Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

1/2006 Úrskurður vegna kæru Carls J. Eiríkssonar gegn Reykjavíkurborg.  

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2006, föstudaginn 30. júní kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7, Reykjavík.   Mætt voru Guðrún Helga Brynleifsdóttir Gísli Gíslason og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2006 Carl J. Eiríksson, Skólagerði 47, 200 Kópavogi gegn Reykjavíkurborg vegna meintra oftekinna sorphirðugjalda að Ásgarði 22-24, Reykjavík.  

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður

I.

Erindi Carls J. Eiríkssonar, Skólagerði 47, Kópavogi, hér eftir nefndur kærandi,  barst nefndinni með myndsendu bréfi hinn 3. janúar 2006.  Litið er á erindið sem stjórnsýslukæru.  Kærð er synjun Reykjavíkurborgar, hér eftir nefnd kærði,  um leiðréttingar á meintum ofteknum sorphirðugjöldum undanfarinna ára.  Er  tilgreint bréf kærða dags. 2. ágúst 2005, en kærandi kveðst hafa fengið það í hendur hinn 4. október 2005. Kærunni fylgdi á myndsendi afrit af bréfi kæranda til kærða dags. 25. febrúar, 2005 svo og afrit af bréfi kærða dags. 2. ágúst 2005.   Kæranda var sent ítrekunarbréf um að skila frekari gögnum eins og hann boðaði í kæru sinni í janúar s.l.  Barst þá enn á myndsendi bréf hans dags. 14. febrúar 2006 ásamt afriti af bréfi til stjórnsýslu- og starfsmannasviðs kærða.  Er enn boðað að sendur verði frekari rökstuðningur á málinu sem fyrst eftir að tekist hafi að fá upplýsingar sem vanti.

II.

Í kæru kemur fram hjá kæranda að krafa sé gerð um leiðréttingar á meintum ofteknum sorphirðugjöldum. Telur kærandi að kærði rangtúlki lagagreinar sem vísað sé til að að ekki liggi fyrir heimild til þess að reikna út eignarhlut í fasteign eingöngu samkvæmt flatarmáli, heldur beri að reikna hann út samkvæmt rúmmáli o.fl. eins og fram komi í lögum. Kærandi kveður að þegar hann hafi keypt umrætt húsnæði hafi eignarhluti þess verið 2.9% af eigninni Ásgarði 22-24.  Áratugum síðar hafi verið gerður nýr eignaskiptasamningur og hafi kærandi þá fallist á, vegna þrýstings frá öðrum eigendum að hlutur hans yrði skráður 3.03% þótt það hafi þýtt meiri úgjöld fyrir sig í viðhaldskostnaði á eigninni.  Hafi þó húsnæði kæranda ekkert stækkað og telji hann því mjög ranglátt og reyndar fráleitt að það skuli seinna vera talið 5% af fasteigninni að Ásgarði 22-24.  Um það hafi hann ekkert fengið að vita.  Lýsir kærandi því yfir  að hann muni senda nánari rökstuðning þegar honum hafi tekist að fá svör kærða við bréfi sínu.

Með bréfi dags. í febrúar 2006  var ítrekað við kæranda að hann sendi frekari gögn og rökstuðnings til nefndarinnar.  Í svarbréfi kæranda kemur aftur fram að hann muni senda nánari rökstuðning í málinu sem fyrst eftir að hann hafi fengið þær upplýsingar sem vanti.  Meðfylgjandi svarinu sendi hann afrit af bréfi til Reykjavíkurborgar.

Enn hafa engin gögn borist úrskurðarnefndinni.

III.

Þrátt fyrir ítrekun hafa engin gögn borist nefndinni utan kæra í byrjun janúar svo og  svarbréf í febrúar þar sem kærandi boðar frekari rökstuðning í máli sínu.  Fram kemur í stjórnsýslulögum að veita skuli kæranda frest til að skila gögnum og var það gert.  Eins og málið liggur fyrir er það vanreifað.  Málinu er því vísað frá.

Úrskurðarorð:

Málinu er vísað frá.

Lára G. Hansdóttir

                                                                                          Gísli Gíslason                                Guðrún Helga Brynleifsdóttir

 

Date: 8/11/06