Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

99/2023 Laugarás

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 15. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 99/2023, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 15. maí 2023 um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi fyrir þéttbýlið að Laugarási í Bláskóga­byggð.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 14. ágúst 2023, kærir eigandi fasteignar að Langholti 1, Bláskógabyggð, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskóga­byggðar frá 15. maí 2023 að samþykkja tillögu að deiliskipulagi fyrir þétt­býlið Laugarás. Krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Einnig er gerð krafa um að úrskurðar­nefndin kveði á um að tilkynna beri lagningu reiðvegar um varúðarsvæði VA4 til Skipulags­stofnunar til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdarinnar. Jafnframt var gerð krafa um stöðvun yfirvofandi framkvæmda, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum 29. ágúst 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 14. september 2023.

Málavextir: Á fundi skipulagsnefndar Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. 9. mars 2022var tekin fyrir umsókn frá sveitarfélaginu Bláskógabyggð um endurskoðun deiliskipulags fyrir Laugar­ás frá árinu 2012, en kynningarfundur vegna endurskoðunarinnar hafði verið haldinn á vegum sveitarfélagsins 12. janúar 2022.Mæltist skipulagsnefnd til þess við sveitarstjórn að hún samþykkti deiliskipulagstillöguna til kynningar og umsagna í samræmi við 40. gr. skipu­lags­laga nr. 123/2010 ogsamþykkti sveitarstjórn þá afgreiðsluá fundi 17. s.m.

Kynning tillögunnar fór fram á tímabilinu 6.–27. apríl 2022 samhliða kynningu á tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Bláskóga­byggðar 2015–2027 vegna þéttbýlisins Laugaráss. Málið var til umfjöllunar á fundi skipulagsnefndar 8. júní s.á. og á fundi sveitarstjórnar 22. s.m. voru lagðar fram athugasemdir og umsagnir sem borist höfðu á kynningartíma ásamt saman­tekt á andsvörum og uppfærðum deiliskipulagsuppdrætti. Samþykkti sveitarstjórn tillöguna og að hún yrði auglýst samhliða breytingu á aðalskipulagi. Kom kærandi að athugasemdum við sveitar­félagið þegar að loknum fyrrgreindum kynningarfundi í janúar 2022, bæði skriflega og á fundi með skipulagsfulltrúa í apríl s.á.

Deiliskipulagstillagan var auglýst til kynningar á tímabilinu 29. september til 11. nóvember 2022 og kom kærandi að nýju á framfæri athugasemdum sínum. Sveitarstjórn tók málið fyrir 16. febrúar 2023 að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar 8. s.m. Lagðar voru fram umsagnir og athugasemdir sem borist höfðu við kynningu málsins ásamt samantekt á andsvörum og uppfærðum gögnum. Var tillagan samþykkt og fært til bókar að sveitarstjórn teldi að brugðist hefði verið við umsögnum sem borist hefðu með fullnægjandi hætti. Þá skyldi þeim sem gert hefðu athugasemdir við tillöguna send samantekt andsvara og viðbragða vegna málsins. Í framhaldinu var tillagan send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu. Stofnunin gerði með bréfi, dags. 27. apríl 2023, athugasemd við að deiliskipulagið tæki gildi og taldi m.a. að lega útivistarstígs yfir varúðarsvæði VA4 væri ekki í samræmi við legu stígsins á aðal­skipulagi. Sveitarstjórn tók málið fyrir að nýju 15. maí s.á. eftir umfjöllun skipulagsnefndar á fundi 10. s.m. Bókað var m.a. að lega stígsins hefði verið uppfærð á uppdrætti aðalskipulags og væri nú í samræmi við deiliskipulag. Þá skyldi tiltekið í greinargerð deiliskipulagsins að lega stígsins um varúðarsvæðið væri háð því að ekkert jarðrask yrði á skilgreindu svæði. Var tillagan samþykkt og talið að brugðist hefði verið við athugasemdum Skipulagsstofnunar með full­nægjandi hætti. Þá var mælst til þess að deiliskipulagið tæki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda og að það yrði sent Skipulagsstofnun til varðveislu í samræmi við 42. gr. skipulagslaga.

Hinn 18. júlí 2023 birtist auglýsing um samþykkt sveitarstjórnar á breytingu á Aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015–2027 vegna breyttrar landnotkunar í Laugarási. Í breytingunni fólst m.a. að þéttbýlismörkum var breytt að norðaustanverðu til að ná yfir varúðarsvæði VA4. Auglýsing um gildistöku hins kærða deiliskipulags var einnig birt í B-deild Stjórnartíðinda 18. júlí 2023. Samkvæmt auglýsingunni felur skipulagið m.a. í sér að fyrirkomulag nýrrar íbúðarbyggðar er endurskoðað og skilmálar fyrir lóðir yfirfarnar og eftir atvikum breytt. Einnig er ráðgert að götur séu í einhverjum tilvikum breikkaðar og þeim breytt til að bæta umferðar­öryggi og tekið er frá svæði fyrir gangstéttir meðfram götum. Þá er gert ráð fyrir varúðarsvæði austan við lóð kæranda og að um það liggi útivistarstígur, göngu-, reið- og reiðhjólaleið.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að samkvæmt hinni kærðu ákvörðun sé gert ráð fyrir lagningu reiðvegar yfir aðkomu og innkeyrslu að lóð hans sem og yfir varúðarsvæði sem sé nærri lóðinni. Eigi hann því lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins vegna grenndaráhrifa, en að auki sé lóð hans staðsett undan ríkjandi vindátt í Laugarási frá varúðarsvæðinu. Einnig eigi kærandi réttmæta hagsmuni í málinu á grundvelli réttinda fólks til að njóta friðhelgi einkalífs og heimilis, m.a. frá mengunarhættu, sbr. mál Mannréttinda­dómstóls Evrópu, þ.e. Taskin og aðrir gegn Tyrklandi og mál Guerra og aðrir gegn Ítalíu.

 Sveitarstjórn hafi ekki gætt meðalhófs, jafnræðis og samræmis við ákvörðun um breytta aðkomu og innkeyrslu á lóð kæranda. Samkvæmt deiliskipulagsuppdrætti sé ekki gert ráð fyrir að aðkoman sé lagfærð að raunverulegri legu, líkt og sé með lóðina að Langholtsvegi 5. Kærandi hafi ítrekað óskað eftir því við skipulagsyfirvöld að innkeyrsla á lóð hans yrði í samræmi við það sem hún sé í raun.

Ef áætlanir sveitarfélagsins gangi eftir þurfi kærandi að leggja út í mikinn kostnað vegna breyting­anna og ýmsum gæðum yrði fórnað. Til að mynda þyrfti að höggva stórt skarð í órofna 25 ára gamla trjálínu með glæsilegum birkitrjám sem veiti skjól fyrir bæði vindi og umferðarnið frá Skálholtsvegi. Bein sjónlína yrði frá veginum að húsi kæranda og friðhelgi fjölskyldunnar skert. Þarna séu falleg kirsuberjatré, rifsberjarunni og eini hluti lóðarinnar sem sé slétt grasflöt og sem m.a. hafi verið nýtt sem leiksvæði barna. Fyrirhuguð breyting hefði því áhrif á umhverfið, heildarsvip þess og notagildi lóðarinnar. Kostnaður vegna upphaflegra framkvæmda hafi verið mikill, en þeim hafi verið lokið fyrir rúmum 20 árum í samræmi við upp­haf­legt deiliskipulag þegar lóðin hafi verið stofnuð.

Við málsmeðferð skipulagsmála gildi meðalhófsregla stjórnsýsluréttarins og í máli þessu hafi verið brotið gegn þremur meginþáttum hennar. Í fyrsta lagi að almenningur eigi að geta vænst þess að ekki sé ráðist í breytingar í mótaðri byggð nema að nauðsyn beri til þess. Þá skuli í öðru lagi velja þá leið sem vægust sé, þar sem fleiri leiða sé völ sem þjónað geti því markmiði sem stefnt sé að. Í þriðja lagi að gætt sé hófs í útfærslu framkvæmda á þeirri leið sem valin hafi verið. Jafnframt gildi jafnræðisregla stjórnsýsluréttarins og henni tengd sé réttmætisreglan, en af henni leiði enn fremur að allar athafnir og ákvarðanir stjórnvalda verði að byggja á málefnalegum sjónarmiðum. Engar skýringar hafi borist frá sveitarfélaginu á þeirri nauðsyn að flytja inn­keyrsluna, en yfirgangur þessi muni valda kæranda og fjölskyldu hans verulegu tjóni. Það hafi sveitarfélaginu borið að greina hvort einhver önnur vægari leið hafi verið möguleg til að ná fram sama markmiði. Lóðin að Langholtsvegi 5 sé óbyggð landbúnaðarlóð sem ekkert hafi verið nýtt nema til skamms tíma til beitar, en lóð kæranda sé íbúðarhúsalóð sem notuð hafi verið af honum og fjölskyldu hans í rétt rúm 25 ár. Engin málefnaleg sjónarmið séu fyrir þessu ójafn­ræði, það sé með öllu órökstutt og eigi sér enga lagastoð.

Tekið sé fram í sérstökum skilmálum Aðalskipulags Bláskógabyggðar 2015–2027 fyrir varúðarsvæði VA4 að óheimilt sé að nýta svæðið. Um sé að ræða afdráttarlaust bann sem gangi framar öllum öðrum atriðum sem varði hugsanlega notkun þess. Öll fyrirhuguð notkun varúðarsvæðisins „við nánari útfærslu í deiliskipulagi“ sé þegar af þeirri ástæðu með öllu óheimil. Eina mögulega rökrétta „nánari útfærsla“ við reiðveg um svæðið sé því að hætta við reiðveginn á þessari leið. Í skilmálum deiliskipulagsins komi fram að „[ó]heimilt er að nýta svæðið meðan ekki liggur fyrir mat á aðstæðum“, en það sé í ósamræmi við skilmála aðalskipulagsins um bann við notkun þess. Hið fortakslausa bann hafi verið sett þar sem borist hafi margháttuð mót­mæli frá opinberum stofnunum í skipulagsferlinu.

Umhverfismat deiliskipulagsins uppfylli hvorki ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 né laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Leiði ágallar á matinu til þess að brotið sé gegn markmiðum beggja laganna og rannsóknareglu og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Við gerð deiliskipulags hvíli sú skylda á sveitarstjórnum að gera grein fyrir umhverfisáhrifum þess, m.a. með samanburði þeirra valkosta sem til greina komi, sbr. 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga, eftir því sem mælt sé fyrir um í gr. 5.4.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Í skipulags­ferlinu hafi komið fram alvarlegar ábendingar og upplýsingar frá opinberum stofnunum um margvísleg grenndaráhrif í þéttbýli Laugaráss af fyrirhugaðri lagningu reiðvegar yfir varúðar­svæði VA4.

Í umsögnum Heilbrigðiseftirlits Suðurlands hafi verið lagst gegn útvíkkun þéttbýlismarka yfir gamlan urðunarstað og talið að breytingin gæti leitt til hættu og mengunar. Matvælastofnun hafi í umsögnum sínum varað við því að fyrrum urðunarstaðar fyrir riðuhræ yrði nýttur undir reiðstíga og/eða til beitar. Hvers konar jarðvegsrask á varúðarsvæðinu væri óheppilegt og yki smit­hættu á riðu. Sveitarfélagið hafi við meðferð málsins ekkert tillit tekið til umsagna Matvælastofnunar, minnst á efni þeirra eða gert grein fyrir því að þær hafi borist.

Umhverfisstofnun hafi í fyrri umsögn sinni m.a. bent á mikilvægi þess að við gerð umhverfismats skyldi taka mið af reglugerð nr. 1400/2020 um mengaðan jarðveg. Í seinni umsögninni hafi verið vísað til þess að óvissa sé um þykkt yfirborðslagsins og að ekki hafi farið fram neinar rann­sóknar á svæðinu um ástand urðunarstaðarins og lekt frá honum. Bent hafi verið á samspil milli varúðar­svæðis og hættusvæðis vegna flóða í Hvítá. Stofnunin hafi talið mikilvægt að reiðleið væri fyrir utan varúðarsvæðið og viljað færa hana út fyrir það, en ekkert tillit hafi verið tekið til þess eða minnst á það í umhverfismati deiliskipulagsins. Umhverfisstofnun hafi m.a. yfir­umsjón með heilbrigðiseftirliti á Íslandi samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunar­varnir.

Í umsögnum Minjastofnunar Íslands sé bent á að fyrirhugaður reiðvegur muni liggja þvert í gegnum friðað minjasvæði fornminja í Langholti í Laugarási sem njóti verndar. Skipulags­stofnun hafi m.a. talið í umsögn sinni að gera þyrfti grein fyrir og bera saman mismunandi valkosti sem til greina kæmu fyrir reiðleið í gegnum þéttbýlið. Stofnunin hafi óskað eftir rökstuðningi í ljósi þess að slíkur samanburður hefði ekki farið fram en hann hafi ekki verið veittur. Þá hafi í umhverfismatinu ekki verið minnst á kortasjá Umhverfisstofnunar um mengaðan jarðveg og engin gögn í málinu bendi til þess að sveitarfélagið hafi tekið mið af þeim upplýsingum sem þar sé að finna í umhverfismati.

Við gerð umhverfismats hafi ekki verið fylgt gr. 5.4.1. í skipulagsreglugerð. Skylt sé að meta líkleg áhrif af þar til greindum atriðum eftir því sem efni skipulags gefi tilefni til. Um sé að ræða eitt af aðalatriðum deiliskipulagsins, þ.e. skipulagsmörkum sé breytt og skipulagssvæðið stækkað yfir gamalt urðunarsvæði við Höfðaveg, reiðvegurinn muni liggja um minjasvæði og varúðar­svæðið og af þeim sökum hafi borist alvarlegar ábendingar og upplýsingar frá opinberum stofnunum um margvísleg grenndaráhrif á þéttbýlið Laugarás. Með hliðsjón af því og öðrum atriðum sé ljóst að efni og umfang framkvæmdar hafi gefið tilefni til mats. Beinlínis hafi verið skylt að meta líkleg áhrif framkvæmda, en það hafi ekki verið gert. Þá sé enga umfjöllun að finna um fyrirhugaðan reiðveg í kafla umhverfismatsins um samgöngur. Ranglega komi fram að áhrif á minjar og verndarsvæði séu óveruleg. Einnig sé rang­lega metið að áhrif á heilsu og öryggi séu jákvæð. Mat skorti á vægi áhrifa en við það mat verði að taka tillit til þeirrar hættu sem fyrir hendi sé. Svæðið sé á kortasjá og í gagnagrunni Umhverfisstofnunar um mengaðan jarðveg. Matvælastofnun hafi bent á að hvers kyns jarðvegs­rask á varúðarsvæðinu yki smithættu á riðu. Opinberar upplýsingar gefi til kynna slysahættu á svæðinu. Um 44% leiðarinnar liggi yfir lögverndaðar fornminjar og helgunar­svæði þeirra. Þá sé ekki gerð grein fyrir mismunandi valkostum fyrir reiðleið í gegnum þéttbýlið.

Umhverfismatið sé, einkum hvað varði reiðveg yfir minjasvæði og varúðarsvæði VA4, hvorki unnið né sett fram í samræmi við varúðarreglu umhverfisréttarins, markmið með gerð deiliskipulags, markmið landsskipulagsstefnu, markmiðsákvæði skipulagsreglugerðar eða lýsingu í fremsta hluta umhverfismatsins. Þá hafi ekki verið höfð aðgát við gerð matsins. Það sé ófullnægjandi á þann hátt að málsmeðferð þess og framsetning styðji ekki við markmið um heilbrigði og öryggi, vernd menningarverðmæta og réttaröryggi í meðferð skipulagsmála skv. 1. gr. skipulagslaga o.fl., en einnig sé vísað til gr. 5.1.1., 5.3.2.5. og 5.3.2. í skipulagsreglugerð. Ekki sé útilokað að ef umhverfismat hefði farið fram að þessu leyti, t.a.m. með greiningu á mengun, lýðheilsu, vistkerfi, heilsu og öryggi og fleiri atriðum eftir mismunandi útfærslu reiðvegarins hefði efni deiliskipulagsins orðið annað.

Þá verði ekki séð að skipulagsyfirvöld hafi við gerð umhverfismatsins fylgt meðalhófi með því að gera breytingar til að draga úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar. Hafi þau heldur ekki fylgt réttmætisreglu með því að greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi hafi verið við matið, sbr. lágmarkskröfur til rökstuðnings í 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 4. tl. 31. gr. sömu laga. Hvergi sé minnst á skilmála eða fyrirvara af nokkru tagi við framkvæmdina, þ.m.t. sé engin vísun í að um sé að ræða tilkynningarskyldar framkvæmdir skv. 19. gr. laga nr. 111/2021. Þá sé hvergi gerður fyrirvari við leyfiveitingu fyrir framkvæmdinni skv. gr. 5.3.2.19. í skipulagsreglugerð og því séu ekki sett skilyrði í skipulaginu sem byggja myndu á áliti Skipulagsstofnunar um fyrirhugaða framkvæmd. Hafi umhverfismatið hvorki verið gert á grunni laga nr. 123/2010 né laga nr. 111/2021.

Í aðalskipulagi sé kveðið á um „nánari útfærslu í deiliskipulagi“ varðandi fyrirhugaða lagningu reiðvegar yfir varúðarsvæði VA4. Leiði þetta sjálfstætt til þeirrar niðurstöðu að lagning vegarins verði ólögmæt þar sem útfærsla vegarins í deiliskipulagi feli í sér að brotið verði gegn mark­miðum skipulagslaga og laga nr. 111/2021. Skilgreining sveitarfélagsins á varúðarsvæði feli í sér staðfestingu á hættu fyrir heilsu og öryggi almennings. Í deiliskipulaginu komi fram að óheimilt sé að nýta svæðið meðan ekki liggi fyrir mat á aðstæðum um hvort jarðvegur sé mengaður. Þetta sé óskiljanlegt ákvæði, en þegar liggi fyrir staðfesting sveitarfélagsins á því að um sé að ræða svæði þar sem fyrir hendi sé „hætta fyrir heilsu og öryggi almennings“ og staðfesting að á svæðinu hafi verið urðað sorp og sláturúrgangur. Varðandi flóðahættu komi fram í ákvæðum deiliskipulagsins að verja þurfi varúðarsvæðið „m.t.t. mengunarhættu“. Það megi því fullyrða að sveitarfélaginu sé nú þegar fullkunnugt um mengun á svæðinu. Í því felist mat á aðstæðum, um að jarðvegurinn á varúðarsvæðinu sé sannarlega mengaður. Að þessu gefnu girði tilvitnað ákvæði deiliskipulagsins alfarið fyrir notkun svæðisins.

Samkvæmt deiliskipulaginu sé lega útvistarstígs um varúðarsvæðið háð því að ekkert jarðrask verði, en erfitt sé að skilja hvað átt sé við með því. Framkvæmdir við reiðvegi í þéttbýli séu unnar í sam­­ræmi við útgefnar leiðbeiningar Vegagerðarinnar um reiðvegi, gerð og upp­byggingu, sbr. kennisnið o.fl. í þéttbýli. Framkvæmdirnar yrðu aukinheldur óafturkræfar að því marki að ekki yrði hægt að fjarlægja þegar gerða framkvæmd hvernig sem reiðvegurinn yrði útfærður. Þá væri ekki hægt að afmá jarðrask nema með enn meira jarðraski. Það sé jarðrask á varúðarsvæði VA4 sem skapi hvers kyns hættu, svo sem fyrir heilsu og öryggi almennings eins og fram hafi komið. Þá sé ómögulegt að gæta hófs í útfærslu slysahættu, mengunarhættu í þéttbýli eða smithættu á riðu.

Reiðvegurinn sé að þarflausu og án skýringa skipulagður yfir aðkomu og innkeyrslu á lóð kæranda sem raski hagsmunum hans. Ekki hafi verið gætt meðalhófs við þá ákvörðun, mögulegt hefði verið að tengja reiðveginn við Langholtsveg fyrr á leiðinni og hann hefði getað legið með veginum. Fyrir sunnan lóð kæranda séu óskráðar og óúthlutaðar landbúnaðarlóðir og ekki verði séð hvaða knýjandi hagsmunir séu fyrir því að láta hagsmuni íbúðarhúsalóðarhafa víkja. Þá sé mikilvægt að hafa í huga skilgreint stofnanavanhæfi í íslenskum stjórnsýslurétti sem fyrir sé í málinu í því ljósi að sveitarfélagið fari með skipulagsvald, sé framkvæmdaraðili og starfmenn þess sem sjái um framkvæmdir.

Loks hafi sveitarstjórn borið að tilkynna áform um lagningu nýs reiðvegar til Skipulags­stofnunar skv. 19. gr. laga nr. 111/2021. Um sé að ræða framkvæmdir háðar matsskyldu­ákvörðun stofnunarinnar, matsáætlun, umhverfismati og síðar framkvæmdaleyfi. Muni fram­kvæmdin geta haft umtalsverð bein og óbein áhrif á þætti sem varði íbúa og heilbrigði manna á svæðinu, sbr. 4. gr. laganna. Sé þess sérstaklega óskað að úrskurðarnefndin taki fram í úrskurði sínum að ótvírætt sé um að ræða tilkynningaskyldar framkvæmdir sem háðar séu mats­skyldu­ákvörðun Skipulagsstofnunar. Jafnframt geti fyrirhugaðar framkvæmdir verið háðar mats­áætlun, umhverfismati og útgáfu framkvæmdaleyfis samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana og skipulagslögum.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verði talið að hagsmunir kæranda hafi verið fyrir borð bornir í skilningi markmiðsákvæða skipulagslaga og að þeir form- eða efnisannmarkar liggi fyrir sem leiða beri til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Málsrök Bláskógabyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfu um ógildingu verði hafnað og að vísað verði frá eða eftir atvikum hafnað kröfu um að sveitarstjórn verði gert að til­kynna sérstaklega til Skipulagsstofnunar um fyrirhugaðar framkvæmdir við lagningu nýs reiðvegar.

Öllum málsmeðferðarreglum hafi verið fylgt við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Að gættum grundvallar- og málsmeðferðarreglum skipulagslaga nr. 123/2010 og meginreglum stjórnsýslu­réttarins hafi sveitarstjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað.

Sveitarfélaginu hafi ekki borist ósk frá kæranda á kynningartíma deiliskipulagstillögunnar um breytta legu innkeyrslu á lóð kæranda, hvorki á fyrri eða seinni kynningartíma tillögunnar. Meðan á vinnslu hennar hafi staðið hafi kærandi óskað eftir ýmsum breytingum varðandi skipulag á lóð hans og nærumhverfi hennar. Tekið hafi verið tillit til þeirra óska að hluta til við gerð deiliskipulagsins. Ekki hafi verið hægt að verða við ósk kæranda um að breyta legu innkeyrslu á lóðina vegna sjónarmiða um umferðaröryggi. Yrði innkeyrslan færð samkvæmt óskum hans væri innkeyrsla að Langholtsvegi 4 beint á móti. Jafnframt sé gert ráð fyrir þeim mögu­­leika að Langholtsvegur tengist yfir á Höfðaveg og þá væri ekki ásættanleg að inn­keyrslan væri líkt og kærandi óski eftir.

Því sé hafnað að ekki hafi verið gætt að meðalhófi með því að gera ráð fyrir útivistarstíg (reiðstíg) yfir aðkomu og innkeyrslu á lóð kæranda. Hinn nýi stígur sé alfarið á landi í eigu sveitar­félagsins, en muni vissulega fara yfir núverandi aðkomu að lóð kæranda enda liggi stígurinn meðfram Langholtsvegi og að Skálholtsvegi 31. Geti hið umdeilda deiliskipulag ekki sætt ógildingu sökum þess að kærandi sé ósammála sveitarfélaginu um staðsetningu stígsins. Þá hafi engar athugasemdir borist frá honum um legu stígsins meðfram lóð kæranda á kynningar­­tíma tillögunnar.

 Jafnframt sé hafnað að óheimilt sé að nýta varúðarsvæði VA4 samkvæmt aðalskipulagi. Í kafla 3.14. í greinargerð aðalskipulags komi fram að ekkert varúðarsvæði hafi verið í Laugarási, en við breytingu á núgildandi aðalskipulagi hafi verið bætt inn varúðarsvæði við Höfðaveg, austan Langholts. Samkvæmt skilmálum sé óheimilt að hrófla við svæðinu án samráðs við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands. Fram komi að gert sé ráð fyrir að reiðleið liggi yfir varúðarsvæðið og að hún verði nánar útfærð í deiliskipulagi. Deiliskipulagstillagan taki mið af stefnu í breyttu aðalskipulagi. Fjallað sé nánar um göngu-, reið- og reiðhjólaleiðir í kafla 4.15.2 í greinargerð deiliskipulagsins og í kafla 4.22 um það svæði sem kærandi telji að óheimilt sé að nýta samkvæmt gildandi aðalskipulagi og sé vísað til þess er þar komi fram.

Þá sé því hafnað að umhverfismat hins kærða deiliskipulags uppfylli hvorki ákvæði skipulags­laga né laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Andlag umhverfismats deiliskipulags sé breytilegt eftir efni og umfangi þess. Í greinargerð með hinu kærða deiliskipulagi sé umhverfismatsskýrsla þar sem metið hafi verið vægi umhverfisáhrifa og við matið hafi verið litið til þess hvort áhrifin væru marktæk. Horft hafi verið til tiltekinna þátta og bornir saman valkostir fyrir íbúðarbyggð, landbúnaðarlóðir, verslun og þjónustu, samfélags­þjónustu og samgöngur.

Útivistarstígurinn frá Langholtsvegi að Höfðavegi liggi um svæði sem í deiliskipulaginu séu skilgreind sem íbúðarbyggð að hluta og sem landbúnaðarsvæði. Í umhverfismatinu komi fram að áhrif á stefnu skipulagsins fyrir íbúðarbyggð hafi óveruleg eða jákvæð áhrif á umhverfis­þætti og að útivistarstígar muni geta nýst íbúum til útiveru og heilsubótar. Í aðalskipulaginu sé umhverfismatsskýrsla þar sem sérstaklega sé fjallað um varúðarsvæði. Niðurstaða matsins sé sú að áhrif á heilsu og öryggi séu jákvæð hvað það varði að svæðið sé afmarkað og að settir séu skilmálar um að það sé ekki nýtt án samráðs við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, en vegna mögulegra flóða í Hvítá sem geti náð inn á svæðið sé ekki vitað með vissu hvernig frágangi þess verði háttað. Í umhverfismatinu komi fram að áhrif á aðra umhverfisþætti séu óveruleg eða engin. Á heildina litið muni breytingin koma til með að hafa jákvæð áhrif á þróun byggðar og atvinnulíf í Laugarási sem og sveitarfélaginu í heild sinni.

Því sé hafnað að Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, Matvælastofnun, Minjastofnun Íslands og Umhverfisstofnun hafi alfarið lagst gegn fyrirhuguðum útivistarstíg um framangreint svæði. Brugðist hafi verið við umsögnum framangreindra aðila í skipulagsferlinu. Í kafla 4.20 í greinar­gerð deiliskipulagsins sé sett ákvæði um að séu minjar innan lóða og byggingarreita skuli haft samráð við Minjastofnun séu framkvæmdir fyrirhugaðar. Þá komi fram í kafla 4.22 að óheimilt sé að nýta svæðið meðan ekki liggi fyrir mat á aðstæðum um hvort jarðvegur þar sé mengaður. Einnig sé gerð krafa um samráð og að lega útivistarstígs um varúðarsvæðið sé háð því að ekkert jarðrask verði á skilgreindu svæði.

Ályktun kæranda um að lagning útivistarstígsins sé háð umhverfismati og að um sé að ræða tilkynningarskylda framkvæmd til Skipulagsstofnunar skv. 19. gr. laga nr. 111/2021 sé hafnað. Ekki verði séð að lagning útivistarstígs sé líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfis­áhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Því sé ekki um framkvæmd að ræða sem háð sé umhverfismati samkvæmt nefndum lögum.

Ekki hafi verið gefið út framkvæmdaleyfi vegna hins umdeilda stígs yfir varúðarsvæðið og mögulegar fornminjar. Fram komi í greinargerð deiliskipulagsins að verði farið í framkvæmdir á svæðinu skuli hafa samráð við Minjastofnun Íslands. Með því hafi verið brugðist við um­sögnum Minjastofnunar og til að koma í veg fyrir að lögverndaðar minjar samkvæmt lögum nr. 80/2012 um menningarminjar myndu raskast.

Skilja verði kröfugerð kæranda svo að farið sé fram á að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála skuli hlutast til um skyldu sveitarfélagsins til að tilkynna til Skipulagsstofnunar um fyrirhugaða framkvæmd vegna umrædds útivistarstígs/reiðstígs. Ekki séu efni til að taka kröfuna til efnislegrar meðferðar, en ekki sé fyrir hendi lagaheimild úrskurðarnefndarinnar til þess að verða við þessari kröfu.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að samkvæmt fyrsta birta deiliskipulags­uppdrætti í vinnslu hafi þegar í upphafi verið búið að lagfæra staðsetningu innkeyrslu að lóð nr. 5 að Langholtsvegi og hafi kærandi þá haft réttmætar væntingar um að leyst yrði úr aðstöðu hans með sambærilegum hætti. Eftir því sem næst verði komist hafi starfsmaður sveitar­félagsins afnot af lóð nr. 5. Kærandi hafi oftsinnis komið á framfæri við sveitarfélagið óskum varðandi breytta legu innkeyrslunnar á lóð hans, einnig og alveg sér­staklega á fyrri og seinni kynningartíma tillögunnar. Send hafi verið umsögn vegna deili­skipulags og aðalskipu­lags Laugarás, dags. 24. janúar 2022. Á fyrri kynningartíma tillögunnar hafi kærandi óskað við­tals við skipulagsfulltrúa og á fundi 25. apríl s.á. hafi verið ítrekað hve miklu máli það skipti hann að skipulagsuppdráttur yrði lagfærður að raun. Þá hafi verið sent erindi til skipulags­nefndar, dags. 27. s.m. Á síðari kynningartíma hafi kærandi sent tvö erindi, dags. 10. nóvember 2022. Í síðara erindinu hafi kærandi enn á ný ítrekað ósk sína um að gert yrði ráð fyrir óbreyttri aðkomu eða innkeyrslu að lóðinni. Geti kærandi ekki borið halla af ófullnægjandi vinnu­brögðum sveitarfélagsins um skráningu upplýsinga.

Vakin sé athygli á því að sveitarstjórn andmæli ekki röksemdum kæranda um brot á jafnræðis­reglu. Um sambærilegar aðstæður sé að ræða á lóð kæranda og lóð nr. 5 við Langholtsveg, sömu umferðar­aðstæður og því sömu umferðaröryggissjónarmið, óháð framtíðaráformum sveitar­félagsins. Þá hafi lóð nr. 4 við Langholtsveg aldrei verið í notkun eða lögð þar innkeyrsla og hægur vandi að breyta skipulagi lóðarinnar ef þörf krefji. Auk þess virðist innkeyrslan á lóðinni ekki beint á móti innkeyrslunni að Langholti 1 heldur mörkuð nokkuð vestar. Virðist sem hugsan­leg innkeyrsla að landbúnaðarlóð nr. 4 við Langholtsveg sé sú „nauðsyn“ sem beri til að flytja þurfi raunverulegu innkeyrslu á íbúðarhúsalóð kæranda með mjög íþyngjandi milljóna króna tilkostnaði fyrir hann.

Sveitarfélagið hafi ekki svarað því hvort aðrar leiðir hafi komið til greina til að þjóna því umferðar­öryggis­markmiði sem stefnt hafi verið að. Augljóst sé að fjölmargar aðrar leiðir séu færar, t.d. að hætta við fyrirhuguð áform um umferð yfir varúðarsvæði VA4 og helgunarsvæði fornminja frá Langholtsvegi að Höfðavegi. Þá hafi kærandi lagt fram hugmynd að lausn sem ekki hefði íþyngt neinum lóðarhafa. Meti sveitarfélagið umferðaröryggi ekki nægilegt sé því í lófa lagið að finna aðra leið fyrir reiðveginn. Þá hafi sveitarfélagið enn ekki sýnt fram á hvers vegna það hafi ekki unnið úr þeim gögnum sem það hafi búið yfir eða hvers vegna aðrar leiðir hafi ekki verið kannaðar eða skilgreindar til að tryggja meint umferðaröryggi á sama tíma og komið væri til móts við rétt kæranda til að njóta jafnræðis.

Í ljósi þess hve íþyngjandi ákvörðun sveitarfélagsins sé verði að gera strangari kröfur til sveitarfélagsins til sönnunar á nauðsyn ákvörðunar. Jafnframt skipti máli að sveitarfélaginu hafi beinlínis verið skylt samkvæmt óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttarins að draga inn í málið þær upplýsingar sem það hafi haft, m.a. um eigin fordæmisgefandi ákvarðanir í sambærilegum málum. Þá hafi sveitarfélagið ekki sýnt fram á að það hafi fylgt rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins. Teldi það sig ekki hafa nægar upplýsingar þrátt fyrir allar athugasemdir í ítrekuðum beiðnum kæranda um lagfæringu skipulagsuppdráttarins hafi sveitarfélagið átt að óska nánari skýringa áður en tekin hafi verið ákvörðun um beiðni kæranda.

Þá sé áréttað að óheimilt sé að nýta varúðarsvæði VA4 og breyti „frasar“ í aðalskipulagi þar engu um. Sveitarfélagið svari í greinargerð sinni ekki fyrir ágalla í umhverfismati deili­skipulagsins, en staðfesti að eingöngu sé fjallað um varúðarsvæðið í umhverfismati með aðal­skipulagi. Viðfangsefni umhverfismats deiliskipulagsáætlunar sé að ýmsu leyti ólíkt og frábrugðið umhverfismati aðalskipulagsáætlunar. Þá staðfesti sveitarfélagið með greinargerð sinni að ekki hafi verið brugðist við athugasemdum Matvælastofnunar á fullnægjandi hátt.

Ekki sé svigrúm til útfærslu reiðvegar og útivistarstígs í deiliskipulagi á varúðarsvæði VA4. Meint heimild í aðalskipulagi til lagningar reiðvegar feli ekki í sér skyldu. Sveitarfélagið hafi ekki sýnt fram á að það hafi við nánari útfærslu í deiliskipulagi lagt mat á þá hagsmuni sem í húfi séu og að valin hafi verið sú útfærsla sem talin sé fela í sér minni röskun. Eina leiðin til þess sé núllkostur, þ.e. að hætta við reiðleiðina yfir varúðarsvæðið. Sveitarfélagið geri enga til­raun til að andmæla röksemdum kæranda varðandi t.d. mengunarhættu og að framkvæmdir við reiðvegi séu unnar í samræmi við útgefnar leiðbeiningar Vegagerðarinnar. Þá geri sveitarfélagið hvergi grein fyrir því hvernig það hafi mætt alvarlegum ábendingum Matvælastofnunar og ítrekuðum viðvörunum stofnunarinnar um að nota varúðarsvæðið undir reiðveg og ábendingu um að girða svæðið af.

Engin tilraun sé gerð í greinargerð sveitarfélagsins til að færa fram rök gegn röksemdum kæranda um brot á meðalhófsreglu með reiðvegi yfir aðkomu og innkeyrslu að lóð kæranda. Því sé hafnað að stígnum sé best komið á þeim stað sem hann sé eins og sveitarfélagið taki fram. Ef ekki sé talin ástæða til að teikna reiðveg yfir aðkomu og innkeyrslu að lóð nr. 5 við Langholtsveg sé heldur ekki ástæðu til að gera það varðandi lóð kæranda. Þá sé höfnun sveitarfélagsins um að ekki hafi verið gætt að meðalhófi tilhæfulaus. Svigrúm hafi verið til að láta reiðveginn enda 10–15 m austan megin við aðkomu og innkeyrslu að lóð kæranda en einnig að færa hann annað.

Loks sé bent á að sú krafa að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hlutist til um að sveitar­félagið fylgi lögum og tilkynni framkvæmdina sé ekki spurning um valdsvið nefndarinnar um „að taka nýja ákvörðun í máli eða leggja fyrir stjórnvöld að taka ákvörðun með til­teknu efni“, heldur einvörðungu að tryggð sé framfylgd lagaákvæðis um tilkynningu.

Viðbótarathugasemdir sveitarfélagsins: Sveitarfélagið tekur fram að athugasemdir kæranda eftir kynningarfund 12. janúar 2022 hafi borist utan athugasemdatíma og hafi erindinu ekki verið svarað formlega. Á fundi með kæranda 25. apríl s.á. hafi honum verið leiðbeint um að koma athugasemdum sínum skriflega að á athugasemdatíma deiliskipulagstillögunnar. Í erindi sem kærandi hafi sent skipulagsnefnd 27. s.m. hafi ekki verið minnst á beiðni um breytta legu á innkeyrslu á lóð kæranda. Athugasemdir sem kærandi vísi til að sendar hafi verið sveitarfélaginu 11. nóvember 2022 hafi ekki verið mótteknar við vinnslu málsins. Þær hafi því ekki verið hluti af gögnum málsins eða verið svarað sérstaklega. Þá sé bent á að hið kærða deiliskipulag geri ekki ráð fyrir breytingu á legu innkeyrslu á lóð kæranda frá eldra deiliskipulagi og því sé ekki um neina breytingu að ræða.

Athugasemdir kæranda við viðbótarathugasemdir sveitarfélagsins: Kærandi hafnar öllum atriðum í viðbótarathugasemdum sveitarfélagsins. Athygli veki að sveitarfélagið hafi ekki gert minnstu tilraun til að koma með gagnrök eða ábendingar varðandi t.d. málsrök kæranda um að deiliskipulagið sé í ósamræmi við sérákvæði aðalskipulags fyrir varúðarsvæði VA4. Engin tilraun sé gerð til að fjalla um mat á sambærilegum aðstæðum vegna breytingar að aðkomu og innkeyrslu á lóð kæranda. Þá hafi engar athugasemdir verið gerðar við þá ábendingu kæranda að starfsmaður sveitarfélagsins hafi afnot af lóð nr. 5 við Langholtsveg.

Athugasemd sé gerð við þá rangfærslu sveitarfélagsins að ekki sé gert ráð fyrir neinni breytingu á legu innkeyrslu á lóð kæranda frá eldra deiliskipulagi. Þetta sé misvísandi. Sannarlega sé um að ræða breytingu frá eldra deiliskipulagi sem hafi verið í gildi þegar lóðin hafi verið tekin í notkun og innkeyrsla lögð og byggð upp í samræmi við það skipulag með tilheyrandi kostnaði. Þá sé vakin athygli á þeirri staðreynd að sveitarstjórn geri ekki minnstu tilraun til að andmæla rök­­semdum kæranda um brot á jafnræðisreglu eða meðalhófsreglu.

Öllum athugasemdum sem borist hafi utan kynningartíma hafi verið svarað formlega og erindi kæranda, dags. 24. janúar 2022, hafi sannarlega verið svarað af sveitarfélaginu með tölvupósti oddvita 25. s.m. Þá hafi leiðbeiningarskyldu ekki verið fylgt um að aðeins yrði tekið tillit til athuga­semda sem kæmu innan sértilgreindra tímamarka. Á fundi með skipulagsfulltrúa 25. apríl 2022 hafi kærandi fengið fullvissu um að athugasemdir hans frá 24. janúar s.á. yrðu áfram í vinnslu. Kærandi hafi því verið í góðri trú um að allt væri komið mjög skýrt og skilmerkilega til skila. Jafnframt sé rangt að fram hafi komið á fundinum að athugasemdir yrðu að koma skrif­lega til sveitarfélagsins á athugasemdafresti sem auglýstur yrði sérstaklega. Þá hafi athugasemdir kæranda, dags. 11. nóvember 2022, verið mótteknar af sveitarfélaginu ólíkt því sem sveitarfélagið haldi fram. Kærandi hafi gengið úr skugga um það og fengið formlega staðfest frá skipulagsnefnd 16. s.m. að þrjár umsagnir kæranda hefðu verið mótteknar af nefndinni innan formlegs kynningartíma og að hver þessara þriggja umsagna hefðu verið skráðar form­lega inn á málið.

—–

Færð hafa verið fram ítarlegri rök í máli þessu sem ekki verða rakin hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 8. desember 2023.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 15. maí 2023 um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi fyrir þéttbýlið Laugarás í Bláskóga­byggð. Í hnotskurn snýst ágreiningur þessa máls um staðsetningu útivistarstígs á landi sem skilgreint er í aðalskipulagi sem varúðarsvæði og um legu innkeyrslu að lóð kæranda.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði, sbr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar, en telur það falla utan valdheimilda sinna að leggja fyrir stjórnvöld að aðhafast með tilgreindum hætti í málum. Verður því ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda að úrskurðarnefndin kveði á um að tilkynna beri lagningu reiðvegar um varúðarsvæði VA4 til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdarinnar.

Skipulag lands innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórna skv. 3. mgr. 3. gr. skipulags­­laga nr. 123/2010 og ber sveitarstjórn skv. 38. gr. sömu laga ábyrgð á gerð deili­skipulags. Við gerð skipulagsáætlana ber að fylgja markmiðum skipulagslaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Meðal þeirra markmiða er að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðar­ljósi, sbr. c-lið. Jafnframt skal tryggja að haft sé samráð við almenning við gerð skipu­lags­áætlana þannig að gefið sé tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð slíkra áætlana, sbr. d-lið lagagreinarinnar. Þá skulu skipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi samkvæmt 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga og er aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag. Að gættum þessum markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað svo fremi það mat byggi á lögmætum sjónarmiðum.

Hið kærða deiliskipulag var auglýst til kynningar í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga og átti kærandi kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna þess, sem hann og gerði. Samþykkt tillaga ásamt samantekt um málmeðferð, athugasemdir og svör við þeim var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Að gerðum frekari breytingum vegna athugasemda Skipulagsstofnunar tók deiliskipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 18. júlí 2023. Verður ekki annað séð en að formleg málsmeðferð deiliskipulagsins hafi verið lögum samkvæmt.

Hinn 15. maí 2023 samþykkti sveitarstjórn Bláskógabyggðar tillögu að breytingu á Aðal­skipulagi Bláskógabyggðar 2015–2027 samhliða tillögu að deiliskipulagi þéttbýlisins í Laugar­ási. Tóku skipulagsáætlanirnar gildi sama dag eða 18. júlí 2023. Í aðalskipulags­breytingunni fólst m.a. að þéttbýlið var stækkað að norðaustanverðu um 3 ha til að ná yfir varúðar­svæði sem ber númerið VA4. Nánari umfjöllun um svæðið er í greinargerð aðalskipulagsins, en þar kemur fram að við Höfðveg, austan Langholts, sé bætt við varúðarsvæði, en þar hafi um tíma verið urðað sorp og sláturúrgangur. Í skilmálum fyrir svæðið er m.a. tekið fram að óheimilt sé að nýta það. Óheimilt sé að hrófla við svæðinu án samráðs við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, en einnig skuli viðhaft samráð við heilbrigðiseftirlitið verði farið í einhvers konar fram­kvæmdir á svæðinu eða upp­gröft á fornminjum í nágrenni þess. Þá kemur fram að gert sé ráð fyrir því að reiðleið/útivistarleið liggi um varúðarsvæðið og verði hún nánar útfærð í deili­skipulagi. Jafnframt er tekið fram í samgöngukafla greinargerðarinnar að gert sé ráð fyrir reiðleið/útivistarleið meðfram Langholtsvegi milli Skálholtsvegar og Höfða­vegar. Liggi leiðin um minjasvæði og áður en til framkvæmda komi skuli útfæra leiðina í samráði við Minja­stofnun Íslands. Þá sé lega göngu- og reiðleiða sýnd til viðmiðunar og verði þær nánar útfærðar í deiliskipulagi.

Þrátt fyrir að skilmálar aðalskipulagsins um varúðarsvæðið mæli fyrir um að „[ó]heimilt sé að nýta svæðið“, verður ekki hjá því litið að gert er ráð fyrir því í skilmálunum að reiðleið liggi þar um. Er ljóst að hinn umdeildi stígur á sér stoð í gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins og er því fyrir hendi innbyrðis samræmi milli skipulagsáætlananna hvað þetta varðar, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Verður því lagt til grundvallar að sveitarstjórn hafi verið heimilt að ákveða legu stígsins yfir varúðarsvæðið í hinu kærða deiliskipulagi.

Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga, sbr. 14. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, skal við gerð skipulagsáætlana gera grein fyrir áhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar á umhverfið, m.a. með samanburði þeirra kosta sem til greina koma, og umhverfismati áætlunarinnar. Nánar er fjallað um umhverfismat deiliskipulags í gr. 5.4.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Samkvæmt 1. mgr. greinarinnar skal við gerð deili­skipulags meta líkleg áhrif af fyrirhuguðum framkvæmdum og starfsemi á aðliggjandi svæði og einstaka þætti áætlunarinnar sjálfrar eftir því sem efni skipulagsins gefur tilefni til. Í 2. mgr. segir að áætla skuli áhrif af landmótun, skógrækt, umferð, hávaða, umfangsmiklum mann­virkjum, svo sem háhýsum, ásamt fleiri atriðum sem talin eru þar upp. Þá er kveðið á um í 3. mgr. að gera skuli grein fyrir matinu og niðurstöðu þess í greinargerð deiliskipulagsins. Jafnframt skuli því lýst hvernig skipulagið samræmist markmiðum skipulagsreglugerðar, sbr. gr. 1.1., og markmiðum deiliskipulags, sbr. gr. 5.1.1. Að lokum er tekið fram í 4. mgr. að ef í ljós komi að fyrirhugaðar framkvæmdir eða starfsemi geti haft neikvæð áhrif á umhverfið skuli gera breytingar á deiliskipulagstillögunni til að draga úr hinum neikvæðu áhrifum eða rökstyðja af hverju það sé ekki gert. Setja skuli skilmála um vöktun áhrifa og um hvernig bregðast eigi við umhverfisvandanum eftir því sem þörf sé á.

Að framangreindu virtu hvílir sú skylda á sveitarstjórnum við gerð deiliskipulags að gera grein fyrir umhverfisáhrifum þess, m.a. með samanburði þeirra valkosta sem til greina koma, sbr. 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga, eftir því sem mælt er fyrir um í gr. 5.4.1. í skipulagsreglugerð um umhverfismat skipulags. Aftur á móti verður að líta svo á að þær kröfur sem gerðar eru til umhverfismats deiliskipulags séu breytilegar eftir efni þess og umfangi, enda segir í 1. mgr. nefnds reglugerðarákvæðis að meta skuli líkleg áhrif af þar tilgreindum atriðum eftir því sem efni skipulags gefur tilefni til. Í þessu sambandi verður einnig að hafa til hliðsjónar hvort útfærslu deiliskipulags séu settar skorður í aðalskipulagi, en ljóst er að í umhverfismati deili­skipulags er ekki skylt að meta áhrif af því sem ekki er í samræmi við aðalskipulag. Jafnframt hefur þýðingu að stefnumörkun á áætlanastigi er yfirleitt almenns eðlis, borið saman við það sem á við um einstakar framkvæmdir sem háðar eru umhverfismati, og verður að ganga út frá því að umhverfismat áætlana sé tiltölulega almennt mat, sem oft fari fram án sérstakra rann­sókna á umhverfi og umhverfisáhrifum.

Hinn umdeildi útivistarstígur mun liggja um varúðarsvæði, en samkvæmt b-lið 3. mgr. gr. 6.3. í skipulagsreglugerð er þar um að ræða svæði þar sem heilsu eða öryggi kann að vera ógnað, svo sem vegna hávaða, mengunar, hættulegra efna og annarra takmarkana sem setja þarf í varúðarskyni. Á kortasjá Umhverfisstofnunar um mengaðan jarðveg er svæðið tilgreint sem aflagður urðunarstaður. Þá mun reiðvegurinn einnig fara um minjasvæði. Við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar bárust sveitarfélaginu umsagnir frá opinberum aðilum vegna fyrir­hugaðrar legu stígsins. Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands taldi stofnunin að fara þyrfti fram frummat á aðstæðum áður en til álita kæmi að nýta svæðið, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 1400/2020 um mengaðan jarðveg. Umhverfisstofnun taldi í umsögn sinni að mikilvægt væri að reiðleið yrði fyrir utan varúðarsvæðið. Þá varaði Matvælastofnun við því að nýta fyrrum urðunarstað fyrir riðufé undir reiðstíga eða nýtingu þessa svæðis. Lagði stofnunin til að svæðið yrði girt af, merkt vel og að gróðursett yrðu tré þar auk þess sem stofnunin benti á að hvers kyns jarðvegsrask á varúðarsvæði væri óheppilegt og yki smithættu á riðu.

Í hinu kærða deiliskipulagi er að finna umhverfismatsskýrslu þar sem lagt var mat á áhrif skipulagsins á einstaka þætti umhverfisins, nánar tiltekið áhrif á loft, gróður, ásýnd og landslag, samfélag, minjar og verndarsvæði og heilsu og öryggi. Í skýrslunni kemur fram að bornir séu saman valkostir fyrir íbúðarbyggð, landbúnaðarlóðir, verslun og þjónustu, samfélagsþjónustu og samgöngur. Aftur á móti er í umfjöllun um samgöngur tekið fram að nauðsynlegt þyki að horfa til langrar framtíðar hvað varði umferðarskipulag og umferðaröryggi í Laugarási og því sé ekki um eiginlega valkosti að ræða heldur sé greint frá helstu umhverfisáhrifum af stefnu um samgöngur. Eru áhrif á minjar og verndarsvæði metin óveruleg, en áhrif á heilsu og öryggi eru talin jákvæð. Hvergi er í skýrslunni vikið að þeim áhrifum sem lagning útivistarstígs yfir varúðarsvæði og minjasvæði gæti haft í för með sér. Verður þó í ljósi áðurgreindra umsagna að líta svo á að tilefni hefði verið til slíkrar umfjöllunar. Að teknu tilliti til stöðu deili­skipulagsins í stigskiptri áætlanagerð og fyrrgreindra sjónarmiða um umhverfismat deiliskipulags verður sá ágalli ekki talinn svo verulegur að varði ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Er þá einnig haft í huga að í kafla deiliskipulagsins um skipulagsskilmála kemur fram að óheimilt verði að hrófla við svæðinu án samráðs við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, óheimilt verði að nýta svæðið meðan ekki liggi fyrir mat á því hvort jarðvegur sé mengaður og að lega útivistarstígsins sé háð því að ekkert jarðrask verði á skilgreindu varúðarsvæði. Verður að líta svo á að með því hafi sveitarfélagið leitast við að koma í veg fyrir hugsanleg neikvæð áhrif af gerð og notkun stígsins á umhverfið, sbr. einnig áðurnefnda 4. mgr. gr. 5.4.1. í skipulagsreglugerð.

Þá þykir rétt að benda á að komi til þess að sótt verði um framkvæmdaleyfi fyrir umræddum stíg er það í höndum sveitarstjórnar að gæta að því að framkvæmdin uppfylli fyrrnefnda skilmála í deiliskipulagi svæðisins, sbr. 4. mgr. 14. gr. skipulagslaga. Samþykki sveitarstjórn umsókn um framkvæmdaleyfi er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Í hinu kærða deiliskipulagi er aðkomu að lóð kæranda ekki breytt frá því sem var í eldra deili­skipulagi svæðisins frá árinu 2012. Kærandi hefur fært fram þau rök að ekki hafi verið gætt jafnræðis við gerð deiliskipulagsins þegar sveitarfélagið hafi ekki orðið við beiðni hans um að aðkoma að lóð hans yrði sýnd á skipulagsuppdrætti eins og hún sé í raun, líkt og gert hafi verið vegna lóðar Langholtsvegar 5. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal við úrlausn máls gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Í því felst að aðilar við sambærilegar aðstæður skuli hljóta samsvarandi afgreiðslu. Við mat á því hvort jafnræðis hafi verið gætt við töku hinnar umdeildu ákvörðunar verður þó að líta til þess að um er að ræða ákvörðun sem veitir skipulagsyfirvöldum ákveðið svigrúm í skjóli lögbundins skipulagsvalds til að móta byggð einstakra svæða. Eiga einstakir aðilar almennt ekki lögvarinn rétt til þess að knýja fram slíka breytingu. Í máli þessu liggur fyrir að áætlaður stígur mun þvera núverandi aðkomu að lóð kæranda, en þær aðstæður eru ekki fyrir hendi vegna lóðar Langholtsvegar 5. Þá hefur af hálfu sveitarfélagsins verið bent á að vegna sjónarmiða um umferðaröryggi hafi ekki verið hægt að verða við ósk kæranda auk þess sem gert sé ráð fyrir þeim möguleika að Langholtsvegur tengist yfir á Höfðaveg og þá væri ekki ásættanlegt að aðkoman væri í samræmi við óskir kæranda. Að teknu tilliti til framangreinds verður litið svo á að aðstæður séu ekki sambærilegar á umræddum lóðum.

Með vísan til þess sem að framan greinir og þar sem ekki liggja fyrir þeir form- eða efnis­annmarkar á hinu kærða deiliskipulagi sem raskað geta gildi þess verður kröfu um ógildingu skipulagsins hafnað.

Rétt þykir þó að benda á að geti kærandi sýnt fram á tjón vegna hins kærða deiliskipulags á hann eftir atvikum rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Það álitaefni á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina.

 Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 15. maí 2023 um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi fyrir þéttbýlið Laugarás í Bláskógabyggð.

103/2023 Laugarás

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 15. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 103/2023, kæra á afgreiðslu sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 15. maí 2023 á umhverfismati vegna breytingar á Aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015–2027 fyrir þéttbýlið Laugarás.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 17. ágúst 2023, kærir eigandi fasteignar að Langholti 1, Bláskógabyggð, „afgreiðsl[u] sveitarfélagsins Bláskógabyggðar á umhverfismati og málsmeðferð umhverfismatsins, sem unnið var samhliða áætlanagerð um breytingu á aðalskipulagi (ASK) fyrir þéttbýlið í Laugarási og lá fyrir áður en áætlunin var samþykkt af sveitarstjórn.“ Er þess krafist að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 14. september 2023.

Málavextir: Á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 15. maí 2023 var að lokinni kynningu, auglýsingu og yfirferð Skipulagsstofnunar, samþykkt tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Bláskóga­byggðar 2015–2027 vegna þéttbýlisins í Laugarási. Skipulagsstofnun staðfesti breytinguna 4. júlí s.á. og birtist auglýsing um samþykkt sveitarstjórnar í B-deild Stjórnartíðinda 18. s.m. Í greinargerð með breytingunni er m.a. tekið fram að við Höfðaveg austan Langholts sé bætt inn varúðarsvæði, VA4, en þar hafi um tíma verið urðað sorp og sláturúrgangur. Meðal þess sem segir í skilmálum um svæðið er að óheimilt sé að hrófla við því án samráðs við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands og óheimilt að nýta það. Gert sé ráð fyrir að reiðleið liggi yfir varúðarsvæðið og verði hún nánar útfærð í deiliskipulagi.

Málsrök kæranda: Kærandi telur afmarkaða málsmeðferð og afgreiðslu umhverfismats áætlana kæran­lega til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála á grundvelli 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Eigi kærandi lögvarinna hagsmuna að gæta með tilliti til grenndaráhrifa. Þá hafi hann réttmæta hagsmuni af málinu á grundvelli réttinda fólks til að njóta friðhelgi einkalífs og heimilis eins og ákvæði 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu hafi verið túlkað af Mannréttinda­dómstól Evrópu. Kærandi eigi mikið undir því að sveitarfélagið standi með forsvaranlegum hætti að umhverfismati enda séu lífsgæði og eignir hans í húfi.

Umhverfismat samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana hafi verið sameinað greinargerð aðalskipulagsins með heimild í 9. gr. sömu laga. Endanleg afgreiðsla umhverfismatsins hafi hins vegar verið á grunni skipulagslaga, sbr. samþykkt sveitarstjórnar á greinargerð aðalskipulagsins. Samþykkt greinargerð aðalskipulags samkvæmt skipulagslögum skiptist í tvo hluta, þ.e. annars vegar tillögu að aðalskipulagi, sem sé staðfest af Skipulagsstofnun og ráðherra, og hins vegar lýsingu aðstæðna og forsendna ásamt umhverfismati sem ekki sé staðfest af stofnuninni og ráðherra.

Kveðið sé á um sérstöðu umhverfismats skipulagsáætlana í lögum nr. 111/2021, þ.m.t. að umhverfismat „get[i]“ verið hluti af greinargerð með skipulagsáætlun skv. 14. gr. laganna. Kynna skuli almenningi tillögu að skipulagsáætlun „ásamt“ umhverfismatsskýrslu skv. 15. gr. sömu laga. Þá skuli við afgreiðslu skipulagsáætlunar gera samantekt um „hvernig umhverfissjónar­mið hafa verið felld inn í áætlunina með hliðsjón af umhverfismatsskýrslu“ skv. 16. gr. laganna. Loks njóti umhverfismatið einnig sérstöðu samkvæmt ákvæðum skipulags­laga, en fram komi í 2. mgr. 6. gr. laganna að sveitarstjórnir fari með yfirstjórn skipulagsmála „þ.m.t. umhverfis­mat skipulagsáætlana.“ Umhverfismatsskýrsla falli utan staðfestingar Skipu­lagsstofnunar og ráð­herra á aðalskipulagi því umhverfismat ásamt lýsingu aðstæðna og forsendna í skipulags­greinar­­gerð „telst ekki hluti samþykktrar og staðfestrar stefnu“, sbr. gr. 4.5.1. í skipulags­reglu­gerð nr. 90/2013. Endanleg afgreiðsla umhverfismats sé því kæranleg til úrskurðar­nefndar­innar.

Túlka beri kæruheimildina með hliðsjón af markmiðsákvæðum skipulagslaga, en einnig sé vísað til Árósasamningsins sem miði að því að tryggja almenningi ákveðin réttindi. Jafnframt beri að líta til þess að sveitarfélagið hafi hagað vinnu sinni svo að einvörðungu sé fjallað um varúðar­­svæði VA4 í umhverfismati aðalskipulagsins, en ekki í umhverfismati deili­skipulagsins.

Umhverfismatið og málsmeðferð þess uppfylli hvorki ákvæði skipulagslaga né laga nr. 111/2021. Leiði ágallarnir til þess að brotið sé gegn markmiðum beggja laganna og rannsóknarreglu og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Á sveitarstjórn hvíli sú skylda við gerð aðalskipulags að gera grein fyrir umhverfisáhrifum þess, m.a. með samanburði þeirra valkosta sem til greina komi, sbr. 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga, eftir því sem mælt sé fyrir um í gr. 4.4.1. í skipulags­reglugerð. Í skipulagsferlinu hafi komið fram alvarlegar ábendingar og upplýsingar frá opin­berum stofnunum um margvísleg grenndaráhrif á þéttbýlið Laugarás, þ.m.t. mengunar­hættu, slysa­hættu og hættu fyrir heilsu og öryggi almennings.

Málsrök Bláskógabyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni, ellegar að kröfu kæranda verði hafnað. Öllum málsmeðferðarreglum hafi verið fylgt við breytingu á Aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015–2027 fyrir Laugarás og við framkvæmd og afgreiðslu umhverfismats sem hafi verið hluti af aðalskipulaginu. Það sé ekki hlutverk úrskurðarnefndarinnar að endurskoða hluta aðalskipulagsáætlana, sbr. 52. gr. skipulags­laga nr. 123/2010. Umhverfismatið sé hluti málsmeðferðar við töku ákvörðunar um sam­þykkt aðalskipulags sem sé ekki kæranleg ákvörðun til nefndarinnar.

 Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 tekur aðalskipulag gildi þegar það hefur verið samþykkt af sveitarstjórn, hlotið staðfestingu Skipulagsstofnunar og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Verða ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. 1. mgr. 52. gr. laganna. Í máli þessu er kærð málsmeðferð og afgreiðsla sveitarstjórnar á umhverfismati er unnið var í tengslum við breytingu á Aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015–2027.

Í 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga er tekið fram að við gerð skipulagsáætlana skuli gera grein fyrir umhverfisáhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar, m.a. með samanburði þeirra valkosta sem til greina komi og umhverfismati áætlunarinnar. Í gr. 4.4.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er nánari umfjöllun um umhverfismat við gerð aðalskipulags.

Samkvæmt 13. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana skal sá sem ber ábyrgð á áætlanagerð sem fellur undir lögin bera ábyrgð á umhverfismati áætlunarinnar og kostnaði af gerð þess. Hann skal vinna umhverfismatsskýrslu þar sem gerð er grein fyrir umhverfismati áætlunarinnar og annast kynningu og samráð í því skyni. Umhverfismat áætlunarinnar skal vinna samhliða áætlanagerðinni og liggja fyrir áður en áætlunin er samþykkt af viðkomandi stjórnvaldi eða lögð fyrir Alþingi. Sá sem ber ábyrgð á umhverfismati áætlunar skal við afgreiðslu hennar hafa hliðsjón af umhverfismatsskýrslu og athugasemdum sem borist hafa við tillögu að áætlun og umhverfismatsskýrslu, sbr. 1. mgr. 16. gr. sömu laga. Þá er í 2. mgr. ákvæðisins kveðið á um að við afgreiðslu áætlunar skuli gerð samantekt um hvernig umhverfis­sjónarmið hafi verið felld inn í áætlunina með hliðsjón af umhverfismatsskýrslu og samráði um tillögu að áætlun og umhverfismatsskýrslu.

Greinargerð með umræddri breytingu á aðalskipulagi Bláskógabyggðar hefur að geyma umfjöllun um téðar breytingar á aðalskipulaginu, forsendur og málsmeðferð. Að auki er í greinargerðinni umhverfis­matsskýrsla þar sem tekið er fram að líkleg áhrif af stefnu aðalskipulags­­breytingarinnar séu metin samkvæmt lögum nr. 111/2021. Líkt og að framan greinir verður samþykkt á aðalskipulagi eða breyting á því ekki borin undir úrskurðarnefndina. Hvað varðar lögmæti umhverfismats áætlunar skortir nefndina lagaheimild til endurskoðunar þess. Af þeim sökum verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

124/2023 Fiskvinnsla að Bolafæti

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 15. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.

Fyrir var tekið mál nr. 124/2023, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 25. september 2023 um að afskrá fiskvinnslustarfsemi að Bolafæti 15 þar sem starfsemin samræmist ekki Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2020-2035.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. október 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Erik the Red Seafood ehf. þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 25. september s.á að afskrá fiskvinnslustarfsemi kæranda að Bolafæti 15, Reykjanesbæ þar sem starfsemin samræmist ekki Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2020–2035. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Með bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 14. nóvember 2023, var réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar frestað að kröfu kæranda á meðan mál þetta væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðisnefnd Suðurnesja 2. nóvember 2023.

Málavextir: Kærandi rekur fiskvinnslu á þremur starfsstöðum í Keflavík, Njarðvík og Sandgerði. Ein starfsstöðvanna er á lóð nr. 15 við Bolafót í Reykjanesbæ og er sú starfsemi skráð sem skráningarskyldur atvinnurekstur í samræmi við lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerð nr. 830/2022 um skráningarskyldan atvinnurekstur. Hinn 5. júlí 2023 sendi Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja kæranda bréf þar sem greindi að í athugun væri hvort afskrá skyldi starfsemi félagsins að Bolafæti 15 með vísan til 11. gr. reglugerðar nr. 830/2022 þar sem samkvæmt upplýsingum skipulagsyfirvalda samrýmdist starfsemin ekki gildandi skipulagsskilmálum fyrir svæðið. Kærandi svaraði erindinu með bréfi, dags. 17. júlí 2023, og mótmælti fyrirhugaðri afskráningu. Á fundi heilbrigðisnefndar Suðurnesja 25. september s.á. var samþykkt að afskrá starfsemi félagsins að Bolafæti 15 á fyrrgreindum grundvelli. Með bréfi Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, dags. 26. s.m., var kæranda tilkynnt um niðurstöðu nefndarinnar. Hinn 16. október 2023 sendi kærandi eftirlitinu bréf um lokunaráætlun, þar sem m.a. kom fram sú beiðni að félaginu yrði veittur frestur til loka árs 2023 til að koma starfseminni að Bolafæti 15 í það horf að það yrði einungis unnið á hefðbundnum dagvinnuvöktum. Í áætluninni fælist hins vegar ekki viðurkenning á réttmæti eða lögmæti ákvörðunar heilbrigðisnefndarinnar um afskráningu starfseminnar.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að honum hafi hvorki verið veittur aðgangur að öllum gögnum málsins né gefinn kostur á að koma að andmælum við mögulegar forsendur ákvörðunarinnar. Líkt og sjá megi í 4. lið 301. fundar Heilbrigðisnefndar Suðurnesja, sem haldinn hafi verið 25. maí 2023, hafi lögfræðiálit legið hinni kærðu ákvörðun til grundvallar. Kærandi hafi ekki verið upplýstur um álitið og hafi ekki fengið aðgang að því þrátt fyrir að það kunni að hafa skipt kæranda miklu máli, svo hann hefði getað komið að andmælum. Auk þess hafi kærandi ekki verið upplýstur um 3. lið 299. fundar heilbrigðisnefndarinnar, sem haldinn hafi verið 9. mars 2023, en liðurinn hafi verið merktur með yfirskriftinni „Álitamál varðandi breytt aðalskipulag“. Ennfremur hafi ekki verið upplýst um að „[s]amkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun ber að túlka reglugerð um skráningu þannig að áfram gildi sömu kröfur og áður giltu um starfsleyfi, að skráningarskyldur rekstur þurfi að vera í samræmi við skipulag“ líkt og fram komi í forsendum hinnar kærðu ákvörðunar. Ekkert hafi verið upplýst um þessar upplýsingar sem hafi komið frá Umhverfisstofnun eða lagalegan grundvöll þessarar fullyrðingar. Kærandi bendi einnig á að hann hafi ekki fengið upplýsingar um hverjir hafi greitt atkvæði með afskráningu félagsins og hvernig atkvæði hafi skipst. Með því að upplýsa hvorki um né veita aðgang að fyrrgreindum gögnum þrátt fyrir beiðnir kæranda þar um, hafi heilbrigðisnefnd Suðurnesja brotið gegn andmælarétti skv. 13. gr. stjórnsýslulaga og gegn upplýsingarétti skv. 15. gr. sömu laga, sbr. einnig 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Hin kærða ákvörðun byggist á tveimur atriðum, annars vegar á gildistöku nýs aðalskipulags svæðisins við Bolafót og hins vegar á túlkun heilbrigðisnefndarinnar á heimild til afskráningar atvinnureksturs. Heilbrigðisnefnd Suðurnesja telji sig hafa heimild til að afskrá félagið á grundvelli 11. gr. reglugerðar nr. 830/2022 og taki fram að „[þ]að leiði svo af afskráningu starfsemi að félaginu beri að stöðva skráningarskyldan atvinnurekstur sinn að Bolafæti þegar í stað.“ Sé þetta orðalag skýrt og taki mið af því þegar rekstri sé hætt og styðjist það m.a. við tilgang skráningarskyldunnar.

Í hinni kærðu ákvörðun séu raktir liðir 1.3-1.5 í almennum starfsleyfisskilyrðum fyrir skráningarskyldan atvinnurekstur: „Í lið 1.3 kemur fram að rekstraraðili skráningarskylds atvinnurekstrar beri ábyrgð á því að starfsemi hans sé skráð, að skráðar upplýsingar um starfsemina séu réttar og að starfsemin sé í samræmi við gildandi löggjöf, almennar kröfur og starfsskilyrði. Í lið 1.4 kemur fram að starfsemin gildi aðeins í því húsnæði eða aðstöðu sem tilgreint er í skráningunni og að starfsemin skuli vera í samræmi við samþykkta notkun húsnæðis eða aðstöðu. Þá kemur fram í lið 1.5 að atvinnurekstur skuli vera í samræmi við gildandi deiliskipulag. Sé deiliskipulag ekki til staðar skuli starfsemin samræmast gildandi aðalskipulagi hvað varðar landnotkun og byggðaþróun og sé í samræmi við samþykkta notkun fasteignar. Þar sem fiskvinnslan fellur undir gildissvið laga nr. 7/1998 og reglugerðar nr. 830/2022 er óumdeilt að almenn skilyrði Umhverfisstofnunar eigi einnig við um reksturinn og ber félaginu því að hlíta framangreindum liðum.“

Almenn starfsleyfisskilyrði fyrir skráningarskyldan atvinnurekstur sem gefin séu út af Umhverfisstofnun séu samræmd starfsskilyrði vegna mengunarvarna sem byggi á ákvæðum í reglugerðum. Varðandi framangreindan lið 1.3 sé starfsemi kæranda rétt skráð og í samræmi við gildandi löggjöf, almennar kröfur og starfsskilyrði. Því til stuðnings sé vísað til þess sem fram komi í bréfi heilbrigðiseftirlitsins um að kærandi hafi fengið skráningu á island.is til ótiltekins tíma. Þrátt fyrir samþykkt nýs aðalskipulags fyrir skipulagsreitinn þá sé húsið samþykkt sem iðnaðarbygging á atvinnuhúsalóð og því verði ekki breytt nema með nýju deiliskipulagi. Hvað varði lið 1.4 sé kærandi með vinnslu í þremur húsum og skráningin taki þannig til Bolafótar 15 og annarra húsa þar sem rekstur kæranda fari fram.

Hvað varði lið 1.5 í starfsleyfisskilyrðunum þá byggi hann á 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunareftirlit. Í 7. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar komi fram: „Nýr atvinnurekstur skal vera í samræmi við gildandi deiliskipulag. Deiliskipulag þarf þó ekki að vera til staðar vegna atvinnurekstrar, sbr. VII., IX. og X. viðauka, enda samrýmist starfsemin gildandi aðalskipulagi hvað varðar landnotkun og byggðaþróun og sé í samræmi við samþykkta notkun fasteignar. Útgefandi starfsleyfis skal leita umsagnar viðkomandi skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa um þessa þætti. Deiliskipulag þarf auk þess ekki að vera til staðar vegna atvinnustarfsemi, sbr. viðauka I, sé um að ræða nýjan atvinnurekstur á stað þar sem áður var sambærilegur atvinnurekstur með starfsleyfi. Starfsemin skal þá samrýmast aðalskipulagi varðandi landnotkun og byggðaþróun og vera í samræmi við samþykkta notkun fasteignar. Útgefandi starfsleyfis skal leita umsagnar viðkomandi skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa um þessa þætti.“ Þetta skilyrði fjalli um nýjan atvinnurekstur og þau tilvik þar sem atvinnurekandi sæki um útgáfu starfsleyfis. Kærandi hafi gildandi skráningu og sé ekki að hefja nýjan atvinnurekstur eða sækja um starfsleyfi eða skráningu og eigi ákvæðið því ekki við í máli þessu. Hvorki Umhverfisstofnun, Heilbrigðisnefnd Suðurnesja né Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja geti afturkallað það leyfi á grundvelli greinarinnar. Þá sé bent á að ekki hafi verið leitað álits skipulagsyfirvalda við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar.

Heilbrigðisnefnd Suðurnesja hafi ákveðið að afskrá félagið og beri kæranda að stöðva skráningarskyldan atvinnurekstur að Bolafæti þegar í stað. Ekki hafi verið gefinn neinn frestur í ákvörðuninni til að aðlaga sig að gjörbreyttum aðstæðum sem í ákvörðuninni felist, en hún valdi kæranda miklu tjóni. Fyrirsvarsmanni kæranda hafi síðar verið tjáð símleiðis að kærandi þyrfti ekki að loka starfsstöð sinni þá þegar, en óskað hafi verið eftir að kærandi útbyggi og skilaði svokallaðri lokunaráætlun. Óskað hafi verið eftir skriflegri staðfestingu þess efnis en hún hafi ekki borist. Í tölvupósti framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja hafi þó komið fram að lokunaráætlun væri hugsuð til komandi vikna og m.a. til að koma til móts við andmæli félagsins varðandi meðalhóf. Þessi vinnubrögð geti ekki talist til vandaðra stjórnsýsluhátta. Unnt hefði verið að ná sama markmiði með öðru og vægara móti, t.d. með því að veita frest í ákvörðuninni til að bregðast við breyttum aðstæðum og þar með takmarka tjón kæranda. Með þessu hafi heilbrigðisnefnd Suðurnesja brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga og réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins með því að túlka hverja réttarheimild kæranda í óhag.

Kærandi sé með gilda skráningu í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir sem fáist staðfest í ákvörðun Heilbrigðisnefndar Suðurnesja. Ekkert hafi komið fram sem gefi til kynna að starfsemi kæranda brjóti gegn aðalskipulagi Reykjanesbæjar og nýtt deiliskipulag hafi ekki tekið gildi. Aðalskipulag sé auk þess skipulagsáætlun fyrir sveitarfélag þar sem sett sé fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins varðandi landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál. Deiliskipulag sé aftur á móti skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reit innan sveitarfélags þar sem teknar séu ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun o.þ.h. Sveitarfélag geti ekki ákveðið að breyta skipulagi fyrir svæði þannig að það útiloki starfsemi sem þar sé fyrir nema til komi bætur á móti. Hvað þá að breytt aðalskipulag geti veitt heilbrigðisnefnd vald til að loka starfsemi á þeim grunni. Deiliskipulag hafi ekki verið sett eftir að nýtt aðalskipulag hafi tekið gildi og sé starfsemin að Bolafæti 15 óbreytt frá því sem verið hafi. Jafnframt sé gert ráð fyrir atvinnustarfsemi á svæðinu og telji kærandi sig því geta starfað áfram í húsinu.

Málsrök Heilbrigðisnefndar Suðurnesja: Af hálfu Heilbrigðisnefndar Suðurnesja er bent á að um starfsemi kæranda gildi lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Starfsemin falli undir 110. tölul. viðauka IV við lögin, sem jafnan sé starfsleyfisskyld, sbr. 6. gr. laganna. Í 8. gr. laga nr. 7/1998 sé heimild til að kveða á um í reglugerð að atvinnurekstur, sbr. viðauka IV, sé háður skráningarskyldu í stað starfsleyfis, sbr. 4. og 5. gr. laganna. Í 3. mgr. 8. gr. laga nr. 7/1998 segi: „Rekstraraðili atvinnurekstrar, sem er skráningarskyldur skv. 1. mgr., skal skrá starfsemi sína hjá Umhverfisstofnun áður en hún hefst. Umhverfisstofnun skal staðfesta skráningu rekstraraðila og leiðbeina honum um hvaða reglur gilda um starfsemi hans. Umhverfisstofnun skal upplýsa heilbrigðisnefndir um skráningar rekstraraðila.“ Með breytingarlögum nr. 46/2022 hafi sú breyting orðið á 3. mgr. 8. gr. að í stað þess að rekstraraðili skyldi skrá rekstur sinn hjá Umhverfisstofnun skyldi hann skrá rekstur sinn í samræmi við ákvæði reglugerðar sem ráðherra setti. Hlutaðeigandi eftirlitsaðili staðfesti svo skráningu rekstraraðila og leiðbeini honum um hvaða reglur gildi um starfsemi hans.

Hinn 15. nóvember 2022 hafi öðlast gildi reglugerð nr. 830/2022 um skráningarskyldan atvinnurekstur samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem tekið hafi gildi 15. nóvember 2022. Samkvæmt reglugerðinni skuli rekstraraðilar skráningarskylds atvinnurekstrar skrá starfsemi sína á vefsetrinu island.is. Samkvæmt 2. gr. sbr. 45. tölul. viðauka við reglugerðina falli starfsemi kæranda undir gildissvið reglugerðarinnar og hafi því orðið skráningarskyld við gildistöku hennar. Samkvæmt 8. gr. reglugerðarinnar fari heilbrigðisnefnd með eftirlit með skráningarskyldum atvinnurekstri, þ. á m. að starfsemi sé rétt skráð. Um afskráningu sé fjallað í 11. gr. reglugerðarinnar, m.a. ef starfsemi fellur ekki lengur undir skilyrði um skráningarskylda starfsemi og sé þá heimilt að afskrá hana þegar lögbundinni málsmeðferð er lokið. Fiskvinnsla sé starfsleyfisskyld skv. viðauka IV við lög nr. 7/1998, sbr. 6. gr. laganna. Á grundvelli 8. gr. laganna hafi ráðherra hins vegar sett reglugerð nr. 830/2022, sem kveði á um undanþágu starfsemi kæranda frá þessari starfsleyfisskyldu. Sé starfsemin því skráningarskyld, enda uppfylli starfsemin þau skilyrði sem sett séu fram í reglugerðinni.

Reglugerð nr. 830/2022 feli í sér undanþágu frá starfsleyfisskyldu skv. 6. gr. og sé ívilnandi fyrirkomulag fyrir tiltekinn atvinnurekstur, að teknu tilliti til eðlis og umfangs starfseminnar. Mun meiri kröfur séu gerðar við málsmeðferð við útgáfu starfsleyfis en þegar um sé að ræða skráningarskyldu. Hafi löggjafinn þannig falið ráðherra að meta hvers kyns starfsemi falli undir undanþágu frá starfsleyfisskyldu og hvaða skilyrði slíkri starfsemi skuli sett. Starfsemi þurfi, skv. 5. gr. reglugerðarinnar, að uppfylla þau almennu og sértæku skilyrði sem Umhverfisstofnun gefi út. Vægi útgefinna skilyrða Umhverfisstofnunar sé mikið, enda forsenda skráningar að viðkomandi starfsemi uppfylli starfsskilyrðin.

Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar segi að Umhverfisstofnun gefi út almennar kröfur sem gildi um skráningarskyldan atvinnurekstur. Umhverfisstofnun hafi sett almenn skilyrði fyrir skráningarskyldan atvinnurekstur og gildi þau skilyrði um atvinnustarfsemi kæranda. Sömuleiðis hafi Umhverfisstofnun sett starfsskilyrði fyrir vinnslu fisks og annarra sjávarafurða, aðra en viðauka I með lögum nr. 7/1998. Rekstraraðila beri ávallt að uppfylla hin almennu skilyrði Umhverfisstofnunar fyrir skráningarskyldan atvinnurekstur auk sértækari starfsskilyrða, ef við eigi. Vísað er í þessu sambandi sérstaklega til liða 1.3, 1.4 og 1.5. í almennu starfsskilyrðunum fyrir skráningarskyldan atvinnurekstur, en í 1.5 segi að atvinnurekstur skuli vera í samræmi við gildandi deiliskipulag. Sé deiliskipulag ekki til staðar skuli starfsemi samræmast gildandi aðalskipulagi hvað varði landnotkun og byggðaþróun og vera í samræmi við samþykkta notkun. Með nýju aðalskipulagi Reykjanesbæjar hafi svæðið þar sem kærandi hafi starfsemi verið skilgreint sem miðsvæði, en hafði áður verið flokkað sem athafnasvæði. Þar sem svæðið sé ekki deiliskipulagt gildi aðalskipulag um svæðið.

Bolafótur sé nú á skilgreindu miðsvæði (M11). Í greinargerð með Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2020-2035 sé miðsvæði sérstaklega skilgreint sem svæði fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjóni heilu landsvæði og þar geti verið hreinleg atvinnustarfsemi sem samræmist yfirbragði og eðli miðsvæðis. Í dæmaskyni séu nefndar verslanir og skrifstofur. Um miðsvæðið Bolafót (M11) segi í greinargerð með aðalskipulaginu: „Endurskipulagning með blöndun atvinnustarfsemi, einkum á neðri hæðum. Gert er ráð fyrir möguleika á íbúðum og þriggja til fimm hæða byggð. Mikilvægt er að atvinnustarfsemi og íbúðarbyggð á efri hæðum geti farið saman. Endurskoða skal grundvöll rekstrarleyfa starfandi iðnaðar við gerð deiliskipulags. Vanda skal til ásýndar, hönnunar og frágangs við meginaðkomu vegna nándar við íbúðarbyggð. Huga skal sérstaklega að hljóðvist vegna flugs við deiliskipulagsgerð.“ Markmið aðalskipulagsins hafi þannig verið að íbúðarbyggð og atvinnustarfsemi færu saman á svæðinu. Af greinargerð skipulagsins megi ráða að hagsmunir íbúa af því að búa án hávaða og lyktarmengunar séu ríkari en hagsmunir atvinnurekenda til að reka starfsemi sína á slíku svæði, enda geri greinargerðin beinlínis ráð fyrir endurskoðun rekstrarleyfa á miðsvæðum í kjölfar breytinga aðalskipulagsins, þ. á m. á Bolafæti, þar sem kærandi hafi starfrækt fiskvinnslu.

Í samræmi við framangreint telji heilbrigðisnefnd að starfsemi fiskvinnslu kæranda geti ekki samræmst gildandi aðalskipulagi. Kærandi hafi verið fullmeðvitaður um breytingu aðalskipulags og áhrif þess á starfsemi hans enda hafi honum áður verið gerð grein fyrir áhrifum hins breytta skipulags sem unnið hafi verið samkvæmt skipulagslögum. Árið 2022, fyrir setningu reglugerðar nr. 830/2022 og breytingu á lögum nr. 7/1998 það ár, hafi heilbrigðisnefnd Suðurnesja haft starfsleyfi kæranda til skoðunar vegna starfsemi hans sem þá hafi verið starfsleyfisskyld skv. 6. gr. laganna. Hafi kærandi og heilbrigðisnefnd þá átt í nokkrum samskiptum enda hafi þá legið fyrir að breyting væri fyrirhuguð á aðalskipulagi Reykjanesbæjar. Á þeim tíma hafi afstöðu skipulagsfulltrúa verið leitað um það hvort starfsemi kæranda væri í samræmi við deili- og aðalskipulag. Í samskiptum sínum við kæranda hafi m.a. komið fram hjá skipulagsfulltrúa: „Í ljósi stefnubreytinga sveitarfélagsins á landnotkun svæðisins samræmist starfsemi fiskvinnslu ekki áætlun sveitarfélagsins um landnotkun á þessum reit og er því ekki mælt með endurnýjun starfsleyfis til lengri tíma.“

Sökum fyrirhugaðra breytinga á aðalskipulagi Reykjanesbæjar á þeim tíma sem endurnýjum starfsleyfis kæranda hafi verið til skoðunar hafi starfsleyfi verið veitt til eins árs, þ.e. frá 9. febrúar 2022 til 9. febrúar 2023. Kæranda hafi því verið ljóst að breytingar væru í vændum, líkt og fram hafi komið í samskiptum hans við skipulagsfulltrúa. Hinn 22. ágúst 2023 hafi verið óskað eftir staðfestingu skipulagsfulltrúa á því hvort umsögn hans væri enn fullgild og degi seinna hafi borist staðfesting á að svo væri. Hafi þannig verið ljóst, frá því Reykjanesbær hafi lagt fram tillögu að breyttu aðalskipulagi, að starfsemi kæranda samræmdist ekki skilgreiningu svæðisins að Bolafæti. Sé sú staða óbreytt. Ekkert hafi komið fram í málatilbúnaði kæranda sem sýni fram á hið gagnstæða, þ.e. að starfsemi hans geti samræmst skilgreiningu svæðisins (M11) í aðalskipulaginu.

Sveitarfélög hafi á grundvelli skipulagslaga nr. 123/2010 víðtækar heimildir til skipulagsgerðar. Í þessu skipulagsvaldi felist bæði heimild og skylda sveitarfélaga til að útfæra skipulag innan marka þeirra. Hér megi m.a. líta til 2. mgr. 12. gr. skipulagslaga, sem endurspegli hlutverk skipulagsáætlana, en þar segi að í skipulagsáætlunum sé mörkuð stefna um landnotkun og byggðaþróun, ásamt því að þar séu sett fram stefnumið um einstaka þætti varðandi íbúðarbyggð, atvinnuhúsnæði o.s.frv. Hin kærða ákvörðun sé reist á því að starfsemi kæranda sé á skjön við gildandi skipulag á svæðinu og því uppfylli starfsemin ekki almenn skilyrði Umhverfisstofnunar, sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Af því leiði að undantekning frá skráningarskyldu skv. 6. gr. eigi ekki við og forsenda skráningar sé ekki lengur til staðar. Um sé að ræða málefnaleg sjónarmið sem sæki sér ríka stoð í lögum nr. 7/1998 og sé beinlínis gert ráð fyrir í reglugerð nr. 830/2022.

Varðandi sjónarmið um meðalhófi mæli reglugerðin ekki fyrir um neinn aðlögunartíma við afskráningu, heldur skuli starfsemi afskráð. Heilbrigðisnefnd hafi heimilað kæranda, með tilliti til hagsmuna hans, að skila lokunaráætlun, það sem kærandi legði fram tímasetta áætlun um með hvaða hætti félagið hygðist loka starfsstöðinni. Með þessu móti hafi verið komið til móts við kæranda og meðalhófs gætt. Í lokunaráætlun hafi að vísu verið gert ráð fyrir áframhaldandi starfsemi, þrátt fyrir hina kærðu ákvörðun, en að gripið yrði til ráðstafana til að „koma til móts við umkvartanir nágranna“. Einnig beri að hafa í huga að heilbrigðisnefnd hafi áður veitt starfsemi kæranda tímabundið starfsleyfi þar sem útlit væri fyrir að starfsemin myndi ekki samræmast aðalskipulagi sveitarfélagsins við endurskoðun þess. Hafi kærandi því ekki getað gert ráð fyrir áframhaldandi starfsemi enda hafi afstaða skipulagsfulltrúa legið fyrir. Heilbrigðisnefnd verði ekki kennt um að kærandi hafi ekki gripið til frekari ráðstafana og gert ráð fyrir áframhaldandi starfsemi.

Í tilkynningu til kæranda um fyrirhugaða afskráningu hafi komið skýrlega fram á hvaða forsendum sú athugun hafi byggt, þ.e. hvort starfsemin félli enn undir skilyrði um skráningarskylda starfsemi og á hverju afskráning kynni að byggja. Minnisblað lögmanna, sem hafi verið vinnuskjal til afnota stjórnvaldsins, hafi lotið að lagagrundvelli skráningarskyldu og þeirri málsmeðferð sem gæta skyldi að. Þannig hafi verið vikið að lagaumhverfinu og forsendum skráningar vegna skráningarskyldrar starfsemi auk umfjöllunar um starfsemi kæranda. Allt sem við hafi komið starfsemi kæranda hafi verið kynnt honum í tilkynningu um skoðun á afskráningu starfseminnar. Samskipti heilbrigðisnefndar og Umhverfisstofnunar hafi verið til að staðfesta túlkun reglugerðar nr. 830/2022 og hafi kærandi verið upplýstur um þá túlkun. Kæranda hafi þannig verið gerð grein fyrir grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar í aðdraganda hennar og hvernig bæri að túlka skilyrði reglugerðar nr. 830/2022. Gætt hafi verið að rétti kæranda til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Allar upplýsingar hafi komið fram í tilkynningu heilbrigðiseftirlitsins og breyti engu þar um að minnisblað og samskipti við Umhverfisstofnun hafi ekki verið meðal gagna málsins. Jafnframt sé bent á að kæranda hafi verið boðið á fund til að fara yfir forsendur málsins meðan það hafi verið til meðferðar. Kærandi hafi aldrei fundið tíma til slíks fundar þrátt fyrir ítrekun heilbrigðiseftirlitsins. Hvað varði upplýsingar um atkvæðagreiðslu og töku hinnar kærðu ákvörðunar sé bent á að heilbrigðisnefnd sé fjölskipað stjórnvald. Í fundargerð sé tekið fram hverjir hafi setið fundinn, hverjir sitji í heilbrigðisnefnd og að nefndin hafi samþykkt afskráningu, auk þess sem hin kærða ákvörðun sé undirrituð af framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlitsins. Verði því ekki séð hvaða annmarka kærandi telji þar á.

Að lokum sé tekið fram að skráningarskylda hvíli á rekstraraðila og að hann uppfylli skilyrði á hverjum tíma. Því sé aðild húseiganda að máli þessu óþörf. Rétt sé þó að benda á að raunverulegur eigandi þess félags sem á húsið og kæranda sé sá sami og lögheimili þeirra sé á sama stað samkvæmt skráningu í fyrirtækjaskrá.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að skráningarskylda feli ekki í sér undanþágu frá starfsleyfisskyldu skv. 6. gr. laga nr. 7/1998. Vilji löggjafans hafi staðið til þess að tvískipta ferlum eftir atvinnugreinum með tilliti til stöðu og eftirlits. Þannig sé skýrt hvaða starfsemi sé skráningarskyld, hver ekki og hvaða starfsemi kalli á aðra ferla. Skráning sé ekki valkvæð á meðan rekstur sé til staðar, hvorki fyrir atvinnurekanda né eftirlitsaðila og sé skráningarskyldan ekki síst sett til að tryggja gott eftirlit. Kærandi uppfylli skilyrði til skráningar og hafi hann frá umræddri lagabreytingu haft ótímabundna skráningu. Enn fremur hafi kærandi uppfyllt skilyrði fyrir starfsleyfi fyrir lagabreytinguna.

Hagsmunir kæranda sem rekstraraðila og hagsmunir fasteignaeigenda við Bolafót séu jafnsettir við breytingar á aðalskipulagi. Ítrekað sé að takmörkuð lykt- og hljóðmengun stafi af þeirri frystingu sem fari fram á starfsstöð kæranda að Bolafæti. Kærandi og eigandi eignarinnar hafi lagt töluvert í að bæta aðstöðuna og verklag til að koma til móts við sjónarmið nágranna.

Nýtt aðalskipulag hafi tekið gildi, en kærandi hafi ekki fengið tilkynningu frá skipulagsyfirvöldum þar sem greint sé frá ósamræmi við skipulag. Þá hafi nýtt deiliskipulag ekki verið kynnt eða samþykkt. Húsnæðið sé samþykkt sem iðnaðarbygging á atvinnuhúsalóð og því verði ekki breytt nema með nýju deiliskipulagi. Í húsinu hafi um árabil verið stundaður iðnaður, þ. á m. fiskvinnsla og steinsmiðja. Kærandi sé með ótímabundna skráningu í húsnæðinu, í samræmi við gildandi skipulag. Við gerð deiliskipulagsins verði aðkoma aðila önnur. Heilbrigðisnefnd Suðurnesja geti ekki afskráð félag og krafist lokunar á rekstri þá þegar með vísan til breytinga á aðalskipulagi þegar breytt deiliskipulag hafi ekki tekið gildi. Slík valdbeiting reyni einnig á valdmörk stjórnvalda.

 Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 26. september 2023 um að afskrá fiskvinnslustarfsemi að Bolafæti 15 þar sem starfsemin samræmist ekki Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2020-2035.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal allur atvinnurekstur sem sótt er um starfsleyfi fyrir vera í samræmi við skipulag samkvæmt skipulagslögum. Eru þessi fyrirmæli af sama meiði og 1. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem kveðið er á um að mannvirki og aðrar framkvæmdir og aðgerðir sem hafi áhrif á umhverfið og ásýnd þess skuli vera í samræmi við skipulagsáætlanir. Það skal þó athugað að skipulagsáætlun felur í sér stefnu til framtíðar um einstaka þætti, sbr. 20. tölul. 2. gr. skipulagslaga, en þvingar ekki fram breytingar á starfsemi sem þegar er til að dreifa, þótt hún geti m.a. orðið grundvöllur eignarnáms eða bótagreiðslna, sbr. ákvæði 50.-51. gr. laga nr. 123/2010.

Í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 er gert ráð fyrir því að útgefanda starfsleyfis sé heimilt að endurskoða og breyta starfsleyfi áður en gildistími þess er liðinn vegna breyttra forsendna, m.a. sé til að dreifa breytingum á skipulagi. Með ákvæðinu er gert ráð fyrir að breytingar á skipulagi geti leitt til þess að starfsemi þurfi að taka breytingum eða víkja af tiltekinni lóð þrátt fyrir að rekstraraðili hafi starfsleyfi fyrir viðkomandi starfsemi. Í máli þessu reynir þó eigi á þessi fyrirmæli þar sem starfsemi kæranda er ekki háð starfsleyfi heldur er hún skráningarskyld skv. 8. gr. laganna.

Fyrirmæli 8. gr. laga nr. 7/1998 um skráningarskyldu tóku gildi með breytingarlögum nr. 66/2017. Með þeim var heimilað að tekin yrði upp í áföngum skráningarskylda í stað útgáfu starfsleyfa. Gert var ráð fyrir að unnt væri að taka upp skráningarskyldu fyrir flesta þá starfsemi sem heilbrigðisnefndir gæfu út starfsleyfi fyrir. Samkvæmt markmiðsgrein reglugerðar nr. 830/2022 um skráningarskyldan atvinnurekstur samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir er tilgangur skráningarskyldunnar að bæta viðmót, einfalda aðgengi að stjórnsýslu og auka skilvirkni. Samkvæmt upplýsingum á vef Umhverfisstofnunar hafa 47 tegundir atvinnurekstrar, sem áður voru starfsleyfisskyldar, verið gerðar skráningarskyldar.

Í 8. gr. laganna er mælt fyrir um heimild til setningar reglugerðar um „almennar kröfur fyrir starfsemi“, sbr. viðauka I–IV, sbr. og 4. og 5. gr. laganna. Téð reglugerð nr. 830/2022 er sett með vísan til þeirrar heimildar, sbr. einnig 1. tölul. 4. gr. og 1. og 20. tölul. 5. gr. laganna. Í reglugerðinni er mælt fyrir um að rekstraraðili skráningarskylds atvinnurekstrar skuli skrá starfsemi sína áður en hún hefjist í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar og skuli hlutaðeigandi eftirlitsaðili staðfesta skráninguna og leiðbeina um hvaða reglur gildi um hana.

Í 4. gr. reglugerðarinnar er mælt fyrir um að rekstraraðili skuli við skráningu lýsa því yfir að hann uppfylli þær almennu kröfur sem gilda um atvinnureksturinn, að starfsemin sé í samræmi við samþykkta notkun húsnæðis eða aðstöðu og að skráðar upplýsingar um starfsemina séu réttar. Er með þessu gert ráð fyrir því að rekstraraðili uppfylli þessar almennu kröfur og hafi kynnt sér þær við skráninguna, en þær koma í stað almennra starfsleyfisskilyrða starfsleyfisskylds rekstrar sem áður giltu um viðkomandi starfsemi.

Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 830/2022 er mælt fyrir um að Umhverfisstofnun gefi út almennar kröfur sem skuli gilda um skráningarskyldan atvinnurekstur. Þessar kröfur hafa verið gefnar út og gerðar aðgengilegar á vef Umhverfisstofnunar og nefnast þar: „Almenn skilyrði fyrir skráningarskyldan atvinnurekstur.“ Þar segir í lið 1.5. að atvinnurekstur skuli vera í samræmi við gildandi deiliskipulag. Sé deiliskipulag ekki til staðar skuli starfsemin samræmast gildandi aðalskipulagi hvað varði landnotkun og byggðaþróun og vera í samræmi við samþykkta notkun fasteignar.

Hin kærða ákvörðun hvílir á þeirri forsendu að starfstöð kæranda sé á svæði sem skilgreint hefur verið sem miðsvæði (M11) í Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2020-2035 sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 8. febrúar 2023. Um svæðið (M11) segir í greinargerð með aðalskipulaginu að stefnt sé að endurskipulagningu þess með blöndun atvinnustarfsemi, einkum á neðri hæðum. Möguleikar séu á íbúðum og þriggja til fimm hæða byggð. Tekið er um leið fram að mikilvægt sé að atvinnustarfsemi og íbúðarbyggð á efri hæðum geti farið saman. Þá er einnig tekið fram að endurskoða skuli grundvöll rekstrarleyfa starfandi iðnaðar við gerð deiliskipulags.

Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja er álitið að starfsemi kæranda geti ekki verið starfrækt á svæðinu við Bolafót þar sem hún samrýmist ekki landnotkun. Hefur um þetta einnig verið vísað til afstöðu skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins sem hafi lýst sömu afstöðu og staðfest hana gagnvart eftirlitinu, síðast í febrúar 2023. Kemur einnig fram af hálfu eftirlitsins að ekkert hafi komið fram í málatilbúnaði kæranda sem sýni fram á hið gagnstæða, þ.e. að starfsemi hans geti samræmst skilgreiningu svæðisins (M11) í aðalskipulaginu. Úrskurðarnefndin tekur í máli þessu ekki afstöðu til álits Heilbrigðiseftirlitsins að þessu leyti, en þess má geta að kærandi hefur haldið því fram að takmörkuð lykt- og hljóðmengun stafi af þeirri frystingu sem fari fram á starfsstöð hans að Bolafæti og hafi hann lagt töluvert í að bæta aðstöðuna og verklag til að koma til móts við sjónarmið nágranna.

Í skipulagslögum nr. 123/2010 er gert ráð fyrir því að aðalskipulag marki stefnu um þróun sveitarfélagsins varðandi landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál. Þar er lagður grundvöllur fyrir gerð deiliskipulags varðandi landnotkun, takmarkanir á landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi og byggðamynstur, þ.m.t. þéttleika byggðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. laganna. Gildandi skipulagsáætlanir skulu vera í innbyrðis samræmi og er aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag eftir því sem kveðið er á um í 7. mgr. 12. gr. laganna.

Í skilmálum fyrir miðsvæði í greinargerð Aðalskipulags Reykjanesbæjar er mælt fyrir um að iðnaðarstarfsemi sé almennt víkjandi á miðsvæðum en heimilt sé að veita starfsleyfi til áframhaldandi reksturs þeirrar starfsemi sem þegar fari fram á svæðunum nema annað komi fram. Setja skuli frekari kvaðir um takmarkanir á starfsemi í deiliskipulagi. Almennt skuli miðað við að heimiluð starfsemi raski ekki ró með hávaða, lyktarmengun eða að ásýnd einkennist af óreiðu. Starfsemi fari jafnan fram á almennum vinnutíma virka daga og starfsemi um helgar sé takmörkuð. Miðað skuli við að starfsleyfisskyld starfsemi samrýmist landnotkun í reynd við endurnýjun og útgáfu nýrra leyfa. Sérstaklega er kveðið á um að grundvöllur „rekstrarleyfa starfandi iðnaðar“ á svæðinu við Bolafót (M11) verði endurskoðaður við gerð deiliskipulags. Þessi áform eru í samræmi við það að í deiliskipulagi eru teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form eftir því sem við á og aðrar skipulagsforsendur sem þurfa að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa. Þar skal m.a. gera grein fyrir mannvirkjum á skipulagssvæðinu, notkun þeirra og nýtingu, tilgreina ef þau eiga að víkja, annars setja skilmála um viðhald eða breytingar á þeim ef við á, sbr. gr. 5.3.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013.

Með hliðsjón af framanröktu telur úrskurðarnefndin hina kærðu ákvörðun haldna annmarka þar sem litið hafi verið framhjá því að gert er ráð fyrir því í aðalskipulagi að fjallað verði um endurskoðun starfsleyfisskylds rekstrar við gerð deiliskipulags á því skipulagssvæði sem um ræðir, sem ætla verður að sé einnig ætlað að ná til starfsemi sem einungis er skráningarskyld skv. lögum nr. 7/1998 samkvæmt ákvörðun ráðherra í reglugerð. Verður því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 25. september 2023 um að afskrá fiskvinnslustarfsemi kæranda að Bolafæti 15.

143/2023 Suðurgata

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 15. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 143/2023, kæra á ákvörðunum bæjarstjórnar Hafnarfjarðar­kaupstaðar frá 27. september 2023 um að samþykkja breytingar á Aðalskipulagi Hafnar­fjarðar 2013–2025 annars vegar og hins vegar á deiliskipulagi Suðurgötu-Hamarsbrautar vegna lóðar nr. 44 við Suðurgötu.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 18. desember 2023, kæra eigendur, Suðurgötu 45, Hafnarfirði, ákvarðanir bæjar­stjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 27. september s.á. um að samþykkja breytingar á Aðal­skipulagi Hafnarfjarðar 2013–2025 annars vegar og hins vegar deiliskipulagi Suðurgötu-Hamarsbrautar vegna lóðar nr. 44 við Suðurgötu. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 17. janúar 2024.

Málavextir: Lóð nr. 44 við Suðurgötu í Hafnarfirði hefur frá árinu 2020 verið í eigu einka­hlutafélags. Á lóðinni er skóla- og íþróttahús, byggt árið 1937. Húsið var seinna m.a. notað sem skrifstofur St. Jósepsspítala, en hefur staðið autt undanfarin ár. Stendur það gegnt Lífsgæðasetri St. Jó, áður St. Jósepsspítala. Í varðveislumati Minjastofnunar Íslands, dags. 12. ágúst 2015, kemur m.a. fram að húsið hafi varðveislugildi sem mikilvæg opinber bygging í bæjarmynd Hafnarfjarðar. Mælti Minjastofnun með að gert yrði við húsið og tók fram að stofnunin gæti ekki samþykkt niðurrif þess. Í Húsakönnun frá árinu 2022 fyrir svæðið á milli Suðurgötu og Strandgötu var húsið metið með lágt varðveislugildi, en hátt menningarsögulegt gildi þar sem fjöldi hafnfirskra barna hefði hlotið menntun í húsinu. Kom þar jafnframt fram að í daglegu tali hefði skólinn verið kallaður „Kató“.

Með umsókn, dags. 25. apríl 2022, var f.h. eiganda fyrrnefndrar lóðar sótt um breytingu á deiliskipulagi Suðurgötu-Hamarsbrautar. Var tillaga að breytingu þess samþykkt af bæjarstjórn Hafnarfjarðar­kaup­staðar 7. desember s.á. og tók hún gildi með auglýsingu sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 14. febrúar 2023. Var þar gert ráð fyrir að núverandi hús á lóðinni yrði rifið og í stað þess byggð þrjú hús á tveimur til þremur hæðum með 15 íbúðum, þar af tvö einbýlishús. Var ákvörðun bæjarstjórnar kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem felldi hana úr gildi með úrskurði í máli nr. 35/2023, dags. 2. júní 2023. Taldi nefndin ákvörðunina ekki geta rúmast inn heimilda Aðalskipulags Hafnarfjarðar 2013–2025 og færi í bága við stefnu þess þar sem í aðalskipulaginu væri gert ráð fyrir að húsið fengi nýtt hlutverk og að yfirbragð þess yrði að mestu látið halda sér.

Á fundi bæjarstjórnar 21. júní 2023 var samþykkt að auglýsa samhliða tillögur að breytingu á aðalskipulagi og deiliskipulagi vegna lóðarinnar Suðurgötu 44. Tillögurnar voru auglýstar í Morgun­blaðinu, Lögbirtingablaðinu og á heimasíðu Hafnarfjarðarkaupstaðar 13. júlí s.á. Kom þar fram að í tillögunum fælist að ákvæði í aðalskipulagi um yfirbragð og hlutverk Suðurgötu 44 væri fellt út og að í deiliskipulagi yrði gert ráð fyrir að hús á lóðinni yrði rifið og í stað þess byggð þrjú hús með 15 íbúðum. Þá kom fram að kynningar- og auglýsingatími væri til 27. ágúst s.á. og að nálgast mætti tillögurnar á vefsíðu skipulagsgáttar. Var tekið fram að athuga­semdir eða ábendingar skyldu berast með rafrænum hætti í gegnum „skipulagsgátt eða á net­fangið skipulag@hafnarfjordur.is“. Voru kærendur á meðal þeirra sem komu athugasemdum sínum á framfæri við bæjaryfirvöld.

Á fundi skipulags- og byggingarráðs 7. september 2023 var skipulagsfulltrúa falið að taka saman svör við þeim athugasemdum sem bárust og bókað í fundargerð að lögð væri fram samantekt þeirra. Svör við athugasemdunum ásamt samantekt skipulagsfulltrúa voru lögð fram á fundi ráðsins 21. s.m. Var bókað að tekið væri undir svör hans og breyting á deiliskipulagi samþykkt. Á fundi bæjarstjórnar 27. september var þessi afgreiðsla ráðsins samþykkt sam­hljóða og tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu sem birt var í B-deild Stjórnar­tíðinda 27. nóvember 2023, en breyting á aðalskipulagi hafði tekið gildi 22. s.m. með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að um bútasaumsskipulag sé að ræða. Horfa þurfi heildstætt á breytingar á svæðinu. Á Suðurgötu sé viðkvæmt samspil þjónustu og íbúðabyggðar og hafi verið þrengt að St. Jó úr fleiri áttum með skipulagsbreytingum, en St. Jó sé bygging með mikið varðveislugildi og eigi skilið að rúmt sé um hana. Ekki sé í lagi að þrengja svo að byggingunni með mörgum litlum breytingum sem ekki hafi verið skoðaðar í samhengi. Suður­gata sé þröng með fáum bílastæðum og hafi bílastæði á lóð nr. 44 nýst St. Jó á daginn. Vissulega séu þetta nú tvær fasteignir, en a.m.k. síðustu 30 árin hafi stæðin verið nýtt með þessum hætti. Í fyrra deiliskipulagi hefði verið gert ráð fyrir 16 bílastæðum sem með breyting­unni hefðu að mestu verið færð í bílakjallara og sé samspilinu þannig raskað án þess að nokkrar athuganir væru gerðar. Umdeild stækkun byggingarreits muni breyta götumyndinni mikið og komi senni­lega til með að kaffæra hinu fallega húsi St. Jó. Suðurgata taki beygju við lóð nr. 44 og muni breytingin skerða útsýni vegfarenda verulega og auka slysahættu á þessu viðkvæma svæði.

Í hinu kærða deiliskipulagi sé gert ráð fyrir stöku húsi í stað bílastæða og leiksvæðis, sem muni þrengja að húsi kærenda, valda þeim tjóni og lækka verð eignar þeirra. Gert sé ráð fyrir stórum bílakjallara örfáum metrum frá húsi kærenda sem setji það í stórhættu og sé athygli vakin á því að húsið sé byggt á hlöðnum grunni árið 1913. Bæjaryfirvöld hafi alfarið hafnað hugsanlegri skaðabótaskyldu, en leggi á herðar kærenda að sækja hugsanlegar bætur til byggingarstjóra. Þá muni framkvæmdirnar valda þeim ónæði til fleiri ára enda standi til að fleyga eða sprengja fyrir stórum bílakjallara fyrir utan eldhús- og svefnherbergisglugga kærenda. Bæjaryfirvöld hafi bent á að ekki verði heimilt að vera með hávaðasamar framkvæmdir á milli kl. 21 og 07. Kærendur séu ellilífeyrisþegar sem séu heima stóran hluta dags og muni þetta gera þeim illmögulegt að búa í húsi sínu yfir lengri tíma.

Húsið á lóð nr. 44 við Suðurgötu sé í slæmu ástandi vegna vanrækslu eigenda síðustu ár en þeim hefði verið í lófa lagið að halda því við. Vanrækslan eigi ekki að opna á jafn miklar skipulagsbreytingar og hér sé um að ræða. Jafnvel þótt rífa þyrfti eldra húsið hefði verið einfalt að miða við sama byggingarreit og áður. Óþarft sé að troð fylla lóðina eins og gert sé ráð fyrir. Í þess stað hefði mátt skipuleggja tvö til þrjú lítil hús í stíl við götumyndina. Með samþykki á umdeildri breytingu á aðal- og deiliskipulagi sé verið að færa verðmæti frá íbúum Hafnarfjarðarkaupstaðar til verktakafyrirtækis sem hafi keypt lóðin á grundvelli gildandi skipu­lags. Breytingin sé sérstaklega alvarleg þar sem ekki sé bara um að ræða breytingu á deili­skipulagi heldur einnig aðalskipulagi bæjarins.

Málsrök Hafnarfjarðarkaupstaðar: Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að umdeildar breytingar á skipulagi séu í samræmi við stefnu sveitarfélagsins um þéttingu byggðar. Við breytingu á aðal- og deiliskipulagi hafi aðilar tækifæri til að koma að athugasemdum sínum sem skoðaðar séu áður en tekin sé ákvörðun. Hafi meðferð sveitarfélagsins verið samkvæmt lögum og reglum.

 Umsækjendum um hina kærðu deiliskipulagsbreytingu var tilkynnt um framkomna kæru en hafa ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvarðanir bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 27. september 2023 um að samþykkja breytingar á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013–2025 annars vegar og hins vegar á deiliskipulagi Suðurgötu-Hamarsbrautar vegna lóðar nr. 44 við Suður­götu.

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í 2. málsl. sömu greinar eru aftur á móti undanskildar kæruheimildinni þær ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta. Kemur þar fram að þær sæti ekki kæru til nefndarinnar. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga segir að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skuli staðfesta aðalskipulag. Breyting á aðalskipulagi er að sama skapi háð staðfestingu Skipulags­stofnunar og ráðherra, sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna, en þó einungis staðfestingu stofnunarinnar ef um óverulega breytingu er að ræða, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Brestur því úrskurðarnefndina vald til að taka til endurskoðunar hina kærðu aðalskipulagsbreytingu og verður kæru vegna hennar af þeim sökum vísað frá nefndinni.

Í greinargerð Aðalskipulags Hafnarfjarðar 2013–2025 kemur m.a. fram að núverandi byggð í bænum skuli þétt þar sem það eigi við, m.a. með endurskipulagningu vannýttra svæða. Lögð skuli áhersla á þau verðmæti sem felist í því að stór hluti íbúðarbyggðar sé í göngufjarlægð frá miðbænum og leitast skuli við að fullnýta byggingarmöguleika með þá eiginleika áður en uppbygging hefjist á svæðum sem séu lengra í burtu. Orðrétt segir í greinargerðinni: „Við endurskipulagningu byggðar skal leita að kostum til þéttingar byggðar og stuðlað að endurnýtingu vannýttra lóða og svæða með starfsemi sem lokið hefur sínu hlutverki.“ Um bíla­stæði segir að þörf fyrir bifreiðastæði skuli almennt leyst innan lóða og að sett séu lágmarks­ákvæði varðandi fjölda bílastæða og fjölda bílastæða fyrir fatlað fólk. Unnt sé að víkja frá þessum lágmarksákvæðum í deiliskipulagi ef sýnt sé fram á að bílastæðaþörf sé minni eða að unnt sé að uppfylla hana með öðrum hætti. Greind lágmarksákvæði er þó ekki að finna í aðalskipulaginu, en samkvæmt b-lið gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 skal setja skilmála um fjölda bílastæði hverju sinni í deiliskipulag. Varðandi fjölda og fyrirkomulag bílastæða fyrir fatlað fólk skuli taka mið af ákvæðum byggingarreglugerðar.

Eftir breytingu á aðalskipulaginu árið 2018 tilheyra lóðir nr. 40–44 við Suðurgötu íbúðarbyggð, ÍB6, en tilheyrðu áður samfélagsþjónustu, S20. Við breytingu lóða nr. 40–44 við Suðurgötu í íbúðarbyggð var sérstaklega vitnað til framangreindrar umfjöllunar um þéttingu byggðar og kom fram að hluti svæðis sem ætlað hefði verið fyrir St. Jósepsspítala, sjúkrahús og leikskóla myndi falla undir ÍB6 og verða hluti af heilsteyptri íbúðarbyggð. Um Suðurgötu 44 sagði þar sérstaklega: „Gert er ráð fyrir að núverandi hús, við Suðurgötu 44, fái nýtt hlutverk en yfirbragð að mestu látið halda sér.“ Þá var lögð áhersla á að ný hús féllu inn í núverandi byggð og mynduðu heilsteypta götumynd. Sérstakir skilmálar sem giltu um húsið að Suðurgötu 44 hafa nú verið felldir úr aðalskipulaginu samhliða umdeildri deiliskipulagsbreytingu. Í aðalskipulagi bæjarins segir um ÍB6 að þar sé blönduð byggð einbýlishúsa, raðhúsa og fjölbýlishúsa. Svæðið sé deiliskipulagt og að ekki sé fyrirhuguð frekari uppbygging nema á einstökum lóðum. Í kjölfar breytingar á aðalskipulaginu verður ekki annað ráðið en að umdeild breyting á deili­skipulagi sé nú í samræmi við það.

Í deiliskipulagi Suðurgötu-Hamarsbrautar frá árinu 2011 kemur fram að eitt markmiða þess sé að stuðla að heildstæðu byggða- og götumynstri í grónu hverfi og tryggja að nýbyggingar og viðbyggingar falli vel að því umhverfi sem fyrir sé. Umdeild deiliskipulagsbreyting felur í sér að núverandi hús á lóðinni Suðurgötu 44 verði rifið og í þess stað byggð þrjú hús með 15 misstórum íbúðum, þar af tvö einbýlishús. Verður nýtingarhlutfall lóðarinnar 1,34 og er í greinargerð á uppdrætti skipulagsins tekið fram að nýtingarhlutfall „ofanjarðar“ verði 0,91 en greint heildarnýtingarhlutfall er sýnt í töflu. Varðandi þá framsetningu skal bent á að sam­kvæmt c-lið gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð reiknast bílgeymsluhús til nýtingarhlutfalls hvort sem það sé ofan jarðar eða neðan. Húsin á lóðinni verði ein til þrjár hæðir. Við hönnun nýbygginga verði leitast við að fella húsin sem best að aðliggjandi byggð hvað varði stærð, form og efnisval. Að öðru leyti gildi skilmálar skipulagsins frá 2011. Á lóðinni sé gert ráð fyrir fjórum bílastæðum, en 17 í bílgeymslu. Í deiliskipulaginu er ekki nánar útfært hvernig stæðum fyrir hreyfihamlaða verði fyrirkomið á lóðinni, en um það er nánar mælt fyrir um í gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar er eigendum húsa og mann­virkja sem ekki njóta friðunar en byggð voru 1940 eða fyrr skylt að leita álits hjá Minjastofnun Íslands með minnst sex vikna fyrirvara ef þeir hyggjast breyta þeim, flytja þau eða rífa og er stofnun­inni heimilt að leggja til skilyrði um slíkar framkvæmdir eða gera tillögu um friðlýsingu. Þá skal álit Minjastofnunar liggja fyrir áður en byggingarleyfi er veitt og skal í leyfinu taka tillit til skilyrða sem stofnunin leggi þar til, sbr. 4. mgr. sömu laga­greinar. Komi til þess að sótt verði um byggingarleyfi á grundvelli hins umdeilda deili­skipulags er það í höndum byggingarfulltrúa að gæta að því að umsótt byggingaráform uppfylli þau skilyrði sem til þeirra eru gerð í lögum og reglugerðum, þ.m.t. í framangreindu ákvæði laga nr. 80/2012 og gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð. Ákvörðun byggingarfulltrúa um að sam­þykkja eða synja um samþykki byggingaráforma er svo eftir atvikum kæranleg til úrskurðar­nefndarinnar.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður hvorki talið að hagsmunir kæranda hafi verið fyrir borð bornir í skilningi c-liðar 1. gr. skipulagslaga né að þeir form- eða efnisannmarkar liggi fyrir sem leiði til ógildingar hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kæru á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 27. september 2023 um að samþykkja breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013–2025 vegna lóðar nr. 44 við Suðurgötu.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 27. september 2023 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Suðurgötu-Hamarsbrautar vegna lóðar nr. 44 við Suðurgötu.

8/2024 Almannadalur

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 14. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 8/2024, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkurborgar frá 2. september 2023 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi hesthúsabyggðar á Hólmsheiði vegna lóðar nr. 9 við Almannadal.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

 um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 19. janúar 2024, kærir eigandi Almannadals 17, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkurborgar frá 2. september 2023 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi hesthúsabyggðar á Hólmsheiði vegna lóðar nr. 9 við Almannadal. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Því til viðbótar er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni og að kveðinn verði upp bráðabirgðaúrskurður um að byggingarfulltrúa sé óheimilt að taka til umfjöllunar og samþykkja teikningar sem byggjast á hinni kærðu ákvörðun. Verður nú tekin afstaða til þeirra krafna.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 30. janúar 2024.

Málsatvik og rök: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar 20. september 2023 var breyting á deiliskipulagi hesthúsabyggðar á Hólmsheiði vegna lóðar nr. 9 við Almannadal samþykkt, að lokinni grenndarkynningu sem fram fór 31. maí 2023 til og með 28. júní s.á. Athugasemdir bárust við grenndarkynningu, þ. á m. frá kæranda. Í breytingu skipulagsins felast breytingar er varða glugga og svalir. Deiliskipulagsbreytingin var staðfest í borgarráði 2. september s.á. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember 2023.

 Af hálfu kæranda er bent á að nú þegar hafi verið grafið fyrir húsinu og jarðvegi skipt þar án þess að byggingarleyfi hafi fengist. Byggingarfulltrúa hafi ítrekað verið bent á óleyfisframkvæmdir þessar án þess að framkvæmdir hafi verið stöðvaðar. Af hálfu borgaryfirvalda hefur verið bent á að byggingarfulltrúi hafi stöðvað framkvæmdir við jarðvegsskipti þann 10. maí 2022. Vegna ábendinga sem borist hafi í desember 2022 um að framkvæmdir væru hafnar að nýju hafi verktaka verið tilkynnt um að framkvæmdir hefðu verið stöðvaðar þar sem byggingaráform hefðu ekki verið samþykkt.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Samkvæmt framansögðu tekur úrskurðarnefndin lögmæti ákvörðunar til skoðunar. Í kröfu kæranda um að úrskurðað verði að byggingarfulltrúa sé óheimilt að taka til umfjöllunar og samþykkja teikningar á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar felst öðrum þræði krafa um íhlutun í undirbúning að útgáfu byggingarleyfis, sem ekki hefur verið samþykkt svo kunnugt sé, og verður þeirri kröfu því vísað frá nefndinni.

 Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

Mál þetta snýst um breytingu deiliskipulags. Gildistaka deiliskipulags felur almennt ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra leyfisveitinga er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild um stöðvun framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana. Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða, eðlis deiliskipulagsákvarðana, þess að byggingarfulltrúi hefur nú þegar stöðvað framkvæmdir og hinnar kærðu ákvörðunar í máli þessu verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa vegna hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda og vísað frá kröfu um að úrskurðað verði að byggingarfulltrúa sé óheimilt að taka til umfjöllunar og samþykkja teikningar á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar.

113/2023 Hafnargata

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 13. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 113/2023, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 5. september 2023 um að hafna umsókn um leyfi til að breyta verslunarrými við Hafnargötu 23 í Reykjanesbæ að hluta til í íbúð.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. september 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Eignakaup ehf., þá ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 5. september 2023 að hafna umsókn um leyfi til að breyta verslunarrými við Hafnargötu 23 í Reykjanesbæ að hluta til í íbúð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 25. október 2023.

Málavextir: Hafnargata 23 er á ódeiliskipulögðu svæði. Í nóvember 2022 sendi kærandi erindi til bæjaryfirvalda Reykjanesbæjar og óskaði umsagnar umhverfis- og skipulagsráðs um fyrirhugaða breytingu verslunarrýmis á jarðhæð húss að Hafnargötu 23 í íbúð og verslun. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 2. desember s.á. var erindinu synjað og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi 6. s.m. Hinn 18. desember 2022 ítrekaði kærandi fyrra erindi sitt og sótti „formlega“ um fyrirhugaðar breytingar og eftir atvikum endurupptöku erindisins liti sveitarfélagið svo á að fyrri ákvörðun þess hafi verið stjórnvaldsákvörðun. Erindið var tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 3. febrúar 2023 og því hafnað, einkum með vísan til ákvæða aðalskipulags sem þá hafði ekki tekið gildi. Staðfesti bæjarstjórn afgreiðsluna á fundi 7. s.m. Var þeirri ákvörðun skotið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og var ákvörðun bæjarstjórnar felld úr gildi með úrskurði í máli nr. 34/2023, uppkveðnum 6. júlí 2023.

Kærandi sendi byggingarfulltrúa bréf, dags. 8. ágúst 2023, en þar vísaði hann til umsóknar „dags. 17.11.2022 um byggingarleyfi fyrir breytingu á verslunarrými […] við Hafnargötu 23 Reykjanesbæ að hluta til í íbúð“ og krafðist þess að erindið yrði tekið til afgreiðslu að nýju. Byggingarfulltrúi vísað erindinu til umhverfis- og skipulagsráðs og á fundi ráðsins 1. september 2023 var umsókn kæranda tekin fyrir og hafnað. Vísaði ráðið m.a. til þess að til þess að halda verslun og þjónustu sem „lífvænlegum möguleika“ í götunni væri mikilvægt að skoða skipulag heildstætt og unnið væri að deiliskipulagi fyrir Hafnargötu. Breytingar innan einstakra lóða yrðu ekki teknar til greina á meðan á þeirri vinnu stæði. Á fundi bæjarstjórnar 5. s.m. var eftirfarandi bókað um málið: „Níunda mál fundargerðarinnar Hafnargata 23 […] samþykkt 11-0 án umræðu.“ Var kæranda tilkynnt um niðurstöðu málsins með bréfi, dags. 7. september 2023.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun sé svo áfátt að það eigi að leiða til ógildingar hennar. Þá hafi málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar ekki verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um jafnræði, andmælarétt, rannsókn máls og meðalhóf.

Umsókn kæranda um byggingarleyfi hafi ekki verið afgreidd í samræmi við úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 34/2023, heldur hafi henni verið hafnað með rökum sem ekki hefðu áður komið fram. Hin nýju rök lúti að því að þróun verslunar við Hafnargötu varði almannahagsmuni og því sé eðlilegt að unnið verði deiliskipulag fyrir svæðið þar sem tekið sé á slíkum þáttum. Í því sambandi hafi verið vísað til gr. 5.9.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 en þar komi fram að áður en umsókn um byggingar- eða framkvæmdaleyfi sé grenndarkynnt skuli skipulagsnefnd leggja mat á hvort framkvæmdin falli að tilgreindum skilyrðum eða hvort önnur atriði, svo sem hvort framkvæmdin varði almannahagsmuni, kalli á aðra málsmeðferð.

Sá skilningur að ákvörðun um landnotkun og þróun verslunar á miðbæjarsvæðum varði almannahagsmuni og því þurfi að ákvæði um það að koma fram í deiliskipulagi sé ekki í samræmi við lög. Ákvarðanir eða stefnumörkun um landnotkun séu fyrst og fremst viðfangsefni aðalskipulags, sbr. 28. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Heimilt hefði verið að samþykkja umsókn kæranda án þess að gera þyrfti deiliskipulag og vísa megi til breytinga sem gerðar hafi verið á Hafnargötu 16 og 34 en þar hafi verið heimilaðar breytingar á rými fyrir verslun og þjónustu á 1. hæð í íbúð en ekki hafi verið deiliskipulag í gildi fyrir þá reiti.

Samþykki á umsókn kæranda hefði verið í samræmi við markmið bæjaryfirvalda enda hafi verið gert ráð fyrir í umsókninni að verslun yrði áfram í þeim hluta rýmisins sem snúi að Hafnargötu. Í þágildandi aðalskipulagi hafi verið kveðið á um að lögð væri áhersla á styrkja stoðir smá- og fagverslana á svæðinu en jafnframt tekið fram að ekki væri gert ráð fyrir stórum og rýmisfrekum verslunum á svæðinu. Bæjaryfirvöld hafi hins vegar ekki vísað til síðastnefndu skilmálanna.

Í tilkynningu til kæranda um hina kærðu ákvörðun, dags. 7. september 2023, komi fram að kæranda sé heimilt að tjá sig um málið innan 14 daga. Það sé ekki í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 enda felist í andmælarétti að aðili máls eigi rétt á að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun sé tekin í því.

Málið hafi ekki verið afgreitt í bæjarstjórn í samræmi við 2. mgr. gr. 5.9.1. í skipulagsreglugerð og því fari fjarri að bæjarstjórn hafi tekið afstöðu til afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs enda hafi engin umræða átt sér stað um málið í bæjarstjórn.

Málsrök Reykjanesbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar verði hafnað. Málið hafi verið lengi til skoðunar hjá bæjaryfirvöldum og fjallað um það frá mörgum hliðum en byggt hafi verið á sömu sjónarmiðunum frá upphafi málsins.

Ekki sé hægt að fallast á sjónarmið kæranda um að samkvæmt Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2015–2030 hafi verið heimild fyrir íbúðum á jarðhæð innan miðsvæðis M2 og því mætti án sérstakrar skoðunar breyta hvaða rými sem væri í íbúð. Í greinargerð aðalskipulagsins hafi einnig komið fram að styrkja skyldi stöðu smá- og fagverslana og veitingastaða. Þessi sjónarmið stangist á og þurfi hvert tilfelli að fá lögmæta umfjöllun, málsmeðferð og afgreiðslu. Það sé í höndum skipulagsyfirvalda hverju sinni að ráða fram úr málum sem þessum þar sem uppi séu öndverð sjónarmið um framtíðaruppbyggingu eða þróun íbúða- og verslunarrýma.

Í máli þessu sé um að ræða skipulagsskylda breytingu og marka þurfi málinu skýran farveg samkvæmt skipulagslögum. Lóðin að Hafnargötu 23 sé hluti af heildstæðri einingu en umsókn kæranda hafi varðað „breytingu innan einnar lóðar innan einingarinnar.“ Ljóst sé að ferill málsins þurfi að taka mið af 41. gr. skipulagslaga. Í bókun umhverfis- og skipulagsráðs frá fundi 1. september 2023 komi fram að vinna við gerð deiliskipulags fyrir umrætt svæði sé hafin og ótækt að afgreiða umsókn samkvæmt 44. gr. skipulagslaga þar sem aðeins sé um að ræða „breytingu á landnotkun innan einnar lóðar af stærri heild.“ Ekki sé fallist á að fordæmi sem nefnd séu í kæru séu sambærileg máli þessu.

Við deiliskipulagsgerð sé byggt á stefnu aðalskipulags og hún útfærð fyrir viðkomandi svæði eða reit. Því fari fjarri að öllum þessum atriðum séu gerð nægjanleg skil í aðalskipulagi enda ekki til þess ætlast til þess að það sé gert.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 5. september 2023 um að hafna umsókn um leyfi til að breyta verslunarrými við Hafnargötu 23 í Reykjanesbæ að hluta til í íbúð.

Umsókn kæranda laut að byggingarleyfisskyldum framkvæmdum, en samkvæmt 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr., eða leyfi Mannvirkjastofnunar, sbr. 3. mgr. ákvæðisins.

Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt en upphaf máls þessa má rekja til erindis kæranda frá 17. nóvember 2022 varðandi ósk um umsögn umhverfis- og skipulagsráðs um fyrirhugaða breytingu á verslunarrými við Hafnargötu 23 í Reykjanesbæ að hluta til í íbúð. Hafnaði umhverfis- og skipulagsráð erindi kæranda og staðfesti bæjarstjórn afgreiðsluna á fundi 7. febrúar 2023. Var sú afgreiðsla felld úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 34/2023, uppkveðnum 6. júlí 2023. Í kjölfar úrskurðarins sendi kærandi bréf til byggingarfulltrúa, dags. 8. ágúst 2023, og vísaði hann til erindis síns frá 17. nóvember 2022 sem umsóknar um byggingarleyfi fyrir umræddum breytingum. Vísaði byggingarfulltrúi málinu til umhverfis- og skipulagsráðs á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sem synjaði umsókninni á fundi 1. september 2023. Bæjarstjórn staðfesti afgreiðsluna 5. s.m. og var kæranda tilkynnt um hana 7. s.m.

Byggingarfulltrúi hefur ekki komið að málinu eftir að framangreindar afgreiðslur lágu fyrir en endanleg afgreiðsla umsóknar um byggingarleyfi og útgáfu þess er í höndum byggingarfulltrúa samkvæmt ákvæðum mannvirkjalaga, sbr. 2. mgr. 9. gr., 11. gr. og 13. gr. laganna. Þá eru ekki sett ákvæði í samþykkt um stjórn Reykjanesbæjar og fundarsköp um heimild umhverfis- og skipulagsráðs til fullnaðarafgreiðslu mála. Hin kærða synjun á umsókn kæranda um byggingarleyfi felur samkvæmt framansögðu ekki í sér lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Er því ekki fyrir hendi ákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndina og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

115/2023 Sólberg

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 8. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 115/2023, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Svalbarðsstrandar-hrepps frá 14. febrúar 2012 um að samþykkja deiliskipulag fyrir frístundabyggð í landi Sólbergs og ákvörðun sama stjórnvalds frá 29. ágúst 2023 um að samþykkja fram-kvæmdaleyfi fyrir lagningu vegar með því skilyrði að vatnsöflun verði tryggð áður en vegur verði lagður.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. október 2023, er barst nefndinni 4. s.m. kærir DJE ehf., eigandi landareignarinnar Sólbergs, þá ákvörðun sveitar-stjórnar Svalbarðsstrandarhrepps frá 14. febrúar 2012 að samþykkja deiliskipulag fyrir frístundabyggð í landi Sólbergs. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi en til vara að skilmálar í deiliskipulagi er varði vatnsöflun og sölubann lóða verði felldir úr gildi. Jafnframt er kærð ákvörðun skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins frá 5. september 2023 um að hafna því að veita framkvæmdaleyfi vegna vegagerðar nema kærandi tryggi vatnsöflun á svæðinu áður en vegur verði lagður. Er þess krafist að greint skilyrði verði fellt úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Svalbarðsstrandarhreppi 19. október 2023.

Málavextir: Árið 2011 fékk kærandi arkitekt til að vinna fyrir sig tillögu að deiliskipulagi fyrir frístundalóðir í landi sínu Sólbergi. Deiliskipulagstillagan bar heitið „Sólberg í Svalbarðs-strandarhreppi: Deiliskipulag frístundabyggðar“ og er frá september 2011. Deiliskipulags-svæðið er u.þ.b. 9,2 ha og var landinu skipt upp í 14 frístundalóðir. Hinn 6. maí 2011 ritaði fyrirsvarsmaður kæranda undir yfirlýsingu þess efnis að hann hafi kynnt sér verklagsreglur sveitarfélagsins um deiliskipulag á vegum einkaaðila sem samþykktar hafi verið af sveitarstjórn 21. maí 2002. Einnig lýsti hann því yfir að eftir samþykki deiliskipulagsins og áður en framkvæmdir hæfust myndi hann leggja fram tiltekin gögn og að hann bindi sig til að fylgja þeim skilmálum sem fram koma í yfirlýsingunni.

Fyrst var fjallað um deiliskipulagstillöguna á fundi skipulagsnefndar sveitarfélagsins 7. apríl 2011. Málið var aftur tekið fyrir á fundi nefndarinnar 10. október s.á. og hafði arkitekt deiliskipulagstillögunnar þá uppfært greinargerð hennar. Tillagan var síðan tekin fyrir á fundi nefndarinnar 2. nóvember 2011 þar sem lá fyrir tillaga heilbrigðisfulltrúa og sveitarstjóra vegna rotþróa og var uppfærð greinargerð vegna þeirra athugasemda lögð fram á fundinum. Var hin uppfærða deiliskipulagstillaga tekin fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar 13. febrúar 2012 og samþykkt á fundi sveitarstjórnar 14. s.m. Uppfærð tillaga var auglýst á vef sveitarfélagsins 23. febrúar s.á. og var auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda 13. mars 2012.

Á fundi sveitarstjórnar 29. ágúst 2023 var tekin fyrir umsókn kæranda um framkvæmdaleyfi til vegalagningar í landi Sólbergs að frístundabyggð. Í fundargerð kemur fram að sveitarstjórn minni á skilmála um uppbyggingu vatnsveitu, gatnagerðar, fráveitu og annarra innviða sem fram komi í gildandi deiliskipulagi svæðisins sem og ákvæði yfirlýsingar um uppbyggingu innviða á svæðinu frá 6. maí 2011. Áður en framkvæmdir hefjist þurfi að liggja fyrir staðfesting að þessum skilmálum hafi verið mætt. Þá er eftirfarandi fært til bókar: „Að þessu uppfylltu sem og að fengnu leyfi Vegagerðarinnar vegna nýrrar vegtengingar við Vaðlaheiðarveg, samþykkir sveitarstjórn að framkvæmdaleyfi verði gefið út.“

 Málsrök kæranda: Kærandi telur sig ekki bundinn af hinu umþrætta deiliskipulagi þar sem það hafi ekki hlotið rétta málsmeðferð lögum samkvæmt. Hafi Svalbarðsstrandarhreppur að auki sett skilmála í deiliskipulagið sem hafi hvorki verið kynntir kæranda né hafi hann fengið upplýsingar um vinnslu þess. Þá hafi deiliskipulagið hvorki verið birt á vef sveitarfélagsins né á vef Skipulagsstofnunar. Telji kærandi því að kæra þessi hafi borist innan kærufrests, enda hafi ákvörðunin ekki verið birt í heild sinni. Stríði framangreint gegn grundvallarsjónarmiðum um réttarríki, fyrirsjáanleika og gagnsæi.

 Sú deiliskipulagstillaga vegna frístundarbyggðar sem lögð hafi verið fram af arkitekt þeim sem ráðin hafi verið af fyrrum meðeiganda umræddrar jarðar hafi ávallt verið lögð til grundvallar, bæði af hálfu sveitarfélagsins sjálfs og af hálfu kæranda, allt þar til nýlega. Svo virðist sem lóðarhafi lóðar úr landi kæranda hafi gert einhvers konar kröfu á sveitarfélagið sem hafi leitt til þess að sveitarfélagið hafi ákveðið að sækja á kæranda varðandi sölu á lóðum og vatnsöflun á grundvelli deiliskipulags sem kæranda hafi allt þar til nú verið ókunnugt um. Hann hafi allt frá árinu 2011 verið í góðri trú um að deiliskipulagstillaga er lögð hafi verið til grundvallar þegar hann hafi undirritaði yfirlýsingu 6. maí það ár væri í fullu gildi. Í umræddu deiliskipulagi frá september 2011 komi fram á uppdrætti að „óheimilt [sé] að hefja framkvæmdir á svæðinu fyrr en eftir mælingar á vatnsmagni í vatnsbólinu, þannig að tryggt [sé] að það sé nægjanlegt. Að öðrum kosti verði gerðar ráðstafanir til að nægt vatn sé á svæðinu, einkum með tilliti til brunavarna“. Hið sama komi fram í 9. gr. greinargerðar deiliskipulagsins.

Á grundvelli framangreindrar deiliskipulagstillögu hafi fyrirsvarsmaður kæranda undirritað yfirlýsingu landeiganda þar sem fram komi að hann samþykki að leggja fram tiltekin gögn „áður en framkvæmdir hefjist“ á skipulagssvæðinu. Séu gögnin talin þar upp í fjórum liðum. Í yfirlýsingu þessari, sem í raun sé einhliða skilmálar af hálfu sveitarfélagsins, sé miðað við að áður en framkvæmdir hefjist á svæðinu skuli m.a. liggja fyrir staðfesting slökkviliðsstjóra um aðgengi að nægilegu vatni til slökkvistarfa með vísan til 11. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarir og þágildandi gr. 137.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Ljóst sé að meginforsendur skipulagsins, t.d. um bann við sölu lóða, hafi ekki legið fyrir í aðalskipulagi og því hafi verið skylt að taka saman lýsingu skv. 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og kynna hana þeim aðilum sem taldir eru upp í 4. mgr. 40. gr. laganna.

Hin uppfærða deiliskipulagstillaga, sem kærandi hafi enga hugmynd haft um að breyst hefði svo verulega, hafi verið auglýst á vef sveitarfélagsins 23. febrúar 2012. Þar hafi komið fram að frestur til athugasemda hefði runnið út 8. febrúar 2012 eða rúmum tveimur vikum áður en auglýsingin hafi verið birt. Engin frestur hafi því verið veittur til athugasemda. Þá hafi auglýsingin um gildistöku deiliskipulagsins, sem birt hafi verið í B-deild Stjórnartíðinda 13. mars 2012, verið dagsett sama dag og framangreind auglýsing á vef sveitarfélagsins. Hafi hið breytta deiliskipulag því verið auglýst, staðfest og sent í B-deild Stjórnartíðinda allt sama daginn þann 23. febrúar 2012. Hafi skipulagstillaga þessi aldrei verið send Skipulagsstofnun. Eigi það bæði við um að leita umsagnar stofnunarinnar um lýsingu deiliskipulagstillögunnar skv. 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga og að senda deiliskipulagið sem samþykkt hafi verið af sveitarstjórn á grundvelli 1. mgr. 42. gr. sömu laga.

Ákvæði í greinargerð með deiliskipulaginu frá nóvember 2011 um sölubann brjóti í raun bæði gegn form- og heimildarreglu lögmætisreglunnar. Bann við sölu lóða nema að ákveðnum skilyrðum uppfylltum sem ekki sæki stoð í lög geti ekki talist lögmætir skilmálar. Brjóti slík skilyrði enn fremur gegn eignarétti kæranda sem varinn sé með 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þá verði ekki séð að slíkur skilmáli sæki stoð sína í aðalskipulag og sé því ógildur frá upphafi, teljist skipulagið sjálft gilt.

 Málsrök Svalbarðsstrandarhrepps: Bent er á að hið kærða deiliskipulag hafi tekið gildi 13. mars 2012 með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda eða fyrir meira en 10 árum. Hafi deili-skipulagið verið unnið að beiðni kæranda og sé hann bæði landeigandi og skipulagsbeiðandi. Megi honum því vera með fullu kunnugt um samþykkt deiliskipulagsins og gildistöku þess. Af sömu ástæðu hafi honum augljóslega mátt vera fullkunnugt um umdeilda skilmála, efni þeirra og deiliskipulagið að öðru leyti.

Hafi deiliskipulagið fyrst verið til umfjöllunar á fundi skipulagsnefndar sveitarfélagsins 7. apríl 2011 og verið samþykkt af nefndinni 2. nóvember s.á. Aftur hafi verið fjallað um deili-skipulagið á fundi skipulagsnefndar 13. febrúar 2012 og í framhaldinu hafi það verið samþykkt af sveitarstjórn 14. s.m. Hafi kærandi talið eitthvað athugavert við ferlið eða efni skipulagsins hefði hann átt að gera athugasemdir þar að lútandi, en í öllu falli hefði hann átt að nýta kærurétt sinn innan lögbundins frests. Þá sé hafnað fullyrðingum um að skilmálar deiliskipulagsins séu ólögmætir en kærandi hafi gengist undir þá sjálfur með því að láta búa deiliskipulagið til. Geti hann því vart talist geta átt lögvarða hagsmuni af kröfu sinni og beri að vísa henni frá auk þess sem að kærufrestur sé liðinn.

Erfitt sé að sjá hvernig hefði átt að kynna kæranda deiliskipulagið með öðrum hætti en gert hafi verið og því síður hvers vegna auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda eigi ekki að vera nægjanleg. Kæranda sem skipulagsbeiðanda hafi mátt vera kunnugt um málsmeðferðina og hafi eitthvað verið óljóst í skilmálum deiliskipulagsins hefði hann átt að kynna sér þá. Í trássi við sölubann hafi hann selt lóðir á hinu deiliskipulagða svæði.

Deiliskipulag og aðrar skipulagsáætlanir feli í sér almennar takmarkanir á eignarrétti sem fasteignaeigendur verði að þola, ekki síst þegar landeigandi er sjálfur skipulagsbeiðandi. Skilmálar deiliskipulagsins séu í samræmi við aðalskipulag Svalbarðsstrandarhrepps. Spildan sem um ræði sé á svæðum fyrir frístundabyggð, merkt F6 og F7, í Aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps 2008–2020, sem samþykkt hafi verið 5. september 2008 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 22. s.m. Skilmálar þess gildi um hið deiliskipulagða svæði og sé kærandi bundinn af þeim eins og allir aðrir.

Skilmálar í umræddu deiliskipulagi séu skýrir og í samræmi við aðalskipulag. Bent sé á gr. 12.1 í Aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps 2008–2020, en þar komi fram að þegar deiliskipulag fari fram á vegum einkaaðila skuli landeigandi eða framkvæmdaaðili tryggja að nægilegt neysluvatn sé fyrir hendi og það leitt inn fyrir mörk skipulagsreitsins. Einnig sé þar gerð krafa um að staðfesting eldvarnaeftirlits eða slökkviliðsstjóra skuli liggja fyrir um aðgengi að nægilegu vatni til slökkvistarfa. Þá komi fram í gr. 2.2.6 að nægjanlegt vatn til slökkvistarfa skuli vera fyrir hendi innan hæfilegra marka frá allri byggð. Í gr. 18 í deiliskipulaginu sé fjallað um að landeigandi skuli kosta tiltekna grunngerð, m.a. varðandi vatnsöflun, bæði fyrir neysluvatn og vatn til slökkvistarfa, frágang rotþróa, ýmsar lagnir o.fl. Grunngerð þessi skuli frágengin áður en lóðir séu seldar. Þá setji gr. 10 skilyrði um að fyrir sölu lóða hafi verið tryggt nægt vatn til neyslu og brunavarna. Ekkert sé athugavert við að landeiganda sé gert að kosta þessa innviði og mjög algengt að svo sé gert. Sé það bæði málefnalegt og eðlilegt að frágangur slíkrar grunngerðar og innviða sé lokið þegar lóðir eru seldar til þriðja aðila. Með því eigi grunngerðir og innviðir að vera fullnægjandi af hálfu landeiganda og í samræmi við skipulag áður en lóðir séu seldar. Erfitt hafi reynst að knýja kæranda til að uppfylla skilmála deili-skipulagsins og yfirlýsingu hans sjálfs frá 2011.

Varðandi aðfinnslur í kæru um að settir hafi verið skilmálar um vatnsöflun áður en framkvæmdaleyfi verði gefið út fyrir veglagningu sé vísað til tölvupósts skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins, dags. 5. september 2023. Sé þar ítrekað við kæranda að framkvæmdaleyfi verði ekki gefið út fyrr en skilmálar um að nægilegt slökkvivatn verði uppfylltir. Í tölvupóstinum séu tilgreind helstu rök fyrir því hvers vegna ekki séu skilyrði til að gefa út framkvæmdaleyfi vegna veglagningarinnar og er að auki vísað í bókun sveitarstjórnar frá 29. ágúst 2023. Þar komi fram að sveitarstjórn minni á skilmála um uppbyggingu vatnsveitu, gatnagerðar, fráveitu og annarra innviða sem fram komi í gildandi deiliskipulagi svæðisins sem og í ákvæðum yfirlýsingar um uppbyggingu innviða á svæðinu, dags. 6. maí 2011. Staðfesting á því að þessum skilmálum hafi verið mætt skuli liggja fyrir áður en framkvæmdir hefjist á svæðinu. Að þessu uppfylltu og að fengnu leyfi Vegagerðarinnar vegna nýrrar vegtengingar við Vaðlaheiðarveg muni sveitarstjórn samþykkja útgáfu framkvæmdaleyfis. Framangreind skilyrði séu öll lögmæt, málefnaleg og í samræmi við deili- og aðalskipulag.

Tilefni þyki til að taka fram að kærandi hafi byrjað framkvæmdir án þess að sækja um fram-kvæmdaleyfi eða leggja fram tilskilda uppdrætti og hafi hann þannig virt að vettugi ákvæði skipulagslaga, reglugerðar um framkvæmdaleyfi, ákvæði deiliskipulags og yfirlýsingu sína frá 2011. Á fundi þeim sem kærandi vísi til í tölvupósti frá 1. september 2023 hafi verið gerð krafa um að hann myndi stöðva framkvæmdir og sækja um framkvæmdaleyfi.

Ekki sé fyrir hendi skýring á því hvers vegna deiliskipulagið hafi ekki verið sent Skipulagsstofnun á sínum tíma, hvorki til umsagnar né eftir samþykkt þess svo sem bar að gera skv. 40. og 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Upplýsingar um deiliskipulagið og lóðirnar hafi hins vegar skilað sér á aðra staði, t.d. í fasteignaskrá og þinglýsingabækur, ásamt því að vera auglýst með lögbundnum hætti í B-deild Stjórnartíðinda 13. mars 2012, sbr. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga.

Vísað sé til tölvupósts frá Skipulagsstofnun frá 17. ágúst 2023 þar sem fram komi að deili-skipulagið hafi öðlast gildi með auglýsingu 23. febrúar 2012 í B-deild Stjórnartíðinda á sínum tíma. Sambærilega skoðun megi finna í tölvupósti Skipulagsstofnunar til skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 17. ágúst 2021. Þar komi fram að stofnunin muni birta deiliskipulagið í vefsjá sinni ef það berist henni, jafnvel þó stofnuninni hafi ekki gefist færi á að fjalla um það á sínum tíma í samræmi við 42. gr. skipulagslaga. Hvað þetta varðar sé rétt að hafa í huga að birting í vefsjá Skipulagsstofnunar skipti ekki máli varðandi réttaráhrif deiliskipulags þó upplýsingagildi slíkrar birtingar geti vissulega verið mikið. Að loknu kærumáli þessu ráðgeri sveitarfélagið að senda deiliskipulagið til Skipulagsstofnunar með þeim skýringum að það hafi farist fyrir á sínum tíma.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur að sveitarfélagið hafi ekki greint rétt frá aðdraganda og heildarferli vegna gerðar og samþykktar deiliskipulags fyrir frístundabyggð Sólbergs í Svalbarðsstrandarhreppi. Það sem mestu máli skipti sé að deiliskipulagið sem birt hafi verið á vefsíðu sveitarfélagsins í kjölfar auglýsingar í Stjórnartíðindum hafi verið deiliskipulagið sem fyrrgreindur arkitekt lagði fyrst fram í mars 2011 sem síðar hafi verið uppfært í september s.á. Hafi kærandi og fasteignasali sá er seldi lóðirnar úr jörð kæranda báðir margoft sótt deiliskipulagið frá september 2011 á vef sveitarfélagsins. Allt frá árinu 2012 hafi sveitar-félagið verið fullkomlega meðvitað um sölu lóðanna, enda hafi starfsmenn þess skráð upplýsingar um lóðirnar og kaupin á þeim allan þennan tíma án nokkurra athugasemda. Einnig hafi skipulags- og byggingarfulltrúi beinlínis vitnað í umrætt deiliskipulag frá september 2011 í tölvupósti er fylgi gögnum málsins. Að auki megi benda á að deiliskipulagið frá september 2011 hafi ekki verið merkt sem tillaga eins og skylt sé þar til deiliskipulag hafi verið samþykkt, sbr. 2. mgr. gr. 5.1. í þágildandi skipulagsreglugerð nr. 73/1997. Sé því ekkert sem gefi til kynna að það hafi ekki verið gilt deiliskipulag enda birt á teikningavef sveitarfélagsins allt fram til júlí 2023.

Í greinargerð sveitarfélagsins sé vísað til þess að umsókn um framkvæmdaleyfi hafi ekki borist af hálfu kæranda fyrr en skipulagsfulltrúi hafi óskað eftir henni. Umræddur vegur sé 350 m langur og megi stórlega efast að slík framkvæmd krefjist framkvæmdaleyfis. Hafi kærandi hins vegar strax lagt inn umsókn um framkvæmdaleyfi í kjölfar athugasemda skipulags- og byggingarfulltrúa. Í yfirlýsingu þeirri sem kærandi hafi skrifað undir sé miðað við að áður en framkvæmdir hefjist á svæðinu skuli m.a. liggja fyrir staðfesting slökkviliðsstjóra um aðgengi að nægilegu vatni til slökkvistarfa, með vísan til 11. gr. laga um brunavarnir nr. 75/2000 og þágildandi gr. 137.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.

Ákvæði 11. gr. laga um brunavarnir fjalli um skyldur sveitarfélags til að tryggja vatn til slökkvistarfs. Ákvæðið fjalli í engu um skyldu landeiganda eða framkvæmdaleyfishafa til að tryggja slökkvivatn. Ekki verði séð að kæranda hafi verið kynnt sérstaklega að með þessu myndi hann taka á sig skyldu sveitarfélagsins til að tryggja vatn til slökkvistarfs enda felist það ekki í orðalagi yfirlýsingarinnar. Það komi einungis fram að undirritaður skuli leggja fram staðfestingu slökkviliðsstjóra um aðgengi að vatni með vísan til 11. gr. um skyldu sveitarfélagsins til að tryggja slökkvivatn. Það eina sem fram komi í 3. lið yfirlýsingarinnar sem geti átt við um skyldu kæranda sé að framkvæmdaleyfishafi skuli kosta uppsetningu brunahana ef vatnsveitu sé ætlað að sjá fyrir brunavörnum. Engar kröfur hafi verið gerðar gagnvart eigendum lóða eða jarða í nágrenni Sólbergs sem séu sambærilegar þeim sem gerðar séu gagnvart kæranda hvað varði vatnsöflun til brunavarna. Sé slíkt brot á jafnræðisreglu.

Kærandi telji auk alls framangreinds að í raun séu forsendur þeirra yfirlýsingar sem hann hafi samþykkt árið 2011 brostnar. Þrátt fyrir að eðli máls samkvæmt stjórni kærandi ekki innihaldi deiliskipulags heldur sveitarfélagið, þá sé engu að síður ljóst að kærandi hafi skrifað undir yfirlýsinguna á grundvelli þeirrar skipulagstillögu sem þá hafi verið lögð fram og honum hafi verið kunnugt um. Sé engum blöðum um það að fletta að kærandi hefði ekki skrifað undir yfirlýsinguna hefði deiliskipulag sem kvæði á um bann við sölu lóða legið fyrir hinn 6. maí 2011.

Viðbótarathugasemdir Svalbarðsstrandarhrepps: Tekið er fram að sá arkitekt sem vann deiliskipulagstillöguna hafi unnið hana fyrir hönd skipulagsbeiðanda. Á þeim tíma hafi þáverandi eigandi, sem nú er eigandi hlutafélags þess sem skráð er eigandi landeignarinnar, verið skipulagsbeiðandi ásamt meðeiganda sínum að landinu. Hafi þessir meðeigendur í raun verið báðir skipulagsbeiðendur og líta verði svo á að þeir báðir hafi vitað af þeirri skipulagsvinnu sem hafi verið í gangi.

Ekki sé rétt sem fram komi í athugasemdum kæranda að auglýsingin hafi birst á vef sveitar-félagsins þann 23. febrúar 2012. Auglýsingin hafi birst á vef sveitarfélagsins þann 28. desember 2011. Þar sem mjög langt sé um liðið sé aðeins hægt að sjá þetta nú í vefsafni Landsbókasafns Íslands, Háskólabókasafni, en heimasíðu sveitarfélagsins hafi verið breytt árið 2020. Fyrsta afrit af vefsíðunni sem vistað sé í vefsafninu eftir birtinguna þann 28. desember 2011 sé frá 23. mars 2012. Þar komi skýrt fram að auglýsingin hafi verið birt á vef Svalbarðsstrandarhrepps, þann 28. desember 2011.

Í auglýsingunni sem hafi birst þann 28. desember 2011 séu hlekkir á deiliskipulagstillöguna og skipulagsuppdráttinn frá nóvember 2011. Í auglýsingunni sé veittur frestur til athugasemda til 8. febrúar 2012. Engar athugasemdir hafi borist, hvorki frá fyrrnefndum meðeigendum né neinum á þeirra vegum. Þessi auglýsing sé enn þá inni á vef sveitarfélagsins í dag og þar komi fram dagsetningin 23. febrúar 2012. Árið 2020 hafi heimasíðu sveitarfélagsins og uppbyggingu hennar verið breytt og þá virðist þessi dagsetning hafa komið inn á hana, þ.e. 23. febrúar 2012. Þó það sé vissulega villandi þá breyti það því ekki að þessi auglýsing hafi birst 28. desember 2011, eins og glöggt komi fram í vefsafni Landsbókasafnsins. Fullyrðingum um að deiliskipulagið hafi ekki verið auglýst réttilega sé því hafnað.

Þá kannist sveitarfélagið ekki við að hafa sent ranga útgáfu af skipulaginu til kæranda. Þá hafi deiliskipulagið verið merkt nóvember 2011 og sem hafi verið samþykkt á fundum skipulags-nefndar og sveitarstjórnar birt á heimasíðu sveitarfélagsins þann 28. desember 2011 eins og rakið hafi verið og þar sé hægt að sækja það, bæði á heimasíðu sveitarfélagsins og í vefsafni Landsbókasafns. Þrátt fyrir að kærandi hafi fengið sent deiliskipulagið merkt september 2011 en ekki nóvember 2011, eða séð það á vefnum, þá breyti það því ekki að deiliskipulagið frá í nóvember 2011 sé í gildi og það falli ekki úr gildi þó fyrir mistök sé sent í pósti eða rafrænt útgáfa sem var í vinnslu.

Varðandi umfjöllun um að skipulagsskilmáli sé í bága við lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins sé vísað til þágildandi skipulagsreglugerðar nr. 400/1998. Samkvæmt gr. 1.3. sé skipulags-skilmáli skilgreindur sem bindandi ákvæði sem sett sé fram í deiliskipulagi m.a. um útfærslu skipulagsmarkmiða og geti efni þeirra því verið um fleira en útfærslu skipulagsmarkmiða. Í gr. 5.4.2 í þeirri skipulagsreglugerð hafi einnig verið gerð ráð fyrir að skipulagsskilmálar skyldu eftir atvikum kveða á um önnur atriði eftir aðstæðum hverju sinni, sbr. 3. mgr. greinarinnar. Skilmálinn fari því ekki í bága við lögmætisreglu og sé ekki í bága við skipulagsreglugerð.

Í ljósi þess að kærandi hafi sjálfur verið skipulagsbeiðandi geti þetta heldur ekki talist leið-beinandi skilmáli gagnvart kæranda, heldur skylda sem hann hafi gengist undir með því að biðja um og fá samþykkt skipulagið. Deiliskipulag feli í eðli sínu í sér takmörkun á eignarrétti og athafnafrelsi sem taki mið af almannahagsmunum. Í þessu tilviki hafi verið talið nauðsynlegt að til staðar væri heildstætt kerfi varðandi vegagerð, aðgengi að slökkvivatni og grunngerð áður en eignarhald myndi dreifast. Þetta sé málefnaleg takmörkun á framsali lóðanna og ekki íþyngjandi gagnvart landeiganda og skipulagsbeiðanda.

Sveitarfélagið vilji taka fram að yfirlýsing landeiganda frá 6. maí 2011 sé í fullu gildi. Henni hafi ekki verið hnekkt með dómi og standi því enn og sé kærandi bundinn af henni. Kærandi hafi ekki fært nein rök fyrir að forsendur séu brostnar fyrir henni og ef hann telji svo vera þurfi hann að afla sér dóms sem segir að svo sé. Þó deiliskipulagi hafi verið breytt og það uppfært frá september til nóvember 2011, en deiliskipulagið merkt nóvember 2011 sé það sem hið auglýsta deiliskipulag sem samþykkt hafi verið og tekið gildi, breyti þar engu um gildi yfirlýsingar kæranda frá 6. maí 2011. Sveitarfélagið telji að veglagningin sé framkvæmda-leyfisskyld, sbr. 5. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012. Verði kærandi því að leggja fram fullnægjandi gögn og staðfestingu á að nægilegt slökkvivatn sé til staðar svo sem krafist hefur verið og kemur fram í tölvupósti skipulags- og byggingarfulltrúa frá 1. og 5. september 2023, sbr. bókun sveitarstjórnar frá 29. ágúst 2023. Deiliskipulagið geri ráð fyrir að vatn til neyslu og brunavarna skuli tryggt áður en lóðir verði seldar, sbr. grein 10 í deiliskipulaginu. Öll grunngerð skuli tilbúin áður en lóðir verði seldar, sbr. grein 18. Allt deiliskipulagið geri ráð fyrir að innviðir skuli gerðir áður en lóðir verði seldar og einnig hafi kærandi gengist undir það með yfirlýsingunni frá 6. maí 2011. Það sé alveg skýrt að kæranda beri að sjá til þess að nægilegt slökkvivatn sé til staðar og hann verði að uppfylla þær kröfur áður en framkvæmdaleyfi sé veitt, sbr. önnur ákvæði deiliskipulags og yfirlýsingar frá 6. maí 2011.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um deiliskipulag fyrir frístundabyggð í landi Sólbergs, sem samþykkt var af sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps 14. febrúar 2012, og þá einkum lögmæti skilmála er varða vatnsöflun og skilyrði fyrir lóðasölu. Jafnframt er kærð ákvörðun skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins frá 5. september 2023 um að synja um framkvæmdaleyfi vegna vega-gerðar nema kærandi tryggi vatnsöflun á svæðinu áður en vegur verði lagður. Í ljósi atvika málsins og þar sem það kemur í hlut sveitarstjórna að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi, sbr. 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að kærð sé sú ákvörðun sveitarstjórnar frá 29. ágúst 2023 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir lagningu vegar með tilteknum skilyrðum.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Þá kemur fram að sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar.

Hinn 13. mars 2012 var birt auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda um samþykki bæjarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps fyrir deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Sólbergs. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr., sbr. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, tekur kærufrestur að líða degi eftir opinbera birtingu ákvörðunar. Kæra vegna hins umdeilda deiliskipulags barst úrskurðar-nefndinni 4. október 2023 og því ljóst að kærufrestur var löngu liðinn þegar kæran barst úrskurðarnefndinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá skv. 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. kemur fram að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila, en líta verður svo á að það taki jafnframt til þess þegar ákvörðun sætir opinberri birtingu skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður því kæru vegna ákvörðunar sveitarstjórnar Svalbarðsstrandar-hrepps frá 14. febrúar 2012 um að samþykkja deiliskipulag fyrir frístundabyggð í landi Sólbergs vísað frá úrskurðarnefndinni.

Fyrir liggur að umsókn kæranda um framkvæmdaleyfi til vegalagningar í landi Sólbergs, frístundabyggðar, var tekin fyrir á fundi sveitarstjórnar 29. ágúst 2023. Í fundargerð kemur fram að sveitarstjórn minni á skilmála um uppbyggingu vatnsveitu, gatnagerðar, fráveitu og annarra innviða sem fram koma í gildandi deiliskipulagi svæðisins sem og ákvæði yfirlýsingar um uppbyggingu innviða á svæðinu, dags. 6. maí 2011, og áréttar að staðfesting á því að þessum skilmálum hafi verið mætt skuli liggja fyrir áður en framkvæmdir hefjast á svæðinu. Að þessu uppfylltu og að fengnu leyfi Vegagerðarinnar vegna nýrrar vegtengingar við Vaðlaheiðarveg samþykkti sveitarstjórn að framkvæmdaleyfi yrði gefið út.

Framkvæmdaraðili telur óheimilt að binda hið samþykkta framkvæmdaleyfi um lagningu vegar því skilyrði að hann tryggi vatnsöflun áður en framkvæmdir hefjist. Þá ber aðilum máls þessa ekki saman um hver séu þau skilyrði sem framkvæmdaraðili sé bundinn af samkvæmt fyrrgreindu deiliskipulagi.

Við útgáfu framkvæmdaleyfis skal sveitarstjórn skv. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. einnig 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 772/2010 um framkvæmdaleyfi. Einnig er sveitarstjórn heimilt að binda framkvæmd skilyrðum sem sett eru í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir sveitarfélagsins, sbr. framangreinda 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga.

Í Aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps 2008–2020  er svæðið sem um ræðir skilgreint sem frístundabyggð F7, sbr. töflu í gr. 4.5.1. Um frístundabyggð á því svæði kemur fram að á skipulagsuppdrætti og yfirlitstöflu séu sýnd núverandi svæði fyrir frístundabyggð með fjórum húsum eða fleiri svo og fyrirhuguð stækkun þeirra og ný hverfi þar sem deiliskipulag hefur verið samþykkt. Stærð svæða og fjöldi lóða á nýjum svæðum séu viðmiðunartölur sem unnar verði nánar í deiliskipulagi hvers svæðis.

Verklagsreglur um deiliskipulag á vegum einkaaðila er að finna í viðauka aðalskipulagsins, kafla 12.1. Þar kemur m.a. fram að landeigandi eða framkvæmdaaðili, sem óskar eftir að gera tillögu að deiliskipulagi á landi sínu, skuli senda skriflega umsókn til sveitarstjórnar um heimild til að hefja skipulagsvinnuna. Umsókninni skuli fylgja stutt greinargerð um fyrirhugað skipu-lag. Það sem fram skal koma í þeirri lýsingu sé nánar tilgreint í A-lið kaflans. Þá segir í B-lið að umsókninni skuli jafnframt fylgja greinargerð þar sem fram komi hver annist og beri stofnkostnað af tilteknum verkþáttum, rekstri þeirra og viðhaldi, m.a. hvað varðar gatnagerð, fráveitu og rotþró, neysluvatnsöflun og lögnum, brunavörnum og tengigjöldum vegna hitaveitu. Þá segir að í framhaldinu taki skipulagsnefnd og/eða sveitarstjórn umsóknina til afgreiðslu. Þegar niðurstaða liggi fyrir skuli sveitarstjórn tilkynna hana til umsækjanda og skýra forsendur hennar. Áður en vinna við skipulagsgerðina hefst skuli liggja fyrir skrifleg yfirlýsing landeiganda eða framkvæmdaaðila þar sem hann lofar að upplýsa kaupendur um efnisþætti, sbr. B-lið 1. greinar. Jafnframt skuli þeirra getið í lóðarleigu- eða kaupsamningi.

Kærandi kveðst hafa alla tíð talið að í yfirlýsingunni sem hann skrifaði undir 6. maí 2011 væri að finna hina gildandi skilmála og að deiliskipulagstillagan sem merkt sé „september“ væri hið gildandi deiliskipulag. Hann hafi aldrei verið upplýstur um breytingar á þeim skilmálum. Ástæður þess megi m.a. rekja til þess að auglýsing um kynningu deiliskipulagstillögunnar hafi ekki verið birt með lögmætum hætti og að frestur til athugasemda við skipulagstillöguna hafi ekki verið í samræmi við 41. gr. skipulagslaga. Sveitarfélagið telur á hinn bóginn að í gildi sé deiliskipulag sem merkt sé „nóvember 2011“ ásamt þeim skilmálum sem fram komi í þeirri greinargerð.

Fyrir liggur að í 9. gr. greinargerðar skipulagstillögunnar frá því í nóvember 2011 er að finna skilmála þess efnis að kæranda sé óheimilt að „selja lóðir fyrr en tryggt hefur verið að nægt vatn sé til neyslu og brunavarna“, en í 9. gr. greinargerðar skipulagstillögunnar sem merkt er „september 2011“ er hins vegar einungis kveðið á um að óheimilt sé að hefja framkvæmdir á svæðinu „fyrr en eftir mælingar á vatnsmagni í vatnsbólinu, þannig að tryggt sé að það sé nægjanlegt. Að öðrum kosti verði gerðar ráðstafanir til að nægt vatn sé á svæðinu, einkum með tilliti til brunavarna.“ Þá er í 18. gr. beggja greinargerða fjallað um kostnað og segir í tillögunni merkt „nóvember 2011“ að „Landeigandi (skipulagsbeiðandi) sér um og kostar vatnsveitu fyrir neysluvatn og gerir ráðstafanir til að tryggja nægt vatn til slökkviðstarfa.“ Í greininni er einnig kveðið á um að landeigandi sjái um gerð sameiginlegs vegar um svæðið, frágang rotþróa og fráveitulagna, stofnlagna vegna rafmagns, uppsetningu girðingar, öflun neysluvatns og lagningu vatnslagna að lóðarmörkum. Segir svo að grunngerð þessi skuli frágengin áður en lóðir séu seldar. Aftur á móti segir í tillögunni sem merkt er „september 2011“ að allur kostnaður sem falli til við vegna gatnagerðar, fráveitna/rotþróa, neysluvatnsöflunar auk annarra þar tilgreindra innviðaatriða greiðist af „landeigendum (lóðahöfum) og/eða félagi frístunda-húsaeiganda á svæðinu. Við sölu á eða leigu á lóðunum er það samkomulagsatriði hverju sinni hvað sé innifalið í kaupi/leiguverði og skal það skráð í kaup/leigusamningum og þeim þinglýst.“

Umrædd deiliskipulagstillaga var tekin til umfjöllunar á fundi skipulagsnefndar sveitar-félagsins 7. apríl 2011 og skrifaði kærandi undir yfirlýsingu 6. maí s.á. sem hann telur að sé í gildi. Málið var aftur tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 10. október 2011. Í fundargerð kemur m.a. fram að arkitekt landeiganda hafi uppfært greinargerð skipulagstillögunnar og að skipulagsnefnd mæltist til að ákvæði um skiptingu kostnaðar við grunngerð og rekstur yrðu gerð skýrari. Verði gatnagerð, fráveita, girðing um svæðið og lagning neysluvatns að lóðar-mörkum á hendi landeiganda og að gengið verði frá þessum þáttum áður en lóðir verði seldar eða leigðar. Framhald umræðna um tillögu deiliskipulagsins var tekin fyrir á fundi skipu-agsnefndar 2. nóvember s.á. Skráð var í fundargerð að uppfærð greinargerð hafi verið lögð fram á fundinum og hún yfirfarin, lagfærð og samþykkt. Að lokum var deiliskipulagstillagan tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar 13. febrúar 2012 og samþykkt af sveitarstjórn 14. s.m. Í fundargerðum þeirra funda er ekki að finna umfjöllun um hvað felist í hinni uppfærðu greinargerð.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er eingöngu að finna á vefsíðu sveitarfélagsins auglýsingu sem birt var 23. febrúar 2012, eftir að deiliskipulagstillagan hafði verið samþykkt. Í þeirri auglýsingu er deiliskipulaginu lýst á þann veg að: „Deiliskipulagssvæðið er um 8,3 ha að stærð og í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir 14 frístundalóðum frá 5.000 m² til 5.800 m² að stærð. Gert er ráð fyrir að lóðirnar verði eignarlóðir og að aðkoma að svæðinu verði frá Vaðlaheiðarvegi. Deiliskipulagið var auglýst samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með athugasemdafresti til 8. febrúar 2012“. Sveitarfélagið hefur haldið því fram að tillagan hafi verið auglýst á heimasíðu sveitarfélagsins 28. desember 2011 með auglýstum athugasemdafresti til 8. febrúar 2012. Óskaði úrskurðarnefndin eftir staðfestingu sveitarfélagsins á birtingu auglýsingar þann dag. Sökum þess hversu langt sé liðið frá birtingunni vísaði sveitarfélagið í vefsafn Landsbókasafns Íslands Háskólabókasafns, en heimasíða sveitarfélagsins hafi breyst árið 2020. Fyrsta afrit af vefsíðunni sem sé vistað í vefsafninu eftir birtinguna þann 28. desember 2011 sé frá 23. mars 2012. Þar komi skýrt fram að auglýsingin hafi verið birt á vef Svalbarðsstrandarhrepps 28. desember 2011.

Þó nokkrir annmarkar voru á málsmeðferð deiliskipulagstillögu þeirri sem sveitarstjórn sam-þykkti 14. febrúar 2012 og auglýsti svo í B-deild Stjórnartíðinda 13. mars s.á. Ber þar helst að nefna að deiliskipulagstillagan var ekki send Skipulagsstofnun eftir samþykkt hennar sem þó var skylt skv. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Þá hefur sveitarfélagið heldur ekki sent Skipulagsstofnun deiliskipulagsuppdrátt og greinargerð til birtingar á vef stofnunarinnar, en henni ber skv. j lið 4. gr. skipulagslaga að taka á móti skipulagsáætlunum og gera þær aðgengilegar öllum með stafrænum hætti svo unnt sé að ganga úr skugga um hvað sé gildandi skipulag hverju sinni. Þá skortir á að í málinu liggi fyrir deiliskipulagsuppdráttur staðfestur af sveitarstjórn ásamt greinargerð og grenndarkynningargögn vegna kynningar skipulagstillögunnar þrátt fyrir eftirgrennslan úrskurðarnefndarinnar. Vegna þessara annmarka við málsmeðferð deiliskipulagsins verður ekki skorið úr um það með viðhlítandi hætti að umdeildir skilmálar, m.a. um vatnsöflun og kvaðir á sölu lóða á skipulagssvæðinu, hafi verið hluti hins samþykkta deiliskipulags.

Með yfirlýsingu sinni 6. maí 2011 lýsti landeigandi yfir að hann hefði kynnt sér verklagsreglur um deiliskipulag á vegum einkaaðila sem samþykktar voru af sveitarstjórn Svalbarðstrandar-hrepps 21. maí 2002. Jafnframt samþykkti hann að leggja fram með framkvæmdaleyfisumsókn, eftir að deiliskipulag hafi verið samþykkt og áður en framkvæmdir hefjist, eftirfarandi gögn sem þar eru talin upp í 6. stafliðum. Er þar m.a. um að ræða hnitsettan uppdrátt vegna gatnagerðar, hnitsettan uppdrátt vegna fráveitna ásamt yfirlýsingu heilbrigðiseftirlits um að fráveitu og frágang hennar sé fullnægjandi og yfirlýsingu löggilts pípulagningameistara um að fráveitulagnir verði lagðar í hans umsjá, staðfestingu slökkviliðsstjóra varðandi aðgengi að vatni til slökkvistarfa, yfirlýsing viðkomandi veitustofnana um að þær muni tryggja umræddar veitulagnir til notenda á skipulagssvæðinu og á hvaða skilmálum það gerist fyrir framkvæmda-leyfishafann og/eða notendur o.fl.

Samkvæmt framangreindu lá fyrir í aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps og yfirlýsingu kæranda frá 6. maí 2011 hvaða skilmála framkvæmdaleyfishafa bar að virða við framkvæmdir á svæðinu, þ.á.m. að ekki yrði ráðist í þær fyrr en eftir mælingar á vatnsmagni í vatnsbólinu. Bann við sölu lóða þar til kærandi hafi uppfyllt þessa skilmála á sér hins vegar hvorki stoð í framangreindum skilmálum, yfirlýsingu framkvæmdaleyfishafa eða aðalskipulagi.

Með vísan til þess sem framan er rakið þykir rétt að fella úr gildi þau skilyrði fyrir tilhögun framkvæmda og sölu lóða sem vísað er til með skírskotun í gildandi deiliskipulag í hinni kærðu afgreiðslu sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps á framkvæmdaleyfisumsókn kæranda.

 Úrskurðarorð:

 Kæru á ákvörðun sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps frá 14. febrúar 2012 um að sam-þykkja deiliskipulag fyrir frístundabyggð í landi Sólbergs er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Felld eru úr gildi skilyrði fyrir tilhögun framkvæmda og sölu lóða sem vísað er til með skír-skotun í gildandi deiliskipulag í hinni kærðu afgreiðslu sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps frá 29. ágúst 2023 á umsókn kæranda um framkvæmdaleyfi.

145/2023 Indriðastaðir

Með

Árið 2024, fimmtudag 8. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 145/2023, beiðni um að úrskurðað verði hvort framkvæmd vegna þriggja forðatanka, sem geyma eiga söfnunarvatn á vatnstökusvæði ofan Hrísáss í landi Indriðastaða í Skorradal og viðeigandi leiðslu, sé framkvæmdaleyfisskyld.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. desember 2023, er barst nefndinni sama dag, óskar Vatnsveitufélag sumarhúsaeigenda í Indriðastaðalandi eftir því að úrskurðarnefndin úrskurði um hvort að framkvæmd vegna þriggja forðatanka sem geyma eiga söfnunarvatn úr vatnstökubrunnum sé framkvæmdaleyfisskyld.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skorradalshreppi 18. janúar 2024.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Skorradalshrepps 28. nóvember 2023 var tekin fyrir fyrirspurn Vatnsveitufélags frístundalóðaeigenda Indriðastaðalands. Spurt var hvort framkvæmd sem félagið hyggst fara í til að auka vatnsöflun á vatnstökusvæði félagsins ofan Hrísáss í landi Indriðastaða væri framkvæmdaleyfisskyld. Svar skipulags- og bygginganefndarinnar var að framkvæmdin væri framkvæmdaleyfisskyld í skilningi 5. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.

Af hálfu vatnsveitufélagsins er vísað til þess að fyrirhuguð framkvæmd felist í að koma fyrir þremur forðatönkum sem geyma eigi söfnunarvatn úr vatnstökubrunnum, bæði brunnum sem þegar séu fyrir hendi og einum nýjum vatnstökubrunni. Þá sé fyrirhugað að leggja nýja vatns-lögn frá nýjum brunni að forðatönkum og frá nýjum forðatönkum að núverandi vatnslögn. Að mati félagsins hafi fyrirhuguð framkvæmd einungis óveruleg áhrif á umhverfið og ásýnd þess í skilningi 2. mgr. 5. gr reglugerðar nr. 772/2012 og skuli því ekki háð framkvæmdaleyfi. Í ákvæðinu sé t.d. sérstaklega talið upp í dæmaskyni að „óveruleg tilfærsla á veitumannvirkjum“ teljist til þeirra framkvæmda sem undantekningin eigi við um. Vísist til meðfylgjandi ljósmynda af frágangi núverandi safnbrunna og forðatanka, þar sem sjáist að mannvirkin hverfi nær alveg í umhverfið og séu að langmestu leyti neðanjarðar. Þá hafi sveitarfélagið vísað til þess í skipulagsskilmálum að svæðið sem um ræði sé ætlað til vatnstöku. Í greinargerð með deiliskipulagi frístundabyggðar við Skálalæk í landi Indriðastaða komi fram í kafla 3.4. að stofnæðar kaldavatnsveitu séu lagðar frá miðlunartanki og heitt vatn sé fengið frá hitaveitu Skorradals. Lögnum kaldavatnsveitu, heits vatns og rafmagns skuli komið fyrir í vegsvæði og stígum eins og kostur er. Í kafla 1.6. komi fram að grunnvatn komi úr lindum í um 300 m fjarlægð frá núverandi miðlunartanki. Komi þær úr berggrunni sem liggi hærra en 150 m y.s. Vatnsrennsli úr þeim sé talið vera a.m.k. 14 l/s, meginhluta ársins. Auk þessa vatnstökusvæðis spretti vatn tæpum einum km vestar í 180 m y.s. Þar sé líklegt að ná megi einum til þremur sekúndulítrum af lindarvatni. Þetta í heild sinni sé talið nægjanlegt vatn fyrir fyrirhugaða byggð á Indriðastöðum miðað við eðlilega vatnsnotkun.

Í greinargerð á skipulagsuppdrætti fyrir Stráksmýri í landi Indriðastaða komi fram að vatns-, hita- og rafveita séu á svæðinu. Neysluvatn sé tekið úr lind ofan við frístundabyggðina og leitt niður í hverfið. Við lagningu nýrra veitna eða viðhald á núverandi veitum í jörðu skuli miða við að veitur verði í eða við vegsvæði þar sem því verður komið við.

 Í athugasemdum Skorradalshrepps til nefndarinnar er tekið fram að miðað við framlögð gögn sé það mat sveitarfélagsins að framkvæmdin sé framkvæmdaleyfisskyld, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 772/2012. Matið byggi á því að raskað svæði fyrir vatnstöku stækki töluvert frá því sem nú sé, þ.e. tveir vatnstökubrunnar muni bætast við í tveimur óröskuðum giljum, 75 m3 forðatanki verði komið fyrir í hlíð fyrir ofan byggðina og PE ⌀110 slökkvilögn muni liggja ofanjarðar frá öðrum vatnstökubrunninum. Ekki komi fram hvort PE ⌀75 söfnunarpípa sem liggi frá hinum vatnstökubrunninum niður í núverandi forðatank muni verða plægð niður eða grafin, en það hafi áhrif á ásýnd svæðisins til lengri tíma verði hún grafin niður í stað þess að vera plægð. Sé það mat sveitarfélagsins að framkvæmdin hafi áhrif á umhverfið og ásýnd þess. Um sé að ræða framlengingu á stofnlögnum og nýja stofnbrunna og muni framkvæmdin því raska mun stærra svæði en þegar sé raskað.

Niðurstaða: Samkvæmt 8. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 3. mgr. 5. gr. reglu-gerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi, er umsækjanda um framkvæmdaleyfi og hlutað-eigandi sveitarstjórn eða sveitarfélagi heimilt að skjóta máli til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála leiki vafi á því hvort framkvæmdir séu háðar ákvæðum um framkvæmdaleyfi.

Samkvæmt 9. tl. 1. mgr. 2. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er framkvæmdaleyfi leyfi til fram-kvæmda í samræmi við skipulag sem ekki eru háðar ákvæðum laga um mannvirki. Dreifi- og flutningskerfi vatnsveitu er undanþegið byggingarleyfi samkvæmt 1. mgr. 9. gr. mannvirkja-laga nr. 160/2010. Tekið er fram í gildissviðsgrein þeirra að lögin gildi um alla þætti mann-virkja, þ.m.t. lagnir. Þá fellur dreifikerfi vatnsveitna innan hugtaksins mannvirki skv. lögunum.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga skal afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku og annarra framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Hvort framkvæmdir teljist leyfisskyldar samkvæmt þessari grein verður að meta í hverju tilfelli fyrir sig með hliðsjón af staðháttum.

Í 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 772/2012 eru taldar upp framkvæmdir sem talist geta verið óverulegar og séu því ekki háðar framkvæmdaleyfi en geta þó verið skipulagsskyldar. Með óverulegri framkvæmd er átt við framkvæmd sem hefur óveruleg áhrif á umhverfið og ásýnd þess. Meðal þeirra framkvæmda sem þar eru taldar upp eru m.a. óveruleg tilfærsla á veitu-mannvirkjum og óveruleg frávik á framkvæmdum sem þegar hafa fengið útgefið framkvæmda-leyfis og falla ekki undir lög um mat á umhverfisáhrifum.

 Með fyrirhugaðri framkvæmd er ráðgert að endurbæta vatnsveitu fyrir sumarhúsahverfi með því að koma fyrir þremur forðatönkum sem geyma eiga söfnunarvatn úr vatnstökubrunnum, bæði brunnum sem þegar eru fyrir hendi og einum nýjum vatnstökubrunni. Einnig felst í framkvæmdinni að leggja nýja vatnslögn frá nýjum brunni að forðatönkum og frá nýjum forðatönkum að núverandi vatnslögn. Framkvæmdin er fyrirhuguð á svæði þar sem þegar er vatnstaka og er ætluð til að auka afkastagetu. Af gögnum máls þessa má ráða að um tímabundið rask verði að ræða sem ekki er líklegt til að skilja eftir sig varanleg sjáanleg ummerki. Með hliðsjón af því verður að álíta að framkvæmdin sé ekki meiri háttar og verði því ekki álitin háð framkvæmdaleyfi.

Úrskurðarorð:

 Fyrirhuguð framkvæmd vegna þriggja forðatanka sem geyma eiga söfnunarvatn úr vatnstöku-brunnum á vatnstökusvæði ofan Hrísáss í landi Indriðastaða í Skorradal og viðeigandi leiðslu er ekki háð framkvæmdaleyfi samkvæmt 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

130/2023 Hraunteigur

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 8. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 130/2023, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúans í Reykjavík frá 7. september 2023 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Teigahverfis, syðri hluta, vegna lóðar nr. 30 við Hraunteig.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 16. nóvember 2023 kæra þrír af eigendum Hraunteigs 28, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsfulltrúans í Reykjavík frá 7. september 2023 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Teigahverfis, syðri hluta, vegna lóðar nr. 30 við Hraunteig. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 20. nóvember 2023.

Málavextir: Gatan Hraunteigur er í Teigahverfi í Reykjavík og er þar í gildi deiliskipulag syðri hluta þess frá árinu 2002. Lóð nr. 30 við Hraunteig er hornlóð sem liggur einnig að Reykja­vegi á móts við bílastæði Laugardalslaugar. Á lóðinni er sambýlishús sem byggt var árið 1946 með þremur íbúðum, ásamt bíl­skúr byggðum fimm árum síðar og er hann 21,5 m2. Aðkoma að bílskúrnum er af Reykjavegi og sam­kvæmt eignaskiptayfirlýsingu tilheyrir skúrinn íbúð 0101 og fylgir bílskúrs­réttur íbúð 0201.

Hluti eigenda Hraunteigs 30 hefur átt í viðræðum við skipulagsyfirvöld um möguleika á að stækka bílskúr sem fyrir er á lóðinni. Með erindi til skipulagsfulltrúans í Reykjavík 12. desember 2022 var sótt um breytingu á deiliskipulagi hverfisins sem fól í sér að á lóðinni yrðu tveir bílskúrar. Á uppdrætti sem fylgdi umsókninni kom fram að breytingin fæli í sér að á lóðinni yrði byggingar­reitur fyrir bílskúr stækkaður til norðurs þannig að heimilt yrði að endurbyggja nú­verandi bílskúr og til viðbótar byggja áfasta vinnustofu af sömu stærð.

Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 18. apríl 2023 var samþykkt að grenndarkynna tillögu að óverulegri breytingu á deiliskipulagi hverfisins. Með bréfi, dags. 24. apríl 2023, var tillagan grenndarkynnt fyrir húseigendum að Hraunteigi 28 og Kirkjuteigi 33 og þeim bent á að þeir skyldu kynna hana fyrir leigutökum húsnæðis á lóðunum. Kom fram að kynningin hæfist 28. s.m. og athugasemdum skyldi komið á framfæri eigi síðar en 31. maí s.á. Voru kærendur á meðal þeirra sem grenndarkynnt var fyrir og komu þeir athugasemdum sínum á framfæri, f.h. Hraunteigs 28, húsfélags. Gerðu kærendur m.a. athugasemdir við að í tillögunni væri notast við hæðarkóta sem fenginn væri frá óbyggðum bílskúr á lóð nr. 33 við Kirkjuteig. Óskuðu þeir eftir skuggavarpsteikningum og bentu á að athuga þyrfti „Samþykki um friðun trjáa í Reykjavík“, en skv. 2. og 3. gr. hennar væri óheimilt að fella tré sem væru 8 m eða hærri og eldri en 60 ára. Stórt tré væri á lóðamörkunum sem að líkindum væri bæði eldra en 60 ára og hærra en 8 m.

Að lokinni grenndarkynningu var umsóknin að nýju lögð fram á afgreiðslufundum skipulags­fulltrúa 8. júní og 13. júlí 2023. Í fundargerð síðarnefnda fundarins var bókað að erindið væri „lagt fram að nýju ásamt skuggavarpi, dags. 29. júní 2023 og bréfi frá embætti skipulags­fulltrúa, dags. 13. júlí 2023.“ Með bréfinu var húseigendum aftur gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við tillöguna. Kom þar fram að óskað hefði verið eftir við­bótar­gögnum sem hagsmunaaðilum gæfist nú tækifæri til að gera athugasemdir við. Var þar vísað til uppdrátta, dags. 29. júní s.á., sem sýna skuggavarp. Athugasemdafrestur var veittur til 25. júlí s.á. Voru kærendur á meðal þeirra sem gefinn var kostur á að bregðast við greindum gögnum og komu þeir athugasemdum sínum á framfæri. Á afgreiðslufundum skipulagsfulltrúa 27. júlí og 3. ágúst 2023 var erindinu vísað til umsagnar verkefnastjóra hjá embættinu.

Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 7. september 2023, var málsmeðferðinni lýst og fram­komnum athugasemdum svarað. Kom þar m.a. fram að mesta breyting skuggavarps væri fyrir hádegi við jafndægur og einnig yrðu óverulegar breytingar vegna áformanna fyrir hádegi í júní. Skuggi ykist ekki á dvalarsvæði í garðinum, þ.e. við húsið og í suðvesturhorni hans, þar sem væri rúmgott útisvæði með palli, heldur á grasflöt og þar sem væru tré og runnar. Á lóð nr. 28 við Hraunteig væri birkitré sem staðsett væri nálægt lóðamörkum og stæði ekki til að fella það. Erindið var samþykkt á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 7. september 2023 og tók breyting deili­skipulagsins gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 18. október s.á.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að með hinni umdeildu breytingu á deili­skipulagi sé brotið gegn ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Ákvæði f. liðar gr. 2.3.5. um smáhýsi feli í sér meginreglu sem eigi einnig við um byggingar á borð við bílskúra og vinnustofur þannig að bygging smáhýsa innan við 3 m frá lóðamörkum sé háð samþykki eigenda aðliggjandi lóðar. Með því að heimila byggingu vinnustofu svo nærri mörkum lóðar kærenda og raun beri vitni sé þrengt að möguleikum þeirra til að geta síðar byggt vinnustofu eða aðra byggingu á sinni lóð. Yrði áskilnaði byggingarreglugerðar um fjarlægðir á milli bygginga vegna brunavarna þá einungis náð með því að byggingin væri í þeim mun meiri fjarlægð frá mörkum lóðanna með þeim afleiðingum að slík áform væru óraunhæf. Staðsetning vinnustofunnar sé því alfarið á kostnað hagsmuna kærenda og sé brot á jafnræði eigenda samliggjandi lóða. Skipulagsfulltrúi „hafi skautað ansi létt fram hjá“ gr. 6.2.1. í byggingarreglugerð um að byggingu skuli staðsetja með tilliti til skuggavarps þannig að sólar njóti á sem heppilegastan hátt á leik- og dvalar­svæðum. Hafi hann einhliða og án samráðs við kærendur ákveðið hver væru leik- og dvalar­svæði á lóð þeirra og með því farið á svig við gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 þar sem kveðið sé á um að við gerð deiliskipulags skuli eiga sér stað virk samvinna við íbúa og aðra hagsmunaaðila gegnum allt skipulagsferlið. Verulega hafi skort á að skipulagsfulltrúi hafi skoðað til hlítar og brugðist nægilega við þeim athugasemdum sem kærendur hafi gert við meðferð málsins.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að í umsögn skipulagsfulltrúa frá 7. september 2023 hafi komið fram að tekið hefði verið undir athugasemdir um hæðarlegu bílskúrs/vinnustofu á lóð nr. 30 við Hraunteig. Á nýrri byggingu sé eðlilegt að gera ráð fyrir hærri þakkóta þar sem sá bílskúr sem fyrir sé á lóðinni hafi litla lofthæð. Mesta breyting á skuggavarpi sé fyrir hádegi við jafndægur en einnig verði óverulegar breytingar á því fyrir hádegi í júní. Byggðamynstur hverfisins samanstandi m.a. af bílskúrum á mörgum lóðum auk þess sem nýtingarhlutfall lóðarinnar haldist vel innan þeirra marka sem gert sé ráð fyrir í skipu­lagi. Engar breytingar hafi verið gerðar á garði kærenda og ekki sé fallist á að byggingin takmarki nýtingarmöguleika kærenda á sinni lóð. Samkvæmt gr. 9.7.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 skuli byggingar vera með nægjanlegum vörnum gegn útbreiðslu elds á milli þeirra. Til að takmarka þá áhættu sé hægt að beita ýmsum aðferðum, s.s. með nægjanlegu bili á milli bygginga eða með eldvarnarklæðningum.

 Umsækjendum um hina kærðu deiliskipulagsbreytingu var tilkynnt um framkomna kæru en hafa ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Gatan Hraunteigur er í grónu hverfi í austurbæ Reykjavíkur. Samkvæmt Aðal­skipulagi Reykja­víkur 2040 tilheyrir gatan íbúðarbyggð, ÍB21. Um slíka byggð segir m.a. að það sé svæði fyrir íbúðarhúsnæði og nærþjónustu sem því tengist auk minniháttar atvinnu­starfsemi sem samrýmist búsetu. Skapaður verði sveigjanleiki til að fjölga íbúðum innan gróinnar byggðar samkvæmt ákvörðunum í hverfisskipulagi með betri nýtingu þess húsnæðis sem sé fyrir, viðbyggingum, ofanábyggingum, uppskiptingu eigna og breyttri notkun. Með því verði m.a. stuðlað að hagkvæmri og sjálfbærri borgarþróun, auknum möguleikum fasteigna­eigenda að nýta eignir sínar og dregið úr nýbyggingarþörf. Við skipulagningu og hönnun íbúðar­byggðar verði gæði húsnæðis og nærumhverfis þess í fyrirrúmi. Í því samhengi þurfi m.a. að horfa til fjarlægðar milli bygginga, dýpt húsbygginga og hlutfalls útisvæða til leiks og dvalar þar sem sólar nýtur bróðurpart dags. Verður ekki annað ráðið en að umdeild breyting á deili­skipulagi sé í samræmi við gildandi aðalskipulag.

Á svæðinu er í gildi deiliskipulag Teigahverfis, syðri hluti, frá árinu 2002. Er svæðinu þar skipt í tvö svæði og er lóðin sem hér er um rætt á svæði 2. Í greinargerð skipulagsins kemur fram að­ svæðið hafi verið byggt samkvæmt skipulagi frá 1946 og að byggðin sé mjög heilsteypt, varan­leg og gott dæmi um byggingarstíl þess tíma er hún reis. Í almennum skilmálum ­er heimilað, að teknu tilliti til annarra skilmála, að byggja svalir og aðrar viðbyggingar að hámarki 15 m2 á hverri lóð utan hins eiginlega byggingarreits, t.d. garð­skála/sólstofur, enda falli þær vel að húsi og umhverfi hvað varði form og efnisval og uppfylli ákvæði byggingar­reglugerðar. Lágmarks­fjarlægð nýrra viðbygginga skuli vera a.m.k. 3 m frá lóðarmörkum. Þá sé á skipulagsuppdrætti gert ráð fyrir byggingareitum fyrir bílskúra þar sem aðstæður leyfi. Almennt sé miðað við að hámarksstærð einfalds bílskúrs verði allt að 4,0×7,5 m en 7,5×7,5 m fyrir tvöfaldan bíl­skúr. Ekki verði leyfðar nýjar innkeyrslur inn á lóðir þar sem það raski m.a. heildarsvip götunnar, að því undanskildu þar sem það sé leyft í skipulagi. Frístandandi garðskálar séu leyfðir enda liggi fyrir samþykki allra meðeigenda sem og lóðarhafa aðliggjandi lóða. Viðmiðunar­nýtingar­hlutfall á lóðum fyrir sambýlishús með 2–5 íbúðir sé 0,5–0,8. Þá sé í hverfinu almennt heimilt að víkja frá viðmiðunarnýtingarhlutfalli vegna bílskúra, hækkunar húsa, þakhækkunar, kvista og viðbygginga sem auki brúttóflatarmál húsa og gert sé ráð fyrir á skipulagsuppdrætti og í skilmálum.

Á lóð nr. 33 við Kirkjuteig er heimilt að reisa þrjá bílskúra, þ.e. við mörk þeirrar lóðar og lóðar nr. 28 og 30 við Hraunteig og er einnig gert ráð fyrir einum bílskúr á lóð nr. 28 við Hraunteig. Stærð umdeilds byggingarreits er í samræmi við þær heimildir sem fyrir eru á svæðinu og verður ekki séð að byggingin muni skera sig úr á skipulagssvæðinu enda eru fjölmörg dæmi um bílskúra við mörk lóða. Þá liggur fyrir að nýtingarhlutfall lóðarinnar muni ekki aukast mikið. Verður það 0,64 í kjölfar breytingarinnar sem er innan þeirra marka sem gert er ráð fyrir í deiliskipulagi hverfisins. Hvað varðar sjónarmið um brunaöryggi skal á það bent að komi til þess að byggingaráform verði samþykkt á grundvelli hins breytta deiliskipulags ber byggingar­fulltrúa m.a. að ganga úr skugga um að ákvæðum byggingarreglugerðar um brunavarnir sé gætt við hönnun byggingar.

Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 18. apríl 2023 var samþykkt að grenndarkynna tillögu að óverulegri breytingu deiliskipulags hverfisins vegna hinna umdeildu áforma. Var tillagan grenndarkynnt skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga og nágrönnum gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum við hana ásamt frekari gögn sem aflað var síðar. Tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 18. október 2023 og var send Skipulagsstofnun. Var formleg máls­meðferð skipulagsbreytingarinnar því lögum samkvæmt.

Með hliðsjón af framangreindu verður talið að engir þeir form- eða efnisannmarkar liggi fyrir sem leiði til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun skipulagsfulltrúans í Reykjavík frá 7. september 2023 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Teigahverfis, syðri hluta, vegna lóðar nr. 30 við Hraunteig.

5/2024 Hólmbergsbraut

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 6. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Halldóra Vífilsdóttir arkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2024, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 9. janúar 2024 um að heimila frávik á deiliskipulagi Helguvíkur, iðnaðar- og hafnarsvæði, vegna byggingar atvinnuhúsnæðis á lóð nr. 13 við Hólmbergsbraut.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. janúar 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir húsfélagið Hólmbergsbraut 17, Reykjanesbæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 9. janúar 2024 að heimila frávik á deiliskipulagi Helguvíkur, iðnaðar- og hafnarsvæði, vegna byggingar atvinnuhúsnæðis á lóð nr. 13 við Hólmbergsbraut.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. janúar 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili útgáfu byggingarleyfis, dags. 19. janúar 2024, fyrir atvinnuhúsnæði á lóð nr. 13 við Hólmbergsbraut, sbr. þá ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 11. s.m. að samþykkja byggingaráform hússins. Verður kærumál það, sem er nr. 6/2024, sameinað máli þessu þar sem um samofin mál er að ræða sem sami aðili stendur að, enda þykja hagsmunir hans ekki standa því í vegi.

Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 25. janúar 2024.

Málsatvik og rök: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar 6. október 2023 var tekin fyrir beiðni lóðarhafa Hólmbergsbrautar 13 um frávik á deiliskipulagi Helguvíkar, iðnaðar- og hafnarsvæði, er fólst m.a. í því að byggingarreitur yrði staðsettur í 6 m fjarlægð frá austanverðum lóðamörkum í stað 10 m. Var erindinu frestað til aukafundar ráðsins 13. október s.m. Á þeim fundi var beiðnin samþykkt með fyrirvara um grenndarkynningu án athugasemda, sbr. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var frávikið grenndarkynnt með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 27. s.m., með vísan til 5. mgr. 13. gr., 2. mgr. 43. gr. og 1. og 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Hinn 27. nóvember 2023 kom kærandi á framfæri andmælum vegna „[fyrirhugaðra breytinga] á samþykktu deiliskipulagi fyrir Hólmbergsbraut 13“ og staðhæfði m.a. að byggingarfulltrúi hefði brotið lögbundnar skyldur sínar við úttekt mannvirkisins á Hólmbergsbraut 17. Óskaði kærandi eftir því að afgreiðslu málsins yrði frestað þar til skorið hefði verið úr um skaðabótaskyldu sveitarfélagsins. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 20. desember 2023 var fyrrgreind beiðni um frávik á skipulagi tekin fyrir að nýju. Bókaði ráðið að lóðarhafi Hólmbergsbrautar 13 væri ekki aðili máls varðandi Hólmbergsbraut 17 og samþykkti að vikið yrði frá deiliskipulagi svæðisins þannig að „byggingarreitur stækkar til austurs og að mörk byggingar til suðurs og norðurs verði þau sömu og eldri byggingar á sama reit.“ Bæjarstjórn samþykkti afgreiðsluna á fundi 9. janúar 2024. Á grundvelli þess samþykkti byggingarfulltrúi 11. s.m. umsókn lóðarhafa Hólmbergsbrautar 13 um byggingarleyfi fyrir steinsteyptu húsi á lóðinni. Leyfið var gefið út 16. s.m.

Kærandi álítur að mannvirkið að Hólmbergsbraut 17 hafi ekki verið byggt í samræmi við byggingarleyfi, lög og reglugerðir. Mannvirkið sé rangt staðsett eða 2,67 m út fyrir byggingarreit samkvæmt útgefnu lóðarblaði. Það rýri notagildi þeirrar lóðar verulega. Við fyrirhugaða breytingu á samþykktu deiliskipulagi fyrir Hólmbergsbraut 13 hafi kærandi komið á framfæri andmælum, en engin efnisleg svör hafi borist þrátt fyrir lögbundna skyldu þar um skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Hinar kærðu ákvarðanir brjóti á skýran hátt gegn réttindum kæranda. Ekki hefði verið tilefni til að taka umrædda ákvörðun áður en skorið hefði verið úr um skaðabótaskyldu sveitarfélagsins og byggingarstjóra mannvirkisins á lóð Hólmbergsbrautar 17. Í því sambandi sé bent á að byggingarfulltrúi hafi brotið gegn lögbundnum skyldum sínum samkvæmt þágildandi lögum skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, svo og byggingarreglugerð nr. 441/1998, enda hefði við lögbundnar úttektir átt að koma í ljós að mannvirkið væri ekki staðsett rétt í samræmi við útgefið lóðarblað. Kærandi hafi verið í góðri trú um að byggt hafi verið í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir.

Reykjanesbær hafnar kröfum kæranda.

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum en engar bárust.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 9. janúar 2024 að heimila frávik á deiliskipulagi Helguvíkur, iðnaðar- og hafnarsvæði, vegna byggingar atvinnuhúsnæðis á lóð nr. 13 við Hólmbergsbraut. Jafnframt er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa sveitarfélagsins frá 11. s.m. um að samþykkja byggingaráform hússins.

Í skipulagsrétti gildir sú meginregla að framkvæmdir skulu vera í samræmi við skipulag, sbr. 1. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skal gera deiliskipulag á svæðum þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Í þeim tilvikum þar sem fyrirhuguð framkvæmd samræmist ekki deiliskipulagi svæðisins ber að gera breytingu á deiliskipulagi áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmdinni. Fer um þá breyting eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða, sbr. 1. mgr. 43. gr. laganna, nema breytingin sé óveruleg og skal þá fara fram grenndarkynning, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Í 3. mgr. er svo kveðið á um að sveitarstjórn geti heimilað að vikið sé frá kröfu 2. mgr. um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu „þegar um svo óveruleg frávik er að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn.“ Óskylt er samkvæmt orðalagi greinarinnar að grenndarkynna slík frávik.

Fyrir liggur í máli þessu ódagsett bréf leyfishafa þar sem óskað er eftir „fráviki frá skipulagi/lóðarblaði“ fyrir lóðina Hólmbergsbraut 13. Var m.a. óskað eftir því að byggingarreitur yrði staðsettur í 6,0 m fjarlægð frá austanverðum lóðamörkum í stað 10 m.  Með því leitaði leyfishafi eftir heimild bæjarstjórnar til að víkja frá kröfu um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu, sbr. 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Þrátt fyrir það var erindið tekið fyrir sem „breyting á deiliskipulagi“ og samþykkt að grenndarkynna það skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Að endingu fór þó svo að bæjarstjórn samþykkti frávik á skipulagi og liggur beinast við að álykta að það hafi verið gert á grundvelli 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Ákvæði 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga felur í sér undanþágu frá áðurnefndri meginreglu um að framkvæmdir skuli vera í samræmi við skipulag og ber því að túlka ákvæðið þröngt. Er skýrt af orðalagi þess að hagsmunir nágranna mega í engu skerðast hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Líta verður svo á að tilfærsla byggingarreits Hólmbergsbrautar 13 um 4 m í átt að lóð kæranda hafi grenndaráhrif gagnvart honum umfram það sem hefði verið að óbreyttu skipulagi. Með því voru ströng skilyrði 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga ekki uppfyllt þegar hin kærða ákvörðun bæjarstjórnar var tekin og verður því að fella hana úr gildi af þeim sökum. Þar sem ekki liggur fyrir samkvæmt þessu gild heimild til að víkja frá skipulagi svæðisins verður hið kærða byggingarleyfi einnig fellt úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 9. janúar 2024 að heimila frávik á deiliskipulagi Helguvíkur, iðnaðar- og hafnarsvæði, vegna byggingar atvinnuhúsnæðis á lóð nr. 13 við Hólmbergsbraut.

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 11. janúar 2024 um að samþykkja byggingaráform atvinnuhúsnæðis á lóð nr. 13 við Hólmbergsbraut.