Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

4/2017 Gistiheimili á Blönduósi

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 23. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 4/2017, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra um veitingu áminningar og stöðvun á rekstri gistiheimilisins Blöndubóls.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. janúar 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Blöndubyggð, Blönduósi, ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra frá 14. júní 2016 um að veita áminningu og stöðva starfsemi gistiheimilis kæranda. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er krafist skaða- og miskabóta og þess að framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra verði vikið frá störfum.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra 9. janúar 2017.

Málavextir: Starfsmenn Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra fóru í eftirlitsferð á gistiheimili kæranda 14. júní 2016, eftir að kvartanir höfðu borist um að hreinlæti væri ábótavant á staðnum. Með bréfi, dags. s.d., var kæranda tilkynnt að ákveðið hefði verið að veita kæranda áminningu og stöðva starfsemi gististaðarins Blöndubóls, samkvæmt heimild í þágildandi 26. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Var kæranda jafnframt gert að skila viljayfirlýsingu um viðhaldsáætlun fyrir 23. júní s.á. Var kæranda afhent bréfið samdægurs. Kærandi kærði framangreinda ákvörðun 5. janúar 2017.

Málsrök kæranda:
Kærandi kveðst vilja kæra vegna samskipta sinna við Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra og sérstaklega heilbrigðisfulltrúa sem hafi ritað bréf, dags. 14. júní 2016. Ekki hafi verið tekið til greina að kærandi hafi verið afar upptekinn við að ganga frá svokölluðum svefntunnum og hafi því ekki verið búinn að taka til eftir síðustu næturgesti. Hann krefjist þess að sér verði dæmdar skaða- og miskabætur og að heilbrigðisfulltrúinn verði rekinn úr starfi.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra: Af hálfu heilbrigðiseftirlitsins er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni vegna þess að kærufrestur hafi verið útrunninn þegar kæra hafi borist. Kæranda hafi verið veittar greinargóðar leiðbeiningar um rétta kæruleið í tölvupósti, dags. 29. júní 2016, vegna ágreinings hans við Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra, auk ábendinga um hvert hann ætti að beina kvörtunum vegna starfsmannamála heilbrigðiseftirlitsins og framgöngu einstakra starfsmanna þess. Mánaðar kærufrestur hafi því verið útrunninn þegar kærandi hafi lagt fram kæru sína 5. janúar 2017, sbr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Niðurstaða: Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Berist kæra að liðnum kærufresti ber að vísa henni frá skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu er hin kærða ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra frá 14. júní 2016 og barst hún kæranda samdægurs. Í kæru, sem dags. er 5. janúar 2017, kemur fram að hann hafi verið í sambandi við umhverfis- og auðlindaráðuneyti vegna málsins en ekki kemur fram á hvaða grundvelli. Á meðal gagna málsins er tölvupóstur frá heilbrigðiseftirlitinu til kæranda, dags. 29. júní 2016, þar sem koma fram leiðbeiningar til hans um kæruleið til úrskurðarnefndarinnar, en tilefni þessa var tölvupóstur kæranda, dags. 28. s.m. Með vísan til framangreinds verður kæran talin vera of seint fram komin og þykja undantekningar skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga ekki eiga við í málinu. Verður kærunni því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kæru þessari er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

9/2018 Lyklafellslína

Með


Árið 2018, fimmtudaginn 16. ágúst tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 9/2018 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Kæra vegna samþykktar bæjarstjórnar Garðabæjar frá 7. desember 2017 um veitingu framkvæmdarleyfis vegna lagningar Lyklafellslínu 1.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. janúar 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Hraunavinir þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 7. desember 2017 að samþykkja veitingu framkvæmdaleyfis fyrir lagningu Lyklafellslínu 1 í lögsögu sveitarfélagsins. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 19. febrúar 2018.

Málsatvik og rök: Forsaga málsins er sú að á árinu 2009 sendi Landsnet hf. Skipulagsstofnun til meðferðar frummatsskýrslu um Suðvesturlínur, styrkingu raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi. Stofnunin auglýsti nefnda skýrslu til kynningar og að kynningartíma liðnum skilaði Landsnet til Skipulagsstofnunar endanlegri matsskýrslu, dags. 10. ágúst 2009. Álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 17. september s.á. Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 7. desember 2017 var umsókn Landsnets hf., dags. 29. desember 2016, um framkvæmdaleyfi vegna Lyklafellslínu 1 lögð fram og samþykkt. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir

Kærendur byggja málatilbúnað sinn á því að ekki séu uppfyllt skilyrði til að veita hið kærða framkvæmdaleyfi þar sem undirbúningi ákvörðunarinnar hafi verið ábótavant.

Bæjaryfirvöld Garðabæjar og leyfishafi vísa til þess að undirbúningur og taka hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið lögum samkvæmt.

Niðurstaða:  Fyrir liggur að með bréfum, dags. 19. júní 2018, fór leyfishafi fram á það við sveitarstjórnir í Mosfellsbæ, Kópavogi og Garðabæ, að framkvæmdaleyfi sem samþykkt voru af þeirra hálfu vegna Lyklafellslínu 1 yrðu afturkölluð og felld niður. Bæjarstjórn Garðabæjar tók þá ákvörðun á fundi 14. ágúst 2018 að afturkalla hina kærðu ákvörðun frá 7. desember 2017 um að veita framkvæmdaleyfi vegna Lyklafellslínu 1.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök, sem uppfylla tiltekin skilyrði og hafa þann tilgang að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að, er þó m.a. heimilt að kæra leyfisveitingar vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Byggja kærendur aðild sína í máli þessu á greindri lagaheimild fyrir aðild tiltekinna hagsmunasamtaka.

Eftir afturköllun hinnar kærðu ákvörðunar hefur hún ekki lengur réttarverkan að lögum og hefur því enga þýðingu, hvorki með tilliti til einstaklingsbundinna- né almannahagsmuna, að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar og taka afstöðu til kröfu kærenda um ógildingu hennar. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
 

_____________________________
Ómar Stefánsson

154/2017 Lyklafellslína

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 16. ágúst tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 154/2017 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Kæra vegna samþykktar bæjarstjórnar Garðabæjar frá 7. desember 2017 um veitingu framkvæmdarleyfis vegna lagningar Lyklafellslínu 1.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. desember 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra A, Kleppsvegi 18 og B, Aðallandi 15, Reykjavík, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 7. desember 2017 að samþykkja veitingu framkvæmdaleyfis vegna Lyklafellslínu 1 í lögsögu sveitarfélagsins. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 19. febrúar 2018.

Málsatvik og rök: Forsaga málsins er sú að á árinu 2009 sendi Landsnet hf. Skipulagsstofnun til meðferðar frummatsskýrslu um Suðvesturlínur, styrkingu raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi. Stofnunin auglýsti nefnda skýrslu til kynningar og að kynningartíma liðnum skilaði Landsnet til Skipulagsstofnunar endanlegri matsskýrslu, dags. 10. ágúst 2009. Álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 17. september s.á. Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 7. desember 2017 var umsókn Landsnets hf., dags. 29. desember 2016, um framkvæmdaleyfi vegna Lyklafellslínu 1 lögð fram og samþykkt. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir

Kærendur byggja málatilbúnað sinn á því að með hinni kærðu ákvörðun sé brotið gegn eignarréttindum þeirra. Umræddri flutningslínu rafmagns sé að hluta til ætlað að liggja um eignarland kæranda án samráðs eða samninga við þá.

Bæjaryfirvöld Garðabæjar og leyfishafi vísa til þess að ekki liggi fyrir þinglýst skjöl um ætluð eignarréttindi  kærenda að landi þar sem fyrirhugað sé að reisa Lyklafellslínu 1.

Niðurstaða:  Fyrir liggur að með bréfum, dags. 19. júní 2018, fór leyfishafi fram á það við sveitarstjórnir í Mosfellsbæ, Kópavogi og Garðabæ, að framkvæmdaleyfi sem samþykkt voru af þeirra hálfu vegna Lyklafellslínu 1 yrðu afturkölluð og felld niður. Bæjarstjórn Garðabæjar tók þá ákvörðun á fundi 14. ágúst 2018 að afturkalla hina kærðu ákvörðun frá 7. desember 2017 um að veita framkvæmdaleyfi vegna Lyklafellslínu 1.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök, sem uppfylla tiltekin skilyrði og hafa þann tilgang að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að, er þó m.a. heimilt að kæra leyfisveitingar vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni.

Eftir afturköllun hinnar kærðu ákvörðunar hefur hún ekki lengur réttarverkan að lögum og hefur því enga þýðingu, hvorki með tilliti til einstaklingsbundinna- né almannahagsmuna, að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar og taka afstöðu til kröfu kærenda um ógildingu hennar. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
 

_____________________________
Ómar Stefánsson

102/2018 Lónsbraut Hf.

Með

Árið 2018, föstudaginn 17. ágúst, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 102/2018 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 25. apríl 2018 um að samþykkja breytingu á skilmálum deiliskipulags fyrir Suðurhöfn, bátaskýli.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur 

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. júlí 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi bátaskýlis við Lónsbraut, Hafnarfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 25. apríl 2018 að breyta skilmálum deiliskipulags fyrir Suðurhöfn, bátaskýli. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 17. ágúst 2018.

Málsatvik og rök:
Skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðar ákvað á fundi sínum 20. febrúar 2018 að grenndarkynna tillögu að breytingu á skilmálum deiliskipulags Suðurhafnar vegna bátaskýla við Suðurhöfn. Laut tillagan að notkun bátaskýlanna ásamt umgengni og geymslu báta og fólksbíla á svæðinu. Tillagan var grenndarkynnt sem óveruleg breyting á deiliskipulaginu, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, frá 5. mars 2018 með fresti til athugasemda til 3. apríl s.á. Tillagan var samþykkt í bæjarstjórn Hafarfjarðar 25. apríl 2018 að lokinni grenndarkynningu og tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 23. maí s.á.

Kærandi byggir á því að ekki hafi verið um óverulega breytingu á deiliskipulagi að ræða. Hinir breyttu skilmálar raski verulega hagsmunum eigenda umræddra bátaskýla og skerði notagildi fasteignanna án viðhlítandi skýringa.

Af hálfu Hafnafjarðarbæjar er vísað til þess að kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæran barst úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferða

Hin kærða ákvörðun var birt í B-deild Stjórnartíðinda 23. maí 2018. Tók kærufrestur því að líða 24. maí s.m. samkvæmt 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Mátti kæranda vera kunnugt um hina kærðu deiliskipulagsákvörðun frá opinberri birtingu hennar. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 19. júlí 2018 eða rúmum þremur vikum eftir að kærufresti lauk. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni enda ekki talið unnt, eins og atvikum er háttað, að taka málið til meðferðar að liðnum kærufresti samkvæmt fyrrgreindum undantekningarákvæðum 28. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
 

_____________________________
Ómar Stefánsson

41 og 42/2017 Kirkjutorg Kvosin

Með

Árið 2018, föstudaginn 31. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 41/2017, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 9. febrúar 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar vegna Lækjargötu 10 og 12, Vonarstrætis 4-4b og Skólabrúar 2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. maí 2017, er barst nefndinni 28. s.m., kærir eigandi fasteignar að Kirkjutorgi 6a, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 9. febrúar 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar vegna Lækjargötu 10 og 12, Vonarstrætis 4-4b og Skólabrúar 2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. apríl 2017, mótteknu sama dag, kærir Þórsgarður hf., eigandi fasteigna að Kirkjutorgi 4 og 6a og Templarasundi 3, áðurnefnda ákvörðun borgarráðs og krefst ógildingar hennar. Þar sem kærumálin varða sömu ákvörðun og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verður greint kærumál, sem er nr. 42/2017, sameinað máli þessu. Kærendur gerðu jafnframt kröfu um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði úrskurðarnefndarinnar uppkveðnum 9. júní 2017.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 26. og 29. maí 2017.

Málsatvik: Deiliskipulag Kvosarinnar er frá árinu 1988 og tekur það til svæðis sem markast af Geirsgötu að norðan, Lækjargötu að austan, lóðunum vestan Aðalstrætis að vestan og Tjörninni að sunnan. Því hefur margsinnis verið breytt, m.a. á árinu 2008 þegar því var breytt innan staðgreinireits 1.141.2 vegna Lækjargötu 12 og Vonarstrætis 4-4b. Með þeirri breytingu var veitt heimild til talsverðs niðurrifs og mikillar uppbyggingar á þeim lóðum. Var m.a. heimiluð nýbygging, sem yrði alls fimm hæðir þar sem hún risi hæst, og yrði hún hótel og bankabygging.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 21. september 2016 var samþykkt að auglýsa og vísa til borgarráðs tillögu, dags. 15. september 2016, um breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar vegna Lækjargötu 10 og 12, Vonarstrætis 4-4b og Skólabrúar 2. Í breytingunni fólst að lítillega var dregið úr byggingarmagni ofanjarðar og húshlutar gerðir ívið grennri en í gildandi skipulagi. Byggingarreitur jarðhæðar minnkaði og garðrými í porti stækkaði. Byggingarhlutar næst Lækjargötu 10 og Vonarstræti 4 lækkuðu um eina hæð. Byggingarreitur næst Skólabrú 2 minnkaði og þakform bygginga næst Skólabrú og Kirkjutorgi breyttust. Kvöð um umferð á lóð Lækjargötu 10 var felld niður. Ennfremur voru sett skilyrði um uppbrot útveggjar að Lækjargötu í fjórar einingar, heimild til þess að byggja turn felld niður og gerð var grein fyrir varðveislu og frágangi fornminja sem fundist höfðu á reitnum. Borgarráð samþykkti auglýsingu tillögunnar á fundi sínum 29. september 2016 og var hún auglýst til kynningar með fresti til athugasemda frá 7. október 2016 til og með 18. nóvember s.á. Alls bárust fimm athugasemdir, m.a. frá kærendum.

Að kynningu lokinni samþykkti umhverfis- og skipulagsráð tillöguna á fundi 14. desember 2016, með þeim breytingum sem fram komu í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 9. desember s.á., og samþykkti borgarráð skipulagstillöguna svo breytta 22. desember 2016.

Skipulagsstofnun tilkynnti með bréfi, dags. 11. janúar 2017, að ekki væru gerðar athugasemdir við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda en benti á að áður þyrfti að lagfæra og/eða skýra tiltekin atriði á kortablaði 2/4. Bréf Skipulagsstofnunar var tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 1. febrúar 2017 ásamt lagfærðum uppdrætti frá 27. janúar 2017. Var tillagan samþykkt og málinu vísað til borgarráðs sem staðfesti afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs á fundi 9. febrúar 2017. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með birtingu auglýsingar þar um hinn 10. maí 2017 í B-deild Stjórnartíðinda.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að ekki sé um breytingu á deiliskipulagi að ræða heldur nýtt deiliskipulag. Skipulagið hafi verið unnið að frumkvæði nýs eiganda umræddra lóða sem hafi kastað fyrra deiliskipulagi fyrir róða og unnið nýtt frá grunni.

Hið breytta deiliskipulag gangi freklega á rétt kærenda og brjóti gegn lögvörðum hagsmunum þeirra. Í stað þess að taka mið af þeim margbreytileika, sem finna megi í húsagerðum við Templarasund, Kirkjutorg og Skólabrú, verði fimm hæða byggingar byggðar meðfram Lækjargötu, fjögurra hæða byggingar meðfram Vonarstræti og tveggja til fjögurra hæða byggingar verði byggðar á miðjum reitnum. Húsið að Kirkjutorgi 6a hafi verið friðað árið 1991 og taki sú friðun til ytra byrðis hússins. Önnur hús við Kirkjutorg búi einnig yfir mikilli sögu og setji sterkt svipmót á reitinn. Ekkert tillit hafi verið tekið til þessara atriða við gerð deiliskipulagsbreytingarinnar. Auk þess rúmist hún ekki innan ákvæða Kvosarskipulagsins sem taki til svæðisins. Búið sé að hækka þriggja hæða byggingarhluta að Vonarstræti 4b, sem standi næst Kirkjutorgi 6, en lækka byggingarhluta þann sem sé tvær hæðir. Þaksvölum hafi verið bætt við beggja vegna sem valdi auknu ónæði og hljóðmengun. Gildandi deiliskipulag geri aðeins ráð fyrir þremur hæðum, en hið kærða skipulag geri ráð fyrir allt að fjórum hæðum. Tekið sé fram í fundargerð 162. fundar umhverfis- og skipulagsráðs að byggingarhluti næst Kirkjutorgi 6 og 6a hækki. Framsetningu á auglýstum tillögum sé ábótavant þar sem ósamræmi virðist vera í teikningum á bls. 2 og 3 varðandi aukningu á byggingarhlutum og því erfitt fyrir hagsmunaaðila að gera sér grein fyrir hinni raunverulegu tillögu.

Skipulagsbreytingin leiði til þess að byggingin á reitnum verði hærri og stærri með tilheyrandi skerðingu á útsýni og aukinni sjónmengun sem jafnframt leiði til aukinnar umferðar og meiri hávaða. Samkvæmt gildandi skipulagi sé óheimilt að breyta leyfilegum hæðarmörkum húsa. Hlutverk sveitarfélagsins sé að tryggja að mannvirki séu byggð í samræmi við gildandi skipulag, að jafnræðis sé gætt og að heildarmynd hverfis sé ekki raskað gegn vilja íbúa. Fullyrðing um að umþrætt skipulag feli í sér minni skerðingu á sólarljósi sé röng. Mat á áhrifunum sé ekki fyrirliggjandi en það verði að liggja fyrir þegar deiliskipulag og breytingartillaga séu skoðuð. Hækkun á fasteigninni sé á þeim hluta sem standi næst Kirkjutorgi 6a, mót suðri. Því sé ljóst að sól hverfi alveg á hluta hótelsins á Kirkjutorgi 4 og 6. 

Fyrirliggjandi deiliskipulag frá 2008 hafi verið meginforsenda fyrir kaupum annars kærenda á fasteignunum Kirkjutorgi 4 og 6 og Templarasundi 3 undir hótelrekstur. Í því sambandi skipti hæð og útlit næstu bygginga höfuðmáli. Um mikla hagsmuni sé að ræða fyrir þann kæranda. Hótel í slíkri nálægð við annað hótel eigi ekki að þurfa að hlíta því að samkeppnisaðili geti með samþykki sveitarfélagsins breytt skipulagi sér í vil og brotið með þeim hætti gegn hagsmunum kærenda.

Borgaryfirvöld hafi svarað beiðni annars kærenda á þann veg að afturköllun deiliskipulagstillögu yrði að koma frá umsækjendum sjálfum. Af svarinu verði ráðið að borgin hafi framselt skipulagsvald sitt til framkvæmdaraðila, en slíka heimild sé að finna í 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ákvæði 43. gr. skipulagslaga leysi sveitarfélagið ekki undan skyldu sinni til að standa að skipulagsbreytingunni skv. 37. gr. laganna, þar sem í 4. mgr. sé m.a. kveðið á um að lagt skuli mat á varðveislugildi svipmóts byggðar og einstakra bygginga sem fyrir séu með gerð húsakönnunar. Sú skylda eigi við jafnt við gerð deiliskipulags og við breytingar á því. Meginreglu skipulagslaga, um að raska sem minnst þeirri hverfismynd sem til staðar sé við breytingar á deiliskipulagi eða við gerð nýs skipulags, hafi ekki verið fylgt. Samþykkt hafi verið skipulag sem í raun sé í ósamræmi við lög og það sé óásættanlegt. Fasteignir kærenda hafi verið lengur en aðrar á reitnum og ekki sé hægt að virða rétt þeirra algerlega að vettugi líkt og gert hafi verið.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að skipulagsvald liggi hjá sveitarfélaginu og því sé það ekki á færi úrskurðarnefndarinnar að breyta hinni kærðu ákvörðun. Um breytingu á gildandi deiliskipulagi svæðisins frá 2008 sé að ræða en ekki nýtt deiliskipulag. Í innsendum athugasemdum við kynningu umdeildrar skipulagsbreytingar hafi komið fram krafa um að Reykjavíkurborg afturkallaði tillöguna. Afturköllun verði að koma frá lóðarhöfum sjálfum enda sé ekki á forræði borgarinnar að taka slíka ákvörðun. Skylda sé samkvæmt skipulagslögum að auglýsa verulegar breytingar á deiliskipulagi og kalla eftir athugasemdum, en ekki sé skylda til að verða við þeim athugasemdum sem berist. Ekki hafi þótt ástæða til að verða við athugasemdum kærenda.

Með breytingunni sé ekki verið að hækka umræddan byggingarhluta heldur færist hann til og breytist lítillega. Í meginatriðum séu breytingarnar minna íþyngjandi fyrir Kirkjutorg 6 og 6a en að óbreyttu skipulagi, þar sem byggingarreitur sé grennri og færist til og að byggingarhlutar séu að hluta til lækkaðir og felldir út. Skýrt komi fram í myndrænni framsetningu og texta tillögunnar hvernig heimildirnar séu fyrir þennan byggingarhluta. Kærendur hafi ekki sýnt með neinum gögnum fram á þá skerðingu sem þeir telji sig verða fyrir.

Ekki sé um útsýnisskerðingu að ræða sem haft geti áhrif á gildi deiliskipulagsbreytingarinnar, enda geti aðilar í þéttri borgarbyggð ekki búist við því að lóðir í nágrenni þeirra haldist óbreyttar um aldur og ævi. Aðstæður á lóðum í borginni séu mismunandi og ávallt fari fram sjálfstætt mat á hvaða heimildir séu veittar í hverju tilfelli fyrir sig. Hvergi í lögum segi að eitt deiliskipulag sé eða skuli vera fordæmisgefandi fyrir annað deiliskipulag.

Fullyrðingar um neikvæð umhverfisáhrif séu ekki rökstuddar. Ekki verði talið að þaksvalir eða möguleg aukin umferð valdi hljóðmengun umfram það sem búast megi við í þéttri byggð. Umfang breytingarinnar sé ekki þess eðlis að hún kalli á sérstök viðbrögð eða mælingar vegna mögulega aukinnar umferðar gesta í miðbænum sem leið gætu átt í viðkomandi byggingar. Heimilt sé samkvæmt gildandi deiliskipulagi að byggja hótel á sameinaðri lóð nr. 4-4b við Vonarstræti og Lækjargötu 12 í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 og ekki verði séð að farið sé gegn réttindum kærenda með breytingunni.

Ekki sé skylt að gera nýja húsakönnun þegar um breytingar á deiliskipulagi sé að ræða, en húsakönnun fyrir umræddan staðgreinireit 1.141.2, Vonarstræti, Templarasund, Kirkjutorg, Skólabrú og Lækjargötu, hafi verið gerð árið 2005 og telji skipulagsyfirvöld uppbygginguna falla vel að byggðamynstri svæðisins.

Málsmeðferð deiliskipulagsbreytingarinnar hafi verið í fullu samræmi við ákvæði skipulagslaga. Tillagan hafi verið auglýst lögum samkvæmt með athugasemdafresti, kærendur hafi komið að athugasemdum sínum og samráði hafi ekki verið ábótavant.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar borgarráðs frá 9. febrúar 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar, með síðari breytingum, vegna Lækjargötu 10 og 12, Vonarstrætis 4-4b og Skólabrúar 2.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð aðalskipulags og deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna, en skilyrði er að breytingin rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. sömu laga.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er gert ráð fyrir mikilli þéttingu byggðar. Umrædd deiliskipulagsbreyting tekur til lóða á svæði Þ17, svonefndum Íslandsbankareit í aðalskipulagi, sem skilgreindur er sem þróunarreitur þar sem gert er ráð fyrir hóteli, verslun, þjónustu og skrifstofum. Hin kærða deiliskipulagsbreyting er samkvæmt því í samræmi við landnotkun aðalskipulags og áskilnaði 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana er því fullnægt. Breytingatillagan var kynnt með almennri auglýsingu í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga, afgreidd í umhverfis- og skipulagsráði að kynningu lokinni, framkomnum athugasemdum svarað og tillagan staðfest í borgarráði lögum samkvæmt. Lá og fyrir húsakönnun frá 2005. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni lögboðinni yfirferð Skipulagsstofnunar. Var málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar því í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Eins og fram er komið í málavaxtalýsingu fól umdeild skipulagsbreyting í sér lítillega minnkun byggingarmagns ofanjarðar. Hámarksnýtingarhlutfall er óbreytt frá eldra skipulagi, svo sem því var breytt á árinu 2008, eða 3,97. Byggingarreitur næst lóðunum Kirkjustræti 6 og 6a er minnkaður og færist fjær þeim lóðum að sama skapi auk þess sem húshluti sem snýr að þeim lóðum er lækkaður úr þremur hæðum í tvær. Verður ekki ráðið að skipulagsbreytingin raski grenndarhagsmunum kærenda umfram það sem verið hefði að nýttum byggingarheimildum samkvæmt deiliskipulagi Kvosarinnar með þeim breytingum sem gerðar voru á því 2008. Hafa verður í huga að um er að ræða lóðir í miðbæjarkjarna þar sem búast má við mjög þéttri byggð og fjölbreyttri starfsemi sem hefur í för með sér umferð fólks og farartækja.

Að öllu framangreindu virtu verður hin kærða ákvörðun ekki talin haldin form- eða efnisgöllum sem valdið geta ógildingu hennar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 9. febrúar 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna Lækjargötu 10 og 12, Vonarstrætis 4-4b og Skólabrúar 2.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                              Þorsteinn Þorsteinsson  

 

52/2017 löggilding iðnmeistara

Með

Árið 2018, föstudaginn 31. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 52/2017, kæra á ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 17. maí 2017 um að synja umsókn kæranda um löggildingu húsasmíðameistara skv. 32. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. maí 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Guðmundur Örn Guðmundsson, þá ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 17. maí 2017 að synja umsókn hans um löggildingu húsasmíðameistara. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mannvirkjastofnun 26. júní 2017.

Málavextir: Kærandi hlaut réttindi sem húsasmíðameistari árið 2013. Hinn 2. maí 2017 sótti hann um löggildingu húsasmíðameistara skv. 32. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki hjá Mannvirkjastofnun. Samkvæmt 3. mgr. nefndrar 32. gr. er skilyrði fyrir greindri löggildingu að umsækjandi hafi meistarabréf og hafi lokið prófi frá meistaraskóla eða hafi a.m.k. sambærilega menntun á hlutaðeigandi sviði. Merkti kærandi við á umsóknareyðublaði að umsókninni fylgdi meistarabréf, en hvorki var merkt við staðfestingu frá meistaraskóla né staðfestingu um sambærilega menntun.

Með bréfi Mannvirkjastofnunar til kæranda, dags. 9. maí 2017, var tekið fram að innsend gögn bæru hvorki með sér að kærandi hefði lokið námi í meistaraskóla né að hann hefði sambærilega menntun. Var kæranda gefinn kostur á að koma að frekari gögnum og í svarbréfi hans, dags. 12. s.m., var frá því greint að hann hefði útskrifast með sveinspróf árið 1981 og lokið vinnuskyldu fyrir árið 1988 og uppfylli þar með skilyrði um „sambærilega menntun“ á við meistaraskóla samkvæmt 3. mgr. 32. gr. laga um mannvirki.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að með synjun Mannvirkjastofnunar á umsókn hans um löggildingu iðnmeistara sé verið að svipta hann áunnum starfsréttindum. Hann hafi útskrifast með sveinspróf árið 1981 og lokið vinnuskyldu fyrir árið 1988. Hafi kærandi þá þegar uppfyllt rétt til útgáfu meistarabréfs, löngu fyrir tíð meistaraskólans og gildistöku þágildandi skipulags- og byggingaralaga nr. 73/1997. Í 5. tölulið bráðabirgðaákvæðis laga nr. 160/2010 um mannvirki komi fram að ákvæði laganna skuli ekki hafa áhrif á eldri rétt eða viðurkenningu yfirvalda til handa iðnmeisturum. Ekki skipti máli þó meistarabréfið hafi ekki verið útgefið fyrr en árið 2013.

Kærandi uppfylli skilyrði um „sambærilega menntun“ þar sem hann hafi árið 1995 útskrifast með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands og haft lögmannsréttindi frá árinu 1996. Á meðal fluttra mála fyrir dómstólum séu fasteignamál af ýmsum toga, þ. á m. gallamál vegna nýbygginga. Hann sé jafnframt með löggildingu fasteignasala, meirapróf á vörubíl og dráttarbíl auk vinnuvélaréttinda.

Málsrök Mannvirkjastofnunar:
Stofnunin vísar til þess að ekki hafi verið talið fært að meta próf kæranda í lögfræði við Háskóla Íslands auk réttinda sem fasteignasala, vinnuvélaprófs og meiraprófs á vörubíl og dráttarbíl sem sambærilegt við nám í meistaraskóla. Krafa laganna sé um sambærilegt nám á hlutaðeigandi sviði.

Heimildin til þess að meta nám sambærilegt námi við meistaraskóla hafi komið inn í skipulags- og byggingarlög með 16. gr. laga nr. 170/2000. Í athugasemdum með ákvæðinu í greinargerð með frumvarpi til laganna komi fram að þessari heimild hafi verið bætt við vegna fyrirliggjandi framkvæmdar við löggildingar, þar sem engin ástæða hafi þótt til þess að útiloka aðra aðila með sambærilega eða meiri menntun á hlutaðeigandi sviði, t.d. verkfræðinga, tæknifræðinga eða iðnfræðinga, frá því að hljóta löggildingu. Stofnunin meti umsækjendur með sambærilega eða meiri menntun í hverju tilviki fyrir sig og teljist t.d. þeir sem lokið hafi byggingariðnfræði hafa sambærilegt nám á við meistaraskóla. Ekki sé á það fallist að lögfræði eða löggilding sem fasteignasali sé sambærilegt við meistaraskóla á hlutaðeigandi sviði, enda ekki um að ræða sama fagsvið í skilningi 32. gr. mannvirkjalaga.

Stofnunin bendi á að með 2. gr. laga nr. 117/1999, sem hafi falið í sér breytingu á skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, hafi þeim einstaklingum sem fengið hefðu útgefið eða átt rétt á að fá útgefið meistarabréf fyrir 1. janúar 1989 og ekki hefðu lokið meistaraskóla verið veittur réttur á löggildingu til að bera ábyrgð á verkframkvæmdum fyrir byggingarnefnd skv. 2. mgr. 52. gr., enda hefðu þeir sótt námskeið sem umhverfisráðuneytið hefði staðið fyrir í samvinnu við prófnefnd skipulags- og byggingarmála og Samtök iðnaðarins. Þessi heimild hafi verið í gildi til 1. júlí 2001. Eftir það hafi þessi kostur ekki lengur verið fyrir hendi. Ekki liggi fyrir að kærandi hafi nýtt sér þennan kost.

Niðurstaða: Í máli þessu er um það deilt hvort kærandi uppfylli skilyrði laga fyrir því að öðlast löggildingu húsasmíðameistara skv. 32. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki til að bera ábyrgð sem iðnmeistari á einstökum verkþáttum við mannvirkjagerð á sínu fagsviði.

Samkvæmt 3. mgr. 32. gr. nefndra laga geta þeir iðnmeistarar einir borið ábyrgð á einstökum verkþáttum við mannvirkjagerð sem hlotið hafa til þess löggildingu Mannvirkjastofnunar. Er löggilding háð því að iðnmeistarar hafi fengið meistarabréf og lokið prófi frá meistaraskóla, eða hafi a.m.k. sambærilega menntun á hlutaðeigandi sviði. Ágreiningur þessa máls snýst í hnotskurn um það hvort kærandi hafi aflað sér menntunar sem jafna megi við nám í meistaraskóla.

Í athugasemdum við 32. gr. frumvarps þess er varð að mannvirkjalögum kemur fram að ákvæðið samsvari 2. mgr. 52. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Gerði tilvitnað ákvæði skipulags- og byggingarlaga í upphafi aðeins ráð fyrir því að iðnmeistarar með meistarabréf og próf frá meistaraskóla gætu fengið löggildingu, en með 16. gr. laga nr. 170/2000 var sú breyting gerð á ákvæðinu að skilyrði um sambærilega menntun var lögfest. Gerð var grein fyrir ástæðu þeirrar breytingar í athugasemdum við nefnt ákvæði og tekið fram að það hefði verið framkvæmt á þann veg að hefði iðnmeistari meistarabréf og sambærilega menntun við meistaraskóla að mati menntamálaráðuneytisins hefði ráðuneytið veitt þeim iðnmeisturum landslöggildingu. Þætti því rétt að taka af allan vafa um heimild til slíkrar málsmeðferðar. Þá var tekið fram að engin ástæða þætti til að útiloka aðra aðila með sambærilega eða meiri menntun á hlutaðeigandi sviði, t.d. verkfræðinga, tæknifræðinga eða iðnfræðinga, frá því að hljóta löggildingu ráðherra.

Við afgreiðslu umsóknar kæranda þurfti Mannvirkjastofnun sem leyfisveitandi að meta hvort kærandi hefði tilskylda menntun lögum samkvæmt, í þessu tilviki hvort hann hefði menntun á sínu fagsviði sem jafna mætti til prófs úr meistaraskóla. Ákvæði 3. mgr. 32. gr. mannvirkjalaga felur í sér almennar kröfur sem uppfylla þarf til þess að öðlast tiltekin atvinnuréttindi. Þar er m.a. gerð krafa um tiltekna menntun, próf úr meistaraskóla eða sambærilega menntun. Kærandi telur að hann uppfylli skilyrði um sambærilega menntun þar sem hann hafi lokið námi í lögfræði, öðlast lögmannsréttindi, sé með löggildingu fasteignasala, meirapróf á vörubíl og dráttabíl og vinnuvélaréttindi. Ekki verður fallist á að sú menntun teljist sambærileg námi í meistaraskóla í skilningi 3. mgr. 32. gr. mannvirkjalaga, enda ekki á sama fagsviði. Styðst það mat og við þá upptalningu um sambærilega menntun sem finna má í athugasemdum við fyrrgreinda breytingu á 2. mgr. 52. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Samkvæmt 5. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 áttu ákvæði laganna hvorki að hafa áhrif á eldri rétt hönnuða né viðurkenningu byggingaryfirvalda til handa iðnmeisturum og byggingarstjórum til þess að standa fyrir framkvæmdum hver á sínu sviði við gildistöku laganna. Með lögum nr. 117/1999, sem fólu í sér breytingu á skipulags- og byggingarlögum, var sett tímabundið ákvæði í 10. tl. ákvæðis til bráðabirgða um að iðnmeistarar sem ekki höfðu lokið námi í meistaraskóla gætu öðlast umrædd réttindi með því að sækja sérstakt námskeið. Ekki liggur fyrir að kærandi hafi nýtt sér þann kost. Verður því ekki séð að með hinni kærðu ákvörðun hafi kærandi verið sviptur þegar áunnum starfsréttindum.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar Mannvirkjastofnunar frá 17. maí 2017 um að synja umsókn hans um löggildingu húsasmíðameistara skv. 32. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                    Þorsteinn Þorsteinsson

75/2018 Hellubraut, Hf.

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 15. ágúst, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 75/2018 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Kæra vegna ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 11. apríl 2018 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir niðurrifi húss að Hellubraut 7, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. maí 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Hamarsbraut 8 og Hamarsbraut 6, Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 11. apríl 2018 að samþykkja byggingarleyfi fyrir niðurrifi húss að Hellubraut 7, Hafnarfirði með kröfu um ógildingu ákvörðunarinnar. Jafnframt er gerð krafa um stöðvun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 29. maí 2018.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar 11. apríl 2018 var tekin fyrir umsókn um leyfi til niðurrifs húss á lóðinni Hellubraut 7, en það hús er friðað vegna aldurs. Var umsóknin samþykkt með vísan til bréfs Minjastofnunar, dags. 7. september 2016 þar sem fallist var á niðurrif hússins með tilteknum skilyrðum um hönnun húss sem reist yrði í þess stað.

Kærendur vísa til þess að hin kærða ákvörðun sé í andstöðu við leyfi Minjastofnunar til niðurrifs umrædds húss þar sem tilteknum skilyrðum fyrir þeirri heimild hafi ekki verið fylgt eftir.

Bæjaryfirvöld vísa til þess að samkvæmt gildandi deiliskipulagi sé heimilt að rífa núverandi mannvirki að Hellubraut 7 og byggja einbýlishús innan byggingarreits. Leitað hafi verið eftir áliti Minjastofnunar vegna friðunar hússins og hafi stofnunin ekki lagst gegn niðurrifi þess.

Leyfishafi bendir á að kæra í máli þessu hafi borist að liðnum eins mánaðar kærufresti og beri af þeim sökum að vísa henni frá úrskurðarnefndinni. Fyrir liggi að Minjastofnun hafi afturkallað friðun umrædds húss og heimilað niðurrif þess og sé því umdeilt byggingarleyfi lögmætt.

Niðurstaða:
Kveðið er á um það í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun þeirri sem kæra á.
Hin kærða ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 11. apríl 2018 felur einungis í sér heimild til niðurrifs mannvirkja, en telja verður að slíkar framkvæmdir séu almennt ekki til þess fallnar að hafa áhrif á einstaklega lögvarða hagsmuni eigenda nágrannaeigna. Ekki liggur fyrir að niðurrif hússins að Hellubraut 7 sem heimilað var að ósk eiganda þess húss raski grenndarhagsmunum kærenda eða snerti einstaklingsbundna lögvarða hagsmuni þeirra á annan hátt.

Verða kærendur af framangreindum ástæðum ekki taldir eiga kæruaðild vegna hins umdeilda byggingarleyfis í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

__________________________________
Ómar Stefánsson

 

151/2016 Eftirlitsgjöld Isavia

Með

Vinsamlegast athugið að mál þetta var endurupptekið 15. desember 2021 og úrskurður kveðinn upp að nýju 8. febrúar 2023, sjá hér.

Árið 2018, föstudaginn 10. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 151/2016, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 19. október 2016 um álagningu gjalda vegna heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlits á Keflavíkurflugvelli.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. nóvember 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Isavia ohf., Reykjavíkurflugvelli, Reykjavík, ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 19. október 2016 um álagningu gjalda vegna heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlits á Keflavíkurflugvelli. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Til vara krefst kærandi þess að álagningunni verði breytt og fjárhæð gjaldsins lækkuð verulega.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja 19. desember 2016.

Málavextir: Með reikningi, dags. 19. október 2016, var kæranda gert að greiða alls kr. 7.299.143 í heilbrigðiseftirlitsgjöld fyrir árið 2016. Samkvæmt eftirlitsáætlun námu gjöldin kr. 9.225.033 en vegna tímabundinna aðstæðna voru gjöldin lækkuð um kr. 1.925.890. Samkvæmt gjaldskrá fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á Suðurnesjasvæði, sem birt var með auglýsingu nr. 927/2015 í B-deild Stjórnartíðinda, er árlegt eftirlitsgjald vegna alþjóðaflugvallar með meira en þrjár milljónir farþega kr. 9.205.423.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst gera athugasemdir við fjögur atriði er varði útreikning gjalda vegna heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlits fyrir árið 2016, er byggi á gjaldskrá heilbrigðiseftirlitsins nr. 927/2015, sem kærandi telji leiða til þess að gjöldin séu ólögmæt. Geri kærandi athugasemdir við útreikning og upphæð tímagjalds í gjaldskránni, tíðni eftirlits, umfang eftirlitsins og kostnað við sýnatökur og mælingar. Kærandi telji að hvort sem litið sé til eins þáttar eða þeirra allra saman þá sé ljóst að svo miklir ágallar séu á gjaldtökunni að taka verði til greina aðalkröfu kæranda og fella úr gildi ákvörðun um álagningu gjaldanna fyrir árið 2016.

Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir sé sveitarfélögum heimilt að setja gjaldskrá og innheimta gjald fyrir eftirlitsskylda starfsemi, svo sem fyrir eftirlit, útgáfu starfsleyfa og vottorða, sé eftirlitið á vegum sveitarfélaga. Þá segi í greininni að upphæð gjaldsins skuli byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði séu rökstudd sem ákvörðun gjalds við viðkomandi eftirlit byggist á og megi gjaldið ekki vera hærra en sá kostnaður. Í samræmi við ákvæði 3. mgr. 12. gr. hafi ráðherra gefið út leiðbeinandi reglur nr. 254/1999 um uppbyggingu gjaldskráa sveitarfélaga fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit. Þó að reglurnar séu leiðbeinandi verði að líta til þeirra í samhengi við yfirumsjónar- og samræmingarhlutverk ráðherra. Sveitarfélög hafi að sönnu sjálfsvald til setningar gjaldskráa vegna mengunarvarnaeftirlits með þeim formerkjum sem tilgreind séu í 3. mgr. 12. gr. laga nr. 7/1998, en víki þau frá aðferðafræði hinna leiðbeinandi reglna verði að telja að rökstyðja þurfi það sérstaklega.

Samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja byggi tímagjaldið á heildarlaunakostnaði eftirlitsins, en það sé ekki í samræmi við framangreindar reglur. Þá sé ekki að finna í rökstuðningi útreikninga eða sundurliðun sambærilega við það sem reglurnar kveði á um. Augljóst sé að gjaldskrá heilbrigðiseftirlitsins fullnægi ekki hinum leiðbeinandi reglum, enda hafi heilbrigðiseftirlitið ekki einu sinni haldið því fram að þær hafi verið lagðar til grundvallar við gerð gjaldskrárinnar. Þrátt fyrir ítarlegar óskir þar um hafi ekki verið lagt fram sundurliðað yfirlit yfir kostnaðarliði eða raunverulegan tíma vegna eftirlitsstarfa. Þess megi geta að tímagjald Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja sé mun hærra en á öðrum eftirlitssvæðum á landinu. Verði því að krefjast ítarlegri röksemda til að skýra hvernig sá munur grundvallist á löglegum forsendum fyrir þjónustugjöldum og reglum ráðherra.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 gefi heilbrigðisnefndir út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem nánar sé tilgreindur í reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Fjallað sé um starfsleyfi heilbrigðisnefnda í 9. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar beri heilbrigðisnefnd að tryggja að kröfur og skilyrði í starfsleyfum sem hún gefi út og veiting þeirra sé í samræmi við ákvæði laga og reglugerða þar að lútandi. Þá beri öllum atvinnurekstri sem geti haft í för með sér mengun að hafa gilt starfsleyfi, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. Atvinnurekstur sá sem ákvæðið nái yfir sé talinn upp í fylgiskjali 1, fylgiskjali 2 og I. viðauka með reglugerðinni. Samkvæmt lið 7.2 í fylgiskjali 2 séu alþjóðaflugvellir og flugvellir með eldsneytisafgreiðslu á meðal þeirrar starfsemi sem háð sé starfsleyfi heilbrigðisnefnda sveitarfélaga. Í lið 7.2 komi jafnframt skýrt fram að slíkir flugvellir falli í eftirlitsflokk 3.

Í reglugerð nr. 786/1999 um mengunarvarnaeftirlit sé kveðið á um tilhögun og umfang eftirlits með atvinnurekstri og athöfnum sem geti haft í för með sér mengun. Í 12. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um reglulegt mengunarvarnaeftirlit. Samkvæmt töflu yfir eftirlitsflokka sé flokkur 3 með eina skoðun á ári að meðaltali og eftirlitsmælingar tíunda hvert ár.

Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja beri skylda til að tilgreina með skýrum hætti í starfsleyfi hvaða starfsemi það sé sem falli undir leyfið, hve umfangsmikil hún sé, hvernig hagað skuli eftirliti, hvaða eftirlitsmælingar skuli framkvæmdar, hver framkvæmi þær, hvernig þær skuli framkvæmdar og hve oft. Sé starfsleyfi kæranda borið saman við framangreint sé ljóst að verulega skorti á að starfsleyfið uppfylli þær kröfur.

Í sundurliðun heilbrigðiseftirlitsins á eftirliti komi fram eftirfarandi tíðni eftirlitsferða:

Í þessari upptalningu sé að finna starfsleyfisskylda starfsemi, einstaka mengunarþætti sem falli undir slíka starfsemi (olíuskiljur o.fl., úrgang og spilliefni) og loks sé að finna þáttinn landmótun/tippar, sem ekki sé hluti af starfsleyfi kæranda. Tilgreind tíðni eftirlits sé engan veginn í samræmi við ákvæði 12. gr. reglugerðar nr. 786/1999 eða tilgreind í starfsleyfi og hafi því enga lagastoð. Sé það því krafa kæranda í ljósi framangreinds að gjaldskrá heilbrigðiseftirlitsins verði felld úr gildi eða til vara að tíðni eftirlits, sem lögð sé til grundvallar eftirlitsgjaldi, verði færð til samræmis við framangreint.

Í sundurliðun eftirlitsgjalds sé tilgreindur kostnaður vegna rannsókna á sýnum vegna eftirlits með vatnsveitu annars vegar og fráveitu hins vegar. Kærandi geri athugasemd við tilvist þessa liðar í gjaldskrá fyrir reglulegt eftirlit, einkum af tveimur ástæðum. Annars vegar að þrátt fyrir að almennt sé gert ráð fyrir slíkum sýnatökum hafi þær hvorki átt sér stað né sé víst að fjöldi sýna í lok árs verði sá sem uppgefinn sé. Með því að hafa gjaldið í fastri gjaldskrá fyrir reglulegt eftirlit sé um að ræða skattheimtu frekar en þjónustugjöld. Vísa megi hér einnig til þess að í 2. gr. gjaldskrár sé tilgreint gjald vegna rannsókna sýna pr. sýni samkvæmt eftirlitsáætlun. Eftirlitsáætlun sé breytingum háð og sýnafjöldi þar með. Eðlilegra væri að hafa slíka gjaldtöku utan fasts gjalds vegna eftirlits.

Hin ástæða athugasemda kæranda sé sú að samkvæmt starfsleyfi beri kærandi sjálfur ábyrgð á öllum sýnatökum, mælingum, vöktun og skýrslugjöf vegna þeirra, þ.m.t. í nefndum tilvikum. Í 6. gr. leyfisins sé m.a. tilgreint að kærandi skuli starfrækja innra eftirlit og að sýnataka og greining sé alla jafna hluti slíks eftirlits, hugsanlega með viðbótargreiningum eftirlitsaðila, og greiðist þá samkvæmt sérstökum reikningi. Í gr. 7.3 í starfsleyfi segi enn fremur: „[Kærandi] skal með mælingum og rannsóknum á viðtakanum meta álag og hugsanleg áhrif skólplosunar.“ Gjaldtaka heilbrigðiseftirlitsins vegna kostnaðar við rannsóknir á sýnum sé því tilhæfulaus. Verði gjaldskrá ekki felld úr gildi í heild sinni beri, að mati kæranda, að fella umrædda liði úr gjaldskrá og lækka hana um sambærilega upphæð.

Til viðbótar við framangreint vilji kærandi vísa til greinargerðar tilgreinds sérfræðings, dags. 9. nóvember 2016, um mat á hæfilegu/eðlilegu heilbrigðis- og mengunarvarnareftirliti með starfsemi kæranda á Keflavíkurflugvelli og endurgjaldi fyrir það. Þótt greinargerðin hafi ekki samskonar sönnunargildi og matsgerð dómkvaddra matsmanna verði ekki hjá því komist að taka mark á því sem þar komi fram, enda um að ræða vandað álit sérfræðings á því sviði. Kærandi vísi til greinargerðarinnar í heild sinni máli sínu til stuðnings.

Starfsleyfi kæranda sé gefið út af Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja, en lögum samkvæmt eigi heilbrigðisnefndir að gefa út starfsleyfi, sbr. 4. gr. a og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998, sbr. og 9. og 20. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli. Þannig fáist ekki séð að starfsleyfi kæranda sé gefið út af þar til bærum aðila og því verði hin kærða álagning ekki á því reist.

Hvergi í stjórnvaldsfyrirmælum eða lögum, þ. á m. lögum nr. 7/1998, sé fjallað um alþjóðaflugvelli fyrir þrjár milljónir farþega. Heilbrigðiseftirlitið hafi án lagaheimildar sjálft búið til slíkan flokk. Að búa þannig til sérstakan gjaldflokk sem taki mið af tilteknum farþegafjölda, eins og gert sé í umræddri gjaldskrá, eigi sér þannig hvorki stoð í lögum né reglugerðum og sé því beinlínis ólögmætt. Keflavíkurflugvöllur sé alþjóðaflugvöllur samkvæmt skilgreiningu í gr. 7.2 í fylgiskjali 2 með reglugerð nr. 785/1999 og hafi stjórnvald eins og heilbrigðiseftirlitið enga heimild til að útfæra hana nánar.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja: Heilbrigðiseftirlitið fer fram á að kæru í málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Til vara krefjist eftirlitið þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað.

Sé frávísunarkrafan á því byggð að kröfugerð kæranda sé mjög óljós miðað við málsástæður og gagnaframlagningu. Svo virðist sem kærandi sé öðrum þræði að krefjast þess að starfsleyfi hans verði fellt úr gildi en á hinn bóginn krefjist hann niðurfellingar eftirlitsgjalds.

Undanfarna áratugi hafi eftirlit með starfsemi Keflavíkurflugvallar verið fyrirferðamikið í eftirlitsstörfum Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, enda starfsemin fjölþætt og flókin og að hluta til um að ræða atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun. Ráðist hafi verið í gerð starfsleyfis fyrir starfsemi kæranda á árinu 2015 og hafi það verið gefið út í ágúst það ár. Mikil vinna hafi verið lögð í gerð starfsleyfisins og hafi drög að því m.a. verið send til umsagnar hjá Umhverfisstofnun, sem hafi séð sérstaka ástæðu til að hrósa heilbrigðiseftirlitinu fyrir vandaðan undirbúning leyfisins.

Fjölmargar meginröksemdir kæranda fjalli um starfsleyfisskilyrði. Á köflum verði ekki annað ráðið en að kærandi byggi málatilbúnað sinn á því að starfsleyfið sé ógilt. Kærandi hafi þó ekki kært útgáfu þess, eins og honum hafi þó verið heimilt. Leyfið teljist því vera að fullu í gildi og verði ekki skorið úr efnisatriðum þess í kærumáli vegna álagningar eftirlitsgjaldsins. Ef fallist yrði á röksemdir kæranda sem snúi að efnisatriðum leyfisins eða því að heilbrigðiseftirlitið hafi ekki verið bært til að gefa út starfsleyfið liggi fyrir að kærandi yrði án starfsleyfis með rekstur Keflavíkurflugvallar. Yrði þá að stöðva alla starfsleyfisskylda starfsemi hans þegar í stað.

Samkvæmt 10. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir beri sveitarfélög ábyrgð á heilbrigðiseftirliti á sínu svæði og greiði kostnað við það. Heimild sveitarfélaga til að innheimta gjöld á móti eftirliti og rekstri sé að finna í 3. mgr. 12. gr. og 5. mgr. 25. gr. laganna. Heilbrigðiseftirlitið sé hluti af grunnstoðum samfélagsins. Sveitarfélögin sem standi að Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja leggi áherslu á að eftirlitinu sé vel sinnt, öryggi og heilbrigði almennings sé ekki stefnt í hættu og gætt sé að umhverfinu af kostgæfni. Sveitarfélögin ætli eftirlitinu að sinna þessu hlutverki en einnig að standa undir eigin rekstri og ekki greiða með eftirlitinu. Þannig eigi þjónustugjöld að standa undir rekstrinum hvað eftirlitsskylda starfsemi varði en þar sé um fullkomlega lögmætt sjónarmið að ræða og í samræmi við framangreind lagaákvæði. Sveitarfélögum sé í sjálfsvald sett hvort þau greiði með heilbrigðiseftirliti eða ekki og því geti sá samanburður á verðlagningu á ólíkum stöðum á landinu, sem kærandi geti um í kæru sinni, ekki haft þýðingu við úrlausn málsins. Ákvörðun um kostnað vegna heilbrigðiseftirlits falli undir sjálfsstjórn sveitarfélaga samkvæmt stjórnarskrá og sveitarstjórnarlögum.

Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja byggi gjaldskrá sína á framangreindum lagaheimildum og fari eftir þeim. Hins vegar sé það rétt sem fram komi í rökstuðningi kæranda að innheimt gjöld við þjónustu heilbrigðiseftirlits skuli svara til þess kostnaðar sem eftirlitið hafi af starfseminni og að gjaldtakan megi ekki fela í sér skattheimtu. Um þessi meginatriði sé ekki ágreiningur, enda komi það fram í 3. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998. Á 250. fundi heilbrigðisnefndar Suðurnesja, sem haldinn hafi verið 4. júní 2015, hafi ársreikningur heilbrigðiseftirlitsins 2014 verið lagður fram til umræðu og samþykktur. Jafnframt hafi verið farið yfir rekstraráætlun ársins 2015. Í fundargerðinni komi fram að gjald fyrir útselda vinnu eftirlitsins samkvæmt eldri gjaldskrá hafi ekki endurspeglað raunverulegan kostnað embættisins við þjónustuna og því hafi verið samþykkt að tímagjald fyrir útselda vinnu yrði ákveðið kr. 17.340. Ákvörðunin hafi verið byggð á rekstraráætlunum embættisins. Gjaldskráin sé óbreytt á milli ára.

Samkvæmt rekstraráætlun leggi sveitarfélögin til ákveðinn hluta af rekstrarfé heilbrigðiseftirlitsins til að mæta almennri þjónustu við borgarana, sem ekki falli undir eftirlitsskylda starfsemi. Hinn þáttur rekstrarins, sem sé meginþáttur í starfsemi eftirlitsins, snúi að eftirlitsskyldum aðilum og verði að standa undir sér.

Útreikningur á fjárhæð tímagjalds miðist við jafnaðarútreikning á rekstrarkostnaði embættisins deilt niður á vinnustundir starfsmanna við að sinna eftirliti og þjónustuverkefnum og sé því um raunkostnað að ræða við eftirlit. Kærandi vísi til leiðbeinandi reglna ráðherra um uppbyggingu gjaldskráa sveitarfélaga fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit, sbr. auglýsingu nr. 254/1999. Reglurnar séu ekki bindandi fyrir stjórnvöld en séu til leiðbeiningar við gerð gjaldskráa, eins og nafnið beri með sér. Heimild til setningar leiðbeininganna hafi komið inn í lög nr. 7/1998 með lögum nr. 59/1999, þegar út hafi verið tekið ákvæði um að ráðherra skyldi setja hámarksgjaldskrá. Í athugasemdum sem fylgt hafi lögum nr. 59/1999 hafi komið skýrt fram að það sé á ábyrgð sveitarfélaga að reikna út og leggja á gjöld, en ráðherra hafi ekki afskipti af gjaldtökunni, enda fari það gegn sjálfsstjórn sveitarfélaga. Hins vegar sé ljóst að þeir kostnaðarliðir sem upp séu taldir í 2. gr. leiðbeininganna innifeli nánast allan rekstrarkostnað embættanna, þ.m.t. lífeyrisskuldbindingar, húsaleigu, afskriftir, endurmenntun starfsmanna o.s.frv. Nefnd atriði falli því að þeim meginsjónarmiðum sem lögð hafi verið til grundvallar við útreikning á tímagjaldi við rekstur heilbrigðiseftirlitsins. Gjöldin séu síðan reiknuð út sem margfeldi tímagjalds og tíðni í eftirlitsáætlun, sbr. 5. gr. leiðbeininga.

Kostnaður við sýnatöku og rannsóknir á sýnum sé reiknaður þannig að sýni séu send til rannsóknar og sé kostnaður við hvert sýni sú fjárhæð sem greiða þurfi fyrir rannsóknina samkvæmt gildandi gjaldskrá rannsóknaraðila á þeim tíma sem gjaldskrá heilbrigðiseftirlitsins sé birt.

Við endurskoðun eftirlitskostnaðar hafi verið reynt eftir fremsta megni að láta heildarálagningu gjalda á eftirlitsskylda aðila ekki hækka nema að óverulegu leyti, þó þannig að gjöldin verði að standa undir raunkostnaði embættisins. Í tilfelli kæranda hafi verið reynt að gera hið sama, þannig að eftirlitsgjöldin á grundvelli starfsleyfis myndu ekki hækka umfram það sem verið hefði. Með endurskipulagningu og samráði við kæranda hafi verið talið unnt að hagræða í eftirliti, þannig að álögð gjöld fyrir þjónustuna næmu 9,2 milljónum króna fyrir árið 2015. Álagning fyrir árið 2016 nemi tæplega 7,3 milljónum króna, þar sem ákveðinn þáttur hefði verið felldur niður tímabundið. Gjöldin hafi numið 12,6 milljónum króna fyrir árið 2013 en 13,3 milljónum fyrir árið 2014. Heilbrigðiseftirlitið hafi því lækkað eftirlitsgjöldin verulega á milli ára og endurspeglist það í stöðugu endurmati á raunkostnaði við framkvæmd eftirlitsins.

Töluvert hafi borið á milli upphaflegra draga heilbrigðiseftirlitsins að eftirlitsáætlun samkvæmt útgefnu starfsleyfi og hugmynda kæranda um þörf á eftirliti. Kærandi hafi lagt til óverulegt eftirlit á meðan að heilbrigðiseftirlitið hafi, vegna eðlis starfseminnar, öryggis almennings og mengunarhættu, lagt til þéttari eftirlitstíðni, a.m.k. fyrst í stað, enda starfsemin rekin samkvæmt nýju starfsleyfi þar sem kærandi hafi átt eftir að uppfylla ýmsar kröfur. Umsvif Keflavíkurflugvallar aukist ár frá ári og samkvæmt upplýsingum kæranda hafi verið 37% aukning á milli ára miðað við október 2016 og fjöldi farþega fyrstu 10 mánuði ársins orðinn 5,8 milljónir. Spár kæranda geri ráð fyrir að fjöldi farþega á árinu 2017 verði 8,6 milljónir. Í starfsleyfinu sé gert ráð fyrir endurskoðun, en kærandi virðist ekki hafa getað sætt sig við þetta án þess að hann hafi þó kært starfsleyfið.

Af framsetningu kæranda megi ráða að hann sjálfur standi fyrir öllum mælingum og vöktunum sem verið sé að innheimta eftirlitsgjald fyrir. Þessi framsetning sé til þess fallin að valda misskilningi. Hið rétta sé að hvað vöktun umhverfisþátta varði sé fyrst og fremst um að ræða vöktun loftgæða, grunnvatns strandsjávar við skolpútrás og hávaða frá flugumferð.

Um loftgæði gildi reglugerð nr. 920/2016. Heilbrigðiseftirlitið hafi, með vísan til 7. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar, gert kröfu um uppsetningu mælistöðva. Vinna eftirlitsins felist, samkvæmt ákvæðinu, í því að taka við, yfirfara og leiðrétta mælingagögn, skrásetja gögn og gera árlega skýrslu til Umhverfisstofnunar, þar sem fram komi ársmeðaltöl, sólarhringsmeðaltöl og öll klukkustundarmeðaltöl ársins. Um vöktun grunnvatns sé fjallað í 2. kafla starfsleyfis kæranda. Samkvæmt því beri kæranda að senda heilbrigðiseftirlitinu tillögu að grunnúttekt á ástandi grunnvatns á flugvallarsvæðinu. Umfang eftirlits með mengunarvörnum grunnvatns, svo sem olíuskiljum, settjörnum og siturlögnum, hafi reynst umfangsmeira en áætlað hafi verið. Varðandi vöktun strandsjávar skuli tekið fram að heilbrigðiseftirlitið annist sjálft sýnatökur úr strandsjó við skólpútrás, komi sýnum til rannsóknarstofu, túlki og skrái niðurstöður.

Um vöktun og eftirlit með hávaða hafi kæranda borið samkvæmt starfsleyfi að koma með tillögur um staðsetningu hljóðmæla, tíðni og fyrirkomulag mælinga fyrir 15. desember 2015. Engar upplýsingar liggi fyrir um mælingar og þar sem heilbrigðiseftirlitið hafi ekki innt af hendi vinnu við yfirferð gagna um hljóðmælingar hafi verið ákveðið að fella niður gjaldtöku fyrir þann þátt eftirlitsins fyrir árið 2016. Ef símælingar verði teknar upp ætti það að hafa áhrif til lækkunar á eftirlitskostnaði.

Kærandi hafi leitað til tilgreinds sérfræðings og falið honum að vinna greinargerð um það sem hann telji eðlileg eftirlitsgjöld. Sú greinargerð sé þýðingarlaust plagg, enda komi þar fram að höfundur hafi ekki leitað eftir upplýsingum hjá starfsmönnum heilbrigðiseftirlitsins um framkvæmd eftirlitsins, þ. á m. hvernig eftirlitsáætlun sé útbúin, eins og kærandi hefði getað kallað eftir, og greinargerðarhöfundur virðist heldur ekki hafa kynnt sér aðstæður á vettvangi af eigin raun. Þá sé greinargerðin lituð af eigin skoðunum og ágiskunum höfundar. Ekki sé því hægt að kalla greinargerðina hlutlausa.

Kærandi láti að því liggja að að hann sitji ekki við sama borð og aðrir hvað gjaldtöku varði, þrátt fyrir að fasteignagjöld kæranda til Sandgerðisbæjar hlaupi á hundruðum milljóna ár hvert. Heilbrigðiseftirlitið fái ekki skilið hvaða þýðingu þetta eigi að hafa í málinu þar sem eftirlitið fái enga hlutdeild í fasteignagjaldatekjum sveitarfélaga í umdæminu. Þá greiði sveitarfélögin árlega framlag úr sveitarsjóði til að standa undir starfsemi heilbrigðiseftirlitsins, sem ekki tengist umræddu eftirliti, og sé þar um að ræða almennt lóðaeftirlit, samskipti við almenning, umsagnir, laun nefndarmanna o.þ.h. Eftirlitsgjöld fyrirtækja og stofnana standi undir eftirlitinu sjálfu.

Rekstrartekjur hafi ekki staðið undir kostnaði af eftirlitinu og því hafi verið nauðsynlegt að hækka gjaldskrá. Til grundvallar hækkun hafi legið greining á ársverkum og kostnaðarliðum og þekkt stærð varðandi virkar vinnustundir við eftirlitið. Útreiknað tímagjald hafi verið fundið út með því að deila heildarlaunakostnaði með virkum vinnustundum við útselt eftirlit og við það bætt hlutdeild í föstum kostnaði og stjórnunarkostnaði. Í nefndum forsendum hafi verið undanskilinn sérkostnaður, sem fram komi í sundurliðun ársreiknings á öðrum rekstrarkostnaði og varði meindýr, dýralæknaþjónustu, rannsóknarþjónustu og sérstakar vátryggingar. Framangreindar forsendur séu í samræmi við leiðbeinandi reglur í auglýsingu nr. 254/1999. Eftirlitsgjöld heilbrigðiseftirlitsins séu óbreytt milli ára vegna aðhalds í rekstri. Við embættið starfi 5 manns í 4,7 stöðugildum. Í forsendum hafi verið gert ráð fyrir því að reikna yrði með 4.700 útseldum vinnutímum (virkar stundir). Kostnaðarverð miðað við launakostnað sé því kr. 15.340 og við það hafi verið bætt kr. 2.000 fyrir fastan kostnað, stjórnunarkostnað og annað, sem sé talið algert lágmark. Þannig útreiknað sé kostnaðarverð kr. 17.340 sem útseldur tími samkvæmt gjaldskrá nr. 927/2015. Kostnaður við sýnatökur byggi á gjaldskrá Matís á hverjum tíma. Tekið sé fram að öll gjöld í gjaldskrá heilbrigðiseftirlitsins séu vegna reglubundins eftirlits og það eigi einnig við um þau gjöld sem lögð séu á kæranda.

Kærandi geri að sérstöku umtalsefni að í eftirlitsáætlun sé að finna liðinn landmótun/tippar, sem ekki sé hluti af starfsleyfi hans. Við gerð starfsleyfisins hafi heilbrigðiseftirlitinu ekki verið kunnugt um að kærandi hygðist starfrækja jarðvegstipp á flugvallarsvæðinu. Í eftirlitsferð hafi starfsmenn eftirlitsins hins vegar orðið varir við slíka uppsöfnun jarðvegs og ýmiskonar steypuúrgangs. Kæranda hafi ítrekað verið bent á að slík uppsöfnun væri án starfsleyfis en hann hafi enn ekki sótt um leyfi fyrir tippinn. Eftirliti hafi þó verið haldið úti með nefndum jarðvegstippi, eins og fjórar nánar tilgreindar skýrslur sýni.

Því sé sérstaklega mótmælt að heilbrigðiseftirlitið sé bundið af tíðni sem fram komi í töflu í 2. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 786/1999 um mengunarvarnaeftirlit. Um lágmarksviðmið sé að ræða, ef ekki sé kveðið á um annað. Eins og komið hafi fram sé starfsemi kæranda sérstaks eðlis og um hana hafi verið gefið út sérstakt starfsleyfi. Eftirlitsáætlun starfsleyfisins greini aðra tíðni en lágmarkið sem reglugerðin kveði á um. Í 6. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um að tíðni eftirlits megi haga eftir kerfisbundnu áhættumati. Heilbrigðiseftirlitið hafi gert ríkari kröfur út frá eðli starfsemi kæranda, þess álags sem umfang síaukinna umsvifa starfsemi kæranda hafi á umhverfið og þess að enn sé mörgum þáttum ólokið í uppbyggingunni hjá kæranda. Heilbrigðiseftirlitið hafi þannig byggt mat sitt á því að umhverfið og samfélagið njóti vafans.

Tíðni eftirlits með starfsemi kæranda hafi verið ákveðin út frá áhættumati. Ekki séu til viðurkennd áhættumatskerfi til að meta tíðni umhverfiseftirlits hér á landi. Við mat á tíðni eftirlits með starfsemi kæranda hafi eftirfarandi þættir verið lagðir til grundvallar: Hætta á bráðamengun, heilsufarslegar afleiðingar mengunar fyrir almenning (hávaði, loftgæði), áhrif á lífríkið, tegund og magn spilliefna, mengunarvarnir sem eru til staðar (olíuskiljur, sandföng, settjarnir, siturlagnir og söfnunartankar), ástand mengunarvarna (tegund, aldur, ástand og aðvörunarbúnaður), hætta á mengun grunnvatns, viðtakar (viðkvæmni viðtaka, magn og tegund mengandi efna), áfyllingar- og afgreiðsluplön (tegund, aldur, staðsetning, ástand og árekstrarvarnir) og loks tegund og magn úrgangs.

Mismunandi stig séu gefin fyrir hvern áhættuþátt. Samanlögð stig ákvarði síðan eftirlitstíðni eftirlitsskyldra fyrirtækja. Ef fyrirtæki séu með fjölbreytta starfsemi sé hver þáttur metinn fyrir sig. Samanlögð útkoma hvers þáttar ákvarði eftirlitstíðni fyrirtækisins.

Í eftirfarandi töflu megi sjá forsendur fyrir eftirlitsáætlun, sem unnin hafi verið fyrir kæranda fyrir árið 2015, en samkvæmt henni sé heildarupphæð gjalda kr. 9.225.033. Seinna hafi verið felld niður ákveðin gjöld, eða kr. 1.925.890. Sú fjárhæð sem krafist hafi verið fyrir árið 2016 hafi því verið kr. 7.299.143.

 

Af gögnum sem lögð hafi verið fram sé ljóst að ekki sé um rekstrarafgang að ræða hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja. Ekkert bendi því til að með álagningu eftirlitsgjalda á kæranda fyrir árið 2016 sé komið út fyrir ramma þjónustugjalda og inn á svið skattheimtu. Hækkun álagðra gjalda á kæranda sé hófleg og eðlileg miðað við verðlags- og launaþróun á tímabilinu og verð fyrir aðkeypta þjónustu.

Mismunur á rekstrartekjum og rekstrarkostnaði hafi verið eftirfarandi á síðustu árum í krónum talið. Tölurnar séu án fjármagnsliða:

Ár

2016

2015

2014

Rekstrartekjur

87.107.260

88.556.707

86.807.178

Rekstrarkostnaður

89.200.343

92.302.918

95.066.578

Rekstrarhalli

(2.093.083)

(3.746.211)

(8.259.400)

 

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna ágreinings um framkvæmd laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, reglugerða settum samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir yfirvalda er að finna í þágildandi 31. gr. laganna, nú 65. gr. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk hennar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Tekur nefndin því aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, en það fellur utan valdheimilda hennar að taka nýja ákvörðun um álagningu.

Af hálfu heilbrigðiseftirlitsins hefur verið farið fram á frávísun málsins sökum þess hve málatilbúnaður kæranda sé óljós. Fyrir úrskurðarnefndinni liggur að kærð er álagning gjalds sem kærandi telur ólögmæta og verður með hliðsjón af þeirri leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu sem á úrskurðarnefndinni hvílir, sbr. 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ekki fallist á að vísa kærunni frá vegna vanreifunar.

Samkvæmt þágildandi 10. gr. laga nr. 7/1998, nú 44. gr., skal ekkert sveitarfélag vera án heilbrigðiseftirlits og greiða sveitarfélögin kostnað við eftirlitið, að svo miklu leyti sem lög mæla ekki fyrir á annan veg. Samkvæmt þágildandi 3. mgr. 12. gr. laganna, nú 46. gr., er sveitarfélögum heimilt að setja gjaldskrá og innheimta gjald fyrir eftirlitsskylda starfsemi, svo sem fyrir eftirlit, útgáfu starfsleyfa og vottorða, sé eftirlitið á vegum sveitarfélaga. Samgöngumiðstöðvar skulu hafa gilt starfsleyfi gefið út af heilbrigðisnefnd skv. þágildandi 4. gr. a í lögum nr. 7/1998, sbr. fylgiskjal II, og það skyldu alþjóðaflugvellir einnig hafa, sbr. fylgiskjal 2 með þágildandi reglugerð nr. 786/1999 um mengunarvarnaeftirlit. Í þágildandi 8. gr. reglugerðarinnar segir um umfang mengunarvarnaeftirlits að það nái til lofts, láðs og lagar, svo og búnaðar og allra aðstæðna, sem valdið geti mengun. Eftirlitið felist m.a. í að framfylgja ákvæðum laga, reglugerða og starfsleyfa og eftirliti með nánasta umhverfi viðkomandi atvinnurekstrar. Er af tilgreindum laga- og reglugerðarákvæðum ljóst að eftirlit með atvinnustarfsemi er ekki bundið við starfsleyfi og skilyrði þess. Hefur því ekki þýðingu hvað varðar hina kærðu álagningu að kærandi byggir öðrum þræði á því að starfsleyfi honum til handa hafi ekki verið gefið út af réttum aðila, auk þess sem gjöld þau sem af honum séu innheimt séu m.a. fyrir eftirlit með starfsemi sem honum sé ekki heimiluð í starfsleyfinu.

Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 12. gr. laga nr. 7/1998, nú 46. gr., bera sveitarfélög ábyrgð á fjármálum og rekstri heilbrigðiseftirlits á viðkomandi svæði. Þau hafa umsjón með fjármálum  þeirrar stofnunar, skiptingu kostnaðar milli sveitarfélaga og álagningu eftirlitsgjalda. Við kostnaðarskiptingu skal miða við að allar tekjur af eftirlitsskyldri starfsemi á svæðinu renni í sameiginlegan sjóð til greiðslu rekstrarkostnaðar heilbrigðiseftirlits á svæðinu. Lögin mæla nánar fyrir um hvernig ákvarða skuli fjárhæð nefndra eftirlitsgjalda, en í 3. mgr. 12. gr. segir að upphæð gjaldsins skuli byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði séu rökstudd sem ákvörðun gjalds við viðkomandi eftirlit byggist á. Megi gjaldið ekki vera hærra en sá kostnaður. Samkvæmt framangreindu eru gjöld fyrir eftirlitsskylda starfsemi svokölluð þjónustugjöld og lúta reglum sem um þau gilda.

Gjaldskrá fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á Suðurnesjasvæði hefur verið sett og er hún nr. 927/2015. Gjaldskráin var birt í B-deild Stjórnartíðinda 19. október 2015. Samkvæmt 2. gr. gjaldskrárinnar er tímagjald heilbrigðiseftirlitsins kr. 17.340 og gjald vegna rannsóknar fyrir eitt sýni kr. 20.200. Öll gjöld sem innheimt eru af heilbrigðiseftirlitinu eru reiknuð út frá nefndu tímagjaldi, auk gjalds fyrir sýnatökur þar sem það á við. Í 8. gr. gjaldskrárinnar er tekið fram að þegar sami aðili reki fleiri en eina tegund starfsemi sem falli undir gjaldskrána á einum og sama stað sé heimilt að innheimta eitt árlegt gjald, þá í þeim flokki sem hærri sé. Í fylgiskjali með gjaldskránni er listi yfir tegundir fyrirtækja og eftirlitsgjöld sem þau skulu standa skil á. Þar á meðal er Alþjóðaflugvöllur > 3 milljónir farþega, en einnig má finna æfingasvæði slökkviliðs, jarðvegstippi ofl. Samkvæmt gögnum málsins hafa hin kærðu eftirlitsgjöld verið reiknuð út, miðað við fjölda tíma sem varið er í viðkomandi eftirlit yfir árið og eftir atvikum fjölda sýna sem tekin eru og rannsökuð. Í athugasemdum heilbrigðiseftirlitsins kemur fram hverjar eru forsendur þeirra gjalda sem kærandi er krafinn um.

Í samræmi við það sem fram kom um fjármögnun heilbrigðiseftirlits samkvæmt þágildandi 12. gr. laga nr. 7/1998 stendur tímagjald undir fleiri þáttum en launum starfsmanna heilbrigðiseftirlitsins og tengdum gjöldum, en samkvæmt ákvæðinu er skýrt að leyfilegt er að miða við að gjöldunum sé varið til reksturs eftirlitsins í heild. Má gera ráð fyrir að hluta þeirra sé varið til annars rekstrarkostnaðar, svo sem reksturs skrifstofu. Miðað við þetta telst tímagjaldið vera eðlilegt. Jafnframt kemur fram í gögnum að fyrir hvert sýni innheimtir rannsóknaraðili kr. 19.800, en þar við bætist kr. 1.850 fyrir einnota áhöld, alls kr. 21.650. Kostnaður við sýni er því hærri en sú fjárhæð sem innheimt er af heilbrigðiseftirlitinu. Er ekkert í gögnum málsins sem bendir til annars en að ákvörðun um upphæð hinna kærðu eftirlitsgjalda hafi verið í samræmi við skilyrði nefndrar lagagreinar. Bendir ekkert heldur til þess að farið hafi verið á skjön við leiðbeinandi reglur ráðherra nr. 254/1999 um uppbyggingu gjaldskráa sveitarfélaga fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit, en reglurnar voru gefnar út í samræmi við lokamálslið 3. mgr. nefndrar 12. gr. laga nr. 7/1998 og koma ekki í stað lagagreinarinnar. Það raskar heldur ekki gildi hinnar kærðu álagningar að í gjaldskrá séu eftirlitsgjöld tilgreind fyrir ákveðna stærð flugvallar þótt svo nákvæma tilgreiningu sé ekki að finna í öðrum lögum og reglum. Er enda öllum ljóst hvaða flugvöll er um að ræða og skiptir nafngift flokksins engum sköpum þar um.

Kærandi hefur einnig gert athugasemdir við þá flokka og tíðni eftirlits sem að baki hinu kærða gjaldi liggja. Að áliti úrskurðarnefndarinnar geta þeir flokkar sem um ræðir talist eðlilegur hluti starfsemi alþjóðaflugvallar. Er og ljóst að svo sem áður er rakið fer eftirlit fram með þeirri starfsemi sem fram fer í raun, en er ekki bundið við eftirlit með starfsleyfisskilyrðum. Verður því ekki gerð athugasemd við að við gjaldtökuna sé m.a. gert ráð fyrir eftirliti með jarðvegstippi, en samkvæmt gögnum málsins kom fram við eftirlit að slíkur tippur væri á athafnasvæði flugvallarins. Í 12. gr. þágildandi reglugerðar nr. 786/1999 er fjallað um reglubundið mengunarvarnaeftirlit. Skiptist það í 5 flokka skv. gr. 12.1 og fellur alþjóðaflugvöllur í flokk 3 skv. fylgiskjali 2. Skal haga reglubundnu eftirliti eftir töflu A nema annað segi í reglugerðinni eða starfsleyfum. Í töflu A er yfirlit yfir meðaltíðni eftirlits og samkvæmt henni er meðalfjöldi skoðana í flokki 3 einu sinni á ári og eftirlitsmælingar tíunda hvert ár. Nefndri reglugerð var breytt með reglugerð nr. 375/2015 og segir í þágildandi gr. 12.6 eftir breytinguna að eftirlitsaðila sé heimilt að haga tíðni reglubundins eftirlits út frá kerfisbundnu áhættumati sem gert sé á hlutaðeigandi fyrirtæki. Slíkt mat er meðal gagna málsins, auk þess sem meðaltíðni felur í sér samkvæmt orðanna hljóðan að um meðaltal sé að ræða. Með vísan til þess og gagna málsins er ekkert fram komið annað en að mat heilbrigðiseftirlitsins á þörf á eftirliti með starfsemi flugvallarins hafi verið framkvæmt á málefnalegum grundvelli og verið byggt á efnisrökum, hvað sem líður áliti þess sérfræðings sem kærandi hefur teflt fram. Er í þessu sambandi rétt að árétta að rekstur Keflavíkurflugvallar er einstakur á landsvísu og má gera ráð fyrir því að umfang eftirlits með þeirri atvinnustarfsemi miðist við það. Kemur innra eftirlit kæranda því ekki í stað.

Séu rekstrartölur Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja fyrir árin 2014, 2015 og 2016 skoðaðar sést að rekstrarkostnaður er hærri en rekstrartekjur fyrir öll árin og er sú niðurstaða í samræmi við áskilnað þágildandi 3. mgr. 12. gr. laga nr. 7/1998, nú 46. gr., um að álögð gjöld megi ekki vera hærri en kostnaður af rekstri heilbrigðiseftirlits.

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu er eftirlitsgjald fyrir alþjóðaflugvöll > 3 milljónir farþega kr. 9.205.423, samkvæmt gjaldskrá nr. 927/2015 fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á Suðurnesjasvæði. Það grunngjald sem umkrafin gjöld kæranda fyrir árið 2016 byggjast á er hinsvegar kr. 9.225.033, samkvæmt eftirlitsáætlun, sem áður hefur verið fjallað um. Það gjald var síðan lækkað tímabundið um kr. 1.925.890 og var reikningur fyrir eftirlitsgjöldum, dags. 19. október 2016, sem mál þetta snýst um, að fjárhæð kr. 7.299.143. Að sögn Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja stafar sá munur á upphæð gjalda samkvæmt gjaldskrá og eftirlitsáætlun af ritvillu í gjaldskránni og var byggt á eftirlitsáætlun, eins og áður sagði. Á það ber hins vegar að líta að um auglýsta gjaldskrá er að ræða og verður að ætlast til þess að sú fjárhæð sem þar kemur fram sé sú fjárhæð sem álagning byggist á. Af þeim sökum verður álagt gjald fellt úr gildi að þeim hluta sem fór umfram auglýsta fjárhæð, eða kr. 19.610.

Samkvæmt öllu því sem að framan er rakið er álagning eftirlitsgjalda fyrir árið 2016 felld úr gildi hvað varðar kr. 19.610, en að öðru leyti er kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils umfangs og fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 19. október 2016 um álagningu gjalda vegna heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlits á Keflavíkurflugvelli að þeim hluta er varðar kr. 19.610. Að öðru leyti stendur hin kærða ákvörðun óröskuð.

99/2016 Grettisgata

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 9. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 99/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. júní 2016 um að hafna beitingu þvingunarúrræða vegna geymsluskúrs á lóðinni nr. 41 við Grettisgötu í Reykjavík og á ákvörðun byggingarfulltrúans frá 26. júlí 2016 um að samþykkja umsókn um leyfi til að hækka ris og endurbyggja, sem og til að byggja staðsteypta viðbyggingu aftan við einbýlishús á sömu lóð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. júlí 2016, kæra lóðarhafar lóðarinnar nr. 43a við Grettisgötu í Reykjavík, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. júní 2016 um að hafna beitingu þvingunarúrræða vegna byggingar geymsluskúrs á lóðinni nr. 41 við Grettisgötu. Verður að líta svo á að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. ágúst 2016, er móttekið var 26. s.m., mótmæla kærendur jafnframt ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. júlí s.á., um að veita leyfi til að hækka og endurbyggja ris og byggja staðsteypta viðbyggingu aftan við einbýlishús á lóðinni nr. 41 við Grettisgötu. Verður að skilja erindi kærenda svo að greind ákvörðun sé einnig kærð til nefndarinnar og að þess sé krafist að hún verði felld úr gildi. 

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 31. janúar 2017 og 10. apríl 2018.

Málavextir: Hinn 19. maí 2016 sendu kærendur erindi til skilmáladeildar byggingarfulltrúans í Reykjavík og vöktu athygli hans á því að hafin væri framkvæmd við byggingu geymsluskúrs á lóðinni nr. 41 við Grettisgötu. Bentu þeir á að lóð hefði verið lækkuð um 60 cm við lóðamörk, grunnur steyptur og raflagnatengingu komið fyrir. Burðargrind úr timbri hefði verið reist og að geymsluskúrinn virtist eiga að verða um 3 m á hæð, auk þess sem timburgrindverk á lóðamörkunum hefði verið rifið af undirstöðum sínum vegna framkvæmdanna.

Byggingarfulltrúi brást við ábendingunni og kannaði aðstæður á vettvangi 20. maí 2016. Skrifaði hann í framhaldinu lóðarhafa lóðarinnar nr. 41 bréf, dags. 24. maí 2016, þar sem hann var krafinn um skýringar á framkvæmdinni og honum gefinn 14 daga frestur til þess frá móttöku bréfsins að telja. Byggingarfulltrúi tilkynnti kærendum með tölvupósti 13. júní 2016 að hann hefði lokið afskiptum sínum af framkvæmdunum þar sem þær rúmuðust innan ákvæða byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um framkvæmdir sem undanþegnar væru byggingarleyfi, enda yrði lóðin hækkuð upp aftur, lóðarhafar aðliggjandi lóðar hefðu veitt samþykki sitt og raflagnir í smáhýsum væru ekki lengur byggingarleyfisskyldar, sbr. nýjustu uppfærslu byggingarreglugerðar.

Hinn 29. júní 2016 sendu kærendur bréf til skilmálafulltrúa Reykjavíkurborgar vegna byggingarinnar þar sem vísað var til fyrri tölvupóstsamskipta og bent á að kærendur teldu byggingarfulltrúa hafa nægar forsendur til að stöðva framkvæmdir og gera lóðarhafa lóðar nr. 41 að lagfæra grindverkið. Þá var þess óskað að byggingarfulltrúi leiðbeindi um kæruleið, stæði hann við ákvörðun sína um að aðhafast ekkert í málinu. Barst kæra úrskurðarnefndinni 12. júlí 2016, svo sem áður segir.

Hafa kærendur einnig kært samþykki byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. júlí 2016 á hækkun og endurbyggingu á risi og byggingu staðsteyptrar viðbyggingar aftan við einbýlishúsið á lóð nr. 41 við Grettisgötu. Forsaga þess hluta málsins er sú að með úrskurði úrskurðarnefndarinnar, í kærumáli nr. 81/2015, sem kveðinn var upp 10. desember 2015, var felld úr gildi fyrri ákvörðun byggingarfulltrúans um að veita byggingarleyfi fyrir hækkun nefnds húss og staðsteyptri tveggja hæða viðbyggingu þar sem leyfið var ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag.

Málsrök kærenda: Kærendur telja geymsluskúrinn ekki geta talist smáhýsi þar sem hann sé tæpir 3 m á hæð, auk þess sem ekki sé gert ráð fyrir honum í gildandi deiliskipulagi. Lóðarhafa lóðarinnar nr. 41 hafi borið að fá samþykki kærenda fyrir skúrbyggingunni áður en hann reif niður timburgrindverkið sem skildi lóðirnar nr. 41 og 43 að, en umrætt grindverk hafi verið reist fyrir þeirra fé. Aðkomukvöðin sem hvíli á lóðinni Grettisgötu nr. 43 sé jafngildi einhvers konar eignarréttar og hafi eigandi lóðar nr. 41 aldrei haft neinn rétt til að þvælast um í heimreið kærenda og eyðileggja grindverkið án þeirra samþykkis. Þá hafi ekki verið tekið tillit til eldvarna við byggingu skúrsins.

Jafnframt sé mótmælt ákvörðun byggingarfulltrúa frá 26. júlí 2016. Honum hafi ekki verið stætt á að taka erindið fyrir þar sem samþykktur deiliskipulagsuppdráttur sem liggi ákvörðuninni til grundvallar sé rangur. Uppdrátturinn gefi til kynna að grunnflötur hússins sé helmingi stærri en raunin sé og að húsið sé tvær hæðir þegar það sé í raun kjallari, hæð og ómanngengt ris. Hvergi sé minnst á heimild til viðbyggingar í texta deiliskipulagsins heldur eingöngu til stækkunar og hækkunar á útvegg, portvegg, um allt að 1,5 m.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld krefjast þess að kæru vegna geymsluskúrsins verði vísað frá á grundvelli aðildarskorts. Samkvæmt óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttar verði aðili máls að hafa beinna, verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta við úrlausn máls. Við úrlausn á þessum matskenndu mælikvörðum þurfi að beita heildstæðu mati á hagsmunum og tengslum kærenda við umrætt stjórnsýslumál. Kærendur geti ekki talist hafa beinna hagsmuna að gæta við úrlausn málsins þar sem umræddar framkvæmdir séu allar innan lóðarinnar nr. 41 við Grettisgötu. Auk þess verði ekki séð að þeir hafi neinna tilfinnanlegra hagsmuna að gæta. Framkvæmdin sé upp að lóðarmörkum við lóð nr. 43, en ekki að lóð kærenda. Kærendur geti ekki talist eiga beinna hagsmuna að gæta þótt þeir eigi umferðarrétt um lóð nr. 43. Slíkir hagsmunir séu á milli kærenda og þess lóðarhafa, en veiti þeim ekki heimild til að gerast aðilar máls vegna framkvæmda upp að mörkum lóðar nr. 43 nema framkvæmd skerði nýtingu umferðarréttar hans. Ekki hafi verið færð fram rök fyrir að sá réttur sé með nokkru móti skertur.

Þess sé jafnframt krafist að kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 26. júlí 2016 verði vísað frá þar sem hún hafi borist utan kærufrests, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Almennt sé miðað við að kærufrestur sé 30 dagar en kæran hafi borist 31 degi eftir að ákvörðunin var birt og hafi kærendum verið vel kunnugt um framkvæmdirnar áður en byggingaráformin hafi verið samþykkt.

——-

Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands hefur byggingarleyfishafi selt eignina að Grettisgötu 41.

——-

Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi með óformlegum hætti 2. ágúst 2018.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. júní 2016 að hafna beitingu þvingunarúrræða vegna byggingar geymsluskúrs á lóð nr. 41 við Grettisgötu, sem og ákvörðunar byggingarfulltrúans frá 26. júlí 2016 um að samþykkja umsókn um leyfi til að hækka ris og endurbyggja og til að byggja staðsteypta viðbyggingu aftan við einbýlishús á sömu lóð.

Í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Hefur ákvæðið verið túlkað þannig að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eigi verulegra einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra. Samkvæmt 4. mgr. gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 fellur samþykkt byggingaráforma úr gildi hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út innan tveggja ára frá samþykkt þeirra. Hin kærða ákvörðun um samþykkt byggingaráforma var tekin 26. júlí 2016, en samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað, hefur byggingarleyfi ekki verið gefið út. Þar sem rúmlega tvö ár eru liðin frá því að hin kærða ákvörðun var tekin, án þess að byggingarleyfi hafi verið gefið út, er hún fallin úr gildi og hefur því ekki lengur réttarverkan samkvæmt lögum. Eiga kærendur af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar. Verður þeim hluta kærumáls þessa af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Lóð kærenda að Grettisgötu nr. 43a er baklóð sem liggur að litlum hluta að lóðinni nr. 41 við sömu götu. Kærendur eiga umferðarrétt á lóð nr. 43 meðfram mörkum lóðanna nr. 43 og 41. Við þau lóðamörk, en innan lóðarinnar nr. 41, stendur umræddur geymsluskúr fast upp að tengihúsi (spennistöð) sem einnig er á lóðamörkunum, en nær Grettisgötu. Ganga kærendur fram hjá skúrnum og tengihúsinu þegar þeir eiga leið til eða frá lóð sinni, en ekki verður séð að framkvæmdin hafi nokkur áhrif á umferðarrétt kærenda. Kærendur halda því einnig fram að fjarlægt hafi verið grindverk sem þeir hafi borið kostnað við að hluta. Slíkur eignarréttarlegur ágreiningur á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina, heldur eftir atvikum dómstóla. Hins vegar er sökum þeirra grenndaráhrifa sem geymsluskúrinn mögulega veldur ekki hægt að útiloka að kærendur hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn þess hluta kærumálsins sem lýtur að synjun byggingarfulltrúa á beitingu þvingunarúrræða vegna skúrsins. Verður mál þetta því tekið til efnismeðferðar hvað það varðar.

Byggingarfulltrúi getur beitt þvingunarúrræðum m.a. í því skyni að stöðva framkvæmdir, sbr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, og til að knýja fram úrbætur, sbr. 56. gr. sömu laga. Í kjölfar vettvangsskoðunar var af hálfu byggingarfulltrúa í bréfi hans, dags. 24. maí 2016, vísað til nefndrar 55. gr., framkvæmdir stöðvaðar við hinn umdeilda geymsluskúr, og byggingaraðila veittur frestur til að koma að skýringum. Meðal gagna málsins eru tölvupóstsamskipti milli kærenda og embættis byggingarfulltrúa. Kemur fram í pósti þess síðarnefnda frá 30. s.m. að samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar liggi fyrir en skúrinn sé of hár og grunnur steyptur og sé skúrinn því ekki undanþeginn byggingarleyfi. Málinu var síðar lokið af hálfu byggingarfulltrúa að fengnum skýringum eiganda skúrsins og vísað til þess að ekki væri um byggingarleyfisskylda framkvæmd að ræða.

Í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð er fjallað um minniháttar framkvæmdir undanþegnar byggingarleyfi og í g-lið ákvæðisins er nánar fjallað um smáhýsi á lóð. Nefndum g-lið var breytt með reglugerð nr. 360/2016 sem tók gildi 2. maí 2016. Eftir þá breytingu falla undir undanþáguákvæðið smáhýsi úr léttum byggingarefnum til geymslu garðáhalda o.þ.h. á lóð utan byggingarreits þegar nánar tilgreindar kröfur eru uppfylltar, enda sé slík bygging ekki óheimil samkvæmt gildandi deiliskipulagi, og eru nánari kröfur gerðar um stærð, hæð og gerð smáhýsa auk samþykkis lóðarhafa nágrannalóða þegar það á við, sbr. 1.-5. lið.

Í gildandi deiliskipulagi svæðisins er tekið fram að yfirbragð byggðarinnar einkennist af því að húsin séu byggð á mismunandi tímum auk þess að vera mismunandi að stærð og að reiturinn njóti verndar í ljósgulum flokki, verndunar byggðamynsturs, en við nokkur hús sé leyfð hækkun og stækkun. Á það m.a. við um Grettisgötu 41. Standa ákvæði deiliskipulagsins því ekki í vegi að smáhýsi verði reist, en það sem hér er um deilt er auk þess aftan við og fjær götu en áðurnefnt tengihús sem reist var á árinu 1935 og hefur smáhýsið því ekki áhrif á byggðamynstur.

Kærendur byggja enn fremur á því að skilyrði g-liðar gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð séu ekki uppfyllt þar sem smáhýsið sé of hátt og á steyptum grunni, auk þess sem ekki hafi verið tekið tillit til eldvarna, en hin umdeilda ákvörðun byggingarfulltrúa var reist á því mati hans að skilyrðum nefnds reglugerðarákvæðis væri fullnægt. Að áliti úrskurðarnefndarinnar hefur það ekki úrslitaáhrif að geymsluskúr sá sem um ræðir sé reistur á steyptum grunni, enda eru t.a.m. pallar á lóð ekki byggingarleyfisskyldir skv. e-lið nefndrar gr. 2.3.5., og geta þeir eftir atvikum verið steyptir. Er þannig ekki eðlismunur á því að reisa smáhýsi úr léttum byggingarefnum, s.s. skúr þann sem hér er um deilt, á steyptum grunni eða á steyptum palli á lóð. Af aðstæðum og gögnum málsins er enn fremur ljóst að fullnægjandi fjarlægð er á milli geymsluskúrsins og húss kærenda í skilningi 2. tl. g-liðar reglugerðarákvæðisins, en sá töluliður lýtur að brunahólfun á milli húsa. Var og forsvaranlegt af byggingarfulltrúa að miða við að hæð skúrsins frá yfirborði lóðar yrði innan þeirra marka sem tilgreind eru í 4. tl. eftir að það hefði verið fært til fyrra horfs og er í því sambandi rétt að benda á að byggingarfulltrúi er sérfróður aðili skv. 8. gr., sbr. 25. gr., mannvirkjalaga og að af hans hálfu fór fram vettvangsskoðun. Hefur úrskurðarnefndin einnig kynnt sér aðstæður á vettvangi og liggur ekki annað fyrir en að skilyrðum g-liðar gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð hafi að öðru leyti verið fullnægt. Liggur t.a.m. fyrir samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar, þ.e. Grettisgötu nr. 43, í samræmi við 5. tl. g-liðar.

Að teknu tilliti til þess sem að framan er rakið er ekkert sem bendir til annars en að mat byggingarfulltrúa um að hinn umdeildi geymsluskúr væri ekki byggingarleyfisskyldur hafi verið lögmætt og efnislega rétt og að þar með væri ekki tilefni til að beita þvingunarúrræðum. Verður kröfu kærenda um ógildingu á hinni kærðu ákvörðun því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. júní 2016 um að hafna beitingu þvingunarúrræða vegna byggingar geymsluskúrs á lóðinni nr. 41 við Grettisgötu.

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. júlí 2016, um að veita leyfi til að hækka og endurbyggja ris og byggja staðsteypta viðbyggingu aftan við einbýlishús á lóðinni nr. 41 við Grettisgötu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
                Aðalheiður Jóhannsdóttir                          Þorsteinn Þorsteinsson

36/2017 Austurbyggð

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 9. ágúst kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 14. desember 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Austurbyggðar, Selfossi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 24. mars 2017, kæra eigandi, Vallarlandi 8, Selfossi og eignandi, Vallarlandi 17, Selfossi þá ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 14. desember 2016 að staðfesta samþykkt skipulags- og byggingarnefndar frá 7. s.m. um breytingu á deiliskipulagi Austurbyggðar, Selfossi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Árborg 11. maí 2017.

Málavextir:
Á fundi bæjarstjórnar Árborgar 14. desember 2016 var staðfest samþykkt skipulags- og byggingarnefndar frá 7. s.m. um breytingu á deiliskipulagi Austurbyggðar að undangenginni auglýsingu á tillögu þar um. Kærendur gerðu athugasemdir við tillöguna, er var svarað af skipulags- og byggingarfulltrúa. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 3. apríl 2017.

Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting felur í sér að leiksvæði sem gert var ráð fyrir á milli lóða að Smáralandi og Stekkjarlandi er fellt út og lóðirnar að Smáralandi 17 og 19 og Stekkjarlandi 8 stækkaðar lítillega. Einnig er leiksvæði á milli lóða við Snæland fellt út og parhúsalóðin að Snælandi 5-7 stækkuð og breytt í þriggja húsa raðhúsalóð. Þá er leiksvæði milli lóða að Fagralandi fellt út og einbýlishúsalóðin að Fagralandi 7 stækkuð. Í stað þessara þriggja leiksvæða er bætt við leiksvæði milli lóðanna Akralands 9 og 11 auk þess sem parhúsalóðunum að Akralandi 5 og 7 og einbýlishúsalóðinni að Akralandi 9 er breytt í raðhúsalóðir.

Málsrök kærenda:
Kærendur byggja á því að deiliskipulagsbreytingin skerði notagildi fasteigna þeirra að því leyti að enginn nothæfur leikvöllur verði í Austurbyggð eftir breytinguna.

Lýsing vegna breytinga á deiliskipulagi Austurbyggðar hafi ekki uppfyllt skilyrði greinar 5.2.3 skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 og með málsmeðferðinni hafi auk þess verið brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og meginreglunni um málefnaleg sjónarmið. Ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda kærenda við tillögu að breyttu deiliskipulagi. Vísi kærendur til ákvæða skipulagslaga nr. 123/2010 og skipulagsreglugerðar varðandi deiliskipulag og breytingar á því. Er sérstaklega vísað til 1. mgr. 37. gr., 39. gr., 1. mgr., sbr. 3. mgr. 41. gr., og 43. gr. skipulagslaga og b-liðar gr. 5.1.1, 5.1.2, 5.2.1, 5.2.2, 5.2.3 og 5.3.2.3 í skipulagsreglugerð. Þá sé vísað til 2. og 6. gr. reglugerðar nr. 942/2002 um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim.

Við breytingu á gildandi deiliskipulagi hafi skipulagsyfirvöld ekki jafn frjálsar hendur og við skipulagsgerð á óskipulögðum svæðum. Ákveðnar skyldur hvíli á skipulagsyfirvöldum með hliðsjón af fyrra skipulagi, sem mótað hafi byggð á svæðinu, nema lögmætar ástæður búi að baki breytingum. Hvorki fullnægjandi ástæður né rökstuðningur liggi fyrir breyttu deiliskipulagi. Hvergi í þeim gögnum sem lágu fyrir við ákvarðanatökuna komi fram hvers vegna þörf hafi verið á að fækka leiksvæðum í hverfinu, önnur en sú að stækka nokkrar íbúðarlóðir lítillega. Verið sé að fórna hagsmunum hverfisins í heild fyrir hagsmuni eigenda viðkomandi lóða. Ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda og vilja íbúa svæðisins. Jafnframt hafi að engu leyti verið skoðað hvort hin nýja staðsetning leikvallarins gæti staðist reglur um öryggiskröfur leikvalla. Telji kærendur að svo sé ekki þar sem eina aðkoman að leikvellinum sé að vestanverðu en sú hlið snúi að helstu umferðaræð hverfisins. Slíkt sé hvorki í samræmi við ákvæði reglugerðar um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim né skipulagsreglugerðar. Gera hefði þurft grein fyrir því í lýsingu verkefnisins og í greinargerð með hinu breytta deiliskipulagi hvernig ganga ætti frá svæðinu til að það stæðist öryggiskröfur. Þá hafi engin málefnaleg sjónarmið fyrir breytingunni komið fram af hálfu bæjarins, önnur en þau að stækka nokkrar íbúðarhúsalóðir lítilega. Allan rökstuðning fyrir breytingunni vanti og þess sé hvergi getið hvaða sjónarmið varðandi stækkun lóða geti réttlætt fækkun leikvalla hverfisins. Bæjaryfirvöld hafi við meðferð málsins virt vilja íbúa hverfisins að vettugi að öllu leyti. Yfirgnæfandi meirihluti íbúa telji mikilvægt að breytingin taki ekki gildi þar sem hún muni hafa neikvæð áhrif á framþróun hverfisins og geri það að verkum að ekkert öruggt leiksvæði verði í því.

Málsrök Árborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að uppfylltar hafi verið kröfur þeirra form- og efnisreglna sem sveitarfélaginu hafi borið að fara eftir við deiliskipulagsbreytinguna. Sveitarfélög hafi svigrúm til þess að gera breytingar á samþykktu deiliskipulagi skv. skipulagslögum nr. 123/2010. Ekki hafi verið skylt að útbúa lýsingu, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 43. gr. þeirrar laga. Sé því hafnað að fullnægjandi ástæður fyrir breytingunni hafi ekki legið fyrir og að markmiðið með henni hafi verið að stækka íbúðarhúsalóðir. Við uppbyggingu hverfisins hafi komið í ljós að fyrirhuguð leiksvæði í hverfinu væru bæði lítil og óhagstæð að lögun er leiddi til þess að ómögulegt hefði verið að setja upp viðunandi leikvelli með tækjum miðað við þær kröfur sem gerðar séu til leikvalla, eins og fram komi í bókun skipulags- og byggingarnefndar. Ekki sé óeðlilegt að leiksvæði í þéttbýli standi nálgæt götum sem umferð fari um. Þá verði að sjálfsögðu tekið tillit til öryggismála við hönnun hins nýja leiksvæðis. Ekki hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins við meðferð málsins. Loks sé sveitarfélaginu ekki skylt að verða við kröfum þeirra sem geri athugasemdir, enda séu færð fyrir því rök og ákvörðunin byggð á málefnalegum sjónarmiðum.

Niðurstaða:
Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Austurbyggðar þar sem gert er ráð fyrir að þrjú lítil leiksvæði séu felld út en bætt við einu stærra leiksvæði á öðrum stað. Jafnframt eru nokkrar íbúðarhúsalóðir á viðkomandi svæði stækkaðar lítillega í tengslum við breytinguna.

Í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Kærendur eru búsettir á deiliskipulagssvæðinu og byggja á því að notagildi fasteigna þeirra minnki við hina kærðu deiliskipulagsbreytingu. Er þar um að ræða álit kærenda á skipulagi á svæðinu og komu kærendur þeim skoðunum á framfæri við meðferð málsins. Það að kærendur eigi rétt á að koma að athugasemdum þegar málsmeðferð vegna tillögu að breyttu deiliskipulagi sendur yfir skv. skipulagslagslögum nr. 123/2010 veitir þeim hins vegar ekki sjálfstæðan rétt til kæruaðildar. Þá lúta nefnd málsrök kærenda fyrst og fremst að gæslu hagsmuna sem telja verður almenna, en ekki einstaklega. Verður kærendum ekki játuð kæruaðild á þeim grundvelli þrátt fyrir að hagræði kunni að felast í því fyrir íbúa að stutt sé á næsta leiksvæði. Loks er útilokað, að öllum staðháttum virtum, að breytt lega leiksvæða samkvæmt hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun hafi nokkur grenndaráhrif á fasteignir kærenda    

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki séð að kærendur hafi einstaklegra hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun umfram aðra og verður kæruaðild þeirra ekki byggð á þeim forsendum. Þá hafa við meðferð málsins ekki komið fram aðrar ástæður af hálfu kærenda sem leitt geta til kæruaðildar þeirra samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                          Þorsteinn Þorsteinsson