Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

166/2024 Furuhlíð

Með

Árið 2025, miðvikudaginn 22. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Halldóra Vífilsdóttir arkitekt og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.

Fyrir var tekið mál nr. 166/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 30. október 2024 um að samþykkja tilkynnta framkvæmd á lóð nr. 14 við Furuhlíð, Hafnarfirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 1. desember 2024, kæra eigendur, Fjóluhlíð 13, Hafnarfirði, ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 30. október 2024 um að samþykkja tilkynnta framkvæmd á lóð nr. 14 við Furuhlíð, Hafnarfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 13. desember 2024.

Málavextir: Kærendur í máli þessu eru lóðarhafar lóðar nr. 13 við Fjóluhlíð, Hafnarfirði. Bakhlið lóðarinnar er í suðvestur og liggja mörk hennar að hluta að mörkum bakhliðar Furu-hlíðar 14. Lóðirnar eru staðsettar í landhalla og standa húsin við Furuhlíð nokkuð hærra en hús við Fjóluhlíð. Gólfkóti íbúðarhússins að Furuhlíð 14 er samkvæmt samþykktum uppdrætti 33,80 en gólfkóti efri hæðar hússins að Fjóluhlíð 13 er 29,45. Eigendur Furuhlíðar 14 hafa reist sólpall á lóðinni ásamt skjól- og stoðveggjum.

Í september árið 2022 var embætti byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar gert viðvart um gerð skjólveggja og palls á lóð nr. 14 við Furuhlíð. Með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 24. apríl 2023, mótmæltu kærendur umræddri framkvæmd og var eigendum Furuhlíðar 14 gert að stöðva framkvæmdir á meðan málið var til skoðunar. Hinn 5. júlí 2023 sóttu lóðarhafar Furuhlíðar 14 um byggingarleyfi fyrir skjólvegg á lóðinni og var á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 12. s.m., samþykkt að kynna umsóknina fyrir aðliggjandi lóðarhöfum, þ. á m. kærendum í máli þessu. Kom þar fram að um byggingarleyfisskylda framkvæmd væri að ræða og að fyrirhugað væri að byggja 180 cm háan stoðvegg og 180 cm skjólvegg, samanlagt 360 cm að hæð. Kærendum var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sem þeir gerðu með bréfi, dags. 13. ágúst 2023. Athugasemdir kærenda lutu að hæð skjólveggjarins sem snýr í átt að lóð þeirra og lögðu þeir það til að hann yrði lækkaður í 180 cm miðað við jarðveg lóðarinnar innan ákveðinna tímamarka. Með tölvupósti, dags. 20. október 2024, kröfðust kærendur þess að skjólveggurinn yrði fjarlægður þar sem hvorki samkomulag né byggingarleyfi hafi legið fyrir.

Með tölvupósti, dags. 29. október 2024, óskuðu kærendur eftir því að umsókn um byggingar-leyfi yrði breytt í tilkynningu vegna framkvæmdar samkvæmt gr. 2.3.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Á samþykktum teikningum kemur fram að sótt sé um skjólvegg á lóðarmörkum þar sem hæsta hæð hans sé 1,8 m en 3,6 m sé frá hæsta punkti niður á stöllun lóðar. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa degi síðar var erindið tekið fyrir og samþykkt. Ákvörðunin var tilkynnt kærendum með tölvupósti, dags. 12. nóvember 2024.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að umdeildur skjólveggur sé byggingarleyfisskyldur. Samkvæmt 2. og 3. mgr. gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 skuli afla byggingarleyfis vegna girðinga og skjólveggja á lóðum nema framkvæmdirnar falli undir undanþáguákvæði gr. 2.3.5. Skjólveggur sem sé 3,6 m að hæð falli ekki undir e-lið 1. mgr. 2.3.5. gr. í byggingarreglugerð. Það sé meginregla samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki að byggingarleyfi þurfi fyrir mannvirkjagerð og undantekningar á því skuli túlka þröngt. Þá sé mannvirkið ekki í samræmi við deiliskipulag. Íbúar við Fjóluhlíð nr. 13 hafi ekki veitt samþykki fyrir umræddum framkvæmdum.

Bygging 3,6 m hárrar skjólgirðingar sé umtalsverð breyting á mannvirkjum á lóð nr. 14 við Furuhlíð. Skuggavarp slíks mannvirkis hafi neikvæð áhrif á garð á lóð kærenda og sé ekki í samræmi við upphaflegt deiliskipulag. Mikill hæðarmunur sé á milli lóðanna, framkvæmdin skerði möguleika á nýtingu lóðarinnar ásamt því að hafa áhrif á birtu á lóð kærenda og útsýni frá henni. Grenndarkynningu byggingarfulltrúa hafi verið hafnað af hálfu kærenda þar sem hún hafi ekki tekið mið af áhrifum veggjarins á aðliggjandi eignir með nægjanlegum hætti. Skjólveggurinn hafi verið samþykktur þrátt fyrir skort á samþykki nágranna sem sé í andstöðu við kröfur í byggingarreglugerð og grenndarrétt. Byggingarfulltrúi hafi tekið ákvörðun um samþykki veggjarins án þess að taka nægjanlega tillit til framkominna athugasemda kærenda sem hafi lýst áhyggjum af skuggavarpi, sjónmengun og skorti á samráði. Að mati þeirra sé um óleyfilegt mannvirki að ræða sem ekki geti fengið löglegt byggingarleyfi og veki það athygli að ákveðið hafi verið að gefa út „tilkynningarskylt leyfi“ í staðinn.

Málsrök Hafnarfjarðarkaupstaðar: Af hálfu bæjaryfirvalda er talið að ákvörðun byggingarfulltrúa um samþykki tilkynningarskylds leyfis hafi verið tekin á grundvelli laga og reglna. Ekki sé um að ræða byggingarleyfisskylda framkvæmd heldur tilkynningarskylda. Ástæða fyrir samþykkt á tilkynningarskyldri framkvæmd hafi verið að umræddar lóðir séu í halla. Ef fylgja hefði átt hæðarblöðum þyrfti að hækka neðri lóðina upp eins og hæðarkótar kveði á um og hefði veggurinn þá ekki sýnst eins yfirgnæfandi. Skjólveggurinn sé um 3,4 m frá lóðarmörkum kærenda og sé á lóðinni um litla aukningu skuggavarps að ræða, en þegar sé skuggavarp af húsi á lóð nr. 14 við Furuhlíð.

 Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili byggir á því að ekki sé um byggingarleyfisskylda framkvæmd að ræða. Ljóst sé að umræddur skjólveggur sé ekki hærri en 1,8 m frá hæð lóðarinnar og fjarlægð hans frá lóðarmörkum sé meiri en 1,8 m eins og kveðið er á um í e-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Lóð kærenda sé mun lægri en hún hefði átt að vera samkvæmt samþykktum uppdráttum og því virðist veggurinn hærri. Í málinu liggi fyrir að Hafnarfjarðarbær hafi látið kanna mögulegt skuggavarp af umræddum skjólvegg. Samkvæmt gögnum málsins megi sjá að hann skerði ekki útsýni og valdi nánast engu nýju skuggavarpi á lóð kærenda. Lóðin standi fyrir neðan bratta brekku í norður hlíð, þar sem almennt njóti minni sólar.

Samþykki allra annarra nágranna en kærenda liggi fyrir. Þá sé byggt á því að samþykki kærenda sé ekki þörf vegna framkvæmdarinnar. Framkvæmdaraðilar hafi í öllu ferlinu farið eftir leiðbeiningum og fyrirmælum leyfisveitanda. Allt samstarf hafi gengið ágætlega nema við kærendur sem hafi með ómálefnalegum hætti reynt að stöðva framkvæmdir og bætt við skilyrðum sem standist ekki lög.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur telja umdeilda framkvæmd ekki tilkynningar-skylda. Skjólveggurinn sé byggingarleyfisskyldur þar sem hann sé yfir 1,8 m á hæð og valdi umtalsverðum grenndaráhrifum. Skjólveggurinn sé byggður út fyrir hallann á lóðinni og dekk sólpallsins hangi því í lausu lofti. Veggurinn styðji því bara við loftið. Þó veggurinn sé 3,4 m inn á lóð Furuhlíðar 14 hafi það engu að síður grenndaráhrif vegna hæðar og staðsetningar. Hann valdi skuggavarpi og sjónmengun sem rýri gæði og notagildi lóðarinnar Fjóluhlíðar 13. Hæð lóðar kærenda sé aðeins lægri en skipulag hafi sagt til um en á móti komi að lóð Furuhlíðar 14 sé hærri en upphaflegt skipulag hafi sagt til um, það auki enn frekar áhrif veggjarins. Kærendur hafi ekki samþykkt skjólvegginn enda liggi ekkert undirritað samþykki fyrir. Þegar í ljós hafi komið að sá hluti veggjarins sem sé á milli Furuhlíðar 12 og 14 væri ekki hluti af þeirri miðlunartillögu sem lögð hafi verið fram hafi kærendur dregið hana til baka.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar að  samþykkja tilkynnta framkvæmd við gerð 1,8 m skjólveggjar ofan á stoðvegg á lóðinni Furu-hlíð 14 sem mun vera allt að 1,8 þar sem hann er hæstur.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Ráðherra getur í reglugerð kveðið á um að minni háttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar á mannvirkjum skuli undanþiggja byggingarleyfi eða að slíkar framkvæmdir séu einungis tilkynningarskyldar. Þannig eru í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 taldar upp þær framkvæmdir og breytingar sem undanþegnar eru byggingarheimild og -leyfi enda séu þær í samræmi við deiliskipulag.

Lóðin Furuhlíð 14 tilheyrir svæði Mosahlíðar, ÍB5, samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 þar sem í gildi er deiliskipulag Mosahlíðar. Í skilmálum deiliskipulagsins kemur fram í kafla 1.2.5 um frágang lóða að öll stöllun á lóð skuli gerð innan lóðar. Fjarlægð stalla frá lóðarmörkum skuli vera a.m.k. jöfn hæð þeirra nema þegar óhreyft landslag bjóði upp á betri lausnir. Á lóðinni Furuhlíð 14 hefur sú leið verið valin að stöllun lóðarinnar er gerð með allt að 1,8 m háum stoðvegg. Umræddur stoðveggur stendur allur innan lóðarinnar eða um 3,4 m frá lóðarmörkum. Samrýmist þessi frágangur lóðarinnar kröfum deiliskipulags svæðisins um stöllun á lóð og felur ekki í sér framkvæmd sem þarfnast byggingarleyfis eða byggingarheimildar, en samkvæmt d-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð er gerð palla og annar frágangur á eða við jarðvegsyfirborð undanþeginn byggingarleyfi. Þá kemur fram í e-lið greinarinnar að skjólveggir og girðingar, sem séu allt að 1,8 m á hæð og ekki nær lóðarmörkum en 1,8 m, séu jafnframt undanþegnar byggingarleyfi. Hinn umdeildi skjólveggur í máli þessu er samkvæmt teikningu 1,8 m á hæð og staðsettur ekki nær lóðarmörkum en 1,8 m og er þar af leiðandi undanþeginn byggingarleyfi.

Í gr. 2.3.6. í byggingarreglugerð er fjallað með tæmandi hætti um mannvirkjagerð sem er undanþegin byggingarheimild og -leyfi, en skuli tilkynnt leyfisveitanda. Ekki verður séð að sú framkvæmd sem hér um ræðir falli undir nefnt ákvæði og því voru ekki forsendur fyrir þeirri málsmeðferð sem málið fékk hjá byggingarfulltrúa. Þar af leiðandi verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 30. október 2024 að samþykkja tilkynnta framkvæmd á lóð nr. 14 við Furuhlíð, Hafnarfirði.

79/2024 Mýrargata

Með

Árið 2025, miðvikudaginn 22. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, ­Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Halldóra Vífilsdóttir arkitekt.

Endurupptekið var mál nr. 79/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Mýrargötu 33–39.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 25. júlí 2024, kærir húsfélag Mýrargötu 33–39 þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Mýrargötu 33–39. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að byggingaraðila verði gert að ráðast í endurbætur svo húsið verði í samræmi við samþykkt hönnunargögn.

Með úrskurði nefndarinnar kveðnum upp 5. nóvember 2024 var kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað. Í úrskurðinum var á því byggt að kæran lyti að ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. maí 2024 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Mýrargötu 33–39 og kæmu því ekki til skoðunar atriði sem tekin hefðu verið út í lokaúttekt embættisins frá 19. janúar s.á., en vottorð um lokaúttekt þeirra atriða var gefið út sama dag. Í kjölfar úrskurðarins kom kærandi á framfæri ábendingum um að honum hefði ekki verið kunnugt um „að lokaúttekt hefði verið gefin út í tvennu lagi“ auk þess sem vottorðið frá 24. maí 2024 bæri þess ekki merki. Einnig benti kærandi á að í kærunni hefði sérstaklega verið tekið fram að honum væri ekki ljóst hvenær lokaúttekt hefði farið fram og hvenær vottorð hefði verið gefið út. Var af því tilefni óskað eftir upplýsingum frá byggingarfulltrúa um hvort starfsmenn embættisins hefðu tilkynnt kæranda um lokaúttektina sem fram fór í janúar. Svar barst frá borgaryfirvöldum um að engin frekari samskipti lægju fyrir önnur en þau sem þegar hefðu verið afhent nefndinni. Af þeim gögnum er ljóst að kæranda var aldrei tilkynnt um þá úttekt sem fram fór í janúar og það vottorð sem gefið var út í kjölfar þess.

Með bréfi, dags. 21. nóvember 2021, tilkynnti úrskurðarnefndin aðilum þessa máls og Reykjavíkurborg að kærumálið hefði verið endurupptekið þar sem að áliti nefndarinnar hefði skort á upplýsingar um málsatvik og grundvöll kærunnar við uppkvaðningu úrskurðarins.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. ágúst 2024, 12. september s.á., 8. október s.á. og 13. desember s.á.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 3. nóvember 2020 var tekin fyrir og samþykkt umsókn um leyfi til að byggja fjölbýlishús á sex hæðum á reitum S4–S8 á lóð nr. 2 við Seljaveg, matshluta 05, en fjölbýlishúsið hefur fjóra stigaganga sem bera nöfnin Mýrargata 33, 35, 37 og 39. Umsóknir um breytingar á byggingaráformunum voru samþykktar á afgreiðslufundum embættisins 15. júní 2021 og 27. júní 2023. Í byrjun árs 2023 munu íbúðir í fjölbýlishúsinu hafa verið settar á sölu. Hinn 19. janúar 2024 gaf byggingarfulltrúi út vottorð um lokaúttekt að hluta og náði sú úttekt samkvæmt efni vottorðsins til Mýrargötu 33, 35 og 39 ásamt bílakjallara, en Mýrargata 37 var undanskilin úttektinni. Á vottorðinu kom fram að lóða­frágangur yrði tekinn fyrir í lokaúttekt Mýrargötu 37. Hinn 24. maí 2024 gaf byggingarfulltrúi út lokaúttektarvottorð fyrir Mýrargötu 33, 35, 37 og 39. Þar kom fram að gögn hefðu borist sem staðfestu að úrbótum væri lokið vegna athugasemda sem fram hefðu komið við skoðun. Þá kom og fram að rými 0104, 0113 og 0114 skilist á byggingarstigi 2 – fokheldi. Sækja þyrfti um nýtt byggingarleyfi svo lokaúttekt fengist á þau rými.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að fulltrúi húsfélagsins hafi ekki vitað af þeirri ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að gefa út lokaúttektarvottorð fyrr en tölvupóstur hafi borist frá embættinu 28. júní 2024. Sé kæran því lögð fram innan kærufrests.

Samkvæmt 3. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skuli við lokaúttekt gera úttekt á því hvort mannvirkið hafi verið byggt í samræmi við samþykkt hönnunargögn, en það skilyrði hafi ekki verið uppfyllt í máli þessu þar sem töluvert misræmi sé á milli samþykkts aðal­uppdráttar og raunverlegs frágangs hússins. Þannig segi á aðaluppdrætti að útihurðir í anddyri og dyr að hjóla- og bílageymslu séu með rafrænum opnunarbúnaði, en hvorki útihurðir frá anddyri Mýrargötu 33 né frá anddyri Mýrargötu 39 séu með rafrænum opnunarbúnaði.Ekki sé fyrir hendi snjóbræðslukerfi vegna inngangs að anddyri Mýrargötu 33 eins og kveðið sé á um á samþykktum aðaluppdráttum. Gangar og stigagangar á jarðhæð séu öll teppalögð þrátt fyrir að á aðaluppdrætti segi að þar eigi að vera mjúkt undirlag undir flísalögn.

Hönnunargögn kveði á um að frágangur lóðar verði samkvæmt landslagshönnun, en þar sem kærandi hafi ekki þá hönnun fyrir hendi sé óskað eftir því að úrskurðarnefndin fari yfir hana og meti hvort frágangur lóðar sé í samræmi við það sem þar komi fram, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með vísan til sama lagaákvæðis sé þess einnig óskað að úrskurðarnefndin taki til skoðunar hvort fjölbýlishúsið sé í samræmi við önnur atriði sem gætu verið tilgreind í öðrum samþykktum hönnunargögnum. Í því sambandi sé bent á að dyr frá anddyrum séu án þéttilista sem orsaki mikinn hávaða í sameign jarðhæðar þegar vindasamt sé.  Einnig hafi annarri dyr verið bætt við ruslageymslu í byggingu Mýrargötu 37 eftir að komið hafi í ljós að sú hurð sem fyrir hafi verið hafi ekki uppfyllt kröfu gr. 6.12.7. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012 um lágmarksbreidd umferðarmáls.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að af tölvupósti fulltrúa kæranda til byggingarfulltrúa, dags. 14. júní 2024, verði ráðið að honum hafi verið kunnugt um hina kærðu ákvörðun á þeim tímapunkti. Þar sem kæra hafi borist nefndinni 25. júlí s.á. sé kærufrestur liðinn í máli þessu, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, og því beri að vísa málinu frá. Verði ekki fallist á það sé krafist frávísunar málsins þar sem kærandi hafi ekki verið eigandi fasteignarinnar skv. d-lið 4. mgr. 15. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki á þeim tíma sem hið kærða lokaúttektarvottorð hafi verið gefið út. Hafi útgáfan því ekki lotið að réttindum eða skyldum kæranda á þeim tíma og geti hann því ekki talist aðili málsins, en íbúðir hafi verið seldar áður en hið kærða lokaúttektar­vottorð hafi verið gefið út, sbr. d-lið 4. mgr. 15. gr. laga nr. 160/2010.

Í viðauka II við byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé fjallað um verklag við lokaúttektir í gr. 5.2. Þar komi fram að skoðun vegna lokaúttektar sé sjónskoðun og að skoðunarmanni sé hvorki ætlað að prófa virkni tækja eða búnaðar né að framkvæma mælingar. Ekki verði gerðar ríkari kröfur til skoðunarmanns en samkvæmt því. Hvað varði rafrænan opnunarbúnað í fjölbýlis­húsinu að Mýrargötu 33–39 sé slíkur búnaður til staðar í útidyrum sem snúi að baklóð bygginganna. Ekkert í byggingarlýsingunni segi eða gefi til kynna að rafrænn opnunarbúnaður þurfi að vera í báðum útihurðunum, enda hefði það þá sennilegast verið orðað með þeim hætti. Skortur sé á sönnun þeirri fullyrðingu kæranda að ekkert snjóbræðslukerfi sé til staðar, en byggingarfulltrúi hafi fengið yfirlýsingu um stillingu hitakerfis og virkni stýrikerfa vegna öryggis- eða lokaúttektar frá pípulagningarmeistara. Byggingarfulltrúi hafi ekki haft neina ástæðu til þess að draga þá yfirlýsingu í efa. Ákvæði byggingarreglugerðar um hljóðvist sé að finna í 11. kafla, en reglurnar hafi þann tilgang að draga úr hávaða. Lagning gólfteppis á gangi og stigagangi á jarðhæð stefni að sama markmiði um hljóðvist og sú lausn sem komi fram í byggingarlýsingu á aðaluppdráttum fjölbýlishússins.

Þau atriði sem kærandi telji vera frávik á byggingarlýsingu geti ekki talist annað en minniháttar frávik sem valdi ekki ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Ef fallist yrði á kröfu kæranda hefði það slæmar afleiðingar í för með sér þar sem það gæfi til kynna að öll minniháttar frávik á byggingarlýsingu, s.s. lausir hurðarhúnar eða skortur á trjám, myndu leiða til ógildingar loka­úttektarvottorða. Í byggingarlýsingu er byggingaraðila veitt ákveðið svigrúm til að leita annarra sambærilegra lausna en þeirra sem tilgreindar séu nákvæmlega í byggingarlýsingu.

 Athugasemdir verktaka: Vísað er til þess að í samningi við byggingaraðila hafi ekki verið kveðið á um rafrænan opnunarbúnað. Ekki hafi verið gert ráð fyrir snjóbræðslu á samþykktum teikningum. Verið sé að skoða hvort tilefni sé til úrbóta vegna flísalagnar á gólfum stigahúsa og sameiginlegra ganga á jarðhæð. Frágangur lóðar hafi verið í samræmi við aðaluppdrætti. Gerðar hafi verið hefðbundnar, einfaldar hljóðmælingar á stigagangi og ekki hafi mælst þar óeðlilegur hávaði miðað við staðsetningu, en umræddir stigagangar liggi beint við stofnæð úr bænum og höfn. Þó sé verið að skoða að bæta úr þessu með þéttilista.

Öll atriði sem kærandi bendi á teljist minniháttar frávik sem í mesta lagi hefðu getað orðið til þess að byggingarfulltrúi hefði gefið út vottorð með athugasemdum skv. 4. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Eigi einhverjar af athugasemdunum við rök að styðjast væri það í ósamræmi við sjónarmið um meðalhóf að fella lokaúttektina úr gildi í heild sinni.

Athugasemdir byggingaraðila: Bent er á að það séu ekki hagsmunir byggingaraðila að úttektarvottorð sé gefið út of snemma þar sem það sé á ábyrgð byggingarstjóra verkefnisins að klára verkefnið í samræmi við samþykkta uppdrætti. Í einhverjum tilfellum sé misræmi í textalýsingu og uppdráttum og hafi þá að öllu jöfnu verið farið eftir uppdráttunum. Til standi að ráðast í úrbætur vegna þeirra útihurða sem ekki séu með rafrænum opnunarbúnaði. Allar megingönguleiðir séu snjóbræddar í samræmi við hönnun lagnahönnuðar. Inngangur Mýrar­götu 33 sé viðbótarinngangur sem hafi komið síðar í hönnunarferlinu, en teikning landslags­hönnuðar sýni hvað eigi að vera snjóbrætt. Umfjöllun á aðaluppdrætti um flísalögn anddyris eigi við um flísalögn að dyrasíma. Hljóðhönnuður eigi að hanna verkefni þannig að það uppfylli ákvæði byggingarreglugerðar. Fyrirhugað sé að klára gróðursetningu og frágang á plöntum fyrir 25. september næstkomandi. Ekki sé gerð krafa um að plöntur séu komnar út í garða til að fá útgefið lokaúttektarvottorð. Þéttilisti hafi verið á dyrum frá anddyrum Mýrargötu 33 og 39 en vegna kröfu um úrbætur hafi verktaki tekið þéttilistana út. Engar hljóðmælingar liggi til grundvallar því hvort listarnir geri gagn eða ekki og geti þetta atriði ekki verið forsenda útgáfu lokaúttektarvottorðs. Þá sé bent á að þeirri hurð sem komið hafi verið fyrir í ruslageymslu Mýrargötu 37 hafi verið bætt við til að koma til móts við ábendingar kæranda um lágmarks­breidd umferðarmáls. Búið sé að óska eftir því að hurðarhúnn fyrri hurðar verði fjarlægður og að teikningar verði uppfærðar til samræmis við breytingarnar.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Því sé andmælt að fulltrúa húsfélagsins hafi verið „full­kunnugt“ um hina kærðu ákvörðun 14. júní 2024 þegar hann hafi sent tölvupóst til byggingar­fulltrúa. Eins og þar komi fram hafi hann heyrt en ekki fengið staðfest að lokaúttekt hefði farið fram. Fyrirspurn hans hafi ekki verið svarað fyrr en 14 dögum síðar eða 28. júní 2024 og hafi kærandi þá haft upplýsingar til að leggja mat á hvort kæra skyldi ákvörðunina. Ákvörðunin varði aðstæður og aðbúnað á heimili félagsmanna kæranda og því liggi lögvarðir hagsmunir í augum uppi.

Vel megi vera að lagning gólfteppis nái a.m.k. sama markmiði um hljóðvist og sú lausn sem komi fram í byggingarlýsingu, þ.e. flísalögn. Engu að síður sé bersýnilegt að teppi fari verr úr tíðri umgengni en flísalögn. Það sé heldur ekki hlutverk byggingarfulltrúa að leggja mat á hvort teppi eða flísalögn nái markmiði um hljóðvist, heldur beri honum að gera úttekt á því hvort byggt hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Þá sé einnig bent á að samkvæmt samþykktum aðaluppdrætti skuli koma snjógildrum fyrir á þökum með málmklæðningu til að varna því að snjór og ís falli af þaki. Engar snjógildrur séu fyrir ofan glugga á húsi Mýrargötu 39 og hafi síðasta vetur skapast stórhætta þegar snjór hafi fallið niður af þaki.

Athugasemdir verktaka og byggingaraðila renni stoðum undir og gefi til kynna að rafrænn opnunarbúnaður eigi að vera við öll anddyri Mýrargötu 33–39, þ. á m. á anddyri Mýrargötu 33 sem enn vanti. Það að inngangur Mýrargötu 33 hafi komið til síðar í hönnunarferlinu séu ekki upplýsingar sem varði kæranda, enda komi þær ekki fram á samþykktum aðaluppdrætti.

Ábendingar hafi komið fram um leka úr loftplötum í bílakjallara sem beri þess merki að um sé að ræða alvarlegan galla á lóðafrágangi og/eða lagnafrágangi. Þá hafi silfurskottur verið að finnast í íbúðum í húsi Mýrargötu 33 og fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að galli í lagnafrágangi og/eða öðrum frágangi sé orsök vandans. Farið sé fram á að byggingaraðili ráðist í þær úrbætur sem hann hafi sagst ætla gera.

Viðbótarathugasemdir verktaka: Vegna ábendinga um leka hafi verktaki farið á staðinn og í ljós hafi komið að um staðbundinn leka væri að ræða. Bendi ekkert til þess að um sé að ræða alvarlegan galla á lóðafrágangi og/eða lagnafrágangi. Rétt þyki að upplýsa að málið sé í frekari skoðun í samráði við hönnuði hússins. Þá hafi meindýraeyðir farið í skoðun á húsinu og bílakjallara, en engar silfurskottur hafi fundist. Meindýraeyðirinn hafi jafnframt staðfest að hann sæi ekki neinn auðsjáanlegan galla eða ástæðu fyrir því af hverju silfurskottur væru að Mýrargötu 33 umfram það sem gengi og gerist annars staðar. Ýmsar eðlilegar ástæður geti verið fyrir tilvist þeirra, s.s. að fólk beri þær með sér í íbúðir eða að þær komið upp um niðurföll og lagnir sem standi opnar á meðan á byggingu standi. Allar athugasemdir kæranda hafi verið teknar til skoðunar og brugðist við þeim þar sem við hafi átt. Rétt sé að nefna að í fyrri athugasemdum hafi byggingaraðili nefnt að til skoðunar væri að setja upp þéttilista, en ekki hafi verið talið þörf á því vegna niðurstaðna hljóðmælinga. Þá sé búið að setja upp snjógildrur á þaki Mýrargötu 39.

Áréttað sé að allar athugasemdir kæranda lúti að atriðum sem myndu teljast minniháttar frávik sem hefðu í mesta lagi geta orðið til þess að byggingarfulltrúi hefði gefið út vottorð með athugasemdum, skv. 4. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 2. mgr. gr. 3.9.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Það væri í ósamræmi við sjónarmið um meðalhóf að fella lokaúttektina úr gildi í heild sinni.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Mýrargötu 33–39.

Eins og rakið er í málavöxtum fór lokaúttekt fjölbýlishússins fram í tveimur hlutum. Annars vegar var gefið út vottorð um lokaúttekt 19. janúar 2024 vegna Mýrargötu 33, 35 og 39 og bílakjallara, en hins vegar var gefið út vottorð um lokaúttekt 24. maí s.á. vegna Mýrargötu 37 og lóðafrágangs. Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 5. nóvember 2024 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að kæran hefði verið lögð fram innan lögbundins kærufrests skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að því er varðar síðargreinda ákvörðun byggingarfulltrúa frá 24. maí 2024. Þá liggur fyrir að kæranda var ekki kunnugt um útgáfu vottorðsins frá 19. janúar 2024 fyrr en eftir uppkvaðningu úrskurðarins og verður af þeim sökum litið svo á að kæran sé jafnframt lögð fram innan kærufrests að því er varðar þá ákvörðun.

Ekki verður fallist á með Reykjavíkurborg um að vísa eigi kærumáli þessu frá á þeim grund­velli að kærandi teljist ekki aðili málsins þar sem skv. d-lið 4. mgr. 15. gr. laga nr. 160/2010 beri fyrri eigandi ábyrgð skv. 1. mgr. lagagreinarinnar. Þrátt fyrir að útgáfa lokaúttektar­vottorðsins hafi ekki beinst að húsfélagi Mýrargötu 33–39 verður að leggja til grundvallar að hún geti varðað hagsmuni félagsmanna þess verulega, sbr. álit umboðsmanns Alþingis frá 13. september 2011 í máli nr. 6242/2010 og úrskurðaframkvæmd úrskurðarnefndarinnar. Hefur kærandi því lögvarða hagsmuni af úrlausn þessa máls og verður honum því játuð kæruaðild.

Framkvæmd lokaúttektar og útgáfa vottorðs þess efnis er hluti af lögbundnu eftirliti byggingar­fulltrúa með mannvirkjagerð, sbr. 2. og 3. mgr. 16. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Samkvæmt 3. mgr. 36. gr. laganna skal við lokaúttekt gera úttekt á því hvort mannvirkið upp­fylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið samkvæmt þeim og hvort byggt hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Þá er mælt fyrir um í 4. mgr. laga­greinarinnar að ef mannvirkið uppfylli ekki að öllu leyti ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafi verið samkvæmt þeim þá geti útgefandi byggingarleyfis gefið út vottorð um ­úttektina með athuga­semdum. Þáttum sem varði aðgengi skuli þó ávallt hafa verið lokið við gerð lokaúttektar. Segir jafnframt í 5. mgr. sömu lagagreinar að eftirlitsaðili geti fyrirskipað lokun mannvirkis komi í ljós við lokaúttekt að mannvirki uppfylli ekki öryggis- eða hollustu­kröfur og lagt fyrir eiganda þess að bæta úr, en lokaúttektarvottorð skuli þá ekki gefið út fyrr en það hafi verið gert.

Í byggingarlýsingu á samþykktum aðaluppdrætti er því lýst að gangstígar að inngöngum, að­koma að bílageymslu, bílastæði fyrir hreyfihamlaða og aðkoma að sorpsvæði verði með snjó­bræðslukerfi. Í máli þessu er óumdeilt að fyrir framan innganga Mýrargötu 33, þ.e. þá innganga sem snúa að Mýrargötu og leiða að rými fyrir atvinnuhúsnæði, er ekki að finna snjóbræðslu. Telur kærandi það fyrirkomulag ekki samrýmast samþykktum aðaluppdráttum en á móti bendir byggingaraðili á að ekki hafi verið gert ráð fyrir snjóbræðslu þar samkvæmt lóðaruppdrætti. Með hliðsjón af því orðalagi byggingarlýsingar að „gangstígar“ verði snjóbræddir þykir skortur á snjóbræðslu fyrir framan umrædda innganga Mýrargötu 33 ekki fela það í sér að frágangur lóðarinnar sé í ósamræmi við samþykkt hönnunargögn.

Tilgreint er í byggingarlýsingu að á anddyrum, gangi og stigagangi á jarðhæð verði mjúkt undirlag undir flísalögn en fyrir liggur að gangar og stigagangar á jarðhæð hafa ekki verið flísalögð. Þrátt fyrir að slíkur frágangur hafi gefið tilefni til athugasemda á lokaúttektarvottorði verður það ekki talinn verulegur annmarki á hinni kærðu ákvörðun með hliðsjón af því að ekki er um að ræða atriði sem varðar aðgengi eða öryggis- eða hollustukröfur, sbr. 4. og 5. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010.

Kærandi gerir athugasemd við að útihurðir frá anddyri Mýrargötu 33 eða 39 séu ekki með rafrænum opnunarbúnaði í samræmi við byggingarlýsingu, en á samþykktum aðaluppdráttum segir: „Útihurðir í anddyri og dyr að hjóla- og bílageymslu eru með rafrænum opnunarbúnaði.“ Hefur byggingaraðili svarað því til að ekki hafi verið kveðið á um rafrænan opnunarbúnað hurða í samningi verktaka. Telja verður að byggingarfulltrúa hafi borið að gera athugasemd við að skort hafi á rafrænan opnunarbúnað umræddra hurða, enda er sá skortur í andstöðu við samþykkt hönnunargögn. Að teknu tilliti til þess að ekki er um að ræða þátt er varðar aðgengi eða öryggis- eða hollustukröfur þykir umræddur ágalli ekki svo verulegur að varði ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Er þá haft í huga að í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er ekki gerð krafa um að inngangsdyr/útidyr í aðalumferðarleiðum séu með sjálfvirkan opnunarbúnað, heldur einungis að vel sé hægt að koma slíkum búnaði fyrir, sbr. b-lið 5. mgr. gr. 6.4.2.

Þá hefur kærandi komið á framfæri ábendingum um leka í bílageymslu og að silfurskottur hafi fundist í íbúðum og í bílakjallara. Af hálfu verktaka hefur komið fram að um staðbundinn leka sé að ræða í bílakjallara sem sé til skoðunar í samráði við hönnuð hússins. Jafnframt hefur hann bent á að í skoðun meindýraeyðis á húsi og bílakjallara hafi ekki fundist meindýr. Fyrir liggur í gögnum þessa máls tölvupóstur frá sama meindýraeyði þar sem hann telur upp helstu ástæður þess að silfurskottur hafi verið að finnast í húsinu en enginn þeirra snýr að því að húsið hafi ekki verið byggt í samræmi við kröfur byggingarreglugerðar eða samþykktra hönnunargagna. Með hliðsjón af því verður ekki talið að um sé að ræða ágalla á hinum kærðu ákvörðunum sem raskað geti gildi þeirra.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og þar sem ekki verður séð að neinir þeir annmarkar séu á hinum kærðu ákvörðun er varðað geta ógildingu þeirra verður kröfu kæranda þar um hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. janúar 2024 um að gefa út vottorð um lokaúttekt að hluta vegna Mýrargötu 33–39 og ákvörðunar hans frá 24. maí 2024 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Mýrargötu 33–39.

179/2024 Hringbraut

Með

Árið 2025, miðvikudaginn 22. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Halldóra Vífilsdóttir arkitekt og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.

Fyrir var tekið mál nr. 179/2024, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 28. nóvember 2024 um að samþykkja tillögu að breytingu á skilmálum deiliskipulags reits 1.520, Lýsisreits, vegna lóðar nr. 121 við Hringbraut.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 20. desember 2024, kærir húsfélagið að Grandavegi 42, þá ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 28. nóvember 2024 að samþykkja tillögu að breytingu á skilmálum deiliskipulags reits 1.520, Lýsisreits, vegna lóðar nr. 121 við Hringbraut. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og farið fram á að framkvæmdir verði stöðvaðar.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunar­kröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 6. janúar 2025.

Málavextir: Á lóð nr. 121 við Hringbraut í Vesturbæ Reykjavíkur stendur hús sem byggt var árið 1953. Almennt er vísað til þess sem JL-hússins og hefur það hýst ýmsa starfsemi í gegnum tíðina. Með umsókn, dags. 13. nóvember 2024, var sótt um breytingu á deiliskipulagi reits 1.520, Lýsisreits, vegna lóðarinnar. Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi skipulags­fulltrúa 25. nóvember 2024 og vísað til meðferðar verkefnastjóra hjá embættinu. Umsóknin var aftur tekin fyrir á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 28. s.m. og hún samþykkt með vísan til 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Auglýsing um breytinguna var birt í B-deild Stjórnartíðinda 9. janúar 2024 og kom þar fram að hún fæli í sér að heimilt yrði að vera með sérstök búsetuúrræði í húsinu, sbr. kafla 3.4.1 í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Fyrir liggur að áformað er að hin sérstöku búsetuúrræði að Hringbraut 121 hýsi umsækjendur um alþjóðlega vernd hér á landi.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er byggt á því að samkvæmt meginreglu skipulagslaga nr. 123/2010 skuli fara með breytingar á deiliskipulagi eins og um nýtt skipulag sé að ræða og túlka beri öll frávik frá þeirri meginreglu þröngt. Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 sé Hringbraut 121 á skilgreindu verslunar- og þjónustusvæði, VÞ1, og sé fasteignin skil­greind sem hverfiskjarni við aðalgötu. Þar sé heimilt að hafa stærri matvöruverslanir og fjöl­breytta verslun og þjónustu sem þjóni heilu hverfi. Þá sé, samkvæmt gildandi skipulagi, heimilt að reka veitingastaði í flokki I og II í hverfiskjörnum, sem og gististaði í flokki I-III. Feli hin kærða ákvörðun í sér breytingu á landnotkun frá því sem kveðið er á um í gildandi skipulagi enda ekki að finna heimild fyrir sértækt búsetuúrræði á lóðinni. Því hafi borið að fara með deili­skipulagsbreytinguna eftir 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga eða í það minnsta að grenndar­kynna fyrirhugaðar breytingar fyrir nágrönnum og öðrum aðilum sem hafi lögvarinna hagsmuna að gæta, skv. 2. mgr. 43. gr. laganna.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er byggt á því að sú ráðagerð að húsnæði á lóð nr. 121 við Hringbraut verði notað að hluta til tímabundinnar dvalar umsækjenda um alþjóðlega vernd feli ekki í sér aðra eða víðtækari notkun en fylgir húsnæði á verslunar- og þjónustusvæðum. Ákvörðun skipulagsfulltrúa um að samþykkja breytingu á skilmálum deiliskipulags fyrir lóðina hafi hvorki í för með sér breytta notkun hússins né umfangsmeiri starfsemi en almennt sé heimil á verslunar- og þjónustusvæðum. Þá sé tímabundin búseta umsækjenda um alþjóðlega vernd í fullu samræmi við þá starfsemi sem um árabil hafi verið í húsinu. Ákvörðun skipulagsfulltrúa sé hvorki veruleg né óveruleg í skilningi skipulagslaga. Umþrætt breyting á skipulagsskilmálum víki að engu leyti frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti, formi eða svipmóti hins deiliskipulagða svæðis. Þá feli breytingin hvorki í sér breytingu á landnotkun né útliti hússins. Breytingin hafi ekki í för með sér skerðingu á hagsmunum nágranna heldur aðeins breytingu á deiliskipulagsskilmálum sem rúmist innan skilmála í aðalskipulagi og landnotkun lóðarinnar, sbr. c-lið gr. 6.2. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013.

Í gildi sé deiliskipulag fyrir Hringbraut 121 sem tekið hafi gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. júní 2007. Í deiliskipulaginu sé ekki kveðið sérstaklega á um notkun og tegund starfsemi á Hringbraut 121. Þá sé starfsemi hússins ekki settar ákveðnar takmarkanir, s.s. um tímamörk eða opnunartíma. Samkvæmt fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkja­stofnunar sé Hringbraut 121 skráð sem atvinnuhúsnæði og íbúðarhúsnæði. Á undanförnum árum hafi starfsemi þar verið fjölbreytt. Þar hafi m.a. verið starfræktur veitingastaður, verslun, gistiheimili og skóli. Hótelið hafi verið með rekstrarleyfi fyrir allt að 240 gesti á 4. og 5. hæð, eða samtals 61 gistiherbergi. Einnig hafi verið starfræktur veitingastaður á jarðhæð sem og verslun og kaffihús. Á 2. og 3. hæð hússins var Myndlistaskólinn í Reykjavík með aðstöðu, svo sem kennslustofur, skrifstofur og vinnustofur. Samkvæmt árskýrslu skólans 2023 var fjöldi nemenda í fullu námi á haust- og vorönn 2022 um 240-260 talsins. Að auki hafi skólinn verið í samstarfi við leik- og grunnskóla og hýsti tímabundið um 500 nemendur. Námskeið fyrir fullorðna og sumarnámskeið skólans hýstu rúmlega 200 nemendur.

Samkvæmt byggingarlýsingu umsækjanda, dags. 14. október 2024, sé ætlaður fjöldi þeirra sem gista samstundis í húsnæðinu 326 einstaklingar og verði ekki talið að umfangið sé verulegt miðað við þá starfsemi verið hafi í húsnæðinu um árabil. Að auki megi telja að umfang þeirrar starfsemi sem verið hafi á jarðhæð á undanförnum árum, þ.e.a.s. veitingastaður, kaffihús og verslun, sé sambærilegt því umfangi sem nú sé fyrirhugað. Eðli starfseminnar sem nú sé heimiluð með breytingu á skilmálum deiliskipulagsins, þ.e. tímabundin búseta umsækjenda um alþjóðlega vernd, sé í eðli sínu sambærileg starfsemi og verið hafi í húsnæðinu á undanförnum árum. Ekki sé að sjá að fyrirhuguð starfsemi í húsnæðinu sé frábrugðin þeirri starfsemi. Í öllum tilvikum, hvort heldur um sé að ræða tímabundna gistingu ferðamanna á farfuglaheimili eða hóteli eða umsækjenda um alþjóðlega vernd sé um að ræða manneskjur með ólíka eiginleika og þarfir, menntun og trúarbrögð. Bakgrunnur þeirra sem dvelji á farfuglaheimili eða hóteli geti verið jafn fjölbreyttur og þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi.

 Athugasemdir umsækjanda: Af hálfu umsækjanda um hina umdeildu breytingu á deiliskipulagi er vísað til þess að kæranda skorti lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumálsins í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þröskuldur íslensks réttar um lögvarða hagsmuni sé hár og beri framkvæmd úrskurðarnefndarinnar þess merki. Nálægð fasteigna nægi þannig ekki ein og sér til þess að aðild sé játuð að kærumáli. Er um það vísað til tveggja úrskurða úrskurðarnefndarinnar, annars vegar í málum nr. 35/2008 og 44/2008, Urðarmói, uppkveðnum 2. desember 2009, og hins vegar í máli nr. 11/2024, Gauksstaðir, uppkveðnum 22. mars 2024. Til þess sé að líta að ekki verði aukning á fjölda þess fólks sem dvelji í fasteigninni enda hafi 500 nemendur um tíma sótt nám í hluta hússins auk þess að þar hafi verið starfrækt hótel fyrir allt að 240 manns. Þá sé ótalin sú veitingastarfsemi sem verið hafi á jarðhæð hússins á sama tíma. Fjölmargar íbúðir á lóð nr. 121 við Hringbraut séu í eigu Félagsbústaða og hafi m.a. erlendir aðilar á þeirra vegum dvalið í húsnæðinu í langtíma dvöl.

Þá er vísað til sjónarmiða um túlkun 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Það að bæta við ákvæði um sérstök búsetuúrræði í deiliskipulag geti ekki talist til breyttrar landnotkunar í skilningi 3. mgr. 43. skipulagslaga. Hugtakið landnotkun sé skilgreint í gr. 1.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sem ráðstöfun lands til mismunandi nota, svo sem undir íbúðir, frístundahús, iðnað, verslun, útivist og landbúnað. Samkvæmt núgildandi aðalskipulagi sé Lýsisreiturinn á verslunar- og þjónustusvæði sem sé einn landnotkunarflokka sem taldir séu upp í gr. 6.2. í reglugerðinni. Nánar tiltekið tilheyri reiturinn svæði VÞ1 sem skilgreint sé sem hverfiskjarni, slíkir kjarnar séu kjarnar með stærri matvöruverslunum og fjölbreyttri verslun og þjónustu sem þjóni heilu hverfi. Á meðal þess sem heimilt sé að hafa í hverfiskjörnum sé „landnotkunarflokkurinn samfélagsþjónusta og húsnæðislausnin sérstök búsetuúrræði.“ Hvergi sé í skipulagsreglugerð eða skipulagslögum minnst á sérstök búsetuúrræði og því ljóst að tilvikið falli ekki undir hugtakið landnotkun í skilningi skipulagsréttar. Megi ráða að sérstök búsetuúrræði teljist til húsnæðislausnar en séu ekki landnotkun í sjálfu sér og geti verið á þeim landnotkunarflokkum sem kveðið sé á um í aðalskipulagi.

Athugasemdir Vinnumálastofnunar: Af hálfu Vinnumálastofnunar er bent á að niðurstaða úrskurðarnefndarinnar í málinu varði verulega hagsmuni. Umfangsmikill undirbúningur hafi átt sér stað til að koma úrræðinu á laggirnar og séu framkvæmdir á lokastigi. Bæði stofnunin og eigandi húsnæðisins hafi lagt í kostnaðarsama vinnu við að gera viðeigandi viðbætur og endurbætur á húsnæðinu, fullviss um að viðhlítandi heimildir væru fyrir nýtingu á húsnæðinu.

Vinnumálastofnun veiti umsækjendum um alþjóðlega vernd þjónustu á meðan umsókn þeirra sé til meðferðar hér á landi og leigi aðstöðu í umræddu húsnæði að Hringbraut 121 og nýti fyrir umsækjendur. Í húsnæðinu muni búa konur, pör og fjölskyldur og þegar hafi um 60 konur flutt inn á 4. hæð þess. Alls sé rými fyrir 400 einstaklinga í húsnæðinu en ekki sé gert ráð fyrir fullnýtingu á rýmum enda bjóði samsetning umsækjendahópa og fjölskyldustærðir ekki upp á það. Á fyrstu hæð hússins sé gert ráð fyrir virknimiðstöð fyrir einstaklingana sem búa í húsnæðinu ásamt vinnuaðstöðu fyrir þjónustuteymi Vinnumálastofnunar sem þjónusti einstaklingana meðan þeir dvelji þar. Öryggisgæsla sé í húsnæðinu allan sólarhringinn og sé Vinnumálastofnun með húsnæðisteymi sem sinni viðhaldi.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Kærandi í máli þessu er húsfélagið að Grandavegi 42 A–G. Á þeirri lóð stóð áður verksmiðja Lýsis hf. og á lóðin m.a. mörk að lóð nr. 121 við Hringbraut. Við skipulagsbreytingar vegna fyrir­hugaðrar uppbyggingar á lóðinni voru lagðar kvaðir á lóð nr. 121 við Hringbraut og lóðir nr. 42 og 44 við Grandaveg, sem síðar voru sameinaðar sem lóð nr. 42. Samkvæmt nú­gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 4. september 2013, er í gildi kvöð um umferð fótgangandi um lóð kæranda frá Grandavegi og í port á lóð nr. 121 við Hringbraut. Þá er í gildi kvöð um umferðarrétt ökutækja á lóð nr. 121 við Hringbraut í bílgeymslu á lóð nr. 42 við Grandaveg. Má í þessu sambandi nefna að gert er ráð fyrir því að annar megin inngangurinn í JL-húsið verði um inngangsdyr við vesturgafl gegnt Grandavegi 42. Að þessu virtu verður að álíta að kærandi eigi slíkra hagsmuna að gæta af breytingum á skipulagi lóðarinnar að játa verður honum kæruaðild að máli þessu.

Vegna framkominnar kröfu um frestun réttaráhrifa var af hálfu borgaryfirvalda upplýst um að umsókn um byggingarleyfi hefði ekki verið samþykkt og því hefði byggingarleyfi ekki verið gefið út og var í umsögn borgarinnar vísað til þess að gildistaka deiliskipulags og breytingar á deiliskipulagi feli ekki í sér heimildir til að hefja umsóttar breytingar heldur þurfi til að koma veiting byggingarleyfis, sbr. 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Skipulag lands innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórnar skv. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en í því felst einnig heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, sbr. 43. gr. laganna. Við beitingu þessara ákvæða ber að fylgja markmiðum skipulagslaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, en meðal þeirra er að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið. Jafnframt skal tryggja að haft sé samráð við almenning við gerð skipulagsáætlana þannig að gefið sé tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð slíkra áætlana, sbr. d-lið lagagreinarinnar. Við töku skipulags­ákvarðana er sveitarstjórn bundin af meginreglum stjórnsýsluréttarins, þ. á m. lögmætis­reglunni. Að gættum framangreindum reglum hafa sveitarstjórnir mat um það hvernig deili­skipulagi og breytingum á því skuli háttað.

Í aðalskipulagi er lagður grundvöllur að gerð deiliskipulags varðandi landnotkun og takmarkanir á landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi og byggðamynstri, þ.m.t. þéttleika byggðar, sbr. 2. mgr. 28. gr. laganna. Samkvæmt 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga skulu gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi og er aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag. Skal við gerð deiliskipulags byggja á stefnu aðalskipulags og hún útfærð fyrir viðkomandi svæði eða reit, sbr. 3. mgr. 37. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 skal stefna um landnotkun í skipulagi sýnd með einum landnotkunarflokki. Sé gert ráð fyrir landnotkun á sama reit sem falli undir fleiri en einn land­notkunarflokk skuli sá flokkur tiltekinn fyrir reitinn sem er ríkjandi en umfang annarrar landnotkunar skilgreint í skilmálum, sbr. 2. málsl. ákvæðisins.­­ Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 er lóð nr. 121 við Hringbraut hverfiskjarni við aðalgötu á verslunar- og þjónustusvæði, VÞ1. Samkvæmt aðalskipulaginu er hverfiskjarni „kjarni með stærri matvöruverslunum og fjölbreyttri verslun og þjónustu sem þjónar heilu hverfi.“ Veitingastaðir í flokki I og II eru heimilir í hverfiskjörnum, svo og gististaðir í flokki I–III. Veitingastaðir í flokki III geta verið heimilir samkvæmt ákvörðun í deiliskipulagi eða hverfisskipulagi. Íbúðir eru heimilar, einkum á efri hæðum bygginga. Samfélagsþjónusta er heimil auk þrifalegrar atvinnustarfsemi.

Í 3. kafla aðalskipulags Reykjavíkur eru sett fram bindandi ákvæði um íbúðarbyggð ásamt því að m.a. eru skilgreindar heimildir sem gilda um „sértæk búsetuúrræði“ og íverurými utan hefð­bundinnar íbúðarbyggðar og blandaðrar byggðar. Er fjallað um sértæk búsetuúrræði í kafla 3.4.1. og hugtakið þar skilgreint sem húsnæðislausnir fyrir félagshópa með sérstakar húsnæðis- og/eða þjónustuþarfir, til lengri eða skemmri dvalar. Kemur þar fram að þessi búsetuúrræði geti verið heimil innan íbúðarbyggðar, verslunar- og þjónustusvæða, miðsvæða, athafnasvæða, hafnarsvæða, opinna svæða og landbúnaðarsvæða. Þá sé að undangenginni breytingu á deili­skipulagi, hægt að staðsetja búsetuúrræðin innan m.a. verslunar- og þjónustusvæða. Í þessari skyldu til að breyta deiliskipulagi felst viðurkenning á því að nokkrum grenndaráhrifum geti verið til að dreifa vegna slíkra úrræða sem krafist geti ítarlegri málsmeðferðar.

Í 43. gr. skipulagslaga er fjallað um málsmeðferð við breytingu á deiliskipulagi. Í 1. mgr. kemur fram sú meginregla að um breytinguna skuli fara eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða. Samkvæmt 2. mgr. er heimilt að grenndarkynna óverulega breytingu á deiliskipulagi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Skal við mat á því hvort breyting teljist óveruleg taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Sambærilegt ákvæði er að finna í gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en þar er jafnframt tilgreint að meta skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu er varði almannahagsmuni. Í 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga er síðan mælt fyrir um heimild skipulags­nefndar til að falla frá grenndarkynningu ef sýnt er fram á að breyting á deiliskipulagi eða leyfisskyld framkvæmd varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjanda.

Í umsókn um hina kærðu breytingu á deiliskipulagi, dags. 13. nóvember 2024, kom fram að umsóknin væri í samræmi við kafla 3.4.1. í aðalskipulagi. Engin nánari gögn fylgdu umsókninni sem varpað gátu skýrari mynd af ráðgerðum áformum umsækjanda. Á afgreiðslu­fundi skipulagsfulltrúa, dags. 28. nóvember 2024, var við töku hinnar kærðu ákvörðunar bókað um að breyting væri gerð á „núverandi deiliskipulagi í samræmi við fyrirmæli í aðalskipulagi, sbr. minnisblað skrifstofu stjórnsýslu og gæða“, sem dagsett var sama dag. Í minnisblaðinu var að finna nánari lýsingu á áformunum og þá afstöðu að deiliskipulagsbreytingin væri í samræmi við aðalskipulag, en í kafla 3.4. í aðalskipulaginu eru sett almennt leiðbeinandi viðmið um staðsetningu búsetuúrræða af þessu tagi. Við auglýsingu deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda  kom einungis fram að heimilt yrði að vera með sérstök búsetuúrræði í húsinu og að uppdrættir hefðu fengið meðferð skv. 2. mgr. 43. gr. og 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Var með þessu ekki með greinargóðum hætti gerð grein fyrir umfangi ráðgerðra áforma, m.a. í ljósi landnotkunar svæðisins sem hverfiskjarna.

Af gögnum þessa máls, m.a. fyrrgreindu minnisblaði sem einnig var sent Skipulagsstofnun í tilefni af breytingu á deiliskipulaginu, verður ráðið að um sé að ræða búsetuúrræði sem ætlað er fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, allt að 326 talsins, og aðstaða verði á fyrstu hæð þar sem Vinnumálastofnun verði með vinnuaðstöðu, einnig verði þar skrifstofur, opin rými, kaffiaðstaða, salerni, viðtalsrými og tómstundaherbergi. Þá er gert ráð fyrir einhverri tegund af gæslu eða eftirliti og þjónustu sem krefjist viðveru starfsmanns allan sólarhringinn. Að þessu virtu verður ekki fallist á þau sjónarmið Reykjavíkurborgar að ráðgerð notkun hússins sé sambærileg þeirri notkun sem áður hafi verið á húsinu. Það orkar þannig tvímælis að leggja að jöfnu grenndaráhrif sértæks búsetuúrræðis eins og hér um ræðir, þar sem dvalið er til lengri tíma, við starfsemi hótels og gistihúss eða skóla. Hafa samantekið að áliti úrskurðar­nefndarinnar ekki verið færð fram fullnægjandi rök fyrir því að heimilt hafi verið að fara með málið sem óverulega breytingu á deiliskipulagi skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga og hefði borið að auglýsa tillöguna opinberlega. Er þar jafnframt til þess að líta að húsið er skilgreint sem hverfiskjarni sem ætlað er að þjóna nærumhverfinu. Var því ekki heimilt að viðhafa málsmeðferð skv. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga við meðferð málsins. Verður af þeirri ástæðu fallist á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 28. nóvember 2024 um að samþykkja tillögu að breytingu á skilmálum deiliskipulags reits 1.520, Lýsisreits, vegna lóðar nr. 121 við Hringbraut.

122/2024 Njarðargata

Með

Árið 2025, þriðjudaginn 21. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 122/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. október 2024 um að synja umsókn um byggingarleyfi vegna áður gerðra framkvæmda að Njarðargötu 43, Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. október 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Njarðargötu 43, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. október 2024 að synja umsókn um byggingarleyfi vegna áður gerðra framkvæmda að Njarðargötu 43, Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 21. nóvember 2024.

Málavextir: Hinn 7. maí 2024 sótti kærandi um byggingarleyfi fyrir áður gerðum breytingum sem samkvæmt umsókn fólust einkum í því að bæta brunavarnir og tryggja öryggi þeirra sem dvelja í húsi kæranda að Njarðargötu 43 þar sem rekið væri gistiheimili. Breytingarnar sem þegar höfðu verið gerðar voru svalir á norðurhlið og ýmislegt innanhúss í þeim tilgangi að gera flóttaleiðir öruggari. Fyrri umsókn frá árinu 2022 var þar með dregin til baka. Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 28. maí 2024. Í tilkynningu til kæranda um niðurstöðu afgreiðslufundarins voru gerðar athugasemdir við flokkun gistiheimilisins, þ.e. skráningu þess í flokk II–b. Þeim flokki tilheyra gististaðir með takmarkaða þjónustu þar sem leigð eru út 6 herbergi eða fleiri eða rými fyrir fleiri en 10 einstaklinga, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Niðurstaða fundarins var sú að erindinu var frestað og vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa sem skilaði umsögn sinni 4. júlí 2024. Í niðurstöðu þeirrar umsagnar var tekið neikvætt í erindið með þeim skýringum að svalir væru of djúpar og ekki væri heimilt að vera með rekstur gistiheimilis í flokki II–b þar sem rekstur gistiheimila í íbúðabyggð við aðalgötu takmarkaðist við minni gistiheimili. Var erindið aftur tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 15. október s.á. þar sem umsókn um byggingarleyfi var synjað með vísan til hinnar neikvæðu umsagnar skipulagsfulltrúa.

 Málsrök kæranda: Vísað er til þess að 17. apríl 2018 hafi verið samþykktar teikningar vegna endurnýjunar á rekstrarleyfi sem meðal annars sé vegna hertra krafna eldvarnaeftirlits. Samkvæmt teikningum hafi verið gert ráð fyrir gistirými í flokki II fyrir 16 manns og ráð gert fyrir svölum í risi og á 2. hæð hússins. Efri svalirnar nái 1,0 m út fyrir húshlið en þær neðri nái 1,2 m út. Breidd svalanna sé 2,5 m og 2,65 m.

Því miður hafi ekki verið gefið út byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum af ástæðum sem ekki þyki tilefni til að rekja nánar. Engu að síður hafi svalirnar verið gerðar í samræmi við samþykktar teikningar og settar upp vegna þrýstings frá Eldvarnareftirlitinu um tafarlausar úrbætur á þeim öryggisatriðum sem svalirnar séu.

Árið 2022 hafi verið sótt um endurnýjun á fyrri samþykkt og lagðar inn óbreyttar teikningar með örlitlum textabreytingum sem ekki hafi náð fram að ganga. Næsta tilraun hafi verið gerð í maí 2024 að ráði byggingarfulltrúa og hafi niðurstaðan verið sú sem nú sé kærð.

Varðandi það sem fram komi í athugasemdum skipulagsfulltrúa, að svalirnar framkalli of mikinn skugga á neðri hæð hússins, sé á það bent að þær séu á norðurhlið hússins. Sjaldan skíni sól á þá hlið en svalirnar muni þá kasta skugga til hliðar á gluggalausa fleti fremur en niður fyrir svalirnar. Neðan við svalir á 2. hæð sé baðherbergi. Á það sé einnig bent að á húsinu nr. 47 við Njarðargötu séu svalir, samþykktar árið 2020, sem fylgi allri húshliðinni og nái 1,79 m frá húsvegg.

Í húsinu hafi um árabil verið leyft gistirými fyrir 16 manns í flokki II–b og ráðist hafi verið í endurbætur samkvæmt áðurnefndum samþykktum teikningum til þess að viðhalda leyfinu.

 Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að kærandi hafi lagt fram fyrirspurn til skipulagsfulltrúa Reykjavíkur 4. september 2017. Í fyrirspurninni hafi komið fram að fyrirhugað væri að fara í endurbætur á rishæð Njarðargötu 45, gera þar litla íbúð í stað geymsluherbergja, bæta einangrun í þaki og klæða með eldþolinni klæðningu. Ennfremur ætti að gera þar svalir til að auka öryggi íbúa ef hætta steðji að. Óskað hafi verið eftir því að gera samskonar svalir á rishæð Njarðargötu 43 og einnig spurt hvort nýta mætti herbergi á jarðhæð til íbúðar. Að auki hafi kærandi spurt hvort gera mætti björgunarsvalir á 2. hæð á bakhlið beggja húsanna. Í svari skipulagsfulltrúa frá 29. september s.á. hafi meðal annars komið fram að þar sem ekki væri deiliskipulag á reitnum þyrfti að grenndarkynna byggingarleyfisframkvæmdir.

 Kærandi hafi fyrst sótt um leyfi fyrir umræddum framkvæmdum til embættis byggingarfulltrúa 16. janúar 2018. Sótt hafi verið um að gera svalir á bakhlið á 2. og 3. hæð og bæta brunavarnir í húsi á lóð nr. 43 við Njarðargötu. Hafi því erindi verið vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa sem skilað hafi umsögn sinni 2. mars s.á. Í þeirri umsögn hafi kæranda meðal annars verið bent á fyrri umsögn skipulagsfulltrúa frá 2017. Í niðurlagi umsagnarinnar væri bent á að minnka þurfi svalir á þakhæð húsanna og að mikilvægt sé að rjúfa ekki þakkant og rennu. Ekki hafi enn verið orðið við þeim tilmælum og því þurfi að lagfæra gögn. Svalir á 2. hæð hússins skagi jafnframt of mikið fram og framkalli of mikinn skugga á neðri hæð hússins en miðað sé við að þær séu ekki dýpri en 80 cm í eldri húsum af þessari gerð. Niðurstaða skipulagsfulltrúa hafi verið sú að grenndarkynna þyrfti aðaluppdrætti þegar að leiðréttir uppdrættir bærust.

Kærandi hafi svo sent embætti byggingarfulltrúa umsókn um byggingarleyfi hinn 30. ágúst 2022. Þar hafi verið sótt um leyfi til að setja svalir á 2. og 3. hæð norðurhliðar og bæta eldvarnir á gistiheimili í flokki II, fyrir 16 gesti í húsi á lóð nr. 43 við Njarðargötu. Hafi sú umsókn verið dregin til baka með umsókn kæranda frá 7. maí 2024.

 Bent sé á að í umsögn skipulagsfulltrúa 4. júlí 2024 sé vísað til Aðalskipulags Reykjavíkur 2040. Samkvæmt aðalskipulaginu tilheyri lóðin og byggingin á Njarðargötu 43 borgarhluta 2 Miðborg og sé á skilgreindu íbúðasvæði ÍB10 Þingholt. Ekkert deiliskipulag sé í gildi og skuli því grenndarkynna allar byggingarleyfisskyldar framkvæmdir. Í fylgigögnum sem fylgt hafi umsókn kæranda um byggingarleyfi 7. maí 2024 megi sjá að dýpt svala á 2. hæð sé 120 cm og dýpt svala á rishæð sé 150 cm. Í umsögninni hafi verið tekið neikvætt í erindið þar sem svalirnar væru of djúpar. Í umsögninni væri vitnað til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 2. mars 2018 vegna sömu breytinga þar sem jafnframt hafi verið neikvætt tekið í erindið. Í umsögninni frá 2. mars 2018 komi meðal annars fram að svalirnar skagi of mikið út og skuli dýptin takmarkast við 80 cm þar sem þær framkalli of mikinn skugga á neðri hæð hússins.

Njarðargata 43 sé staðsett á svæði innan Hringbrautar og falli undir hverfisvernd innan Hringbrautar samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Meðal markmiða hverfisverndar­innar sé að varðveita og styrkja söguleg og fagurfræðileg einkenni byggðarinnar. Gefnar hafi verið út leiðbeiningar hverfisskipulags sem séu grundvallaðar á stefnumörkun aðalskipulags.

Leiðbeiningar um svalir og útlitsbreytingar hafi verið gefnar út 14. desember 2018 og breytt 12. september 2019. Þær fjalli um útfærslur og breytingar á svölum, gluggum og öðru ytra byrði húsa. Í kafla um dagsbirtu og sólarljós segi „Þegar settar eru nýjar svalir á hús eða svalir stækkaðar skal stærð þeirra miðast við að lágmarka skerðingu á sólarljósi inn um glugga íbúðar fyrir neðan. Smávægileg breyting í dýpt svala getur skipt töluverðu máli.“ Samhliða nefndum leiðbeiningum hafi verið gefnar út leiðbeiningar um þakbreytingar. Í kafla leiðbeininganna sem fjalli um þaksvalir segi „Þaksvalir ættu almennt ekki að ná út fyrir þakkant/útvegg og þakkantur ætti að vera órofinn sbr. skýringarmyndir, nema annað sé hluti af upprunalegum byggingarstíll hússins.“ Af framangreindu verði ráðið að umsögn skipulagsfulltrúa sé í samræmi við framangreindar leiðbeiningar sem sækja stoð í Aðalskipulag Reykjavíkur 2040.

Bent sé á að á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 17. apríl 2020 hafi verið lögð fram umsögn vegna umsóknar um byggingarleyfi fyrir áður gerðum breytingum að Njarðargötu 47, þær breytingar hafi meðal annars falist í því að gerðar hafi verið svalir á norðurhlið hússins. Í þeirri umsögn komi fram að staðsetning og útfærsla svalanna sé ekki í samræmi við viðmið og áherslur Reykjavíkurborgar varðandi nýjar svalir og útlitsbreytingar í eldri byggð. Jafnframt segi að svalirnar sem um ræði samræmist ekki viðmiðum og leiðbeiningum um nýjar svalir á eldri húsum. Jákvæð afstaða skipulagsfulltrúa í þessu tilfelli byggi á því að um 30 ár séu síðan svalirnar voru byggðar og óljóst hvort þær hefðu verið samþykktar á þeim tíma þótt áherslur væru aðrar í dag. Þá sé tekið fram að nýrri framkvæmdir skulu alfarið samræmast núgildandi áherslum og viðmiðum. Því sé ljóst að hér sé ekki um sambærilegar aðstæður að ræða við Njarðargötu 43 og svalirnar á Njarðargötu 47 því ekki fordæmi fyrir nýjum svölum.

Njarðargata sé skilgreind sem aðalgata í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Í umsögn skipulagsfulltrúa frá 4. júlí 2024 komi fram að ekki sé hægt að heimila rekstur gistiheimilis fyrir 16 manns þar sem húsið sé staðsett á skilgreindu íbúðarsvæði við aðalgötu. Rökum fyrir þessari afstöðu séu gerð góð skil í umsögn skipulagsfulltrúa. Það skuli þó tekið fram að hin kærða synjun um byggingarleyfi geti ekki veitt eða synjað um útgáfu rekstrarleyfis þar sem það sé gefið út af sýslumanni að undangenginni umsögn umsagnaraðila. sbr. 26. gr. reglugerðar nr. 1277/2016.

 Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi vegna áður gerðra framkvæmda að Njarðargötu 43, Reykjavík. Var ákvörðunin tekin með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 4. júlí 2024, þar sem neikvætt var tekið í erindið vegna þess að umsóttar svalir væru of djúpar og óheimilt væri að vera með rekstur gistiheimilis í flokki II–b í húsinu, þar sem rekstur gistiheimila í íbúðabyggð við aðalgötu takmarkaðist við minni gistiheimili.

 Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki verða byggingaráform aðeins samþykkt ef fyrirhuguð mannvirkjagerð er í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis. Að sama skapi verður byggingarleyfi ekki gefið út nema mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. sömu laga.

Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 var samþykkt í borgarstjórn 19. október 2021 og birt í B-deild stjórnartíðinda 18. janúar 2022. Samkvæmt aðalskipulagi tilheyrir lóðin Njarðargata 43 borgarhluta 2 Miðborg og er á skilgreindu íbúðasvæði ÍB10 Þingholt. Um landnotkun er fjallað í III. hluta greinargerðar aðalskipulagsins. Í kafla 3.2. kemur fram að almenn skilgreining íbúðarbyggðar sé „Svæði fyrir íbúðarhúsnæði og nærþjónustu sem því tengist, auk minni háttar atvinnustarfsemi sem samrýmist búsetu eftir því sem nánar er kveðið á um í stefnu skipulagsins (gr. 6.2.a. í skipulagsreglugerð).“ Þá kemur fram að fjölbreyttari landnotkun sé heimil í íbúðarbyggð sem falli undir skilgreininguna aðalgata eða nærþjónustukjarni. Njarðargata er skilgreind sem aðalgata í aðalskipulaginu.

Um aðalgötur er fjallað í kafla 3.3.1. Meðfram aðalgötum er heimil fjölbreyttari landnotkun þótt grunnskilgreining lóða sé íbúðarbyggð samkvæmt þéttbýlisuppdrætti, einkum starfsemi sem fellur undir flokkana verslun og þjónusta, að skemmtistöðum undanskildum, og samfélagsþjónusta. Verslun og þjónusta á jarðhæðum getur verið heimil svo og mögulega veitingastaðir í flokki I og II og gististaðir í flokki II–III. Þá segir að umfang gististarfsemi við aðalgötur skuli miðast við minni gistiheimili, sbr. reglugerð nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Minna gistiheimili telst gististaður með „takmarkaða þjónustu þar sem leigð eru út 5 eða færri herbergi eða hefur rými fyrir 10 einstaklinga eða færri“, sbr. c. lið 4. gr. reglugerðarinnar. Gistiheimili kæranda hefur gistirými fyrir 16 manns og er sú starfsemi samkvæmt framansögðu ekki í samræmi við ákvæði nefndrar reglugerðar sem gilda um gististarfsemi við aðalgötur. Þá liggur fyrir að allt frá árinu 2017 hefur kæranda verið kunnugt um þá afstöðu skipulagsfulltrúa að minnka þurfi svalir á þakhæð og grenndarkynna breytingarnar þar sem ekki er til staðar deiliskipulag fyrir svæðið. Var því umsögn skipulagsfulltrúa frá 4. júlí 2024 í fullu samræmi við fyrri umsagnir frá 29. september 2017 og 2. mars 2018. Gögn málsins bera með sér að ekki hefur verið brugðist við umsögnum skipulagsfulltrúa af hálfu kæranda.

Samkvæmt jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal við úrlausn mála gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Í því felst að aðilar við sambærilegar aðstæður skuli hljóta samsvarandi afgreiðslu. Reglan á að hindra að ákvarðanir verði tilviljunarkenndar, byggðar á geðþótta eða annarlegum sjónarmiðum.

Eins og fram hefur komið var jákvæð afstaða skipulagsfulltrúa vegna svala á Njarðargötu 47 byggð á því að um 30 ár voru síðan svalirnar voru byggðar og óljóst hvort þær hefðu verið samþykktar á þeim tíma. Einnig kom fram að nýrri framkvæmdir skyldu alfarið samræmast núgildandi áherslum og viðmiðum. Er því ekki um sambærileg tilvik að ræða og verður ekki séð að borgaryfirvöld hafi með synjun umsóknar kæranda brotið gegn 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið liggur ekki fyrir að hin kærða ákvörðun sé haldin þeim ágöllum sem raskað geta gildi hennar og verður kröfu þess efnis því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. október 2024 um að synja umsókn um byggingarleyfi vegna áður gerðra framkvæmda að Njarðargötu 43, Reykjavík.

150/2025 Stafafellsfjöll

Með

Árið 2025, þriðjudaginn 21. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundabúnað.

 Fyrir var tekið mál nr. 150/2024, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hornafjarðar frá 17. október 2024 um að veita undanþágu frá tilmælum um mænisstefnu í skilmálum deiliskipulags frístundasvæðis í Stafafellsfjöllum í Lóni.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. október 2024, er barst nefndinni 1. nóvember s.á., kærir landeigandi við Stafafellsfjöll, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hornafjarðar frá 17. október 2024 að veita undanþágu frá tilmælum um mænisstefnu í deiliskipulagi frístundasvæðis í Stafafellsfjöllum á lóð nr. 1D. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið sé til afgreiðslu hjá nefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Hornafirði 11. nóvember 2024.

Málavextir: Með erindi, dags. 24. júlí 2023, óskaði umráðandi lóðar 1D í Stafafellsfjöllum eftir byggingarleyfi fyrir frístundahúsi og gestahúsi á lóðinni. Var umsóknin samþykkt og byggingarleyfi gefið út 30. janúar 2024. Ný afstöðumynd var send inn 9. apríl s.á. og samþykkt af staðgengli byggingarfulltrúa 24. maí s.á. Lóðarhafi var upplýstur með tölvupósti 16. september 2024 að borist hefði ábending um að hús það sem verið væri að reisa á lóð 1D í Stafafellsfjöllum væri í ósamræmi við deiliskipulag og var hann inntur eftir útskýringum. Með tölvupósti 17. s.m. óskaði lóðarhafi eftir undanþágu frá skilmálum deiliskipulags. Sveitarfélagið fór fram á stöðvun framkvæmda með tölvupósti 18. september 2024 í ljósi þess að bygging sumarhúss á lóð 1D í Stafafellsfjöllum samræmdist ekki skilmálum gildandi deiliskipulags.

Erindi lóðarhafa um undanþágu frá skilmálum fyrrgreinds deiliskipulags var tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagssviðs 18. september s.á. og var ákveðið að afla skyldi umsagna landeigenda Stafafellsfjalla og Brekku vegna málsins. Eigendum óskipts lands Stafafellsfjalla og Brekku, þar á meðal kæranda, var sendur tölvupóstur 20. s.m. þar sem óskað var afstöðu þeirra vegna framkominnar beiðni. Kærandi kom á framfæri mótmælum vegna óskar lóðarhafa um frávik frá skipulagsskilmálum og benti á að staðsetning hússins væri í ósamræmi við skýrt orðalag greinargerðar deiliskipulagsins. Kærandi var sá eini af fjórum landeigendum sem var mótfallin framkominni beiðni um undanþágu. Á fundi umhverfis- og skipulagssviðs 2. október s.á. var samþykkt að veita undanþágu frá tilmælum um mænisstefnu í skilmálum deiliskipulags frístundasvæðis í Stafafellsfjöllum í Lóni í samræmi við 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Bæjarstjórn Hornarfjarðar staðfesti afgreiðslu umhverfis- og skipulagssviðs á fundi sínum 17. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hin kærða ákvörðun sé ekki í samræmi við skýrt orðalag í gildandi deiliskipulagi svæðisins og að framkvæmdir hafi verið hafnar á lóð Stafafellsfjalla 1D áður en leyfi hafi verið veitt. Ekki sé um óverulegt frávik að ræða og það verði að hafa góð rök til að breyta skipulaginu. Engin slík rök hafi komið fram önnur en að þetta þóknist eigandanum betur. Þetta varði hagsmuni kæranda og annarra sem leið eigi um svæðið og ákvörðun sveitarfélagsins sé fordæmisgefandi og miklir hagsmunir í húfi fyrir lóðarhafa, rétt eins og landeiganda. Ef nauðsynlegt sé að víkja frá skipulagi þurfi að vera til staðar skýr rök.

Málsrök Sveitarfélagsins Hornafjarðar:  Bent er á að ekki liggi fyrir hvaða hagsmuni kærandi hafi vegna málsins. Gerð hafi verið athugasemd er varðaði fyrirhugaða stefnu aðalmænis og málsmeðferð. Ekki komi þó fram hvaða hagsmunir það séu er varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Þá sé ekki ljóst á hvaða grundvelli sú fullyrðing að málið varði hagsmuni þeirra sem leið eigi um svæðið og hvernig það tengist túlkun 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Því sé haldið fram að um fordæmisgefandi ákvörðun sé að ræða en í raun séu fjölmörg dæmi um hús þar sem stefna aðalmænis fylgi ekki meginstefnu í landi.

Sveitarfélagið telji ákvörðun sína, sem byggð sé á 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga, vera í samræmi við þá skilmála sem fram komi í málsgreininni. Um svo óverulegt frávik sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Hvergi í samskiptum kæranda við sveitarfélagið hafi komið fram að þeir hagsmunir sem 3. mgr. 43. laganna fjalli um teljist skertir.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið og skráningu í landeignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar liggi tvær landeignir að umræddri lóð, þ.e. lóð 1E og landeign L223430 Stafafellsfjöll móður sem sé í óskiptri eigu kæranda og þriggja annarra. Á svæðinu séu í heild um 50–60 sumarbústaðalóðir. Landeign sú er kærandi sé meðeigandi að sé í raun um 190 ha opið svæði. Það sé ekki gert ráð fyrir í deiliskipulagi að eigendur þess lands geti reist mannvirki þar, skýli eða útbúið annan stað til íveru í nágrenni við lóð 1D.  Mörg hús séu með mænisstefnu þvert á hlíðar og ef rétt væri hjá kæranda að krafa um að „miðað sé við […] að stefna aðalmænis fylgi sem mest meginstefnu í landinu og verði að jafnaði samsiða hlíðum“ sé ófrávíkjanleg þá yrðu öll hús með annað form þaks en mænisþak ekki í samræmi við deiliskipulag. Mörg hús, þar á meðal hús kæranda á lóð nr. 7, séu með aðra útfærslu á þaki en mænisþak og því ljóst að útfærsla húsa í frístundabyggðinni sé fjölbreytt. Þá geti verið erfitt að uppfylla skilmála deiliskipulagsins um mænisstefnu á einhverjum lóðum þar sem svæðið sé það landfræðilega fjölbreytt að á mörgum lóðum geti aðalstefna mænis ekki verið samsíða hlíðum.

Ákvæði 43. gr. skipulagslaga fjalli um breytingar á deiliskipulagi og ljóst sé að hin kærða ákvörðun fjalli um frávik frá kröfum deiliskipulags. Kærandi sé aftur á móti að krefjast að ákvörðun um frávik frá deiliskipulagi verði felld úr gildi þar sem hún sé ekki í samræmi við skipulag. Forsenda þess að heimilt sé að beita undanþáguákvæði 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga sé að um svo óverulegt frávik sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Kæranda hafi í tvígang verið gefið færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í þeim tilgangi að athuga hvort hagsmunir hans myndu skerðast að einhverju leyti hvað varðaði framangreind atriði. Þar sem hvorki hann né aðrir aðilar hafi lýst því yfir að þessir hagsmunir myndu skerðast, hafi bæjarstjórn tekið ákvörðun um að heimila frávik frá viðmiðunarskilmálum deiliskipulagsins.

Athugasemdir leyfishafa: Bent er á að stefna mænis hafi á engan hátt áhrif á nálægar lóðir eða þá sem leið eigi um svæðið enda sé mænishæð hússins langt undir leyfilegri mænishæð samkvæmt deiliskipulagi. Með tilliti til alls verði ekki séð að grenndarhagsmunir eigi að nokkru leyti við og allra síst í tilfelli kæranda sem hafi enga aðra hagsmuni af málinu en að viðhalda deilum við aðila sem landeigandi hafi enga aðkomu að. Orðalag ákvæðis í deiliskipulagi sé á engan hátt afdráttarlaust eða eins skýrt og kærandi vísi til. Öllum þeim sem kynni sér málið sé ljóst að húsin fylgi sem mest meginstefnu hlíða og séu „að jafnaði“ samsíða þeim hlíðum sem séu í Stafafellsfjöllum. Fjöldi sumarhúsa séu í umræddri orlofsbyggð sem snúi á ýmsa vegu og meðal annars megi telja hátt í tug húsa sem séu algjörlega samsíða húsi leyfishafa, sé miðað við stefnu mænis.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekaði fyrri sjónarmið og benti á að erfitt væri að sjá hvaða hagsmuni sveitarfélagið hefði af því að virða gildandi skipulag að vettugi. Það væri hlutverk m.a. arkitekta að hanna svæðið svo vel færi en ekki einstakra nefndarmanna eða bæjarfulltrúa eftir hentugleika.

 Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 17. október 2024 um að heimila að víkja frá kröfu 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um breytingu á deiliskipulagi vegna byggingar frístundahúss á lóð nr. 1D í Stafafellsfjöllum á grundvelli 3. mgr. sama ákvæðis.

Í 43. gr. skipulagslaga er fjallað um málsmeðferð við breytingu á deiliskipulagi. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. skuli fara fram grenndarkynning. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Þá segir í 3. mgr. lagaákvæðisins að við útgáfu framkvæmda- eða byggingarleyfis geti sveitarstjórn heimilað að vikið sé frá kröfum 2. mgr. um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu þegar um svo óveruleg frávik sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn.

Ákvörðun bæjarstjórnar um að víkja frá kröfu um breytingu á deiliskipulagi var tekin á grundvelli nefndrar 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Sambærilega reglu er að finna í gr. 5.8.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en þar segir jafnframt að byggingarfulltrúi eða skipulagsfulltrúi geti að lokinni samþykkt sveitarstjórnar, um heimild til að víkja frá breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu, sbr. gr. 5.8.2. reglugerðarinnar, afgreitt byggingarleyfið eða framkvæmdaleyfið. Frávik séu bundin viðkomandi leyfi og verði ekki sjálfkrafa hluti skipulagsskilmála.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun

Kærandi er einn af fjórum eigendum lóðarinnar Stafafellsfjöll móður, L223430. Lóðin er tæplega 200 ha að stærð, en innan marka hennar er fjöldi frístundalóða sem skipt hefur verið úr upprunalegri lóð og seldar. Lóð sú er um ræðir í máli þessu, Stafafellsfjöll 1D, er ein þeirra. Sitt hvoru megin við lóð 1D eru lóðirnar Stafafellsfjöll 1B og 1E, en hvorug þeirra lóða er í eigu kæranda.

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi telji málið varða mikla hagsmuni fyrir sig, aðra lóðarhafa og aðra sem leið eigi um svæðið án þess þó að fram komi í hverju þessir hagsmunir felist. Þrátt fyrir að kærandi sé eigandi lóðar þeirrar sem lóð 1D var skipt úr verður ekki talið að hann verði fyrir grenndaráhrifum vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Frístundahús kæranda sem stendur á lóð Stafafellsfjalla 7 er í töluverðri fjarlægð frá lóð 1D og eru nokkrar lóðir og hús á milli þeirra. Verður að teknu tilliti til framangreinds ekki álitið að grenndarréttur kæranda sé skertur með þeim hætti að hann teljist hafa lögvarða hagsmuni í málinu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

7/2025 Sjókvíaeldi í Seyðisfirði

Með

Árið 2025, mánudaginn 20. janúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 7/2025, kæra á ákvörðun Matvælastofnunar frá 8. janúar 2025 um að synja beiðni um frest til að skila inn athugasemdum við auglýsta tillögu að rekstrarleyfi til sjókvíaeldis í Seyðisfirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til matvælaráðuneytisins, nú atvinnuvegaráðuneytis, dags. 10. janúar 2025, kærðu samtökin Vá! – félag um vernd fjarðar og eigendur jarðarinnar Dvergasteins synjun Matvælastofnunar um frest til að skila inn athugasemdum við auglýsta tillögu að rekstrarleyfi til sjókvíaeldis í Seyðisfirði. Kæran var framsend til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 16. s.m. með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Fara kærendur fram á að synjun Matvælastofnunar verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Með tölvupósti 7. janúar 2024 óskaði kærandi eftir því við Matvælastofnun að frestur til athugasemda við auglýsta tillögu að rekstrarleyfi til sjókvíaeldis í Seyðisfirði yrði framlengdur. Vísuðu kærendur til þess að nýju áhættumati frá Hafrannsóknarstofnun hefði verið frestað og fyrir vikið lægju ekki fyrir ný viðmið frá því að umfangsmiklar slysasleppingar og umhverfisslys hefðu orðið í atvinnugreininni. Erindinu var svarað með tölvupósti 8. s.m. þar sem fram kom að Matvælastofnun teldi ekki þörf á að framlengja umræddan frest. Ítrekuðu kærendur beiðnina með tölvupósti sama dag og var því erindi svarað með tölvupósti 10. s.m. þar sem vísað var til fyrra svars og beiðninni hafnað.

Niðurstaða: Ákvarðanir Matvælastofnunar, er lúta að skráningarskyldu eða veitingu, endurskoðun og afturköllun rekstrarleyfis til fiskeldis samkvæmt II., III. og V. kafla laga nr. 71/2008, um fiskeldi, sæta kæru til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt 2. mgr. 4. gr. sömu laga.

Í 26. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Í 2. mgr. 26. gr. segir enn fremur að ákvörðun, sem ekki bindi enda á mál, verði ekki kærð fyrr en málið hafi verið til lykta leidd. Í stjórnsýslulögum eru lögfestar tvær undan­tekningar frá ákvæði 2. mgr. 26. gr., þ.e. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga er varðar óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls og 2. mgr. 19. gr. sömu laga er varðar synjun eða takmörkun á aðgangi að gögnum máls. Verður ekki séð að þessar undantekningar eigi við í máli þessu.

Hin kærða ákvörðun varðar málsmeðferð Matvælastofnunar við útgáfu rekstrarleyfis en ekki er að ræða um ákvörðun er bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

148/2024 Gáseyri

Með

Árið 2025, föstudaginn 17. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður, Geir Oddsson auðlindafræðingur og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 148/2024, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 13. júní 2024, um að synja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku úr sjó við Gáseyri í Hörgársveit.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi innviðaráðuneytisins dags. 29. október 2024, var úrskurðarnefndinni framsend kæra Gáseyrar ehf., dags. 28. s.m., þar sem kærð er ákvörðun sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 13. júní 2024 um að synja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku úr sjó við Gáseyri í Hörgársveit. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hörgársveit 29. nóvember 2024.

Málavextir: Með umsókn um framkvæmdaleyfi, dags. 31. maí 2024, sótti kærandi um leyfi til efnistöku á 50.000–150.000 m3 að Gáseyri við ósa Hörgár, norðan við bæinn Gásir og sunnan landamerkja Skipalóns. Kærandi breytti síðar umsókn sinni á þann veg að efnistökumagn yrði allt að 50.000 m3. Fjallað var um umsóknina á fundi skipulags- og umhverfisnefndar Hörgársveitar, 11. júní 2024, þar sem bókað var að sótt væri um leyfi til að taka allt að 50.000 m3 af sandi á þremur árum úr sandnámu á staðnum og væri ætlunin að nota efnið við framkvæmdir vegna Dalvíkurlínu 2, vegna Móahverfis á Akureyri og fleiri framkvæmda. Var á fundinum bókað að lagt væri til við sveitarstjórn að ekki yrði veitt heimild fyrir nýrri efnistöku fyrr en skýrsla um úttekt á efnistöku lægi fyrir í tengslum við endurskoðun aðalskipulags Hörgársveitar. Var tillaga skipulags- og umhverfisnefndar samþykkt á fundi sveitarstjórnar 13. s.m. og er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Að beiðni kæranda var umsóknin tekin fyrir að nýju og var fjallað um hana á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 13. nóvember 2024 sem og á fundi sveitarstjórnar 14. s.m. Var niðurstaða þeirra funda sú að synjað var um umsóknina að nýju með sömu rökum og áður.

 Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að fyrirhuguð efnistaka á Gáseyri sé úr sjó. Efni hafi verið tekið á Gáseyri frá árinu 1940 og þar sé að finna algjörlega sjálfbæra sandnámu sem endurnýi sig á nokkrum dögum. Fyrirhuguð efnistaka falli að öllu leyti að aðalskipulagi og umhverfisstefnu sveitarfélagsins. Þá sé framkvæmdin hvorki háð umhverfismati né samþykki Skipulagsstofnunar vegna smæðar efnistökusvæðisins og þess magns sem sótt sé um leyfi til að moka upp. Skortur sé á fínum ílagnasandi í öllum Eyjafirði eins og þeim sem finnist á Gáseyri og því keyri verktakar hundruð kílómetra eftir sama efni sem þurfi svo að vinna á staðnum með tilheyrandi kostnaðarauka fyrir verkkaupa, oftast sveitarfélögin sjálf. Þá hafi sveitarfélagið gefið út framkvæmdaleyfi til efnistöku á Moldhaugnahálsi 23. október 2024 og því standist rök fyrir synjuninni ekki.

 Málsrök Hörgársveitar: Bent er á að kæra í máli þessu sé dagsett 28. október 2024, en umsókn kæranda um framkvæmdaleyfi hafi verið hafnað 13. júní s.á. og honum tilkynnt um það með tölvupósti 14. s.m. Í tilkynningunni hafi hins vegar ekki verið leiðbeint um kæruheimild eða kærufresti. Í ljósi þess langa tíma sem liðið hafi þar til kæran barst úrskurðarnefndinni hljóti að koma til skoðunar hvort vísa eigi kærunni frá nefndinni þar sem kærufrestur hafi verið liðinn. Verði hins vegar talið að kæra hafi borist innan kærufrests beri að hafna kröfum kæranda.

Að beiðni kæranda hafi verið farið yfir málið með honum og bent á hvaða frekari gögn þyrftu vegna framkvæmdaleyfis. Málið hafi verið tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 13. nóvember 2024 og sveitarstjórnar 14. s.m., en ódagsett skjal, þar sem efnismagni sé breytt í allt að 50.000 m3 og fram komi frekari röksemdir kæranda, hafi ekki legið fyrir við umfjöllun sveitarstjórnar 13. júní 2024.

Gáseyri sé ekki skilgreint efnistökusvæði á skipulagi og ekki verði veittar heimildir til nýrrar efnistöku í sveitarfélaginu fyrr en úttekt hafi farið fram í tengslum við endurskoðun aðalskipulags. Sú úttekt sé í vinnslu. Nú þegar séu ýmis svæði skilgreind á skipulagi sem efnistökusvæði, þ. á m. svæði á Moldhaugnahálsi. Samræmist umsóknir aðalskipulagi og/eða deiliskipulagi og uppfylli lagaskilyrði séu gefin út framkvæmdaleyfi.

Í gildandi deiliskipulagi fyrir Gáseyri, komi fram að náttúrufar þar sé sérstakt hvað varði plöntu- og dýralíf o.fl. og þar séu einnig fornminjar. Að auki sé þar tjörn og sjávarfitjar sem falli undir a-lið 1. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Einnig myndi þurfa umsögn Umhverfisstofnunar ef af efnistökunni yrði, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Á það er bent að jafnvel þó efnistaka sé undir 50.000 m3 þurfi, vegna staðsetningar, að liggja fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdar svo heimilt sé að gefa út leyfi til efnistöku.

Hið sérstaka náttúrufar Gáseyrar kalli á að sérstök varúð sé höfð þegar ákvarðanir séu teknar varðandi framkvæmdir á svæðinu, sbr. 9. gr. laga um náttúruvernd. Þá þurfi leyfisbeiðandi að leggja fram frekari gögn vegna umsóknarinnar, t.a.m. hver áhrifin verði á vatnshlotið, sbr. 11. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, en efnistakan sé úr strandsjó, sem falli undir lög um stjórn vatnamála, sbr. 2. gr. laganna. Fyrirhuguð efnistaka sé um 1 km frá þeim stað sem Hörgá renni til sjávar. Þó renni læna úr henni í tjörn þá sem sé á eyrinni, a.m.k. þegar nægt vatnsmagn sé, og kanna þurfi áhrif efnistöku á svæðið, sjávarbotn og einnig fiskigengd en silungur gangi meðfram ströndinni, o.fl.

Sé því ljóst að umsókn kæranda hafi ekki uppfyllt skilyrði laga og ekki hafi legið fyrir nauðsynleg gögn henni til stuðnings. Hafi sveitarfélaginu því verið rétt og skylt að hafna henni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 13. júní 2024 um að synja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku úr sjó við Gáseyri í Hörgársveit. Við töku hinnar kærðu ákvörðunar var af sveitarstjórn vísað til þess að ekki yrðu veittar heimildir til nýrrar efnistöku í sveitarfélaginu fyrr en úttekt á efnistöku hefði farið fram í tengslum við endurskoðun aðalskipulags. Ekki standi til að opna ný svæði til efnistöku fyrr en endurskoðun aðalskipulags liggi fyrir. Kæruheimild er í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að taka hana til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæra í máli þessu barst fyrst til innviðaráðuneytisins 28. október 2024 og var framsend til nefndarinnar degi síðar og var kærufrestur því liðinn. Í bréfi sveitarfélagsins til kæranda, dags. 14. júní 2024, þar sem tilkynnt var um afgreiðslu sveitarstjórnar á erindi hans var kæranda á hinn bóginn ekki leiðbeint um kæruheimild og kærufrest, svo sem mælt er fyrir um í 2. tl. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með hliðsjón af því þykir afsakanlegt að kæran hafi borist að liðnum kærufresti og verður málið því tekið til efnismeðferðar með hliðsjón af 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytinga lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falla undir lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Í 2. mgr. lagagreinarinnar kemur fram að öll efnistaka á landi, úr botni vatnsfalla og stöðuvatna og úr hafsbotni innan netlaga sé háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar. Þó er eiganda eða umráðamanni eignarlands heimil án leyfis minni háttar efnistaka til eigin nota nema um sé að ræða náttúruverndarsvæði eða jarðminjar eða vistkerfi sem njóta verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Í 3. mgr. 13. gr. skipulagslaga er kveðið á um að sá sem óski framkvæmdaleyfis skuli senda skriflega umsókn til sveitarstjórnar ásamt nauðsynlegum gögnum sem nánar skuli kveða á um í reglugerð. Í 7. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 eru í sex töluliðum talin upp þau gögn sem fylgja þurfi umsókn, þ. á m. er lýsing á framkvæmd og hvernig hún falli að gildandi skipulagsáætlunum og staðháttum, sbr. 3. tölul. Við útgáfu framkvæmdaleyfis skal sveitarstjórn skv. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir.

Samkvæmt Aðalskipulagi Hörgársveitar 2012–2024 er svæðið sem um ræðir skilgreint sem opið svæði. Í greinargerð skipulagsins þar sem fjallað er um opin svæði segir að allt vatnasvið Hörgár sé skilgreint sem fjarsvæði vatnsverndar en innan fjarsvæðisins séu skilgreind nokkur opin svæði. Þurfi því allar framkvæmdir á þeim svæðum frekari fyrirmæli Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra til þess að tryggja öryggi vatnsverndarsvæða. Í töflu er tiltekið um hvaða svæði ræði og er þar á meðal svæðið Gásar, auðkennt OP-6.

Í kafla 3. 2.7. í aðalskipulaginu er umfjöllun um efnistöku- og efnislosunarsvæði. Þar kemur fram að áætlanir um efnistöku skuli vera í samræmi við skipulagsáætlanir og taka mið af þeim verndarákvæðum sem þar eru sett fram, s.s. vegna hverfisverndar, svæða á náttúruminjaskrá, friðlýstra svæða og friðlýstra fornminja. Efnistaka skuli ekki fara nær friðlýstum fornminjum og öðrum merkum minjum en 100 m og ekki nær öðrum minjum en 15 m. Þá skuli taka tillit til jarðmyndana og vistkerfa sem njóta verndar skv. lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd. Í töflu er að finna yfirlit yfir núverandi og áætluð efnistökusvæði í Hörgársveit. Efnistöku- og efnislosunarsvæði eru merkt E á skipulagsuppdrætti. Ekki er gert ráð fyrir efnistöku á Gáseyri í aðalskipulaginu.

Í gildi er deiliskipulag fyrir Gáseyri sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 6. september 2021. Samkvæmt greinargerð skipulagsins tekur það til kirkju og þjónustuhúss, bílastæða og aðkomuvega auk tilgátubúða í grennd við minjar hins forna kaupstaðar að Gásum. Fram kemur að tilgangur deiliskipulagsins sé að stuðla að verndun og varðveislu minja, setja fram stefnu um framtíðaruppbyggingu á svæðinu og skapa umgjörð fyrir sögutengdan áfangastað og útivistasvæði. Sé hluti svæðisins á náttúruminjaskrá þar sem finnist plöntur á válista ásamt því að svæðið hafi alþjóðlegt náttúruverndargildi vegna fuglalífs. Auk þess sé ósasvæði Hörgár ásamt Gáseyri á náttúruminjaskrá. Þá kemur fram að miklar líkur séu á að fleiri fornminjar leynist á svæðinu en mældar hafi verið upp og því sé mikilvægt að ganga um svæðið allt með varúð.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 123/2010 nær skipulagsskylda til lands og hafs innan marka sveitarfélaga og skal bygging húsa og annarra mannvirkja ofan jarðar og neðan og aðrar framkvæmdir og aðgerðir sem hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess vera í samræmi við skipulagsáætlanir. Hin áformaða efnistaka kæranda er samkvæmt framanröktu ekki í samræmi við skipulag og verður þegar af þeim sökum að fallast á sjónarmið Hörgársveitar og synja kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 13. júní 2024 um að synja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku úr sjó við Gáseyri í Hörgársveit.

155/2024 Tjarnargata

Með

Árið 2024, mánudaginn 23. desember, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 155/2024, kæra vegna framkvæmda á lóðamörkum Tjarnargötu 24 og Kirkjugerðis 11 í Sveitarfélaginu Vogum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 10. nóvember 2024, kærir eigandi, Tjarnargötu 24, framkvæmdir á lóðamörkum Tjarnargötu 24 og Kirkjugerðis 11 í Sveitarfélaginu Vogum. Er þess krafist að eigandi lóðarinnar Kirkjugerðis 11 stöðvi framkvæmdir og að lóðamörk sem sett hafi verið árið 1969 fái að standa. Jafnframt er þess krafist að eigandinn gangi svo frá að ekki standi hætta af og að hann setji girðingu í stað þeirrar sem hann hafi tekið niður.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Vogum 20. nóvember 2024.

Málsatvik og rök: Ágreiningur um lóðamörk mun hafa staðið yfir um árabil milli eigenda lóðanna Tjarnargöt 24 og Kirkjugerði 11 í Sveitarfélaginu Vogum, en samkvæmt fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar voru húsin á nefndum lóðum byggð árið 1969 og 1978. Árið 2017 óskaði eigandi Kirkjugerðis 11 eftir því að lóðin yrði sett út og var mælingafyrirtæki falið það verk. Sama ár sótti eigandinn um leyfi til að stækka bílskúr á lóðinni að lóðamörkum. Var umsóknin grenndarkynnt og skilaði kærandi athugasemdum við þá kynningu þar sem byggingaráformunum var andmælt. Synjaði byggingarfulltrúi umsókninni þar sem ekki lægi fyrir samþykki allra eigenda aðliggjandi lóða. Á þessu ári mun eigandi Kirkjugerðis 11 hafa hafið framkvæmdir við gerð stoðveggjar á umræddum lóðamörkum.

Kærandi telur að lóðamörk sem gerð hafi verið árið 1969 eigi að standa en ekki þær mælingar sem gerðar hafi verið af fyrirtæki. Það sé einkennilegt að einn lóðareigandi geti farið fram á að færa lóðarmörk sinnar lóðar og hefji svo framkvæmdir án leyfis og samráðs við nágranna. Það sé einnig einkennilegt að ekkert leyfi hafi verið gefið út eða að ekkert eftirlit hafi verið með framkvæmdunum.

Sveitarfélagið Vogar tekur fram að ekkert byggingarleyfi hafi verið gefið út fyrir hinum umdeildu framkvæmdum. Um sé að ræða gerð stoðveggjar á lóðarmörkum Kirkjugerðis 11. Í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé tiltekið að allt viðhald lóða, girðinga, bílastæða og innkeyrslna, auk gerðar palla og annars frágangs á eða við jarðvegsyfirborð sé undanþegið byggingarleyfi, sbr. c- og d-lið ákvæðisins. Í leiðbeiningum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar komi jafnframt fram að allur frágangur á eða við jarðvegsyfirborð sé undanþeginn leyfi. Umræddur stoðveggur sé við jarðvegsyfirborð og því sé það afstaða sveitarfélagsins að ekki sé um byggingarleyfisskylda framkvæmd að ræða. Búið sé að steypa vegginn.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en telur það falla utan valdheimilda sinna að leggja fyrir stjórnvöld eða aðila máls að aðhafast með tilgreindum hætti í málum. Verður því ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda að ákveðin eignamörk fái að standa enda er úrskurðarnefndin ekki til þess bær að skera úr um eignaréttarlegan ágreining. Þá verður heldur ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda að úrskurðarnefndin geri eiganda Kirkjugerðis 11 að stöðva framkvæmdir og haga frágangi með tilteknum hætti.

Kæruheimild til nefndarinnar er m.a. að finna í lögum nr. 160/2010 um mannvirki vegna stjórnvaldsákvarðana sem teknar eru á grundvelli þeirra laga. Hið kærða ágreiningsefni í máli þessu lýtur að framkvæmdum á lóðamörkum Kirkjugerðis 11 og Tjarnargötu 24 í Sveitarfélaginu Vogum. Af hálfu sveitarfélagsins hefur verið upplýst að ekkert byggingarleyfi hafi verið gefið út, enda sé það mat þess að ekki sé um leyfisskylda framkvæmd að ræða. Liggur því fyrir að ekki hefur verið tekin ákvörðun á grundvelli mannvirkjalaga vegna hinna umdeildu framkvæmda. Verður af þeim sökum að líta svo á að ekki sé til að dreifa kæranlegri stjórnvaldsákvörðun sem skotið verður til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 1. gr. og 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður kærumáli þessu því vísað frá.

Rétt þykir að leiðbeina kæranda um að telji hann að framkvæmdir fari fram á lóð hans geti hann beint erindi til byggingarfulltrúa sveitarfélagsins þess efnis og farið fram á beitingu þvingunarúrræða á grundvelli 55. og 56. gr. laga um mannvirki. Afgreiðsla slíks erindis sætir eftir atvikum kæru til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

107/2024 Bráðabirgðaheimild Álfsnesi

Með

Árið 2024, föstudaginn 20. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.

Fyrir var tekið mál nr. 107/2024, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 5. september 2024 um að veita bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi á skotsvæði Skotfélags Reykjavíkur á Álfsnesi, sem gildir í fjóra mánuði frá þeim degi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 3. október 2024, kæra eigendur, Stekk, Reykjavík, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 5. september s.á. að veita Skotfélagi Reykjavíkur bráðabirgða­heimild fyrir starfsemi á skotsvæði á Álfsnesi. Af hálfu kærenda er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.­­­

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 4. október 2024 kæra A, f.h. Krummavíkur ehf., eiganda Spildu úr landi Móa, L125725, og B sömu ákvörðun Umhverfis­stofnunar. Verður að skilja málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Verður það mál, sem er nr. ­113/2024, sameinað máli þessu þar sem um sömu ákvörðun er að ræða, enda þykja hagsmunir kærenda ekki standa því í vegi. ­­

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfisstofnun 15. nóvember 2024.

Málavextir: Í á annan áratug hafa tvö félög rekið sinn hvorn skotvöllinn á Álfsnesi, þ.e. annars vegar Skotfélag Reykjavíkur sem er leyfishafi í fyrirliggjandi máli og hins vegar Skotveiðifélag Reykjavíkur og nágrennis. Með úrskurðum, uppkveðnum 24. september 2021, 30. desember 2022 og 11. maí 2023, í málum nr. 51/2021, 92/2021, 94/2022 og 19/2023, felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úr gildi ákvarðanir Heilbrigðiseftirlits Reykja­víkur frá 11. mars 2021, 4. maí s.á., 26. júlí 2022 og 25. janúar 2023 um að gefa út starfsleyfi þeim til handa til reksturs skotvalla á Álfsnesi þar sem starfsemin samræmdist ekki gildandi landnotkun aðalskipulags Reykjavíkur. Í tveimur fyrri málunum var um að ræða Aðalskipulag Reykjavíkur 2010–2030 og í seinni tveimur Aðal­skipulag Reykjavíkur 2040 en hið síðarnefnda tók gildi árið 2022. Með breytingu á aðal­skipulaginu, sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 30. júlí 2024 var skotæfinga­svæðið á Álfs­nesi skil­greint sem íþróttasvæði, ÍÞ9. Sóttu bæði félögin þann sama dag um nýtt starfsleyfi til heilbrigðis­nefndar Reykjavíkur.

Með bréfum til Umhverfisstofnunar, dags. 5. ágúst 2024, óskuðu félögin eftir bráðabirgða­heimildum fyrir starfsemina, skv. 7. gr. a. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Mánuði síðar eða hinn 5. september s.á. veitti stofnunin þeim hvora sína heimildina til fjögurra mánaða og hafa þær ákvarðanir báðar verið kærðar til úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála. Er hin kærða ákvörðun í máli þessu bráðabirgðaheimild til handa Skotfélagi Reykjavíkur.­

Málsrök kærenda: Af hálfu eigenda Stekks er gerð athugasemd við skamman frest sem veittur hafi verið til að gera athugasemdir við áform um útgáfu bráðabirgðaheimildar. Áformin hafi verið auglýst á vefsíðu Umhverfisstofnunar og ekki sé hægt að ætlast til að þeir vakti allar vefsíður til að fylgjast með þessum málum en þeir hafi vitað að umsóknir um starfsleyfi hefðu borist heilbrigðisnefnd og hefðu kærendur því fylgst með vefsíðu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

Starfsemi skotfélaganna hafi legið niðri meira og minna undanfarin ár. Skotíþróttamenn hafi þegar þjálfað sig og tekið skot­próf annars­staðar og sé því ekki brýn þörf á að hefja eða halda áfram starfsemi. Sumarið sé liðið og þýðingarlaust að vísa til þess að mesta starfsemin fari fram á sumrin. Frá upphafi starf­seminnar hafi ekki verið gerðar neinar ráðstafanir til að koma í veg fyrir eða minnka hávaða eða ónæði frá skotvöllunum eins og þó sé krafist í hinni umdeildu bráðabirgða­heimild.

Skilyrði um að starfsemin skuli vera í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða séu ómarktæk. Í lögum sé ekki að finna skil­greiningu á hljóðmælingar­að­ferð og ekki sé í gildi reglugerð sem segi til um hávaðamælingar fyrir skotvelli. Mælingar á skot­hvellum hér á landi upplýsi ekki um raunhávaða því hávaða­toppar mælist ekki en þess í stað notuð jafngildis­­hljóðstig. Skothvellir séu ekki venjulegur hávaði heldur fylgi þeim mikill, óreglu­­legur og hærri hávaði en frá t.d. umferð eða öðru því sem búast megi við í dreifbýli. Væri hæsti hljóðtoppur notaður mætti áætla að raunhávaði frá skotsvæðinu væri um 80–90 dB en ekki jafngildishljóð um 40 dB. Samkvæmt hinni umdeildu bráðabirgða­heimild skuli Heilbrigðis­eftirlit Reykja­víkur framkvæma vöktunar­mæl­ingar á hávaða. Við vinnslu síðasta starfsleyfis Skotfélags Reykjavíkur hafi Umhverfis­stofnun leið­beint eftirlitinu um að hún teldi rétt að notaðar væru sænskar leið­bein­ingar, þ.e. Allmänna råd om buller från skjut­banor, sem gefnar hefðu verið út af Natur­vårds­verket. Þar séu hávaðatoppar mældir ólíkt því sem tíðkast hefði hér á landi. Ef unnt eigi að vera að fylgja fyrrgreindu skilyrði hinnar umdeildu bráða­birgðaheimildar þurfi að vera ljóst hvaða mæliaðferðir og viðmið eigi að nota. Rekstraraðilar skotvallanna hafi haft nægan tíma til þess að undirbúa enduropnun þeirra með hliðsjón af hávaðamengun en engar breytingar verið gerðar, hvorki á skotstefnu né með annarri hljóð­einangrun sem teldist hávaða­minnkandi aðgerð. Ekki sé tímabært að gefa út leyfi fyrr en búið sé að gera fullnægjandi ráð­stafanir til að koma í veg fyrir truflun og ónæði. Þá hafi heilbrigðis­eftirlitið aðeins gert hávaða­mælingar vegna skotsvæðis Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis en engar nýjar mælingar séu til fyrir skot­svæði Skotfélags Reykjavíkur. Liggi því ekki fyrir hversu mikill hávaði stafi frá svæðinu og umhverfisáhrif ekki nægjanlega metin. Vegna deilna hefði verið rétt að hávaðinn væri mældur áður en starfsleyfi væri auglýst. Ekki sé þó hægt að treysta því að hljóðmælingar verði rétt framkvæmdar og þess því krafist að nýjar hljóðmælingar verði fram­kvæmdar af óvilhöllum og sérfróðum aðila sem þekki sænska reglugerð. Viðurkennt og sérhæft fyrir­tæki í hljóðmælingum og ráðgjöf hafi veitt kærendum ráðleggingar um hljóð­mælingar samkvæmt sænskri aðferð og mælingar þess hafi sýnt heilsu­spillandi hávaða frá skot­svæðinu (>85dB), sbr. skilgreiningu 7. gr. reglugerðar nr. 724/2008. Ekki sé hægt að treysta því að hljóðmælingar heilbrigðiseftirlitsins séu rétt framkvæmdar og sé þess því krafist að hávaðamælingar heilbrigðiseftirlitsins verði ógiltar og nýjar mælingar gerðar af óvilhöllum og sérfróðum aðila eftir fyrirmælum Umhverfis­stofnunar áður en nýtt starfsleyfi verði veitt.

Fyrir hönd eiganda Spildu í landi Móa er vísað til þess að í meira en áratug hafi verið rætt um að finna skotsvæðunum nýjan stað og sé þetta fimmta bráðabirgðaleyfið þeim til handa. Á spildunni hafi hús staðið autt í 16 ár og að ekki unnt að vera þar vegna hljóðmengunar, allt að 100 dB. Hvergi í heiminum sé notuð sú mæliaðferð, þ.e. Metod för immissionsmätning av externt industribuller, sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur noti, enda sé það ekki hægt. Sú mæliaðferð mæli meðalhávaða og hávaðatoppar séu þurrkaðir út en þegar skothávaði sé mældur sé eingöngu verið að mæla hávaðatoppa, ekki annað. Niðurstaða mælinga verði því röng og villandi. Norðurlöndin noti aðra mæliaðferð sem sérstaklega sé hönnuð til að mæla hávaða (hávaðatoppa) frá skotsvæðum, t.d. sænsku mæliaðferðina Allmänna råd om buller från skjutbanor. Þá hafi aldrei verið gerð jarðvegsmæling fyrir þungmálma á svæðinu eða jarðvegur verið hreinsaður. Heilbrigðiseftirlitið hafi viðurkennt að högl lendi á ströndinni sem og að þau stálhögl sem notuð séu innihaldi allt að 12% blý. Svæðið sé eitt fallegasta útivistarsvæðið í Reykja­vík með mikilvæga sjófuglabyggð, en margar tegundir sem þar haldi til séu í útrýmingarhættu eða á válista. Fjaran sé þó áfram menguð og hafi ástand hennar hvorki verið metið né áhrif mengunarinnar á umhverfið rannsökuð.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Af hálfu stofnunarinnar er byggt á því að uppfyllt hafi verið skil­yrði um brýna þörf og að fullnægjandi umsókn liggi fyrir hjá útgefanda starfsleyfis, sbr. 7. gr. a. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Frá árinu 2021 hafi starfs­leyfi skot­­félaganna á Álfsnesi ítrekað verið felld úr gildi með úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem þau hefðu ekki samræmst skipulagi. Starfsemi hafi því legið meira og minna niðri frá þeim tíma, með tilheyrandi áhrifum á rekstur og starfsemi félag­anna sem og á þjálfun skotíþrótta- og veiðimanna. Breyting á Aðal­skipulagi Reykjavíkur 2040 hafi tekið gildi 30. júlí 2024 og skotfélögin þann sama dag sótt um starfsleyfi heilbrigðis­nefndar Reykjavíkur. Nokkrum dögum síðar hafi þau svo sótt um bráða­birgðaheimildina. Við máls­meðferð sína hafi Umhverfisstofnun leitað eftir afstöðu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem hafi lýst því að það teldi fullnægjandi umsókn framkomna og að brýn þörf væri til að veita bráðabirgðaheimildina.

Samkvæmt 5. mgr. 7. gr. a. laga nr. 7/1998 séu því settar þröngar tímaskorður hve lengi hægt sé að gera athugasemdir við áform um veitingu bráðabirgðaheimildar. Vegna þess knappa tímaramma sé ljóst að ekki sé hægt að auglýsa lengi slík áform og hafi fjórir dagar verið fullnægjandi frestur í málinu.

Umhverfis­stofnun hafi borist ítarleg gögn vegna hljóðmælinga frá skotæfingasvæðunum. Þá hafi stofnunin beint fyrirspurn til heilbrigðiseftirlitsins um fyrirkomulag hljóð­mælinga. Meðal þeirra gagna sem hefðu borist hafi verið hljóðmælingar framkvæmdar af heilbrigðiseftirlitinu við Stekk, dags. 29. júní og 1. júlí 2022, sænskar niður­stöður sem mældu hávaða frá skot­æfingasvæði Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis ásamt jafngildishljóð­mælingum fyrir Stekk sömu daga. Niðurstöður hljóðmælinganna hefðu sýnt að hávaðinn færi ekki yfir mörk heilsuspillandi hávaða skv. 7. gr. reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða. Þá væru til jafngildis­hljóðmælingar og hljóðmælingar „með sænskum niðurstöðum“ framkvæmdar af heilbrigðis­eftirlitinu við Móavík og Móberg, næstu bæi við Móa, sem styðji ekki fullyrðingu um að hljóðmengun frá skot­æfinga­svæðunum nái 100 dB.

Við gerð skilyrða skv. 4. mgr. 7. gr. a. laga nr. 7/1998 hafi Umhverfisstofnun litið til eldri starfsleyfa og tekið upp öll viðeigandi skilyrði samkvæmt skipulagi. Í greinargerð með umsókn Skotfélags Reykjavíkur um starfsleyfi hafi komið fram að við uppbyggingu svæðis þess hafi ýmsar ráðstafanir verið gerðar. Jarðvegi hafi verið ýtt í u.þ.b. sjö metra háar manir við hagla­velli og við riffilvöll. Fengist til þess fjármagn þyrfti að hækka manirnar verulega þar sem jarðvegur hefði sigið talsvert frá opnun svæðisins. Eðlilegur undanfari útgáfu starfsleyfis sé að heilbrigðiseftirlitið leggi mat á þær mótvægisaðgerðir sem skotfélögin hafi framkvæmt og þær sem standi til. Verði aðgerðir til að draga úr hljóðmengun skoðaðar nánar við vinnslu starfs­leyfisins. Sé því ljóst að skilyrði nr. 5 í aðalskipulagsbreytingunni frá 2024 hafi verið uppfyllt og umsóknirnar fullnægjandi að því leyti. Skilyrðum bráðabirgðaheimildar sé sérstaklega ætlað að takmarka hljóð­mengun og tekið fram að starfsemin skuli vera í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 724/2008 og rekstrar­aðila gert að tryggja hljóðvarnir og koma í veg fyrir heilsuspillandi hávaða. Þá skuli heilbrigðis­eftirlitið framkvæma vöktunar­mælingar á hávaða frá starfseminni og geti það takmarkað opnunartíma eða gert ítarlegar kröfur um hávaðavarnir ef starfsemin valdi ónæði umfram það sem eðlilegt megi telja. Skilyrði leyfisins séu marktæk og feli í sér nauðsynlega takmörkun og vöktun á hávaða og veiti úrræði til að bregðast við mögulegri hávaðamengun. Eftirlit heilbrigðisnefndar lúti ekki kæru í málinu og sé það ekki hlutverk Umhverfis­stofnunar að véfengja fyrirliggjandi gögn fengin við framkvæmd heilbrigðiseftirlits. Það sé ekki heldur hlutverk stofnunarinnar við útgáfu bráðabirgðaheimildar að leggja mat á aðgerðir rekstraraðila til að lágmarka ónæði. Skilyrði í bráðabirgðaheimildinni banni notkun blýhagla og verulegar skorður séu settar við notkun riffilskota með blýi. Þá lúti ákvæði heimildarinnar að hreinsun á svæðinu og leggi þá skyldu á rekstraraðila að standa fyrir almennri hreinsun á svæðinu í samræmi við aðalskipulag.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Af hálfu eigenda Stekks er bent á að í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 sé búin til heimild til að endurnýja starfsleyfin fyrir skotsvæðin en ekki til þess að gefa út ný starfsleyfi. Starfsleyfi þeirra hafi fallið úr gildi á árunum 2020 og 2021. Síðan hafi öll starfsleyfi vegna þeirra verið úrskurðuð ógild og þar með hafi skotsvæðin í allt að fjögur ár verið án gildandi starfsleyfa. Sé því ekki um endurnýjun starfsleyfis að ræða heldur nýtt og því ekki rök til þess að gefa megi út starfsleyfi vegna starfseminnar. Þá er vísað til þess skilyrðis í aðalskipulagsbreytingu frá árinu 2024 að í umsókn um starfsleyfi skuli skotfélögin koma með tillögur að úrbótum á hljóðmengun.

Samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og tengdum reglugerðum sé um endurnýjun á starfsleyfi að ræða ef fyrirtæki eða starfsemi hafi verið með gilt starfsleyfi sem sé að renna út, starfsemi haldi áfram í óbreyttri mynd eða markmiðið sé að uppfæra leyfið sam­kvæmt nýjustu lögum, reglum og skilyrðum. Um nýtt starfsleyfi sé hins vegar að ræða ef starf­semin sé ný og hafi ekki haft starfsleyfi áður, mikilvæg breyting hafi orðið á starfseminni sem kalli á nýtt mat eða fyrra leyfi sé útrunnið og hafi ekki verið endurnýjað innan tiltekins tíma­frests eða fyrri starfsemi hafi legið niðri í langan tíma. Til að uppfylla tímamörk um það hvort um sé að ræða endurnýjun þyrfti að uppfylla það að starfsemin hefði verið í stöðugum rekstri. Ef leyfi renni út en starfsemin haldi áfram án hlés, sé endurnýjun leyfis yfirleitt möguleg þó að það þurfi að gerast án óeðlilegrar tafar. Sé starfsleyfi ekki endurnýjað fljótlega eftir að það renni út og starfsemi hafi verið í lágmarki eða alveg stöðvuð gæti leyfisveitandi metið það sem nýtt starfsleyfi. Hafi starfsemi legið niðri í einhvern tíma, oft mánuði eða ár, teljist umsókn almennt vera fyrir nýtt starfsleyfi, jafnvel þótt það sé sami rekstraraðili og á sama stað.

Mælir sem notaður hefði verið af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur til hljóðmælinga að Stekk hafi ekki verið settur upp við íbúðarhús heldur á ljósastaur í um 150 m fjarlægð og hafi þ.a.l. ekki mælt hávaða við húsið. Þá hafi skotsvæðin verið lokuð flesta dagana sem mælirinn hafi verið uppi og kærendur ekki orðið varir við skothvelli þá daga, utan einn. Sé því ekki unnt að nota þessar mælingar sem rök fyrir útgáfu leyfis. Umhverfistofnun hljóti að eiga að leggja mat á gögn sem henni berist, sér í lagi þegar neitað sé að fara eftir leiðbeiningum stofnunarinnar um aðferðarfræði við mælingar. Á skotsvæðunum á Álfsnesi séu margir skotstaðir fyrir mismunandi skotaðferðir, t.d. leirdúfur, haglabyssur og riffla. Alls séu á svæðunum 24 skotbrautir, þar af fjórar hjá Skotfélagi Reykja­víkur, að ótöldum brautum fyrir riffilbana hjá sama félagi. Heilbrigðiseftirlitið hafi einungis mælt hávaða við Stekk frá tveimur brautum en ekki frá brautum Skotfélags Reykjavíkur. Þar sem manir í kringum þeirra skotbrautir séu ekki nægilega háar þjóni þær engum tilgangi, hvorki sem hljóðeinangrun né til að fanga skot og verja fjöruna. Þá sé til staðar hljóðendurkast frá klettabelti og þyrfti því að hækka hljóðmanir enn frekar til að hljóðeinangra. Í Svíþjóð myndu skotsvæði t.d. aldrei vera sett upp þar sem hávaðamengun gæti lent á klettum og hafi hljóð­vistarsérfræðingur staðfest það.

Fyrir hönd eiganda Spildu í landi Móa er bent á að aldrei hafi verið sjö metra háar manir á Álfsnesi, þær séu tveir metrar og hafi verið tveir metrar fyrir 17 árum. Að halda því fram að þær hafi sigið um fimm metra sé hlægilegt. Hæð þeirra breyti þó engu, ekkert stoppi skothvelli nema hús og Esjan sem hvellirnir bergmáli meðfram. Engu máli skipti hve mikið spýtukofi sé einangraður þegar haglabyssurnar standi út úr honum. Mælingar á hávaða hafi verið rangar og hafi fulltrúi hjá heilbrigðiseftirlitinu viðurkennt að mælingar þess mældu ekki hávaðatoppa og því geti hávaði „sem toppur“ verið meiri.  Framkvæmd nýrra mælinga hafi einnig verið röng þar sem skotsvæðin hafi verið lokuð þegar mælar hafi verið settir á staura og útreikningur einnig verið rangur. Ekki sé hægt að líkja saman mælingum verkfræðifyrirtækis sem sérhæfir sig í hljóðmælingum og mælingum starfsmanna heilbrigðiseftirlitsins sem sumir hverjir hafi ekki lokið námskeiði í hljóðmælingum. Hvað varði hreinsun á svæðinu sé ólíklegt að af henni verði vegna kostnaðar, ef kleift sé að hreinsa fjöruna á annað borð.

Kærendur hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu sem verður ekki rakið nánar hér, en úrskurðar­nefndin hefur haft það til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum vegna málsins, en engar slíkar hafa borist úrskurðarnefndinni af hans hálfu.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 geta þeir einir kært stjórnvalds­ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæru­­aðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls um­fram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.­ Kærendur í máli þessu eru fjórir og vísa tveir þeirra til grenndarhagsmuna vegna fasteignar sinnar Stekks og tveir til grenndar­hagsmuna vegna fasteignar með heitið Spilda úr landi Móa.

Verður þeim kærendum sem eru eigendur framangreindra fasteigna, samkvæmt opinberri skráningu, játuð kæruaðild að málinu enda ekki talið unnt að útiloka að grenndaráhrif vegna skotvallarins gagnvart fasteignum þeirra séu slík að varðað geti í verulegu hagsmuni þeirra. Kærandinn B er ekki meðal skráðra eigenda fasteignarinnar Spilda í landi Móa. Þá hefur hann ekki búsetu þar. Í kæru hans og fyrirsvarsmanns eiganda fasteignarinnar er jafnframt vísað til sjónarmiða um náttúruvernd en slík sjónarmið lúta að atriðum sem teljast til almannahagsmuna en þau teljast að jafnaði ekki til einstaklingsbundinna hagsmuna. Telst hann því ekki eiga kæruaðild að máli þessu.

 Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds­ákvarðana og í ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlinda­mála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Tekur úrskurðarnefndin því lögmæti kærðrar ákvörðunar til endur­skoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvöld að framkvæma til­teknar athafnir. Verður samkvæmt framangreindu ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um ógildingu á mælingum á hávaða eða kröfu um nýjar mælingar.

 Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal allur atvinnurekstur, sbr. viðauka I, II og IV hafa gilt starfsleyfi sem Umhverfisstofnun eða heilbrigðis­nefndir gefa út. Vinnsla umsókna um starfsleyfi byggist á lögum nr. 7/1998 og reglum settum með stoð í þeim. Með 7. gr. a. laga nr. 7/1998, sem bættist við lögin með 3. gr. laga nr. 28/2023 um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir ásamt fleiri lögum, er Umhverfisstofnun fengin heimild í sérstökum undantekningartilvikum, þegar brýn þörf er talin á því að hefja eða halda áfram starfsemi sem heyrir undir lögin, til að veita bráða­birgða­heimild fyrir starfsemi sem ella væri starfsleyfisskyld. Bráðabirgðaheimildina er unnt að veita til allt að eins árs og er heimilt að framlengja hana um allt að eitt ár að uppfylltum skilyrðum ákvæðisins.

Kærendur hafa gert við það athugasemd að frestur þeirra til að koma að athugasemdum hafi verið of knappur og að birting á vefsvæði Umhverfisstofnunar væri ekki fullnægjandi auglýsing enda hafi þeir fylgst með vefsvæði útgefanda starfsleyfis en ekki Umhverfisstofnunar.

Samkvæmt 5. mgr. 7. gr. a. laga nr. 7/1998 skal umsókn um bráðabirgðaheimild afgreidd eins fljótt og mögulegt er og eigi síðar en fjórum vikum eftir að fullnægjandi umsókn berst og skal frestur til að gera skriflegar athugasemdir við veitingu bráðabirgðaheimildar ekki vera lengri en ein vika frá auglýsingu Umhverfisstofnunar. Að öðru leyti gildi ákvæði 7. gr. laganna um útgáfu bráðabirgðaheimildar. Samkvæmt þessu eiga þær málsmeðferðarkröfur sem gerðar eru til leyfisveitanda við útgáfu starfsleyfis samkvæmt þeirri lagagrein því einnig við um útgáfu bráðabirgðaheimilda, að breyttu breytanda, að því undanskildu að málsmeðferðartími Umhverfisstofnunar er skemmri og frestur almennings til að koma að athugasemdum af þeim sökum styttri, þ.e. ekki lengri en ein vika samanborið við fjórar vikur þegar um tillögu að starfsleyfi er að ræða, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998. Samkvæmt þeirri málsgrein skal útgefandi starfsleyfis vinna tillögur að starfsleyfi skv. 1. mgr. og auglýsa opinberlega hvers efnis þær eru og hvar megi nálgast þær. Er þetta endurtekið í 8. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit að því viðbættu að þar er tekið fram að útgefandi starfsleyfis skuli auglýsa opinberlega á vefsíðu sinni hvers efnis þau eru og hvar megi nálgast þau. Reglugerðarákvæðið tiltekur þó ekki bráðabirgðaheimild þar sem reglugerðinni hefur ekki verið breytt frá gildistöku breytingalaga nr. 28/2023. Samkvæmt 5. mgr. 7. gr. laganna skal útgefandi auglýsa á vefsvæði sínu útgáfu og gildistöku starfsleyfa og telst það opinber birting. Þá skal útgefandi starfsleyfis samkvæmt 6. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998 hafa upplýsingar um umsóknir um starfsleyfi skv. 1. mgr., umsóknir um breytingu á starfsleyfi í endurskoðun, útgáfu starfsleyfa, ákvarðanir um þörf á endurskoðun, endurskoðuð starfsleyfi, breytt starfsleyfi, kæruheimildir, skráningar, sbr. 8. gr., framlengd starfsleyfi, bráðabirgða­heimildir fyrir starfsemi og aðrar viðeigandi upplýsingar á vefsvæði sínu.

Með auglýsingu á vefsíðu sinni, dags. 26. ágúst 2024, lýsti Umhverfisstofnun því yfir að hún áformaði útgáfu bráðabirgðaheimildar fyrir Skotfélag Reykjavíkur vegna skotvallar á Álfsnesi. Kom þar fram að skotfélagið óskaði eftir bráðabirgðaheimild til að hægt væri að halda áfram starfsemi á meðan starfsleyfi þess væri í vinnslu og að Umhverfisstofnun væri heimilt skv. 7. gr. a. laga nr. 7/1998 að veita bráðabirgðaheimild að skilyrðum uppfylltum. Athugasemda­frestur væri til og með 30. ágúst 2024. Af hálfu Umhverfisstofnunar hefur verið upplýst að engar athugasemdir hafi borist í tilefni af auglýsingunni. Í ljósi þeirra tímamarka sem Umhverfisstofnun eru sett í 5. mgr. ákvæðisins uppfyllti framangreindur frestur skilyrði þess.

Er af framangreindu ljóst að sá annmarki var á birtingu auglýsingar ­á áformum Umhverfisstofnunar um útgáfu heimildarinnar að í auglýsingu á vefsíðu Umhverfisstofnunar var hvorki að finna tillögu að bráðabirgða­heimild skotfélagsins eða upplýsingar um hvar mætti nálgast hana, sbr. 1. mgr. 7. gr., sbr. 5. mgr. 7. gr. a. laga nr. 7/1998. Þá skal tiltekið að almennt við útgáfu starfsleyfa eða bráðabirgðaheimilda er ekki gert ráð fyrir því að leitað sé sjónarmiða þeirra sem hugsanlega eiga hagsmuna að gæta af því að sú starfsemi verði heimiluð sem umsókn nær til.

Í 3. málsl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 er kveðið á um að allur atvinnurekstur sem sótt er um starfsleyfi fyrir skuli vera í samræmi við skipulag samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Álíta verður að þessi regla gildi óskoruð við töku ákvörðunar um veitingu bráðabirgða­heimildar skv. ákvæði 7. gr. a. laganna.

Með breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040, sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 30. júlí 2024, var landnotkun þess svæðis sem hér um ræðir breytt. Fólst breytingin í því að þar hefur verið skilgreint íþróttasvæði, ÍÞ9. Samrýmist rekstur skotvallar á svæðinu samkvæmt þessu nú gildandi landnotkun í aðalskipulagi. Í breytingunni er nánar kveðið á um að heimilt verði að endurnýja starfsleyfi til félaga á svæðinu allt til ársloka 2028 og eru í 11. töluliðum talin upp skilyrði og mót­vægis­aðgerðir sem krafa er gerð er um að starfsleyfi þeirra hafi að geyma, „í það minnsta“.

Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. a. laga nr. 7/1998 skal bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi háð skilyrðum sem Umhverfisstofnun setur í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til viðkomandi starfsemi, sbr. 9. gr. Í hinni umdeildu bráðabirgðaheimild eru sett skilyrði fyrir starfseminni en Umhverfisstofnun hefur greint frá því að öll viðeigandi skilyrði aðalskipulags hafi verið tekin upp. Þeirra á meðal er opnunartími takmarkaður, skylt er að nota hljóðdeyfa í riffilskotfimi, haga skal skotstefnu þannig að hávaði valdi sem minnstu ónæði, eftir því sem reglur í keppnisskotfimi leyfa,  notkun blýhagla er óheimil, skylt er að nota blýlaus riffilskot eða skot með lágmarksinnihaldi blýs séu blýlaus skot ekki valkostur og óheimilt er að nota leirdúfur með tjörubindiefni. Þá skal rekstraraðili standa fyrir hreinsun á svæðinu í samræmi við aðalskipulag en þar kemur fram að hreinsun skuli fara fram á svæðinu og í fjöru, að minnsta kosti tvisvar á ári þar sem högl, tóm skothylki, forhlöð og leirdúfurestar er hreinsað.

Samkvæmt skipulaginu skal í starfsleyfi setja fram ríkar kröfur um vöktun hávaða frá starf­seminni og skal heilbrigðiseftirlit við undirbúning starfsleyfis framkvæma hávaðamælingar samkvæmt gildandi reglugerðum og opinberum leiðbeiningum. Tvisvar á ári framkvæmi heilbrigðiseftirlitið tímabundnar vöktunarmælingar með síritandi hávaðamælum. Í hinni um­deildu bráðabirgðaheimild er kveðið á um að starfsemin skuli vera í samræmi við ákvæði reglu­gerðar um hávaða nr. 724/2008 og skuli rekstraraðili tryggja hljóðvarnir og koma í veg fyrir heilsuspillandi hávaða í samræmi við ákvæði aðalskipulagsins. Skal heilbrigðiseftirlitið framkvæma vöktunar­mælingar á hávaða frá starfseminni og geti það takmarkað opnunartímann eða gert ítarlegri kröfur um hávaðavarnir ef starfsemin veldur ónæði í umhverfinu umfram það sem eðlilegt sé. Eins og mál þetta er vaxið og þar sem bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi verður ekki fyllilega jafnað til starfsleyfis, svo sem hvað tímalengd varðar, verða greind skilyrði hinnar umdeildu bráðabirgðaheimildar álitin fullnægjandi.

Skilja verður umsögn Umhverfisstofnunar með þeim hætti að óregluleg starfsemi Skotfélags Reykjavíkur undan­farin ár vegna ógildinga á starfsleyfum þess leiði til þess að skilyrði 7. gr. a. laga 7/1998 um brýna þörf sé uppfyllt. Þá er þar einnig vísað til þess að í athugasemdum í frumvarpi því er varð að breytingarlögum nr. 28/2023 komi m.a. fram að ríkar ástæður verði að mæla með veitingu bráðabirgðaheimildar með hliðsjón af þeim hagsmunum sem undir eru hverju sinni. „Þetta geti komið til þegar ekki er mögulegt að gefa tímanlega út starfsleyfi eða breytingu á starfsleyfi þegar brýn þörf er á að halda starfsemi áfram, koma starfsemi af stað eða breyta henni.“ Í 7. gr. a. laganna er einnig gert að skilyrði fyrir veitingu bráðabirgðarheimildar fyrir starfsemi að fullnægjandi umsókn um starfsleyfi liggi fyrir hjá útgefanda. Af hálfu Umhverfis­stofnunar hefur því verið lýst að afrit umsóknar um starfsleyfi hafi fylgt umsókn skotfélagsins um bráðabirgðarheimild fyrir starfsemi og að kallað hefði verið eftir afstöðu Heilbrigðis­eftirlits Reykjavíkur til þess hvort hún teldist fullnægjandi sem hefði staðfest það og greint frá því að á meðan málsmeðferð umsóknarinnar vari hafi félagið enga aðstöðu til æfinga. Af hálfu úrskurðarnefndarinnar eru ekki gerðar athugasemdir við þetta efnislega mat stjórnvalda.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að efnisrök hafi búið að baki þeirri matskenndu ákvörðun Umhverfisstofnunar að skilyrði um brýna þörf umsækjanda væri uppfyllt vegna þeirrar ákvörðunar sem um er deilt í máli þessu. Í ljósi tímabundins eðlis ákvörðunarinnar verður að öllu framangreindu virtu ekki talið að slíkir annmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun að ógildingu varði. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar Umhverfisstofnunar frá 5. september 2024 um að veita bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi á skotsvæði Skotfélags Reykjavíkur á Álfsnesi.

Að öðru leyti er kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

108/2024 Bráðabirgðaheimild Álfsnesi

Með

Árið 2024, föstudaginn 20. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.

Fyrir var tekið mál nr. 108/2024, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 5. september 2024 um að veita bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis á skotsvæði félagsins á Álfsnesi, sem gildir í fjóra mánuði frá þeim degi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 3. október 2024, kæra eigendur, Stekk, 162 Reykjavík, þá ákvörðun Umhverfis­stofnunar frá 5. september s.á. að veita Skotveiðifélagi Reykjavíkur og nágrennis bráða­birgða­heimild fyrir starfsemi á skotsvæði félagsins á Álfsnesi. Af hálfu kærenda er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfum og kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er bárust nefndinni 3., 4. og 5. október 2024 kæra eftirtaldir aðilar sömu ákvörðun Umhverfisstofnunar: A og B, eigendur Móabergs. C, D, E ásamt F, hluti eigenda Móa­víkur. G, annar eigenda Hvamms. C, f.h. Krummavíkur ehf., eiganda Spildu úr landi Móa, L125725, og H. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi, starfsemin stöðvuð og til vara að opnunartími svæðisins verði styttur um helming. Verða þau mál sem eru nr. 109, 110, 111 og 112/2024 sameinuð máli þessu þar sem um sömu ákvörðun er að ræða, enda þykja hagsmunir kærenda ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfisstofnun 15. nóvember 2024.

Málavextir: Í á annan áratug hafa tvö félög rekið sinn hvorn skotvöllinn á Álfsnesi, þ.e. annars vegar Skotveiðifélag Reykjavíkur og nágrennis, Skotreyn, sem er leyfishafi í fyrirliggjandi máli og hins vegar Skotfélag Reykjavíkur. Með úrskurðum, uppkveðnum 24. september 2021, 30. desember 2022 og 11. maí 2023, í málum nr. 51/2021, 92/2021, 94/2022 og 19/2023, felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úr gildi ákvarðanir Heilbrigðiseftirlits Reykja­víkur frá 11. mars 2021, 4. maí s.á., 26. júlí 2022 og 25. janúar 2023 um að gefa út starfsleyfi þeim til handa til reksturs skotvalla á Álfsnesi þar sem starfsemin samræmdist ekki gildandi landnotkun aðalskipulags Reykjavíkur. Í tveimur fyrri málunum var um að ræða Aðalskipulag Reykjavíkur 2010–2030 og í seinni tveimur Aðal­skipulag Reykjavíkur 2040, en hið síðar­nefnda tók gildi árið 2022. Með breytingu á aðal­skipulaginu, sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 30. júlí 2024, var skotæfinga­svæðið á Álfs­nesi skil­greint sem íþrótta­svæði, ÍÞ9. Sóttu bæði félögin þann sama dag um nýtt starfsleyfi heilbrigðis­nefndar Reykjavíkur.

Með bréfum til Umhverfisstofnunar, dags. 5. ágúst 2024, óskuðu félögin eftir bráðabirgðaheimildum fyrir starfsemina, skv. 7. gr. a. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Mánuði síðar eða hinn 5. september s.á. veitti stofnunin þeim hvora sína heimildina og hafa þær ákvarðanir báðar verið kærðar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Er hin kærða ákvörðun í máli þessu bráðabirgðaheimild til handa Skotveiðifélagi Reykjavíkur og nágrennis en með úrskurði úrskurðarnefndarinnar fyrr í dag í máli nr. 107/2024, var skorið úr um lögmæti bráðabirgðaheimildar Skotfélags Reykjavíkur.

Málsrök kærenda: Af hálfu eigenda Stekks er gerð athugasemd við skamman frest sem veittur hafi verið til að gera athugasemdir við áform um útgáfu bráðabirgðaheimildar. Áformin hafi verið auglýst á vefsíu Umhverfisstofnunar og ekki sé hægt að ætlast til að þeir vakti allar vefsíður til að fylgjast með þessum málum en þeir hafi vitað að umsóknir um starfsleyfi hefðu borist heilbrigðisnefnd og hefðu kærendur því fylgst með vefsíðu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

Starfsemi skotfélaganna hafi legið niðri meira og minna undanfarin ár. Skotíþróttamenn hafi þegar þjálfað sig og tekið skot­próf annars­staðar og sé því ekki brýn þörf á að hefja eða halda áfram starfsemi. Sumarið sé liðið og þýðingarlaust að vísa til þess að mesta starfsemin fari fram á sumrin. Frá upphafi starf­seminnar hafi ekki verið gerðar neinar ráðstafanir til að koma í veg fyrir eða minnka hávaða eða ónæði frá skotvöllunum eins og þó sé krafist í hinni umdeildu bráðabirgða­heimild.

Skilyrði um að starfsemin skuli vera í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða séu ómarktæk. Í lögum sé ekki að finna skil­greiningu á hljóðmælingar­að­ferð og ekki sé í gildi reglugerð sem segi til um hávaðamælingar fyrir skotvelli. Mælingar á skot­hvellum hér á landi upplýsi ekki um raunhávaða því hávaða­toppar mælist ekki en þess í stað séu notuð jafngildis­hljóðstig. Skothvellir séu ekki venjulegur hávaði heldur fylgi þeim mikill, óreglu­­legur og hærri hávaði en frá t.d. umferð eða öðru því sem búast megi við í dreifbýli. Væri hæsti hljóðtoppur notaður mætti áætla að raunhávaði frá skotsvæðinu væri um 80–90 dB en ekki jafngildishljóð um 40 dB. Samkvæmt hinni umdeildu bráðabirgða­heimild skuli Heilbrigðiseftirlit Reykja­víkur framkvæma vöktunar­mæl­ingar á hávaða. Við vinnslu síðasta starfsleyfis Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis hafi Umhverfis­stofnun leið­beint eftirlitinu um að hún teldi rétt að notaðar væru sænskar leið­bein­ingar, þ.e. Allmänna råd om buller från skjut­banor, sem gefnar hefðu verið út af Natur­vårds­verket. Þar séu hávaðatoppar mældir ólíkt því sem tíðkast hefði hér á landi. Ef unnt eigi að vera að fylgja fyrrgreindu skilyrði hinnar umdeildu bráða­birgða­heimildar þurfi að vera ljóst hvaða mæliaðferðir og viðmið eigi að nota. Rekstraraðilar skot­vallanna hafi haft nægan tíma til þess að undirbúa enduropnun þeirra með hliðsjón af hávaða­mengun en engar breytingar verið gerðar, hvorki á skotstefnu né með annarri hljóð­einangrun sem teldist hávaða­minnkandi aðgerð. Ekki sé tímabært að gefa út leyfi fyrr en búið sé að gera fullnægjandi ráð­stafanir til að koma í veg fyrir truflun og ónæði. Viðurkennt og sérhæft fyrir­tæki í hljóðmælingum og ráðgjöf hafi veitt kærendum ráðleggingar um hljóð­mælingar samkvæmt sænskri aðferð og hafi mælingar þess sýnt heilsu­spillandi hávaða frá skot­svæðinu (>85dB), sbr. skilgreiningu 7. gr. reglugerðar nr. 724/2008. Ekki sé hægt að treysta því að hljóðmælingar heilbrigðiseftirlitsins séu rétt framkvæmdar og sé þess því krafist að hávaðamælingar heilbrigðiseftirlitsins verði ógiltar og nýjar mælingar gerðar af óvilhöllum og sérfróðum aðila eftir fyrirmælum Umhverfis­stofnunar áður en nýtt starfsleyfi verði veitt.

Fyrir hönd eiganda Spildu í landi Móa er vísað til þess að í meira en áratug hafi verið rætt um að finna skotsvæðunum nýjan stað og sé þetta fimmta bráðabirgðaleyfið þeim til handa. Á jörðinni hafi hús staðið autt í 16 ár og sé ekki unnt að vera þar vegna hljóðmengunar, allt að 100 dB. Hvergi í heiminum sé notuð sama mæliaðferð og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur noti, þ.e. Metod för immissions­mätning av externt industribuller, enda sé það ekki hægt. Sú mæliaðferð mæli meðalhávaða og séu hávaðatoppar þurrkaðir út en þegar skothávaði sé mældur sé eingöngu verið að mæla hávaðatoppa, ekki annað. Niðurstaða mælinga verði því röng og villandi. Norðurlöndin noti mæliaðferð sem sérstaklega sé hönnuð til að mæla hávaða (hávaðatoppa) frá skotsvæðum, t.d. sænsku mæliaðferðina Allmänna råd om buller från skjutbanor. Þá hafi aldrei verið gerð jarðvegsmæling fyrir þungmálma á svæðinu eða jarðvegur verið hreinsaður. Heilbrigðiseftirlitið hafi viðurkennt að högl lendi á ströndinni sem og að þau stálhögl sem séu notuð innihaldi allt að 12% blý. Svæðið sé eitt fallegasta útivistarsvæði Reykja­víkur með mikilvæga sjófuglabyggð, en margar tegundir sem þar haldi til séu í útrýmingarhættu eða á válista. Fjaran sé þó áfram menguð og hafi ástand hennar hvorki verið metið né áhrif mengunarinnar á umhverfið rannsökuð.

Til viðbótar við framangreint er af hálfu eigenda Móabergs einnig vísað til þess að við útgáfu hinnar umdeildu bráðabirgðaheimildar hafi ekki verið horft til sjónarmiða eigenda í ná­grenninu. Eigendur Móavíkur vísi til þess að hávaðinn valdi þeim ónæði enda séu Íslendingar vanir þeim almennu mannréttindum að þurfa ekki að dvelja í skotgný. Eigandi Hvamms bendir á að ekki verði séð að tekið hafi verið tillit til íbúa í nágrenni við ákvörðun um opnunartíma skotsvæðisins.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Af hálfu stofnunarinnar er byggt á því að uppfyllt hafi verið skil­yrði um brýna þörf og að fullnægjandi umsókn liggi fyrir hjá útgefanda starfsleyfis, sbr. 7. gr. a. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Frá árinu 2021 hafi starfs­leyfi skot­­félaganna á Álfsnesi ítrekað verið felld úr gildi með úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem þau hefðu ekki samræmst skipulagi. Starfsemi hafi því legið meira og minna niðri frá þeim tíma með tilheyrandi áhrifum á rekstur og starfsemi félag­anna sem og á þjálfun skotíþrótta- og veiðimanna. Breyting á Aðal­skipulagi Reykjavíkur 2040 hafi tekið gildi 30. júlí 2024 og skotfélögin þann sama dag sótt um starfsleyfi heilbrigðis­nefndar Reykjavíkur. Nokkrum dögum síðar hafi þau svo sótt um bráða­birgðaheimildina. Við máls­meðferð sína hafi Umhverfisstofnun leitað eftir afstöðu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem hafi lýst því að það teldi fullnægjandi umsókn framkomna og að brýn þörf væri til að veita bráðabirgðaheimildina.

Samkvæmt 5. mgr. 7. gr. a. laga nr. 7/1998 séu því settar þröngar tímaskorður hve lengi hægt sé að gera athugasemdir við áform um veitingu bráðabirgðaheimildar. Vegna þess knappa tímaramma sé ljóst að ekki sé hægt að auglýsa lengi slík áform og hafi fjórir dagar verið fullnægjandi frestur í málinu.

Umhverfis­stofnun hafi borist ítarleg gögn vegna hljóðmælinga frá skotæfingasvæðunum. Þá hafi stofnunin beint fyrirspurn til heilbrigðiseftirlitsins um fyrirkomulag hljóðmælinga. Meðal þeirra gagna sem hefðu borist hafi verið hljóðmælingar framkvæmdar af heilbrigðiseftirlitinu við Stekk, dags. 29. júní 2022 og 1. júlí s.á.­, sænskar niðurstöður sem mældu hávaða frá s­kot­æfingasvæði Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis ásamt jafngildishljóðmælingum fyrir Stekk sömu daga. Niðurstöður hljóðmælinganna hefðu sýnt að hávaðinn færi ekki yfir mörk heilsuspillandi hávaða skv. 7. gr. reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða. Þá væru til jafn­gildis­hljóð­mælingar og hljóðmælingar „með sænskum niðurstöðum“ framkvæmdar af heilbrigðis­eftirlitinu við Móavík og Móberg, næstu bæi við Móa, sem styðji ekki fullyrðingu um að hljóðmengun frá ­svæðunum nái 100 dB.

Við gerð skilyrða skv. 4. mgr. 7. gr. a. laga nr. 7/1998 hafi Umhverfisstofnun litið til eldri starfsleyfa og tekið upp öll viðeigandi skilyrði samkvæmt aðalskipulagi. Í greinargerð með umsókn Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis um starfsleyfi hafi verið greint frá þremur tillögum félagsins til að draga úr hljóðmengun, þ.e. að takmarka opnunartíma, einangra skothús og snúa skot­­stefnu skotvalla. Eðlilegur undanfari útgáfu starfsleyfis sé að heilbrigðiseftirlitið leggi mat á þær mótvægisaðgerðir sem skotfélögin hafi framkvæmt og fyrirhugaðar aðgerðir. Verði aðgerðir til að draga úr hljóðmengun skoðaðar nánar við vinnslu starfs­leyfisins. Sé því ljóst að skilyrði nr. 5 í aðalskipulagsbreytingunni frá 2024 hafi verið uppfyllt og umsóknirnar fullnægjandi að því leyti. Skilyrðum bráðabirgðaheimildar sé sérstaklega ætlað að takmarka hljóð­mengun og tekið fram að starfsemin skuli vera í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 724/2008 og rekstrar­aðila gert að tryggja hljóðvarnir og koma í veg fyrir heilsuspillandi hávaða. Þá skuli heilbrigðis­eftirlitið framkvæma vöktunar­mælingar á hávaða frá starfseminni og geti það takmarkað opnunartíma eða gert ítarlegar kröfur um hávaðavarnir ef starfsemin valdi ónæði umfram það sem eðlilegt megi telja. Skilyrði leyfisins séu marktæk og feli í sér nauðsynlega takmörkun og vöktun á hávaða og veiti úrræði til að bregðast við mögulegri hávaðamengun. Eftirlit heilbrigðisnefndar lúti ekki kæru í málinu og sé það ekki hlutverk Umhverfis­stofnunar að véfengja fyrirliggjandi gögn fengin við framkvæmd heilbrigðiseftirlits. Það sé ekki heldur hlutverk stofnunarinnar við út­gáfu bráðabirgðaheimildar að leggja mat á aðgerðir rekstraraðila til að lágmarka ónæði. Þá séu ákvæði um hreinsun á svæðinu sem leggi skyldu á rekstraraðila að standa fyrir almennri hreinsun í samræmi við aðalskipulag. Þá sé skilyrði er lúti að takmörkuðum opnunartíma skotæfingasvæðisins  til þess gert að draga úr áhrifum af völdum hávaða sem sé sett með tilliti til liðar 1. í aðalskipulagsbreytingunni þar sem segi að opnunartími skotæfingasvæðanna skuli vera takmarkaður og ákveðinn í starfsleyfi og miðist að jafnaði við fimm daga í viku.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Af hálfu eigenda Stekks er bent á að í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 sé búin til heimild til að endurnýja starfsleyfin fyrir skotsvæðin en ekki til þess að gefa út ný starfsleyfi. Starfsleyfi þeirra hafi fallið úr gildi á árunum 2020 og 2021. Síðan hafi öll starfsleyfi vegna þeirra verið úrskurðuð ógild og þar með hafi skotsvæðin í allt að fjögur ár verið án gildandi starfsleyfa. Sé því ekki um endurnýjun starfsleyfis að ræða heldur nýtt og því ekki rök til þess að gefa megi út starfsleyfi vegna starfseminnar. Þá er vísað til þess skilyrðis í aðalskipulagsbreytingu frá árinu 2024 að í umsókn um starfsleyfi skuli skotfélögin koma með tillögur að úrbótum á hljóðmengun.

Samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og tengdum reglugerðum sé um endurnýjun á starfsleyfi ef fyrirtæki eða starfsemi hafi verið með gilt starfsleyfi sem sé að renna út, starfsemi haldi áfram í óbreyttri mynd eða markmiðið sé að uppfæra leyfið samkvæmt nýjustu lögum, reglum og skilyrðum. Um nýtt starfsleyfi sé hins vegar að ræða ef starfsemin sé ný og hafi ekki haft starfsleyfi áður, mikilvæg breyting hafi orðið á starfseminni sem kalli á nýtt mat eða fyrra leyfi sé útrunnið og hafi ekki verið endurnýjað innan tiltekins tímafrests eða fyrri starfsemi hafi legið niðri í langan tíma. Til að uppfylla tímamörk um það hvort um sé að ræða endurnýjun þyrfti að uppfylla það að starfsemin hefði verið í stöðugum rekstri. Ef leyfi renni út en starfsemin haldi áfram, án hlés, sé endurnýjun leyfis yfirleitt möguleg, þó að það þurfi að gerast án óeðlilegrar tafar. Sé starfsleyfi ekki endurnýjað fljótlega eftir að það renni út og starfsemi hafi verið í lágmarki eða alveg stöðvuð gæti leyfisveitandi metið það sem nýtt starfsleyfi. Hafi starfsemi legið niðri í einhvern tíma, oft mánuði eða ár, teljist umsókn almennt vera fyrir nýtt starfsleyfi, jafnvel þótt það sé sami rekstraraðili og á sama stað.

Mælir sem notaður hefði verið af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur til hljóðmælinga að Stekk hafi ekki verið settur upp við íbúðarhús heldur á ljósastaur í um 150 m fjarlægð og hafi þ.a.l. ekki mælt hávaða við húsið. Þá hafi skotsvæðin verið lokuð flesta dagana sem mælirinn hafi verið uppi og kærendur ekki orðið varir við skothvelli þá daga, utan einn. Sé því ekki unnt að nota þessar mælingar sem rök fyrir útgáfu leyfis. Umhverfistofnun hljóti að eiga að leggja mat á gögn sem henni berist, sér í lagi þegar neitað sé að fara eftir leiðbeiningum stofnunarinnar um aðferðarfræði við mælingar. Á skotsvæðunum á Álfsnesi séu margir skotstaðir fyrir mis­munandi skotaðferðir, t.d. leirdúfur, haglabyssur og riffla. Alls séu á svæðunum 24 skotbrautir, þar af yfir 20 hjá Skotveiðifélagi Reykja­víkur og nágrennis. Heilbrigðiseftirlitið hafi einungis mælt hávaða við Stekk frá tveimur brautum þess félags. Skotbraut fjögur á svæði Skot­veiði­félagsins sem nefnd er í hljóðmælingarskýrslum heilbrigðis­eftirlitsins sé, eins og fleiri brautir, utan við manir til hægri eða til austurs. Allar hinar skotbrautirnar vísi í norður og þar með í átt að íbúðarhúsi kærenda sem og mörgum öðrum húsum í grenndinni. Engar manir séu í norðurátt og þar með sé svo til engin hljóðeinangrun þegar skotið sé af þeim velli sem hafi 17 skotbrautir. Miklu skipti í hvaða átt skotið sé og þurfi að mæla meira en bara tvo handa­hófskennda staði/skotbrautir. Skotæfingasvæði Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis sé um 30 m.y.s. en hús að Stekk og fleiri hús séu meira en 40–50 m.y.s. Eigi hljóðmanir að gera gagn til hljóðeinangrunar þurfi þær að vera allavega 20 m háar. Þá sé til staðar hljóðendurkast frá klettabelti og þyrfti því að hækka hljóðmanirnar enn frekar. Í Svíþjóð myndu skotsvæði t.d. aldrei vera sett upp þar sem hávaðamengun gæti lent á klettum og hafi hljóð­vistarsérfræðingur staðfest það.

Fyrir hönd eiganda Spildu í landi Móa er bent á að engu skipti hve mikið spýtukofi sé einangraður þegar haglabyssur standi út úr honum. Mælingar á hávaða hafi verið rangar og fulltrúi hjá heilbrigðiseftirlitinu hafi viðurkennt að mælingar þess mældu ekki hávaðatoppa og því geti hávaði „sem toppur“ verið meiri.  Framkvæmd nýrra mælinga hafi einnig verið röng þar sem skot­svæðin hafi verið lokuð þegar mælar hafi verið settir á staura og útreikningur einnig verið rangur. Ekki sé hægt að líkja saman mælingum verkfræðifyrirtækis sem sérhæfir sig í hljóð­mælingum og mælingum starfsmanna heilbrigðiseftirlitsins sem sumir hverjir hafi ekki lokið námskeiði í hljóðmælingum. Hvað varði hreinsun á svæðinu sé ólíklegt að af henni verði vegna kostnaðar ef kleift sé að hreinsa fjöruna á annað borð.

Kærendur hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu sem verður ekki rakið nánar hér, en úrskurðar­nefndin hefur haft það til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum vegna málsins, en engar slíkar hafa borist úrskurðarnefndinni af hans hálfu.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lög­varða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæru­­aðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstak­legra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu veru­legir. Þá skal kæra til nefndarinnar vera skrifleg og undirrituð, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. sömu laga.­ Kærendur í máli þessu eru 12 talsins. Vísa þeir til grenndarhagsmuna vegna fasteigna. Tveir kærenda vegna fasteignar sinnar að Stekk, einn kærandi vegna fasteignar sinnar að Hvammi, þrír kærenda vegna fasteignar sinnar að Móabergi og tveir til grenndar­hagsmuna vegna fasteignar með heitið Spilda úr landi Móa. Hvað síðast greindu fasteignina varðar er samkvæmt fasteignaskrá einn eigandi að henni. Varðandi þá kærendur sem eru eigendur að Móabergi hefur aðeins einn þeirra undirritað kæru í máli þeirra. Verður þeim kærendum sem eru eigendur framangreindra fasteigna, samkvæmt opinberri skráningu, og hafa undirritað kærur sínar, játuð kæruaðild að málinu enda ekki talið unnt að útiloka að grenndaráhrif vegna skotvallarins gagnvart fasteignum þeirra séu slík að varðað geti í verulegu hagsmuni þeirra og formskilyrði 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um undirritun kæru uppfyllt. Kærandinn H er ekki meðal skráðra eigenda fasteignarinnar Spilda í landi Móa. Þá hefur hann ekki búsetu þar. Í kæru hans og fyrirsvarsmanns eiganda fasteignarinnar er jafnframt vísað til sjónarmiða um náttúruvernd en slík sjónarmið lúta að atriðum sem teljast til almanna­hagsmuna en þau teljast að jafnaði ekki til einstaklingsbundinna hagsmuna. Telst hann því ekki eiga kæruaðild að máli þessu. Þá verður ekki hjá öðru komist en að vísa frá kröfum B  og C sem ekki hafa undirritað kæru í málinu.

 Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds­ákvarðana og í ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlinda­mála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Tekur úrskurðarnefndin því lögmæti kærðrar ákvörðunar til endur­skoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvöld að framkvæma til­teknar athafnir. Verður samkvæmt framangreindu ekki tekin afstaða til krafna kærenda um ógildingu mælinga á hávaða, kröfu um nýjar mælingar eða um að opnunartími verði skertur.

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal allur atvinnurekstur, sbr. viðauka I, II og IV hafa gilt starfsleyfi sem Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefndir gefa út. Vinnsla umsókna um starfsleyfi byggist á lögum nr. 7/1998 og reglum settum með stoð í þeim. Með 7. gr. a. laga nr. 7/1998, sem bættist við lögin með 3. gr. laga nr. 28/2023 um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir ásamt fleiri lögum, er Umhverfisstofnun fengin heimild í sérstökum undantekningartilvikum, þegar brýn þörf er talin á því að hefja eða halda áfram starfsemi sem heyrir undir lögin, til að veita bráðabirgða­heimild fyrir starfsemi sem ella væri starfsleyfisskyld. Bráðabirgðaheimildina er unnt að veita til allt að eins árs og er heimilt að framlengja hana um allt að eitt ár að uppfylltum skilyrðum ákvæðisins.

Kærendur hafa gert við það athugasemd að frestur þeirra til að koma að athugasemdum hafi verið of knappur og að birting á vefsvæði Umhverfisstofnunar væri ekki fullnægjandi auglýsing enda hafi þeir fylgst með vefsvæði útgefanda starfsleyfis en ekki Umhverfisstofnunar.

Samkvæmt 5. mgr. 7. gr. a. laga nr. 7/1998 skal umsókn um bráðabirgðaheimild afgreidd eins fljótt og mögulegt er og eigi síðar en fjórum vikum eftir að fullnægjandi umsókn berst og skal frestur til að gera skriflegar athugasemdir við veitingu bráðabirgðaheimildar ekki vera lengri en ein vika frá auglýsingu Umhverfisstofnunar. Að öðru leyti gildi ákvæði 7. gr. laganna um útgáfu bráðabirgðaheimildar. Samkvæmt þessu eiga þær málsmeðferðarkröfur sem gerðar eru til leyfisveitanda við útgáfu starfsleyfis samkvæmt þeirri lagagrein því einnig við um útgáfu bráðabirgðaheimilda, að breyttu breytanda, að því undanskildu að málsmeðferðartími Umhverfisstofnunar er skemmri og frestur almennings til að koma að athugasemdum af þeim sökum styttri, þ.e. ekki lengri en ein vika samanborið við fjórar vikur þegar um tillögu að starfsleyfi er að ræða, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998. Samkvæmt þeirri málsgrein skal útgefandi starfsleyfis vinna tillögur að starfsleyfi skv. 1. mgr. og auglýsa opinberlega hvers efnis þær eru og hvar megi nálgast þær. Er þetta endurtekið í 8. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit að því viðbættu að þar er tekið fram að útgefandi starfsleyfis skuli auglýsa opinberlega á vefsíðu sinni hvers efnis þau eru og hvar megi nálgast þau. Reglugerðarákvæðið tiltekur þó ekki bráðabirgðaheimild þar sem reglugerðinni hefur ekki verið breytt frá gildistöku breytingalaga nr. 28/2023. Samkvæmt 5. mgr. 7. gr. laganna skal útgefandi auglýsa á vefsvæði sínu útgáfu og gildistöku starfsleyfa og telst það opinber birting. Þá skal útgefandi starfsleyfis samkvæmt 6. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998 hafa upplýsingar um umsóknir um starfsleyfi skv. 1. mgr., umsóknir um breytingu á starfsleyfi í endurskoðun, útgáfu starfsleyfa, ákvarðanir um þörf á endurskoðun, endurskoðuð starfsleyfi, breytt starfsleyfi, kæruheimildir, skráningar, sbr. 8. gr., framlengd starfsleyfi, bráðabirgða­heimildir fyrir starfsemi og aðrar viðeigandi upplýsingar á vefsvæði sínu.

Með auglýsingu á vefsíðu sinni, dags. 26. ágúst 2024, lýsti Umhverfisstofnun því yfir að hún áformaði útgáfu bráðabirgðaheimildar fyrir Skotveiðifélag Reykjavíkur og nágrennis vegna skotvallar á Álfsnesi. Kom þar fram að félagið óskaði eftir bráðabirgðaheimild til að hægt væri að halda áfram starfsemi á meðan starfsleyfi þess væri í vinnslu og að Umhverfisstofnun væri heimilt skv. 7. gr. a. laga nr. 7/1998 að veita bráðabirgðaheimild að skilyrðum uppfylltum. Athugasemdafrestur væri til og með 30. ágúst 2024. Af hálfu Umhverfisstofnunar hefur verið upplýst að engar athugasemdir hafi borist í tilefni af auglýsingunni. Í ljósi þeirra tímamarka sem Umhverfisstofnun eru sett í 5. mgr. ákvæðisins uppfyllti framangreindur frestur skilyrði þess.

Er af framangreindu ljóst að sá annmarki var á birtingu auglýsingar ­á áformum Umhverfis­stofnunar um útgáfu heimildarinnar að í auglýsingu á vefsíðu Umhverfisstofnunar var hvorki að finna tillögu að bráðabirgða­heimild skotfélagsins eða upplýsingar um hvar mætti nálgast hana, sbr. 1. mgr. 7. gr., sbr. 5. mgr. 7. gr. a. laga nr. 7/1998. Þá skal tiltekið að almennt við útgáfu starfsleyfa eða bráðabirgðaheimilda er ekki gert ráð fyrir því að leitað sé sjónarmiða þeirra sem hugsanlega eiga hagsmuna að gæta af því að sú starfsemi verði heimiluð sem umsókn nær til.

Í 3. málsl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 er kveðið á um að allur atvinnurekstur sem sótt er um starfsleyfi fyrir skuli vera í samræmi við skipulag samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Álíta verður að þessi regla gildi óskoruð við töku ákvörðunar um veitingu bráðabirgða­heimildar skv. ákvæði 7. gr. a. laganna.

Með breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040, sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 30. júlí 2024, var landnotkun þess svæðis sem hér um ræðir breytt. Fólst breytingin í því að þar hefur verið skilgreint íþróttasvæði, ÍÞ9. Samrýmist rekstur skotvallar á svæðinu samkvæmt þessu nú gildandi landnotkun í aðalskipulagi. Í breytingunni er nánar kveðið á um að heimilt verði að endurnýja starfsleyfi til félaga á svæðinu allt til ársloka 2028 og eru í 11. töluliðum talin upp skilyrði og mót­vægis­aðgerðir sem krafa er gerð er um að starfsleyfi þeirra hafi að geyma, „í það minnsta“.

Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. a. laga nr. 7/1998 skal bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi háð skilyrðum sem Umhverfisstofnun setur í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til viðkomandi starfsemi, sbr. 9. gr. Í hinni umdeildu bráðabirgðaheimild eru sett skilyrði fyrir starfseminni en Umhverfisstofnun hefur greint frá því að öll viðeigandi skilyrði aðalskipulags hafi verið tekin upp. Þeirra á meðal er opnunartími takmarkaður, haga skal skotstefnu þannig að hávaði valdi sem minnstu ónæði, notkun blýhagla er óheimil og óheimilt er að nota leirdúfur með tjörubindiefni. Þá skal rekstraraðili standa fyrir hreinsun á svæðinu í samræmi við aðalskipulag en þar kemur fram að hreinsun skuli fara fram á svæðinu og í fjöru, að minnsta kosti tvisvar á ári þar sem högl, tóm skothylki, forhlöð og leirdúfurestar er hreinsað.

Samkvæmt skipulaginu skal í starfsleyfi setja fram ríkar kröfur um vöktun hávaða frá starf­seminni og skal heilbrigðiseftirlit við undirbúning starfsleyfis framkvæma hávaðamælingar samkvæmt gildandi reglugerðum og opinberum leiðbeiningum. Tvisvar á ári framkvæmi heilbrigðiseftirlitið tímabundnar vöktunarmælingar með síritandi hávaðamælum. Í hinni um­deildu bráðabirgðaheimild er kveðið á um að starfsemin skuli vera í samræmi við ákvæði reglu­gerðar um hávaða nr. 724/2008 og skuli rekstraraðili tryggja hljóðvarnir og koma í veg fyrir heilsuspillandi hávaða í samræmi við ákvæði aðalskipulagsins. Skal heilbrigðiseftirlitið fram­kvæma vöktunarmælingar á hávaða frá starfseminni og geti það takmarkað opnunartímann eða gert ítarlegri kröfur um hávaðavarnir ef starfsemin veldur ónæði í umhverfinu umfram það sem eðlilegt sé. Eins og mál þetta er vaxið og þar sem bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi verður ekki fyllilega jafnað til starfsleyfis, svo sem hvað tímalengd varðar, verða greind skilyrði hinnar umdeildu bráðabirgðaheimildar álitið fullnægjandi.

Skilja verður umsögn Umhverfisstofnunar með þeim hætti að óregluleg starfsemi Skotveiði­félags Reykjavíkur og nágrennis undanfarin ár vegna ógildinga á starfsleyfum þess leiði til þess að skilyrði 7. gr. a. laga 7/1998 um brýna þörf sé uppfyllt. Þá er þar einnig vísað til þess að í athugasemdum í frumvarpi því er varð að breytingarlögum nr. 28/2023 komi m.a. fram að ríkar ástæður verði að mæla með veitingu bráðabirgðaheimildar með hliðsjón af þeim hagsmunum sem undir eru hverju sinni. „Þetta geti komið til þegar ekki er mögulegt að gefa tímanlega út starfsleyfi eða breytingu á starfsleyfi þegar brýn þörf er á að halda starfsemi áfram, koma starfsemi af stað eða breyta henni.“ Í 7. gr. a. laganna er einnig gert að skilyrði fyrir veitingu bráðabirgðarheimildar fyrir starfsemi að fullnægjandi umsókn um starfsleyfi liggi fyrir hjá útgefanda. Af hálfu Umhverfisstofnunar hefur því verið lýst að afrit umsóknar um starfsleyfi hafi fylgt umsókn skotveiðifélagsins um bráðabirgðarheimild fyrir starfsemi og að kallað hefði verið eftir afstöðu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til þess hvort hún teldist fullnægjandi sem hefði staðfest það og greint frá því að á meðan málsmeðferð umsóknarinnar vari hafi félagið enga aðstöðu til æfinga. Af hálfu úrskurðarnefndarinnar eru ekki gerðar athugasemdir við þetta efnislega mat stjórnvalda.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að efnisrök hafi búið að baki þeirri matskenndu ákvörðun Umhverfisstofnunar að skilyrði um brýna þörf umsækjanda væri uppfyllt vegna þeirrar ákvörðunar sem um er deilt í máli þessu. Í ljósi tímabundins eðlis ákvörðunarinnar verður að öllu framangreindu virtu ekki talið að slíkir annmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun að ógildingu varði. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar Umhverfisstofnunar frá 5. september 2024 um að veita bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi á skotsvæði Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis á Álfsnesi.

Að öðru leyti er kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.