Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

136/2007 Leynir

Ár 2008, fimmtudaginn 13. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 136/2007, kæra á ákvörðun byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu frá 31. janúar 2006 um að veita byggingarleyfi fyrir sumarhúsi á lóð nr. 196827 í landi Leynis í Bláskógabyggð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. október 2007, er barst nefndinni næsta dag, kæra S og M, eigendur lóðar nr. 189497 í landi Leynis í Bláskógabyggð, þá ákvörðun byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu frá 31. janúar 2006 að veita byggingarleyfi fyrir byggingu sumarhúss á lóð nr. 196827 í landi Leynis í Bláskógabyggð.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 7. febrúar 2006. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Hinn 31. janúar 2006 samþykkti byggingarnefnd uppsveita Árnessýslu að veita leyfi fyrir byggingu 99,2 m² sumarhúss að Köldukinn 2 í landi Leynis í Bláskógabyggð,  en sú lóð liggur að lóð kærenda.  Mun sumarhús samkvæmt hinu umdeilda leyfi hafa vera risið um mitt ár 2007.       

Byggja kærendur kröfu sína á því að umrætt hús samræmist ekki gildandi deiliskipulagi svæðisins og fari í bága við 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Hafi byggingarleyfi fyrir húsinu verið veitt án þeirra vitundar.  Enn sem komið sé dvelji kærendur afar lítið á lóð sinni enda séu þeir aðeins búnir að byggja lítið afdrep til að geta haft aðstöðu þegar að því komi að byggja þar hús.  Þar af leiðandi hafi þeir ekki vitað af byggingunni fyrr en nýlega enda hafi engin grenndarkynning farið fram áður en húsið hafi verið reist.  Telji þeir að hæð og staðsetning hússins skaði hagsmuni þeirra þar sem útsýni af efri hæð þess sé yfir alla lóð kærenda.  Leiði þetta til þess að lóð þeirra falli í verði. 

Af hálfu Bláskógabyggðar er þess krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni enda sé hún of seint fram komin auk þess sem kærendur hafi ekki lögvarða hagsmuni í málinu. Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra eigi.  Hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á fundi sveitarstjórnar 7. febrúar 2006. 

Ljóst sé samkvæmt fyrirliggjandi gögnum að kærendum hafi verið kunnugt um veitingu leyfisins og hina kærðu ákvörðun eigi síðar en þann 25. júlí 2007, en þá hafi annar kærenda sent fyrirspurn til byggingarfulltrúa í tölvupósti og vísað til þess að hús væri risið á lóðinni.  Jafnframt hafi sama kæranda borist bréf frá Skipulagsstofnun þann 8. ágúst 2007 þar sem leiðbeint hafi verið um kæruheimild og kærufrest.  Kæra hafi verið móttekin hjá úrskurðarnefndinni 11. október 2007 og hafi því kærufrestur verið liðinn þegar kærendur hafi skotið málinu til nefndarinnar.  Vitneskja kærenda um framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi hafi raunar verið til staðar mun fyrr en greindar dagsetningar í skjölum málsins gefi til kynna.  Hefðu kærendur þá þegar átt að skjóta málinu til úrskurðarnefndarinnar. 

Sveitarfélagið byggi einnig á því að kærendur eigi ekki einstaklegra lögákveðinna hagsmuna að gæta samkvæmt 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997.  Staðsetning sumarhúsa á skipulögðum lóðum sæti ekki grenndarkynningu.  Umrætt sumarhús sé staðsett innan byggingarreits og standi vel gagnvart lóð kærenda.  Stallur sé í landinu á milli lóða og hafi fjölmörg tré verið gróðursett þar og muni því ekki sjást mikið á milli lóða eftir nokkur ár.  Þá geti fallegt sumarhús, eins og hér um ræði, ekki haft neikvæð áhrif á verðmat lóðar kærenda. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Hin kærða ákvörðun var tekin á fundi byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 31. janúar 2006 og staðfest í sveitarstjórn Bláskógabyggðar 7. næsta mánaðar. 

Eins og áður greinir eru kærendur eigendur lóðar nr. 189497 sem er við hlið lóðar nr. 196827 þar sem hið umdeilda hús var reist.  Að virtum gögnum máls þessa liggur fyrir að gerð var athugasemd af hálfu kærenda við umrætt hús í júlí 2007, samanber áðurgreindan tölvupóst annars þeirra til byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu hinn 25. júlí 2007, en þar kemur m.a. fram að umrætt hús sé risið og sé sjö metra hátt. 

Þá var með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 8. ágúst s.á., upplýst um kæruheimild og kærufrest til úrskurðarnefndarinnar, en bréfið var ritað í tilefni af kröfu kærenda um að umrætt sumarhús yrði lækkað til samræmis við samþykktir gildandi deiliskipulags. 

Með vísan til framangreinds verður við það að miða að kærendum hafi verið kunnugt um byggingu umdeilds sumarhúss í lok júlí 2007 og um kæruheimild og kærufrest eigi síðar en er þeim barst svarbréf Skipulagsstofnunar 8. ágúst s.á.  Hefði þeim því borið að skjóta ákvörðun um veitingu byggingarleyfisins til úrskurðarnefndarinnar innan mánaðar frá þeim tíma. 

Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 11. október 2007 eða um mánuði eftir að kærufrestur var liðinn.  Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni enda liggja ekki fyrir nein þau atvik er leitt gætu til þess að beitt væri undantekningarheimildum 1. eða 2. tl. tilvitnaðrar 28. gr. stjórnsýslulaga. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikilla anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________    ____________________________
Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson