Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

32/2016 Golfvöllur Blikastaðanesi

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 1. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 32/2016, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 19. febrúar 2016, um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Blikastaðaness, Mosfellsbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. mars 2016, er barst nefndinni sama dag, þá er kærð ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 3. febrúar 2016 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Blikastaðaness í Mosfellsbæ. Krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi sama aðila til nefndarinnar, dags. 4. maí 2016, er móttekið var sama dag hjá úrskurðarnefndinni, er jafnframt kærð ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 27. apríl 2016 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir gerð bílastæða við golfvöllinn á Blikastaðanesi og aðkomuvegar að þeim. Krefst kærandi þess að sú ákvörðun verði einnig felld úr gildi. Kærandi fór jafnframt fram á stöðvun framkvæmda til bráðabirgða, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði úrskurðarnefndarinnar 24. maí 2016.

Verður síðara kærumálið, sem er númer 43/2016, sameinað máli þessu og er það nú tekið til efnislegrar meðferðar.

Gögn málsins bárust 29. mars og 11. maí 2016.

Málavextir: Árið 2005 öðlaðist gildi deiliskipulag Blikastaðaness í Mosfellsbæ. Samkvæmt greinargerð þess var á skipulagssvæðinu gert ráð fyrir níu holu golfvelli, golfskála, áhaldahúsi/efnisgeymslu og höggæfingasvæði. Skipulagssvæðið væri um 45 ha að stærð. Afmarkaðist það af sjó til norðurs og vesturs, Úlfarsá og væntanlegri byggð á Blikastaðalandi til suðurs og núverandi golfvelli til austurs. Aðkoma að lóð golfskálans væri frá Baugshlíð um safngötu á Blikastaðalandi utan skipulagssvæðisins. Reiknað væri með að allt að 140 bílastæðum yrði komið fyrir utan skipulagssvæðisins og yrði gerð grein fyrir þeim í deiliskipulagi þess svæðis. Umframstæði yrðu leyst innan lóðar. Á skipulagsuppdrætti voru sýnd lóðamörk og byggingarreitur golfskála norðvestan við íbúðarbyggð að Þrastarhöfða. Einnig var færður inn á uppdráttinn, sunnan við byggingareit golfskála og vestan við lóðir að Þrastarhöfða, texti um að bílastæði golfskála yrðu nánar útfærð utan skipulagssvæðisins. Þá var tekið fram í greinargerðinni að staðsetningin væri sýnd til skýringar en væri ekki bindandi. Yrði endanleg staðsetning og frágangur unninn í samráði Mosfellsbæjar og golfklúbbsins. Á árinu 2007 tók gildi breyting á umræddu deiliskipulagi, er fól m.a. í sér að byggingarreitur golfskála var stækkaður og hann færður fjær byggð við Þrastarhöfða.

Með kynningarbréfi Golfklúbbs Mosfellsbæjar, dags. 19. maí 2015, til íbúa í nágrenni golfvallarins var upplýst um nokkur atriði er lytu að aðstöðu klúbbsins. Var tekið fram að til stæði að færa hana frá núverandi staðsetningu við Hlíðavöll á nýja lóð fyrir ofan Blikastaðanes. Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar 18. ágúst 2015 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi golfvallarins um að lóð og byggingarreitur golfskála færðist til vesturs. Samþykkti bæjarstjórn greinda afgreiðslu 26. s.m. Breytingartillagan var lögð fram að nýju á fundi skipulagsnefndar 1. september s.á. með þeirri viðbót að skipulagssvæði golfvallarins var stækkað og áformuð bílastæði því innan þess. Var sú afgreiðsla samþykkt á fundi bæjarstjórnar 9. s.m. Bárust sameiginlegar athugasemdir á kynningartíma tillögunnar frá lóðarhöfum Þrastarhöfða 53 og 55 er lutu m.a. að staðsetningu bílastæðanna. Skipulagsnefnd tók málið fyrir að nýju 10. nóvember 2015 og bókaði að auglýst tillaga væri samþykkt með leiðréttingu um gólfkóta golfskála. Jafnframt voru samþykkt drög að svörum við framkomnum athugasemdum þar sem m.a. kom fram að bílastæðum hefði verið fækkað um níu frá fyrstu tillögu að útfærslu þeirra. Samþykkti bæjarstjórn nefnda afgreiðslu 18. s.m.

Í kjölfarið var deiliskipulagið sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu. Gerði stofnunin athugasemd við að birt yrði auglýsing um gildistöku breytingarinnar þar sem hvorki væri gerð fullnægjandi grein fyrir aðkomuleið að golfvellinum í skilmálum né væri hún innan afmarkaðs deiliskipulagssvæðis. Á fundi skipulagsnefndar 26. janúar 2016 var fært til bókar að lagður væri fram til kynningar uppdráttur, sem endurskoðaður hefði verið með tilliti til athugasemda Skipulagsstofnunar. Samþykkti bæjarstjórn afgreiðsluna 3. febrúar s.á. Hlaut deiliskipulagið gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 19. febrúar 2016.

Með umsókn Golfklúbbs Mosfellsbæjar og Mosfellsbæjar til skipulagsfulltrúa Mosfellsbæjar, dags. 5. apríl 2016, var óskað eftir framkvæmdaleyfi fyrir gerð bílastæða við nýja íþróttamiðstöð, ásamt aðkomuvegi að þeim frá Æðarhöfða. Var umsóknin samþykkt á fundi skipulagsnefndar 19. s.m. Afgreiðsla nefndarinnar var samþykkt af bæjarstjórn 27. s.m. og framkvæmdaleyfið gefið út 28. apríl 2016. Tekur hið kærða leyfi til jarðvegsskipta, fyllinga og yfirborðsfrágangs 130 bílastæða og 370 m vegar með malarlagi, auk annars lokafrágangs, s.s. grjóthleðslna og þökulagningar.

Málsrök kæranda: Kærandi telur ljóst að starfsemi á vegum golfklúbbsins muni verða mun umfangsmeiri en kærandi og aðrir íbúar nærliggjandi íbúðarhúsa hafi mátt gera ráð fyrir samkvæmt eldra deiliskipulagi. Golfklúbburinn sé með veitinga- og vínveitingarleyfi og muni umrætt húsnæði vera í útleigu að hluta til. Stefnt sé að því að félagsmenn hafi aðgang að íþróttamiðstöðinni allan sólarhringinn og sé það til þess fallið að valda mun meira óhagræði fyrir íbúa Þrastarhöfða 53 og 55 en áður. Muni fyrirhuguð starfsemi illa samræmast hljóðlátri íbúðarbyggð og hafa áhrif á íbúa nærliggjandi húsa.

Breytt starfsemi í húsnæði golfklúbbsins hafi ekki verið nægilega vel kynnt. Upphaflega hafi verið gert ráð fyrir byggingarreit fyrir golfskála en nú eigi að reisa nýja íþróttamiðstöð. Nauðsynlegt hafi verið að skýra íbúum aðliggjandi húsa frá fyrirhugðum breytingum. Breytingartillagan hafi því ekki verið rökstudd með viðeigandi hætti, líkt og kveðið sé á um í gr. 5.8.5.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Í auglýstri verkefnislýsingu hafi ekki verið minnst einu orði á íþróttamiðstöð, aðeins fjallað um byggingarreit fyrir golfskála.
Staðsetning umræddra bílastæða muni hafa í för með sér veruleg grenndaráhrif gagnvart kæranda. Feli þau í sér í óhæfilega röskun á hagsmunum og lífsgæðum hans, auk þess sem verðgildi fasteignar hans rýrni. Í upphaflegu deiliskipulagi hafi verið áætlað ansi stórt svæði fyrir bílastæði og nýja íbúðarbyggð. Hafi kærandi ekki mátt gera ráð fyrir því að bílastæðin yrðu staðsett beint fyrir utan íbúðarhús hans, nánast í bakgarði lóðarinnar. Breyting sú sem gerð hafi verið vegna athugasemda kæranda hafi ekki teljanleg áhrif. Á deiliskipulagsuppdrætti megi sjá að rétt um 4,7 m séu á milli bílastæðaplansins og lóðarmarka Þrastarhöfða 53. Þá sé staðsetning púttflatar framan við bílastæðin og gegnt lóðarmörkum Þrastarhöfða 55 til þess fallin að auka slysahættu.

Ekki hafi verið gætt meðalhófs við meðferð málsins í samræmi við 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Óumdeilt sé að töluvert fleiri valkostir hafi staðið til boða, í mun meiri fjarlægð frá nærliggjandi húsum. Sé staðsetning golfvallar svo nærri íbúðarbyggð fordæmalaus á landinu öllu. Hafi ákvæðum gr. 5.2.1. og gr. 5.3.2.8. í skipulagsreglugerð ekki verið fylgt með fullnægjandi hætti við ákvarðanatökuna.

Þá hafi framkvæmdir verið hafnar fyrir útgáfu framkvæmdaleyfisins. Hafi skipulagsfulltrúi því með réttu átt að stöðva þær í samræmi við 16. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi.

Málsrök sveitarfélagsins:
Sveitarfélagið krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað. Gætt hafi verið að öllum lögum og reglum við gerð og auglýsingu hins umdeilda deiliskipulags.

Allt frá samþykkt deiliskipulagsins árið 2004 hafi legið fyrir að gert væri ráð fyrir 140 bílastæðum fyrir golfvöllinn á því svæði sem hin kærða skipulagsbreyting taki til. Hljóti kærandi að hafa gert sér grein fyrir þessu áður en hann hafi fest kaup á fasteign sinni árið 2011. Þótt staðsetning bílastæðanna hafi ekki legið nákvæmlega fyrir á þeim tíma hafi deiliskipulagið gefið til kynna að þau yrðu í námunda við Þrastarhöfða 53. Byggingarreitur golfskála, í næsta nágrenni við hús kæranda, hafi verið sýndur í deiliskipulagi Þrastarhöfða, samþykktu árið 2004. Fjarlægð frá bílastæðum að lóðarmörkum Þrastarhöfða 53 sé ekki 4,7 m heldur 12,5 m, eftir að felld hafi verið út níu bílastæði, miðað við upphaflegar tillögur, til að koma við móts við sjónarmið kæranda og í því skyni að gæta meðalhófs. Við það hafi bílastæðin færst um 5 m fjær lóðunum en áformað hafi verið, en í staðinn komið grænt belti.

Í upphaflegu deiliskipulagi golfvallarins hafi byggingarreitur fyrir golfskála verið í 15 m fjarlægð frá lóðarmörkum Þrastarhöfða 55. Árið 2006 hafi verið samþykkt að mörk hans væru færð í rúmlega 30 m fjarlægð frá fyrrnefndri lóð, en skálinn hafi þó í megindráttum verið áfram á sama stað. Með hinni kærðu breytingu færist skálinn enn fjær íbúðarlóðunum, eða í 55 m fjarlægð. Breyting sú sem nú sé kærð muni því ekki valda kæranda auknu ónæði eða skerða hagsmuni hans umfram það skipulag sem gilt hafi, heldur fremur hið gagnstæða. Samkvæmt hinu breytta skipulagi muni fyrirhugað hús liggja lægra í landinu en áður var fyrirhugað. Þannig verði það lítt sjáanlegt frá Þrastarhöfða 53, eða a.m.k. síður en fyrra deiliskipulag hafi gert ráð fyrir. Hafi þetta verið gert til að húsið skerti ekki útsýni frá nærliggjandi húsum og til þess að minnka mögulegt ónæði af starfseminni.

Ekki verði séð að í notkun hugtaksins íþróttamiðstöð felist mun umfangmeiri starfsemi en kærandi hafi mátt gera ráð fyrir. Sveitarfélaginu sé ekki kunnugt um að starfseminni hafi verið lýst með öðrum hætti áður en kærandi eignaðist fasteign sína. Fyrirhuguð starfsemi sé í góðu samræmi við þá starfsemi sem almennt megi búast við í golfskálum. Golfklúbburinn sé þegar með veitinga- og vínveitingarleyfi án þess að það hafi haft í för með sér ónæði. Ætti starfsemi hússins ekki að valda kæranda ónæði, eða a.m.k. ekki meira ónæði en almennt megi búast við í þéttbýli. Fari hins vegar svo hafi bærinn heimild til að bregðast við því, a.m.k. hvað varði ónæði af völdum veitinga í húsinu. Þá stafi lítil slysahætta af púttflöt, enda slysahætta minnst þegar golfboltinn sé næst jörðu. Nú þegar sé púttflöt við núverandi golfskála mjög nálægt byggð.

Athugasemdir leyfishafa: Golfklúbbi Mosfellsbæjar var tilkynnt um framkomnar kærur og honum gefinn kostur á því að koma á framfæri athugasemdum við þær, en hann hefur ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti breytinga á deiliskipulagi Blikastaðaness, en breytingarnar felast m.a. í færslu lóðar og byggingarreits íþróttamiðstöðvar/golfskála. Jafnframt er nefnd lóð stækkuð. Þá er skipulagssvæðið stækkað til suðurs, vestan lóða við Þrastarhöfða, og þar gert ráð fyrir bílastæðum. Á skipulagsuppdrætti er einnig sýnd lega bráðabirgðavegar að bílastæðunum. Eru umrædd bílastæði vestan við íbúðarhúsalóð kæranda, í yfir 10 m fjarlægð, og liggur göngustígur þar á milli.

Kærandi ber fyrir sig að skort hafi á rökstuðning fyrir breytingu á starfseminni og vísar í því sambandi til gr. 5.8.5.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þar segir m.a. að í greinargerð skuli lýsa breytingunni, forsendum hennar, rökstuðningi fyrir henni, samráði við hagsmunaaðila og samræmi við aðalskipulag. Þá telur kærandi að fyrirhuguð starfsemi samræmist ekki hljóðlátri íbúðarbyggð og vísar til gr. 5.3.2.8. í skipulagsreglugerð, þar sem fjallað er um að þess skuli gæta að atvinnustarfsemi í íbúðarbyggð valdi sem minnstum óþægindum vegna bílaumferðar, hávaða, ljósanotkunar eða annars ónæðis og að öruggar og greiðar göngu- og hjólaleiðir séu að skólum og annarri nærþjónustu.

Golfvöllurinn og aðstaða honum tengd er samkvæmt Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030 á opnu svæði til sérstakra nota, en bílastæði þau og aðkomuvegur sem hin kærða deiliskipulagsbreyting tekur til eru á skilgreindu íbúðarsvæði. Gerir skipulagsreglugerð ráð fyrir því að landnotkun geti verið mismunandi innan sama skipulagssvæðis, en jafnframt skal að því gætt að hægt sé að uppfylla kröfur annarra laga, s.s. um hljóðvist. Liggur ekki annað fyrir en að svo verði á umræddu svæði, auk þess sem áskilnaði um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana er fullnægt, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Skipulagslög hafa það m.a. að markmiði að tryggja að samráð sé haft við almenning við gerð skipulagsáætlana, þannig að honum sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð slíkra áætlana. Um samráð og samráðsaðila við gerð deiliskipulags er sérstaklega fjallað í gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð, en samkvæmt 1. mgr. þeirrar greinar skal eftir föngum leita eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa, umsagnaraðila og annarra þeirra sem hagsmuna eiga að gæta. Tillaga skipulagsbreytingarinnar var auglýst til kynningar og kom kærandi að athugasemdum sínum í málinu, sem í kjölfarið var svarað efnislega af hálfu skipulagsyfirvalda. Kom fram í þeim svörum að bílastæðum hefði verið fækkað um níu frá fyrstu tillögu að útfærslu þeirra. Verður ekki annað séð en að lögbundið samráð hafi þannig farið fram, en lóð kæranda liggur ekki að hinu breytta deiliskipulagssvæði.

Áður en tillaga að hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu var auglýst til kynningar hafði sveitarfélagið kynnt skipulagslýsingu deiliskipulags við Æðarhöfða, en meðal markmiða þess var að koma fyrir aðkomu og bílastæðum „þar sem bygging nýja golfskálans er nú í bígerð“. Ekki var þó lokið við gerð þessa deiliskipulags, heldur auglýst til kynningar tillaga að breytingu á deiliskipulagi Blikastaðaness, eins og fyrr greinir. Af hálfu kæranda var óskað upplýsinga hjá sveitarfélaginu um fyrirhugaða starfsemi íþróttamiðstöðvar og í svarbréfi frá framkvæmdastjóra golfklúbbsins 25. september 2015 sagði m.a. eftirfarandi: „Í húsinu verður að finna hefðbundna aðstöðu eins og skrifstofur, búningsklefa, móttöku, afgreiðslu á golfvörum, veitingasölu, hátíðasal, fjölnotarými, ásamt því að á neðri hæð byggingarinnar verða svæði til iðkunar golfs innandyra, eins og til að mynda golfhermar, æfingaflöt og svæði til golfleikfimi.“ Þá var tekið fram að aðstaðan yrði leigð út að einhverju marki. Af framangreindu verður ráðið að um nokkuð viðameiri starfsemi verður að ræða í umræddu húsnæði en áður hefur verið, en ekki verður hins vegar séð að eðli hennar sé breytt frá því sem áður var. Má og fallast á með sveitarfélaginu að hún sé í samræmi við þá starfsemi sem almennt megi búast við í golfskálum. Þá verður að ætla að sú breyting að færa byggingarreit hússins ívið fjær lóð kæranda geti haft minna ónæði í för með sér fyrir lóðarhafa nærliggjandi húsa en verið hefði að óbreyttri staðsetningu.

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu var tekið fram í greinargerð með deiliskipulagi golfvallarins, er tók gildi árið 2005, að allt að 140 bílastæði yrðu utan við skipulagsreitinn. Texta sama efnis efnis var og að finna á skipulagsuppdrættinum sem gaf til kynna að stæðin yrðu sunnan við golfskálann og vestan við lóð kæranda, þ.e. á svipuðum stað og gert er ráð fyrir með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu. Mátti kærandi því ætla að bílastæði golfskálans yrðu utan skipulagsreitsins en þó jafnframt staðsett í námunda við golfskálann, þrátt fyrir að tekið hefði verið fram í greinargerð deiliskipulagsins að staðsetning þeirra á uppdrætti væri aðeins til skýringa en ekki bindandi. Samkvæmt gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð skal hverju sinni setja í deiliskipulagi skilmála um fjölda bílastæða og frágang þeirra innan og utan lóða, sérmerkt bílastæði fyrir fatlaða, stæður fyrir reiðhjól og önnur farartæki eftir því sem við á. Ekki verður séð að í umræddu deiliskipulagi sé fjallað sérstaklega um fjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða. Eins og hér stendur á verður þó ekki talið að það geti haft áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar enda eru fyrir hendi ákvæði þar að lútandi í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem taka þarf tillit til við frekari uppbyggingu á skipulagsreitnum. Hefur það og verið gert við veitingu hins kærða framkvæmdaleyfis, en í umsókn um það er sýnt fyrirkomulag 130 bílastæða og eru þar af tvö merkt fyrir hreyfihamlaða, í samræmi við töflu 6.03 í gr. 6.2.6. í reglugerðinni.

Auglýsing nr. 22/2013 um leiðbeiningar um ritun fundargerða sveitarstjórna er sett með stoð í 2. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Um skráningu dagskrármála er fjallað í 7. gr. auglýsingarinnar. Segir þar að skrá skuli í fundargerð við dagskrármálið sjálft hvaða afgreiðslu það hafi hlotið, ályktanir og niðurstöðu, s.s. hvort mál hafi verið samþykkt, því synjað, frestað, vísað til umsagnar nefndar eða starfsmanns, vísað til fullnaðarafgreiðslu nefndar eða starfsmanns eða hvort máli hafi verið vísað frá. Segir enn fremur að varði afgreiðsla dagskrármáls ekkert af þessu sé málið lagt fram án efnislegrar afstöðu til þess. Í 15. gr. samþykktar nr. 238/2014 um stjórn Mosfellsbæjar er fjallað um fundarsköp og ritun fundargerða. Er þar um afgreiðslu dagskrármála sagt í c-lið að erindi sé afgreitt í bæjarstjórn með því að samþykkja það, synja því, fresta því, vísa því til umsagnar annarrar nefndar eða starfsmanns, vísa því til endanlegrar afgreiðslu nefndar eða starfsmanns, eða vísa því frá bæjarstjórn. Enn fremur segir að erindi sem einungis sé til upplýsingar eða kynningar og þarfnist ekki efnislegrar niðurstöðu séu lögð fram. Eftir samþykkt hinnar kærðu deiliskipulagstillögu í sveitarstjórn var skipulagssvæðið stækkað svo það næði til bráðabirgðavegtengingar að Æðarhöfða vegna athugasemda Skipulagsstofnunar þar um. Var tillagan svo breytt lögð fram til kynningar í skipulagsnefnd og sú afgreiðsla samþykkt af sveitarstjórn, svo sem nánar er rakið í málavaxtalýsingu. Ekki var hins vegar samþykktur breyttur skipulagsuppdráttur, svo sem nauðsynlegt hefði verið til að efnisleg niðurstaða lægi fyrir í skilningi þeirra ákvæða sem að framan eru rakin. Leiðir af þessu að umrædd stækkun skipulagssvæðisins telst ekki hafa verið samþykkt með fullnægjandi hætti í sveitarstjórn. Að því virtu, og með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þykir verða að fella úr gildi þann hluta hinnar kærðu skipulagsákvörðunar er að þessu lýtur, en láta ákvörðunina að öðru leyti halda gildi sínu.

Ekki verður séð að sveitarstjórn hafi við útgáfu framkvæmdaleyfis fjallað um og tekið afstöðu til þess hvort framkvæmd væri í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Sveitarstjórn hafði hins vegar þegar fjallað um og gert breytingar á deiliskipulagi umrædds svæðis og í útgefnu framkvæmdaleyfi er tekið fram að leyfisveitingin byggist á því að fyrirhuguð mannvirki séu í samræmi við gildandi deiliskipulag, með breytingum þeim sem samþykktar voru í bæjarstjórn. Eins og atvikum málsins er hér sérstaklega háttað þykir annmarki þessi því ekki þess eðlis að leiða beri til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Eigi að síður verður ekki hjá því komist að fella hið kærða framkvæmdaleyfi úr gildi að því er varðar umræddan aðkomuveg, enda á sá hluti þess sér ekki lengur stoð í gildandi deiliskipulagi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem kærð hafa verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 19. febrúar 2016, um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Blikastaðaness í Mosfellsbæ, er felld úr gildi að því er varðar stækkun skipulagssvæðisins til suðurs yfir aðkomuveg.

Hin kærða ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 27. apríl 2016, um að veita framkvæmdaleyfi fyrir gerð bílastæða við golfvöllinn á Blikastaðanesi og aðkomuvegar að þeim, er felld úr gildi að því er varðar gerð aðkomuvegar.

40/2016 Auðbrekka

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 8. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 40/2016, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 26. apríl 2016 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Auðbrekku – þróunarsvæði, svæði 1, 2 og 3.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. apríl 2016, er barst nefndinni 27. s.m., kæra 45 íbúar við Löngubrekku í Kópavogi þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 26. apríl 2016 að samþykkja deiliskipulag fyrir Auðbrekku – þróunarsvæði, svæði 1, 2 og 3. Gera kærendur þá kröfu að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Með bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 15. júní 2016, var kröfu um stöðvun framkvæmda synjað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 17. maí 2016.

Málavextir: Hið umþrætta deiliskipulag tekur til reita innan Auðbrekkusvæðis í Kópavogi. Samkvæmt Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 er svæðið þróunarsvæði, ÞR-2 Auðbrekka Nýbýlavegur.

Hinn 29. janúar 2015 var haldinn íbúafundur og var samantekt frá honum lögð fyrir fund skipulagsnefndar 9. febrúar s.á. Á fundi nefndarinnar 4. maí s.á. var lögð fram skipulagslýsing fyrir þróunarsvæði Auðbrekku og drög að deiliskipulagi fyrir svæðið. Var lýsingin samþykkt í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og henni vísað til bæjarráðs og bæjarstjórnar, sem staðfesti hana á bæjarstjórnarfundi 12. maí 2015. Á fundi skipulagsnefndar 5. október s.á. var lögð fram tillaga að deiliskipulagi fyrir hluta þróunarsvæðis Auðbrekku, svæði 1, 2 og 3, og samþykkt að hún yrði auglýst í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Á bæjarstjórnarfundi 12. s.m. var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest. Að lokinni kynningu var tillagan lögð fram að nýju, með áorðnum breytingum, á fundi skipulagsnefndar 18. janúar 2016 og hún samþykkt ásamt umsögn um framkomnar athugasemdir. Á bæjarstjórnarfundi 26. s.m. var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest. Á fundi skipulagsnefndar 11. apríl 2016 var, með vísan til erindis Skipulagsstofnunar, dags. 24. febrúar s.á., lögð fram leiðrétt deiliskipulagstillaga og var hún samþykkt með vísan til 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Á bæjarstjórnarfundi 26. s.m. var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest. Með auglýsingu birtri í B-deild Stjórnartíðinda 17. maí 2016 tók deiliskipulagið gildi.

Í deiliskipulaginu felst að reistar verða 165 nýjar íbúðir auk þess að byggt verður við núverandi atvinnuhúsnæði og nýtt verslunar- og þjónustuhúsnæði reist. Meðalnýtingarhlutfall deiliskipulagssvæðisins er um 0,55 fyrir breytingar. Áætlað nýtingarhlutfall á reit 1 fer úr 1,1 í 1,9, á reit 2 úr 0,6 í um 3,0 og á reit 3 úr 0,12 í 2,8.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að tveir átta hæða turnar sem heimilaðir séu með hinu kærða deiliskipulagi muni rýra verðgildi fasteigna þeirra, en frá þeim megi nú njóta útýnis meðal annars til Snæfellsjökuls, Skerjafjarðar, flugvallarins, Öskjuhlíðar, Akrafjalls, Skarðsheiðar og Esjunnar. Skipulagið skerði lífsgæði íbúa og mikilfenglegt útsýni muni hverfa. Þá muni bílaumferð aukast verulega með tilheyrandi mengun, verri hljóðvist, töfum og slysahættu.

Farið sé fram á það að bæjaryfirvöld gæti meðalhófs og að turnarnir á reit 1-3 verði lækkaðir að lágmarki um þrjár hæðir. Ekki verði byggt ofan á Auðbrekku fyrir framan Löngubrekku 41-47 og heldur ekki byggt þar á milli, eða gerður þar bílakjallari. Dregið verði úr byggingarmagni og íbúðum á Auðbrekkusvæðinu verði fækkað um 100 hið minnsta. Löngubrekku verði breytt í botngötu til að sporna við auknum umferðarþunga um götuna. Gerð verði leiksvæði fyrir börn á svæðinu og fjölskyldustefna verði í hávegum höfð. Einnig sé þess krafist að byggingarleyfi verði ekki gefin út og engar framkvæmdir fari af stað á reitnum fyrr en íbúar fái skriflega staðfestingu á því að ofangreindum kröfum verði mætt.

Íbúar svæðisins hafi fjölmennt á íbúafund þar sem kynntar hafi verið hugmyndir að deiliskipulagi Auðbrekkusvæðisins. Þar hafi komið fram ábendingar af hálfu íbúa þar sem lögð hafi verið rík áhersla á að byggingar yrðu í samræmi við núverandi byggð og myndu ekki skyggja á útsýni sem fyrir sé. Starfsfólk Kópavogsbæjar hafi fullvissað íbúa um að þetta væri aðeins tillaga að skipulagi sem ætti eftir að vinna frekar og að ekki yrði farið í frekari vinnu án samráðs við húseigendur á svæðinu. Þetta hafi ekki verið efnt og því hafi íbúar staðið í þeirri trú að hugmyndavinna væri enn í gangi. Annað hafi komið í ljós þegar þeir hafi séð frétt í dagblaði þess efnis að samþykkja ætti nýtt deiliskipulag á Auðbrekkusvæði hinn 18. janúar 2016. Þá strax hafi íbúar sent athugasemdir til bæjaryfirvalda vegna fyrirhugaðs deiliskipulags en engar tilkynningar hafi borist þeim frá Kópavogsbæ af því tilefni.

Hinn 23. mars 2016 hafi íbúar við Löngubrekku setið fund með skipulagsstjóra Kópavogsbæjar þar sem farið hafi verið yfir deiliskipulagið. Þar hafi þeir komið á framfæri óánægju sinni og í kjölfarið kallað eftir hæðarkótum á fyrirhuguðum byggingum. Á fundi 20. apríl s.á. hafi verið haldinn fundur þar sem umbeðin gögn hafi verið afhent. Þá hafi komið fram á fundinum að verkefnið yrði ekki grenndarkynnt. Starfsmenn Kópavogsbæjar hafi komið því á framfæri að íbúar yrðu látnir vita ef eitthvað nýtt kæmi fram í skipulagsferlinu. Það hafi ekki verið efnt.

Í greinargerð frá bæjaryfirvöldum, sem samþykkt hafi verið 12. maí 2015, hafi komið fram: „Hæðir bygginga skulu taka mið af nærliggjandi byggð og reynt verður eftir fremsta megni að ný byggð verði ekki íþyngjandi fyrir núverandi byggð.“ Þá sé þar og talað um „mikilvægi þess að fá hagsmunaaðila inn í vinnuna á fyrstu stigum og halda samráði virku meðan á skipulagsferlinu stendur til að tryggja að allir aðilar séu meðvitaðir um framvindu málsins.“ Í ljósi þessa sé alveg með ólíkindum að ekki hafi verið haft samband við íbúa. Því megi ætla að Kópavogsbær telji íbúa Löngubrekku ekki hagsmunaaðila.

Ljóst sé að skortur á samráði við gerð deiliskipulagstillögunnar samræmist ekki 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en jafnframt hafi upplýsingum vísvitandi verið haldið frá kærendum með því að skipulagslýsing hafi ekki verið kynnt fyrir þeim. Þá komi fram í aðalskipulagi að á Auðbrekkusvæðinu sé reiknað með 160 íbúðum. Deiliskipulag Auðbrekkusvæðis, sem samþykkt hafi verið í bæjarstjórn 26. apríl 2016, sé því í hrópandi ósamræmi við gildandi aðalskipulag þar sem með því sé verið að heimila 350-400 íbúðir. Skorti því á innra samræmi skipulagsáætlana, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Málsrök Kópavogsbæjar: Bæjaryfirvöld vísa til þess að samkvæmt Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 sé Auðbrekkusvæðið þróunarsvæði ÞR-2, en í skilgreiningu svæðisins segi að landnotkun á svæðinu norðan Hamraborgar við Auðbrekku og Nýbýlaveg hafi breyst frá því að vera nær eingöngu fyrir iðnað í að vera fyrir verslun og þjónustu. Breytingin hafi tengt hverfið betur við miðbæjarsvæðið og miði skipulag hverfisins við að auka hlut verslunar og þjónustu eða starfsemi henni tengdri, auk þess að fjölga íbúðum á svæðinu. Að auki komi fram í aðalskipulaginu að markmið á þróunarsvæðum sé að bæta umhverfi, búsetugæði og efnahagslega umgjörð eldri byggðar í Kópavogi með aukinni blöndun byggðar, sem miði að sjálfbærri þróun borgarumhverfisins. Auka skuli jafnvægi í dreifingu atvinnusvæða og íbúðarsvæða og skapa þannig aukin atvinnutækifæri nær íbúðarhverfum jafnframt því að draga úr umferðarþörf og stytta vegalengdir á milli íbúða, verslunar, þjónustu og atvinnu. Loks sé í aðalskipulaginu að því stefnt að bæta hljóðvist vegna aukinnar umferðar með nánari útfærslu í deiliskipulagi. Taki deiliskipulagsgerð Auðbrekkusvæðisins mið af framangreindum markmiðum Aðalskipulags Kópavogs.

Í upphafi hafi deiliskipulagslýsing fyrir allt Auðbrekkusvæðið verið kynnt og m.a. haldinn sérstakur kynningarfundur fyrir íbúa á svæðinu þar sem farið hafi verið ítarlega yfir verkefnið, spurningum svarað og tekið við athugasemdum. Auðbrekkusvæðið skiptist í sex reiti og í framhaldi af kynningarfundi hafi farið í gang vinna við deiliskipulag fyrir reiti 1-3. Um sé að ræða nýtt deiliskipulag og hafi auglýsing og kynning verið í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt umræddri grein skuli auglýsa á sama hátt og um aðalskipulag væri að ræða, þ.e. í dagblaði gefnu út á landsvísu sem og í Lögbirtingablaði. Sé ekki ætlast til að skipulagsbreytingar sem lúti málsmeðferð 41. gr. skipulagslaga séu einnig grenndarkynntar. Að mati Kópavogsbæjar hafi ekki verið þörf á slíkri kynningu. Kynningarfundur hafi verið haldinn og hann m.a. kynntur með dreifibréfi sem dreift hafi verið í hús á svæðinu og í næsta nágrenni.

Á það bent að vinna að deiliskipulagi fyrir reiti 4-6 sé ekki hafin og athugasemdir kærenda vegna skipulagsáforma á því svæði eigi því ekki að koma til álita hér. Hvað varði þær athugasemdir sem kærendur hafi gert við deiliskipulag reita 1-3, annars vegar við Auðbrekku 7-13 og hins vegar við Dalbrekku 2-8, sé gert þar ráð fyrir átta hæða húsum með inndreginni efstu hæð. Umrædd hús séu staðsett töluvert neðar en hús kærenda, en landið á umræddu svæði sé aflíðandi. Hækkun húsa myndi því hafa takmörkuð grenndaráhrif. Sú útsýnisskerðing sem kærendur telji yfirvofandi sé óveruleg og geti útsýni varla talist til lögvarinna réttinda.

Staðhæfingum kærenda um að reynt hafi verið að villa um fyrir íbúum og að ekki hafi verið haft samband við þá sé mótmælt. Líkt og að framan greini hafi verið haldinn opinn kynningarfundur þar sem öllum þeim sem mættu hafi verið gefinn kostur á að kynna sér verkefnið. Hvergi sé kveðið á um það í lögum að frekara samráð skuli haft við íbúa, að öðru leyti en því að auglýsa skuli nýtt skipulag eða skipulagsbreytingar og gefa þar með almenningi færi á að gera athugasemdir við þá tillögu sem til meðferðar sé. Málsmeðferð deiliskipulagsins fyrir reiti 1-3 í Auðbrekku sé ítarleg og í samræmi við lög og reglur. Hafi það verið lagt fyrir og kynnt í viðeigandi nefndum og ráðum á öllum stigum málsins, athugasemdum svarað. Einnig sé sérstaklega bent á að Kópavogsbær hafi reynt eftir fremsta megni að veita kærendum eins ítarlegar upplýsingar og kostur var og m.a. boðað þá á sérstakan fund til að skýra málið nánar, þrátt fyrir að athugasemdir þeirra á umræddu deiliskipulagi hafi borist eftir að athugasemdafrestur hafi verið liðinn.

Niðurstaða:
Hið kærða deiliskipulag tekur til reita 1-3, sem eru innan skilgreinds þróunarsvæðis, ÞR-2 Auðbrekka-Nýbýlavegur, í gildandi aðalskipulagi. Reitir 4-6 innan þróunarsvæðisins hafa hins vegar ekki verið deiliskipulagðir.

Samkvæmt skipulagslögum er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga. Annast þær jafnframt og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags skv. 29. og 38. gr. sömu laga. Í skipulagsáætlunum er sett fram stefna skipulagsyfirvalda um þróun byggðar og landnotkun og teknar ákvarðanir um samgöngur og mannvirki sem þeim tengjast. Sveitarstjórnum er því gefið víðtækt vald til ákvarðana um skipulag innan marka sveitarfélags en við beitingu þess valds ber þeim þó að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, m.a. að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála, þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Sveitarstjórnir eru enn fremur bundnar af lögmætis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum og að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt er til að ná þeim markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hafa sveitarstjórnir mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað, en gæta verður þess að deiliskipulag sé í samræmi við efni aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 kemur fram að fjölgun íbúða á Auðbrekkusvæðinu geti orðið um 160. Er og tekið fram að landnotkun hafi breyst frá því að vera nær eingöngu fyrir iðnað í verslun og þjónustu. Breytingin hafi tengt hverfið betur við miðbæjarsvæðið. Skipulag hverfisins miðist við að auka hlut verslunar og þjónustu, eða starfsemi sem sé tengd henni, auk íbúðarhúsnæðis. Hlutfallið árið 2012 hafi verið 12% íbúðir en 88% atvinnuhúsnæði. Stefnt sé að því að hlutfallið verði 40% íbúðir en 60% atvinnuhúsnæði.

Hið kærða deiliskipulag, sem tekur aðeins til hluta Auðbrekkusvæðisins, gerir ráð fyrir 165 íbúðum. Með því er uppbyggingarheimild aðalskipulagsins á íbúðum á Auðbrekkusvæðinu fullnýtt að óbreyttu skipulagi. Þó svo að samþykktar íbúðir séu fleiri en fram kemur í aðalskipulaginu gefur orðalag þess það til kynna að svigrúm sé til staðar við ákvörðun um fjölda íbúða. Verður því að telja að deiliskipulagið sé í samræmi við stefnu og skilmála aðalskipulags, svo sem krafa er gerð um í 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Í skipulaginu er gert ráð fyrir húsum, allt að átta hæðum, á svæði nokkru neðan við Löngubrekku, en landhalli er þar nokkur. Í málinu liggja fyrri myndir er sýna eiga útsýnisskerðingu frá Löngubrekku vegna húsanna og má af þeim ráða að þau muni ekki skerða útsýni að marki umfram það sem nú þegar er raunin, m.a. vegna húsa sem þar standa á milli.

Ekki verður annað ráðið en að málsmeðferð hins kærða deiliskipulags hafi verið í samræmi við ákvæði VIII. kafla skipulagslaga nr. 123/2010. Þannig var lýsing gerð um skipulagsverkefnið, haldinn um það kynningarfundur, skipulagstillagan auglýst til kynningar, framkomnum athugasemdum er bárust innan lögboðins frests svarað og tillagan síðan afgreidd í skipulagsnefnd og bæjarstjórn. Ekki er gerð krafa í nefndum lögum um að grenndarkynna skuli nýtt deiliskipulag fyrir hagsmunaaðilum, sbr. 44. gr. laganna, heldur ber sveitarfélagi að auglýsa tillögu að deiliskipulagi með almennum hætti, sbr. 1. mgr. 41. gr. þeirra.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir neinir þeir form- eða efnisannmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar. Verður kröfu kærenda um ógildingu hennar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 26. apríl 2016 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Auðbrekku – þróunarsvæði, svæði 1, 2 og 3.

80/2015 Sjafnargata

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 1. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 80/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. ágúst 2015 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við húsið að Sjafnargötu 3 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. september 2015, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur fasteignarinnar að Sjafnargötu 3, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. ágúst 20185 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við húsið að Sjafnargötu 3. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 9. nóvember og 10. desember 2015.

Málavextir: Hinn 21. apríl 2015 tók byggingarfulltrúi fyrir umsókn kærenda um leyfi fyrir 54,5 m2 viðbyggingu norðanvert við húsið að Sjafnargötu 3, sem notuð yrði sem vinnustofa og yrði tengd kjallara hússins. Jafnframt var gert ráð fyrir að 18,2 m2 bílskúr, sem stendur á sama stað og fyrirhuguð viðbygging, yrði rifinn. Var málinu vísað til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu, en lóðin Sjafnargata 3 er á ódeiliskipulögðu svæði. Skipulagsfulltrúi samþykkti á fundi sínum 29. s.m. að grenndarkynna byggingaráformin fyrir hagsmunaaðilum. Að lokinni grenndarkynningu var málið á dagskrá fundar skipulagsfulltrúa 14. ágúst 2015. Lágu fyrir fundinum annars vegar bréf eiganda Sjafnargötu 1, þar sem tekið var jákvætt í kynnta tillögu, og hins vegar andmæli samtaka íbúa við Sjafnargötu og Freyjugötu með nöfnum 29 aðila. Var málinu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs. Á fundi ráðsins 19. s.m. var samþykkt framlögð umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 14. s.m., sem hafði að geyma tillögur að svörum við framkomnum athugasemdum og að svarbréfi til kærenda um að umsókn þeirra væri hafnað. Var málinu vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa, sem hafnaði byggingarleyfisumsókn kærenda á fundi sínum 25. ágúst 2015 með vísan til fyrrgreindrar umsagnar skipulagsfulltrúa.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er á því byggt að ekki hafi verið staðið með viðhlítandi hætti að rannsókn málsins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglur stjórnsýsluréttar. Í fyrsta lagi verði ekki betur séð en að synjun á byggingarleyfi hafi byggst á athugasemdum sem hafi borist frá hinum svokölluðu „Íbúasamtökum íbúa við Sjafnargötu og Freyjugötu“. Byggt hafi verið á þessum athugasemdum, enda þótt ekkert sé fram komið um það hvort þessi samtök hafi verið formlega stofnuð og hverjir séu raunverulegir aðilar að þeim. Skortur á rannsókn í þessu efni beri merki um að málsmeðferð hafi verið verulega áfátt.

Þá verði ekki séð að samtökin hafi átt rétt á að koma að athugasemdum vegna grenndarkynningarinnar og standist því ekki að byggja niðurstöðu um synjun á þeim athugasemdum. Þegar ákvörðun hafi verið tekin af hálfu skipulagsyfirvalda um að grenndarkynna umsókn kærenda um byggingarleyfi hafi erindið verið sent til nágranna í þeim húsum er næst liggi Sjafnargötu 3. Sumir af þessum aðilum hafi kosið að senda inn athugasemdir í nafni framangreindra samtaka, en ljóst sé að samtökin geti ekki talist hafa verulegra hagsmuna að gæta í skilningi stjórnsýsluréttar eða á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Fram hafi komið að samtökin hafi verið stofnuð einvörðungu í þeim tilgangi að passa upp á götumynd Sjafnargötu vegna fyrirhugaðrar viðbyggingar. Fyrir liggi að viðbyggingin hafi engin áhrif á götumyndina þar sem hún sjáist ekki frá götunni.

Kærendur hafi lagt fram teikningar með umsókn sinni, sem sýni að umrædd viðbygging breyti hvorki ásýnd hússins né götumyndinni og sé því um óverulega breytingu að ræða. Skilyrði þess að synja um útgáfu byggingarleyfis þegar ekki liggi fyrir deiliskipulag sé að leyfið hafi í för með sér verulegar breytingar á byggðamynstri hverfis. Stjórnvöld hafi viðurkennt að breytingarnar sem standi til að viðhafa að Sjafnargötu 3 séu óverulegar með því að efna til grenndarkynningar.

Nýtingarhlutfall lóðarinnar Sjafnargötu 3 í samanburði við nýtingarhlutfall nærliggjandi lóða hafi veruleg áhrif á niðurstöðu um synjun byggingarleyfis. Kærendur telji að sumar þær stærðir á húseignum sem skipulagsyfirvöld byggi á séu líkast til ekki réttar, eins og hafi komið í ljós með Sjafnargötu 3. Húsið hafi upphaflega verið skráð 197,7 m2 og bílskúr 18,2 m2. Húsið standi á 921 m2 lóð og hafi nýtingarhlutfall verið samtals 0,23. Gerð hafi verið krafa um leiðréttingu á stærðinni, þar sem kjallara vantaði inn í reikninginn, og hafi nýtingarhlutfallið með leiðréttingunni þá orðið samtals 0,32. Með viðbyggingu upp á 75,92 m2, sem samþykkt hafi verið 2014, hafi nýtingarhlutfall orðið 0,40. Með þeirri viðbyggingu sem sótt hafi verið um að reisa og synjað hafi verið um sé áætluð stækkun 36,3 m2, sem feli í sér að nýtingarhlutfall verði 0,44 en ekki 0,46, eins og komi fram í svörum skipulagsfulltrúa. Sé því um tvenns konar annmarka að ræða. Annars vegar sé byggt á að nýtingarhlutfall Sjafnargötu 3 sé hærra en það sé í raun og veru. Hins vegar sé um það að ræða að nýtingarhlutföll annarra lóða við Sjafnargötu, sem séu til viðmiðunar í umsögn skipulagsfulltrúa, geti ekki verið alls kostar rétt og hljóti að vera hærri þar sem þau hafi ekki verið leiðrétt, eins og eigi við um Sjafnargötu 3.

Kærendur telji að ákvörðun byggingarfulltrúa um synjun hafi falið í sér brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga og óskráðri jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Hús kærenda hafi verið reist árið 1931 og eigi það sammerkt með meirihluta mannvirkja í einu elsta og mögulega verðmætasta hverfi borgarinnar að vera komið til ára sinna og þarfnist endurbóta. Enginn hlutlæg eða málefnaleg sjónarmið réttlæti synjun á byggingarleyfi til handa kærendum. Ljóst sé að þegar stjórnvöld veiti næst leyfi til endurbóta á húseignum í hverfinu muni það að öllum líkindum fela í sér að brotið sé í bága við 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga, að því gefnu að nýtingarhlutfall sé sambærilegt og hjá kærendum eða hærra og að áhrif á götumyndina séu þau sömu.

Umsókn kærenda hafi verið í samræmi við skilyrði þess að fá veitt byggingarleyfi í þegar byggðum hverfum án þess að fyrir liggi deiliskipulag. Af því leiði að lagaskilyrði hafi verið til þess að taka umsókn um byggingarleyfi til greina. Byggingarfulltrúi hafi ekki getað með réttmætum hætti ákveðið að hafna umsókninni. Stjórnvöld verði við töku matskenndra stjórnvaldsákvarðana, svo sem um útgáfu byggingarleyfis, ætíð að byggja ákvarðanir sínar á málefnalegum sjónarmiðum. Það, hvaða sjónarmið teljist málefnaleg hverju sinni, ráðist af lagagrundvellinum og í þessu samhengi verði að horfa til landnotkunar, byggðamynsturs og þéttleika byggðar, sem og 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Eins og hér sé ástatt telji kærendur að synjun um útgáfu byggingarleyfis byggist á ómálefnalegum sjónarmiðum í andstöðu við réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins. Áréttað sé að skipulagsfulltrúi hafi vísað flestum athugasemdum frá íbúasamtökunum á bug í svörum sínum. Á hinn bóginn leggi hann til í umsögn sinni að leyfi verði ekki gefið út fyrr en hverfisskipulag verði gert „í ljósi athugasemda og þeirra framkvæmda sem nú þegar eru samþykktar“.

Þær framkvæmdir sem kærendur hyggist ráðast í séu í samræmi við landnotkun, hafi óveruleg ef þá nokkur áhrif á byggðamynstur og nýtingarhlutfall, sem sé mælikvarði á þéttleika byggðar, sé það sama ef ekki lægra en meðalnýtingarhlutfall lóða við Sjafnargötu. Þá hafi sá nágranni sem hvað mestra hagsmuna eigi að gæta í málinu veitt jákvæða umsögn um framkvæmdirnar og stjórnvöld líka. Þær neikvæðu umsagnir sem hafi borist við grenndarkynningu séu ómálefnalegar. Af þessu leiði að byggingarfulltrúa hafi borið að veita kærendum leyfi til að reisa umrædda viðbyggingu enda standi öll lagaskilyrði til þess.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að ekkert deiliskipulag sé í gildi fyrir umrætt svæði, en í gildandi aðalskipulagi sé það skilgreint sem íbúðarbyggð. Segi í aðalskipulaginu að hverfið hafi verið byggt að stærstum hluta í samræmi við tillögu að heildarskipulagi Reykjavíkur innan Hringbrautar frá 1927 og hafi það að mestu verið fullbyggt kringum 1950. Hverfið beri með sér heilsteypt yfirbragð.

Árið 2014 hafi kærendur fengið samþykkta stækkun á húsi sínu, en sú stækkun hafi verið grenndarkynnt og byggingarleyfi gefið út hinn 29. október 2014. Með því hafi verið veitt leyfi til að byggja steinsteypta viðbyggingu með þaksvölum og verönd. Sömu aðilar hafi gert athugasemdir þá og gerðu athugasemdir við þá stækkun sem nú sé hér til umfjöllunar.

Kærendur hafi svo lagt inn aðra umsókn um stækkun á húsinu til byggingarfulltrúa, dags. 24. mars 2015. Þá hafi verið sótt um leyfi til að reisa viðbyggingu norðan megin, þannig að bílskúr yrði rifinn og útbúin vinnustofa sem yrði tengd kjallara hússins á lóð kærenda. Umsókninni hafi verið vísað til skipulagsfulltrúa sem hafi grenndarkynnt hana. Við ákvörðun um grenndarkynningu hafi m.a. verið litið til byggðamynsturs hverfisins og deiliskipulags svokallaðs Smáragötureits, frá árinu 2005 er gildi fyrir hluta hverfisins.

Athugasemdir hafi borist vegna fyrirhugaðrar stækkunar á húsi kærenda en þær lúti helst að því að á teikningu kæmi fram að um vinnustofu væri að ræða í miðju grónu íbúðarhverfi, án þess að frekari grein væri gerð fyrir því. Einnig hafi samtök íbúa talið að um óhóflegt byggingarmagn væri að ræða með tilliti til lóðarinnar og stöðu hússins á lóðinni. Hafi þá líklegast verið horft til þeirrar stækkunar sem nú þegar hafi verið leyfð.

Það sem hér sé um að ræða fordæmisgefandi breytingu, þ.e. að stækka hús meira en byggingarleyfið frá 2014 heimilaði, á svo til fullbyggðu svæði og að breyta bílskúr í vinnustofu, telji skipulagsfulltrúi að gera þurfi deiliskipulag eða hverfisskipulag til að taka heildstætt á þeirri stækkun sem synjað hafi verið um.

Niðurstaða: Lóðin Sjafnargata 3 tilheyrir grónu hverfi sem hefur mótast í tímans rás með veitingu einstakra byggingarleyfa en hefur ekki verið deiliskipulagt. Þegar aðstæður eru eins og að framan greinir er heimilt skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi þótt deiliskipulag liggi ekki fyrir ef framkvæmd er í samræmi við landnotkun aðalskipulags, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Var samþykkt að grenndarkynna umrædda umsókn kærenda m.a. með hliðsjón af byggðamynstri hverfisins og deiliskipulagi svonefnds Smáragötureits.

Umsókn kærenda laut að heimild til að byggja 54,5 m2 viðbyggingu við norðurhlið húss þess sem stendur á greindri lóð og yrði viðbyggingin notuð sem vinnustofa. Sú skilgreining verður ekki talin fela í sér aðra notkun eða starfsemi en samrýmist notkun íbúðarhúsnæðis. Bílskúr, 18,2 m2 að flatarmáli, sem fyrir er á sama stað skyldi rifinn. Stækkun hússins yrði því 36,3 m2. Áður höfðu kærendur fengið samþykkta stækkun 16. september 2014, en við þá stækkun varð hús þeirra 368,3 m2, auk 18,2 m2 bílskúrs, samkvæmt skráningartöflu samþykkts byggingarleyfis. Lóðin Sjafnargata 3 er 915,2 m2 og er nýtingarhlutfall hennar samkvæmt framansögðu 0,42. Með umsóttri breytingu yrði nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,46.

Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 14. ágúst 2015, var svarað framkomnum athugasemdum er borist höfðu við fyrrnefnda grenndarkynningu, m.a. frá aðilum sem grenndarkynningin náði til. Lutu athugasemdirnar einkum að því að nýtingarhlutfall umræddrar lóðar yrði töluvert hærra en nærliggjandi lóða, að gert væri þar ráð fyrir vinnustofu án frekari skýringa, að gera þyrfti samanburð á nýtingu nærliggjandi lóða og að frekari framkvæmdir að Sjafnargötu 3 bíði deiliskipulags. Í lok umsagnarinnar var lagt til að umsókn kærenda yrði synjað með svofelldum orðum: „Í ljósi athugasemda og þeirra framkvæmda sem nú þegar eru samþykktar  er það mat skipulagsfulltrúa að frekari aðaluppdrættir og framkvæmdir á þessari lóð bíði Hverfiskipulagsins svo hægt sé að taka heildstætt á byggingarheimildum í götunni.“ Jafnframt kemur fram í umsögninni að ekki liggi fyrir hvenær vinna hefjist við gerð hverfisskipulags fyrir svæðið.

Nýtingarhlutfall lóða við Sjafnargötu er allt frá 0,24 upp í 0,59. Hinn 19. júní 2012 og 19. ágúst 2014 voru veitt byggingarleyfi til stækkunar hússins að Sjafnargötu 11. Samkvæmt samþykktum skráningartöflum byggingarleyfanna er heildarflatarmál bygginga á lóðinni 438,3 m2 og nýtingarhlutfall hennar því 0,59, en í fasteignaskrá Þjóðskrár er húsið hins vegar talið 299,8 m2, sem gefur nýtingarhlutfallið 0,40. Miðað var við það nýtingarhlutfall lóðarinnar í samanburði nýtingarhlutfalls lóða við Sjafnargötu í áðurnefndri umsögn skipulagsfulltrúa. Þá er lóðin Sjafnargata 9 með nýtingarhlutfallið 0,59, en þessar lóðir liggja báðar norðaustan megin Sjafnargötu, eins og lóð kærenda, en fyrir liggur að sú lóð hefði nýtingarhlutfallið 0,23, fyrir umbeðna breytingu, ef byggt yrði á upplýsingum í fasteignaskrá í stað samþykktra byggingarleyfa. Liggur því fyrir að þess eru dæmi að nýtingarhlutfall lóða við Sjafnargötu samkvæmt samþykktum byggingarleyfum annars vegar og samkvæmt upplýsingum í fasteignaskrá Þjóðskrár hins vegar er ekki það sama. Í ljósi þessa hefðu byggingaryfirvöld þurft að rannsaka betur hvert nýtingarhlutfall lóða við götuna var í raun áður en hin kærða ákvörðun var tekin.

Fyrir liggur að á liðnum árum hafa verið veittar auknar byggingarheimildir á einstökum lóðum við götuna án þess að talin hafi verið þörf á gerð skipulags fyrir svæðið. Þá sýnist og ljóst að nýtingarhlutfall lóðar kærenda eftir áformaða stækkun húss þeirra yrði ekki umfram það sem finna má á lóðum við Sjafnargötu og yrði vart fordæmisgefandi um aukið nýtingarhlutfall lóða við götuna umfram það sem þegar er orðið. Loks verður ekki annað séð en að umrædd viðbygging hefði óveruleg, eða engin, áhrif á götumynd Sjafnargötu, enda yrði byggingin reist að baki húss kærenda sem stendur nær götu. Samkvæmt því verður ekki annað ráðið en að umsókn kærenda um viðbyggingu við hús þeirra hafi verið í samræmi við gildandi landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar á umræddu svæði, sem eru þeir þættir er líta skal til þegar umsókn um byggingarleyfi á ódeiliskipulögðu svæði er metin, sbr. orðalag 44. gr. skipulagslaga.

Að öllu framangreindu virtu verður að telja að svo verulega hafi skort á rannsókn við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk þess sem rökstuðningi hennar var svo áfátt, að fallist verður á kröfu kærenda um ógildingu hennar. Er þá einnig litið til jafnræðissjónarmiða 11. gr. nefndra laga, er leiða til þess að fasteignaeigendur á svæði þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir eigi að njóta sambærilegra nýtingarheimilda á lóðum sínum nema að skipulagssjónarmið eða önnur efnisrök mæli því í mót.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. ágúst 2015 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við húsið að Sjafnargötu 3 í Reykjavík.

9/2017 Veghúsastígur

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 1. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 9/2017, kæra á ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 20. desember 2016 um að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis, staðgreinireits 1.152.4, vegna lóðarinnar nr. 19 við Klapparstíg og nr. 1 við Veghúsastíg í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. janúar 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra nánar tilgreindir lóðareigendur lóðarinnar að Klapparstíg 19 og Veghúsastíg 1 þá ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 20. desember 2016 að synja um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis, staðgreinireits 1.152.4, vegna fyrrnefndrar lóðar.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Reykjavíkurborg 18. maí 2017.

Málavextir: Húsin að Klapparstíg 19 og Veghúsastíg 1 eru á lóð þar sem í gildi er deiliskipulag Skúlagötusvæðis fyrir staðgreinireit 1.152.4. Voru húsin friðuð á grundvelli aldurs þeirra skv. lögum nr. 80/2012 um menningarminjar. Árið 2014 lýsti Minjastofnun Íslands friðun hússins að Veghúsastíg 1 úr gildi fallna þar sem húsið væri metið óviðgerðarhæft.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 24. febrúar 2016 var lögð fram fyrirspurn lóðarhafa umræddrar lóðar um hvort heimilað yrði að breyta deiliskipulagi lóðarinnar. Á lóðinni yrðu lágreistar byggingar með sex til sjö litlum íbúðum og húsið að Veghúsastíg 1 yrði rifið. Einnig var lagt fram bréf frá arkitektum, dags. 27. nóvember 2015, umsagnir Borgarsögusafns Reykjavíkur, dags. 19. og 22. janúar 2016, og umsögn Minjastofnunar Íslands, dags. 11. febrúar s.á. Jafnframt var lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 22. febrúar s.m., þar sem fram kom að fallist væri á að unnin yrði tillaga að breytingu deiliskipulags í samræmi við tillögu, dags. 27. nóvember 2015, en lagt til að núverandi hús að Veghúsastíg 1, eða a.m.k. form þess, stærð og ásýnd, yrði fellt inn í tillöguna og það af húsinu sem nýtilegt væri yrði nýtt við endurbygginguna. Færði umhverfis- og skipulagsráð til bókar að ekki væru gerðar athugsemdir við erindið, sbr. þó skilyrði og leiðbeiningar sem fram kæmu í fyrrgreindri umsögn skipulagsfulltrúa.

Í kjölfar þessa lögðu lóðarhafar fram umsókn um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar, sem tekin var fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 6. maí 2016. Í breytingunni fólst m.a. að skilgreindir voru nýir byggingarreitir á lóðinni og gert þar ráð fyrir sex íbúðum og smáhýsi. Jafnframt yrðu byggingar á lóð Veghúsastígs 1 fjarlægðar, sbr. uppdrátt, dags. 27. apríl 2016. Málinu var vísað til meðferðar hjá verkefnisstjóra og síðan lagt fram að nýju á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 20. maí s.á., sem vísaði því til umhverfis- og skipulagsráðs. Var umsóknin lögð fram á fundi ráðsins 15. júní 2016 og m.a. tekið fram að byggingar á lóð nr. 1 við Veghúsastíg yrðu fjarlægðar samkvæmt deiliskipulags og skýringaruppdrætti, dags. 23. maí s.á. Samþykkti ráðið að auglýsa framlagða tillögu til kynningar og vísa málinu til borgarráðs. Tók það málið fyrir á fundi sínum 23. júní s.á. og samþykkti greinda afgreiðslu. Á kynningartíma tillögunnar bárust athugasemdir frá sex aðilum.

Umsóknin var tekin fyrir að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 7. desember 2016 og henni synjað af meirihluta ráðsins með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 5. s.m. Í umsögninni kom m.a. fram að þótt timburhúsið að Veghúsastíg 1 væri illa farið þá væri æskilegt að gera við það eða eftir atvikum að endurbyggja það á núverandi stað, helst á upphaflegum undirstöðum. Vegna framkominna athugasemda hefði verið ákveðið að fara yfir málið á ný með það í huga að húsið stæði áfram á sínum stað. Málinu var einnig vísað til borgarráðs og staðfesti meirihluti þess nefnda synjun á fundi sínum 15. s.m.

Borgarstjórn tók málið fyrir 20. desember 2016 og samþykkti fyrrnefndar synjanir borgarráðs og umhverfis- og skipulagsráðs með tíu atkvæðum gegn fjórum. Færði meirihluti borgarstjórnar til bókar að gamla timburhúsið að Veghúsastíg 1 hefði ótvírætt varðveislugildi og að deiliskipulagstillögu um að heimilt yrði að rífa það eða fjarlægja væri hafnað.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að nánar tilgreindur borgarfulltrúi hafi verið vanhæfur til meðferðar málsins vegna fyrri afstöðu hans til þess. Hafi hann ítrekað látið í ljós þá skoðun sína að vernda bæri Veghúsastíg 1. Við endanlega afgreiðslu málsins hafi niðurstaða þess frekar ráðist af fyrri fordómum en málefnalegum sjónarmiðum. Í ljósi stöðu umrædds borgarfulltrúa, sem formanns umhverfis- og skipulagssviðs, verði að ætla að um sé að ræða ógildingarannmarka. Sé vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 280/2003 í þessu sambandi.

Á fundi kærenda með Reykjavíkurborg hafi komið fram að borgin hefði í hyggju að kúvenda afstöðu sinni án þess að tilgreind væri fyrir því skýr ástæða. Hafi lóðareigendum verið boðið að breyta tillögu að deiliskipulagi á þann veg að byggingarmagn yrði aukið en húsið að Veghúsastíg 1 endurgert. Hafi nýrri tillögu verið skilað inn. Í framhaldi af því hafi ákvörðun verið tekin, án þess að rætt hafi verið við lóðareigendur eða þeim gefinn kostur á að tjá sig um framkomin sjónarmið og ástæður kúvendingar Reykjavíkurborgar. Hafi borið að veita þeim andmælarétt skv. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Um lögvernduð eignarréttindi sé að ræða og beri að skýra allan vafa í málinu lóðareigendum í hag. Stjórnvöldum beri að byggja ákvarðanir sínar á málefnalegum sjónarmiðum. Lóðareigendur hafi lagt fram fyrirspurnartillögu, sem grundvallast hafi á því að tekið yrði tillit til sjónarmiða í aðalskipulagi um hverfisvernd, til hússins að Klapparstíg 19 og hverfisins að öðru leyti. Hafi þeir gengið lengra í þessum efnum en þörf hefði krafið, þar sem tillaga þeirra hafi verið lágstemmdari og hófstilltari en byggingar á lóðum í kring. Minjastofnun Íslands og Borgarsögusafn Reykjavíkur hafi í umsögnum sínum fagnað hinni kærðu deiliskipulagstillögu og talið að um jákvætt skref væri að ræða. Borgarsögusafn sé hluti af Reykjavíkurborg og geti það ekki talist lögmætt sjónarmið af hálfu borgarinnar að hafna eigin umsögn án þess að nokkur breyting hafi orðið á málinu. Með hliðsjón af framangreindu geti vernd Veghúsastígs 1 ekki talist málefnalegt sjónarmið sem niðurstaða verði byggð á. Þegar fyrirspurnartillagan hafi verið samþykkt hafi verið tekið fram að hún væri í góðu samræmi við byggð á Veghúsastíg. Hefði Reykjavíkurborg því þegar tekið afstöðu til Veghúsastígs 1 og samþykkt að húsið mætti hverfa, enda væri tillagan að öllu leyti í samræmi við markmið skipulagsins um endurskipulagningu eldri hverfa. Það að tillagan hafi verið auglýst án þess að samhliða væri auglýst breyting á aðalskipulagi staðfesti það mat Reykjavíkurborgar að tillagan væri í samræmi við aðalskipulag.

Deiliskipulagstillagan hafi verið í fullu samræmi við fyrirspurnartillöguna. Hafi því borið að samþykkja tillöguna nema ný sjónarmið hafi leitt til annars, en engin ný sjónarmið hafi komið fram. Reykjavíkurborg hafi þegar hafnað þeim sjónarmiðum sem komið hafi fram í athugasemdum. Geti borgin ekki metið sömu sjónarmið með öðrum hætti við endanlega afgreiðslu málsins. Minjastofnun hafi sem æðsta stjórnvald landsins á sviði minjamála þegar tekið afstöðu til varðveislugildis hússins. Beri sveitarfélaginu að virða þau málefnalegu valdmörk sem séu á milli stjórnvalda. Megi hér nefna álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2835/2003. Með sama hætti sé Reykjavíkurborg óheimilt að byggja niðurstöðu sína á sjónarmiðum um minjagildi einstakra húsa þar sem það sé skýrlega á forræði Minjastofnunar að gera það.

Húsið að Veghúsastíg 1 sé ónýtt og því ómögulegt að gera það upp. Hafi þetta ítrekað komið fram við meðferð málsins og sé Reykjavíkurborg fullkunnugt um þessa staðreynd. Í engu sé að þessu vikið í umsögn borgarinnar um deiliskipulagstillöguna. Hér hljóti þó að vera um mikilvægt sjónarmið að ræða.

Fyrir nokkrum árum hafi verið veitt heimild til að reisa hús á lóðinni að Klapparstíg 17 í stað timburhúss sem þar hafi áður staðið og eyðilagst hafi í eldi. Nýtingarhlutfall lóðarinnar hafi hækkað úr 0,85 í 1,25. Verði ekki annað séð en að það mál sé mjög sambærilegt máli þessu, að því viðbættu að yfirvöld friðunarmála hafi samþykkt niðurrif Veghúsastígs 1.

Verði ekki fallist á kröfu kærenda sé réttaröryggi íbúa Reykjavíkur teflt í tvísýnu. Lóðareigendum hafi ítrekað verið lofað að þeim yrðu veittar tilteknar byggingarheimildir. Hafi þeir tekið ákvarðanir í trausti þess að treysta mætti yfirlýsingum starfsmanna borgarinnar og kjörnum fulltrúum, sem ítrekað hafi lýst yfir stuðningi við tillöguna. Sé í þessu sambandi vísað til bókunar minnihluta í borgarráði frá 15. desember 2016 um málið, en þar segi eftirfarandi: „Húsið við Veghúsastíg 1 var metið ónýtt árið 2011. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur mat húsið óíbúðarhæft í byrjun árs 2012 og Minjastofnun affriðaði húsið á árinu 2014 vegna bágs ástands þess. Minjastofnun gerði ekki athugasemd við niðurrif þess. Vegna þessa er eðlilegt að fallast á þá deiliskipulagsbreytingu sem auglýst hefur verið“. Þau atriði sem minnst sé á í bókuninni sé hvergi að finna í rökstuðningi borgarinnar fyrir synjun.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Sveitarfélagið krefst þess að kröfu kærenda verði hafnað. Sé málið ekki þannig vaxið að ógildingu varði.

Formaður umhverfis- og skipulagsráðs hafi með ummælum sínum í viðtali við fjölmiðil 18. september 2014 verið að staðfesta þá stöðu sem lóðin hafi verið í samkvæmt gildandi deiliskipulagi frá 2004. Geri það ráð fyrir að húsið verði gert upp í samræmi við aldur og byggingarstíl vegna verndunar götumyndar. Hafi fyrrgreindur aðili oft talað á opinberum vettvangi um mikilvægi húsafriðunar, enda sé það eitt af hlutverkum kjörinna fulltrúa að upplýsa almenning og tjá skoðanir sínar. Ekki séu uppi þær aðstæður skv. stjórnsýslulögum nr. 37/1993 að formaðurinn teljist vanhæfur. Hafi hann engra persónulegra hagsmuna að gæta í málinu og ekki hafi verið sýnt fram á að hann hafi blandast svo persónulega í málið að það geri  hann óhlutdrægan. Sé vísað til athugasemda við 3. gr. frumvarps þess sem varð að stjórnsýslulögum. Til að um vanhæfi sé að ræða verði að gera þá kröfu að viðkomandi starfsmaður hafi tjáð sig með beinum hætti um það ákveðna mál sem um sé að tefla. Sú almenna skoðun formannsins um að stuðla beri að verndun húsanna geri hann ekki vanhæfan.

Umhverfis- og skipulagsráð hafi samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi vegna álits Minjastofnunar Íslands um að húsið að Veghúsastíg 1 væri algerlega ónýtt. Með því hafi formaðurinn verið að lýsa þeirri afstöðu sinni að rétt væri að kynna framkomna tillögu fyrir hagsmunaaðilum og kalla eftir athugasemdum. Eftir að athugasemdir hafi borist og eftir talsverða umræðu meðal húsafriðunarfólks hafi þó styrkst sú skoðun formannsins að húsið ætti að standa, þ.e.a.s. að borgin ætti að gera það sem skilyrði fyrir uppbyggingarheimildum, á reit þar sem engar heimildir voru, að lóðarhafar endurbyggðu húsið frá grunni.

Málefni hússins að Veghúsastíg 1 eigi sér töluverða forsögu. Byggingarfulltrúi hafi t.a.m. synjað umsókn um leyfi fyrir niðurrifi hússins árið 2014. Hafi við þá afgreiðslu verið vísað til minnisblaðs verkþjónustu þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að tæknilega séð væri hægt að gera við húsið. Líkur væru á því að meginhluti burðarviða væri heill, en skipta þyrfti um allar klæðingar, gera við undirstöður og glugga eða endurnýja þá. Formaður umhverfis- og skipulagsráðs hafi enga aðkomu átt að þeirri afgreiðslu. Í ljósi fyrri afgreiðslna á erindum kærenda hafi lóðareigendur ekki getað vænst þess síðar að fá heimild til niðurrifs hússins.

Kærendur hafi haft frumkvæði af málinu með umsókn sinni þar sem þeir hafi sjálfir veitt allar nauðsynlegar upplýsingar. Í slíkum tilvikum sé ekki skylt að veita andmælarétt áður en ákvörðun sé tekin. Sé t.d. ekki talið að veita þurfi umsækjendum andmælarétt við fram komnum athugasemdum eftir auglýsingu tillagna.

Skipulagsvald í hverju sveitarfélagi sé í höndum sveitarstjórnar. Sé gildandi deiliskipulag fyrir umrædda lóð bindandi fyrir lóðarhafa og eigi þeir enga lögvarða kröfu á því að fá því breytt. Verði ekki annað séð en að synjun umhverfis- og skipulagsráðs hafi verið málefnaleg og rökstudd, en í afgreiðslunni sé vísað til þeirra raka sem fram komi í umsögn skipulagsfulltrúa.

Ekki sé fallist á að verið sé að brjóta jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Mismunandi nýtingarhlutfall einstakra lóða helgist m.a. af skipulagsmarkmiðum hverju sinni og mismunandi aðstæðum á lóðum. Möguleg mismunun sem af því leiði verði ekki talin fara í bága við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins. Aðstæðum sem verið hafi að Klapparstíg 17 verði ekki jafnað til þeirrar stöðu sem húsið að Veghúsastíg 1 sé í. Hvergi sé áskilið í lögum að skylt sé að veita aðrar uppbyggingarheimildir í þeim tilvikum sem hús teljist illa farin. Þótt húsið hafi verið affriðað þýði það ekki að borginni sé allt að einu skylt að leyfa niðurrif þess, heldur einfaldlega að sveitarfélagið geti heimilað breytingar á því án aðkomu Minjastofnunar. Eftir sem áður sé leyfisveitingarvaldið hjá viðkomandi sveitarfélagi, enda beinlínis gert ráð fyrir því í lögum um menningarminjar að sækja þurfi um affriðun húsa áður en sótt sé um byggingarleyfi. Umsagnir Borgarsögusafns séu aðeins ráðgefandi álit, en ekki bindandi.

Fyrirspurn um leyfi verði ekki lögð að jöfnu við formlega umsókn. Feli jákvætt svar við slíkri fyrirspurn ekki í sér stjórnvaldsákvörðun sem skapi lóðarhöfum réttindi eða skyldur, enda sé ekki um að ræða lokaákvörðun. Sé sérstaklega bent á að skipulagsfulltrúi hafi lagt til í umsögn sinni að núverandi hús að Veghúsastíg yrði fellt inn í tillöguna eða það sem nýtilegt væri af húsinu yrði nýtt við endurbygginguna. Þá hafi auglýst tillaga m.a. falið í sér aukningu á byggingarmagni frá því sem gert hafi verið ráð fyrir í fyrirspurnartillögu. Fjölmörg dæmi séu um að auglýstum tillögum hafi verið synjað vegna athugasemda úr nágrenninu. Sú staða hafi verið upp í þessu máli.

Árið 2011 hafi byggingarfulltrúi farið fram á það við eiganda hússins að gluggar þess yrðu lagaðir, húsið málað og lóð snyrt, en húsið hafi þá staðið autt í fjöldamörg ár, án nokkurs viðhalds. Verði ástand hússins í dag einungis rakið til aðgerðarleysis eiganda. Verði og ekki talið fullreynt að húsið sé í raun ónýtt með öllu.

——-

Kærandi hefur komið að athugasemdum við málsrök Reykjavíkurborgar. Þar kemur m.a. fram að engum gögnum hafi verið framvísað um að mögulegt sé að lagfæra húsið að Veghúsastíg 1. Jafnframt styðji engin gögn þá fullyrðingu að viðhaldi hússins hafi vísvitandi ekki verið sinnt og sé því mótmælt. Frekari sjónarmið hafa verið færð fram í máli þessu sem ekki verða rakin nánar en höfð hafa verið til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur, sem staðfest var í borgarstjórn, að synja um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 19 við Klapparstíg og nr. 1 við Veghúsastíg.

Samkvæmt skipulagslögum er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Annast þær jafnframt og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags skv. 29. og 38. gr. sömu laga. Unnt er að óska eftir því við sveitarstjórn að deiliskipulagi sé breytt. Einstakir aðilar eiga þó almennt ekki lögvarinn rétt til þess að knýja fram slíka breytingu gegn vilja skipulagsyfirvalda. Við meðferð slíkrar umsóknar ber sveitarstjórn hins vegar að gæta að málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins, m.a. hvað varðar rökstuðning ákvörðunar. Jafnframt skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fyrir liggur að borgarstjórn hafnaði umsókn kærenda um breytingu á deiliskipulagi umræddrar lóðar með þeim rökum að húsið að Veghúsastíg 1 hefði ótvírætt varðveislugildi. Samkvæmt upplýsingum er bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 13. desember 2017, og staðfestar voru 31. janúar 2018, lá fyrir fundi borgarstjórnar útskrift úr gerðabók umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. desember 2016 varðandi málið. Jafnframt lágu fyrir eftirfarandi fylgiskjöl: Deiliskipulags og skýringaruppdrættir, dags. 23. maí 2016, skýrsla Mannvits vegna cobraborunar, dags. 9. júní 2016, innsendar athugasemdir og umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 5. desember 2016.

Í nefndri umsögn skipulagsfulltrúa var skírskotað til þess að húsið að Veghúsastíg 1 hefði orðið fyrir vatnsskemmdum og hefði það verið metið ónýtt með álitsgerð árið 2011. Vegna þessa hefði Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur metið húsið óíbúðarhæft í ársbyrjun 2012. Hefði Minjastofnun Íslands affriðað húsið á árinu 2014 vegna bágs ástand þess og ekki gert athugasemd við að húsið yrði rifið. Þá var tekið fram að vegna fyrrgreindra umsagna og álitsgerða hefði umhverfis- og skipulagsráð tekið jákvætt í að auglýsa þá tillögu sem nú lægi fyrir. Enn fremur var til þess vísað að Reykjavíkurborg hefði í nokkrum álitsgerðum og minnisblöðum lagt á það áherslu að „haldið yrði í“ steinbæinn að Klapparstíg 19 og timburhúsið að Veghúsastíg 1. Sagði svo: „Þó að timburhúsið sé illa farið, væri æskilegt að gera við það eða eftir atvikum endurbyggja það á núverandi stað, helst á upphaflegum undirstöðum. Vegna fram kominna athugasemda var ákveðið að fara yfir málið á ný með það í huga að húsið stæði áfram á sínum stað. Sú lausn kæmi einnig til móts við athugasemdir eigenda að Veghúsastíg 1A um aðgengi að baklóðinni.“

Minjastofnun Íslands annast framkvæmd verndunar og vörslu menningarminja í landinu skv. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar og starfar samkvæmt þeim lögum. Samkvæmt stofnskrá sinni, sbr. auglýsingu nr. 807/2015 um staðfestingu safnaráðs á stofnskrá Borgarsögusafns Reykjavíkur, hefur safnið umsjón með menningarminjum í Reykjavík og skal það m.a. sinna minjavörslu í Reykjavík í samræmi við ákvæði laga nr. 80/2012 og halda skrár yfir fornleifar, hús og mannvirki í Reykjavík. Skal leita umsagnar safnstjóra t.d. þegar fjallað er um verndun húsa, s.s. við skipulagsgerð. Þegar fyrirspurn kærenda um breytingu á deiliskipulagi umræddrar lóðar var afgreidd í umhverfis- og skipulagsráði lágu fyrir umsagnir framangreindra aðila. Í umsögn Borgarsögusafns Reykjavíkur, dags. 22. janúar 2016, kemur fram að safnið líti tillöguna jákvæðum augum út frá sjónarmiði borgar og húsverndar. Minjastofnun veitti jafnframt umsögn sína, dags. 11. febrúar 2016, vegna áformaðrar uppbyggingar. Þar var til þess vísað að samkvæmt ástandsmati sem gert hefði verið á Veghúsastíg 1 í maí 2014 væri húsið metið óviðgerðarhæft. Hefði Minjastofnun lýst friðun þess skv. 29. gr. laga nr. 80/2012 úr gildi fallna með bréfi, dags. 20. maí 2014. Gerði stofnunin ekki athugasemd við niðurrif þess eða við fyrirspurnartillöguna. Tækju fyrirhugaðar nýbyggingar tillit til smágerðs mælikvarða gamla steinbæjarins að Klapparstíg 19 og eldri byggðar á reitnum.

Af bókun borgarstjórnar verður ekki með afgerandi hætti ráðið á hverju sú niðurstaða meirihluta borgarstjórnar er byggð að varðveislugildi hússins að Veghúsastíg 1 sé mikið. Þá kemur ekki fram í umsögn skipulagsfulltrúa hver hafi staðið að álitsgerðum og minnisblöðum þeim þar sem lögð sé áhersla á að „haldið yrði“ ekki einungis í steinbæinn að Klappastíg 19 heldur einnig húsið að Veghúsastíg 1, eða hvert innihald þeirra var að öðru leyti. Þá verður hvorki séð að umsögn Minjastofnunar né umsögn Borgarsögusafns hafi legið fyrir hjá borgarstjórn við afgreiðslu á umsókn kærenda. Um var að ræða umsagnir sérfróðra aðila sem gátu haft úrslitaþýðingu við afgreiðslu málsins, en eins og áður er rakið kom fram í umsögn Minjastofnunar Íslands að húsið að Veghúsastíg 1 væri óviðgerðarhæft samkvæmt ástandsmati er gert hefði verið í maí 2014 og að friðun þess hefði verið aflétt. Í umsögn skipulagsfulltrúa um málið var einungis vikið lítillega að áðurgreindri umsögn Minjastofnunar. Í gögnum málsins kemur enn fremur fram að byggingarfulltrúi Reykjavíkur fór fram á það við nánar tilgreinda verkþjónustu að ástand hússins yrði metið og lá það mat fyrir 25. september 2014. Segir þar m.a: „…tæknilega er hægt að gera við húsið og geta undirstöður og burðarviðir nýst en svo til allt annað er úr sér gengið og hefur runnið sitt skeið“. Virðist sem nefnt mat hafi heldur ekki legið fyrir við afgreiðslu málsins hjá borgarstjórn. Verulegur vafi leikur þannig á því að fyrir borgarstjórn hafi legið fullnægjandi gögn við afgreiðslu málsins og verður að telja að vegna framkominnar umsóknar hafi verið tilefni fyrir skipulagsyfirvöld til frekari rannsóknar. Þegar metið er lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar verður aukinheldur að hafa í huga að borgarstjórn bar ekki aðeins að fara að rannsóknarreglu stjórnsýslulaga heldur var henni einnig rétt að líta til stjórnarskrárvarinna eignarréttinda lóðarhafa og taka í rökstuðningi sínum m.a. afstöðu til þess hvort að raunhæft væri að gera kröfu til varðveislu hússins að Veghúsastíg 1, einkum og sér í lagi að teknu tilliti til þess álits Minjastofnunar Íslands að húsið væri óviðgerðarhæft. Er ljóst af framangreindu að ekki einungis var rannsókn málsins verulega áfátt heldur var rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar sömuleiðis ófullnægjandi.

Sex athugasemdir komu fram á kynningartíma deiliskipulagstillögunnar. Ein þeirra barst frá eigendum hússins að Veghúsastíg 1A og laut að því að þinglýst kvöð væri til staðar þess efnis að ekki yrði reist girðing á lóðamörkum Veghúsastígs 1 og 1A. Af þeim fimm athugasemdum öðrum sem bárust var ein órökstudd með öllu en því mótmælt að húsinu Veghúsastíg 1 yrði raskað eða það rifið. Hinar fjórar voru efnislega samhljóða og vísuðu þær allar til viðtals við formann umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, sem birtist í Fréttablaðinu 18. september 2014 og vefmiðlinum www.visir.is sama dag. Kom þar fram að húsið að Veghúsastíg 1 væri friðað sökum aldurs og að skoðun formannsins væri sú að Veghúsastíg 1 ætti að gera upp. Haft var eftir formanninum að það kæmi „ekki til greina að eigendur komist upp með að láta aldursfriðað hús grotna innan frá árum saman og krefjist svo þess að borgin leyfi þeim að rífa það og vitni í slökkviliðið um slysahættu.“ Af þeim fjórum athugasemdum þar sem tekið var undir sjónarmið formannsins vísuðu höfundar tveggja til fyrri tengsla sinna við nágrenni Veghúsastígar 1, annars vegar vegna búsetu og hins vegar vegna rekstrar á árum áður.

Með bréfi, dags. 20. maí 2014, aflétti Minjastofnun Íslands friðun hússins að Veghúsastíg 1. Var því röng sú fullyrðing formanns umhverfis- og skipulagsráðs, sem birtist í fjölmiðlun í september s.á., að húsið væri friðað fyrir aldurs sakir. Þar af leiðir að fyrrgreindar fjórar athugasemdir við deiliskipulagstillöguna, þar sem tekið var undir sjónarmið formannsins, geta vart talist hafa verið gefnar á réttum forsendum. Veittu þær athugasemdir því ekki viðhlítandi stoð fyrir þeirri ályktun skipulagsyfirvalda að húsið skyldi standa. Þá verður heldur ekki séð að gætt hafi verið meðalhófs við meðferð málsins og reynt að finna aðra lausn en þá að hafna deiliskipulagstillögunni til að koma til móts við þá athugasemd nágranna að þinglýst kvöð væri til staðar um framkvæmdir á lóðamörkum.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður að telja að svo verulegir annmarkar hafi verið á undirbúningi og málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að fella beri hana úr gildi.

Athygli vekur að nefndur formaður umhverfis- og skipulagsráðs tók þátt í meðferð málsins hjá ráðinu, sem og í borgarstjórn. Orkar það tvímælis í ljósi ummæla þeirra sem hann hafði látið falla í fjölmiðlum um þetta tiltekna hús og meint atferli lóðarhafa, enda voru ummælin til þess fallin að draga í efa óhlutdrægni formannsins. Að fenginni framangreindri niðurstöðu eru þó ekki efni til frekari umfjöllunar um þetta atriði.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda og umfangs mála sem kærð hafa verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:
Felld er úr gildi ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 20. desember 2016 um að synja tillögu að breytingu á deiliskipulagi Skúlagötureits, staðgreinireits 1.152.4 vegna lóðarinnar nr. 19 við Klapparstíg og nr. 1 við Veghúsastíg í Reykjavík.

73/2016 Reykjanesvitabraut

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 25. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 73/2016, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 19. apríl 2016 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Reykjanesvita og nágrenni og ákvörðun bæjarstjórnar frá 21. febrúar 2017 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð fyrsta áfanga bílastæðis við Reykjanesvitabraut 1.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála, dags. 27. júní 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Reykjanesvitaíbúðarhúss, Reykjanesbæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 19. apríl 2016 að samþykkja deiliskipulag fyrir Reykjanesvita og nágrenni. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. mars 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 21. febrúar s.á. um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð fyrsta áfanga bílastæðis við Reykjanesvitabraut 1. Verður það mál, sem er nr. 30/2017, sameinað máli þessu þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sami kæranda stendur að báðum málunum.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Í greinargerð sveitarfélagsins, dags. 20. mars 2017, kemur fram að framkvæmdum samkvæmt útgefnu framkvæmdaleyfi sé lokið. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 18. júlí 2016 og 20. mars 2017.

Málavextir: Með bréfi, dags. 14. ágúst 2014, óskaði Reykjanes Jarðvangur eftir heimild til þess að vinna deiliskipulag fyrir Reykjanes, á því svæði sem Ferðamálasamtök Suðunesja hafa á leigu, í samræmi við aðalskipulag og í samráði við umhverfis og skipulagssvið Reykjanesbæjar. Á fundi sínum 16. september s.á. samþykkti bæjarstjórn Reykjanesbæjar beiðni Reykjanes Jarðvangs.

Á fundi umhverfis og skipulagsráðs 14. janúar 2015 voru lögð fram drög að lýsingu skipulagsverkefnisins. Var samþykkt að senda lýsinguna til umsagnar eigenda fasteigna innan deiliskipulagsmarka, tiltekinna opinberra stofnana ásamt því að auglýsa lýsinguna í Lögbirtingablaði 21. janúar 2015 og í Víkurfréttum 22. s.m. Umhverfis og skipulagsráð samþykkti síðan hinn 11. nóvember 2015 ósk Reykjanes Jarðvangs um að tillaga að deiliskipulagi Reykjanesvita og nágrennis yrði auglýst samkvæmt 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Óskað var umsagna frá tilteknum aðilum, þ. á m. kæranda, með bréfi, dags. 27. nóvember 2015. Birtist auglýsing um kynningu deiliskipulagstillögunnar í Lögbirtingablaði og Víkurfréttum 19. nóvember s.á. Athugasemdafrestur var til 31. desember s.á. Málið var á dagskrá fundar umhverfis og skipulagsráðs 13. janúar 2016, þar sem kom fram að engar athugasemdir hefðu borist en umsagnir hefðu borist frá Minjastofnun og Umhverfisstofnun. Minjastofnun kom á framfæri ábendingum um framsetningu fornminja á uppdrætti og var tekið tillit til þeirra ábendinga og samþykkt að senda tillöguna til afgreiðslu hjá Skipulagsstofnun. Sú afgreiðsla var staðfest á fundi bæjarstjórnar 19. janúar s.á.

Með bréfi, dags. 29. janúar 2016, gerði Skipulagsstofnun athugasemdir við deiliskipulagið. Lutu þær að því að gera þyrfti grein fyrir og sýna á uppdrætti staðsetningu rotþróar, lagna og/eða borholu neysluvatns, auk raflagna. Gæta þyrfti að fyrirhugaðri staðsetningu austasta hluta bílastæðasvæðis með tilliti til 15 m friðhelgunarsvæðis fornleifa og samræma þyrfti bílastæðafjölda á uppdrætti annarsvegar og í greinargerð hinsvegar. Þá þyrfti að gera nánari grein fyrir aðstöðu til stjörnuskoðunar og sýna á uppdrætti reiðleið sem liggja ætti frá Höfnum að Reykjanesvita. Loks benti stofnunin á að gera þyrfti grein fyrir því til hvaða aðgerða yrði gripið til að vernda kríuna almennt á deiliskipulagssvæðinu, auk sérstakra takmarkana á framkvæmdum, s.s. tímatakmarkana á varptíma. Á fundi umhverfis og skipulagsráðs 8. mars s.á. kom fram að brugðist hefði verið við öllum athugasemdum Skipulagsstofnunar fyrir utan umfjöllun um neysluvatn sem væri seinni tíma ákvörðun í samráði við HS Orku. Var tillagan svo send Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja og Minjastofnun til umsagnar og á fundi nefndarinnar 12. apríl s.á. var svo bókað að Heilbrigðiseftirlitið hefði samþykkt tillöguna fyrir sitt leyti. Var og samþykkt að senda tillöguna með áorðnum breytingum til afgreiðslu Skipulagsstofnunar. Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu á fundi 19. apríl 2016 og tilkynnti Skipulagsstofnun með bréfi, dags. 4. maí s.á., að hún gerði ekki athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins. Deiliskipulagið tók síðan gildi með auglýsingu í Bdeild Stjórnartíðinda 26. maí 2016.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að fyrirhuguð uppbygging þjónustumiðstöðvar á vegum Reykjanes Geopark (Reykjanes Jarðvangur), sem sé meginforsenda deiliskipulagsins, muni í raun koma í veg fyrir uppbyggingu þess rekstrar sem kærandi hafi áformað á svæðinu, enda sé ljóst að það standi ekki undir tveimur þjónustumiðstöðvum.

Samkvæmt 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skuli kynna tillögu að deiliskipulagi, forsendur hennar og umhverfismat fyrir íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum á fundi eða á annan fullnægjandi hátt áður en tillagan sé tekin til afgreiðslu. Samkvæmt munnlegum upplýsingum frá Reykjanesbæ hafi engin slík kynning átt sér stað vegna hins umþrætta deiliskipulags. Samkvæmt nefndri lagagrein sé einvörðungu hægt að falla frá slíkri kynningu ef allar meginforsendur liggi fyrir í aðalskipulagi. Svo sé ekki í þessu tilfelli, enda sé ekki einu orði minnst á hina fyrirhuguðu þjónustumiðstöð í Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 20082024.

Hið kærða deiliskipulag sé einnig haldið þeim verulega ágalla að hvorki á skipulagsuppdrætti né í greinargerð skipulagsins hafi verið gert ráð fyrir fyrirhugaðri uppbyggingu á vegum kæranda, þrátt fyrir að kærandi hafi um langt skeið haft uppi áform um uppbyggingu slíkrar þjónustumiðstöðvar og ítrekað gert grein fyrir þeim áformum. Hafi hann átt fjölmarga fundi með fulltrúum sveitarfélagsins um þau áform, auk þess sem fjallað hafi verið um málið í fjölmiðlum. Þá hafi kærandi undir höndum bréf frá byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar, dags. 6. janúar 2016, þar sem staðfest sé að hinn 10. desember 2015 hafi verið samþykkt umsókn kæranda um byggingarleyfi vegna nýs söluskála við Reykjanesvita samkvæmt aðaluppdrætti frá Verkfræðistofu Suðurnesja.

Byggingarfulltrúi og skipulagsfulltrúi hafi jafnframt staðfest að framangreind byggingaráform séu í fullu gildi og að gefið verði út byggingarleyfi þegar þær kröfur sem gerðar séu í samþykktinni séu uppfylltar. Það leiði hins vegar af ákvæði 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki að byggingarleyfi megi því aðeins gefa út að það eigi sér stoð í og samrýmist skipulagsáætlunum viðkomandi svæðis.

Þegar byggingarfulltrúi hafi samþykkt umsókn kæranda um byggingaráform hinn 10. desember 2015 hafi frestur til athugasemda við deiliskipulagið ekki verið útrunninn. Með samþykkt á byggingaráformum hafi hann staðið í þeirri trú að hið nýja deiliskipulag myndi gera ráð fyrir samþykktum byggingaráformum. Fyllilega megi jafna framkominni byggingarleyfisumsókn og samþykkt hennar við athugasemdir við deiliskipulagið, enda yrði annars um misræmi að ræða milli samþykktra byggingaráforma og skipulags sveitarfélagsins. Þá verði ekki séð að samþykkt deiliskipulagsins, án þess að jafnframt gert sé ráð fyrir byggingaráformum kæranda, geti talist samrýmast rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í 7. kafla greinargerðar með hinu umþrætta deiliskipulagi sé að finna umfjöllun um samráð við hagsmunaaðila. Segi þar að leitað hafi verið eftir hugmyndum og samráði við tilgreinda aðila, en kærandi sé ekki meðal þeirra. Hafi þó verið sérstaklega rík ástæða til að hafa samráð við hann umfram aðra á grundvelli sjónarmiða um grenndar og nábýlisrétt og áforma kæranda um uppbyggingu á svæðinu. Skortur á samráði sé í skýrri andstöðu við 4. mgr. 12. gr. skipulagslaga, en þar sé kveðið á um þá meginreglu að við gerð skipulagsáætlana skuli eftir föngum leita eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa, viðkomandi stjórnvalda og annarra þeirra sem hagsmuna eigi að gæta um mörkun stefnu.

Þá sæki framkvæmdaleyfið stoð sína í hið kærða deiliskipulag. Það sé skilyrði framkvæmdaleyfis að það styðjist við gilt skipulag, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Þegar ákvörðun hafi verið tekin af hálfu skipulagsfulltrúa um að veita umþrætt leyfi hafi það legið fyrir að lögmæti skipulagsins væri vefengt. Hafi skipulagsfulltrúa því borið að ganga úr skugga um hvort útgáfa leyfisins samræmdist skipulagi. Auk þessa uppfylli hið útgefna framkvæmdaleyfi ekki lágmarkskröfur sem gera verði til leyfisveitingar lögum samkvæmt. Ljóst sé að hið umþrætta framkvæmdaleyfi fullnægi aðeins hluta þeirra skilyrða sem gerð séu til útgáfu framkvæmdaleyfis samkvæmt reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Þannig komi t.d. ekki fram hvert sé umfang framkvæmdarinnar, tilvísun í heiti og dagsetningu þeirra gagna sem leyfi byggi á, gildistími leyfisins, eftirlitsaðili framkvæmdarinnar eða að framkvæmd skuli samræmast samþykktum hönnunargögnum, sbr. 3., 4., 7., 8. og 10. tl. 12. gr. reglugerðarinnar. Framkvæmdaleyfið sé því í beinni andstöðu við lögmætisreglu stjórnsýsluréttar og því ógildanlegt.

Málsrök Reykjanesbæjar: Bæjaryfirvöld benda á að gerð hafi verið lýsing á skipulagsverkefninu og hún send öllum hugsanlegum umsagnaraðilum á svæðinu til skoðunar með löglegum athugasemdafresti, en kærandi hafi verið þar á meðal. Einnig hafi skipulagstillagan verið auglýst í staðarblaði og Lögbirtingablaði. Deiliskipulagið sé í meginatriðum í samræmi við gildandi Aðalskipulag Reykjanesbæjar 20082024. Kynning á því ásamt greinargerð hafi farið fram á sama hátt. Kærandi hafi ekki sett fram athugasemdir við þá kynningu. Auk þess hafi fulltrúi kæranda og fulltrúi Reykjanesfólkvangs hist reglulega frá því að vinna við deiliskipulagið hafi hafist.

Hvað varði byggingaráform kæranda þá hafi verið tekin ákvörðun um að umfang uppbyggingar á lóð hans verði sett fram sem viðbót eða sérstakt deiliskipulag þar sem þau áform gætu tafið afgreiðslu á deiliskipulagi. Hafi enda verið augljóst að áformin væru ekki einskorðuð við núverandi lóð vitavarðarhúss heldur tækju yfir miklu stærra svæði. Sé þar m.a. gert ráð fyrir hóteli á friðuðu svæði, sem sé framkvæmd sem kunni að vera háð mati á umhverfisáhrifum, sbr. lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, og sé ekki í samræmi við aðalskipulag. Til þess að tefja ekki fyrir áformum kæranda hafi verið gefið út leyfi fyrir byggingu veitingahúss á gömlum grunni við íbúðarhúsið, með samþykki Minjastofnunar, en það hús sé fyrir 54 gesti með tilheyrandi hreinlætisaðstöðu. Bílastæði á lóð séu fjögur og augljóst sé að þetta geti ekki leyst úr öllum þörfum þeirra tuga þúsunda ferðamanna sem leið eigi um svæðið.

Eins og fram hafi komið þá hafi kærandi verið í miklu sambandi við fulltrúa Reykjanesfólksvangs frá því að vinna við skipulagið hafi hafist. Einnig hafi hann átt fundi með sviðsstjóra umhverfissviðs Reykjanesbæjar vegna sinna hagsmuna, sem hafi lyktað með því að teikningar að veitingahúsi Vitavarðarins hafi verið samþykktar til að liðka fyrir uppbyggingu á lóðinni. Ítarlegar kynningar hafi farið fram og kærandi hafi ekki gert athugasemdir við deiliskipulagið á auglýstum athugasemdatíma og ekki verði séð hvers konar frekara samráð hafi verið unnt. Umrætt deiliskipulag hafi verið gert til þess að bæta úr aðstöðu fyrir ferðamenn með því að útbúa tjaldstæði með miðstöð fyrir ferðamennsku, hreinlætisaðstöðu og bílastæði. Einnig sé umferð bíla um svæðið takmörkuð frá því sem nú sé og afmarkaðar gönguleiðir skilgreindar.

Hið kærða deiliskipulag hafi verið fullnægjandi stoð fyrir veitingu framkvæmdaleyfis þrátt fyrir að skipulagið hafi verið kært til úrskurðarnefndarinnar, enda fresti kæran ekki réttaráhrifum þess. Af þeim sökum hefði Reykjanesbæ verið óheimilt að synja umsókn um leyfi til framkvæmda sem séu í samræmi við deiliskipulagið. Sú fullyrðing kæranda að skipulagsfulltrúa hafi borið að ganga úr skugga um að útgáfa leyfisins hafi verið í samræmi við skipulag sé af sömu ástæðu algerlega út í hött, enda hafi honum borið að leggja til grundvallar gildandi skipulag svæðisins sem auglýst hafi verið í Bdeild Stjórnartíðinda 26. maí 2016.

Málsástæður kæranda vegna deiliskipulagsins lúti að því að kynning hafi ekki farið fram skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga, að ekki sé gert ráð fyrir byggingaráformum kæranda í deiliskipulaginu og að skort hafi á beint samráð við kæranda. Ekkert af þessum atriðum sé líklegt til að leiða til ógildingar hins kærða deiliskipulags. Eins og fram komi í gögnum málsins hafi kæranda verið kynnt lýsing deiliskipulagsins og samráð og samskipti hafi verið höfð við hann á ýmsum stigum málsins. Hann hafi fengið sérstaka tilkynningu um að samþykkt hefði verið að auglýsa tillöguna. Þrátt fyrir þetta hafi hann ekki gert athugasemdir við hana. Hvað varði byggingaráform kæranda þá sé því til að svara að hann hafi fengið samþykkt byggingaráform í desember 2015, sem hafi lotið að byggingu nýs húss á gömlum grunni. Hafi verið talið að í áformunum fælist endurbygging sem ekki þarfnist deiliskipulags. Sé sú samþykkt enn í gildi, sbr. 4. mgr. gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 1173/2012 um breytingar á henni.

Í reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi komi fram að leyfi skuli vera skriflegt og innihalda ákveðnar upplýsingar. Skipulagsfulltrúi hafi gefið út skriflegt leyfi hinn 7. mars 2017 á grundvelli fyrirliggjandi gagna, sem skoða verði sem hluta leyfisins. Verði ekki séð að á leyfinu séu slíkir annmarkar að leiði eigi til ógildingar og skipti þar máli að engin þörf hafi verið á að setja í leyfið skilyrði af hálfu leyfisveitanda skv. 4. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar. Sé um að ræða ágalla á leyfinu er varði efnisinnihald þess þá verði hann í öllu falli ekki talinn svo verulegur að leiða eigi til ógildingar.

Niðurstaða: Í hnotskurn er í máli þessu deilt um heimildir hins kærða deiliskipulags fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu þriðja aðila á umræddu svæði. Telur kærandi samþykkt skipulagsins setja áform hans um slíka uppbyggingu í uppnám, en bæjaryfirvöldum hafi verið kunnugt um þau áform og þegar veitt byggingarleyfi vegna þeirra.

Lýsing hinnar umþrættu deiliskipulagstillögu var kynnt 21. janúar 2015. Tillagan sjálf var auglýst til kynningar 19. nóvember s.á. og bárust engar athugasemdir. Þá fékk kærandi kynningu á lýsingu deiliskipulagsins með bréfi, dags. 21. janúar 2015, og fór hann fram á það með tölvupósti 30. s.m. að fyrirhuguð uppbygging við gamla vitavarðarhúsið yrði hluti af hinu kærða deiliskipulagi. Þó svo að kæranda hafi ekki verið svarað með beinum hætti vegna þessa þá fékk hann kynningu á deiliskipulagstillögunni í kjölfar framangreindrar lýsingar, þar sem ekki var farið að beiðni hans, en ekki er unnt að jafna umsókn um byggingarleyfi við athugasemdir við deiliskipulagstillögu, svo sem kærandi heldur fram. Að þessu virtu liggja ekki fyrir þeir form eða efnisannmarkar á hinu kærða deiliskulagi að valdið geti ógildingu þess.

Á fundi sínum 21. febrúar 2017 samþykkti bæjarstjórn Reykjanesbæjar framkvæmdaleyfi fyrir gerð fyrsta áfanga bílastæðis samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi Reykjanesvita og nágrennis. Í 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi eru talin upp þau gögn sem fylgja skulu umsókn um framkvæmdaleyfi. Er m.a. gerð krafa um að meðfylgjandi sé lýsing á framkvæmd og hvernig hún falli að gildandi skipulagsáætlunum og staðháttum, ásamt framkvæmdatíma og öðru sem máli kann að skipta. Þá skulu einnig fylgja umsókn hönnunargögn. Samkvæmt 12. gr. reglugerðarinnar, þar sem fram koma lágmarkskröfur sem gerðar eru til framkvæmdaleyfa, skal í leyfi koma fram umfang framkvæmdar, samantekt á lýsingu og frágangi framkvæmdar og tilvísun til þeirra gagna sem framkvæmdaleyfið byggir á. Á það skortir að verulegu leyti að í framangreindu framkvæmdaleyfi sé gerð grein fyrir þeim atriðum sem tilgreind eru í tilvitnuðu reglugerðarákvæði. Með hliðsjón af ótvíræðu orðalagi ákvæðisins um lágmarkskröfur um efnisinnihald framkvæmdaleyfis verður að telja hið kærða framkvæmdaleyfi slíkum annmörkum háð að varði ógildingu þess.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Reykjanesbæjar frá 19. apríl 2016 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Reykjanesvita og nágrenni.

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 21. febrúar 2017 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð fyrsta áfanga bílastæðis við Reykjanesvitabraut 1.

2/2016 Laufásvegur 70

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 25. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2016, kæra á breytingu deiliskipulags Smáragötureita vegna Laufásvegar 70, sem samþykkt var í borgarráði Reykjavíkur hinn 26. nóvember 2015 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 17. desember 2015.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. janúar 2016, er barst nefndinni 11. s.m., kæra eigendur, Smáragötu 13, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 26. nóvember 2015 að breyta deiliskipulagi Smáragötureita. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 3. mars 2016.

Málavextir: Upphaf málsins má rekja til framkvæmda á lóð Laufásvegar 70 sem veitt var byggingarleyfi fyrir á árinu 2012. Það leyfi var síðar fellt úr gildi að hluta með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, í máli nr. 75/2012 hinn 11. júní 2015, en framkvæmdum var þá lokið. Kæruefnið snýr að upphækkuðum palli við dyr á 1. hæð á miðri suðvestur hlið hússins við Laufásveg 70 og aðliggjandi lægri palli við vestur horn hússins. Pallarnir eru tengdir með þrepum.

Tillaga að breyttu deiliskipulagi Smáragötureita vegna Laufásvegar 70 var grenndarkynnt 24. september 2015 með athugasemdafresti til 22. október s.á. Athugasemdir bárust frá íbúum Smáragötu 11 og 13. Þeim var svarað í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 13. nóvember s.á., þar sem jafnframt var lagt til að grenndarkynnt tillaga að breyttu deiliskipulagi yrði samþykkt. Með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa samþykkti umhverfis- og skipulagsráð tillöguna hinn 18. nóvember 2015. Borgarráð samþykkti breytt deiliskipulag 26. nóvember s.á. og auglýsing þar um birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 17. desember 2015. Í breytingunni fólst að byggingareit lóðarinnar var breytt þannig að áðurnefndir steinsteyptir pallar féllu innan hans. Í skilmálum segir að lægri pallurinn skuli vera í lóðarhæð eins og hún var áður og hærri pallurinn u.þ.b. 1,3 m hærri. Að öðru leyti gildi skilmálar deiliskipulags Smáragötureita frá árinu 2005. Kæra vegna þessarar ákvörðunar barst úrskurðarnefndinni 11. janúar 2016, eins og að ofan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að engin haldbær rök hafi staðið til hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar önnur en að festa í sessi þegar gerða byggingu, sem gerðar hafi verið athugasemdir við í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna neikvæðra grenndaráhrifa. Ekki hafi verið tekið tilliti til athugasemda við grenndarkynningu. Í reynd sé um að ræða viðbyggingu við húsið að Laufásvegi 70, en ekki palla líkt og borgaryfirvöld haldi fram. Mannvirkið sé úr járnbentri steinsteypu, á tveimur hæðum og með óuppfylltu innra rými sem unnt sé að gera innangengt frá íbúðarhúsi. Hæð mannvirkisins sé umfram heimild í deiliskipulagi. Efri pallur með handriði sé 3,61 m frá fyrri hæð lóðar og sá neðri 1,54 m ef marka megi mælingu starfsmanna Reykjavíkurborgar. Innsýn sé af mannvirkinu inn um glugga húss kærenda og yfir útvistarsvæði lóðar þeirra. Með umræddri deiliskipulagsbreytingu séu borgaryfirvöld að firra sig ábyrgð á mistökum sem þau beri ábyrgð á, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 75/2012, þar sem bent hafi verið á að grenndaráhrif vegna pallanna gætu orðið veruleg og að nýtingarmöguleikar nærliggjandi lóða gætu skerst vegna hljóðvistar og yfirsýnar. Deiliskipulagsbreytingin verði því kærendum til varanlegs tjóns. Borgaryfirvöld hafi í málsmeðferð sinni fyrst og fremst gætt hagsmuna Laufásvegar 70 á kostnað hagsmuna kærenda. Vel hefði mátt hanna viðbygginguna innan marka þess deiliskipulags sem í gildi var. Þess sé krafist að nefnd deiliskipulagsbreyting verið felld úr gildi, auk þess sem viðurkennt verði að útgáfa byggingarleyfis vegna viðbyggingarinnar hafi á sínum tíma verið ólögmæt.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfu kærenda um ógildingu deiliskipulagsbreytingar vegna Laufásvegar 70 verði hafnað. Málsmeðferð skipulagsbreytingarinnar hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hæð pallanna sé í samræmi við teikningar. Lægri pallurinn sé 0,88 m ofan grasflatar á miðri lóð og 1,59 m yfir syðsta hluta lóðar, þar sem hún sé lægst. Hærri pallurinn sé 1,95 m yfir hæð grasflatar á miðri lóð en 2,66 m yfir lóð þar sem hún sé lægst. Hæð pallanna sé ekki óeðlileg miðað við aðstæður og telja verði skiljanlegt að húseigendur við Laufásveg vilji geta gengið úr íbúðum sínum út í garð. Sökum landhalla séu gerðir pallar og stigar. Ólíklegt sé að nágrannar verði fyrir ónæði vegna pallanna. Innsýn í garða verði ekki meiri en búast megi við í því umhverfi sem um ræði.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Smáragötureita þar sem gert er ráð fyrir tveimur pöllum á lóðinni Laufásvegi 70, sem eru þar þegar fyrir.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fara sveitarfélög með vald til gerðar deiliskipulagsáætlana. Við beitingu þess valds ber m.a. að haga málsmeðferð þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn, þó svo að hagur heildarinnar verði hafður að leiðarljósi, sbr. 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga. Í skipulagsvaldi sveitarfélaga felst víðtæk heimild til breytinga á þegar gerðum deiliskipulagsáætlunum. Þessu valdi eru aðallega settar skorður með kröfu um samræmi við aðalskipulagsáætlanir og kröfu um lögmæta málsmeðferð sem gefi hagsmunaaðilum kost á að koma að athugasemdum áður en ákvörðun er tekin. Telji hagsmunaaðilar sig verða fyrir fjárhagslegu tjóni vegna breytinga á deiliskipulagsáætlunum raskar það ekki gildi breytinganna, en getur eftir atvikum orðið grundvöllur bótakröfu, sbr. 51. gr. skipulagslaga.

Tekin var ákvörðun af hálfu Reykjavíkurborgar um að fara með hina kærðu deiliskipulagsbreytingu eftir ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Það fól í sér að breytingin var metin óveruleg og því væri nægjanlegt að kynna áform um hana fyrir næstu nágrönnum með grenndarkynningu. Fyrir liggur að tillagan var grenndarkynnt frá 24. september 2015, með athugasemdafresti til 22. október s.á. Grenndarkynningin náði til kærenda og komu þeir athugasemdum að innan tilskilins frests. Að lokinni grenndarkynningu var breytingatillagan samþykkt af umhverfis- og skipulagsráði með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa um þær athugasemdir sem borist höfðu. Borgarráð staðfesti þessa afgreiðslu hinn 26. nóvember s.á. Samkvæmt framsögðu var gætt að rétti kærenda til þess að koma að athugasemdum við kynningu skipulagstillögunnar og lá efnisleg afstaða borgarráðs til þeirra fyrir við afgreiðslu málsins.

Á meðal þess sem deilt er um í málinu er hæð umræddra palla í lóðinni og þá hvort samræmi sé á milli þess sem deiliskipulag heimilar og þess hvernig pallarnir séu í raun. Í skilmálum hins breytta deiliskipulags segir að lægri pallur skuli vera í lóðarhæð eins og hún var áður, en að sá hærri sé um það bil 1,3 m hærri. Af orðalagi skilmálanna verður ráðið að miða skuli við upphaflega hæð lóðarinnar frá byggingartíma hússins árið 1927. Af upphaflegum aðaluppdráttum hússins má sjá að lóðin við suðvestur hlið hússins hefur staðið nokkru hærra en síðar varð. Kann lóðin að hafa sigið nokkuð á þeim níu áratugum sem frá er liðnir eða verið grafin niður.

Með vísan til þess sem að framan er rakið, og þar sem ekki liggja fyrir þeir annmarkar á málsmeðferð umdeildrar ákvörðunar sem raskað geta gildi hennar, verður ógildingarkröfu kærenda hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 26. nóvember 2015 um breytingu á deiliskipulagi Smáragötureita vegna Laufásvegar 70.

19/2016 Gvendargeisli 16

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 25. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 19/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. janúar 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir hækkun þaks og byggingu setustofu á annarri hæð hússins að Gvendargeisla 16 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. febrúar 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Gvendargeisla 18, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. janúar 2016 að veita byggingarleyfi fyrir hækkun þaks og byggingu setustofu á annarri hæð í húsinu að Gvendargeisla 16. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust 16. mars 2016.

Málavextir: Í gildi er deiliskipulag Grafarholts austur frá árinu 2002. Í almennum skilmálum þess kemur fram að uppgefnar fermetratölur tiltekinna húsagerða séu viðmiðunartölur og að bílgeymslur og sameign reiknist ekki með í íbúðastærðum. Uppgefið nýtingarhlutfall lóða sé einnig til viðmiðunar, en miðist við heildarstærð bygginga. Fyrir einbýlishús af þeirri gerð sem hér um ræðir (H-hús) gildir þeir sérskilmálar að þau skuli vera ein til tvær hæðir, viðmiðunarflatarmál sé 215 m2 og nýtingarhlutfall lóðar 0,3. Þakform sé frjálst en mælst til þess að þök séu lágreist svo byggingar skerði ekki útsýni og varpi ekki skugga á næstu hús að óþörfu. Hámarkshæð slíkra húsa sé 7,7 m og meðalhæð norðurveggja skuli ekki vera umfram 6 m.

Með umsókn, dags. 26. október 2015, var óskað eftir leyfi fyrir hækkun þaks og byggingu setustofu á annarri hæð hússins að Gvendargeisla 16. Erindinu var vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa, sem veitti umsögn með bréfi, dags. 7. janúar 2016. Í henni kemur fram að stækkunin sé innan hæðartakmarkana bæði hvað varði heildarhæð og meðalhæð norðurveggjar. Stærð hússins eftir stækkun án bílskúrs verði 213,5 m2 og því innan viðmiðunarmarka. Nýtingarhlutfall lóðar eftir stækkun verði 0,34, sem sé yfir viðmiðunarhlutfalli. Til þess beri þó að líta að nýtingarhlutfall nálægra lóða sé á bilinu 0,28 til 0,40 þrátt fyrir viðmið deiliskipulags um nýtingarhlutfall upp á 0,30. Því verði að telja stækkunina innan gildandi deiliskipulagsheimilda. Ekki verði séð að stækkunin skerði útsýni eða sólarbirtu næstu húsa að þarflausu. Ekki séu því gerðar skipulagslegar athugasemdir við erindið. Með vísan til þessarar umsagnar skipulagsfulltrúa var fyrrgreind umsókn um byggingarleyfi samþykkt.

Málsrök kærenda:
Kærendur telja hina kærðu ákvörðun brjóta stórlega gegn hagsmunum sínum og vera í andstöðu við gildandi deiliskipulag.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg lét málið ekki til sín taka en vísaði til umsagnar skipulagsfulltrúa.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafar krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest, enda hafi úttekt skipulagsfulltrúa staðfest að stækkunin sé innan hæðartakmarkana og innan gildandi heimilda um nýtingarhlutfall. Vísað sé til röksemda skipulagsfulltrúa. Kærendur hafi ekki rökstutt með hvaða hætti hin kærða ákvörðun brjóti gegn hagsmunum þeirra og því sé ekki unnt að taka frekari afstöðu til kærunnar.

Niðurstaða: Samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum hins kærða byggingarleyfis er hæð hússins að Gvendargeisla 16, eftir hækkun þaks, innan hæðarmarka gildandi deiliskipulags og er flatarmál hússins að frádregnum bílskúr einnig innan viðmiða deiliskipulagsins. Nýtingarhlutfall lóðar eftir stækkun telst 0,34, sem er yfir uppgefnu viðmiði í skilmálum skipulagsins um nýtingarhlutfall fyrir umrædda húsagerð, sem er 0,30.

Til þess ber að líta að nýtingarhlutfall sambærilegra lóða á skipulagssvæðinu er nú þegar á bilinu 0,28 til 0,40 og er nýtingarhlutfall lóðar kærenda, sem liggur að lóð leyfishafa, 0,33. Eins og framkvæmd skilmála skipulagsins um nýtingarhlutfall lóða á svæðinu hefur verið háttað er nýtingarhlutfall lóðarinnar Gvendargeisla 16 í samræmi við það sem heimilað hefur verið á deiliskipulagssvæðisins. Í ljósi þessa, og einnig þess að um viðmiðunarhlutfall er að ræða, verður nefnt frávik ekki talið hafa áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Verður kröfu kærenda um ógildingu hennar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. janúar 2016 um samþykkt byggingarleyfis fyrir hækkun þaks og byggingu setustofu á annarri hæð hússins að Gvendargeisla 16.

153/2017 Fjörður 1, Fjarðabyggð

Með

Árið 2018, föstudaginn 19. janúar, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 153/2017 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. desember 2017, er barst nefndinni 24. s.m., kæra eigendur fasteignarinnar Fjörður 1 í Mjóafirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Fjarðabyggðar frá 16. nóvember 2017 að krefjast þess að rafstöðvarhús og geymslubygging á Firði 1 verði fjarlægð ásamt því að vegur sem liggur frá Mjóafjarðarvegi að íbúðarhúsi Fjarðar 1 verði fjarlægður. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að réttaráhrifum hennar verði frestað á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til framkominnar kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa.

Málsatvik og rök: Á fundi bæjarstjórnar Fjarðabyggðar 16. nóvember 2017 var samþykkt að eigendum jarðarinnar Fjörður 1 í Mjóafirði yrði gert skylt að fjarlægja rafstöðvarhús og geymslubyggingu af jörðinni og afmá jarðrask vegna þeirra með stoð í 55. og 56. gr. laga  nr. 160/2010 um mannvirki. Var einnig samþykkt að þeim yrði gert að fjarlægja veg sem liggur frá Mjóafjarðarvegi að íbúðarhúsi Fjarðar 1 og afmá jarðrask vegna hans á grundvelli 53. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Kærendur skírskota til þess að smáhýsi undir rafstöð, eins og hér um ræði, sé undanþegin byggingarleyfi en rafstöðin sé nauðsyleg þegar nota þurfi tæki sem gangi fyrir rafmagni. Það myndi rýra mjög notagildi umræddrar fasteignar yrði þetta ekki hægt. Þá sé hið svokallað geymsluhús ekki annað en tveir gámar í fjárhústóft. Sé því ekki um byggingu að ræða í skilningi laga eða mannvirki eins og það sé skilgreint í 3. gr. mannvirkjalaga. Þá sé hinn umþrætti vegur í raun ekki vegur heldur varnargarður við lækinn Beljanda sem gerður hafi verið af Vegagerðinni á mörgum undanförnum árum. Sú framkvæmd hafi verið gerð í þeim tilgangi að verja þjóðveg nr. 953, Mjóafjarðarveg, fyrir ágangi lækjarins. Með tíð og tíma hafi varnargarðurinn vissulega verið kominn í það horf að hægt hafi verið að aka bifreiðum á honum en það breyti því þó ekki að um varnargarð sé að ræða en ekki veg.

Af hálfu Fjarðabyggðar er ekki gerð athugasemd við frestun réttaráhrifa hinna kærðu ákvörðunar. Hins vegar sé bent á að til skoðunar ætti að koma að vísa frá hluta af kröfum kærenda. Krafa um að rafstöðvarhús fái að standa en rafstöð yrði fjarlægð, virðist ekki geta komið til umfjöllunar hjá úrskurðarnefndinni enda hafi sveitarfélagið hvorki tekið afstöðu til slíkrar kröfu né ljóst að slík ákvörðun geti fallið undir lög nr. 160/2010 um mannvirki og valdsvið úrskurðarnefndarinnar. Ákvörðun sveitarfélagsins hafi verið efnislega rétt, málsmeðferð í samræmi við reglur og í öllu falli séu engir slíkir annmarkað á ákvörðun Fjarðabyggðar að varði ógildingu. Hvað varði sjónarmið um nauðsyn, þá telji sveitarfélagið það ekki geta staðist. Hvað sem líði virðingu sveitarfélags fyrir hagsmunum þegna, liggi fyrrir að mannvirkið teljist óleyfisframkvæmd þar sem ekki liggi fyrir samþykki allra sameigenda Fjarðar 1 um heimild til stöðu þess. Ekki sé unnt að fallast á að bygging geymsluhúsnæðis sé ekki byggingarleyfisskyld þótt hluti mannvirkisins séu gámar. Þá sé vegalagningin framkvæmdaleyfisskyld að áliti sveitarfélagsins og ljóst að farið hafi verið í framkvæmdir vegna vegarins.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr.

Hin kærða ákvörðun felur í sér beitingu þvingunarúrræða gagnvart kærendum á grundvelli ákvæða laga um mannvirki nr. 160/2010 og skipulagslaga nr. 123/2010  vegna rafstöðvarhúss, ætlaðrar geymslubyggingar og vegs á lóðinni Fjörður 1 í Mjóafirði. Fyrir liggur að ýmis álitaefni eru uppi í málinu sem áhrif geta haft á gildi hinnar kærðu ákvörðunar sem rannsaka þarf frekar og hefur stjórnvald það sem tók hina kærðu ákvörðun ekki lagst gegn því að réttaráhrifum hennar verði frestað meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið og að um verulega íþyngjandi ákvörðun er að ræða fyrir kærendur, þykir rétt að fallast á kröfu þeirra um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar bæjarstjórnar Fjarðabyggðar frá 16. nóvember 2017 er frestað á meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

31/2016 Hótel Orustustöðum

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 25. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 31/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 26. október 2015 um að samþykkja deiliskipulag hótels í landi Orustustaða í Skaftárhreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. mars 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra nánar tilgreindir eigendur og leigutakar jarðarinnar Hraunbóls í Skaftárhreppi ákvörðun sveitarstjórnar Skafárhrepps frá 26. október 2015 um að samþykkja deiliskipulag hótels í landi Orustustaða, Skaftárhreppi. Öðlaðist deiliskipulagið gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 17. febrúar 2016.

Krefjast kærendur þess að hin kærða samþykkt verði felld úr gildi en til vara að hún verði felld úr gildi að því marki sem hún brjóti gegn hagsmunum og réttindum þeirra. Jafnframt var gerð krafa um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar. Var þeirri kröfu hafnað með úrskurði úrskurðarnefndarinnar uppkveðnum 15. júní 2016.

Gögn málsins bárust frá Skaftárhreppi 18. apríl 2016 og í desember 2017.

Málavextir: Jörðin Orustustaðir er á Brunasandi í Skaftárhreppi. Varð jörðin nýbýli árið 1823 en lagðist í eyði um 1950. Á árinu 2014 var auglýst breyting á Aðalskipulagi Skaftárhrepps 2010-2022. Fól breytingin í sér að landbúnaðarsvæði var breytt í 15 ha verslunar- og þjónustusvæði, V32, og þar gert ráð fyrir um 7.000 m² hóteli á tveimur hæðum. Aðkoma yrði um veg vestan Orustustaða. Jafnframt yrði til 0,5 ha efnistökusvæði og brunn-, grann- og fjarsvæði vatnsverndar. Öðlaðist breytingin gildi 20. janúar 2015.

Tillaga að deiliskipulagi í landi Orustustaða var lögð fram á fundi skipulags- og byggingarnefndar Skaftárhrepps 9. desember 2014. Fól tillagan í sér að á jörðinni yrði hótel með 200 gistirýmum, auk annarrar aðstöðu. Aðkomuvegur að svæðinu lægi að hluta til í landi Hraunbóls/Sléttabóls. Var samþykkt að auglýsa tillöguna til kynningar og leita umsagna Vegagerðarinnar, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Umhverfisstofnunar, Fuglaverndar, Minjastofnunar Íslands og ábúenda á Hraunbóli. Staðfesti sveitarstjórn greinda afgreiðslu 15. s.m.

Bárust athugasemdir á kynningartíma deiliskipulagstillögunnar, t.a.m. frá kærendum er mótmæltu m.a. fyrirhugaðri veglínu. Hinn 15. apríl 2015 var fyrrgreind tillaga samþykkt á fundi sveitarstjórnar, að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar. Í kjölfar þess var deiliskipulagið sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu. Gerði stofnunin athugasemd við gildistöku þess og taldi það ekki uppfylla markmið og ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 um efni og gæði. Vegna þessa mæltist skipulagsnefnd til þess á fundi sínum 10. júní 2015 að skipulagið yrði yfirfarið m.t.t. athugasemda Skipulagsstofnunar. Einnig var lagt til að samráðsfundur yrði haldinn með hagsmunaaðilum vegna þeirrar veglínu sem ráðgerð væri í tillögunni. Í framhaldi af nefndum fundi skoruðu landeigendur Hraunbóls á sveitarstjórn, með bréfi dags. 14. ágúst 2015, að hafna fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu. Vísuðu þeir m.a. til þess að í tillögunni væri rangt farið með staðreyndir um náttúrufar og votlendi á Brunasandi. Jafnframt færi tillagan þvert gegn tilmælum Umhverfisstofnunar og ábendingum landeigenda um að vegtenging að hótelinu yrði að austan.

Skipulagsnefnd tók málið fyrir á ný á fundi 19. ágúst 2015. Var tekið fram að brugðist hefði verið við athugasemdum Skipulagsstofnunar varðandi mótun byggðar og skilmála um útlit bygginga og efnisval. Fór nefndin fram á „nánari skilgreiningu innan deiliskipulags á útliti og gerð starfsmannahúss“, en tók fram að ekki væri gerð athugasemd við tillöguna að öðru leyti. Lagt var til að tillagan svo breytt yrði auglýst að nýju, að teknu tilliti til athugasemda nefndarinnar. Samþykkti sveitarstjórn nefnda afgreiðslu 20. s.m. Bárust athugasemdir við tillöguna á kynningartíma hennar, m.a. frá kærendum.

Deiliskipulagstillagan var til umfjöllunar í skipulagsnefnd 26. október 2015. Var bókað að umsögnum og athugasemdum er borist hefðu á auglýsingartíma væri svarað í greinargerð tillögunnar. Gerði meirihluti nefndarinnar að öðru leyti ekki athugasemd við tillöguna og lagði til að hún yrði send Skipulagsstofnun til yfirferðar. Samþykkti meirihluti sveitarstjórnar afgreiðslu skipulagsnefndar á fundi sínum þann sama dag.

Hinn 9. febrúar 2016 lá fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar um að fyrirhugað hótel í landi Orustustaða og aðkomuvegur væru ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með tilliti til eðlis framkvæmdarinnar, staðsetningar hennar og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Framkvæmdin skyldi því ekki vera háð mati á umhverfisáhrifum. Sama dag tilkynnti stofnunin sveitarfélagi Skaftárhrepps að hún gerði ekki athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins. Tók deiliskipulag Orustustaða gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 17. febrúar s.á., svo sem fyrr greinir.

Matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar frá 9. febrúar 2016 var skotið til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði sínum 22. desember s.á., í kærumáli nr. 26/2016, hafnaði kröfum um ógildingu ákvörðunarinnar.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að um 10 ha spilda af skipulagssvæði deiliskipulags Orustustaða sé innan eignarlands þeirra. Sé það í óþökk kærenda, en ekkert samráð hafi verið haft við þá. Brjóti málsmeðferð sveitarstjórnar og ákvörðun hennar um samþykkt deiliskipulagsins í bága við markmiðsákvæði skipulagslaga nr. 123/2010, málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglur stjórnsýsluréttar. Sé brotið gegn grunnreglum stjórnsýsluréttar um meðalhóf og jafnræði, sem og gegn hagsmunum landeigenda Hraunbóls/Sléttabóls, sem verndaðir séu með 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944, sbr. lög nr. 97/1995, og ákvæði 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Megi engan skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji, en ekki sé því fyrir að fara hér. Muni bygging 200 herbergja hótels á Orustustöðum raska viðkvæmu náttúruminjasvæði og fari umrætt deiliskipulag því gegn meginmarkmiði skipulagslaga. Brotið hafi verið gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins og því meginmarkmiði skipulagslaga að tryggja skuli réttaröryggi í meðferð skipulagsmála. Hagsmunir framkvæmdaraðila hafi verið settir í forgang á kostnað hagsmuna kærenda. Gangi deiliskipulagið því gegn öllum jafnræðissjónarmiðum, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga, sbr. og 65. gr. stjórnarskrárinnar. Gangi það sömuleiðis gegn venjuhelguðum grenndar- og nábýlisreglum íslensks réttar og að öðru leyti gegn friðhelgu einka- og fjölskyldulífi kærenda.

Sveitarstjórn hafi brostið heimild til að gera í deiliskipulagi ráð fyrir vegi innan eignarlands Hraunbóls/Sléttabóls í andstöðu við þá aðila sem hafi forræði á því landi sem vegurinn eigi að liggja um. Eigi þetta jafnt við um þann hluta sem núverandi vegslóði liggi um og það óraskaða land sem deiliskipulagið geri ráð fyrir að fari undir veg innan eignarlandsins. Flokkist núverandi vegslóði innan lands Hraunbóls/Sléttabóls undir einkaveg í skilningi vegalaga nr. 80/2007. Af því leiði að hann lúti forræði landeigenda.

Rökstuðningur sveitarstjórnar í svörum við framkomnum athugasemdum kærenda fullnægi ekki skilyrðum 22. gr. stjórnsýslulaga. Hafi umrædd tillaga því verið afgreidd án þess að efnisleg afstaða væri tekin til athugasemdanna, einungis hafi verið vísað til 49. og 50. gr. skipulagslaga.

Sveitarstjórn beri skylda til að sjá til þess að áður en ákvörðun sé tekin liggi fyrir fullnægjandi upplýsingar um þau áhrif og breytingar á landi og umhverfi sem framkvæmd muni hafa í för með sér. Beri henni jafnframt að sjá til þess að fram hafi farið mat á því hvaða mótvægisaðgerðir séu nauðsynlegar svo sporna megi við neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Gera megi ráð fyrir því að minnst um 200-300 bifreiðar og um 900 manns muni fara um umrætt svæði á hverjum sólarhring. Þrátt fyrir það hafi ekki verið gerð úttekt á því hvaða áhrif það geti haft á nánasta umhverfi og náttúru. Ekki hafi verið haft til hliðsjónar heildarmat á öllum þeim áhrifum sem ákvörðunin muni og kunni að hafa á umhverfi og náttúru. Fræðilegt og faglegt mat á áhrifum hótelbyggingarinnar og starfseminnar skorti þannig að fullnægt væri ákvæðum laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006 og rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Ekki hafi t.d. verið gætt að því að nægilega væri upplýst um meðferð skolps og hvernig tryggja eigi aðlægar jarðir gegn skolpmengun. Hvorki hafi verið sýnt fram á hvernig afla eigi neysluvatns né að vatnsupptaka í þessu magni muni ekki hafa áhrif á gróðurfar, ræktun og neysluvatn hjá öðrum landeigendum á Brunasandi. Þá hafi ekki heldur verið sýnt fram á hvernig tryggja eigi grunnvatnsstöðu í landi Hraunbóls/Sléttabóls. Loks hafi ekki verið gerð úttekt á landi Hraunbóls/Sléttabóls, sem fyrirhugað sé að leggja undir vegstæði.

Engar upplýsingar sé að finna um aðra mögulega kosti við veglagningu og þar með sé enginn samanburður gerður á mismunandi kostum. Fari slíkir annmarkar á málsmeðferð og forsendum stjórnvaldsákvarðana í bága við meginreglur stjórnsýsluréttar um meðalhóf og rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Sé áskilið í 6. gr. laga nr. 105/2006 að mismunandi valkostir séu metnir, sér í lagi í f- og hlið 2. mgr. 6. gr. laganna.

Breyting á aðalskipulagi Skaftárhrepps hafi ekki falið í sér ákvörðun um veglínu, en fram hafi komið í greinargerð með þeirri breytingu að endanlega veglegu þyrfti að ákveða á deiliskipulagsstigi og í samráði við landeigendur. „Samráð“ sveitarstjórnar hafi falist í hótunum um beitingu eignarnáms. Landssvæði sem lagt sé til að fari undir veglínu í hinu kærða deiliskipulagi sé velgróið votlendissvæði í eigu Hraunbóls/Sléttabóls og Foss á Síðu. Muni veglagning um það hafa mikil og neikvæð áhrif á hagsmuni landeigendanna. Nærtækast hefði verið að vegtenging að hótelbyggingunni væri um land framkvæmdaraðila, en ekki um land nærliggjandi jarða, hvað þá um ósnortið land í einkaeigu. Austan megin liggi þjóðvegur (héraðsvegur) frá hringvegi 1 að Sléttu. Sá vegur, Hrunavegur, sé á forræði Vegagerðarinnar, en um sé að ræða uppbyggðan heilsársveg. Þá hafi verið bent á vegslóða í hrauninu, sem liggi frá Hrunavegi að Orustustöðum og sé að meginhluta innan landssvæðis framkvæmdaraðila.

Málsrök Skaftárhrepps: Sveitarfélagið krefst þess að kröfum kærenda verði hafnað. Við ákvarðanatöku umrædds deiliskipulags hafi í hvívetna verið uppfylltar reglur stjórnsýsluréttarins, sem og þær skyldur sem á sveitarfélaginu hvíli samkvæmt skipulagslögum. Að baki ákvörðuninni hafi legið málefnalegar og lögmætar ástæður, þ.e. að bregðast við fólksfækkun og minnkandi atvinnutækifærum innan sveitarfélagsins. Um brot á lögmætisreglu hafi ekki verið að ræða.

Breytingar á aðalskipulagi Skaftárhrepps og síðar deiliskipulagi eigi rætur sínar að rekja allt til ársins 2013. Með breytingum á aðalskipulaginu hafi verið brugðist við breyttum aðstæðum á svæðinu án þess þó að skerða ræktað landbúnaðarland eða verndaðar jarðmyndanir. Skipulagsferlið hafi verið vandað í alla staði og kapp lagt á að vinna það í sátt og samlyndi við hagsmunaaðila. Samráðsfundir hafi m.a. verið haldnir með landeigendum aðliggjandi jarða og lóða við skipulagssvæðið.

Orustustaðir liggi við syðsta hluta Brunahrauns á Brunasandi og landamerki jarðarinnar séu mörkuð í Orustuhól sem standi norðan hraunsins, rétt við þjóðveg 1. Vegna þessarar legu jarðamarka hafi aðkoma að Orustustöðum verið í gegnum land annarra jarða um vegslóða að austan og vestanverðu hrauninu. Nýr aðkomuvegur (héraðsvegur) sé sýndur í breyttu aðalskipulagi. Við val á staðsetningu hans hafi verið unnin greining á því hvaða kostir væru í boði og hvaða leið væri heppilegust að jörðinni. Við ákvörðun um lagningu vegar hafi sex möguleikar verið lagðir til grundvallar.

Helstu forsendur sveitarfélagsins við val þess á veglínu hafi t.a.m. verið nálægð hennar við íbúðir, bújarðir og sumarhús og að skerðing á ræktuðu landi væri lágmörkuð sem og umhverfisáhrif hennar. Hafi niðurstaðan orðið sú að velja veglínu C. Hún sé lengri en flestar hinar, en rúmir 3 km af henni sé ágætis vegur. Leiðin sé í rúmlega 500 m fjarlægð frá bústöðum og íbúðarhúsi á Hraunbóli. Hún fari fram hjá einu íbúðarhúsi meðan leiðir D, E og F fari fram hjá sex húsum en þar sé lítið rými til að færa leiðina frá bæjum nema með því að skerða velgróið votlendissvæði. Austan megin sé kúabú þar sem land sé nytjað. Frá veglínu C séu rúmlega 13 km til sjávar og tæpir 10 km í norðurmörk þess svæðis sem sé mikilvægast m.t.t. fuglalífs. Sett verði ræsi og gerð sé krafa um að þess sé gætt að vegurinn skerði ekki flæði vatns til suðurs.

Málsrök lóðarhafa: Lóðarhafi vísar m.a. til þess að leið D, eftir núverandi ýtuslóða um Skaftáreldahraun, hefði í för með sér að raska þyrfti hrauninu. Væri slíkt ekki í samræmi við stefnu Skaftárhrepps en jafnframt falli Eldhraunið undir lög nr. 60/2013 um náttúruvernd. Í umhverfisskýrslu hafi verið skoðað hvernig hægt væri að útfæra veglínu þá sem valin hafi verið í aðalskipulaginu þannig að umhverfisáhrif hennar yrðu sem minnst. Sé mikilvægt að vanda vel til hreinsunar skolps og hafi lóðarhafi verið í sambandi við umhverfisverkfræðing varðandi lausnir. Fylgst verði með losunarmörkum og tekið verði mið af fylgiskjali 4 í reglugerð nr. 450/2009 um breytingu á reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp.

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en þau hafa verið höfð til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórnar og annast hún og ber ábyrgð á gerð deiliskipulags, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Við beitingu þess ber m.a. að fylgja markmiðsetningu nefndra laga sem tíunduð er í 1. gr. þeirra. Þar er t.a.m. kveðið á um að stuðla skuli að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða. Jafnframt að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Við töku skipulagsákvarðana eru sveitarstjórnir enn fremur bundnar af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, er felur m.a. í sér að með ákvarðanatöku sé stefnt að lögmætum markmiðum. Einnig gerir meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þá kröfu til stjórnvalda að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt sé til að ná settum markmiðum er búi að baki stjórnvaldsákvörðun. Verða sveitarstjórnir að virða greind lagaákvæði og sjónarmið við töku skipulagsákvarðana. Skal við gerð deiliskipulags byggja á stefnu aðalskipulags en þar er lagður grundvöllur fyrir gerð deiliskipulags varðandi t.d. landnotkun og takmarkanir á henni. Þá skulu gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu var samþykkt breyting á Aðalskipulagi Skaftárhrepps 2010-2022 fyrir gildistöku hins umdeilda deiliskipulags. Í breytingunni fólst að 15 ha landbúnaðarsvæði á jörðinni Orustustöðum var breytt í verslunar- og þjónustusvæði. Með breytingunni var því ekki lengur gert ráð fyrir þeirri landnotkun sem skipulagsreglugerð nr. 90/2013 áskilur að sé á landbúnaðarsvæðum, þ.e. svæði fyrir landbúnað og mannvirki sem tengjast búrekstrinum, með áherslu á búfénað, matvæla- og fóðurframleiðslu, heldur landnotkun þar sem gert sé ráð fyrir verslun og þjónustu, þ.m.t. hótelum, gistiheimilum, gistiskálum, veitingahúsum og skemmtistöðum. Jafnframt fól breytingin í sér að á umræddu svæði yrði hótel og tengd starfsemi og áætlað byggingarmagn um 7.000 m² á tveimur hæðum.  Auk þess var gert ráð fyrir nýju efnistökusvæði og nýju brunn-, grann- og fjarsvæði vatnsverndar. Þá kemur fram í greinargerð aðalskipulagsáætlunarinnar að skilgreina þurfi héraðsveg að svæðinu og hafi veglína C verið valin að loknu mati á sex leiðum. Fram kemur í samanburðartöflu að leið C liggi eftir núverandi vegi, en nýr vegur sé á um 2,8 km kafla sunnan við Hraunból og að skógræktarsvæði. Eru veglínur sýndar á skýringaruppdrætti í greinargerð aðalskipulagsbreytingarinnar.

Í greinargerð umrædds deiliskipulags hótels í landi Orustustaða segir að skipulagssvæðið sé tæpir 40 ha að stærð. Þar af séu 28 ha innan Orustustaða, 10 ha innan óskipts lands Hraunbóls/Sléttabóls og 0,5 ha innan Fossjarða. Gerir skipulagið ráð fyrir því að á 13,6 ha lóð innan jarðarinnar Orustustaða verði tveir byggingarreitir og er heimilað byggingarmagn innan lóðarinnar allt að 7.000 m². Er lóðin á reit merktum V32 í aðalskipulagi Skaftárhrepps. Á byggingareit B1 verður 200 herbergja hótel, er samanstendur af tveggja hæða móttöku- og veitingahúsi, gistihúsum og öðrum minni byggingum af mismunandi stærð. Hámarksbyggingarmagn á reitnum verður 6.250 m². Reiknað er með 115 bílastæðum, sem staðsett skulu vestan við byggingarnar, og þrjú rútustæði við aðkomu hótelsins skulu staðsett innan lóðar. Á byggingarreit B2 eru ráðgerðar allt að þrjár byggingar fyrir starfmenn. Heildarbyggingarmagn er 750 m², það er allt að 15 íbúðir sem hver um sig verður 50 m² að stærð. Bílastæði við starfsmannahús verða fimmtán. Jafnframt tekur deiliskipulagið til aðkomuvegar sem liggur að hluta til í landi Hraunbóls/Sléttabóls og Fossjarða.

Að framangreindu virtu fer hið kærða deiliskipulag ekki í bága við stefnu og markmið aðalskipulagsins og er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana þ.a.l. fullnægt.
Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga skal við gerð skipulagsáætlana gera grein fyrir áhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar á umhverfið, m.a. með samanburði þeirra kosta sem til greina koma, og með umhverfismati áætlunar, ef við á. Lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum var breytt með lögum nr. 138/2014, en eftir þá breytingu eru m.a. hótel og tengdar framkvæmdir utan þéttbýlis tilgreind í flokki B, sbr. lið 12.05 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Framkvæmdir í þeim flokki skal tilkynna Skipulagsstofnun til ákvörðunar um matsskyldu. Breytingalögin tóku gildi 31. desember 2014, en aðalskipulagsbreyting var samþykkt af sveitarstjórn fyrr í þeim mánuði. Málsmeðferð deiliskipulagsins var hins vegar fram haldið og með hliðsjón af nefndum lagabreytingum var unnin umhverfisskýrsla í samræmi við lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana.

Eins og áður er lýst kom val á veglínu að hótelinu til skoðunar við breytingu á aðalskipulagi Skaftárhrepps. Fram kemur í kafla 4.4 í greinargerð með þeirri breytingu að margar athugasemdir hafi verið gerðar um legu aðkomuvegar að Orustustöðum í lýsingu skipulagsverkefnisins, en þá hafði ekki verið gerð tillaga að legu vegar. Eftir það hafi landeigendum verið sendar tillögur að veglínum og umsagnir borist. Við val á veglínu hafi verið lögð áhersla á nokkra þætti. Að veglínan myndi trufla sem minnst þá sem byggju og dveldu á svæðinu, miðað við 500 m frá bæjarstæðum. Að truflun á væntanlegu friðlandi yrði sem minnst og veglínan færi ekki yfir merkar minjar. Að veglínan myndi ekki ganga yfir það svæði sem talist gæti gott ræktunarland ef hjá því væri komist. Loks að umhverfisáhrif hennar yrðu sem minnst. Gerður hafi verið samanburður á sex veglínum hvað varðaði nefnda þætti og hafi niðurstaðan orðið sú að velja veglínu C, sem byggst hafi á fyrrnefndu mati. Eru færð rök fyrir vali á veglínunni í samræmi við þá þætti sem fjallað er um í samanburði veglínanna. Þá kemur fram í greinargerðinni í kafla 5 um umhverfisáhrif að gerð sé grein fyrir þeim í samræmi við 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Í kaflanum kemur jafnframt fram að neikvæð umhverfisáhrif verði af umferð bíla og ferðamanna um svæðið, en til að takmarka þau eins og kostur sé hafi verið reynt að velja staðsetningu vegarins þannig að áhrif hans yrðu sem minnst. Loks eru áréttuð þau rök sem fram komu í kafla 4.4. varðandi val sveitarstjórnar á veglínu.

Í hinu umdeilda deiliskipulagi var ekki gert valkostamat á mismunandi aðkomuvegum að Orustustöðum heldur tekið fram að aðkoma að hótelinu yrði frá þjóðvegi 1 eftir núverandi vegi sem liggi að Hraunbóli og nýjum 1,7 km vegkafla, sem liggi af núverandi vegi, rétt vestan við Hraunból. Er sú veglína sýnd á uppdrætti deiliskipulagsins og er hún í samræmi við veglínu þá sem sýnd er á breyttum aðalskipulagsuppdrætti. Í umhverfisskýrslu deiliskipulagsins er tekið fram að vegstæði hafi verið valið út frá fjarlægð frá bústöðum og íbúðarhúsi á Hraunbóli, tiltekið hvernig lagningu vegarins verði háttað til að ekki myndist fyrirstaða og að allt óþarfa rask verði forðast og haft í huga friðhelgað svæði friðaðra fornleifa. Tiltekið er einnig að neikvæð umhverfisáhrif verði af umferð bíla og ferðamanna en að reynt hafi verið að velja staðsetningu vegarins þannig að áhrif hans verði sem minnst.

Að teknu tilliti til kröfu þeirrar sem gerð er í skipulagslögum um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana og þess samanburðar á veglínum sem fram fór við aðalskipulagsbreytingu verður ekki séð að þörf hafi verið á frekari samanburði mismunandi kosta um veglínu við útfærslu deiliskipulagsins. Þá fullnægði umhverfisskýrsla deiliskipulagsins áskilnaði 6. gr. laga nr. 105/2006 um efnisinnihald að teknu tilliti til efnis hennar og stöðu deiliskipulagsins í stigskiptri áætlanagerð, sbr. og 1. mgr. ákvæðisins.

Kærendur hafa ítrekað andmælt og komið að athugasemdum sínum við fyrirhugaðar framkvæmdir að Orustustöðum, bæði þegar nefndar breytingar voru gerðar á aðalskipulagi Skaftárhrepps og eins við gerð deiliskipulagsins. Jafnframt kærðu þeir til úrskurðarnefndarinnar þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð framkvæmd skyldi ekki sæta mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000. Tefla kærendur ýmsum sjónarmiðum fram máli sínu til stuðnings, t.a.m. að ekki hafi verið heimilt að samþykkja hið umdeilda deiliskipulag án samráðs við þá eða heimildar þeirra, en vegur að hótelinu muni liggja um land þeirra.  Lúti umræddur vegur forræði þeirra, en um einkaveg sé að ræða.

Skipulagslög gera ráð fyrir að samráð sé viðhaft við almenning og hagsmunaaðila á öllum skipulagsstigum. Í greinargerð með umræddri aðalskipulagsbreytingu kemur fram að þrír samráðsfundir hafi verið haldnir með landeigendum, einn með landeigendum vestan Eldhrauns og tveir með landeigendum austan megin. Gögn málsins bera hins vegar ekki með sér að boðað hafi verið til frekara samráðs við deiliskipulagsgerðina í samræmi við fyrirmæli gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð. Kærendur komu þó einnig að athugasemdum sínum í deiliskipulagsferlinu og í svörum sveitarfélagsins við framkomnum athugasemdum er gerð grein fyrir því hvers vegna valin hafi verið sú veglína sem gert sé ráð fyrir í aðal- og deiliskipulagi, en þau rök hafa áður verið tíunduð. Að mati úrskurðarnefndarinnar eru þau rök málefnaleg og skal á það bent að í skyldu sveitarfélags til samráðs felst ekki að fallast beri á allar þær athugasemdir sem fram koma. Er enda sveitarstjórnum að lögum veitt víðtækt skipulagsvald þótt því beri að beita að teknu tilliti til málsmeðferðarreglna skipulags- og stjórnsýslulaga. Skipulagslög gera enn fremur ráð fyrir því að gildistaka skipulagsáætlana geti haft í för með sér röskun á einstökum fasteignaréttinum. Felur ákvörðun um deiliskipulag þó ekki í sér ráðstöfun á beinum eða óbeinum eignarréttindum, en standi slík réttindi í vegi fyrir framkvæmd skipulags getur komið til eignarnáms skv. 50. gr. skipulagslaga eða eftir atvikum til bótagreiðslna í samræmi við 51. gr. laganna. Slík álitaefni heyra þó ekki undir úrskurðarnefndina heldur eftir atvikum undir dómstóla.

Sveitarstjórn nýtti sér heimild 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga til að víkja frá þeirri skyldu að taka saman lýsingu við upphaf deiliskipulagsgerðar þegar allar meginforsendur þess liggja fyrir í aðalskipulagi. Af því sem áður hefur verið rakið verður ráðið að allar meginforsendur deiliskipulagsins hafi legið fyrir í aðalskipulagi, svo sem því var breytt, og hafi því verið heimilt að víkja frá framangreindri lagaskyldu. Málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar var að öðru leyti í samræmi við ákvæði skipulagslaga um auglýsingu, samþykkt og afgreiðslu. Þá verður ekki séð að farið hafi verið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga, m.a. um meðalhóf og jafnræði.

Með vísan til alls framangreinds verður ekki talið að þeir efnis- eða formannmarkar hafi verið á hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun að varði ógildingu hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur tafist verulega vegna mikils fjölda og umfangs mála sem kærð hafa verið til úrskurðarnefndarinnar.

 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 26. október 2015 um að samþykkja deiliskipulag hótels í landi Orustustaða í Skaftárhreppi.

36/2016 Miðbraut

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 11. janúar kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2016, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar frá 24. febrúar 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vesturhverfis vegna fjölgunar íbúða og bílastæða á lóðinni nr. 28 við Miðbraut.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. apríl 2016, er barst nefndinni 5 s.m., kæra eigendur, Miðbraut 26, og eigendur Miðbraut 21, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 24. febrúar s.á. að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vesturhverfis vegna fjölgunar íbúða og bílastæða á lóðinni nr. 28 við Miðbraut. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að fjöldi bílastæða verði aukinn á lóðinni Miðbraut 28 í samræmi við kröfur kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 10. maí 2016.

Málavextir: Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag fyrir svokallað Vesturhverfi sem skiptist í svæði A, B og C. Lóðin að Miðbraut 28 er á svæði C. Deiliskipulagsbreyting fyrir lóðina nr. 28 við Miðbraut var grenndarkynnt 30. desember 2015 með athugasemdafresti til 5. febrúar 2016. Sú tillaga gerði m.a. ráð fyrir því að hámarksfjöldi íbúða á lóðinni yrðu fjórar í stað tveggja og að bílastæðum myndi fjölga úr tveimur í fjögur. Jafnframt yrði þar eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Tveir undirskriftarlistar með athugasemdum bárust á kynningartíma tillögunnar, með nöfnum samtals 23 aðila. Athugasemdirnar voru efnislega samhljóða. Í þeim var gerð krafa um að bílastæðum við húsið að Miðbraut 28 yrði fjölgað.

Að lokinni grenndarkynningu var skipulagstillagan tekin fyrir á fundi skipulags- og umferðarnefndar 9. febrúar 2016 og hún samþykkt. Jafnframt var skipulagsfulltrúa falið að svara athugasemdum í samræmi við umræður á fundinum. Á fundi bæjarstjórnar 24. s.m. var afgreiðsla skipulags- og umferðarnefndar staðfest.

Málsrök kærenda:
Af hálfu kærenda er þess krafist að bílastæðum við fyrirhugað fjórbýlishús að Miðbraut 28 verði fjölgað úr fjórum í átta. Ljóst megi vera að mjög líklegt sé að hverri íbúð fylgi að minnsta kosti tveir bílar. Kveða þurfi því á um að bílastæði innan lóðar verði átta talsins, svo sem skipulags- og mannvirkjanefnd hafi gert áskilnað um við samþykki byggingar fjórbýlishúss við Melabraut 27 á fundi sínum hinn 21. júní 2011. Aukabílastæði við Miðbraut séu alls ekki mörg og það myndi þrengja mjög að íbúum og umferð ef fjölgaði í hópi þeirra sem leggi ökutækjum sínum að staðaldri við gangstétt götunnar.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar:
Bæjaryfirvöld benda á að í deiliskipulagi svæðisins séu svohljóðandi ákvæði um bílastæði: „Geymsla fyrir bíl skal vera fyrir a.m.k. helming íbúða í hverju húsi. Auk þess er kvöð um a.m.k. 2 bílastæði á hverri lóð. Þar sem fleiri en ein íbúð verður heimiluð á lóð er kvöð um a.m.k. 1 aukastæði á lóð fyrir hverja viðbótar íbúð.“

Tillagan sé því í samræmi við ákvæði deiliskipulagsins um fjölda bílastæða innan lóðar. Þrátt fyrir athugasemdir íbúa hafi ekki verið talið rétt að víkja frá þeirri meginreglu nema hún yrði endurskoðuð fyrir svæðið í heild. Bent sé á að fjölgun bílastæða innan lóðar fækki bílastæðum sem standi almenningi opin utan lóðar, eins og aðstæður séu á umræddri lóð. Við slíka tilfærslu bílastæða minnki sveigjanleiki á nýtingu bílastæða í hverfinu. Að auki sé illmögulegt að koma fyrir átta bílastæðum á lóðinni.

Til viðbótar framangreindu myndi slíkur fjöldi bílastæða sem kærendur krefjist breyta ásýnd húss og lóðar og leiða til þess að framgarður hússins færi nánast að öllu leyti undir bílastæði. Í byggingarreglugerð sé gert ráð fyrir að í slíkum fjöleignarhúsum sé eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Með vísan til þess og framkominna athugasemda hafi verið gerð krafa um eitt bílastæði á lóðinni fyrir hreyfihamlaða.

Niðurstaða: Hin kærða ákvörðun felur í sér þá breytingu á deiliskipulagsskilmálum fyrir lóðina Miðbraut 28 að heimilað er að fjölga íbúðum í húsi því sem stendur á lóðinni úr tveimur í fjórar, að fjölga bílastæðum innan lóðar úr tveimur í fjögur og að bæta við einu bílastæði fyrir hreyfihamlaða.

Deiliskipulagsbreytingin fékk málsmeðferð samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt því ákvæði er sveitarstjórn heimilt að gera breytingar á samþykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. ákvæðisins og skal þá fara fram grenndarkynning. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi telst óveruleg skal taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Ljóst er að umrædd deiliskipulagsbreyting hefur ekki í för með sér breytingu á notkun eða nýtingarhlutfalli lóðarinnar. Hins vegar breytist yfirbragð svæðisins að því leyti að þremur bílastæðum er bætt við á lóðinni. Dæmi eru um að á svæðinu séu lóðir með jafn margar eða fleiri íbúðir. Breytingin rúmast innan upphaflegra deiliskipulagsskilmála fyrir svokallað C-svæði, sem er hluti umrædds deiliskipulagssvæðis. Í greinargerð skipulagsins kemur fram að byggð á svæði C sé sundurleitari en á svæðum A og B. Þar standi elstu og minnstu húsin, en einnig þau stærstu, og dæmi séu um allt að sex íbúðir á lóð. Stefnt sé að þéttingu byggðar og aðlögun minni húsa að þeim stærri svo hverfið fái samræmdara yfirbragð. Þar sé nýtingarhlutfall heimilað 0,5, heimiluð nokkur fjölgun íbúða og í stöku tilvikum hækkun húsa um hálfa til eina hæð. Með hliðsjón af þessu verðu að telja að sveitarstjórn hafi verið heimilt að fara með hina kærðu deiliskipulagsbreytingu samkvæmt fyrrgreindri 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið, og einnig þess að ekki verður séð að form eða efnisannmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun, verður kröfu kærenda um ógildingu hennar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 24. febrúar 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vesturhverfis, vegna fjölgunar íbúða og bílastæða á lóðinni nr. 28 við Miðbraut.