Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

52/2018 Brúarvirkjun

Með

 

Árið 2018, þriðjudaginn 8. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur

Fyrir var tekið mál nr. 52/2018, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 1. febrúar 2018 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Brúarvirkjun.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:
 
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. mars 2018, er barst nefndinni 27. s.m., kæra Náttúruverndarsamtök Suðurlands og Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 1. febrúar 2018 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Brúarvirkjun, 9,9 MW vatnsaflsvirkjun í Tungufljóti. Tilkynnt var um veitingu framkvæmdaleyfisins með auglýsingu, m.a. í Lögbirtingablaði, 2. mars 2018. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 13. apríl 2018.

Málavextir: Fyrirhuguð framkvæmd er vatnsaflsvirkjun í efri hluta Tungufljóts í Biskupstungum, Bláskógabyggð, og er um rennslisvirkjun að ræða sem mun verða með uppsett afl allt að 9,9 MW. Mat á umhverfisáhrifum vegna Brúarvirkjunar lá fyrir í júní 2016 og álit Skipulagsstofnunar um það mat lá fyrir 20. september s.á.

Á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 4. maí 2017 var tekin fyrir umsókn HS Orku hf., dags. 27. apríl 2017, um framkvæmdaleyfi fyrir undirbúningsframkvæmdum vegna Brúarvirkjunar. Sótt var um leyfi fyrir efnistöku á um 18.000 m³ efnis úr námu E, sunnan Biskupstungnabrautar, veglagningu frá stöðvarhúsi að inntaki, plani undir vinnubúðir verktaka, lagningu rafstrengs og ljósleiðara milli stöðvarhúss og inntaks, tengingu við dreifikerfi Rarik, lagningu vatnsveitu og uppsetningu girðinga. Samþykkti sveitarstjórn umsóknina og var skipulagsfulltrúa falið að auglýsa niðurstöðu sveitarstjórnar. Hefur þessi ákvörðun sveitarstjórnar ekki verið kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Umsókn HS Orku hf., dags. 11. september 2017, um framkvæmdaleyfi fyrir Brúarvirkjun var lögð fyrir á fundi skipulagsnefndar Uppsveita bs. 28. september 2017. Gerði nefndin ekki athugasemd við að sveitarstjórn samþykkti umsóknina sem hún gerði á fundi sínum 12. október s.á. og fól skipulagsfulltrúa að auglýsa þá niðurstöðu sína. Úrskurðarnefndinni bárust kærur, m.a. frá kærendum, vegna framangreindrar ákvörðunar sveitarstjórnar.

Með umsókn sinni, dags. 17. janúar 2018, sótti HS Orka að nýju um framkvæmdaleyfi vegna Brúarvirkjunar. Umsókninni fylgdu frekari gögn og var þess óskað að afgreiðsla sveitarstjórnar frá 12. október 2017 yrði endurupptekin með hliðsjón af þeim gögnum, umsóknin afgreidd og samþykkt og fyrri afgreiðsla afturkölluð samtímis. Á fundi sínum 1. febrúar 2018 tók sveitarstjórn erindi HS Orku fyrir og féllst á að skilyrði til endurupptöku væru uppfyllt og bókaði jafnframt að fyrri samþykkt um málið frá 12. október 2017 væri felld úr gildi. Með úrskurði í kærumáli nr. 138/2017, uppkveðnum 19. febrúar 2018, var áðurnefndum kærum vegna ákvörðunar sveitarstjórnar frá 12. október 2017 vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ákvörðunin hefði ekki lengur réttarverkan að lögum.

Umsókn HS Orku um framkvæmdaleyfi var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar Uppsveita bs. 25. janúar 2018 og var eftirfarandi m.a. bókað um afgreiðslu málsins: „Að mati skipulagsnefndar eru lagaskilyrði til útgáfu umsótts framkvæmdaleyfis. Fyrirhuguð umsókn er í samræmi við gildandi aðal- og deiliskipulag svæðisins ásamt skilyrðum sem fram koma í áliti Skipulagsstofnunar. Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að umsókn HS Orku hf. vegna Brúarvirkjunar verði samþykkt og jafnframt verði skipulagsfulltrúa falið að gefa út framkvæmdaleyfið í samræmi við umsókn og framlögð gögn, reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 og auglýsa framkvæmdaleyfið.“ Þá var bókað um skilyrði leyfisveitingarinnar og tekið fram að samþykktin ætti ekki við um framkvæmdir sem háðar væru byggingarleyfi samkvæmt ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 1. febrúar 2018 var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest og var samþykkt að veita framkvæmdaleyfi fyrir Brúarvirkjun með nánar tilgreindum skilyrðum. Jafnframt var lagt fyrir skipulagsfulltrúa að auglýsa niðurstöðu sveitarstjórnar í samræmi við ákvæði 10. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi og gefa út nýtt framkvæmdaleyfi að undangengnum framangreindum skilyrðum. Hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að í fréttum hafi komið fram að athöfn hafi farið fram til þess að hefja framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi, en kærendum hefði ekki verið kunnugt um að verk hefðu verið boðin út. Framkvæmdir muni vera að hefjast og sé áætlaður verktími sagður vera tuttugu mánuðir. Verði því að telja að uppfyllt séu skilyrði 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála um fyrirhugaðar eða hafnar framkvæmdir. Kæra samtakanna yrði þýðingarlaus miðað við þetta verði ekki orðið við stöðvunarkröfunni. Mikil óvissa sé um afleiðingar framkvæmdanna, enda hafi rannsóknir verið mjög af skornum skammti auk þess sem almannahagsmunir séu í húfi.

Málsrök Bláskógabyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 komi fram sú meginregla að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar. Með sama hætti sé kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttarahrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta þeim meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði beri með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar. Stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar sé þ.a.l. takmörkuð undantekningarregla sem skýra beri þröngt. Ríkar ástæður eða veigamikil rök verði því að liggja að baki slíkri ákvörðun og verði að gera þá lágmarkskröfu að sá sem fari fram á slíka frestun rökstyðji þörfina að baki þeirri kröfu hverju sinni. Sé vísað til framkvæmdar úrskurðarnefndarinnar, en hún hafi, sbr. nánar tilgreinda úrskurði, hafnað því að stöðva framkvæmdir með vísan til þess að hagsmunir kæranda séu ekki slíkir að knýjandi nauðsyn sé til að fallast á slíka kröfu.

Kærendur geti því ekki byggt kröfu um stöðvun framkvæmda á þeirri málsástæðu einni að framkvæmdir séu hafnar eða yfirvofandi. Þeir verði jafnframt að sýna fram á að knýjandi nauðsyn sé til að fallast á slíka kröfu. Kærendur hafi í máli þessu engin rök fært um knýjandi nauðsyn að baki frestunar réttaráhrifa. Því fari fjarri að þeir hafi axlað þá sönnunarbyrði sem á þeim hvíli vegna kröfunnar.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi mótmælir stöðvunarkröfu kærenda sem tilefnislausri. Það sé meginregla að kæra til úrskurðarnefndar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011. Í greinargerð er fylgt hafi frumvarpi því sem varð að nefndum lögum komi fram að úrskurðarnefndinni beri að gæta að því að efnislegar forsendur liggi að baki kæru. Sé litið til úrskurða nefndarinnar beiti hún þessu valdi af mikilli varfærni. Mörg umkvörtunarefni kærenda séu fjarstæðukennd og eigi jafnvel ekki undir úrskurðarvald nefndarinnar auk þess sem sum atriði kærunnar byggi á misskilningi.

Stöðvun framkvæmda byggist á undantekningarheimild sem skýra beri þröngt og beri einungis að beita í takmarkatilvikum þegar sérstakar aðstæður eða hagsmunir séu fyrir hendi og veigamikil rök standi til beitingar úrræðisins. Kærendur hafi hvorki fært fram neinar málsástæður eða rök fyrir að einhverjar þær aðstæður séu uppi sem réttlæti beitingu svo harkalegs úrræðis né sýnt fram á að þeir verið fyrir tjóni vegna framkvæmdanna. Augljóst sé hins vegar að stöðvun framkvæmda hefði í för með sér verulegt tjón fyrir leyfishafa og viðsemjendur hans og með beinum og óbeinum afleiðingum fyrir nærsamfélagið sem muni njóta orkunnar þegar framleiðsla hefjist.

Leyfishafi geri kröfu um frávísun og bendi á að nauðsyn beri til að kanna hvort kærendur uppfylli skilyrði undantekningarákvæðis 4. gr. laga nr. 130/2011 um kæruaðild án þess að eiga lögvarinna hagsmuna að gæta. Einnig sé bent á að kærendur hafi ekki áður gert athugasemdir við framkvæmd þá sem nú sé kærð. Þeir hafi ekki kært framkvæmdaleyfi fyrir undirbúningsframkvæmdum og hvorki komið að athugasemdum við breytingu aðalskipulags og deiliskipulagsgerð né í matsferlinu sjálfu. Geti kærendur ekki fyrst á kærustigi hreyft andmælum gegn framkvæmd sem byggi á staðfestu skipulagi, enda gangi slíkt beinlínis gegn grunnsjónarmiðum um kynningu og samráð, sbr. skipulagslög nr. 123/2010 og lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Sé í þessu sambandi vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í kærumáli nr. 6/2007.

Niðurstaða:
Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í tilvitnuðu lagaákvæði er þó gerð sú undantekning að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga geti kært nánar tilgreindar ákvarðanir, svo sem ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum, án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, enda samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að. Skulu samtökin vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald. Hefur úrskurðarnefndin gengið úr skugga um að kærendur, sem eru umhverfisverndarsamtök, uppfylli nefnd skilyrði framangreindra laga. Þá er framangreind kæruheimild ekki bundin því skilyrði að kærendur hafi áður komið að athugasemdum vegna þeirrar framkvæmdar sem heimiluð er með hinni kærðu ákvörðun. Verður máli þessu því ekki vísað frá af þeim sökum.

Í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Hefur úrskurðarnefndin til þess sjálfstæða heimild, en sú heimild er undantekning frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Ekki er um það deilt að framkvæmdir eru yfirvofandi. Skírskota kærendur og til þess að kæra þeirra yrði þýðingarlaus verði ekki orðið við kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda.

Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 segir um 5. gr. að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum hennar, þó sé mikilvægt að gætt sé að því að efnislegar forsendur liggi að baki kæru, þ.e. að horft sé til þess hversu líklegt sé að kæra breyti efni ákvörðunar.

Það er álit úrskurðarnefndarinnar að framkvæmdir verði ekki stöðvaðar á þeim grundvelli einum að umhverfi verði raskað, jafnvel þótt það rask verði umtalsvert, enda myndu flestar þær framkvæmdir sem sætt hafa mati á umhverfisáhrifum þá stöðvaðar án þess að frekari skoðunar þyrfti við. Verður annað og meira að liggja fyrir til að heimild 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 verði beitt, svo sem að umhverfi það sem raskað verður njóti sérstakrar verndar og eftir atvikum að áhrifin á það séu óafturkræf.

Fyrir liggur álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar þar sem stofnunin komst að þeirri niðurstöðu að helstu neikvæðu áhrif hennar felist í breyttri ásýnd fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis og landslagi þess. Benti stofnunin á að fyrirhugað framkvæmdasvæði einkenndist af gróskumiklu votlendi og skóglendi sem nyti sérstakrar verndar samkvæmt lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd og sem forðast skuli að raska nema brýna nauðsyn beri til, en nær allt framkvæmdasvæðið sé vel gróið. Stofnunin taldi óvissu um áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á fugla og þá einkum á straumendur þar sem rannsóknir hefðu ekki farið fram á lónstæðinu. Áhrif á aðra umhverfisþætti, s.s. landnotkun, hljóðstig og ónæði, jarðmyndanir og vatnalíf, yrðu minni. Nánar er rakið í áliti stofnunarinnar að bein áhrif fyrirhugaðrar Brúarvirkjunar á gróður séu þau að mannvirki og inntakslón virkjunarinnar komi til með að raska birkikjarr- og skóglendi auk votlendis á tæplega 7 ha svæði. Liggur þannig fyrir að áhrif verða á umhverfisþætti sem njóta sérstakrar verndar lögum samkvæmt. Kemur og fram í áliti Skipulagsstofnunar að framkvæmdin feli í sér byggingu ýmissa mannvirkja, s.s. um 600 m langrar og allt að 12 m hárrar stíflu, um 10 m hás stöðvarhúss og um 8 ha lóns auk nýs vegar á svæði sem sé að mestu ósnortið. Enn fremur muni verða rask á svæðinu vegna efnistöku, haugsetningar og skurða.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu voru undirbúningsframkvæmdir heimilaðar með framkvæmdaleyfi sem ekki var kært til úrskurðarnefndarinnar. Mun þeim að mestu vera lokið. Svæðinu hefur því verið raskað nú þegar á grundvelli leyfis sem stendur óhaggað. Samkvæmt þeirri framkvæmdaáætlun sem úrskurðarnefndin hefur undir höndum og öðrum gögnum málsins munu framkvæmdir þessa árs einkum lúta að vatnsvörnum með gerð varnarstíflu ofan inntaks, gerð skurða, m.a. til að veita Tungufljóti yfir í Stóru-Grjótá og öfugt á byggingartíma, gerð grunns fyrir stöðvarhús, sem og framkvæmdum vegna fallpípu. Áætlað er að hefja framkvæmdir við aðalstíflu 1. apríl 2019 og ljúka þeim 10. október s.á. Eðli máls samkvæmt verður uppistöðulónið, sem mun verða 8 ha að stærð, ekki fyllt fyrr en að þeirri framkvæmd lokinni. Kæra í máli þessu barst 12. apríl 2018 og verður að gera ráð fyrir því að efnislegri meðferð þess verði lokið áður en framkvæmdir hefjast við aðalstíflu, en það er ekki fyrr en að þeim framkvæmdum loknum sem þau neikvæðu umhverfisáhrif sem um ræðir koma fram að fullu. Verður með hliðsjón af framangreindu, því raski sem þegar er orðið, sem og því að votlendi verður endurheimt og birki ræktað, að telja litlar líkur á að þau óafturkræfu áhrif komi fram á umhverfið meðan á meðferð málsins stendur sem leiði til þess að kæruheimild verði þýðingarlaus. Að sama skapi er ljóst að stöðvun framkvæmda á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar myndi hafa í för með sér mikið tjón fyrir leyfishafa.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður hafnað kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða, en þó þykir rétt að árétta að framkvæmdir eru alfarið á áhættu leyfishafa á meðan efnisleg niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggur ekki fyrir.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________              _____________________

Aðalheiður Jóhannsdóttir                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

60/2018 Áshamar

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 8. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 60/2018, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 28. mars 2017 um veitingu byggingarleyfis fyrir einbýlishúsi að  Áshamri 32 í Vestmannaeyjabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 25. apríl 2018, kærir lóðarhafi Áshamars 48, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 28. mars 2017 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóð nr. 32 við Áshamar í Vestmannaeyjabæ. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og sveitarfélaginu gert að grenndarkynna málið að nýju.

Jafnframt er gerð krafa um að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Vestmannaeyjabæ 3. maí 2018.

Málavextir:  Hinn 20. febrúar 2017 tók umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja fyrir umsókn lóðarhafa um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni Áshamri 32, sem er á ódeiliskipulögðu svæði. Ráðið samþykkti að umsóknin yrði grenndarkynnt fyrir lóðarhöfum að Áshamri 28, 30, 34, 36 og 50 og Búhamri 13, 29, 35 og 39 með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umsóknin var kynnt með bréfi, dags. 20. febrúar 2017, og var gefinn fjögurra vikna frestur frá dagsetningu bréfsins til að skila inn athugasemdum. Engar athugasemdir bárust innan frestsins og var byggingarleyfi gefið út hinn 31. ágúst s.á. Framkvæmdir við byggingu hússins hófust í febrúar 2018 og hafði kærandi af því tilefni samband við byggingarfulltrúa 7. mars s.á. Síðar sama dag sendi byggingarfulltrúi kæranda með tölvupósti þær upplýsingar sem sendar voru með grenndarkynningu.

Málsrök kæranda: Kærandi telur ákvörðun um veitingu byggingarleyfis á lóð við Áshamar 32 ógilda þar sem umsóknin hafi ekki verið grenndarkynnt honum, en lóð kæranda, Áshamar 48, liggi að umræddri lóð. Fyrirhuguð bygging virðist vera með öðru byggingarlagi, hafa ólíka afstöðu og vera stærri en önnur hús á svæðinu. Um sé að ræða meira byggingarmagn og hærra hús en hægt sé að fallast á. Það birgi verulega fyrir útsýni kæranda til sjávar og skerði þannig gæði hans umfram það sem yrði ef byggingin yrði lægri. Kveðst kærandi ekki hafa fengið tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknarinnar, en hann yrði fyrir mestri skerðingu á hagsmunum þar sem útsýni hans yrði skert verulega.

Málsrök Vestmannaeyjabæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er gerð sú krafa að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Er byggt á því að kæran hafi borist að liðnum kærufresti, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. Kæranda hafi verið fullkunnugt um efni hinnar kærðu ákvörðunar hinn 7. mars 2018, eða rúmum mánuði áður en hann kærði hana.

Óumdeilt sé að grenndarkynning tók ekki til lóðarhafa að Áshamri 48. Fullyrðingum kæranda um að honum hafi ekki verið gerð grein fyrir málinu sé sérstaklega mótmælt. Fyrir liggi að kæranda voru afhent þau gögn sem fylgdu grenndarkynningu auk þess sem draga megi þá ályktun af lýsingum í kærubréfi að honum sé vel kunnugt um efni hinnar kærðu ákvörðunar. Ljóst sé að kæranda hafi verið gerð grein fyrir efni hinnar kærðu ákvörðunar og því hafnað að hann hafi ekki fengið nægar eða umbeðnar upplýsingar vegna málsins.

Bent er á að sjónarmið kæranda um skert útsýni séu ekki studd neinum gögnum. Ein af þeim forsendum sem lágu til grundvallar útgáfu byggingarleyfis hafi verið að hið nýja hús væri í samræmi við eldri hús í götunni. Húsið sé einlyft og um 30-40 cm hærra en það hús er stóð þar áður. Hús kæranda standi mun hærra í landinu og því telji bæjaryfirvöld rétt að kærandi geri sérstaklega grein fyrir skerðingu sinni á útsýni. 

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram sú meginregla að vísa skuli kæru frá berist hún að liðnum kærufresti. Þær undantekningar eru gerðar frá nefndri meginreglu í 1. og 2. tl. 1. mgr. ákvæðisins að taka megi mál til meðferðar að liðnum kærufresti þegar afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum kemur m.a. fram í athugasemdum með nefndri 28. gr. að líta þurfi til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni, en undir þeim kringumstæðum sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algerum undantekningartilvikum. Í máli þessu fara hagsmunir kæranda og handhafa hins kærða byggingarleyfis ekki saman.

Kærandi sendi hinn 7. mars 2018 byggingaryfirvöldum erindi vegna framkvæmda við Áshamar 32, en framkvæmdir voru þá nýlega hafnar. Byggingarfulltrúi svaraði erindinu sama dag og sendi kæranda grenndarkynningargögn vegna umsóttra framkvæmda. Kæra barst nefndinni 25. apríl s.á., eða um einum og hálfum mánuði eftir að gögn málsins bárust honum. Í svari byggingarfulltrúa var kæranda ekki leiðbeint um kæruleið og kærufrest vegna málsins en umrædd bygging getur snert grenndarhagsmuni hans. Eins og málsatvikum er háttað verður talið afsakanlegt að kæra í þessu máli hafi borist svo seint sem raun ber vitni og teljast því skilyrði til að taka mál þetta til efnismeðferðar á grundvelli 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal grenndarkynning fara fram þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi á svæði þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að í grenndarkynningu felist að kynna nágrönnum fyrirhugaða framkvæmd sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta og þeim gefinn kostur á að tjá sig um hana innan tilskilins frests. Lóð kæranda við Áshamar 48 liggur að lóð byggingarleyfishafa við Áshamar 32. Bar því að grenndarkynna byggingaráformin fyrir kæranda í samræmi við áðurnefnt ákvæði, en það var ekki gert.

Með tilliti til þess að grenndarkynningu er ætlað að veita hagsmunaaðilum andmælarétt auk þess sem hún er liður í rannsókn máls, leiðir framangreindur ágalli á grenndarkynningu umræddrar byggingarleyfisumsóknar til þess að ógilda verður hina kærðu ákvörðun.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 28. mars 2017 um veitingu byggingarleyfis fyrir einbýlishúsi á lóð nr. 32 við Áshamar, Vestmannaeyjabæ.

____________________________________
Ómar Stefánsson

_______________________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                    Þorsteinn Þorsteinsson

153/2016 Lokaúttektargjald

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 25. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 153/2016, kæra á gjaldtöku Reykjavíkurborgar vegna útgáfu lokaúttektarvottorðs vegna fasteignarinnar að Haukdælabraut 96 í Reykjavík
.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. nóvember 2016, er barst nefndinni 22. s.m., kærir A, þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að innheimta gjald fyrir útgáfu lokaúttektarvottorðs vegna fasteignarinnar að Haukdælabraut 96 í Reykjavík. Skilja verður kröfugerð kæranda svo að gerð sé krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 7. febrúar 2017 og 24. apríl 2018.

Málavextir: Hinn 15. september 2009 var samþykkt umsókn um leyfi fyrir byggingu hússins að Haukdælabraut 96 í Reykjavík. Mun Reykjavíkurborg hafa gefið út byggingarleyfi 25. janúar 2010 og var kæranda þá gert að greiða 141.704 kr., þar af 72.000 kr. fyrir „úttektir“. Við lokaúttekt á umræddri fasteign var gerð krafa um að kærandi greiddi fyrir þá úttekt og fyrir útgáfu lokaúttektarvottorðs. Mun kærandi hafa komið á framfæri athugasemdum við byggingarfulltrúa vegna fyrirhugaðrar gjaldtöku, en verið tjáð að skylt væri að innheimta nefnd gjöld. Í kjölfar þess kvartaði kærandi til umboðsmanns borgarbúa. Óskaði umboðsmaður borgarbúa skýringa á umræddri gjaldtöku hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar og bárust þær með bréfi, dags. 25. maí 2016. Í bréfinu kom fram að gjöld vegna lokaúttektar og lokaúttektarvottorðs féllu utan áfangaúttekta og hafi á þeim tíma þegar umsókn um byggingarleyfi hafi verið samþykkt verið lagt á þegar eigandi hafi óskað lokaúttektar. Hafi ekki verið byrjað að leggja á gjald fyrir lokaúttekt og lokaúttektarvottorð samhliða samþykkt á byggingarleyfisumsóknum fyrr en í ársbyrjun 2013. Þá var tekið fram að Reykjavíkurborg féllist á að fella niður gjald vegna lokaúttektar, en að ekki yrði hjá því komist að greiða fyrir lokaúttektarvottorð. Upplýsti umboðsmaður borgarbúa kæranda um þá niðurstöðu með bréfi, dags. 26. maí 2016, og að athugun hans á málinu væri lokið.

Í framhaldi af því mun hafa verið stofnað til gjaldtöku vegna lokaúttektarvottorðs hinn 1. júní 2016 og munu frekari samskipti hafa átt sér stað milli umboðsmanns borgarbúa, byggingarfulltrúa og kæranda vegna þess. Tók umboðsmaður borgarbúa mál kæranda fyrir að nýju og var niðurstaða hans kynnt kæranda með bréfi, dags. 20. júlí 2016. Í bréfinu vék umboðsmaður borgarbúa m.a. að þeim álitaefnum sem leysa þyrfti úr vegna þeirra afstöðu kæranda að byggingarfulltrúa væri óheimilt að innheimta nefnd gjöld. Taldi umboðsmaður borgarbúa að ekki væri hægt að leggja að jöfnu þá þjónustu er fælist í framkvæmd úttektar annars vegar og útgáfu vottorðs hins vegar. Væri það niðurstaða hans að um tvö aðskilin gjöld væri að ræða og að greiðsla fyrir úttektir sem slíkar fæli ekki jafnframt í sér greiðslu vegna lokaúttektarvottorðs. Benti umboðsmaður borgarbúa kæranda einnig á að ágreiningur að því tagi sem um ræddi ætti undir valdsvið úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og vísaði í því sambandi m.a. á heimasíðu nefndarinnar.

Málsrök kæranda:
Kærandi skírskotar til þess að skv. 53. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem við eigi í máli þessu, hafi verið heimilt að innheimta gjöld samhliða úttekt en að sú gjaldtaka yrði að endurspegla raunkostnað, enda um þjónustugjöld að ræða. Um heimild hafi verið að ræða, en ekki skyldu til innheimtu gjaldsins. Telja verði að gjald vegna lokaúttektarvottorðs hafi verið innifalið í þeirri þjónustu sem kærandi hafi greitt fyrir árið 2010. Slíkt sé venjan og bendi kærandi á sambærilegt mál hjá öðru sveitarfélagi máli sínu til stuðnings. Hafi borginni verið í lófa lagið að krefjast þessarar greiðslu árið 2010 ef til hennar ætti að koma eða þá að orða greiðslukvittunina með öðrum hætti. Augljóst sé að greiðslukvittunin eigi við um úttektir og ótækt sé ef stjórnvald geti síðan breytt reglum þannig að heimilt sé að leggja á aukin gjöld. Þá sé verið að innheimta of mikið fyrir umrætt vottorð en það sé unnið upp úr sjálfvirku tölvukerfi. Sé í raun ekki um þjónustugjald að ræða heldur skatt. Loks bendi kærandi á að hann hafi skotið málinu til úrskurðarnefndarinnar eins fljótt og mögulegt hafi verið, en honum sé ljóst að meira en mánuður hafi liðið frá bréfi umboðsmanns borgarbúa til sín.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Sveitarfélagið krefst þess aðallega að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en til vara að álagningin verði staðfest. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komi fram að kærufrestur til nefndarinnar sé einn mánuður frá því að kærandi varð kunnugt eða hafi mátt vera kunnugt um ákvörðunina. Hin umdeilda álagning hafi verið kærð þegar liðnir voru tæpir sex mánuðir frá því að gjaldið hafi verið lagt á. Fyrir liggi að samskipti hafi átt sér stað milli byggingarfulltrúa og kæranda eftir að gjaldið hafi verið lagt á. Í því sambandi sé vísað til bréfa, dags. 25. maí 2016, en þar sé m.a. til umfjöllunar hið umdeilda gjald. Kæranda hafi því verið fullkunnugt um álagningu á því tímamarki, en í síðasta lagi við greiðslu þess 18. ágúst s.á. Hafi honum verið í lófa lagið að kæra álagningu þá þegar við það tímamark, ella innan mánaðarfrestsins.

Byggingarfulltrúi hafi lagt gjald á vegna lokaúttektar skv. 4. gr. gjaldskrár fyrir úttektir og vottorð byggingarfulltrúans í Reykjavík 2009. Hafi gjaldskráin sótt stoð sína til 1. mgr. 53. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, núgildandi 1. mgr. 51. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Í 1. mgr. 53. gr. laga nr. 73/1997 hafi komið fram að sveitarstjórnum væri heimilt að innheimta gjöld vegna útmælinga, eftirlits, úttekta, yfirferða hönnunargagna og vottorða sem byggingarfulltrúi léti í té. Í núgildandi gjaldtökuheimild sé að finna efnislega samhljóða ákvæði. Segi í lögunum að sveitarstjórn ákveði gjalddaga framkvæmdaleyfis-, byggingarleyfis- og bílastæðagjalda og hvernig þau skuli innheimt. Sé innheimta gjaldsins því lögum samkvæmt.

Niðurstaða: Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefndina. Berist kæra að liðnum kærufresti ber að vísa henni frá skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, sbr. og það sem nánar kemur fram í málavaxtalýsingu, mátti kæranda vera ljóst efni hinnar kærðu ákvörðunar eftir að afstaða borgarinnar þess efnis að greiða yrði fyrir lokaúttektarvottorð lá fyrir í bréfi 25. maí 2016 og stofnað var til gjaldtöku 1. júní s.á. Svo sem að framan greinir kvartaði kærandi yfir hinni umdeildu gjaldtöku við umboðsmann borgarbúa. Lá afstaða umboðsmanns borgarbúa vegna málsins fyrir og var kynnt kæranda með bréfum, dags. 26. maí og 20. júlí 2016. Í síðargreinda bréfinu var á það bent á að ágreiningur að því leyti sem mál kæranda varðaði heyrði undir valdsvið úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Jafnframt því var upplýst hvar úrskurðarnefndin væri til húsa og að kæra þyrfti að vera skrifleg og undirrituð af hálfu kæranda. Þá var að því vikið að nánari upplýsingar mætti nálgast á heimasíðu nefndarinnar og vefslóð hennar gefin upp. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála barst kæra í máli þessu 22. nóvember 2016 eða ríflega fjórum mánuðum eftir að umboðsmaður borgarbúa hafði bent kæranda á að unnt væri að skjóta hinni umþrættu ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar og rúmum þremur mánuðum eftir að kærandi innti af hendi greiðslu gjaldsins. Var kærufrestur þá liðinn.

Þrátt fyrir að ekki hafi verið veittar upplýsingar um kærufrest í umræddu bréfi umboðsmanns borgarbúa er ljóst að eigi síðar en 20. júlí 2016 lágu fyrir kæranda leiðbeiningar um að unnt væri að skjóta ákvörðuninni til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Verður að telja að kæranda hafi verið í lófa lagið að gera reka að því að vísa málinu til úrskurðarnefndarinnar innan lögmælts kærufrests og ber kæran raunar með sér að kærandi var þess meðvitaður að kærufrestur væri liðinn. Verður með vísan til framangreinds ekki séð að fyrir hendi séu þau atvik eða ástæður er mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar á grundvelli undantekningarheimilda 28. gr. stjórnsýslulaga og ber því að vísa henni frá úrskurðarnefndinni með vísan til fyrirmæla 1. mgr. sama lagaákvæðis.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

54/2018 Eikjuvogur 27

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 2. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 54/2018 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. apríl 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra A og B, eigendur Eikjuvogs 29, og Guðmundur Atli Pálmason og Þórveig Benediktsdóttir, eigendur Eikjuvogs 25, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 25. janúar 2018 að staðfesta samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. s.m. um breytingu á deiliskipulagi Vogahverfis vegna Eikjuvogs 27. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir á grundvelli hennar verið stöðvaðar til bráðbirgða. Verður nú tekin afstaða til framkominnar kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik og rök: Á fundi borgarráðs Reykjavíkur 25. janúar 2018 var staðfest samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. s.m. um breytingu á deiliskipulagi Vogahverfis vegna Eikjuvogs 27. Auglýsing um breytinguna birtist í B-deild Stjórnartíðinda 13. mars s.á. Breytingin felur helst í sér að í stað einbýlishúss á lóðinni verði heimilaðar þrjár íbúðir. Byggingarmagn og nýtingarhlutfall lóðar helst óbreytt, sem og fjöldi bílastæða.

Af hálfu kærenda er á það bent að þó ekki hafi verið gefið út byggingarleyfi vegna fyrirhugaðra mannvirkja megi ætla að eftir því verði gengið strax í kjölfar gildstöku hinnar kærðu ákvörðunar. Mun af slíku hljótast verulegt rask og fjárhagsleg áhætta fyrir leyfishafa í ljósi óvissu um afdrif framkominnar kæru. Þyki því rétt að setja fram stöðvunarkröfu. Af hálfu Reykjavíkurborgar er kröfunni mótmælt þar sem gildistaka deiliskipulags feli ekki í sér heimild til framkvæmda heldur þurfi til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar. Leyfishafi tjáir sig ekki sérstaklega um kröfu um stöðvun framkvæmda, en fer fram á að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð sinn svo fljótt sem verða megi komi til þess.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar eins og á við um veitingu byggingar- eða framkvæmdaleyfis með stoð í skipulagi, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði sé ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda sem gert er ráð fyrir í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu. 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar er hafnað.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

117/2017 Starfsleyfi fyrir brennsluofni

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 25. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 117/2017, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra frá 7. september 2017 um að synja um endurnýjun á starfsleyfi fyrir brennsluofn.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. október 2017, er barst nefndinni 11. s.m., kærir B. Jensen ehf., Lóni, Akureyri, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra frá 7. september 2017 að synja um endurnýjun á starfsleyfi fyrir brennsluofn kæranda. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 8. desember 2017, krafðist kærandi þess að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til þessarar kröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra 27. nóvember 2017.

Málavextir: Kærandi rekur sláturhús og kjötvinnslu og er með starfsleyfi sem gefið var út af heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra 5. desember 2013. Gildir starfsleyfið til 12 ára. Heilbrigðisnefndin gaf einnig út starfsleyfi til kæranda fyrir brennslu sláturúrgangs í áhættuflokkum 1 og 2 í sérstökum brennsluofni hinn 25. ágúst 2016. Starfsleyfið var gefið út til eins árs og gilti fyrir brennslu á allt að 20 tonnum af sláturúrgangi á ári. Á starfsleyfistímanum bárust kvartanir frá íbúum í nágrenni ofnsins um lyktarmengun og reyk. Jafnframt var haldinn íbúafundur í Hlíðarbæ í Hörgársveit 25. janúar 2017 þar sem fram komu kvartanir af hálfu fundarmanna vegna ofnsins.

Kærandi sótti um framlengingu á framangreindu starfsleyfi og á fundi heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra 7. september 2017 var eftirfarandi bókað: „Ljóst er að reynslan af rekstri ofnsins m.t.t. nágranna hefur ekki verið góð þar sem margar og ítrekaðar kvartanir hafa borist heilbrigðiseftirliti vegna reykjar- og lyktarmengunar. Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra getur af þessum sökum ekki samþykkt veitingu á áframhaldandi starfsleyfi fyrir brennsluofn á núverandi stað.“

Kæranda var kynnt ákvörðun heilbrigðisnefndar með bréfi, dags. 18. september 2017, en með bréfi, dags. 22. s.m., fór kærandi fram á endurupptöku þeirrar ákvörðunar með vísan til þess að fyrir lægju niðurstöður mengunarmælinga sem framkvæmdar hefðu verið af Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Með bókun á fundi heilbrigðisnefndar 2. október s.á. var því hafnað að endurupptaka nefnda ákvörðun þar sem niðurstöður útblástursmælinga hefðu ekki legið til grundvallar niðurstöðu nefndarinnar um synjun á starfsleyfi.

Á fundi heilbrigðisnefndarinnar 7. nóvember 2017 kom fram að kærandi hefði haldið áfram að nota brennsluofninn þrátt fyrir að leyfi fyrir starfsemi hans væri útrunnið. Fól nefndin heilbrigðisfulltrúa að fylgja málinu eftir og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum skv. VI. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og stöðva rekstur ofnsins á núverandi stað, með aðstoð lögreglu ef með þyrfti. Var kæranda kynnt framangreint með bréfi, dags. 20. nóvember s.á. Með bréfi, dags. 14. s.m., fór kærandi fram á að fá heimild til að starfrækja brennsluofninn á meðan mál hans væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Var þeirri beiðni hafnað með bréfi Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, dags. 29. nóvember s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi kveður heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra hvorki hafa sinnt lögboðinni rannsóknarskyldu sinni né gætt andmælaréttar áður en hin kærða ákvörðun hafi verið tekin. Þá hafi nefndin ekki gætt jafnræðis í máli kæranda, en mikill fjöldi svipaðra brennsluofna sé í notkun um land allt.

Þegar ákvörðunin hafi verið tekin hafi legið fyrir að beðið væri niðurstöðu mælinga Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á útblæstri hins umdeilda brennsluofns. Engu að síður hafi verið ákveðið að synja kæranda um starfsleyfi fyrir ofninn. Nú liggi fyrir drög að mælingu sem styðji það sem kærandi hafi alla tíð haldið fram, að mengun frá brennsluofninum sé innan eðlilegra og löglegra marka. Ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar hafi því verið byggð á ófullnægjandi og/eða röngum upplýsingum. Með bréfi, dags. 22. september 2017, hafi þess verið krafist, með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að heilbrigðisnefndin endurupptæki stjórnvaldsákvörðun sína og breytti henni með þeim hætti að gefið yrði út starfsleyfi fyrir brennsluofninn. Þeirri kröfu hafi ekki verið svarað.

Málsrök heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra: Heilbrigðisnefndin bendir á að samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir gefi heilbrigðisnefnd út starfsleyfi. Í ákvæðinu segi m.a. að gefa skuli út starfsleyfi til tiltekins tíma og að heimilt sé að endurskoða eða breyta starfsleyfi, svo sem ef mengun af völdum atvinnurekstrar sé meiri en búist hafi verið við þegar leyfið hafi verið gefið út eða ef breyting verði á aðalskipulagi viðkomandi sveitarfélags. Mengun eða breyting á skipulagi séu því málefnalegar ástæður fyrir því að starfsleyfi sé ekki veitt að nýju eftir að gildistíma ljúki. Fyrir liggi kvartanir um ólykt sem borist hafi heilbrigðiseftirliti og sem bornar hafi verið fram á íbúafundi í Hörgársveit. Þótt ekki sé byggt á breyttu skipulagi í synjuninni hafi verið horft til þess. Byggð sé að færast nær starfsstöðinni, sbr. auglýst deiliskipulag í Hörgársveit, og séu því enn meiri líkur á því að íbúar þar komi til með að verða fyrir óþægindum.

Þá sé vísað til reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, en markmið reglugerðarinnar sé að koma í veg fyrir og draga úr mengun af völdum atvinnurekstrar. Í reglugerðinni sé ólykt skilgreind sem mengun þótt hún sé ekki skaðleg. Því geti útblástursmælingar einar og sér ekki leitt til þess að veita skuli starfsleyfi, ef ekki sé hægt að koma í veg fyrir lyktarmengun. Kæranda hafi verið veitt starfsleyfi til eins árs, frá 25. ágúst 2016. Horft hafi verið á starfsleyfistímann sem reynslutíma. Á gildistíma starfsleyfisins hafi borist kvartanir um reyk- og lyktarmengun frá íbúum og rekstraraðilum í nærliggjandi götum og einnig á íbúafundi. Kvartanir hafi allar verið á þá leið að mikil lyktarmengun stafaði af brennslu í ofninum, sem ónáðaði íbúa. Þegar umsókn um endurnýjun á starfsleyfi hafi verið könnuð hafi framangreindar kvartanir og staðfesting á lyktarmengun orðið til þess að ekki hafi verið hægt að verða við því að starfsleyfið yrði endurnýjað. Kæranda hafi í tíma verið bent á að honum væri heimilt að færa brennsluofninn á iðnaðarlóð, fjær íbúabyggð, án þess að litið yrði á hann sem móttökustöð fyrir úrgang. Meðalhófs hafi því verið gætt í máli kæranda.

Heilbrigðisnefnd mótmæli þeirri staðhæfingu kæranda að hún hafi  vanrækt að sinna rannsóknarskyldu sinni við töku hinnar kærðu ákvörðunar.  Sé í þessu sambandi á það bent að kvartanir hafi verið skráðar og staðfestar. Þá hafi niðurstaða útblástursmælingar ekki haft áhrif á niðurstöðuna þar sem kvartanir einar og sér, sem og lyktarmengun, hafi leitt til umræddrar synjunar. Kærandi hafi hins vegar átt að vera búinn að senda niðurstöður útblástursmælinga fyrir nokkrum mánuðum samkvæmt skilyrðum starfsleyfisins og því hafi hann ítrekað verið beðinn um þær niðurstöður. Heilbrigðisnefndin bendi á að kærandi hafi sent inn umsókn og því hafi verið óþarfi að veita honum sérstakan andmælarétt. Í umsókn sinni hafi kærandi getað komið að sjónarmiðum sínum og rökum ef hann hefði séð ástæðu til. Heilbrigðisnefndin mótmæli því að jafnræðisreglan hafi verið brotin við meðferð málsins. Hvert og eitt tilvik þurfi að skoða út frá aðstæðum hverju sinni, nálægð við íbúðabyggð, mengun frá hverjum og einum brennsluofni og kvörtunum sem berist. Því sé hvert og eitt mál einstakt, sem meta þurfi með vísan til eðlis og aðstæðna hverju sinni.

Að öllu framangreindu virtu verði að telja að ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar um synjun á endurnýjun starfsleyfis kæranda vegna brennsluofns við starfsstöð hans hafi verið lögmæt og studd málefnalegum rökum. Engir annmarkar hafi verið á málsmeðferð eða efni hinnar kærðu ákvörðunar sem raskað geti gildi hennar. Ítrekað sé að kæranda standi enn til boða að flytja brennsluofninn á iðnaðarlóð, þar sem ekki sé hætta á því að íbúar verði fyrir ónæði vegna lyktarmengunar.

Niðurstaða: Samkvæmt 6. gr. í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal allur atvinnurekstur, sbr. viðauka I-V, hafa gilt starfsleyfi sem Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefndir gefa út. Samkvæmt 5. gr. laganna setur ráðherra reglugerð til að stuðla að framkvæmd mengunarvarnaeftirlits og skulu þar m.a. vera almenn ákvæði um starfsleyfi fyrir allan atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun, sbr. 1. tl. nefndrar lagagreinar. Reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun er nr. 785/1999. Markmið hennar er m.a. að koma í veg fyrir og draga úr mengun af völdum slíks atvinnurekstrar, koma á samþættum mengunarvörnum og að samræma kröfur og skilyrði í starfsleyfum. Í fylgiskjali 2 með reglugerðinni er talinn upp sá atvinnurekstur sem heilbrigðisnefnd veitir starfsleyfi fyrir, ásamt liðum 6.4 til 6.6 í I. viðauka. Heilbrigðisnefnd er þannig ætlað það hlutverk að veita starfsleyfi, að teknu tilliti til þeirra markmiða reglugerðarinnar sem snúa að mengunarvörnum. Ber nefndinni að fara að þeim málsmeðferðarreglum sem í reglugerðinni eru tilgreindar, sem og í lögum nr. 7/1998 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Kærandi rekur sláturhús og kjötvinnslu í samræmi við starfsleyfi sem gefið var út af heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra 5. desember 2013. Eins og segir í málavaxtalýsingu ákvað kærandi að setja upp brennsluofn fyrir sláturúrgang við starfsstöð sína og var það niðurstaða heilbrigðisnefndar að gefa út sérstakt starfsleyfi fyrir rekstri ofnsins. Var starfsleyfi gefið út til kæranda fyrir brennslu sláturúrgangs í áhættuflokkum 1 og 2 hinn 25. ágúst 2016. Starfsleyfið var gefið út til eins árs og gilti fyrir brennslu á allt að 20 tonnum af sláturúrgangi á ári.

Á meðal gagna málsins er bréf frá Umhverfisstofnun, dags. 24. apríl 2015, þar sem veittar eru leiðbeiningar varðandi starfsleyfisskyldu brennsluofns við sláturhús til að brenna áhættuvefi úr dýrum. Þar kemur fram að hafi brennsluofn 10 tonna afkastagetu á dag eða minna telji Umhverfisstofnun að líta beri á starfrækslu hans sem hluta af starfsemi viðkomandi sláturhúss og því beri að fella sértæk starfsleyfisskilyrði fyrir brennsluofninn inn í starfsleyfi fyrir sláturhúsið sjálft.

Eins og áður kom fram er sá atvinnurekstur sem heilbrigðisnefnd veitir starfsleyfi fyrir skv. reglugerð nr. 785/1999, sbr. lög nr. 7/1998, talinn upp í fylgiskjali 2 með reglugerðinni, ásamt liðum 6.4 til 6.6 í I. viðauka, sbr. lið 1. mgr. 9. gr. í reglugerðinni. Samkvæmt lið 6.5 í I. viðauka skal gefa út starfsleyfi til handa stöðvum þar sem förgun eða endurvinnsla skrokka og úrgangs af dýrum fer fram og afkastageta er meiri en 10 tonn á dag. Þar er augljóslega um miklu meiri afköst að ræða en umsókn kæranda gerir ráð fyrir. Rekstur ofnsins er hluti af rekstri sláturhúss hans en eingöngu er brenndur úrgangur frá því í ofninum. Í reglugerðinni er ekki gert ráð fyrir að stöð sem afkastar minna en liður 6.5 segir til um sé starfsleyfisskyld ein og sér. Synjun heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra um endurnýjun á starfsleyfi fyrir brennsluofn var þannig ekki til þess fallin að hafa áhrif á lögvarða hagsmuni kæranda, sbr. skilyrði þar um í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Enda var útgáfa slíks starfsleyfis ekki lögboðin. Verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Loks skal bent á að ef til beitingar þvingunarúrræða hefur komið hafa þær ákvarðanir ekki verið kærðar til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kæru á ákvörðun heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra frá 7. september 2017 um að synja um endurnýjun á starfsleyfi fyrir brennsluofn er vísað frá úrskurðarnefndinni.

44/2018 Grensásvegur 16A

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 25. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 44/2018, kæra á ákvörðunum byggingarfulltrúans í Reykjavík um að veita leyfi til að byggja tveggja hæða bílageymslu á lóðinni Grensásvegi 16A, Reykjavík, og til að byggja tvær hæðir ofan á núverandi hús á lóðinni ásamt fleiru.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. mars 2018, er barst nefndinni 14. s.m., kærir Fróði ehf., eigandi 1. hæðar og kjallara húss nr. 37 við Síðumúla, Reykjavík, byggingarleyfi frá 8. janúar og 14. febrúar 2018 fyrir Grensásveg 16A. Gerir kærandi þá kröfu „að felld[ar] verði úr gildi samþykktir á byggingarleyfisumsóknum nr. BN053105 og BN0525[44], sem og staðfesting borgarráðs Reykjavíkur frá 17. ágúst 2017 á þeim samþykktum og að hin kærðu byggingarleyfi verði felld úr gildi.“

Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum hinna kærðu byggingarleyfa verði frestað þar til niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggi fyrir. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til þessarar kröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 4. apríl 2018.

Málavextir: Á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. júlí 2017 voru samþykktar fjórar byggingarleyfisumsóknir vegna Grensásvegs 16A. Um var að ræða umsókn um að byggja tvær hæðir ofan á núverandi hús og tvær hæðir ofan á matshluta 3, umsókn um leyfi til að rífa matshluta 3, merktan 0101, bílastæðahús, umsókn um leyfi til að byggja nýja tveggja hæða bílageymslu, matshluta 4, í stað eldri bílageymslu, og umsókn um leyfi til að byggja 4. hæð ofan á Síðumúla 39, og tvær hæðir ofan á vestari hluta bílageymslu. Framangreindar ákvarðanir byggingarfulltrúa voru samþykktar af borgarráði 17. ágúst 2017.

Byggingarleyfi til niðurrifs á matshluta 3 á umræddri lóð, þ.e. bílageymslu, var gefið út 26. júlí 2017 og var veiting þess kærð af kæranda með bréfi, dags. 25. ágúst 2017. Með úrskurði uppkveðnum 1. desember s.á., í máli nr. 27/2017, var kröfu kæranda um ógildingu greinds byggingarleyfis hafnað og var einnig hafnað kröfu hans um ógildingu á deiliskipulagi svæðisins.

Byggingarleyfi til að byggja tveggja hæða bílageymslu var gefið út 8. janúar 2018 og leyfi til að byggja tvær hæðir ofan á núverandi hús ásamt tveimur hæðum ofan á matshluta 3 var gefið út 14. febrúar s.á. Hefur kærandi nú komið að kæru vegna nefndra leyfa, svo sem áður greinir.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda kemur fram að hann hafi fengið upplýsingar um útgáfu umræddra byggingarleyfa, sem nú sé krafist ógildingar á, þann 16. febrúar 2018 með tölvupósti til tilgreinds lögmanns og sé kæra því fram komin innan þess frests sem getið sé um í 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að kröfum kæranda í máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kæran sé allt of seint fram komin. Kærufrestur, samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sé einn mánuður frá því að kæranda hafi orðið kunnugt, eða mátt vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra eigi. Kærandi hafi bæði kært deiliskipulagið og takmarkað byggingarleyfi og hafi hann verið upplýstur um stöðu mála. Á fundi 25. september 2017, sem m.a. byggingarfulltrúi og lögmaður kæranda hafi setið, hafi verið upplýst um að byggingarleyfið hefði verið samþykkt og megi ætla að kæranda hafi verið það ljóst fljótlega eftir fundinn. Þá megi nefna að hin kærðu byggingarleyfi hafi verið samþykkt sama dag og byggingarleyfi til niðurrifs hafi verið samþykkt og kærandi hafi kært á sínum tíma.

Kæra hafi borist úrskurðarnefndinni tæpum fimm mánuðum eftir greint tímamark, eða 16. mars 2018, og hafi kærufrestur þá verið löngu liðinn. Undanþáguákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem heimili að mál sé tekið til efnismeðferðar að liðnum kærufresti, beri að túlka þröngt og verði þau ekki talin eiga við í þessu máli. Beri því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er á það bent að tilvitnuð kæra lúti að ákvörðunum byggingaryfirvalda um samþykkt á umsóknum leyfishafa sem teknar hafi verið 18. júlí 2017 á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa, staðfestar af umhverfis- og skipulagsráði 16. ágúst 2017 og staðfestar í borgarráði 17. s.m. Á fundum þessum hafi verið afgreiddar umsóknir um byggingarframkvæmdir á umdeildri lóð við Grensásveg 16/Síðumúla 37-39. Hinn 25. ágúst 2017 hafi kærandi kært ákvörðun byggingarfulltrúa frá 18. júlí 2017 um útgáfu leyfis til niðurrifs til úrskurðarnefndarinnar. Nefndin hafi hafnað kröfu kæranda með úrskurði 1. desember 2017  í máli nr. 27/2017. Líta beri á ákvörðun byggingarfulltrúa frá 18. júlí 2017 og staðfestingu borgarráðs Reykjavíkur frá 17. ágúst s.á. sem þær stjórnvaldsákvarðanir sem í raun sæti kæru í þessu máli, en ekki afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 8. janúar og 14. febrúar 2018 á grundvelli 13. og 14. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Um þetta virðist kærandi reyndar sammála enda tilgreini hann sérstaklega staðfestingu borgarráðs í kröfugerð sinni. Þessari túlkun hafi einnig verið beitt hjá úrskurðarnefndinni í sambærilegum málum, sbr. t.a.m. máli nr. 32/2007, Suðurströnd, og nr. 52/2013, Hesteyri.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda hafi orðið kunnugt eða mátt vera kunnugt um ákvörðunina. Kærufrestur þessi sé skemmri en almennt samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Ástæða þess sé, eins og segi í greinargerð með lögum nr. 130/2011, að „brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst. Eftir því sem framkvæmdir eru komnar lengra áður en ágreiningur um þær verður ljós skapast meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga.“

Niðurstaða: Samkvæmt 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Er í máli þessu deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúa að veita tvö byggingarleyfi fyrir Grensásvegi 16A, en áður hefur kærandi komið að kæru vegna byggingarleyfis fyrir niðurrifi mannvirkis á sömu lóð.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu voru teknar fyrir fjórar byggingarleyfisumsóknir vegna Grensásvegar 16A á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. júlí 2017 og bókað um afgreiðslu þeirra. Í gögnum kærumáls nr. 94/2017, er sameinað var máli nr. 27/2017 og úrskurður var kveðinn upp í 1. desember 2017, er að finna tölvupóst frá 22. ágúst s.á. Viðtakendur póstsins eru sá stjórnarmaður í stjórn kæranda sem skráður er forráðamaður hans í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og báðir þeir lögmenn sem komið hafa fram fyrir hönd kæranda hjá úrskurðarnefndinni. Í tölvupóstinum tekur sendandi fram að honum virðist framkvæmdir vera að hefjast þannig að hann hafi farið „að grafa“ og fundið efni sem síðan var afritað í tölvupóstinum. Þar eru afritaðar upplýsingar um embættisafgreiðslufund byggingarfulltrúans sem haldinn var 11. júlí 2017 og þar á eftir eru afritaðar bókanir um afgreiðslur byggingarfulltrúa á umsóknum um byggingarleyfi vegna Grensásvegar 16A frá 18. s.m., m.a. þær sem hér er um deilt.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Svo sem að framan er rakið liggur fyrir að frá 22. ágúst 2017 var kæranda ljóst efni þeirra umsókna sem samþykktar voru af byggingarfulltrúa 18. júlí s.á., en samþykkt byggingarleyfisumsókna er stjórnvaldsákvörðun sem kærð verður til úrskurðarnefndarinnar skv. 59. gr., sbr. og 11. gr. mannvirkjalaga. Gat kærandi í kjölfar þess aflað sér samþykktra aðaluppdrátta til að kynna sér nánar efni hinna kærðu ákvarðana. Kæra málsins tiltekur að kærð séu byggingarleyfi útgefin 8. janúar og 14. febrúar 2018. Útgáfa byggingarleyfis veitir leyfishafa heimild til að hefja framkvæmdir í samræmi við þegar samþykkta umsókn þegar viðbótarskilyrði 13. gr. mannvirkjalaga eru uppfyllt, s.s. um frekari hönnunargögn og greiðslu gjalda. Útgáfa byggingarleyfanna ein og sér felur hins vegar ekki í sér kæranlega stjórnvaldsákvörðun, enda hefur efnisinnihald leyfanna þá þegar verið samþykkt af byggingarfulltrúa í samræmi við 11. gr. laganna. Eru samþykktir byggingarleyfisumsóknanna og útgefin byggingarleyfi í kærumáli þessu og samhljóða að öllu leyti. Kemur og fram í kæru að þess sé krafist að felldar verði úr gildi samþykktir á byggingarleyfisumsóknum þar að baki. Verður af öllu framangreindu að telja að kæranda hafi hinn 22. ágúst 2017 mátt vera kunnugt um þær ákvarðanir sem kærðar verða til úrskurðarnefndarinnar, í skilningi nefndrar 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Var kærufrestur því liðinn þegar kæra kom fram í málinu 14. mars 2018, meira en hálfu ári síðar.

Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Tiltekið er í athugasemdum með 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé svo sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum. Skal og á það bent að í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 er tekið fram í athugasemdum með 2. mgr. 4. gr. að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga. Segir nánar að brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra áður en ágreiningur um þær verði ljós skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga. Sjónarmið um réttaröryggi og tillit til hagsmuna leyfishafa liggja því þarna að baki og hefur byggingarleyfishafi eðli máls samkvæmt ríkra hagsmuna að gæta í málinu.

Með hliðsjón af þeirri vitneskju kæranda sem áður hefur verið vísað til, sem og þeim sjónarmiðum sem að framan hafa verið rakin, verða hin kærðu byggingarleyfi ekki tekin til efnismeðferðar að liðnum kærufresti á grundvelli undantekningaákvæða 28. gr. stjórnsýslulaga, heldur verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli ákvæðisins þar um.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

50/2018 Grunnvatn í Hvammi

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 25. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 50/2018, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 23. febrúar 2018 um að veita nýtingarleyfi á grunnvatni í landi Hvamms.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. mars 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir Hvammsland ehf., eigandi jarðarinnar að Hvammi, Skorradalshreppi, þá ákvörðun Orkustofnunar frá 23. febrúar s.á. að veita nýtingarleyfi á grunnvatni í landi Hvamms. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi að öllu leyti eða að hluta og að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar frestunarkröfu kæranda.

Málsatvik og rök: Í skipulagsskilmálum fyrir hluta frístundasvæðisins í Hvammi kemur fram að stofna skuli félag um frístundabyggðina sem annist sameiginleg hagsmunamál, s.s. rekstur vatnsveitu, viðhald vegar, lýsingu á sameiginlegum svæðum og umhirðu á útivistarsvæði.

Fyrri eigendur landeignarinnar að Hvammi í Skorradal munu hafa boðið sumarhúsaeigendum að taka yfir rekstur vatnsveitu á sínum tíma, en því var hafnað. Þegar kærandi keypti landið, sem er lögbýli, í ágúst 2010 mun vatnsbólið hafa verið skemmt eftir skriðuföll og vatnið mengað af yfirborðsvatni, og mun kærandi hafa lagt talsvert fjármagn í úrbætur á vatnsbólinu.

Hinn 16. nóvember 2017 sótti Félag sumarhúsaeigenda í Hvammi um leyfi til Orkustofnunar til nýtingar á 0,5 l/s af grunnvatni úr vatnsbóli í landi Hvamms. Hinn 23. febrúar 2018 samþykkti Orkustofnun umsókn um nýtingarleyfi þess efnis.

Kærandi gerir þá kröfu að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað meðan kæran sé til meðferðar hjá nefndinni með vísan til 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Frekari aðgerðir Félags sumarhúsaeigenda á grundvelli nýtingarleyfis geti skert hagsmuni kæranda til frambúðar. Þannig sé unnt að krefjast eignarnáms á grundvelli leyfisins takist samningar ekki og gæti leyfishafi jafnframt aðhafst í tengslum við auðlindina í landi kæranda svo hagsmunir hans skerðist. Sé því gerð sú krafa að réttaráhrifum sé frestað. Þá hafi kæranda borist bréf frá leyfishafa þar sem fram komi að hann hafi þegar hafist handa við að beita nýtingarleyfinu án samningaumleitana við kæranda, sem sé skylt samkvæmt X. kafla laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, og án nokkurs tillits til eignarhalds kæranda á mannvirkjum við vatnsbólið.

Orkustofnun bendir á að nýting auðlinda úr jörðu sé háð leyfi stofnunarinnar, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 57/1998, m.a. til nýtingar auðlinda í eignarlöndum. Landeigandi, kærandi í þessu máli, hafi ekki forgang að nýtingarleyfi vegna auðlindar í eignarlandi sínu, nema hann hafi áður fengið útgefið rannsóknarleyfi. Engu slíku leyfi sé til að dreifa í þessu tilviki en kaupsamningur við landeiganda um eignarlóðir liggi fyrir við einstaklinga í félagi leyfishafa. Hin kærða ákvörðun feli í sér heimild til nýtingar á grunnvatni vegna þarfa vatnsveitu fyrir sumarhúsabyggð á skipulögðu frístundasvæði í landi Hvamms í Skorradalshreppi. Nýtingarleyfið feli í sér heimild til að vinna úr og nýta viðkomandi auðlind á leyfistímanum í því magni og með þeim skilmálum öðrum sem tilgreindir séu í framangreindum lögum og Orkustofnun telji nauðsynlega, sbr. 6. gr. laganna. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun þurfi leyfishafi að sækja um sérstakt framkvæmda- og starfsleyfi fyrir vatnsveituna og ná samkomulagi við umráðahafa vatnsréttinda á svæðinu um endurgjald fyrir auðlindina eða afla sér eignarnámsheimildar, sbr. 7. gr. laganna, liggi slíkt samkomulag ekki fyrir.

Leyfishafi tekur fram að engin rök séu fyrir því að fresta réttaráhrifum nýtingarleyfisins á meðan kæran sé til umfjöllunar. Rekstur vatnsveitunnar verði áfram með óbreyttu sniði í höndum leyfishafa, eina sem breytist sé að félagsmenn snúi sér nú til stjórnar leyfishafa í stað landeiganda ef bilanir verði og rekstrarkostnaður falli á leyfishafa.

Niðurstaða:
Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Einnig að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili séu að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun er íþyngjandi fyrir hann, veldur honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu, enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi.

Mál þetta snýst um ákvörðun Orkustofnunar um að veita leyfi til nýtingar á 0,5 l/s af grunnvatni í landi Hvamms í Skorradal. Vatni er nú þegar veitt, og því hefur verið veitt til sumarhúsabyggðarinnar um nokkurt skeið, úr greindu vatnsbóli. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að áframhaldandi vatnstaka samkvæmt hinu kærða leyfi muni hafa þau áhrif á grunnvatnsauðlindina að hætta sé á slíku óafturkræfu tjóni fyrir kæranda að kæra yrði þýðingarlaus yrði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar ekki frestað. Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og efnis hins kærða nýtingarleyfis verður þannig ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa þess.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa til bráðabirgða samkvæmt hinni kærðu ákvörðun er hafnað.

77/2016 Bullunga

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 25. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 77/2016, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 20. apríl 2016 um að hafna umsókn um starfsleyfi á grundvelli reglugerðar nr. 460/2015 um baðstaði í náttúrunni.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. júlí 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Laugarvatn Fontana ehf., Hverabraut 1, Laugarvatni, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 20. apríl 2016 að hafna umsókn kæranda um starfsleyfi til reksturs náttúrulaugarinnar Bullungu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir heilbrigðisnefndina að veita kæranda starfsleyfi til reksturs Bullungu sem náttúrulaugar, sbr. reglugerð nr. 460/2015 um baðstaði í náttúrunni.

Gögn málsins bárust frá heilbrigðisnefnd Suðurlands 19. ágúst 2016.

Málavextir: Kærandi rekur sund- og baðstað við Laugarvatn í Bláskógabyggð. Starfsleyfi kæranda var gefið út af Heilbrigðiseftirliti Suðurlands 19. júlí 2011 og er fyrir lítinn sundstað, baðhús og krá/kaffihús. Á árinu 2013 var jarðvarmalauginni Bullungu bætt við starfsemina og ákvað heilbrigðisnefnd Suðurlands að ekki þyrfti að taka upp starfsleyfið vegna þeirrar viðbótar. Laugin er manngerð en vatnið kemur úr heitri laug á svæðinu og er ekki meðhöndlað með efnum eða geislum. Samkvæmt gögnum málsins var gengið út frá því að laugin félli í C flokk skv. 4. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum, en skv. ákvæðinu eru það laugar án hreinsibúnaðar. Vatn er tekið beint úr veitu eftir kælingu niður í a.m.k. 55°C og leitt í laug og þaðan í útrennsli. Stýring á klórmagni og sýrustigi er jafnan ekki með sjálfvirkum hætti. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar er hægt að sækja um heimild til heilbrigðisnefndar um að nota ekki sótthreinsiefni í laugar í C flokki. Leyfi má veita að undangenginni rannsókn á örveruinnihaldi baðvatnsins, sbr. 1. viðauka reglugerðarinnar. Við úttekt á baðstaðnum á vegum heilbrigðiseftirlitsins 15. október 2013 var gerð athugasemd við að ekki hefði verið sótt um undanþágu á grundvelli framangreinds ákvæðis fyrir laugina Bullungu, þar sem ekki væri notað sótthreinsiefni í baðvatnið.

Með tölvupósti, dags. 1. nóvember 2013, var kæranda veittur frestur til 1. febrúar 2014 til að koma á reglubundnu þrifakerfi á óklóruðum potti. Að þeim tíma liðnum væri reiknað með að farið yrði í reglubundnar sýnatökur á baðvatninu í lauginni með tilliti til þess hvort það uppfyllti ákvæði í IV. viðauka reglugerðar nr. 814/2010 um gæði vatns í laugum. Ef niðurstöður yrðu jákvæðar gæti kærandi sótt um leyfi til undanþágu frá því að nota sótthreinsiefni í umrædda laug, sbr. ákvæði 4. gr. reglugerðarinnar. Sýnatökur fóru fram á árunum 2014 og 2015 og skiluðu þær allar niðurstöðu um að gæði vatns í Bullungu væru óviðunandi, sbr. skilyrði í I. og IV. viðauka reglugerðar nr. 814/2010.

Með bréfi til Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, dags. 20. nóvember 2015, óskaði kærandi eftir breytingum á starfsleyfi sínu. Reglugerð nr. 460/2015 um baðstaði í náttúrunni hafði þá tekið gildi og var óskað eftir því í bréfinu að laugin Bullunga yrði skilgreind sem baðstaður í náttúrunni í 1. flokki samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar. Óskaði kærandi jafnframt eftir því að hann fengi útgefið starfsleyfi á grundvelli ákvæða 3. og 4. gr. hinnar nýju reglugerðar til viðbótar við gildandi starfsleyfi.

Með bréfi, dags. 28. apríl 2016, var kæranda kynnt bókun heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 20. s.m. varðandi framangreinda umsókn. Þar var bókað: „Umsókn [kæranda] um leyfi til að skilgreina eina laug á svæðinu sem „baðstað í náttúrunni“. Kynnt var skýrsla varðandi niðurstöður sýna úr þessari laug ásamt skýringum og skilgreiningum á annars vegar sund- og baðstað á grundvelli reglugerðar nr. 814/2010 um sund- og baðstaði og hins vegar baðstað í náttúrunni skv. reglugerð nr. 460/2015. Með vísun í ofangreindar reglugerðir leggst nefndin gegn afgreiðslu starfsleyfisins þar sem verið er að blanda saman rekstri sund- og baðstaðar annars vegar og náttúrulaugar hins vegar.“

Með bréfi, dags. 6. júní 2016, tilkynnti heilbrigðiseftirlitið kæranda að heilbrigðisnefnd Suðurlands hefði hafnað umsókn hans um leyfi til reksturs náttúrulaugar inni á baðstað hans. Kærandi kærði framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar 4. júlí s.á., eins og áður kom fram.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst byggja á því að ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar, sem kynnt hafi verið kæranda með bréfi, dags. 6. júní 2016, hafi verið haldin svo verulegum form- og efnisannmörkum að það beri að ógilda hana og taka nýja ákvörðun í málinu.

Atvinnufrelsið njóti verndar 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar, en í því felist að öllum sé frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósi. Þá megi einvörðungu setja því skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess. Við takmörkun á atvinnufrelsi þurfi samkvæmt þessu að vera til staðar skýr lagaheimild og almannahagsmunir. Markmið laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir sé að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felist í heilnæmu og ómenguðu umhverfi. Til að stuðla að hollustuvernd sé ráðherra heimilað í 4. gr. laganna að setja í reglugerð almenn ákvæði um eftirlit með atvinnurekstri, þ. á m. sund- og baðstöðum, sem og útgáfu og efni starfsleyfis.

Ráðherra hafi sett tvær reglugerðir um baðstaði þar sem framangreindar takmarkanir á atvinnufrelsi séu útfærðar. Á árinu 2010 hafi tekið gildi reglugerð nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum, þar sem sund- og baðstöðum sé skipt í flokka. Þá hafi tekið gildi á árinu 2015 reglugerð nr. 460/2015 um baðstaði í náttúrunni. Athygli sé vakin á því að eðlismunur sé á þeim gæðakröfum sem gerðar séu til vatns eftir því hvort það sé talið falla undir hina fyrrgreindu eða síðargreindu reglugerð. Slíkt leiði af eðli máls, enda sé verulegur munur á þeim kröfum sem unnt sé að gera til vatns sem sé meðhöndlað, svo sem með sótthreinsiefnum, og ómeðhöndlaðs vatns í náttúrulaugum.

Kærandi byggi á því að hin kærða ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands sé ósamrýmanleg lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, sem feli í sér að allar ákvarðanir stjórnvalda þurfi að vera á samræmi við lög.

Þegar Bullungu hafi verið bætt við starfsemi kæranda hafi reglugerð nr. 460/2015 ekki tekið gildi. Bullunga hafi verið náttúrulaug í skilningi 14. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 814/2010. Það virðist hafa verið stefna Heilbrigðiseftirlits Suðurlands að fella starfsemi laugarinnar undir C flokk 3. gr. reglugerðar nr. 814/2010, þannig að hægt yrði að viðhafa eftirlit á grundvelli reglugerðarinnar, enda þótt fram komi í 3. mgr. 1. gr. hennar að hún taki ekki til náttúrulauga. Jafnframt sé ljóst að laugin falli ekki undir skilgreiningu C flokks, eins og hún sé fram sett, og ekki heldur undir aðra flokka 3. gr. reglugerðarinnar. Hafi því ekki verið lagaskilyrði til að láta reglugerðina taka til Bullungu og sé staðan sýnilega sú sama í dag.

Þar sem lagalegt tómarúm hafi verið til staðar hvað varðaði náttúrulaugar hafi falist mikil réttarbót í setningu reglugerðar nr. 460/2015, sem tekið hafi gildi 28. apríl 2015. Kærandi telji ljóst að starfsemi hinnar umdeildu laugar falli undir gildissvið reglugerðarinnar og að gæðakröfur sem gerðar séu til vatns í reglugerðinni taki mið af því að eðli slíkra lauga sé annað en þeirra er falli undir reglugerð nr. 814/2010. Eins og áður hafi komið fram telji kærandi að starfsemi laugarinnar falli undir 1. flokk 4. gr. reglugerðar nr. 460/2015. Athygli sé vakin á því að í 4. gr. reglugerðarinnar sé skýrt tekið fram að baðstaðir sem falli undir 1. flokk séu starfsleyfisskyldir. Í 5. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um starfsleyfi. Þar segi að þeir sem hyggist starfrækja baðstað í náttúrunni í 1. flokki skuli sækja um starfsleyfi til viðkomandi heilbrigðisnefndar. Kærandi hafi fylgt þeirri lagaskyldu er hann hafi sótt um starfsleyfi á grundvelli reglugerðar nr. 460/2015 vegna Bullungu eftir gildistöku reglugerðarinnar, enda telji hann náttúrulaugina uppfylla allar þær kröfur sem gerðar séu til slíks starfsleyfis.

Sú ákvörðun að synja kæranda um útgáfu starfsleyfis eigi sér ekki stoð í lögum. Svo virðist sem synjunin styðjist eingöngu við þá röksemd að verið sé að blanda saman rekstri sund- og baðstaðar annars vegar og náttúrulaugar hins vegar. Þannig hafi því ekki verið mótmælt að Bullunga sé náttúrulaug í skilningi viðkomandi reglugerða, en svo virðist sem heilbrigðisyfirvöld telji óheimilt að reka náttúrulaug í skilningi reglugerðar nr. 460/2015 og sundlaugar í skilningi reglugerðar nr. 814/2010 á sama svæði. Slíkt standist enga skoðun. Hvergi sé í lögum nr. 7/1998 eða áður tilvitnuðum reglugerðum sé lagt bann við því að gefið sé út starfsleyfi vegna reksturs náttúrulaugar og sundlaugar í skilningi reglugerðanna. Þannig standi því ekkert í vegi að gefið sé út starfsleyfi vegna starfsemi sem falli undir 1. flokk 4. gr. reglugerðar nr. 460/2015 að hluta og að hluta undir reglugerð nr. 814/2010. Slík takmörkun geti ekki stuðst við nokkur málefnaleg rök. Raunar virðist 3. mgr. 5. gr. nr. 460/2015 styðja að unnt sé að fella laugar á sama starfsvæði undir mismunandi reglugerðir og að starfsleyfi taki mið af því. Synjun heilbrigðiseftirlitsins eigi sér ekki lagastoð og feli í sér óhóflega takmörkun á atvinnufrelsi, sem valdi kæranda fjárhagslegu tjóni.

Starfsemi kæranda njóti ákveðinnar sérstöðu þar sem hann sé að öllum líkindum eini aðilinn á landinu sem starfræki baðstað þar sem bæði sé að finna náttúrulegar laugar og laugar sem falli undir ákvæði reglugerðar nr. 814/2010 og hafi starfsemi sína opna baðgestum allt árið um kring. Svo virðist raunar sem heilbrigðisnefndir flokki nú ýmsar laugar, sem séu sambærilegar við Bullungu, sem náttúrulaugar, sbr. lista um náttúrulaugar sem Umhverfisstofnun beri að birta skv. 4. gr. reglugerðar nr. 460/2015. Þannig séu sambærilegar laugar taldar falla undir reglugerðina en á sama tíma þurfi kærandi að sæta því að sú náttúrulaug sem hann starfræki sé talin falla undir reglugerð nr. 814/2010 af heilbrigðisyfirvöldum. Þetta sé í verulegu ósamræmi við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Starfsemi kæranda sé virðisaukaskattsskyld með sama hætti og rekstur Bláa lónsins og Jarðbaðanna við Mývatn en sæti ekki skattalegri meðferð eins og sundlaug.

Loks sé byggt á því að fyrirliggjandi ákvörðun hafi verið haldin verulegum formannmörkum sem hafi haft áhrif á efni ákvörðunarinnar og eigi að leiða til ógildingar hennar. Annars vegar hafi stjórnvaldinu borið, á grundvelli rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins, að rannsaka hvort starfsemi Bullungu félli undir reglugerð nr. 460/2015 áður en tekin var ákvörðun um að synja um starfsleyfið, en ekki verði séð af gögnum málsins að fullnægjandi rannsókn hafi verið viðhöfð. Hins vegar hafi heilbrigðisyfirvöldum borið, hafi umsókn kæranda verið talið ábótavant, að beina því til kæranda að afla frekari upplýsinga, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga. Hefði stjórnvaldið viðhaft slíka málsmeðferð verði að telja að niðurstaðan hefði orðið sú að starfsleyfi vegna náttúrulaugarinnar á grundvelli reglugerðar nr. 460/2015 hefði verið veitt, enda hafi stjórnvaldinu borið lagaskylda til að veita það að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Málsrök heilbrigðisnefndar Suðurlands: Heilbrigðisnefndin kveður það vera mat sitt að með vísan til niðurlags 5. gr. reglugerðar nr. 460/2015 um baðstaði í náttúrunni falli laug sú sem deilt sé um í málinu undir skilgreiningu C flokks laugar, sbr. reglugerð nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum. Í reglugerð nr. 814/2010 sé jafnframt heimild til að sækja um undanþágu frá notkun á sótthreinsiefnum, sbr. 3. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar. Laugin falli því ekki undir skilgreiningu náttúrulaugar skv. 3. gr. reglugerðar nr. 460/2015, enda sé hún að öllu leyti manngerð, eins og komi fram í gögnum málsins, og sé m.a. með dælingu baðvatns.

Samkvæmt niðurlagi 5. gr. reglugerðar nr. 460/2015 geti rekstraraðili staðar í 2. flokki, þ.e. þar sem tilfallandi rekstur fari fram, óskað eftir því að laug verði flokkuð sem baðstaður í náttúrunni, en ekki sem C laug skv. reglugerð nr. 814/2010. Það eigi ekki við um laugina Bullungu hjá kæranda, enda  sé þar um að ræða baðstað í flokki 1 með mikla aðsókn allt árið og laug í C flokki, eins og komið hafi fram.

Bent sé á að samkvæmt reglugerð nr. 460/2015 sé ekki gert ráð fyrir sótthreinsun baðvatns nema sérstaklega standi á, sbr. 3. mgr. 11. gr. Hins vegar sé sótthreinsun meginreglan skv. reglugerð nr. 814/2010. Varðandi C flokk lauga sé möguleiki á undanþágu frá sótthreinsun að uppfylltum skilyrðum um hreinleika baðvatns, sem skuli staðfestur með sýnatökum, þ.e. 10 sýni, sem skuli standast kröfur í 90% tilvika, sbr. 1. mgr. I. viðauka. Því telji heilbrigðisnefndin það þjóna almannahagsmunum að fram fari sótthreinsun baðvatns í Bullungu eins og í öðrum laugum kæranda.

Kærandi hafi bent á  að starfsemi hans sé virðisaukaskattsskyld en lúti ekki skattalegri meðferð eins og sundlaug, sbr. reglugerð nr. 814/2010. Rekstur vínveitingarstaðar eins og þess sem rekinn sé í tengslum við böðin sé háður rekstrarleyfi sem sýslumaður gefi út á grundvelli laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Reksturinn sé þar af leiðandi virðisaukaskattsskyldur og eigi ekkert skylt við rekstur sund- og baðstaðar sem slíks, enda sé ekki heimilt að veita áfengi í laugunum, heldur einungis á veitingastaðnum.

Niðurstaða: Stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. þágildandi 31. gr. laganna, nú 65. gr. Einskorðast valdheimildir úrskurðarnefndarinnar við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana er undir hana eru bornar. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar en það fellur utan valdheimilda hennar að fjalla um aðrar kröfur kæranda.

Í máli þessu er deilt um synjun heilbrigðisnefndar Suðurlands á umsókn kæranda um starfsleyfi fyrir rekstri náttúrulaugar samkvæmt reglugerð nr. 460/2015 um baðstaði í náttúrunni, en kærandi hefur nú þegar starfsleyfi fyrir rekstri baðstaðar samkvæmt reglugerð nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum. Hugðist kærandi sameina rekstur náttúrulaugar þeim rekstri sem hann stendur nú þegar fyrir við Laugarvatn.

Hinni kærðu ákvörðun er lýst í málavöxtum og verður af bókun heilbrigðisnefndar ráðið að hún hafi einkum byggst á því að ekki ætti að blanda saman rekstri baðstaðar samkvæmt reglugerð nr. 814/2010 og náttúrulaugar samkvæmt reglugerð nr. 460/2015. Ljóst er samkvæmt gögnum málsins að heilbrigðisnefnd hafði fram að umsókn kæranda litið svo á að hin umdeilda laug væri í C flokki lauga samkvæmt flokkun í 3. gr. reglugerðar nr. 814/2010 og hafði verið unnið að því af hálfu kæranda að reyna að uppfylla skilyrði 3. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar fyrir undanþágu frá þeirri almennu reglu að nota skuli sótthreinsiefni í laugar.

Um hollustuhætti og mengunarvarnir gilda lög nr. 7/1998 og er markmið þeirra að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi, sbr. 1. gr. laganna. Samkvæmt 4. gr. laganna setur ráðherra, til að stuðla að framkvæmd hollustuverndar, í reglugerð almenn ákvæði um eftirlit með atvinnurekstri sem fellur undir greinina, sem og um útgáfu og efni starfsleyfa. Samkvæmt 15. tölul. ákvæðisins fellur undir ákvæðið m.a. rekstur sundstaða, baðhúsa, gufubaðstofa, sólbaðsstofa og almennra baðstaða, baðvatns og þess háttar. Samkvæmt þágildandi 4. gr. a í lögunum skyldu stofnanir, fyrirtæki og önnur starfsemi sem talin væri upp í fylgiskjali III með lögunum hafa gilt starfsleyfi gefið út af heilbrigðisnefnd, en þar voru sundstaðir felldir undir nefnt ákvæði. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. a skyldi starfsleyfi gefið út til tiltekins tíma og samkvæmt 3. mgr. skyldi í starfsleyfi tilgreina rekstraraðila og staðsetningu starfsemi, tegund hennar, skilyrði, gildistíma og endurskoðun starfsleyfis, auk ákvæða um eftirlit, umgengni, hreinlæti, öryggisráðstafanir, sóttvarnir, gæðastjórnun og  innra eftirlit eftir því sem við ætti hverju sinni.

Almenn ákvæði um starfsleyfi samkvæmt 4. gr. laga nr. 7/1998 er að finna í III. kafla reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002, en reglur um starfsleyfi fyrir sund- og baðstaði er að finna í III. kafla reglugerðar nr. 814/2010, þar sem vísað er til reglugerðar nr. 941/2002. Um starfsleyfi fyrir baðstaði í náttúrunni þar sem reglubundinn rekstur fer fram (1. flokkur) eða þar sem tilfallandi rekstur fer fram (2. flokkur) gildir II. kafli reglugerðar nr. 460/2015, en samkvæmt 1. mgr. 5. gr. skulu þeir sem hyggjast starfrækja baðstað í náttúrunni skv. 1. og 2. flokki sækja um starfsleyfi til viðkomandi heilbrigðisnefndar. Gefur heilbrigðisnefnd út starfsleyfi að uppfylltum skilyrðum reglugerðarinnar, reglugerðar nr. 814/2010 og reglugerðar nr. 941/2002, eftir því sem við á, enda samræmist starfsemin skipulagsáætlunum. Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 460/2015 telst baðstaður í náttúrunni náttúrulaug eða baðströnd sem séu notuð til baða af almenningi og vatn sé ómeðhöndlað af sótthreinsiefnum, geislun eða á annan hátt. Þá er í 3. gr. einnig að finna eftirfarandi skilgreiningu á náttúrulaug: „Laug ásamt bakka hennar, mynduð af náttúrunnar hendi þar sem böð eru stunduð og vatn er ekki meðhöndlað með sótthreinsiefnum, geislun eða á annan hátt. Þó framkvæmdir á náttúrulaug hafi verið gerðar til þess að styrkja stoðir hennar, til dæmis með lítils háttar hleðslu, steypuverki, eða laugin lagfærð með hleðslu á steinum til að stífla eða stýra rennsli á baðvatni og steyptir botnar og hliðar, telst laugin vera náttúrulaug.“ Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 814/2010 gildir reglugerðin ekki um sjóböð og náttúrulaugar.

Laug sú sem um ræðir er manngerð að öllu leyti og getur ekki talist falla undir skilgreiningu á náttúrulaug skv. 3. gr. reglugerðar nr. 460/2015 eða 15. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 814/2010. Myndi rekstur hennar því almennt falla undir reglugerð nr. 814/2010. Í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 460/2015 er að finna ákvæði um að rekstraraðili laugar, sem hann óski eftir að verði flokkuð sem baðstaður í náttúrunni en ekki sem C laug samkvæmt reglugerð nr. 814/2010, geti sótt um starfsleyfi til heilbrigðisnefndar fyrir baðstað í náttúrunni í 2. flokki, svo framarlega sem hann tilheyri ekki 1. flokki eða heilbrigðisnefnd meti sem svo að um C laug sé að ræða. Af framangreindu má ráða að óski aðili eftir því að laug, sem heilbrigðisnefnd hefur flokkað sem C laug, verði flokkuð sem baðstaður í náttúrunni sé eingöngu möguleiki á að fá starfsleyfi fyrir  rekstri hennar sé hún flokkuð í 2. flokk, það er sem baðstaður þar sem tilfallandi rekstur fer fram. Svo virðist því sem reglugerðin geri ekki ráð fyrir þeim möguleika að fá laug flokkaða sem 1. flokk baðstaðar í náttúrunni í stað laugar í C flokki, eins og umsókn kæranda til heilbrigðisnefndar snerist um. Sú afstaða heilbrigðisnefndar Suðurlands að leggjast gegn starfsleyfisveitingu á þeim forsendum að verið væri að „blanda saman rekstri sund- og baðstaðar annars vegar og náttúrulaugar hins vegar“ var því í samræmi við nefnt ákvæði reglugerðar nr. 460/2015, sem jafnframt stóð því í vegi að fallist yrði á umsókn kæranda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið var heilbrigðisnefnd Suðurlands rétt að hafna umsókn kæranda. Þá verður ekki annað séð en að nægar upplýsingar hafi legið fyrir, málsmeðferð hafi verið í samræmi við lög og skilyrðum laga og reglna hafi verið fullnægt að öðru leyti áður en ákvörðun var tekin í málinu. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 20. apríl 2016 um að synja umsókn um starfsleyfi á grundvelli reglugerðar nr. 460/2015 um baðstaði í náttúrunni.

49/2018 Þingvallavegur

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 25. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 49/2018, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. febrúar 2018 um að tilteknar endurbætur á Þingvallavegi skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. mars 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir Landvernd þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. febrúar 2018 að endurbætur á Þingvallavegi á milli þjónustumiðstöðvar og syðri vegamóta við Vallarveg í Bláskógabyggð skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi, að umrædd framkvæmd skuli sæta mati á umhverfisáhrifum og að framkvæmdir við endurbætur Þingvallavegar verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan úrskurðarnefndin hafi málið til umfjöllunar. Verður nú tekin afstaða til framkominnar kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik og rök: Síðla árs 2017 barst Skipulagsstofnun tilkynning um fyrirhugaðar endurbætur Vegargerðarinnar á tilgreindum kafla Þingvallavegar, sem kynni að teljast framkvæmd sem háð væri mati á umhverfisáhrifum, sbr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun leitaði umsagna um framkvæmdaáformin og tók í kjölfarið ákvörðun um að fyrirhugaðar endurbætur á veginum væru ekki líklegar til þess að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldu því ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Ákvörðunin er frá 16. febrúar 2018 og í henni tilgreint að kærufrestur vegna hennar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sé til 23. mars s.á.

Kærendur gera þá kröfu að framkvæmdir við fyrirhugaðar endurbætur Þingvallavegar verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan úrskurðanefndin hafi málið til meðferðar. Náttúruspjöll séu yfirvofandi og fyrir liggi að framkvæmdaraðili sé tilbúinn að hefja verkið á næstu vikum eða mánuðum.

Skipulagsstofnun taldi ekki tilefni til að veita umsögn um stöðvunarkröfuna.

Af hálfu Vegagerðarinnar, sem er framkvæmdaraðili fyrirhugaðra framkvæmda, er farið fram á að kröfu um stöðvun framkvæmda verði hafnað. Verkið sé hvorki hafið né sé það yfirvofandi, í skilningi 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, og muni ekki hefjast fyrr en tilskilin leyfi liggi fyrir. Vísað sé til þeirrar meginreglu stjórnsýsluréttar að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum. Allar undantekningar þar frá beri að skýra þröngt. Kærandi hafi ekki ríka hagsmuni af því að krafa um stöðvun framkvæmda nái fram að ganga enda hafi almenningi og hagsmunaaðilum gefist fullt tækifæri til að koma sjónarmiðum og athugasemdum á framfæri.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar, en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda

Mál þetta snýst um hvort Skipulagsstofnun hafi borið að kveða á um að fyrirhugaðar framkvæmdir við endurbætur Þingvallavegar skyldu háðar mati á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar þar um felur ekki í sér heimild til þess að hefja framkvæmdir heldur þurfa að koma til sérstakar stjórnvaldsákvarðanir, m.a. um framkvæmdaleyfi, sem kæranlegar eru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna slíkrar stjórnvaldsákvörðunar er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði er ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi ákvarðana sem veita ekki heimild til þess að framkvæmdir hefjist.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og hinnar kærðu ákvörðunar, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda, enda veitir hin kærða ákvörðun ekki heimild til þess að þær hefjist.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um stöðvun fyrirhugaðra framkvæmda við endurbætur á hluta Þingvallavegar er hafnað.

129/2017 Gagnheiði

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 25. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 129/2017, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar frá 5. október 2017 um að synja beiðni um beitingu þvingunarúrræða vegna óleyfisframkvæmda við eignarhluta 0103 í fjöleignarhúsinu að Gagnheiði 19, Selfossi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. október 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir ÞGÁ trésmíði slf., eigandi eignarhluta 0102 að Gagnheiði 19, Selfossi, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar frá 5. október 2017 að synja beiðni kæranda um beitingu þvingunarúrræða vegna óleyfisframkvæmda við eignarhluta 0103 í fjöleignarhúsinu að Gagnheiði 19, Selfossi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 12. janúar 2018.

Málavextir:
Árið 2009 fékk einn eigenda hússins Gagnheiði 19 byggingarleyfi fyrir gerð innkeyrsludyra í séreign sína. Ekki var ráðist í framkvæmdir og féll byggingarleyfið því úr gildi ári eftir útgáfu þess skv. þágildandi 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Sótt var um byggingarleyfi fyrir sömu framkvæmd á árinu 2013 en hún fékkst ekki samþykkt þar sem samþykki meðeigenda skorti. Þrátt fyrir það munu framkvæmdir hafa byrjað og eru nú fyrrgreindar innkeyrsludyr í séreign umsækjanda. Einn sameigenda fjöleignarhússins gerði í kjölfar þess þá kröfu á hendur sveitarfélaginu að innkeyrsludyrnar yrðu fjarlægðar. Skipulags- og byggingarfulltrúi sveitarfélagsins aflaði álits tveggja byggingatæknifræðinga af því tilefni og var niðurstaða þeirra sú að framkvæmdirnar hefðu ekki teljandi áhrif á burðarvirki hússins. Einnig var öllum eigendum hússins að Gagnheiði 19 tilkynnt um málið og þeim veittur andmælaréttur. Athugasemdir bárust og á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 1. júlí 2015 var tekin sú ákvörðun að ekki væri tilefni til þess að beita þvingunarúrræðum skv. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Sú ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 7. ágúst 2015, og fór hann fram á rökstuðning fyrir henni með bréfi, dags. 20. s.m. Umbeðinn rökstuðningur barst honum með bréfi, dags. 21. september s.á. Var ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar í kjölfarið kærð til úrskurðarnefndarinnar, sem með úrskurði í máli nr. 73/2015, uppkveðnum 23. febrúar 2017, vísaði því máli frá nefndinni þar sem hin kærða ákvörðun væri ekki tekin af þar til bæru stjórnvaldi.

Með bréfi, dags. 5. október 2017, fékk kærandi tilkynningu ásamt rökstuðningi um að byggingarfulltrúi hefði tekið þá ákvörðun að beita ekki þvingunarúrræðum skv. 55. og 56. gr. laga um mannvirki vegna innkeyrsludyra á eignarhluta 0103 að Gagnheiði 19.

Málsrök kæranda:
Kærandi vísar til þess að hann telji skipulags- og byggingarfulltrúa hafa veitt eiganda rýmis 0103 að Gagnheiði 19 leyfi sem ekki standist lög á kostnað annarra eigenda hússins. Embættinu beri að ganga eftir því að samþykki sameigenda vegna fyrirhugaðra framkvæmda sé skilað inn, eins og kveðið sé á um í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Sé ekki eftir slíku samþykki gengið sé verið að brjóta freklega á rétti annarra eigenda. Sé vísað til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 116/2014 þessu til stuðnings, þar sem fjallað hafi verið um nauðsyn á samþykki meðeigenda.

Ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa um að hafast ekki frekar að gagnvart lögmætum kröfum kæranda feli í raun í sér leyfi fyrir óleyfisframkvæmd eftir á án þess að tilskilin gögn liggi fyrir. Um sérlega ámælisverða og hættulega vegferð sé að ræða, sér í lagi þar sem útliti húss sem og burðarvirki hafi verið breytt og nýting hússins hafi breyst í kjölfarið. Því sé hafnað að meðalhófsregla stjórnsýsluréttar eigi við um slíkar óleyfisframkvæmdir. Sú regla ætti fremur við þegar koma ætti í veg fyrir órétt í stað þess að beita henni með skipulegum hætti þeim til hagsbóta sem brotið hafi lög og gengið á rétt sameigenda.

Í máli þessu sé um að ræða óleyfisframkvæmd sem háð sé byggingarleyfi, sem sé forsenda þess að 55. gr. laga um mannvirki verði beitt. Auk þess hafi ekki verið sótt um leyfi fyrir breyttri notkun mannvirkis. Sé byggingarfulltrúa rétt í slíkum tilfellum, í krafti valds síns skv. 56. gr. laga um mannvirki, að leggja fyrir eiganda rýmis 0103 í umræddu húsi að ganga frá ytra byrði þess samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, að viðlögðum dagsektum. Verði að gera þá kröfu að byggingarfulltrúi og skipulags- og byggingarnefnd kunni skil á þeim lögum og kröfum sem framfylgja skuli í hverju og einu verkefni. Verði sveitarfélagið jafnframt að gæta þess að samþykki meðeigenda liggi fyrir í samræmi við ákvæði laga um fjöleignarhús, sé um að ræða fasteign í eigu tveggja eða fleiri.

Um sé að ræða breytingu á ytra byrði hússins, sem sé í sameign allra, sbr. 8. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Þar komi efnislega fram að ytra byrði hússins, útveggir, þak, gaflar og útidyr, burðarvirki þess, grunnur, grunnplata, sökklar, burðarveggir og þakburðarvirki séu sameign. Helstu skyldur fasteignareigenda skv. lögum um fjöleignarhús sé m.a. skyldan um að taka eðlilegt og sanngjarnt tillit til annarra við hagnýtingu eignar, sem og skylda til að virða rétt og hagsmuni annarra eigenda við hagnýtingu sameignar. Byggi kærandi á því að um verulega breytingu sé að ræða þar sem bæði sé um að ræða breytingu á útliti og gerð, sem og hagnýtingu sameignar. Skipulags- og byggingarfulltrúi hafi með öllu hunsað lög um fjöleignarhús. Reglur um töku ákvarðana sé að finna í 39. gr. og 41. gr. laganna. Ekki hafi verið gengið eftir því að eigandi rýmis 0103 myndi afla slíks leyfis, hvorki fyrr né síðar. Sveitarfélagið virðist hafa kosið að líta á fundarboð sem fundargerð og ekki kallað eftir slíkum gögnum. Sé það ámælisvert þar sem ágreiningur hafi staðið um þetta mál í nokkuð mörg ár.

Svo virðist sem í umræddum framkvæmdum hafi verið átt við burðarvirki hússins, sem sé í sameign allra eigenda, en verkfræðingar hafi komist að þeirri niðurstöðu að sú breyting hafi ekki umtalsverð áhrif á burðarvirki þess. Við það megi ekki búa. Ákvörðun sem byggð sé á röngum gögnum sé í eðli sínu ógildanleg, enda sé hún haldin svo afdrifaríkum annmarka að líta beri á hana sem markleysu og því ógildanlega frá öndverðu. Efnisreglur um tilskilin leyfi meðeigenda fyrir óleyfisframkvæmd eiganda rýmis 0103 hafi ekki verið virtar. Við mat á því hvort annmarkinn hafi verið verulegur eða ekki sé litið til bæði almenns og sérstaks mælikvarða. Verði að telja að ákvörðun sveitarfélagsins í þá veru að leyfa óleyfisframkvæmd uppfylli bæði fyrrgreind skilyrði. Réttarreglan sem hafi ekki verið virt eigi að tryggja að efni stjórnvaldsákvörðunar verði bæði rétt og lögmætt. Jafnframt sé á það bent að óleyfisframkvæmdin hefði aldrei hlotið samþykki sameigenda Gagnheiðar 19. Leiði sjónarmið sveitarfélagsins því til rangrar efnislegrar niðurstöðu miðað við að farið hefði verið að lögum.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Sveitarfélagið bendir á að skipulags- og byggingarfulltrúi hafi látið framkvæma skoðun á umdeildri framkvæmd til að ganga úr skugga um að hún rýri ekki öryggi mannvirkisins. Ekki hafi verið sýnt fram á að slíkir annmarkar væru á framkvæmdinni að leiða ættu til kröfu um úrbætur vegna öryggissjónarmiða skv. 3. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Ákvæði 2. mgr. 55. gr. og 56. gr. feli í sér heimild til handa skipulags- og byggingarfulltrúa til að taka ákvörðun um úrbætur og eftir atvikum beita þvingunarúrræðum til þess að knýja þær fram. Skipulags- og byggingarfulltrúi ítreki að hér sé um að ræða íþyngjandi heimildarákvæði og fari um þessa ákvörðun eftir ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglum stjórnsýsluréttar, m.a. meðalhófsreglu.

Í athugasemdum um meðalhófsreglu 12. gr. í frumvarpi til stjórnsýslulaga segi: „Er stjórnvaldi því ekki aðeins skylt að líta til þess markmiðs sem starf þess stefnir að, heldur ber því einnig að taka tillit til hagsmuna og réttinda þeirra einstaklinga og lögaðila sem athafnir stjórnvaldsins og valdbeiting beinist að. Ber stjórnvaldi að fara ákveðinn meðalveg á milli þessara andstæðu sjónarmiða. Í 12. gr. felst í fyrsta lagi að efni íþyngjandi ákvörðunar, sem stjórnvald tekur, verður að vera til þess fallið að þjóna lögmætu markmiði sem að er stefnt. Þetta þýðir þó ekki að markmiðinu verði að ná að fullu. Í öðru lagi felur ákvæðið í sér að ef fleiri úrræða er völ er þjónað geta því markmiði, sem að er stefnt, skal velja það úrræði sem vægast er. Íþyngjandi ákvörðun skal þannig aðeins taka að ekki sé völ vægara úrræðis sem þjónað geti markmiðinu. Í þriðja lagi byggir ákvæðið á því að hóf verði að vera í beitingu þess úrræðis sem valið hefur verið og má því ekki ganga lengra en nauðsyn ber til. Stjórnvaldi er sem fyrr segir skylt að vega og meta þau andstæðu sjónarmið sem hér vegast á. Slíkt mat er ekki alltaf auðvelt, en löggjöf á einstök um sviðum og meginreglur laga geyma þó oft vísbendingar um vægi hagsmuna. Almennt verður að ganga út frá því að hagsmunir einstaklinga, sem verndar njóta í mannréttindaákvæðum stjórnarskrár eða alþjóðlegum mannréttindasáttmálum, vegi þungt og þá sérstaklega hagsmunir er varða frelsi manna og friðhelgi.“

Með setningu núgildandi laga um mannvirki hafi orðalagi þvingunarúrræðis 2. mgr. 55. gr. laganna vegna mannvirkja sem reist séu í óleyfi verið breytt svo að það fæli aðeins í sér heimild en ekki skyldu, eins og kveðið hafi verið á um í 56. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Með þessari breytingu hafi verið lögð áhersla á að úrræðinu yrði beitt eftir atviksbundnu mati, m.a. með tilliti til meðalhófs. Ljóst sé af athugasemdum með 55. gr. laganna að það eitt að framkvæmd sé gerð „í óleyfi“ leiði ekki sjálfkrafa til þess að gripið sé til þeirra ráðstafana sem nefnd séu í ákvæðinu.

Af framangreindu leiði að túlkun kæranda, um að beita eigi úrræðinu þar sem skort hafi á tilskilið leyfi, sé ekki rétt. Þá sé áréttað að brot á ráðstöfunarrétti eiganda skv. lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús leiði ekki af sér sjálfstæða heimild til handa skipulags- og byggingarfulltrúa til beitingar íþyngjandi þvingunarúrræða, þótt slíkt kunni að hafa áhrif við mat á hagsmunum aðila. Þá hafi aðilum verið leiðbeint um einkarréttarleg úrræði sem þeir hafi í þessum efnum.

Með skoðun á aðstæðum og mati á hagsmunum aðila sé ljóst að öryggi mannvirkisins sé ekki ábótavant, breytingin sé ekki til þess fallin að hindra aðgengi eða hafa neikvæð áhrif á ásýnd eða umhverfi á staðnum og ekki sé að sjá að umrædd framkvæmd hafi slík áhrif á hagsmuni kæranda að rétt sé að beita íþyngjandi úrræðum 2. mgr. 55. gr. og 56. gr. laga um mannvirki. Þrátt fyrir að ljóst sé að ekki hafi verið formlega rétt staðið að framkvæmdinni sé það mat skipulags- og byggingarfulltrúa að annmarkar framkvæmdarinnar séu ekki þess eðlis, m.t.t. markmiða sem liggi að baki reglum um byggingarleyfi, sbr. t.d. markmiðsákvæði 1. gr. laga um mannvirki, að vegið séð að hagsmunum sameigenda eða nágranna á þann hátt að beita skuli íþyngjandi heimildarákvæði laganna.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar um að beita ekki þvingunarúrræðum samkvæmt ákvæðum laga nr, 160/2010 um mannvirki vegna uppsetningar innkeyrsludyra í séreignarhluta í fjöleignarhúsinu að Gagnheiði 19 án lögmælts byggingarleyfis.

Ef ráðist hefur verið í byggingarskylda framkvæmd án slíks leyfis er byggingarfulltrúa heimilt að stöðva framkvæmdir eða breytta notkun, loka mannvirkinu, krefjast úrbóta eða beita dagsektum sé ekki farið að tilmælum hans samkvæmt 55. og 56. gr. laga um mannvirki, sbr. og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Ákvörðun um beitingu þessara þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið er fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé í hverju tilviki tekin, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umrædd ákvæði gefa sveitarfélögum kost á að bregðast við ef gengið er gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingshagsmuna, enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki ákvæðum laga um mannvirki.

Fyrir liggur að fasteigninni að Gagnheiði 19 var breytt með gerð innkeyrsludyra á útvegg fyrrgreinds fjöleignarhúss án lögboðins byggingarleyfis skv. 9. gr. laga um mannvirki og án þess að samþykki sameigenda hússins fyrir framkvæmdinni lægi fyrir.

Í rökstuðningi fyrir ákvörðun byggingarfulltrúa um að beita ekki þvingunarúrræðum kemur fram að samkvæmt áliti tveggja byggingatæknifræðinga hafi breytingar á húsnæðinu ekki haft umtalsverð áhrif á burðarvirki hússins og að ekki stafaði hætta af þeim. Þá var það mat byggingarfulltrúa að breytingin hafi ekki valdið kæranda neinum óþægindum, ónæði eða skaða. Um væri að ræða iðnaðarhúsnæði þar sem nágrannar verði almennt að þola umferð vinnuvéla, bifreiða o.fl. Þá hafi þegar verið fyrir innkeyrsludyr í umræddan eignarhluta, þannig að nýjar innkeyrsludyr breyti ekki notkun húsnæðisins að því leyti. Í þessum rökstuðningi hafa komið fram þau efnisrök sem bjuggu að baki hinni kærðu ákvörðun.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar frá 5. október 2017 um að synja beiðni um beitingu þvingunarúrræða vegna óleyfisframkvæmda við eignarhluta 0103 í fjöleignarhúsinu að Gagnheiði 19, Selfossi.