Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

49/2025 Vorholt

Með

Árið 2025, þriðjudaginn 15. apríl, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  laga nr. 130/2011:

Mál nr. 49/2025, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Garðabæjar, með samþykkt bæjarráðs Garðabæjar 27. ágúst 2024, um að veita leyfi til jarðvegsframkvæmda að Vorbraut 8-12 í Garðabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 23. mars 2025, kæra A, B, D og E persónulega og fyrir hönd, Habs ehf.,  lóðarhafar Skerpluholts 1, 3, 5 og 7, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Garðabæjar, sem samþykkt var í bæjarráði Garðabæjar 27. ágúst 2024, að veita leyfi vegna jarðvegsframkvæmda að Vorbraut 8-12. Verður af kæru ráðið að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Þá er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 1. apríl 2025 og viðbótargögn 2., 8., 9. og 11. apríl s.á.

Málsatvik og rök: Með umsókn, dags. 16. ágúst 2024, var sótt um byggingarheimild eða -leyfi vegna byggingaráforma á lóð nr. 8-12 í Garðabæ. Í umsókninni kom fram að óskað væri eftir „jarðvinnuleyfi fyrir Vorbraut 8 – 10 – 12“. Samþykkti byggingarfulltrúi Garðabæjar erindið 19. s.m. og var í bréfi um afgreiðsluna tekið fram að sótt hefði verið um leyfi í samræmi við „graftrar- og fleygunarplan“ frá tilgreindri verkfræðistofu. Var sú ákvörðun samþykkt á fundi bæjarráðs Garðabæjar 27. s.m. Fyrir liggur að framkvæmdir eru hafnar.

Kærendur vísa til þess að ekki sé heimild til hinna umdeildu jarðvegsframkvæmda í deiliskipulagi og séu mannvirki við Skerpluholt í hættu vegna þeirra. Svo virðist sem veitt hafi verið leyfi til að byrja að grafa fyrir bílakjallara sem gert sé ráð fyrir í breytingu á deiliskipulagi sem sé til meðferðar hjá Garðabæ en hafi ekki verið afgreidd. Hinn 4. júní 2024 hafi bæjarráð Garðabæjar fjallað um tillögu skipulagsnefndar varðandi breytingu á deiliskipulaginu. Um hafi verið að ræða umsókn um að sameina lóðirnar að Vorbraut 8, 10 og 12 í eina lóð og byggja sameiginlegan bílakjallara með stækkuðum byggingarreit. Breytingarnar hafi verið sagðar óverulegar og samþykkt að grenndarkynna breytinguna, m.a. fyrir kærendum, en sú grenndarkynning hafi ekki farið fram. Breytingatillagan hafi hvorki verið afgreidd né birt í Stjórnartíðindum og sé deiliskipulagið því óbreytt. Að auki sé í raun um að ræða verulega breytingu á deiliskipulagi sem beri að afgreiða eins og nýtt deiliskipulag skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Bæjaryfirvöld benda á að ákveðið hafi verið að sameina þær breytingar sem gera átti á gildandi deiliskipulagi samkvæmt tillögunum sem legið hafi fyrir á fundi bæjarráðs Garðabæjar 4. júní 2024 við aðrar breytingar á hverfinu og auglýsa þær í samræmi við 1. mgr. 43. gr., sbr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hafi tillaga að breytingunum verið auglýst frá 24. október 2024 til og með 5. desember 2024 og hafi nokkrar athugasemdir borist. Tillagan hafi verið samþykkt á fundi bæjarstjórnar 6. febrúar 2025 og sé meðferð hennar að ljúka og hún verði fljótlega send til birtingar í B-deild Stjórnartíðinda. Lóðarhöfum Vorbrautar 8-12 hafi í september 2024 verið veitt heimild til að hefja jarðvinnu, en hinar kærðu framkvæmdir hafi þó ekki hafist fyrr en eftir samþykkt bæjarstjórnar 6. febrúar 2025.

Jarðvegsframkvæmdum sé að mestu lokið, en framkvæmdirnar séu í eðli sínu afturkræfar og undir yfirborði lóðar. Nauðsynlegt sé að koma sem fyrst fyrir stoðvegg til að styðja við jarðveg á lóðum kærenda og óráðlegt sé að fresta þeirri framkvæmd. Kærendur hafi á fundi með bænum og verktaka hinn 19. mars 2025 í raun samþykkt að slíkur stoðveggur verði settur upp.

Leyfishafi álítur að breyting deiliskipulagsins lúti ekki að atriðum sem varði hagsmuni kærenda og því beri að hafna kröfu þeirra. Öll skilyrði fyrir deiliskipulagsbreytingunni hafi verið uppfyllt og sé aðeins formsatriði að klára skjalafrágang.

_____

 Úrskurðarnefndin óskaði frekari upplýsinga frá Garðabæ um undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar. Meðal þeirra gagna sem bárust 2. apríl 2025 voru umsóknargögn dags. 16. ágúst 2024 þar sem óskað var eftir ,,jarðvinnuleyfi fyrir Vorbraut 8-10-12.“ Í þeim kom fram að sótt var um leyfi til jarðvinnu m.a. vegna bílakjallara á lóð Vorbrautar 8-12 sem ekki var á deiliskipulagi.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun byggingarfulltrúa Garðabæjar sem samþykkt var í bæjarráðs Garðabæjar 27. ágúst 2024, um leyfi fyrir jarðvegsframkvæmdum vegna bílakjallara að Vorbraut 8–12.

Með tölvupóstum 8. og 9. apríl 2025 tilkynnti Garðabær nefndinni að auglýsing nr. 380 frá 2. apríl 2025 um breytingu á aðalskipulagi Garðabæjar, rammahluta aðalskipulags í Vífilsstaðalandi, vegna fjölgunar íbúða, hefði verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, með útgáfudegi 7. apríl 2025. Einnig hafi auglýsing nr. 382 frá 7. apríl 2025 um skipulagsmál í Garðabæ, með breytingu á deiliskipulagi fyrir Hnoðraholt norður, birst í B-deild Stjórnartíðinda sama dag. Þessu til viðbótar upplýsti Garðabær nefndina um að bæjarráð Garðabæjar, sem einnig starfar sem byggingarnefnd, hafi á fundi sínum 8. apríl 2025 samþykkt byggingarleyfi fyrir Vorbraut 8-12 og Vorbraut 14. Framkvæmdir á lóðunum styðjist eftir það við ný leyfi. Með tölvupósti 11. apríl 2025 sendi Garðabær nefndinni afrit af tilkynningu til lóðarhafa um samþykkt byggingaráforma í samræmi við 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að nýtt byggingarleyfi  hefur verið samþykkt vegna framkvæmda á umræddri lóð að undangenginni breytingu á deiliskipulag svæðisins sem tekið hefur gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. Hefur hin kærða ákvörðun því ekki lengur réttarverkan að lögum. Úrskurður um hið kærða leyfi til jarðvinnu hefur af þeim sökum enga þýðingu fyrir lögvarða hagsmuni kærenda og ber því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011um úrskurðarnefndi umhverfis- og auðlindamála.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

34/2025 Breiðholtsbraut

Með

Árið 2025, þriðjudaginn 15. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 34/2025, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. janúar 2025 um að slökkva skuli á LED skiltum á horni Breiðholtsbrautar og Skógarsels.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 21. febrúar 2025, kærir Íþróttafélag Reykjavíkur þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. janúar s.á. að slökkva skuli á LED skiltum á horni Breiðholtsbrautar og Skógarsels. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. mars 2025.

Málavextir: Árið 2016 gerði Reykjavíkurborg og kærandi samkomulag þar sem meðal annars kom fram að unnið yrði að því í sameiningu að finna auglýsingaskilti, sem staðsett var á mótum Breiðholtsbrautar og Skógarsels, nýjan stað. Með umsókn, dags. 31. mars 2021, óskaði kærandi eftir leyfi til að koma fyrir stafrænu skilti í stað flettiskiltis ásamt því að skoðaður yrði möguleiki á að hækka skiltið eða koma því fyrir við mót Breiðholtsbrautar og Skógarsels/Stekkjarbakka. Var umsókninni synjað á grundvelli umsagnar skipulagsfulltrúa þar sem meðal annars hefði legið fyrir neikvæð afstaða Vegagerðarinnar sem veghaldara. Var synjun byggingarfulltrúa kærð til úrskurðarnefndarinnar sem hafnaði kröfu kæranda um ógildingu með úrskurði 29. október 2021. Þrátt fyrir framangreind málalok var skiltinu breytt úr flettiskilti í stafrænt skilti.

Með fyrirspurn til skipulagsfulltrúa, dags. 2. október 2023, óskaði kærandi eftir samtali um staðsetningu og sýnileika hins umdeilda skiltis þar sem sýnileiki væri orðinn takmarkaður vegna trjágróðurs og ylli félaginu tekjutapi þar sem leigutaki skiltisins væri ekki tilbúinn til að greiða fyrir leigu á því. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 18. janúar 2024, kom fram að ekki væru gerðar athugasemdir við að kærandi léti vinna að breytingu á deiliskipulagi til að heimila skilti innan lóðar, sambærilegu því sem væri til staðar við Breiðholtsbraut.

Deild afnota og eftirlits hjá Reykjavíkurborg bárust í desember 2024 ábendingar um óþægindi vegna ljósmengunar af hinu umdeilda skilti. Með tölvupósti 13. desember 2024 var óskað eftir að kærandi léti framkvæma faglega ljósmælingu til að stilla skiltið og vísað þar um til samþykktar Reykjavíkurborgar um skilti þar sem í kafla 3.3. væri kveðið á um hámarksbirtustig skilta og mestan leyfilegan ljóma með hliðsjón af staðsetningu. Þá kom fram að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hefði kærandi fengið leyfi „á sínum tíma“ til að reisa þarna flettiskilti en nú væri þarna kominn LED skjár. Var óskað upplýsinga um hvort skiltið væri á forræði kæranda. Með svarpósti sama dag upplýsti kærandi að búið væri að lækka birtustig skiltisins.

Byggingarfulltrúi sendi kæranda bréf, dags. 22. janúar 2025, þar sem fram kom að tekin hefði verið til skoðunar uppsetning og notkun LED skilta á horni Breiðholtsbrautar og Skógarsels sem væru án útgefins byggingarleyfis. Við skoðun hefði komið í ljós að tveimur flettiskiltum hefði verið skipt út fyrir LED skilti. Um væri að ræða byggingarleyfisskyldar framkvæmdir skv. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.5.1. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Væri öll notkun umræddra LED skilta stöðvuð með vísan til 55. gr. laga 160/2010 og gr. 2.9.1. byggingarreglugerðar og slökkva skyldi á skiltunum. Yrði fyrirmælum byggingarfulltrúa ekki sinnt yrði tekin ákvörðun um framhald málsins sem gæti falið í sér aðstoð lögreglu, sbr. 4. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010.

Málsrök kæranda: Bent er á að hin umdeildu skilti hafi staðið þarna árum saman. Fyrst hafi verið um flettiskilti að ræða en þau hafi verið uppfærð og gerð stafræn. Heimild fyrir slíkri uppfærslu sé í gr. 4.8. í samþykkt Reykjavíkurborgar um skilti frá maí 2020. Í framhaldi af samkomulagi Íþróttafélags Reykjavíkur og borgarinnar frá maí 2016 hafi borgin ætlað að finna skiltunum nýjan stað þar sem trjágróður á núverandi stað hafi verið farinn að skerða sýnileika þeirra. Auglýsingatekjur af skiltunum séu mikilvæg tekjulind fyrir barna- og unglingastarf félagsins. Síðla árs 2023 hafi samkomulaginu verið fylgt eftir af hálfu kæranda og óskað eftir að skoðaðar yrðu leiðir til að auka sýnileika skiltanna. Í bréfi, dags. 18. janúar 2024, frá skipulagsfulltrúa hafi komið fram að þegar væri heimild fyrir skiltunum í deiliskipulagi og hvergi nefnt að það vantaði leyfi fyrir því. Niðurstaðan hefði verið að ekki væru gerðar athugasemdir við að kærandi léti vinna að breytingu á deiliskipulagi til að heimila færslu á skiltunum innan lóðar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Vísað er til þess að skiltin séu byggingarleyfisskyld samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. einnig 1. mgr. 2. gr. og 13. tl. 3. gr. laganna. Þá sé einnig fjallað um kröfur til skilta í kafla 2.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 komi fram það markmið að móta skuli stefnu um auglýsinga- og upplýsingaskilti í borgarlandi. Samþykkt um skilti í Reykjavík hafi verið samþykkt á fundi borgarráðs 7. maí 2020 og birt á vef borgarinnar 11. s.m. Markmið samþykktarinnar sé meðal annars að auðvelda afgreiðslu byggingarleyfisumsókna, sbr. 3. tl. 1.2. kafla samþykktarinnar. Sú heimild sem vísað sé til í kæru og finna megi í kafla 4.8. fyrir ný stafræn skilti í stað eldri flettiskilta hafi ekki áhrif á kröfu laga nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar um byggingarleyfi. Sækja þurfi um byggingarleyfi þegar setja eigi upp ný stafræn auglýsingaskilti í stað flettiskilta. Þetta hafi kærandi gert á sínum tíma og verið hafnað um leyfi vegna synjunar Vegagerðarinnar með vísan til 90. gr. umferðarlaga nr. 77/2019.

Um sé að ræða ný stór stafræn skilti sem falli undir ákvæði laga nr. 160/2010 og séu háð leyfi frá byggingarfulltrúa samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna. Fyrir liggi að skiltin hafi verið sett upp án byggingarleyfis og að kæranda hafi verið synjað um leyfi fyrir þeim. Úrskurðarnefndin hafi staðfest synjun um byggingarleyfi með úrskurði 29. október 2021, í máli nr. 142/2021. Byggingarfulltrúa hafi því verið heimilt á grundvelli 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 að gera kröfu um að slökkt yrði á skiltunum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík að slökkva skuli á LED skiltum á horni Breiðholtsbrautar og Skógarsels. Kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. og 13. tl. 3. gr. laga nr. 160/2010 falla skilti eins og hér um ræðir undir gildissvið laganna. Þá er fjallað um kröfur til skilta í kafla 2.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Þar segir að sækja skuli um byggingarleyfi fyrir öllum frístandandi skiltum og skiltum á byggingum sem séu yfir 1,5 m2 að flatarmáli. Þá skal stærð og staðsetning skilta vera í samræmi við gildandi skipulag.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 eru hin umræddu skilti staðsett á skilgreindu svæði fyrir íbúðabyggð, ÍB43. Þar er í gildi deiliskipulag Suður Mjóddar, þar sem gert er ráð fyrir flettiskilti á þeim stað er skiltin eru staðsett. Skiltin eru einnig staðsett í lítilli fjarlægð frá Breiðholtsbraut sem er stofnbraut. Í aðalskipulagi kemur fram það markmið að móta skuli stefnu um auglýsinga- og upplýsingaskilti í borgarlandinu. Samþykkt um skilti í Reykjavík var samþykkt á fundi borgarráðs 7. maí 2020 og birt á vef borgarinnar 11. maí s.á. Í gr. 4.2.7. samþykktarinnar er fjallað um stafræn skilti á íbúðarsvæðum og samfélagsþjónustu með landnotkun Íb og S. Þar kemur fram að stafræn skilti með eða án hreyfimynda séu óheimil, þ. á m. þjónustuskilti eða veggspjöld sem vísi út á götu með nafni fyrirtækis eða auglýsingum. Í gr. 4.8. er fjallað um skilti innan landnotkunar stofn- og tengibrauta og þar segir að leyfilegt sé að setja upp ný stafræn auglýsingaskilti við stofn- og tengibrautir, sem séu stærri en 10 m2 ef að fyrir sé sambærilegt flettiskilti eða ef deiliskipulag heimili slíkt skilti. Þá er í gr. 6.2. í samþykkt um skilti fjallað um leyfisveitingar fyrir skiltum og auglýsingum. Þar kemur fram að byggingarfulltrúi veiti leyfi fyrir skiltum og auglýsingum ef umsókn uppfylli ákvæði samþykktarinnar og gildandi skipulags. Þá kemur einnig fram að sé skilti breytt, t.d. úr stafrænu skilti í aðra gerð, þá þurfi að sækja um nýtt byggingarleyfi. Verður samþykkt Reykjavíkur­borgar um skilti ekki skilin á annan veg en að þrátt fyrir að í tilteknum tilfellum sé heimilt að uppfæra eldri skilti í stafræn skilti, sbr. t.d. gr. 4.8. í samþykktinni, þá verði slík breyting ekki framkvæmd nema að fengnu nýju byggingarleyfi.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags er að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010. Er nánar kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. laganna að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægður.

Í máli þessu er um að ræða stafrænt skilti sem fellur undir ákvæði laga nr. 160/2010 og er háð leyfi frá byggingarfulltrúa skv. 1. mgr. 9. gr. laganna auk nánar útfærðum reglum sem finna má í samþykkt um skilti í Reykjavík. Fyrir liggur að tvö stafræn skilti voru sett upp í stað eldri flettiskilta eftir að kæranda hafði verið synjað um byggingarleyfi fyrir því. Var byggingarfulltrúa því heimilt á grundvelli 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 að gera kröfu um að slökkt yrði á skiltunum.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er kröfum kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.  

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að ógilda ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. janúar 2025 um að slökkva skuli á LED skiltum á horni Breiðholtsbrautar og Skógarsels.

106/2024 Kúhallará

Með

Árið 2025, þriðjudaginn 15. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 106/2024, kæra á ákvörðunum sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar frá 24. apríl og 28. ágúst 2024 um að synja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna virkjunar í landi Þórisstaða og að synja um endurupptöku þeirrar ákvörðunar.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 29. september 2024, kærir annar eigenda Þórisstaða í Hvalfjarðarsveit, þær ákvarðanir sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar frá 24. apríl og 28. ágúst s.á. að synja umsókn hans um framkvæmdaleyfi vegna virkjunar í landi nefndrar jarðar og að synja um endurupptöku þeirrar ákvörðunar. Verður að skilja málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinna kærðu ákvarðana.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hvalfjarðarsveit 4. desember 2024.

Málavextir: Hinn 12. desember 2023 sótti kærandi um framkvæmdaleyfi vegna virkjunar. Umsókninni fylgdi greinargerð og kom þar fram að um væri að ræða rennslisvirkjun, í ófiskgengum hluta Kúhallarár sem tilheyrði Þórisstöðum, en fjórar aðrar jarðir ættu einnig land að ánni. Umsóknin var tekin fyrir á fundi umhverfis-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefndar Hvalfjarðarsveitar 17. apríl 2024 og henni hafnað með vísan til þess að ekki lægi fyrir deili­skipulag vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Þá var kærandi hvattur til að leita frekari leiða til að afla samþykkis allra aðliggjandi landeigenda. Kom kærandi að andmælum með bréfi, dags. 23. s.m. Tók sveitarstjórn málið í kjölfarið fyrir á fundi sínum 24. s.m. og samþykkti afgreiðslu nefndarinnar og var sú niðurstaða birt kæranda með bréfi, dags. 29. apríl 2024, en þar var ekki að finna leiðbeiningu um kæruheimild eða kærufrest. Með bréfi, dagsettu sama dag, skoraði kærandi á sveitarstjórn að snúa ákvörðuninni og óskaði jafnframt eftir frekari rökstuðningi með tölvupósti 30. s.m. Var erindið ítrekað 17. maí s.á. Hinn 22. s.m. kom kærandi á framfæri áskorun til umhverfis-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefndar Hvalfjarðarsveitar að kannað yrði gaumgæfilega hvort synjun á umsókn hans hefði byggt á réttum upplýsingum, meðalhófi og jafnræði við afgreiðslu mála af sambærilegum toga. Með bréfi, dags. 12. júní 2024, var kærandi upplýstur um að af hálfu sveitarfélagsins væri talið að í erindi hans hefði falist beiðni um endurupptöku málsins á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og með vísan til 12. gr. laganna var honum veittur frestur til að koma á framfæri frekari skýringum og eftir atvikum gögnum.

Var málið tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar 8. maí s.á. og fundum umhverfis-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefndar Hvalfjarðarsveitar 5. júní, 3. júlí og 21. ágúst s.á. Lauk meðferð þess með þeirri ákvörðun sveitarstjórnar frá 28. ágúst s.á. að synja um endurupptöku málsins og var kæranda tilkynnt um ákvörðunina með bréfi, dags. 30. s.m.

Hinn 30. október 2024 lá fyrir svar innviðaráðuneytisins við kvörtun kæranda vegna stjórnsýslu Hvalfjarðarsveitar við málsmeðferð fyrrnefndrar umsóknar hans um framkvæmdaleyfi. Veitti ráðuneytið eftirfarandi leiðbeiningar um atvik málsins, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 112. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, og vísaði einnig til þess að samkvæmt 2. mgr. 109. gr. laganna hefði ráðuneytið ekki eftirlit með stjórnsýslu sveitarfélaga sem öðrum stjórnvöldum á vegum ríkisins hefði með beinum hætti verið falið eftirlit með. Beindi ráðuneytið þeim leiðbeiningum til sveitarfélagsins að svara skriflegum erindum sem berast skriflega með vísan til meginreglu stjórnsýsluréttar þar um. Þá kom fram að það væri álit ráðuneytisins að það væri úrskurðar­nefndarinnar, sem ákvörðunin væri kæranleg til, að meta hvort ákvörðunin hafi verið nægilega rökstudd eða ekki. Var þeim hluta erindisins sem heyrði undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála framsendur nefndinni með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að rökstuðning skorti fyrir hinni kærðu ákvörðun og að ekki hafi verið fylgt ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Rökstuðningur byggi ekki á vísan í réttarreglur, ekki hafi verið sett fram sjónarmið sem hafi verið ráðandi við töku hinnar matskenndu ákvörðunar og ekki hafi verið gætt sjónarmiða um jafnræði við afgreiðslu mála af sambærilegum toga.

Aflað hafi verið álits nokkurra aðila, m.a. starfsmanna Skipulagsstofnunar og skipulagsfulltrúa í öðru sveitarfélagi um það hvort framkvæmdin væri þess eðlis að krafa um deiliskipulag sé réttmæt og/eða rökstudd og hafi þeir ekki talið svo vera. Hafi starfsmaður Skipulagsstofnunar bent á að sveitarfélagið yrði að hafa jafnræðisreglu stjórnsýslulaga að leiðarljósi við afgreiðslu umsóknar kæranda og að framkvæmdin væri þess eðlis að krafa um deiliskipulag væri ekki réttmæt. Í því samhengi sé rétt að benda á umsögn stofnunarinnar um það hvort gera þyrfti deiliskipulag vegna Hólabrúarnámu sem hefði verið neikvæð, þ.e.a.s. að þar hefði ekki verið gerð krafa um deiliskipulag í tillögu að matsáætlun. Sú framkvæmd hefði þó falið í sér umfang bygginga og ásýndaráhrif langt umfram þau áhrif sem felist í þeirri framkvæmd sem um ræði, þ.e. örvirkjun. Árið 2015 hafi sveitarfélagið sam­þykkt að veita byggingarleyfi fyrir um 500 m2 bygginga án þess að gerð hafi verið krafa um deiliskipulag. Þá séu fjöldi annarra framkvæmda þar sem veitt hafi verið leyfi án þess að gert hefði verið deiliskipulag, allt frá 120 m2 hesthúsum árið 2017 upp í 1.200 m2 vélageymslur árið 2018. Sýni þetta fram á ójafnræði við afgreiðslu umsóknar kæranda.

Framkvæmdin sem um ræði samræmist stefnumörkun í Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020–2032, sbr. kafla 2.3.4. um stakar framkvæmdir. Þar komi fram að áfram verði gerð krafa um deiliskipulag eða eftir atvikum grenndarkynningu og að áfram þurfi framkvæmdaleyfi og/eða byggingarleyfi. Greinargerð með umsókninni og sá uppdráttur sem henni fylgi sé full­nægjandi til grenndarkynningar fram­kvæmda­leyfis, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Byggi það á upplýsingum frá fagaðilum. Á fundi með skipulagsfulltrúa í ágúst 2024 hefði verið óskað eftir upplýsingum um það hvað ætti að koma fram í deiliskipulagi sem ekki komi fram í 18 blaðsíðna greinargerð með umsókn kæranda. Ekki hefði verið upplýst um hvað það væri.

Málsrök Hvalfjarðarsveitar: Bent er á að málið varði umsögn umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefndar Hvalfjarðarsveitar frá 17. apríl 2024 og ákvörðun sveitarstjórnar frá 24. s.m., en ekki hafi verið kærð ákvörðun um að synja um endurupptöku málsins frá 28. ágúst s.á. Kæra í málinu sé frá 29. september 2024 og hafi hún því borist úrskurðarnefndinni fimm mánuðum eftir að tilkynning hafi verið send til kæranda. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi því verið löngu liðinn og beri að vísa málinu frá.

Ákvörðun um að synja umsókn kæranda hafi verið vel undirbúin og hafi kærandi glögglega mátt sjá á hverju hún hafi byggt. Að auki hafi verið vísað til minnisblaðs lögmanns sveitar­félagsins frá 12. apríl 2024, sem kæranda hafi borist. Það hafi því legið fyrir með skýrum hætti á hvaða lagaákvæðum og sjónarmiðum hafi verið byggt við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Niðurstaðan hafi verið reist á grundvelli tilvísaðra lagaákvæða og studd sjónar­miðum sem ekki geti talist ómálefnaleg. Meintur ann­marki á að eftirfarandi rökstuðningur hafi ekki verið veittur, sem teljist ekki til öryggisreglna, hafi engin efnisleg áhrif á inntak umdeildrar ákvörðunar. Leiði annmarki á eftirfarandi rökstuðningi því ekki til ógildingar á stjórnvaldsákvörðun. Réttur til að krefjast rökstuðnings samkvæmt 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eigi aðeins við þegar hann fylgi ekki ákvörðun þegar hún sé tilkynnt. Slíkur rökstuðningur hefði fylgt hinni kærðu ákvörðun.

Samkvæmt jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga skuli við úrlausn mála gæta sam­ræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Í því felist að aðilar við sambæri­legar að­stæður skuli hljóta samsvarandi afgreiðslu. Reglan eigi að hindra að ákvarðanir verði tilviljunar­kenndar, byggðar á geðþótta eða annarlegum sjónarmiðum. Til marks um þá áherslu sem lögð hafi verið á að leysa með réttum og vönduðum hætti úr umsókn kæranda hafi honum verið veittur rúmur frestur til að koma gögnum og sjónarmiðum sínum á framfæri. Þá hafi afgreiðslu málsins verið frestað svo afla mætti álits lögmanns um þau álitamál sem uppi hefðu verið varðandi þörf á deiliskipulagi. Í minnisblaði lögmanns sveitarfélagsins frá 12. apríl 2024 hafi með greinargóðum hætti verið farið yfir viðeigandi ákvæði Aðalskipulags Hvalfjarðar­sveitar 2020–2032, ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Málið hefði því fengið vandaða umfjöllun hjá umhverfis-, skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd og sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar áður en ákvörðun hafi verið tekin. Eina vatnsaflsvirkjunin í sveitarfélaginu sé á Baugalæk við Eystri-Leirárgarða. Sú virkjun sé minni en fyrirhuguð virkjun kæranda og deiliskipulag verið gert áður en framkvæmdir hefðu hafist. Engar virkjanir séu í sveitarfélaginu þar sem ekki hafi legið fyrir deiliskipulag áður en fram­kvæmdir hafi hafist, utan óleyfisframkvæmda. Fyllsta jafnræðis hafi verið gætt við afgreiðslu á umsókn kæranda og frekar á skjön við jafnræðisregluna að veita kæranda framkvæmdaleyfi án þess að deiliskipulag liggi fyrir.

Þá liggi fyrir að skiptar skoðanir séu á meðal hagsmunaaðila um fyrirhugaðar virkjunar­framkvæmdir og því ekki aðeins mikilvægt fyrir sveitarfélagið að vandað sé til verka við útgáfu leyfis heldur felist einnig í því miklir hagsmunir fyrir kæranda. Samkvæmt greinar­gerð hans um virkjun árinnar eigi fleiri jarðir land að þeim hluta hennar sem hann vilji virkja og aðrar jarðir eigi land að ánni ofan við inntak virkjunarinnar.

—–

Færð hafa verið fram ítarlegri rök í máli þessu sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar Hvalfjarðarsveitar um að synja umsókn kæranda um framkvæmdaleyfi fyrir virkjun Kúhallarár sem rennur m.a. um land jarðarinnar Þórisstaða, sem er í eigu kæranda og að hafna síðan beiðni um endurupptöku málsins.

­Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Samkvæmt 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 rofnar kærufrestur þegar aðili óskar eftir endurupptöku máls innan kærufrests. Hafni stjórnvald að taka mál til meðferðar á ný heldur kærufrestur áfram að líða að nýju frá þeim tíma þegar sú ákvörðun er tilkynnt aðila. Hin kærða ákvörðun um að synja umsókn kæranda var tilkynnt honum með tölvupósti 29. apríl 2024. Samkvæmt gögnum málsins fór kærandi þann sama dag fram á að ákvörðuninni yrði snúið og færði fyrir því rök. Þá átti hann einnig í frekari samskiptum við sveitarfélagið sem lutu að því erindi. Með bréfi, dags. 12. júní 2024, var kæranda tilkynnt, f.h. sveitarstjórnar, að litið væri svo á að hann hefði farið fram á endur­upptöku málsins á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Fór að lokum svo að sveitar­stjórn tók á fundi sínum 28. ágúst 2024 ákvörðun um að synja um endurupptöku málsins og var kæranda tilkynnt um hana með bréfi, dags. 30. ágúst 2024. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 29. september 2024 og því ljóst að hún barst innan lögbundins kærufrests. Á það við um báðar hinar kærðu ákvarðanir enda rofnaði kærufrestur við beiðni kæranda um endurupptöku málsins og hóf ekki að líða að nýju fyrr en kærandi mátti vita af ákvörðuninni hinn 30. ágúst s.á.

Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er að finna þá meginreglu að deiliskipulag skuli gera fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Undantekningu frá því má finna í 44. gr. laganna. Þar er mælt fyrir um að þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir geti sveitarstjórn, eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála samkvæmt 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga skal afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytinga lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falla undir lög um umhverfis­mat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021. Í 3. mgr. 13. gr. skipulagslaga er kveðið á um að sá sem óski framkvæmdaleyfis skuli senda skriflega umsókn til sveitarstjórnar ásamt nauðsynlegum gögnum sem nánar skuli kveða á um í reglugerð. Í 7. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 eru í sex töluliðum talin upp þau gögn sem fylgja þurfi umsókn, þ. á m. er lýsing á framkvæmd og hvernig hún falli að gildandi skipulagsáætlunum og staðháttum, sbr. 3. tölul.

Í greinargerð sem fylgdi umsókn kæranda um framkvæmdaleyfi var m.a. vísað til þess að rafmagnskostnaður á jörðinni væri hár og væru Þórisstaðir á meðal fárra bæja í Hvalfjarðarsveit sem ekki hefðu möguleika á að tengjast hitaveitu sveitarfélagsins í náinni framtíð. Lýsti kærandi virkjuninni sem örvirkjun og væri áætlað afl 15–75 kW og væri hvorki þörf á virkjunarleyfi frá Orkustofnun né væri framkvæmdin tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar. Var framkvæmdinni lýst svo að inntak virkjunarinnar yrði staðsett í landi Þórisstaða og Hrafnabjarga um 80–100 m ofan við Kúhallarfoss. Í fyrstu myndaðist lítið lón en malarseti í því yrði ekki mokað í burtu og því myndaðist upphækkaður farvegur ofan við inntaks­mannvirki. Fallpípa yrði niðurgrafin og lögð um 1.500 m leið, að hálfu leyti um ógróna mela og skriður og hins vegar um gróið land, lúpínubreiður, lyngmóa og rofið mólendi. Einungis þyrfti að fleyga klöpp stutta vegalengd, 5–10 m, á tveimur stöðum á lagnaleiðinni og væri sú klöpp hulin jarðvegi. Gera þyrfti um 200–300 m bráðabirgða vegslóða vegna framkvæmdar­innar. Þá var því lýst hvernig útfærslu gæti verið háttað næðist ekki samkomulag við eigendur Hrafnabjarga.

Í skýrslu umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um smávirkjanir sem lögð var fram á 154. löggjafarþingi Alþingis kom fram að almennt flokkist smávirkjanir þannig að ef uppsett afl er undir 11 kW sé virkjunin örvirkjun en smávirkjun án virkjunarleyfis sé allt að 200 kW. Þá er þar upplýst að ef uppsett afl er á bilinu 200 kW til 10 MW sé virkjunarframkvæmdin tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Þá kunni smávirkjanir með uppsett afl undir 200 kW einnig að vera tilkynningar­skyldar ef þeim fylgi framkvæmdir sem geti fallið undir aðra liði í viðaukum laganna. Má af þessu ráða að í virkjunaráformum kæranda vegna 15–75 kW uppsetts afls felist ekki örvirkjun heldur smávirkjun. Var einnig tiltekið að til smávirkjana teldust virkjanir með 9,9 MW uppsett afl eða minna, sem tengdar væru við dreifikerfi raforku og gætu því selt orku inn á kerfið en til heimavirkjana teldust smávirkjanir sem ekki væru tengdar við dreifikerfið og einungis ætlaðar til raforkuframleiðslu til eigin nota, t.d. á sveitabæjum. Verður því talið að í virkjunaráformum kæranda hafi falist heimavirkjun.

Í Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020–2032 má finna skilmála sem gilda almennt um þar tilgreindar framkvæmdir. Á meðal þeirra framkvæmda sem þar eru nefndar eru ör­virkjanir/litlar virkjanir til eigin nota og vatnsaflsvirkjanir ásamt aðstöðuhúsi, lögnum og vegi að virkjuninni. Í hinum almennu skilmálum felst að þær framkvæmdir sem þar eru til­greindar séu heimilar án þess að afmarka þurfi landnotkun sérstaklega í aðalskipulagi. Sérstaklega er tekið fram að áfram verði gerð krafa um deiliskipulag eða eftir atvikum grenndarkynningu, þá þurfi framkvæmdaleyfi og/eða byggingarleyfi. Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt. Af framangreindu verður því ráðið að umrædd framkvæmd fari ekki í bága við gildandi aðalskipulag.

Ákvörðun um að synja umsókn kæranda var byggð á því að svæðið hefði ekki verið deili­skipulagt, en með því telur kærandi hina kærðu ákvörðun fara gegn jafnræðisreglu stjórnsýslu­réttarins. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslu­laga skal við úrlausn máls gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Í því felst að aðilar við sambærilegar aðstæður skuli hljóta sam­svarandi afgreiðslu. Í athugasemdum kæranda er vísað til þess að virkjunar­framkvæmdir hafi verið heimilaðar í öðrum sveitar­félögum án deili­skipulagsgerðar og að gefin hafi verið út byggingar- og framkvæmdaleyfi á ódeiliskipulögðum svæðum innan Hvalfjarðar­sveitar vegna annarra framkvæmda.

Við mat á því hvort jafnræðis hafi verið gætt við töku hinnar umdeildu ákvörðunar verður að líta til þess að um er að ræða stjórnvaldsákvörðun sem veitir skipulagsyfirvöldum ákveðið svigrúm í skjóli lögbundins skipulagsvalds til að móta byggð einstakra svæða. Þær fram­kvæmdir sem kærandi vísar til, máli sínu til stuðnings, eru annað hvort ekki sambærilegar þeirri sem hann sótti um eða eru í öðru sveitarfélagi. Þá hefur kærandi vísað til Bugavirkjunar í Hvalfjarðarsveit en hún er á deiliskipulögðu svæði. Þá skal áréttað svo sem að framan greinir að meginreglan er sú að deiliskipuleggja ber svæði þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Verður því ekki séð að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar við afgreiðslu umsóknar kæranda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir hin kærða ákvörðun um að synja umsókn kæranda ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Synjun um endurupptöku máls hefur verið talin til stjórnvaldsákvarðana þar sem hún felur í sér bindandi niðurstöðu eða úrlausn um rétt eða skyldu borgaranna. Að framan hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðun um að synja umsókn kæranda hafi verið lögmæt og verður ekki talið með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum að ákvörðunin hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Þá hafa atvik ekki breyst frá því að hin kærða ákvörðun var tekin. Verður kröfu kæranda um ógildingu þeirrar ákvörðunar að synja um endurupptöku málsins því einnig hafnað með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að ógilda ákvarðanir sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar frá 24. apríl og 28. ágúst 2024 um að synja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna virkjunar í landi Þórisstaða og að synja um endurupptöku þeirrar ákvörðunar.

151/2024 Seyðishólar

Með

Árið 2025, miðvikudaginn 9. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 151/2024, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 2. október 2024 um að samþykkja útgáfu framkvæmdaleyfis vegna efnistöku úr námu E24 í Seyðishólum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. nóvember 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra eftirtaldir aðilar, sem vísa til þess að vera ýmist lóðareigendur eða lóðarhafar í sumarhúsahverfunum Klausturgötu, Klausturhólum og Kerhrauni í Grímsnesi, eigendur: Klausturhólum 1, Klausturgötu C-Götu 4b og 8, Klausturhólum 2, Hraunslóð 4 og 6,  Kerhrauni C99, Klausturhólum B-Götu 1, Hraunsveig 7, 9 og 28, ásamt Hraunhvarfi 8 og 10,  Kerhrauni 11 og 12, Hrímgrund ehf., Hraunsveig 12, 14 og 16 þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 2. október 2024 að samþykkja útgáfu framkvæmdaleyfis vegna efnistöku úr námu E24 í Seyðishólum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 22. nóvember 2024.

Málavextir: Hinn 9. mars 2022 barst Skipulagsstofnun matsáætlun Suðurtaks ehf. vegna efnis­töku samkvæmt 21. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat fram­kvæmda og áætlana, sbr. lið 2.01 í 1. viðauka við lögin. Voru þar kynnt áform um áframhaldandi efnistöku gjalls í námu E30b, nú E24, í Seyðishólum í landi Klausturhóla í Grímsnes- og Grafningshreppi. Kom fram að efnistaka úr námunni hefði hafist fyrir árið 1950 og að þegar væri búið að vinna um 450.000 m3 úr henni. Fyrirhuguð efnistaka væri allt að 500.000 m3 af gjalli á næstu 15 árum eða um 33.000 m3 á ári að meðaltali, en ekki væri gert ráð fyrir sérstakri áfangaskiptingu. Náman væri við Hólaskarð og aðkoma að henni um malarveg, kílómetra að lengd, frá Búrfellsvegi 351. Efnið væri til notkunar í nágrenninu ásamt því að ráðgert væri að árlega yrði um 20.000 – 25.000 m3 af gjalli flutt til Þorlákshafnar til útflutnings. Að auki væri tilgangur framkvæmdarinnar afmörkun námusvæðisins og frágangur á því að efnistöku lokinni.

Hinn 12. desember 2022 lá fyrir álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Kom m.a. fram að fyrirhugað efnistöku­svæði væri nú þegar mikið raskað og fyrirhuguð stækkun þess væri ekki umfangs­mikil. Helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda fælust í stað­bundnum sjónrænum áhrifum sem væru að mestu óafturkræf og áhrif framkvæmdarinnar á ásýnd og landslag yrðu nokkuð neikvæð. Þá var talið að áhrif á jarð­myndanir yrðu óhjákvæmi­lega staðbundið nokkuð neikvæð og var tekið fram að þó svo að fyrir lægi að búið væri að raska svæðinu nú þegar réttlætti það ekki fyrirhugaða efnistöku í jarð­myndunum sem nytu sér­stakrar verndar skv. lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd. Ekki var talið líklegt að ónæði vegna efnisvinnslu eða flutnings yrði verulegt, hvorki varðandi hávaða né rykmengun. Var tiltekið að mikilvægt væri að skilyrði um frágang, tíma­lengd og annað skilaði sér inn í fram­kvæmdaleyfi fyrir efnistökunni og að framkvæmdin væri í samræmi við Aðalskipulag Grímsnes- og Grafnings­hrepps 2020–2032, sem þá beið staðfestingar.

Með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 29. desember 2022 tók gildi hið nýja aðalskipulag Grímsnes- og Grafningshrepps. Er þar vísað til umræddrar námu sem E24, 6,5 ha malarnámu með efnismagn allt að 500.000 m3.

Með umsókn, dags. 17. febrúar 2023, sótti framkvæmdaraðili um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku úr námunni. Að undangenginni grenndarkynningu samþykkti sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps útgáfu framkvæmdaleyfisins á fundi 29. júní 2023 og var leyfið gefið út 10. júlí s.á. Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, uppkveðnum 29. desember 2023 í máli nr. 98/2023, var ákvörðunin felld úr gildi, m.a. með vísan til þess að ekki yrði ráðið að við ákvörðunartökuna hefði verið tekin afstaða til þess af hálfu sveitarstjórnar hvort umsóttar framkvæmdir féllu undir gildissvið 61. gr. laga um náttúruvernd og þar af leiðandi hefði ekki verið fjallað um það hvort brýna nauðsyn bæri til framkvæmdanna í samræmi við greint laga­ákvæði ef við ætti.

Í kjölfar ógildingarinnar var málið tekið fyrir á ný á fundi sveitarstjórnar 6. og 20. mars 2024 og á síðarnefnda fundinum bókað í fundargerð að Umhverfis- og tæknisviði Uppsveita bs. væri falið að grenndarkynna útgáfu leyfisins í eins km radíus umhverfis efnistökusvæðið. Var tillaga að framkvæmdaleyfinu grenndarkynnt frá 8. apríl 2024 og veittur frestur til að koma að athugasemdum til 8. maí s.á. Náði grenndarkynningin til allra kærenda ásamt fjölda annarra. Á fundi sveitarstjórnar 2. október s.á. var umsókn um framkvæmdaleyfi lögð fram að nýju og bókað að útgáfa leyfisins væri samþykkt á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var fram­kvæmdaleyfi vegna efnistökunnar gefið út 23. október 2024 og kemur þar fram að það sé háð þeim takmörkunum sem greini í greinargerð þess en þar er tilgreint að fyrirhugað magn efnistöku sé 500.000 m3 á 15 ára tímabili.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er byggt á því að gera hefði þurft deiliskipulag vegna framkvæmdanna og ekki hafi verið heimilt að veita hið um­deilda leyfi á grundvelli grenndar­kynningar sem jafnframt hafi verið áfátt. Ekki hafi verið sýnt fram á að brýna nauðsyn bæri til að veita framkvæmdaleyfi, sbr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Ágalli hafi verið á undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar. Brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslu­réttarins, m.a. þar sem hvorki í umhverfismatsskýrslu vegna framkvæmdanna né í öðrum gögnum hafi verið fjallað um slysa­hættu sem sé samfara námuvinnslunni, en náman sé á eftirsóttu útivistarsvæði. Þar séu engar fallvarnir og engar ráðagerðir um þær í framkvæmdaleyfinu. Með aukinni efnistöku muni gjallfok aukast sem skemmt geti klæðningar á húsum. Hljóðmengun muni aukast sem og vindafar þar sem skjól af hólnum verði minna. Möguleikar til útivistar í grennd við sumarhúsin verði takmarkaðri. Þá muni ásýnd svæðisins breytast og efnistakan og starfsemi sem henni fylgi rýra verðmæti fasteigna.

Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé kveðið á um að gera skuli deiliskipulag fyrir ein­stök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar. Sé þetta grundvallarregla sem skýra verði þröngt. Heimilt sé þó að víkja frá kröfu um gerð deiliskipulags vegna framkvæmdar sem sé í samræmi við aðalskipulag en aðeins að því uppfylltu að hún sé í samræmi við land­notkun, byggða­mynstur og þéttleika byggðar. Þrátt fyrir að hið umdeilda framkvæmdaleyfi sé í samræmi við ákvæði aðalskipulags um landnotkun gegni öðru máli um byggðamynstur og þéttleika byggðar. Byggðamynstur sé í 6. tl. 1. mgr. 2. gr. skipulagslaga skilgreint sem lögun og yfirbragð byggðar, svo sem hæð og þéttleiki. Þegar litið sé til þess að svæðið einkennist af sumar­húsabyggð en sé að öðru leyti landbúnaðarsvæði megi ljóst vera að námuvinnslan sé ekki í samræmi við byggðamynstur þess. Þá leiði aukin námuvinnsla til aukningar á þungri umferð sem svari til þess að á svæðinu eigi sér stað uppbygging langt umfram núverandi þéttleika.

Grenndarkynning hafi einungis náð til eigenda fasteigna í innan við eins km radíus frá nám­unni án þess að kannað hafi verið hvort hún tæki til allra hagsmunaaðila, en ljóst sé að svo hafi ekki verið sem þó sé áskilið í 44 gr. skipulagslaga. Eigi það að leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar, sbr. úrskurð í máli nr. 60/2018, uppkveðnum af úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 8. maí 2018. Þá hafi leyfisveitandi við grenndarkynninguna lagt fram sömu um­sagnir og sama álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum og áður, þrátt fyrir það sem komið hefði fram í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í fyrra kærumáli vegna efnis­tökunnar. Til­efni hafi verið til að endurskoða álitið með tilliti til þess sem fram hafi komið í úrskurðinum, enda hefði þar ekkert verið fjallað um skilyrði 61. gr. laga nr. 60/2013. Með þessu hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins þar sem lögbundið álit sé ófull­nægjandi að þessu leyti.

Hinn 31. október 2024 hafi kærendum borist bréf frá skipulagsfulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps þar sem greint hefði verið frá niðurstöðu sveitarstjórnar um að veita hið umdeilda leyfi. Hefði þar komið fram að við grenndarkynningu hefðu borist athugasemdir og að lögð hefði verið fram samantekt um þær en sú samantekt hefði þó ekki fylgt. Kærendur hafi hvorki fengið svör við athugasemdum sínum sem þó sé áskilið í gr. 5.9.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, né verið send greind samantekt. Sé þetta ágalli á máls­með­ferðinni. Þá hafi með auglýsingum verið upplýst um að framkvæmdaleyfið hefði verið gefið út 23. s.m. og niðurstaða sveitarstjórnar verið auglýst 31. október 2024, m.a. í Lögbirtingablaðinu. Þar hefði þess verið getið að kærufrestur væri einn mánuður frá því að auglýsing um útgáfu framkvæmdaleyfisins hefði birst í Lögbirtingablaði. Það sé þó ákvörðun sveitarstjórnar um að veita leyfi sem sé kæranleg, en ekki útgáfa þess. Teljist kærufrestur frá þeim tíma sem kærendum hafi orðið kunnugt eða mátt vera kunnugt um þá ákvörðun og hafi fram­setningin í greindu bréfi því verið röng. Birting auglýsingar um útgáfu framkvæmdaleyfis sé ekki gildistökuskilyrði þess og hafi því ekki áhrif á kærufrest. Verði þetta m.a. ráðið af niðurlagi 10. gr. og af upphafi 11. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Sé augljóst að 1. tl. 11. gr. vísi til samþykktar leyfisveitanda sem kveðið sé á um í niðurlagi 10. gr. Það sé því ákvörðun sveitarstjórnar en ekki afgreiðsla skipulagsfulltrúa á leyfisbréfinu sem hefði átt að auglýsa, skv. 4. mgr. 14. gr. skipulagslaga og sé frestur til þess tvær vikur, sbr. niðurlag 10. gr. nefndrar reglugerðar. Sá frestur sé löngu liðinn og sé það ágalli sem ekki verði bætt úr en slíkir ágallar séu að jafnaði til þess fallnir að hafa áhrif á gildi kærðrar ákvörðunar.

Sam­kvæmt lögskýringar­gögnum felist í skilyrði 61. gr. laga um náttúruvernd, um að forðast beri að raska jarð­minjum líkt og þeim sem hér um ræði nema brýna nauðsyn beri til, að lögð sé áhersla á að ein­ungis mjög ríkir hagsmunir geti réttlætt röskun og þá fyrst og fremst brýnir almanna­hagsmunir. Rök leyfisveitanda um brýna nauðsyn fái ekki staðist og virðist byggð á því að verði umdeilt leyfi ekki veitt muni ekki koma til frekari efnistöku í námunni. Ekkert styðji þá fullyrðingu og hafi fjöldi eigenda sumarhúsa á svæðinu lýst sig sam­þykka hóflegri efnistöku í þágu næsta nágrennis, líkt og verið hafi um áratugaskeið. Slík efnistaka væri miklu nær því að geta talist af brýnni nauðsyn, enda myndi hún þjóna vissum samfélags­legum hagsmunum. Með hóflegri efnistöku væri hægt að koma til móts við sjónarmið um að eftir­sóknarvert sé að halda í rauðamölina til vegagerðar sem hluta af ímynd svæðisins. Hafi sá valkostur verið nefndur í umhverfismatsskýrslu framkvæmdar­aðila. Ógilding hinnar kærðu ákvörðunar komi ekki í veg fyrir hóflega efnistöku og hafi því ekki áhrif á byggingar­kostnað eða stórfelld áhrif á atvinnulíf í sveitarfélaginu. Ekkert segi að sú vinnsla sem sóst sé eftir skapi mikla atvinnu í sveitarfélaginu. Í námunni myndu starfa örfáir stjórn­endur vinnuvéla, að öðru leyti væri atvinna fólgin í að aka efni til Þorlákshafnar sem krefjist ekki búsetu í sveitar­félaginu. Augljóst sé að það þjóni ekki almannahagsmunum að flytja 2/3 hluta þess efnis sem áformað sé að vinna úr námunni til Þorlákshafnar til útflutnings. Megi þvert á móti fullyrða að þeir flutningar fari í bága við almannahagsmuni, bæði vegna aukins kol­efnisspors og vegna álags á innviði með auknu sliti á vegum sem sumir séu gamlir og burðar­litlir til slíkra flutninga. Það séu því útflutningssjónarmið sem ráði för en ekki almannahagsmunir. Þá dragi sífellt úr notkun rauðmalar í húsagrunna þar sem efnið hafi ekki þann styrk sem þurfi. Margar aðrar námur séu í sveitarfélaginu sem anni eftirspurn eftir efni innan þess.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er byggt á því að hin kærða ákvörðun sé ekki haldin neinum þeim form- eða efnisannmörkum sem varðað geti ógildingu. Sveitarfélagið hafi uppfyllt rannsóknarskyldu sína og rannsóknar­reglu 10. gr. stjórn­sýslu­laga nr. 37/1993 verið fylgt við meðferð málsins sem hafi verið nægjanlega upplýst áður en ákvörðun hafi verið tekin. Sveitar­félagið hafi kynnt sér matsskýrslu framkvæmdaraðila og lagt álit Skipulags­stofnunar um mat á umhverfisáhrifum til grundvallar ákvörðunartöku. Þá hafi verið tekin saman greinargerð um af­­greiðslu framkvæmdaleyfisins í samræmi við 3. mgr. 27 gr. laga nr. 111/2021 um umhverfis­mat framkvæmda og áætlana. Ekki hafi verið talin þörf á að deili­skipuleggja svæðið og framkvæmdin því verið grenndar­kynnt í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Engir ágallar hafi verið á fram­kvæmd hennar sem náð hafi til allra hagsmunaaðila. Veiting leyfisins hefði verið auglýst og öllum athugasemdum sem borist hefðu við grenndarkynningu verið svarað með fullnægjandi hætti í greinar­gerð, dags. 4. mars 2024, sem fylgt hafi útgáfu leyfisins sem og í bókunum sveitarstjórnar frá 6. mars og 2. október s.á. Af þeim sökum hafi ekki verið þörf á að taka saman svör við hverri athuga­­semd fyrir sig. Allir hagsmunaaðilar hafi átt þess kost á að kynna sér þau gögn sem legið hafi fyrir við töku ákvörðunarinnar þar sem svör við athuga­semdum þeirra hafi komið fram. Það sé ekki skilyrði fyrir gildi framkvæmdaleyfis að þeim hags­munaaðilum sem hafi gert athugasemdir sé send umsögn um þær, sbr. gr. 5.9.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Skortur á að hagsmuna­aðilum sé send umsögn sem sérstaklega hafi verið tekin saman geti ekki talist slíkur annmarki að leiða eigi til ógildingar.

Umsókn um framkvæmdaleyfi hafi verið grenndarkynnt fyrir eigendum frístundahúsa og lóða í eins km radíus umhverfis efnistökusvæðið og fyrir eigendum lóða eða sumarbústaða á mörkum þess. Grenndarkynningin hafi því náð lengra en sem nemi greindum radíus, hún hafi verið miðuð við útjaðar efnistökusvæðisins, en mörk þess séu 4,4 ha. Með þessu hafi verið tryggt að grenndarkynnt væri fyrir öllum þeim sem kynnu mögulega að eiga hagsmuna að gæta. Ekki sé gert ráð fyrir jarðraski utan afmarkaðra efnistökusvæða og sýnileiki námunnar af láglendi muni ekki breytast frá því sem nú sé. Geti eigendur fasteigna í meiri fjarlægð frá útjaðri námusvæðisins því ekki orðið fyrir áhrifum af þeirri auknu efnistöku sem gert sé ráð fyrir. Verði þeir ekki taldir geta átt hagsmuna að gæta, enda hafi framkvæmdin engin áhrif á þá eða verðmæti fasteigna þeirra. Sé um þetta m.a. vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 11. maí 2022 í máli nr. 119/2021. Þá verði að telja að sveitarstjórn hafi ákveðið svigrúm við mat á því hvaða íbúar sveitarfélagsins verði taldir geta átt hagsmuna að gæta af leyfisveitingu.

Það sé mat sveitarfélagsins að nauðsyn beri til þess að afla jarðefna fyrir framkvæmdir í sveitar­félaginu og að brýn þörf sé á að nota námuna í Seyðishólum í því skyni. Málefnaleg sjónarmið hafi legið því mati til grundvallar. Það hefði í för með sér umtalsvert meiri umhverfisáhrif ef opna þyrfti nýjar námur eða sækja jarðefni í aðrar auk þess sem rauðleita efnið sem fáist úr námunni sé einkennandi fyrir svæðið og hluti af ímynd þess og sögu. Þá leiði efnistakan til lægri byggingar­kostnaðar og hefði stöðvun hennar í för með sér högg fyrir atvinnulíf í sveitarfélaginu. Sú efnistaka sem gert sé ráð fyrir í framkvæmdaleyfinu sé nauðsynleg til þess að svara eftir­spurn eftir jarðefnum sem ekki sé unnt að svara með annarri umhverfisvænni leið. Eftirláta verði sveitarfélaginu vald til þess að meta þarfir þess fyrir efnistöku og sé það ekki hlutverk úrskurðarnefndarinnar að endurskoða það mat. Þá sé ekki kveðið á um það í 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd að skylt sé að afla álits Skipulagsstofnunar. Umhverfisstofnun fari með eftirlit með framkvæmd þeirra laga og veiti umsagnir samkvæmt ákvæðum þeirra, sbr. 2. mgr. 13. gr. Þá sé ekki kveðið á um það í lögum að Skipulagsstofnun sé skylt í áliti um mat á umhverfisáhrifum að fjalla um hvort brýna nauðsyn beri til röskunar jarðminja í skilningi 3. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013. Í áliti stofnunarinnar hafi á fullnægjandi hátt verið fjallað um áhrif efnistökunnar og sveitar­félaginu því ekki borið að afla nýs álits.

Í samræmi við álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hafi í greinargerð með fram­kvæmdaleyfinu komið fram sú afstaða sveitarfélagsins að áhrif á jarðmyndanir og lands­lag/sjónræn áhrif teldust ekki veruleg, að teknu tilliti til flatarmálsstækkunar námunnar og þess að svæðið væri raskað. Ekki sé gert ráð fyrir meiri eða öðrum tækjabúnaði en fyrir sé og engin eiginleg vinnsla á efni muni fara þar fram, nema efnislosun með vinnuvélum, sigtun á hluta efnis, stundum mölun og mokstur á flutningabíla. Vinnan sé háð eftirspurn og ekki í gangi alla daga. Líta verði til þess að um sé að ræða áframhaldandi efnistöku í gjallgígum sem beri mikil um­merki rasks vegna áratuga efnisnáms og að áframhaldandi efnistaka hafi lítil sem engin áhrif á jarðmyndanir umfram það sem orðið sé. Framkvæmdaleyfið geri auk þess ráð fyrir að röskuðu svæði verði haldið í lágmarki. Þrátt fyrir að fallast megi á að það rask sem orðið sé á svæðinu réttlæti ekki í sjálfu sér fyrirhugaða efnistöku vegi þetta atriði afar þungt við mat á því hvort brýn þörf sé á að gefa út leyfi vegna áframhaldandi efnistöku. Ljóst sé að ákvæði náttúru­verndarlaga geti ekki átt við með sama hætti í tilviki jarðminja sem þegar hafi verið raskað enda umhverfisáhrif töluvert minni en þegar um sé að ræða óraskaðar jarðminjar. Lítill sem enginn munur verði á raski í Seyðishólum hvort sem efnistaka verði eins og verið hafi síðastliðin ár eða í samræmi við hið kærða framkvæmdaleyfi. Sjónarmið um að mögulegt sé að gefa út leyfi fyrir hóflegri efnistöku á svæðinu hafi því ekki þýðingu fyrir mat sveitar­félagsins um að brýna þörf beri til að raska jarðmyndunum á svæðinu með áframhaldandi efnis­töku.

Í umhverfismatsskýrslu hafi komið fram að af tillitssemi við umhverfið væri stærð námusvæðis haldið í lágmarki í stað þess að fletja það út. Náman sé tiltölulega lítil að umfangi en djúp og með bröttu stáli. Námuopið muni hækka innan við 15 metra lóðrétt og fara um 60 metra inn á hólinn. Ljóst sé að hugsanleg sjónræn áhrif af framkvæmdunum hafi ekki í för með sér neina breytingu á byggðamynstri. Efnistaka hafi farið fram í námunni frá árinu 1950 og hún verið hluti af byggðamynstri sveitarfélagsins um árabil. Þar sem magn efnistöku úr námunni sé verulega stillt í hóf miðað við fyrri áætlanir og stærð efnistökusvæðis haldið í lágmarki muni yfirbragð og heildarútlit lítið breytast. Þá geti framkvæmdaleyfi til efnistöku úr námu sem hafi verið nýtt um árabil ekki haft í för með sér breytingu á þéttleika byggðar. Í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hafi komið fram að ferðum efnisflutninga­bifreiða fjölgi úr 14 ferðum á dag í að meðaltali 20. Sé að meðaltali gert ráð fyrir að efni verði flutt í um 150 daga á ári og að lagt verði bundið slitlag á veg að námunni. Ónæði vegna efnisflutninga sé ekki líklegt til að verða verulegt þar sem um tiltölulega fáar ferðir verði að ræða. Ekki sé unnt að líta svo á að sú óverulega aukning á ferðum efnisflutningabifreiða leiði til breytingar á þéttleika byggðar í skilningi 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Ekkert liggi fyrir um að slysahætta sé fyrir hendi vegna námuvinnslunnar en öllum atvinnu­rekendum sé skylt að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að komið sé í veg fyrir slysahættu á verk­stað samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. þeirra skuli vinnustaðir þannig úr garði gerðir að þar sé gætt fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Þrátt fyrir að ekki sé sér­staklega vísað til þess í framkvæmdaleyfinu sé þannig ljóst að fallvarnir verði settar upp á svæðinu ef talið verði að slysahætta sé til staðar. Skyldur hvíli á atvinnurekendum í þessum efnum á grundvelli laga og hafi sveitarfélagið ekki eftirlit með öryggi á vinnustöðum samkvæmt lögum. Þá mæli lög ekki fyrir um að sveitarfélagi beri skylda til að meta við afgreiðslu framkvæmdaleyfis hvort framkvæmdaraðili muni ráðast í fullnægjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir slysahættu á verk­stað þegar framkvæmdir séu hafnar. Hvorki sé vikið að þessu atriði í skipulagslögum né í lögum um umhverfismat áætlana og framkvæmda. Í 4. gr. laga nr. 111/2021 séu tilgreindir þeir umhverfisþættir sem meta skuli í umhverfismati og séu þeir þar taldir upp með tæmandi hætti. Slysavarnir á verkstað séu ekki þeirra á meðal.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Áréttað er að efnistökuáformin feli í sér mikla aukningu frá þeirri sem verið hafi, varla minni en þreföldun ef miðað væri við jafnt vax­andi efnistöku áranna 1950–2019. Ekki sé hægt að líta til efnistöku áranna 2019–2023 enda hafi hún verið leyfis- og eftirlitslaus með alvarlegum afleiðingum fyrir ásýnd svæðisins og geti ekki sett viðmið. Á þeim tíma hafi orðið verulegar skemmdir á sumar­húsum í nágrenninu vegna gjall­foks auk þess sem margir hefðu fundið fyrir óþægindum í öndunar­vegi af sömu ástæðu. Fyrir liggi að verulegur hluti þess rasks sem þegar hafi orðið sé til komið vegna auk­innar og ólög­mætrar efnistöku frá árinu 2019, en ætla megi að hún hafi verið ríflega 100.000 m³ eða nærri fjórðungur þess efnis sem tekið hefði verið úr námunni frá upphafi. Ekki liggi fyrir á hverju fullyrðing leyfisbeiðanda um að efnis­taka hafi verið 20.000 m³ á ári sé byggð og ekki liggi fyrir upplýsingar um síðast útgefna leyfið, þ. á m. um gildistíma þess. Fyrirspurnum kær­enda þess efnis til sveitarfélagsins hafi ekki verið svarað. Rannsókn málsins hafi verið veru­lega ábótavant og nauðsynlegt hefði verið að fyrir lægju upplýsingar um árlega efnistöku undan­farinna ára til þess að hægt væri að gera sér grein fyrir því hver hún hafi verið fyrir árið 2019 eða þar til ráðist hefði verið í stór aukna efnisvinnslu úr námunni, án tilskilinna leyfa eða eftirlits.

Ekki sé tekið tillit til þess að sú aðferð sem valin sé með dýpkun námunnar, lá- og lóðrétt, muni gera þær skemmdir sem þegar hafi orðið óafturkræfar þar sem að með hverri skóflustungu sem farið sé innar og neðar sé fjarlægst þau meginmarkmið að móta landslagið til samræmis við umhverfi sitt að efnistöku lokinni.

Farið hafi verið með málið í samræmi við 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 en sú máls­meðferð fullnægi ekki skilyrðum 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Í 3. mgr. síðar­nefnds ákvæðis komi fram að áður en leyfi sé veitt skuli leyfisveitandi leita umsagnar Umhverfis­stofnunar og viðkomandi náttúruverndarnefndar nema fyrir liggi staðfest aðal­skipu­lag og sam­þykkt deiliskipulag. Augljóst sé að með þessu sé lögð skylda á herðar leyfis­veitanda að afla sérstakrar og sjálfstæðrar umsagnar um það hvernig fyrirhuguð framkvæmd horfi við með tilliti til greinds ákvæðis. Sé um lögboðna álitsumleitan að ræða sem engin heimild sé fyrir að víkja frá og það sé andstætt rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins að láta undir höfuð leggjast að gæta þessarar lagaskyldu. Lög nr. 60/2013 séu yngri en skipulagslög og reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Greint ákvæði laganna feli því í sér viðbótarskilyrði við þær kröfur sem áður hafi gilt um meðferð umsókna um framkvæmdaleyfi og hafi sjálfstæða þýðingu þar sem með því sé tryggt að sérstaklega séu gaumgæfð möguleg áhrif framkvæmda á jarðmyndanir sem njóti sérstakrar verndar samkvæmt ákvæðinu. Ekki sé hægt að fallast á að umsögn Umhverfis­stofnunar, sem látin hefði verið í té að beiðni Skipulagsstofnunar við undirbúning álits um mat á umhverfisáhrifum, geti komið í stað þessa lögbundna álits. Ástæða þess sé m.a. að í umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila hafi því verið slegið föstu að fyrirhuguð framkvæmd félli ekki undir téða 61. gr. og af þeim sökum hafi ekkert verið fjallað um það álitaefni í skýrslunni. Lúti umsögn Umhverfisstofnunar að því að leiðrétta þennan misskilning, en ekki sé fjallað um það skilyrði að brýna nauðsyn beri til þess að ráðast í framkvæmdina, enda ekki tilefni til þess eins og málið hafi þá legið fyrir. Þá hafi umsögnin ekki legið fyrir við afgreiðslu umsóknar um framkvæmdaleyfi, heldur hafi leyfisveitandi aðeins haft fyrir sér álit Skipulags­stofnunar en þar hafi umsögn Umhverfisstofnunar verið endursögð og efni hennar ekki skilað sér til fulls. Ekki geti komið til álita að styðjast við umsagnir um skipulag svæðisins við veitingu framkvæmda­leyfisins, sbr. niðurlag 3. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga, enda áskilið að bæði liggi fyrir staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag þar sem fullnægjandi umsagnir liggi fyrir, en ekkert deiliskipulag hafi verið samþykkt á því svæði sem um ræði. Þar að auki sé í umsögn um heildarendurskoðun aðalskipulags, dags. 20. maí 2022, ekkert fjallað um þá efnistöku í Seyðishólum sem hið kærða framkvæmdaleyfi taki til. Þá sé álitamál hvort efnis­takan eigi sér fullnægjandi stoð í gildandi Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2020–2032, en í greinargerð þess sé aðeins fjallað um efnistökusvæði með almennum hætti. Ekkert segi til um það hvað átt sé við með „efnismagn allt að“, hvort þar sé átt við magn efnis að meðtöldu því efni sem þegar hafi verið tekið eða hvort um sé að ræða efnismagn á gildistíma aðalskipulagsins eða eitthvað annað. Loks verði ekki séð að leitað hafi verið umsagnar við­komandi náttúru­verndar­nefndar eins og áskilið sé í 3. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013. Málsmeðferðin hafi því ekki verið í samræmi við lög.

Umhverfisáhrif framkvæmdarinnar séu veruleg og ekki staðbundin við námuna, heldur hafi flutningur efnis frá námunni áhrif langt út fyrir næsta nágrenni hennar. Af þessari ástæðu séu ekki skilyrði til þess að nota þá undantekningarreglu sem felist í grenndarkynningu skv. 44. gr. skipulagslaga. Ekki virðist hafa verið rannsakað hvort eða að hvaða marki starfsemin kunni að varða hagsmuni aðila utan þess eins km radíuss sem sveitarstjórn hafi ákveðið, en kærendur telji líklegt að svo sé. Þá verði ekki fallist á að úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 119/2021 hafi þýðingu í málinu enda um verulega ólík tilvik að ræða.

Bókun sveitarstjórnar frá 6. mars 2024 hafi verið gerð áður en leyfið hafi verið grenndarkynnt og sé þar því ekki að vænta neinna svara við athugasemdum. Í bókun sveitarstjórnar frá 2 október s.á. sé aðeins nefndur fjöldi athugasemda og að framlögð hafi verið samantekt þeirra. Þá sé í greinargerð sveitarfélagsins ekki annað sagt um athugasemdir en þetta: „Í samræmi við álit Skipulagsstofnunar frá 2022, umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila frá 2022 og fram­komnar athugasemdir sem bárust í grenndarkynningu er framkvæmdaleyfi þetta bundið eftir­farandi skilyrðum:“ Síðan séu talin upp skilyrði leyfisins en engin svör að finna við athuga­semdunum. Það liggi því fyrir að athugasemdum hafi ekki verið svarað með þeim hætti sem áskilið sé að lögum. Ekki skipti máli þótt hagsmunaaðilar hafi átt þess kost að kynna sér gögn málsins hjá leyfisveitanda þar sem skylt hafi verið að senda þeim svör. Auk þess sé ómögulegt að sjá að samantekt með svörum við athugasemdum hafi legið fyrir við leyfisveitinguna.

——-

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu en athugasemdir af hans hálfu hafa ekki borist úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 2. október 2024 um að samþykkja útgáfu framkvæmdaleyfis vegna efnis­töku úr námu E24 í Seyðishólum, en leyfið var í kjölfarið gefið út af skipulagsfulltrúa 23. s.m. Í framkvæmda­leyfinu er vísað til þess að leyfið sé háð þeim takmörkunum sem fram komi í greinargerð þess, dags. 4. mars 2024. Í henni er m.a. tiltekið að gildistími leyfisins sé til 31. desember 2039, fyrirhuguð efnistaka sé 500.000 m3 eða 33.000 m3 á ári og að áætluð stærð efnistökusvæðisins að henni lokinni sé 4,4 ha. Kæruheimild er að finna í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Vegna sjónarmiða sem kærendur hafa komið á framfæri um að unnt væri að nema minna efni heldur en það sem hér um ræðir er af hálfu úrskurðarnefndarinnar tekið fram að þar sem mati á umhverfisáhrifum sleppir er það framkvæmdaraðili sem leggur til framkvæmdir samkvæmt þeim kosti sem hann metur æskilegastan. Hefur framkvæmdaraðili með því forræði á fram­kvæmd innan marka gildandi laga og reglna. Þá er Skipulagsstofnun í 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd ekki falið að leggja sjálfstætt mat á það hvort skilyrði um brýna nauðsyn framkvæmda sé hverju sinni uppfyllt. Það mat er á verksviði leyfisveitanda sem ber að leggja réttan grundvöll að slíku mati. Játa verður sveitarstjórn nokkuð svigrúm við mat á því hvað teljist til brýnnar nauðsynjar samkvæmt ákvæðinu. Þá er það hlutverk nefndarinnar samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Leggur úrskurðarnefndin því ekki mat á umfang framkvæmdar.

Það er skilyrði aðildar að málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta tengda viðkomandi ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, nema lög mæli á annan veg. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber þó að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögverndaða hagsmuni þeirra að fá leyst úr ágreiningi kærumálsins.

Kærendur í máli þessu eru 10 talsins og vísa aðallega til þess að þeir njóti kæruaðildar vegna grenndar við efnistökusvæðið. Þá hafa kærendur einnig vísað til sjónarmiða sem varða náttúruvernd, öryggi og útivist, en slík sjónar­mið lúta að atriðum sem teljast til almannahagsmuna en ekki til einstaklings­bundinna hagsmuna. Við mat á því hvort kærendur eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun verður að líta til allra staðhátta og m.a. kanna hvar fasteignir þeirra eru staðsettar með tilliti til framkvæmdasvæðisins og hvort efnistakan muni snerta hagsmuni þeirra umfram aðra t.a.m. vegna hávaða eða annars ónæðis. Sumarhúsalóðir eiganda Hraunslóðar 4 og 6, eru norðvestan við Seyðishól og þar með námuopið, ríkjandi vindátt blæs ekki í átt að lóðunum og njóta þær skjóls af þeim hluta hólsins sem verður óhreyfður. Sama gildir um lóð eiganda Kerhrauns C99. Þá eru lóðir eiganda Kerhrauns 11 og 12, staðsettar vestan við Seyðishól og námuopið. Margar sumarhúsalóðir eru á milli lóðanna og námunnar og fjarlægðin frá námunni slík að ekki verður séð að grenndaráhrif gagnvart fasteignum hans verði umfram almenn áhrif af námuvinnslunni. Lóð eiganda Klausturhólar B-Gata 1, er austan megin við námuna, austan við Búrfellsveg og verður ekki ekið með efni framhjá lóðinni. Að framangreindu virtu verður ekki talið að umdeild efnistaka hafi grenndaráhrif gagnvart eigendum framangreindra fasteigna að því marki að þeim verði játuð kæruaðild í málinu. Öðrum kærendum er hins vegar játuð kæruaðild en afstaða þeirra gagnvart efnistökusvæði eða akstursleiðar vöruflutningabifreiða verður talin slík að ekki er unnt að útiloka möguleg grenndaráhrif gagnvart fasteignum þeirra, s.s. vegna hávaða og foks.

Svo sem áður greinir hefur efnistaka farið fram á svæðinu áratugum saman. Í máli nr. 98/2023 fyrir úrskurðarnefndinni var deilt um þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafnings­hrepps frá 29. júní 2023 að heimila útgáfu framkvæmdaleyfis til efnistöku úr námu E24 í Seyðishólum fyrir allt að 500.000 m3. Kvað nefndin upp úrskurð í málinu 29. desember s.á. og felldi úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar. Niðurstaða nefndarinnar byggði á því að við ákvörðunartökuna hefði ekki verið tekin afstaða til þess hvort framkvæmdin félli undir gildis­svið 61. gr. laga nr. 60/2013 og af þeim sökum hafði ekki verið fjallað um það hvort brýna nauðsyn bæri til framkvæmdanna í samræmi við lagaákvæðið, ef við ætti. Þá taldi nefndin það annmarka að framkvæmdin hefði ekki verið grenndarkynnt fyrir eigendum Klausturhóla 3 og 8 en afstaða rétthafa þeirra lóða gagnvart framkvæmda­svæðinu væri slík að ekki væri unnt að telja grenndar­hags­muni þeirra skerðast í minna mæli en sumra annarra sem þó hefði verið grenndarkynnt fyrir. Af hálfu nefndar­innar var þó talið að málsmeðferð Skipulags­stofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hefði verið fullnægjandi og verður því ekki fjallað frekar um þann þátt málsmeðferðarinnar í máli þessu enda þykir ekki tilefni til þess að breyta þeirri niðurstöðu. Í kjölfar ógildingar úrskurðarnefndarinnar fór að nýju fram máls­meðferð vegna umsóknar framkvæmdaraðila frá 17. febrúar 2023 sem lauk með töku hinnar kærðu ákvörðunar.

Lokaliður mats á umhverfis­áhrifum samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana felst í því að álit Skipulags­stofnunar á umhverfismatskýrslu er lagt til grundvallar við afgreiðslu umsóknar um leyfi til framkvæmda, sbr. e-lið 1. mgr. 17. gr. laganna. Fjallað er um framkvæmdaleyfi í skipulags­lögum, en samkvæmt 4. mgr. 13. gr. þeirra skal sveitarstjórn við útgáfu framkvæmda­leyfis fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir. Jafn­framt skal hún ganga úr skugga um að gætt hafi verið ákvæða laga um náttúruvernd og annarra laga og reglugerða sem við eiga.

Ljóst er að skyldur sveitarstjórnar sem leyfisveitanda eru ríkar við útgáfu leyfis til framkvæmdar sem undirgengist hefur mat á umhverfisáhrifum og er í lögum kveðið á um ákveðna málsmeðferð og skilyrði þess að leyfi verði veitt. Þá liggur nú fyrir sú afstaða sveitarfélagsins í greinargerð um afgreiðslu framkvæmdaleyfisins, dags. 4. mars 2024, að efnistakan fari fram í jarðmyndun sem njóti sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd og er í þeim lögum einnig kveðið á um ákveðna málsmeðferð leyfisveitanda við útgáfu leyfis sem snertir verndarandlag þeirra.

Samkvæmt Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2020–2032 er framkvæmdasvæðið á skilgreindu efnistökusvæði, E24. Ekki er í gildi deiliskipulag á svæðinu. Í greinargerð með aðalskipulaginu kemur m.a. fram að stærri efnistökusvæði verði ekki á svæðum sem hafi sérstakt verndargildi, s.s. svæðum á náttúruminjaskrá, þar sem séu mikilvægar vistgerðir og hverfisverndarsvæði. Forðast skuli eftir megni að raska ósnortnum hlíðum, ásum, áberandi landslagsmyndum, vatns- og árbökkum og farvegum þeirra. Þá skuli öll efnistökusvæði hafa framkvæmdaleyfi þar sem sett verði skilyrði um skipulega nýtingu, góða umgengni og frágang að vinnslu lokinni. Þá er í töflu 11 tiltekið að syðri náma í Seyðishólum, E24, sé 6,5 ha að stærð og að heimilt sé að nema þar allt að 500.000 m3 af efni. Aðalskipulagið sætti umhverfismati áætlana samkvæmt þágildandi lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Um efnistöku­svæði var þar tekið fram að með því að gera ráð fyrir hæfilega mörgum efnistökustöðum væri hægt að nýta þau svæði sem séu næst framkvæmdasvæði hverju sinni og lágmarka þannig þá vegalengd sem aka þurfi með efni. Hafi stefnan því jákvæð áhrif á samfélag og loftgæði. Við frágang efnistökusvæða væri gert ráð fyrir að þau féllu sem best að landinu umhverfis og ættu þá ummerki um efnistöku að verða lítt sýnileg. Áhrif á land og jarðmyndanir væru því jákvæð. Þrátt fyrir að í hinu umdeilda framkvæmdaleyfi sé gert ráð fyrir að við lok námunnar verði skilið við hana með þeim hætti að efnistökusvæðið verði sýnilegt verður ekki annað séð en að náman sé í samræmi við landnotkun samkvæmt aðalskipulagi.

Í 44. gr. skipulagslaga er kveðið á um að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggða­mynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því er varð að skipulagslögum var tekið fram um 44. gr. að það væri nýmæli að skylt væri að grenndarkynna framkvæmdarleyfi þegar deiliskipulag lægi ekki fyrir en sú málsmeðferð væri bundin við þegar byggð hverfi. Ákvæðinu var breytt með lögum nr. 59/2014 og með lögum nr. 7/2016. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að síðarnefndu breytingarlögunum var sérstaklega tilgreint að markmið breytingar­innar væri að til staðar væri leið fyrir sveitarfélög að veita leyfi til framkvæmda á svæðum utan þegar byggðra hverfa án þess að þörf væri á að deiliskipuleggja­ svæðið. Þá var tekið fram að algengt væri að ekki væri til staðar deiliskipulag í dreifbýli og að tímafrekt og kostnaðarsamt yrði fyrir sveitarfélög að vinna deiliskipulag fyrir þau svæði þar sem þörf væri á að veita leyfi til framkvæmda. Þar sem Seyðishólar eru ekki í byggð eiga skilyrði í 44. gr. skipulagslaga um samræmi við byggðamynstur og þéttleika byggðar ekki við.

Í kjölfar þess að skipulagsnefnd uppsveita mæltist til þess á fundi sínum 28. febrúar 2024 að útgáfa framkvæmdaleyfis yrði grenndarkynnt var málið lagt fyrir á fundum sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps 6. og 20. mars s.á. Í fundargerðum kemur fram að ásamt um­sókn væri lögð fram uppfærð greinargerð, dags. 4. s.m., umhverfismatsskýrsla og álit Skipulags­stofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum. Í nefndri greinargerð um afgreiðslu framkvæmdaleyfis, dags. 4. mars 2024, kemur fram að hún sé unnin í samræmi við 10. og 12. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi og 3. mgr. 27. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Er framkvæmdinni og tilgangi hennar lýst í greinargerðinni og er þar að finna rökstuðning um samræmi framkvæmdarinnar við álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Tekin er afstaða til þess hvort framkvæmdin sé í samræmi við skipulags­áætlanir og talið að hún sé í samræmi við Aðalskipulag Grímsnes- og Grafningshrepps 2020–2032 og tekið fram að ekki sé í gildi deiliskipulag fyrir svæðið. Þá er þar einnig að finna rökstuðning fyrir áframhaldandi efnistöku. Er það mat sveitarfélagsins að stöðvun efnistöku hefði í för með sér neikvæð áhrif á önnur svæði vegna aukinnar eða nýrrar efnistöku, kolefnis­spor framkvæmda myndi aukast sem og slit á vegum og ökutækjum, byggingar­kostnaður myndi hækka og framkvæmdir í sveitarfélaginu yrðu óhagkvæmari, atvinnulíf í sveitarfélaginu yrði fyrir höggi og svæðið myndi missa sína einkennandi rauðu malarvegi sem litað hefðu sögu og ímynd svæðisins í áratugi. Þar af leiðandi teldi sveitarfélagið það vera brýna nauðsyn að leyfa efnistöku á þegar röskuðu svæði í stað þess að opna ný efnistökusvæði. Ekki hefði verið lagst gegn efnistökunni í áliti Skipulagsstofnunar og mæti sveitarfélagið það svo að hagsmunir almennings í sveitarfélaginu réttlættu áframhaldandi efnistöku. Um frágang á svæðinu við verklok væri kveðið á um að gengið skyldi frá því þannig að það verði aðgengilegt til skoðunar fyrir almenning, yfirborð námunnar jafnað og veggir mótaðir þannig að ekki sé hætta á hruni. Leitast skuli við að raska ekki óröskuðu svæði utan við skilgreint námusvæði, umfram það sem nauðsyn þyki. Samþykkti sveitarstjórn útgáfu framkvæmdaleyfisins og var m.a. bókað á fundi hennar 20. mars 2024 að allar helstu forsendur fyrir útgáfu þess kæmu að mati sveitarstjórnar fram í greinargerð. Þar kæmi fram ítarlegri rökstuðningur fyrir útgáfu leyfis vegna efnis­tökunnar. Þá var m.a. greint frá því að sveitarfélagið teldi það brýna nauðsyn í skilningi 3. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 að leyfa efnistöku á svæðinu sem væri þegar raskað, í stað þess að opna ný efnistökusvæði og var einnig að finna rökstuðning fyrir þeirri brýnu nauðsyn í greinargerðinni. Var Umhverfis- og tæknisviði Uppsveita bs. jafnframt falið að grenndar­kynna fyrirhugaða leyfisveitingu í eins km radíus umhverfis efnistökusvæðið.

Með bréfi, dags. 8. apríl 2024, var tillaga um nefnt framkvæmdaleyfi grenndarkynnt, þ. á m. fyrir kærendum máls þessa. Frestur til að koma að athugasemdum var veittur til 8. maí s.á. Í kynningarbréfinu kom fram að málið hefði fengið „eftirfarandi afgreiðslu á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps 20. mars 2024“ og var á eftir tekin upp bókun sveitarstjórnar af fundi hennar 15. mars 2023, þ.e. þeirri sem lá grenndarkynningu til grundvallar við málsmeðferð þess leyfis sem fellt var úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 98/2023. Var tilvísunin því röng og ekki greint réttilega frá afgreiðslu sveitarstjórnar. Fyrir liggur að með grenndar­kynningu 8. apríl 2024 fylgdi umhverfismatsskýrsla framkvæmdar­aðila, álit Skipulags­stofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, uppfærð greinargerð vegna útgáfu framkvæmdaleyfis, dags. 4. mars 2024, og uppdráttur af framkvæmdasvæðinu þar sem mörk efnistökunnar voru sýnd. Þá var réttilega vísað til þess á hvaða fundi ákveðið hefði verið að grenndarkynna tillöguna. Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga felst það í grenndar­kynningu að skipulagsnefnd kynnir nágrönnum, sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta, leyfis­umsókn og gefur þeim kost á að tjá sig um hana. Með hliðsjón af framansögðu verður litið svo á að grenndar­kynningunni hafi fylgt nægilegar upplýsingar til þess að nágrannar gætu kynnt sér áformin og komið að athugasemdum sínum um þau. Eins og fram hefur komið var grenndar­kynningin miðuð við eins km radíus um svæðið. Þrátt fyrir að fallast megi á með kærendum að slík afmörkun sem miðist eingöngu við fjarlægð kunni að vera ófull­nægjandi, liggur ekki annað fyrir en að grenndarkynningin hafi í þessu tilviki náð til þeirra nágranna sem hagsmuna áttu að gæta af framkvæmdinni og þá olli hún ekki réttar­spjöllum gagnvart kærendum, enda komu þeir að kæru í málinu með réttum hætti og innan tilskilins frests.

Að undangenginni umfjöllun á fundi skipulagsnefndar 25. september 2024 var umsókn um framkvæmdaleyfi tekin fyrir að nýju á fundi sveitarstjórnar 2. október s.á. þar sem útgáfa þess var samþykkt og skipulagsfulltrúa falið að annast hana. Í fundargerðinni kemur fram að fyrir fundinn hafi verið lögð fram samantekt á athugasemdum sem bárust vegna tillögunnar, uppfærð greinargerð um framkvæmdaleyfið og að það skuli bundið þeim skilyrðum sem fram komi í umhverfismatsskýrslu framkvæmdarinnar. Í greinar­gerðinni eru jafnframt talin upp skilyrði sem leyfið skuli bundið. Var leyfið gefið út 23. s.m. og greinir þar að það sé háð þeim takmörkunum sem fram komi í greinargerð þess. Af hálfu úrskurðarnefndarinnar er gerð athugasemd við að hin uppfærða greinargerð sé sú sama og áður, þ.e. dags. 4. mars 2024. Í greinargerðinni kom fram að skilyrði fyrir framkvæmdinni tækju mið af þeim athugasemdum sem borist hefðu við grenndarkynningu en eðli málsins samkvæmt getur það ekki átt við þær athugasemdir sem bárust við seinni grenndarkynninguna þar sem hún hafði ekki farið fram er greinargerðin var gerð. Má því ráða að greind tilvísun greinargerðarinnar taki mið af þeim athugasemdum sem bárust við grenndarkynningu við fyrri málsmeðferð sveitarstjórnar á umsókn leyfishafa, en umfang hennar í það sinn var mun minna.

Í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga og 3. mgr. 27. gr. laga nr. 111/2021 er kveðið á um að við afgreiðslu leyfis til matsskyldra framkvæmda skuli leyfisveitandi taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis. Við meðferð málsins var af hálfu úrskurðarnefndarinnar óskað eftir að fá afrit greindrar samantektar á athugasemdum, sem vísað var til í fyrrgreindri fundargerð 2. október 2024, ásamt afriti athugasemdanna. Fyrst skal nefnt að 112 bréf bárust með athugasemdum. Í sumum tilvikum er um það að ræða að eigandi tveggja eða fleiri fasteigna sendir bréf með samhljóða athugasemdum vegna hverrar fasteigna sinna og þá eru bréfin mörg samhljóða eða allt að því samhljóða. Má því segja að þessi fjöldi bréfa endurspegli óánægju sumarhúsaeigenda í grennd sem séu um flest sammála um það á hverju hún byggir. Af hálfu sveitarfélagsins hefur því verið lýst að framkomnum athugasemdum hafi verið svarað í gögnum málsins og því verið óþarft að taka saman sérstaka umsögn um þær. Þrátt fyrir að ekki sé annað en unnt að taka undir með sveitarfélaginu að svör við flestum athugasemdunum hafi mátt finna í gögnum málsins verður ekki á þetta fallist enda með lögum lögð sú skylda á sveitarfélagið að taka saman umsögn um þær athugasemdir sem berast við grenndarkynningu. Af greindri samantekt sem úrskurðarnefndinni barst frá sveitarfélaginu verður ekki ráðið að efni athugasemdanna hafi legið fyrir sveitarstjórn við töku hinnar kærðu ákvörðunar enda í henni ekki að finna annað en yfirlit yfir það frá hverjum athugasemdirnar hafi stafað og þá greiningu að þær hafi margar verið samhljóða. Verður því ekki ráðið að sveitarstjórn hafi kynnt sér þær athugasemdir sem bárust við grenndarkynninguna, sem fram fór á árinu 2024. Er það annmarki á meðferð málsins.

Samkvæmt 4. mgr. 14. gr. laga nr. 123/2010 skal birta ákvarðanir um útgáfu framkvæmdaleyfis vegna matsskyldra framkvæmda með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu og dagblaði sem gefið er út á landsvísu innan tveggja vikna frá útgáfu leyfis. Í auglýsingunni skal tilgreina kæruheimild og kærufrest. Þá er samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 44. gr. sömu laga skylt að tilkynna þeim sem tjáðu sig um málið í grenndarkynningu um niðurstöðu sveitarstjórnar.

Hin umdeilda ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps var auglýst 31. október 2024 í Lögbirtingablaðinu, staðarblaðinu Dagskránni og á vefsíðu umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. Þá var á vefsíðu Grímsnes- og Grafningshrepps birt auglýsing um skipulagsmál þann sama dag þar sem finna mátti hlekk á auglýsingu á vefsíðu umhverfis- og tæknisviðs. Samkvæmt upplýsingum á vefsíðunni „DFS.IS“ er Dagskránni dreift á Suðurlandi. Er því ljóst að henni er ekki dreift á landsvísu. Þá var í greindum auglýsingum ekki að finna leiðbeiningar um kæruheimild og kærufrest. Verða þessir annmarkar þó ekki taldir hafa áhrif á gildi leyfisins en þeir kunna að hafa áhrif við mat á upphafi kærufrests, en samkvæmt 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu.

Þeim sem komu að athugasemdum við grenndarkynningu var kynnt hin kærða ákvörðun sveitarstjórnar með bréfi skipulagsfulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps, dags. 31. október 2024. Af hálfu kærenda hefur verið vísað til þess að gr. 5.9.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 hafi ekki verið fylgt en í því ákvæði er mælt fyrir um að berist athugasemdir á kynningartíma skuli skipulagsnefnd gefa umsögn um athugasemdir til sveitarstjórnar og þá skuli sveitarstjórn senda þeim hagsmunaaðilum er athugasemdir gerðu umsögn sína um þær ásamt niðurstöðu. Ekki verður séð að þessa hafi verið gætt við meðferð málsins en líkt og áður greinir hefur af hálfu sveitarfélagsins verið vísað til þess að svör við athugasemdum hafi verið svarað í gögnum málsins. Ekki verður á það fallist enda í greindu ákvæði skipulagsreglugerðar lögð sú skylda að gerð sé umsögn um athugasemdirnar og er það síðan sveitarstjórnar að taka „endanlega afstöðu til málsins“ eins og þar greinir.

Í 61. gr. laga um náttúruvernd er kveðið á um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja, þ. á m. eldvarpa, sbr. a.-lið 2. mgr. Í 3. mgr. lagagreinarinnar er kveðið á um að forðast beri að raska þeim vistkerfum og jarðminjum sem talin séu upp í 1. og 2. mgr. nema brýna nauðsyn beri til. Liggur nú fyrir sú afstaða sveitarstjórnar að ákvæðið eigi við um framkvæmdasvæðið og að brýn nauðsyn sé til staðar.

Lög nr. 60/2013 voru samþykkt á Alþingi 10. apríl 2013 og var gildistöku þeirra frestað í tvígang. Þau tóku loks gildi árið 2015, en hafði áður verið breytt með lögum nr. 109/2015. Í lögunum eins og þau voru samþykkt árið 2013 var í 57. gr. kveðið á um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja, en með lögum nr. 109/2015 varð ákvæðið að 61. gr. laga nr. 60/2013. Í 3. mgr. 57. gr. laganna frá 2013 var tiltekið að óheimilt væri að raska vistkerfum og jarðminjum sem talin væru upp í 1. og 2. mgr. ákvæðisins nema brýna nauðsyn bæri til og sýnt þætti að aðrir kostir væru ekki fyrir hendi. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi að lögunum kom fram að í 3. mgr. væri kveðið afdráttarlausar en áður um það hvað vernd skv. 1. og 2. mgr. fæli í sér. Mælt væri fyrir um bann við röskun þeirra náttúrufyrirbæra sem undir greinina féllu nema brýna nauðsyn bæri til og sýnt þætti að aðrir kostir væru ekki fyrir hendi. Með orðalaginu „brýn nauðsyn“ væri lögð áhersla á að einungis mjög ríkir hagsmunir gætu réttlætt röskun og þá fyrst og fremst brýnir almannahagsmunir.

Heldur var dregið úr framangreindum áformum með lögum nr. 109/2015. Í því frumvarpi sem lagt var fyrir þingið hafði um þetta einungis komið fram að forðast bæri eins og kostur væri að raska þessum vistkerfum og jarðminjum. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpinu kom fram að eðlilegt væri að munur væri á réttaráhrifum þess að falla undir sérstaka vernd annars vegar og skráningu á C-hluta náttúruminjaskrár hins vegar. Þá væri mikilvægt að haft væri í huga að hefði náttúrufyrirbæri sem nyti sérstakrar verndar samkvæmt ákvæðinu ákveðna sérstöðu væri eðlilegt að slíkt fyrirbæri væri sett á náttúruminjaskrá. Ákvæðinu var hins vegar breytt í meðförum þingsins í núgildandi veru. Í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar, dags. 10. nóvember 2015, kom fram það mat nefndarinnar að rétt væri að feta ákveðinn milliveg frá því frumvarpi sem lagt hefði verið fram og áður samþykktum lögum nr. 60/2013. Kom fram að vilji nefndarinnar væri að styrkja ákvæðið um sérstaka vernd og að áskilnað um brýna nauðsyn þurfi til að heimilt verði að veita framkvæmdaleyfi eða byggingarleyfi til röskunar á náttúruminjum sem féllu undir sérstaka vernd. Með breytingunni væri þó stigsmunur á þeirri vernd sem náttúruminjar sem falli undir ákvæðið njóti og þeirrar verndar sem náttúruminjar á C-hluta náttúruminjaskrár njóti, en samkvæmt breytingartillögu nefndarinnar þurfi að koma til almannahagsmunir ef raska eigi náttúruminjum á C-hluta náttúruminjaskrár, en í frumvarpinu hafði verið talað um nauðsyn. Í 3. mgr. 37. gr. laga nr. 60/2013, eins og ákvæðinu var breytt með lögum nr. 109/2015, er kveðið á um að forðast beri að raska svæðum eða náttúru­myndunum sem skráðar hafa verið á C-hluta náttúruminjaskrár nema almannahagsmunir krefjist þess og annarra kosta hafi verið leitað. Í 3. mgr. 61. gr. laga um náttúruvernd er nú mælt fyrir um að: „Forðast ber að raska vistkerfum og jarðminjum sem taldar eru upp í 1. og 2. mgr. nema brýna nauðsyn beri til.“

Af framansögðu er ljóst að gert er ráð fyrir að greinarmunur sé á réttaráhrifum þeirrar verndar fyrir röskun sem ákveðin vistkerfi og jarðminjar njóta skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 og þeirrar verndar sem náttúruminjar njóta sem skráðar hafa verið á C-hluta náttúruminjaskrár. Þannig kveður 61. gr. á um að brýn nauðsyn þurfi að vera til staðar en 37. gr. á um að almannahagsmunir krefjist og að annarra kosta hafi verið leitað. Líkt og áður greinir kom fram í frumvarpi að lögum nr. 60/2013 að brýn nauðsyn skírskotaði til mjög ríkra hagsmuna og þá fyrst og fremst almannahagsmuna. Orðalag ákvæðisins um það er þrátt fyrir aðrar breytingar enn óbreytt og verður því ekki ráðið að hverfa hafi átt frá því að mjög ríkir hagsmunir þurfi að vera í húfi og þá fyrst og fremst almannahagsmunir til þess að réttlæta röskun á þeim vistkerfum og jarðminjum sem njóta verndar skv. 61. gr. laganna. Samkvæmt 3. mgr. 61. gr. er skylt að afla framkvæmdaleyfis eða eftir atvikum byggingarleyfis, sbr. skipulagslög og lög nr. 160/2010 um mannvirki, vegna framkvæmda sem hafa í för með sér röskun á þeim vistkerfum og jarðminjum sem verndar njóta samkvæmt ákvæðinu. Kemur og einnig fram að áður en leyfi sé veitt skuli leyfisveitandi leita umsagnar Umhverfisstofnunar og viðkomandi náttúruverndarnefndar nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag þar sem umsagnir skv. 1. og 2. mgr. 68. gr. laga n r. 60/2013 liggi fyrir, en þar er þó ekki kveðið á um umsögn Umhverfisstofnunar heldur Náttúruverndarstofnunar og viðkomandi náttúruverndarnefnda vegna aðalskipulags og Náttúruverndarstofnunar, Náttúrufræðistofnunar og viðkomandi náttúruverndarnefnda vegna deiliskipulags. Er það því á herðum leyfisveitanda að meta hvort brýna nauðsyn beri til að raska þeim vistkerfum og jarðminjum sem verndar njóta skv. 61. gr. laganna. Samkvæmt 4. mgr. lagagreinarinnar skal líta til verndarmarkmiða 2. og 3. gr. laganna og jafnframt huga að mikilvægi minjanna og sérstöðu í íslensku og alþjóðlegu samhengi við mat á leyfisumsókn.

Umsagna Umhverfisstofnunar eða náttúruverndarnefndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 hefur ekki verið leitað. Álits­umleitan er almennt veigamikill þáttur í undirbúningi ákvörðunar og hefur því yfirleitt verið talið, að vanræksla á því að leita lögboðinnar umsagnar sé verulegur annmarki, sem almennt leiði til ógildingar ákvörðunar. Meginreglan hefur verið talin sú að íþyngjandi ákvarðanir teljast ógildanlegar af þeim sökum og í sumum tilvikum geti ívilnandi ákvarðanir einnig orðið það. Í rökstuðningi sveitarfélagsins fyrir því að brýna nauðsyn beri til áframhaldandi námuvinnslu er einkum vísað til hagsmuna af notkun efnisins innan sveitarfélagsins en í greinargerð með framkvæmdaleyfinu kemur fram að fyrirhugað sé að meirihluti þess verði fluttur úr landi. Með hliðsjón af lögskýringargögnum að baki skilyrði 61. gr. laga nr. 60/2013 um brýna nauðsyn, þar sem fram kemur að ríkir hagsmunir þurfi að vera í húfi og þá fyrst og fremst almannahagsmunir, verður ekki talið að færð hafi verið fram viðhlítandi rök fyrir því að skilyrðið sé uppfyllt.

Af öllu því sem að framan er rakið er ljóst að við undirbúning og málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar var ekki í öllu gætt ákvæða skipulagslaga eða náttúruverndarlaga. Þá fullnægði sveitarstjórn ekki rannsóknarskyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga en umsögn Umhverfis­stofnunar er liður í rannsókn málsins. Þykja þessir ágallar leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar, svo sem nánar hefur verið gerð grein fyrir.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 2. október 2024 um að samþykkja útgáfu framkvæmdaleyfis vegna efnistöku úr námu E24 í Seyðishólum.

170/2024 Hagasel

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 10. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 170/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. nóvember 2024 um að krefjast þess að kærendur færi smáhýsi á lóð þeirra að Hagaseli 2 a.m.k. þrjá metra frá gangstétt innan 14 daga, en verði ekki orðið við þeirri kröfu áformi embættið að leggja á dagsektir að fjárhæð kr. 25.000.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. desember 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur fasteignarinnar Hagasels 2, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. nóvember 2024 að krefjast þess að þau færi smáhýsi á lóð þeirra að Hagaseli 2 a.m.k. þrjá metra frá gangstétt innan 14 daga, en verði ekki orðið við þeirri kröfu áformi embættið að leggja á dagsektir að fjárhæð kr. 25.000. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og réttaráhrifum hennar frestað á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Í tölvupóstum til úrskurðarnefndarinnar 11. desember 2024 og 13. janúar 2025 frá Reykjavíkur­borg var tekið fram að ekki væri gerð athugasemd við frestun réttaráhrifa og hafa dagsektir ekki verið lagðar á.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 2. janúar 2025.

Málavextir: Lóð kærenda að Hagaseli 2, Reykjavík, er á horni Hagasels og Grófarsels í Breiðholtshverfi. Á lóðinni hefur verið komið fyrir smáhýsi. Með bréfi frá eftirlitsdeild umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar til kærenda, dags. 11. júlí 2023, var þeim tilkynnt um að Reykjavíkurborg hefði borist ábending um smáhýsið og hefði vettvangsskoðun leitt í ljós að smáhýsið og runnar skyggðu á sýn vegfarenda þannig að hætta væri talin stafa af. Í bréfinu var rakið fyrirliggjandi álit samgöngudeildar umhverfis- og skipulagssviðs um aðstæður á umræddum gatnamótum. Var kærendum gert að leggja fram skriflegar skýringar vegna málsins og tekið fram að eftirlitsdeild umhverfis- og skipulagssviðs áformaði að gera kröfu um að þeim yrði gert að lækka runnana og færa smáhýsið til í því skyni að tryggja betur sýn vegfarenda við gatnamótin. Með tölvupósti til umhverfis- og skipulagssviðs 22. s.m. höfnuðu kærendur því að færa smáhýsið og lækka runna á lóðinni. Var þeim svarað 2. ágúst s.á. með tölvupósti þar sem fram komu nánari skýringar á fyrra bréfi og kom þar einnig fram að yrði tilmælunum ekki sinnt yrði tekin ákvörðun um framhald málsins með hliðsjón af ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Gæti sú ákvörðun falið í sér að ráðist yrði í úrbætur á kostnað kærenda eða beitingu dagsekta. Þá var einnig leiðbeint um kæruheimild og kærufrest til úrskurðarnefndarinnar.

Í bréfi frá eftirlitsdeild umhverfis- og skipulagssviðs til kærenda, dags. 1. september 2023, var vísað til fyrra bréfs og þess að ekki hefði verið brugðist við kröfum byggingarfulltrúa. Yrði það ekki gert innan 14 daga áformaði byggingarfulltrúi að leggja á dagsektir að fjárhæð kr. 25.000 fyrir hvern þann dag sem drægist að verða við kröfunum. Var jafnframt veittur 14 daga frestur til andmæla. Lögmaður kærenda andmælti með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 14. s.m. Var andmælunum svarað með bréfi frá starfsmanni umhverfis- og skipulagssviðs til kærenda, dags. 5. október s.á. Var þar bent á að ákvörðunin hefði byggt á rökstuddu áliti samgöngudeildar og þætti nauðsynleg til að tryggja öryggi vegfarenda. Voru kröfur um leið ítrekaðar og minnt á fyrirhugaðar dagsektir. Mundi byggingarfulltrúi taka ákvörðun um álagningu dagsekta á næstu dögum að því er fram kom í svarbréfinu.

Í bréfi byggingarfulltrúa til kærenda, dags. 4. nóvember 2024, kom fram að búið væri að lækka runna á horni Grófarsels og Hagasels. Aflað hefði verið nýs álits samgöngudeildar umhverfis- og skipulagssviðs og hefði niðurstaða þess verið sú að staðsetning smáhýsisins stytti eftir sem áður sjónlínur vegfarenda svo mjög að umferðaröryggi almennings væri ógnað. Því stæði krafa um að færa smáhýsið óhögguð. Var veittur lokafrestur til að verða við kröfunni innan 14 daga en yrði ekki brugðist við henni væri áformað að leggja á dagsektir. Einnig var veittur 14 daga frestur til að koma að nýju á framfæri andmælum.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að hin kærða ákvörðun sé haldin formannmarka en ekki verði séð að byggingarfulltrúi hafi heimild til að beita þvingunarúrræðum laga nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerðar nr. 112/2012 til þess að tryggja umferðaröryggi. Í besta falli sé um skipulagsmál að ræða sem falli þá undir valdsvið skipulagsfulltrúa og sé því um valdþurrð að ræða. Málið hafi verið á borði eftirlitsdeildar umhverfis- og skipulagssviðs þar til ákvörðun byggingarfulltrúa, dags. 4. nóvember 2023, hafi verið send til kærenda. Kröfur af hálfu eftirlitsdeildar gagnvart kærendum hafi verið gerðar á óljósum lagagrundvelli. Deildina sé ekki að finna í skipuriti Reykjavíkurborgar og hafi kærendur því ekki getað séð hvaða stjórnvald beitti þau þvingunarúrræðum samkvæmt lögum um mannvirki. Brjóti þetta gegn grundvallarsjónarmiðum um fyrirsjáanleika, valdbærni og gagnsæi í stjórnsýslu.

Ekki sé nægilega skýrt hvort hin kærða ákvörðun teljist stjórnvaldsákvörðun en í henni komi ekki fram leiðbeiningar um kæruheimild né kærufrest eða á hvaða lagagrundvelli byggingar­fulltrúi taki ákvörðun sína. Fari þetta í bága við skýrleikareglu stjórnsýsluréttar auk þess að leiðbeiningarskyldu hafi verið ábótavant og hafi kærendur með því ekki fengið að njóta andmælaréttar í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt f-lið 1. mgr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð séu smáhýsi undanþegin byggingarleyfi og uppfylli smáhýsi á lóð kærenda öll skilyrði ákvæðisins. Vísað hafi verið til þess að skilyrði um fjarlægð frá lóðarmörkum sé ekki uppfyllt. Umrætt skilyrði eigi ekki við nema annar borgari eigi aðliggjandi lóð. Það sé byggt á óskráðum réttarreglum um nábýlisrétt en stjórnvald geti ekki haft hagsmuni í skilningi nábýlisréttar. Hagsmunir sveitarfélaga séu tryggðir með skipulagsskilmálum, reglum og samþykktum sveitarfélagsins. Því verði ekki séð að hin kærða ákvörðun eigi sér lagastoð og bresti byggingarfulltrúa með því heimild til álagningar dagsekta samkvæmt lögmætisreglu stjórnsýsluréttar.

Hin kærða ákvörðun sé ekki í samræmi við meginsjónarmið og reglur stjórnsýsluréttarins um meðalhóf og jafnræði. Hvorki hefðu önnur úrræði verið metin til að tryggja umferðaröryggi, s.s. að setja stöðvunarskyldu, hraðahindrun eða spegil, né hefði verið gengið úr skugga um að vægasta úrræðinu væri beitt til að ná settu markmiði. Ekki verði séð að hagsmunir kærenda hafi verið vegnir og metnir gegn þeim hagsmunum sem byggingarfulltrúi byggi ákvörðun sína á. Stjórnarskrárvarinn eignarréttur kærenda leiði til þess að ekki sé hægt að virða rétt þeirra að vettugi. Smáhýsið sé á steyptum grunni og óvíst sé hvort hægt sé að færa það án þess að valdi sambrunahættu við hús kærenda á lóðinni. Tilfærsla myndi valda þeim verulegu raski og tjóni. Þá hafi sveitarfélagið haft jafnmikil áhrif á umferðaröryggi með því að haga snjómokstri þannig að skaflar hindri algjörlega sömu sjónlínu. Við mörg önnur gatnamót í hverfinu séu aðstæður með sama hætti en ekki séu gerðar neinar kröfur gagnvart öðrum fasteignaeigendum.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar kemur fram að byggingarfulltrúi beri lögbundna skyldu til að annast eftirlit með mannvirkjagerð, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.1.2. og 3.10.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Embætti byggingarfulltrúa tilheyri umhverfis- og skipulagssviði og honum sé frjálst að útdeila verkefnum sem honum séu falin með lögum og reglugerðum, sbr. 26. tl. gr. 1.2.1. í byggingarreglugerð þar sem segi að eftirlitsaðilar samkvæmt reglugerðinni geti m.a. verið byggingarfulltrúar og starfsmenn þeirra. Samkvæmt skipuriti umhverfis- og skipulagssviðs sé deild afnota og eftirlits á skrifstofu stjórnsýslu og gæða, sem m.a. haldi utan um stoðþjónustu fyrir sviðið, þ.m.t. byggingarfulltrúa. Deild afnota og eftirlits sjái um eftirlit með byggingar­leyfisskyldum framkvæmdum fyrir hönd byggingarfulltrúa og sinni samskiptum þeim tengdum í hans umboði. Starfsfólk deildarinnar starfi því í umboði byggingarfulltrúa að því er varði eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi, lög um mannvirki og byggingarreglugerð. Ákvarðanir um beitingu þvingunarúrræða séu þó ávallt teknar af byggingarfulltrúa, sbr. 55. og 56. gr. laga um mannvirki.

Byggingarreglugerð gildi um öll mannvirki sem reist séu hér á landi sem og alla þætti mannvirkja að undanþegnum ákveðnum hafnar- og samgöngumannvirkjum, sbr. gr. 1.2.1. Smáhýsi teljist til mannvirkja, sbr. 55. tl. greinarinnar. Verði byggingarfulltrúi þess var að mannvirki eða notkun þess brjóti í bága við skipulagsskilmála skuli hann grípa til viðeigandi aðgerða og úrræða í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar og X. kafla um mannvirki. Sama gildi ef ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar sé ábótavant, af því stafi hætta eða það teljist skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa eða ekki sé gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingar­lýsingu, sbr. gr. 3.10.1. reglugerðarinnar. Þá sé byggingarfulltrúa heimilt að beita dagsektum til að knýja á um úrbætur, sbr. gr. 2.9.2. reglugerðarinnar.

Samkvæmt f-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð séu smáhýsi, sem séu að hámarki 15 m2 og með mestu hæð þaks í 2,5 m mælt frá yfirborði, undanþegin byggingarheimild og -leyfi enda séu þau í samræmi við deiliskipulag og önnur ákvæði byggingarreglugerðar. Þó sé gerður áskilnaður um samþykki eigenda aðliggjandi lóðar sé smáhýsið í innan við 3 m fjarlægð frá aðliggjandi lóð. Smáhýsi kærenda sé innan stærðarmarka samkvæmt gr. 2.3.5. reglugerðarinnar en það sé í innan við 3 m fjarlægð frá lóðamörkum. Aðliggjandi lóðarhafi sé Reykjavíkurborg en hvorki hafi verið veitt samþykki fyrir umræddu smáhýsi né hafi kærendur leitast eftir því að kanna afstöðu borgarinnar til staðsetningar þess. Ekki sé fallist á röksemdir kærenda um að áskilnaður um samþykki aðliggjandi lóðarhafa eigi ekki við þegar aðliggjandi lóð sé í eigu sveitarfélags.

Í skipulagsskilmálum Seljahverfis í hverfisskipulagi fyrir Breiðholt frá 30. apríl 2021 segi að á lóðamörkum sem snúi að götum, gatnamótum, innkeyrslum og/eða stígum megi ekki hefta sjónlínur með girðingum eða gróðri. Hámarkshæð girðinga á slíkum stöðum sé 1,2 m. Þá geti við sérstakar aðstæður þurft að draga girðingar og gróður inn á lóð til að tryggja sjónlínur, en lóðarhafi beri ábyrgð á að gróður vaxi ekki fyrir sjónlínur vegfarenda. Ekki verði annað séð en að hið sama eigi við um smáhýsi, þótt þau séu ekki tilgreind sérstaklega, enda séu þau með sama hætti og girðingar til þess fallin að hindra sjónlínur vegfarenda þegar lóðarmörk snúi að götum og gatnamótum. Að sögn kærenda sé hæð smáhýsisins 2,4 m frá jarðvegi og því u.þ.b. 1,2 m hærra en heimilt sé samkvæmt skipulagsskilmálum miðað við staðsetningu þess. Þá þegar af þeim sökum telji byggingarfulltrúi að fjarlægja beri smáhýsið, enda sé ófrávíkjanleg krafa fyrir því að bygging smáhýsis sé undanþegið byggingarheimild og -leyfi að það sé í samræmi við deiliskipulag, sbr. 1. mgr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Eigandi mannvirkis, sem ráðist í framkvæmdir sem undanþegnar séu byggingarleyfi, beri ábyrgð á því að ekki skapist hætta fyrir fólk og eignir vegna mannvirkisins og að virt séu öll viðeigandi ákvæði byggingar­­­reglugerðar. Enn fremur beri honum að tryggja að framkvæmdirnar séu í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. gr. 2.3.9. reglugerðarinnar. Ekki sé gert ráð fyrir smáhýsi á lóðinni eða mannvirki utan skilgreinds byggingarreits samkvæmt mæliblaði fyrir lóðina frá 1. júlí 1977.

Í gr. 6.2.1. í byggingarreglugerð komi fram að bygging á lóðarmörkum að gangstétt, við gatnamót eða að almennum gangstíg megi aldrei hindra útsýni yfir götu eða gangstíg þar sem gera megi ráð fyrir akandi umferð. Hugtakið bygging sé skilgreint sem hús, byggt á staðnum eða sett saman úr einingum, og önnur sambærileg mannvirki, sbr. 21. tl. gr. 1.2.1. reglugerðarinnar. Þá liggi fyrir álit samgöngudeildar þess efnis að smáhýsið skerði sjónlínur og valdi þar með öryggis- og almannahættu fyrir vegfarendur.

Kærendum hafi verið veitt ítrekuð tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og hafi þau verið upplýst um kæruheimildir. Byggingarfulltrúi hafi í tvígang kallað eftir áliti samgöngudeildar til þess að fullvissa sig um að staðsetning smáhýsisins valdi öryggis- og almannahættu og því hafi verið nauðsynlegt að krefja kærendur um úrbætur. Þannig hafi verið gætt að leiðbeiningarskyldu, rannsóknarreglunni og meðalhófi í samræmi við góða stjórnsýslu­hætti. Enn fremur sé það mat byggingarfulltrúa að framkvæmd málsins hafi verið í samræmi við útgefnar leiðbeiningar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar við byggingarreglugerð. Þá liggi ekki fyrir hvort um sambærilegar aðstæður sé að ræða við önnur gatnamót í hverfinu en hins vegar geti framkvæmd sem ekki samrýmist lögum og reglum ekki haft fordæmisgildi fyrir aðrar síðari framkvæmdir.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur ítreka fyrri röksemdir sínar en benda einnig á að þeir telji málsmeðferð af hálfu skrifstofu stjórnsýslu og gæða í raun ógilda vegna valdþurrðar og líta skuli svo á að málið hafi fyrst hafist með ákvörðun byggingarfulltrúa, dags. 4. nóvember 2024. Þar sé hins vegar í engu upplýst um það á grundvelli hvaða ákvæða laga eða reglugerða krafa embættisins um tilfærslu smáhýsis á lóð kærenda byggi. Í ákvörðuninni sé vísað til bréfs, dags. 11. júlí 2024, en kærendur telji sig ekki bundna af þeirri málsmeðferð. Þótt litið verði til upplýsinga sem komi fram í því bréfi breyti það engu um að grundvöllur hinnar kærðu ákvörðunar sé óljós og óskýr.

 Kærendur hafi ekki fengið afrit af nýju áliti samgöngudeildar umhverfis- og skipulagssviðs sem vísað sé til í hinni kærðu ákvörðun, en telja verði að það sé forsenda þess að geta andmælt ákvörðuninni. Jafnframt hafi tilvísun Reykjavíkurborgar til skipulagsskilmála Seljahverfis fyrst komið fram í umsögn í kærumáli þessu. Fráleitt sé að túlka umrædda skilmála svo rúmt, sér í lagi þegar stjórnvald telji sig byggja heimild sína til að beita þvingunarúrræðum á téðum skipulagsskilmálum. Það sé í andstöðu við þá meginreglu að lagaákvæði og reglur skuli túlka þröngt séu þau grundvöllur íþyngjandi ákvarðana stjórnvalds gagnvart borgurum. Í umræddum skipulagsskilmálum sé ekki fjallað um smáhýsi.

Samkvæmt 21. tl. gr. 1.2.2. í byggingarreglugerð sé bygging skilgreind sem hús eða sambærileg mannvirki. Í gr. 6.2.1. reglugerðarinnar komi fram að byggingu skuli staðsetja innan byggingarreits og sé þar átt við íbúðarhúsnæði, þ.e. hús eða sambærileg mannvirki. Ekki sé skylda að reisa smáhýsi samkvæmt gr. 2.3.5. í reglugerðinni innan byggingarreits og því ljóst að gr. 6.2.1. eigi ekki við um smáhýsi.

Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 10. apríl 2025.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. nóvember 2024 að krefjast þess að kærendur færi smáhýsi á lóð þeirra að Hagaseli 2 a.m.k. þrjá metra frá gangstétt að viðlögðum dagsektum. Smáhýsið er 6,6 m2 og 2,4 m á hæð, að því er greinir af hálfu kærenda, og stendur á horni lóðarinnar að Hagaseli 2, við gatnamót Hagasels og Grófarsels. Kæruheimild er í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og barst kæra innan kærufrests.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um mannvirki ber sveitarstjórn ábyrgð á að stjórnsýsla og eftirlit byggingarfulltrúa sé í samræmi við ákvæði laganna og annast byggingarfulltrúi eftirlit með mannvirkjagerð er fellur undir 1. og 2. mgr. 9. gr. sömu laga. Í 9. gr. laganna er fjallað um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir. Þar segir í 1. mgr. að óheimilt sé að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi leyfisveitanda. Þá segir að ráðherra geti í reglugerð kveðið á um að minni háttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar á mannvirkjum, sbr. flokkun mannvirkja skv. 1. mgr. 17. gr., skuli undanþiggja byggingarleyfi, að slíkar framkvæmdir séu einungis tilkynningarskyldar eða að gera skuli vægari kröfur um fylgigögn eða umsóknarferli.

Í samræmi við framangreint eru í 1. mgr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 talin upp þau minni háttar mannvirki og framkvæmdir sem undanþegnar eru byggingarheimild og -leyfi, auk þess sem sú krafa er gerð að þær séu í samræmi við deiliskipulag og önnur ákvæði reglugerðarinnar. Samkvæmt f-lið greinarinnar er þar á meðal smáhýsi sem er að hámarki 15 m2 og mesta hæð þaks 2,5 m mælt frá yfirborði jarðvegs. Jafnframt kemur þar fram að sé smáhýsið minna en 3,0 m frá aðliggjandi lóð þurfi samþykki eigenda þeirrar lóðar. Slík smáhýsi séu ekki ætluð til gistingar eða búsetu. Í bréfi eftirlitsdeildar umhverfis- og skipulagssviðs til kærenda, dags. 11. júlí 2023, er vísað til þessarar greinar.

Hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags er að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010. Fjallað er um aðgerðir til að knýja fram úrbætur í 56. gr. laganna. Er þar m.a. tekið fram í 1. mgr. ákvæðisins að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafi hætta eða það teljist skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa eða frágangur ekki samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum eða byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Sé það ekki gert er heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað þess sem vanrækt hefur að vinna verkið, sbr. 2. og 3. mgr. nefnds lagaákvæðis.

Beiting þvingunarúrræða samkvæmt lögum um mannvirki verða að teljast til íþyngjandi ákvarðana sem háðar eru mati stjórnvalds hverju sinni. Tekið er fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að slík ákvörðun sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Verði þeim fyrst og fremst beitt sé það mat viðkomandi stjórnvalds að gengið sé gegn almannahagsmunum þeim er búi að baki mannvirkjalögum og skipulagslögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Við beitingu þvingunarúrræða eru stjórnvöld sem endranær bundin af meginreglum stjórnsýsluréttarins, s.s. um meðalhóf og andmælarétt.

Við meðferð þessa máls aflaði eftirlitsdeild umhverfis- og skipulagssviðs álits samgöngudeildar sviðsins um aðstæður á umræddum gatnamótum. Kemur þar fram að smáhýsið sé illa staðsett með tilliti til umferðaröryggis en það stytti verulega sjónlínur gagnvart gangandi og hjólandi vegfarendum. Þá séu runnar, sem nú hafa verið klipptir, taldir skapa sama vandamál. Hornið sé „frekar blint“ fyrir akandi vegfarendur sem mætist á horninu. Til að koma í veg fyrir slys sé mjög mikilvægt að vegfarendur hafi möguleika á að sjá hvern annan. Blindhorn komi í veg fyrir það og geti skapað mjög hættulegar aðstæður sem leitt geti til umferðarslysa og slysa á fólki. Á umræddum gatnamótum gæti blindhornið leitt til árekstra milli gangandi og hjólandi vegfarenda, milli bifreiðar sem komi frá Hagaseli og gangandi eða hjólandi vegfarenda sem komi að blindhorninu og milli bifreiða á Hagaseli og Grófarseli. Er þessu lýst nánar í álitinu með eftirfarandi dæmum:

(a) Tveir gangandi/hjólandi aðilar sem koma annars vegar frá Hagaseli og hins vegar frá Grófarseli að blindhorninu munu ekki sjá hinn aðilann fyrr en rétt áður en kemur að horninu. Það getur hæglega leitt til áreksturs milli þeirra. Þó svo að í því tilfelli væri engin bifreið í árekstrinum, þá eru þessi slys oft alvarleg.

(b) Ef ökumaður kemur frá Hagaseli að Grófarseli, þá sér hann u.þ.b. 8,5 m inn eftir gangstéttinni. Ef það kemur samtímis t.d. barn eftir gangstéttinni (t.d. á hjóli eða rafhlaupahjóli), þá tekur það barnið u.þ.b. 1,2–2 sekúndur að fara þessa 8,5 m og fara í veg fyrir bílinn, sjá mynd 1. Bæði barnið og ökumaðurinn munu því hafa mjög takmarkaða möguleika til að koma í veg fyrir árekstur þeirra á milli. Þess má geta að barnið er hugsanlega nær en 8,5 m frá gatnamótunum þegar bíllinn kemur að og þá hafa vegfarendurnir enn styttri tíma til stefnu til að koma í veg fyrir slys. Ef við gerum nú ráð fyrir að um sé að ræða mjög ábyrgan og varkáran ökumann sem stoppar til að sjá hvort að það sé að koma barn fyrir hornið, þá mun hann samt þurfa að fara fyrir leið barnsins (þ.e. út á gönguþverunina). Í því tilfelli mun barnið eiga erfitt með að stoppa áður en það fer á bílinn sem er þá stopp í veg fyrir barninu. Þetta eru því aðstæður sem geta mjög hæglega leitt til slyss. Ástæða þess að við notumst við barn í þessu dæmi er að þessi gönguþverun er mikið notuð af börnum á leið til og frá skóla.

(c) Ef tvær bifreiðar koma samtímis að gatnamótunum sitt hvoru megin við hornið, þá sér ökumaður frá Hagaseli u.þ.b. 17,5 m inn eftir Grófarseli, sjá mynd 2. Ef ökumaður á Grófarseli er á 40 km/klst (sem er ekkert ósjaldgæft á 30 km/klst götum), þá hafa ökumenn u.þ.b. 1,6 sekúndur til að bregðast við. Sbr. fyrri umræðu, þá er það mjög skammur tími til að koma í veg fyrir slys.

Í álitinu eru sýnd viðmið um sjónlengdir til að auka umferðaröryggi gatnamóta í íbúðagötum. Kemur fram að miðað sé við að gróður eða aðrar hindranir skyggi ekki á 10 m frá gatnamótum. Á skýringarmynd er sýnt hversu langt vegfarendur myndu sjá ef notast væri við þessi viðmið. Ökumaður mundi sjá u.þ.b. 18,5 m inn eftir gangstéttinni, sem myndi gefa vegfarendum u.þ.b. 2,4–4,5 sekúndur til að bregðast við. Ökumaður mundi á sama máta sjá u.þ.b. 27,5 m inn eftir götunni, sem gæfi u.þ.b. 2,5 sekúndur til að bregðast við. Þær aðstæður mundu því gefa vegfarendum umtalsvert betri aðstæður til að fara yfir gatnamótin á öruggan hátt, og þar með minnka líkur á að slys myndi eiga sér stað, sem og „auka upplifað öryggi vegfarenda“. Það skal athugað að á gatnamótum Grófarsels og Hagasels gildir hægri regla þar sem engin bið- eða stöðvunarskylda er frá Hagaseli og má því vera um vanmat að ræða á viðbragðstíma ökumanns sem ekur upp Grófarsel.

Í hinni kærðu ákvörðun er vísað til þess að aflað hefði verið nýs álits samgöngudeildar eftir að runnar á lóðinni voru lækkaðir. Niðurstaða hins nýja álits hafi verið sú að staðsetning smá­hýsisins stytti eftir sem áður sjónlínur vegfarenda svo mjög að umferðaröryggi almennings væri ógnað og því stæði krafa byggingarfulltrúa um að færa smáhýsið a.m.k. þrjá metra frá gangstétt óhögguð. Við meðferð kærumáls þessa óskaði úrskurðarnefndin eftir afriti af hinu nýju áliti og var það látið í té í tölvupósti frá samgönguverkfræðingi til starfsmanns eftirlitsdeildar umhverfis- og skipulagssviðs. Kemur þar fram að verkfræðingurinn hafi farið á vettvang en markmiðið hafi ekki verið að gera nýtt mat „enda vitað að kofinn skyggir á æskilegar sjónlínur“. Væri að hans áliti æskilegt að kofinn yrði færður.

Svo sem áður er rakið er kveðið á um það í byggingarreglugerð að minni háttar mannvirki sem undanþegin séu byggingarheimild og -leyfi skuli vera í samræmi við deiliskipulag og önnur ákvæði reglugerðarinnar sem við eiga hverju sinni. Í gr. 6.2.1. í byggingarreglugerð kemur fram að bygging á lóðarmörkum að gangstétt, við gatnamót eða að almennum gangstíg megi aldrei hindra útsýni yfir götu eða gangstíg þar sem gera megi ráð fyrir akandi umferð. Hin kærða ákvörðun var studd ítarlegum efnisrökum sem færð voru fram í áliti samgöngudeildar umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar. Um er að ræða mannvirki sem skerðir verulega æskilega sjónlínu svo sem ljóst er af skýringarmynd sem er hluti umrædds álits. Verða slík sjónarmið um umferðaröryggi sem þar eru færð fram talin til þeirra sjónarmiða sem eðlilegt er að líta til við mat á því hvort beitt verði þvingunarúrræðum skv. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010.

Af málsgögnum verður ekki annað ráðið en að gætt hafi verið að andmælarétti. Í aðdraganda hinnar kærðu ákvörðunar var ítrekað í þremur bréfum til kærenda að ef ekki yrði farið eftir kröfum byggingarfulltrúa, yrði tekin ákvörðun um framhald málsins með hliðsjón af ákvæðum mannvirkjalaga og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð. Var og tekið fram að sú ákvörðun gæti falið í sér að ráðist yrði í úrbætur á kostnað eigenda eða beitingu dagsektarákvæða. Var kærendum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri sem þeir og gerðu. Þrátt fyrir að verulega hafi skort á nákvæmni við lagatilvísanir eftirlitsdeildar umhverfis- og skipulagssviðs og byggingarfulltrúa verður að líta til þess að í bréfunum kemur skýrt fram til hvers er ætlast af kærendum. Þá hafa kærendur við meðferð þessa kærumáls átt þess kost að koma ítarlegri sjónarmiðum á framfæri. Loks verður ekki séð að önnur og vægari úrræði, sem nái sama markmiði, séu möguleg. Ekki er að finna leiðbeiningar um kæruheimild og kærufrest í hinni kærðu ákvörðun og verður það átalið.

Með vísan til ofangreinds verður að hafna kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. nóvember 2024 um að krefjast þess að kærendur færi smáhýsi á lóð þeirra að Hagaseli 2 a.m.k. þrjá metra frá gangstétt.

Samkvæmt 2. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 er byggingarfulltrúa heimilt að beita dagsektum allt að kr. 500.000 til að knýja menn til þeirra verka sem þeir skulu hlutast til um samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim eða láta af ólögmætu athæfi. Líta verður svo á að með hinni kærðu ákvörðun hafi byggingarfulltrúi ekki tekið lokaákvörðun um álagningu dagsekta heldur einungis krafist þess af kærendum að aðhafast með tilgreindum hætti og tilkynnt þeim jafnframt að áformað væri að leggja á dagsektir ef kærendur myndu ekki verða við kröfunni. Þeim áformum hefur ekki verið hrint í framkvæmd með ákvörðun um álagningu dagsekta og liggur því ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Verður þeim hluta málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. nóvember 2024 um að krefjast þess að kærendur færi smáhýsi á lóð þeirra að Hagaseli 2 a.m.k. þrjá metra frá gangstétt innan 14 daga. Að öðru leyti er máli þessu vísað frá nefndinni.

180/2024 Strandvegur

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 10. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 180/2025, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 11. september 2024 um að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Vestmannaeyja, 2. áfanga, vegna lóðar nr. 51 við Strandveg.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. desember 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra eigandi, Strandvegi 49, eigandi, Herjólfsgötu 5B, eigandi, Herjólfsgötu 5 og eigandi, Herjólfsgötu 2, þá ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 11. september 2024 að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Vestmannaeyja, 2. áfanga, vegna lóðar nr. 51 við Strandveg. Verður að skilja kæruna á þann veg að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Vestmannaeyjabæ 17. janúar 2025.

Málavextir: Á lóðinni Strandvegi 51 í Vestmannaeyjum stendur bygging á einni hæð. Lóðin er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag miðbæjar Vestmannaeyja, 2. áfangi, frá árinu 2015. Samkvæmt skipulaginu var heimilt að byggja á lóðinni tveggja hæða hús með möguleika á þriðju hæð að hluta.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar 5. júní 2023 var tekin fyrir umsókn um breytingu á fyrrgreindu deiliskipulagi vegna umræddrar lóðar sem fólst í því að heimilt yrði að byggja þar fjögurra hæða hús með átta íbúðum. Samþykkti ráðið að auglýsa tillöguna samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 og var sú afgreiðsla staðfest af bæjarstjórn á fundi hennar 22. júní 2023. Að kynningartíma loknum var tillagan tekin fyrir að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 4. september 2023. Samþykkti ráðið breytingartillöguna sem og framlagða greinargerð með svörum við athugasemdum sem bárust á kynningartíma og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi 14. s.m. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 22. janúar 2024. Kærendur þessa máls kærðu ákvörðun bæjarstjórnar til úrskurðarnefndarinnar hinn 1. febrúar s.á. og með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 13/2024, uppkveðnum 16. apríl 2024, var ákvörðun bæjarstjórnar frá 14. september 2023 felld úr gildi vegna framsetningar deiliskipulagsbreytingarinnar hvað varðaði nýtingarhlutfall og hámarks­byggingarmagn.

Á fundi skipulags- og umhverfisráðs 4. júlí 2024 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og var sú afgreiðsla staðfest í bæjarstjórn á fundi hennar 11. s.m. Tillagan var auglýst til kynningar frá 19. júlí til og með 29. ágúst s.á. Athugasemdir bárust frá kærendum en að kynningartíma loknum var tillagan tekin fyrir að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 3. september s.á. Ráðið samþykkti breytingartillöguna og framlagða greinargerð með svörum við athugasemdum og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi 11. s.m. Deiliskipulagsbreytingin var send Skipulags­stofnun til yfirferðar og tilkynnti stofnunin með bréfi, dags. 7. nóvember 2024, að hún gerði ekki athugasemdir við birtingu auglýsingar um deiliskipulagsbreytinguna og tók hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 26. nóvember 2024.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að fyrirhugað fjölbýlishús að Strandvegi 51 sé sem slíkt ekki efni óánægju þeirra, heldur hvernig staðið hafi verið að bílastæðamálum vegna byggingarinnar. Bæjaryfirvöldum hefði verið sent bréf árið 2023 þar sem gerð hefði verið grein fyrir því hvernig byggingarfulltrúi hefði brotið lög með því að leyfa byggingaraðila hússins að nýta sér aðra lóð í hans eigu undir bílastæði fyrir fjölbýlishúsið. Skipulags- og umhverfisráð hafi nú samþykkt samkomulag sem búið sé að gera við bæjaryfirvöld um leigu á fjórum bílastæðum við annað hús í eigu sveitarfélagsins hinum megin við götuna að Strandvegi 50. Í því húsi sé aðstaða fyrir 40 listamenn sem stundi iðju sína á öllu tímum sólarhringsins en afnotin af bílastæðunum einskorðist samkvæmt fyrrgreindum samningi við tímann frá kl. 17 síðdegis til kl. 9 að morgni. Þá sé íbúum ekki leyfilegt að nota bílastæðin á fimmtudegi fyrir Þjóðhátíð. Sú spurning hljóti að vakna um hvar íbúar hússins eigi að leggja bílum sínum að samningstíma liðnum. Þá sé ábyrgðarlaust af bæjaryfirvöldum að leigja þriðja aðila bílastæði hússins að Strandvegi 50 ef ske kynni að húsið yrði selt. Samkvæmt gr. 64.5. í byggingarreglugerð þurfi að gera ráð fyrir a.m.k. einu bílastæði á hverja 35 m2 og verði eitt bílastæði að vera fyrir hreyfihamlaða. Á þessu svæði séu þegar of fá bílastæði en í næsta nágrenni sé gistiheimili og veitingastaður.

Málsrök Vestmannaeyjabæjar: Af hálfu Vestmannaeyjabæjar er bent á að í núgildandi lögum og reglum sé ekki gert ráð fyrir tilteknum fjölda bílastæða vegna íbúða eða verslunar­húsnæðis. Samkvæmt skipulagsreglugerð nr. 90/2013 skuli setja skilmála í deiliskipulag m.a. um bílastæði, sbr. m.a. b-lið 5.3.2.5. gr. reglugerðarinnar. Í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu hafi verið fjallað um tilhögun bílastæða og þá komi afstaða bílastæðanna fram á uppdrættinum. Bílastæði fyrir hreyfihamlaða verði staðsett utan lóðar Strandvegar 51, næst aðalinngangi, og verði bílastæðið merkt af sveitarfélaginu, sbr. gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Umrædd deiliskipulagsbreyting hafi verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 26. nóvember 2024 en kæra í máli þessu hafi borist 30. desember s.á. Þá hafi eins mánaðar kærufrestur verið liðinn og beri því að vísa málinu frá nefndinni.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur ítreka að mikilvægt sé að vanda til verka með þarfir komandi kynslóða í huga en húsið muni að öllum líkindum standa lengi. Í nágrenni Strandvegar 51 séu fyrirtæki sem treysti á gott aðgengi og næg bílastæði, þ. á m. hótel sem muni finna fyrir vandræðum fyrir sína gesti þegar bílastæði séu annars vegar. Kanna verði hvort yfir höfuð sé leyfilegt að gera slíkan samning um bílastæði líkt og gerður hefði verið.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar bæjarstjórnar Vestmannaeyja um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Vestmannaeyja, 2. áfanga, vegna lóðar nr. 51 við Strandveg. Kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og eiga kærendur slíka grenndarhagsmuni af skipulagsbreytingunni að þeim verður játuð aðild að málinu.

 Samkvæmt 2. gr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur einn mánuður. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Hin kærða deiliskipulagsbreyting birtist í B-deild Stjórnartíðinda 26. nóvember 2024. Byrjaði kærufrestur því að líða 27. s.m. í samræmi við 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, sbr. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga, og lauk kærufresti 27. desember s.á. Í máli þessu barst kæra með tölvupósti 23. desember 2024 og fékk móttökustimpil á skrifstofu úrskurðarnefndarinnar 27. s.m. Barst kæran því innan kærufrests.

 Árið 2015 tók gildi deiliskipulag miðbæjar Vestmannaeyja, 2. áfangi, sem heimilaði byggingu tveggja hæða húss auk þakhæðar á lóðinni en á lóðinni stendur einnar hæðar hús. Hin kærða deiliskipulagsbreyting gerir m.a. ráð fyrir stækkun byggingarreits lóðarinnar og að reist verði fjögurra hæða hús á lóðinni með auknu byggingarmagni. Gert er ráð fyrir því að átta íbúðir verði í húsinu og að á jarðhæð verði atvinnuhúsnæði og bílageymsla. Lúta athugasemdir kærenda að tilhögun bílastæða samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni. Þau séu ekki nægilega mörg auk þess að í greinargerð skipulagsins sé vísað til þess að bílastæðaþörf verði mætt að hluta með samnýtingu stæða utan lóðar og stæða utan marka skipulagsbreytingarinnar, sem fái ekki staðist.

Gerð skipulags innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórnar skv. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en í því felst einnig heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, sbr. 43. gr. laganna. Skal deiliskipulag byggja á stefnu aðalskipulags og rúmast innan heimilda þess, sbr. 3. mgr. 37. gr. og 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Við töku skipulags­ákvarðana er sveitarstjórn bundin af meginreglum stjórnsýsluréttar, þ. á m. lögmætisreglunni sem felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum og sem endranær er hún bundin af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að gættum framangreindum reglum hafa sveitarstjórnir mat um það hvernig deiliskipulagi og breytingum á því skuli háttað.

Í kafla 3.4, „Öflugur miðbær“, í Aðalskipulagi Vestmannaeyja 2015–2035, kemur fram að miðbær Vestmannaeyja einkennist af góðri blöndu þjónustu og íbúðarbyggðar. Aukin ásókn sé í að búa í miðbænum. Miðbærinn sé vel nýttur og þar séu fáar lausar lóðir. Áhugi sé á endurgerð eldri bygginga og uppbyggingu sem styrki ásýnd og starfsemi í miðbænum. Endurgerð þeirra hafi gjarnan verið á þann veg að jarðhæðir séu lagðar undir fjölbreytta starfsemi en íbúðir eða skrifstofur séu á efri hæðum. Á heildina litið sé ekki vandamál með bílastæði og yfirleitt sé stutt að fara. Er að öðru leyti í aðalskipulaginu ekki fjallað um bílastæði á umræddu svæði eða gerð krafa um tiltekinn fjölda bílastæða.

Í 1. mgr. 19. gr. skipulagslaga er kveðið á um að sveitarstjórn geti ákveðið að innheimta bílastæðagjald ef ekki er unnt að koma fyrir á lóð nýbyggingar þeim fjölda bílastæða sem kröfur eru gerðar um í deiliskipulagi. Samkvæmt 1. mgr. b-liðar gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 skal í deiliskipulagi setja skilmála um fjölda bílastæða og frágang þeirra innan og utan lóðar, sérmerkt bílastæði fyrir fatlaða, stæður fyrir reiðhjól og önnur farartæki eftir því sem við á. Varðandi fjölda og fyrirkomulag bílastæða fyrir fatlaða skal taka mið af ákvæðum byggingarreglugerðar. Í eldri skipulagsreglugerð nr. 400/1998 var kveðið á um lágmarksfjölda bílastæða en jafnframt tekið fram að unnt væri að víkja frá þeim í deiliskipulagi ef sýnt væri fram á að bílastæðaþörf væri minni eða unnt væri að uppfylla hana með öðrum hætti. Í núgildandi skipulagsreglugerð er m.ö.o. ekki gerð krafa um fjölda bílastæða að öðru leyti en að taka skuli mið af ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um fjölda og fyrirkomulag bílastæða fyrir hreyfihamlaða.

Í skilmálum hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar segir: „Fjögur bílastæði verða í bílageymslu við Herjólfsgötu. Stærð bílageymslu verður allt að 120 m2. Bílastæðaþörf verður mætt að hluta með samnýtingu stæða utan lóðar og stæðum utan marka skipulagsbreytingarinnar. Gert hefur verið þinglýst samkomulag um afnot af 4 bílastæðum á lóð við Strandveg 50 utan dagvinnutíma frá kl. 17:00 síðdegis til kl. 9:00 að morgni sem gildir til ársins 2035. Auk almennra bílastæða við Strandveg 51 eru í nálægð 20 almenn bílastæði vestan við Strandveg 54.“ Verður ekki af þessu ráðið að tilhögun bílastæða samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni fari í bága við framan­greind ákvæði skipulagslaga og skipulagsreglugerðar. Hvað snertir bílastæðin að Strandvegi 50 þá hvíla afnot af þeim ekki á skipulagsákvörðun heldur á einkaréttarlegum tímabundnum samningi. Tilvísun til samningsins í greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar er einungis í upplýsingarskyni.

Á uppdrætti sem er hluti hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar eru ekki merkt bílastæði fyrir hreyfihamlaða og ekki er fjallað um slík bílastæði í greinargerð hennar. Af hálfu sveitar­félagsins hefur í máli þessu komið fram að bílastæði fyrir hreyfihamlaða verði staðsett utan lóðar Strandvegar 51, næst aðalinngangi, og muni sveitarfélagið merkja bílastæðin í samræmi við gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Samkvæmt fyrrnefndum b-lið gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð skal í deiliskipulag setja skilmála m.a. um sérmerkt bílastæði fyrir fatlaða. Hefði því verið rétt að gera grein fyrir bílastæði fyrir hreyfihamlaða í skilmálum deiliskipulags­breytingarinnar en með hliðsjón af því sem fram hefur komið af hálfu sveitarfélagsins í máli þessu verður ekki litið svo á að um slíkan annmarka sé að ræða að varði ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Þá skal á það bent að kröfum gr. 6.2.4. byggingarreglugerðar um bílastæðafjölda og fyrirkomulag bílastæða skal vera fullnægt við útgáfu byggingarleyfis.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir form- eða efnisannmarkar á hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu sem raskað geta gildi hennar. Er kröfu kærenda um ógildingu hennar því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 11. september 2024 um að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Vestmannaeyja, 2. áfanga, vegna lóðar nr. 51 við Strandveg.

17/2025 Urðarbrunnur

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 10. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2025, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. nóvember 2024 um að aðhafast ekki frekar vegna smáhýsis á lóð Urðarbrunns 114.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. janúar 2025, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Urðarbrunni 112, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. nóvember 2024 að aðhafast ekki frekar vegna smáhýsis á lóð Urðarbrunns 114. Er þess krafist að byggingarfulltrúi taki ábendingu kæranda aftur til skoðunar og rannsaki málið og fari m.a. eftir ákvæðum byggingarreglugerðar. Þess er einnig krafist, komist byggingarfulltrúi að þeirri niðurstöðu að umræddar framkvæmdir séu í bága við ákvæði byggingarreglugerðar, að beitt verði viðeigandi þvingunarúrræðum X. kafla laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 14. febrúar 2025.

Málavextir: Með erindi til umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar 21. nóvember 2024 bentu eigendur Urðarbrunns 112 á framkvæmdir á lóðinni að Urðarbrunni 114. Í erindinu kom fram að þar hefði verið reist þriggja metra hátt hús við mörk lóðanna og óskuðu þeir eftir að framkvæmdirnar yrðu skoðaðar nánar með hliðsjón af reglum þar að lútandi. Starfsmenn eftirlitsdeildar byggingarfulltrúa fóru á vettvang 22. s.m. og var málið tekið fyrir á fundi deildarinnar 28. s.m. að byggingarfulltrúa viðstöddum. Á fundinum var ákveðið að ekki væri nauðsynlegt að aðhafast frekar vegna smáhýsisins þar sem af því stafaði ekki almannahætta. Í kjölfarið var eigendum Urðarbrunns 114 sent bréf, dags. 3. desember 2024, þar sem þeir voru upplýstir um málið og ákvörðun byggingarfulltrúa. Fram kom að mat byggingarfulltrúa hafi verið að umrætt smáhýsi raskaði ekki öryggis- og almannahagsmunum og myndi af þeim sökum ekki verða aðhafst frekar með beitingu þvingunarúrræða. Við skoðun á vettvangi hafi hins vegar komið í ljós að búið væri að setja upp heitan og kaldan pott á lóðinni og vísað til þess að um væri að ræða tilkynningarskyldar framkvæmdir og skorað á eigendur að senda tilkynningu til byggingarfulltrúa.

Kærandi var upplýstur um framangreinda ákvörðun með tölvupósti frá deild afnota og eftirlits á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar 7. janúar 2025. Kærandi óskaði eftir frekari skýringum og rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Í tölvupósti frá sömu deild 13. janúar 2025 var vísað til fyrra svars og þess að byggingarfulltrúi teldi ekki ástæðu til að knýja eigendur á um aðgerðir. Var einnig vakin athygli á kæruheimild og kærufresti til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna stjórnvaldsákvarðana teknum á grundvelli laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að umrætt smáhýsi sé hærra en 2,5 m á hæð og innan við 60 cm frá lóðamörkum. Búið sé að tengja skúrinn við fráveitukerfi hússins, enda sé hann hugsaður sem gufubað/sturtuaðstaða og geymsla. Samhliða byggingu smáhýsisins hafi verið reistur pallur með heitum potti sem felldur hafi verið ofan í jörðina. Ekki hafi verið leitað samþykkis kæranda fyrir smáhýsinu en það skyggi á útsýni frá hans húsi. Þegar kærandi hafi leitað til Reykjavíkurborgar með frekari spurningar og ósk um rökstuðning fyrir hinni kærðu ákvörðun hafi í svörum borgarinnar aðeins verið vísað til mats byggingarfulltrúa um að smáhýsið raskaði ekki öryggis- og almannahagsmunum.

Í bréfi til eigenda Urðarbrunns 114, dags. 3. desember 2024, þar sem gerð sé grein fyrir ákvörðun byggingarfulltrúa sé hvergi að finna rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun að aðhafast ekki í málinu. Þar sé vísað til f-liðar gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og þess að smáhýsi séu undanþegin byggingarleyfi uppfylli þau kröfur ákvæðisins. Í ákvæðinu komi hins vegar fram að sé smáhýsi minna en þrjá metra frá lóðamörkum þurfi samþykki eiganda aðliggjandi lóðar. Samkvæmt 4. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki annist byggingarfulltrúar eftirlit með mannvirkjagerð sem falli undir 1. og 2. mgr. 9. gr. sömu laga. Í gr. 2.3.5. í byggingar­reglugerð sé fjallað um minniháttar mannvirkjagerð sem sé undanþegin byggingar­heimild og -leyfi. Umrætt smáhýsi uppfylli ekki skilyrði f-liðar fyrrnefnds ákvæðis. Huglægt mat byggingarfulltrúa á almanna- og öryggismálum geti ekki talist gildur rökstuðningur. Þá sé í áðurgreindu bréfi skorað á eigendur Urðarbrunns 114 að tilkynna heitan og kaldan pott á lóðinni. Samkvæmt gr. 12.10.4. í byggingarreglugerð skuli barmur setlaugar vera a.m.k. 0,4 metra yfir göngusvæði umhverfis hana. Heitur pottur á lóðinni að Urðarbrunni 114 hafi verið grafinn ofan í jörðu og því sé hæð á barmi pottsins langt undir skilyrðum samkvæmt byggingarreglugerð. Í hverfinu sé fjöldi barna sem stytti sér leiðir í gegnum garða og því sé potturinn stórhættulegur og gera verði kröfu um að byggingarfulltrúi skoði málið betur og sinni lögbundnu eftirlitshlutverki sínu í samræmi við gildandi reglur.

Byggingarfulltrúa beri að fara eftir stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Ljóst sé að byggingarfulltrúi hafi ekki uppfyllt skyldur þær sem hvíli á honum samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga en hún kveði á um að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Ekki hafi verið kallað eftir samþykki eigenda aðliggjandi lóðar þó hýsið standi nær lóðamörkum en 3,0 metra. Þá hafi barmur setlaugar ekki verið mældur, eða í það minnsta ekki gerð athugasemd við að hann sé of lágur samkvæmt byggingarreglugerð.

Þá hafi kæranda ekki verið birt ákvörðun byggingarfulltrúa, dags. 3. desember 2024, líkt og 20. gr. stjórnsýslulaga geri kröfu um og enginn efnislegur rökstuðningur hafi komið fram, hvorki í ákvörðuninni eða tölvupóstum, þó óskað hafi verið eftir honum. Brjóti það í bága við ákvæði V. kafla stjórnsýslulaga.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar kemur fram að starfsmenn eftirlitsdeildar hafi farið á vettvang í umboði byggingarfulltrúa og skoðað aðstæður eftir að kvörtun kæranda máls þessa hafi borist í nóvember 2024. Stærð smáhýsisins hafi verið mæld ásamt fjarlægð frá lóðamörkum. Myndir hefðu verið teknar og málið lagt fyrir á næsta reglulega afgreiðslufundi með byggingarfulltrúa. Mat byggingarfulltrúa sé að smáhýsið falli undir f-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 hvað varði stærð og sé undanþegið byggingarheimild og -leyfi. Breyti þar engu um hvort hýsið sé tengt rafmagns, neysluvatns- og fráveitulögnum eða verði notað sem sauna, enda sé slíkt heimilt skv. leiðbeiningum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar með fyrrnefndri gr. 2.3.5. Smáhýsið standi of nálægt lóðamörkum en mat byggingarfulltrúa hafi verið að ekki fengist séð að hýsið ylli hættu né væri skaðlegt heilsu nágranna og af því leiddi að öryggis- eða almannahagsmunum væri ekki raskað. Þar af leiðandi myndi embættið ekki beita þvingunarúrræðum samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki.

Ákvæði 56. gr. laga um mannvirki feli í sér heimild fyrir byggingarfulltrúa, en ekki skyldu til að taka ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða en sú ákvörðun sé háð mati byggingarfulltrúa. Lagaákvæðið gefi byggingarfulltrúa kost á að bregðast við sé gengið gegn þeim almanna­hagsmunum sem búi að baki lögum nr. 160/2010, s.s. skipulags-, öryggis eða heilbrigðis­hagsmunum. Það sé því ávallt mat á aðstæðum sem ráði því hvort þvingunarúrræðum sé beitt eða ekki í tilefni af ólögmætri framkvæmd. Einstaklingum sé ekki tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingshagsmuna enda séu þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína.

Í ljósi þess að starfsmenn eftirlitsdeildar hafi vissulega farið á vettvang og skoðað aðstæður sé því hafnað að rannsókn byggingarfulltrúa í málinu hafi ekki verið fullnægjandi. Hvað varði skort á birtingu ákvörðunar og rökstuðning í samræmi við 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi byggingarfulltrúi ekki litið á kæranda sem aðila máls í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar. Því hafi ekkert komið fram sem valdið geti ógildingu ákvörðunar um að aðhafast ekki vegna umrædds smáhýsis.

 Athugasemdir eigenda Urðarbrunns 114: Eigandi Urðarbrunns 114 bendir á að úrskurðar­nefnd umhverfis- og auðlindamála geti einungis fellt stjórnvaldsákvörðun úr gildi eða breytt henni. Kærandi í máli þessu geri kröfu um endurupptöku málsins en þeirri kröfu þyrfti hann að beina að byggingarfulltrúa. Engin ákvörðun hafi verið tekin um beiðni um endurupptöku og því hafi engin stjórnvaldsákvörðun verið tekin sem úrskurðarnefndin geti tekið til endur­skoðunar til samræmis við kröfugerð kærenda. Því skuli vísa kærunni frá þar sem kröfugerð skorti lagastoð.

Munnlegt samþykki kæranda hafi legið fyrir frá fyrsta degi fyrirætlana um að reisa smáhýsi á lóðinni að Urðarbrunni 114. Að auki hafi hann samþykkt staðsetningu þess, bæði í verki og með athafnaleysi og tómlæti. Myndir og önnur gögn um samskipti staðfesti að kærandi hafi verið hafður með í ráðum frá upphafi.

Í kæru komi fram að umræddur skúr sé hærri en 2,5 m, sem sé skilyrði fyrir undanþágu frá byggingarleyfi. Hið rétta sé að fyrir mistök eigenda Urðarbrunns 114 hafi skúrinn upprunalega verið yfir þeim hæðarmörkum en þak smáhýsisins hafi verið lækkað um leið og það hafi orðið ljóst. Því sé hýsið í dag undir 2,5 m á hæð, sbr. heimild í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Þá hafi fráveitu og lagnakerfum hússins að Urðarbrunni 114 í engu verið breytt. Smáhýsið sé nýtt sem geymsla og gufubað. Eðli málsins samkvæmt hafi verið dregið í rafmagn líkt og tíðkist í smáhýsum í görðum á höfuðborgarsvæðinu. Engar lagnir séu tengdar við lagnakerfi húss nr. 114 að Urðarbrunni.

Vegna athugasemda um að hætta stafi af heitum potti sé á það bent að potturinn sé með læsanlegu loki og hafi alltaf verið þannig.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekar fyrri sjónarmið sín en bendir jafnframt á að hann sé ósammála því að ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða sé háð mati. Í gr. 3.10.1 í byggingarreglugerð sé fjallað um eftirlit í byggðu umhverfi og hlutverk byggingarfulltrúa. Þar segi m.a. að byggingarfulltrúi skuli hafa eftirlit með því að sótt sé um byggingarleyfi fyrir byggingarleyfisskyldum framkvæmdum, sbr. 2.3 kafla, og breyttri notkun mannvirkja í umdæmi hans og að öðru leyti sé fylgt ákvæðum reglugerðarinnar í umdæmi hans. Þar segi einnig að verði byggingarfulltrúi þess var að byggingarleyfisskyld framkvæmd sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni skuli hann grípa til viðeigandi aðgerða og úrræða í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar og X. kafla laga nr. 160/2010 um mannvirki. Því sé mótmælt að byggingarfulltrúa sé ekki skylt að grípa til viðeigandi aðgerða þegar byggingarleyfisskyld framkvæmd sé hafin í hans umdæmi án viðeigandi leyfa, enda sýni mælingar byggingarfulltrúa að umrætt hús geti ekki fallið undir skilgreiningu smáhýsis í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð sökum hæðar og nálægðar við lóðamörk og sé þar af leiðandi byggingarleyfisskylt.

Þá hafni kærandi því að samþykki hans hafi legið fyrir frá fyrsta degi og að kærandi hafi samþykkt staðsetningu í verki og með athafnaleysi og tómlæti. Kærandi hafi ekki verið á landinu þegar eigandi Urðarbrunns 114 hafi hafist handa við framkvæmdir. Það geti ekki talist til tómlætis að vera ekki staddur á landinu til að fylgjast með og stöðva framkvæmdir og það veiti ekki rétt til að ganga á nábýlisrétt annarra.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. desember 2024 um að aðhafast ekki frekar með beitingu þvingunarúrræða vegna smáhýsis á lóð Urðarbrunns 114. Kæruheimild er í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða breyti efni ákvörðunar. Verður því ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda að byggingarfulltrúi skuli beita viðeigandi þvingunarúrræðum X. kafla laga nr. 160/2010 komist hann að þeirri niðurstöðu að umræddar framkvæmdir séu í bága við ákvæði byggingarreglugerðar. Af kæru og málsatvikum verður hins vegar ráðið að farið sé fram á að lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar verði tekið til endurskoðunar og verður kærumálið tekið til efnismeðferðar á þeim grunni.

Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er mælt fyrir um að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr., eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar, sbr. 2. tl. ákvæðisins. Hin kærða ákvörðun var tekin á fundi byggingarfulltrúa 28. nóvember 2024. Kæra í máli þessu barst 31. janúar 2025 og því utan kærufrests, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Kæranda var hins vegar ekki tilkynnt um hina kærðu ákvörðun fyrr en 7. janúar 2025 í kjölfar þess að hann leitaði upplýsinga um málið og var honum leiðbeint um málsskotsrétt til úrskurðarnefndarinnar og um kærufrest í tölvupósti 13. s.m. í samræmi við 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Með hliðsjón af því þykir afsakanlegt að kæran hafi borist að liðnum kærufresti, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga og verður hún því tekin til efnismeðferðar.

Í bréfi byggingarfulltrúa til eiganda Urðarbrunns 114, dags. 3. desember 2024, kemur fram að deild afnota og eftirlits á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar hafi borist ábending vegna framkvæmda við Urðarbrunn 114 um að búið væri að reisa hús við lóðarmörk Urðarbrunns 112. Er svo vísað til þess að smáhýsi séu undanþegin byggingarleyfi ef þau uppfylla kröfur sem gerðar eru í f-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Því næst kemur fram að málið hafi verið lagt fyrir á fundi með byggingarfulltrúa sem hafi skoðað aðstæður nánar og væri það mat hans að umrætt smáhýsi raski ekki öryggis- og almanna­hagsmunum og af þeim sökum muni hann ekki aðhafast frekar með beitingu þvingunarúrræða.

Það er hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Er nánar kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. laganna að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt. Þá er fjallað um aðgerðir til að knýja fram úrbætur í 56. gr. laganna. Er þar m.a. tekið fram í 1. mgr. að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirki eða lóðar ábótavant að mati byggingarfulltrúa eða frágangur ekki samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni eignarinnar aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé. Sé það ekki gert er heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað þess sem vanrækt hefur að vinna verkið, sbr. 2. og 3. mgr. nefnds lagaákvæðis.

Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum er tekið fram að sú breyting hafi verið gerð frá fyrri lögum að byggingarfulltrúa sé heimilt en ekki skylt að beita þvingunarúrræðum. Þar kemur fram að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða er því háð mati stjórnvalds hverju sinni og gefur sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Fer það því eftir atvikum hvort nefndum þvingunarúrræðum verði beitt í tilefni af framkvæmd sem telst vera ólögmæt. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingshagsmuna enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting þvingunarúrræða sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki fyrrgreindum lagaheimildum og fylgja þarf meginreglum stjórnsýsluréttarins, s.s. um rannsókn máls og að málefnaleg sjónarmið búi að baki ákvörðun.

Við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar fóru starfsmenn á vegum embættis byggingar­fulltrúa á vettvang þar sem þeir mældu umdeilt smáhýsi og tóku ljósmyndir. Óumdeilt er í máli þessu að smáhýsið uppfyllir ekki öll skilyrði f-liðar gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð en samkvæmt gögnum málsins stendur smáhýsið 60 cm frá lóðarmörkum aðliggjandi lóðar í eigu kæranda og hefur hann ekki veitt samþykki fyrir því. Ákvörðun um að aðhafast ekki frekar með beitingu þvingunarúrræða var studd þeim rökum að öryggis- og almannahagsmunum væri ekki raskað með umræddu smáhýsi. Í umsögn Reykjavíkurborgar í málinu kemur einnig fram að smáhýsið standi of nálægt lóðamörkum en það sé mat byggingarfulltrúa að ekki verði séð að húsið valdi hættu né sé það skaðlegt heilsu nágranna og af því leiði að öryggis- eða almannahagsmunum sé ekki raskað.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að ákvörðun byggingarfulltrúa um að aðhafast ekki frekar með beitingu þvingunarúrræða vegna smáhýsis á lóð Urðarbrunns 114 sé studd efnislegum rökum og ekki verður séð að umdeildar framkvæmdir raski almannahagsmunum. Þá verður ekki annað séð en að kröfum um rannsókn máls samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið fullnægt. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar af þeim sökum hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. desember 2024, um að aðhafast ekki frekar með beitingu þvingunarúrræða vegna smáhýsis á lóð Urðarbrunns 114.

14/2025 Langabrekka

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 3. apríl, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 14/2025, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 14. janúar 2025 um að fjarlægja skuli skýli að Löngubrekku 5.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 29. janúar 2025, kærir lóðarhafi að Löngubrekku 5, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 14. janúar 2025 að fjarlægja skuli skýli á lóðinni að Löngubrekku 5. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 18. febrúar 2025.

Málavextir: Byggingarfulltrúi Kópvogsbæjar upplýsti kæranda með bréfi, dags. 2. desember 2024, að kvörtun hefði borist vegna byggingar skýlis á lóðinni að Löngubrekku 5. Byggingin væri leyfisskyld og var kæranda gefinn kostur á að koma að skriflegum skýringum innan 14 daga eða sækja um byggingarleyfi. Kærandi lagði fram skýringar, en byggingarfulltrúi féllst ekki á þær og tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 14. janúar 2025, að hann skyldi fjarlægja skýlið innan 30 daga að viðlögðum dagsektum. Er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Málsrök kæranda: Hin kærða ákvörðun varði skýli við suðurenda á bílskúr á lóð að Löngubrekku 5. Það sé óupphitað, án rafmagns, óeinangrað, haldi ekki vindi og sé einvörðungu ætlað að verja það sem í því sé fyrir úrkomu. Skýlið sé 6,5 m að lengd og 2,10 m að breidd, mesta hæð sé 2,4 m og minnsta hæð 2,2 m. Um sé að ræða opið skýli sem falli  undir gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Sérstaka skilgreiningu á skúr og/eða skýli sé ekki að finna í reglugerðinni en smáhýsi sé lýst í g-lið áðurnefndrar greinar byggingarreglugerðar, sem taki til mannvirkja sem ekki séu leyfisskyld. Mannvirkið sé lítilfjörlegra en smáhýsi og byggingarfulltrúi hafi ekki rökstutt ákvörðun sína um að mannvirkið falli undir leyfisskylda framkvæmd. Óumdeilt sé að framkvæmdin stangist ekki á við deiliskipulag, en byggingarfulltrúi hafi ekki virt jafnræðis- eða meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að kanna betur hvort beita hefði mátt vægari úrræðum s.s. lækkun eða minnkun skýlisins. Þá megi draga í efa að rannsóknarskyldu hafi verið gætt nægjanlega, en hafður hafi verið uppi mikill málatilbúnaður af litlu tilefni, þrjár vettvangsskoðanir, tíðar bréfaskriftir og krafa um einhliða aðgerðir. Grenndarréttur hafi ekki verið brotinn á eigendum nágrannalóðar.

Málsrök Kópavogsbæjar: Vísað er til þess að í 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé fjallað um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir. Þar segi m.a. í 1. mgr. að óheimilt sé að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja nema að fengnu leyfi viðkomandi leyfisveitanda. Þá segi að ráðherra geti í reglugerð kveðið á um að minni háttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar á mannvirkjum, sbr. flokkun mannvirkja skv. 1. mgr. 17. gr., skuli undanþiggja byggingarleyfi. Í samræmi við framangreint séu í 1. mgr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 talin upp þau minni háttar mannvirki og framkvæmdir sem undanþegnar séu byggingarheimild og -leyfi.

Kæran varði skýli sem lokað sé á þrem hliðum auk þaks. Það sé fest á steyptan vegg við lóðamörk lóðarinnar nr. 61 við Álfhólsveg og verði ekki annað séð en það sé notað sem geymsla. Samkvæmt mælingu byggingarfulltrúa sé það rúmir 16 m² og því ekki undanþegið byggingarleyfi skv. f-lið gr. 2.3.5 byggingarreglugerðar, en smáhýsi allt að 15 m² séu undanþegin byggingarleyfi -og heimild. Skýlið fari því yfir viðmið þess að geta talist smáhýsi. Skýlið sé u.þ.b. 50 cm. frá lóðamörkum og samþykki aðliggjandi lóðarhafa liggi ekki fyrir, eins og áskilið sé í f-lið gr. 2.3.5. Breyti engu þótt kærandi telji að skýlið hafi ekki grenndaráhrif á aðliggjandi lóð. Meðalhófsregla stjórnsýslulaga eigi ekki við í máli þessu gegn skýrum fyrirmælum laga nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar og ekki sé öðrum vægari úrræðum til að dreifa. Hafna beri kröfum kæranda.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar samkvæmt bréfi dags. 14. janúar 2025 um að kærandi skuli fjarlægja skýli á lóðinni að Löngubrekku 5. Kæruheimild til nefndarinnar er í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og barst kæra innan kærufrests sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Hið umdeilda skýli, sem notað hefur verið sem geymsla, hefur þak og veggi á þrjá vegu en hefur verið lokað yfir vetrarmánuði til að halda úti snjó. Samkvæmt lýsingu og ljósmyndum mætti helst flokka mannvirkið sem smáhýsi í skilningi 81. tl. gr. 1.2.1. í byggingareglugerð nr. 112/2012, þ.e. óupphitað skýli að hámarksstærð 15 m² sem almennt er ætlað til geymslu garðáhalda o.þ.h. en er ekki ætlað til íveru. Samkvæmt mælingum byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar á skýlinu er það 16,1 m² að stærð. Skýlið er því yfir þeim stærðarmörkum smáhýsa sem tilgreind eru í f-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð og flokkast ekki sem minniháttar mannvirki sem undanþegið er byggingarheimild og -leyfi samkvæmt greininni. Kópavogsbær bendir einnig á að sú undanþága eigi ekki við þar sem skýlið liggi nær lóðamörkum en 3 m og því sé áskilið samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar sem liggi ekki fyrir.

Að þessu virtu var byggingafulltrúa rétt að krefjast þess að skýlið yrði fjarlægt að viðlögðum þvingunarúrræðum skv. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Einnig ber að telja málið nægilega upplýst í skilningi 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en kærandi lýsir tíðum bréfaskriftum bæjarins vegna málsins, óskum um skýringar og þremur vettvangsskoðunum fulltrúa hans. Þá tel ég aðgerðir bæjarins falla innan marka meðalhófs skv. 12. gr. stjórnsýslulaga, en byggingarfulltrúi óskaði skýringa frá kæranda og benti honum á að sækja um byggingarleyfi. Sjónarmið kæranda um að hægt hefði verið að krefjast lækkunar eða minnkunar á skýlinu eiga ekki við þar sem ákvörðunin byggist á skorti á byggingarleyfi.

Að framangreindu virtu verða ekki taldir neinir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem varðað geti ógildingu hennar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að ógilda ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 14. janúar 2025 um að fjarlægja skuli skýli að Löngubrekku 5.

43/2025 Vesturvör

Með

Árið 2025, föstudaginn 28. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 43/2025, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness frá 7. mars 2025 að starfsemi Hreint ehf. teljist starfsleyfisskyld.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. mars 2025, er barst nefndinni sama dag, kærir Hreint ehf., þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness frá 7. mars 2025 að starfsemi þvottahúss fyrirtækisins teljist starfsleyfisskyld. Með tölvupósti 19. s.m. fór kærandi fram á frestun réttaráhrifa þeirrar ákvörðunar heilbrigðiseftirlitsins að stöðva þvottahúsþjónustu starfseminnar ef ekki hafi verið sótt um starfsleyfi í samræmi við ákvæði laga fyrir 31. mars 2025. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu.

Málsatvik og rök: Með tölvupósti 5. júní 2024 benti Heilbrigðiseftirlit Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness kæranda á að enn hefði ekki borist umsókn um starfsleyfi fyrir þvottahús í starfsstöð Hreint ehf. við Vesturvör 11 í Kópavogi.  Nokkur tölvupóstsamskipti áttu sér stað í kjölfarið. Kæranda var tilkynnt með bréfi, dags. 7. mars 2025, að þrátt fyrir andmæli hans stæði heilbrigðiseftirlitið við ákvörðun sína um að starfsemin væri starfsleyfisskyld. Til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt 6. gr. laga nr. 7/1998 væri fyrirhugað að stöðva þvottahússþjónustu starfseminnar í samræmi við 63. gr. laganna ef ekki væri búið að sækja um starfsleyfi í samræmi við ákvæði laga fyrir 31. mars s.á.

Kærandi vísar til þess að ekki megi sjá að ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins að fella starfsemina undir „þvottahús“ byggði á skýrum heimildum í lögum. Þá félli ákvörðun um að fella lítinn hluta starfseminnar undir „þvottahús“ ekki undir meðalhófsreglu og ljóst sé að hægt væri að ná markmiðum og tilgangi laganna á vægari hátt.

Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness var frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar ekki mótmælt.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

 Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun er íþyngjandi fyrir hann, veldur honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi.

Í máli þessu er kærð sú ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness að starfsemi þvottahúss fyrirtækisins teljist starfsleyfisskyld og að stöðva þvottahúsþjónustu hluta starfseminnar ef ekki hafi verið sótt um starfsleyfi í samræmi við ákvæði laga fyrir 31. mars 2025. Kærandi hefur nýtt sér heimild til að bera lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar undir úrskurðarnefndina en um íþyngjandi ákvörðun er að ræða, sem beinist einungis að kæranda. Eins og málsatvikum er háttað þykir rétt að fresta réttaráhrifum ákvörðunarinnar enda liggja ekki fyrir knýjandi ástæður sem gera það að verkum að varhugavert sé að bíða niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um ágreiningsefni máls þessa. 

Úrskurðarorð:

Frestað er réttaráhrifum ákvörðunar Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness að stöðva þvottahúsþjónustu hluta starfsemi Hreint ehf. ef ekki hafi verið sótt um starfsleyfi í samræmi við ákvæði laga fyrir 31. mars 2025.

168/2024 Vistarvegur

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 168/2024, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra frá 5. nóvember 2024 um að krefjast tilfærslu, niðurrifs eða breytingar á húsi því sem stendur á lóðinni Vistarvegi 12 fyrir 1. apríl 2025. Að öðrum kosti muni sveitarfélagið láta fjarlægja húsið af lóðinni á kostnað lóðarhafa auk þess að leggja á dagsektir, að upphæð kr. 200.000, þar til því verki sé lokið.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. desember 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Vistarvegar 12, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra frá 5. nóvember 2024 að krefjast tilfærslu, niðurrifs eða breytingar á húsi því sem stendur á lóðinni Vistarvegi 12 fyrir 1. apríl 2025. Að öðrum kosti muni sveitarfélagið láta fjarlægja húsið af lóðinni á kostnað lóðarhafa auk dagsekta, að upphæð kr. 200.000, þar til því verki sé lokið. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi en til vara að veittur verði frestur til 1. september 2025 og að fjárhæð dagsekta verði lækkuð.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi eystra 31. desember 2024.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu, en deilur hafa staðið yfir frá árinu 2007 um hver sé raunveruleg stærð lóðarinnar Vistarvegar 12. Hinn 29. mars 2019 var samþykktur aðaluppdráttur fyrir byggingu sumarhúss á lóðinni sem skyldi staðsett innan skilgreinds byggingarreits og 5,0 m frá aðliggjandi lóðarmörkum. Í júní 2021 framkvæmdi EFLA verkfræðistofa mælingar á lóðamörkum Vistarvegar 10 og 12 sem byggðust á þinglýstum og hnitsettum lóðamörkum. Samkvæmt mælingunum var sumarhúsið, sem reist hafði verið að Vistarvegi 12, u.þ.b. 3,4 m út fyrir byggingarreit í austurátt og þannig einungis 1,6 m frá lóðamörkunum. Sveitarfélagið taldi þannig ljóst að sumarhúsið að Vistarvegi 12 hefði verið reist í ósamræmi við samþykktan aðaluppdrátt, byggingarleyfi og ákvæði byggingar­reglugerðar um bil milli bygginga. Kærandi taldi á hinn bóginn að mælingarnar væru rangar þar sem miðlína á milli lóðanna hefði raskast og sumarhúsið væri þannig ekki út fyrir byggingarreit sinn.

Í framhaldinu fór skipulags- og byggingarfulltrúi Rangárþings eystra fram á að kærandi færði sumarhúsið til á lóðinni þannig að það yrði innan byggingarreits og í 5 m fjarlægð frá lóðarmörkum Vistarvegar 10, að viðlögðum dagsektum að upphæð 25.000 krónum frá 28. febrúar 2023. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar sem kvað upp úrskurð 28. apríl 2023 í máli nr. 134/2022, þar sem ákvörðunin var felld úr gildi með þeim rökum að ágallar hefðu verið á undirbúningi ákvörðunarinnar, m.a. með tilliti til rannsóknar máls og meðalhófs sbr. 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Verkfræðistofan Mannvit, nú COWI, framkvæmdi nýja mælingu í ágúst 2023 sem sýndi að fjarlægð milli húsa að Vistarvegi 10 og 12 væri 6,59 m að norðanverðu en 6,54 m að sunnanverðu.

Með bréfi sveitarfélagsins til kæranda dags. 10. nóvember 2023 var tilkynnt að mælingar EFLU verkfræðistofu, um fjarlægð milli húsa hefðu verið sannreyndar af Mannviti verkfræðistofu. Fór sveitarfélagið fram á að þáverandi eigandi Vistarvegar 12 legði tvær eða fleiri tillögur að lausn sem uppfylltu kröfur gr. 9.7.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 fyrir 15. desember 2023. Þáverandi eigandi lést og fengu erfingjar hans frest til 15. febrúar 2024 sem var svo framlengdur til 15. apríl s.á. Nokkrir viðbótarfrestir hafa verið veittir eftir það af ýmsum ástæðum. Nokkur samskipti hafa verið milli sveitarfélagsins og kæranda um lausnir á málinu og hefur kærandi lagt fram tillögur til lausnar sem eigandi Vistarvegs 10 hefur hafnað. Hinn 5. nóvember 2024 var kæranda tilkynnt hin kærða ákvörðun.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að sveitarfélagið hafi í engu haft þau atriði sem úrskurðarnefndin mæli fyrir um í niðurstöðu í máli nr. 134/2022 er gætu haft áhrif á mat um beitingu umþrættra þvingunarúrræða s.s. um stærðir lóða og lóðarmörk. Hafi sveitarfélagið látið Mannvit sannreyna mælingar EFLU verkfræðistofu út frá sömu gögnum og forsendum sem Efla hafi notað við mæliblað dags 8. júní 2021 sem legið hafi fyrir í máli nr. 134/2022 og verið forsenda fyrir ákvörðun sveitarfélagsins á þeim tíma. Sé vandséð hvernig þessar tvær verkfræðistofur ættu að fá sitthvora niðurstöðuna þegar verið sé að mæla staðsetningu húsanna út frá sömu forsendum enda megi sjá af mælingunum að þeim skeiki óverulega. Hafi ágreiningurinn ekki snúist um það hvort mæling Mannvits á fjarlægð milli húsanna væri röng eða mælingar EFLU heldur um forsendur mælinganna eins og bent sé á í úrskurðinum.

Sveitarfélagið hafi í engu kannað þær forsendur heldur látið Mannvit framkvæma mælingar að óbreyttum forsendum. Annað hvort séu forsendur mælinganna rangar, þ.e. að miðlínan sé mæld 5 m frá húsinu að Vistarvegi 10, en kærandi telji að eigandi þess húss hafi byggt út fyrir byggingarreit eða þá að það hafi aldrei verið 10 m á milli byggingarreita. Megi m.a. ráða það af mæliblaði sem sveitarfélagið lét gera að rotþró fyrir Vistarveg 12 sem sé nú komin yfir á Vistarveg 10. Hafi sveitarfélagið ekki upplýst hvers vegna svo sé og af hverju samþykkt hafi fengist fyrir húsinu að Vistarvegi 12 ef það komist ekki fyrir á byggingarreitnum. Hafi sveitarfélagið staðsett byggingarreitinn fyrir húsið, samþykkt teikninguna og gefið út fokheldisvottorð árið 2019, án nokkurra athugasemda byggingarfulltrúa og þar með staðfest að húsið væri innan byggingarreits.

Það eina sem sveitarfélagið hafi gert eftir framangreindan úrskurð nefndarinnar var að láta aðra verkfræðistofu mæla bilið á milli húsanna og í kjölfarið fara fram á að kærandi legði til tvær eða fleiri tillögur að lausnum sem uppfylltu brunaöryggiskröfur gr. 9.7.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Hafi kærandi lagt fram þrjár tillögur í tölvupósti 26. apríl 2024 sem sveitarfélagið hafi ætlað að skoða og vera svo í sambandi við kæranda. Í tölvupósti 2. júlí s.á. hafi lögmaður kæranda vísað til fyrri málssögu og að ekki hafi borist formlegt svar við framlögðum tillögum, en til að brunahönnuður gæti hafist handa við nánari útfærslu þyrfti að liggja fyrir afstaða til þess hvaða leiðir væru samþykktar. Hafi sveitarfélagið ekki verið tilbúið til að líta til annarra úrræða sem gætu uppfyllt kröfur gr. 9.7.5 í byggingarreglugerð og borið fyrir sig andstöðu eigenda Vistarvegar 10 þar um.

Varðandi það sem fram komi í hinni kærðu ákvörðun, um að kæranda hafi verið í lófa lagið að staðsetja húsið annars staðar á lóðinni án þess að um brot á nálægðarreglu væri að ræða, sé vísað til nefnds úrskurðar í máli nr. 134/2022. Þar segi að ef fylgja ætti ákvörðun byggingarfulltrúa yrði að færa hús kæranda um 3,4 m til vesturs, en af gögnum málsins verði ráðið að húsið yrði þá komið út fyrir byggingarreit og jafnvel út fyrir mörk lóðar kæranda. Sé því lágmark að sveitarfélagið upplýsi hann um hvert eigi að færa húsið til á lóðinni enda rúmist það ekki innan byggingarreitsins þannig að 5. m séu að lóðarmörkum. Húsið verði ekki fært lengra til vesturs á lóðinni enda sé bilið að gaddavírsgirðingu og þverhnípi við hana um 1,5 m.

Að framangreindu sé því ljóst að ágreiningur sé um atriði sem áhrif gætu haft á mat við beitingu þvingunarúrræða s.s. um stærð lóða og lóðarmörk sem eru forsendur að þeirri mælingu sem framkvæmd hafi verið af verkfræðistofum og sveitarstjórn studdi ákvörðun sína við.

Málsrök Rangárþings eystra: Vísað er til bréfs fulltrúa skipulags- og byggingarsviðs Rangárþings eystra, dags. 10. nóvember 2023, til þáverandi eiganda Vistarvegar 12. Þar komi m.a. fram að mælingar á lóðunum og fjarlægð milli húsa hafi verið staðreynd af Mannviti og að fyrir liggi að húsið að Vistarvegi 12 sé reist í ósamræmi við samþykktan aðaluppdrátt. Á uppdrættinum komi skýrt fram að sumarhúsið eigi að vera 5,1 m frá lóðarmörkum að norðanverðu en 4,9 m að sunnanverðu sem ekki sé raunin miðað við mælingar EFLU og Mannvits. Í bréfinu sé farið fram á að eigandi Vistarvegar 12 leggi fram tvær eða fleiri tillögur að lausn sem uppfylli kröfur gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, varðandi brunaöryggiskröfur. Hafi frestur verið veittur til 15. desember 2023. Með tölvupósti lögmanns kæranda, dags. 26. apríl 2024, sé vísað í tillögur Verkís og lagðar til þrjár leiðir til úrbóta. Þær hafi verið að koma upp „sprinkler“ kerfi í bústöðunum, setja eldveggi á húsin að Vistarvegi 12 og 10 eða reisa sjálfstæðan brunavegg milli húsanna. Jafnframt hafi verið lögð fram tillaga um að nefndur brunahönnuður hjá Verkís, tæki verkið að sér. Hafi fulltrúi skipulags- og byggingarsvið sent bréf til eiganda Vistarvegar 10, dags. 2. maí 2024, þar sem honum hafi verið gefinn kostur á að tjá sig um framangreindar tillögur. Svarbréf hafi borist frá lögmanni eigandans, dags. 31. maí 2024, þar sem tillögunum hafi verið hafnað.

Með bréfi, dags. 13. ágúst 2024, til lögmanns kæranda hafi verið ítrekuð krafa sveitarfélagsins um skýringar frá byggingarstjóra Vistarvegar 12 á því hvers vegna húsið hafi ekki verið byggt samkvæmt samþykktum uppdráttum. Veittur hafi verið loka athugasemdafrestur til 20. ágúst 2024. Í niðurlagi bréfsins hafi jafnframt verið kynnt sú ákvörðun að dagsektir yrðu lagðar á kæranda ef fullnægjandi skýringar bærust ekki eða að öðrum kosti til að knýja fram úrbætur í formi brottflutnings hússins. Með bréfi dags. 11. september 2024 hafi lögmanni kæranda verið kynnt að fulltrúi skipulags- og byggingarsviðs Rangárþings eystra hefði í hyggju að taka ákvörðun um að krefjast tilfærslu, niðurrifs eða breytingar á húsinu að Vistarvegi 12 að viðlögðum dagsektum. Gefinn hafi verið 15 daga frestur til að koma að sjónarmiðum eiganda Vistarvegar 12 en að þeim tíma liðnum yrði ákvörðun tekin.

Engin svör hafi borist og hafi kæranda með bréfi dags. 5. nóvember 2024, verið gert að rífa húsið, flytja það til á lóðinni, minnka eða breyta þannig að kröfur um fjarlægð milli húsa væri fylgt eða fjarlægja húsið með öðrum hætti fyrir 1. apríl 2025.

Vísað sé til gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 varðandi bil á milli bygginga. Ysta klæðning mannvirkjanna að Vistarvegi 10 og 12 séu í flokki 2 sem þýði að lágmarks bil milli húsanna þurfi að vera 10 m. Fyrir liggi að bilið milli húsanna sé fjarri því að vera nægilegt svo sem fram komi í mælingum EFLU og Mannvits. Eigandi Vistarvegar 12 beri ábyrgð á því að húsið sé ranglega staðsett á lóðinni og ekki byggt í samræmi við samþykktar teikningar, lóðarblað og framangreind fyrirmæli í byggingarreglugerð.

Með bréfi dags. 5. nóvember 2024 hafi kæranda verið gefinn kostur á að bæta úr fyrir 1. apríl 2025 og honum gefnir fjórir kostir í því sambandi. Þá komi fram í niðurlagi bréfsins að verði ekki brugðist við innan tímamarka muni sveitarfélagið láta fjarlægja húsið af lóðinni á kostnað lóðarhafa auk þess sem lagðar yrðu kr. 200.000 dagsektir á lóðarhafa þar til því verki væri lokið. Kærandi hyggist augljóslega ekki nýta gefinn frest til að bæta úr þar sem hann hafi þegar kært ákvörðunina og krafist ógildingar á henni. Hafi sveitarfélagið rannsakað málið í þaula og reynt allt til að leita lausna með mildari hætti, án árangurs. Engar heimildir séu til að þvinga eiganda Vistarvegar 10 til aðgerða eða framkvæmda sem hann sé ekki sammála um að fara í.

Hafi sveitarfélögunum verið gefin jörðin Ytri-Skógar með því samkomulagi að gefendur myndu reisa tvö sumarhús til eigin nota á lóð sem tæki til 5 ha. sem hvorki mætti selja né leigja og myndu þau ekki erfast. Lóðastærðin hafi verið skráð 2.500 m² í fasteignaskrá en afmörkun og hnitsetningu hafi fyrst verið þinglýst í nóvember 2020. Lóðarhafar hafi gert athugasemdir þegar deiliskipulagstillaga var auglýst og í kjölfarið hafi verið unnar tillögur að stækkun lóðanna. Þeim tillögum hafi verið hafnað að hálfu landeigenda. Þáverandi eigandi Vistarvegar 12 hafi skrifað undir og þinglýst lóðaleigusamningi fyrir þá lóð og því sé ljóst að engin deila sé fyrir hendi varðandi stærð lóðanna. Væri sú deila enn til staðar, breytti það að auki engu um raunverulega fjarlægð milli húsanna tveggja sem sé ólögmæt.

Þó kærandi hafi vissulega gert tillögur þá breyti það ekki þeirri stöðu að eigandi Vistarvegar 10 sé ekki samþykkur þeim framkvæmdum. Enginn vafi sé á stærð eða legu lóðarinnar að Vistarvegi 12 og sé byggingarreitur á lóðinni óumdeildur. Mælingar EFLU og Mannvits hafi eingöngu snúist um að mæla raunverulega fjarlægð milli þessara tveggja bygginga. Það geti ekki verið nema ein aðferð til að mæla þá vegalengd og því óhugsandi að mismunandi forsendur breyti nokkru um niðurstöðuna. Umfjöllun í kæru um aðstæður á lóðinni vegna landrofs og þverhnípis breyti engu um að bilið milli húsanna sé of stutt og það sé kjarni málsins.

Kæranda hafi verið í lófa lagið að hanna hús sitt og staðsetja þannig á lóðinni og innan byggingarreits að ekki yrði um brot á fjarlægðarreglum að ræða. Í þessu sambandi sé sérstaklega vísað til minnisblaðs skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 28. desember 2024, sem sýni greinilega hvernig húsið að Vistarvegi 12 sé ranglega staðsett og hvernig kæranda hefði verið í lófa lagið að koma því fyrir á samþykktum byggingareit án þess að brjóta ákvæði reglugerðar um fjarlægð milli húsa.

Athugasemdir lóðareiganda að Vistarvegi 10: Bent er á að það liggi fyrir að sumarhús kæranda að Vistarvegi 12 hafi verið byggt utan byggingarreits eins og hann er skilgreindur í þinglýstum og hnitsettum skjölum og byggingin er ekki í samræmi við aðaluppdrátt. Þetta virðist raunar óumdeilt þar sem fram komi í kæru máls, og öðrum skjölum sem stafi frá kæranda, að húsið hafi verið reist í samræmi við samþykktar teikningar og verið byggt innan byggingarreits „eins og hægt var“. Samkvæmt 15. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 beri kærandi ábyrgð á því og þá jafnframt ábyrgð á úrbótum.

Það liggi nú fyrir með óyggjandi hætti með mati tveggja óvilhallra aðila, að húsið að Vistarvegi 12 hafi verið byggt utan byggingarreits eins og hann sé afmarkaður í þinglýstum skjölum. Húsbyggingin sé þar af leiðandi ekki í samræmi við aðaluppdráttinn frá 2019 og í því felist brot gegn ákvæðum byggingarreglugerðar.

Staðsetning hússins að Vistarvegi 12 uppfylli ekki meginreglu 9.7.5. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 m.t.t. brunavarna. Til þess að svo væri þyrfti að líkindum að ráðast í umfangsmiklar og kostnaðarsamar framkvæmdir á báðum húsum sem hefðu að auki áhrif á útlit bygginganna. Sé lóðareiganda að Vistarvegi 10 alls kostar óskylt að ráðast í slíkar framkvæmdir þar sem húsið á lóð hans sé byggt í samræmi við samþykkta uppdrætti og skipulag. Það sé á ábyrgð lóðarhafa að Vistarvegi 12 að hús hans hafi verið reist í trássi við áðurnefnda grein reglugerðarinnar.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Með umdeildri ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra var lagt fyrir kæranda að færa til, fjarlægja eða breyta sumarhúsi hans að Vistarvegi 12 fyrir 1. apríl 2025 að viðlögðum 200.000 króna dagsektum og að húsið yrði fjarlægt af sveitarfélaginu á kostnað kæranda. Byggði ákvörðunin á því að bil milli húss kæranda og húss að Vistarvegi 10 fullnægði ekki kröfu ákvæðis gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um bil á milli bygginga.

Hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags er að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og ef ekki þá beita eftir atvikum þvingunar-úrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga um mannvirki. Er nánar kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt. Þá er fjallað um aðgerðir til að knýja fram úrbætur í 56. gr. laganna. Er þar m.a. tekið fram í 1. mgr. ákvæðisins að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant að mati byggingarfulltrúa eða frágangur ekki samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum eða byggingarlýsingu skuli gera eiganda eða umráðamanni eignarinnar aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Sé það ekki gert er heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað þess sem vanrækt hefur að vinna verkið, sbr. 2. og 3. mgr. nefnds lagaákvæðis en lagaákvæðið ber með sér að nefndum úrræðum verði ekki beitt samtímis.

Beiting nefndra þvingunarúrræða er verulega íþyngjandi ákvörðun sem er háð mati stjórnvalds hverju sinni. Tekið er fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umræddum ákvæðum verður fyrst og fremst beitt sé það mat viðkomandi stjórnvalds að gengið sé gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum og skipulagslögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Þótt beiting sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun að vera studd efnislegum rökum. Þá ber stjórnvaldi einnig að fylgja meginreglum stjórnsýsluréttarins, m.a. um meðalhóf og rannsókn máls.

Eins og fram hefur komið hefur úrskurðarnefndin í fyrri úrskurði í máli nr. 134/2022 fjallað um lögmæti þeirrar kröfu byggingarfulltrúa að eigandi sumarhúss að Vistarvegi 12 færi húsið til á lóð sinni að viðlögðum dagsektum. Ástæðu þeirrar kröfu mátti rekja til mælinga verkfræðistofunnar EFLU frá 8. júní 2021, þar sem niðurstöður sýndu að bilið á milli húsanna að Vistarvegi 10 og 12 fullnægði ekki kröfum ákvæðis gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð um bil á milli bygginga. Í niðurstöðu úrskurðarins var tekið fram að ekki væri annað séð en að húsið að Vistarvegi 12 hafi verið reist samkvæmt aðaluppdráttum, samþykktum 29. mars 2019 af skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra, og var hin kærða ákvörðun í því máli felld úr gildi. Eftir uppkvaðningu nefnds úrskurðar fól sveitarfélagið Mannviti verkfræðistofu að endurmeta fjarlægðir milli húsanna að Vistarvegi 10 og 12. Við mælinguna var stuðst við sömu gögn og EFLA verkfræðistofa hafði áður notað og var niðurstaðan sú sama, þ.e. að bil milli húsanna væri of lítið. Búa því efnisrök að baki hinni kærðu ákvörðun.

Samkvæmt lóðablöðum fyrir Vistarveg 10 og 12 skal fjarlægð frá byggingarreit hvorrar lóðar að lóðarmörkum að vera 5,0 m og þ.a.l. bil á milli byggingarreita alls 10,0 m. Er sú tilhögun byggð á ákvæðum byggingarreglugerðar, n.t.t. ákvæða gr. 9.7.5. um bil á milli bygginga. Deilur eru uppi í máli þessu um lóðarmörk umræddra lóða. Á slíkur ágreiningur, sem er eignaréttarlegs eðlis, ekki undir úrskurðarnefndina þar sem hún er ekki til þess bær að lögum heldur á ágreiningurinn eftir atvikum að vera til lykta leiddur fyrir dómstólum.

Samkvæmt aðaluppdrætti fyrir Vistarveg 10, samþykktum af skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra 5. maí 2010, var sama fjarlægð á milli byggingarreita lóðanna að lóða-mörkum. Á uppdrættinum má sjá að byggingarreitur á lóðinni Vistarvegi 12 gaf lítið sem ekkert svigrúm fyrir stækkun hússins sem fyrir var í átt að lóðinni Vistarvegi 10. Í byggingarlýsingu Vistarvegar 10 kemur fram að húsið hafi verið lengt um 1 m til vesturs, í átt að Vistarvegi 12. Eftir að húsið að Vistarvegi 12 var stækkað er bilið milli bygginganna 6,57 m að norðanverðu og 6,53 m að sunnanverðu. Árið 2019 var samþykkt leyfi til byggingar 128 m² sumarhúss á lóðinni Vistarvegi 12, í stað eldra húss sem var 40 m². Sú fjarlægð sem mælist á milli bygginganna er ekki í samræmi við þá aðaluppdrætti sem samþykktir voru árið 2019.

Þá liggur fyrir að byggingarfulltrúi sveitarfélagsins gerði fokheldisúttekt á húsinu að Vistarvegi 12 þann 12. ágúst 2019 þar sem kom fram að of lítið bil væri á milli bygginganna nr. 10 og 12. Fram að þeim tíma mátti kærandi vera í góðri trú þegar hann reisti húsið að það væri rétt staðsett miðað við samþykktan aðaluppdrátt. Auk þess bera fyrirliggjandi gögn með sér að ef húsið yrði fært 3,4 metra frá lóðamörkum væri það komið út fyrir byggingarreit og lóðarmörk Vistarvegar 12. Þá hefur sveitarfélagið leitast við að finna lausn á málinu og ýmsar tillögur kæranda um úrbætur hafa verið lagðar fyrir eiganda Vistarvegar 10, en þeim verið hafnað.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki ber eigandi ábyrgð á því að við hönnun, byggingu og rekstur mannvirkis sé farið að kröfum laganna og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra. Fram kemur í 1. mgr. 16. gr. sömu laga að hlutverk útgefanda byggingarleyfis sé að hafa eftirlit með því að hönnun mannvirkis sé í samræmi við ákvæði laganna og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim og að byggt sé í samræmi við samþykkt hönnunargögn, lög og reglugerðir sem um mannvirkjagerðina gilda. Hvílir þ.a.l. ábyrgð á báðum aðilum um að farið sé eftir lögum og reglugerðum.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Í máli þessu er enn deilt um hver beri ábyrgð á því að fjarlægð milli húsanna standist ekki kröfur byggingarreglugerðar. Þegar aðilar stjórnsýslumáls eiga öndverðra hagsmuna að gæta er stjórnvöldum skylt að taka tilhlýðilegt tillit til þeirra beggja eða allra. Um 10. gr. stjórnsýslulaga, segir í frumvarpi með lögunum að: „Mál telst nægjanlega upplýst þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem eru nauðsynlegar til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Um nánari afmörkun verður m.a. að líta til þess hversu mikilvægt málið er og hversu nauðsynlegt það er að taka skjóta ákvörðun í málinu. Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verður almennt að gera til stjórnvalds um að það gangi úr skugga um að upplýsingar, sem búa að baki ákvörðun, séu sannar og réttar.“

Með vísan til framangreinds þykja enn vera annmarkar á undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar sem úrskurðarnefndin hefur áður vísað til í máli nr. 134/2022 með tilliti til rannsóknar máls, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga og þykir ekki með hliðsjón af 12. gr. laganna rétt að kærandi beri einn hallann af því ósamræmi sem er á milli samþykkts aðaluppdráttar hússins og þess sem raunin varð.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra frá 5. nóvember 2024 um að krefjast tilfærslu, niðurrifs eða breytingar á húsi því sem stendur á lóðinni Vistarvegi 12 fyrir 1. apríl 2025. Að öðrum kosti muni sveitarfélagið láta fjarlægja húsið af lóðinni á kostnað lóðarhafa auk þess að leggja á dagsektir að upphæð kr. 200.000, þar til því verki sé lokið.