Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

124/2024 Oddagata

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 19. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 124/2024, kæra á ákvörðun Skipulagsráðs Akureyrarbæjar frá 14. febrúar 2024 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar vegna Oddagötu 11. Einnig er kærð ákvörðun Akureyrarbæjar um að samþykkja byggingar­áform og útgáfu byggingarleyfis vegna bílskúrs á lóðinni Oddagötu 11 sem tekin var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. ágúst 2024.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. október 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra Akralind ehf. Miðhrauni 13, Garðabæ og eigandi Oddagötu 13, Akureyri, þá ákvörðun skipulagsráðs Akureyrarbæjar frá 14. febrúar 2024 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar vegna Oddagötu 11. Einnig er kærð ákvörðun Akureyrarbæjar um að samþykkja byggingaráform og útgáfu byggingarleyfis vegna bílskúrs á lóðinni Oddagötu 11 sem tekin var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. ágúst 2024. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akureyrarbæ 5. október 2024.

Málavextir: Kærendur eru eigendur beggja eignarhluta fasteignarinnar að Oddagötu 13, Akureyri, sem liggur vestan og ofan við fasteignina að Oddagötu 11. Forsaga málsins er sú að með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 6. september 2022 tók gildi breyting á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar þar sem afmarkaður var byggingarreitur fyrir bílskúr á lóð Oddagötu 11 með þeim skilyrðum að hámark mænishæðar yrði 4,5 m.

Á fundi skipulagsráðs 14. febrúar 2024 var tekið fyrir erindi um breytingu á fyrrgreindu deiliskipulagi vegna Oddagötu 11 sem fól í sér að gólfkóti yrði lækkaður um 90 cm. Ekki var talið að breytingin hefði þau áhrif að fara þyrfti fram grenndarkynning. Var breytingin birt í B-deild Stjórnartíðinda 7. mars 2024. Er sú breyting hin kærða skipulagsákvörðun. Á fundi skipulagsráðs 24. apríl s.á. var enn samþykkt breyting á deiliskipulagi fyrir lóðina þar sem gert var ráð fyrir að byggingarreitur færist aftur um 1 m. Var breytingin grenndarkynnt fyrir eigendum Oddagötu 13 og Gilsbakkavegar 11. Engar athugasemdir bárust og tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. júlí 2024. Byggingarfulltrúi samþykkti síðan byggingaráform fyrir bílskúr á lóðinni 8. ágúst 2024, en byggingarleyfi hefur enn ekki verið gefið út.

 Málsrök kærenda: Kærandi, Akralind ehf. kveðst hafa fyrst fengið bréf frá sveitarfélaginu, dags. 14. desember 2021, í tilefni af grenndarkynningu vegna fyrirhugaðra breytinga á deili­skipulagi vegna Oddagötu 11 er varðaði bílskúrsbyggingu á lóðinni. Hafi hann skilað inn athugasemdum þar sem lagst var gegn umræddri deiliskipulagstillögu og bent á að fyrirhuguð bygging myndi koma til með að hafa gríðarleg grenndaráhrif með skertu útsýni yfir miðbæinn og til sjávar. Hafi félaginu svo verið tilkynnt með bréfi, dags, 16. ágúst 2022, að samþykkt hefði verið deiliskipulagsbreyting þar sem nú væri gert ráð fyrir byggingarreit fyrir bílgeymslu á lóðinni Oddagötu 11. Í ljósi athugasemda hefði samþykkið verið bundið því skilyrði að mesta hámarks mænishæð yrði 4,5, m sem væri lækkun miðað við það sem sótt hafði verið um.

Sótt hafi verið um aðra breytingu á umræddu deiliskipulagi 30. janúar 2024 og hafi erindið verið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs Akureyrarbæjar 14. febrúar s.á. Í fundargerð komi fram að breytingin fæli í sér að gólfkóti bílskúrs yrði lækkaður um 0,9 m og að um óverulega breytingu á deiliskipulagi væri að ræða. Hafi breytingin verið samþykkt og sérstaklega bókað að ekki væri talin þörf á grenndarkynningu samkvæmt 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hafi kærendum því hvorki verið tilkynnt né verið kunnugt um deiliskipulagsbreytinguna. Nýtt deiliskipulag hafi tekið gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 7. mars 2024.

Aftur hafi verið sótt um breytingu á deiliskipulaginu 12. apríl 2024. Í þeirri beiðni hafi verið óskað eftir að byggingareitur fyrir bílskúr yrði færður 1 m aftar á lóðinni. Hafi sú umsókn verið samþykkt á fundi skipulagsráðs 24. s.m. og bókað að breytingin skyldi grenndarkynnt lóðar­höfum Oddagötu 13. Hafi kærendum verið tilkynnt um þá breytingu sem þeir hafi ekki gert athugasemdir við en vilja sérstaklega benda á að í umræddri tilkynningu hafi ekkert komið fram um fyrri deiliskipulagsbreytingu varðandi gólfkóta. Síðari breytingin hafi svo tekið gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. júlí 2024. Hinn 16. s.m. hafi svo verið sótt um staðfestingu byggingaráforma og byggingarleyfi fyrir umræddum bílskúr sem samþykkt hafi verið á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. ágúst s.á.

Kærendum hafi fyrst orðið kunnugt um framangreint, þ.e. um þá breytingu á deiliskipulagi sem varðaði lækkun á gólfkóta sem tók gildi 7. mars 2024, fyrir rúmri viku síðan. Hafi annar kærenda, hlutafélagið, strax sent erindi á Akureyrarbæ þar sem þess var krafist að deili­skipulagsbreytingin og byggingarleyfi yrðu afturkölluð en ekki fengið efnisleg viðbrögð við erindinu.

Sú breyting sem tekið hafi gildi 7. mars 2024 virðist fela í sér að bílskúrinn sem fyrirhugað sé að reisa við Oddagötu 11 sé hærri en samkvæmt því deiliskipulagi sem áður gilti, þrátt fyrir að breytingin hafi átt að fela í sér lækkun gólfkóta um 0,9 m. Þetta megi glögglega sjá þegar skoðuð er sú lína sem dregin sé inn í prentaða útgáfu deiliskipulagsins. Þar sjáist að mænir bílskúrsins standi umtalsvert hærra á hinni nýju teikningu heldur en þeirri eldri. Á það megi þó benda að enginn hæðarkóti sé ritaður inn á deiliskipulagið og því sé erfitt að átta sig á því hver raunhæð hússins eigi að vera samkvæmt deiliskipulagi. Allt að einu megi ljóst vera að sam­kvæmt gildandi deiliskipulagi virðist raunhæð hússins ljóslega hærri en heimilt var áður.

Telji kærendur ljóst að ákvörðun um umrædda deiliskipulagsbreytingu frá 14. febrúar 2024, sem fól í sér lækkun gólfkóta um 0,9 m, hafi í raun falið í sér hækkun hússins án þess að breytingin væri grenndarkynnt og hafi því verið ólögmæt. Í því tilliti verði ekki fram hjá því litið að með breytingunni skertust hagsmunir kærenda með tilliti til útsýnis og skuggavarps, sbr. 3. mgr. 43. gr. laga nr. 123/2010. Þá verði einnig að líta til þess að hámarks mænishæð hafi verið í deiliskipulagi árið 2022 ákveðin 4,5 metrar frá gólfkóta sem hafi verið lækkun frá því sem sótt hafi verið um að undangengnum athugasemdum frá kærendum. Að mati kærenda sé ákvörðun um samþykkt á deiliskipulaginu sem tekin var á fundi skipulagsráðs 14. febrúar 2024 því ólögmæt og sé ógildanleg.

Telji úrskurðarnefndin að kæra þessi hafi borist að liðnum lögbundnum kærufresti samkvæmt 4. gr. laga nr. 130/2011 sé á því byggt af hálfu kærenda að undantekningaákvæði 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eigi við í málinu. Svo sem lýst sé að framan hafi kærendum orðið kunnugt um hina kærðu deiliskipulagsbreytingu rétt rúmri viku áður en kæra þessi sé rituð. Hafi þeim aldrei verið tilkynnt um breytinguna og um leið og þeim varð það kunnugt hafi erindi verið sent til Akureyrarbæjar þar sem krafist hafi verið afturköllunar hinna kærðu ákvarðana í tilraun til að leysa málið án þess að þurfa að fara með það fyrir kærunefndina.

Erindinu hafi ekki verið svarað af hálfu Akureyrarbæjar innan þess frests sem veittur hafi verið sveitarfélaginu og sé málið nú kært strax í kjölfar þess. Sé því að mati kærenda alveg ljóst að það sé sannarlega afsakanlegt, í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 37/1993, að kæran hafi ekki borist fyrr. Einnig telji kærendur ljóst að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, enda ljóst að hagsmunir þeirra skerðast alvarlega og varanlega, fái deiliskipulagsbreytingin og byggingarleyfið að standa óraskað. Væri slíkt ótækt og óheimilt án þess að kærendum væri veitt tækifæri á að hreyfa andmælum.

 Málsrök Akureyrarbæjar: Bent er á að við skoðun málsins hafi uppgötvast villa í gögnum deiliskipulagsbreytingar sem hafi eflaust valdið því að kærendur telji að verið sé að hækka umræddan bílskúr. Villan sé sú að ásýndarteikningin sem kærendur fengu senda og átti að sýna gildandi skipulag hafi ekki verið rétt, þ.e. húsið á efri ásýndarteikningunni virðist vera neðar á lóðinni en raun ber vitni. Neðri myndin sem sé breytingatillagan hafi hins vegar verið rétt. Myndin sem hefði átt að vera efri ásýndarmyndin í deiliskipulagsbreytingunni sé sú sem birt var í Stjórnartíðindum 6. september 2022. Umrædd villa hafi því engin áhrif á gildi skipu­lagsins. Niðurstaðan sé því að breytingin sem samþykkt hafi verið í skipulagsráði 14. febrúar 2024 hafi engin grenndaráhrif á eign kærenda og því hafi ekki verið þörf á að grenndarkynna deiliskipulagsbreytinguna.

 Bent sé á að í flestum tilvikum hafi nefndin ekki talið það afsakanlegt að kæra berist að kæru­fresti liðnum og vísað kærum frá, sbr. mál ÚUA nr. 100/2024, 99/2024, 77/2024 og 135/2023. Í niðurstöðum nefndarinnr í þessum málum segi að sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu teljist kærufrestur frá birtingu ákvörðunar.

Í þessu máli sé ekki um að ræða að stjórnvald hafi veitt rangar leiðbeiningar varðandi kærufrest. Málsástæður kærenda um að þeim hafi ekki verið tilkynnt um deiliskipulagsbreytinguna og að þeim hafi ekki verið kunnugt um hana fyrr en 14. október 2024 breyti engu hér um. Eigi það einnig við um þær málsástæður að kærendur hafi sent erindi til Akureyrarbæjar þar sem krafist hafi verið afturköllunar hinna kærðu ákvarðana í tilraun til að leysa málið án þess að þurfa að fara fyrir kærunefndina.

Bent sé á að samkvæmt 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sé heimilt að víkja frá kröfum 2. mgr. sömu greinar um grenndarkynningu „þegar um svo óveruleg frávik er að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn.“ Hafi skipulagsráð metið það svo að breytingin hefði ekki grenndaráhrif þar sem engin breyting yrði á hæð eða ásýnd fyrirhugaðs mannvirkis að vestanverðu, séð frá eign kærenda. Breytingin hafi því engin áhrif á kærendur hvað varði útsýni eða skuggavarp umfram það sem gildandi deiliskipulag gerði ráð fyrir. Því sé ljóst að ákvörðun um lækkun gólfkóta hafi ekki verið þess eðlis að hún breytti nokkru um skilmála eldra skipulags um landnotkun, nýtingar­hlutfall, útlit og form byggingarinnar.

—–

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum vegna málsins, en engar slíkar hafa borist úrskurðarnefndinni af hans hálfu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar skipulagsráðs Akureyrarbæjar frá 14. febrúar 2024 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar vegna Oddagötu 11 og ákvörðun Akureyrarbæjar um að samþykkja byggingaráform og útgáfu byggingarleyfis vegna bílskúrs á lóðinni Oddagötu 11 sem tekin var á afgreiðslufundi byggingar­fulltrúa 8. ágúst s.á. Kæruheimild er í 59. gr laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá fyrstu birtingu ákvörðunar skv. 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Auglýsing um gildistöku þeirrar deiliskipulags­breytingar sem deilt er um í máli þessu var birt í B-deild Stjórnartíðinda 7. mars 2024 og tók kærufrestur að líða degi síðar, sbr. 1. mgr. 8. gr. sömu laga. Kæra í máli þessu barst úrskurðar­nefndinni 21. október s.á. og var kærufrestur þá liðinn. Þá liggur fyrir að eftir gildistöku hinnar umþrættu deiliskipulagsbreytingar hefur önnur deiliskipulagsbreyting verið samþykkt. Sú breyting felur í sér að byggingarreitur fyrir bílskúr á umræddri lóð er færður 1 m aftar á lóðinni og tók hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. júlí 2024.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá skv. 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til efnismeðferðar. Verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki verður talið, eins og atvikum er háttað, að taka málið til meðferðar að liðnum kærufresti samkvæmt fyrrgreindum undan­tekningarákvæðum 28. gr. stjórnsýslulaga enda hefur lögmælt opinber birting ákvörðunar þá þýðingu að almenningi teljist vera kunnugt um hina birtu ákvörðun.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni á hin kærða samþykkt byggingaráforma sér stoð í gildandi deiliskipulagi umrædds svæðis og verður kröfu um ógildingu hennar því hafnað enda liggja ekki fyrir þeir meinbugir á ákvörðuninni sem raskað geta gildi hennar. Ekki liggur fyrir að byggingarleyfi hafi verið gefið út vegna byggingaráformanna.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar frá 8. ágúst  2024 um að samþykkja byggingaráform vegna bílskúrs á lóðinni Oddagötu 11.

95/2024 Grænlandsleið

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 19. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 95/2024, kæra á ákvörðun byggingafulltrúans í Reykjavík frá 15. ágúst 2024 um að fella niður áfallnar dagsektir og aðhafast ekki frekar vegna fram-kvæmda að Grænlandsleið 25.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. september 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Grænlandsleið 23, þá ákvörðun byggingar-fulltrúans í Reykjavík frá 15. ágúst s.á. að fella niður áfallnar dagsektir og að aðhafast ekki frekar vegna framkvæmda á þakverönd á bílskúr að Grænlandsleið 25. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 10. október 2024.

Málavextir: Kærandi er eigandi neðri hæðar hússins að Grænlandsleið 23. Forsaga málsins er sú að árið 2006 réðist eigandi Grænlandsleiðar 25 í framkvæmdir á þakverönd bílskúrs hússins með uppsetningu upphækkaðs blómabeðs með glerveggjum og burðarstoðum. Árið 2020 voru blómabeðin og glerveggirnir fjarlægðir og þess í stað sett upp grind sem ljós og blómapottar hafa verið hengd á. Kærandi gerði byggingaryfirvöldum viðvart um síðari framkvæmdirnar og í kjölfarið fór fram vettvangsskoðun sem leiddi í ljós að verið væri að reisa skjólvegg við austurmörk lóðarinnar.

Með bréfum embættis byggingarfulltrúa, dags. 4. júlí 2020 og 27. ágúst s.á., var eiganda Grænlandsleiðar 25 gert að leggja fram skýringar vegna framkvæmdanna innan tiltekins frests. Í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 4. október 2021, kom fram að hvorki hafi borist skýringar á framkvæmdunum né samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar. Þá var eiganda Grænlandsleiðar 25 aftur veittur frestur til að leggja fram skýringar vegna málsins. Hinn 27. júní 2023 ritaði byggingarfulltrúi eiganda Grænlandsleiðar 25 á ný bréf þar sem fram kom að umræddar framkvæmdir væru byggingarleyfisskyldar og krafðist þess að sótt væri um byggingarleyfi eða að lagt yrði fram undirritað samkomulag um framkvæmdina af hálfu eigenda að Grænlandsleið 23 innan 15 daga frá dagsetningu bréfsins. Með bréfi, dags. 18. júlí 2023, var eiganda Grænlandsleiðar 25 veittur 14 daga lokafrestur til að verða við kröfu byggingarfulltrúa. Lagðar yrðu á dagsektir að fjárhæð 25.000 kr. fyrir hvern þann dag sem drægist að verða við kröfunni. Eigandi Grænlandsleiðar 25 brást ekki við bréfunum og var honum tilkynnt um álagningu dagsekta með bréfi, dags. 5. september s.á. Á fundi byggingarfulltrúa 15. ágúst 2024 var ákveðið að fella niður áfallnar dagsektir og aðhafast ekki frekar vegna framkvæmdanna. Er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst hafa sent eiganda Grænlandsleiðar 25 erindi 19. maí 2020 þar sem bent hafi verið á að um óleyfisframkvæmd væri að ræða ásamt því að skorað væri á hann að stöðva byggingu skjólveggarins og koma honum í lögmætt horf, enda valdi hann skuggavarpi inn í íbúð kæranda. Erindinu hafi ekki verið svarað og framkvæmdir haldið áfram. Fyrir liggi að byggingarleyfi fyrir umþrættum skjólvegg hafi ekki verið veitt, hann sé ekki undanþeginn byggingarleyfi samkvæmt e-lið 1. mgr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og samkomulag um vegginn samkvæmt 3. mgr. gr. 7.2.3. reglugerðarinnar sé ekki til staðar. Því sé ljóst að hvorki hafi ákvæðum laga nr. 160/2010 verið fylgt né byggingarreglugerðar, enda hafi byggingarfulltrúinn í Reykjavík sannanlega beitt því þvingunarúrræði sem felist í álagningu dagsekta. Þegar beiting þeirra hefði ekki haft tilætluð áhrif hefði embættið endurskoðað afstöðu sína og ekki talið ástæðu til að aðhafast frekar. Embættið telji nú óleyfisframkvæmdina hvorki valda hættu né hafa skaðleg áhrif á heilsu nágranna. Þá hafi í ákvörðuninni verið vísað til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 til stuðnings framangreindum viðsnúningi. Kærandi telji að hin kærða ákvörðun sé haldin verulegum annmörkum og samræmast illa form- og efnisreglum stjórnsýsluréttarins. Óleyfisframkvæmdin valdi verulegu skuggavarpi í og við eign kæranda og sé ekki tekið tillit eða afstaða til þess í hinni kærðu ákvörðun sem fari í bága við 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga. Þá sé ótalinn hinn verulegi og aðfinnsluverði dráttur á meðferð málsins, sbr. 9. gr. laganna.

 Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er tekið fram að hin kærða stjórnvaldsákvörðun feli í sér niðurfellingu álagðra dagsekta á eigendur að Grænlandsleið 25 og snúi ákvörðunin eingöngu að þeim enda hafi þeir einir beinna, verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta tengda umræddri stjórnvaldsákvörðun. Ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki sé háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið sé fram í athugasemdum við frumvarp það sem orðið hafi að þeim lögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða sé metin í hverju tilviki, meðal annars með tilliti til meðalhófs. Ákvæði 55. og 56. gr. laganna gefi stjórnvöldum kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum. Einstaklingum sé ekki tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingsbundinna hagsmuna, enda séu þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína.

Ákvörðun byggingarfulltrúa um afturköllun ákvörðunar um álagningu dagsekta eigi sér stoð í 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en í 1. mgr. komi fram að stjórnvald geti afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði, sem tilkynnt hafi verið aðila máls, þegar það sé ekki til tjóns fyrir aðila eða ákvörðun sé ógildanleg. Ekki verði séð að umdeild ákvörðun sé til tjóns fyrir eigendur Grænlandsleiðar 25 þar sem um ívilnandi ákvörðun sé að ræða og því hafi byggingarfulltrúa verið heimilt að afturkalla hana. Auk þess sé öryggis- og almanna-hagsmunum ekki raskað með framkvæmdinni að mati byggingarfulltrúa og því sé heimilt að afturkalla ákvörðunina með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

Við mat á ákvörðun um að afturkalla ákvörðun byggingarfulltrúa um álagningu dagsekta hafi verið skoðað hvort ákvörðunin væri nægilega reist á réttum lagagrundvelli. Hvorki í lögum um mannvirki né byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé að finna heimild til að skylda aðila til að sækja um byggingarleyfi, líkt og hafi verið gert með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 5. september 2023.

Athugasemdir eigenda Grænlandsleiðar 25: Framkvæmdaraðili bendir á að umrædd framkvæmd sé ekki byggingarleyfisskyld. Enginn skjólveggur sé á lóðinni eða lóðamörkum en eigandi efri hæðar Grænlandsleiðar 23 hafi reist girðingu á lóðamörkum. Í stað girðingar hafi á bílskúrsþaki Grænlandsleiðar 25 verið sett upphækkað blómabeð með glerveggjum og burðarstoðum og fullkomin sátt verið um þá framkvæmd en hún hafi farið fram áður en kærandi flutti í íbúð sína. Árið 2020 hafi komið fram fúaskemmdir í burðarstoðum. Í stað glerveggjarins og blómabeðs hafi þá verið sett upp grind þar sem hengja mætti upp lýsingu og blómapotta. Enginn skjólveggur hafi verið reistur heldur hafi um endurnýjun á þegar samþykktri framkvæmd verið að ræða. Því sé hafnað að framkvæmdin leiði til skuggavarps en það sé þá óverulegt. Þá hafi kærandi ekki lagt fram gögn sem staðfesti skuggavarp af burðarstoðum. Framkvæmdin valdi hvorki hættu né sé hún skaðleg heilsu manna. Af því leiði að öryggis- og almannahagsmunum sé ekki raskað. Þá sé bent á að kærandi teljist ekki aðili máls í skilningi stjórnsýsluréttar og skorti þar af leiðandi heimild til að kæra hina umdeildu ákvörðun. Ákvörðunin beindist aðeins að eigendum Grænlandsleiðar 25.

Samþykki hafi legið fyrir vegna hinnar umdeildu framkvæmdar frá fyrri eiganda Grænlandsleiðar 23 og ákvæði byggingarreglugerðar því verið uppfyllt. Stoðir með glerveggjum hafi verið uppi þegar kærandi hafi flutt inn í íbúð sína að Grænlandsleið 23. Sú framkvæmd sem farið hafði fram á árinu 2020 hafi verið endurnýjun stoða vegna fúa í þeim stoðum sem fyrir voru og því hafi framkvæmdirnar ekki aukið meint skuggavarp eða útsýni gagnvart kæranda. Glerveggurinn hafi ekki verið settur upp aftur og því væri ekki um skjólvegg að ræða.

 Viðbótarathugasemdir kæranda/kærenda: Kærandi bendir á að þakgarður Grændsleiðar 25 með skjólveggjum í tvær áttir valdi skuggavarpi á hlið hússins að Grænlandsleið 23. Eigendur Grænlandsleiðar 25 hafi ekki fengið skriflegt leyfi frá kæranda vegna framkvæmdanna. Skjólveggirnir séu ekki eðlilegt viðhald á þeim framkvæmdum sem fyrir höfðu verið, um nýja framkvæmd sé að ræða. Skjólveggirnir hafi áður verið úr plexigleri, festir á burðarstólpa úr við meðfram gróðurkössum. Sú framkvæmd hafi ekki valdið skuggavarpi á lóð kæranda. Þá bendir kærandi á að framkvæmdir að Grænlandsleið 25 séu aðeins hálfnaðar og að þeim sé ekki lokið.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. ágúst 2024 að fella niður áfallnar dagsektir vegna framkvæmda að Grænlandsleið 25 og að aðhafast ekki frekar vegna þeirra framkvæmda.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Kærandi í máli þessu er eigandi íbúðar á neðri hæð hússins að Grænlandsleið 23. Framkvæmdir þær sem um ræðir í máli þessu eru á þaki bílskúrs húss á aðliggjandi lóð og eru sýnilegar frá íbúð kæranda. Kunna framkvæmdirnar því að hafa grenndaráhrif gagnvart fasteign hans. Af gögnum málsins verður jafnframt ráðið að fyrirsvarsmaður kæranda hafi á sínum tíma vakið athygli byggingaryfirvalda á umdeildum framkvæmdum og átt í nokkrum samskiptum við þau af því tilefni og óskað eftir upplýsingum um framvindu málsins. Af framangreindum ástæðum verður kæranda því játuð kæruaðild í máli þessu.

Í 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að stjórnvald geti afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði sem tilkynnt hefur verið aðila máls, þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila eða ákvörðun er ógildanleg. Eins og fram hefur komið taldi byggingarfulltrúi skilyrði fyrir afturköllun máls samkvæmt 25. gr. laganna uppfyllt þar sem ekki væri um að ræða íþyngjandi ákvörðun og þar að auki væri ákvörðunin ekki reist á réttum lagagrundvelli og því ógildanleg.

Það er hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Er nánar kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. laganna að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt. Þá er fjallað um aðgerðir til að knýja fram úrbætur í 56. gr. laganna. Er þar m.a. tekið fram í 1. mgr. að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant að mati byggingarfulltrúa eða frágangur ekki samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni eignarinnar aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Sé það ekki gert er heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað þess sem vanrækt hefur að vinna verkið, sbr. 2. og 3. mgr. nefnds lagaákvæðis.

Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum er tekið fram að sú breyting hafi verið gerð frá fyrri lögum að byggingarfulltrúa sé heimilt en ekki skylt að beita þvingunarúrræðum. Þar kemur fram að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða er því háð mati stjórnvalds hverju sinni og gefur sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Fer það því eftir atvikum hvort nefndum þvingunarúrræðum verði beitt í tilefni af framkvæmd sem telst vera ólögmæt. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingshagsmuna enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting þvingunarúrræða sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki fyrrgreindum lagaheimildum og fylgja þarf meginreglum stjórnsýsluréttarins, s.s. um rannsókn máls og að málefnaleg sjónarmið búi að baki ákvörðun.

Hin kærða ákvörðun embættis byggingarfulltrúa var studd þeim rökum að öryggis- og almannahagsmunum sé ekki raskað með umdeildri framkvæmd enda valdi hún ekki hættu eða sé skaðleg heilsu nágranna. Þá verður ekki séð að það sé til tjóns fyrir aðila málsins, þ.e. framkvæmdaraðila, að fella niður álagningu dagsekta, sbr. 1. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga, enda er kærandi ekki sá aðili sem sú ákvörðun beindist að. Þá eiga einstaklingar eins og áður greinir ekki lögvarinn rétt til þess að knýja byggingaryfirvöld á um beitingu þvingunarúrræða.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að ákvörðun byggingarfulltrúa um að fella niður dagsektir vegna framkvæmda að Grænlandsleið 25 og að aðhafast ekki frekar í málinu sé studd haldbærum rökum og ekki verður séð að umdeildar framkvæmdir raski almannahagsmunum. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar af þeim sökum hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. ágúst 2024 um að fella niður áfallnar dagsektir og aðhafast ekki frekar vegna framkvæmda á þaki bílskúrs að Grænlandsleið 25.

120/2024 Haðarstígur

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 19. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 120/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. júní 2024, um að samþykkja umsókn um leyfi til að hækka þak, byggja kvisti á báðum hliðum, lækka gólf í kjallara og grafa frá parhúsi nr. 14 á lóð nr. 12–14 við Haðarstíg.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. október 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi íbúðar að Njarðargötu 39, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. júní 2024 að samþykkja umsókn um leyfi til að hækka þak, byggja kvisti á báðum hliðum, lækka gólf í kjallara og grafa frá parhúsi nr. 14 við Haðarstíg. Byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum var gefið út 13. september 2024. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 21. október 2024.

Málavextir: Hinn 27. apríl 2023 var lögð inn umsókn til byggingarfulltrúa um byggingarleyfi til að hækka þak og mæni, breyta innra fyrirkomulagi og koma fyrir kvistum og svölum á rishæð ásamt því að breyta innra fyrirkomulagi á 1. hæð, útbúa nýjar svalir í suður, lækka gólf í kjallara og koma þar fyrir dyrum út í garð og síkka núverandi glugga á parhúsinu að Haðarstíg 14. Málið var tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. júlí 2023 og því vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 21. júlí 2023 var málinu vísað til umsagnar verkefnastjóra og á afgreiðslufundi 14. september s.á. lagði skipulagsfulltrúi fram umsögn í málinu þar sem ekki var fallist á erindið í þeirri mynd sem það barst þar sem það var talið valda neikvæðum grenndaráhrifum á aðliggjandi lóðir og fasteignir.

Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 5. október 2023 var samþykkt að grenndarkynna framan­greinda byggingarleyfisumsókn. Grenndarkynningin fór fram frá 6. nóvember til 4. desember s.á. og bárust fjórar athugasemdir á kynningartíma. Að lokinni grenndarkynningu var málið lagt fyrir á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 7. desember 2023 þar sem því var vísað til umsagnar verkefnastjóra. Eftir yfirferð verkefnastjóra og skipulagsfulltrúa á málinu var þakkóti lækkaður og umfang stækkunar á bakhlið hússins minnkað. Málinu var síðan vísað til afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs þar sem það var samþykkt 28. febrúar 2024. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 4. júní 2024 var umsóknin svo breytt samþykkt og var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði 13. júní s.m. Byggingarleyfi var útgefið 13. september 2024.

Málsrök kæranda: Vísað er til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 14. september 2023, um að ekki væri fallist á umdeilt erindi í þeirri mynd sem það væri, þar sem það valdi neikvæðum grenndaráhrifum á aðliggjandi lóðir og fasteignir. Hins vegar hafi erindið verið grenndarkynnt þar sem kærandi og eigandi fasteignar að Njarðargötu 39 og 41 skiluðu inn neikvæðum athugasemdum vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar. Í kjölfar grenndarkynningar hafi kærandi ítrekað sent skriflegar fyrirspurnir á verkefnastjóra um stöðu máls, næstu skref, kæruferla og réttarstöðu að öðru leyti. Þeim fyrirspurnum hafi verið svarað 15. febrúar 2024 þar sem fram komi að kærandi fái bréf um afgreiðslu málsins. Ekki sé hægt að koma með frekari athugasemdir við erindið, það verði hægt að kæra niðurstöðuna en kæruleiðbeiningar muni koma fram í bréfinu. Í tölvupósti 1. mars s.á. svari verkefnastjóri kæranda með því að skrifa „þið komið til með að fá bréf sem segir ykkur hvernig þið getið kært erindið“. Hafi kærandi svarað samdægurs og bent á að hún muni kæra. Í tölvupósti frá verkefnastóra 2. apríl 2024 hafi einnig komið fram að byggingarfulltrúi komi til með að senda bréf með kæruleiðbeiningum þegar málið hafi fengið endanlega afgreiðslu hjá þeim. Það sé ekki hægt að kæra málið fyrr en afgreiðsla þess liggi fyrir. Málið sé í frestun hjá byggingarfulltrúa þar sem vísað sé til athugasemda á teikningum.

Byggingarleyfi hafi verið gefið út 13. september 2024 samkvæmt tölvupósti frá byggingar­fulltrúa, dags. 3. október 2024, eftir skriflega fyrirspurn kæranda degi áður. Umrædd tilkynning um veitingu byggingarleyfisins hafi svo borist 10 dögum eftir að kærandi hafði sent skriflega fyrirspurn um stöðu málsins eða 23. september 2024, fyrst til verkefnastjóra og síðan með öðrum tölvupósti til byggingarfulltrúa, en þeim tölvupósti hafi ekki verið svarað. Hafi því tilkynning um veitingu framangreinds byggingarleyfis borist kæranda tæplega mánuði eftir að leyfið var sannarlega veitt.

Í kjölfar veitingu byggingarleyfisins hafi kærandi sent tölvupóst á verkefnastjóra, þar sem hún kveðst ekki enn hafa fengið bréf frá byggingarfulltrúa með nauðsynlegum leiðbeiningum vegna málsins. Verkefnastjóri hafi þá bent sér á að hafa samband við byggingarfulltrúa vegna málsins. Í skipulagsgáttinni, 11. október 2024 þegar kæra þessi var rituð, sé tiltekið að mál varðandi Haðarstíg 14 sé enn í vinnslu. Valdi það töluverðri réttaróvissu á meðal þeirra nágranna sem sent hafi inn athugasemdir vegna framkvæmdanna. Líkt og áður greini hófust framkvæmdir 3. október 2024 eða sama dag og tölvupóstur barst frá byggingarfulltrúa þar sem fram komi dagsetning byggingarleyfisins og að kærufrestur skuli vera mánuður án þess að frekari leið­beiningar séu veittar, t.d. við hvaða tímamark sé verið að miða.

Hafi kærandi óskað í kjölfarið eftir gögnum er varði framangreint byggingarleyfi og svörum um hvers vegna tölvupóstur með nauðsynlegum leiðbeiningum um kæruleiðir og réttarstöðu hafi ekki enn borist. Hafi verkefnastjóri svarað þeim tölvupósti en ekki byggingarfulltrúi sem kæranda hafði áður verið leiðbeint um að ætti að beina erindi að. Í tölvupóstinum kveðst verkefnastjórinn ætla að taka málið til skoðunar og tiltekur við hvaða tímamark kæruheimild miði. Þá hafi verið liðnir tuttugu dagar frá útgáfu byggingarleyfisins og aðeins tíu dagar til stefnu til að kæra framangreinda leyfisveitingu til úrskurðanefndar umhverfis- og auðlindamála. Frekari skriflegum fyrirspurnum kæranda hafi ekki verið svarað. Þá liggi fyrir að nauðsynlegar leiðbeiningar um réttarstöðu og kæruleiðir hlutaðeigandi nágranna hafi ekki borist, hvorki frá byggingarfulltrúa né framangreindum verkefnastjóra.

Grenndarréttarreglur leggi ríkar kröfur á að stjórnvöldum, sem falið sé að veita byggingarleyfi sem óhjákvæmilega hafi í för með sér óþægindi fyrir hlutaðeigandi nágranna, rannsaki mál til hlítar svo unnt sé að leggja fullnægjandi mat á atvik og aðstæður málsins og þar með þolmörk þeirra óþæginda sem um ræði. Heimiluð framkvæmd komi til með að hafa í för með sér skuggamyndun og skerðingu á útsýni sem hafi óumflýjanlega áhrif á verðmat nærliggjandi fasteigna. Þá liggi fyrir álit fasteignasala og arkitekts þar sem ljóst sé að framangreindar fram­kvæmdir muni hafa í för með sér töluvert óhagræði fyrir fasteign kærenda að Njarðargötu 39.

Í rökstuðningi byggingarfulltrúa verði ekki séð að tekið hafi verið tillit til framangreindra athugasemda og sé þá sérstaklega vísað til umsagnar verkefnastjóra, þar sem fram komi að ólíklegt sé að innsýn aukist í glugga íbúða að Njarðargötu 39 og að ónæði verði vegna svala á suðurhlið hússins. Hafi umsögnin verið lögð fram án þess að aðstæður á vettvangi væru skoðaðar. Af því leiði að umsagnaraðilar byggingarleyfisins hafi ekki kynnt sér aðstæður áður en leyfi var veitt þrátt fyrir fjölda neikvæðra athugasemda hlutaðeigandi nágranna sem unnar hafi verið meðal annars af tveimur arkitektum, þ.e. eins eiganda á Njarðargötu 41 og arkitekts sem hafi komið á staðinn og skoðað allar aðstæður í aðdraganda þess að umsögn var skilað inn.

Krafa um ógildingu byggingarleyfis og samþykki byggingaráforma byggingarfulltrúa 4. júní 2024 sé byggð á því að málmeðferð byggingarfulltrúa sé ekki í samræmi við lög. Máls­meðferðin brjóti gegn meginreglum stjórnsýsluréttar og öllum þeim sem gert hafi athugasemdir við framkvæmdina. Í umsagnarferli hafi hvorki kæranda né öðrum verið leiðbeint um rétt sinn með tilhlýðilegum hætti eða kynnt niðurstaða byggingarfulltrúa. Hafi viðkomandi því hvorki notið andmælaréttar né leitað lögbundinna kæruleiða. Leyfisveitandi hafi að sama skapi ekki sinnt rannsóknarskyldum sínum í málinu með því að hafa virt athugasemdir í lögbundnu umsagnarferli að vettugi og ekki tekið afstöðu til þeirra.

 Málsrök Reykjavíkurborgar: Bent er á að við framkvæmd grenndarkynningar hinnar kærðu umsóknar hafi verið farið að öllu í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010. Fyrir mistök hafi þeim aðilum sem sendu inn athugasemdir ekki verið sent bréf með kæru­leiðbeiningum og sé beðist velvirðingar á því. Þess verði gætt að skerpa verkferla varðandi sendingar slíkra bréfa og verði farið yfir verklagið við uppfærslu stöðu mála í skipulagsgáttinni úr „Í vinnslu“ í „Lokið“. Þrátt fyrir að misbrestur hafi orðið á sendingu bréfsins hafi kærandi verið meðvituð um málið innan kærufrests og fengið svör við spurningum sínum varðandi stöðu málsins og upplýsingar um kæruleið, bæði frá verkefnastjóra skipulagsfulltrúa og skrifstofufulltrúa hjá byggingarfulltrúa. Auk þess vísist til heimasíðu borgarinnar þar sem hægt sé að fylgjast með stöðu mála og finna má allar fundargerðir.

 Málið eigi sér töluverða forsögu þar sem ýmsar útfærslur á breytingum á bæði Haðarstíg 12 og 14 hafi borist byggingar- og skipulagsfulltrúa frá árinu 2020. Upphaflega hafi verið sótt um að hækka mæni hússins á lóð nr. 14 við Haðarstíg og setja kvisti á hvora hlið, setja svalir á 1. hæð hússins, stækka glugga á suðausturhlið í kjallara og endurskipuleggja rishæð. Einnig hafi verið óskað eftir samþykkt á áður gerðum breytingum á innra skipulagi í kjallara og á 1. hæð ásamt ísetningu á glugga og hurð sem snúi að garði. Umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 21. janúar 2022 hafi sérstaklega tilgreint að ekki væri heimilað að útbúa séríbúð í kjallara og mælst gegn því að grafið yrði frá kjallara hússins með þeim hætti sem sýnt var í inn kominni fyrirspurn.

 Í nýjustu byggingarleyfisumsókninni, dags. 27. apríl 2023, hafi verið fallið frá því að sækja um íbúð í kjallara. Sótt hafi verið um að hækka þak og mæni, breyta innra fyrirkomulagi og koma fyrir kvistum og svölum á rishæð. Breyta innra fyrirkomulagi á 1. hæð ásamt nýjum svölum í suður og lækka gólf í kjallara og koma þar fyrir dyrum út í garð og síkka núverandi glugga. Fremst í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 15. febrúar 2024, hafi fyrir mistök verið fjallað um að sótt væri um að innrétta íbúð í kjallara hússins. Neðar í umsögninni komi þó skýrt fram: „Það er ekki verið að sækja um fjölgun íbúða í húsinu, ekki er heimilað að hafa íbúð í kjallara. Í umsókn er sótt um breytingar á einbýlishúsi. Jákvætt var tekið í lækkun gólfs í kjallara til að auka notkunarmöguleika kjallarans.“ Í útgefnu byggingarleyfi komi einnig skýrt fram: „Sótt er um leyfi til að hækka þak, byggja kvisti á báðum hliðum, lækka gólf í kjallara og grafa frá parhúsi nr. 14 á lóð nr. 12-14 við Haðarstíg“. Því liggi skýrt fyrir að ekki hafi verið veitt samþykki fyrir því að útbúa íbúð í kjallara hússins að Haðarstíg 14 og ekkert bendi til þess að innra skipulag þess gefi það til kynna að eigendur séu að fara bakdyraleið að því að breyta fasteigninni í tvær íbúðir.

 Við vinnslu málsins hjá skipulagsfulltrúa hafi verkefnastjóri embættisins farið á staðinn og kynnt sér aðstæður í götunni fyrir framan og aftan húsið að Haðarstíg 14. Brugðist hafi verið við inn komnum athugasemdum með því að lækka þakkótann úr 61,45 í 60,50 svo hæð hússins væri í samræmi við hæðir húsanna í götunni. Parhúsið við Haðarstíg 12-14 sé hluti af heillegri röð parhúsa við suðurhlið götunnar sem öll séu í grunninn byggð eftir sömu teikningunni. Þakbreytingar hafi verið gerðar á öllum húsum í götunni öðrum en parhúsinu að nr. 12-14. Að lokinni grenndarkynningu hafi jafnframt umfang stækkunarinnar á suðausturhlið hússins, sem snúi að Njarðargötu 39, verið minnkað svo skuggavarp hússins yrði sambærilegt og á Haðarstíg 16-18. Því sé ljóst að tekið hafi verið tillit til þess að um mikið nábýli sé að ræða og komið til móts við athugasemdirnar sem bárust vegna málsins.

Íbúar í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á næstu byggð sem haft geti í för með sér aukið skuggavarp eða aðrar breytingar á umhverfi íbúanna. Telja verði að sú skerðing sem íbúar í nágrenni við Haðarstíg 14 verði fyrir sé ekki umfram það sem íbúar í þéttbýli megi almennt búast við. Telji Reykjavíkurborg að í umþrættu máli séu ekki til staðar verulegir annmarkar sem réttlætt geti ógildingu hins útgefna byggingarleyfis og ákvörðun byggingarfulltrúa frá 13. september 2024.

 Málsrök leyfishafa: Bent er á að erindið var grenndarkynnt og kærandi hafi 22. nóvember 2023 gert ítarlegar athugasemdir við framkvæmdina. Því sé ljóst að kærandi hafi þegar í ferli málsins komið athugasemdum sínum á framfæri, sem skipulagsfulltrúi hafi hafnað, öfugt við ýmsar aðrar athugasemdir í kjölfar grenndarkynningar sem tekið hafi verið tillit til.

Að lokinni grenndarkynningu hafi erindið verið lagt fram að nýju á afgreiðslufundi byggingar­fulltrúa 18. júlí 2023 þar sem sótt var um leyfi til að hækka þak, byggja kvisti á báðum hliðum, lækka gólf í kjallara og grafa frá húsi parhúss nr. 14 á lóð nr. 12-14 við Haðarstíg. Samþykkt hafi verið á fundi skipulagsfulltrúa 23. nóvember s.á. að koma til móts við athugasemdir nágranna með því að lækka suðausturhlið svo skuggavarp hússins sé sambærilegt og á Haðarstíg 16-18 og lækka húsið svo það sé ekki hærra en húsin sitthvoru megin við.

Framkvæmdin, sem sé þegar hafin, byggi á byggingaleyfi dags. 13. september 2024, grund­vallað á ofangreindri samþykkt skipulagsfulltrúa. Þar sem kæran byggi alfarið á því að kærandi hafi ekki komið sjónarmiðum sínum og athugasemdum að við veitingu byggingarleyfis og afgreiðslu skipulagsfulltrúa, en ljóst sé af gögnum málsins að svo er ekki, sé sú krafa gerð að kæru sé vísað frá, en til vara hafnað.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að framlagðar teikningar gefi villandi mynd af raunverulegri fjarlægð á milli húsanna að Haðarstíg 14 og Njarðargötu 39. Að öðru leyti eru ítrekuð fyrri sjónarmið. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

—–

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. júní 2024 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að hækka þak, byggja kvisti á báðum hliðum, lækka gólf í kjallara, grafa frá parhúsi nr. 14 á lóðinni Haðarstíg 12–14 og gefa út byggingar­leyfi í skjóli þeirrar samþykktar 13. september 2024. Kæruheimild er í 59. gr. laga um mann­virki nr. 160/2010.

 Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Af gögnum málsins má ráða að kærandi hafi ítrekað sent skriflegar fyrirspurnir á verkefnastjóra, m.a. um stöðu málsins, næstu skref, kæruferla og réttarstöðu að öðru leyti. Þeim fyrirspurnum var svarað með þeim hætti að kærandi fengi bréf um afgreiðslu málsins og í því bréfi yrði leiðbeint um kæruleiðir. Tilkynning um samþykki umsóknar og útgáfu framangreinds byggingarleyfis barst kæranda þó ekki fyrr en tæplega mánuði eftir að leyfið var gefið út, eða hinn 3. október 2024, en þá var málið enn sagt í vinnslu í skipulagsgátt borgarinnar. Samkvæmt því verður að telja að kæra í máli þessu, sem barst úrskurðarnefndinni hinn 11. október 2024, hafi borist innan lögbundins kærufrests og verður það því tekið til efnismeðferðar.

Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram að þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir, eins og á við í máli þessu, getur sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Samkvæmt 2. mgr. nefndrar greinar fer grenndarkynning fram með þeim hætti að nágrönnum sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta af framkvæmdum samkvæmt leyfisumsókn eða tillögu að breytingu á skipulagsáætlun er gefinn kostur á að tjá sig um þær innan tilskilins frests sem skal vera a.m.k. fjórar vikur. Að þeim fresti liðnum og þegar sveitarstjórn hefur afgreitt málið skal þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar.

Líkt og fram kemur í málavöxtum var umrædd byggingarleyfisumsókn grenndarkynnt með fjögurra vikna athugasemdafresti þar sem kærandi kom athuga­semdum sínum á framfæri. Hins vegar liggur fyrir að þrátt fyrir ítrekaða tölvupósta frá kæranda með fyrirspurn um væntanlegt framhald og niðurstöðu málsins fórst það fyrir að tilkynna þeim sem tjáðu sig á kynningartíma um niðurstöðu og mögulegar kæruleiðir þegar erindið hafði fengið endanlega afgreiðslu hjá byggingarfulltrúa. Sá ágalli á málsmeðferð verður þó ekki talin raska gildi hinnar kærðu ákvörðunar enda varð kærandi ekki fyrir réttarspjöllum af þeim sökum. Hann fékk að lokum tilkynningu um lyktir málsins ásamt svörum við innsendum athugasemdum og kom að kæru í máli þessu. Að öðru leyti var meðferð málsins í samræmi við 44. gr. skipulagslaga.

Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 15. febrúar 2024, er tekið fram að parhúsið við Haðarstíg 12-14 sé hluti af heillegri röð parhúsa við suðurhlið götunnar sem öll eru í grunninn byggð eftir sömu teikningunni. Þakbreytingar hafi verið gerðar á öllum húsunum í götunni fyrir utan húsið nr. 12-14. Þær breytingar séu jafn fjölbreyttar og húsin eru mörg en hvergi sé að sjá samhæfða útfærslu milli tveggja aðliggjandi parhúsa. Þá kemur fram að skuggavarp fylgdi umsóttum breytingum sem sýni að þær komi til með að hafa áhrif í bakgarði húsanna við Njarðargötu 39 og 41. Skipulagsfulltrúi mælti gegn því að kynntar teikningar yrðu samþykktar óbreyttar og mælti með því að minnka umfang byggingarinnar. Lagði hann til að lækka suðausturhlið hússins en hún er bakhliðin sem snýr að Njarðargötu 39 svo skuggavarp yrði sambærilegt og  frá Haðarstíg 16-18. Einnig var lagt til að húsið yrði lækkað svo það yrði ekki hærra en húsin sitthvoru megin við.

Á uppfærðum aðaluppdráttum, dags. 21. febrúar 2024, má sjá að brugðist hafi verið við inn komnum athugasemdum með því að lækka þakkóta hússins úr 61,45 í 60,50 svo hæð þess væri í samræmi við hæðir húsanna í götunni. Að lokinni grenndarkynningu var jafnframt dregið úr umfangi stækkunarinnar á suðausturhlið hússins svo skuggavarp yrði sambærilegt og frá Haðarstíg 16-18. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 4. júní 2024, þar sem hin kærða ákvörðun var tekin, voru lagðir fram endanlegir aðaluppdrættir og skuggavarpsteikningar.

Samkvæmt jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal við úrlausn mála gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Í því felst að aðilar við sambærilegar að­stæður skuli hljóta samsvarandi afgreiðslu. Reglan á að hindra að ákvarðanir verði tilviljunar­kenndar, byggðar á geðþótta eða annarlegum sjónarmiðum.

Lóðin Haðarstígur 14 er 92 m2 og húsið á lóðinni 92,8 m2 og er nýtingarhlutfall lóðarinnar fyrir breytingu 1,01. Eftir heimilaðar breytingar verður byggingin 131,2 m2 og nýtingarhlutfall lóðarinnar 1,43. Lóðin sem tilheyrir húsi nr. 12, sem er hinn hluti parhússins er 147,8 m2 og húsið á lóðinni 76,7 m2 , en þar er stækkun hússins fyrirhuguð. Samkvæmt fasteignaskrá HMS má ætla að hús við götuna séu um 130 m2 en í nokkrum tilfellum stærri. Nýtingarhlutfall lóðarinnar Haðarstígs 8 er 1,34, á lóðum nr. 10 og 16 er nýtingarhlutfallið 0,93 og á lóðinni nr. 18 er það 1,48. Verður því stærð hússins og nýtingarhlutfall lóðar sambærileg við parhúsin sem standa sitthvoru megin við parhúsið á Haðarstíg 12-14 og önnur hús í sömu götu.

Af gögnum málsins verður ráðið að grenndaráhrif umdeildra breytinga með tilliti til skugga­varps verði óveruleg en að einhver innsýn í fasteign kæranda verði frá kvistinum, en þau grenndaráhrif teljast þó ekki umtalsverð eða meiri en gengur og gerist á svæðinu.

 Með vísan til þess sem að framan er rakið er kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. júní 2024 um að samþykkja umsókn um leyfi til að hækka þak, byggja kvisti á báðum hliðum, lækka gólf í kjallara og grafa frá parhúsi nr. 14 við Haðarstíg.

84/2024 Sólvallagata

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 19. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 84/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. júlí 2024 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingum á húsi og lóð Sólvallagötu 14.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. ágúst 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir íbúi að Hávallagötu 21, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. júlí s.á. um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingum á húsi og lóð Sólvallagötu 14. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 10. ágúst 2024, sem barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir íbúi að Hávallagötu 25, Reykjavík, einnig fyrrgreinda ákvörðun byggingar­fulltrúa með kröfu um ógildingu hennar. Þar sem kærumálin varða sömu ákvörðun, krafa kærenda er sú sama og hagsmunir þeirra þykja ekki standa því í vegi, verður síðara kærumálið, sem er nr. 85/2024, sameinað máli þessu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 6. september 2024.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 5. júlí 2023 var tekin fyrir umsókn sendiráðs Bandaríkjanna um leyfi til að breyta innra skipulagi og byggja við hús á lóð nr. 14 við Sólvallagötu. Umsóknin tók til byggingar lyftuhúss norðan aðalinngangs, bygging yfir svalir ofan á inngangi, gerð nýs inngangs og trappa á norðurhlið 1. hæðar að eldhúsi íbúðarhúss, mhl.01, bygging ofan á bílskúr, mhl.02 með aðgengi um utanáliggjandi stiga meðfram vesturhlið. Jafnframt því að byggja vaktskýli, mhl.03 fyrir öryggisgæslu í suðvesturhorni lóðar og reisa öryggisgirðingu inn á lóð og meðfram lóðarmörkum aðliggjandi lóðar einbýlishúss á lóð nr. 14 við Sólvallagötu, tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa. Var erindinu frestað og vísað til athugasemda. Erindið var tekið fyrir að nýju 25. s.m. og vísað til umsagnar og/eða grenndarkynningar hjá skipulags­fulltrúa. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 12. október 2023, kom fram að ekki væru gerðar athugasemdir að öðru leyti en að tekið var neikvætt í staðsetningu vakthúss fremst á lóðinni og vísað til að skuggavarpsmyndir sem sýndu grenndaráhrif þyrftu að fylgja byggingar­leyfis­umsókn fyrir breytingar á umfangi bílskúrs áður en hægt væri að taka endanlega afstöðu til um­fangs framkvæmdanna.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. desember s.á. var tekin fyrir breytt umsókn um leyfi til að þess að breyta innra skipulagi, byggja lyftuhús norðan aðalinngangs, byggja yfir svalir ofan á inngangi, gera nýjan inngang og tröppur á norðurhlið 1. hæðar að eldhúsi íbúðarhúss, mhl.01, byggja ofan á bílskúr, mhl.02 með aðgengi um utanáliggjandi stiga meðfram vesturhlið og reisa öryggisgirðingu inni á lóð og meðfram lóðarmörkum aðliggjandi lóðar einbýlishúss á lóð nr. 14 við Sólvallagötu. Erindinu var frestað og málinu vísað til skipulagsfulltrúa til grenndarkynningar. Málið var tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. júlí 2024 þar sem umsóknin var samþykkt.

Málsrök kærenda: Vísað er til þess að fyrirhuguð uppbygging og nýting á lóðinni Sólvalla­götu 14 sé ekki í samræmi við landnotkun svæðisins sem íbúðabyggðar samkvæmt Aðal­skipulagi Reykjavíkur 2040. Uppsetning öryggisgirðingar og aðstaða starfsfólks staðfesti að ekki sé um hefðbundið íbúðarhúsnæði að ræða. Almennir borgarar hafi hvorki öryggisgirðingar né aðstöðu fyrir starfsfólk í íbúðar­húsnæði sínu. Framkvæmdirnar séu þess eðlis að túlka beri áformin sem breytingu á starfsemi lóðarinnar. Ekkert hafi komið fram í framlögðum gögnum um umferðarsköpun eða bílastæðaþörf sendiherrabústaðarins og þeirrar starfsemi sem þar muni fara fram. Ætla verði að starfsemin muni kalla á nokkur bílastæði og skapa nokkra umferð umfram það sem almennt gerist í íbúðarbyggð.

Breytingar á húsi og lóð ógni öryggi nágranna og annarra íbúa hverfisins og hafi neikvæð áhrif á friðhelgi einkalífs og persónuvernd. Breytingarnar séu ekki í samræmi við stefnu aðal­skipulags um borgarvernd, séu óafturkræfar og hafi neikvæð áhrif á ásýnd hverfisins og staðar­anda. Samþykkt nýbyggingar fyrir starfsmannaaðstöðu, sem sé útfærð eins og stúdíóíbúð ofan á þegar byggðum bílskúr sé fordæmisgefandi nýjung í viðbyggingum og eigi sér ekki fyrir­myndir í hverfinu eða öðrum borgarhlutum. Með byggingunni sé götumyndinni raskað veru­lega. Samþykki nágranna fyrir framkvæmdum á lóðarmörkum liggi ekki fyrir og hafi þeir harð­lega mótmælt fyrirhuguðum framkvæmdum.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 sé sett fram borgarverndarstefna sem sé heildstæð stefna um borgarvernd sem nái til allrar borgarinnar. Njóti svæðið innan Hringbrautar og umhverfis Landakotshæð verndar samkvæmt því, m.a. sem „samstæður húsa og heildir“. Hafi stefna þessi haft þýðingu í einstökum málum á undanförnum árum. Undirbúningur hins kærða leyfis hafi verið ófullnægjandi þar sem ekki hafi verið aflað umsagnar Borgarsögusafns vegna breytinga á Sólvallagötu 14. Þá séu samanlagt lagðar til mjög veigamiklar breytingar sem ekki sé hægt að horfa á einangrað og geti haft fordæmisgildi fyrir hverfið í heild.

Við grenndarkynningu Reykjavíkurborgar hafi vantað bæði leyfisumsókn og rökstuðning fyrir málsmeðferð umsóknar. Þá hafi verið ýmsir annmarkar á hönnunargögnunum sem gert hafi hagsmunaaðilum erfitt fyrir að átta sig á fyrirhuguðum framkvæmdum. Framlögð gögn hafi með því ekki uppfyllt skilyrði 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 5. kafla skipulags­reglugerðar nr. 90/2013.

Bygging sú sem heimilað hafi verið að byggja ofan á bílskúr hafi umtalsverð áhrif á garðmynd Hávallagötu 21, auki skuggavarp og ljótleika umhverfisins ásamt því að rýra dvalargildi garðsins og þar með verðgildi eignarinnar. Skipulagsfulltrúi hafi gert lítið úr áhrifum skuggavarps nýbyggingarinnar á lóð nágranna og hafi ekki fjallað um neikvæð áhrif nýbyggingarinnar á suðurgarð nágranna.

Um 80 manns hafi sent inn umsögn vegna málsins en í athugasemdum og svörum skipulags­fulltrúa hafi ekki verið tekið undir eitt einasta atriði. Með niðurstöðu skipulagsfulltrúa hafi athugasemdir nágranna og hagsmunaaðila verið virtar að vettugi og umsóknaraðila veitt for­réttindi umfram almenna borgara. Ítrekað hafi verið óskað eftir fundi með skipulagsfulltrúa, bæði send inn umsögn og gerðar athugasemdir við grenndarkynningu en engu hafi verið svarað og hagsmunaaðilum ekki verið tilkynnt niðurstaða málsins.

Þá bendir kærandi á að í fyrri málum sem ratað hafi á borð úrskurðarnefndarinnar varðandi lóðir sendiráða hafi niðurstaða nefndarinnar verið á þann veg að vísa málum frá vegna úrlendis­réttar. Því sé undirstrikað að húsið á Sólvallagötu 14 sé í dag íbúðarhús sem standi mannlaust. Þótt bandarísk stjórnvöld hafi fest kaup á Sólvallagötu 14 og hafi áform um að þar verði í framtíðinni sendiherrabústaður, þá sé staða lóðarinnar ekki sú í dag. Núverandi sendiherra­bústaður Bandaríkjanna á Íslandi sé annars staðar. Því eigi málið að falla undir lögsögu úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Vísað er til þess að samkvæmt 22. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961 sem öðlast hafi lagagildi hér á landi, sbr. 1. gr. laga nr. 16/1971, njóti sendiráðssvæðið friðhelgi. Í því felist að svæðið sé utan dóms- og framkvæmda­valdslögsögu íslenska ríkisins. Úrskurðarnefndin hafi ekki, sem handhafi stjórnsýsluvalds, lög­sögu um rétt eða skyldur sendiráðs Bandaríkjanna. Ágreiningur varðandi greindar fram­kvæmdir verði því aðeins til lykta leiddar á sviði þjóðarréttarsamninga.

Bent sé á að báðar kærur málsins gefi til kynna að verið sé að kæra útgefið byggingarleyfi fyrir framkvæmdum að Sólvallagötu 14 en ekki sé búið að gefa út byggingarleyfi. Byggingarfulltrúi hafi einungis samþykkt byggingaráform. Slíkir annmarkar á kröfugerð ættu að leiða til frávísunar.

Við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar hafi byggingarfulltrúi gætt að skilyrðum gr. 2.4.2. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 auk þess að hann hafi aflað umsagnar Minjastofnunar. Hvergi í lögum komi fram að Borgarsögusafn veiti umsagnir við útgáfu byggingarleyfa og getur skortur á öflun slíkrar umsagnar ekki varðað gildi byggingarleyfis.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 sé Sólvallagata 14 á svæði sem sé skilgreind íbúðarbyggð (ÍB1). Ekkert deili- eða hverfisskipulag sé í gildi fyrir svæðið og því þurfi að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknir þegar það eigi við. Skilyrðum þeim er 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kveði á um hafi verið gerð greinagóð skil í umsögnum skipulags­fulltrúa frá 12. október 2023 og 6. júní 2024.

 Athugasemdir leyfishafa: Bent er á að sótt hafi verið um hið kærða leyfi eftir þeim reglum sem um slík leyfi gildi. Leyfishafa hafi ekki verið kunnugt um neina annmarka á umsókninni eða afgreiðslu hennar og mótmælir sjónarmiðum kærenda. Óskað sé eftir því að farið verði yfir það hvort formskilyrði til þess að taka kærurnar til efnismeðferðar séu uppfyllt og að kæru­málunum verði eftir atvikum vísað frá.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Vísað er til þess að þrátt fyrir bókun umhverfis- og skipulagsráðs um að jafnræðisreglan hafi verið í hávegum höfð við afgreiðslu málsins sé reyndin önnur. Samþykktar breytingar séu fordæmalausar og ljóst að umsækjandi hafi notið forréttinda umfram almenna borgara sem sæki um leyfi fyrir breytingum á eignum sínum. Reglur úrlendisréttar eigi ekki að hamla því að úrskurðað sé í málinu af hálfu úrskurðar­nefndarinnar, enda hafi ekki verið sendiráð á lóðinni og sendiherrann hafi ekki aðsetur þar.

Upplýsingaöflun úrskurðarnefndarinnar: Við meðferð þessa kærumáls óskaði úrskurðar­nefndin eftir viðhorfum utanríkisráðuneytisins varðandi beitingu alþjóðasamnings um stjórnmála­samband frá 18. apríl 1961, svonefnds Vínarsamnings, og barst svar frá ráðuneytinu 12. nóvember 2024.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík á byggingar­leyfi vegna breytinga á húsi og lóð nr. 14 við Sólvallagötu. Kæruheimild er í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Samkvæmt 22. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961 sem öðlast hefur lagagildi hér á landi, sbr. 1. gr. laga nr. 16/1971, nýtur sendiráðssvæði friðhelgi en í því felst að svæðið er utan dóms- og framkvæmdavaldslögsögu íslenska ríkisins. Í i. lið 1. gr. samningsins kemur fram að sendiráðssvæði sé byggingar eða hluti bygginga og tilheyrandi lóð, hver sem eigandinn sé, sem nýtt sé af sendiráði, þar á meðal íbúð forstöðumanns sendiráðs. Í 41. gr. er kveðið á um að það sé skylda allra þeirra sem njóta forréttinda og friðhelgi að virða lög og reglur móttökuríkisins, en þó þannig að forréttindi þeirra eða friðhelgi skerðist eigi. Í samræmi við þessa skyldu óskaði sendiráð Bandaríkjanna eftir byggingarleyfi vegna fyrir­hugaðra framkvæmda og var fallist á umsóknina af borgaryfirvöldum.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að sendiherra hafi ekki enn búsetu í húsinu við Sólvallagötu. Í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn úrskurðarnefndarinnar kom fram að því hafi borist nóta frá sendiráði Bandaríkjanna 28. janúar 2021, þar sem tiltekið var að utanríkisþjónusta Bandaríkjanna hygðist festa kaup á fasteigninni og hagnýta hana sem bústað sendiherra og hafi undanþágur Vínarsamningsins því átt við í kaupferlinu og hafi vernd og friðhelgi samningsins gilt frá því utanríkisþjónusta Bandaríkjanna varð eigandi fasteignarinnar, en skv. 30. gr. samningsins skuli einkaheimili sendierindreka njóta sömu friðhelgi og verndar sem sendiráðs­svæðið.

Í fyrirspurn úrskurðarnefndarinnar til utanríkisráðuneytisins var vakin athygli á því að í 1. mgr. 21. gr. Vínarsamningsins sé kveðið á um að móttökuríki skuli aðstoða sendiríki að afla sér í landi þess, „í samræmi við þau lög sem þar gilda“, húsakynna sem nauðsynleg séu fyrir sendiráð eða aðstoða það við öflun húsnæðis á annan hátt. Var með hliðsjón af þessu óskað eftir því að ráðuneytið mundi lýsa yfir viðhorfum af þessu tilefni sem gætu orðið til leið­beiningar, þ.e. m.a. með hvaða hætti samningurinn girði fyrir uppkvaðningu úrskurða skv. 59. gr. laga um mannvirki, um gildi byggingarleyfis. Ráðuneytið kaus að tjá sig ekki um þennan þátt fyrirspurnar nefndarinnar með vísan til þess að það væri verkefni úrskurðaraðila og dóm­stóla að skera þar úr um.

Þrátt fyrir að það sé lögbundið hlutverk úrskurðarnefndarinnar að endurskoða ákvarðanir sveitarstjórna um skipulags- og byggingarmál, sem undir hana eru bornar með stjórnsýslu­kærum, hefur verið litið svo á af hálfu nefndarinnar, sbr. úrskurði í málum nr. 60/2005, 52/2003, 66/2002 og 10/2002, að af 22. og 31. gr. áður greinds þjóðréttarsamnings leiði að hún hafi ekki, sem handhafi framkvæmdavalds, lögsögu um rétt eða skyldur sendiráða heldur verði ágreiningi sem þeim sem fyrir liggur í máli þessu einungis ráðið til lykta í samræmi við reglur þjóða­réttarins um stjórnmálasamband. Verður með hliðsjón af því að vísa máli þessu frá úrskurðar­nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

149/2024 Drangahraun og Skútahraun

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 13. nóvember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 149/2024, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 28. ágúst 2024 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi iðnaðarsvæðis við Drangahraun og Skútahraun.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. október 2024, er barst nefndinni 1. nóvember s.á., kæra Nesnúpur ehf., VHE ehf., Bitter ehf., G.P. Kranar ehf. og Húsfélagið Skútahrauni 4 þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 28. ágúst 2024 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi iðnaðarsvæðis við Drangahraun og Skútahraun. Er þess krafist að lagt verði fyrir sveitarfélagið að taka málið upp að nýju og setja það í lögmæltan farveg áður en ný ákvörðun verði tekin. Jafnframt er þess krafist að framkvæmdir á lóðinni Drangahrauni 3 verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið sé til afgreiðslu hjá nefndinni. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnafjarðarbæjar 5. desember 2023 var lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi iðnaðarsvæðis við Drangahraun og Skútahraun. Fól tillagan í sér að fallið yrði frá heimild um að bílastæði fyrir lóðir við Drangahraun væru á lóðum við Skútahraun. Kvöð um akstur og aðkomu að kjallara Drangahrauns 3 og 5 væri á lóðunum Skútahraun 2 og 2a. Var samþykkt að auglýsa tillöguna og málinu vísað til bæjarstjórnar sem staðfesti ákvörðunina á fundi sínum 20. s.m.

Deiliskipulagstillagan var auglýst 28. desember 2023 með athugasemdafresti til 8. febrúar 2024. Málið var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs 30. maí 2024 og lagðar fram athugasemdir og minnisblað lögmanns. Á fundi skipulags- og byggingarráðs 22. ágúst s.á. var málið tekið fyrir að nýju og lögð fram samantekt athugasemda og uppfærður deiliskipulags­uppdráttur. Samþykkti ráðið svör við framkomnum athugasemdum og uppfærða tillögu deiliskipulags og vísaði málinu til bæjarstjórnar sem samþykkti framlagða tillögu að breytingu á deiliskipulagi Drangahrauns og Skútahrauns á fundi sínum 28. s.m. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 3. október 2024.

 Kærendur vísa til þess að skort hafi á að athugasemdir sem komið hafi verið með við meðferð málsins hafi verið teknar til fullnægjandi skoðunar við afgreiðslu málsins. Sveitarfélagið hafi ekki kynnt kærendum ný gögn í málinu og gefið þeim kost á að koma að sjónarmiðum sínum og þannig brotið gegn þáttökurétti almennings.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna slíkra leyfisveitinga er unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011, enda framkvæmdir fyrst þá yfirvofandi í skilningi 2. mgr. ákvæðisins. Er því almennt ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestun réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana. Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis skipulagsáætlana verður ekki séð að tilefni sé til að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar.

94/2024 Hverafold

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 7. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 94/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. ágúst 2024 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir skjólvegg á lóð nr. 50 við Hverafold í Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. september 2024, kæra eigendur, Hverafold 50, þá ákvörðun byggingar-fulltrúans í Reykjavík frá 20. ágúst s.á. að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir skjólvegg á lóð nr. 50 við Hverafold. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá krefjast kærendur þess að heimild verði veitt fyrir umræddum skjólvegg og deiliskipulagsbreytingu téðrar lóðar ef þörf sé á.

Málavextir: Lóð nr. 50 við Hverafold er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Foldahverfis, 1–6 áfangi. Samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins getur byggingarnefnd heimilað að reistir séu skjólveggir á lóðamörkum eða inni á lóð, allt að 1,5 m á hæð. Gatan Hverafold liggur eftir austurhlið lóðarinnar sem er í horni botngötu sem liggur að húsum nr. 50–88 við Hverafold. Skjólveggir eru í kringum húsið meðfram götu og að lóð nr. 52 við Hverafold.

Hinn 8. júlí 2024 sóttu kærendur um byggingarleyfi vegna endurbóta á skjólvegg á lóð þeirra. Grunnmynd þar sem sýnd var hæð og stærð skjólveggjarins fylgdi með umsókninni ásamt ljós-myndum af þeim skjólveggjum sem fyrir voru á lóðinni og af henni með nýjum skjólvegg. Fram kom að verkið væri langt komið. Tók byggingarfulltrúi erindið fyrir á afgreiðslufundi 16. s.m. og vísaði henni til umsagnar skipulagsfulltrúa. Lá umsögnin fyrir 15. ágúst 2024 og var í henni neikvætt tekið í erindið þar sem það samræmdist ekki deiliskipulagi og jafnframt bent á að ekki væri nægilega sýnt fram á „mælingar á veggnum“ á þeirri teikningu sem fylgdi. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 20. s.m. var umsókn kærenda tekin fyrir að nýju og henni synjað með vísan til fyrrgreindrar umsagnar skipulagsfulltrúa.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að árið 1992 hafi verið reistir skjólveggir vestan og sunnan við umrætt íbúðarhús og séu þeir því um 32 ára gamlir. Vesturveggurinn standi enn á mörkum lóða nr. 50 og 52 við Hverafold. Sá veggur sé um 2,65 m á hæð, en það sé 1,80 m yfir gólfkóta íbúðarhússins að Hverafold 50. Til hliðsjónar sé einnig gamall skjólveggur, austurveggur, en sá veggur sé hæstur um 1,90 m og 1,75 m yfir gólfkóta hússins. Upphaflega hafi staðið til að fara í framkvæmdir innan gamla skjólveggjarins, suðurveggjar, sem hafi falist í því að endurgera pall, færa til potta og byggja tvö smáhýsi innan við skjólvegginn. Gætt hafi verið að því að grunnflötur smáhýsanna yrði undir 15 m2 og væri það því ekki byggingar-leyfisskyld framkvæmd skv. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Við niðurrif á pallinum hafi komið í ljós að skjólveggurinn væri feyskinn og fúinn og ekkert vit hafi verið í öðru en að fjarlægja hann og byggja upp nýjan. Ákvörðun hafi verið tekin um að hliðra til smáhýsunum þannig að nýi skjólveggurinn sé að hluta bakveggur þeirra. Hæðarkóti gamla suðurveggjarins sem tekinn hefði verið niður hafi verið 33,40 og því um 1,60 m yfir gólfkóta hússins. Miðað hafi verið við að hafa nýja vegginn ekki hærri en þann sem fyrir hafi verið en að teknu tilliti til 65 cm beðs götumegin við vegginn, sem sé ígildi stoðveggjar, sé hann um 2,45 m á hæð og 1,60 m yfir gólfkóta íbúðarhússins.

Hæðarmunur á gólfkóta íbúðarhúss og götu sé um 1,80 m og hæðarmunurinn sé hvergi meiri í Hverafold en við hús nr. 50. Mesta hæð nýja skjólveggjarins sem sótt hafi verið um byggingar-leyfi fyrir sé um 1,60 m yfir gólfkóta hússins, en lóðin halli nokkuð í átt að götunni. Tré hafi verið fjarlægð til að bæta sýn umferðar við götu sem nú sé betri þegar beygt sé inn í götuna eða ekið út úr henni. Skjólveggur við götuhornið hafi verið endurnýjaður og sé nú lægri en veggur-inn sem fyrir hafi verið auk þess sem stór steinn hafi verið fjarlægður. Þá séu eigendur næstu lóða að fullu sáttir við endurnýjun skjólveggjarins og þær framkvæmdir sem gerðar hafi verið og liggi fyrir samþykki þeirra því til staðfestingar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þar sem fram komi að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis sé að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu. Um sé að ræða ófrávíkjanlegt skilyrði. Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 tilheyri lóðin Hverafold 50 borgarhluta 8 – Grafarvogur og sé hluti af íbúðarsvæði ÍB49 – Foldir. Á svæðinu sé jafnframt í gildi deiliskipulagið „Skipulag norðan Grafarvogs“, samþykkt í borgarráði 5. maí 1983 ásamt síðari breytingum. Í skipulagsskilmálum komi fram í kafla 1.1.5. að byggingar-nefnd geti heimilað að reistir séu skjólveggir á lóðarmörkum eða inni á lóð, allt að 1,5 m á hæð. Sé þá miðað við hæð frá jarðvegsyfirborði, sbr. f-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í umsögn skipulagsfulltrúa hafi komið fram að heimilt væri að hafa skjólgirðingu sem sé 1,5 m á hæð, en hæð skjólveggja komi skýrt fram í deiliskipulagi. Samkvæmt 25. tl. 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 séu skipulagsskilmálar bindandi ákvæði í deiliskipulagi um útfærslu skipulags. Ljóst sé að umrædd skjólgirðing samræmist ekki gildandi deiliskipulagi og því sé ekki heimilt að gefa út byggingarleyfi fyrir skjólgirðingunni í þeirri mynd sem hún sé í dag.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Bent er á að umræddar framkvæmdir séu í takt við það sem almennt gangi og gerist í hverfinu. Áréttað sé að skjólveggir hafi þegar verið til staðar á lóðinni og að hæð þeirra mannvirkja sem sótt hafi verið um leyfi fyrir sé ekki hærri en þeirra veggja sem fyrir hafi verið. Skipulagsskilmálum í hverfinu hafi ekki verið fylgt eftir enda séu mörg dæmi um framkvæmdir af þeim toga sem kærendur hafi sótt um leyfi fyrir. Með því að leyfa framkvæmdir sem hafi verið í andstöðu við skilmála gildandi deiliskipulags hafi Reykjavíkur-borg samþykkt breytingar á umræddu deiliskipulagi. Vísað sé til sjónarmiða um samræmi og jafnræði og að í hverfinu sé nokkuð um smáhýsi sem byggð hafi verið á lóðarmörkum og sum séu yfir 2,5 m á hæð. Einnig séu margir skjólveggir í hverfinu sem séu yfir 1,5 m á hæð. Sé synjun byggingarfulltrúa ólögmæt þar sem gerðar séu athugasemdir við umræddar fram-kvæmdir en aðrar sambærilegar framkvæmdir í hverfinu séu látnar óátaldar.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda-mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Tekur úrskurðarnefndin því lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um að heimild verði veitt fyrir þeim skjólvegg sem sótt var um leyfi fyrir og til kröfu um að heimiluð verði deiliskipulagsbreyting fyrir lóð þeirra.

Lóðin Hverafold 50 er innan deiliskipulags Foldahverfis, 1–6 áfangi. Í skipulagsskilmálum greinar­gerðar deiliskipulagsins er að finna sérákvæði sem gilda um hús og lóðir innan skipulags­svæðisins. Í kafla 1.1.5 kemur fram varðandi frágang lóða að byggingarnefnd geti heimilað að reistir séu skjólveggir á lóðamörkum eða inni á lóð, allt að 1,5 m á hæð, og skuli þeir þá sýndir á byggingarnefndarteikningum.

Samkvæmt a-lið 2. mgr. gr. 2.4.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 þurfa með umsókn um byggingarleyfi að fylgja aðaluppdrættir ásamt byggingarlýsingu. Enn fremur skal fylgja mæli- og hæðarblað viðkomandi lóðar er sýnir götunafn og númer, afstöðu húss og lóðar, hæðarlegu miðað við götu, eftir því sem við á, hnitaskrá og landnúmer. Þá getur leyfisveitandi ákveðið hvort og að hvaða leyti leggja þurfi fram aðaluppdrætti vegna breytinga á þegar byggðum mannvirkjum, en ekki verður af gögnum málsins ráðið að öll þau gögn sem upptalin eru í áðurnefndu ákvæði hafi fylgt umsókn kærenda um byggingarleyfi. Með byggingarleyfis-umsókninni fylgdu ljósmyndir sem sýna skjólvegg á lóðinni fyrir og eftir breytingar ásamt grunnmynd af lóðinni þar sem skjólveggur er sýndur. Hins vegar sýna gögnin ekki með skýrum hætti hæð umrædds skjólveggjar. Kærendur hafa sjálfir upplýst í kæru sinni til úrskurðar-nefndarinnar að hæð hans sé allt að 2,45 m.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki verða byggingaráform aðeins samþykkt ef fyrirhuguð mannvirkjagerð er í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis. Að sama skapi verður byggingarleyfi ekki gefið út nema mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. sömu laga. Ef mannvirki er háð byggingarleyfi byggingarfulltrúa skal hann skv. 2. mgr. 10. gr. laganna leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins. Svo sem að framan er rakið leitaði byggingarfulltrúi umsagnar skipulagsfulltrúa og var niðurstaða hans sú að taka neikvætt í erindið þar sem framkvæmdin samræmdist ekki deiliskipulagi, en þar væri heimilt að reisa skjólvegg allt að 1,5 m á hæð. Af framangreindu er ljóst að umdeildur skjólveggur er hærri en 1,5 m og samræmist því ekki skilmálum gildandi deiliskipulags fyrir lóðina.

Í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er mælt fyrir um minniháttar mannvirkjagerð sem undanþegin er byggingarleyfum. Samkvæmt e-lið ákvæðisins á það m.a. við um skjólveggi og girðingar sem eru allt að 1,8 m á hæð og eru ekki nær lóðarmörkum en 1,8 m og girðingar eða skjólveggi sem eru nær lóðarmörkum en 1,8 m og ekki hærri en sem nemi fjarlægðinni að lóðarmörkum. Er beiting ákvæðisins háð því skilyrði að framkvæmdir séu í samræmi við deiliskipulag, en að framangreindu virtu verður ekki talið að ákvæðið eigi við í máli þessu.

Kærendur benda á sjónarmið um samræmi og jafnræði og vísa til þess að í hverfinu séu mörg dæmi um framkvæmdir af þeim toga sem þeir hafi sótt um leyfi fyrir. Jafnræðisreglu íslensks stjórnsýsluréttar er að finna í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Í reglunni felst að óheimilt er að mismuna aðilum sem eins er ástatt um og að sambærileg mál beri að afgreiða á sambærilegan hátt. Í gögnum þessa máls hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að sambærilegar umsóknir um byggingarleyfi og kærendur sóttu um hafi verið samþykktar. Verður ekki séð að borgaryfirvöld hafi með synjun umsóknar kærenda brotið gegn 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður ekki fallist á kröfu um ógildingu hinnar kærða ákvörðunar byggingarfulltrúa.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. ágúst 2024 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir skjólvegg á lóð nr. 50 við Hverafold.

Að öðru leyti er kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

92/2024 Holtsgata og Brekkustígur

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 5. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 92/2024, kæra á ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 2. apríl 2024 um að samþykkja deiliskipulag Holtsgötu nr. 10 og 12 og Brekkustígs nr. 16 í Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 30. ágúst 2024, kærir eigandi fasteignar að Holtsgötu 13, þá ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 2. apríl 2024 um að samþykkja deiliskipulag Holtsgötu 10 og 12 og Brekku­stígs 16. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 28. ágúst 2024, sem barst úrskurðarnefndinni 30. s.m., kærir eigandi fasteignar að Öldugötu 47, Reykjavík, einnig fyrrgreinda ákvörðun borgarstjórnar með kröfu um ógildingu hennar. Þar sem kærumálin varða sömu ákvörðun, kröfugerð er samhljóða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi, verður síðara kærumálið, sem er nr. 93/2024, sameinað máli þessu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. september 2024.

Málavextir: Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar 31. maí 2022 var tekin fyrir umsókn um deiliskipulag fyrir lóðir nr. 10 og 12 við Holtsgötu og nr. 16 við Brekkustíg. Í tillögunni fólst heimild til niðurrifs og uppbyggingar íbúðarhúsnæðis á lóðunum. Var erindinu vísað til verkefnastjóra. Umsóknin var tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 24. maí 2023 og samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og var málinu vísað til borgarráðs. Borgarráð tók málið fyrir á fundi sínum 8. júní 2023 þar sem afgreiðsla umhverfis- og skipulagsráðs var samþykkt og málinu vísað til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar, sbr. 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkur­borgar og fundarsköp borgarstjórnar, og á fundi borgarstjórnar 20. s.m. var samþykkt að auglýsa deili­skipulags­tillöguna.

Tillaga að deiliskipulagi fyrir lóðir nr. 10 og 12 við Holtsgötu og lóð nr. 16 við Brekkustíg var auglýst til kynningar frá 4. júlí 2023 til 15. ágúst s.á. og bárust 42 athugasemdir og umsagnir við hana. Að lokinni auglýsingu var tillaga að deiliskipulagi tekin fyrir að nýju á fundi skipulags­­fulltrúa 24. ágúst s.á. og henni vísað til umsagnar verkefnastjóra. Tillagan með fá­einum breytingum var tekin fyrir að nýju á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 29. febrúar 2024 og henni vísað til umhverfis- og skipulagsráðs til afgreiðslu sem samþykkti hana á fundi sínum 3. apríl s.á. og vísaði til borgarráðs til afgreiðslu. Á fundi borgarráðs 11. s.m. var lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. apríl 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 3. apríl s.á. á tillögu að deiliskipulagi fyrir lóðir nr. 10 og 12 við Holtsgötu og 16 við Brekkustíg, ásamt fylgigögnum. Var hún samþykkt og henni vísað til endanlegrar afgreiðslu borgar­stjórnar sem samþykkti afgreiðslu deiliskipulagstillögunnar á fundi sínum 23. s.m. Deiliskipu­lagið tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 31. júlí 2024.

Málsrök kærenda: Vísað er til þess að hið kærða deiliskipulag samræmist ekki Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Gamli Vesturbærinn njóti hverfisverndar samkvæmt aðalskipulagi og samkvæmt markmiðum og ákvæðum um hverfisvernd eigi að varðveita og styrkja einkenni og heildar­yfirbragð gamla bæjarins. Þá komi fram í aðalskipulagi að gamlar byggingar skuli varð­veittar á sínum stað og ef hreyfa eigi við eldri byggingum skuli færa fyrir því sterk rök í tillögu að deiliskipulagi og gera grein fyrir því hvernig hin nýja byggð samræmist markmiðum borgar­verndar­stefnu. Í húsakönnun hafi Holtsgata 10 verið metin hafa hátt varðveislugildi, einkum vegna menningarsögulegs gildis sem hluti af elstu byggð á svæðinu. Húsið sé friðað vegna aldurs og standi jafnframt á hverfisverndarsvæði sem skilgreint sé fyrir byggð innan Hring­brautar og Snorrabrautar. Um sé að ræða hornhús á áberandi stað sem sé hluti af byggðar­mynstri sem einkenni stóran hluta byggðar í Vesturbænum og samanstandi af blandaðri byggð stak­stæðra húsa og stuttum köflum sambyggðra húsa. Í húsakönnuninni hafi komið skýrt fram að verið væri að ganga á eitt helsta sérkenni hverfisins enda komi þar fram að þau þrjú hús sem væru til umfjöllunar vegna deiliskipulags myndi hluta af sögulegu samhengi svæðisins sem sannar­lega rofni að hluta með hverju þeirra eldri húsa sem hverfi þaðan burt.

Um tvö ráðandi byggðarmynstur eða hverfissérkenni sé að ræða sem bæði tvö hafi verulega ríkt sögulegt gildi og séu þau jafn rétthá og því ekki réttlætanlegt að rífa það sem fyrir sé í þágu þess að byggja eitthvað sem svipi til hins. Nýbygging sé aukinheldur ekki varðveisla nema þegar verið sé að byggja fyrra hús upp á nýtt í sömu mynd, en það sé ekki ætlunin með hinu kærða deiliskipulagi.

Í ákvæði 6. gr. laga nr. 86/2015 um verndarsvæði í byggð sé kveðið á um takmarkanir innan verndarsvæða í byggð. Þar komi fram að bannað sé að rýra varðveislugildi verndarsvæðis í byggð sem og að sveitarstjórn skuli tryggja að allar framkvæmdir innan verndarsvæðis í byggð sam­rýmist svipmóti og hinni vernduðu menningarsögu á viðkomandi verndarsvæði. Síðast en ekki síst sé óheimilt að breyta, bæta, rífa niður eða fjarlægja mannvirki sem séu innan verndar­svæða í byggð nema með leyfi sveitarstjórnar, en það leyfi megi ekki veita ef varðveislugildi verndar­svæðisins sé stefnt í hættu eða rýrt með hinni fyrirhuguðu framkvæmd. Umræddur deiliskipulags­reitur njóti hverfisverndar og það muni rýra varðveislugildi verndarsvæðisins að afmá þann hluta af sérkenni hverfisins sem sé Holtsgata 10. Það að réttlæta niðurrif húss sem einkenni elsta byggðarmynstur svæðisins með þeim rökum að verið sé að halda áfram byggingu annars byggðarmynsturs gefi til kynna að varðveislugildi svæða sem geymi elstu byggðar­mynstur borgarinnar sé stefnt í hættu af deiliskipulagsbreytingum. Í leiðbeiningum Minja­stofnunar um verndarsvæði í byggð komi fram að þegar hús séu metin hafa hátt varðveislugildi skuli endurbætur á húsum og mannvirkjum miða að því að færa þau nær upphaflegri gerð. Í þessu tilviki sé ekki gert ráð fyrir að Holtsgata 10 verði endurbyggð heldur verði húsið afmáð.

Hvergi hafi komið fram að húsið á lóð Holtsvegar 10 sé ónýtt í þeim skilningi að vera óíbúðarhæft, enda hafi húsið verið lagað og búið í því síðast liðin 22 ár. Hins vegar hafi komið fram að eigendur hússins hafi ekki hug á að setja meiri peninga í viðhald hússins sem muni að lokum leiða til þess að það verði óíbúðarhæft, líkt og öll hús sé viðhaldi ekki sinnt. Sú staðreynd að núverandi ástand Sæmundarhlíðar, Holtsgötu 10, sé ekki svo bág­borið að húsið sé óíbúðarhæft sem og staðfesting sérfræðinga í húsakönnun Borgarsögusafns á háu varðveislu- og menningarsögulegu gildi og mikilvægi þess sem stoð í heildarmynd þess svip­móts sem einkenni samspil þeirra tveggja byggðarmynstra sem einkenna gamla Vestur­bæinn, hljóti að þýða að óyggjandi rök verði að liggja fyrir deiliskipulagsgerð sem heimili að gengið sé þvert á markmið og ákvæði borgarverndar og hverfisverndarsvæða aðalskipulags. Þá sé niðurrifsheimild sú er vísað sé til byggð á 20 ára gömlu mati sem verði að teljast hæpið að standi enn.

Þegar litið sé til markmiða borgarverndar og hverfisverndar í greinargerð Aðalskipulags Reykjavíkur 2040 verði að telja rökstuðning Reykjavíkurborgar ábótavant og svör við athuga­semdum íbúa fátækleg. Þá komi fram í greinargerð aðalskipulags að til að framkvæma þessi markmið eigi Borgarsögusafn að stýra gerð byggða- og húsakannana í grónum hverfum, sem verði „lykilforsenda við gerð hverfis- og deiliskipulags“. Það hafi verið niðurstaða sérfræðinga Borgarsögusafns að mikilvægt væri að varðveita Holtsgötu 10 fyrir komandi kynslóðir. Þetta hafi hins vegar verið hunsað í deiliskipulaginu og ekki að sjá að húsakönnunin hafi verið lykil­forsenda við gerð deiliskipulagsins.

Lóðin Holtsvegur 10 sé dæmigerð fyrir þann notalega og góða anda sem flestir sem kjósi að búa í gamla Vesturbænum sæki í. Húsið sé lágreist gamalt timburhús. Þrátt fyrir að Minja­stofnun hafi á sínum tíma gefið leyfi fyrir niðurrifi hússins telji íbúar ótækt að byggja háreist fjöl­býlis­hús á lóðunum. Væri ástand hússins raunverulega slíkt að ekki væri komist hjá niðurrifi væri mun eðlilegra og í samræmi við verndargildi byggðamynsturs að endurbyggja húsið í sömu eða svipaðri mynd. Það sé skylda borgaryfirvalda að standa vörð um þann einstaka hverfisanda sem einkenni gamla Vesturbæinn og er vísað til húsakönnunar um þann reit sem deili­skipulagið varðar.

Því sé haldið fram að bygging fyrirhugaðra húsa muni leiða til bættra veðurskilyrða á lóð Brekkustígs 14B. Lóðin njóti nú þegar mikils skjóls og engin þörf sé á að innmúra lóðina frekar en þegar sé. Einu áhrif fyrirhugaðrar byggingar muni vera að þrengja að lóðinni, en hún sé að meginstefnu nýtt sem leiksvæði fyrir börn í hverfinu og samkomustaður fyrir íbúa. Þá sé ljóst af skuggavarpsmyndum að skuggastundum muni fjölga mikið og skuggavarp aukast á um­ræddri lóð. Í skuggavarpsmyndum sem hafi fylgt með skipulagstillögunni sé gerð grein fyrir skugga­varpi bæði fyrir og eftir fyrirhugaðar breytingar, frá 20. mars til 20. júní. Þarna sé einungis gerð grein fyrir skuggavarpi fyrir þrjá mánuði ársins en engin grein gerð fyrir skugga­varpi hina níu mánuði ársins.

Álag vegna aukinnar umferðar þegar 15 nýjum íbúðum og þremur lóðum sé bætt við muni gera ástand á götum í hverfinu óbærilegt. Þróun í samgöngumálum borgarinnar sé ekki komin á þann stað að réttlætanlegt sé að íþyngja þessu þéttbyggða hverfi með allt að 30 nýjum bílum á göturnar í kring. Það að réttlæta þetta mikla byggingamagn án bílastæða með tilvísun í samgöngu­mat, sem leggi meðal annars til að markaðssetning nýju byggðarinnar verði miðuð að vistvænni ferðamáta sé óskhyggja. Nú þegar sé orðið vart við umtalsverða aukningu bifreiða á nærsvæðinu eftir að gjaldskylda hafi færst nær. Nú standi bílar víða dögum saman á gjald­frjálsum svæðum og sé vestasti hluti Vesturbæjarins orðinn staðurinn til að geyma bíla á gjaldfrjálsum svæðum.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgarinnar er bent á að þar sem kærendur uppfylli ekki skilyrði kæruaðildar beri að vísa málinu frá. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geti þeir einir skotið máli til nefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting varði ekki aðra en lóðarhafa/umsækjendur og sveitarfélagið.

Gamli Vesturbærinn njóti hverfisverndar í samræmi við i-lið gr. 6.3. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Í aðalskipulagi séu sett fram ákveðin markmið og áherslur sem skuli hafa til hlið­sjónar. Þannig segi t.a.m. að við þróun, endurbætur og endurnýjun byggðar í grónum hverfum Reykjavíkur skuli miðast við að söguleg vídd byggðarinnar skerðist eins lítið og kostur sé og að menningarsöguleg gildi séu höfð í heiðri við skipulagningu, hönnun og uppbyggingu borgar­innar á öllum stigum. Af orðunum „endurnýjun“ og „uppbygging“ í aðalskipulagi sé ljóst að hverfisvernd útiloki ekki nýjar byggingar á lóðum innan þess svæðis sem njóti hverfisverndar, heldur skuli nýjar byggingar falla að götumynd og húsaröðum auk þess sem halda skuli heildaryfirbragði svæðisins. Þetta megi sjá á skilgreindum uppbyggingarreitum skv. aðalskipulagi sem margir hverjir séu staðsettir innan skilgreinds hverfisverndarsvæðis innan Hringbrautar. Þrátt fyrir að þær lóðir sem greint deiliskipulag taki til séu ekki innan þegar skilgreinds uppbyggingarreits segi í aðalskipulagi að uppbygging íbúðarhúsnæðis sé heimil á öðrum svæðum en þegar séu skilgreind í aðalskipulagi samkvæmt ákvörðun hverfis- og/eða deili­skipulagi og/eða með byggingarleyfi, enda á landnotkunar­svæðum þar sem íbúðir séu almennt heimilar og einstök verkefni geri ekki ráð fyrir fleiri en 49 íbúðum á einum og sama reitnum. Hið kærða deiliskipulag geri að hámarki ráð fyrir 15 íbúðum og falli því innan heimildar aðalskipulags.

Sú breyting sem deiliskipulagið muni hafa í för með sér leiði til þess að byggingarmagn á lóðunum aukist talsvert en verði þó ekki umfram nærliggjandi randhús. Fjölbreytt byggð sé á svæðinu þar sem nokkuð ósamræmi sé hvað varði nýtingarhlutfall einstakra lóða. Ekki sé hægt að líta svo á að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki í samræmi við þéttleika byggðar. Með deili­skipu­laginu sé leitast við að klára þá randbyggð við reitinn sem afmarkist af Holtsgötu, Framnes­vegi, Öldugötu og Brekkustíg með því að mynda heildstæðari götumynd. Ásýnd byggðar sé mjög fjölbreytt á svæðinu og bæði séu dæmi um randbyggð og stakstæð hús. Mark­mið deiliskipulagstillögunnar um að styrkja randbyggð kringum reitinn samræmist stefnu aðal­skipulags um verndun heildaryfirbragðs byggðar og uppfylli skilyrði hverfisverndar.

Samráð hafi verið haft við umsagnaraðila og fagstofnanir vegna niðurrifsheimilda í deiliskipu­lagi fyrir Holtsgötu 10, sbr. gr. 5.3.2. skipulagsreglugerðar. Minjastofnun hafi framkvæmt húsa­könnun á Holtsgötu 10 og úrskurðað húsið ónýtt vegna veggjatítlu og veitt heimild til niðurrifs hússins þrátt fyrir friðun. Það sé ekki í höndum Reykjavíkurborgar að draga í efa réttmæti álits sem byggi á lögbundnu hlutverki Minjastofnunar.

Íbúar í borg geti ávallt átt von á því að nánasta umhverfi þeirra taki einhverjum breytingum sem geti haft í för með sér skerðingu á útsýni, aukið skuggavarp, umferðaraukningu eða aðrar þær breytingar sem þétting byggðar hafi í för með sér. Verði menn að sæta því með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með deiliskipulagsbreytingum. Með sama hætti geti tímabundið ónæði vegna framkvæmda ekki talist óásættanlegt í þéttbýli. Fullyrðingum um sólarlaus útivistarsvæði sé vísað á bug enda sýni skuggamyndir að ekki verði teljandi breyting á skuggavarpi á aðliggjandi lóðum við uppbygginguna. Hvað varði aukna bílaumferð og skort á bílastæðum þá komi meðal annars fram í aðalskipulagi að stefnt sé að því að hlutdeild vistvænna ferðamáta verði komin í 50% árið 2040. Til að ná þessu markmiði séu kynntar fjölmargar aðgerðir, t.d. þétting byggðar og blönduð byggð á miðlægum svæðum fremur en í útjaðri borgarinnar þar sem það auki möguleika fólks á að nýta sér aðra ferðamáta en einkabílinn og dragi úr þörf fyrir umfangsmikil gatnamannvirki og bílastæði. Hið umdeilda deiliskipulag byggi á samgöngumati sem unnið hafi verið fyrir Reykjavíkurborg Þar komi fram að markaðssetning og kynning fyrirkomulags íbúðarbyggðarinnar til hugsanlegra notenda verði miðuð að því að stuðla að notkun vistvænna ferðamáta. Engin bílastæði fylgi íbúðum og stæði í nærumhverfi verði ekki kynnt sem bílastæði sem notendur geti gengið út frá að nota að staðaldri heldur fremur sem stæði sem geti nýst í ákveðnum tilgangi. Samkvæmt Bíla- og hjólastæðastefnu Reykjavíkurborgar sé áætluð þörf fyrir bílastæði vegna uppbyggingar á umræddum lóðum metin vera 11 stæði. Deiliskipulagið feli í sér þéttingu á þegar byggðu miðlægu svæði og styðji við vistvænar samgöngur með hliðsjón af aðalskipulagi. Því verði ekki teljandi áhrif af aukinni bílaumferð eða skorti á bílastæðum við breytinguna. Markmið deiliskipulagsins sé að mæta húsnæðisþörf á höfuðborgarsvæðinu sem eðli máls samkvæmt krefjist aukins byggingarmagns í einhverju tilvikum. Aðgengi verði að sameiginlegu dvalar­svæði í inngarði auk þess sem gerð sé krafa í deiliskipulaginu um að lóðahönnun skuli vera metnaðarfull með vönduðum svæðum til útiveru og fjölbreyttum gróðri.

Í 51. gr. skipulagslaga sé kveðið á um að ef gildistaka skipulags valdi því að verðmæti fast­eignar lækki, nýtingarmöguleikar hennar skerðist frá því sem áður hafi verið heimilt eða að hún muni rýrna svo að hún nýtist ekki til sömu nota og áður, geti sá sem sýnt geti fram á tjón átt rétt á bótum. Þetta valdi hins vegar ekki ógildingu deiliskipulagsins. Að mati borgarinnar hafi ekkert komið fram í málinu sem valdið geti ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Vísað er til þess að ekki verði séð af greinargerð deiliskipulagsins að markmið þess sé að leysa húsnæðisþörf höfuðborgarsvæðisins heldur að uppfylla „draum um formið randbyggð“ sem eigi að loka götureitnum. Svæðið sem til ráð­stöfunar sé á lóðinni verði í skugga af sjálfum byggingunum sem eigi að rísa, en fyrir séu falleg tré og gróður sem þurfi að víkja. Orðalag um að deiliskipulagið muni styðja við vistvænar samgöngur sé langsótt og nokkuð augljóst sé að langt sé í þau göfugu markmið sem bílastæða­stefna Reykjavíkurborgar, vistvænir ferðamátar eða samgöngumat vísi til. Fram að þeim tíma muni skipulagið valda mikilli þvingun sem allir íbúar á nærsvæðinu verði fyrir. Það sé engin sérstök dyggð í því að „klára þá randbyggð“ sem umlyki götureitinn. Byggðarmynstur götu­reitsins sé ekki lokuð randbyggð heldur götureitur sem sé opinn á þremur reitum, með smáum og oft stakstæðum húsum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar borgarstjórnar að samþykkja deiliskipulag Holtsgötu nr. 10 og 12 og Brekkustígs nr. 16, sem felur í sér heimild til niðurrifs húss á lóð Holtsgötu 10 og bílskúrs á lóð Brekkustígs 16 ásamt byggingu allt að 15 íbúða á lóðunum þremur.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýslu­réttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hags­muna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber að gæta varfærni við að vísa frá málum á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögvarða hagsmuni þeirra að fá leyst úr þeim ágreiningi sem stendur að baki kærumálinu.

Annar kærandi þessa máls er íbúi að Öldugötu 47, en hús hans snýr ekki að deiliskipulags­svæðinu. Í kæru hans kemur fram að hann sem íbúi á horni Öldugötu og Brekkustígs hafi hagsmuni af gæðum þess umhverfis sem hann lifi og hrærist í. Hann beri hag borgarinnar fyrir brjósti og mæli fyrir munn þeirra sem hafi beina hagsmuni af málinu. Þau málsrök lúta að gæslu hagsmuna sem telja verður almenna og uppfylla ekki skilyrði fyrrgreindrar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Hús kæranda, sem stendur á horni Öldugötu og Brekkustígs, er í lítilli fjarlægð frá hinu deiliskipulagða svæði og þrátt fyrir að verða ekki fyrir grenndaráhrifum vegna skugga­varps eða skerts útsýnis verður ekki útilokað að hann verði fyrir áhrifum af aukinni umferð og lagningu bíla í götunni enda um að ræða heimild til byggingar allt að 15 íbúða á umræddu svæði án þess að bílastæði fylgi þeim. Verður hann á þeim grundvelli því talinn hafa lögvarinna hagsmuna að gæta í máli þessu, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Hinn kærandi máls þessa er búsettur á móts við deiliskipulagssvæðið og verður honum játuð kæruaðild vegna mögulegra grenndar­áhrifa heimilaðra framkvæmda gagnvart fasteign hans.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 er hið umdeilda deiliskipulagssvæði á svæði ÍB1 sem er svæði fyrir íbúðarhúsnæði og nærþjónustu sem því tengist, auk minniháttar atvinnu­starfsemi sem samrýmist búsetu eftir því sem nánar er kveðið á um í skipulagi. Á bls. 140-144 í greinargerð aðalskipulagsins er fjallað um borgarvernd. Þar kemur fram að samkvæmt aðal­skipulagi sé svæðið innan Hringbrautar, þar með talið hið umdeilda deiliskipulagssvæði, skil­greint sem hverfisverndarsvæði. Þar kemur fram að markmið og ákvæði um hverfisvernd á svæðinu séu meðal annars að varðveita og styrkja þau einkenni og það heildaryfirbragð gamla bæjarins sem gera hann einstakan og eftirsóknarverðan stað í alþjóðlegu samhengi, varðveita og styrkja söguleg og fagurfræðileg og byggingarlistarleg einkenni. Að við þróun byggðar innan svæðisins verði gætt ítrustu varúðar og meginmarkmiðum borgarverndarstefnu fylgt í hvívetna. Ekki skuli raska hinu sögulega gatnaskipulagi, skipan byggingarreita og opinna rýma né lóðaskipan. Ef breyta eigi grunnmynstri byggðarinnar og sögulegu skipulagi skuli færa fyrir því sterk rök í tillögu að deiliskipulagi og/eða hverfisskipulagi og gera grein fyrir því hvernig það samræmist markmiðum borgarverndarstefnu og með hvaða hætti ný byggð bæti þá byggð sem fyrir er. Tillögur um verndun stakra húsa, húsaraða og húsasamstæða samkvæmt lögum nr. 80/2012 um menningarminjar séu einkum viðfangsefni hverfis- og deiliskipulags og skuli byggðar á byggða- og húsakönnunum Borgarsögusafns Reykjavíkur. Skipulagning, hönnun og uppbygging borgarinnar verði að byggjast á skilningi á sögunni, sagnfræðilegri og byggingar­listarlegri greiningu og virðingu fyrir menningararfi höfuðborgarinnar og þjóðarinnar, en endur­­spegla jafnframt sinn tíðaranda og samtíma borgarhönnun. Þróun, endurbætur og endur­nýjun byggðar í grónum hverfum Reykjavíkur skuli miðast við að söguleg vídd byggðarinnar skerðist eins lítið og kostur er, að byggingarsögulegt samhengi rofni ekki. Þá kemur fram að gamlar byggingar skuli varðveittar á sínum stað og ef hreyfa eigi við eldri byggingum skuli færa fyrir því sterk rök í tillögu að deiliskipulagi og gera grein fyrir því hvernig hin nýja byggð sam­ræmist markmiðum borgarverndarstefnu.

Í greinargerð hins kærða deiliskipulags kemur fram að leitast sé við að mæta þeim markmiðum sem sett séu fram í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 þar sem lögð sé áhersla á sjálfbæra þróun, fjölbreytt framboð íbúða á þéttingarsvæðum og aukna áherslu á vistvænar samgöngur. Minja­stofnun hafi fallist á niðurrif húss á lóðinni Holtsgötu 10 vegna lélegs ástands þess auk þess sem með því gefist kostur á að móta heildstæða byggð sem taki tillit til byggðarmynsturs aðliggjandi byggðar og sé til þess fallin að stuðla að fjölbreyttu mannlífi ásamt því að samnýta dvalarsvæði á lóðunum og bæta aðkomu að inngarði frá Holtsgötu. Þá er vísað til húsakönnunar sem unnin var af Borgarsögusafni Reykjavíkur árið 2021 og að hús nr. 10 við Holtsgötu hafi verið byggt árið 1904 og samkvæmt húsakönnun hafi það hátt varðveislugildi en verið úrskurðað ónýtt vegna veggjatítlu. Í greinargerð Reykjavíkurborgar í máli þessu kemur fram að með deili­skipulaginu sé leitast við að klára þá randbyggð við reitinn sem afmarkist af Holtsgötu, Framnesvegi, Öldugötu og Brekkustíg með því að mynda heildstæðari götumynd. Markmið deiliskipulags­tillögunnar um að styrkja randbyggð kringum reitinn samræmist stefnu aðal­skipulags um verndun heildaryfirbragðs byggðar og séu skilyrði hverfisverndar uppfyllt.

Í húsakönnun Borgarsögusafns segir um deiliskipulagsreitinn: „Byggðin á þessum hluta reitsins hefur meiri samsvörun við næstu húsareiti í kring, til dæmis sunnan Holtsgötu og austan Brekkustígs, þar sem byggðamynstrið einkennist af fjölbreyttri stærð og gerð húsa. Þar skiptast á stakstæð einlyft, tvílyft og þrílyft hús, eldri og yngri, úr timbri eða steinsteypu, og stuttir kaflar randbyggðra húsa sem flest eru tví- eða þrílyft. Slíkt byggðamynstur er eitt af sterkum einkennum Vesturbæjarins og endurspeglar þau byggingarskeið eða uppbyggingartímabil sem elstu hverfi borgarinnar hafa gengið í gegnum. Þau þrjú hús á horni Brekkustígs og Holtsgötu sem nú eru til umfjöllunar vegna deiliskipulags tilheyra þessu byggðamynstri og mynda hluta af sögulegu samhengi svæðisins, sem sannarlega rofnar að hluta með hverju þeirra eldri húsa sem hverfur þaðan burt.

Um Holtsgötu 10, Sæmundarhlíð, segir ennfremur að varðveislugildi hússins sé hátt, einkum vegna menningarsögulegs gildis sem hluti af elstu byggð á svæðinu. Húsið sé „arftaki“ torf­bæjar með sama nafni sem áður hafi staðið á lóðinni og tilheyri timburhúsabyggð sem hafi risið í Vesturbænum í upphafi 20. aldar. Saga hússins sé nátengd upphafi og þróun fyrstu byggðar á svæðinu og sé húsið mikilvægur vitnisburður þeirrar sögu og hafi sem slíkt menningar­sögulegt gildi. Um sé að ræða hornhús á áberandi stað og hluti af því byggðamynstri sem einkenni stóran hluta byggðar í Vesturbænum og samanstandi af blandaðri byggð stakstæðra húsa og stuttum köflum sambyggðra húsa.

Í húsakönnuninni er byggðamynstri svæðisins lýst sem blandaðri byggð stakstæðra húsa og stuttum köflum sambyggðra húsa og að slíkt byggðamynstur sé eitt af sterkum einkennum Vestur­bæjarins. Verður ekki annað séð en að með hinu kærða deiliskipulagi sé leitast við að breyta byggðarmynstri frá því að vera blönduð byggð yfir í „heildstæða götumynd“ rand­byggðar. Það skilyrði er sett fram í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 að ef breyta eigi grunn­mynstri byggðarinnar og sögulegu skipulagi skuli færa fyrir því sterk rök í tillögu að deili­skipulagi og/eða hverfisskipulagi og gera grein fyrir því hvernig það samræmist markmiðum borgar­verndar­stefnu og með hvaða hætti ný byggð bæti þá byggð sem fyrir sé. Verður ekki séð að þau rök sem sett séu fram í greinargerð deiliskipulagsins um að klára randbyggð og mynda heildstæðari götumynd, uppfylli það skilyrði aðalskipulagsins.

Með deiliskipulaginu er veitt heimild til að rífa hús það er stendur á lóð nr. 10 við Holtsgötu, sem samkvæmt húsakönnun hefur hátt varðveislugildi, bæði sem hluti af byggðarmynstri Vesturbæjarins sem og menningarsögulegt gildi. Samkvæmt gildandi aðalskipulagi skulu gamlar byggingar varðveittar á sínum stað og ef hreyfa á við eldri byggingum skal færa fyrir því sterk rök í tillögu að deiliskipulagi og gera grein fyrir því hvernig hin nýja byggð samræmist markmiðum borgarverndarstefnu. Í máli þessu hefur komið fram ágreiningur um ástand hússins og nauðsyn þess að rífa það en ekki liggja fyrir nýleg gögn um ástand þess en samkvæmt kærendum hefur verið búið í húsinu alla tíð. Í greinargerð deiliskipulagsins kemur fram að húsið hafi verið úrskurðað ónýtt vegna veggjatítlu og í húsakönnun kemur fram að sótt hafi verið um leyfi fyrir niðurrifi þess árið 2006 og að Húsafriðunarnefnd hafi ekki gert athuga­semdir við það.

Í ljósi framangreindra krafna aðalskipulags um eldri byggingar, líkt og um ræðir í þessu tilviki, verður ekki séð að sett hafi verið fram sterk rök um hvernig hin nýja byggð samræmist mark­miðum borgarverndarstefnu. Er þá sérstaklega horft til þess að hið kærða deiliskipulag felur í sér að heimilt er að byggja á lóðunum þremur allt að 15 íbúðir en fyrir eru þar fimm íbúðir. Þá mun samanlagt nýtingarhlutfall lóðanna þriggja hækka úr 0,7 í 2,2 og nýtingarhlutfall á lóð Holts­götu 10 fer úr 0,5 í 3,0. Er þarna um að ræða verulega aukningu byggingarmagns á umræddum lóðum, sem almennt hefur í för með sér breytingar á byggðamynstri og götumynd, sem ekki er rökstutt hvernig samræmist markmiðum borgarverndarstefnu.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja rökstuðning hinnar kærðu ákvörðunar slíkum annmörkum háðan að varði ógildingu hennar.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 2. apríl 2024 um að samþykkja deili­skipulag Holtsgötu nr. 10 og 12 og Brekkustígs nr. 16 í Reykjavík.

79/2024 Mýrargata

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 5. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 79/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. maí 2024 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Mýrargötu 33–39.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 25. júlí 2024, kærir húsfélag Mýrargötu 33–39 þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. maí 2024 að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Mýrargötu 33–39. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að byggingaraðila verði gert að ráðast í endurbætur svo að húsið verði í samræmi við samþykkt hönnunargögn.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. ágúst 2024.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 3. nóvember 2020 var tekin fyrir og samþykkt umsókn um leyfi til að byggja fjölbýlishús á sex hæðum á reitum S4–S8 á lóð nr. 2 við Seljaveg, matshluta 05, en fjölbýlishúsið hefur fjóra stigaganga sem bera nöfnin Mýrargata 33, 35, 37 og 39. Umsóknir um breytingar á byggingaráformunum voru samþykktar á afgreiðslufundum embættisins 15. júní 2021 og 27. júní 2023. Í byrjun árs 2023 munu íbúðir í fjölbýlishúsinu hafa verið settar á sölu. Hinn 19. janúar 2024 gaf byggingarfulltrúi út vottorð um lokaúttekt að hluta og náði sú úttekt samkvæmt efni vottorðsins til Mýrargötu 33, 35 og 39 ásamt bílakjallara, en Mýrargata 37 var undanskilin úttektinni. Á vottorðinu kom fram að lóða­frágangur yrði tekinn fyrir í lokaúttekt Mýrargötu 37. Hinn 24. maí 2024 gaf byggingarfulltrúi út lokaúttektarvottorð fyrir Mýrargötu 33, 35, 37 og 39. Þar kom fram að gögn hefðu borist sem staðfestu að úrbótum væri lokið vegna athugasemda sem fram hefðu komið við skoðun. Þá kom og fram að rými 0104, 0113 og 0114 skilist á byggingarstigi 2 – fokheldi. Sækja þyrfti um nýtt byggingarleyfi svo lokaúttekt fengist á þau rými.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að fulltrúi húsfélagsins hafi ekki vitað af þeirri ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að gefa út lokaúttektarvottorð fyrr en tölvupóstur hafi borist frá embættinu 28. júní 2024. Sé kæran því lögð fram innan kærufrests.

Samkvæmt 3. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skuli við lokaúttekt gera úttekt á því hvort mannvirkið hafi verið byggt í samræmi við samþykkt hönnunargögn, en það skilyrði hafi ekki verið uppfyllt í máli þessu þar sem töluvert misræmi sé á milli samþykkts aðal­uppdráttar og raunverlegs frágangs hússins. Þannig segi á aðaluppdrætti að útihurðir í anddyri og dyr að hjóla- og bílageymslu séu með rafrænum opnunarbúnaði, en hvorki útihurðir frá anddyri Mýrargötu 33 né frá anddyri Mýrargötu 39 séu með rafrænum opnunarbúnaði.Ekki sé fyrir hendi snjóbræðslukerfi vegna inngangs að anddyri Mýrargötu 33 eins og kveðið sé á um á samþykktum aðaluppdráttum. Gangar og stigagangar á jarðhæð séu öll teppalögð þrátt fyrir að á aðaluppdrætti segi að þar eigi að vera mjúkt undirlag undir flísalögn.

Hönnunargögn kveði á um að frágangur lóðar verði samkvæmt landslagshönnun, en þar sem kærandi hafi ekki þá hönnun fyrir hendi sé óskað eftir því að úrskurðarnefndin fari yfir hana og meti hvort frágangur lóðar sé í samræmi við það sem þar komi fram, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með vísan til sama lagaákvæðis sé þess einnig óskað að úrskurðarnefndin taki til skoðunar hvort fjölbýlishúsið sé í samræmi við önnur atriði sem gætu verið tilgreind í öðrum samþykktum hönnunargögnum. Í því sambandi sé bent á að dyr frá anddyrum séu án þéttilista sem orsaki mikinn hávaða í sameign jarðhæðar þegar vindasamt sé.  Einnig hafi annarri dyr verið bætt við ruslageymslu í byggingu Mýrargötu 37 eftir að komið hafi í ljós að sú hurð sem fyrir hafi verið hafi ekki uppfyllt kröfu gr. 6.12.7. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012 um lágmarksbreidd umferðarmáls.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að af tölvupósti fulltrúa kæranda til byggingarfulltrúa, dags. 14. júní 2024, verði ráðið að honum hafi verið kunnugt um hina kærðu ákvörðun á þeim tímapunkti. Þar sem kæra hafi borist nefndinni 25. júlí s.á. sé kærufrestur liðinn í máli þessu, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, og því beri að vísa málinu frá. Verði ekki fallist á það sé krafist frávísunar málsins þar sem kærandi hafi ekki verið eigandi fasteignarinnar skv. d-lið 4. mgr. 15. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki á þeim tíma sem hið kærða lokaúttektarvottorð hafi verið gefið út. Hafi útgáfan því ekki lotið að réttindum eða skyldum kæranda á þeim tíma og geti hann því ekki talist aðili málsins, en íbúðir hafi verið seldar áður en hið kærða lokaúttektar­vottorð hafi verið gefið út, sbr. d-lið 4. mgr. 15. gr. laga nr. 160/2010.

Í viðauka II við byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé fjallað um verklag við lokaúttektir í gr. 5.2. Þar komi fram að skoðun vegna lokaúttektar sé sjónskoðun og að skoðunarmanni sé hvorki ætlað að prófa virkni tækja eða búnaðar né að framkvæma mælingar. Ekki verði gerðar ríkari kröfur til skoðunarmanns en samkvæmt því. Hvað varði rafrænan opnunarbúnað í fjölbýlis­húsinu að Mýrargötu 33–39 sé slíkur búnaður til staðar í útidyrum sem snúi að baklóð bygginganna. Ekkert í byggingarlýsingunni segi eða gefi til kynna að rafrænn opnunarbúnaður þurfi að vera í báðum útihurðunum, enda hefði það þá sennilegast verið orðað með þeim hætti. Skortur sé á sönnun þeirri fullyrðingu kæranda að ekkert snjóbræðslukerfi sé til staðar, en byggingarfulltrúi hafi fengið yfirlýsingu um stillingu hitakerfis og virkni stýrikerfa vegna öryggis- eða lokaúttektar frá pípulagningarmeistara. Byggingarfulltrúi hafi ekki haft neina ástæðu til þess að draga þá yfirlýsingu í efa. Ákvæði byggingarreglugerðar um hljóðvist sé að finna í 11. kafla, en reglurnar hafi þann tilgang að draga úr hávaða. Lagning gólfteppis á gangi og stigagangi á jarðhæð stefni að sama markmiði um hljóðvist og sú lausn sem komi fram í byggingarlýsingu á aðaluppdráttum fjölbýlishússins.

Þau atriði sem kærandi telji vera frávik á byggingarlýsingu geti ekki talist annað en minniháttar frávik sem valdi ekki ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Ef fallist yrði á kröfu kæranda hefði það slæmar afleiðingar í för með sér þar sem það gæfi til kynna að öll minniháttar frávik á byggingarlýsingu, s.s. lausir hurðarhúnar eða skortur á trjám, myndu leiða til ógildingar loka­úttektarvottorða. Í byggingarlýsingu er byggingaraðila veitt ákveðið svigrúm til að leita annarra sambærilegra lausna en þeirra sem tilgreindar séu nákvæmlega í byggingarlýsingu.

 Athugasemdir byggingarstjóra: Byggingarstjóri vísar til þess að í samningi við verkkaupa hafi ekki verið kveðið á um rafrænan opnunarbúnað. Ekki hafi verið gert ráð fyrir snjóbræðslu á samþykktum teikningum. Verið sé að skoða hvort tilefni sé til úrbóta vegna flísalagnar á gólfum stigahúsa og sameiginlegra ganga á jarðhæð. Frágangur lóðar hafi verið í samræmi við aðaluppdrætti. Gerðar hafi verið hefðbundnar, einfaldar hljóðmælingar á stigagangi og ekki hafi mælst þar óeðlilegur hávaði miðað við staðsetningu, en umræddir stigagangar liggi beint við stofnæð úr bænum og höfn. Þó sé verið að skoða að bæta úr þessu með þéttilista.

Öll atriði sem kærandi bendi á teljist minniháttar frávik sem í mesta lagi hefðu getað orðið til þess að byggingarfulltrúi hefði gefið út vottorð með athugasemdum skv. 4. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Eigi einhverjar af athugasemdunum við rök að styðjast væri það í ósamræmi við sjónarmið um meðalhóf að fella lokaúttektina úr gildi í heild sinni.

Athugasemdir byggingaraðila: Vísað er til þess að það séu ekki hagsmunir byggingaraðila að úttektarvottorð sé gefið út of snemma þar sem það sé á ábyrgð byggingarstjóra verkefnisins að klára verkefnið í samræmi við samþykkta uppdrætti. Í einhverjum tilfellum sé misræmi í textalýsingu og uppdráttum og hafi þá að öllu jöfnu verið farið eftir uppdráttunum. Til standi að ráðast í úrbætur vegna þeirra útihurða sem ekki séu með rafrænum opnunarbúnaði. Allar megingönguleiðir séu snjóbræddar í samræmi við hönnun lagnahönnuðar. Inngangur Mýrar­götu 33 sé viðbótarinngangur sem hafi komið síðar í hönnunarferlinu, en teikning landslags­hönnuðar sýni hvað eigi að vera snjóbrætt. Umfjöllun á aðaluppdrætti um flísalögn anddyris eigi við um flísalögn að dyrasíma. Hljóðhönnuður eigi að hanna verkefni þannig að það uppfylli ákvæði byggingarreglugerðar. Fyrirhugað sé að klára gróðursetningu og frágang á plöntum fyrir 25. september næstkomandi. Ekki sé gerð krafa um að plöntur séu komnar út í garða til að fá útgefið lokaúttektarvottorð. Þéttilisti hafi verið á dyrum frá anddyrum Mýrargötu 33 og 39 en vegna kröfu um úrbætur hafi verktaki tekið þéttilistana út. Engar hljóðmælingar liggi til grundvallar því hvort listarnir geri gagn eða ekki og geti þetta atriði ekki verið forsenda útgáfu lokaúttektarvottorðs. Þá sé bent á að þeirri hurð sem komið hafi verið fyrir í ruslageymslu Mýrargötu 37 hafi verið bætt við til að koma til móts við ábendingar kæranda um lágmarks­breidd umferðarmáls. Búið sé að óska eftir því að hurðarhúnn fyrri hurðar verði fjarlægður og að teikningar verði uppfærðar til samræmis við breytingarnar.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Því sé andmælt að fulltrúa húsfélagsins hafi verið „full­kunnugt“ um hina kærðu ákvörðun 14. júní 2024 þegar hann hafi sent tölvupóst til byggingar­fulltrúa. Eins og þar komi fram hafi hann heyrt en ekki fengið staðfest að lokaúttekt hefði farið fram. Fyrirspurn hans hafi ekki verið svarað fyrr en 14 dögum síðar eða 28. júní 2024 og hafi kærandi þá haft upplýsingar til að leggja mat á hvort kæra skyldi ákvörðunina. Ákvörðunin varði aðstæður og aðbúnað á heimili félagsmanna kæranda og því liggi lögvarðir hagsmunir í augum uppi.

Vel megi vera að lagning gólfteppis nái a.m.k. sama markmiði um hljóðvist og sú lausn sem komi fram í byggingarlýsingu, þ.e. flísalögn. Engu að síður sé bersýnilegt að teppi fari verr úr tíðri umgengni en flísalögn. Það sé heldur ekki hlutverk byggingarfulltrúa að leggja mat á hvort teppi eða flísalögn nái markmiði um hljóðvist, heldur beri honum að gera úttekt á því hvort byggt hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Þá sé einnig bent á að samkvæmt samþykktum aðaluppdrætti skuli koma snjógildrum fyrir á þökum með málmklæðningu til að varna því að snjór og ís falli af þaki. Engar snjógildrur séu fyrir ofan glugga á húsi Mýrargötu 39 og hafi síðasta vetur skapast stórhætta þegar snjór hafi fallið niður af þaki.

Athugasemdir byggingaraðila renni stoðum undir og gefi til kynna að rafrænn opnunarbúnaður eigi að vera við öll anddyri Mýrargötu 33–39, þ. á m. á anddyri Mýrargötu 33 sem enn vanti. Það að inngangur Mýrargötu 33 hafi komið til síðar í hönnunarferlinu séu ekki upplýsingar sem varði kæranda, enda komi þær ekki fram á samþykktum aðaluppdrætti.

Viðbótarathugasemdir byggingaraðila: Bent er á að flestum ef ekki öllum atriðum sem kærandi telji ábótavant hafi verið brugðist við. Til standi að bregðast við þeirri ábendingu að snjógildrur vanti fyrir ofan fjóra glugga. Það eigi eftir að ganga frá flísalögn á jarðhæð, en flísar séu ekki til og það taki tíma að fá þær afhentar. Þá sé ítrekað að ekki hafi verið gert ráð fyrir snjóbræðslu við inngang Mýrargötu 33 samkvæmt lóðauppdrætti.

—–

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. maí 2024 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Mýrargötu 33–39 að því er varðar Mýrargötu 37 og frágang sameiginlegrar lóðar.

Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er mælt fyrir um að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Fyrir liggur að hinn 14. júní 2024 sendi eigandi íbúðar í fjölbýlishúsinu, sem jafnframt er fulltrúi kæranda, tölvupóst til Reykjavíkurborgar þar sem fram kom að hann hefði heyrt að lokaúttekt hefði farið fram og óskaði hann upplýsinga um það. Í svari úttektarfulltrúa borgarinnar, dags. 28. s.m., var staðfest að úttekt hefði farið fram. Verður að líta svo á að kæranda hafi fyrst þá mátt vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Kæra barst úrskurðarnefndinni 25. júlí s.á. og var hún því lögð fram innan lögbundins kærufrests.

Þá verður ekki fallist á með Reykjavíkurborg um að vísa eigi kærumáli þessu frá á þeim grund­velli að kærandi teljist ekki aðili málsins þar sem skv. d-lið 4. mgr. 15. gr. laga nr. 160/2010 beri fyrri eigandi ábyrgð skv. 1. mgr. lagagreinarinnar. Þrátt fyrir að útgáfa lokaúttektar­vottorðsins hafi ekki beinst að húsfélagi Mýrargötu 33–39 verður að leggja til grundvallar að hún geti varðað hagsmuni félagsmanna þess verulega, sbr. álit umboðsmanns Alþingis frá 13. september 2011 í máli nr. 6242/2010 og úrskurðaframkvæmd úrskurðarnefndarinnar. Hefur kærandi því lögvarða hagsmuni af úrlausn þessa máls og verður honum því játuð kæruaðild.

Framkvæmd lokaúttektar og útgáfa vottorðs þess efnis er hluti af lögbundnu eftirliti byggingar­fulltrúa með mannvirkjagerð, sbr. 2. og 3. mgr. 16. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Samkvæmt 3. mgr. 36. gr. laganna skal við lokaúttekt gera úttekt á því hvort mannvirkið upp­fylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið samkvæmt þeim og hvort byggt hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Þá er mælt fyrir um í 4. mgr. laga­greinarinnar að ef mannvirkið uppfylli ekki að öllu leyti ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafi verið samkvæmt þeim þá geti útgefandi byggingarleyfis gefið út vottorð um ­úttektina með athuga­semdum. Þáttum sem varði aðgengi skuli þó ávallt hafa verið lokið við gerð lokaúttektar. Segir jafnframt í 5. mgr. sömu lagagreinar að eftirlitsaðili geti fyrirskipað lokun mannvirkis komi í ljós við lokaúttekt að mannvirki uppfylli ekki öryggis- eða hollustu­kröfur og lagt fyrir eiganda þess að bæta úr, en lokaúttektarvottorð skuli þá ekki gefið út fyrr en það hafi verið gert.

Líkt og greinir í málavöxtum gaf byggingarfulltrúinn í Reykjavík út lokaúttektarvottorð hinn 19. janúar 2024 vegna Mýrargötu 33, 35 og 39 ásamt bílakjallara, en undanskilið þeirri úttekt var Mýrargata 37 og lóðafrágangur. Fór úttekt á þeim atriðum fram 24. maí s.á. og var vottorð þess efnis gefið út sama dag. Við úrlausn þessa kærumáls koma því ekki önnur atriði en sem varða Mýrargötu 37 og lóðafrágang til skoðunar.

Í byggingarlýsingu á samþykktum aðaluppdrætti er því lýst að gangstígar að inngöngum, að­koma að bílageymslu, bílastæði fyrir hreyfihamlaða og aðkoma að sorpsvæði verði með snjó­bræðslukerfi. Í máli þessu er óumdeilt að fyrir framan innganga Mýrargötu 33, þ.e. þá innganga sem snúa að Mýrargötu og leiða að rými fyrir atvinnuhúsnæði, er ekki að finna snjóbræðslu. Telur kærandi það fyrirkomulag ekki samrýmast samþykktum aðaluppdráttum en á móti bendir byggingaraðili á að ekki hafi verið gert ráð fyrir snjóbræðslu þar samkvæmt lóðaruppdrætti. Með hliðsjón af því orðalagi byggingarlýsingar að „gangstígar“ verði snjóbræddir þykir skortur á snjóbræðslu fyrir framan umrædda innganga Mýrargötu 33 ekki fela það í sér að frágangur lóðarinnar sé í ósamræmi við samþykkt hönnunargögn.

Tilgreint er í byggingarlýsingu að á anddyrum, gangi og stigagangi á jarðhæð verði mjúkt undirlag undir flísalögn en fyrir liggur að gangar og stigagangar á jarðhæð hafa ekki verið flísalögð. Þrátt fyrir að slíkur frágangur gefi tilefni til athugasemda á lokaúttektarvottorði verður það ekki talinn verulegur annmarki á hinni kærðu ákvörðun með hliðsjón af því að ekki er um að ræða atriði sem varðar aðgengi eða öryggis- eða hollustukröfur, sbr. 4. og 5. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010. Þá er og haft í huga að samkvæmt byggingaraðila mun vera unnið að því að flísaleggja ganga og stigaganga á jarðhæð.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og þar sem ekki verður séð að neinir þeir annmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun er varðað geta ógildingu hennar verður kröfu kæranda þar um hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. maí 2024 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Mýrargötu 33–39.

101/2024 Grenimelur

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 5. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 101/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. september 2024 um synjun umsóknar um að fá samþykkta íbúð í kjallara að Grenimel 25 í Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. september 2024, er barst nefndinni 17. s.m., kæra eigendur matshluta 0001 í kjallara Grenimels 25, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. september 2024 að synja umsókn um að fá samþykkta íbúð í kjallara að Grenimel 25 í Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 7. október 2024.

Málavextir: Grenimelur 25 í Reykjavík er parhús, sambyggt húsi númer 23 við sömu götu sem byggt var árið 1945. Samkvæmt skráningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eru í húsinu skráðar tvær samþykktar íbúðir, merkt 0101, fnr. 202-7176 og 0201, fnr. 202-2177 og ein ósamþykkt íbúð í kjallara, merkt 0001, fnr. 202-7175. Árið 2021 festu kærendur kaup á hinni ósamþykktu íbúð í kjallara hússins. Eignin hafði þá gengið kaupum og sölum í einhver ár og árið 2004 var gerður eignaskiptasamningur um fasteignina Grenimel 25 þar sem kjallaraíbúðin var skráð sem ósamþykkt.

Þann 5. maí 2024 var sótt um byggingarleyfi til að breyta ósamþykktri íbúð 0001 í samþykkta. Umsókninni fylgdu breyttir aðaluppdrættir þar sem fram kom birt flatarmál rýmisins, að salarhæð væri 2,6 m og að íbúðin væri niðurgrafin að sunnan-, vestan- og suðaustanverðu. Samkvæmt uppdrættinum er í íbúðinni gert ráð fyrir samliggjandi eldhúsi og stofu, salerni og tveimur svefnherbergjum. Þá er gert ráð fyrir þremur stærri gluggum og tveimur minni á íbúðinni. Erindið var tekið fyrir á afgreiðslufundum byggingarfulltrúa, 14. maí, 5. júní og 14. ágúst 2024 þar sem erindinu var frestað og vísað til athugasemda. Á afgreiðslufundi byggingar­fulltrúa 10. september s.á var erindinu synjað með vísan til þess að hvorki framkvæmdin né breytt notkun samræmdist ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

 Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að þeir hafi fest kaup á hinni ósamþykktu íbúð árið 2021 og hafi á þeim tíma verið lögð inn fyrirspurn til Reykjavíkurborgar hvort íbúðin fengist samþykkt. Farið hafi verið í húsaskoðun og lagðar inn teikningar til Reykjavíkurborgar.

 Árið 2004 hafi verið gerður eignaskiptasamningur sem samþykktur var af Reykjavíkurborg og umrædd íbúð skráð sem ósamþykkt íbúð í kjallara hússins. Á teikningum sem samþykktar voru 26. maí 1944 sjáist kjallararými með salerni og handlaug en ekkert eldhús, en þar sé rýmið aflokað frá annarri sameign og sannarlega ein heild. Þá hafi umrædd eign verið skráð í fasteignaskrá sem íbúðarrými á sér fasteignanúmeri og gengið kaupum og sölum í mörg ár.

Samkvæmt núgildandi byggingarreglugerð þurfi íbúðir í kjallara að uppfylla ákveðin skilyrði, þar á meðal þau að ein hlið íbúðar skuli vera óniðurgrafin og snúa til suðurs, suðvesturs, eða vesturs. Stofa umræddrar íbúðar snúi til suðurs, en sé niðurgrafin. Ekki sé mögulegt að grafa frá hlið hússins vegna aðkomu inn í sameiginlegan garð og vegna samliggjandi garðs við Grenimel 23. Samkvæmt reglugerðinni þurfi lofthæð í íbúðum að vera 2,50 m, en lofthæð umræddrar íbúðar sé 2,48 m.

Bent sé á að í gr. 6.1.5 í núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012, sé skýrt tekið fram að hús sem byggð voru í tíð eldri reglugerða og geta ekki uppfyllt öll ákvæði núverandi reglugerðar flokkist ekki undir ákvæði nýju reglugerðarinnar. Margir eigendur íbúða í Reykjavík sem byggðar voru á svipuðum tíma, sem sótt hafi um samþykki íbúðar fyrir árið 2012, hafi fengið slíkar umsóknir samþykktar án vandkvæða. Því telji kærendur að um eignaupptöku sé að ræða ef breyting á byggingarreglugerð árið 2012 eigi að hamla samþykkt á sambærilegu húsnæði.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að núverandi eigendur umrædds hús­rýmis hafi verið í samskiptum við Reykjavíkurborg og lagt fyrst inn fyrirspurn til byggingar­fulltrúa 28. júní 2022. Fyrirspurninni hafi verið svarað af byggingarfulltrúa 20. júlí s.á. með frestun, ásamt athugasemdablaði þar sem fram hafi komið að umsækjandi ætti að óska eftir íbúðarskoðun. Fyrirspurn kæranda hafi aftur verið svarað 30. maí 2023 með vísun í leið­beiningar á athugasemdablaði byggingarfulltrúa. Kærendum hafi þá þegar verið leiðbeint um að óska þyrfti eftir íbúðarskoðun til þess að skera mætti úr um hvort íbúðin uppfyllti ákvæði byggingarreglugerðar. Jafnframt hafi kærendum verið bent á að á gildandi aðaluppdráttum væri ekki sýnd íbúð í kjallara og þyrfti því að leggja fram nýja uppdrætti.

 Hinn 5. maí 2024 hafi einn kærenda sótt um byggingarleyfi til að breyta ósamþykktri íbúð 0001 að Grenimel 25 í samþykkta. Umsókninni hafi fylgt breyttir aðaluppdrættir þar sem fram komi að birt flatarmál rýmis 0001 í kjallara sé 59,7 m2 og salarhæð 2,6 m. Íbúðin sé niðurgrafin að sunnan, vestan og suðaustan. Teiknað hafði verið inn á uppdrátt samliggjandi eldhús og stofa, salerni og tvö svefnherbergi. Þrír stærri gluggar séu á íbúðinni og tveir minni. Erindið hafi verið tekið fyrir á afgreiðslufundum byggingarfulltrúa 14. maí, 5. júní og 14. ágúst 2024, þar sem því hafi verið frestað og vísað til athugasemda. Á afgreiðslufundi 10. september s.á. hafi erindinu svo verið synjað þar sem hvorki framkvæmdin né breytt notkun samræmdist ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

Við breytingu á mannvirki sem byggt er í gildistíð eldri byggingarreglugerða skuli almennt byggja á sjónarmiðum algildrar hönnunar. Við breytta notkun þegar byggðra mannvirkja beri að uppfylla ákvæði byggingarreglugerðar, nr. 112/2012, t.d. varðandi aðkomu, aðgengi, umferðarleiðir og innri rými mannvirkja, burðarþol og stöðugleika, hollustu, heilsu og umhverfi og öryggi við notkun, t.d. brunavarnir. Sé vikið frá almennum sjónarmiðum um algilda hönnun sé gerð sú krafa að slíkt skuli ítarlega rökstutt í hönnunargögnum og þá á hvaða grundvelli það sé gert.

 Samþykktur og þar með gildandi aðaluppdráttur af Grenimel 25 geri ekki ráð fyrir íbúð í kjallara, heldur sé merkt inn á teikningar vinnustofa og tvær geymslur. Ekki hafi áður verið sótt um að breyta kjallaranum í samþykkta íbúð og hafi því þurft að taka til skoðunar bæði breytingu á mannvirki og breytta notkun sem uppfylla þurfi ákvæði gildandi byggingarreglugerðar. Hafi kærendur því þurft að skila inn nýjum uppdráttum.

 Sjá megi af ítarlegum athugasemdum byggingarfulltrúa á athugasemdablöðum, dags. 14. maí 2024, 5. júní og 14. ágúst s.á., að vankantar væru á umsókn, einkum hvað varði skráningartöflu, teikningaskrá yfir aðaluppdrætti og skilyrði um að fylgigögn þurfi að fylgja öllum byggingar­leyfisumsóknum. Hafi m.a. komið fram í athugasemdablaði byggingarfulltrúa frá 14. maí 2024 að íbúðin þurfi að uppfylla öll ákvæði byggingarreglugerðar um íbúðarhúsnæði og eldvarnir skv. núgildandi byggingarreglugerð. Í reglugerðinni séu ekki til staðar neinar heimildir til frávika eða undanþágu þar um. Að auki væru upplýsingar á teikningum ekki fullnægjandi, en gera þurfi grein fyrir brunavörnum o.fl. Þá hafi Slökkvilið Höfuðborgarsvæðisins einnig bent á að húsnæðið skuli uppfylla kröfur sem gerðar séu til íbúða í dag. Flóttaleið um björgunarop teljist ekki fullgild flóttaleið og samræmist ekki algildri hönnun.

Við afgreiðslu málsins 5. júní 2024 hafi verið búið að bæta úr einhverjum athugasemdum sam­kvæmt athugasemdablaði, en þó takmarkað. Það sem út af hafi staðið hafi m.a. verið ákvæði byggingarreglugerðar um lofthæð og skilyrði vegna íbúða á jarðhæð sem og flóttaleiðir og brunavarnir. Í athugasemdablaði, dags. 14. ágúst 2024, og við afgreiðslu á fundi byggingar­fulltrúa hafi verið ítrekað að sýna þyrfti lóðarmörk og frágang og uppfæra skráningartöflu miðað við að um ósamþykkta íbúð væri að ræða. Þá hafi sérstaklega verið bent á að þar sem íbúðin uppfyllti hvorki ákvæði byggingarreglugerðar um íbúðarhúsnæði á jarðhæð né um flóttaleiðir, geti hún ekki talist fullgild íbúðareign. Þar sem skilyrði um algilda hönnun hafi ekki verið uppfyllt hafi verið þörf á ítarlegum rökstuðningi, svo sem í greinargerð eða hönnunargögnum, af hverju veita ætti frávik frá þeim skilyrðum. Hafi það því verið ómöguleika háð fyrir byggingarfulltrúa að taka afstöðu til hvort frávik 3. mgr. 6.1.5. gr. byggingarreglu­gerðar gætu átt við.

Þeir annmarkar séu einnig taldir vera á bæði umsókn og fylgigögnum, þrátt fyrir ítarlegar leiðbeiningar byggingarfulltrúa, íbúðarskoðun og athugasemdablöð hans, dags. 14. maí, 5. júní og 14. ágúst 2024, að ekki hafi verið unnt að taka til skoðunar hvort frávik gætu átt við í málinu er varði algilda hönnun. Gilda skilyrði gildandi byggingarreglugerðar um þá framkvæmd og breytt not sem hér séu til umræðu.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Bent er á að þegar lögð var inn byggingarleyfisumsókn hafi komið fram athugasemdir frá starfsmanni byggingarfulltrúa t.d. varðandi kóta, lóðarmörk, girðingar o.fl. Brugðist hafi verið við öllum þeim athugasemdum og þær leiðréttar.

Árið 1945 þegar húsið var byggt hafi ekki verið gerðar kröfur um flóttaleiðir eða algilda hönnun eins og gert er í byggingarreglugerð frá 2012. Eins og kærendur hafi áður bent á þá séu heilu hverfin í Reykjavík byggð á þessum tíma með hálfa hæð niður og hálfa hæð upp og engan vegin hægt að uppfylla algilda hönnun í samræmi við núverandi gildandi reglugerð. Úr stofu sé stórt opnanlegt fag sem hægt sé að komast út um ef eldur komi upp í rýminu.

Í gr. 6.7.4 í byggingarreglugerð sé talað um stakt íbúðarherbergi, ekki íbúð sem slíka. Þar að auki nái íbúðarrými 0001 ekki að götu og bæði herbergin sem tilheyra íbúðarrýminu snúi að garði.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. september 2024 um að synja umsókn kærenda um að fá samþykkta íbúð í kjallara að Grenimel 25 í Reykjavík. Hin kærða ákvörðun var studd þeim rökum að íbúðin uppfyllti ekki ákvæði gr. 6.7.2., gr. 6.7.4. og gr. 9.2.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, hvorki sem breytt mannvirki í ljósi framlagðra gagna né um breytta notkun. Kæruheimild til úrskurðar­nefndarinnar er í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Í áðurgildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998 kemur fram í gr. 12.8 að við umfjöllun um byggingarleyfisumsóknir sem varði breytingar á byggingum sem byggðar hafi verið fyrir gildistöku reglugerðarinnar, skuli taka mið af þeim reglugerðarákvæðum sem í gildi voru þegar þær voru byggðar, eftir því sem hægt sé að teknu tilliti til gildandi krafna um öryggis- og heilbrigðismál.

Í núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012 er ekki að finna sambærilegt ákvæði en í einstökum ákvæðum hennar er tekin afstaða til þess hvort þar greindar kröfur þurfi að uppfylla við breytingar á eldri mannvirkjum. Má þar nefna að í gr. 9.2.5. kemur fram að við breytingar á þegar byggðu mannvirki eða við breytta notkun skuli þess gætt að brunavarnir uppfylli kröfur skv. reglugerðinni og að breytingin skerði ekki brunavarnir annarra þátta mannvirkisins. Tekið er fram í gr. 12.1.2. að ákvæði 12. hluta reglugerðarinnar um öryggi við notkun eigi við um breytingu á þegar byggðu mannvirki og um breytta notkun þess. Þá er í gr. 6.1.5. fjallað um breytingu á þegar byggðu mannvirki eða breytta notkun þess. Í 2. mgr. greinarinnar kemur fram að við breytingu á mannvirki sem byggt er í gildistíð eldri byggingarreglugerða skuli almennt byggja á sjónarmiðum algildrar hönnunar. Í 3. mgr. gr. 6.1.5. segir svo: „Ef sérstökum erfið­leikum er bundið að uppfylla ákvæði þessa hluta reglugerðarinnar án þess að breyta að verulegu leyti megingerð mannvirkis, burðarvirki, útliti, innra skipulagi eða öðrum sérkennum sem vert er að varðveita, getur leyfisveitandi heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum þessa hluta reglugerðarinnar. Í slíkum tilvikum skal hönnuður skila sérstakri greinargerð um það hvaða ákvæðum óskað er eftir að víkja frá, um ástæður þess að ekki er unnt að uppfylla þau og hvort unnt er með öðrum hætti að tryggja aðgengi þannig að markmið þessa hluta reglugerðarinnar séu uppfyllt. Taka skal sérstakt tillit til mannvirkja sem falla undir ákvæði laga um menningarminjar.“ Í gr. 6.1.6. sem fjallar um framsetningu krafna er síðan tekið fram að megin­reglur í 6. hluta reglugerðarinnar séu ófrávíkjanlegar en viðmiðunarreglur séu frávíkjanlegar ef sýnt sé fram á að aðgengi og öryggi sé tryggt með jafngildum hætti og ef meginregla viðkomandi ákvæðis væri uppfyllt. Verður þá að skila með hönnunargögnum greinargerð hönnuðar þar sem gerð er grein fyrir og rökstutt með hvaða hætti meginregla ákvæðisins er uppfyllt og aðgengi og öryggi tryggt. Loks er í greininni tekið fram að önnur ákvæði umrædds hluta reglugerðarinnar séu ófrávíkjanleg nema annað sé sérstaklega tekið fram í viðkomandi ákvæði.

Af fyrrgreindum ákvæðum núgildandi byggingarreglugerðar verður sú ályktun dregin að beita skuli þeim ákvæðum hennar er varða öryggi og heilbrigði við breytingar á eldri mannvirkjum og við breytta notkun þeirra, en auk þess geti leyfisveitandi heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum 6. hluta reglugerðarinnar þar sem þess er sérstaklega getið.

Í kafla 6.7. í byggingarreglugerð er fjallað um íbúðir og íbúðarhús. Fram kemur í gr. 6.7.2. og 6.7.6. sem fjalla um lofthæð og birtuskilyrði að lofthæð í íbúðarherbergjum og eldhúsi skuli vera a.m.k. 2,50 m að innanmáli, mælt frá fullfrágengnu gólfi að fullfrágengnu lofti. Þó sé heimilt að víkja frá þessu ef meðalhæð herbergis er minnst 2,20 m og lofthæð minnst 2,50 m í að minnsta kosti 2/3 hluta þess, mæld frá fullfrágengnu gólfi að fullfrágengnu lofti. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er lofthæð umræddrar kjallaraíbúðar 2,48 m. Lofthæðin nær því ekki því lágmarki sem mælt er fyrir um í nefndum greinum reglugerðarinnar.

Í 1. mgr., gr. 6.7.4. kemur fram að óheimilt sé að samþykkja nýja íbúð þar sem útveggir hennar eru niðurgrafnir nema að uppfylltum öllum þeim skilyrðum sem tiltekin eru í lið a–d. Þar kemur meðal annars fram í a. lið að minnst ein hlið íbúðarrýmis skuli ekki vera niðurgrafin, þ.e. frágengið yfirborð jarðvegs skal vera neðar en gólfkóti íbúðarinnar. Samkvæmt 2. mgr. er heimilt að stakt íbúðarherbergi sé niðurgrafið ef yfirborð frágengins jarðvegs utan útveggjar þess er að hámarki 0,5 m ofan við gólfplötu við gluggahlið og gluggahliðin er ekki nær akbraut en 3,0 m. Slík íbúðarherbergi og önnur stök íbúðarherbergi skulu fullnægja kröfum reglu­gerðarinnar um íbúðarherbergi að því er varðar glugga, björgunarop, lofthæð, stærð o.fl. Þá er tekið fram í 3. mgr. að allar aðrar kröfur til íbúða sem fram koma í reglugerðinni gildi um íbúðir sem falla undir 1. mgr., þ.m.t. kröfur um birtuskilyrði, loftræsingu og flóttaleiðir.

Eins og greinir í nefndri gr. 9.2.5. í byggingarreglugerð skal þess gætt við breytingar á þegar byggðu mannvirki eða við breytta notkun að brunavarnir uppfylli kröfur skv. reglugerðinni. Þá gilda sjónarmið um algilda hönnun, sbr. 2. mgr., gr. 6.1.5. Sé vikið frá sjónarmiðum um algilda hönnun skal hönnuður skila sérstakri greinargerð um það hvaða ákvæðum óskað er eftir að víkja frá, um ástæður þess að ekki er unnt að uppfylla þau og hvort unnt er með öðrum hætti að tryggja aðgengi þannig að markmið þessa hluta reglugerðarinnar séu uppfyllt. Það hafa kærendur ekki gert og var byggingarfulltrúa því ekki unnt að taka til skoðunar hvort frávik 3. mgr., gr. 6.1.5. gætu átt við.

Umsókn kærenda var tekin til meðferðar á fjórum afgreiðslufundum byggingarfulltrúa og athugasemdum komið áleiðis til kærenda þar sem bent var á ýmsa vankanta á umsókninni. Meðal annars kom fram að bæta þyrfti upplýsingar á teikningum og gera grein fyrir bruna­vörnum. Eins tíundaði Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu í umsögn sinni að flóttaleið um björgunarop teldist ekki fullgild flóttaleið og samræmdist ekki algildri hönnun. Af þeim sökum uppfyllti umrædd íbúð ekki ákvæði byggingarreglugerðar um flóttaleiðir. Við afgreiðslu málsins 5. júní 2024 höfðu kærendur brugðist við einhverjum athugasemdum samkvæmt athugasemdablaði, en ekki öllum. Meðal þess sem út af stóð voru ákvæði byggingarreglugerðar um lofthæð og skilyrði vegna íbúða á jarðhæð sem og flóttaleiðir og brunavarnir sem hefði þurft að fjalla um í greinargerð hönnuðar.

Að öllu framangreindu virtu var byggingarfulltrúa rétt að synja umsókn kærenda um að samþykkja kjallaraíbúð að Grenimel 25.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. september 2024 um að synja umsókn um að fá samþykkta íbúð í kjallara að Grenimel 25 í Reykjavík.

89/2024 Saltvík og Þverá

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 31. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæ­björnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­­­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 89/2024, kæra á annars vegar ákvörðun sveitarstjórnar Norður­þings frá 4. apríl 2024 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir skógrækt í landi Salt­víkur og hins vegar ákvörðun sveitarstjórnar frá 27. júní 2024 og ákvörðun byggðar­ráðs frá 15. ágúst s.á. um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir skógrækt í landi Þverár í Reykjahverfi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. ágúst 2024, er barst nefndinni 22. s.m., kæra samtökin Náttúrugrið ákvarðanir sveitarstjórnar Norðurþings frá 4. apríl 2024, 27. júní og 15. ágúst s.á. um að veita framkvæmdaleyfi fyrir skógrækt annars vegar í landi Salt­víkur og hins vegar í landi Þverár í Reykjahverfi sem og brot á þátttökurétti í málsmeðferð þessara ákvarðana. Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um að framkvæmdir yrðu stöðvaðar í landi Þverár á meðan málið væri til með­ferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Með tölvubréfi kæranda til nefndarinnar 28. ágúst 2024 var sú krafa afturkölluð í framhaldi af því að upplýst hafði verið af hálfu leyfishafa að jarðvinnslu í landi Þverár hefði verið lokið þegar kæran barst nefndinni og engin frekari vinnsla væri fyrirhuguð þá um haustið.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Norðurþingi 6. september 2024.

Málavextir: Á fundi skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings 23. október 2023 var tekin fyrir umsókn Yggdrasils Carbon ehf. um framkvæmdaleyfi fyrir skógrækt á landi úr jörðinni Saltvík. Fram kom að horft væri til þess að tré yrði gróðursett í 102,8 ha af þeim 160 ha sem landið spannaði. Var lagt til við sveitarstjórn að skipulagsfulltrúa yrði falið að veita framkvæmdaleyfi á grundvelli framlagðrar skógræktaráætlunar með fyrirvara um jákvæða umsögn Minjastofnunar Íslands. Lá umsögn minjavarðar Norðurlands eystra fyrir 7. nóvember s.á. og var í henni lagst gegn skógrækt á afmörkuðu svæði vegna fornleifa.

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og framkvæmdaráðs 5. desember 2023. Á fundinum kom fram að skipulags- og byggingarfulltrúi hefði látið vinna tillögu að 160 ha skógræktaráætlun á landi austan við greindar minjar og var lagt til við sveitarstjórn að Yggdrasils Carbon yrði úthlutað landi samkvæmt fyrirliggjandi tillögu. Áður en málið kom til kasta sveitarstjórnar barst henni bréf Náttúrustofu Norðausturlands, dags. 19. s.m., þar sem sveitarstjórn var hvött til að finna fyrirhuguðum skógræktaráformum betri stað með tilliti til fuglalífs á svæðinu. Meðal þess sem einnig var bent á var að umrætt svæði væri mikilvægt búsvæði rjúpu á landsvísu og einnig heiðlóu og spóa sem teldust meðal ábyrgðartegunda Íslands. Myndu tugir para þessara tegunda missa búsvæði sín til frambúðar. Ráðstöfun slíkra svæða til skógræktar væri ekki í samræmi við stefnu Norðurþings um verndun líffræðilegrar fjölbreytni samkvæmt Aðalskipu­lagi Norðurþings 2010–2030. Þá myndi fyrirhugað skóg­ræktar­­svæði skarast á við vöktunarsvæði rjúpu sem talið hefði verið reglulega á frá árinu 1981.

Á fundi skipulags- og framkvæmdaráðs 9. janúar 2024 var málið tekið fyrir á ný og talið að framkomnar athugasemdir vægju ekki það þungt að tilefni væri til að falla frá fyrirhuguðum áformum. Á fundi sveitarstjórnar 18. s.m. var tillaga skipulags- og framkvæmdaráðs frá fundi hennar 5. desember 2023, um nýja afmörkun skógræktarsvæðisins, samþykkt. Með bréfi Náttúrufræðistofnunar Íslands til skipulags- og framkvæmdaráðs, dags. 2. febrúar 2024, var tekið undir sjónarmið Náttúrustofu Norðausturlands er fram höfðu komið í fyrrnefndu bréfi hennar og ráðið hvatt til að taka áformað skógræktarsvæði til endurskoðunar. Tók skipu­lags- og framkvæmdaráð málið fyrir að nýju 13. s.m. og lagði til við sveitarstjórn að skóg-ræktarsvæðinu yrði breytt til samræmis við fyrirliggjandi tillögu þar sem gert væri ráð fyrir því að það yrði alfarið utan við fyrrnefndan vöktunarreit. Samþykkti sveitarstjórn þá tillögu á fundi 22. febrúar 2024.

Málið var til umfjöllunar að nýju á fundi skipulags- og framkvæmdaráðs 26. mars s.á. Kom fram að óskað væri framkvæmdaleyfis með þeirri breyttu afmörkun sem samþykkt hefði verið og lægi fyrir greinargerð umsækjanda og umsögn skógræktarráðgjafa um skógrækt innan þess svæðis. Væri landssvæðið 160 ha í heild sinni og horft væri til þess að planta trjáplöntum í um 120 ha. Um 40 ha yrðu undanskildir skógrækt vegna umferðarleiða, berjasvæða og náttúru-minja. Lagði ráðið til við sveitarstjórn að veitt yrði framkvæmdaleyfi á grunni fyrirliggjandi gagna og var sú tillaga samþykkt á fundi sveitarstjórnar 4. apríl s.á. Framkvæmdaleyfi til skóg-ræktar á 160 ha svæði úr landi Saltvíkur var gefið út 1. maí 2024 og er það ótímabundið. Sam-kvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu er jarðvinnslu í landi Saltvíkur lokið og plöntun að mestu, en ráðgert er að ljúka henni sumarið 2025.

Á fundi skipulags- og framkvæmdaráðs 28. maí 2024 var tekin fyrir umsókn Yggdrasils Carbon um framkvæmdaleyfi til skógræktar á 128 ha svæði í Hvammsheiði í landi Þverár í Reykja­hverfi, á 199 ha „verkefnasvæði“ samkvæmt greinargerð með umsókn, dags. 22. s.m. Var skipu­lags­fulltrúa falið að óska umsagnar Náttúruverndarnefndar Þingeyinga áður en afstaða yrði tekin til málsins. Lá umsögnin fyrir 6. júní s.á. og hafði nefndin ekkert við erindið að athuga. Á fundi ráðsins 18. júní s.á. var lagt til við sveitarstjórn að veitt yrði framkvæmdaleyfi til samræmis við framlögð gögn, en með fyrirvara um jákvæða umsögn Minjastofnunar Íslands og samþykkti sveitarstjórn þá tillögu á fundi 27. júní 2024.

Framkvæmdaleyfi var gefið út 9. júlí s.á. og tekur það til skógræktar á 128 ha „út úr 200 ha svæði í Hvammsheiði í landi Þverár“. Á fundi byggðarráðs 15. ágúst 2024 var síðan samþykkt sú tillaga skipulags- og framkvæmdaráðs frá 13. s.m. að veita framkvæmdaleyfi vegna við-bótarskógræktar á 36 ha svæði innan sama landssvæðis og var framkvæmdaleyfi vegna þessa gefið út 22. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að kæruheimild sé byggð á 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 3. og 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auð-lindamála. Ekki verði séð að hinar kærðu ákvarðanir hafi verið auglýstar lögum samkvæmt og kæru­frestur samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 hafi því ekki enn byrjað að líða. Í öllu falli sé kærufrestur ekki liðinn, en kæranda hafi ekki orðið kunnugt um hinar kærðu ákvarðanir fyrr en í ágústmánuði.

Umræddar framkvæmdir séu háðar umhverfismati í samræmi við ákvæði 18. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Annars vegar sé um að ræða framkvæmd yfir viðmiðunarmörkum í flokki B í 1. viðauka við lögin og sem sé líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar skv. 2. viðauka. Hins vegar séu framkvæmdirnar umhverfismatsskyldar þar sem þær séu fyrirhugaðar á verndar-svæði, sbr. iii. lið 2 tölul. í 2. viðauka við lögin. Þessu til stuðnings sé m.a. vísað til umsagna Náttúrustofu Norðausturlands og Náttúrufræðistofnunar Íslands sem sveitarstjórn hafi ekki tekið tillit til. Báðar stofnanirnar gegni lögbundnum hlutverkum í rannsóknum og ráðgjöf til stjórnvalda. Auk þess sinni Náttúrustofa Norðausturlands almennu eftirliti með náttúru landsins á sínu starfssvæði í samræmi við náttúruverndarlög. Hafi stofnunin lagst gegn úthlutun sveitar­félagsins á landi til Yggdrasils Carbon til skóg­ræktaráforma í landi Saltvíkur vegna fugla­verndunar­sjónarmiða og hafi Náttúrufræðistofnun tekið undir þá afstöðu í umsögn sinni.

Á fyrirhuguðum skógræktarsvæðum séu heiðlóa og spói sem teljist til ábyrgðartegunda Íslands. Heiðlóa sé auk þess skráð í 1. viðauka Bernarsamnings sem listi þær tegundir sem aðildarþjóðir hafi skuldbundið sig til að vernda með sértækri búsvæðavernd. Mólendissvæðin í nágrenni Húsavíkur, á Tjörnesi í heild, séu mjög mikilvæg fyrir rjúpu, en þar sé að finna einn mesta varpþéttleika hennar. Rjúpa sé í yfirvofandi hættu samkvæmt válista Náttúrufræðistofnunar og fálki í nokkurri hættu. Fjöldi fálkaóðala sé hvergi meiri en í Þingeyjarsýslum. Fálki hafi afar háa verndarstöðu, hann sé skráður í 1. viðauka Bernarsamningsins og teljist ábyrgðartegund. Byggist vernd fálkans á því að þau lykilbúsvæði sem hann byggi afkomu sína á hér á landi séu vernduð þannig að þeim sé ekki breytt í barrskóga. Heiðlóa og spói byggi einnig afkomu sína á því landi sem hinar kærðu ákvarðanir taka til. Þær tegundir falli einnig undir skyldur Íslend-inga sem vísað sé til í iii. lið 2. tölul. 2. viðauka við lög nr. 111/2021.

Skógrækt í landi Þverár sé á 200,3 ha svæði líkt og fram komi í skjali sem lagt hafi verið fram við seinni afgreiðslu framkvæmdaleyfis fyrir umrætt svæði. Þá sé um að ræða meira en 5 km af nýjum veg­slóðum ef marka megi framlagðar teikningar. Framkvæmdin sé því umhverfis­matsskyld, sbr. tölul. 1.04 og tölul. 10.08 í 1. viðauka við lög nr. 111/2021. Sveitarstjórn hafi því verið óheimilt að veita umrædd framkvæmdaleyfi, sbr. 25. gr. sömu laga. Ekki verði séð að sveitarstjórn hafi gengið eftir upp­lýsingum um umhverfismat framkvæmdanna þrátt fyrir laga­skyldu og umsögn Náttúrustofu Norðausturlands. Brotið hafi verið gegn þátttökurétti almenn­ings með því að hann hafi hvorki átt þess kost að gera athugasemdir í umhverfismati né að bera ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu undir úrskurðarnefndina. Við undir­búning hinna kærðu á­kvarðana hafi einnig verið brotið gegn ákvæðum ýmissa laga, svo sem gegn rannsóknarreglu stjórn­­sýslu­­laga nr. 37/1993 og meginreglum laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, það er 8. gr., 10. gr. og 11. gr., sbr. 7. gr. laganna. Þá hafi ekki verið uppfylltar að neinu leyti kröfur reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi, um form og efni umsókna og afgreiðslu þeirra.

Málsrök Norðurþings: Af hálfu sveitarfélagsins er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni í heild eða eftir atvikum að hluta. Til vara sé þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað. Hvað varði framkvæmdaleyfi fyrir skógrækt í Saltvík og framkvæmda­leyfi fyrir 128 ha skógrækt í landi Þverár í Reykjahverfi hafi kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verið liðinn þegar kæra barst nefndinni. Ekki sé tilefni til að miða kærufrest við síðara tímamark, en kæranda hafi verið kunnugt, eða a.m.k. mátt vera kunnugt um framkvæmdaleyfi vegna skógræktar í Saltvík þar sem það hafi verið fréttaefni fjölmiðla frá upphafi árs 2024. Auk þess séu fundargerðir sveitarfélagsins birtar á vef þess. Miða beri upphaf kærufrests í síðasta lagi við 15. júlí s.á., en þá hafi m.a. birst fréttir um að framkvæmdir í landi Saltvíkur væru hafnar. Þá hafi meira en mánuður verið liðinn frá því að leyfi vegna 128 ha skógræktar í landi Þverár í Reykjahverfi hafi verið gefið út þegar það hafi verið kært. Útgáfa á viðbótarfram-kvæmdaleyfi geti ekki valdið rýmkun kæruréttar á áðurútgefnu leyfi, enda sé útgáfa fyrra fram-kvæmdaleyfisins sjálfstæð og kæranleg sjórnvaldsákvörðun. Beri einnig að miða við að upphaf kærufrests hafi ekki verið seinna en 15. júlí 2024.

Fyrirhugaðar framkvæmdir séu ekki matsskyldar í skilningi laga nr. 111/2021 um umhverfis-mat framkvæmda og áætlana. Undir tölul. 1.04 í 1. viðauka við lögin falli „nýræktun skóga sem tekur til 200 ha eða stærra svæðis“ en framkvæmdirnar séu undir því viðmiði. Túlka beri töluliðinn samkvæmt orðanna hljóðan, en ekki með rýmkandi skýringu eins og málatilbúnaður kæranda byggi á. Sé sérstaklega vísað til athugasemda með frumvarpi því sem orðið hafi að lögum nr. 111/2021, n.t.t. til liðar 3.8 í þessu sambandi. Þá njóti hvorugt svæðið verndar eða hafi verið skilgreint sem sérstakt verndarsvæði skv. (e) iii. liðar 2. tölul. 2. viðauka við lögin. Taki framkvæmdaleyfin ekki til svæða þar sem fornleifar séu að finna. Það eitt og sér að ábyrgðar­tegundir eða tegundir á válista samkvæmt Bernarsamningnum finnist á framkvæmda-svæðinu leiði ekki til þess að um matsskylda framkvæmd sé að ræða. Engar forsendur séu heldur til slíkrar verndunar svæðanna.

Samanlagt muni áhrifin í þessum tveimur verkefnum verða þau, til lengri tíma, að 284 ha mó-lendis muni klæðast skógi og þar með muni u.þ.b. 37 pör af heiðlóum missa varpkjörlendi sitt (0.011% íslenska stofnsins) og eitthvað lægra hlutfall af spóastofninum. Þá beri einnig að horfa til þess að röskun á mólendinu við Þverá og Saltvík sé aðeins lítið hlutfall af mólendi innan Norður­þings. Samkvæmt vistgerðarkorti Náttúrufræðistofnunar Íslands séu um 179.000 ha af mólendi í Norðurþingi eða 47% af flatarmáli sveitarfélagsins. Nemi framkvæmdasvæðin um 0,15% af því. Þá séu svæðin samkvæmt Aðalskipulagi Norðurþings 2010–2030 á landbúnaðar-landi sem hvorki njóti sérstakrar náttúruverndar né sé á náttúruminjaskrá. Því sé mótmælt að framkvæmdirnar hafi verið matsskyldar á grundvelli tölul. 10.08 í 1. viðauka við lög nr. 111/2021. Ekki sé um eiginlega vegagerð að ræða heldur gerð slóða vegna umhirðu svæðanna. Í Saltvík sé gert ráð fyrir um 3,8 km af slóðum. Í landi Þverár hafi verið lagður 3 km langur girðingarslóði, auk þess sem gert sé ráð fyrir 635 m af slóðum sem ekki hafi verið lagðir. Framkvæmdirnar geti því ekki verið matsskyldar jafnvel þótt litið væri svo á að umræddir slóðar væru vegir þar sem þeir séu undir lengdarmörkum samkvæmt ákvæðum laganna.

Málin hafi fengið umfangsmikla og vandaða meðferð innan sveitarfélagsins þar sem lagt hafi verið mat á athugasemdir fagstofnana og framkvæmdir lagaðar að þeim athugasemdum. Við á-kvörðun skipulags- og framkvæmdaráðs hafi verið horft til þess að framkvæmdasvæðið væri á rýru mólendi þar sem fuglalíf væri fábreytt, t.a.m. væri nánast eingöngu að finna þar fugla­tegundir sem fyndust á landsvísu. Framkvæmdin muni ekki brjóta í bága við stefnu aðalskipu-lagsins um verndun líffræðilegrar fjölbreytni og hún sé ekki innan þess svæðis sem skilgreint sé sem „Mikilvæg búsvæði fugla“ í umhverfisskýrslu aðalskipulags. Hafi sveitarfélagið á lög-mætan og málefnalegan hátt lagt mat á áhrif framkvæmdarinnar á náttúru og dýralíf áður en leyfi hafi verið veitt. Þá sé því mótmælt að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga við undir-búning hinna kærðu ákvarðana.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er þess krafist að kæru verði vísað frá úrskurðar­nefndinni, en til vara að kröfum kæranda verði hafnað. Bent sé á að hluti leigusvæðis sé ekki nýttur til skógræktar, sem skýrst geti af fjölbreytilegum ástæðum. Stærð leigusvæðis og raun­verulegs skógræktarsvæðis sé ekki það sama.

Ætluð matsskylda framkvæmdar og þ.a.l. virkjun þátttökuréttar almennings sé háð ákvörðun Skipulags­stofnunar um að framkvæmd teljist háð umhverfismati. Það sé einungis í verkahring úr­skurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála að taka ákvörðun um hvort framkvæmd hafi verið þess eðlis að leggja hefði átt matsskyldufyrirspurn til Skipulagsstofnunar. Teljist fram­kvæmd matsskyld hafi almenningur þátttökurétt, annars ekki. Jafnvel þótt fallist yrði á sjónar­mið kæranda sé áfram óvíst hvort brot hafi átt sér stað á ætluðum þátttökurétti almennings. Niðurstaða um frá­vísunarkröfu tengist verulega umfjöllun undir efniskröfu, þ.e. hvort skilyrði hafi verið til þess að framkvæmd hafi átt að verða lögð undir Skipulagsstofnun til matsskyldu­ákvörðunar. Verði ákvæði laga og lögskýringargagna, og breytingalaga nr. 111/2021 um um­hverfis­­mat framkvæmda og áætlana sem breytt hafi ákvæðum um kæruheimild umhverfis-verndar­samtaka, ekki skýrð svo að umhverfisverndarsamtök hafi alltaf lögvarða hagsmuni þótt þau beri fyrir sig málsástæður um að réttur almennings til þátt­töku hafi verið brotinn. Ef niður­staða kærumáls geti ekki falið í sér staðfestingu á matsskyldu beri að vísa kröfum frá.

Ekki hafi verið skylt að auglýsa umrædd framkvæmdaleyfi, enda sé sú skylda bundin við mats-eða tilkynningarskyldar framkvæmdir. Upplýsingar um leyfisveitingar hafi verið aðgengilegar í fundargerðum Norðurþings sem birtar séu opinberlega á vefsvæði sveitarfélagsins og hafi að auki verið íbúum svæðisins ljósar, enda framkvæmdasvæðin nærri alfaraleiðum þjóðvega. Í ljósi þessa verði að líta svo á að kærufrestur hafi hafist við samþykkt bæjarstjórnar eða bæjar­ráðs. Á grunni framangreinds geti úrskurðarnefndin því eingöngu fjallað um lögmæti viðbótar­framkvæmdaleyfisins í landi Þverá.

Því sé hafnað að brotið hafi verið á þátttökurétti almennings. Framkvæmdirnar séu þess eðlis að þær séu ekki tilkynningarskyldar samkvæmt lögum nr. 111/2021 og þaðan af síður liggi nokkuð fyrir um að þær séu háðar umhverfismati. Fram komi í tölul. 1.04 í 1. viðauka við lög nr. 111/2021 að nýræktun skóga sem taki til 200 ha eða stærra svæðis sé tilkynningarskyld. Orðalagið vísi til þess svæðis þar sem raunveruleg skóg­rækt fari fram og stór svæði sem falli utan plöntunar og hvers kyns skógræktartengdra fram­kvæmda teljist ekki með, jafnvel þótt slíkt svæði falli undir viðkomandi jörð eða umsamið leigusvæði. Afstaða til tilkynningarskyldu þurfi því alltaf að tengjast raunverulegu umfangi lands þar sem „nýrækt“ skógar eigi sér stað. Í enskri útgáfu tilskipunar 2011/92/ESB vísi texti til plöntunarsvæðis, þ.e. „Initial afforestation and deforestation for the purposes of conversion to another type of land use.“

Sú slóðagerð sem gert sé ráð fyrir byggi á því að jafna eða slétta jarðveg sem fyrir sé. Engin möl sé keyrð í veg og uppbygging vegar eigi sér ekki stað. Það sé því ekki um að ræða „lagningu vega“ í skilningi umhverfismatslöggjafar. Megi í þessu samhengi líta til úrskurða úr-skurðar­­nefndarinnar þar sem slóðar eða einfaldir stígar hafi ekki verið taldir falla undir framkvæmdaleyfisskyldu, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 95/2020.

Ákvæði Evróputilskipunar og laga nr. 111/2021 geri ráð fyrir að svæði sem teljast eigi verndar­svæði skuli skilgreind og afmörkuð með formlegum ákvörðunum. Skýrslur Náttúru­fræði­stofnunar Íslands og skráningar á válistum/ábyrgðartegundum Íslands leiði ekki til þess að óljós svæði sem geti verið búsvæði slíkra tegunda teljist verndarsvæði á grundvelli alþjóð­legra samninga í skilningi umhverfismatslöggjafar. Hafi stofnunin gefið út kortið „Mikilvæg fugla­svæði“, en framkvæmdasvæðin séu ekki innan þeirra svæða. Standist það enga skoðun að allar framkvæmdir sem nái til mólendis á Íslandi eigi sjálfkrafa að fara í umhverfismat eða vera tilkynningarskyldar, óháð stærð.

Framkvæmd á vegum leyfishafa sé ekki í tengslum við skógræktarverkefni Kolviðarsjóðs í landi Saltvíkur. Umhverfismatslöggjöf hvíli á því að eiginleikar framkvæmdar ráði til­kynningar­­skyldu. Það leiði ekki af lögum að framkvæmdir í landi tiltekinnar jarðar teljist viðbót við aðrar framkvæmdir í landi viðkomandi jarðar. Þá hafi verið stofnuð sérstök fasteign úr landi Salt­víkur um það leigusvæði sem Yggdrasill Carbon hafi gert samning um. Hvorki fram­kvæmdar­aðili né leyfisveitandi hafi haft tilefni til að líta svo á að umræddar framkvæmdir væru tilkynningar­skyldar.

Komi ekki til frávísunar málsins þurfi að taka afstöðu til krafna kæranda. Takmarkist lögvarðir hags­munir hans við að gengið hafi verið á rétt almennings til þátttöku sem háð sé því að fram­kvæmd væri matsskyld. Þótt framkvæmd teldist tilkynningarskyld sé ennþá óvíst hvort réttur almennings til þátttöku geti verið til staðar. Matsskylduákvörðun geti eðli máls samkvæmt falið í sér að framkvæmd sé ekki umhverfismatsskyld og þ.a.l. engin röskun á þátttökurétti al­mennings eða efnislegum forsendum fyrir framkvæmdaleyfunum.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að árið 2020 hafi verið samþykkt fram­kvæmda­leyfi fyrir skógrækt að því er virðist á 102 ha svæði á Ærvíkurhöfða, en hugsanlega á allt að 114,6 ha svæði. Muni Ærvíkurhöfði vera í landi Saltvíkur og nái leyfisveitingar því samtals langt yfir 200 ha viðmið laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Sú lögskýring sé ekki tæk að umhverfis­verndarsamtök geti ekki borið undir úrskurðarnefndina leyfi fyrir meiri háttar framkvæmd í skilningi skipu­lags­laga nr. 123/2010 sem enn hafi ekki komið til umfjöllunar Skipulags­stofnunar vegna vanrækslu framkvæmdaraðila og stjórnvalds. Málið snúi einkum að túlkun umhverfismats-, skipulags- og náttúruverndarlaga og samhengi þessara laga. Í umhverfisrétti gildi sú megin­regla, mótuð af dómstólum ESB og EES ríkjanna, að lög um mat á umhverfisáhrifum skuli túlka rúmt og með hliðsjón af markmiðum mats-löggjafar­innar. Sé hér vísað til mála C-72/95, C-227/01 og C-50/09 hjá Evrópudómstólnum. Samkvæmt lögum nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið skuli skýra íslensk lög og reglur til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggi, sbr. 3. gr. laganna, þar sem við eigi.

Stjórnvöld séu einnig bundin af ákvæði 8. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, um að byggja á bestu fáanlegu vísindalegu þekkingu. Hvað framkvæmdaleyfi við Ærvíkurhöfða varði sé bent á að skv. 10. gr. sömu laga skuli meta áhrif á náttúru svæðis út frá heildarálagi sem sé á svæðinu eða það kunni að verða fyrir. Ekki sé vafi á því að svæðin tvö sem heimiluð hafi verið skógrækt á í landi Saltvíkur séu sama svæði í skilningi lagaákvæðisins.

Samkvæmt teikningu framlagðri af framkvæmdaraðila séu vegir lengri en fimm kílómetrar í landi Þverár. Engin vegagerð hafi falist í framkvæmdaleyfi vegna Saltvíkur og sé þeirri veg­slóða­gerð, sem lýst sé að standi þar til, mótmælt. Hvað kærufrest varði þá verði að leggja á Norðurþing að tryggja sér sönnun um vitneskju þeirra aðila sem lögvarða hagsmuni teljist eiga lögum samkvæmt.

Hinir lögvörðu hagsmunir kæranda byggist á settum lögum. Sjónarmið leyfishafa um réttar­stöðu eftir gildistöku laga nr. 111/2021, sem í 38. gr. hafi breytt 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd um­hverfis- og auðlindamála sé ekki í samræmi við lögskýringargögn. Við skýringu á laga­breytingu í 38. gr. laga nr. 111/2021 verði að líta til tilurðar ákvæðisins, þ.e. tengsla við EES samninginn og Árósasamninginn. Í ljósi lögskýringagagna með gildandi lögum sé ljóst að túlkun úrskurðarnefndarinnar á núgildandi lögum geti ekki verið sú sama og áður, en að auki sé úrræði áðurgildandi 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum ekki lengur tækt, líkt og þegar úrskurðarnefndin hafi kveðið upp úrskurð í máli nr. 90/2015. Kærandi geti ekki borið málið undir Skipulagsstofnun og ekki liggi fyrir ákvörðun hennar sem bera megi undir nefndina. Við skýringu á áðurgreindum lagaákvæðum sé byggt á bakgrunni og tilefni laga­breyting­anna 2021. Þær eigi sér alfarið rætur í Evróputilskipun um umhverfismat nr. 2011/92/ESB með síðari breytingum og áralöngum eftirrekstri eftirlitsstofnunar EFTA svo sem rakið sé í lögskýringargögnum, bæði í athugasemdum lagafrumvarps með 30 gr. laga nr. 111/2021 og almennum athugasemdum í frumvarpinu. Þar komi m.a. fram að ákvarðanir leyfis­veitenda um leyfisveitingu verði áfram kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auð­lindamála.

Kæra megi framkvæmdaleyfi til úrskurðarnefndarinnar óháð því hvort fyrir liggi ákvörðun um hvort framkvæmd varði umhverfismatsskylda ákvörðun skv. orðalagi 52. gr. laga nr. 123/2010. Sé framkvæmd framkvæmdaleyfisskyld ef hún sé meiri háttar framkvæmd sem áhrif hafi á um­hverfið og breyti ásýnd þess, svo sem breyting lands með jarðvegi eða efnistöku, sbr. 1. mgr. 13. gr. sömu laga. Séu stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt skipulagslögum sem feli í sér framkvæmda­leyfi kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar af hálfu allra þeirra sem lögvarða hagsmuni eigi því löggjafinn hafi ekki undanskilið umhverfisverndarsamtök frá því að bera athafnir eða athafnaleysi undir úrskurðarnefndina. Leyfisveitingin varði framkvæmdir sem falli undir lög nr. 111/2021, hvort sem umhverfismat hafi í raun farið fram eða framkvæmdaraðili látið hjá líða að óska eftir lögbundinni ákvörðun Skipulagsstofnunar. Ljóst sé að fram­kvæmdirnar falli undir 1. mgr. 18. gr. laga nr. 111/2021 í báðum tilvikum.

Að lokum sé því hafnað að stærð landsvæðis sé fengin með rýmkandi lögskýringu, þvert á móti sé vísað til svæðis, en ekki til þess í hvaða reiti landsvæðis tré séu sett niður í. Sé þrengjandi lög­skýring þröskuldsviðmiða ekki heimil samkvæmt Evrópuréttinum þegar um umhverfis-matslöggjöf og þátttökurétt almennings sé að ræða. Þá geti Ísland innleitt strangari kröfur en tilskipunin mæli fyrir um og það hafi verið gert varðandi umhverfismat vega.

Viðbótarathugasemdir Norðurþings: Bent er á að kærufrestur vegna útgáfu á framkvæmda­leyfi árið 2020 við Ærvíkurhöfða sé löngu liðinn. Um tvö aðskilin svæði sé að ræða, þar sem nálega 1 km sé á milli þar sem næst sé á milli þeirra. Á milli svæðanna sé Norðausturvegur auk lóða og húsa í landi Saltvíkur. Við mat á viðmiðum 1. viðauka laga nr. 111/2021 um um­hverfis­mat framkvæmda og áætlana beri að horfa á hverja og eina framkvæmd fyrir sig á þeim tíma sem þær fari fram. Tölul. 1.04 taki til nýræktunar skóga og geti skógrækt sem átt hafi sér stað um fjórum árum áður en hið kærða framkvæmdaleyfi hafi verið gefið út ekki talist ný­ræktun skóga eða hluti hans í skilningi töluliðarins enda sé um að ræða tvö aðskild og ótengd svæði. Engin lagaheimild sé fyrir slíkri skýringu. Þá sé bent á að þegar framkvæmdaleyfið hafi verið gefið út árið 2020 hafi engar áætlanir verið uppi um skógrækt á því svæði sem til um­fjöllunar sé í máli þessu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti framkvæmdaleyfa sem Norðurþing veitti vegna skógræktar, annars vegar í landi Saltvíkur og hins vegar í landi Þverár. Kæruheimild er í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að virtum sjónarmiðum kæranda verður fallist á að kæra í máli þessu hafi borist innan kærufrests, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Það er skilyrði kæruaðildar að málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarða hags­muni tengda hinni kærðu ákvörðun. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta fyrir nefndinni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sbr. nánar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, en af gögnum má ráða, sem úrskurðarnefndin hefur kynnt sér, að kærandi uppfyllir skilyrði þeirrar greinar. Meðal ákvarðana sem slíkum samtökum er heimilt að bera undir nefndina eru ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, m.a. vegna ætlaðs brots á þátt­tökuréttindum almennings með athöfnum eða athafnaleysi eða annars ágalla sem kann að hafa verið á málsmeðferð, sbr. b-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Í athugasemdum með 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kom m.a. fram að undir téðan b-lið falli leyfi vegna framkvæmda sem mats­skyldar séu skv. III. kafla þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Þar undir falli framkvæmdir sem alltaf séu matsskyldar, sbr. 5. gr. laganna og 1. viðauka þeirra, til-kynningarskyldar framkvæmdir sem ákveðið hafi verið að skuli háðar mati á umhverfis-áhrifum, sbr. 6. gr. laganna og 2. viðauka þeirra, og framkvæmdir sem ákvörðun ráðherra liggur fyrir um, sbr. 7. gr. laganna. Nái þessi töluliður til þeirra ákvarðana sem vísað sé til í a- og b-liðum 1. tölul. 6. gr. Árósasamningsins. Þau leyfi sem um ræði séu öll leyfi stjórnvalda sem sæti kæru til nefndarinnar og nauðsynleg séu svo ráðast megi í framkvæmd sem háð sé mati á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 111/2021 skulu framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki A í 1. við­auka við lögin ávallt háðar umhverfismati. Framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B í 1. viðauka skulu háðar umhverfismati þegar þær eru taldar líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar skv. 2. viðauka. Ber framkvæmdar­aðila að tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B í 1. við­auka við lögin, sbr. 19. gr. laganna. Er óheimilt skv. 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga og 1. mgr. 25. gr. laga nr. 111/2021 að gefa út leyfi til framkvæmdar sem fellur undir lögin fyrr en álit Skipulags­stofnunar um umhverfismat framkvæmdar skv. 24. gr. liggur fyrir eða ákvörðun stofnunarinnar skv. 19. gr. laganna um að framkvæmdin skuli ekki háð umhverfismati. Það er forsenda kæruaðildar umhverfis­verndarsamtaka samkvæmt framanröktu að fyrir liggi ákvörðun um matsskyldu framkvæmda og áætlana, svo sem ef kærandi telur athafnir eða athafnaleysi hafa brotið gegn þátttöku­réttindum almennings eða annan ágalla hafa verið á málsmeðferð. Þar sem slíkri ákvörðun Skipulagsstofnunar er ekki til að dreifa í máli þessu getur kærandi ekki átt aðild að því og verður því að vísa kæru hans frá nefndinni.

Sjónarmið kæranda um kærurétt sinn í þessu máli gefur tilefni til almennrar ábendingar um mikilvægi þess að við undirbúning ákvarðana um leyfi til framkvæmda sé gætt að þeim skyldum sem hvíla á sveitarstjórn að tryggja að framkvæmdaraðili tilkynni um framkvæmdir til Skipulagsstofnunar þegar þær eru taldar líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Til þess er að líta að eðli máls sam­kvæmt er skógrækt í reynd langtímaverkefni sem varir meðan skógur stendur. Geta ólík skógræktarverkefni falið í sér samlegðaráhrif, séu þau nálægt hvert öðru. Þá komu fram í umsögn Náttúrustofu Norðausturlands athugasemdir sem vörðuðu verndargildi þeirra svæða sem voru til umfjöllunar í hinum kærðu ákvörðunum. Af afgreiðslu sveitarstjórnar í máli þessu við undirbúning ákvarðananna verður ekki ráðið að hún hafi fjallað nægilega um umhverfisáhrif þeirra í ljósi framanrakins. Í þessari almennu ábendingu felst ekki afstaða til þess hvort skylt hefði verið að tilkynna um áform framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar. Er loks bent á að verði ekki vandað til málsmeðferðar við tilvik sem þessi getur skapast sú hætta að frjáls félaga­samtök, sem vinna að umhverfisvernd, hafi ekki tækifæri til þess að sinna samfélagslegu hlutverki sínu við gæslu almannahagsmuna.

Með gildistöku laga nr. 111/2021 var fellt brott ákvæði sem var í 6. gr. áðurgildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum um að unnt væri að bera fram fyrirspurn til Skipulags­stofnunar um matsskyldu framkvæmdar. Verður ekkert talið standa því í vegi að slík fyrirspurn verði borin upp við stofnunina á óskráðum grundvelli, enda fer hún með framkvæmd laga nr. 111/2021 og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim, sem og ráðgjafar- og leiðbeiningar­hlutverk, sbr. 6. gr. laganna. Er stofnuninni jafnframt heimilt skv. 32 gr. laga nr. 111/2021 að leggja stjórnvaldssektir á framkvæmdaraðila sem hefur hafið framkvæmd sem fellur í flokk B skv. 1. viðauka án þess að tilkynna hana til ákvörðunar um matsskyldu, en slík ákvörðun verður aðeins borin undir dómstóla, sbr. 5. mgr. 32. gr. laganna.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.