Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

37/2017 Heysholt

Árið 2018, fimmtudaginn 8. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 37/2017, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 12. október 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Heysholt.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 21. mars 2017, er barst nefndinni 27. s.m., kæra eigandi Heimalands, eigandi Lækjarbotnum, eigandi Flagbjarnarholti, eigandi Svörtulofta 1 og eigandi Svörtulofta 2, þá ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 12. október 2016 að samþykkja deiliskipulagsbreytingu fyrir Heysholt. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi ytra 24. ágúst 2018.

Málsatvik og rök:
Bújörðin Heysholt í Rangárþyngi ytra er 52,5 ha að stærð samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Með breytingu síðla árs 2011 á Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2010-2022 var um 18 ha svæði úr jörðinni breytt í svæði fyrir frístundabyggð og um 7 ha svæði breytt í svæði fyrir verslun- og þjónustu, sem tengjast myndi ferðaþjónustu. Hinn 7. júní 2013 tók gildi deiliskipulag fyrir land Heysholts með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda. Deiliskipulagssvæðið er syðst í landi Heysholts og er hverfisvernd á mýri norðan við svæðið. Svæðið er u.þ.b. 25 ha að stærð og tók deiliskipulagið til frístundabyggðar með 24 lóðum og 48 byggingum og verslun og þjónustu á tveimur lóðum með tveimur byggingum þar sem önnur þeirra lóða átti að vera til framtíðarþarfa svæðisins. Vestast á deiliskipulagssvæðinu var gert ráð fyrir svæði til mögulegrar stækkunar frístundarbyggðarinnar til framtíðar.

Á árinu 2016 var af hálfu landeiganda Heysholts lögð til breyting á deiliskipulaginu. Í stað einnar lóðar undir þyrpingu frístundahúsa og lóðar undir þjónustuhús var ætlunin að sameina þær lóðir í eina þar sem gert væri ráð fyrir hótelbyggingu. Tillaga að deiliskipulagsbreytingu þess efnis var auglýst í Lögbirtingablaðinu 3. ágúst 2016 og í svæðisblaðinu Búkollu 4.-10. s.m. með athugasemdafresti til 15. september s.á. Mun auglýsing einnig hafa verið birt í Morgunblaðinu. Deiliskipulagsbreytingin var samþykkt í sveitarstjórn Rangárþings ytra 12. október 2016 og tók hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 27. desember s.á. Í febrúar 2017 sendi hópur landeigenda, þ. á m. kærendur, bréf til sveitarstjórnar þar sem deiliskipulagsbreytingunni var mótmælt, en þeir höfðu ekki sent athugasemdir við tillöguna á kynningartíma. Á fundi skipulags- og umferðarnefndar 6. mars s.á. voru framkomnar athugasemdir til umræðu og var bókað að breyting hefði verið gerð á aðalskipulagi Rangárþings ytra í nóvember 2011, þar sem skilgreiningu á landnotkun á umræddu svæði hefði verið breytt í verslun og þjónustu. Skipulagsnefnd áréttaði að allra krafna um kynningu tillögunnar hefði verið gætt í auglýsingarferli hennar og að nefndin hefði ekki talið ástæðu til frekari kynninga en lögbundnar væru. Afstaða skipulagsnefndar var staðfest af sveitarstjórn á fundi hennar 8. s.m. Var landeigendum svarað af skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings ytra 14. mars 2017 og vísaði hann til framangreindrar afgreiðslu skipulagsnefndar og sveitarstjórnar. Í svari fulltrúans sagði einnig orðrétt „[a]ð gefnu tilefni vil ég benda á að kannað verði hvort hægt sé að kæra samþykkt sveitarstjórnar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála“.

Kærendur byggja á því að deiliskipulagsbreytingin hafi ekki verið auglýst með áberandi hætti og því hafi deiliskipulagið komið þeim í opna skjöldu. Hvorki hafi verið sent út dreifibréf né haldinn íbúafundur þótt ljóst væri að um umfangsmiklar framkvæmdir væri að ræða í miðju sveitahéraði. Nágrönnum hafi ekki verið kynnt efni hennar, líkt og kveðið sé á um að eigi að gera í gr. 5.2.1 og 5.2.4 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Að auki hafi hvorki sveitarfélagið né leyfishafi brugðist við athugasemdum sem borist hefðu frá Umhverfisstofnun varðandi framkvæmdina.

Af hálfu Rangárþings ytra er tekið fram að gætt hafi verið að öllum kröfum um kynningu tillögunnar í auglýsingarferli hennar og að ekki hafi verið talin þörf á frekari kynningum umfram það sem kveðið sé á um í skipulagslögum nr. 123/2010. Að öðru leyti taki sveitarfélagið undir sjónarmið leyfishafa.

Af hálfu leyfishafa er vísað til þess að skv. 38. og 43. gr. skipulagslaga beri sveitarstjórn ábyrgð á gerð og afgreiðslu deiliskipulags og deiliskipulagsbreytingum. Því svari sveitarstjórn Rangárþings ytra fyrir deiliskipulag Heysholts en ekki leyfishafi. Að auki bendi leyfishafi á að kæra hafi borist úrskurðarnefndinni þegar meira en mánuður var liðinn frá því að deiliskipulagsbreytingin sætti opinberri birtingu í B-deild Stjórnartíðinda og því hafi kærufrestur verið liðinn þegar kæra barst, sbr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Niðurstaða:
Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var tillaga að hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu auglýst í fjölmiðlum í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og síðan birt í B-deild Stjórnartíðinda 27. desember 2016. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga tók kærufrestur því að líða degi síðar, eða hinn 28. s.m., en frá þeim degi mátti kærendum vera kunnugt um hina kærðu deiliskipulagsákvörðun. Þrátt fyrir það aðhöfðust kærendur ekki í málinu fyrr en með bréfi til sveitarstjórnar, dags. 27. febrúar 2017, og var þá þegar um mánuður liðinn frá lokum kærufrests. Var þeim þá bent á að kanna möguleika á kæru til úrskurðarnefndarinnar og kærðu þeir til hennar stuttu síðar. Það verður þó ekki fram hjá því litið að kæra í málinu barst hins vegar ekki úrskurðarnefndinni fyrr en um tveimur mánuðum eftir að kærufresti lauk, eða 27. mars 2017. Að því virtu verður ekki hjá því komist að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni samkvæmt fyrirmælum 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna verulegra tafa við gagnaöflun, sem og vegna mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.