Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

51/2017 Rannsóknarleyfi utan netlaga

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 31. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 51/2017, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 19. apríl 2017 um að veita leyfi til leitar og rannsókna á jarðhita á tveimur rannsóknarsvæðum utan netlaga við Reykjaneshrygg og fyrir Norðurlandi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. maí 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, þá ákvörðun Orkustofnunar frá 19. apríl 2017 að „heimila rannsóknarboranir vegna fyrirhugaðrar nýtingar jarðhita til orkuvinnslu á Reykjaneshrygg og fyrir Norðurlandi“. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Orkustofnun 1. júní 2017.

Málsatvik og rök: Með vísan til 1. mgr. 2. gr. laga nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins sótti North Tech Energy hf. hinn 13. janúar 2017 um leyfi til Orkustofnunar til leitar og rannsókna á jarðhita á tveimur rannsóknarsvæðum utan netlaga, við Reykjaneshrygg og fyrir Norðurlandi. Sótt var um rannsóknarleyfi til þriggja ára og var jafnframt óskað eftir fyrirheiti til forgangs að nýtingarleyfi, skv. 3. gr. nefndra laga í allt að tvö ár eftir að gildistíma rannsóknarleyfis lyki. Hinn 19. apríl s.á. var hið umsótta leyfi veitt og fékk leyfishafi forgang til nýtingar jarðhita á leyfissvæðinu vegna jarðvarmavirkjunar í tvö ár að loknum gildistíma leyfisins, þ.e. til 2022.

Af hálfu kæranda er vísað til b-liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er varði kæruheimild. Falli framkvæmdin undir lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, en hún kunni að hafa í för með sér umtalsferð umhverfisáhrif og metið sé í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort slík framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt skv. 6. gr., sbr. tl. 2.06. í 2. kafla 1. viðauka laga nr. 106/2000. Í i-lið tl. 2.06 komi fram að borun á vinnsluholum og rannsóknarholum á háhitasvæðum sé tilkynningarskyld framkvæmd, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna.

Kærandi hafi lögvarða hagsmuni sbr. ákvæði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 106/2000 og í samræmi við tilgang samtakanna, sbr. og 2. mgr. 9. gr. Árósasamnings um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings og réttláta málsmeðferð í umhverfismálum, sem fullgiltur hafi verið hér á landi. Einnig sé byggt á 3. mgr. 9. gr. samningsins að því er varði kæruheimild samtakanna vegna brota gegn landslögum er varði umhverfið. Þá sé og vísað til 33. gr. laga nr. 57/1998 um kæruheimild. Kærandi vísi loks til 6. gr. laga nr. 73/1990 að því er varði ágreining um gildi þeirra laga í málinu.

Af hálfu Orkustofnunar er tekið fram að hið kærða leyfi feli hvorki í sér heimild til nýtingar eða virkjunar á rannsóknarsvæðinu, sbr. 3. gr. leyfisins. Fram komi í leyfinu og fylgibréfi þess að rannsóknarboranir séu ekki hluti af leyfinu og sé tekið fram að slíkar framkvæmdir, og eftir atvikum aðrar framkvæmdir, séu háðar mati á umhverfisáhrifum. Þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Umhverfissamtök eins og kærandi geti þó kært ákvarðanir, án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, sé um að ræða ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda, sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum og endurskoðun mats, ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum og ákvarðanir um að veita leyfi samkvæmt lögum um erfðabreyttar lífverur til sleppingar eða dreifingar erfðabreyttra lífvera. Hin kærða ákvörðun varði engan veginn þær tæmandi töldu tegundir ákvarðana sem tryggi kæranda kæruaðild að málum. Kærandi hafi því enga lögvarða hagsmuni í málinu og beri þegar af þeirri ástæðu að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að þeir einir geta kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Samkvæmt b-lið ákvæðisins geta umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga kært ákvörðun um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, enda samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að.

Í 5. gr. hins kærða leyfis er tekið fram að framkvæmdir á rannsóknarsvæðinu kunni eftir atvikum að vera háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. lög nr. 106/2000 þess efnis. Rannsóknarleyfið sé háð því að farið verði að þeim lögum áður en fyrirhugaðar framkvæmdir, einkum jarðboranir, hefjist á rannsóknarsvæðinu. Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá Skipulagsstofnun hefur stofnunin ekki fengið tilkynningu samkvæmt lögum nr. 106/2000 um framkvæmdir vegna þeirra rannsókna sem leyfðar eru á grundvelli hins kærða rannsóknarleyfis Orkustofnunar.

Í athugasemdum með áðurnefndri 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er m.a. tekið fram að ákvörðun um matsskyldu ráði því hvort almenningur fái rétt til frekari þátttöku í gegnum matsferlið og hvort hann njóti kæruaðildar vegna ákvarðana stjórnvalda um að veita leyfi vegna framkvæmda. Með vísan til þess sem að framan er rakið uppfyllir kærandi ekki skilyrði til kæruaðildar að máli þessu, enda liggur ekki fyrir nein ákvörðun um matsskyldu framkvæmda vegna þeirra rannsókna sem fyrirhugaðar eru á grundvelli hins útgefna rannsóknarleyfis. Verður kærumálinu af þessum sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála er skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

 

61/2018 Hraunteigur 3

Með

Árið 2018, föstudaginn 25. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 61/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. október 2017 um veitingu byggingarleyfis til að byggja tveggja hæða einbýlishús með sambyggðri bílageymslu á lóð nr. 3 við Hraunteig í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. apríl 2018, er barst nefndinni 25. s.m., kæra lóðarhafar Hraunteigs 5, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. október 2017 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir tveggja hæða einbýlishúsi með sambyggðri bílageymslu á lóð nr. 3 við Hraunteig í Reykjavík. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og jafnframt að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn máls bárust frá Reykjavíkurborg 4. maí 2018.

Málavextir:  Hinn 27. janúar 2017 var tillaga að breytingu á deiliskipulagi Teigahverfis vegna Hraunteigs 3 grenndarkynnt. Komu kærendur á framfæri athugasemdum á kynningartíma er lutu að götumynd, skuggavarpi, stærð, hæð og lögun fyrirhugaðrar nýbyggingar. Var skipulagsbreytingin samþykkt með breytingum og tók hún gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 7. apríl 2017.

Hinn 9. október 2017 var sótt um heimild til niðurrifs húss og bílskúrs sem fyrir voru á lóðinni Hraunteigi 3. Var byggingarleyfi þess efnis gefið út 27. s.m. og var niðurrifi lokið í janúar 2018. Þá var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. október 2017 samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir tveggja hæða einbýlishúsi með sambyggðri bílageymslu á lóðinni og var sú afgreiðsla staðfest af borgarráði 12. s.m. Úttekt vegna botns undir fyllingu fór fram 10. janúar 2018 og í byrjun febrúar s.á. hófust framkvæmdir á byggingu hins nýja einbýlishúss, en útgefið byggingarleyfi er dagsett 8. febrúar s.m. Byggingarfulltrúi staðfesti úttekt á sökklum hinn 22. mars 2018. Hefur kærandi skotið nefndri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:
Af hálfu kærenda er á því byggt að upphaf kærufrests í máli þessu skuli miða við 8. apríl 2018, en þá hafi þeim fyrst orðið ljóst að útgefið byggingarleyfi samrýmdist ekki gildandi deiliskipulagi. Tveimur dögum áður, þ.e. 6. apríl, hafi byggingarleyfishafi komið að máli við annan kærenda vegna 140 cm hás steinveggjar sem hann hafi talið sig þurfa að byggja á lóðamörkum Hraunteigs 3 og 5. Þá fyrst hafi kæranda orðið ljóst að hækka átti lóð nr. 3 um meira en 100 cm frá því sem áður hafi verið. Í kjölfar þess hafi nefndur kærandi rætt við byggingarleyfishafa í síma og sent honum bréf, dags. 8. apríl 2018, þar sem alvarlegar athugasemdir hafi verið gerðar við áðurgreindan hæðarmun og að teikningar gerðu ráð fyrir að byggt væri út fyrir byggingarlínu við götu.

Kærendur telji ljóst að þær teikningar sem Reykjavíkurborg hafi samþykkt og lagt til grundvallar umþrættu byggingarleyfi, feli í sér að hæðarkótum lóðar hafi verið breytt umtalsvert. Ekkert komi fram á þeim myndum sem fylgdu deiliskipulagi að ætlunin hafi verið að breyta hæðarkóta á lóð, heldur beri þær þvert á móti með sér að hæðarkóti skuli vera óbreyttur. Þessu til stuðnings sé vísað til e. liðar gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012, þar sem segi m.a. að óheimilt sé að breyta hæð lóðar á lóðarmörkum án samþykkis leyfisveitanda og lóðarhafa aðliggjandi lóðar. Þar komi og fram að óheimilt sé að breyta hæð innan lóðar þannig að það valdi skaða á lóðum nágranna eða skerði aðra hagsmuni, t.d. útsýni.

Kærendum hafi ekki þótt athugavert að deiliskipulag vegna Hraunteigs 3 hafi kveðið á um að steypa mætti stoðvegg á lóðarmörkunum þar sem kærendur hafi lækkað lóð sína lítillega út við götu árið 2003 með samþykki eftirlitsaðila. Umræddar lóðir hafi verið jafn háar fram að því. Hins vegar segjast kærendur hafa verið grunlausir um að til stæði að hækka lóðina um 100 cm, sem myndi leiða til a.m.k. 140 cm hæðarmunar á mörkum lóðanna við innkeyrslu að lóð nr. 5. Steyptur veggur við lóðamörkin sé úr takti við götumynd og jafnframt skýrt brot á kvöðum um hámarkshæð í gildandi deiliskipulagi. Breytingar á hæðarkótum lóðar nr. 3 leiði til þess að mikill hæðarmunur verði við aðrar nærliggjandi lóðir, s.s. Hrísateig nr. 8 og 10. Myndir sýni að hæð lóðar Hraunteigs 3 hafi verið sú sama og hæð lóðar við Hrísateig 10, en nú hafi verið steyptur veggur til að halda við jarðveg á framangreindum lóðamörkum. Veggurinn sé um 180 cm hár frá hæð lóðar á Hrísateig 10 og ljóst sé að reisa þurfi grindverk þar ofan á til að tryggja öryggi og því stefni í að veggurinn verði um 3 m hár með tilheyrandi lýti og skuggavarpi.

Umþrætt byggingarleyfi, sem veiti leyfishafa heimild til að byggja hús sem standi 2,7 × 8,2 m út fyrir skilgreindan byggingarreit, sé ekki í samræmi við ákvæði gildandi deiliskipulags um óbreytta byggingarlínu við götu. Deiliskipulagið heimili svalir til suðurs að götu og þak megi fara allt að 2,7 m út fyrir byggingarreit, en ljóst sé að samþykktar teikningar geri ráð fyrir verulegum frávikum. Í þessu sambandi bendi kærendur á að svalir í Teigahverfi séu almennt ekki stærri en 1,2 × 3,0 m og hinar fyrirhuguðu svalir séu þannig sex sinnum stærri, eða 22 m2 í stað 3,6 m2, og með láréttum og lóðréttum steinsúlum, auk skorsteins sem standi út fyrir byggingarreit.

Ljóst sé að hin fyrirhugaða framkvæmd muni varpa skugga á eign kærenda og þar með verðfella hana. Kærendur hafi eytt bæði tíma og fjármunum í að gera garð í kringum fasteign sína aðlaðandi, einkum fyrir framan húsið, þar sem þau eigi athvarf, einkum að loknum vinnudegi á sólríkum dögum að vori og hausti. Skuggavarp hafi ekki verið kynnt þegar umrætt deiliskipulag hafi verið auglýst og hafi kærendur gert athugasemdir við það og óskað eftir skuggavarpsútreikningi kl. 18. Ekki hafi verið fallist á það og skuggavarp kl. 17 hafi borist sem hluti af grenndarkynningu á breyttu deiliskipulagi. Bent sé á að vegna staðhátta tapist engin gæði sé skuggavarp kl. 17 skoðað en verulega halli á gæði við lóð nr. 5 þegar skoðað sé skuggavarp frá kl. 17:30 til 19:30.
 
Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að kærufrestur í máli þessu sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á. Umdeilt byggingarleyfi hafi verið gefið út 8. febrúar 2018 og framkvæmdir séu löngu hafnar.

Framkvæmdum við niðurrif eldra húss hafi lokið í janúar 2018 og 10. janúar s.m. hafi farið fram úttekt vegna botns undir fyllingu. Frá þeim tíma hafi verið gerðar nokkrar úttektir af hálfu byggingarfulltrúa á framkvæmdum. Staðfest úttekt á sökklum hafi verið gerð hinn 22. mars 2018. Samkvæmt ofangreindu hafi frestur til að kæra ákvörðun byggingarfulltrúa verið liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefndinni. Því beri að vísa málinu frá.

Rétt sé að benda á að það sé á verksviði leyfisveitanda að gæta þess að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti og skipulag og gera nauðsynlegar ráðstafanir reynist þess þörf.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að í gildandi deiliskipulagi séu ekki gefnir upp hæðarkótar en gerð sé grein fyrir hæðarsetningu fyrirhugaðs húss að Hraunteigi 3 og sú hæðarsetning sé í samræmi við ákvæði deiliskipulagsins þar að lútandi. Lóðin sé eðli málsins samkvæmt hæðarsett til samræmis við hæð aðalgólfplötu hússins og kærendur hafi mátt vænta þess að svo yrði. Hæðarmuninn á lóðunum megi einnig rekja til breytinga sem gerðar hafi verið á lóð nr. 5, en hún sé 50-60 cm lægri en hún eigi að vera auk þess sem hún halli niður á við frá götu en það sé ekki í samræmi við uppdrætti.

Hæð stoðveggjar á mörkum lóða nr. 3 og 5, ákvarðist af hæð lóðar Hraunteigs 3. Sú girðing sem fyrir sé á lóð nr. 5 sé mun hærri en stoðveggurinn út við götuna en hún halli niður á við inn í lóðina og endi í svipaðri hæð og stoðveggurinn þar sem hún mæti horni bílskúrs lóðar nr. 5. Þar sé veggurinn hærri séð frá lóð nr. 5 vegna hæðarsetningar þeirrar lóðar og verði kærendur að bera hallann af því.

Fullyrðing kærenda um skerðingu útsýnis úr eldhúsglugga jarðhæðar sé vafasöm þar sem um kjallaraíbúð sé að ræða, auk þess sem kærendur séu búnir að selja þá íbúð og undirrita afsal sem lagt hafði verið inn til þinglýsingar þegar kæra var gerð. Leyfishafi sé að nýta þá heimild sem gefin sé í skipulagi til að byggja svalir til suðurs og hafa þak yfir þeim. Hönnun hafi verið breytt í samræmi við þær athugasemdir sem borist hafi við kynningu deiliskipulagsbreytingar vegna lóðarinnar Hraunteigs 3, þannig að hliðarveggur að austanverðu hafi verið felldur út og svalasvæðið opnað til hliðanna. Liður e í gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 veiti heimild fyrir verönd eða palli við suðurhlið undir svölum. Því verði ekki séð að byggingarleyfið fari svo í bága við skipulag að ógildingu varði.

Niðurstaða: Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011, er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um kæranlega ákvörðun.

Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram sú meginregla að vísa skuli kæru frá berist hún að liðnum kærufresti. Þær undantekningar eru gerðar frá nefndri meginreglu í 1. og 2. tl. ákvæðisins að taka megi mál til meðferðar að liðnum kærufresti þegar afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Upphaf kærufrests í þessu máli ræðst af því hvenær kærendum varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um efni hins kærða byggingarleyfis, m.a. um hæðarkóta umræddrar lóðar. Líkt og fram kemur í málavöxtum samþykkti byggingarfulltrúi umsókn leyfishafa 10. október 2017 og var byggingarleyfið gefið út 8. febrúar 2018. Verður ekki fullyrt með óyggjandi hætti að kærendum hafi mátt vera kunnugt um að uppgefnir hæðarkótar fælu í sér breytingu frá fyrra áststandi fyrr en við úttekt byggingarfulltrúa á sökklum hinn 22. mars 2018, en þá lá grunnflötur hins nýja húss fyrir. Miðast kærufrestur því við þann dag. Samkvæmt framangreindu rann kærufrestur út mánudaginn 23. apríl s.á., eða tveimur dögum áður en úrskurðarnefndin tók á móti umræddri kæru. Þegar litið er til þess að kærendum var ekki leiðbeint um kæruleið og kærufrest verður talið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr en raun ber vitni. Í því sambandi er litið til þess að deiliskipulagsbreyting sú sem byggingarleyfið styðst við hefur ekki að geyma hæðarkóta lóðarinnar svo sem rétt hefði verið. Verður málið því tekið til efnismeðferðar á grundvelli 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis m.a. að mannvirkið og notkun þess sé í samræmi við gildandi skipulag á svæðinu. Í 16. gr. laganna kemur fram að útgefandi byggingarleyfis skuli hafa eftirlit með því að hönnun mannvirkis sé í samræmi við ákvæði mannvirkjalaga og reglugerða settum með stoð í þeim. Krafa kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar byggir á því að samþykktar teikningar séu ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag og breyting á hæðarlegu lóðar frá því sem fyrir var eigi ekki stoð í því skipulagi.

Í málsgögnum er að finna gildandi hæðarblað vegna lóðar nr. 3 við Hraunteig sem sýnir hæðarkótana 12,82 og 13,16 við götu. Á hæðarblaðinu er hins vegar enga hæðarkóta að finna innst á lóð. Deiliskipulag sýnir enga hæðarkóta fyrir lóðaryfirborð, eins og fyrr var að vikið, en á teikningum sem byggingarfulltrúi samþykkti 10. október 2017, sem voru grundvöllur útgáfu byggingarleyfis, eru hæðarkótar við götu í samræmi við hæðarkóta framangreinds hæðarblaðs. Teikningarnar sýna enn fremur hæðarkótann 13,16 innst á lóð sem ber með sér að yfirborði lóðarinnar þar er ætlað að vera í sömu hæð og út við götu. Samkvæmt framangreindu verður ekki séð að umræddir hæðarkótar lóðar fari í bága við gildandi deiliskipulag.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi má stoðveggur á lóðinni ekki vera hærri en 0,4 m. Hæðarkóti stoðveggjarins, samkvæmt samþykktum teikningum, er 13,56. Líkt og áður greinir er grunnlína lóðar nr. 3 við Hraunteig 13,16. Samkvæmt því er veggurinn 0,4 m að hæð miðað við grunnflöt lóðar nr. 3 og því í samræmi við gildandi deiliskipulag. Í kæru kemur fram að lóð kærenda var lækkuð lítillega út við götu og á myndum sem fylgdu kæru sést að lóðin hallar niður á við frá götu. Veggurinn er því að hluta hærri en 0,4 m séð frá lóð nr. 5. Ákvarðanir kærenda um að lækka sína lóð geta ekki haft áhrif á réttarstöðu lóðarhafa Hraunteigs nr. 3. 
 
Í gildandi deiliskipulagi er heimiluð hámarksmænishæð aðalhúss frá aðalgólfi 7,3 m og má kjallari standa 0,2 m upp úr frágengnu yfirborði. Á samþykktum teikningum umdeilds byggingarleyfis kemur fram að hæðarkóti gólfplötu hússins er 13,49. Stendur kjallari því 0,33 m upp úr frágengnu yfirborði með hliðsjón af hæðarkóta lóðarinnar 13,16. Gólfflötur hússins er því 13 cm hærri en heimilt er samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Þetta frávik er þó það óverulegt að það getur ekki ráðið úrslitum um gildi byggingarleyfisins. 

Kærendur telja byggingarlínu hússins ekki vera í samræmi við gildandi deiliskipulag. Á samþykktu deiliskipulagi kemur fram heimild til að gera svalir til suðurs að götu og að þak yfir þeim megi fara allt að 2,7 m út fyrir byggingarreit og eru samþykktar teikningar í samræmi við það. Skuggavarp sem framangreind breyting kann að valda er þegar ákveðin í deiliskipulagi sem sætir ekki endurskoðun í máli þessu.

Með vísan til alls framangreinds verður ekki séð að hið kærða byggingarleyfi sé haldið slíkum annmörkum að raskað geti gildi þess. Af því leiðir að hafna ber kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. október 2017 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir tveggja hæða einbýlishúsi með sambyggðri bílageymslu á lóð nr. 3 við Hraunteig í Reykjavík.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                    Þorsteinn Þorsteinsson

144/2016 Álftröð 1

Með

 
Árið 2018, föstudaginn 25. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 144/2016, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 27. september 2016 um að samþykkja heimild til að stækka bílageymslur um 39 m2 á lóð við Álftröð 1.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, dags. 2. nóvember 2016, til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála var framsend kæra eiganda, Álftröð 3, Kópavogi, dags. 30. október 2016, þar sem kærð er ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 27. september 2016 um að samþykkja heimild til stækkunar bílageymslu á lóð við Álftröð 1. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 1. desember 2016.

Málavextir:
Hinn 5. nóvember 2015 sóttu fasteignareigendur að Álfatröð 1 um byggingarleyfi til stækkunar á bílskúrum, stiga utanhúss fyrir íbúð á annarri hæð o.fl. Nefnd lóð er á svæði sem ekki hefur verið deiliskipulagt. Byggingarfulltrúi vísaði málinu til skipulagsnefndar sem ákvað að grenndarkynna umsóknina. Umsóknin var í framhaldinu grenndarkynnt með bréfi, dags. 22. desember 2015, og lauk kynningu 1. febrúar 2016. Á fundi skipulagsnefndar 21. mars s.á. var umsókninni synjað hvað varðar stækkun bílskúra en samþykkt að öðru leyti. Var sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarstjórnar 12. apríl 2016. Á fundi skipulagsnefndar 2. maí 2016 var umsókn lóðarhafa Álftraðar 1 um stækkun bílskúra á lóðinni úr 68,8 m2 í 107,8 m2, eða um 39 m2, synjað að nýju og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu 10. maí s.á. Umsókn sama efnis var enn á dagskrá skipulagsnefndar 20. maí 2016 og samþykkti nefndin á fundi sínum 30. s.m. að grenndarkynna erindið með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í samræmi við bréf, dags. 21. júní 2016, fór grenndarkynningin fram og lauk henni 25. júlí s.á. Tvær athugasemdir bárust innan athugasemdafrests þar sem fyrirhuguðum framkvæmdum var mótmælt.

Að lokinni grenndarkynningu gaf skipulags- og byggingardeild út umsögn, dags. 19. september 2016, þar sem kom fram að fyrirhuguð stækkun félli ekki að öllu leyti að yfirbragði núverandi byggðar þar sem stærð bílageymslna á götureitnum yrði yfir meðaltali. Neikvæð umhverfisáhrif af fyrirhugaðri stækkun yrðu þó lítil og ekki íþyngjandi. Var jafnframt á það bent að stækkunin yrði fordæmisgefandi fyrir götureitinn.
 
Skipulagsnefnd samþykkti umsóknina á fundi 19. september 2016 og var afgreiðsla nefndarinnar staðfest á fundi bæjarstjórnar 27. s.m.
Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er þess krafist að bílageymslan verði ekki stækkuð til austurs og að hæð byggingarinnar fari ekki yfir núverandi hæð lægri skúrs sem nú sé fyrir á umræddri lóð. Hækkun skúranna hefði mikla skerðingu í för með sér á fjallasýn í vestur frá stofu og palli fasteignar hennar við Álftröð 3. Þó að trjákrónur á lóð Álftraðar 1 byrgi sýn að hluta, séu trén einungis laufguð 1/3 hluta úr ári auk þess sem unnt sé að fella þau. Annað gildi um byggingar. Bendir kærandi á að eftir stækkun verði grunnflötur bílskúranna stærri en grunnflötur íbúðarhússins á lóðinni sem telja verði óeðlilegt. Þá sé vísað til þess að bílskúrarnir séu hvergi teiknaðir nema á afstöðumynd hjá byggingarfulltrúa og séu því væntanlega óleyfisbyggingar.

Málsrök Kópavogsbæjar: Bæjaryfirvöld benda á að þær breytingar sem um ræðir séu óverulegar og hafi ekki í för með sér verulega skerðingu grenndarhagsmuna kæranda. Markmið um þéttingu byggðar komi skýrt fram í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024. Þéttingin sé gerð í samræmi við heildaryfirbragð hverfanna og með þeim hætti að það hafi ekki verulega íþyngjandi áhrif á umhverfisþætti líkt og útsýni, nánd o.fl. Eigendur fasteigna geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem geti haft í för með sér breytingar á nánasta umhverfi þeirra. Ekki verði horft framhjá því að á lóðinni standi stór tré sem hafi áhrif á útsýni, bæði þegar þau eru laufguð og ekki.

Á umræddu svæði sé hefð fyrir stórum bílageymslum og þær séu stærri en almennt í öðrum hverfum. Álftröð 1 sé tvíbýli og því gert ráð fyrir tveimur bílageymslum. Líkt og fram komi í umsögn skipulags- og byggingardeildar sé stækkunin yfir meðaltali, en líta verði til þess að viðbyggingin sé ekki hærri en núverandi bílskúrar, stækkunin nái ekki nær lóðarmörkum en 3 m og umhverfisáhrif séu afar lítil. Því hafi verið talið að ekki væri um óeðlilega stækkun að ræða. Áréttað sé að umræddir bílskúrar séu teiknaðir á aðaluppdrátt sem samþykktur hafi verið á fundi byggingarnefndar Kópavogs þann 15. júní 1987 og eigi því stoð í lögformlegu byggingarleyfi.

Bent sé á að eigendur hafi unnið að því að fegra húsið að Álftröð 1 og muni bílskúrinn einnig fá yfirhalningu, þannig að umræddar breytingar hafi jákvæð áhrif á umhverfið og heildarásýnd lóðarinnar verði betri, lóðinni og hverfinu til mikils sóma.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að umræddur bílskúr standi langt inni á lóð hans, fjarri lóð kæranda, og að ekki standi til að hækka bílskúrinn. Vel sjáist á myndum að einungis örfá húsþök sjáist í fjarska á milli bygginga á Digranesveginum auk þess sem stofugluggi kæranda snúi í vestur. Því geti ekki verið um mikla skerðingu á hagsmunum kæranda að ræða.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar bæjarstjórnar Kópavogsbæjar að samþykkja heimild til stækkunar á bílageymslu á lóð við Álftröð 1. Ákvörðunin var tekin að undangenginni grenndarkynningu, en ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir umrætt svæði.

Samkvæmt 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þarf leyfi byggingarfulltrúa, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnunar, fyrir byggingu mannvirkis. Er kveðið á um það í 11. gr. sömu laga að nefndir aðilar tilkynni umsækjanda um samþykkt byggingaráforma enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Ef umsókn lýtur að mannvirkjagerð á ódeiliskipulögðu svæði eða vafi leikur á um að fyrirhugað mannvirki sé í samræmi við gildandi deiliskipulag skal leita umsagnar skipulagsfulltrúa eða skipulagsnefndar, sbr. 10. gr. laganna og gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Ef sótt er um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir eða um er að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi getur skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulags, enda hafi áður farið fram grenndarkynning skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Felur það lagaákvæði samkvæmt orðanna hljóðan m.a. í sér að skipulagsnefnd taki ákvörðun um hvort veita megi byggingarleyfi án deiliskipulags.

Hins vegar verður ekki litið fram hjá því að endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis er á hendi byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum laga um mannvirki. Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu samþykkti skipulagsnefnd umsókn um stækkun umræddrar bílageymslu á fundi sínum 19. september 2016 og var sú afgreiðsla nefndarinnar staðfest af bæjarstjórn 27. s.m. Að þeirri afgreiðslu lokinni var byggingarfulltrúa heimilt að lögum að veita umsótt byggingarleyfi. Leyfi hefur hins vegar ekki verið veitt samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað. Liggur því ekki fyrir lokaákvörðun í málinu, en skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Er því og við að bæta að skv. 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga skal grenndarkynning fara fram að nýju hafi byggingarleyfi á grundvelli grenndarkynningar ekki verið gefið út innan eins árs frá afgreiðslu sveitarstjórnar.

Með vísan til framangreinds verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                    Þorsteinn Þorsteinsson

 

92/2017 Heimagisting

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 22. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 92/2017, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 7. júní 2017 um að synja niðurfellingu eða endurgreiðslu gjalda vegna starfsleyfis fyrir heimagistingu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. júlí 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir íbúi, Helluvaði 1, Reykjavík, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 7. júní 2017 að hafna niðurfellingu eða endurgreiðslu gjalda vegna starfsleyfis fyrir heimagistingu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 13. október 2017.

Málavextir: Með breytingu á lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. ákvæði laga nr. 66/2017, sem gildi tóku 1. júlí 2017, hætti heimagisting að vera starfsleyfisskyldur rekstur, sbr. viðauka V. starfsemi E í lögunum eftir breytingu.

Með umsókn, dags. 10. apríl 2017, sótti kærandi um starfsleyfi fyrir heimagistingu í einni íbúð að Helluvaði 1, Reykjavík. Starfsleyfi var gefið út til kæranda 23. maí s.á. og honum tilkynnt um það með bréfi, dags. sama dag. Kemur fram í bréfinu að starfsleyfið öðlist gildi og verði sent leyfishafa þegar meðfylgjandi reikningur að fjárhæð kr. 34.500 hafi verið greiddur. Samkvæmt gögnum málsins greiddi kærandi reikninginn 30. júní s.á. Hinn 19. júlí s.á. greiddi kærandi jafnframt annan reikning sömu fjárhæðar, sem gefinn var út 31. maí s.á., en eftirlit hafði farið fram vegna starfsleyfisins 17. s.m.

Á meðal gagna málsins er tölvupóstur frá starfsmanni Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 7. júní 2017. Þar er svarað fyrirspurn kæranda varðandi umrædd starfsleyfi og segir þar að gerðar hafi verið breytingar á lögum nr. 7/1998, sem muni taka gildi 1. júlí s.á. Ein af breytingunum sé að ekki verði krafist starfsleyfis frá heilbrigðisnefndum fyrir 90 daga heimagistingu í flokki I. Eftir sem áður verði 90 daga heimagisting skráningarskyld starfsemi en hana skuli skrá hjá sýslumanni. Kostnaður umsækjenda vegna útgáfu starfsleyfa og eftirlits vegna þeirra, sem fallið hafi til fyrir 1. júlí 2017, verði hvorki endurgreiddur né reikningar vegna þessa látnir niður falla þar sem lögin séu ekki afturvirk. Var loks vísað á umhverfis- og auðlindaráðuneytið ef óskað væri frekari upplýsinga.

Kærandi skrifaði ráðuneytinu tölvupóst, dags. 7. júní 2017, og óskaði eftir endurgreiðslu vegna útgefins leyfis og eftirlits. Kemur fram í svarbréfi ráðuneytisins, dags. 19. júlí s.á., að umrædd breyting á lögunum hafi einungis áhrif frá og með 1. s.m., en fram að því tímamarki hafi eldri reglur gilt. Þær hefðu gilt til 30. júní. Benti ráðuneytið á kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Málsrök kæranda: Kærandi kveður lög þess efnis að starfsleyfi þyrfti frá heilbrigðiseftirliti til að bjóða upp á heimagistingu hafa verið í gildi í hálft ár. Fyrir starfsleyfið hafi þurft að greiða kr. 34.500 og að auki kr. 34.500 fyrir skoðun heilbrigðiseftirlitsins. Vegna þess hversu fáir hafi sótt um starfsleyfi hafi lögin verið felld úr gildi. Það sé sanngirnismál að löghlýðnir þurfi ekki að borga fyrir starfsleyfi á meðan slóðarnir sleppi. Því sé farið fram á niðurfellingu/endurgreiðslu ofangreinds kostnaðar.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur:
Af hálfu heilbrigðiseftirlitsins er krafist frávísunar málsins. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segi að kærufrestur til nefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda var kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun sem kærð er. Samkvæmt gögnum málsins hafi ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um álagningu gjalds vegna útgáfu starfsleyfis verið kærð 19. júlí 2017. Í tölvupósti starfsmanns úrskurðarnefndarinnar, dags. sama dag, hafi komið fram að kæran uppfyllti ekki formkröfur þar sem hún væri ekki undirrituð. Kæranda hafi verið leiðbeint um að bæta þyrfti úr þessu og bent á leiðbeiningar á vef úrskurðarnefndarinnar. Kærandi hafi ekki brugðist við beiðni um að senda undirritaða kæru til nefndarinnar fyrr en 19. ágúst s.á. Þá fyrst hafi kæran uppfyllt ófrávíkjanleg formskilyrði laga nr. 130/2011.

Kærandi hafi hvorki gætt að því að virða formskilyrði né tímafresti til að bera kæru undir úrskurðarnefndina. Alls hafi liðið 57 dagar frá því að kæranda hafi verið tilkynnt um álagningu gjaldsins þar til óundirrituð kæra hafi borist nefndinni. Eftir að kæranda hafi verið leiðbeint og bent á að undirrita þyrfti kæruna hafi liðið 31 dagur þar til undirrituð kæra barst. Af framangreindu megi ljóst vera að hvort sem miðað sé við tilkynningu um álagningu gjalds eða kröfu um úrbætur á formhlið kærunnar hafi kærandi ekki virt skýran tímafrest 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Af þessum sökum eigi að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða:
Mál þetta snýst um synjun á kröfu kæranda um að endurgreidd verði eða felld niður gjöld vegna starfsleyfis fyrir heimagistingu, útgefnu 23. maí 2017, og fyrir eftirlit Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í tengslum við veitingu leyfisins sem fram fór 17. s.m. Gjöldin voru á lögð á grundvelli gjaldskrár nr. 1190/2016 fyrir mengunar- og heilbrigðiseftirlit í Reykjavíkurborg. Gjaldskráin var sett með stoð í þágildandi 12. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem heimilaði sveitarfélögum að setja gjaldskrá og innheimta gjald fyrir eftirlitsskylda starfsemi, m.a. fyrir eftirlit og útgáfu starfsleyfa. Kom nánar fram að  upphæð gjaldsins skyldi byggð á rekstraráætlun, þar sem þau atriði væru rökstudd sem ákvörðun gjalds við viðkomandi eftirlit byggðist á og að gjaldið mætti ekki vera hærra en sá kostnaður.  Starfsemin sem um ræðir hætti að vera leyfisskyld við breytingu á lögum nr. 7/1998, sem tók gildi 1. júlí 2017.

Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kærufrestur sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Krafa kæranda um niðurfellingu umræddra gjalda virðist fyrst hafa verið sett fram af kæranda 6. júní 2017 og var henni svarað 7. s.m. af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur þar sem kæranda var tjáð að ekki yrði fallist á kröfu hans þar sem lögin væru ekki afturvirk. Kæran til úrskurðarnefndarinnar var móttekin 19. júlí s.á. og var því mánaðar kærufrestur liðinn þegar hún kom fram. Í 28. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Kæranda var ekki leiðbeint um kæruleið af heilbrigðiseftirlitinu en var hins vegar bent á að hafa samband við umhverfis- og auðlindaráðuneytið, sem kærandi gerði sama dag. Svar til hans frá ráðuneytinu er frá 19. júlí 2017 og þar koma fram leiðbeiningar um kæruleið til úrskurðarnefndarinnar. Kærandi lagði fram kæru sama dag. Telja verður að undantekningarákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga eigi hér við og að afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki komið fyrr fram í málinu. Verður það því tekið til efnismeðferðar.

Lögum nr. 7/1998 var breytt með lögum nr. 66/2017 og var þar m.a. felld niður skylda til að afla starfsleyfis fyrir heimagistingu, sbr. nú viðauka V. starfsemi E. Voru lögin samþykkt á Alþingi 1. júní 2017 og birt í A-deild Stjórnartíðinda 23. s.m. Samkvæmt 47. gr. laganna öðluðust þau gildi 1. júlí 2017, nema k-liður 7. gr. (ný 16. gr. laganna), sem öðlast gildi 1. júlí 2018. Umrætt starfsleyfi var því gefið út fyrir gildistöku laga nr. 66/2017 og fór eftirlit einnig fram fyrir þann tíma.
Samkvæmt almennum lagaskilareglum gilda eldri lög fram að gildistöku laga sem ætlað er að breyta þeim eða fella úr gildi og er meginreglan sú að lög eru ekki afturvirk. Á það einnig við í því tilfelli sem fjallað er um í þessu máli. Þurfti því gilt starfsleyfi fyrir heimagistingu fram að gildistöku laga nr. 66/2017, sem breyttu lögum nr. 7/1998, og var lögmætt að innheimta gjöld í samræmi við eldri ákvæðin til 30. júní 2017.  Af þeim sökum voru gjöld þau lögmæt er innheimt voru hjá kæranda vegna kostnaðar við útgáfu starfsleyfisins og eftirlit vegna þess. Bar ekki að endurgreiða þau eftir gildistöku laga nr. 66/2017, enda hafði framangreindur kostnaður fallið til fyrir þann tíma.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda og umfangs mála er skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 7. júní 2017 um synjun á niðurfellingu eða endurgreiðslu gjalda vegna starfsleyfis fyrir heimagistingu.

130/2017 Heimagisting

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 22. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 130/2017, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurlands frá 26. október 2017 um að synja endurgreiðslu gjalda vegna starfsleyfis fyrir heimagistingu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. október 2017, er barst nefndinni 31. s.m., kærir íbúi, Lovisenberggata 21 E, Osló, Noregi, ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurlands frá 26. október 2017 um að synja endurgreiðslu gjalda vegna starfsleyfis fyrir heimagistingu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands 28. nóvember 2017.

Málavextir:
Með breytingu á lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. lög nr. 66/2017, sem gildi tóku 1. júlí 2017, hætti heimagisting að vera starfsleyfisskyldur rekstur, sbr. viðauka V. starfsemi E í lögunum eftir breytingu. Með umsókn, dags. 17. apríl 2017, sótti kærandi um starfsleyfi fyrir heimagistingu í einni íbúð að Bæjarholti 13, Laugarási. Starfsleyfi var gefið út til kæranda 2. júní s.á. Var kæranda gert að greiða kr. 35.517 í leyfisgjald skv. gjaldskrá nr. 976/2016 fyrir matvæla-, heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á svæði Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, fyrir útgáfu starfsleyfis og úttekt á gististað.

Á meðal gagna málsins er tölvupóstur frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands frá 26. október 2017 þar sem kæranda er tjáð að honum verði ekki endurgreidd þau gjöld sem hann hafi þurft að greiða vegna útgáfu starfsleyfis. Segir í tölvupóstinum að heilbrigðiseftirlitið hafi þegar verið búið að inna af hendi vinnu við úttekt og starfsleyfisgerð þegar reikningur hafi verið gefinn út fyrir vinnunni. Vísað er til samhljóða ákvörðunar heilbrigðisnefndar Suðurlands á fundi 10. ágúst s.á. Var kæranda kynnt kæruleið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna kröfu hans.

Málsrök kæranda: Kærandi kveður Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hafa vitað um yfirvofandi breytingu á lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir þegar starfsleyfi hans hafi verið gefið út og innheimt gjald fyrir það. Ekki hafi átt að framkvæma vinnuna á elleftu stundu, rétt fyrir atkvæðagreiðslu um lagabreytinguna, heldur hefði átt að fresta henni og upplýsa umsækjanda um stöðu mála. Kærandi kveðst hafa fengið tölvupóst 31. maí 2017, þess efnis að starfsleyfi yrði gefið út. Lögin hafi verið samþykkt 1. júní s.á. og hann hafi greitt leyfisgjaldið 9. s.m.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Suðurlands:
Heilbrigðiseftirlitið bendir á að því hafi borið skylda til að afgreiða umsókn kæranda, dags. 17. apríl 2017, samkvæmt þeim lögum sem þá hafi verið í gildi, óháð því hvort frumvarp væri til meðferðar hjá Alþingi til breytinga á lögunum. Hefðbundin afgreiðsla hafi verið sett af stað þegar umsókn kæranda hafi borist, með því að afla upplýsinga frá byggingarfulltrúa um hvort húsnæðið uppfyllti kröfur byggingarreglugerðar nr. 112/2012, sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti. Jákvætt svar hafi borist frá byggingarfulltrúa 2. maí 2017, úttekt farið fram 30. s.m., starfsleyfið gefið út 2. júní s.á. og umræddur reikningur sendur kæranda í kjölfarið. Gjaldtakan sé í samræmi við gjaldskrá nr. 976/2016 fyrir matvæla-, heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á svæði Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Númer og heiti viðkomandi fyrirtækjaflokks sé 55.12.0.4 útleiga stakra sumarhúsa/íbúðarhúsnæðis. Reikningur kæranda skiptist í annars vegar útgáfu starfsleyfis, tvö tímagjöld, eða kr. 24.182, og hins vegar eftirlitsgjald viðkomandi fyrirtækjaflokks, eða kr. 11.335, samtals kr. 35.517.

Sambærileg beiðni um endurgreiðslu hafi verið tekin fyrir á fundi heilbrigðisnefndar Suðurlands 10. ágúst 2017. Afgreiðsla nefndarinnar hafi verið einróma og hafi beiðninni verið hafnað.

Niðurstaða: Mál þetta snýst um synjun á kröfu kæranda um að endurgreidd verði gjöld vegna starfsleyfis fyrir heimagistingu, dags. 2. júní 2017, og úttekt á gististað, sem  fram fór 30. maí s.á. Gjöldin voru á lögð á grundvelli gjaldskrár nr. 976/2016 fyrir matvæla-, heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á svæði Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Gjaldskráin var sett með heimild í þágildandi 12. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem heimilaði sveitarfélögum að setja gjaldskrá og innheimta gjald fyrir eftirlitsskylda starfsemi, m.a. fyrir eftirlit og útgáfu starfsleyfa. Kom nánar fram að upphæð gjaldsins skyldi byggð á rekstraráætlun, þar sem þau atriði væru rökstudd sem ákvörðun gjalds við viðkomandi eftirlit byggðist á og að gjaldið mætti ekki vera hærra en sá kostnaður. Starfsemin sem um ræðir hætti að vera leyfisskyld við breytingu á lögum nr. 7/1998, sem tók gildi 1. júlí 2017.

Lögum nr. 7/1998 var breytt með lögum nr. 66/2017 og var þar m.a. felld niður skylda til að afla starfsleyfis fyrir heimagistingu, sbr. nú viðauka V. starfsemi E. Voru lögin samþykkt á Alþingi 1. júní 2017 og birt í A-deild Stjórnartíðinda 23. s.m. Samkvæmt 47. gr. laganna öðluðust þau gildi 1. júlí 2017, nema k-liður 7. gr. (ný 16. gr. laganna) sem öðlast gildi 1. júlí 2018. Umrætt starfsleyfi var því gefið út fyrir gildistöku laga nr. 66/2017 og fór eftirlit einnig fram fyrir þann tíma.
Samkvæmt almennum lagaskilareglum gilda eldri lög fram að gildistöku laga sem ætlað er að breyta þeim eða fella úr gildi og er meginreglan sú að lög eru ekki afturvirk. Á það einnig við í því tilfelli sem fjallað er um í þessu máli. Af þeim sökum þurfti gilt starfsleyfi fyrir heimagistingu fram að gildistöku laga nr. 66/2017 og var lögmætt að innheimta gjöld í samræmi við eldri ákvæðin til 30. júní 2017. Af þeim sökum voru lögmæt þau gjöld er innheimt voru hjá kæranda fyrir útgefið starfsleyfi og úttekt vegna þess. Bar ekki að endurgreiða þau eftir gildistöku laga nr. 66/2017, enda hafði framangreindur kostnaður fallið til fyrir þann tíma.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda og umfangs mála er skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurlands frá 26. október 2017 um að synja endurgreiðslu gjalda vegna starfsleyfis fyrir heimagistingu.

24/2018 Hlíðarendi 2

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 24. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 24/2018, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 22. desember 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda vegna lóðarinnar nr. 2 við Hlíðarenda.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. febrúar 2018, er móttekið var hjá nefndinni sama dag, kæra Dalhús ehf., lóðarhafi Hlíðarenda 28-34, og NH eignir, lóðarhafi Hlíðarenda 1-7, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 22. desember 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda vegna lóðarinnar nr. 2 við Hlíðarenda. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt að framkvæmdir á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, sbr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu kærenda.    

Málsatvik: Auglýsing um gildistöku breytingar á deiliskipulagi Hlíðarenda vegna lóðarinnar nr. 2 við Hlíðarenda var birt í B-deild Stjórnartíðinda 19. janúar 2018. Var tekið fram að í breytingunni fælist breyting á byggingarreit og aukning á byggingarmagni á reit A.

Niðurstaða:
Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.

Gildistaka deiliskipulags, eða deiliskipulagsbreytingar, felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar og útgáfa byggingar- eða framkvæmdaleyfis í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana. Þegar litið er til eðlis þeirra ákvarðana og fyrrgreindra lagaákvæða, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda sem heimilaðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu. 

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun er hafnað.

                _____________________________
                    Nanna Magnadóttir

146/2016 Norðurbraut 9

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 22. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri. 

Fyrir var tekið mál nr. 146/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 29. júní 2016 um að synja um byggingarleyfi fyrir stækkun geymslu við húsið að Norðurbraut 9 í Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. nóvember 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Norðurbraut 9, Hafnarfirði, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 29. júní 2016 að hafna umsókn hennar til stækkunar  geymslu við húsið að Norðurbraut 9. Skilja verður málskot kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 18. nóvember 2016.

Málavextir:
Kærandi, sem er eigandi eignarhluta 0101 í húsinu við Norðurbraut 9 í Hafnarfirði, sótti 21. júní 2016 um byggingarleyfi til stækkunar á geymslu. Umsókninni fylgdi uppdráttur þar sem tekið er fram í byggingarlýsingu að stækka eigi núverandi geymslu um 5,3 m2, þ.e. úr 19,1 m2 í 24,4 m2. Umsókn kæranda var tekin fyrir á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 29. júní 2016 og var bókað að erindinu væri synjað. Jafnframt var bókað að húsið væri fjölbýlishús og að ekki væri hægt að stækka núverandi geymslu sem tilheyrði neðri hæð þar sem gera þyrfti ráð fyrir geymslu fyrir hinn eigandann. Var kæranda tilkynnt um afgreiðslu byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 8. júlí 2016.

Í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 20. október 2016, kom nánar fram að það væri mat byggingarfulltrúa að gera yrði ráð fyrir að eigandi eignarhluta 0201 gæti byggt geymsluskúr í framhaldi af þeim skúr sem fyrir væri. Var m.a. bent á að samkvæmt eignaskiptasamningi hefði eigandi eignarhluta 0201 rétt til byggingar slíks skúrs ef leyfi fyrir því fengjust frá bæjaryfirvöldum. Var einnig vísað til i-liðar í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og tekið fram að hægt væri að byggja 20 m2 geymsluskúr. Kæra í málinu barst 3. nóvember 2016, eins og áður segir.

Málsrök kæranda: Kærandi segir ætlun sína að stækka geymsluskúr sinn um einn metra þannig að skúrinn verði 20,6 m2 eftir stækkun. Kveðst kærandi ekki skilja skýringar byggingarfulltrúa á því hvers vegna umsókninni hafi verið synjað.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:
Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að 2. tl. i-liðar gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 heimili viðbyggingu með flatarmál að hámarki 40 m2. Í gr. 6.7.13. í sömu reglugerð sé gerð krafa um að 6 m2 geymsla fylgi íbúðum sem séu 75 m2 og stærri. Ekki liggi fyrir deiliskipulag en þar sem eigandi eignarhluta 0201 eigi rétt á að byggja geymsluskúr hafi eingöngu verið hægt að heimila kæranda að stækka upp í 20 m2, með möguleika á viðbyggingu. Teikningar að fyrirhuguðum geymsluskúr sýni glugga á vesturgafli sem komi í veg fyrir að hægt sé að byggja við skúrinn. Mikill hraunklettur sé á umræddri lóð og sé því ekki hægt að bæta við byggingu hvar sem er á lóðinni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa um að synja um byggingarleyfi til að stækka geymsluskúr. Ákvörðun byggingarfulltrúa lá fyrir 29. júní 2016 og var hún tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 8. júlí s.á. Í því var hvorki að finna leiðbeiningar um kæruheimild eða greint frá kærufresti. Meðal gagna málsins er bréf byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 20. október 2016, þar sem fram kemur frekari rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun án þess að leiðbeiningar um kæruleið eða -frest séu veittar. Kæra barst í málinu stuttu síðar, eða 3. nóvember s.á. Voru þá um fjórir mánuðir liðnir frá því að hin kærða ákvörðun var tekin, en kærufrestur er einn mánuður skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Með hliðsjón af því að kæranda voru ekki veittar leiðbeiningar og hann kærði án ástæðulauss dráttar eftir frekari samskipti við byggingarfulltrúa þykir afsakanlegt að hann hafi ekki komið kæru að í málinu fyrr. Verður mál þetta því tekið til efnismeðferðar á grundvelli 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Á lóðinni Norðurbraut 9 er tvíbýlishús og geymsla sem fylgir eignarhluta kæranda. Samkvæmt þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið eru tveir matshlutar í því. Matshluti 01, sem er steinsteypt hús með tveimur íbúðum merktum 0101 og 0201, og matshluti 02 sem er geymsluskúr 19,1 m2 að stærð sem tilheyrir íbúð 0101. Er tekið fram í yfirlýsingunni að eignarhluta 0201 hafi fylgt 7,8 m2 geymsluskúr á lóð sem búið sé að rífa, en réttur til endurbyggingar hans fylgi eigninni áfram fáist leyfi bæjaryfirvalda. Loks kemur fram í yfirlýsingunni að hlutur eignar 0101 í lóð sé alls 44,84% og hlutur eignar 0201 sé 55,16%.

Í 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki segir að umsókn um byggingarleyfi skuli fylgja öll nauðsynleg gögn, þ.m.t. samþykki meðeigenda skv. lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Í 6. gr. þeirra laga segir að sameign teljist allir þeir hlutar húss og lóðar sem ekki séu ótvírætt í séreign skv. 4. gr., en skv. nefndri 4. gr. er séreign afmarkaður hluti af húsi eða lóð eins og honum er lýst í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu. Áréttað er í 5. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 26/1994 að öll lóð húss falli undir sameign fjöleignarhúss. Loks kemur fram í 19. gr. laganna sú meginregla að samþykki allra eigenda þurfi til að ráðstafa sameign. Ekki er tekið fram á hvaða formi slíkt samþykki skuli vera, en gera verður ráð fyrir því að unnt sé á ótvíræðan hátt að sýna fram á að samþykki liggi fyrir til þess að ráðstöfun teljist heimil.

Þinglýstir eigendur að eignarhluta 0201 eru tveir og eiga þeir eignina að jöfnu. Umsókn kæranda fylgdi teikning að fyrirhugaðri stækkun, sem árituð er af rétthafa aðliggjandi lóðar. Þar fyrir neðan er nafnritun annars eigenda eignarhluta 0201 án frekari skýringa, en ekkert liggur fyrir um samþykki hins eigandans. Þótt fallast megi á með kæranda að nokkuð skorti á skýrleika í rökstuðningi byggingarfulltrúa fyrir hinni kærðu ákvörðun má þó af rökstuðningnum ráða að tillit til hagsmuna meðeigenda fjöleignarhússins hafi þar ráðið för. Er og ljóst af framangreindu að þar sem á skorti samþykki meðeiganda fyrir hinni umsóttu framkvæmd var byggingarfulltrúa rétt að synja um hana.  

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 29. júní 2016 um að synja um byggingarleyfi fyrir stækkun geymslu við húsið að Norðurbraut 9 í Hafnarfirði.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Ásgeir Magnússon

 

29, 30 og 31/2018 Dunhagi

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 16. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 29/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. janúar 2018 um að veita byggingarleyfi  til að byggja eina hæð ofan á og viðbyggingu við núverandi hús á lóðinni Dunhaga 18-20, Reykjavík, ásamt  fleiru.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. febrúar 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra tilgreindir íbúar og húseigendur á Tómasarhaga 32 þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. janúar 2018 að veita byggingarleyfi vegna Dunhaga 18-20 í Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. febrúar 2018, er móttekið var sama dag, kæra tilgreindir íbúar og húseigendur á Hjarðarhaga 27 áðurnefnda ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. janúar 2018.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. febrúar 2018, sem barst nefndinni 27. s.m., kærir eigandi, Hjarðarhaga 44, framangreinda ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. janúar 2018.

Þar sem framangreind mál varða öll sömu ákvörðun og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verða síðargreind kærumál, sem eru nr. 30/2018 og 31/2018, sameinuð máli þessu.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 23. mars 2018.

Málsatvik og rök:
Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. janúar 2018 var samþykkt umsókn um leyfi til að byggja inndregna  hæð ofan á núverandi hús á lóðinni Dunhaga 18-20, byggja viðbyggingu við fyrstu hæð hússins og kjallara, minnka og fjölga íbúðum í húsinu úr 8 í 20, koma fyrir lyftu utan á því og sorpgerði fyrir verslunarrými innan í rými 0106. Afgreiðsla byggingarfulltrúa var staðfest í borgarráði 11. janúar 2018.

Kærendur benda á að hin kærða ákvörðun varði grenndarhagsmuni þeirra miklu. Útsýni skerðist og umferð, sem og skuggavarp aukist.  Lagaskilyrði hafi ekki verið til að fara með umsókn um hið kærða byggingarleyfi í grenndarkynningu. Framkvæmdin sé ekki í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 eða skilgreinda landnotkun, auk þess sem hún sé ekki í samræmi við byggðamynstur.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er m.a. bent á að byggingarleyfi í málinu hafi verið samþykkt að nýju á afgreiðslufundi 20. mars 2018 og að þar með hafi hið kærða byggingarleyfi frá 9. janúar s.á. fallið úr gildi.

Niðurstaða:
Í gögnum málsins kemur fram að eftir hina kærðu samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík á byggingarleyfi vegna Dunhaga 18-20 fór fram frekari málsmeðferð. Var samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 20. mars 2018 að veita byggingarleyfið að nýju á grundvelli sömu byggingarleyfisumsóknar. Í tilkynningu byggingarfulltrúa, dags. 10. apríl s.á., er og vakin athygli á að byggingarleyfisumsókn hafi verið endursamþykkt vegna nýrrar málsmeðferðar umhverfis- og skipulagsráðs á henni. Bent er á að nýr kærufrestur hafi tekið að líða við þá samþykkt og hygðust kærendur nýta sér kærurétt sinn væri nauðsynlegt að þyrfti að kæra að nýju til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt meðfylgjandi leiðbeiningum. Hafa kærendur nýtt sér þann málsskotsrétt með kærum til úrskurðarnefndarinnar og eru þau kærumál nr. 69, 70 og 71/2018.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Eftir að byggingarfulltrúi samþykkti að veita nýtt byggingarleyfi 20. mars 2018 hefur hin kærða ákvörðun ekki réttarverkan að lögum. Eiga kærendur af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Með vísan til framangreinds verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

 

65/2018 Miðstræti

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 16. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 65/2018, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 20. apríl 2018 um að krefjast lagfæringar á skemmdri frárennslislögn.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. apríl 2018, sem barst nefndinni sama dag, kæra húsfélögin Miðstræti 8a og Miðstræti 8b þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að gefa kærendum frest til 30. apríl 2018 til að gera við skemmda frárennslislögn. Gera kærendur kröfu um að ákveðið verði með úrskurði að þvingunarúrræðum verði ekki beitt gagnvart þeim. Jafnframt gera kærendur kröfu um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 7. maí 2018.

Málavextir:
Kærendur eru húsfélög fasteignanna Miðstrætis 8a og Miðstrætis 8b. Liggur frárennslislögn frá húsinu undir lóð Laufásvegar 7 áður en hún tengist stofnlögn. Í mars 2018 stíflaðist sá hluti lagnarinnar sem liggur undir lóðina að Laufásvegi 7 en kærendum hefur verið neitað um aðgengi að lögninni til að fá gert við hana, bæði af eigendum Laufásvegar 7 og 9. Afleiðing stíflunnar var sú að skolpblandað vatn lak inn í húsnæði að Laufásvegi 9. Með bréfi, dags. 20. mars 2018, fór Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fram á að kærendur létu lagfæra umrædda skólplögn tafarlaust og skyldi viðgerð lokið eigi síðar en 3. apríl s.á. Eftir bréfleg samskipti var ákveðið að framlengja umræddan frest og með bréfi, dags. 20. s.m., ítrekaði Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fyrri kröfu um að kærendur létu lagfæra umrædda skólplögn. Skyldi viðgerð lokið eigi síðar en 30. s.m. Var í bréfinu jafnframt vakin athygli á því að yrði ekki farið að kröfu heilbrigðiseftirlitsins gæti heilbrigðisnefnd látið fara fram lagfæringar á lögninni á kostnað eiganda. Kærendur lögðu fram kæru sína 27. apríl 2018 og hafði þá viðgerð ekki verið framkvæmd og þvingunaraðgerðum ekki beitt.

Málsrök kærenda:
Kærendur kveðast ekki geta unað því að eigendur Laufásvegar 7 og 9 stöðvi nauðsynlegar viðgerðir á frárennslislögnum kærenda. Aldrei hafi staðið á kærendum að gera við lagnirnar. Erfitt sé að samþykkja að vera knúnir með kúgun til að samþykkja afarkosti um m.a. óskyld mál eða vera neyddir til að leysa frárennslismálin með sértækum lausnum sem kosti margfalt á við hina gömlu og hefðbundnu leið frárennslisins, sem auk þess sé styst og hagkvæmust. Kærendur hafni jafnframt hvers kyns ábyrgð á skemmdum vegna lagnanna, enda verið meinað að grípa til eðlilegra og fyrirbyggjandi ráðstafana til viðgerða í haust er leið og nú aftur, til að koma í veg fyrir frekari skemmdir.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er krafist frávísunar kærunnar. Kærendur hafi fengið frest til 30. apríl 2018 til að gera við skemmda frárennslislögn á lóðinni nr. 8 við Miðstræti. Hafi jafnframt verið tekið fram að ef ekki yrði orðið við kröfunni gæti heilbrigðiseftirlitið látið fara fram lagfæringar á lögninni á kostnað lóðarhafa. Umræddur frestur sé liðinn og engin ný ákvörðun hafi verið tekin. Hafi kærendur því enga lögvarða hagsmuni af því að fá úr gildi ákvörðunarinnar skorið og beri því að vísa kærunni frá.

Niðurstaða: Í XVII. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir er fjallað um valdsvið og þvingunarúrræði samkvæmt lögunum. Í 1. mgr. 60. gr. kemur fram að til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum, reglugerðum, samþykktum sveitarfélaga eða eigin fyrirmælum samkvæmt ákvæðum þessum geti heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúi beitt nánar tilgreindum þvingunarúrræðum. Í 1. mgr. 61. gr. segir að þegar aðili sinni ekki fyrirmælum innan tiltekins frests geti heilbrigðisnefnd ákveðið honum dagsektir þar til úr sé bætt. Þá segir í 3. málsl. 1. mgr. 61. gr. að jafnframt sé heilbrigðisnefnd heimilt að láta vinna verk á kostnað hins vinnuskylda ef fyrirmæli um framkvæmd séu vanrækt og skuli kostnaður þá greiddur til bráðabirgða af viðkomandi heilbrigðiseftirliti en innheimtast síðar hjá hlutaðeigandi. Rísi ágreiningur um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir yfirvalda er heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 65. gr. laganna.

Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að ákvörðun sem ekki bindi enda á mál verði ekki kærð fyrr en málið hafi verið til lykta leitt. Tilefni máls þessa er bréf Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til kærenda, dags. 20. apríl 2018, þar sem skorað er á þá að lagfæra skólplögn sem liggur frá húsi þeirra. Er tekið fram að verkinu skuli lokið eigi síðar en 30. s.m. Í bréfinu segir jafnframt að verði ekki farið að kröfu heilbrigðiseftirlitsins geti heilbrigðisnefnd látið fara fram lagfæringar á lögninni á kostnað kærenda. Er til stuðnings þessa vísað ranglega til 27. gr. laga nr. 7/1998 en ekki núgildandi 61. gr. laganna. Ekki verður talið að bréfið feli í sér lokaákvörðun sem skotið verði til úrskurðarnefndarinnar heldur aðeins tilkynningu um að til álita komi að beita þvingunarúrræðum samkvæmt XVII. kafla laga nr. 7/1998, nánar tiltekið 3. málsl. 1. mgr. 61. gr. laganna, verði kærendur ekki við áskorun um að vinna ákveðið verk. Verður því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

149/2016 Fiskþurrkun í Þorlákshöfn

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 15. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 149/2016, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 30. september 2016 um að veita Fiskmarki ehf. starfsleyfi til tveggja ára í stað fjögurra.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. nóvember 2016, er barst nefndinni 8. s.m., kærir Fiskmark ehf., Hafnarskeiði 21, Þorlákshöfn, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 30. september 2016 að veita kæranda starfsleyfi til tveggja ára í stað fjögurra. Er þess krafist að úrskurðarnefndin endurskoði hina kærðu ákvörðun eða eftir atvikum feli heilbrigðisnefndinni að breyta ákvörðun sinni þannig að endurnýjað starfsleyfi kæranda gildi í fjögur ár frá útgáfu þess.

Gögn málsins bárust frá heilbrigðisnefnd Suðurlands 7. desember 2016.

Málavextir: Kærandi rekur heitloftsþurrkun fiskafurða samkvæmt starfsleyfi frá heilbrigðisnefnd Suðurlands. Með umsókn, dags. 22. ágúst 2016, óskaði hann eftir því að starfsleyfið yrði endurnýjað. Auglýsing um að drög að starfsleyfisskilyrðum væru til kynningar hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands og á skrifstofu Sveitarfélagsins Ölfuss birtist í Dagskránni-fréttablaði Suðurlands 8. september 2016. Drögin lágu frammi til kynningar í fjórar vikur, frá 8. september til og með 6. október 2016, og var þar gert ráð fyrir fjögurra ára gildistíma starfsleyfisins.

Á fundi bæjarstjórnar Ölfuss 29. september s.á. var eftirfarandi bókað: „Í ljósi þeirra markmiða bæjaryfirvalda að flytja fiskþurrkunarstarfsemi út fyrir þéttbýli Þorlákshafnar geta bæjaryfirvöld með engu móti samþykkt að veitt verði starfsleyfi til næstu fjögurra ára og bæjarstjóra falið að koma á framfæri athugasemdum bæjarstjórnar í samræmi við umræður á fundinum.“ Sendi bæjarstjóri Heilbrigðiseftirliti Suðurlands tölvupóst þar sem framangreint kom fram ásamt frekari útskýringum varðandi það að skipulagt hefði verið svæði vestan við bæinn, sem m.a. væri ætlað fyrir starfsemi sem hefði mikil og truflandi lyktaráhrif á næsta umhverfi. Á fundi heilbrigðisnefndar Suðurlands, dags. 30. september 2016, var eftirfarandi bókað: „Starfsleyfisskilyrði fyrir [kæranda] vegna heitloftsþurrkunar fiskafurða er í lögbundnu auglýsinga- og kynningarferli með viðeigandi fresti til athugasemda sbr. reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Fresti til að gera athugasemdir við ofangreind skilyrði lýkur þann 6. október nk. Athugasemd hefur borist varðandi gildistíma starfsleyfis fyrir [kæranda], verður leyfið gefið út til tveggja ára í samræmi við markmið sveitarfélagsins um að lyktarsterk starfsemi eigi að víkja og sbr. bókun bæjarstjórnar Ölfuss dags. 29. september sl., er starfsmönnum falið að sjá um starfsleyfisútgáfu að kynningar- og auglýsingarferli loknu.“ Var kæranda kynnt ákvörðunin með bréfi frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, dags. 10. október s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst hafa fengið bréf frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, dags. 10. október 2016, þar sem honum hafi verið kynnt ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands um að veita kæranda starfsleyfi til tveggja ára í stað fjögurra, líkt og almennt eigi við um veitingu starfsleyfa fyrir sömu starfsemi og kærandi stundi, sbr. ákvæði 1. mgr. 20 gr. reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, sbr. lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Rök fyrir styttingu starfsleyfis séu ekki til staðar í málinu. Fyrirhuguð veiting leyfisins hafi verið auglýst og engin athugasemd hafi borist sem studd sé rökum. Eina athugasemdin sem hafi borist hafi verið frá bæjarstjóra Ölfuss í umboði bæjarstjórnar Ölfuss, en í athugasemdinni sé almennt fjallað um lyktarmengun í Þorlákshöfn.

Lyktarmengun í Þorlákshöfn, sem vísað sé til, sé útilokað að rekja til starfsemi kæranda en hann þekki til kvartana íbúa vegna lyktarmengunar frá öðru fiskþurrkunarfyrirtæki í bænum. Að því er best sé vitað hafi engin kvörtun borist Heilbrigðiseftirliti Suðurlands vegna starfsemi kæranda. Eigandi lóðar sem vinnsluhúsnæði kæranda standi á sé hafnarsjóður Þorlákshafnar og í lóðarleigusamningi komi fram að starfsemin sem eigi að fara fram á lóðinni sé fiskverkun. Þá sé fiskvinnsla í samræmi við deiliskipulag hafnarsvæðis Þorlákshafnar, sem samþykkt hafi verið af bæjarstjórn Ölfuss.

Kærandi fái ekki séð hvernig það samrýmist sjálfstæði Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og stjórnarmanna þess að þeir aðilar er skipi nefndarmenn í þá stofnun lýsi afstöðu sinni til þess hvernig hún eigi að starfa, líkt og bæjarstjóri geri í umboði bæjarstjórnar í bréfi sínu til Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Í bréfinu sé tekið fram að ekki komi til álita að heilbrigðiseftirlitið framlengi starfsleyfi kæranda að tveimur árum liðnum. Hljóti  úrskurðarnefndin að fjalla um það í úrskurði sínum hvort bæjarstjórn hafi farið út fyrir heimildir sínar með óbeinum fyrirmælum til nefndar sem skipuð sé af bæjarstjórn.

Í reglugerð nr. 785/1999 segi í 1. mgr. 21. gr. að skylt sé útgefanda starfsleyfis að endurskoða það ef mengun af völdum atvinnurekstrar sé meiri en búast hafi mátt við þegar leyfið hafi verið gefið út og ef breytingar verði á bestu fáanlegu tækni sem geri það kleift að draga umtalsvert úr losun án óhóflegs kostnaðar. Jafnframt skuli endurskoða starfsleyfið ef öryggi við rekstur eða vinnslu krefjist þess að önnur tækni sé notuð en upphaflega hafi verið miðað við, ef breytingar verði á atvinnurekstri eða ef nýjar reglur um mengunarvarnir taki gildi. Kærandi gæti sætt sig við skertan gildistíma starfsleyfis ef einhver þau atvik sem tilgreind séu í framangreindu ákvæði ættu við. Rangfærslur í bréfi bæjarstjóra Ölfuss breyti ekki þeirri staðreynd að ekki hafi verið kvartað yfir lyktarmengun frá starfsemi kæranda.

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands sé bundið af stjórnsýslulögum, þar á meðal meðalhófsreglu og rannsóknarreglu. Að mati kæranda séu ekki til staðar nein atvik er réttlætt geti þá ákvörðun að stytta starfsleyfistíma kæranda frá því sem almennt tíðkist. Mengun hafi ekki verið meiri frá starfsemi kæranda en búast hafi mátt við þegar starfsleyfið hafi upphaflega verið veitt. Þá notist kærandi við bestu fáanlegu tækni við starfsemi sína og séu stærstu fiskhausarnir, sem taki lengstan tíma að þurrka, þurrkaðir á fiskhjöllum utan byggðar. Loks sé þess að geta að það magn sem framleitt sé úr sé óverulegt miðað við aðrar sambærilegar fiskverksmiðjur, en starfsleyfið heimili framleiðslu úr 10 tonnum af hráefni á sólarhring eða 50 tonnum á viku.

Málsrök heilbrigðisnefndar Suðurlands: Heilbrigðisnefnd bendir á að starfsleyfi til handa kæranda hafi verið endurnýjað skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Nefndin telji að farið hafi verið að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 við útgáfu leyfisins til tveggja ára og að meðalhófs- og rannsóknarreglu hafi verið fylgt.

Fyrir liggi að umsókn vegna annarrar starfsemi, sem sambærileg sé við starfsemi kæranda, hafi á sama ári verið afgreidd með sama hætti, þ.e. leyfi veitt til tveggja ára. Heilbrigðisnefnd geti fallist á með kæranda að líklegt sé að mun meiri lykt stafi frá annarri og mun afkastameiri fiskþurrkun í bænum en frá starfsemi kæranda, en hins vegar sé ekki hægt að útiloka að hluti þeirrar lyktarmengunar sem kvartað hafi verið yfir sé þaðan komin.

Kærandi geri sjálfstæði heilbrigðisnefndar Suðurlands að umtalsefni, þar sem komi fram í bréfi bæjarstjóra Ölfuss að ekki komi til álita að Heilbrigðiseftirlit Suðurlands framlengi starfsleyfi. Bæjarstjórn sé frjálst að setja fram álit varðandi málið. Slíkt álit sé hins vegar ekki það sama og álit heilbrigðisnefndar, enda sé nefndin sjálfstæð í sínum ákvörðunum, eins og áralangur málarekstur vegna lyktarsterkrar starfsemi í Þorlákshöfn beri vitni um. Hafi mál þessu tengd m.a. komið áður á borð úrskurðarnefndarinnar og þá hafi heilbrigðisnefnd ekki dregið taum sveitarstjórnarinnar öðrum fremur. Vangaveltum um að heilbrigðisnefndin sé ekki sjálfstæð í sínum ákvörðunum gagnvart sveitarfélögum á Suðurlandi vísi nefndin alfarið á bug. Vissulega séu það sveitarfélögin á Suðurlandi sem skipi nefndarmenn heilbrigðisnefndar til fjögurra ára í senn, en það sé lýðræðislegt val 14 sveitarfélaga en ekki einungis bæjarstjórnar Ölfuss, eins og skilja megi af orðalagi kæranda.

Niðurstaða: Stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. þágildandi 31. gr. laganna, nú 65. gr. Einskorðast valdheimildir úrskurðarnefndarinnar við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana er undir hana eru bornar.

Samkvæmt þágildandi 5. gr. a í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skyldi allur atvinnurekstur sem haft gæti í för með sér mengun hafa gilt starfsleyfi, sbr. 6. gr. sömu laga. Samkvæmt 5. gr. laganna setur ráðherra reglugerð til að stuðla að framkvæmd mengunarvarnaeftirlits og skulu þar m.a. vera almenn ákvæði um starfsleyfi fyrir allan atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun, sbr. 1. tl. nefndrar lagagreinar. Starfsleyfi eru háð skilyrðum reglugerðar nr. 785/1999 um atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Markmið hennar er m.a. að koma í veg fyrir og draga úr mengun af völdum slíks atvinnurekstrar, koma á samþættum mengunarvörnum og að samræma kröfur og skilyrði í starfsleyfum. Í fylgiskjali 2 með reglugerðinni er talinn upp sá atvinnurekstur sem heilbrigðisnefnd veitir starfsleyfi fyrir, þ. á m. heitloftsþurrkun fiskafurða, sbr. lið 5.7. Heilbrigðisnefnd er þannig ætlað það hlutverk að veita starfsleyfi, að teknu tilliti til þeirra markmiða reglugerðarinnar sem snúa að mengunarvörnum. Ber nefndinni að fara að þeim málsmeðferðarreglum sem í reglugerðinni eru tilgreindar, sem og í lögum nr. 7/1998 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um endurnýjun á gildandi starfsleyfi sínu og voru drög að starfsleyfisskilyrðum auglýst í fjórar vikur, frá 8. september til og með 6. október 2016. Á auglýsingatímanum barst athugasemd frá Sveitarfélaginu Ölfusi, þar sem lagst var gegn því að leyfið yrði veitt til fjögurra ára og farið fram á að starfsleyfistíminn yrði ekki lengri en tvö ár. Var vísað til þeirra markmiða sveitarfélagsins að lyktarsterk starfsemi eins og heitloftsþurrkun fiskafurða ætti að víkja úr þéttbýli Þorlákshafnar. Ákvað heilbrigðisnefnd Suðurlands á fundi sínum 30. september 2016 að starfsleyfið yrði gefið út til tveggja ára að kynningartíma loknum og var vísað til athugasemdar sveitarfélagsins í því sambandi. Starfsleyfið var gefið út 10. október 2016 og gildir til 10. október 2018.

Í XI. kafla reglugerðar nr. 785/1999 er kveðið á um hvernig staðið skuli að undirbúningi og  auglýsingu útgáfu starfsleyfis. Samkvæmt 2. mgr. 24. gr. skal útgefandi auglýsa á tryggan hátt, s.s. í dagblaði eða staðarblaði ef við á, að starfsleyfistillaga sé komin fram, hvers efnis hún sé og hvar hún liggi frammi. Einnig skal tilgreina frest til þess að gera skriflegar athugasemdir við tillöguna. Frestur til að gera skriflegar athugasemdir vegna starfsleyfa fyrir atvinnurekstur sem tilgreindur er í fylgiskjali 2 í reglugerðinni skal vera fjórar vikur frá auglýsingu. Framangreint á að tryggja að almenningur eigi greiðan aðgang að umsóknum um starfsleyfi fyrir rekstur sem haft getur áhrif á umhverfið og að aðilar eigi þess kost að gera athugasemdir við starfsleyfisdrög. Er ljóst að athugasemdir geta leitt til breytinga á starfsleyfi, enda felst það í orðanna hljóðan að tillaga er ekki endanleg. Um útgáfu starfsleyfis segir í 26. gr. reglugerðar nr. 785/1999 að útgefandi skuli innan fjögurra vikna frá því að frestur til að gera athugasemdir við tillögu að starfsleyfi rennur út taka ákvörðun um útgáfu þess.

Eins og lýst er í málavöxtum var starfsleyfistillagan auglýst í samræmi við framangreint og gerði einn aðili athugasemd á auglýsingartíma. Sá galli var þó á málsmeðferðinni að ákvörðun um útgáfu starfsleyfisins til tveggja ára var tekin á fundi heilbrigðisnefndar 30. september 2016, eða sex dögum áður en auglýstum kynningartíma lauk og frestur til að gera athugasemdir rann út. Sú athugasemd sem gerð var á auglýsingatíma var þá fram komin og var tekið fram í ákvörðuninni að ekki skyldi gefa leyfið út fyrr en að kynningar- og auglýsingatíma liðnum, eða eftir 6. október s.á. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er ákvörðun bindandi eftir að hún er komin til aðila og samkvæmt 1. mgr. 23. gr. laganna getur stjórnvald breytt ákvörðun sinni þar til hún hefur verið tilkynnt aðila máls. Hið umdeilda starfsleyfi var gefið út 10. október 2016 og kæranda tilkynnt um ákvörðunina með bréfi dagsettu sama dag. Hafði heilbrigðisnefnd því þann möguleika að breyta ákvörðun sinni um útgáfu leyfisins allt til þess dags er lögbundinn athugasemdafrestur rann út og var samkvæmt því ekki hætta á réttarspjöllum þótt fram hefði komið athugasemd eftir fund heilbrigðisnefndar 30. september. Verður ákvörðunin því ekki ógilt af þeim sökum.

Eins og áður hefur komið fram er markmið reglugerðar nr. 785/1999 að koma í veg fyrir og draga úr mengun af völdum atvinnurekstrar sem getur haft í för með sér mengun. Í 10. mgr. 3. gr. í reglugerðinni segir að mengun sé þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valdi óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta. Ber heilbrigðisnefnd að líta til þess við ákvörðun um starfsleyfi að áhrif framangreindra þátta á umhverfið verði sem minnst. Í 12. gr. reglugerðarinnar er fjallað um almenn skilyrði starfsleyfis og segir þar í 1. mgr. að starfsleyfi skuli gefa út til tiltekins tíma. Ekkert segir þar annað um gildistíma starfsleyfa en að sé leyfið gefið út án þess að fyrir liggi deiliskipulag skuli það ekki gefið út til lengri tíma en fjögurra ára og í 1. mgr. 20. gr. segir að starfsleyfi skuli endurskoða að jafnaði á fjögurra ára fresti. Leyfishafi á því samkvæmt framangreindu ekki lögvarða kröfu til þess að leyfi sé gefið út honum til handa í tiltekinn lágmarkstíma. Í athugasemd sinni vísaði sveitarstjórn til þeirrar stefnu sinnar að færa lyktarsterka starfsemi fjær byggð í Þorlákshöfn. Kemur sú stefna skýrlega fram í gildandi Aðalskipulagi Ölfuss 2010-2022, sbr. aðalskipulagsbreytingu þess efnis sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 25. maí 2016. Í samræmi við það ákvað heilbrigðisnefndin að veita starfsleyfið til tveggja ára í stað fjögurra og verður að telja það lögmætt markmið miðað við framangreint, sbr. og markmið reglugerðar nr. 785/1999. Þá verður sú ákvörðun talin byggjast á meðalhófi í samræmi við málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga. Loks verður ekki annað séð en að nægar upplýsingar hafi legið fyrir heilbrigðisnefnd við töku hinnar kærðu ákvörðunar og að málsmeðferð nefndarinnar hafi að öðru leyti verið í samræmi við lög. Verður kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunarinnar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 30. september 2016 um að veita Fiskmarki ehf. starfsleyfi til tveggja ára í stað fjögurra.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon