Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

78/2016 Grashagi

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 25. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 78/2016, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 6. maí 2015 um veitingu byggingarleyfis vegna byggingar bílskúrs að Grashaga 10, Selfossi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. júlí 2016, er barst nefndinni 6. s.m., kæra A og B, Grashaga 12, Selfossi, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 6. maí 2015 að samþykkja byggingarleyfi fyrir bílskúr að Grashaga 10, Selfossi. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Sveitarfélaginu Árborg 16. ágúst 2016.

Málavextir: Forsaga þessa máls er sú að á lóðunum Grashaga 10 og 12 standa einbýlishús sem byggð voru árið 1973. Á árinu 1981 var reistur bílskúr við húsið að Grashaga 12, við lóðamörkin að Grashaga 10. Á svipuðum tíma voru steyptir sökklar og botnplata vegna fyrirhugaðs bílskúrs að Grashaga 10 við hlið bílskúrsins að Grashaga 12. Frá því að þessum framkvæmdum lauk hafa orðið eigendaskipti á báðum eignunum. Umræddar lóðir eru á ódeiliskipulögðu svæði.

Lögð var fram umsókn um byggingarleyfi hjá Sveitarfélaginu Árborg, dags. 10. apríl 2015, þar sem óskað var eftir leyfi til byggingar bílskúrs við Grashaga 10. Fyrir væru steyptir sökklar og plata ásamt brunavegg REI-120 á lóðamörkum. Bílskúr hafi þegar verið reistur við Grashaga 12 og að leitast verði eftir að fylgja þeirri hönnun. Umsóknin var síðar samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar 6. maí s.á. með fyrirvara um samþykki meðeiganda bílgeymslu.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er því haldið fram að samþykkis meðeigenda bílgeymslunnar, sem áskilið hafi verið við samþykkt hinnar kærðu ákvörðunar, hafi aldrei verið aflað. Þegar þeir hafi komið að heimili sínu eftir páskafrí vorið 2016 hafi framkvæmdir við bílskúrinn verið hafnar, m.a. með uppslætti útveggjar sem væri framlenging á útvegg þeirra eigin bílskúrs inni á þeirra lóð. Haft hefði verið samband við byggingarfulltrúa í framhaldinu og þess krafist að hann hlutaðist til um að samþykkis þeirra yrði aflað fyrir framkvæmdinni. Sú krafa hafi verið ítrekuð við embætti byggingarfulltrúa, þ. á m. í bréfi, dags. 24. apríl 2016. Viku áður en kæra hafi verið send til úrskurðarnefndarinnar hafi kærendur tjáð byggingarfulltrúa ásetning sinn um að kæra byggingarleyfið, en hann hafi þá loks brugðist við með því að tilkynna um stöðvun framkvæmda og að von væri á svari frá bæjarlögmanni við fyrrgreindu bréfi kærenda frá 24. apríl. Óásættanlegt sé að útveggur bílskúrs þeirra sé notaður án þeirra samþykkis og að hann hafi verið framlengdur innan lóðar þeirra án samþykkis. Þess sé krafist að byggingarleyfið verði fellt úr gildi og að bílskúrinn við Grashaga 10 verði byggður með sjálfstæðum útvegg.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að samþykki það sem áskilið hafi verið við samþykkt byggingaráforma umrædds bílskúrs hafi ekki borist til byggingarfulltrúa, en framkvæmdir engu að síður hafist. Eigendum Grashaga 10 hafi verið kunnugt um athugasemdir byggingarfulltrúa vegna þessa en hafi ekki bætt úr. Samkvæmt upplýsingum frá upphaflegum eigendum Grashaga 10 og 12 hafi útveggur bílskúrs Grashaga 12 verið byggður og fjármagnaður sameiginlega, enda hafi ætlunin verið að nýta hann einnig fyrir bílskúr sem rísa ætti að Grashaga 10. Þessar upplýsingar hafi fengist á fundi sem haldinn hafi verið með fyrri eigendum 11. ágúst 2016.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafar krefjast frávísunar málsins þar sem  kærufrestur hafi verið liðinn er kæra barst úrskurðarnefndinni. Til vara er þess krafist að kröfum kærenda verið hafnað.

Leyfishafar hafi í byrjun árs 2015 hafið undirbúning að því að reisa bílskúr á lóð sinni Grashaga 10, en til staðar hafi verið samþykktir aðaluppdrættir frá byggingartíma hússins, dags. 8. apríl 1973, sem geri ráð fyrir slíkum bílskúr. Umsókn þar um hafi verið samþykkt af skipulags- og byggingarnefnd Áborgar hinn 6. maí 2015. Ekki hafi verið á það minnst við leyfishafa að þeim bæri að afla samþykkis kærenda. Um sumarið 2015 hafi framkvæmdir hafist með vinnu í sökkli og með hreinsun málningar af hinum sameiginlega millivegg. Kærendur hafi engar athugasemdir gert þótt augljóst væri að til stæði að reisa bílskúr þar sem hinn sameiginlegi veggur yrði nýttur. Framkvæmdir hafi hafist að nýju vorið 2016, en þá hafi aðstoðarbyggingarfulltrúi haft samband og greint frá umkvörtun kærenda og farið fram á að samþykkis þeirra yrði aflað. Það samþykki hafi ekki fengist.

Leyfishafar telji að kærendum hafi mátt vera ljóst hvað til stæði þegar sumarið 2015 þegar framkvæmdir hófust. Óskað hafi verið eftir skriflegu samþykki þeirra 31. mars 2016 og hafi kærendur sent erindi vegna byggingarleyfisins til skipulags- og byggingarfulltrúa 24. apríl s.á. Kæran sé hins vegar dagsett 5. júlí 2016 og móttekin 6. s.m. og hafi því borist utan kærufrests. Ekki séu uppi neinar ástæður sem afsaki að kæran sé svo seint fram komin.

Mikið óhagræði og umtalsverður kostnaður fylgi því að reisa annan útvegg. Brjóta þyrfti gólfplötu, steypa nýjan sökkul, rjúfa þak og útvegg og stytta stálbita sem haldi uppi þaki. Gólfflötur bílskúrsins myndi í kjölfarið minnka. Ekki sé teljanlegt óhagræði af sameiginlegum notum milliveggjarins fyrir kærendur.

Niðurstaða: Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kæranlegu ákvörðun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kærendur hafa sjálfir lýst því sem svo að þeir hafi fyrst orðið varir við framkvæmdir upp úr páskum vorið 2016. Þeir hafi í kjölfarið leitað upplýsinga hjá skipulags- og byggingarfulltrúa en fá svör fengið. Fyrir liggur að kærendur sendu formlegt erindi um málið til skrifstofu skipulags- og byggingardeildar Árborgar með bréfi, dags. 24. apríl 2016, og má af því ráða að þeim var á þeim tíma kunnugt um efni hinnar kærðu ákvörðunar. Kæra barst úrskurðarnefndinni hins vegar ekki fyrr en 6. júlí 2016, eða meira en mánuði eftir að kærendum varð sannanlega kunnugt um efni hinnar kærðu ákvörðunar. Kæran barst því að liðnum kærufresti.

Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá sem berst að liðnum kærufresti, nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Eins og hér stendur á verður ekki séð að yfirvöld sveitarfélagsins hafi leiðbeint kærendum um kæruleiðir þegar þeir tóku að grennslast fyrir um þær framkvæmdir sem hafnar voru við bílskúrsbyggingu við lóðarmörk þeirra og að hluta innan lóðar þeirra. Kærendur höfðu ástæðu til þess að ætla að samþykkis þeirra þyrfti að afla áður en framhald yrði á framkvæmdum og að það væri yfirvalda sveitarfélagsins að sjá til þess að því skilyrði sem þau sjálf settu við samþykkt byggingaráforma yrði fullnægt. Því hefur ekki verið mótmælt af hálfu sveitarfélagsins að kærendur hafi ítrekað leitað viðbragða sveitarfélagsins við þeirri stöðu sem upp var komin og ekki verður séð að brugðist hafi verið við þeirri málaleitan kærenda með markvissum hætti. Í ljósi framangreindra atvika verður að telja afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr en raun ber vitni og verður hún því tekin til efnislegrar meðferðar með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Fyrir liggur að umræddar lóðir tilheyra svæði sem ekki hefur verið deiliskipulagt. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er heimilt að veita byggingarleyfi án þess að fyrir liggi deiliskipulag ef framkvæmdin samræmist landnotkun, byggðamynstri og þéttleika byggðar. Í slíkum tilvikum skal þó viðkomandi skipulagsnefnd grenndarkynna áformin fyrir nágrönnum sem taldir eru eiga hagsmuna að gæta af framkvæmdinni. Óumdeilt er að kærendur eiga hagsmuna að gæta af þeim framkvæmdum sem hér um ræðir, enda snúa þær að nýtingu útveggjar bílgeymslu þeirra og framlengingu veggjarins innan lóðar þeirra. Hefði því skipulagsnefnd sveitarfélagsins borið að grenndarkynna áformin áður en þau voru samþykkt. Ekki liggur fyrir að slík kynning hafi farið fram. Telst það verulegur annmarki á hinni kærðu ákvörðun, enda hefði slík kynning getað dregið tímanlega fram upplýsingar sem hefðu getað skipt þar máli.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja hina kærðu ákvörðun slíkum annmörkum háða að varði ógildingu hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 6. maí 2015 um veitingu byggingarleyfis fyrir bílskúr að Grashaga 10, Selfossi.

 

20/2018 Laxar, Þorlákshöfn

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 17. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 20/2018, kæra á ákvörðun Matvælastofnunar frá 13. nóvember 2017 um útgáfu rekstrarleyfis fyrir 500 tonna seiðaeldi Laxa fiskeldis ehf. í Þorlákshöfn, með kynbættum norskum laxi.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. febrúar 2018, sem barst nefndinni sama dag, kæra Veiðifélag Árnesinga, Náttúruverndarsamtök Íslands og Náttúruverndarfélagið Laxinn lifi þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 13. nóvember 2017 að gefa út rekstrarleyfi fyrir 500 tonna seiðaeldi Laxa fiskeldis ehf. að Laxabraut 9, Þorlákshöfn, með kynbættum norskum laxi af SAGA stofni. Kærendur gera þá kröfu að ákvörðunin verði ógilt og jafnframt er þess krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað eða framkvæmdir stöðvaðar.

Gögn málsins bárust frá Matvælastofnun 21. febrúar 2018.

Málsatvik og rök:
Matvælastofnun gaf hinn 13. nóvember 2017 út rekstrarleyfi fyrir 500 tonna seiðaeldi Laxa fiskeldis ehf. í Þorlákshöfn. Rekstrarleyfið er gefið út skv. lögum nr. 71/2008 um fiskeldi. Áður hafði Umhverfisstofnun gefið út starfsleyfi til handa sama aðila, dags. 8. nóvember s.á. og hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar. Kærendur kröfðust einnig stöðvunar réttaráhrifa þeirrar ákvörðunar, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði úrskurðarnefndarinnar kveðnum upp 6. febrúar 2018.

Kærendur kveðjast eiga þeirra hagsmuna að gæta, að ekki sé stefnt í hættu lífríki Ölfusár og vatnakerfis hennar og hinum villtu lax- og silungsstofnum vatnakerfisins, m.a. með lúsafári, sjúkdómasmiti og erfðamengun frá erlendum og framandi laxastofni, sem fáir mótmæli að muni sleppa í meira eða minna mæli úr fyrirhuguðu seiðaeldi leyfishafa. Krafa um að réttaráhrifum hins kærða leyfis verði frestað eða framkvæmdir stöðvaðar sé fram komin þar sem gera megi ráð fyrir töluverðum afgreiðslutíma úrskurðarnefndarinnar og áður en afgreiðsla nefndarinnar liggi fyrir geti hafist framkvæmdir við umrætt sjókvíaeldi eða eldið aukið. Leyfinu sé ætlað að hafa réttaráhrif þegar í stað og þau áhrif þurfi að stöðva áður en lengra sé haldið. Hvað varði þau rök í fyrri úrskurði, þar sem hafnað hafi verið frestun réttaráhrifa, að frestun þeirra hefði í för með sér mikið tjón fyrir leyfishafa, bendi kærendur á að ekki hafi farið fram mat á hagsmunum aðila.

Af hálfu Matvælastofnunar er bent á að ef litið sé til skýringarsjónarmiða með 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þá sé almennt talið mæla gegn því að réttaráhrifum ákvörðunar verði frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi andstæðra hagsmuna að gæta. Þá verði að leggja heildstætt mat á þau sjónarmið er fjallað sé um við útgáfu leyfisins, réttmæta hagsmuni aðila og hversu líklegt sé að ákvörðuninni verði breytt. Matvælastofnun telji að við útgáfu hins kærða rekstrarleyfis hafi stofnunin fylgt ákvæðum laga nr. 71/2008 um fiskeldi og ekki sé tilefni til að fallast á kröfu um að leyfið verði ógilt. Af þeim sökum og með hliðsjón af réttmætum væntingum leyfishafa verði ekki séð að tilefni sé til að fresta réttaráhrifum leyfisins.

Leyfishafi bendir á að ljóst sé að ef leyfishafa verði gert að stöðva rekstur á grundvelli hins kærða rekstrarleyfis, yrði tjón hans gríðarlegt. Liggi þannig fyrir að farga þyrfti þeim seiðum sem nú séu í ræktun í stöðinni, með tilheyrandi mengun og tjóni. Slíkt myndi auk þess hafa veruleg áhrif á afkomu leyfishafa til framtíðar. Þegar af þeirri ástæðu sé ljóst að hagsmunir leyfishafa af því að fá að halda áfram rekstri á grundvelli hins kærða leyfis séu miklum mun meiri en hagsmunir kærenda af því að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan kæra sé til umfjöllunar.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi og getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem ekki felur í sér stöðvun framkvæmda, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar. Um undantekningu er að ræða frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 segir um 5. gr. að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum hennar, þó sé  mikilvægt að gætt sé að því að efnislegar forsendur liggi að baki kæru, þ.e. að horft sé til þess hversu líklegt sé að kæra breyti efni ákvörðunar.

Kærendur byggja í kæru sinni á því að hætta sé á lúsafári, sjúkdómasmiti og erfðamengun sleppi eldisfiskur úr stöðinni. Fyrir liggur matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar frá 3. ágúst 2016 og hefur hún ekki verið kærð. Komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að helstu neikvæðu áhrif eldisins yrðu losun næringarefna út í sjó, en að ekki væru líkur á að næringarefni söfnuðust upp að neinu ráði vegna staðhátta. Væri eldið ekki líklegt til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og væri framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Verður með hliðsjón af framangreindu að telja litlar líkur á að þau áhrif komi fram á umhverfið á meðan á meðferð málsins stendur að kæruheimild verði þýðingarlaus, en að sama skapi er ljóst að frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar myndi hafa í för með sér mikið tjón fyrir leyfishafa. Þá skal á það bent að verði eldið aukið umfram það sem þegar hefur verið leyft kemur til nýrra stjórnvaldsákvarðana sem einnig eru kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar. Eru því ekki forsendur til að beita undantekningarheimild 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 og fresta réttaráhrifum hins kærða rekstrarleyfis.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa á ákvörðun Matvælastofnunar frá 13. nóvember 2017 um útgáfu rekstrarleyfis fyrir 500 tonna seiðaeldi Laxa fiskeldis ehf. í Þorlákshöfn, með kynbættum norskum laxi.

21 og 22/2018 Kvosin

Með

Árið 2018, föstudaginn 20. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 21 og 22/2018, kærur á ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 5. desember 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar, Landsímareits.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. febrúar 2018, sem barst nefndinni sama dag, kærir Sóknarnefnd Dómkirkjunnar í Reykjavík ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 8. nóvember 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar, Landsímareits. Samþykkti borgarstjórn greinda breytingu 5. desember 2017 og öðlaðist hún gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 12. janúar 2018. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Með tölvupósti til úrskurðarnefndarinnar 14. febrúar 2018 er jafnframt farið fram á að framkvæmdir í landi hins forna Víkurkirkjugarðs verði stöðvaðar til bráðabirgða eða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni skv. heimild í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. febrúar 2018, er móttekið var hjá nefndinni sama dag, kærir félagið Kvosin einnig fyrrgreinda ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 8. nóvember 2017. Gerð er krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Með tölvupósti til úrskurðarnefndarinnar 14. febrúar 2018 er þess jafnframt krafist að framkvæmdir í landi hins forna Víkurkirkjugarðs verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni skv. heimild í 5. gr. laga nr. 130/2011.

Verður nú tekin afstaða til framkominna stöðvunarkrafna kærenda.

Málsatvik og rök:
Hinn 12. janúar 2018 tók gildi breyting á deiliskipulagi Kvosarinnar, Landsímareit. Samkvæmt auglýsingu í B- deild Stjórnartíðinda felur breytingin m.a. í sér „að borgarlandinu/lóðinni á milli lóðanna Vallarstrætis 4 og Aðalstrætis 7 er skipt upp á milli þeirra og lóðirnar stækkaðar sem því nemur og leyfilegt verður að fjarlægja viðbyggingu frá 1967 við Landsímahúsið/Thorvaldsensstræti 6 og byggja hana í sömu mynd.“

Kærendur skírskota til þess að framkvæmdaraðili bíði eftir byggingarleyfi frá Reykjavíkurborg og muni hefjast handa jafnskjótt og það liggi fyrir. Framkvæmdir séu því yfirvofandi. Muni þær í byrjun beinast m.a. að því að grafa fyrir kjallara í hluta hins forna Víkurkirkjugarðs. Þeim framkvæmdum muni fylgja stórfellt jarðrask sem ekki verið aftur tekið og bætt. Verði ekki brugðist við verði því ekki aðeins grafið fyrir kjallara í þeim hluta kirkjugarðsins sem sé sunnan við Landsímahúsið, þ.e. milli þess og Kirkjustrætis, heldur og steyptur þar kjallari og byggt ofan á hann nokkurra hæða hús. Sé kirkjugarðurinn í umsjón Dómkirkjunnar. Tilgangur félagsins Kvosarinnar sé að stuðla að umhverfisvernd í Kvosinni í Reykjavík og vernda sögulegar minjar sem þar sé að finna og með hliðsjón af þeim tilgangi séu hagsmunir félagsins af stöðvun framkvæmda augljósir.

Reykjavíkurborg mótmælir kröfu um stöðvun framkvæmda og telur að vísa beri henni frá úrskurðarnefndinni. Feli gildistaka deiliskipulags ekki í sér heimild til framkvæmda heldur þurfti til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar og útgáfa byggingar- eða framkvæmdaleyfa í skjóli slíkrar ákvörðunar. Hafi engin byggingar- eða framkvæmdaleyfi verið gefin út. Þá sé bent á að með hinni kærðu ákvörðun hafi m.a. engar breytingar verið gerðar á stærðum og hæðum húsa og húshluta aðrar en að núverandi kjallara Vallarstrætis 4 sé bætt við.

Lóðarhafi vísar til þess að skv. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé það meginregla að kæra fresti ekki réttaráhrifum. Hins vegar geti úrskurðarnefndin, að kröfu kæranda, stöðvað framkvæmdir sem hafnar séu eða yfirvofandi. Í því felist að framkvæmdir verði að geta átt sér stað á grundvelli og með stoð í hinni kærðu ákvörðun en svo sé ekki í umræddu tilviki. Veiti hin kærða ákvörðun ekki beina heimild til framkvæmda heldur séu framkvæmdir á deiliskipulögðum svæðum að jafnaði háðar byggingarleyfi skv. lögum um mannvirki nr. 160/2010, eða framkvæmdaleyfi skv. skipulagslögum nr. 123/2010. Meðan slík leyfi hafi ekki verið veitt geti framkvæmdir hvorki hafist né talist yfirvofandi og verði því að hafna kröfum kærenda um stöðvun framkvæmda hvað sem öðru líði.

Ekki séu heldur skilyrði til að beita heimild í 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um frestun réttaráhrifa. Séu skipulagsákvarðanir í eðli sínu stjórnvaldsfyrirmæli en ekki stjórnvaldsákvarðanir og gildi því ekki um þær almennar reglur stjórnsýsluréttarins um frestun réttaráhrifa, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Feli frestun réttaráhrifa deiliskipulagsákvörðunarinnar í heild í sér allt of mikið inngrip í rétt eigenda fasteigna á svæðinu, enda væri með því girt fyrir útgáfu allra leyfa til mannvirkjagerðar á reitnum, óháð því hvort sú mannvirkjagerð varðaði hagsmuni kærenda. Væri slíkt inngrip ólögmætt og andstætt meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga. Sé stöðvun framkvæmda skv. 5. gr. laga nr. 130/2011 settar afar þröngar skorður og séu í máli þessu engin skilyrði til að fallast á kröfu um slíkt. Hafi úrskurðarnefndin túlkað heimildir til stöðvunar framkvæmda og frestunar réttaráhrifa til samræmis við þau sjónarmið sem að framan séu rakin, t.a.m. í úrskurði í máli nr. 31/2016.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar, en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar. Heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar fela í sér undantekningu frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.
Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, og útgáfa byggingar- eða framkvæmdaleyfis í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna slíkra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana. Þegar litið er til eðlis þeirra ákvarðana og fyrrgreindra lagaákvæða, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kærenda um stöðvun þeirra framkvæmda sem hin kærða deiliskipulagsbreyting tekur til.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða er hafnað.

42/2018 Markviss

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 17. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 42/2018, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Norðurlands Vestra frá 9. febrúar 2018 um útgáfu starfsleyfis fyrir skotfélagið Markviss á Blönduósi til að starfrækslu skotvallar.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. mars 2018, sem barst nefndinni sama dag, kæra eigendur jarðarinnar Hjaltabakka í Húnavatnshreppi, sem og Veiðifélag Laxár á Ásum ákvörðun heilbrigðisnefndar Norðurlands Vestra frá 9. febrúar 2018 um útgáfu starfsleyfis til starfrækslu skotvallar. Kærendur gera þá kröfu að ákvörðunin verði ógilt og jafnframt er þess krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað eða framkvæmdir stöðvaðar.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands Vestra 16. mars 2018.

Málsatvik og rök:
Heilbrigðisnefnd Norðurlands Vestra auglýsti 14. nóvember 2017, í héraðsblaðinu Feyki, drög að starfsleyfisskilyrðum fyrir skotfélagið Markviss vegna starfrækslu skotvallar. Starfsleyfið var gefið út af heilbrigðisnefndinni 9. febrúar 2018 og gildir til 9. febrúar 2030. Kærendum var tilkynnt um útgáfu starfsleyfisins með tölvupósti, dags. 13. febrúar 2018.

Kærendur byggja á því að heilbrigðisnefnd Norðurlands Vestra hafi verið óheimilt að gefa út starfsleyfi fyrir greindum skotvelli, m.a. þar sem heimild til notkunar umrædds landsvæðis fyrir skotvöll liggi ekki fyrir frá landeigendum, lögskylt umhverfismat hafi ekki farið fram og ónæði og hætta fyrir nágranna sé augljós. Hvað varði kröfu um frestun réttaráhrifa hins kærða starfsleyfis, þá sé hún fram komin þar sem gera megi ráð fyrir töluverðum afgreiðslutíma úrskurðarnefndarinnar og áður en niðurstaða nefndarinnar liggi fyrir kunni að verða fram haldið framkvæmdum við umræddan riffilskotvöll.

Heilbrigðisnefnd Norðurlands Vestra kveður skotvelli vera starfrækta um allt land og séu starfsleyfisskilyrðin með svipuðu sniði fyrir þá velli og fyrir það leyfi sem gefið hafi verið út fyrir leyfishafa. Nefndin fer fram á að kröfum kærenda verði hafnað.

Leyfishafi gerir þær kröfur að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en til vara að öllum kröfum kærenda verði hafnað. Kröfugerðin sé ruglingsleg og án nokkurs lagalegs rökstuðnings og því erfitt eða ómögulegt að svara kröfugerðinni eða gera sér grein fyrir á hvaða lagarökum hún byggi. Engin rök standi til þess að ógilda umrætt starfsleyfi eða kveða á um frestun réttaráhrifa.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frestar kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr.  Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til stöðvunar framkvæmda í tengslum við meðferð kærumáls. Er greint heimildarákvæði undantekning og ber að skýra þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 er tekið fram að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar. Eins og fram hefur komið byggja kærendur kröfur sínar helst á því að heimild til notkunar umrædds landsvæðis fyrir skotvöll liggi ekki fyrir frá landeigendum, lögskylt umhverfismat hafi ekki farið fram og ónæði og hætta fyrir nágranna sé augljós. Krafa um frestun réttaráhrifa hins kærða starfsleyfis sé fram komin þar sem gera megi ráð fyrir töluverðum afgreiðslutíma úrskurðarnefndarinnar og að áður en niðurstaða nefndarinnar liggi fyrir kunni að verða fram haldið framkvæmdum við umræddan riffilskotvöll.

Ekkert þessara atriða er þess eðlis að líkur séu á að það hafi í för með sér óafturkræf áhrif á umhverfið þannig að forsendur séu til að beita undantekningarheimild 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 og fresta réttaráhrifum hins kærða starfsleyfis. Veita enda starfsleyfi ekki heimild til framkvæmda heldur til að hefja atvinnurekstur sem sjálfhætt er verði viðkomandi leyfi fellt úr gildi. Er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa á ákvörðun heilbrigðisnefndar Norðurlands Vestra frá 9. febrúar 2018 um útgáfu starfsleyfis fyrir skotfélagið Markviss á Blönduósi til að starfrækslu skotvallar.

51/2018 Eyrarvegur

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 18. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 51/2018, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 21. febrúar 2018 um að samþykkja deiliskipulag miðbæjarins á Selfossi, Sveitarfélaginu Árborg, að því er varðar lóðina að Eyravegi 5.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. mars 2018, er móttekið var hjá nefndinni 27. s.m., kærir Knútsborg ehf. ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 21. febrúar um að samþykkja deiliskipulag miðbæjarins á Selfossi vegna lóðarinnar að Eyravegi 5. Skilja verður kröfugerð kæranda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar að því er varðar fyrrgreinda lóð. Jafnframt er farið fram á stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. heimild í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu kæranda.

Málsatvik og rök:
Hinn 21. febrúar 2018 samþykkti bæjarstjórn Árborgar deiliskipulag miðbæjarins á Selfossi. Samkvæmt greinargerð þess afmarkast skipulagssvæðið af Eyravegi og Austurvegi til norðurs og aðliggjandi íbúðarlóðum við Tryggvagötu til austurs, Sunnuvegi til suðurs og Kirkjuvegi til vesturs. Er m.a. gert ráð fyrir að húsið að Eyravegi 5 geti vikið með tímanum og að uppbygging eigi sér stað á lóðinni.

Kærandi vísar til þess að hann eigi bæði bein og óbein eignarréttindi á lóðinni Eyravegi 5. Virðist sem stærsti hluti lóðarinnar sé skilgreint sem grænt svæði sem rýri mjög verðmæti eignarinnar, en kærandi hafi hugsað sér að byggja á lóðinni. Sé það kæranda mikið hagsmunamál að framkvæmdir hefjist ekki fyrr en efnislegur úrskurður nefndarinnar liggi fyrir.

Sveitarfélaginu Árborg var tilkynnt um framkomna stöðvunarkröfu en hefur ekki látið málið til sín taka innan þess frests sem veittur var til athugasemda þar um.

Niðurstaða
: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.

Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar og útgáfa byggingar- eða framkvæmdaleyfis í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana. Þegar litið er til eðlis þeirra ákvarðana og fyrrgreindra lagaákvæða, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda sem heimilaðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun er hafnað.

53/2018 Skemmubygging í Bjarnarflagi

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 17. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 53/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps frá 7. mars 2018 um að veita byggingarleyfi fyrir byggingu skemmu á lóð í Bjarnarflagi, Skútustaðahreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. apríl 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir  A, þá ákvörðun  byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps frá 7. mars 2018 að veita byggingarleyfi fyrir byggingu skemmu á lóð í Bjarnarflagi, Skútustaðahreppi. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að heimilaðar framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til framkominnar kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik og rök
: Með bréfi byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps, dags. 7. mars 2018, var Léttsteypunni ehf. tilkynnt að umsókn félagsins um byggingu skemmu í Bjarnarflagi hefði verið samþykkt sama dag.  Er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Kærandi vísar til þess að hann sé sameigandi að lóðarréttindum þeirrar lóðar sem heimiluð skemma skuli standa á. Með hinni kærðu ákvörðun sé því brotið gegn stjórnarskrárvörðum eignarétti hans. Auk þess fari ákvörðunin í bága við ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki og sé málsmeðferð að öðru leyti svo ábótavant að ógildingu varði.

Af hálfu sveitarfélagsins hefur verið upplýst að eftir athugun málsins hafi verið ákveðið að kanna hvort tilefni sé til að afturkalla umdeilda ákvörðun. Í ljósi þess sé ekki gerð athugasemd við kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda innan tiltekins frests, en hann hefur ekki nýtt sér það tækifæri.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Fyrir liggur að byggingarleyfi fyrir umdeildum framkvæmdum hefur verið gefið út og geta því framkvæmdir hafist hvenær sem og teljast því yfirvofandi í skilningi greinds lagaákvæðis.

Ýmis álitaefni eru uppi í málinu sem áhrif geta haft á gildi hinnar kærðu ákvörðunar, m.a. um lóðarréttindi byggingarleyfishafa yfir þeirri lóð þar sem byggingunni er ætlað að rísa. Hefur stjórnvald það sem tók hina kærðu ákvörðun ekki lagst gegn því að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða og jafnframt upplýst að af hálfu sveitarfélagsins sé nú verið að kanna hvort tilefni sé til að afturkalla ákvörðunina í ljósi þess sem fram er komið í málinu.

Með hliðsjón af þeim atvikum sem að framan er lýst þykir rétt að fallast á kröfu kæranda um stöðvun þeirra framkvæmda sem hin kærða ákvörðun heimilar.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi skulu stöðvaðar á meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

108/2016 Laugavegur

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 12. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 108/2016, kæra á synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. júlí 2016 á umsókn um leyfi til að breyta skráningu húshluta úr íbúð í atvinnuhúsnæði að Laugavegi 58, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. ágúst 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra L&E ehf. og Stórval ehf. þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. júlí 2016 að synja umsókn þeirra um leyfi til að breyta skráningu eignarhluta 0201 úr íbúð í atvinnuhúsnæði að Laugavegi 58. Skilja verður kröfugerð kærenda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 5. september 2016.

Málavextir:
Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 29. janúar 2016 var lögð fram fyrirspurn varðandi breytingu á notkun 2. hæðar hússins að Laugavegi 58 úr íbúð í atvinnu- og verslunarhúsnæði. Jafnframt lá fyrir umsögn skipulagsfulltrúa, dags. sama dag, þar sem tekið var jákvætt í erindið. Samþykkti skipulagsfulltrúi umsögnina.

Hinn 31. maí 2016 tók byggingarfulltrúi fyrir á afgreiðslufundi sínum umsókn um leyfi til að breyta skráningu umræddrar íbúðar í atvinnuhúsnæði og innrétta veitingastað í flokki II. Var málinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa sem vísaði því til umsagnar verkefnisstjóra. Málið var lagt fyrir að nýju á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 24. júní s.á. og því vísað til umhverfis- og skipulagsráðs. Afgreiddi ráðið erindið 6. júlí 2016 með svohljóðandi hætti: „Neikvætt, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 24. júní 2016.“ Í umsögninni lagði skipulagsfulltrúi til að umsókninni yrði hafnað með vísan til stefnumótunar Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Var m.a. tekið fram að ekki væri sjálfgefið að heimila sjálfkrafa breytingu íbúðarhúsnæðis í veitingastað innan miðborgarinnar, enda samræmdist slíkt ekki markmiðum aðalskipulags fyrir fjölbreytileika í miðborginni. Byggingarfulltrúi tók umsóknina fyrir að nýju á afgreiðslufundi 12. júlí s.á. og synjaði erindinu með vísan til fyrrnefndrar umsagnar.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að í svari við fyrirspurn hafi komið fram að ekki væru gerðar skipulagslegar athugasemdir við fyrirspurnina. Vinnu við að innrétta umrætt rými sé lokið og hægt sé að hefja þar starfsemi. Sé hin kærða ákvörðun verulega íþyngjandi fyrir kærendur í ljósi þess kostnaðar sem þeir hafi haft og verði fyrir af því að breyta húsnæðinu að nýju.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Sveitarfélagið krefst þess að kröfu kærenda verði hafnað. Málið sé ekki þannig vaxið að ógildingu varði. Vísað sé til umsagnar skipulagsfulltrúa í málinu um það sem fram komi í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 um Miðborgarkjarna M1a, en Laugavegur 58 sé á því svæði. Þar segi m.a. „Áhersla er lögð á fjölbreytni og gæði almennings- og göturýma, frjótt samspil þeirra við byggingar svæðisins og gott aðgengi að starfsemi þeirra fyrir gangandi vegfarendur. Á jarðhæðum eru verslunar-, veitinga-, menningar-, félags- og þjónustustarfsemi opin almenningi í forgangi en á efri hæðum eru einnig heimildir fyrir skrifstofu- og íbúðarhúsnæði, sem og gistiþjónustu.“ Jafnframt sé skírskotað til þeirra skilmála sem í gildi séu samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Geri það ráð fyrir því að á skipulagsreitnum sé blönduð byggð verslunar-, þjónustu- og íbúðarhúsnæðis, en ekki sé sérstaklega gerð grein fyrir starfsemi innan umrædds húss. Sé húsið friðað lögum samkvæmt. Njóti byggingar á skipulagsreitnum, að undanskildum þremur húsum, verndunar vegna byggðamynsturs.

Þá komi fram í umsögninni að þegar unnið sé með mál sem þetta í gróinni þéttri byggð þurfi að horfa til hagsmuna heildarinnar og þess hvaða stefnu eigi að leggja fyrir þróun svæðisins alls til framtíðar. Fjallað sé um nauðsyn þess að viðhalda fjölbreytilegri starfsemi í miðborg Reykjavíkur í kaflanum „miðborg fyrir alla“ í aðalskipulaginu og sé stefnunni fylgt eftir með stefnumótuninni „Hverfismiðborgin“. Styðja þurfi við íbúðarbyggð í miðborg Reykjavíkur samkvæmt stefnu aðalskipulagsins og því sé ekki sjálfgefið að heimila sjálfkrafa breytingu íbúðarhúsnæðis í veitingastað innan miðborgarinnar, enda samræmist slíkar breytingar ekki markmiðum aðalskipulags fyrir fjölbreytileika í miðborginni. Sú stefnumótun sé í samræmi við 1. gr. markmiða skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem fram komi að markmið laganna sé að þróun byggðar og landnotkunar sé í samræmi við skipulagsáætlanir þar sem efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir íbúa séu hafðar að leiðarljósi. Jafnframt að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands. Þá bendi Reykjavíkurborg á að svar við fyrirspurn feli ekki í sér heimild til framkvæmda. Framkvæmdir sem ráðist hafi verið í séu alfarið á ábyrgð og áhættu kærenda.

Niðurstaða: Samkvæmt landnotkunarkafla Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 eru miðborg og miðsvæði skilgreind með sama hætti og miðsvæði í gr. 6.2.b. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, eða sem: „Svæði fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjónar heilu landsvæði, þéttbýlisstað eða fleiri en einu bæjarhverfi, svo sem verslanir, skrifstofur, þjónustustofnanir, hótel, veitinga- og gistihús, menningarstofnanir og önnur hreinleg atvinnustarfsemi sem talin er samræmast yfirbragði og eðli starfsemi miðsvæðis.“ Jafnframt er tekið fram í skipulaginu að á miðsvæðum sé fyrst og fremst gert ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi, stjórnsýslu og skrifstofum, en einnig íbúðum, einkum á efri hæðum bygginga. Á miðsvæðum fari almennt fram fjölbreyttari starfsemi en rúmist á verslunar- og þjónustusvæðum. Þá er í kaflanum tekið fram að í aðalskipulaginu séu miðsvæði borgarinnar flokkuð. Nokkur miðsvæði séu skilgreind sem meginkjarni og svæði innan meginkjarnans nefnd M1 og M2. Á svæði M1, miðborgin, fari fram starfsemi sem þjóni landinu í heild, en einnig myndi miðborgin meginkjarna smásöluverslunar, sértækrar þjónustu, afþreyingar og ferðaþjónustu. Loks er tekið fram að efla skuli miðborgina sem kjarna stjórnsýslu, menningar, ferðaþjónustu, verslunar og þjónustu auk fjölbreyttrar íbúðarbyggðar.

Miðborginni er skipt í undirsvæði, þ. á m. M1a, miðborgarkjarna, en lóðin að Laugavegi 58 er á því svæði. Um það svæði segir í fyrrgreindum kafla um landnotkun m.a. að sérstök áhersla sé „á smásöluverslun auk veitingastarfsemi og afþreyingu sem og þjónustu lykilstofnana stjórnsýslu, menningar og mennta. Á jarðhæðum eru verslunar-, veitinga og menningar-, félags- og þjónustustarfsemi opin almenningi í forgangi, en á efri hæðum skrifstofu og íbúðarhúsnæði auk gistiþjónustu.“ Þá er fjallað um miðborgina í sérstökum kafla í aðalskipulaginu. Er tekið fram að mikilvægt sé að stuðla að því að miðborgin haldi áfram að vera ákjósanlegur vettvangur fyrir sem fjölbreyttasta þjónustu fyrir íbúa og gesti miðborgarinnar. Til að viðhalda fjölbreytileikanum sé mikilvægt að stuðla að blandaðri starfsemi sem falli vel saman og hafi heppileg áhrif á miðborgarbraginn.

Um svonefnda veitingamiðborg er sérstaklega tilgreint í aðalskipulagi að markviss stjórn á staðsetningu veitingastaða og á lokunartíma, sérstaklega með tilliti til íbúa miðborgarinnar, sé því mikilvægt tæki til að stuðla að því að ólík starfsemi geti þrifist í sátt og samlyndi. Um svæði M1a er m.a. tekið fram að sérstök áhersla sé lögð á smásöluverslun, veitingastarfsemi og afþreyingu, sem og þjónustu lykilstofnana í stjórnsýslu, menningu og menntun. Á jarðhæðum séu verslunar-, veitinga-, menningar-, félags- og þjónustustarfsemi opin almenningi í forgangi, en á efri hæðum séu einnig heimildir fyrir skrifstofu- og íbúðarhúsnæði, sem og gistiþjónustu. Gildi almennar veitingaheimildir í miðborgarkjarnanum. Í aðalskipulaginu er enn fremur að finna sérstök ákvæði um vínveitingahús. Er þar tekið fram að á svæði með almennar miðborgarheimildir megi heimila allar tegundir veitingastaða í flokki I-III að skemmtistöðum undanskyldum. Koma þær heimildir jafnframt fram í töflu 2 og svæðin sem þær heimildir gilda um eru sýnd á mynd 5.

Með hinni kærðu ákvörðun í máli þessu var kærendum synjað um leyfi til að breyta íbúðarhúsnæði á annarri hæð í atvinnuhúsnæði og innrétta þar veitingastað í flokki II á lóð á svæði sem samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er skilgreint sem miðborg og miðsvæði, nánar tiltekið miðborgarkjarni M1a. Þar er, svo sem áður greinir, m.a. gert ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi, svo sem verslunum, hótelum, veitinga- og gistihúsum, og tekið fram um svæði M1a að sérstök áhersla sé á smásöluverslun, veitingastarfsemi og afþreyingu. Er um bindandi skilmála að ræða samkvæmt aðalskipulaginu. Um lóðina gildir enn fremur deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.173.1, sem afmarkast af Grettisgötu, Frakkastíg, Laugavegi og Vitastíg. Gerir deiliskipulagið ráð fyrir því að á reitnum sé blönduð byggð verslunar-, þjónustu- og íbúðarhúsnæðis, en ekki er sérstaklega gerð grein fyrir ákveðinni starfsemi innan umrædds húss að Laugavegi 58.

Í kafla aðalskipulags um miðborgina er fjallað um margþætt hlutverk hennar sem höfuðmiðborgar, menningarmiðborgar, hverfismiðborgar, verslunarmiðborgar, veitingamiðborgar, ferðamannamiðborgar, hafnarmiðborgar og mannlífsmiðborgar. Var vísað til þessa í umsögn skipulagsfulltrúa, sem hin kærða ákvörðun byggði á, og þá einkum til umfjöllunar um hverfismiðborgina, þar sem fram kemur með almennum hætti að dregið sé úr gæðum hennar með þeirri þróun að íbúar hverfi á braut og ferðamenn taki yfir. Tilvísun þessi sýnist einkum tengd því „þegar íbúðir breytast frá því að vera heilsárshúsnæði íbúa í að vera tímabundið athvarf fyrir ferðarmenn“ og eru lagðar til aðgerðir til að stemma stigu við ótakmarkaðri gistirýmauppbyggingu og til að takmarka heimildir til skammtímaleigu íbúða. Eftir atvikum geta slík sjónarmið talist málefnaleg þegar um er að ræða veitingastarfsemi. Þó verður að telja röksemdir með svo almennri skírskotun veigalitlar þegar litið er til þess að um starfsemi er að ræða sem er heimiluð með skýrum hætti samkvæmt gildandi skipulagsáætlunum. Verður í því sambandi ekki fram hjá því litið að Reykjavíkurborg hefur hvorki breytt aðalskipulaginu né takmarkað landnotkun frekar í deiliskipulagi, svo sem heimilt er að gera skv. ákvæðum gr. 5.3.2. í skipulagsreglugerð. Hefur borgin þannig ekki nýtt sér það víðtæka skipulagsvald sem sveitarstjórnir hafa, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, til að þróa byggð innan sveitarfélagsins með bindandi og fyrirsjáanlegum hætti fyrir borgarana.

Þrátt fyrir að íbúum sveitarfélaga sé almennt ekki tryggður lögvarinn réttur til að knýja fram leyfisveitingu er ljóst af öllu framangreindu að hvorki ákvæði aðalskipulags né deiliskipulags stóðu því í vegi að fallist yrði á umsókn kærenda. Þar sem haldbær rök hafa ekki verið færð fram fyrir hinni kærðu ákvörðun verður ekki hjá því komist að fella hana úr gildi sökum ófullnægjandi rökstuðnings.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. júlí 2016 á umsókn um leyfi til að breyta skráningu húshluta 0201 úr íbúð í atvinnuhúsnæði að Laugavegi 58, Reykjavík.

140/2016 Bræðraborgarstígur

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 12. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 140/2016, kæra á afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. september 2016 um að synja umsókn um leyfi fyrir svonefndri gustlokun á þaksvölum íbúðar 0401 í húsinu nr. 30 við Bræðraborgarstíg í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. október 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Bræðraborgarstíg 30, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. september 2016 að synja umsókn um leyfi til að setja létta, útdraganlega svalalokun á rennibraut á þaksvalir íbúðar kærenda í húsinu að Bræðraborgarstíg 30. Skilja verður kröfugerð kærenda svo að gerð sé krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 19. desember 2016.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. september 2016 var lögð fram umsókn kærenda um leyfi til að setja létta, útdraganlega svalalokun á rennibraut á þaksvalir íbúðar þeirra í húsinu nr. 30 við Bræðraborgarstíg. Var afgreiðslu málsins frestað og því vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Erindið var tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 23. s.m. og það afgreitt með svohljóðandi hætti: „Neikvætt, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 21. september 2016“, en í umsögninni var talið að erindið samræmdist ekki markmiðum deiliskipulags fyrir umrætt svæði.

Í nefndri umsögn kom m.a. eftirfarandi fram: „Þann 06.05.2016 var samþykkt hjá byggingarfulltrúa umsögn þar sem að samskonar erindi var ávarpað. Þar kemur m.a. fram: „Vegna forsögu málsins, að óánægja var meðal nágranna um bygginguna og ekki síst vegna þéttleika hverfisins, var talið mikilvægt að húsin sem byggð yrðu, myndu hafa létt yfirbragð. Meðal þess var að byggingarnar að Bræðraborgarstíg 30 (áður 32A) yrðu aðgreindar og slitnar frá aðlægu húsi að Bræðraborgarstíg 32. Nýtingarhlutfall er nokkuð hátt á lóðinni og var ekki talin ástæða til að auka byggingarmagnið. Því var á fundi skipulagsstjóra 15.5.2009 ekki fallist á að byggja yfir svalirnar.“ Þó svo að þetta erindi fjalli um gustlokun og eigi því ekki að hreyfa við nýtingarhlutfalli deiliskipulagsins, þá er það hinsvegar markmið deiliskipulagsins að yfirbragð byggðarinnar væri létt og að byggingarnar við Bræðraborgarstíg 30 (áður 32A) yrðu aðgreindar og slitnar frá aðlægu húsi að Bræðraborgarstíg 32.“

Tók byggingarfulltrúi málið fyrir að nýju 27. september 2016 og synjaði umsókninni með vísan til fyrrgreindrar umsagnar.
Málsrök kærenda: Kærendur benda á að fyrri eigendur íbúðar þeirra hafi óskað eftir því að fá að reisa steinsteypta byggingu yfir svalir sem tilheyri íbúðinni. Þeim áformum hafi verið synjað á þeirri forsendu að nágrannar hússins að Bræðraborgarstíg 32 væru mótfallnir slíkri byggingu og að nýtingarhlutfall lóðarinnar yrði of hátt. Kærendur hafi hins vegar óskað eftir því að fá leyfi til að setja upp létta svalalokun á milli húsanna nr. 30 og 32. Hafi byggingarfulltrúi tilkynnt þeim að málinu væri lokið þar sem verið væri að sækja um það sama og áður. Þar sem niðurstaða byggingarfulltrúa hafi fjallað um allt aðra og eldri beiðni hafi kærendur farið fram á að mál þeirra fengi efnislega meðhöndlun. Við synjun byggingarfulltrúa á umsókn kærenda hafi verið byggt á umsögn sem ekki varði beiðni þeirra, heldur sé vísað til þéttleika, nýtingarhlutfalls og óánægju nágranna frá árinu 2009.

Á teikningum komi fram að fyrirhuguð svalalokun nái ekki að gafli húss nr. 32. Komi hún því ekki til með að hindra aðgengi að gaflinum fremur en nú sé. Af þessu leiði að lokunin varði ekki íbúa hússins að Bræðraborgarstíg 32 og sé hvorki um að ræða aukið nýtingarhlutfall lóðarinnar né þéttingu hverfisins. Í umsögn skipulagsfulltrúa hafi teikningar verið ranglega túlkaðar. Sé gustlokunin opnanleg endanna á milli þar sem hún liggi meðfram gafli Bræðraborgarstígs 32, í a.m.k. 40 cm fjarlægð. Svalalokunin sé úr gleri og því með létt yfirbragð. Hún muni ekki sjást frá götunni.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Sveitarfélagið krefst þess að kröfu kærenda verði hafnað. Eins og fram komi í umsögn skipulagsfulltrúa falli umsóknin ekki að markmiðum deiliskipulags Holtsgötureits um að yfirbragð byggðarinnar sé létt og að byggingar við Bræðraborgarstíg 30 (áður 32A) séu aðgreindar og slitnar frá aðlægu húsi að Bræðraborgarstíg 32. Teikning sem sýni gustlokun meðfram húsvegg aðliggjandi húss og tengi saman nánast alla hlið hússins geti ekki uppfyllt markmið um aðgreindan húskropp né slitið frá. Breyti engu í þessu samhengi þó svalalokunin sé úr gleri. Ekki verði annað af teikningu ráðið en að um sé að ræða lokaðan skála, þótt talað sé um gustlokun, en í umsögn skipulagsfulltrúa sé lokunin þó ávörpuð sem gustlokun. Þótt hún væri opnanleg væri það á hendi kærenda hvort opnað væri á milli.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík að synja umsókn um leyfi fyrir svonefndri gustlokun á þaksvölum íbúðar 0401 í húsinu nr. 30 við Bræðraborgarstíg. Var erindinu synjað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa er taldi að hin umsótta breyting væri ekki í samræmi við markmið deiliskipulags fyrir umrætt svæði um að yfirbragð byggðarinnar væri létt og að byggingarnar við Bræðraborgarstíg 30 yrðu aðgreindar og slitnar frá aðlægu húsi að Bræðraborgarstíg 32.

Húsið að Bræðraborgarstíg 30 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Holtsgötureits. Þar sem húsið stendur gerir deiliskipulagið m.a. ráð fyrir nýbyggingum á sameinaðri lóð. Í skipulagsskilmálum er tekið fram að byggingarreitum á lóðinni sé skipt í einingar og að byggingarlína við götu sé bindandi. Þá er gerður áskilnaður um að í útliti húsanna skuli koma fram mismunandi sérkenni sem undirstriki takt götumyndar og skilji á milli reitanna. Um nánari útlistun á útliti húsanna er vísað til greinargerðar deiliskipulagsins. Þar segir eftirfarandi: „Gerð er krafa um að hvert húsnúmer hafi sérkenni í útliti sem skilur það frá húsum til beggja hliða. Þannig skal hver eining/húsnúmer undirstrika takt í götumynd með því að götuvegg sé skipt upp í lóðréttar einingar. Hver lóðrétt eining er eitt húsnúmer. Mismunandi einkenni geta falist í gluggasetningu, efnisvali, stöllun o.fl. Æskilegt er að höfð sé hliðsjón af frágangi nærliggjandi húsa svo sem dýpt glugga í vegg, hlutfalla í gluggum og þakköntum.“

Þá er að því vikið í almennum atriðum deiliskipulagstillögunnar að markmið hennar sé að gera skilmála fyrir óbyggðar lóðir á skipulagsreitnum og fyrir þau hús sem byggja má við eða breyta þannig að við frekari uppbyggingu á reitnum sé til skýr heildarstefna sem leiði til rökrænnar heildarmyndar á byggðamynstri reitsins. Markmiðið sé að stuðla að hæfilegri uppbyggingu og endurnýjun á reitnum en um leið hlúa að því sem fyrir sé og búa þannig um hnútana að uppbygging geti gerst á forsendum þeirrar byggðar sem þar standi. Tryggja skuli að nýbyggingar falli vel að því umhverfi sem fyrir sé. Leitast skuli við að aðlaga nýbyggingar og viðbyggingar við eldri hús að götumynd og mynda fallega heild. Einnig skuli taka tillit til sérkenna svo sem dýptar glugga í veggjum og hlutfalla í þakköntum.

Er þannig m.a. tekið fram í skipulagsskilmálum sameinaðrar lóðar Holtsgötu 1-3 og Bræðraborgarstígs 32a að „í útlitum húsa skulu koma fram mismunandi sérkenni sem undirstrika takt götumyndar og skilji á milli reitanna.“ Húsið að Bræðraborgarstíg 30 liggur að húsinu nr. 32 við Bræðraborgarstíg, utan fjórðu hæðar hússins nr. 30, sem nýtir einungis hluta þakflatar þriðju hæðar þess. Segir svo á framlögðum byggingarteikningum að gustlokunin sé mynduð með álrömmum með öryggisgleri sem liggi á brautum og sé opnuð með því að renna römmunum til hliðar. Rúmmál sé 45 m³.

Að mati úrskurðarnefndarinnar myndi hin umsótta framkvæmd ekki hafa þau áhrif á götumynd að á svig yrði farið við greind skilyrði deiliskipulagsins. Þá verður hvorki séð að í deiliskipulaginu sé gerður sérstakur áskilnaður um að yfirbragð byggðarinnar sé létt né að byggingar við Bræðraborgarstíg 30 skuli vera aðgreindar og slitnar frá aðlægu húsi að Bræðraborgarstíg 32, líkt og segir í umsögn skipulagsfulltrúa. Erindi kærenda var því synjað með rökum sem byggðust á túlkun skipulagsskilmála á þann veg sem úrskurðarnefndin telur að ekki fái staðist.

Að framangreindu virtu byggði hin kærða ákvörðun á röngum forsendum og verður hún af þeim sökum felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. september 2016 um að synja umsókn um leyfi fyrir svonefndri gustlokun á þaksvölum íbúðar 0401 í húsinu nr. 30 við Bræðraborgarstíg í Reykjavík.

64/2016 Sætún

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 12. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 64/2016, kæra á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 7. apríl 2016 á breytingu deiliskipulags Móa, Skrauthóla og Sjávarhóla vegna Sætúns I, Kjalarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. júní 2016, er barst nefndinni 16. s.m., kæra fyrirsvarsmenn félaganna Skurns ehf. og Stjörnueggs ehf., sem skráð eru til heimilis að Vallá á Kjalarnesi, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. apríl 2016 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Móa, Skrauthóla og Sjávarhóla vegna Sætúns I. Breytingin var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 20. maí s.á. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 6. september 2016.

Málavextir: Í gildi er deiliskipulag frá árinu 1975, sem gert var í tilefni þess að skipulagðar voru nokkrar landspildur úr landi Móa, Skrauthóla og Sjávarhóla. Á hverri spildu var gert ráð fyrir íbúðarhúsi og útihúsi. Skipulaginu hefur verið breytt nokkrum sinnum, þ. á m. var skipulagi spildunnar Sætúns I breytt á árinu 2007. Með þeirri breytingu var spildunni skipt upp í nokkur svæði sem auðkennd voru með bókstöfum á stafrófsbilinu A til F. Á svæðum B og C, sem voru samliggjandi, voru skilgreindir byggingarreitir fyrir atvinnuhúsnæði og þess getið að á svæði B stæði þegar hús sem notað væri fyrir kjúklingarækt.

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa  20. nóvember 2015 var lögð fram umsókn um breytingu á deiliskipulagi landspildunnar Sætúns I. Í umsókninni fólst að áðurgreind svæði B og C yrðu sameinuð í eina byggingarlóð og að byggingarreitir á henni yrði einn byggingar-reitur. Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti á fundi sínum 25. nóvember s.á. að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi, með vísan til 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og var sú samþykkt síðar staðfest af borgarráði. Tillagan var auglýst til kynningar 8. janúar 2016 með athugasemdafresti til 19. febrúar s.á. Komu kærendur á framfæri athugasemdum auk þess sem hverfisráð Kjalarness bókaði um málið á fundi sínum hinn 11. febrúar s.á.

Tillagan var tekin fyrir að loknum auglýsingafresti í umhverfis- og skipulagsráði hinn 30. mars 2016 og samþykkt þar, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 18. mars s.á. Í umsögn skipulagsfulltrúa kom fram að eingöngu væri um sameiningu lóða að ræða sem ekki hefði áhrif á gildi þáverandi deiliskipulags. Væri því lagt til að tillagan yrði samþykkt óbreytt. Borgarráð staðfesti síðan þessa afgreiðslu og var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er því haldið fram að með breyttu deiliskipulagi skapist óviðunandi hætta á tjóni fyrir atvinnurekstur sem annar kærenda stundi á aðliggjandi landspildu, þ.e. á Sætúni II, sem sé í eigu hins kærandans. Á spildunni séu tvö uppeldishús fyrir varpfugla sem standi á mörkum þess svæðis þar sem breytt deiliskipulag geri ráð fyrir ný-byggingum. Kærendur telji að með breyttu deiliskipulagi, sem skilja verði sem svo að heimili hús til kjúklingaræktunar, skapist óviðunandi smithætta sem raskað geti hagsmunum þeirra.

Vísað sé til laga nr. 55/2013 um velferð dýra, laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem hafi að geyma reglur sem hafi það að markmiði að koma í veg fyrir smithættu milli dýra annars vegar og milli dýra og manna hins vegar. Um smithættu alifugla gildi síðan sérstakar reglur, sem finna megi í reglugerð nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína, og í reglugerð nr. 135/2015 um velferð alifugla. Um staðsetningu nýrra alifuglabúa og fjarlægðir á milli eldishúsa gildi m.a. 20. gr. reglugerðar um velferð alifugla og 6. gr. reglugerðar um eldishús alifugla, loðdýra og svína. Telja verði að við gerð tillagna að breyttu deiliskipulagi Sætúns I hafi framangreindra reglna ekki verið gætt.

Ætla megi að deiliskipulagsbreytingin leiði til mikillar stækkunar þess bústofns sem fyrir sé að Sætúni I. Ekki liggi fyrir hver umhverfisáhrifin af slíkri stækkun yrðu, en líkur séu á að þau yrðu veruleg. Þá sé umrætt svæði skilgreint sem landbúnaðarsvæði í gildandi aðalskipulagi og því séu tillögur um íbúðarbyggð að Sætúni I ekki í samræmi við stefnu þess.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er á það bent að umrædd deili-skipulagsbreyting feli í sér að tvær lóðir fyrir atvinnuhúsnæði verði sameinaðar í eina, auk þess sem hámarksbyggingarmagn sé skilgreint með nákvæmari hætti en áður hafi verið. Nýtingarhlutfall lóðarinnar verði að hámarki 0,42. Að öðru leyti sé skipulagið óbreytt. Ekki sé talið að deiliskipulagsbreytingin hafi í för með sér aukna smithættu. Fari svo að núverandi búrekstur verði stækkaður þurfi af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að vinna nýtt starfsleyfi. Komi þá umhverfisáhrif stækkunar til skoðunar í samræmi við gildandi lög og reglu-gerðir. Við vinnslu deiliskipulagstillögunnar hafi umsagnar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur verið aflað og hafi þar komið fram að engin fjarlægðarmörk væru sett á milli búa af þeirri stærðargráðu sem tillagan geri ráð fyrir, enda verði fjöldi fugla á lóðinni að hámarki 38.500. Með tilliti til aðstæðna hafi skipulagsfulltrúi engu að síður gert kröfu um að fjarlægð milli atvinnuhúsa á skipulagsvæðinu og íbúðarhúsa yrði ekki undir 50 m.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi með tilliti til ákvæða laga og reglugerða sem gilda um starfsemi alifuglabúa. Kærendur telja að þau uppbyggingar-áform sem felist í hinu breytta skipulagi muni auka hættu á smiti í alifuglarækt sem þeir stundi á mörkum þess svæðis sem breytingin tekur til.

Á skipulagsvæðinu er fyrir 726 m2 bygging, sem reist var á árunum 1975-79. Heimilað er að stækka hana um 320 m2. Að auki er heimiluð bygging þriggja samliggjandi húsa, sem hvert um sig yrði 640 m2 að stærð. Sú bygging sem þegar hefur verið reist stendur 10 m frá mörkum lóðar kærenda, en við lóðarmörkin stendur alifuglahús þeirra, sem byggt var á árunum 1985-86. Hinar fyrirhuguðu nýbyggingar munu allar standa fjær húsum kærenda en sú bygging sem þar er þegar fyrir. Í skilmálum hins breytta skipulags er kveðið á um að byggingarreitir nýrra atvinnuhúsa skuli standa a.m.k. 50 m frá byggingarreitum íbúðarhúsa, en af skýringarmyndum á skipulagsuppdrætti má ráða að fyrirhugaðar byggingar muni að hluta standa nær alifuglahúsi kærenda en 50 m, en það er ekki breyting frá því sem fyrra skipulag gerði ráð fyrir.

Reglugerð nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína er sett með stoð í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, en markmið þeirra laga er að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi. Jafnframt er markmið laganna að koma í veg fyrir eða að draga úr losun út í andrúmsloft, vatn og jarðveg og koma í veg fyrir myndun úrgangs í því skyni að vernda umhverfið. Með reglugerðinni er kveðið á um að skipulagsyfirvöld skuli hafa ákvæði hennar til hliðsjónar við töku skipulagsákvarðana um staðsetningu eldishúsa, þ. á m. eldishúsa fyrir alifugla. Í gögnum málsins kemur fram að leitað hafi verið umsagnar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur við skipulagsgerðina og að á grundvelli þeirrar umsagnar hafi m.a. verið gerð sú krafa að eldishúsin yrðu ekki nær byggingarreitum íbúðarhúsa en 50 m. Einnig kemur fram í gögnum málsins að fyrirhuguð starfsemi næði ekki þeim stærðarmörkum sem virkja ákvæði reglugerðarinnar um lágmarksfjarlægð slíkra húsa frá mannabústöðum, útivistarsvæðum og vinnustöðum. Að því er varðar staðsetningu með tilliti til annarra eldishúsa kemur fram í 6. gr. reglugerðarinnar að sveitarstjórn sé eftirlátið að ákveða þá fjarlægð. Með tilliti til markmiða laganna sem reglugerðin byggir á verða ákvæði hennar ekki skilin sem svo að henni sé ætlað að stuðla að vörnum gegn mögulegri útbreiðslu dýrasjúkdóma á milli mismunandi eldishúsa. Verður því ekki byggt á ákvæðum hennar með þeim hætti sem kærendur gera kröfu um varðandi nálægð við eldishús þeirra.

Í 20. gr. reglugerðar nr. 135/2015 um velferð alifugla er kveðið á um að við ákvörðun um staðsetningu nýrra alifuglabúa skuli m.a. taka mið af öðrum alifuglabúum, en þess ekki getið hvaða nánari skilyrði geti falist í þeim áskilnaði. Matvælastofnun fer með framkvæmd reglugerðarinnar og verður ný starfsemi alifuglabúa ekki hafin fyrr en stofnunin hefur staðfest að m.a. húsakostur uppfylli skilyrði reglugerðarinnar, sbr. 3. gr. hennar. Verður hvorki af reglugerðinni ráðið né þeim þeim lögum er hún hvílir á, sbr. lög nr. 55/2013 um velferð dýra og lög nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, að lagðar séu sérstakar skyldur á skipulagsyfirvöld við skipulag svæða undir þá starfsemi sem lögin og reglugerðin taka til. Verður krafa kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því ekki byggð á tilvitnuðu ákvæði reglugerðar um velferð alifugla.

Lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana gilda m.a. um skipulagsáætlanir og breytingar á þeim, sem marka stefnu varðandi leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar eru í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 3. gr. laganna. Í viðauka 1 við síðarnefndu lögin falla framkvæmdir vegna þauleldis alifugla af þeirri stæðar sem hér um ræðir í flokk B, en meta þarf í hverju tilviki fyrir sig hvort slíkar framkvæmdir skuli sæta mati á umhverfisáhrifum. Í 3. gr. laga um umhverfismat áætlana kemur enn fremur fram að óverulegar breytingar á skipulagsáætlunum séu ekki háðar ákvæðum laganna, enda séu þær ekki taldar líklegar til að hafa í för með sér veruleg áhrif á umhverfið. Til þess ber að líta að hin kærða ákvörðun fólst einkum í sameiningu tveggja lóða innan skipulagssvæðisins en hafði hvorki í för með sér breytingu á heimilaðri landnotkun lóðanna né verulegar breytingar á uppbyggingarheimildum. Með vísan til 3. gr. laga um umhverfismat áætlana var því ekki skylt að meta umhverfisáhrif hinnar kærðu ákvörðunar, enda verður breytingin ekki talin hafa í för með sér veruleg áhrif á umhverfið umfram það sem þegar var heimilað með eldra skipulagi.

Í greinargerð gildandi aðalskipulags er kveðið á um að íbúðarbyggingar á landbúnaðarsvæðum skuli fyrst og fremst tengjast búrekstri á viðkomandi landi, en að einnig megi gera ráð fyrir stökum íbúðarhúsum í tengslum við tómstundabúskap. Innan þess skipulagssvæðis sem hin kærða ákvörðun nær til, sem flokkað er sem landbúnaðarsvæði, er gert ráð fyrir tveimur byggingarreitum fyrir íbúðarhús, en á öðrum þeirra stendur nú þegar slíkt hús. Reitirnir eru í 50 og 57 m fjarlægð frá hinum umdeilda byggingarreit þar sem áform eru uppi um að reisa nýtt alifuglahús. Með hliðsjón af þessum aðstæðum og gögnum málsins verður ekki annað séð en að umræddir byggingarreitir fyrir íbúðarhús séu í samræmi við landnotkunarheimildum aðalskipulags.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 7. apríl 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Móa, Skrauthóla og Sjávarhóla vegna Sætúns I á Kjalarnesi.

50/2016 Melgerði

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 28. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 50/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 2. september 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir byggingu einnar hæðar ofan á núverandi einbýlishús á lóðinni Melgerði 34 í Kópavogi ásamt stækkun anddyris, byggingu sólstofu við suðurhlið þess og að breyta húsinu í tvíbýli.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. maí 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Melgerði 32, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 2. september 2016 að samþykkja byggingarleyfi fyrir byggingu einnar hæðar ofan á núverandi einbýlishús á lóðinni Melgerði 34 í Kópavogi ásamt stækkun anddyris, byggingu sólstofu við suðurhlið þess og að breyta húsinu í tvíbýli. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 1. júní 2016.

Málavextir: Lóðin sem um ræðir er á ódeiliskipulögðu svæði í vesturbæ Kópavogs. Á lóðinni sem er 800 m2 að flatarmáli, stendur einnar hæðar einbýlishús, 127,3 m2 að stærð, þar af er bílskúr 28,5 m2. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa, 29. október 2015, var lögð fram umsókn um byggingarleyfi til breytinga á fasteigninni að Melgerði 34, Kópavogi. Var henni vísað til skipulagsnefndar með skírskotun til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Fól umsóknin í sér að byggð yrði hæð ofan á núverandi hús, anddyri stækkað og byggð yrði sólstofa við suðurhlið hússins. Ný íbúð yrði á efri hæð og húsið því tvíbýli eftir breytingu. Heildargólfflatarmál hússins með bílskúr yrði 248,6 m2, eftir breytingu sem væri aukning um 121,3 m2 og nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 0,16 í 0,31.

Á fundi skipulagsnefndar 9. nóvember 2015 var umsóknin lögð fram og samþykkt að grenndarkynna tillöguna samkvæmt 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Frestur til athugasemda var frá 23. nóvember 2015 til 21. desember s.á. Athugasemdir bárust frá tveimur aðilum, þ. á m. öðrum kærenda. Sneru þær að skuggavarpi sem kæmi til vegna hækkunar hússins að Melgerði 34 og af því tilefni var þeim sem athugasemdir höfðu gert sendar teikningar með tölvupósti 5. janúar 2016 sem sýndu skuggavarp af breyttu húsi. Á fundi skipulagsnefndar 21. mars s.á. var tillagan lögð fram að nýju, ásamt athugasemdum og umsögn skipulags- og byggingardeildar um þær, og hún samþykkt. Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu á fundi sínum 12. apríl 2016 og var hin kynnta umsókn um byggingarleyfi samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 2. september s.á.

Málsrök kærenda:
Kærendur benda á að gerð hafi verið athugasemd af þeirra hálfu þar sem þeir hafi farið fram á skuggamælingu vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Í ljósi þeirrar mælingar hafi kærendur gert athugasemd þar sem mælingin hafi sýnt fram á að framkvæmdin myndi valda miklu skuggavarpi á vesturhlið fasteignar þeirra og fyrirhugaður sólpallur á lóð þeirra yrði í skugga vegna hækkunar húss leyfishafa. Telji kærendur það óásættanlegt að rýra verðgildi eignar þeirra með aukinni skuggamyndun í garði þeirra, auk þess sem áætlanir kærenda varðandi sólpall væu í uppnámi. Um sé að ræða gamalt og rótgróið hverfi sem kærendum finnist að eigi að halda ásýnd sinni í grófum dráttum. Að bæta heilli hæð ofan á hús telji kærendur valda mikilli röskun á þeirri ásýnd. Því sé borið við að nýting umrædds húss sé ekki í samræmi við önnur hús í hverfinu þar sem það sé aðeins á einni hæð. Í götunni séu þrettán hús á einni hæð og/eða með lítið ris, líkt og húsið að Melgerði 34. Telji kærendur óþarft að rýra eignir annarra til að ná þessari stækkun, enda sé lóðin Melgerði 34 það stór að vel ætti að vera hægt að stækka húsið á annan veg en að bæta við hæð.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er tekið fram að umrædd breyting hafi falið í sér að byggð yrði hæð ofan á núverandi hús, anddyri stækkað og byggð sólstofa við suðurhlið hússins að Melgerði 34. Húsinu yrði breytt í tvíbýli með heildarbyggingarmagni 220,1 m2. Nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 0,16 í 0,31. Þar sem um sé að ræða ódeiliskipulagt svæði hafi byggingarfulltrúi vísað erindinu til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu samkvæmt 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hafi erindið verið grenndarkynnt og athugasemdum svarað. Að lokinni grenndarkynningu hafi erindið verið lagt fram að nýju og samþykkt á fundi skipulagsnefndar 21. mars 2016, hafi sú afgreiðsla verið staðfest af bæjarráði 31. s.m og á fundi bæjarstjórnar 12. apríl s.á.

Á umræddu svæði sé nær eingöngu að finna hús á tveimur til þremur hæðum. Húsið sem standi á lóðinni Melgerði 34 sé eitt af örfáum sem eftir séu á einni hæð. Á svæðinu sé að finna lóðir með hærra nýtingarhlutfall, en meðalnýtingarhlutfall á götureitnum sé 0,28. Eftir breytingu verði byggingarmagn á lóð nr. 34 við Melgerði því ekki umtalsvert meira en það sem sé í götureitnum í dag. Umrædd breyting samrýmist að öllu leyti götumynd og yfirbragði svæðisins. Breytingin muni þó hafa í för með sér einhverja aukningu skuggavarps. Ítarleg könnun á því hafi leitt í ljós að aukið skuggavarp hefði ekki verulega íþyngjandi áhrif á nærliggjandi lóðir.

Kærendur hafi bent á að hækkun hússins muni setja áætlanir þeirra um sólpall sem eigi að ná að mörkum lóðanna nr. 32 og 34 við Melgerði í uppnám. Sé á það bent að samkvæmt f. lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 þurfi samþykki aðliggjandi lóðarhafa ef skjólveggur eða girðing sé nær lóðarmörkum en 1,8 m. Að auki segi í e. lið sömu greinar að pallur úr brennanlegu efni megi ekki vera nær lóðarmörkum aðliggjandi lóðar en 1,0 m. Samkvæmt framangreindu sé því ekki heimilt að reisa sólpall sem nái alveg að lóðarmörkum lóðar en auk þess þurfi samþykki lóðarhafa Melgerðis 34 ef skjólgirðingu sé ætlað að vera nær lóðarmörkum en 1,8 m. Umrædd breyting muni því ekki hafa veruleg áhrif á grenndarhagsmuni kærenda.

Athugasemdir leyfishafa: Fyrir liggi að mótmæli kærenda við fyrirhugaðar breytingar að Melgerði 34 lúti aðeins að mögulegu skuggavarpi vegna hækkun hússins gagnvart palli sem leyfishafa skiljist að eigi að vera með heitum potti sem ekki sé til staðar og ekkert samþykki sé fyrir.

Tekið sé undir sjónarmið þau sem fram komi í umsögn skipulags- og byggingardeildar Kópavogs, dags. 21. mars 2016, en í 4. lið umsagnarinnar sé á það sé bent að við Melgerði og Borgarholtsbraut séu nær eingöngu hús á tveimur til þremur hæðum. Hús leyfishafa sé eitt örfárra sem aðeins sé á einni hæð. Meðalnýtingarhlutfall í götureitnum sé 0,28, lægst 0,13 að Borgarholtsbraut 47 og hæst 0,39 að Borgarholtsbraut 45, en nýtingarhlutfall á Melgerði 34 sé aðeins 0,16 og verði 0,31 eftir breytingu. Hækkun hússins um eina hæð sé í takt við byggðarmynstur hverfisins, byggingarstíl og hæð húsa. Það að þurfa að þola lítilsháttar skuggavarp kl. 18:00 þegar sólin sé hæst á lofti í júní ár hvert á hluta norðvesturhluta lóðarinnar nr. 32 við Melgerði geti seint talist mjög íþyngjandi og því sé fullyrðingu kærenda mótmælt sem órökstuddri að framkvæmdin muni valda miklu skuggavarpi á vesturhlið lóðar kærenda og að aukið skuggavarp muni rýra verðgildi fasteignar þeirra. Andmæli kærenda við hækkun húss leyfishafa um eina hæð sé óskiljanlegt þegar horft sé til þess að hús kærenda sé kjallari, hæð, ris og þar yfir manngengt ris, en það ris sé ekki í skráðum fermetrafjölda hússins. Nýtingarhlutfall þess húss sé 0,29. Sé á það bent að húsið nr. 28 við Melgerði sé eins og hús nr. 34 en það sé á tveimur hæðum. Steyptur stigi sé í dag í húsi leyfishafa upp á geymsluloft með steyptri plötu, en þar sé ekki ris eins og ranglega sé fullyrt í kæru. Hæsta lofthæð geymsluloftsins sé undir 1,50 m og alveg niður í 0,10 m. Af þessum frágangi verði ráðið að upphaflegur húsbyggjandi hafi í öndverðu ætlað að hafa húsið tveggja hæða eins og húsið við Melgerði 28 en hann af einhverjum ástæðum, e.t.v. vegna fjárskorts, horfið frá því. Þau 13 hús sem nefnd séu í kæru séu flest öll með risi sem í séu svefnherbergi en ekki geymslulofti eins og sé í húsi leyfishafa. Hús í grennd við hús leyfishafa séu flest tveggja hæða eða meira.

Niðurstaða:
Svæði það sem fasteignin Melgerði 34 í Kópavogi tilheyrir hefur ekki verið deiliskipulagt. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er heimilt að samþykkja umsókn um byggingarleyfi þótt deiliskipulag liggi ekki fyrir ef framkvæmd er í samræmi við landnotkun aðalskipulags, byggðamynstur og þéttleika byggðar og þá að undangenginni grenndarkynningu.

Svæðið sem um ræðir er fullbyggt og gamalgróið hverfi. Hús sem standa norðan megin við Melgerði, þ. á m. hús leyfishafa, eru á einni til tveimur hæðum og mörg hver með rishæð að auki. Er þau ýmist einbýlishús eða tvíbýlishús. Nýtingarhlutfall á næstu lóðum er allt frá 0,13 til 0,39 og verður nýtingarhlutfall lóðar leyfishafa 0,31 eftir breytingu. Mænishæð hússins verður einnig sambærileg mænishæð húsa á næstu lóðum. Með hliðsjón af því verður húsið eftir breytingu í samræmi við gildandi landnotkun svæðisins, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Má því ætla skuggavarp frá húsinu á næstu lóðir eftir breytinguna verði ekki annað og meira en gerist og gengur í hverfinu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og þar sem ekki liggja fyrir þeir ágallar á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar sem raskað geta gildi hennar, verður ógildingarkröfu kærenda í máli þessu hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 2. september 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir byggingu einnar hæðar ofan á núverandi einbýlishús á lóðinni Melgerði 34 í Kópavogi ásamt stækkun anddyris, byggingu sólstofu við suðurhlið þess og að breyta húsinu í tvíbýli.