Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

8/2005 Úrskurður vegna kæru Hreins Pálssonar gegn Bláskógabyggð.

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2005 föstudaginn 18. nóvember, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7 í Reykjavík. Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2005 Hreinn Pálsson, Asparteigi 2, 270 Mosfellsbæ gegn Bláskógabyggð.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I.

Stjórnsýslukæra Hreins Pálssonar, Asparteigi 2, 270 Mosfellsbæ er dags. 27. apríl, 2005. Kærð er stjórnvaldsákvörðun Bláskógabyggðar á rotþróargjaldi fyrir árið 2005 vegna sumarhúss Hreins, B-gata lóð 17 í landi Miðdals í Bláskógabyggð. Þess er krafist að ákvörðun um rotþróargjald verði felld úr gildi. Þá er og krafist lækkunar á sorphirðugjaldi og að það verði ákvarðað í samræmi við birta og gildandi gjaldskrá sveitarfélagins. Hreinn er hér eftir nefndur kærandi, en Bláskógabyggð kærði.. Kærða var sent afrit af gögnum kæranda með bréfi dags. 16. maí s.l. Svarbréf kærða er dags. 20. júní s.l. Var svarbréf það sent kæranda til umsagnar og sendi hann svarbréf dags. 12. júlí 2005. Stjórnsýslukæru fylgdu eftirfarandi gögn:

1) Afrit af seðli um álagningu fasteignagjalda 2005.

2) Afrit af bréfi kærða, skýringar á álagningarreglum fasteignagjalda fyrir Bláskógabyggð árið 2005.

Greinargerð kærða fylgdu eftirfarandi gögn:

1) Samþykkt Bláskógabyggðar, samþykkt Heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 15. febrúar 2005 og auglýsing umhverfisráðuneytis í Stjórnartíðindum

B 53/2005.

2) Gjaldskrá vegna seyrulosunar frá nóvember 2004, samþykkt Heilbrigðiseftirlits Suðurlands frá 15. mars, 2005 og auglýsing í Stjórnartíðindum.

3) Upplýsingar og staðreyndir, Umhverfisstofnun maí 2005.

4) Gjaldskrá vegna sorphirðu í Bláskógabyggð.

II.

Í stjórnsýslukæru dags. 27. apríl 2005 gerir kærandi þær kröfur að úrskurðarnefnd felli úr gildi stjórnvaldsákvörðun kærða um álagningu rotþróargjalds á kæranda vegna sumarhúss kæranda við B-götu lóð 17 fyrir árið 2005. Þá er þess og krafist að sorpgjald verði lækkað og ákvarðað í samræmi við birta og gildandi gjaldskrá kærða.

Málavöxtum lýsir kærandi svo að hann séi eigandi sumarhúss í landi Miðdals. Hafi honum fyrir nokkrum dögum borist í pósti ódagsettur álagningarseðill fasteignagjalda svo og rotþróar- og sorpgjalds. Telji kærandi að sorphirðugjaldið hafi verið ákvarðað of hátt og ekki í samræmi við birta og gildandi gjaldskrá. Aftur á móti telji kærandi að rotþróargjald verði ekki lagt á þar sem til þess skorti allar heimildir. Gerir kærandi þær kröfur að kærði rökstyðji og leggi fram gildandi og birta gjaldskrá sem heimili kærða töku sorpgjalds og að fjárhæð sorpgjalds verði ekki ákveðin hærri en gjaldskrá segi til um. Krafist er ógildingar rotþróargjalds þar sem engin gild réttarheimild hafi verið til staðar til álagningar gjaldsins þegar það hafi verið lagt á. Þannig hafði samþykkt um gjaldið staðfest af umhverfisráðherra ekki verið birt þegar gjaldið hafi verið lagt á. Á sama máta hafði gjaldskráin ekki verið birt í Stjórnartíðindum. Því fari þessi álagningarháttur í bága við skýr fyrirmæli 5. mgr. 25.gr. laga nr. 7/1998 svo og 7. gr. l. nr. 64/1943 um birtingu laga og stjórnvaldserinda.

Bendir kærandi á að fari svo að gjaldskráin verði birt áður en úrskurður í máli þessu sé uppkveðinn sé álagningin engu að síður ólögleg, þar sem hún sé þá afturvirk og taki til mánaða sem þegar séu liðnir. Vísar kærandi um ólögmæti afturvirkra álagningu þjónustugjalda til dóms Hrd. 1984:560.

Kærandi kveður að í öðru lagi sé því haldið fram að kærði hafi farið út fyrir valdheimildir sínar þegar hann hafi skyldað alla íbúða sveitarfélagsins til þess að kaupa af sér þjónustu um seyrulosun. Hvorki lög né reglugerðir geti leitt til þessarar niðurstöðu. Á hinn bóginn sé íbúum sveitarfélaga skylt að sjá til þess að seyrulosun sé í samræmi við lög og reglugerðir og hafi heilbrigðisfulltrúi og eftir atvikum starfsmenn sveitarfélaga löglegar heimildir til þess að hafa eftirlit með því og eftir atvikum að láta framkvæma seyrulosun á kostnað fasteignareiganda ef hann vanræki að kaupa að sér slíka þjónustu aðila sem hafi opinber leyfi til þess að sinna henni.

Kveður kærandi að hvernig sem á sé litið sé því álagning seyrulosunargjald ólöglegt og beri að ógilda það. Kærandi áskilur sé rétt til þess að koma að nýjum lagarökum og kröfum. Ennfremur að koma að andmælum við þau gögn sem kærði kunni að leggja fram.

Svarbréf kæranda v. greinargerðar kærða er dags. 12. júlí s.l. Ítrekar kærandi kröfur sínar, en gerir kröfu um að sorpgjald verði lækkað fyrir janúar til apríl 2005 og ákvarðað í samræmi við birta og þágildandi gjaldskrá kærða nr. 96/2004.

Kærandi ítrekar enn að kærði hafi farið út fyrir valdheimildir sínar þegar hann hafi tekið ákvörðun um að skylda alla íbúa sveitarfélagsins til þess að kaupa af sér þjónustu um seyrulosun. Hvorki lög né reglugerðir leiði til þessarar niðurstöðu. Slík íþyngjandi ákvörðun verði á grundvelli lögmætisreglunnar að eiga sér bæði skýra og ótvíræða lagastoð sem kærandi kveður ákvörðun ekki hafa, enda komi það ekki fram í greinargerð kærða. Bendir kærandi á að ekki megi rugla saman skorti á lagaheimild til þess fyrir kærða að þvinga borgara til að kaupa þessa þjónustu af kærða og þeirri skylda sumarhúsaeigenda að láta losa seyru hjá sér í samræmi við lög og reglur. Kveður kærandi að hinn einfaldi kjarni málsins sé að 25. gr. l. nr. 7/1998 veiti kærða ekki lagaheimild til þess að skylda fasteignareigendur kærða til þess að kaupa hjá sér þjónustu um seyrulosun. Á grundvelli lögmætisreglu gildi því frelsi borgaranna til þess að velja sér viðsemjanda svo lengi sem hann hefur tilskilin leyfi til þess að sinna slíkri þjónustu og farið sé að öðru leyti að gildandi lögum og reglum um seyrulosun.

Kærandi krefst þess til vara að rotþróargjald verði ógilt þar sem engin gild réttarheimild hafi verið til staðar til álagningar gjaldsins þegar það hafi verið lagt á. Þannig hafi samþykkt um gjaldið ekki verið birt í Stjórnartíðindum þegar gjaldið hafi verið lagt á. Eldri gjaldskrá hafi ekki heldur verið til staðar. Fari því þessi álagningarháttur í bága við skýr fyrirmæli 5. mgr. 25. gr. l. nr. 7/1998 svo og 7. gr. l. nr. 64/1943. Þá ítrekar kærandi og skýrir kröfur varðandi sorphirðugjald sem hafi verið ákveðið of hátt fyrir mánuðina febrúar til apríl og ekki í samræmi við gildandi gjaldskrá nr. 96/2004 og krefst hann því endurgreiðslu.

III.

Greinargerð kærða er dagsett 20. júní, 2005. Vísar sveitarstjóri kærða til þess að sveitarstjórn kærða hafi rætt ítarlega um losun seyru úr rotþróm. Vandamál þetta hafi farið vaxandi, en að auki hafi komið fram vitneskja um að losun hafi ekki verið sinnt og í kjölfar þess komið upp vandamál m.a. mengun vatnsbóla og sýkingar. Hafi málið orðið flóknara þar sem bændur með haugsugur hafi ekki heimild til að sjá um losun og urðun seyru heldur þurfi til þess viðurkenndar aðferðir og tækjabúnað. Til þess að uppfylla skyldur kærða hafi verið samþykktar reglur um seyrulosun, gjaldskrá og ennfremur hafi verkið verið boðið út og það tilkynnt sérstaklega með ýmsu móti. Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hafi verið með í ráðum, enda þurfi samþykki þess til að koma að aflokinni umræðu í sveitarstjórn.

Sveitarstjóri kærða kveður heimild kærða vera í 14. gr. rgl. um meðhöndlun seyru. Skv. 25. gr. l. nr. 7/1998 sé sveitarstjórnum heimilt að setja samþykktir og gjaldskrá um meðferð úrgangs og skólps. Sveitarstjóri bendir á að þó sveitarfélög hafi skýrar heimildir til þess að leggja á seyrulosunargjöld sé ljóst að heimildir sveitarfélags nái ekki til annars en að leggja á gjöld fyrir meiru en áföllnum kostnaði við þennan verkþátt. Er ennfremur bent á að ákvörðun kærða um seyrulosun sé tekin í ljósi brýnna heildarhagsmuna og í samræmi við lög og reglugerðir. Bendir kærði á að gjaldskrá vegna seyrulosunar sé byggð á greiðsludreifingu til þriggja ára sem eigi að nægja fyrir einni losun. Gjaldskrá kærða vegna næsta árs muni byggja á kostnaði vegna ársins 2005 og gjald vegna ársins 2007 á raunkostnaði áranna 2005 og 2006. Bent er ennfremur á að um sé að ræða árgjald en ekki mánaðargjald þó greiðslu sé dreift og innheimt um leið og fasteignagjöld. Sé framangreint skoðað í heild er það skoðun sveitarstjóra kærða að vísa skuli kröfum kæranda á bug, en til vara sé kærði tilbúinn til að greiða viðkomandi hlutfallslega af álögðu árgjaldi 2005 til þess tíma er auglýsing um gjaldskrá birtist í Stjórnartíðindum.

IV.

Ágreiningur máls þessa snýst um hækkun sorphirðugjalds annars vegar og hins vegar álagningu seyrulosunargjalds. Gjaldskrá kærða um sorphirðu var birt 27. apríl 2005. Gildistími hækkunar getur ekki verið fyrr en frá og með þeim tíma enda kemur fram í gjaldskrá fyrir 2005 að frá og með sama tíma falli úr gildi eldri gjaldskrá fyrir sorphirðu í Bláskógabyggð.

Í 14. gr. rgl. nr. 799/1999 kemur fram að sveitarstjórnir skuli sjá til þess að komið sé á kerfisbundinni tæmingu á seyru úr rotþróm. Með tilvísan til þess og með tilvísun til 25. gr. l. nr. 7/1998 er sveitarstjórnum heimilt að setja samþykktir og gjaldskrá um meðferð úrgangs og sorps. Eru því heimildir kærða í samræmi við gildandi lög og reglugerðir og álagning gjalda vegna seyrulosunar einnig. Álögð gjöld mega þó aldrei vera hærri heldur en þjónusta sú sem veitt er.

Með tilvísan til framangreinds er það því niðurstaða nefndarinnar að kærða hafi ekki verið heimilt að krefja um hærri sorphirðugjöld fyrr en auglýsing um gjaldskrá var birt. Er því fallist á kröfu kæranda um að hækkun sé bundin birtingu gjaldskrár.

Eins og fram er komið eru álögð gjöld vegna seyrulosunar lögmæt.

ÚRSKURÐARORÐ:

Fallist er á kröfu kæranda um gildistíma auglýsingar um sorphirðugjald. Breyting á gjaldskrá tekur fyrst gildi með birtingu auglýsingar. Ekki er fallist á kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun kærða um álagningu seyrulosunargjalds.

Lára G. Hansdóttir

Gunnar Eydal                             Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 11/25/05

7/2005 Úrskurður vegna kæru Jóns Otta Jónssonar gegn Bláskógabyggð.

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2005 föstudaginn 11. nóvember, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar í ráðhúsi Reykjavíkur.  Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2005  Jón Otti Jónsson, Efstasundi 2 Reykjavík gegn Bláskógabyggð.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður

I.

Stjórnsýslukæra Jóns Otta Jónssonar, Efstasundi 2, 104 Reykjavík er dags. 27. apríl, 2005.  Kærð er álagning Bláskógabyggðar á rotþróar- og sorpgjaldi vegna sumarhúss Jóns Otta,  B-gata lóð 19, í landi Miðdals í Bláskógabyggð. Jón Otti er hér eftir nefndur kærandi, en Bláskógabyggð kærði.  Kærða var sent afrit af gögnum kæranda með bréfi dags. 16. maí s.l. Svarbréf kærða er dags. 20. júní s.l. Var svarbréf það sent kæranda til umsagnar en hann svaraði því ekki. Stjórnsýslukæru fylgdu eftirfarandi gögn:

1)      Afrit af seðli um álagningu fasteignagjalda 2005.

2)      Afrit af bréfi Bláskógabyggðar, skýringar á álagningarreglum fasteignagjalda fyrir Bláskógabyggð árið 2005.

Greinargerð kærða fylgdu eftirfarandi gögn:

1)       Samþykkt Bláskógabyggðar, samþykkt Heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 15. febrúar 2005 og auglýsing umhverfisráðuneytis í Stjórnartíðindum B53/2005.

2)       Gjaldskrá vegna seyrulosunar frá nóvember 2004, samþykkt Heilbrigðiseftirlits Suðurlands frá 15. mars, 2005 og auglýsing í Stjórnartíðindum.

3)       Upplýsingar og staðreyndir, Umhverfisstofnun maí 2005.

4)       Gjaldskrá vegna sorphirðu í Bláskógabyggð.

II.

Í stjórnsýslukæru  dags. 27. apríl s.l. gerir kærandi þær kröfur að úrskurðarnefnd felli úr gildi stjórnvaldsákvörðun kærða um álagningu rotþróargjalds á kæranda vegna fasteignarinnar við B-götu lóð 19 fyrir árið 2005.  Þá er þess og krafist að sorpgjald verði lækkað og ákvarðað í samræmi við birta og gildandi gjaldskrá kærða.

Málavöxtum lýsir kærandi svo að hann sé eigandi sumarhúss í landi Miðdals.  Hafi honum fyrir nokkrum dögum borist í pósti ódagsettur álagningarseðill fasteignagjalda svo og rotþróar- og sorpgjalds.  Telji kærandi að sorphirðugjaldið hafi verið ákvarðað of hátt og ekki í samræmi við birta og gildandi gjaldskrá.  Aftur á móti telji kærandi að rotþróargjald verði ekki lagt á þar sem til þess skorti allar heimildir.  Gerir kærandi þær kröfur að kærði rökstyðji og leggi fram gildandi og birta gjaldskrá sem heimili kærða töku sorpgjalds og að fjárhæð sorpgjalds verði ekki ákveðin hærri en gjaldskrá segi til um. Krafist er ógildingar rotþróargjalds þar sem engin gild réttarheimild hafi verið til staðar til álagningar gjaldsins þegar það hafi verið lagt á.  Þannig hafði samþykkt um gjaldið staðfest af umhverfisráðherra ekki verið birt þegar gjaldið hafi verið lagt á. Á sama máta hafði gjaldskráin ekki verið birt í Stjórnartíðindum. Því fari þessi álagningarháttur í bága við skýr fyrirmæli 5. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 svo og 7. gr. l. nr. 64/1943 um birtingu laga og stjórnvaldserinda.

Bendir kærandi á að fari svo að gjaldskráin verði birt áður en úrskurður í máli þessu sé uppkveðinn sé álagningin engu að síður ólögleg, þar sem hún sé þá afturvirk og taki til mánaða sem þegar séu liðnir.  Vísar kærandi um ólögmæti afturvirkra álagningu þjónustugjalda til dóms Hrd 1984:560.

Kærandi kveður að í öðru lagi sé því haldið fram að kærði hafi farið út fyrir valdheimildir sínar þegar hann hafi skyldað alla íbúa sveitarfélagsins til þess að kaupa af því þjónustu um seyrulosun.  Hvorki lög né reglugerðir geti leitt til þessarar niðurstöðu. Á hinn bóginn sé íbúum sveitarfélaga skylt að sjá til þess að seyrulosun sé í samræmi við lög og reglugerðir og hafi heilbrigðisfulltrúi og eftir atvikum starfsmenn sveitarfélaga löglegar heimildir til þess að hafa eftirlit með því og eftir atvikum að láta framkvæma seyrulosun á kostnað fasteignareiganda ef hann vanræki að kaupa að sér slíka þjónustu aðila sem hafi opinber leyfi til þess að sinna henni.

Kveður kærandi að hvernig sem á sé litið sé því álagning seyrulosunargjalds ólögleg og beri að ógilda hana.  Kærandi áskilur sé rétt til þess að koma að nýjum lagarökum og kröfum.  Ennfremur að koma að andmælum við þau gögn sem kærði kunni að leggja fram.

III.

Greinargerð kærða er dagsett 20. júní, 2005.  Vísar sveitarstjóri kærða til þess að sveitarstjórn kærða hafi rætt ítarlega um losun seyru úr rotþróm.  Vandamál þetta hafi farið vaxandi, en að auki hafi komið fram vitneskja um að losun hafi ekki verið sinnt og í kjölfar þess komið upp vandamál m.a. mengun vatnsbóla og sýkingar.  Hafi málið orðið flóknara þar sem bændur með haugsugur hafi ekki heimild til að sjá um losun og urðun seyru heldur þurfi til þess viðurkenndar aðferðir og tækjabúnað.  Til þess að uppfylla skyldur kærða hafi verið samþykktar reglur um seyrulosun, gjaldskrá og ennfremur hafi verkið verið boðið út og það tilkynnt sérstaklega með ýmsu móti.  Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hafi verið með í ráðum, enda þurfi samþykki þess til að koma að aflokinni umræðu í sveitarstjórn.

Sveitarstjóri kærða kveður heimild kærða vera í 14. gr. rgl. um meðhöndlun seyru.  Skv. 25. gr. l. nr. 7/1998 sé sveitarstjórnum heimilt að setja samþykktir og gjaldskrá um meðferð úrgangs og skólps.  Sveitarstjóri kærða bendir á að þó sveitarfélög hafi skýrar heimildir til þess að leggja á seyrulosunargjöld sé ljóst að heimildir sveitarfélags nái ekki til annars en að leggja á gjöld fyrir  áföllnum kostnaði við þennan verkþátt. Er ennfremur bent á að ákvörðun kærða um seyrulosun sé tekin í ljósi brýnna heildarhagsmuna og í samræmi við lög og reglugerðir.  Bendir kærði á að gjaldskrá vegna seyrulosunar sé byggð á greiðsludreifingu til þriggja ára sem eigi að nægja fyrir einni losun.  Gjaldskrá kærða vegna næsta árs muni byggja á kostnaði vegna ársins 2005 og gjald vegna ársins 2007 á raunkostnaði áranna 2005 og 2006.  Bent er ennfremur á að um sé að ræða árgjald en ekki mánaðargjald þó greiðslu sé dreift og innheimt um leið og fasteignagjöld.  Sé framangreint skoðað í heild er það skoðun sveitarstjóra kærða að vísa skuli kröfum kæranda á bug, en til vara sé kærði tilbúinn til að greiða viðkomandi hlutfallslega af álögðu árgjaldi 2005 til þess tíma er auglýsing um gjaldskrá birtist í Stjórnartíðindum.

IV.

Ágreiningur máls þessa snýst um hækkun sorphirðugjalds annars vegar og hins vegar álagningu seyrulosunargjalds.  Gjaldskrá kærða um sorphirðu var birt 27. apríl 2005.  Gildistími hækkunar getur ekki verið fyrr en frá og með þeim tíma enda kemur fram í gjaldskrá fyrir 2005 að frá og með sama tíma falli úr gildi eldri gjaldskrá fyrir sorphirðu í Bláskógabyggð.

Í 14. gr rgl. nr. 799/1999 kemur fram að sveitarstjórnir skuli sjá til þess að komið sé að kerfisbundinni tæmingu á seyru úr rotþróm.  Með tilvísan til þess og og með tilvísun til 25. gr. l. nr. 7/1998 er sveitarstjórnum heimilt að setja samþykktir og gjaldskrá um meðferð úrgangs og sorps. Eru því heimildir kærða í samræmi við gildandi lög og reglugerðir og álagning gjalda vegna seyrulosunar einnig.  Álögð gjöld mega þó aldrei vera hærri heldur en þjónusta sú sem veitt er.

Með tilvísan til framangreinds er það því niðurstaða nefndarinnar að kærða hafi ekki verið heimilt að krefja um hærri sorphirðugjöld fyrr en  auglýsing um gjaldskrá var birt.  Er því fallist á kröfu kæranda um að hækkun sé bundin birtingu gjaldskrár.

Eins og fram er komið eru álögð gjöld vegna seyrulosunar lögmæt.

ÚRSKURÐARORÐ:

Fallist er á kröfu kæranda um gildistíma auglýsingar um sorphirðugjald. Breyting á gjaldskrá tekur fyrst gildi með birtingu auglýsingar.  Ekki er fallist á kröfu kæranda um að kærða sé óheimilt að leggja á gjald fyrir seyrulosun.

Lára G. Hansdóttir

 Gunnar Eydal                   Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 11/25/05

89/2014 Vogar

Með
Árið 2015, föstudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 89/2014, kæra á ákvörðun sveitarfélagsins Voga um álagningu sorpeyðingargjalds fyrir árið 2014 vegna fasteignar með fastanúmer 209-6107.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. ágúst 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir H, ,  ákvörðun sveitarfélagsins Voga frá 29. janúar 2014 um að leggja sorpeyðingargjald fyrir árið 2014 á sumarhús með fastanúmerið 209-6107.  Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá sveitarfélaginu Vogum 16. september 2014 og 16. mars 2015.

Málavextir: Álagningarseðlar fasteignargjalda í sveitarfélaginu Vogum fyrir árið 2014 eru dagsettir 29. janúar 2014. Var kæranda með slíkum seðli gert að greiða kr. 23.107 í sorpeyðingargjald vegna fasteignar sinnar, sem ber fastanúmerið 209-6107. Með tölvupósti 15. apríl 2014 til skrifstofu sveitarfélagsins mótmælti kærandi gjaldinu og fór fram á að það yrði lækkað eða fellt niður. Með tölvupósti frá 14. júlí s.á. var þeirri kröfu hafnað af hálfu sveitarfélagsins.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst vera annar tveggja eigenda að sumarhúsi í landi sveitarfélagsins Voga. Um sé að ræða lítið sumarhús sem sé notað í nokkra daga á ári og séu þar takmarkaðir möguleikar til gistingar. Í þau skipti sem sumarhúsið sé notað sé allt sorp tekið með til Hafnarfjarðar, en þar séu báðir eigendur búsettir. Sveitarfélagið Vogar beri því engan kostnað af sorpi við bústaðinn enda væri algerlega úr leið fyrir eigendur að keyra sorpið inn í Voga. Því sé krafist að gjaldið verði fellt niður en að öðrum kosti að gjaldið verði lækkað verulega, til samræmis við þá lækkun sem sumarhúsaeigendur annarra sveitarfélaga njóti. Tekið sé fram að samskonar beiðni hafi verið send sveitarfélaginu fyrir árið 2013 og þá hafi gjaldið verið fellt niður.

Málsrök Sveitarfélagsins Voga: Af hálfu sveitarfélagsins er ekki fallist á kröfur kæranda. Sorpeyðingargjöld séu innheimt af öllum fasteignum í sveitarfélaginu án tillits til þess hvernig viðkomandi fasteign sé notuð. Gjaldtakan sé studd gjaldskrá sveitarfélagsins, nr. 507/2013, sem birt hafi verið í B-deild Stjórnartíðinda og með því móti hlotið gildistöku. Sveitarfélagið sé aðili að Sorpeyðingarstöð Suðurnesja, sem innheimti sambærilegt gjald hjá aðildarsveitarfélögum sínum þar sem gjaldstofninn taki mið af fjölda fasteignanúmera. Sveitarfélagið kveður tekjur og kostnað af sorpþjónustu nokkurn veginn standast á eins og meðfylgjandi tölur sýni:

            Áætlun 2015               2014          2013        2012
Tekjur af sorphr.          -17.758.000    -17.744.296    -17.750.160    -16.976.398
Kostnaður v. sorphr.    17.697.000    17.696.508    17.696.508    18.487.296
Tap                             -61.000    -47.788    -53.652    1.510.898

Niðurstaða: Í máli þessu krefst kærandi þess að fellt verði niður sorpeyðingargjald á sumarhús í hans eigu.

Samkvæmt þágildandi 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, nú 1. og 2. mgr. 8. gr. laganna, er sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilisúrgangi. Ber hún ábyrgð á flutningi hans og skal sjá til þess að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem til fellur í sveitarfélaginu. Á grundvelli sama ákvæðis er sveitarstjórn heimilt að setja samþykkt þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs, umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum samkvæmt þeim, sbr., einnig 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Sveitarfélagið Vogar hefur ekki sett sér slíka samþykkt.

Sveitarfélögum var skv. þágildandi 2. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003 heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi. Unnt er að miða gjaldið við mælanlega þætti sem hafa áhrif á kostnað, svo sem magn úrgangs, en einnig má ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, sbr. nefnda lagagrein. Gjaldið skal aldrei vera hærra en nemur kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar, og skal birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 4. mgr. Sveitarfélagið Vogar setti, með vísan til 25. gr. laga nr. 7/1998, gjaldskrá fyrir sorphirðu og sorpeyðingu í sveitarfélaginu Vogum, nr. 507/2013, sem birt var 3. júní s.á. Samkvæmt 1. gr. gjaldskrárinnar er bæjarstjórn sveitarfélagsins heimilt að leggja á árlegt sorphirðu- og sorpeyðingargjald sem innheimta skal með fasteignagjöldum. Gjaldið skiptist í sorphreinsunargjald, kr. 14.900 á hvert sorpílát, og sorpeyðingargjald, kr. 23.170 á hverja íbúð. Fram kemur á álagningarseðli að kærandi er eingöngu krafinn um sorpeyðingargjald.

Meðhöndlun sorps er grunnþjónusta í sveitarfélagi. Hún þarf að vera í föstum skorðum og er þess eðlis að hún má ekki falla niður þótt einhverjir íbúar nýti sér hana ekki. Almennt getur sá sem greiðir þjónustugjöld ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita þjónustuna sé reiknaður nákvæmlega út. Sveitarfélagi er þannig ekki talið skylt að reikna út kostnað við meðhöndlun sorps hvers íbúa eða fasteignar, heldur heimilt að jafna heildarfjárhæð niður á áætlaðan fjölda notenda, eins og raunar var skýrt tekið fram í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003. Þannig verður að telja að heimilt sé með vísan til framangreinds ákvæðis að haga gjaldtöku svo að um sé að ræða jafnaðargjald á hverja gjaldskylda fasteign. Sveitarstjórn var því heimilt að ákveða að tiltekið fast gjald yrði lagt á fasteign kæranda. Samkvæmt þeim gögnum sem sveitarfélagið hefur lagt fram eru álögð gjöld að jafnaði ekki hærri en kostnaður af veittri þjónustu og telst gjaldið því lögmætt þjónustugjald skv. áður tilvitnuðum ákvæðum 11. gr. laga nr. 55/2003 og 25. gr. laga nr. 7/1998.

Í samræmi við framangreint verður kröfu kæranda hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun sveitarfélagsins Voga um álagningu sorpeyðingargjalds fyrir árið 2014 vegna fasteignar með fastanúmer 209-6107.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                             Aðalheiður Jóhannsdóttir

42/2012 Eyrarbraut

Með

Árið 2012, miðvikudaginn 1. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.  

Fyrir var tekið mál nr. 42/2012, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 13. mars 2012 um að veita stöðuleyfi til sex mánaða til að reisa á lóðinni að Eyrarbraut 37 á Stokkseyri sumarhús til flutnings. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. maí 2012, er barst nefndinni 11. sama mánaðar, kærir A, Eyrarbraut 10, Stokkseyri, þá samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 13. mars 2012 að veita stöðuleyfi til að reisa á lóðinni að Eyrarbraut 37 á Stokkseyri sumarhús til flutnings. 

Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.  Jafnframt fer kærandi fram á stöðvun framkvæmda og að húsið verði fjarlægt.  Málið er nú nægilega upplýst til að taka megi það til endanlegs úrskurðar og kemur krafa kæranda um stöðvun framkvæmda því ekki til sérstakrar úrlausnar. 

Málavextir:  Samkvæmt gildandi skipulagi er lóðin Eyrarbraut 37 skilgreind sem iðnaðar- og athafnalóð.  Leyfishafi sótti um stöðuleyfi til að reisa sumarhús til flutnings á lóðinni og samþykkti skipulags- og byggingarnefnd þá umsókn hinn 13. mars 2012 og veitti umsækjanda stöðuleyfi til sex mánaða.  Hófst hann eftir það handa við byggingu húss á lóðinni en kærandi skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 5. maí 2012, svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er því haldið fram að hann hafi orðið fyrir verulegu ónæði vegna framkvæmdanna, sem hafi hafist í apríl 2012, s.s. vegna hávaða.  Kærandi fari fram á að upplýst verði hvort ekki hafi þurft byggingarleyfi fyrir umræddu sumarhúsi samhliða stöðuleyfinu, hvort ekki hafi þurft framkvæmdaleyfi og eftirlit skipulags- og byggingarfulltrúa viðkomandi sveitarfélaga til að reisa heilu húsin, þó þau séu ætluð til flutnings, hvaða aðili taki út mannvirki af þessu tagi á byggingarstigi, hvort ekki hafi þurft að leggja fyrir skipulags- og byggingarnefndir teikningar þó mannvirkin séu ætluð til flutnings, hvort ekki hafi þurft að grenndarkynna framkvæmdina og loks hvort ekki hafi þurft að auglýsa hana sérstaklega.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar:  Af hálfu sveitarfélagsins er gerð krafa um að málinu verði vísað frá nefndinni, en til vara að kröfum kæranda verði hafnað.  Sveitarfélagið telji kæruna of seint fram komna, en skv. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 sé kærufrestur einn mánuður.  Kæran hafi verið móttekin af nefndinni 11. maí 2012, eða tæpum tveimur mánuðum eftir að stöðuleyfið hafi verið veitt og framkvæmdir við byggingu hússins hafist. 

Þá byggi sveitarfélagið frávísunarkröfu sína á því að kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.  Þrátt fyrir að kærandi sé íbúi við Eyrarbraut sé ljóst að milli lóðar kæranda og Eyrarbrautar 37 liggi ein helsta umferðargatan á Stokkseyri, auk þess sem hús kæranda sé staðsett við botnlanga inn af Eyrarbraut 12. 

Fallist nefndin ekki á að vísa kærunni frá geri sveitarfélagið kröfu um að nefndin hafni málatilbúnaði kæranda þannig að umdeilt stöðuleyfi haldi gildi sínu að fullu.  Byggi sveitarfélagið þessa kröfu sína á því að öll skilyrði hafi verið uppfyllt til útgáfu leyfisins skv. kafla 2.6 í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sbr. 9. tl. 1. mgr. 60. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.  Stöðuleyfi hafi verið veitt á grundvelli b-liðar gr. 2.6.1 þar sem fyrir hafi legið fullnægjandi upplýsingar til útgáfu þess og hafi sveitarfélagið ekki orðið vart við að forsendur hafi brostið fyrir veitingu leyfisins.  Rétt sé að fram komi að lóðin að Eyrarbraut 37 sé skilgreind sem athafnasvæði bæði í aðal- og deiliskipulagi og sé rekið trésmíðaverkstæði í núverandi húsnæði á lóðinni.  Megi því búast við að íbúar í nærliggjandi hverfi verði fyrir ónæði frá atvinnustarfsemi umfram það sem væri ef um hreina íbúðarhúsabyggð væri að ræða. 

Málsrök leyfishafa:  Handhafi hins kærða stöðuleyfis mótmælir málatilbúnaði og kröfum kæranda og krefst þess að þeim verði hafnað.  Um sé að ræða tímabundna framkvæmd og hafi tilskilinna leyfa verið aflað.  Ekki hafi stafað meira ónæði af framkvæmdunum en búast megi við að stafi frá starfsemi á skilgreindu athafnasvæði. 

Niðurstaða:  Ekki verður með vissu ráðið af málsgögnum hvenær kæranda mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun og verður að telja að kæra í máli þessu hafi komið fram innan kærufrests.  Þá verður ekki fallist á framkvæmdir samkvæmt leyfinu geti ekki snert hagsmuni kæranda.  Verður því ekki fallist á að vísa beri málinu frá úrskurðarnefndinni. 

Samkvæmt b-lið 1. mgr. gr. 2.6.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 skal sækja um stöðuleyfi fyrir frístundahúsum í smíðum sem ætluð eru til flutnings.  Af ákvæðinu leiðir að ekki er áskilið byggingarleyfi fyrir slíkum húsum á smíðastað, en byggingarleyfi þarf hins vegar fyrir þeim á þeirri lóð sem þeim er ætlað að standa á til frambúðar.  Hið kærða stöðuleyfi á sér stoð í tilvitnuðu ákvæði í byggingarreglugerð og er í samræmi við gildandi reglur um byggingu húsa til flutnings.  Þá á vinna við smíði hússins sér stað á skilgreindu athafnasvæði samkvæmt skipulagi.  Verður ekki fallist á að kærandi verði fyrir meira ónæði af smíði hússins en búast má við frá starfsemi á slíku svæði og verður því ekki fallist á kröfur hans um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu þeirrar ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 13. mars 2012 um að veita stöðuleyfi til sex mánaða til að reisa á lóðinni að Eyrarbraut 37 á Stokkseyri sumarhús til flutnings. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

136/2007 Leynir

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 13. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 136/2007, kæra á ákvörðun byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu frá 31. janúar 2006 um að veita byggingarleyfi fyrir sumarhúsi á lóð nr. 196827 í landi Leynis í Bláskógabyggð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. október 2007, er barst nefndinni næsta dag, kæra S og M, eigendur lóðar nr. 189497 í landi Leynis í Bláskógabyggð, þá ákvörðun byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu frá 31. janúar 2006 að veita byggingarleyfi fyrir byggingu sumarhúss á lóð nr. 196827 í landi Leynis í Bláskógabyggð.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 7. febrúar 2006. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Hinn 31. janúar 2006 samþykkti byggingarnefnd uppsveita Árnessýslu að veita leyfi fyrir byggingu 99,2 m² sumarhúss að Köldukinn 2 í landi Leynis í Bláskógabyggð,  en sú lóð liggur að lóð kærenda.  Mun sumarhús samkvæmt hinu umdeilda leyfi hafa vera risið um mitt ár 2007.       

Byggja kærendur kröfu sína á því að umrætt hús samræmist ekki gildandi deiliskipulagi svæðisins og fari í bága við 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Hafi byggingarleyfi fyrir húsinu verið veitt án þeirra vitundar.  Enn sem komið sé dvelji kærendur afar lítið á lóð sinni enda séu þeir aðeins búnir að byggja lítið afdrep til að geta haft aðstöðu þegar að því komi að byggja þar hús.  Þar af leiðandi hafi þeir ekki vitað af byggingunni fyrr en nýlega enda hafi engin grenndarkynning farið fram áður en húsið hafi verið reist.  Telji þeir að hæð og staðsetning hússins skaði hagsmuni þeirra þar sem útsýni af efri hæð þess sé yfir alla lóð kærenda.  Leiði þetta til þess að lóð þeirra falli í verði. 

Af hálfu Bláskógabyggðar er þess krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni enda sé hún of seint fram komin auk þess sem kærendur hafi ekki lögvarða hagsmuni í málinu. Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra eigi.  Hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á fundi sveitarstjórnar 7. febrúar 2006. 

Ljóst sé samkvæmt fyrirliggjandi gögnum að kærendum hafi verið kunnugt um veitingu leyfisins og hina kærðu ákvörðun eigi síðar en þann 25. júlí 2007, en þá hafi annar kærenda sent fyrirspurn til byggingarfulltrúa í tölvupósti og vísað til þess að hús væri risið á lóðinni.  Jafnframt hafi sama kæranda borist bréf frá Skipulagsstofnun þann 8. ágúst 2007 þar sem leiðbeint hafi verið um kæruheimild og kærufrest.  Kæra hafi verið móttekin hjá úrskurðarnefndinni 11. október 2007 og hafi því kærufrestur verið liðinn þegar kærendur hafi skotið málinu til nefndarinnar.  Vitneskja kærenda um framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi hafi raunar verið til staðar mun fyrr en greindar dagsetningar í skjölum málsins gefi til kynna.  Hefðu kærendur þá þegar átt að skjóta málinu til úrskurðarnefndarinnar. 

Sveitarfélagið byggi einnig á því að kærendur eigi ekki einstaklegra lögákveðinna hagsmuna að gæta samkvæmt 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997.  Staðsetning sumarhúsa á skipulögðum lóðum sæti ekki grenndarkynningu.  Umrætt sumarhús sé staðsett innan byggingarreits og standi vel gagnvart lóð kærenda.  Stallur sé í landinu á milli lóða og hafi fjölmörg tré verið gróðursett þar og muni því ekki sjást mikið á milli lóða eftir nokkur ár.  Þá geti fallegt sumarhús, eins og hér um ræði, ekki haft neikvæð áhrif á verðmat lóðar kærenda. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Hin kærða ákvörðun var tekin á fundi byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 31. janúar 2006 og staðfest í sveitarstjórn Bláskógabyggðar 7. næsta mánaðar. 

Eins og áður greinir eru kærendur eigendur lóðar nr. 189497 sem er við hlið lóðar nr. 196827 þar sem hið umdeilda hús var reist.  Að virtum gögnum máls þessa liggur fyrir að gerð var athugasemd af hálfu kærenda við umrætt hús í júlí 2007, samanber áðurgreindan tölvupóst annars þeirra til byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu hinn 25. júlí 2007, en þar kemur m.a. fram að umrætt hús sé risið og sé sjö metra hátt. 

Þá var með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 8. ágúst s.á., upplýst um kæruheimild og kærufrest til úrskurðarnefndarinnar, en bréfið var ritað í tilefni af kröfu kærenda um að umrætt sumarhús yrði lækkað til samræmis við samþykktir gildandi deiliskipulags. 

Með vísan til framangreinds verður við það að miða að kærendum hafi verið kunnugt um byggingu umdeilds sumarhúss í lok júlí 2007 og um kæruheimild og kærufrest eigi síðar en er þeim barst svarbréf Skipulagsstofnunar 8. ágúst s.á.  Hefði þeim því borið að skjóta ákvörðun um veitingu byggingarleyfisins til úrskurðarnefndarinnar innan mánaðar frá þeim tíma. 

Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 11. október 2007 eða um mánuði eftir að kærufrestur var liðinn.  Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni enda liggja ekki fyrir nein þau atvik er leitt gætu til þess að beitt væri undantekningarheimildum 1. eða 2. tl. tilvitnaðrar 28. gr. stjórnsýslulaga. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikilla anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________    ____________________________
Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson

130/2007 Réttarháls

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 6. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 130/2007, kæra á ákvörðun byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóa frá 4. september 2007 um að veita leyfi til byggingar sumarhúss að Réttarhálsi 7, í landi Nesja í Grímsnes- og Grafningshreppi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. október 2007, er barst nefndinni hinn sama dag, kærir Ívar Pálsson hdl., f.h. K, Hrauntungu 117, Kópavogi, eiganda lóðarinnar að Réttarhálsi 8 í landi Nesja í Grímsnes- og Grafningshreppi, ákvörðun byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóa frá 4. september 2007 um að veita leyfi til byggingar sumarhúss að Réttarhálsi 7 í landi Nesja.  Var afgreiðsla byggingarnefndar staðfest á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps hinn 6. september 2007. 

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að framkvæmdir verði stöðvaðar.  Verður ekki fjallað sérstaklega um kröfu um stöðvun framkvæmda, enda var hús það er hið kærða byggingarleyfi grundvallast á risið er kæran barst úrskurðarnefndinni og því ekki tilefni til að taka þá kröfu til sjálfstæðrar úrlausnar. 

Málavextir:  Á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps hinn 4. desember 2003 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja frístundahús á lóðinni nr. 7 við Réttarháls í landi Nesja og var vísað í gildandi skipulagsuppdrátt.  Einnig var óskað eftir því að lóðin yrði stækkuð úr 2.400 í 5.000 m².  Sveitarstjórn samþykkti að heimila grenndarkynningu vegna umsóknarinnar og vísaði til 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Hinn 14. febrúar 2003 ritaði sveitarstjóri Grímsnes- og Grafningshrepps hagsmunaaðilum bréf þar sem sagði svo:  „Efni:  Grenndarkynning vegna skipulagsbreytinga á einni frístundahúsalóð í landi Nesja í Grafningi.“  Áfram sagði svo:  „Á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps þann 4. desember 2002 var samþykkt að heimila grenndarkynningu af breytingartillögu á einni frístundalóð (sumarhúsalóð) við Réttarháls 7 í landi Nesja í Grafningi skv. 2. mgr. 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Breytingin felst í að skv. eldri samningi, sem nú er fallinn úr gildi, var lóðin 2.400 fm en verður 5.000 fm að stærð.“  Bréfi þessu fylgdi teikning af Nesjaskógum þar sem lóðin að Réttarhálsi 7 var merkt með hring ásamt ljósmynd þar sem staðsetning lóðarinnar var sýnd í samræmi við tillöguna.  Frestur til að skila inn athugasemdum var til 18. mars 2003 og bárust nokkrar athugasemdir, þar á meðal frá kæranda. 

Á fundi sveitarstjórnar hinn 2. apríl 2003 voru athugasemdir teknar fyrir og þeim svarað.  Í kjölfarið var eftirfarandi fært til bókar:  „Skv. ofangreindu samþykkir sveitarstjórn fyrirliggjandi skipulag við Réttarháls 7 í landi Nesja í Grafningi, skv. 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga.“ 

Hinn 7. apríl 2003 ritaði sveitarstjóri Grímsnes- og Grafningshrepps Skipulagsstofnun bréf þar sem sagði svo:  „Á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps þann 2. apríl sl. var samþykkt að óska eftir umsögn Skipulagstofnunar, skv. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997 vegna skipulags einnar lóðar undir frístundahús í landi Nesja í Grafningi, Réttarháls 7.“  Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 22. apríl 2003, til sveitarstjórnar segir m.a. eftirfarandi:  „Á svæðinu er í gildi deiliskipulag sumarbústaðalands í Nesjaskógi sem samþykkt var 24. nóvember 1993 af skipulagsstjórn ríkisins skv. 2. mgr. 5. gr. skipulagslaga nr. 19/1963 og hefur því verið breytt tvívegis, 1996 og 1999.  Skipulagsstofnun fellst ekki á birtingu deiliskipulagsbreytinganna í B-deild Stjórnartíðinda þar sem byggingarskilmálar varðandi fyrirhugað frístundahús á lóðinni voru ekki kynntir og skipulagsgögn uppfylla ekki kröfur um framsetningu deiliskipulagsbreytinga.  Endurtaka þarf grenndarkynningu óverulegrar deiliskipulagsbreytingar sbr. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga eða auglýsa verulega breytingu á deiliskipulaginu sbr. 1. mgr. 21. gr. sömu laga.“ 

Í kjölfar þessa ritaði sveitarstjóri Skipulagsstofnun bréf, dags. 23. maí 2003, þar sem sagði m.a:  „Sveitarstjórn leitar hér með eftir meðmælum Skipulagsstofnunar, sbr. 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga, af skipulagi undir eitt frístundahús að Réttarhálsi 7 í landi Nesja í Grafningi. … Meðfylgjandi byggingarskilmálar gilda fyrir Réttarháls 7 en þeir hafa nú þegar verið sendir til kynningar, sömu aðilum og skipulagið var grenndarkynnt.“ 

Í tölvupósti Skipulagsstofnunar til sveitarstjóra hinn 27. maí 2003 segir m.a:  „Ég var að renna yfir nýja bréfið frá þér varðandi Réttarháls 7 dags. 23. maí sl.  Þar hefði þurft að koma fram vegna forsögu málsins að sveitarstjórn fallist ekki á þá túlkun Skipulagsstofnunar frá 22. apríl 2003, að deiliskipulag frístundabyggðar í Nesjaskógi nái til þessa svæðis og að þess vegna sé farið fram á meðmæli stofnunarinnar skv. 3. tl. til að leyfa þessa einstöku framkvæmd þ.e. byggingu eins frístundahúss.“

Sveitarstjóri sendi á ný bréf til Skipulagsstofnunar, dags. 23. maí 2003, þar sem leitað var eftir meðmælum stofnunarinnar, sbr. 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga, með skipulagi undir eitt frístundahús að Réttarhálsi 7.  Í svarbréfi Skipulagsstofnunar, dags. 20. júní 2003, segir m.a:  „Fram hefur komið í símtali við Margréti Sigurðardóttur oddvita og sveitarstjóra Grímsnes- og Grafningshrepps að hreppsnefnd ályktaði á fundi sínum 5. júní 2003 að ofangreint deiliskipulag frístundabyggðar í Nesjaskógi nái ekki til svæðisins við Réttarháls 7.  Því er ekki um að ræða breytingu á deiliskipulagi en vilji sveitarstjórnar er að veita leyfi fyrir byggingu eins frístundahúss í þegar byggðu hverfi.  Samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga er landið allt skipulagsskylt og skulu byggingarleyfi vera í samræmi við aðal- og deiliskipulag.  Sveitarstjórn getur þó að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar skv. 3. tl. bráðabirgðaákvæða heimilað einstakar framkvæmdir án þess að fyrir liggi aðal-, svæðis- eða deiliskipulag.  Sveitarstjórn þarf hins vegar ekki meðmæli Skipulagsstofnunar vegna veitingar byggingarleyfis í þegar byggðum hverfum þar sem fyrir liggur aðal- og/eða svæðisskipulag en ekkert deiliskipulag enda hafi sveitarstjórn grenndarkynnt byggingarleyfisumsókn.  Umsóknin þarf að vera í samræmi við byggðamynstur hverfisins en að öðrum kosti krefst byggingarleyfisumsókn deiliskipulagsgerðar.  Með kynningarbréfi grenndarkynningar skulu fylgja öll byggingarleyfisgögn.  Í grenndarkynningu sem send var öllum nágrönnum 14. febrúar sl. var einungis kynnt stækkun lóðarinnar og stærð byggingarreits án þess að byggingarskilmálar, byggingarleyfisumsókn eða aðaluppdrættir fylgdu með.  Þess vegna var ekki um að ræða grenndarkynnta byggingarleyfisumsókn sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Skipulagsstofnun getur fallist á rök sveitarstjórnar um að gildandi deiliskipulag frístundabyggðar í Nesjaskógi nái ekki til umrædds svæðis.  Þá kemur upp sú staða að um er að ræða framkvæmd í þegar byggðu hverfi og á þá ekki við að afgreiða erindið samkvæmt 3. tl. bráðabirgðaákvæða.  Þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir í þegar byggðum hverfum getur sveitarstjórn í samræmi við 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga veitt heimild til framkvæmda að undangenginni grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknar sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Slík mál koma ekki til afgreiðslu Skipulagsstofnunar.  Að öðrum kosti getur sveitarstjórn auglýst deiliskipulag af umræddu hverfi sbr. 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.“

Á fundi byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 27. janúar 2004 voru lagðar fram byggingarnefndarteikningar að 90,6 m² frístundahúsi sem til stóð að reisa á lóðinni að Réttarhálsi 7.  Voru teikningarnar samþykktar með fyrirvara um samþykkt deiliskipulags.  Skipulagsfulltrúi tók við málinu og með bréfi, dags. 6. febrúar 2004, var framkvæmdin grenndarkynnt hagsmunaaðilum.  Í bréfinu sagði m.a. eftirfarandi:  „Samkvæmt 2. mgr. 26. greinar skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 vil ég fyrir hönd Grímsnes- og Grafningshrepps kynna byggingarnefndarteikningar af sumarhúsi að Réttarhálsi 7 í landi Nesja.  Húsið er einnar hæðar, úr timbri á steyptri plötu, 91 m² að flatarmáli með lágu risþaki.  Mænishæð frá plötu er 4,1 m².  Sólpallur er 130 m². … Meðfylgjandi er ljósrit af útlitsteikningum og grunnmynd bústaðarins sem sýna umfang og útlit sumarhússins.  Einnig fylgir ljósmynd og ljósrit úr gömlum skipulagsuppdrætti sem sýnir staðsetningu hússins.“  Frestur til að skila inn athugasemdum var til 8. mars 2004 og bárust nokkrar, þar á meðal frá kæranda. 

Á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 9. mars 2004 var málið tekið fyrir og eftirfarandi bókað:  „Nesjar í Grafningi.  Grenndarkynning frístundahúss að Réttarhálsi 7.  Grenndarkynningu skv. 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga vegna fyrirhugaðrar byggingar frístundahúss á lóðinni Réttarháls 7 er lokið.  Eigendum lóða við Réttarháls nr. 1, 2, 3, 5, 6, 8 og 9 var kynnt framkvæmdin.  Athugasemdir hafa borist frá eiganda Réttarháls nr. 8 og nr. 3.  Lögð fram drög skipulagsfulltrúa af svari til þeirra sem senda athugasemdir.  Samþykkt.“ 

Hinn 27. maí 2004 ritaði byggingarleyfishafi bréf til byggingarfulltrúa þar sem hann lagði fram nýjar teikningar að frístundahúsinu.  Í bréfinu segir m.a. eftirfarandi:  „Breyting á þessari teikningu frá fyrri teikningu er að undir húsið er kominn kjallari þar og verða settir á hann gluggar og hurðir.  Ástæða þessarar breytingar er sú að þegar grafið var fyrir húsinu kom í ljós að það var allt að sex metrar niður á fast.  Í stað þess að fylla það allt upp ákvað ég að setja kjallara undir húsið.  Húsið hækkar ekki í landinu við þessa breytingu þar sem kjallarinn er niðurgrafinn að stórum hluta.“ 

Á fundi byggingarnefndar hinn 3. júní 2004 var samþykkt breyting á byggingarleyfi fyrir frístundahúsi á lóðinni að Réttarhálsi 7 er heimilaði kjallara undir húsinu.  Skaut kærandi þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði sínum uppkveðnum hinn 23. ágúst 2006 felldi samþykktina úr gildi. 

Í kjölfar þessa samþykkti sveitarstjórn á fundi hinn 23. nóvember 2006 að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Nesja í Grafningi.  Í auglýsingu um deiliskipulagsbreytinguna sagði eftirfarandi:  „Í breytingunni felst að gert er ráð fyrir nýrri 0,5 ha frístundahúsalóð við Réttarháls 7.  Heimilt verður að reisa allt að 185m² frístundahús á þessari lóð og skal mænishæð ekki vera hærri en 6 m.  Skilmálar gildandi deiliskipulags fyrir aðrar lóðir á svæðinu breytast ekki.“  Var tillagan auglýst frá 1. – 29. mars 2007 og var frestur til að koma að atugasemdum til 12. apríl sama ár.  Kom kærandi á  framfæri mótmælum sínum til sveitarstjórnar vegna tillögunnar. 

Skipulagsnefnd samþykkti hinn 22. maí 2007 tillögu að breyttu deiliskipulagi svæðisins og á fundi sveitarstjórnar hinn 7. júní 2007 var sú afgreiðsla staðfest. 

Í bréfi Skipulagsstofnunar til skipulagsfulltrúa, dags. 12. júlí 2007, sagði eftirfarandi:

„Lóðin Réttarháls 7 er þegar byggð en húsið þar var reist skv. byggingarleyfi frá 16. júní 2004 sem byggði á breytingu á deiliskipulagi sem kynnt var skv. 2. mgr. 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála felldi byggingarleyfið úr gildi 23. ágúst 2006. 

Í athugasemd við deiliskipulagsbreytinguna, dags. 23. apríl 2007, kemur fram, með vísan til 56. gr. skipulags- og byggingarlaga, að „óheimilt sé að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hefur verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hefur verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.“  Skipulagsstofnun gerir því athugasemd við að Grímsnes- og Grafningshreppur birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda.“  Þrátt fyrir framangreint birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 17. júlí 2007.  Skaut kærandi þeirri ákvörðun sveitarstjórnar til úrskurðarnefndarinnar. 

Á fundi byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóa hinn 4. september 2007 var veitt leyfi til byggingar sumarhúss að Réttarhálsi 7 í landi Nesja og var afgreiðsla byggingarnefndar staðfest á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps hinn 6. september 2007. 

Skaut kærandi þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að deiliskipulagsbreyting sú sem sú sem hið kærða leyfi byggi á sé ólögmæt og þar af leiðandi hið kærða byggingarleyfi. 

Með vísan til rannsóknarreglu stjórnsýslulaga sé óskað eftir því að úrskurðarnefndin taki einnig til sjálfstæðrar skoðunar hvort aðrir anmarkar kunni að vera á hinu kærða byggingarleyfi. 

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps:  Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að kærandi byggi fyrst og fremst á þeirri málsástæðu að gildi byggingarleyfisins velti á gildi deiliskipulagsbreytingar er kærð hafi verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Fyrir liggi að sumarhús það, sem hin kærða samþykkt heimili, sé risið og nánast fullfrágengið enda hafi mál þetta verið lengi til meðferðar. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er vísað til þess að í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 38/2005 hafi komið fram að gera þyrfti breytingar á deiliskipulagi til að afgreiða byggingarleyfi fyrir sumarhúsið.  Sveitarstjórn hafi gert það sem úrskurðurinn hafi mælt fyrir um og hafi breytt deiliskipulaginu.  Skipulagsstofnun hafi samþykkt afgreiðslu sveitarstjórnar um byggingarleyfi.  Deiliskipulagsbreytingin hafi verið auglýst og athugasemdir gerðar af hálfu kæranda. 

Af meðferð málsins hjá sveitarstjórn megi ráða að ekkert komi fram hvað varði ólögmæti ákvörðunarinnar og sé því haldið fram að sveitarstjórn hafi tekið ákvörðun sína á grundvelli laga með réttmætum hætti. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 22. september 2005 í tilefni fyrra kærumáls. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóa frá 4. september 2007 að veita leyfi til byggingar sumarhúss á lóðinni nr. 7 við Réttarháls í landi Nesja í Grímsnes- og Grafningshreppi. 

Er krafa kæranda um ógildingu hins umdeilda byggingarleyfis studd þeim rökum að leyfið byggist á deiliskipulagsbreytingu sem hann telji ólögmæta og hafi kært til úrskurðarnefndarinnar til ógildingar.  Verði á það fallist leiði það til þess að lagaskilyrði hafi skort til útgáfu hins kærða byggingarleyfis. 

Úrskurðarnefndin hefur fyrr í dag kveðið upp úrskurð þar sem áðurnefnd skipulagsákvörðun var felld úr gildi og á því umdeilt byggingarleyfi ekki viðhlítandi stoð í skipulagi samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997.  Verður það af þeim sökum fellt úr gildi með vísan til 2. mgr. 43. gr. nefndra laga. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Ákvörðun byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóa frá 4. september 2007, um að veita leyfi til byggingar sumarhúss að Réttarhálsi 7 í landi Nesja, sem staðfest var af sveitarstjórn 6. september 2007, er felld úr gildi. 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

___________________________                     _____________________________
  Ásgeir Magnússon                                                 Þorsteinn Þorsteinsson

83/2007 Réttarháls

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 6. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 83/2007, kæra á samþykkt sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 7. júní 2007 um breytt deiliskipulag frístundabyggðar í landi Nesja í Grímsnes- og Grafningshreppi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. ágúst 2007, er barst nefndinni samdægurs, kærir Ívar Pálsson hdl., f.h. K, Hrauntungu 117, Kópavogi, eiganda lóðarinnar að Réttarhálsi 8 í landi Nesja í Grímsnes- og Grafningshreppi, samþykkt skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu frá 22. maí 2007 á tillögu að breyttu deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Nesja í Grímsnes- og Grafningshreppi.  Var fundargerð skipulagsnefndar staðfest á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps hinn 7. júní 2007.  Birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 17. júlí 2007. 

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt var þess krafist að réttaráhrif hinnar kærðu deilskipulagsákvörðunar yrðu stöðvuð en ekki þóttu efni til að fjalla sérstaklega um þá kröfu þar sem framkvæmdum á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar var að mestu lokið er kæran barst nefndinni. 

Málavextir:  Á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps hinn 4. desember 2003 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja frístundahús á lóðinni nr. 7 við Réttarháls í landi Nesja og var vísað í gildandi skipulagsuppdrátt.  Einnig var óskað eftir því að lóðin yrði stækkuð úr 2.400 í 5.000 m².  Sveitarstjórn samþykkti að heimila grenndarkynningu vegna umsóknarinnar og vísaði til 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Hinn 14. febrúar 2003 ritaði sveitarstjóri Grímsnes- og Grafningshrepps hagsmunaaðilum bréf þar sem sagði svo:  „Efni:  Grenndarkynning vegna skipulagsbreytinga á einni frístundahúsalóð í landi Nesja í Grafningi.“  Áfram sagði svo:  „Á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps þann 4. desember 2002 var samþykkt að heimila grenndarkynningu af breytingartillögu á einni frístundalóð (sumarhúsalóð) við Réttarháls 7 í landi Nesja í Grafningi skv. 2. mgr. 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Breytingin felst í að skv. eldri samningi, sem nú er fallinn úr gildi, var lóðin 2.400 fm en verður 5.000 fm að stærð.“  Bréfi þessu fylgdi teikning af Nesjaskógum þar sem lóðin að Réttarhálsi 7 var merkt með hring ásamt ljósmynd þar sem staðsetning lóðarinnar var sýnd í samræmi við tillöguna.  Frestur til að skila inn athugasemdum var til 18. mars 2003 og bárust nokkrar athugasemdir, þar á meðal frá kæranda.  Á fundi sveitarstjórnar hinn 2. apríl 2003 voru athugasemdir teknar fyrir og þeim svarað.  Í kjölfarið var eftirfarandi fært til bókar:  „Skv. ofangreindu samþykkir sveitarstjórn fyrirliggjandi skipulag við Réttarháls 7 í landi Nesja í Grafningi, skv. 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga.“ 

Hinn 7. apríl 2003 ritaði sveitarstjóri Grímsnes- og Grafningshrepps Skipulagsstofnun bréf þar sem sagði svo:  „Á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps þann 2. apríl sl. var samþykkt að óska eftir umsögn Skipulagstofnunar, skv. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997 vegna skipulags einnar lóðar undir frístundahús í landi Nesja í Grafningi, Réttarháls 7.“  Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 22. apríl 2003, til sveitarstjórnar segir m.a. eftirfarandi:  „Á svæðinu er í gildi deiliskipulag sumarbústaðalands í Nesjaskógi sem samþykkt var 24. nóvember 1993 af skipulagsstjórn ríkisins skv. 2. mgr. 5. gr. skipulagslaga nr. 19/1963 og hefur því verið breytt tvívegis, 1996 og 1999.  Skipulagsstofnun fellst ekki á birtingu deiliskipulagsbreytinganna í B-deild Stjórnartíðinda þar sem byggingarskilmálar varðandi fyrirhugað frístundahús á lóðinni voru ekki kynntir og skipulagsgögn uppfylla ekki kröfur um framsetningu deiliskipulagsbreytinga.  Endurtaka þarf grenndarkynningu óverulegrar deiliskipulagsbreytingar sbr. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga eða auglýsa verulega breytingu á deiliskipulaginu sbr. 1. mgr. 21. gr. sömu laga.“ 

Í kjölfar þessa ritaði sveitarstjóri Skipulagsstofnun bréf, dags. 23. maí 2003, þar sem sagði m.a:  „Sveitarstjórn leitar hér með eftir meðmælum Skipulagsstofnunar, sbr. 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga, af skipulagi undir eitt frístundahús að Réttarhálsi 7 í landi Nesja í Grafningi. … Meðfylgjandi byggingarskilmálar gilda fyrir Réttarháls 7 en þeir hafa nú þegar verið sendir til kynningar, sömu aðilum og skipulagið var grenndarkynnt.“ 

Í tölvupósti Skipulagsstofnunar til sveitarstjóra hinn 27. maí 2003 segir m.a:  „Ég var að renna yfir nýja bréfið frá þér varðandi Réttarháls 7 dags. 23. maí sl.  Þar hefði þurft að koma fram vegna forsögu málsins að sveitarstjórn fallist ekki á þá túlkun Skipulagsstofnunar frá 22. apríl 2003, að deiliskipulag frístundabyggðar í Nesjaskógi nái til þessa svæðis og að þess vegna sé farið fram á meðmæli stofnunarinnar skv. 3. tl. til að leyfa þessa einstöku framkvæmd þ.e. byggingu eins frístundahúss.“ 

Sveitarstjóri sendi á ný bréf til Skipulagsstofnunar, dags. 23. maí 2003, þar sem leitað var eftir meðmælum stofnunarinnar, sbr. 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga, með skipulagi undir eitt frístundahús að Réttarhálsi 7.  Í svarbréfi Skipulagsstofnunar, dags. 20. júní 2003, segir m.a:  „Fram hefur komið í símtali við Margréti Sigurðardóttur oddvita og sveitarstjóra Grímsnes- og Grafningshrepps að hreppsnefnd ályktaði á fundi sínum 5. júní 2003 að ofangreint deiliskipulag frístundabyggðar í Nesjaskógi nái ekki til svæðisins við Réttarháls 7.  Því er ekki um að ræða breytingu á deiliskipulagi en vilji sveitarstjórnar er að veita leyfi fyrir byggingu eins frístundahúss í þegar byggðu hverfi.  Samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga er landið allt skipulagsskylt og skulu byggingarleyfi vera í samræmi við aðal- og deiliskipulag.  Sveitarstjórn getur þó að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar skv. 3. tl. bráðabirgðaákvæða heimilað einstakar framkvæmdir án þess að fyrir liggi aðal-, svæðis- eða deiliskipulag.  Sveitarstjórn þarf hins vegar ekki meðmæli Skipulagsstofnunar vegna veitingar byggingarleyfis í þegar byggðum hverfum þar sem fyrir liggur aðal- og/eða svæðisskipulag en ekkert deiliskipulag enda hafi sveitarstjórn grenndarkynnt byggingarleyfisumsókn.  Umsóknin þarf að vera í samræmi við byggðamynstur hverfisins en að öðrum kosti krefst byggingarleyfisumsókn deiliskipulagsgerðar.  Með kynningarbréfi grenndarkynningar skulu fylgja öll byggingarleyfisgögn.  Í grenndarkynningu sem send var öllum nágrönnum 14. febrúar sl. var einungis kynnt stækkun lóðarinnar og stærð byggingarreits án þess að byggingarskilmálar, byggingarleyfisumsókn eða aðaluppdrættir fylgdu með.  Þess vegna var ekki um að ræða grenndarkynnta byggingarleyfisumsókn sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Skipulagsstofnun getur fallist á rök sveitarstjórnar um að gildandi deiliskipulag frístundabyggðar í Nesjaskógi nái ekki til umrædds svæðis.  Þá kemur upp sú staða að um er að ræða framkvæmd í þegar byggðu hverfi og á þá ekki við að afgreiða erindið samkvæmt 3. tl. bráðabirgðaákvæða.  Þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir í þegar byggðum hverfum getur sveitarstjórn í samræmi við 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga veitt heimild til framkvæmda að undangenginni grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknar sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Slík mál koma ekki til afgreiðslu Skipulagsstofnunar.  Að öðrum kosti getur sveitarstjórn auglýst deiliskipulag af umræddu hverfi sbr. 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.“

Á fundi byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 27. janúar 2004 voru lagðar fram byggingarnefndarteikningar að 90,6 m² frístundahúsi sem til stóð að reisa á lóðinni að Réttarhálsi 7.  Voru teikningarnar samþykktar með fyrirvara um samþykkt deiliskipulags.  Skipulagsfulltrúi tók við málinu og með bréfi, dags. 6. febrúar 2004, var framkvæmdin grenndarkynnt hagsmunaaðilum.  Í bréfinu sagði m.a. eftirfarandi:  „Samkvæmt 2. mgr. 26. greinar skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 vil ég fyrir hönd Grímsnes- og Grafningshrepps kynna byggingarnefndarteikningar af sumarhúsi að Réttarhálsi 7 í landi Nesja.  Húsið er einnar hæðar, úr timbri á steyptri plötu, 91 m² að flatarmáli með lágu risþaki.  Mænishæð frá plötu er 4,1 m².  Sólpallur er 130 m². … Meðfylgjandi er ljósrit af útlitsteikningum og grunnmynd bústaðarins sem sýna umfang og útlit sumarhússins.  Einnig fylgir ljósmynd og ljósrit úr gömlum skipulagsuppdrætti sem sýnir staðsetningu hússins.“  Frestur til að skila inn athugasemdum var til 8. mars 2004 og bárust nokkrar, þar á meðal frá kæranda. 

Á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 9. mars 2004 var málið tekið fyrir og eftirfarandi bókað:  „Nesjar í Grafningi.  Grenndarkynning frístundahúss að Réttarhálsi 7.  Grenndarkynningu skv. 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga vegna fyrirhugaðrar byggingar frístundahúss á lóðinni Réttarháls 7 er lokið.  Eigendum lóða við Réttarháls nr. 1, 2, 3, 5, 6, 8 og 9 var kynnt framkvæmdin.  Athugasemdir hafa borist frá eiganda Réttarháls nr. 8 og nr. 3.  Lögð fram drög skipulagsfulltrúa af svari til þeirra sem senda athugasemdir.  Samþykkt.“ 

Hinn 27. maí 2004 ritaði byggingarleyfishafi bréf til byggingarfulltrúa þar sem hann lagði fram nýjar teikningar að frístundahúsinu.  Í bréfinu segir m.a. eftirfarandi:  „Breyting á þessari teikningu frá fyrri teikningu er að undir húsið er kominn kjallari þar og verða settir á hann gluggar og hurðir.  Ástæða þessarar breytingar er sú að þegar grafið var fyrir húsinu kom í ljós að það var allt að sex metrar niður á fast.  Í stað þess að fylla það allt upp ákvað ég að setja kjallara undir húsið.  Húsið hækkar ekki í landinu við þessa breytingu þar sem kjallarinn er niðurgrafinn að stórum hluta.“ 
 
Á fundi byggingarnefndar hinn 3. júní 2004 var samþykkt breyting á byggingarleyfi fyrir frístundahúsi á lóðinni að Réttarhálsi 7 er heimilaði kjallara undir húsinu.  Skaut kærandi þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði sínum uppkveðnum hinn 23. ágúst 2006 felldi samþykktina úr gildi. 

Í kjölfar þessa samþykkti sveitarstjórn á fundi hinn 23. nóvember 2006 að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Nesja í Grafningi.  Í auglýsingu um deiliskipulagsbreytinguna sagði eftirfarandi:  „Í breytingunni felst að gert er ráð fyrir nýrri 0,5 ha frístundahúsalóð við Réttarháls 7.  Heimilt verður að reisa allt að 185m² frístundahús á þessari lóð og skal mænishæð ekki vera hærri en 6 m.  Skilmálar gildandi deiliskipulags fyrir aðrar lóðir á svæðinu breytast ekki.“  Var tillagan auglýst frá 1. – 29. mars 2007 og var frestur til að koma að atugasemdum til 12. apríl sama ár.  Kom kærandi á framfæri mótmælum sínum til sveitarstjórnar vegna tillögunnar.  Skipulagsnefnd samþykkti hinn 22. maí 2007 tillögu að breyttu deiliskipulagi svæðisins og á fundi sveitarstjórnar hinn 7. júní 2007 var fundargerð nefndarinnar staðfest.  Í bréfi Skipulagsstofnunar til skipulagsfulltrúa, dags. 12. júlí 2007, sagði eftirfarandi:  „Lóðin Réttarháls 7 er þegar byggð en húsið þar var reist skv. byggingarleyfi frá 16. júní 2004 sem byggði á breytingu á deiliskipulagi sem kynnt var skv. 2. mgr. 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála felldi byggingarleyfið úr gildi 23. ágúst 2006. 

Í athugasemd við deiliskipulagsbreytinguna, dags. 23. apríl 2007, kemur fram, með vísan til 56. gr. skipulags- og byggingarlaga, að „óheimilt sé að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hefur verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hefur verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.“  Skipulagsstofnun gerir því athugasemd við að Grímsnes- og Grafningshreppur birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda.“  Þrátt fyrir framangreint birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 17. júlí 2007. 

Skaut kærandi þeirri ákvörðun sveitarstjórnar til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé ólögmæt þar sem óheimilt sé skv. 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hefur verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hefur verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. 

Þegar hafi verið byggt hús á lóðinni nr. 7 við Réttarháls í landi Nesja á ólögmætan hátt.  Því hafi sveitarfélaginu borið a.m.k. að láta fjarlægja hina ólögmætu byggingu áður en skipulaginu hafi verið breytt.  Hin kærða breyting sé því í beinni andstöðu við umrætt lagaákvæði sem beinlínis hafi verið sett til að koma í veg fyrir háttsemi af þessum toga.  Með því að samþykkja breytinguna hafi sveitarfélagið eingöngu verið að koma sér undan bótaskyldu gagnvart eiganda hússins á lóðinni nr. 7.  Verði slík háttsemi talin lögmæt, þrátt fyrir ákvæði 56. gr., verði úrskurðir úrskurðarnefndarinnar nánast markleysa og sú réttarvernd sem borgurunum sé veitt með kæruheimild til nefndarinnar lítil sem engin í sambærilegum tilvikum.  Sveitarfélögin muni þá alltaf velja þá leið sem gert hafi verið í þessu máli. 

Þá telji kærandi ólögmætt að samþykkja breytingu á deiliskipulagi með sérskilmálum fyrir hina umræddu lóð.  Með hliðsjón af reglum stjórnsýslulaga og stjórnsýsluréttar, um samræmi og jafnræði borgaranna, hefði sveitarstjórn borið að endurskoða skilmála alls svæðisins.  Ólögmætt sé að ívilna einum lóðarhafa með rýmri skilmálum en gildi á öðrum lóðum.  Nauðsynlegt sé að skoða áhrif slíkrar breytingar á allt svæðið enda hljóti slík breyting á einni lóð að leiða til breytinga á öðrum m.t.t. reglunnar um jafnræði.  Þessu til stuðnings sé vísað til sjónarmiða og lagaraka sem fram koma í úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 21. desember 2000. 

Deiliskipulagsbreyting á tiltölulega nýlegu deiliskipulagi, eins og sú er hér um ræði, verði að byggja á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum.  Hagsmunir eins lóðarhafa eða landeiganda um aukna nýtingu á landi og rýmri skilmála gegn hagsmunum annarra lóðarhafa á svæðinu geti ekki talist málefnaleg sjónarmið.  Breytingin sé af þessum sökum ólögmæt.  Til stuðnings þessu sé vísað til tveggja álita umboðsmanns Alþingis SUA 727/1992 og SUA 2421/1998 og til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar frá 10. maí 2004 í máli nr. 12 frá 2004. 

Ótvírætt sé að gerð nýrrar lóðar og leyfi til byggingar svo stórs húss á lóðinni, sem raun beri vitni, beint framan við sumarhús kæranda og tiltölulega stutt frá því, brjóti verulega á grenndarrétti hans, m.a. hvað varði útsýni og friðhelgi.  Slík breyting hafi í för með sér lækkun á verðmæti sumarhússins og ónýtingu á framkvæmd sem hann hafi ráðist í til að fá útsýni út á vatnið, þ.e. byggingu kvists.  Með breytingunni séu forsendur hans fyrir kaupum á húsinu á sínum tíma brostnar enda hafi útsýnið og fjarlægð frá öðrum bústöðum á svæðinu verið forsenda kaupanna.  Kærandi telji sig alls ekki hafa mátt eiga von á að breytingar yrðu á þessum grundvallarforsendum er hann hafi fest kaup á bústaðnum á sínum tíma og ráðist í byggingu kvists til að fá útsýni yfir vatnið. 

Framsetning hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar sé ófullnægjandi og ekki í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og skipulagsreglugerðar.  Af fyrirliggjandi gögnum sé ekki hægt að átta sig á því hvaða áhrif breytingin raunverulega hafi.  Þá fylgi breytingunni hvorki myndir, sneiðmyndir eða önnur gögn né skýringar á því hver sé tilgangur og markmið breytingarinnar.  Þá sé bent á að þrátt fyrir það sem á undan sé gengið sé byggingarreitur látinn ná yfir alla lóðina og því heimilt að staðsetja hús nánast hvar sem er á henni. 

Samkvæmt fundargerð sveitarstjórnar frá 7. júní 2007 sé hin kærða deiliskipulagsbreyting ekki tekin sérstaklega fyrir á fundinum heldur hafi þar aðeins verið staðfest fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 22. maí 2007.  Svo virðist því sem deiliskipulagsbreytingin hafi í raun ekki verið samþykkt af sveitarstjórnin.

Með vísan til sjálfstæðrar rannsóknarskyldu úrskurðarnefndarinnar sé þess óskað að nefndin skoði af sjálfsdáðum hvort aðrir annmarkar en kærandi byggi á og gerð sé grein fyrir af hans hálfu eigi að lögum að leiða til ógildingar deiliskipulagsins. 

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps:  Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps er þeim skilningi kæranda mótmælt að hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi verið ólögmæt með vísan til 4. mgr. 56. gr. laga nr. 73/1997, þ.e. að rífa hefði þurft byggingar á lóðinni áður en unnt hafi verið að breyta deiliskipulagi vegna lóðarinnar.  Skipulags- og byggingarnefnd sé ekki skylt að lögum að láta fjarlægja sumarhús á greindri lóð áður en gerð sé breyting á deiliskipulagi, þrátt fyrir að byggingarleyfi hafi verið ógilt löngu eftir útgáfu þess.  Ekki sé unnt að túlka ákvæði 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga með þeim hætti.  Í 56. gr. skipulags- og byggingarlaga sé ekki kveðið með skýrum hætti á um hvernig með skuli fara þegar mannvirki, hafi verið reist á grundvelli byggingarleyfis, sem síðar sé ógilt eða afturkallað.  Engin fyrirmæli séu í greindum lögum sem skyldi byggingarnefnd til að taka ákvörðun um að fjarlægja mannvirki, sem þegar hafi verið reist á grundvelli byggingarleyfis. 

Þá verði að skoða ákvæði 4. mgr. 56. gr. í samhengi við önnur þvingunarúrræði greinarinnar.  Ákvæði 2., 3. og 4. mgr. 56. gr. eigi fyrst og fremst við um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir skv. IV. kafla laga nr. 73/1997 og taki þá fyrst og fremst til framkvæmda, sem hafnar séu án þess að fengin séu tilskilin leyfi.  Ákvæði 4. mgr. geti þ.a.l. ekki átt við í því tilviki er bygging hafi verið reist á grundvelli gilds byggingarleyfis, sem talið hafi verið í samræmi við skipulag og skilmála, á þeim tíma sem leyfið hafi verið veitt.  Ákvæðinu sé fyrst og fremst ætlað að taka á þeim tilvikum þegar framkvæmt sé án allra tilskilinna leyfa.  Sé slík túlkun einnig í samræmi við forsögu þessa lagaákvæðis og tilgang þess.  Þá sé hér um að ræða undantekningarreglu og verði að beita þröngri lögskýringu við túlkun hennar.  Þröng skýring leiði til þess að ákvæðið verði aldrei túlkað á þann veg, sem kærandi krefjist.  Hér verði einnig að hafa í huga að um leið og mannvirki hafi verið reist á grundvelli byggingarleyfis komi til önnur sjónarmið, m.a. um eyðileggingu verðmæta o.fl., sem geti komið í veg fyrir að unnt sé að rífa eða fjarlægja eign, sem reist hafi verið.  Einnig þurfi að líta til skipulagssjónarmiða sem og hagsmuna eiganda þess húss, sem risið sé, en niðurrif eignar væri augljóslega verulega íþyngjandi fyrir hann.  Einnig þurfi að gæta meðalhófs í slíkum ákvörðunum sem og jafnræðisreglu. 

Þá megi einnig benda á að þetta mál hafi tekið langan tíma.  Fyrst hafi umsókn lóðarhafa lóðar nr. 7 við Réttarháls verið tekin fyrir 4. desember 2003.  Framkvæmdir við hús á lóðinni hafi hafist í kjölfar grenndarkynningar, þar sem ekki hafi verið talið að gildandi deiliskipulag frístundabyggðar í Nesjaskógi tæki til lóðarinnar.  Kærandi hafi kært þá ákvörðun með bréfi, dags. 11. maí 2005, en hafi ekki krafist stöðvunar framkvæmda.  Síðan hafi ákvörðun byggingarnefndar frá 4. júní 2004 um veitingu byggingarleyfis verið felld úr gildi með úrskurði uppkveðnum hinn 23. ágúst 2006.  Á þessum tíma hafi risið hús á lóðinni og sé það nú nánast fullklárað.  Vegna þessa, sem og greindra sjónarmiða um túlkun á fyrirmælum skipulags- og byggingarlaga og þess langa tíma sem þetta mál hafi tekið, hafi ekki verið talið skynsamlegt að rífa húsið til þess eins að leyfa uppbyggingu þess að nýju þegar nýtt deiliskipulag hafi tekið gildi. 

Því sé mótmælt að deiliskipulagið samræmist ekki reglum um samræmi og jafnræði.  Þvert á móti hafi við umrædda breytingu verið fylgt eftir þeim athugasemdum sem gerðar hafi verið af hálfu úrskurðarnefndar í úrskurði nefndarinnar frá 23. ágúst 2006 en þar segir svo:  „Þegar sveitarstjórn barst erindi um heimild til byggingar sumarhúss á hinu óbyggða svæði samkvæmt deiliskipulaginu frá árinu 1993 bar henni að auglýsa breytingu á skipulaginu skv. 1. mgr. 25. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 18. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 eða að lágmarki að grendarkynna breytinguna fyrir hagsmunaaðilum skv. 2. mgr. 26. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. laganna, þar sem gert væri ráð fyrir lóðinni nr. 7 við Réttarháls og byggingarreit innan hennar, sbr. 26. gr. sömu laga. Bar og að auglýsa gildistöku skipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda að undangenginni lögboðinni afgreiðslu Skipulagsstofnunar.“  Að baki afgreiðslu sveitarfélagsins hafi því búið lögmæt sjónarmið.  Þá hafi ekki verið fært, við þá aðstöðu sem komin hafi verið upp, að láta fjarlægja sumarhúsið að Réttarhálsi 7.  Sveitarstjórn hafi talið rétt að auglýsa umrædda breytingu og hafi þá metið hagsmuni aðila, þ.e. annars vegar meint tjón nágranna, þ. á m. kæranda, og hins vegar byggingarkostnað þeirrar byggingar sem fyrir sé og hugsanlegan kostnað og eyðileggingu verðmæta yrði byggingin fjarlægð sem og röskun og óþægindi sem slíkt myndi hafa í för með sér.  Hafi þar verið um lögmætt og málefnalegt mat að ræða, sem nauðsynlegt hafi verið að viðhafa í þeirri sérstöku stöðu sem þetta mál hafi verið komið í eftir ógildingu byggingarleyfis tveimur og hálfu ári eftir veitingu þess. 

Þá sé mótmælt þeirri staðhæfingu kæranda að um sé að ræða grundvallarbreytingu á nýlegu skipulagi.  Skipulag Nesja sé frá árinu 1993.  Fordæmi það sem kærandi vísi til varðandi úrskurð úrskurðarnefndarinnar vegna Fróðaþings 20 eigi hér ekki við, enda aðstæður ekki sambærilegar. 

Á því sé byggt að breyting á skilmálum hafi ekki neikvæð áhrif á grenndarrétt kæranda og skerði ekki hagnýtingu hans á eign sinni.  Telji kærandi sig hins vegar verða fyrir tjóni þá geti hann haft uppi bótakröfu á grundvelli 33. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Kynning á deiliskipulagsbreytingunni hafi farið fram með þeim hætti sem skipulags- og byggingarlög kveði á um.  Ekki sé fallist á að hún hafi verið ófullnægjandi eða að íbúar sveitarfélagsins eða aðrir hagsmunaaðilar, þ. á m. kærandi, hafi ekki getað kynnt sér tillöguna eða áttað sig á efni hennar. 

Vegna umfjöllunar kæranda um byggingarreit sé rétt að minna á að húsið á lóðinni sé þegar risið og nánast fullklárað, þannig að staðsetning þess á byggingarreitnum sé augljós. 

Að lokum sé á það bent að fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 22. maí 2007 hafi verið staðfest af sveitarstjórn á fundi 7. júní 2007, sbr. 2. tl. a-liðs, þar sem segi:  „2. Fundargerðir.  a)  37. fundur skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu, 22.05.07.  Varðandi lið 12 þá beinir sveitarstjórn því til byggingaraðila að heppilegt sé að láta afmarka lóð undir húsið.  Sveitarstjórn samþykkir fundargerðina.“ 

Málsrök lóðarhafa Réttarháls 7:  Af hálfu lóðarhafa Réttarháls 7 er vísað til þess að hann hafi aldrei séð neitt varðandi leyfi kæranda til að byggja við sumarhús hans á lóðinni nr. 8.  Því velti lóðarhafi því fyrir sér hvort kærandi hafi í raun fengið leyfi til að fara í þá framkvæmd. 

Þá sé því mótmælt sem haldið sé fram af hálfu kæranda að með því að samþykkja hina kærðu breytingu sé sveitarfélagið að koma sér undan bótaskyldu.  Byggingaryfirvöld hafi starfað jákvætt að þessum málum eins og þeim beri að gera og ekki litið til eigin hagsmuna. 

Bent sé á að hús lóðarhafa standi ekki fyrir framan hús kæranda.  Húsið snúi ekki eins og látið sé að liggja.  Það sé kvistur á húsi kæranda sem snúi að húsi lóðarhafa og hafi hann ekki verið á húsinu þegar það hafi verið byggt.  Einnig sé bent á að lóðir húsanna liggi ekki saman og að fjarlægð á milli þeirra sé talsverð, í öllu falli talsvert meiri en látið sé að liggja í greinargerðinni. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 22. september 2005 í tilefni fyrra kærumáls. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 7. júní 2007 um breytt deiliskipulag frístundabyggðar í landi Nesja í Grímsnes- og Grafningshreppi.  Í hinni kærðu breytingu felst að deiliskipulagi frá árinu 1993 er breytt á þann veg að innan svæðisins er afmörkuð ný lóð, Réttarháls nr. 7, þar sem má reisa allt að 185 m² frístundahús. 

Af hálfu kæranda er því m.a. haldið fram að svo virðist sem deiliskipulagsbreytingin hafi ekki verið samþykkt í sveitarstjórn.  Á þetta verður ekki fallist.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 22. maí 2007 var tillagan afgreidd frá nefndinni með bókun í fundargerð og á fundi sveitarstjórnar hinn 7. júní s.á. var fundargerð þessi samþykkt.  Verður því að telja að með þeirri staðfestingu hafi sveitarstjórn tekið lokaákvörðun um hina kærðu deiliskipulagsbreytingu.  Þá verður ekki heldur fallist á það með kæranda að framsetning hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar sé svo áfátt að ógildingu varði. 

Samkvæmt 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 ber að stöðva framkvæmdir við byggingarleyfisskylda framkvæmd sem hafin er með stoð í byggingarleyfi sem brýtur í bága við skipulag og skal hin ólöglega bygging síðan fjarlægð.  Jafnframt segir í 4. mgr. 56. gr. að óheimilt sé að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hefur verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.

Ekki hefur reynt á stjórnskipulegt gildi tilvitnaðra ákvæða fyrir dómi og telur úrskurðarnefndin að fortakslaust orðalag þeirra verði ekki skýrt á annan veg en þann að sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps hafi verið óheimilt að samþykkja tillögu að breyttu deiliskipulagi svæðisins við þær aðstæður sem fyrir hendi voru í hinu kærða tilviki.  Verður hin umdeilda deiliskipulagsbreyting því felld úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Samþykkt sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 7. júní 2007, um breytt deiliskipulag frístundabyggðar í landi Nesja, er felld úr gildi. 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

___________________________          _____________________________
  Ásgeir Magnússon                                  Þorsteinn Þorsteinsson
 

131/2007 Kiðjaberg

Með

Ár 2008, þriðjudaginn 8. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 131/2007, kæra á ákvörðunum byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu frá 25. september 2007 um að veita byggingarleyfi fyrir sumarhúsum á lóðunum nr. 109 og 112 í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. október 2007, er barst nefndinni samdægurs, kærir Ívar Pálsson hdl., f.h. Þ og Þ, Glaðheimum 14, Reykjavík, eigenda sumarhúss á lóðinni nr. 111 í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi þær ákvarðanir byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu frá 25. september 2007 að veita leyfi fyrir byggingu sumarhúsa á lóðunum nr. 109 og 112 í landi Kiðjabergs.  Voru framangreindar ákvarðanir staðfestar á fundi sveitarstjórnar hinn 4. október 2007.    

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi ásamt því að byggingarleyfishöfum verði gert að afmá framkvæmdir af lóðunum.  Þá var og gerð krafa um að úrskurðarnefndin kvæði upp til bráðabirgða úrskurð um stöðvun framkvæmda, en með úrskurði nefndarinnar hinn 11. október 2007 var þeirri kröfu hafnað.   

Málavextir:  Kærumál þetta á sér nokkurn aðdraganda en sumarið 2006 kærðu kærendur máls þessa til úrskurðarnefndarinar ákvarðanir sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps um að heimila byggingu sumarhúsa á lóðunum nr. 109, 112 og 113 í landi Kiðjabergs.  Voru framkvæmdir stöðvaðar með bráðabirgðaúrskurði nefndarinnar uppkveðnum hinn 2. ágúst 2006, en síðar var kærumálunum vísað frá þar sem sveitarstjórn hafði afturkallað hinar kærðu ákvarðanir og tekið nýjar í þeirra stað.  Á fundi byggingarnefndar hinn 17. október 2006 voru ný leyfi gefin út fyrir byggingu húsanna og hinn 27. febrúar 2007 var samþykkt nýtt byggingarleyfi fyrir sumarhúsinu á lóðinni nr. 112.  Framangreindum samþykktum skutu kærendur til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði uppkveðnum hinn 4. júlí 2007 felldi úr gildi byggingarleyfi fyrir byggingu sumarhúsa á lóðunum nr. 109 og 112 þar eð ekki var talið að þau styddust við gildandi deiliskipulag svæðisins en hafnaði kröfu kærenda um ógildingu byggingarleyfis fyrir sumarhúsi á lóð nr. 113.  Í kjölfar þessa var auglýst breyting á deiliskipulagi svæðis þess er um ræðir og hún samþykkt í sveitarstjórn 6. september 2007.  Á fundi byggingarnefndar hinn 25. september 2007 voru síðan samþykkt ný leyfi til bygginga á lóðunum nr. 109 og 112 með stoð í fyrrgreindri deiliskipulagsbreytingu.  Hafa kærendur nú skotið þeim samþykktum til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að gildi byggingarleyfanna velti á gildi deiliskipulagsbreytingarinnar sem einnig hafi verið kærð til úrskurðarnefndarinnar.  Verði deiliskipulagsbreytingin felld úr gildi leiði það til þess að fella beri hin kærðu byggingarleyfi úr gildi.  Í því sambandi nægi að benda á að húsin samræmist ekki eldri skilmálum, eingöngu fyrir þær sakir að þau séu stærri en eldri skilmálarnir heimili.  Hámarksstærð húsa samkvæmt eldri skilmálum séu 60 m².  Húsið á lóðinni nr. 109 sé 108,8 m². að stærð og húsið á lóðinni nr. 112 sé 179,1 m² samkvæmt fundargerð byggingarnefndar.  

Að auki telji kærendur að umrædd hús séu ekki einu sinni í samræmi við hina kærðu deiliskipulagsbreytingu eða skipulag svæðisins að öðru leyti eins og því hafi verið breytt.  Þannig sé húsið nr. 109 utan byggingarreits svo eitthvað sé nefnt.  Telji kærendur nauðsyn á því að staðsetning húsanna verði mæld upp svo þetta liggi fyrir.

Jafnframt sé bent á að samkvæmt hinum nýju skilmálum skuli nýta landkosti sem best og fella byggingar vel að landslagi.  Hvorugt húsanna teljist uppfylla þetta skilyrði.  Þannig hafi verið byggður einn sá stærsti púði sem sést hafi undir húsið á lóðinni nr. 112.  Þá hafi lóðin á nr. 109 verið hækkuð upp og löguð að húsinu en ekki öfugt auk þess sem aðkoma að húsinu sé ekki í samræmi við skipulag.  Þá eigi litir á veggjum að vera jarðlitir sem falla eigi vel að landslagi.  Telji kærendur að ráðgert sé að setja állitaða klæðningu á húsið nr. 109. 

Þá liggi einnig fyrir að húsin á lóðunum nr. 109 og 112 hafi verið reist í andstöðu við gildandi deiliskipulag.  Óheimilt sé skv. 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hafi verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.  Húsin hafi ekki verið fjarlægð.  Þvert á móti hafi verið unnið í og við húsin þrátt fyrir að úrskurðarnefndin hafi fellt byggingarleyfi þeirra úr gildi hinn 4. júlí 2007.   

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps:  Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps er vísað til þess að hin kærðu byggingarleyfi séu lögmæt og í samræmi við gildandi deiliskipulag og skilmála.  Kærendur geri ekki grein fyrir því með skýrum hætti að hvaða leyti leyfin séu andstæð gildandi skipulagi og/eða skilmálum. 

Órökstuddum staðhæfingum þess efnis að hús á lóð nr. 109 sé ekki innan byggingarreits sé hafnað.  Sama gildi um aðkomu að því húsi.  Reyndar verði ekki séð hvernig það tengist veitingu byggingarleyfisins sem slíks.  Hús á lóð nr. 112 sé einnig innan byggingarreits. Jarðvegspúði sé innan reitsins og taki einfaldlega mið af aðstæðum í landinu.

Athugasemdir kærenda lúti fyrst og fremst að deiliskipulaginu, sem tekið hafi gildi hinn 23. ágúst 2006, varðandi stærðir lóða og byggingarreiti, og þar með hvort byggingarleyfin samrýmist því skipulagi.  Bent sé á að kæran taki einungis til skilmálanna, þ.e. stærðar húsa á svæðinu, en kæru varðandi deiliskipulagið hafi verið vísað frá úrskurðarnefndinni.  Stoði því ekki fyrir kærendur að vísa til kæru sinnar frá 24. september 2007 til stuðnings þessum málsástæðum sínum.

Byggt sé á því að gildandi deiliskipulag sé lögmætt og málsmeðferð við afgreiðslu þess í samræmi við skipulags- og byggingarlög.  Hið sama gildi um skilmála skipulagsins. 

Þá sé mótmælt þeim skilningi kærenda að breyting á skipulagsskilmálum hafi verið ólögmæt með vísan til 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þ.e. að rífa hefði þurft byggingar á lóðum nr. 109 og 112 áður en unnt hefði verið að breyta skipulagi svæðisins.

Vakin sé sérstök athygli á því að umræddar byggingar séu í samræmi við deiliskipulagsbreytingu þá er öðlast hafi gildi hinn 23. ágúst 2006.  Sú breyting hafi m.a. falið í sér að lóðarmörkum og byggingarreitum á næstum lóðum og í nágrenni við lóð  kærenda hafi verið breytt.  Ágreiningurinn nú standi einungis um skilmálana sem slíka, þ.e. stærðir húsa á öllum sumarhúsalóðum í landi Kiðjabergs.  Það eitt leiði til þess að hafna beri þessum málatilbúnaði. 

Framkvæmdir við hús á umræddum lóðum hafi verið taldar í samræmi við gildandi skipulag.  T.d. megi benda á að framkvæmdir við hús á lóð nr. 112 hafi hafist eftir að breytingar á skilmálum deiliskipulagsins hafi tekið gildi haustið 2006.  Frá þeim tíma og allt til 4. júlí 2007 hafi framkvæmdirnar verið í samræmi við byggingarleyfi og gildandi deiliskipulag.  Enn fremur megi nefna að neikvæð áhrif framkvæmda á lóðunum fyrir hagsmuni kærenda séu óveruleg. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað.  Byggingarleyfishafar hafi í höndunum útgefin byggingaleyfi af þar til bærum byggingaryfirvöldum.  Á grundvelli þeirra leyfa hafi byggingarleyfishafar hafið framkvæmdir á ný en þær hafi legið niðri frá því sumarið 2007, eða þar til nýtt deiliskipulag svæðisins hafi tekið gildi.  Það deiliskipulag hafi ekki verið fellt úr gildi og meðan svo sé ástatt hnígi engin rök til þess að fella byggingarleyfin úr gildi. 

Harðlega sé mótmælt kröfu kærenda um að byggingarleyfishöfum verði gert að afmá framkvæmdir af lóðunum.  Húsin eins og þau standi nú séu að fullu í samræmi við samþykkt deiliskipulag.  Kærendur hafi gert ágreining varðandi skilmála núverandi deiliskipulags, þ.e. varðandi stærð húsa, litaval og þess háttar, en sá ágreiningur geti engan veginn réttlætt niðurrif mikilla verðmæta, sem byggingarleyfishafar hafi lagt fram fé og vinnu til að skapa á lögmætan hátt.  Vernd stjórnarskrárinnar á eignarrétti einstaklinga komi auk þess í veg fyrir að unnt sé að fallast á þessa kröfugerð kærenda. 

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök fyrir kröfugerð sinni sem ekki verða reifuð hér frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um leyfi er sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps hefur veitt til byggingar tveggja sumarhúsa í landi Kiðjabergs. 

Eins og að framan er rakið er krafa kærenda um ógildingu hinna umdeildu byggingarleyfa m.a. studd þeim rökum að leyfin eigi stoð í deiliskipulagsbreytingum sem þeir telji ólögmætar og hafi kært til úrskurðarnefndarinnar til ógildingar.  Úrskurðarnefndin hefur með úrskurði fyrr í dag fallist á kröfu kærenda um ógildingu deiliskipulagsbreytingar þeirrar er öðlaðist gildi hinn 24. september 2007, en í þeirri ákvörðun fólst m.a. breyting á ákvæðum skipulagsskilmála um hámarkshæð og stærð  sumarhúsa á skipulagssvæðinu.  Kemur því til skoðunar hvort hin kærðu byggingarleyfi séu að efni til í samræmi við heimildir deiliskipulags á svæðinu varðandi hámarksstærð sumarhúsa eins og þær voru fyrir gildistöku umræddrar breytingar.
 
Í gildi er deiliskipulag frá árinu 1990 með áorðnum breytingum er lýtur m.a. að lóðaskipan á svæðinu, stærð lóða, húsa og byggingarreita.  Um stærð húsa segir í deiliskipulagsskilmálum:  „Um hámarksstærðir bústaða og önnur almenn sérákvæði vísast til greinar 6.10.4.6 í byggingarreglugerð frá ágúst 1989.“  Í hinu tilvitnaða reglugerðarákvæði sagði m.a. að sumarbústaðir skyldu að jafnaði vera á einni hæð og skyldu þeir ekki vera stærri en 60 m², meðallofthæð ekki minni 2,2 m, vegghæð mest 3,0 m og hæð mænis frá jörðu mest 4,5 m.  Sambærilegt ákvæði um hámarksstærð sumarhúsa er ekki  að finna í núgildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998 en eðlilegast er að túlka gildandi skipulag á þann veg að áfram hafi gilt þau 60 m² stærðarmörk sem vísað var til, enda leiðir breyting á byggingarreglugerð ekki sjálfkrafa til breytingar á gildandi skipulagsákvörðunum.  Verður því við það að miða að á umræddu svæði hafi ekki verið mátt heimila byggingu sumarhúsa sem væru yfir 60 m² að flatarmáli.

Samkvæmt hinum kærðu byggingarleyfum er heimilað að reisa 179,1 m² hús á lóð nr. 112 og 108,8 m² hús á lóð nr. 109, að hluta á tveimur hæðum, ásamt 18,1 m² geymslu.  Af framangreindu má ljóst vera að leyfi fyrir byggingum á lóðum nr. 109 og 112 eru ekki í samræmi við gildandi ákvæði skipulags um hámarksstærð.  Var útgáfa leyfanna því í andstöðu við ákvæði  2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, þar sem áskilið er að byggingarleyfi skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag og verða þau því felld úr gildi.

Krafa kærenda um að byggingarleyfishöfum verði gert að afmá framkvæmdir af lóðum sínum hefur ekki komið til úrlausnar á lægra stjórnsýslustigi og liggur því ekki fyrir nein kæranleg ákvörðun um þá kröfu.  Verður henni því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Ákvarðanir byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu frá 25. september 2007, um að veita leyfi fyrir byggingu sumarhúsa á lóðunum nr. 109 og 112 í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi, eru felldar úr gildi.

Kröfu kærenda um að byggingarleyfishöfum verði gert að afmá framkvæmdir af lóðum sínum er vísað frá úrskurðarnefndinni.    

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

  _______________________________                     _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                       Þorsteinn Þorsteinsson

29/2006 Miðengi

Með

Ár 2007, miðvikudaginn 5. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 29/2006, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 22. mars 2006 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi lóðar nr. 200 í landi Miðengis við Álftavatn.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. apríl 2006, er barst nefndinni hinn 21. sama mánaðar, kærir Hulda Rós Rúriksdóttir hdl., f.h. H, eiganda lóðar nr. 60 í landi Miðengis, þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 22. mars 2006 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi frístundalóðar nr. 200 við 5. braut í landi Miðengis við Álftavatn.  Liggur lóð kæranda samhliða lóð þeirri sem deiliskipulagið tekur til.  Auglýsing um gildistöku breytts deiliskipulags lóðarinnar var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 19. maí 2006 að undangenginni lögboðinni afgreiðslu Skipulagsstofnunar.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Árið 2002 var samþykkt tillaga að deiliskipulagi lóðar nr. 200 í landi Miðengis sem er í frístundabyggð í Grímsnes- og Grafningshreppi.  Samkvæmt hinu samþykkta deiliskipulagi var gert ráð fyrir að reisa mætti frístundahús á lóðinni að hámarksstærð 380 fermetrar en einnig var heimilað að byggja allt að 50 fermetra gróðurhús, allt að 30 fermetra garðskála og allt að 10 fermetra opinn skála.  Var gert ráð fyrir byggingum á þremur byggingarreitum innan lóðarinnar en lóðin er 24.418 fermetrar að stærð. 

Á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 17. nóvember 2005 var lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi ofangreindrar lóðar.  Í tillögunni var meðal annars gert ráð fyrir því að hámarksstærð frístundahúss yrði 496 fermetrar, þar með talið glerskáli, inntaksrými og niðurgrafinn geymslukjallari.  Einnig var gert ráð fyrir  bílskúr sem ekki skyldi vera stærri en 64 fermetrar og gestahúsi, ekki stærra en 86 fermetra, bæði einnar hæðar.  Samkvæmt uppdrætti deiliskipulagsins var frístundahúsinu markaður staður á byggingarreit 1 sem og bílskúr og gestahúsi.  Húsunum skyldi koma fyrir á milli og utan í hæðum og á milli gróðurbelta til að þau yrðu minna áberandi.  Mænishæð frístundahússins yfir aðalgólfi átti ekki að vera meiri en 6,8 metrar, líkt og í samþykktu skipulagi, og mest 4,6 metrar yfir aðalgólfi bílskúrs og gestahúss.  Þá var heimiluð bygging gróðurhúss, garðskála og opins skála sem fyrr.

Var samþykkt á fyrrgreindum fundi skipulagsnefndar að heimilt væri að auglýsa tillöguna.  Hinn 7. desember s.á. var á fundi sveitarstjórnar lögð fram fundargerð skipulagsnefndar og hún staðfest.

Tillagan var auglýst til kynningar frá 11. janúar til 8. febrúar 2006 og var frestur til að skila inn athugasemdum veittur til 22. febrúar s.á.  Sendi lögmaður kæranda inn athugasemdir með bréfi dags. 20. febrúar 2006 f.h. kæranda og fjölmargra annarra eigenda sumarhúsa á svæðinu.  Auk þess bárust athugasemdir frá tveimur öðrum aðilum.

Á fundi sveitarstjórnar hinn 8. mars 2006 var tillagan tekin fyrir að nýju og eftirfarandi bókun gerð: „Tillagan gerir ráð fyrir því að hámarksstærð frístundahúss verði 496 m² í stað 380 m². Einnig er gert ráð fyrir 64 m² bílskúr og 86 m² sumarhúsi sem munu standa á sérlóð innan marka skipulagsins“.  Jafnframt var eftirfarandi bókað á fundinum:  „Hins vegar má taka undir það sjónarmið að hugsanlega þarf að marka stefnu varðandi byggingarmagn, sér í lagi í þegar byggðum hverfum.“

Voru lagðar fram athugasemdir sem borist höfðu frá tveimur aðilum og þeim svarað en ekki athugasemdum kæranda o.fl.  Taldi sveitarstjórn ekki ástæðu til annars en að samþykkja fyrirliggjandi tillögu með vísan til þeirra raka sem sett hefðu verið fram í svari til þeirra er athugasemdirnar gerðu. 

Í kjölfarið gerði kærandi kröfu um að málið yrði endurupptekið á næsta fundi sveitarstjórnar og að fram færi umfjöllun um athugasemdir hans áður en endanleg ákvörðun yrði tekin í málinu.  Á fundi sveitarstjórnar hinn 22. mars 2006 voru athugasemdir kæranda teknar til skoðunar og meðal annars bókað svo: „…..þó svo að húsið sé stærra heldur en gengur og gerist í sumarhúsahverfinu við 5. braut, fellur það vel að umhverfi og byrgir ekki útsýni manna enda er trjágróður á svæðinu gamall og gróinn og stendur í mörgum tilfellum mun hærra heldur en viðkomandi bygging.  Einnig má benda á að lóð nr. 200 er um 24.400 m² þannig að fyrirhugaðar byggingar rúmast mjög vel innan lóðar.“   Var tillaga að breyttu deiliskipulagi samþykkt.

Í bréfi Skipulagsstofnunar til sveitarstjórnar, dags. 27. apríl 2006, var tekið fram að stofnunin gerði ekki athugasemdir við að sveitarfélagið auglýsti ofangreinda samþykkt en teldi þó að samþykktin gæfi fordæmi fyrir aðrar frístundahúsalóðir, a.m.k. í Miðengislandinu.  Var það álit stofnunarinnar að samþykktin gæfi sveitarstjórn tilefni til að vinna deiliskipulag fyrir umrætt hverfi og marka stefnu um stærð frístundahúsa í sveitarfélaginu.  Jafnframt var bent á að sveitarstjórn hefði virst vera á þeirri skoðun í svari sínu vegna framkominna athugasemda við tillöguna.

Ofangreindri ákvörðun skaut kærandi til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að þeir sem hafi gert athugasemdir við framlagða tillögu að deiliskipulagi eigi allir sumarhús á svæðinu sem séu í samræmi hvert við annað og það sem tíðkist almennt í slíkum sumarhúsalöndum.  Um fjölmarga aðila sé að ræða en ekkert tillit hafi verið tekið til framlagðra athugasemda þeirra. 

Kærandi telji að ekki hafi verið gætt ákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 um réttaröryggi, samanber ákvæði 3. mgr. 1. gr. laganna og gr. 1.1 í tilgreindri reglugerð.  Þá segi í gr. 6.2.3 og gr. 6.3.3 í fyrrgreindri reglugerð að auglýsa skuli tillögu að deiliskipulagi og að liðnum fresti til athugasemda skuli sveitarstjórn fjalla um skipulagstillöguna að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar þar sem taka skuli afstöðu til athugasemda sem borist hafi.  Málsmeðferð við umfjöllun og ákvarðanatöku sveitarstjórnar í máli þessu hafi ekki verið í samræmi við fyrrgreind ákvæði skipulagsreglugerðar en umfjöllun um athugasemdir kæranda hafi ekki farið fram fyrr en á fundi sveitarstjórnar hinn 22. mars 2006 eftir að kærandi hafði óskað þess að málið yrði tekið fyrir að nýju. 

Samkvæmt 9. gr. laga nr. 73/1997 skulu svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi.  Ekki liggi fyrir skriflegir skilmálar um leyfilegar framkvæmdir á svæðinu í landi Miðengis en óumdeilanlega hafi sumarhúsasvæðið verið nær óbreytt í tugi ára.  Sumarhús sé á hverri lóð og því nægi að skoða svæðið til að sjá hvernig landnotkun hafi verið.  Í öllum tilvikum sé um að ræða hefðbundin sumarhús, sem séu öll að svipaðri stærð eða í kringum 60-70 fermetrar, og í nokkrum tilvikum hafi verið byggðar geymslur á lóðum.  Um sé að ræða eldri hús sem hafi verið löguð til.  Það leiði af eðli máls og meginreglum skipulags- og byggingarlaga og skipulags- og byggingarreglugerða að þegar um sé að ræða fullbyggt svæði þrengi það heimildir sveitarstjórnar til að samþykkja breytingu á deiliskipulagi einnar lóðar.  Umhverfi viðkomandi lóðar og einnig næstu lóðar hafi skapað það svigrúm sem sé til slíkra breytinga.  Í því tilviki sem hér um ræði liggi skipulag svæðisins í landi Miðengis ljóst fyrir.  Allir sumarbústaðir á svæðinu séu að hámarki 80-100 fermetrar og í mesta lagi um geymsluskúra að ræða á lóðum auk sumarhúss. 

Kærandi bendi jafnframt á málavexti í máli nr. 5/1999 hjá úrskurðarnefndinni þar sem byggingarleyfi vegna sumarhúss hafi verið fellt úr gildi þar sem húsið hafi stungið svo í stúf við önnur sumarhús á svæðinu að ekki samræmdist áskilnaði um lágmarkssamræmi við gildandi skipulagsskilmála á því svæði.

Röksemdir sveitarstjórnar fyrir samþykkt hinnar kærðu ákvörðunar séu haldlausar og ekki í samræmi við ákvæði laga og reglugerða á sviði byggingar- og skipulagsmála.  Ekkert í bréfi sveitarstjórnar rökstyðji þau frávik sem hún heimili með samþykki sínu frá því skipulagi sem þegar sé á svæðinu.  Röksemdirnar séu auk þess óviðeigandi þegar litið sé til þess að það sé lögbundið hlutverk sveitarstjórnar að gæta þess að byggt sé í samræmi við gildandi deiliskipulag, sbr. ákvæði 2. mgr. 38. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps:  Gerð er sú krafa að hafnað verði kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Öll afgreiðsla og meðferð málsins hafi verið í samræmi við lög nr. 73/1997.  Þá verði að hafa í huga að árið 2002 hafi deiliskipulagi fyrir viðkomandi lóð verið breytt og verði því að meta breytingar á skipulagi lóðarinnar út frá þeim viðmiðum.  Ekki hafi borist athugasemdir við þá tillögu né verið hafðar uppi kröfur á grundvelli 33. gr. laga nr. 73/1997 vegna þeirrar breytingar.

Tilvísun í mál nr. 5/1999 eigi ekki við í tilviki því sem hér sé til skoðunar en í því máli hafi byggingarleyfi ekki verið í samræmi við skipulagsskilmála auk annarra galla á málsmeðferð en hér sé um að ræða breytingu á deiliskipulagi sem farið hafi verið með sem nýtt deiliskipulag í samræmi við fyrirmæli laga nr. 73/1997.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi breytingar á deiliskipulagi vegna frístundalóðar nr. 200 í landi Miðengis við Álftavatn.  Á svæðinu er í gildi Aðalskipulag Grímsnes- og Grafningshrepps 2002-2014 sem staðfest var af umhverfisráðherra hinn 28. apríl 2003.  Samkvæmt greinargerð þess er Miðengi skilgreint sem sumarhúsasvæði á byggingarstigi C, það er uppbygging hafin, en aðeins hefur verið samþykkt deiliskipulag vegna lóðar nr. 200 við 5. braut í landi Miðengis sem hin kærða breyting varðar.

Á árinu 2002 tók gildi deiliskipulag vegna lóðar nr. 200 þar sem heimiluð var bygging allt að 380 fermetra frístundahúss á lóðinni, auk gróðurhúss, garðskála og opins skála og var stærð aðalhússins langt umfram það sem tíðkaðist á nærliggjandi lóðum. Hefur þessu deiliskipulagi ekki verið hnekkt og er það því bindandi fyrir stjórnvöld og borgara skv. gr. 6.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.

Í skipulagsákvörðun þeirri sem nú sætir kæru til úrskurðarnefndarinnar er gert ráð fyrir auknu byggingarmagni á lóðinni þannig að hámarksstærð frístundahúss verði 496 fermetrar í stað 380 fermetra.  Jafnframt er heimiluð bygging bílskúrs, ekki stærri en 64 fermetra, og gestahúss að hámarksstærð 86 fermetra, auk áður leyfðra bygginga á lóðinni.  Skal, samkvæmt framlögðum teikningum, m.a. stækka svefnherbergjahluta hússins til suðurs sem nemur einum kvisti, um 3,8m, alls 38m² og gera garðstofu framan við stofu.

Af málsgögnum má ráða að heimiluð stækkun frístundahússins og breytingar á því muni ekki breyta ásýnd þess verulega.  Ekki verður heldur talið að þær nýju byggingar sem heimilað er að reisa á lóðinni samkvæmt hinni kærðu ákvörðun muni stinga verulega í stúf við umhverfi sitt umfram það sem upphaflegar byggingar gerðu.  Verður og að líta til þess að nýtingarhlutfall lóðarinnar telst ekki hátt með tilliti til stærðar hennar sem er um tveir og hálfur hektari.  Þá eru ekki ákvæði um hámarksstærð frístundahúsa í Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2002-1014 og er hin kærða breyting á deiliskipulagi því ekki í andstöðu við aðalskipulagið hvað það varðar.  

Vegna þeirrar málsástæðu kæranda að ekkert tillit hafi verið tekið til framkominna athugasemda á kynningartíma tillögunnar þykir rétt að benda á að áskilið er í lögum að tekin sé afstaða til athugasemda en ekki er gerð krafa um að orðið skuli við þeim.  Fyrir liggur að sveitarstjórn svaraði framkomnum athugasemdum  áður en meðferð málsins lauk og verður ekki talið að dráttur á því að svara athugasemdunum eigi að leiða eigi til ógildingar ákvörðunarinnar.

Að öllu framangreindu virtu verður að líta svo á að hin kærða ákvörðun feli ekki í sér svo neikvæð grenndaráhrif eða raski hagsmunum annarra lóðarhafa á svæðinu með þeim hætti að fella beri hina kærðu breytingu á deiliskipulagi úr gildi.  Þá verður ekki séð að aðrir þeir annmarkar séu fyrir hendi sem leitt geti til slíkrar niðurstöðu.  Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 22. mars 2006 um breytingu á deiliskipulagi lóðar nr. 200 við 5. braut í landi Miðengis við Álftavatn, Grímsnes- og Grafningshreppi.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________             _________________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson

 

131/2007 Kiðjaberg

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 11. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 131/2007, kæra á ákvörðunum byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu frá 25. september 2007 um að heimila byggingu sumarhúsa á lóðunum nr. 109 og 112 á orlofs- og sumarhúsasvæði í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. október 2007, er barst nefndinni með símbréfi samdægurs, kærir Ívar Pálsson hdl., f.h. Þ og Þ, til heimilis að Glaðheimum 14 í Reykjavík, eigenda sumarhúss á lóðinni nr. 111 í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi þær ákvarðanir byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu frá 25. september 2007 að heimila byggingu sumarhúsa á lóðunum nr. 109 og 112.  Voru framangreindar ákvarðanir staðfestar á fundi sveitarstjórnar hinn 4. október 2007.

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi ásamt því að kveðinn verði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda þar til endanleg niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu.  Er krafan um stöðvun framkvæmda nú tekin til úrskurðar. 

Málsatvik og rök:  Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 4. júlí 2007 voru felld úr gildi leyfi til byggingar sumarhúsa á lóðunum nr. 109 og 112 á orlofs- og sumarhúsasvæði í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi þar sem þau voru talin vera í andstöðu við deiliskipulag svæðisins.  Á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 12. júlí 2007 var ákveðið að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagsskilmálum svæðisins er vörðuðu stærð og útlit húsa og var hún auglýst í kjölfarið.  Var tillögunni andmælt af hálfu kærenda.  Á fundi hreppsnefndar hinn 6. september 2007 var tillagan samþykkt.  Með bréfi Skipulagsstofnunar til hreppsnefndarinnar, dags. 21. september 2007, lagðist stofnunin gegn auglýsingu um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar.  Eigi að síður birtist auglýsing um gildistökuna í B-deild Stjórnartíðinda hinn 24. september 2007.  Skutu kærendur ákvörðun hreppsnefndar um breytt deiliskipulag svæðisins til úrskurðarnefndarinnar og er það mál nú til meðferðar hjá nefndinni. 

Á fundi byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 25. september 2007 var samþykkt að heimila byggingu sumarhúsa á lóðunum nr. 109 og 112 í landi Kiðjabergs og staðfesti hreppsnefnd þær ákvarðanir á fundi hinn 4. október 2007.  Kærendur hafa nú skotið þeim ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Af hálfu kærenda er vísað til þess að þau hafi áður kært til úrskurðarnefndarinnar ákvörðun hreppsnefndar um breytt deiliskipulag er m.a. taki til lóðanna nr. 109 og 112 í landi Kiðjabergs og krafist ógildingar hennar.  Verði deiliskipulagsbreytingin felld úr gildi leiði það til þess að jafnframt beri að fella hin kærðu byggingarleyfi úr gildi.  Að auki séu hin kærðu byggingarleyfi ekki í samræmi við hina áður kærðu samþykkt um breytt deiliskipulag. 

Þá liggi fyrir að húsin á lóðunum nr. 109 og 112 hafi verið reist í andstöðu við deiliskipulag.  Óheimilt sé, samkvæmt 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, að breyta deiliskipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging eða byggingarhluti hafi verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.  Húsin hafi ekki verið fjarlægð, þvert á móti hafi verið unnið í og við þau þrátt fyrir úrskurð úrskurðarnefndarinnar er fellt hafi byggingarleyfi þeirra úr gildi.     

Kröfu sína um stöðvun framkvæmda byggi kærendur á 6. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Hinar leyfðu framkvæmdir séu augljóslega verulega frábrugðnar gildandi skipulagi, hvort sem miðað sé við eldri eða nýrri skilmála.  Framkvæmdir á svæðinu hafi þegar verið látnar ganga allt of langt á grundvelli ólögmætra skipulagsákvarðana, ólögmætra byggingarleyfa og vegna ólögmæts afskiptaleysis sveitarstjórnaryfirvalda. 

Nauðsynlegt sé í ljósi forsögu málsins og háttsemi sveitarstjórnar og byggingaraðila að stöðva þegar allar framkvæmdir við húsin þar til efnislega hafi verið leyst úr ágreiningnum.  Með nútímatækni geti byggingarframkvæmdir gengið mjög hratt fyrir sig.  Verði framkvæmdir ekki stöðvaðar nú þegar geti það leitt til enn frekari réttarspjalla fyrir kærendur og hugsanlega haft áhrif á niðurstöðu málsins að lokum. 
 
Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps er þess krafist að kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda verði synjað enda séu hin kærðu byggingarleyfi í samræmi við lögformlegt skipulag svæðisins svo sem því hafi nú verið breytt. 

Þá geri kærendur ekki grein fyrir því með skýrum hætti að hvaða leyti þeir telji leyfin andstæð gildandi skipulagi og/eða skilmálum.

Byggt sé á því að gildandi deiliskipulag sé lögmætt og málsmeðferð við afgreiðslu þess í samræmi við skipulags- og byggingarlög.  Hið sama gildi um skilmála skipulagsins.

Því sé mótmælt að breyting á skipulagsskilmálum hafi verið ólögmæt með vísan til 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þ.e. að rífa hefði þurft byggingar á lóðum nr. 109 og 112 áður en unnt hefði verið að breyta skipulagi svæðisins.

Vakin sé athygli á því að umræddar byggingar séu í samræmi við deiliskipulagsbreytingu þá er öðlast hafi gildi hinn 23. ágúst 2006.  Ágreiningurinn nú standi einungis um skilmálana sem slíka, þ.e. stærðir húsa á öllum sumarhúsalóðum í landi Kiðjabergs.  Það eitt leiði til þess að hafna beri þessum sjónarmiðum. 

Framkvæmdir við hús á umræddum lóðum hafi verið taldar í samræmi við gildandi skipulag. T.d. megi benda á að framkvæmdir við hús á lóð nr. 112 hafi farið í gang eftir að breytingar á skilmálum deiliskipulagsins hafi tekið gildi haustið 2006.  Frá þeim tíma og allt til 4. júlí 2007 hafi verið framkvæmt í samræmi við byggingarleyfi og gildandi deiliskipulag. Ennfremur megi nefna að neikvæð áhrif framkvæmda á lóðunum fyrir hagsmuni kærenda séu óveruleg.  Ljóst sé einnig að framkvæmdir verði ekki stöðvaðar með vísan til 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Af hálfu byggingarleyfishafa er þess krafist að úrskurðarnefndin hafni kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Leyfishafar hafi í höndunum útgefin byggingaleyfi af þar tilbærum byggingaryfirvöldum.  Á grundvelli þeirra leyfa hafi byggingarleyfishafar hafið framkvæmdir á ný við húsin en framkvæmdir hafi legið niðri frá því í sumar og þar til nýtt deiliskipulag svæðisins hafi tekið gildi.  Það deiliskipulag hafi ekki verið fellt úr gildi og meðan svo sé ástatt standi engin rök til þess að fella byggingarleyfin úr gildi. 

Fyrir úrskurðarnefndinni liggi krafa kærenda um að nýsamþykkt deiliskipulag verði fellt úr gildi.  Þar til niðurstaða liggi fyrir í því þrætumáli telji byggingarleyfishafar, að teknu tilliti til hagsmuna kærenda annars vegar og hagsmuna þeirra sjálfra hins vegar, að úrskurðarnefndin eigi að hafna kröfu um stöðvun framkvæmda.  Framkvæmdir séu það langt á veg komnar og hafi kostað það mikið fé að hagsmunir þeirra séu miklu ríkari en hagsmunir kærenda.

Bent sé á að húsið á lóð nr. 109 sé komið upp með frágengnu þaki að mestu leyti.  Það sé krossviðarklætt.  Gluggar og gler sé komið í húsið, en þó ekki að öllu leyti.  Búið sé að einangra og klæða geymslu, en einangrun hússins sé ekki að fullu lokið.  Kalt vatn og rafmagn sé komið í húsið.  Búið sé að steypa gólfplötu með hitalögn.  Hætta sé á skemmdum verði framkvæmdir stöðvaðar nú. 

Áætla megi að búið sé að framkvæma 80% af vinnu við smíði hússins á lóð nr. 112 og að það yrði fullfrágengið á næstu þremur vikum, fengju menn að vinna óáreittir.  Búið sé að klára klæðningu allra innveggja og lofts.  Vatns- og rafmagnsinntak sé komið í hús.  Allar rafmagnslagnir séu komnar og búið sé að draga í þær og setja upp bráðabirgðalýsingu.  Allar pípulagnir séu komnar og búið að ganga frá öllu í kringum böð.  Rotþró sé komin á sinn stað.  Öll eldhústæki, blöndunartæki og þess háttar séu komin í hús og tilbúin til uppsetningar.  Allri innréttingasmíði sé lokið.  Utanhúsklæðning sé komin á staðinn og bíði uppsetningar.  Búið sé að kaupa þakklæðningu og bíði hún uppsetningar af fagaðilum.  Þakkantur sé frágenginn og lokið sé klæðningu undir hann.  Búið sé að grófjafna lóð.  Hætta sé á skemmdum verði ekki gengið frá utanhúsklæðningu og þakklæðningu hið fyrsta. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 getur kærandi krafist þess að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða meðan mál er til meðferðar fyrir nefndinni.  Er ákvæðinu ætlað að gera nefndinni kleift að tryggja að réttarstöðu aðila verði ekki breytt til muna meðan mál er þar til meðferðar, án þess að afstaða hafi verið tekin til efnis máls.  Felur ákvæðið hins vegar ekki í sér viðurlög af neinu tagi enda um þau fjallað í VI. kafla laganna.

Í máli þessu liggur fyrir að sumarhús þau, sem hinar kærðu samþykktir heimila, eru risin og að unnið er að frágangi þeirra utanhúss og má fallast á með byggingarleyfishöfum að stöðvun framkvæmda nú gæti leitt til óþarfra eignaspjalla.  Þá verður ekki séð að stöðvun framkvæmda hafi hér eftir neina sérstaka þýðingu með tilliti til hagsmuna kærenda, enda verða allar framkvæmdir við umræddar byggingar að teljast unnar á ábyrgð og áhættu byggingarleyfishafa meðan kærumál um lögmæti byggingarleyfanna og deiliskipulag umrædds svæðis eru til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Er vandséð að byggingarleyfishafar vinni nokkurn rétt þótt þeir haldi framkvæmdum áfram við þessar aðstæður.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda, um að framkvæmdir á lóðunum nr. 109 og 112 á orlofs- og sumarhúsasvæði í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi skuli stöðvaðar, meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

 

____________________________
Hjalti Steinþórsson

 

___________________________                          ____________________________
  Ásgeir Magnússon                                                       Þorsteinn Þorsteinsson