Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

122/2017 Laugavegur 95-99

Árið 2018, fimmtudaginn 8. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 122/2017, kæra á álagningu bílastæðagjalds vegna viðbyggingar við Laugaveg 95-99.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. október 2017, er barst nefndinni 13. október s.á., kærir Rit og bækur ehf., eigandi fasteignarinnar að Laugavegi 95-99, þá ákvörðun starfshóps lögfræðinga um meðferð bótakrafna á hendur Reykjavíkurborg frá 25. apríl s.á. að hafna beiðni um niðurfellingu bílastæðagjalds vegna viðbyggingar við Laugaveg 95-99. Er þess krafist að umrætt bílastæðagjald verði fellt niður.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 15. nóvember 2017.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. desember 2016 var samþykkt umsókn kæranda um leyfi til að byggja 548,5 m2 viðbyggingu, samhliða endurbyggingu útveggja og þaks, og að innrétta hótel í flokki V, ásamt verslun og þjónustu á jarðhæð, í húsi á lóð nr. 95-99 við Laugaveg. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 7. s.m. var fundargerð byggingarfulltrúa lögð fram og bókað að hún væri fylgiskjal með fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs. Vegna stækkunar hússins var kæranda með reikningi, dags. 14. s.m., gert að greiða bílastæðagjald fyrir 4,2 viðbótarbílastæði. Var gjaldið lagt á með hliðsjón af reglum nr. 440/2016 um bílastæðagjald í Reykjavík og gjaldskrá nr. 441/2016 fyrir bílastæðagjald í Reykjavík. Með bréfi, dags. 22. desember 2016, fór kærandi fram á niðurfellingu bílastæðagjaldsins, en þeirri beiðni var synjað með bréfi starfshóps lögfræðinga um meðferð bótakrafna á hendur Reykjavíkurborg, dags. 25. apríl 2017. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni með bréfi, dags. 2. júní s.á., og var umbeðinn rökstuðningur veittur með bréfi, dags. 14. ágúst s.á. Kærandi kærði álagninguna til úrskurðarnefndarinnar 12. október s.á.

Málsrök kæranda:
Kærandi bendir á að 3,1 umframbílastæði tilheyri lóð Laugavegs 95-99 og því skorti ekki bílastæði á lóðinni til að uppfylltar séu kröfur um fjölda bílastæða samkvæmt deiliskipulagi. Samkvæmt 2. gr. reglna nr. 440/2016 eigi ekki að miða við viðbótarfermetra, líkt og borgaryfirvöld hafi gert, heldur við kröfur um fjölda bílastæða samkvæmt deiliskipulagi. Kærandi hafi árið 2007 fengið leyfi til að stækka húsið en til þess hafi hann þurft að afla 34,3 bílastæða utan lóðar, sem hann hafi og gert. Þau bílastæði tilheyri ekki lengur lóðinni en slíkt sé skerðing á fasteignaréttindum hans. Sú skerðing sé í andstöðu við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Þá geti eins mánaðar kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ekki átt við þar sem kærufrestur byrji annað hvort að líða þegar bílastæðagjaldið hafi verið greitt eða þegar Reykjavíkurborg hafi synjað útgáfu byggingarleyfis vegna þess að hið umrædda bílastæðagjald hafi ekki verið greitt.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að ákvörðun um álagningu bílastæðagjalds hafi tekið mið af reglum nr. 440/2016 um bílastæðagjald í Reykjavík, gjaldskrá nr. 441/2016 fyrir bílastæðagjald í Reykjavík og deiliskipulagi svæðisins. Í 2. mgr. 4. gr. gjaldskrárinnar sé skýrt tekið fram að heimilt sé að synja endurgreiðslu bílastæðagjalds ef liðið sé meira en eitt ár frá greiðslu þess. Gildi einu þótt byggingarleyfi falli úr gildi eða sé fellt úr gildi. Sama gildi ef notkun húss sé breytt þannig að kröfur um fjölda bílastæða vegna þess verði minni en verið hafi vegna fyrri notkunar þess. Lóðarhafi geti ekki dregið frá bílastæðagjöld vegna breyttrar notkunar nú eða myndað inneign vegna bílastæðagjalda sem aldrei hafi verið greidd vegna samþykktar á byggingarleyfi á árinu 2007.

Niðurstaða:
Í samræmi við 1. mgr. 19. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 getur sveitarstjórn ákveðið að innheimta bílastæðagjald af lóð nýbyggingar ef á henni er ekki unnt að koma fyrir þeim fjölda bílastæða sem kröfur eru gerðar um í deiliskipulagi. Getur sveitarstjórn einnig sett gjaldskrá um bílastæðagjöld sem birt er í B-deild Stjórnartíðinda. Á grundvelli ákvæðisins hafa í B-deild Stjórnartíðinda verið birtar reglur nr. 440/2016 um bílastæðagjald í Reykjavík og gjaldskrá nr. 441/2016 fyrir bílastæðagjald í Reykjavík. Kemur fram í 4. gr. gjaldskrárinnar að embætti byggingarfulltrúa leggi á bílastæðagjald við samþykkt byggingarleyfis og að gjaldið skuli greitt áður en byggingarleyfi er gefið út. Er það í samræmi við ákvæði 3. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þar sem fram kemur að það sé skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að t.a.m. bílastæðagjald hafi verið greitt eða samið um greiðslu þeirra.  Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu fór álagning fram með útgáfu reiknings og hóf kærufrestur að líða þegar kæranda var kunnugt um álagninguna.

Með bréfi, dags. 22. desember 2016, fór kærandi fram á niðurfellingu hinnar kærðu álagningar, en því var synjað 25. apríl 2017. Frekari rökstuðningur var færður fyrir þeirri synjun með bréfi, dags. 14. ágúst s.á., og barst kæra í máli þessu 13. október 2017.

Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Var kærufrestur því liðinn hvað varðar hvoru tveggja hina kærðu álagningu og synjun borgaryfirvalda um niðurfellingu bílastæðagjaldsins þegar kæra barst úrskurðarnefndinni. Berist kæra að liðnum kærufresti ber að vísa henni frá skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.

Hvorki í reikningi frá 14. desember 2016 né í rökstuðningi borgarlögmanns frá 14. ágúst 2017 er að finna upplýsingar um kæruheimild eða kærufrest. Aftur á móti er í beiðni lögmanns kæranda til borgarlögmanns um rökstuðning, dags. 2. júní s.á., áskilinn réttur til að skjóta málinu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Er því ljóst að kæranda var á því stigi kunnugt um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar og naut hann aðstoðar lögmanns í málinu. Verður að telja að kæranda hafi verið í lófa lagið að gera reka að því að skjóta málinu til úrskurðarnefndarinnar innan lögmælts kærufrests og ber kæran raunar með sér að kærandi hafi verið meðvitaður um hver kærufresturinn væri þótt hann teldi kærufrest ekki hafinn. Verður með vísan til framangreinds ekki séð að fyrir hendi séu þau atvik eða ástæður er mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar á grundvelli undantekningarheimilda 28. gr. stjórnsýslulaga og verður henni því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.