Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

103/2018 Austurkór

Árið 2018, fimmtudaginn 15. nóvember kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 103/2018, kæra vegna framkvæmda Kópavogsbæjar við boltavöll og stígagerð við Austurkór, Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. júlí 2018, er barst nefndinni 30. s.m., kærir eigandi, Austurkór 90, Kópavogi, framkvæmdir Kópavogsbæjar við gerð boltavallar, göngustígs og aðkomuleiðar að fráveitukerfi við Austurkór. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að umræddar framkvæmdir verði úrskurðaðar ólögmætar og að lagt verði fyrir Kópavogsbæ að færa slóða að fráveitulögnum í fyrra horf og endurskoða hæðarlegu boltavallarins. Jafnframt er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 13. ágúst 2018.

Málavextir: Með tölvupósti 11. apríl 2018 til Kópavogsbæjar vakti kærandi athygli á að hafnar væru framkvæmdir við boltavöll neðan við húsin í Austurkór 88-92 og óskaði hann eftir upplýsingum um hvort völlurinn væri rétt staðsettur miðað við gildandi deiliskipulag. Var honum svarað af garðyrkjustjóra Kópavogsbæjar að boltavöllurinn væri ekki rétt staðsettur þar sem fyrir mistök hefði völlurinn verið staðsettur samkvæmt eldra skipulagi, þ.e. nær lóðunum við Austurkór 88-92 en núgildandi skipulag gerði ráð fyrir. Staðsetning vallarins væri komin í endurskoðun og yrði framkvæmdin í samræmi við gildandi skipulag. Með dreifibréfi Kópavogsbæjar, dags. 12. apríl 2018, var íbúum við Austurkór 76-104 tilkynnt að framkvæmdir væru að hefjast við boltavöll norðan lóðanna Austurkórs 88-90 samkvæmt deiliskipulagi hverfisins. Samhliða yrði unnið að gerð göngustígs vestan lóðanna Austurkórs 76-86. Jafnframt yrði unnið að því að bæta aðgengi að fráveitulögnum norðan lóðanna Austurkórs 88-104. Með tölvupósti til Kópavogsbæjar 21. apríl 2018 óskaði kærandi eftir upplýsingum varðandi stíginn sem verið væri að útbúa, þ.e. hvort gert væri ráð fyrir honum í samþykktu skipulagi. Í svarpósti garðyrkjustjóra Kópavogsbæjar 2. maí s.á. vísaði hann í fyrrgreint dreifibréf þar sem fram kæmi að unnið væri að bættu aðgengi að fráveitulögnum. Janframt var vísað í meðfylgjandi loftmynd af svæðinu þar sem sjá mætti lagnirnar og brunnana.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir á því að framkvæmdirnar séu ólögmætar. Lega og hæð boltavallarins sé hvorki í samræmi við deiliskipulag Rjúpnahæðar – Vesturhluta né aðalskipulag Kópavogsbæjar. Þá sé stígana hvorki að finna á skipulagsuppdráttum né um þá fjallað í greinargerð gildandi skipulags. Umræddur sparkvöllur muni hafa í för með sér skert útsýni úr íbúð kæranda og valda honum ónæði.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er byggt á því að vísa eigi málinu frá þar sem kæra hafi borist úrskurðarnefndinni að kærufresti liðnum. Kærufrestur eigi að miðast við sendingu dreifibréfs, dags. 12. apríl 2018, þar sem íbúum hafi verið tilkynnt að hinar umdeildu framkvæmdir væru að hefjast, en kæranda hafi verið kunnugt um framkvæmdirnar frá þeim tíma. Framkvæmdir við boltavöllinn og göngustíginn séu að fullu í samræmi við gildandi skipulag, en slóði varðandi aðgengi að fráveitulögnum þurfi ekki að koma fram á deiliskipulagi. Þá telji sveitarfélagið að ekki hafi þurft að gefa út framkvæmdarleyfi fyrir framkvæmdunum, sem væru á vegum bæjarins.

Vettvangsskoðun: Úrskurðanefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 20. september 2018 að viðstöddum kæranda og fulltrúa bæjaryfirvalda.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Ekki liggur fyrir í máli þessu með hvaða hætti staðið var að ákvörðun um hinar umdeildu framkvæmdir en ekki er við að styðjast bókanir eða fundargerðir Kópavogsbæjar í því efni. Kæranda varð fyrst kunnugt um framkvæmdirnar er vinna hófst og var hann í kjölfar þess í samskiptum við bæjaryfirvöld vegna málsins. Í tilkynningu um framkvæmdirnar til íbúa, dags. 12. apríl 2018, og í tölvupósti garðyrkjustjóra bæjarins 2. maí s.á. var kæranda ekki leiðbeint um kæruleið og kærufrest í tilefni af ágreiningi um framkvæmdirnar í samræmi við 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður kærumálið því tekið til meðferðar á grundvelli 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga þar sem afsakanlegt verður talið að kæra hafi borist að liðnum kærufresti.

Samkvæmt 1. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um að lagt verði fyrir Kópavogsbæ að færa slóða að fráveitulögnum í fyrra horf og að endurskoða hæðarlegu boltavallarins.

Í apríl 2018 hófu bæjaryfirvöld framkvæmdir við boltavöll, göngustíg og bætta aðkomu að fráveitulögnum í næsta nágrenni við íbúð kæranda. Ekki var þó gefið út sérstakt framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdinni skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 1. mgr. 4. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 heldur var á því byggt að nægilegt væri að framkvæmdirnar ættu stoð í samþykktu deiliskipulagi fyrir svæðið.

Í gildandi deiliskipulagi fyrir Rjúpnahæð – Vesturhluta er gert ráð fyrir boltavelli norðan lóðanna Austurkórs 88-92. Deiliskipulagið var upphaflega samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs 13. mars 2007 og tók það gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 29. maí s.á. Með deiliskipulagsbreytingu sem samþykkt var í bæjarstjórn Kópavogs 24. maí 2011 og öðlaðist gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 10. júní s.á. var gerð breyting á deiliskipulaginu. Var boltavöllurinn þar færður fjær lóðunum við Austurkór 88-92 og að hluta til út fyrir mörk þess svæðis sem skipulagið nær til. Aðrar upplýsingar um boltavöllinn en um staðsetningu hans er ekki að finna í skipulagi. Á deiliskipulagsuppdrætti er göngustígur vestan lóðanna Austurkórs 76-86, en ekki er þar gert ráð fyrir lagnastíg eða öðrum stíg norðan lóðanna Austurkórs 88-104. Samkvæmt upplýsingum frá bæjaryfirvöldum og skoðun á vettvangi er umræddur boltavöllur minni en gert var ráð fyrir í deiliskipulagi. Hann mun vera 15,5×33 m að stærð og liggja allur innan þess svæðis sem gildandi deiliskipulag tekur til. Áður en hinar umdeildu framkvæmdir hófust var á svæðinu slóði að fráveitulögnum og hefur hann nú verið breikkaður og hækkaður og tengist nú áðurnefndum göngustíg, sem gert er ráð fyrir á deiliskipulagsuppdrætti og myndar aðkomuleið að boltavellinum.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga skal afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, s.s. breytingar lands með jarðvegi. Jafnframt skulu slíkar framkvæmdir vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 4. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi. Við mat á því hvort framkvæmd telst meiri háttar skal hafa til hliðsjónar stærð svæðis og umfang framkvæmdar, varanleika og áhrif á landslag og ásýnd umhverfisins og önnur umhverfisáhrif, sbr. 3. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar. Eru stígar og breytingar lands með jarðvegi, svo sem efnislosun og landmótun, meðal þeirra framkvæmda sem geta verið háðar framkvæmdaleyfi, sbr. 1. mgr. 5. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi. Framkvæmdir sem teljast óverulegar eru ekki háðar framkvæmdaleyfi en geta þó verið skipulagsskyldar, sbr. 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt framansögðu fer það eftir aðstæðum, eðli, umfangi og áhrifum framkvæmdar á ásýnd lands og umhverfi hvort hún verði talin framkvæmdaleyfisskyld, þurfi að eiga stoð í skipulagi eða eftir atvikum þurfi ekki slíka stoð. Við það mat er rétt að hafa hliðsjón af ákvæðum skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 um framsetningu skipulagsáætlana og hvaða framkvæmda skuli þar getið.

Boltavöllurinn er staðsettur í gróinni og brattri hlíð í næsta nágrenni við fjölbýlishús við Austurkór. Er 15,5 m breidd vallarins milli hæðarlína 105 og 108 m.y.s. Var hann byggður upp með jarðvegsfyllingu í hlíðinni til að ná honum sléttum og án hliðarhalla. Vegna þess mikla landhalla sem er á svæðinu hefur þurft verulegt magn jarðefnis í þá fyllingu og því um verulega landmótun að ræða. Þá er ljóst að boltavellinum fylgir umferð gangandi fólks um svæðið og allnokkur áhrif á næsta umhverfi, svo sem með tilliti til hljóðvistar vegna boltaleikja á vellinum. Í ljósi þessa verður að líta svo á að framkvæmdin við boltavöllinn hafi slík áhrif á umhverfið og breyti ásýnd þess svo verulega að telja verður að framkvæmdin hafi verið framkvæmdaleyfisskyld.

Ekki verður hins vegar talið að framkvæmdir við göngustíg á svæðinu séu háðar slíku leyfi en hann á stoð í gildandi deiliskipulagsuppdrætti og fylgir jarðvegsyfirborði. Lagfæring og uppbygging lagnastígsins eða slóðans sem fyrir var þykir það óveruleg framkvæmd og þess eðlis að ekki hafi verið nauðsyn á að gera grein fyrir honum í skipulagi.

Óheimilt er að hefja framkvæmdaleyfisskyldar framkvæmdir nema fyrir liggi samþykki sveitarfélagsins um útgáfu framkvæmdaleyfis og að framkvæmdaleyfi hafi verið gefið út, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi. Eru sveitarfélög ekki undanþegin reglum um framkvæmdaleyfi vegna eigin framkvæmda.

Þar sem ekki liggur fyrir ákvörðun um framkvæmdaleyfi í málinu er ekki til staðar stjórnvaldsákvörðun sem sætt getur kæru til úrskurðarnefndarinnar í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga. Verður af þeim sökum ekki komist hjá því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Rétt er að benda á að ef framkvæmdaleyfisskyld framkvæmd er hafin án þess að framkvæmdaleyfi hafi verið fengið fyrir henni er eftir atvikum unnt að leita atbeina skipulagsfulltrúa um stöðvun framkvæmda, sbr. 1. mgr. 16. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi og 1. mgr. 53. gr. skipulagslaga. Væri ákvörðun skipulagsfulltrúa þar að lútandi þá kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.