Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

8/2006 Úrskurður vegna kæru Sveinbjörns B. Nikulássonar gegn Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2006  föstudaginn  15. desember, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Suðurlandsbraut 6 í Reykjavík.    Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2006  Sveinbjörn B. Nikulásson, Melholti 6, Hafnarfirði, hér eftir nefndur kærandi gegn Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis, hér eftir nefnt kærði.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður :

I.

Erindi Sveinbjörns B. Nikulássonar barst nefndinni með tölvupósti þann 14. nóvember 2006.   Litið er á erindið sem stjórnsýslukæru.  Kærð er synjun Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis um að fella niður eftirlitsgjöld vegna hundahalds.  Kærunni fylgdi tölvupóstur milli kærða og kæranda dags. 12.10.2006.

 II.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi verið krafinn um greiðslu eftirlitsgjalda áranna 2005 og 2006 vegna tveggja hunda í hans eigu.  Kærandi segir hundana hafa verið aflífaða í mars 2005.  Hann kveðst hafa hringt í kærða og tilkynnt um aflífun hundanna en verið sagt að hann þyrfti að senda tölvupóst.  Hann segist telja að hann hafi gert það en á ekki afrit af póstinum.  Kærði kveðst fyrst hafa vitað 2. október 2006 um aflífun hundanna.  Til að fella niður leyfi eða skráningu verði að leggja fram  nauðsynlegar staðfestingar.   Oftast tilkynni viðkomandi dýralæknar heilbrigðiseftirlitinu um aflífun dýra en því sé ekki til að dreifa í þessu tilviki.  Þar sem engin tilkynning hafi borist sé ekki grundvöllur til að fella niður gjöldin.

III.

Samkvæmt gjaldskrá fyrir hundahald í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi skal greiða eftirlitsgjald fram að afskráningu hunds.  Við innheimtu gjaldanna gefst kæranda kostur á að koma að sjónarmiðum sínum og rökum fyrir því að honum beri ekki að greiða umkrafin gjöld.  Innheimtumál heyra ekki undir nefndina og er því máli þessu vísað frá.

ÚRSKURÐARORÐ:

Málinu er vísað frá.

                                                                Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                       Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 12/28/06