Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

1/2018 Löggilding iðnmeistara

Árið 2018, miðvikudaginn 28. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2018, kæra á ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 22. ágúst 2017 um að synja umsókn kæranda um löggildingu málarameistara skv. 32. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. janúar 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir A þá ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 22. ágúst 2017 að synja umsókn hans um löggildingu málarameistara skv. 32. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mannvirkjastofnun 27. febrúar 2018.

Málavextir:
Kærandi hlaut réttindi sem málarameistari árið 1982 og gerðist fullgildur félagi í Málarameistarafélagi Reykjavíkur árið 1984. Hinn 17. ágúst 2017 sótti hann um löggildingu málarameistara skv. 32. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki hjá Mannvirkjastofnun. Samkvæmt 3. mgr. nefndrar 32. gr. er skilyrði fyrir greindri löggildingu að umsækjandi hafi meistarabréf og hafi lokið prófi frá meistaraskóla eða hafi a.m.k. sambærilega menntun á hlutaðeigandi sviði. Í umsókn kæranda kemur fram að hann hafi lokið sveinsprófi frá Iðnskólanum í Reykjavík í húsamálum árið 1978. Hann sé með gömul réttindi og hafi því aldrei gengið í meistaraskóla.

Með bréfi Mannvirkjastofnunar til kæranda, dags. 22. ágúst 2017, þar sem umsókn kæranda var synjað, var tekið fram að innsend gögn bæru hvorki með sér að kærandi hefði lokið námi í meistaraskóla né að hann hefði sambærilega menntun.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann hafi starfað sem meistari í málaraiðn í hátt í 40 ár. Hann hafi útskrifað nema, unnið í nýbyggingum, viðhaldi og öðru fyrir ríki og sveitarfélög ásamt því að þjónusta bæði byggingarfyrirtæki og opinberar stofnanir. Í umsókn sinni fyrir löggildingu hafi fylgt með meistaraskírteini hans og inntökubréf í Málarameistarafélag Reykjavíkur. Hann hafi lokið framhaldsnámi í tæknideild frá Víghólaskóla í Kópavogi, sem jafngildi verslunarskólaprófi á sínum tíma og sé í það minnsta sambærileg menntun og fáist í meistaraskóla. Það sé ósk hans að ákvörðunin verði endurskoðuð. Að öðrum kosti sé verið að kippa undan honum starfsmöguleikum í framtíðinni.

Málsrök Mannvirkjastofnunar:
Stofnunin vísar til þess að löggilding iðnmeistara á landsvísu hafi verið nýmæli í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 og hafi umhverfisráðherra veitt slíka löggildingu. Við gildstöku laga nr. 160/2010 um mannvirki hafi hlutverkið færst til Mannvirkjastofnunar. Samkvæmt síðarnefndu lögunum geti þeir iðnmeistarar einir hlotið löggildingu sem hafi meistarabréf og hafi lokið prófi frá meistaraskóla eða hafi a.m.k. sambærilega menntun á hlutaðeigandi sviði. Hafi viðkomandi ekki lokið meistaraskóla meti stofnunin hvort viðkomandi hafi lokið sambærilegu námi og séu dæmi um slíkt. Hafi slíkt verið metið í hverju tilviki fyrir sig og teljist t.d. þeir sem lokið hafa byggingariðnfræði hafa lokið námi sem sé sambærilegt meistaraskóla. Stofnunin telji að um formlegt nám á sviði mannvirkjagerðar þurfi að vera að ræða og að ekki sé heimilt að meta starfsreynslu sem ígildi náms.

Athygli sé vakin á því að samkvæmt lögum nr. 117/1999, um breytingu á skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, hafi þeir einir sem fengið hefðu útgefið, eða hefðu átt rétt á að fá útgefið, meistarabréf fyrir 1. janúar 1989 og ekki hefðu lokið meistaraskóla, fengið löggildingu til að bera ábyrgð á verkframkvæmdum fyrir byggingarnefnd hefðu þeir sótt námskeið sem umhverfisráðuneytið stóð fyrir. Lagaheimildin hafi fallið niður 1. júlí 2001. Að mati stofnunarinnar styðji framangreind lagaheimild þá túlkun að skilyrði fyrir landslöggildingu iðnmeistara hafi ávallt verið að viðkomandi hafi lokið meistaraskóla. Einnig bendi stofnunin á gr. 2.4.7. í þágildandi byggingarreglugerð nr. 177/1992, en samkvæmt ákvæðinu hafi iðnmeistarar sem lokið hefðu sveinsprófi eftir 1. janúar 1989 einnig þurft að ljúka meistaraskóla til að fá staðbundna viðurkenningu.

Krafa um meistaraskóla sem skilyrði fyrir löggildingu byggi að mati Mannvirkjastofnunar á skýrri lagaheimild. Kærandi hafi sagst hafa lokið framhaldsnámi í tæknideild frá Víghólaskóla í Kópavogi en hann hafi ekki sýnt fram á eða leitt líkur að því að það nám jafngildi meistaraskóla. Þar sem kærandi hafi hvorki lokið meistaraskóla né sambærilegu námi hafi honum verið synjað um löggildingu.

Niðurstaða:
Í máli þessu er um það deilt hvort kærandi uppfylli skilyrði laga fyrir því að öðlast löggildingu málarameistara skv. 32. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki til að bera ábyrgð sem iðnmeistari á einstökum verkþáttum við mannvirkjagerð á sínu fagsviði.

Samkvæmt 3. mgr. 32. gr. nefndra laga geta þeir iðnmeistarar einir borið ábyrgð á einstökum verkþáttum við mannvirkjagerð sem hlotið hafa til þess löggildingu Mannvirkjastofnunar. Er löggilding háð því að iðnmeistarar hafi fengið meistarabréf og lokið prófi frá meistaraskóla, eða hafi a.m.k. sambærilega menntun á hlutaðeigandi sviði. Ágreiningur þessa máls snýst í hnotskurn um það hvort kærandi hafi aflað sér menntunar sem jafna megi til náms í meistaraskóla.

Í athugasemdum við 32. gr. frumvarps þess er varð að mannvirkjalögum kemur fram að ákvæðið samsvari 2. mgr. 52. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Gerði tilvitnað ákvæði skipulags- og byggingarlaga í upphafi aðeins ráð fyrir því að iðnmeistarar með meistarabréf og próf frá meistaraskóla gætu fengið löggildingu, en með 16. gr. laga nr. 170/2000 var sú breyting gerð á ákvæðinu að skilyrði um sambærilega menntun var lögfest. Gerð var grein fyrir ástæðu þeirrar breytingar í athugasemdum við nefnt ákvæði og tekið fram að það hefði verið framkvæmt á þann veg að hefði iðnmeistari meistarabréf og sambærilega menntun við meistaraskóla að mati menntamálaráðuneytisins hefði ráðuneytið veitt þeim iðnmeisturum landslöggildingu. Þætti því rétt að taka af allan vafa um heimild til slíkrar málsmeðferðar. Þá var tekið fram að engin ástæða þætti til að útiloka aðra aðila með sambærilega eða meiri menntun á hlutaðeigandi sviði, t.d. verkfræðinga, tæknifræðinga eða iðnfræðinga, frá því að hljóta löggildingu ráðherra.

Við afgreiðslu umsóknar kæranda þurfti Mannvirkjastofnun sem leyfisveitandi að meta hvort kærandi hefði tilskylda menntun lögum samkvæmt, í þessu tilviki hvort hann hefði menntun á sínu fagsviði sem jafna mætti til prófs úr meistaraskóla. Ákvæði 3. mgr. 32. gr. mannvirkjalaga felur í sér almennar kröfur sem uppfylla þarf til þess að öðlast tiltekin atvinnuréttindi. Þar er m.a. gerð krafa um tiltekna menntun, próf úr meistaraskóla eða sambærilega menntun. Kærandi telur að hann uppfylli skilyrði um sambærilega menntun þar sem hann hafi starfað við málaraiðn í hátt í 40 ár og lokið framhaldsnámi í tæknideild frá Víghólaskóla í Kópavogi. Ekki verður talið unnt að jafna starfsreynsla kæranda við nám í meistaraskóla, enda ljóst að skilyrði 3. mgr. 32. gr. laganna tekur einvörðungu til formlegrar menntunar. Þá verður heldur ekki fallist á að nám kæranda við tæknideild á framhaldsskólastigi teljist sambærilegt námi í meistaraskóla í skilningi 3. mgr. 32. gr. mannvirkjalaga. Styðst það mat og við þá upptalningu um sambærilega menntun sem finna má í athugasemdum við fyrrgreinda breytingu á 2. mgr. 52. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Samkvæmt 5. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 áttu ákvæði laganna hvorki að hafa áhrif á eldri rétt hönnuða né viðurkenningu byggingaryfirvalda til handa iðnmeisturum og byggingarstjórum til þess að standa fyrir framkvæmdum hver á sínu sviði við gildistöku laganna. Með lögum nr. 117/1999, sem fólu í sér breytingu á skipulags- og byggingarlögum, var sett tímabundið ákvæði í 10. tl. ákvæðis til bráðabirgða um að iðnmeistarar sem ekki hefðu lokið námi í meistaraskóla gætu öðlast umrædd réttindi með því að sækja sérstakt námskeið. Ekki liggur fyrir að kærandi hafi nýtt sér þann kost. Verður því ekki séð að með hinni kærðu ákvörðun hafi kærandi verið sviptur þegar áunnum starfsréttindum.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar Mannvirkjastofnunar frá 22. ágúst 2017 um að synja umsókn hans um löggildingu málarameistara skv. 32. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.