Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

165/2024 Nönnugata

Með

Árið 2025, þriðjudaginn 25. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 165/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík, sem tilkynnt var með bréfi dags. 28. október 2024,  um að aðhafast ekki varðandi útlitsbreytingu á gluggum á Nönnugötu 16.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 29. nóvember 2024, kærir Húsfélagið Nönnugötu 16, þá ákvörðun byggingarfulltrúa í Reykjavík frá 28. október 2024 að aðhafast ekki vegna ábendingar um breytingu á ásýnd á gluggum á 2. hæð á Nönnugötu 16, þar sem ekki sé um að ræða verulega útlitsbreytingu með vísan í 2.3.4 gr. byggingarreglugerðar. Er þess krafist að úrskurðarnefndin ,,skoði málið og taki það til endurskoðunar.“

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 13. desember 2024.

Málavextir: Reykjavíkurborg barst þann 19. september 2024 ábending frá húsfélaginu Nönnugötu 16 um að gluggar á 2. hæð íbúðar nr. 202 samræmist ekki byggingartíma né teikningum hússins. Bent var á að ekki mætti breyta útliti hússins án samþykkis annarra eigenda og hafi þeir ekki verið látnir vita um þessar framkvæmdir. Erindið var tekið fyrir á fundi byggingarfulltrúa þann 26. september 2024 og bókað í fundargerð: ,,Nönnugata 16 – breyting á útliti glugga. Byggingarfulltrúi mun ekki aðhafast þar sem ekki er um að ræða verulega útlitsbreytingu með vísan í 2.3.4 gr. byggingarreglugerðar.“ Húsfélaginu var tilkynnt um um þessa niðurstöðu þann 28. október 2024. Úrskurðarnefndin lítur svo á að lögmæti þessarar afgreiðslu sé borin undir nefndina í máli þessu.

Málsrök kæranda/kærenda: Kærandi lýsir því að hann hafi kvartað til Reykjavíkurborgar um að eigandi íbúðar nr. 202 á annarri hæð hafi endurnýjað alla glugga á íbúðinni án samráðs við húsfélagið þannig að útlit þeirra varð annað en annarra glugga í húsinu. Kærður sé úrskurður deildar afnota- og eftirlits á umhverfissviði en teikningar af gluggunum í samþykktum teikningum hjá borginni hljóti að hafa tilgang. Gluggarnir vísi bæði út á Nönnugötu og Njarðargötu og sé stílbrotið hrópandi og augljóst öllum vegfarendum. Gluggarnir séu öðruvísi t.d. séu færri rúður í hverjum glugga, sem sé verulegur munur. Þetta sé lýti á yfirbragði hússins og leiði til lægra söluverðs fasteigna svo áhrifin séu bæði byggingarfræðileg og fjárhagsleg.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg vísar til þess að Jón Árnason og Ólafur Þór Celbat hafi lagt fram kæru í máli þessu fyrir hönd húsfélagsins Nönnugötu 16, sem skráð sé í fyrirtækjaskrá án þess að prókúruhafi sé tilgreindur. Ljóst sé að Jón og Ólafur, sem séu eigendur íbúða í húsinu, geti ekki lagt fram kæru í nafni húsfélagsins né skuldbundið félagið nema hafa til þess umboð skv. lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994, en í 71. gr. þeirra laga sé fjallað um umboð til þess að skuldbinda húsfélag og aðildarhæfi, en  æðsta vald í málefnum húsfélagsins sé í höndum almenns fundar þess sbr. 58. gr. laganna. Samkvæmt 12. tl. A-liðar 1. mgr. 41. gr. laganna þurfi einnig samþykki allra eigenda til ráðstafana og ákvarðana sem ekki varða sameignina og sameiginleg málefni, en eigendur telji æskilegt að þeir standi saman að og ráði í félagi. Umboð til rekstrar málsins þurfi að vera í samræmi við lög um fjöleignarhús og ná sérstaklega til rekstrar þessa máls. Slík ákvörðun þyrfti að vera tekin á dagskrá á löglega boðuðum húsfundi, með samþykki allra eigenda húsfélagsins. Kæran sé því haldin annmarka að þessu leyti og beri að vísa henni frá úrskurðarnefndinni.

Reykjavíkurborg fjallar einnig um viðeigandi ákvæði byggingareglugerðar nr. 112/2012, m.a. gr. 2.3.4., og mannvirkjalaga nr. 160/2010 m.a. gr. 9, 55, 56 og 60. Mat byggingarfulltrúa á því hvort breyting á útliti fjölbýlishússins við Nönnugötu 16 hafi verið veruleg og hvort beita ætti þvingunarúrræðum hafi verið stutt efnislegri- og málefnalegri skoðun og rökum, breytingin skerði ekki hagsmuni nágranna, breyti eða hafi áhrif á götumynd, né raski öryggis- og almannahagsmunum. Ekki sé því um verulega breytingu að ræða. Ekki verði séð að óveruleg framkvæmd eða útlitsbreyting eins og sú sem um sé að ræða geti falið í sér lækkun á fasteignaverði eignarinnar og kærandi hafi ekki sýnt fram á tjón. Úrskurðarnefndin eigi því að hafna kröfum kæranda.

Upplýsingaöflun úrskurðarnefndarinnar: Úrskurðarnefndin óskaði staðfestingar á að þeir aðilar sem undirrituðu kæruna fyrir hönd húsfélagsins að Nönnugötu 16 hefðu nauðsynlegt umboð til slíks. Leiðbeint var um þetta við móttöku kærunnar og síðan veittur frestur til þessa til eins mánaðar sem náði til 15. febrúar 2025. Ekkert slíkt umboð barst.

———-

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að aðhafast ekki vegna ábendingar um breytingu á ásýnd á nýjum gluggum á 2. hæð á Nönnugötu 16, þar sem ekki sé um að ræða verulega útlitsbreytingu með vísan í gr. 2.3.4 gr. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Kæran er send og undirrituð af Jóni A. Árnasyni og Ólafi Þór Chelbat, fyrir hönd húsfélagsins Nönnugötu 16. Í húseigninni að Nönnugötu 16 eru 10 fastanúmer og um hana gilda fjöleignarhúsalög nr. 26/1994, m.a. um húsfélag og heimildir þess. Samkvæmt 66. gr. laganna skal í húsfélagi vera stjórn sem kosin er á aðalfundi, skipuð a.m.k. þrem mönnum og sé einn þeirra formaður sem kosinn er sérstaklega.

Í 1. og 2. mgr. 70. gr. laganna er stjórn húsfélags veitt heimild til að taka hvers kyns ákvarðanir sem lúta að venjulegum daglegum rekstri og hagsmunagæslu vegna sameignar sem og að láta framkvæma minni háttar viðhald, viðgerðir og bráðnauðsynlegar og brýnar ráðstafanir sem ekki þola bið. Þá segir í 3. mgr. sömu greinar að ráðstafanir og framkvæmdir sem ganga lengra en kveðið er á um í 1. og 2. mgr. beri að leggja fyrir húsfund til umfjöllunar og ákvörðunar. Í 1. mgr. 71. gr. laganna segir að húsfélag sé skuldbundið út á við með skriflegri eða rafrænni undirritun meiri hluta stjórnarmanna og skuli formaður að jafnaði vera einn af þeim. Í 2. mgr. 71. gr. segir að húsfélagið geti verið aðili að dómsmáli, bæði til sóknar og varnar.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis og auðlindamála skal kæra til nefndarinnar vera skrifleg og undirrituð og koma fram hver sé kærandi. Upp gefinn kærandi í máli þessu er húsfélagið Nönnugata 16, sem er skráð í fyrirtækjaskrá og hefur kennitölu. Það er lögbundið félag skv. lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús og þótt ljóst sé að Jón A. Árnason og Ólafur Þór Chelbet, sem undirrituðu kæruna f.h. húsfélagsins, séu eigendur íbúða í fjöleignarhúsinu að Nönnugötu 16 liggja ekki fyrir neinar upplýsingar um að þeir séu stjórnarmenn í húsfélaginu eða að þeir hafi umboð félagsins til að leggja fram kæruna í nafni þess. Með því að ekki er ljóst að kæran stafi með lögformlegum hætti frá upp gefnum kæranda, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2024, er kæru þessari vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

26/2025 Þorlákshafnarhöfn

Með

Árið 2025, mánudaginn 24. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Fyrir var tekið mál nr. 26/2025, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss frá 30. janúar 2025 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð landfyllingar við Suðurvararbryggju í Þorlákshöfn.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. febrúar 2025, er barst nefndinni sama dag, kærir Brimbrettafélag Íslands þá ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss frá 30. janúar s.á. að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir gerð landfyllingar við Suðurvararbryggju í Þorlákshöfn. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá sveitarfélaginu Ölfusi 14. febrúar 2025.

Málavextir: Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar Ölfuss 22. janúar var tekin fyrir umsókn um framkvæmdaleyfi til að gera tæplega 1 ha landfyllingu við Suðurvararbryggju. Fól umsóknin í sér gerð landfyllingar milli Suðurvarargarðs og útsýnispalls á norðanverðu hafnarsvæði Þorlákshafnar. Stærð landfyllingar yrði um 9.000 m2 sem ætlað væri að ná frá núverandi sjóvörn að stórstraumsfjöruborði og tengjast núverandi athafnasvæði syðst á hafnarsvæðinu. Heildar efnismagn landfyllingar var áætlað um 27.000 m3 og í grjótkápu um 10.000 m3 til viðbótar. Var umsóknin samþykkt á fundinum með fyrirvara um birtingu deiliskipulags hafnarsvæðis í B-deild Stjórnartíðinda og að framkvæmdin yrði ekki metin umhverfismatsskyld af Skipulagsstofnun. Á fundi bæjarstjórnar Ölfuss 30. janúar 2025 var afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar samþykkt. Hinn 3. febrúar 2025 tók greint deiliskipulag gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda. Lá ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu fyrir 4. s.m. og var framkvæmdaleyfi gefið út sama dag. Í leyfinu kemur fram að framkvæmdatími er áætlaður þrír mánuðir.

Með bráðabirgðaúrskurði úrskurðarnefndarinnar, uppkveðnum 12. febrúar 2025, voru framkvæmdir á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar stöðvaðar að kröfu kæranda á meðan mál þetta væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þótti rétt að stöðva framkvæmdir samkvæmt leyfinu þar sem talin voru ýmiss álitaefni í málinu sem þarfnast mundu nánari rannsóknar, svo sem þar var nánar rakið. Var í því sambandi m.a. horft til þess að deilt var um ákvörðun sem tekin hafði verið á fundi bæjarstjórnar með fyrirvara um ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar, sem þá lá ekki fyrir. Fer slík málsmeðferð gegn markmiðum laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, þar sem gert er ráð fyrir því að í niðurstöðum matsskylduákvörðunar séu settar fram ábendingar um tilhögun framkvæmdar í því skyni að koma í veg fyrir umtalsverð umhverfisáhrif, byggt á þeim upplýsingum sem fram hafa komið við umfjöllun um tilkynningu framkvæmdaraðila, sbr. 2. mgr. 20. gr.

Í téðum úrskurði nefndarinnar kom jafnhliða þessu fram að meðal álitaefna í kærumálinu væri hvort kærandi uppfyllti skilyrði kæruaðildar fyrir nefndinni. Var til nánari skýringar greint frá ákvæðum laga sem verið gætu af þýðingu. Var af því tilefni skorað á kæranda að gera grein fyrir þeim einstaklingsbundnu og lögvörðu hagsmunum sem hann hefði af úrlausn kærumálsins, sbr. 1. málsl. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Veittur var frestur til þessa til 18. febrúar 2025.  Umsögn kæranda barst þann sama dag. Framkvæmdaraðili hefur og tjáð sig um skilyrði kæruaðildar að máli þessu, svo sem gerð er grein fyrir hér á eftir, jafnhliða því að hann óskaði eftir því að málið sæti flýtimeðferð sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011.

Málsrök kæranda: Í stjórnsýslukæru kæranda er aðild rökstudd svo að hann teljist til umhverfisverndar-, útivistar eða hagsmunasamtaka. Kemur fram að kærandi uppfylli áskilnað b-liðs 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem hagsmunasamtök. Um sé að ræða samtök brimbrettafólks á Íslandi sem hafi m.a. að lýstu markmiði að vernda brimbrettastaði landsins, en fyrirhuguð framkvæmd muni að mati kæranda hafa verulega neikvæð áhrif á helstu brimbrettaöldu landsins. Með tölvubréfi 18. febrúar 2025 kom kærandi á framfæri nánari upplýsingum um starfsemi sína og lagði m.a. fram félagatal og fundargerð stjórnarfundar.  Í umsögn kæranda við sama tilefni voru áréttuð sjónarmið um að kæruaðild að máli þessu geti grundvallast á kærurétti samtaka skv. 4. gr. laga nr. 130/2011. Vísað var til þess að kærandi hafi borið ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu landfyllingar við Suðurvararbryggju undir úrskurðarnefndina. Aðeins að gengnum úrskurði um þá ákvörðun, sem sé forsenda hins kærða framkvæmdaleyfis, liggi endanlega fyrir hvort kæruheimild sé til að dreifa.

Um kæruaðild samkvæmt almennum meginreglum stjórnsýsluréttar vísar kærandi til þess að félag geti notið kæruaðildar eigi umtalsverður hluti félagsmanna þess einstakra og verulegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls. Þorlákshafnaraldan sé besta og áreiðanlegasta brimbrettaalda landsins og hafi verið notuð til brimbrettaiðkunar af félagsmönnum Brimbrettafélags Íslands í um 25 ára skeið. Stærsti hluti brimbrettaiðkunar landsins fari þar fram, bæði vegna þessara eiginleika og staðsetningar. Ráðgerðar framkvæmdir geti haft óafturkræf og neikvæð áhrif á „Aðalbrotið“ og með því veruleg neikvæð áhrif á möguleika til brimbrettaiðkunar. Séu hagsmunirnir félagsmanna kæranda þannig verulegir. Jafnframt þessu séu hagsmunirnir einstaklegir og umfram þá sem aðrir hafi að gæta. Félagsmenn séu helstu notendur svæðisins sem sé miðpunktur brimbrettaiðkunar hér á landi. Hafi þeir því ríka hagsmuni og umfram aðra. Hafi tilteknir félagsmenn auk þess atvinnu sína að einhverju leyti af brimbrettaiðkun.

Að lokum er af kæranda vísað til þess að kærurétti sé ætlað að tryggja réttaröryggi í stjórnsýslurétti, m.a. að óafturkræft tjón verði ekki vegna athafna sem séu í andstöðu við lög. Vegna þessara sjónarmiða séu ekki settar þröngar skorður við kæruaðild, enda hafi kærandi tengsl við efni hlutaðeigandi ákvörðunar.

Málsrök sveitarfélagsins Ölfuss: Af hálfu sveitarfélagsins eru bornar brigður á að kærandi uppfylli skilyrði kæruaðilar að máli þessu og er um það vísað til þeirra skilyrða fyrir kæruaðild félagasamtaka sem sett eru í 3. og 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Með kærunni hafi ekki verið upplýsingar um fjölda félagsmanna né heldur um það hvort gefnar hafi verið út ársskýrslur um starfsemi kæranda eða hvort hann hafi endurskoðað bókhald. Þá virðist kærandi sem félag ekki hafa neina virka starfsemi og samkvæmt gögnum Skattsins sé stjórn félagsins óbreytt frá stofnun þess. Þetta bendi til þess að félagið sé lokuð samtök örfárra einstaklinga með takmarkaða starfsemi. Lögheimili þess sé í heimahúsi þar sem einn stjórnarmanna hafi eitt sinn átt heima en sú skráning hafi ekki verið uppfærð. Engin merki séu um að félagið hafi nokkra hefðbundna virkni sem félag og geti það því vart uppfyllt þær lágmarkskröfur sem lög nr. 130/2011 geri til félaga sem byggi kæruaðild sína á lögunum. Þá hafi kærandi engra einstaklingsbundinna lögvarinna hagsmuna að gæta. Kærandi hafi ekki byggt upp neina aðstöðu í Þorlákshöfn og þrátt fyrir að tilteknir einstaklingar hafi farið á brimbretti inni á skilgreindu hafnarsvæði Þorlákshafnarhafnar skapi það eigi lögvarða hagsmuni. Sé þess því krafist að kærunni verði vísað frá.

Þessu til viðbótar bendir sveitarfélagið á að sú kæruheimild sem kærandi byggi kærurétt sinn á varði ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falli undir lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Í lögunum komi fram að undir lögin falli landfyllingar þar sem áætluð uppfylling sé 5 ha eða stærri, sbr. liður 10.18 í við viðauka 1 við lögin. Landfyllingin sem um ræði sé 0,9 ha og því fjarri því að vera af því umfangi að lögin eigi við. Þá verði ekki séð að 13. tl. í viðauka 1 í lögum nr. 111/2021 breyti nokkru um þetta enda mundi slík skýring fela í sér að allar viðbætur við hafnir, án tillits til umfangs, mundu falla undir lögin.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar bæjarstjórnar Ölfuss um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð landfyllingar við Suðurvararbryggju í Þorlákshöfn. Með bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 12. febrúar 2025, voru framkvæmdir á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar stöðvaðar að kröfu kæranda á meðan mál þetta væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samkvæmt 30. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana sæta m.a. ákvarðanir Skipulagsstofnunar um hvort framkvæmd skuli háð umhverfismati skv. 20. gr. laganna, og ákvarðanir leyfisveitanda um veitingu leyfis til framkvæmda kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varði kæruna er vísað til laga um úrskurðarnefndina, nr. 130/2011. Í 3. mgr. 4. gr. þeirra laga er fjallað um skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni. Kemur fram að kærandi verði að eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök teljast þó eiga lögvarinna hagsmuna að gæta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, m.a. þegar um er að ræða ákvarðanir um að veita leyfi til framkvæmda sem falla undir lög um nr. 111/2021, sbr. b-lið 3. mgr. 4. gr. sömu laga.

Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 var rakið í skýringum við ákvæði b-liðs 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 að ákvörðun um matsskyldu ráði því hvort almenningur fái rétt til frekari þátttöku í gegnum matsferlið og hvort hann njóti kæruaðildar vegna ákvarðana stjórnvalda um að veita leyfi vegna framkvæmda. Hér undir falli m.a. framkvæmdir sem ákveðið hafi verið að skuli háðar mati á umhverfisáhrifum og var um það vísað til þágildandi laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Þau leyfi sem um sé að ræða séu öll leyfi stjórnvalda sem sæti kæru til nefndarinnar og nauðsynleg séu svo ráðast megi í framkvæmd sem háð sé mati á umhverfisáhrifum. Hjá því verður ekki litið í máli þessu að með áliti Skipulagsstofnunar, dags. 4. febrúar 2025, var hin kærða framkvæmd ekki talin líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Þrátt fyrir að ákvörðun Skipulagsstofnunar hafi verið kærð til úrskurðarnefndarinnar raskar það því ekki að sökum þeirrar ákvörðunar er ekki til að dreifa kærurétti umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtaka yfir hinni kærðu ákvörðun. Getur aðild kæranda að máli þessu einungis grundvallast á almennum skilyrðum kæruaðildar.

Félög geta átt aðild að málum fyrir úrskurðarnefndinni á grundvelli almennra skilyrða kæruaðildar sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Til þess verða þau að sýna fram á að þau eigi lögvarinna hagsmuna að gæta. Verður við nánari afmörkun að líta til almennra meginreglna stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum, en af þeim leiðir að kærandi verður að eiga beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem er kærð. Samkvæmt samþykktum kæranda er tilgangur hans að gæta hagsmuna allra brimbrettamanna á Íslandi og er því nánar lýst í samþykktunum að markmið í starfsemi sé m.a. að fá helstu brimbrettastaði skráða sem útivistarsvæði á aðalskipulagi sveitarfélaga. Með þessu lýtur tilgangur kæranda, sem félags, að gæslu almannahagsmuna og er í kæru hans fyrst og fremst höfðað til slíkra hagsmuna.

Fyrir liggur að í aðalskipulagi og deiliskipulagi þess svæðis sem um ræðir hefur verið tekin afstaða til landnotkunar. Þá hafa við meðferð þessa máls ekki komið fram neinar upplýsingar um að kærandi hafi yfir að ráða aðstöðu eða réttindum til brimbrettaiðkunar í grennd við ráðgert framkvæmdasvæði. Verður ekki ráðið að kærandi eigi einstaklega og lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun umfram aðra. Verður ekki heldur séð að félagsmenn í kæranda eða umtalsverður hluti þeirra, eigi slíka beinna, sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta af úrlausn þessa máls, þannig þeim verði játuð kæruaðild. Loks getur hvorki þátttaka kæranda eða félagsmanna hans við málsmeðferð Skipulagsstofnunar né við meðferð breytingar á deiliskipulagi svæðisins leitt til kæruaðildar að máli þessu.

Með vísan til alls framanrakins verður að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

25/2025 Þorlákshafnarhöfn

Með

Árið 2025, mánudaginn 24. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 25/2025, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 4. febrúar 2025 um að landfylling við Þorlákshöfn skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. febrúar 2025, er barst nefndinni sama dag, kærir Brimbrettafélag Íslands þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 4. febrúar s.á. að landfylling við Þorlákshöfn skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað þar til niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggi fyrir. Verður nú tekin afstaða til síðargreindrar kröfu kærenda.

Leitað var umsagnar Skipulagsstofnunar um kæru í máli þessu. Gerði stofnunin ábendingu um gögn málsins og boðaði umsögn innan veitts frests, sem ekki er liðinn.

Málsatvik og rök: Hinn 10. desember 2024 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Hafnarsjóði Þorlákshafnar um landfyllingu við Þorlákshafnarhöfn samkvæmt 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. liði 13.02 og 10.10 í 1. viðauka laganna. Í greinargerð með tilkynningunni kom fram að hin fyrirhugaða framkvæmd væri tæplega 1 ha landfylling á syðsta hluta hafnarsvæðisins. Núverandi hafnarsvæði H3 væri um 12 ha að stærð og fyrirhuguð breyting gerði ráð fyrir um 9.000 m2 landfyllingu sunnan Suðurvaragarðar. Efnið sem notað yrði í landfyllinguna kæmi til með að vera uppúrtekt vegna dýpkunar við nýja Suðurvarabryggju. Gert væri ráð fyrir að í landfyllinguna sjálfa yrði notað um 27.000 m3 af efni og í grjótkápuna um 10.000 m3 af grjóti. Skipulagsstofnun leitaði umsagna Brimbrettafélags Íslands, Hafrannsóknarstofnunar, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Umhverfis- og orkustofnunar, Vegagerðarinnar, Sveitarfélagsins Ölfuss og Náttúruverndarstofnunar. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu lá fyrir 4. febrúar 2025. Var niðurstaða stofnunarinnar að hin fyrirhugaða framkvæmd væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 111/2021 og skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Kærandi bendir á að hann telji að ákvörðun Skipulagsstofnunar sé háð efnis- og formannmörkum sem eigi með réttu að valda ógildingu ákvörðunarinnar. Stofnunin hafi ekki búið yfir fullnægjandi eða réttum upplýsingum til að leggja forsvaranlegt mat á líkleg umhverfisáhrif og umfang þeirra og nauðsyn hefði staðið til þess að rannsaka ýmis atriði betur. Ljóst sé að framkvæmdirnar muni hafa í för með sér óafturkræf áhrif á Aðalbrotið. Verði hin fyrirhugaða landfylling að veruleika muni aldan styttast, gæði hennar verða óásættanleg og aðstæður til brimbrettaiðkunar mun hættulegri. Hluti brimbrettasvæðisins muni fara undir land­fyllinguna, þar á meðal það svæði sem notað sé af brimbrettafólki til að komast upp úr sjónum.

Niðurstaða: Á grundvelli 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin heimild til frestunar réttaráhrifa í tengslum við meðferð kærumáls. Um er að ræða undantekningu frá meginreglu 1. mgr. 5. gr. laganna um að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og ber að skýra umrædda heimild þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Einnig að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili séu að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta eða ef til staðar séu mikilvægir almannahagsmunir, t.d. þar sem ákvörðun hefur að markmiði að koma í veg fyrir hættuástand. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun er íþyngjandi fyrir hann, veldur honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu, enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi.

Hinn 10. febrúar 2025 lagði kærandi þessa máls fram kæru á framkvæmdaleyfi Sveitarfélagsins Ölfuss, dags. 4. s.m., og gerði kröfu um stöðvun framkvæmda. Með bráðabirgðaúrskurði, dags. 12. s.m., stöðvaði úrskurðarnefndin framkvæmdir á grundvelli hins kærða framkvæmdaleyfis. Var kæran í kjölfarið látin sæta flýtimeðferð hjá úrskurðarnefndinni á grundvelli 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011. Með úrskurði, fyrr í dag var kæru vegna framkvæmdaleyfis vísað frá nefndinni sökum aðildarskorts. Brestur nefndina heimild til þess að fjalla um skilyrði frestunar réttaráhrifa þeirrar ákvörðunar, að því virtu.  Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar sem lýtur eingöngu að því hvort fyrirhuguð framkvæmd skuli sæta mati á umhverfisáhrifum en ákvörðunin felur ekki í sér sjálfstæða heimild til að hefja framkvæmdir. Verður því ekki fallið á að skilyrði geti verið til þess að fresta réttaráhrifum hennar. Það er því undir framkvæmdaraðila komið að meta hvort hann kjósi að bíða úrskurðar nefndarinnar um þá ákvörðun sem er til umfjöllunar í máli þessu.

 Vert er að geta þess að í stjórnsýslukæru kæranda er aðild rökstudd svo að hann teljist til umhverfisverndar-, útivistar eða hagsmunasamtaka. Kemur þar fram að kærandi uppfylli áskilnað b-liðs 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem hagsmunasamtök. Hefur kærandi komið nánari upplýsingum hér að lútandi til úrskurðarnefndarinnar, en ekki hefur verið tekin afstaða til kæruaðildar á þeim grundvelli að svo stöddu.

 Með tilliti til þess að heimild til frestunar réttaráhrifa er undantekning og með vísan til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis hinnar kærðu ákvörðunar verður kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa á grundvelli hinnar kærðu matsskylduákvörðunar.

20/2025 Grundarland

Með

Árið 2025, mánudaginn 24. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 20/2025, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. janúar 2025 um álagningu dagsekta vegna bílskýlis að Grundarlandi 22.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. febrúar 2025, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Grundarlands 22, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. janúar s.á. um álagningu dagsekta að fjárhæð 25.000 kr. á dag frá og með 24. s.m. vegna bílskýlis að Grundarlandi 22. Einnig er kærð ákvörðun byggingarfulltrúa, dags. 22. ágúst 2024, um niðurrif bílskýlisins. Með tölvupósti frá 14. febrúar 2025 gerðu kærendur þá kröfu að réttaráhrifum ákvörðunar um dagsektir verði frestað á meðan málið verði til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 21. febrúar 2025.

Málsatvik og rök: Með bréfi, dags. 22. ágúst 2024, sem móttekið var af kærendum 3. september s.á. tilkynnti byggingarfulltrúi lóðarhöfum Grundarlands 22 að borist hefði ábending um að búið væri að reisa mannvirki á lóðarhluta húss nr. 22 á lóð nr. 18.–24. við Grundarland. Samkvæmt ábendingu væri búið að reisa skúr og bílskýli utan byggingarreits. Var kærendum tilkynnt að þeim væri skylt að rífa skýlið innan 90 daga, ella yrðu lagðar á dagsektir. Með tölvupósti frá 28. nóvember s.á. var kærendum tilkynnt að ákvörðun byggingarfulltrúa stæði og að hún væri kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Með bréfi byggingarfulltrúa til kærenda, dags. 23. janúar 2025, var síðan tilkynnt um ákvörðun um álagningu dagsekta, kr. 25.000 fyrir hvern þann dag sem dragast mundi að verða við kröfu um niðurrif.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 20. febrúar 2025 var tekin fyrir beiðni kærenda um að stöðva innheimtu dagsekta á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þeirri beiðni var synjað.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun er íþyngjandi fyrir hann, veldur honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi.

Í máli þessu er kærð sú ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. janúar 2025 að leggja á dagsektir að fjárhæð 25.000 kr. fyrir hvern þann dag sem kærendur draga að verða við kröfu um að fjarlægja mannvirki er tilheyri húsi nr. 22 á lóð nr. 18.–24 við Grundarland. Kærendur hafa nýtt sér heimild til að bera lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar undir úrskurðarnefndina. Um íþyngjandi ákvörðun er að ræða, sem beinist einungis að kærendum. Eins og málsatvikum er háttað þykir rétt að fresta réttaráhrifum ákvörðunarinnar enda liggja ekki fyrir knýjandi ástæður sem gera það að verkum að varhugavert sé að bíða niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um ágreiningsefni máls þessa.

 Úrskurðarorð:

Frestað er réttaráhrifum ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. janúar 2025, um beitningu dagsekta að fjárhæð 25.000 kr. á dag frá og með 24. janúar 2025.

162/2024 Furuhlíð

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 13. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 162/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 12. maí 2024 um að aðhafast ekki frekar vegna lóðarmarka Fjóluhlíðar 11 og Furuhlíðar 10, Hafnarfirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 25. nóvember 2024, kærir eigandi, Fjóluhlíð 11, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 12. maí 2024 að aðhafast ekki frekar vegna lóðarmarka Fjóluhlíðar 11 og Furuhlíðar 10. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 3. desember 2024.

Málsatvik og rök: Á árinu 2023 hóf kærandi tölvupóstsamskipti við byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar vegna hæðar lóðar Furuhlíðar 10 og stöllunar á henni, sem hann taldi ekki vera samkvæmt samþykktum teikningum og skipulagi. Í kjölfarið fór byggingarfulltrúi á staðinn ásamt mælingamanni og með bréfi, dags. 12. maí 2024, var kæranda tilkynnt um niðurstöður mælinga. Í bréfinu kom fram að byggingarfulltrúi teldi að stöllun innan lóðar Furuhlíðar 10 samræmdist deiliskipulagi. Þá benti hann á að lóðarfrágangurinn hafi verið með þessum hætti frá því að húsin hafi verið byggð fyrir um 20-30 árum. Þá  hugðist embættið ekki aðhafast frekar í málinu.

 Kærandi kveðst hafa byggt hús sitt að Fjóluhlíð 11 í samræmi við samþykktar teikningar og hæð lóðarinnar sé í samræmi við deiliskipulag. Húsið að Furuhlíð 10 hafi verið byggt nokkrum árum seinna og lóðin sett í jafna hæð í kóta 31 nema um 1,5 m frá lóðamörkum Fjóluhlíðar 11 þar sem 1,5 m hár stoðveggur hafi verið gerður svo hæðarkóti yrði réttur á lóðarmörkum. Kærandi hafi ekki gert sér grein fyrir því að þetta hafi ekki verið í samræmi við samþykktar teikningar Furuhlíðar 10 enda hafi lóðin verið tekin út af byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar. Lóðin sé teiknuð einhalla að lóðarmörkum og hluti hæðarmunar tekinn upp við mitt hús Furuhlíðar 10. Byggingarfulltrúi hafi í ákvörðun sinni vísað til deiliskipulags um að heimilt sé að stalla lóðina niður að lóðarmörkum Fjóluhlíðar og að það sé gert með stoðvegg úr stórgrýti. Stöllun lóðar Furuhlíðar 10 sé í engu samræmi við teikningar lóðarinnar sem sýni einhalla, né deiliskipulag. Kærandi kannist ekki við að hafa fengið bréf með ákvörðun byggingarfulltrúa og því ekki náð að kæra ákvörðunina innan tímamarka. Á árinu 2024 hafi bréf verið send til bæjarstjóra, byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa þar sem kærandi hafi óskað eftir viðbrögðum við erindi sínu. Bréfinu hafi ekki verið svarað fyrr en eftir samtöl við fulltrúa Hafnarfjarðar þegar afrit af bréfi byggingarfulltrúa hafi verið afhent.

 Af hálfu Hafnarfjarðarkaupstaðar er talið að kæran í málinu sé of seint fram komin og að hafna eigi öllum kröfum kæranda. Þá sé tiltekið að húsin og lóðirnar hafi verið í þessu horfi svo áratugum skipti. Húsið að Furuhlíð 10 hafi verið byggt árið 1989 og hús kæranda að Fjóluhlíð 11 hafi verið byggt 1994. Kærandi hefði mátt gera sér grein fyrir landhallanum þegar hús hans hafi verið byggt. Á samþykktum teikningum séu lóðarmörkin sýnd aflíðandi að lóðarmörkum, sem ekki sé raunin. Mælingamaður hafi mælt hæð á lóðarmörkum og í framhaldinu hafi verið ákveðið að embættið myndi ekki aðhafast meira í þessu máli. Kæranda hafi verið tilkynnt sú ákvörðun með bréfi.

Niðurstaða Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Ákvörðun byggingarfulltrúa var send á lögheimili kæranda með bréfi, dags. 12. maí 2024, þar sem samtímis voru gefnar leiðbeiningar um kærurétt til úrskurðarnefndarinnar. Kærandi kveðst ekki hafa móttekið bréfið en fengið það síðar í hendur í samskiptum við fulltrúa Hafnarfjarðar. Í gögnum málsins er ódagsett bréf sem kærandi kveðst hafa afhent fulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar í júní 2024. Kemur þar fram að erindi hans um að lóðin Furuhlíðar 10 yrði hæðarsett í samræmi við skipulag, hafi verið hafnað af byggingarfulltrúa. Verður ekki annað ráðið af þessu en að kærendur hafi vitað af hinni kærðu ákvörðun eigi síðar en í júní 2024.

Í ljósi þess að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 25. nóvember 2024, sem var að liðnum lögbundnum kærufresti, verður henni vísað frá nefndinni, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

171/2024 Æðaroddi

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 12. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 171/2024, kæra á afgreiðslu á erindi kæranda um að sauðfjárhald í hesthúsi að Æðarodda 27, Akranesi, verði stöðvað.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 9. desember 2024, kærir eigandi hesthúss að Æðarodda 29, afgreiðslu á erindi hans um að sauðfjárhald í næsta hesthúsi, Æðarodda 27, Akranesi, verði stöðvað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akraneskaupstað 17. janúar 2025.

Málsatvik og rök: Kærandi er eigandi hesthúss að Æðarodda 29 á Akranesi. Með tölvupósti 18. nóvember 2024 til skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa Akraneskaupstaðar óskaði hann eftir skýringum á sauðfjárhaldi í hesthúsi að Æðarodda 27. Í framhaldi kom fram af hálfu bæjarins að heimilt væri samkvæmt deiliskipulagi að halda fé á svæðinu en krafa sé gerð um að taðþró þurfi að vera innan eða utan byggingar. Í tölvupósti, dags. 26. nóvember 2024, benti kærandi á að teikningar fyrir taðþró í kjallara hússins að Æðarodda 27 vanti á kortavef sveitarfélagsins. Þá hafi húsið verið byggt og skilgreint sem hesthús en ekki fjárhús. Ekki hafi verið sótt um leyfi til að breyta því í fjárhús né hafi verið lagðir inn uppdrættir fyrir þeim breytingum sem gerðar hafi verið á húsinu. Var þess krafist að allt sauðfé yrði fjarlægt úr húsinu þangað til þessi mál væru komin í lag. Var þessu erindi ekki svarað af hálfu bæjaryfirvalda.

Kærandi bendir á að í fasteignaskrá sé húsið að Æðarodda 27 skráð sem hesthús. Nú sé þar eingöngu sauðfé og það sem því tilheyri, þar á meðal slátrun sauðfjár að hausti. Sauðfjárhald hafi verið í húsinu í nokkur ár en hann hafi ekki vitað af því fyrr en fyrir stuttu síðan að ekki mætti breyta um starfsemi í húsinu nema með leyfi sem háð væri nýjum uppdráttum vegna breytinga. Töluverð óþægindi verði af sauðfjárhaldinu og hafi hann fengið ámæli fyrir að trufla sauðburð og sé erfitt að vera með hunda á lóðum í kring vegna þess. Vegna vondrar lyktar sem stafi frá fénu geti hann auk þess orðið fyrir fjárhagstjóni.

Af hálfu Akraneskaupstaðar er þess krafist að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki sé til að dreifa kæranlegri ákvörðun né heldur hafi kæra borist innan kærufrests. Jafnframt er vísað til þess að notkun hússins að Æðarodda nr. 27 sé í samræmi við landnotkun samkvæmt deiliskipulagi og sé bænum ekki heimilt að verða við kröfum kærenda um að búfjárhald verði þar stöðvað. Athugasemdum kæranda hafi verið svarað og skýrt hafi verið út fyrir honum að sú starfsemi sem hann krefjist að verði stöðvuð sé lögmæt.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Fjallað er um hlutverk byggingarfulltrúa sveitarfélaga í lögum nr. 160/2010 um mannvirki og felst það m.a. í því að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi. Samkvæmt 55. og 56. gr. laganna hafa þeir, og eftir atvikum Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, heimildir til að beita þvingunarúrræðum. Í bréfi kæranda, dags. 26. nóvember 2024, var farið fram á að sauðfjárhald yrði stöðvað í húsinu að Æðarodda 27. Erindinu hefur ekki verið svarað en í fyrri tölvupóstsamskipum milli kæranda og bæjaryfirvalda kom fram sú afstaða Akraneskaupstaðar að starfsemin samrýmdist skipulagsáætlunum á svæðinu. Sú afstaða stjórnvalds verður ekki jöfnuð við afgreiðslu málsins hjá því stjórnvaldi sem til þess er bært, en fyrir liggur að beiðni kæranda um að þvingunarúrræðum yrði beitt hefur ekki verið formlega afgreidd hjá byggingarfulltrúa Akraneskaupstaðar. Liggur því ekki fyrir nein kæranleg ákvörðun í málinu sem bindur enda á málið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður því ekki hjá því komist að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

159/2024 Brautarholt

Með

Árið 2025, miðvikudaginn 12. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 159/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. júní 2023 um útgáfu vottorðs um lokaúttekt á Brautarholti 18-20.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 15. nóvember 2024, kærir A lokaúttekt byggingarfulltrúans í Reykjavík á Brautarholti 18-20, en vottorð þar um var gefið út 15. júní 2023. Í kærunni kemur fram að kærandi sé formaður húsfélagsins í Brautarholti 18-20. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá byggingarfulltrúanum í Reykjavík 18. desember 2024.

Málavextir: Í máli þessu er kærð til ógildingar ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um útgáfu vottorðs um lokaúttekt á 64 íbúðum á 2. – 5. hæð að Brautarholti 18-20, ásamt sameign og verslunarrými á jarðhæð, á þeim grunni að byggingaraðili hafi ekki farið eftir byggingarreglugerð um fjölbýli.

Málsrök kæranda: Kærandi segir að frágangi byggingaraðila á húseigninni Brautarholt 18-20 hafi um margt verið ábótavant, byggingarframkvæmdum hafi ekki verið lokið í samræmi við byggingarreglugerð og teikningar vanti af framkvæmdum. Kærandi tiltekur fjölda atriða sem hann telur í ólagi m.v. kröfur byggingareglugerðar og krefst ógildingar á lokaúttektinni í þeim tilgangi að fá seljanda byggingarinnar til að ljúka frágangi hennar til samræmis við byggingarreglugerð.

Málsrök byggingarfulltrúans í Reykjavík: Hið kærða lokaúttektarvottorð hafi verið gefið út 15.  júní 2023, en kæra sé dagsett 15. nóvember 2024. Því sé ljóst að eitt ár og fimm  mánuðir hafi liðið frá því að lokaúttektarvottorð var gefið út og þar til að kæra vegna þess barst úrskurðarnefndinni. Kærandi hafi verið í sambandi við starfsmenn byggingarfulltrúa í júní 2023 og skv. tölvupóstsamskiptum starfsmanns byggingarfulltrúa og kæranda var kærandi upplýstur um vottorð um lokaúttekt þann 26. júní 2023 og barst vottorðið þann 27. júní 2023. Því sé ljóst að kæranda hafi verið  kunnugt um vottorð um lokaúttekt frá 27. júní 2023, en í síðasta lagi í maí 2024 þegar úttektaraðili sem húsfélagið að Brautarholti 18-20 réði skilaði matsskýrslu, sem innihélt m.a. vottorð um lokaúttekt, til húsfélagsins. Kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála, sbr. 27. og 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, hafi því verið löngu liðinn þegar kæran barst nefndinni, sama hvort tímamarkið sé miðað við sem upphaf kærufrests. Krefst byggingarfulltrúinn þess að málinu verði vísað frá þar sem kæran sé of seint fram komin.

———-

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð til ógildingar lokaúttekt byggingarfulltrúans í Reykjavík á byggingarframkvæmdum að Brautarholti 18-20, skv. vottorði um lokaúttekt sem gefið var út 15. júní 2023. Í kærunni segir að kærandi hafi ekki nákvæma dagsetningu á því hvenær og hvernig hann vissi af hinni kærðu ákvörðun. Af fyrirliggjandi gögnum má hins vegar sjá að í samskiptum kæranda og starfsmanns byggingarfulltrúa Reykjavíkur þann 26. júní 2023 kom fram að byggingarfulltrúi hafi gefið út vottorð um lokaúttekt á Brautarholti 18-20 þann 15. júní 2023 og mátti því kæranda vera sú staðreynd ljós þann dag. Byggingarfulltrúi segir að kæranda hafi borist vottorðið 27. júní 2023. Upplýsingar um útgáfu lokavottorðsins komu einnig skýrlega fram í tölvupósti starfsmanns byggingarfulltrúa til kæranda þann 22. nóvember 2023, svo telja má að kæranda hefði í síðasta lagi átt að vera kunnugt um ákvörðunina þann dag.

Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er mælt fyrir um að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina.  Kæran í máli þessu barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 15. nóvember 2024, að lögbundnum kærufresti liðnum.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar, sbr. 2. tl. ákvæðisins. Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. skal kæru þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Með hliðsjón af framangreindu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

26/2025 Þorlákshafnarhöfn

Með

 

Árið 2025, miðvikudaginn 12. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 26/2025, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss frá 30. janúar 2025 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir gerð landfyllingar við Suðurvararbryggju í Þorlákshöfn.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. febrúar 2025, er barst nefndinni sama dag, kærir Brimbrettafélag Íslands þá ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss frá 30. janúar s.á. um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir gerð landfyllingar við Suðurvararbryggju í Þorlákshöfn. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Málavextir: Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar Ölfuss 22. janúar var tekin fyrir umsókn um framkvæmdaleyfi til að gera tæplega 1 ha landfyllingu við Suðurvararbryggju. Fól umsóknin í sér gerð landfyllingar milli Suðurvarargarðs og útsýnispalls á norðanverðu hafnarsvæði Þorlákshafnar. Stærð landfyllingar yrði um 9.000 m2 sem ætlað væri að ná frá núverandi sjóvörn að stórstraumsfjöruborði og tengjast núverandi athafnasvæði syðst á hafnarsvæðinu. Heildar magn landfyllingar var áætlað um 27.000 m3 og í grjótkápu um 10.000 m3 til viðbótar. Var umsóknin samþykkt á fundinum með fyrirvara um birtingu deiliskipulags hafnarsvæðis í B-deild Stjórnartíðinda og að framkvæmdin yrði ekki metin umhverfismatsskyld af Skipulagsstofnun. Á fundi bæjarstjórnar Ölfuss 30. janúar 2025 var afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar samþykkt. Hinn 3. febrúar 2025 tók greint deiliskipulag gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda. Lá ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu fyrir 4. s.m. og var framkvæmdaleyfi gefið út sama dag. Í leyfinu kemur fram að framkvæmdatími er áætlaður þrír mánuðir.

Í matsskyldufyrirspurn Sveitarfélagsins Ölfuss, frá 10. desember 2024, kom fram að fyrirhuguð framkvæmd væri hluti af breytingum og endurbótum sem hafi átt sér stað á hafnarsvæði Þorlákshafnar. Höfnin sé undirstaða atvinnulífs og þróunar byggðar í bænum. Um sé að ræða einu flutnings- og fiskihöfn Suðurlands allt austur til Hornafjarðar, og þjónusti hún einnig höfuðborgarsvæðinu. Fram kom einnig að umsvif hafnarinnar séu fjölbreytt og hafi aukist með tíðari komu vöruflutningaskipa og leggi sveitarfélagið áherslu á að efla þjónustu við hafnsækna starfsemi. Með breytingunni séu sköpuð ákjósanleg skilyrði til að þjónusta starfsemi hafnarinnar vel og efla um leið atvinnulíf og byggð í Þorlákshöfn, m.a. með auknum vöruflutningum, þjónustu við fiskveiðiskip og viðkomu skemmtiferðaskipa. Sjórinn suður af hafnarsvæðinu hafi verið nýttur af áhugafólki til brimbrettaiðkunar en engin aðstaða sé til staðar fyrir þá starfsemi.

Málsrök kæranda: Kærandi krefst þess að framkvæmdir verði stöðvaðar. Ákvörðun um útgáfu framkvæmdaleyfis sé háð efnis- og formannmörkum sem valdi ógildingu ákvörðunarinnar. Ljóst sé að framkvæmdirnar, sem hafnar séu, muni hafa í för með sér óafturkræf áhrif á Aðalbrotið. Líkt og rakið hafi verið í umsögn kæranda sé öldugangur á hverjum stað þannig einstakur af náttúrunnar hendi og verði ekki endurskapaður. Með kæru fylgdi myndband sem ætlað var að sýna að framkvæmdir væru þegar hafnar.

Málsrök sveitarfélagsins Ölfuss: Sveitarfélagið hefur ekki veitt umsögn um kæru í máli þessu en starfsmaður sveitarfélagsins benti á að farið yrði yfir málið og umsögn veitt. Kom um leið fram að það mundi hafa stórkostlegt tjón í för með sér ef framkvæmdir yrðu stöðvaðar, jafnvel þó það væri bara tímabundið.

Niðurstaða:  Í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Ákvörðun um slíka stöðvun er undantekning frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Ljóst virðist af gögnum málsins að framkvæmdir séu þegar hafnar. Vísar kærandi til þess að um óafturkræf áhrif vegna framkvæmda verði að ræða ef ekki verði brugðist við kröfu hans um stöðvun framkvæmda.

Með vísan til athugasemda um 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 verður að telja að kæruheimild kunni að verða þýðingarlaus í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið hafi úrskurðarnefndin ekki framangreindar heimildir, en mikilvægt sé að gætt sé að því að efnislegar forsendur liggi að baki kæru. Af hálfu kæranda hefur verið hreyft margvíslegum sjónarmiðum og álítur hann m.a. að ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmdin þurfi ekki að lúta mati á umhverfisáhrifum sé háð verulegum annmörkum. Verði ákvörðun stofnunarinnar, sem einnig hefur verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, felld úr gildi í samræmi við kröfu félagsins sé forsenda fyrir útgáfu framkvæmdaleyfisins brostin. Að mati úrskurðarnefndarinnar eru ýmis álitaefni uppi í málinu sem geta haft áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Þarf úrskurðarnefndin því tóm til að kanna málsatvik frekar, leita eftir sjónarmiðum sveitarfélagsins og eftir atvikum afla frekari gagna.

Meðal álitaefna sem uppi eru í þessu kærumáli er hvort kærandi uppfylli skilyrði kæruaðildar að hinni kærðu ákvörðun skv. lögum nr. 130/2011. Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er fjallað um almenn skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni, þ.e. að kærandi verði að eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Af hálfu kæranda er á hinn bóginn vísað til b. liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sem varðar heimild tiltekinna samtaka, sem talin eru gæta almannahagsmuna, til þess, að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum, að bera vissar ákvarðanir undir úrskurðarnefndina. Þar á meðal eru leyfi „vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum“, sbr. b-lið nefndrar 3. mgr. 4. gr.

Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 var rakið í skýringum við b-lið nefndrar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 að ákvörðun um matsskyldu ráði því hvort almenningur fái rétt til frekari þátttöku í gegnum matsferlið og hvort hann njóti kæruaðildar vegna ákvarðana stjórnvalda um að veita leyfi vegna framkvæmda. Hér undir falli m.a. framkvæmdir sem ákveðið hafi verið að skuli háðar mati á umhverfisáhrifum og var um það vísað til þágildandi laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Þau leyfi sem um sé að ræða séu öll leyfi stjórnvalda sem sæti kæru til nefndarinnar og nauðsynleg séu svo ráðast megi í framkvæmd sem sé háð mati á umhverfisáhrifum. Í ljósi þessa mun úrskurðarnefndin við meðferð þessa kærumáls óska eftir nánari rökstuðningi um kæruaðild kæranda.

Af gögnum þessa máls virðist ljóst að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi séu yfirvofandi og er framkvæmdatími áætlaður þrír mánuðir. Að því má leiða rök að ekki hafi þýðingu að fjalla efnislega um kærumálið nema tryggt sé að framkvæmdir fari ekki fram á meðan málið er til úrlausnar hjá úrskurðarnefndinni. Eru jafnframt ýmiss álitaefni uppi í málinu sem þarfnast nánari rannsóknar og eru því efnisleg rök að baki kæru. Álíta verður því að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 til stöðvunar framkvæmda. Um leið þykir rétt, að virtum þeim athugasemdum sem komu fram af hálfu sveitarfélagsins, að benda á að leyfishafi getur krafist þess að mál fyrir úrskurðarnefndinni sæti flýtimeðferð samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Stöðvaðar eru framkvæmdir samkvæmt framkvæmdaleyfi bæjarstjórnar Ölfuss frá 30. janúar 2025 fyrir gerð landfyllingar við Suðurvararbryggju í Þorlákshöfn.

6/2025 Álfabakki

Með

Árið 2025, þriðjudaginn 11. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 6/2025, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar dags. 20. desember 2024, um að synja kröfu um stöðvun framkvæmda að Álfabakka 2A

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags, 13. janúar 2025, er barst nefndinni sama dag, kærir Búseti húsnæðissamvinnufélag, eigandi íbúða í Árskógum 5-7, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar, dags. 20. desember 2024, að synja kröfu um stöðvun framkvæmda að Álfabakka 2A. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 21. janúar 2025.

Málavextir: Með erindi til byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar, dags. 12. nóvember 2024,  var farið fram á tafarlausa stöðvun yfirstandandi framkvæmda við Álfabakka 2A og kannað hvort brotið væri á forsendum samþykktrar deiliskipulagsbreytingar fyrir Suður-Mjódd, dags. 5. október 2022 og 13. október 2022, byggingarleyfis dags. 17. október 2023 og/eða réttindum Búseta og íbúa við Árskóga 5-7, 109 Reykjavík. Með bréfi dags. 20. desember 2024 synjaði byggingarfulltrúi um þá beiðni og er sú afstaða sem fram kemur í því bréfi hin kærða ákvörðun í máli þessu.

 Málsrök kæranda: Kærandi telur hina kærðu ákvörðun ekki í samræmi við lög og vísar til þess að mannvirkið og notkun þess brjóti í bága við skipulag, sbr. 1. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. einnig 1. mgr. gr. 2.9.1 byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Hann álítur að sú afstaða byggingarfulltrúa að byggingarleyfi samræmist byggingarreglugerð standist ekki nánari skoðun. Þá séu framkvæmdirnar ekki í samræmi við byggingarleyfi auk þess að ekki hafi farið fram mat á hvort framkvæmdin væri umhverfismatsskyld, sbr. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Ákvörðun um hvort skilyrði séu til að stöðva framkvæmdir á grundvelli 1. mgr. 55. gr. laga um mannvirki, verði að byggja á heildstæðu mati á því hvort útgefið byggingarleyfi og framkvæmdir á þeim grundvelli sé í samræmi við lög og skipulagsáætlanir. Komi við nánari athugun í ljós að byggingarleyfi uppfylli ekki skilyrði viðeigandi laga og reglna hvíli sú skylda á byggingarfulltrúa að bregðast við og stöðva framkvæmdir. Stjórnvald sem sé upplýst um annmarka á ákvörðunum geti ekki vikið sér frá þeirri skyldu að koma málum í lögmætt horf og þá eftir atvikum afturkalla ákvarðanir sínar, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar kom fram að nefndinni beri að hafna kröfu um stöðvun framkvæmda þar sem ekki verði séð að hagsmunum kæranda verði raskað á meðan fjallað verði um gildi þeirrar afstöðu sem fram komi í bréfi byggingarfulltrúa frá 20. desember 2024. Heitið var frekari málafærslu fyrir úrskurðarnefndinni, en ekki þótti ástæða til að bíða hennar.

Málsrök leyfishafa: Af hálfu leyfishafa kom fram að útgefið byggingarleyfi sé í fullu samræmi við gildandi aðalskipulag, deiliskipulag og lög og engir formgallar séu á undirbúningi þess, sem réttlæti jafn íþyngjandi ákvörðun og þá að stöðva framkvæmdir.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um það hvort skylt hafi verið af byggingarfulltrúanum í Reykjavík að stöðva framkvæmdir að Álfabakka 2A. Byggingarleyfi vegna framkvæmdanna hafa verið útgefin og hafa þau ekki verið kærð, en ágreiningur er um hvort framkvæmd sé í samræmi við nefnd leyfi og hvort brotið sé á forsendum samþykktrar deiliskipulagsbreytingar fyrir Suður-Mjódd, dags. 5. október 2022 og 13. október 2022, byggingarleyfis dags. 17. október 2023 og/eða réttindum Búseta og íbúa við Árskóga 5-7, 109 Reykjavík. Kæruheimild er í 59. gr. laga um mannvirki og barst kæra innan kærufrests, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefndina nr. 130/2011.

Samkvæmt 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er byggingarfulltrúa heimilt að stöðva byggingarleyfisskyldar framkvæmdir skv. 9. gr. laganna er þær eru hafnar án þess að leyfi sé fengið, ekki er sótt um leyfi fyrir breyttri notkun mannvirkis, það byggt á annan hátt en leyfi stendur til, mannvirkið eða notkun þess brýtur í bága við skipulag, mannvirki er tekið í notkun án þess að öryggisúttekt hafi farið fram eða ef mannvirki er tekið til annarra nota en heimilt er samkvæmt útgefnu byggingarleyfi. Slík ákvörðun er bráðabirgðaákvörðun sem taka skal tafarlaust leiki grunur á því að framkvæmd sé án tilskilins leyfis. Í framhaldi hefur byggingarfulltrúi undirbúning endanlegrar ákvörðunar, sem eftir atvikum getur falist í að aflétta stöðvun eða beina tilmælum til framkvæmdaraðila um að bæta úr því sem áfátt er eða fjarlægja byggingarhluta.

Meðan mál þetta var til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni barst tilkynning frá byggingarfulltrúa dags. 30. janúar 2025, um að framkvæmdir við kjötvinnslu á 1. hæð í Álfabakka 2A yrðu tafarlaust stöðvaðar. Ástæða stöðvunarinnar var sögð að nánari skoðun á aðaluppdráttum, samþykktum 24. september 2024 hafi leitt í ljós misræmi milli samþykktra aðaluppdrátta og skráningartöflu, gera þurfi betur grein fyrir rými 0101 sem áætlað er fyrir kjötvinnslu og að ekki liggi fyrir upplýsingar um hvort félagið hafi tilkynnt til Skipulagsstofnunar um fyrirhugaða kjötvinnslu og líkleg umhverfisáhrif hennar. Hlutaðeigandi aðilum var veittur 7 daga frestur frá móttöku bréfsins til að koma að skriflegum skýringum og athugasemdum vegna málsins. Þá kom fram að byggingarfulltrúi mundi, að þeim fresti liðnum, taka ákvörðun um framhald málsins. Er í bréfinu tekið fram að byggingarfulltrúa kunni að vera heimilt að breyta eða fella byggingarleyfi úr gildi samkvæmt 4. mgr. 14. gr. laga nr. 160/2010 eða eftir atvikum að undangenginni endurupptöku málsins að uppfylltum skilyrðum 24. gr. stjórnsýslulaga eða með því að afturkalla það samkvæmt 25. gr. sömu laga.

Með þessu verður að álíta að til sé að dreifa nýrri afstöðu byggingarfulltrúa sem leitt getur til nýrrar stjórnvaldsákvörðunar sem mögulegt er að verði borin undir nefndina til úrskurðar, sbr. 65. gr. laga nr. 7/1998. Verður af þeim sökum ekki talið að hin kærða ákvörðun frá 20. desember 2024 hafi réttarverkan og virðist eðlilegt að líta svo á að hún hafi verið afturkölluð með tilkynningunni dags. 30. janúar 2025. Með hliðsjón af þessu sem og því sem ráða má af tilkynningunni um yfirstandandi rannsókn máls, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, þykir ekki tilefni fyrir úrskurðarnefndina að fjalla frekar um málið og verður því af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

147/2024 Sandártunga

Með

Árið 2025, þriðjudaginn 11. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Geir Oddsson auðlindafræðingur, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 147/2024, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 18. október 2024 um að 200.000 m3 efnistaka á um 4 ha svæði í Sandártungu í Þjórsárdal skuli ekki sæta umhverfismati.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. október 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra samtökin Náttúrugrið þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 18. október s.á. um að 200.000 m3 efnistaka á um 4 ha svæði í Sandártungu í Þjórsárdal skuli ekki sæta umhverfismati. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 22. nóvember 2024.

Málavextir: Hinn 14. júní 2024 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Vegagerðinni um fyrirhugaða efnistöku í Sandártungu í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, samkvæmt 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. tl. 2.02 í 1. viðauka laganna.

Í greinargerð sem fylgdi tilkynningunni kom fram að fyrirhuguð væri efnistaka á allt að 200.000 m3 af efni á um 4 ha svæði í Sandártungu í Þjórsárdal, Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Samhliða væri unnið að breytingu á Aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017–2029 þar sem hluta Skógræktar- og landgræðslusvæðis yrði breytt í efnistökusvæði. Fyrirhugað væri að Vegagerðin myndi nýta 150.000 m3 til vegagerðar og bakkavarna vegna vegagerðar í Þjórsárdal, en aðrir 50.000 m3 væru áætlaðir í önnur verkefni á vegum sveitarfélagsins. Valkostagreining um staðsetningu efnistökusvæðisins hefði þegar farið fram sem og hvort hægt væri að nýta efni úr núverandi námum eða stækka þær. Engar opnar bergnámur væru nálægt fyrirhugaðri breytingu á Þjórsárdalsvegi, en um 50.000 m3 þyrfti í rofvarnir við veginn. Niðurstaða valkostagreiningar hafi verið sú að í núverandi námum sé ekki að finna efni sem uppfyllti kröfur til vegagerðar og grjótvarnar, því væri þörf á að skilgreina nýja námu. Sandártungunáma væri í 5–11 km fjarlægð frá áætluðum notkunarstöðum efnisins

Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar lá fyrir 18. október 2024. Í henni var fjallað um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar eins og henni var lýst í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila. Tók umfjöllunin til áhrifa framkvæmdarinnar á landslag, ásýnd og jarðmyndanir. Einnig áhrif á vistgerðir, fuglalíf, fornminjar, verndarsvæði, hljóðvist og loftmengun, útivist og á vatnshlot. Það var niðurstaða stofnunarinnar að með hliðsjón af umfangi, eðli og staðsetningu að áhrif af fyrirhugaðri efnistöku yrði óafturkræf varðandi jarðmyndanir, en óveruleg á aðra umhverfisþætti, en ljóst væri að staðbundið myndi ásýnd svæðisins taka nokkrum breytingum. Hin fyrirhugaða framkvæmd væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og framkvæmdin skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kæranda: Vísað er til þess að framkvæmdaraðili hafi ekki uppfyllt skilyrði 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana í tilkynningu sinni til Skipulagsstofnunar. Í greinargerð framkvæmdaraðila hafi ekki verið fjallað um tengsl tilkynntrar framkvæmdar við hina umhverfismetnu Hvammsvirkjun og tilheyrandi lón eða áhrif á vatnsgæði og vatnalíf. Í greinargerðinni komi fram að framkvæmdin sé tilkynningarskyld til ákvörðunar um matsskyldu til Skipulagsstofnunar samkvæmt tl. 2.02 í 1. viðauka laga nr. 111/2021. Rétt hefði verið að tilkynna framkvæmdina með vísan til tl. 13.02 viðaukans, enda sé augljóslega um breytingu á framkvæmd að ræða frá umhverfismati þar sem efnistökuþörf vegna vegagerðar hafi farið úr 10.000–15.000m3, með engri námu, í 200.000 m3. Í stað smávægilegrar efnisþarfar sem þar hafi verið greint frá að þyrfti til vegagerðar sem yrði fengin úr neðanjarðargöngum Hvammsvirkjunaráforma séu nú komnar hugmyndir um stórfellda efnistöku til vegagerðarinnar.

Í tl. 13.02 í viðauka laga nr. 111/2021 segi að allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir sem tilgreindar séu í flokki A, utan þeirra sem falli undir tl. 13.01, og flokk B sem hafi verið leyfðar, framkvæmdar eða séu í framkvæmd og kunni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Af þessu sé ljóst að Skipulagsstofnun hafi ekki verið veittar réttar upplýsingar í málinu auk þess sem stofnunin hafi ekki gert reka að því að upplýsa um hvers vegna nauðsyn væri á svo mikilli efnistöku og í tengslum við hvað. Ákvörðunin hafi ranglega verið tekin á grundvelli þess að um efnistöku ótengdra annarri, umhverfismetinni framkvæmd, en ekki á grunni viðbóta og breytinga frá henni líkt og raun væri.

Sá annmarki á málsmeðferð Skipulagsstofnunar, að taka ákvörðun án þess að umsögn Umhverfisstofnunar lægi fyrir, sé svo verulegur annmarki að varða eigi ógildingu ákvörðunar. Sé þá bæði vísað til friðlýsingarákvarðana og 54. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd vegna áhrifa framkvæmdar á friðlýst svæði, en einnig til sérstakrar verndar eldhrauna samkvæmt 61. gr. sömu laga. Þá hefði átt að leita álits Ferðamálastofu vegna ferðamennsku í Þjórsárdal og hafi skortur á álitsumleitan leitt til þess að málið hafi ekki verið rannsakað nægilega eða allra nýjustu og viðeigandi upplýsinga aflað um áhrif framkvæmdarinnar.

Í 1. mgr. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði sé kveðið á um að sérhver framkvæmd í eða við veiðivatn, allt að 100 m frá bakka, sem áhrif geti haft á fiskigengd þess, afkomu fiskistofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti sé háð leyfi Fiskistofu. Sá annmarki að leita ekki álits Fiskistofu vegna framkvæmda sem séu innan við 100 m frá árbakka tveggja vatnsfalla sé verulegur annmarki. Hvergi í gögnum málsins sé vikið að reglu 1. mgr. 33. gr. laga nr. 61/2006, sem áskilji slíkt leyfi. Stór hluti stærsta villta stofns Norður- Atlantshafslaxins hrygni ofan laxastigans við Búða. Því varði framkvæmdin augljóslega hrygningarsvæði villtra laxastofna. Skipulagsstofnun hafi látið ógert að rannsaka málið með tilliti til þessa. Þá sé augljóst að lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála hafi þurft að koma til skoðunar við ákvörðun um hvort umhverfismeta hefði þann þátt framkvæmdar Hvammsvirkjunar sem hin kærða ákvörðun snúi að.

Í samræmi við grunnrök 2. Viðauka, sbr. 19. gr. laga nr. 111/2021, sem varða það til hvaða atriða Skipulagsstofnun beri að líta við ákvörðun um hvort framkvæmd sé matsskyld, sbr. einnig ákvæði 4. mgr. 4. gr. tilskipunar nr. 2011/92/ESB, skuli framkvæmdaraðili leggja fram þær upplýsingar sem taldar séu í viðauka II.A. Það hafi ekki verið gert, en íslensk stjórnvöld séu bundin af skuldbindingum tilskipunarinnar. Skipulagsstofnun hafi borið að vísa til viðeigandi viðmiða í 2. viðauka með lögum nr. 111/2021, sbr. b-lið 5. mgr. 4. gr. tilskipunar nr. 2011/92/EB í rökstuðningi sínum. Í b-lið 1. tl. í III. viðauka tilskipunarinnar komi fram að miða eigi við samlegðaráhrif við aðrar framkvæmdir. Fyrir liggi að virkjunin muni þurfa a.m.k. 1.000.000 m3 af efni. Ekki sé ljóst hvort vegagerð sú sem hin kærða ákvörðun varði sé inni í þeirri tölu, en ljóst sé að Skipulagsstofnun hafi borið að líta til heildarefnistökuþarfar virkjunar og tengdra framkvæmda við ákvörðun sína um matsskyldu. Meginregla 10. gr. laga nr. 60/2013 um heildarálag og vistkerfisnálgun hafi því ekki verið virt. Skipulagsstofnun hafi borið að taka mið af eiginleikum hugsanlegra áhrifa við ákvörðun sína, sbr. 3. tl. viðauka III tilskipunar nr. 2011/92/ESB. Með því að tengja ekki fyrirhugaða efnistöku við aðra efnistöku vegna Hvammsvirkjunar og tengdra framkvæmda hafi Skipulagsstofnun brotið gegn skyldum sínum til að líta til eiginleika áhrifanna og þá einkum í tengslum við áhrif á vatnalíf og vatnsgæði samkvæmt lögum nr. 36/2011.

Í 61. gr. laga nr. 61/2013 komi fram að forðast beri að skerða eldhraun nema brýna nauðsyn beri til. Þar sem efnistaka eigi að fara niður um sex til tíu metra sé augljóst að sú uppgefna ástæða Skipulagsstofnunar að eldhraunið Búrfellshraun, sem sé hluti af Tungnárhraunum, sé á svæðinu þakið nokkru lagi af jarðvegi sé þýðingarlaus þegar grafa eigi langt niður úr jarðveginum. Ekkert mat hafi farið fram á áhrifum framkvæmdarinnar á, til að mynda vatnalíf, vatnsvernd og eldhraun, sem njóti sérstakrar verndar, fái ákvörðunin að standa. Með því sé verið að svipta almenning þátttökurétti sem honum sé tryggður í Árósasamningnum og EES samningnum og um leið sé grafið undan ákvæðum náttúruverndarlaga um verndarmarkmið og framkvæmdir nærri friðlýstum svæðum. Kærandi hafi gengið út frá því að framkvæmdirnar séu leyfisskyldar samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Ákvæði laganna um hvernig leyfisveitandi skuli standa að framkvæmdaleyfi eða að Fiskistofa eða Orkustofnun skuli veita leyfi komi ekki í stað þess þátttökuréttar sem almenningur eigi um allar framkvæmdir sem líklegar séu til að hafa umtalsverð áhrif á umhverfið samkvæmt Árósasamningum, Evróputilskipunum og lögum nr. 111/2021.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Bent er á að hvort sem um sé að ræða framkvæmd samkvæmt tl. 2.02 eða framkvæmd samkvæmt l. 13.02 þá sé í báðum tilvikum um að ræða B-flokks framkvæmdir, sem þýði að þær séu tilkynningarskyldar til stofnunarinnar. Fyrir liggi löglegt umhverfismat vegna Hvammsvirkjunar sem lokið hafi með úrskurði Skipulagsstofnunar 19. ágúst 2003. Af því leiði að ekki þurfi að taka afstöðu til þess hvort hin tilkynnta efnistökuframkvæmd eða efnistökuframkvæmdin í umhverfismatinu séu tengdar eða á sama framkvæmdasvæði. Telji úrskurðarnefndin að stofnunin hefði átt að fjalla sérstaklega um samlegðaráhrif hinnar tilkynntu efnistölu og efnistökunnar sem fjallað hafi verið um í umhverfismatinu leggi stofnunin áherslu á að um annmarka sé að ræða sem hafi ekki áhrif á efni ákvörðunar og sé því ekki verulegur.

Óskað hafi verið eftir umsögn Umhverfisstofnunar í málinu, en með tölvupósti 28. júní 2024 hafi stofnunin tilkynnt Skipulagsstofnun að hún hygðist ekki veita umsögn um framkvæmdina. Ákvæði 54. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd eigi við þegar tekin sé ákvörðun um veitingu leyfis. Vegna tilvísunar í 61. gr. sömu laga vegna skerðingar eldhrauna hafi komið fram í ákvörðun Skipulagsstofnunar að tekið væri undir með framkvæmdaraðila að hraunið hefði að nokkru leyti misst verndargildi sitt þar sem um væri að ræða hraun sem væri þakið jarðvegi að öllu leyti. Áhrif fyrirhugaðra framkvæmda yrði staðbundin og óafturkræf á jarðmyndunina Brúfellshraun. Tekið hafi verið fram að stofnunin teldi brýnt að í framkvæmdaleyfi yrði kveðið á um frágang þannig að ummerki yrðu í lágmarki og verndargildi svæðisins rýrnaði ekki umfram það sem lagt væri upp með. Þá sé bent á að í athugasemdum við 57. gr. frumvarps þess er varð að 61. gr. laga nr. 60/2013 komi fram að eldhraun, sem sé að öllu leyti sandorpið eða hulið jarðvegi og gróðri og ekki sé lengur hægt að greina hvort um hraun sé að ræða, hafi að öllu jöfnu tapað þeim einkennum sem myndi verndargildi þess sem jarðmyndunar eða hraunvistgerðar og njóti það því ekki sérstakrar verndar samkvæmt greininni,

Fjallað sé um verkefni Ferðamálastofu í 3. gr. laga nr. 96/2018 um ferðamálastofu. Þar sé ekki fjallað sérstaklega um að stofnunin eigi að veita umsagnir í málum þar sem Skipulagsstofnun taki matsskylduákvörðun. Þrátt fyrir það hafi Skipulagsstofnun leitað umsagna stofnunarinnar í einstökum málum og hafi það þá byggst á orðalagi í 1. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana þess efnis að stofnunin skuli leita umsagnar umsagnaraðila eftir því sem við eigi eftir eðli máls hverju sinni. Í tilkynningu Vegagerðarinnar hafi verið vikið að því að Þjórsárdalur hafi verið friðlýstur. Að virtum upplýsingum úr tilkynningunni og öðrum atriðum sem þar hafi komið fram hafi Skipulagsstofnun ekki talið þörf á að leita sérstaklega til Ferðamálastofu.

Hin fyrirhugaða framkvæmd snúist um tiltekna efnistöku á ákveðnu svæði í Sandártungu. Fyrirhugað efnistökusvæði sé vissulega nálægt Þjórsá og Sandá, en sé uppi á landi og því ekki í árfarvegi. Þá standi efnistökusvæðið um sex til tíu metrum hærra en yfirborð Sandár og Þjórsár og ekki sé gert ráð fyrir því að efni verði tekið niður fyrir vatnsborð Þjórsár. Í ljósi þess að leyfi Fiskistofu til mannvirkjagerðar í veiðivötnum samkvæmt lögum nr. 61/2006 teljist ekki til leyfis til framkvæmda samkvæmt lögum nr. 111/2021, sbr. athugasemdir við 3. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 111/2021, telji Skipulagsstofnun að það sé ekki verulegur annmarki að umsagnar Fiskistofu hafi ekki verið leitað.

Þar sem fyrir liggi löglegt umhverfismat vegna Hvammsvirkjunar hafi ekki þurft að taka afstöðu til þess hvort hin tilkynnta efnistökuframkvæmd og efnistökuframkvæmdin í umhverfismatinu væru tengdar eða á sama framkvæmdasvæði. Verði niðurstaðan önnur sé það annmarki sem ekki hafi haft áhrif á efni ákvörðunarinnar og því ekki verulegur.

 Athugasemdir Vegagerðarinnar: Bent er á að fyrirhugað sé að taka allt að 200.000 m3 af efni á um 4 ha svæði í Sandártungu í Þjórsárdal vegna framkvæmda á Þjórsárdalsvegi, sem og annarra verkefna á vegum sveitarfélagsins. Framkvæmdin falli þar af leiðandi undir tl. 2.02 í viðauka 1. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana þar sem hvorki sé um að ræða stærra svæði en 25 ha, né sé efnismagnið meira en 500.00 m3. Engu að síður hafi verið nauðsynlegt fyrir Skipulagsstofnun að meta hvort framkvæmdin hefði í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar hennar skv. 2. viðauka laga nr. 111/2021, sbr. 1. mgr. 18. gr. laganna.

Í 6. kafla hinnar kærðu ákvörðunar sé ítarlega farið yfir umhverfisáhrif framkvæmdarinnar skv. 1.–3. tl. 2. viðauka laga nr. 111/2021, með hliðsjón af greinargerð Vegagerðarinnar og umsögnum sem bárust. Þar hafi komið fram að áhrif framkvæmdanna verði staðbundin, efnistökusvæðið lítt áberandi frá Þjórsárdalsvegi og sjónræn áhrif því takmörkuð. Efnistökusvæðið væri vissulega innan svæðis í Þjórsárdal sem hafi verið friðlýst sem menningarlandslag, en að Minjastofnun hafi sett fram fullnægjandi leiðbeiningar um mótvægisaðgerðir svo ummerki framkvæmdarinnar verði í lágmarki og verndargildi svæðisins rýrni ekki. Einnig hafi komið fram í niðurstöðum Skipulagsstofnunar að starfsemin muni ekki fela í sér losun efna í jarðveg eða grunnvatn, og því ólíklegt að ástand grunnvatns- og straumvatnshlota versni. Eftir heildarmat á umfangi, eðli og staðsetningu framkvæmdarinnar hafi það verið niðurstaða Skipulagsstofnunar að áhrif af fyrirhugaðri efnistöku í Sandártungu yrði óafturkræf varðandi jarðmyndanir, en óveruleg að öðru leyti, og samkvæmt því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Fyrirhuguð náma í Sandártungu hafi engan snertiflöt við rennandi vatn og sé í töluverðri fjarlægð frá næsta yfirborðsvatni. Þá verði efni ekki losað út í vatn við efnisvinnsluna og því ekki búist við því að efnistakan hafi nokkur áhrif á fiskistofna eða vatnalíf í Þjórsá eða Sandá. Fiskistofa hafi skilað inn umsögn vegna breytinga á Aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017–2029 þar sem fram kom að ekki fengist séð að hið nýja efnistökusvæði myndi varða lax- eða silungsveiðihagsmuni, og því væri efnistakan ekki háð leyfi Fiskistofu.

Skipulagsstofnun hafi við undirbúning ákvörðunar sinnar lagt viðhlítandi mat á þá þætti sem hafi skipt máli og varðað það hvort umtalsverð umhverfisáhrif kynnu að hljótast af framkvæmdinni og við það mat tekið tillit til viðeigandi viðmiða 2. viðauka laga nr. 111/2021 sem og viðmiða í III. viðauka tilskipunar nr. 211/92/EB.

Vegagerðin starfi eftir lögum nr. 120/2012 um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála. Það sé hlutverk hennar að byggja upp, viðhalda og reka samgöngukerfi ríkisins, og skuli í starfsemi sinni stuðla að öruggum, sjálfbærum, greiðum og hagkvæmum samgöngum, sem og að samgöngur þróist í samræmi við samfélagsleg og umhverfisleg markmið. Þá gegni stofnunin einnig veigamiklu hlutverki sem veghaldari þjóðvega skv. vegalögum nr. 80/2007 þar sem m.a. séu gerðar strangar kröfur til stofnunarinnar um ástand og viðhald vega. Hækkun og endurbygging Þjórsárdalsvegar sé einkum bundin við kröfur gerðar til stofnunarinnar í greindum lögum. Umræddur kafli Þjórsárdalsvegar muni að óbreyttu hverfa ofan í lónið og því sé nauðsynlegt að bregðast við því með hækkun og endurbyggingu vegarins.

Bent sé á að kærandi hafi látið hjá líða að vísa í uppfært umhverfismat, nýja matsskýrslu sem og álit Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2018 vegna framkvæmdar við Hvammsvirkjun, þar sem framkvæmdunum og öðru í tengslum við þær séu gerð ítarleg skil og magntölur uppfærðar í samræmi við frekari rannsóknir. Þar sé meðal annars að finna umfjöllun um endurbyggingu Þjórsárdalsvegar og efnisþörf vegna hennar, sbr. tl. 13.02 í 1. viðauka laga nr. 111/2021, og því sé rétt að heimfæra efnistökuna undir tl. 2.02 í 1. viðauka laganna. Áform um byggingu Hvammsvirkjunar og framkvæmdir henni tengdri hafi hlotið lögformlega meðferð innan stjórnsýslunnar að því er varði mat á umhverfisáhrifum og geti kærandi ekki vísað til eldri gagna og ákvarðana um framkvæmdirnar. Að auki megi benda á að tl. 13.02 falli undir flokk B í 1. viðauka með lögun r. 111/2021 og séu framkvæmdirnar þannig háðar sjálfstæðu mati á því hvort framkvæmdin hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar, sbr. 1. mgr. 18. gr. laganna, líkt og eigi við um tl. 2.02 í sama viðauka. Myndi engu breyta þó að framkvæmdin yrði heimfærð undir tl. 13.02 í 1. viðauka.

Ítarlegt mat á valkostum hafi farið fram og í ljósi heildarmats væri fyrirhugað efnistökusvæði í Sandártungu eini raunhæfi kosturinn. Sé það einkum vegna efnisins sem þar sé að finna, sem og nálægðar við fyrirhugað framkvæmdasvæði. Verði því að telja að skilyrði um brýna nauðsyn, sbr. 3. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, sé uppfyllt. Þá hafi Skipulagsstofnun tekið sérstakt tillit til eldhrauns á svæðinu í ákvörðun sinni. Umsögn Umhverfisstofnunar liggi fyrir vegna breytinga á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps þar sem sé að finna sérstaka umfjöllun um umrætt eldhraun og vernd eldhrauna samkvæmt lögum nr. 60/2013.

 Athugasemdir Landsvirkjunar: Vísað er til þess að framkvæmdin hafi réttilega verið tilkynnt á grundvelli tl. 2.02 í 1. viðauka laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Ekkert hafi þó komið fram í málinu um að niðurstaða Skipulagsstofnunar hefði orðið önnur ef tilkynningin hefði byggst á tl. 13.02 viðaukans, líkt og kærandi vísi til.

Engir slíkir annmarkar hafi verið á umsagnarferli hinnar kærðu ákvörðunar að varði ógildingu hennar. Við meðferð matsskylduákvarðana skuli Skipulagsstofnun leita umsagna umsagnaraðila eftir því sem við eigi eftir eðli máls hverju sinni sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021. Af ákvæðinu leiði að Skipulagsstofnun sé veitt svigrúm við mat á því hjá hvaða aðilum sé leitað umsagna. Umsagnar hafi verið leitað hjá Umhverfisstofnun en svo virðist sem Umhverfisstofnun hafi ekki talið þörf á að veita umsögn í málinu. Skipulagsstofnun hafi því borið að taka hina kærðu ákvörðun án þess að umsögn Umhverfisstofnunar lægi fyrir. Þá beri gögn málsins með sér að ekki hafi staðið efni til þess að borið hefði að óska umsagnar frá Ferðamálastofu eða Fiskistofu.

Í hinni kærðu ákvörðun hafi verið tekin afstaða til áhrifa framkvæmdanna á þau atriði er lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála varði. Í niðurstöðukafla Skipulagsstofnunar hafi komið fram það mat stofnunarinnar að framkvæmdin væri ólíkleg til að leiða til þess að ástand grunnvatns- og straumvatnshlota myndu versna, en að áhersla væri lögð á að tryggt yrði að mengandi efni bærist ekki í jarðveg. Jafnframt sé minnt á að vatnshlotin þurfi að ná umhverfismarkmiðum sínum og vera í samræmi við stefnumörkun um vatnsvernd sem fram komi vatnaáætlun.

Farið hafi fram fullnægjandi mat á áhrifum efnistökunnar á eldhraun á svæðinu og ítarlega verið fjallað um það í matsskyldufyrirspurn Vegagerðarinnar sem og rökstuðningi Skipulagsstofnunar með hinni kærðu ákvörðun.

 —–

Kærendur hafa gert frekari grein fyrir sjónarmiðum sínum og hefur nefndin haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þessa máls.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 18. október 2024 um að 200.000 m3 efnistaka á um 4 ha svæði í Sandártungu í Þjórsárdal skuli ekki sæta umhverfismati. Kæruheimild er í 30. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana og barst kæra innan kærufrests.

Fyrirhuguð framkvæmd var tilkynnt til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu skv. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021 sem framkvæmd í flokki B, sbr. lið 2.02 í 1. viðauka við lögin. Skulu tilkynningarskyldar framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B háðar umhverfismati þegar þær eru taldar líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar skv. 2. viðauka við lögin. Í tilkynningu skal framkvæmdaraðili leggja fram upplýsingar um framkvæmdina og líkleg umtalsverð umhverfisáhrif hennar. Skal hann, þar sem við á, taka tillit til fyrirliggjandi niðurstaðna um umhverfismat framkvæmdarinnar og leggja fram, eftir atvikum upplýsingar um fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir, sbr. 2. mgr. 19. gr. laganna. Í 20. gr. laga nr. 111/2021 er mælt fyrir um að Skipulagsstofnun skuli innan sjö vikna frá því að fullnægjandi gögn berast um framkvæmdina taka ákvörðun um hvort hún skuli háð umhverfismati samkvæmt lögunum. Áður skal stofnunin leita umsagnar viðkomandi umsagnaraðila eftir því sem við á hverju sinni.

Löggjafinn hefur ákveðið að ávallt skuli fara fram umhverfismat vegna efnistöku þar sem áætlað er að raska 25 ha svæði eða stærra eða efnismagn er 500.000 m3 eða meira, sbr. tl. 2.01 í 1. viðauka við lög nr. 111/2021. Á hinn bóginn verði metið hverju sinni hvort efnistaka þar sem áætlað er að raska 2,5 ha svæði eða stærra eða efnismagn er 50.000 m3 eða meira sé líkleg til að hafa í för með sér svo umtalsverð umhverfisáhrif að umhverfismat þurfi að fara fram, sbr. tl. 2.02 viðaukans. Ber við það mat að líta til þeirra viðmiða sem fram koma í 2. viðauka laganna og lúta að eðli framkvæmdar og staðsetningu, auk gerðar og eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdarinnar. Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðun snýst um hvert þeirra atriða sem tiltekin eru í 1.–3. tl. 2. viðauka laga nr. 111/2021 vegi þyngst við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar teljist umtalsverð. Þegar það er metið verður að miða við þá tilhögun framkvæmdar sem kynnt er og leggja mat á það hvort framkvæmdin, svo sem hún er fyrirhuguð, sé líkleg til þess að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum.

—–

Í tilkynningu framkvæmdaraðila um hina fyrirhuguðu framkvæmd kemur fram að ráðgerð sé efnistaka á allt að 200.000 m3 af efni á um 4 ha svæði í Sandártungu í Þjórsárdal, í Búrfellshrauni austan við Sandá og norðan við Þjórsá. Efni úr námunni sé einkum ætlað til vegagerðar og til grjótvarna. Svæðið sé í um 4,5–11 km fjarlægð frá fyrirhuguðum vegaframkvæmdum. Efnisvinnslu verði þannig háttað að yfirborðsefni verði ýtt til hliðar. Þar undir sé að finna berg sem verði sprengt, malað og flutt af svæðinu. Áætla megi að þykkt vinnslulags verði um 4–7 m, en svæðið standi um 6–10 m hærra en yfirborð Sandár og Þjórsár og ekki sé reiknað með að efni verði tekið niður fyrir vatnsborð Þjórsár. Grunnvatnsborð sé talið vera á um 9 m dýpi. Lúpínu sé að finna á yfirborði efnistökusvæðis og líklega lúpínufræ. Lúpína hafi verið skilgreind sem ágeng tegund. Með því að ýta yfirborðsefni til hliðar sé lágmörkuð sú hætta að fræ dreifist út frá námunni. Á áætluðum notkunarstöðum efnis sé að finna stórar lúpínubreiður. Gert sé ráð fyrir að fjöldi vörubíla sem flytji efnið frá svæðinu verði um 10, en að hámarki 15 á hverjum degi. Akstur efnisins taki um 30 mínútur og ferðir áætlaðar um 200 talsins á dag, fram og til baka. Efni verði flutt á notkunarstað á meðan á framkvæmdum standi, en ekki verði um að ræða stöðugan akstur efnis í langan tíma.

Við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar leitaði Skipulagsstofnun umsagna skv. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021 og var óskað álits á tilkynningu framkvæmdaraðila vegna fyrirhugaðrar efnistöku og hvort framkvæmdin skyldi lúta umhverfismati. Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands kom fram að Búrfellshraun hefði runnið á nútíma og nyti sérstakrar verndar samkvæmt 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Bent var á að ekki væri æskilegt að opna ný efnistökusvæði innan friðlýstra svæða og nýtt slíkt svæði í Sandártungu samræmdist ekki friðlýsingaskilmálum um menningarlandslag í Þjórsárdal. Það væri mat stofnunarinnar að nauðsynlegt hefði verið að bera saman fleiri staðsetningar fyrir efnistökuna þar sem allmargar opnar bergnámur væru í Þjórsárhrauni sem hægt væri að nýta. Gera þyrfti betur grein fyrir afrennsli af efnistökusvæðinu og hvort hætta væri á að mengun frá starfseminni bærist út í Þjórsá. Það væri mat stofnunarinnar að kannski væri ekki þörf á að framkvæmdin færi í fullt umhverfismat, en þar sem framkvæmdasvæðið sé á friðuðu svæði væri nauðsynlegt að skoða fleiri efnistökukosti og bera þá saman. Þá var vísað til þess að ekki væri fjallað um fuglalíf, en efnistökusvæðið sé innan mikilvægs fuglasvæðis, Suðurlandsundirlendis.

Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands kemur fram það mat að tilkynning framkvæmdaraðila geri nægjanlega grein fyrir eðli, umfangi og umhverfi framkvæmdarinnar, sem og mótvægisaðgerðum, en ekki sé gert ráð fyrir sérstakri vöktun á umhverfisáhrifum á framkvæmdatíma. Umhverfisáhrif framkvæmdarinnar séu að miklu leyti tímabundin og/eða staðbundin og mögulegt að milda þau með góðum starfsháttum og umgengni á framkvæmdatíma og vönduðum frágangi umhverfis að framkvæmdum loknum. Það sé álit embættisins að framkvæmdin kalli ekki á umhverfismat að teknu tilliti til þeirra viðmiða sem komi fram í 2. viðauka laga nr. 111/2021. Í umsögn Minjastofnunar kemur fram að gera verði ráðstafanir til að nýfundnar fornminjar raskist ekki vegna efnistökunnar. Færa þurfi mörk efnistökusvæðisins fjær fornleifunum og girða þær af á meðan á efnistökunni standi til að koma í veg fyrir að þær raskist af vangá. Hafa þurfi samráð við minjavörð Suðurlands um nýja afmörkun efnistökusvæðisins á þessum stöðum og um uppsetningu girðingar þeim til varnar. Að því gefnu að gengið verði að þessum kröfum taldi Minjastofnun að framkvæmdin væri ekki háð umhverfismati.

Vegna athugasemda Náttúrufræðistofnunar Íslands greindi framkvæmdaraðili meðal annars frá því að búið væri að skoða alla þá valkosti sem koma til greina. Alls hafi átta svæði verið skoðuð en efnisgæði flestra efnistökusvæða uppfylltu ekki efniskröfur fyrir burðar- og styrktarlög. Mjög langt sé í næstu efnistökusvæði sem uppfylli efnisgæði. Þrjú svæði voru skoðuð sem voru líkleg til að uppfylla efnisgæði en tvö af þeim komu ekki til greina. Annað svæðið var talið ógna öryggi mannvirkja á Búrfellssvæðinu og hitt svæðið verði nýtt til rofvarnar í nýju lóni Hvammsvirkjunar. Efni þyrfti því alltaf að koma annarstaðar frá. Vegna jarðfræðilegra aðstæðna sé það svæði sem liggi austan Þverár og norðan (vestan) Þjórsár eina svæðið sem komi til greina í nágrenni framkvæmdasvæðisins. Talið sé að efnistaka nær Þverá hafi í för með sér minna rask en annarsstaðar í Þjórsárdal. Efnistökusvæði sé á skipulögðu land- og skógræktarsvæði og einkennist af skógrækt og lúpínu. Að efnistöku lokinni verði aftur plantað trjám og svæðið grætt upp, ásýndin verði því mjög sambærileg og áður og áhrifin á menningarlandslag svæðisins séu því hverfandi til framtíðar. Ekki verði neitt fráveitukerfi á svæðinu og því muni ofanvatn að mestu síast ofan í hraunið, en einnig muni ofanvatn renna eftir yfirborði. Litlar líkur séu á mengunarslysi, umferð vinnuvéla sé hæg inni á flötu efnistökusvæðinu og fjöldi vinnutækja sé lítill. Vinnuvélar séu sterkbyggðar og afar ólíklegt sé að eldsneytistankar rofni á þann hátt að mikið magn olíu leki út. Hætta á mengun sé engu meiri en frá öðrum vinnuvélum og landbúnaðartækjum í sveitum landsins. Efnistakan sé auk þess tímabundin á meðan framkvæmdum við nýjan Þjórsárdalsveg standi.

Það sé ekki rétt að engin umfjöllun hafi verið um fuglalíf. Ekki hafi verið fjallað um einstakar tegundir þar sem áhrif efnistökunnar séu tímabundin og þær tegundir sem nýti svæðið í dag muni geta gert það áfram að framkvæmdum loknum. Svæðið sé einungis 4 ha og 0,0001% af öllu Suðurlandsundirlendi sem skilgreint sé sem mikilvægt fuglasvæði. Þetta eigi ekki við um efnistökusvæðið í Sandártungu nema að örlitlu leyti, enda einkennist svæðið af skógrækt og lúpínu, manngerðum vistgerðum sem auðvelt sé að endurskapa. Þeir fuglar sem helst megi vænta séu spörfuglar líkt og skógarþröstur og þúfutittlingur, og svo mófuglar líkt og hrossagaukur og stelkur. Allar þessar tegundir hafi stór sambærileg búsvæði allt í kring og muni aftur geta nýtt svæðið að efnistöku lokinni. Vegna athugasemda Minjastofnunar Íslands gerði framkvæmdaaðili grein fyrir því að greindar fornleifar verði girtar af á meðan á efnistöku standi til að koma í veg fyrir að þær raskist.

Í niðurstöðukafla Skipulagsstofnunar var tekið fram að við mat á því hvort hin tilkynningarskylda framkvæmd ætti að sæta umhverfismati skyldi taka mið af eðli, staðsetningu og eiginleikum hugsanlegra áhrifa framkvæmdar og var um það vísað til nánar tilgreindra atriða í 1.–3. tl. í 2. viðauka við lögin. Fram kom að um væri að ræða nokkuð umfangsmikla efnistöku á grjóti og vinnslu þess sem muni raska hrauni sem falli undir ákvæði laga um náttúruvernd, þar sem kveðið væri á um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja. Samkvæmt því bæri að forðast röskun þeirra nema brýna nauðsyn bæri til og ljóst að aðrir kostir væru ekki fyrir hendi. Lögð sé áhersla á að einungis mjög ríkir hagsmunir geti réttlætt röskun og þá fyrst og fremst brýnir almannahagsmunir. Tekið er undir með framkvæmdaraðila að hraunið hafi að nokkru leyti misst verndargildi sitt þar sem það sé þakið jarðvegi að öllu leyti. Áhrif fyrirhugaðra framkvæmda verði staðbundin og óafturkræf á jarðmyndunina Búrfellshraun. Stofnunin telji brýnt að í framkvæmdaleyfi verði kveðið á um frágang þannig að ummerki verði í lágmarki og verndargildi svæðisins rýrni ekki umfram það sem lagt sé upp með. Gera megi ráð fyrir að efnistökusvæðið verði lítt áberandi frá Þjórsárdalsvegi og sjónræn áhrif því takmörkuð.

Efnistaka mun fara fram innan svæðis í Þjórsárdal sem hafi verið friðlýst sem menningarlandslag, þar sem margar merkar minjar sé að finna. Í umsögn Minjastofnunar hafi verið settar fram leiðbeinandi mótvægisaðgerðir sem brýnt sé að fram komi í útgefnum leyfum, svo ummerki framkvæmdarinnar verði í lágmarki og verndargildi svæðisins rýrni ekki vegna hennar. Framkvæmdin sé á áhrifasvæði grunnvatnshlotsins Efri-Þjórsá sem skilgreint er með mikið grunnvatnsstreymi og við straumvatnshlotin Þjórsá 1 og Sandá 1. Í ljósi umfangs og eðlis framkvæmdarinnar og þess að starfsemin feli ekki í sér losun efna í jarðveg eða grunnvatn sé það mat stofnunarinnar að framkvæmdin sé ólíkleg til að leiða til þess að ástand grunnvatns- og straumvatnshlotanna versni, en lögð sé áhersla á að tryggt verði að mengandi efni berist ekki í jarðveg. Greind vatnshlot þurfi eftir sem áður að ná umhverfismarkmiðum sínum í samræmi við þá stefnumörkun um vatnsvernd sem fram komi í vatnaáætlun, skv. lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Vistgerðir á svæðinu hafi ekki verndargildi og séu algengar á landsvísu og tegundir fugla á svæðinu séu algengar á Suðurlandi og útbreiddar hér á landi. Í ljósi takmarkaðs umfangs og útbreiðslu viðkomandi vistgerða og fuglalífs á svæðinu, telji stofnunin áhrif á fyrrnefnda umhverfisþætti verða óveruleg. Viðbúið sé að hávaði berist frá efnistökusvæðinu í einhverjum mæli og ryk geti myndast við vinnslu úr námunni, en ekki sé líklegt að ónæði vegna hávaða verði í frístundabyggð eða á tjaldsvæði, m.a. vegna aðstæðna og fjarlægðar. Þá séu ekki líkur til að ryk muni berast yfir fyrrnefnd svæði af sömu ástæðum. Með hliðsjón af umfangi, eðli og staðsetningu telji Skipulagstofnun að áhrif af fyrirhugaðri efnistöku verði óafturkræf varðandi jarðmyndanir, en óveruleg á aðra umhverfisþætti en ljóst sé að staðbundið mun ásýnd svæðisins taka nokkrum breytingum.

—–

Kærandi telur að framkvæmdaraðili hafi ekki uppfyllt skilyrði 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021 í tilkynningu til Skipulagsstofnunar að því er varði tengsl tilkynntrar framkvæmdar við hina umhverfismetnu Hvammsvirkjun. Tilkynna hefði átt framkvæmdina með vísan til tl. 13.02 í 1. viðauka við lög nr. 111/2021, þar sem um breytingu á framkvæmd sé að ræða frá því að umhverfismat vegna Hvammsvirkjunar fór fram.

Hin tilkynnta framkvæmd lýtur að 200.000 m3 efnistöku á um 4 ha svæði í Sandártungu í Þjórsárdal. Í endurskoðaðri matsskýrslu Hvammsvirkjunar frá október 2017 er fjallað um endurbyggingu Þjórsárdalsvegar milli Minni-Núps og Gaukshöfða. Þar kemur fram að vegna endurbyggingar vegarins muni veglínan færast um allt að 500 m á um 5,3 km löngum kafla. Er áætluð efnisþörf í veginn, auk færslu austasta hluta Gnúpverjavegar, metin um 300.000 m3.

Verður að telja að heimilt hafi verið að líta svo á að um nýja framkvæmd væri að ræða skv. tl. 2.02 í 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum, en ekki breytingu eða viðbót við eldri framkvæmd sbr. lið 13.02 í sama viðauka. Enda er um að ræða svæði sem ekki hefur verið nýtt til efnistöku áður. Þá er efnistaka nefnd sérstaklega í 1. viðauka við lög nr. 111/2021 þannig að gert er ráð fyrir að hún sæti eða geti sætt mati á umhverfisáhrifum ein og sér. Verður því ekki talið að álit Skipulagsstofnunar sé háð annmörkum að þessu leyti.

Í 1. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021 er mælt fyrir um þá málsmeðferð sem Skipulagsstofnun ber að viðhafa við töku ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdar. Segir þar meðal annars að stofnunin skuli leita umsagnar umsagnaraðilar „eftir því sem við á eftir eðli máls hverju sinni“. Í þeim tilvikum þegar umsögn berst ekki er tekið fram að Skipulagsstofnun geti tekið ákvörðun á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Fyrir liggur að Umhverfisstofnun barst umsagnarbeiðni, en stofnunin kaus að tjá sig ekki um matsskyldufyrirspurn framkvæmdaraðila. Hins vegar liggur fyrir að Umhverfisstofnun gerði athugasemdir við kynningu á lýsingu vegna breytingar á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017–2029 þar sem skilgreint var nýtt efnistökusvæði með heimild fyrir allt að 200.000 m3 efnistöku á allt að 7 ha svæði í Sandártungu. Umhverfisstofnun taldi ekki þörf á annarri umsögn á kynningarstigi aðalskipulagsbreytingarinnar. Breyting á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps vegna efnistökusvæðis í Sandártungu tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 28. janúar 2025. Lá afstaða Umhverfisstofnunar þannig fyrir við aðalskipulagsbreytinguna. Verður ekki talið að ákvörðun Umhverfisstofnunar að tjá sig ekki um matskyldufyrirspurn framkvæmdaraðila leiði til þess að málið teljist ekki nægilega upplýst.

Þá telur kærandi það verulegan annmarka á málsmeðferð Skipulagsstofnunar að ekki hafi verið leitað umsagnar Fiskistofu og Ferðamálastofu við undirbúning ákvörðunar um matskyldu. Við kynningu á áðurgreindri breytingu á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps vegna efnistökusvæðis í Sandártungu var óskað umsagnar Fiskistofu. Í umsögn stofnunarinnar kom fram að ekki fengist séð að efnistökusvæðið myndi varða lax- eða silungsveiðihagsmuni og væri efnistakan því ekki háð leyfi Fiskistofu. Verður að telja að afstaða Fiskistofu vegna efnistöku í Sandártungu hafi með þessu legið fyrir. Þá eru möguleg áhrif framkvæmdarinnar ekki slík að talið verði til verulegs annmarka að ekki hafi verið leitað viðhorfa Ferðamálastofu til hennar.

Í 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd er fjallað um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja. Nær verndin m.a. til eldhrauna, gervigíga og hraunhella sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma, sbr. 2. mgr. ákvæðisins, en í 3. mgr. er tiltekið að m.a. beri að forðast að raska jarðminjum sem taldar séu upp í 2. mgr. nema brýna nauðsyn beri til. Efnistökusvæðið er í Búrfellshrauni sem er hluti af Tungnárhraunum. Hraunið flokkast sem nútímahraun og fellur undir vernd framangreindrar 61. gr. Í greinargerð framkvæmdaraðila kemur fram að með efnistökunni verði hraunið fyrir varanlegum áhrifum sem verði bæði bein og óafturkræf. Hið fyrirhugaða efnistökusvæði sé staðsett við jaðar hraunsins, en hraunþekjan sé 144 km2 og því sé afar lítill hluti hraunbreiðunnar sem komi til með að raskast varanlega. Þá hafi hraunið jafnframt tapað verndargildi sínu þar sem það sé hulið jarðvegi að mestu og sjáist ekki lengur. Séu áhrifin metin óverulega neikvæð. Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar kemur fram að forðast beri röskun hrauns sem falli undir ákvæði laga nr. 60/2013 nema brýna nauðsyn beri til og ljóst að aðrir kostir séu ekki fyrir hendi. Lögð er áhersla á að einungis mjög ríkir hagsmunir geti réttlætt röskun og þá fyrst og fremst brýnir almannahagsmunir. Þá tekur stofnunin undir með framkvæmdaraðila að hraunið hafi að nokkru misst verndargildi sitt þar sem það væri þakið jarðvegi að öllu leyti. Áhrif fyrirhugaðra framkvæmda verði staðbundin og óafturkræf á jarðmyndunina Búrfellshraun. Brýnt sé að í framkvæmdaleyfi verði kveðið á um frágang þannig að ummerki verði í lágmarki og verndargildi svæðisins rýrni ekki umfram það sem lagt sé upp með. Gera megi ráð fyrir að efnistökusvæðið verði lítt áberandi frá Þjórsárdalsvegi og sjónræn áhrif því takmörkuð. Verður ekki gerð athugasemd við umfjöllun Skipu­­lags­­stofnunar að þessu leyti.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila er ekki fjallað um áhrif efnistökunnar á vatnshlot. Í greinargerð framkvæmdaraðila vegna kærunnar er tekið fram að sökum þess að hin fyrirhugaða náma í Sandártungum hafi engan snertiflöt við rennandi vatn, sé í töluverðri fjarlægð frá næsta yfirborðsvatni og ekki sé búist við því að efnistakan hafi nokkur áhrif á fiskistofna eða vatnalíf Þjórsár eða Sandár, hafi ekki verið sérstök umfjöllun um þá umhverfisþætti sbr. 19. gr. laga nr. 111/2021. Gerði Skipulagsstofnun ekki athugasemd við skort á slíkri umfjöllun.

Í hinni kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar er greint frá því að framkvæmdin sé á áhrifasvæði grunnvatnshlotsins Efri-Þjórsá, vatnshlotsnúmer 103-211-G, sem skilgreint sé með mikið grunnvatnsstreymi og við straumvatnshlotin Þjórsá 1, vatnshlotsnúmer 103-663-R, og Sandá 1, vatnshlotsnúmer 103-907-R. Í ljósi umfangs og eðlis framkvæmdarinnar og þess að starfsemin felur ekki í sér losun efna í jarðveg eða grunnvatn var það mat Skipulagsstofnunar að framkvæmdin væri ólíkleg til að leiða til þess að ástand grunnvatns- og straumvatnshlotanna myndi versna, en lögð var áhersla á að tryggt yrði að mengandi efni bærust ekki í jarðveg. Að teknu tilliti til ákvæða laga nr. 36/2011 og að framangreindu virtu verður ekki talið að hin kærða ákvörðun sé haldin ágalla hvað varðar lýsingu á áhrifum framkvæmdarinnar á vatnshlot þótt sú umfjöllun hefði mátt vera ítarlegri.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður að líta svo á að Skipulagsstofnun hafi við ákvörðunartöku sína litið með viðhlítandi hætti til viðmiða 2. viðauka laga nr. 111/2021. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að ógilda ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 18. október 2024 um að 200.000 m3 efnistaka á um 4 ha svæði í Sandártungu í Þjórsárdal skuli ekki sæta umhverfismati.