Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

124/2018 Laugavegur

Árið 2018, fimmtudaginn 22. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 124/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. febrúar 2018 um að samþykkja veitingu byggingarleyfis fyrir breytingum á húsinu nr. 130 við Laugaveg í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 8. október 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Laugavegi 128, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. febrúar 2018 að samþykkja byggingaráform til breytingar á húsinu nr. 130 við Laugaveg. Er þess krafist að framangreind ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 18. október 2018.

Málavextir: Fyrir lóðina Laugaveg 130 er í gildi deiliskipulag sem tekur til staðgreinireita 1.241.0 og 1.241.1, svonefndra Hampiðjureita. Nefnt deiliskipulag var samþykkt í borgarráði Reykjavíkur 20. júlí 2006 og tók gildi 8. ágúst s.á. Í almennum skilmálum deiliskipulagsins kemur m.a. fram að með því sé veitt heimild fyrir minni háttar breytingum á húsum á reitnum, s.s. gerð skyggnis, svala, lítilla kvista og lagfæringa án deiliskipulagsbreytingar, að undangengnu samþykki byggingarfulltrúa. Í sérskilmálum fyrir lóðina nr. 130 við Laugaveg kemur fram að heimilt sé að hækka húsið um eina hæð og reisa út útbyggingu til suðurs.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 20. febrúar 2018 var samþykkt umsókn eiganda Laugavegs 130 um að rífa núverandi ris hússins og þak, hækka húsið um eina hæð, byggja viðbyggingu úr steinsteypu og gleri á fyrstu hæð og gera svalir á þriðju hæð og í risi. Erindið hafði áður verið samþykkt 3. apríl 2007 og 15. júlí 2008. Var afgreiðsla byggingarfulltrúa staðfest á fundi borgarráðs 1. mars 2018 og var byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum gefið út 24. ágúst s.á. Samkvæmt aðaluppdráttum leyfisins var gert ráð fyrir 26,5 m2 svölum á þaki viðbyggingarinnar.

Málsrök kærenda:
Kærendur telja að svalir sem fyrirhugaðar séu á þaki viðbyggingar fyrstu hæðar stangist á við aðalskipulag. Þáverandi nágranni hafi samþykkt byggingu viðbyggingar við húsið fyrir u.þ.b. 10 árum, sem heimiluð hafi verið í deiliskipulagi reitsins, og geri kærendur ekki athugasemdir varðandi hana. Hins vegar hafi þá ekki verið gert ráð fyrir svölum á þaki viðbyggingarinnar, líkt og nú. Svölunum hafi verið bætt inn í teikningarnar árið 2018 án nokkurs samráðs við nágranna.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010-2030 á bls. 204 komi eftirfarandi fram varðandi svæðið: „Meðfram aðalgötum er heimil fjölbreyttari landnotkun, þó grunnskilgreining lóða við götuna sé íbúðarsvæði. Hér er einkum um að ræða starfsemi sem fellur undir flokkana verslun og þjónusta (VÞ, að skemmtistöðum undanskyldum) og samfélagsþjónustu (S). Verslun og þjónusta á jarðhæðum getur verið heimil, svo og mögulega veitingastaðir í flokki I og II og gististaðir í flokki II-III. Opnunartími allra veitingastaða skal takmarkast við kl. 23. Breytt notkun í þessa veru í fjöleignarhúsi er háð samþykki meðeigenda, sbr. ákvæði laga um fjöleignarhús. Rýmri heimildir um landnotkun gilda eingöngu um hús sem standa við viðkomandi aðalgötu og ná einkum til jarðhæða þegar um verslun, þjónustu, og veitingastaði er að ræða. Ef þörf krefur eru sett nánari ákvæði um landnotkunarheimildir við aðalgötur í hverfis- og eða deiliskipulagi.“ Kærandi bendir á að samkvæmt því sem komi fram í aðalskipulagi sé gert ráð fyrir að rýmri heimildir um landnotkun nái einkum til jarðhæða. Umræddar svalir séu hins vegar á annarri hæð og samræmist því ekki aðalskipulagi borgarinnar. Skilja verði það sem fram komi í aðalskipulagi á þann hátt að veitingastaðurinn ætti ekki að geta fengið leyfi fyrir aukinni starfsemi á annarri hæð án sérstakrar samþykktar, að undangenginni úttekt á grenndaráhrifum. Slík samþykkt liggi hins vegar ekki fyrir og sérstök úttekt hafi ekki farið fram.

Ætla megi að ekki hafi verið talin ástæða til að grenndarkynna tilkomu svalanna þar sem litið hafi verið svo á að þær féllu undir minni háttar breytingar sem gera mætti án deiliskipulags-breytingar. Nefndar svalir geti hins vegar ekki fallið undir þessa heimild þar sem þær séu óvenju stórar og því ekki hægt að líta á þær sem minni háttar breytingu á húsinu.

Með tilkomu svalanna yrði einkalíf kærenda gert að engu og ekki væri hægt að lifa eðlilegu fjölskyldulífi. Gestum veitingarstaðarins yrði gert kleift að horfa inn um stofugluggann hjá kærendum úr u.þ.b. tveggja metra fjarlægð og ætla megi að gestunum myndi fylgja hávaði, einkum í ljósi þess að veitingastaðurinn sé með vínveitingaleyfi og heimild til að hafa opið til kl. 23:00 á hverju kvöldi. Þá megi búast við að truflandi og heilsuspillandi reykingarlykt myndi berast inn í vistarverur kærenda, kysu þeir að hafa opinn glugga. Þetta myndi hafa í för með sér að erfitt yrði að selja íbúðina og að verðgildi hennar myndi hrapa.

Kærendur taki fram að í samskiptum þeirra við Reykjavíkurborg sé ekki að sjá skýra afstöðu borgarinnar til svalanna og telji kærendur það renna stoðum undir þá afstöðu þeirra að ekki hafi verið rétt að málum staðið. Í einu svari frá byggingarfulltrúa hafi komi fram að eiganda veitingastaðarins væri með öllu óheimilt að hleypa gestum út á svalirnar þar sem ekki hafi verið sótt um útiveitingaleyfi. Hins vegar sé á það bent að málið snúist ekki um það hvort borðhald verði á þaksvölunum heldur leggist kærendur gegn því að stöðugur straumur veitingarhúsagesta eigi að geta verið á svölunum og valdið þeim truflunum sem áður hafi verið raktar. Ef borgin hafi í hyggju að banna umgang á þaksvölunum sé óútskýrt hvers vegna veitt hafi verið leyfi fyrir þeim. Þá yrðu leyfðar þaksvalir tveimur metrum frá stofuglugga kærenda, sem hefðu ekkert jákvætt gildi fyrir veitingastaðinn sem þær tilheyrðu. Svalirnar myndu hins vegar hafa neikvæð áhrif gagnvart kærendum þar sem þær myndu rýra verðgildi fasteignar þeirra.

Kærendur hafi tekið fram í bréfi til leyfishafa að þeir hefðu vitað af heimild fyrir umræddri viðbyggingu þegar þeir keyptu íbúð sína en verið ókunnugt um að svalir yrðu á þaki hennar. Leyfishafi hafi lofað kærendum munnlega að hafa ekki útisvæði á þaki viðbyggingarinnar, en það kalli á breytingar á teikningum sem ekki hafi verið gerðar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er tekið fram að umræddar framkvæmdir séu í samræmi við gildandi deiliskipulag reita 1.241.0 og 1.241.1, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 20. júlí 2006. Í sérskilmálum skipulagsins komi fram að heimilt sé að hækka húsið Laugaveg 130 um eina hæð og gera útbyggingu til suðurs. Þá sé samkvæmt almennum skilmálum deiliskipulagsins heimilaðar minni háttar breytingar á húsum á reitnum, m.a. gerð svala, án þess að framkvæma þurfi deiliskipulagsbreytingu.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi vísar til þess að þær framkvæmdir og tilheyrandi breytingar sem hið kærða byggingarleyfi heimili hafi verið samþykktar fyrir áratug í deiliskipulagi, löngu áður en kærendur keyptu þá fasteign sem veiti þeim aðild að máli þessu. Kærufrestur vegna þess deiliskipulags, sem sé frá árinu 2007, sé löngu liðinn.

Hið útgefna byggingarleyfi sé í samræmi við gildandi lög og reglur og jafnframt aðal- og deiliskipulag svæðisins. Þegar hið kærða byggingarleyfi hafi verið gefið út 24. ágúst 2018 hafi sú breyting verið gerð frá upphaflega samþykktri breytingu frá 2007 að heimilað hafi verið að setja handrið og dyr út á þak viðbyggingarinnar að Laugavegi 130. Ástæðan fyrir því hafi verið sú að hægt yrði að nýta svalirnar sem flóttaleið fyrir efri hæð veitingastaðarins sem þar sé til húsa. Hönnuði byggingarinnar hafi hvorki þótt forsvaranlegt að fólk þyrfti að klöngrast út um glugga veitingahússins ef koma þyrfti til rýmingar, sbr. gr. 9.5.3 í byggingarreglugerð, né að ekki væru viðunandi fallvarnir til staðar. Því hafi dyr verið settar út á svalirnar og hannað handrið utan um þakflöt viðbyggingarinnar. Samkvæmt aðalskipulagi svæðisins sé heimilt að veita leyfi fyrir slíkum svölum án sérstakrar breytingar á deiliskipulagi. Hins vegar þurfi sérstakt leyfi til að heimilt verði að nýta svalirnar undir starfsemi veitingastaðarins, en engin áform séu af hálfu rekstraraðila til slíks. Áður hafi verið sótt um slíkt leyfi en því verið hafnað.

Niðurstaða: Samkvæmt byggingarreglugerð nr. 112/2012 er gerð krafa um að við hönnun mannvirkja skuli ávallt gert ráð fyrir því að eldur geti komið upp. Með því á að tryggja að viðstaddir geti yfirgefið mannvirkið í eldsvoða eða bjargast eftir öðrum leiðum. Í gr. 9.5.2. í reglugerðinni kemur fram að frá hverju rými byggingar þar sem gera megi ráð fyrir að fólk dveljist eða sé statt skuli vera fullnægjandi flóttaleiðir úr eldsvoða. Eiga flóttaleiðirnar að vera þannig skipulagðar og frágengnar að allir geti bjargast út af eigin rammleik eða fyrir tilstilli annarra á tilgreindum flóttatíma, brjótist eldur út eða annað hættuástand skapast, sbr. gr. 9.5.1. Flóttaleiðirnar skulu vera einfaldar, auðrataðar og greiðfærar svo að fólk verði ekki innlyksa í skotum og endum ganga, sbr. gr. 9.5.2.

Í bókun byggingarfulltrúa um samþykki byggingaráforma vegna Laugavegar 130 frá 20. febrúar 2018 kemur fram að veitt sé leyfi til að rífa núverandi ris og þak, hækka húsið um eina hæð, byggja viðbyggingu úr steinsteypu og gleri á fyrstu hæð og gera svalir á þriðju hæð og á ris hússins. Byggingarleyfi sem gefið var út hinn 24. ágúst s.á. í skjóli þeirrar ákvörðunar hefur og að geyma sömu byggingarlýsingu. Þá kemur fram á teikningu samþykkts aðaluppdráttar að gert sé ráð fyrir svaladyrum á annarri hæð sem liggja muni út á svæði sem skráð er sem svalir á þaki viðbyggingar fyrstu hæðar. Loks kemur fram í byggingarlýsingu aðaluppdráttar, í kaflanum notkun og gerð byggingar, að gert sé ráð fyrir hellulögðum þaksvölum á annarri hæð, en í þeim kafla sem fjallar um eldvarnir segir hins vegar að flóttaleið sé á annarri hæð út á steinsteypt þak og að á þriðju hæð og risi séu steyptar svalir. Vegna framangreinds ósamræmis verður ekki með ótvíræðum hætti ráðið hvort umrætt svæði á þaki viðbyggingarinnar þjóni einungis þeim tilgangi að vera flóttaleið eða hvort einnig sé um hefðbundnar svalir að ræða, sem ætlaðar séu til almennra nota. Hins vegar þykir verða að líta svo á, með hliðsjón af fyrrgreindu orðalagi bókunar byggingarfulltrúa um samþykki byggingaráforma og síðan sama orðalagi í útgefnu byggingarleyfi, en jafnframt því að í skipulagsskilmálum fyrir húsið er ekki gert ráð fyrir veitingastarfsemi eða umgangi gesta á umræddum þakfleti, að hin kærða ákvörðun feli í sér að umræddur þakflötur viðbyggingar fyrstu hæðar sé einungis ætlaður sem flóttaleið en ekki til notkunar fyrir gesti umrædds veitingastaðar. Teljast umræddar breytingar, sem heimilaðar eru í hinu kærða byggingarleyfi, því einungis minni háttar breytingar í skilningi almennra skilmála deiliskipulagsins, sem heimilt var að gera án þess að til kæmi breyting á deiliskipulagi.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er hið kærða byggingarleyfi í samræmi við gildandi skipulagsskilmála deiliskipulags fyrir Laugaveg 130 og þykja því ekki efni til að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. febrúar 2018 um að veita byggingleyfi til breytinga á húsinu nr. 130 við Laugaveg.