Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

22/2011 Úrskurður um ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur um álagningu fráveitugjalds á fasteignirnar Vesturgötu 1 og Vesturgötu 121A á Akranesi.

Mál nr. 22/2011.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2012, mánudaginn 12. mars, kom úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 22/2011 Bifreiðastöð Þórðar Þ. Þórðarsonar ehf. gegn Orkuveitu Reykjavíkur.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 21. september 2011, kærði Benjamín Jósefsson, f.h. Bifreiðastöðvar Þórðar Þ. Þórðarsonar ehf. (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur (hér eftir nefnd kærði) um álagningu fráveitugjalds á fasteignirnar Vesturgötu 1 (fastanúmer 210-2451) og Vesturgötu 121A (fastanúmer 210-1116), Akranesi. Varðandi fasteignina Vesturgötu 1, má af gögnum málsins ráða að kæran taki til hluta þeirrar fasteignar, sem auðkenndur er númer 030101. Kærandi gerir þá kröfu að álagning fráveitugjalda á umræddar fasteignir verði felld niður og að úrskurðarnefndin skilgreini mörk milli þjónustugjalds og skatts. Kærði telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun um álagningu fráveitugjalds vegna Vesturgötu 1, en féllst á hinn bóginn á að fella niður álagningu fráveitugjalds vegna fasteignar kæranda að Vesturgötu 121.

II. Málsmeðferð

Kærandi málsins beindi kæru sinni til innanríkisráðuneytisins, sem framsendi erindið úrskurðarnefnd samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir með bréfi, dags. 29. september 2011. Barst kæran úrskurðarnefndinni þann 3. október 2011 og byggir hún á kæruheimild í 22. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009, sbr. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Meðfylgjandi kæru voru álagningarseðlar vegna vatns- og fráveitugjalda 2011 og afrit úrskurðar félagsmálaráðuneytisins frá 6. júlí 1998. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 4. október 2011, og óskaði eftir greinargerð hans í málinu. Sú beiðni var ítrekuð með bréfum úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. og 24. nóvember 2011. Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum með greinargerð, dags. 9. desember 2011. Greinargerð kærða var kynnt kæranda með bréfi, dags. 13. desember 2011. Sendi kærandi úrskurðarnefndinni athugasemdir, dags. 28. desember 2011, við greinargerð kærða. Voru athugasemdir kæranda kynntar kærða með bréfi, dags. 30. desember 2011. Þann 30. desember 2011 barst úrskurðarnefndinni í tölvupósti frá kæranda afstöðumynd vegna Vesturgötu 1, sem kærandi kvað starfsmann kærða hafa komið með til sín þann sama dag. Engin frekari gögn hafa borist vegna málsins.

III. Málsavik

Kærandi er eigandi fasteigna nr. 1 og 121A við Vesturgötu á Akranesi (fastanúmer 210-2451 og 210-1116). Er þar um að ræða 952,0 fermetra eign að Vestugötu 1 og 464,8 fermetra eign að Vesetugötu 121A. Í apríl 2011 sendi kærði kæranda tilkynningu um breytingu á álagningu fráveitugjalda vegna þessara fasteigna og nam álagningin 428.641 kr. vegna Vesturgötu 1 en 182.264 kr. vegna Vesturgötu 121A.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í kæru kemur fram að hluti fasteignar kæranda að Vesturgötu 1 (eignarhluti 030101) sé geymsluskemma frá árinu 1958, sem standi sér sem sjálfstætt hús og að fasteign kæranda að Vesturgötu 121A sé gamall braggi frá árinu 1963. Heldur kærandi því fram að í bæði þessi hús hafi einungis verið lagt rafmagn. Vísar kærandi til úrskurðar félagsmálaráðuneytisins frá 6. júlí 1998, sem byggði m.a. á ákvæði 3. mgr. 88. gr. vatnalaga nr. 15/1923. Þá segir í kærunni að eðlilegt sé að kærandi krefjist þess að vera undanþeginn fráveitugjöldum vegna fasteignanna tveggja sem málið varðar þar sem ekkert skolp sé til að losa sig við frá þeim.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða vísar kærandi til ákvæða 1. og 2. mgr. 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009 og tekur fram að húseignin að Vesturgötu 1, sem auðkennd sé nr. 030101, sé frá árinu 1958 og að engin áform séu uppi og hafi aldrei verið, af hálfu kæranda, um að tengja hana við fráveitu eða vatnsveitu.

V. Málsástæður og rök kærða

Í greinargerð kærða segir að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum kærða sé lóðin Vestugata 1 tengd fráveitu. Á lóðinni muni standa tvær eignir, Vesturgata 1 og 1R. Með því að tengja lóðina telji kærði sig hafa uppfyllt ákvæði 1. mgr. 11. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009, þar sem segir að eigandi eða rétthafi lóðar við götu, gönguleið eða opið svæði þar sem fráveitulögn liggi, eigi rétt á að fá tenginu við fráveitukerfi. Jafnframt að samkvæmt 2. mgr. 12. gr. sömu laga sé eigendum húseigna þar sem fráveita liggi skylt á sinn kostnað að annast lagningu og viðhald heimæða fyrir frárennsli að tengingu við fráveitukerfi. Þá segir að samkvæmt 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna sé heimilt að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar séu eða muni tengjast fráveitu sveitarfélags. Kærði líti svo á, að með því að lóðin Vesturgata 1 hafi verið tengd við fráveitu hafi kærði uppfyllt lagaskyldur samkvæmt lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna gagnvart kæranda. Hvernig tengingum innan lóðar sé háttað sé alfarið á ábyrgð lóðarhafa og því skuli álagning fráveitugjalda vegna Vesturgötu 1 staðfest.

Kærði gerir jafnframt grein fyrir því í greinargerðinni að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum virðist lóðin Vesturgata 121 ekki vera tengd fráveitu og því muni álagning fráveitugjalds vegna þeirrar eignar verða felld niður.

VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Á grundvelli þess sem að framan er rakið kemur aðeins til úrlausnar í máli þessu ágreiningur um álagningu fráveitugjalds á hluta fasteignar kærða sem stendur við Vesturgötu 1, Akranesi. Samkvæmt gögnum málsins snýr ágreiningurinn að álagningu fráveitugjalds á húseign sem stendur sjálfstæð á umræddri lóð og er skráð sem vöruskemma, 347,2 fermetrar að stærð. Kærandi heldur því fram að umrædd húseign sé ekki tengd vatni og hefur því ekki verið mótmælt af hálfu kærða.

Í 1. mgr. 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009 er kveðið á um fráveitugjald og þar segir að heimilt sé að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar séu eða muni tengjast fráveitu sveitarfélags.

Í frumvarpi til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna, sem lagt var fram á 136. löggjafarþingi Alþingis, var lagt til að 1. mgr. 14. gr. laganna heimilaði að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar væru eða gætu tengst fráveitu sveitarfélags. Í athugasemdum við þetta ákvæði sagði jafnframt í frumvarpinu að ekki væri gert ráð fyrir að hús, þar sem engu vatni væri veitt inn og ekkert frárennsli væri frá, greiddi fráveitugjald og eru hjallar nefndir þar í dæmaskyni.

Í nefndaráliti umhverfisnefndar um frumvarp til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna segir að fram hafi komið ábending um að orðalag 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins væri of víðtækt með því að heimila innheimtu fráveitugjalds af fasteignum sem gætu tengst fráveitu. Tók nefndin undir ábendinguna og lagði til þá orðalagsbreytingu að heimildin næði til fasteigna sem væru tengdar eða myndu tengjast fráveitu sveitarfélags. Voru lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna samþykkt með því orðalagi.

Í framangreindu nefndaráliti segir jafnframt að ákvæðum frumvarps til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna um gjaldtöku sé ætlað að tryggja að gjaldheimta sé í samræmi við þá þjónustu sem veitt sé.

Í 10. gr. reglugerðar um fráveitur sveitarfélaga nr. 982/2010, sem sett var með stoð í 21. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna, er kveðið á um fráveitugjald. Þar segir í 1. mgr. að heimilt sé að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum, þ.m.t. óbyggðum lóðum sem tengdar séu, muni tengjast fráveitu sveitarfélags eða njóti þjónustu hennar.

Í 1. tölulið 3. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna er frárennsli skilgreint sem rennsli frá mannvirkjum, götum, lóðum, gönguleiðum eða opnum svæðum, svo sem ofanvatn og/eða skólp og vatn frá upphitunarkerfum mannvirkja sem veitt sé í fráveitur.

Kærandi heldur því fram að önnur tveggja húseigna á lóðinni Vesturgötu 1, Akranesi, sé ekki tengd fráveitu kærða og séu engin áform um að tengja hana fráveitu kærða. Kærði hefur hvoki mótmælt þeirri fullyrðingu kæranda né sýnt fram á að umrædd húseign sé tengd fráveitu hans og að rennsli frá henni t.d. vegna ofanvatns sé veitt í fráveitu á hans vegum.

Með vísan til orðalags 1. mgr. 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna og þeirra breytinga sem gerðar voru á orðalagi þess frá því sem lagt var til í upphaflegu frumvarpi að lögunum, sbr. það sem að framan er rakið, telur úrskurðarnefndin að til þess að heimild til álagningar fráveitugjalds eigi við verði að vera verulegar líkur á að viðkomandi fasteign tengist eða muni tengjast fráveitu viðkomandi sveitarfélags. Ekki hefur verið sýnt fram á það í máli þessu að umrædd húseign sé tengd eða muni tengjast fráveitu kærða, heldur má þvert á móti ætla að um sé að ræða húseign, sem engu vatni sé veitt inn og ekkert frárennsli sé frá. Því telur úrskurðarnefndin að fallast verði á kröfu kæranda og gera kærða að fella niður álagningu fráveitugjalds á þá húseign á lóðinni Vestugötu 1, Akranesi, sem auðkennd hefur verið með númerinu 030101.

Vegna kröfu kæranda um að úrskurðarnefndin skilgreini mörk milli þjónustugjalds og skatts skal bent á að samkvæmt framansögðu verða fráveitugjöld aðeins innheimt af fasteignum sem tengd eru eða munu tengjast fráveitu sveitarfélags og að ákvæðum laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna, sem varða gjaldtöku, er ætlað að tryggja að gjaldheimtan sé í samræmi við veitta þjónustu. Ákvæði um gjaldskrá fráveitu eru í 15. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Þar er í 1. mgr. tekið fram að stjórn fráveitu skuli semja gjaldskrá þar sem kveðið sé á um greiðslu og innheimtu gjalda. Í 2. mgr. er kveðið á um að miða skuli við að fráveitugjald ásamt öðrum tekjum fráveitu standi undir rekstri hennar. Einnig er þar kveðið á um að heimilt sé að ákveða hámark og lágmark fráveitugjalds miðað við rúmmál húseigna og að heimilt sé að miða fráveitugjaldið við fast gjald auk álags vegna stærðar eða notkunar fasteignar. Þá er í 5. mgr. kveðið á um að gjaldskráin skuli birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Á gundvelli framangreinds lagaákvæðis hafa gjaldskrár verið settar fyrir fráveitu á veitusvæðum kærða og þær birtar í B-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt auglýsingu sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda nr. 392/2011 um gjaldskrá fyrir fráveitu á veitusvæðum Orkuveitu Reykjavíkur, Akraneskaupstað, samanstóðu fráveitugjöld vegna fasteigna á Akranesi, á tímabilinu 1. maí 2011 til ársloka það ár, annars vegar af fastagjaldi og hins vegar af fermetragjaldi. Fastagjaldið nam á framangreindu tímabili 7.465,37 kr. en fermetragjaldið 288,16 kr. Hefur úrskurðarnefndin ekki athugasemdir við að fráveitugjöld séu á þennan hátt reiknuð út frá fastagjaldi og fermetragjaldi, en telur jafnframt að mál þetta sé ekki þannig vaxið að tilefni sé fyrir nefndina til að fara ofan í útreikninga kærða á álögðu fráveitugjaldi.

Úrskurðarorð:

Felld er niður álagning Orkuveitu Reykjavíkur á fráveitugjaldi á 347,2 fermetra geymsluskemmu í eigu Bifreiðastöðvar Þórðar Þ. Þórðarsonar ehf., sem stendur á lóðinni Vestugötu 1, Akranesi og auðkennd hefur verið 030101.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                          Arndís Soffía Sigurðardóttir

Date: 3/22/12