Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

135/2017 Gervigrasvöllur, Bæjargarði í Garðabæ

Árið 2018, miðvikudaginn 7. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 139/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Fyrir var tekið mál nr. 135/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 19. október 2017 um að samþykkja að veita framkvæmdaleyfi fyrir ljósabúnaði á gervigrasvöll í Bæjargarði í Garðabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. nóvember 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir A þá ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar að samþykkja að veita framkvæmdaleyfi fyrir uppsetningu ljósabúnaðar í Bæjargarði Garðabæjar. Er gerð sú krafa að nefndin úrskurði að vinnulag bæjarins sé ekki í samræmi við skipulags- og stjórnsýslulög. Verður að skilja kröfu kæranda svo að krafist sé ógildingar hins kærða leyfis.

Gögn málsins bárust frá Garðabæ 22. mars 2018.

Málavextir: Á fundi skipulagsnefndar 12. október 2017 var lögð fram umsókn bæjarverkfræðings um framkvæmdaleyfi fyrir ljósabúnaði tveggja gervigrasvalla, í Ásgarði og Bæjargarði, samkvæmt tillögu, dags. 3. s.m. Lagði skipulagsnefnd til við bæjarstjórn að framkvæmdaleyfiyrði veitt. Á fundi bæjarráðs Garðabæjar 17. október 2017 var samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja tillögu skipulagsnefndar. Bæjarstjórn samþykkti tillögu skipulagsnefndar á fundi 19. október 2017.

Málsrök kæranda:
Kærandi byggir á því að framkvæmdin sé hvorki í samræmi við gildandi aðal- né deiliskipulag fyrir svæðið og brjóti því gegn skipulags- og stjórnsýslulögum. Kynning bæjaryfirvalda á deiliskipulagsbreytingum gangi í berhögg við það framkvæmdaleyfi sem nú hafi verið gefið út.

Bygging gervigrasvallar í Bæjargarði með öllum tilheyrandi búnaði og frágangi sé augljóslega ein framkvæmd þó hún sé unnin í áföngum. Bæjaryfirvöld hafi kosið að búta framkvæmdina niður og gefa út fjölda framkvæmdaleyfa og þannig komist hjá því að klára hönnun vallarins að fullu, jafnvel þótt framkvæmdir við hann séu nú langt komnar. Með þessu vinnulagi hafi íbúar ekki fengið að vita hvernig endanlegur völlur muni líta út og hvaða áhrif hann muni hafa á umhverfið. Endanleg hönnun framkvæmdar verði að liggja fyrir öllum áföngum framkvæmdar þegar framkvæmdaleyfi sé gefið út, sbr. 10. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012. Endanleg landmótunargögn hafi ekki verið lögð fram af sveitarfélaginu þó skýr ákvæði séu um slíkt, sbr. 4. og 7. gr. sömu reglugerðar. Fullnægjandi hönnunargögn liggi heldur ekki fyrir vegna heildarframkvæmdarinnar. Ekki hafi verið settar reglur um notkun vallarins þótt íbúar hafi ítrekað kallað eftir þeim og Skipulagsstofnun geri kröfu um slíkt. Útgáfa leyfisins sé brot á skipulagslögum þar sem ekki sé um sjálfstæða framkvæmd að ræða heldur óaðskiljanlegan hluta af gervigrasvellinum og því einn áfangi af stærri framkvæmd.

Við kynningu á fyrirhugaðri breytingu á deiliskipulagi árið 2016 hafi bæjarvöld staðfest að ekki stæði til að reisa gervigrasvöll af því tagi sem nú standi til fyrir íþróttafélag í bænum. Íbúum hafi því verið talin trú um að um íþróttavöll fyrir almenning væri að ræða, án flóðlýsingar, og geri deiliskipulag ráð fyrir því. Hvergi á Íslandi finnist þess dæmi að upphitaður flóðlýstur gervigrasvöllur sé hluti af almenningsgarði, heldur sé slíkt eingöngu að finna innan skilgreindra íþróttasvæða.

Ljósamöstur falli undir byggingarreglugerð nr. 112/2012 og séu því byggingarleyfisskyld. Í 1. gr. reglugerðar nr. 112/2012 um framkvæmdaleyfi komi fram að reglugerðin nái eingöngu til framkvæmda sem ekki séu háðar byggingarleyfi.

Garðabær sé bæði leyfisveitandi og framkvæmdaaðili. Við slíkar aðstæður geri skipulags- og stjórnsýslulög sérstakar kröfur um faglegan undirbúning og sanngjarna málsmeðferð af hálfu yfirvalds, enda eigi íbúar ekki kost á að leita ráðgjafar hjá óvilhöllu yfirvaldi telji þeir framkvæmdina ekki í samræmi við lög. Eina úrræði íbúa sé að ganga svo langt að kæra viðkomandi framkvæmd. Kærandi hafi skorað formlega á bæjaryfirvöld að fresta framkvæmdum á meðan íbúar kynntu sér framkvæmdina en því hafi verið hafnað.

Hús kæranda standi rétt hjá umræddum Bæjargarði. Hann hafi kynnt sér aðal- og deiliskipulag svæðisins vel áður en hann festi kaup á húsinu. Ákvæði um Bæjargarð hafi verið mikilvægur þáttur í þeirri ákvörðun. Núverandi umbreytingar á svæðinu þar sem heillandi útivistarsvæði með fjölbreyttum trjá- og runnagróðri sé skipt út fyrir áberandi íþróttamannvirki með skipulögðu íþróttasvæði, sé grundvallarbreyting á þeim gæðum sem kærandi hafi mátt búast við í nágrenni við heimili sitt og auglýst hefði verið af hálfu Garðabæjar.

Málsrök Garðabæjar: Af hálfu sveitarstjórnar er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað. Framkvæmdaleyfið sé gefið út með stoð í deiliskipulagi Bæjargarðs líkt og 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga geri kröfu um, en í deiliskipulaginu sé mælt fyrir um sérútbúnar boltaflatir. Í því felist augljós heimild fyrir upplýstan, upphitaðan og afgirtan gervigrasvöll eins og hér um ræði. Í upphaflegri umsókn hafi komið skýrt fram að hluti af heildarframkvæmdinni hafi alltaf verið að hafa alla velli upplýsta. Við samþykkt á upphaflegu framkvæmdaleyfi hafi verið tekið fram að leyfið næði ekki til ljósabúnaðar þar sem ekki lægi fyrir nákvæm útfærsla á tegund og gerð.

Á fundi bæjarstjórnar 19. október 2017 hafi tillaga skipulagsnefndar að veita framkvæmdaleyfi fyrir uppsetningu ljósabúnaðar við nýja gervigrasvelli í Bæjargarði og Ásgarði verið samþykkt. Greinargóð gögn um gerð og tegund ljósabúnaðarins hafi legið fyrir við afgreiðslu málsins, sem beri skýrt með sér að ljósabúnaðurinn muni á engan hátt geta raskað grenndarhagsmunum kæranda. Líklegra sé að almenn götulýsing, sem logi stanslaust á meðan myrkur sé, muni geta valdið kæranda meira ónæði en ljós á íþróttavelli sem slökkt sé á þegar kvölda taki.

Óumdeilt sé að umræddur gervigrasvöllur sé gerður í samræmi við gildandi deiliskipulag sem gildi fyrir Bæjargarð. Garðabær hafi lagt sig fram um að eiga gott samráð við íbúa og tekið tillit til óska þeirra með það að markmiði að hugsanleg grenndaráhrif verði sem minnst. Það hafi verið gert með samráði um mótun á landslagi með hæð jarðvegsmana sem takmarki sjónræn áhrif af vellinum og jafnframt hafi verið haft samráð um legu gönguleiða. Fyrirhugaður ljósabúnaður sé þannig úr garði gerður og verði stýrt með þeim hætti að hann muni eingöngu lýsa upp viðkomandi vallarsvæði og vera án allrar glýju fyrir næsta nágrenni. Um LED lýsingu sé að ræða og hægt verði að stýra styrk og stefnu ljósanna þannig að óæskileg grenndaráhrif verði engin eða óveruleg. Ekki sé um flóð- eða keppnislýsingu að ræða heldur hefðbundna lýsingu eins og venja sé á afgirtum gervigrasvöllum og battavöllum ýmist innan afmarkaðra og skilgreindra íþróttasvæða eða á opnum svæðum. Ekki hafi tíðkast að gera sérstaka grein fyrir staðsetningu ljósabúnaðar í deiliskipulagi, við slíkar aðstæður, enda jafn eðlilegt að lýsa upp vellina með sama hætti og gönguleiðir um svæðið. Til samanburðar megi benda á að sérstakur ljósabúnaður sé á skólalóðum í þeim tilgangi að lýsa upp leiksvæði en ekki hafi verið kröfur um að slíkum búnaði sé lýst nákvæmlega í skilmálum deiliskipulags sem gildi fyrir svæðið.

Skipulagslög eða reglugerðir áskilji ekki að settar séu reglur um notkun vallarins í skilmála deiliskipulags eða í almennum eða sérstökum skilyrðum fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis. Almennt séu í gildi reglur um notkun íþróttavalla í eigu bæjarins og þar hafi verið kveðið á um að vellir næst íbúðabyggð séu ekki í notkun á kvöldin eftir kl. 20:00 eða 21:00.

Í gerð afgirts íþróttarvallar á opnu svæði eða í almenningsgarði felist ekki grundvallarbreyting á nærumhverfi kæranda sem sé umfram það sem hann og aðrir íbúar hafi mátt búast við. Það sé almennt í þágu íbúa að opin svæði séu nýtt fyrir leiksvæði, opin eða afgirt en með því séu lífsgæði íbúa aukin, m.a. með tilliti til aðstæðna sem geti stuðlað að heilbrigðu uppeldi barna og ungmenna.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar bæjarstjórnar Garðabæjar frá 19. október 2017 um veitingu framkvæmdaleyfis fyrir ljósabúnaði á gervigrasvöll í Bæjargarði í Garðabæ. Í málinu liggur fyrir að bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti að afturkalla hið kærða framkvæmdaleyfi á fundi sínum 1. nóvember 2018.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Eftir að bæjarstjórn afturkallaði hið kærða framkvæmdaleyfi hefur það ekki réttarverkan að lögum. Á kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi þess. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.