Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

151/2016 Eftirlitsgjöld Isavia

Með

Vinsamlegast athugið að mál þetta var endurupptekið 15. desember 2021 og úrskurður kveðinn upp að nýju 8. febrúar 2023, sjá hér.

Árið 2018, föstudaginn 10. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 151/2016, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 19. október 2016 um álagningu gjalda vegna heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlits á Keflavíkurflugvelli.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. nóvember 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Isavia ohf., Reykjavíkurflugvelli, Reykjavík, ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 19. október 2016 um álagningu gjalda vegna heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlits á Keflavíkurflugvelli. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Til vara krefst kærandi þess að álagningunni verði breytt og fjárhæð gjaldsins lækkuð verulega.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja 19. desember 2016.

Málavextir: Með reikningi, dags. 19. október 2016, var kæranda gert að greiða alls kr. 7.299.143 í heilbrigðiseftirlitsgjöld fyrir árið 2016. Samkvæmt eftirlitsáætlun námu gjöldin kr. 9.225.033 en vegna tímabundinna aðstæðna voru gjöldin lækkuð um kr. 1.925.890. Samkvæmt gjaldskrá fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á Suðurnesjasvæði, sem birt var með auglýsingu nr. 927/2015 í B-deild Stjórnartíðinda, er árlegt eftirlitsgjald vegna alþjóðaflugvallar með meira en þrjár milljónir farþega kr. 9.205.423.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst gera athugasemdir við fjögur atriði er varði útreikning gjalda vegna heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlits fyrir árið 2016, er byggi á gjaldskrá heilbrigðiseftirlitsins nr. 927/2015, sem kærandi telji leiða til þess að gjöldin séu ólögmæt. Geri kærandi athugasemdir við útreikning og upphæð tímagjalds í gjaldskránni, tíðni eftirlits, umfang eftirlitsins og kostnað við sýnatökur og mælingar. Kærandi telji að hvort sem litið sé til eins þáttar eða þeirra allra saman þá sé ljóst að svo miklir ágallar séu á gjaldtökunni að taka verði til greina aðalkröfu kæranda og fella úr gildi ákvörðun um álagningu gjaldanna fyrir árið 2016.

Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir sé sveitarfélögum heimilt að setja gjaldskrá og innheimta gjald fyrir eftirlitsskylda starfsemi, svo sem fyrir eftirlit, útgáfu starfsleyfa og vottorða, sé eftirlitið á vegum sveitarfélaga. Þá segi í greininni að upphæð gjaldsins skuli byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði séu rökstudd sem ákvörðun gjalds við viðkomandi eftirlit byggist á og megi gjaldið ekki vera hærra en sá kostnaður. Í samræmi við ákvæði 3. mgr. 12. gr. hafi ráðherra gefið út leiðbeinandi reglur nr. 254/1999 um uppbyggingu gjaldskráa sveitarfélaga fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit. Þó að reglurnar séu leiðbeinandi verði að líta til þeirra í samhengi við yfirumsjónar- og samræmingarhlutverk ráðherra. Sveitarfélög hafi að sönnu sjálfsvald til setningar gjaldskráa vegna mengunarvarnaeftirlits með þeim formerkjum sem tilgreind séu í 3. mgr. 12. gr. laga nr. 7/1998, en víki þau frá aðferðafræði hinna leiðbeinandi reglna verði að telja að rökstyðja þurfi það sérstaklega.

Samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja byggi tímagjaldið á heildarlaunakostnaði eftirlitsins, en það sé ekki í samræmi við framangreindar reglur. Þá sé ekki að finna í rökstuðningi útreikninga eða sundurliðun sambærilega við það sem reglurnar kveði á um. Augljóst sé að gjaldskrá heilbrigðiseftirlitsins fullnægi ekki hinum leiðbeinandi reglum, enda hafi heilbrigðiseftirlitið ekki einu sinni haldið því fram að þær hafi verið lagðar til grundvallar við gerð gjaldskrárinnar. Þrátt fyrir ítarlegar óskir þar um hafi ekki verið lagt fram sundurliðað yfirlit yfir kostnaðarliði eða raunverulegan tíma vegna eftirlitsstarfa. Þess megi geta að tímagjald Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja sé mun hærra en á öðrum eftirlitssvæðum á landinu. Verði því að krefjast ítarlegri röksemda til að skýra hvernig sá munur grundvallist á löglegum forsendum fyrir þjónustugjöldum og reglum ráðherra.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 gefi heilbrigðisnefndir út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem nánar sé tilgreindur í reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Fjallað sé um starfsleyfi heilbrigðisnefnda í 9. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar beri heilbrigðisnefnd að tryggja að kröfur og skilyrði í starfsleyfum sem hún gefi út og veiting þeirra sé í samræmi við ákvæði laga og reglugerða þar að lútandi. Þá beri öllum atvinnurekstri sem geti haft í för með sér mengun að hafa gilt starfsleyfi, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. Atvinnurekstur sá sem ákvæðið nái yfir sé talinn upp í fylgiskjali 1, fylgiskjali 2 og I. viðauka með reglugerðinni. Samkvæmt lið 7.2 í fylgiskjali 2 séu alþjóðaflugvellir og flugvellir með eldsneytisafgreiðslu á meðal þeirrar starfsemi sem háð sé starfsleyfi heilbrigðisnefnda sveitarfélaga. Í lið 7.2 komi jafnframt skýrt fram að slíkir flugvellir falli í eftirlitsflokk 3.

Í reglugerð nr. 786/1999 um mengunarvarnaeftirlit sé kveðið á um tilhögun og umfang eftirlits með atvinnurekstri og athöfnum sem geti haft í för með sér mengun. Í 12. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um reglulegt mengunarvarnaeftirlit. Samkvæmt töflu yfir eftirlitsflokka sé flokkur 3 með eina skoðun á ári að meðaltali og eftirlitsmælingar tíunda hvert ár.

Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja beri skylda til að tilgreina með skýrum hætti í starfsleyfi hvaða starfsemi það sé sem falli undir leyfið, hve umfangsmikil hún sé, hvernig hagað skuli eftirliti, hvaða eftirlitsmælingar skuli framkvæmdar, hver framkvæmi þær, hvernig þær skuli framkvæmdar og hve oft. Sé starfsleyfi kæranda borið saman við framangreint sé ljóst að verulega skorti á að starfsleyfið uppfylli þær kröfur.

Í sundurliðun heilbrigðiseftirlitsins á eftirliti komi fram eftirfarandi tíðni eftirlitsferða:

Í þessari upptalningu sé að finna starfsleyfisskylda starfsemi, einstaka mengunarþætti sem falli undir slíka starfsemi (olíuskiljur o.fl., úrgang og spilliefni) og loks sé að finna þáttinn landmótun/tippar, sem ekki sé hluti af starfsleyfi kæranda. Tilgreind tíðni eftirlits sé engan veginn í samræmi við ákvæði 12. gr. reglugerðar nr. 786/1999 eða tilgreind í starfsleyfi og hafi því enga lagastoð. Sé það því krafa kæranda í ljósi framangreinds að gjaldskrá heilbrigðiseftirlitsins verði felld úr gildi eða til vara að tíðni eftirlits, sem lögð sé til grundvallar eftirlitsgjaldi, verði færð til samræmis við framangreint.

Í sundurliðun eftirlitsgjalds sé tilgreindur kostnaður vegna rannsókna á sýnum vegna eftirlits með vatnsveitu annars vegar og fráveitu hins vegar. Kærandi geri athugasemd við tilvist þessa liðar í gjaldskrá fyrir reglulegt eftirlit, einkum af tveimur ástæðum. Annars vegar að þrátt fyrir að almennt sé gert ráð fyrir slíkum sýnatökum hafi þær hvorki átt sér stað né sé víst að fjöldi sýna í lok árs verði sá sem uppgefinn sé. Með því að hafa gjaldið í fastri gjaldskrá fyrir reglulegt eftirlit sé um að ræða skattheimtu frekar en þjónustugjöld. Vísa megi hér einnig til þess að í 2. gr. gjaldskrár sé tilgreint gjald vegna rannsókna sýna pr. sýni samkvæmt eftirlitsáætlun. Eftirlitsáætlun sé breytingum háð og sýnafjöldi þar með. Eðlilegra væri að hafa slíka gjaldtöku utan fasts gjalds vegna eftirlits.

Hin ástæða athugasemda kæranda sé sú að samkvæmt starfsleyfi beri kærandi sjálfur ábyrgð á öllum sýnatökum, mælingum, vöktun og skýrslugjöf vegna þeirra, þ.m.t. í nefndum tilvikum. Í 6. gr. leyfisins sé m.a. tilgreint að kærandi skuli starfrækja innra eftirlit og að sýnataka og greining sé alla jafna hluti slíks eftirlits, hugsanlega með viðbótargreiningum eftirlitsaðila, og greiðist þá samkvæmt sérstökum reikningi. Í gr. 7.3 í starfsleyfi segi enn fremur: „[Kærandi] skal með mælingum og rannsóknum á viðtakanum meta álag og hugsanleg áhrif skólplosunar.“ Gjaldtaka heilbrigðiseftirlitsins vegna kostnaðar við rannsóknir á sýnum sé því tilhæfulaus. Verði gjaldskrá ekki felld úr gildi í heild sinni beri, að mati kæranda, að fella umrædda liði úr gjaldskrá og lækka hana um sambærilega upphæð.

Til viðbótar við framangreint vilji kærandi vísa til greinargerðar tilgreinds sérfræðings, dags. 9. nóvember 2016, um mat á hæfilegu/eðlilegu heilbrigðis- og mengunarvarnareftirliti með starfsemi kæranda á Keflavíkurflugvelli og endurgjaldi fyrir það. Þótt greinargerðin hafi ekki samskonar sönnunargildi og matsgerð dómkvaddra matsmanna verði ekki hjá því komist að taka mark á því sem þar komi fram, enda um að ræða vandað álit sérfræðings á því sviði. Kærandi vísi til greinargerðarinnar í heild sinni máli sínu til stuðnings.

Starfsleyfi kæranda sé gefið út af Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja, en lögum samkvæmt eigi heilbrigðisnefndir að gefa út starfsleyfi, sbr. 4. gr. a og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998, sbr. og 9. og 20. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli. Þannig fáist ekki séð að starfsleyfi kæranda sé gefið út af þar til bærum aðila og því verði hin kærða álagning ekki á því reist.

Hvergi í stjórnvaldsfyrirmælum eða lögum, þ. á m. lögum nr. 7/1998, sé fjallað um alþjóðaflugvelli fyrir þrjár milljónir farþega. Heilbrigðiseftirlitið hafi án lagaheimildar sjálft búið til slíkan flokk. Að búa þannig til sérstakan gjaldflokk sem taki mið af tilteknum farþegafjölda, eins og gert sé í umræddri gjaldskrá, eigi sér þannig hvorki stoð í lögum né reglugerðum og sé því beinlínis ólögmætt. Keflavíkurflugvöllur sé alþjóðaflugvöllur samkvæmt skilgreiningu í gr. 7.2 í fylgiskjali 2 með reglugerð nr. 785/1999 og hafi stjórnvald eins og heilbrigðiseftirlitið enga heimild til að útfæra hana nánar.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja: Heilbrigðiseftirlitið fer fram á að kæru í málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Til vara krefjist eftirlitið þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað.

Sé frávísunarkrafan á því byggð að kröfugerð kæranda sé mjög óljós miðað við málsástæður og gagnaframlagningu. Svo virðist sem kærandi sé öðrum þræði að krefjast þess að starfsleyfi hans verði fellt úr gildi en á hinn bóginn krefjist hann niðurfellingar eftirlitsgjalds.

Undanfarna áratugi hafi eftirlit með starfsemi Keflavíkurflugvallar verið fyrirferðamikið í eftirlitsstörfum Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, enda starfsemin fjölþætt og flókin og að hluta til um að ræða atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun. Ráðist hafi verið í gerð starfsleyfis fyrir starfsemi kæranda á árinu 2015 og hafi það verið gefið út í ágúst það ár. Mikil vinna hafi verið lögð í gerð starfsleyfisins og hafi drög að því m.a. verið send til umsagnar hjá Umhverfisstofnun, sem hafi séð sérstaka ástæðu til að hrósa heilbrigðiseftirlitinu fyrir vandaðan undirbúning leyfisins.

Fjölmargar meginröksemdir kæranda fjalli um starfsleyfisskilyrði. Á köflum verði ekki annað ráðið en að kærandi byggi málatilbúnað sinn á því að starfsleyfið sé ógilt. Kærandi hafi þó ekki kært útgáfu þess, eins og honum hafi þó verið heimilt. Leyfið teljist því vera að fullu í gildi og verði ekki skorið úr efnisatriðum þess í kærumáli vegna álagningar eftirlitsgjaldsins. Ef fallist yrði á röksemdir kæranda sem snúi að efnisatriðum leyfisins eða því að heilbrigðiseftirlitið hafi ekki verið bært til að gefa út starfsleyfið liggi fyrir að kærandi yrði án starfsleyfis með rekstur Keflavíkurflugvallar. Yrði þá að stöðva alla starfsleyfisskylda starfsemi hans þegar í stað.

Samkvæmt 10. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir beri sveitarfélög ábyrgð á heilbrigðiseftirliti á sínu svæði og greiði kostnað við það. Heimild sveitarfélaga til að innheimta gjöld á móti eftirliti og rekstri sé að finna í 3. mgr. 12. gr. og 5. mgr. 25. gr. laganna. Heilbrigðiseftirlitið sé hluti af grunnstoðum samfélagsins. Sveitarfélögin sem standi að Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja leggi áherslu á að eftirlitinu sé vel sinnt, öryggi og heilbrigði almennings sé ekki stefnt í hættu og gætt sé að umhverfinu af kostgæfni. Sveitarfélögin ætli eftirlitinu að sinna þessu hlutverki en einnig að standa undir eigin rekstri og ekki greiða með eftirlitinu. Þannig eigi þjónustugjöld að standa undir rekstrinum hvað eftirlitsskylda starfsemi varði en þar sé um fullkomlega lögmætt sjónarmið að ræða og í samræmi við framangreind lagaákvæði. Sveitarfélögum sé í sjálfsvald sett hvort þau greiði með heilbrigðiseftirliti eða ekki og því geti sá samanburður á verðlagningu á ólíkum stöðum á landinu, sem kærandi geti um í kæru sinni, ekki haft þýðingu við úrlausn málsins. Ákvörðun um kostnað vegna heilbrigðiseftirlits falli undir sjálfsstjórn sveitarfélaga samkvæmt stjórnarskrá og sveitarstjórnarlögum.

Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja byggi gjaldskrá sína á framangreindum lagaheimildum og fari eftir þeim. Hins vegar sé það rétt sem fram komi í rökstuðningi kæranda að innheimt gjöld við þjónustu heilbrigðiseftirlits skuli svara til þess kostnaðar sem eftirlitið hafi af starfseminni og að gjaldtakan megi ekki fela í sér skattheimtu. Um þessi meginatriði sé ekki ágreiningur, enda komi það fram í 3. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998. Á 250. fundi heilbrigðisnefndar Suðurnesja, sem haldinn hafi verið 4. júní 2015, hafi ársreikningur heilbrigðiseftirlitsins 2014 verið lagður fram til umræðu og samþykktur. Jafnframt hafi verið farið yfir rekstraráætlun ársins 2015. Í fundargerðinni komi fram að gjald fyrir útselda vinnu eftirlitsins samkvæmt eldri gjaldskrá hafi ekki endurspeglað raunverulegan kostnað embættisins við þjónustuna og því hafi verið samþykkt að tímagjald fyrir útselda vinnu yrði ákveðið kr. 17.340. Ákvörðunin hafi verið byggð á rekstraráætlunum embættisins. Gjaldskráin sé óbreytt á milli ára.

Samkvæmt rekstraráætlun leggi sveitarfélögin til ákveðinn hluta af rekstrarfé heilbrigðiseftirlitsins til að mæta almennri þjónustu við borgarana, sem ekki falli undir eftirlitsskylda starfsemi. Hinn þáttur rekstrarins, sem sé meginþáttur í starfsemi eftirlitsins, snúi að eftirlitsskyldum aðilum og verði að standa undir sér.

Útreikningur á fjárhæð tímagjalds miðist við jafnaðarútreikning á rekstrarkostnaði embættisins deilt niður á vinnustundir starfsmanna við að sinna eftirliti og þjónustuverkefnum og sé því um raunkostnað að ræða við eftirlit. Kærandi vísi til leiðbeinandi reglna ráðherra um uppbyggingu gjaldskráa sveitarfélaga fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit, sbr. auglýsingu nr. 254/1999. Reglurnar séu ekki bindandi fyrir stjórnvöld en séu til leiðbeiningar við gerð gjaldskráa, eins og nafnið beri með sér. Heimild til setningar leiðbeininganna hafi komið inn í lög nr. 7/1998 með lögum nr. 59/1999, þegar út hafi verið tekið ákvæði um að ráðherra skyldi setja hámarksgjaldskrá. Í athugasemdum sem fylgt hafi lögum nr. 59/1999 hafi komið skýrt fram að það sé á ábyrgð sveitarfélaga að reikna út og leggja á gjöld, en ráðherra hafi ekki afskipti af gjaldtökunni, enda fari það gegn sjálfsstjórn sveitarfélaga. Hins vegar sé ljóst að þeir kostnaðarliðir sem upp séu taldir í 2. gr. leiðbeininganna innifeli nánast allan rekstrarkostnað embættanna, þ.m.t. lífeyrisskuldbindingar, húsaleigu, afskriftir, endurmenntun starfsmanna o.s.frv. Nefnd atriði falli því að þeim meginsjónarmiðum sem lögð hafi verið til grundvallar við útreikning á tímagjaldi við rekstur heilbrigðiseftirlitsins. Gjöldin séu síðan reiknuð út sem margfeldi tímagjalds og tíðni í eftirlitsáætlun, sbr. 5. gr. leiðbeininga.

Kostnaður við sýnatöku og rannsóknir á sýnum sé reiknaður þannig að sýni séu send til rannsóknar og sé kostnaður við hvert sýni sú fjárhæð sem greiða þurfi fyrir rannsóknina samkvæmt gildandi gjaldskrá rannsóknaraðila á þeim tíma sem gjaldskrá heilbrigðiseftirlitsins sé birt.

Við endurskoðun eftirlitskostnaðar hafi verið reynt eftir fremsta megni að láta heildarálagningu gjalda á eftirlitsskylda aðila ekki hækka nema að óverulegu leyti, þó þannig að gjöldin verði að standa undir raunkostnaði embættisins. Í tilfelli kæranda hafi verið reynt að gera hið sama, þannig að eftirlitsgjöldin á grundvelli starfsleyfis myndu ekki hækka umfram það sem verið hefði. Með endurskipulagningu og samráði við kæranda hafi verið talið unnt að hagræða í eftirliti, þannig að álögð gjöld fyrir þjónustuna næmu 9,2 milljónum króna fyrir árið 2015. Álagning fyrir árið 2016 nemi tæplega 7,3 milljónum króna, þar sem ákveðinn þáttur hefði verið felldur niður tímabundið. Gjöldin hafi numið 12,6 milljónum króna fyrir árið 2013 en 13,3 milljónum fyrir árið 2014. Heilbrigðiseftirlitið hafi því lækkað eftirlitsgjöldin verulega á milli ára og endurspeglist það í stöðugu endurmati á raunkostnaði við framkvæmd eftirlitsins.

Töluvert hafi borið á milli upphaflegra draga heilbrigðiseftirlitsins að eftirlitsáætlun samkvæmt útgefnu starfsleyfi og hugmynda kæranda um þörf á eftirliti. Kærandi hafi lagt til óverulegt eftirlit á meðan að heilbrigðiseftirlitið hafi, vegna eðlis starfseminnar, öryggis almennings og mengunarhættu, lagt til þéttari eftirlitstíðni, a.m.k. fyrst í stað, enda starfsemin rekin samkvæmt nýju starfsleyfi þar sem kærandi hafi átt eftir að uppfylla ýmsar kröfur. Umsvif Keflavíkurflugvallar aukist ár frá ári og samkvæmt upplýsingum kæranda hafi verið 37% aukning á milli ára miðað við október 2016 og fjöldi farþega fyrstu 10 mánuði ársins orðinn 5,8 milljónir. Spár kæranda geri ráð fyrir að fjöldi farþega á árinu 2017 verði 8,6 milljónir. Í starfsleyfinu sé gert ráð fyrir endurskoðun, en kærandi virðist ekki hafa getað sætt sig við þetta án þess að hann hafi þó kært starfsleyfið.

Af framsetningu kæranda megi ráða að hann sjálfur standi fyrir öllum mælingum og vöktunum sem verið sé að innheimta eftirlitsgjald fyrir. Þessi framsetning sé til þess fallin að valda misskilningi. Hið rétta sé að hvað vöktun umhverfisþátta varði sé fyrst og fremst um að ræða vöktun loftgæða, grunnvatns strandsjávar við skolpútrás og hávaða frá flugumferð.

Um loftgæði gildi reglugerð nr. 920/2016. Heilbrigðiseftirlitið hafi, með vísan til 7. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar, gert kröfu um uppsetningu mælistöðva. Vinna eftirlitsins felist, samkvæmt ákvæðinu, í því að taka við, yfirfara og leiðrétta mælingagögn, skrásetja gögn og gera árlega skýrslu til Umhverfisstofnunar, þar sem fram komi ársmeðaltöl, sólarhringsmeðaltöl og öll klukkustundarmeðaltöl ársins. Um vöktun grunnvatns sé fjallað í 2. kafla starfsleyfis kæranda. Samkvæmt því beri kæranda að senda heilbrigðiseftirlitinu tillögu að grunnúttekt á ástandi grunnvatns á flugvallarsvæðinu. Umfang eftirlits með mengunarvörnum grunnvatns, svo sem olíuskiljum, settjörnum og siturlögnum, hafi reynst umfangsmeira en áætlað hafi verið. Varðandi vöktun strandsjávar skuli tekið fram að heilbrigðiseftirlitið annist sjálft sýnatökur úr strandsjó við skólpútrás, komi sýnum til rannsóknarstofu, túlki og skrái niðurstöður.

Um vöktun og eftirlit með hávaða hafi kæranda borið samkvæmt starfsleyfi að koma með tillögur um staðsetningu hljóðmæla, tíðni og fyrirkomulag mælinga fyrir 15. desember 2015. Engar upplýsingar liggi fyrir um mælingar og þar sem heilbrigðiseftirlitið hafi ekki innt af hendi vinnu við yfirferð gagna um hljóðmælingar hafi verið ákveðið að fella niður gjaldtöku fyrir þann þátt eftirlitsins fyrir árið 2016. Ef símælingar verði teknar upp ætti það að hafa áhrif til lækkunar á eftirlitskostnaði.

Kærandi hafi leitað til tilgreinds sérfræðings og falið honum að vinna greinargerð um það sem hann telji eðlileg eftirlitsgjöld. Sú greinargerð sé þýðingarlaust plagg, enda komi þar fram að höfundur hafi ekki leitað eftir upplýsingum hjá starfsmönnum heilbrigðiseftirlitsins um framkvæmd eftirlitsins, þ. á m. hvernig eftirlitsáætlun sé útbúin, eins og kærandi hefði getað kallað eftir, og greinargerðarhöfundur virðist heldur ekki hafa kynnt sér aðstæður á vettvangi af eigin raun. Þá sé greinargerðin lituð af eigin skoðunum og ágiskunum höfundar. Ekki sé því hægt að kalla greinargerðina hlutlausa.

Kærandi láti að því liggja að að hann sitji ekki við sama borð og aðrir hvað gjaldtöku varði, þrátt fyrir að fasteignagjöld kæranda til Sandgerðisbæjar hlaupi á hundruðum milljóna ár hvert. Heilbrigðiseftirlitið fái ekki skilið hvaða þýðingu þetta eigi að hafa í málinu þar sem eftirlitið fái enga hlutdeild í fasteignagjaldatekjum sveitarfélaga í umdæminu. Þá greiði sveitarfélögin árlega framlag úr sveitarsjóði til að standa undir starfsemi heilbrigðiseftirlitsins, sem ekki tengist umræddu eftirliti, og sé þar um að ræða almennt lóðaeftirlit, samskipti við almenning, umsagnir, laun nefndarmanna o.þ.h. Eftirlitsgjöld fyrirtækja og stofnana standi undir eftirlitinu sjálfu.

Rekstrartekjur hafi ekki staðið undir kostnaði af eftirlitinu og því hafi verið nauðsynlegt að hækka gjaldskrá. Til grundvallar hækkun hafi legið greining á ársverkum og kostnaðarliðum og þekkt stærð varðandi virkar vinnustundir við eftirlitið. Útreiknað tímagjald hafi verið fundið út með því að deila heildarlaunakostnaði með virkum vinnustundum við útselt eftirlit og við það bætt hlutdeild í föstum kostnaði og stjórnunarkostnaði. Í nefndum forsendum hafi verið undanskilinn sérkostnaður, sem fram komi í sundurliðun ársreiknings á öðrum rekstrarkostnaði og varði meindýr, dýralæknaþjónustu, rannsóknarþjónustu og sérstakar vátryggingar. Framangreindar forsendur séu í samræmi við leiðbeinandi reglur í auglýsingu nr. 254/1999. Eftirlitsgjöld heilbrigðiseftirlitsins séu óbreytt milli ára vegna aðhalds í rekstri. Við embættið starfi 5 manns í 4,7 stöðugildum. Í forsendum hafi verið gert ráð fyrir því að reikna yrði með 4.700 útseldum vinnutímum (virkar stundir). Kostnaðarverð miðað við launakostnað sé því kr. 15.340 og við það hafi verið bætt kr. 2.000 fyrir fastan kostnað, stjórnunarkostnað og annað, sem sé talið algert lágmark. Þannig útreiknað sé kostnaðarverð kr. 17.340 sem útseldur tími samkvæmt gjaldskrá nr. 927/2015. Kostnaður við sýnatökur byggi á gjaldskrá Matís á hverjum tíma. Tekið sé fram að öll gjöld í gjaldskrá heilbrigðiseftirlitsins séu vegna reglubundins eftirlits og það eigi einnig við um þau gjöld sem lögð séu á kæranda.

Kærandi geri að sérstöku umtalsefni að í eftirlitsáætlun sé að finna liðinn landmótun/tippar, sem ekki sé hluti af starfsleyfi hans. Við gerð starfsleyfisins hafi heilbrigðiseftirlitinu ekki verið kunnugt um að kærandi hygðist starfrækja jarðvegstipp á flugvallarsvæðinu. Í eftirlitsferð hafi starfsmenn eftirlitsins hins vegar orðið varir við slíka uppsöfnun jarðvegs og ýmiskonar steypuúrgangs. Kæranda hafi ítrekað verið bent á að slík uppsöfnun væri án starfsleyfis en hann hafi enn ekki sótt um leyfi fyrir tippinn. Eftirliti hafi þó verið haldið úti með nefndum jarðvegstippi, eins og fjórar nánar tilgreindar skýrslur sýni.

Því sé sérstaklega mótmælt að heilbrigðiseftirlitið sé bundið af tíðni sem fram komi í töflu í 2. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 786/1999 um mengunarvarnaeftirlit. Um lágmarksviðmið sé að ræða, ef ekki sé kveðið á um annað. Eins og komið hafi fram sé starfsemi kæranda sérstaks eðlis og um hana hafi verið gefið út sérstakt starfsleyfi. Eftirlitsáætlun starfsleyfisins greini aðra tíðni en lágmarkið sem reglugerðin kveði á um. Í 6. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um að tíðni eftirlits megi haga eftir kerfisbundnu áhættumati. Heilbrigðiseftirlitið hafi gert ríkari kröfur út frá eðli starfsemi kæranda, þess álags sem umfang síaukinna umsvifa starfsemi kæranda hafi á umhverfið og þess að enn sé mörgum þáttum ólokið í uppbyggingunni hjá kæranda. Heilbrigðiseftirlitið hafi þannig byggt mat sitt á því að umhverfið og samfélagið njóti vafans.

Tíðni eftirlits með starfsemi kæranda hafi verið ákveðin út frá áhættumati. Ekki séu til viðurkennd áhættumatskerfi til að meta tíðni umhverfiseftirlits hér á landi. Við mat á tíðni eftirlits með starfsemi kæranda hafi eftirfarandi þættir verið lagðir til grundvallar: Hætta á bráðamengun, heilsufarslegar afleiðingar mengunar fyrir almenning (hávaði, loftgæði), áhrif á lífríkið, tegund og magn spilliefna, mengunarvarnir sem eru til staðar (olíuskiljur, sandföng, settjarnir, siturlagnir og söfnunartankar), ástand mengunarvarna (tegund, aldur, ástand og aðvörunarbúnaður), hætta á mengun grunnvatns, viðtakar (viðkvæmni viðtaka, magn og tegund mengandi efna), áfyllingar- og afgreiðsluplön (tegund, aldur, staðsetning, ástand og árekstrarvarnir) og loks tegund og magn úrgangs.

Mismunandi stig séu gefin fyrir hvern áhættuþátt. Samanlögð stig ákvarði síðan eftirlitstíðni eftirlitsskyldra fyrirtækja. Ef fyrirtæki séu með fjölbreytta starfsemi sé hver þáttur metinn fyrir sig. Samanlögð útkoma hvers þáttar ákvarði eftirlitstíðni fyrirtækisins.

Í eftirfarandi töflu megi sjá forsendur fyrir eftirlitsáætlun, sem unnin hafi verið fyrir kæranda fyrir árið 2015, en samkvæmt henni sé heildarupphæð gjalda kr. 9.225.033. Seinna hafi verið felld niður ákveðin gjöld, eða kr. 1.925.890. Sú fjárhæð sem krafist hafi verið fyrir árið 2016 hafi því verið kr. 7.299.143.

 

Af gögnum sem lögð hafi verið fram sé ljóst að ekki sé um rekstrarafgang að ræða hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja. Ekkert bendi því til að með álagningu eftirlitsgjalda á kæranda fyrir árið 2016 sé komið út fyrir ramma þjónustugjalda og inn á svið skattheimtu. Hækkun álagðra gjalda á kæranda sé hófleg og eðlileg miðað við verðlags- og launaþróun á tímabilinu og verð fyrir aðkeypta þjónustu.

Mismunur á rekstrartekjum og rekstrarkostnaði hafi verið eftirfarandi á síðustu árum í krónum talið. Tölurnar séu án fjármagnsliða:

Ár

2016

2015

2014

Rekstrartekjur

87.107.260

88.556.707

86.807.178

Rekstrarkostnaður

89.200.343

92.302.918

95.066.578

Rekstrarhalli

(2.093.083)

(3.746.211)

(8.259.400)

 

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna ágreinings um framkvæmd laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, reglugerða settum samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir yfirvalda er að finna í þágildandi 31. gr. laganna, nú 65. gr. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk hennar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Tekur nefndin því aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, en það fellur utan valdheimilda hennar að taka nýja ákvörðun um álagningu.

Af hálfu heilbrigðiseftirlitsins hefur verið farið fram á frávísun málsins sökum þess hve málatilbúnaður kæranda sé óljós. Fyrir úrskurðarnefndinni liggur að kærð er álagning gjalds sem kærandi telur ólögmæta og verður með hliðsjón af þeirri leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu sem á úrskurðarnefndinni hvílir, sbr. 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ekki fallist á að vísa kærunni frá vegna vanreifunar.

Samkvæmt þágildandi 10. gr. laga nr. 7/1998, nú 44. gr., skal ekkert sveitarfélag vera án heilbrigðiseftirlits og greiða sveitarfélögin kostnað við eftirlitið, að svo miklu leyti sem lög mæla ekki fyrir á annan veg. Samkvæmt þágildandi 3. mgr. 12. gr. laganna, nú 46. gr., er sveitarfélögum heimilt að setja gjaldskrá og innheimta gjald fyrir eftirlitsskylda starfsemi, svo sem fyrir eftirlit, útgáfu starfsleyfa og vottorða, sé eftirlitið á vegum sveitarfélaga. Samgöngumiðstöðvar skulu hafa gilt starfsleyfi gefið út af heilbrigðisnefnd skv. þágildandi 4. gr. a í lögum nr. 7/1998, sbr. fylgiskjal II, og það skyldu alþjóðaflugvellir einnig hafa, sbr. fylgiskjal 2 með þágildandi reglugerð nr. 786/1999 um mengunarvarnaeftirlit. Í þágildandi 8. gr. reglugerðarinnar segir um umfang mengunarvarnaeftirlits að það nái til lofts, láðs og lagar, svo og búnaðar og allra aðstæðna, sem valdið geti mengun. Eftirlitið felist m.a. í að framfylgja ákvæðum laga, reglugerða og starfsleyfa og eftirliti með nánasta umhverfi viðkomandi atvinnurekstrar. Er af tilgreindum laga- og reglugerðarákvæðum ljóst að eftirlit með atvinnustarfsemi er ekki bundið við starfsleyfi og skilyrði þess. Hefur því ekki þýðingu hvað varðar hina kærðu álagningu að kærandi byggir öðrum þræði á því að starfsleyfi honum til handa hafi ekki verið gefið út af réttum aðila, auk þess sem gjöld þau sem af honum séu innheimt séu m.a. fyrir eftirlit með starfsemi sem honum sé ekki heimiluð í starfsleyfinu.

Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 12. gr. laga nr. 7/1998, nú 46. gr., bera sveitarfélög ábyrgð á fjármálum og rekstri heilbrigðiseftirlits á viðkomandi svæði. Þau hafa umsjón með fjármálum  þeirrar stofnunar, skiptingu kostnaðar milli sveitarfélaga og álagningu eftirlitsgjalda. Við kostnaðarskiptingu skal miða við að allar tekjur af eftirlitsskyldri starfsemi á svæðinu renni í sameiginlegan sjóð til greiðslu rekstrarkostnaðar heilbrigðiseftirlits á svæðinu. Lögin mæla nánar fyrir um hvernig ákvarða skuli fjárhæð nefndra eftirlitsgjalda, en í 3. mgr. 12. gr. segir að upphæð gjaldsins skuli byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði séu rökstudd sem ákvörðun gjalds við viðkomandi eftirlit byggist á. Megi gjaldið ekki vera hærra en sá kostnaður. Samkvæmt framangreindu eru gjöld fyrir eftirlitsskylda starfsemi svokölluð þjónustugjöld og lúta reglum sem um þau gilda.

Gjaldskrá fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á Suðurnesjasvæði hefur verið sett og er hún nr. 927/2015. Gjaldskráin var birt í B-deild Stjórnartíðinda 19. október 2015. Samkvæmt 2. gr. gjaldskrárinnar er tímagjald heilbrigðiseftirlitsins kr. 17.340 og gjald vegna rannsóknar fyrir eitt sýni kr. 20.200. Öll gjöld sem innheimt eru af heilbrigðiseftirlitinu eru reiknuð út frá nefndu tímagjaldi, auk gjalds fyrir sýnatökur þar sem það á við. Í 8. gr. gjaldskrárinnar er tekið fram að þegar sami aðili reki fleiri en eina tegund starfsemi sem falli undir gjaldskrána á einum og sama stað sé heimilt að innheimta eitt árlegt gjald, þá í þeim flokki sem hærri sé. Í fylgiskjali með gjaldskránni er listi yfir tegundir fyrirtækja og eftirlitsgjöld sem þau skulu standa skil á. Þar á meðal er Alþjóðaflugvöllur > 3 milljónir farþega, en einnig má finna æfingasvæði slökkviliðs, jarðvegstippi ofl. Samkvæmt gögnum málsins hafa hin kærðu eftirlitsgjöld verið reiknuð út, miðað við fjölda tíma sem varið er í viðkomandi eftirlit yfir árið og eftir atvikum fjölda sýna sem tekin eru og rannsökuð. Í athugasemdum heilbrigðiseftirlitsins kemur fram hverjar eru forsendur þeirra gjalda sem kærandi er krafinn um.

Í samræmi við það sem fram kom um fjármögnun heilbrigðiseftirlits samkvæmt þágildandi 12. gr. laga nr. 7/1998 stendur tímagjald undir fleiri þáttum en launum starfsmanna heilbrigðiseftirlitsins og tengdum gjöldum, en samkvæmt ákvæðinu er skýrt að leyfilegt er að miða við að gjöldunum sé varið til reksturs eftirlitsins í heild. Má gera ráð fyrir að hluta þeirra sé varið til annars rekstrarkostnaðar, svo sem reksturs skrifstofu. Miðað við þetta telst tímagjaldið vera eðlilegt. Jafnframt kemur fram í gögnum að fyrir hvert sýni innheimtir rannsóknaraðili kr. 19.800, en þar við bætist kr. 1.850 fyrir einnota áhöld, alls kr. 21.650. Kostnaður við sýni er því hærri en sú fjárhæð sem innheimt er af heilbrigðiseftirlitinu. Er ekkert í gögnum málsins sem bendir til annars en að ákvörðun um upphæð hinna kærðu eftirlitsgjalda hafi verið í samræmi við skilyrði nefndrar lagagreinar. Bendir ekkert heldur til þess að farið hafi verið á skjön við leiðbeinandi reglur ráðherra nr. 254/1999 um uppbyggingu gjaldskráa sveitarfélaga fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit, en reglurnar voru gefnar út í samræmi við lokamálslið 3. mgr. nefndrar 12. gr. laga nr. 7/1998 og koma ekki í stað lagagreinarinnar. Það raskar heldur ekki gildi hinnar kærðu álagningar að í gjaldskrá séu eftirlitsgjöld tilgreind fyrir ákveðna stærð flugvallar þótt svo nákvæma tilgreiningu sé ekki að finna í öðrum lögum og reglum. Er enda öllum ljóst hvaða flugvöll er um að ræða og skiptir nafngift flokksins engum sköpum þar um.

Kærandi hefur einnig gert athugasemdir við þá flokka og tíðni eftirlits sem að baki hinu kærða gjaldi liggja. Að áliti úrskurðarnefndarinnar geta þeir flokkar sem um ræðir talist eðlilegur hluti starfsemi alþjóðaflugvallar. Er og ljóst að svo sem áður er rakið fer eftirlit fram með þeirri starfsemi sem fram fer í raun, en er ekki bundið við eftirlit með starfsleyfisskilyrðum. Verður því ekki gerð athugasemd við að við gjaldtökuna sé m.a. gert ráð fyrir eftirliti með jarðvegstippi, en samkvæmt gögnum málsins kom fram við eftirlit að slíkur tippur væri á athafnasvæði flugvallarins. Í 12. gr. þágildandi reglugerðar nr. 786/1999 er fjallað um reglubundið mengunarvarnaeftirlit. Skiptist það í 5 flokka skv. gr. 12.1 og fellur alþjóðaflugvöllur í flokk 3 skv. fylgiskjali 2. Skal haga reglubundnu eftirliti eftir töflu A nema annað segi í reglugerðinni eða starfsleyfum. Í töflu A er yfirlit yfir meðaltíðni eftirlits og samkvæmt henni er meðalfjöldi skoðana í flokki 3 einu sinni á ári og eftirlitsmælingar tíunda hvert ár. Nefndri reglugerð var breytt með reglugerð nr. 375/2015 og segir í þágildandi gr. 12.6 eftir breytinguna að eftirlitsaðila sé heimilt að haga tíðni reglubundins eftirlits út frá kerfisbundnu áhættumati sem gert sé á hlutaðeigandi fyrirtæki. Slíkt mat er meðal gagna málsins, auk þess sem meðaltíðni felur í sér samkvæmt orðanna hljóðan að um meðaltal sé að ræða. Með vísan til þess og gagna málsins er ekkert fram komið annað en að mat heilbrigðiseftirlitsins á þörf á eftirliti með starfsemi flugvallarins hafi verið framkvæmt á málefnalegum grundvelli og verið byggt á efnisrökum, hvað sem líður áliti þess sérfræðings sem kærandi hefur teflt fram. Er í þessu sambandi rétt að árétta að rekstur Keflavíkurflugvallar er einstakur á landsvísu og má gera ráð fyrir því að umfang eftirlits með þeirri atvinnustarfsemi miðist við það. Kemur innra eftirlit kæranda því ekki í stað.

Séu rekstrartölur Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja fyrir árin 2014, 2015 og 2016 skoðaðar sést að rekstrarkostnaður er hærri en rekstrartekjur fyrir öll árin og er sú niðurstaða í samræmi við áskilnað þágildandi 3. mgr. 12. gr. laga nr. 7/1998, nú 46. gr., um að álögð gjöld megi ekki vera hærri en kostnaður af rekstri heilbrigðiseftirlits.

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu er eftirlitsgjald fyrir alþjóðaflugvöll > 3 milljónir farþega kr. 9.205.423, samkvæmt gjaldskrá nr. 927/2015 fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á Suðurnesjasvæði. Það grunngjald sem umkrafin gjöld kæranda fyrir árið 2016 byggjast á er hinsvegar kr. 9.225.033, samkvæmt eftirlitsáætlun, sem áður hefur verið fjallað um. Það gjald var síðan lækkað tímabundið um kr. 1.925.890 og var reikningur fyrir eftirlitsgjöldum, dags. 19. október 2016, sem mál þetta snýst um, að fjárhæð kr. 7.299.143. Að sögn Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja stafar sá munur á upphæð gjalda samkvæmt gjaldskrá og eftirlitsáætlun af ritvillu í gjaldskránni og var byggt á eftirlitsáætlun, eins og áður sagði. Á það ber hins vegar að líta að um auglýsta gjaldskrá er að ræða og verður að ætlast til þess að sú fjárhæð sem þar kemur fram sé sú fjárhæð sem álagning byggist á. Af þeim sökum verður álagt gjald fellt úr gildi að þeim hluta sem fór umfram auglýsta fjárhæð, eða kr. 19.610.

Samkvæmt öllu því sem að framan er rakið er álagning eftirlitsgjalda fyrir árið 2016 felld úr gildi hvað varðar kr. 19.610, en að öðru leyti er kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils umfangs og fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 19. október 2016 um álagningu gjalda vegna heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlits á Keflavíkurflugvelli að þeim hluta er varðar kr. 19.610. Að öðru leyti stendur hin kærða ákvörðun óröskuð.

99/2016 Grettisgata

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 9. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 99/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. júní 2016 um að hafna beitingu þvingunarúrræða vegna geymsluskúrs á lóðinni nr. 41 við Grettisgötu í Reykjavík og á ákvörðun byggingarfulltrúans frá 26. júlí 2016 um að samþykkja umsókn um leyfi til að hækka ris og endurbyggja, sem og til að byggja staðsteypta viðbyggingu aftan við einbýlishús á sömu lóð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. júlí 2016, kæra lóðarhafar lóðarinnar nr. 43a við Grettisgötu í Reykjavík, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. júní 2016 um að hafna beitingu þvingunarúrræða vegna byggingar geymsluskúrs á lóðinni nr. 41 við Grettisgötu. Verður að líta svo á að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. ágúst 2016, er móttekið var 26. s.m., mótmæla kærendur jafnframt ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. júlí s.á., um að veita leyfi til að hækka og endurbyggja ris og byggja staðsteypta viðbyggingu aftan við einbýlishús á lóðinni nr. 41 við Grettisgötu. Verður að skilja erindi kærenda svo að greind ákvörðun sé einnig kærð til nefndarinnar og að þess sé krafist að hún verði felld úr gildi. 

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 31. janúar 2017 og 10. apríl 2018.

Málavextir: Hinn 19. maí 2016 sendu kærendur erindi til skilmáladeildar byggingarfulltrúans í Reykjavík og vöktu athygli hans á því að hafin væri framkvæmd við byggingu geymsluskúrs á lóðinni nr. 41 við Grettisgötu. Bentu þeir á að lóð hefði verið lækkuð um 60 cm við lóðamörk, grunnur steyptur og raflagnatengingu komið fyrir. Burðargrind úr timbri hefði verið reist og að geymsluskúrinn virtist eiga að verða um 3 m á hæð, auk þess sem timburgrindverk á lóðamörkunum hefði verið rifið af undirstöðum sínum vegna framkvæmdanna.

Byggingarfulltrúi brást við ábendingunni og kannaði aðstæður á vettvangi 20. maí 2016. Skrifaði hann í framhaldinu lóðarhafa lóðarinnar nr. 41 bréf, dags. 24. maí 2016, þar sem hann var krafinn um skýringar á framkvæmdinni og honum gefinn 14 daga frestur til þess frá móttöku bréfsins að telja. Byggingarfulltrúi tilkynnti kærendum með tölvupósti 13. júní 2016 að hann hefði lokið afskiptum sínum af framkvæmdunum þar sem þær rúmuðust innan ákvæða byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um framkvæmdir sem undanþegnar væru byggingarleyfi, enda yrði lóðin hækkuð upp aftur, lóðarhafar aðliggjandi lóðar hefðu veitt samþykki sitt og raflagnir í smáhýsum væru ekki lengur byggingarleyfisskyldar, sbr. nýjustu uppfærslu byggingarreglugerðar.

Hinn 29. júní 2016 sendu kærendur bréf til skilmálafulltrúa Reykjavíkurborgar vegna byggingarinnar þar sem vísað var til fyrri tölvupóstsamskipta og bent á að kærendur teldu byggingarfulltrúa hafa nægar forsendur til að stöðva framkvæmdir og gera lóðarhafa lóðar nr. 41 að lagfæra grindverkið. Þá var þess óskað að byggingarfulltrúi leiðbeindi um kæruleið, stæði hann við ákvörðun sína um að aðhafast ekkert í málinu. Barst kæra úrskurðarnefndinni 12. júlí 2016, svo sem áður segir.

Hafa kærendur einnig kært samþykki byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. júlí 2016 á hækkun og endurbyggingu á risi og byggingu staðsteyptrar viðbyggingar aftan við einbýlishúsið á lóð nr. 41 við Grettisgötu. Forsaga þess hluta málsins er sú að með úrskurði úrskurðarnefndarinnar, í kærumáli nr. 81/2015, sem kveðinn var upp 10. desember 2015, var felld úr gildi fyrri ákvörðun byggingarfulltrúans um að veita byggingarleyfi fyrir hækkun nefnds húss og staðsteyptri tveggja hæða viðbyggingu þar sem leyfið var ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag.

Málsrök kærenda: Kærendur telja geymsluskúrinn ekki geta talist smáhýsi þar sem hann sé tæpir 3 m á hæð, auk þess sem ekki sé gert ráð fyrir honum í gildandi deiliskipulagi. Lóðarhafa lóðarinnar nr. 41 hafi borið að fá samþykki kærenda fyrir skúrbyggingunni áður en hann reif niður timburgrindverkið sem skildi lóðirnar nr. 41 og 43 að, en umrætt grindverk hafi verið reist fyrir þeirra fé. Aðkomukvöðin sem hvíli á lóðinni Grettisgötu nr. 43 sé jafngildi einhvers konar eignarréttar og hafi eigandi lóðar nr. 41 aldrei haft neinn rétt til að þvælast um í heimreið kærenda og eyðileggja grindverkið án þeirra samþykkis. Þá hafi ekki verið tekið tillit til eldvarna við byggingu skúrsins.

Jafnframt sé mótmælt ákvörðun byggingarfulltrúa frá 26. júlí 2016. Honum hafi ekki verið stætt á að taka erindið fyrir þar sem samþykktur deiliskipulagsuppdráttur sem liggi ákvörðuninni til grundvallar sé rangur. Uppdrátturinn gefi til kynna að grunnflötur hússins sé helmingi stærri en raunin sé og að húsið sé tvær hæðir þegar það sé í raun kjallari, hæð og ómanngengt ris. Hvergi sé minnst á heimild til viðbyggingar í texta deiliskipulagsins heldur eingöngu til stækkunar og hækkunar á útvegg, portvegg, um allt að 1,5 m.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld krefjast þess að kæru vegna geymsluskúrsins verði vísað frá á grundvelli aðildarskorts. Samkvæmt óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttar verði aðili máls að hafa beinna, verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta við úrlausn máls. Við úrlausn á þessum matskenndu mælikvörðum þurfi að beita heildstæðu mati á hagsmunum og tengslum kærenda við umrætt stjórnsýslumál. Kærendur geti ekki talist hafa beinna hagsmuna að gæta við úrlausn málsins þar sem umræddar framkvæmdir séu allar innan lóðarinnar nr. 41 við Grettisgötu. Auk þess verði ekki séð að þeir hafi neinna tilfinnanlegra hagsmuna að gæta. Framkvæmdin sé upp að lóðarmörkum við lóð nr. 43, en ekki að lóð kærenda. Kærendur geti ekki talist eiga beinna hagsmuna að gæta þótt þeir eigi umferðarrétt um lóð nr. 43. Slíkir hagsmunir séu á milli kærenda og þess lóðarhafa, en veiti þeim ekki heimild til að gerast aðilar máls vegna framkvæmda upp að mörkum lóðar nr. 43 nema framkvæmd skerði nýtingu umferðarréttar hans. Ekki hafi verið færð fram rök fyrir að sá réttur sé með nokkru móti skertur.

Þess sé jafnframt krafist að kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 26. júlí 2016 verði vísað frá þar sem hún hafi borist utan kærufrests, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Almennt sé miðað við að kærufrestur sé 30 dagar en kæran hafi borist 31 degi eftir að ákvörðunin var birt og hafi kærendum verið vel kunnugt um framkvæmdirnar áður en byggingaráformin hafi verið samþykkt.

——-

Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands hefur byggingarleyfishafi selt eignina að Grettisgötu 41.

——-

Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi með óformlegum hætti 2. ágúst 2018.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. júní 2016 að hafna beitingu þvingunarúrræða vegna byggingar geymsluskúrs á lóð nr. 41 við Grettisgötu, sem og ákvörðunar byggingarfulltrúans frá 26. júlí 2016 um að samþykkja umsókn um leyfi til að hækka ris og endurbyggja og til að byggja staðsteypta viðbyggingu aftan við einbýlishús á sömu lóð.

Í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Hefur ákvæðið verið túlkað þannig að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eigi verulegra einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra. Samkvæmt 4. mgr. gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 fellur samþykkt byggingaráforma úr gildi hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út innan tveggja ára frá samþykkt þeirra. Hin kærða ákvörðun um samþykkt byggingaráforma var tekin 26. júlí 2016, en samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað, hefur byggingarleyfi ekki verið gefið út. Þar sem rúmlega tvö ár eru liðin frá því að hin kærða ákvörðun var tekin, án þess að byggingarleyfi hafi verið gefið út, er hún fallin úr gildi og hefur því ekki lengur réttarverkan samkvæmt lögum. Eiga kærendur af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar. Verður þeim hluta kærumáls þessa af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Lóð kærenda að Grettisgötu nr. 43a er baklóð sem liggur að litlum hluta að lóðinni nr. 41 við sömu götu. Kærendur eiga umferðarrétt á lóð nr. 43 meðfram mörkum lóðanna nr. 43 og 41. Við þau lóðamörk, en innan lóðarinnar nr. 41, stendur umræddur geymsluskúr fast upp að tengihúsi (spennistöð) sem einnig er á lóðamörkunum, en nær Grettisgötu. Ganga kærendur fram hjá skúrnum og tengihúsinu þegar þeir eiga leið til eða frá lóð sinni, en ekki verður séð að framkvæmdin hafi nokkur áhrif á umferðarrétt kærenda. Kærendur halda því einnig fram að fjarlægt hafi verið grindverk sem þeir hafi borið kostnað við að hluta. Slíkur eignarréttarlegur ágreiningur á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina, heldur eftir atvikum dómstóla. Hins vegar er sökum þeirra grenndaráhrifa sem geymsluskúrinn mögulega veldur ekki hægt að útiloka að kærendur hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn þess hluta kærumálsins sem lýtur að synjun byggingarfulltrúa á beitingu þvingunarúrræða vegna skúrsins. Verður mál þetta því tekið til efnismeðferðar hvað það varðar.

Byggingarfulltrúi getur beitt þvingunarúrræðum m.a. í því skyni að stöðva framkvæmdir, sbr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, og til að knýja fram úrbætur, sbr. 56. gr. sömu laga. Í kjölfar vettvangsskoðunar var af hálfu byggingarfulltrúa í bréfi hans, dags. 24. maí 2016, vísað til nefndrar 55. gr., framkvæmdir stöðvaðar við hinn umdeilda geymsluskúr, og byggingaraðila veittur frestur til að koma að skýringum. Meðal gagna málsins eru tölvupóstsamskipti milli kærenda og embættis byggingarfulltrúa. Kemur fram í pósti þess síðarnefnda frá 30. s.m. að samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar liggi fyrir en skúrinn sé of hár og grunnur steyptur og sé skúrinn því ekki undanþeginn byggingarleyfi. Málinu var síðar lokið af hálfu byggingarfulltrúa að fengnum skýringum eiganda skúrsins og vísað til þess að ekki væri um byggingarleyfisskylda framkvæmd að ræða.

Í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð er fjallað um minniháttar framkvæmdir undanþegnar byggingarleyfi og í g-lið ákvæðisins er nánar fjallað um smáhýsi á lóð. Nefndum g-lið var breytt með reglugerð nr. 360/2016 sem tók gildi 2. maí 2016. Eftir þá breytingu falla undir undanþáguákvæðið smáhýsi úr léttum byggingarefnum til geymslu garðáhalda o.þ.h. á lóð utan byggingarreits þegar nánar tilgreindar kröfur eru uppfylltar, enda sé slík bygging ekki óheimil samkvæmt gildandi deiliskipulagi, og eru nánari kröfur gerðar um stærð, hæð og gerð smáhýsa auk samþykkis lóðarhafa nágrannalóða þegar það á við, sbr. 1.-5. lið.

Í gildandi deiliskipulagi svæðisins er tekið fram að yfirbragð byggðarinnar einkennist af því að húsin séu byggð á mismunandi tímum auk þess að vera mismunandi að stærð og að reiturinn njóti verndar í ljósgulum flokki, verndunar byggðamynsturs, en við nokkur hús sé leyfð hækkun og stækkun. Á það m.a. við um Grettisgötu 41. Standa ákvæði deiliskipulagsins því ekki í vegi að smáhýsi verði reist, en það sem hér er um deilt er auk þess aftan við og fjær götu en áðurnefnt tengihús sem reist var á árinu 1935 og hefur smáhýsið því ekki áhrif á byggðamynstur.

Kærendur byggja enn fremur á því að skilyrði g-liðar gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð séu ekki uppfyllt þar sem smáhýsið sé of hátt og á steyptum grunni, auk þess sem ekki hafi verið tekið tillit til eldvarna, en hin umdeilda ákvörðun byggingarfulltrúa var reist á því mati hans að skilyrðum nefnds reglugerðarákvæðis væri fullnægt. Að áliti úrskurðarnefndarinnar hefur það ekki úrslitaáhrif að geymsluskúr sá sem um ræðir sé reistur á steyptum grunni, enda eru t.a.m. pallar á lóð ekki byggingarleyfisskyldir skv. e-lið nefndrar gr. 2.3.5., og geta þeir eftir atvikum verið steyptir. Er þannig ekki eðlismunur á því að reisa smáhýsi úr léttum byggingarefnum, s.s. skúr þann sem hér er um deilt, á steyptum grunni eða á steyptum palli á lóð. Af aðstæðum og gögnum málsins er enn fremur ljóst að fullnægjandi fjarlægð er á milli geymsluskúrsins og húss kærenda í skilningi 2. tl. g-liðar reglugerðarákvæðisins, en sá töluliður lýtur að brunahólfun á milli húsa. Var og forsvaranlegt af byggingarfulltrúa að miða við að hæð skúrsins frá yfirborði lóðar yrði innan þeirra marka sem tilgreind eru í 4. tl. eftir að það hefði verið fært til fyrra horfs og er í því sambandi rétt að benda á að byggingarfulltrúi er sérfróður aðili skv. 8. gr., sbr. 25. gr., mannvirkjalaga og að af hans hálfu fór fram vettvangsskoðun. Hefur úrskurðarnefndin einnig kynnt sér aðstæður á vettvangi og liggur ekki annað fyrir en að skilyrðum g-liðar gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð hafi að öðru leyti verið fullnægt. Liggur t.a.m. fyrir samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar, þ.e. Grettisgötu nr. 43, í samræmi við 5. tl. g-liðar.

Að teknu tilliti til þess sem að framan er rakið er ekkert sem bendir til annars en að mat byggingarfulltrúa um að hinn umdeildi geymsluskúr væri ekki byggingarleyfisskyldur hafi verið lögmætt og efnislega rétt og að þar með væri ekki tilefni til að beita þvingunarúrræðum. Verður kröfu kærenda um ógildingu á hinni kærðu ákvörðun því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. júní 2016 um að hafna beitingu þvingunarúrræða vegna byggingar geymsluskúrs á lóðinni nr. 41 við Grettisgötu.

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. júlí 2016, um að veita leyfi til að hækka og endurbyggja ris og byggja staðsteypta viðbyggingu aftan við einbýlishús á lóðinni nr. 41 við Grettisgötu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
                Aðalheiður Jóhannsdóttir                          Þorsteinn Þorsteinsson

36/2017 Austurbyggð

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 9. ágúst kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 14. desember 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Austurbyggðar, Selfossi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 24. mars 2017, kæra eigandi, Vallarlandi 8, Selfossi og eignandi, Vallarlandi 17, Selfossi þá ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 14. desember 2016 að staðfesta samþykkt skipulags- og byggingarnefndar frá 7. s.m. um breytingu á deiliskipulagi Austurbyggðar, Selfossi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Árborg 11. maí 2017.

Málavextir:
Á fundi bæjarstjórnar Árborgar 14. desember 2016 var staðfest samþykkt skipulags- og byggingarnefndar frá 7. s.m. um breytingu á deiliskipulagi Austurbyggðar að undangenginni auglýsingu á tillögu þar um. Kærendur gerðu athugasemdir við tillöguna, er var svarað af skipulags- og byggingarfulltrúa. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 3. apríl 2017.

Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting felur í sér að leiksvæði sem gert var ráð fyrir á milli lóða að Smáralandi og Stekkjarlandi er fellt út og lóðirnar að Smáralandi 17 og 19 og Stekkjarlandi 8 stækkaðar lítillega. Einnig er leiksvæði á milli lóða við Snæland fellt út og parhúsalóðin að Snælandi 5-7 stækkuð og breytt í þriggja húsa raðhúsalóð. Þá er leiksvæði milli lóða að Fagralandi fellt út og einbýlishúsalóðin að Fagralandi 7 stækkuð. Í stað þessara þriggja leiksvæða er bætt við leiksvæði milli lóðanna Akralands 9 og 11 auk þess sem parhúsalóðunum að Akralandi 5 og 7 og einbýlishúsalóðinni að Akralandi 9 er breytt í raðhúsalóðir.

Málsrök kærenda:
Kærendur byggja á því að deiliskipulagsbreytingin skerði notagildi fasteigna þeirra að því leyti að enginn nothæfur leikvöllur verði í Austurbyggð eftir breytinguna.

Lýsing vegna breytinga á deiliskipulagi Austurbyggðar hafi ekki uppfyllt skilyrði greinar 5.2.3 skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 og með málsmeðferðinni hafi auk þess verið brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og meginreglunni um málefnaleg sjónarmið. Ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda kærenda við tillögu að breyttu deiliskipulagi. Vísi kærendur til ákvæða skipulagslaga nr. 123/2010 og skipulagsreglugerðar varðandi deiliskipulag og breytingar á því. Er sérstaklega vísað til 1. mgr. 37. gr., 39. gr., 1. mgr., sbr. 3. mgr. 41. gr., og 43. gr. skipulagslaga og b-liðar gr. 5.1.1, 5.1.2, 5.2.1, 5.2.2, 5.2.3 og 5.3.2.3 í skipulagsreglugerð. Þá sé vísað til 2. og 6. gr. reglugerðar nr. 942/2002 um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim.

Við breytingu á gildandi deiliskipulagi hafi skipulagsyfirvöld ekki jafn frjálsar hendur og við skipulagsgerð á óskipulögðum svæðum. Ákveðnar skyldur hvíli á skipulagsyfirvöldum með hliðsjón af fyrra skipulagi, sem mótað hafi byggð á svæðinu, nema lögmætar ástæður búi að baki breytingum. Hvorki fullnægjandi ástæður né rökstuðningur liggi fyrir breyttu deiliskipulagi. Hvergi í þeim gögnum sem lágu fyrir við ákvarðanatökuna komi fram hvers vegna þörf hafi verið á að fækka leiksvæðum í hverfinu, önnur en sú að stækka nokkrar íbúðarlóðir lítillega. Verið sé að fórna hagsmunum hverfisins í heild fyrir hagsmuni eigenda viðkomandi lóða. Ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda og vilja íbúa svæðisins. Jafnframt hafi að engu leyti verið skoðað hvort hin nýja staðsetning leikvallarins gæti staðist reglur um öryggiskröfur leikvalla. Telji kærendur að svo sé ekki þar sem eina aðkoman að leikvellinum sé að vestanverðu en sú hlið snúi að helstu umferðaræð hverfisins. Slíkt sé hvorki í samræmi við ákvæði reglugerðar um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim né skipulagsreglugerðar. Gera hefði þurft grein fyrir því í lýsingu verkefnisins og í greinargerð með hinu breytta deiliskipulagi hvernig ganga ætti frá svæðinu til að það stæðist öryggiskröfur. Þá hafi engin málefnaleg sjónarmið fyrir breytingunni komið fram af hálfu bæjarins, önnur en þau að stækka nokkrar íbúðarhúsalóðir lítilega. Allan rökstuðning fyrir breytingunni vanti og þess sé hvergi getið hvaða sjónarmið varðandi stækkun lóða geti réttlætt fækkun leikvalla hverfisins. Bæjaryfirvöld hafi við meðferð málsins virt vilja íbúa hverfisins að vettugi að öllu leyti. Yfirgnæfandi meirihluti íbúa telji mikilvægt að breytingin taki ekki gildi þar sem hún muni hafa neikvæð áhrif á framþróun hverfisins og geri það að verkum að ekkert öruggt leiksvæði verði í því.

Málsrök Árborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að uppfylltar hafi verið kröfur þeirra form- og efnisreglna sem sveitarfélaginu hafi borið að fara eftir við deiliskipulagsbreytinguna. Sveitarfélög hafi svigrúm til þess að gera breytingar á samþykktu deiliskipulagi skv. skipulagslögum nr. 123/2010. Ekki hafi verið skylt að útbúa lýsingu, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 43. gr. þeirrar laga. Sé því hafnað að fullnægjandi ástæður fyrir breytingunni hafi ekki legið fyrir og að markmiðið með henni hafi verið að stækka íbúðarhúsalóðir. Við uppbyggingu hverfisins hafi komið í ljós að fyrirhuguð leiksvæði í hverfinu væru bæði lítil og óhagstæð að lögun er leiddi til þess að ómögulegt hefði verið að setja upp viðunandi leikvelli með tækjum miðað við þær kröfur sem gerðar séu til leikvalla, eins og fram komi í bókun skipulags- og byggingarnefndar. Ekki sé óeðlilegt að leiksvæði í þéttbýli standi nálgæt götum sem umferð fari um. Þá verði að sjálfsögðu tekið tillit til öryggismála við hönnun hins nýja leiksvæðis. Ekki hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins við meðferð málsins. Loks sé sveitarfélaginu ekki skylt að verða við kröfum þeirra sem geri athugasemdir, enda séu færð fyrir því rök og ákvörðunin byggð á málefnalegum sjónarmiðum.

Niðurstaða:
Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Austurbyggðar þar sem gert er ráð fyrir að þrjú lítil leiksvæði séu felld út en bætt við einu stærra leiksvæði á öðrum stað. Jafnframt eru nokkrar íbúðarhúsalóðir á viðkomandi svæði stækkaðar lítillega í tengslum við breytinguna.

Í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Kærendur eru búsettir á deiliskipulagssvæðinu og byggja á því að notagildi fasteigna þeirra minnki við hina kærðu deiliskipulagsbreytingu. Er þar um að ræða álit kærenda á skipulagi á svæðinu og komu kærendur þeim skoðunum á framfæri við meðferð málsins. Það að kærendur eigi rétt á að koma að athugasemdum þegar málsmeðferð vegna tillögu að breyttu deiliskipulagi sendur yfir skv. skipulagslagslögum nr. 123/2010 veitir þeim hins vegar ekki sjálfstæðan rétt til kæruaðildar. Þá lúta nefnd málsrök kærenda fyrst og fremst að gæslu hagsmuna sem telja verður almenna, en ekki einstaklega. Verður kærendum ekki játuð kæruaðild á þeim grundvelli þrátt fyrir að hagræði kunni að felast í því fyrir íbúa að stutt sé á næsta leiksvæði. Loks er útilokað, að öllum staðháttum virtum, að breytt lega leiksvæða samkvæmt hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun hafi nokkur grenndaráhrif á fasteignir kærenda    

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki séð að kærendur hafi einstaklegra hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun umfram aðra og verður kæruaðild þeirra ekki byggð á þeim forsendum. Þá hafa við meðferð málsins ekki komið fram aðrar ástæður af hálfu kærenda sem leitt geta til kæruaðildar þeirra samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                          Þorsteinn Þorsteinsson

 

 
 

172 og 175/2016 Bakki, Húsavík

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 1. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 172/2016, kæra á álagningu skipulagsgjalds vegna starfsmannabúða á lóðunum Dvergbakka 1, 3 og 4, Bakka við Húsavík, að fjárhæð kr. 4.604.694.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. desember 2016, er barst nefndinni 27. s.m., kærir sveitarfélagið Norðurþing álagningu skipulagsgjalds vegna starfsmannabúða á lóðunum Dvergbakka 1, 3 og 4, Bakka við Húsavík, að fjárhæð kr. 4.604.694. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða álagning verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. desember 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir PCC BakkiSilicon hf., Vallholtsvegi 3, Húsavík, áðurgreinda álagningu skipulagsgjalds með kröfu um ógildingu álagningarinnar.

Þar sem framangreind mál varða sömu ákvörðun og kröfur kærenda eru samhljóða þykir rétt að sameina síðargreinda kærumálið, sem er nr. 175/2016, máli þessu.

Málavextir: PCC BakkiSilicon hf. vinnur að byggingu kísilvers að Bakka við Húsavík. Vegna umfangs framkvæmdanna og fjölda starfsmanna óskaði framkvæmdaaðili eftir því við Norðurþing að fá að reisa starfsmannabúðir á lóðum nálægt framkvæmdasvæðinu til afnota á meðan framkvæmdir stæðu yfir.

Hinn 1. október 2015 gerðu Norðurþing og framkvæmdaaðili með sér tímabundinn lóðarleigusamning þar sem framkvæmdaaðila voru heimiluð afnot af lóðunum Dvergbakka 1, 3 og 4 fyrir starfsmannabúðir. Í samningnum kom fram að þar sem búðirnar væru aðeins hugsaðar til tímabundinna nota gerði sveitarfélagið ekki sömu kröfur að öllu leyti um þau mannvirki, líkt og almennt væri gert vegna varanlegra mannvirkja í þéttbýli. Þá var sett inn í samninginn ákvæði um að framkvæmdaaðila væri óheimilt að þinglýsa samningnum eða veðsetja mannvirkin. Mun það ákvæði hafa verið sett í samninginn að beiðni Norðurþings til að tryggja að mannvirkin yrðu fjarlægð af lóðunum þegar ekki yrði lengur not fyrir þau. Norðurþing gaf síðan út yfirlýsingu 19. janúar 2016 um að öll mannvirki á lóðunum væru eign framkvæmdaaðila.

Búðirnar voru skráðar í fasteignaskrá þar sem fram kom að Norðurþing væri eigandi lóðanna Dvergbakka 1, 3 og 4. Í kjölfar þess voru starfsmannabúðir á lóðunum virtar brunabótamati og á grundvelli þess var umdeilt skipulagsgjald lagt á.
Hinn 6. desember 2016 bárust Norðurþingi þrír reikningar vegna álagðs skipulagsgjalds vegna umræddra starfsmannabúða með gjalddaga 1. desember 2016, samtals að fjárhæð kr. 4.604.694.

Málsrök Norðurþings:
Af hálfu Norðurþings er á því byggt að lagaheimild sú sem hin kærða álagning skipulagsgjalds byggi á sé um margt óskýr. Í 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé ekki kveðið á um hver sé greiðandi skipulagsgjaldsins ásamt því að ekki sé ljóst hvaða stjórnvald beri ábyrgð á álagningu þess. Umrætt gjald verði ekki talið annað en skattur til ríkissjóðs í skilningi 40. gr., sbr. 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.

Þá sé á það bent að í 3. mgr. 17. gr. skipulagslaga komi fram að stofn til skattlagningar skipulagsgjaldsins skuli vera brunabótamat nýbygginga. Verði því að telja eiganda nýbyggingarinnar réttmætan greiðanda gjaldsins ef það verði á annað borð talið lögmætt.

Málsrök framkvæmdaaðila:
Fyrirtækið bendir á að þrátt fyrir að ákvörðun um álagningu gjaldsins beinist ekki að því heldur Norðurþingi hafi félagið lögvarða hagsmuni af ákvörðuninni sem eigandi þeirra mannvirkja sem séu á umræddum lóðum og uppfylli því skilyrði um kæruaðild.

Sú gjaldtaka sem hér um ræði sé íþyngjandi ákvörðun sem verði að túlka þröngt. Að auki beri að skilja ákvæði 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 á þann veg að skipulagsgjaldið teljist skattur í skilningi 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Af þessu leiði að ekki eigi að túlka gjaldtökuheimildina á rýmkandi hátt og fella umrædd mannvirki undir hana. Mannvirkjunum sé ætlað að standa tímabundið og samræmist innheimta gjaldsins því ekki markmiði gjaldtökunnar skv. 1. mgr. 17. gr. skipulagslaga.

Umræddar starfsmannabúðir geti hvorki talist vera nýbyggingar eða nýreist hús í skilningi 17. gr. skipulagslaga né húseign í skilningi gildandi réttar og reglna sem gildi um brunabótamat. Búðirnar hafi áður verið notaðar í tengslum við framkvæmdir á Reyðarfirði og séu því ekki nýjar. Þær séu ekki varanlega skeyttar við landið heldur færanlegar einingar sem séu festar með vírum í öryggisskyni. Af þessu leiði einnig að mannvirkin uppfylli ekki skilyrði hins almenna fasteignahugtaks og geti því ekki talist vera húseign, sbr. 2. mgr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup og 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 809/2000 um lögboðna brunatryggingu húseigna, sem sett sé með stoð í lögum nr. 48/1994 um brunatryggingar. Þessu til stuðnings megi vísa til dóms Hæstaréttar frá 25. janúar 2013 í máli nr. 738/2012, sem fjallað hafi að ákveðnu leyti um eðli samskonar mannvirkja og staðfest að um væri að ræða lausafé. Að auki sé umrætt svæði skilgreint sem iðnaðarsvæði samkvæmt gildandi aðal- og deiliskipulagi og því sé ljóst að það sé ekki ætlað til íbúðar svo sem greindar starfsmannabúðir séu.

Fram komi í 3. mgr. 17. gr. skipulagslaga að skipulagsgjald sé tryggt með lögveði í eigninni sem það leggist á og styðji það enn frekar að skipulagsgjald geti einvörðungu lagst á varanleg mannvirki en ekki mannvirki sem séu lausafé. Engin rök séu fyrir því að tryggja greiðslu skipulagsgjalds með lögveði nema gjaldið leggist á skráningarskyldar fasteignir sem uppfylli kröfur um varanleika.

Hvað sem öðru líði komi 2. gr. reglugerðar nr. 737/1997 um skipulagsgjald í veg fyrir álagningu gjaldsins. Í ákvæðinu sé tekið fram að sé um að ræða flutning húsa á nýja lóð skuli greitt skipulagsgjald ef virðingarverð hinnar fluttu húseignar hækki sem nemi a.m.k. 1/5 verðs á fyrri stað. Ljóst sé að hvorki verðmæti né virðing umræddra starfsmannabúða hafi hækkað frá fyrri notkunarstað og því séu skilyrði ákvæðisins ekki uppfyllt.

Málsrök Þjóðskrár Íslands:
Af hálfu Þjóðskrár er vísað til þess að PCC BakkiSilicon hf. geti ekki talist aðili málsins þar sem félagið hafi ekki lögvarða hagsmuni af hinni kærðu ákvörðun.

Um efnishlið málsins er á það bent að samkvæmt 1. gr. laga um brunatryggingar nr. 48/1994 sé húseiganda skylt að brunatryggja allar húseignir. Skuli húseign metin brunabótamati ekki síðar en fjórum vikum eftir að byggingu hennar lauk eða eftir að hún sé tekin í notkun og beri eigandi ábyrgð á að óska eftir brunabótamati. Þjóðskrá Íslands annist virðingu húseignar til brunabóta og sé markmið brunabótamats að finna vátryggingarverðmæti húseignar þegar virðing fari fram, að teknu tilliti til aldurs, slits, viðhalds og ástands eignar að öðru leyti. Álagning skipulagsgjalds fari fram á grundvelli brunabótamats samkvæmt 2. mgr. 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem kveðið sé á um að greiða skuli skipulagsgjald af nýbyggingum í eitt skipti sem nemi 0,3% af brunabótamati húseignar. Nýbygging teljist hvert nýreist hús sem virt sé til brunabóta svo og viðbyggingar við eldra hús ef virðingarverð hennar nemi a.m.k. 1/5 verðs eldra hússins.

Samkvæmt 6. gr. reglugerðar um skipulagsgjald nr. 737/1997 skuli Fasteignamat ríkisins (Þjóðskrá Íslands) tilkynna innheimtumanni fjárhæð brunabótavirðingar húseignar eða stofnverð þegar virðing hafi farið fram eða tilkynnt hafi verið um stofnverð og veita nauðsynlegar upplýsingar til innheimtu gjaldsins, þar á meðal um skráða eigendur húseigna samkvæmt fasteignaskrá. Í kjölfar þess falli skipulagsgjaldið í gjalddaga skv. 4. gr. reglugerðarinnar.

Af þessu sé ljóst að eigandi húseignar samkvæmt fasteignaskrá sé greiðandi skipulagsgjalds. Í máli þessu hafi leigusamningi ekki verið þinglýst og því sé Norðurþing handhafi allra rétttinda, lóða og bygginga á Dvergbakka 1, 3 og 4 og því réttmætur greiðandi skipulagsgjaldsins. Gjaldið sé ekki háð því hvort fasteign sé ætlað að standa til lengri eða skemmri tíma. Húsin séu allt að einu varanlega skeytt við land þótt þau hafi verið reist í afmörkuðum tilgangi og teljist því fasteignir í skilningi laga. Því hafi verið rétt að beina innheimtu skipulagsgjaldsins að Norðurþingi með hliðsjón af 6. gr. reglugerðar um skipulagsgjald.

Niðurstaða: Fyrir liggur að PCC BakkiSilicon hf. er eigandi þeirra starfsmannabúða sem komið var fyrir á framkvæmdasvæði við kísilverksmiðju á Bakka í Norðurþingi. Eins og fram er komið var brunabótamat starfsmannabúðanna grundvöllur hinnar kærðu álagningar skipulagsgjalds. Gjaldinu fylgir lögveð í búðunum skv. 3. mgr. 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og á eigandi starfsmannabúðanna því lögvarða hagsmuni tengda ákvörðuninni á meðan álagning gjaldsins stendur óröskuð. Verður honum af þeim sökum játuð aðild í máli þessu í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011.

Umræddum starfsmannabúðum var ætlað að standa í takmarkaðan tíma á lóðum Norðurþings við framkvæmdasvæði kísilversins á Bakka, en þær voru fluttar þangað frá fyrrum framkvæmdasvæði álversins á Reyðarfirði. Samningur um afnot lóðanna er dagsettur 1. október 2015 og gildir hann til 12. maí 2018, eða að sex mánuðum liðnum frá gangsetningu kísilversins. Samningnum var ekki þinglýst og verða húseiningar þær sem mynda starfsmannabúðirnar ekki taldar fasteign samkvæmt hefðbundnum skilningi þess hugtaks, þar sem um færanlegar húseiningar er að ræða sem ekki eru skeyttar við jörð með varanlegum hætti.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. skipulagslaga skal greiða skipulagsgjald af mannvirkjum og í 2. mgr. ákvæðisins er tekið fram að af nýbyggingum sem virtar séu til brunabóta skuli greiða skipulagsgjald sem nemi 0,3% af brunabótamati hverrar húseignar. Nýbygging er þar skilgreind sem nýreist hús sem virt sé til brunabóta svo og viðbyggingar við eldra hús ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 verðs eldra hússins. Gjaldstofn skipulagsgjaldsins er því brunabótamat nýbygginga en eðli máls samkvæmt ekki verðmæti lóða eða lands.

Norðurþing er eigandi umræddra lóða, en eins og að framan greinir er PCC BakkiSilicon hf. eigandi starfsmannabúða sem á lóðunum standa samkvæmt samningi þar sem afnotunum er markaður skammur tími. Í ljósi þess hvernig gjaldstofni skipulagsgjalds er háttað verður með hliðsjón af eðli máls að skýra gjaldheimild 17. gr. skipulagslaga svo að álagning skipulagsgjaldsins eigi að beinast að eiganda nýbyggingar á lóð, sem eftir atvikum telur til beinna eða óbeinna eignarréttinda að henni, en ekki að eiganda lóðar, teljist hann ekki jafnframt eigandi mannvirkja sem á henni eru. Styðst framangreind túlkun við áratuga réttarframkvæmd við álagningu skipulagsgjalda. Hinni kærðu álagningu skipulagsgjalds var því ranglega beint að Norðurþingi og verður hún því þegar af þeirri ástæðu felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hin kærða álagning skipulagsgjalds á hendur Norðurþingi vegna starfsmannabúða á lóðunum Dvergbakka 1, 3 og 4, Bakka við Húsavík, að fjárhæð kr. 4.604.694, er felld úr gildi.

____________________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________                                 ____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

28/2017 Bjargartangi

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 2. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 28/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 22. febrúar 2017 um að hafna umsókn um gerð bílastæðis fyrir neðan húsið á lóðinni Bjargartanga 4, Mosfellsbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. mars 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir eignandi, Bjargartanga 4, Mosfellsbæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 22. febrúar s.á að hafna umsókn hans um gerð bílastæðis fyrir neðan húsið á lóðinni Bjargartanga 4, Mosfellsbæ. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 6. apríl 2017.

Málavextir: Hinn 2. febrúar 2017 sótti kærandi um leyfi bæjaryfirvalda Mosfellsbæjar til að gera bílastæði neðan við hús sitt að Bjargartanga 4 með aðkomu frá Álfatanga. Erindinu var synjað á fundi skipulagsnefndar 13. febrúar s.á. og var sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarstjórnar 22. febrúar 2017.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að nauðsynlegt sé að fá bílastæði fyrir neðan húsið. Tvö bílastæði séu nú þegar á lóðinni með aðkomu frá Bjargartanga sem bæði séu notuð af íbúum efri hæðar hússins. Leigjendur á neðri hæðinni hafi ekki aðgang að bílastæði á lóðinni og þurfi því að leggja bílum sínum úti á götu eða uppi á gangstétt sem skapi óþægindi fyrir þá og vegfarendur. Aðgengi að íbúð á neðri hæð frá Bjargartanga sé slæmt en ganga þurfi niður stiga að íbúðinni sem geti verið hættulegt sérstaklega þegar um eldra fólk sé að ræða. Með því að gera bílastæði fyrir neðan húsið með aðkomu frá Álfatanga yrði íbúðin hins vegar gerð aðgengileg fyrir alla, þar með talið hreyfihamlaða. Fordæmi séu fyrir því í götunni að hafa bílastæði með aðkomu fyrir neðan hús en slík bílastæði séu á lóðunum Bjargartanga númer 2 og 10.

Málsrök Mosfellsbæjar: Af hálfu Mosfellsbæjar er vísað til umferðaröryggissjónarmiða, en við ákvarðanatökuna hafi m.a. verið höfð hliðsjón af ákvæði 12.10.1 byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Þar sé kveðið á um að aðkoma að hverri byggingu, bílastæði og almennt göngusvæði við og að byggingu skuli þannig staðsett og frágengin að aðgengi að byggingunni sé auðvelt öllum og ekki skapist slysahætta á svæðinu. Bent sé á að umferð við Álfatanga sé þung og þar fari strætó meðal annars um. Umferð hafi aukist á undanförnum árum með auknum íbúafjölda í Mosfellsbæ. Því sé varhugavert að heimila gerð bílastæðis sem liggi beint að götunni. Aðstæður hafi verið aðrar þegar Mosfellsbær hafi samþykkt aðkomu að Bjargartanga 10 frá Álfatanga, en á þeim tíma hafi verið færri íbúar í Mosfellsbæ og mun minni umferð um Álfatanga. Því sé ekki hægt að líta á það leyfi sem fordæmi í því máli sem hér sé til skoðunar.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð sú ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 22. febrúar 2017 að synja erindi kæranda um að gera bílastæði fyrir neðan húsið að Bjargartanga 4 með aðkomu frá Álfatanga.

Svæðið sem Bjargartangi 4 heyrir til hefur ekki verið deiliskipulagt, en samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030 er landnotkun umrædds svæðis íbúðarsvæði. Flokkast þessi hluti Álfatangi sem safngata með hámarkshraða 50 km/klst. Um safngötur segir nánar í aðalskipulaginu að þær séu aðalgötur íbúðarhverfanna. Í undantekningartilfellum geti þær nýst sem tengingar milli hverfa og séu þær með 30 og/eða 50 km/klst. hámarkshraða allt eftir aðstæðum. Þá segir um húsagötur að þær verði almennt með 30 km/klst. hámarkshraða og í einstaka tilvikum 15 km/klst. Strætó gengur um Álfatanga auk þess sem gatan tekur við umferð úr húsagötum hverfisins. Má því búast við þó nokkurri umferð um Álfatanga og að sama skapi má ljóst vera að bílastæði með aðkomu frá götunni geti aukið hættu á slysum og ógnað umferðaröryggi. Lágu því málefnaleg sjónarmið að baki synjun Mosfellsbæjar.

Árið 1984 samþykkti Mosfellsbær gerð bílastæðis á lóðinni Bjargartanga 10 með aðkomu frá Álfatanga. Úrskurðarnefndin tekur undir sjónarmið bæjarins um að aðstæður hafi breyst frá þeim tíma þar sem fjöldi íbúa í bænum hefur aukist til muna og umferð aukist samhliða. Þegar af þeirri ástæðu voru ekki fyrir hendi sambærilegar aðstæður og við synjun á erindi kæranda nú. Kærandi hefur einnig bent á bílastæði fyrir neðan húsið að Bjargartanga 2, en aðkoma að því er frá Langatanga, sem er húsagata, og er því ekki um sambærilegt tilvik að ræða. Skorti því ekki á að jafnræðis væri gætt við afgreiðslu umsóknar kæranda.

Með vísan til framangreinds verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 22. febrúar 2017 um synjun á umsókn um gerð bílastæðis við Bjargartanga 4 Mosfellsbæ.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                        Þorsteinn Þorsteinsson

 

93/2018 Áshamar

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 2. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 93/2018, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 12. júní 2018 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Áshamri 32 í Vestmannaeyjabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júlí 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir lóðarhafi Áshamars 48, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 12. júní 2018 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni nr. 32 við Áshamar í Vestmannaeyjabæ. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Jafnframt er gerð krafa um að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Vestmannaeyjabæ 12. júlí 2018.

Málavextir:
Hinn 20. febrúar 2017 tók umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja fyrir umsókn lóðarhafa um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni Áshamri 32, sem er á ódeiliskipulögðu svæði. Ráðið samþykkti að umsóknin yrði grenndarkynnt fyrir lóðarhöfum að Áshamri 28, 30, 34, 36 og 50 og Búhamri 13, 29, 35 og 39 með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umsóknin var kynnt með bréfi, dags. 20. febrúar 2017, og var gefinn fjögurra vikna frestur frá dagsetningu bréfsins til að skila inn athugasemdum. Engar athugasemdir bárust innan frestsins og var byggingarleyfi gefið út hinn 31. ágúst s.á. Framkvæmdir við byggingu hússins hófust í febrúar 2018 og hafði kærandi af því tilefni samband við byggingarfulltrúa 7. mars s.á. Síðar sama dag sendi byggingarfulltrúi kæranda með tölvupósti þær upplýsingar sem sendar voru með grenndarkynningunni. Samþykkt byggingarleyfisins var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem felldi leyfisveitinguna úr gildi með úrskurði nr. 60/2018 þar sem grenndarkynningin náði ekki til kæranda.

Í kjölfarið var byggingarleyfisumsóknin grenndarkynnt á ný með bréfi, dags. 9. maí 2018, og var gefinn var fjögurra vikna frestur til að koma á framfæri athugasemdum vegna hennar. Kærandi sendi athugasemdir með bréfi, dags. 6. júní 2018.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 12. júní 2018, var erindið tekið fyrir að nýju, það samþykkt og vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar. Var bókað í fundargerð að ráðið hafnaði athugasemdum lóðarhafa að Áshamri 48. Jafnframt var bókað að skráð nýtingarhlutfall fyrir íbúðarhúsabyggð ÍB-4 væri 0,15 en ekki fyrir einstaka byggingarlóðir líkt og fram kæmi í innsendu bréfi. Heimilt væri að víkja frá deiliskipulagsskyldu vegna stakra framkvæmda í þegar byggðum hverfum þar sem deiliskipulag lægi ekki fyrir, viki fyrirhuguð framkvæmd ekki í verulegum atriðum frá notkun, nýtingarhlutfalli eða yfirbragði hverfisins. Ekki væri hægt að fallast á rök er vörðuðu útsýnisskerðingu og væri bent á að engin leið væri til að tryggja öllum íbúum bæjarins útsýni sem ávallt væri huglægt hverjum og einum. Á lóðinni hefði áður staðið íbúðarhús sem hefði verið rifið eftir bruna og alltaf hafi verið fyrirhugað að nýta lóðina áfram fyrir íbúðarhúsnæði. Ráðið teldi fyrirhugaða nýbyggingu falla vel að yfirbragði hverfisins hvað varðaði nýtingu, útlit og form. Benti ráðið á að ekki hefðu komið fram nein rök sem styddu að verðgildi húsnæðis í nágrenninu myndi skerðast við uppbyggingu á lóð Áshamars 32. Uppbyggingu hverfisins yrði að meta heildstætt og mætti þá einnig draga fram að uppbygging gæti haft jákvæð áhrif á fasteignamarkaðinn í nágrenninu.

Bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs á fundi 21. júní 2018. 

Málsrök kæranda: Kærandi telur hina umdeildu framkvæmd ekki vera í samræmi við landnotkun, en ákvæði 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki feli í sér það skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum. Samkvæmt gildandi aðalskipulagi sé heildarnýtingarhlutfall lóða á umræddu svæði 0,15. Nýtingarhlutfall umræddrar lóðar samkvæmt fyrirliggjandi teikningum verði 0,20, en þar sé miðað við að stærð lóðar sé 923 m2. Stærð lóðarinnar í fasteignaskrá sé hins vegar 767 m2 og samkvæmt því sé nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,24. Ekkert hafi verið bókað um þetta misræmi á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 12. júní 2018. Þegar kærandi hafi innt eftir svörum hafi hann fengið þær upplýsingar að nýr lóðarleigusamningur hefði verið undirritaður milli aðila 29. maí 2018. Megi leiða líkum að því að hinn nýi lóðarleigusamningur hafi verið gerður í þeim tilgangi að lækka nýtingarhlutfall lóðarinnar svo það kæmist nær nýtingarhlutfalli nálægra lóða. Framangreind aukning á nýtingarhlutfalli lóðar sé svo veruleg breyting að grenndarkynning skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 dugi ekki til.

Framkvæmdin sé ekki heldur í samræmi við byggðamynstur. Fyrirhuguð hæð hússins samkvæmt teikningum sé 4,92 m, en hæsti punktur annarra húsa í götunni sé 4,35 m. Breidd hæstu þekju samkvæmt teikningum sé 10,1 m að viðbættum 12 m. Breidd samkvæmt hæstu þekju annarra húsa í götunni sé 6,80 m. Þá snúi þak á 12 m viðbótinni í norður-suður, en þak annarra húsa í götunni snúi í austur-vestur. Þetta leiði til verulegrar útsýnisskerðingar fyrir kæranda og sé breytingin í andstöðu við lögmætar væntingar kæranda um framtíðarskipulag þegar hann hafi fjárfest og flutt á svæðið.

Málsmeðferð og afgreiðsla málsins beri með sér að hagsmunir kæranda hafi verið algerlega fyrir borð bornir. Framkvæmdir hafi verið hafnar án þess að kærandi hafi fengið að koma að athugasemdum og ekkert tillit hafi verið tekið til athugasemda hans við grenndarkynningu. Leiða megi líkum að því að síðari grenndarkynningin hafi aðeins þjónað þeim tilgangi að bæta úr formgalla. Rökstuðningi og upplýsingum sem fylgt hafi niðurstöðu umhverfis- og skipulagsráðs hafi verið verulega ábótavant. Ekkert komi fram þar um nýjan lóðarleigusamning við leyfishafa, sem sé í samræmi við teikningar hans sem gerðar hafi verið í ársbyrjun 2017. Þá hafi engin gögn verið lögð fram til stuðnings þeirri fullyrðingu að húsið sem áður hafi staðið á lóðinni hafi verið í líkingu við önnur hús í botnlanganum.

Málsrök Vestmannaeyjabæjar: Bæjaryfirvöld telja engin rök hníga að því að verða við kröfum kæranda. Framkvæmdin sé í fullu samræmi við eðlilega landnotkun og byggðamynstur. Rök kæranda um skerðingu á útsýni hafi ekki verið þess eðlis að byggingarleyfi yrði ekki gefið út og réttlæti alls ekki stöðvun framkvæmda. Útgáfa byggingarleyfis að undangenginni grenndarkynningu hafi að öllu leyti uppfyllt skilyrði 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Fyrirhugað hús falli vel að byggðamynstri og götumynd, enda hafi það verið ein forsendna fyrir útgáfu byggingarleyfisins. Þekja íbúðarhluta hússins sé í austur-vestur, líkt og á öðrum húsum. Þekja bílskúrs muni snúa þvert á þak íbúðarhúss og það sé í fullu samræmi við þegar samþykktar framkvæmdir við götuna, þ.e. hús nr. 24 og 34 við Áshamar.

Nýtingarhlutfall lóðarinnar sé eðlilegt miðað við svæðið og nágrenni þess. Nýtingarhlutfallið 0,15, sem fram komi í aðalskipulagi, eigi við um svæði ÍB-4 í heild sinni, en ekki einstakar lóðir. Umhverfis- og skipulagsráð hafi bent á þetta í niðurstöðu sinni 12. júní 2018, sem kærandi hafi vísað til í kæru. Fullyrðing kæranda um að nýtingarhlutfallið 0,20 sé mun hærra en nýtingarhlutfall nærliggjandi lóða standist ekki skoðun. Nýtingarhlutfall lóðarinnar nr. 34 við Áshamar sé samtals 0,24 og nýtingarhlutfall lóðarinnar nr. 36 sé 0,21. Kæranda geti ekki dulist að nýtingarhlutfall lóðanna á svæðinu sé ekki 0,15 þar sem nýtingarhlutfall lóðar hans sé það hæsta á svæðinu, eða 0,29. Tekið sé undir að kærandi hafi átt að vera aðili að upphaflegri grenndarkynningu. Úr því hafi verið bætt og kæranda verið gefið færi á að koma með athugasemdir við fyrirhugaða framkvæmd. Hann hafi því getað gætt réttar síns lögum samkvæmt. Athugasemdir hans hafi ekki þótt gefa tilefni til þess að hafa áhrif á útgáfu byggingarleyfis. Nýtingarhlutfallið 0,20 sé mjög hóflegt og skeri sig að engu leyti frá nærliggjandi húsum. Án stækkunar lóðarinnar hefði nýtingarhlutfall verið 0,24 sem bæjaryfirvöld telji í góðu samræmi við þær samþykktir sem gerðar hafi verið fyrir svæðið.

Ekki sé gerð athugasemd við staðhæfingu kæranda um hæð fyrirhugaðs húss miðað við önnur hús í götunni, en bent sé á að átt sé við hæð frá botnplötu. Önnur hús við götuna hafi verið byggð í tíð eldri byggingarreglugerða og óheimilt væri að byggja þau samkvæmt núgildandi lögum og byggingarreglugerð, t.d. vegna breyttra krafna um lofthæð og einangrun í þaki. Gólfkóti fyrirhugaðs húss sé 26,20, sá sami og eldra hússins. Á lóðinni nr. 34 sé hann 27,30 og 29,00 á lóð kæranda. Hann sé því lægri en annarra húsa við götuna og mun lægri en fasteignar kæranda. Við framkvæmdina sé núgildandi lögum og reglum fylgt. Kærandi geti ekki ætlast til þess að fyrirhugað hús verði eins og fyrra hús að öllu leyti þegar slík bygging samræmist ekki núgildandi lögum og reglum.

Í þéttbýli sé ekki hægt að gera ráð fyrir því að útsýni skerðist ekki vegna bygginga. Líta verði til þess hvaða væntingar fasteignaeigendur geti almennt haft á grundvelli málefna- og lagalegraforsendna. Kærandi hafi sjálfur fengið byggingarleyfi fyrir bílgeymslu þrátt fyrir athugasemdir um útsýnisskerðingu sem fram hafi komið við grenndarkynningu. Umsókn hans hafi fengið sömu meðferð og umsókn vegna hins kærða leyfis. Fullyrðing kæranda um verðrýrnun eignar vegna útsýnisskerðingar sé ekki studd neinum rökum og huglæg sjónarmið hans og væntingar geti ekki haft áhrif á niðurstöðu málsins. 

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að vegna strangra krafna núgildandi byggingarreglugerðar nr. 112/2012 hafi ekki fengist leyfi til að nota þann grunn sem fyrir hafi verið á lóðinni. Þetta geri að verkum að húsið verði 20 cm hærra en það hús sem áður hafi staðið þar. Reglur um einangrun innanhúss hafi jafnframt áhrif á hæð hússins.

Lóðarstærð sem fram komi á fyrstu teikningum sem lagðar hafi verið inn 14. febrúar 2017 sé sú stærð sem gefin hafi verið í upphafi. Leyfishafi geti ekki útskýrt hvers vegna lóðin hafi verið skráð minni í fasteignaskrá.

Íbúðarhúsið sé af hóflegri stærð, 145 m2, auk 40 m2 bílskúrs. Fyrirhugað hús sé sláandi líkt öðrum húsum í götunni, eins og lagt hafi verið upp með. Ljósmyndir sem kærandi hafi lagt fram séu villandi og beinlínis teknar með þeim hætti að villa um fyrir þeim sem um þetta mál muni fjalla. Eðlilegra hefði verið að taka myndir út um þann glugga sem kærandi telji útsýni sitt skerðast, ekki við lóðamörk eða af lóðum nágranna.

Þá hafi lóðarúthlutunin verið samþykkt af tveimur byggingarnefndum og tveimur bæjarstjórnum með öllum greiddum atkvæðum.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi áréttar að hið fyrirhugaða hús muni gjörbreyta götumynd og skerða útsýni kæranda verulega. Vísað sé til álits löggilds fasteignasala, sem m.a. segi að útsýni vegi þyngra í verðmæti fasteigna úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu og að ekki leiki vafi á því að fyrirhugaðar byggingarframkvæmdir muni valda verulegri verðrýrnun á fasteign kæranda, auk þess að minnka sölumöguleika.

Stærð fyrirhugaðs húss m.t.t. annarra húsa í götunni byggi ekki á neinni þörf, hvorki almennings né annarra. Nýtingarhlutfallið rúmlega tvöfaldist. Það hafi mikil áhrif á skipulag lóðarinnar sem og næstu lóðir, auk þess að fela í sér inngrip í götumynd götunnar sem húsið standi við. Húsið verði mun hærra en önnur hús og breidd hæstu þekju mun meiri en annarra húsa í götunni. Þá sé hæð og hæsta þekja þeirra húsa sem byggt hafi verið við í götunni í samræmi við götumynd.

Skipulagsgögn þau sem umhverfis- og skipulagsráð byggi niðurstöðu sína á uppfylli ekki skilyrði skipulagslaga nr. 123/2010 og skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Ekki liggi fyrir afstöðumynd eða þrívíddarmynd af byggingunni sem stjórnvaldið geti byggt ákvörðun sína á m.t.t. útlits, forms og áhrifa byggingarinnar á hagsmuni kæranda. Því hafi rannsóknarskyldu skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ekki verið fullnægt. Vísi kærandi einnig til gr. 2.4. í skipulagsreglugerð hvað varði hlutverk skipulagsfulltrúa.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 12. júní 2018 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Áshamri 32 í Vestmannaeyjabæ, en slík samþykkt er skilyrði útgáfu byggingarleyfis, skv. 2. gr. samþykktar nr. 991/2012 um afgreiðslur byggingarnefndar Vestmannaeyjabæjar, sbr. og 7. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði. Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Undanþágu frá þeirri skyldu er að finna í ákvæði 1. mgr. 44. gr. laganna. Þar segir að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir þá geti skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar, enda fari áður fram grenndarkynning. Upphaflega láðist að grenndarkynna fyrir kæranda en úr því var bætt og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum sem hann skilaði þann 6. júní 2018. Var hið kærða byggingarleyfi því veitt að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt greindri 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Vestmannaeyja 2002-2014, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 7. mars 2005, er lóðin nr. 32 við Áshamar á svæði merktu ÍB-4. Um svæðið segir m.a. að fullbyggt sé það 60.200 m2, að nýtingarhlutfall sé 0,15, að um blandaða byggð sé að ræða og að einbýlishús skuli vera á einni hæð. Hefur úrskurðarnefndin kynnt sér gögn varðandi svæðið, m.a. úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands, og hefur staðreynt að það er langt frá því að vera fullbyggt miðað við aðalskipulag.

Húsin á lóðunum við Áshamar 2-60, slétt númer, eru við þrjár botngötur. Við Áshamar 22-40, sem er ein botngatnanna, standa hús sem öll voru byggð samkvæmt sömu grunnteikningum í kjölfar gosloka. Slíkt hús var einnig að Áshamri 32, en það mun hafa brunnið árið 1999. Byggt hefur verið við tvö hús í götunni, nr. 34 og 36. Lóðir við nefnda botngötu eru 750 m² að stærð, nema lóðirnar í botni götunnar, þ.e. nr. 30 og 32, sem voru 767 m². Lóðin Áshamar 32 hefur verið stækkuð úr 767 m2 í 923 m2, sbr. lóðarleigusamning, dags. 28. maí 2018, og meðfylgjandi samþykkt lóðarblað, dags. 5. október 2016. Skráning stærðar lóðarinnar er nú hin sama í fasteignaskrá. Húsið að Áshamri 32 mun verða einlyft einbýlishús, auk bílskúrs, og að lögum verður það svipað þeim húsum, breyttum sem óbreyttum, sem fyrir eru í botngötunni. Birt flatarmál hússins verður 185,5 m² og nýtingarhlutfall verður 0,20, en hefði að óbreyttri lóðarstærð verið 0,24. Nýtingarhlutfall lóða við nefnda botngötu er 0,13 nema á lóðunum nr. 34 og 36, þar sem byggt hefur verið við húsin. Er nýtingarhlutfall þar nú annars vegar 0,13 og hins vegar 0,21. Meðalnýtingarhlutfall í botngötu Áshamars nr. 2-20 er 0,23 og í botngötu kæranda, Áshamri nr. 42-60, er hlutfallið 0,26. Meðalstærð húsa í þeim botngötum er á bilinu 180 m2 til 190 m2. Götumynd í botngötu Áshamars nr. 22-40 er nokkuð heildstæð, þrátt fyrir að byggt hafi verið við tvö hús þar, en botngöturnar sín hvoru megin eru frábrugðnar hvað varðar stærð og lögun húsanna. Við mat á því hvort framkvæmd falli að byggðamynstri ber einkum að líta til hverfis í heild sinni, fremur en á einstakar götur innan þess, enda er m.a. tekið fram um 44. gr. í frumvarpi því sem varð að skipulagslögum að grenndarkynna skuli umsóknir um byggingar- og framkvæmdaleyfi í þegar byggðum hverfum þegar deiliskipulag liggi ekki fyrir. Þykir hin leyfða byggingarframkvæmd hvorki víkja frá götumynd botngötunnar þar sem húsið mun standa né frá byggðamynstri hverfisins.

Verður samkvæmt framangreindu talið að hin leyfða byggingarframkvæmd hafi verið í samræmi við aðalskipulag hvað varðar landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Voru því skilyrði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga uppfyllt og heimilt að grenndarkynna hina umþrættu umsókn.

Hið umdeilda hús verður staðsett á sama stað á lóðinni og húsið sem þar áður stóð. Hæð þess verður 4,92 m, en hæð annarra húsa við Áshamar nr. 22-40 er 4,35 m. Mismunurinn nemur því 0,57 m. Af hálfu leyfishafa og Vestmannaeyjabæjar hefur verið bent á að þennan mismun megi m.a. rekja til þess að núgildandi lög og byggingarreglugerð geri ríkari kröfur sem lúta að lofthæð og einangrun þaks. Verður ekki talið að fyrirhuguð mænishæð teljist óhófleg samkvæmt framangreindu, þrátt fyrir grenndaráhrif gagnvart kæranda. Þá verður einnig að líta til þess að umrædd botngata liggur í nokkrum halla og er lóð leyfishafa neðst í götunni. Miðast hæð húsanna við gólfkóta, en líkt og áður greinir er kótinn 26,20 á lóð leyfishafa en 29,00 á lóð kæranda. Verða áhrif hæðarmismunarins því minni en ella. Þá voru á lóð nr. 32 skýr ummerki um hið fyrra hús þegar kærandi keypti eign sína árið 2006. Lóðin er á skilgreindu íbúðasvæði í gildandi aðalskipulagi, sem tekið hafði gildi við kaup kæranda á sinni eign, og var lóðin enn fremur sýnd sem laus íbúðarhúsalóð í skipulaginu. Mátti kæranda því hafa verið ljóst að á lóðinni nr. 32 við Áshamar yrði eftir atvikum byggt aftur.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið er hinni kærðu ákvörðun hvorki áfátt að formi né efni og verður því hafnað kröfu kæranda um ógildingu hennar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 12. júní 2018 um að veita byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóð nr. 32 við Áshamar, Vestmannaeyjabæ.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                  ________________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                             Þorsteinn Þorsteinsson

44/2017 Langholtsvegur

Með

Árið 2018, föstudaginn 27. júlí kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 44/2017, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 16. mars 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Langholtsvegar/Drekavogs vegna Langholtsvegar 113.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. apríl 2017, er barst nefndinni 20. s.m., kærir eigandi, Langholtsvegi 110a, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 16. mars 2017 að staðfesta samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 8. s.m. um breytingu á deiliskipulagi Langholtsvegar/Drekavogs vegna Langholtsvegar 113. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 5. maí 2017.

Málavextir: Húsið að Langholtsvegi 113 er tvær hæðir séð frá Langholtsvegi en þrjár hæðir séð frá Drekavogi. Skráð notkun hússins var verslun og þjónusta fyrir jarðhæð og íbúðir á annarri hæð. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi frá árinu 2008 var heimilt að byggja eina hæð ofan á húsið, inndregna á allar hliðar. Var það sett sem skilyrði að viðbyggingin myndi tengjast núverandi íbúðum á annarri hæð en ekki leiða til fjölgunar íbúðanna.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 7. desember 2016 var samþykkt að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi Langholtsvegar/Drekavogs vegna Langholtsvegar 113. Tillagan fól m.a. í sér að heimilt væri að stækka húsið að Langholtsvegi 113 og breyta notkun þess. Leyfð bygging á annarri hæð yrði stækkuð til norðausturs og á efstu hæð yrði leyfð bygging einungis inndregin frá Langholtsvegi. Nýtingarhlutfall lóðarinnar myndi aukast við breytingarnar úr 1,11 í 1,35 miðað við A-rými en yrði 1,46 miðað við A-og B- rými samanlagt. Þá yrði heimilt að reka í húsinu gistiheimili í flokki II með kaffihúsi/veitingaaðstöðu á jarðhæð sem vísaði að Langholtsvegi. Athugasemdir bárust á auglýsingartíma tillögunnar, m.a. frá kæranda.

Deiliskipulagstillagan var lögð fyrir umhverfis- og skipulagsráð að nýju á fundi ráðsins 8. mars 2017. Bókað var að athugasemdir hefðu borist, lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 1. mars s.á., sem og greinargerð um skuggavarp, dags. 6. s.m. Í umsögn skipulagsfulltrúa var framkomnum athugasemdum svarað og lagt til að deiliskipulagstillagan yrði samþykkt með nánar tilgreindum breytingum. Samþykkti umhverfis- og skipulagsráð deiliskipulagsbreytinguna með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa og var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði 16. mars 2017. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 4. maí s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir á því að húsið að Langholtsvegi 113 byrgi útsýni og auki skuggavarp og rýri þar af leiðandi verðmæti húsa í nágrenninu. Ekki sé þörf á fleiri veitinga- og/eða gististöðum í hverfinu. Búast megi við aukinni umferð stórra bíla sem komi til með að taka upp farþega og skila þeim af sér. Þá valdi það meira ónæði að reka bæði veitingastað og gististað í sama húsi þar sem slíkir staðir kalli á umferð fólks og bíla frá því snemma á morgnanna og langt fram á kvöld með tilheyrandi ónæði fyrir nágranna. Langsótt sé að kalla Langholtsveg 113 nærþjónustukjarna þar sem þar sé einungis starfrækt fatahreinsun. Með breytingunni verði hverfið ekki jafn fjölskyldu- og íbúavænt auk þess sem ásýnd og anda götunnar sé breytt. Þá vísi kærandi til þeirra athugasemda sem sendar hafi verið Reykjavíkurborg við meðferð málsins.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgarinnar er bent á að hækkun á fasteigninni sé þegar heimil samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Eina breytingin sé sú að efsta hæðin verði einungis inndregin frá Langholtsvegi en ekki á allar hliðar, auk þess sem heimilt verði að byggja hæð ofan á viðbyggingu austan við fasteignina. Sú breyting sem deiliskipulagsbreytingin heimili muni ekki hafa mikil áhrif á skuggavarp og engin á fasteign kæranda. Þá verði kærandi ekki fyrir útsýnisskerðingu. Langholtsvegur sé skilgreindur sem aðalgata í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og því heimilt að reka þar gististað. Ekki sé gert ráð fyrir því að umferð muni aukast við breytinguna miðað við hámarksfjölda gesta, en almennt fylgi minni umferð gististöðum en íbúðarbyggð. Miðað við breidd götunnar og legu bílastæða ættu rútur ekki að trufla umferð í götunni. Gististarfsemi og ferðaþjónusta hafi einnig jákvæð áhrif eins og með því að ýta undir og styrkja verslun og þjónustu og auka mannlíf í borginni. Ekki sé um að ræða umfangsmikinn veitingastað og einungis verði mögulegt að fá rekstrarleyfi fyrir veitingastað í flokki II í húsinu með opnunartíma til kl. 23:00 á kvöldin. Tæpir 40 m séu á milli húshliðar Langholtsvegar 113 og að húsi kæranda hinu megin götunnar. Fjarlægð sé því töluverð milli húsa og ætti ekki að verða mikil truflun af gestum úti á svölum á Langholtsvegi 113. Öllum vangaveltum kæranda varðandi ónæði af mögulegum veitingastað sé vísað á bug sem órökstuddum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Langholtsvegar/Drekavogs vegna Langholtsvegar 113, en breytingin gerir ráð fyrir stækkun hússins og breyttri notkun þess, svo sem nánar er lýst í málavöxtum. Kærandi er búsettur handan Langholtsvegar og ber því við að útsýni hans verði skert og að búast megi við meira ónæði og umferð.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð aðalskipulags og deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna, en þess ber að gæta að breytingin rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. sömu laga. Hin kærða deiliskipulagsbreyting var kynnt með almennri auglýsingu í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga, afgreidd í umhverfis- og skipulagsráði að kynningu lokinni og staðfest í borgarráði lögum samkvæmt. Framkomnum athugasemdum var svarað og deiliskipulagstillagan samþykkt með breytingum sem komu til móts við hluta athugasemdanna. Þær breytingar voru þó ekki svo veigamiklar að auglýsa hefði þurft breytta tillögu að nýju, sbr. 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni lögboðinni yfirferð Skipulagsstofnunar.
Umrædd lóð er á skilgreindu íbúðarsvæði, ÍB25 Sund, samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og telst Langholtsvegur vera aðalgata. Um aðalgötur segir í aðalskipulaginu: „Meðfram aðalgötum er heimil fjölbreyttari landnotkun, þó grunn skilgreining lóða við götuna sé íbúðarsvæði. Hér er einkum um að ræða starfsemi sem fellur undir flokkana verslun og þjónusta (VÞ, að skemmtistöðum undanskyldum) og samfélagsþjónusta (S). Verslun og þjónusta á jarðhæðum getur verið heimil, svo og mögulega veitingastaðir í flokki I og II og gististaðir í flokki II-III. Opnunartími allra veitingastaða skal takmarkast við kl. 23. […] Rýmri heimildir um landnotkun gilda eingöngu um hús sem standa við viðkomandi aðalgötu og ná einkum til jarðhæða þegar um verslun, þjónustu og veitingastaði er að ræða. Ef þörf krefur eru sett nánari ákvæði um landnotkunarheimildir við aðalgötur í hverfis- og eða deiliskipulagi.“ Er því breytt notkun fasteignarinnar samkvæmt hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu í samræmi við aðalskipulag, svo sem áskilið er í fyrrnefndri 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Að mati úrskurðarnefndarinnar er það ónæði og umferðaraukning sem af breyttri notkun kann að hljótast ekki umfram það sem almennt má búast við í þéttbýli og að því virtu var athugasemdum kæranda þar um svarað með ásættanlegum hætti við meðferð málsins. Þá verður ekki séð að stækkun hússins frá gildandi deiliskipulagi hafi að marki aukin grenndaráhrif umfram það sem vænta mátti að óbreyttu skipulagi.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir ágallar á efni eða málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar sem raskað geta gildi hennar og verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 16. mars 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Langholtsvegar/Drekavogs vegna Langholtsvegar 113.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                        Þorsteinn Þorsteinsson

 

171/2016 Þeistareykjavirkjun

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 1. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 171/2016, kæra á álagningu skipulagsgjalds vegna starfsmannabúða við Þeistareykjavirkjun að fjárhæð kr. 1.693.311.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. desember 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Landsvirkjun, Háaleitisbraut 48, Reykjavík, álagningu skipulagsgjalds vegna starfsmannabúða kæranda við Þeistareykjavirkjun að fjárhæð kr. 1.693.311 samkvæmt álagningarseðli með gjalddaga 1. desember 2016. Gerir kærandi þá kröfu að álagningin verði felld úr gildi.

Málavextir: Með bréfi til sveitarstjórnar Þingeyjasveitar, dags. 28. febrúar 2012, óskaði kærandi eftir stöðuleyfi fyrir vinnubúðir verkeftirlits Þeistareykja ehf. vegna virkjunarframkvæmda að Þeistareykjum á vinnubúðareit L-07 og L-08, sem ráðagerð var um í deiliskipulagi svæðisins er þá var í vinnslu. Sveitarfélagið gerði hins vegar kröfu um að sótt yrði um byggingarleyfi fyrir vinnubúðunum. Var það gert með bréfi, dags. 12. apríl 2012. Í erindinu kom fram að gert væri ráð fyrir svefnaðstöðu fyrir 39 starfsmenn í 28 herbergjum og 11 íbúðum auk skrifstofuaðstöðu. Þar kom og fram að vinnubúðirnar hefðu áður verið notaðar á framkvæmdasvæði Kárahnjúkavirkjunar og að einingar þær sem fyrirhugað væri að nota í þessu skyni hefðu verið byggðar árið 2004. Sótt var um tímabundið starfsleyfi fyrir vinnubúðunum til Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra með bréfi, dags. 28. mars s.á., og var það samþykkt 13. apríl 2012. Kærandi hefur umrætt landsvæði til afnota samkvæmt lóðarleigusamningi, dags. 27. desember 2011.

Með beiðni til Þjóðskrár Íslands, dags. 14. nóvember 2014, óskaði kærandi eftir fyrsta brunabótamati vegna starfsmannahúsa við Þeistareykjavirkjun og var kæranda tilkynnt um fasteignamat og brunabótamat matshlutanna með bréfi, dags. 14. desember 2014. Barst kæranda síðan reikningur vegna álagðs skipulagsgjalds vegna vinnubúða III, IV og V með gjalddaga 1. desember 2016 að fjárhæð kr. 1.693.311.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er á því byggt að umræddar vinnubúðir séu ekki nýbyggingar eða nýreist hús í skilningi 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 1. gr. reglugerðar nr. 737/1997 um skipulagsgjald. Umræddar vinnubúðir að Þeistareykjum hafi verið fluttar þangað annars vegar frá fyrrum framkvæmdasvæði kæranda við Kárahnjúka og hins vegar frá framkvæmdasvæði við Búðarhálsvirkjun. Hluti vinnubúðanna hafi verið keyptur á árunum 2003-2004 en aðrir hlutar þeirra séu mun eldri, eða allt að 30 ára. Geti vinnubúðirnar því ekki talist nýbyggingar eða nýreistar og megi í því sambandi vísa til niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar þar sem reynt hafi á túlkun 17. gr. skipulagslaga, áður 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Auk þess geti vinnubúðirnar ekki talist fasteign í skilningi laga heldur sé um að ræða lausafé. Í gr. 1.2.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé hugtakið starfsmannabúðir skilgreint með svofelldum hætti í 78 lið nefnds reglugerðarákvæðis: „Starfsmannabúðir. Færanlegt húsnæði sem ætlað er til svefns, matar, daglegrar dvalar, vinnu eða samkomuhalds starfsfólks til skamms tíma í senn vegna atvinnustarfsemi.“ Búðirnar séu því fluttar á framkvæmdasvæði en brott að framkvæmdum loknum vegna annarra verkefna eða á geymslusvæði. Því sé ekki um að ræða fasteign eða byggingar sem séu varanlega skeyttar við jörðu, heldur lausafé. Starfsmannabúðir og húsvagnar, sem ætlaðir séu til dvalar lengur en fjóra mánuði á sama stað, teljist mannvirki skv. 51. tl. gr. 1.2.1. byggingareglugerðar en samkvæmt lögum um mannvirki nr. 160/2010 séu mannvirki byggingarleyfisskyld. Þar af leiði að starfsmannabúðir og húsvagnar séu ekki háð byggingarleyfi ef notkun þeirra sé til skemmri tíma en fjóra mánuði. Sú staðreynd að starfsmannabúðir geti verið háðar byggingarleyfi, leiði ekki sjálfkrafa til þess að um sé að ræða nýbyggingu eða fasteign samkvæmt 17. gr. skipulagslaga. Áskilnaður um byggingarleyfi fyrir vinnubúðum snúi eingöngu að afnotum á slíku lausafé til lengri tíma til að tryggja að skilyrði laga um aðbúnað, hollustuhætti, brunaöryggismál og fleira sé fyrir hendi.

Veiting byggingarleyfis leiði ekki til þess að vinnubúðir falli undir lög um skráningu og mat fasteigna. Væri svo yrði að skrá og meta vinnubúðir við hvern flutning og jafnvel á fjögurra mánaða fresti og greiða skipulagsgjald í hvert sinn sem þær væru fluttar á nýjan stað. Slík framkvæmd væri hvorki í anda þeirra laga né í samræmi við lögskýringargögn. Á því sé byggt að ekki sé fyrir hendi lagaheimild til þess að meta vinnubúðir til brunabóta, sem sé forsenda fyrir álagningu skipulagsgjalds skv. 2. mgr. 17. gr. skipulagslaga, og álitamál hvort heimilt sé að skrá og meta vinnubúðir til fasteignamats í fasteignaskrá Þjóðskrár. Með setningu laga um mannvirki hafi fyrst verið innleidd regla um byggingarleyfisskyldu vinnubúða og húsvagna vegna notkunar um lengri tíma en fjóra mánuði. Áður hafi slík mannvirki verið háð stöðuleyfi. Ekki sé fordæmi fyrir því að skipulagsgjald hafi verið lagt á vinnubúðir eða þær metnar fasteignamati. Samhliða gildistöku laga um mannvirki hafi hvorki verið gerðar breytingar á lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001, lögum um brunatryggingu nr. 48/1994 né reglugerð um lögboðna brunatryggingu húseigna nr. 809/2000 í þá veru að lausafé, svo sem byggingarleyfisskyldar vinnubúðir eða húsvagnar, skyldu skráð eða metin fasteigna- og brunabótamati. Vísað sé til þess að í 1. gr. nefndrar reglugerðar sé skýrt tekið fram að skylda til brunatryggingar nái einungis til húseigna sem séu varanlega skeyttar við land og í 4.-6. gr. reglugerðarinnar komi fram að einungis húseignir skuli metnar brunabótamati. Vinnubúðir geti ekki fallið undir hugtakið húseign í nefndum ákvæðum enda séu þær ekki varanlega skeyttar við land og geti eftir atvikum verið á hjólum.

Málsrök Þjóðskrár Íslands:
Stofnunin vísar til þess að kærandi hafi með bréfi, dags. 14. nóvember 2014, sett fram beiðni um fyrsta brunabótamat vegna brunatryggingar starfsmannahúsa, skrifstofa og geymslu við Þeistareykjavirkjun. Hafi kæranda verið tilkynnt um fasteignamat og brunabótamat nefndra eigna með tilkynningu Þjóðskrár, dags. 12. desember s.á. Í tilkynningunni hafi verið vakin athygli á að unnt væri að óska rökstuðnings fyrir ákvörðuninni, óska endurupptöku hennar og að unnt væri að kæra ákvörðunina til yfirfasteignamatsnefndar.

Samkvæmt 1. gr. laga um brunatryggingar nr. 48/1994 sé húseiganda skylt að brunatryggja allar húseignir. Skuli húseignin metin brunabótamati ekki síðar en fjórum vikum eftir byggingu hennar eða eftir að hún sé tekin í notkun og beri eigandi ábyrgð á að óska eftir brunabótamati.

Þjóðskrá Íslands annist virðingu húseignar til brunabóta og sé markmið brunabótamats að finna vátryggingarverðmæti húseignar þegar virðing fari fram, að teknu tilliti til aldurs, slits, viðhalds og ástands eignar að öðru leyti. Álagning skipulagsgjalds fari fram á grundvelli brunabótamats samkvæmt 2. mgr. 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem kveðið sé á um að greiða skuli skipulagsgjald af nýbyggingum í eitt skipti sem nemi 0,3% af brunabótamati húseignar. Nýbygging teljist hvert nýreist hús sem virt sé til brunabóta svo og viðbyggingar við eldri hús ef virðingarverð hennar nemi a.m.k. 1/5 verðs eldra hússins. Ekki verði séð af gögnum málsins að umræddar vinnubúðir hafi áður verið skráðar og virtar til brunabóta. Í beiðni kæranda um brunabótamat frá 14. nóvember 2014 komi fram að um sé að ræða fyrsta mat á starfsmannahúsum, skrifstofum og geymslu. Hafi því borið að virða vinnubúðirnar til brunabóta og leggja á þær skipulagsgjald sem nýbyggingar án tillits til þess tíma sem liðinn hafi verið frá byggingu húsanna. Skipulagsgjald verði fyrst lagt á og innheimt þegar brunabótamat liggi fyrir.

Samkvæmt 6. gr. reglugerðar um skipulagsgjald nr. 737/1997 skuli Fasteignamat ríkisins (Þjóðskrá Íslands) tilkynna innheimtumanni fjárhæð brunabótavirðingar húseignar eða stofnverð þegar virðing hafi farið fram eða tilkynnt hafi verið um stofnverð og veita nauðsynlegar upplýsingar til innheimtu gjaldsins, þ. á m. um skráða eigendur húseigna samkvæmt fasteignaskrá. Í kjölfar þess falli skipulagsgjaldið í gjalddaga skv. 4. gr. reglugerðarinnar.

Hugtakið fasteign sé almennt í lögum skilgreint sem afmarkaður hluti lands ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgja og mannvirkjum sem varanlega séu við landið skeytt. Ekki sé hægt að fallast á að umrædd mannvirki séu ekki varanlega skeytt við land. Tengsl húsanna við land séu ekki svo losaraleg að um sé að ræða lausafé. Ekki hafi þýðingu í þessu sambandi þótt húsunum hafi aðeins verið ætlað að standa á meðan framkvæmdir stæðu yfir á svæðinu. Hvort fasteign sé ætlað að standa til lengri eða skemmri tíma hafi ekki áhrif á það hvort greiða skuli af henni tilskilin gjöld eða ekki. Húsin séu allt að einu varanlega skeytt við land þótt þau hafi verið reist í afmörkuðum tilgangi og teljist því fasteignir í skilningi laga. Slík túlkun hafi t.a.m. verið staðfest af Hæstarétti og yfirfasteignamatsnefnd. Þjóðskrá hafi metið fasteignirnar að Þeistareykjum brunabótamati í samræmi við lög um brunatryggingar og reglugerð um lögboðna brunatryggingu húseigna nr. 809/2000.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti álagningar skipulagsgjalds vegna starfsmannabúða sem fluttar voru á vinnusvæði við Þeistareykjavirkjun vegna yfirstandandi framkvæmda.

Skipulagsgjald var fyrst lögfest með lögum nr. 64/1938, sem fólu m.a. í sér breytingu á 14. gr. laga nr. 55/1921 um skipulag kauptúna og sjávarþorpa. Þar var kveðið á um að greiða skyldi allt að 0,3‰ gjald í ríkissjóð af hverri nýbyggingu sem reist væri eftir gildistöku laganna í þeim bæjum þar sem skipulagsuppdráttur hefði verið staðfestur eða vinna að skipulagi væri hafin. Í 35. gr. skipulagslaga nr. 19/1964 var kveðið á um innheimtu skipulagsgjalds sem nema mætti allt að 0,3% af brunabótaverði hverrar nýbyggingar sem reist yrði á skipulagsskyldum stað. Þá var gert ráð fyrir því í 2. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að af nýbyggingum sem virtar væru til brunabóta skyldi greiða skipulagsgjald í eitt skipti sem næmi 0,3% af brunabótamati húseignar. Nýbygging teldist hvert nýreist hús sem virt væri til brunabóta en mannvirki sem ekki væru háð byggingarleyfi samkvæmt 43. gr. laganna væru undanþegin gjaldinu nema stofnkerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta utan þéttbýlis. Hefur gjaldstofn skipulagsgjalds vegna húsbygginga því frá upphafi miðast við nýbyggingar og allt frá gildistöku skipulagslaga nr. 19/1964 hefur gjaldstofninn miðast við brunabótamat þeirra.

Núgildandi heimild fyrir álagningu skipulagsgjalds er í 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skal greiða skipulagsgjald af nýbyggingum sem virtar eru til brunabóta í eitt skipti sem nemur 0,3% af brunabótamati hverrar húseignar. Þar er og tekið fram að nýbygging teljist hvert nýreist hús sem virt er til brunabóta svo og viðbyggingar við eldra hús ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 verðs eldra hússins. Í athugasemdum með 2. mgr. 17. gr. frumvarps til nefndra skipulagslaga kemur eftirfarandi fram: „Lagt er til í 2. mgr. að greitt skuli skipulagsgjald af nýbyggingum eins og verið hefur, sbr. 2. mgr. 35. gr. laganna. Sú breyting er hins vegar lögð til að fallið verði frá skyldu til greiðslu skipulagsgjalds af þeim mannvirkjum sem ekki eru virt til brunabóta og er það í samræmi við þá framkvæmd sem verið hefur af greiðslu skipulagsgjalda. Mun því þessi breyting ekki leiða til lækkunar á innheimtu skipulagsgjalda miðað við það sem verið hefur. Ástæðan er sú að ekki hefur reynst framkvæmanlegt að greiða skipulagsgjald af öðrum mannvirkjum en nýbyggingum sem metnar eru til brunabóta þar sem önnur mannvirki hafa ekki verið metin til brunabóta og stofnverð þeirra hefur ekki verið skilgreint sem gjaldstofn hjá Fasteignamati ríkisins.“ Samkvæmt þessu er gjaldstofn skipulagsgjalds í núgildandi lögum í samræmi við þá lagaframkvæmd sem verið hafði í tíð eldri laga. Í 3. mgr. 17. gr. skipulagslaga er svo kveðið á um að skipulagsgjald falli í gjalddaga þegar virðingargjörð hefur farið fram og Fasteignamat ríkisins, nú Þjóðskrá Íslands, tilkynnt hana til innheimtumanns ríkisins. Tilgangur gjaldtökunnar er að standa straum af kostnaði við gerð tillögu að landsskipulagsstefnu, gerð svæðis- og aðalskipulagsáætlana, þróunarverkefna og rannsókna á sviði skipulagsmála.

Fyrir liggur að starfsmannabúðir kæranda voru fluttar og þeim komið fyrir á vinnusvæði við Þeistareykjavirkjun til tímabundinna nota vegna framkvæmda þar. Hafði húseiningunum áður verið komið fyrir og þær notaðar á framkvæmdasvæðum við Kárahnjúkavirkjun og Búðarhálsvirkjun vegna framkvæmda á vegum kæranda. Hluti húseininganna mun hafa verið keyptur á árunum 2003-2004 og að sögn kæranda eru aðrir hlutar búðanna mun eldri, eða allt að 30 ára. Gátu húseiningarnar því ekki talist nýbyggingar eða nýreist hús þegar hin kærða álagning fór fram, en ekki liggur fyrir að þær starfsmannabúðir sem hér um ræðir hafi á liðnum áratugum taldar mynda gjaldstofn skipulagsgjalds. Hafa slíkar lausar byggingar ekki talist til mannvirkja fyrr en við gildistöku byggingarreglugerðar nr. 112/2012, en skv. 51. tl. gr. 1.2.1. teljast starfsmannabúðir til mannvirkja, séu þær notaðar til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað. Af þeim sökum var sótt um byggingarleyfi fyrir notkun umræddra starfsmannabúða kæranda við Þeistareykjavirkjun. Eðli máls samkvæmt verða færanlegar starfsmannabúðir, sem ætlaðar eru til nota í takmarkaðan tíma á hverjum stað á meðan framkvæmdir standa yfir, ekki hluti af skipulagðri byggð.

Samkvæmt 1. gr. laga um brunatryggingar nr. 48/1994 er húseigendum skylt að brunatryggja allar húseignir og er þar átt við hvers konar byggingar sem ætlaðar eru til íbúðar, atvinnustarfsemi, geymslu eða annarra afnota. Í 1. gr. reglugerðar um lögboðna brunatryggingu húseigna nr. 809/2000, sem sett er með stoð í nefndum lögum, er húseigendum skylt að brunatryggja allar húseignir sem eru varanlega skeyttar við land og til sömu afnota og greinir í 1. gr. laganna. Hugtakið „starfsmannabúðir“ er skilgreint í 78. tl. gr. 1.2.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 á þá leið að um sé að ræða færanlegt húsnæði sem ætlað sé til svefns, matar, daglegrar dvalar, vinnu eða samkomuhalds starfsfólks til skamms tíma í senn vegna atvinnustarfsemi. Eðli máls samkvæmt eru slíkar húseiningar ekki jarðfastar eða varanlega skeyttar við jörð og geta ekki fallið undir fyrrgreind ákvæði laga um brunatryggingar og reglugerðar um lögboðna brunatryggingu húseigna. Var af þeim sökum ekki skylt að meta umræddar starfsmannabúðir til brunabóta skv. 2. gr. laga um brunatryggingar.

Samkvæmt framangreindu verða fyrrgreindar starfsmannabúðir kæranda ekki taldar nýbyggingar eða nýreist hús, sem virða skal til brunabóta í skilningi 17. gr. skipulagslaga. Skortir hina kærðu álagningu skipulagsgjalds því lagastoð, en slík álagning gjalda og skatta þarf að styðjast við ótvíræða lagaheimild, sbr. 40. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Verður álagningin því felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi álagning skipulagsgjalds vegna starfsmannabúða kæranda við Þeistareykjavirkjun að fjárhæð kr. 1.693.311 samkvæmt álagningarseðli með gjalddaga 1. desember 2016.

___________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                              Þorsteinn Þorsteinsson

 
 

110/2016 Laugavegur

Með

Árið 2018, föstudaginn 27. júlí kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 110/2016, kæra á synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. júlí 2016 á umsókn um byggingarleyfi fyrir inndreginni 5. hæð, innréttingu ellefu íbúða á 3., 4. og 5. hæð, stækkun glerskála á 2. hæð og breytingu á innra skipulagi þar, gera nýjan flóttastiga innanhúss og færa til upprunalegs útlits glugga 1. hæðar hússins á lóðinni nr. 59 við Laugaveg.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. ágúst 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Vesturgarður ehf., Laugavegi 59, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. júlí 2016 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir inndreginni 5. hæð, innréttingu ellefu íbúða á 3., 4. og 5. hæð, stækkun glerskála á 2. hæð og breytingu á innra skipulagi þar, gera nýjan flóttastiga innanhúss og færa til upprunalegs útlits glugga 1. hæðar hússins á lóðinni nr. 59 við Laugaveg. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 12. október 2016.

Málavextir: Á svæði því sem um ræðir er í gildi deiliskipulag sem samþykkt var í borgarráði 26. október 1999. Á árinu 2015 sótti kærandi um breytingu á deiliskipulagi reitsins vegna lóðar nr. 59 við Laugaveg. Var hún samþykkt og birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 3. febrúar 2016. Í breytingunni fólst að heimilt yrði að reisa inndregna þakhæð ofan á núverandi hús og breyta 3. og 4. hæð í íbúðir.

Hinn 12. apríl 2016 sótti kærandi um byggingarleyfi fyrir inndreginni 5. hæð, innréttingu ellefu íbúða á 3., 4. og 5. hæð, stækkun glerskála veitingahúss í flokki II á 2. hæð og breyta innra skipulagi þar, gerð nýs flóttastiga innanhúss og til að færa til upprunalegs útlits glugga 1. hæðar hússins á lóðinni nr. 59 við Laugaveg. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. apríl 2016 var málinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. maí s.á. var málinu frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði og umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 29. apríl 2016. Kom þar fram að athugasemdir væru gerðar við hringstiga og aðgengi að honum á jarðhæð, við stækkun glerskála á 2. hæð samræmdist ekki deiliskipulagi, að ekki væri tekið jákvætt í að fella niður verslunarrými á 2. hæð og að svalir á bakhlið 2. hæðar samræmdust ekki deiliskipulagi.

Kærandi gerði athugasemdir við umsögn skipulagsfulltrúa á fundi með verkefnisstjóra 10. maí 2016 og í kjölfarið voru gerðar breytingar á teikningum. Var umsóknin, svo sem henni hafði verið breytt, þá tekin fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. s.m. Var málinu frestað og vísað á ný til umsagnar skipulagsfulltrúa. Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 27. maí 2016 var málinu vísað til verkefnisstjóra. Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 24. júní s.á. var málinu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs, sem á fundi sínum 6. júlí s.á. samþykkti umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 27. júní 2016. Í þeirri umsögn var því hafnað að fyrri umsögn skipulagsfulltrúa yrði endurskoðuð.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 12. júlí 2016 var, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 27. júní s.á., synjað umsókn kæranda um leyfi fyrir inndreginni 5. hæð, innréttingu ellefu íbúða á 3., 4. og 5. hæð, stækkun glerskála veitingahúss í flokki II á 2. hæð og breyttu innra skipulagi þar, gerð nýs flóttastiga innanhúss og fyrir því að færa til upprunalegs útlits glugga 1. hæðar hússins á lóðinni nr. 59 við Laugaveg. Með bréfi, dags. 15. ágúst s.á., var synjunin kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og er hún til úrlausnar í þessu máli.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. ágúst 2016 var samþykkt ný umsókn kæranda um leyfi til að byggja inndregna 5. hæð, breyta inn- og útgöngum, koma fyrir hringstiga að veitingastað á 2. hæð og innrétta ellefu íbúðir á 3., 4. og 5. hæð hússins á lóðinni nr. 59 við Laugaveg. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. mars 2017 var enn fremur samþykkt umsókn kæranda um leyfi til að breyta veitingastað úr flokki II í flokk III fyrir 105 gesti í íbúðar- og atvinnuhúsnæði á lóðinni nr. 59 við Laugaveg.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda kemur fram að málsmeðferð borgaryfirvalda við meðferð málsins hafi ekki verið að öllu leyti í samræmi við lög. Með hinni kærðu ákvörðun hafi umsókn kæranda um byggingarleyfi verið synjað. Meðferð umsókna um byggingarleyfi fari að lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Segi þar í 1. mgr. 10. gr. að umsókn um byggingarleyfi skuli send hlutaðeigandi byggingarfulltrúa eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun ásamt áskildum gögnum og í 2. mgr. 10. gr. segi að sé mannvirki háð byggingarleyfi byggingarfulltrúa skuli hann leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins. Ráðist það af mati byggingarfulltrúa hvort þörf sé á slíkri aðkomu.

Af áritun starfsmanns byggingarfulltrúa á gátlista vegna aðaluppdrátta sem gerð hafi verið 18. apríl 2016 verði rakið að umsókn kæranda hafi aðeins verið vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa vegna stækkunar 2. hæðar, sem starfsmaðurinn hafi talið að vafi léki á að samræmdist deiliskipulagi. Erindi þetta hafi skipulagsfulltrúi afgreitt með umsögn, dags. 29. apríl 2016, þar sem því hafi verið slegið föstu að stækkun glerskála á 2. hæð samræmdist ekki deiliskipulagi en jafnframt hafi verið gerðar athugasemdir við önnur tilgreind atriði. Telji kærandi að skipulagsfulltrúi hafi bæði rangtúlkað heimildir gildandi skipulags og farið út fyrir verksvið sitt, en hlutverk skipulagsfulltrúa hafi verið að láta byggingarfulltrúa í té umsögn um það álitaefni sem óskað hafi verið eftir og þá aðeins um það hvort fyrirhuguð framkvæmd samræmdist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins. Hafi ólögmætar athugasemdir skipulagsfulltrúa leitt til þess að umsókninni hafi verið hafnað. Þessar athugasemdir komi fram í umsögn skipulagsfulltrúa frá 29. apríl 2016.

Í umsögninni hafi verið gerð sú athugasemd að stækkun glerskála samræmdist ekki deiliskipulagi. Kærandi telji það ekki hafið yfir vafa. Fyrir séu svalir við báða enda glerskálans sem kærandi hugðist loka. Komið yrði fyrir léttri lokun þannig að rými innan hennar myndi ekki falla í lokunarflokk A og þyrfti því ekki að vera heimild fyrir henni í skipulagi og hefði hún ekki heldur þurft að koma til umsagnar skipulagsfulltrúa, enda um óverulega breytingu að ræða, sbr. 5. mgr. 9. gr. laga um mannvirki. Séu þess fjölmörg dæmi að byggingarfulltrúi hafi samþykkt léttar svalalokanir á húsum án þess að fyrir því hafi verið sérstök heimild í deiliskipulagi og án þess að leitað hafi verið umsagnar skipulagsfulltrúa. Hafi byggingarfulltrúa borið að gæta meðalhófs og leiðbeiningarskyldu sinnar auk þess að gæta að rannsóknarreglu með því að kanna til hlítar um hvers konar lokun væri að ræða í stað þess að vísa erindi kæranda til umsagnar skipulagsfulltrúa vegna þeirrar stækkunar á 2. hæð sem starfsmaður hans virðist hafa talið að leiddi af lokun umræddra svala.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að samkvæmt aðalskipulagi sé lóðin nr. 59 við Laugaveg á miðborgarsvæði M1a. Á svæðinu sé lögð áhersla á að styrkja íbúðarbyggð og hverfisanda, en um leið að efla verslunar-, atvinnu- og þjónustustarfsemi sem falli að íbúðarbyggð. Í gildi sé deiliskipulag reits 1.173.0, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 26. október 1999 með breytingum sem samþykktar hafi verið í borgarráði 10. desember 2015. Með þeirri breytingu hafi verið heimilað að byggja inndregna hæð ofan á fjórðu hæð hússins.

Hvað varði þá málsástæðu að umsókn um leyfi fyrir stækkun glerskála hafi verið í samræmi við deiliskipulag, þá skuli á það bent að óskað hafi verið eftir að breyta glerskálanum og stækka hann, en engar heimildir séu í deiliskipulagi fyrir slíkri breytingu. Glerskálinn hafi verið samþykktur árið 1996 og hafi þá verið gert ráð fyrir svölum sitt hvoru megin við hann. Hafi hann og verið byggður þannig. Samkvæmt umsókninni hefði glerskálinn orðið hærri næst Laugavegi og hefði breytingin breytt ásýnd hússins töluvert. Á grunnmynd 2. hæðar sjáist að glerskálinn sé orðinn hluti af heildarrými veitingastaðarins, þ.e. hann sé ekki sýndur sem glerskáli heldur sé veitingastaðurinn einfaldlega stækkaður sem glerskálanum nemi. Hafi skipulagsfulltrúi talið í umsögn sinni að betur færi á að vera með halla á þaki skálans eins og nú sé og gluggar hans þeim mun minni. Ljóst sé að ekki sé um hefðbundna svalalokun að ræða eins og haldið sé fram í kæru. Ásýnd framhliðar myndi breytast verulega auk þess sem af uppdráttum verði ekki annað ráðið en að innanrýmið sé nýtt undir veitingastað. Sé því hér um stækkun og lokun að ræða á rýminu sem myndi reiknast til nýtingarhlutfalls. Svalir sitt hvoru megin við glerskálann tengi 2. hæðina betur við göturými Laugavegar og gefi byggingunni léttara yfirbragð. Sé ekkert sem bendi til þess að þessi þáttur málsins hafi ekki verið ígrundaður með nægjanlegum hætti af hálfu Reykjavíkurborgar og athugasemdir skipulagsfulltrúa hvað þetta atriði varði séu byggðar á málefnalegum grunni.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind.

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu þá sótti kærandi um byggingarleyfi fyrir breytingum á húsnæði sínu á lóð nr. 59 við Laugaveg. Þeirri umsókn var hafnað af byggingarfulltrúa 12. júlí 2016 með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 29. apríl s.á. Í kjölfar þess sótti kærandi um byggingarleyfi að nýju með breytingum í samræmi við umsögn skipulagsfulltrúa. Var sú umsókn samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. ágúst s.á. Með bréfi, dags. 15. s.m., kærði kærandi fyrri ákvörðun byggingarfulltrúa.

Með bréfi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. júní 2018, var lögmanni kæranda gefinn kostur á því að koma að skýringum fyrir hönd umbjóðanda síns um það hvort og þá hvaða lögvörðu hagsmuni hann teldi sig enn hafa af úrlausn málsins. Einkum og sér í lagi hvaða réttarverkan það gæti haft að felld yrði úr gildi synjun fyrri leyfisumsóknarinnar, svo sem kröfugerð umbjóðanda hans lyti að, eftir samþykkt á síðari og efnislega áþekkri byggingarleyfisumsókn. Svar barst 20. s.m. þar sem fram kom að kærandi teldi verulegan mun á því leyfi sem synjað hefði verið og kært væri í málinu og því leyfi sem síðar hefði verið sótt um og samþykkt. Var ekki tilgreint nánar í hverju sá munur fælist en tekið fram að kærandi hefði ríka og lögvarða hagsmuni því tengda að fá efnisúrlausn í málinu, enda væri þá með úrskurði nefndarinnar skorið úr ágreiningi sem varðaði heimildir kæranda til notkunar og hagnýtingar eignar sinnar og til framkvæmda við hana.

Í máli þessu háttar svo til að ný umsókn kæranda hefur verið samþykkt af byggingarfulltrúa. Sú ákvörðun tók til alls hússins á lóðinni nr. 59 við Laugaveg, enda voru með henni samþykktir nýir aðaluppdrættir. Verður ekki séð að úrskurður um gildi hinnar kærðu ákvörðunar myndi hafa bein áhrif á einstaka lögvarða hagsmuni kæranda þar sem hin nýja ákvörðun myndi standa óbreytt í kjölfar þess úrskurðar, hver svo sem niðurstaða hans yrði. Þyrfti kærandi eftir sem áður að sækja um byggingarleyfi að nýju, fyrir þeim breytingum sem ekki fengust samþykktar með upphaflegri umsókn hans og vilji hans stendur enn til. Yrði ný ákvörðun byggingarfulltrúa um samþykkt eða synjun þeirrar umsóknar eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Réttaröryggi kæranda er því ekki fyrir borð borið.

Með vísan til alls framangreinds verður að telja, þrátt fyrir umbeðinn frekari rökstuðning frá lögmanni kæranda, að úrlausn kærumálsins hafi ekki þá þýðingu fyrir stöðu kæranda að lögum að hann teljist hafa lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi eldri ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 12. júlí 2016 um synjun leyfisumsóknar kæranda. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                         Þorsteinn Þorsteinsson

169/2016 Sólheimar

Með

Árið 2018, föstudaginn 27. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 169/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. ágúst 2016 um að veita samþykki fyrir áður gerðri íbúð þar sem áður var tannlæknastofa á jarðhæð fjöleignarhússins að Sólheimum 42.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 15. desember 2016, er barst nefndinni 16. s.m., kærir eigandi tveggja eignarhluta í fjöleignarhúsinu við Sólheima 42, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. ágúst 2016 að samþykkja breytta hagnýtingu á séreign á jarðhæð fjöleignarhússins að Sólheimum 42. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 16. janúar 2017.

Málavextir: Hinn 30. ágúst 2016 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík á afgreiðslufundi sínum umsókn um að breyta tannlæknastofu í íbúð í fjöleignarhúsi að Sólheimum 42. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 13. september s.á. var bókun erindisins leiðrétt á þann hátt að sótt væri um samþykki fyrir áður gerðri íbúð í nefndu húsi.

Málsrök kæranda:
Kærandi bendir á að fram til ársins 2010 hafi umrætt rými verið nýtt undir tannlæknastofu. Þegar byggingarfulltrúi hafi samþykkt breytingu á notkun rýmisins 30. ágúst 2016 hafi hvorki legið fyrir samþykki kæranda né annarra eigenda líkt og krafa sé gerð um í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Telji kærandi að hvort sem litið sé svo á að umrædd breyting sé veruleg eða ekki hefði þurft að afla samþykkis allra eða einfalds meirihluta samkvæmt 1. og 3. mgr. nefnds ákvæðis. Þá hefði alltaf þurft samþykki kæranda sem eiganda tveggja eignarhluta af fjórum í húsinu sem jafngildi 73% eignarhluta.

Umrædd breyting á nýtingu eignarhlutans hafi haft í för með sér óþægindi fyrir aðra íbúa hússins vegna aukins hávaða frá gleðskap, aukinnar umgengni um sameign, reykinga íbúa utan við húsið og reyks sem berist inn um glugga og vegna beiðna um að fá afnot af sameign hússins undir geymslusvæði.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Borgaryfirvöld benda á að umrædd breyting á eignarhlutanum sé í samræmi við skipulag svæðisins og þá hagnýtingu og notkun sem ríkjandi sé í fjölbýlinu. Samkvæmt 26. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 sé eiganda séreignar almennt heimilt að ráðstafa og hagnýta eign sína á hvern þann hátt sem hann kjósi innan þess ramma sem vísað sé til í ákvæðinu. Sú breyting á hagnýtingu sem hér um ræði sé ekki þess háttar breyting að afla hefði þurft samþykkis annarra eigenda húseignarinnar skv. 27. gr. laganna, en þegar litið sé til þess sem fram komi í greinargerð með ákvæðinu megi telja að með því sé stefnt á takmörkun á atvinnustarfsemi í húsnæði sem ætlað sé til íbúðar, sbr. álit kærunefndar húsamála nr. 19/2012 og 34/2014.

Athugasemdir leyfishafa: Byggingarleyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri við úrskurðarnefndina athugasemdum og sjónarmiðum sínum vegna kærumálsins en engar athugasemdir hafa borist nefndinni af hans hálfu.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð sú ákvörðun byggingarfulltrúa frá 30. ágúst 2016 að leyfa breytingu á nýtingu séreignar í fjöleignarhúsi að Sólheimum 42 úr tannlæknastofu í íbúð. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 13. september s.á. var fyrri bókun hans frá afgreiðslufundi 30. ágúst leiðrétt, en efni ákvörðunarinnar stóð óbreytt. Á árinu 2016 grennslaðist kærandi ítrekað fyrir um notkun þess húsnæðis sem um ræðir og fékk þær upplýsingar fyrst á haustmánuðum að notkuninni hefði verið breytt. Benti kærandi á að breytt notkun hefði í för með sér óþægindi og truflun og að samþykkis síns hefði ekki verið leitað. Var erindi hans þar um svarað með tölvupósti byggingarfulltrúa frá 18. nóvember 2016 og var þar leiðbeint um kæruleið og kærufrest. Barst kæra í málinu 16. desember s.á.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er óheimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Í 10. gr. laganna er gerð krafa um að með byggingarleyfisumsókn fylgi nauðsynleg gögn, þ.m.t. samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Í 1. mgr. 26. gr. fjöleigarhúsalaganna kemur fram að einungis eigandi hafi rétt til umráða og hagnýtingar á séreign sinni með þeim takmörkunum einum sem greini í lögum þessum eða öðrum lögum sem leiði af óskráðum grenndarreglum eða eðli máls eða byggi á löglegum ákvörðunum og samþykktum húsfélagsins. Í 27. gr. laganna er kveðið á um takmörkun á rétti eiganda til breytingar á hagnýtingu séreignar. Í 1. mgr. segir að breyting á hagnýtingu séreignar frá því sem verið hefur eða ráð var fyrir gert í upphafi, sem hafi í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður hafi verið og gengur og gerist í sambærilegum húsum, séu háðar samþykki allra eigenda hússins. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur eigandi ekki sett sig á móti slíkri breytingu ef sýnt er að hún hafi ekki í för með sér neina röskun á lögmætum hagsmunum hans, sbr. 2. mgr. Þá kemur fram í 3. mgr. ákvæðisins að ef breytt hagnýting sé ekki veruleg sé nægilegt að samþykki einfalds meiri hluta miðað við fjölda og eignarhluta liggi fyrir.

Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 heyrir umrætt svæði undir íbúðarbyggð (ÍB). Þess háttar svæði er lýst í kaflanum Landnotkun – skilgreiningar (bindandi stefna) á eftirfarandi hátt: „Svæði fyrir íbúðarhúsnæði og nærþjónustu sem því tengist, auk minniháttar atvinnustarfsemi sem samrýmist búsetu eftir því sem nánar er kveðið á um í stefnu skipulagsins.“ Í skipulagi fyrir svæðið frá árinu 1956 er ekki kveðið frekar á um notkun þess.

Fasteignaeigendur á tilteknu skipulagssvæði eiga að jafnaði rétt til þess að nota fasteign sína í samræmi við heimildir gildandi skipulags og þurfa að sæta því að aðrir fasteignaeigendur geri slíkt hið sama, að uppfylltum skilyrðum laga og reglna. Húseignin Sólheimar 42 er á skipulagssvæði fyrir íbúðarbyggð og samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands stendur húsið á íbúðarhúsalóð og er með fjórum eignarhlutum. Ekki verður séð að breytt hagnýting séreignarinnar hafi í för með sér ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur hússins umfram það sem gengur og gerist í sambærilegum húsum. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að kærandi eigi íhlutunarrétt vegna hinnar breyttu notkunar leyfishafa á séreign sinni skv. 27. gr. fjöleignarhúsalaganna og var heimilt að breyta hagnýtingu umræddrar séreignar án samþykkis sameigenda, sbr. 2. mgr. nefndrar lagagreinar.

Svo sem að framan greinir verður talið að ekki hafi þurft samþykki annarra eigenda fjöleignarhússins að Sólheimum 42 til að breyta umræddri séreign í íbúð, en auk þess verður ekki séð að meðferð málsins hafi verið áfátt í neinu. Verður kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 30. ágúst 2016 um að veita samþykki fyrir áður gerðri íbúð þar sem áður var tannlæknastofa á jarðhæð fjöleignarhússins að Sólheimum 42.

__________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                        _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                        Þorsteinn Þorsteinsson