Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

7/2006 Úrskurður vegna kæru A og B gegn Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2007 föstudaginn 16. mars, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Suðurlandsbraut 6 í Reykjavík.    Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2006  A og B, hér eftir nefnd kærandi gegn heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis  hér eftir nefnt kærði.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

 úrskurður :

 I.

Með bréfi dagsettu 28. júní 2006 kærðu A og B ákvörðun heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis frá 27. mars. 2006, sem kynnt var kæranda með bréfi dags. 29. mars 2006.  Ákvörðun sú sem kærð er, var þannig bókuð á fundi kærða: “Með bréfi byggingafulltrúans í Kópavogi dags. 8. febrúar 2006 var heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis framsent erindi Önnu Þóru Bragadóttur dags 29. nóvember 2005 um meinta starfrækslu hárgreiðslustofu að Lyngheiði 21, Kópavogi.  Fyrir liggur að ekki hefur verið gefið út starfsleyfi til rekstrar hárgreiðslustofu að Lyngheiði 21, Kópavogi.  Í tilefni af bréfi Byggingafulltrúans í Kópavogi dags. 8. febrúar 2006, fóru fulltrúar heilbrigðiseftirlitsins í eftirlitsferð að Lyngheiði þann 17. mars 2006.  Kom ekkert fram við þá eftirlitsferð að rekin væri hárgreiðslustofa í bílskúr að Lygheiði 21.  Heilbrigðisnefnd telur því að ekkert það hafi komið fram sem réttlætir frekari afskipti af málinu.”

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun kærða um að hafa ekki frekari afskipti af málinu verði felld úr gildi.

Fylgiskjöl með erindi kæranda eru:

1)      Afrit af bréfi kærða dags. 29.03.2006 til kæranda.

2)      Afrit af bréfi kæranda dags. 16.08.2006 til kærða

3)      Ljósrit af úrskurði skipulags og byggingamála dags. 28. september 2005.

4)      Grendarkynning dags. 04.07.2003.

5)      Bréf Sveins Guðmundssonar, hdl. dags. 31.10.2006.

6)      Afrit af bréfi kærða dags. 01.09.2006 til Ríkeyjar Pétursdóttur.

7)      Afrit af bréfi Geirs A. Marelssonar, hdl. til Sveins Guðmundssonar.

8)      Afrit af bréfi kærða dags. 05.10.2004 til kæranda.

Með bréfi dagsettu 7. september 2006 var kæran kynnt heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis og því veittur frestur til að koma að athugasemdum við hana og frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni.  Umsögn heilbrigðiseftirlitsins barst innan tilskilins frests.  Umsögnin var send til kæranda og honum gefinn frestur til koma að athugasemdum.  Athugasemdir bárust frá kæranda innan tilskilins frests.

 II.

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með bréfi dags. 30. ágúst 2004 sendi kærandi kvörtun til kærða um að rekstur hárgreiðslustofu að Lyngheiði 21, Kópavogi væri látinn átölulaus án starfsleyfis.  Að lokinni athugun var erindið tekið til ákvörðunar á fundi kærða þann 4. október 2004 og kynnt með bréfi dags. 5. október 2004.  Var það afstaða kærða að rekstur hárgreiðslustofunnar hefði ekki verið hafinn og því væri ekki ástæða til frekari afskipta af hálfu kærða.  Ákvörðun kærða um þetta var ekki kærð til úrskurðarnefndarinnar.  Kærandi kvartaði aftur til kærða í júlí 2005 og hélt því fram að enn væri rekin hárgreiðslustofa í bílskúrnum.  Að lokinni athugun var erindið tekið til ákvörðunar á fundi kærða þann 26. mars 2006 og kynnt með bréfi dags. 29. mars 2006.  Var það afstaða kærða að athugun hefði ekki leitt í ljós að rekin væri hárgreiðslustofa í umræddum bílskúr og að ekki væri ástæða til frekari afskipta af hálfu kærða.

Í kæru til úrskurðanefndarinnar kemur fram að meint starfssemi hárgreiðslustofunnar fari aðallega fram utan hefðbundins vinnutíma, á kvöldin og um helgar.  Kærandi telur að kærði hafi ekki sinnt eftirliti sínu sem skyldi og  að framlögð gögn sýni fram á að rekstur sé til staðar.

Í umsögn kærða til úrskurðanefndar, dags. 5. október 2006 kemur fram að heilbrigðiseftirlitið hafi sinnt þeim eftirlitsskyldum sem á því hvíla og mælt er fyrir um í lögum 7/1998 og í reglugerð 941/2002 um hollustuhætti.  Eftirliti hafi verið sinnt með lögbundnum hætti.  Fulltrúar kærða hafi farið á staðinn en ekkert hafi komið fram sem sýndi fram á að starfrækt væri hárgreiðslustofa að Lyngheiði 21, Kópavogi.  Af þeim sökum sé ekki unnt að verða við kröfum kæranda um stöðvun á meintum rekstri.

Jafnframt bendir kærði á að heilbrigðiseftirliti sé skylt með vísun til stjórnsýslulaga að fara ekki strangar í mál en nauðsyn ber til og gæta eðlilegrar friðhelgi einstaklinga og heimila þeirra.

Að beiðni nefndarinnar fór kærði í tvær eftirlitsferðir til viðbótar aðra á laugardegi kl. 14.00 og hina á fimmtudagskvöldi kl. 20.00.  Við þá athugun kom ekki fram að starfrækt væri hárgreiðslustofa að Lyngheiði 21, Kópavogi.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni og hinni kærðu ákvörðun. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

III.

Samkvæmt 12 tl. 4. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir er leyfisveiting fyrir rekstri hárgreiðslustofu í höndum heilbrigðisnefndar.  Þá er eftirlit með því að starfsleyfi sé  fyrir hendi einnig í höndum nefndarinnar.  Í 60 gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti kemur fram að reglubundið eftirlit nái til almennrar skoðunar á húsnæði, búnaði og umhverfi og skoðunar á skráðu og skjalfestu efni sem og að framfylgja ákvæðum laga reglugerða og starfsleyfa sem heilbrigðisnefnd eru falin.  Við athugun kærða kom ekki fram að starfrækt væri hárgreiðslustofa að Lyngheiði 21, Kópavogi.   Fallist er á það með kærða að eftirlit hafi verið framkvæmt með þeim hætti sem reglur kveða á um og að ekki sé grundvöllur fyrir því að verða við kröfum kæranda.

ÚRSKURÐARORÐ:

Staðfest er ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Hafnafjarðar og Kópavogssvæðis um að hafa ekki frekari afskipti af meintum rekstri hárgreiðslustofu að Lyngheiði 21, Kópavogi.

Date: 4/17/07