt að því að fylgt væri ákvæðum laga nr. 60/2013. Ekki væri óvissa um áhrif framkvæmdar. Komi fyrirhuguð framkvæmd, að mati sveitarfélagsins, ekki til með að rýra verndargildi jarðmyndana. Þá er að því vikið að sjávarfitjar og leirur falli ekki undir jarðminjar heldur séu hluti af mikilvægum vistkerfum, eins og votlendi. Telji nefndin því ekki vera mun á áhrifum valkosta á jarðmyndanir, andstætt því sem fram komi í áliti Skipulagsstofnunar. Áhrif valkosta séu sambærileg og séu fyrst og fremst vegna efnistöku úr grónum áreyrum og skriðum. Komi framkvæmdir ekki til með að raska jarðmyndunum eða jarðminjum, sem njóti verndar skv. 2. mgr. 61. gr. laganna. Umhverfisnefnd víkur að því hvernig draga megi úr áhrifum á votlendi og tekur fram að hún hafi litið til nýlegra rannsókna Náttúrufræðistofnunar Íslands. Jafnframt leggur nefndin til nokkur atriði varðandi framkvæmdina, sem og skilyrði, sem getið er um í áliti Skipulagsstofnunar, um formlegan samráðshóp fagaðila. Staðfesti bæjarstjórn fundargerð umhverfisnefndar, líkt og áður hefur fram komið.

Við afgreiðslu bæjarstjórnar lá fyrir minnisblað Vegagerðarinnar frá október 2016 í tilefni af öflun umsagnar Umhverfisstofnunar. Þar er m.a. farið yfir efnisþörf leiða og námur. Kemur þar fram að við verkhönnun hafi dregið töluvert úr áætluðu vinnslumagni úr öllum námum frá því sem reiknað hafi verið með í matsskýrslu. Sést m.a. að vinnslumagn úr námunni Friðsæld er áætlað 250.000 m³ í matsskýrslu, en við verkhönnun er magnið áætlað 47.500 m³. Þá er tiltekið að samráð verði haft við Umhverfisstofnun við útlitshönnun náma og á það við um Friðsæld, Skógey og námu ofan við Einholtsvötn. Einnig sé tiltekið að haft hafi verið samráð við Hafrannsóknastofnun varðandi námu í áreyrum Djúpár. Stofnunin óski eftir að efnistaka verði ekki í ógrónum áreyrum heldur til hliðar við farveginn, en hún meti svæðið m.t.t. lífskilyrða fiskiseiða en síður m.t.t. gróðurs. Þá lá fyrir bæjarstjórn umsögn Umhverfisstofnunar frá 2. nóvember 2016 skv. 61. gr. náttúruverndarlaga, auk þess sem umsagna stofnunarinnar hafði verið leitað við mat á umhverfisáhrifum, sem og við aðalskipulagsgerð.

Í greinargerð eru tilgreindir fleiri þættir sem bæjarstjórn leit til við meðferð málsins, m.a. að skoðaðar hafi verið niðurstöður rannsókna Votlendisseturs Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Jafnframt kemur fram að litið hafi verið til Ramsarsamningsins, Bernarsamningsins og verndarmarkmiða 3. gr. laga nr. 60/2013, einkum d-liðar. Þá er til þess vísað að leið 2, 3 og 3b muni þvera sjávarfitjar og leirur og brjóta upp ósnortna heild og þannig hafa veruleg neikvæð áhrif.

Svo sem fram hefur komið raska allar þær leiðir er sættu mati á umhverfisáhrifum votlendi. Í lögskýringargögnum með gildandi náttúruverndarlögum er lögð áhersla á að einungis mjög ríkir hagsmunir geti réttlætt röskun náttúrufyrirbæra, sem vernduð eru skv. 61. gr. laganna, og þá fyrst og fremst brýnir almannahagsmunir. Áður hefur verið rakið í niðurstöðukafla þessum að bæjarstjórn hafi tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum umþrættrar framkvæmdar og metið það svo að samfélagslegur ávinningur af vali á leið 3b vægi þyngra en neikvæð umhverfisáhrif hennar umfram leið 1. Að mati úrskurðarnefndarinnar telst aukið umferðaröryggi til almannahagsmuna og verður að telja þá brýna ef sýnt þykir að ein veglína leiði til meira umferðaröryggis umfram aðra, en rökstuðningur bæjarstjórnar var á þann veg og studdur gögnum, svo sem áður hefur verið rakið.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið má fallast á að rökstutt hafi verið að brýn nauðsyn hafi legið að baki leiðarvali bæjarstjórnar og að með því hafi verið uppfyllt skilyrði 61. gr. náttúruverndarlaga, að teknu tilliti til verndarmarkmiða laganna.

Að framangreindu virtu verður að telja að áskilnaði 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga hafi verið fullnægt.

———-

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið, og þar sem ekki er um neina þá form- eða efnisannmarka að ræða á hinni kærðu ákvörðun er ógildingu varðar, verður kröfu kærenda þar um hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Hornafjarðar frá 1. desember 2016 um að veita framkvæmdaleyfi vegna Hringvegar um Hornafjörð milli Hólms og Dynjanda.

 

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

______________________________              _____________________________
Geir Oddsson                                                          Þorsteinn Þorsteinsson

27/2017 Grensásvegur / Síðumúli

Með

Árið 2017, föstudaginn 1. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 27/2017, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 9. febrúar 2017 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir óskipta lóð Grensásvegar 16A, Síðumúla 37 og Síðumúla 39 og ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. júlí s.á. um að samþykkja byggingarleyfi fyrir niðurrifi á bílastæðahúsi að Grensásvegi 16A.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. mars 2017, er barst nefndinni 9. s.m., kærir Fróði ehf., eigandi 1. hæðar og kjallara Síðumúla 37, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 9. febrúar 2017 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir lóðina Grensásveg 16A, Síðumúla 37 og Síðumúla 39. Með bréfi, dags. 16. mars 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Steinnes sf., Síðumúla 34, Reykjavík, sömu ákvörðun borgarráðs og verður  það mál, sem er nr. 32/2017, sameinað máli þessu.

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og réttaráhrifum hennar frestað meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Í ljósi þess að ákvörðun um deiliskipulag felur ekki í sér heimild til að hefja framkvæmdir, og að málið þykir nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar, verður ekki tekin afstaða til kröfunnar um frestun réttaráhrifa.

Með bréfi, dags. 25. ágúst 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Fróði ehf. þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. júlí 2017 að samþykkja byggingarleyfi til niðurrifs á bílastæðahúsi að Grensásvegi 16A. Er gerð krafa um ógildingu ákvörðunarinnar og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður það kærumál, sem er nr. 94/2017, sameinað máli þessu, þar sem hagsmunir kæranda þykja ekki standa því í vegi og málin auk þess samofin. Þar sem málið verður nú tekið til endanlegs úrskurðar verður ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 22. mars og 4. september 2017.

Málavextir: Á fundi sínum 16. desember 2015 samþykkti umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir  óskipta lóð Grensásvegar 16A, Síðumúla 37 og Síðumúla 39, að beiðni hluta lóðareigenda. Fól tillagan í sér að byggt yrði við núverandi húsnæði á lóðinni og að það yrði nýtt sem íbúðir, hótel og skrifstofu- og þjónustuhúsnæði. Eftir staðfestingu borgarráðs var tillagan auglýst til kynningar 10. febrúar 2016 með athugasemdafresti til 23. mars s.á. og bárust athugasemdir frá kærendum innan frestsins. Málinu var síðan frestað á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 1. apríl 2016 þar sem skorti á samþykki allra eigenda lóðarinnar.

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 2. nóvember 2016 og tillagan samþykkt, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 28. október s.á. Með bréfi, dags. 25. nóvember s.á., gerði Skipulagsstofnun athugasemdir við auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins, þar sem afmörkun þess væri ekki í samræmi við ákvæði 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá gerði stofnunin einnig athugasemd við að samráð virtist ekki hafa verið haft við alla lóðarhafa við vinnslu skipulagstillögunnar, sbr. 4. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Var það mat stofnunarinnar að gera hefði átt skipulagslýsingu fyrir deiliskipulagsvinnu á þessu svæði og að ekki hefði verið gerð grein fyrir umhverfisáhrifum vegna tillögunnar skv. 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 14. desember 2016 var lagður fram breyttur deiliskipulagsuppdráttur ásamt svarbréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. s.m., í tilefni af athugasemdum Skipulagsstofnunar. Var málinu vísað til borgarráðs, sem staðfesti afgreiðsluna hinn 22. desember s.á. Með bréfi, dags. 12. janúar 2017, gerði Skipulagsstofnun athugasemdir við tillöguna þar sem ítrekað var mikilvægi þess að við deiliskipulagsgerð sé litið til þess að tillögur nái yfir heildstætt svæði, sbr. 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 1. febrúar s.á. var tillagan tekin fyrir að nýju og hún samþykkt, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 26. janúar 2017. Var afgreiðslan staðfest af borgarráði 9. febrúar s.á. og tók skipulagið gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 2. mars 2017.

Á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 16. febrúar 2016 var tekin fyrir umsókn um leyfi til niðurrifs á bílastæðahúsi að Grensásvegi 16A. Var málinu frestað og umsækjanda bent á að hafa samband við embætti byggingarfulltrúa. Hinn 1. mars s.á. var málið tekið fyrir að nýju og bókað að skipulagsferli væri ólokið og málinu frestað að nýju. Því var enn frestað á fundi byggingarfulltrúa 14. apríl 2017, þar sem ekki lá fyrir samþykki meðeigenda. Umsóknin var að lokum samþykkt á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. júlí 2017 og byggingarleyfi gefið út 26. s.m.

Málsrök kærenda: Kærandinn að Síðumúla 37 tekur fram að hann sé eigandi húsnæðis í nefndu húsi sem standi á heildarlóðinni Síðumúla 37, Síðumúla 39 og Grensásvegi 16A.

Kærandinn bendir í fyrsta lagi á það að borgaryfirvöld kunni að hafa verið vanhæf við töku ákvörðunar um skipulag á lóðinni einni og sér vegna verulegra fjárhagslegra hagsmuna af gildistöku skipulagsins. Ástæða þess sé sú að með kaupsamningi, dags. 26. janúar 2016, hafi Reykjavíkurborg selt húsið að Síðumúla 39, ásamt 41,2% hlutdeild í bílastæðahúsi, á 311.000.000 króna. Í kaupsamningi hafi jafnframt verið seldur byggingarréttur „… sem samþykktur verður í nýju deiliskipulagi á heildarlóðinni Grensásvegur 16 og Síðumúla 37 og 39 er kr. 40.000 pr. m2 og er eignarhlutur seljanda í heildarbyggingarrétti 41,41%. Greiðsla fyrir byggingarréttinn verður innt af hendi þegar nýtt deiliskipulag hefur tekið gildi í B-deild Stjórnartíðinda.“ Þá sé kveðið á um það í kaupsamningi að hafi hið nýja deiliskipulag ekki tekið gildi fyrir 1. maí 2016 frestist afsal þar til deiliskipulag hafi verið staðfest og að sala byggingarréttarins sé óháð því hvort samkomulag náist við aðra lóðarhafa um kaup þess réttar. Að mati kæranda felist í orðalagi kaupsamningsins fyrirheit seljanda um samþykki nýs deiliskipulags, hvort sem skilyrði laga til þess kunni að vera uppfyllt eða ekki.

Ekki hafi verið gætt að lögmætisreglu stjórnsýsluréttar við töku hinnar kærðu ákvörðunar, enda sé hún haldin verulegum göllum og lagareglur er um málið gildi þverbrotnar. Skipulagsstofnun hafi gert margvíslegar athugasemdir við afgreiðslu umræddrar skipulagstillögu, sem hafi falið í sér að gera þyrfti nýtt skipulag en ekki að gera breytingu á eldra skipulagi. Athugasemdirnar hafi lotið bæði að efni og formi deiliskipulagsins, en sveitarstjórn hafi ekki brugðist við athugasemdum stofnunarinnar um form skipulagsins, svo sem henni hafi borið að gera, sbr. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þær athugasemdir hafi að mestu lotið að því að ekki hafi verið unnin lýsing fyrir tillögu að nýju skipulagi, eins og skylt sé skv. 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga. Þá hafi verið gerð athugasemd við að ekki hafi allir landeigendur staðið að ósk um gerð deiliskipulags, eins og skylt sé að lögum, þar sem kærandi hafi ekki staðið að henni.

Ekkert samráð hafi verið haft við kæranda, þrátt fyrir að í deiliskipulaginu sé gert ráð fyrir verulega breyttum notum á lóðinni og umfangsmiklum framkvæmdum, þ. á m. á húseign hans. Sé vandséð hvernig tillagan geti náð fram að ganga þegar litið sé til þess að engin grein sé gerð fyrir hlutdeild hinna ýmsu lóðarhafa í framkvæmdunum, breyttum eignarhlutföllum eða skiptingu kostnaðar. Þá séu eigendur húseignanna á lóðinni aðilar að sérstökum húsfélögum er nái til einstakra húsa, en jafnframt séu þeir aðilar að húsfélagi er nái til allra húsanna saman. Í 3. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús komi fram að ákvæði laganna gildi, eftir því sem við geti átt, um þau atriði og málefni sem sameiginleg séu, svo sem um lóð sé hún sameiginleg að öllu leyti eða nokkru. Þessa atriðis hafi ekki verið gætt er einn húseigandi hafi óskað eftir að unnin yrði deiliskipulagstillaga fyrir alla lóðina. Hafi Reykjavíkurborg verið skylt að hafna framkominni beiðni vegna skorts á samþykki allra lóðarhafa. Vegna skýlausra brota á fjöleignarhúsalögum beri að ógilda ákvörðun borgarráðs.

Þá sé deiliskipulagstillagan og samþykkt hennar háð verulegum efnislegum annmörkum. Bent sé á að skv. 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga skuli tillögur að deiliskipulagi ná yfir heildstæð svæði, en samkvæmt borgarvefsjá sé ekkert deiliskipulag í gildi fyrir Síðumúla og Ármúla að Suðurlandsbraut.

Samþykktar framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi muni leiða til mikils óhagræðis, m.a. með tilheyrandi girðingum og skertu aðgengi að fasteign kæranda.

Af hálfu þess kæranda sem er eigandi hluta Síðumúla 34 er á það bent að með nýju deiliskipulagi séu hagsmunir hans verulega skertir vegna fyrirsjáanlegrar verðrýrnunar fasteignar hans sökum skerts útsýnis, einkum frá íbúðum á 4. og 5. hæð. Þetta fái stoð í umsögn skipulagsfulltrúa borgarinnar þar sem tekið sé fram: „Er einnig bent á að um er að ræða möguleg áhrif útsýnisskerðingar og skuggavarps á atvinnuhúsnæði þar sem starfsemi fer fram á daginn en ekki íbúðir eða garða, þar sem aukið skuggavarp getur vissulega skert gæði lóða.“ Í dag sé einstaklega mikið útsýni frá efri hæðum húss kæranda og þaðan sjáist yfir alla austurborgina og allur fjallahringurinn. Fram kemur í álits- og matsgerð löggilts fasteignasala um áhrif samþykktra breytinga á verð fasteignar kæranda að „verðrýrnun á Síðumúla 34, Reykjavík er almennt 5% á 1., 2., og 3. hæð hússins. Verðrýrnun á 4. hæðinni er 7% og verðrýrnun á 5. hæðinni er 12%“.

Hvað hið kærða byggingarleyfi varði telji kærandinn að Síðumúla 37 að við útgáfu þess hafi borið að afla samþykkis allra eigenda, þ.e. allra lóðarhafa. Bygging sú sem leyfið nái til standi ásamt tveimur öðrum húsum á einni sameiginlegri lóð. Gildi því ákvæði 3. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús um ákvarðanir er snerti að öllu eða nokkru leyti útlit og heildarsvip lóðar og mannvirkja er á henni standi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er á því byggt að málsmeðferð hinnar kærðu skipulagsbreytingar hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Sveitarstjórn sé heimilt að falla frá gerð lýsingar ef allar meginforsendur deiliskipulagsins liggi fyrir í aðalskipulagi, sbr. 40. gr. skipulagslaga, líkt og hér eigi við. Einungis sé verið að nýta lítinn hluta af þeim heimildum sem séu tilgreindar í aðalskipulagi. Þannig sé gert ráð fyrir  hækkun húsanna að Síðumúla 37 og 39 um eina hæð en að Grensásvegur 16A hækki um tvær hæðir. Gert sé ráð fyrir hótelstarfsemi og verslunarrými að Grensásvegi 16A og verði 40-65 íbúðir á efri hæðum.

Við undirbúning tillögunnar hafi annar kærenda ekki verið búinn að festa kaup á eign sinni að Síðumúla 37. Þegar vinna við deiliskipulagstillöguna hafi farið af stað hafi sú eign verið til sölu og ekki kominn nýr eigandi. Það að umrædd ákvörðun hafi ekki verið lögð fyrir kærandann komi ekki að sök þar sem hann hafi allt að einu gert athugasemdir við auglýsta deiliskipulagstillögu. Það að samráð sé ekki haft við eiganda eignar sem deiliskipulag varði verði ekki talið til annmarka á málsmeðferð skipulagsins í ljósi aðstæðna, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála nr. 42/2003. Skipulagsvaldið sé hjá sveitarfélaginu hvort sem tillögur um gerð deiliskipulags stafi frá því eða einstökum eigendum. Skipulagsvaldi Reykjavíkurborgar séu ekki sett takmörk vegna eignarhalds á landi eða lóðum, sbr. niðurstöðu framangreinds úrskurðar.

Þegar embætti skipulagsfulltrúa berist erindi frá lóðarhöfum er varði deiliskipulagningu lóðar hafi sú vinnuregla verið viðhöfð að kalla eftir samþykki sameigenda lóðarinnar fyrir umsókninni án þess að krafa sé gerð um það í lögum, enda geti skipulagsákvarðanir ekki falið í sér ráðstöfun eignarréttinda milli sameigenda.

Í greinargerð hins umþrætta deiliskipulags sé skýrt tekið fram hver sé afmörkun skipulagssvæðisins. Lóðin afmarkist af götum á þrjá vegu. Sé afmörkunin í samræmi við þróunarsvæði í aðalskipulagi og verði fyrsta skref í átt að deiliskipulagi fyrir reitinn allan. Samkvæmt gr. 5.3.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 þurfi að færa rök fyrir afmörkun skipulagssvæðis. Reiturinn afmarkist af Grensásvegi til austurs, Fellsmúla til suðurs, Síðumúla til vesturs og Grensásvegi 18 til norðurs. Deiliskipulagið taki til einnar sameiginlegrar lóðar með þremur sjálfstæðum þriggja hæða húsum með kjallara. Á milli Grensásvegar 16a og Síðumúla 39 sé einnar hæðar bílageymsluhús fyrir 55 bíla, í húsi og á þaki. Rökin fyrir því að deiliskipulag sé afmarkað á þennan hátt séu þau að götureiturinn milli Síðumúla annars vegar og Grensásvegar/Ármúla hins vegar og frá Selmúla til Fellsmúla sé alls 4,5 ha. Vegna stærðar götureitsins verði hann deiliskipulagður í áföngum. Í byggðum hverfum, eins og um ræði í þessu tilviki, liggi fyrir umferðarskipulag og samsetning atvinnurekstrar á viðkomandi svæði. Hús innan reitsins séu ólík að formi og gerð og því verði ekki séð að skipulagsleg rök eða forsendur mæli sérstaklega fyrir um að deiliskipuleggja skuli svo stórt svæði í einu.

Málsmeðferð umþrætts byggingarleyfis hafi að öllu leyti verið í samræmi við hið nýja deiliskipulag umræddrar lóðar, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 22. desember 2016, ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki og stjórnsýslulög nr. 37/1993.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi vísar til þess að fram komi á skýringarmynd með hinu kærða deiliskipulagi að útsýnisskerðing frá Síðumúla 34 verði óveruleg og að ekki hafi legið fyrir deiliskipulag sem gæfi eiganda þess húsnæðis væntingar um hámarkshæð húsa. Húsið að Síðumúla 34 sé hærra en leyfileg hæð húss nr. 39 eftir breytinguna. Mat á verðrýrnun sé ekki marktækt enda um einhliða mat að ræða. Um sé að ræða þróunarsvæði Reykjavíkurborgar og því sé ljóst að eigendur fasteigna þurfi að þola að hverfið taki breytingum ef fyrirhuguð uppbygging borgarinnar eigi að verða að veruleika. Skýringaruppdráttur sýni að enginn skuggi muni falla á Síðumúla 34 frá Síðumúla 37 og 39. Loks liggi fyrir að bílastæðafjöldi samkvæmt skipulaginu sé í samræmi við gildandi aðalskipulag, skipulagslýsingu fyrir svæði merkt Þ57 í aðalskipulagi og stefnu Reykjavíkurborgar í samgöngumálum.

Aðgengi kæranda að eign sinni að Síðumúla 37 verði ekki skert frá því sem fyrir hafi verið og kappkostað verði að fyrirhugaðar framkvæmdir muni hafa sem minnsta röskun í för með sér. Ótvírætt sé að byggingarleyfið veiti heimild til að rífa húsnæði sem kærandi sé ekki eigandi að og að það feli ekki í sér ráðstöfun neinna lögvarinna hagsmuna hans. Hlutdeild hans í sameiginlegri lóð færi honum engan ráðstöfunarrétt yfir umræddri fasteign. Ljóst sé af lóðarleigusamningum að um þrjár sjálfstæða lóðarhluta sé að ræða sem saman mynda eina lóð. Í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 44/2009, þar sem sams konar álitaefni hafi verið til úrlausnar fyrir nefndinni, segi m.a.: „Lóðin Láland 17-23 (stök nr.) er ein óskipt lóð, að stærð 4323 ferm., skv. viðfestum uppdrætti. Lóðin Láland nr. 19 er hluti af þeirri lóð. Samhljóða ákvæði er í samningi um lóðina nr. 21 við Láland. Verður að skilja tilgreind ákvæði deiliskipulags svæðisins og lóðarleigusamninga á þann veg að ekki hafi verið skylt að afla samþykkis annarra rétthafa hinnar sameiginlegu lóðar til framkvæmda á sérgreindum lóðarhluta byggingarleyfishafa.“

Ekki sé hægt að túlka ákvæði laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús svo rúmt að þau taki almennt til hagnýtingar húseigenda á lóðum undir fasteignum þeirra. Það sé beinlínis tilgangurinn með skiptingu lóðarinnar að Grensásvegi 16a, Síðumúla 37 og 39 í tiltekna byggingarreiti að afmarka nýtingarrétt hvers lóðarhafa um sig, þar með talið byggingarrétt.

Niðurrif húsa á sameiginlegri lóð sé einungis breyting á þeim lóðarhluta sem undir húsinu sé og hafi ekki varanleg áhrif á lóð sem sé til sameiginlegra nota. Fasteignin að Síðumúla 37 verði ekki skert með útgáfu niðurrifsleyfis eða fyrirhuguðum framkvæmdum.

Niðurstaða:
Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 9. febrúar 2017 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir sameiginlega lóð Grensásvegar 16A, Síðumúla 37 og Síðumúla 39 og þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að samþykkja byggingarleyfi til niðurrifs bílastæðahúss að Grensásvegi 16A með stoð í því skipulagi.

Sveitarstjórnir bera ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Eðli máls samkvæmt geta skipulagsáætlanir haft fjárhagslega þýðingu fyrir sveitarfélög og haft áhrif bæði á kostnaðar- og tekjuhlið í bókhaldi þeirra. Leiðir sú staðreynd ekki til vanhæfis borgarráðs til þess að samþykkja deiliskipulagsáætlun.

Þegar vinna við gerð deiliskipulagstillögu hefst skal sveitarstjórn taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu þar sem fram kemur hvaða áherslur sveitarstjórnin hafi við deiliskipulagsgerðina og upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli, svo sem um kynningu og samráð við skipulagsgerðina gagnvart íbúum og öðrum hagsmunaaðilum, sbr. 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga. Í 3. mgr. ákvæðisins kemur fram að sveitarstjórn sé heimilt að falla frá gerð slíkrar lýsingar ef allar meginforsendur deiliskipulagsins liggja fyrir í aðalskipulagi. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er á umræddu svæði, sem merkt er M2e, gert ráð fyrir skrifstofum, rýmisfrekri smásöluverslun, stofnunum, ráðgjafar- og þjónustufyrirtækjum, fjármálastarfsemi, veitingastöðum og hótelum. Léttur iðnaður er einnig heimill á svæðinu, s.s. prentiðnaður og verkstæði, þar sem aðstæður leyfa. Þá er íbúðarhúsnæði heimilt á efri hæðum bygginga, enda verði tryggð viðeigandi gæði á lóðum viðkomandi bygginga samkvæmt nánara ákvæði þar um í deiliskipulagi. Hæðir bygginga verði að jafnaði 4-8. Þar kemur og fram áætluð aukning húsnæðis um 80 þúsund m2, þar af mögulega 300 íbúðir.

Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga kemur fram að deiliskipulag skuli gera fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skal jafnan miða við að það taki til svæða sem mynda heildstæða einingu. Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi því er varð að skipulagslögum kemur fram að með þessu hafi ætlunin verið að koma í veg fyrir að skipulagðar séu einstakar lóðir þó að slíkt geti þó stundum átt við. Sveitarstjórn hefur samkvæmt orðalaginu „jafnan“ nokkurt svigrúm til að ákveða mörk svæðis sem deiliskipulag á að taka til, en orðlagið veitir sveitarstjórnum þó ekki frelsi til að ákvarða mörkin án málefnalegra sjónarmiða og skipulagsraka. Með deiliskipulagi er markmiðið m.a. að útfæra nánar ákvæði aðalskipulags, taka ákvarðanir um notkun lóða og stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands. Við skipulagsgerð skal og tryggja réttaröryggi einstaklinga og lögaðila þótt almannahagsmunir séu hafðir að leiðarljósi, sbr. 1. gr. skipulagslaga. Hið kærða deiliskipulag tekur til 4.484 m2 lóðar, sem tilheyrir um 4,5 ha götureits sem þegar er byggður en ekki verið deiliskipulagður. Í gr. 5.3.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er tekið fram að í greinargerð deiliskipulags skuli færð rök fyrir afmörkun skipulagssvæðisins. Í greinargerð umrædds deiliskipulags kemur fram að vegna stærðar skipulagssvæðisins, þ.e. götureits sem afmarkast af Síðumúla, Fellsmúla, Grensásvegi, Ármúla og Selmúla, verði það deiliskipulagt í áföngum og sé þetta deiliskipulag fyrsti áfangi þess. Með vísan til þess að í aðalskipulagi kemur fram ætluð aukning byggingarmagns og fjöldi íbúða á svæðinu, ásamt rökstuðningi þeim sem fram kemur í greinargerð deiliskipulagsins, verður að telja að sveitarfélaginu hafi verið heimilt að afmarka deiliskipulagið með þeim hætti sem gert var.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hins kærða deiliskipulags hafnað.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni á hið kærða byggingarleyfi sér stoð í gildandi deiliskipulagi umrædds svæðis, sem samþykkt var með áðurgreindri skipulagsákvörðun. Þá liggur fyrir að leyfið fól í sér heimild til niðurrifs bílageymsluhúss, sem að hluta til er í eigu umsækjanda, og að samþykki meðeigenda þess lá fyrir við samþykki umsóknarinnar. Að því virtu, og þar sem ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð við samþykkt leyfisins, verður gildi þess ekki raskað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 9. febrúar 2017 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir sameiginlega lóð Grensásvegar 16A, Síðumúla 37 og Síðumúla 39.

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. júlí 2017 um að samþykkja byggingarleyfi til niðurrifs á bílastæðahúsi að Grensásvegi 16A.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson