Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

1/2017 Hringvegur um Hornafjörð

Með

Árið 2017, mánudaginn 20. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri, Geir Oddsson umhverfis- og auðlindafræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hornafjarðar frá 1. desember 2016 um að veita framkvæmdaleyfi vegna Hringvegar um Hornafjörð milli Hólms og Dynjanda.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. janúar 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra Hollvinir Hornafjarðar og Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hornafjarðar frá 1. desember 2016 að veita framkvæmdaleyfi vegna Hringvegar um Hornafjörð milli Hólms og Dynjanda. Með bréfi til nefndarinnar, dags. 4. janúar 2017, sem móttekið var sama dag, kæra 11 eigendur jarða og lóða, sem fyrirhugað vegstæði mun liggja um, einnig áðurnefnda ákvörðun. Jafnframt kærir Akurnesbúið ehf. sömu ákvörðun með bréfi, dags. 7. janúar 2017, er barst úrskurðarnefndinni 9. s.m. Verða síðari kærumálin, sem eru nr. 3 og 7/2017, sameinuð máli þessu, enda standa hagsmunir kærenda því ekki í vegi.

Kærendur krefjast þess allir að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Fyrrnefndir landeigendur gera að auki kröfu um stöðvun framkvæmda meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Með bréfi Hollvina Hornafjarðar og Landverndar til úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. september 2017, sem móttekið var sama dag hjá nefndinni, var krafist stöðvunar framkvæmda. Nefndin hefur fylgst með áætlunum um upphaf framkvæmda og var síðast upplýst um það með tölvubréfi 10. nóvember 2017 að framkvæmdir við verkið hæfust 13. s.m. Fælist það aðallega í fyllingum og ræsum á milli Hólms og Djúpár, það er framkvæmdum á vestari kafla nýja vegarins. Verður málið nú tekið til efnislegrar meðferðar og verður því ekki tekin sérstök afstaða til kröfu um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Hornafirði 1. febrúar 2017.

Málavextir: Forsaga málsins er sú að í júlí 2006 kynnti Vegagerðin drög að tillögu að matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum veglagningar á Hringvegi um Hornafjarðarfljót. Voru þrír kostir kynntir, leið 1, 2 og 3, auk þess væri mögulegt að skeyta leiðum saman við Hornafjarðarfljót, þannig að ein leið vestan Hornafjarðarfljóta yrði sett saman við aðra leið austan við fljótin. Tillaga að matsáætlun vegna fyrirhugaðra framkvæmda var send Skipulagsstofnun í október s.á. Þar kom fram að vegarkaflinn á Hringvegi á milli Hólms að vestanverðu og Haga að austanverðu væri 30,3 km langur og á honum þrjár einbreiðar brýr, yfir Djúpá, Hornafjarðarfljót og Hoffellsá. Jafnframt var tekið fram að í undangengu samráðsferli hefðu komið fram ýmsar tillögur að nýjum veglínum og hefðu landeigendur lagt fram tvo kosti, leið 4 og 5. Vegagerðin legði hins vegar fram þrjár veglínur til skoðunar í mati á umhverfisáhrifum, þ.e. leið 1, 2 og 3. Bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar og var gerð krafa um að lagt yrði mat á fleiri kosti en ráðgert væri auk þess sem lagðir voru fram aðrir kostir, þ.e. veglínur 4a og 5b.

Hinn 5. desember 2006 lá fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar um fyrrgreinda tillögu að matsáætlun. Féllst stofnunin á matsáætlunina með athugasemdum. Lutu þær að því að birtar yrðu í frummatsskýrslu niðurstöður mats á umhverfisáhrifum veglína 4, 4a, 5 og 5a með samanburði við veglínur 1, 2 og 3 og einnig endurbyggingu núverandi vegar, að teknu tilliti til áhrifa á viðeigandi umhverfisþætti.

Vegagerðin skaut ákvörðun Skipulagsstofnunar til umhverfisráðherra og gerði kröfu um að úr gildi yrði felldur sá hluti hennar að meta skyldi þá framkvæmdarkosti sem landeigendur höfðu lagt til, sem og endurbyggingu núverandi vegar. Féllst umhverfisráðherra á kröfu Vegagerðarinnar með úrskurði, dags. 11. maí 2007. Í kjölfarið höfðuðu landeigendur mál gegn íslenska ríkinu og Vegagerðinni og kröfðust þess að úrskurður umhverfisráðherra yrði ógiltur. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 11. nóvember 2008 voru stefndu sýknuð af kröfum stefnenda og var sú niðurstaða staðfest með dómi Hæstaréttar 22. október 2009, í máli nr. 22/2009.

Skipulagsstofnun var send frummatsskýrsla vegna framkvæmda við Hringveg um Hornafjörð í janúar 2008. Var hún auglýst í kjölfar þess og umsagna leitað. Lagðar voru fram þrjár veglínur til skoðunar í mati á umhverfisáhrifum, leið 1, 2 og 3. Í desember s.á. var kynnt, m.a. á opnum kynningarfundi, útfærsla á leið 3 í mati á umhverfisáhrifum, þ.e. leið 3b.

Matsskýrsla vegna fyrirhugaðra framkvæmda lá fyrir í apríl 2009 og mun hún hafa borist Skipulagsstofnun í júní s.á. Í henni var m.a. tekið fram að umrædd framkvæmd væri 11-18 km löng veglagning. Næði hún frá bænum Lambleiksstöðum yfir Hornafjarðarfljót á nýju brúarstæði og að Hringvegi, við bæinn Haga, skammt austan Hafnarvegar, sem lægi að Höfn í Hornafirði. Lagðar væru fram þrjár leiðir til skoðunar í mati á umhverfisáhrifum, þ.e. leið 1, 2 og 3. Þá hefði, að teknu tilliti til umsagna og athugasemda er borist hefðu við frummatsskýrslu, verið gerð útfærsla á leið 3, þ.e. leið 3b. Með þeirri leið væri dregið úr neikvæðum umhverfisáhrifum miðað við leið 3.

Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 7. ágúst 2009. Í því var greint frá helstu niðurstöðum stofnunarinnar með eftirfarandi hætti: „Það er niðurstaða Skipulagsstofnunar að áhrif leiða 2, 3 og 3b á landslag, ásýnd, jarðmyndanir og gróður verði óhjákvæmilega verulega neikvæð. Þessar leiðir hafa talsverð neikvæð áhrif á fugla og áhrifin á landslag, ásýnd og jarðmyndanir verða varanleg og óafturkræf. Skipulagsstofnun telur að áhrif leiðar 1 á landslag, ásýnd, jarðmyndanir, gróður og útivist verði talsvert neikvæð. Áhrif leiðar 1 á landslag, ásýnd og jarðmyndanir verða varanleg og óafturkræf. Skipulagsstofnun telur að efnistaka úr námunni Friðsæld við Dynjanda hafi verulega neikvæð sjónræn áhrif á landslag, sem verði varanleg og óafturkræf. Skipulagsstofnun telur að neikvæð umhverfisáhrif leiðar 1 séu minni en annarra kynntra kosta. Auk þess leiðir veglagning samkvæmt leið 1 til minnstrar efnistöku úr nærliggjandi námum og skapar þar með bestu möguleika á að komast megi hjá efnistöku úr námunni Friðsæld við Dynjanda. Með vali á leið 1 væri dregið eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og samræmdist sú leið því best markmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun telur að öðru leyti að hvernig til tekst um áhrif framkvæmdarinnar og starfsemi sem henni fylgir á umhverfið sé háð verktilhögun og mótvægisaðgerðum sem kynnt hafa verið við meðferð málsins og vöktun á aðgerðum og áhrifum á byggingartíma/rekstrartíma.“ Lagði Skipulagsstofnun til að við veitingu framkvæmdaleyfis yrði sett það skilyrði að Vegagerðin myndaði formlegan samráðshóp fagaðila, m.a. með aðild Landgræðslu ríkisins og Umhverfisstofnunar, um endurheimt votlendis vegna framkvæmdarinnar. Samráðshópurinn hefði það hlutverk að fylgjast með endurheimt votlendis á framkvæmdasvæðinu og ynni að því markmiði að votlendi endurheimtist til jafns við það sem framkvæmdin hefði raskað.

Með umsókn, dags. 21. júní 2016, sótti Vegagerðin um framkvæmdaleyfi til Sveitarfélagsins Hornafjarðar til lagningar á nýjum Hringvegi um Hornafjörð, milli Hólms og Dynjanda samkvæmt veglínu 3b. Leitaði sveitarfélagið umsagna Umhverfisstofnunar og umhverfisnefndar í kjölfar þess. Jafnframt bárust sveitarfélaginu nánari upplýsingar frá Vegagerðinni um framkvæmdina með bréfum í ágúst og október s.á. Umsóknin var tekin fyrir og samþykkt á fundi bæjarstjórnar 8. september 2016. Á fundi bæjarstjórnar 13. október s.á. var hins vegar afturkallað samþykki hennar fyrir framkvæmdaleyfinu, með hliðsjón af úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í kærumáli nr. 46/2016 vegna Kröflulínu 4. Var samþykkt að vísa umsókninni aftur til nefnda sveitarfélagsins til nánari skoðunar í ljósi umfjöllunar um náttúruverndarlög í umræddum úrskurði. Umsókn um framkvæmdaleyfið var tekin fyrir á fundi umhverfisnefndar 29. nóvember 2016 og á fundi skipulagsnefndar 30. s.m. Að lokinni umfjöllun nefndanna lögðu þær til að fyrirliggjandi umsókn yrði samþykkt með skilyrðum.

Bæjarstjórn tók umsóknina fyrir á fundi sínum 1. desember 2016. Var m.a. fært til bókar að bæjarstjórn teldi ljóst, með vísan til bókana umhverfisnefndar og skipulagsnefndar frá 29. og 30. nóvember s.á. um málið, að nefndirnar hefðu kynnt sér ítarlega umsótta framkvæmd og fylgigögn og komist að rökstuddri niðurstöðu í framhaldi þess, líkt og áskilið væri í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Auk þess hefðu nefndirnar talið að skilyrði 13. gr. skipulagslaga væru uppfyllt. Samþykkti bæjarstjórn umsóknina með nánar tilgreindum skilyrðum og fól skipulagsstjóra að gefa út framkvæmdaleyfi. Auglýsing um samþykkt leyfisins var birt 8. desember 2016 í prentmiðlum, þ. á m. Lögbirtingablaðinu.

Í framkvæmdaleyfi, dags. 4. janúar 2017, er að finna eftirfarandi lýsingu á framkvæmdunum: „Hringvegur um Hornafjörð milli Hólms og Dynjanda, samkvæmt veglínu 3b. Framkvæmdin felur m.a. í sér lagningu 18 km langan veg, T-vegamót verða við núverandi Hringveg á móts við Hólm, tengingar að Brunnhóli og Einholti aðlagaðar nýjum vegi, tengivegur verður meðfram Djúpá, varnargarður austan Hornafjarðarfljóta verður gerður, sem og áningastaður í Skógey, ný T-vegamót verða við Hafnarveg, áningastaður austan Hafnarvegar og tenging að Hafnarnesi aðlöguð nýjum vegi. Þegar hafist verður handa við framkvæmdir austan við Hafnarveg verður Hafnarvegur norðan nýs Hringvegar tengdur við hann með T-vegamótum. Fjórar brýr verða í fyrirhuguðum útboðum, yfir Djúpá, Hornafjarðarfljót, Hoffellsá/Laxá og Bergá. Efnistaka vegna framkvæmda verður 883 þ. m³ í 7 námum.“

Hafa kærendur kært samþykkt framkvæmdaleyfisins, eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að ekki sé hægt að byggja ákvörðun um framkvæmdaleyfi á því mati á umhverfisáhrifum sem fram hafi farið. Matsskýrsla framkvæmdaraðila og gögn þau sem álit Skipulagsstofnunar sé grundvallað á séu úrelt. Sé það afar alvarlegt ef fyrirhuguð framkvæmd sé byggð á úreltum gögnum. Muni veglína 3b gjörbreyta ásýnd Hornafjarðar. Hún muni fara um fágætt og verðmætt svæði sem verndað sé sérstaklega bæði samkvæmt innlendri náttúruverndarlöggjöf og alþjóðasamningum sem Ísland sé bundið af. Beri að gæta ströngustu málsmeðferðarreglna við töku allra ákvarðana, sem snerti framkvæmdir á svæðinu. Fullyrðing um að umrædd matsskýrsla sé fullnægjandi til að byggja ákvörðun um framkvæmdarleyfi á sé afar hæpin, enda fylgi henni ekki nokkur rökstuðningur. Til þess að komast að slíkri niðurstöðu hafi þurft að fara fram heildstæð endurskoðun á matsskýrslunni. Gerðar séu alvarlegar athugasemdir við val á veglínu, en í áliti Skipulagsstofnunar komi fram að neikvæð umhverfisáhrif leiðar 1 séu minni en annarra kynntra kosta.

Verulegar breytingar hafi orðið á aðstæðum frá því að álit Skipulagsstofnunar var kynnt, t.a.m. hvað umferð og umferðaröryggi varði. Ný lög um náttúruvernd nr. 60/2013 hafi tekið gildi en þau séu talsvert viðameiri en eldri lögin. Komi fram í greinargerð með frumvarpi að nýju lögunum að aukin aðgæsluskylda sé lögð á framkvæmdaraðila samkvæmt ákvæðum þeirra. Auk þess geri lögin auknar kröfur um vandaða málsmeðferð stjórnvalda og að ákvarðanir sem varði náttúruna verði eins og kostur sé byggðar á vísindalegum grundvelli. Þá sé fullyrt í matsskýrslu að aldrei hafi flætt yfir flugbrautarenda Árnanesflugvallar, en 30. desember 2015 hafi orðið mikið vatnsflóð í firðinum vegna hárrar sjávarstöðu og flætt hafi yfir svonefndan Hólaveg. Árnanesið hafi verið umflotið vatni. Flóð í september 2017 hafi haft mikil áhrif á svæðið.

Sveitarfélagið hafi brotið gegn skráðum sem óskráðum reglum stjórnsýsluréttar við útgáfu framkvæmdaleyfisins. Verulegar líkur séu á því að málið hafi ekki verið nægilega upplýst eða rannsakað. Jafnframt hafi ekki verið gætt að andmælareglu og reglum um meðalhóf. Bæjarstjórn hafi ekki aðeins borið að rannsaka málið í samræmi við stjórnsýslulög nr. 37/1993 heldur einnig að sjá til þess að sú rannsókn væri ítarleg og vönduð, m.a. vegna fyrrnefndra breytinga er orðið hefðu frá því að álit Skipulagsstofnunar hafi verið kynnt. Jafnframt skipti máli að Hæstiréttur hafi talið að leiðir 4 og 4a ætti a.m.k. óbeint að meta og að ekki hefði verið tekin efnisleg afstaða til endurbyggingar vegar í núverandi vegstæði í dóminum.

Brotið hafi verið gegn grundvallarreglum umhverfislöggjafar, en meginreglur hennar hafi verið skýrðar í dómi Hæstaréttar í máli nr. 671/2008. Sú meginregla gildi í umhverfisrétti að lög um mat á umhverfisáhrifum skuli túlka rúmt og með hliðsjón af markmiðum þeirra, sbr. dóma Evrópudómstólsins í málum nr. C-72/95, C-227/01 og C-50/09. Hafi bæjarstjórn borið að taka mið af markmiðum laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og þeim meginreglum sem þau byggi á. Jafnframt hafi framkvæmdaraðili brotið gegn markmiðsreglum sömu laga. Bæjarstjórn hafi ekki farið eftir ákvæðum reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012. Engan viðhlítandi rökstuðning sé að finna fyrir ákvörðun bæjarstjórnar um að heimila veglagningu samkvæmt leið 3b þegar aðrir kostir komi til greina, sbr. að nokkru 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi, en þó aðallega með hliðsjón af b-lið 1. mgr. 9. gr. tilskipunar 2011/92/ESB.

Leyfisveitanda hafi borið að taka mið af meginreglum náttúruverndarlaga. Hefði hann þurft að afla gagna um það hvort matsskýrsla Vegagerðarinnar og álit Skipulagsstofnunar væru enn í fullu gildi út frá vísindalegri þekkingu, sbr. 8. gr. laganna. Hvorki hafi verið horft til svonefndrar varúðarreglu skv. 9. gr. sömu laga við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar né tekið mið af þeim reglum er fram komi í 10. og 11. gr. laganna. Fram komi í 10. gr. að áhrif á náttúruna skuli meta út frá heildarálagi. Hljóti ákvæðið að hafa átt að koma til skoðunar. Eigi þetta ekki síst við þar sem bæði matsskýrsla Vegagerðarinnar og álit Skipulagsstofnunar hafi verið gefið út áður en reglan kom til.

Í greinargerð sveitarfélagsins sé hvergi að finna heildstæða umfjöllun um það hvort matsskýrsla framkvæmdaraðila standist ákvæði laga nr. 60/2013, enda skorti bæjarstjórnina vald og sérþekkingu til að ákvarða slíkt. Bæði framkvæmdaraðila og sveitarfélaginu hafi verið skylt að líta til mats á umhverfisáhrifum og velja þá leið sem þar hafi minnst áhrif. Geti þessir aðilar hvorki borið fyrir sig að kostir leiðar 3b séu studdir af vegtæknilegum ástæðum né að kostnaður af henni sé minni en af leið 1, en fram komi í matsskýrslunni að kostnaður af leið 3b sé 800 milljónum kr. hærri en af leið 1. Þá nemi áætluð arðsemi af leið 1 um 17%, en aðeins 11% af leið 3b.

Fram komi í greinargerðinni að bæjarstjórn hafi lagt áherslu á að kanna hvort unnt væri að draga úr neikvæðum áhrifum á votlendi. Niðurstaða matsskýrslu sé að leið 1 valdi minnstu raski á votlendi, en það sé 20 ha í stað 32 ha fyrir leið 3b. Heildarröskun vegna leiðar 1 á votlendi hafi verið metin um 52 ha, en 77 ha í tilviki leiðar 3b. Efasemdir hafi verið uppi um árangur sem hljótist af endurheimt votlendis. Þannig liggi fyrir takmarkaðar upplýsingar um losun frá framræstu votlendi og hverju aðgerðir sem þessar gætu skilað. Eðlilegt hefði verið að niðurstaða starfshóps um endurheimt votlendis hefði legið fyrir áður en leyfi til framkvæmdanna væri veitt.

Óumdeilanlegt sé að leið 1 leiði til minnstu neikvæðu umhverfisáhrifanna fyrir utan núllkost og þann kost að leggja nýjan veg í núverandi vegstæði. Samrýmist sú leið því best markmiði umhverfismatsins. Ný veglagning sé um 40% styttri en hinar leiðirnar. Raski hún því ekki jafnmiklu af þeim svæðum sem sérstakrar verndar njóti samkvæmt náttúruverndarlögum og einnig sé þar ekki að finna í viðlíka mæli þau fyrirbrigði sem verndar njóti lögum samkvæmt. Í ljósi dóms Hæstaréttar í máli nr. 22/2009 séu jafnframt líkur á því að leiðir 4 og 4a valdi sambærilegum umhverfisáhrifum og leið 1. Þá liggi leyfi landeigenda ekki fyrir að öllu leyti.

Leggi hin afdráttarlausa niðurstaða Skipulagsstofnunar í áliti hennar, um verulega neikvæð, varanleg og óafturkræf áhrif allra leiða umfram núverandi veglínu og leiðar 1, sem og væntanlega leiða 4 og 4a, ríkar skyldur á leyfisveitanda um að leggja fram málefnaleg og vísindaleg gögn og röksemdir til stuðnings þeirri ákvörðun sinni að heimila annað leiðarval. Sé það ekki gert sé farið á svig við markmið laga um mat á umhverfisáhrifum, náttúruverndarlög og fyrrnefndan dóm Hæstaréttar. Leyfisveitandi eða umhverfisnefnd hans sé ekki bær til að ákveða að ganga gegn áliti Skipulagsstofnunar án þess að láta fara fram ítarlega rannsókn. Í þessu tilviki hafi það verið gert án viðhlítandi og málefnalegs rökstuðnings.

Í 61. gr. laga nr. 60/2013 sé kveðið á um að ekki skuli raska ákveðnum vistkerfum og jarðminjum nema brýna nauðsyn beri til. Bendi orðalag ákvæðisins og lögskýringargögn til þess að um afar þrönga heimild sé að ræða. Geti einungis mjög ríkir hagsmunir réttlætt röskun og þá fyrst og fremst brýnir almannahagsmunir. Hafi löggjafinn því ætlast til að ríkar kröfur séu gerðar til þess að sýnt sé fram á að aðrar leiðir séu annað hvort ekki mögulegar eða þær a.m.k. nánast útilokaðar. Uppfylli hin kærða ákvörðun ekki skilyrði ákvæðisins þegar af þeirri ástæðu að framkvæmdaraðili hafi ekki sýnt fram á, með málefnalegum hætti og með viðurkenndum aðferðum, að ekki sé kostur á annarri útfærslu vegagerðar sem uppfylli markmið framkvæmdarinnar samkvæmt samþykktri matsáætlun. Þar sem fyrir liggi að a.m.k. ein tiltekin leið nái raunverulega markmiðum vegagerðar sé ekki hægt að halda því fram að brýn nauðsyn sé að raska umræddum svæðum. Leið 3b sé hvorki óhjákvæmileg til að ná markmiðum framkvæmdar né þjóni hún með sannanlegum hætti brýnum almannahagsmunum auk þess sem mótvægisaðgerðir geti ekki bætt úr.

Kveðið sé á um afdráttarlausari vernd sjávarfitja og leira í lögum nr. 60/2013 en verið hafi í eldri lögum. Verði ekki séð að leyfisveitandi hafi tekið afstöðu til þeirrar breytingar. Það hefði þó verið nauðsynlegt, enda sé um að tefla veruleg og óafturkræf spjöll á verndarandlagi skv. 61. gr. laganna. Hafi hin aukna vernd gefið brýnt tilefni til þess að leyfisveitandi hlutaðist til um sérstaka rannsókn á heimildum sínum, en svo hafi ekki verið gert. Hvílt hafi á framkvæmdaraðila að sýna fram á með vísindalegum aðferðum og á leyfisveitanda að staðreyna með málefnalegum hætti og rökstuðningi að mjög ríkir hagsmunir réttlættu röskun verndarandlags ákvæðisins. Verði það varla gert nema með málsmeðferð skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum. Þá hafi ekkert mið verið tekið af því er fram komi í sérfræðiáliti um áhrif á sjávarfitjar og leirur. Sé jafnframt vísað til þess er fram komi í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi því er orðið hafi að lögum nr. 60/2013.

Mat á umhverfisáhrifum hafi leitt í ljós aðra sanngjarna og eðlilega kosti í stöðunni. Auk þess hafi landeigendur frá upphafi bent á aðra kosti, sem enn hafi ekki verið metnir með beinum hætti. Það sama eigi við um aðrar leiðir sem gætu hafa bæst við frá árinu 2009 vegna margvíslegra breyttra forsendna. Þá sé bent á að ekki liggi fyrir bindandi úrlausn um umhverfisáhrif núllkosts og þess kosts að leggja nýjan veg.

Leið 3b hafi ekki verið umhverfismetin. Engin lagaheimild hafi verið fyrir þeirri málsmeðferð sem Skipulagsstofnun hafi heimilað framkvæmdaraðila á árinu 2008 varðandi leiðina, þ.m.t. að bera hana ekki saman við núllkost og leiðir 1, 2, 3, 4 og 4a og lýsa þeim þáttum og áhrifum sem mælt sé fyrir um í 9. gr. laga nr. 106/2000. Óumdeilt sé að í samþykki Skipulagsstofnunar fyrir matsáætlun hafi ekki falist að metin yrði leið 3b. Þá hafi leiðin heldur ekki verið meðal þeirra kosta sem settir hafi verið fram í frummatsskýrslu. Engin heimild sé til að víkja frá málsmeðferð mats á umhverfisáhrifum við undirbúning ákvarðana um matsskyldar framkvæmdir. Til hliðsjónar þessu sé vísað til ákvörðunar umhverfis- og auðlindaráðherra frá 26. maí 2016 varðandi umhverfismat lagningar háspennulínu frá Blöndu til Akureyrar. Í þeirri ákvörðun hafi ráðuneytið beint því til Skipulagsstofnunar að endurskoða að eigin frumkvæði ákvarðanir sínar í tengslum við umhverfismat framkvæmdarinnar vegna annmarka sem hefðu verið á málsmeðferð Skipulagsstofnunar. Sambærileg atvik séu í máli þessu.

Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé það skilyrði fyrir samþykkt framkvæmdaleyfis að leyfisveitandi hafi áður kannað hvort umsótt framkvæmd sé sú sama og sætt hafi umhverfismati, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Hafi bæjarstjórn skyldum að gegna í samræmi við það og þeim mun ríkari rannsóknarskyldur því neikvæðara sem álit Skipulagsstofnunar sé. Verði ekki séð að bæjarstjórn hafi uppfyllt þá lagaskyldu sína að gera nefnda könnun. Hafi henni borið að skoða álit Skipulagsstofnunar í ljósi dóms Hæstaréttar í máli nr. 22/2009. Einnig hefði verið rétt af henni að bíða með ákvörðun um leyfisveitingu þar til niðurstaða fengist í kærumáli vegna endurskoðunar matsskýrslu. Hafi bæjarstjórn mátt vera kunnugt um framangreind atvik og henni því borið enn ríkari skylda en ella til að gera ítarlega könnun. Þá beri hvorki bókanir um málið, framkvæmdaleyfið né önnur gögn með sér að bæjarstjórn hafi tekið rökstudda afstöðu til fyrirliggjandi umhverfismats eða síðari atvika sem orðið hafi eftir útgáfu álitsins, svo sem áskilið sé í 14. gr. skipulagslaga.

Að því er umferðaröryggi varði þá hafi nýr vegur enga þýðingu heldur einungis girðing sem sett sé upp meðfram vegi. Ekki hafi verið sýnt fram á nein jákvæð áhrif veglína 1, 2 og 3 og 3b eða tilbrigða við þær umfram núverandi vegstæði að því er umferðaröryggi varði. Þá hafi engin rannsókn verði lögð fram við meðferð umsóknarinnar á óhöppum eftir 2005, en eldri rannsóknir hljóti að vera úreltar.

Ekki sé samræmi milli markmiða í samþykktri matsáætlun og frummatsskýrslu. Umfjöllun í frummatsskýrslu um núllkost og þann kost að endurbyggja nýjan veg í núverandi vegstæði uppfylli ekki skilyrði Skipulagsstofnunar. Forsenda þess að slá núllkost út af borðinu sé ekki lengur til staðar. Enginn skóli sé í Nesjum heldur sé þar starfrækt ferðaþjónusta. Hafi röksemdir fyrir því að velja ekki núllkost byggst á markmiðum sem ekki hafi verið þau markmið sem samþykkt matsáætlun hafi lagt til grundvallar. Séu því röksemdir framkvæmdaraðila fyrir því að velja ekki núllkost að þessu leyti í ósamræmi við matsáætlun. Hafi Skipulagsstofnun borið að vísa frummatsskýrslu frá og leiði sá annmarki til ógildingar.

Sjónarmið skipulagsnefndar, sem bæjarstjórn hafi staðfest, um að telja verði að jákvæð samfélagsleg áhrif sem hljótist af leið 3b vegi þyngra en minni neikvæð umhverfisáhrif annarra leiða, samrýmist ekki náttúruverndarlögum og sé ekki unnt að byggja ákvörðun á þeim. Þá liggi ekki fyrir gögn sem séu yngri en tíu ára um meint jákvæð samfélagsleg áhrif. Jafnframt stangist ályktanir skipulagsnefndar um umferðaröryggi á við það sem fram komi í matsskýrslu framkvæmdaraðila.

Umhverfisnefnd hafi borið að fjalla um framkvæmdina út frá vernd og verndarmarkmiðum, þ.m.t. með hliðsjón af mikilvægi minjanna og sérstöðu í íslensku og alþjóðlegu samhengi, sbr. 61. gr. náttúruverndarlaga. Það hafi hún ekki gert og verði því vart byggt á umsögn hennar. Ekkert komi fram í umsögninni um það hvaða mjög svo ríku og brýnu almannahagsmunir geti réttlætt röskun með leið 3b þegar aðrar leiðir séu tækar sem þjóni yfirlýstum markmiðum framkvæmdarinnar.

Þá virðist bæjarstjórn m.a. hafa látið hjá líða að kanna hvort leita þyrfti álits annarra umsagaraðila, hvort afla þyrfti frekari upplýsinga um málið eða hvort framkvæmdin væri í samræmi við aðrar skipulagsáætlanir en aðalskipulag, sbr. lög nr. 105/2000 um umhverfismat áætlana, þar á meðal deiliskipulag og landsskipulagsstefnu. Vísað sé til þess er fram komi í matsskýrslunni um fuglalíf, sem sýni hve fráleitt það sé að ákvörðun bæjarstjórnar hafi uppfyllt lög um mat á umhverfisáhrifum eða náttúruverndarlög. Loks varði umsókn um framkvæmdaleyfi ekki beiðni um efnislosun eða efnistöku samkvæmt efni sínu.

Þeir kærendur sem eru eigendur jarða og lóða sem fyrirhugað vegstæði mun liggja um benda á að aðild þeirra og hagsmunir hafi verið staðfestir í dómum Hæstaréttar í málum nr. 114/2008 og 22/2009. Starfræki þeir kartöflurækt á svæðinu, neðan við ármót Hoffellsár og Laxár, og við Dilksnes. Þeir einstaklingar sem standa að baki kæru Akurnesbúsins ehf. taka fram að þeir hafi með höndum fjölþætta landbúnaðarframleiðslu á landi sínu í Árnanestorfu. Kartöflurækt sé stunduð í stórum stíl á landssvæðinu, ekki síst á þeim svæðum nær sjó þar sem tilfærsla veglínu muni valda mestri röskun. Benda umræddir kærendur á að ef áform framkvæmdaraðila nái fram að ganga þá geti það haft mjög mikil áhrif á hagsmuni þeirra og valdið þeim miklu fjárhagstjóni. Alvarlegustu áhrifin af umræddri veglagningu verði þó á ásýnd og náttúrufar Hornafjarðar.

Taka fyrrnefndir landeigendur fram að í matsskýrslu framkvæmdaraðila sé aðeins að litlu leyti fjallað um áhrif framkvæmdanna á landbúnað á svæðinu. Hafi þeir gríðarlega hagsmuni af því að slík áhrif séu metin til fulls. Af þessum ástæðum hafi þeir leitað til Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, sem hafi unnið álitsgerð sem þeir hafi kynnt fyrir framkvæmdaraðila. Helstu niðurstöður álitsins séu þær að vegleið 3b muni auka tíðni flóða yfir og við kartöflugarða. Megi áætla að vegleiðin geti haft neikvæð áhrif á kartöflurækt og annan landbúnað. Mikil óvissa sé um líkur eða tíðni þess að áhrifin muni valda uppskerubresti, uppskerurýrnun eða uppskerutími verði seinna en ella. Vegleið 3b muni takmarka mjög framtíðarmöguleika á því að taka gott óræktað land til nýtingar. Telji Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins óljóst hversu ofarlega í landinu áhrifanna kunni að gæta, en alls séu 40 ha ræktaðir neðan ármótanna og vestan afleggjara í Árnanesi. Sé kartöflurækt mun viðkvæmari fyrir breytingum í umhverfinu en annar hefðbundinn landbúnaður. Geti litlar breytingar rýrt uppskeru svo um muni.

Í Dilksnesi, sem sé í eigu eins kærenda, sé jafnframt mikilvæg stofnræktun á kartöflum, en slík ræktun sé aðeins stunduð á þremur svæðum á landinu. Sé hún afar mikilvæg í ljósi þess að Hornafjörður sé eina svæðið á landinu sem sé laust við kartöflumyglu og hringrot. Þrátt fyrir þetta hafi framkvæmdaraðili látið hjá líða að meta áhrif framkvæmdarinnar á þetta landssvæði.

Á milli Hafnarness og Árnaness séu sjávarfitjar og leirur sem njóti sérstakrar verndar samkvæmt ákvæðum laga nr. 60/2013. Þar sem sjávarfitjar séu hæstar við Hrafnsey sé allmikið æðavarp og vorið 2016 hafi landnotkun þar breyst þegar tveir kærenda hafi hafið þar dúntekju. Í matsskýrslu sé hvorki fjallað um áhrif framkvæmdanna og fyrirhugaðs vegstæðis á sjávarfitjar og leirur né dúntekju á svæðinu. Hins vegar komi fram að leið 1 muni hafa óveruleg áhrif á fuglalíf í Hornafirði, en leiðir 2, 3 og 3b talsverð neikvæð áhrif og vegi þar þyngst röskun á fæðuöflunarsvæði fugla.

Málsrök sveitarfélagsins: Sveitarfélagið krefst þess að kröfum kærenda verði hafnað. Málsmeðferð á umsókn framkvæmdaleyfishafa hafi verið í samræmi við lög og reglur og vandaða stjórnsýsluhætti. Nefndir sveitarfélagsins og bæjarstjórn hafi fjallað með ítarlegum hætti um gögn málsins, m.a. um álit Skipulagsstofnunar og sjónarmið sem fram komi í náttúruverndarlögum nr. 60/2013 og lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Tekið hafi verið mið af meginreglum náttúruverndarlaga og þá sérstaklega varúðarreglunni.

Álit Skipulagsstofnunar sé fullnægjandi og uppfylli skilyrði laga nr. 106/2000. Sveitarfélagið hafi með vönduðum hætti rökstutt sjónarmið sín, sérstaklega þar sem þau fylgi ekki áliti stofnunarinnar. Ákvörðun sveitarfélagins sé reist á lögmætum grundvelli.

Sé í Aðalskipulagi Hornafjarðar 2012-2030, matsskýrslu Vegagerðarinnar og áliti Skipulagsstofnunar gerð ítarleg grein fyrir upplýsingum um framkvæmdasvæðið og umhverfisþáttum sem njóti verndar. Með umsókn hafi fylgt ítarleg efnistökuáætlun.

Rangt sé að matsskýrsla framkvæmdaraðila og umhverfismatið sé úrelt. Forsendur fyrir nýjum Hringvegi um Hornafjörð hafi ekki breyst og löggjöfin hafi ekki breyst að því marki að matsskýrslan verði sjálfkrafa úrelt. Engar verulegar breytingar hafi orðið á framkvæmdasvæðinu. Endurskoðun á áliti Skipulagsstofnunar skuli aðeins fara fram séu framkvæmdir ekki hafnar innan tíu ára frá því að álit hennar um mat á umhverfisáhrifum hafi verið gefið út.

Umsótt framkvæmd fyrir veglínu 3b sé í fullu samræmi við gildandi aðalskipulag Hornafjarðar. Í maí 2009 hafi verið samþykkt breyting á aðalskipulagi Hornafjarðar, sem hafi m.a. falið í sér að veglína syðst í Skógey hafi verið færð á hagstæðara vegstæði. Samfara breytingunni hafi verið unnin ítarleg umhverfisskýrsla. Meginmarkmið með breytingunni hafi verið umhverfissjónarmið, en sveigt hafi verið hjá flóa í Skarðsfirði, sem sé á náttúruminjaskrá, en leið 3 hafi þverað flóann að hluta til. Þannig sé flóanum og því lífríki sem þar sé ekki raskað. Sé það niðurstaða sveitarfélagsins að leið 3b þjóni hagsmunum samfélagsins best, hún stytti þjóðveg 1 umtalsvert og meira en aðrar leiðir sem skoðaðar hafi verið, aðgengi íbúa að þjónustukjarna sveitarfélagsins verði stórbætt og umferðaröryggi og greiðfærni aukið, auk þess sem leið 3b hafi í för með sér minni neikvæð umhverfisáhrif en aðrar leiðir. Umrædd leið sé innan rannsóknarsvæðis leiðar 3 og athugunarsvæðis sem kynnt hafi verið í tillögu að matsáætlun. Hafi Umhverfisstofnun talið að með henni sé dregið úr áhrifum á umhverfið. Sé stytting Hringvegar í fullu samræmi við Samgönguáætlun 2011-2022.

Skipulagsvald hverju sinni sé í höndum sveitarfélagsins, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Beri sveitarfélaginu að gæta meðalhófs við beitingu þess og hafi sú meginregla verið höfð að leiðarljósi við undirbúning og ákvarðanir í málinu.

Sú fullyrðing að hvergi sé að finna heildstæða umfjöllun um það hvort matsskýrsla framkvæmdaraðila standist ákvæði náttúruverndarlaga sé röng. Við ákvörðun um veitingu leyfisins hafi sérstaklega verið fjallað um ákvæði laganna og nýjar áherslur þeirra hafðar til hliðsjónar. Meðal skilyrða sem sett hafi verið fyrir framkvæmdinni séu mótvægisaðgerðir, sem fram komi í matsskýrslunni vegna leiðar 3b. Áhrif á jarðmyndanir séu staðbundin og komi fyrirhuguð framkvæmd ekki til með að rýra verndargildi þeirra.

Sérstaklega hafi verið litið til verndarmarkmiða 3. gr., sem eigi við um jarðminjar, vatnasvæði, landslag og víðerni, sem mögulega hafi átt við um framkvæmdina og fyrirhugað framkvæmdasvæði. Hafi d-liður 3. gr. fyrst og fremst átt við um fyrirhugaða framkvæmd. Allir kostir muni valda neikvæðum áhrifum á landslag. Með því að binda framkvæmdaleyfið ákveðnum skilmálum hafi sveitarfélagið stuðlað að því að dregið verði úr áhrifum á landslag og jafnframt muni kröfur um endurheimt votlendis að einhverju leyti móta nýtt vatnalandslag.

Samkvæmt 61. gr. laga nr. 60/2013 falli sjávarfitjar og leirur ekki undir jarðminjar heldur séu þær hluti af mikilvægum vistkerfum eins og votlendi. Sveitarfélagið hafi því ekki talið vera mun á áhrifum valkosta á jarðmyndanir, andstætt því sem fram komi í áliti Skipulagsstofnunar. Áhrif valkosta séu því sambærileg og séu fyrst og fremst vegna efnistöku í grónum áreyrum og skriðum. Eins og fram komi í gögnum sé dregið verulega úr efnistöku úr námunni Friðsæld og samkvæmt umsókn verði ekki nýtt rask í hlíðum eða skriðum. Sjónræn áhrif framkvæmdarinnar á fjallshlíðina við námuna Friðsæld verði því óbreytt. Framkvæmdir komi ekki til með að raska jarðmyndunum eða jarðminjum, sem njóti verndar skv. 2. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013. Það sé því mat sveitarfélagsins að áhrif framkvæmdar á jarðmyndanir verði neikvæð, þó ekki verulega. Þá hafi verið litið til niðurstaðna Náttúrufræðistofnunar Íslands um að leiðin liggi ekki að marki yfir viðkvæman sjávarfitjagróður.

Hafi framkvæmdaraðili lagt áherslu á að sneiða framhjá vistkerfum þar sem það hafi reynst mögulegt. Efni í vegfyllingu verði valið með tilliti til lektar svo að vatnsbúskapur sjávarfitja, mýra og flóa raskist sem minnst. Einnig sé lögð áhersla á að tryggja full vatnsskipti með hönnun brúaropa og ræsa.

Sveitarfélagið hafi kannað hvort unnt væri að draga enn frekar úr neikvæðum áhrifum á votlendi og tryggja að efnisval stuðlaði að gegndræpi vegarins um votlendi. Hægt sé að draga talsvert úr neikvæðum áhrifum á gróður og votlendi, m.a. með aðgerðum til að endurheimta votlendi. Óskað hafi verið eftir ítarlegri lýsingu framkvæmdaraðila á fyrirkomulagi framkvæmda og því hvar mójarðvegur væri á framkvæmdasvæðinu. Sveitarfélagið hafi fengið minnisblað frá Vegagerðinni, dags. 11. nóvember 2016, um vegi í votlendi eða mjúkri undirstöðu. Það hafi m.a. kynnt sér niðurstöður rannsókna Votlendisseturs Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og litið hafi verið til skýrslu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um endurheimt votlendis frá 2016. Þar segi eftirfarandi: „Mikið er um að vötn og tjarnir hafi verið endurheimt eða alls í 15 verkefnum. Verkefni við endurheimt mýra eru 13. Alls eru sex dæmi um endurheimt flæðiengja. Ekki eru dæmi um endurheimt leira. Árangur er í flestum tilvikum góður.“ Varðandi rask á öðrum gróðursvæðum vísi sveitarfélagið í svar Umhverfisstofnunar, dags. 2. nóvember 2016, við álitsumleitan bæjarstjórnar.

Eftir yfirferð gagna hafi bæjarstjórn ákveðið að leggja til ákveðna skilmála í framkvæmdaleyfinu, m.a. að leitað verði samráðs við Umhverfisstofnun og Landgræðslu ríkisins um endurheimt votlendis í samræmi við það sem tapist og að efni í vegfyllingu verði valið með tilliti til lektar til að hefta ekki vatnsbúskap. Sé raunhæft að meta það svo að með réttu efnisvali og verklagi við gerð vegfyllingar muni lagning vegar um votlendi skila tilætluðum árangri. Þá sé það einnig skoðun sveitarfélagsins að með samvinnu fagstofnana um útfærslu á endurheimt votlendis verði stuðlað að því að umfang, endurheimt og virkni verði eins og best verði á kosið.

Rétt sé að ekki sé fjallað sérstaklega um dúntekju í matsskýrslu framkvæmdaraðila. Hins vegar sé fjallað um það hvaða áhrif framkvæmdin hafi á fuglalíf. Muni mótvægisaðgerðir hafa í för með sér að dregið verði úr neikvæðum áhrifum á fuglalíf, þar sem ný fæðuöflunarsvæði verði mynduð. Einnig hafi verið litið til nýlegrar rannsókna Náttúrufræðistofnunar Íslands um endurheimt votlendis.

Sú fullyrðing að sveitarfélaginu og framkvæmdaraðila sé skylt að líta til mats á umhverfisáhrifum og velja þá leið sem þar hafi minnst áhrif stangist á við lög og dómafordæmi. Sveitarfélaginu sé rétt að líta til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar og hafi það verið gert við undirbúning ákvörðunar. Álit stofnunarinnar sé lögbundið en ekki bindandi fyrir bæjarstjórn og sé sú fullyrðing í samræmi við dóm Hæstaréttar í máli nr. 22/2009. Jafnframt sé fallist á að framkvæmdaraðili hafi, að meginstefnu til, forræði á því hvaða framkvæmdakosti hann telji uppfylla markmið tiltekinnar framkvæmdar, enda sé mat hans á því byggt á málefnalegum og hlutlægum grunni.

Sú skoðun að framkvæmdaraðila sé skylt að meta umhverfisáhrif núllkosts í frummatsskýrslu og bera saman við aðra kosti um veglínu standist ekki skoðun, sbr. fyrrnefndan dóm Hæstaréttar. Auk þess gangi núllkostur þvert gegn markmiðum gildandi aðalskipulags Hornafjarðar og tilgangi og markmiðum framkvæmdar, sem fram komi í matsskýrslu framkvæmdaraðila.

Vegagerðin skilgreini tilgang og markmið framkvæmda hverju sinni og beri ábyrgð á því að framfylgja stefnu og markmiðum í samgöngumálum. Af tillögu að matsáætlun verði glögglega ráðið hvers vegna Vegagerðin hafi valið þær þrjár leiðir sem hún hafi lagt fram til skoðunar við mat á umhverfisáhrifum og hafnað öðrum kostum. Það sé skylda Vegagerðarinnar að skilgreina hvaða leiðir teljist færar með hliðsjón af markmiðum framkvæmda. Hvergi í lögum sé að finna heimild til að skylda hana til að meta umhverfisáhrif framkvæmdakosta sem stríði gegn markmiðum sem unnið sé eftir. Í máli þessu hafi sveitarfélagið og Vegagerðin byggt ákvarðanir sínar á málefnalegum sjónarmiðum og ítarlegum gögnum, sem styðji val á leið 3b umfram aðrar leiðir.

Niðurstaða framkvæmdaraðila sé að leið 3b komi til með að auka umferðaröryggi verulega, en leið 1 talsvert. Fjöldi vegtenginga sé talsvert meiri á leið 1 en leið 3b. Hafi framkvæmdaraðili leitað leiða til að fækka vegtengingum á leið 1, en ekki getað lagt fram tillögu sem sé hagkvæm eða raunhæf. Sveitarfélagið hafi m.a. litið til umsagnar vinnuhóps um mat á umferðaröryggi vega.
Sveitarfélagið hafi um árabil lagt megináherslu á að lagning á nýjum Hringvegi um Hornafjörð stuðli að auknu umferðaröryggi og styttingu leiða innan sveitarfélagsins. Sé því hafnað að stytting vegalengda hafi ekki verið markmið samkvæmt samþykktri matsáætlun.

Athugasemdir leyfishafa: Sjónarmið leyfishafa eru á sömu lund og fyrrgreind sjónarmið sveitarfélagsins. Fjöldi sérfræðinga hafi komið að borðinu og upplýst hafi verið um áhrif vegarins á umhverfið.

Leyfisveitandi hafi sannarlega litið til ákvæða 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 við veitingu framkvæmdaleyfisins. Fullyrðing um að leyfisveitandi hafi ekki tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar eigi sér enga stoð. Hafi dómur Hæstaréttar í máli nr. 22/2009 engin áhrif í þessu sambandi. Í dóminum sé ekki gerð athugasemd við þá röksemdafærslu leyfishafa að óþarft sé að meta sérstaklega leiðir 4 og 4a þar sem þær liggi innan rannsóknarsvæðis leiðar 1. Komi fram að ekki sé ástæða til að ógilda úrskurð ráðuneytisins á þeim grunni að þessar leiðir hafi ekki verið metnar, þar sem þær hafi verið metnar með óbeinum hætti.

Nokkurs misskilnings gæti hjá hluta kærenda um tilgang laga um mat á umhverfisáhrifum og forræði veghaldara við mat á valkostum. Liti misskilningur þessi alla umfjöllun þeirra um málið. Vísi leyfishafi í þessu sambandi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 280/2003 þar sem fjallað sé um markmið og tilgang nefndra laga. Fram komi í dóminum að markmið laganna sé ekki að banna almennt framkvæmdir vegna umhverfisáhrifa heldur að tryggja ákveðna málsmeðferð áður en ákvörðun sé tekin um framkvæmd. Það eitt að náttúrunni sé raskað dugi ekki til að koma í veg fyrir framkvæmd, en um sé að ræða heildarmat á fleiri þáttum. Sé vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 148/2016 í því sambandi.

Leyfishafi hafi sem veghaldari forræði á því hvaða kosti hann telji uppfylla markmið framkvæmdarinnar, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 22/2009. Í þeim dómi komi einnig fram að við mat á valkostum hafi leyfishafi gætt málefnalegra sjónarmiða. Hafi umfjöllun kærenda um aðra valkosti enga þýðingu í málinu. Þá verði ekki framhjá því horft að lega þjóðvega í skipulagi skuli ákveðin að fenginni tillögu leyfishafa, að höfðu samráði leyfishafa og skipulagsyfirvalda, sbr. 2. mgr. 28. gr. vegalaga nr. 80/2007. Fyrir liggi að vilji sveitarfélagsins, sem fari með skipulagsvald á svæðinu, standi til þess að fara leið 3b. Fari hagsmunir sveitarfélagsins og leyfishafa þannig saman við þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar séu.

Í matsskýrslu komi fram niðurstöður um fækkun ekinna kílómetra á ári á Hringvegi. Miðað við áætlun fyrir 2025 muni 116.000 km á ári á leið 1 og leið 3b, hinni síðarnefndu í hag. Skipti því máli hvort Hringvegur styttist um 11,8 km, eins og raunin sé samkvæmt leið 3b, eða 11,0 km, líkt og leið 1 stytti hann. Við styttingu leiða á vegum úti felist jafnan að umferðaröryggi aukist. Stytting vegarins sé því í samræmi við það markmið 1. gr. vegalaga að stuðla að greiðum og öruggum samgöngum. Höfn sé eini þéttbýliskjarninn með fjölbreytta þjónustu á mjög stóru svæði. Því hafi leiðarval á nýjum Hringvegi mikil áhrif á þjónustu innan sveitarfélagsins. Hafi í samgönguáætlun um árabil verið lögð áhersla á styttingu leiða, aukinn hreyfanleika og aðgengi í samgönguáætlun. Auk þess hafi stytting leiða þau áhrif að losun á koltvísýringi verði minni og hafi það jákvæð áhrif á umhverfið.

Varðandi meint brot á grundvallarreglum umhverfislöggjafar sé vísað til umfjöllunar um tilgang laga um mat á umhverfisáhrifum, sbr. og dóm Hæstaréttar í máli nr. 280/2003. Þá sé ekki þörf á að taka upp umhverfismatið, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000.

Gætt hafi verið ákvæða náttúruverndarlaga nr. 60/2013 við undirbúning og útgáfu hins kærða leyfis. Í tíð eldri laga nr. 44/1999 um náttúruvernd hafi sömu svæði notið sérstakrar verndar, sbr. t.d. 37. gr. þeirra laga. Því sé mótmælt að ákvörðun um að fara leið 3b fari gegn náttúruverndarlögum enda hafi matsferlið verið í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum. Eðli málsins samkvæmt verði að raska náttúrunni við vegagerð í landinu. Jafnframt sé því andmælt að umhverfisnefnd hafi ekki gætt ákvæða 61. gr. náttúruverndarlaga við umsögn sína. Sé hins vegar einhver óverulegur annmarki á umsögn nefndarinnar þá leiði hann einn og sér ekki til ógildingar á hinni kærðu ákvörðun.

Leið 3b sé í raun mótvægisaðgerð. Í tillögu að matsáætlun hafi verið kynntir þrír kostir. Miðað sé við að veglínur geti færst til innan rannsóknarsvæðisins ef matsvinnan leiðir í ljós að það sé nauðsynlegt. Þrátt fyrir þetta hafi leyfishafi í samráði við Skipulagsstofnun kynnt leið 3b út frá frummatsskýrslu og hafi hagsmunaaðilum verið gefinn kostur á að gera athugasemdir. Ljóst megi því vera að leið 3b hafi fengið umfjöllun í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum. Því hafi verið tekið tillit til áhrifa vegarins á sjávarfitjar og leirur.

Fullyrðing kærenda um að ekki hafi verið sýnt fram á nein jákvæð áhrif veglína 1, 2 og 3 og 3b að því er umferðaröryggi varði sé byggð á misskilningi. Rétt sé að slysatíðni hafi lækkað á Hringvegi um Hornafjörð frá samþykkt matsskýrslu. Enn sé þó langt í land til að ná landsmeðaltali fyrir þjóðvegi í dreifbýli. Innan við 30% slysa á árunum 2011-2015 hafi orðið við að ekið hafi verið á dýr. Girt verði meðfram nýjum vegi þar sem hann liggi um beitarsvæði. Í umferðaröryggismati frá 2008 komi fram að á leið 1 séu veg- og slóðatengingar mun fleiri en á hinum leiðunum. Þetta sé þó ekki sýnt nema í stöku tilfellum.

Ekkert ósamræmi sé á milli matsáætlunar og frummatsskýrslu. Stytting vegalengda sé einhver áhrifaríkasta aðferð til að auka umferðaröryggi og draga úr slysahættu.

Núllkostur, þ.e. óbreytt ástand, sé alltaf metið. Vísist um þetta til kafla 6.2.1. í matsskýrslu. Þar komi m.a. fram að óbreytt ástand sé ekki í samræmi við samgönguáætlun 2007-2010. Engu skipti þótt skólahaldi hafi verið hætt í Nesjum. Þar sé ferðaþjónusta og mikil umferð fólks. Matið á núllkosti sé því í fullu gildi.

Samningar séu í gangi við landeigendur í samræmi við ákvæði VII. kafla vegalaga. Sé landeigendum skylt að láta land af hendi til þjóðvegagerðar og hvers kyns veghalds, enda komi fullar bætur fyrir, sbr. 1. mgr. 37. gr. laganna. Hvorki komi fram í ákvæðum skipulagslaga né reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 að skilyrði fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis sé að umráðataka hafi farið fram, að einhverju eða öllu leyti, á því landi sem framkvæmd lúti að.

Aðstæður séu aðrar í kærumálum þeim sem hér séu til umfjöllunar en í dómum Hæstaréttar í málum nr. 796/2015 og 246/2017. Hvorki ákvæði laga né dómar Hæstaréttar leiði til þeirrar niðurstöðu að umráðataka lands þurfi að liggja fyrir þegar framkvæmdaleyfi sé veitt. Þá styðjist það við áratuga venju að leyfishafi fái framkvæmdaleyfi þótt ekki hafi verið samið við alla landeigendur þegar leyfi sé veitt. Megi færa gild rök fyrir því að framkvæmdaleyfi sé forsenda þess að eignarnám nái fram að ganga þar sem framkvæmd þurfi að vera í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi sveitarfélags lögum samkvæmt.
Viðbótarathugasemdir kærenda: Þeir kærendur sem eiga jarðir og lóðir þar sem fyrirhugað vegstæði liggur um telja að niðurstöður matsskýrslu framkvæmdaraðila um vatnafar séu í meginatriðum rangar þar sem rennsli úr Hoffellsá og Laxá í Nesjum sé stórlega vanmetið. Framkvæmdaraðili hafi metið hönnunarflóð árvatns fyrir fyrirhugaðar brýr í Hornafirði á grundvelli flóðagreiningar vatnshæðarmælis VHM-146 í Fossá í Berufirði, þar sem Orkustofnun hafi mælt rennsli síðan 1968. Flóðagreining Orkustofnunar fyrir þennan mæli sé frá desember 2006 og hafi verið endurskoðuð og yfirfarin vegna þessa verkefnis. Framkvæmdaraðili líti svo á að Fossá sé dragá, eins og Laxá og að engin ástæða sé til að ætla annað en að áætla megi flóð í Laxá á grundvelli mælinganna frá Fossá. Sé þessi aðferðafræði stórkostlega varasöm og beinlínis röng eins og sjá megi af athugasemd frá framkvæmdastjóra athugana og tækni hjá Veðurstofu Íslands. Þar komi fram að vatnasvið Laxár sé að mörgu leyti svipað og vatnasvið Fossár, en jafnframt sé ljóst að vatnasviðin séu mjög mismunandi útsett fyrir úrkomuáttum. Þá sýni gögn frá Veðurstofu að mikil flóð og vatnavextir á Suður- og Suðausturlandi, líkt og í októberbyrjun 2017, séu ekki einsdæmi og hafi hámarksrennsli Laxár oft mælst meira en þá frá árinu 2006.

Við þessar aðstæður sé ótækt að framkvæmdaleyfi standi óhreyft, þar sem verið sé að veita leyfi til framkvæmda án þess að afleiðingar þeirra hafi verið metnar með fullnægjandi hætti. Veki það jafnframt upp spurningu um hvort áhrif leiðar 3b á vatnsflæði Bergár, sem renni norðan við voginn milli Árnaness og Dilksness/Hafnarness, hafi verið metin með fullnægjandi hætti.

Svör leyfishafa við viðbótarathugasemdum: Leyfishafi telur að viðbótarathugasemdir þær er fram hafi verið færðar breyti engu um þær forsendur sem fram komi í matsskýrslu vegna framkvæmdarinnar, m.a. varðandi flóðahættu í tengslum við framkvæmdina. Í því sambandi sé vísað til umfjöllunar í matsskýrslu um vatnafar á bls. 129 og áfram. Ekki sé hægt að túlka athugasemdir sérfræðings Veðurstofunnar í þá veru að aðferðafræði sem notuð sé við mat á hönnunarflóði sé „stórkostlega varasöm og beinlínis röng“. Taki hann enda enga afstöðu til aðferðafræðinnar eða fjalli um hana sem slíka, en um sé að ræða þekkta aðferð. Miðað við fyrirliggjandi reynslu virðist vera ágætt samræmi á milli vatnasviðs Fossár í Berufirði og Laxár í Nesjum þegar komi að mati á flóðum og sé vísað til minnisblaðs sérfræðings leyfishafa, dags. 10. október 2017, hvað þetta varði.

Svör sveitarfélagsins við viðbótarathugasemdum: Sveitarfélagið vísar í svör leyfishafa og tekur undir þau sjónarmið sem þar koma fram.

——-

Færð hafa verið fram frekari sjónarmið í máli þessu sem ekki verða rakin nánar hér en höfð hafa verið til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Eins og fram hefur komið hefur undirbúningur framkvæmda vegna veglagningar Hringvegar um Hornafjörð staðið yfir í ríflega áratug. Sem hluti af þeim undirbúningi fór fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna, þar sem metin voru áhrif mismunandi framkvæmdakosta. Álit Skipulagsstofnunar vegna þessa lá fyrir 7. ágúst 2009 og var það niðurstaða hennar að með vali á leið 1 væri dregið eins og kostur væri úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdanna og samræmdist því best markmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum. Væru neikvæð umhverfisáhrif leiðar 1 minni en annarra kynntra kosta, auk þess sem veglagning samkvæmt leið 1 leiddi til minnstrar efnistöku úr nærliggjandi námum. Taldi stofnunin að áhrif leiða 2, 3 og 3b á landslag, ásýnd, jarðmyndanir og gróður yrðu óhjákvæmilega verulega neikvæð. Er í máli þessu deilt um lögmæti framkvæmdaleyfis, sem sveitarstjórn Hornafjarðar samþykkti 1. desember 2016 að veita fyrir lagningu Hringvegar um Hornafjörð milli Hólms og Dynjanda. Veitir það leyfi heimild til lagningar vegarins eftir veglínu 3b.

Um veitingu framkvæmdaleyfis, málsmeðferð og skilyrði er fjallað í skipulagslögum nr. 123/2010. Þannig gildir 13. gr. almennt um framkvæmdaleyfi en að auki kemur til kasta 14. gr. þegar um framkvæmdaleyfi vegna matsskyldra framkvæmda er að ræða, sbr. og 13. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Með lögum nr. 74/2005 var lögum nr. 106/2000 breytt. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að breytingarlögum nr. 74/2005 var tilgreint að helstu breytingar er fælust í frumvarpinu væru þær að í matsferlinu yrði ekki tekin afstaða til þess hvort fallast beri á með eða án skilyrða eða leggjast gegn framkvæmd sem lýst hafi verið með fullnægjandi hætti í matsskýrslu framkvæmdaraðila. Nánar er fjallað um hlutverk leyfisveitenda og Skipulagsstofnunar í athugasemdum með 10. og 13. gr. nefnds frumvarps. Í athugasemdum með 10. gr. er tekið fram að lagt sé til að í stað þess að Skipulagsstofnun kveði upp úrskurð um mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar gefi stofnunin álit sitt á endanlegri matsskýrslu framkvæmdaraðila. Það sé ekki hlutverk stofnunarinnar að ákveða hvort hafna eða leyfa skuli framkvæmd, heldur sé slík ákvörðun í höndum viðkomandi leyfisveitenda. Í athugasemdum með 13. gr. kemur fram að lagt sé til að leyfisveitandi skuli kynna sér skýrslu framkvæmdaraðila og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Leyfisveitendum beri þannig að fjalla um álit Skipulagsstofnunar og taka afstöðu til þess og kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila sem því liggi til grundvallar. Sé leyfi veitt þar sem tekið sé á einhverjum eða öllum þáttum með öðrum hætti en fram kemur í álitinu þurfi leyfisveitandi þannig að geta fært rök fyrir niðurstöðu sinni. Þetta sé í samræmi við nánar tilgreind ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins, sem kveði á um að niðurstöður mats skuli teknar til athugunar við útgáfu leyfis til framkvæmda. Ákvæðið hafi verið túlkað á þann veg að stjórnvaldið skuli, í ákvörðun um útgáfu leyfis til framkvæmda, vísa til framkominna upplýsinga og athugasemda úr matsferlinu og taka afstöðu til þeirra og geta þess sérstaklega hvaða sjónarmið liggja þar að baki. Álit Skipulagsstofnunar eða niðurstaða matsskýrslu bindi því ekki hendur þess stjórnvalds sem fari með útgáfu leyfis til framkvæmda.

Af því sem að framan er rakið er ljóst að skyldur leyfisveitenda eru ríkar og ná þær m.a. til þess að kanna hvort einhverjir þeir efnisannmarkar séu á áliti Skipulagsstofnunar, eða svo verulegir annmarkar á málsmeðferð, að bæta verði úr eða að á álitinu verði ekki byggt. Lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar beinist þannig ekki eingöngu að eiginlegri málsmeðferð og efnislegri niðurstöðu leyfisveitanda, heldur einnig eftir atvikum að málsmeðferð og efnislegri niðurstöðu Skipulagsstofnunar.

———-

Því er m.a. haldið fram í málinu að málsmeðferð Skipulagsstofnunar hafi verið ábótavant. Vísa hafi átt frummatsskýrslu frá þar sem hún hafi ekki verið í samræmi við matsáætlun hvað varðaði markmið framkvæmdar. Auk þess hafi ekki verið lagaheimild fyrir þeirri málsmeðferð sem viðhöfð hafi verið við kynningu á leið 3b.

Í tillögu að matsáætlun frá október 2006 er í kafla 1.3. fjallað um markmið framkvæmda. Tiltekið er að tilgangur framkvæmdar með nýjum vegi sé að bæta samgöngur á Suðausturlandi og styrkja byggðarlög á Suðaustur- og Austurlandi með bættu vegasambandi á Hringvegi. Vegalengdir milli Austurlands og Suðurlands styttist um a.m.k. 11 km með nýjum vegi. Markmiðið með gerð vegarins sé fyrst og fremst að auka umferðaröryggi, draga úr slysahættu og tryggja góðar samgöngur á svæðinu. Á bls. 9 í frummatsskýrslu frá janúar 2008 er tilgangi og markmiði framkvæmda lýst á þann veg að tilgangur þeirra sé að bæta samgöngur á Suðausturlandi og styrkja byggðarlög á Suðaustur- og Austurlandi með bættu vegasambandi á Hringvegi. Vegalengdir milli Austurlands og Suðurlands styttist um a.m.k. 10 km með nýjum vegi. Markmiðið með gerð vegarins sé fyrst og fremst að auka umferðaröryggi, draga úr slysahættu, stytta vegalengdir og tryggja góðar samgöngur á svæðinu. Samkvæmt þessu liggur fyrir að framangreindar lýsingar eru nánast samhljóða og því engin stoð fyrir þeirri fullyrðingu kærenda að stytting vegalengda hafi fyrst komið til sögunnar í frummatsskýrslu sem hluti af markmiðum framkvæmdar.

Í drögum að tillögu að matsáætlun frá júlí 2006 voru kynntir þrír framkvæmdakostir, þ.e. leið 1, 2 og 3. Einnig var vikið að þeim kosti að hafa óbreytt ástand, svonefndan núllkost, og tekið fram að fjallað yrði um hann í matsskýrslu. Enn fremur kom fram að framkvæmdaraðili teldi þann kost ekki raunhæfan. Í tillögu að matsáætlun eru lagðar fram þrjár leiðir til skoðunar í mati á umhverfisáhrifum, þ.e. fyrrnefndar leiðir 1, 2 og 3. Segir svo að kynntar leiðir séu afrakstur af samstarfi Vegagerðarinnar og Sveitarfélagsins Hornafjarðar og afmarkist valkostir m.a. af legu flugvallar. Geri allar framlagðar tillögur ráð fyrir að núverandi vegur verði nýttur sem innansveitarvegur. Var tekið fram að mögulegt væri að skeyta leiðum saman við aðrar framlagðar leiðir við Hornafjarðarfljót, t.d. þannig að leið 1 yrði fyrir valinu vestan Hornafjarðarfljóta en leið 2 austan þeirra. Gerð yrði grein fyrir mögulegum samsettum leiðum í frummatsskýrslu. Einnig var að finna umfjöllun um núllkost, sem var sem fyrr ekki talinn raunhæfur. Þá kom fram að í erindi sem Vegagerðinni hefði borist frá landeigendum væru lagðar fram tvær leiðir, leiðir 4 og 5. Kæmi leið 4 ekki til greina þar sem hún lægi innan þess svæðis sem Flugmálastjórn krefðist vegna flugvallarins. Leið 5 lægi norðar í landi, norðan við fyrirhugaða námu í Skógey, og sameinaðist núverandi vegi norðan Nesjahverfis. Legði Vegagerðin áherslu á að nýr vegur yfir Hornafjarðarfljót lægi ekki um Nesjahverfi og að hann stytti Hringveginn eins mikið og kostnaðarhagkvæmni leyfði, að teknu tilliti til umhverfis.

Lagðar eru fram þrjár leiðir til skoðunar í frummatsskýrslu. Er sem fyrr um að ræða leiðir 1, 2 og 3. Gerir skýrslan grein fyrir þessum leiðum og umhverfisáhrifum þeirra, sem og kostum sem fela í sér samsettar leiðir. Einnig er að því vikið að í athugasemdum um tillögu að matsáætlun hafi samtök fasteignaeigenda í Nesjum gert kröfu um að umhverfisáhrif fjögurra kosta yrðu metin til viðbótar við þá sem Vegagerðin hafi lagt fram, þ.e. leiðir 4, 4a, 5 og 5a, sem framkvæmdaraðili telji ekki koma til greina, m.a. að teknu tilliti til markmiða um greiðar samgöngur og umferðaröryggi.

Í desember 2008 var á opnum kynningarfundi á Höfn í Hornafirði kynnt „Ný útfærsla á leið 3 í mati á umhverfisáhrifum – Leið 3b.“ Var tiltekið að ástæður nýrrar útfærslu væru annars vegar óskir sveitarfélagsins um tilfærslu leiðar 3 norður fyrir Flóa, utan svæðis á náttúruminjaskrá, og hins vegar athugasemdir frá almenningi um að land sunnar í Skógey væri þurrara en þar sem leið 3 væri áætluð. Munu hafa verið veittar tvær vikur til að gera athugasemdir og jafnframt mun hafa verið óskað umsagnar Umhverfisstofnunar og Fornleifaverndar ríkisins vegna leiðar 3b.

Í kafla 6 í matsskýrslu frá apríl 2009 er fjallað um framkvæmdakosti. Tiltekið er að fram séu lagðar þrjár leiðir til skoðunar í mati á umhverfisáhrifum, leið 1, 2 og 3. Samráð við Sveitarfélagið Hornafjörð og athugasemdir og ábendingar frá almenningi hafi leitt til þess að framkvæmdaraðili hafi talið unnt að breyta veglínu 3 á þá leið að áhrif hennar yrðu minni á umhverfið. Því hafi verið gerð útfærsla á leið 3, þ.e. leið 3b, og sé sérstaklega gerð grein fyrir þessari útfærslu samhliða allri umfjöllun um leið 3. Er og svo gert í kafla 6.1.4. en leiðum 1, 2 og 3 gerð skil í köflum 6.1.1.-6.1.3. Í umfjöllun um leið 3b er tekið fram að hún sé innan rannsóknarsvæðis leiðar 3 og athugunarsvæðis sem kynnt hafi verið í tillögu að matsáætlun. Er veglínunni lýst þannig að hún þveri Hornafjarðarfljót sunnar en upphafleg leið, sbr. einnig mynd 6.1., og liggi sömuleiðis sunnar í Skógey. Frá Hrísey liggi veglínan líkt og upphafleg leið 3 í sunnanvert Árnanes, síðan norðan við Hrafnsey, suður fyrir Hafnarnes og fylgir eftir það línu skv. aðalskipulagi Hornafjarðar að Hringvegi norðan við Haga, sbr. mynd 6.1. og kort 4.

Um málsmeðferð vegna matsskyldra framkvæmda er fjallað í IV. kafla laga nr. 106/2000. Í tillögu framkvæmdaraðila að matsáætlun skal m.a. lýsa framkvæmdinni, framkvæmdasvæði og öðrum möguleikum sem til greina komi, sbr. 1. mgr. 8. gr. laganna. Frummatsskýrsla skv. 9. gr. skal vera í samræmi við matsáætlun og skal þar ávallt gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina koma og umhverfisáhrifum þeirra og bera þá saman. Frummatsskýrsla skal auglýst til kynningar samkvæmt fyrirmælum í 10. gr. laganna og vinnur framkvæmdaraðili matsskýrslu á grundvelli hennar. Skal í matsskýrslu gera grein fyrir fram komnum athugasemdum og umsögnum og taka afstöðu til þeirra. Telji Skipulagsstofnun að matsskýrsla framkvæmdaraðila víki frá frummatsskýrslu hvað varði mikilvæga þætti málsins skal hún auglýst að nýju, sbr. 3. mgr. 11. gr. Er í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að breytingarlögum nr. 74/2005 tekið fram að með þessu sé settur varnagli þar sem að öðrum kosti fengju verulegar breytingar á matsskýrslu ekki þá umfjöllun sem eðlilegt sé, af sérfróðum aðilum og öðrum sem kynnu að vilja tjá sig um þær.

Svo sem að framan er lýst var í matsskýrslu fjallað um nýja útfærslu leiðar 3, leið 3b, en hún var ekki tilgreind sérstaklega í frummatsskýrslu. Kom fram í matsskýrslu að hún væri til komin vegna athugasemda við frummatsskýrslu, annars vegar frá sveitarfélaginu og hins vegar frá almenningi. Með nýrri útfærslu væri m.a. komist hjá því að raska Skarðsfirði, sem er á náttúruminjaskrá. Leið 3b var kynnt af framkvæmdaraðila á opnum fundi og var óskað umsagna um hana áður en matsskýrsla var fullunnin.  Ekki var tekin ákvörðun um að auglýsa skýrsluna að nýju skv. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000 og verður að líta svo á að með því hafi Skipulagsstofnun talið að matsskýrslan viki ekki frá frummatsskýrslu hvað varðaði mikilvæga þætti málsins.

Markmið laga nr. 106/2000 eru tíunduð í 1. gr. þeirra. Meðal þessara markmiða er að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar. Einnig er meðal markmiða að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar, að stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða vegna framkvæmda sem falla undir ákvæði laganna, sem og að kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif slíkra framkvæmda og mótvægisaðgerðir vegna þeirra og gefa almenningi kost á að koma að athugasemdum og upplýsingum áður en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar liggur fyrir.

Ljóst er að gert er ráð fyrir ákveðnu samræmi á milli matsáætlunar, frummatsskýrslu og matsskýrslu og að Skipulagsstofnun hafi með því eftirlit. Í leiðbeiningum Skipulagsstofnunar frá desember 2005 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, sem gefnar voru út samkvæmt fyrirmælum í 2. mgr. 20. gr. laga nr. 106/2000, er m.a. fjallað um framsetningu framkvæmdarkosta í matsáætlun. Er tekið sem dæmi að þar sem framkvæmdaraðili hafi svigrúm til þess að velja marga kosti á útfærslu framkvæmdar, t.d. á legu vega, sé æskilegt að afmarka athugunarsvæði í tillögu að matsáætlun, þ.e. nokkurs konar belti á uppdrætti. Þannig sé gert ráð fyrir að mannvirkin verði innan beltisins þó svo að endanleg staðsetning hafi ekki verið ákveðin. Við þessa framsetningu hafi eiginlegir kostir enn ekki verið ákveðnir, heldur verði þeir valdir í matsferlinu og þá m.a. með tilliti til niðurstöðu þess. Með þessu móti sé hægt að hnika staðsetningu framkvæmdar, t.d. vegi, vegna umhverfisáhrifa sem koma í ljós við matið, t.d. vegna náttúrufars. Framkvæmdaraðili fylgdi þessari aðferðafræði og þegar leið 3b var kynnt til sögunnar var lögð áhersla á að um útfærslu á leið 3 væri að ræða og að hún lægi innan rannsóknarsvæðis framkvæmdarinnar. Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir nefndinni mun svo vera, að því undanskildu að 250 m löng brú á stöplum yfir Hornafjarðarfljót, sem fyrirhuguð er á leið 3b, virðist vera utan þess athugunarsvæðis sem sýnt var á uppdrætti með tillögu að matsáætlun. Þegar litið er til þess að vegurinn er að öðru leyti innan þess svæðis þykir það frávik þó ekki valda því að leiðin sem slík hafi ekki komið til mats.

Að áliti úrskurðarnefndarinnar var samfella í málsmeðferð frá matsáætlun til matsskýrslu vegna framkvæmdarinnar og er jafnframt ljóst að leið 3b kom til mats, a.m.k. með óbeinum hætti allt frá upphafi. Má í þessu sambandi vísa til dóms Hæstaréttar í máli nr. 22/2009, þar sem tiltekið var að í úrskurði umhverfisráðherra frá 11. maí 2007 fælist að leiðir 4 og 4a kæmu til mats með óbeinum hætti og væru því ekki forsendur til að ógilda úrskurðinn á þeim grunni að þær leiðir yrðu ekki metnar. Einnig verður að líta svo á að þótt leið 3b hafi verið kynnt til sögunnar með málsmeðferð sem ekki átti sér beina stoð í ákvæðum laga nr. 106/2000 hafi meðferð málsins fylgt almennum reglum stjórnsýsluréttarins um rannsókn máls, m.a. með því að leita athugasemda og umsagna. Var og stefnt að þeim markmiðum laga nr. 106/2000 sem áður er lýst, þ.e. samvinnu aðila og samráði við almenning, auk þess að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar með því að sneiða fram hjá svæði á náttúruminjaskrá.

Verður og að líta svo á að leið 3b hafi sætt mati á umhverfisáhrifum, enda lá hún að langmestu leyti innan þess athugunarsvæðis sem markað var í byrjun, auk þess sem gerð var grein fyrir henni sérstaklega í matsskýrslu og áliti Skipulagsstofnunar og umhverfisáhrif hennar borin saman við áhrif annarra leiða. Þannig er í matsskýrslu fjallað um þá kosti sem framkvæmdaraðili leggur fram til skoðunar, þ.e. leið 1, 2 og 3, auk leiðar 3b, sem sögð er vera ný útfærsla á leið 3. Gerð er grein fyrir núllkosti og öðrum kostum sem samtök landeigenda í Nesjum lögðu fram. Tekið er fram að í núllkosti felist óbreytt ástand. Tiltekin eru umhverfisáhrif leiða 1, 2 og 3, sem og mismunandi samsettra leiða, auk leiðar 3b, og þau borin saman. Hins vegar er ekki fjallað um umhverfisáhrif þess að endurbyggja veginn, enda var framkvæmdaraðila það ekki skylt skv. úrskurði umhverfisráðherra sbr. og dóm Hæstaréttar í máli nr. 22/2009. Tekur Skipulagsstofnun fram í áliti sínu að umfjöllun um framlagða kosti í matsskýrslunni sé góð.

Að öllu framangreindu virtu liggur ekkert annað fyrir en að fyrirhuguð framkvæmd hafi verið metin með fullnægjandi hætti í því mati á umhverfisáhrifum sem fram fór og gefur álit Skipulagsstofnunar hvað valkosti varðar ekki tilefni til athugasemda.

———-

Því er einnig haldið fram að mat það sem fram fór á umhverfisáhrifum hinnar umdeildu framkvæmdar sé úrelt fyrir aldurs sakir og er jafnframt tilgreint að ýmsar forsendur hafi breyst frá því að matið fór fram. Úrskurðarnefndin kvað upp úrskurð 13. nóvember 2017 í kærumáli nr. 77/2017, þar sem hafnað var kröfu um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 4. júlí 2016 um að vísa frá beiðni um endurskoðun matsskýrslu fyrir Hringveg um Hornafjörð. Var sú niðurstaða úrskurðarnefndarinnar á því reist að skilyrði 12. gr. laga nr. 106/2000, m.a. um að tíu ár væru liðin frá því að álit Skipulagsstofnunar lægi fyrir, hefðu ekki verið uppfyllt. Mat á umhverfisáhrifum Hringvegar um Hornafjörð og álit Skipulagsstofnunar þar um eru því ekki úrelt fyrir það eitt að langt sé um liðið. Það leysir þó ekki leyfisveitanda undan þeirri skyldu að kynna sér álitið og það sem því liggur til grundvallar og þá eftir atvikum að meta hvort forsendur hafi breyst að því marki að rétt sé að hann geri gangskör að því að upplýsa málið betur. Eru þær skyldur í samræmi við ákvæði 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga, sbr. og 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000, um að við leyfisveitingu skuli leyfisveitandi, hér sveitarstjórn, kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar.

Við afgreiðslu málsins hjá umhverfisnefnd Sveitarfélagsins Hornafjarðar var bókað að nefndin hefði kynnt sér matsskýrslu framkvæmdar frá apríl 2009, sem og álit Skipulagsstofnunar, dags. 7. ágúst s.á., um mat á umhverfisáhrifum. Í bókun skipulagsnefndar við afgreiðslu málsins er tekið fram að nefndin hafi borið saman fyrirliggjandi umsókn og matsskýrslu framkvæmdar, sem og áðurnefnt álit Skipulagsstofnunar, og hafi samanburðurinn leitt í ljós að umsótt framkvæmd væri í samræmi við matsskýrsluna. Tæki nefndin undir álit Skipulagsstofnunar um að matsskýrsla Vegagerðarinnar uppfyllti skilyrði laga um mat á umhverfisáhrifum og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt. Telji nefndin að matsskýrslan sé fullnægjandi til að byggja ákvörðun á um veitingu framkvæmdaleyfis, ásamt áliti Skipulagsstofnunar, umsögnum og sérfræðiskýrslum. Í matsskýrslunni sé m.a. gerð grein fyrir framkvæmd samkvæmt veglínu 3b, sem væri sú veglína sem umsótt framkvæmd sýndi. Einnig væri gert ráð fyrir efnistökusvæðum, umfangi þeirra og frágangi. Þá tók skipulagsnefnd fram að það væri mat hennar að álit Skipulagsstofnunar fullnægði lágmarksskilyrðum um rökstuðning og efnisinnihald, þannig að bæjarstjórn gæti tekið ákvörðun. Við afgreiðslu málsins hjá bæjarstjórn var gerð grein fyrir afgreiðslum umhverfisnefndar og skipulagsnefndar í málinu. Var fært til bókar að bæjarstjórn teldi með vísan til fyrrgreindra bókana ljóst að nefndirnar hefðu kynnt sér ítarlega umsótta framkvæmd og fylgigögn og komist að rökstuddri niðurstöðu í framhaldi þess, líkt og áskilið væri í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga. Hefði bæjarstjórn kynnt sér umsótta framkvæmd og umhverfisáhrif hennar, matsskýrslu og álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Kemur og fram í bókun bæjarstjórnar að unnin hafi verið greinargerð sem bæjarstjórn hafi haft til hliðsjónar við afgreiðslu málsins. Er af öllu ljóst að bæjarstjórn hefur kynnt sér fyrirhugaða framkvæmd, umhverfisáhrif hennar, sem og þau gögn sem búa að baki mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Er og ljóst af tilvitnaðri bókun skipulagsnefndar að við samþykkt hins kærða framkvæmdaleyfis leit nefndin ekki svo á að álit Skipulagsstofnunar væri haldið slíkum ágöllum að ekki yrði á því byggt, en kærendur hafa m.a. haldið því fram að svo sé.

Hinn 22. október 2009 kvað Hæstiréttur upp dóma í málum nr. 671/2008 og nr. 22/2009, sem hafa m.a. þýðingu í kærumáli þessu um það hvaða rök teljast málefnaleg, sem og um það hvaða atriði skuli skoða við leyfisveitingu fremur en í mati á umhverfisáhrifum. Varðar fyrri dómurinn mat á umhverfisáhrifum veglagningar um Teigsskóg, en sá síðari þá framkvæmd sem hér er deilt um.

Með dómi sínum í máli nr. 22/2009 féllst Hæstiréttur á að framkvæmdaraðili hafi forræði á því hvaða framkvæmdakostir uppfylli markmið framkvæmdar, enda sé mat hans í þeim efnum reist á hlutlægum og málefnalegum grunni. Fjallar Hæstiréttur síðan m.a. um val Vegagerðarinnar á leiðum og tekur fram að ástæður hennar fyrir vali á leiðum 1, 2 og 3 hafi allar verið málefnalegar og að ekkert gefi það til kynna að leiðarvalið hafi ekki verið reist á málefnalegum sjónarmiðum. Þá er tiltekið að Vegagerðin hafi rökstutt að leið 5 félli ekki að tilgangi og markmiðum framkvæmdarinnar, meðal annars vegna þess að hún stytti leiðina minna en aðrir kostir og að umferðaröryggi væri áfátt, þar sem hún lægi nærri þéttbýlinu á Nesjum og að á henni væru margar tengingar við hliðarvegi. Tók Hæstiréttur loks fram að þessi sjónarmið væru málefnaleg og vörðuðu tilgang og markmið framkvæmdarinnar með þeim hætti að ekki yrði haggað því mati Vegagerðarinnar að hafna þessum kosti til mats.

Í dómi sínum í máli nr. 671/2008 túlkaði Hæstiréttur lög nr. 106/2000 svo að þeim væri fyrst og fremst ætlað að hindra spjöll á náttúru og umhverfi af völdum mengunar og framkvæmda og að skýra yrði skilgreininguna á hugtakinu umhverfi með hliðsjón af þessum megintilgangi laganna. Um þá framkvæmd sem um var deilt var tekið fram að tilhögun hennar hefði meðal annars augljós áhrif á vegalengd og ferðatíma á milli staða, kostnað vegfarenda af slíkri för og kostnað veghaldara af viðhaldi mannvirkisins, snjóhreinsun og hálkuvörnum, auk slysahættu og umferðaröryggis að öðru leyti, en allt þetta gæti skipt máli við heildarmat á hagkvæmni framkvæmdarinnar. Eðli máls samkvæmt ættu atriði af þessum meiði það sammerkt að þau væru grundvallarþættir í tilgangi og markmiði vegalagningar. Af þeim sökum gætu þau ekki jafnframt talist sjálfstætt til afleiðinga slíkrar framkvæmdar, sem horft verði til við mat á umhverfisáhrifum hennar, en til þeirra mætti á hinn bóginn líta við mat á því hvort veitt skuli leyfi fyrir henni. Tók Hæstiréttur fram að þótt atriði sem þessi hefðu vissulega með ýmsu móti áhrif á aðstæður manna, samfélag þeirra, heilbrigði og atvinnu, gætu þau af þessum sökum ekki talist til umhverfisáhrifa í skilningi laga nr. 106/2000, enda væri ljóst af fyrrgreindum tilgangi laganna að þeim væri einungis ætlað að taka til mats á afleiðingum framkvæmdar fyrir umhverfið en ekki á kostum hennar sjálfrar og göllum. Yrði þannig að líta svo á að þótt framkvæmd hefði í för með sér ávinning breytti það ekki umhverfisáhrifunum. Yrði tekið tillit til umferðaröryggis nýja vegarins væri því tekið tillit til þáttar sem í raun sé ávinningur af framkvæmdinni, en umhverfisáhrifin yrðu áfram óbreytt.

Í greinargerð þeirri sem bæjarstjórn hafði til hliðsjónar við afgreiðslu sína 1. desember 2016 er gerð ítarleg grein fyrir forsendum og niðurstöðu sveitarfélagsins. Í samantekt er niðurstaða bæjarstjórnar dregin saman svo: „Bæjarstjórn telur að jákvæð áhrif af leið 3b vegi meira en þau neikvæðu áhrif sem af framkvæmd verða umfram aðrar leiðir (aðra valkosti). Bæjarstjórn telur að sýnt hafi verið fram á að ekki sé unnt að ná markmiðum um samgöngubætur, aukið umferðaröryggi og styttingu leiða, með öðrum hætti sem valdi umfangsminni umhverfisáhrifum. Fyrirhuguð framkvæmd mun hafa jákvæð áhrif á samgöngur til frambúðar. Nýr vegur kemur í stað vegar sem uppfyllir ekki kröfur Vegagerðarinnar um umferðaröryggi. Nýr vegur mun bæta umferðaröryggi verulega vegna betri legu vegarins og styttingu vegalengda. Óhjákvæmilegt er að vegaframkvæmdir hafi neikvæð áhrif á náttúru og í þessu tilviki munu þær m.a. hafa neikvæð áhrif á landslag og ásýnd svæðisins, og votlendi. Með hliðsjón af hagsmunum samfélagsins er það mat bæjastjórnar að neikvæð áhrif séu ásættanleg miðað við þann ávinning sem framkvæmdin hefur í för með sér.“

Nánar er fjallað um þessi atriði í greinargerðinni og segir m.a. að með skoðun á áliti Skipulagsstofnunar, gagna sem fylgt hafi mati á umhverfisáhrifum, útfærslu framkvæmda samkvæmt framkvæmdaleyfisumsókn og annarra gagna sem bæjarstjórn hafi aflað sé komist að þeirri niðurstöðu að dregið hafi verið úr neikvæðum umhverfisáhrifum sem kostur sé á leið 3b og að þau teljist ásættanleg, m.t.t. ávinnings sem verði vegna framkvæmdanna. Stefna Aðalskipulags Hornafjarðar 2012-2030 sé að stuðla að öflugum og öruggum samgöngum innan sveitarfélagsins og yfir í aðra landshluta. Gert sé ráð fyrir breytingum á Hringvegi til að stytta leiðir og stuðla að auknu umferðaröryggi, m.a. í samræmi við samgönguáætlun 2011-2022. Það sé niðurstaða bæjarstjórnar að leið 3b uppfylli markmið um aukið umferðaröryggi mun betur en aðrar leiðir geti gert. Að mati sveitarfélagsins séu ekki kostir fyrir hendi sem nái markmiðum sveitarfélagsins um umferðaröryggi og styttingu vegalengda eins vel og leið 3b. Ljóst sé að leið 1 muni á heildina litið hafa minni áhrif á náttúrfar en leiðir 2, 3 og 3b. Ákveðnir annmarkar séu þó á þeirri leið. Lega leiðarinnar skeri t.d. í sundur ræktunarlönd, auk þess sem hún skerði núverandi félags- og útivistarsvæði í Nesjum. Leið 1 stytti vegalengdir að þjónustukjarna sveitarfélagsins mun minna en leiðir 2, 3 og 3b, en stytting vegalengda að þjónustukjarna sveitarfélagsins á Höfn sé forsenda áframhaldandi byggða- og atvinnuþróunar á Mýrum, í Suðursveit og Öræfum. Að stytta leiðir að þjónustukjarna sveitarfélagsins styðji við þá viðleitni að gera sveitarfélagið að einu búsetu- og atvinnusvæði. Jákvæð samfélagsleg áhrif yrðu því mest fyrir Sveitarfélagið Hornafjörð ef farin yrði leið 3b. Leið 3b leiði til aukins umferðaröryggis fram yfir aðrar leiðir, m.a. vegna fækkunar vegtenginga við þjóðveg. Í greinargerðinni er jafnframt greint frá samráðsferli sveitarfélagsins þegar unnið hafi verið að breytingu á aðalskipulagi 1998-2018. Hafi komið fram mikill vilji íbúa til þess að valin yrði sú leið sem stytti vegalengdina til Hafnar sem mest. Skiptar skoðanir hafi hins vegar verið um málið á borgarafundi í Nesjum og þar hafi m.a. komið fram áhyggjur hjá nokkrum landeigendum vegna þeirra áhrifa sem veglagning myndi hafa á náttúrufar, sem og á starfsemi þeirra, hvort heldur sem um væri að ræða ferðaþjónustu eða landbúnað. Bæjarstjórn sé sammála um að stytting vegalengda, og þar með bætt aðgengi að þjónustukjarna sveitarfélagsins, bætt umferðaröryggi og greiðfærni séu grundvallarmarkmið fyrir sveitarfélagið. Þeim markmiðum verði best náð með því að fara leið 3b. Þrátt fyrir að leið 1 hafi á heildina minni neikvæð umhverfisáhrif en leið 3b þá sé sú stytting á vegalengdum innan sveitarfélagsins, sem leið 3b skili umfram leið 1, það mikil að bæjarstjórn telji að þau jákvæðu samfélagslegu áhrif sem hljótist af leið 3b með bættu aðgengi að þjónustukjarnanum á Höfn vegi þyngra en minni neikvæð umhverfisáhrif á leið 1.

Við ákvörðun um veitingu hins kærða framkvæmdaleyfis leit bæjarstjórn til sjónarmiða tengdum umhverfi og samfélagi, svo sem að framan er lýst. Vóg hún og mat þann ávinning og þá galla sem af framkvæmdinni hlytust og komst að þeirri niðurstöðu að jákvæð samfélagsleg áhrif yrðu mest fyrir sveitarfélagið ef valin yrði leið 3b. Vógu þar þyngst sjónarmið um umferðaröryggi og styttingu vegalengda að þjónustusvæði sveitarfélagsins. Hefur sveitarstjórn um þetta mat við leyfisveitingu sína, eins og nánar er rakið í upphafi niðurstöðukafla þessa, og sjónarmið þessi eru málefnaleg, sbr. og dóm Hæstaréttar í máli nr. 22/2009. Þá komu þau til skoðunar á réttum tíma, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 671/2008.

Kemur þá til skoðunar hvort að breyttar forsendur hafi verið til staðar frá því að mat á umhverfisáhrifum lá fyrir, og þá eftir atvikum viðbrögð leyfisveitanda við þeim.

Umferðaröryggi er einn þeirra þátta sem vega verður og meta við leyfisveitingu og þrátt fyrir að ekki sé um þátt að ræða sem taka ber til skoðunar við mat á umhverfisáhrifum geta gögn sem aflað er við þá málsmeðferð rennt stoðum undir ákvörðun leyfisveitanda. Er ályktun bæjarstjórnar varðandi umferðaröryggi m.a. studd þeim gögnum. Í kafla 27 í matsskýrslu er bent á að allar framlagðar leiðir séu álíka hvað varði vegtækni og umferðaröryggi. Í sama kafla er og lagt mat á mismunandi leiðir og tekið fram að jákvæð áhrif framkvæmdarinnar á umferðaröryggi séu veruleg, að undanskilinni leið 1, þar sem jákvæð áhrif séu talsverð. Í greinargerð vegna veitingar framkvæmdaleyfis er tekið fram að slysatíðni á Hringvegi um Hornafjörð sé enn fremur há, miðað við landsmeðaltal, og að umferð hafi aukist hraðar en ráð hafi verið gert fyrir. Því til stuðnings er sýnt yfirlit yfir sumardagsumferð árin 2005 og 2015 á einstökum köflum vegarins. Er og tekið fram í greinargerðinni að fjöldi vegtenginga á hverjum vegkafla sé mikilvægur þáttur í umferðaröryggi og sé fjöldi þeirra talsvert meiri á leið 1 en leið 3b. Hafi Vegagerðin leitað leiða til að fækka vegtengingum á leið 1 en ekki getað lagt fram hagkvæma eða raunhæfa tillögu.

Við leyfisveitingu lá þannig fyrir að að fleiri tengingar eru á leið 1, en það hefur áhrif á umferðaröryggi. Bent var á nýjar tölur um aukningu umferðar og tekið fram að slysatíðni væri enn yfir landsmeðaltali. Þá liggur fyrir að þótt að Nesjaskóli hafi lagst af þá er á því svæði enn þéttbýli.

Að áliti Skipulagsstofnunar var fullnægjandi grein gerð fyrir vatnafari á svæðinu og hönnun mannvirkja miðað við það. Er m.a. tekið fram að vegur eftir leiðum 2, 3 og 3b, ásamt samsettum leiðum 1v/2a og 1v/3a, komi til með að hafa nokkur áhrif í voginum á milli Hríseyjar og Árnanes nema í aftakaflóðum, 100 ára flóð, en þau geti orðið talsverð. Er álitið í samræmi við það sem fram kemur í matsskýrslu að ekki verði „hjá því komist að mannvirkin valdi talsverðri hækkun á vatnsborði í aftakaflóðum (flóð með 100-ára endurkomutíma)“. Var það heildarniðurstaða Skipulagsstofnunar, að teknu tilliti til mótvægisaðgerða, að neikvæð áhrif allra leiða á vatnafar kæmu til með að verða nokkur. Meðal gagna málsins er minnisblað Vegagerðarinnar frá október 2016 þar sem fram kemur að vegna fyrirhugaðrar útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir nýjan Hringveg um Hornafjörð hafi sveitarfélagið óskað eftir að Vegagerðin kynnti framkvæmdaáætlun og breytingar frá umhverfismati fyrir Umhverfisstofnun. Í minnisblaðinu er leiðrétt það sem fram kom í matsskýrslu um að ekki hefði flætt upp á suðurenda flugvallar né vatnað upp á tilgreinda vegi, þar sem þeir séu lægstir, og er tekið fram að þetta hafi gerst í sjávarflóði veturinn á undan. Er jafnframt tekið fram um grjótvarnargarða að flái 1:3 verði ekki notaður við þessar aðstæður. Í stað þess að reikna með 1,93 m hönnunarflóði við utanverða vegfyllingu sé miðað við 2,00 m. Grjótvörn á innanverðri fyllingu verði með fláa 1:4. Leitaði sveitarfélagið þannig eftir frekari upplýsingum og var upplýst um það af hálfu framkvæmdaraðila að hönnun verks hefði í nokkru verið breytt til að bregðast við þekktum aðstæðum. Að því loknu var sveitarstjórn rétt að byggja á áliti Skipulagsstofnunar um vatnafar og verður í því samhengi ekki séð að þótt aftakaflóð hafi orðið á svæðinu haustið 2017 hafi forsendur breyst að þessu leyti frá mati þar til hin kærða leyfisveiting fór fram. Var enda fjallað í matsskýrslu og áliti Skipulagsstofnunar um umhverfisáhrifin við þær aðstæður og að þau gætu þá orðið talsverð.

Í matsskýrslu er fjallað um samræmi framkvæmdar við aðalskipulag í kafla 9.2.1 og kemur þar fram að fyrirhugaðar veglínur fari aðallega um landbúnaðarland, en það sé að mestu tún og beitarland. Að öðru leyti er fjallað um landbúnaðarland í kaflanum um landslag í mati á umhverfisáhrifum. Er þannig tiltekið í kafla 18.3.3 að slegin tún, beitilönd, skurðir, kartöflugarðar og skógrækt falli undir flokkinn landbúnaðarland. Landið hafi greinilega verið meðhöndlað og því umbylt af mönnum í þeim tilgangi að nýta til landbúnaðar og skeri þessi svæði sig vel úr landinu. Landbúnaðarlandslag njóti ekki sérstakrar verndar sem slíkt. Svæðið ofan við núverandi Hringveg í Nesjum sé sérstaklega áberandi landbúnaðarland, en svo sé einnig á hvora hönd þegar ekið sé í gegnum Mýrarnar á vesturhluta framkvæmdasvæðisins. Í matsskýrslu er einnig greint frá athugasemdum þess efnis að ekki hafi verið fjallað um landbúnað með fullnægjandi hætti og er greint frá þeim svörum framkvæmdaraðila að matsáætlun hafi ekki gert ráð fyrir frekari umfjöllun þar um.

Umhverfi er þannig skilgreint í 3. gr. laga nr. 106/2000 að það sé samheiti fyrir m.a. atvinnu og fellur landbúnaður þar undir. Hefur áður verið rakið að samkvæmt dómaframkvæmd skuli í mati á umhverfisáhrifum meta afleiðingar framkvæmdar fyrir umhverfið en ekki kosti hennar sjálfrar og galla. Það komi eftir atvikum til skoðunar við leyfisveitingu. Í því sambandi er rétt að benda á að þrátt fyrir að mikilvæg stofnræktun á kartöflum sé stunduð á svæðinu þá er það ræktun sem fyrst og fremst er þáttur í atvinnu manna. Leiðir af því að vart er hægt að bera fyrir sig að verði af framkvæmdinni feli það að þessu leyti í sér spjöll á náttúru og umhverfi í skilningi laga nr. 106/2000, sbr. og dóm Hæstaréttar í máli nr. 671/2008. Verður því ekki fallist á að ónóg umfjöllun sé um landbúnað í mati á umhverfisáhrifum þótt hún einskorðist við landslagsumfjöllun. Skal og á það bent að áhrif á fuglalíf komu til mats, en missir á dúntekju getur vissulega orðið samhliða slíkum áhrifum. Þá er ljóst af undirbúningi málsins af hálfu bæjarstjórnar, m.a. með samþykkt skipulagsáætlana, og af rökstuðningi hennar að hún hefur m.a. haft til skoðunar áhyggjur landeigenda af áhrifum á starfsemi sína, hvort sem er á ferðaþjónustu eða landbúnað. Enn fremur verður að líta svo á að við mat á ávinningi og neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar komi fyrst og fremst til skoðunar almannahagsmunir fremur en hagsmunir einstaklinga, enda eru þeir verndaðir með öðrum reglum, s.s. um eignarnám og bætur vegna þess.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið tók sveitarstjórn upplýsta ákvörðun um umrædda leyfisveitingu og rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar í skilningi ákvæða skipulagslaga og laga nr. 106/2000.

———-

Í 3. mgr. 13. gr. skipulagslaga er kveðið á um að umsókn um framkvæmdaleyfi skuli fylgja nauðsynleg gögn sem nánar séu tiltekin í reglugerð og er mælt fyrir um þau í 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Fram kemur í bókun umhverfisnefndar við afgreiðslu hennar 29. nóvember 2016 að framlögð gögn séu fullnægjandi og í samræmi við fyrrnefnd laga- og reglugerðarákvæði. Í bókun skipulagsnefndar við afgreiðslu málsins 30. s.m. er tekið fram að nefndin hafi fjallað um öll fylgigögn með umsókn framkvæmdaraðila og af þeirri yfirferð verði ekki annað ráðið en að umsókn um framkvæmdaleyfi fullnægi áðurnefndum ákvæðum. Samþykkti bæjarstjórn nefndar bókanir á fundi sínum 1. desember s.á. Af þessu og öðrum gögnum málsins verður ráðið að umsókn Vegagerðarinnar ásamt fylgigögnum hafi fullnægt framangreindum ákvæðum. Þá er rétt að benda á að þrátt fyrir að ekki liggi fyrir samningar við alla landeigendur þá stendur það leyfisveitingu ekki í vegi, enda veitir framkvæmdaleyfi ekki heimild til framkvæmda sem brjóta í bága við rétt annarra, sbr. 5. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 772/2012.

Sveitarstjórn skal við útgáfu framkvæmdaleyfis einnig fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd er í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga, auk þess að ganga úr skugga um að gætt hafi verið ákvæða laga um náttúruvernd og annarra laga og reglugerða sem við eiga.

Eftirfarandi var fært til bókar við afgreiðslu bæjarstjórnar á umsókn um framkvæmdaleyfið: „Með hliðsjón af gildandi aðalskipulagi og breytinga sem gerðar voru árið 2009 á Aðalskipulagi Hornafjarðar 1998-2018, er fjölluðu um nýtt vegstæði Hringvegar (1) um Hornafjörð er hefði það að meginmarkmiði að stuðla að auknu umferðaröryggi og styttingu leiða innan sveitarfélagsins, uppfyllir umsótt framkvæmd skipulagsáætlun sveitarfélagsins.“ Í greinargerð framkvæmdaleyfis er að finna yfirlit um helstu forsendur og viðfangsefni sem Sveitarfélagið Hornafjörður leit til við ákvörðun um veitingu umrædds framkvæmdaleyfis, svo sem segir í kafla 1 í greinargerðinni. Þar kemur og fram að vegur og námur í umsókn Vegagerðarinnar séu í fullu samræmi við legu vegar, staðsetningu náma og umfang þeirra í Aðalskipulagi Hornafjarðar 2012-2030. Hefur úrskurðarnefndin gengið úr skugga um að svo sé. Hinn 10. júlí 2009 tók gildi breyting á Aðalskipulagi Hornafjarðar 1998-2018, er m.a. fól í sér breytingu á legu Hringvegar milli Hólms á Mýrum og Skarðshóla í Nesjum samkvæmt veglínu 3b. Samfara breytingunni var unnin umhverfisskýrsla í samræmi við lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Umhverfisskýrsla var einnig unnin við gerð Aðalskipulags Hornafjarðar 2012-2030 og er lítillega vikið að umræddum framkvæmdum í henni. Í framkvæmdaleyfinu er meðal skilyrða að vinna þurfi deiliskipulag fyrir nánar tilgreindar námur.

Samgönguáætlun fyrir árin 2015-2026 sætti umhverfismati áætlana, sbr. lög nr. 105/2006 þar um. Tillögur að þingsályktunum um annars vegar 12 ára samgönguáætlun fyrir árin 2015-2026 og hins vegar um fjögurra ára samgönguáætlun 2015-2018 voru lagðar fram á Alþingi haustið 2016. Var sú síðari samþykkt 12. október s.á., en sú fyrri hlaut ekki afgreiðslu þingsins. Hringvegur um Hornafjarðarfljót er tilgreindur sem framkvæmd í þeim báðum, sem og í umhverfisskýrslu vegna áætlunarinnar 2015-2026. Er og gerð grein fyrir framkvæmdinni í samgönguáætlun 2011-2022 sem einnig sætti umhverfismati áætlana. Var þingsályktun um þá áætlun samþykkt af Alþingi 19. júní 2012.

Fram kemur í matsskýrslu í kafla um samantekt umhverfisáhrifa að helstu einkenni gróðurfars á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði sé vel gróið land og umfangsmikið votlendi, sem samanstandi að mestu af deiglendi, mýrum og sjávarfitjum. Raski allar leiðirnar votlendi, þó mismikið sé. Leiðir 2, 3 og 3b valdi mestu beinu raski á votlendi og samsetta leiðin 3v/1a fylgi þar fast á eftir. Beint rask á votlendi nái þó ekki til nema 2-3% af heildarflatarmáli votlendis á rannsóknarsvæðinu. Þá nái áhrifasvæði vegarins, miðað við leiðbeiningar Umhverfisstofnunar, til 4-5% af heildarflatarmáli votlendis á rannsóknarsvæðinu. Valdi leiðir 2, 3 og leið 1v/3a mestu raski á sjávarfitjum, sem teljist fágætar á landsvísu, og njóti sérstakrar verndar skv. 37. gr. náttúruverndarlaga nr. 44/1999, nú 61. gr. gildandi náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Leið 3b raski sjávarfitjum mun minna en upphaflega útfærslan, leið 3. Að þessu virtu bar sveitarstjórn, sem leyfisveitanda, að fylgja ákvæðum 61. gr. náttúruverndarlaga við málsmeðferð sína.

Í nefndri 61. gr. náttúruverndarlaga er fjallað um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja o.fl. Falla þar undir m.a. votlendi, svo sem hallamýrar, flóar, sjávarfitjar og leirur, sbr. a-lið 1. mgr. 61. gr., og njóta þau þá sérstakrar verndar í samræmi við markmið 2. gr. laganna, sbr. og c-lið 3. gr. Fram kemur í 3. mgr. 61. gr. að forðast beri að raska vistkerfum og jarðminjum, sem taldar séu upp í 1. og 2. mgr., nema brýna nauðsyn beri til. Skylt sé að afla framkvæmdaleyfis, eða eftir atvikum byggingarleyfis, vegna framkvæmda sem hafi í för með sér slíka röskun. Áður en leyfi er veitt skal leyfisveitandi leita umsagnar Umhverfisstofnunar og viðkomandi náttúruverndarnefndar nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag, þar sem umsagnir skv. 1. og 2. mgr. 68. gr. laganna liggi fyrir. Samkvæmt 4. mgr. 61. gr. skal við mat á leyfisumsókn líta til verndarmarkmiða 2. og 3. gr. laganna og jafnframt huga að mikilvægi minjanna og sérstöðu í íslensku og alþjóðlegu samhengi. Loks skal leyfisveitandi skv. 5. mgr. 61. gr. rökstyðja sérstaklega þá ákvörðun að heimila framkvæmd fari hún í bága við umsagnir umsagnaraðila.

Í bókun umhverfisnefndar segir m.a. að nefndin hafi gætt að því að fylgt væri ákvæðum laga nr. 60/2013. Ekki væri óvissa um áhrif framkvæmdar. Komi fyrirhuguð framkvæmd, að mati sveitarfélagsins, ekki til með að rýra verndargildi jarðmyndana. Þá er að því vikið að sjávarfitjar og leirur falli ekki undir jarðminjar heldur séu hluti af mikilvægum vistkerfum, eins og votlendi. Telji nefndin því ekki vera mun á áhrifum valkosta á jarðmyndanir, andstætt því sem fram komi í áliti Skipulagsstofnunar. Áhrif valkosta séu sambærileg og séu fyrst og fremst vegna efnistöku úr grónum áreyrum og skriðum. Komi framkvæmdir ekki til með að raska jarðmyndunum eða jarðminjum, sem njóti verndar skv. 2. mgr. 61. gr. laganna. Umhverfisnefnd víkur að því hvernig draga megi úr áhrifum á votlendi og tekur fram að hún hafi litið til nýlegra rannsókna Náttúrufræðistofnunar Íslands. Jafnframt leggur nefndin til nokkur atriði varðandi framkvæmdina, sem og skilyrði, sem getið er um í áliti Skipulagsstofnunar, um formlegan samráðshóp fagaðila. Staðfesti bæjarstjórn fundargerð umhverfisnefndar, líkt og áður hefur fram komið.

Við afgreiðslu bæjarstjórnar lá fyrir minnisblað Vegagerðarinnar frá október 2016 í tilefni af öflun umsagnar Umhverfisstofnunar. Þar er m.a. farið yfir efnisþörf leiða og námur. Kemur þar fram að við verkhönnun hafi dregið töluvert úr áætluðu vinnslumagni úr öllum námum frá því sem reiknað hafi verið með í matsskýrslu. Sést m.a. að vinnslumagn úr námunni Friðsæld er áætlað 250.000 m³ í matsskýrslu, en við verkhönnun er magnið áætlað 47.500 m³. Þá er tiltekið að samráð verði haft við Umhverfisstofnun við útlitshönnun náma og á það við um Friðsæld, Skógey og námu ofan við Einholtsvötn. Einnig sé tiltekið að haft hafi verið samráð við Hafrannsóknastofnun varðandi námu í áreyrum Djúpár. Stofnunin óski eftir að efnistaka verði ekki í ógrónum áreyrum heldur til hliðar við farveginn, en hún meti svæðið m.t.t. lífskilyrða fiskiseiða en síður m.t.t. gróðurs. Þá lá fyrir bæjarstjórn umsögn Umhverfisstofnunar frá 2. nóvember 2016 skv. 61. gr. náttúruverndarlaga, auk þess sem umsagna stofnunarinnar hafði verið leitað við mat á umhverfisáhrifum, sem og við aðalskipulagsgerð.

Í greinargerð eru tilgreindir fleiri þættir sem bæjarstjórn leit til við meðferð málsins, m.a. að skoðaðar hafi verið niðurstöður rannsókna Votlendisseturs Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Jafnframt kemur fram að litið hafi verið til Ramsarsamningsins, Bernarsamningsins og verndarmarkmiða 3. gr. laga nr. 60/2013, einkum d-liðar. Þá er til þess vísað að leið 2, 3 og 3b muni þvera sjávarfitjar og leirur og brjóta upp ósnortna heild og þannig hafa veruleg neikvæð áhrif.

Svo sem fram hefur komið raska allar þær leiðir er sættu mati á umhverfisáhrifum votlendi. Í lögskýringargögnum með gildandi náttúruverndarlögum er lögð áhersla á að einungis mjög ríkir hagsmunir geti réttlætt röskun náttúrufyrirbæra, sem vernduð eru skv. 61. gr. laganna, og þá fyrst og fremst brýnir almannahagsmunir. Áður hefur verið rakið í niðurstöðukafla þessum að bæjarstjórn hafi tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum umþrættrar framkvæmdar og metið það svo að samfélagslegur ávinningur af vali á leið 3b vægi þyngra en neikvæð umhverfisáhrif hennar umfram leið 1. Að mati úrskurðarnefndarinnar telst aukið umferðaröryggi til almannahagsmuna og verður að telja þá brýna ef sýnt þykir að ein veglína leiði til meira umferðaröryggis umfram aðra, en rökstuðningur bæjarstjórnar var á þann veg og studdur gögnum, svo sem áður hefur verið rakið.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið má fallast á að rökstutt hafi verið að brýn nauðsyn hafi legið að baki leiðarvali bæjarstjórnar og að með því hafi verið uppfyllt skilyrði 61. gr. náttúruverndarlaga, að teknu tilliti til verndarmarkmiða laganna.

Að framangreindu virtu verður að telja að áskilnaði 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga hafi verið fullnægt.

———-

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið, og þar sem ekki er um neina þá form- eða efnisannmarka að ræða á hinni kærðu ákvörðun er ógildingu varðar, verður kröfu kærenda þar um hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Hornafjarðar frá 1. desember 2016 um að veita framkvæmdaleyfi vegna Hringvegar um Hornafjörð milli Hólms og Dynjanda.

 

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

______________________________              _____________________________
Geir Oddsson                                                          Þorsteinn Þorsteinsson

86/2017 og 89/2017 Efri-Vík Skaftárhreppur

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 9. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 86/2017, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 13. júlí 2017 um að samþykkja deiliskipulag fyrir íbúðar- og frístundabyggð í landi Efri-Víkur.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. ágúst 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Syðri-Vík, Skaftárhreppi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 13. júlí s.á., sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 4. ágúst s.á., um að samþykkja deiliskipulag fyrir Efri-Vík í Landbroti vegna íbúðar- og frístundabyggðar. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. ágúst 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra sömu aðilar ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Skaftárhrepps frá 14. s.m. um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir byggingu starfsmannahúsa á lóðinni Selhólavegi 1, nú Sólvöllum 1, úr landi Efri-Víkur. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að framkvæmdir á grundvelli byggingarleyfisins verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Verður seinna kærumálið, sem er nr. 89/2017, sameinað máli þessu þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sömu aðilar standa að kærunum.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Skaftárhreppi 23. ágúst, 7. september, 23. október og 9. nóvember 2017.

Málavextir: Um árabil hefur verið rekin ferðaþjónusta í landi Efri-Víkur sem staðsett er skammt sunnan Kirkjubæjarklausturs í Skaftárhreppi. Á hluta landsins er frístundabyggð sem var skipulögð með deiliskipulagi frá 1993. Í kjölfar aukinna umsvifa í ferðaþjónustu var unnið að gerð nýs deiliskipulags og að samhliða breytingu á Aðalskipulagi Skaftárhrepps 2010-2022.

Lýsing á aðalskipulagsbreytingunni var samþykkt til auglýsingar í júnímánuði 2016 og var aðalskipulagstillaga síðar auglýst með athugasemdafresti frá 16. febrúar til 3. apríl 2017.  Samkvæmt tillögunni skyldi landnotkun í landi Efri-Víkur breytt til að heimila nýtt íbúðarsvæði, opið svæði til sérstakra nota var fellt út og afmörkun frístundasvæðis breytt. Sveitarstjórn Skaftárhrepps samþykkti aðalskipulagsbreytinguna 5. apríl 2017. Skipulagsstofnun staðfesti breytinguna 15. júní s.á. og auglýsing þar um birtist í B-deild Stjórnartíðinda 30. s.m.

Á fundi skipulagsnefndar 18. október 2016 var samþykkt að auglýsa deiliskipulagstillögu vegna Efri-Víkur samhliða greindri aðalskipulagsbreytingu. Staðfesting sveitarstjórnar lá fyrir 10. nóvember s.á. og var deiliskipulagstillagan auglýst samhliða framangreindri tillögu að breyttu aðalskipulagi, þ.e. með athugasemdafresti frá 16. febrúar 2017 til 3. apríl s.á. Voru báðar tillögurnar kynntar á opnum fundi 2. mars s.á.

Gert var ráð fyrir því í deiliskipulagstillögunni að hluta skipulagðrar frístundabyggðar í landi Efri-Víkur yrði breytt í íbúðarsvæði. Að auki myndi deiliskipulagssvæðið stækka nokkuð frá eldra deiliskipulagi og bætast við íbúðarsvæði á nokkrum lóðum, m.a. þar sem áður hefði verið skilgreint opið svæði til sérstakra nota. Eftir sem áður tæki deiliskipulagssvæðið til svæðis vestan Landbrotsvegar, þjóðvegar nr. 204 eða svonefnds Meðallandsvegar, en einnig bættist við svæðið íbúðarlóð suðaustan vegarins þar sem ráðgert væri að reisa þrjú raðhús, samtals 600 m2, með allt að 4 m mænishæð.

Á fundi skipulagsnefndar Skaftárhrepps 4. apríl 2017 var deiliskipulag fyrir Efri-Vík lagt fram til samþykktar. Var bókað að engar athugasemdir hefðu borist vegna þess á auglýsingatíma en gerð hefði verið ein breyting eftir auglýsingu. Var bókað að mælst væri til þess að skipulagið tæki gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. Á sama fundi voru lagðar fram til afgreiðslu tvær umsóknir um byggingarleyfi á deiliskipulagssvæðinu, annars vegar vegna íbúðarhúss og hins vegar vegna starfsmannaíbúða. Hinn 5. sama mánaðar fundaði sveitarstjórn Skaftárhrepps og staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar. Afgreiðslur byggingarleyfisumsóknanna voru báðar kærðar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kæra á afgreiðslu vegna starfsmannaíbúða var síðar dregin til baka í kjölfar afturköllunar sveitarfélagsins og með úrskurði kveðnum upp 7. nóvember 2017 vísaði úrskurðarnefndin hinu kærumálinu frá, en það var nr. 73/2017.

Deiliskipulagstillagan var tekin fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar 20. júní 2017, en þá hafði borist umsögn frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands þar sem gerðar voru athugasemdir við fráveitu. Auk þess höfðu athugasemdir borist að liðnum fresti frá landeigendum Syðri-Víkur með bréfi, dags. 2. júní 2017. Bókað var um helstu athugasemdir landeigenda og þeim svarað af skipulagsnefnd. Einnig var bókað að nefndin hafnaði því að hætt yrði við deiliskipulag svæðisins, enda væri það í samræmi við aðalskipulagsbreytingu sem hefði fengið staðfestingu Skipulagsstofnunar. Mælst væri til þess að deiliskipulagstillagan tæki gildi með auglýsingu þar um í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eftir yfirferð Skipulagsstofnunar. Á fundi sínum 21. júní s.á. tók sveitarstjórn fyrir og staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar.

Skipulagið var enn tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 11. júlí s.á., en þá hafði Skipulagsstofnun sent umsögn sína og gert athugasemdir í allnokkrum liðum. Bókað var að brugðist hefði verið við athugasemdunum og að nefndin teldi viðkomandi breytingar ekki verulegar. Væri því mælst til þess að skipulagið tæki gildi í samræmi við 42. gr. skipulagslaga eftir aðra yfirferð Skipulagstofnunar. Sveitarstjórn staðfesti þá afgreiðslu á fundi 13. s.m. Skipulagsstofnun kunngerði með bréfi, dags. 28. júlí s.á., að ekki væru gerðir fyrirvarar við skipulagið eftir þær lagfæringar sem hefðu verið gerðar. Samþykkt deiliskipulagsins var loks auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 4. ágúst 2017 og hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.

Með vísan til nýsamþykkts deiliskipulags samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Skaftárhrepps byggingarleyfi vegna starfsmannaíbúða á lóðinni Sólvöllum 1 í landi Efri-Víkur og var umsækjendum tilkynnt um það með bréfi, dags. 14. ágúst 2017. Var sú samþykkt einnig kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem fyrr greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að vinnubrögð skipulagsyfirvalda í tengslum við uppbyggingaráform í landi Efri-Víkur hafi verið óvönduð og einkennst af fljótfærni.

Lögbundins samráðs hafi ekki verið gætt við málsmeðferð hins kærða deiliskipulags, sbr. 4. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sé að auki vísað til þeirra markmiða nefndra laga að tryggja skuli samráð við almenning við gerð skipulagsáætlana, þannig að honum sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda þar um, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Eign kærenda liggi að mörkum hins kærða deiliskipulagssvæðis, en sérstaklega sé mælt fyrir um það í 3. mgr. gr. 5.2.1 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að hafa skuli samráð við eiganda lands sem liggi að svæði sem deilisskipulagstillaga tekur til. Þótt kærendum hafi síðar verið gefið færi á að koma á framfæri athugasemdum þá komi það ekki í stað samráðs, sem skuli eiga sér stað þegar skipulagsferlið sé enn opið og raunhæf tækifæri enn til staðar til að hafa áhrif á framvindu skipulagsgerðar. Þá hafi athugasemdum kærenda ekki verið svarað á fullnægjandi hátt og þær að mestu verið virtar að vettugi.

Uppbygging samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi muni hafa umtalsverð grenndaráhrif í för með sér fyrir kærendur, sem fari út fyrir það sem þeir þurfi að sæta samkvæmt nábýlisrétti. Sjón- og hljóðmengun sé fyrirsjáanleg sem muni hafa neikvæð áhrif á not kærenda af jörð sinni. Jörð kærenda sé landbúnaðarjörð sem sé m.a. nýtt til beitar. Aukin umferð sé óæskileg þar sem búfé sé á beit. Fyrirhuguð uppbygging að Sólvöllum 1 muni skerða verulega útsýni kærenda til fjalla af heimili sínu. Uppbygging þar sé fyrirhuguð nálægt íbúðarhúsi kærenda og muni sveitafriðsæld sem þeim sé ómetanleg hverfa. Loks hafi ranglega verið staðið að breytingu á skipulagstillögunni í skipulagsferlinu.

Hvað hið kærða byggingarleyfi frá 14. ágúst 2017 varði sé á því byggt að það grundvallist á ólögmætu deiliskipulagi þar sem ekki hafi verið fullnægt skilyrðum 2.-6. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Þannig verði ekki séð að fyrir hafi legið aðal- og séruppdrættir sem áritaðir hafi verið af leyfisveitanda, að tilskilin gjöld hafi verið greidd, að yfirlýsingar byggingarstjóra og iðnmeistara hafi verið afhentar leyfisveitanda eða að skráð hafi verið í gagnakerfi Mannvirkjastofnunar að þeir hafi gæðastjórnunarkerfi í samræmi við ákvæði mannvirkjalaga. Þá liggi ekki fyrir neitt yfirlit um innra eftirlit vegna hönnunarinnar og um ábyrgðarsvið einstakra hönnuða. Feli framangreint í sér brot á rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. og ólögfesta rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar. Loks hafi hið kærða byggingarleyfi ekki verið tekið fyrir af skipulags- og byggingarnefnd Skaftárhrepps, líkt og áskilið sé í erindisbréfi nefndarinnar. Samþykkt þess og útgáfa sé af þessum sökum ólögmæt.

Málsrök Skaftárhrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að ákvarðanataka vegna deiliskipulags íbúðar- og frístundabyggðar í landi Efri-Víkur hafi í hvívetna farið að reglum stjórnsýsluréttarins og skipulagslögum. Skipulagstillögurnar hafi verið kynntar og auglýstar, umfram það sem lögbundið sé, og hafi athugasemdum kærenda verið svarað efnislega þótt þær hafi borist utan athugasemdafrests. Aukning umferðar um svæðið verði hverfandi og muni undir engum kringumstæðum skerða not kærenda af jörð sinni til landbúnaðar.

Umhverfisáhrif verði lítil umfram þau áhrif sem þegar séu af frístundabyggð á svæðinu. Nýjar lóðir séu á gömlum aflögðum túnum og á fyrrum golfvelli. Engar líkur séu á mengun neysluvatns og eftir vettvangsskoðun hafi þótt sýnt að útsýni kærenda skerðist óverulega vegna þeirra bygginga sem heimilaðar séu í skipulaginu. Umferð og grenndaráhrif verði óveruleg umfram það sem fylgi núverandi hótelrekstri og frístundabyggð að Efri-Vík. Telja verði málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar lögmæta, bæði hvað varði efni og form.

Hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við lögformlegt skipulag svæðisins, eins og því hafi þá verið breytt. Byggingarleyfið hafi ekki verið tekið sérstaklega til afgreiðslu af skipulagsnefnd og sveitarstjórn þar sem það hafi byggst á skipulagi sem þegar hefði verið afgreitt af sömu stjórnsýslueiningum. Leyfið hafi verið samþykkt með afgreiðslubréfi og hafi fullnægjandi gögn borist til samræmis við kröfur sem gerðar hafi verið í nefndu bréfi. Engin óvissa ríki um lögmæti skipulagsferlisins sem réttlætt geti stöðvun framkvæmda. Óvissa ríki hins vegar um það hvaða hagsmuni kærendur telji sig vera að vernda. Sé rökstuðningi áfátt um það atriði.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að starfsmannaíbúðir séu í þágu reksturs hans. Fyrirtækið hafi 45 manns í vinnu og sé með þeim stærri í Skaftárhreppi. Mikil nauðsyn væri á að koma upp íbúðum fyrir starfsmenn. Erfitt hafi reynst að fá úthlutað lóðum á Kirkjubæjarklaustri og hafi orðið úr að skipuleggja nokkrar lóðir í landi Efri-Víkur til slíkrar uppbyggingar. Allir hefðu haft tækifæri til að gera athugasemdir við skipulagið innan auglýsts frests. Þá hafi leyfishafi gert sér ferð til kærenda í tvígang vegna þessa, fyrst sumarið 2016 og síðan í mars 2017. Hann hefði lítil viðbrögð fengið. Því sé hafnað að starfsmannahúsin valdi sjónmengun eða hávaða, enda um að ræða lágreist hús fyrir starfsmenn, sem ferðist til vinnustaðar fótgangandi eða á örfáum smábílum. Þá sé íbúðarhús kærenda í um 400 m fjarlægð frá starfsmannaíbúðunum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulags fyrir íbúðar- og frístundabyggð í landi Efri-Víkur í Skaftárhreppi, sem og um lögmæti byggingarleyfis vegna starfsmannaíbúða, samþykktu með stoð í því skipulagi.

Hið kærða deiliskipulag tekur til svæðis þar sem áður var deiliskipulögð frístundabyggð, Álfabyggð, og opið svæði til sérstakra nota, hvort tveggja vestan Landbrotsvegar, þjóðvegar nr. 204. Þá tekur deiliskipulagssvæðið til einnar íbúðarlóðar suðaustan vegarins, þar sem áður var skilgreint landbúnaðarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Skaftárhrepps 2010-2022, en eldra deiliskipulag Álfabyggðar tók ekki til þeirrar lóðar.

Í auglýsingu um gildistöku hinnar kærðu skipulagsákvörðunar í B-deild Stjórnartíðinda kemur fram að eldra deiliskipulag innan svæðisins falli úr gildi með gildistöku hins nýja deiliskipulags. Í gr. 5.8.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er tekið fram að við heildarendurskoðun deiliskipulags, sem fellir eldri áætlanir úr gildi, skuli framsetning og málsmeðferð vera sem um nýtt deiliskipulag sé að ræða. Hið kærða deiliskipulag tók til stærra svæðis en eldra skipulag og fól í sér töluverðar efnislegar breytingar. Bar því að fara að fyrirmælum 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um gerð deiliskipulagsins, kynningu og samráð, 41. gr. um auglýsingu og samþykkt þess, og 42. gr. um afgreiðslu þess.

Sveitarstjórn nýtti sér heimild 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga til að víkja frá þeirri skyldu að taka saman lýsingu við upphaf deiliskipulagsgerðar ef allar meginforsendur deiliskipulagsins liggja fyrir í aðalskipulagi. Í gr. 5.2.2. í skipulagsreglugerð er tekið fram að með meginforsendum sé átt við stefnu um áherslu og uppbyggingu landnotkunarreita, svo sem varðandi nánari notkun á einstökum reitum, þéttleika og byggðamynstur eða umfang auðlindanýtingar. Jafnframt nýtti sveitarstjórn sér heimild 2. mgr. 41. gr. laganna til að auglýsa og samþykkja breytingar á aðalskipulagi samhliða deiliskipulaginu. Í aðalskipulagsbreytingu þeirri sem gildi tók 30. júní 2017 fólust breytingar á greinargerð og sveitarfélagsuppdrætti gildandi aðalskipulags Skaftárhrepps. Eftir breytingarnar sýnir sveitarfélagsuppdráttur breytta landnotkun á skipulagssvæðinu, þannig að í stað tilgreiningarinnar Ú1, opið svæði til sérstakra nota, og F5, frístundabyggð, er nú að finna á uppdrætti tilgreininguna F5 með annarri afmörkun og ÍB1, íbúðarbyggð. Sést af uppdrættinum að íbúðarbyggðin er beggja vegna frístundabyggðarinnar og teygir hún sig yfir Landbrotsveg í átt að eign kærenda. Hluti íbúðarbyggðarinnar verður á svæði sem auðkennt var sem landbúnaðarsvæði á eldri aðalskipulagsuppdrætti. Þá var greinargerð aðalskipulagsins breytt þannig að við bættust skilmálar í kafla 2.1., Landbúnaðarsvæði neðan 200 m y.s., sem lutu að heimildum til að byggja frístundahús og íbúðarhús sem ekki tengjast búrekstri á landbúnaðarsvæðum bújarða. Einnig var breytt kafla 2.4., svæði fyrir frístundabyggð, og felldur út kafli 2.3., opin svæði til sérstakra nota. Loks var bætt við nýjum kafla 2.18,  íbúðarsvæði, þar sem gert var ráð fyrir nýju íbúðarsvæði í Efri-Vík, ÍB1, og breytt kafla 2.12, skilgreining vatnsgæða og flokkun vatns. Verður af framangreindu ráðið að meginforsendur deiliskipulagsins hafi legið fyrir í aðalskipulagi, svo sem því var breytt, og þar með að heimilt hafi verið að víkja frá þeirri lagaskyldu að gera deiliskipulagslýsingu.

Svo sem áður er vikið að var ekki gerð lýsing vegna hins kærða deiliskipulags. Var deiliskipulagstillagan auglýst og kostur gefinn á að koma á framfæri athugasemdum. Af auglýsingu verður ekki ráðið að sumar þeirra íbúðarlóða sem þar var ráðgert að skipuleggja yrðu staðsettar á áður ódeiliskipulögðu svæði, sem hafði verið til landbúnaðarnota, líkt og sú lóð sem skipulögð er handan Landbrotsvegar, næst bæjarstæði kærenda. Verður þetta ekki heldur ráðið með neinni nákvæmni af auglýsingu um tillögu að aðalskipulagsbreytingu, sem birt var á sama tíma, þótt þar kæmi fram að hluti landbúnaðarsvæðis færi undir íbúðarbyggð. Lýsingu vegna aðalskipulagsbreytingarinnar fylgdi ekki uppdráttur sem sýndi nýja íbúðarbyggð handan Landbrotsvegar, næst landamerkjunum við jörð kærenda, og mátti ekki ráða sérstaklega af lýsingunni að slík byggð væri fyrirhuguð.

Skipulagslög hafa það m.a. að markmiði að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála, þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Sem og að tryggja að samráð sé haft við almenning við gerð skipulagsáætlana, þannig að honum sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð slíkra áætlana, sbr. c- og d-lið 1. gr. laganna. Sér þess stað í lögunum að á öllum skipulagsstigum er lögð áhersla á samráð við almenning og hagsmunaaðila. Í gr. 5.2. í skipulagsreglugerð er nánar fjallað um kynningu og samráð við gerð deiliskipulags og um samráð og samráðsaðila er sérstaklega fjallað í gr. 5.2.1. Samkvæmt 1. mgr. þeirrar greinar skal eftir föngum leita eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa, umsagnaraðila og annarra þeirra sem hagsmuna eiga að gæta og í 3. mgr. er m.a. tekið sérstaklega fram að ef tillaga að deiliskipulagi eða tillaga að breytingu á því tekur til svæðis sem liggur að landamörkum skuli haft samráð við eiganda þess lands áður en tillagan er samþykkt til auglýsingar. Fyrir liggur að umrætt deiliskipulagssvæði liggur að landi kærenda og því hefði borið að kynna þeim fyrirhugaða deiliskipulagbreytingu áður en endanleg tillaga var samþykkt af sveitarstjórn til auglýsingar. Það var ekki gert og er þar um annmarka á málsmeðferðinni að ræða.

Með hliðsjón af þeim breytingum sem urðu í nærumhverfi kærenda, við landamörk þeirra, má fallast á með kærendum að slíkt samráð hefði best þjónað markmiðum ákvæða skipulagslaga. Það verður þó ekki fram hjá því litið að allt að einu komu kærendur að athugasemdum sínum í málinu, þótt utan auglýsts athugasemdafrests væri. Skipulagið var tekið upp að nýju eftir samþykkt þess og athugasemdirnar teknar fyrir á fundi skipulagsnefndar og fundi sveitarstjórnar. Athugasemdunum var þá svarað efnislega og tekið tillit til þeirra, að því marki að vegtenging var felld út innan lands þeirra. Auk þess var tekið til sérstakrar athugunar hvort sjónræn áhrif af byggingum næst bæjarstæði kæranda yrðu ótilhlýðileg. Að því búnu var hið kærða deiliskipulag samþykkt að nýju. Verður að öllu því virtu ekki talið að nefndur annmarki hafi verið svo verulegur að varði ógildingu deiliskipulagsákvörðunarinnar. Í þessu samhengi skal á það bent að það felst ekki í skyldu sveitarfélags til samráðs að fallist verði á allar þær athugasemdir sem í því samráðsferli kunni að koma fram, en sveitarstjórnum er að lögum ætlað víðtækt vald til ákvarðana um skipulag, sem eftir atvikum geta haft í för með sér röskun á einstökum fasteignaréttindum að viðlagðri bótaskyldu.

Málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar var að öðru leyti í samræmi við ákvæði 41. og 42. gr. skipulagslaga um auglýsingu, samþykkt og afgreiðslu deiliskipulags og teljast þær breytingar sem gerðar voru á deiliskipulagstillögunni eftir auglýsingu, að teknu tilliti til athugasemda Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og Skipulagsstofnunar, ekki hafa breytt áður auglýstri tillögu í grundvallaratriðum, í skilningi 4. mgr. 41. gr. laganna. Var því ekki þörf á að auglýsa tillöguna að nýju.

Með vísan til alls framangreinds verður ekki talið að slíkir annmarkar hafi verið á hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun að varði ógildingu hennar. Rétt er þó að benda á að telji kærendur sig verða fyrir grenndaráhrifum af skipulagsákvörðuninni sem verði þeim til tjóns geta þeir leitað til sveitarfélagsins eftir bótum með vísan til 51. gr. skipulagslaga.

Hið kærða byggingarleyfi tekur til byggingar starfsmannahúsa á lóð þeirri er liggur að jörð kærenda. Felur það í sér leyfi til að reisa þrjú raðhús með fimm smáíbúðum hvert og er það í samræmi við skilmála deiliskipulags þess efnis að á lóðinni megi byggja að hámarki þrjú raðhús með mænisþaki, samanlagt að hámarki 600 m², eða hvert um sig ekki stærra en 200 m², og hámarkshæð í mæni 4 m. Hefur úrskurðarnefndin og gengið úr skugga um að þau gögn sem nauðsynleg voru fyrir útgáfu byggingarleyfis skv. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki hafi legið fyrir.

Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga veitir byggingarfulltrúi sveitarfélags byggingarleyfi, eftir atvikum að undangenginni umfjöllun byggingarnefndar sveitarfélags, samkvæmt sérstakri samþykkt. Sé slík samþykkt til staðar í samræmi við 7. gr. mannvirkjalaga er heimilt að gera að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa að byggingarnefnd eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna, sbr. 2. mgr. 7. gr. mannvirkjalaga. Skaftárhreppur hefur ekki sett sér slíka samþykkt en í erindisbréfi skipulags- og byggingarnefndar Skaftárhrepps kemur fram að innan verksviðs nefndarinnar sé „að fjalla um umsóknir um leyfi til bygginga og annara verklegra framkvæmda.“ Skipulagsnefnd Skaftárhrepps hafði fjallað um umsókn um byggingarleyfi á umræddri lóð hinn 4. apríl 2017. Afgreiðsla á þeirri umsókn var síðar afturkölluð. Við samþykkt skipulags- og byggingarfulltrúa á hinu kærða byggingarleyfi vegna lóðarinnar var vísað sérstaklega til þess að fyrri afgreiðsla hefði verið felld úr gildi. Má af því ráða að skipulags- og byggingarfulltrúi hafi samþykkt byggingarleyfi er varðaði sömu byggingar á sömu lóð er áður hafði verið fjallað um í skipulagsnefnd. Var hann og til þess bær, sbr. áðurnefnda 2. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga.

Að þessu virtu eru ekki heldur efni til að fallast á kröfu kærenda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 13. júlí 2017 um samþykkt deiliskipulags fyrir íbúðar- og frístundabyggð í landi Efri-Víkur.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Skaftárhrepps frá 14. ágúst 2017 um samþykkt byggingarleyfis fyrir starfsmannahúsum á lóðinni Sólvöllum 1 úr landi Efri-Víkur.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson
 

65/2016 Númerslaus bifreið

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 3. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 65/2016, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 19. maí 2016 um að fjarlægja bifreið af einkalóð í Grindavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 16. júní 2016, kærir A, ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 19. maí 2016 um að fjarlægja ökutæki af lóð hennar, Garði í Grindavík. Kærandi krefst þess að fá kostnað af geymslu og flutningi bættan, alls kr. 72.282.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja 18. júlí 2016.

Málavextir:
Hinn 10. maí 2016 límdi starfsmaður Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja miða á bifreið kæranda, þar sem fram kom að fjarlægja bæri bifreiðina hið fyrsta og var gefinn til þess vikufrestur. Bifreiðin var síðan fjarlægð 19. s.m. og komið fyrir í geymsluporti Vöku í Reykjavík. Kærandi sætti sig ekki við þetta og bar fram kæru sem móttekin var 16. júní s.á. Verður að skilja kæruna á þann veg að krafist sé ógildingar á framangreindri ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins um fjarlægingu bifreiðarinnar.

Málsrök kæranda: Kærandi kveður Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hafa flutt ökutæki af einkalóð hans. Samkvæmt 110. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 hafi heilbrigðiseftirlitið ekki leyfi til þess að hirða bifreiðina af einkalóð hans án hans vitneskju, en þar segi að standi ökutækið á svæði, sem ekki sé ætlað til almennrar umferðar, skuli það því aðeins flutt á brott, að eigandi eða umráðamaður lóðar krefjist þess. Bifreiðin hafi staðið fyrir utan bílskúr og til hafi staðið að ryðbæta og gera hana tilbúna til sprautunar. Hún hafi verið í ökuhæfu ástandi og ekki hafi smitast frá henni nein spilliefni. Í samtölum við starfsmann heilbrigðiseftirlitsins hafi hann vitnað í lagagrein um úrgang sem ekki verði séð að eigi við í umræddu tilfelli. Þegar honum hafi verið bent á framangreint ákvæði umferðarlaganna hafi hann sagt að heilbrigðiseftirlitið túlkaði ekki lögin svona.

Kærandi kveður atvikið hafa valdið sér bæði andlegum og fjárhagslegum skaða og vilji hann fara fram á að fá að minnsta kosti endurgreiddan reikning frá Vöku að fjárhæð kr. 28.282, sem og flutningskostnað, kr. 44.000, alls kr. 72.282.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja: Heilbrigðiseftirlitið kveður starfsmann á vegum embættisins hafa límt áminningarmiða á rúðu bifreiðar í Garði, Grindavík, 10. maí 2016. Hafi þar komið fram að gefinn væri einnar viku frestur til að fjarlægja bifreiðina en hún hafi verið númerslaus og mjög til lýta fyrir umhverfið að mati eftirlitsins. Eigendur bifreiðarinnar hafi ekki brugðist við tilmælunum innan gefins frests og hafi hún því verið fjarlægð 19. s.m. og komið fyrir í geymsluporti Vöku í Reykjavík.

Heilbrigðiseftirlitið telji sig hafa staðið löglega að því að fjarlægja umrædda bifreið með vísan til heimilda í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, ásamt 21. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti og 17. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs.

Niðurstaða: Heilbrigðisnefndir starfa samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Samkvæmt þágildandi 13. gr. laganna, nú 47. gr., sbr. lög nr. 66/2017 um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, ber heilbrigðisnefnd að sjá um að framfylgt sé ákvæðum þeirra og reglugerða settra samkvæmt þeim, samþykktum sveitarfélaga og ákvæðum í sérstökum lögum eða reglum sem nefndinni er eða kann að vera falið að annast um framkvæmd á. Gilda og stjórnsýslulög nr. 37/1993 um störf nefndarinnar. Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 15. gr. laga nr. 7/1998, nú 49. gr., ráða heilbrigðisnefndir á hverju svæði heilbrigðisfulltrúa til að annast eftirlit sveitarfélaganna með þeim viðfangsefnum sem undir lögin falla. Heilbrigðisfulltrúar starfa í umboði heilbrigðisnefndar samkvæmt sama ákvæði.

Ákvæði um valdsvið og þvingunarúrræði voru í VI. kafla laga nr. 7/1998, nú í XVII. kafla. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr., nú 60. gr., geta heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúi beitt eftirfarandi aðgerðum til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum og reglugerðum settum með stoð í þeim: 1. veitt áminningu, 2. veitt áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta eða 3. stöðvað eða takmarkað viðkomandi starfsemi eða notkun, þar með lagt hald á vörur og fyrirskipað förgun þeirra. Samkvæmt 2. mgr. skal aðeins beita síðastnefnda úrræðinu í alvarlegri tilvikum, við ítrekuð brot eða ef aðilar sinna ekki úrbótum innan tiltekins frests. Samkvæmt framangreindu er ljóst að heilbrigðisnefndir og heilbrigðiseftirlit hafa lagaheimildir fyrir þvingunaraðgerðum, sem m.a. fela í sér haldlagningu á lausamunum og förgun þeirra vegna brota á lögum nr. 7/1998 eða reglugerðum settum með stoð í þeim. Valdheimildir þessar eru óháðar ákvæðum umferðarlaga.

Reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti er sett með heimild í 4. gr. laga nr. 7/1998 og reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs með heimild í 4. og 5. gr. sömu laga, sem og  43. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Heimildir til að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök er að finna í ákvæðum 21. gr. reglugerðar um hollustuhætti og 17. gr. reglugerðar um meðhöndlun úrgangs. Í nefndri 21. gr. er að finna heimild heilbrigðisnefndar til að láta fjarlægja lausamuni, númerslausar bifreiðar, bílflök og sambærilega hluti á almannafæri að undangenginni viðvörun, svo sem með álímingarmiða með aðvörunarorðum. Í áðurnefndri 17. gr. reglugerðar nr. 737/2003 segir m.a. að heilbrigðisnefnd sé heimilt að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök og sambærilega hluti að undangenginni viðvörun.

Samkvæmt gögnum málsins var umrædd bifreið kæranda staðsett á einkalóð og gat því ekki talist vera á almannafæri í skilningi 21. gr. reglugerðar nr. 941/2002. Áðurnefnd 17. gr. reglugerðar nr. 737/2003 fjallar um almennan þrifnað utanhúss, m.a. á einkalóðum, og segir í 1. mgr. að umráðamönnum lóða sé skylt að halda þeim hreinum og snyrtilegum. Samkvæmt 5. mgr. er heilbrigðisnefnd heimilt að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök og af samhengi ákvæðisins má ráða að framangreint gildi um númerslausar bifreiðar á einkalóðum. Ljósmynd, sem Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja lagði fram í málinu, sýnir að bifreið kæranda var númerslaus, ryðguð og í slæmu ástandi. Kemur fram í greinargerð heilbrigðiseftirlitsins að miði var límdur á bifreiðina 10. maí 2016 og eiganda gefinn viku frestur til að fjarlægja hana. Kom fram á nefndum miða að yrði hún ekki fjarlægð að útrunnum fresti yrði hún tekin í vörslu í einn mánuð og síðan fargað á kostnað eiganda. Kom einnig fram að hægt væri að hafa samband við fulltrúa heilbrigðiseftirlits í ákveðið símanúmer og einnig að hægt væri að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Samkvæmt því sem að framan er rakið var Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja innan sinna valdheimilda þegar það lét fjarlægja bifreið kæranda. Andmælaréttar kæranda var gætt og fékk hann ráðrúm til að fjarlægja bifreiðina sjálfur áður en gripið yrði til frekari ráðstafana með tilheyrandi kostnaði. Verður ekki annað séð en að hin kærða ákvörðun hafi stefnt að markmiðum 1. gr. laga nr. 7/1998 og 1. gr. reglugerðar nr. 737/2003 og þannig byggst á lögmætum og málefnalegum forsendum. Var og málsmeðferð í samræmi við lög. Með vísan til þessa verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað. Þá skal tekið fram að úrskurðarnefndin er ekki bær til að fjalla um fjárkröfur kæranda og koma þær því ekki til úrlausnar í máli þessu.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 19. maí 2016 um að fjarlægja bifreið af einkalóð hans í Grindavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

____________________________________              __________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                                    Ásgeir Magnússon

113/2016 Breiðargata og Vesturgata

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 23. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 113/2016, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Vesturlands um að veita starfsleyfi til fiskþurrkunar að Breiðargötu 8b og Vesturgötu 2, Akranesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. ágúst 2016, er barst nefndinni 26. s.m., kæra eigendur tilgreindra fasteigna, Bakkatúni 4, Skólabraut 20, Laugarbraut 18, Vesturgötu 17, Leynisbraut 26, og Laugarbraut 16, öll á Akranesi, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Vesturlands frá 9. ágúst 2016 að veita HB Granda hf. starfsleyfi fyrir fiskþurrkun að Breiðargötu 8b og Vesturgötu 2, Akranesi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Akraneskaupstað 3. október 2016.

Málavextir:
Með bréfi til heilbrigðisnefndar Vesturlands, dags. 7. mars 2016, sótti HB Grandi um endurnýjun á starfsleyfi fyrir fiskþurrkun fyrirtækisins. Kom fram í bréfinu að sótt væri um endurnýjun á starfsleyfinu á meðan á fyrirhuguðum framkvæmdum við nýtt húsnæði fiskþurrkunarinnar stæði en áætlað væri að ljúka fyrsta áfanga byggingarinnar á 18 mánuðum.

Á fundi sínum sama dag samþykkti heilbrigðisnefnd Vesturlands að auglýsa óbreytt starfsleyfi sem myndi gilda til 1. maí 2017 með þeim skilyrðum að flutningi á hráefni og unnum vörum yrði hagað þannig að lykt yrði sem minnst og húsnæði starfseminnar yrði lokað eins og kostur væri. Í fundargerð kemur fram að undanþága frá starfsleyfi, sem gefin hafi verið út af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu til HB Granda, rynni út 1. maí 2016. Með auglýsingu er birtist í Skessuhorni 16. mars s.á. var lýst eftir athugasemdum við tillögu að starfsleyfi fyrir fiskþurrkun HB Granda að Breiðargötu 8b og Vesturgötu 2 á Akranesi. Kom fram að starfsleyfistillagan myndi liggja frammi á skrifstofu Akraneskaupstaðar frá 16. mars til 14. apríl 2016 og að einnig væri hægt að afla upplýsinga um tillöguna hjá Heilbrigðiseftirliti Vesturlands.

Athugasemdir bárust á auglýsingartíma og sneru þær fyrst og fremst að hinni miklu lyktarmengun sem frá starfseminni stafaði. Var því mótmælt að starfsleyfið yrði veitt án aukinna krafna um varnir gegn þeirri mengun.

Á fundi heilbrigðisnefndar 8. ágúst 2016 var lagt fram lögfræðilegt álit vegna svarbréfa til þeirra sem gert hefðu athugasemdir við auglýst starfsleyfi og var samþykkt að gefa út tímabundið starfsleyfi til 1. maí 2017 auk þess að fela framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlitsins að svara athugasemdum í samræmi við tillögur lögmannsins. Voru þau svör framkvæmdastjórans send með bréfum heilbrigðiseftirlitsins, dags. 9. ágúst 2016.

Málsrök kærenda: Kærendur kveða fiskþurrkun leyfishafa um langt árabil hafa valdið mörgum íbúum á Akranesi miklum óþægindum vegna lyktarmengunar.

Fyrirtækið hafi ekki uppfyllt öll skilyrði sem því hafi verið sett í starfsleyfi sem runnið hafi út 1. maí 2016. Þar megi t.d. nefna lið 2.4, þar sem kveðið sé á um að haga skuli loftræstingu þannig að ekki valdi nágrönnum óþægindum vegna lyktar, hávaða eða annarrar mengunar. Þá komi fram í lið 3.6, að fyrirtækið skuli takmarka lykt og hávaða frá starfseminni eins og kostur sé. Einnig dragi kærendur í efa að skilyrði liðar 3.1 hafi verið uppfyllt, en þar segi að allt hráefni til vinnslu skuli vera ferskt, þ.e. TVN-gildi undir 50. Því til stuðnings vísi kærendur til eftirfarandi tilvitnunar sem tekin sé af minnisblaði sem framkvæmdarstjóri Heilbrigðiseftirlits Vesturlands hafi skrifað 24. september 2014 vegna starfsemi hinnar umræddu fiskþurrkunar: „Hráefni kemur að mestu frá HB Granda á Akranesi eða Reykjavík og er að jafnaði ekki eldra en fjögurra daga gamalt.“ Þetta sé ekki hægt að skilja öðruvísi en svo að hráefnið í fiskþurrkunina sé stundum eldra en fjögurra daga, sem ekki teljist ferskt. Þetta geti alveg eins átt við í dag.

Húsnæði þurrkunarinnar við Vesturgötu 2 sé ónýtt og hafi verið um árabil. Þetta hafi forstjóri HB Granda viðurkennt tvisvar sinnum á opinberum vettvangi. Það ætti að vera nægileg ástæða til að framlengja ekki starfsleyfi þurrkunarinnar.

Í umhverfisskýrslu fyrir deiliskipulag Breiðarsvæðis á Akranesi, sem unnin hafi verið af HB Granda og dagsett sé 19. janúar 2016, sé tafla á bls. 9 þar sem taldir séu upp 14 rekstrarþættir fiskþurrkunar fyrirtækisins, núverandi ástand þeirra þátta og áform um úrbætur. Þar komi m.a. fram varðandi innra eftirlit og áhættumat að ekki sé tekið á lykt í umhverfi, liðurinn eftirþurrkun sé ekki í lagi og auk þess séu taldir upp níu liðir sem megi bæta. Boðað sé að úrbætur verði með nýju húsnæði undir eftirþurrkun. Óvíst sé hvenær það hús muni rísa.

Í hinu kærða starfsleyfi sé ekki minnst einu orði á framangreind atriði og ekki sett nein skilyrði um tafarlausar úrbætur, sem ætti þó að vera eðlileg krafa þegar nýtt starfsleyfi sé gefið út. Í greinargerð með starfsleyfinu sé lögð þung áhersla á að fyrirtækið nýti alla möguleika til að halda lykt frá starfseminni í lágmarki í núverandi húsakosti. Því sé greinilegt að heilbrigðisnefnd hafi einhverjar áhyggjur af lyktarmengun frá fiskþurrkuninni.

Að lokum hafi kærendur áhyggjur af hugsanlegri mengun frá ósoni sem notað sé við fiskþurrkunina. Samkvæmt lýsingu á vef Umhverfisstofnunar valdi óson plöntuskaða og áhrif þess á öndunarfæri fólks séu talin óheilnæm. Heilbrigðiseftirlitið hafi í svarbréfi sínu við athugasemdum við starfsleyfistillöguna sagt að óson sé viðurkennd mengunarvörn sem teljist hvorki hættuleg né skaðleg. Kærendur bendi á að ekkert eftirlit sé haft með því hversu mikið óson sé notað við framleiðsluna.

Málsrök heilbrigðisnefndar Vesturlands: Heilbrigðisnefndin kveðst hafa gefið út tímabundið starfsleyfi til fiskþurrkunar HB Granda við Breiðargötu og Vesturgötu, Akranesi, þegar ljóst hafi verið að ekki lægi fyrir staðfest deiliskipulag fyrir þá lóð þar sem fiskþurrkun HB Granda hyggist byggja nýtt fiskvinnsluhús undir starfsemina á einum stað. Með umsókn um endurnýjað starfsleyfi, dags. 7. mars 2016, komi fram vilji fyrirtækisins til að koma allri starfsemi sinni fyrir í einu húsnæði í stað tveggja og bæta verulega mengunarvarnabúnað. Fyrir hafi legið umhverfisskýrsla fyrirtækisins um uppbyggingu á svæðinu.

Tveir kostir hafi verið í stöðunni fyrir heilbrigðisnefndina. Að hafna algerlega útgáfu starfsleyfis eða að gefa út tímabundið leyfi. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafi áður gefið út undanþágu frá starfsleyfi sem hafi gilt frá 1. febrúar til 1. maí 2016 og hafi byggt á skilyrðum sem sett hafi verið í starfsleyfi heilbrigðisnefndar Vesturlands, útgefnu árið 2008, með gildistíma til 1. febrúar 2016. Strax hafi verið ljóst að nefnd undanþága myndi duga skammt þar sem auglýsing deiliskipulags fyrir svæðið þar sem starfsemin fari fram hefði dregist mikið og HB Granda því ekki heimilt að hefja þar uppbyggingu. Þess beri að geta að engin fiskþurrkun hafi farið fram hjá fyrirtækinu síðan 19. apríl 2016 vegna slæmrar stöðu á fisksölumörkuðum í Afríku fyrir þurrkaðan fisk.

Heilbrigðisnefndin beri ekki á móti því að lykt finnist frá heitloftsþurrkun. Það sem mestu máli skipti sé að hráefnið sé gott og að viðunandi mengunarvarnir séu notaðar. Samkvæmt eftirlitsskýrslum sem Heilbrigðiseftirlit Vesturlands hafi gefið út allt frá árinu 2008 hafi fyrirtækið ekki brotið ákvæði starfsleyfisins.

Best þekkti búnaðurinn í dag til að minnka lykt af heitloftsþurrkun fiskafurða sé óson. Það eigi ekki við rök að styðjast að óson geti valdið heilsuskaða eins og það sé notað við starfsemi fiskþurrkunarinnar. Óson sé þekkt efni og viðurkennt til sótthreinsunar í matvælaiðnaði og ekkert sem bendi til þess að það sé skaðlegt utanhúss eftir að það hafi verið notað við stýringu inn í fiskþurrkunarklefana.

Fiskþurrkunin hafi farið fram í tveimur húsum, þ.e. forþurrkun við Breiðargötu og eftirþurrkun við Vesturgötu á Akranesi. Það sé visst óhagræði að flytja þannig afurðir á milli húsa auk þess sem hætta sé á meiri lykt, bæði vegna flutningsins og tíðari opnunar hurða í þurrkhúsunum. Í umhverfisskýrslu VSÓ frá því í apríl 2015 séu dregin fram atriði í rekstrinum sem hægt væri að bæta. Flest þeirra snúi að bættum húsakosti. Í dag sé ljóst að eftirþurrkunarhúsið við Vesturgötu sé ófullnægjandi og því hafi fyrirtækið um nokkurn tíma sótt um stækkun á lóð við Breiðargötu, þar sem forþurrkunin fari fram, þannig að hægt væri að hýsa alla starfsemina í einu lokuðu húsi og bæta starfshætti og mengunarvarnir. Mjög hafi dregist að auglýsa nýtt deiliskipulag vegna lóðarinnar og á meðan sé ekki hægt að byggja upp reksturinn og hefja framkvæmdir við nýjar og hentugri byggingar.

Heilbrigðisnefndin hafi, með útgáfu tímabundins starfsleyfis til 1. maí 2017, komið til móts við vilja íbúa bæjarins og óskir fyrirtækisins. Ákveðinn þrýstingur sé settur á fyrirtækið um að hefja framkvæmdir við nýtt og betra húsnæði og forsvarsmönnum þess gert ljóst að starfsleyfi verði ekki endurnýjað í óbreyttri mynd eftir 1. maí 2017. Í bréfi með starfsleyfinu sé farið fram á að fyrirtækið tryggi að flutningur milli húsa fari fram þannig að hann valdi sem minnstri lykt og dyr fiskþurrkunarhúsanna verði ekki opnar meira en þörf sé á.

——-

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna máls þessa en hann hefur ekki nýtt sér þann rétt.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum, þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Fram kemur í kæru að kærendur byggja aðild sína á reglum nábýlisréttar, þar sem m.a. mikil lyktarmengun fylgi starfsemi leyfishafa sem skapi óþægindi. Má gera ráð fyrir að þeirrar mengunar verði fyrst og fremst vart á því svæði sem næst er starfseminni en einnig getur lyktarmengun borist langa vegu við tiltekin veðurfarsskilyrði. Samkvæmt gögnum málsins hafa athuganir leitt í ljós að greinileg eða sterk lykt hefur fundist allt að 1.000 metrum frá eftirþurrkuninni, sem er staðsett að Vesturgötu 2. Er því ekki útilokað að kærendur þeir sem búa innan þeirra fjarlægðarmarka verði varir við lykt frá starfseminni þannig að það geti snert lögvarða hagsmuni þeirra. Heimili kærenda eru öll staðsett innan nefndra marka að frátöldu húsi eins kæranda að Leynisbraut 26, sem er í um 2,7 kílómetra fjarlægð. Að teknu tilliti til þeirrar fjarlægðar verður ekki séð að sá kærandi eigi þá lögvörðu hagsmuni af úrlausn málsins umfram aðra bæjarbúa að skapi honum kæruaðild og er kæru hans vísað frá úrskurðarnefndinni.

Samkvæmt 5. gr. a í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal allur atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun hafa gilt starfsleyfi, sbr. 6. gr. sömu laga. Samkvæmt 5. gr. laganna setur ráðherra reglugerð til að stuðla að framkvæmd mengunarvarnaeftirlits og skulu þar m.a. vera almenn ákvæði um starfsleyfi fyrir allan atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun, sbr. 1. tl. nefndrar lagagreinar. Reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun er nr. 785/1999. Markmið hennar er m.a. að koma í veg fyrir og draga úr mengun af völdum slíks atvinnurekstrar, koma á samþættum mengunarvörnum og að samræma kröfur og skilyrði í starfsleyfum. Í gr. 1.1. Í fylgiskjali 2 með reglugerðinni er talinn upp sá atvinnurekstur sem heilbrigðisnefnd veitir starfsleyfi, þ. á m. heitloftsþurrkun fiskafurða, sbr. gr. 5.7. Heilbrigðisnefnd er þannig ætlað það hlutverk að veita starfsleyfi, að teknu tilliti til þeirra markmiða reglugerðarinnar sem snúa að mengunarvörnum. Ber nefndinni að fara að þeim málsmeðferðarreglum sem í reglugerðinni eru tilgreindar, sem og í lögum nr. 7/1998 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Óumdeilt er að af hinni leyfisskyldu starfsemi hefur stafað lyktarmengun. Kvarta kærendur m.a. yfir því að ekki sé nægilega tryggt í skilyrðum hins nýja starfsleyfis að henni sé haldið innan ásættanlegra marka. Skilyrði starfsleyfisins eru samhljóða skilyrðum fyrra starfsleyfis, sem upphaflega var gefið út 2008. Í greinargerð með leyfinu kemur fram að heilbrigðisnefndin leggi þunga áherslu á að leyfishafi nýti alla möguleika til að halda lykt frá starfseminni í lágmarki í núverandi húsakosti. Þetta eigi einnig við um flutning hráefnis milli forþurrkunar og eftirþurrkunar. Halda skuli flutningstækjum hreinum og lokuðum.Þá skuli leyfishafi halda dyrum á vinnslurými lokuðum eins og kostur sé. Með þessum skilyrðum þykir heilbrigðisnefnd hafa mælt fyrir um varnir gegn þeirri mengun sem sannanlega hefur stafað af starfseminni og er leyfið aðeins veitt til skamms tíma.

Kærendur gera einnig athugasemdir við að óson sé notað við fiskþurrkunina, en um eiturefni sé að ræða. Samkvæmt því sem fyrir liggur í málinu er notkun ósons við vinnslu algeng aðferð til að draga úr lykt af útblæstri frá fiskþurrkun hér á landi, en ekki sé völ á betri tækni í því skyni í dag. Verður við það að miða að notkun efnisins fari ekki í bága við hlutaðeigandi lög og reglugerðir og að styrkur þess í andrúmsloftinu fari ekki yfir tilskilin mörk, sbr. t.a.m. reglugerð nr. 787/1999 um loftgæði og þágildandi reglugerð nr. 745/2003 um styrk ósons við yfirborð jarðar, sem heilbrigðisnefnd ber að sjá um að sé framfylgt.

Málsmeðferð við gerð starfsleyfisins er lýst í málavaxtalýsingu og var hún í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 og reglugerðar nr. 785/1999 sem getur haft í för með sér mengun. Þá lágu fyrir heilbrigðisnefndinni m.a. gögn um lyktarmengun af umræddri starfsemi auk þess sem meðalhófs var gætt við ákvörðunartökuna, sbr. 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verða ekki taldir þeir annmarkar á málsmeðferð eða efni hins kærða starfsleyfis sem raskað geti gildi þess. Verður kröfu kærenda um ógildingu þess því hafnað.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá kröfu kæranda að Leynisbraut 26, Akranesi.

Hafnað er kröfu annarra kærenda um ógildingu ákvörðunar heilbrigðisnefndar Vesturlands frá 9. ágúst 2016 um að veita starfsleyfi til fiskþurrkunar að Breiðargötu 8b og Vesturgötu 2, Akranesi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Aðalheiður Jóhannsdóttir

88/2015 Fjarðargata

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 9. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 88/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 12. ágúst 2015 um að veita byggingarleyfi fyrir breyttri hagnýtingu á rými 0107 á fyrstu hæð hússins að Fjarðargötu 19, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. október 2015, er barst nefndinni 12. s.m., kærir húsfélagið Fjarðargötu 19 þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 12. ágúst 2015 að veita byggingarleyfi fyrir breyttri hagnýtingu á rými 0107 í fjöleignarhúsinu að Fjarðargötu 19. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 18. nóvember 2015.

Málavextir: Í fjöleignarhúsinu að Fjarðargötu 19 eru 26 eignarhlutar. Á jarðhæð eru verslunar- og þjónusturými en á efri hæðum íbúðir. Sá eignarhluti sem hér um ræðir er merktur 0102 í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands en honum hefur verið skipt upp í þrjú rými, þ.e. 0104, 0106 og 0107.

Hinn 12. ágúst 2015 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa samþykkt að veita byggingarleyfi fyrir breyttri hagnýtingu á rými 0107. Í breytingunni fólst að skrifstofurými yrði breytt í veitingastað. Við afgreiðslu málsins hjá byggingarfulltrúa lá fyrir jákvæð umsögn Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis. Byggingarfulltrúi tilkynnti kæranda um afgreiðslu málsins með bréfi, dags. 4. september s.á. Mótmælti kærandi ákvörðuninni með bréfi, dags. 28. s.m., og krafðist þess að byggingaryfirvöld stöðvuðu framkvæmdir þar sem meðferð málsins hefði verið ólögmæt, enda hefði samþykki kæranda ekki legið fyrir. Var erindið tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 30. s.m. og bókað að það væri lagt fram. Var kæranda tilkynnt um bókun byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 2. október s.á.

Á fundi skipulags- og byggingarráðs 6. október 2015 var erindi kæranda lagt fram og bókað að skipulags- og byggingarráð vísaði til samþykktar afgreiðslufundar skipulags- og byggingarfulltrúa 12. ágúst s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að á sínum tíma hafi hann veitt samþykki fyrir uppskiptingu eignarhluta 0102 í þrjú rými gegn ákveðnum skilyrðum er vörðuðu rekstraraðila, affall og sorpmál. Jafnframt hafi kærandi samþykkt að heimilað yrði að innrétta einn hluta fyrir sölustað veitingakeðjunnar Subway en enga aðra starfsemi. Við afgreiðslu hinnar kærðu ákvörðunar hjá byggingarfulltrúa hafi ekki legið fyrir samþykki kæranda til að breyta hagnýtingu eignarhlutans úr skrifstofurými í veitingastað. Hafi verið gerðar athugasemdir við hina umdeildu breytingu en byggingaryfirvöld hafi ekki tekið tillit til þeirra.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að í húsinu við Fjarðargötu 19 hafi alla tíð verið gert ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi á götuhæð hússins. Húsið sé jafnframt staðsett á skilgreindu miðsvæði í aðalskipulagi, þar sem fyrst og fremst sé gert ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að kæranda hafi borist tilkynning um samþykki hinnar kærðu ákvörðunar með bréfi frá byggingarfulltrúa, dags. 4. september 2015. Hafi kæran borist úrskurðarnefndinni 12. október s.á. og sé hún því of seint fram komin.

Þá hafi kærandi ekki tilgreint með hvaða hætti sé verið að raska hagsmunum hans með hinni kærðu ákvörðun. Heimilt sé að breyta hagnýtingu séreignar án samþykkis annarra eigenda hafi hún ekki í för með sér verulega meiri röskun en fyrir var, sbr. 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Loks sé gert ráð fyrir verslunar- og þjónusturými á fyrstu hæð hússins, auk þess sem svæðið sé skilgreint í aðalskipulagi sem miðsvæði. Sú starfsemi sem gert sé ráð fyrir með hinni kærðu ákvörðun sé í samræmi við skipulag svæðisins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um byggingarleyfi sem heimilar breytta hagnýtingu rýmis í eignarhluta á jarðhæð í fjöleignarhúsinu við Fjarðargötu 19.

Líkt og rakið er í málavöxtum var kæranda tilkynnt um afgreiðslu byggingarfulltrúa og honum leiðbeint um kæruleiðir. Kærandi mótmælti í kjölfarið umræddri afgreiðslu og komu mótmælin fram innan kærufrests. Taldi hann um ólögmæta ákvörðun að ræða þar sem ekki hefði legið fyrir samþykki húsfundar. Á þeim forsendum krafðist kærandi þess að framkvæmdir yrðu stöðvaðar. Að teknu tilliti til þess að kærandi er húsfélag húss þess sem byggingarleyfið lýtur að, sem og til efnis athugasemda hans, verður að líta svo á að í greindum mótmælum hafi falist beiðni um að málið yrði tekið til meðferðar á ný, sbr. 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þegar fyrir liggur beiðni um endurupptöku máls skal það stjórnvald sem tekið hefur hina upprunalegu ákvörðun í skjóli stjórnsýsluvalds síns taka afstöðu til þess hvort efni séu til endurupptöku hennar. Ekki verður ráðið af fyrirliggjandi gögnum að byggingarfulltrúi hafi tekið afstöðu til endurupptökubeiðni kæranda heldur gefur bókun á afgreiðslufundi hans þvert á móti til kynna að erindið hafi verið lagt fram án þess að það hafi hlotið þar afgreiðslu í kjölfarið. Samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttar verður mál ekki endurskoðað samtímis af kærustjórnvaldi og því stjórnvaldi sem ákvörðunina tók. Með hliðsjón af því að fyrir byggingarfulltrúa liggur óafgreidd beiðni um endurupptöku verður því ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Það athugist að skv. 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 rofnar kærufrestur þegar aðili óskar eftir endurupptöku máls innan kærufrests og byrjar hann ekki að líða að nýju nema endurupptöku verði synjað. Verði mál hins vegar tekið upp að nýju byrjar kærufrestur að líða frá töku nýrrar ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

125/2016 Lónabraut

Með
Árið 2016, þriðjudaginn 20. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 125/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps frá 1. september 2016 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir strandblakvelli á lóðinni Lónabraut 4.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. september 2016, er barst nefndinni 21. s.m., kæra eigendur, Hafnarbyggð 23, og 25 og eigandi, Lónabraut 7, Vopnafirði, þá ákvörðun sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps frá 1. september 2016 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir strandblakvelli á lóðinni Lónabraut 4. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með ódagsettu bréfi kærenda til úrskurðarnefndarinnar, er barst 22. september 2016, er þess jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Vopnafjarðarhreppi 26. september og 16. október 2016.

Málavextir: Á fundi hreppsnefndar Vopnafjarðar 20. ágúst 2015 var kynnt hugmynd að strandblakvelli við Lónabraut 4. Á fundinum samþykkti sveitarstjórn gerð strandblakvallar fyrir sitt leyti og vísaði málinu til meðferðar skipulags- og umhverfisnefndar. Á fundi sínum 26. ágúst s.á. samþykkti skipulags- og umhverfisnefnd umsókn Vopnafjarðarhrepps um heimild til að staðsetja strandblakvöll á lóð Lónabrautar 4. Meðfylgjandi voru afgreiðsla hreppsnefndar, samþykkt meðlóðarhafa Lónabrautar 4 um staðsetningu vallarins, afstöðumynd og loftmynd ásamt tölvuteikningu. Málið var tekið fyrir að nýju 12. október s.á. á fundi skipulags- og umhverfisnefndar og kom þar fram að athugasemdir hefðu borist varðandi framkvæmdina. Málið hefði því verið nánar kynnt fyrir íbúum með bréfi starfsmanns byggingarfulltrúa, dags. 6. október s.á. Nefndin vísaði málinu til sveitarstjórnar til umfjöllunar vegna innkominna athugasemda. Á fundi hreppsnefndar 5. nóvember 2015 samþykkti sveitarstjórn að fela sveitarstjóra að vinna málið áfram.

Hinn 1. júní 2016 var framkvæmdin grenndarkynnt íbúum í næsta nágrenni við völlinn og bárust athugasemdir, m.a. frá kærendum. Hinn 17. ágúst s.á. var málinu vísað að nýju til skipulags- og umhverfisnefndar sem samþykkti á fundi sínum 26. s.m. að lokið yrði við framkvæmdir á núverandi stað. Á fundi hreppsnefndar 1. september s.á. samþykkti sveitarstjórn tillögu skipulags- og umhverfisnefndar og var sveitarstjóra falið að ljúka málinu. Með bréfi, dags. 6. s.m., fengu aðilar senda tilkynningu frá sveitarstjóra um að sveitarstjórn hefði samþykkt uppbyggingu strandblakvallar við Lónabraut og var athugasemdum sem fram komu við grenndarkynningu jafnframt svarað.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda kemur fram að þeir kæri umþrætta framkvæmd m.a. vegna sandfoks, sem aldrei verði hægt að koma í veg fyrir, ónæðis vegna hávaða, sem þau þegar hafi reynslu af vegna nærliggjandi sparkvallar, og þess að sækja þurfi bolta í garða fólks lendi hann út af við annan enda vallarins. Útsýni muni skerðast mjög, en það sé einn helsti kosturinn við að búa ofan við þetta svæði. Ef byggður yrði skjólveggur eða girðing tæki það í burtu kvöldsólina sem íbúar neðan við njóti núna. Þar sem verið sé að byggja upp íþróttaaðstöðu með væntanlegu vallarhúsi annars staðar í bænum skilji kærendur ekki staðsetningu blakvallarins.

Annað atriði sem sé ekki síður alvarlegt sé hvernig staðið hafi verið að þessum framkvæmdum og samskiptum við íbúa nálægt vellinum. Framkvæmdin hafi verið samþykkt af sveitarstjóra og samhljóða af sveitarstjórn og ákveðið að hefja þessar framkvæmdir án nokkurrar grenndarkynningar eða annars samráðs við íbúa nærliggjandi húsa.

Eftir margar kvartanir og yfirlýst mótmæli bæði fyrir og á öllum stigum framkvæmdarinnar við bæði sveitarstjóra og oddvita sveitarstjórnar hafi loksins verið farið í grenndarkynningu sem kærendum hafi verið neitað um áður. Þá hafi framkvæmdir verið komnar vel á veg. Send hafi verið bréf til fimmtán aðila vegna kynningarinnar og níu þeirra sem hafi fengið bréf hafi mótmælt staðsetningunni harkalega.

Bréfið, sem innihaldi útlistun á ástæðum þess að ákveðið hefði verið að halda áfram með framkvæmdina, hafi kærendur fengið 6. september 2016. Þar hafi ekki verið tekið fram að kærendur hefðu mánaðar kærufrest og hvert þeir ættu að snúa sér. Þá sé ámælisvert að aðilar í sveitarstjórn sem eigi beinna hagsmuna að gæta í málinu hafi ekki vikið þegar mál þetta hafi verið tekið fyrir.

Málsrök Vopnafjarðarhrepps: Af hálfu sveitarfélagsins kemur fram að sandurinn sem verði í vellinum verði sambærilegur sandi sem notaður sé í slíka velli um allt land. Hafi hann lítið fokgildi. Reynist þörf á að breiða yfir völlinn við ákveðnar aðstæður verði það gert til að hindra enn frekar að sandur berist frá vellinum. Hvað varði ónæði vegna hávaða bendi sveitarfélagið á 6. gr. lögreglusamþykktar nr. 674/2015 fyrir Vopnafjarðarhrepp, þar sem segi að lögregla geti vísað þeim mönnum í burtu af almannafæri sem með háttsemi sinni valdi vegfarendum eða íbúum í nágrenni ónæði. Ekkert við framkvæmd vallarins muni hafa áhrif á útsýni frá húsum á svæðinu og verði girðing sem sé við skólalóðina framlengd til móts við Austurborg. Muni það koma í veg fyrir að bolti geti farið niður í garða eða valdið tjónum á húsum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um framkvæmdaleyfi sem samþykkt var af sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps 1. september 2016 fyrir strandblakvelli á Lónabraut 4.

Í 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er m.a. kveðið á um að afla skuli framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafi á umhverfið og breyti ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku. Þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og deiliskipulag liggur ekki fyrir getur sveitarstjórn veitt framkvæmdaleyfi að undangenginni grenndarkynningu sé um að ræða framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag, sbr. 5. mgr. sömu lagagreinar. Í samræmi við þá heimild var umþrætt framkvæmd grenndarkynnt og gerðu m.a. kærendur athugasemdir. Tekin var afstaða til þeirra athugasemda og framkvæmdin samþykkt.

Í nefndri 13. gr. er nánar kveðið á um gerð og undirbúning framkvæmdaleyfa og kemur fram í 3. mgr. að sá sem óski framkvæmdaleyfis skuli senda skriflega umsókn til sveitarstjórnar ásamt nauðsynlegum gögnum sem nánar skuli kveða á um í reglugerð. Segir um þetta atriði í 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi að sá sem óski eftir framkvæmdaleyfi skuli senda skriflega umsókn til hlutaðeigandi leyfisveitanda ásamt nauðsynlegum gögnum um fyrirhugaða framkvæmd. Eru þau gögn tíunduð í 7. gr. reglugerðarinnar. Þar kemur m.a fram að umsókninni skuli fylgja afstöðumynd, sbr. 1. tl. 2. mgr. Þá þarf að fylgja lýsing á framkvæmd og hvernig hún falli að gildandi skipulagsáætlunum og staðháttum, sbr. 3. tl. 2. mgr., og skal að auki tilgreina framkvæmdatíma í framkvæmdalýsingu, hvernig fyrirhugað sé að standa að framkvæmdinni og fleira sem skipti máli. Loks segir í 3. mgr. nefndrar 7. gr. að þegar fyrirhugað er að framkvæma á svæði þar sem ekki sé í gildi deiliskipulag þurfi einnig að fylgja með yfirlitsmynd í mælikvarða 1:10.000 – 1:2.000, sem sýni staðsetningu og afmörkun framkvæmdasvæðis eða útdráttur úr aðalskipulagi sem sýni afmörkun framkvæmdasvæðis.

Vegna fyrirspurnar úrskurðarnefndarinnar um umsókn vegna hinnar kærðu leyfisveitingar tiltók sveitarfélagið að ekki hefði komið formleg beiðni um að gera strandblakvöll heldur hefði áhugafólk komið að máli við sveitarstjóra. Í framhaldi af því hafi tillaga verið lögð fyrir sveitarstjórn hinn 20. ágúst 2015. Samkvæmt framangreindu var ekki til að dreifa skriflegri umsókn sveitarfélagsins um framkvæmdaleyfi skv. 3. mgr. 13. gr. skipulagslaga og 6. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi. Í gögnum málsins má hinsvegar finna tölvupóst iðnfræðings til sveitarstjóra 14. ágúst 2015. Þar var tekið fram að iðnfræðingurinn hefði aðeins skoðað svæðið og að það væri álit hans að það ætti að vera hægt að koma velli fyrir við enda félagsmiðstöðvar, en hæðarmunur væri á landinu sem þyrfti að bæta úr sennilega með þökum. Tekið var fram að gróf mynd fylgdi með helstu málum. Loks sagði að það mætti reikna með að það tæki um það bil einn dag að grafa upp 60 cm og setja möl í botninn, 20 cm. Svo þyrfti að setja sand í og ganga frá köntum. Verður ekki annað ráðið en að framkvæmdaleyfið hafi verið samþykkt á grundvelli þessarar lýsingar, auk afstöðu- og loftmyndar ásamt tölvuteikningu. Nefnd afstöðumynd er í mælikvarðanum 1:1.000 en meðal gagna málsins er ekki að finna yfirlitsmynd í samræmi við 3. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar. Þá er hvergi vikið að því hvernig framkvæmd falli að gildandi skipulagsáætlunum. Var hvorki fullnægt kröfum 3. mgr. 13. gr. skipulagslaga, sbr. 6. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi, né kröfum 3. tl. 2. mgr. og 3. mgr. 7. gr. nefndrar reglugerðar. Verður og ekki séð af nefndum ákvæðum að þær kröfur séu aðrar og minni þegar sveitarfélag stendur sjálft að framkvæmdum.

Samkvæmt því sem rakið hefur verið var undirbúningi hins kærða framkvæmdaleyfis verulega áfátt og voru skilyrði ekki til staðar fyrir veitingu þess. Verður það því fellt úr gildi.

Það athugist að í svörum sveitarfélagsins til úrskurðarnefndarinnar var tekið fram að ekki hefði verið gefið út framkvæmdaleyfi og tíðkaðist það ekki þegar sveitarfélagið ætti í hlut líkt og í máli þessu þar sem sveitarfélagið eigi lóðina, sé framkvæmdaraðili og eigi mannvirkið. Gengur þetta í berhögg við fyrirmæli 11. og 12. gr. áðurnefndrar reglugerðar um framkvæmdaleyfi, þar sem fram kemur að framkvæmdaleyfi skuli gefa út skriflega og hvers efnis það skuli vera að lágmarki.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps frá 1. september 2016 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð strandblakvallar á lóðinni Lónabraut 4.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson

89/2016 Egilsgata Borgarbyggð

Með
Árið 2016, miðvikudaginn 9. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 89/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 9. júní 2016 um að fela byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. júlí 2016, er barst nefndinni 8. s.m., kærir Ikan ehf., Egilsgötu 4, Borgarnesi, „stjórnsýsluframkvæmd, leyfisveitingar og ákvarðanir sveitarstjórnar í Borgarbyggð“. Verður að skilja málskot kæranda svo að kærð sé ákvörðun sveitarstjórnar frá 9. júní 2016 um að fela byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. júlí 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili þá ákvörðun byggðarráðs Borgarbyggðar frá 7. júlí 2016 að staðfesta ákvörðun umhverfis-, skipulags og landbúnaðarnefndar Borgarbyggðar frá 6. s.m. um að „fram verði látin fara grenndarkynning á rekstri gistihúss í íbúðarhúsi við Egilsgötu 6, Borgarnesi“. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sami aðilinn stendur að báðum kærumálunum verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 102/2016, sameinað máli þessu.

Jafnframt er í báðum kærum gerð krafa flýtimeðferð og krafa um stöðvun rekstrar að Egilsgötu 6, Borgarnesi, þar sem heimildir fyrir rekstrarleyfi séu ekki til staðar.

Gögn málsins bárust frá Borgarbyggð 18. og 24. júlí, 30. ágúst og 2. september 2016.

Málsatvik og rök: Forsaga málsins er sú að með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 57/2013, sem kveðinn var upp 24. september 2015, var felld úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Borgarbyggðar um að veita leyfi til að breyta íbúðarhúsi og geymslu á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á fyrstu hæð og eina íbúð á annarri hæð. Komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að málsmeðferð og ákvörðunartaka vegna leyfisins hefði verið háð verulegum annmörkum.

Hinn 21. janúar 2016 var endurnýjuð byggingarleyfisumsókn grenndarkynnt fyrir hagsmunaaðilum með fresti til athugasemda til 26. febrúar s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kæranda. Að grenndarkynningu lokinni var erindið tekið fyrir á fundi umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar 6. júní 2016 og skipulagsfulltrúa falið að svara athugasemdum í samræmi við umræður á fundinum. Á fundi sveitarstjórnar 9. s.m. voru drög að svörum við athugasemdum samþykkt og var skipulags- og byggingarfulltrúa falið að gefa út byggingarleyfi.

Á fundi umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar 6. júlí 2016 var lagt til að grenndarkynna breytta notkun úr íbúðarhúsi í gistiheimili að Egilsgötu 6. Jafnframt var tekið fram að búið væri að grenndarkynna umsókn vegna byggingarleyfis. Var nefnd afgreiðsla samþykkt á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar 7. s.m.

Kærandi skírskotar til þess að hann kannist ekki við að hafa tekið þátt í grenndarkynningu byggingarleyfis vegna Egilsgötu 6, líkt og komi fram í bókun umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar Borgarbyggðar frá 6. júní 2016. Hafi aðeins verið grenndarkynntar fyrirhugaðar breytingar á húsnæði að Egilsgötu og nýtingu þess. Jafnframt hafi formleg afstaða til þeirra athugasemda sem bárust á kynningartíma ekki verið tekin þar sem ekkert í bókun umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar frá umræddum fundi gefi slíkt til kynna. Að auki sé ekkert að finna í gildandi skipulagslögum um að grenndarkynning geti farið fram á byggingarleyfum. Fullnægjandi gögn hafi ekki fylgt grenndarkynningunni og hafi málsmeðferð ekki verið í samræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013.

Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að umsókn um byggingarleyfi hafi verið lögð fyrir sveitarstjórn til meðferðar og hafi hún samþykkt að fela byggingarfulltrúa að annast grenndarkynningu umsóknarinnar í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að lokinni grenndarkynningu hafi erindið verið samþykkt á lögmætum fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar 9. júní 2016 og einnig verið samþykkt að fela byggingarfulltrúa útgáfu byggingarleyfis. Hafi slíkt leyfi þó ekki enn verið gefið út. Málsmeðferð hafi verið í samræmi við gildandi lög á sviði mannvirkja- og skipulagsmála. Hvað varði kröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun byggðarráðs Borgarbyggðar frá 7. júlí 2016 um að staðfesta þá ákvörðun umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar að grenndarkynna rekstrarleyfi gistihúss í íbúðarhúsi við Egilsgötu sé bent á að útgáfa eða meðferð rekstareyfis sé ekki kæranleg til nefndarinnar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Sé forræði slíkra mála alfarið á hendi sýslumannsembætta.

Leyfishafi bendir á að allar heimildir fyrir starfseminni á Egilsgötu 6 liggi fyrir. Aðalskipulag Borgarbyggðar geri ráð fyrir að á svæðinu sé blönduð byggð íbúðar- og atvinnuhúsnæðis. Fyrir liggi samþykkt sveitarstjórnar frá 9. júní um útgáfu byggingarleyfis til breytinga á innra skipulagi Egilsgötu 6. Þá sé einnig vísað til svars sýslumannsins á Vesturlandi, dags. 16. september 2015, þar sem embættið hafi hafnað kröfu kæranda um að rekstrarleyfi Egils Guesthouse yrði afturkallað.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um breytingar hússins að Egilsgötu 6. Annars vegar er kærð sú ákvörðun sveitarstjórnar að fela skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi vegna breytinga á innra skipulagi hússins. Hins vegar er kærð sú ákvörðun byggðarráðs að grenndarkynna breytta notkun nefnds húss úr íbúðarhúsi í gistiheimili. Að auki tiltekur kærandi að kærð sé stjórnsýsla skipulags- og byggingarfulltrúans í Borgarbyggð í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 57/2013. Þá séu kærð svör lögmanns Borgarbyggðar við athugasemdum kæranda við grenndarkynningu vegna Egilsgötu 6. Loks krefst kærandi stöðvunar rekstrar í húsinu.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er m.a. óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, breyta notkun þess, útliti eða formi nema með fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Jafnframt skal byggingarleyfisskyld framkvæmd vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 2. mgr. 10. gr. laganna. Þegar sótt er um byggingarleyfi á ódeiliskipulögðu svæði og hin leyfisskylda framkvæmd er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi getur sveitarstjórn ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar og skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að grenndarkynningu lokinni og þegar sveitarstjórn hefur afgreitt málið skal þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar, og byggingarfulltrúa veitt heimild til samþykkis eða synjunar í samræmi við niðurstöðu sveitarstjórnar.

Í málinu liggur fyrir að grenndarkynning fór fram í byrjun árs 2016, að henni lokinni var á fundi  umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar, 6. júní s.á., samþykkt að fela skipulagsfulltrúa að svara athugasemdum í samræmi við umræður á fundinum. Á fundi sveitarstjórnar 9. s.m. voru drög að svörum við athugasemdum samþykkt og skipulags- og byggingarfulltrúa falið að gefa út byggingarleyfi. Í málinu liggur hins vegar ekki fyrir afgreiðsla byggingarfulltrúa á hinni kærðu byggingarleyfisumsókn en samkvæmt mannvirkjalögum er endanleg ákvörðun um samþykkt eða synjun byggingaráforma og útgáfa byggingarleyfis í höndum byggingarfulltrúa. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun sem ekki bindur enda á mál ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Að framangreindu virtu verður þeim hluta kærumálsins er lýtur að ákvörðun sveitastjórnar frá 9. júní 2016 um að fela skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi vísað frá úrskurðarnefndinni.

Jafnframt gerir kærandi þá kröfu að ákvörðun byggðarráðs Borgarbyggðar frá 7. júlí 2016 um að staðfesta afgreiðslu umhverfis-, skipulags og landbúnaðarnefndar frá 6. s.m. þess efnis að láta fara fram grenndarkynningu á breyttri notkun úr íbúðarhúsi í gistiheimili í húsi á lóð nr. 6 við Egilsgötu. Líkt og að framan greinir er kveðið á um í mannvirkjalögum að skylt sé að sækja um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun mannvirkis. Af umræddri bókun umhverfis-, skipulags og landbúnaðarnefndar Borgarbyggðar verður ekki annað séð en að umrædd grenndarkynning um breytta notkun sé hluti af slíkri málsmeðferð, og eftir atvikum tengd fyrri ákvörðun nefndarinnar frá 6. júní s.á., sem staðfest var af sveitarstjórn 9. s.m. Svo sem áður greinir liggur frekari afgreiðsla byggingarfulltrúa hins vegar ekki fyrir og verður þessum hluta málsins því einnig vísað frá úrskurðarnefndinni, enda ekki um lokaákvörðun að ræða, sbr. áðurnefnda 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni verður ekki fjallað frekar um þær kröfur kæranda er lúta að svörum vegna grenndarkynningar enda er þar um að ræða hluta af málsmeðferð sem sætir ekki lögmætisathugun nefndarinnar fyrr en meðferð málsins er lokið. Aðrar kröfur kæranda lúta að stöðvun á rekstri gistiheimilis að Egilsgötu 6 og forsendum leyfis til þess rekstrar, m.a. afstöðu skipulags- og byggingarfulltrúa til fyrri umsagnar til sýslumannsins á Vesturlandi í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 57/2013. Rekstrarleyfi vegna nefndrar starfsemi eru gefin út af sýslumanninum á Vesturlandi og eru þau ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, heldur eftir atvikum til viðeigandi ráðuneytis. Sama á við um málsmeðferð varðandi kröfur um endurupptöku eða afturköllun slíkra leyfa. Hefur enda kærandi leitað til viðkomandi sýslumanns sem hafnaði því að afturkalla leyfið, m.a. byggt á upplýsingum sem veittar voru af skipulags- og byggingarfulltrúa. Þær upplýsingar um stöðu mála og afstöðu skipulags- og byggingarfulltrúa fela ekki í sér neina þá ákvörðun sem bindur enda á mál og kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, sbr. enn á ný 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulega, heldur voru þær liður í nefndri málsmeðferð sýslumanns sem leiðbeindi um kæruheimild til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Samkvæmt því sem að framan er rakið verður öllum kröfum kæranda í máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                     Þorsteinn Þorsteinsson

96/2016 Kröflulína 4 Þingeyjarsveit

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 27. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. Geir Oddsson umhverfis- og auðlindafræðingur tók þátt í fundi úrskurðarnefndarinnar í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 96/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 13. júní 2016 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. júlí 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, Reykjavík, þá ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 13. júní 2016 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4 til handa Landsneti hf. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Með bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 19. ágúst 2016, voru stöðvaðar framkvæmdir á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar að kröfu kæranda, að því er tók til framkvæmda innan skipulagssvæðis deiliskipulags Þeistareykjavirkjunar, Þingeyjarsveit, á meðan mál þetta væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust frá Þingeyjarsveit 14. júlí og 16. ágúst 2016 og frekari gögn síðar.

Málavextir: Landsnet fyrirhugar að leggja 220 kV loftlínu, Kröflulínu 4, frá Kröfluvirkjun í Skútustaðahreppi að gufuaflsvirkjun á Þeistareykjum í Þingeyjarsveit. Frá Þeistareykjum að Bakka við Húsavík, Norðurþingi, er áætlað að leggja Þeistareykjalínu 1, einnig fyrir 220 kV rekstrarspennu. Skútustaðahreppur, Norðurþing og Þingeyjarsveit hafa veitt framkvæmdaleyfi fyrir lagningu nefndra lína sem öll hafa verið kærð til úrskurðarnefndarinnar. Svo sem fram hefur komið kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð til bráðabirgða í máli þessu 19. ágúst 2016 og stöðvaði framkvæmdir við Þeistareykjalínu 1 innan Þingeyjarsveitar. Með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum sama dag í máli nr. 96/2016 voru framkvæmdir við Kröflulínu 4 stöðvaðar að hluta innan sama sveitarfélags. Áður hafði úrskurðarnefndin kveðið upp bráðabirgðaúrskurði í málum nr. 46/2016 og nr. 54/2016 og er meðferð þeirra mála lokið. Með úrskurði í máli nr. 46/2016, uppkveðnum 10. október 2016, var felld úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4, en með úrskurði í máli nr. 54/2016, uppkveðnum 17. s.m., var hafnað kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Norðurþings um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1. Vegna eðlis og umfangs nefndra mála hefur úrskurðarnefndin ekki nýtt sér heimild 5. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála til sameiningar þeirra.

Hinar kærðu leyfisveitingar eiga sér nokkurn aðdraganda. Í Svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025, sem staðfest var af umhverfisráðherra 16. janúar 2008, er tekið fram að vegna áforma um orkufrekan iðnað við Húsavík sé unnið að undirbúningi virkjunar háhitasvæðanna á Þeistareykjum og í Gjástykki ásamt frekari virkjunum við Kröflu og í Bjarnarflagi. Í svæðisskipulaginu voru m.a. kynntar mögulegar leiðir háspennulína á svæðinu. Vegna nefndra áforma fór fram frekari gerð skipulagsáætlana sem og mat á umhverfisáhrifum þeirra framkvæmda sem fyrirhugaðar voru.

Gerð var breyting á Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 1995-2015 sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 24. mars 2011, en nýtt Aðalskipulag Skútustaðahrepps 2011-2023 var svo samþykkt í sveitarstjórn 21. febrúar 2013 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 3. maí s.á. Deiliskipulag vegna stækkunar Kröfluvirkjunar í Skútustaðahreppi var samþykkt af sveitarstjórn 14. nóvember 2013 og á fundi hennar 8. maí 2014 voru staðfest svör skipulagsnefndar við athugasemdum Skipulagsstofnunar. Deiliskipulagið var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 3. júní s.á. Aðalskipulag Norðurþings 2010-2030 var samþykkt í sveitarstjórn 16. nóvember 2010 og öðlaðist gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 10. janúar 2011. Breyting á því tók gildi 21. febrúar 2014, einnig með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda, og deiliskipulag fyrir 1. áfanga iðnaðarsvæðis á Bakka tók gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 28. s.m. Þá var Aðalskipulag Þingeyjarsveitar 2010-2022 samþykkt í sveitarstjórn 24. febrúar 2011 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 4. júlí s.á. Loks var deiliskipulag Þeistareykjavirkjunar samþykkt af sveitarstjórn Þingeyjarsveitar 8. mars 2012 og öðlaðist það gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 27. apríl s.á.

Í mars 2008 barst Skipulagsstofnun tillaga Landsnets að matsáætlun vegna háspennulína, 220 kV, frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík. Samþykkti stofnunin áætlunina með athugasemdum 29. maí s.á. Samkvæmt úrskurði umhverfisráðherra frá 31. júlí 2008 fór fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðra framkvæmda við álver á Bakka við Húsavík, Þeistareykjavirkjun, stækkun Kröfluvirkjunar og háspennulínur frá Kröflu og Þeistareykjum til Húsavíkur. Matsáætlun framkvæmdaraðila vegna þess mats var samþykkt af Skipulagsstofnun með athugasemdum 6. nóvember 2009. Frummatsskýrslur vegna fyrirhugaðra framkvæmda, þ.e. nefndra háspennulína, Þeistareykjavirkjunar, Kröfluvirkjunar II og álvers við Bakka, sem og frummatsskýrsla vegna sameiginlegs mats framangreindra framkvæmda, voru allar auglýstar samhliða með athugasemdafresti til 14. júní 2010. Í kjölfarið voru matsskýrslur sendar Skipulagsstofnun og 24. nóvember s.á. lágu fyrir lögbundin álit hennar á mati á umhverfisáhrifum hverrar framkvæmdar fyrir sig, sem og á sameiginlegu mati á umhverfisáhrifum þeirra. Er í álitunum gerð grein fyrir framkvæmdum þeim sem metnar eru, matsferlinu og helstu þáttum þess, umsögnum, athugasemdum og öðru því er málið varðar. Fallið hefur verið frá byggingu álvers á Bakka, en mat á umhverfisáhrifum vegna kísilmálmverksmiðju við Bakka hefur einnig farið fram.

Í áliti Skipulagsstofnunar um mat á áhrifum framkvæmdanna „Háspennulínur (220 kV) frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík. Jarðstrengur (132 kV) frá Bjarnarflagi að Kröflu; Norðurþingi, Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit“ á umhverfið er gerð grein fyrir helstu niðurstöðum álitsins og eru þær dregnar saman svo: „Skipulagsstofnun telur að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda verði á þeim kafla þar sem háspennulínur munu liggja frá tengivirki á Hólasandi, um Þeistareyki og um Jónsnípuskarð. Sérstætt náttúrufar er við Þeistareyki og er svæðið á Náttúruminjaskrá og hluti þess nýtur einnig hverfisverndar samkvæmt Svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025. Einnig eru Þeistareykir vel grónir í samanburði við hraun í nágrenninu og þar vaxa jurtir, sem eru á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands. Skipulagsstofnun telur að þó Landsnet muni stýra framkvæmdum þannig að þær dragi úr neikvæðum áhrifum á sérstætt landsvæði við Þeistareyki muni framkvæmdir engu að síður hafa verulega neikvæð og óafturkræf áhrif á svæðið við Þeistareyki. Skipulagsstofnun telur ljóst að háspennulínur og slóðir um Þeistareykjahraun muni liggja um sérstæð eldvörp, gervigíga og hrauntraðir í hrauninu. Þá munu mannvirkin skipta hrauninu í tvo nokkuð jafna hluta og við það breytist heildarsýn hraunsins varanlega og einnig samfelld heildarsýn hrauna til suðurs frá Höfuðreiðarmúla, meðfram Lambafjöllum og langleiðina niður á Hólasand. Því telur Skipulagsstofnun að framkvæmdirnar muni hafa verulega neikvæð og óafturkræf áhrif á landslagsheild Þeistareykjahrauns. Þá telur Skipulagsstofnun að framkvæmdirnar muni hafa talsvert neikvæð og varanleg áhrif á Leirhnjúkshraun. Skipulagsstofnun telur ljóst að skipulagðar ferðir fólks um láglendið milli Lambafjalla í vestri og Gæsafjalla til Bæjarfjalls í austri byggja m.a. á því að landið er lítt snortið og fólk upplifir fjallasalinn sem víðerni. Háspennulínur verða samsíða göngu- og reiðleiðum um Hólasand að Þeistareykjum og telur Skipulagsstofnun að koma línanna muni breyta verulega upplifun fólks frá því sem verið hefur. Því telur Skipulags-stofnun að ferðamenn sem vilja m.a. njóta víðernisins þar verði fyrir verulega neikvæðum áhrifum af fyrirhuguðum háspennulínum. Skipulagsstofnun telur ljóst að á tveimur línuleiðum sem hvor um sig eru um 60 km langar þarf að leggja 95 km langt slóðakerfi og leggja plön og háspennumöstur sem verða að miklu leyti á grónu landi. Skipulagsstofnun telur því að framkvæmdirnar verði umfangsmiklar og muni hafa talsvert neikvæð áhrif á gróður. Skipulagsstofnun telur að áhrif fyrirhugaðra háspennulína á fuglalíf verði helst vegna áflugs rjúpna á línur á þeim svæðum sem rjúpan er þéttust. Skipulagsstofnun telur að við leyfisveitingar þurfi að setja eftirfarandi skilyrði: 1. Landsnet þarf að tryggja að framkvæmdir auki ekki eyðingu gróðurs á svæði sem nú er eitt virkasta rofsvæði landsins. 2. Ef votlendi verður raskað þarf Landsnet að endurheimta a.m.k. jafnstórt votlendissvæði og það sem raskast. 3. Landsnet þarf að tryggja að sjaldgæfum plöntum við Þeistareyki verði hlíft eins og kostur er og að staðsetning háspennumastra og lega slóða taki mið af staðsetningu þeirra og einnig umferð meðan á framkvæmdum stendur. Þá þarf Landsnet að tryggja að framkvæmdir trufli ekki varp fálka á svæðinu með því að halda framkvæmdum utan varptíma. 4. Landsnet þarf í samráði við Fornleifavernd ríkisins að tryggja að ekki verði raskað fimm fornleifum í landi Þeistareykja og átta fornleifum nálægt Bakka, sem lýst er í matsskýrslu. 5. Landsnet þarf að leggja fram áætlun um rannsóknir á umfangi áflugs fugla á raflínur og að niðurstöður rannsóknanna verði bornar undir Umhverfisstofnun.“

Á fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar 28. apríl 2016 var samþykkt umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi vegna Kröflulínu 4. Skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins var jafnframt falið að gefa út leyfið í samræmi við reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi, sem hann og gerði 1. júní s.á. Á fundi sveitarstjórnar 8. s.m. var framangreind ákvörðun frá 28. apríl afturkölluð. Var bókað að fyrir lægi álit lögmanns um að ákvörðunin gæti verið ógildanleg vegna þess galla á málsmeðferð að ekki hefði verið gerð sérstök bókun um umsóknina um framkvæmdaleyfið í skipulags- og umhverfisnefnd. Var jafnframt lagt fyrir nefndina að taka málið til umfjöllunar og afgreiðslu.

Fundur var haldinn í skipulags- og umhverfisnefnd Þingeyjarsveitar 9. júní 2016 og var m.a. bókað að sótt væri um framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdinni Kröflulínu 4 á grundvelli 13. og 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. og 6. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi. Framkvæmdin væri matsskyld skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og væri matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar fyrirliggjandi. Gert væri ráð fyrir framkvæmdinni í Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022. Lýsing mannvirkja vegna útgáfu framkvæmda-leyfis væri tekin saman f.h. Landsnets og væri vísað til hennar um frekari skýringar og lýsingar á framkvæmdinni, þ.m.t. 6. kafla, þar sem fjallað væri um mótvægisaðgerðir og skilyrði sem Skipulagsstofnun teldi að setja þyrfti fyrir leyfisveitingunni, sbr. mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Lýsingin, þ.m.t. hvernig mæta skyldi skilyrðum Skipulagsstofnunar, væri þannig hluti umsóknarinnar.

Loks var eftirfarandi bókað: „Skipulags- og umhverfisnefnd hefur kynnt sér matsskýrslu framkvæmdar og álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar: Háspennulínur (220 kV) frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík, Skútustaðahreppi, Aðaldælahreppi, Þingeyjarsveit og Norðurþingi. Einnig hefur komið til skoðunar álit Skipulagsstofnunar vegna sameiginlegs mats, álvers á Bakka, háspennulína, virkjana í Kröflu og á Þeistareykjum, en framkvæmd samkvæmt fyrirliggjandi umsókn er ekki gerð í tengslum við álver á Bakka. Nefndin tekur undir álit Skipulagsstofnunar, m.a. um skilyrði leyfisveitingar, og vísar sérstaklega til stefnu Þingeyjarsveitar samkvæmt aðalskipulagi, sbr. t.d. kafla 4.1 um framtíðarsýn og meginmarkmið, sem rökstuðnings fyrir þeirri afstöðu. Við samanburð á framkvæmd sem fyrirliggjandi umsókn lýsir og matsskýrslu vegna framkvæmdarinnar Háspennulínur (220 kV) frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík, Skútustaðahreppi, Aðaldælahreppi, Þingeyjarsveit og Norðurþingi, er sýnt að framkvæmdin varðar einungis hluta þeirrar framkvæmdar, þ.e. Kröflulínu 4 sem liggur frá Kröflu að Þeistareykjum. Framkvæmdin er hluti umhverfismetinnar framkvæmdar, ekki eðlislega frábrugðinn heildarframkvæmdinni (matið varðar Kröflulínu 4 og 5) og ekki önnur framkvæmd en umhverfismat varðar. Skipulags- og umhverfisnefnd leggst ekki gegn framkvæmdinni þar sem hún er í samræmi við Aðalskipulag Þingeyjarsveitar 2010-2022 og fyrirhuguð framkvæmd uppfyllir skv. áliti Skipulagsstofnunar frá 29. nóvember 2010 skilyrði 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga um útgáfu framkvæmdaleyfis vegna matsskyldra framkvæmda vegna sérstaks mats á framkvæmdinni;  Háspennulínur (220 kV) frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík, Skútustaðahreppi, Aðaldælahreppi, Þingeyjarsveit og Norðurþingi og sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum álvers á Bakka (þó ekki sé fyrirhugað að reisa álver á Bakka), Þeistareykjavirkjunar og háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Húsavík. Nefndin áréttar að ákvæði 13. gr. skipulagslaga, eins og greinin á við um framkvæmdaleyfisumsóknir vegna framkvæmda sem háðar eru mati á umhverfisáhrifum og 14. gr. á einnig við um, séu uppfyllt, m.a. varðandi náttúruverndarlög nr. 60/2013 og þar sem við fyrri málsmeðferð hefur verið aflað umsagna sem 2. mgr. 68. gr. laganna vísar til, þ.e. við mat á umhverfisáhrifum og samþykkt deiliskipulags vegna Þeistareykjavirkjunar, skipulagsnr. 11077, staðfest 8.3.2012. Fyrri afgreiðsla Þingeyjarsveitar á deiliskipulaginu, sem tekur til Þeistareykja sem eru á náttúruminjaskrá, og afstaða skipulags og umhverfisnefndar til álits Skipulagsstofnunar, felur í sér að sérstök afstaða hefur verið tekin við leyfisveitinguna í skilningi 5. mgr. 61. gr. náttúrverndarlaga.  Þá eru ekki forsendur til grenndarkynningar framkvæmdarinnar, sbr. 44. gr. skipulagslaga. Skipulags- og umhverfisnefnd telur að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við Aðalskipulag Þingeyjarsveitar 2010-2022, sbr. einnig svæðisskipulag fyrir háhitasvæði í Þingeyjarsýslu. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að umsókn Landsnets vegna Kröflulínu 4 verði samþykkt og jafnframt verði skipulags- og byggingarfulltrúa falið að gefa út framkvæmdaleyfið í samræmi við reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.“

Á fundi sínum 13. júní 2016 samþykkti sveitarstjórn Þingeyjarsveitar umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi vegna Kröflulínu 4. Tekið var fram að skipulags- og umhverfisnefnd hefði fjallað um fyrirliggjandi framkvæmdaleyfisumsókn og að í bókun nefndarinnar kæmi fram rökstudd afstaða til umsóknarinnar. Þá staðfesti sveitarstjórn bókun skipulags- og umhverfis-nefndar um málið í heild og fól skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi, sem hann og gerði 14. júní 2016. Auglýsing þess efnis var birt í Morgunblaðinu 15. s.m., en hún mun ekki hafa verið birt í Lögbirtingablaðinu. Framkvæmdaleyfið var kært til úrskurðar-nefndarinnar 12. júlí 2016, svo sem að framan greinir.

Í framkvæmdaleyfinu eru tiltekin gögn vegna leyfisumsóknar og skipulagslegar forsendur leyfisveitingar. Þar á meðal er vísað til sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum vegna fram-kvæmdanna sem og mats á umhverfisáhrifum háspennulína. Tiltekið er að útgáfa leyfisins sé háð því að skilyrði Skipulagsstofnunar, sem fram komi í áliti hennar frá 24. nóvember 2010, séu uppfyllt. Auk eftirlits skipulags- og byggingarfulltrúa muni Umhverfisstofnun hafa sérstakt eftirlit með framkvæmdum.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að hin kærða ákvörðun sé haldin þeim ágöllum að hún sé ógildanleg. Stjórnsýslulög hafi verið brotin við undirbúning og töku ákvörðunarinnar auk þess sem hún fari í bága við almenna náttúruverndarlöggjöf á Íslandi og lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Framkvæmdin sé á svæði á náttúruminjaskrá, en jarðhitasvæðið á Þeistareykjum sé á þeirri skrá vegna fjölbreyttra jarðhitamyndana, gufu- og leirhvera, útfellinga í norðurhlíðum Bæjarfjalls og við Bóndhól. Á hverasvæðinu sé jafnframt að finna sérstæðar jarðhitaplöntur. Aðeins á einum stað á landinu séu fleiri brennisteinshverir en þar. Fyrirhuguð línuleið liggi um vesturjaðar þess svæðis sem sé á náttúruminjaskrá og hluti áhrifasvæðis línunnar vestan Þeistareykja fari inn á suðvesturhorn svæðis sem sé á náttúruminjaskrá. Að auki muni hluti línanna liggja yfir hverfisverndað svæði á Þeistareykjum og í Þeistareykjahrauni, sem njóti einnig sérstakrar verndar sem eldhraun skv. a-lið 2. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Svæðin séu lítt röskuð og hafi mjög hátt verndargildi samkvæmt mati á umhverfis-áhrifum frá 2010.

Áður en leyfi sé veitt fyrir framkvæmdum á svæði á náttúruminjaskrá skuli, skv. 37. gr. náttúruverndarlaga, leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og viðkomandi náttúruverndarnefndar nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag þar sem umsagnir skv. 1. og 2. mgr. 68. gr. laganna liggi fyrir. Ekki liggi fyrir samþykkt deiliskipulag um Þeistareykjalínu 1. Hafi því sveitarstjórn borið að leita umsagna framangreindra aðila.

Í 5. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga komi fram að ákveði leyfisveitandi að heimila framkvæmd skuli hann rökstyðja þá ákvörðun sérstaklega, fari hún í bága við umsagnir umsagnaraðila. Í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2010 hafi Umhverfisstofnun veitt afar neikvæða umsögn, en umsagna hafi ekki verið leitað áður en hið kærða framkvæmdaleyfi hafi verið veitt. Sé um verulegan annmarka á málsmeðferð sveitarstjórnar að ræða þar sem hún hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni skv. stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Sveitarstjórn hafi einnig borið að gæta ákvæða 4.-6. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um svæði er njóti sérstakrar verndar með því að líta til verndarmarkmiða 2. og 3. gr. náttúruverndarlaga og jafnframt huga að mikilvægi minjanna og sérstöðu í íslensku og alþjóðlegu samhengi. Ljóst virðist af öllum gögnum máls að framkvæmdin muni hafa mikil og varanleg umhverfisáhrif, ekki síst við Þeistareyki og í Þeistareykjahrauni, og hafi sveitarstjórninni borið, með vísan til varúðarreglu umhverfisréttarins, að láta náttúruna njóta vafans.

Fram komi í leyfisbeiðni að undirstöður undir hvert mastur verði 100-200 m². Sé því um töluvert svæði að ræða, auk þess svæðis sem fari undir línuvegi. Allt þetta rask sé svo mikið í tilfelli Þeistareykjahrauns og Þeistareykja að sveitarstjórninni hefði borið að rannsaka málið ítarlega og sjálfstætt áður en hún tók ákvörðun, m.a. með könnun á því hvort ekki væri hægt að flytja þá orku sem um ræði með öðrum og betri aðferðum með tilliti til umhverfis, þar með talið að skoða til hlítar þann kost að leggja jarðstreng í stað loftlína, bæði með tilliti til áhrifa á umhverfi og kostnaðar. Þá komi fram í leyfisumsókn að fyrirhugað sé að leggja línuvegi en engar upplýsingar sé að finna þar um heildarvegalengd þeirra. Einnig komi fram að efnistaka muni fara fram að einhverju leyti í nýjum námum.

Í 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé áskilið að við umfjöllun umsóknar um framkvæmda-leyfi vegna matsskyldrar framkvæmdar kynni sveitarstjórn sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og kanni hvort hún sé sú sem lýst sé. Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laganna skuli sveitarstjórn, þegar hún hafi gengið úr skugga um að framkvæmdin sé sú sama og lýst sé í matsskýrslu, taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Við töku ákvörðunarinnar hafi hins vegar ekki farið fram nein raunveruleg athugun á því hvort um sömu framkvæmd væri að ræða og farið hefði í gegnum mat á umhverfisáhrifum, hvað þá að rökstudd afstaða hafi verið tekin til þessa álitaefnis.

Fyrir liggi fordæmi Hæstaréttar Íslands um það að ekki skipti máli þótt framkvæmd sú sem sótt sé um sé minni að umfangi en sú sem metin hafi verið, sbr. dóm réttarins frá 9. júní 2005, mál nr. 20/2005. Túlka megi niðurstöðu dómsins þannig að sé búið að meta áhrif framkvæmdar á umhverfið sem síðan breytist áður en nokkurt leyfi hafi verið gefið út beri að framkvæma nýtt mat þótt margt megi nota úr eldra mati. Það mat sem fylgt hafi leyfisumsókn, sem og álit Skipulagsstofnunar frá 24. nóvember s.á., varði sameiginlegt mat á framkvæmdum fleiri aðila, Alcoa og Landsvirkjunar. Hætt hafi verið við álver á Bakka árið 2012 en ekki verði á neinn hátt séð að sveitarstjórnin hafi litið til þessa við þá könnun er henni hafi borið að gera í aðdraganda ákvörðunar sinnar. Hljóti framangreindar breytingar á fyrirætluðum framkvæmdum þó að hafa gefið sérstakt tilefni til sjálfstæðrar og vandaðrar könnunar á því hvort um sömu framkvæmd væri að ræða og mat á umhverfisáhrifum frá 2010 hafi lotið að. Af umræddri matsskýrslu, er sveitarstjórn hafi vísað til í ákvörðun sinni, megi glöggt ráða að um aðra framkvæmd sé að ræða en þá sem Landsnet hafi sótt um til sveitarstjórnar Norðurþings. Nægi í raun að lesa samantekt á fyrstu fimm síðum matsskýrslunnar til að sjá að svo sé. Þannig bendi ýmislegt til þess að þeim mannvirkjum sem framkvæmdaraðili hafi óskað leyfis fyrir sé ætlað annað hlutverk og séu annars eðlis en þær framkvæmdir er lagðar hafi verið til grundvallar við gerð áðurnefnds mats á umhverfisáhrifum frá 2010. Minni framkvæmd geti nú, sex árum eftir mat á umhverfisáhrifum hinnar fyrri, haft allt önnur umhverfisáhrif vegna þess að önnur tækni sé nú möguleg við þá raforkuflutninga sem um ræði. Þannig séu jarðstrengir nú mögulegur og raunhæfur valkostur fyrir þann raforkuflutning sem ráðgerður sé frá Kröflu og Þeistareykjum til Bakka. Séu þeir því valkostur í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006.

Kærandi bendi á að ekki sé hægt að líta svo á að hin kærða leyfisveiting sé framhald og lokaáfangi málsmeðferðarinnar sem fram hafi farið á árunum 2008 til og með 2010, í skilningi laga nr. 106/2000. Vísa megi til dóms Evrópudómstólsins í máli C-50/09 í samningsbrotamáli gegn Írlandi um þá túlkun tilskipunar 85/337/EBE, nú 2011/92/ESB, sem íslensku lögin séu innleiðing á, að málsmeðferð mats á umhverfisáhrifum ljúki með ákvörðun um leyfi. Þannig sé um málsmeðferð að ræða sem hefjist með tilkynningu um framkvæmd til Skipulagsstofnunar og ljúki þegar leyfisveitandi taki ákvörðun um að veita eða hafna leyfi. Ef þetta sé borið saman við málsmeðferð þessa máls ætti sú framkvæmd sem framkvæmdaraðili hafi tilkynnt Skipulagsstofnun um árið 2008 að hafa lokið með umsókn um framkvæmdaleyfi það sem kært hafi verið.

Af framangreindu að dæma hafi sveitarstjórn Þingeyjarsveitar haft ærna ástæðu til að kanna það alveg sérstaklega hvort hér væri í raun um sömu framkvæmdina að ræða. Auk þess hefði sveitarstjórn mátt vera kunnugt um að kærandi hafi lagt fram kröfu til Skipulagsstofnunar um að ákvörðun yrði tekin um nýtt mat á umhverfisáhrifum fyrir háspennulínur frá Kröflu að Bakka, með vísan til þess að um nýja framkvæmd væri að ræða. Kröfunni hefði hinsvegar verið vísað frá þar sem stofnunin hefði ekki talið kæranda eiga lögvarinna hagsmuna að gæta.

Í leyfisumsókn sé sagt að heildarefnisþörf vegna framkvæmdarinnar Þeistareykjalínu 1 sé 75.000 m³. Sé það til viðbótar 60.000 m³ fyrir Kröflulínu 4, eftir því sem næst verði komist. Segi í umsókn að efnistaka muni fara fram að einhverju leyti í nýjum námum og sé vísað til korts í viðauka, sem ekki sé sérstaklega vísað til í hinni kærðu ákvörðun. Ekkert mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram vegna þeirrar efnistöku sem fyrirhuguð sé vegna framkvæmdarinnar. Þó sé um að ræða nýjar námur og afar viðkvæmt svæði með hátt verndargildi. Verði því að ætla að umrætt magn efnistöku á þeim stað sem hér um ræði hefði þurft að tilkynna til Skipulagsstofnunar og óska ákvörðunar hennar um matsskyldu. Það hafi ekki verið gert.

Í umhverfisrétti gildi sú meginregla, mótuð af dómstólum, að lög um mat á umhverfisáhrifum skuli túlka rúmt og með hliðsjón af markmiðum þeirra. Eitt elsta fordæmi um þetta hafi Evrópudómstólinn sett með dómi sínum 24. október 1996 í máli C-72/95. Síðari dóma-framkvæmd Evrópudómstólsins á sviðinu sé einnig afdráttarlaus um að hafna beri öllum tilraunum til að þrengja gildissvið laga um mat á umhverfisáhrifum. Hafi sveitarstjórn Norðurþings borið við undirbúning ákvörðunar sinnar að taka mið af því markmiði umhverfislöggjafar og skýringarkostum hennar.

Í hinni kærðu ákvörðun sé vísað til samþykkts aðalskipulags Þingeyjarsveitar. Hinsvegar hafi ekki, áður en ákvörðunin hafi verið tekin, verið kannað hvort framkvæmdin sem sótt hafi verið um væri í samræmi við lögmæta og umhverfismetna framkvæmdaáætlun leyfishafa, þá einkum áætlun sem metin hefði verið 2014 eða 2015, kerfisáætlun 2014-2025 eða 2015-2026, en engar áætlanir fyrir þann tíma hefðu verið umhverfismetnar í samræmi við ákvæði laga nr. 105/2006. Þessi málsmeðferð stangist á við tilgang og meginmarkmið þeirra laga og laga nr. 106/2000 um að mat fari fram sem fyrst í ferlinu. Þá stangist þetta á við dómafordæmi Evrópudómstólsins, m.a. dóm í máli nr. C-295/10, um að mat á umhverfisáhrifum fram-kvæmdar geti ekki komið í stað umhverfismats áætlana og að síðargreinda matið skuli hafa farið fram í síðasta lagi samhliða mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar sjálfrar.

Umhverfismat áætlunar um raflínur, þ.e. kerfisáætlunar, hafi ekki í neinum skilningi farið fram áður en meint mat á umhverfisáhrifum vegna þeirrar framkvæmdar er hin kærða ákvörðun hafi heimilað hafi farið fram. Sömu sjónarmið komi fram í áfrýjuðum dómi héraðsdóms Reykjaness frá 22. júlí 2016 í máli landeigenda í Vogum gegn leyfishafa í máli nr. E-1121/2015. Þá sé bent á að íslenska ríkið hafi ekki innleitt ákvæði tilskipunar 2011/92/ESB um heimild til samþættingar umhverfismats áætlana og mats á umhverfis-áhrifum framkvæmdar og geti því ekki borið fyrir sig slíka heimild gagnvart borgurunum.

Leyfishafi telji að máli skipti að stjórnvöld hafi gert samning um ívilnanir til fyrirtækisins PCC vegna skatta og gjalda. Kærandi komi ekki auga á hvernig slík samningagerð eða önnur stefnumörkun hafi áhrif á skyldur sveitarfélagsins til þess að fara að lögum. Fyrir liggi opinberlega að rafmagn til PCC megi flytja með ýmsum hætti og hafi Alþingi m.a. samþykkt með þingsályktun stefnu um lagningu raflína sem styðjast beri við í því efni. Þar sé einmitt talað um að meta skuli jarðstrengjakost. Þá liggi fyrir að áætlanir 2010 hafi verið um tífalda raforkuflutninga miðað við það sem nú þurfi fyrirsjáanlega, svo vissulega séu önnur sjónarmið, m.a. lagaleg, sem taka þurfi til skoðunar en hafi verið fyrir sex árum.

Þingeyjarsveit sé eigandi jarðarinnar Þeistareykja. Á jörðinni vinni Landsvirkjun nú að smíði svokallaðrar Þeistareykjavirkjunar, jarðvarmavirkjunar, sem samkvæmt leyfi Orkustofnunar megi vera allt að 100 MW. Hin kærða leyfisveiting sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar sé vegna framkvæmda innan jarðarinnar Þeistareykja. Vegna þessa leiki verulegur vafi á um hæfi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar við töku hinnar kærðu ákvörðunar, sbr. m.a. tilskipun 2014/52/ESB, sem sé bindandi fyrir íslenska ríkið, og reglur stjórnsýslulaga. Þannig hafi sveitarfélagið beina fjárhagslega hagsmuni annars vegar vegna þess að ætla megi að það hafi tekjur af nýtingu Landsvirkjunar á jarðhita í landi sem sé þinglýst eign sveitarfélagsins en ekki síður vegna þess að leyfishafi í máli þessu hafi, samkvæmt því sem fram hafi komið undir rekstri kærumálsins, þegar greitt landeigendum fyrir afnot lands vegna loftlínanna. Hljóti þessir fjárhagslegu og verulegu hagsmunir sveitarfélagsins sem landeiganda að varpa talsverðum vafa á hlutleysi þess við ákvarðanir er tengist þeim framkvæmdum sem um ræði.

Málsrök Þingeyjarsveitar: Þingeyjarsveit krefst þess að kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarfélagsins verði hafnað. Á vegum sveitarfélagsins og stjórnvalda á sviði umhverfis- og skipulagsmála hafi verið fjallað um forsendur og skilyrði að baki fram-kvæmdinni Þeistareykjalínu 1 með ýmsum hætti á undanförnum 20 árum. Við þá umfjöllun hafi verndargildi einstakra svæða innan sveitarfélagsins verið til umfjöllunar og gætt að öðrum heimildum eins og við hafi átt.

Útgáfa framkvæmdaleyfis vegna matsskyldra framkvæmda hvíli á 13. og 14. gr. skipulagsslaga nr. 123/2010 og skoðist ákvæðin sem sérákvæði. Þingeyjarsveit vísi til 13. gr. sem fjalli um framkvæmdaleyfi almennt. Hluti 13. gr., eins og henni hafi verið breytt með lögum nr. 109/2015, skoðist sem yngri lög gagnvart náttúruverndarlögum nr. 60/2013.

Kærandi vísi til þess að ákvæði náttúruverndarlaga hafi verið brotin. Óljóst sé að lögin hafi þá þýðingu í málinu vegna framkvæmdaleyfis sem kærandi byggi á. Í 91. gr. laganna sé fjallað um ágreining um framkvæmd þeirra. Þar sé gert ráð fyrir að tilteknar ákvarðanir Umhverfisstofnunar séu kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og að aðrar ákvarðanir skuli kærðar til ráðherra, sem fari með yfirstjórn náttúruverndarmála skv. 13. gr. laganna. Í máli því sem nú sé til meðferðar falli það utan heimilda úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að fjalla um málsástæður kæranda sem varði framkvæmd náttúruverndarlaga.

Kærandi vísi einnig til 13. gr. skipulagslaga, sbr. lög nr. 109/2015. Breytingarnar séu hluti af lagabreytingum sem gerðar hafi verið samhliða breytingum á náttúruverndarlögum. Þar segi að ef óvissa sé um hvort fyrirhugaðar framkvæmdir hafi alvarleg eða óafturkræf áhrif á tiltekin vistkerfi og jarðminjar, sem njóti sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga um náttúruvernd eða minjar sem skráðar séu á C-hluta náttúruminjaskrár skv. 37. gr. sömu laga, skuli umsækjandi um framkvæmdaleyfi afla sérfræðiálits um möguleg og veruleg áhrif á þau vistkerfi eða jarðminjar. Sveitarstjórn sé heimilt að binda framkvæmdaleyfi skilyrðum sem þyki nauðsynleg til að draga úr slíkum áhrifum. Við mat á því hvað teljist alvarleg eða óafturkræf áhrif skuli taka mið af verndarmarkmiðum 2. og 3. gr., sbr. 9. gr. laga um náttúruvernd.

Ákvæði 13. gr. skipulagslaga sé sérregla um framkvæmdaleyfi sem gangi framar eldri lagaákvæðum náttúruverndarlaga, sem feli í sér óljósar kröfur um frekara umsagnarferli. Við umfjöllun Þingeyjarsveitar um umsókn um framkvæmdaleyfi hafi ekki verið til staðar óvissa um framkvæmdina. Áhrif framkvæmdarinnar hafi verið vel þekkt eftir mat á umhverfisáhrifum. Þess skuli einnig getið að umsagnir fagstofnana um mögulega lagnaleið hafi farið fram a.m.k. fjórum sinnum. Fyrst hafi verið framkvæmt mat við gerð svæðisskipulags fyrir háhitasvæði í Þingeyjarsýslum á árinu 2007, í annað sinn við gerð Aðalskipulags Þingeyjarsveitar 2010-2022, síðan við málsmeðferð deiliskipulags vegna Þeistareykjavirkjunar og loks við mat á umhverfisáhrifum. Þá sé framkvæmdin hluti af öðrum áætlunum sem viðkomandi stofnanir hafi veitt umsagnir um, t.d. kerfisáætlun Landsnets. Það sé mistúlkun á lögum að telja að sömu aðilarnir ættu að veita umsagnir í fimmta eða sjötta skiptið.

Málsástæður kæranda um að ekki hafi verið fylgt ákvæðum náttúruverndarlaga standist ekki. Þeistareykir séu á náttúruminjaskrá og um svæði á C-hluta náttúruminjaskrár gildi 37. gr. náttúruverndarlaga, sbr. m.a. síðari hluti 3. mgr. þar sem fram komi að áður en leyfi sé veitt skuli leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og viðkomandi náttúruverndarnefndar nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag þar sem umsagnir skv. 1. og 2. mgr. 68. gr. liggi fyrir. Við afgreiðslu umsókna um leyfi skuli gæta ákvæða 4.-6. mgr. 61. gr.

Aðalskipulag Þingeyjarsveitar 2010-2022 hafi verið staðfest 20. júní 2011. Þar sé fjallað um framkvæmdina og landnotkun innan sveitarfélagsins vegna hennar skilgreind. Í aðal-skipulaginu sé vísað sérstaklega til svæðisskipulags háhitasvæða í Þingeyjarsýslum. Þá hafi verið samþykkt deiliskipulag vegna Þeistareykjavirkjunar, er birt hafi verið í B-deild Stjórnar-tíðinda 27. apríl 2012. Deiliskipulagið taki til skipulagssvæðis umhverfis Þeistareykjavirkjun og sé þar gerð grein fyrir Þeistareykjalínu 1 og legu hennar, að því marki sem hún liggi innan deiliskipulagssvæðisins, sem sé 76,5 km² að stærð. Að því marki sem Þeistareykjalína 1 liggi innan Þingeyjarsveitar á hverfisverndarsvæði sé sá hluti innan nefnds deiliskipulagssvæðis.

Athugasemdir kæranda feli að verulegu leyti í sér upptalningu á upplýsingum um stöðu Þeistareykja, og annarra svæða sem kærandi vísi til, gagnvart náttúruverndarlögum og verndargildi þeirra. Að verulegu leyti hafi þær upplýsingar og greining á þeim einmitt orðið til í undanfarandi málsmeðferð vegna svæðisskipulags háhitasvæða í Þingeyjarsýslum, við gerð aðalskipulags Þingeyjarsveitar, deiliskipulags fyrir Þeistareykjasvæði og mats á umhverfis-áhrifum framkvæmda á svæðinu, auk rannsókna tengdum nýtingu og mannvirkjagerð.

Ekki hafi verið óskað eftir umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands við meðferð sveitarfélagsins á umsókn um hið kærða leyfi. Þá hafi ekki heldur verið óskað eftir slíkum umsögnum við gerð aðalskipulags eða deiliskipulags. Á það sé bent að svæði við Þeistareyki nr. 533 á náttúruminjaskrá sjáist m.a. á skipulagsuppdrætti deiliskipulags við Þeistareyki, en umsótt framkvæmd feli ekki í sér framkvæmdir innan þess svæðis. Sé einnig vísað til myndar 3.4. í greinargerð skipulagsins og umsagnar Umhverfisstofnunar sem fylgi greinargerð skipulagsins, en þar komi fram að borsvæði sé á náttúruminjasvæðinu. Borsvæðið tengist hins vegar ekki framkvæmd Landsnets. Þá sé bent á umsögn náttúruverndarnefndar Þingeyinga.

Kærandi byggi á því að 14. gr. skipulagslaga hafi ekki verið fylgt við ákvörðun Þingeyjar-sveitar en einkum hafi þar vantað upp á rannsókn sveitarfélagsins, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Með umsókn Landsnets hafi fylgt ítarleg lýsing framkvæmdar en þar komi m.a. fram að um sé að ræða eina háspennulínu í stað tveggja, sbr. mat á umhverfisáhrifum frá árinu 2010. Ekki sé með nokkrum hætti um að ræða eðlismun á framkvæmdum, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 20/2005, þar sem meginrök fyrir niðurstöðu hafi hvílt á því að nýr framkvæmdaraðili hafi að einhverju leyti ætlað að nota aðra tækni við framleiðslu en sá er áður hafði unnið að mati á umhverfisáhrifum vegna umfangsmeiri framleiðslu.

Með því að staðfesta tillögu skipulags- og umhverfisnefndar frá 9. júní 2016 á fundi sínum 13. s.m. hafi sveitarstjórn tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar. Það hafi hún gert m.a. með bókun sinni um að framkvæmd félli að áliti stofnunarinnar og að fyrir lægi að ekki væri fyrirhugað að reisa álver á Bakka. Bókunin hafi vísað til þess að framkvæmdin, eins og henni hafi verið lýst í fyrirliggjandi umsókn leyfishafa, teldist falla undir þá framkvæmd sem mat á umhverfisáhrifum hafi varðað og lagt hafi verið til að framkvæmdaleyfi yrði veitt. Sveitarfélagið geti ekki fallist á þau rök kæranda að það hafi kallað á frekari umfjöllun, hvað þá að ástæða hafi verið til að hafna umsókn um framkvæmdaleyfi, að leyfisumsóknin lýsi umfangsminni framkvæmd en matið hafi tekið til. Slík niðurstaða væri í hæsta máta órökrétt.

Það sé Skipulagsstofnunar að endurskoða matsskýrslu, sbr. 12. gr. laga nr. 106/2000, en ekki sveitarfélags sem veiti framkvæmdaleyfi. Bent sé á að Skipulagsstofnun hafi veitt álit vegna mats á umhverfisáhrifum kísilverksmiðju PCC á Bakka við Húsavík. Þá hafi kærandi krafist endurskoðunar matsins, sbr. ákvarðanir um endurskoðun umhverfismats dags. 31. ágúst 2015 og 8. september s.á. Skipulagsstofnun hafi ekki séð ástæðu til að endurskoða matsskýrslu.

Vísað sé til þess í kæru að deiliskipulag fyrir framkvæmdinni hafi ekki legið fyrir, andstætt ákvæðum skipulagslaga og náttúruverndarlaga. Þingeyjarsveit árétti að náttúruverndarlög fjalli ekki um kröfur til gerðar deiliskipulags. Um helmingur framkvæmdarinnar sé þó innan deiliskipulagðs svæðis. Í samræmi við 5. mgr. 13. skipulagslaga sé ekki fortakslaus skylda um að deiliskipulag liggi fyrir við útgáfu framkvæmdaleyfis. Þá sé ekki fortakslaus skylda til þess að grenndarkynning fari fram, enda sé gerð grein fyrir framkvæmd í aðalskipulagi og ítarlega fjallað um hana þar.

Því sé hafnað að sveitarfélagið hafi ekki uppfyllt kröfur rannsóknarreglu við útgáfu framkvæmdaleyfis. Umfjöllun um framkvæmdina hafi verið inni á borði skipulagsnefndar með ýmsum hætti á undanförnum árum, m.a. við samþykkt aðalskipulags Þingeyjarsveitar á árinu 2011 og á kynningarfundum áður en framkvæmdaleyfisumsókn hafi komið til með-ferðar. Með umsókn leyfishafa fylgi lýsing framkvæmdarinnar. Þingeyjarsveit hafi tekið rökstudda afstöðu til málsins með þeim hætti sem nægjanlegt hafi verið, enda bersýnilegt að framkvæmdin væri nánast helmingun á þeirri framkvæmd sem hefði verið metin. Þetta hefði ekki kallað á ítarlegri rökstudda afstöðu en hreppurinn hefði bókað um. Það sé í grundvallar-atriðum jákvætt ef framkvæmdaraðili geti minnkað umfang framkvæmdar sem mat á  umhverfisáhrifum hafi verið gert fyrir, sérstaklega ef álit Skipulagsstofnunar feli í sér að framkvæmd hafi í för með sér mikil umhverfisáhrif og þar lagðar til mótvægisaðgerðir. Ekki verði séð að lagarök standi til þess að nýtt mat á umhverfisáhrifum þurfi að fara fram við slíkar aðstæður, enda sé eðli framkvæmdarinnar hið sama. Ekki sé þáttur í rannsóknarskyldu sveitarfélags að endurskoða framkvæmd mats á umhverfisáhrifum en málsástæður kæranda lúti í raun að því.

Loks sé sveitarfélögum falið vald að íslenskum lögum til að fjalla um framkvæmdaleyfis-umsóknir og sæti það ekki takmörkunum vegna hagsmuna sveitarfélagsins, beinna eða óbeinna. Ábyrgð sveitarfélags og fjárhagslegir hagsmunir séu verulegir við framkvæmd skipulagsvalds, enda felist í því ákvarðanir um þróun byggðar og landnotkunar innan alls sveitarfélagsins. Við skipulagningu atvinnulóða á landi sveitarfélags, lóðaúthlutun og afgreiðslu byggingarleyfa síðar geti sveitarfélag átt rétt til tug- eða hundruð milljóna lóðagreiðslna og lóðarleigu í kjölfarið. Kærandi vísi til tilskipunar 2014/52/ESB sem vísi til þeirrar stöðu þegar lögbært stjórnvald sé jafnframt framkvæmdaraðili, en um það sé ekki að ræða í þessu tilviki.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi gerir þær athugasemdir við framkomna kæru að dregin sé upp röng mynd af málinu. Umrædd framkvæmd hafi sætt vönduðum undirbúningi sem staðið hafi í um áratug og farið eftir öllum lögboðnum ferlum. Þannig sé byggt á staðfestu Svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025, sem unnið hafi verið í samræmi við ákvæði laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006. Auk þessa sé framkvæmdin í samræmi við staðfest aðalskipulag þeirra sveitarfélaga sem hlut eigi að máli og sé þessa vandlega getið í Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022. Þá hafi framkvæmdin sætt sjálf-stæðu mati á umhverfisáhrifum á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, auk sameiginlegs mats með öðrum tengdum framkvæmdum, sbr. tvö álit Skipulagsstofnunar, dags. 24. nóvember 2010. Loks hafi Orkustofnun samþykkt kerfisáætlun Landsnets þar sem m.a. sé fjallað um áformaðar framkvæmdir leyfishafa. Þessir ferlar skapi öllum rétt til að koma ítrekað á framfæri athugasemdum við fyrirhugaðar framkvæmdir. Kærandi hafi ekki nýtt sér þennan lögbundna rétt sinn heldur komið með athugasemdir sínar eftir að samráðs-ferlum hafi verið lokið. Með þessu hafi þeir sýnt af sér tómlæti sem ekki verði litið framhjá í málinu.

Framkvæmdin sé m.a. tilkomin vegna opinberrar stefnumörkunar stjórnvalda um upp-byggingu iðnaðar með nýtingu virkjunarkosta á svæðinu, en fyrir liggi m.a. viljayfirlýsingar stjórnvalda og opinberar áætlanir um aðkomu að framkvæmdum tengdum iðnaðarsvæðinu á Bakka. Þannig sé í stefnumótandi byggðaáætlun og lögum nr. 41/2013 um heimild til handa ráðherra, f.h. ríkissjóðs, til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi, kveðið á um stuðning og heimildir til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi á svæðinu. Með hliðsjón af lagaskyldum sínum samkvæmt raforkulögum nr. 65/2003, til að tengja alla þá sem eftir því leita, hafi leyfishafi m.a. gengið frá samningum við annars vegar Landsvirkjun um tengingu Þeistareykjavirkjunar og hins vegar PCC vegna flutnings raforku til verksmiðju félagsins að iðnaðarsvæðinu á Bakka. Þessir aðilar eigi verulegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta af framkvæmdunum. Þjónusta við starf-semi þessara aðila sé einnig grundvöllur að uppbyggingu innviða á svæðinu og því gildi það sama um stjórnvöld sem tengist innviðauppbyggingunni fjárhagslega. Ekki verði séð að þeim hafi verið gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri eða gæta hagsmuna sinna.

Í lögum nr. 75/2004 um stofnun Landsnets sé kveðið á um að hlutverk félagsins sé að annast flutning raforku og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga. Í raforkulögum sé m.a. kveðið á um að flutningsfyrirtækið skuli byggja flutningskerfið upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, gæða raforku og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Fyrirtækið hafi eitt heimild til að reisa ný flutningsvirki en því beri að tengja alla þá sem eftir því sækist við flutningskerfið enda uppfylli þeir tæknileg skilyrði fyrir því.

Í ársbyrjun 2007 hafi samvinnunefnd um svæðisskipulag háhitasvæða í Þingeyjarsýslum hafið störf og hafi fulltrúar frá orkufyrirtækjum verið henni til ráðgjafar. Hafi svæðisskipulagið verið unnið með hliðsjón af þá nýjum lögum nr. 105/2006. Eftir að skipulagskostir hafi verið skilgreindir hafi verið lagt mat á umhverfisáhrif þeirra. Samvinnunefndin hafi síðan mótað skipulagsdrög á grundvelli þess mats. Svæðisskipulag háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025 hafi verið staðfest af umhverfisráðherra 16. janúar 2008 en í skipulaginu séu afmörkuð landsvæði fyrir flutningslínur. Hafi verið unnið samkvæmt nefndu svæðisskipulagi síðan.

Framkvæmdir samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi hafi hlotið umfjöllun í samræmi við ákvæði laga nr. 106/2000. Sameiginlegt mat hafi farið fram á umhverfisáhrifum vegna álvers á Bakka, Þeistareykjavirkjunar, stækkunar Kröfluvirkjunar og háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík. Skipulagsstofnun hafi birt álit sitt á matsskýrslum í nóvember 2010, annars vegar á mati á umhverfisáhrifum álsvers á Bakka, háspennulína og virkjana við Kröflu og á Þeistareykjum og hins vegar mati á 220 kV háspennulínum frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík, Skútustaðahreppi, Aðaldælahreppi, Þingeyjarsveit og Norðurþingi. Þannig hafi framkvæmdir leyfishafa sætt bæði sameiginlegu mati með öðrum framkvæmdum og sjálfstæðu mati á umhverfisáhrifum framkvæmda leyfishafa einna og sér. Framkvæmdaáform leyfishafa hafi ekki breyst að neinu ráði frá mati á umhverfisáhrifum. Þær óverulegu breytingar sem fyrirhugaðar séu hafi verið tilkynntar Skipulagsstofnun sem hafi fjallað um þær í samræmi við ákvæði laga nr. 106/2000. Því hafi dómur Hæstaréttar í máli nr. 20/2005, sem kærandi vísi til, ekkert fordæmisgildi varðandi framkvæmdir leyfishafa sem hér séu til umfjöllunar.

Um áfangaskipta framkvæmd sé að ræða, eins og fram komi í áliti Skipulagsstofnunar frá 24. nóvember 2010. Þær framkvæmdir sem komi til framkvæmda í þessum áfanga séu háspennu-línur sem í mati á umhverfisáhrifum hafi verið tilgreindar sem Hólasandslína 2, Kröflulína 4 og Þeistareykjalína 1. Þar til tengivirki verði reist á Hólasandi teljist Hólasandslína 2 hluti af Kröflulínu 4 og því ekki tilgreind sérstaklega. Fyrirhugaðar framkvæmdir séu í fullu samræmi við þá áfangaskiptingu sem gerð hafi verið grein fyrir í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdanna. Hvað varði efnistöku og slóðagerð hafi verið fjallað um þau atriði í mati á umhverfisáhrifum.

Í apríl 2016 hafi Orkustofnun samþykkt kerfisáætlun Landsnets 2015-2024 í samræmi við ákvæði raforkulaga. Sé það niðurstaða stofnunarinnar að framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar uppfylli skilyrði 9. gr. a og b laganna. Nánar tiltekið komi fram í ákvörðuninni að stofnunin hafi metið allar framkvæmdir framkvæmdaáætlunarinnar með hliðsjón af markmiðum um öryggi, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæði raforku og sé það mat stofnunarinnar að framkvæmdir áætlunarinnar uppfylli nefnd markmið raforkulaga. Í köflum 5.2.2 og 5.2.3 í framkvæmdaáætluninni sé fjallað um línur vegna afhendingastaðar á Bakka og tengingar Þeistareykjavirkjunar við flutningskerfi. Kerfisáætlun Landsnets hafi hlotið umfjöllun í samræmi við lög nr. 105/2006.

Kærandi haldi því fram að við meðferð málsins hafi verið brotið gegn 3. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013 og sveitarstjórn Þingeyjarsveitar hafi borið, áður en leyfið yrði veitt, að leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og viðkomandi náttúruverndarnefndar, enda liggi ekki fyrir samþykkt deiliskipulag um Þeistareykjalínu 1.

Þessum skilningi sé alfarið mótmælt. Náttúruverndarlög hafi tekið gildi 15. nóvember 2015 en matsferli lögboðins mats á umhverfisáhrifum hafi lokið fyrir gildistöku laganna. Skipulags-breytingum hafi einnig verið lokið í gildistíð eldri laga. Umsagnarferli hafi því verið lokið áður en nýju lögin hafi tekið gildi. Með þeim breytingum sem gerðar hefðu verið á verndar-ákvæði eldri náttúruverndarlaga, með 61. gr. laga nr. 60/2013, sbr. lög nr. 109/2015, hafi tilgangurinn verið að kveða á um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja. Lögskýringargögn séu þó ekki skýr en ljóst sé af 3. mgr. 61. gr. laganna að öðru fremur sé átt við framkvæmdir sem ekki séu háðar mati á umhverfisáhrifum, enda hafi framkvæmdir sem háðar séu mati farið í gegnum hið sérstaka matsferli þar sem umsagna sé aflað. Þá sé ljóst að löggjafinn hafi ekki ætlast til þess að um tvíverknað yrði að ræða, enda beri ekki að afla umsagna ef þær hafi legið fyrir við skipulagsákvarðanir.

Framkvæmdin sé í samræmi við aðalskipulag Þingeyjarsveitar og hafi Umhverfisstofnun skilað umsögn við þá skipulagstillögu 22. október 2010. Tekin hafi verið afstaða til umsagnanna við afgreiðslu aðalskipulagsins. Þá hafi Umhverfisstofnun skilað umsögn um helstu forsendur og verkefnislýsingu í deiliskipulagi Þeistareykjavirkjunar 6. september 2011 og um deiliskipulag Þeistareykjavirkjunar 31. janúar 2012. Þannig liggi fyrir skipulags-ákvarðanir og umsagnir. Þess megi og geta að í umsögn Umhverfisstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegna lagningar háspennulína frá virkjunum í Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík frá 29. júní 2010 hafi verið talið að lagning háspennulína frá virkjununum myndi ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif þótt neikvæð áhrif væru á Leirhnjúkshraun og sjónræn áhrif á Þeistareyki og Hlíðarfjall. Stofnunin hafi lagt áherslu á að hverasvæðinu Hitur yrði ekki raskað. Eftir þessu fari leyfishafi.

Ákvæði 61. gr. náttúruverndarlaga lýsi nokkurskonar umhverfismatsferli ef framkvæmd varði svæði sem njóti sérstakrar verndar. Á skorti að lögin taki af tvímæli um hvernig fara skuli með framkvæmdir sem háðar séu mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000 og framkvæmdaleyfi skv. skipulagslögum en telja verði rétt að túlka 14. gr. þeirra laga sem sérlög gagnvart náttúruverndarlögum um útgáfu framkvæmdaleyfis vegna matsskyldra framkvæmda, ella yrði um tvíverknað að ræða. Landsnet telji að túlka verði lögin sem svo að útgáfa framkvæmdaleyfis fari að ákvæðum skipulagslaga, sbr. lög nr. 106/2000, en ákvæði 61. gr. náttúruverndarlaga áskilji ekki enn einn umsagnarferilinn. Sú túlkun sem kærandi haldi fram fái ekki staðist.

Áform PCC samkvæmt mati á umhverfisáhrifum séu að reisa verksmiðju sem síðar verði tvöfölduð í afkastagetu. Þegar af þeim sökum sé ekki unnt við uppbyggingu flutningskerfisins að miða þörfina eingöngu við raforkuþörf verksmiðjunnar í fyrsta áfanga. Það sé ekki sveitar-stjórnar að meta hvort þörf sé á þeim framkvæmdum sem framkvæmdaleyfi snúi að. Þá sé það ekki hlutverk sveitarstjórnar að skoða aðra leiðarvalskosti og bera saman við þá framkvæmd sem sótt sé um leyfi fyrir, enda hafi sveitarstjórn átt að koma að leiðarvali við gerð svæðis-skipulagsins. Fyrir liggi stefna stjórnvalda um frekari iðnaðaruppbyggingu að Bakka. Iðnaðarsvæðið sé rúmir 200 ha en lóð undir verksmiðju PCC sé eingöngu 20 ha. Leyfishafa beri að taka tillit til þessa við uppbyggingu flutningskerfisins, bæði vegna umhverfis- og hagkvæmnisjónarmiða.

Í kæru sé því haldið fram að sveitarstjórn hafi borið að kanna sjálfstætt skilmála útboðsgagna í tengslum við gerð slóða og plana. Þá sé því haldið fram að eins og málið hafi legið við sveitarstjórn hafi hún ekki haft neinar upplýsingar um útboðsskilmála. Engin skylda hvíli á sveitarstjórn til þess að kanna og/eða meta einstaka útboð leyfishafa, enda sé þess hvergi getið í lögum.

Með vísan til þeirra skipulagsáætlana sem liggi fyrir og þeirrar vinnu sem unnin hafi verið í aðdraganda leyfisveitingarinnar, og áður hefur verið rakin, ríki engin óvissa um verndargildi einstakra hluta framkvæmdasvæðisins. Málsmeðferðin öll einmitt snúist um greiningu á verndargildi og aðlögun fyrirkomulags mannvirkjagerðar með tilliti til þess. Vísað sé til matsskýrslu um háspennulínur en þar komi m.a. fram hvernig tekið hafi verið tillit til landslagsheilda við staursetningu. Staðsetning Þeistareykjavirkjunar sé takmarkandi þáttur í vali á línuleið, eins og gefi að skilja. Umhverfisáhrif hafi verið metin og eftir því sé unnið. Framkvæmdaleyfisumsóknin sé í samræmi við heimildir sem ákvörðun sveitarfélagsins byggist á.

Leyfishafi telji ljóst að málsmeðferð sveitarstjórnar og rökstudd afstaða hennar hafi verið til samræmis við þær kröfur sem gerðar séu í 2. mgr. 14. gr. Auk þess hafi verið gætt ákvæða sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við málsmeðferðina. Í bókun skipulags- og umhverfisnefndar í fundargerð, dags. 9. júní 2016, komi fram að nefndin hafi kynnt sér matsskýrslu framkvæmdarinnar og álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfis-áhrifum vegna framkvæmdarinnar. Þá komi fram að einnig hafi komið til skoðunar álit Skipulagsstofnunar vegna sameiginlegs mats álvers á Bakka, háspennulína, virkjana í Kröflu og á Þeistareykjum. Segi í bókun að nefndin taki undir álit Skipulagsstofnunar, m.a. um skilyrði leyfisveitingar, og vísi sérstaklega til stefnu Þingeyjarsveitar samkvæmt aðalskipulagi. Með vísan til framangreindrar bókunar sé ljóst að nefndin hafi kynnt sér hlutaðeigandi gögn og hafi komist að rökstuddri niðurstöðu í framhaldi þess, líkt og áskilið sé í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga. Einnig hafi komið fram í bókun að nefndin hafi fjallað um skilyrði 13. gr. skipulagslaga og hafi hún komist að rökstuddri niðurstöðu þess efnis að þau skilyrði væru uppfyllt.

Á fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar 13. júní s.á. hafi verið fjallað um framangreinda fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar. Í fundargerð sveitarstjórnar komi fram að nefndin hafi fjallað um fyrirliggjandi framkvæmdaleyfisumsókn og að í bókun hennar komi fram rökstudd afstaða um umsókn leyfishafa vegna framkvæmdaleyfis fyrir Kröflulínu 4 og tillaga um afgreiðslu málsins. Hafi það verið niðurstaða sveitarstjórnar að samþykkja umsókn leyfishafa og staðfesta bókun skipulags- og umhverfisnefndar.

Sé ljóst að framangreind málsmeðferð sé til samræmis við þær lögbundnu kröfur sem gerðar séu til málsmeðferðar sveitarstjórna við veitingu framkvæmdaleyfa, sem mælt sé fyrir um í 13. og 14 gr. skipulagslaga og þær kröfur sem gerðar séu um vandaða málsmeðferð, sbr. stjórnsýslulög, einkum 10. gr. laganna.

Þá sé rétt að taka fram að ekki verði gerð sú krafa að skipulags- og umhverfisnefnd reifi í fundargerð sinni niðurstöðu Skipulagsstofnunar og/eða endursegi það sem fram komi í áliti stofnunarinnar, heldur verði að teljast fullnægjandi að nefndin bóki um að tekið sé undir álit stofnunarinnar. Sé því ljóst að fyrirliggjandi sé rökstudd afstaða sveitarstjórnar til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sbr. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga.

Leyfishafi mótmæli því að dómar Evrópudómstólsins, sem kærandi vísi til, eigi við í málinu. Einnig bendi hann á að tilskipanir Evrópusambandsins hafi ekki bein réttaráhrif að íslenskum rétti, eins og megi ráða af kæru. Úrskurðarnefndinni beri fyrst og fremst að beita íslenskum lögum, skýrðum eftir viðurkenndum lögskýringaraðferðum.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en tekið hefur verið mið af þeim við úrlausn málsins.

Með hliðsjón af því að fyrir úrskurðarnefndinni liggja mjög ítarleg gögn, m.a. uppdrættir og myndir, tölvugerðar sem og ljósmyndir, var ekki talið tilefni til að nefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi við úrlausn máls þessa.

Niðurstaða: Kröflulína 4 mun liggja í tveimur sveitarfélögum, Þingeyjarsveit og Skútustaða-hreppi. Kærð er ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar um að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu þess hluta Kröflulínu 4 sem fyrirhugað er að leggja innan sveitarfélagsins. Hin kærða ákvörðun lá fyrir 13. júní 2016, en undirbúningur framkvæmda vegna uppbyggingar iðnaðar á Bakka hefur staðið yfir í ríflegan áratug. Sem hluti af þeim undirbúningi fór fram mat á umhverfisáhrifum háspennulína, þ. á m. Þeistareykjalínu 1 sem og Kröflulínu 4 og Hólasandslínu 2 sem nú ganga undir samheitinu Kröflulína 4. Þá voru áhrif háspennulínanna einnig metin sameiginlega með öðrum fyrirhuguðum framkvæmdum vegna uppbyggingar á Bakka. Álit Skipulagsstofnunar vegna þessa lágu fyrir 24. nóvember 2010 og svo sem greinir í málavaxtalýsingu var niðurstaða hennar að framkvæmdunum fylgdu um margt verulega neikvæð óafturkræf áhrif á umhverfið.

Um veitingu framkvæmdaleyfis, málsmeðferð og skilyrði er fjallað í skipulagslögum nr. 123/2010. Þannig gildir 13. gr. almennt um framkvæmdaleyfi en að auki kemur til kasta 14. gr. þegar um framkvæmdaleyfi vegna matsskyldra framkvæmda er að ræða, en svo háttar hér. Er ljóst af ákvæðum laganna að vald til veitinga framkvæmdaleyfa liggur hjá viðkomandi sveitarstjórn að því gefnu að ákveðin málsmeðferð hafi átt sér stað og að uppfylltum skilyrðum sem nánar eru tilgreind í þeim lögum sem í gildi eru við ákvörðunartöku. Miðar framangreint að því að sveitarstjórn taki ákvörðun um veitingu leyfis á traustum grunni og líkt og endranær verða að búa að þar að baki lögmæt og málefnaleg sjónarmið. Þau lög sem líta verður til auk skipulagslaga eru einkum lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana og náttúruverndarlög nr. 60/2013. Þá hvílir á leyfis-veitanda ávallt sú skylda að gæta að ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður nú fjallað um hvort skilyrðum til veitingar framkvæmdaleyfis hafi verið fullnægt í máli því sem hér er til úrlausnar.

Birting auglýsingar um framkvæmdaleyfi.

Ákvörðun sveitarstjórnar um útgáfu framkvæmdaleyfis vegna matsskyldra framkvæmda og niðurstaða álits Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum skulu birtar með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu og dagblaði sem gefið er út á landsvísu, sbr. 4. mgr. 14. gr. skipulagslaga. Auglýsing um hið kærða framkvæmdaleyfi var birt í Morgunblaðinu 15. júní 2016 en hún mun ekki hafa verið birt í Lögbirtingablaðinu þrátt fyrir framangreind lagafyrirmæli. Tilgangur auglýsingar með lögákveðnum hætti er einkum að upplýsa almenning um að ákveðinni málsmeðferð sé lokið og gefa honum kost á að kynna sér forsendur þar að baki. Jafnframt skal auglýsing veita upplýsingar um kæruheimild og kærufresti. Ekki verður þó fjallað um greindan annmarka frekar hér þar sem vangá sveitarfélagins hafði ekki í för með sér réttarspjöll gagnvart kæranda, enda kom hann að kæru í málinu með réttum hætti og innan tilskilinna fresta.

Umhverfismat áætlana.

Með úrskurðum, uppkveðnum 10. október 2016 í máli nr. 46/2016 og 17. október 2016  í máli nr. 54/2016, tiltók úrskurðarnefndin í niðurstöðum sínum að umhverfismat áætlana hefði farið fram á kerfisáætlunum Landsnets 2014-2023 og 2015-2024. Greindar áætlanir hafa að geyma framkvæmdaáætlun til þriggja ára þar sem m.a. er greint frá því að til standi að reisa 220 kV línu milli Þeistareykja og Bakka og frá Þeistareykjum að Kröflu. Eins og á stóð hafnaði nefndin því að líta á það sem annmarka að umhverfismat kerfisáætlunar hefði farið fram eftir að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar lá fyrir. Verða þær niðurstöður lagðar til grundvallar í þessu máli, enda eru málsatvik hvað þetta varðar þau sömu og í nefndum málum.

Hæfi til töku ákvörðunar.

Í máli þessu háttar svo til að sveitarstjórn Þingeyjarsveitar tók hina kærðu ákvörðun, en sveitarfélagið er jafnframt eigandi jarðarinnar Þeistareykja sem Þeistareykjalína 1 mun liggja um að hluta. Fyrir liggur að samningur um uppgjör fébóta vegna kvaðar sem hlýst af lagningu háspennulína hefur verið gerður milli Landsnets sem framkvæmdaraðila og Þingeyjarsveitar sem landeiganda og munu greiðslur hafa farið fram. Í samningnum kemur fram að Landsnet ákveði hvenær framkvæmdir muni hefjast.

Í 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er fjallað um almennar skyldur sveitarfélaga. Í 1. mgr. ákvæðisins er tekið fram að sveitarfélögum sé skylt að annast þau verkefni sem þeim eru falin í lögum. Svo hefur t.d. verið gert í skipulagslögum nr. 123/2010, sbr. 13. og 14. gr. þeirra um veitingu framkvæmdaleyfis. Sveitarstjórnarlög gera jafnframt ráð fyrir því að sveitarfélög eigi eignir og hefur sveitarstjórn ákvörðunarvald um ráðstöfun þeirra, sbr. t.a.m. 2. mgr. 8. gr. og 6. tl. 1. mgr. 58. gr. laganna. Löggjafinn hefur þannig falið sveitarstjórn ákveðið vald að lögum sem getur falið í sér töku ákvarðana með ýmsum hætti og að teknu tilliti til ólíkra sjónarmiða, en ávallt samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga og annarra laga, sbr. 1. mgr. 8. gr. sveitarstjórnarlaga. Fyrir liggur að sveitarstjórn bar að taka umsókn um framkvæmdaleyfi til meðferðar á grundvelli skipulagslaga og að hún var til þess bær að ráðstafa landréttindum sínum. Er og ljóst að líta verður á ákvæði nefnds samnings þess efnis að framkvæmdaraðili ákvæði hvenær framkvæmdir myndu hefjast í samhengi við þau fyrirmæli skipulagslaga að framkvæmdir megi ekki hefjast fyrr en að útgefnu framkvæmdaleyfi. Þá mæla lögin fyrir um ákveðna málsmeðferð slíkrar leyfisveitingar sem ekki verður vikið frá með samningi og verður að skilja nefnt samningsákvæði í því samhengi.

Þá hefur það ekki þýðingu í máli þessu hvaða sveitarstjórnarmenn tóku þátt í töku ákvörðunar um hina kærðu leyfisveitingu annars vegar eða stóðu að gerð nefnds samnings hins vegar, enda er það hlutverk sveitarstjórnar sem fjölskipaðs stjórnvalds að taka þessar ákvarðanir fyrir hönd sveitarfélagsins. Bendir og ekkert til þess að vanhæfisástæður 20. gr. sveitarstjórnarlaga, sbr. og stjórnsýslulög, hafi átt við um þá sveitarstjórnarmenn sem hlut áttu að afgreiðslu málanna.  

Framkvæmdaleyfisumsókn og samræmi við skipulagsáætlanir.

Í 3. mgr. 13. gr. skipulagslaga er kveðið á um að umsókn um framkvæmdaleyfi skuli fylgja nauðsynleg gögn sem nánar séu tiltekin í reglugerð. Sú reglugerð er nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Í 7. gr. hennar er mælt fyrir um gögn vegna framkvæmdaleyfisumsóknar. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að framkvæmdaleyfisumsókn Landsnets og fylgigögn hennar hafi fullnægt framangreindum ákvæðum.

Þá skal sveitarstjórn við útgáfu framkvæmdaleyfis fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd er í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Bókað var við afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar á framkvæmdaleyfisumsókninni, sem staðfest var af sveitarstjórn, að nefndin teldi fyrirhugaða framkvæmd í samræmi við Aðalskipulag Þingeyjarsveitar 2010-2022, sbr. einnig svæðisskipulag fyrir háhitasvæði í Þingeyjarsýslu. Hefur úrskurðarnefndin gengið úr skugga um að svo sé, enda er þar m.a. fjallað um virkjun háhitasvæðisins á Þeistareykjum sem og háspennulínu frá Hólasandi að Kvíhólafjöllum og þaðan norður að Þeistareykjum, þ.e. Kröflulínu 4. Er og tekið fram að skilgreind svæði fyrir nýjar háspennulínur séu þau sömu og í Svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025. Þá er fyrirhuguð lega umræddrar línu sýnd á skýringaruppdrætti og sveitarfélags-uppdrætti aðalskipulagsins. Við gerð aðalskipulagsins fór fram umhverfismat áætlana. Loks var unnið deiliskipulag Þeistareykjavirkjunar og í greinargerð þess var greint frá mannvirkja-belti fyrir flutningslínur raforku sem einnig var sýnt á skipulagsuppdrætti. Að teknu tilliti til alls framangreinds verður að telja að áskilnaði 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga um samræmi framkvæmdar við skipulagsáætlanir hafi verið fullnægt.

Umsótt framkvæmd.

Í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga er m.a. mælt fyrir um að við umfjöllun umsóknar um framkvæmdaleyfi vegna matsskyldrar framkvæmdar skuli sveitarstjórn kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og kanna hvort hún sé sú sem lýst er í matsskýrslu. Mat fór fram á umhverfisáhrifum háspennulína, þ. á m. Kröflulínu 4, og voru áhrif þeirra einnig metin sameiginlega með öðrum fyrirhuguðum framkvæmdum tengdum uppbyggingu á Bakka. Álit Skipulagsstofnunar vegna þessa lágu fyrir 24. nóvember 2010. Í umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi er vísað til þessa og fylgdi matsskýrsla og álit umsókninni. Við afgreiðslu málsins hjá skipulags- og umhverfisnefnd, sem staðfest var af sveitarstjórn Þingeyjarsveitar, var bókað að nefndin hefði kynnt sér matsskýrslu framkvæmdar og álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegna háspennulína. Einnig að álit vegna sameiginlega matsins hafi komið til skoðunar, en jafnframt var tekið fram að framkvæmd samkvæmt fyrirliggjandi umsókn væri ekki gerð í tengslum við álver á Bakka. Uppfyllti afgreiðsla málsins þar með skilyrði 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga. Þá telur úrskurðarnefndin að þrátt fyrir að fallið hafi verið frá áformum um álver sé engum vafa undirorpið að mat það sem fram fór á háspennulínunum sérstaklega greini frá áhrifum þeirra framkvæmda sem metnar voru, m.a. þeirri sem hér um ræðir. Skiptir ekki máli í því sambandi að ekki standi til nú að leggja allar þær línur sem matið tekur til. Liggur þannig ekkert annað fyrir en að fyrirhuguð framkvæmd hafi verið metin í því mati á umhverfisáhrifum háspennulína sem farið hefur fram. Rétt er þó að geta þess að mat það sem fram fór á áhrifum háspennulína á umhverfið er ítarlegra þar en í hinu sameiginlega mati.

Náttúruverndarlög.

Vísað er til þess í 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga að sveitarstjórn skuli ganga úr skugga um að gætt hafi verið ákvæða náttúruverndarlaga og annarra laga og reglugerða sem við eigi. Náttúruverndarlög nr. 60/2013 tóku gildi í nóvember 2015, nokkrum mánuðum áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Er augljóst að þau áttu því við þegar samþykkt var að veita hið kærða framkvæmdaleyfi, þrátt fyrir að matsferli það sem var undanfari ákvörðunarinnar hafi átt sér stað í tíð eldri náttúruverndarlaga.

Jarðhitasvæðið á Þeistareykjum er á C-hluta náttúruminjaskrár, sbr. 33. gr. gildandi náttúruverndarlaga, en skv. 3. mgr. 37. gr. laganna ber að forðast að raska slíkum svæðum nema almannahagsmunir krefjist þess og annarra kosta hafi verið leitað. Skylt er að afla leyfis vegna framkvæmda sem hafa í för með sér slíka röskun og skal við leyfisveitinguna eftir atvikum leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og viðkomandi náttúruverndarnefndar. Af deiliskipulagsuppdrætti Þeistareykjavirkjunar verður ráðið að mannvirkjabelti vegna loftlínunnar Kröflulínu 4 sneiði útjaðar náttúruminjasvæðisins, en að möstur línunnar muni þó vera utan þess. Þá er tiltekið í framkvæmdaleyfisumsókn að við uppsetningu mastra, vinnu við fyrirhugaðar línur og slóðagerð verði þess gætt að raska ekki þeim hluta Þeistareykja sem eru á náttúruminjaskrá. Telja verður að þótt Þeistareykir verði fyrir áhrifum vegna línulagnarinnar, s.s. sjónrænum, sé ekki um að ræða röskun í skilningi nefndrar 3. mgr. 37. gr. náttúruverndarlaga, enda verður eiginleg mannvirkjagerð ekki innan svæðis á C-hluta náttúruminjaskrár. Var því ekki tilefni fyrir sveitarstjórn að viðhafa þá málsmeðferð sem þar er mælt fyrir um. Þá er ekkert annað í gögnum málsins sem bendir til þess að á framkvæmdasvæði Kröflulínu 4 innan Þingeyjarsveitar séu þær aðstæður að öðru leyti sem kröfðust sérstakrar málsmeðferðar samkvæmt náttúruverndarlögum.

Ákvörðun sveitarstjórnar, forsendur og rökstuðningur.

Sveitarstjórn skal, auk þess að kynna sér matsskýrslu í samræmi við áðurnefnda 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga, einnig taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Álit Skipulagsstofnunar eru lögbundin en ekki bindandi fyrir sveitarstjórn. Þau þurfa skv. lögum nr. 106/2000 að fullnægja lágmarksskilyrðum um rökstuðning og efnisinnihald og er það forsenda þess að sveitarstjórn geti tekið ákvörðun um umsókn um framkvæmdaleyfi samkvæmt 14. gr. skipulagslaga að álitið fullnægi þeim lagaskilyrðum. Verður úrskurðar-nefndin þannig að taka afstöðu til þess hvort álit Skipulagsstofnunar sé fullnægjandi að þessu leyti, enda er það liður í því að meta hvort hin kærða ákvörðun hafi verið reist á lögmætum grundvelli.

Nánar tiltekið skal Skipulagsstofnun innan fjögurra vikna frá því að hún tekur á móti matsskýrslu gefa rökstutt álit sitt á því hvort skýrslan uppfylli skilyrði laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000. Þá skal í álitinu gera grein fyrir helstu forsendum matsins, þ.m.t. gildi þeirra gagna sem liggja til grundvallar matinu, og niðurstöðum þess. Jafnframt skal í álitinu fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á þeim athugasemdum og umsögnum sem bárust við kynningu á frummatsskýrslu. Í 6. mgr. 10. gr. laganna kemur fram að framkvæmdaraðili skuli vinna endanlega matsskýrslu á grundvelli frummatsskýrslu og skuli þar gera grein fyrir framkomnum athugasemdum og umsögnum og taka afstöðu til þeirra. Í frummatsskýrslu skal svo ávallt gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina komi og umhverfisáhrifum þeirra og bera þá saman, sbr. fyrirmæli þar um í 2. mgr. 9. gr. laganna. Sama orðalag var áður viðhaft um efni matsskýrslu og í frumvarpi til laga nr. 106/2000 segir um þetta atriði að lagt sé til að framkvæmdaraðili geri grein fyrir helstu möguleikum sem hann hafi kannað og til greina komi, svo sem varðandi tilhögun og staðsetningu. Einnig að þetta hafi mikla þýðingu því að samanburður á helstu möguleikum sé ein helsta forsendan fyrir því að raunveruleg umhverfisáhrif hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar séu metin. Af framangreindu verður að telja að álit Skipulagsstofnunar þurfi að taka til þessara atriða en jafnframt að framkvæmdaraðili hafi ákveðið forræði á því hvaða kosti, sem nái markmiðum framkvæmdar, hann leggi fram til mats, að teknu tilliti til þess að meta verði helstu möguleika svo markmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum verði náð.

Í matsskýrslu er ítarlega fjallað um aðalvalkost framkvæmdaraðila, þ.e. þá línuleið og tilhögun sem hin kærðu leyfi öll taka til. Auk þess er fjallað um aðra þá kosti sem til greina komu samkvæmt endanlegri matsáætlun, þ.e. þá tilhögun að nota trémöstur vestan Lambafjalla, þá tilhögun að nota jarðstrengi sem og að tvöfalda línuleið um Hólasand. Þá var fjallað um núllkost. Mál þetta tekur ekki til línuleiðar vestan Lambafjalla og verður því ekki fjallað um þann kost að nota trémöstur á þeirri leið. Þá er ítarleg umfjöllun í matsskýrslu um tvöfalda línuleið um Hólasand. Er þar gerð grein fyrir umhverfisáhrifum hennar og þau borin saman við aðalvalkost í samræmi við 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000, sbr. 6. mgr. 10. gr., og gefur álit Skipulagsstofnunar hvað þennan valkost varðar ekki tilefni til athugasemda. Hins vegar er álitið að mati úrskurðarnefndarinnar haldið nokkrum ágöllum að öðru leyti hvað varðar umfjöllun um valkosti framkvæmdarinnar, eins og nú verður nánar gerð grein fyrir.

Einn af þeim kostum sem Landsnet lagði fram til mats var að leggja fyrirhugaðar línur sem jarðstrengi. Um jarðstrengi er fjallað með almennum hætti í tillögu fyrirtækisins að matsáætlun og þar tekið fram að í frummatsskýrslu verði gerð grein fyrir jarðstrengjalögnum, kostnaði, rekstri og umhverfisáhrifum í samanburði við loftlínur. Í endanlegri matsskýrslu fyrirtækisins er enn fjallað um jarðstrengi almennt en sú umfjöllun bætir litlu við það sem fram kemur í matsáætlun. Þannig er það eitt tiltekið um umhverfisáhrif jarðstrengja að sýnileiki loftlína sé augljóslega mun meiri en jarðstrengja, hins vegar sé umhverfisrask við lagningu þeirra mun meira en við lagningu loftlína og því sé lagning loftlínu afturkræfari framkvæmd en lagning jarðstrengja. Ljóst má vera að umfjöllun þessi fullnægir ekki þeim áskilnaði 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 að gerð sér grein fyrir helstu möguleikum sem til greina komi og umhverfisáhrifum þeirra og þeir séu bornir saman. Fór enda enginn frekari samanburður fram. Þrátt fyrir þetta er í áliti Skipulagsstofnunar fjallað um aðra kosti til framkvæmdar í kafla 2.2 án þess að vikið sé í neinu að þessum framlagða kosti framkvæmdaraðila. Úrskurðarnefndin bendir jafnframt á að ekki verður séð að sérstakar rannsóknir hafi farið fram í tilefni matsins og er hvorki í tillögu að matsáætlun né matsskýrslu vitnað til heimilda þar um eða þeirra getið í heimildaskrá. Telja verður að sú aðferð að leggja fram jarðstrengi sem valkost án rannsókna eða tilvísan til heimilda um það hvernig þeir kæmu til greina við þá framkvæmd sem lögð var fram til mats, og án marktæks samanburðar við aðra valkosti, sé ekki viðunandi. Er ekki hægt að líta svo á að um raunverulegan valkost hafi verið að ræða, enda fór ekki fram sérstakt mat á áhrifum jarðstrengja sem valkost. Verður að telja að skort hafi á að Skipulagsstofnun hafi í áliti sínu gert viðhlítandi grein fyrir framangreindu og þar með forsendum mats á umhverfisáhrifum, svo sem henni bar að gera skv. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000.

Einnig er það að athuga við álit Skipulagsstofnunar að stofnunin lætur í ljós það álit sitt að framkvæmdaraðili eigi að kanna möguleika á annarri útfærslu á legu Þeistareykjalínu 1 sem geri ráð fyrir að línan fari fyrir Höfuðreiðarmúla í stað þess að fara um Jónsnípuskarð, en báðir kostirnir voru lagðir fram af Landsneti við gerð svæðisskipulags háhitasvæða. Ekki er hægt að líta svo á að hér sé um að ræða skilyrði fyrir framkvæmdinni eða frekari mótvægisaðgerðir, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000, og er ljóst að ábending sem þessi hefði átt að koma fram fyrr í matsferlinu svo að framkvæmdaraðili ætti þess kost að bregðast við henni. Það er hins vegar álit úrskurðarnefndarinnar að af umhverfisskýrslu svæðisskipulags háhitasvæða verði ráðið að svo sem Skipulagsstofnun bendir á hafi báðir kostirnir neikvæð umhverfisáhrif. Telur úrskurðarnefndin að sú aðferð að leggja ekki valkost um leiðir fram til mats þar sem annað leiðarval sé bundið í skipulagsáætlunum sé ekki tæk þegar ljóst er af umhverfismati áætlana að báðar leiðirnar valdi neikvæðum umhverfisáhrifum án þess að frekari röksemdir eða rannsóknir búi þar að baki. Tilgangurinn með mati á umhverfisáhrifum framkvæmda er einmitt að leiða í ljós umhverfisáhrif mismunandi kosta og gera á þeim samanburð svo hægt sé að taka endanlega ákvörðun um leiðarval á traustum grunni. Er enda mikill munur á umhverfismati áætlana og mati á umhverfisáhrifum framkvæmda hvað varðar nákvæmni mats, málsmeðferð og afgreiðslu þess. Um þetta segir nánar í almennum athugasemdum með frumvarpi til laga um umhverfismat áætlana að annars vegar sé um að ræða almennar ákvarðanir um meginstefnu og hins vegar sértækar ákvarðanir um einstakar framkvæmdir. Markmið umhverfismats á áætlunarstigi sé að huga að umhverfisáhrifum á fyrri stigum ákvörðunartöku. Þar sem stefnumörkun á áætlanastigi sé yfirleitt almenns eðlis, samanborið við það sem eigi við um einstakar framkvæmdir sem háðar séu mati á umhverfisáhrifum, verði að ganga út frá því að umhverfismat áætlana sé tiltölulega gróft mat, oft án þess að sérstakar rannsóknir á umhverfi og umhverfisáhrifum fari fram.

Þrátt fyrir þá annmarka sem úrskurðarnefndin telur vera á áliti Skipulagsstofnunar og að framan er lýst, verður eins og atvikum háttar í þessu tiltekna máli ekki litið svo á að annmarkarnir séu svo verulegir að á álitinu verði ekki byggt. Hefur þá verið höfð hliðsjón af  því að mat það sem hér um ræðir var um margt ítarlegt og að kostir um mismunandi leiðarval voru metnir með fullnægjandi hætti. Verður því að telja að skilyrði hafi verið til meðferðar fyrirliggjandi umsóknar um framkvæmdaleyfi. Áður en til afgreiðslu hennar kom bar sveitarstjórn hins vegar eftir atvikum að taka rökstudda afstöðu til þess hvort að nefndir annmarkar hefðu þýðingu við leyfisveitingu í þeirra sveitarfélagi. Ef svo væri, þá að hafa forgöngu um að bætt yrði úr þeim svo að ákvörðun um framkvæmdaleyfi byggði á fullnægjandi grundvelli í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fyrir sveitarstjórn Þingeyjarsveitar lá umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4, en eins og áður hefur komið fram var það álit Skipulagsstofnunar að kanna bæri aðra útfærslu á Þeistareykjalínu 1 en um Jónsnípuskarð í sama sveitarfélagi. Gaf álitið sveitarstjórn fyrst og fremst tilefni til að taka afstöðu til þessa atriðis í ákvörðun sinni um framkvæmdaleyfi vegna Þeistareykjalínu 1 og verður ekki gerð sú krafa til sveitarstjórnar að á því sé tekið við veitingu framkvæmdaleyfis vegna Kröflulínu 4. Liggur enda sú lína í nokkurra kílómetra fjarlægð frá Jónsnípuskarði.

Ekki verður séð að athugasemdir þess efnis að kanna bæri möguleika á lagningu Kröflulínu 4 sem jarðstrengs í stað loftlínu hafi komið fram við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, aðalskipulagsgerð eða deiliskipulagsgerð. Þá kemur fram í umsókn um framkvæmdaleyfi og fylgigögnum að samningar hafi náðst við landeigendur. Loks myndi jarðstrengur sem lagður yrði um fyrirhugaða línuleið samkvæmt skipulagsáætlunum raska náttúruminjasvæðinu á Þeistareykjum, sbr. það sem áður hefur verið rakið um skilgreint mannvirkjabelti Kröflulínu 4 í deiliskipulagi Þeistareykjavirkjunar. Verður að teknu tilliti til framangreinds því ekki talið að sérstakt tilefni hafi verið fyrir sveitarstjórn að kanna áðurnefndan möguleika.

Líta verður svo á að í rökstuddri afstöðu sveitarstjórnar í skilningi 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga verði að felast efni rökstuðnings sem uppfyllir áskilnað 22. gr. stjórnsýslulaga þar um. Skal m.a. í rökstuðningnum, að því marki sem ákvörðun byggist á mati, greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið, sbr. 1. mgr. nefndrar 22. gr. Í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum er í athugasemdum við títtnefnda 22. gr. tekið fram að rökstuðningur stjórnvaldsákvarðana eigi að meginstefnu til að vera stuttur, en þó það greinargóður að búast megi við því að aðili geti skilið af lestri hans hvers vegna niðurstaða máls hefur orðið sú sem raun varð á. Það fari því ávallt eftir atvikum hverju sinni hversu ítarlegur rökstuðningur þarf að vera svo að hann uppfylli framangreint skilyrði. Það liggur í hlutarins eðli að því neikvæðari sem afstaða Skipulagsstofnunar er til fyrirhugaðrar framkvæmdar sem sveitarstjórn hyggst leyfa, þeim mun strangari kröfur verður að gera til þess að hún taki með vönduðum hætti rökstudda afstöðu til álits stofnunarinnar.

Álit Skipulagsstofnunar var þess efnis að af framkvæmdinni í heild sinni yrðu neikvæð óafturkræf áhrif á umhverfið. Ein helstu áhrif yrðu m.a. á kafla þar sem háspennulínur muni liggja frá tengivirki á Hólasandi, um Þeistareyki og áfram. Að Þeistareykjum er um Kröflulínu 4 að ræða og er sá hluti línunnar sem liggur í Þingeyjarsveit 11,8 km að lengd. Stofnunin taldi jafnframt ljóst að skipulagðar ferðir fólks um láglendið milli Lambafjalla í vestri og Gæsafjalla til Bæjarfjalls í austri byggðu m.a. á því að landið sé lítt snortið og fólk upplifði fjallasalinn sem víðerni. Háspennulínur yrðu samsíða göngu- og reiðleiðum um Hólasand að Þeistareykjum og teldi stofnunin að koma línanna myndi breyta verulega upplifun fólks frá því sem verið hefði. Því teldi hún að ferðamenn sem vildu m.a. njóta víðernisins þar yrðu fyrir verulega neikvæðum áhrifum af fyrirhuguðum háspennulínum. Önnur umhverfisáhrif innan sveitarfélagsins voru tiltekin, s.s. vegna áflugs rjúpna á línur, t.a.m. við Þeistareyki, sem og áhrif á gróður. Var um þessi áhrif lögð áhersla á tilhögun framkvæmdar, rannsóknir og mótvægisaðgerðir, en Skipulagsstofnun dró ekki þá ályktun að um verulega neikvæð og óafturkræf áhrif yrði að ræða.

Í málavaxtalýsingu er greint frá þeim bókunum og fundargerðum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni. Af þeim er ljóst að sveitarstjórn hefur kynnt sér fyrirhugaða framkvæmd og umhverfisáhrif hennar og þau gögn sem þar búa að baki. Skipulags- og umhverfisnefnd vísar um rökstuðning sérstaklega til stefnu Þingeyjarsveitar samkvæmt aðalskipulagi, sbr. t.d. kafla 4.1 um framtíðarsýn og meginmarkmið. Sá kafli sem vísað er til er á fjórðu blaðsíðu og tíundar ýmis atriði vegna skipulagsgerðarinnar. Þar er hvatt til eflingar byggðar og nýtingu náttúruauðlinda í sátt við náttúru og umhverfi auk þess sem lögð er áhersla á að efla hefðbundna ferðaþjónustu sem og nýsköpun í þeim geira, s.s. jarðferðaþjónstu eða „geo-túrisma“. Þá er tekið fram að framtíðarstefna sveitarfélagsins sé að vernda ásýnd lands eins og frekast sé unnt með því að leggja lagnir í jörð og vanda vel til staðarvals háspennulína sem liggi um sveitarfélagið þannig að sjónræn áhrif verði sem minnst. Enn fremur að sérstaða Þingeyjarsveitar felist ekki síst í fjölbreytilegri og mikilfenglegri náttúru en í henni séu fólgin fjölmörg tækifæri.

Þegar horft er til tilvitnaðs texta er ljóst að við ákvörðun um veitingu framkvæmdaleyfis þar sem á vegast sjónarmið tengd umhverfi, samfélagi og efnahag fer betur á því að taka til þess beina afstöðu en afleidda, svo sem hér var gert. Það verður þó ekki litið fram hjá því að í þeim kafla aðalskipulagsins sem vitnað er til er tekið fram oftar en einu sinni að það sé stefna sveitarfélagsins að nýta/virkja háhitasvæðin á Þeistareykjum o.fl. í samræmi við stefnu Svæðisskipulags háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025. Er jafnframt ítrekað að við mannvirkjagerð verði í öllu farið eftir meginmarkmiðum svæðisskipulagsins. Er og til þess að líta að við samþykkt hins kærða framkvæmdaleyfis var jafnframt vísað til þess að fyrri afgreiðsla Þingeyjarsveitar á deiliskipulagi Þeistareykjavirkjunar fæli í sér að sérstök afstaða hefði verið tekin við leyfisveitinguna, en við málsmeðferð nefnds deiliskipulags var fram komnum athugasemdum m.a. svarað með þeim hætti að orkuöflun á svæðinu gæfi kost á atvinnuskapandi uppbyggingu í héraði og hefði þannig jákvæð áhrif á samfélag og efnahag. Loks kemur fram í fundargerð að umhverfis- og skipulagsnefnd taki undir álit Skipulags-stofnunar, m.a. um skilyrði leyfisveitingar, og var sú afgreiðsla nefndarinnar staðfest af sveitarstjórn. Koma nefnd skilyrði að auki fram í hinu útgefna framkvæmdaleyfi.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið tók sveitarstjórn rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar með ásættanlegum hætti, sbr. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga.

Af öllu því sem að framan er rakið eru ekki þeir ágallar á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar er leitt geta til ógildingar hennar og er kröfu kæranda þess efnis því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 13. júní 2016 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4 til handa Landsneti hf.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________               ______________________________
Ómar Stefánsson                                                   Aðalheiður Jóhannsdóttir

______________________________              _____________________________
Geir Oddsson                    Þorsteinn Þorsteinsson

95/2015 Kísilverksmiðja í Helguvík

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 27. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 95/2015, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 11. september 2015 um að veita starfsleyfi fyrir rekstri kísilverksmiðju á iðnaðarsvæðinu í Helguvík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. október 2015, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands, Austurgötu 29b, Hafnarfirði, og Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, Þórunnartúni 6, Reykjavík, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 11. september 2015 að veita Thorsil ehf. starfsleyfi fyrir rekstri kísilverksmiðju á iðnaðarsvæðinu í Helguvík.

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá er gerð krafa um að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda á grundvelli hins kærða leyfis eða frestun réttaráhrifa þess. Með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum 30. desember 2015 var hafnað kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 3. nóvember og 4. desember 2015 og í október 2016.

Málsatvik: Hinn 11. september 2015 gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi til handa Thorsil ehf. fyrir rekstri kísilverksmiðju á lóð við Berghólabraut 8 á iðnaðarsvæði í Helguvík. Með leyfinu er rekstraraðila gefin heimild til að framleiða í fjórum ljósbogaofnum allt að 110.000 tonn á ári af hrákísli (>98% Si), allt að 55.000 tonn af kísildufti og 9.000 tonn af kísilgjalli, auk þess að starfrækja verkstæði og aðra þjónustu sem heyri beint undir starfsemina.

Skýrsla um mat á umhverfisáhrifum er frá febrúar 2015 og álit Skipulagsstofnunar um matið er dagsett 1. apríl s.á. Við undirbúning starfsleyfistillögu leitaði Umhverfisstofnun umsagnar heilbrigðisnefndar Suðurnesja í samræmi við fyrirmæli gr. 8.2 í reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun nr. 785/1999. Jafnframt var umsagnar leitað hjá Síldarvinnslunni hf., Norðuráli ehf., United Silicon hf., Skipulagsstofnun, Brunavörnum Suðurnesja, Reykjanesbæ og Thorsil ehf. Tillaga að starfsleyfinu var auglýst á tímabilinu 28. maí til 23. júlí 2015 og bárust athugasemdir frá kærendum, Reykjanesbæ, Thorsil ehf., Skipulagsstofnun og United Silicon hf. Jafnframt var haldinn kynningarfundur í Reykjanesbæ 24. júní s.á.

Umhverfisstofnun gaf út starfsleyfi 11. september 2015, eins og áður sagði, og birtist auglýsing um starfsleyfið í B-deild Stjórnartíðinda 29. s.m. Vöktunaráætlun leyfishafa var lögð fram til samþykktar hjá stofnuninni 2. desember s.á. í samræmi við ákvæði í starfsleyfinu.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að meðferð umsóknar um hið kærða starfsleyfi skuli fara fram samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, eins og þau verði skýrð með hliðsjón af bæði tilskipun 2011/92/ESB, sem sé hluti af EES-samningnum, og Árósasamningnum um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum, en þann samning hafi íslenska ríkið fullgilt.

Það megi ráða af auglýsingu Umhverfisstofnunar og kynningarfundi um starfsleyfistillöguna, sem haldinn hafi verið 24. júní 2015, að stofnunin hafi ekki gert sér grein fyrir því að meðferð hennar á umræddri umsókn sé hluti af umhverfismatsferli framkvæmdarinnar. Í auglýsingunni sé t.d. tekið svo til orða að framkvæmdin hafi farið í mat á umhverfisáhrifum og álit Skipulagsstofnunar hafi legið fyrir 1. apríl 2015. Þessi ummæli verði ekki skilin öðru vísi en svo að Umhverfisstofnun telji mati á umhverfisáhrifum fyrir framkvæmdina lokið. Á framangreindum kynningarfundi hafi komið fram að stofnunin hafi fyrst og fremst metið umsóknina á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og reglugerðar samkvæmt þeim lögum. Hvergi hafi komið fram að stofnunin hafi farið með starfsleyfisumsóknina á grundvelli laga nr. 106/2000.

Sami misskilningur Umhverfisstofnunar, varðandi nauðsyn þess að hún gæti að ákvæðum laga nr. 106/2000 við meðferð umsóknar um starfsleyfi fyrir matsskyldar framkvæmdir, komi fram í svörum stofnunarinnar við athugasemdum er henni hafi borist við drög að starfsleyfinu. Þar sé m.a. gengið út frá því að ákvörðun hafi þegar verið tekin í málsmeðferð mats á umhverfisáhrifum, sem ekki verði endurskoðuð nema með endurupptöku málsins skv. 12. gr. laga nr. 106/2000. Staðreyndin sé hins vegar sú að slík ákvörðun liggi ekki fyrir. Skipulagsstofnun láti, eftir breytinguna sem gerð hafi verið á lögum nr. 106/2000 með lögum nr. 74/2005, aðeins í ljós álit á matsskýrslu framkvæmdaraðila en taki ekki ákvörðun á grundvelli skýrslunnar. Í athugasemdum við frumvarpið að lögum nr. 74/2005, en með þeim hafi verið gerðar breytingar á málsmeðferð mats á umhverfisáhrifum, sé helstu breytingum á lögunum m.a. lýst þannig að í matsferlinu verði ekki tekin afstaða til þess hvort fallast beri á, með eða án skilyrða, eða leggjast gegn framkvæmd, sem lýst hafi verið með fullnægjandi hætti í matsskýrslu framkvæmdaraðila. Enginn vafi leiki á því að leyfisveitandi taki, í samræmi við viðeigandi lög, ákvörðun um hvort leyfa skuli viðkomandi framkvæmd, þegar fyrir liggi matsskýrsla framkvæmdaraðila og álit Skipulagsstofnunar, og að leyfisveitanda beri að kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum hennar.

Það sé leyfisveitandinn en ekki Skipulagsstofnun sem taki ákvörðunina og það sé hann sem meti umhverfisáhrifin og segi til um það hvort framkvæmdin sé réttlætanleg, m.a. út frá umhverfisverndarsjónarmiðum. Leyfisveitandinn geti ekki skotið sér á bakvið álit Skipulagsstofnunar, sem sé eingöngu umfjöllun. Að þeirri umfjöllun lokinni taki leyfisveitandinn ákvörðun, sem eigi að styðjast við rannsókn leyfisveitandans. Ekki þurfi að rannsaka allt er viðkomi matsskýrslunni að nýju en þyki leyfisveitanda eitthvað vanta í rannsókn geti hann krafist þess að úr sé bætt og það beri honum að gera. Ábyrgðin liggi hjá leyfisveitanda, í þessu tilviki hjá Umhverfisstofnun, og honum beri að rökstyðja ákvörðun sína, sbr. einnig b) lið 1. mgr. 9. gr. tilskipunar 2011/92/ESB. Umhverfisstofnun hafi hvorki rannsakað málið sjálfstætt áður en hún hafi tekið ákvörðun sína né hafi hún rökstutt ákvörðunina með fullnægjandi hætti.

Meðferð mála varðandi umhverfismat framkvæmda fari fram í mismunandi stigum eða áföngum (e. phases), sbr. nánar 6. mgr. 6. gr. tilskipunar nr. 2011/92/ESB og 3. mgr. 6. gr. Árósasamningsins. Meðferð leyfisumsókna sé einn áfangi mats á umhverfisáhrifum, sbr. a) lið 2. mgr. 6. gr. tilskipunar nr. 2011/92/ESB og a) lið 1. mgr. 6. gr. Árósasamningsins. Það séu því málsmeðferðarreglur um mat á umhverfisáhrifum sem gildi um starfsleyfisumsóknir þegar starfsleyfið varði matsskylda framkvæmd.

Í auglýsingu Umhverfisstofnunar um starfsleyfistillögur hafi ekki komið fram að verkefni hennar félli undir málsmeðferð við mat á umhverfisáhrifum, sbr. b) lið 2. mgr. 6. gr. tilskipunar nr. 2011/92/ESB, og sé það annmarki á málsmeðferðinni. Ekki hafi heldur verið tekið fram hvert yfirvaldið sé sem veiti upplýsingar sem máli skipti og ekki tekið fram berum orðum hvert senda ætti athugasemdir og spurningar, sbr. c) lið 2. mgr. 6. gr. tilskipunar nr. 2011/92/ESB. Loks sé ekki í auglýsingunni vísað á allar fáanlegar upplýsingar varðandi málið, sbr. e) og f) liði 2. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar. Ekki sé vitað hversu vel starfsleyfistillagan hafi verið auglýst og hvort þær auglýsingar teljist fullnægja ákvæði 5. mgr. 6. gr. títtnefndrar tilskipunar.

Loks verði ekki hjá því komist að draga í efa að starfsleyfisumsóknin hafi verið kynnt almenningi nægilega snemma, þar sem hún hafi verið kynnt þegar nær fullbúið starfsleyfi hafi legið fyrir, eins og skýrt hafi komið fram á kynningarfundi 24. júní 2015. Umsókn leyfishafa sé sögð gerð í október 2014 en Umhverfisstofnun auglýsi hana ekki fyrr en í lok maí 2015, þ.e. fimm mánuðum síðar, og þá sem nánast frágengið mál með einum fyrirvara, þ.e. að Reykjanesbær samþykki deiliskipulag fyrir lóð leyfishafa, sem sveitarfélagið sjálft hafi gert og þegar auglýst. Þessi málsmeðferð verði að teljast vera í ósamræmi við fyrirmæli 4. mgr. 6. gr. tilskipunar 2011/92/ESB, sem kveði á um að almenningur, sem mál varði, skuli snemma fá tækifæri til skilvirkrar þátttöku í ferlinu er varði töku þeirra ákvarðana í umhverfismálum sem um geti í 2. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Samkvæmt ákvæðinu hafi Umhverfisstofnun borið að leita álits almennings á málinu miklu fyrr en gert hefði verið, áður en stofnunin hafi í reynd verið búin að taka ákvörðun í málinu.

Tilvitnanir til 2.-6. mgr. 6. gr. tilskipunar 2011/92/ESB beri einnig að líta svo á að vísað sé til ákvæða 6. gr. Árósasamningsins.

Í matsskýrslu leyfishafa og áliti Skipulagsstofnunar sé einungis fjallað um samlegðaráhrif kísilverksmiðju leyfishafa á loftgæði með álveri Norðuráls og kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík. Á kynningarfundi Umhverfisstofnunar 24. júní 2015 hafi komið fram að Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja kanni nú m.a. loftmengun frá starfsemi Keflavíkurflugvallar, sem vitað sé að sé veruleg og mjög vaxandi. Til þessa hafi hvergi verið tekið tillit við mat á samlegðaráhrifum og sé það óforsvaranlegt, þar sem það séu heildarloftgæði sem máli skipti fyrir íbúa Reykjanesbæjar og aðra sem fyrir áhrifum kunni að verða. Sé það í samræmi við skyldur Umhverfisstofnunar samkvæmt rannsóknarreglunni og varúðarreglu umhverfisréttar að stofnunin hlutist til um að nefnd samlegðaráhrif verði metin. Einnig hvíli á stofnuninni skylda til rannsóknar með tilliti til skyldu stjórnvalda til að tryggja íbúum heilsusamleg loftgæði og í stjórnarskrárvörðum rétti borgaranna til heilsusamlegs umhverfis, þ. á m. andrúmslofts. Í svörum Umhverfisstofnunar við athugasemdum komi fram að stofnunin sé, í samráði við fleiri aðila, að beita sér fyrir mælingum á loftgæðum. Í því felist viðurkenning á því að við útgáfu starfsleyfisins hafi loftgæði ekki verið rannsökuð með fullnægjandi hætti og því með öllu ótímabært að gefa út starfsleyfið. Vansræksla Umhverfisstofnunar á rannsóknarskyldu sinni sé annmarki sem leiða beri til ógildingar starfsleyfisins.

Mál fyrir úrskurðarnefndinni vegna kæru þessarar muni að öllum líkindum snúast að verulegu leyti um túlkun laga sem byggð séu á samingnum um Evrópska efnahagssvæðið. Megi telja líklegt að þörf verði fyrir álit EFTA-dómstólsins við úrlausn málsins, sérstaklega er varði skyldur Umhverfisstofnunar sem leyfisveitanda. Úrskurðarnefndin uppfylli öll þau skilyrði sem EFTA-dómstóllinn hafi talið úrskurðarnefndir á stjórnsýslustigi þurfa að fullnægja til þess að vera til þess bærar að leita álits dómstólsins um skýringu á EES-rétti.

Málsrök Umhverfisstofnunar:
Umhverfisstofnun kveður tilskipun 2011/92/ESB hafa verið innleidda í íslenskan rétt með lögum nr. 138/2014. Meðal annars hafi lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 verið breytt í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar. Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laga nr. 106/2000 hafi Umhverfisstofnun áfram umsagnarhlutverk við mat á umhverfisáhrifum. Við útgáfu starfsleyfis leyfishafa, líkt og annarra starfsleyfa, starfi stofnunin eftir lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, ásamt reglugerðum settum með heimild í þeim. Á þeim grunni meti Umhverfisstofnun starfsleyfisumsóknir og leggi sjálfstætt og ítarlegt mat á starfsemina, m.a. á grundvelli mats á umhverfisáhrifum. Það sé Skipulagsstofnun sem stýri málsmeðferð við mat á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000 og hafi Umhverfisstofnun umsagnarhlutverk við vinnslu Skipulagsstofnunar. Þannig geti Umhverfisstofnun komið athugasemdum sínum á framfæri við mat á umhverfisáhrifum.

Umhverfisstofnun hafi veitt umsögn við tillögu að matsáætlun vegna kísilverksmiðju leyfishafa í Helguvík 18. júní 2014. Jafnframt hafi stofnunin veitt umsögn sína vegna frummatsskýrslu 21. nóvember s.á. og frekari umsögn 3. desember s.á. Í umsögnum sínum hafi Umhverfisstofnun bent á atriði sem stofnunin hafi talið að fjalla þyrfti um, m.a. hvað varði áhrif verksmiðjunnar á rekstrartíma, sér í lagi hvað varði losun loftmengunarefna, umhverfisvöktun og samlegðaráhrif með öðrum iðnaði á svæðinu.

Umhverfisstofnun hafni því að hafa ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni við útgáfu hins kærða starfsleyfis og bendi stofnunin því til stuðnings á að hún hafi þrengt mörk fyrir brennisteinsdíoxíð (SO2) í starfsleyfi leyfishafa frá því sem fram hafi komið í matsskýrslu vegna hinnar fyrirhuguðu starfsemi. Við starfsleyfisgerðina hafi Umhverfisstofnun óskað eftir frekari gögnum frá leyfishafa vegna ætlaðrar loftmengunar í Helguvík og 6. maí 2015 hafi stofnuninni borist gögn sem sýni niðurstöðumyndir loftdreifingarreikninga við Helguvík vegna losunar leyfishafa, Norðuráls og Stakksbrautar 9 ehf. Óskað hafi verið eftir því að metinn yrði styrkur efna á svæðinu og að sýndar yrðu myndir af loftdreifingu sem sýndu eingöngu losun leyfishafa og Stakksbrautar 9 ehf., kæmi til þess að eingöngu verksmiðjur þessara tveggja aðila myndu hefja rekstur. Þau gögn sem hér um ræði hafi verið kynnt með drögum að starfsleyfi leyfishafa á opinberum auglýsingatíma.

Í kæru sé dregið í efa að starfsleyfisumsóknin hafi verið kynnt almenningi nógu snemma. Samkvæmt 3. tölul. 6. gr. laga nr. 7/1998 skuli Umhverfisstofnun vinna tillögur að starfsleyfi og auglýsa opinberlega hvers efnis þær séu og hvar megi nálgast þær. Heimilt sé að gera skriflegar athugasemdir við tillögur stofnunarinnar innan átta vikna frá auglýsingu, sbr. reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun nr. 785/1999. Starfsleyfistillaga leyfishafa hafi verið auglýst á tímabilinu 28. maí til 23. júlí 2015. Haldinn hafi verið kynningarfundur 24. júní s.á. í Duushúsi, Reykjanesbæ, þar sem tillagan hafi verið kynnt og fundargestum gefinn kostur á fyrirspurnum og umræðum. Fundurinn hafi verið auglýstur á vef Umhverfisstofnunar, í Ríkisútvarpinu og í vefútgáfu Víkurfrétta, sem sé staðarblað í Reykjanesbæ.

Á auglýsingartíma hafi borist fimm umsagnir. Þær hafi fjallað um efnisleg atriði tillögunnar, t.d. einstök losunarmörk og stjórnsýslu Umhverfisstofnunar. Tekin hafi verið afstaða til allra athugasemda í greinargerð sem birt hafi verið á vef Umhverfisstofnunar í kjölfar leyfisveitingarinnar. Tilteknar breytingar hafi verið gerðar á tillögunni, flestar í beinu framhaldi af athugasemdunum.

Umhverfisstofnun bendi á að ákvörðun hafi ekki verið tekin í máli með því að auglýst sé tillaga að starfsleyfi. Tillaga að starfsleyfi sé aðeins ein varðan á þeirri leið. Mörg dæmi séu um það að stofnunin hafi gert breytingar á afstöðu sinni að fengnum athugasemdum við tillögu, enda sé það tilgangurinn með þessu verklagi. Með auglýsingu á starfsleyfistillögu sé einmitt verið að vinna í þeim anda að óskað sé eftir sjónarmiðum sem nýtist við endanlega ákvörðun. Tilhögun þessarar vinnu sé lýst í reglugerð nr. 785/1999 og hún sé því ekki háð sérstakri ákvörðun Umhverfisstofnunar. Rétt sé að geta þess að almenningur geti komið að athugasemdum á öðrum stigum málsins, svo sem vegna skipulagsmála og mats á umhverfisáhrifum. Stofnunin telji að hún hafi fylgt lögmætri málsmeðferð eins og henni sé lýst í reglugerð nr. 785/1999.

Kærendur haldi því fram að ógilda eigi útgáfu starfsleyfis leyfishafa þar sem að við vinnslu leyfisins hafi skort rannsókn á samlegðaráhrifum mengunar verksmiðju leyfishafa og annarra verksmiðja á Helguvíkursvæðinu með Keflavíkurflugvelli. Við vinnslu hins kærða starfsleyfis hafi Umhverfisstofnun talið að Keflavíkurflugvöllur væri ekki í það nánum tengslum við starfsemi leyfishafa að það hefði áhrif á útgáfu starfsleyfisins með tilliti til mengunar og annarra áhrifa sem taka þyrfti tillit til. Ekki hafi heldur komið fram athugasemdir um áhrif flugvallarins í mati á umhverfisáhrifum. Stofnunin hafi beitt sér fyrir og muni áfram beita sér fyrir frekari mælingum á loftgæðum í Reykjanesbæ. Þannig komi til með að vera gefin út sameiginleg vöktunaráætlun á Helguvíkursvæðinu sem fyrirtæki á iðnaðarsvæðinu komi til með að vinna eftir, líkt og gert hafi verið á Grundartangasvæðinu. Drög að vöktunaráætlun leyfishafa hafi verið auglýst með drögum að starfsleyfi fyrirtækisins á opinberum auglýsingartíma.

Heilbrigðisnefnd Suðurnesja hafi gefið út starfsleyfi fyrir starfsemi Isavia á Keflavíkurflugvelli 21. ágúst 2015. Í kafla 8 í leyfinu sé fjallað um varnir gegn loftmengun og vöktun loftgæða frá flugvellinum. Þar komi m.a. fram að Isavia skuli með mælingum ganga úr skugga um að styrkur efna fari ekki yfir umhverfismörk utan athafnasvæðis flugvallarins, sbr. 21. gr. reglugerðar um loftgæði nr. 787/1999. Þá skuli Isavia fyrir 15. desember 2015 hafa samráð við heilbrigðisnefnd og gera tillögu um staðsetningu, gerð og fjölda mælitækja á svæðinu. Því sé ljóst að náið verði fylgst með loftgæðum.

Starfsleyfi leyfishafa hafi verið gefin út á grundvelli laga nr. 7/1998 og reglugerðar nr. 785/1999. Í 20. gr. reglugerðarinnar komi fram að starfsleyfi skuli endurskoða á fjögurra ára fresti. Í grein 1.6 í starfsleyfi leyfishafa komi fram að skylt sé að endurskoða starfsleyfið ef forsendur rekstrarins breytist, t.d. ef mengun af hans völdum sé meiri en búast hafi mátt við þegar starfsleyfið hafi verið gefið út eða ef vart verði mengunar sem ekki hafi verið gert ráð fyrir við útgáfu leyfisins. Jafnframt komi fram að leyfishafi skuli ætíð fara að gildandi lögum og reglugerðum, jafnvel þó svo að starfsleyfi hafi ekki verið endurskoðað. Ef í ljós komi að mengun frá verksmiðju leyfishafa komi til með að fara fram úr mörkum starfsleyfisins eða þeim mörkum sem mælt sé fyrir um í lögum og reglugerðum skuli endurskoða leyfið. Þá megi einnig benda á að nálægð verksmiðju leyfishafa við byggð hafi gefið tilefni til fremur strangra skilyrða í starfsleyfi, t.d. hvað varði losun þungmálma og annarra loftmengunarefna.

Í samræmi við framangreint hafni Umhverfisstofnun því að skortur á rannsókn á samlegðaráhrifum með Keflavíkurflugvelli skuli leiða til ógildingar ákvörðunar stofnunarinnar um útgáfu starfsleyfis til leyfishafa.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi krefst þess að öllum kröfum kærenda verði hafnað. Þeir hafi ekki sýnt fram á að skilyrði séu fyrir hendi til að ógilda hina kærðu ákvörðun. Leyfishafi hafi í hvívetna farið að settum reglum á öllum stigum undirbúnings verkefnisins og hafi starfsleyfið verið gefið út að lokinni athugun Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar á því að leyfishafi fullnægði öllum opinberum kröfum til starfsemi sinnar. Við gerð starfsleyfisins hafi verið tekið tillit til þó nokkurra athugasemda, m.a. frá kærendum, um þau sömu atriði og kæran sé reist á.

Að mati varnaraðila sé engin þörf á ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins, sbr. lög um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið nr. 21/1994. Verði orðið við slíkri kröfu sé fyrirsjáanlegt að verulegar tafir yrðu á málsmeðferðinni til tjóns fyrir leyfishafa. Stórar framkvæmdir kalli á mikinn undirbúning og mikil fjárútlát og við þær sé ávallt höfuðatriði að tímamörk standist. Leyfishafi hafi nú þegar varið vel á annað milljarð króna í verkefnið og væri sú fjárfesting að öllum líkindum glötuð yrði fallist á að leita álits EFTA-dómstólsins. Ætla verði íslenskum stjórnvöldum að vera nægilega vel að sér um reglur sem leiddar séu af Evrópureglum til að geta afgreitt kærumál án álitsumleitunar.

Niðurstaða:
Í máli þessu er deilt um gildi starfsleyfis sem gefið hefur verið út af Umhverfisstofnun vegna reksturs kísilverksmiðju á iðnaðarsvæðinu í Helguvík. Framkvæmdin hefur sætt mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og er álit Skipulagsstofnunar vegna þess frá 1. apríl 2015.

Hefur kærandi meðal annars bent á að þörf sé á áliti EFTA-dómstólsins við úrlausn málsins. Í lögum nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið er kveðið á um heimildir dómara til að afla ráðgefandi álits EFTA- dómstólsins vegna mála sem rekin eru fyrir héraðsdómstólum, Félagsdómi og Hæstarétti. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að nefndum lögum kemur fram að í 34. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls sé kveðið á um lögsögu EFTA-dómstólsins til þess að gefa ráðgefandi álit um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Segir svo að EFTA-ríkjunum sé veitt heimild í ákvæðinu til að takmarka rétt dómstóla sinna til að leita álits sem þessa við þá dómstóla sem kveði upp úrlausnir sem sæti ekki málskoti samkvæmt lögum. Þá er tekið fram að sú leið sé valin að leggja til að héraðsdómstólum verði veitt þessi heimild til jafns við Hæstarétt. Loks að taka verði tillit til þess að Félagsdómur kveði upp endanlega dóma á sínu sviði en á vettvangi hans geti reynt á atriði sem lúti að skýringu EES-reglna.

Hvorki er í nefndum lögum né frumvarpi vikið að úrskurðarnefndum, þó allnokkrar væru starfandi á þeim tíma, eða heimildum þeirra. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála var sett á fót með lögum nr. 130/2011, sem tóku gildi 1. janúar 2012. Á sama tíma fóru fram viðamiklar lagabreytingar, sbr. einkum lög nr. 131/2011 um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins. Löggjafinn breytti hins vegar ekki lögum nr. 21/1994 af því tilefni. Verður ekki séð af framangreindu að úrskurðarnefndin geti leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins og þykir rétt að árétta í því sambandi að úrskurðum nefndarinnar verður skotið til dómstóla, sem eftir atvikum geta leitað slíks álits.

Með lögum nr. 106/2000, með síðari breytingum, hafa viðeigandi gerðir Evrópusambandsins um mat á umhverfisáhrifum verið innleiddar í íslenskan rétt á grundvelli EES-samningsins. Er vísað til þessa í athugasemdum með frumvörpum þeim sem urðu að lögum nr. 106/2000 og breytingalögum, s.s. lögum nr. 138/2014. Hið kærða starfsleyfi telst leyfi til framkvæmda, sbr. f-lið 3. gr. laga nr. 106/2000. Við leyfisveitinguna bar Umhverfisstofnun því að gæta að skilyrðum 2. mgr. 13. gr. laganna þess efnis að leyfisveitandi skuli kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Að öðru leyti gilda þær málsmeðferðarreglur um veitingu starfsleyfis sem finna má í lögum og reglugerðum þar um.

Samkvæmt 5. gr. a í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal allur atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun hafa gilt starfsleyfi, sbr. og 6. gr. sömu laga. Umhverfisstofnun gefur út starfsleyfi fyrir slíkum rekstri sé hann talinn upp í fylgiskjali með lögunum, sbr. 1. mgr. 6. gr., en svo er í þessu tilviki, sbr. tölul. 6 í fylgiskjali I. Reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, hefur verið sett á grundvelli 5. gr. laga nr. 7/1998. Markmið hennar er m.a. að koma í veg fyrir og draga úr mengun af völdum atvinnurekstrar sem getur haft í för með sér mengun, koma á samþættum mengunarvörnum og að samræma kröfur og skilyrði í starfsleyfum, sbr. gr. 1.1. Umhverfisstofnun er þannig ætlað það hlutverk að veita starfsleyfi, að teknu tilliti til þeirra markmiða reglugerðar nr. 785/1999 sem snúa að mengunarvörnum. Ber stofnuninni að fara að þeim málsmeðferðarreglum sem í reglugerðinni eru tilgreindar, sem og í lögum nr. 7/1998 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 er kveðið á um hvernig staðið skuli að undirbúningi og  auglýsingu útgáfu starfsleyfis skv. 1. mgr. Vinna skuli tillögur, auglýsa opinberlega hvers efnis þær eru og hvar megi nálgast þær. Einnig að heimilt sé að gera skriflegar athugasemdir við tillögur stofnunarinnar innan átta vikna frá auglýsingu. Nánar er fjallað um þessi atriði í 2. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 785/1999 þar sem tiltekið er að auglýsa skuli á tryggan hátt, s.s. í dagblaði eða staðarblaði ef við eigi, að starfsleyfistillaga sé komin fram, hvers efnis hún sé og hvar hún liggi frammi. Í 1. mgr. greinarinnar er jafnframt tekið fram að tryggja skuli að almenningur eigi greiðan aðgang að starfsleyfisumsóknum og skal umsókn liggja frammi á skrifstofu viðkomandi sveitarstjórnar ásamt starfsleyfistillögu. Greind ákvæði gera beinlínis ráð fyrir því að tillaga að starfsleyfi liggi fyrir áður en veitt er tækifæri til athugasemda við þau drög. Hefur löggjafinn tekið til þessa atriðis skýra afstöðu hvort sem hin leyfisskylda starfsemi er háð mati á umhverfisáhrifum eða ekki. Verður enda að gera ráð fyrir því að haldlítið sé að veita tækifæri til athugasemda nema fyrir liggi svo vel unnin tillaga að raunhæft sé fyrir almenning að kynna sér hana og gera eftir atvikum athugasemdir. Þá er ljóst að athugasemdir geta leitt til breytinga á starfsleyfi, enda felst það í orðanna hljóðan að tillaga er ekki endanleg.

Fyrir liggur að Umhverfisstofnun birti tillögu að hinu kærða starfsleyfi á heimasíðu sinni 28. maí 2015 og var þar tiltekið að frestur til athugasemda væri til 23. júlí s.á, eða átta vikur. Stofnunin birti jafnframt auglýsingu í Lögbirtingablaðinu 1. júní 2015 og var hún svohljóðandi: „Í samræmi við 6. gr. í I. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og 24. gr. reglugerðar nr. 785/1999, liggur nú frammi til kynningar tillaga að starfsleyfi fyrir Thorsil ehf., kt. 500210-1250, vegna kísilmálmverksmiðju við Berghólabraut 8 í Reykjanesbæ. Tillagan, ásamt fylgigögnum mun liggja frammi til kynningar á skrifstofu sveitarfélagsins Reykjanesbæ, Tjarnargötu 12, Reykjanesbæ, á tímabilinu 1. júní 2015-23. júlí 2015. Athugasemdir við tillöguna skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 23. júlí 2015. Einnig má nálgast tillöguna og umsóknargögn á heimasíðu Umhverfisstofnunar, http://www.umhverfisstofnun.is.“ Auk starfsleyfistillögunnar voru tillaga að vöktunaráætlun, umsókn, álit Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum og gögn vegna þess mats, niðurstöður loftdreifiútreikninga, matsskýrsla, sem og sérfræðiálit vegna loftgæða, gerð aðgengileg á vef Umhverfisstofnunar og á skrifstofu Reykjanesbæjar, eins og til var vísað í nefndri auglýsingu.

Auglýsing í Lögbirtingablaði verður að teljast opinber og uppfyllir auglýsing sú sem hér um ræðir þau skilyrði skv. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 að upplýsa um hvar nálgast megi tillöguna. Þá verður að telja að nægilega hafi verið greint frá efni tillögunnar í auglýsingunni með hliðsjón af því að tiltekið var um hvers konar verksmiðju væri að ræða og vísað var til heimasíðu Umhverfisstofnunar, en þar kom nánar fram hvers efnis tillagan væri, t.a.m. varðandi framleiðslumagn, auk þess sem upplýst var að mat á umhverfisáhrifum hefði farið fram og álit Skipulagsstofnunar þar um lægi fyrir. Þá mátti augljóst vera að Umhverfisstofnun væri útgefandi leyfisins og veitti þar með um það upplýsingar og tæki við athugasemdum.

Sá ágalli var hins vegar á málsmeðferðinni að frá birtingu auglýsingarinnar í Lögbirtingablaði 1. júní 2015 var frestur til að koma að athugasemdum veittur til 23. júlí s.á. en ekki til átta vikna. Kemur þá til skoðunar hvort að birting Umhverfisstofnunar á tillögu að starfsleyfi ásamt fylgigögnum á heimasíðu stofnunarinnar uppfyllir áskilnað 3. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um að auglýsa skuli tillögu að starfsleyfi opinberlega, sbr. einnig fyrirmæli 2. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um að starfsleyfistillögu skuli auglýsa á tryggan hátt, s.s. í dagblaði eða staðarblaði. Eins og áður kom fram hefur auglýsing starfsleyfistillögu samkvæmt nefndum lögum það markmið að tryggja aðgang almennings að henni og gefa hinum almenna borgara tækifæri til að hafa áhrif á ákvarðanir er varða umhverfi hans. Verður að telja að í opinberri auglýsingu felist að viðkomandi upplýsingar skuli koma fyrir augu almennings eftir leiðum sem líklegt sé að nái til sem flestra er gætu talið sig málið varða, án þess að upplýsinganna þurfi að leita sérstaklega. Birting á heimasíðu stofnunar getur varla talist falla undir þessa skilgreiningu, enda þótt heimasíðan sé öllum opin og þorri almennings hafi aðgang að veraldarvefnum. Frestur til athugasemda við starfsleyfistillögu var því ekki veittur í fullar áttar vikur frá auglýsingu um efni tillögunnar opinberlega, svo sem lögmælt er. Réttur almennings til athugasemda áður en ákvörðun er tekin er nátengdur rétti til andmæla, sem og skyldu stjórnvalda til að tryggja að mál hafi verið nægilega rannsakað áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga. Er þannig ekki hægt að útiloka að einhverjar þær athugasemdir hefðu getað komið fram innan átta vikna er hefðu getað breytt að einhverju leyti hinu kærða starfsleyfi. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki hjá því komist að fella það úr gildi og verður því ekki frekar fjallað um efnislegar málsástæður kærenda.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 11. september 2015 um að veita Thorsil ehf. starfsleyfi fyrir rekstri kísilverksmiðju á iðnaðarsvæðinu í Helguvík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

95/2016 Þeistareykjalína 1 Þingeyjarsveit

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 27. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. Geir Oddsson umhverfis- og auðlindafræðingur tók þátt í fundi úrskurðarnefndarinnar í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 95/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 13. apríl 2016 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. júlí 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, Reykjavík, þá ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 13. apríl 2016 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1 til handa Landsneti hf. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Með bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 19. ágúst 2016, voru stöðvaðar framkvæmdir á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar að kröfu kæranda á meðan mál þetta væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust frá Þingeyjarsveit 14. júlí og 16. ágúst 2016 og frekari gögn síðar.

Málavextir: Landsnet fyrirhugar að leggja 220 kV loftlínu, Kröflulínu 4, frá Kröfluvirkjun í Skútustaðahreppi að gufuaflsvirkjun á Þeistareykjum í Þingeyjarsveit. Frá Þeistareykjum að Bakka við Húsavík, Norðurþingi, er áætlað að leggja Þeistareykjalínu 1, einnig fyrir 220 kV rekstrarspennu. Skútustaðahreppur, Norðurþing og Þingeyjarsveit hafa veitt framkvæmdaleyfi fyrir lagningu nefndra lína sem öll hafa verið kærð til úrskurðarnefndarinnar. Svo sem fram hefur komið kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð til bráðabirgða í máli þessu 19. ágúst 2016 og stöðvaði framkvæmdir við Þeistareykjalínu 1 innan Þingeyjarsveitar. Með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum sama dag í máli nr. 96/2016 voru framkvæmdir við Kröflulínu 4 stöðvaðar að hluta innan sama sveitarfélags. Áður hafði úrskurðarnefndin kveðið upp bráðabirgðaúrskurði í málum nr. 46/2016 og nr. 54/2016 og er meðferð þeirra mála lokið. Með úrskurði í máli nr. 46/2016, uppkveðnum 10. október 2016, var felld úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4, en með úrskurði í máli nr. 54/2016, uppkveðnum 17. s.m., var hafnað kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Norðurþings um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1. Vegna eðlis og umfangs nefndra mála hefur úrskurðarnefndin ekki nýtt sér heimild 5. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála til sameiningar þeirra.

Hinar kærðu leyfisveitingar eiga sér nokkurn aðdraganda. Í Svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025, sem staðfest var af umhverfisráðherra 16. janúar 2008, er tekið fram að vegna áforma um orkufrekan iðnað við Húsavík sé unnið að undirbúningi virkjunar háhitasvæðanna á Þeistareykjum og í Gjástykki ásamt frekari virkjunum við Kröflu og í Bjarnarflagi. Í svæðisskipulaginu voru m.a. kynntar mögulegar leiðir háspennulína á svæðinu. Vegna nefndra áforma fór fram frekari gerð skipulagsáætlana sem og mat á umhverfisáhrifum þeirra framkvæmda sem fyrirhugaðar voru.

Gerð var breyting á Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 1995-2015 og auglýsing þar um birt í B-deild Stjórnartíðinda 24. mars 2011, en nýtt Aðalskipulag Skútustaðahrepps 2011-2023 var svo samþykkt í sveitarstjórn 21. febrúar 2013 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 3. maí s.á. Deiliskipulag vegna stækkunar Kröfluvirkjunar í Skútustaðahreppi var samþykkt af sveitar-stjórn 14. nóvember 2013 og á fundi hennar 8. maí 2014 voru staðfest svör skipulagsnefndar við athugasemdum Skipulagsstofnunar. Deiliskipulagið var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 3. júní s.á. Aðalskipulag Norðurþings 2010-2030 var samþykkt í sveitarstjórn 16. nóvember 2010 og öðlaðist gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 10. janúar 2011. Breyting á því tók gildi 21. febrúar 2014, einnig með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda, og deiliskipulag fyrir 1. áfanga iðnaðarsvæðis á Bakka tók gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 28. s.m. Þá var Aðalskipulag Þingeyjarsveitar 2010-2022 samþykkt í sveitarstjórn 24. febrúar 2011 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 4. júlí s.á. Loks var deili-skipulag Þeistareykjavirkjunar samþykkt af sveitarstjórn Þingeyjarsveitar 8. mars 2012 og öðlaðist það gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 27. apríl s.á.

Í mars 2008 barst Skipulagsstofnun tillaga Landsnets að matsáætlun vegna háspennulína, 220 kV, frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík. Samþykkti stofnunin áætlunina með athugasemdum 29. maí s.á. Samkvæmt úrskurði umhverfisráðherra frá 31. júlí 2008 fór fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðra framkvæmda við álver á Bakka við Húsavík, Þeistareykjavirkjun, stækkun Kröfluvirkjunar og háspennulínur frá Kröflu og Þeistareykjum til Húsavíkur. Matsáætlun framkvæmdaraðila vegna þess mats var samþykkt af Skipulagsstofnun með athugasemdum 6. nóvember 2009. Frummatsskýrslur vegna fyrir-hugaðra framkvæmda, þ.e. nefndra háspennulína, Þeistareykjavirkjunar, Kröfluvirkjunar II og álvers við Bakka, sem og frummatsskýrsla vegna sameiginlegs mats framangreindra fram-kvæmda, voru allar auglýstar samhliða með athugasemdafresti til 14. júní 2010. Í kjölfarið voru matsskýrslur sendar Skipulagsstofnun og 24. nóvember s.á. lágu fyrir lögbundin álit hennar á mati á umhverfisáhrifum hverrar framkvæmdar fyrir sig sem og á sameiginlegu mati á umhverfisáhrifum þeirra. Er í álitunum gerð grein fyrir framkvæmdum þeim sem metnar eru, matsferlinu og helstu þáttum þess, umsögnum, athugasemdum og öðru því er málið varðar. Fallið hefur verið frá byggingu álvers á Bakka, en mat á umhverfisáhrifum vegna kísilmálmverksmiðju við Bakka hefur einnig farið fram.

Í áliti Skipulagsstofnunar um mat á áhrifum framkvæmdanna „Háspennulínur (220 kV) frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík. Jarðstrengur (132 kV) frá Bjarnarflagi að Kröflu; Norðurþingi, Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit“ á umhverfið er gerð grein fyrir helstu niðurstöðum álitsins og eru þær dregnar saman svo: „Skipulagsstofnun telur að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda verði á þeim kafla þar sem háspennulínur munu liggja frá tengivirki á Hólasandi, um Þeistareyki og um Jónsnípuskarð. Sérstætt náttúrufar er við Þeistareyki og er svæðið á Náttúruminjaskrá og hluti þess nýtur einnig hverfisverndar samkvæmt Svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025. Einnig eru Þeistareykir vel grónir í samanburði við hraun í nágrenninu og þar vaxa jurtir, sem eru á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands. Skipulagsstofnun telur að þó Landsnet muni stýra framkvæmdum þannig að þær dragi úr neikvæðum áhrifum á sérstætt landsvæði við Þeistareyki muni framkvæmdir engu að síður hafa verulega neikvæð og óafturkræf áhrif á svæðið við Þeistareyki. Skipulagsstofnun telur ljóst að háspennulínur og slóðar um Þeistareykjahraun muni liggja um sérstæð eldvörp, gervigíga og hrauntraðir í hrauninu. Þá munu mannvirkin skipta hrauninu í tvo nokkuð jafna hluta og við það breytist heildarsýn hraunsins varanlega og einnig samfelld heildarsýn hrauna til suðurs frá Höfuðreiðarmúla, meðfram Lambafjöllum og langleiðina niður á Hólasand. Því telur Skipulagsstofnun að framkvæmdirnar muni hafa verulega neikvæð og óafturkræf áhrif á landslagsheild Þeistareykjahrauns. Þá telur Skipulagsstofnun að framkvæmdirnar muni hafa talsvert neikvæð og varanleg áhrif á Leirhnjúkshraun. Skipulagsstofnun telur ljóst að skipulagðar ferðir fólks um láglendið milli Lambafjalla í vestri og Gæsafjalla til Bæjarfjalls í austri byggja m.a. á því að landið er lítt snortið og fólk upplifir fjallasalinn sem víðerni. Háspennulínur verða samsíða göngu- og reiðleiðum um Hólasand að Þeistareykjum og telur Skipulagsstofnun að koma línanna muni breyta verulega upplifun fólks frá því sem verið hefur. Því telur Skipulags-stofnun að ferðamenn sem vilja m.a. njóta víðernisins þar verði fyrir verulega neikvæðum áhrifum af fyrirhuguðum háspennulínum. Skipulagsstofnun telur ljóst að á tveimur línuleiðum sem hvor um sig eru um 60 km langar þarf að leggja 95 km langt slóðakerfi og leggja plön og háspennumöstur sem verða að miklu leyti á grónu landi. Skipulagsstofnun telur því að framkvæmdirnar verði umfangsmiklar og muni hafa talsvert neikvæð áhrif á gróður. Skipulagsstofnun telur að áhrif fyrirhugaðra háspennulína á fuglalíf verði helst vegna áflugs rjúpna á línur á þeim svæðum sem rjúpan er þéttust. Skipulagsstofnun telur að við leyfisveitingar þurfi að setja eftirfarandi skilyrði: 1. Landsnet þarf að tryggja að framkvæmdir auki ekki eyðingu gróðurs á svæði sem nú er eitt virkasta rofsvæði landsins. 2. Ef votlendi verður raskað þarf Landsnet að endurheimta a.m.k. jafnstórt votlendissvæði og það sem raskast. 3. Landsnet þarf að tryggja að sjaldgæfum plöntum við Þeistareyki verði hlíft eins og kostur er og að staðsetning háspennumastra og lega slóða taki mið af staðsetningu þeirra og einnig umferð meðan á framkvæmdum stendur. Þá þarf Landsnet að tryggja að framkvæmdir trufli ekki varp fálka á svæðinu með því að halda framkvæmdum utan varptíma. 4. Landsnet þarf í samráði við Fornleifavernd ríkisins að tryggja að ekki verði raskað fimm fornleifum í landi Þeistareykja og átta fornleifum nálægt Bakka, sem lýst er í matsskýrslu. 5. Landsnet þarf að leggja fram áætlun um rannsóknir á umfangi áflugs fugla á raflínur og að niðurstöður rannsóknanna verði bornar undir Umhverfisstofnun.“ 

Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar Þingeyjarsveitar 7. apríl 2016 var tekin fyrir umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1, 220 kV háspennulínu. Bókað var að sótt væri um leyfið á grundvelli 13. og 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. og 6. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Einnig að framkvæmdin væri matsskyld skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og væri matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar fyrirliggjandi. Sótt sé um framkvæmdina á grundvelli Aðalskipulags Þingeyjarsveitar 2010-2022, þar sem gert sé ráð fyrir háspennulínum, sbr. 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012. Í aðalskipulagi nágrannasveitarfélagsins Norðurþings sé einnig gert ráð fyrir framkvæmdinni. Meðfylgjandi séu gögn vegna umsóknarinnar, sbr. sérstaklega 2. og 3. gr. reglugerðar nr. 772/2012. Lýsing mannvirkja vegna útgáfu framkvæmdaleyfis, dags. í mars 2016, sem sé aðalþáttur gagnanna, sé tekin saman f.h. Landsnets. Vísað sé til hennar um frekari skýringar og lýsingar á framkvæmdinni. Lýsingin sé þannig hluti umsóknarinnar. Þá var eftirfarandi bókað: „Skipulags- og umhverfisnefnd leggst ekki gegn framkvæmdinni þar sem hún er í samræmi við Aðalskipulag Þingeyjarsveitar 2010-2022 og fyrirhuguð framkvæmd uppfyllir skv. áliti Skipulagsstofnunar frá 29. nóvember 2010 skilyrði 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga um útgáfu framkvæmdaleyfis vegna matsskyldra framkvæmda vegna sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum álvers á Bakka (þó ekki sé fyrirhugað að reisa álver á Bakka), Þeistareykjavirkjunar og háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Húsavík. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að umsókn Landsnets vegna Þeistareykjalínu 1 verði samþykkt og jafnframt verði skipulags- og byggingarfulltrúa falið að gefa út framkvæmdaleyfið í samræmi við reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.“ Á fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar 13. apríl 2016 var fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar staðfest og að auki bókað að sveitarstjórn samþykkti umsókn Landsnets vegna Þeistareykja-línu 1 og fæli skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfið í samræmi við áðurnefnda reglugerð.

Skipulags- og byggingarfulltrúi gaf umrætt framkvæmdaleyfi út 28. apríl 2016, en það var afturkallað 25. maí s.á. Leyfið var svo gefið út að nýju 14. júní 2016 og var auglýsing þess efnis birt í Morgunblaðinu 15. s.m., en auglýsing mun ekki hafa verið birt í Lögbirtingablaðinu. Ákvörðun sveitarstjórnar um samþykkt framkvæmdaleyfis var kærð til úrskurðarnefndarinnar 12. júlí 2016 svo sem áður hefur komið fram.

Í framkvæmdaleyfinu eru tiltekin gögn vegna leyfisumsóknar og skipulagslegar forsendur leyfisveitingar. Þar á meðal er vísað til sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum vegna fram-kvæmdanna sem og mats á umhverfisáhrifum háspennulína. Tiltekið er að útgáfa leyfisins sé háð því að skilyrði Skipulagsstofnunar, sem fram komi í áliti hennar frá 24. nóvember 2010, séu uppfyllt. Auk eftirlits skipulags- og byggingarfulltrúa þá muni Umhverfisstofnun hafa sérstakt eftirlit með framkvæmdunum.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að hin kærða ákvörðun sé haldin þeim ágöllum að hún sé ógildanleg. Stjórnsýslulög hafi verið brotin við undirbúning og töku ákvörðunarinnar auk þess sem hún fari í bága við almenna náttúruverndarlöggjöf á Íslandi og lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Framkvæmdin sé á svæði á náttúruminjaskrá, en jarðhitasvæðið á Þeistareykjum sé á þeirri skrá vegna fjölbreyttra jarðhitamyndana, gufu- og leirhvera, útfellinga í norðurhlíðum Bæjarfjalls og við Bóndhól. Á hverasvæðinu sé jafnframt að finna sérstæðar jarðhitaplöntur. Aðeins á einum stað á landinu séu fleiri brennisteinshverir en þar. Fyrirhuguð línuleið liggi um vesturjaðar þess svæðis sem sé á náttúruminjaskrá og hluti áhrifasvæðis línunnar vestan Þeistareykja fari inn á suðvesturhorn svæðis sem sé á náttúruminjaskrá. Að auki muni hluti línanna liggja yfir hverfisverndað svæði á Þeistareykjum og í Þeistareykjahrauni, sem njóti einnig sérstakrar verndar sem eldhraun skv. a-lið 2. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Svæðin séu lítt röskuð og hafi mjög hátt verndargildi samkvæmt mati á umhverfis-áhrifum frá 2010.

Áður en leyfi sé veitt fyrir framkvæmdum á svæði á náttúruminjaskrá skuli, skv. 37. gr. náttúruverndarlaga, leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og viðkomandi náttúruverndarnefndar, nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag þar sem umsagnir skv. 1. og 2. mgr. 68. gr. laganna liggi fyrir. Ekki liggi fyrir samþykkt deiliskipulag um Þeistareykjalínu 1. Hafi því sveitarstjórn borið að leita umsagna framangreindra aðila.

Í 5. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga komi fram að ákveði leyfisveitandi að heimila framkvæmd skuli hann rökstyðja þá ákvörðun sérstaklega, fari hún í bága við umsagnir umsagnaraðila. Í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2010 hafi Umhverfisstofnun veitt afar neikvæða umsögn, en umsagna hafi ekki verið leitað áður en hið kærða framkvæmdaleyfi hafi verið veitt. Sé um verulegan annmarka á málsmeðferð sveitarstjórnar að ræða þar sem hún hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni skv. stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Sveitarstjórn hafi einnig borið að gæta ákvæða 4.-6. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga um svæði er njóti sérstakrar verndar, með því að líta til verndarmarkmiða 2. og 3. gr. laganna og jafnframt huga að mikilvægi minjanna og sérstöðu í íslensku og alþjóðlegu samhengi. Ljóst virðist af öllum gögnum máls að framkvæmdin muni hafa mikil og varanleg umhverfisáhrif, ekki síst við Þeistareyki og í Þeistareykjahrauni. Hafi sveitarstjórninni borið, með vísan til varúðarreglu umhverfisréttarins, að láta náttúruna njóta vafans.

Fram komi í leyfisbeiðni að undirstöður undir hvert mastur verði 100-200 m². Sé því um töluvert svæði að ræða, auk þess svæðis sem fari undir línuvegi. Allt þetta rask sé svo mikið í tilfelli Þeistareykjahrauns og Þeistareykja að sveitarstjórninni hefði borið að rannsaka málið ítarlega og sjálfstætt áður en hún tók ákvörðun, m.a. með könnun á því hvort ekki væri hægt að flytja þá orku sem um ræði með öðrum og betri aðferðum með tilliti til umhverfis, þar með talið að skoða til hlítar þann kost að leggja jarðstreng í stað loftlína bæði með tilliti til áhrifa á umhverfi og kostnaðar. Þá komi fram í leyfisumsókn að fyrirhugað sé að leggja línuvegi en engar upplýsingar sé að finna þar um heildarvegalengd þeirra. Einnig komi fram að efnistaka muni fara fram að einhverju leyti í nýjum námum.

Í 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé áskilið að við umfjöllun umsóknar um framkvæmda-leyfi vegna matsskyldrar framkvæmdar kynni sveitarstjórn sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og kanni hvort hún sé sú sem lýst sé. Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laganna skuli sveitarstjórn, þegar hún hafi gengið úr skugga um að framkvæmdin sé sú sama og lýst sé í matsskýrslu, taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Við töku ákvörðunarinnar hafi hins vegar ekki farið fram nein raunveruleg athugun á því hvort um sömu framkvæmd væri að ræða og farið hefði í gegnum mat á umhverfisáhrifum. Hvað þá að rökstudd afstaða hafi verið tekin til þessa álitaefnis.

Fyrir liggi fordæmi Hæstaréttar Íslands um það að ekki skipti máli þótt framkvæmd sú sem sótt sé um sé minni að umfangi en sú sem metin hafi verið, sbr. dóm réttarins frá 9. júní 2005, mál nr. 20/2005. Túlka megi niðurstöðu dómsins þannig að sé búið að meta áhrif framkvæmdar, sem síðan breytist áður en nokkurt leyfi hafi verið gefið út, beri að framkvæma nýtt mat á umhverfisáhrifum þótt margt megi nota úr eldra mati. Það mat sem fylgt hafi leyfisumsókn, sem og álit Skipulagsstofnunar frá 24. nóvember s.á., varði sameiginlegt mat á framkvæmdum fleiri aðila, Alcoa og Landsvirkjunar. Hætt hafi verið við álver á Bakka árið 2012 en ekki verði á neinn hátt séð að sveitarstjórnin hafi litið til þessa við þá könnun er henni hafi borið að gera í aðdraganda ákvörðunar sinnar. Hljóti framangreindar breytingar á fyrirætluðum framkvæmdum þó að hafa gefið sérstakt tilefni til sjálfstæðrar og vandaðrar könnunar á því hvort um sömu framkvæmd væri að ræða og mat á umhverfisáhrifum frá 2010 hafi lotið að. Af umræddri matsskýrslu, er sveitarstjórn hafi vísað til í ákvörðun sinni, megi glöggt ráða að um aðra framkvæmd sé að ræða en þá sem Landsnet hafi sótt um til sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar. Nægi í raun að lesa samantekt á fyrstu fimm síðum matsskýrslunnar til að sjá að svo sé. Þannig bendi ýmislegt til þess að þeim mannvirkjum sem framkvæmdaraðili hafi óskað leyfis fyrir sé ætlað annað hlutverk og séu annars eðlis en þær framkvæmdir er lagðar hafi verið til grundvallar við gerð áðurnefnds mats á umhverfisáhrifum frá 2010. Minni framkvæmd geti nú, sex árum eftir mat á umhverfisáhrifum hinnar fyrri, haft allt önnur umhverfisáhrif vegna þess að önnur tækni sé nú möguleg við þá raforkuflutninga sem um ræði. Þannig séu jarðstrengir nú mögulegur og raunhæfur valkostur fyrir þann raforkuflutning sem ráðgerður sé frá Kröflu og Þeistareykjum til Bakka. Séu þeir því valkostur í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006.

Ekki sé hægt að líta svo á að hin kærða leyfisveiting sé framhald og lokaáfangi málsmeðferðarinnar, sem fram hafi farið á árunum 2008 til og með 2010, í skilningi laga nr. 106/2000. Vísa megi til dóms Evrópudómstólsins í máli C-50/09 í samningsbrotamáli gegn Írlandi um þá túlkun tilskipunar 85/337/EBE, nú 2011/92/ESB, sem íslensku lögin séu innleiðing á, að málsmeðferð mats á umhverfisáhrifum ljúki með ákvörðun um leyfi. Þannig sé um málsmeðferð að ræða sem hefjist með tilkynningu um framkvæmd til Skipulagsstofnunar og ljúki þegar leyfisveitandi taki ákvörðun um að veita eða hafna leyfi. Ef þetta sé borið saman við málsmeðferð þessa máls ætti sú framkvæmd sem framkvæmdaraðili hafi tilkynnt Skipulagsstofnun um árið 2008 að hafa lokið með umsókn um framkvæmdaleyfi það sem kært hafi verið.

Af framangreindu að dæma hafi sveitarstjórn Þingeyjarsveitar haft ærna ástæðu til að kanna það alveg sérstaklega hvort hér væri í raun um sömu framkvæmdina að ræða. Auk þess hefði sveitarstjórn mátt vera kunnugt um að kærandi hafi lagt fram kröfu til Skipulagsstofnunar um að ákvörðun yrði tekin um nýtt mat á umhverfisáhrifum fyrir háspennulínur frá Kröflu að Bakka með vísan til þess að um nýja framkvæmd væri að ræða. Kröfunni hefði hinsvegar verið vísað frá þar sem stofnunin hefði ekki talið kærendur eiga lögvarinna hagsmuna að gæta.

Í leyfisumsókn sé sagt að heildarefnisþörf vegna framkvæmdarinnar Þeistareykjalínu 1 sé 75.000 m³. Sé það til viðbótar 60.000 m³ fyrir Kröflulínu 4 eftir því sem næst verði komist. Segi í umsókn að efnistaka muni fara fram að einhverju leyti í nýjum námum og sé vísað til korts í viðauka, sem ekki sé sérstaklega vísað til í hinni kærðu ákvörðun. Ekkert mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram vegna þeirrar efnistöku sem fyrirhuguð sé vegna framkvæmdarinnar. Þó sé um að ræða nýjar námur og afar viðkvæmt svæði með hátt verndargildi. Verði því að ætla að umrætt magn efnistöku á þeim stað sem hér um ræði hefði þurft að tilkynna til Skipulagsstofnunar og óska ákvörðunar hennar um matsskyldu. Það hafi ekki verið gert.

Í umhverfisrétti gildi sú meginregla, mótuð af dómstólum, að lög um mat á umhverfisáhrifum skuli túlka rúmt og með hliðsjón af markmiðum þeirra. Eitt elsta fordæmi um þetta hafi Evrópudómstólinn sett með dómi sínum 24. október 1996 í máli C-72/95. Síðari dóma-framkvæmd Evrópudómstólsins á sviðinu sé einnig afdráttarlaus um að hafna beri öllum tilraunum til að þrengja gildissvið laga um mat á umhverfisáhrifum. Hafi sveitarstjórn Þingeyjarsveitar borið við undirbúning ákvörðunar sinnar að taka mið af því markmiði umhverfislöggjafar og skýringarkostum hennar.

Í hinni kærðu ákvörðun sé vísað til samþykkts aðalskipulags Þingeyjarsveitar. Hinsvegar hafi ekki, áður en ákvörðunin hafi verið tekin, verið kannað hvort framkvæmdin sem sótt hafi verið um væri í samræmi við lögmæta og umhverfismetna framkvæmdaáætlun leyfishafa, þá einkum áætlun sem metin hefði verið 2014 eða 2015, kerfisáætlun 2014-2025 eða 2015-2026, en engar áætlanir fyrir þann tíma hefðu verið umhverfismetnar í samræmi við ákvæði laga nr. 105/2006. Þessi málsmeðferð stangist á við tilgang og meginmarkmið þeirra laga og laga nr. 106/2000 um að mat fari fram sem fyrst í ferlinu. Þá stangist þetta á við dómafordæmi Evrópudómstólsins, m.a. dóm í máli nr. C-295/10, um að mat á umhverfisáhrifum fram-kvæmdar geti ekki komið í stað umhverfismats áætlana og að síðargreinda matið skuli hafa farið fram í síðasta lagi samhliða mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar sjálfrar.

Umhverfismat áætlunar um raflínur, þ.e. kerfisáætlunar, hafi ekki í neinum skilningi farið fram áður en meint mat á umhverfisáhrifum vegna þeirrar framkvæmdar er hin kærða ákvörðun hafi heimilað hafi farið fram. Sömu sjónarmið komi fram í áfrýjuðum dómi héraðsdóms Reykjaness frá 22. júlí 2016 í máli landeigenda í Vogum gegn leyfishafa í máli nr. E-1121/2015. Þá sé bent á að íslenska ríkið hafi ekki innleitt ákvæði tilskipunar 2011/92/ESB um heimild til samþættingar umhverfismats áætlana og mats á umhverfis-áhrifum framkvæmdar og geti því ekki borið fyrir sig slíka heimild gagnvart borgurunum.

Leyfishafi telji að máli skipti að stjórnvöld hafi gert samning um ívilnanir til fyrirtækisins PCC vegna skatta og gjalda. Kærandi komi ekki auga á hvernig slík samningagerð eða önnur stefnumörkun hafi áhrif á skyldur sveitarfélagsins til þess að fara að lögum. Fyrir liggi opinberlega að rafmagn til PCC megi flytja með ýmsum hætti og hafi Alþingi m.a. samþykkt með þingsályktun stefnu um lagningu raflína sem styðjast beri við í því efni. Þar sé einmitt talað um að meta skuli jarðstrengjakost. Þá liggi fyrir að áætlanir 2010 hafi verið um tífalda raforkuflutninga miðað við það sem nú sé fyrirsjáanlega þörf á, svo vissulega séu önnur sjónarmið, m.a. lagaleg, sem taka þurfi til skoðunar en hafi verið fyrir sex árum.

Þingeyjarsveit sé eigandi jarðarinnar Þeistareykja. Á jörðinni vinni Landsvirkjun nú að smíði svokallaðrar Þeistareykjavirkjunar, jarðvarmavirkjunar, sem samkvæmt leyfi Orkustofnunar megi vera allt að 100 MW. Hin kærða leyfisveiting sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar sé vegna framkvæmda innan jarðarinnar Þeistareykja. Vegna þessa leiki verulegur vafi á um hæfi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar við töku hinnar kærðu ákvörðunar, sbr. m.a. tilskipun 2014/52/ESB, sem sé bindandi fyrir íslenska ríkið, og reglur stjórnsýslulaga. Þannig hafi sveitarfélagið beina fjárhagslega hagsmuni. Annars vegar vegna þess að ætla megi að það hafi tekjur af nýtingu Landsvirkjunar á jarðhita í landi sem sé þinglýst eign sveitarfélagsins, en ekki síður vegna þess að leyfishafi í máli þessu hafi, samkvæmt því sem fram hafi komið undir rekstri kærumálsins, þegar greitt landeigendum fyrir afnot lands vegna loftlínanna. Hljóti þessir fjárhagslegu og verulegu hagsmunir sveitarfélagsins sem landeiganda að varpa talsverðum vafa á hlutleysi þess við ákvarðanir er tengist þeim framkvæmdum sem um ræði.

Málsrök Þingeyjarsveitar: Þingeyjarsveit krefst þess að kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarfélagsins verði hafnað. Á vegum sveitarfélagsins og stjórnvalda á sviði umhverfis- og skipulagsmála hafi verið fjallað um forsendur og skilyrði að baki fram-kvæmdinni Þeistareykjalínu 1 með ýmsum hætti á undanförnum 20 árum. Við þá umfjöllun hafi verndargildi einstakra svæða innan sveitarfélagsins verið til umfjöllunar og verið gætt að öðrum heimildum eins og við hafi átt.

Útgáfa framkvæmdaleyfis vegna matsskyldra framkvæmda hvíli á 13. og 14. gr. skipulags-laga nr. 123/2010 og skoðist ákvæðin sem sérákvæði. Þingeyjarsveit vísi til 13. gr. sem fjalli um framkvæmdaleyfi almennt. Hluti 13. gr., eins og henni hafi verið breytt með lögum nr. 109/2015, skoðist sem yngri lög gagnvart náttúruverndarlögum nr. 60/2013.

Kærandi vísi til þess að ákvæði náttúruverndarlaga hafi verið brotin. Óljóst sé að lögin hafi þá þýðingu í máli vegna framkvæmdaleyfis sem kærandi byggi á. Í 91. gr. laganna sé fjallað um ágreining um framkvæmd þeirra. Þar sé gert ráð fyrir að tilteknar ákvarðanir Umhverfisstofnunar séu kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og að aðrar ákvarðanir skuli kærðar til ráðherra, sem fari með yfirstjórn náttúruverndarmála skv. 13. gr. laganna. Í máli því sem nú sé til meðferðar falli það utan heimilda úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að fjalla um málsástæður kæranda sem varði framkvæmd náttúruverndarlaga.

Kærandi vísi einnig til 13. gr. skipulagslaga, sbr. breytingarlög nr. 109/2015. Breytingarnar séu hluti af lagabreytingum sem gerðar hafi verið samhliða breytingum á náttúruverndarlögum. Þar segi að ef óvissa sé um hvort fyrirhugaðar framkvæmdir hafi alvarleg eða óafturkræf áhrif á tiltekin vistkerfi og jarðminjar, sem njóti sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga um náttúruvernd eða minjar sem skráðar séu á C-hluta náttúruminjaskrár skv. 37. gr. sömu laga, skuli umsækjandi um framkvæmdaleyfi afla sérfræðiálits um möguleg og veruleg áhrif á þau vistkerfi eða jarðminjar. Sveitarstjórn sé heimilt að binda framkvæmdaleyfi skilyrðum sem þyki nauðsynleg til að draga úr slíkum áhrifum. Við mat á því hvað teljist alvarleg eða óafturkræf áhrif skuli taka mið af verndarmarkmiðum 2. og 3. gr., sbr. 9. gr. náttúruverndarlaga.

Ákvæði 13. gr. skipulagslaga sé sérregla um framkvæmdaleyfi sem gangi framar eldri lagaákvæðum náttúruverndarlaga sem feli í sér óljósar kröfur um frekara umsagnarferli. Við umfjöllun Þingeyjarsveitar um umsókn um framkvæmdaleyfi hafi ekki verið til staðar óvissa um framkvæmdina. Áhrif hennar hafi verið vel þekkt eftir mat á umhverfis-áhrifum. Þess skuli einnig getið að umsagnir fagstofnana um mögulega lagnaleið hafi farið fram a.m.k. fjórum sinnum. Fyrst hafi verið framkvæmt mat við gerð svæðisskipulags fyrir háhitasvæði í Þingeyjarsýslum á árinu 2007, í annað sinn við gerð Aðalskipulags Þingeyjar-sveitar 2010-2022, síðan við málsmeðferð deiliskipulags vegna Þeistareykjavirkjunar og loks við mat á umhverfisáhrifum. Þá sé framkvæmdin hluti af öðrum áætlunum sem viðkomandi stofnanir hafi veitt umsagnir um, t.d. kerfisáætlun Landsnets. Það sé mistúlkun á lögum að telja að sömu aðilarnir ættu að veita umsagnir í fimmta eða sjötta skiptið.

Málsástæður kæranda um að ekki hafi verið fylgt ákvæðum náttúruverndarlaga standist ekki. Þeistareykir séu á náttúruminjaskrá og um svæði á C-hluta náttúruminjaskrár gildi 37. gr. náttúruverndarlaga, sbr. m.a. síðari hluti 3. mgr. þar sem fram komi að áður en leyfi sé veitt skuli leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og viðkomandi náttúruverndarnefndar nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag þar sem umsagnir skv. 1. og 2. mgr. 68. gr. liggi fyrir. Við afgreiðslu umsókna um leyfi skuli gæta ákvæða 4.-6. mgr. 61. gr.

Aðalskipulag Þingeyjarsveitar 2010-2022 hafi verið staðfest 20. júní 2011. Þar sé fjallað um framkvæmdina og landnotkun innan sveitarfélagsins vegna hennar skilgreind. Í aðal-skipulaginu sé vísað sérstaklega til svæðisskipulags háhitasvæða í Þingeyjarsýslum. Þá hafi verið samþykkt deiliskipulag vegna Þeistareykjavirkjunar er birt hafi verið í B-deild Stjórnar-tíðinda 27. apríl 2012. Deiliskipulagið taki til skipulagssvæðis umhverfis Þeistareykjavirkjun og sé þar gerð grein fyrir Þeistareykjalínu 1 og legu hennar að því marki sem hún liggi innan deiliskipulagssvæðisins, sem sé 76,5 km² að stærð. Að því marki sem Þeistareykjalína 1 liggi innan Þingeyjarsveitar á hverfisverndarsvæði sé sá hluti innan nefnds deiliskipulagssvæðis.

Athugasemdir kæranda feli að verulegu leyti í sér upptalningu á upplýsingum um stöðu Þeistareykja, og annarra svæða sem kærandi vísi til, gagnvart náttúruverndarlögum og verndargildi þeirra. Að verulegu leyti hafi þær upplýsingar og greining á þeim einmitt orðið til í undanfarandi málsmeðferð vegna svæðisskipulags háhitasvæða í Þingeyjarsýslum, við gerð aðalskipulags Þingeyjarsveitar, deiliskipulags fyrir Þeistareykjasvæði og mats á umhverfis-áhrifum framkvæmda á svæðinu, auk rannsókna tengdum nýtingu og mannvirkjagerð.

Ekki hafi verið óskað eftir umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands við meðferð sveitarfélagsins á umsókn um hið kærða leyfi. Þá hafi ekki heldur verið óskað eftir slíkum umsögnum við gerð aðalskipulags eða deiliskipulags. Á það sé bent að svæði við Þeistareyki nr. 533 á náttúruminjaskrá sjáist m.a. á skipulagsuppdrætti deiliskipulags við Þeistareyki en umsótt framkvæmd feli ekki í sér framkvæmdir innan þess svæðis. Sé einnig vísað til myndar 3.4. í greinargerð skipulagsins og umsagnar Umhverfisstofnunar sem fylgi greinargerð þess, en þar komi fram að borsvæði sé á náttúruminjasvæðinu. Borsvæðið tengist hins vegar ekki framkvæmd Landsnets. Þá sé bent á umsögn náttúruverndarnefndar Þingeyinga.

Kærandi byggi á því að 14. gr. skipulagslaga hafi ekki verið fylgt við ákvörðun Þingeyjar-sveitar en einkum hafi þar vantað upp á rannsókn sveitarfélagsins, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Með umsókn Landsnets hafi fylgt ítarleg lýsing framkvæmdar en þar komi m.a. fram að um sé að ræða eina háspennulínu í stað tveggja, sbr. mat á umhverfisáhrifum frá árinu 2010. Ekki sé með nokkrum hætti um að ræða eðlismun á framkvæmdum, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 20/2005, þar sem meginrök fyrir niðurstöðu hafi hvílt á því að nýr framkvæmdaraðili hafi að einhverju leyti ætlað að nota aðra tækni við framleiðslu en sá er áður hafði unnið að mati á umhverfisáhrifum vegna umfangsmeiri framleiðslu.

Með því að staðfesta tillögu skipulags- og umhverfisnefndar frá 7. apríl 2016 á fundi sínum 13. s.m. hafi sveitarstjórn tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar. Það hafi hún gert m.a. með bókun sinni um að framkvæmd félli að áliti stofnunarinnar og að fyrir lægi að ekki væri fyrirhugað að reisa álver á Bakka. Bókunin hafi vísað til þess að framkvæmdin, eins og henni hafi verið lýst í fyrirliggjandi umsókn leyfishafa, teldist falla undir þá framkvæmd sem mat á umhverfisáhrifum hafi varðað og hafi verið lagt til að framkvæmdaleyfi yrði veitt. Sveitarfélagið geti ekki fallist á þau rök kæranda að það hafi kallað á frekari umfjöllun, hvað þá að ástæða hafi verið til að hafna umsókn um framkvæmdaleyfi á þeirri forsendu að leyfisumsóknin lýsi umfangsminni framkvæmd en matið hafi tekið til. Slík niðurstaða væri í hæsta máta órökrétt.

Það sé Skipulagsstofnunar að endurskoða matsskýrslu, sbr. 12. gr. laga nr. 106/2000, en ekki sveitarfélags sem veiti framkvæmdaleyfi. Skipulagsstofnun hafi einnig veitt álit vegna mats á umhverfisáhrifum kísilverksmiðju PCC á Bakka við Húsavík. Þá hafi kærandi krafist endur-skoðunar matsins, sbr. ákvarðanir um endurskoðun umhverfismats dags. 31. ágúst 2015 og 8. september s.á. Skipulagsstofnun hafi ekki séð ástæðu til að endurskoða matsskýrsluna.

Vísað sé til þess í kæru að deiliskipulag fyrir framkvæmdinni hafi ekki legið fyrir, andstætt ákvæðum skipulagslaga og náttúruverndarlaga. Þingeyjarsveit árétti að náttúruverndarlög fjalli ekki um kröfur til gerðar deiliskipulags. Um helmingur framkvæmdarinnar sé þó innan deiliskipulagðs svæðis. Í samræmi við 5. mgr. 13. skipulagslaga sé ekki fortakslaus skylda til að deiliskipulag liggi fyrir við útgáfu framkvæmdaleyfis. Þá sé ekki fortakslaus skylda til þess að grenndarkynning fari fram, enda sé gerð grein fyrir framkvæmd í aðalskipulagi og ítarlega fjallað um hana þar.

Því sé hafnað að sveitarfélagið hafi ekki uppfyllt kröfur rannsóknarreglu við útgáfu framkvæmdaleyfis. Umfjöllun um framkvæmdina hafi verið á borði skipulagsnefndar með ýmsum hætti á undanförnum árum, m.a. við samþykkt aðalskipulags Þingeyjarsveitar á árinu 2011 og á kynningarfundum áður en framkvæmdaleyfisumsókn hafi komið til meðferðar. Með umsókn leyfishafa fylgi lýsing framkvæmdarinnar. Þingeyjarsveit hafi tekið rökstudda afstöðu til málsins með þeim hætti sem nægjanlegt hafi verið, enda bersýnilegt að framkvæmdin væri nánast helmingun á þeirri framkvæmd sem hefði verið metin. Þetta hefði ekki kallað á ítarlegri rökstudda afstöðu en hreppurinn hefði bókað um. Það sé í grundvallar-atriðum jákvætt ef framkvæmdaraðili geti minnkað umfang framkvæmdar sem mat á  umhverfisáhrifum hafi verið gert fyrir, sérstaklega ef álit Skipulagsstofnunar feli í sér að framkvæmd hafi í för með sér mikil umhverfisáhrif og þar lagðar til mótvægisaðgerðir. Ekki verði séð að lagarök standi til þess að nýtt mat á umhverfisáhrifum þurfi að fara fram við slíkar aðstæður, enda sé eðli framkvæmdarinnar hið sama. Ekki sé þáttur í rannsóknarskyldu sveitarfélags að endurskoða framkvæmd mats á umhverfisáhrifum, en málsástæður kæranda lúti í raun að því.

Loks sé sveitarfélögum falið vald að íslenskum lögum til að fjalla um framkvæmdaleyfis-umsóknir og sæti það ekki takmörkunum vegna hagsmuna sveitarfélagsins, beinna eða óbeinna. Ábyrgð sveitarfélags og fjárhagslegir hagsmunir séu verulegir við framkvæmd skipulagsvalds, enda felist í því ákvarðanir um þróun byggðar og landnotkunar innan alls sveitarfélagsins. Við skipulagningu atvinnulóða á landi sveitarfélags, lóðaúthlutun og afgreiðslu byggingarleyfa síðar geti sveitarfélag átt rétt til tug- eða hundruð milljóna lóðagreiðslna og lóðarleigu í kjölfarið. Kærandi vísi til tilskipunar 2014/52/ESB sem vísi til þeirrar stöðu þegar lögbært stjórnvald sé jafnframt framkvæmdaraðili, en um það sé ekki að ræða í þessu tilviki.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi gerir þær athugasemdir við framkomna kæru að dregin sé upp röng mynd af málinu. Umrædd framkvæmd hafi sætt vönduðum undirbúningi sem staðið hafi í um áratug og farið eftir öllum lögboðnum ferlum. Þannig sé byggt á staðfestu Svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025, sem unnið hafi verið í samræmi við ákvæði laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006. Auk þessa sé framkvæmdin í samræmi við staðfest aðalskipulag þeirra sveitarfélaga sem hlut eigi að máli og sé þessa vandlega getið í Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022. Þá hafi framkvæmdin sætt sjálf-stæðu mati á umhverfisáhrifum á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 auk sameiginlegs mats með öðrum tengdum framkvæmdum, sbr. tvö álit Skipulagsstofnunar, dags. 24. nóvember 2010. Loks hafi Orkustofnun samþykkt kerfisáætlun Landsnets þar sem m.a. sé fjallað um áformaðar framkvæmdir leyfishafa. Þessir ferlar skapi öllum rétt til að koma ítrekað á framfæri athugasemdum við fyrirhugaðar framkvæmdir. Kærandi hafi ekki nýtt sér þennan lögbundna rétt sinn heldur komið með athugasemdir sínar eftir að samráðs-ferlum hafi verið lokið. Með þessu hafi hann sýnt af sér tómlæti sem ekki verði litið framhjá í málinu.

Framkvæmdin sé m.a. tilkomin vegna opinberrar stefnumörkunar stjórnvalda um upp-byggingu iðnaðar með nýtingu virkjunarkosta á svæðinu, en fyrir liggi m.a. viljayfirlýsingar stjórnvalda og opinberar áætlanir um aðkomu að framkvæmdum tengdum iðnaðarsvæðinu á Bakka. Þannig sé í stefnumótandi byggðaáætlun og lögum nr. 41/2013 um heimild til handa ráðherra, f.h. ríkissjóðs, til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi, kveðið á um stuðning og heimildir til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi á svæðinu. Með hliðsjón af lagaskyldum sínum samkvæmt raforkulögum nr. 65/2003 til að tengja alla þá sem eftir því leita hafi leyfishafi m.a. gengið frá samningum við annars vegar Landsvirkjun um tengingu Þeistareykjavirkjunar og hins vegar PCC vegna flutnings raforku til verksmiðju félagsins að iðnaðarsvæðinu á Bakka. Þessir aðilar eigi verulegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta af framkvæmdunum. Þjónusta við starf-semi þessara aðila sé einnig grundvöllur að uppbyggingu innviða á svæðinu og því gildi það sama um stjórnvöld sem tengist innviðauppbyggingunni fjárhagslega. Ekki verði séð að þeim hafi verið gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri eða gæta hagsmuna sinna.

Í lögum nr. 75/2004 um stofnun Landsnets sé kveðið á um að hlutverk félagsins sé að annast flutning raforku og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga. Í raforkulögum sé m.a. kveðið á um að flutningsfyrirtækið skuli byggja flutningskerfið upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, gæða raforku og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Fyrirtækið hafi eitt heimild til að reisa ný flutningsvirki en því beri að tengja alla þá sem eftir því sækist við flutningskerfið enda uppfylli þeir tæknileg skilyrði fyrir því.

Í ársbyrjun 2007 hafi samvinnunefnd um svæðisskipulag háhitasvæða í Þingeyjarsýslum hafið störf og hafi fulltrúar frá orkufyrirtækjum verið henni til ráðgjafar. Hafi svæðisskipulagið verið unnið með hliðsjón af þá nýjum lögum nr. 105/2006. Eftir að skipulagskostir hafi verið skilgreindir hafi verið lagt mat á umhverfisáhrif þeirra. Samvinnunefndin hafi síðan mótað skipulagsdrög á grundvelli þess mats. Svæðisskipulag háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025 hafi verið staðfest af umhverfisráðherra 16. janúar 2008 en í skipulaginu séu afmörkuð landsvæði fyrir flutningslínur. Hafi verið unnið samkvæmt nefndu svæðisskipulagi síðan.

Framkvæmdir samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi hafi hlotið umfjöllun í samræmi við ákvæði laga nr. 106/2000. Sameiginlegt mat hafi farið fram á umhverfisáhrifum vegna álvers á Bakka, Þeistareykjavirkjunar, stækkunar Kröfluvirkjunar og háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík. Skipulagsstofnun hafi birt álit sitt á matsskýrslum í nóvember 2010, annars vegar á mati á umhverfisáhrifum álsvers á Bakka, háspennulína og virkjana við Kröflu og á Þeistareykjum og hins vegar mati á 220 kV háspennulínum frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík, Skútustaðahreppi, Aðaldælahreppi, Þingeyjarsveit og Norðurþingi. Þannig hafi framkvæmdir leyfishafa sætt bæði sameiginlegu mati með öðrum framkvæmdum og sjálfstæðu mati á umhverfisáhrifum framkvæmda leyfis-hafa einna og sér. Framkvæmdaáform leyfishafa hafi ekki breyst að neinu ráði frá mati á umhverfisáhrifum. Þær óverulegu breytingar sem fyrirhugaðar séu hafi verið tilkynntar Skipulagsstofnun sem hafi fjallað um þær í samræmi við ákvæði laga nr. 106/2000. Því hafi dómur Hæstaréttar í máli nr. 20/2005, sem kærandi vísi til, ekkert fordæmisgildi varðandi framkvæmdir leyfishafa sem hér séu til umfjöllunar.

Um áfangaskipta framkvæmd sé að ræða eins og fram komi í áliti Skipulagsstofnunar frá 24. nóvember 2010. Þær framkvæmdir sem komi til framkvæmda í þessum áfanga séu háspennu-línur sem í mati á umhverfisáhrifum hafi verið tilgreindar sem Hólasandslína 2, Kröflulína 4 og Þeistareykjalína 1. Þar til tengivirki verði reist á Hólasandi teljist Hólasandslína 2 hluti af Kröflulínu 4 og sé því ekki tilgreind sérstaklega. Fyrirhugaðar framkvæmdir séu í fullu samræmi við þá áfangaskiptingu sem gerð hafi verið grein fyrir í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdanna. Hvað varði efnistöku og slóðagerð hafi verið fjallað um þau atriði í mati á umhverfisáhrifum.

Í apríl 2016 hafi Orkustofnun samþykkt kerfisáætlun Landsnets 2015-2024 í samræmi við ákvæði raforkulaga. Sé það niðurstaða stofnunarinnar að framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar uppfylli skilyrði 9. gr. a og b laganna. Nánar tiltekið komi fram í ákvörðuninni að stofnunin hafi metið allar framkvæmdir framkvæmdaáætlunarinnar með hliðsjón af markmiðum um öryggi, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæði raforku og sé það mat stofnunarinnar að framkvæmdir áætlunarinnar uppfylli nefnd markmið raforkulaga. Í köflum 5.2.2 og 5.2.3 í framkvæmdaáætluninni sé fjallað um línur vegna afhendingastaðar á Bakka og tengingar Þeistareykjavirkjunar við flutningskerfi. Kerfisáætlun Landsnets hafi hlotið umfjöllun í samræmi við lög nr. 105/2006.

Kærandi haldi því fram að við meðferð málsins hafi verið brotið gegn 3. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013 og sveitarstjórn Þingeyjarsveitar hafi borið, áður en leyfið yrði veitt, að leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og viðkomandi náttúruverndarnefndar, enda liggi ekki fyrir samþykkt deiliskipulag um Þeistareykjalínu 1.

Þessum skilningi sé alfarið mótmælt. Náttúruverndarlög hafi tekið gildi 15. nóvember 2015 en matsferli lögboðins mats á umhverfisáhrifum hafi lokið fyrir gildistöku laganna. Skipulags-breytingum hafi einnig verið lokið í gildistíð eldri laga. Umsagnarferli hafi því verið lokið áður en nýju lögin hafi tekið gildi. Með þeim breytingum sem gerðar hefðu verið á verndar-ákvæðum eldri náttúruverndarlaga með 61. gr. laga nr. 60/2013, sbr. lög nr. 109/2015, hafi tilgangurinn verið að kveða á um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja. Lögskýringargögn séu þó ekki skýr en ljóst sé af 3. mgr. 61. gr. laganna að öðru fremur sé átt við framkvæmdir sem ekki séu háðar mati á umhverfisáhrifum, enda hafi framkvæmdir sem háðar séu mati farið í gegnum hið sérstaka matsferli þar sem umsagna sé aflað. Þá sé ljóst að löggjafinn hafi ekki ætlast til þess að um tvíverknað yrði að ræða enda beri ekki að afla umsagna ef þær hafi legið fyrir við skipulagsákvarðanir.

Framkvæmdin sé í samræmi við aðalskipulag Þingeyjarsveitar og hafi Umhverfisstofnun skilað umsögn við þá skipulagstillögu 22. október 2010. Tekin hafi verið afstaða til umsagnanna við afgreiðslu aðalskipulagsins. Þá hafi Umhverfisstofnun skilað umsögn um helstu forsendur og verkefnislýsingu í deiliskipulagi Þeistareykjavirkjunar 6. september 2011 og um deiliskipulag Þeistareykjavirkjunar 31. janúar 2012. Þannig liggi fyrir skipulags-ákvarðanir og umsagnir. Þess megi og geta að í umsögn Umhverfisstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegna lagningar háspennulína frá virkjunum í Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík frá 29. júní 2010 hafi verið talið að lagning háspennulína frá virkjununum myndi ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif þótt neikvæð áhrif væru á Leirhnjúkshraun og sjónræn áhrif á Þeistareyki og Hlíðarfjall. Stofnunin hafi lagt áherslu á að hverasvæðinu Hitur yrði ekki raskað. Eftir þessu fari leyfishafi.

Ákvæði 61. gr. náttúruverndarlaga lýsi nokkurskonar umhverfismatsferli ef framkvæmd varði svæði sem njóti sérstakrar verndar. Á skorti að lögin taki af tvímæli um hvernig fara skuli með framkvæmdir sem háðar séu mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000 og framkvæmdaleyfi skv. skipulagslögum, en telja verði rétt að túlka 14. gr. þeirra laga sem sérlög gagnvart náttúruverndarlögum um útgáfu framkvæmdaleyfis vegna matsskyldra framkvæmda, ella yrði um tvíverknað að ræða. Landsnet telji að túlka verði lögin sem svo að útgáfa framkvæmdaleyfis fari að ákvæðum skipulagslaga, sbr. lög nr. 106/2000, en ákvæði 61. gr. náttúruverndarlaga áskilji ekki enn einn umsagnarferilinn. Sú túlkun sem kærandi haldi fram fái ekki staðist.

Áform PCC samkvæmt mati á umhverfisáhrifum séu að reisa verksmiðju sem síðar verði tvöfölduð í afkastagetu. Þegar af þeim sökum sé ekki unnt við uppbyggingu flutningskerfisins að miða þörfina eingöngu við raforkuþörf verksmiðjunnar í fyrsta áfanga. Það sé ekki sveitar-stjórnar að meta hvort þörf sé á þeim framkvæmdum sem framkvæmdaleyfi snúi að. Þá sé það ekki hlutverk sveitarstjórnar að skoða aðra leiðarvalskosti og bera saman við þá framkvæmd sem sótt sé um leyfi fyrir, enda hafi sveitarstjórn átt að koma að leiðarvali við gerð svæðis-skipulagsins. Fyrir liggi stefna stjórnvalda um frekari iðnaðaruppbyggingu að Bakka. Iðnaðarsvæðið sé rúmir 200 hektarar en lóð undir verksmiðju PCC sé eingöngu 20 hektarar. Leyfishafa beri að taka tillit til þessa við uppbyggingu flutningskerfisins, bæði vegna umhverfis- og hagkvæmnisjónarmiða.

Í kæru sé því haldið fram að sveitarstjórn hafi borið að kanna sjálfstætt skilmála útboðsgagna í tengslum við gerð slóða og plana. Þá sé því haldið fram að eins og málið hafi legið við sveitarstjórn hafi hún ekki haft neinar upplýsingar um útboðsskilmála. Engin skylda hvíli á sveitarstjórn til þess að kanna og/eða meta einstaka útboð leyfishafa, enda sé þess hvergi getið í lögum.

Með vísan til þeirra skipulagsáætlana sem liggi fyrir og þeirrar vinnu sem unnin hafi verið í aðdraganda leyfisveitingarinnar, og áður hefur verið rakin, ríki engin óvissa um verndargildi einstakra hluta framkvæmdasvæðisins. Málsmeðferðin öll snúist einmitt um greiningu á verndargildi og aðlögun fyrirkomulags mannvirkjagerðar með tilliti til þess. Vísað sé til matsskýrslu um háspennulínur en þar komi m.a. fram hvernig tekið hafi verið tillit til landslagsheilda við staursetningu. Staðsetning Þeistareykjavirkjunar sé takmarkandi þáttur í vali á línuleið, eins og gefi að skilja. Umhverfisáhrif hafi verið metin og eftir því sé unnið. Framkvæmdaleyfisumsóknin sé í samræmi við heimildir sem ákvörðun sveitarfélagsins byggist á.

Leyfishafi telji ljóst að málsmeðferð sveitarstjórnar og rökstudd afstaða hennar hafi verið í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga. Auk þess hafi verið gætt ákvæða sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við málsmeðferðina. Þá sé því mótmælt að fyrirliggjandi rökstuðningur skipulags- og umhverfisnefndar teljist ekki nægilegur. Líta verði til efnis bókunar nefndarinnar í heild og þess rökstuðnings og umfjöllunar sem þar sé að finna. Sveitarstjórn hafi fallist á rökstuðning nefndarinnar og staðfest bókun hennar í heild. Þá sé rétt að taka fram að ekki verði gerð sú krafa að skipulags- og umhverfisnefnd reifi í fundargerð sinni niðurstöðu Skipulagsstofnunar og/eða endursegi það sem fram komi í áliti stofnunarinnar, heldur verði að teljast fullnægjandi að nefndin bóki um að tekið sé undir álit stofnunarinnar. Sé því ljóst að fyrirliggjandi sé rökstudd afstaða sveitarstjórnar til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sbr. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga.

Leyfishafi mótmæli því að dómar Evrópudómstólsins, sem kærandi vísi til, eigi við í málinu. Einnig bendi hann á að tilskipanir Evrópusambandsins hafi ekki bein réttaráhrif að íslenskum rétti, eins og megi ráða af kæru. Úrskurðarnefndinni beri fyrst og fremst að beita íslenskum lögum, skýrðum eftir viðurkenndum lögskýringaraðferðum.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en tekið hefur verið mið af þeim við úrlausn málsins.

Með hliðsjón af því að fyrir úrskurðarnefndinni liggja mjög ítarleg gögn, m.a. uppdrættir og myndir, tölvugerðar sem og ljósmyndir, var ekki talið tilefni til að nefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi við úrlausn máls þessa.

Niðurstaða: Þeistareykjalína 1 mun liggja í tveimur sveitarfélögum, Þingeyjarsveit og Norðurþingi. Kærð er ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar um að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu þess hluta Þeistareykjalínu 1 sem fyrirhugað er að leggja innan sveitarfélagsins. Hin kærða ákvörðun lá fyrir 13. apríl 2016, en undirbúningur framkvæmda vegna uppbyggingar iðnaðar á Bakka hefur staðið yfir í ríflega áratug. Sem hluti af þeim undirbúningi fór fram mat á umhverfisáhrifum háspennulína, þ. á m. Þeistareykjalínu 1 sem og Kröflulínu 4 og Hólasandslínu 2, sem nú ganga undir samheitinu Kröflulína 4. Þá voru áhrif háspennulínanna einnig metin sameiginlega með öðrum fyrirhuguðum framkvæmdum. Álit Skipulagsstofnunar vegna þessa lágu fyrir 24. nóvember 2010 og svo sem greinir í málavaxtalýsingu var niðurstaða hennar að framkvæmdunum fylgdu um margt verulega neikvæð óafturkræf áhrif á umhverfið.

Um veitingu framkvæmdaleyfis, málsmeðferð og skilyrði er fjallað í skipulagslögum nr. 123/2010. Þannig gildir 13. gr. almennt um framkvæmdaleyfi en að auki kemur til kasta 14. gr. þegar um framkvæmdaleyfi vegna matsskyldra framkvæmda er að ræða, en svo háttar hér. Er ljóst af ákvæðum laganna að vald til veitingar framkvæmdaleyfa liggur hjá viðkomandi sveitarstjórn að því gefnu að ákveðin málsmeðferð hafi átt sér stað og að uppfylltum skilyrðum sem nánar eru tilgreind í þeim lögum sem í gildi eru við ákvörðunartöku. Miðar framangreint að því að sveitarstjórn taki ákvörðun um veitingu leyfis á traustum grunni og líkt og endranær verða að búa þar að baki lögmæt og málefnaleg sjónarmið. Þau lög sem líta verður til auk skipulagslaga eru einkum lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, lög  nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana og náttúruverndarlög nr. 60/2013. Þá hvílir ávallt á leyfisveitanda sú skylda að gæta að ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður nú fjallað um hvort skilyrðum til veitingar framkvæmdaleyfis hafi verið fullnægt í máli því sem hér er til úrlausnar.

Birting auglýsingar um framkvæmdaleyfi.

Ákvörðun sveitarstjórnar um útgáfu framkvæmdaleyfis vegna matsskyldra framkvæmda og niðurstaða álits Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum skulu birtar með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu og dagblaði sem gefið er út á landsvísu, sbr. 4. mgr. 14. gr. skipulagslaga. Auglýsing um hið kærða framkvæmdaleyfi var birt í Morgunblaðinu 15. júní 2016 en hún mun ekki hafa verið birt í Lögbirtingablaðinu þrátt fyrir framangreind lagafyrirmæli. Tilgangur auglýsingar með lögákveðnum hætti er einkum að upplýsa almenning um að ákveðinni málsmeðferð sé lokið og gefa honum kost á að kynna sér forsendur þar að baki. Jafnframt skal auglýsing veita upplýsingar um kæruheimild og kærufresti. Ekki verður þó fjallað um greindan annmarka frekar hér þar sem vangá sveitarfélagins hafði ekki í för með sér réttarspjöll gagnvart kæranda, enda kom hann að kæru í málinu með réttum hætti og innan tilskilinna fresta.

Umhverfismat áætlana.

Með úrskurðum, uppkveðnum 10. október 2016 í máli nr. 46/2016 og 17. október 2016  í máli nr. 54/2016, tiltók úrskurðarnefndin í niðurstöðum sínum að umhverfismat áætlana hefði farið fram á kerfisáætlunum Landsnets 2014-2023 og 2015-2024. Greindar áætlanir hafa að geyma framkvæmdaáætlun til þriggja ára þar sem m.a. er greint frá því að til standi að reisa 220 kV línu milli Þeistareykja og Bakka og frá Þeistareykjum að Kröflu. Eins og á stóð hafnaði nefndin því að líta á það sem annmarka að umhverfismat kerfisáætlunar hefði farið fram eftir að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar lá fyrir. Verða þær niðurstöður lagðar til grundvallar í þessu máli, enda eru málsatvik hvað þetta varðar þau sömu og í nefndum málum.

Hæfi til töku ákvörðunar.

Í máli þessu háttar svo til að sveitarstjórn Þingeyjarsveitar tók hina kærðu ákvörðun, en sveitarfélagið er jafnframt eigandi jarðarinnar Þeistareykja sem Þeistareykjalína 1 mun liggja um að hluta. Fyrir liggur að samningur um uppgjör fébóta vegna kvaðar sem hlýst af lagningu háspennulína hefur verið gerður milli Landsnets sem framkvæmdaraðila og Þingeyjarsveitar sem landeiganda og munu greiðslur hafa farið fram. Í samningnum kemur fram að Landsnet ákveði hvenær framkvæmdir muni hefjast.

Í 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er fjallað um almennar skyldur sveitarfélaga. Í 1. mgr. ákvæðisins er tekið fram að sveitarfélögum sé skylt að annast þau verkefni sem þeim eru falin í lögum. Svo hefur t.d. verið gert í skipulagslögum nr. 123/2010, sbr. 13. og 14. gr. þeirra um veitingu framkvæmdaleyfis. Sveitarstjórnarlög gera jafnframt ráð fyrir því að sveitarfélög eigi eignir og hefur sveitarstjórn ákvörðunarvald um ráðstöfun þeirra, sbr. t.a.m. 2. mgr. 8. gr. og 6. tl. 1. mgr. 58. gr. laganna. Löggjafinn hefur þannig falið sveitarstjórn ákveðið vald að lögum sem getur falið í sér töku ákvarðana með ýmsum hætti og að teknu tilliti til ólíkra sjónarmiða, en ávallt samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga og annarra laga, sbr. 1. mgr. 8. gr. sveitarstjórnarlaga. Fyrir liggur að sveitarstjórn bar að taka umsókn um framkvæmdaleyfi til meðferðar á grundvelli skipulagslaga og að hún var til þess bær að ráðstafa landréttindum sínum. Er og ljóst að líta verður á ákvæði nefnds samnings þess efnis að framkvæmdaraðili ákvæði hvenær framkvæmdir myndu hefjast í samhengi við þau fyrirmæli skipulagslaga að framkvæmdir megi ekki hefjast fyrr en að útgefnu framkvæmdaleyfi. Þá mæla lögin fyrir um ákveðna málsmeðferð slíkrar leyfisveitingar sem ekki verður vikið frá með samningi og verður að skilja nefnt samningsákvæði í því samhengi.

Þá hefur það ekki þýðingu í máli þessu hvaða sveitarstjórnarmenn tóku þátt í töku ákvörðunar um hina kærðu leyfisveitingu annars vegar eða stóðu að gerð nefnds samnings hins vegar, enda er það hlutverk sveitarstjórnar sem fjölskipaðs stjórnvalds að taka þessar ákvarðanir fyrir hönd sveitarfélagsins. Bendir og ekkert til þess að vanhæfisástæður 20. gr. sveitarstjórnarlaga, sbr. og stjórnsýslulög, hafi átt við um þá sveitarstjórnarmenn sem hlut áttu að afgreiðslu málanna. 

Framkvæmdaleyfisumsókn og samræmi við skipulagsáætlanir.

Í 3. mgr. 13. gr. skipulagslaga er kveðið á um að umsókn um framkvæmdaleyfi skuli fylgja nauðsynleg gögn sem nánar séu tiltekin í reglugerð. Sú reglugerð er nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Í 7. gr. hennar er mælt fyrir um gögn vegna framkvæmdaleyfisumsóknar. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að framkvæmdaleyfisumsókn Landsnets og fylgigögn hennar hafi fullnægt framangreindum ákvæðum.

Þá skal sveitarstjórn við útgáfu framkvæmdaleyfis fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd er í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Bókað var við afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar á framkvæmdaleyfisumsókninni, sem staðfest var af sveitarstjórn, að nefndin legðist ekki gegn framkvæmdinni þar sem hún væri í samræmi við Aðalskipulag Þingeyjarsveitar 2010-2022. Hefur úrskurðarnefndin gengið úr skugga um að svo sé, enda er þar m.a. fjallað um virkjun háhitasvæðisins á Þeistareykjum sem og háspennulínu frá Þeistareykjum til Húsavíkur, þ.e. Þeistareykjalínu 1. Er og tekið fram að skilgreind svæði fyrir nýjar háspennulínur séu þau sömu og í Svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025. Þá er fyrirhuguð lega umræddrar línu sýnd á skýringaruppdrætti og sveitarfélagsuppdrætti aðalskipulagsins. Við gerð aðalskipulagsins fór fram umhverfismat áætlana. Loks var unnið deiliskipulag Þeistareykjavirkjunar og í greinargerð þess var greint frá mannvirkjabelti fyrir flutningslínur raforku sem einnig var sýnt á skipulagsuppdrætti. Að teknu tilliti til alls framangreinds verður að telja að áskilnaði 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga um samræmi framkvæmdar við skipulagsáætlanir hafi verið fullnægt.

Umsótt framkvæmd.

Í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga er m.a. mælt fyrir um að við umfjöllun umsóknar um framkvæmdaleyfi vegna matsskyldrar framkvæmdar skuli sveitarstjórn kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og kanna hvort hún sé sú sem lýst er í matsskýrslu. Mat fór fram á umhverfisáhrifum háspennulína, þ. á m. Þeistareykjalínu 1, og voru áhrif þeirra einnig metin sameiginlega með öðrum fyrirhuguðum framkvæmdum tengdum uppbyggingu á Bakka. Álit Skipulagsstofnunar vegna þessa lágu fyrir 24. nóvember 2010. Í umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi er vísað til þessa og fylgdi matsskýrsla og álit umsókninni. Við afgreiðslu málsins hjá skipulags- og umhverfisnefnd, sem staðfest var af sveitarstjórn, er fyrst almennt vísað til álits Skipulagsstofnunar án nánari tilgreiningar en síðar vísað til þess sameiginlega mats sem fór fram og álits stofnunarinnar vegna þess. Af hinu síðargreinda áliti ásamt þeim gögnum sem lágu því til grundvallar er ljóst að hver framkvæmd um sig sætti mati í samræmi við lög nr. 106/2000 auk þess sem fyrir lá heildarmat framkvæmdanna. Er ekki ástæða til að ætla annað en að sveitarstjórn hafi kynnt sér bæði álitin og matsskýrslur sem þeim lágu að baki í samræmi við nefnda 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga, en einnig er vísað til mats á umhverfisáhrifum háspennulínanna í hinu útgefna framkvæmdaleyfi. Þá verður að telja þau álit sem fyrir liggja í málinu jafngild, enda gera lög nr. 106/2000 ekki ráð fyrir því að sameiginlegt mat skuli fara fram með ákveðnum hætti og þá einvörðungu, eða að það hafi aðra réttarstöðu en mat á einstökum framkvæmdum hverjum fyrir sig. Loks telur úrskurðarnefndin að þrátt fyrir að fallið hafi verið frá áformum um álver sé engum vafa undirorpið að mat það sem fram fór á háspennulínum sérstaklega greini frá áhrifum þeirra framkvæmda sem metnar voru, m.a. þeirri sem hér um ræðir. Skiptir ekki máli í því sambandi að ekki standi til nú að leggja allar þær línur sem matið tekur til. Liggur þannig ekkert annað fyrir en að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við það mat á háspennulínum sem farið hefur fram. Rétt er þó að geta þess að mat það sem fram fór á áhrifum háspennulína á umhverfið er ítarlegra þar en í hinu sameiginlega mati.

Náttúruverndarlög.

Vísað er til þess í 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga að sveitarstjórn skuli ganga úr skugga um að gætt hafi verið ákvæða náttúruverndarlaga og annarra laga og reglugerða sem við eigi. Náttúruverndarlög nr. 60/2013 tóku gildi í nóvember 2015, nokkrum mánuðum áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Er augljóst að þau áttu því við þegar samþykkt var að veita hið kærða framkvæmdaleyfi, þrátt fyrir að matsferli það sem var undanfari ákvörðunarinnar hafi átt sér stað í tíð eldri náttúruverndarlaga.

Jarðhitasvæðið á Þeistareykjum er á C-hluta náttúruminjaskrár, sbr. 33. gr. gildandi náttúruverndarlaga, en skv. 3. mgr. 37. gr. laganna ber að forðast að raska slíkum svæðum nema almannahagsmunir krefjist þess og annarra kosta hafi verið leitað. Skylt er að afla leyfis vegna framkvæmda sem hafa í för með sér slíka röskun og skal við slíka leyfisveitingu gæta ákveðinnar málsmeðferðar. Hins vegar liggur ekkert fyrir um að Þeistareykjalína 1 muni raska því svæði og er raunar tiltekið í framkvæmdaleyfisumsókn að við uppsetningu háspennu-mastra, vinnu við fyrirhugaðar línur og slóðagerð verði þess gætt að raska ekki svæðum á Þeistareykjum sem eru á náttúruminjaskrá. Liggur línan enda frá tengivirki nokkru norðar en svæði það sem er á náttúruminjaskrá og ekki um það svæði heldur frá því. Var því ekki tilefni fyrir sveitarstjórn að viðhafa þá málsmeðferð sem áður er nefnd.

Í 61. gr. náttúruverndarlaga er fjallað um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja. Falla þar undir m.a. hverir og aðrar heitar uppsprettur ásamt lífríki sem tengist þeim og virkri ummyndun og útfellingum, sbr. b-lið 2. mgr. 61. gr. Vernd skv. 61. gr. nær einnig til eldhrauna sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma, sbr. a-lið 2. mgr. lagaákvæðisins, og í 3. mgr. er tiltekið að m.a. beri að forðast að raska jarðminjum sem taldar séu upp í 2. mgr. nema brýna nauðsyn beri til. Skylt sé að afla t.d. framkvæmdaleyfis vegna framkvæmda sem hafi í för með sér slíka röskun og beri leyfisveitanda að leita umsagnar Umhverfisstofnunar og viðkomandi náttúruverndarnefndar nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag þar sem umsagnir skv. 1. og 2. mgr. 68. gr. liggi fyrir. Samkvæmt 4. mgr. 61. gr. skal við mat á leyfisumsókn líta til verndarmarkmiða 2. og 3. gr. laganna og jafnframt huga að mikilvægi minjanna og sérstöðu í íslensku og alþjóðlegu samhengi. Loks skal leyfisveitandi skv. 5. mgr. 61. gr. rökstyðja sérstaklega þá ákvörðun að heimila framkvæmd fari hún í bága við umsagnir umsagnaraðila.

Ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að jarðminjum sem taldar eru upp í b-lið 2. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga verði raskað og er raunar tiltekið í framkvæmdaleyfisumsókn að þar sem línan fari yfir leirhverasvæði við og á Þeistareykjum verði þess vandlega gætt að raska þeim ekki. Hvað Þeistareykjahraun varðar hins vegar þá kemur fram í áliti Skipulagsstofnunar að háspennulínur og slóðar muni liggja um sérstæð eldvörp, gervigíga og hrauntraðir í hrauninu. Þeistareykjahraun nýtur verndar samkvæmt greindum a-lið 2. mgr. 61. gr. og bar sveitarstjórn því að viðhafa þá málsmeðferð sem áður er lýst við töku ákvörðunar um hið kærða framkvæmdaleyfi.

Í þeim fundargerðum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni um afgreiðslu málsins er hvorki vikið að náttúruverndarlögum né Þeistareykjahrauni. Umsagna mun ekki hafa verið aflað sérstaklega vegna leyfisveitingarinnar en í útgefnu framkvæmdaleyfi er vísað til 3. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga. Þar kemur m.a. fram, eins og áður segir, að umsagna Umhverfis-stofnunar og náttúruverndarnefndar skuli leita nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag þar sem umsagnir skv. 1. og 2. mgr. 68. gr. liggi fyrir. Samkvæmt nefndum ákvæðum skal m.a. leita umsagnar þessara aðila við gerð aðalskipulagsáætlana, við gerð deiliskipulags undir nánar tilgreindum aðstæðum og frummatsskýrslu framkvæmdaraðila vegna mats á umhverfisáhrifum. Við afgreiðslu málsins lágu fyrir umsagnir Umhverfis-stofnunar sem unnar voru í tilefni af mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og við gerð deiliskipulags Þeistareykjavirkjunar. Þá kemur fram í staðfestu Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022 að aðalskipulagstillaga til auglýsingar hafi verið send Umhverfisstofnun til umsagnar en hún hafi ekki borist. Í aðalskipulaginu sé því farið yfir athugasemdir stofnunarinnar við eldri útgáfu tillögunnar eins og um væri að ræða formlegar athugasemdir umsagnaraðila við auglýsta skipulagstillögu. Að teknu tilliti til framangreinds verður að telja að sveitarstjórn hafi ekki borið nauðsyn til að afla umsagnar Umhverfisstofnunar að nýju við veitingu framkvæmdaleyfis. Einnig lá fyrir umsögn náttúruverndarnefndar Þingeyinga sem veitt var við gerð áðurnefnds deiliskipulags. Verður ekki séð að efni greindra umsagna hafi gefið sveitarstjórn tilefni til að færa fram sérstakan rökstuðning um framkvæmdina skv. 5. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga, umfram þá skyldu sveitarstjórnar að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar skv. skipulagslögum eins og fjallað verður um hér á eftir. Þá verður, eins og atvikum er hér háttað, það ekki talið leiða til ógildingar að ekki hafi verið leitað sérstaklega eftir umsögn náttúruverndarnefndar í málinu, þrátt fyrir að umsagnir hennar vegna gerðar aðalskipulags eða frummatsskýrslu hafi ekki legið fyrir. Lá enda fyrir umsögn hennar vegna deiliskipulagsgerðar, eins og áður hefur komið fram.  

Hins vegar bera fundargerðir skipulags- og umhverfisnefndar og sveitarstjórnar ekki með sér að litið hafi verið til náttúruverndarlaga við mat á leyfisumsókn svo sem skylt var skv. 4. mgr. 61. gr. laganna, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Til þess var þó tilefni í ljósi þess að Skipulagsstofnun hafði í áliti sínu gert grein fyrir því að háspennulínur og slóðar myndu liggja um sérstæð eldvörp, gervigíga og hrauntraðir í Þeistareykjahrauni. Mannvirkin myndu skipta hrauninu í tvo nokkuð jafna hluta og við það myndi heildarsýn hraunsins breytast varanlega og einnig samfelld heildarsýn hrauna til suðurs frá Höfuðreiðarmúla, meðfram Lambafjöllum og langleiðina niður á Hólasand. Því taldi stofnunin að framkvæmdirnar myndu hafa verulega neikvæð og óafturkræf áhrif á landslagsheild Þeistareykjahrauns. Byggði það álit m.a. á þeirri umsögn Umhverfisstofnunar að lagning háspennulína yfir hraunið og vegslóða meðfram þeim og gerð virkjanavegar þvert yfir það myndi skipta hrauninu í einingar. Einnig að jarðfræðileg fyrirbæri, s.s. gígaraðir, hraun, hrauntraðir, misgengi og gjár, geti myndað eina heild og rask sem sé ekki hlutfallslega mikið að umfangi geti skert verulega verndargildi slíkra jarð-myndana. Benti Skipulagsstofnun nánar á að þótt lítill hluti af flatarmáli hraunsins raskist myndu háspennulínur liggja um sérstæðar jarðmyndanir í Þeistareykjahrauni, þ.e. Bungur. Að teknu tilliti til framangreinds verður að telja að ekki hafi verið gætt að því að mat færi fram á leyfisumsókn í samræmi við ákvæði 4. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga, enda sér þess ekki stað í afgreiðslu málsins hjá Þingeyjarsveit.

Ákvörðun sveitarstjórnar, forsendur og rökstuðningur.

Sveitarstjórn skal, auk þess að kynna sér matsskýrslu í samræmi við áðurnefnda 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga, einnig taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Álit Skipulagsstofnunar eru lögbundin en ekki bindandi fyrir sveitarstjórn. Þau þurfa skv. lögum nr. 106/2000 að fullnægja lágmarksskilyrðum um rökstuðning og efnisinnihald og er það forsenda þess að sveitarstjórn geti tekið ákvörðun um umsókn um framkvæmdaleyfi samkvæmt 14. gr. skipulagslaga að álitið fullnægi þeim lagaskilyrðum. Verður úrskurðar-nefndin þannig að taka afstöðu til þess hvort álit Skipulagsstofnunar sé fullnægjandi að þessu leyti, enda er það liður í því að meta hvort hin kærða ákvörðun hafi verið reist á lögmætum grundvelli.

Nánar tiltekið skal Skipulagsstofnun innan fjögurra vikna frá því að hún tekur á móti matsskýrslu gefa rökstutt álit sitt á því hvort skýrslan uppfylli skilyrði laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000. Þá skal í álitinu gera grein fyrir helstu forsendum matsins, þ.m.t. gildi þeirra gagna sem liggja til grundvallar matinu, og niðurstöðum þess. Jafnframt skal í álitinu fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á þeim athugasemdum og umsögnum sem bárust við kynningu á frummatsskýrslu. Í 6. mgr. 10. gr. laganna kemur fram að framkvæmdaraðili skuli vinna endanlega matsskýrslu á grundvelli frummatsskýrslu og skuli þar gera grein fyrir fram komnum athugasemdum og umsögnum og taka afstöðu til þeirra. Í frummatsskýrslu skal svo ávallt gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina komi og umhverfisáhrifum þeirra og bera þá saman, sbr. fyrirmæli þar um í 2. mgr. 9. gr. laganna. Sama orðalag var áður viðhaft um efni matsskýrslu og í frumvarpi til laga nr. 106/2000 segir um þetta atriði að lagt sé til að framkvæmdaraðili geri grein fyrir helstu möguleikum sem hann hafi kannað og til greina komi, svo sem varðandi tilhögun og staðsetningu. Einnig að þetta hafi mikla þýðingu því að samanburður á helstu möguleikum sé ein helsta forsendan fyrir því að raunveruleg umhverfis-áhrif hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar séu metin. Af framangreindu verður að telja að álit Skipulagsstofnunar þurfi að taka til þessara atriða en jafnframt að framkvæmdaraðili hafi ákveðið forræði á því hvaða kosti, sem nái markmiðum framkvæmdar, hann leggi fram til mats, að teknu tilliti til þess að meta verði helstu möguleika svo markmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum verði náð.

Í matsskýrslu er ítarlega fjallað um aðalvalkost framkvæmdaraðila, þ.e. þá línuleið og tilhögun sem hin kærðu leyfi öll taka til. Auk þess er fjallað um aðra þá kosti sem til greina komu samkvæmt endanlegri matsáætlun, þ.e. þá tilhögun að nota trémöstur vestan Lamba-fjalla, þá tilhögun að nota jarðstrengi sem og að tvöfalda línuleið um Hólasand. Þá var fjallað um núllkost. Mál þetta tekur ekki til línuleiðar vestan Lambafjalla og verður því ekki fjallað um þann kost að nota trémöstur á þeirri leið. Þá er ítarleg umfjöllun í matsskýrslu um tvöfalda línuleið um Hólasand. Er þar gerð grein fyrir umhverfisáhrifum hennar og þau borin saman við aðalvalkost í samræmi við 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000, sbr. 6. mgr. 10. gr., og gefur álit Skipulagsstofnunar hvað þennan valkost varðar ekki tilefni til athugasemda. Hins vegar er álitið að mati úrskurðarnefndarinnar haldið nokkrum ágöllum að öðru leyti hvað varðar umfjöllun um valkosti framkvæmdarinnar, eins og nú verður nánar gerð grein fyrir.

Einn af þeim kostum sem Landsnet lagði fram til mats var að leggja fyrirhugaðar línur sem jarðstrengi. Um jarðstrengi er fjallað með almennum hætti í tillögu fyrirtækisins að matsáætlun og þar tekið fram að í frummatsskýrslu verði gerð grein fyrir jarðstrengjalögnum, kostnaði, rekstri og umhverfisáhrifum í samanburði við loftlínur. Í endanlegri matsskýrslu fyrirtækisins er enn fjallað um jarðstrengi almennt en sú umfjöllun bætir litlu við það sem fram kemur í matsáætlun. Þannig er það eitt tiltekið um umhverfisáhrif jarðstrengja að sýnileiki loftlína sé augljóslega mun meiri en jarðstrengja, hins vegar sé umhverfisrask við lagningu þeirra mun meira en við lagningu loftlína og því sé lagning loftlínu afturkræfari framkvæmd en lagning jarðstrengja. Ljóst má vera að umfjöllun þessi fullnægir ekki þeim áskilnaði 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 að gerð sér grein fyrir helstu möguleikum sem til greina komi og umhverfisáhrifum þeirra og þeir séu bornir saman. Fór enda enginn frekari samanburður fram. Þrátt fyrir þetta er í áliti Skipulagsstofnunar fjallað um aðra kosti til framkvæmdar í kafla 2.2 án þess að vikið sé í neinu að þessum framlagða kosti framkvæmdaraðila. Úrskurðarnefndin bendir jafnframt á að ekki verði séð að sérstakar rannsóknir hafi farið fram í tilefni matsins og er hvorki í tillögu að matsáætlun né matsskýrslu vitnað til heimilda þar um eða þeirra getið í heimildaskrá. Telja verður að sú aðferð að leggja fram jarðstrengi sem valkost án rannsókna eða tilvísan til heimilda um það hvernig þeir kæmu til greina við þá framkvæmd sem lögð var fram til mats, og án marktæks samanburðar við aðra valkosti, sé ekki viðunandi. Er ekki hægt að líta svo á að um raunverulegan valkost hafi verið að ræða, enda fór ekki fram sérstakt mat á áhrifum jarðstrengja sem valkost. Verður að telja að skort hafi á að Skipulagsstofnun hafi í áliti sínu gert viðhlítandi grein fyrir framan-greindu og þar með forsendum mats á umhverfisáhrifum, svo sem henni bar að gera skv. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000.

Einnig er það að athuga við álit Skipulagsstofnunar að stofnunin lætur í ljós það álit sitt að framkvæmdaraðili eigi að kanna möguleika á annarri útfærslu á legu Þeistareykjalínu 1 sem geri ráð fyrir að línan fari fyrir Höfuðreiðarmúla í stað þess að fara um Jónsnípuskarð, en báðir kostirnir voru lagðir fram af Landsneti við gerð svæðisskipulags háhitasvæða. Ekki er hægt að líta svo á að hér sé um að ræða skilyrði fyrir framkvæmdinni eða frekari mótvægis-aðgerðir, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000, og er ljóst að ábending sem þessi hefði átt að koma fram fyrr í matsferlinu svo að framkvæmdaraðili ætti þess kost að bregðast við henni. Það er hins vegar álit úrskurðarnefndarinnar að af umhverfisskýrslu svæðisskipulags háhita-svæða verði ráðið, svo sem Skipulagsstofnun bendir á, þá hafi báðir kostirnir neikvæð umhverfisáhrif. Telur úrskurðarnefndin að sú aðferð að leggja ekki valkost um leiðir fram til mats þar sem annað leiðarval sé bundið í skipulagsáætlunum sé ekki tæk þegar ljóst er af umhverfismati áætlana að báðar leiðirnar valdi neikvæðum umhverfisáhrifum án þess að frekari röksemdir eða rannsóknir búi þar að baki. Tilgangurinn með mati á umhverfisáhrifum framkvæmda er einmitt að leiða í ljós umhverfisáhrif mismunandi kosta og gera á þeim samanburð svo hægt sé að taka endanlega ákvörðun um leiðarval á traustum grunni. Er enda mikill munur á umhverfismati áætlana og mati á umhverfisáhrifum framkvæmda hvað varðar nákvæmni mats, málsmeðferð og afgreiðslu þess. Um þetta segir nánar í almennum athugasemdum með frumvarpi til laga um umhverfismat áætlana að annars vegar sé um að ræða almennar ákvarðanir um meginstefnu og hins vegar sértækar ákvarðanir um einstakar framkvæmdir. Markmið umhverfismats á áætlunarstigi sé að huga að umhverfisáhrifum á fyrri stigum ákvörðunartöku. Þar sem stefnumörkun á áætlanastigi sé yfirleitt almenns eðlis, samanborið við það sem eigi við um einstakar framkvæmdir sem háðar séu mati á umhverfisáhrifum, verði að ganga út frá því að umhverfismat áætlana sé tiltölulega gróft mat, oft án þess að sérstakar rannsóknir á umhverfi og umhverfisáhrifum fari fram.

Þrátt fyrir þá annmarka sem úrskurðarnefndin telur vera á áliti Skipulagsstofnunar og að framan er lýst, verður eins og atvikum háttar í þessu tiltekna máli ekki litið svo á að annmarkarnir séu svo verulegir að á álitinu verði ekki byggt. Hefur þá verið höfð hliðsjón af því að mat það sem hér um ræðir var um margt ítarlegt og að kostir um mismunandi leiðarval voru metnir með fullnægjandi hætti. Verður því að telja að skilyrði hafi verið til meðferðar fyrirliggjandi umsóknar um framkvæmdaleyfi. Áður en til afgreiðslu hennar kom bar sveitarstjórn hins vegar eftir atvikum að taka rökstudda afstöðu til þess hvort að nefndir annmarkar hefðu þýðingu við leyfisveitingu í þeirra sveitarfélagi. Ef svo væri, þá að hafa forgöngu um að bætt yrði úr þeim svo að ákvörðun um framkvæmdaleyfi byggði á fullnægjandi grundvelli í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að sérstakt tilefni hafi verið fyrir sveitarstjórn að kanna þann möguleika að leggja Þeistareykjalínu 1 sem jarðstreng innan sveitarfélagsins í stað loftlínu. Til að mynda kemur fram í umsókn um framkvæmdaleyfi og fylgigögnum að samningar hafi náðst við landeigendur. Þá kemur fram í áliti Skipulagsstofnunar að þrátt fyrir að loftlínur hafi meiri sjónræn áhrif en jarðstrengir telji stofnunin að undir vissum kringumstæðum geti lagning jarðstrengja haft meiri neikvæð áhrif á landslag en loftlínur. Einnig að umfang óafturkræfs rasks vegna þeirra geti orðið meira en í tilfelli loftlína. Sem dæmi er nefnt að háspennulína sé lögð í jörð um nútímahraun, en Þeistareykjalína 1 mun einmitt liggja um Þeistareykjahraun, sem er slíkt hraun.

Hins vegar lá fyrir sveitarstjórn Þingeyjarsveitar umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1, en það var álit Skipulagsstofnunar að kanna bæri aðra útfærslu á línunni sem færi fyrir Höfuðreiðarmúla en ekki yfir Jónsnípuskarð. Höfuðreiðarmúli er í Norðurþingi en Jónsnípuskarð er í Þingeyjarsveit, og er ljóst af lestri nefnds álits að Skipulagsstofnun telur fyrst og fremst ástæðu til að kanna möguleika á lagningu fyrir Höfuðreiðarmúla vegna neikvæðra umhverfisáhrifa sem kæmu fram í Þingeyjarsveit. Í álitinu kemur fram að framkvæmdaraðili telji báðar leiðirnar ásættanlegar að teknu tilliti til afhendingaröryggis, en hann bendi á að leiðin um Jónsnípuskarð sé í samræmi við svæðisskipulag. Sú leið sé 1,3 km styttri, liggi að hluta samsíða fyrirhuguðum vegi frá Húsavík til Þeistareykja og fari um hraun á minna svæði en samkvæmt leið fyrir Höfuðreiðarmúla. Auk þess samræmist leiðin betur stefnumörkun Norðurþings um að háspennulínur liggi vestan Höskuldsvatns.

Ljóst hefur verið frá upphafi að framkvæmdir þær sem um ræðir myndu sæta mati á umhverfisáhrifum og að þar yrði tækifæri til að bera nánar saman áhrif framkvæmda á umhverfið en á skipulagsstigi. Samkvæmt svæðisskipulagi voru tvær útfærslur lagðar fram um leið fyrir Höfuðreiðarmúla og lá önnur þeirra vestan Höskuldsvatns. Liggur því fyrir að sú leið getur samræmst stefnumörkun Norðurþings þar um. Þá liggur fyrir að þær framkvæmdir sem framkvæmdaraðili hyggst ráðast í, Þeistareykjalína 1 og Kröflulína 4, eru samtals ríflega 60 km. Skiptir þá harla litlu máli að 1,3 km muni í lengd þeirra línukosta sem um ræðir. Þá munu báðar leiðirnar liggja að hluta samsíða vegi milli Húsavíkur og Þeistareykja. Loks kemur fram í álitinu að Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun hafi ítrekað gert athugasemdir við þá nálgun að meta umhverfisáhrif út frá hlutfallslegri skerðingu hrauns. Verður því ekki séð að rök hafi staðið til þess að leggja einungis fram einn kost á legu línunnar á þessum kafla til mats á umhverfisáhrifum.

Í álitinu er hins vegar einnig gerð grein fyrir því að Landsnet bendi á að ef farið yrði með línuna um þröngt landrými fyrir Höfuðreiðarmúla yrði að grípa til ráðstafana með sérstökum háspennumöstrum. Þar myndi línan frá Þeistareykjum þvera Kópaskerslínu og beygja til vesturs í kröppu horni og liggja samsíða Kópaskerslínu á kafla og línurnar vera í mismunandi hæð. Þannig yrði til kraðak ósamstæðra mastra og mætti gera ráð fyrir verulegum sjónrænum áhrifum á þeim kafla. Loks kemur fram í álitinu að Skipulagsstofnun telji að báðir kostirnir muni hafa sambærileg áhrif á hraunið og jafnframt að ekki séu þekktar ákjósanlegar mótvægisaðgerðir til að draga úr þeim áhrifum.

Að mati úrskurðarnefndarinnar verður að teknu tilliti til framangreinds að telja að sveitarstjórn Þingeyjarsveitar hafi a.m.k. borið að færa fram sérstakan rökstuðning um val línu um Jónsnípuskarð að teknu tilliti til þeirra umhverfisáhrifa sem þar kæmu fram. Einnig að bera þau saman við þau umhverfisáhrif sem Landsnet hafði bent á varðandi leiðarval fyrir Höfuðreiðarmúla og taka afstöðu til þess álits Skipulagsstofnunar að báðir kostirnir myndu hafa sambærileg áhrif á hraunið. Teldi sveitarstjórn enn á skorta upplýsingar um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar á þessum mismunandi leiðum bar henni að hlutast til um, með vísan til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, að framkvæmdaraðili gerði frekari könnun á þeim kosti að leggja línuna fyrir Höfuðreiðarmúla og bera hann saman við lagningu línunnar um Jónsnípuskarð. Sveitarstjórn gerði hvorugt og verður að telja það annmarka á hinni kærðu ákvörðun.

Líta verður svo á að í rökstuddri afstöðu sveitarstjórnar í skilningi 2. mgr. 14. gr. skipulags-laga verði að felast efni rökstuðnings sem uppfyllir áskilnað 22. gr. stjórnsýslulaga þar um. Skal m.a. í rökstuðningnum, að því marki sem ákvörðun byggist á mati, greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við það, sbr. 1. mgr. nefndrar 22. gr. Í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum er í athugasemdum við títtnefnda 22. gr. tekið fram að rökstuðningur stjórnvaldsákvarðana eigi að meginstefnu til að vera stuttur, en þó það greinargóður að búast megi við því að aðili geti skilið af lestri hans hvers vegna niðurstaða máls hefur orðið sú sem raun varð á. Það fari því ávallt eftir atvikum hverju sinni hversu ítarlegur rökstuðningur þarf að vera svo að hann uppfylli framangreint skilyrði. Það liggur í hlutarins eðli að því neikvæðari sem afstaða Skipulagsstofnunar er til fyrirhugaðrar fram-kvæmdar sem sveitarstjórn hyggst leyfa, þeim mun strangari kröfur verður að gera til þess að hún taki með vönduðum hætti rökstudda afstöðu til álits stofnunarinnar.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var tekið fram í helstu niðurstöðum álits Skipulags-stofnunar að þótt Landsnet myndi stýra framkvæmdum þannig að þær myndu draga úr neikvæðum áhrifum á sérstætt landsvæði við Þeistareyki myndu framkvæmdir engu að síður hafa verulega neikvæð og óafturkræf áhrif á það svæði. Í því sambandi var bent á sérstætt náttúrufar, skráningu á Náttúruminjaskrá og hverfisvernd, sem og að þar yxu jurtir sem væru á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þá taldi stofnunin ljóst að háspennulínur og slóðar um Þeistareykjahraun myndu liggja um sérstæð eldvörp, gervigíga og hrauntraðir í hrauninu og myndu mannvirki skipta því í tvo nokkuð jafna hluta og breyta heildarsýn þess. Framkvæmdirnar myndu því hafa verulega neikvæð og óafturkræf áhrif á landslagsheild Þeistareykjahrauns. Af þeim bókunum og fundargerðum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni, og nánar er greint frá í málavaxtalýsingu, er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að rökstuðningi sveitarstjórnar fyrir veitingu hins kærða framkvæmdaleyfis sé verulega áfátt miðað við þá neikvæðu afstöðu sem kom fram í nefndu áliti. Verður í slíku tilfelli að gera strangari kröfur um rökstudda afstöðu en að framkvæmdaleyfi sé veitt athugasemdalaust með vísan til þess að álit Skipulagsstofnunar liggi fyrir. Afgreiðsla sveitarstjórnar fullnægði því ekki skilyrði 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga hvað þetta áhrærir.

Af öllu því sem að framan er rakið er ljóst að við undirbúning og málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar var ekki í öllu gætt ákvæða skipulagslaga og náttúruverndarlaga, og eftir atvikum 10. gr. stjórnsýslulaga. Þykja þessir ágallar óhjákvæmilega leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 13. apríl 2016 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1 til handa Landsneti hf.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________               ______________________________
Ómar Stefánsson                                                   Aðalheiður Jóhannsdóttir

______________________________              _____________________________
Geir Oddsson                                                          Þorsteinn Þorsteinsson