Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

112/2025 Nónhæð

Með

Árið 2025, föstudaginn 25. júlí, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 112/2025, kæra á ákvörðun bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 17. júlí 2025 um að heimila endurupptöku stjórnsýslumáls sem áður hafði lokið með ákvörðun bæjarstjórnar hinn 12. mars 2024.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 20. júlí 2025, kærir íbúi í Foldasmára, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 17. s.m., að heimila endurupptöku stjórnsýslumáls sem áður hafði lokið með ákvörðun bæjarstjórnar hinn 12. mars 2024. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og réttaráhrifum hennar frestað. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu um frestun réttaráhrifa ákvörðunarinnar.

Málsatvik og rök: Bæjarstjórn Kópavogsbæjar hafnaði hinn 12. mars 2024 tillögu lóðarhafa Nónsmára 1–17 að breytingu á deiliskipulagi Nónhæðar. Var sú ákvörðun ekki kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Á fundi bæjarstjórnar 24. júní 2025 var skráð í fundargerð að samþykkt hefði verið tillaga að sumarleyfi bæjarstjórnar og að bæjarráði væri falið umboð bæjarstjórnar á sumar­leyfistíma. Hinn 17. júlí s.á. samþykkti bæjarráð heimild fyrir endurupptöku greinds stjórnsýslumáls.

Af hálfu kæranda eru m.a. gerðar athugasemdir við málsmeðferð og lagatúlkun bæjaryfirvalda vegna samþykkis á endurupptöku málsins. Telur hann sig eiga grenndarhagsmuna að gæta af því að ekki verði af þeirri breytingu á deiliskipulagi sem bæjarstjórn hafnaði 12. mars 2024.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 17. júlí 2025 að heimila endurupptöku stjórnsýslumáls umsækjanda um breytingu á deiliskipulagi sem synjað hafði verið með ákvörðun bæjarstjórnar um einu og hálfu ári áður.

Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvalds­ákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Í 2. mgr. ákvæðisins er hins vegar tekið fram að ákvörðun sem ekki bindi enda á mál verði ekki kærð fyrr en málið hafi verið til lykta leitt.

Umrædd ákvörðun felur í sér að mál verði tekið til meðferðar á nýjan leik en felur ekki í sér ákvörðun um lyktir máls, svo sem um breytt skipulag. Bindur hún því ekki enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Þegar af þeirri ástæðu verður kærumáli þessu vísað  frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

103/2025 Gufuneskirkjugarður

Með

Árið 2025, föstudaginn 25. júlí, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 103/2025, kæra á ákvörðun skipulagsyfirvalda frá 30. maí 2000 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Gufuneskirkjugarðs.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 7. júlí 2025, kærir íbúi að Jöfursbás, Reykjavík, ákvörðun skipulagsyfirvalda í Reykjavík frá 30. maí 2000, en ætla verður að hér sé um að ræða ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi Gufuneskirkjugarðs. Er gerð sú krafa að deiliskipulaginu verði breytt hvað varðar heimild fyrir bálstofu í kirkjugarðinum.

Málsatvik og rök: Gufuneskirkjugarður var vígður árið 1980. Hann er staðsettur í Grafarvogshverfi og er um 30 ha að stærð. Fyrsta deiliskipulag svæðisins mun hafa verið samþykkt árið 1978 og frá þeim tíma hafa verið samþykktar ýmsar breytingar á því.

Kærandi bendir á að nýlega hafi dómsmálaráðherra og fulltrúi Kirkjugarða Reykjavíkur undirritað viljayfirlýsingu um að reist yrði bálstofa í kirkjugarðinum. Ef af verði muni umferð á svæðinu aukast mikið sem skapi hættu fyrir íbúa hverfisins og aukna mengun. Deiliskipulag fyrir Gufuneskirkjugarð sé úrelt og því þurfi að breyta, en þétt íbúabyggð sé nú við kirkjugarðinn, sundlaug, skóli og útisvæði.

Niðurstaða: Kæra á ákvörðun skipulagsyfirvalda frá 30. maí 2000 barst að liðnum lögbundnum eins mánaðar kærufresti skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var kynnt aðila, sbr. 2. mgr. ákvæðisins.

Kröfugerð kæranda í málinu hljóðar á um að deiliskipulagi fyrir Gufuneskirkjugarð verði breytt. Sveitarstjórnir bera ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags innan marka sveitarfélags skv. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en í því felst einnig heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, sbr. 43. gr. laganna.

Hlutverk úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði, sbr. 1. gr. laga nr. 130/2011. Úrskurðarnefndin tekur því lögmæti kærðrar stjórnvaldsákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í máli eða leggur fyrir stjórnvöld að framkvæma tilteknar athafnir, svo sem að hefja gerð skipulagsáætlana eða breyta þeim.

Með vísan til framangreinds getur úrskurðarnefndin hvorki tekið kærumál þetta til meðferðar þar sem kærufrestur er liðinn né tekið afstöðu til kröfugerðar kæranda í málinu. Verður kærumálinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Rétt þykir að benda á að unnt er að senda erindi til viðkomandi skipulagsyfirvalda með beiðni eða kröfu um breytingu á deiliskipulagi og getur stjórnvaldsákvörðun í slíku máli eftir atvikum verið kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

126/2024 Hvammsvirkjun. Virkjunarleyfi

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 24. júlí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

 

Mál nr. 126/2024, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 12. september 2024 um að veita Landsvirkjun virkjunarleyfi fyrir 95 MW Hvammsvirkjun.

 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með fimm bréfum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála kæra átta félagar í Veiðifélagi Kálfár þá ákvörðun Orkustofnunar, nú Umhverfis- og orkustofnunar, frá 12. september 2024 að veita Landsvirkjun virkjunarleyfi vegna Hvammsvirkjunar í Þjórsá. Jafnframt kærir A frá Fossnesi, sem og tveir ábúenda á Stöðulfelli, Skeiða- og Gnúpverjahreppi, sem hlunnindahafar í Þjórsá og félagar í Veiðifélagi Þjórsá greinda ákvörðun. Bárust fyrrnefndar kærur úrskurðarnefndinni 23. október 2024 og krefjast allir kærendur ógildingar á hinni kærðu ákvörðun. Verða framangreind kærumál, sem eru nr. 126, 128, 135, 137, 139, 141, og 143/2024, sameinuð máli nr. 126/2024 enda þykja hagsmunir kærenda ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Orkustofnun 23. nóvember 2024. Málið var þó ekki tekið til úrskurðar þar sem því var frestað með bréfi, dags. 11. febrúar 2025, meðan beðið væri endanlegrar úrlausnar dómstóla um gildi hins kærða leyfis.

Málavextir: Landsvirkjun hefur um árabil unnið að undirbúningi Hvammsvirkjunar, vatnsaflsvirkjunar sem fyrirhuguð er á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Hafa leyfisveitingar því tengdu komið til kasta úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem og mat Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Ekki þykir ástæða til að rekja það frekar í máli þessu að öðru leyti en því að með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 15. júní 2023 í sameinuðum málum nr. 3, 4, 5, 6, 7, 8, 9, 10, 11 og 12/2023 var ákvörðun Orkustofnunar frá 6. desember 2022 um að veita Landsvirkjun virkjunarleyfi fyrir 95 MW Hvammsvirkjun felld úr gildi.

Hinn 12. september 2024 gaf Orkustofnun út nýtt virkjunarleyfi vegna Hvammsvirkjunar. Í því kemur m.a. fram að það feli í sér heimild til að nýta vatnsafl til raforkuframleiðslu með þeim skilyrðum sem tilgreind séu í leyfinu, raforkulögum nr. 65/2003 og reglugerð nr. 1040/2005 um framkvæmd raforkulaga. Tekur leyfið til miðlunar, veitingar og nýtingar vatns í Þjórsá í samræmi við ákvæði vatnalaga. Í skilyrðum með leyfinu kemur fram að það einskorðist við allt að 95 MW virkjun, með þeim staðarmörkum mannvirkja sem lýst sé í samþykktu deiliskipulagi fyrir virkjunina. Taki leyfið til stíflunar Þjórsár skammt ofan við Viðey (Minnanúpshólma) og gerðar allt að 4 km2 inntakslóns, Hagalóns. Afmarkist lónið af jarðvegsstíflugarði að sunnanverðu og Þjórsárdalsvegi frá Minna-Núpi að Yrjaskeri ofan við bæinn Haga að norðanverðu.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. janúar 2025 í máli E-2457/2024 var ógilt ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 9. apríl 2024 um að heimila Landsvirkjun að breyta vatnshlotinu Þjórsá 1. Var með dómnum einnig ógilt fyrrnefnd ákvörðun Orkustofnunar frá 12. september 2024 um að veita sama aðila virkjunarleyfi skv. 4. gr. raforkulaga til að reisa og reka raforkuverið Hvammsvirkjun. Með dómi Hæstaréttar, uppkveðnum 9. júlí 2025, í máli nr. 11/2025 var niðurstaða héraðsdóms staðfest. Í framhaldi þessa aflétti úrskurðarnefndin frestun umræddra kærumála.

Málsrök kærenda: Kærendur færa fram margvísleg rök fyrir kröfu um ógildingu, m.a. að ekki liggi fyrir mat á áhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar á vatnsgæði í skilningi laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Leyfisveitandi hafi byggt á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 9. apríl 2024, um að veita heimild til breytingar á vatnshlotinu Þjórsá 1, án sjálfstæðrar skoðunar á réttmæti hennar. Hafi ákvörðun Umhverfisstofnunar byggst á rangri lagatúlkun og annmarkar verið á málsmeðferð hennar. Hafi Orkustofnun brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og almennum reglum stjórnsýsluréttar um rannsóknarskyldu stjórnvalda.

Málsrök Orkustofnunar: Af hálfu stofnunarinnar er bent á að Orkustofnun hafi ekkert endurskoðunarvald á heimildum sem Umhverfisstofnun veiti samkvæmt ákvæðum laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála né beri henni að framkvæma slíkt mat skv. 3. mgr. 28. gr. sömu laga. Á sama hátt sé Orkustofnun óheimilt að víkja frá umhverfismarkmiðum vatnaáætlunar áliti stofnunin að forsendur umhverfismarkmiða vatnshlota væru ófullnægjandi.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi færir fram margvísleg rök og bendir m.a. á að af fylgibréfi Orkustofnunar með hinu kærða virkjunarleyfi megi glögglega ráða að stofnunin hafi framkvæmt ítarlegt mat á því hvort leyfisveitingin væri í samræmi við 3. mgr. 28. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála.

—–

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki þykir ástæða til að rekja hér frekar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti virkjunarleyfis Orkustofnunar frá 12. september 2024. Líkt og að framan greinir hefur hin kærða ákvörðun verið felld úr gildi með dómi Hæstaréttar í máli nr. 11/2025 frá 9. júlí 2025. Þar sem ákvörðunin hefur með því ekki lengur réttarverkan hefur það enga þýðingu, hvorki með tilliti til einstaklingsbundinna hagsmuna né almannahagsmuna, að fá frekar skorið úr um lögmæti hennar. Né heldur er tilefni til nánari umfjöllunar um kæruaðild einstakra kærenda. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

42/2025 Brekkugerði

Með

Árið 2025, þriðjudaginn 15. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 42/2025, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. febrúar 2025 um að synja umsókn kæranda um leyfi fyrir niðurgrafinni viðbyggingu að Brekkugerði 19, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. mars 2025, er barst nefndinni sama dag, kærir Grandview ehf, Brekkugerði 19, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. febrúar 2025 að synja umsókn um leyfi fyrir niðurgrafinni viðbyggingu að Brekkugerði 19, Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 15. apríl 2025.

Málavextir: Brekkugerði 19 er 307,6 m2 einbýlishús, byggt árið 1963 og er skráð sem tvær hæðir og kjallari. Hinn 22. janúar 2025 lagði kærandi inn umsókn til byggingar­fulltrúa sem fól í sér ,,umsókn fyrir byggingu niður grafinnar viðbyggingar í kjallarahæð á lóð umhverfis núverandi húss.“ Málið var tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 28. s.m. og vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa sem vísaði málinu til umsagnar verkefnastjóra á afgreiðslufundi sínum 30. s.m. Var málið lagt fram að nýju á fundi skipulagsfulltrúa 13. febrúar 2025 þar sem neikvætt var tekið í erindið. Umsókninni var því næst synjað á fundi byggingar­fulltrúa 18. s.m. með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa þar sem vísað var til þess að yrði umsóknin samþykkt myndi nýtingarhlutfall lóðarinnar hækka úr 0,67 í 1,01, en nýtingarhlutfall á nágrannalóðum sé frá 0,31 til 0,59. Að auki stæði yfir vinna við gerð hverfisskipulags í Leitum og Gerðum þar sem m.a. yrði kveðið á um hámarksbyggingarmagn á lóð og mögulegar viðbætur við eldri hús þar sem aðstæður leyfi. Endanlegar tillögur fyrir Brekkugerði lægju ekki enn fyrir, þ.e. hvort og hversu mikið byggingarmagn yrði heimilað, en vísað til þess að slá mætti því föstu að ef veittar yrðu auknar heimildir við Brekkugerði yrði fyrst og fremst að horfa til þess að þær lóðir sem væru með lægra nýtingarhlutfall fengju hóflegar byggingarheimildir. Í ljósi nýtingar­hlutfalls Brekkugerðis 19 væru ekki fyrirætlanir um að heimila aukið byggingarmagn á lóðinni. Að lokum vísaði skipulagsfulltrúi til þess að fyrirhugað væri að leggja til hverfisvernd í rauðum flokki á húsið við Brekkugerði 19 í komandi hverfisskipulagi. Umsækjanda var tilkynnt um ákvörðunina með tölvupósti 19. febrúar 2025.

Málsrök kæranda: Vísað er til þess að arkitekt hússins hafi verið fyrsta konan til að teikna hús á Íslandi og hafi framúrstefnulegur arkitektúr hennar, strax í upphafi, vakið mikla athygli. Húsið standi á 476 m2 lóð en samkvæmt upplýsingum sem kærandi hafi fengið frá erfingjum nefnds arkitekts hússins hafi lóðirnar Brekkugerði 17 og 19 upphaflega verið ein lóð, en þeim síðar skipt upp í tvær lóðir. Lóðin sé sú minnsta í Brekkugerði og sé til að mynda 99 m2 minni en næstminnsta lóðin við götuna. Hvorki deiliskipulag né hverfisskipulag séu í gildi fyrir lóðina eða aðrar lóðir við Brekkugerði.

Árið 2021 hafi kærandi fest kaup á eigninni. Á þeim tíma hefði fasteigninni verið afar illa við haldið og hafi kærandi ráðist í miklar viðhaldsframkvæmdir að innan sem utan. Fram­kvæmdirnar hafi tekist það vel að árið 2023 hafi borgarstjóri Reykjavíkur veitt kæranda viðurkenningu fyrir vandaðar endurbætur á húsinu, þar sem m.a. komi fram að endurbætur á ytra byrði hússins hafi verið gerðar með sterkan upprunalegan karakter hússins að leiðarljósi. Allar endurbætur og framkvæmdir hafi auk þessa verið gerðar í nánu samráði við sviðsstjóra umhverfis- og skipulags hjá Minjastofnun Íslands, sem einnig sé handhafi höfundarréttar nefnds arkitektar hússins.

Haustið 2024 hafi kærandi ráðist í jarðvegsskipti á lóðinni og haft m.a. í hyggju að leggja drenlagnir og að skipta um fráveitulagnir. Hafi þá komið í ljós að stoðveggur sem skilji að lóðina að Brekkugerði 19 og göngustíg sveitarfélagsins hafi verið í slæmu ásigkomulagi og farinn að halla í átt að göngustígnum. Til að takmarka hættu vegna þessa hafi kærandi fjarlægt stoðvegginn og byggt að nýju á eigin kostnað. Við þær framkvæmdir hafi jafnan komið í ljós að dýpt lóðarinnar væri afar ákjósanleg fyrir frekari hagnýtingu án nokkurra neikvæðra áhrifa fyrir nágranna og umhverfið. Í ljósi þess væri óþarfi að fylla lóðina aftur með jarðvegi.

Í samráði við rétthafa höfundarréttar arkitekts hússins hafi kærandi látið hanna niðurgrafna vinnustofu í kjallarahæð að stærð 164,3 m2. Rýmið byggist á stoðveggjum á lóðarmörkum sem þegar séu til staðar og berist sólarljós þar inn í gegnum þakglugga. Tvær aðkomur yrðu að rýminu en ekki væri innangengt í það frá einbýlishúsinu. Við hönnun hafi verið haft samráð við Minjastofnun og liggi fyrir afstaða stofnunarinnar um að viðbyggingin hafi lítil sem engin áhrif á ásýnd hússins frá götu, hún samsvari yfirborði lóðarinnar og sé hönnun og efnisval innblásið af arkitektúr hússins.

Hinn 21. janúar 2025 hafi kærandi lagt inn umsókn til byggingarfulltrúa um leyfi til að byggja fyrrgreinda viðbyggingu samkvæmt hönnunargögnum og öðrum fylgigögnum. Með um­sókninni hafi m.a. fylgt fyrrnefnt bréf Minjastofnunar. Auk þess hafi fylgt yfirlýsingar frá íbúum í Brekkugerði og Heiðargerði um að ekki væri lagst gegn framkvæmdunum.

Í tilefni af umsögn skipulagsfulltrúa frá 13. febrúar 2025 hafi kærandi óskað eftir fundi með viðkomandi. Þeirri beiðni hafi verið synjað 27. febrúar 2025 með þeim skýringum að ekki væri talin ástæða til þess að skoða málið frekar með kæranda. Hafi skipulagsfulltrúi þó m.a. vísað til þess að hinn niðurgrafni kjallari sem sótt væri um leyfi fyrir hefði lítil sem engin áhrif á ásýnd götunnar. Þá hafi því sjónarmiði verið bætt við af hálfu skipulagsfulltrúa að kjallarinn myndi mögulega skerða gegndræpi lóðarinnar og getað haft áhrif á nærliggjandi lóðir og borgarland, þ.m.t. minnkað möguleika á fjölbreyttum gróðri. Engar frekari skýringar eða rannsóknir hafi fylgt þeirri afstöðu skipulagsfulltrúa. Í tilefni þessa hafi kærandi aflað minnis­blaðs frá nefndri verkfræðistofu um möguleg áhrif byggingarinnar á gegndræpi lóðar og fjöl­breytni gróðurs þar sem niðurstaðan hafi verið að með deililausnum mætti draga úr áhrifum á gegndræpi og jafnvel auka fjölbreytileika gróðurs.

Með vísan til framangreinds sé ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík haldin verulegum annmörkum, sem leiða eigi til ógildingar hennar, einkum þar sem ákvörðunin byggi alfarið á umsögn skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar. Í umsögn skipulagsfulltrúa sé ekki tekið tillit til þeirra sérstöku aðstæðna sem uppi eru í málinu og sé matið því ófullnægjandi á áhrifum á byggðarmynstur og þéttleika byggðar. Matið brjóti í bága við réttmætisreglu stjórnsýsluréttar og lögmætisreglu, þar sem vísað sé í óljós áform um takmarkanir í hverfisskipulagi og hverfis­vernd sem ekki hafi tekið gildi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Ástæða þyki til þess að rekja stuttlega þær breytingar og framkvæmdir sem þegar hafi farið fram og standi til að framkvæma á mannvirkinu, enda sé hluti þeirra breytinga og framkvæmda tengd byggingarleyfisumsókn þeirri sem hér sé kærð.

Hinn 27. apríl 2021 hafi umsækjandi og hönnuður lagt inn byggingarleyfisumsókn þar sem sótt hafi verið um leyfi til að breyta gluggum og hurðum, ásamt því að breyta handriðum á einbýlis­húsi á lóð nr. 19 við Brekkugerði. Samkvæmt athugasemdarblaði byggingarfulltrúa, dags. 3. maí 2021, hafi vantað að uppfæra grunnmyndir og aðrar upplýsingar í umsókninni og ekki unnt að taka hana til afgreiðslu. Málinu hafi því ekki verið lokið og sé enn skráð í vinnslu hjá embætti byggingarfulltrúa, en engar breytingar hafi verið gerðar á erindinu eða umsókninni síðan árið 2021.

Hinn 23. maí 2024 hafi embætti byggingarfulltrúa borist ábending um meintar óleyfis­framkvæmdir við Brekkugerði 19. Eftirlitsdeild umhverfis- og skipulagssviðs hafi tekið fram­kvæmdirnar til skoðunar, sem reynst hafi verið án útgefins byggingarleyfis. Athugasemdir hafi verið gerðar við að framkvæmdir væru m.a. hafnar við mannvirki ofan á þaki hússins. Greindar framkvæmdir hafi því verið stöðvaðar með bréfi þess efnis, dags. 11. júní s.á., og eiganda mannvirkis gert að sækja um byggingarleyfi innan 14 daga frá dagsetningu bréfsins.

Í kjölfarið hafi borist andmæli frá kæranda hinn 30. júní 2024 þar sem stöðvun framkvæmda hafi verið andmælt og m.a. skírskotað til þess að um væri að ræða minniháttar mannvirkjagerð sem væri undanþegin byggingarleyfi. Einnig teldist framkvæmdin til óverulegra breytinga er varði útlit eða form mannvirkis, sbr. 2.3.4. gr. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Hafi kæranda verið svarað 12. júlí 2024, þar sem ekki hafi verið fallist á að mannvirkið félli undir grein 2.3.5 í byggingarreglugerð með þeim skýringum að skilyrði um að mesta hæð smáhýsis megi ekki vera meira en 2,5 m mælt frá yfirborð jarðvegs bendi til að smáhýsi sem falli undir þessa grein verði að standa á lóð en ekki þaki húss. Enn fremur hafi það verið mat byggingarfulltrúa að breyting á útliti og formi hússins væri ekki óveruleg. Þá hafi verið ítrekuð krafa byggingar­fulltrúa í fyrra bréfi og eiganda veittur frestur til 1. ágúst s.á, til að skila inn umsókn og sækja byggingarleyfi, ella yrði tekin ákvörðun um framhald málsins á grundvelli 4. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Hinn 25. október 2024 hafi kærandi lagt inn byggingarleyfisumsókn sem tekið hafi yfir þegar gerðar breytingar á innra skipulagi og formi fasteignar, ásamt því að fá að stækka kjallara og innrétta þar vinnustofu og geymslu. Teikning vegna breytinganna sé dagsett 28. október 2024 og hafi einnig náð yfir þaksvalir og aðrar breytingar. Umtalsverðar athugasemdir hafi verið gerðar af hálfu áformadeildar byggingarfulltrúa 4. nóvember s.á. Hafi ein athugasemdin verið um að skilja þurfi umsókn um breytingar á mannvirkjum sem framkvæmdar hafi verið án byggingarleyfis frá umsókn um nýjar breytingar. Eins segi að ekki sé til deiliskipulag fyrir svæðið sem lóðin sé á og þurfi því að vísa erindi til umsagnar og/eða grenndarkynningar þegar uppfærð gögn liggi fyrir.

Í athugasemdarblaði byggingarfulltrúa frá 25. nóvember 2024 hafi hann tekið fram að fram­kvæmdirnar væru nú aðskildar, þ.e.a.s. að búið væri að uppfæra umsóknina þannig að hún næði til þegar gerðra framkvæmda og breytinga á þeim og tekin afstaða til þess, en að ný umsókn myndi berast vegna fyrirhugaðra breytinga vegna viðbyggingar í kjallara.

Fyrri umsókn, dags. 25. október 2024, hafi því verið látin ná yfir áður gerðar framkvæmdir og breytingar. Umsóknin hafi verið tekin fyrir ásamt nýjum fylgigögnum á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. nóvember 2024. Greinargerð hönnuðar, dags. 15. nóvember s.á., hafi fylgt með umsókn þar sem fram komi að enn sé verið að vinna í húsinu og einstaka hlutir í teikningu séu ekki að fullu frágengnir. Megi þar helst nefna veggi á lóðarmörkum sem hafi verið farnir að gefa sig og því þarfnast endurbóta, en samhliða því séu áform um að byggja viðbyggingu, en lóðin sé enn í vinnslu. Þá hafi sömuleiðis verið endursteyptur veggurinn á þaksvölum sem hafi verið ónýtur vegna rakaskemmda. Enn eigi eftir að bæta við stútum sem voru á húsinu, en áform séu um að það verði gert.

Í nýrri uppfærðri byggingarlýsingu ofangreindrar byggingarleyfisumsóknar vegna þegar gerðra framkvæmda komi fram að: „Sótt er um leyfi fyrir áður gerðum breytingum á innra skipulagi, nokkrar breytingar hafa verið gerðar á útliti glugga og hurða auk þess sem þaksvölum hefur verið breytt í þakgarð og þar komið fyrir útigeymslu, hluti af þakkanti verið sagaður niður og gler sett í staðinn, gler sett í stað bílskúrshurðar og notkun bílskúrs breytt í stofu í einbýlishúsi á lóð nr. 19 við Brekkugerði.”

Málinu hafi verið vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa, sem hafi ekki gert skipulagslegar athugasemdir við erindið á afgreiðslufundi 3. desember 2024. Málið hafi aftur verið tekið fyrir hjá byggingarfulltrúa á afgreiðslufundi 9. s.m. þar sem því hafi verið frestað og vísað að nýju til skipulagsfulltrúa. Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 9. janúar 2025 hafi málinu verið vísað í grenndarkynningu. Af umsögnum í áformablaði hafi verið gerð sú athugasemd að eftir nánari skoðun hafi verið tekin sú ákvörðun að grenndarkynna þyrfti breytingu. Verkefnastjóri áformadeildar hafi lagt til að þetta erindi fari í bið uns byggingarleyfisumsókn sem fjalli um áformaðar framkvæmdir hafi fengið afgreiðslu hjá skipulagsfulltrúa. Ef til þess kæmi yrðu þannig báðar tillögur grenndarkynntar samtímis.

Erindið hafi verið grenndarkynnt frá 11. febrúar 2025 til og með 11. mars s.á. þar sem athuga­semd og ábending hafi borist. Að lokinni grenndarkynningu hafi málið verið tekið fyrir hjá byggingarfulltrúa og síðan vísað til afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs, sbr. fundargerð og umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 20. mars 2025. Málið hafi verið tekið fyrir hjá Umhverfis- og skipulagsráði 2. apríl, 2025. þar sem lagt hafi verið til að tillagan yrði samþykkt og henni vísað til skipulags- og byggingarfulltrúa til fullnaðarafgreiðslu.

Síðan þinglýstur eigandi eignaðist eignina árið 2021, hafi verið ráðist í umtalsverðar lag­færingar og breytingar á eigninni eins og að framan sé rakið. Einhverjar breytinganna hafi sætt gagnrýni nágranna og verið tilefni erinda til byggingarfulltrúans í Reykjavík og þar þótt tilefni til afskipta. Skrifstofu byggingarfulltrúa hafi einnig borist gagnabeiðnir vegna breytinganna, þar sem óskað hafi verið eftir gögnum á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012.

Áformadeild byggingarfulltrúa hafi einnig gert athugasemdir við byggingarleyfisumsóknir, bæði þegar umsóknin hafi verið sameinuð í eina og þegar málin hafi verið greind í tvö mál, þ.e. þá umsókn sem sé til umfjöllunar í þessu máli og umsókn fyrir þegar gerðum breytingum. Hafi byggingarfulltrúi t.d. gert athugasemd við skráningartöflu og umsækjanda verið gert að leiðrétta hana í umsóknargátt HMS.

Grenndarkynning fyrir hagsmunaaðilum að Brekkugerði 15, 17, 32, 34 og Heiðargerði 68, 100 og 102, þ.e. þeim hluta fyrri umsóknar sem náði yfir þegar gerðar breytingar, hafi staðið yfir frá 11. febrúar 2025 til og með 11. mars s.á. Athugasemd hafi borist frá íbúa í Heiðargerði 70 frá eigendum Heiðargerðis 68, 100, og 102. Hinn 6. mars 2024 hafi athugasemdir, að undan­tekinni þeirri fyrst nefndu, verið dregnar til baka þar sem þær hafi aðallega beinst að við­byggingunni í kjallaranum og hafi því ekki fallið undir þessa aðskildu byggingarleyfisumsókn. Húsaskoðun hafi farið fram að beiðni byggingarfulltrúa 13. janúar 2025 og í skýrslu hans komi fram að á lóðamörkum sé verið að reisa veggi sem séu á öðru byggingarnúmeri.

Eins og fyrr segi hafi niðurgrafna viðbyggingin verið tekin út úr fyrri byggingarleyfisumsókn og stofnað nýtt mál í janúar 2025. Hinn 22. s.m. hafi kærandi lagt inn aðra byggingarleyfis­umsókn sem til meðferðar sé í kærumáli þessu. Samtals sé um að ræða 164,3 m2 stækkun með viðbyggingunni. Kjallari í heild yrði samtals 193,2 m2 og mannvirkið í heild sinni eftir báðar byggingarleyfisumsóknirnar 518,4 m2 að flatarmáli og nýtingarhlutfall lóðar yrði 1,09.

Umsögn skipulagsfulltrúa frá 13. febrúar 2025 beri skýrt með sé að fyrirhugaðar framkvæmdir á 164 m2 viðbyggingu neðanjarðar við Brekkugerði 19 standist ekki skipulagsskilmála og skipulagsáætlanir skipulagsyfirvalda. Það liggi fyrir að umsótt byggingarmagn lóðarinnar við Brekkugerði sé langt umfram það sem hafi nokkurn tímann verið heimilað á þessu svæði og langt umfram nýtingarhlutfall einbýlishúsalóða í Reykjavík. Engin önnur sambærileg einbýlishúsa­lóð í Reykjavík sé með nýtingarhlutfall yfir 1 nema þá helst í miðbæ Reykjavíkur.

Norðan megin við Brekkugerði sé smágerðari byggð, blanda af parhúsum, tvíbýlum og sér­býlum. Samkvæmt deiliskipulagi samþykktu 4. nóvember 2003 sé meðalnýtingarhlutfall á lóðum þar 0,34 – 0,40. Við Brekkugerði séu þó stærri lóðir og stærri hús. Megi sjá að nýtingar­hlutfall á nágrannalóðum við Brekkugerði sé almennt lægra, eða allt frá 0,31 og upp í 0,59. Meðal­nýtingarhlutfall á þessum lóðum sé 0,43. Brekkugerði 19 sé nú með nýtingarhlutfall 0,67. Þótt lóðin hafi einhvern tímann áður verið hluti af Brekkugerði 17, þá breyti það ekki nýtingarhlutfalli innan hverrar lóðar í samræmi við gildandi lög og skipulagsáætlanir.

Nýtingarhlutfall á smærri reitum og einstökum lóðum sé alfarið ákveðið í hverfis og/eða deiliskipulagi eins og skýrt komi fram í 2. kafla Aðalskipulags Reykjavíkur 2040. Þó megi sjá af ákvæðum aðalskipulagsins nánari markmið og leiðarljós um hámarksþéttleika sem unnt sé að miða við. Í 3. kafla skipulagins sé svo gerður almennur fyrirvari um það að ákvæði og viðmið aðalskipulags um þéttleika, hæðir húsa og byggingarmagn gefi einvörðungu til kynna mögulegar hámarksheimildir um uppbyggingu. Endanleg ákvörðun sé ávallt tekin við gerð deiliskipulags og/eða hverfisskipulags. Ákvarðanir um byggingarmagn á einstökum svæðum séu einnig teknar á grundvelli grenndarkynnts byggingarleyfis, þar sem ekki liggi fyrir samþykkt deiliskipulag eða hverfisskipulag og þá á grundvelli almennra markmiða aðalskipulags.

Í töflu 3.2. í aðalskipulagi séu sett fram almenn viðmið um hámarksþéttleika íbúðarbyggðar og fjölda íbúða á hvern hektara, og blandaðrar byggðar eftir staðsetningu í borginni. Brekkugerði og hverfið þar í kring falli undir V. lið töflunnar sem skilgreint sé sem „önnur svæði utan ofangreindra áhrifasvæða“. Í töflunni komi skýrt fram um þau svæði að ,,Yfirbragð og þéttleiki byggðar taki mið af nærliggjandi byggð.“

Í kafla 3.6. sé svo fjallað um að stefna og viðmið aðalskipulags um þéttleika byggðar og byggingarmagn gefi einvörðungu til kynna mögulega hámarksnýtingu svæða. Endanleg ákvörðun um magn bygginga, fjölda íbúða, hæðir húsa og þéttleika á einstökum svæðum er ávallt tekin við gerð deiliskipulags með tilliti til meginmarkmiða aðalskipulags um sjálfbæra þróun og gæði byggðar, að undangengnu kynningar- og samráðsferli og mati á umhverfis­áhrifum og með sérstöku tilliti til þeirra viðmiða og ákvæða sem sett er fram í köflum 3.6.1–3.6.4. Kafli 3.6.3. fjalli um yfirbragð blandaðrar byggðar og komi þar fram að hönnun íbúðar­húsnæðis á einstökum reitum þurfi ávallt að skoða í samhengi við heildarskipulag viðkomandi hverfis. Tryggt verði að byggðin og umhverfið milli húsanna beri með sér grænt og manneskju­legt yfirbragð. Gætt verði sérstaklega að blágrænum yfirborðslausnum, að gegndræpi yfirborðs, að lágmarkshlutfall lóðar sé gróður og dvalarsvæði og að við uppbyggingu verði ekki gengið á gróskumikil gróðursvæði sem séu til staðar.

Ekki liggi fyrir deiliskipulag fyrir lóðina og svæðið við Brekkugerði 19 og því þurfi að miða við þau markmið og leiðarljós sem tiltekin séu í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 og skipulags­áætlunum. Það liggi ekki fyrir að umsótt framkvæmd sé í samræmi við aðalskipulag. Reykjavíkurborg telji að 1. mgr. 44. gr. Skipulagslaga komi ekki til álita við hina kærðu byggingarleyfisumsókn og synjun umsóknar, þar sem ákvæðið sé undantekningarákvæði og fjalli um grenndarkynningu. Ákvæðið heimili sveitarstjórn að veita byggingarleyfi án deili­skipulagsgerðar að nánari skilyrðum ákvæðisins uppfylltum, að undangenginni grenndar­kynningu, nema gera þurfi breytingar á deiliskipulagi sem sveitarstjórn telji óverulegar. Eftir sem áður sé leitað umsagnar og afstöðu skipulagsfulltrúa á grundvelli laga nr. 160/2010 um mannvirki og þá hvort byggingarleyfisumsóknin sé í samræmi við skipulagsáætlanir á við­komandi svæði, sbr. 9. og 11. gr. laga um mannvirki. Eins og skipulagsfulltrúi upplýsi í umsögn sinni 13. febrúar 2025, liggi fyrir vinna við gerð hverfisskipulags fyrir 10 gróin hverfi í Reykjavíkurborg. Vinna við innleiðingu og samþykki þriggja hverfa sé lokið, en vinna við hverfin „Háaleiti og Bústaðahverfi“ og „Laugardal“ standi yfir.

Til að tryggja samræmda framkvæmd og innleiðingu, yfirbragð og ásýnd borgarinnar, hafi jafnframt leiðbeiningarreglur hverfisskipulags verið innleiddar. Þessar sérstöku leiðbeiningar hverfisskipulags varði breytingar, viðbyggingar og þróun einbýlishúsa í eldri byggð. Þar komi skýrt fram að allar byggingar á lóð eigi að vera innan byggingarreits eins og lýst sé í skilmálalið um byggingarreiti og gjöld. Fjallað sé um kjallara í sérstökum skilmálalið. Kjallarar geti verið heimilir þar sem aðstæður leyfa, t.d. í landhalla. Íbúðir í kjallara séu yfirleitt ekki heimilar. Ef grafa eigi frá kjallara skuli framkvæmd taka mið af leiðbeiningum um útfærslu lóða. Sú viðbygging sem fyrirhuguð sé í hinni kærðu byggingarleyfisumsókn sé utan skilgreinds byggingarreits fyrir Brekkugerði 19, sbr. útgefið mæliblað fyrir Brekkugerði 19.

Þar að auki liggi fyrir leiðbeiningar fyrir blágrænar ofanvatnslausnir, þar sem veittar séu leiðbeiningar við ofanvatnslausnir, og t.d. við kjallara. Leiðbeiningar hafi einnig verið gefnar út er varði útfærslu lóða sem fjalli sérstaklega um tengingar kjallara við lóð. Þar segi t.d. að niðurgrafnar verandir megi ekki fara nær lóðamörkum en nemi þremur metrum og þurfi að vera innan byggingarreits. Einungis sé heimilt að grafa frá einni úthlið kjallara og ekki megi grafa dýpra en sem nemi hálfri salarhæð kjallarans. Af leiðbeiningunum megi gagnálykta að önnur mannvirki megi heldur ekki fara nær lóðarmörkum en sem nemi þremur metrum og sé það í samræmi við byggingarreglugerð.

Gerðar hafi verið skipulagslegar athugasemdir við hina kærðu byggingarleyfisumsókn og byggingarfulltrúa því skylt að synja þeirri umsókn á grundvelli 9., 10. og 11.gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Hafi ítarlegur rökstuðningur fylgt í umsögn skipulagsfulltrúa, þar sem vísað sé í réttmætar og lögbundnar ástæður fyrir neikvæðri afstöðu hans. Sú framkvæmd sem sótt sé um væri ekki í samræmi við skipulagsskilmála og skipulagsáætlanir svæðisins.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Áréttuð eru fyrri sjónarmið. Að mati kæranda sé greinar­gerð Reykjavíkurborgar efnislega rýr og kalli ekki á sérstök viðbrögð af hálfu kæranda. Hryggjarstykki málsins lúti að því að þegar ákvörðun byggingarfulltrúa hafi verið tekin hafi legið fyrir meðal allra hlutaðeigandi að viðbyggingin hefði engin áhrif á ásýnd götunnar. Liggi fyrir skrifleg yfirlýsing Reykjavíkurborgar frá 27. febrúar 2025 hvað þetta varði. Sjónarmið sem búi að baki hámarks nýtingarhlutfalli eigi með engum hætti við í máli þessu. Miklu máli skipti þó að fyrir liggi yfirlýsing nágranna sem leggist ekki gegn framkvæmdum kæranda. Mannvirkið sé í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 og skilgreinda landnotkun. Hið niðurgrafna mannvirki hafi óumdeilanlega engin áhrif á ásýnd götunnar og fjölgi ekki íbúum á svæðinu. Þá hafi kærandi hnekkt þeim röngu staðhæfingum borgarinnar sem lúti að gegndræpi jarðvegs.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. febrúar 2025 um að synja umsókn um leyfi fyrir niðurgrafinni viðbyggingu að Brekkugerði 19, Reykjavík.

Í umsögn skipulagsfulltrúa sem vísað var til í hinni kærðu synjun kemur fram að ekki sé unnt að fallast á aukið byggingarmagn þar sem nýtingarhlutfall lóðarinnar að Brekkugerði 19 sé þegar mun hærra en á sambærilegum lóðum í sömu götu. Ekki sé í gildi deiliskipulag fyrir Brekkugerði, en vísað var til þess að vinna stæði yfir við gerð hverfisskipulags fyrir svæðið.

Við afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi ber að gæta þess að byggingaráform séu í samræmi við gildandi aðalskipulag, sbr. 6. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og er stefna gildandi aðalskipulags bindandi, sbr. 5. mgr. 32. gr. skipulagslaga.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 er lóðin Brekkugerði 19 á skilgreindu íbúðar­svæði. Ekki er fjallað um nýtingarhlutfall lóða í greinargerð skipulagsins, en á bls. 75 kemur fram að í aðalskipulagi sé fyrst og fremst mörkuð stefna um svæðanýtingu og þéttleika byggðar á stærri reitum og landnotkunarsvæðum, en nýtingarhlutfall á smærri reitum og einstökum lóðum sé alfarið ákveðið í hverfis- og/eða deiliskipulagi. Þéttleiki íbúðarbyggðar og blandaðrar byggðrar sé almennt gefinn til kynna með svæðisnýtingarhlutfalli eða fjölda íbúða á ha. Verður ekki séð að byggingarleyfisumsókn kæranda hafi farið í bága við ákvæði aðalskipulags hvað nýtingarhlutfall lóðar varðar eða ákvæði fyrirhugaðs hverfisskipulags sem nú er í vinnslu en hefur ekki tekið gildi lögum samkvæmt. Þá myndi umrædd stækkun hafa óveruleg ef nokkur grenndaráhrif eða á yfirbragð byggðar þar sem hún yrði öll neðan yfirborðs lóðar.

Í fyrrgreindri umsögn skipulagsfulltrúa segir enn fremur að „ef fallist yrði á viðbyggingu vegna kjallara á lóðinni yrði heildarbyggingarmagn lóðarinnar 481,3 m2. Stærð lóðarinnar er 476 m2 og núverandi nýtingarhlutfall því 0,67. Með fyrirhugaðri viðbyggingu yrði nýtingarhlutfallið 1,01. Ef skoðað er núverandi nýtingarhlutfall á öðrum lóðum við Brekkugerði (nr. 5-17 og 20-34) má sjá að nýtingarhlutfall á nágrannalóðum er almennt talsvert lægra, eða allt frá 0,31 og upp í 0,59. Meðalnýtingarhlutfall á þessum lóðum er 0,43.“ Samkvæmt þessu er lóðin Brekku­gerði 19 nú þegar með hæsta nýtingarhlutfall lóða við götuna og myndi það með samþykki umbeðinnar stækkunar hækka verulega, eða um 50%. Slík breyting gæti verið fordæmisgefandi og verður að mati úrskurðarnefndarinnar að eiga stoð í deili- eða hverfisskipulagi fyrir umrætt svæði. Bjuggu því málefnaleg sjónarmið að baki synjunar á umsókn kæranda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki fallist á kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. febrúar 2025 um að synja umsókn um leyfi fyrir niðurgrafinni viðbyggingu að Brekkugerði 19, Reykjavík.

40/2025 Brekadalur

Með

Árið 2025, þriðjudaginn 15. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 40/2025, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 6. mars 2025 um að synja umsókn um breytingu á samþykktum byggingaráform á lóðinni að Brekadal 11.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. mars 2025, er barst nefndinni 17. s.m., kærir lóðarhafi Brekadals 11, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 6. mars 2025 að synja umsókn um breytingu á samþykktum byggingar­áformum á lóðinni að Brekadal 11. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir embættið að samþykkja umsóknina.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 22. apríl 2025.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar 17. nóvember 2020 var tekin fyrir og samþykkt umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir 449,3 m2 einbýlishúsi á lóð nr. 11 við Brekadal með nýtingarhlutfallið 0,3. Uppdrættirnir voru áritaðir 1. desember 2020 og leyfi gefið út 19. október 2021. Í nóvember 2024 sótti kærandi um breytingu á byggingaráformunum er fólust m.a. í því að gert yrði opið skýli undir verönd. Á fundi byggingarfulltrúa 9. janúar 2025 var erindinu vísað til skipulagsfulltrúa. Með tölvupósti til byggingarfulltrúa 15. s.m. veitti skipulagsfulltrúi umsögn um breytingarnar þar sem fram kom það mat hans að áformin væru ekki í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags fyrsta áfanga Dalshverfis frá árinu 2005. Byggingarfulltrúi tók erindi kæranda fyrir að nýju á afgreiðslufundi sínum 6. mars 2025 og hafnaði því á þeim grundvelli að breytingin væri ekki í samræmi við skipulagsskilmála og mannvirkið færi rúmlega 8 m út fyrir byggingarreit. Kærandi óskaði í kjölfarið eftir frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Í svari byggingar­fulltrúa frá 11. s.m. kom fram að kjallara­veggir sem nýta ætti sem stoðveggi undir verönd væru hluti af fyrirhuguðu mannvirki og að samkvæmt deiliskipulagi ætti að laga mannvirki að landi en ekki land að mannvirki. Þá var og vísað til þess að ekki lægi fyrir samþykki eigenda aðliggjandi lóða.

Málsrök kæranda: Bent er á að veröndin á breyttum aðaluppdráttum nái jafnlangt út fyrir byggingarreit og sýnt hafi verið á þeim uppdráttum sem samþykktir hafi verið árið 2020. Deiliskipulag svæðisins mæli fyrir um að byggingar skuli standa innan byggingar­reits en ekki sé talað um að verandir, pallar eða stigar skuli gera það. Fylgt hafi verið þeim fyrirmælum skipulagsins að öll aðlögun eða tenging húsa að landi, t.d. stöllun íbúðarhúss, veranda, palla og stiga, skyldi leyst sem hluti byggingar og hönnuð í samræmi við yfirbragð þeirra. Vísað sé til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 28. september 2023 í máli nr. 73/2023, en í því máli hafi nefndin talið að útitröppur þyrftu ekki að vera innan byggingarreits þar sem hvorki ákvæði byggingar­reglu­gerðar, skilmálar deiliskipulags né deiliskipulags­uppdráttur stæðu því í vegi. Hið sama eigi við í þessu máli.

Mannvirkið að Brekadal 11 sé allt innan byggingarreits sem sé 12 m breiður og 24 m langur. Lóðin sé nokkuð brött og veggir því nauðsynlegir til að halda við jarðveg. Rými undir verönd sé skilgreint í skráningartöflu sem fylgirými verandar. Í reglum og leiðbeiningum Fasteigna­mats ríkisins og byggingarfulltrúa segi um fylgirými (F) að þau séu rými sem hægt sé að hafa not af en falli ekki undir aðra höfuðflokka. Þau liggi utan afmörkunar íbúðar-, atvinnu-, athafna- og geymslurýma. Fylgirými hafi aðkomuleið, séu án hitastýringar og hafi gólf. Samkvæmt gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé gerð palla undanþegin byggingar­heimild og -leyfi. Veröndin sé því ekki háð byggingarleyfi.

Málsrök Reykjanesbæjar: Sveitarfélagið vísar til þess að í eldra deiliskipulagi svæðisins hafi byggingarreitir verið frekar þröngir. Sú venja hafi skapast að samþykkja byggingaráform allt að 2 m út fyrir byggingarreit. Í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 41/2024 hafi deiliskipulaginu verið breytt á þá leið að byggingarreitir allra lóða með oddatölu í Brekadal hafi verið stækkaðir um 2 m. Sú breyting sem hér um ræði samræmist ekki þeirri breytingu.

Sjá megi af aðaluppdráttum þeim sem fylgt hefðu umsókn um breytingu á byggingaráformum að verönd hafi verið færð á efri hluta lóðar sem liggi að götunni Brekadal. Með því skapist rými undir veröndinni sem skilgreinist sem B-rými og reiknist þar með í nýtingarhlutfall lóðar­innar, en í samþykktum byggingaráformum sé rýmið skilgreint sem lóðarfrágangur og teljist ekki með í útreikningi á nýtingarhlutfallinu. Með umdeildri breytingu færi mannvirkið 8 m út fyrir byggingarreit samkvæmt grunnmynd kjallara og yfir heimilað nýtingarhlutfall.

Samkvæmt uppfærðum gögnum sé breyting á skjólveggjum þess eðlis að þeir séu nú steyptir eða stoðveggir fyrir skábraut og bílskýli í kjallara. Ekki verði annað ráðið en að koma eigi fyrir bílakjallara eða opnu skýli á kjallarahæð hússins. Þá liggi ekki fyrir samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Það sé rangt sem haldið sé fram um tilfærslu verandar við efri hæð hússins. Hið rétta sé að frá upphafi hafi verið gert ráð fyrir verönd út frá efri hæð þess vestan megin og að henni væri haldið uppi af stoðveggjum norðan-, vestan- og sunnanmegin við veröndina. Þetta megi sjá af áður samþykktum aðaluppdráttum. Eina breytingin sem sótt hafi verið um nú snúi að því að búa til skábraut meðfram húsinu vestanmegin til að unnt sé að aka niður meðfram húsinu að dyrum undir veröndinni sem séu inngangur í geymslu á neðri hæð undir stórum hluta hússins sunnan ­megin. Ekki sé ætlunin að geyma þar bíla heldur skapa aðgang að geymslurými á neðri hæð.

Kærandi mótmæli því að holrúm undir veröndinni sé flokkað sem B-rými í skráningartöflu byggingarinnar, en sveitarfélagið vísi hvorki til laga né reglna um þá flokkun. Virðist sem byggt sé á skilgreiningum á rýmum í reglum og leiðbeiningum Fasteignamats ríkisins og byggingarfulltrúa sem ekki hafi verið settar af þar til bærum yfirvöldum á grundvelli skýrrar lagaheimildar sem birt hafi verið almenningi. Verði því ekki byggt á þeim við úrlausn mála sem þessara og enn síður við töku íþyngjandi stjórnvaldsákvörðunar líkt og þeirri sem kæra snúi að. Þótt viðurkennt væri að líta mætti til reglnanna þá sé hvergi í þeim að finna skil­greiningu á svæðum undir svölum eða hlutum bygginga sem skagi út frá húsum. Hafa verði í huga að undir veröndinni sé ekkert gólf heldur liggi lóðin þar að húsum, en væntanlega verði svæðið hellulagt síðar, hvort sem fallist verði á umsókn kæranda eða ekki. Svæðið sé opið og um það leiki vindar og regn. Hafi það engin áhrif að til staðar séu burðarveggir sem séu L-laga sem nauðsynlegir séu til að halda uppi veröndinni, sbr. yfirlýsingu byggingarverkfræðings þar um. Ekki sé verið að óska eftir breytingu á svæðinu sjálfu heldur aðeins aðkomunni að því. Því sé það óásættanlegt að halda því fram núna að svæðið hafi breyst í B-rými sem verði að vera innan byggingarreitsins, einungis af því verið sé að óska eftir leyfi til að leggja skrábraut að því. Sveitarfélagið sé bundið af fyrri leyfisveitingu og skilgreiningum á þeim svæðum sem til staðar séu á samþykktum teikningum.

Umrætt svæði undir verönd sé utan botnflatar byggingarinnar og geti því ekki fallið undir skilgreiningu á svæðum í flokkum A, B eða C í skilningi fyrrnefndra viðmiðunarreglna. Ef beita eigi reglunum og líta eigi á svæðið sem hluta rýmis í byggingunni þá væri nærtækara að flokka rýmið sem fylgirými sem falli utan allra skráninga í skráningartöflu. Um það sé vísað til skilgreiningu hugtaksins í gr. 4.2. í reglunum þar sem segi að fylgirými séu rými sem hægt sé að hafa not af en falli ekki undir aðra höfuðflokka.

Byggingarfulltrúi hafi brotið gegn jafnræðisreglu þar sem mörg hús á svæðinu séu með svipuð svæði, mismikið yfirbyggð, sem leyfi hafi fengist fyrir án athugasemda, t.d. á lóð nr. 9 við Brekadal. Þau svæði séu utan byggingarreits og ekki tekin með við útreikning á nýtingarhlutfalli. Af­greiðsla umsóknar kæranda hafi því falið í sér brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Meðfram skábraut verði byggðir stoðveggir, lágir syðst og hækki til norðurs, til að mæta stoðveggjum verandar og fylgja línu neðri hæðar. Sé því ekki um skjólveggi að ræða heldur stoðveggi, en þeir veggir verði um 3,5 m frá aðliggjandi lóð og því hvorki þörf á byggingarleyfi fyrir þeim né samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar, sbr. c-, d- og e-liði gr. 2.3.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í umsögn Reykjanesbæjar komi fram ný sjónarmið sveitarfélagsins í máli þessu. Beri úrskurðarnefndinni að líta fram hjá þeim, enda sé sveitarfélagið bundið af þeim rökstuðningi sem hin kærða ákvörðun hafi byggst á í upphafi.

Frá upphafi hafi svæðið undir veröndinni verið skilgreint sem „opið skýli“ enda um að ræða skýli sem óhjákvæmilega myndist við byggingu verandar með nauðsynlegum stoðveggjum, sem hafi áður verið samþykkt. Í umsókn kæranda um breytingu á byggingaráformum hafi í skráningartöflu ekki verið gert ráð fyrir svæðinu undir veröndinni og hafi verið gerð við það athugasemd af hálfu starfsmanns Reykjanesbæjar. Hafi verið brugðist við þeirri athugasemd og skráningartöflu breytt til samræmis við athugasemdina, en kærandi hafi ekki talið það breyta eðli svæðisins sem væri áfram opið skýli sem myndaðist undir verönd og væri hvorki hluti hússins né reiknaðist það inn í byggingarmagn og nýtingarhlutfall lóðar. Eftir að Reykjanesbær hafi farið að byggja á því að svæðið teldist hluti byggingar sem væri utan byggingarreits og félli innan byggingarmagns og nýtingarhlutfalls lóðar, hafi kærandi mótmælt því.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 6. mars 2025 að synja umsókn um breytingu á samþykktum byggingaráformum fasteignarinnar að Breka­dal 11.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er það skilyrði fyrir samþykkt byggingar­áforma að fyrirhuguð mannvirkjagerð sé í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði.

Á svæðinu er í gildi deiliskipulag Dalshverfis 1. áfanga frá árinu 2005. Sérskilmálar um svo­kölluð „I einbýlishús“ eru í gildi samkvæmt deiliskipulaginu fyrir oddatölur Brekadals, þ.e. lóðanúmerin 1–13, en samkvæmt skipulaginu má þar reisa hús á 1–2 hæðum. Þar segir um hönnun húsa og lóða að „byggingar skulu aðlagaðar að landhalla til norðurs (að strandlengju) þar sem það á við. Öll aðlögun / tenging húsa að landi (t.d. stöllun íbúðarhúss, verandir, pallar, stigar) skal leyst sem hluti bygginga og hönnuð í samræmi við yfirbragð þeirra.“ Í umfjöllun um byggingarreiti er kveðið á um að byggingar skuli standa innan þeirra, en þó megi einstaka minniháttar byggingarhlutar, svo sem þakskegg, skyggni og gluggafrágangur skaga út fyrir. Þá segir að hámarksstærð „hverrar íbúðar“ að meðtalinni innbyggðri bílgeymslu sé 220 m2 fyrir hús á einni hæð, en 300 m2 fyrir hús með viðbótarhæð. Í kafla skipulagsins með heitinu „Tölulegar upplýsingar“ kemur fram að stærðir bygginga séu tilteknar sem hámarksstærðir og að heimilt sé að byggja minni hús og að hámarksstærðirnar séu heildarstærðir. Þá er tekið fram að stærð einstakra lóða innan skipulagsins komi fram á mæliblöðum. Um nýtingarhlutfall lóða vegna „I einbýlishúsa“ er tekið fram að það sé 0,15 vegna húsa á einni hæð og 0,2 vegna húsa með viðbótarhæð. Á lóðarblaði Brekadals 11 frá 2006 er tilgreint að lóðin sé 1.468 m2 að flatar­máli og nýtingarhlutfall hennar sé 0,2. Það nýtingarhlutfall er innan heimilda deiliskipulagsins, en það felur í sér að reisa megi allt að 294 m2 hús á lóðinni. Til upplýsingar skal þó nefnt að á lóðarblaðinu má einnig finna aðrar stærðir, en í skýringardálki, neðan við uppdrátt lóðarinnar, þar sem táknum er lýst, er sýnt að flatarmál lóðar sé „F = 750 m2“ og nýtingarhlutfall lóðar sé „N = 0,3“. Deiliskipulaginu var breytt með auglýsingu nr. 874/2020 sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda 7. september 2020 að því er varðar lóðina sem hér um ræðir og fólst breytingin í því að byggingarreitur var breikkaður um tvo metra.

Á þeim uppdráttum sem kærandi lagði fyrir byggingarfulltrúa vegna umsóknar sinnar um breytingu á byggingaráformunum fólust nokkrar breytingar á skipulagi mannvirkisins. Þannig má sjá að þótt verönd sé sem fyrr sýnd utan byggingarreits er í umsókn um breytinguna gert ráð fyrir steyptri aðkomu að rými undir veröndinni, sem áður hafði ekki verið gert ráð fyrir. Á uppdrætti er það rými skilgreint sem opið skýli, 90,6 m2 að flatarmáli, en í skráningartöflu sé það skráð sem 97,5 m2 og er lokun þess skráð í flokk B í skráningartöflu sem kærandi kveðst hafa uppfært að beiðni bæjaryfirvalda. Þá kemur fram í skráningartöflunni að flatarmál hússins eftir breytingar verði 461,7 m2 og nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,31. Hvað þær stærðir varðar skal á það bent að hið opna skýli virðist ekki tekið með í flatarmál hússins þrátt fyrir að vera skráð sem B-rými sem eigi að reikna sem hluta af nýtingarhlutfalli lóðarinnar. Byggði hin kærða ákvörðun m.a. á því að nýtingarhlutfall á lóðinni færi yfir leyfileg mörk samkvæmt gildandi deiliskipulagi og er ljóst að svo er.

Kærandi hefur haldið því fram að umdeild ákvörðun byggingarfulltrúa feli í sér brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem sambærileg byggingaráform hafi verið samþykkt á svæðinu. Við mat á því hvort jafnræðis hafi verið gætt við töku hinnar umdeildu ákvörðunar verður að líta til þess að vísun til jafnræðissjónarmiða getur ekki skapað réttmætar væntingar þess efnis að farið verði gegn lögum, óháð því hvort slíkt hafi viðgengist áður. Með umsókn sinni óskaði kærandi eftir samþykki byggingaráforma sem færu yfir heimilað nýtingarhlutfall lóðarinnar, en samþykki þeirra hefði vegna skilmála í gildandi deili­skipulagi ekki verið í samræmi við áðurnefnt skilyrði 11. gr. laga um mannvirki um samræmi fyrirhugaðrar mannvirkjagerðar við skipulag. Verður því ekki séð að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar við afgreiðslu umsóknar kæranda.

Með hliðsjón af framangreindu verður að hafna kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar enda samræmist umsótt breyting á byggingaráformum ekki deiliskipulagi svæðis­ins en hún fól í sér að nýtingarhlutfall færi yfir heimildir þess. Var byggingarfulltrúa því rétt að synja umsókn kæranda.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 6. mars 2025 um að synja umsókn hans um breytingu á samþykktum byggingaráformum á lóðinni að Brekadal 11.

10/2025 Sjókvíaeldi í Önundarfirði

Með

Árið 2025, þriðjudaginn 8. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 10/2025, kæra á ákvörðun Matvælastofnunar frá 19. desember 2024 um að hafna umsókn um endurnýjun á rekstrarleyfi Arctic Sea Farm ehf. fyrir sjókvíaeldi á regnbogasilungi og bleikju í Önundarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. janúar 2025, er barst nefndinni sama dag, kærir Arctic Sea Farm ehf. þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 19. desember 2024 að hafna umsókn um endurnýjun á rekstrarleyfi kæranda fyrir sjókvíaeldi í Önundarfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Matvælastofnun 12. mars 2025.

Málavextir: Kærandi fékk árið 2016 framselt rekstrarleyfi sem gefið hafði verið út 19. júlí 2011 til tíu ára til að stunda sjókvíaeldi í Önundarfirði. Samkvæmt leyfinu, FE-1114/IS-36083, naut kærandi heimildar til framleiðslu á allt að 200 tonnum árlega af regnbogasilungi og bleikju í sjókvíum í firðinum. Með bréfi Matvælastofnunar til kæranda, dags. 27. janúar 2020, var tilkynnt um afturköllun leyfisins með vísan til 15. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi, þar sem kveðið er á um skyldu stofnunarinnar til að fella úr gildi rekstrarleyfi hefjist starfsemi fiskeldisstöðvar ekki innan þriggja ára frá útgáfu leyfis eða ef starfsemi stöðvarinnar stöðvast í tvö ár. Þá ákvörðun afturkallaði stofnunin með bréfi, dags. 21. febrúar s.á., og veitti kæranda frest til 21. febrúar 2021 til að hefja starfsemi samkvæmt leyfinu. Nokkru síðar, eða 4. maí 2020 tilkynnti Matvælastofnun kæranda að stofnunin hefði ákveðið að hafast ekki frekar að varðandi afturköllun leyfisins þar sem stutt væri í að það rynni sitt skeið.

Hinn 19. janúar 2021 sótti kærandi um endurnýjun rekstrarleyfisins og urðu frekari samskipti milli Matvælastofnunar og kæranda í framhaldinu. Urðu lyktir þær að stofnunin hafnaði umsókninni þar sem ekki hefði verið sótt um endurnýjun sjö mánuðum áður en þágildandi rekstrarleyfi hefði runnið út, sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 540/2020 um fiskeldi. Sætti sú ákvörðun kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem með úrskurði, uppkveðnum 10. nóvember 2021 í máli nr. 105/2021, felldi ákvörðunina úr gildi. Taldi nefndin að málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hefði ekki verið í samræmi við lög, en Matvælastofnun hefði ekki viðhaft hið skyldubundna mat sem 3. mgr. 7. gr. laga nr. 71/2008 kvæði á um við meðferð umsóknarinnar.

Í framhaldi þessa tilkynnti Matvælastofnun kæranda að hún myndi taka umsóknina til efnislegrar meðferðar og fór stuttu síðar fram á að fá afhenta eldisáætlun til sex ára sem var send stofnuninni. Með bréfi kæranda til Matvælastofnunar, dags. 22. júní 2023, var óskað eftir færslu á eldisstaðsetningum samhliða endurnýjun rekstrarleyfisins. Svaraði stofnunin samdægurs á þá leið að ekki væri hægt að afgreiða beiðnina þar sem endurnýjun á leyfi væri alltaf miðuð við óbreytt ástand samkvæmt reglugerð. Kom kærandi á framfæri andmælum sínum með bréfi, dags. 6. júlí 2023, ítrekaði beiðni sína um endurnýjun leyfisins með hliðsjón af umbeðnum staðsetningum og tók fram að þær væru í samræmi við strandssvæðisskipulag Vestfjarða. Í september s.á. kom fram í svarbréfi Matvælastofnunar við fyrirspurn kæranda um fiskeldi í Önundarfirði að leyfi hans fyrir fiskeldi í firðinum hefði runnið út fyrir nokkru en það hefði staðið á hinu opinbera að endurnýja það svo tæknilega væri leyfið í gildi. Með bréfi Matvælastofnunar til kæranda, dags. 29. nóvember 2023, var honum veittur frestur til 31. desember s.á. til að leggja fram áhættumat siglingaöryggis fyrir fyrirhugaða starfsemi sína í Önundarfirði. Að þeim tíma liðnum yrði umsókn um endurnýjun leyfisins hafnað og felld niður. Kæranda voru í þrígang veittir frekari frestir til að skila inn áhættumati siglingaöryggis, sem þá var í vinnslu.

Með bréfi Matvælastofnunar til kæranda, dags. 18. júní 2024, var honum tilkynnt um fyrirhugaða höfnun á endurnýjun rekstrarleyfisins. Var kæranda veittur frestur til 28. s.m. til að skila inn andmælum, og var sá frestur síðan framlengdur til 10. júlí s.á. Bárust stofnuninni andmæli kæranda og áhættumat siglingaöryggis 9. s.m. Hinn 19. desember 2024 lá fyrir sú ákvörðun Matvælastofnunar að hafna umsókn kæranda um endurnýjun rekstrarleyfisins í Önundarfirði. Var niðurstaðan á því reist að forsendur fyrir endurmati væru ekki fyrir hendi skv. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 71/2008, sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 540/2020, í ljósi þess að engin starfsemi hefði verið í firðinum af hálfu kæranda frá yfirtöku rekstrarleyfisins og frá því að starfsemi hefði lokið af hálfu fyrra rekstraraðila sumarið 2016 þangað til gildistími leyfisins hefði runnið út 19. júlí 2021.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að Matvælastofnun hafi borið að endurmeta hvort hann uppfyllti kröfur sem gerðar séu til rekstursins í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi og endurnýja rekstrarleyfið væru skilyrði 2. og 3. mgr. 7. gr. laganna uppfyllt, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 10. desember 2021 í máli nr. 105/2021.

Í 2. og 3. mgr. 7. gr. laga nr. 71/2008 séu með tæmandi hætti talin þau skilyrði sem fullnægja þurfi svo að rekstrarleyfi sé endurnýjað. Um sé að ræða svokallaðar fastmótaðar reglur sem gefi afar takmarkað svigrúm til túlkunar og fyllingar. Sú niðurstaða Matvælastofnunar að „endurmat gæti í raun og veru ekki farið fram skv. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 71/2008“ sé bersýnilega röng, villandi og ólögmæt. Hvergi sé gerður áskilnaður um að endurnýjun rekstrarleyfa sé „bundin við virk leyfi“ og fari þannig hið skyldubundna mat samkvæmt ákvæðinu fram án tillits til þess hversu mikið leyfið hafi verið nýtt á gildistíma þess. Ekki liggi fyrir nein skilgreining á því hvað teljist „virk leyfi“ og eigi heimatilbúin skilgreining Matvælastofnunar á því sér enga lagalega stoð. Stofnunin fullyrði ranglega að enginn rekstur hafi verið samkvæmt rekstrarleyfi, en eins og henni sé kunnugt um hafi leyfið verið nýtt á gildistíma þess. Skýrlega liggi fyrir að stofnunin hafi ekki framkvæmt það skyldubundna og lögbundna mat sem ákvæðið kveði á um, en það hafi einmitt verið meginforsendan í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 105/2021. Um sé að ræða brot á rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins og brot á reglunni um skyldubundið mat stjórnvalda.

Að auki sé rangt að það sé forsenda 3. mgr. 7. gr. laganna að leyfishafi hafi m.a. fylgt rekstraráætlunum. Mótmælt sé fullyrðingum Matvælastofnunar um að „markmið ákvæðis 3. mgr. 7. gr. laganna“ sé að raska ekki rekstri aðila sem hafi haldið úti starfsemi á tilteknu eldissvæði og að þau sjónarmið „eiga ekki við um óvirk leyfi, sem lögum samkvæmt bar að afturkalla“. Lögskýringargögn séu afdráttarlaus um að 3. mgr. 7. gr. taki til allra rekstrarleyfishafa og sé þannig enginn greinarmunur gerður á því hversu mikið sá aðili hafi nýtt leyfið áður en til endurnýjunar komi, sbr. greinargerð með frumvarpi því sem síðar hafi orðið að lögum nr. 101/2019 til breytinga á lögum nr. 71/2008.

Matvælastofnun hafi með ólögmætum hætti gert atlögu að því að nýta lagaákvæði um afturköllun leyfa, sbr. 15. gr. laga nr. 71/2008, til að synja um endurútgáfu leyfis, en í ákvörðuninni sé á 21 stað að finna beina tilvísun til ákvæðisins. Óumdeilt sé að stofnunin hafi tekið þá ákvörðun að fella hið formlega afturköllunarferli niður og því feli röksemdir á grundvelli 15. gr. laganna í sér misbeitingu valds við val á leiðum til úrlausnar máls og sé að auki brot á réttmætisreglunni. Slík málsmeðferð sé ekki aðeins ólögmæt í sjálfu sér heldur að auki sérstaklega ámælisverð í ljósi þess að engin efnisskilyrði fyrir afturköllun leyfisins séu til staðar. Hin kærða ákvörðun sé því haldin verulegum efnisannmarka og sé hún af þeim sökum ógildanleg, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málum nr. 41/2003 og nr. 275/2003.

Málsmeðferð Matvælastofnunar hafi að margvíslegu leyti farið í bága við málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttar, m.a. lögmætis-, málshraða- og meðalhófsregluna sem og þá málsmeðferð sem kveðið sé á um í lögum nr. 71/2008 og reglugerð nr. 540/2020 um fiskeldi. Í stað þess að framkvæma skyldubundið mat á því hvort skilyrðum 3. mgr. 7. gr. laga nr. 71/2008 væri fullnægt hafi Matvælastofnun óskað eftir greinargerð frá kæranda um áætlanir hans. Kærandi hafi í tvígang ítrekað umsókn sína og m.a. vísað til þess að félagið væri búið að fjárfesta í búnaði til að stunda starfsemi á grundvelli endurnýjaðs rekstrarleyfis. Margir mánuðir hafi liðið þar til umsókninni hafi síðan verið hafnað með ólögmætum hætti. Hefði málsmeðferðinni verið hagað með lögmætum hætti hefði kærandi fengið endurútgefið rekstrarleyfi í Önundarfirði fyrir um þremur árum og hafið þar rekstur.

Sama gildi um málsmeðferð Matvælastofnunar í kjölfar fyrrgreinds úrskurðar í máli nr. 105/2021, en umfangsmiklar tafir hafi orðið á efnislegri meðferð umsóknarinnar. Þrátt fyrir að kærandi hafi sent stofnuninni umbeðin gögn í desember 2021 hafi hún ekki haft frumkvæði að samskiptum um afgreiðslu umsóknarinnar fyrr en í nóvember 2023 þegar óskað hafi verið eftir því að kærandi skilaði inn áhættumati siglingaöryggis. Kærandi hafi unnið í góðri trú að áhættumati í samráði við utanaðkomandi sérfræðinga þrátt fyrir að hann hafi talið og telji enn að lagastoð skorti fyrir slíkum áskilnaði. Með því að krafist hafi verið áhættumats hafi kærandi haft réttmætar væntingar til þess að fá rekstrarleyfið endurnýjað, að fenginni jákvæðri niðurstöðu úr matinu. Þá styðji það enn frekar réttmætar væntingar að í umsögn Matvælastofnunar við drögum að strandsvæðisskipulagi Vestfjarða hafi komið fram að eldissvæði kæranda í Önundarfirði vantaði í skipulagið og að unnið væri að endurnýjun þess.

Orsakir þess að umsókn um endurnýjun hafi tafist óheyrilega megi rekja til Matvælastofnunar. Komi það m.a. fram í tölvubréfi frá starfsmanni stofnunarinnar til kæranda 6. september 2023 þar sem segi að það hafi staðið „á hinu opinbera að endurnýja leyfið svo tæknilega er það í gildi“. Þá komi fram í bréfi stofnunarinnar til kæranda, dags. 18. júní 2024, að ástæður tafanna megi rekja til m.a. mikilla anna hjá fiskeldisdeild stofnunarinnar. Málsmeðferð sem með réttu hafi átt að taka nokkra daga eða vikur hafi ekki enn verið lokið eftir rúmlega þriggja og hálfs árs málsmeðferð, en það sé gróft brot á málshraðareglu stjórnsýsluréttar, sbr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verði að taka tillit til þess að afar mikil verðmæti hafi farið forgörðum í starfsemi kæranda allan þennan tíma, enda hafi honum verið ókleift að nýta umrætt leyfi til verðmætasköpunar. Hafa beri í huga að um sé að ræða stjórnarskrárvarin réttindi kæranda.

Til viðbótar séu gerðar margþættar og alvarlegar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun sem ekki sé rökstudd með sjálfstæðri umfjöllun heldur sé í henni aðeins svarað athugasemdum kæranda við boðaða höfnun Matvælastofnunar. Stofnunin horfi fram hjá þeirri staðreynd að kærandi hafi gert ítrekaðar tilraunir á árinu 2021 til að hefja rekstur auk þess sem augljóslega hafi ekki verið hægt að hefja rekstur á því tímabili þegar umsókn kæranda hafi verið til meðferðar hjá stofnuninni eftir úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 105/2021. Sé það alfarið á ábyrgð Matvælastofnunar að ekki hafi verið hafinn rekstur á árinu 2021 á grundvelli leyfisins, en áréttað sé að kærandi hafi áform um uppbyggingu fiskeldis í Önundarfirði. Hin ósamrýmanlega og ólögmæta málsmeðferð stofnunarinnar kristallist í því að stofnunin hafi gert að skilyrði fyrir endurnýjun að kærandi myndi hefja starfsemi áður en gildistími leyfisins rynni út, en þrátt fyrir það átt í ítarlegum samskiptum við kæranda um efnislega meðferð málsins.

Þeirri niðurstöðu Matvælastofnunar að kærandi hafi brotið gegn skilyrðum rekstrarleyfis og að það hafi þýðingu við úrlausn umsóknar um endurnýjun þess sé harðlega mótmælt. Fyrir liggi að löggjafinn hafi markað málum sem varði heimild Matvælastofnunar til að afturkalla rekstrarleyfi vegna brota á skilyrðum þess lögformlegan farveg sem mælt sé fyrir um í 16. gr. laga nr. 71/2008. Í 2. mgr. greinarinnar komi fram að áður en gripið sé til afturköllunar leyfis skv. 1. mgr. skuli veita skriflega viðvörun og hæfilegan frest til úrbóta, en óumdeilt sé að engin slík viðvörun eða úrbótafrestur hafi verið veittur. Því sé hafnað að kærandi hafi ekki orðið við áskorun Matvælastofnunar um að hefja starfsemi enda liggi fyrir að hann hafi gert ítrekaðar tilraunir til að fá leyfið endurútgefið án þess að fá svar við þeim beiðnum. Stofnunin hafi að eigin frumkvæði ákveðið að fella niður afturköllunarferli rekstrarleyfisins og hafi kærandi þar af leiðandi haft réttmætar væntingar um að sjónarmið um afturköllun yrði ekki nýtt til að koma í veg fyrir endurútgáfu leyfisins, enda engin heimild fyrir slíkri ákvörðun. Þá sé óumdeilt að umsókn kæranda falli ekki undir nein þeirra tilvika sem séu tæmandi upptalin í 6–9. mgr. 10. gr. laga nr. 71/2008, um heimild til að hafna umsókn um útgáfu rekstrarleyfis.

Málsrök Matvælastofnunar: Af hálfu stofnunarinnar er bent á að fyrir liggi að engin starfsemi hafi verið af hálfu kæranda frá árinu 2016 þangað til hann hafi sótt um endurnýjun rekstrarleyfisins 19. janúar 2021. Skoða þurfi heildstætt og í samhengi við málsatvik hvernig kærandi hafi nýtt leyfið, sbr. markmið laga nr. 71/2008 um fiskeldi þar sem segi að markmiðið sé að skapa skilyrði til uppbyggingar fiskeldis og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu, stuðla að ábyrgu fiskeldi og tryggja verndun villtra nytjastofna.

Rekstrarleyfi sjókvíaeldis sé ekki einungis hagsmunamál leyfishafa, en allt sjókvíaeldi fari fram á sameiginlegu hafsvæði, sem metið hafi verið með tilliti til burðarþols viðkomandi svæðis og hættu á erfðablöndun. Leyfi til reksturs fiskeldis í sjókvíum séu því takmörkuð gæði. Ef endurnýjun rekstrarleyfis eigi að fara fram án þess að rekstur hafi hafist eða hann einungis verið stundaður óreglulega og ekki í samræmi við upphaflega áætlanir séu möguleikar annarra aðila til að nýta sama hafsvæði skertir fram úr hófi. Slík staða sé hvorki í samræmi við markmið fiskeldislaganna, sem ætlað sé að sporna við því að einstakir rekstrarleyfishafar stundi ekki rekstur á úthlutuðu eldissvæði, né forsendum fyrir útgáfu leyfisins.

Með heimild skv. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 71/2008 til endurnýjunar með endurmati við lok gildistíma rekstrarleyfa sé átt við tilvik þar sem virk starfsemi hafi farið fram samkvæmt viðkomandi leyfi. Ákvörðun um hvort sú heimild sé nýtt eða ekki þurfi að byggja á málefnalegum sjónarmiðum og hafi svo verið í máli þessu. Það sé forsenda ákvæðisins að umsækjandi starfræki fiskeldisstöð og fylgi eftir rekstraráætlunum sem leyfið byggi á, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga um fiskeldi. Jafnframt sé það forsenda að hann framkvæmi vöktun og rannsóknir til þess að meta vistfræðileg áhrif á nánasta umhverfi eldisstöðvarinnar, sbr. lið 2.2. í leyfinu og kröfur í 2. mgr. 7. gr. laganna. Markmið ákvæðis 3. mgr. 7. gr. sé að raska ekki rekstri aðila sem hafi haldið úti starfsemi á tilteknu eldissvæði og veita fyrirsjáanleika, en þau sjónarmið eigi ekki við um óvirk leyfi, sem lögum samkvæmt beri að fella úr gildi.

Ákvæði 3. mgr. 7. gr. laganna hafi komið inn með 8. gr. laga nr. 101/2019 um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi. Í athugasemdum með frumvarpinu komi fram að gert sé ráð fyrir að eldisfyrirtæki séu með starfsemi á viðkomandi eldissvæði til að tryggja þeim eðlilegan fyrirsjáanleika um starfsemi sína. Jafnframt sé tekið fram í 8. gr. að Matvælastofnun sé skylt við endurnýjun á rekstrarleyfi að endurmeta hvort rekstrarleyfishafi uppfylli kröfur laga um heilbrigði lagareldisdýra og afurða þeirra, forvarnir og varnir gegn tilteknum sjúkdómum í lagardýrum og um velferð lagareldisdýra. Með því hafi verið aukið við skyldur stjórnvalds frá því sem áður hafi verið.

Rekstrarleyfi kæranda hafi skýrlega verið bundið því skilyrði, samkvæmt leyfinu sjálfu og lögum nr. 71/2008, sbr. reglugerð nr. 540/2020 um fiskeldi, að nýta þyrfti leyfið til fiskeldis á gildistíma þess. Að öðrum kosti hefði ekki átt að gefa það út og því hafi forsendur verið brostnar fyrir endurnýjun þess. Ljóst sé því að kærandi hafi brotið gegn skilyrðum leyfisins. Við ákvörðun um nýtingu heimildarákvæðis 3. mgr. 7. gr. laga nr. 71/2008 sé málefnalegt að horfa til þeirra sjónarmiða sem kveðið sé á um í 15. gr. laganna, en af síðarnefnda ákvæðinu leiði að gert sé ráð fyrir að rekstrarleyfi séu virk á gildistíma þess, en að öðrum kosti beri að fella þau niður. Breyti engu í þessu sambandi þótt Matvælastofnun hafi fallið frá því að fylgja eftir niðurfellingu leyfisins skv. 15. gr. laganna vegna beiðni kæranda um lengri frest en til 21. febrúar 2021 til að koma rekstrinum í gang með útsetningu seiða að sumri. Þrátt fyrir veittan frest hafi ekkert orðið af útsetningu og því engin starfsemin hafist. Í stað þess hafi kærandi sótt um endurnýjun leyfisins þvert á fyrirheit og markmið fiskeldislaga og með því tekið áhættu og ábyrgð á eigin stöðu. Það sé ekki skylda að endurúthluta eldissvæðum og gefa út nýtt rekstrarleyfi þegar forsendur fyrir gildi viðkomandi leyfis séu brostnar, ella hefði ákvæði 3. mgr. 7. gr. laganna kveðið á um skyldu til endurúthlutunar.

Við endurmat þurfi eðli málsins samkvæmt að meta hvernig til hafi tekist með reksturinn, þ.e. heildstætt og í samhengi við málsatvik hvernig leyfishafi hafi nýtt leyfið í ljósi markmiða laga nr. 71/2008, en slíkt sé ekki hægt ef óregluleg eða takmörkuð starfsemi hafi verið á svæðinu. Í því samhengi sé rétt að vekja athygli á úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 49/2024, þar sem fjallað hafi verið um endurúthlutun eldissvæðis á grundvelli eldra rekstrarleyfis. Við meðferð þess máls hafi úrskurðarnefndin leitað eftir upplýsingum um það hvernig mat skv. 2. og 3. mgr. 7. gr. laganna hefði farið fram og hafi Matvælastofnun m.a. upplýst að viðkomandi leyfishafi hefði stundað sjókvíaeldi um nokkurra ára skeið á eldissvæðunum sem endurúthlutað hafi verið og því lægju fyrir viðamiklar upplýsingar sem stofnunin hefði aflað. Í máli því sem hér sé til umfjöllunar sé slíkum gögnum og upplýsingum ekki fyrir að fara þar sem rekstur hafi ekki verið á eldissvæðinu frá árinu 2016.

Þau gögn sem hafi verið lögð fram af hálfu kæranda vegna endurnýjunarinnar séu m.a. umsókn, „produktsertikat“ varðandi búnað, staðarúttekt á grundvelli staðalsins NS9415:2009 og greinargerð kæranda, en í þessum gögnum hafi ekki komið fram neinar upplýsingar varðandi heilbrigðisástand eða velferð eldisfiska. Kærandi hafi ekki stundað vöktun og rannsóknir til meta vistfræðileg áhrif á nánasta umhverfi eldissvæðisins, líkt og gerð hafi verið krafa um í rekstrarleyfinu. Þá liggi fyrir að fjarlægðarmörk milli eldissvæðis kæranda og eldissvæða annars aðila sem hafi rekstrarleyfi til sjókvíaeldis í Önundarfirði sé innan við 5 km. Í ljósi úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 49/2024 myndi það stríða gegn óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttar um jafnræði ef stofnunin fjallaði einangrað um hvernig viðmið um fjarlægð milli eldisstöðva lytu að rekstri eins aðila ef sambærilegur rekstur annars aðila á sama svæði sé ekki jafnhliða til meðferðar, en slíkri endurskoðun verði að mati stofnunarinnar ekki komið við varðandi umsókn kæranda. Sú starfsemi sem stunduð hafi verið á grundvelli rekstrarleyfisins hafi verið fram á sumar 2016, en eftir að leyfið hafi verið framselt kæranda hafi það ekki verið virkt.

Mótmælt sé öllum aðfinnslum varðandi málsmeðferð stofnunarinnar. Matvælastofnun hafi veitt kæranda umframfrest til að koma rekstri sínum í Önundarfirði af stað. Farið hafi verið yfir umsókn hans um endurnýjun og við fyrri höfnun stofnunarinnar hafi verið stuðst við 14. gr. reglugerðar nr. 540/2020 varðandi móttöku umsókna um endurnýjun. Í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 105/2021 hafi stofnunin óskað gagna skv. 14. gr. reglugerðarinnar, en þar með hafi ekki verið fallist á að umsókn kæranda um endurnýjun væri samþykkt þótt málið væri tekið til efnislegrar meðferðar.

Þegar bréf Matvælastofnunar um fyrirhugaða höfnun endurnýjunar leyfisins hafi borist kæranda 18. júní 2024 hafi ekki legið fyrir áhættumat siglingaöryggis, en lögskylt hafi verið að leggja slíkt mat fram. Ef það væri ekki gert yrði endurnýjun rekstrarleyfis hafnað á grunni ófullnægjandi gagna, eins og fram hafi komið í bréfi stofnunarinnar til kæranda, dags. 29. nóvember 2023. Áhættumat siglingaöryggis hafi verið hluti af þeim gögnum sem skila hafi átt fyrir nýtt rekstrarleyfi og endurnýjun þeirra skv. 3. mgr. 10. gr. og 9. mgr. 10. gr. laga nr. 71/2008, sbr. lög nr. 88/2018 um skipulag haf- og strandsvæða, sbr. fyrrnefnt bréf Matvælastofnunar til kæranda.

Í kæru sé bent á tölvupóst frá starfsmanni Matvælastofnunar þar sem fram hafi komið að rekstrarleyfið væri tæknilega í gildi þar sem staðið hefði á hinu opinbera að endurnýja leyfið. Bent sé á að slíkur texti eigi fyrst og fremst við um rekstrarleyfi þar sem starfsemi sé í gangi, en rekstrarleyfi séu ekki felld niður þegar umsókn um endurnýjun sé til meðferðar. Þá sé því ranglega haldið fram í kæru að stofnunin hafi sett sem skilyrði fyrir endurnýjun leyfisins að kærandi myndi hefja starfsemi áður en gildistími þess rynni út 19. júlí 2021. Hafi komið fram í tölvupósti frá forsvarsmanni kæranda 21. febrúar 2020 að nauðsyn væri að setja út seiði og hefja rekstur fyrir lok gildistíma rekstrarleyfisins, sem ekkert hafi síðan orðið af.

Athugasemdir ÍS 47 ehf.: Úrskurðarnefndinni bárust athugasemdir félagsins ÍS 47 þar sem gerð er krafa um að hin kærða ákvörðun verði staðfest. Bendir félagið á að það stundi fiskeldi í Önundarfirði og að svæðin sem hin umdeilda umsókn kæranda varði séu í mikilli nálægð við eldissvæði félagsins út af Valþjófsdal, þ.e. í 2,5 og 3,7 km fjarlægð frá eldissvæðunum. Feli það í sér brot gegn fjarlægð milli fiskeldisstöðva ótengdra aðila, sbr. 5. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 540/2020 um fiskeldi og sé til þess fallið að ógna velferð og heilbrigði eldisfisks í sjókvíum félagsins. Að auki verði allur flutningur og þjónusta við eldi í botni fjarðarins í mikilli nálægð við eldi ÍS 47 vegna þess hve þröngur fjörðurinn sé og vegalengdir skammar og því smithætta vegna starfsemi ótengds aðila enn meiri fyrir vikið. Í ljósi þess og með vísan til úrskurða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í málum nr. 74/2024 og nr. 33/2024 telji félagið yfir vafa hafið að það eigi beinna, sérstakra, verulegra og lögvarinna hagsmuna að gæta í máli þessu. Það sé því aðili máls í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og njóti réttar til andmæla.

Sé litið til orðalags 3. mgr. 7. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi og áherslna í greinargerð frumvarps að þeim lögum sé ljóst að um heimildarákvæði sé að ræða sem bundið sé við að tilskildar lagalegar forsendur séu til staðar fyrir útgáfu leyfisins. Í samræmi við það segi í 14. gr. reglugerðar nr. 540/2020 að við endurnýjun rekstrarleyfis skuli Matvælastofnun meta hvort umsækjandi uppfylli kröfur sem gerðar séu til rekstursins og skuli umsækjandi leggja fram öll gögn sem stofnunin telji nauðsynleg. Einnig sé lögð sérstök áhersla á að endurmeta hvort mikilvæg lagaskilyrði rekstrarleyfis séu uppfyllt, þ.m.t. með tilliti til krafna um dýravelferð og varna gegn smitsjúkdómum. Þá geti breytingar á lögum og reglum, með vísan til almennra sjónarmiða um lagaskil, staðið í vegi fyrir endurútgáfu leyfis og endurúthlutun eldissvæðis. Leiði athugun á málavöxtum með tilliti til framangreindra áhersluatriða löggjafans til þeirrar niðurstöðu að engar forsendur séu til að gefa hið umþrætta leyfi út á nýjan leik.

Leyfisveitandi skuli við undirbúning ákvörðunar um hvort veita eigi rekstrarleyfi fiskeldis taka rökstudda afstöðu til sjúkdómstengdra þátta sem kunni að fylgja starfsemi fiskeldisstöðvar og beri að hafna umsókn ef slík mat bendi til þess að fyrirhugað eldi feli í sér umtalsverða hættu á útbreiðslu sjúkdóma eða umtalsverð óæskileg áhrif á vistkerfi, sbr. 9. mgr. 10. gr. laga um fiskeldi. Séu engar forsendur til að víkja frá fjarlægðarmörkum 5. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 540/2020 og beri að hafna umsókn kæranda til að tryggja að skipulag fiskeldis í Önundarfirði verði í samræmi við öryggisreglur sem ætlað sé að draga úr hættu á útbreiðslu smitsjúkdóma og lágmarka lífrænt álag frá fiskeldi.

Eitt af því sem skyldubundið mat stjórnvalds við endurnýjun leyfis þurfi að beinast að er hvort rekstur umsækjanda hafi verið í lögmætu horfi á gildistíma þess og hvort það hafi verið nýtt með þeim hætti sem lög og skilmálar leyfisins kveði á um. Kærandi hafi ekki stundað fiskeldi í Önundarfirði a.m.k. síðastliðin níu ár og raunar hafi starfsemin verið óveruleg frá því að leyfið hafi verið veitt fyrir rúmum áratug. Hafi kærandi ekki brugðist við áskorunum Matvælastofnunar um að nýta heimildir til fiskeldis á gildistíma leyfisins. Þegar gildistími þess hafi verið liðinn hafi verið liðin tæplega fimm ár frá því að reksturinn hafi stöðvast. Hafi stofnuninni borið að fella leyfið úr gildi, sbr. 15. gr. laga nr. 71/2008, en forsendubrestur hafi þá orðið fyrir leyfinu. Komi endurúthlutun eða endurútgáfa leyfisins ekki til greina ef forsendur fyrir gildi þess séu brostnar, stjórnvaldi geti ekki verið skylt að endurnýja leyfi sem fella beri úr gildi lögum samkvæmt. Verði ekki séð að Matvælastofnun sé við þessar aðstæður rétt og skylt að nýta þá heimild sem sé að finna í 3. mgr. 7. gr. laga um fiskeldi. Ákvæðið um forsendubrest í 15. gr. laganna sé m.a. ætlað að stuðla að hagkvæmri og eðlilegri nýtingu fiskeldisheimilda. Jafnframt sé því ætlað að koma í veg fyrir að einstakir rekstraraðilar hangi á rekstrarleyfum árum saman án þess að nýta þau. Hafi Matvælastofnun afturkallað leyfi kæranda í Skötufirði af þessum ástæðum og hafi úrskurðarnefndin staðfest þá niðurstöðu með úrskurði í máli nr. 79/2021. Sérstaklega hafi verið tekið fram í niðurstöðu nefndarinnar að áform kæranda um frekari uppbyggingu fiskeldis í Ísafjarðardjúpi gætu ekki haggað gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Sé heimild 3. mgr. 7. gr. laga nr. 71/2008 bundin við virk leyfi. Markmið ákvæðisins sé að raska ekki rekstri aðila sem hafi haldið út starfsemi á tilteknu eldissvæði, en þau sjónarmið eigi ekki við um óvirk leyfi, sem lögum samkvæmt beri að afturkalla.

Þá sé Matvælastofnun óheimilt að veita kæranda rekstrarleyfi þar sem það stangist á við gildandi skipulag. Samkvæmt samþykktu strandsvæðisskipulagi fyrir Önundarfjörð sé ekki gert ráð fyrir fiskeldi á því svæði sem umsókn kæranda og fyrra leyfi lúti að og sé botn fjarðarins, svæði UN10, skilgreint sem svæði þar sem vernda beri umhverfi og náttúru og fiskeldi sé óheimilt.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi hafnar skýringum og túlkunum Matvælastofnunar er varða markmið laga nr. 71/2008 um fiskeldi. Jafnframt sé rangt því sem haldið sé fram að umsókn kæranda um rekstrarleyfi hafi tafist sökum þess að strandsvæðisskipulag Vestfjarða hafi ekki verið staðfest fyrr en 2. mars. 2023. Fram til gildistöku skipulagsins hafi ekkert skipulag verið í gildi og þar með hafi Matvælastofnun hvorki verið rétt né skylt að bíða með afgreiðslu umsóknar kæranda á því tímabili. Um eftiráskýringu sé að ræða sem eigi sér enga stoð. Hafi Matvælastofnun á umræddu tímabili bæði gefið út ný rekstrarleyfi og endurnýjað eldri leyfi.

Með því að vísa til ætlaðs markmiðs laga nr. 71/2008 um að sporna við því að einstakir rekstrarleyfishafar stundi ekki rekstur á úthlutuðu eldissvæði sé horft fram hjá grundvallaratriði málsins, en löggjafinn hafi með 15. gr. laganna kveðið á um lögbundinn farveg fyrir slík tilvik. Ljóst sé að í umsögn til úrskurðarnefndarinnar hafi Matvælastofnun staðfest að tilvitnuð 15. gr. hafi haft þýðingu við töku hinnar kærðu ákvörðunar og leiði þessi staðfesting ein og sér til ógildingar.

Fullyrt sé í umsögninni að hvorki í umsókn kæranda frá 19. janúar 2021 né í greinargerð kæranda frá 10. mars s.á. hafi verið „getið um hvernig félagið uppfyllti ákvæði 2. mgr. 7. gr. laganna við lok gildistímans.“ Hafi þessi sjónarmið hvorki komið fram áður né legið til grundvallar hinni kærðu ákvörðun og hafi því tæpast þýðingu við úrlausn þessa máls. Samkvæmt 15. gr. reglugerðar nr. 540/2020 um fiskeldi hafi Matvælastofnun borið að tilkynna umsækjanda innan mánaðar frá því að umsókn barst hvort hún teldist fullnægjandi. Enn fremur leiði af leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu stjórnsýsluréttar að stofnuninni hafi borið að kalla eftir frekari gögnum og upplýsingum ef hún teldi þörf á slíku til að framkvæma umrætt endurmat. Loks mótmæli kærandi því að umræddar upplýsingar eða gögn hafi skort.

Við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi ekki verið byggt á því að fjarlægðarmörk milli eldissvæðis kæranda og rekstraraðilans ÍS 47 ehf. í Önundarfirði væru innan við 5 km, sbr. 5. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 540/2020, og komi það því ekki til álita við mat á því hvort ógildingarannmarkar hafi verið á henni. Þá liggi fyrir að rekstrarleyfið hafi verið gefið út árið 2011, þ.e. áður en ÍS 47 hafi hafið starfsemi sína í firðinum. Það hafi því verið ÍS 47 sem fengið hafi undanþágu frá fjarlægðarmörkum og því fráleitt að ætla að beita fjarlægðarmörkum gegn kæranda. Loks sé bent á að Matvælastofnun hafi með öllu horft fram hjá því grundvallaratriði að áhættumat siglinga hafi verið sent stofnuninni rúmum fimm mánuðum áður en hin kærða ákvörðun hafi verið tekin.

Kærandi leggst gegn því að ÍS 47 verði játuð kæruaðild að málinu enda hafi félagið ekki lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Verði því veitt kæruaðild að málinu verði að taka afstöðu til umsagnar félagsins með hliðsjón af þeirri staðreynd að það hafi ríka fjárhagslega hagsmuni af því að verða eina fiskeldisfyrirtækið með starfsemi í Önundarfirði. Þá blasi við að 5. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 540/2020 komi ekki með sama hætti til skoðunar við endurnýjun rekstrarleyfis og þegar leyfi sé upphaflega gefið út, en um leið sé áréttað að þetta atriði komi ekki til álita við úrlausn þessa máls.

——-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 19. desember 2024 að hafna umsókn Arctic Sea Farm ehf. um endurnýjun á rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á regnbogasilungi og bleikju í Önundarfirði. Kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er í 4. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi.

Við meðferð þessa máls bárust úrskurðarnefndinni athugasemdir ÍS 47 ehf. þar sem gerð er krafa um að hin kærða ákvörðun verði staðfest. Félagið starfrækir fiskeldi í nálægð við eldissvæði kæranda samkvæmt því leyfi sem kærandi sækir um endurnýjun á og á því verulegra lögmætra hagsmuna að gæta af þeirri starfsemi. Verður þar af leiðandi að telja það njóta aðildar að máli þessu.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 71/2008 þarf rekstrarleyfi sem Matvælastofnun veitir til starfrækslu fiskeldisstöðva. Í 3. mgr. lagagreinarinnar kemur fram að við lok gildistíma rekstrarleyfis sé heimilt, að framkominni umsókn, að úthluta eldissvæðum að nýju til hlutaðeigandi. Sé um endurúthlutun leyfa að ræða skal stofnunin endurmeta hvort umsækjandi uppfyllir kröfur sem gerðar séu til rekstursins skv. 2. mgr., en þar segir í 2. málslið að umsækjandi skuli uppfylla kröfur sem gerðar séu um heilbrigði lagareldisdýra og afurða þeirra, um forvarnir og varnir gegn tilteknum sjúkdómum í lagardýrum og um velferð lagareldisdýra.

Árið 2016 fékk kærandi framselt rekstrarleyfi til fiskeldis í Önundarfirði með heimild til framleiðslu á allt að 200 tonnum árlega af regnbogasilungi og bleikju. Var rekstrarleyfið gefið út 19. júlí 2011 með gildistíma til tíu ára. Kærandi sótti um endurnýjun þess 19. janúar 2021, en Matvælastofnun hafnaði umsókninni með vísan til þess að ekki hefði verið sótt um endurnýjun rekstrarleyfisins a.m.k. sjö mánuðum áður en gildistími þess rynni út, sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 540/2020 um fiskeldi. Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem kveðinn var upp 10. nóvember 2021 í máli nr. 105/2021, var greind ákvörðun felld gildi. Taldi úrskurðarnefndin að málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hefði ekki verið í samræmi við lög, en ekki hefði verið viðhaft það skyldubundna mat sem 3. mgr. 7. gr. laga nr. 71/2008 kvæði á um við meðferð umsóknar um endurnýjun rekstrarleyfis.

Í desember 2021 tilkynnti Matvælastofnun kæranda að stofnunin myndi taka umsókn um endurnýjun rekstrarleyfisins til efnislegrar meðferðar og óskaði eftir því að eldisáætlun yrði skilað. Frekari samskipti áttu sér stað milli stofnunarinnar og kæranda er lutu m.a. að breyttri staðsetningu eldissvæðis. Hinn 29. nóvember 2023 fór stofnunin fram á að fá sent áhættumat siglingaöryggis og barst það henni í júlí 2024. Hin kærða ákvörðun Matvælastofnunar lá síðan fyrir 19. desember s.á. eða um þremur árum eftir að kæranda var tilkynnt að stofnunin myndi taka umsókn um endurnýjun til efnislegrar meðferðar. Mat stofnunin það svo að forsendur fyrir endurmati væru ekki fyrir hendi skv. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 71/2008, sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 540/2020, í ljósi þess að engin starfsemi hefði verið af hálfu félagsins á eldissvæðinu í firðinum frá yfirtöku rekstrarleyfisins árið 2016 og frá því að starfsemi hefði lokið af hálfu fyrri rekstraraðila sumarið 2016 þangað til gildistími leyfisins hefði runnið út 19. júlí 2021.

Gera verður athugasemd við þessa málsmeðferð Matvælastofnunar með hliðsjón af málshraðareglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveður á um að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Hafi það verið afstaða stofnunarinnar frá upphafi að ekki kæmi til endurnýjunar rekstrarleyfis í tilvikum þar sem ekki væri um „virkt rekstrarleyfi“ að ræða er óljóst hvaða tilgangi það þjónaði að óska eftir frekari gögnum, sem voru til þess fallin að vekja upp réttmætar væntingar hjá kæranda um að umsókn hans um endurnýjun gæti hlotið jákvæða afgreiðslu. Slíkar væntingar geta þó einar og sér ekki ráðið úrslitum þessa kærumáls.

Líkt og að framan greinir skal Matvælastofnun við endurúthlutun leyfa endurmeta hvort umsækjandi uppfylli kröfur sem gerðar séu til rekstursins skv. 2. mgr., sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 71/2008. Er hér um að ræða sömu kröfur og umsækjandi um nýtt rekstrarleyfi þarf að uppfylla. Kom ákvæði 3. mgr. 7. gr. laganna inn með lögum nr. 101/2019 um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi og í athugasemdum með því frumvarpi er m.a. tekið fram að rétt þyki að hafa skýr fyrirmæli hér um til að tryggja fiskeldisfyrirtækjum eðlilegan fyrirsjáanleika um starfsemi sína. Þá kemur fram í 14. gr. reglugerðar nr. 540/2020 að umsækjandi um endurnýjun leyfis skuli leggja fram öll þau gögn sem Matvælastofnun telur nauðsynleg til að meta hvort skilyrði til útgáfu rekstrarleyfis séu fyrir hendi. Segir í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 71/2008 að skylda til upplýsingagjafar við meðferð umsóknar um rekstrarleyfi þjóni þeim tilgangi að rekstrarleyfi verði einungis veitt þeim sem fyrir fram geti sýnt fram á að hann sé líklegur til að fullnægja skilyrðum laga og rekstrarleyfis, komi til útgáfu þess.

Sjónarmið Matvælastofnunar um synjun á endurnýjun rekstrarleyfis kæranda eru í hnotskurn á því byggð að til að endurmat geti farið fram þurfi að hafa verið starfrækt fiskeldisstöð sem fylgt hafi eftir rekstraráætlunum sem leyfið hafi byggst á, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 71/2008, og að framkvæmdar hafi verið vaktanir og rannsóknir farið fram til að meta vistfræðileg áhrif. Nánar tiltekið þurfi að vera um „virkt leyfi“ að ræða, en markmið 3. mgr. 7. gr. laganna sé að raska ekki rekstri aðila sem haldið hafi út starfsemi á tilteknu eldissvæði. Einnig séu ekki forsendur fyrir endurnýjun leyfisins, en það hafi verið bundið því skilyrði að stunda þyrfti fiskeldi á gildistíma þess og því ljóst að brotið hefði verið gegn skilyrðum þess. Þá hefur stofnunin bent á að hvorki í umsókn um endurnýjun rekstrarleyfis né í greinargerð kæranda, dags. 10. mars 2021, sem skilað hafi verið inn við fyrri meðferð umsóknarinnar, sé getið hvernig kærandi hyggist uppfylla þær kröfur sem gerðar séu um heilbrigði lagareldisdýra og afurða þeirra, um forvarnir og varnir gegn tilteknum sjúkdómum í lagardýrum og um velferð lagareldisdýra. Um leið bendir stofnunin á að fyrir liggi gögn um burðarþolsmat eldissvæðisins og að ekki sé talin hætta á erfðablöndun. Ljóst sé að ekki hafi orðið breytingar sem gefi tilefni til að ætla að fyrirhugaðar eldistegundir, eldisstofnar eða eldisaðferðir leiði til neikvæðra vistfræði- eða erfðafræðiáhrifa sem stafað geti af starfsemi kæranda.

Ekki er í lögum nr. 71/2008, lögskýringargögnum eða reglugerð nr. 540/2020 að finna skýra stoð fyrir því sjónarmiði Matvælastofnunar að ekki komi til endurúthlutunar rekstrarleyfa nema þegar um ræðir „virk rekstrarleyfi“. Þrátt fyrir að sú afstaða geti eftir atvikum verið rökrétt m.t.t. markmiða laga um fiskeldi verður ekki hjá því litið að um ræðir takmarkandi skilyrði fyrir hagnýtingu framleiðslutækja og aðstöðu, sem gera verður kröfu til að hafi skýra heimild að lögum. Má og vænta þess að ástæður þess að starfsemi hefur ekki hafist geta verið af margvíslegum toga. Af framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum verður að telja að þær kröfur sem uppfylla þarf til endurnýjunar rekstrarleyfis séu þær sömu og gerðar eru fyrir útgáfu nýs leyfis, en eðli málsins samkvæmt kemur þá ekki til skoðunar hvort eldissvæði hafi verið í notkun eða ekki.

Þá verður ekki annað ráðið en að baki ákvörðun stofnunarinnar hafi legið sjónarmið er þýðingu hafa við mat á því hvort fella eigi rekstrarleyfi úr gildi vegna forsendubrests, sbr. 15. gr. fiskeldislaga. Þykir ekki tækt að byggja synjun um endurnýjun rekstrarleyfis á slíkum grundvelli, enda um að ræða aðra málsmeðferð sem á við um leyfi sem enn eru í gildi.

Að öllu framangreindu virtu verður að álíta rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar svo áfátt að fella verði hana úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Matvælastofnunar frá 19. desember 2024 um að hafna umsókn um endurnýjun á rekstrarleyfi Arctic Sea Farm ehf. fyrir sjókvíaeldi á regnbogasilungi og bleikju í Önundarfirði.

62/2025 Sjókvíaeldi í Önundarfirði

Með

Árið 2025, þriðjudaginn 8. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 62/2025, kæra á ákvörðun Matvælastofnunar frá 13. mars 2025 um að gefa út breytt rekstrarleyfi vegna sjókvíaeldis ÍS 47 ehf. í Önundarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. apríl 2025, er barst nefndinni sama dag, kærir Arctic Sea Farm ehf., rekstraraðili sjókvíaeldis í Önundarfirði, þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 13. mars 2025 að gefa út breytt rekstrarleyfi vegna sjókvíaeldis ÍS 47 ehf. í Önundarfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Matvælastofnun 30. maí 2025.

Málavextir: Árið 2013 fékk ÍS 47 ehf. útgefið rekstrarleyfi til að stunda sjókvíaeldi á þorski og regnbogasilungi í Önundarfirði til framleiðslu á allt að 200 tonnum árlega. Í janúar 2021 gaf Matvælastofnun út rekstrarleyfi FE-1109 til félagsins fyrir 1.000 tonna hámarkslífmassa á eldi á sömu tegundum á svæðunum Valþjófsdal og Ingjaldssandi. Í október 2022 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá félaginu, sbr. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, um framleiðsluaukningu, færslu eldissvæðis og tegundabreytingu, þ.e. að stunda eldi á frjóum laxi í stað þorsks. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar, dags. 7. febrúar 2023, komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að fyrirhuguð framkvæmd væri ekki líklegt til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og væri því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Á grundvelli þeirrar ákvörðunar sótti félagið um breytingu á rekstrarleyfi er fólst í því að heimila eldi á frjóum laxi samhliða því sem heimild til eldis á þorski mundi falla út en hámarkslífmassi yrði eftir sem áður óbreyttur. Þá var einnig sótt um færslu svæðis frá Ingjaldssandi yfir á Hundsá. Hinn 20. desember 2024 auglýsti Matvælastofnun tillögu að breyttu rekstrarleyfi og veitti frest til að koma að athugasemdum til 27. janúar 2025. Bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar frá kæranda þessa máls, Skipulagsstofnun og Landhelgisgæslu Íslands. Hinn 13. mars s.á. gaf Matvælastofnun út umsótt rekstrarleyfi og er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Árið 2016 fékk kærandi framselt rekstrarleyfi FE-1114/IS-36083 sem gefið hafði verið út á árinu 2011 til tíu ára til að stunda sjókvíaeldi í Önundarfirði á svæði innarlega í botni fjarðarins. Á árinu 2021 sótti kærandi um endurnýjun leyfisins en þeirri umsókn var hafnað af Matvælastofnun 4. júní 2021. Sætti sú ákvörðun kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem með úrskurði uppkveðnum 10. nóvember s.á. í máli nr. 105/2021 felldi ákvörðunina úr gildi þar sem málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafði ekki verið í samræmi við lög. Í kjölfarið tók stofnunin umsókn kæranda um endurnýjun til meðferðar að nýju og urðu lyktir málsins þær að umsókninni var hafnað 19. desember 2024. Var niðurstaðan á því reist að forsendur fyrir endurmati væru ekki fyrir hendi í ljósi þess að engin starfsemi hefði verið í firðinum af hálfu kæranda, en endurnýjun væri bundin við virk rekstrarleyfi. Kærandi kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar, sbr. kærumál nr. 10/2025, sem með úrskurði uppkveðnum fyrr í dag felldi ákvörðun Matvælastofnunar úr gildi á þeim grundvelli að rökstuðningi ákvörðunarinnar hafi verið áfátt.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að með lögum nr. 59/2021 til breytinga á lögum nr. 71/2008 um fiskeldi, sbr. bráðabirgðaákvæði IX, hafi verið lögfest sérstök heimild til að úthluta óráðstöfuðum lífmassa, m.a. í Önundarfirði. Hafi það verið vilji löggjafans að ekki kæmi til frekari úthlutunar á ófrjóum laxi nema að undangengnu útboði. Ekki verði með góðu móti séð hvernig hin kærða breyting á rekstrarleyfi leyfishafa samrýmist greindu bráðabirgðaákvæði. Tilefni sé til að varpa ljósi á hið augljósa og ótvíræða fordæmisgildi sem felist í hinni kærðu breytingu, en nánar tiltekið yrði leyfishöfum sem stundi eldi í öðrum tegundum en laxi heimilt að breyta tegund framleiðslunnar í lax og þannig komast hjá fyrirhuguðu útboði samkvæmt lögum nr. 59/2021.

Fyrir liggi að synjun Matvælastofnunar á umsókn kæranda um endurnýjun rekstrarleyfis sjókvíaeldis í Önundarfirði hafi verið kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. mál nr. 10/2025. Verði fallist á kröfu kæranda og leyfi hans endurnýjað þurfi m.a. að taka afstöðu til þess í máli þessu, m.a. að því er varði fjarlægðarmörk skv. 18. gr. reglugerðar nr. 540/2020 um fiskeldi. Verði það raunin sé ljóst að forsendur hinnar kærðu ákvörðunar séu brostnar.

Staðsetning eldissvæða í breyttu rekstrarleyfi leyfishafa fari gegn áformum kæranda um sjókvíaeldi í Önundarfirði. Þannig liggi fyrir að kærandi hafi undanfarin ár unnið að umhverfismati vegna aukinnar framleiðslu í Önundarfirði. Umhverfismatið hafi hins vegar tafist vegna meðferðar Matvælastofnunar á umsókn kæranda um endurnýjun á rekstrarleyfinu, en það haggi ekki skýrum og metnaðarfullum áformum félagsins þar að lútandi til framtíðar.

Í 4. tl. 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 540/2020 sé kveðið á um að í umsókn um breytingu á rekstrarleyfi skuli m.a. koma fram önnur þau gögn sem tilgreind séu í 12. gr. sem nauðsynleg séu til að Matvælastofnun geti metið hvort skilyrði til breytingar á gildandi rekstrarleyfi séu fyrir hendi. Það sé með öllu óljóst hvaða gagna stofnunin hafi aflað við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Þannig megi m.a. nefna kröfu b-liðar 2. mgr. 12. gr. um að umsókn skuli fylgja áætlun um fjárfestingar í búnaði ásamt staðfestingu á stöðu eigin fjár og eiginfjárhlutfalli umsækjanda. Fyrir liggi að með hinni kærðu ákvörðun hafi kæranda verið veitt leyfi til eldis á frjóum laxi, en ljóst sé að slík framleiðsla sé fjárfrekari og háð mun strangari kröfum en gildi um þorsk og regnbogasilung. Því hafi stofnuninni borið skylda til að leggja mat á framangreint, m.a. með yfirferð yfir ársreikninga leyfishafa, sem og önnur mikilvæg atriði sem tilgreind séu í reglugerðarákvæðinu.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar frá 7. febrúar 2023 hafi verið sett skilyrði sem Matvælastofnun hafi borið, sbr. m.a. 24. og 27. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, að ganga úr skugga um að væri fullnægt fyrir útgáfu leyfis. Þannig hafi Minjastofnun Íslands komið á framfæri athugasemdum um að afla þyrfti heimilda um skipsskaða í Önundarfirði og fá fornleifafræðing til að fara yfir athuganir sem gerðar yrðu á hafsbotninum undir eldiskvíunum og eftir atvikum gera Minjastofnun grein fyrir niðurstöðum slíkra athuganna. Í greinargerð Matvælastofnunar með hinni kærðu ákvörðun bendi stofnunin á að í tillögu að rekstrarleyfi væri „gerð krafa um að framkvæmdaraðili leiti til Minjastofnunar áður en búnaður er settur út.“ Það skilyrði gangi of skammt til að koma til móts við athugasemdir Minjastofnunar.

Kærandi hafi gert athugasemdir við auglýsta tillögu að breyttu rekstrarleyfi leyfishafa að því er varði skilyrði um samstarf við aðra leyfishafa og lagt áherslu á mikilvægi þess að það yrði gert afdráttarlausara. Hafi kærandi m.a. haldið því fram að það yrði gert að skilyrði fyrir starfsemi á grundvelli rekstrarleyfisins að leyfishafi myndi skuldbinda sig til að undirrita samning við kæranda um samstarf félaganna í þessu tilliti þar sem skyldur aðila yrðu áréttaðar með skýrum hætti. Með slíkum samningi yrði betur tryggt að aðilar stæðu sameiginlega að m.a. sjúkdómavörnum, viðbrögðum við sjúkdómum og vöktun laxalúsar, en í því tilliti sé vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 33/2024. Í hinni kærðu ákvörðun hafi í engu verið tekið tillit til athugasemda kæranda.

Málsrök Matvælastofnunar: Stofnunin telur að vísa eigi kæru frá úrskurðarnefndinni þar sem hvorki skýr lagaheimild fyrir kæruaðild né lögvarðir hagsmunir geti rennt stoðum undir aðild kæranda. Hin kærða ákvörðun varði breytingu á rekstrarleyfi, en ekki hafi reynt á það fyrir nefndinni, svo stofnunin viti til, hvort kæruréttur sé fyrir hendi í slíkum tilvikum með tilliti til orðalags kæruheimildar 2. mgr. 4. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi. Að því er varði lögvarða hagsmuni sé alls óvíst hvort fyrirhuguð starfsemi kæranda í Önundarfirði muni eiga sér stað. Þá geti kæruaðild ekki byggst á því að kærandi hafi gert athugasemdir við auglýsta tillögu að rekstrarleyfi, enda hafi öllum verið frjálst að senda inn athugasemdir.

Heimild Matvælastofnunar til útgáfu á breyttu rekstrarleyfi byggi á 13. gr. reglugerðar nr. 540/2020 um fiskeldi þar sem segi að stofnuninni sé heimilt að gera breytingar á eldistegundum að undangenginni umsókn. Óvíst sé hver vilji löggjafans hafi verið með lögum nr. 59/2021 er breytt hafi lögum nr. 71/2008 um fiskeldi, en í breytingalögunum sé vísað til lífmassa en ekki tegunda, tilfærslu eldissvæða eða frjós lax. Með hinni kærðu breytingu á rekstrarleyfi leyfishafa hafi lífmassi ekki aukist heldur eingöngu verið gerð breyting á tegund og staðsetningu eldissvæðis.

Matvælastofnun hafi komist að þeirri niðurstöðu að hafna endurnýjun rekstrarleyfis kæranda, en sú ákvörðun sé til skoðunar hjá úrskurðarnefndinni, sbr. kærumál nr. 10/2025, og alls óvíst hvort það falli honum í vil. Stofnuninni beri að fara eftir málshraðareglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og hafi henni því ekki verið stætt á að bíða með leyfisveitinguna þar til niðurstaða í kærumálinu lægi fyrir.

Að því er varði þau gögn sem kærandi telji að Matvælastofnun hafi borið að afla sé bent á að sami búnaður sé fyrir bæði lax og regnbogasilung sem standast verði þær kröfur sem gerðar séu í staðli NS 9415:2009, sbr. d-lið 23. gr. 29. gr. reglugerðar nr. 540/2020. Farið hafi verið yfir eiginfjárhlutfall vegna fjárfestinga í búnaði í upphafi og liggi það því fyrir. Framlögð gögn sem fylgt hafi umsókn leyfishafa hafi verið fullnægjandi.

Leyfishafi hafi staðfest að hann muni fá fornleifafræðing til að kanna svæðið við Hundsá, þ.e. breytingarsvæðið, með tvígeislamæli svo ganga megi úr skugga um hvort einhverjar óþekktar minjar leynist á svæðinu. Í greinargerð með hinu breytta rekstrarleyfi komi fram að gerð sé krafa um að framkvæmdaraðili leiti til Minjastofnunar Íslands áður en búnaður sé settur út. Sama krafa komi fram í leyfinu sjálfu. Því hafi verið komið til móts við þær athugasemdir Minjastofnunar sem hún hafi komið á framfæri vegna matsskylduákvörðunar Skipulagsstofnunar.

Fyrir liggi að leyfishafi sé með rekstrarleyfi og starfsemi í Önundarfirði en kærandi ekki. Af því leiði að leyfishafi hafi forgang að svæðinu, samanber reglu um 5 km fjarlægðarmörk milli fiskeldisstöðva ótengdra aðila í 5. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 540/2020. Engar forsendur hafi verið fyrir hendi til að gera skilyrði rekstrarleyfisins um samræmda útsetningu seiða og hvíld svæða og samstarf milli aðila innan sjókvíaeldissvæðis afdráttarlausara.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er farið fram á frávísun kærumálsins þar sem kæranda skorti lögvarða hagsmuni. Kærandi hafi ekki stundað fiskeldi í Önundarfirði a.m.k. síðastliðin níu ár og í raun hafi starfsemi verið nánast engin frá því að leyfi hafi upphaflega verið veitt fyrir rúmum áratug. Telja verði útilokað að leyfi kæranda í botni Önundarfjarðar verði endurnýjað, en fyrirhuguð áform hans um fiskeldi í firðinum fari gegn gildandi strandssvæðisskipulagi sem Matvælastofnun sé bundin af. Það sé ekki raunhæft að ganga út frá því að kærandi muni hefja starfsemi í Önundarfirði og geti hann því ekki talist aðili máls á þeim forsendum þar sem á skorti að hann hafi þá beinu, verulegu og sérstöku hagsmuni sem réttlætt geti aðild. Engu breyti þó hann hafi komið athugasemdum á framfæri eftir auglýsingu að tillögu rekstrarleyfisins, enda ótvírætt að slíkt skapi viðkomandi ekki réttarstöðu aðila máls.

Fullyrðing kæranda um að sú breyting sem gerð hafi verið með breytingalögum nr. 59/2021 um fiskeldi hafi sérstaklega snúið að frjóum laxi sé hreinn og klár heilaspuni, enda komi slík sjónarmið hvorki fram í lagatexta né lögskýringargögnum. Tilgangur ákvæðisins um vannýttan lífmassa, þ.e. bráðabirgðaákvæði IX, hafi verið að lagfæra ágalla sem telja megi að hafi verið á 2. mgr. 4. gr. a. í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi sem fjalli um úthlutun eldissvæða. Fljótlega eftir gildistöku laganna hafi stjórnvöld komist að þeirri niðurstöðu að umrætt lagaákvæði myndi skapa réttaróvissu um ónýttar framleiðsluheimildir, þ.e. í tilteknum fjörðum væri leyfilegur lífmassi samkvæmt útgefnum rekstrarleyfum minni en metið burðarþol fjarðar, en hinum ónýtta lífmassa væri ekki hægt að úthluta þar sem ekki væri mögulegt að úthluta nýjum eldissvæðum í viðkomandi firði. Svæðin sem um ræði séu tæmandi talin í ákvæðinu og sé Önundarfjörður þar tilgreindur. Af því leiði afdráttarlaust að uppboð skv. 4. gr. a. komi ekki til álita vegna eldis í firðinum.

Benda megi á nokkur atriði sem sýni að úthlutun sé ekki möguleg. Í fyrsta lagi séu eldissvæðin sem til greina gætu komið á grundvelli strandsvæðisskipulags Vestfjarða öll innan helgunarsvæðis leyfishafa með hliðsjón af fjarlægðarmörkum á grundvelli 5. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 540/2020 um fiskeldi. Þrátt fyrir að gömul fordæmi liggi fyrir um undanþágu frá reglunni geti það í dag ekki talist ásættanlegt að veita undanþágur fyrir jafn mikla nálægð fiskeldisstöðva ótengdra aðila í ljósi ríkari krafna sem gerðar séu um varnir gegn útbreiðslu smitsjúkdóma og sýkinga. Af úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 33/2024 megi ráða að ekki verði hvikað frá lágmarksfjarlægðarmörkum nema á grundvelli heildstæðs mats á áhættu á aukinni dreifingu dýrasjúkdóma og sníkjudýra sem leitt geti í ljós að réttlætanlegt kunni að vera að heimila frávik. Jafnframt sé vísað til forsendna sem hafi legið til grundvallar burðarþolsmati Hafrannsóknastofnunar frá 18. júní 2018, en í lokaorðum matsins hafi stofnunin sagt að ástæða væri til að halda í þau lágmarksfjarlægðarmörk milli eldissvæða sem reglugerðin kvæði á um.

Í annan stað verði að líta til þess að núverandi eldissvæði í Önundarfirði þeki um 7% af flatarmáli fjarðarins. Í umsögn Hafrannsóknastofnunar, dags. 22. nóvember 2022, um tilkynningu leyfishafa um færslu eldissvæðis í firðinum, komi fram að nágrannaþjóðir miði við að þetta viðmið sé að hámarki 5%. Þótt stofnunin vísi ekki í heimildir til að skýra forsendur þessa viðmiðs megi ráða af umsögninni að stofnunin telji að vistfræðilegar forsendur, sem og kröfur sem leiði af lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, hafi þá þýðingu að ekki komi til álita að heimila eldissvæði sem yrði verulega umfram þetta viðmið í sama vatnshloti. Verði nýjum eldissvæðum úthlutað í Önundarfirði yrði hlutfallið væntanlega 10–12% af heildarflatarmáli fjarðarins, sem samræmist ekki framangreindum viðmiðum.

Þau sjónarmið kæranda að hin kærða breyting á rekstrarleyfi leyfishafa sé ósamrýmanleg endurútgáfu rekstrarleyfis kæranda styðjist ekki við haldgóð rök. Eldissvæðið út af Valþjófsdal, sem sé í mestri nálægð við eldissvæði kæranda í botni fjarðarins, taki engum breytingum. Þá blasi við að Matvælastofnun hafi lagt mat á það hvort kærandi nyti lögvarinna hagsmuna sem gætu staðið í veg fyrir breytingum á rekstrarleyfi leyfishafa. Niðurstaða stofnunarinnar hafi verið sú að slíkir hagsmunir væru ekki fyrir hendi, m.a. vegna þess að umsókn kæranda um endurnýjun stangist á við gildandi strandssvæðisskipulag eins og fram hafi komið.

Ekki beri að leggja fram öll gögn sem tilgreind séu í 12. gr. reglugerðar nr. 540/2020 þegar sótt sé um breytingu á rekstrarleyfi, heldur aðeins þau sem Matvælastofnun meti að nauðsynleg séu til að stofnunin geti lagt mat á þær breytingar sem sótt sé um. Af reglugerðinni verði ekki ráðið að strangari kröfur séu gerðar að þessu leyti til þegar um sé að ræða eldi á frjóum laxi heldur en regnbogasilungi, enda sé kostnaður, fjárfesting og rekstrarskilyrði í meginatriðum með sama hætti. Skilyrði er varði minjavernd séu nú þegar uppfyllt þar sem leyfishafi hafi látið framkvæma rannsóknir á hafsbotni undir eldissvæðinu við Hundsá, en búnaður til fiskeldis verði ekki settur út fyrr en Minjastofnun Íslands hafi yfirfarið niðurstöðurnar. Að því er varði það sjónarmið kæranda að „mikilvægt“ sé að skilyrði um samstarf við ótengda rekstraraðila verði gert afdráttarlausara, sé bent á að ekkert bendi til þess að fyrirtækin tvö muni í náinni framtíð starfrækja eldi í Önundarfirði. Þar að auki verði ekki séð að tilefni eða heimild hafi verið til þess að Matvælastofnun mælti fyrir um strangari skilyrði en þau sem fram komi í rekstrarleyfinu. Í því samhengi verði að líta til þess að ekki hafi verið um að ræða nýtt leyfi heldur breytingu á leyfi, en heimild stofnunarinnar til þess að setja skilyrði skv. 19. gr. reglugerðar nr. 540/2020 beinist vitanlega fyrst og fremst að nýjum leyfum.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi 13. febrúar 2024 tilkynnt á heimasíðu sinni um breytta stjórnsýsluframkvæmd vegna byggingarleyfisskyldra sjókvía utan netlaga. Ekki liggi fyrir upplýsingar um hvort leyfishafi hafi í samræmi við það aflað sér byggingarleyfis vegna þeirra sjókvía sem hann hyggist setja niður á hinu nýja eldissvæði, en ef svo sé ekki leiði slíkt til ógildingar á kærðri ákvörðun. Það sé ekki rétt sem fram komi í umsögn Matvælastofnunar að ekki hafi reynt hafi á kæruheimild vegna breytingu á útgefnum rekstrarleyfum, en í dæmaskyni megi nefna úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 80/2022 þar sem kærð breyting á rekstrarleyfi hafi hlotið efnismeðferð.

Viðbótarathugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að ekki sé þörf á að byggingarleyfi liggi fyrir áður en rekstrarleyfi sé gefið út, eins og fram hafi komið í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 36/2024, sem hafi einmitt varðað rekstrarleyfi kæranda í Ísafjarðardjúpi. Leyfishafi muni afla byggingarleyfis vegna hins nýja eldissvæðis áður en starfsemi hefjist þar.

Niðurstaða: Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber þó að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kæranda skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir slíka hagsmuni að fá úr ágreiningi leyst.

Fyrir liggur að kærandi hefur um árabil haft með höndum rekstrarleyfi til að starfrækja sjókvíaeldi í Önundarfirði, en af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að engin starfsemi hafi farið fram í sjókvíum frá því kærandi fékk rekstrarleyfið framselt árið 2016. Rann gildistími leyfisins út árið 2021 og hefur kærandi freistað þess síðastliðin ár að fá það endurnýjað auk þess sem áform hans standa til þess að stunda umfangsmeira eldi í firðinum. Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í kærumáli nr. 10/2025 þar sem ákvörðun Matvælastofnunar frá 19. desember 2024, um að synja umsókn kæranda um endurnýjun leyfisins, var felld úr gildi á þeim grundvelli að rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar hefði verið áfátt. Á þessum tímapunkti er því ekki útséð um að kærandi muni starfrækja sjókvíaeldi í Önundarfirði. Af þeim sökum er ekki loku fyrir það skotið að úrlausn þessa kærumáls, um gildi rekstrarleyfis ÍS 47 ehf. fyrir sjókvíaeldi í Önundarfirði, geti haft áhrif á lögvarða hagsmuni kæranda. Uppfyllir hann því skilyrði kæruaðildar skv. fyrrgreindri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Krafa kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar byggir að meginstefnu til á því að bráðabirgðaákvæði IX í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi, sbr. 1. gr. breytingalaga nr. 59/2021, hefði átt að girða fyrir útgáfu hins breytta rekstrarleyfis þar sem á grundvelli ákvæðisins komi ekki til frekari úthlutunar á heimild til að ala frjóan lax nema að undangengnu útboði. Fram kemur í fyrsta málslið þessa bráðabirgðaákvæðis að heimilt sé að „úthluta opinberlega því magni í lífmassa sem heimilt getur verið að ala í Arnarfirði, Berufirði, Fáskrúðsfirði, Ísafjarðardjúpi, Reyðarfirði og Önundarfirði og er umfram heimildir í leyfum til fiskeldis og heimildir sem kunna að verða veittar á grundvelli umsókna sem til meðferðar koma samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II.“ Af orðalagi bráðabirgðaákvæðisins verður ráðið að frekari lífmassi eldisdýra, sem heimilt getur verið að ala í Önundarfirði, komi ekki til úthlutunar nema að undangengnu útboði í samræmi við 3. mgr. 4. gr. a. í lögum nr. 71/2008. Engin aukning varð á heimiluðum lífmassa þegar gerð var breyting á rekstrarleyfi leyfishafa. Samkvæmt því á greint ákvæði ekki við um það tilfelli sem hér er til umfjöllunar og verður því að hafna sjónarmiðum kæranda þar að lútandi.

Af hálfu kæranda er á því byggt að staðsetning eldissvæða í breyttu rekstrarleyfi leyfishafa á nýtingarreitnum SN22 samkvæmt strandsvæðisskipulagi Vestfjarða fari gegn áformum kæranda um sjókvíaeldi í Önundarfirði. Ekki er hægt að líta svo á að áform kæranda um sjókvíaeldi á því sama svæði, sem ekki hafa hlotið málsmeðferð samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, geti girt fyrir að kærandi nýti svæðið.

Í 13. gr. reglugerðar nr. 540/2020 um fiskeldi er greint frá þeim gögnum sem fylgja skulu umsókn um breytingu á rekstrarleyfi, en eftir atvikum getur þurft að leggja fram sömu gögn og þegar sótt er um nýtt rekstrarleyfi, sbr. 4. tl. 2. mgr. reglugerðargreinarinnar. Telur kærandi að skort hafi á tilskilin gögn, s.s. um áætlun um fjárfestingar í búnaði ásamt staðfestingu á stöðu eigin fjár og eiginfjárhlutfalli umsækjanda, sbr. b-lið 2. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar. Þrátt fyrir að eldisstarfsemi taki óhjákvæmilega einhverjum breytingum þegar ala á lax í kví í stað þorsks verður ekki talið að um slíka breytingu sé að ræða að þörf hafi verið á þeim gögnum sem kærandi vísar til. Að þessu virtu verður að telja að fullnægjandi gögn hafi legið fyrir Matvælastofnun við afgreiðslu umsóknar leyfishafa.

Í matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar frá 7. febrúar 2023 er að finna umfjöllun um menningarminjar, en þar segir að með vísan til umsagnar Minjastofnunar Íslands þurfi að setja skilyrði í rekstrarleyfi um að fornleifafræðingur, með þekkingu á neðansjávarminjum, verði fenginn til að fara yfir athuganir sem gerðar verði á hafsbotninum undir eldiskvíum á eldissvæði við Hundsá og eftir atvikum gera Minjastofnun grein fyrir niðurstöðum. Í hinu kærða rekstrarleyfi segir að leyfishafa beri að hafa samráð við Minjastofnun um staðsetningu botnfestinga fyrir sjókvíaeldisstöð. Fallast má á með kæranda að skilyrðið sé ekki fyllilega í samræmi við tilmæli Skipulagsstofnunar. Til þess er á hinn bóginn að líta að í matsskylduákvörðun getur stofnunin einvörðungu sett fram ábendingar en ekki skilyrði um tilhögun framkvæmdarinnar, sbr. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat og áætlana. Í samræmi við það er leyfisveitanda, við útgáfu leyfis fyrir tilkynningarskyldri framkvæmda, einungis skylt skv. 26. gr. laganna að kynna sér tilkynningu framkvæmdaraðila og ákvörðun og kanna hvort framkvæmdin sé í samræmi við tilkynnta framkvæmd. Að þessu athuguðu er ekki um ræða annmarka að lögum sem varðað getur gildi hinnar kærðu ákvörðunar, en leyfishafi hefur við meðferð þessa kærumáls upplýst að þegar hafi farið fram rannsóknir á hafsbotni undir eldissvæðinu við Hundsá og að búnaður til fiskeldis verði ekki settur út fyrr en Minjastofnun hafi farið yfir niðurstöðu þeirra rannsókna.

Að lokum hefur kærandi gert athugasemdir við skilyrði í umþrættu rekstrarleyfi sem snýr að samstarfi við aðra leyfishafa um samræmda útsetninga seiða og hvíld eldissvæða og sameiginlegar sjúkdómavarnir, en að mati kæranda hefði skilyrðið átt að vera afdráttarlausara og skyldur aðila í því tilliti áréttaðar með skýrari hætti. Með hliðsjón af því að greint skilyrði er í samræmi við orðalag 6. mgr. 19. gr. reglugerðar nr. 540/2020, sem og því að engu öðru fiskeldi er nú til að dreifa í Önundarfirði, verður að hafna þessum sjónarmiðum kæranda.

Fyrir liggur að hin umþrætta ákvörðun Matvælastofnunar frá 13. mars 2025, um að gefa út breytt rekstrarleyfi vegna sjókvíaeldis kæranda í Önundarfirði, var í samræmi við matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar. Að teknu tilliti til þess og því sem að framan greinir, svo og þar sem ekki verður séð að neinir þeir annmarkar séu á málsmeðferð eða efni hinnar kærðu ákvörðunar sem varða geta gildi hennar, verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að ógilda ákvörðun Matvælastofnunar frá 13. mars 2025 um að gefa út breytt rekstrarleyfi vegna sjókvíaeldis ÍS 47 ehf. í Önundarfirði.

96/2025 Arnartangi

Með

Árið 2025, föstudaginn 4. júlí, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 96/2025, kæra á afgreiðslu lögmanns á bæjarskrifstofu Mosfellsbæjar frá 27. júní 2025 á fyrirspurn um innheimtu byggingarleyfisgjalda.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 30. júní 2025, kærir A afgreiðslu lögmanns á bæjarskrifstofu Mosfellsbæjar frá 27. júní 2025 á fyrirspurn um innheimtu byggingarleyfisgjalda. Er þess krafist að innheimta afgreiðslugjalds og gjalds fyrir lokaúttekt og lokaúttektarvottorð verði felld niður.

Málsatvik og rök: Á árinu 2008 sótti kærandi um byggingarleyfi fyrir stækkun húss á lóð nr. 47 við Arnartanga í Mosfellsbæ. Voru byggingaráform samþykkt og byggingarleyfisgjöld innheimt, en engar framkvæmdir áttu sér stað í kjölfarið. Árið 2013 sótti kærandi að nýju um byggingarleyfi vegna sömu byggingaráforma. Voru þau samþykkt og munu framkvæmdir á grundvelli þess hafa farið fram. Árið 2023 fékk kærandi samþykkt byggingaráform fyrir innanhúsbreytingum. Hinn 29. mars s.á. var gefinn út reikningur þar sem m.a. var innheimt fyrir gjaldaliðina afgreiðslugjald að upphæð 14.100 kr., lokaúttekt að upphæð 25.000 kr. og lokaúttektarvottorð að upphæð 15.800 kr. Í janúar 2024 mótmælti kærandi álagningu greindra gjalda á þeim grundvelli að hann hefði þegar greitt gjöldin og óskaði útskýringa á því hvers vegna gjöldin hefðu verið innheimt. Mun hann hafa ítrekað erindið margsinnis þar til svar barst frá lögmanni á bæjarskrifstofu sveitarfélagsins hinn 27. júní 2025. Í svarinu kemur fram að reikningurinn hafi verið gefinn út í samræmi við gjaldskrá Mosfellsbæjar um byggingargjöld. Samþykkt byggingaráforma falli niður hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út innan tveggja ára frá samþykkt þeirra, sbr. gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Telji sveitarfélagið eðlilegt að hið sama eigi við um byggingarleyfisumsóknir, þ.e. hafi ekki verið hafist handa í samræmi við umsókn þá falli málið niður í heild sinni og þar með þær greiðslur sem reiddar hafi verið fram vegna umsóknarinnar. Að lokum var leiðbeint um að hægt væri að kæra afgreiðsluna til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Kærandi telur það sanngirnismál að þurfa ekki að greiða byggingarleyfisgjöld í tvígang fyrir sömu framkvæmd.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð afgreiðsla lögmanns á bæjarskrifstofu Mosfellsbæjar á fyrirspurn um innheimtu byggingarleyfisgjalda. Í fyrirspurninni kom fram að kærandi skildi ekki innheimtu sveitarfélagsins frá 29. mars 2023 þar sem honum var gert að greiða afgreiðslugjald og gjald fyrir lokaúttekt og lokaúttektarvottorð. Hann hefði þegar greitt gjöldin og  vissi ekki ástæðu þess að hann væri nú krafinn um greiðslu gjaldanna að nýju en yrði þakklátur að fá útskýringu á því.

Af gögnum málsins verður ráðið að erindi kæranda hafi falið í sér fyrirspurn þar sem óskað var útskýringa á innheimtu þjónustugjalda. Svar lögmanns á bæjarskrifstofu sveitarfélagsins við slíku erindi getur eðli máls samkvæmt ekki talist stjórnvaldsákvörðun þar til bærs stjórnvalds með þeirri réttarverkan sem slíkri ákvörðun fylgir, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Getur engu um það breytt þótt kæruleiðbeiningar hafi verið veittar af hálfu sveitarfélagsins. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

67/2025 Grenimelur

Með

Árið 2025, föstudaginn 4. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 67/2025, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. apríl 2025 um að synja umsókn um leyfi til að fá samþykkta íbúð í kjallara hússins að Grenimel 25 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. apríl 2025, er barst nefndinni 28. s.m., kæra eigendur matshluta 0001 í kjallara hússins að Grenimel 25 synjun byggingar­fulltrúans í Reykjavík frá 8. apríl s.á. um að breyta skráningu ósamþykktrar íbúðar í kjallara hússins í samþykkta íbúð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að taka málið til afgreiðslu að nýju.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 13. maí 2025.

Málavextir: Grenimelur 25 í Reykjavík er parhús, sambyggt húsi númer 23 við sömu götu. Var húsið reist árið 1945 og samkvæmt skráningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eru í því tvær samþykktar íbúðir, merktar 0101, fnr. 202-7176 og 0201, fnr. 202-7177 og ein ósam­þykkt íbúð í kjallara, merkt 0001, fnr. 202-7175, í samræmi við eignaskiptasamning frá árinu 2004.

Árið 2021 festu kærendur kaup á hinni ósamþykktu íbúð og 5. maí 2024 sóttu þeir um byggingarleyfi til að breyta skráningu íbúðarinnar í samþykkta. Var því synjað á afgreiðslu­fundi byggingarfulltrúa 10. september s.á., með vísan til þess að það samræmdist ekki ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Sætti ákvörðunin kæru til úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála, sem með úrskurði uppkveðnum 5. nóvember 2024 í máli nr. 101/2024, hafnaði kröfu um ógildingu hennar. Taldi nefndin að byggingar­fulltrúa hefði verið rétt að synja umsókninni, en kærendur hefðu ekki að öllu leyti brugðist við þeim athugasemdum sem gerðar höfðu verið af hans hálfu við meðferð umsóknarinnar. Meðal þess sem út af hefði staðið væru ákvæði byggingarreglugerðarinnar um lofthæð og skilyrði vegna íbúða á jarðhæð og í kjallara sem og flóttaleiðir og brunavarnir, sem hefði þurft að fjalla um í greinargerð hönnuðar.

Hinn 12. febrúar 2025 sóttu kærendur að nýju um leyfi byggingarfulltrúa til að breyta skráningu íbúðarinnar og fylgdi erindinu m.a. greinargerð hönnuðar, dags. 11. febrúar s.á. Synjaði byggingar­fulltrúi umsókn kærenda á afgreiðslufundi 4. mars s.á., en afturkallaði þá ákvörðun á afgreiðslufundi 1. apríl 2025 með vísan til þess að rökstudd afstaða hans til greinargerðar hönnuðar hefði ekki legið fyrir við afgreiðslu málsins. Umsóknin var tekin fyrir að nýju á afgreiðslu­fundi byggingarfulltrúa 8. s.m. þar sem henni var synjað og var um rökstuðning vísað til afstöðu hans við greinargerð hönnuðar.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að á teikningum af eigninni sem samþykktar hafi verið árið 1944 sjáist kjallararými með salerni og handlaug, en ekkert eldhús. Sé rýmið aflokað frá annarri sameign og sannarlega ein heild. Hafi eignin verið skráð í fasteignaskrá sem íbúðarrými á sér fasteignanúmeri og gengið kaupum og sölum í mörg ár.

Umrædd íbúð uppfylli ekki skilyrði gr. 6.7.4. í núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar sem gerð sé krafa um að ein hlið íbúðar í kjallara sé óniðurgrafin og snúi til suðurs, suðvesturs og vesturs. Stofa íbúðarinnar snúi til suðurs, en sé niðurgrafin. Ekki sé mögulegt að grafa frá hlið hússins vegna aðkomu inn í sameiginlegan garð og vegna samliggjandi garðs við Grenimel 23. Skemmi það einnig stíl hússins ef grafið sé frá einni hlið á parhúsi en ekki báðum. Þá er því haldið fram að misskilnings gæti hjá Reykjavíkurborg varðandi túlkun greinarinnar um að stakt íbúðar­herbergi geti verið niðurgrafið að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og ef gluggahlið sé ekki nær akbraut en 3 m. Þetta eigi ekki við um íbúð, en að auki snúi íbúðin ekki að götu.

Skýrt sé tekið fram í gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð að hús sem byggð hafi verið í tíð eldri reglugerðar og sem geti ekki uppfyllt öll ákvæði núgildandi reglugerðar falli ekki undir ákvæði nýju reglugerðarinnar. Geti leyfisveitandi heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum þessa hluta reglugerðarinnar. Þá séu mörg dæmi um að Reykjavíkurborg hafi fyrir árið 2012 samþykkt sambærilegar umsóknir í húsum sem reist hafi verið á svipuðum tíma og téð íbúð. Eigi breyting á byggingarreglugerð árið 2012 að hamla samþykkt sé um eignaupptöku að ræða.

Ef ekki sé unnt að víkja frá ákvæðum byggingarreglugerðar um aðgengi og algilda hönnun sökum aldurs mannvirkis þýði það að fjöldamörg hús geti aldrei uppfyllt kröfu um algilda hönnun. Sé litið til þéttingarstefnu Reykjavíkurborgar þar sem tilgreint sé í hverfaskipulagi að fjölga megi íbúðum orki þetta tvímælis. Einnig sé bent á að sama dag og erindi kærenda hafi verið synjað hafi verið samþykkt að fjölga íbúðum á Laugavegi 80 og gerð undanþága á algildri hönnun vegna aldurs hússins. Ógerlegt sé að hafa kjallaraíbúðina með aðgengi fyrir alla þar sem setja þyrfti langan ramp í stað útitrappa og sá rampur kæmist ekki fyrir framan við húsið.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgarinnar er gerð krafa um frávísun málsins, í heild eða að hluta. Þegar hafi verið úrskurðað um álitaefnið, en kæra í máli nr. 101/2024 hafi að hluta til verið byggð á sömu eða svipuðum sjónarmiðum. Hafi byggingarfulltrúi gert ítarlegar athugasemdir við umsókn kæranda frá 5. maí 2024. Aftur hafi verið gerðar athugasemdir í skráningartöflu við stiga, björgunarop og lofthæð, enda sé hvorki op né stigi skráð í töfluna. Samkvæmt samþykktum og gildandi aðaluppdráttum sé gert ráð fyrir vinnustofu og tveimur geymslum í kjallara, en ekki íbúð. Ekki hafi verið sótt um byggingarleyfi fyrir íbúð í kjallara fyrr en með umsókn kærenda í maí 2024.

Ekkert sé fram komið í kæru sem valdið geti ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Meginreglan sé að uppfylla þurfi ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 við breytingar á mannvirkjum sem byggðar séu í tíð eldri byggingarreglugerðar. Þurfi hönnuður að skila inn sérstakri og rökstuddri greinargerð svo unnt sé að taka til skoðunar frávik frá meginreglunni, þegar og ef svo eigi við. Hafi byggingarfulltrúi skilað skriflegum rökstuðningi við öllum liðum í greinargerð hönnuðar, dags. 11. febrúar 2025. Ekki hafi verið gerð athugasemd við frávik vegna lofthæðar, en önnur frávik og ástæður þeirra ekki teknar til greina.

Samkvæmt gr. 6.7.4. í byggingarreglugerð sé óheimilt að hafa sjálfstæða nýja íbúð þar sem útveggir íbúðar séu niðurgrafnir nema að uppfylltum öllum skilyrðum sem talin séu upp í liðum a–d ákvæðisins. Fram komi í svari byggingarfulltrúa við greinargerð hönnuðar að ekki sé hægt að samþykkja íbúð í kjallara ef ekki sé hægt að uppfylla ákvæði gildandi byggingarreglugerðar um íbúðarhúsnæði í kjallara. Yrði að hafa í huga að þótt hægt væri að grafa það mikið frá húsinu að unnt væri að koma til móts við umrætt ákvæði þá væri lóðin í óskiptri sameign allra og allar framkvæmdir á lóð háðar samþykki allra meðlóðarhafa með tilheyrandi hlutdeild í kostnaði og viðhaldi. Þá þyrfti eflaust einnig að grenndarkynna framkvæmdina.

Hvað algilda hönnun varði þá hafi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þegar tekið afstöðu til þess í úrskurði sínum í máli nr. 101/2024 að við breytingar á þegar byggðum mannvirkjum skuli taka mið af gildandi byggingarreglugerð nema annað sé tekið fram í einstökum ákvæðum hennar. Megi af úrskurðinum ráða að taka þurfi hvert tilvik til skoðunar með hliðsjón af þeim breytingum sem fyrirhugaðar séu og þá hvaða ákvæði reglugerðarinnar eigi við.

Ekki sé hægt að víkja frá 6. hluta byggingarreglugerðar um algilda hönnun í heild, en hægt sé að víkja frá stökum ákvæðum þar sem þess sé getið. Sé vikið frá sjónarmiðum um algilda hönnun skuli hönnuður skila sérstakri greinargerð um það frá hvaða ákvæðum óskað sé eftir fráviki, um ástæður þess að ekki sé unnt að uppfylla þau, og hvort hægt sé með öðrum hætti að tryggja aðgengi þannig að markmið reglugerðarinnar séu uppfyllt. Af framansögðu verði ráðið að frávik frá kröfunni um algilda hönnun sé undantekning sem túlka skuli þröngt. Taki byggingarfulltrúi afstöðu til framlagðrar greinargerðar með hliðsjón af ofangreindum meginreglum og markmiðum byggingarreglugerðarinnar. Við mat á vægi rökstuðnings vegi þyngst hvort og þá hvernig unnt sé að ná markmiðum um algilda hönnun með öðrum hætti en fram komi í 6. hluta byggingarreglugerðar. Þurfi veigamiklar ástæður, ítarlega rökstuddar, að liggja að baki því að vikið sé frá ákvæðum gildandi byggingarreglugerðar. Aldur mannvirkis einn og sér réttlæti ekki frávik.

Í greinargerð hönnuðar hafi ekki verið tiltekið hvort og hvernig unnt væri að ná markmiðum reglugerðarinnar með öðrum hætti og hafi byggingarfulltrúi því ekki fallist á að víkja frá ákvæðum hennar um aðgengi og algilda hönnun. Þá hafi kröfur til heilnæmra bygginga og vistvænnar byggðar í þéttbýli aukist í íslensku lagaumhverfi og sjónarmið um gæði, öryggi og almannaheill verið ráðandi. Beri byggingarreglugerð nr. 112/2012 þess glöggt vitni, enda hafi hún falið í sér umtalsverðar breytingar til batnaðar í þessum efnum, en jafnframt sé vísað til markmiðs reglugerðarinnar, sbr. 1. gr. hennar. Það að eldra byggt mannvirki geti aldrei uppfyllt skilyrði gildandi reglugerðar um algilda hönnun nægi ekki eitt og sér til þess að samþykkja íbúð í kjallara. Hafi ekki þótt tilefni til að vera með íbúð í kjallara þegar húsin hafi verið byggð og eigi það enn síður við í dag.

Sjónarmiðum kærenda um eignaupptöku og brot á jafnræðisreglu sé hafnað. Samanburður á öðrum eignum sem skráðar hafi verið fullgerðar og samþykktar fyrir gildistöku gildandi byggingarreglugerðar sé að jafnaði ekki tækur. Þær séu ekki fordæmisgefandi fyrir aðrar sam­bæri­legar eignir sökum þess að taka verði mið af gildandi reglum og lögum þar sem gerðar séu ríkari kröfur en hafi verið í eldri reglugerð. Þá geti jafnræðisreglan ekki veitt réttindi sem séu í andstöðu við lög og gildandi reglugerðir.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. apríl 2025 að synja umsókn kærenda um leyfi til að breyta skráningu eignarhluta 0001 í húsinu að Grenimel 25 úr ósamþykktri íbúð í samþykkta. Eignarhlutinn er í húsi sem reist var árið 1945.

Í núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012 er ekki að finna almenn ákvæði um hvernig fara skuli með byggingarleyfisumsóknir sem varða breytingar á byggingum sem byggðar hafa verið fyrir gildistöku reglugerðarinnar, en tekin er afstaða til þess í einstökum ákvæðum hennar hvort þar greindar kröfur þurfi að uppfylla við breytingar á eldri mannvirkjum. Í gr. 6.1.6. byggingar-reglugerðar, sem fjallar um framsetningu krafna, er tekið fram að meginreglur í 6. hluta reglugerðarinnar séu ófrávíkjanlegar en viðmiðunarreglur séu frávíkjanlegar ef sýnt sé fram á að að­gengi og öryggi sé tryggt með jafngildum hætti og ef meginregla viðkomandi ákvæðis væri uppfyllt. Verður þá að skila með hönnunargögnum greinargerð hönnuðar þar sem gerð er grein fyrir og rökstutt með hvaða hætti meginregla ákvæðisins er uppfyllt og aðgengi og öryggi tryggt. Séu önnur ákvæði umrædds hluta reglugerðarinnar ófrávíkjanleg nema annað sé sérstak-lega tekið fram í viðkomandi ákvæði.

Samkvæmt 2. mgr. gr. 6.1.5. reglugerðarinnar skal við breytingu á mannvirki sem byggt er í gildistíð eldri byggingarreglugerða almennt byggt á sjónarmiðum algildrar hönnunar, sbr. þó 3. mgr. Þar kemur fram að leyfisveitandi geti heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum þessa hluta reglugerðarinnar ef sérstökum erfiðleikum er bundið að uppfylla ákvæði þessa hluta hennar án þess að breyta að verulegu leyti megin gerð mannvirkis, burðarvirki, útliti, innra skipulagi eða öðrum sérkennum sem vert er að varðveita. Skal hönnuður þá skila sérstakri greinargerð um það hvaða ákvæðum er óskað eftir að víkja frá, um ástæður þess að ekki er unnt að uppfylla þau og hvort unnt sé með öðrum hætti að tryggja aðgengi þannig að markmið þessa hluta reglugerðarinnar séu uppfyllt.

Líkt og áður er rakið tók úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fyrir í máli nr. 101/2024 lögmæti sambærilegrar synjunar byggingarfulltrúa á umsókn kærenda um breytta skráningu eignar þeirra að Grenimel 25. Taldi nefndin að honum hefði verið rétt að synja umsókn kærenda, en þeir hefðu ekki brugðist við öllum athugasemdum sem komið hefðu fram af hans hálfu. Meðal þess sem út af hefði staðið og fjalla hefði þurft um í greinargerð hönnuðar væru ákvæði byggingarreglugerðar um lofthæð, íbúðir í kjallara og á jarðhæð sem og um flóttaleiðir og brunavarnir. Í kjölfarið sóttu kærendur að nýju um leyfi til að fá kjallaraíbúðina samþykkta og fylgdi með umsókninni greinargerð hönnuðar, dags. 11. febrúar 2025. Í henni er færður fram rökstuðningur fyrir því hvers vegna heimila eigi frávik frá gr. 6.1.2. um algilda hönnun, gr. 6.7.2. um lofthæð og birtuskilyrði og gr. 6.7.4. um íbúðir í kjallara og á jarðhæð. Jafnframt er tekið fram að í íbúðinni séu tvær flóttaleiðir í samræmi við meginmarkmið gr. 9.1.1., en björgunarop í stofu sé með hliðarhengdu opnanlegu fagi og nægilega stórt til þess að íbúar geti forðað sér.

Lágu svör byggingarfulltrúa við greinargerð hönnuðar fyrir við afgreiðslu málsins. Gerði hann engar athugasemdir við að lofthæð íbúðarinnar næði ekki því lágmarki sem gerður er áskilnaður um í gr. 6.7.2. í reglugerðinni. Þá verður ekki af gögnum ráðið að sérstaklega hafi verið tekið á rökstuðningi hönnuðar um flóttaleiðir, en fyrir lá sú afstaða Slökkviliðs höfuðborgar­svæðisins við meðferð fyrri umsóknar kærenda að flóttaleið um björgunarop teldist ekki full­gild flóttaleið og samræmdist ekki algildri hönnun. Hvað algilda hönnun varðaði féllst byggingar­fulltrúi ekki á að víkja skyldi frá ákvæðum byggingarreglugerðar um aðgengi og algilda hönnun sökum aldurs mannvirkis.  Þegar sótt væri um leyfi fyrir nýrri íbúð í kjallara þá þyrfti sú íbúð að uppfylla öll ákvæði þeirrar byggingarreglugerðar sem í gildi væri á þeim tíma. Varðandi íbúðir í kjallara var m.a. tekið fram að kjallari væri ekki hannaður sem íbúðarhúsnæði og að ef ekki væri hægt að uppfylla gildandi ákvæði reglugerðarinnar um íbúðarhúsnæði í kjallara þá væri ekki hægt að samþykkja þar íbúð. Eitt skilyrðanna væri að a.m.k. 25% af veggjum skyldu vera ofan frágengins yfirborðs lóðar, en aðrir veggir þó mest 0,5 m niður­grafnir sem ekki væri um að ræða í þessu tilviki.

Samkvæmt 1. mgr. gr. 6.7.4. er óheimilt að hafa sjálfstæða nýja íbúð þar sem útveggir hennar eru niðurgrafnir nema að uppfylltum öllum þeim skilyrðum sem tiltekin eru í liðum a–d. Þar kemur m.a. fram í a. lið að minnst ein hlið íbúðarrýmis skuli ekki vera niðurgrafin, þ.e. frágengið yfirborð jarðvegs skal vera neðar en gólfkóti íbúðarinnar. Jafnframt er tekið fram í b. lið að óniðurgrafin hlið skuli snúa móti suðaustri, suðri, suðvestri eða vestri og þar skuli vera stofa íbúðarinnar. Þá kemur fram í 3. mgr. að allar kröfur til íbúða sem fram koma í reglu­gerðinni gildi um íbúðir sem falli undir 1. mgr., þ.m.t. eru kröfur um birtuskilyrði, loftræsingu og flóttaleiðir. Í kæru kemur fram að íbúðin uppfylli ekki skilyrði ákvæðisins, en stofa íbúðarinnar snúi til suðurs, en sé niðurgrafin. Ekki sé mögulegt að grafa frá hlið hússins m.a. vegna aðkomu í sameiginlegan garð og vegna áhrifa á útlit hússins, svo sem nánar var lýst í greinargerð hönnuðar. Í greinargerðinni kom einnig fram að ógerlegt væri að gera íbúðina með aðgengi fyrir alla. Ekki var þó tilgreint hvort unnt væri með öðrum hætti að tryggja aðgengi þannig að markmið þessa hluta reglugerðarinnar væru uppfyllt, sbr. 3. mgr. gr. 6.1.5., er heimilar leyfisveitanda að víkja frá einstökum ákvæðum reglugerðarinnar að nánar greindum skilyrðum upp­fylltum. Að auki kemur fram í gildandi deiliskipulagi fyrir Mela, norðan Hagamels, staðgreinireit 1.540, sem tekur til umræddrar lóðar, að ekki sé heimilt að gera nýjar íbúðir í kjallara, en skv. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er meðal skilyrða fyrir útgáfu byggingarleyfis að mann­virkið og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu.

Að öllu framangreindu virtu var byggingarfulltrúa rétt að synja umsókn kærenda um breytingu á skráningu umræddrar íbúðar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. apríl 2025 um að synja umsókn um leyfi til að fá samþykkta íbúð í kjallara hússins að Grenimel 25 í Reykjavík.

59/2025 Gerðakot

Með

Árið 2025, föstudaginn 4. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 59/2025, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Ölfuss frá 27. nóvember 2023 um að samþykkja byggingaráform fyrir viðbyggingu íbúðar­húss á jörðinni Gerðakoti í Ölfusi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 11. apríl 2025, kærir arkitekt þá ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Ölfuss frá 27. nóvember 2023 að samþykkja byggingaráform fyrir viðbyggingu íbúðarhúss á jörðinni Gerðakoti í Ölfusi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Ölfusi 19. júní 2025.

Málavextir: Á árinu 2017 sótti þáverandi eigandi fasteignarinnar Gerðakots í Ölfusi um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu íbúðarhúss og var nafn kæranda tilgreint á aðaluppdráttum sem fylgdu umsókninni. Var byggingarleyfi gefið út af byggingarfulltrúa 11. október 2017. Í júní 2018 tilkynnti kærandi með tölvupósti til sveitarfélagsins að hann hefði dregið sig úr verkinu og bæri því enga ábyrgð á því lengur. Hinn 27. nóvember 2023 samþykkti byggingar­fulltrúi aðaluppdrætti fyrir viðbyggingu íbúðarhússins að Gerðakoti í Ölfusi. Á uppdrætti þeim er sýnir grunnmynd byggingaráformanna er kærandi tilgreindur sem hönnuður og upp­drátturinn dagsettur 22. ágúst 2017. Hinn 14. mars 2025 sendi kærandi tölvupóst til byggingarfulltrúa og tók fram að hann hefði nýlega orðið þess var að teikning í hans nafni hefði verið samþykkt af byggingarfulltrúa. Krafðist kærandi þess að leyfisveitingin yrði afturkölluð og teikningin „tekin út úr málinu.“

Málsrök kæranda: Bent er á að hinir samþykktu aðaluppdrættir séu ekki undirritaðir af aðal­hönnuði í samræmi við gr. 4.2.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Kærandi hafi unnið umræddan uppdrátt árið 2017 og hafi hann verið lagður inn til sveitarfélagsins sama ár. Vegna samskiptaörðuleika við eiganda Gerðakots og ógreiddra reikninga hafi kærandi hins vegar dregið sig úr verkinu og tilkynnt þáverandi byggingarfulltrúa um það. Teikning kæranda hafi síðar legið til grundvallar þeim byggingaráformum sem samþykktir hafi verið 27. nóvember 2023 án hans vitneskju. Þess sé krafist að samþykktin verði felld úr gildi, enda séu uppdrættirnir hvorki undirritaðir né lagðir fram að beiðni aðalhönnuðar eða með samþykki hans. Sömuleiðis sé farið fram á að leyfisveitingar sem byggi á teikningum kæranda verði felldar úr gildi og uppdrættirnir fjarlægðir af kortavef bæjarins.

Málsrök Sveitarfélagsins Ölfuss: Sveitarfélagið fer fram á frávísun málsins á þeim grundvelli að lögboðinn kærufrestur sé liðinn með vísan til 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Annað hvort verði að líta svo á að ákvörðun byggingarfulltrúa frá 27. nóvember 2023 hafi sætt opinberri birtingu í skilningi ákvæðisins eða þá að kæranda hafi mátt vera kunnugt um ákvörðunina þegar teikningar hafi verið birtar á vef sveitarfélagsins sama dag. Kæran varði ekki einungis hagsmuni sveitarfélagsins heldur einnig eiganda mannvirkisins sem verði að ákveðnum tíma liðnum að geta treyst því að samþykkt byggingaráform sæti ekki kæru. Líta verði til þess að eignarhald fasteignarinnar hafi breyst. Sé kæran ekki tæk til meðferðar úrskurðarnefndarinnar.

Einnig sé farið fram á frávísun málsins þar sem kærandi hafi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Hönnuðir hafi almennt ekki aðild að þeirri stjórnvaldsákvörðun byggingarfulltrúa að samþykkja uppdrætti þar sem slíkt hafi ekki í för með sér réttaráhrif fyrir hönnuði heldur eiganda mannvirkis, enda sé ábyrgð hönnuðar á verki ekki bundin við afgreiðslu sveitarfélagsins á umsókn um byggingarleyfi. Þannig beri hönnuður ábyrgð jafnvel þótt byggingarfulltrúi hafi talið hönnun fullnægjandi. Um sé að ræða ágreining sem sé á milli kæranda og upphaflegs eiganda Gerðakots sem leysa þurfi þeirra á milli, t.d. með höfðun innheimtu- eða skaðabótamáls.

Töluvert sé síðan kærandi hafi sent þáverandi byggingarfulltrúa tölvupóst þar sem hann hafi sagst vera komin út úr verkinu og bæri því enga ábyrgð. Ekki sé hægt að fallast á að til einhvers­konar haldsréttar stofnist hjá hönnuði þegar teikningar séu annars vegar. Geti tilkynningin ekki haft þau réttaráhrif að kæranda hafi verið unnt einhliða að afturkalla staðfestingu sína á því að hann hafi unnið það verk sem kæran beinist að. Þá leiði ekki af tilkynningunni að allar leyfis­veitingar séu ógildanlegar, hvort sem þær hafi átt sér stað fyrir eða eftir tilkynninguna.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Því er andmælt að kæra í máli þessu sé utan kærufrests, enda hafi kæran verið send innan mánaðar frá því að kæranda varð kunnugt um að uppdrættir í hans nafni hafi verið samþykktir og gerðir aðgengilegir á heimasíðu sveitarfélagsins. Birting fundargerða geti ekki talist opinber birting ef þeir sem í hlut eiga, eins og hönnuðir aðal­uppdrátta, fái ekki skilaboð frá stjórnvaldi um að ákvörðun hafi verið tekin. Venjan sé sú að senda hlutaðeigandi tilkynningu um afgreiðslu máls. Þá sé það í besta falli langsótt að halda því fram að höfundur byggingarteikningar sé ekki aðili máls þegar málið varði notkun á hugverki hennar. Í 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972 komi fram að höfundur eigi eignarrétt á teikningum og uppdráttum. Þá sé það málinu óviðkomandi að fasteignin Gerðakot hafi verið seld enda sé kærunni beint að sveitarfélaginu og þeim aðilum sem unnið hafi að byggingar­leyfisumsókninni frá 2023.

Niðurstaða: Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæran lýtur að. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber þó að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kæranda skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir slíka hagsmuni að fá úr ágreiningi leyst.

Í máli þessu er kærð ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Ölfuss frá 27. nóvember 2023 um að samþykkja byggingaráform fyrir viðbyggingu íbúðarhúss á jörðinni Gerðakoti. Telja verður að samþykkt byggingaráforma á grundvelli laga nr. 160/2010 um mannvirki hafi fyrst og fremst þýðingu þegar kemur að réttindum og skyldum eiganda mannvirkis og byggingar­leyfishafa, sbr. 15. gr. laganna. Þó er ljóst að slík ákvörðun getur snert lögvarða hagsmuni annarra aðila, einkum þá nágranna sem geta byggt kæruaðild á grenndarsjónarmiðum. Við mat á því hvort játa beri kæranda aðild að hinni kærðu ákvörðun er til þess að líta að við samþykkt byggingar­áforma er byggingarfulltrúa ekki skylt að sannreyna að framlagðir aðaluppdrættir stafi í reynd frá tilgreindum hönnuði, þótt honum beri vissulega að gæta þess að uppdrættir séu áritaðir af hönnuði, sbr. gr. 4.2.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Með hliðsjón af því og þar sem álitaefni um inntak og vernd höfundaréttar á grundvelli ákvæða höfundalaga nr. 73/1972 falla utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 130/2011, verður kröfu kæranda í máli þessu vísað frá vegna skorts á kæruaðild.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.