Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

43/2025 Vesturvör

Með

Árið 2025, föstudaginn 28. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 43/2025, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness frá 7. mars 2025 að starfsemi Hreint ehf. teljist starfsleyfisskyld.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. mars 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir Hreint ehf., þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness frá 7. mars 2025 að starfsemi þvottahúss fyrirtækisins teljist starfsleyfisskyld. Með tölvupósti 19. s.m. fór kærandi fram á frestun réttaráhrifa þeirrar ákvörðunar heilbrigðiseftirlitsins að stöðva þvottahúsþjónustu starfseminnar ef ekki hafi verið sótt um starfsleyfi í samræmi við ákvæði laga fyrir 31. mars 2025. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu.

Málsatvik og rök: Með tölvupósti 5. júní 2024 benti Heilbrigðiseftirlit Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness kæranda á að enn hefði ekki borist umsókn um starfsleyfi fyrir þvottahús í starfsstöð Hreint ehf. við Vesturvör 11 í Kópavogi.  Nokkur tölvupóstsamskipti áttu sér stað í kjölfarið. Kæranda var tilkynnt með bréfi, dags. 7. mars 2025, að þrátt fyrir andmæli hans stæði heilbrigðiseftirlitið við ákvörðun sína um að starfsemin væri starfsleyfisskyld. Til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt 6. gr. laga nr. 7/1998 væri fyrirhugað að stöðva þvottahússþjónustu starfseminnar í samræmi við 63. gr. laganna ef ekki væri búið að sækja um starfsleyfi í samræmi við ákvæði laga fyrir 31. mars s.á.

Kærandi vísar til þess að ekki megi sjá að ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins að fella starfsemina undir „þvottahús“ byggði á skýrum heimildum í lögum. Þá félli ákvörðun um að fella lítinn hluta starfseminnar undir „þvottahús“ ekki undir meðalhófsreglu og ljóst sé að hægt væri að ná markmiðum og tilgangi laganna á vægari hátt.

Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness var frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar ekki mótmælt.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

 Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun er íþyngjandi fyrir hann, veldur honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi.

Í máli þessu er kærð sú ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness að starfsemi þvottahúss fyrirtækisins teljist starfsleyfisskyld og að stöðva þvottahúsþjónustu hluta starfseminnar ef ekki hafi verið sótt um starfsleyfi í samræmi við ákvæði laga fyrir 31. mars 2025. Kærandi hefur nýtt sér heimild til að bera lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar undir úrskurðarnefndina en um íþyngjandi ákvörðun er að ræða, sem beinist einungis að kæranda. Eins og málsatvikum er háttað þykir rétt að fresta réttaráhrifum ákvörðunarinnar enda liggja ekki fyrir knýjandi ástæður sem gera það að verkum að varhugavert sé að bíða niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um ágreiningsefni máls þessa. 

Úrskurðarorð:

Frestað er réttaráhrifum ákvörðunar Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness að stöðva þvottahúsþjónustu hluta starfsemi Hreint ehf. ef ekki hafi verið sótt um starfsleyfi í samræmi við ákvæði laga fyrir 31. mars 2025.

168/2024 Vistarvegur

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 168/2024, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra frá 5. nóvember 2024 um að krefjast tilfærslu, niðurrifs eða breytingar á húsi því sem stendur á lóðinni Vistarvegi 12 fyrir 1. apríl 2025. Að öðrum kosti muni sveitarfélagið láta fjarlægja húsið af lóðinni á kostnað lóðarhafa auk þess að leggja á dagsektir, að upphæð kr. 200.000, þar til því verki sé lokið.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. desember 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Vistarvegar 12, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra frá 5. nóvember 2024 að krefjast tilfærslu, niðurrifs eða breytingar á húsi því sem stendur á lóðinni Vistarvegi 12 fyrir 1. apríl 2025. Að öðrum kosti muni sveitarfélagið láta fjarlægja húsið af lóðinni á kostnað lóðarhafa auk dagsekta, að upphæð kr. 200.000, þar til því verki sé lokið. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi en til vara að veittur verði frestur til 1. september 2025 og að fjárhæð dagsekta verði lækkuð.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi eystra 31. desember 2024.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu, en deilur hafa staðið yfir frá árinu 2007 um hver sé raunveruleg stærð lóðarinnar Vistarvegar 12. Hinn 29. mars 2019 var samþykktur aðaluppdráttur fyrir byggingu sumarhúss á lóðinni sem skyldi staðsett innan skilgreinds byggingarreits og 5,0 m frá aðliggjandi lóðarmörkum. Í júní 2021 framkvæmdi EFLA verkfræðistofa mælingar á lóðamörkum Vistarvegar 10 og 12 sem byggðust á þinglýstum og hnitsettum lóðamörkum. Samkvæmt mælingunum var sumarhúsið, sem reist hafði verið að Vistarvegi 12, u.þ.b. 3,4 m út fyrir byggingarreit í austurátt og þannig einungis 1,6 m frá lóðamörkunum. Sveitarfélagið taldi þannig ljóst að sumarhúsið að Vistarvegi 12 hefði verið reist í ósamræmi við samþykktan aðaluppdrátt, byggingarleyfi og ákvæði byggingar­reglugerðar um bil milli bygginga. Kærandi taldi á hinn bóginn að mælingarnar væru rangar þar sem miðlína á milli lóðanna hefði raskast og sumarhúsið væri þannig ekki fyrir byggingarreit sinn.

Í framhaldinu fór skipulags- og byggingarfulltrúi Rangárþings eystra fram á að kærandi færði sumarhúsið til á lóðinni þannig að það yrði innan byggingarreits og í 5 m fjarlægð frá lóðarmörkum Vistarvegar 10, að viðlögðum dagsektum að upphæð 25.000 krónum frá 28. febrúar 2023. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar sem kvað upp úrskurð 28. apríl 2023 í máli nr. 134/2022, þar sem ákvörðunin var felld úr gildi með þeim rökum að ágallar hefðu verið á undirbúningi ákvörðunarinnar, m.a. með tilliti til rannsóknar máls og meðalhófs sbr. 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Verkfræðistofan Mannvit, nú COWI, framkvæmdi nýja mælingu í ágúst 2023 sem sýndi að fjarlægð milli húsa að Vistarvegi 10 og 12 væri 6,59 m að norðanverðu en 6,54 m að sunnanverðu.

Með bréfi sveitarfélagsins til kæranda dags. 10. nóvember 2023 var tilkynnt að mælingar EFLU verkfræðistofu, um fjarlægð milli húsa hefðu verið sannreyndar af Mannviti verkfræðistofu. Fór sveitarfélagið fram á að þáverandi eigandi Vistarvegar 12 myndi legði tvær eða fleiri tillögur að lausn sem uppfylltu kröfur gr. 9.7.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 fyrir 15. desember 2023. Þáverandi eigandi lést og fengu erfingjar hans frest til 15. febrúar 2024 sem var svo framlengdur til 15. apríl s.á. Nokkrir viðbótarfrestir hafa verið veittir eftir það af ýmsum ástæðum. Nokkur samskipti hafa verið milli sveitarfélagsins og kæranda um lausnir á málinu og hefur kærandi lagt fram tillögur til lausnar sem eigandi Vistarvegs 10 hefur hafnað. Hinn 5. nóvember 2024 var kæranda tilkynnt hin kærða ákvörðun.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að sveitarfélagið hafi í engu haft þau atriði sem úrskurðarnefndin mæli fyrir um í niðurstöðu í máli nr. 134/2022 er gætu haft áhrif á mat um beitingu umþrættra þvingunarúrræða s.s. um stærðir lóða og lóðarmörk. Hafi sveitarfélagið látið Mannvit sannreyna mælingar EFLU verkfræðistofu út frá sömu gögnum og forsendum sem Efla hafi notað við mæliblað dags 8. júní 2021 sem legið hafi fyrir í máli nr. 134/2022 og verið forsenda fyrir ákvörðun sveitarfélagsins á þeim tíma. Sé vandséð hvernig þessar tvær verkfræðistofur ættu að fá sitthvora niðurstöðuna þegar verið sé að mæla staðsetningu húsanna út frá sömu forsendum enda megi sjá af mælingunum að þeim skeiki óverulega. Hafi ágreiningurinn ekki snúist um það hvort mæling Mannvits á fjarlægð milli húsanna væri röng eða mælingar EFLU heldur um forsendur mælinganna eins og bent sé á í úrskurðinum.

Sveitarfélagið hafi í engu kannað þær forsendur heldur látið Mannvit framkvæma mælingar að óbreyttum forsendum. Annað hvort séu forsendur mælinganna rangar, þ.e. að miðlínan sé mæld 5 m frá húsinu að Vistarvegi 10, en kærandi telji að eigandi þess húss hafi byggt út fyrir byggingarreit eða þá að það hafi aldrei verið 10 m á milli byggingarreita. Megi m.a. ráða það af mæliblaði sem sveitarfélagið lét gera að rotþró fyrir Vistarveg 12 sem sé nú komin yfir á Vistarveg 10. Hafi sveitarfélagið ekki upplýst hvers vegna svo sé og af hverju samþykkt hafi fengist fyrir húsinu að Vistarvegi 12 ef það komist ekki fyrir á byggingarreitnum. Hafi sveitarfélagið staðsett byggingarreitinn fyrir húsið, samþykkt teikninguna og gefið út fokheldisvottorð árið 2019, án nokkurra athugasemda byggingarfulltrúa og þar með staðfest að húsið væri innan byggingarreits.

Það eina sem sveitarfélagið hafi gert eftir framangreindan úrskurð nefndarinnar var að láta aðra verkfræðistofu mæla bilið á milli húsanna og í kjölfarið fara fram á að kærandi legði til tvær eða fleiri tillögur að lausnum sem uppfylltu brunaöryggiskröfur gr. 9.7.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Hafi kærandi lagt fram þrjár tillögur í tölvupósti 26. apríl 2024 sem sveitarfélagið hafi ætlað að skoða og vera svo í sambandi við kæranda. Í tölvupósti 2. júlí s.á. hafi lögmaður kæranda vísað til fyrri málssögu og að ekki hafi borist formlegt svar við framlögðum tillögum, en til að brunahönnuður gæti hafist handa við nánari útfærslu þyrfti að liggja fyrir afstaða til þess hvaða leiðir væru samþykktar. Hafi sveitarfélagið ekki verið tilbúið til að líta til annarra úrræða sem gætu uppfyllt kröfur gr. 9.7.5 í byggingarreglugerð og borið fyrir sig andstöðu eigenda Vistarvegar 10 þar um.

Varðandi það sem fram komi í hinni kærðu ákvörðun, um að kæranda hafi verið í lófa lagið að staðsetja húsið annars staðar á lóðinni án þess að um brot á nálægðarreglu væri að ræða, sé vísað til nefnds úrskurðar í máli nr. 134/2022. Þar segi að ef fylgja ætti ákvörðun byggingarfulltrúa yrði að færa hús kæranda um 3,4 m til vesturs, en af gögnum málsins verði ráðið að húsið yrði þá komið út fyrir byggingarreit og jafnvel út fyrir mörk lóðar kæranda. Sé því lágmark að sveitarfélagið upplýsi hann um hvert eigi að færa húsið til á lóðinni enda rúmist það ekki innan byggingarreitsins þannig að 5. m séu að lóðarmörkum. Húsið verði ekki fært lengra til vesturs á lóðinni enda sé bilið að gaddavírsgirðingu og þverhnípi við hana um 1,5 m.

Að framangreindu sé því ljóst að ágreiningur sé um atriði sem áhrif gætu haft á mat við beitingu þvingunarúrræða s.s. um stærð lóða og lóðarmörk sem eru forsendur að þeirri mælingu sem framkvæmd hafi verið af verkfræðistofum og sveitarstjórn studdi ákvörðun sína við.

Málsrök Rangárþings eystra: Vísað er til bréfs fulltrúa skipulags- og byggingarsviðs Rangárþings eystra, dags. 10. nóvember 2023, til þáverandi eiganda Vistarvegar 12. Þar komi m.a. fram að mælingar á lóðunum og fjarlægð milli húsa hafi verið staðreynd af Mannviti og að fyrir liggi að húsið að Vistarvegi 12 sé reist í ósamræmi við samþykktan aðaluppdrátt. Á uppdrættinum komi skýrt fram að sumarhúsið eigi að vera 5,1 m frá lóðarmörkum að norðanverðu en 4,9 m að sunnanverðu sem ekki sé raunin miðað við mælingar EFLU og Mannvits. Í bréfinu sé farið fram á að eigandi Vistarvegar 12 leggi fram tvær eða fleiri tillögur að lausn sem uppfylli kröfur gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, varðandi brunaöryggiskröfur. Hafi frestur verið veittur til 15. desember 2023. Með tölvupósti lögmanns kæranda, dags. 26. apríl 2024, sé vísað í tillögur Verkís og lagðar til þrjár leiðir til úrbóta. Þær hafi verið að koma upp „sprinkler“ kerfi í bústöðunum, setja eldveggi á húsin að Vistarvegi 12 og 10 eða reisa sjálfstæðan brunavegg milli húsanna. Jafnframt hafi verið lögð fram tillaga um að nefndur brunahönnuður hjá Verkís, tæki verkið að sér. Hafi fulltrúi skipulags- og byggingarsvið sent bréf til eiganda Vistarvegar 10, dags. 2. maí 2024, þar sem honum hafi verið gefinn kostur á að tjá sig um framangreindar tillögur. Svarbréf hafi borist frá lögmanni eigandans, dags. 31. maí 2024, þar sem tillögunum hafi verið hafnað.

Með bréfi, dags. 13. ágúst 2024, til lögmanns kæranda hafi verið ítrekuð krafa sveitarfélagsins um skýringar frá byggingarstjóra Vistarvegar 12 á því hvers vegna húsið hafi ekki verið byggt samkvæmt samþykktum uppdráttum. Veittur hafi verið loka athugasemdafrestur til 20. ágúst 2024. Í niðurlagi bréfsins hafi jafnframt verið kynnt sú ákvörðun að dagsektir yrðu lagðar á kæranda ef fullnægjandi skýringar bærust ekki eða að öðrum kosti til að knýja fram úrbætur í formi brottflutnings hússins. Með bréfi dags. 11. september 2024 hafi lögmanni kæranda verið kynnt að fulltrúi skipulags- og byggingarsviðs Rangárþings eystra hefði í hyggju að taka ákvörðun um að krefjast tilfærslu, niðurrifs eða breytingar á húsinu að Vistarvegi 12 að viðlögðum dagsektum. Gefinn hafi verið 15 daga frestur til að koma að sjónarmiðum eiganda Vistarvegar 12 en að þeim tíma liðnum yrði ákvörðun tekin.

Engin svör hafi borist og hafi kæranda með bréfi dags. 5. nóvember 2024, verið gert að rífa húsið, flytja það til á lóðinni, minnka eða breyta þannig að kröfur um fjarlægð milli húsa væri fylgt eða fjarlægja húsið með öðrum hætti fyrir 1. apríl 2025.

Vísað sé til gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 varðandi bil á milli bygginga. Ysta klæðning mannvirkjanna að Vistarvegi 10 og 12 séu í flokki 2 sem þýði að lágmarks bil milli húsanna þurfi að vera 10 m. Fyrir liggi að bilið milli húsanna sé fjarri því að vera nægilegt svo sem fram komi í mælingum EFLU og Mannvits. Eigandi Vistarvegar 12 beri ábyrgð á því að húsið sé ranglega staðsett á lóðinni og ekki byggt í samræmi við samþykktar teikningar, lóðarblað og framangreind fyrirmæli í byggingarreglugerð.

Með bréfi dags. 5. nóvember 2024 hafi kæranda verið gefinn kostur á að bæta úr fyrir 1. apríl 2025 og honum gefnir fjórir kostir í því sambandi. Þá komi fram í niðurlagi bréfsins að verði ekki brugðist við innan tímamarka muni sveitarfélagið láta fjarlægja húsið af lóðinni á kostnað lóðarhafa auk þess sem lagðar yrðu kr. 200.000 dagsektir á lóðarhafa þar til því verki væri lokið. Kærandi hyggist augljóslega ekki nýta gefinn frest til að bæta úr þar sem hann hafi þegar kært ákvörðunina og krafist ógildingar á henni. Hafi sveitarfélagið rannsakað málið í þaula og reynt allt til að leita lausna með mildari hætti, án árangurs. Engar heimildir séu til að þvinga eiganda Vistarvegar 10 til aðgerða eða framkvæmda sem hann sé ekki sammála um að fara í.

Hafi sveitarfélögunum verið gefin jörðin Ytri-Skógar með því samkomulagi að gefendur myndu reisa tvö sumarhús til eigin nota á lóð sem tæki til 5 ha. sem hvorki mætti selja né leigja og myndu þau ekki erfast. Lóðastærðin hafi verið skráð 2.500 m² í fasteignaskrá en afmörkun og hnitsetningu hafi fyrst verið þinglýst í nóvember 2020. Lóðarhafar hafi gert athugasemdir þegar deiliskipulagstillaga var auglýst og í kjölfarið hafi verið unnar tillögur að stækkun lóðanna. Þeim tillögum hafi verið hafnað að hálfu landeigenda. Þáverandi eigandi Vistarvegar 12 hafi skrifað undir og þinglýst lóðaleigusamningi fyrir þá lóð og því sé ljóst að engin deila sé fyrir hendi varðandi stærð lóðanna. Væri sú deila enn til staðar, breytti það að auki engu um raunverulega fjarlægð milli húsanna tveggja sem sé ólögmæt.

Þó kærandi hafi vissulega gert tillögur þá breyti það ekki þeirri stöðu að eigandi Vistarvegar 10 sé ekki samþykkur þeim framkvæmdum. Enginn vafi sé á stærð eða legu lóðarinnar að Vistarvegi 12 og sé byggingarreitur á lóðinni óumdeildur. Mælingar EFLU og Mannvits hafi eingöngu snúist um að mæla raunverulega fjarlægð milli þessara tveggja bygginga. Það geti ekki verið nema ein aðferð til að mæla þá vegalengd og því óhugsandi að mismunandi forsendur breyti nokkru um niðurstöðuna. Umfjöllun í kæru um aðstæður á lóðinni vegna landrofs og þverhnípis breyti engu um að bilið milli húsanna sé of stutt og það sé kjarni málsins.

Kæranda hafi verið í lófa lagið að hanna hús sitt og staðsetja þannig á lóðinni og innan byggingarreits að ekki yrði um brot á fjarlægðarreglum að ræða. Í þessu sambandi sé sérstaklega vísað til minnisblaðs skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 28. desember 2024, sem sýni greinilega hvernig húsið að Vistarvegi 12 sé ranglega staðsett og hvernig kæranda hefði verið í lófa lagið að koma því fyrir á samþykktum byggingareit án þess að brjóta ákvæði reglugerðar um fjarlægð milli húsa.

Athugasemdir lóðareiganda að Vistarvegi 10: Bent er á að það liggi fyrir að sumarhús kæranda að Vistarvegi 12 hafi verið byggt utan byggingarreits eins og hann er skilgreindur í þinglýstum og hnitsettum skjölum og byggingin er ekki í samræmi við aðaluppdrátt. Þetta virðist raunar óumdeilt þar sem fram komi í kæru máls, og öðrum skjölum sem stafi frá kæranda, að húsið hafi verið reist í samræmi við samþykktar teikningar og verið byggt innan byggingarreits „eins og hægt var“. Samkvæmt 15. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 beri kærandi ábyrgð á því og þá jafnframt ábyrgð á úrbótum.

Það liggi nú fyrir með óyggjandi hætti með mati tveggja óvilhallra aðila, að húsið að Vistarvegi 12 hafi verið byggt utan byggingarreits eins og hann sé afmarkaður í þinglýstum skjölum. Húsbyggingin sé þar af leiðandi ekki í samræmi við aðaluppdráttinn frá 2019 og í því felist brot gegn ákvæðum byggingarreglugerðar.

Staðsetning hússins að Vistarvegi 12 uppfylli ekki meginreglu 9.7.5. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 m.t.t. brunavarna. Til þess að svo væri þyrfti að líkindum að ráðast í umfangsmiklar og kostnaðarsamar framkvæmdir á báðum húsum sem hefðu að auki áhrif á útlit bygginganna. Sé lóðareiganda að Vistarvegi 10 alls kostar óskylt að ráðast í slíkar framkvæmdir þar sem húsið á lóð hans sé byggt í samræmi við samþykkta uppdrætti og skipulag. Það sé á ábyrgð lóðarhafa að Vistarvegi 12 að hús hans hafi verið reist í trássi við áðurnefnda grein reglugerðarinnar.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Með umdeildri ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra var lagt fyrir kæranda að færa til, fjarlægja eða breyta sumarhúsi hans að Vistarvegi 12 fyrir 1. apríl 2025 að viðlögðum 200.000 króna dagsektum og að húsið yrði fjarlægt af sveitarfélaginu á kostnað kæranda. Byggði ákvörðunin á því að bil milli húss kæranda og húss að Vistarvegi 10 fullnægði ekki kröfu ákvæðis gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um bil á milli bygginga.

Hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags er að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og ef ekki þá beita eftir atvikum þvingunar-úrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga um mannvirki. Er nánar kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt. Þá er fjallað um aðgerðir til að knýja fram úrbætur í 56. gr. laganna. Er þar m.a. tekið fram í 1. mgr. ákvæðisins að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant að mati byggingarfulltrúa eða frágangur ekki samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum eða byggingarlýsingu skuli gera eiganda eða umráðamanni eignarinnar aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Sé það ekki gert er heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað þess sem vanrækt hefur að vinna verkið, sbr. 2. og 3. mgr. nefnds lagaákvæðis en lagaákvæðið ber með sér að nefndum úrræðum verði ekki beitt samtímis.

Beiting nefndra þvingunarúrræða er verulega íþyngjandi ákvörðun sem er háð mati stjórnvalds hverju sinni. Tekið er fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umræddum ákvæðum verður fyrst og fremst beitt sé það mat viðkomandi stjórnvalds að gengið sé gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum og skipulagslögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Þótt beiting sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun að vera studd efnislegum rökum. Þá ber stjórnvaldi einnig að fylgja meginreglum stjórnsýsluréttarins, m.a. um meðalhóf og rannsókn máls.

Eins og fram hefur komið hefur úrskurðarnefndin í fyrri úrskurði í máli nr. 134/2022 fjallað um lögmæti þeirrar kröfu byggingarfulltrúa að eigandi sumarhúss að Vistarvegi 12 færi húsið til á lóð sinni að viðlögðum dagsektum. Ástæðu þeirrar kröfu mátti rekja til mælinga verkfræðistofunnar EFLU frá 8. júní 2021, þar sem niðurstöður sýndu að bilið á milli húsanna að Vistarvegi 10 og 12 fullnægði ekki kröfum ákvæðis gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð um bil á milli bygginga. Í niðurstöðu úrskurðarins var tekið fram að ekki væri annað séð en að húsið að Vistarvegi 12 hafi verið reist samkvæmt aðaluppdráttum, samþykktum 29. mars 2019 af skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra, og var hin kærða ákvörðun í því máli felld úr gildi. Eftir uppkvaðningu nefnds úrskurðar fól sveitarfélagið Mannviti verkfræðistofu að endurmeta fjarlægðir milli húsanna að Vistarvegi 10 og 12. Við mælinguna var stuðst við sömu gögn og EFLA verkfræðistofa hafði áður notað og var niðurstaðan sú sama, þ.e. að bil milli húsanna væri of lítið. Búa því efnisrök að baki hinni kærðu ákvörðun.

Samkvæmt lóðablöðum fyrir Vistarveg 10 og 12 skal fjarlægð frá byggingarreit hvorrar lóðar að lóðarmörkum að vera 5,0 m og þ.a.l. bil á milli byggingarreita alls 10,0 m. Er sú tilhögun byggð á ákvæðum byggingarreglugerðar, n.t.t. ákvæða gr. 9.7.5. um bil á milli bygginga. Deilur eru uppi í máli þessu um lóðarmörk umræddra lóða. Á slíkur ágreiningur, sem er eignaréttarlegs eðlis, ekki undir úrskurðarnefndina þar sem hún er ekki til þess bær að lögum heldur á ágreiningurinn eftir atvikum að vera til lykta leiddur fyrir dómstólum.

Samkvæmt aðaluppdrætti fyrir Vistarveg 10, samþykktum af skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra 5. maí 2010, var sama fjarlægð á milli byggingarreita lóðanna að lóða-mörkum. Á uppdrættinum má sjá að byggingarreitur á lóðinni Vistarvegi 12 gaf lítið sem ekkert svigrúm fyrir stækkun hússins sem fyrir var í átt að lóðinni Vistarvegi 10. Í byggingarlýsingu Vistarvegar 10 kemur fram að húsið hafi verið lengt um 1 m til vesturs, í átt að Vistarvegi 12. Eftir að húsið að Vistarvegi 12 var stækkað er bilið milli bygginganna 6,57 m að norðanverðu og 6,53 m að sunnanverðu. Árið 2019 var samþykkt leyfi til byggingar 128 m² sumarhúss á lóðinni Vistarvegi 12, í stað eldra húss sem var 40 m². Sú fjarlægð sem mælist á milli bygginganna er ekki í samræmi við þá aðaluppdrætti sem samþykktir voru árið 2019.

Þá liggur fyrir að byggingarfulltrúi sveitarfélagsins gerði fokheldisúttekt á húsinu að Vistarvegi 12 þann 12. ágúst 2019 þar sem kom fram að of lítið bil væri á milli bygginganna nr. 10 og 12. Fram að þeim tíma mátti kærandi vera í góðri trú þegar hann reisti húsið að það væri rétt staðsett miðað við samþykktan aðaluppdrátt. Auk þess bera fyrirliggjandi gögn með sér að ef húsið yrði fært 3,4 metra frá lóðamörkum væri það komið út fyrir byggingarreit og lóðarmörk Vistarvegar 12. Þá hefur sveitarfélagið leitast við að finna lausn á málinu og ýmsar tillögur kæranda um úrbætur hafa verið lagðar fyrir eiganda Vistarvegar 10, en þeim verið hafnað.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki ber eigandi ábyrgð á því að við hönnun, byggingu og rekstur mannvirkis sé farið að kröfum laganna og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra. Fram kemur í 1. mgr. 16. gr. sömu laga að hlutverk útgefanda byggingarleyfis sé að hafa eftirlit með því að hönnun mannvirkis sé í samræmi við ákvæði laganna og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim og að byggt sé í samræmi við samþykkt hönnunargögn, lög og reglugerðir sem um mannvirkjagerðina gilda. Hvílir þ.a.l. ábyrgð á báðum aðilum um að farið sé eftir lögum og reglugerðum.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Í máli þessu er enn deilt um hver beri ábyrgð á því að fjarlægð milli húsanna standist ekki kröfur byggingarreglugerðar. Þegar aðilar stjórnsýslumáls eiga öndverðra hagsmuna að gæta er stjórnvöldum skylt að taka tilhlýðilegt tillit til þeirra beggja eða allra. Um 10. gr. stjórnsýslulaga, segir í frumvarpi með lögunum að: „Mál telst nægjanlega upplýst þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem eru nauðsynlegar til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Um nánari afmörkun verður m.a. að líta til þess hversu mikilvægt málið er og hversu nauðsynlegt það er að taka skjóta ákvörðun í málinu. Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verður almennt að gera til stjórnvalds um að það gangi úr skugga um að upplýsingar, sem búa að baki ákvörðun, séu sannar og réttar.“

Með vísan til framangreinds þykja enn vera annmarkar á undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar sem úrskurðarnefndin hefur áður vísað til í máli nr. 134/2022 með tilliti til rannsóknar máls, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga og þykir ekki með hliðsjón af 12. gr. laganna rétt að kærandi beri einn hallann af því ósamræmi sem er á milli samþykkts aðaluppdráttar hússins og þess sem raunin varð.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra frá 5. nóvember 2024 um að krefjast tilfærslu, niðurrifs eða breytingar á húsi því sem stendur á lóðinni Vistarvegi 12 fyrir 1. apríl 2025. Að öðrum kosti muni sveitarfélagið láta fjarlægja húsið af lóðinni á kostnað lóðarhafa auk þess að leggja á dagsektir að upphæð kr. 200.000, þar til því verki sé lokið.

47/2025 Arnarland

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 27. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 47/2025, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 6. mars 2025 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Arnarland og breytingu á aðalskipulagi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 19. mars 2025, kærir eigandi fasteignar að Súlunesi 25 í Garðabæ, ákvarðanir bæjarstjórnar Garðabæjar frá 2025 að samþykkja breytingu á Aðalskipulagi Garðabæjar vegna landnotkunar reitsins Arnarnesháls (3.37VÞ) og deiliskipulags fyrir Arnarland. Greindar ákvarðanir skipulagsnefndar voru samþykktar á fundi og verður málskot kæranda skilið á þann hátt að kærðar séu ákvarðanir bæjarstjórnar. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi, skipulagsferlið stöðvað og sveitarfélaginu gert að birta öll gögn sem snerti skuggavarp, umferðaraukningu og önnur áhrif skipulagsins á nærliggjandi byggð.

Málsatvik og rök: Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 6. mars 2025 var samþykkt afgreiðsla skipulagsnefndar frá 24. febrúar s.á. um breytingu á Aðalskipulagi Garðabæjar 2016–2030 vegna landnotkunarreitsins Arnarnesháls (3.37 VÞ). Með breytingunni var landnotkun breytt úr því að vera svæði fyrir verslun og þjónustu í miðsvæði. Innan reitsins verði blönduð byggð íbúða, verslun og þjónustu með áherslu á heilsutengda starfsemi. Hámarkshæð bygginga breyttist úr átta hæðum í tvær til sex hæðir en ein bygging, ætluð atvinnustarfsemi, geti orðið allt að sjö hæðir. Á sama fundi samþykkti bæjarstjórn einnig afgreiðslu skipulagsnefndar sem einnig var samþykkt 24. febrúar s.á. deiliskipulag Arnarlands sem varðar sama reit og greind aðalskipulagsbreyting. Gerir deiliskipulagið meðal annars ráð fyrir um 450 íbúðum og um 37.000 m2 af verslunar-, skrifstofu- og þjónusturýmum. Nýtingarhlutfall svæðisins verði um 0,95.

Kærandi vísar til þess að Garðabær hafi ekki tekið tillit af því að í nágreni skipulagssvæðisins, hinu megin Hafnarfjarðarvegar, sé lágreist íbúðabyggð. Gert sé ráð fyrir háreistu atvinnuhúsnæði á hæsta hluta Arnarlandsins, við Hafnarfjarðarveg, sem þýði verulega skuggamyndun á íbúðarhús við Súlunes. Hávaðamengun af endurkasti umferðar muni líklega verða vandamál af slíkum mannvirkjum. Í svörum sveitarfélagsins hafi ekki verið kynntar nákvæmar niðurstöður úr rannsókn á skuggavarpi. Byggingarmagn sé úr öllu samhengi við nágrennið og muni valda verulegum umferðartöfum. Lítið hafi verið brugðist við mótmælum og athugasemdum.

Úrskurðarnefndin óskaði upplýsinga um stöðu hinna kærðu skipulagsáætlana frá Garðabæ og samkvæmt svörum sveitarfélagsins eru þær í skoðun hjá Skipulagsstofnun í samræmi við 32. og 42. gr. skipulagslaga.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verða ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Breyting á aðalskipulagi er að sama skapi háð staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra, sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna, en þó einungis staðfestingu Skipulagsstofnunar ef um óverulega breytingu er að ræða, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Hin kærða ákvörðun felur í sér samþykki á tillögu um breytingu á Aðalskipulagi Garðabæjar 2016–2030 en samkvæmt skýrum fyrirmælum skipulagslaga brestur úrskurðarnefndina vald til að taka slíka ákvörðun til endurskoðunar þegar hún hefur öðlast gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda.

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga skal senda Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð ásamt athugasemdum og umsögnum um þær innan sex mánaða frá því að frestur til athugasemda rann út. Að lokinni lögmætisathugun Skipulagsstofnunar skal sveitarstjórn birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda, en slík auglýsing er skilyrði gildistöku deiliskipulags og markar jafnframt upphaf eins mánaðar kærufrests til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Umrædd deiliskipulagsbreyting er enn til meðferðar hjá Skipulagsstofnunar og hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Liggur því ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

51/2025 Vetrarmýri og Smalaholt

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 27. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 51/2025, kæra vegna ákvörðunar bæjarstjórnar Garðabæjar um að auglýsa vinnslutillögu að deiliskipulagi Vetrarmýrar og Smalaholts til forkynningar.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 26. mars 2025, kærir eigandi fasteignar að Þorrasölum 13 í Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar að auglýsa vinnslutillögu að deiliskipulagi Vetrarmýrar og Smalaholts til forkynningar. Er þess krafist að fallið verði frá áætlunum um að leggja veg fyrir aftan Þorrasali sem og að taka stóran hluta Smalaholtsskógar undir golfvöll.

Málsatvik og rök: Bæjarstjórn Garðabæjar auglýsti hinn 23. janúar 2025 vinnslutillögu að deiliskipulagi Vetrarmýrar og Smalaholts til forkynningar, sbr. 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með athugasemdafresti til 24. febrúar s.á. Fram kom að tillagan fjallaði um golfvöll í Vetrarmýri, íþróttaæfingasvæði við Miðgarð, útivistarskóg í Smalaholti og náttúrugarð við Vífilsstaðavatn. Þá verði sérstaklega fjallað um umferðartengingar úr Hnoðraholti í Leirdalsop, þ.e. Vorbraut við Þorrasali. Að lokinni forkynningu var á fundi skipulagsnefndar 13. mars s.á. samþykkt að tillagan, ásamt ábendingum og umsögnum um hana, yrði vísað til úrvinnslu hjá umhverfissviði og skipulagsráðgjöfum. Hefur skipulagstillagan að öðru leyti ekki hlotið lögbundna afgreiðslu.

Vísaði kærandi til þess að fyrirhuguð lagning Vorbrautar við Þorrasali myndi leiða til gífurlegra óþæginda þar sem vegurinn og gatnamót hans yrðu í 12–20 m fjarlægð frá húsi hans. Veglagningin myndi rýra verðgildi fasteignar hans og valda hávaða-, loft-, umferðar- og sjónmengun. Þá muni áform vegna golfvallar valda gríðarlegri landröskun, eyðileggingu á 17 ha skóglendi og útivistarsvæði.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Í 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga kemur fram að áður en tillaga að deiliskipulagi er tekin til afgreiðslu í sveitarstjórn skuli tillagan, forsendur hennar og umhverfismat kynnt íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum á almennum fundi eða á annan fullnægjandi hátt. Í 41. og 42. gr. laganna er svo fjallað um hvernig auglýsingu, samþykkt og afgreiðslu deiliskipulags skuli háttað og kemur þar fram að deiliskipulag taki gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda. Þar til birting deiliskipulags hefur átt sér stað er ekki fyrir hendi lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar

Að öllu framangreindu virtu verður kærumálinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

35/2025 Aflífun hunds

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.

Fyrir var tekið mál nr. 35/2025, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 13. febrúar 2025 um aflífun hundsins Bonzo.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 7. mars 2025, kærir eigandi hundsins Bonzo, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 13. febrúar 2025 að aflífa skuli nefndan hund. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um frestun réttaráhrifa á meðan kæran er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Með úrskurði dags. 18. mars 2024 frestaði úrskurðarnefndin réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar meðan kæra þessi væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Leitað var umsagnar heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og barst hún nefndinni 17. mars 2025.

Málavextir: Hinn 27. október 2024 beit hundurinn Bonzo, sem er í eigu kæranda, einstakling sem staddur var á heimili hans við barnagæslu og hafði farið inn í bílskúrsrými þar sem hundar hans voru. Hundar kæranda eru af tegundinni American Akita. Samkvæmt málsgögnum tók hundurinn sér stöðu fyrir aftan þolanda og er hann sneri sér við beit hundurinn hann í handlegginn. Var þolandinn fluttur með sjúkrabíl á slysadeild og atvikið tilkynnt lögreglu. Dýraþjónusta Reykjavíkur, sem starfrækt er af Reykjavíkurborg, óskaði í framhaldi þessa eftir því við heilbrigðisnefnd Reykjavíkur, að fengnum andmælum kæranda og að virtu mati dýralæknis á hundinum, að hann yrði aflífaður. Hinn 13. febrúar 2025 tók nefndin síðan ákvörðun um að aflífa hundinn og er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Málsrök kæranda: Kærandi leggur áherslu á að stjórnarskráin kveði skýrt á um friðhelgi eignarréttar og einkalífs og réttláta málsmeðferð ef taka eigi íþyngjandi ákvörðun gegn borgara. Þannig tryggi 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar öllum réttláta málsmeðferð og úrlausn um réttindi sín og skyldur fyrir dómi, sbr. einnig 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar sé óheimilt að skylda menn til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji, lagafyrirmæli heimili og fullt verð komi fyrir. Svipting gæludýrs úr vörslum eiganda þess feli í sér inngrip í þann verndaða eignarrétt. Eignarnám eða sambærileg ráðstöfun sé aðeins heimil samkvæmt skýrum lagaheimildum og gegn bótum sem ekki sé fyrir að fara í þessu máli. Í 1. gr. 1. samningsviðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu (sbr. lög nr. 62/1994) séu lagðar sambærilegar skorður við eignarsviptingu af hálfu stjórnvalda.

Ákvörðun um aflífun Bonzo feli í sér mjög íþyngjandi inngrip í lögvarin réttindi kæranda sem eingöngu sé heimil standist hún skilyrði lögmætisreglu stjórnsýslu, þ.e. hafi skýra stoð í lögum,  og fari ekki gegn meðalhófsreglu eða öðrum grundvallarreglum stjórnsýsluréttar. Ákvörðunina skorti lagastoð og brjóti þannig gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Því meira íþyngjandi sem ákvörðun er, því skýrari og sértækari verði lagaheimildin að vera. Heimild heilbrigðisnefndar Reykjavíkur til að setja reglur um hundahald sé reist á 59. gr., áður 25. gr., laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 59. gr. sé sveitarfélögum heimilt að setja samþykktir um bann eða takmörkun á gæludýrahaldi og húsdýrahaldi. Ákvæði 59. gr. veiti hins vegar enga sjálfstæða heimild fyrir stjórnvaldsákvörðun um förgun eða aflífun dýra og hið sama eigi við um vörslusviptingu þeirra. Ákvæði 8. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík hafi því ekki fullnægjandi stoð í settum lögum og gangi gegn stjórnarskrá.

Í 24. gr. laga um velferð dýra nr. 55/2013 sé mælt fyrir um afar takmarkaða heimild sveitarfélaga til ráðstöfunar á dýrum sem komist hafi í þeirra vörslu og þá einungis þegar um sé að ræða óskráð dýr sem hafi verið handsömuð á almannafæri og ekki tekist að finna eiganda að.  Sveitarfélög hafi enga heimild í lögum til þess að aflífa gæludýr í eigu borgaranna, hvorki í almennum lögum um hollustuhætti né í lögum um dýravelferð.

Kærandi telur að ákvörðunin um aflífun hundsins brjóti gegn meðalhófsreglu skv. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem kveði á um að beita skuli vægasta úrræði sem getur náð tilætluðum árangri og ganga ekki lengra en nauðsyn krefur við framkvæmd valdheimilda. Jafnframt feli rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga í sér að stjórnvald þurfi að upplýsa mál nægjanlega og skoða hvort til séu minna íþyngjandi úrræði áður en ákvörðun sé tekin. Heilbrigðisnefnd hafi tekið ákvörðun um aflífun hundsins án sýnilegrar tilraunar stjórnvalda til að beita vægari úrræðum fyrst og ekki framkvæmt sjálfstætt mat á þörfinni á því að grípa til svo róttækra aðgerða. Ósannað sé að hundurinn sé hættulegur á almenningsvettvangi, stjórnvaldið hafi beitt of harkalegum úrræðum og farið offari í andstöðu við meðalhófsreglu.

Þá gerir kærandi alvarlegar athugasemdir við málsmeðferð Dýraþjónustu Reykjavíkur, m.a. sé skapgerðarmatsskýrsla unnin af dýralækni sem hafi enga sérmenntun í atferlisfræði hunda og skorti því sérþekkingu til að vinna áreiðanlegt hættumat fyrir hundinn. Matsgerðin hafi verið haldin verulegum göllum og sé ekki traustur grundvöllur undir ákvörðunina um aflífun hundsins. Hundurinn sé ekki hættulegur í almennum skilningi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg krefst þess að úrskurðarnefndin hafni kröfum kæranda. Afskipti af hundinum hafi byrjað í ágúst 2023, þegar ítrekað var kvartað yfir að hundar í eigu kæranda væru mjög árásargjarnir og hefðu ráðist á þrjá aðra hunda sem hefðu hlotið alvarleg bit frá hundi/hundum kæranda. Dýraþjónusta Reykjavíkur fór í kjölfarið fram á að hundarnir færu í skapgerðarmat sem framkvæmt var af dýralækni og sérfræðingi í atferli hunda, þann 4. september 2023. Í matinu hafi komið fram ýmsar athugasemdir og áhyggjur af hundahaldinu en kærandinn hafi þá strax viðrað áhyggjur af hegðun hundsins gagnvart börnum og gestkomandi á heimili þeirra. Hægt væri þó að gera fyrirbyggjandi ráðstafanir til að hindra frekari atvik og voru kæranda í kjölfarið settar tilteknar kröfur af hálfu Dýraþjónustu Reykjavíkur varðandi hundahaldið, m.a. að hundarnir væru ávallt með múl úti við, einungis mætti viðra einn hund í einu, inni á heimilinu væru hundarnir á aflokuðum stað og aðhald væri algjörlega hundhelt. Þessar ráðstafanir hafi ekki dugað til og í október 2024 hafi hundurinn bitið einstakling. Eftir það hafi dýralæknir framkvæmt nýtt skapgerðarmat á hundinum og í því komi fram að þolandi hafi hlotið bit af gráðu 5 á Dunbar’s bitskala og hundurinn sé mjög hættulegur fólki. Dýralæknirinn hafi eindregið mælt með því að aflífa hundinn þar sem hegðun hans hafi verið hættuleg og hvatvís og miklar líkur á að slíkt gæti endurtekið sig með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Kærandi hafi rætt um að aflífa hundinn en af því hafi ekki orðið og Dýraþjónusta Reykjavíkur því krafist aflífunar hans í janúar 2025 sem kærandi hafi andmælt. Í samræmi við 6. mgr. 8. gr. hundasamþykktar Reykjavíkur hafi málið því farið til heilbrigðisnefndar sem hafi tekið ákvörðun um aflífun.

Í tilefni af sjónarmiðum kæranda sé minnt á að eignarrétturinn geti þurft að lúta ýmsum takmörkunum sem ákveðnar séu með lögum eða vegna réttinda annarra. Hundahaldi séu settar skorður en samkvæmt meginreglu 1. mgr. 30 gr. reglugerðar um lögreglusamþykktir nr. 1127/2007 sé hundahald bannað í þéttbýli nema sveitarfélög ákveði annað fyrirkomulag í sérstökum samþykktum á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Hundahald sé því einungis heimilt í Reykjavíkurborg samkvæmt ákvæðum samþykktar um hundahald í Reykjavíkurborg nr. 355/2022 og sæti þeim takmörkunum sem fram komi í henni. Almenningsþörf verði talinn grundvöllur nauðsynlegrar heimildar stjórnvalda til þess að grípa inn í hundahald í þéttbýli með aflífun ef ógn sé talin standa af hundahaldinu. Það sé afstaða heilbrigðisnefndar Reykjavíkur að við meðferð málsins hafi verið gætt sérstaklega að rannsóknarreglu 10. gr., meðalhófsreglu 12. gr. og andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með vísan í almenningsþörf og þá hættu sem talin sé stafa af hundinum væri óskað flýtimeðferðar málsins.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Í viðbótarathugasemdum kæranda ítrekar hann fyrri sjónarmið og málsástæður en bætir við að við meðferð málsins hafi honum ekki verið veittur andmælaréttur skv. 13. gr. stjórnsýslulaga.

——

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

 Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 13. febrúar 2025 um að aflífa skuli hundinn Bonzo, sem bitið hafði einstakling í október 2024. Kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er í 65. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Af gögnum þessa máls má ráða að bitatvikið var alvarlegt og olli þolanda umtalsverðum áverkum. Einnig er ljóst að fjöldi kvartana hafði borist heilbrigðisyfirvöldum vegna tveggja hunda í eigu kæranda og að þeir höfðu áður bitið þrjá aðra hunda. Í kjölfar þeirra atvika fóru hundarnir báðir í atferlismat dýralæknis og voru kæranda í framhaldi af því settar sérstakar skorður við meðferð og vörslu hundanna, sem hann samkvæmt gögnum málsins og upplýsingum frá Reykjavíkurborg fylgdi ekki. Eftir bitatvikið í október 2024 var Bonzo á ný sendur í atferlismat hjá dýralækni sem sérhæfður er í atferli hunda. Í matinu kom fram að hegðun hundsins hafi verið hættuleg, óeðlileg og að hann sé hættulegur fólki, en miklar líkur séu á að atvikið endurtaki sig með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Kærandi vísar til stuðnings málsrökum m.a. til 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar um réttláta málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstól sem og 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Ekki verður séð að neitt í meðferð málsins skerði rétt kæranda til að leita til dómstóla með mál sitt, en það er undir honum komið hvort hann leitar úrlausnar hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála skv. lögum 130/2011 eða leitar úrlausnar dómstóla. Þá bendir kærandi á að í 72. gr. stjórnarskrár sé mælt fyrir um að eignarrétturinn sé friðhelgur og að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji og þurfi til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir, sbr. einnig 1. gr. 1. viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu.

Eignarrétti manna eru settar ýmsar takmarkanir með lögum og hefur ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar ekki verið skilið á þann veg að það hindri að mönnum sé gert skylt að þola umtalsverðar eignaskerðingar og fjárútlát, t.d. vegna sóttvarnaraðgerða og af öðrum heilbrigðisástæðum. Einnig getur haft áhrif ef eign telst vera hættuleg eða skaðleg. Í máli þessu hefur Reykjavíkurborg vísað til þeirrar almenningsþarfar að stjórnvöld hafi nauðsynlegar heimildir til þess að grípa inn í hundahald í þéttbýli með aflífun ef ógn er talin stafa af hundi. Ályktanir um lík viðhorf virðist mega draga af eldri rétti. Í Jónsbók frá 1281 kemur fram á einum stað að; „ef hundur bítur mann, hafi fyrirgert sér“ (Jónsbókarútgáfa Más Jónssonar, Rvk. 2004, bls. 279). Þetta ákvæði er ekki birt í Lagasafninu og er merking þess tvíræð. Þá má benda á að í Norsku lögum Kristjáns V. frá 1687, sem samkvæmt konungsbréfi frá 1734, skyldi beita sem vararéttarheimild þar sem ákvæði skorti í íslensk lög, voru fyrirmæli þess efnis að hundi sem hefði valdið skaða og hefði til þess áráttu, skyldi fargað af eiganda sínum. Skirrðist hann við því væri hverjum manni frjálst að skjóta hundinn (bók 6-10-2). Fyrirmæli þessi voru aldrei birt hér á landi eða tekin í lagasöfn (sbr. t.d. Lagasafn handa Alþýðu, Rvk. 1890).

Af hálfu kæranda er með almennum orðum vísað til friðhelgi einkalífs og heimilis skv. stjórnarskrá, en úrskurðarnefndin bendir á að í máli Mannréttindanefndar Evrópu nr. 6825/74 frá 18. maí 1976: X gegn Íslandi, komst nefndin að þeirri niðurstöðu að 8. gr. Mannréttindasáttmálans um friðhelgi einkalífs verndi ekki rétt einstaklings til að eiga hund. Þótt ekki léki vafi á því að samband manns og hunds hefði verið náið frá örófi alda gæti það eitt ekki gert hundaeign að þætti í einkalífi manna. Auk þess væri hundahald eins manns til þess fallið að hafa áhrif á aðra einstaklinga og opinbert líf og því ekki einkamál hans eins. Úrskurðarnefndin bendir í því sambandi einnig á að í 2. mgr. 8. gr. Mannréttindasáttmálans er tiltekið að ganga megi á friðhelgi einstaklinga samkvæmt því sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi m.a. vegna almannaheilla og til verndar heilsu manna.

Kærandi bendir á að heimild sveitarfélags til að setja samþykktir um bann eða takmörkun á gæludýrahaldi og húsdýrahaldi byggi á ákvæði í 59. gr. laga nr. 7/1998. Það ákvæði veiti hins vegar enga sjálfstæða heimild fyrir stjórnvaldsákvörðun um förgun, aflífun eða vörslusviptingu dýra og skorti því 8. gr. samþykktar nr. 355/2022 um hundahald í Reykjavík fullnægjandi stoð í settum lögum og gangi gegn stjórnarskrá. Í umsögn Reykjavíkurborgar er af þessu tilefni bent á 1. mgr. 30. gr. reglugerðar nr. 1127/2007 um lögreglusamþykktir þar sem sett er viðmiðunarregla að hundahald sé bannað í þéttbýli. Reglugerðin kemur í stað lögreglusamþykkta þar sem þær séu ekki settar, en í Reykjavík gildir lögreglusamþykkt nr. 1097 frá 19. nóvember 2008 sem tiltekur að um dýrahald fari eftir sérstökum samþykktum s.s. um hundahald í Reykjavík.

Í samþykkt nr. 355/2022 er kveðið á um skilyrði sem sett eru fyrir hundahaldi. Í 2. mgr. 2. gr. samþykktarinnar er tiltekið að heimilt sé að halda hund í Reykjavík að því gefnu að umráðamaður hundsins sé lögráða, hundurinn skráður í hundaskrá borgarinnar og að uppfyllt séu þau skilyrði sem sett eru í samþykktinni sem og í lögum og reglugerðum. Í 4. mgr. 8. gr. samþykktarinnar er tilgreint að hafi Dýraþjónusta Reykjavíkur ástæðu til að ætla að hundur sé hættulegur eða hafi valdið líkamstjóni, s.s. með biti, geti Dýraþjónustan gert kröfu um að umráðamaður hunds láti hundinn undirgangast skapgerðarmat. Leiði skapgerðarmatið í ljós að hundur teljist hættulegur, getur Dýraþjónustan skv. 5. mgr. 8. gr. gert kröfu til þess að hundurinn verði aflífaður.

Í fyrri úrskurðum úrskurðarnefndarinnar hefur verið bent á að 59. gr. laga nr. 7/1998 geymi ekki sjálfstæða heimild til að taka ákvörðun um aflífun dýra en með því er átt við að ekki eru bein fyrirmæli í lögunum sem líkjast mundu 5. mgr. 2. gr. laga um innflutning dýra nr. 54/1990 þar sem kveðið er á um að dýrum sem flutt eru inn til landsins án heimildar skuli tafarlaust lógað og fargað. Á hinn bóginn ber að hafa í huga að hundahald er að jafnaði bannað í þéttbýli, sbr. 30. gr. áðurnefndar reglugerðar um lögreglusamþykktir. Þá er sveitarstjórnum skv. 1. tölul. 1. mgr. 59. gr. laga nr. 7/1998 einnig heimilt að gera í samþykktum ítarlegri kröfur en fram koma í reglugerðum um efni sem falla undir lögin. Tiltekið er að auk annars sé heimilt að setja í slíkar samþykktir ákvæði um bann eða takmörkun gæludýrahalds. Heimildin sem sveitarfélögum er með þessu veitt til setningar íþyngjandi samþykkta á sviði dýrahalds, m.a. til algers banns við gæludýrahaldi, er bæði víðtæk og rúmt orðuð. Verður að telja að þessi heimild til reglusetningar sé fullnægjandi til þess að sett verði fyrirmæli um aflífun hættulegra hunda að undangenginni málsmeðferð samkvæmt stjórnsýslulögum. Almenn sjónarmið um allsherjarreglu, vernd almennings gegn hættu og óþægindum og varnir gegn því að tjón hljótist af þegar dýr ganga laus, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 36/1988 um lögreglusamþykktir, mæla einnig með þessari niðurstöðu. Verður og bent á að samþykkt nr. 355/2022 um hundahald í Reykjavíkurborg hefur hlotið lögmætisstaðfestingu ráðherra umhverfismála skv. 59. gr. laga nr. 7/1998.

Kærandi telur að við meðferð málsins hjá Reykjavíkurborg hafi ýmsar reglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verið brotnar, m.a. rannsóknarregla 10. gr., 12. gr. um meðalhóf og 13. gr. um andmælarétt. Við athugun á gögnum málsins verður ekki talið að heilbrigðisnefndin hafi brotið gegn rannsóknarskyldu sinni áður en ákvörðun var tekin í málinu. Í málinu liggja m.a. fyrir tvær skýrslur frá dýralækni, lögregluskýrsla, fjöldi erinda vitna til Dýraþjónustunnar, skýrslur og skráningar Dýraþjónustunnar á samtölum við kæranda, erindi þar sem kæranda voru sett skilyrði fyrir hundahaldinu, ljósmyndir sem sýna fram á skort á fylgni hans við þau, andmæli hans við kröfu um aflífun og fleiri gögn. Efni þeirra fela í sér ítarlega umfjöllum um mál hundsins og eiganda hans hjá heilbrigðiseftirlitinu, rannsókn á aðstæðum og þeim hagsmunum sem í húfi voru og skoðun sérfróðra fagaðila, með þeim hætti að skilyrðum 10. gr. stjórnsýslulaga telst fullnægt.

Varðandi sjónarmið um meðalhóf ber að hafa í huga að afskipti heilbrigðisyfirvalda ná yfir lengra tímabil en einungis tímann frá því að bitatvikið átti sér stað. Eftir að hundurinn beit þrjá aðra hunda hafði kæranda verið gefinn kostur á að mæta vissum skilyrðum varðandi hundahald sem hann sinnti ekki. Eftir að bitatvikið átti sér stað fór kærandi fram á að fá að láta sjálfur aflífa hundinn, en af því varð ekki. Með tilliti til þessa, hins alvarlega skaða sem hundurinn hafði valdið einstaklingi, sem og hinnar eindregnu niðurstöðu dýralæknis um þá hættu sem af hundinum stafaði, verður ekki talið að ákvörðun um aflífun hundsins hafi brotið gegn sjónarmiðum 12. gr. stjórnsýslulaga um meðalhóf. Loks bera gögn málsins með sér að Dýraþjónusta Reykjavíkur var í miklum samskiptum við eiganda hundsins til að leita úrlausnar í málinu, m.a. símleiðis og skriflega, en kærandi lagði fram skrifleg andmæli sín vegna kröfunnar um aflífun með bréfi 14. janúar 2025, sem svarað var af Reykjavíkurborg 27. s.m. Kæranda voru því veittir nægir möguleikar til að gæta andmæla í samræmi við áskilnað 13. gr. stjórnsýslulaga áður en heilbrigðisnefnd Reykjavíkur tók ákvörðun um aflífun hundsins.

Að öllu framangreindu virtu verða ekki taldir neinir þeir annmarkar á undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar sem varðað geti gildi hennar. Kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar er hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 13. febrúar 2025 um aflífun hundsins Bonzo.

44/2025 Arnarland

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 27. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 44/2025, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 6. mars 2025 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Arnarland og breytingu á aðalskipulagi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 19. mars 2025, kærir eigandi fasteignar að Súlunesi 20 í Garðabæ, þær ákvarðanir skipulagsnefndar frá 24. febrúar 2025 að samþykkja breytingu á Aðalskipulagi Garðabæjar vegna landnotkunar reitsins Arnarnesháls (3.37VÞ) og deiliskipulags fyrir Arnarland. Greindar ákvarðanir skipulagsnefndar voru samþykktar á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 6. s.m. og verður málskot kæranda skilið á þann hátt að kærðar séu ákvarðanir bæjarstjórnar. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi, skipulagsferlið stöðvað og sveitarfélaginu gert að birta öll gögn sem snerti skuggavarp, umferðaraukningu og önnur áhrif skipulagsins á nærliggjandi byggð.

Málsatvik og rök: Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 6. mars 2025 var samþykkt afgreiðsla skipulagsnefndar frá 24. febrúar s.á. um breytingu á Aðalskipulagi Garðabæjar 2016–2030 vegna landnotkunarreitsins Arnarnesháls (3.37 VÞ). Með breytingunni var landnotkun breytt úr því að vera svæði fyrir verslun og þjónustu í miðsvæði. Innan reitsins verði blönduð byggð íbúða, verslun og þjónustu með áherslu á heilsutengda starfsemi. Hámarkshæð bygginga breyttist úr átta hæðum í tvær til sex hæðir en ein bygging, ætluð atvinnustarfsemi, geti orðið allt að sjö hæðir. Á sama fundi samþykkti bæjarstjórn einnig afgreiðslu skipulagsnefndar sem einnig var samþykkt 24. febrúar s.á. deiliskipulag Arnarlands sem varðar sama reit og greind aðalskipulagsbreyting. Gerir deiliskipulagið meðal annars ráð fyrir um 450 íbúðum og um 37.000 m2 af verslunar-, skrifstofu- og þjónusturýmum. Nýtingarhlutfall svæðisins verði um 0,95.

Kærandi vísar til þess að Garðabær hafi ekki svarað athugasemdum íbúa sem gerðar hafi verið á auglýsingartíma aðalskipulagsbreytingar og deiliskipulags. Þar með hafi sveitarfélagið brotið gegn 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Byggingarmagn sé ekki í samræmi við aðalskipulag Garðabæjar 2016–2030 sem og að byggingarmagn sé ekki rétt reiknað sbr. gr. 5.3.2.1. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verða ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Breyting á aðalskipulagi er að sama skapi háð staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra, sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna, en þó einungis staðfestingu Skipulagsstofnunar ef um óverulega breytingu er að ræða, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Hin kærða ákvörðun felur í sér samþykki á tillögu um breytingu á Aðalskipulagi Garðabæjar 2016–2030 en samkvæmt skýrum fyrirmælum skipulagslaga brestur úrskurðarnefndina vald til að taka slíka ákvörðun til endurskoðunar þegar hún hefur öðlast gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda.

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga skal senda Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð ásamt athugasemdum og umsögnum um þær innan sex mánaða frá því að frestur til athugasemda rann út. Að lokinni lögmætisathugun Skipulagsstofnunar skal sveitarstjórn birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda, en slík auglýsing er skilyrði gildistöku deiliskipulags og markar jafnframt upphaf eins mánaðar kærufrests til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Umrædd deiliskipulagsbreyting er enn til meðferðar hjá Skipulagsstofnunar og hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Liggur því ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hvað varðar vísun kæranda til skorts á gögnum um skuggavarp, umferðaraukningu og önnur áhrif bendir úrskurðarnefndin á að þau gögn má finna á skipulagsgátt Skipulagsstofnunar sem og heimasíðu Garðabæjar.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

153/2024 Karlagata

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 153/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 31. október 2024 um að hækkun girðingar við Karlagötu 1 verði fjarlægð en dagsektir lagðar á ef ekki verði brugðist við.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 6. nóvember 2024, kærir eigandi íbúðar að Karlagötu 1 í Reykjavík þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 31. október 2024 að hækkun girðingar við Karlagötu 1 verði fjarlægð en dagsektir lagðar á ef ekki verði brugðist við. Kærandi krefst þess að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá borgaryfirvöldum 20. desember 2024.

Málavextir: Með bréfi frá byggingarfulltrúanum í Reykjavík, dags. 31. október 2024, var kæranda tilkynnt að umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar hafi borist ábending um að búið væri að hækka girðingu á horni Karlagötu og Snorrabrautar við Karlagötu 1. Með því væru sjónlengdir skertar á umræddum gatnamótum sem skapaði aukna hættu fyrir vegfarendur. Ekki hafi verið sótt um leyfi Reykjavíkurborgar, sem eiganda aðliggjandi lands, fyrir umræddri framkvæmd. Krafðist byggingarfulltrúi þess að hækkun girðingarinnar við Karlagötu 1 yrði fjarlægð. Yrði ekki orðið við þeirri kröfu innan 30 daga frá móttöku bréfsins áformaði byggingarfulltrúi að leggja á 25.000 króna dagsektir fyrir hvern þann dag sem drægist að verða við umræddri kröfu. Jafnframt var veittur 14 daga andmælafrestur vegna áformanna um fyrirhugaðar dagsektir. Með tölvupósti, dags. 6. nóvember 2024, var ákvörðunin kærð til úrskurðarnefndarinnar  eins og að framan greinir og bárust byggingarfulltrúa andmæli kæranda sama dag sem voru samhljóða kærunni.

Með umboði, dags. 16. janúar 2025, fólu allir eigendur Karlagötu 1 tilgreindum lögmanni að gæta hagsmuna sinna vegna kröfugerðar Reykjavíkurborgar. Gunnfríður Svala Arnardóttir, Bára Huld Beck Sigfúsdóttir og Hulda Dögg Georgsdóttir eru eigendur eignarhluta að Karlagötu 1 og teljast þau öll samkærendur í máli þessu.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er á það bent að girðingin sem bætt hafi verið ofan á steinvegginn sem umlykur garð húss kærenda hafi verið sett upp fyrir liðlega 15 árum af þáverandi íbúum að Karlagötu 1. Upphaflegur kærandi og eiginkona hans hafi keypt íbúð í húsinu fyrir rúmlega áratug, án vitundar um að uppsetning fyrri eigenda á girðingunni hafi verið gerð án leyfis aðliggjandi landeiganda og að hún skapaði hættu fyrir vegfarendur. Væri lögmæti kröfunnar um niðurrif girðingarinnar, sem staðið hafi í hálfan annan áratug að viðlögðum dagsektum, dregið í efa en um kostnaðarsama framkvæmd væri að ræða. Þá sé það véfengt að umrædd girðing skerði sjónlengdir á viðkomandi gatnamótum svo hætta skapist af fyrir vegfarendur. Aldrei hefði orðið vart við að vegfarendur hefðu óþægindi af girðingunni, en Reykjavíkurborg sem aðliggjandi landeigandi hefði lítið gert til að tryggja öryggi gangandi vegfarenda við Snorrabraut. Kærendur telji að prýði sé af girðingunni, hún virki einnig sem hljóðmön fyrir íbúa hússins og slíkar girðingar hafi verið settar upp víðar við Snorrabrautina. Óskað hafi verið upplýsinga um lög og reglugerðir sem skaðsemi girðingarinnar byggðist á, en hvort sem byggingarfulltrúa tækist að sýna fram á að girðingin skapaði hættu eða ekki stæði að líkindum eftir fullyrðingin um að girðingin hafi verið sett upp án leyfis. Það væri lögfræðilegt álitamál hvort ,,ákæra“ ætti fyrir slíkt eftir hálfan annan áratug, þegar enginn skaði hafi hlotist af girðingunni.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að Karlagata 1 sé í Norðurmýri-norður innan Háteigshverfis. Í gildi séu skipulagsskilmálar Háteigshverfis, útgefnir 31. október 2023 með breytingum frá 14. júní 2024 og 30. ágúst s.á., samþykktir af skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, sbr. heimild í a-lið 2. gr. viðauka 2.3. um embættisafgreiðslur skipulagsfulltrúa í viðauka við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019, með síðari breytingum. Í skipulagsskilmálunum væri fjallað um Norðurmýri-norður í skilmálaeiningu 3.1.24, en á bls. 278 væri fjallað um frágang á lóðarmörkum þar sem segi:

,,Lóðarhafar skulu hafa samráð um frágang á sameiginlegum lóðarmörkum aðliggjandi lóða. Halda skal í einkennandi steypta garðveggi umhverfis lóðir, þá sérstaklega að götu. Gróður á sameiginlegum lóðarmörkum skal ekki vera hærri en 1,8 metrar og há tré í a.m.k. 4 metra fjarlægð frá lóðarmörkum, nema nágrannar ákveði annað í sameiningu. Ef byggður er skjólveggur inni á lóð skal hann ekki vera hærri en 1,8 metrar, miðað við hæð frá jörðu. Hann skal staðsetja þannig að á tímabilinu frá vorjafndægrum til haustjafndægra sé aldrei skuggavarp frá honum á helstu dvalarsvæði á nágrannalóð. Á lóðarmörkum sem snúa að götum, gatnamótum, innkeyrslum og/eða stígum má ekki hefta sjónlínur með girðingum, veggjum eða gróðri. Hámarkshæð girðinga/veggja á slíkum stöðum er 1,2 metrar. Gróður og girðingar/veggi skal velja með það í huga. Við sérstakar aðstæður getur þurft að draga girðingar/veggi og gróður inn á lóð til að tryggja sjónlínur. Lóðarhafi ber ábyrgð á að gróður vaxi ekki fyrir sjónlínur vegfarenda.“

Umrædd hækkun girðingar sé timburgirðing sem bætt hafi verið ofan á steyptan garðvegg. Af mælingum sem framkvæmdar hafi verið af starfsmanni byggingarfulltrúa megi sjá að hæð veggjarins sé frá 165 cm til 179 cm frá jarðvegsyfirborði. Því sé ljóst að umrædd hækkun girðingarinnar sé ekki í samræmi við skipulagsskilmála á svæðinu þar sem þar komi fram að halda skuli í einkennandi steypta garðveggi umhverfis lóðir. Jafnframt komi fram í skipulagsskilmálunum að á lóðarmörkum sem snúi að götum, gatnamótum, innkeyrslum og/eða stígum megi ekki hefta sjónlínur með girðingum, veggjum eða gróðri. Hámarkshæð girðinga/veggja á slíkum stöðum sé 1,2 m samkvæmt skipulagsskilmálunum.

Í gr. 7.2.3. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 sé fjallað um girðingar lóða. Þar segi að hæð girðinga á lóðum skuli vera í samræmi við skipulagsskilmála og að afla skuli byggingarleyfis vegna girðinga og skjólveggja á lóðum nema framkvæmdir séu undanþegnar byggingarleyfi skv. e-lið 1. mgr. 2.3.5. gr. byggingarreglugerðarinnar. Jafnframt komi fram að girðing eða skjólveggir á mörkum lóða séu alltaf háð samþykki beggja lóðarhafa óháð hæð girðingar eða skjólveggjar og skuli samþykkis leitað áður en hafist er handa við smíði girðingar eða skjólveggjar. Í 2.3.5. gr. byggingarreglugerðar sé fjallað um minniháttar mannvirki og framkvæmdir sem séu undanþegnar byggingarleyfi, byggingarheimild og tilkynningarskyldu skv. 2.3.6. gr. enda séu þær í samræmi við deiliskipulag og önnur ákvæði reglugerðar þessarar sem við eiga hverju sinni. Um skjólveggi og girðingar sé fjallað í e-lið en þar segi:

,,Skjólveggir og girðingar sem eru allt að 1,8 m að hæð og eru ekki nær lóðarmörkum en 1,8 m. Ennfremur girðingar eða skjólveggir sem eru nær lóðarmörkum en 1,8 m og eru ekki hærri en sem nemur fjarlægðinni að lóðarmörkum. Einnig allt að 2,0 m langir og 2,5 m háir skjólveggir sem eru áfastir við hús og í a.m.k. 1,8 m fjarlægð frá lóðarmörkum. Lóðarhöfum samliggjandi lóða er heimilt án byggingarleyfis að reisa girðingar eða skjólveggi allt að 1,8 m að hæð á lóðarmörkum, enda leggi þeir fram hjá leyfisveitanda undirritað samkomulag þeirra um framkvæmdina. Miðað skal við jarðvegshæð lóðar sem hærri er ef hæðarmunur er á milli lóða á lóðarmörkum.“

Af framansögðu sé ljóst að ávallt þurfi að afla samþykkis aðliggjandi lóðarhafa vegna girðinga, óháð hæð þeirra. Jafnframt verði girðing að vera í samræmi við skipulagsskilmála deiliskipulags. Í þessu tilfelli sé aðliggjandi lóðarhafi Reykjavíkurborg sem hafi ekki veitt samþykki fyrir umræddri hækkun á girðingunni.

Reykjavíkurborg sem lóðarhafi byggi jafnframt á áliti samgönguverkfræðings á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar. Í álitinu sé litið til þess hvort umrædd hækkun girðingar sé til þess fallin að skerða sjónlínur vegfarenda á gatnamótum á horni Karlagötu og Snorrabrautar. Í álitinu segi m.a: ,,Frá umferðaröryggissjónarmiðum (bæði upplifað og raunöryggi) þá tel ég að umhverfið styðji ekki við að minnka sjónlengdirnar (eins og þessi veggur gerir).“ Flækjuatriði sé hins vegar að það sé líka veggur hinum megin Karlagötunnar sem væntanlega skyggi á aðvífandi umferð eftir Snorrabraut, auk þess sem lagt sé meðfram götunni og alveg upp að gatnamótunum. Að því sögðu, þá ,,geri þessi veggur ástandið klárlega verra en það er í dag.“ Í áliti samgönguverkfræðingsins segi síðan með vísan til afstöðumynda sem fylgja í umsögn byggingarfulltrúa:

,,Myndin sýnir gróft mat á sjónlengdum miðað við að bifreiðin stoppar ca. 5,5 m frá akbraut Snorrabrautar og ca. 3 m frá gönguþveruninni (eðli málsins samkvæmt háð hvar vegfarendur munu mætast og þetta er gróft mat, hægt er að taka þessa útreikninga lengra en overkill fyrir þetta mat).

– Sýn gagnvart öðrum bifreiðum á Snorrabraut eru ca 16 m í dag og fer niður í 12 m. Ef við miðum við 40 vs 60 km/klst (skiltaður hámarkshraði vs. ekkert svo ‚óvæntur‘ raunhraði) þá eru þetta 1,4s -> 1,1s / 1,0->0,7s. Báðar sviðsmyndirnar eru langt frá það sem myndu flokkast sem lágmarkssjónlengdir. Ökumaður getur vissulega mjakað bílnum alveg upp að gatnamótunum (yfir gönguþverunina) og þá eru sjónlengdirnar fyrir þessa sviðsmynd í lagi.

– Sýn gagnvart hjólandi vegfarenda sem kemur frá suðri. Ef við göngum út frá að hjólandi vegfarandinn sé á 10, 20 og 30 km/klst, og bíll sé nánast stopp (þ.e. að mjaka sig áfram sbr. hér að ofan). Gildin fara þá úr 10kph: 3,6->2,3s, 20kph: 1,8->1,2s, 30kph: 1,2->0,8s (út frá hraðavektor hjólandi vegfarenda).

– Árekstur milli tveggja hjólandi vegfarenda sem eru að beygja fyrir hornið. Miðum hér við lágan hraða (þar sem 90° beygja), 5 og 10 km/klst (vegalengd í conflict deilist í tvennt, tveir vegfarendur með hraðavektor á móti hver öðrum). 5kph: 3,6- >1,8s, 10kph: 1,8->0,9s (þess má geta að ef sá sem kemur frá suðri er að fara til norðurs, þá er hraðinn á þeim vegfarenda enn hærri (og reyndar aðeins fleiri flækjuatriði sem ég ætla að sleppa því að fara ofan í hér).

Þetta er klárlega ekki góð breyting og ekki ‚skaðlaus‘, þar sem aðstæður styðja ekki við að geta stytt sjónlengdir.“

Þá sé í kafla 6.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 fjallað um aðkomu og staðsetningu, en í meginreglu 6.2.1. gr. segi meðal annars að bygging á lóðarmörkum að gangstétt, við gatnamót eða að almennum gangstíg megi aldrei hindra útsýni yfir götu eða gangstíg þar sem gera megi ráð fyrir akandi umferð, né valda hættu fyrir gangandi umferð með útitröppum, útskagandi byggingarhlutum, veggsvölum, opnanlegum gluggum eða hurðum. Ákvæðið taki til bygginga, en ætla megi að sömu sjónarmið lúti að girðingum á lóðarmörkum, þ.e. að ekki séu minni kröfur gerðar þegar kemur að öryggi vegfarenda varðandi girðingar á lóðarmörkum.

Af framangreindu verði ráðið að umrædd hækkun verði talin valda öryggis- og almannahættu fyrir vegfarendur og verði slíkt m.a. byggt á efnislegum forsendum er fram komi í áliti samgönguverkfræðings umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar.

Niðurstaða byggingarfulltrúa sé því sú að umrædd hækkun girðingar samræmist hvorki skipulagsskilmálum á svæðinu né byggingarreglugerð. Því hafi ekkert komið fram sem geti valdið ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa um að gera þinglýstum eigendum að Karlagötu 1 að fjarlægja hækkunina.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Bent er á að tilvitnuð lagarök fyrir kröfum Reykjavíkurborgar séu öll til komin eftir hækkun veggjarins sem hafi átt sér stað 2008. Veggurinn undir girðingunni hafi eftir því sem best sé vitað verið samþykktur samtímis húsinu sjálfu án nokkurra hæðartakmarkana og þá strax út í lóðarmörk við borgarland, sbr. teikningu hússins frá 29. júní 1950. Í umsögn Reykjavíkurborgar er sjónarmiðum um mögulega skerðingu sjónlínu vegfarenda gerð skil í áliti samgönguverkfræðings, en álitið virðist bera með sér efasemdir um þörfina á aðgerðum og einnig sé álitið torskilið. Í vettvangsgöngu um Karlagötuna og nærliggjandi svæði hafi sést aðrir veggir í ýmsum tilbrigðum og allt að tveggja metra hæð. Reykjavíkurborg hafi samþykkt hækkun veggjar á horni Karlagötu og Gunnarsbrautar, að hámarki 1,8 metrar að hæð eins og framlögð gögn af hálfu kærenda bera með sér. Víða séu mannvirkin sýnu hættulegri en á horni Karlagötu og Snorrabrautar og með vísan til jafnræðisreglu geti þessi aðför að eigendum Karlagötu 1 ekki staðist. Þá vísi kærendur til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en brot á henni geti leitt til þess að ákvörðun verði ógildanleg.

——

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 19. mars 2025 að viðstöddum fulltrúum embættis byggingarfulltrúa og kærenda.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um kröfu byggingarfulltrúans í Reykjavík um niðurrif á hækkun á steyptum vegg við lóðina Karlagötu 1, á horni Karlagötu og Snorrabrautar í Reykjavík. Umrædd hækkun er timburgirðing sem bætt var ofan á steyptan garðvegg en samkvæmt mælingum starfsmanns byggingarfulltrúa er samanlögð hæð veggjarins og hækkunarinnar á bilinu 165-179 cm. Að sögn kærenda var hækkunin framkvæmd í tíð fyrri eigenda Karlagötu 1 fyrir um 15 til 17 árum síðan.

 

Krafa byggingarfulltrúa byggist annars vegar á því að hækkun veggjarins skerði sjónlengdir á þessum gatnamótum sem valdi öryggis- og almannahættu fyrir vegfarendur eins og nánar er lýst í bréfi byggingarfulltrúa til nefndarinnar, dags. 20. desember 2024. Hins vegar vísar byggingarfulltrúi til þess að ekki hafi verið sótt um leyfi fyrir hækkuninni frá Reykjavíkurborg sem aðliggjandi landeiganda.

Skipulagsskilmálar Háteigshverfis, útgefnir 31. október 2023, ásamt síðari breytingum, gilda um Karlagötu 1 og í skilmálaeiningu 3.1.24 er fjallað um frágang á lóðarmörkum. Þau ákvæði skilmálanna sem fjalla um heftingu sjónlínu og hæð veggja er að finna á bls. 278, en þar segir: ,,Á lóðarmörkum sem snúa að götum, gatnamótum, innkeyrslum og/eða stígum má ekki hefta sjónlínur með girðingum, veggjum eða gróðri. Hámarkshæð girðinga/veggja á slíkum stöðum er 1,2 metrar. Gróður og girðingar/veggi skal velja með það í huga. Við sérstakar aðstæður getur þurft að draga girðingar/veggi og gróður inn á lóð til að tryggja sjónlínur. Lóðarhafi ber ábyrgð á að gróður vaxi ekki fyrir sjónlínur vegfarenda.“

Byggingarfulltrúi vísar einnig til þess að um áhrif bygginga á lóðarmörkum á öryggi vegfarenda sé fjallað um í gr. 6.2.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, en þar segir m.a: „Bygging á lóðarmörkum að gangstétt við gatnamót eða að almennum gangstíg má aldrei hindra útsýni yfir götu eða gangstíg þar sem gera má ráð fyrir akandi umferð né valda hættu fyrir gangandi umferð með útitröppum, útskagandi byggingarhlutum, veggsvölum, opnanlegum gluggum eða hurðum. Um hæð bygginga og afstöðu þeirra á lóð gilda ákvæði deiliskipulags.“ Ákvæðið taki til bygginga en ætla megi að sömu sjónarmið lúti að girðingum á lóðarmörkum og að ekki séu gerðar minni kröfur varðandi öryggi vegfarenda varðandi girðingar á lóðarmörkum. Sambærilegt ákvæði var að finna í 76. gr. byggingareglugerðar nr. 441/1998, sem í gildi var á uppgefnum byggingartíma hækkunarinnar, en þar er skýrlega kveðið á um að þessar kröfur miðast eingöngu við hús á lóðarmörkum. Einnig er tiltekið að slík hús megi ekki hindra nægjanlegt útsýni fyrir akandi umferð, eða valda hættu fyrir gangandi umferð ,,hvorki með útitröppum, útskagandi húshlutum né opnanlegum gluggum eða hurðum.“

Tilvitnað ákvæði skipulagsskilmála um sjónlínuskerðingu og hámarkshæð veggja er, eins og að framan greinir, að finna í skilmálaeiningu 3.1.24 í skipulagsskilmálum Háteigshverfis. Fyrir gildistöku skilmálanna var, samkvæmt upplýsingum frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, ekkert deiliskipulag í gildi fyrir svæðið sem Karlagata stendur á. Því voru engin sambærileg ákvæði um bann við sjónlínuskerðingu í gildi þegar hækkun veggjarins var framkvæmd. Verður því ekki séð að hækkun veggjarins hafi á þeim tíma verið í andstöðu við ákvæði skipulagsskilmála um bann við heftingu sjónlínu. Ákvæði byggingareglugerðarinnar sem í gildi var á þeim tíma fjalla heldur ekki um áhrif garðveggja á lóðarmörkum, heldur einungis húsa.

Í áliti samgönguverkfræðings hjá Reykjavíkurborg er fjallað um sjónlínuskerðingu og hugsanlega aukna hættu fyrir vegfarendur vegna hækkunar veggjarins við Karlagötu 1. Álitinu er ábótavant að því leyti að í því er ekki fjallað um að Karlagata er einstefnugata með akstursstefnu í vesturátt að Snorrabraut. Hin umdeilda vegghækkun er norðanmegin við Karlagötu, hægra megin við akstursstefnu götunnar. Á horni Karlagötu og Snorrabrautar er á hinn bóginn einungis leyfilegt að aka bifreið fyrir hornið til hægri í norðurátt. Bifreiðaumferð á Snorrabraut kemur einungis frá suðri, þ.e. á vinstri hönd umferðar sem fer um Karlagötu. Af þeim sökum veldur hin umdeilda vegghækkun, sem er norðanmegin við Karlagötu og á hægri hönd umferðar um þá götu, engri sjónlínuskerðingu fyrir umferð um Karlagötu vegna aðvífandi bifreiðaumferðar á Snorrabraut úr suðurátt.

Álitið fjallar einnig um hættu fyrir vegfarendur á hjóli, m.a. úr suðurátt eftir Snorrabraut. En þar eiga sömu sjónarmið við, hin umdeilda vegghækkun veldur engri sjónlínuskerðingu vegna umferðar sem kemur úr suðurátt eftir Snorrabraut, en gæti einungis hugsanlega aukið hættu vegfaranda á reiðhjóli sem kæmi úr norðri og færi þannig gegn akstursstefnu á Snorrabraut.

Í áliti samgönguverkfræðingsins er einnig fjallað um hugsanlegan árekstur tveggja hjólandi vegfarenda sem eru að beygja fyrir ,,hornið“, en af afstöðumynd sem fylgdi álitinu verður ráðið að árekstrarhættan miðist við reiðhjól sem mætist á horni Snorrabrautar og Karlagötu 2 en ekki á horni Snorrabrautar og Karlagötu 1.

Í því sambandi verður einnig að líta til tveggja atriða: Í fyrsta lagi er hornið á hinum umdeilda vegg á mótum Karlagötu og Snorrabrautar afsniðið svo sjónlína er rýmri en ella væri á hornréttum garðvegg á lóðarmörkum. Í öðru lagi eru bifreiðastæði norðanmegin við Karlagötu. Af þeim sökum er bifreiðaumferð um Karlagötu þeim mun lengra frá hinum umdeilda vegg sem dregur úr hugsanlegri sjónlínuskerðingu af hans völdum. Álitið fjallar ekki um hugsanlega áhættu fyrir gangandi vegfarendur. Þá liggja ekki fyrir gögn varðandi slysatíðni á gatnamótum Snorrabrautar og aðliggjandi gatna.

Af framangreindum sökum og í ljósi þess að vegghækkunin var framkvæmd fyrir 15 til 17 árum verður að telja að ekki hafi með óyggjandi hætti verið sýnt fram á að hækkun veggjarins við Karlagötu 1 valdi öryggis- og almannahættu fyrir vegfarendur.

Í erindi byggingarfulltrúa til kærenda, dags. 31. október 2024, sbr. einnig gögn frá Reykjavíkurborg til nefndarinnar dags. 20. desember 2024, er upplýst að ekki hafi verið sótt um leyfi Reykjavíkurborgar, sem aðliggjandi landeiganda, fyrir hækkun veggjarins. Í umsögn byggingafulltrúa frá 20. desember 2024 er vísað til þess að skv. e-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé girðing eða skjólveggur á mörkum lóða alltaf háð samþykki beggja lóðarhafa. Í greininni segir m.a: ,,Lóðarhöfum samliggjandi lóða er heimilt án byggingarleyfis að reisa girðingar eða skjólveggi allt að 1,8 m að hæð á lóðarmörkum, enda leggi þeir fram hjá leyfisveitanda undirritað samkomulag þeirra um framkvæmdina.“ Efnislega sambærilegt ákvæði var til staðar í 1. mgr. 67. gr. byggingareglugerðar nr. 441/1998 sem í gildi var þegar veggurinn á að hafa verið reistur, en þar sagði: „Leita skal samþykkis byggingarnefndar á gerð og frágangi girðingar ef hún er hærri en 1,80 m eða nær lóðarmörkum en sem svarar hæð hennar, mælt frá jarðvegshæð við girðinguna eða frá hæð lóðar á lóðamörkum ef hún er meiri. Girðing á mörkum lóða er háð samþykki beggja lóðarhafa.“

Kærendur hafa ekki haldið fram eða sýnt fram á að áskilið leyfi frá Reykjavíkurborg sem aðliggjandi landeiganda hafi verið fengið af fyrri eigendum hússins vegna hækkunarinnar, en benda á að steypti veggurinn út í lóðarmörk við borgarland hafi verið samþykktur með teikningum af húsinu árið 1950. Er því ljóst að umrædd hækkun veggjarins við Karlagötu 1 hafi verið reist án samþykkis aðliggjandi lóðarhafa, í þessu tilfelli Reykjavíkurborgar sem landeiganda. Úrræði vegna slíkra aðstæðna er að finna í 55. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Þar kemur fram að ef byggingarframkvæmd er hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brýtur í bága við skipulag getur byggingarfulltrúi eða eftir atvikum Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, ef mannvirkið fellur undir 3. mgr. 9. gr., krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu er heimilt að vinna slík verk á hans kostnað.

Hin kærða ákvörðun byggir réttilega á 56. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. En eins og að framan greinir telur úrskurðarnefndin að hvorki hafi með óyggjandi hætti verið sýnt fram á að hækkunin á hinum umdeilda vegg á lóðamörkum á Karlagötu 1 valdi öryggis- og almannahættu, né að hækkunin hafi brotið gegn byggingarreglugerð og deiliskipulagi þess tíma þegar hún var framkvæmd. Krafa um niðurrif hækkunarinnar verður því hvorki byggð á þeim málsástæðum né á 56. gr. mannvirkjalaganna.

Ljóst er að hækkun veggjarins var framkvæmd án leyfis Reykjavíkurborgar sem aðliggjandi landeiganda. Krafa um niðurrif af þeim ástæðum ætti með réttu að byggjast á 55. gr. mannvirkjalaga sem áður er lýst. Byggingarfulltrúi tiltekur ekki að hann byggi kröfu sína á þeirri lagagrein og skortir því tilvísun í réttan lagagrundvöll fyrir kröfu Reykjavíkurborgar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður fallist á kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 31. október 2024 um að hækkun girðingar við Karlagötu 1 verði fjarlægð að viðlögðum dagsektum.

4/2025 Heiðargerði

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2025, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Akraneskaupstaðar frá 13. desember 2024 um að samþykkja byggingaráform á lóð nr. 22 við Heiðargerði, sem fela í sér að hús sem fyrir er á lóðinni verði breytt í fjöleignarhús með sex íbúðum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 10. janúar 2025, kærir eigandi, Heiðargerði 19, Akranesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Akraneskaupstaðar frá 13. desember 2024 um að samþykkja byggingaráform á lóð nr. 22 við sömu götu, sem fela í sér að hús sem fyrir er á lóðinni verði breytt í fjöleignarhús með sex íbúðum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá var gerð krafa um að framkvæmdir yrðu stöðvaðir á meðan málið væri til meðferðar. Var þeirri beiðni hafnað með bráðabirgðaúrskurði 27. febrúar 2025.

Málavextir: Á lóð nr. 22 að Heiðargerði á Akranesi er 531 m2 hús sem byggt var árið 1969. Í húsinu var lengi starfrækt prentsmiðjan Prentverk Akraness og síðar Prentmet Vesturlands.

Breyting á deiliskipulagi Akratorgsreits vegna lóðarinnar tók gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 12. febrúar 2024. Fól breytingin í sér að húsi á lóðinni sem áður hýsti atvinnustarfsemi yrði fjölbýli með sex íbúðum. Hinn 13. desember s.á. samþykkti byggingar­fulltrúi Akraneskaupstaðar byggingaráform vegna þessa og gaf samtímis út byggingarleyfi, sbr. 1. mgr. gr. 2.4.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Fela áformin í sér að hús sem fyrir er á lóðinni verði íbúðarhúsnæði, 542 m2 að stærð með sex íbúðum sem hver um sig er með sérinngang og sérafnotaflöt.

 Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að samþykktir aðaluppdrættir séu ekki í fullu samræmi við grenndarkynnta deiliskipulagsbreytingu. Þá standist uppdrættirnir ekki ýmis ákvæði í byggingarreglugerð nr. 112/2012, þ. á m. ákvæði er varði brunavarnir og flóttaleiðir. Þá nái bílastæði út fyrir lóðarmörk, þveri gangbrautalínu aðliggjandi lóða og nái að akbraut. Ekki sé unnt að sjá hvort deiliskipulag heimili stækkun hússins. Þá séu mörk lóðarinnar við lóð nr. 18 að Merkigerði ekki í samræmi við deiliskipulag eða lagfært lóðablað frá 21. júlí 2023.

Á aðaluppdrátt skorti undirritun burðarvirkishönnuðar til staðfestingar á að burðarþol sé fullnægjandi. Byggingarlýsing sé óskýr um nánar tiltekin atriði. Hámarksfjarlægð að sorpgerði fari yfir 25 m. Hvorki sé gert ráð fyrir útikrana né farið fram á áætlanir um loftræsingu í tæknirými. Ákvæði í byggingarreglugerð um algilda hönnun séu ekki uppfyllt, t.d. opnist allar dyr inn á baðherbergi og ekki sé nægt rými í eldhúsum. Ekki séu uppfylltar almennar kröfur um að íbúð í fjölbýlishúsi skuli fylgja geymsla fyrir barnavagna og hjól. Ekki sé upplýst um hvort til staðar sé samkomulag við lóðarhafa Merkigerðis 18, Kirkjubrautar 21 og 23, Akurgerðis 19 og Heiðargerðis 20 vegna girðingar/skjólveggja á mörkum lóðanna. Þakjárn hafi þegar verið fjarlægt af húsinu en ekki liggi fyrir séruppdrættir af nýrri þakklæðningu þar sem þakhalli sé innan við 5° og útloftun fyrir ofan þakeinangrun. „Ákvæði um brunatæknilega hönnun af brunahönnuði fylgi ekki aðaluppdráttum.“ Án séruppdrátta sé erfitt að sjá hvernig þeir léttu veggir sem sýndir séu á aðaluppdráttum geti uppfyllt kröfur um brunahólfun þar sem teiknuð séu innfelld/vegghengd salerni og/eða eldhúsinnréttingar andspænis hvort öðru í og við veggi. Bil að nálægum byggingum fari niður í allt að u.þ.b. 4 m að húsinu á lóð nr. 19 við Kirkjubraut. Á grunnmynd aðaluppdrátta séu hvorki sýndar rýmingarleiðir frá íbúðum né björgunarop. Endaveggur hússins sé á mörkum lóðar nr. 22 við Heiðargerði og lóðar nr. 21 við Kirkjubraut og geti íbúar í íbúðum nr. 104 og 105 ekki forðað sér verði bruni í húsinu. Þá sé erfitt að sjá hvernig hægt verði að rýma sérafnotafleti íbúða nr. 103, 104, 105 og 106 nema kvaðir verði settar um rýmingu yfir afnotafleti aðliggjandi íbúða eða jafnvel aðrar lóðir.

Málsrök Akraneskaupstaðar: Vísað er til þess að ekki sé um nýbyggingu að ræða heldur lagfæringu og breytingu á húsnæði sem fyrir sé. Á deiliskipulagi Akratorgsreits frá árinu 1990 sé gert ráð fyrir göngustíg hinum megin við götuna. Til þess að hafa betra aðgengi fyrir gangandi hafi bílastæði verið færð um u.þ.b. einn metra út á götu til að göngustígur væri aðgengilegri og rýmri fyrir gangandi umferð. Sé það eðlilegt frávik frá skipulagi. Þá sé tæknirými innan heimilaðs byggingarmagns.

Kærandi eigi ekki hagsmuna að gæta af þeim atriðum sem varði eftirlit og yfirferð byggingarfulltrúa og geti þau því ekki leitt til ógildingar hinna umdeildu byggingaráforma. Byggingarfulltrúi hafi kynnt athugasemdir kæranda fyrir aðalhönnuði sem muni bregðast við þeim. Undirritun burðarþolshönnuðar komi fram á séruppdráttum burðarvirkis og hafi verið samþykkt af hönnunarstjóra. Hjólageymsla hafi verið tekin út í hönnunarferlinu en gleymst hafi að taka út texta og verði það lagfært með uppfærðum uppdráttum. Ekki sé möguleiki á að koma fyrir sorpgerði nær inngöngum, en það verði sameiginlegt og við bílastæði. Krana verði komið fyrir í tæknirými og rýmið loftræst, verði það lagfært á uppdráttum. Aðalhönnuður muni skoða og breyta uppdráttum eftir því sem við eigi vegna athugasemdar um að ákvæði um algilda hönnun sé ekki uppfyllt. Geymslur séu í séreign. Í gögnum sem fylgt hafi grenndarkynningu hafi verið gert ráð fyrir girðingum og ekki gerðar athugasemdir við þá til­högun. Byggingarfulltrúa hafi borist séruppdrættir af þakfrágangi ásamt öðrum séruppdráttum.

Það sé á ábyrgð framkvæmdaraðila að tryggja að frágangur sé fullnægjandi. Samræmist útfærsla á uppdráttum ekki í kröfum um brunahólfun verði að laga það og leggja inn nýja aðaluppdrætti. Uppfyllt séu skilyrði í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um aðkomu slökkviliðs. Á grunnmynd aðaluppdráttar séu sýndar útidyrahurðir og björgunarop. Ekki sé um að ræða útgönguleiðir að Kirkjubraut 21 og sé búið að breyta því frá fyrri tillögu.

Aðaluppdrættir vegna þeirra byggingaráforma sem um er deilt í málinu eru stimplaðir með móttökustimpli sem áritað hefur verið í. Af hálfu byggingarfulltrúa hefur því verið lýst að það séu þeir uppdrættir sem hann hafi staðfest. Verða þeir því lagðir til grundvallar í máli þessu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa Akraneskaupstaðar frá 13. desember 2024 að samþykkja byggingaráform vegna breytinga á yfir 50 ára gömlu húsi á lóð nr. 22 við Heiðargerði.

 Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til nefndarinnar sem eiga lög­varða hags­muni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstak­legra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu veru­legir.

Af hálfu kæranda hefur verið vísað til þess að hann eigi hagsmuna að gæta af því að markmiðsákvæði gr. 1.1.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé virt. Þeir hagsmunir teljast til almannahagsmuna ­fremur en lögvarinna einstaklingsbundinna hagsmuna og veita því einir og sér ekki kæruaðild að máli fyrir úrskurðarnefndinni.

Með samþykki hinna umdeildu byggingaráforma var heimilað að breyta húsi sem fyrir er á lóð nr. 22 við Heiðargerði í fjöleignarhús með sex íbúðum en áður var húsið notað undir atvinnu­starfsemi. Í kjölfar breytinga á skipulagi frá 2024 er lóðin á íbúðarsvæði og er á svæðinu í kring einnig íbúðarsvæði samkvæmt gildandi skipulagi og á það einnig við um lóð kæranda. Almennt verður að telja að breyting á notkun til samræmis við landnotkun sem fyrir er á viðkomandi svæði sé ívilnandi aðgerð fremur en hið gagnstæða. Fasteign kæranda er hinum megin götunnar sem um ræðir, skáhallt á móti Heiðargerði 22. Á þeim hliðum húss kæranda sem vísa í átt að götunni eru litlir gluggar og er þar innkeyrsla á lóðina. Verður ekki séð að breyting verði á innsýn milli umræddra húsa. Þá verður ekki ráðið að umdeild notkunarbreyting auki ónæði í garði á baklóð húss kæranda frá því sem verið hefur, svo sem vegna umferðar.­ Um er að ræða hús sem fyrir er á lóðinni og er byggingarreit lóðarinnar ekki breytt. Þá er ytra byrði þess ekki breytt með þeim hætti að grenndaráhrif aukist og hafa hinar heimiluðu breytingar ekki áhrif á skuggavarp eða útsýni gagnvart fasteign kæranda eða önnur grenndaráhrif. Áformaður fjöldi íbúða í húsinu að Heiðargerði 22 verður þar að auki ekki talinn óhefðbundinn með tilliti til fermetrafjölda hússins og ekki er um fækkun bílastæða við götuna eða innan lóðarinnar að ræða.

Með hliðsjón af framangreindu verður kærandi ekki talinn eiga þá lögvörðu hags­muni sem veiti honum kæruaðild í máli þessu og verður það af þeim sökum vísað frá úrskurðar­nefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

45/2025 Svalvogavegur

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 27. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 45/2025, kæra á afgreiðslu Ísafjarðarbæjar frá 18. ágúst 2023 um að synja um aðgerðir til að færa ós Sandár í Dýrafirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 20. mars 2025, kærir eigandi Steypustöðvarinnar í Dýrafirði, þá afgreiðslu Ísafjarðarbæjar frá 18. ágúst 2023 að synja beiðni um aðgerðir til að færa ós Sandár í Dýrafirði. Er þess krafist að ábyrgð til að verja fasteign Steypustöðvarinnar fyrir ágangi Sandár og/eða vegna sjávargangs verði skilgreind og viðkomandi aðila gert að bregðast við. Einnig er þess krafist að felld verði úr gildi ákvörðun Ísafjarðarbæjar.

Málsatvik og rök: Með tölvupósti 18. ágúst 2023 óskaði kærandi eftir viðbrögðum Ísafjarðarbæjar vegna landbrots af völdum ágangs sjávar og áróss Sandár í Dýrafirði. Í erindinu kom fram að ágangur sjávar lokaði árósum Sandár á tveggja ára fresti að meðaltali og beindi með því ánni til austurs í átt að mannvirkjum Steypustöðvarinnar. Áður hafi Þingeyjahreppur látið grafa út árósinn reglulega til að viðhalda landamerkjum og vernda mannvirki og eftir sameiningu sveitarfélaga hafi Ísafjarðarbær viðhaldið því að varna ágangi árinnar og sjávar til að vernda mannvirki. Nú væri áin komin nálægt girðingu umhverfis Steypustöðina og væri farin að stefna mannvirkjum hennar í hættu. Var óskað eftir að sveitarfélagið, í samráði við aðliggjandi landeiganda, myndi bregðast við og láta færa ósinn til fyrri vegar. Kæranda var svarað samdægurs með tölvupósti þar sem fram kom að beiðninni væri hafnað þar sem um væri að ræða lögbundið hlutverk Vegagerðarinnar sbr. lög nr. 28/1997 um sjóvarnir.

Kærandi vísar til þess að Ísafjarðarbær hafi hafnað skyldu sinni til að verja fasteignir á landi bæjarins í Dýrafirði fyrir ágangi Sandár og/eða sjávar á þeirri forsendu að málið heyri undir Vegagerðina eða Land og skóga. Bærinn hafi hins vegar grafið út ós árinnar alla tíð að eigin frumkvæði og síðast árið 2019. Kæranda hafi borist lögfræðiálit frá sveitarfélaginu í desember 2023 þess efnis að því beri ekki skylda til að verja fasteignir einstaklinga fyrir ágangi sjávar eða áa. Vegagerðin og Land og skógar hafi einnig hafnað ábyrgð sinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Í 2. mgr. 28. gr. laganna kemur fram að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðunin var tilkynnt aðila. Hin kærða ákvörðun var send kæranda með tölvupósti 18. ágúst 2023 en kæra barst úrskurðarnefndinni 20. mars 2025, eða rúmu einu og hálfu ári síðar. Þar sem meira en ár er liðið frá hinni kærðu ákvörðun verður máli þessu því óhjákvæmilega vísað frá úrskurðar­nefndinni í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Þá bendir úrskurðarnefndin á að samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 28/1997 um sjóvarnir fer ráðherra með yfirstjórn mála er varða sjóvarnir en Vegagerðin með framkvæmd þeirra. Er erindum um framkvæmdir vegna sjóvarna þannig réttilega beint til Vegagerðarinnar eða eftir atvikum til innviðaráðuneytisins.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

181/2024 Nökkvavogur

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 20. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 181/2024, kæra á ákvörðun byggingafulltrúans í Reykjavík frá 31. október 2024 um að eigandi að Nökkvavogi 24 skuli leggja fram samþykki aðliggjandi lóðarhafa en ella fjarlægja girðingu á lóðamörkum Nökkvavogs 22 og 24.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. desember 2024, kærir eigandi að Nökkvavogi 24, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 31. október 2024 að hann skuli leggja fram samþykki aðliggjandi lóðarhafa innan 14 daga frá dagsetningu bréfsins en ella fjarlægja girðingu sem reist hafi verið á lóðarmörkum Nökkvavogar 22 og 24 innan þrjátíu daga frá dagsetningu bréfsins. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá byggingarfulltrúanum í Reykjavík 3. febrúar 2025.

Málavextir: Í byrjun árs 2024 barst byggingarfulltrúanum í Reykjavík ábending um að búið væri að reisa girðingu á lóðamörkum Nökkvavogs 22 og 24 í Reykjavík án þess að fyrir lægi samþykki eiganda aðliggjandi lóðar. Með bréfi, dags. 30. janúar 2024, var þinglýstum eiganda að Nökkvavogi 24 gert að leggja fram slíkt samþykki eða láta í té skriflegar skýringar vegna málsins innan 14 daga. Umbeðið samþykki eða skýringar bárust ekki og með bréfi, dags. 31. október s.á., gerði byggingarfulltrúi honum að leggja fram samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar innan 14 daga en ella að fjarlægja viðkomandi girðingu innan 30 daga. Í sama bréfi var tilkynnt að byggingarfulltrúi hygðist ekki beita þvingunarúrræðum vegna girðingarinnar, þar sem ekki stafaði almannahætta af henni.

Málsrök kæranda: Vísað er til þess að ónæði hafi verið af óviðkomandi umferð yfir lóð kæranda að Nökkvavogi 24 og því hafi girðing verið reist á lóðarmörkum Nökkvavogs 22 og 24, meðfram runnum sem þar voru. Þessi fyrirætlun hafi verið rædd í vitna viðurvist við eigendur Nökkvavogs 22 á óformlegum fundi úti í garði í október 2022 og þau hafi samþykkt hana. Þegar girðingin var reist hafi þau hins vegar ekki kannast við að hafa gefið samþykki sitt. Eigendur Nökkvavogs 22 hafi síðan farið í framkvæmdir á lóðamörkum sín megin sumarið 2024 og fellt þá runnana sem voru við girðingu kæranda. Kærandi hafi ekki heyrt frá þeim aftur fyrr en þau sendu ábendingu til byggingarfulltrúa og mál þetta hófst. Kærandi álítur að munnlegt samþykki fyrir girðingunni hafi legið fyrir og að byggingarfulltrúi hafi í umsögn vísað í 3. mgr. gr. 7.2.3. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 sem geri ekki kröfu um að samþykki aðliggjandi lóðarhafa sé skriflegt.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Bent er á að kærandi hafi fengið rúman tíma til að leggja fram samþykki aðliggjandi lóðarhafa. Þar sem aðliggjandi lóðarhafi hafi gert ábendingu um framkvæmdina sé ljóst að ekki sé samkomulag um girðinguna eins og krafist sé í 3. mgr. gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Hún hafi verið sett upp í óleyfi og kæranda beri að fjarlægja hana. Ekkert hafi komið fram sem geti valdið ógildingu ákvörðunarinnar og þess sé krafist að kröfum kæranda verði hafnað.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en þau hafa verið höfð til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Hin kærða ákvörðun í máli þessu er frá 31. október 2024, en hún var birt kæranda 25. nóvember s.á. og miðar nefndin við þann dag sem upphafsdag kærufrests sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kæran barst nefndinni 24. desember s.á. eða innan kærufrests. Kæruheimild er í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Í báðum erindum byggingarfulltrúa þar sem kæranda er gert að leggja fram samþykki aðliggjandi lóðarhafa vegna uppsetningar girðingar á lóðamörkum er vísað í e-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, þar sem segir m.a: „Lóðarhöfum samliggjandi lóða er heimilt án byggingarleyfis að reisa girðingar eða skjólveggi allt að 1,8 m að hæð á lóðarmörkum, enda leggi þeir fram hjá leyfisveitanda undirritað samkomulag þeirra um framkvæmdina.“ Í máli þessu áttu sér stað nokkur samskipti milli kæranda og lóðarhafa Nökkvavogs 22, en ótvírætt er að ekki liggur fyrir undirritað samkomulag þeirra um framkvæmdina og hefur staðhæfingum kæranda um munnlegt samþykki verið mótmælt.

Í 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 er kveðið á um að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki verði fjarlægt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu er heimilt að vinna slíkt verk á hans kostnað. Fyrir liggur að uppsetning umræddrar girðingar á lóðamörkum Nökkvavogs 22 og 24 er háð skriflegu samþykki rétthafa að þeim lóðum samkvæmt áðurnefndum e-lið gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar. Slíkt samþykki liggur ekki fyrir. Var byggingarfulltrúa því rétt að taka hina kærðu ákvörðun um að skjólveggurinn skyldi fjarlægður. Með vísan til þessa verður ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

 Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kæranda um að ógilda ákvörðun byggingafulltrúans í Reykjavík frá 31. október 2024 um að kærandi skuli leggja fram samþykki aðliggjandi lóðarhafa en ella fjarlægja girðingu á lóðamörkum Nökkvavogs 22 og 24.