Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

11/2008 Úrskurður vegna kæru Erlings Ellingsen, gegn Heilbrigðiseftirliti Suðurlands.

Með

Mál nr. 11/2008.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2009, fimmtudaginn 11. júní kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Suðurlandsbraut 6 í Reykjavík.  Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 11/2008. Erling Ellingsen, hér eftir nefndur kærandi, gegn Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, hér eftir nefnt kærði. Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 08.10.2008 kærði Erling Ellingsen umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, frá 10 apríl 2008 þar sem fram kemur að teknu tilliti til barna væri húsnæðið að Dalbraut 4, Laugarvatni óíbúðarhæft.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1.      Stjórnsýslukæra dags. 08.10.2008 ásamt fylgiskjölum.

2.      Athugasemdir kærða dags. 06.11.2008 ásamt fylgiskjölum.

3.      Athugasemdir kæranda dags. 16.01.2009 ásamt fylgiskjölum.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II.    Málsmeðferð

Kæran barst úrskurðarnefndinni 08.10.2008.  Þegar umsögn barst frá kærða var hún send til kæranda og honum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.  Athugasemdir kæranda bárust 16.01.2009.

Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna anna.

III. Málsatvik

Að beiðni leigjanda í fasteigninni að Dalbraut 4, Bláskógarbyggð skoðaði Heilbrigðiseftirlit Suðurlands húsnæðið.  Ástæða þess var að leigjandi taldi húsnæðið hugsanlega heilsuspillandi, en nýfædd dóttir hans hafði verið veik.

Heilbrigðiseftirlitið skoðaði húsnæðið 9. apríl og veitti leigjanda umsögn dagsetta 10. apríl 2008.  Í umsögninni kemur fram að viðhaldi húsnæðisins sé verulega ábótavant.  Greinileg merki séu um raka í íbúð og þarfnist húsið gagngerra endurbóta.  Að teknu tilliti til barna sé húsnæðið óíbúðarhæft.

Með bréfi dags. 08.10.2008 kærði kærandi framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar.

Kærða var með bréfi dags. 28.10.2008 gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau 06.11.2008.

Kæranda var gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum kærða með bréfi dags. 16.12.2008.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi gerir þá kröfu að úttektin verði úrskurðuð ógild í heild sinni, þar sem hún byggi ekki á réttum forsendum.  Meðal annars sé því haldið fram að húsnæðið sé minna en það í raun er, lofthæð sé minni, einfalt gler sé í gluggum auk fleiri atriða sem ekki standist.

Kærandi telur að í bréfi kærða dagsettu 10. apríl 2008 felist stjórnsýsluákvörðun.  Í bréfinu segi: „að teknu tilliti til barna er húsnæðið óíbúðarhæft“.  Kærandi telur að með þessu sé í raun verið að segja að óheimilt sé að leigja húsnæðið út og /eða búa þar með börn.  Þá bendir hann á að málið hafi verið tekið til umfjöllunar hjá úrskurðarnefndinni og felist í því staðfesting á að málið sé kæruhæft.

Kærandi hefur fært frekari rök fyrir kærunni. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga er ekki ástæða til að gera frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

V. Málsástæður og rök kærða

Kærði tekur fram að umrætt mál sé ekki kæra heldur umsögn.  Í bréfi kærða hafi því hvorki verið veittur andmælaréttur né upplýst um kæruleiðir samkvæmt stjórnsýslulögum.  Í umsögninni komi fram mat heilbrigðiseftirlitsins á ástandi húsnæðisins en ekki ákvörðun um bann á afnotum þess.  Í umsögninni komi fram atriði sem hægt er að bæta/laga þannig að koma íbúðinni í betra ástand.

Kærði hefur fært frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum og hefur úrskurðarnefnd haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar 

Í 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að lögin gildi þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna.

Í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að aðila máls er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt.  Ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verður ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt.

Um stjórnvaldsákvörðun er samkvæmt því að ræða þegar starfsmaður eða starfsmenn heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga kveða einhliða á um rétt og/eða skyldur tiltekins aðila í ákveðnu máli.

Í bréfi kærða dags. 10. apríl 2008 kemur skýrlega fram að um sé að ræða umsögn sem látin sé í té að undangenginni álitsumleitan.  Umsögn sem þessi er ekki stjórnvaldsákvörðun að mati úrskurðanefndar.  Í bréfinu er ekki lagt bann við notkun húsnæðisins heldur kemur einungis fram það álit að húsnæðið sé óíbúðarhæft með tilliti til barna, miðað við þær forsendur sem taldar eru upp í bréfinu.

Í samræmi við stjórnsýslulög var málið sent til umsagnar til málsaðila.  Í því fólst engin afstaða til kæruefnisins.

Að mati úrskurðarnefndar verður krafa kæranda um að úttekt á húsnæðinu að Dalbraut 4, Bláskógarbyggð verði úrskurðuð ógild í heild sinni ekki kærð til úrskurðarnefndar og verður af þeim sökum að vísa kæru hans frá nefndinni.

Kæru Erling Ellingsen er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kæru Erling Ellingsen er vísað frá úrskurðarnefndinni .

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                 Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 6/26/09

15/2008 Úrskurður vegna kæru Dreifingar ehf. gegn Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

Með

Mál nr. 15/2008.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2009, fimmtudaginn 11. júní kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Suðurlandsbraut 6 í Reykjavík.  Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2008 Dreifing ehf., Vatnagörðum 8, 104 Reykjavík, hér eftir nefnt kærandi gegn Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, hér eftir nefnt kærði.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Fyrir nefndinni liggur kæra Dreifingar ehf. dagsett 15. desember 2008 þar sem ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dagsett 11. nóvember 2008 er kærð. Með þeirri ákvörðun var kæranda gert að innkalla og hætta sölu frá og með 1. janúar 2009 á McCain Pizza Crescendo Rising Crust Pizza 4 Cheese og McCain Pizza Crescendo Rising Crust Pizza Pepperoni vegna notkunar aukefnisins E 541 í þeim.

Framangreind ákvörðun var kærð þann 15. desember 2008.  Í kærunni var þess einnig krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað þar til nefndin kvæði upp fullnaðarúrskurð í málinu. Úr þeirri kröfu var leyst með úrskurði nr. 14/2008.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1. Stjórnsýslukæra dags. 15.12.2008 ásamt fylgiskjölum 1-4.

2. Athugasemdir kærða dags. 30.12.2008 ásamt fylgiskjölum.

3. Athugasemdir kæranda dags. 23.01.2009 ásamt fylgiskjölum.

II.    Málsatvik 

Kærandi flytur inn McCain pizzubotna. Honum var send ákvörðun kærða með bréfi dagsettu 11.11.2008.  Í ákvörðun kærða kemur fram að við athugun á innihaldi pizzubotna hafi komið í ljós notkun á aukaefninu E 541, sem sé óheimilt að mati kærða. Var kæranda gert að innkalla og hætta sölu frá og með 1. janúar 2009.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi hefur verið umboðsmaður McCain á Íslandi síðastliðin 35 ár. Hann hefur flutt inn þá pizzubotna sem málið snýst um frá árinu 1997 án þess að vandamál eða kvartanir hafi komið upp vegna þeirra.  Í bréfi kæranda til nefndarinnar kemur fram að í ágúst 2008 hafi kærði haft samband og óskað eftir fundi við kæranda þar sem við athugun á innihaldi pizzubotnanna hafi m.a. komið í ljós að þar væri að finna aukefnið E 541 sem sé óleyfilegt að mati kærða.  Þessu til stuðnings vísaði kærði til reglugerðar nr. 285/2002, með síðari breytingum um aukaefni í matvælum og að umræddir botnar falli undir lið 7.1 í aukaefnalista við nefnda reglugerð.

Umræddur fundur var haldinn á starfsstöð kæranda hinn 19.08.2008.  Þar var farið yfir málið og var það skilningur kæranda að ekki væri að vænta frekari aðgerða af hálfu kærða.  Sú varð þó ekki raunin og með bréfi dags. 21.08.2008 var kæranda gert skylt að stöðva þá þegar dreifingu varanna innkalla þær af markaði og þá mættu vörurnar ekki vera til sölu eftir 21.10.2008.

Kærandi mótmælti þessari ákvörðun kærða og sendi honum ódagsett bréf þar sem m.a. var bent á að samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins nr. 95/2/EC væri heimilt að nota efnið í skonsur. Að mati kærða ættu pizzubotnarnir undir þá skilgreiningu.

Kærandi bendir á að efnið geti ekki verið hættulegt mönnum þar sem það sé heimilt í skonsum, sé magnið innan heimilaðra marka, sem ágreiningslaust er að raunin sé í botnunum.

Með bréfi dags. 21.10.2008 hafnaði kærði þessu, m.a. með þeim rökum að ger væri notað í botnana og því féllu þeir undir lið 7.1. í reglugerð 285/2002 með síðari breytingum.

Kærandi sendi kærða frekari gögn máli sínu til stuðnings þann 29.10.2008 þar sem bent var á að skonsur innihaldi oft ger þannig að ekki gæti það ráðið úrslitum í máli þessu.

Kærandi segir að kærði hafi þrátt fyrir það ákveðið að breyta ekki fyrri afstöðu.  Forsendan hafi verið sú að mati kæranda að það væri álit kærða að pizzubotnar geti ekki flokkast undir það sem á ensku kallist fine bakery wares.

Kærandi bendir á að í aukaefnalista reglugerðar nr. 285/2002 sé jákvæð upptalning, þannig að það efni sem er ekki á listanum er bannað.  Kærandi bendir á að listinn sé í sífeldri þróun og mörg dæmi þess að efnum hafi verið bætt á hann.  Kærandi leggur áherslu á að það sé álitamál hvar eigi að staðsetja umrædda pizzubotna. Kærandi telur að varan sé deig með áleggi, nánar tiltekið lyftideigsbotn en ekki pizza. Þá leggur kærandi enn fremur áherslu á að vara hans hafi annað tollanúmer (1901-2023 og 1901-2024) en hefðbundnar pizzur (1905-9051 og 1905- 9059) sem sýni að ekki er um samskonar vörur að ræða.

Kærandi telur að kærði hafi ekki fylgt meginreglum stjórnsýsluréttar. Mikilvæg meginregla innan stjórnsýsluréttarins er andmælaréttur aðila máls sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi telur að hann hafi ekki verið virtur. Kæranda hafi ekki verið gefinn kostur á að koma að athugasemdum áður en umdeilt ákvörðun var tekin. Ákvörðun kærða var tilkynnt kæranda með bréfi dags. 21.08.2008 og þá hafði kæranda ekki gefist kostur til neinnar gagnaöflunar eða útskýringa á sjónarmiðum sínum og ekki er fallist á af hans hálfu að óformlegur fundur haldinn tveimur dögum fyrir dagsetningu umrædds bréfs fullnægi skilyrðum laga að þessu leyti.

Þá telur kærandi að kærði hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga þar sem ekkert bendi til þess að kærði hafi framkvæmt sjálfstæða rannsókn á innihaldi vörunnar, en þar sem um sé að ræða íþyngjandi ákvörðun. Skoðun utan á pakkningar vöru sé ekki nóg til að uppfylla skilyrði rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

Þá telur kærandi að kærði hafi ekki fylgt meðalhófsreglu stjórnsýslulaga sbr. 12. gr. en samkvæmt henni skuli farið varlega í beitingu íþyngjandi ákvarðana

Að mati kæranda er það álitamál hvar nákvæmlega eigi að staðsetja pizzubotnana í þeim reglugerðarákvæðum sem komi til skoðunar.  Að mati kæranda verði að gera þær kröfur að stjórnvald sem beitir jafn róttækri ákvörðun og sölubanni og innköllun hafi fast land undir fótum að þessu leyti.  Það nægi ekki að til grundvallar sé lagt álit eða skoðun.  Vissa þurfi að vera fyrir hendi og um hana sé ekki að ræða í máli þessu.

Samkvæmt bréfi kærða dags. 11.11. 2008 er ákvörðun kærða byggð á 5. gr. rgl. 285/2002, 26. gr. l. 7/1998 og 29. gr. l. 93/1995.  Að mati kæranda er engin heimild í ákvæðunum til sölubanns og innköllunar og bendir á að í 2. mgr. 26. gr. l. 7/1998 segi:  „Stöðvun starfsemi og förgun á vörum skal því aðeins beitt að um alvarlegri tilvik eða ítrekað brot sé að ræða eða ef aðilar sinna ekki úrbótum innan tiltekins frests og er heimilt að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf. Sé um slík brot að ræða getur heilbrigðisnefnd afturkallað starfsleyfi viðkomandi reksturs.“ Kærandi telur útilokað að fallast á að eitthvað af því sem þarna er rakið, þ.e. alvarlegt tilvik, ítrekað brot eða úrbótum ekki sinnt, eigi við.

Þá fellst kærandi ekki á að 29. gr. l . 93/1995 eigi við enda ekki um það að ræða að fyrir liggi rökstuddur grunur um að matvæli uppfylli ekki ákvæði laganna eða reglugerða settra samkvæmt þeim.  Kærandi telur einnig með vísan til matvælalaganna nr. 93/1995 að áherslan að þessu leyti liggi á því hvort aukefni geti talist hættuleg neytendum.  Ekkert slíkt mat hafi farið fram varðandi það álitamál sem hér er uppi og þaðan af síður að fram hafi farið íslenskt áhættumat. Kærandi telur því að ekki hafi verið sýnt fram á það af hálfu eftirlitsins að ákvæði reglugerðar  nr. 285/2002, með síðari breytingum sbr. reglugerð nr. 500/2005 heimili þær róttæku aðgerðir sem hér er gripið til.

Kærandi telur einnig að hér sé vegið að atvinnufrelsi hans m.a. með vísan til 75. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og slíkar aðgerðir geti aldrei verið heimilar sé minnsti vafi á lögmæti þeirra eins og hér er vafalaust raunin.

Þá bendir kærandi að framleiðandinn McCain foods ætli frá og með 1. janúar 2010 hætt að nota lyftiefnið E 541 og í stað þess notast við E450i.

Í ljósi framanritaðs krefst kærandi þess að ákvörðun kærða verði úr gildi felld.

V. Málsástæður og rök kærða

Kærði mótmælir því að um ranga ákvörðun sé að ræða pizzubotnar geti ekki talist vera skonsur þrátt fyrir að það henti kæranda að líta svo á málið. Kærði telur að það sé útilokað að fella pizzubotna undir önnur lagaákvæði eða reglur en gert er í bréfi kærða dags. 21.08.2008 þar sem rækilega er gert ráð fyrir þeim vanköntum sem séu á vörum kæranda. Kærði bendir á, að kæranda var veittur andmælaréttur með bréfi kærða dags. 21. ágúst s.l. og enn á ný í bréfi kæranda 21. október s.l. Því er alröng sú fullyrðing kæranda, að hann hafi ekki notið andmælaréttar, enda neytti hann réttarins með ódags. bréfi sínu, sem fylgir kæru hans.

Kærandi heldur því fram að rannsóknarregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin.  Sú fullyrðing er þó órökstudd að mati kærða. Hann sinni matvælaeftirliti á markaði sem fram fóru með viðurkenndum aðferðum við matvælaeftirlit þ.e. að sýna var aflað og varan rannsökuð af kærða. Sú rannsókn beindist að merkingum á vörunni, sem voru ófullnægjandi og gáfu jafnframt til kynna, að í vörunni væru óleyfileg aukaefni,  sem ekki eru leyfð í pizzubotnum hér á landi og rækilega er gerð grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í bréfi kærða 21. ágúst s.l.  Frekari rannsókna var ekki þörf til að komast að niðurtöðu varðandi vöruna

Kærði heldur því fram að meðalhófsregla hafi verið brotin með því að kærði fallist ekki á að kalla pizzubotna skonsur.  Matavælalöggjöfin og reglur um merkingar matvæla veita ekki svigrúm til svo rúmrar túlkunar. Merkingar vöru eru annað hvort í lagi eða ekki í lagi og eina úrræðið varðandi vörur, sem ekki uppfylla kröfur um merkingar og innihald vöru, er að taka þær af markaði.  Það er í langflestum tilvikum gert með góðri samvinnu við framleiðendur og dreifendur matvæla og þá jafnframt veittir rúmir frestir til aðgerða.  Áður en aðgerða er krafist, er þó ávallt reynt til þrautar að leysa mál með samkomulagi við dreifendur. Gerir það málsmeðferðartíma oft mjög rúman til hagsbóta fyrir dreifandann. Önnur úrræði en að innkalla vöruna eru ekki fyrir hendi, auk þess sem kærði verður að gæta jafnræðis við matvælaeftirlit. Kærði telur það vera ófrávíkjanlega reglu að ranglega merktar vörur eru innkallaðar og merktar á ný, oftast í góðri samvinnu við ábyrga matvælainnflytjendur.

Kærði  vill þessu til viðbótar taka fram eftirfarandi:

Í málavaxtalýsing kæranda vísar hann til fundar með kærða hinn 19. ágúst s.l. , þar sem farið hafi verið yfir málin. Þar telur kærði að kærandi fari ekki með rétt mál og vísar þar til meðfylgjandi minnisblaðs um fundinn, sem kæranda var sent að loknum fundi og hann hefur ekki gert athugasemdir við. Kærði telur að á  fundinum komi einmitt fram, að rætt hafi verið um ýmsar vörur kærða og sérstaklega rætt bréf kærða vegna  McCain pizzubotna, sem innihaldi efnið E541.  Á fundinum kvaðst fulltrúi kæranda ætla að reyna að fá framleiðendur til að hætta notkun efnisins. Alls ekki kom fram á  fundinum, að ekki væri að vænta frekari aðgerða vegna pizzubotnana.

McCain pizzubotnar eru seldir víða í Evrópu.  Þar eru merkingar skv. Evrópureglum og samkvæmt meðfylgjandi innihaldslýsingu frá Danmörku komi einmitt fram, að framleiðandinn notar ekki E541 í pizzubotnana, heldur annað lyftiefni.  Þannig virðist framleiðandinn geta tekið tillit til Evrópureglna við sölu til annarra landa en Íslands og notað leyfileg aukaefni í framleiðslu sína.

Kærandi heldur því fram, að 2. mgr. 26. gr. l. 7/1998 eigi ekki við um innköllun McCain pizzubotna, þar sem ekki sé um að ræða alvarlegt tilvik, ítrekað brot eða úrbótum ekki sinnt.  Kærði bendir hins vegar á, að heimild til notkunar ákvæðisins er einmitt í þeim tilvikum, sem úrbótum er ekki sinnt innan tiltekins frests, auk hinna alvarlegu og ítrekuðu tilvika.  Fullyrðing kæranda er því röng.

Kærandi heldur því fram, að kærði hafi ekki vissu um málstað sinn, þar sem orðalag í bréfi sé „álit eftirlitsins“ hvar staðsetja eigi pizzubotna.  Ekki skiptir máli í þessu tilviki, hvaða orðalag notað er, þar sem niðurstaða kærða liggur ljós fyrir.  Kærði hefði allt eins geta notað orðið „mat“, eða „skoðun“ eða „niðurstaða“ og í öllum tilvikum er niðustaða kærða kæranda fullkomlega ljós og ekki fallin til þess að valda misskilningi.

Kærði bendir á, varðandi það að kærandi fallist ekki á að 29. gr. l.93/1995 eigi hér við, þar sem ekki liggi fyrir að viðkomandi aukaefni geti talist hættulegt neytendum, að við samingu aukefnalista reglugerðar 500/2005 sbr. 285/2002 fór þetta slíkt fram og var unnið af sérfræðingum Evrópusambandsins.  Íslensk áhættumat hefur af þeim sökum ekki farið fram. Ákvæðið um bann við notkun E541 er skýrt og enginn vafi á því sbr. aukefnalista og leiðbeiningum með reglugerð nr. 285/2002 um aukaefni matvælum. Kærði telur því að sá vafi sem kærandi vísar til sé ekki fyrir hendi.

Kærði bendir á, varðandi það að kærandi telur innköllun og sölubann brjóta gegn stjórnarskrárvörðum rétti sínum sbr. 75. gr. stjórnarskrárinnar, að ákvæðinu megi setja skorður með lögum. Hæstiréttur hefur metið það svo að það sé mat löggjafans að meta hvenær rétt sé að takmarka atvinnuréttindi manna en það sé þó aðeins gert með settum lögum frá Alþingi. Þetta er áréttað í dómi Hæstaréttar frá 15. desember 1988.

Það er mat kærða, að með setningu laga um matvæli nr. 93/1995 og laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og reglugerða settum samkvæmt þeim, hafi löggjafinn framkvæmt umrætt mat um takmarkanir atvinnufrelsins sem séu innan ramma 75. gr. stjórnarskrárinnar og fullyrðing kæranda því röng.

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Ágreiningur í máli þessu snýst um það hvort ákvörðun kærða um innköllun á vörunum McCain Pizza Crescendo Rising Crust Pizza 4 Cheese og McCain Pizza Crescendo Rising Crust Pizza Pepperoni, sé röng.

Í reglugerð nr. 285/2002 (br. með 500/2005) um aukaefni í matvælum er að finna reglur er varða aukaefni í matvælum og aukaefni ætluðu til notkunar í matvælum eða sölu til neytenda sbr. 1. gr. reglugerðarinnar. Hugtakið aukaefni er skilgreint í 2. gr.: „Aukefni eru efni sem aukið er í fæðu til þess að hafa áhrif á geymsluþol, lit, lykt, bragð eða aðra eiginleika matvæla, eins og nánar er kveðið á um í viðauka 4. Í fullunninni vöru eru aukefni til staðar að öllu leyti eða að hluta, í breyttri eða óbreyttri mynd.“ Í 3. gr. sömu reglugerðar kemur fram að lyftiefni flokkist sem aukaefni.

Í 5. gr. reglugerðar nr. 285/2002 með síðari breytingum kemur fram meginregla. Þar segir að við tilbúning og framleiðslu matvæla er einungis heimilt að nota þau aukaefni sem fram koma í viðauka II (aukaefnalisti) við reglugerðina og með þeim skilyrðum sem þar koma fram. Í 9. gr. er kveðið á um ábyrgð framleiðanda og dreifanda en framleiðandi og dreifandi, þegar um innflutta vöru er að ræða, eru ábyrgir fyrir því að vörutegundir séu í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.

Ágreiningur aðila varðar skilgreiningu á þeim vörunum þ.e. hvort varan falli í undirflokk 7.1 eða 7.2 í aukaefnalista reglugerðar 285/2002, með síðari breytingum. Undirflokkur 7.1 ber yfirskriftina bökunarvörur (brauð, annað matbrauð og gerbakstur). Þar er lyftiefnið sem um er deilt, natríumálfosfat E 541, ekki listað upp. Í undirflokki númer 7.2 sem ber yfirskriftina annar bakstur, kökur og smjördeigsbrauð er lyftiefnið E 541 listað upp, með takmörkunum.

Kærandi telur að vörurnar eigi að falla undir flokk 7.2 þar sem varan sem um er deilt sé ekki pizza heldur deig með áleggi, nánar tiltekið lyftideigsbotn og leggur áherslu á að efnið sem um er deilt sé notað í svipaðar vörur sem falla í flokk 7.2, eins og skonsur. Kærandi telur að samkvæmt meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga verði að velja sértækari kostinn umfram þann almenna. Kærði telur að pizzubotnar geti alls ekki talist vera skonsur og því útilokað að fella þá undir önnur ákvæði reglugerðarinnar.

Í leiðbeiningum með reglugerð nr. 285/2002 um aukaefni í matvælum, með síðari breytingum segir að pizzur falli undir flokk 7.1. Þar er pizza ekki felld undir flokk 7.2. Í athugasemdum við undirflokk 7.2 í nefndum aukaefnalista reglugerðarinnar segir að natríumálfosfat E 541 sé aðeins leyfilegt í lagkökur, rúllutertur og líkum vörum (fine bakary wares). Ber því að fallast á skilgreiningu kærða að um sé að ræða pizzu sem samkvæmt reglugerð nr. 285/2002 og leiðbeiningum með henni er felld í undirflokk 7.1 enda leyfa ákvæði matvælalöggjafarinnar ekki svo rúma túlkun að pizzue flokkist með rúllutertum og álíka vörum. Ekki hefur verið sýnt fram á af kæranda með haldbærum gögnum að vörurnar falli réttilega undir flokk 7.2.

Samkvæmt 26. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir hefur heilbrigðisfulltrúi heimild til að beita þvingunarúrræðum til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Í 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laganna segir að heilbrigðisfulltrúi geti lagt hald á vörur og fyrirskipað förgun þeirra. Í 29. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli er eftirlitsaðila heimilt að stöðva eða takmarka framleiðslu og dreifingu matvæla og leggja hald á þau þegar rökstuddur grunur er um að matvæli uppfylli ekki ákvæði laganna og eða reglugerða settra samkvæmt þeim.

Því ber að fallast á það með kærða að umdeildar vörur innihaldi óleyfilegt aukaefni, lyftiefnið E 541. Bann við notkun efnisins er skýrt í aukaefnalista með reglugerð nr. 285/2002, með síðari breytingum sem Heilbrigðiseftirlitinu er heimilt að innkalla og farga samkvæmt l. 7/1998 og 93/1995. Fallast ber á það með kæranda að almenningi stafi ekki bráð hætta af því efni sem hér um ræðir en aukaefnið er eftir sem áður óleyfilegt samkvæmt nefndu reglugerðar- og lagaákvæðum.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 11.11.2008 er staðfest.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                         Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 6/26/09

3/2009 Úrskurður vegna kæru Friðbjörns Ó. Valtýsssonar, Vestmannaeyjum gegn Heilbrigðisnefnd Suðurlands.

Með

Mál nr.3/2009.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2009, fimmtudaginn 11. júní  kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Suðurlandsbraut 6 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2009 Friðbjörn Ó. Valtýsson, Smáragötu 2, Vestmannaeyjum, hér eftir nefndur kærandi, gegn heilbrigðisnefnd Suðurlands, Austurvegi 56, 800 Selfossi, hér eftir nefndur kærði.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 23 febrúar 2009, kærði Friðbjörn Ó. Valtýsson únbogason HH hf.   (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands, (hér eftir nefnd kærði) frá 25. nóvember 2008 um útgáfu starfsleyfis til handa Millet ehf. kt. 640908-0760, Höllinni Vestmannaeyjum vegna of mikils hávaða þar sem húsnæði Hallarinnar uppfylli ekki skilyrði reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða.

Er gerð sú krafa af hálfu kæranda að starfsleyfið verði fellt úr gildi og nýtt starfsleyfi verði ekki veitt fyrr en tryggt sé að húsnæði Hallarinnar standist skilyrði reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1. Stjórnsýslukæra dags. 23. febrúar 2009 ásamt fylgiskjölum.

2. Athugasemdir kærða dags. 20. apríl  2009.

3. Rannsókn frá Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins dags. 2. desember 2002.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II.    Málsmeðferð

Framangreind kæra barst úrskurðarnefnd 27. mars 2009. Kæruheimild er í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

III. Málsatvik

Millet ehf. er rekstararaðili skemmtistaðarins Hallarinnar í Vestmannaeyjum en um er að ræða veislu- og ráðstefnuhús. Íbúar sem búa í námunda við skemmtistaðinn hafa kvartað mikið undan hávaða sem þeir telja að berist frá Höllinni. Rannsókn var gerð á hávaða frá Höllinni dags. 2. desember 2002. Niðurstöður rannsóknarinnar gáfu til kynna að endurbætur á þaki og þakglugga væru nauðsynlegar þar sem hávaði sem frá húsinu stafaði væri  langt umfram þau mörk sem sett eru fram í reglugerðum um hávaða. Þann 25. nóvember 2008 veitti heilbrigðisnefnd Suðurlands Millet ehf. starfsleyfi til handa Höllinni í Vestmannaeyjum. Kærandi kvartaði undan ákvörðun nefndarinnar með tölvupósti þann 30. nóvember 2008 og óskaði eftir frekari upplýsingum sem lágu til grundvallar ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar. Kærði svaraði þeirri fyrirspurn kæranda með tölvupósti þann 1. desember 2008.

Með stjórnsýslukæru dags. 23. febrúar 2009 kærði kærandi framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar.

Kærða var með bréfi dags. 27. mars 2009 gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau 20. maí 2009.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi málsins, Friðbjörn Ó. Valtýsson, er íbúi í efsta hverfi Vestmannaeyja sem staðsett er upp undir Helgafelli. Kærandi telur að óásættanlegt sé að hafa skemmtistað staðsettan innan friðsæls íbúahverfis sem staðsett sé langt frá athafnarsvæði bæjarins.

Kærandi telur sig hafa orðið fyrir miklu ónæði vegna skemmtistaðarins og telur að um sé að ræða mjög óvandaða byggingu hússins til þeirrar notkunar sem um er rætt.

Til stuðnings kröfu sinni bendir kærandi á að hávaði af völdum tónlistar frá Höllinni sé langt umfram það sem telst vera ásættanlegur fyrir íbúa innan íbúahverfis.

Þá telur kærandi túlkun heilbrigðisnefndar Suðurlands vera alranga þ.e. að túlka  rafmangnaða rokktónlist þannig að ekki sé um að ræða ríkjandi tón eða högghljóð sem falli þar af leiðandi ekki undir ákvæði reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða.

Kærandi telur að niðurstaða heilbrigðisnefndar Suðurlands sem kveður á um að ekkert ónæði sé frá dansleikjum í Höllinni umfram það sem fyrir er í hverfinu, sé alröng og telur hana vera „grátbroslegt yfirklór“.  Kærandi bendir á að ástæða þess að kvartað er undan skemmtistaðnum, sé ófullnægjandi húsnæði sem skemmtistaðurinn er staðsettur í. Það að verklagsreglur séu settar fram í starfsleyfi sé ekki vandamálið sem hér sé deilt um.

Kærandi telur sig því verða að kæra útgáfu starfsleyfis frá 20. nóvember 2008 af hálfu heilbrigðisnefndar Suðurlands, til skemmtistaðarins Hallarinnar og krefst þess að stafsleyfið verði fellt út gildi á grundvelli reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða og ekki gefið út nýtt starfsleyfi fyrr en tryggt sé að húsnæðið standist kröfur um hljóðmengun.

V. Málsástæður og rök kærða

Kærði, heilbrigðisnefnd Suðurlands telur að málið eigi ekki undir úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir þar sem kæra kæranda varði útgáfu á starfsleyfi en samkvæmt 32. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal leggja allan ágreining er varðar útgáfu starfsleyfis fyrir ráðherra.  Kærði telur því að fella eigi málið niður fyrir úrskurðarnefndinni.

Kærði bendir á að þegar kæranda var tilkynnt ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands um útgáfu starfsleyfis með bréfi dags. 25.11.2008 var hann upplýstur, fyrir mistök, um kæruheimild til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir í stað Umhverfisráðuneytis, þar sem um útgáfu á starfsleyfi var að ræða. Þegar þessi mistök urðu ljós hafði kærði samband við úrskurðarnefnd og upplýsti um framangreind mistök.

Kærði telur að kærur sem borist hafa úrskurðarnefndinni eigi að framsenda til Umhverfisráðuneytsins í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar 

Mál þetta snýst um útgáfu á starfsleyfi til Hallarinnar Vestmannaeyjum af heilbrigðisnefnd Suðurlands þann 25. nóvember 2008 og hvort mál þetta eigi undir úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Almenn kæruheimild til ráðherra er að finna í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar kemur fram að aðila máls er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju.

Kæruheimild til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og megunarvarir er að finna í 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í 1. mgr. 31. gr. laganna segir að rísi ágreiningur um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir yfirvalda sé heimilt að vísa málinu til sérstakrar úrskuðarnefndar. Í síðari málslið 1. mgr. 31. gr. segir að framangreint gildi þó ekki þegar umhverfisráðherra fari með úrskurðarvald samkvæmt lögunum, sbr. ákvæði 32. gr., eða þegar ágreiningur rís vegna ákvörðunar um útgáfu starfsleyfis samkvæmt ákvæði 6. gr. laganna.

Ágreiningur aðila varðar ekki eftirlit eða skort á eftirliti með stafsemi Hallarinnar eða framkvæmd laganna sem þá ætti undir úrskurðarnefndina sbr. 1. ml. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 7/1998. Sjórnsýslukæra kæranda ber það skýrt með sér að kærð er ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands um útgáfu á stafsleyfi til handa Höllinni Vestmannaeyjum. Ágreiningur er varðar ákvörðun um útgáfu starfsleyfi á réttilega undir umhverfisráðherra samkvæmt nefndri 32. gr., ekki úrskurðarnefnd. Þá hefur umhverfisráðuneytið ekki kveðið upp úrskurð varðandi þennan ágreining.

Kæranda var tilkynnt með bréfi kærða dags. 25. nóvember 2008 að kæruheimild í málinu væri til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir í stað Umhverfisráðuneytis þar sem um útgáfu starfsleyfis var að ræða. Kærði leiðrétti framangreind mistök um leið og þau urðu ljós með því að setja sig í samband við úrskurðarnefndina og tjáði henni að málið ætti réttilega undir Umhverfisráðuneytið, sbr. ákvæði stjórnsýslulaga. Ber að fallast á þær röksemdir kærða.

Það er afstaða úrskurðarnefndar að vísa beri frá kæru Friðbjörns Ó Valtýssonar.

Úrskurðarorð:     

Kæru Friðbjörns Ó. Valtýssonar er vísað frá úrskurðanefndinni.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal               Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 6/26/09

12/2008 Úrskurður vegna kæru Sláturfélags Suðurlands svf., gegn Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Krafa um að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað.

Með

Mál nr. 12/2008.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2008, þriðjudaginn 16. desember kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Suðurlandsbraut 6 í Reykjavík.  Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 12/2008 Sláturfélag Suðurlands svf., Fosshálsi 1, 110, Reykjavík, hér eftir nefndur kærandi gegn Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, hér eftir nefnt kærði.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Fyrir nefndinni liggur kæra Sláturfélags Suðurlands svf. dagsett 28. nóvember 2008 þar sem ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dagsett 3. september 2008 er kærð.   Með ákvörðuninni var kæranda gert að stöðva alla dreifingu og innkalla vörurnar McCormick Spicy Season All, McCormick Garlic Season All og McCormick Season All og áttu vörurnar ekki að vera til sölu eftir 3. desember 2008.

Framangreind ákvörðun var kærð þann 28. nóvember 2008.  Í kærunni var þess einnig krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað þar til nefndin kvæði upp fullnaðarúrskurð í málinu. Er sú krafa hér til umfjöllunar.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1. Stjórnsýslukæra dags. 06.02.2008

2. Athugasemdir kæranda dags. 14.12.2008

II.    Málsatvik

Kærandi flytur inn vörurnar McCormick Spicy Season All, McCormick Garlic Season All og McCormick Season All.  Honum var send ákvörðun kærða með bréfi dagsettu 3. september 2008.  Í ákvörðuninni var kæranda greint frá því að vörur hans innihéldu aukaefni, litarefnið E 160 b, sem var að mati kærða óleyfilegt í kryddi.  Var kæranda gert að stöðva dreifingu og innkalla vörurnar af markaði.  Vörurnar máttu ekki vera til sölu eftir 3. desember 2008.  Með tölvupósti dagsettum 3. desember 2008 var sá frestur framlengdur til 17. desember.  Enginn aðdragandi var að því að umrædd ákvörðun var tekin og kæranda var ekki veittur andmælaréttur.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi bendir á að innflutningur á umræddum vörum sé þáttur í atvinnustarfsemi hans.

Hann bendir á að atvinnufrelsi manna sé verndað í 75. gr. stjórnarskrárinnar.  Ákvæðið tryggi rétt manna til að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa með þeim skorðum sem settar eru í lögum.  Túlka beri þau lög sem fella byrðar eða skyldur á borgarana þröngt auk þess sem gæta verði meðalhófs.  Meginregluna um meðalhóf í stjórnskipunarrétti sé að finna í 12. gr. stjórnsýslulaga. Í reglunni felst meðal annars að hóf verði að vera í beitingu lögskýringakosta miðað við þá hagsmuni sem í húfi eru hverju sinni.  Þegar unnt er að velja milli lögskýringaleiða beri að velja vægasta kostinn, þ.e. þann kost sem skerðir stjórnarskrárvarin réttindi að sem minnstu marki.  Kærða beri að sýna fram á að til staðar séu þeir almannahagsmunir sem kalli á þá skerðingu sem fylgir ákvörðun kærða.  Það hafi hann ekki gert.

Kærandi tekur fram að við mat á því hvort fresta eigi réttaráhrifum beri að líta til réttmætra hagsmuna aðila málsins.  Kærandi bendir á að ekki var veittur andmælaréttur áður en ákvörðunin var tekin.  Kæranda var þannig ekki gefið tækifæri til að koma að sínum sjónarmiðum í málinu.  Ákvörðunin snertir að mati kæranda ekki mikilvæga almannahagsmuni.  Ekki hefur verið sýnt fram á að umrætt efni sé hættulegt. Innihaldsefnið sem um ræðir er ekki fortakslaust bannað heldur er það einungis bannað í ákveðnu samhengi.  Er það t.d. að finna í margs konar matvælum m.a. þeim flokki matvæla sem kærandi telur að vörurnar tilheyri. Sá rúmi frestur sem kærði hefur veitt sýni einnig að ekki eru veigamiklir hagsmunir í húfi.

Kærandi bendir á að ákvörðunin sé til þess fallin að valda kæranda töluverðu fjárhagslegu tjóni.  Verði réttaráhrifum ekki frestað munu vörurnar sem um ræðir verða fyrir mikilli neikvæðri umræðu og það valda óbætanlegu tjóni á þeirri neytendavild sem vörurnar njóta.  Það tjón verði ekki endurheimt þótt hin kærða ákvörðun verði ógilt á síðari stigum.

V. Málsástæður og rök kærða

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur krefst þess, að ekki verði tekið tillit til sjónarmiða kæranda varðandi frestun réttaráhrifa ákvörðunar um innköllun á McCormick kryddblöndum, sem kærandi flytur inn og dreifir hér á landi.

Í fyrsta lagi telur kærandi að ákvörðunin sé röng.  Um það verður endanlega fjallað í umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um aðalefni kærunnar, en því er mótmælt að um ranga ákvörðun sé að ræða.  Varan inniheldur kryddblöndu, sem að uppistöðu til er salt.  Skv. meðfylgjandi lýsingu framleiðanda á vörunni er ráðlagt að nota vörurnar í stað salts við eldun matar eða til að hafa með mat.   Sú röksemdarfærsla kæranda að umrædd vara sé aðeins ætluð til yfirborðsmeðhöndlunar mats stenst einfaldlega alls ekki, sbr. lýsingu framleiðanda sjálfs á vörunni.  Ákvörðun Heilbrigðiseftirlitsins er því rétt, en frjálsleg og heimasmíðuð túlkun kæranda röng.

Í öðru lagi telur kærandi að sér hafi ekki verið veittur andmælaréttur áður en ákvörðun var tekin.  Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur bendir á, að fyrirspurnir um vöruna voru sendar kæranda í tölvupósti 17. apríl s.l. og  ítrekaðar hinn 25. apríl.  28. apríl s.l.er  kærandi upplýstur um hvaða vankantar séu á vörunni.  Enn var haft samband við fulltrúa kæranda 26. maí og 2. júní og 3. júní barst svar frá kæranda.  3.  september óskar fulltrúi kæranda eftir fundi með Heilbrigðseftirlitinu til að koma að sjónarmiðum sínum og var fallist á þá beiðni.  Kærandi hefur enn ekki komið á fund og hefur ekki svarað fundarboði.  Í hálft ár hefur kæranda því verið ljóst, að varan væri með rangri innihaldslýsingu skv. reglum þeim, sem hér gilda.   Kæranda er endanlega kynnt ákvörðun Heilbrigðiseftirlitsins hinn 3. september og honum veittur frestur til 3. nóvember s.l. til að taka vöruna af markaði. Í því bréfi var kæranda veittur andmælaréttur, auk rúms frests til aðgerða og honum bent á kæruleiðir.  Kærandi fór síðan fram á aukinn frest í málinu og hefur honum verið veittur sá frestur, sem beðið var um eða til 17. desember n.k.    Ekki er því unnt að fallast á frekari fresti í máli þessu.  Kærandi hefur haft meira en hálft ár til að koma sjónarmiðum sínum og andmælum á framfæri, en ekki hirt um það og hefur ekki sinnt tilboði Heilbrigðiseftirlitsins um fund til að fara yfir málið.  Sjónarmiðum sínum hefur hann einungis komið á framfæri með stjórnsýslukæru sinni og eru það sjónarmið, sem hann hefur aldrei borið á borð Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.  Með tilliti til hins langa tíma frá því afskipti Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur hófust í máli þessu og tómlætis og tregra svara kæranda við að upplýsa málið, og þess, að kærandi hafði 2 mánuði til að koma andmælum sínum á framfæri, auk þess sem honum hefur verið veittur aukinn frestur til að koma sínum sjónarmiðum fram, er ekki hægt að fallast á að hann fái frekari fresti í máli þessu.

Kærandi heldur því fram að málið varði ekki mikilvæga almannahagsmuni.  Um það er ekki deilt, en önnur úrræði en að innkalla vöruna eru ekki fyrir hendi, auk þess sem Heilbrigðiseftirlitið verður að gæta jafnræðis við matvælaeftirlit.  Það er ófrávíkjanleg regla að ranglega merktar vörur eru innkallaðar og merktar á ný, oftast í góðri samvinnu við ábyrga matvælainnflytjendur.  Ábyrgðin er framleiðanda og dreifanda vöru.  Gætt hefur verið hagsmuna kæranda með því að veita honum aukna fresti í máli þessu og þannig dregið stórlega úr hugsanlegu fjárhagslegu tjóni hans, sem jafnframt er með öllu ósannað og órökstutt.  Líklegra er hins vegar, að kærandi valdi sjálfur óbætanlegu tjóni á neytendavild vörunnar með því veita neytendum rangar upplýsingar um hana.  Ábyrgari afstaða hans væri að koma merkingu varanna í rétt horf og myndi það bæta stöðu hans á markaði, eins og dæmi sína, þegar framleiðendur eða dreifendur vöru leiðrétta mistök sín og sýna ábyrgð.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur  telur einnig, að kærunefnd skv. l. nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir sé komin á hálan ís með því að fara með beinum hætti inn í störf þess, veiti kærunefndin aukinn frest í máli þessu.  Kærunefndinni ber að úrskurða um lögmæti ákvarðana eftirlitsaðila, ekki taka beinar ákvarðanir um eftirlit.  Kærunefndin er ekki æðra stjórnvald heilbrigðiseftirlitsins í þeim skilningi, að hún geti tekið ákvarðanir fyrir það.  Hlutverk kærunefndarinnar er einfaldlega að skera úr um lögmæti ákvarðana eftirlitsaðilanna, ekki að sinna eftirlitsstörfum eða beita þvingunarúrræðum.

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Í 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er lögfest sú meginregla að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar stjórnvalds.  Í 2. mgr. 29 gr. laganna er kveðið á um, að heimilt sé að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar meðan kæra er til meðferðar, séu fyrir hendi ástæður sem mæla með því.  Þetta ákvæði hefur verið skýrt á þann veg að líta beri til réttmætra hagsmuna allra aðila málsins.  Líta beri til þess m.a. hversu langt er um liðið frá því að hin kærða ákvörðun var tilkynnt aðilum, og þess hversu líklegt sé að ákvörðuninni verði breytt.

Á það er fallist með kæranda að hagsmunir hans af frestun réttaráhrifa séu miklir.  Verði réttaráhrifum ekki frestað munu vörurnar sem um ræðir verða fyrir neikvæðri umræðu og er það til þess valdið að valda tjóni.  Það tjón verður ekki endurheimt þó hin kærða ákvörðun verði ógilt á síðari stigum.

Í greinargerð með stjórnsýslulögunum er að finna leiðbeiningar um notkun þess úrræðis að fresta réttaráhrifum ákvörðunar.  Meta verður í hverju tilviki fyrir sig hvort réttlætanlegt sé að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar. Við slíkt mat ber að líta til hagsmuna hjá öllum aðilum málsins. Líta ber til þess hversu langt er um liðið frá því að hin kærða ákvörðun var tilkynnt aðilum, en einnig verður að horfa til þess hversu líklegt það sé að ákvörðuninni verði breytt. Almennt mælir það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef til staðar eru mikilvægir almannahagsmunir, t.d. þar sem ákvörðun hefur að markmiði að koma í veg fyrir hættuástand. Það mælir hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls er aðeins einn og ákvörðun er íþyngjandi fyrir hann, veldur honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegur sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu, enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi. Loks má svo nefna þau tilvik þar sem kæruheimild verður í raun þýðingarlaus verði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar ekki frestað.

Að mati nefndarinnar eru rök til þess að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar.  Hún er íþyngjandi fyrir hann og til þess fallin að valda honum tjóni.     Kærði hefur enn ekki beitt þvingunaraðgerðum og ekki hefur verið sýnt fram á að hagsmunir hans standi gegn frestun.  Meðferð málsins hófst í apríl 2008 og í september 2008 tók kærði ákvörðun.  Málið var því í meðferð um nokkurra mánaða skeið áður en ákvörðun var tekin.  Málið er nú komið í formlegan farveg og að mati nefndarinnar mæla rök með því að fresta réttaráhrifum enda má búast við að efnisúrskurður liggi fyrir innan tíðar.   Langt er um liðið síðan ákvörðunin var tekin og ekki verður séð að hún snerti mikilvæga almannahagsmuni.

Með vísun til þess, sem að framan greinir er það niðurstaða nefndarinnar að fallast á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.

Úrskurðarorð:

Fallist er á frestun réttaráhrifa ákvörðunar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 3. september 2008.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                     Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 6/26/09

13/2008 Úrskurður í kæru Sláturfélags Suðurlands svf. dagsett 26. nóvember 2008 gegn Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

Með

Mál nr. 13/2008.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2009, fimmtudaginn 11. júní. kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Suðurlandsbraut 6 í Reykjavík.  Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 13/2008 Sláturfélag Suðurlands svf., Fosshálsi 1, 110, Reykjavík, hér eftir nefndur kærandi gegn Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, hér eftir nefnt kærði.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Fyrir nefndinni liggur kæra Sláturfélags Suðurlands svf. dagsett 26. nóvember 2008 þar sem ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dagsett 3. september 2008 er kærð.  Með ákvörðuninni var kæranda gert að stöðva alla dreifingu og innkalla vörurnar McCormick Spicy Season All, McCormick Garlic Season All og McCormick Season All og áttu vörurnar ekki að vera til sölu eftir 3. desember 2008.

Framangreind ákvörðun var kærð þann 26. nóvember 2008.  Í kærunni var þess einnig krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað þar til nefndin kvæði upp fullnaðarúrskurð í málinu. Úr þeirri kröfu var leyst með úrskurði nr. 12/2008.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1. Stjórnsýslukæra dags. 26.11.2008

2. Athugasemdir kæranda dags. 15.12.2008

II.    Málsatvik

Kærandi flytur inn vörurnar McCormick Spicy Season All, McCormick Garlic Season All og McCormick Season All.  Honum var send ákvörðun kærða með bréfi dagsettu 3. september 2008.  Í ákvörðuninni var kæranda greint frá því að vörur hans innihéldu aukaefni, litarefnið E 160 b, sem var að mati kærða er óleyfilegt að bæta í kryddjurtir, krydd og kryddblöndur. Var kæranda gert að stöðva dreifingu og innkalla vörurnar af markaði. Vörurnar máttu ekki vera til sölu eftir 3. desember 2008.  Með tölvupósti dagsettum 3. desember 2008 var sá frestur framlengdur til 17. desember s.á. Þann 16 desember var kveðinn upp úrskurður þar sem fallist var á frestun réttaráhrifa þar til endanlegur efnis úrskurður yrði kveðinn upp af kærunefndinni.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi bendir á að innflutningur á umræddum vörum sé þáttur í atvinnustarfsemi hans.

Kærandi bendir á að atvinnufrelsi manna sé verndað í 75. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944. Ákvæðið tryggi rétt manna til að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa með þeim skorðum sem settar eru í lögum sem ávallt verði að túlka þröngt.  Kærandi krefst þess að málsmeðferð verði í samræmi við þá hagsmuni sem í húfi eru og að þeim verði ekki settar þrengri skorður en raunverulegur lagatexti og viðurkenndar lögskýringarreglur geri ráð fyrir.

Kærandi byggir ennfremur á að við túlkun laga ber stjórnvaldi að hafa til hliðsjónar þau stjórnarskrárvörðu réttindi sem um ræðir og gæta meðalhófs. Meginregluna um meðalhóf í stjórnskipunarrétti sé að finna í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Í reglunni felst meðal annars að hóf verði að vera í beitingu lögskýringakosta miðað við þá hagsmuni sem í húfi eru hverju sinni.  Þegar unnt er að velja milli lögskýringaleiða beri að velja vægasta kostinn, þ.e. þann kost sem skerðir stjórnarskrárvarin réttindi að sem minnstu marki.

Kærandi telur að kærði beri að sýna fram á að til staðar séu þeir almannahagsmunir sem kalli á þá skerðingu sem fylgir ákvörðun kærða og telur að það hafi hann ekki gert. Þá verði einnig að sýna fram á nauðsyn þess að beita skerðingu en kærandi telur að til staðar verði að vera samfélagsleg nauðsyn sem réttlætt geti takmörkun á atvinnuréttindum manna.

Kærandi telur að ákvörðun kærða sé röng þar sem kærði hafi gengið út frá því að þær vörur sem hér um ræðir hafi verið felldar í flokk 12.2 í viðauka II (aukaefnalista) í reglugerð nr. 285/2002, með síðari breytingum.  Ber sá flokkur yfirskriftina kryddjurtir, krydd og kryddblöndur. Kærandi fellst ekki á þess skilgreiningu og flokkun varanna. Telur kærandi að við heimfærslu til umræddra undirkafla verði að velja sértækari valkost umfram þann almennari.  Kærandi viðurkennir að umræddar vörur séu bragðbætandi en þeim er hinsvegar ekki ætlað að vera blandað í matvæli eins og kryddi, kryddjurtum og kryddblöndum. Sérstaða vörunnar er umfram allt annað að henni er ætlað að hafa sjónræn áhrif. Kærandi telur því að vörunni sé fyrst og fremst ætlað til yfirborðsmeðhöndlunar á matvælum.  Í ljósi þess telur kærandi að rétt sé að flokka vörurnar í flokk 16.2 í nefndum aukaefnalista reglugerðar nr. 285/2002, með síðari breytingum sem ber yfirskriftina skreytingar og vörur til yfirborðsmeðhöndlunar.  Sú niðurstaða leiðir til þess að málatilbúnaður kærða er fyrir borð borinn enda umrætt aukaefni heimilt í vörum til skreytingar eða til yfirborðsmeðhöndlunar. Kærandi telur að vörurnar innihaldi aukaefnið E 160b af þeirri ástæðu einni að þær eru ætlaðar til yfirborðsmeðhöndlunar.

Kærandi telur að honum hafi ekki verið veittur kostur á að tjá sig um málið áður en kærði tók ákvörðun sem sé í andstöðu við 13. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt 13. gr. á aðili máls að eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli nema þegar afstaða aðila liggur fyrir eða er óþörf. Bréf kærða dags. 3 september 2008 hafi borist kæranda án undanfara og án aðdraganda. Kærandi telur að slíkt brot á andmælarétti leiði til þess að ógilda eigi ákvörðun kærða.

Kærandi vekur jafnframt athygli á að margir aðilar, aðrir en kærandi, flytja inn umræddar vörur en úrskurður kærða beinist aðeins að kæranda. Slíkt sé brot gegn 11. gr. stjórnsýslulaga sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Kærandi telur að ákvörðunin muni ekki þjón tilgangi sínum ef henni er aðeins beint að kæranda þar sem seljendur munu einfaldlega snúa sér til þeirra aðila sem heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur ekki þótt ástæða til að banna dreifingu umræddra vara.

V. Málsástæður og rök kærða

Kærði mótmælir því að um ranga ákvörðun sé að ræða. Varan sé kryddblanda sem að uppistöðu til er salt sem eigi að falla undir viðauka II í reglugerð 285/2002 með síðari breytingum þar sem um sé að ræða kryddblöndu. Kærði bendir á að samkvæmt lýsingu framleiðanda á vörunni er ráðlagt að nota vörurnar í stað salts við eldun matar eða til að hafa með mat. Kærði telur að sú röksemdarfærsla kæranda að umrædd vara sé aðeins ætluð til yfirborðsmeðhöndlunar mats standist alls ekki, sbr. lýsingu framleiðanda sjálfs á vörunni.  Kærði telur því ákvörðun Heilbrigðiseftirlitsins rétta en frjálsleg og heimasmíðuð túlkun kæranda sé röng.

Hvað varðar meint brot kærða á andmælarétti kæranda bendir kærði á að fyrirspurnir kærða um vöru kæranda hafi verið sendar kæranda í tölvupósti 17. apríl s.l. og  ítrekaðar hinn 25. apríl og aftur 28. apríl 2008 en þar hafi kærandi verið upplýstur um hvaða vankantar væru á vörunni.  Þá bendir kærði á að enn hafi verið haft samband við fulltrúa kæranda þann 26. maí og 2. júní og 3. júní hafi svo borist svar frá kæranda. Þann 3.  september hafi fulltrúi kæranda óskað eftir fundi með kærða til að koma að sjónarmiðum sínum og var fallist á þá beiðni.  Kærandi hefur hins vegar ekki enn komið á fund við kærða og hefur ekki svarað fundarboði.  Kærði telur því að í hálft ár hefur kæranda því verið ljóst, að varan væri með rangri innihaldslýsingu skv. reglum þeim, sem hér á landi gilda og hafi strax hinn 17 apríl 2008 komið að athugasemdum við fyrirspurnir kærða.

Kæranda er endanlega kynnt ákvörðun Heilbrigðiseftirlitsins hinn 3. september 2008 og honum veittur frestur til 3. nóvember s.á. til að taka vörurnar af markaði. Í því bréfi var kæranda veittur andmælaréttur, auk rúms frests til aðgerða og honum bent á kæruleiðir.  Kærandi fór síðan fram á aukinn frest í málinu og hefur honum verið veittur sá frestur, sem beðið var um eða til 17. desember 2008. Kærði telur því að kæranda hafi verið veittur andmælaréttur en þau sjónarmið sem koma fram í stjórnsýslukæru kæranda eru sjónarmið sem hann hefur aldrei borið á borð Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, enda hafi hann ekki sinnt fundarboði kærða til að fara yfir mál þetta.

Kærði bendir á að málið varði ekki mikilvæga almannahagsmuni en kærði telur að um það sé ekki deilt. Ágreiningur aðila varðar innköllun á vöru sem inniheldur óleyfilegt aukaefni E 160 b.  Kærði bendir á það að ófrávíkjanleg regla er að ranglega merktar vörur eigi að innkalla og merkja á ný.  Ábyrgðin er á framleiðanda og dreifanda viðkomandi vöru.  Kærði telur að gætt hafi verið hagsmuna kæranda með því að veita honum aukna fresti í máli þessu og þannig dregið stórlega úr hugsanlegu fjárhagslegu tjóni hans, sem jafnframt að mati kærða er með öllu ósannað og órökstutt. Kærandi eigi að koma merkingu varanna í rétt horf sem myndi bæta stöðu hans á markaði, eins og dæmi sína, þegar framleiðendur eða dreifendur vöru leiðrétta mistök sín og sýna þar með ábyrgð gagnvart neytendum.

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Ágreiningur í máli þessu snýst um það hvort ákvörðun kærða um innköllun á vörum kæranda, McCormic Spicy Season All, McCormic Garlic Season All og McCormic Season All, sé röng.

Í reglugerð nr. 285/2002 (br. með 500/2005) um aukaefni í matvælum er að finna reglur er varða aukaefni í matvælum og aukaefni ætluðu til notkunar í matvælum eða sölu til neytenda sbr. 1. gr. reglugerðarinnar. Hugtakið aukaefni er skilgreint í 2. gr.: „Aukefni eru efni sem aukið er í fæðu til þess að hafa áhrif á geymsluþol, lit, lykt, bragð eða aðra eiginleika matvæla, eins og nánar er kveðið á um í viðauka 4. Í fullunninni vöru eru aukefni til staðar að öllu leyti eða að hluta, í breyttri eða óbreyttri mynd.“ Í 3. gr. sömu reglugerðar kemur fram að litarefni flokkist sem aukaefni ef þau gefa matvælum lit eða skila aftur lit matvæla og meðal þeirra eru náttúruleg innihaldsefni matvæla og náttúruleg efni sem alla jafnan er ekki neytt sem matvæla og eru ekki notuð sem einkennandi hráefni í matvæli. Í 4. gr. er kveðið á um þau efni sem ekki teljast til aukaefna. Í leiðbeiningum með reglugerð nr. 285/2002 um aukaefni í matvælum er að finna skýringu á 4. gr. þ.e. hvaða efni teljist ekki til aukaefna. Þar kemur fram að ýmis krydd, sem notuð eru til að gefa ákveðið bragð, teljist ekki til litarefna, þrátt fyrir að þau gefi matvælum lit. Upptalning á þeim kryddum sem ekki teljast til aukaefna er tæmandi. Þar segir að átt sé við  papriku, túrmerik og saffran.

Í 5. gr. reglugerðar nr. 285/2002 með síðari breytingum kemur fram meginregla. Þar segir að við tilbúning og framleiðslu matvæla er einungis heimilt að nota þau aukaefni sem fram koma í viðauka II (aukaefnalisti) við reglugerðina og með þeim skilyrðum sem þar koma fram. Í 9. gr. er kveðið á um ábyrgð framleiðanda og dreifanda en framleiðandi og dreifandi, þegar um innflutta vöru er að ræða, eru ábyrgir fyrir því að vörutegundir séu í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.

Ágreiningur aðila varðar skilgreiningu á vörunni þ.e. hvort varan falli í undirflokk 12.2. eða 16.2 í aukaefnalista reglugerðar nr. 285/2002, með síðari breytingum. Undirflokkur 12.2 ber yfirskriftina kryddjurtir, krydd og kryddblöndur. Þar er litarefnið sem um er deilt, E 160 b, ekki listað upp. Í undirflokki númer 16.2 sem ber yfirskriftina skreytingar og vörur til yfirborðsmeðhöndlunar er litarefnið E 160 b listað upp.

Kærandi telur að vörurnar eigi að falla undir flokk 16.2 þar sem vörunni sé ekki ætlað að vera blandað út í matvæli heldur aðeins ætlað að vera notað til yfirborðsmeðhöndlunar. Kærandi telur að samkvæmt meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga verði að velja sértækari kostinn umfram þann almenna. Kærði telur að um sé að ræða kryddblöndu sem að meginuppistöðu sé salt en framleiðandi vörunnar skilgreinir sjálfur vöru sína sem krydd sem megi nota í stað salts við eldun matar eða til að hafa með mat.

Í leiðbeiningum með reglugerð nr. 285/2002 um aukaefni í matvælum, með síðari breytingum segir að krydd falli undir flokk 12.2 sem og kryddjurtir. Þar er krydd eða kryddblanda ekki fellt undir flokk 16.2. Því ber að fallast á skilgreiningu kærða og framleiðanda vörunnar að um sé að ræða krydd sem fellur í undirflokk 12.2. í aukaefnalista  reglugerðar nr. 285/2002. Ekki hefur verið sýnt fram á af kæranda með haldbærum gögnum að vörurnar falli réttilega undir flokk 16.2 í aukaefnalista nefndrar reglugerðar en vörur kæranda eru, hvorki í reglugerð 285/2002 né leiðbeiningum við þá reglugerð, felldar í undirflokk 16.2.

Kærandi telur að hann verði fyrir umtalsverðu fjárhagslegu tjóni verði vörurnar innkallaðar. Það tjón er með öllu ósannað auk þess hefur kæranda verið tvívegis veittur frestur sem hann óskaði eftir og því ekki hægt að fallast á að tjón kæranda komi í veg fyrir innköllun á vörum sem eru óleyfilegar samkvæmt gildu reglugerðarákvæði. Hér verða hagsmunir neytenda að ganga framar hagsmunum framleiðanda og/eða dreifanda.

Samkvæmt 26. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir hefur heilbrigðisfulltrúi heimild til að beita þvingunarúrræðum til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Í 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laganna segir að heilbrigðisfulltrúi geti lagt hald á vörur og fyrirskipað förgun þeirra.  Í 29. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli er eftirlitsaðila heimilt að stöðva eða takmarka framleiðslu og dreifingu matvæla og leggja hald á þau þegar rökstuddur grunur er um að matvæli uppfylli ekki ákvæði laganna og eða reglugerða settra samkvæmt þeim.

Því ber að fallast á það með kærða að umdeildar vörur innihaldi óleyfilegt aukaefni, litarefnið E 160 b. Bann við notkun efnisins er skýrt í aukaefnalista við reglugerð nr. 285/2002, með síðari breytingum sem Heilbrigðiseftirlitinu er  heimilt að innkalla og farga samkvæmt nefndum lagaákvæðum.

Það er heimilt að innkalla óleyfilegar vörur sem uppfylla ekki skilyrði laga- og reglugerðarákvæða skv. l. 7/1998 og 93/1995. Fallast ber á það með kæranda að almenningi stafi ekki bráð hætta af því efni sem hér um ræðir en aukaefnið er eftir sem áður óleyfilegt samkvæmt nefndu reglugerðar- og lagaákvæðum.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 3. september 2008 er staðfest.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                                     Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 6/26/09

10/2008 Úrskurður vegna kæru landeigenda í Melaleiti Heilbrigðisnefnd Vesturlands, vegna brots á starfsleyfi

Með

Mál 10/2008.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2009, fimmtudaginn 11. júní kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Suðurlandsbraut 6 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 10/2008 Melaleiti, 301 Akranes, hér eftir nefndur kærandi, gegn Heilbrigðiseftirliti Vesturlands, Borgarbraut 14, 310 Borgarnes, hér eftir nefnt kærði.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags 21. ágúst 2008, kærðu landeigendur í Melaleitiúnbogason HH, (hér eftir nefndur kærandi) vegna brots á starfsleyfi þauleldisbús Stjörnugríss að Melum Hvalfjarðarsveit hvað varðar dreifingu á úrgangi á jörðinni Belgsholti. Þá leitaði kærandi eftir formlegri túlkun úrskuðarnefndarinnar varðandi tímamörk starfsleyfisins. Kærði er heilbrigðisnefnd Vesturlands.

Kærandi leitar eftir formlegri túlkun á því hvort tímamörk á dreifingu á úrgangi  samkvæmt starfsleyfi gildi einungis á jörð Mela. Krafa kæranda er byggð á því að  dreifing á seyru og svínaskít frá þauleldisbúinu á Melum hafi í för með sér loftmengun fyrir ábúendur í Melaleiti.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1. Stjórnsýslukæra dags. 21. 08. 08.  ásamt fylgiskjölum.

2. Athugasemdir kærða dags. 08.09.08 ásamt fylgiskjölum.

3.  Athugasemdir kærenda dags. 28.09.2008.

4.  Afrit af tölvupóstum er varða samskipti framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Vesturlands og fulltrúa Melaleitis dags. 14.07/15.07 og 22.07 2008 .

5.  Bréf frá Heilbrigðiseftirliti Vesturlands varðandi endurnýjun á starfsleyfi Stjörnugríss hf. dags. 8.02.08.

6. Starfsleyfi Stjörnugríss hf. dags. 29.10.03 ásamt fylgiskjölum.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II.    Málsmeðferð

Framangreind kæra barst úrskurðarnefnd 25. ágúst 2008.  Kæruheimild er í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna anna.

III. Málsatvik

Með kæru dags. 21.08.2008 til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir var kært vegna brota á starfsleyfi þauleldisbús Stjörnugríss að Melum í Hvalfjarðarsveit varðandi dreifingu svínaskíts frá búinu dagana 12. og 13. júlí 2008 þar sem dreifingin hafi átt sér stað utan leyfilegs dreifingartíma samkvæmt starfsleyfi frá 1997 og án þess að undanþága hefði verið veitt fyrir dreifingunni.

Óskaði kærandi eftir formlegri túlkun á því hvaða tímamörk gildi um dreifingu á úrgangi samkvæmt starfsleyfi.

Kærði svaraði erindi kæranda með bréfi dagsettu 08.09.2008.  Í svari kærða kemur m.a. fram sú ákvörðun að takmörkun á dreifingu úrgangs samkvæmt starfsleyfi Stjörnugríss hf. gildi aðeins um áburð á Melum, ekki áburðardreifingu á öðrum jörðum. Því nái dreifing áburðar á jörðinni Belgsholti ekki undir þær takmarkanir sem settar eru fram í starfsleyfi Stjörnugríss hf.

Kæranda var gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum kærða með bréfi dags. 19.09.2008 og bárust athugasemdir þann 28.09.2008.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi er eigandi jarðar sem staðsett er nærri þauleldisbúi Stjörnugríss hf. að Melum í Hvalfjarðarsveit.  Kærandi krefst þess að dreifing á svínaskít, sem upprunninn er frá svínabúinu á Melum, á aðra jörð, verði látin falla undir þær takmarkanir sem er að finna í starfsleyfi Stjörnugríss hf.

Kærandi byggir kröfu sína á grein 2.9 í starfsleyfi Stjörnugríss hf.  Krafan er sett fram vegna  brots á útgefnu starfsleyfi fyrir svínabúið Stjörnugrís hf. og reglum um loftmengun.  Kærandi heldur því fram að dreifing á svínaskít frá búinu dagana 12. og 13. júlí 2008 hafi verið utan leyfilegs dreifingartíma skv. starfsleyfi Stjörnugríss hf. frá 1997 án þess að undanþága hafi verið veitt frá starfsleyfinu. Kærandi byggir kæru sína á því að þauleldi sé starfsleyfisskyld starfsemi vegna mengunarhættu þar sem dreifing á úrgangi sé þar stór þáttur. Kærandi byggir jafnframt á því að starfsleyfi Stjörnugríss hf. innihaldi ekki reglur sem kveða á um það að úrgangi sem dreift sé á aðra bæi falli utan við umrætt starfsleyfi. Kærandi heldur því fram að tímamörk um dreifingu úrgangsins eigi að gilda óháð dreifingarstað.

Kærandi kvartar einnig undan því að á undanförnum árum hafi, og á umræddum tíma, verið veittar undanþágur frá starfsleyfi svínabús Stjörnugríss hf. vegna dreifingar á seyru og svínaskít á Melum. Sú dreifing valdi ábúendum á Melaleiti miklum óþægindum þar sem loftmengun frá úrganginum gerir útivinnu erfiða, mengun berist inn um glugga og dyr sem skerði lífsgæði ábúenda og rýri notagildi þeirra af landareign sinni.

Kærandi vekur jafnframt athygli á því að dreifing svínaskíts á jörð Mela hafi átt sér stað innan við 100 metra frá vatnsbakka, miðað við efri fjörumörk sem er einnig brot gegn nefndu starfsleyfi Stjörnugríss hf.

V. Málsástæður og rök kærða

Kærði, Heilbrigðisnefnd Vesturlands starfar á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Kærði veitti þauleldisbúi Stjörnugríss hf. starfsleyfi dags. 29 október 2003 en leyfið er gefið út skv. 6. gr. laga nr. 7/1998 og reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, sbr. 9. gr.

Í bréfi kærða kemur fram að umrætt starfsleyfi gildi fyrir starfsemi svínabús Stjörnugríss hf. að Melum, ekki aðra bæi. Um dreifingu á úrgangi fyrir starfsleyfisskylda búfjárframleiðslu gildir 7. gr. reglugerðar nr. 804/1999 (br. 592/2001) en þar segir að miða skuli við að dreifing búfjáráburðar fari að jafnaði fram á tímabilinu 15. mars til 1. nóvember ár hvert og að jafnaði sé ekki dreift á frosna jörð.

Í starfsleyfi svínabús Stjörnugríss hf. að Melum er þessi tímarammi hertur enn frekar en sbr. grein 2.9 í starfsleyfi svínabúsins. Þar segir að aðeins megi dreifa skít á tímabilinu 15. mars til 15. júní og 31. ágúst til 1. nóvember ár hvert. Aldrei megi dreifa áburði á frosna jörð eða gegnblauta. Í síðari málslið greinarinnar kemur svo fram að veita megi undanþágu frá þessu ákvæði í allt að viku ef nauðsyn ber til.

Kærði telur að starfsleyfi svínabús Stjörnugrís hf. að Melum gildi ekki fyrir aðra bæi sem hugsanlega kunna að nýta sér áburð frá Melum og telur kærði að ekki sé hægt að banna öðrum bæjum dreifingu á skít umrædda daga á grundvelli þeirra tímaskilyrða sem sett eru fram í starfsleyfi Stjörnugríss hf. og áburðardreifing á jörðinni Belgsholti brýtur því ekki í bága við umþrætt starfsleyfi þrátt fyrir að notast hafi verið við skít frá Melum.

Kærði telur einnig að umrætt svæði sé á aðalskipulagi skilgreint sem landbúnaðarsvæði og því verði íbúar á svæðinu, hvort sem þeir stunda landbúnað eða ekki, að una við þá lykt sem fylgir landbúnaðarstörfum.

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Ágreiningur í máli þessu snýst um dreifingu á svínaskít dagana 12. og 13. júlí 2008 á jörðinni Belgsholti, hvort dreifingin hafi verið brot gegn starfsleyfi Stjörnugríss hf. Þá er einnig deilt um túlkun á tímamörkum starfsleyfisins, hvort dreifing á svínaskít á aðrar jarðir en Stjörnugríss hf. falli undir umrætt starfsleyfi.

Í 3. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir kemur fram að hollustuhættir og mengunarvarnir taki í lögunum til hollustuverndar, mengunarvarnaeftirlits, vöktunar, tengdra rannsókna og fræðslu um þessi mál.  Hollustuvernd tekur til eftirlits með matvælum, fegrunar- og snyrtiefnum, eiturefnum og hættulegum efnum, húsnæði, öðrum vistarverum og umhverfi þeirra og öryggisþáttum þeim tengdum. Einnig tekur hún til sóttvarna og fræðslu í þessum efnum, m.a. með tilliti til manneldismála.

Mengunarvarnareftirlittekur til eftirlits með þeim þáttum sem eiga að fyrirbyggja eða draga úr mengun lofts, láðs eða lagar, eftirlits með eiturefnum og hættulegum efnum og fræðslu um þessi mál. Vöktun umhverfisins telst til mengunarvarnaeftirlits.

Með mengun er átt við það þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.

Heilbrigðiseftirlit tekur til hollustuhátta og mengunarvarna.

Í reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti sem sett var skv. 4. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir kemur fram í 7. gr. að stofnanir, fyrirtæki og önnur starfsemi sem talin er upp í fylgiskjali við nefnda reglugerð skuli hafa gilt starfsleyfi gefið út af heilbrigðisnefnd.

Stjörnugrís hf. var veitt starfsleyfi í samræmi við 6. gr. laga nr. 7/1998 sbr. einnig 9. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.  Þar í 3. gr. er hugtakið starfsleyfi skilgreint þannig að það sé ákvörðun viðkomandi heilbrigðisnefndar eða Hollustuverndar ríkisins í formi skriflegs leyfis þar sem tilteknum rekstraraðila er heimilað að starfrækja tilgreindan atvinnurekstur að því tilskyldu að hann uppfylli viðeigandi ákvæði laga, reglugerða og starfsleyfisins.

Í grein 6.6 við viðauka I í reglugerð nr. 785/1999 kemur fram að þauleldisbú fyrir svín sé starfsleyfisskylt. Í samræmi við það var Stjörnugrís hf. veitt starfsleyfi, gefið út af heilbrigðisnefnd Vesturlands, dags. 29.10.2003.

Almennar reglur fyrir dreifingu á skít fyrir starfsleyfisskylda búfjárframleiðslu er að finna í 7. gr. reglugerðar nr. 804/1999 þar sem kemur fram að almennt megi dreifa búfjáráburði frá 15. mars til 1. nóvember ár hvert. Þar sem dreifing á svínaskít er veigamikill þáttur í þauleldi svína og henni fylgi loftmengun, var slíkri dreifingu sett ströng skilyrði í starfsleyfi Stjörnugríss hf. þar sem dreifing er aðeins heimil 15. mars til 15. júní og 31. ágúst til 1. nóvember.

Af gögnum málsins má ráða að dreifing á svínaskít að Melum valdi kæranda verulegum óþægindum vegna þeirrar loftmengunar sem af henni hlýst. Í málinu liggur fyrir stjórnsýslukæra frá kæranda þar sem þessum óþægindum er lýst.

Starfsleyfið sem um er deilt er gefið út á viðkomandi rekstraraðila en hvergi er að finna ákvæði sem segir að reglur starfsleyfisins gildi um aðra búfjárframleiðslu eða aðra rekstaraðila eða dreifingu þeirra á svínaskít og gildir því um þá almennar reglur 7. gr. reglugerðar nr. 804/1999.

Með vísun til þess, sem að framan greinir, er það niðurstaða nefndarinnar að starfsleyfi Stjörnugríss hf. sé gefið út á rekstraraðilann Stjörnugrís hf. og eru skilyrði starfsleyfisins bindandi fyrir Stjörnugrís hf. ekki aðra. Áburður svínaskíts dagana 12. og 13. júlí 2008 á jörðina Belgsholt féll þar af leiðandi ekki undir umrætt starfsleyfi Stjörnugríss hf. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn í málinu sem sýna fram á að eigendur jarðarinnar Belgsholt hafi verið bundnir við samskonar skilyrði og Stjörnugrís hf. varðandi dreifingu á svínaskít.

Umrætt landsvæði er skilgreint sem landbúnaðarsvæði sem verður til þess að ábúendur svæðisins verða að una við þá lykt sem fylgir landbúnaðarstörfum en skv. 7. gr. reglugerðar nr. 804/1999 er áburður heimill á jarðir frá 15. mars til 1. nóvember ár hvert. Dreifing sem hér er deilt um átti sér stað innan þessara tímamarka og því ekki brot á nefndu reglugerðarákvæði.

Dreifing á svínaskít dagana 12. og 13. júlí 2008 á jörðina í Belgsholti var ekki brot gegn starfsleyfi Stjörnugríss hf. né 7. gr. reglugerðar nr. 804/1999. Ekki verður fallist á að áburður frá Stjörnugrís hf. á aðra jörð falli undir starfsleyfi Stjörnugríss hf.

Úrskurðarorð: 

Fallist er á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Vesturlands frá 8. september 2008.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                                      Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 6/26/09

2/2009 Úrskurður vegna kæru Gunnars Bernhards gegn Fljótsdalshéraði vegna rotþróargjalds á frístundarhús í Hjallaskógi.

Með

Mál nr. 2/2009.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2009, fimmtudaginn 11. júní  kom nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Suðurlandsbraut 6 í Reykjavík.  Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2009 Gunnar Bernhard, Langholtsvegi 78, Reykjavík, hér eftir nefndur kærandi, gegn Fljótsdalshéraði, Lynghálsi 12, 700 Egilsstaðir, hér eftir nefnt kærði.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 28. janúar 2009, kærði Gunnar Bernhardúnbogason HH, (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Fljótsdalshéraðs, (hér eftir nefnd kærði) frá 9. september 2008 þar sem því var hafnað að lækka eða falla frá rotþróargjaldi sem lagt var á frístundarhús í Hjallaskógi.

Er gerð sú krafa af hálfu kæranda að hreinsun á rotþró fari fram á fjögurra til sex ára fresti en ekki á tveggja ára fresti og að gjaldtaka fyrir hreinsunina verði lækkuð.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1. Stjórnsýslukæra dags. 28.01.2009 ásamt fylgiskjölum.

2. Athugasemdir kærða dags. 16.04.2009.

3.  Athugasemdir kæranda dags. 2. júní 2009.

4.  Bókun frá fundi fasteigna- og þjónustunefndar Fljótsdalshéraðs dags. 12.04. 2006 og 21.11.2007.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II.    Málsmeðferð

Framangreind kæra barst úrskurðarnefnd 28. janúar 2009. Kæruheimild er í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

III. Málsatvik

Með bréfi dags. 14. mars 2003 og aftur 10. janúar 2006 fór kærandi fram á lækkun á gjaldtöku fyrir hreinsun á rotþróm þar sem kærandi taldi hana ekki réttmæta.

Kærði svaraði erindi kæranda með bréfi dags. 12. apríl 2006. Í svari til kæranda kemur m.a. fram sú ákvörðun að ekki sé hægt að fallast á kröfu um lækkun eða niðurfellingu þjónustugjalda þar sem staðfestar samþykktir liggja fyrir um gjaldtökuna.

Með stjórnsýslukæru dags. 28.01.2009 kærði kærandi framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar.

Kærða var með bréfi dags. 27.03.2009 gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau 16.04.2009.

Kæranda var gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum kærða með bréfi dags. 20.05.2009 og bárust athugasemdir þann 02.06.2009.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi er landeigandi í Hjallaskógi á Egilsstöðum og á þar frístundarhús. Kærandi segir að landeigendur í Hjallaskógi hafi ávallt séð sjálfir um frárennslismál, sorphirðu og þess háttar enda sé landeigendum afar kært að halda umhverfi Hjallaskógar hreinu. Kærandi segir að landeigendur í Hjallaskógi hreinsi rotþrær og endurnýi þær eftir þörfum og hafi þeir gert það frá 1980.  Kærandi telur því gjaldtöku Fljótdalshéraðs fyrir hreinsun á rotþróm vera „ósanngjarna og tilhæfulausa“.

Kærandi byggir kröfu sína á því að þar sem landeigendur annist sjálfir þessa vinnu sé ekki rétt að krefjast greiðslu fyrir þjónustu sem ekki var innt af hendi. Þá séu öll frístundarhúsin í Hjallaskógi sumarhús en ekki heilsárshús. Því sé ekki rétt að innheimta rotþróargjald fyrir hreinsun á rotþróm annað hvert ár eins og um heilsárshús sé að ræða. Kærandi kveður mörg húsanna aðeins notuð 30 daga á ári og sum jafnvel minna. Þá sé lokað fyrir vatn í byrjun september ár hvert og fram í miðjan apríl vegna frosthættu. Þá séu húsin í Hjallaskógi ekki leigð út. Kærandi telur því óásættanlegt að Fljótdalshérað innheimti kr. 9.059 ár hvert fyrir hreinsun á rotþró sem fari fram annað hvert ár og telur að rotþró frístundarhúsanna þurfi aðeins að hreinsa fjórða til sjötta hvert ár vegna lítillar notkunar. Kærandi telur því ásættanlegt rotþróargjald sé kr. 3.020, þar sem  hreinsun fari fyrst og fremst eftir notkun.

Kærandi byggir ennfremur á því að kærði geti fylgst með notkun frístundarhúsanna í  Hjallaskógi þar sem þau séu aðeins í notkun yfir sumarmánuðina. Þá sé kærandi með rafmagnsmæli frá RARIK þar sem lesa má dvalartíma hans í frístundarhúsi sínu. Að lokum fellst kærandi á að greiða kr. 24.898 gegn því að hreinsun fari fram fjórða hvert ár.

V. Málsástæður og rök kærða

Kærði, Fljótsdalshérað, byggir á því að álagning rotþróunargjalda byggi á samþykktri gjaldskrá fyrir hreinsun rotþróa á Fljótdalshéraði, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda undir númerinu 301/2005. Fyrirkomulag tæmingar byggi á samþykkt Fljóstdalshéraðs um hreinsun, losun og frágang rotþróa á Fljótsdalshéraði nr. 260/2005, sem gerð var eftir umsögn Heilbrigðiseftirlits Austurlands og staðfest af umhverfisráðuneytinu.

Kærði byggir á því að eigendum rotþróa sé skylt að hlýta ákvörðun sveitarstjórna m.a að greiður aðgangur sé að rotþró sbr. 2. mgr. 4. gr. samþykktar nr. 260/2005. Álagning rotþróargjaldsins sé í samræmi við skyldur sveitarfélagsins í málaflokkum og miðast hún við að leggja gjald á þá sem þjónustuna nota og er í raun skylt að nota.

Kærði telur að hreinsun á rotþróm annað hvert ár sé í samræmi við þá skyldu sem á hann er lagt í 14. gr. reglugerðar nr. 799/1999 um meðhöndlun seyru þar sem segir að sveitarfélög eigi að koma á kerfisbundinni tæmingu á seyru úr rotþróm. Kærði bendir jafnframt á að það sé skylda á frístundahúsaeigendum að láta losa hjá sér seyru í samræmi við lög og reglur.

Kærði telur að sveitarfélög hafi heimild skv. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs að kveða á um meðhöndlun úrgangs úr rotþróm við sumarhús. Kærði bendir á að þessi atriði byggi á því mati sem löggjafar og reglugerðarhandhafar hafa talið vera nauðsynlegt að fari fram m.t.t. heilbrigðissjónarmiða og almannahagsmuna.

Kærði telur að ákvörðun og fyrirkomulag tæmingar byggi á skýrum lagaheimildum og sé innan sjálfsstjórnunarréttiar sveitarfélaganna og telur að slíkt eigi ekki að vera endurskoðað af úrskurðarnefnd.

Kærði bendir á að frístundarhús séu mismikið í notkun og því óframkvæmanlegt að með tilliti til öryggis, jafnræðis og kostnaðar að miða gjaldtöku við mismunandi afnot. Kærði byggir á því að hvergi komi fram í stjórnsýslukæru kæranda að álagning og gjöld vegna hreinsunar rotþróa séu í ósamræmi við meginreglur um þjónustugjöld. Kærði geti lagt fram yfirlit yfir kostnað hreinsunar á rotþróm, sé þess óskað. Kærði bendir á að Fljótsdalshérað sé stærsta sveitarfélag landsins auk þess sem það sé dreifbýlt og dýr tækjabúnaður sé notaður við losun á seyru.

Kærði telur að álagningin sé í samræmi við gjaldskrá sveitarfélagsins sem byggi á samþykkt um hreinsun og losun og fágang rotþróa á Fljótsdalshéraði og lagaheimildum sem hún hvílir á. Kærði bendir á að hann hafi ávallt svarað fyrirspurnum kæranda varðandi álagningu rotþróargjalda Fljótsdalshéraðs, þar hafi kærði skýrt fyrir kæranda  heimildir sveitarfélagsins til gjaldtökunnar.

Kærði telur að lokum að heimildir til gjaldtöku vegna seyrulosunar vera í samræmi við sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga og í samræmi við ákvæði laga.

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar 

Ágreiningur í máli þessu snýst um álagningu rotþróargjalds og hvort kærða beri að lækka eða falla frá gjaldtöku sinni fyrir hreinsun rotþróa.

Í 3. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir kemur fram að hollustuhættir og mengunarvarnir taki í lögunum til hollustuverndar, mengunarvarnaeftirlits, vöktunar, tengdra rannsókna og fræðslu um þessi mál.  Hollustuvernd tekur til eftirlits með matvælum, fegrunar- og snyrtiefnum, eiturefnum og hættulegum efnum, húsnæði, öðrum vistarverum og umhverfi þeirra og öryggisþáttum þeim tengdum. Einnig tekur hún til sóttvarna og fræðslu í þessum efnum, m.a. með tilliti til manneldismála.

Mengunarvarnaeftirlittekur til eftirlits með þeim þáttum sem eiga að fyrirbyggja eða draga úr mengun lofts, láðs eða lagar, eftirlits með eiturefnum og hættulegum efnum og fræðslu um þessi mál. Vöktun umhverfisins telst til mengunarvarnaeftirlits.

Með mengun er átt við það þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.

Heilbrigðiseftirlit tekur til hollustuhátta og mengunarvarna.

Reglugerð nr. 799/1999 um meðhöndlun seyru er sett samkvæmt ákvæðum 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og samkvæmt 9. gr. laga nr. 32/1986 um varnir gegn mengun sjávar með síðari breytingum. Jafnframt er reglugerðin sett að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga nr. 7/1998.

Í 1. gr. reglugerðar nr. 799/1999 kemur fram að markmið hennar sé að setja reglur um notkun seyru og koma í veg fyrir skaðleg áhrif hennar á umhverfið og heilsu almennings. Í 3. gr. kemur fram að eftirlitsaðilar séu viðkomandi heilbrigðisnefnd og Hollustuvernd ríkisins. Þá kemur fram í 14. gr. að sveitarstjórnum sé skylt að koma upp kerfisbundinni tæmingu á seyru úr rotþróm.

Í 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuvernd og mengunarvarnir kemur skýrt fram að sveitarfélög megi setja sér samþykktir og gera þar ítarlegri kröfur en fram koma í reglugerðum. Á grundvelli þess setti kærði samþykkt Fljótsdalshéraðs nr. 260/2005 um hreinsun, losun og frágang rotþróa við Fljótsdalshérað þann 22. febrúar 2005 í samræmi við nefnda 25. gr. sem staðfest var af ráðherra. Í 1. gr. samþykktar nr. 260/2005 kemur fram að hreinsun rotþróa sveitarfélagsins skuli fara eftir þeirri samþykkt. Í 2. gr. samþykktarinnar segir að Fljótsdalshérað annist alla meðhöndlun seyru í sveitarfélaginu þ.e. seyrulosun úr rotþróm og hreinsun. Í 4. gr. kemur svo fram að hreinsun skuli fara fram annað hvert ár.

Gjaldskrá nr. 301/2005 fyrir hreinsun rotþróa á Fljótsdalshéraði er byggð á samþykkt um hreinsun, losun og frágang rotþróa á Fljótsdalshéraði nr. 260/2005 og 5. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, með síðari breytingum. Gjaldskrá þessi var samþykkt af umhverfis- og náttúruverndarnefnd Fljótsdalshéraðs þann 16. febrúar 2005, og staðfest af bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs þann 2. mars 2005. Í 2. gr. gjaldskrárinnar kemur skýrt fram hvert þjónustugjald sé fyrir hreinsun á rotþró og er þá farið eftir fermetrastærð viðkomandi eigna. Í 3. gr. gjaldskrárinnar er skýrt ákvæði um gjalddaga rotþróargjalds.

Kærandi telur að fella eigi niður eða lækka árleg rotþróargjöld út frá sanngirnissjónarmiðum, þar sem kærandi dveljist aðeins nokkra mánuði á ári í frístundarhúsi sínu í Hjallaskógi m.a. þar sem húsið sé ekki heilsárshús og hreinsun annað hvert ár sé því óþörf. Kærði telur ekki fært að fylgjast með dvöl kærða eða annarra í frístundarhúsum í Hjallaskógi. Slíkt  hefði í för með sér aukna vinnu og kostnað fyrir kærða. Kærði bendir á að kostaður af þessum málaflokk megi skýra með því að um sé að ræða stærsta sveitarfélag landsins auk þess að það sé mjög dreifbýlt og tækjabúnaður sem notaður sé við seyrulosun sé dýr. Þá séu þeir sem annist seyrulosun starfsleyfisskyldir og eyðing og urðun seyru kostnaðarsöm.

Árlegt þjónustugjald fyrir hreinsun á rotþró sem hér er deilt um á sér stoð í gjaldskrá nr. 301/2005 sem sett er á grunni samþykktar nr. 260/2005 og 25. gr. l. 7/1998. Innheimta kærða á umdeildu þjónustugjaldi á sér því skýra laga- og reglugerðarheimild og því er innheimta þess ekki ólögmæt og ekkert hefur komið fram í málatilbúnaði kæranda að gjaldtakan sé ómálefnaleg eða í andstöðu við þær reglur sem gilda um þjónustugjöld. Þvert á móti er um skyldu að ræða sem laga- og reglugerðarhandhafar hafa lagt á kærða sem kæranda og öðrum frístundarhúsaeigendum er skylt að fara eftir.

Kærði hefur vald til þess að kveða á um inntak skyldu sinnar í skjóli sjálfstjórnarréttar síns sem hann hefur ákveðið að fari fram annað hvert ár sbr. 4. gr. samþykktar nr. 260/2005 en sú samþykkt hefur lagastoð sbr. 25. gr. l. 7/1998. Kærða ber ekki skylda samkvæmt nefndum reglugerðar- og lagaákvæðum að fylgjast með dvöl frístundarhúsa í Hjallaskógi, heldur þvert á móti ber eigendum frístundarhúsa Hjallaskógar skylda til að fara eftir aðgerðum sveitastjórnar Fljótdalshéraðs sbr. 5. mgr. 4. gr. samþykktar nr. 260/2005. Því verður ekki fallist á kröfur kæranda þess efnis að kærði skuli hreinsa rotþrær á öðrum tíma en samþykkt nr. 260/2005 kveður á um.

Með vísan til þess, sem að framan greinir er það niðurstaða nefndarinnar að staðfesta beri ákvörðun Fljótsdalshrepps frá 9. september 2008 þar sem kröfu kæranda var hafnað um að lækka eða fella niður rotþróargjald.

Úrskurðarorð: 

Ákvörðun Fljótsdalshrepps frá 9. september 2008 er staðfest.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                             Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 6/26/09

7/2008 Úrskurður vegna kæru Sigríðar Steinunnar Þrastardóttur, gegn Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar.

Með

Mál nr. 7/2008.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2008, þriðjudaginn 16. desember kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Suðurlandsbraut 6 í Reykjavík.  Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2008. Sigríður Steinunn Þrastardóttir,  Sílakvísl 11, 110 Reykjavík hér eftir nefnd kærandi gegn Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar, hér eftir nefnt kærði.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 9. júlí 2008 Steinunn Guðbjartsdóttir

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1.      Stjórnsýslukæra dags. 09.07.2008 ásamt fylgiskjölum.

2.      Athugasemdir kærða dags. 01.09.2008 ásamt fylgiskjölum.

3.      Bréf úrskurðarnefndar til kæranda dags. 04.09.2008.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II.    Málsmeðferð

Kæruheimild er í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.  Kæran barst Úrskurðarnefndinni 09.07.2008.  Þegar umsögn barst frá kærða var hún send til kæranda og honum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.  Engar athugasemdir bárust frá kæranda.  Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna anna.

III. Málsatvik

Þann 31. mars 2008 barst kærða kvörtun frá einum sameigenda í húsinu að Sílakvísl 11, Reykjavík um að kærandi héldi óskráðan hund sem ónæði væri af.  Jafnframt kom fram að viðkomandi íbúi í húsinu mundi ekki veita samþykki sitt fyrir hundahaldinu.

Sama dag sendi kærði kæranda bréf þar sem athugasemdir voru gerðar við hundahaldið.

Kærandi sendi inn umsókn um leyfi til hundahalds dagsett 14.04.2008.

Eftir nokkur samskipti milli kærða og kæranda í síma sendi kærði kæranda bréf dagsett 2. maí 2008.  Í bréfinu var kæranda gert að fjarlægja hundinn úr húsinu.

Kærandi óskaði eftir upplýsingum og rökstuðningi fyrir synjuninni með bréfi dagsettu 22.05.2008.  Kærði svaraði með bréfi dagsettu 28.05.2008.

Með stjórnsýslukæru dags. 09.07.2008 kærði kærandi framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar.

Kærða var með bréfi dags. 20.08.2008 gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau 01.09.2008.

Kæranda var gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum kærða með bréfi dags. 04.09.2008.  Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi vísar til þess að samkvæmt 2. mgr. 6. gr. samþykktar nr. 52/2000 þurfi ekki samþykki annarra eigenda í fjöleignahúsum ef íbúð umsækjenda hefur sérinngang þó svo að um sé að ræða annars konar sameiginlegt húsrými eða lóð enda sé hundurinn ekki leyfður í því rými.   Kærandi segir að ákvæði þetta skuli skýra þröngt enda skerði það réttindi manna eins og friðhelgi einkalífs heimilis og fjölskyldu.  Líta beri til þess að verið sé að ganga á meginsjónarmið grendarréttarins með því að fara fram á að eigandi skuli taka tillit til veikleika eða viðkvæmni nágranna síns þegar hann ákveður hvernig hann vill hagnýta eignina sína.  Skoða þurfi tilgang laganna sem sé sá að vernda þá sem hafa ofnæmi fyrir dýrum en ekki til að vernda fólk sem hefur einungis vilja til að notfæra sér þessa grein til þess að stjórna því hvernig annað fólk kýs að hagnýta eign sína.

Í kærunni kemur fram að húsið að Sílakvísl 11 sé fjöleignahús þar sem allar íbúðir hafi sérinngang.  Húsið er á tveimur hæðum.  Á efri hæðinni eru 4 íbúðir og býr kærandi í annarri íbúð frá hægri.  Þessar íbúðir deila með sér stiga sem leiðir niður á stétt.  Neðri íbúðirnar þurfa aldrei að nota þessa stiga til að komast að íbúðum sínum eða öðru sameiginlegu rými.  Allar íbúðirnar deila svo ruslageymslu og hjólageymslu.  Kærandi hefur fengið samþykki allra íbúa á efri hæðinni fyrir hundahaldinu ásamt samþykki frá einum íbúa á neðri hæðinni.

Kærandi fellst ekki að á nauðsynlegt sé að fá samþykki allra íbúa í húsinu til að hundahald hennar verði leyft.  Hundurinn hafi engin áhrif á fólkið á neðri hæðinni.  Þá hafi sama fólk leyft annan hund á efri hæðinni sem geti ekki talist sanngjarnt.

V. Málsástæður og rök kærða

Kærði segir aðdraganda málsins þann að 31.03.2008 hafi Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar borist kvörtun frá einum sameigenda í húsinu að Sílakvísl 11, Reykjavík um að kærandi héldi óskráðan hund og að viðkomandi mundi ekki veita leyfi fyrir hundinum vegna ónæðis af hundahaldinu.  Sama dag sendi kærði kæranda bréf þar sem gerð var athugasemd við hundahaldið enda væri það án tilskilinna leyfa.  Þann 14.04.2008 sendi kærandi inn umsókn fyrir hundahaldinu ásamt greiðslu skráningargjalds.  Með bréfi kærða dags. 02.05.2008 var formlega áréttað að umsókn um leyfi fyrir hundinum væri hafnað með þeim rökstuðningi að samþykki fengist ekki og veittur andmælaréttur ásamt leiðbeiningum um kæruleiðir.  Kærandi nýtti sér andmælarétt sinn með bréfi dagsettu 22.05.2008 og sendi inn 4 af 6 undirskriftum fyrir samþykki til hundahalds frá íbúum í húsinu.  Í eftirliti þann 24.06.2008 kom í ljós að hundurinn var enn á staðnum, en að sögn kæranda var verið að vinna í að koma honum fyrir annars staðar.  Komið var aftur þann 04.07.2008 en þá var enginn heima nema hundurinn.  Í bréfi dagsettu 10.07.2008 var farið fram á aðstoð lögreglu við handsömun hundsins og fór lögreglan á staðinn 17. sama mánaðar en án árangurs.  Í lögregluskýrslu kemur fram að kærandi segist enn vera að reyna að koma hundinum fyrir annars staðar.  Kærða barst síðan bréf frá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þess efnis að lögreglan mundi ekki beita sér í handsömun hundsins þar sem ekki væri um opinbera rannsókn máls að ræða.  Á ofangreindu tímabili bárust að sögn kærða ítrekaðar kvartanir um ónæði vegna hundsins.

Kærandi vísar til 2. mgr. 6. gr. samþykktar nr. 52/2002 um hundahald í Reykjavík þar sem fram kemur að ekki þurfi samþykki sameigenda í húsi sé um sérinngang að ræða.  Kærði segist líta svo á að þörf sé á samþykki, sé um einhvers konar sameiginleg rými að ræða.  Í fjöleignahúsinu að Sílakvísl 11, Reykjavík hátti þannig til að um sameiginlega ruslageymslu, hjólageymslu og tröppuuppganga sé að ræða í húsinu.  Í 41. gr. laga um fjöleignahús kveði á um að hundahald sé bannað í fjöleignahúsum en hægt sé að gera sérstakar samþykktir í húsum s.s. að leyfa eða banna gæludýrahald.  Í uppkasti af fundargerð húsfundar komi fram að hundahald sé leyft en það eitt dugi ekki til þess,  jafnframt þurfi samþykki sameigenda.  Fundagerðarbók er týnd að sögn húseigenda og ekki vitað um lögmæti fundarins.

Í greinargerð kærða kemur fram  að í grendarrétti felist að eigandi eignar í fjöleignahúsi megi ekki nýta eign sína á þann hátt að það fari í bága við hagsmuni annarra eigenda.  Hagnýting eignar skal vera með þeim hætti að hún raski ekki venjulegum friði og valdi ekki óþægindum umfram það sem ætla má í eign af þessu tagi.  Þannig beri gæludýraeigendum að gæta sérstaklega að því að dýrin valdi ekki truflun og ónæði fyrir aðra íbúa fjöleignahúss, sérstaklega þegar litið er til þeirra ströngu ákvæða fjöleignahúsalaga um gæludýrahald sem er bannað að meginstefnu og eingöngu leyft með samþykki allra eigenda hússins.  Áskilnaður um samþykki eigenda fyrir hundahaldi er skilyrðislaus og ekkert rúm fyrir huglægt mat á því hvaða hvatir liggja að baki neitun.  Fyrir liggi fjöldi kvartana um ónæði af völdum hundsins sem nágranni segi að gelti í sífellu þegar hann sé einn heima.

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar.

Reglur um töku ákvarðana í fjöleignahúsum er að finna í 41. gr. laga um fjöleignahús nr. 26/1994.  Samkvæmt 13. tl. A liðar 41. gr. laganna þarf samþykki allra eigenda til ákvarðana um hvort halda megi hunda og/eða ketti í húsinu.  Þegar hús skiptist í aðgreinda hluta nægir samþykki þeirra eigenda sem hafa sameiginlegan inngang, stigagang eða annað sameiginlegt húsrými.

Um hundahald í Reykjavík gilda jafnframt ákvæði samþykktar nr. 52/2002 sem sett var með stoð í 25. gr. l. nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.  Skv. 2. gr. samþykktarinnar er meginreglan sú að hundahald er bannað í Reykjavík.  Heimilt er að veita einstaklingum undanþágu frá meginreglunni, að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Í 2. mgr. 6. gr. samþykktarinnar er tekið fram að þegar íbúð umsækjanda hefur sérinngang, þótt um sé að ræða annars konar sameiginlegt húsými eða sameiginlega lóð, þá sé veiting undanþágu til hundahalds ekki háð samþykki annarra eigenda, enda er öll viðvera og /eða umferð hundsins um slík rými stranglega bönnuð. Túlka ber heimild til að veita undanþágu frá banni við hundahaldi þröngt og verður að gera kröfu um að umsækjandi uppfylli öll skilyrði samþykktarinnar fyrir undanþágu.

Í fjöleignahúsinu að Sílakvísl 11 háttar þannig til að um sameiginlega ruslageymslu, hjólageymslu og tröppuuppganga er að ræða.  Að mati nefndarinnar er það skilyrði fyrir því að hundahald í húsinu að Sílakvísl 11, Reykjavík verði leyft að samþykki allra eigenda í húsinu liggi fyrir.  Áskilnaður um samþykki eignenda fyrir hundahaldi er skilyrðislaus og ekkert rúm fyrir huglægt mat á því hvaða hvatir liggja að baki neitun.

Með vísun til þess er það niðurstaða nefndarinnar að staðfesta ákvörðun Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar er staðfest.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                        Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 6/26/09

9/2008 Úrskurður vegna kæru Hauks Þórs Smárasonar gegn Heilbrigðiseftirliti Austurlands, frá 20 ágúst 2008.

Með

Mál nr. 9/2008.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2008, þriðjudaginn 16. desember kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Suðurlandsbraut 6 í Reykjavík.  Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 9/2008. Haukur Þór Smárason,  Brekkugötu 12, Akureyri, hér eftir nefndur kærandi gegn Heilbrigðiseftirliti Austurlands, hér eftir nefnt kærði. Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 26. ágúst 2008 kærði Haukur Þór Smárason ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Austurlands, frá 20 ágúst 2008 um að tíkinni Von skuli komið fyrir utan Seyðisfjarðarkaupstaðar.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1.      Stjórnsýslukæra dags. 26.08.2008 ásamt fylgiskjölum.

2.      Athugasemdir kærða dags. 09.09.2008 ásamt fylgiskjölum.

3.      Athugasemdir kæranda dags. 02.10.2008 ásamt fylgiskjölum.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II.    Málsmeðferð 

Kæruheimild er í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.  Kæran barst úrskurðarnefndinni 26.08.2008.  Þegar umsögn barst frá kærða var hún send til kæranda og honum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.  Athugasemdir kæranda bárust 02.10.2008.  Kærandi setti einnig fram kröfu um frestun réttaráhrifa en sú krafa var afturkölluð meðan á meðferð málsins stóð.  Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna anna.

III. Málsatvik

Kærandi er með lögheimili á Akureyri og er með leyfi til hundahalds þar.  Hann á ættingja á Seyðisfirði og dvelur talsvert þar.  Í júlí 2008 beit hundur kæranda kött til bana þegar hann dvaldi á Seyðisfirði

Heilbrigðiseftirlit Austurlands tók þá ákvörðun hinn 13. ágúst 2008 að fjarlægja ætti hundinn frá Seyðisfirði eins fljótt og auðið væri.

Með stjórnsýslukæru dags. 26.08.2008 kærði kærandi framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar.

Kærða var með bréfi dags. 01.09.2008 gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau 19.09.2008.

Kæranda var gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum kærða með bréfi dags. 02.10.2008.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi telur að kærði hafi brotið ólögfesta meginreglu stjórnsýsluréttar um að gæta skuli meðalhófs. Sú ákvörðun kærða að meina tíkinni dvöl á Seyðisfirði sé langt um of harkaleg. Koma megi í veg fyrir meinta hræðslu íbúa og vernd katta með vægari úrræðum svo sem skilyrðum um að tíkin sé alltaf tjóðruð við fastan húshlut eða í bandi hjá fullvaxta einstaklingi. Að reka tíkina burt úr heimabæ fjölskyldu kæranda sé alls ekki vægasta úrræðið í stöðunni.

Kærandi telur kærða hafa brotið rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga með því að rannsaka eigi málið til hlítar áður en ákvörðun var tekin. Ákvörðunin sé byggð á sögusögnum en ekki vottorðum sérfræðinga. Alls ekki sé rökstuddur grunur til að óttast að tíkin valdi nágrönnum eða íbúum á Seyðisfirði óþægindum eða raski ró þeirra, ekki frekar en aðrir hundar. Kæranda finnst kærði ekki hafa rannsakað málið nægilega t.d. var hundurinn ekki sendur í  skapgerðarmat.  Kærandi aflaði sjálfur skapgerðarmats sem sýndi fram á að hundurinn væri ekki hættulegur.

Kæranda var veittur frestur til andmæla kröfubréfi kærða.  Þann 19. ágúst sl. nýtti hann rétt sinn en strax daginn eftir ritaði kærði bréf þar sem ekki var fallist á andmæli hans og krafa um brottflutning hundsins ítrekuð.  Ekki var veittur neinn frestur til koma hundinum úr bænum. Kæranda var afhent bréfið á fundi 21. ágúst og frestinum lauk 22. ágúst þannig að svigrúm kæranda til að taka til viðeigandi ráðstafana var lítill sem enginn.

Að auki sinnti kærði ekki þeirri skyldu sinni að veita upplýsingar um kæruleiðir.

Kærandi á lögheimili á Akureyri og er með leyfi til hundahalds þar. Eftir ákvæðum samþykktar um hunda- og kattahald í Seyðisfjarðarkaupstað dagsett 4. maí 1998 eru ekki sérstakar reglur varðandi hunda sem eru skráðir í öðru bæjarfélagi en eru í heimsókn á Seyðisfirði. Skv. 1. gr. samþykktarinnar er hundahald í Seyðisfjarðarkaupstað aðeins háð þeim takmörkunum sem samþykktin kveður á um. Ekkert í samþykktinni kveður á um að gestir bæjarins geti ekki komið með hunda sína með sér í styttri og lengri heimsóknir.

Að sögn kæranda byggir kærði ákvörðun sína á tveimur ákvæðum samþykktarinnar. Annars vegar ákvæði d-liðar 2. gr. um að hundaeigandi skuli gæta þess að hundur hans valdi ekki hættu eða raski ró manna eða verði mönnum til óþæginda á neinn annan hátt. Óumdeilt er að tíkin, sem er 15 mánaða hvolpur, beit kött sem kom inná lóðina til hans, svo að kötturinn dó. Fjögur vitni voru að atburðinum og hafa tvö þeirra staðfest að þeim hafi alls ekki stafað ógn af tíkinni þegar atburðurinn átti sér stað.

Kærandi vísar jafnframt til álits Heiðrúnar Villu, hundaatferlisfræðings, sem telur mönnum og umhverfinu ekki stafa ógn af tíkinni. Tíkin sé hvolpur og hafi blandað saman leik og veiðieðli svo úr varð umrætt slys. Að mati sérfræðingsins mun slys sem þetta ekki koma fyrir aftur. Hundurinn sé með mjög gott geðslag og blíður við fólk og börn. Kærandi segist tilbúinn til að gera sitt til að fyrirbyggja frekari slys og að tíkin verði ekki laus utandyra og fari eingöngu út bundinn í sterkri keðju eða í fylgd einstaklinga sem fyllilega ráða við hana.

Hins vegar byggir kærði ákvörðun sína á 1. mgr. 4. gr. samþykktarinnar um að hunda sem ráðist á menn eða skepnur skuli fjarlægja, og heimilt sé að lóga þeim þegar í stað. Skv. orðanna hljóðan fjallar ákvæðið um handsömun hundaeftirlitsmanns og heimildir hans til að fjarlægja hunda og heimildir eigenda til að fá hunda afhenta til baka gegn framvísun leyfis og greiðslu handsömunargjalds. Ekki er um að ræða heimild til að meina hundi dvöl á Seyðisfirði.

Þess utan telst brot tíkarinnar minniháttar og ekki er um ítrekuð brot að ræða. Þá falla gæludýr skv. lagavenju ekki undir hugtakið skepnur þegar það er notað í réttarheimildum en þá er einkum átt við búfénað. Þannig er orðalag ákvæðisins óskýrt.

Kærandi krefst þess að ákvörðun kærða verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt leyfi til að hafa fjölskylduhund sinn með í för þegar hann heimsækir fjölskyldu sína á Seyðisfirði.

V. Málsástæður og rök kærða

Þótt ekki séu í samþykkt Seyðisfjarðarkaupstaðar ákvæði um tímalengd sem gestkomandi hundar mega dvelja í sveitarfélaginu, er að mati kærða óeðlilegt að dýr dvelji mánuðum saman utan þess sveitarfélags þar sem leyfi er fyrir þeim.  Í samþykkt Seyðisfjarðar um hunda- og kattahald er gert ráð fyrir að afla skuli leyfis fyrir hunda sem þar dvelja innan tveggja mánaða. Það er mat kærða að eðlileg krafa hafi verið að hundurinn færi til síns heima eða a.m.k. frá Seyðisfirði í ljósi þess að íbúar í nágrenninu höfðu mikinn ama af honum, og að ekki var leyfi fyrir tíkinni á Seyðisfirði og hún dvaldi nálægt tveimur mánuðum í bænum.

Í meðalhófsreglu felst að velja skuli vægasta kost til að ná fram ásættanlegri lausn.  Í samþykkt Seyðisfjarðarkaupstaðar segir að lóga megi hundum sem ráðast á menn eða skepnur.   Í samræmi við meðalhófsreglu segist kærði ekki hafa gert kröfur um að tíkin yrði aflífuð heldur aðeins færð frá Seyðisfjarðarkaupstað.

Kærði byggði sína ákvörðun á fundum sem haldnir voru á skrifstofu bæjarstjórnar Seyðisfjarðarkaupstaðar 12.08.2008 með kærða og á þeim staðreyndum máls sem þar komu fram, sem og upplýsingum sem tíundaðar voru í bréfi til kæranda 13.08.2008.  Kærandi hafði öll tækifæri til að kynna málstað sinn fyrir kærða.

Atferlismat fyrir hundinn, dags. 14.08.2008 liggur fyrir.  Í því kemur ekkert það fram sem tryggir að dýrið muni ekki hegða sér á sama hátt við svipaðar aðstæður.  Það er ennfremur mat kærða að veiðieðli dýrsins sé eðlilegt, en að einmitt vegna þess þurfi að gæta hundsins enn betur en ella og virða ótta nágranna þeim mun fremur, en ef veiðieðlið væri minna og hundurinn ekki jafnsterkur og raunin er.

Kærði telur því að rannsóknaskyldu hafi verði fullnægt.

Kærði hafnar því að ekki hafi verið gefið nægilegt svigrúm til að gera viðeigandi ráðstafanir eða koma hundinum fyrir utan Seyðisfjarðarkaupstaðar.  Um þetta hafi verið fjallað á fundi með kæranda 12.08.2008.  Þar var kæranda gefinn kostur á að gera ráðstafanir til að finna hundinum annan dvalarstað.  Kærði kveðst hafa sýnt sveigjanleika í málinu en ekki hörku.

Kærði telur heilbrigðiseftirliti skylt að vinna skv. ákvæðum hollustuháttareglugerðar nr. 941/2002 m.s.br. þar sem m.a. segir:  Gæludýr skulu þannig haldin að ekki valdi hávaða, ónæði, óhollustu eða óþrifnaði.  Að auki beri að fara eftir samþykktum sveitarfélaga um gæludýrasamþykktir.  Í samþykkt Seyðisfjarðarkaupstaðar um hunda- og kattahald frá maí 1998 segir: “Hundaeigandi skal gæta þess að hundur hans valdi ekki hættu eða raski ró manna eða verði mönnum til óþæginda á neinn annan hátt.

Varðandi það hvort hundar geti verið gestkomandi í Seyðisfjarðarkaupstað ótímabundið tekur kærði fram að í b lið samþykktar um hunda- og kattahald í Seyðisfjarðarkaupstað frá 1998 segi:  “Dragist lengur en tvo mánuði að skrá hund á skrifstofu sveitarfélagsins skal heimilt að innheimta tvöfalt skráningargjald.”  Af þessu er ljóst að ætlast er til að hundar sem íbúar á Seyðisfirði eiga  skulu ekki dvelja í sveitarfélaginu í meira en tvo mánuði án þess að leyfi sé veitt fyrir veru þeirra og skráningargjald greitt.  Það er óeðlilegt með öllu að gestir og hundar þeirra hafi rýmri rétt en íbúar og heimahundar og að gestahundar geti dvalið mánuðum saman í sveitarfélaginu án leyfisveitinga.

Að mati kærða skiptir ekki höfuðmáli hvort um hættulegt ástand var að ræða þegar hundurinn réðst á köttinn.  Hundurinn raskaði ró manna verulega og olli óþægindum.

Kærði leggur áherslu á að í mati Heiðrúnar Villu komi hvergi fram að tryggt sé að atvik svipað því sem henti 18.7. sl. geti ekki endurtekið sig.  Miklu frekar segir í hennar mati:  “Eigendur hunda með sterkt veiðieðli verða að gera sér grein fyrir því og fyrirbyggja slys sem geta þó alltaf komið fyrir.” Einnig segir í skýrslu hennar “.. minni dýr með snöggar hreyfingar verða oftast valdur að sterku veiðieðli…”

Þegar umrætt atvik átti sér stað gerðist annað tveggja að hundurinn reif sig lausan frá fullorðnum einstaklingi sem hélt í taum hans eða sleit tauminn eins og kemur fram í kærubréfi.  Það er mat kærða að af þessu sé ljóst að taumur er ekki nægilega traustvekjandi til að taka af óróa nágranna út af hundinum, né heldur ótta íbúa sem eru af einhverjum ástæðum hræddir við hunda.

Kærði furðar sig á þeirri fullyrðingu í kærubréfi að brot tíkarinnar sé minniháttar.  Missir gæludýrs er ekki minniháttar tilvik fyrir eiganda gæludýrsins og börn á hans heimili.

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Kærandi á hundinn Von af Rottweiler kyni sem fæddur er 29. maí 2007.  Kærandi er með lögheimili á Akureyri og er með leyfi til hundahalds þar.  Hann á ættingja á Seyðisfirði og dvelur stundum þar, m.a. sumarið 2008.

Um hundahald á Seyðisfirði  gilda ákvæði samþykktar dags. 4. maí 1998 sem sett var stoð í 25. gr. l. nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.  Skv. 2. gr. samþykktarinnar er heimilt að veita lögráða einstaklingum sem eiga lögheimili í bænum leyfi til hundahalds með ákveðnum skilyrðum.  Engar reglur eru um hunda sem eru gestkomandi í sveitarfélaginu en í b. lið 2. mgr. samþykktarinnar kemur fram að dragist lengur en 2 mánuuði að skrá hund megi innheimta tvöfalt skráningargjald.  Kærði túlkar ákvæðið þannig að hundar sem íbúar á Seyðisfirði eiga, skuli ekki dvelja í sveitarfélaginu lengur en tvo mánuði án þess að leyfi sé veitt fyrir veru þeirra þar.  Ekkert í samþykktinni kveður á um að gestir bæjarins geti ekki komið með hunda sína með sér í styttri og lengri heimsóknir.  Ekki er að finna ákvæði í samþykktinni um skammtímaheimsóknir hunda svo sem finna má í hliðstæðum samþykktum í öðrum sveitarfélögum.

Þann 18.07.2008 drap hundur kæranda heimiliskött sem kom inn á  lóðina þar sem hundurinn var.  Eftir atburðinn óskaði kærandi eftir mati frá hundaatferlisfræðingi.  Að áliti þess aðila geta atvik af þessu tagi gerst vegna sterks veiðieðlis.  Hundurinn hafi blandað veiðieðlinu við leik sem hafi orðið til þess að atburðurinn gerðist.  Hundurinn hafi verið ungur og ekki fullmótaður.

Samkvæmt gögnum málsins hafa ekki komið upp önnur atvik er varða þennan tiltekna hund.

Með bréfi dagsettu 13.08.2008 var kæranda tilkynnt sú niðurstaða kærða að fjarlægja bæri hundinn frá Seyðisfirði.  Jafnframt var tekið fram að meðan hundurinn væri á Seyðisfirði mætti hann ekki fara út nema í sterkri keðju sem fest væri tryggilega eða í fylgd einstaklinga sem réðu við hann.  Samkvæmt gögnum málsins virðist kærandi hafa fylgt þeim fyrirmælum.  Af þessu má ráða að mat kærða haif verið það að ekki stafaði slæik hætta af hundinum að hann þyrfti að aflífa.

Kærði byggir ákvörðun sína á tveimur ákvæðum samþykktar um katta og hundahald í Seyðisfjarðarkaupstað.  Annars vegar ákvæði d-liðar 2. gr. um að hundaeigandi skuli gæta þess að hundur hans valdi ekki hættu eða raski ró manna eða verði mönnum til óþæginda á neinn annan hátt.  Hins vegar byggir kærði ákvörðun sína á 1. mgr. 4. gr. samþykktarinnar um að hunda sem ráðist á menn eða skepnur skuli fjarlægja og heimilt sé að lóga þeim þegar í stað.  Hundurinn var hvorki fjarlægður af kærða eða aflífaður.

Samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til.   Þá felur reglan í sér að ef fleiri úrræða er kostur er þjónað geta því markmiði, sem að er stefnt, skal velja það úrræði sem vægast er. Íþyngjandi ákvörðun skal þannig aðeins taka að ekki sé völ vægara úrræðis sem þjónað geti markmiðinu.

Að mati kærunefndarinnar hefði verið unnt að ná því markmiði sem að var stefnt með öðru og vægara móti s.s. að krefjast þess að hundurinn væri ávallt tryggilega bundinn.

Að virtum þeim atriðum sem að framan eru rakin er það niðurstaða nefndarinnar að fallast á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun er ógilt.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                        Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 6/26/09

1/2008 Úrskurður vegna kæru Þyrluþjónustunnar gegn Umhverfissviði Reykjavíkurborgar.

Með

Mál nr. 1/2008.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2008, miðvikudaginn 18. júní kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Suðurlandsbraut 6 í Reykjavík.  Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2008 Þyrluþjónustan, Fluggörðum 23, Reykjavík hér eftir nefndur kærandi gegn Umhverfissviði Reykjavíkurborgar, Skúlagötu 19, Reykjavík , hér eftir nefnt kærði.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

 úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags 18. janúar 2008 kærði Þyrluþjónustan ákvörðun Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar, frá 18. október 2007 að stöðva alla starfssemi Þyrluþjónustunnar.

Er gerð sú krafa af hálfu kæranda að ákvörðuninni verði hnekkt.

Þá er þess krafist að kærða verði gert að greiða kæranda hæfilegan kostnað af því að halda upp kærunni.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1.      Stjórnsýslukæra dags. 18.01.2008 ásamt fylgiskjölum.

2.      Athugasemdir kærða dags. 18.02.2008.

3.      Athugasemdir kæranda dags. 10.03.2008.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II.    Málsmeðferð

Framangreind kæra barst úrskurðarnefnd 18. janúar 2008.  Kæruheimild er í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

III. Málsatvik

Með bréfi dags. 18.10.2007 til Flugstoða ehf. krafðist kærði stöðvunar á allri starfsemi Þyrluþjónustunnar ehf.  í Fluggörðum.  Í bréfinu kemur fram krafa um að stöðvun taki gildi eigi síðar en 1. nóvember 2007.

Með stjórnsýslukæru dags. 18.01.2008 kærði kærandi, Þyrluþjónustan ehf.  framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar.

Kærða var með bréfi dags. 25.01.2008 gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau 21.02.2008.

Kæranda var gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum kærða með bréfi dags. 27.02.2008 og bárust athugasemdir þann 10.03.2008.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi segir málavexti vera þá að kærandi hafi allt frá árinu 1989 rekið flugþjónustu með þyrlum frá Reykjavíkurflugvelli.  Félagið hafi lengst af haft aðstöðu við vestanverða norður-suður braut flugvallarins, við Skerjafjörðinn.  Þessi aðstaða hafi verið ófullnægjandi.  Félagið tryggði sér því aðstöðu í vestasta hluta Fluggarða, norður af Flugstöð FÍ og byggði þar upp starfsaðstöðu.  Félagið byggði sjálft akstursbraut fyrir flugvélar og lendingarpall fyrir þyrlur sem það hefur í rekstri.  Þessi framkvæmd segir kærandi að hafi verið í fullu samráði við Flugmálastjórn og flugvallaryfirvöld.  Kærandisegir að Flugvélaverkstæði Reykjavíkur starfi skv. starfsleyfi Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar, en flugrekstur sé aftur á móti ekki leyfisskyld starfsemi hvað umhverfissviðið varðar.

Kærandi segir að haustið 2006 hafi komið í ljós að óánægju gætti meðal íbúa í nálægu hverfi, sem töldu að aukinn hávaði bærist frá flugvellinum vegna flugtaka og lendinga þyrla á þyrlupalli félagsins.   Félagið lýsti þegar vilja gagnvart Flugmálastjórn að flytja aðstöðu sína á annað svæði á flugvellinum enda fengi félagið úthlutað aðstöðu til uppbyggingar.

Kærandi segist hafa haft af því spurnir að Umhverfissvið Reykjavíkurborgar hefði haft uppi athugasemdir í framhaldi af kvörtunum íbúanna.  Engum erindum hafi þó verið beint til kæranda heldur hafi Umhverfissvið alfarið beint athugasemdum sínum að yfirvöldum flugvallarins og Flugmálastjórn.  Engar rannsóknir munu heldur hafa farið fram á hávaða frá starfseminni eða hvort hann væri meiri en frá annarri flugstarfsemi í næsta nágrenni.  Flugmálastjórn staðfesti í erindi til samgönguráðuneytisins vegna umræddra kvartana að starfsemi Þyrluþjónustunnar væri í fullu samræmi við gildandi reglur og heimildir, sbr. fylgiskj. 3.

Kærandi hafði af því spurnir, að Umhverfissvið Reykjavíkurborgar setti Flugstoðum ehf., rekstraraðila flugvallarins, frest til að skila inn tímasettum áætlunum um flutning á starfsemi kæranda.   Þar sem kærandi hafði lýst vilja til að byggja upp aðstöðu á öðrum stað á flugvellinum leit kærandi svo á að í þessum bréfaskiptum fælist þrýstingur á flugvallaryfirvöld að finna slíka lausn svo byggja mætti upp á öðum stað.

Kærandi segir að skemmst sé frá því að segja að flugvallaryfirvöld hafa ekki boðið Þyrluþjónustunni ehf. neina úrlausn á að byggja upp á öðrum stað á flugvellinum.  Hins vegar hafi afskipti Umhverfissviðs orðið til þess að breyta afstöðu Flugmálastjórnar til starfseminnar.  Hafi stofnunin kosið að endurmeta áhættu af flugtaki og lendingum þyrla á athafnasvæði kæranda og miða þá við aðra staðla en áður var gert.  Jafnframt hafi verið breytt reglum, þannig að akstur þyrla, einna flugvéla, er bannaður innan Fluggarða, þar sem kærandi byggði upp starfsemi sína í góðu samráði við flugvallaryfirvöld fyrir aðeins tveimur árum.

Kærandi telur raunar augljóst að breytt afstaða Flugmálastjórnar og sértækar ráðstafanir sem til þess eru sýnilega ætlaðar að hindra hvers kyns umferð þyrla á athafnasvæði félagsins, sé til komin fyrir þrýsting frá kærða.  Ákvarðanir Flugmálastjórnar um málið hafa þegar verið kærðar til samgönguráðuneytis í samræmi við ákvæði laga þar um og eru eðlilega ekki tilefni til umfjöllunar kærunefnda.

Það er hins vegar ákvörðun kærða, sem birt er í bréfi til Flugstoða ehf. dags. 18. október sl. undir yfirskriftinni:  Stöðvun starfsemi Þyrluþjónustunnar í Fluggörðum.

Í bréfinu er rakið að kærði hafi gefið Flugstoðum endurtekna fresti til að finna Þyrluþjónustunni nýtt aðsetur á flugvallarsvæðinu, þar sem starfsemin ylli ekki auknu ónæði í íbúðarbyggð.  Engar áætlanir þar um hafi þó verið lagðar fram og ekki hafi verið óskað eftir frekari fresti.   Þá er vísað til ákvæða í hávaðareglugerð nr. 933/1999, 9. gr. C – lið, þar sem segir að flugvöll megi ekki staðsetja eða breyta þannig að heilsuspillandi hávaði hljótist af, eða truflun á einkalífi manna, vinnufriði eða næturró.  Með vísan til þessa ákvæðis krefst kærði þess

,,að öll starfsemi Þyrluþjónustunnar í Fluggörðum verði stöðvuð enda brjóti flutningur starfseminnar á þennan stað gegn ákvæðum starfsleyfis, ákvæðum hávaðareglugerðar og auk þess uppfyllir starfsemin ekki öryggiskröfur. Skal stövun starfsemi taka gildi eigi síðar en 1. nóvember nk.”

Þann 1. nóvember tók síðan gildi bann við flugtökum, lendingum og loftakstri þyrla fyrir framan flugskýli kæranda.

Kærandi bendir á að hin kærða ákvörðun beinist einvörðungu að kæranda en ekki þeim, sem tilkynnt var um hana og áður hafði verið í samskiptum við Umhverfissviðið.   Hann hafi því í reynd verið aðili máls, sem kærði hefði átt að gefa formlega kost á að tjá sig um það álitaefni sem uppi var, sbr. skýr ákvæði 13. gr. stjórnsýlulaga nr. 37/1993.  Honum var heldur ekki tilkynnt um ákvörðun Umhverfisstofu um stöðvun starfsemi hans, þvert á skýr fyrirmæli 20. gr. sömu laga.  Þá fól ákvörðunin í sér brýnt brot á rannsóknarreglu stjórnsýslulaganna, sbr. 10. gr. sömu laga, s.s. ákvörðunin er úr garði gerð.  Engin rannsókn var gerð á því, hvaða starfsemi kærandi hefur með höndum á starfsstöð sinni í Fluggörðum en allt að einu ákvað Umhverfissvið að  ,,öll starfsemi Þyrluþjónustunnar” skyldi stöðvuð.

Hin kærða ákvörðun hafi ennfremur falið í sér gróft brot á meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna, sbr. 12. gr. nefndra laga, þar sem augljóst er að ákvörðun um að banna alla starfsemi tiltekins fyrirtækis, jafnt hvers kyns flugrekstur sem og skrifstofuhald og annað það sem fellur undir starfsemi félagsins.  Engin rök af nokkrum toga standa til slíkrar ákvörðunar enda styðst slík ákvörðun að mati kæranda ekki við neinar lagaheimildir.   Eru enda engin rök færð fram fyrir því að stöðva þurfi alla starfsemi kæranda og felst raunar í því sjálfstætt brot á grunnreglum stjórnsýslulaganna.   Væri tilefni afskipta Umhverfissviðs að takmarka hávaða og truflun fyrir nágranna flugvallarins,  s.s. ráða má af bréfinu að hafi verið aðalatriði málsins, hefði mátt ná verulegum árangri í því efni með allt öðrum og vægari úrræðum.  Kæranda var ekki gefinn kostur á koma ábendingum eða tillögum um það efni á framfæri.  Er það einnig brot á grunnreglum stjórnsýslulaganna.

Kærandi bendir á að ákvörðun kærða sé svo fjarstæðukennd að engum hafi í reynd enn dottið í hug að framfylgja henni með valdboði. Þótt ákvörðun Flugmálastjórnar um bann við flugtökum og lendingum sé augljóslega tekin undir áhrifum af þrýstingi Umhverfissviðsins, þá er það sjálfstætt mál, sem er í kæruferli á öðrum vettvangi.  Ákvörðunin um bann við allri starfsemi kæranda á starfsstöð þess stendur hins vegar enn og veldur félaginu áhættu og verulegum óþægindum.  Ákvörðunin felur í sér óvenju margþætt og gróft brot á öllum helstu grunnreglum góðrar stjórnsýslu.  Því er óhjákvæmilegt að kæra hana og krefjast þess að hún verði ógilt.

Kærandi segir umsögn kærða um stjórnsýslukæru kæranda efnislega grundvallaða á tveimur málsástæðum.  Í fyrsta lagi því, að ákvörðunin hafi verið að engu hafandi enda hafi engin tilraun verið gerð til að framfylgja henni.  Í annan stað, að ákvörðun um stöðvun á ,,allri starfsemi” félagsins hafi í raun ekki komið kæranda við, þar sem Flugstoðir ehf. sé sá aðili, sem ákvörðunin hafi beinst gegn sem starfsleyfishafa flugvallarins.

Kærandi segir að gögn málsins sýni glögglega, að kærði hafi tekið stjórnvaldsákvörðun um það að stöðva bæri alla starfsemi kæranda og beindi þeirri ákvörðun til aðila sem stofnunin taldi sýnilega fær um að knýja á um að eftir ákvörðuninni væri farið.    Ákvörðunin var til þess fallin að hafa úrslitaáhrif um rekstrargrundvöll félagsins.   Krafa um stöðvun á ,,allri starfsemi” kæranda stendur óhögguð og það eins þótt henni hafi ekki verið framfylgt skv. efni sínu.

Ákvörðun kærða og krafa um stöðvun á allri starfsemi Þyrluþjónustunnar stendur hins vegar óhögguð og er háð öllum sömu annmörkum og þegar hún var tekin.

Kærði segir að í grunnreglum stjórnsýsluréttarins felist vernd einstaklinga og lögaðila gagnvart ólögmætum yfirgangi stjórnvalda.   Af þeim reglum leiðir, að ákvörðun stjórnvalds sem hefur fyrst og fremst áhrif á hagsmuni tiltekins lögaðila verður ekki tekin undir þeim formerkjum, að viðkomandi hafi ekki stöðu aðila máls gangvart stjórnvaldinu, á þeim grunvelli einum að stjórnvaldið kjósi að beina ákvörðunum sínum og þvingunaraðgerðum að þriðja aðila.

V. Málsástæður og rök kærða

Kærði, Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar, gerir þá kröfu að málinu verði vísað frá vegna aðildaskorts kæranda og þess að kærð er ákvörðun sem aldrei tók gildi eða kom til framkvæmdar.  Kærði segir að markmið kærunnar sé að ógilda ákvörðun sem aldrei tók gildi.  Kærði segir málavexti vera þá að um langan tíma hafi borist kvartanir íbúa í Litla Skerjafirði vegna hávaða frá þyrluflugi á vegum kæranda. Rekstraraðila Reykjavíkurflugvallar sem er Flugstoðir ehf. var gerð grein fyrir kvörtununum og hann krafinn úrbóta.  Kærði leggur áherslu á að það er rekstraraðilinn Flugstoðir ehf. sem hefur starfsleyfi til reksturs Reykjavíkurflugvallar og ber alla ábyrgð á starfsemi flugvallarins gagnvart eftirlitsaðila.  Rekstraraðilanum og starfsleyfishafnaðum  var veittur ítrekaður frestur til úrbóta vegna hávaða frá þyrluflugi og var að lokum kynnt sú ákvörðun kærða að stöðva alla starfsemi Þyrluþjónustunnar.

Kærði tekur fram að aldrei kom til stöðvunar rekstrarins af hálfu kærða heldur var starfsemin stöðvuð af þar til bærum aðilum að flugöryggisástæðum.  Ákvörðun Umhverfissviðs um stöðvun starfsemi tók því aldrei gildi þar sem starfsemin hafði verið stöðvuð áður en til hennar kom.

Í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir með síðari breytingum er að finna ákvæði um kæruheimild til úrskurðarnefndar skv. 31. gr. sömu laga.  Þar er ekki beinlínis kveðið á um kæruaðild heldur aðeins kveðið á um að komi upp ágreiningur um ákvarðanir yfirvalda megi kæra þá ákvörðun.  Í sömu lögum er síðan vísað beint til stjórnsýslulaga sem gilda skulu um framkvæmd laganna sbr. 30. gr. þeirra en þar er kveðið á um að fara skuli að ákvæðum stjórnsýslulaga við beitingu þvingunarúrræða skv. VI kafla laganna. Eðli máls samkvæmt verður því að fara að stjórnsýslulögum þegar ákvæði skortir í sérlög um kæruheimildir og kæruaðild.  Skv. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds.  Í 2. mgr. 26 .gr. er hins vegar kveðið á um að ákvörðun sem ekki bindur enda á mál, verði ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt.  Í hinu kærða tilviki Þyrluþjónustunnar hefur málið ekki verið til lykta leitt af hálfu umhverfissviðs, heldur af öðru stjórnvaldi og á öðrum forsendum, en eru á færi kærða skv. l. um hollustuhætti og mengunarvarnir.  Kærunni sé því beint að röngum aðila.

Samkvæmt 1. nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir ber starfsleyfishafi ríkar skyldur til að framfylgja og fara að útgefnu starfsleyfi.  Eftirlitsaðilar hafa sömuleiðis ríkar heimildir til að grípa inn í mál og þvinga starfsleyfishafa til aðgerða eða aðgerðaleysis.  Ekki eru beinar heimildir nema í undantekningatilvikum til að beina aðgerðum að öðrum aðila en starfsleyfishafa og þá eingöngu í þeim tilvikum að ekki sé um að ræða starfsleyfisskylda starfsemi og því engum starfsleyfishafa til að dreifa.  Í máli þessu hefur kærði beint kröfum sínum og átt samskipti við  starfsleyfihafann Flugstoðir ehf.  og ekki beint kröfum sínum beint til kæranda.  Kærandi og starfsleyfishafi hafi saman reynt að vinna að lausn málsins en án árangurs.  Að þeirri vinnu hefur kærði enga aðkomu.  Samkvæmt þessu hafi kærði því ekki heimild til að beina kröfum sínum til annarra en rekstraraðila og starfsleyfishafa Reykjavíkurflugvallar og gat því ekki beint kröfum sínum beint til kæranda.  Að mati kærða er óhjákvæmilegt að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Í 31. gr. l. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir er að finna ákvæði um kæruheimild til úrskurðarnefndar.  Þar er ekki beinlínis kveðið á um kæruaðild en tekið fram að komi upp ágreiningur um ákvarðanir yfirvalda, megi kæra þá ákvörðun.   Í lögunum er vísað til þess að stjórnsýslulög gildi um framkvæmd þeirra.  Skv. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnsýsluákvörðun til æðra stjórnvalds.  Til meðferðar í máli þessu er krafa kærða til Flugstoða ehf. rekstraraðila Reykjavíkurflugvallar um að öll starfsemi Þyrluþjónustunnar hf. í Fluggörðum verði stöðvuð.  Rekstraraðilinn Flugstoðir ehf. er sá aðili sem hefur starfsleyfi til reksturs Reykjavíkurflugvallar og ber ábyrgð á því sem þar fer fram, en kærandi starfar í skjóli hans.  Þegar tekin er ákvörðun um rétt eða skyldu manns eða stofununar hlýtur hún að teljast aðili málsins.   Af því leiðir að ákvörðun stjórnvalds sem hefur fyrst og fremst áhrif á hagsmuni tiltekins lögaðila verður ekki metin gild undir þeim formerkjum að viðkomandi hafi ekki stöðu aðila máls gangvart stjórnvaldinu.

Skoðun nefndarinnar í þessu máli beinist jafnframt að því hvort kærði hafi farið að öllu rétt að samkvæmt stjórnsýslulögum, þ.m.t. leiðbeiningar og upplýsingarskyldu og meðalhóf.

Kærandi var því í reynd aðili málsins sem kærði hefði átt að gefa formlega kost á að tjá sig um það álitaefni sem uppi var sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Hin kærða ákvörðun beindist  að kæranda en ekki þeim, sem tilkynnt var um hana.  Kærandi fékk ekkert tækifæri til að tjá sig eða koma að sjónarmiðum sínum.  Þá var kæranda ekki tilkynnt um hina kærðu ákvörðun svo sem áskilið er í 20. gr sl. Ekki verður séð að fyrir hafi legið hvaða starfsemi kærandi hafði með höndum á starfsstöð sinni í Fluggörðum en engu að síður ákvað kærði  að  öll starfsemi kæranda jafnt hvers kyns flugrekstur sem annað skyldi stöðvuð.  Að mati nefndarinnar stenst slík ákvörðun ekki.

Þykir því rétt að kærandi njóti vafans um hvort gætt hafi verið þess meðalhófs að velja skuli ætíð það úrræði sem vægast er þegar fleiri úrræða er völ.

Með vísun til þess, sem að framan greinir er það niðurstaða nefndarinnar að fallast á kröfu kæranda.

Ákvörðun kærða kom aldrei til framkvæmda þar sem Flugmálastjórn takmarkaði starfsemi kæranda af flugöryggisástæðum.    Ákvörðunin um bann við allri starfsemi kæranda stendur hins vegar enn.   Því er óhjákvæmilegt að fella hana úr gildi.   Með því er ekki haggað við ákvörðun Flugmálastjórnar um takmörkun á starfssemi kæranda.

Ákvörðun Umhverfissviðs Reykjavíkur frá 18. janúar 2008 um að krefjast þess að öll starfsemi Þyrluþjónustunnar í Fluggörðum verði stöðvuð er felld úr gildi.

Kærendur hafa í máli þessu gert kröfu um kærumálskostnað.  Valdheimildir úrskurðanefndarinnar eru markaðar í 31. gr. l. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.  Þar er ekki að finna heimild fyrir úrskurðarnefndina til að úrskurða um kærumálskostnað á hendur málsaðilum.  Verður kröfu kærenda um kærumálskostnað af þessum sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Umhverfissviðs Reykjavíkur frá 18. janúar 2008 er felld úr gildi.   Kröfu um málskostnað er vísað frá.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                   Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 6/23/08