Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

99/2018 Drápuhlíð

Með

Vinsamlegast athugið að mál þetta var endurupptekið og úrskurður kveðinn upp að nýju 13. febrúar 2020, sjá hér.

Árið 2018, fimmtudaginn 13. september kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 99/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. júlí 2018 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir bílskúr á lóðinni Drápuhlíð 36.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. júlí 2018, er barst nefndinni s.d., kærir eigandi, Drápuhlíð 36, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. júlí 2018 að veita leyfi fyrir byggingu bílskúrs á nefndri lóð. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 7. og 28. ágúst 2018.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 23. maí 2017 var tekin fyrir umsókn eiganda íbúðar að Drápuhlíð 36, dags. 9. s.m., um leyfi fyrir byggingu bílskúrs á þeirri lóð. Var erindinu vísað til skipulagsfulltrúa, sem ákvað á fundi sínum 26. s.m. að umsóknin skyldi grenndarkynnt fyrir hagsmunaaðilum. Athugasemdir bárust á kynningartíma umsóknarinnar, m.a. frá kæranda. Skipulags- og umhverfisráð afgreiddi hina grenndarkynntu umsókn 6. september 2017 með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 1. s.m., þar sem lagt var til að lengd fyrirhugaðs bílskúrs yrði færð niður í 7,5 m. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. júlí 2018 var umsóknin samþykkt og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu 23. ágúst s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að fyrirliggjandi eignaskiptasamningur um fjöleignarhúsið að Drápuhlíð 36 sé ekki nægjanlegur grundvöllur samþykkis fyrir byggingu bílskúrs. Þar sé einungis mælt fyrir um hvaða íbúð fylgi réttur til að sækja um byggingarleyfi. Reykjavíkurborg hafi ekki skoðað málið nægjanlega vel. Bygging bílskúrsins muni leiða til þess að verðgildi íbúðar kæranda á jarðhæð nefndrar fasteignar rýrni verulega. Gert sé ráð fyrir að bílskúrinn rísi við hlið glugga á austurhlið íbúðar kæranda, er muni leiða til þess að ekkert sólarljós komist inn um gluggann. Þá brjóti bygging bílskúrsins gegn ákvæðum e-liðar 1. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, 2. tl. 2. mgr. 2. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og h-liðar 1. mgr. gr. 6.2.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 varðandi aðgengi fyrir alla. Breidd gönguleiðar milli bílskúrs og hússins út í garð uppfylli ekki lágmarkskröfur, en breiddin sé aðeins 85-100 cm. Auk þess komi þessi litla breidd hvergi fram í gögnum málsins. Jafnframt muni umgangur til og frá garði meðfram glugganum á íbúð kæranda valda íbúum þar gríðarlegu ónæði. Hafa verði í huga að fasteignin að Drápuhlíð 36 sé um margt frábrugðin almennri húsagerð á svæðinu. Almennt séu ekki stórir og mikilvægir gluggar á veggjum er snúi að innkeyrslum eða bílskúrum og í þeim tilvikum sem gluggar snúi að bílskúr sé bílskúrinn staðsettur fyrir aftan glugganna. Þá hafi sá bílskúr sem til standi að byggja verið hækkaður og lengdur frá upprunalegum teikningum.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Af hálfu borgaryfirvalda er því haldið fram varðandi fjarlægð bílskúrs frá húsi að 1,0 m sé á milli útveggjar íbúðarhússins og veggjar bílskúrsins. Reglur um algilda hönnun, aðgengi fyrir alla, gildi ekki um húsnæðið, sbr. gr. 6.1.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Um valkvætt ákvæði sé að ræða sem ekki hafi verið gerð krafa um að farið væri að við afgreiðslu erindisins.

Athugasemdir leyfishafa:
Leyfishafi vísar til þess að málsmeðferð umsóknar um byggingarleyfi fyrir umræddum bílskúr hafi verið lögum samkvæmt. Gert hafi verið ráð fyrir bílskúr við austurhlið hússins að Drápuhlíð 36 frá byggingu þess árið 1946 og í aðalskipulagi. Ekki hafi þurft samþykki meðlóðarhafa fyrir byggingu skúrsins þar sem gert sé ráð fyrir honum á samþykktum teikningum, sbr. 28. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Auk þess sé byggingarréttur eiganda 1. hæðar tryggður með þinglýstum eignaskiptasamningi. Almennt séu bílskúrar í Hlíðunum 8,0 m á lengd eða lengri, en heimiluð lengd umrædds bílskúrs hafi verið minnkuð eftir athugasemdir frá kæranda. Gert sé ráð fyrir að bílskúrinn verði í 1,0 m fjarlægð frá húsi en helmingur hans sé þó lengra frá, þ.e. í 1,25 m fjarlægð, vegna innskots þar sem gluggi í kjallaraíbúð sé staðsettur. Fjarlægðin á milli fari þó niður í 90 cm meðfram skorsteininum, sem sé nægjanlegt fyrir hvers konar aðgengi. Aðalinngangar allra íbúða hússins séu að framanverðu og gengt sé út í garðinn frá bæði kjallara og íbúð á 1. hæð. Þá hafi íbúð kæranda í kjallara tekið miklum breytingum frá upprunalegu skipulagi, er hafi áhrif á birtu í íbúðinni. Allir eigendur íbúða í Drápuhlíð 36 hafi vitað frá upphafi að bílskúrsréttur væri til staðar og að hann fylgdi íbúð á 1. hæð. Kærandi hafi samþykkt þinglýstan eignaskiptasamning frá 2001, þar sem skýrt komi fram á teikningu og í texta að bílskúrsréttur sé á austurhlið og fylgi 1. hæð. Það hefði því ekki átt að koma kæranda á óvart að 17 árum síðar rísi bílskúr á lóðinni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um veitingu byggingarleyfis fyrir bílskúr á lóðinni að Drápuhlíð 36, að undangenginni grenndarkynningu í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en lóðin er á ódeiliskipulögðu svæði. Vegna framkominna athugasemda var sú breyting gerð á hinni grenndarkynntu umsókn að langhlið bílskúrsins var stytt úr 8 m í 7,5 m. Var kæranda tilkynnt um niðurstöðu málsins með bréfi, dagsettu 16. júlí 2018.

Á samþykktum teikningum að húsinu að Drápuhlíð 36 frá byggingu þess á árinu 1946 er gert ráð fyrir bílskúr við austurmörk lóðarinnar. Jafnframt er kveðið á um það í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu fasteignarinnar að bílskúrsrétturinn tilheyri íbúð 1. hæðar. Af þeim sökum mátti kærandi eiga von á því að bílskúr yrði byggður á umræddum stað á lóðinni. Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 þurfti því ekki samþykki sameigenda til að byggja bílskúrinn. Fjarlægð milli bílskúrs og húshliðar kemur fram á teikningunum frá 1946 og á teikningunum í eignaskiptayfirlýsingunni, sem kærandi undirritaði og er bundinn af. Þrátt fyrir að fyrirhugaður bílskúr sé 2,95 m á hæð, þ.e. 45 cm hærri en sá bílskúr sem upphaflega var gert ráð fyrir á teikningum, verður ekki talið að sú breyting hafi teljandi áhrif á hagsmuni kæranda. Þá ber að hafa í huga að gerð hefur verið breyting á skipulagi íbúðar í kjallara frá síðustu samþykktum teikningum frá árinu 1989, en þar er gert ráð fyrir að um sé að ræða herbergisglugga en ekki stofuglugga á austurhlið íbúðarinnar.

Í byggingarreglugerð nr. 112/2012 kemur fram í 4. mgr. gr. 6.1.1. að ávallt skuli leitast við að beita algildri hönnun þannig að byggingar og lóðir þeirra séu aðgengilegar öllum án sérstakrar aðstoðar. Þá er í gr. 6.1.3. tiltekið hvaða byggingar skuli hanna og byggðar á grundvelli algildrar hönnunar og fellur íbúðarhús eins og hér um ræðir ekki þar undir. Verður því að fallast á það með Reykjavíkurborg að henni hafi ekki verið skylt að krefjast þess við veitingu byggingarleyfisins að farið yrði að ákvæðum reglugerðarinnar um algilda hönnun við staðsetningu umrædds bílskúrs. Verður í því sambandi og að líta til þess að um er að ræða hús sem byggt var á fimmta áratug síðustu aldar og þá þegar var gert ráð fyrir bílskúrnum á lóðinni, auk þess sem ákvæði h-liðar gr. 6.2.3. á einungis við um gönguleið að byggingu en ekki að garði.

Með vísan til þess sem að framan er rakið eru ekki efni til að verða við kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. júlí 2018 um að samþykkja umsókn um byggingu bílskúrs á lóð nr. 36 við Drápuhlíð.

69/2017 Refasteinsstaðir ll

Með

Árið 2018, föstudaginn 7. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 69/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Húnaþings vestra frá 30. maí 2017 um veitingu byggingarleyfis fyrir veiðihúsi á lóðinni Þúfu í landi Refsteinsstaða II.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. júní 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Mói ehf., eigandi jarðanna Refsteinsstaða I og Laufáss, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Húnaþings vestra frá 30. maí 2017 að veita byggingarleyfi fyrir veiðihúsi á lóðinni Þúfu í landi Refsteinsstaða II. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Húnaþingi vestra 28. júlí 2017.

Málavextir: Á fundi skipulags- og umhverfisráðs Húnaþings vestra 4. ágúst 2016 var samþykkt umsókn um stofnun 0,5 ha lóðar úr landi Refsteinsstaða II sem nefnd var Þúfa og var sú afgreiðsla samþykkt á fundi byggðaráðs 8. s.m. Hinn 3. október 2016 var sótt um byggingarleyfi fyrir veiðihúsi á lóðinni og samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina 31. s.m. Takmarkað byggingarleyfi fyrir grunni og gólfplötu var gefið út hinn 24. nóvember 2016.

Eftir ítrekaðar athugasemdir kæranda við áform um byggingu veiðihúss á lóðinni Þúfu samþykkti skipulags- og umhverfisráð á fundi sínum 6. apríl 2017 að umsókn um byggingarleyfi fyrir veiðihúsinu yrði grenndarkynnt fyrir eigendum jarðanna Refsteinsstaða I, Laufáss og Enniskots og staðfesti sveitarstjórn þá afgreiðslu 11. apríl 2017. Umsóknin var kynnt með ódagsettu bréfi þar sem fram kom að kynning stæði frá 11. apríl 2017 með fresti til athugasemda til 11. maí s.á. Athugasemdir bárust frá kæranda á kynningartíma umsóknarinnar. Að lokinni grenndarkynningu var umsóknin tekin fyrir á fundi skipulags- og umhverfisráðs 22. maí 2017. Féllst ráðið ekki á fram komin sjónarmið í athugasemdum kæranda og lagði til við sveitarstjórn að staðfesta fyrri afgreiðslur um útskiptingu lands og stofnun byggingarreits ásamt útgáfu byggingarleyfis fyrir veiðihúsi á byggingarreitnum. Sveitarstjórn samþykkti afgreiðslu ráðsins á fundi sínum 26. maí 2017 og var kæranda tilkynnt um þær málalyktir með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 29. s.m. Lagfærðar aðalteikningar að veiðihúsinu voru síðan samþykktar 30. maí 2017 og byggingarleyfi gefið út sama dag.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er byggt á því að grenndarkynning sé ekki tæk og að staðsetning veiðihússins fari gegn hagsmunum hans.

Veiðihúsið sé staðsett á víðavangi um 2 km frá silungasvæði Víðidalsár. Sú staðsetning fari gegn ákvæði 3.2.1 greinargerðar aðalskipulags Húnaþings vestra, þar sem segi að forðast skuli stök hús á víðavangi. Veiðihúsið sé aðeins nokkra tugi metra frá landamerkjum Refsteinsstaða I og því sé staðsetningin andstæð grenndarhagsmunum kæranda sem eiganda þeirrar jarðar. Veiðihúsinu muni fylgja truflandi og dagleg umferð í 4-5 mánuði ársins. Grenndarkynning sú sem farið hafi verið í hafi ekki verið tæk, þar sem staðsetning veiðihússins hafi ekki verið í samræmi við ákvæði aðalskipulags. Í því tilviki verði að gera deiliskipulag vegna framkvæmdarinnar, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Vísar kærandi til umfjöllunar í bókinni „Inngangur að skipulagsrétti“ um framkvæmda- og byggingarleyfi þegar deiliskipulag liggur ekki fyrir. Þar segi að ef greind skilyrði í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga séu ekki uppfyllt, þ.e. ef framkvæmd er ekki í samræmi við aðalskipulag, sé ekki mögulegt að beita ákvæðum um grenndarkynningu framangreindra leyfa og beri þá að deiliskipuleggja viðkomandi svæði í samræmi við 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga og fylgja viðkomandi málsmeðferðarreglum áður en leyfi séu gefin út.

Í greinargerð aðalskipulags Húnaþings vestra, þar sem fjallað sé um byggingar á landbúnaðarsvæðum, segi meðal annars svo: „Heimilt er að afmarka lóðir og reisa allt að þrjú íbúðarhús þar sem aðstæður leyfa á lögbýlum stærri en 70 ha auk þeirra húsa sem tilheyra búrekstrinum. Ný íbúðarhús skulu nýta sömu heimreið og lögbýlið og vera í ákveðnu samhengi við aðra byggð. Markmiðið er að ekki verði fjölgað tengingum við þjóðveg, að þjónusta við ný hús tengist þeirri þjónustu sem þegar er veitt og að nýjum húsum verði komið fyrir í samræmi við byggingarhefðir og yfirbragð sveitarinnar. Forðast skal stök hús á víðavangi. Heimilt er að byggja allt að 3 stök frístundahús á lögbýlum auk aðstöðu fyrir ferðaþjónustu og léttan iðnað, án þess að breyta þurfi aðalskipulagi.“ Samkvæmt framangreindu sé bygging veiðihússins á lóðinni Þúfu óheimil nema að undangengnu að minnsta kosti deiliskipulagi, enda samrýmist veiðihústillagan illa ákvæðum aðalskipulagsins um byggingu frístundahúsa.

Óheimilt hafi verið að veita byggingarleyfi til einstakra þátta framkvæmdarinnar, þ.e. til að gera grunn, sökkul og gólfplötu, áður en deiliskipulag yrði gert og áður en framkvæmd hafi verið ótæk grenndarkynning. Það sé meginregla að byggingarleyfi fyrir framkvæmd beri að gefa út í heild þegar öll skilyrði fyrir útgáfu leyfisins séu uppfyllt. Frá þessari meginreglu sé takmörkuð undantekningarregla í 1. málsl. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Þar sé kveðið á um að leyfisveitandi geti, þegar sérstaklega standi á, veitt skriflegt leyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda. Í athugasemdum við tilvitnað ákvæði í frumvarpi því er varð að lögum um mannvirki sé þetta útskýrt svo: „Standi sérstaklega á, t.d. þegar hönnun mannvirkis er sérstaklega umfangsmikil og séruppdrættir margir, er unnt að nýta heimild 2. mgr. og veita skriflegt leyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda og takmarkast leyfið þá hverju sinni við samþykkt hönnunargögn.“ Um sé að ræða undantekningarákvæði sem ekki verði beitt frjálslega og gera verði þá kröfu að beiting þess sé rökstudd hverju sinni. Enn fremur sé kveðið á um í 2.4.5. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 að leyfisveitanda sé heimilt að veita skriflegt leyfi til einstakra þátta framkvæmdar „þegar um er að ræða mjög stóra, mjög sérhæfða eða flókna byggingarframkvæmd þar sem með rökum má sýna fram á að þróunarvinna þurfi að fara fram samhliða hönnun og byggingu mannvirkis […].“ Sérstaklega sé áréttað í 2. mgr. 2.4.6. gr. að einungis „í undantekningartilvikum og þegar sérstaklega stendur á“ sé heimilt að veita skriflegt leyfi til einstakra verkþátta byggingarframkvæmda sem ekki falli undir 2.4.5. gr.

Ekki verði séð að nein rök hafi verið færð fyrir því að greind undantekningarákvæði eigi við í máli þessu. Líta verði til þess að umsókn um byggingarleyfi hafi tekið til framkvæmdarinnar í heild og ekki hafi verið farið fram á að veitt yrði takmarkað byggingarleyfi til að gera grunn, sökkul og gólfplötu eða neinn rökstuðningur færður fyrir beiðni í þá átt. Hafi því engar forsendur verið til að veita byggingarleyfi til einstakra þátta framkvæmdarinnar. Sé útgáfa byggingarleyfisins því þegar af þeirri ástæðu ógildanleg.

Málsrök Húnaþings vestra: Sveitarfélagið telur að grenndaráhrif lóðarinnar og veiðihússins, þ.m.t. umferð vegna þess, sé ekki meiri en íbúar og eigendur jarða og fasteigna í nágrenninu verði að þola vegna starfsemi á jörðunum og búrekstrar. Húsið standi alveg við núverandi veg og skapi ekki neikvæð áhrif umfram sambærilega starfsemi sem gera megi ráð fyrir á svæðinu samkvæmt ákvæðum aðalskipulags. Sérstakt ónæði sé ekki af starfsemi í húsinu eða vegna umferðar er henni tengist. Húsið og lóðin sé ekki í námunda við hús eða mannvirki á jörðum kæranda og valdi því ekki neikvæðum grenndaráhrifum. Sveitarfélagið bendi jafnframt á að umrædd lóð og hús og jarðir kæranda séu skammt frá þjóðvegi nr. 1. Umferð vegna veiðihússins og mögulegt ónæði sé því óverulegt með tilliti til umferðar um þjóðveginn.

Því sé mótmælt að óheimilt hafi verið að grenndarkynna umrædda umsókn samkvæmt 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem umsóknin sé í andstöðu við aðalskipulag. Vísað sé í því sambandi til umfjöllunar um byggingar á landbúnaðarsvæðum í kafla 3.2.1 í greinargerð aðalskipulags sveitarfélagsins og um ferðaþjónustu á landbúnaðarsvæðum í sama kafla. Þar segi að heimilt verði, þar sem aðstæður leyfi á hverju lögbýli, að hafa sérhæfðar byggingar fyrir ferðaþjónustu, þ.e. gistiaðstöðu og byggingar fyrir veitingarekstur, svo fremi sem heildarstærð þeirra fari ekki yfir 1.500 m2. Leyfið sé því ekki í andstöðu við ákvæði aðalskipulagsins. Húsið nýti sömu heimreið og fyrir sé og virðist a.m.k. hvað það varði í tengslum og samhengi við aðra byggð. Staðsetning þess samræmist þeim markmiðum sem búi að baki þessum ákvæðum, þ.e. að ekki verði fjölgað tengingum við þjóðveg og að ný hús tengist þeirri þjónustu sem þegar sé veitt.

Umfjöllun í greinargerð aðalskipulagsins um að forðast skuli stök hús á víðvangi eigi eingöngu við um íbúðarhús en ekki önnur hús, enda sé umfjöllunin í beinu framhaldi af umfjöllun um íbúðarhús á bújörðum. Takmörkun aðalskipulagsins gildi eingöngu um íbúðarhús en ekki sérhæfðar byggingar fyrir ferðaþjónustu. Ástæða þess sé sú að ekki standi sömu rök eða forsendur til þess að slík hús standi nálægt íbúðarhúsnæði á jörðum. Heppilegra sé að þau geri það ekki, enda hagsmunir og eðli slíkrar landnotkunar annað en íbúðarhúsa. Eðlilegra sé að staðsetja slík hús, þ.e. sumarhús og veiðihús, sem séu í raun ferðaþjónustu- og samkomuhús, fjarri íbúðar- og bæjarhúsum. Sé það í samræmi við hefð í sveitarfélaginu og raunar á landinu öllu. Veiðihús séu því almennt ekki staðsett nálægt bæjarhúsum.

Kærufrestur vegna hins takmarkaða byggingarleyfis, sem gefið hafi verið út 24. nóvember 2016, sé löngu liðinn. Það leyfi hafi ekki verið kært og geti því ekki verið til umfjöllunar í máli þessu. Auk þess lúti takmörkun á heimild til útgáfu leyfis til hluta framkvæmda að því að tryggja að hönnunargögn liggi almennt fyrir og að lokið hafi verið við hönnun í meginatriðum áður en leyfi hafi verið veitt til framkvæmda. Í því máli sem hér sé til umfjöllunar hafi hönnunargögn legið í meginatriðum fyrir þegar leyfið hafi verið gefið út. Leyfinu hafi því ekki verið skipt upp af þeirri ástæðu að hönnunargögn hafi vantað heldur hafi því verið skipt upp þar sem framkvæmdinni var skipt í tvennt. Nýta hafi átt hagstæð veðurskilyrði haustið og veturinn 2016 til að ljúka framkvæmdum við gerð sökkuls og plötu. Húsið, sem að öðru leyti sé byggt úr timbureiningum, hafi svo átt að rísa síðar, þ.e. í lok vetrar, enda hafi smíði við einingarnar ekki verið lokið á þeim tíma. Hafi því efnisrök búið að baki útgáfu leyfisins. Þá verði ekki séð hvaða áhrif uppskipting leyfisins geti haft á lögmæta hagsmuni kæranda.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa Húnaþings vestra frá 30. maí 2017 um að veita byggingarleyfi fyrir veiðihúsi á lóðinni Þúfu í landi Refsteinsstaða II. Sú lóð er á ódeiliskipulögðu svæði. Um það er deilt hvort heimiluð framkvæmd sé í samræmi við gildandi aðalskipulag og hvort heimilt hafi verið að veita hið kærða byggingarleyfi að undangenginni grenndarkynningu skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis m.a. að mannvirkið og notkun þess sé í samræmi við gildandi skipulag á svæðinu. Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga kemur fram sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Undanþágu frá þeirri skyldu er að finna í 1. mgr. 44. gr. laganna. Þar er kveðið á um að veita megi byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir ef framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar og þá að undangenginni grenndarkynningu.

Fyrirhuguð bygging var ekki grenndarkynnt fyrir upphaflega samþykkt byggingaráform en málið var endurupptekið og úr því var bætt. Tók grenndarkynningin m.a. til kæranda sem kom á framfæri athugasemdum sínum með bréfi, dags. 9. maí 2017. Umsókn um byggingarleyfi fyrir umræddu veiðihúsi var síðan samþykkt 30. maí 2017.

Í kafla 3.2.1 í Aðalskipulagi Húnaþings vestra 2014-2026 er fjallað um stefnumörkun á landbúnaðarsvæðum. Þar kemur m.a. fram að á landbúnaðarsvæðum sé fyrst og fremst gert ráð fyrir byggingum og starfsemi sem tengist búrekstri. Ný íbúðarhús skuli nýta sömu heimreið og lögbýlið og vera í ákveðnum tengslum og samhengi við aðra byggð. Forðast skuli stök hús á víðavangi. Heimilt sé að byggja allt að þrjú stök frístundahús á lögbýlum auk aðstöðu fyrir ferðaþjónustu og léttan iðnað án þess að breyta þurfi aðalskipulagi. Þá sé heimilt að veita almenna ferðaþjónustu á landbúnaðarsvæðum og þar sem aðstæður leyfi að hafa sérhæfðar byggingar fyrir ferðaþjónustu á lögbýlum, þ.e. gistiaðstöðu og byggingar fyrir veitingarekstur, svo fremi sem heildarstærð þeirra fari ekki yfir 1.500 m2. Veiðiréttindi fylgja bújörðum sem eiga land að veiðivötnum og ám og hefur nýting slíkra hlunninda verið talin starfsemi sem tengist búrekstri þeirra jarða. Bygging og rekstur veiðihúss er því í samræmi við fyrrgreindra stefnumörkun í Aðalskipulagi Húnaþings vestra 2014-2026 og skilgreiningu landbúnaðarsvæða í q. lið 6.2. gr. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013.

Umdeilt veiðihús er einnar hæðar og tæpir 106 m2 að stærð og mun einungis vera í notkun hluta úr ári og er samkvæmt framansögðu í samræmi við heimildir aðalskipulags varðandi landnotkun. Um er að ræða staka framkvæmd innan lögbýlis sem ekki hefur í för með sér breyttar vegtengingar. Eins og atvikum er háttað var heimilt að samþykkja hið kærða byggingarleyfi að undangenginni grenndarkynningu, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Þótt veiðihúsið hljóti eðli máls samkvæmt að hafa einhver grenndaráhrif, svo sem vegna umferðar, verða þau áhrif talin óveruleg og geta ekki haft áhrif á gildi hins kærða byggingarleyfis.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Húnaþings vestra frá 30. maí 2017 um veitingu byggingarleyfis fyrir veiðihúsi á lóðinni Þúfu í landi Refsteinsstaða II.

16/2017 Bárugata

Með

Árið 2018, föstudaginn 7. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 16/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. júlí 2015 um veitingu byggingarleyfis fyrir viðbyggingu á suðausturhlið hússins að Bárugötu 23 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 1. febrúar 2017, er barst nefndinni 2. s.m., kæra eigendur, Bárugötu 21, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. júlí 2015 að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu á suðausturhlið hússins að Bárugötu 23 Reykjavík. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 18. febrúar 2017.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 29. janúar 2013 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja viðbyggingu á suðausturhlið einbýlishúss á lóð nr. 23 við Bárugötu, sem er á svæði sem ekki hefur verið deiliskipulagt. Málinu var vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa sem samþykkti á embættisafgreiðslufundi 1. febrúar 2013 að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum í nágrenninu. Tillagan var kynnt frá 8. febrúar 2013 til og með 20. mars s.á. Tveir kærenda fengu slíka kynningu en þriðji kærandinn var ekki fluttur í húsið á þeim tíma.

Ein athugasemd barst á kynningartíma þar sem bent var á að ekki væri ljóst hver fjarlægð milli húsanna nr. 21 og 23 við Bárugötu yrði eftir breytinguna og tekið fram að gæta þyrfti þess að viðbyggingin myndi ekki varpa skugga á glugga á suðvesturhlið og inngang íbúðar að Bárugötu 21. Í umsögn skipulagsfulltrúa við athugasemdina kom fram að fjarlægðin frá ystu brún viðbyggingar hússins nr. 23 að Bárugötu að stigahúsi hússins nr. 21 yrðu 3 m. Skuggavarp myndi aukast lítilsháttar á ákveðnum tímum, en fljótlega myndi skuggi núverandi húss hafa áhrif á skuggamyndunina og því hefði viðbyggingin óveruleg áhrif á hús nr. 21. Lagði skipulagsfulltrúi því til að erindið yrði samþykkt óbreytt og vísaði því til umhverfis- og skipulagsráðs sem gerði ekki athugasemdir við þá afgreiðslu með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 7. maí 2013. Var málinu vísað til byggingarfulltrúa sem samþykkti byggingarleyfisumsóknina á afgreiðslufundi sínum 16. júlí 2013.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. júlí 2015 var tekin fyrir umsókn um endurnýjun umrædds byggingarleyfis. Hún var samþykkt og tekið fram að erindið hefði verið grenndarkynnt frá 8. febrúar 2013 til og með 20. mars s.á. Borgarráð samþykkti afgreiðslu byggingarfulltrúa á fundi sínum 13. ágúst 2015. Byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum var gefið út 12. maí 2017.

Málsrök kærenda:
Kærendur vísa til þess að hús þeirra, sem sé nr. 21 við Bárugötu, liggi nærri mörkun lóðarinnar við lóð nr. 23. Bæði breidd og hæð viðbyggingarinnar sé úr hófi og ekki í samræmi við götumynd svæðisins. Áætluð hæð viðbyggingarinnar sé 5 m og bil milli hennar og húss kærenda muni ekki ná 3 m. Viðbyggingin hafi veruleg áhrif á ásýnd húss þeirra og aðgengi að garði, ruslatunnum og íbúð í kjallara ásamt því að skuggavarp muni aukast.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærufrestur hafi verið liðinn skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þegar kæran barst nefndinni 2. febrúar 2017. Hin umþrætta ákvörðun hafi verið tekin 14. júlí 2015, en í kæru séu ekki færð rök fyrir því hvers vegna víkja ætti frá nefndu ákvæði laganna. Þá sé bent á að skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli bera stjórnsýslukæru fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun og ákvæði 28. gr. laganna taki af allan vafa um að vísa beri kærunni frá en þar komi fram að óheimilt sé að sinna kæru ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun var tekin.

Athugasemdir leyfishafa:
Leyfishafi tekur undir kröfur Reykjavíkurborgar um að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem allir lögboðnir og mögulegir kærufrestir hafi verið löngu liðnir þegar kæra barst.

Framkvæmdum sé löngu lokið og grenndarkynning hafi farið fram þar sem nágrönnum var gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og komu athugasemdir þeirra til skoðunar. Tveir kærenda hafi samþykkt byggingaráformin og því samrýmist kæran ekki fyrri afstöðu þeirra, en engin ný gögn eða sjónarmið varðandi framkvæmdina hafi komið fram.

Niðurstaða: Í málinu er kærð ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. júlí 2015 um að samþykkja viðbyggingu á suðausturhlið húss nr. 23 við Bárugötu.

Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun nema á annan veg sé mælt í lögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Upphaf kærufrests í máli þessu ræðst af því hvenær kærendum varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um tilvist byggingarleyfisins.

Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er heimilt að víkja frá deiliskipulagsskyldu við veitingu byggingarleyfis ef fyrirhuguð framkvæmd samræmist stefnu aðalskipulags um landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Tekið er fram í 4. mgr. fyrrgreinds ákvæðis að hafi byggingarleyfi á grundvelli grenndarkynningar ekki verið gefið út innan eins árs frá afgreiðslu sveitarstjórnar skv. 2. mgr. skuli grenndarkynning fara fram að nýju áður en leyfi sé gefið út.

Byggingarfulltrúi samþykkti hin kærðu byggingaráform 16. júlí 2013 að undangenginni grenndarkynningu og umfjöllun skipulagsráðs og samþykkti byggingaráformin að nýju 14. júlí 2015. Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu 13. ágúst s.á. en byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni var ekki gefið út af byggingarfulltrúa fyrr en 12. maí 2017, eða eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni. Ljóst er að meira en ár leið frá því að borgarráð samþykki leyfið þar til það var gefið út. Samkvæmt 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga hefði því borið að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina að nýju áður en leyfið var gefið út en það var ekki gert. Ekki liggur fyrir að kærendum hafi verið tilkynnt um endurnýjun samþykkis byggingaráformanna, sem átti sér stað tveimur dögum áður en fyrri ákvörðun hefði fallið niður skv. 4. mgr. 2.4.2. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 eða að þeim hafi verið leiðbeint um kæruleið og kærufrest vegna hennar í samræmi við 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Máttu kærendur því vænta þess að samþykki byggingaráformanna væru brott fallin eða að grenndarkynning vegna umræddrar viðbyggingar yrði endurtekin áður en byggingarleyfi yrði gefið út. Verður samkvæmt framansögðu ekki fullyrt að kærendur hefðu mátt vita af hinni kærðu ákvörðun fyrr en í aðdraganda þess að málið var kært til úrskurðarnefndarinnar. Verður við það að miða að kæran hafi í öllu falli borist innan 12 mánaða frá vitneskju kærenda um hina kærðu ákvörðun og verður málið tekið til efnismeðferðar á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, þar sem afsakanlegt þykir að kæran hafi mögulega borist eftir lok kærufrests.

Skráð byggingarár hússins samkvæmt Þjóðskrá Íslands er 1922. Fram kemur í 30. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar að eigendum húsa sem ekki njóta friðunar en byggð voru 1925 eða fyrr sé skylt að leita álits Minjastofnunar Íslands með minnst sex vikna fyrirvara ef þeir hyggjast breyta þeim, flytja þau eða rífa. Í 2. mgr. sömu lagagreinar segir að byggingarfulltrúum beri að fylgjast með því að eigendur húsa og mannvirkja leiti eftir áliti Minjastofnunar áður en leyfi sé veitt til framkvæmda. Þá kemur fram í 3. mgr. ákvæðisins að álit Minjastofnunar Íslands skuli liggja fyrir áður en leyfi sé veitt til þeirra framkvæmda sem fjallað sé um í greininni og ber í byggingarleyfinu að taka tillit til skilyrða sem Minjastofnun leggur til í áliti sínu. Af framangreindu er ljóst að leyfishafa bar að leita álits Minjastofnunar Íslands áður en hann sótti um leyfi hjá byggingaryfirvöldum. Ekki verður séð að það hafi verið gert og var því byggingarfulltrúa óheimilt að veita umrætt byggingarleyfi án þess að álit stofnunarinnar lægi fyrir.

Vegna framangreindra annmarka á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar verður hin kærðu ákvörðun úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. júlí 2015 um veitingu byggingarleyfis fyrir viðbyggingu á suðausturhlið hússins Bárugötu 23 er felld úr gildi.

104/2018 Fiskeldi í Fáskrúðsfirði

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 4. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 104/2018, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 22. júní 2018 um að veita starfsleyfi fyrir 3.000 tonna regnabogasilungseldi í Fáskrúðsfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. ágúst 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarfélagið laxinn lifi, Veiðifélag Breiðdæla, Veiðifélag Hofsár og Sunnudalsár, Veiðifélag Selár og Veiðifélag Vesturdalsár, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 22. júní 2018 að veita starfsleyfi fyrir 3.000 tonna regnbogasilungseldi í Fáskrúðsfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum hins kærða starfsleyfis verði frestað eða framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 31. ágúst 2018.

Málavextir: Tillaga að hinu kærða starfsleyfi var auglýst á heimasíðu Umhverfisstofnunar 9. maí 2018 og var veittur frestur til athugasemda til og með 7. júní s.á. Ein athugasemd barst við tillöguna og var hún frá kærendum. Var starfsleyfistillagan send til umsagnar Matvælastofnunar, Skipulagsstofnunar, Hafrannsóknarstofnunar, Landssambands fiskeldisstöðva og Landssambands veiðifélaga. Jafnframt var tillagan send til sveitarfélagsins Fjarðarbyggðar og var hún aðgengileg hjá sveitarfélaginu.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að þeir eigi mikilla hagsmuna að gæta um að ekki verði stefnt í hættu lífríki Breiðdalsár, Hofsár, Sunnudalsár, Selár og Vesturdalsár, þar á meðal  hinum villtu laxa- og silungastofnum ánna, með lúsafári, sjúkdómasmiti og mengun frá erlendum og framandi regnbogasilungi, sem enginn mótmæli að muni sleppa í meira og minna mæli úr fyrirhuguðu sjókvíaeldi í Fáskrúðsfirði.

Farið sé fram á að réttaráhrifum hins kærða starfsleyfis verði frestað eða framkvæmdir stöðvaðar þar sem gera megi ráð fyrir töluverðum afgreiðslutíma úrskurðarnefndarinnar í málinu og að áður en að niðurstaða hennar muni liggja fyrir hefjist framkvæmdir við umrætt sjókvíaeldi.

Málsrök Umhverfisstofnunar:
Af hálfu Umhverfisstofnunar er bent á að starfsleyfið sé gefið út í samræmi við lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Um sé að ræða endurnýjun á starfsleyfi sem heimili sama umfang og sömu staðsetningu og rekstraraðili hafi verið með. Enn fremur bendi stofnunin á að samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun þá hafi ekki verið settur fiskur út í kvíar og að ekki hafi verið tilkynnt um útsetningu. Engar undirbúningsaðgerðir séu í gangi við móttöku seiða. Rekstraraðili verði að tilkynna eftirlitsaðila um útsetningu með fyrirvara. Það séu því ekki til staðar þeir hagsmunir sem kærendur haldi fram varðandi frestun réttaráhrifa. Verði að líta til þess við mat á því hvort aðstæður mæli með frestun réttaráhrifa að sýnt sé fram á að án hennar myndi gæta röskunar sem yrði óafturkræf eða hefði með öðrum hætti þungbærar afleiðingar. Það liggi ekki fyrir í þessu máli.

Enn fremur sé í starfsleyfi tilgreindar þær kröfur sem gerðar verði til rekstrarins, m.a. vegna álags á viðtaka með hvíld eldissvæða. Rétt sé að benda á að ef framleiðsla skyldi hefjast að loknu tilkynningarferli þá yrði hún langt undir burðarþoli fjarðarins. Stofnunin leggist því gegn frestun réttaráhrifa á meðan málið sé til vinnslu hjá úrskurðarnefnd, í samræmi við meginreglu stjórnsýsluréttar um að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Ekki hafi verið sýnt fram á ástæður sem leiði til þess að rétt sé að fresta réttaráhrifum ákvörðunar um útgáfu starfsleyfis.

Athugasemdir leyfishafa:
Af hálfu leyfishafa er bent á að ekki séu forsendur til að fallast á kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa og því beri að hafna henni. Í athugasemdum með 5. gr. frumvarps til laga nr. 130/2011 komi fram að sérstaklega sé mikilvægt fyrir úrskurðarnefndina að gæta þess að efnislegar forsendur búi að baki kæru, þ.e. að hún meti hversu líklegt sé að málatilbúnaður breyti efni ákvörðunar. Eins og rakið verði hér á eftir þá sé málatilbúnaður kærenda veikur og öll efnisleg rök skorti fyrir kröfum þeirra.

Við framangreint mat beri að líta til þess að heimild til að stöðva framkvæmdir sé undantekningarregla frá meginreglunni um að kæra fresti ekki réttaráhrifum framkvæmdar. Hana beri því að túlka þröngt og einungis beri að beita henni ef hagsmunir séu skýrir og brýnir. Ekki verði talið að hagsmunir kærenda séu brýnir og sé  jafnframt á því byggt að kærendur eigi ekki lögvarða hagsmuni af þessu máli heldur einungis almenna. Þær breytingar sem  kærendur hafi áhyggjur af gerist á tíma er spanni mörg ár, jafnvel nokkra áratugi. Til dæmis þá þurfi blöndun milli eldis- og villifisks að eiga sér stað á yfir 40 ára tímabili og þurfi blöndun að vera 20% á hverju ári svo hún hafi áhrif á upprunalegan laxastofn í viðkomandi á. Svo að mengun yrði þá þyrfti áralanga uppsöfnun margra kynslóða eldisfisks og ætti slíkt sér stað þá mætti bregðast við með einföldum aðgerðum. Um sé að ræða eldi regnbogasilungs er tímgist ekki í íslenskri náttúru og ekki séu skilyrði fyrir því að laxalús þrífist á Austfjörðum. Hagsmunir kærenda séu því allt annað en brýnir eða skýrir. Jafnframt sé mikilvægt að líta til þess við mat á hagsmunum kærenda að flest þau umhverfisáhrif sem þeir beri fyrir sig séu afturkræf og gangi til baka. Hagsmunirnir séu því ekki til staðar. Jafnframt beri að líta til þess að Umhverfisstofnun geti að framkomnum tilteknum skilyrðum afturkallað leyfi. Áhættan sé því mjög takmörkuð.

Starfsleyfið sé í eðli sínu mengunarleyfi og sé gefið út á grundvelli 7. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Leyfið taki til þátta er varði mengun en ekki til annarra þátta, s.s. erfðamengunar, sjúkdóma og lúsasmits, eins og kærendur vilji halda fram. Það eina sem úrskurðarnefndin geti skoðað við mat á því hvort fresta eða stöðva beri framkvæmdir séu atriði er varði efni leyfisins sem slíks, þ.e. mengunarþætti,  einkum með hliðsjón af lögum nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda og lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Lyti kæran hins vegar að rekstrarleyfi útgefnu af Matvælastofnun þá kæmu aðrir þættir en mengunarþættir til skoðunar, eins og hætta á lúsasmiti og erfðablöndun. Mál þetta einskorðist því eingöngu við mögulega mengunarhættu. Í því sambandi sé rétt að geta þess að fyrir liggi burðarþolsmat fyrir Fáskrúðsfjörð, dags. 14. október 2016, fyrir allt að 15.000 tonna eldi á laxi. Burðarþolsmat segi til um hve mikið megi ala af laxi án þess að það hafi neikvæð áhrif á lífríki vatns. Það að halda því fram að 3.000 tonna eldi hafi áhrif á umhverfið sé fjarstæðukennt þegar það hafi verið staðfest með mælingum Hafrannsóknarstofnunar að óhætt sé að ala 15.000 tonn. Hvorki sé því fyrir hendi hætta fyrir lífríki áa á Austfjörðum né hætta á að saur- og fóðurleifamengun í nágrenni kvíanna eyðileggi orðspor veiðiáa. Þvert á móti sýni rannsóknir í Berufirði, þar sem leyfishafi sé með laxeldi, að fóður- og saurleifar eyðist örfáum vikum eftir að eldi sé hætt, en jafnframt að áhrifin séu algjörlega staðbundin og séu hverfandi þegar komið sé í 50 m fjarlægð frá kvíasvæði, sbr. kafla 6.2. í matsskýrslu fyrir allt að 20.800 tonna eldi á laxi í Beru- og Fáskrúðsfirði, dags. 14. júní 2018. Að halda því fram að stórfelldar fóður- og saurleifar kunni að eyðileggja orðspor veiðiáa standist því ekki skoðun og vísist um það til burðarþols Hafrannsóknarstofnunar og umhverfismats fyrir Beru- og Fáskrúðsfjörð.

Fallist úrskurðarnefndin ekki á að einungis beri að líta til mengunarþátta við mat á því hvort stöðva eða fresti beri framkvæmd samkvæmt starfsleyfi þá sé þess að geta að kærendur byggi á því að villtir laxa- og silungsstofnar séu í hættu vegna lúsafárs, sjúkdómasmits og mengunar frá erlendum og framandi regnbogasilungi. Þessu sé alfarað hafnað sem staðlausum stöfum. Með mengun sé væntanlega verið að vísa til erfðamengunar, en eins og alkunna sé þá tímgist regnabogasilungur ekki í íslenski náttúru og sé því ekki fyrir hendi nein hætta á mengun erfðaefnis. Í annan stað þá hafi verið rekið stórfellt laxeldi á Austfjörðum síðan árið 2005 og aldrei hafi greinst þar laxalús. Fyrir liggi álit yfirsmitsjúkdómadýralæknis Matvælastofnunar þess efnis að útilokað sé að laxalús geti þrifist í eldi á Austfjörðum sökum lágs hitastigs sjávar, en einnig vegna þess að í leysingamánuðum þá fari seltustig sjávar svo niður að lús geti ekki þrifist. Varðandi hættu á sjúkdómasmiti þá sé þess að geta að ekki hafi komið upp sjúkdómar hjá leyfishafa og sé framleiðslan lyfjalaus.

Í áhættumati Hafrannsóknarstofnunar fyrir Austfirði frá 14. júlí 2017 hafi verið metið hvaða hætta myndi vera á erfðamengun milli eldislax og villts lax, en jafnframt hvaða ár myndu vera í hættu. Niðurstaðan hafi verið sú að ala mætti allt að 9.000 tonnum af frjóum eldislaxi í Fáskrúðsfirði en jafnframt hafi niðurstaðan verið sú að eina áin sem kynni mögulega að verða fyrir áhrifum af fiskeldi á Austfjörðum myndi vera Breiðdalsá. Aðrar ár séu samkvæmt þessu ekki í hættu og eigi veiðifélög þeirra  því ekki lögvarða hagsmuni af þessu máli.

Á því sé byggt að hættan sem kærendur haldi fram að skapist við umrædda framkvæmd sé þegar komin fram og hún aukist ekkert eða lítið við framkvæmdina sjálfa. Framgangur framkvæmdar hafi því engin áhrif á þýðingu kæruheimildar. Þegar sé fyrir hendi heimild til að framleiða 8.000 tonn í Berufirði og sé þar stórfellt laxeldi. Þá sé heimild til staðar til að framleiða 6.000 tonn af laxi í Reyðarfirði. Á Austfjörðum hafi í 13 ár verið stundað laxeldi í miklum mæli, m.a. í Mjóafirði. Meira að segja sé það svo að Hafrannsóknarstofnun flokki Fáskrúðfjörð með Reyðarfirði í áhættumati sínu og að eldi í Reyðarfirði sé þannig ígildi eldis í Fáskrúðfirði. Því megi halda fram út frá áhættumatinu að hættan sem mögulega stafi af eldi í Fáskrúðfirði sé þegar fyrir hendi vegna eldis í Reyðarfirði. Umrætt leyfi hafi því engin áhrif og sú hætta sem kærendur tali um sé þegar fyrir hendi og hafi verið svo á annan áratug. Það leyfi sem verið sé að kæra hafi fyrst verið gefið út fyrir 13 árum og sé því ekki meiri hætta nú en hafi verið allan þann tíma. Leyfishafi hafi verið með umfangsmikla starfsemi í Fáskrúðsfirði við undirbúning útsetninga á eldislaxi og því sé ekki rétt það sem fram komi í kæru að engin starfsemi hafi verið í firðinum af hálfu hans.

Leyfishafi sé með á annað hundrað starfsmenn. Leyfishafi hafi sett milljarða í fjárfestingar og sé einn stærsti vinnuveitandinn á Austfjörðum. Félagið hafi lagt mikið fjármagn í undirbúning útsetninga í Fáskrúðsfirði og meðal annars tryggt sér seiði í því skyni að setja þau út í haust. Verði fallist á frestun eða stöðvun framkvæmda muni það hafi verulega neikvæð áhrif á fjárhagslega burði félagsins og muni jafnframt hafa áhrif á nærsamfélagið á Austfjörðum.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi og getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem ekki felur í sér framkvæmdir, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar. Um undantekningu er að ræða frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 segir um 5. gr. að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum. Þó sé  mikilvægt að gætt sé að því að efnislegar forsendur liggi að baki kæru, þ.e. að horft sé til þess hversu líklegt sé að kæra breyti efni ákvörðunar.

Kærendur byggja m.a. á því að afstaða Skipulagsstofnunar til þess hvort umrædd framkvæmd sé háð mati á umhverfisáhrifum liggi ekki fyrir. Árið 2004 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að allt að 3.000 tonna eldi á þorski á ári í Fáskrúðsfirði væri ekki líklegt til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Í kjölfarið var gefið út starfsleyfi. Á árinu 2012 óskaði leyfishafi eftir upplýsingum um það hvort breyting á leyfi sínu úr þorskeldi í regnbogasilungseldi væri tilkynningarskyld framkvæmd samkvæmt þágildandi 13. tl. a. í 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Niðurstaða Skipulagsstofnunar, sem kemur fram í bréfi dags. 20. desember 2012, var sú að í ljósi þess að ekki væri um aukningu á lífmassa að ræða og óveruleg hætta væri talin á því að erfðaefni regnbogasilungs blandaðist villtum fiskistofnum rúmaðist breytingin innan fyrri ákvörðunar og þyrfti því ekki að tilkynna hana til ákvörðunar um matsskyldu samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000. Var gildandi starfsleyfi í kjölfarið breytt þannig að það tæki til eldis á regnbogasilungi og gilti til 1. júlí 2017. Eftir þann tíma var leyfishafa veitt tímabundin undanþága frá starfsleyfisskyldu vegna sama eldis og var hið kærða starfsleyfi veitt áður en hún rann út. Rekur Umhverfisstofnun og í greinargerð sinni að um sé að ræða endurnýjun á starfsleyfi með heimild fyrir sama umfang framleiðslu og sömu staðsetningum og rekstraraðili hafi verið með. Þá liggur fyrir að leyfishafi er með gilt rekstrarleyfi útgefið af Matvælastofnun árið 2013.

Fyrir liggur að engin breyting verður á starfsemi vegna nýs starfsleyfis enda hefur leyfishafi haft sams konar starfsleyfi fyrir fiskeldi á sama stað, þó svo að rekstur sé ekki hafinn. Hætta á að fram komi þau umhverfisáhrif sem kærendur halda fram var því þegar til staðar áður en hið kærða starfsleyfi var veitt þótt fallast megi á að nú sé hún yfirvofandi þar sem leyfishafi hyggur á útsetningu seiða í haust. Af þeim gögnum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni verður hins vegar ekki ráðið að þá þegar fylgi því svo stórfelld og óafturkræf áhrif á umhverfið að kæruheimild verði þýðingarlaus. Eru því ekki forsendur til að beita undantekningarheimild 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 og fresta réttaráhrifum hins kærða starfsleyfis.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 22. júní 2018 um að veita starfsleyfi fyrir 3.000 tonna regnbogasilungseldi í Fáskrúðsfirði.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                           Ásgeir Magnússon

 
 

116/2016 Látrar

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 6. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 116/2016, kæra vegna meintra óleyfisframkvæmda á Látrum í Aðalvík, Ísafjarðarbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. ágúst 2016, er barst nefndinni 2. september s.á., kærir Miðvík ehf., eigandi hluta eyðijarðarinnar Látra í Aðalvík, meintar óleyfisframkvæmdir á Látrum. Er þess óskað að bygging nánar tilgreinds húss verði úrskurðuð óleyfisframkvæmd og að byggingaraðila verði gert að fjarlægja húsið. Til vara er þess krafist að Ísafjarðarbær tryggi að húsið verði fjarlægt innan tilskilins tímafrests og til þrautavara að kærandi fái heimild til að fjarlægja það á kostnað byggingaraðila. Jafnframt er kærð skráning fyrrgreinds húss í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Loks er gerð krafa um að geymsluskúrar sem staðsettir séu í fjörukambinum og reistir hafi verið án tilskilinna leyfa verði fjarlægðir á kostnað eigenda þeirra. Úrskurðarnefndin móttók frekari athugasemdir og skýringar kæranda 2. og 20. febrúar 2017 og 22. maí, 11. júní og 17. júlí 2018.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Ísafjarðarbæ 13. september 2016 og í febrúar, mars og september 2018.

Málavextir: Látrar í Aðalvík teljast hluti af Hornstrandafriðlandi skv. auglýsingu nr. 332/1985 um friðland á Hornströndum. Samkvæmt lið 1 í auglýsingunni er öll mannvirkjagerð, jarðrask og önnur breyting á landi, svo og undan landi allt að 60 föðmum frá stórstraumsfjöruborði, háð leyfi Umhverfisstofnunar. Einnig er í gildi samkomulag frá árinu 2004 milli Ísafjarðarbæjar, Umhverfisstofnunar og Landeigendafélags Sléttu- og Grunnavíkurhrepps um vinnureglur við úthlutun byggingarleyfa í friðlandinu. Í því samkomulagi er tekið fram að nýbyggingar eða breytingar á byggingum í friðlandinu á Hornströndum séu háðar byggingarleyfi og leyfi Umhverfisstofnunar, sbr. framangreinda auglýsingu.

Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar 24. september 2014 var tekið fyrir erindi kæranda, dags. 26. ágúst s.á., um að byggingarfulltrúi hlutaðist til um að hús nr. 03 0101, svonefnt Sjávarhús, á Látrum í Aðalvík yrði fjarlægt, þar sem það hefði verið reist án tilskilinna leyfa. Ákvað nefndin að óska eftir minnisblaði frá bæjarlögmanni vegna málsins og leita umsagnar Umhverfisstofnunar. Jafnframt var meintum byggingaraðila gefið færi á að koma að athugasemdum, sem hann og gerði. Hafnaði hann því að húsið hefði verið byggt án heimilda. Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 3. febrúar 2015, var tilkynnt að framkominni kröfu hans væri hafnað með þeim rökum að langt væri liðið frá byggingu hússins. Þá var tekið fram að það félli ekki undir valdsvið Ísafjarðarbæjar að skera úr um einkaréttarlegan ágreining milli landeigenda og fasteignareiganda.

Ísafjarðarbær tilkynnti jafnframt meintum byggingaraðila hússins um afgreiðslu málsins með bréfi, dagsettu sama dag, eða 3. febrúar 2015. Í því bréfi var enn fremur tekið fram að ljóst væri af fyrirliggjandi gögnum að breytingar og/eða endurbætur hefðu verið gerðar á umræddri fasteign á undanförnum árum, að því er virtist án tilskilinna leyfa, og var óskað nánari skýringa á því. Í svarbréfi, dags. 23. s.m., kom fram að byggingaraðili hússins væri ekki eigandi umræddrar jarðar en hefði fengið leyfi frá eiganda hennar til að reisa húsið á sínum tíma. Endurbætur sem byggingaraðili hefði ráðist í vegna viðhalds hússins væru aðeins minniháttar lagfæringar. Þá hefði viðbyggingu verið skeytt við húsið árið 2012 en byggingaraðili hefði ekki komið að þeirri framkvæmd.

Hinn 11. mars 2015 var á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar tekin fyrir að nýju ósk um niðurrif á húsi nr. 03 0101 á Látrum. Var eftirfarandi m.a. fært til bókar: „Í bréfi […] kemur fram að eigendur upphafslegs húss hafi ekki komið að viðbyggingu hússins, séu ekki eigendur viðbyggingarinnar og hafi ekki frekari upplýsingar um framkvæmdir. Þá er óskað eftir afstöðu Ísafjarðarbæjar til þess hvort málinu teljist lokið hvað eigendur Sjávarhúss varðar. Ekki er unnt að fallast á þessi sjónarmið eigenda Sjávarhússins varðandi viðbyggingu fasteignarinnar. Viðbygging verður að teljast tilheyra þeirri fasteign sem hún er skeytt við, sbr. 2. gr. laga nr. 40/2002, og þannig á ábyrgð eiganda eða eigenda þeirrar fasteignar að lögum. Byggingarfulltrúa er falið að tilkynna eigendum Sjávarhússins þá afstöðu Ísafjarðarbæjar að málinu sé þannig ekki lokið gagnvart þeim. Eigendum fasteignarinnar skal jafnframt tilkynnt, með vísan til 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010, þrátt fyrir framangreinda afstöðu þeirra til málsins, að til greina komi að krefjast þess að óleyfisframkvæmdirnar verði fjarlægðar, og skal þeim gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum og andmælum hvað það varðar.“ Var byggingaraðila tilkynnt um greinda afgreiðslu með bréfi, dags. 13. mars 2015, og honum gefinn fjögurra vikna frestur til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Með bréfi kæranda til byggingarfulltrúa, dags. 15. apríl 2016, voru fyrri athugasemdir um Sjávarhúsið áréttaðar. Jafnframt var bent á að fjölmörg áhaldahús hefðu verið reist í fjörukambinum án tilskilinna leyfa. Var enn skorað á Ísafjarðarbæ að hefja lögformlegt ferli er lyti að því að Sjávarhúsið yrði fjarlægt, sem og áhaldahúsin. Þá áréttaði kærandi fyrri sjónarmið sín með bréfi til sveitarfélagsins, dags. 10. júní s.á., og skoraði enn á ný á sveitarfélagið að sinna málum er vörðuðu Sjávarhúsið. Var erindið tekið fyrir á fundi bæjarráðs 27. júní 2016 og því vísað til skipulags- og mannvirkjanefndar, en erindið mun ekki hafa verið tekið fyrir að nýju hjá sveitarfélaginu.

Á fundi umhverfis- og framkvæmdanefndar annars vegar og skipulags- og mannvirkjanefndar hins vegar 9. júlí 2015 var kallað eftir því að þeir sem gerðu tilkall til smáhýsa í fjörunni að Látrum í Aðalvík gæfu sig fram við Ísafjarðarbæ fyrir 1. september 2015 og gerðu grein fyrir framkvæmdunum. Eftir þann tíma áskildi Ísafjarðarbær sé rétt til aðgerða. Mun auglýsing þessa efnis hafa verið birt í fréttamiðli sama dag. Munu tveir eigendur hafa svarað Ísafjarðarbæ, en ekki verður séð af gögnum málsins hverjar endanlegar lyktir þessa hafi orðið.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að á áttunda áratug síðustu aldar hafi verið hafist handa við að reisa í óleyfi tiltekið hús, Sjávarhúsið, í fjörukambinum á Látrum á landareign annarra í friðlandinu. Hafi húsið verið stækkað á síðustu árum, jafnframt án tilskilinna leyfa. Ekki hafi verið haft samband við landeigendur eða hið opinbera vegna byggingarframkvæmda við húsið og sveitarfélagið hafi aldrei látið málið til sín taka. Kærandi hafi ritað Ísafjarðarbæ fjögur bréf um málið á undanförnum árum, en engin svör fengið. Sé það skýrt brot á 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hafi Ísafjarðarbær ekki sinnt lögbundnu eftirlitshlutverki sínu þrátt fyrir ítrekaðar og formlegar ábendingar þar um. Hafi ásýnd friðlandsins látið verulega á sjá og mikið jarðrask orðið. Látrar séu teknir að fá á sig mynd lítils þorps.

Að auki sé með öllu óheimilt að byggja mannvirki á svæðinu nema til komi sérstakt leyfi Umhverfisstofnunar þar um. Hafi sveitarfélagið sent beiðni um heimild fyrir húsinu til Hornstrandanefndar í október 2014 í stað þess að senda beiðni beint til Umhverfisstofnunar. Sé afgreiðsla Hornstrandanefndar ómarktæk en þrír nefndarmanna hafi ekki uppfyllt skilyrði II. kafla laga nr. 37/1993 um sérstakt hæfi nefndarmanna.

Ísafjarðarbær hafi tekið að skrásetja öll óskráð hús í friðlandi Hornstranda upp úr síðustu aldamótum. Þetta hafi verið gert án samráðs við landeigendur og án vitneskju þeirra og þeim hafi ekki verið gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum. Hafi málið uppgötvast fyrir tilviljun vorið 2016. Um sé að ræða lögleysu frá upphafi til enda. Ekki hafi verið gengið úr skugga um að byggingaraðili áðurgreinds húss ætti þinglýstan eignarrétt að landi að Látrum, en svo sé ekki. Hafi umrætt hús og hús sem sé fast upp við það fengið sama fastanúmer í fasteignaskrá, en um sé að ræða tvö aðskilin hús, hvort á sínum húsgrunni.

Til að smáhýsi séu undanþegin byggingarleyfi samkvæmt ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012 þurfi ákveðin skilyrði að vera fyrir hendi. Meðal annars að 3 m séu á milli húsa og að þau séu ekki ætluð til íveru. Á skorti að skilyrði þessi séu uppfyllt vegna smáhýsa þeirra sem reist hafi verið í fjörukambinum. Samkvæmt auglýsingu nr. 332/1985 um friðland Hornstranda þurfi alltaf leyfi frá Umhverfisstofnun fyrir mannvirkjagerð og ekki sé veitt undantekning vegna smáhýsa. Þá hafi Ísafjarðarbær ekki virt bindandi samkomulag milli Ísafjarðarbæjar, Umhverfisstofnunar og Landeigendafélags Sléttu- og Grunnavíkurhrepps um vinnureglur varðandi afgreiðslu umsókna um byggingarleyfi í friðlandinu.

Aðalvík sé ekki í alfaraleið og sæki hluthafar kæranda staðinn óreglulega þar sem þeir búi á höfuðborgarsvæðinu. Það sé því erfiðleikum bundið að framkvæma reglubundið eftirlit. Sveitarfélagið upplýsi ekki landeigendur um mál sem kunni að vera í gangi, t.d. skráningu á óleyfisframkvæmd. Skráningar á heimasíðu Ísafjarðarbæjar séu ekki gefnar í rauntíma og geti liðið það langur tími að lögbundinn frestur til að senda kæru til úrskurðarnefndarinnar sé liðinn áður en landeigendur geti aðhafst nokkuð. Andmælaréttur sé að engu hafður og sé brotið gegn 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi hafi fyrst fengið vitneskju um viðbyggingu við umrætt hús og skráningu þess hjá þjóðskrá 15. apríl 2016. Ýmislegt hafi valdið því að kæra hafi ekki borist fyrr, svo sem andlát stjórnarformanns félags kæranda og sumarleyfi, og verði að telja það afsakanlegt í skilningi 2. tl. 28. gr. stjórnsýslulaga að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þá verði að telja það veigamikla ástæðu í skilningi umrædds ákvæðis að samkvæmt Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 sé búið að setja kvóta á það hve mikið megi byggja í friðlandi Hornstranda. Skerði allar óleyfisframkvæmdir þannig réttindi landeigenda að miklum mun og feli í sér ígildi eignaupptöku. Loks hafi enginn orðið fyrir auknu tjóni vegna þess að kæra hafi borist úrskurðarnefndinni eftir að einn mánuður hafi verið liðinn frá vitneskju um viðbygginguna.

Málsrök Ísafjarðarbæjar:
Af hálfu Ísafjarðarbæjar hefur ekki verið skilað greinargerð í máli þessu en sveitarfélagið hefur lagt fram gögn er málið varða og veitt skýringar. Tekur sveitarfélagið fram að smáhýsi í fjörukambinum séu undanþegin byggingarleyfi og að Ísafjarðarbær hafi ekki haft aðkomu að lóðarréttindamálum á þessu svæði. Um einkaréttarlegan ágreining aðila sé að ræða sem sé bæjaryfirvöldum óviðkomandi.

——-

Færðar hafa verið fram frekari röksemdir í máli þessu sem ekki verða raktar nánar.

Niðurstaða: Í hnotskurn snýst ágreiningur máls þessa um meintar óleyfisframkvæmdir á Látrum í Aðalvík. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki ber sveitarstjórn ábyrgð á að stjórnsýsla og eftirlit byggingarfulltrúa sé í samræmi við ákvæði laganna og annast byggingarfulltrúi eftirlit með mannvirkjagerð er fellur undir 1. og 2. mgr. 9. gr. sömu laga. Getur byggingarfulltrúi m.a. mælt fyrir um niðurrif óleyfisframkvæmdar í því skyni að bregðast við að gengið sé gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, en einstaklingum er ekki tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða. Er enda einstaklingum tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja einstaklingsbundna hagsmuni sína.

Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra skal samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Berist kæra að liðnum kærufresti ber að vísa henni frá skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skal kæru þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðunin var tilkynnt aðila.

Svo sem áður er rakið í málavaxtalýsingu fór kærandi fór fram á það við byggingarfulltrúa að svonefnt Sjávarhús yrði fjarlægt þar sem fyrir því væru ekki tilskilin leyfi lögum samkvæmt. Hafnaði byggingarfulltrúi þeirri kröfu kæranda og var honum tilkynnt sú niðurstaða með bréfi, dags. 3. febrúar 2015. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 2. september 2016 og með vísan til þessa og 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga kemur því ekki til álita að endurskoða lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa, enda er meira en ár liðið frá því að sú ákvörðun var tilkynnt kæranda. Verður kröfu kæranda þar um því vísað frá nefndinni.

Samkvæmt upplýsingum frá Ísafjarðarbæ hefur erindi kæranda um að fjarlægja beri ólögmæta stækkun Sjávarhússins ekki verið tekið fyrir að nýju. Þá verður ekki séð að fyrir liggi ákvörðun byggingarfulltrúa um hvort fjarlægja skuli áhaldahús í fjörukambinum, en fram hefur komið að byggingarfulltrúi telji mál er þau varðar bæjaryfirvöldum óviðkomandi þar sem um sé að ræða smáhýsi sem ekki séu byggingarleyfisskyld. Sé því um einkaréttarlegan ágreining að ræða. Skýrt er kveðið á um það í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga að ákvörðun sem ekki bindur enda á mál verði ekki kærð fyrr en málið hafi verið til lykta leitt, en af framansögðu virðist svo ekki vera. Verður því að svo komnu máli að líta á þann hluta kærunnar sem kæru á óhæfilegum drætti á afgreiðslu máls, skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, en stjórnvöldum ber að taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er skv. 1. mgr. nefndrar 9. gr. Með vísan til þess hversu langur tími er liðinn frá því að kærandi fór fram á að umrætt Sjávarhús yrði fjarlægt og að ekki verður séð að enn liggi fyrir afgreiðsla byggingarfulltrúa hvað viðbyggingu þess húss varðar verður að telja að afgreiðsla á erindum kæranda sé farin að tefjast umfram það sem við verði unað, þrátt fyrir þær skýringar sveitarfélagsins að eðlilegt hafi þótt að bíða eftir úrskurði um lögmæti hússins. Er og ljóst að þrátt fyrir þær skýringar byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar að hann telji áhaldaskúra þá sem um ræðir vera smáhýsi sem ekki séu byggingarleyfisskyld þá hefur hann ekki svarað erindi kæranda þess efnis að þau verði fjarlægð, með þeim eða öðrum rökum. Er því lagt fyrir  byggingarfulltrúa að taka erindi kæranda frá 15. apríl og 10. júní 2016 til efnislegrar meðferðar án frekari tafa.

Í kæru er einnig gert að umtalsefni skráning mannvirkja að Látrum í fasteignaskrá, sem fram fór hjá Fasteignamati ríkisins á árinu 2000 samkvæmt tilkynningum sveitarfélagsins, sbr. þágildandi lög nr. 94/1976 um skráningu og mat fasteigna. Lögin voru endurútgefin með sama heiti og eru þau nú nr. 6/2001 og fer Þjóðskrá Íslands með yfirstjórn fasteignaskráningar og rekur fasteignaskrá. Bæði eldri og yngri lög gera ráð fyrir að sveitarstjórnir beri ábyrgð á upplýsingagjöf um m.a. mannvirki í umdæmum þeirra og að byggingarfulltrúa sé að jafnaði falið það hlutverk. Enga kæruheimild er að finna til úrskurðarnefndarinnar vegna þessa, en skv. 59. gr. mannvirkjalaga eru stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli þeirra laga kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar. Getur þar m.a. verið um að ræða ákvarðanir byggingarfulltrúa um byggingarleyfi sem eftir atvikum er undanfari skráningar mannvirkis í fasteignaskrá. Slíkar ákvarðanir liggja ekki fyrir í gögnum úrskurðarnefndarinnar, en hafi þær legið fyrir á árinu 2000 er kærufrestur vegna þeirra í öllu falli löngu liðinn. Með hliðsjón af framangreindu eru ekki forsendur fyrir frekari umfjöllun úrskurðarnefndarinnar um þetta atriði en hafi kærendur eitthvað frekar við skráninguna að athuga geta þeir eftir atvikum snúið sér til Þjóðskrár Íslands.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá kröfu kæranda um að hús nr. 03 0101, svonefnt Sjávarhús, á Látrum í Aðalvík skuli fjarlægt.

Lagt er fyrir byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar að taka afstöðu til kröfu kæranda um að viðbygging við umrætt hús að Látrum skuli fjarlægð. Enn fremur er lagt fyrir byggingarfulltrúa að afgreiða erindi kæranda um að áhaldahús í fjörukambinum skuli fjarlægð.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                               Þorsteinn Þorsteinsson

 

68/2017 Skriðufell

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 6. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 68/2017, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá 4. janúar 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna Skriðufells í Þjórsárdal.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. júní 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir félag leigutaka hjólhýsastæða í landi Skriðufells þá ákvörðun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps að samþykkja breytingu á deiliskipulagi í landi Skriðufells. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og úrskurðað verði að umrætt svæði sé frístundabyggð.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. júní 2018, er barst nefndinni sama dag, gerir kærandi jafnframt kröfu um að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi 12. júlí 2017.

Málsatvik: Á fundi sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps 6. maí 2014 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi í landi Skógræktar ríkisins á jörðinni Skriðufelli í Þjórsárdal. Varðaði tillagan frágang og framkvæmdir sem giltu um hjólhýsi á svæðinu. Tillagan var auglýst frá 22. maí til 4. júlí 2014. Frestur til að skila inn athugasemdum var veittur til 4. júlí s.á. og barst ein athugasemd innan frestsins.

Á fundi sveitarstjórnar 13. ágúst 2014 var samþykkt að fresta afgreiðslu málsins og sveitarstjóra falið að afla nánari upplýsinga. Málið var tekið fyrir að nýju á fundi sveitarstjórnar 3. september 2014 og tillagan samþykkt, en Skógrækt ríkisins var gefinn frestur til 1. maí 2015 til úrbóta í öryggismálum, ellegar yrði deiliskipulagsbreytingin felld úr gildi.

Tillagan var send Skipulagsstofnun með bréfi, dags. 10. október 2014, og tilkynnti stofnunin með bréfi, dags. 23. s.m., að hún gerði ekki athugasemd við birtingu deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda þegar 8. gr. skilmála um frágang rotþróa hefði verið uppfærð.

Á fundi skipulagsnefndar 8. desember 2016 var tillagan tekin fyrir að nýju og mælti nefndin með að sveitarstjórn samþykkti að auglýsa breytinguna að nýju. Var það og samþykkt á fundi sveitarstjórnar 4. janúar 2017. Tillagan var auglýst frá 12. janúar til 24. febrúar 2017 og var frestur til að skila inn athugasemdum til 24. febrúar s.á. Engar athugasemdir bárust innan tilgreinds frests og var tillagan send Skipulagsstofnun til yfirferðar. Stofnunin tilkynnti sveitarfélaginu með bréfi, dags. 28. apríl 2017, að hún gerði ekki athugasemdir við birtingu tillögunnar í Stjórnartíðindum. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar var loks birt í B-deild Stjórnartíðinda 23. maí 2017. 

Málsrök kæranda:
Kærandi telur umrætt landsvæði sem leigt sé undir varanlega staðsett hjólhýsi félagsmanna hans vera frístundabyggð í skilningi h-liðar gr. 6.2., sbr. gr. 1.3., í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Öll hjólhýsi á svæðinu séu varanlega staðsett í skilningi laga, þau séu ekki á skráningarnúmerum og við þau hafi verið skeytt varanlegum pöllum og stöku geymslum. Sum hafi verið þar í rúm 30 ár og mikil þróun hafi átt sér stað varðandi öryggismál og aðra þætti sem snúi að því að uppfylla kröfur um öryggis- og umhverfismál. Leigutakar séu ekki skráðir til fastrar búsetu heldur nýti þeir hjólhýsin í 4-6 mánuði á árinu, eftir veðrum.

Hjólhýsi falli undir skilgreiningu 12. tl. 3. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Í athugasemdum um 3. gr. í frumvarpi að þeim lögum sé vikið að hjólhýsabyggðum. Kemur þar fram að standi húsvagnar á lóð fyrir frístundahús en séu ekki samtengdir þeim gildi lög nr. 75/2008 um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundabyggð. 

Ákvörðun sveitarfélagsins að skilgreina svæði, þar sem varanlega staðsett hjólhýsi standi, sem afþreyingar- og ferðamannasvæði fái ekki stoð í þeim lögum og reglum sem gildi um skipulag. Ljóst megi vera að i-liður gr. 6.2. í skipulagsreglugerð eigi við um svæði þar sem fólk komi og fari og dvelji í skemmri tíma hverju sinni, svo sem í skráðum hjólhýsum sem dregin séu af bifreiðum. 

Undanfarin ár hafi leigjendur lóða í hjólhýsabyggðinni óskað eftir meiri aðkomu landeiganda og sveitarfélagsins að öryggismálum, sérstaklega m.t.t. brunahættu, gasnotkunar o.fl. Verkfræðistofa hafi árið 2015 metið brunahættu á svæðinu vegna gróður- og kjarrelda og kærandi hafi margoft fundað með sveitarfélaginu og landeiganda vegna mála er tengist breytingu á skipulagi svæðisins. Hafi komið fram verulega íþyngjandi kröfur af hálfu landeiganda, Skógræktar Íslands, þar sem þess sé m.a. krafist að hjólhýsin verði færð til skoðunar á skoðunarstöð annað hvert ár, þar sem þau þurfi að vera skráð. Þá hafi þess jafnframt verið krafist að leigusamningar verði eingöngu gerðir til eins árs í senn og séu skilmálar landeiganda algerlega á skjön við þau réttindi og skyldur sem lög um frístundabyggð feli landeiganda og umráðamönnum lóða að fara eftir.
 
Hjólhýsi sé skilgreint sem tengitæki og sé notkun þess háð því að vera dregið af öðru ökutæki, sbr. 2. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Svar Samgöngustofu við fyrirspurn kæranda hafi verið að ekki megi nota ökutæki í umferð sem ekki séu á númerum og því þurfi ekki að færa þau til skoðunar. Þetta fái bæði stoð í reglugerð nr. 8/2009 um skoðun ökutækja, og umferðarlögum.

Málsrök Skeiða- og Gnúpverjahrepps:
Af hálfu sveitarstjórnar er kröfu kæranda mótmælt. Sveitarstjórnin telji ekki ástæðu til að draga í efa réttmæti ákvörðunar sinnar um samþykkt breytinga á skilmálum deiliskipulagsins og standi fast við hana. Málsmeðferð hafi að öllu leyti verið í samræmi við lög. 

Athugasemdir umráðanda svæðisins:
Skógrækt ríkisins bendir á að ákveðið hafi verið að grípa til breytinga á fyrirkomulagi útleigu og skipulagi svæðisins vorið 2014 í kjölfar mjög alvarlegra slysa á umræddu hjólhýsasvæði. Breytingarnar hafi verið ákveðnar í samráði við skipulagsyfirvöld, sveitarstjórn, lögreglu og brunavarnir á svæðinu. Fulltrúar félags leigutaka hafi einnig verið á umræddum fundum.

Fulltrúar löggæslu, brunavarna og skipulagsmála hafi talið nauðsynlegt að öll hjólhýsi væru skráð, tryggð og í ástandi til að draga þau af stæðum með litlum fyrirvara ef upp kæmi hættuástand á svæðinu. Mörg hjólhýsanna hafi verið orðin gömul og verið lagfærð á stæðunum, þrátt fyrir að slíkt væri ekki heimilt í eldra deiliskipulagi eða leigusamningi. Talið hafi verið að minnka mætti líkur á slysum með því að koma í veg fyrir að slík hjólhýsi gengju kaupum og sölum á leigustæðum á svæðinu. 

Við gerð breytinga á leigusamningum hafi verið hafðar til hliðsjónar breytingar á lagaumhverfi og reglugerðum varðandi hjólhýsi. Helstu breytingar hafi verið að ekki sé lengur heimilt að selja hjólhýsi á leigustæðum. Leigutími sé áfram eitt ár, líkt og verið hafi um langan tíma. Óheimilt sé að hafa svokallaða „trailera“ á stæðunum, en þeir séu breiðari en hefðbundin hjólhýsi. Þeir sem hafi ætlað að selja hjólhýsi sín eða hætta leigu hafi þurft að fjarlægja þau af stæðunum.

Í kjölfar breytinganna hafi töluvert af gömlum hjólhýsum og trailerum horfið af svæðinu. Breytingin hafi valdið hluta leigjenda óþægindum en markmiðið hafi verið að gera svæðið að öruggari dvalarstað fyrir alla gesti. Úrbætur varðandi flóttaleiðir, merkingar, frásögun o.fl. hafi verið gerðar í kjölfar niðurstöðu verkfræðistofu á mati á brunahættu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá 4. janúar 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna Skriðufells í Þjórsárdal. Er í kæru m.a. gerð sú krafa að úrskurðarnefndin úrskurði að hjólhýsasvæðið að Skriðufelli sé frístundabyggð og varakrafa um að tilteknum skilmálum hins kærða deiliskipulags verði breytt í samræmi við tillögu í kæru. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála starfar samkvæmt lögum nr. 130/2011 og einskorðast valdheimildir hennar lögum samkvæmt við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana verða bornar, en það er ekki á færi nefndarinnar að breyta efni hinnar kærðu skipulagsákvörðunar, líkt og krafa er gerð um.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna, sem annast og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr. nefndra laga, og sætir ákvörðun um aðalskipulag ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 52. gr. skipulagslaga. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst einnig m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, líkt og kveðið er á um í 43. gr. laganna, en það er gert að skilyrði að breytingin rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. Við beitingu skipulagsvalds ber enn fremur að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, m.a. að þróun byggðar og landnotkunar á landinu öllu verði í samræmi við skipulagsáætlanir þar sem m.a. öryggi landsmanna sé haft að leiðarljósi, sbr. a-lið. Sveitarstjórnir eru enn fremur bundnar af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hafa sveitarstjórnir mat um það hvernig deiliskipulagi og breytingum á þeim skuli háttað.

Í gildi er Aðalskipulag Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2004-2016 og er fjallað um hina umdeildu hjólhýsabyggð í kafla 10 – Svæði fyrir frístundabyggð. Kemur þar fram að styr hafi staðið um hjólhýsabyggðina en fyrirkomulag flestra hjólhýsanna uppfylli ekki þau skilyrði sem byggingarreglugerð setji. Deiliskipulag hafi verið unnið fyrir svæðið haustið 2001 og í því settir strangir skilmálar um hjólhýsin. Er og tekið fram að þótt fjallað sé um hjólhýsasvæðið í kafla 10 sé það ekki skilgreint sem svæði fyrir frístundabyggð heldur sett í flokkinn opin svæði til sérstakra nota. Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er því ekki hróflað við landnotkun á svæðinu og fer hún að því leyti ekki gegn aðalskipulagi. Af lestri aðalskipulags er jafnframt ljóst að vilji sveitarfélagsins hafi staðið til þess að skilyrðum laga og reglna vegna hjólhýsabyggðarinnar yrði framfylgt. Er þar vísað til byggingarreglugerðar, þar sem m.a. eru gerðar kröfur um brunavarnir og um ráðstafanir vegna eldhættu, hvort heldur um er að ræða mannvirki eða stöðuleyfisskylda lausafjármuni, s.s. hjólhýsi. 

Deiliskipulag af svæðinu er frá árinu 2001 en breyting sú sem um er deilt gerir ítarlegri kröfur til skráningar og skoðunar hjólhýsa og setur strangari reglur um meðferð elds. Í eldra skipulagi var þegar mælt fyrir um að frágangur skyldi vera með þeim hætti að unnt væri að færa hjólhýsi með tiltölulega einföldum hætti, en með deiliskipulagsbreytingunni var bætt við þeirri skýringu að svo þurfi að vera, t.d. ef eldsvoði brjótist út eða náttúruvá sé yfirvofandi. Hjólhýsi eru skráningarskyld tengitæki skv. 63. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og eru kröfur deiliskipulags um skráningu, tryggingu og skoðun hjólhýsa í samræmi við kröfur laganna og reglugerða settum með stoð í þeim. Miða ákvæði þeirra við að hjólhýsi séu skráð á meðan þau eru í notkun og er notkun utan vega þar ekki sérstaklega undanskilin. Þó hjólhýsin séu höfð á tilgreindu hjólhýsasvæði er svæðið aðeins leigt til eins árs í senn og því ekki hægt að fullyrða að þau séu varanlega staðsett auk þess sem sú krafa er gerð samkvæmt hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu að unnt sé að rýma svæðið auðveldlega í neyðartilfellum. Verður að telja að skráning og skoðun hjólhýsa stuðli að því lögmæta markmiði að svo verði gert í þeim tilgangi að tryggja öryggi manna, en við gerð deiliskipulags skal skv. gr. 5.3.2. í skipulagsreglugerð m.a. gætt að því að unnt sé að framfylgja sérstökum kröfum sem gerðar séu, s.s. um heilsu og öryggi, í öðrum lögum og reglugerðum, en slíkar kröfur koma t.a.m. fram í byggingarreglugerð. Að öllu virtu lágu bæði lögmæt og málefnaleg sjónarmið að baki deiliskipulagsbreytingunni.

Loks var hin kærða deiliskipulagsbreyting kynnt með almennri auglýsingu í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga, afgreidd í skipulagsnefnd að kynningu lokinni og staðfest af sveitarstjórn lögum samkvæmt. Tók hún gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni lögboðinni yfirferð Skipulagsstofnunar. Var þannig farið að lögum við málsmeðferð hinnar kærðu skipulagsákvörðunar.

Af framangreindu er ljóst að hvorki formi né efni hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar var áfátt og verður kröfu kæranda um ógildingu hennar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá 4. janúar 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna Skriðufells í Þjórsárdal.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                  Þorsteinn Þorsteinsson

66/2017 Aðalstræti 12b

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 4. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 66/2017, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Akureyrarbæjar frá 10. maí 2017 um að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi Innbæjarins vegna lóðar nr. 12b við Aðalstræti á Akureyri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. júní 2017, er barst nefndinni 15. s.m., kærir eigandi lóðarinnar nr. 12b við Aðalstræti á Akureyri, þá ákvörðun skipulagsráðs Akureyrar frá 10. maí 2017 að hafna tillögu að breytingu á deiliskipulagi Innbæjarins vegna lóðar nr. 12b við Aðalstræti. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.  

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akureyrarbæ 5. júlí 2017.

Málavextir:  Mál þetta á sér forsögu allt aftur til ársins 2007, en frá þeim tíma hefur kærandi sóst eftir heimildum til að byggja fjögurra íbúða hús á lóð sinni nr. 12b við Aðalstræti. Óskaði hann m.a. eftir að gert yrði nýtt deiliskipulag að svæðinu þar sem lóð hans er staðsett, en með úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá árinu 2010 var synjun skipulagsnefndar Akureyrarbæjar á þeirri beiðni felld úr gildi. Kærandi fór í kjölfar úrskurðarins fram á endurupptöku málsins en skipulagsyfirvöld vísuðu erindinu til frekari meðferðar samhliða yfirstandandi vinnu við deiliskipulag svæðisins.

Deiliskipulag Innbæjarins var samþykkt í bæjarstjórn Akureyrar 18. september 2012 og tók það gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 30. október s.á. Í skipulaginu kemur m.a. fram að byggingarreitur á lóð kæranda sé 9×13 m og að húsið megi vera tvær hæðir og rishæð, auk kjallara undir austari helmingi gólfflatar. Í húsinu geti verið allt að tvær íbúðir. Bílastæði á lóð séu tvö, þakhæð megi mest vera 8,5 m yfir gólfkóta aðalhæðar og hámarksnýtingarhlutfall lóðar 0,25.

Á fundi með bæjarfulltrúa 11. október 2012 óskaði kærandi eftir leyfi til að byggja hús af stærðinni 10×14 m. Þá óskaði hann eftir því að yfirlýsing frá íbúum Aðalstrætis 9 yrði tekin til greina, en í henni kæmi fram að hann fengi svæði sunnan lóðar nr. 9 undir bílastæði. Skipulagsnefnd bókaði á fundi 14. nóvember 2012 að umrædd yfirlýsing væri fallin úr gildi samkvæmt kaupsamningi þinglýstum 11. maí 2011 og því væri erindinu um breytingu á deiliskipulagi hafnað.

Kærandi sótti um byggingarleyfi fyrir fjögurra íbúða húsi 13. janúar 2014. Skipulagsnefnd hafnaði erindinu á fundi sínum 11. júní 2014. Ekki væri ástæða til að gera breytingar á gildandi deiliskipulagi svæðisins þar sem þegar væri til staðar heimild til uppbyggingar á lóðinni. Að öðru leyti vísaði nefndin til fyrri svara.

Beiðni kæranda um endurupptöku, dags. 30. júní 2014, var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar 20. ágúst s.á. Féllst nefndin á að grenndarkynna beiðnina, en í henni var farið fram á að heimilað yrði að byggja fjölbýlishús með fjórum íbúðum, en byggingarreiturinn yrði óbreyttur. Óskaði nefndin eftir viðeigandi gögnum er sýndu drög að tillögu húss og þess að drögin yrðu jafnframt send Minjastofnun Íslands til umsagnar. Grenndarkynning fór fram frá 19. janúar til 16. febrúar 2015.

Að lokinni grenndarkynningu tók skipulagsnefnd erindið fyrir að nýju á fundi sínum 25. febrúar 2015. Kom fram að fimm athugasemdir hefðu borist og í öllum tilvikum hefði áformunum verið harðlega mótmælt, m.a. sökum plássleysis og bílastæðamála. Tók skipulagsnefnd undir athugasemdir íbúa varðandi aukna umferð með tilkomu fjölgunar íbúða á lóðinni og áhyggjur vegna bílastæðaþarfa hússins, þar sem eingöngu væri unnt að koma fyrir tveimur bílastæðum á lóðinni. Stærð fyrirhugaðra íbúða krefðist a.m.k. fjögurra bílastæða innan lóðarinnar, sbr. gr. 5.2.1. í greinargerð Aðalskipulags Akureyrar 2005-2018. Hafnaði nefndin því erindinu.

Kærandi fór fram á endurupptöku málsins 25. mars 2015, en skipulagsnefnd vísaði erindinu til bæjarráðs á fundi 26. s.m., samkvæmt 54. gr. bæjarmálasamþykktar Akureyrar. Á fundi sínum 9. apríl s.á. vísaði bæjarráð erindinu til skipulagsnefndar til endurupptöku og á fundi 29. s.m. heimilaði nefndin umsækjanda að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi. Breytingin skyldi unnin í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Ný umsókn kæranda um byggingarleyfi barst skipulagsstjóra 28. ágúst 2015 og var óskað leyfis til að byggja fjögurra íbúða hús. Skipulagsstjóri svaraði kæranda og benti á að honum hefði verið heimilað að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi, sem stæði enn. Hinn 5. janúar 2017 barst deiliskipulagsuppdráttur og samþykkti skipulagsráð, áður skipulagsnefnd, á fundi 11. janúar 2017 að grenndarkynna erindið þegar lagfærð tillaga hefði borist. Var tillagan grenndarkynnt 10. mars til 13. apríl 2017 og bárust þrjár athugasemdir ásamt undirskriftalista. Var málið tekið fyrir á ný á fundi skipulagsráðs 26. apríl 2017, þar sem ráðið frestaði erindinu og fól sviðsstjóra skipulagssviðs að koma með tillögur að svörum við athugasemdum, auk þess að skoða fornleifar á lóðinni.

Skipulagsráð tók tillögu kæranda að breytingu á deiliskipulagi enn fyrir á fundi 10. maí 2017 og bókaði svör við þeim athugasemdum sem bárust. Tók ráðið m.a. undir áhyggjur íbúa vegna þrengsla í götunni og taldi rétt að gera kröfu um að bílastæði fyrir húsið væru staðsett innan lóðarinnar. Þá vakti sviðsstjóri athygli á því að veggur á lóðinni, sem tilheyrði Hótel Akureyri, væri eldri en 100 ára og teldist samkvæmt því til fornleifa og því þyrfti að leita umsagnar minjavarðar um hann. Ráðið tók undir framkomnar athugasemdir og hafnaði því að veita heimild til að byggja fjórar íbúðir á lóðinni. Var kæranda tilkynnt um lyktir málsins með bréfi, dags. 15. maí 2017. Er það sú ákvörðun sem kærð er til úrskurðarnefndarinnar, svo sem áður greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi krefst þess að ákvörðun skipulagsráðs verði felld úr gildi. Skipulagsráð sé ekki bundið við þær athugasemdir sem borist hafi vegna grenndarkynningar. Athugasemdirnar séu ekki á rökum reistar. Fólk sé að gefa sér að fjórum litlum íbúðum fylgi meira álag á bílastæði en ef um tvær stórar íbúðir væri að ræða. Stórar íbúðir ættu að hafa fjögur bílastæði en í gildandi deiliskipulagi séu tvær stórar íbúðir leyfðar á umræddri lóð og þeim fylgi tvö stæði innan lóðar. Það þýði að í deiliskipulaginu felist 50% afsláttur af bílastæðakröfu. Fjórum litlum íbúðum ætti að fylgja fjögur stæði en þau yrðu tvö og því sé kröfunni fullnægt miðað við 50% kröfu. Því hafi breyting á tveimur íbúðum í fjórar ekki áhrif á bílastæðakröfu. Þá sé ekki krafa um að öll fjögur stæðin séu innan lóðar. Ekki sé óeðlilegt að heimilt sé að leggja bílum meðfram kantsteini, líkt og aðrir geri í umræddri götu.

Líta beri til fjárhagslegra hagsmuna kæranda af því að fá leyfi til að byggja fjórar íbúðir í stað tveggja. Skortur sé á minni íbúðum á Akureyri og því myndi það koma sér vel fyrir bæjarfélagið. Þá hafi kærandi kostað til teikningar og fleira vegna tillögu sinnar og sá kostnaður hafi verið til einskis verði ekki fallist á beiðni hans.

Málsrök Akureyrarbæjar:
Bæjaryfirvöld telja sig vera í fullum rétti til að hafna skipulagstillögunni eftir að hafa tekið tillit til framkominna athugasemda. Þau séu ekki bundin af athugasemdunum heldur skuli taka afstöðu til þeirra og þeirra áhrifa sem þær hafi á afgreiðslu skipulagsins. Verið sé að gæta hagsmuna nágranna.

Fullyrðingar kæranda um að fjórum íbúðum fylgi ekki fleiri bílar þar sem einstaklingar, ung pör eða eldra fólk komi til með að búa í þeim, séu byggðar á getgátum. Geti 80 m2 íbúðir samkvæmt gildandi deiliskipulagi vart talist stórar. Frekar séu þær meðalstórar. Ekki verði séð að nokkur rök séu fyrir að slíkum íbúðum fylgi fleiri bílar en 40-50 m2 íbúðum.

Gildandi deiliskipulag geri ráð fyrir tveimur bílastæðum á íbúð og þar sem kærandi tali um afslátt af bílastæðakröfu sé væntanlega átt við að tvö bílastæði hefðu verið utan lóðar. Skipulagsráð hafi í sjálfu sér ekki tekið afstöðu til kröfu gildandi deiliskipulags um fjölda bílastæða á hverja íbúð, heldur hafi það tekið undir áhyggjur íbúa af aukinni umferð og auknum fjölda bíla sem fylgi fjórum íbúðum. Ef sótt yrði um afslátt af bílastæðakröfu fyrir tvær íbúðir yrði tekin afstaða til þess þegar sú umsókn bærist.

Umrædd lóð leyfi vart meira en tvö stæði, miðað við breidd lóðar og breidd fyrirhugaðrar byggingar. Ekki verði fullyrt um hvort það myndi draga úr vandamálum vegna umferðar og bílastæðamála þótt Aðalstræti yrði einstefnugata. Upplýst sé að breidd götunnar sé 4-6 m á svæðinu sem um ræði.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar skipulagsráðs Akureyrarbæjar frá 10. maí 2017 að synja umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi Innbæjarins vegna lóðar hans nr. 12b við Aðalstræti.

Sveitarstjórnir fara með skipulagsvald samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 og annast þær og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags skv. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. laganna. Er heimild til framsals þess valds undantekning frá þeirri meginreglu og er slíka undantekningu að finna í 2. mgr. 6. gr. greindra laga, þar sem kveðið er á um sérstaka heimild fyrir sveitarstjórnir til að framselja vald sitt samkvæmt skipulagslögum, sbr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Ákvæði 1. mgr. nefndrar 42. gr. sveitarstjórnarlaga felur í sér almenna heimild til valdframsals innan sveitarfélaga og er þar tekið fram að sveitarstjórn geti ákveðið í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að fela fastanefnd fullnaðarafgreiðslu einstakra mála að frekari skilyrðum uppfylltum, en samþykkt um stjórn sveitarfélagsins nefnist sú samþykkt sem sveitarstjórnir gera um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins og um meðferð þeirra málefna sem sveitarfélagið annast, sbr. 1. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga. Af framangreindu er ljóst að um valdframsal þarf að kveða á um í slíkri samþykkt. Segir og m.a. um nefnda 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga, í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að þeim lögum, að í slíkum samþykktum verði að kveða skýrt á um hvað felist í fullnaðarafgreiðslu mála hjá skipulagsnefnd. Þykir því einnig ljóst að í samþykkt um stjórn sveitarfélags þurfi að koma fram efnislegt valdframsal. Nægir í því sambandi ekki að endurtaka í samþykktinni orðalag lagaheimildarinnar til valdframsals heldur verður að koma skýrt fram í samþykktinni sjálfri hvert það vald er sem framselt er og hverjum.

Samþykkt um stjórn og fundarsköp Akureyrarkaupstaðar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 5. febrúar 2013 með auglýsingu nr. 99/2013. Í 36. gr. samþykktarinnar segir að kjörnum nefndum skv. 47. gr. sé heimilt að afgreiða mál á verksviði þeirra án staðfestingar bæjarstjórnar á grundvelli erindisbréfs skv. 10. tl. 5. gr. Er sett sem skilyrði að lög eða eðli máls mæli ekki sérstaklega gegn því, málið varði ekki fjárhag sveitarfélagsins umfram það sem ákveðið sé í fjárhagsáætlun og að ekki sé vikið frá stefnu bæjarstjórnar í veigamiklum málum. Eiga nefnd skilyrði sér að mestu samsvörun í 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga, en í samþykktinni er ekki rakið frekar hvaða vald er framselt heldur gert ráð fyrir að það komi fram í erindisbréfum.

Samþykkt um skipulagsnefnd var samþykkt af bæjarstjórn Akureyrarbæjar 5. apríl 2011. Í 1. mgr. 4. gr. þeirrar samþykktar segir að skipulagsnefnd sé heimilt að afgreiða án staðfestingar bæjarstjórnar mál á verksviði hennar ef lög eða eðli máls mæla ekki sérstaklega gegn því, þau varði ekki fjárhag sveitarfélagsins umfram það sem kveðið er á um í starfs- og fjárhagsáætlun, og þau víkja ekki frá stefnu bæjarstjórnar í veigamiklum málum. Í 2. mgr. 4. gr. samþykktarinnar segir enn fremur að hún afgreiði, í samræmi við 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, m.a. deiliskipulagsáætlanir sem engar athugasemdir hafi verið gerðar við á athugasemdatíma og breytingar á deiliskipulagi, sbr. 43. og 44. gr. skipulagslaga, sem engar athugasemdir hafi verið gerðar við á athugasemdatíma. Efni valdframsals bæjarstjórnar til skipulagsráðs, m.a. til afgreiðslu deiliskipulags og breytinga á því, kemur því fram í greindri samþykkt um skipulagsnefnd frá 5. apríl 2011. Efnislegt valdframsal kemur hins vegar ekki fram í samþykkt sveitarfélagsins um stjórn þess, svo sem sveitarstjórnarlög áskilja.

Brast skipulagsráð því vald til að synja umþrættri deiliskipulagsbreytingu og verður að líta svo á að í synjuninni hafi falist tillaga til bæjarstjórnar um afgreiðslu, sbr. 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga. Hefur samkvæmt framangreindu ekki verið tekin lokaákvörðun í málinu. Af því verður kærandi þó ekki látinn bera halla og verður að svo komnu að líta svo á að kærður sé óhæfilegur dráttur á afgreiðslu máls skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Svo sem fram hefur komið sótti kærandi um breytingu á deiliskipulagi og hefur málsmeðferð þeirrar umsóknar ekki verið lokið af hálfu þar til bærs stjórnvalds. Hefur afgreiðsla hennar nú dregist úr hófi. Er því lagt fyrir bæjarstjórn Akureyrar að taka erindið til efnislegrar meðferðar án frekari tafa.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir bæjarstjórn Akureyrar að taka umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi Innbæjarins til efnislegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

_______________________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                              Ásgeir Magnússon

76/2017 Unnarbraut

Með

Árið 2018, föstudaginn 31. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekin endurupptaka máls nr. 76/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans á Seltjarnarnesi frá 3. júlí 2017 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir þegar gerðum breytingum við Unnarbraut 32 ásamt drenlögnum undir kjallaragólfi og breyttri notkun kjallarans í geymslurými.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. desember 2017, er barst nefndinni sama dag, fóru kærendur í máli 76/2017 fram á endurupptöku málsins, en úrskurður í því var kveðinn upp 28. september s.á.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. júlí 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Unnarbraut 32, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans á Seltjarnarnesi frá 3. júlí 2017 að samþykkja byggingarleyfi fyrir þegar gerðum breytingum við Unnarbraut 32 ásamt drenlögnum undir kjallaragólfi og breyttri notkun kjallarans í geymslurými. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Með bréfi, dags. 2. ágúst s.á., er barst nefndinni 3. s.m. sendu Anton Holt og Gillian Holt, Unnarbraut 32, Seltjarnarnesi, erindi til úrskurðarnefndarinnar sem líta verður á sem staðfestingu þeirra á að þau standi einnig að kærunni.

Gögn málsins bárust frá Seltjarnarnesbæ 17. júlí og 1. september 2017.

Málavextir: Síðsumars 2014 mun byggingarfulltrúi Seltjarnarness hafa stöðvað framkvæmdir í kjallara að Unnarbraut 32. Framkvæmdirnar voru á vegum eiganda neðri hæðar hússins sem beindi fyrirspurn, dags. 25. október 2014, til byggingarfulltrúa um breytingar á kjallaranum. Því var nánar lýst í hverju breytingarnar væru fólgnar, en samþykki meðeigenda fylgdi ekki. Með umsókn, dags. 17. ágúst 2015, sem móttekin var 18. september s.á., var sótt um byggingarleyfi vegna endurbóta á ósamþykktu kjallararými hússins. Var ástæðan sögð sú að fundist hefði raki í rýminu sem til stæði að lagfæra auk þess sem endurgera þyrfti og bæta áður gerðar breytingar á kjallaranum. Var tekið fram að ítrekað hefði verið óskað eftir samþykki meðeigenda, en án árangurs.

Fóru aðrir sameigendur í húsinu þá fram á það við byggingarfulltrúa að hlutast yrði til um að kjallaranum yrði komið í upprunalegt horf. Með bréfi, dags. 1. júlí 2016, kærðu sameigendurnir drátt á afgreiðslu þess erindis til úrskurðarnefndarinnar. Var kveðinn upp úrskurður 2. september s.á. í kærumáli nr. 76/2016 þar sem lagt var fyrir byggingarfulltrúa að taka það erindi til efnislegrar afgreiðslu.

Hinn 4. maí 2017 sótti eigandi neðri hæðar og kjallara Unnarbrautar 32 um byggingarleyfi fyrir þegar gerðum breytingum, þ.e. hringstiga milli fyrstu hæðar og kjallara, og að óráðstafað rými í kjallara yrði samþykkt sem geymsla. Einnig var sótt um leyfi til að leggja drenlagnir undir kjallaragólf með sjálfrennsli út í götulögn. Leyfi var gefið út 3. júlí s.á. og var það kært til úrskurðarnefndarinnar, eins og áður greinir. Úrskurður var kveðinn upp 28. september 2017 og var byggingarleyfið fellt úr gildi að hluta með svohljóðandi úrskurðarorði: „Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans á Seltjarnarnesi frá 3. júlí 2017 um að veita byggingarleyfi fyrir Unnarbraut 32 að því er varðar breytta notkun kjallararýmis og þegar gerðan hringstiga.“

Með bréfi, dags. 28. desember 2017, fóru kærendur fram á endurupptöku málsins, þar sem láðst hefði að láta fylgja með gögnum málsins minnisblað unnið af tæknifræðingi að beiðni kærenda sem varðaði framkvæmdir í kjallara hússins og regnvatnslagnir.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er á það bent að yfirvofandi framkvæmdir muni leiða til verulegs ónæðis og rasks á lóðinni. Ljóst sé að lóðin verði ekki söm í mörg ár, verði af framkvæmdunum. Lóðin sé í sameign og önnur jafn góð lausn sé til staðar, þ.e. að útbúa dælubrunn innan umrædds rýmis. Augljóst sé að ekki megi gefa út byggingarleyfi vegna framkvæmda á lóð í sameign sé önnur lausn tæk. Byggingarleyfið sé ógilt þar sem það sé ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag, en ekki sé gert ráð fyrir kjallaranum í skipulaginu.

Byggingarleyfið geri ráð fyrir aukinni salarhæð frá því sem verið hafi fyrir óleyfisframkvæmdirnar. Standist byggingarleyfið sé ljóst að leyfishafi hagnist á kostnað kærenda en fyrir liggi að byggingarfulltrúi hefði aldrei samþykkt framkvæmdirnar án samþykkis þeirra. Byggingarleyfið verði að mæla fyrir um sömu salarhæð og fyrir hafi verið áður en óleyfisframkvæmdir hafi hafist. Þá mæli teikningar hússins frá 1979 ekki fyrir um salarhæð umrædds rýmis. Salarhæðin 2,4 m, sem sé reyndar hvergi í kjallaranum, eigi einungis við um samþykkt rými í sameign og geymslur. Umrætt rými hafi aldrei verið ætlað til notkunar og því hafi engin salarhæð verið teiknuð fyrir þann hluta. Upphaflega hafi teikningin gert ráð fyrir því að rýmið yrði fyllt með möl en engu að síður sé salarhæðin 2,4 m. Þannig sé ljóst að sú hæð eigi ekki við um umrætt rými. Við byggingu hússins hafi verið ákveðið að spara möl og setja frekar súlur í rýmið, en aldrei hafi staðið til að það yrði tekið í notkun. Jafnvel þótt upphafleg teikning hafi gert ráð fyrir salarhæðinni 2,4 m sé ljóst að það náðist aldrei. Samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga hafi því borið að skila inn reyndarteikningum og hefði byggingarfulltrúi átt að kalla eftir þeim við lokaúttekt hússins. Þar hefði komið fram salarhæð í samræmi við það sem áður hafi verið fyrir óleyfisframkvæmdir.

Þá bendi kærendur á að svo virðist sem leyfilegt byggingarmagn fyrir Unnarbraut 32 árið 1979 hafi ekki gert ráð fyrir kjallara í rýminu. Þá sé nýtingarréttur lóðarinnar í sameign allra og því ekki rétt að eigandi fyrstu hæðar nýti þann rétt umfram aðra sameigendur.

Loks sé vakin athygli á því að súlur í kjallararýminu hafi verið mjókkaðar og átt við burðarvirki í kjallara. Engir útreikningar á burðarþoli liggi fyrir þótt byggingarfulltrúi hafi réttilega gert það að skilyrði í tillögu sinni að verkáætlun. Þá sé gerð athugasemd við staðsetningu glugga í kjallararými á teikningu.

Í beiðni um endurupptöku er vísað til þess að kærendur hefðu gleymt því að senda mikilvæg gögn í málinu til úrskurðarnefndarinnar, m.a. skýrslu sem unnin hafi verið á vegum kærenda. Eigi sú skýrsla að sýna fram á að heimilaðar framkvæmdir vegna drenlagna séu óþarfar.
Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Bæjaryfirvöld vísa til þess að á grundvelli þeirra samskipta sem hafi átt sér stað og teikninga á vegum eiganda neðri hæðar hafi byggingarfulltrúi ákveðið að veita byggingarleyfi, enda hafi þær teikningar sýnt lausnir á öllum þeim skemmdum sem byggingin hafi orðið fyrir. Hvað varði plötuhæð kjallaragólfs beri leyfishafa að halda sig við samþykktar teikningar frá byggingu hússins árið 1979. Á þeim teikningum sé hæð gólfplötu í kjallara 2,4 m frá brún efri plötu í húsinu.

Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að gögn kærenda breyti engu í málinu og sjái það ekki ástæðu til að tjá sig frekar um endurupptökubeiðni þeirra.

Athugasemdir leyfishafa:
Leyfishafi tekur fram að hið kærða byggingarleyfi hafi verið gefið út 3. júlí 2017 í samræmi við framlögð hönnunargögn og erindi, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Meðal annars hafi verið óskað eftir byggingarleyfi fyrir þegar gerðum framkvæmdum, hringstiga milli fyrstu hæðar og kjallara og að óútgrafið rými í kjallara yrði samþykkt. Eins og í leyfinu komi fram, sé gert ráð fyrir að rýmið verði nýtt sem geymsla og verði engar aðrar breytingar gerðar á núverandi útliti hússins eða innra skipulagi. Til að fyrirbyggja raka við gólf í kjallara hafi verið gert ráð fyrir að undir gólfplötu yrði þjöppuð möl og rakavarnarlag og þétt við útveggi. Drenlögn með drenmöl yrði lögð undir endanlegt gólf með sjálfrennsli út í götulögn. Framangreindar framkvæmdir hafi ekki í för með sér breytingar á fyrirkomulagi séreignar annarra eigenda sameignar eða breytingar á hlutfallstölum og því sé ekki þörf á breytingu á eignaskiptayfirlýsingu í kjölfarið. Um nauðsynlegar framkvæmdir sé að ræða í skilningi 1. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 38. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús og muni þær í engu raska hagsmunum annarra eigenda, sbr. og til hliðsjónar 2. mgr. 27. gr. laganna, en fasteignin hafi undanfarið legið undir skemmdum.

Það sé áréttað að í upphafi hafi verið ráðist í nauðsynlegar framkvæmdir við fasteignina vegna rakaskemmda. Hugleiðingum kærenda um að rakaskemmdirnar séu afleiðing af framkvæmdunum sé með öllu hafnað. Á þeim tíma er framkvæmdir hafi byrjað hafi leyfishafi talið að um þær ríkti góð sátt við aðra eigendur fasteignarinnar. Það sé samdóma álit sérfræðinga og byggingarfulltrúa að nauðsynlegt sé að gera ráð fyrir dælubrunni fyrir utan húsið sem tengist inn á lögn í götunni, sbr. 2. mgr. 38. gr. laga um fjöleignarhús. Það sé einnig samdóma álit þeirra sem komið hafi að máli þessu að þær framkvæmdir sem heimilaðar hafi verið með byggingarleyfi, dags. 3. júlí 2017, séu til hagsbóta fyrir alla aðila og farsæl lausn á ágreiningi þeirra.

Endurupptökubeiðni kærenda sé vanreifuð og beri af þeim sökum að vísa henni frá á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í nefndu ákvæði sé mælt fyrir um að eftir að stjórnvald hafi tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt aðilum eigi aðili rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin. Til að stjórnvald geti tekið efnislega afstöðu til þess hvort að áskilnaði 24. gr. stjórnsýslulaga sé fullnægt þurfi að rökstyðja sérstaklega í endurupptökubeiðni hvaða upplýsingar um málsatvik hafi reynst ófullnægjandi, sbr. 1. tl. 24. gr. laganna, eða hvaða atvik hafi breyst verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin, sbr. 2. tl. ákvæðisins. Enga umfjöllun sé að finna í endurupptökubeiðni um þessi atriði. Þar komi einungis fram til rökstuðnings því að fallast beri á endurupptökubeiðnina að kærendur hafi gleymt því að afhenda skýrslu sérfræðings á þeirra vegum. Samkvæmt framansögðu takmarkast endurupptökubeiðni sóknaraðila einungis við það að gleymst hafi að senda gögn til nefndarinnar á sínum tíma. Þannig sé ekki á því byggt að upplýsingar um málsatvik hafi reynst ófullnægjandi, sbr. 1. tl. 24. gr. stjórnsýslulaga eða að málsatvik hafi breyst verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin, sbr. 2. tl. 24. gr. Þá byggi leyfishafi á því að mistök sóknaraðila leiði ekki ein og sér til þess að fallast beri á endurupptökubeiðni þeirra á grundvelli nefndrar lagagreinar.

Niðurstaða: Kærendur hafa farið fram á endurupptöku málsins og í ljósi rannsóknar- og leiðbeiningarskyldu úrskurðarnefndarinnar verður þeirri beiðni ekki vísað frá sökum vanreifunar. Við nánari athugun úrskurðarnefndarinnar á gögnum málsins kom í ljós að niðurstaða nefndarinnar í úrskurði hennar var ekki í fullu samræmi við þau gögn hvað varðaði glugga á kjallara Unnarbrautar 32. Í ljósi þessa fellst úrskurðarnefndin á beiðni kærenda um endurupptöku.

Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarness frá 3. júlí 2017 að samþykkja byggingarleyfi fyrir þegar gerðum breytingum við Unnarbraut 32, ásamt drenlögnum undir kjallaragólfi með sjálfrennsli út í götulögn og breyttri notkun kjallarans í geymslurými, en hann var áður skráður sem óráðstafað rými.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skulu nauðsynleg gögn fylgja umsókn um byggingarleyfi, þ.m.t. samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga um fjöleignarhús. Í máli þessu, sem á sér nokkurra ára forsögu, liggur fyrir að sameigendur í húsinu hafa ekki getað komið sér saman um umræddar framkvæmdir og lá slíkt samþykki því ekki fyrir. Í 1. mgr. 38. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús kemur fram að eiganda sé rétt að láta framkvæma nauðsynlegar viðgerðir á sameign á kostnað allra ef hún eða séreignarhlutar liggja undir skemmdum vegna vanrækslu á viðhaldi og húsfélagið eða aðrir eigendur hafa ekki, þrátt fyrir tilmæli og áskoranir, fengist til samvinnu og til að hefjast handa í því efni. Í 2. mgr. sömu greinar er tekið fram að áður en framkvæmdir hefjist skuli viðkomandi eigandi jafnan afla sönnunar á nauðsyn viðgerðarinnar, umfangi hennar og kostnaði við hana.

Í greinargerð skoðunarmanns sem unnin var vegna Unnarbrautar 32, dags. 20. mars 2016, kemur fram að samkvæmt upplýsingum byggingarfulltrúa sé ekki að finna teikningar sem sýni jarðvegslagnir í eða við húsið. Þá liggi fyrir að bleyta safnist fyrir í jarðvegi undir kjallararýminu, enda engin jarðvatnslögn þar til staðar. Sé það álit skoðunarmannsins að nauðsynlegt sé að koma fyrir jarðvatnslögnum í eða við húsið. Lagðar eru til tvær leiðir í greinargerðinni, annars vegar að leggja grunnlagnir meðfram húsinu að utanverðu eða hins vegar að leggja jarðvatnslagnir undir væntanlega botnplötu. Telji skoðunarmaðurinn augljóst að velja seinni kostinn. Með þeirri aðgerð ætti að vera hægt að tryggja að ekki fari vatn inn í kjallarann, en hin leiðin væri mun dýrari. Ef sú leið ætti að vera fær þyrfti að fara í umtalsverða jarðvinnu meðfram húsinu með tilheyrandi kostnaði. Kom einnig fram að gera ætti ráð fyrir dælubrunni utan við húsið, þ.e. í bílastæði að suðvestanverðu. Brunnur sem staðsettur væri þar hefði engin truflandi áhrif á íbúa hússins. Þá ætti að láta kanna hvort hægt sé að komast hjá því að vera með dælubrunn og tengja frárennsli regnvatns beint inn á lögnina í götunni. Í málinu liggur nú fyrir annað minnisblað tæknifræðings, dags. 15. desember 2016. Kemur þar fram að mat þess skoðunarmanns sé að hægt væri að koma fyrir dælubrunni undir botnplötu og leiða þrýstileiðslu í frárennsliskerfi hússins sem sé til staðar í kjallaranum. Taldi hann óþarft að setja dælubrunn utanhúss, þar sem um væri að ræða kjallara sem notaður væri sem geymslurými. Samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi er gert ráð fyrir drenlögnum með sjálfrennsli í götulögn en ekki dælubrunni. Með vísan til framangreinds verður að telja að byggingarfulltrúa hafi verið rétt að heimila hinar umdeildu framkvæmdir við drenlögn svo sem hann gerði.

Á svæðinu gildir deiliskipulag Bakkahverfis sem samþykkt var í bæjarstjórn Seltjarnarneskaupstaðar 10. nóvember 2010 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember s.á. Samkvæmt skipulagsuppdrætti og skilmálum deiliskipulagsins er umrætt hús að Unnarbraut 32 einnar hæðar með risi. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi er því ekki gert ráð fyrir að í húsinu sé kjallari þótt fyrir liggi að þar sé óuppfyllt rými ásamt geymslum sem á sínum tíma voru heimilaðar með veitingu byggingarleyfis 9. maí 1979. Í deiliskipulaginu er tekið fram að með því sé staðfest á formlegan hátt byggðamynstur hverfisins, þ.e. stærðir húsa, yfirbragð og nýtingarhlutfall lóða. Einnig verði lóðarhöfum gefinn möguleiki á eðlilegri endurnýjun og endurbótum á byggingum í samræmi við heilsteypt yfirbragð hverfisins. Sérskilmálar eru tilgreindir um einstakar lóðir í þessum tilgangi, en Unnarbraut 32 er ekki þar á meðal. Sá hluti hins samþykkta byggingarleyfis er varðar breytta notkun kjallararýmis og þegar gerðan hringstiga er því ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag. Sama á við þann hluta leyfisins sem varðar glugga í kjallara hússins. Á aðaluppdráttum hins kærða byggingarleyfis eru gluggarnir sýndir bæði fleiri og stærri en gert var ráð fyrir í upprunalegum aðaluppdráttum. Þá liggur fyrir að samþykki kærenda lá ekki fyrir vegna þeirrar breytingar.

Að fenginni þeirri niðurstöðu uppfyllir hið kærða byggingarleyfi ekki áskilnað 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga um samræmi við deiliskipulag. Að teknu tilliti til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 leiðir sá annmarki á hinu kærða byggingarleyfi þó eingöngu til ógildingar leyfisins að þeim hluta er varðar breytta notkun kjallararýmis, þegar gerðan hringstiga frá fyrstu hæð niður í kjallara hússins og þeirra glugga kjallararýmisins sem samræmast ekki upphaflegum byggingarleyfisteikningum þess.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans á Seltjarnarnesi frá 3. júlí 2017 um að veita byggingarleyfi fyrir Unnarbraut 32 að því er varðar breytta notkun kjallararýmis, þegar gerðan hringstiga ásamt breytingum og fjölgun á gluggum kjallararýmis.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                     Þorsteinn Þorsteinsson

 

22 og 85/2018 Kvosin – Landsímareitur

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 4. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 22/2018, kæra á ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 5. desember 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar vegna Landsímareits.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 13. febrúar 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir félagið Kvosin, Kirkjusandi 5, 105 Reykjavík, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 8. nóvember 2017, sem borgarstjórn samþykkti 5. desember s.á., að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar, Landsímareits. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. júní 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili „ákvörðun umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur 22. maí 2018 um byggingarleyfi […] til að byggja í Víkurkirkjugarði nýbyggingu með kjallara við Kirkjustræti“, sbr. umsókn nr. 53964. Verður kæran skilin á þann hátt að kærð sé sú ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. maí 2018 að samþykkja byggingarleyfi vegna endurbyggingar og nýbyggingar að Thorvaldsensstræti 2 og 4 og Aðalstræti 11. Er jafnframt krafist stöðvunar framkvæmda. Verður síðara kærumálið, sem er nr. 85/2018, sameinað máli þessu þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sami aðili stendur að kærunum.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 3. apríl og 28. júní 2018.

Málavextir: Hinn 12. janúar 2018 tók gildi breyting á deiliskipulagi Kvosarinnar, Landsímareits, með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt auglýsingunni felur breytingin í sér „að borgarlandinu/lóðinni á milli lóðanna Vallarstrætis 4 og Aðalstrætis 7 verði skipt upp á milli þeirra og lóðirnar stækkaðar sem því nemur og leyfilegt verði að fjarlægja viðbyggingu frá árinu 1967 við Landsímahúsið/Thorvaldsensstræti 6 og byggja hana aftur í sömu mynd.“

Byggingarleyfi til niðurrifs friðlýsts samkomusalar á baklóð nr. 2 við Thorvaldsensstræti og niðurrifs viðbyggingar við Landsímahúsið frá 1967 var gefið út 23. febrúar 2018. Hinn 15. maí s.á. samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík á afgreiðslufundi sínum umsókn nr. BN053964 um leyfi til að dýpka kjallara og endurbyggja Thorvaldsensstræti 2, lyfta þaki Thorvaldsensstrætis 4 og byggja á það Mansardþak með kvistum, byggja fjögurra hæða nýbyggingu, til að endurbyggja Aðalstræti 11 með breyttu þaki og til að innrétta í öllum húsunum 145 herbergja hótel í flokki IV með veitingahúsi, kaffihúsi, verslunum og samkomusal á lóð nr. 2 við Thorvaldsensstræti.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er á því byggt að annmarkar hafi verið á meðferð málsins hjá Reykjavíkurborg. Hafi borgaryfirvöld m.a. ekki fylgt lögum. Sú stækkun og gerð kjallara undir nýbyggingu sem fyrirhuguð sé verði að verulegu leyti í austurhluta hins forna Víkurgarðs, en með framkvæmdinni verði gröfum og líkamsleifum raskað á óheimilan hátt. Trúarleg og söguleg þýðing garðsins sé mikil en hann teljist til fornminja og sé friðaður, sbr. 2. mgr. 3. gr. og 4. mgr. 3. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1993 um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Borgaryfirvöld krefjast þess aðallega að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi uppfylli ekki skilyrði aðildar, sbr. ákvæði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Skýra þurfi ákvæðið í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum, þar sem áskilið sé að kærandi eigi beina og einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem um ræði. Tilgangur félagsins sé „að stuðla að umhverfisvernd í Kvosinni í Reykjavík og leitast við að vernda sögulegar minjar sem þar er að finna“. Félagið Kvosin hafi því hvorki beinna né einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta í tengslum við þær ákvarðanir sem deilt sé um. Takmarkist kæruheimild félagsins því við undantekningarákvæði a-c liða 3. mgr. 4. gr. nefndra laga, en þau eigi ekki við um kæranda. Að auki hafi kærufrestur verið liðinn vegna deiliskipulagsbreytingarinnar þegar kæra hafi borist úrskurðarnefndinni 13. febrúar 2018, en auglýsing um breytinguna hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 12. janúar 2018. Því hafi kæran borist degi of seint, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Verði málinu ekki vísað frá sé þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi gerir kröfu um það að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni bæði hvað varðar hið kærða deiliskipulag og byggingarleyfi. Kærandi uppfylli ekki skilyrði aðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Undantekning ákvæðisins um aðild geti ekki átt við þar sem ákvarðanir þær sem hér um ræði varði ekki matsskylda framkvæmd eða framkvæmdir sem kynnu að vera matsskyldar og afstaða Skipulagsstofnunar liggi ekki fyrir, sbr. úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála nr. 96/2006 og 20/2007 og úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 10/2017. Þá hafi kærandi ekki forræði á málefnum Víkurgarðs og geti því ekki reist aðild sína að kærumálinu á því að hann hafi opinbera eða einstaklega lögvarða hagsmuni að einkarétti.

Verði málinu ekki vísað frá krefst leyfishafi þess að kröfum kæranda verði hafnað.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Varðandi kröfu Reykjavíkurborgar og leyfishafa um frávísun málsins vegna aðildarskorts bendir kærandi á að óumdeilt sé að það samræmist tilgangi félagsins Kvosarinnar að gæta þeirra hagsmuna sem kæra lúti að. Það sé grundvallarregla umhverfisréttar að veita umhverfissamtökum aðild að ágreiningsmálum um umhverfismál á stjórnsýslustigi.

Hugtakið lögvarðir hagsmunir í stjórnsýslurétti sé óljóst og vandmeðfarið. Verði að gæta þess sérstaklega að reglunni sé ekki beitt með þeim hætti að það auðveldi stjórnvöldum að fara sínu fram að geðþótta án þess að fara að lögum heldur láta annarlega hagsmuni ráða för. Lög nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála virðist beinlínis gera ráð fyrir að umhverfissamtök hafi lögvarða hagsmuni falli mál að tilgangi samtakanna án þess að meira þurfi að koma til, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna. Augljóst sé að ekki sé átt við samskonar skilyrði og talin séu gilda í einkamálaréttarfari þar sem krafa sé gerð um einstaklingsbundna hagsmuni, enda eigi umhverfissamtök að jafnaði ekki slíka hagsmuni.

Með aðild umhverfissamtaka að skipulags- og byggingarmálum hafi löggjafinn viljað auka líkur á því að rétt ákvörðun sé tekin með því að stuðla að því að öll eða flest sjónarmið um efnisleg og lagaleg atriði séu komin fram við endanlega töku ákvörðunar í máli. Iðulega sé ekki um aðra aðila að ræða sem geti veitt stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald til að koma í veg fyrir að þau fari með vald sitt að geðþótta.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi tekið þá afstöðu að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af efnisákvörðun í málinu þegar hún hafi tekið efnisafstöðu til kröfu um stöðvun framkvæmda í úrskurðum nefndarinnar í kærumálum nr. 21 og 22/2018. Með því hafi úrskurðarnefndin fallist á aðild hagsmunasamtakanna vegna breytinga á deiliskipulaginu.

Þá hafi Reykjavíkurborg viðurkennt aðild félagsins með því að afhenda því öll gögn varðandi afgreiðslu umsóknar leyfishafa vegna byggingarleyfis.

Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Til samræmis við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga beinna og einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtökum, sem uppfylla tiltekin skilyrði og hafa þann tilgang að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að, er þó heimilt að kæra til nefndarinnar nánar tilgreindar ákvarðanir sem taldar eru upp í stafliðum a-c fyrrnefnds ákvæðis. Er þar um að ræða ákvarðanir Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, ákvarðanir sveitarstjórna um matsskyldu framkvæmda, leyfisveitingar vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum og ákvarðanir um að veita tilgreind leyfi samkvæmt lögum um erfðabreyttar lífverur. Í máli þessu eru kærðar ákvarðanir um breytingu á deiliskipulagi og veitingu byggingarleyfis, en þær ákvarðanir falla ekki undir nefnd undantekningarákvæði og verður aðild kæranda ekki á því reist, enda hefur mat á umhverfisáhrifum ekki farið fram.

Kærandi skilgreinir sig sem hagsmunasamtök sem hafi þann tilgang skv. 2. gr. samþykktar samtakanna að stuðla að umhverfisvernd í Kvosinni í Reykjavík og leitast við að vernda sögulegar minjar sem þar er að finna. Tilgangur samtakanna lýtur þannig að gæslu almannahagsmuna og byggja kærur þeirra fyrst og fremst á slíkum hagsmunum, en ekki verður séð að þau eigi einstaklega og lögvarða hagsmuni tengda hinum kærðu ákvörðunum umfram aðra, líkt og krafa er gerð um í 3. mgr. 4. gr. fyrrnefndra laga og áður hefur verið rakið. Sú krafa er óháð þátttöku kæranda á lægra stjórnsýslustigi, hverju sem hún hefur falist í, t.a.m. með að fá afhend gögn og koma að athugasemdum við meðferð máls. Verður aðild kæranda ekki á því einu reist. Þá hefur bráðabirgðaúrskurður úrskurðarnefndarinnar ekki þýðingu um aðild kæranda, enda fólst í honum eingöngu sú afstaða að ekki væri tilefni til að fallast á þá kröfu kæranda að framkvæmdir yrðu stöðvaðar til bráðabirgða.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið telst kærandi ekki eiga aðild að kæru um lögmæti hinnar umdeildu deiliskipulagsbreytingar eða vegna samþykktar byggingarleyfisins. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

__________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                        _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Ásgeir Magnússon

 

48/2017 Unalækur

Með

Árið 2018, föstudaginn 17. ágúst tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 48/2017 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs frá 19. apríl 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðir A6 og B2, Unalæk á Völlum, Fljótsdalshéraði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. maí 2017, er barst nefndinni 17. s.m., kæra A og B þá ákvörðun bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs frá 19. apríl 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðir A6 og B2, Unalæk á Völlum, Fljótsdalshéraði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fljótsdalshéraði 15. júní 2017.

Málsatvik og rök: Óskað var eftir breytingu á deiliskipulagi fyrir Unalæk á Völlum vegna lóða A6 og B2 af hálfu lóðarhafa. Fólst breytingin í að landnotkun lóðanna yrði breytt úr frístundarbyggð í starfrækslu ferðaþjónustu og sölu á gistiþjónustu. Ákvað umhverfis- og framkvæmdanefnd Fljótsdalshéraðs á fundi 8. febrúar 2017 að grenndarkynna umsóknina sem óverulega breytingu á deiliskipulagi Unulækjar. Sú bókun var staðfest af bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs 15. febrúar 2017. Við grenndarkynninguna bárust athugasemdir frá kærendum og var þeim svarað. Var breyting á deiliskipulagi Unulækjar samþykkt á fundi bæjarstjórnar 19. apríl 2017 með vísan til 43. og 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Kærendur byggja málatilbúnað sinn á því að óheimilt hafi verið að fara með málið skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga þar sem breytingin geti ekki talist óveruleg. Þá yrðu grenndaráhrif deiliskipulagsbreytingarinnar veruleg vegna ónæðis af starfrækslu ferðaþjónustu og gististarfsemi sem færu á svig við réttmætar væntingar kærenda um notkun svæðisins sem frístundabyggðar.

Af hálfu Fljótsdalshéraðs er vísað til þess að telja verði umrædda breytingu óverulega í skilningi 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Form gistireksturs í húsum á umræddum lóðum verði leiga á litlu frístundarhúsi.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal sveitarstjórn senda Skipulagsstofnun samþykkta deiliskipulagsbreytingu og birta auglýsingu um samþykki hennar í B-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt upplýsingum frá Skipulagsstofnun hefur umrædd deiliskipulagsbreyting ekki verið send stofnuninni og þrátt fyrir eftirgrennslan liggur ekki fyrir að auglýsing um samþykki breytingarinnar hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Fram kemur í 5.8.2. gr. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 að hafi auglýsing um óverulega breytingu á deiliskipulagi ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda innan árs frá samþykki sveitarstjórnar telst breytingin ógild. Hin kærða skipulagsbreyting var samþykkt hinn 19. apríl 2017 og er því meira en ár liðið frá samþykkt hennar. Liggur því ekki fyrir í málinu gild ákvörðun er sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
 

__________________________________
Ómar Stefánsson