Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

96 og 97/2018 Borgartún

Með

Árið 2019, föstudaginn 19. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 96/2018, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. júní 2018 um breytingu á deiliskipulagi staðgreinireits 1.221 vegna lóðarinnar nr. 24 við Borgartún.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. júlí 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir Smith & Norland hf., Nóatúni 4, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. júní 2018 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi staðgreinireits 1.221 vegna lóðarinnar nr. 24 við Borgartún. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. júlí 2018, sem barst úrskurðarnefndinni sama dag, kæra íbúar og eigendur fasteigna að Mánatúni 7-17, einnig fyrrgreinda ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur með kröfu um ógildingu hennar. Verður það kærumál, sem er nr. 97/2018, sameinað kærumáli þessu þar sem sama ákvörðun er kærð í báðum málunum, kröfugerð er samhljóða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 23. janúar 2019.

Málavextir: Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag staðgreinireits 1.221, sem tekur til svæðis sunnan Borgartúns, milli Höfðatúns og Nóatúns, sem samþykkt var í október 1973 og var síðast breytt varðandi lóðina nr. 24 við Borgartún í maí 2001. Hinn 7. júní 2017 samþykkti umhverfis- og skipulagsráð að auglýsa tillögu um breytingu á nefndu deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 24 við Borgartún. Í tillögunni fólst að byggingarmagn yrði aukið og gert ráð fyrir allt að 65 íbúðum, atvinnuhúsnæði á fyrstu hæð og bílastæðum í kjallara. Húsið á lóðinni yrði allt að 7 hæðir og nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 0,83 í 1,96. Borgarráð samþykkti tillöguna til auglýsingar á fundi sínum 15. júní 2017 og var tillagan kynnt á tímabilinu frá 20. s.m. til 15. september s.á. Athuga­­­semdir bárust á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum. Skipulagsfulltrúi brást við athugasemdum kærenda með umsögn, dags. 20. nóvember 2017. Umhverfis- og skipulagssvið vísaði tillögunni til afgreiðslu borgarráðs 7. desember s.á. sem samþykkti deiliskipulagsbreytinguna á fundi sínum 20. febrúar 2018.

Með erindi og viðbótargögnum, dags. 26. febrúar og 15. mars 2018, sendi Reykjavíkurborg Skipulagsstofnun deiliskipulagstillöguna til lögboðinnar umfjöllunar. Með bréfi, dags. 11. apríl s.á., tilkynnti Skipulagsstofnun að hún gerði athugasemd við að auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda. Stofnunin vakti m.a. athygli á að deiliskipulagsbreytingin næði eingöngu til einnar lóðar á reit 1.221. Hún fæli í sér verulegar breytingar frá gildandi deiliskipulagi, núverandi byggðamynstri reitsins og þeim upp­byggingaráformum sem fram komu í lýsingu frá 2014 vegna deiliskipulagstillögu. Stofnunin hvatti borgaryfirvöld til að ljúka endurskoðun deiliskipulags fyrir götureitinn í heild. Þá væri í umfjöllun um umhverfisáhrif ekki bornir saman og metnir ólíkir uppbyggingarkostir á lóðinni, þ.e. til hvaða valkosta væri litið s.s. varðandi útsýni, skuggavarp og ónæði, sbr. inn- og útkeyrslu úr bílakjallara gegnt íbúðum við Mánatún. Skipulagsfulltrúi tók fyrir athugasemdir stofnunarinnar með bréfi, dags. 11. maí 2018. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 6. júní s.á. var deiliskipulagstillagan tekin fyrir og í kjölfarið vísað til borgarráðs sem samþykkti hana 7. s.m. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 15. júní 2018.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að grenndaráhrif fyrirhugaðrar byggingar að Borgartúni 24 séu óviðunandi og valdi því að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé ólögmæt. Gerðar séu athugasemdir við þann fjölda íbúða og þá miklu þéttingu byggðar sem fyrirhuguð sé í námunda við fasteignir kærenda, að ráðist sé í svo umfangsmiklar framkvæmdir í þegar grónu hverfi án þess að rík skipulagsrök búi að baki og að þegar kærendur hafi fest kaup á íbúðum sínum hafi þeir gert ráð fyrir því, í samræmi við þágildandi skipulagsáætlanir, að á svæðinu væri fyrirhuguð tiltölulega hófleg uppbygging sem myndi ekki hafa í för með sér umtalsverð grenndaráhrif.

Ekki sé verið að deiliskipuleggja svæði sem myndi heildstæða einingu, en í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segi að gera skuli deiliskipulag fyrir afmarkað svæði eða reit innan sveitarfélags. Þá komi m.a. fram í gr. 5.3.1. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 að færð skuli rök fyrir afmörkun skipulagssvæðisins. Í málinu liggi fyrir lýsing vegna áforma um breytingar á deiliskipulagi Borgartúns 18-24 og Nóatúns 4, dags. 10. nóvember 2014. Í lýsingunni komi m.a. fram með skýrum hætti að eitt af meginmarkmiðum fyrirhugaðrar skipulagsgerðar sé að „flétta byggðina innan reitsins sem eina heild við byggðina við Borgartún og aðliggjandi byggð ekki síst í suður þar sem reiturinn snúi að smágerðri íbúðarbyggð“. Sé litið til framangreindra meginreglna og þeirra stefnumiða sem lagt hafi verið af stað með í upphafi skipulagsvinnunnar sé ljóst að ekki hafa verið færð fram fullnægjandi rök sem geti réttlæt að vikið sé frá megin­reglum skipulagsréttar.

Kærendur byggi á því að hið kærða deiliskipulag sé í svo hróplegu ósamræmi við skipulags­lýsingu frá 10. nóvember 2014 að ógildingu hljóti að varða. Ekki hafi verið haft samráð við þá eða aðra hagsmunaaðila þegar ákveðið hafi verið einhliða að hverfa frá þegar kynntri og lög­mæltri skipulagslýsingu og markmiðum hennar. Ljóst sé að skipulagslýsingin frá 10. nóvember 2014 geti ekki talist lögmætur grundvöllur deiliskipulagsbreytingarinnar og að Reykjavíkur­borg hafi þar af leiðandi ekki verið stætt á því að samþykkja deiliskipulagstillöguna, sbr. áskilnað 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga.

Skort hafi á fullnægjandi samanburði valkosta og rannsókn við meðferð skipulags­breytingarinnar. Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga sé við gerð skipulagsáætlana skylt að gera grein fyrir áhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða, m.a. með samanburði þeirra kosta sem til greina komi og eftir atvikum umhverfismati áætlunarinnar. Þessi skylda sé jafnframt áréttuð í 5. mgr. gr. 2.7 skipulagsreglugerðar. Þrátt fyrir ótvíræða skyldu að þessu leyti hafi sjáanlega ekki verið gerður sérstakur samanburður á þeim kostum sem til greina komi við uppbyggingu á lóð Borgartúns 24. Telji kærendur einkum og sér í lagi ástæðu til að taka til nánari skoðunar og samanburðar hvort fækka megi íbúðum og lækka hæðafjölda byggingarinnar. Þá hafi alfarið skort á að metin hafi verið líkleg áhrif uppbyggingarinnar á útsýni frá Mánatúni 7-17 og verulega skort á að skuggavarp hafi verið metið með fullnægjandi hætti. Nánast ekkert sé fjallað um áhrif uppbyggingarinnar á umferð, staðbundin áhrif og flæði á einstökum götum, hljóðvist og loftgæði í greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar. Þá sé fjarri að gerð sé fullnægjandi grein fyrir því hvaða áhrif fyrirhugaðar breytingar muni hafa á umferð og flutningsgetu gatnakerfis á svæðinu. Að sama skapi hafi ekki verið metin áhrif ljósmengunar vegna inn- og útkeyrslu úr bílakjallara gegnt íbúðum við Mánatún. Kærendur bendi jafnframt á að engin tilraun hafi verið gerð til að meta áhrif loftmengunar sem hljótist af inn- og útkeyrslu í fyrirhugaðan bílakjallara Borgartúns 24.

Ekki hafi verið gætt meðalhófs við útfærslu Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Í ágúst 2017 hafi verið gerðar breytingar á aðalskipulaginu sem hafi falið í sér að Borgartúnsreitur 26 hafi verið stækkaður og nái nú yfir svæði beggja vegna Borgartúns frá Katrínartúni/Höfða að Kringlumýrarbraut, auk þess sem svigrúm fyrir íbúðir á svæðinu öllu sé aukið úr 200 í 350 íbúðir. Neðanmáls segi að vikmörk geti verið 10-20% fyrir heildarsvæðið. Með deiliskipulagi fyrir Borgartún 24 hafi verið skipulagðar 396 íbúðir fyrir reitinn og því gengið afar langt á vikmörk svæðisins alls, án þess að það sé rökstutt sérstaklega. Samkvæmt deiliskipulagi Borgartúns sé gert ráð fyrir 65 íbúðum á lóð Borgartúns 24. Það sé nálægt helmingur allra þeirra íbúða sem bættust við sem heimild fyrir allt svæðið milli Katrínartúns/Höfða og Kringlumýrar­brautar samkvæmt áðurnefndri skipulagsbreytingu. Í ljósi þess hve íþyngjandi áhrif fyrirhuguð uppbygging muni koma til með að hafa gagnvart kærendum og öðrum hagsmunaaðilum, hafi Reykjavíkurborg, með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, verið óheimilt að nýta svo stóran hluta af framangreindri heimild á einungis einum reit, þ.e. Borgartúni 24.

Einn kærenda bendi á að hann reki umsvifamikla starfsemi á reitnum. Auk húsakynna á lóð nr. 4 við Nóatún sé skemman á baklóð Borgartúns 22 í hans eigu og sé ómissandi þáttur í rekstri hans. Skemman sé því ekki föl til niðurrifs. Núverandi skipulag lóða leyfi nokkuð greiða aðkomu með vörur að og frá húsakynnum kæranda og hana megi hvergi skerða. Auglýst skipulagsbreyting vegna Borgartúns 24 byggi á rammaskipulagi en þeir þættir skipulagsins, sem gagnast eigi viðkomandi lóð, standist ekki nánari skoðun. Lóðin sjálf verði því að bera þá starfsemi sem þar fari fram en það sem kunni að skorta til þess að uppfylla markmið skipulags­breytingarinnar verði ekki sótt á nágrannalóðir eigendum þeirra til tjóns. Í þessu samhengi virðist fyrirhugað nýtingarhlutfall lóðarinnar Borgartúns 24 allt of hátt. Tvöföldun núverandi húsakynna væri kannski algjört hámark. Þá sé aðkoma að neðanjarðar bílageymslu sett næst lóðarmörkum við Nóatún 4, eða við hlið inn- og útkeyrslu þeirrar lóðar sem þar hafi verið frá fyrstu tíð. Öndvert séu gatnamót Nóatúns og Sóltúns með vaxandi umferð en með hóflegri stækkun mannvirkja að Borgartúni 24 ætti að vera unnt að koma innkeyrslunni betur fyrir.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er kröfum og málatilbúnaði kærenda hafnað með vísan til þess sem fram komi í umsögn skipulagsfulltrúa frá 20. nóvember 2017 og í svarbréfi Skipulagsstofnunar, dags. 11. maí 2018.

Bent sé á að þróun á reitnum Borgartún 18-24/Nóatún 4 hafi staðið yfir með hléum í meira en fjögur ár. Forsaga málsins sé sú að lóðarhafar á lóð númer 24 hafi óskað eftir því við Reykjavíkurborg að breyta deiliskipulagi á sinni lóð og breyta starfsemi þar úr atvinnustarfsemi í blandaða byggð með íbúðum og atvinnustarfsemi. Þetta verkefni sé í góðu samræmi við markmið borgarinnar um þéttari og betri borgarbyggð í samræmi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Ákveðið hafi verið að í stað þess að horfa aðeins á eina lóð væri réttara að skoða götureitinn allan til þess að heildræn hönnun væri í fyrirrúmi. Ekki væri verið að vinna „bútasaumsskipulag“ þar sem ákvæði gætu stangast á.

Í nóvember 2014 hafi umhverfis- og skipulagssvið unnið lýsingu sem hafi verið kynnt á opnum vettvangi. Í kjölfar þess hafi Reykjavíkurborg farið í hugmyndaleit vegna fyrirhugaðrar deili­skipulagsvinnu á reitnum og fundur haldinn með öllum eigendum á reitnum. Að fundi loknum hafi fulltrúar borgarinnar hitt alla eigendur, hvern í sínu lagi og farið yfir þeirra hugmyndir um framtíðaruppbyggingu. Niðurstaða þessara viðræðna milli borgarinnar og lóðareigenda hafi verið sú að einungis eigendur Borgartúns 24 hafi verið á þessum tímapunkti tilbúnir til þess að breyta skipulagi á sinni lóð. Í ljósi þeirra stöðu hafi verið ákveðið að vinna sérstakt ramma­skipulag fyrir reitinn sem lýsi heildarsýn á reitinn með tilliti til byggðamynsturs opinna svæða, atvinnuhúsnæðis, blöndun byggðar og samgöngumáta í samræmi við áherslur og stefnu í aðalskipulagi Reykjavíkur. Samhliða því hafi verið breytt gildandi deiliskipulagi fyrir lóðina Borgartún 24 í samræmi við þá sýn sem sé lýst í rammaskipulaginu. Ástæða þess að breytt sé deiliskipulagi á lóðinni Borgartún 24 frekar en að vinna nýtt deiliskipulag fyrir allan reitinn sé sú að eigendur 80% lóða á reitnum óski ekki eftir því að breyta skipulagi á sínu svæði.

Við gerð deiliskipulagsins hafi verið metin líkleg áhrif af fyrirhuguðum framkvæmdum og starfsemi á aðliggjandi svæði, bæði er varði ásýnd, útsýni, hljóðvist, loftgæði, hagkvæmni, veðurfar, varðveislugildi og svipmót byggðar og einstakra bygginga. Þessir þættir hafi m.a. verið vegnir og metnir í rammaskipulaginu en taki jafnframt mið af þeim markmiðum sem sett hafi verið fram í aðalskipulagi Reykjavíkur. Mikil áhersla hafi verið lögð á að tengja þau ólíku byggðamynstur sem umlyki reitinn. Með ákvæði 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um að deiliskipulag skuli taka til svæða sem mynda heildstæða einingu er ætlunin að koma í veg fyrir að skipulagðar séu einstakar lóðir þó að slíkt geti stundum átt við. Hér sé verið að breyta deiliskipulagi en ekki að gera nýtt. Rétt sé að breytingin taki mið af rammaskipulagi, en vinna við það hafi einmitt miðað að því að gefa hugmynd af uppbyggingu á reitnum öllum og hafi mikið samráð verið haft við lóðareigendur á nálægum lóðum vegna þess sem hafi skilað sér í því að einungis einn lóðareigandi hafi verið tilbúinn í uppbyggingu.

Vegna athugasemda Skipulagsstofnunar, er varði samræmi við aðal- og deiliskipulag, sé tekið fram að samkvæmt heimildum í aðalskipulagi sé gert ráð fyrir 420 íbúðum að hámarki á reit 1.221 (350 íbúðir, vikmörk -10/+20%), en á svæðinu þurfi að nýta vikmörk til hækkunar. Á svæðum þar sem byggð sé blönduð og auðvelt að sé að þjóna með góðum almenningssamgöngum séu góð rök fyrir því að nýta vikmörk til hækkunar. Staða á húsnæðismarkaði og þörfin fyrir smærri íbúðir styðji einnig við það að vikmörkin séu nýtt.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulagsbreytingar sem felur í sér heimild fyrir uppbyggingu og notkun húsnæðis á lóðinni Borgartúni 24 í Reykjavík.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórnar, sem annast og ber ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr. nefndra laga. Þá ber við gerð deiliskipulags að byggja á stefnu aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga, en í 7. mgr. 12. gr. laganna er gerð krafa um að gildandi deiliskipulag rúmist innan heimilda aðal­skipulags. Við beitingu skipulagsvalds ber enn fremur að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Sveitarstjórn er einnig bundin af lögmætisreglu stjórnsýslu­réttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deili­skipulagi skuli háttað.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er lóðin nr. 24 við Borgartún á miðsvæði M6a og þróunarsvæði Þ42. Um miðsvæði M6a segir m.a. að þar sé einkum gert ráð fyrir skrifstofum á sviði fjármála, ráðgjafar og stjórnsýslu. Íbúðir séu heimilar á svæðinu, einkum á efri hæðum bygginga. Um þróunarsvæði Þ42 er tekið fram að þar sé gert ráð fyrir skrifstofum og fjölþættri verslun og þjónustu. Áætluð aukning atvinnuhúsnæðis sé um 50 þúsund m² á skipulagstímabilinu. Með breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur sem gerð var í ágúst 2017 var umrætt svæði fært undir svokallaðan Borgartúnsreit 26, en um þann reit segir að afmörkun reitsins sé endurskilgreind þannig að hann nái til Borgartúnssvæðis milli Katrínartúns og Kringlumýrarbrautar. Reiturinn sé stækkaður um 12,4 ha og heimild um fjölda íbúða á svæðinu rýmkuð úr 200 í 350 íbúðir. Vikmörk á fjölda íbúða geti verið −10/+20% sem geri að hámarki 420 íbúðir á reitnum. Er þar og tekið fram að fjölgun íbúða á svæðinu, sem sé í samræmi við markmið um blöndun byggðar, stafi bæði af aukningu byggingarmagns og breytingu atvinnuhúsnæðis í íbúðarhúsnæðis. Á árinu 2017 var samþykkt rammaskipulag fyrir umrætt svæði sem miðar að því að lóðir geti byggst upp á mismunandi tíma en allar samkvæmt sama skipulagi.

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er gert ráð fyrir byggingu 65 íbúða á lóðinni Borgartúni 24, sem er nálægt helmingur þeirra íbúða sem bættust við með framangreindri aðalskipulagsbreytingu. Líta ber til þess að á lóðinni er gert ráð blandaðri landnotkun íbúða- og atvinnuhúsnæðis og á svæðinu er greiður aðgangur að almenningssamgöngum. Þá getur staðan á húsnæðismarkaði og þörfin fyrir smærri íbúðir einnig stutt við það sjónarmið að −10/+20% vikmörk í aðalskipulagi séu nýtt til hækkunar. Með hliðsjón af framangreindu fer hin kærða deiliskipulagsbreyting ekki í bága við markmið og stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga, og er skilyrði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana uppfyllt. Þá hafa efnisleg rök verið færð fram sem ástæður fyrir breytingunni.

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga skal gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skal jafnan miða við að það taki til svæða sem mynda heildstæða einingu. Í athugasemdum við nefnt ákvæði í greinargerð frumvarps þess sem varð að skipulagslögum er kveðið á um að með því sé ætlunin að koma í veg fyrir að skipulagðar séu einstakar lóðir þótt slíkt geti stundum átt við. Ákvæðið ber að skilja á þann veg að það taki til þess þegar unnið er skipulag á ódeiliskipulögðu svæði enda ótvírætt skv. 43. gr. sömu laga að sveitarstjórnir hafa heimild til breytinga á samþykktu deiliskipulagi sem eðli máls samkvæmt geta verið misjafnlega víðtækar og náð eftir atvikum aðeins til einnar lóðar. Var því heimilt að láta umdeilda skipulagsbreytingu ná til einnar lóðar.

Deiliskipulagsbreytingin var auglýst til kynningar í samræmi við reglur skipulagslaga um almenna meðferð breytinga á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. laganna og áttu kærendur kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar, sem þeir og gerðu. Samþykkt tillaga, ásamt samantekt um málsmeðferð, athugasemdir og svör við athugasemdum, var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Stofnunin gerði athugasemdir við deiliskipulagsbreytinguna, sem borgaryfirvöld brugðust við og tóku afstöðu til. Deiliskipulagsbreytingin öðlaðist gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 15. júní 2018. Liggur því ekki annað fyrir en að málsmeðferð skipulags­breytingarinnar hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Í greinargerð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar er fjallað um að aðkoma ökutækja að lóðinni við Borgartún 24 sé góð, en aðkoman sé bæði frá Borgartúni og Nóatúni. Umferðaspá fyrir árið 2024 geri ráð fyrir 5.000 bílum á sólarhring í Borgartúni norðan við reitinn og 4.000 bílum á sólarhring í Nóatúni austan við reitinn. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvað umferð aukist mikið við uppbyggingu lóðarinnar. Ljóst er þó að umdeild breyting getur haft umtalsverð áhrif gagnvart grannlóðum, s.s. vegna aukinnar umferðar. Að mati úrskurðarnefndarinnar ræður það atriði þó ekki úrslitum um gildi hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar en getur eftir atvikum leitt til bótaskyldu skv. 51. gr. skipulagslaga. Á hinn bóginn verður ekki séð að aðkoma til og frá vörugeymslu á baklóð Borgartúns 22 verði skert. Þá verður ekki séð að hæð og umfang heimilaðrar byggingar samkvæmt umdeildri skipulagsbreytingu fari á svig við byggðamynstur Borgartúns þegar litið er til hæðar og legu bygginga við þá götu og vestan megin Kringlumýrarbrautar. Á næsta skipulagsreit er átta hæða verslunar- og skrifstofu­húsnæði að Borgartún 26 og er nýtingarhlutfall hennar  3,36. Á sama reit er jafnframt að finna tíu hæða hús við Mánatún og er nýtingarhlutfall þeirrar lóðar 2,79. Þá verður ráðið af gögnum um skuggavarp fyrirhugaðrar byggingar að það sé ekki umfram það sem gerist og gengur á svæðinu.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 7. júní 2018 um breytingu á deiliskipulagi staðgreinireits 1.221, vegna lóðarinnar nr. 24 við Borgartún í Reykjavík.

150/2017 Elliðabraut og Norðlingaholt

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 22. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 150/2017, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. desember 2017 um breytingu á deiliskipulagi Norðlingaholts vegna lóða nr. 4-6, 8-10 og 12 við Elliðabraut.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 22. desember 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Bjallavaði 7, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. desember 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Norðlingaholts, sem felur í sér að landnotkun lóðanna Elliðabrautar 4-6, 8-10 og 12 verði breytt úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 12. febrúar 2018.

Málatvik og rök: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 5. júlí 2017 var tekin fyrir tillaga um breytingu á deiliskipulagi Norðlingaholts vegna lóða nr. 4-6, 8-10 og 12 við Elliðabraut. Breytingin fól í sér að í stað þess að gera ráð fyrir atvinnuhúsnæði á lóðunum yrði gert ráð fyrir 1 – 4 hæða íbúðarhúsnæði. Tekið var fram að byggingarmagn mannvirkjanna yrði óbreytt. Að lokinni kynningu breytingarinnar, þar sem kærandi kom að athugasemdum, og frekari meðferð málsins samþykkti borgarráð deiliskipulagsbreytinguna 21. desember 2017. Tók hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðina 12. janúar 2018.

Kærandi bendir á að með breytingu landnotkunar úr léttum iðnaði í íbúðarbyggð muni bílaumferð stóraukast á álagstímum, en á stofnæðum í kringum Norðlingaholt séu nú þegar langar raðir bíla á þeim tíma. Engar hugmyndir séu uppi um bættar samgöngur til að mæta þessari fjölgun, sem verði á bilinu 250-550 bílar. Þá sé Norðlingaskóli nú þegar komin í aukahúsnæði vegna fjölda nemenda og óljóst hvernig leysa eigi húsnæðismál hans þegar nemendafjöldinn muni aukast enn frekar vegna umræddrar íbúðarbyggðar. Loks séu fyrirhugaðar byggingar einni hæð hærri en fyrra deiliskipulag hafi gert ráð fyrir, auk þess sem byggingarmagn sé stóraukið. Slíkt muni hafa áhrif á ásýnd hverfisins, rýra útsýni og auka skuggamyndun.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að í umsögn umhverfis- og skipulagssviðs vegna athugasemda við tillögu aðalskipulagsbreytingar Norðlingaholts, sem vörðuðu Elliðabraut 4-13, hafi m.a. komið fram að núverandi gatnakerfi ætti að ráða við þá auknu umferð á álagstímum sem breytingin myndi hafa í för með sér þó svo að biðtími gæti aukist, en ástæða væri til að fylgjast með þróun umferðar á svæðinu. Þá mætti ætla, í ljósi reynslunnar um þróun nemendafjölda í öðrum skólahverfum, að fjölgun íbúða gæti styrkt skólahverfið til lengri tíma og fjölgun íbúa gæti styrkt rekstrargrundvöll verslunar og þjónustu í hverfinu. Byggingarreitur Elliðabrautar 4-6 verði svipaður að gerð samkvæmt fyrra deiliskipulagi fyrir utan það að vera breiðari til að ná birtu inn í inngarða. Ekki sé um að ræða aukningu á heimiluðu byggingarmagni á lóðunum.

Niðurstaða: Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögðvarða hagsmuni sem eiga beinna einstaklegra hagsmuna að gæta tengda þeirri ákvörðun sem kæra á og að þeir hagsmunir séu verulegir.

Kæran byggir á sambærilegum athugasemdum og kærandi kom á framfæri við borgaryfirvöld á athugasemdartíma tillögunnar. Hann byggir málatilbúnað sinn fyrst og fremst á því að með deiliskipulagsbreytingunni muni byggingarmagn verða aukið og húsin sem um ræðir hækkuð um eina hæð, sem hafi m.a. áhrif á útsýni og skuggamyndun. Að auki muni umferð aukast og nemendum fjölga við grunnskólann.

Kærandi er búsettur á deiliskipulagssvæðinu. Við mat á því hvort hann eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu verður að líta til þess að hús hans er staðsett í um 450-500 m fjarlægð frá þeim stað sem fyrirhugað er að umrædd hús við Elliðabraut muni rísa og þar á milli standa önnur hús. Í ljósi þessa og staðhátta að öðru leyti verður ekki séð að breyting sú sem hér um ræðir muni í neinu hafa áhrif á grenndarhagsmuni kæranda. Þá verður að telja að málsrök kæranda sem varða aukningu umferðar og fjölgun nemenda í skólanum lúti fyrst og fremst að gæslu almannahagsmuna en ekki persónulegra hagsmuna hans umfram aðra íbúa hverfisins. Á það skal bent að þótt kærandi hafi átt rétt á að koma að athugasemdum við málsmeðferð vegna tillögu að breyttu deiliskipulagi skv. skipulagslagslögum nr. 123/2010 veitir það honum ekki sjálfstæðan rétt til kæruaðildar fyrir úrskurðarnefndinni.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið telst kærandi ekki eiga kæruaðild vegna ágreinings um lögmæti hinnar umdeildu deiliskipulagsbreytingar. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

124/2018 Laugavegur

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 22. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 124/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. febrúar 2018 um að samþykkja veitingu byggingarleyfis fyrir breytingum á húsinu nr. 130 við Laugaveg í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 8. október 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Laugavegi 128, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. febrúar 2018 að samþykkja byggingaráform til breytingar á húsinu nr. 130 við Laugaveg. Er þess krafist að framangreind ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 18. október 2018.

Málavextir: Fyrir lóðina Laugaveg 130 er í gildi deiliskipulag sem tekur til staðgreinireita 1.241.0 og 1.241.1, svonefndra Hampiðjureita. Nefnt deiliskipulag var samþykkt í borgarráði Reykjavíkur 20. júlí 2006 og tók gildi 8. ágúst s.á. Í almennum skilmálum deiliskipulagsins kemur m.a. fram að með því sé veitt heimild fyrir minni háttar breytingum á húsum á reitnum, s.s. gerð skyggnis, svala, lítilla kvista og lagfæringa án deiliskipulagsbreytingar, að undangengnu samþykki byggingarfulltrúa. Í sérskilmálum fyrir lóðina nr. 130 við Laugaveg kemur fram að heimilt sé að hækka húsið um eina hæð og reisa út útbyggingu til suðurs.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 20. febrúar 2018 var samþykkt umsókn eiganda Laugavegs 130 um að rífa núverandi ris hússins og þak, hækka húsið um eina hæð, byggja viðbyggingu úr steinsteypu og gleri á fyrstu hæð og gera svalir á þriðju hæð og í risi. Erindið hafði áður verið samþykkt 3. apríl 2007 og 15. júlí 2008. Var afgreiðsla byggingarfulltrúa staðfest á fundi borgarráðs 1. mars 2018 og var byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum gefið út 24. ágúst s.á. Samkvæmt aðaluppdráttum leyfisins var gert ráð fyrir 26,5 m2 svölum á þaki viðbyggingarinnar.

Málsrök kærenda:
Kærendur telja að svalir sem fyrirhugaðar séu á þaki viðbyggingar fyrstu hæðar stangist á við aðalskipulag. Þáverandi nágranni hafi samþykkt byggingu viðbyggingar við húsið fyrir u.þ.b. 10 árum, sem heimiluð hafi verið í deiliskipulagi reitsins, og geri kærendur ekki athugasemdir varðandi hana. Hins vegar hafi þá ekki verið gert ráð fyrir svölum á þaki viðbyggingarinnar, líkt og nú. Svölunum hafi verið bætt inn í teikningarnar árið 2018 án nokkurs samráðs við nágranna.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010-2030 á bls. 204 komi eftirfarandi fram varðandi svæðið: „Meðfram aðalgötum er heimil fjölbreyttari landnotkun, þó grunnskilgreining lóða við götuna sé íbúðarsvæði. Hér er einkum um að ræða starfsemi sem fellur undir flokkana verslun og þjónusta (VÞ, að skemmtistöðum undanskyldum) og samfélagsþjónustu (S). Verslun og þjónusta á jarðhæðum getur verið heimil, svo og mögulega veitingastaðir í flokki I og II og gististaðir í flokki II-III. Opnunartími allra veitingastaða skal takmarkast við kl. 23. Breytt notkun í þessa veru í fjöleignarhúsi er háð samþykki meðeigenda, sbr. ákvæði laga um fjöleignarhús. Rýmri heimildir um landnotkun gilda eingöngu um hús sem standa við viðkomandi aðalgötu og ná einkum til jarðhæða þegar um verslun, þjónustu, og veitingastaði er að ræða. Ef þörf krefur eru sett nánari ákvæði um landnotkunarheimildir við aðalgötur í hverfis- og eða deiliskipulagi.“ Kærandi bendir á að samkvæmt því sem komi fram í aðalskipulagi sé gert ráð fyrir að rýmri heimildir um landnotkun nái einkum til jarðhæða. Umræddar svalir séu hins vegar á annarri hæð og samræmist því ekki aðalskipulagi borgarinnar. Skilja verði það sem fram komi í aðalskipulagi á þann hátt að veitingastaðurinn ætti ekki að geta fengið leyfi fyrir aukinni starfsemi á annarri hæð án sérstakrar samþykktar, að undangenginni úttekt á grenndaráhrifum. Slík samþykkt liggi hins vegar ekki fyrir og sérstök úttekt hafi ekki farið fram.

Ætla megi að ekki hafi verið talin ástæða til að grenndarkynna tilkomu svalanna þar sem litið hafi verið svo á að þær féllu undir minni háttar breytingar sem gera mætti án deiliskipulags-breytingar. Nefndar svalir geti hins vegar ekki fallið undir þessa heimild þar sem þær séu óvenju stórar og því ekki hægt að líta á þær sem minni háttar breytingu á húsinu.

Með tilkomu svalanna yrði einkalíf kærenda gert að engu og ekki væri hægt að lifa eðlilegu fjölskyldulífi. Gestum veitingarstaðarins yrði gert kleift að horfa inn um stofugluggann hjá kærendum úr u.þ.b. tveggja metra fjarlægð og ætla megi að gestunum myndi fylgja hávaði, einkum í ljósi þess að veitingastaðurinn sé með vínveitingaleyfi og heimild til að hafa opið til kl. 23:00 á hverju kvöldi. Þá megi búast við að truflandi og heilsuspillandi reykingarlykt myndi berast inn í vistarverur kærenda, kysu þeir að hafa opinn glugga. Þetta myndi hafa í för með sér að erfitt yrði að selja íbúðina og að verðgildi hennar myndi hrapa.

Kærendur taki fram að í samskiptum þeirra við Reykjavíkurborg sé ekki að sjá skýra afstöðu borgarinnar til svalanna og telji kærendur það renna stoðum undir þá afstöðu þeirra að ekki hafi verið rétt að málum staðið. Í einu svari frá byggingarfulltrúa hafi komi fram að eiganda veitingastaðarins væri með öllu óheimilt að hleypa gestum út á svalirnar þar sem ekki hafi verið sótt um útiveitingaleyfi. Hins vegar sé á það bent að málið snúist ekki um það hvort borðhald verði á þaksvölunum heldur leggist kærendur gegn því að stöðugur straumur veitingarhúsagesta eigi að geta verið á svölunum og valdið þeim truflunum sem áður hafi verið raktar. Ef borgin hafi í hyggju að banna umgang á þaksvölunum sé óútskýrt hvers vegna veitt hafi verið leyfi fyrir þeim. Þá yrðu leyfðar þaksvalir tveimur metrum frá stofuglugga kærenda, sem hefðu ekkert jákvætt gildi fyrir veitingastaðinn sem þær tilheyrðu. Svalirnar myndu hins vegar hafa neikvæð áhrif gagnvart kærendum þar sem þær myndu rýra verðgildi fasteignar þeirra.

Kærendur hafi tekið fram í bréfi til leyfishafa að þeir hefðu vitað af heimild fyrir umræddri viðbyggingu þegar þeir keyptu íbúð sína en verið ókunnugt um að svalir yrðu á þaki hennar. Leyfishafi hafi lofað kærendum munnlega að hafa ekki útisvæði á þaki viðbyggingarinnar, en það kalli á breytingar á teikningum sem ekki hafi verið gerðar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er tekið fram að umræddar framkvæmdir séu í samræmi við gildandi deiliskipulag reita 1.241.0 og 1.241.1, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 20. júlí 2006. Í sérskilmálum skipulagsins komi fram að heimilt sé að hækka húsið Laugaveg 130 um eina hæð og gera útbyggingu til suðurs. Þá sé samkvæmt almennum skilmálum deiliskipulagsins heimilaðar minni háttar breytingar á húsum á reitnum, m.a. gerð svala, án þess að framkvæma þurfi deiliskipulagsbreytingu.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi vísar til þess að þær framkvæmdir og tilheyrandi breytingar sem hið kærða byggingarleyfi heimili hafi verið samþykktar fyrir áratug í deiliskipulagi, löngu áður en kærendur keyptu þá fasteign sem veiti þeim aðild að máli þessu. Kærufrestur vegna þess deiliskipulags, sem sé frá árinu 2007, sé löngu liðinn.

Hið útgefna byggingarleyfi sé í samræmi við gildandi lög og reglur og jafnframt aðal- og deiliskipulag svæðisins. Þegar hið kærða byggingarleyfi hafi verið gefið út 24. ágúst 2018 hafi sú breyting verið gerð frá upphaflega samþykktri breytingu frá 2007 að heimilað hafi verið að setja handrið og dyr út á þak viðbyggingarinnar að Laugavegi 130. Ástæðan fyrir því hafi verið sú að hægt yrði að nýta svalirnar sem flóttaleið fyrir efri hæð veitingastaðarins sem þar sé til húsa. Hönnuði byggingarinnar hafi hvorki þótt forsvaranlegt að fólk þyrfti að klöngrast út um glugga veitingahússins ef koma þyrfti til rýmingar, sbr. gr. 9.5.3 í byggingarreglugerð, né að ekki væru viðunandi fallvarnir til staðar. Því hafi dyr verið settar út á svalirnar og hannað handrið utan um þakflöt viðbyggingarinnar. Samkvæmt aðalskipulagi svæðisins sé heimilt að veita leyfi fyrir slíkum svölum án sérstakrar breytingar á deiliskipulagi. Hins vegar þurfi sérstakt leyfi til að heimilt verði að nýta svalirnar undir starfsemi veitingastaðarins, en engin áform séu af hálfu rekstraraðila til slíks. Áður hafi verið sótt um slíkt leyfi en því verið hafnað.

Niðurstaða: Samkvæmt byggingarreglugerð nr. 112/2012 er gerð krafa um að við hönnun mannvirkja skuli ávallt gert ráð fyrir því að eldur geti komið upp. Með því á að tryggja að viðstaddir geti yfirgefið mannvirkið í eldsvoða eða bjargast eftir öðrum leiðum. Í gr. 9.5.2. í reglugerðinni kemur fram að frá hverju rými byggingar þar sem gera megi ráð fyrir að fólk dveljist eða sé statt skuli vera fullnægjandi flóttaleiðir úr eldsvoða. Eiga flóttaleiðirnar að vera þannig skipulagðar og frágengnar að allir geti bjargast út af eigin rammleik eða fyrir tilstilli annarra á tilgreindum flóttatíma, brjótist eldur út eða annað hættuástand skapast, sbr. gr. 9.5.1. Flóttaleiðirnar skulu vera einfaldar, auðrataðar og greiðfærar svo að fólk verði ekki innlyksa í skotum og endum ganga, sbr. gr. 9.5.2.

Í bókun byggingarfulltrúa um samþykki byggingaráforma vegna Laugavegar 130 frá 20. febrúar 2018 kemur fram að veitt sé leyfi til að rífa núverandi ris og þak, hækka húsið um eina hæð, byggja viðbyggingu úr steinsteypu og gleri á fyrstu hæð og gera svalir á þriðju hæð og á ris hússins. Byggingarleyfi sem gefið var út hinn 24. ágúst s.á. í skjóli þeirrar ákvörðunar hefur og að geyma sömu byggingarlýsingu. Þá kemur fram á teikningu samþykkts aðaluppdráttar að gert sé ráð fyrir svaladyrum á annarri hæð sem liggja muni út á svæði sem skráð er sem svalir á þaki viðbyggingar fyrstu hæðar. Loks kemur fram í byggingarlýsingu aðaluppdráttar, í kaflanum notkun og gerð byggingar, að gert sé ráð fyrir hellulögðum þaksvölum á annarri hæð, en í þeim kafla sem fjallar um eldvarnir segir hins vegar að flóttaleið sé á annarri hæð út á steinsteypt þak og að á þriðju hæð og risi séu steyptar svalir. Vegna framangreinds ósamræmis verður ekki með ótvíræðum hætti ráðið hvort umrætt svæði á þaki viðbyggingarinnar þjóni einungis þeim tilgangi að vera flóttaleið eða hvort einnig sé um hefðbundnar svalir að ræða, sem ætlaðar séu til almennra nota. Hins vegar þykir verða að líta svo á, með hliðsjón af fyrrgreindu orðalagi bókunar byggingarfulltrúa um samþykki byggingaráforma og síðan sama orðalagi í útgefnu byggingarleyfi, en jafnframt því að í skipulagsskilmálum fyrir húsið er ekki gert ráð fyrir veitingastarfsemi eða umgangi gesta á umræddum þakfleti, að hin kærða ákvörðun feli í sér að umræddur þakflötur viðbyggingar fyrstu hæðar sé einungis ætlaður sem flóttaleið en ekki til notkunar fyrir gesti umrædds veitingastaðar. Teljast umræddar breytingar, sem heimilaðar eru í hinu kærða byggingarleyfi, því einungis minni háttar breytingar í skilningi almennra skilmála deiliskipulagsins, sem heimilt var að gera án þess að til kæmi breyting á deiliskipulagi.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er hið kærða byggingarleyfi í samræmi við gildandi skipulagsskilmála deiliskipulags fyrir Laugaveg 130 og þykja því ekki efni til að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. febrúar 2018 um að veita byggingleyfi til breytinga á húsinu nr. 130 við Laugaveg.

68/2016 Frakkastígur

Með

Árið 2018, föstudaginn 20. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 68/2016, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 17. maí 2016 um að samþykkja starfsleyfi fyrir veitingahús að Frakkastíg 26A, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. júní 2016, er barst nefndinni 22. s.m., kærir eigandi, Frakkastíg 26B, Reykjavík, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 17. maí 2016 að samþykkja starfsleyfi fyrir veitingahúsi við Frakkastíg 26A, Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Einnig eru kærð „öll önnur brot Reykjavíkurborgar á [kæranda] er varða veitingahúsið Frakkastíg 26A“.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 22. júlí 2016 og í júní 2018.

Málavextir: Forsaga máls þessa er nokkur, en 12. maí 2015 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík umsókn um byggingarleyfi vegna hússins á lóðinni Frakkastíg 26A. Var m.a. samþykkt breytt notkun hússins úr íbúðarhúsi í veitingahús í flokki II. Að auki voru samþykktar breytingar á húsinu að innan og utan. Skaut kærandi máls þessa nefndri ákvörðun til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem með úrskurði 3. mars 2016 felldi hana úr gildi að því er laut að stækkun bíslags til norðurs og gerð skjólveggja og grindverks. Í kjölfarið var samþykkt breyting á deiliskipulagi svæðisins, sem kærandi hefur einnig kært til úrskurðarnefndarinnar og er það kærumál nr. 134/2016.

Umsókn um starfsleyfi fyrir veitingahús í flokki II að Frakkastíg 26A var móttekin hjá Reykjavíkurborg 9. desember 2015. Eftirlitsferð á vegum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur fór fram 13. maí 2016 og er skýrsla vegna þessa dagsett sama dag. Var þar tekið fram að gestafjöldi sé 65, að sjá sé húsnæðið í samræmi við samþykktar teikningar og að samkvæmt teikningu séu útiveitingar á fimm borðum. Þá var fjallað um búnað í eldhúsi, hvaða matseld færi fram, reglur um óþol og ofnæmisvalda, ræstingu og þrif, meðferð matvæla og innra eftirlit. Á afgreiðslufundi heilbrigðiseftirlitsins 17. s.m. var starfsleyfisumsóknin tekin fyrir og var samþykkt að veita leyfi til 12 ára með starfsleyfisskilyrðum fyrir samkomuhús og fyrirvara um rekstrarleyfi sýslumanns. Sett var og skilyrði um að rekstraraðili gerði allt sem í hans valdi stæði til að koma í veg fyrir ónæði, sbr. reglugerð nr. 724/2008 um hávaða og reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti. Gaf framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlitsins út starfsleyfið sama dag. Er starfsleyfið sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Starfsemi og rekstur veitingastaða eru einnig háð rekstrarleyfi. Á nefndum afgreiðslufundi heilbrigðiseftirlitsins 17. maí 2016 var enn fremur lagt fram bréf Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 26. apríl s.á., þar sem óskað var umsagnar heilbrigðiseftirlitsins fyrir veitingastað í flokki II, ásamt útiveitingum til kl. 21:00. Var samþykkt að veita jákvæða umsögn, tekið fram að gestafjöldi væri 65 og sett skilyrði um að rekstraraðili gerði allt sem í hans valdi stæði til að koma í veg fyrir ónæði, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 724/2008 og reglugerðar nr. 941/2002. Veitti byggingarfulltrúinn í Reykjavík einnig umsögn og óskaði þess að rekstrarleyfi yrði veitt til bráðabirgða til 12 mánaða þar sem unnið væri að deiliskipulagsbreytingu á svæðinu. Mun rekstrarleyfið hafa verið gefið út 25. maí 2016 til eins árs, frá 25. júní s.á. að telja. Skaut kærandi máls þessa þeirri ákvörðun til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem 14. nóvember 2017 felldi leyfið úr gildi. Taldi ráðuneytið m.a. að um slíka annmarka hefði verið að ræða að nauðsynlegt hefði verið að hafna útgáfu leyfis þar til niðurstaða hefði legið fyrir vegna deiliskipulagsbreytingarinnar, enda hefði ekki verið á færi umsækjanda að tryggja þá breytingu. Hinn 16. ágúst 2017 samþykkti sýslumaður nýtt rekstrarleyfi vegna Frakkastígs 26A. Hefur kærandi komið að kæru vegna þess til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins en því máli mun ekki vera lokið hjá ráðuneytinu.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að leyfisveiting hafi farið fram á röngum forsendum þar sem aðrir uppdrættir hafi fylgt umsókn en samþykktir hafi verið. Brjóti húsnæðið í bága við skilmála deiliskipulags, byggingarleyfis og samþykkta aðaluppdrætti. Uppfylli veitingahúsið ekki grunnskilyrði þess að fá útgefið leyfi í flokki II, en ónæði af starfseminni sé töluvert meira en rúmist innan þess ramma sem settur sé í deiliskipulagi og í lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Fyrirkomulag á lóð og útisvæði sé ekki í eðlilegu samhengi við starfsemi veitingahússins á þessum stað eða í næsta nágrenni. Á gildandi aðaluppdrætti segi að innandyra séu sæti fyrir 49 manns. Samkvæmt rekstrarleyfi megi vera 38 sæti innandyra á 1. hæð, 12 sæti á 2. hæð og 15 sæti utandyra eða samtals 65 sæti.

Engin raunveruleg eða fagleg mæling hafi verið gerð á hljóðvist eða lyktarmengun á milli húsa. Þess utan virðist sem engin hljóðvistarhönnun hafi verið gerð fyrir veitingahúsið og bresti því lagaheimild til að heimila rekstur veitingastaðarins, sbr. gr. 4.3.9. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Vítavert sé að heimila rekstur veitingastaðar í húsi sem uppfylli ekki lögbundnar kröfur til eldvarna og eldhætta sé mikil. Sérstaklega þar sem fjarlægð milli veitingastaðarins og íbúðarhúsa sé undir 4 m. Ekki hafi verið haft samband við nágranna til að kynna þeim málið. Um óviðunandi lyktar- og hljóðmengun sé að ræða frá veitingahúsinu. Útisvæði þess sé mikið notað og ónæðið afar mikið. Sífelldur og hávær hvinur sé frá blásara á þaki bíslagsins/eldhússins. Umferðarréttur kæranda að lóð hans sé ekki virtur.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað. Engir form- eða efnisannmarkar séu á starfsleyfinu og því engar forsendur til að fella það úr gildi. Umrætt starfsleyfi hafi verið gefið út eftir að uppfyllt hafi verið ákvæði laga um matvæli nr. 93/1995 og laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerða settra samkvæmt þeim. Heilbrigðisfulltrúi hafi gert úttekt á húsnæðinu og aðstöðunni þar í samræmi við reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004. Við eftirlit hafi ekkert komið fram sem gefið hafi tilefni til að hafna umsókn um starfsleyfi eða fresta útgáfu þess. Heilbrigðisnefnd sé jafnframt umsagnaraðili til sýslumanns vegna útgáfu rekstrarleyfisins varðandi grenndaráhrif. Hafi jákvæð umsögn verið send sýslumanni 17. maí 2016 og sýslumaður gefið út rekstrarleyfi 25. s.m. Hafi þá starfsleyfið endanlega tekið gildi.

——-

Kærandi hefur í kjölfar kæru komið fjölda skjala að í málinu þar sem hann rekur með ítarlegum hætti forsögu málsins til nokkurra áratuga, sem og samskipti sín við stjórnvöld vegna málsins. Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér skjölin en ekki er þörf á að reifa efni þeirra frekar hér.

Niðurstaða: Úrskurðarnefndin hefur það hlutverk skv. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Rísi ágreiningur um framkvæmd laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, reglugerða settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir yfirvalda er heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndarinnar í samræmi við 65. gr. laganna, áður 31. gr. þeirra. Nánar er kveðið á um málsmeðferð og kæruaðild í 4. gr. laga nr. 130/2011, en þar kemur t.a.m. fram í 1. mgr. ákvæðisins að fram þurfi að koma í kæru hvaða ákvörðun er kærð. Í kæru kemur fram krafa um ógildingu þeirrar ákvörðunar að samþykkja starfsleyfi fyrir veitingahúsi að Frakkastíg 26A og er það kæranleg ákvörðun. Kærandi kærir einnig „öll önnur brot Reykjavíkurborgar“ án nánari tilgreiningar. Svo sem áður er komið fram hefur úrskurðarnefndin kynnt sér fjölda skjala sem kærandi hefur komið að í málinu. Af þeim er ljóst að kærandi er afar ósáttur við framgöngu borgaryfirvalda vegna leyfisveitinga þeirra varðandi Frakkastíg 26A. Hins vegar verður ekki séð að við móttöku kærunnar hafi nokkur annar sá ágreiningur verið til staðar sem borinn verður undir úrskurðarnefndina. Þá gefa viðbótarathugasemdir kæranda í málinu ekki heldur tilefni til að álykta að nýtt kæruefni hafi komið fram þótt kærandi sé ósáttur við starfsemi þá sem fram fer í skjóli hinnar kærðu leyfisveitingar heldur benda gögn málsins til þess að ágreiningur aðila í máli þessu eigi rætur sínar að rekja til hins kærða starfsleyfis. Að öllu þessu virtu tekur úrskurðarnefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu þess.

Í máli þessu er því deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að samþykkja starfsleyfi fyrir veitingahúsi í flokki II að Frakkastíg 26A, sem gefið var út af framkvæmdastjóra eftirlitsins í samræmi við viðauka 2.2. við samþykkt nr. 715/2013 um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, með síðari breytingum. Fjallar viðaukinn um embættisafgreiðslur framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur án staðfestingar heilbrigðisnefndar.

Til veitingastaða í flokki II teljast umfangslitlir áfengisveitingastaðir þar sem starfsemin er ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu, svo sem með háværri tónlist, afgreiðslutími er ekki lengri en til kl. 23:00 og kalla ekki á mikið eftirlit og/eða löggæslu, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sem í gildi var við veitingu starfsleyfisins. Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 4. gr. a. í lögum nr. 7/1998 skyldu fyrirtæki og önnur starfsemi sem talin eru upp í fylgiskjali III með lögunum hafa gilt starfsleyfi gefið út af heilbrigðisnefnd og fellur starfsemin að Frakkastíg 26A undir þá skyldu. Sambærilegt ákvæði er að finna í 7. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti. Í 8. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um hvaða gögn skuli fylgja með umsókn um starfsleyfi og er þar m.a. áskilið að uppdrættir af staðsetningu fylgi umsókn. Þá skal húsnæðið hafa hlotið samþykkt byggingarnefndar, sbr. þágildandi ákvæði 14. gr. reglugerðarinnar sem við á í máli þessu.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er umrædd lóð á íbúðarsvæði ÍB11. Á þeim tíma er hin kærða ákvörðun var tekin var Frakkastígur skilgreindur sem aðalgata. Um íbúðarsvæði sagði svo í aðalskipulaginu að þar væri almennt gert ráð fyrir íbúðarbyggð ásamt tilheyrandi nærþjónustu og gætu veitingastaðir í flokki I og eftir atvikum í flokki II fallið undir þá skilgreiningu. Innan skilgreindra íbúðarsvæða væri mögulegt að gera ráð fyrir fjölbreyttri atvinnustarfsemi enda væri um að ræða þrifalega starfsemi sem ekki ylli ónæði. Meðfram aðalgötum væri heimil fjölbreyttari landnotkun. Verslun og þjónusta á jarðhæðum gæti verið heimil, svo og mögulega veitingastaðir í flokki I og II. Opnunartími allra veitingastaða skyldi takmarkast við kl. 23:00. Að framangreindu virtu fer heimiluð starfsemi að Frakkastíg 26A ekki í bága við gildandi skipulagsáætlun sem gerir beinlínis ráð fyrir því að starfsemi sú sem heimiluð er með hinu kærða starfsleyfi sé samrýmanleg búsetu á sama svæði. Það leysir heilbrigðisyfirvöld borgarinnar þó ekki undan þeirri skyldu að meta hverju sinni hvort starfsemi sú sem sótt er um leyfi fyrir valdi slíku óhagræði fyrir nágranna að rétt sé að leyfa hana ekki. Þannig er t.a.m. tekið fram í gr. 5.3.2.8. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að gæta skuli þess að atvinnustarfsemi í íbúðarbyggð valdi sem minnstum óþægindum vegna bílaumferðar, hávaða, ljósanotkunar eða annars ónæðis. Þá er það meðal hlutverka heilbrigðisnefnda að hafa eftirlit með framkvæmd reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða. Hið kærða starfsleyfi er bundið ákveðnum skilyrðum sem miða að því að koma til móts við kvartanir nágranna um aðkomu og lóð, mengun og hávaða. Er og sérstaklega tekið fram í tilkynningu til leyfishafa um starfsleyfið, dags. 17. maí 2016, að skilyrt sé að rekstraraðili geri allt sem í hans valdi standi til að koma í veg fyrir ónæði, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 724/2008 og reglugerðar nr. 941/2002. Verður að telja með tilliti til þessa að skyldubundið mat Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, m.a. á grenndarhagsmunum kæranda, hafi farið fram með fullnægjandi hætti áður en starfsleyfið var gefið út. Hefur þá einnig verið höfð hliðsjón af því að um eitthvað ónæði er ávallt að ræða í þéttbýli og að um mörk miðborgarkjarna, blandaðrar miðborgarbyggðar og íbúðarbyggðar og hreinnar íbúðarbyggðar sé að ræða.

Hinn 12. maí 2015 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík umsókn um leyfi til að breyta notkun á Frakkastíg 26A úr íbúðarhúsnæði í veitingastað í flokki II, auk breytinga á húsinu að innan sem utan. Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ákvörðunina úr gildi að hluta, þ.e. vegna stækkunar bíslags fast upp að mörkum lóðar kæranda og vegna skjólveggja og grindverks á lóðarmörkum kæranda og leyfishafa, en að öðru leyti var ekki hróflað við gildi ákvörðunarinnar. Við töku hinnar kærðu ákvörðunar var því til staðar gild samþykkt byggingarfulltrúa, m.a. um breytta notkun hússins. Var byggingarleyfi svo samþykkt að nýju 22. nóvember 2016 að undangenginni deiliskipulagsbreytingu, sem einnig hefur verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem áður greinir. Þá lá fyrir við meðferð máls þessa jákvæð umsögn byggingarfulltrúa frá 4. maí 2016 fyrir veitingahúsi í flokki II að Frakkastíg 26A. Var í umsögninni vísað til yfirferðar á samþykktum aðaluppdráttum, til laga nr. 85/2007 og tilgreindra reglugerða, sem og til byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Hinn 13. maí 2016 fór fram skoðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á húsnæðinu og er tekið fram í eftirlitsskýrslu að húsnæðið sé að sjá í samræmi við samþykktar teikningar. Einnig er tekið fram að gestafjöldi sé 65. Í byggingarlýsingu byggingarleyfis sem þá var í gildi kom fram að sæti fyrir gesti yrðu á báðum hæðum hússins, alls 49 talsins, en á samþykktum aðaluppdráttum eru þau sögð 48. Hins vegar er einnig tekið fram í eftirlitsskýrslu að veitingaborð utanhúss séu fimm talsins og verður að líta svo á að það skýri með fullnægjandi hætti misræmi í tilgreindum gestafjölda. Gerir síðar útgefið byggingarleyfi frá 22. nóvember 2016 ráð fyrir 50 sætum innandyra og 15 sætum utandyra, eða alls 65 sætum.

Að öllu framangreindu virtu voru skilyrði laga til útgáfu hins kærða starfsleyfis uppfyllt og verða ekki taldir þeir annmarkar á málsmeðferð og efni þess sem raskað geta gildi leyfisins. Við samþykkt hinnar kærðu ákvörðunar var gerður fyrirvari um rekstrarleyfi sýslumanns. Fram hefur komið að ákvörðun sýslumanns frá 25. maí 2016 um að samþykkja rekstrarleyfi var ógilt með úrskurði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins 14. nóvember 2017. Áður, eða 16. ágúst 2017, hafði sýslumaður samþykkt nýtt rekstrarleyfi og sætir það nú einnig kæru til ráðuneytisins. Hefur því ekki verið hnekkt og hefur niðurfelling eldra rekstrarleyfis ekki áhrif á gildi hins kærða starfsleyfis. Verður kröfu kæranda um ógildingu starfsleyfisins því hafnað.

Ákvörðun um veitingu rekstrarleyfis fyrir veitingastarfsemi þá sem um er deilt í máli þessu var tekin af Sýslumanni höfuðborgarsvæðisins með heimild í lögum nr. 85/2007. Við málsmeðferð umsókna um slík rekstrarleyfi skal sýslumaður leita tilgreindra umsagna áður en umsókn er afgreidd, sbr. 10. gr. nefndra laga. Slíkar umsagnir hafa verið veittar af heilbrigðiseftirlitinu, hvort tveggja vegna þess rekstrarleyfis er síðar var fellt úr gildi 14. nóvember 2017, sem og vegna rekstrarleyfis frá 16. ágúst s.á. Getur hin síðar veitta umsögn eftir atvikum komið til skoðunar við lögmætisathugun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins en verður ekki borin undir úrskurðarnefndina, þar sem aðeins þær ákvarðanir sem binda endi á mál verða bornar undir kærustjórnvald samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Loks skal á það bent að í 60. gr. reglugerðar nr. 941/2002 er tekið fram að eftirlit heilbrigðiseftirlits felist m.a. í því að framfylgja ákvæðum laga, reglugerða og starfsleyfa, sem heilbrigðisnefnd sé falið. Séu vanhöld á því að skilyrðum starfsleyfisins sé fylgt eða þeim framfylgt getur eftirlitsaðili í þeim tilvikum beitt ákveðnum úrræðum, svo sem gert kröfu um úrbætur eða stöðvað starfsemi þar til úr hefur verið bætt, sbr. XVIII. kafla reglugerðarinnar þar um. Einnig er skv. 10. gr. reglugerðarinnar heimilt að endurskoða starfsleyfið að jafnaði á fjögurra ára fresti sé það gefið út til lengri tíma en fjögurra ára. Telji kærandi enn á sér brotið vegna áframhaldandi starfsemi getur hann beint því til borgaryfirvalda að sinna eftirliti sínu, en af gögnum málsins verður ráðið að það hafi hann gert og að við því hafi verið brugðist, m.a. með eftirliti í október 2017, löngu eftir að kæra barst úrskurðarnefndinni. Kærandi hefur haft ýmislegt við það eftirlit að athuga, s.s. fram kemur í athugasemdum hans til úrskurðarnefndarinnar. Það verður þó ekki séð hvort eða með hvaða hætti hann hefur komið þeirri skoðun sinni á framfæri við heilbrigðisyfirvöld borgarinnar. Telji hann svo vera og að við því hafi ekki verið brugðist getur kærandi eftir atvikum komið að kæru til nefndarinnar vegna dráttar á afgreiðslu máls, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála, m.a. þessa, sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 17. maí 2016 um að samþykkja starfsleyfi fyrir veitingahús að Frakkastíg 26A, Reykjavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                         Þorsteinn Þorsteinsson

 

134/2016 Frakkastígur

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 24. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 134/2016, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. ágúst 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kárastígsreits austur, staðgreinireit 1.182.3, vegna lóðanna nr. 26 og 26A við Frakkastíg í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. september 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Frakkastíg 26 (26B), Reykjavík, „alla stjórnsýslu Reykjavíkurborgar“. Með bréfi til kæranda, dags. 3. október s.á., óskaði úrskurðarnefndin skýringa á því hvert kæruefnið væri. Jafnframt var tekið fram að ef ekki væri um að ræða nýja kæru yrði litið svo á að um væri að ræða frekari gögn og rök kæranda í kærumáli nr. 68/2016, er varðaði kæru hans á starfsleyfi fyrir veitingastað við Frakkastíg 26A. Í kjölfarið, eða 14. október 2016, barst nefndinni sameiginleg kæra eigenda, Frakkastíg 24A, á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. ágúst 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kárastígsreits austur, staðgreinireit 1.182.3, vegna lóðanna nr. 26 og 26A við Frakkastíg. Er gerð krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi. Er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 23. nóvember 2016.

Málavextir: Frakkastígur 26A er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Kárastígsreits austur, staðgreinireitur 1.182.3, frá árinu 2008. Samkvæmt skilmálum þess er umrædd lóð fullbyggð og nýtingarhlutfall hennar 0,8 en í almennum skilmálum deiliskipulagsins eru veittar ákveðnar byggingarheimildir fyrir allar lóðir þar sem aðstæður leyfa og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Hinn 12. maí 2015 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík umsókn um leyfi fyrir breyttri notkun húss á umræddri lóð, úr íbúðarhúsi í veitingahús í flokki II. Að auki voru samþykktar breytingar á húsinu að innan og utan, svo sem stækkun kvista og bygging bíslags til norðurs. Var ákvörðunin kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem með úrskurði 3. mars 2016 í kærumáli nr. 99/2015 felldi ákvörðunina úr gildi að þeim hluta er varðaði stækkun bíslagsins og gerð skjólveggja og grindverks, þar sem ekki hefði legið fyrir samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða fyrir þessum framkvæmdum, svo sem áskilið væri í deiliskipulagi.

Hinn 22. apríl 2016 var á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa samþykkt að grenndarkynna tillögu að breytingu á deiliskipulagi umræddrar lóðar. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 13. maí s.á. var sú samþykkt afturkölluð og ákveðið að grenndarkynna nýja tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Frakkastíg 24A, 24B, 26 og 26B. Tók sú tillaga til lóðanna Frakkastígs 26 og 26A en aðeins var gert ráð fyrir breyttum skilmálum lóðarinnar nr. 26A. Bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar frá kærendum máls þessa og var þeim vísað til umsagnaraðila. Málið var tekið fyrir að nýju á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 1. júlí 2016 og því vísað til umhverfis- og skipulagsráðs sem tók það fyrir 17. ágúst s.á. Var tillagan samþykkt með vísan til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. júní 2016. Birtist auglýsing um samþykktina í B-deild Stjórnartíðinda 15. september 2016. Í breytingunni felst m.a. að heimilt er að stækka húsið að Frakkastíg 26A sem nemur 5,3 m², ásamt því að byggja svalir og kvisti. Jafnframt er tekið fram að heimilt sé að vera með veitingastað í flokki II í húsinu. Einnig séu færðar inn réttar lóðarstærðir fyrir báðar lóðirnar samkvæmt lóðarblaði, dags. 30. nóvember 2015. Loks er tilgreint að skerpt sé á skilyrðum um samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að starfsemi veitingahúss á lóðinni fylgi gríðarlegt ónæði sem skerði lífsgæði þeirra verulega. Sé hagsmunum þeirra verulega raskað vegna hávaða, lyktarmengunar, skuggavarps og umgangs gesta á svæðinu. Freklega sé gengið á rétt nágranna og rétt þeirra til friðhelgi einkalífs og hefðbundins útsýnis frá húsum þeirra. Hafi kærendur ekki veitt samþykki sitt fyrir umræddum breytingum. Taka hafi þurft tillit til þess hve fjarlægð milli húsa á viðkomandi lóðum sé lítil og því séu áhrifin mun meiri.

Hljóð- og lyktarmengun frá umræddu húsi sé óviðunandi. Ekkert tillit hafi verið tekið til þessara þátta við meðferð málsins eða málið verið rannsakað. Hafi sveitarfélagið með því brotið gegn ákvæðum 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Séu dyr á eldhúsi er snúi að lóð Frakkastígs 26 oft opnar og aðföng og hráefni geymt utandyra. Mikill hávaði sé frá loftblásara á bíslagi hússins, en einnig sé mikið ónæði vegna gesta á svölum og í garði veitingahússins. Umferðarréttur að húsi annars kærenda sé ekki virtur. Því sé harðlega mótmælt að samþykkja eigi nú breytingar sem felldar hafi verið úr gildi.

Ekkert mat á skuggavarpi hafi verið unnið við meðferð málsins en það hafi aukist mikið á lóðum kærenda, m.a. vegna bíslagsins. Hafi hvorki verið tekið tillit til þessa atriðis né síðari tillagna kærenda um meðalhóf sem fælust í annarri útfærslu á bíslaginu. Af þessu sökum hafi skuggavarp orðið meira en réttmætt sé. Lögboðið bil milli húsa sé ekki virt og engar eðlilegar ástæður gefnar fyrir því. Notagildi lóða kærenda hafi verði skert og verðgildi fasteigna þeirra rýrt verulega. Gerðar séu alvarlegar athugasemdir við brunavarnir og aðkomu slökkviliðs og sé bent á gr. 9.8.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 í því sambandi. Gaflar hússins, hliðar þess og þak hafi verið hækkuð og kvistur á bakhlið hússins sé stærri en samþykktar teikningar segi til um. Kvistir séu staðsettir alveg að þakbrún, en ekki í 0,5 m fjarlægð eins og áskilið sé varðandi bakhlið hússins. Viðbygging við bíslag sé alveg á lóðamörkum og þykk einangrun og múrhúð stytti enn frekar bilið milli þeirra húsa sem um ræði. Klæðningin sé eldmatur. Viðbyggingin sé ekki í samræmi við deiliskipulag frá árinu 2008. Breyting á hámarksnýtingarhlutfalli lóðarinnar geti ekki farið gegn viðmiðum skipulags án samþykkis eigenda nærliggjandi lóða. Skerði breyting á nýtingarhlutfalli rétt kærenda. Fyrir hendi sé leyfi lóðarhafa Frakkastígs 24A til að byggja forstofu út í garðinn en verði bíslagið stækkað verði 1 m á milli húsanna. Túlka beri heimildir aðalskipulagsins um starfsemi veitingastaða við aðalgötu í íbúðarbyggð þröngt. Þá sé nauðsynlegt að halda skika þeim sem reisa eigi viðbygginguna á óbyggðum m.a. vegna þess hversu stutt sé á milli húsa og vegna útsýnis út á götu.

Sérstakar athugasemdir séu gerðar við umsögn skipulagsfulltrúa, en þar sé að finna nokkrar rangfærslur. Þar sé því haldið fram að um umfangslitla starfsemi sé að ræða, en ónæðið sem fylgi starfseminni sé langt umfram það. Veitingahúsið sé við hliðina á stóru hóteli og við einn fjölfarnasta ferðamannastað í borginni og sé umgangur og aðsókn ferðamanna á veitingastaðinn afar mikil. Um skert útsýni sé að ræða úr stofuglugga en ekki um eldhúsglugga líkt og segi í umsögn. Talað sé um eina lóð þegar um tvær sé að ræða. Ekki sé útskýrt hvers vegna ekki sé lengur þörf á samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða. Hafi aðeins hluti athugasemda verið settur fram á afgreiðslufundi umhverfis- og skipulagsráðs og fundarmenn blekktir. Þá sé búið að rifta samkomulagi milli eigenda Frakkastígs 26 og 26A vegna vanefnda eiganda að Frakkastíg 26A.

Reykjavíkurborg hafi ekki sinnt eftirlitshlutverki sínu. Stjórnsýsla borgarinnar hafi verið óvönduð, bréfum ekki verið svarað og skort hafi á upplýsingar. Eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar hafi verið brotið. Hagsmunir annarra hafi verið settir í forgang. Uppdráttur deiliskipulagsins sé ekki réttur og nýtingarhlutfall lóðarinnar rangt skráð.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Sveitarfélagið krefst þess að kröfu kærenda verði hafnað. Málið sé ekki þannig vaxið að ógildingu varði. Ekkert hafi komið fram í málinu er leitt geti til þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Ekki sé fallist á að umrædd breyting hafi stórkostleg neikvæð áhrif á hagsmuni eigenda aðliggjandi lóða. Standi húsið að Frakkastíg 26A við skilgreinda aðalgötu samkvæmt aðalskipulagi og gildi því rýmri landnotkunarheimildir, en heimilt sé að vera með veitingastað í flokki II á lóðinni. Í 4. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald séu veitingahús í flokki II skilgreindir sem umfangslitlir áfengisveitingastaðir þar sem starfsemin sé ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu, svo sem með háværri tónlist. Afgreiðslutími sé ekki lengri en til kl. 23:00 og kalli ekki á mikið eftirlit eða löggæslu. Sé núverandi kvöð á lóðinni um umferð að Frakkastíg 26 óbreytt.

Útsýnisskerðing sé ekki umfram það sem íbúar í þéttri byggð megi búast við, enda geti menn ekki vænst þess að aðstæður og byggingar á lóðum verði óbreyttar um aldur og ævi. Athugasemdir varðandi stærð hússins, hvort framkvæmt hafi verið í ósamræmi við samþykkta uppdrætti, hvort óeðlilegur hávaði sé frá blásara og hvort umferðarréttur sé nýttur undir aðföng hafi ekki áhrif á gildi deiliskipulagsbreytingarinnar. Þá sé bent á að með samkomulagi milli eigenda Frakkastígs 26A og Frakkastígs 26 hafi annar kærenda samþykkt tilteknar breytingar sem hann geri nú athugasemdir við. Liggi ekkert fyrir í málinu um að sá samningur sé ekki í gildi milli aðila.

Athugasemdir lóðarhafa Frakkastígs 26A:
Lóðarhafi krefst þess að kröfu kærenda verði hafnað. Málsmeðferð Reykjavíkurborgar hafi í hvívetna verið samkvæmt ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 og skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Athugasemdum kærenda hafi verið skilmerkilega svarað af hálfu skipulagsfulltrúa og sé tekið undir sjónarmið hans. Standi tilvísun umsagnarinnar til samkomulags annars kærenda og lóðarhafa frá 16. mars 2016, enda sé það enn í fullu gildi og „riftunaryfirlýsing“ að engu hafandi. Því sé mótmælt að lóðarhafi hafi vanefnt samkomulagið. Umrætt samkomulag hafi verið forsenda þess að gerð hafi verið breyting á deiliskipulagi svæðisins. Því hafi fylgt teikning af veitingastaðnum sem fallist hafi verið á. Fyrir liggi samþykki nágranna að Frakkastíg 24 og Skólavörðustíg 45 fyrir stækkun bíslags, byggingu geymsluskúra og skúra undir ruslatunnur. Nefnt bíslag hafi verið samþykkt í fyrrgreindu samkomulagi. Sé því hafnað að það valdi meira skuggavarpi en almennt gerist í þéttri byggð, skerði útsýni og notagildi lóða kærenda eða rýri verðgildi fasteigna þeirra. Víðast hvar í miðborg Reykjavíkur sé fjarlægð milli húsa ekki mikil. Hafi slíkt ekki áhrif á þær heimildir sem lóðarhafi hafi að lögum og samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Samkvæmt núgildandi deiliskipulagi sé samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða aðeins nauðsynlegt þegar byggt sé utan skilgreinds byggingarreits og nær lóðamörkum en 3 m en svo hátti ekki hér. Þurfi breyting á nýtingarhlutfalli ekki samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða.

Að Frakkastíg 26A sé starfræktur hófstilltur veitingastaður í flokki II og bendi ekkert til þess að hljóð- og lyktarmengun frá honum sé meiri en gangi og gerist um slíka veitingastaði. Gert sé ráð fyrir svölum á húsinu og útisvæði í samkomulagi aðila og sé ekkert óeðlilegt við þau svæði. Fullkomið brunavarnarkerfi sé inni á veitingastaðnum og aðkoma að húsinu eftir aðalgötu mjög góð. Því sé andmælt að eldhúsdyr séu oft opnar og að aðföng og hráefni séu oft geymd utandyra. Jafnframt sé því mótmælt að loftblásari á húsinu sé mjög hávær eða að ónæði sé vegna ferðamanna. Því sé hafnað að húsið sé í ósamræmi við teikningar. Sé gerður fyrirvari við þær mælingar á vegalengd á milli húsa sem greini í kæru, en við mælingu borgarinnar hafi engar athugasemdir verið gerðar. Sé einhver munur á milli teikninga og þess sem sé í raun sé hann mjög óverulegur. Geti fyrrgreind atriði ekki haft áhrif á gildi deiliskipulagsbreytingarinnar. Þá snúi dyr á eldhúsi inn á lóð nr. 26A, en ekki að lóðinni nr. 26. Loks sé bent á að ekki hafi borist neinar kvartanir vegna starfsemi veitingastaðarins frá hóteli sem sé til húsa að Skólavörðustíg 45, en herbergi hótelgesta snúi að porti og svölum veitingastaðarins.

——-

Annar kærenda hefur í kjölfar kæru komið fjölda skjala að í málinu þar sem hann rekur með ítarlegum hætti forsögu þess til nokkurra áratuga, sem og samskipti sín við borgaryfirvöld. Jafnframt færir hann fram frekari sjónarmið máli sínu til stuðnings. Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér skjölin en ekki er þörf á að reifa efni þeirra frekar hér.

——-

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi með óformlegum hætti 20. júlí 2018.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 17. ágúst 2016 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kárastígsreits austur, staðgreinireit 1.182.3, vegna lóðanna nr. 26 og 26A við Frakkastíg. Svo sem áður er rakið kærði annar kærenda í upphafi „alla stjórnsýslu Reykjavíkurborgar“, en í kjölfar fyrirspurnar úrskurðarnefndarinnar um kæruefni barst ný kæra sem lýtur að nefndri deiliskipulagsbreytingu. Sætir aðeins hin kærða breyting lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar en ekki fyrrnefnt deiliskipulag sem tók gildi á árinu 2008. Sætti það raunar kæru að hluta af hálfu annars kærenda, en hafnað var kröfu hans um ógildingu með úrskurði úrskurðarnefndarinnar 15. desember 2010 í kærumáli nr. 120/2008.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð aðalskipulags og deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna. Ekki er áskilið að sveitarstjórn afli samþykkis landeiganda vegna skipulagsákvarðana sem varða eignir þeirra, s.s. annar kærenda heldur fram, enda verður eignarréttindum ekki ráðstafað með skipulagsáætlunum. Sem endranær verða þó að liggja málefnalegar forsendur að baki slíkum ákvörðunum. Verður að telja að svo hátti til hér, en fyrir liggur að ástæða þess að deiliskipulagsbreytingin tók einnig til lóðar annars kæranda var sú að í deiliskipulagi frá 2008 mun ranglega hafa verið talið að um eina lóð væri að ræða, en með breytingunni voru færðar inn lóðarstærðir fyrir báðar lóðir samkvæmt lóðarblaði, dags. 30. nóvember 2015.

Við beitingu skipulagsvalds ber þess að gæta að breytingar á deiliskipulagi rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga, og að stefnt sé að lögmætum markmiðum með breytingunni. Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er lóðin að Frakkastíg 26A á íbúðarsvæði, ÍB 11. Við meðferð og gildistöku hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar var Frakkastígur skilgreindur sem aðalgata. Gerði aðalskipulagið ráð fyrir að á þeim svæðum væri almennt gert ráð fyrir íbúðarbyggð ásamt tilheyrandi nærþjónustu og gætu veitingastaðir í flokki I, og eftir atvikum í flokki II, fallið undir þá skilgreiningu. Innan skilgreindra íbúðarsvæða væri mögulegt að gera ráð fyrir fjölbreyttri atvinnustarfsemi, enda væri um að ræða þrifalega starfsemi sem ekki ylli ónæði. Meðfram aðalgötum væri heimil fjölbreyttari landnotkun. Verslun og þjónusta á jarðhæðum gæti verið heimil, svo og mögulega veitingastaðir í flokki I og II. Opnunartími allra veitingastaða skyldi takmarkast við kl. 23:00. Eins og fyrr greinir er starfræktur veitingastaður í flokki II að Frakkastíg 26A og er tiltekið í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu að heimilt sé að vera með veitingastað í þeim flokki í húsinu. Að framangreindu virtu var áskilnaði 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana fullnægt.

Tillaga að hinni umdeildu breytingu var grenndarkynnt í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga, en samkvæmt því ákvæði er heimilt að grenndarkynna óverulega breytingu á deiliskipulagi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Skal við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Sambærilegt ákvæði er að finna í gr. 5. 8. 2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en þar er jafnframt tilgreint að meta skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu er varði almannahagsmuni.

Í gildandi deiliskipulagi Kárastígsreits austur, staðgreinireit 1.182.3, segir að lóðin sé fullbyggð og nýtingarhlutfall hennar 0,8. Með hinni kærðu ákvörðun er m.a. heimilað að stækka húsið við Frakkastíg 26A sem nemur 5,3 m² og er hámarksnýtingarhlutfall A-, B- og C-rýma 0,97. Samkvæmt almennum skilmálum deiliskipulagsins má byggja kvisti á risþök og skal fjarlægð þeirra frá þakenda eigi vera minni en 1,0 m. Með breytingunni er heimilað að vera með einn kvist á hvorri hlið og skal hann vera miðjusettur á framhlið hússins en staðsetning á bakhlið skal vera a.m.k. 0,5 m frá enda. Þá er ekki gerður áskilnaður um að svalir séu með gleri líkt og er í almennum skilmálum deiliskipulagsins. Heimilt er að vera með torfþak og hækka þakið sem því nemur og að vera með veitingastað í flokki II í húsinu, eins og áður greinir. Þá segir í greinargerð með deiliskipulagsbreytingunni að færðar séu inn réttar stærðir fyrir lóðirnar Frakkastíg 26 og 26A samkvæmt lóðarblaði, dags. 30. nóvember 2015. Loks er skerpt á skilyrðum um samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða í gildandi deiliskipulagi, en það sé aðeins nauðsynlegt ef byggt sé utan skilgreinds byggingarreits og nær lóðamörkum en 3 m. Núverandi kvöð um umferð að Frakkastíg 26 er óbreytt.

Að mati úrskurðarnefndarinnar verður að telja skipulagsbreytinguna óverulega breytingu í skilningi 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga þrátt fyrir að nýtingarhlutfall lóðarinnar hækki nokkuð, en þær skýringar eru gefnar í greinargerð með skipulagsbreytingunni að við uppmælingu á húsinu óbreyttu hafi komið í ljós að nýtingarhlutfallið væri 0,92 en ekki 0,8. Einnig er tiltekið að heimilt sé að hækka nýtingarhlutfall A-rýmis í 0,94 með viðbyggingunni og með svölum, A- og C-rými, verði nýtingarhlutfall 0,97. Er og til þess að líta að samkvæmt gildandi deiliskipulagi er meðalnýtingarhlutfall á svæðinu 1,36 og er það mjög mismunandi eftir lóðum, var því ekki um fordæmisgefandi breytingu að ræða. Þá er notkun í samræmi við heimildir aðalskipulags, svo sem áður hefur komið fram, og ekki verður séð að stækkun byggingarreits um 5,3 m² og bygging viðbyggingar með hámarkshæð 2,95 m víki svo nokkru nemi frá útliti og formi viðkomandi svæðis.

Íbúðarbyggð er skilgreind á þann veg í gr. 6.2. í skipulagsreglugerð að um sé að ræða svæði fyrir íbúðarhúsnæði og nærþjónustu sem því tengist, auk minniháttar atvinnustarfsemi sem samrýmist búsetu eftir því sem nánar er kveðið á um í stefnu skipulagsins. Skal gæta þess að atvinnustarfsemi í íbúðarbyggð valdi sem minnstum óþægindum, m.a. vegna hávaða, ljósanotkunar og annars ónæðis, sbr. gr. 5.3.2.8. skipulagsreglugerðar. Fyrir liggur að kærendur telja að verulegt ónæði sé af starfseminni og að gengið sé gegn grenndarhagsmunum þeirra. Kærendur telja enn fremur að umsögn skipulagsfulltrúa, vegna athugasemda þeirra hafi ekki gefið rétta mynd af alvarleika málsins, en að auki hafi ýmsum athugasemdum kærenda ekki verið svarað. Komu kærendur að fjölmörgum athugasemdum, m.a. að nýtingarhlutfall lóðarinnar væri rangt og uppdráttur deiliskipulagsins væri villandi, auk þess sem því var mótmælt að byggt yrði á þeim skika sem gert væri ráð fyrir að reisa viðbygginguna, þar eð skuggavarp myndi aukast og útsýni minnka. Jafnframt var tekið fram að heimild sú sem veitt væri í aðalskipulagi um starfsemi veitingastaðar í íbúðarbyggð væri undantekning sem túlka bæri þröngt og íbúum í hag.

Eins og áður hefur verið rakið samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík breytta notkun hússins að Frakkastíg 26A árið 2015 og stóð sú ákvörðun óhögguð í kjölfar niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í mars 2016. Gáfu athugasemdir um breytta notkun umrædds húss því ekki tilefni til ítarlegri svara af hálfu borgaryfirvalda. Hvað athugasemdir um áhrif þess að byggja á skika þeim sem áður var ónýttur lutu svör borgarinnar fyrst og fremst að útsýnisskerðingu, en ekki var vikið sérstaklega að skuggavarpi. Fallast má á að aukið skuggavarp geti orðið vegna heimilaðrar viðbyggingar, en ekki verður séð að það hafi verið kannað sérstaklega við vinnslu og meðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Æskilegt hefði verið að kanna þau grenndaráhrif nánar og taka afstöðu til þeirra athugasemda kærenda þar að lútandi. Þegar litið er til stærðar viðbyggingarinnar og þess sem þegar hefur verið heimilað með fyrri ákvörðunum, og ekki sætir endurskoðun hér, verður þó ekki talið að um ógildingarannmarka sé að ræða, en greinargerð um skuggavarp mun hafa verið meðal fylgiskjala við gerð gildandi deiliskipulags frá árinu 2008.

Gert er ráð fyrir svölum á suðurhlið hússins Frakkastígs 26A. Þrátt fyrir að lóðir kærenda séu norðan og austan við umrædda lóð er ljóst að opnar svalir með aðgengi frá veitingastað eru til þess fallnar að valda nágrönnum ónæði umfram það sem almennt má búast við í íbúðarbyggð. Til þess er þó að líta að lóðin Frakkastígur 26A er í íbúðarbyggð við mörk miðborgarkjarna og blandaðrar miðborgarbyggðar og íbúðarbyggðar. Verður og ekki fram hjá því litið að sveitarstjórnir hafa að lögum víðtækt skipulagsvald. Gildi deiliskipulagsbreytingarinnar verður því ekki raskað þótt hún hafi ótvíræð áhrif á grenndarhagsmuni kærenda, en rétt þykir að benda á að geti þeir sem eiga hagsmuna að gæta sýnt fram á tjón vegna breytinga á deiliskipulagi þá geta þeir eftir atvikum átt rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Það álitaefni á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina. Þá verður ekki talið að heimilaðar breytingar muni að marki raska grenndarhagsmunum kærenda að öðru leyti, svo sem vegna skerðingar á útsýni, auk þess sem kvöð um umferð að lóð hans er óbreytt.

Loks eru þær breytingar sem heimilaðar voru með skipulagsákvörðuninni ekki þess eðlis að þær hafi áhrif á aðkomu slökkviliðs frá því sem áður var. Heimiluð viðbygging verður á lóðamörkum, rétt eins og bíslag það sem fyrir var, og því vart um minna bil að ræða milli húsa nema á þeim skika sem nú er heimilt að nýta. Nýti kærendur sér byggingarheimildar sínar samkvæmt skipulagi verður vissulega minna bil milli þeirra bygginga og viðbyggingarinnar, en til þess er að líta að ekki er til að dreifa ákvæðum í lögum eða reglugerðum sem kveða á um lágmarks fjarlægð milli húsa. Þó er í gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 vísað til þess sem meginreglu að bil á milli bygginga skuli vera nægjanlega mikið svo ekki sé hætta á að eldur nái að breiðast út á milli þeirra, en að öðru leyti eru settar viðmiðunarreglur um lágmarksfjarlægð miðað við brunaálag og brunavarnir. Koma þessar reglur fyrst og fremst til skoðunar við veitingu byggingarleyfis, en í gr. 5.3.2. í skipulagsreglugerð er einnig kveðið á um að við gerð deiliskipulags skuli þess gætt að unnt sé að framfylgja sérstökum kröfum sem gerðar séu í öðrum lögum og reglugerðum, s.s. kröfum um heilsu og öryggi, og skal samráð haft við umsagnaraðila og fagstofnanir til að tryggja framfylgd þeirra krafna. Kemur og fram í gögnum málsins að Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hafi haft aðkomu að málinu vegna leyfisveitinga og úttekta á húsnæðinu Frakkastíg 26A áður en til hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar kom. Þrátt fyrir athugasemdir slökkviliðsins um frágang veggjar á lóðamörkum verður ekki talið að nauðsyn hafi borið til um frekara samráð á því stigi málsins, en eftir atvikum gátu athugasemdirnar gefið tilefni til nánari athugunar og eftirlits af hálfu byggingarfulltrúa.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar.

Það athugist að lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar einskorðast við hina kærðu ákvörðun, en svo sem áður er fram komið hafa kærendur einnig gert ýmsar athugasemdir við hinar umdeildu framkvæmdir, svo sem um brunavarnir og óleyfisframkvæmdir sem alla jafna lúta eftirliti byggingarfulltrúa. Að áliti nefndarinnar er þar ekki um að ræða sjálfstæð kæruefni, enda verður af gögnum málsins, sem úrskurðarnefndin hefur kynnt sér, ekki ráðið að fyrir liggi kæranleg ákvörðun, s.s. synjun um að beita þvingunarúrræðum. Verður ekki heldur séð að umkvartanir kærenda þess efnis hafi ratað í slíkan farveg hjá borginni eða verið settar fram með þeim hætti að það hefði verið eðlilegt að telja að um væri að ræða beiðni um beitingu þvingunarúrræða til að knýja fram úrbætur. Kærendur geta komið slíkri beiðni á framfæri við borgaryfirvöld, en telji þeir sig hafa óafgreitt erindi þess efnis nú þegar, sem úrskurðarnefndin fær ekki staðreynt af gögnum málsins, geta kærendur komið að kæru til nefndarinnar vegna dráttar á afgreiðslu máls, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Rétt að taka fram að meðal þeirra fjölda athugasemda sem borist hafa í málinu af hálfu annars kæranda er mappa er barst nefndinni 1. júní 2017. Þar er vikið að því að endurtaka þurfi alla meðferð deiliskipulagsbreytingarinnar skv. 24. gr. stjórnsýslulaga og raunar þurfi að endurupptaka allt málið hvað varðar veitingastaðinn Frakkastíg 26A frá upphafi þess árið 2015. Er og vikið að því að slík krafa hafi margoft verið sett fram. Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu var byggingarleyfi frá 12. maí 2015 vegna nefnds húss fellt úr gildi að hluta með úrskurði úrskurðarnefndarinnar kveðnum upp 3. mars 2016. Nefndinni bárust ekki gögn frá kæranda frá þeim tíma þar til kæra barst 22. júní 2016 í kærumáli nr. 68/2016 er varðar starfsleyfi veitingastaðar í húsinu að Frakkastíg 26A. Verður ekki séð að í gögnum þess kærumáls sem hér er til meðferðar eða gögnum kærumáls nr. 68/2016 hafi komið fram athugasemd sem túlka mætti sem beiðni um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar fyrr en 1. júní 2017, en þá var meira en ár liðið frá uppkvaðningu úrskurðarins. Verður ekki heldur séð af gögnunum að slík beiðni hafi verið tekin til meðferðar hjá Reykjavíkurborg. Úrskurðarnefndin leitaði eigi að síður eftir afstöðu Reykjavíkurborgar og lóðarhafa Frakkastígs 26A til athugasemda kæranda um endurupptöku og bárust nefndinni þau svör frá Reykjavíkurborg að þeir sem aðilar kærumáls nr. 99/2015 samþykktu ekki endurupptöku þess. Eru því ekki lagaskilyrði til frekari umfjöllunar úrskurðarnefndarinnar þar um, sbr. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála, m.a. þessa, sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. ágúst 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kárastígsreits, staðgreinireit 1.182.3, vegna lóðanna nr. 26 og 26A við Frakkastíg í Reykjavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              ______________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                        Þorsteinn Þorsteinsson

116/2015 Fífuhvammur

Með

Árið 2017, föstudaginn 1. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 116/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 26. nóvember 2015 um að synja umsókn um leyfi fyrir viðbyggingu ofan á bílskúr á lóðinni nr. 25 við Fífuhvamm í Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. desember 2015, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Fífuhvammi 25, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 26. nóvember 2015 að synja umsókn um leyfi til að byggja viðbyggingu ofan á bílskúr á nefndri lóð. Í kæru var boðað að frekari rökstuðningur bærist síðar og barst hann nefndinni með bréfi, dags. 12. júlí 2017, sem móttekið var sama dag. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 8. febrúar 2016.

Málavextir: Á lóðinni nr. 25 við Fífuhvamm er tveggja hæða hús og er hvor hæð um sig einn eignarhluti, 80 m² að stærð, samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Austan hússins, og sambyggður því að hluta, er 56,8 m² bílskúr. Tilheyrir hann íbúð kærenda og var hann reistur töluvert síðar en húsið. Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 15. janúar 2015 var felld úr gildi synjun byggingarfulltrúa Kópavogs á umsókn um leyfi til að reisa 56,8 m² viðbyggingu ofan á fyrrnefndan bílskúr. Var niðurstaða nefndarinnar á því reist að undirbúningi og rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar væri svo áfátt að leiða ætti til ógildingar hennar. Benti nefndin í því sambandi á að ástæða hefði verið til að kanna nánar skuggavarp og hvort jafnræðis hefði verið gætt hvað varðaði heimildir til nýtingar lóða á svæðinu.

Í kjölfar þessa var umsókn kærenda um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu ofan á bílskúr lögð fram að nýju. Vísaði byggingarfulltrúi erindinu til skipulagsnefndar, sem frestaði afgreiðslu málsins á fundi sínum 16. febrúar 2015 og óskaði þess m.a. að gögn yrðu uppfærð. Erindið var tekið fyrir á ný á fundi skipulagsnefndar 16. mars s.á. og samþykkt að grenndarkynna það fyrir nánar tilgreindum lóðarhöfum við Fífuhvamm og Víðihvamm. Í kynningarbréfi vegna grenndarkynningar kom m.a. fram að umrædd viðbygging væri tvö herbergi og gangur. Væri hún tengd við 2. hæð íbúðarhússins. Hámarkshæð viðbyggingar og bílageymslu yrði 5,9 m, þar af væri vegghæð viðbyggingar á 2. hæð 3 m. Fjarlægð frá lóðarmörkum Fífuhvamms 27 væri 0,4 m. Hámarksbyggingarmagn á lóð yrði um 217 m² og nýtingarhlutfall um 0,27. Bárust athugasemdir á kynningartíma frá lóðarhöfum Fífuhvamms 27, er lutu m.a. að ætluðum grenndaráhrifum viðbyggingarinnar. Jafnframt var tekið fram að samkvæmt gildandi lóðarleigusamningi fyrir Fífuhvamm 27 lægi bílskúr Fífuhvamms 25 alveg upp að lóðamörkum, en ekki í 0,4 m fjarlægð frá mörkum lóðarinnar.

Erindið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar 4. maí 2015, því frestað og vísað til úrvinnslu skipulags- og byggingardeildar. Skipulagsnefnd tók erindið fyrir á ný 18. s.m. Fært var til bókar að komið hefði í ljós að misræmi væri á milli samþykkts mæliblaðs og samþykktra byggingarnefndarteikninga hvað varðaði fjarlægð bílskúrs frá lóðamörkum Fífuhvamms 25 og 27. Ekki væri unnt að ljúka afgreiðslu málsins fyrr en umrædd gögn hefðu verið yfirfarin. Komu kærendur að athugasemdum vegna þessa með bréfi, dags. 16. júlí 2015, og skírskotuðu til þess að fyrir lægi fjöldi samþykktra teikninga er sýndu að umrædd lóðamörk hefðu alltaf verið 40 cm frá húsvegg Fífuhvamms 25. Niðurstaða skipulags- og byggingardeildar eftir skoðun málsins mun hafa verið sú að lóðarmörk Fífuhvamms 27 lægju við bílskúr á lóð Fífuhvamms 25. Málið var síðan til umfjöllunar á þremur fundum skipulagsnefndar í júní, ágúst og október s.á.

Enn var erindið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 9. nóvember 2015. Lagt var fram minnisblað lögfræðideildar, dags. 4. s.m., um málið. Hafnaði skipulagsnefnd framlagðri tillögu með vísan til fyrrgreinds minnisblaðs og vísaði málinu til bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi bæjarráðs 12. s.m. var málinu vísað til bæjarstjórnar, sem staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar á fundi 24. nóvember 2015. Hafnaði byggingarfulltrúi umsókninni 26. s.m. með vísan til greindrar afgreiðslu skipulagsnefndar og bæjarstjórnar.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að útreikningar bæjaryfirvalda á nýtingarhlutfalli lóðarinnar séu rangir. Þar sé lagt til grundvallar að lóðin að Fífuhvammi 25 sé 780 m² þrátt fyrir að fyrir liggi eftir uppmælingu hennar að hún sé a.m.k. 891 m². Vanræki bæjaryfirvöld enn og aftur rannsóknarskyldu sína og hirði ekki um að styðjast við rétt gögn eða upplýsingar.

Grenndaráhrif vegna viðbyggingarinnar séu óveruleg. Engir gluggar séu á austurhlið hennar og því séu engin önnur áhrif af henni en skuggavarp. Það sé óverulegt og hverfandi yfir hásumarið. Loks sé ekki að sjá að samþykkt fyrir byggingunni geti skapað fordæmi. Ekki sé verið að víkja sem neinu nemi frá meðalnýtingarhlutfalli lóða, auk þess sem alltaf þurfi að skoða hvert tilvik fyrir sig. Ætti krafa 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, um samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar, að nægja til þess að komast að niðurstöðu um nýjar byggingarleyfisumsóknir, óháð afgreiðslu annarra umsókna. Haldi því ekki rök bæjaryfirvalda hvað fordæmi varði.

Að framangreindu virtu sé ljóst að hin kærða ákvörðun sé ekki studd haldbærum rökum auk þess sem hún sé að miklu leyti reist á röngum forsendum.

Málsrök Kópavogsbæjar: Sveitarfélagið telur að hafna beri kröfu kærenda. Hafi öll meðferð málsins verið í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010 og lög nr. 160/2010 um mannvirki. Auk þess hafi hin kærða ákvörðun verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum og í samræmi við meginreglur stjórnsýsluréttar.

Umrædd lóð sé á svæði sem skilgreint sé í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 sem ÍB-2 Digranes. Meðalnýtingarhlutfall lóða á svæðinu sé 0,29. Með nefndri viðbyggingu fari nýtingarhlutfall að Fífuhvammi 25 úr 0,28 í 0,35, sem sé í hærra lagi miðað við það sem almennt sé í nágrenni lóðarinnar. Við meðferð málsins hafi verið gerð ítarleg húsakönnun. Í nágrenninu sé að finna lóðir með hærra nýtingarhlutfall en núverandi nýtingarhlutfall Fífuhvamms 25. Hins vegar sé það mat bæjaryfirvalda að ekki sé um sambærileg tilvik að ræða, bæði með tilliti til húsagerðar, legu þeirra lóða og fjarlægðar bygginga frá mörkum næstu lóðar. Að auki hafi verið kannað hvort fordæmi væri fyrir svipuðum viðbyggingum á svæðinu, en svo hafi ekki verið. Einnig sé nálægð við aðliggjandi hús á lóð nr. 27 mikil og hafi það verið mat skipulagsnefndar að töluverð grenndaráhrif yrðu af umræddri viðbyggingu, t.a.m. skuggavarp. Jafnframt hafi verið talið að með því að heimila viðbygginguna væri verið að gefa ákveðið fordæmi, sem hefði neikvæð áhrif á svæðið. Byggð sé nú þegar mjög þétt á svæðinu og hverfið fullbyggt.

Niðurstaða: Lóðin Fífuhvammur 25 er á svæði ÍB-2 Digranes í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024. Segir svo um það svæði í aðalskipulaginu að þar sé nokkuð fastmótuð byggð en um sé að ræða þéttustu byggð Kópavogs með mjög blönduðum húsagerðum, þó mest fjölbýli.

Samkvæmt meginreglu 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal gera deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Undanþágu frá þeirri skyldu er að finna í 1. mgr. 44. gr. laganna, en þar segir að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir þá geti skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar, enda fari áður fram grenndarkynning. Felst grenndarkynning í því að skipulagsnefnd kynnir nágrönnum, sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta, umsókn um leyfi og gefur þeim kost á að tjá sig um hana innan tilskilins frests, sbr. 2. mgr. 44. gr. sömu laga. Grenndarkynning er því þáttur í því að rannsaka mál og veita hagsmunaaðilum andmælarétt. Kusu skipulagsyfirvöld að grenndarkynna umsókn kærenda, en umrædd lóð er á svæði sem ekki hefur verið deiliskipulagt.

Sveitarstjórnir og skipulagsnefndir í hverju sveitarfélagi fara með skipulagsvald skv. 3. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga. Er íbúum sveitarfélags almennt ekki tryggður lögvarinn réttur til að knýja fram leyfisveitingu. Eins og fyrr greinir hafnaði byggingarfulltrúi umsókn kærenda með vísan til minnisblaðs frá lögfræðideild Kópavogs. Í minnisblaðinu kom m.a. fram að umtalsverð aukning yrði á nýtingarhlutfalli lóðarinnar, en það færi úr 0,28 í 0,35 eftir breytinguna. Einnig yrðu grenndaráhrif viðbyggingarinnar töluverð, m.a. vegna nálægðar við húsið að Fífuhvammi 27. Þá væri ekki um sambærileg tilvik að ræða á umræddu svæði. Enn fremur gæti samþykkt byggingarinnar haft í för með sér að ákveðið fordæmi yrði sett og erfiðara yrði að hafna svipuðum umsóknum. Var talið að samþykkt umsóknarinnar hefði í för með sér töluverð íþyngjandi áhrif fyrir Kópavogsbæ og lóðarhafa í aðliggjandi húsum og væri því réttast að hafna umsókninni.

Kærendur telja að ákvörðun Kópavogsbæjar sé ekki studd haldbærum rökum, auk þess sem hún sé að miklu leyti reist á röngum forsendum. Benda kærendur t.a.m. á að útreikningar bæjaryfirvalda á nýtingarhlutfalli lóðarinnar að Fífuhvammi 25 séu rangir. Lagt sé til grundvallar að lóðin sé 780 m² þrátt fyrir að fyrir liggi eftir uppmælingu hennar að hún sé stærri. Máli sínu til stuðnings leggja kærendur fram óundirritaðan lóðarleigusamning milli Kópavogsbæjar og eigenda lóðarinnar, þar sem fram kemur að umrædd lóð sé 891 m², samkvæmt mæliblaði frá tæknideild Kópavogs, dags. 31. maí 2012. Taka kærendur fram að umræddur samningur hafi ekki verið undirritaður þar sem þeir hafi talið að lóðin væri í raun 905 m², og að bæta ætti við stærð hennar 14 m², eða 0,4 m ræmu meðfram austurmörkum lóðarinnar, þar sem lóðarmörk eigi að vera.

Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er lóðin að Fífuhvammi 25 skráð 780 m², en kærendur halda því fram að lóðin sé stærri. Það verður þó ekki séð að kærendur hafi krafist endurskoðunar á þeim upplýsingum sem fyrir liggja um fasteignina hjá fasteignaskrá, sbr. 3. mgr. 21. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Ekki liggur heldur fyrir að byggingarfulltrúi hafi í samræmi við ákvæði 19. gr. laganna tilkynnt Þjóðskrá Íslands um breytta stærð lóðarinnar að Fífuhvammi 25. Miðað við opinbera skráningu myndi nýtingarhlutfall hennar hækka úr 0,28 í 0,35, ef af leyfisveitingu yrði, en miðað við þær stærðir sem kærendur leggja til grundvallar málatilbúnaði sínum yrði um að ræða hækkun á nýtingarhlutfalli í 0,30, sé miðað við lóðarstærð 905 m2, en 0,31, sé miðað við 891 m2 lóðarstærð. Framangreindar lóðarstærðir hafa hvorki verið staðfestar með opinberri skráningu né samningi milli aðila, en ljóst má vera að gögn þar um hafa legið fyrir Kópavogsbæ. Með hliðsjón af framangreindu, sem og því að allt að einu yrði um hækkun á nýtingarhlutfalli að ræða umfram meðaltal á svæðinu, verður ekki talið að hin kærða ákvörðun hafi verið reist á röngum forsendum hvað nýtingarhlutfall varðar. Þá gefur ekkert í gögnum málsins það til kynna að sú niðurstaða Kópavogsbæjar, að ekki sé að finna í nágrenninu sambærileg tilvik við umsótta framkvæmd kærenda, hafi verið studd ófullnægjandi rökum, þrátt fyrir að dæmi finnist um hærra nýtingarhlutfall.

Umsótt viðbygging yrði á eða nærri mörkum lóðarinnar að Fífuhvammi 27. Er ljóst að af byggingunni yrðu grenndaráhrif. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var skoðað skuggavarp um sumarsólstöður og vorjafndægur og mun viðbyggingin valda auknu skuggavarpi á umrædda lóð kl. 16.00. Þrátt fyrir að fallast megi á að grenndaráhrif umræddrar byggingar séu ekki mikil verður ekki fram hjá því litið að hin kærða ákvörðun er studd efnisrökum að þessu leyti.

Með hliðsjón af öllu framangreindu og því jafnframt að í skipulagsvaldi sveitarfélagsins felst bæði vald þess til að samþykkja umsókn um leyfi eða synja, verður ógildingarkröfu kærenda hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Kópavogs frá 26. nóvember 2015 um að synja umsókn um leyfi fyrir viðbyggingu ofan á bílskúr á lóðinni nr. 25 við Fífuhvamm í Kópavogi.

 

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

109/2016 Rúv-reitur

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 29. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 109/2016, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. júlí 2016 um að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir svonefndan RÚV-reit og ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. desember s.á. um að samþykkja byggingarleyfi fyrir Jaðarleiti 2-8.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 15. ágúst 2016, kæra A, Miðleiti 3, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. júlí s.á. að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir svonefndan RÚV-reit. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 17. október 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra húsfélög Efstaleitis 10-14 og Miðleitis 5-7, Reykjavík, jafnframt fyrrgreinda ákvörðun borgarráðs. Með bréfi, dags. 27. mars 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra A ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. desember 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir Jaðarleiti 2-8. Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Verða kærumál þessi, sem eru nr. 135/2016 og 40/2017, sameinuð máli þessu þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Í kæru vegna fyrrgreinds byggingarleyfis er þess jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 30. nóvember 2016 og 20. júní 2017.

Málavextir: Á fundi borgarráðs 14. apríl 2016 var lögð fram tillaga að breyttu deiliskipulagi RÚV-reits, sem nær til reita 1.745.4, 1.745.0 og 1.745.1, sem afmarkast af Listabraut í norðri, Bústaðavegi í suðri, Efstaleiti í vestri og Háaleitisbraut í austri. Var samþykkt að auglýsa tillöguna skv. 1. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr., skipulagslaga nr. 123/2010. Hún var auglýst frá 13. maí til og með 24. júní 2016 og bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum. Á fundi skipulags- og byggingarráðs 6. júlí s.á. var lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 4. júlí s.á., með tillögu að svörum við framkomnum athugasemdum ásamt lagfærðum uppdrætti. Var deiliskipulagstillagan samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu á fundi 21. júlí 2016. Tók hið breytta deiliskipulag gildi með birtingu auglýsingar þess efnis í B-deild Stjórnartíðinda 28. september s.á.

Þær breytingar sem gerðar voru með hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun eru m.a. að skipulagssvæðið var stækkað frá eldra skipulagi Efstaleitis 3-9 til suðurs yfir lóð útvarpshússins að Bústaðavegi, sem áður hafði ekki verið deiliskipulögð. Við gildistöku breytts deiliskipulags féll eldra skipulag Efstaleitis 3-9 úr gildi, en ekki voru gerðar breytingar á skilmálum þeirra lóða. Einnig var lóð RÚV, Efstaleiti 1, skipt í minni lóðir og á þremur þeirra heimilað að reisa 361 íbúð.

Hinn 20. desember 2016 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík svo byggingarleyfi á grundvelli hins breytta skipulags, sem fól í sér leyfi til að byggja 71 íbúð í fjórum fjöleignarhúsum, með sameiginlegum 44 stæða bílakjallara á lóð nr. 2-8 við Jaðarleiti.

Málsrök kærenda: Kærendur að Miðleiti 3 mótmæla aukningu byggingarmagns sem heimilað sé í hinu breytta deiliskipulagi. Aukningin sé allt of mikil með tilheyrandi aukinni umferð. Með samþykkt sinni hafi borgaryfirvöld svikið nánast öll loforð sín í samstarfssáttmála meirihluta borgarstjórnar um aukið íbúalýðræði og aðkomu borgarbúa að mikilvægum ákvörðunum. Endanleg tillaga um RÚV-reitinn hafi verið auglýst frá 13. maí til og með 24. júní 2016 og þann tíma hafi teikningar verið til sýnis á jarðhæð í húsakynnum umhverfis- og skipulagssviðs við Borgartún. Starfslið þar hafi ekki getað veitt neinar útskýringar og kærendum hafi ekki verið leyft að fara á efri hæðir hússins til að fá skýringar. Vafi leiki á um það að efni og anda 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 hafi verið fylgt við málsmeðferð umdeilds skipulags.

Kærendur að Efstaleiti 10-14 og Miðleiti 5-7 byggja kæru sína í fyrsta lagi á því að reglur grenndar- og nábýlisréttar valdi því að hin umþrætta deiliskipulagsbreyting sé ólögmæt. Réttarreglur þær, sem séu ólögfestar, kveði á um að nágranni verði að sætta sig við tiltekin óþægindi af nábýli við annan aðila, en um leið og óþægindin fari yfir ákveðin þolmörk séu þau orðin ólögmæt. Kærendur leggi jafnframt áherslu á að við skipulagsgerð sé skipulagsyfirvöldum skylt að tryggja réttaröryggi einstaklinga og lögaðila þótt almannahagsmunir séu hafðir að leiðarljósi, sbr. c-lið 1. gr. skipulagslaga.

Gerðar séu athugasemdir við þann fjölda íbúða og þá miklu þéttingu byggðar sem fyrirhuguð sé í námunda við íbúðir kærenda. Ljóst sé að hin umþrætta skipulagsbreyting muni hafa afgerandi áhrif á íbúa svæðisins, langt umfram það sem þeir hafi mátt vænta samkvæmt áðurgildandi skipulagsáætlunum. Þá verði að telja varhugavert að ráðist sé í svo umfangsmiklar framkvæmdir í þegar grónu hverfi án þess að nauðsyn beri til. Bent sé á að það sé eitt af meginmarkmiðum skipulagslaga að tryggja fyrirsjáanleika og festu við skipulagsgerð.

Í gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sé sérstaklega vikið að því að taka verði á umferðar- og samgöngumálum við gerð deiliskipulags. Í ákvæðinu segi að í deiliskipulagi svæða í þéttbýli skuli gera grein fyrir því samgöngukerfi sem fyrir sé og fyrirhugað sé samkvæmt aðalskipulagi. Fjallað sé um áhrif uppbyggingar á umferð, staðbundin áhrif og flæði á einstökum götum, hljóðvist og loftgæði í greinargerð með deiliskipulagstillögu fyrir Efstaleiti. Þar segi á bls. 22 að niðurstöður afkastareikninga „gefa til kynna að núverandi gatnakerfi umhverfis reitinn við Efstaleiti þoli vel þá aukningu á umferð sem ætla megi að verði vegna uppbyggingar við Efstaleiti“. Fram komi að við útreikninga hafi m.a. verið gert ráð fyrir breytingu á ferðavenjum frá því sem sé í dag og að miðað hafi verið við 20% fækkun bílferða í samræmi við markmið aðalskipulags. Kærendur geri alvarlegar athugasemdir við þessa umferðarútreikninga því þar hafi verið stuðst við markmið um breytingar á ferðavenjum þegar engin vissa sé fyrir því að slík markmið muni ná fram að ganga. Þvert á móti telji kærendur að af raungögnum frá Hagstofu Íslands, Reykjavíkurborg og Vegagerðinni megi fremur ráða að gera megi ráð fyrir auknum umferðarþunga til framtíðar litið.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er tekið fram að aukið byggingarmagn sé í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030. Í staðfestu aðalskipulagi borgarinnar hafi RÚV-reitur ávallt verið skilgreindur sem byggingarsvæði. Í fyrsta aðalskipulagi borgarinnar frá 1966 hafi svæðið verið skilgreint sem miðbæjarsvæði, sem hluti hins nýja miðbæjar sem hafi þá verið áformaður í Kringlumýri. Eftir að tekin hafi verið ákvörðun um útvarpshús á svæðinu hafi svæðið milli Bústaðavegar og Listabrautar verið skilgreint í heild sem stofnanasvæði. Við gerð gildandi aðalskipulags hafi verið gerð sú breyting að sá hluti svæðisins sem sé næstur Listabraut hafi verið skilgreindur sem miðsvæði, þ.e. núverandi lóðir ásamt ræmu af lóð útvarpshússins. RÚV-lóðin í heild hafi hins vegar verið skilgreind sem þróunarsvæði, sem gefið hafi vísbendingu um að á svæðinu myndi eiga sér stað þétting byggðar með auknu byggingarmagni, í þá veru sem felist í deiliskipulagstillögunni.

Telji kærendur að deiliskipulagsbreytingin skerði eignarréttindi sín, þ.e. að verðmæti fasteigna þeirra skerðist verulega, umfram það sem eigi við um sambærilegar eignir í næsta nágrenni, eigi sá sem geti sýnt fram á tjón af þeim sökum rétt á bótum frá viðkomandi sveitarfélagi. Reykjavíkurborg telji að ekki sé verið að skerða eignarréttindi kærenda og vísi þeim ásökunum á bug.

Við mat á umferð vegna nýrrar byggðar á reitnum hafi verið horft til markmiða Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 um breyttar ferðavenjur, en einnig á takmarkaðan fjölda bílastæða og góða staðsetningu reitsins m.t.t. þjónustu og almenningssamgangna. Hafi því verið miðað við að ferðir vegna nýrrar byggðar yrðu 20% færri á hverja íbúð en sé í dag að meðaltali á höfuðborgarsvæðinu. Í útreikningum sé gert ráð fyrir að umferð vegna núverandi byggðar verði óbreytt. Greiningin sé gerð á hefðbundinn og viðurkenndan hátt þar sem stuðst sé við reiknilíkan umferðar fyrir höfuðborgarsvæðið að teknu tilliti til markmiða aðalskipulags. Til að draga úr umferð einkabíla af völdum fyrirhugaðrar byggðar og auka líkur á notkun annars ferðamáta sé skynsamlegt og rétt að takmarka framboð á bílastæðum. Bústaðavegur sé sú gata sem næst sé deiliskipulagssvæðinu og hafi mesta umferð. Þróun umferðar á þeirri götu sé að langmestu leyti óháð uppbyggingu á deiliskipulagssvæðinu. Hún haldist meira í hendur við þróun umferðar almennt í borginni og uppbyggingu byggðar annarsstaðar. Háaleitisbraut og Listabraut séu safngötur, sem tengi hverfið við stofnbrautir, og sé þróun umferðar þar mest tengd uppbyggingu í hverfinu sjálfu. Umferð í Efstaleiti tengist nær eingöngu umferð innan hverfisins vegna þjónustu við Efstaleiti og íbúðir við Leiti.

Kærendur telji að hávaði og ónæði verði vegna nálægðar við lóðarmörk vegna byggingarframkvæmda. Áhyggjur vegna hugsanlega tímafrekra framkvæmda séu skiljanlegar, en í gildi sé samþykkt borgarráðs frá 1. september 1998, sem kveði á um að utanhúss- og lóðarfrágangi skuli vera lokið eigi síðar en innan tveggja ára frá útgáfu byggingarleyfis, að viðlögðum dagsektum, sbr. gr. 2.4.7. og 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Vakin sé athygli á því að í gildi sé reglugerð um hávaða nr. 724/2008, sem hafi það að markmiði að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum af völdum hávaða. Reglugerðin gildi m.a. um verklegar framkvæmdir. Hið kærða byggingarleyfi sé í fullu samræmi við hið breytta deiliskipulag fyrir RÚV-reitinn.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að ekki verði betur séð en að farið hafi verið að öllum reglum og vandað til við breytingu á deili- og aðalskipulagi. Eins og fram komi í greinargerð Reykjavíkurborgar þá hafi reiturinn verið skilgreindur sem byggingarsvæði frá fyrsta aðalskipulagi árið 1966. Aukið byggingarmagn á reitnum sé í samræmi við gildandi aðalskipulag þar sem stefnt sé að þéttingu byggðar.

Nú sé svo komið að leyfishafi hafi fengið, hinn 3. apríl 2017, samþykkt byggingarleyfi til byggingar á 71 íbúð í fjórum fjölbýlishúsum við Jaðarleiti 2-8. Leyfið hafi verið veitt í samræmi við lög nr. 160/2010, um mannvirki og skipulagslög nr. 123/2010. Við afgreiðslu málsins og útgáfu leyfisins hafi verið gætt að ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

———-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum, sem ekki verður rakið nánar hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. júlí 2016 að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir RÚV-reit og ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. desember s.á. að samþykkja byggingarleyfi fyrir Jaðarleiti 2-8.

Tillaga að breyttu deiliskipulagi var kynnt samhliða tillögu að breytingu á aðalskipulagi vegna sama svæðis í samræmi við 2. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Með áðurnefndri aðalskipulagsbreytingu var landnotkun hluta umrædds svæðis breytt úr samfélagsþjónustu í miðsvæði ásamt því að heimilað byggingarmagn hækkaði og heimiluðum íbúðum var fjölgað í allt að 350 í þriggja til fimm hæða fjölbýlishúsum. Þó er í aðalskipulaginu veitt svigrúm til þess að fjölga íbúðum um 20% eða fækka um 10% og fækka hæðum húsa um eina eða fjölga um tvær í deiliskipulagi frá því sem gert er ráð fyrir í aðalskipulaginu en breyting á fjölda hæða skal þá rökstudd sérstaklega.

Deiliskipulagstillagan fékk málsmeðferð í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Með henni er heimilað að reisa allt að 361 íbúð á skipulagssvæðinu í tveggja til sex hæða fjölbýlishúsum. Var því nýttur hluti þess svigrúms sem veitt er í aðalskipulagi. Breyttur fjöldi hæða frá því sem gert er ráð fyrir í aðalskipulaginu var hins vegar ekki rökstuddur sérstaklega í hinu kærða deiliskipulagi, en sá ágalli þykir þó ekki þess eðlis að hann raski gildi skipulagsins.

Samkvæmt ákvæðum skipulagslaga hafa sveitarstjórnir víðtækt skipulagsvald innan marka sveitarfélags, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga, og er skipulagsgerð tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Þó ber við töku skipulagsákvarðana að hafa í huga markmið þau sem tíunduð eru í a- til c- liðum 1. mgr. 1. gr. laganna, meðal annars að við þróun byggðar sé tekið mið af efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum þörfum landsmanna, stuðlað sé að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða og að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Ljóst er að einhver grenndaráhrif fylgja heimiluðum framkvæmdum samkvæmt umdeildri skipulagsbreytingu, svo sem aukin umferð. Í málinu liggur fyrir minnisblað frá verkfræðistofu um umferðarsköpun og dreifingu umferðar, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að núverandi gatnakerfi umhverfis reitinn þoli vel þá auknu umferð sem ætla megi að verði vegna uppbyggingar við Efstaleiti.

Hið umrædda skipulagssvæði er í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 skilgreint sem miðsvæðið M21, en þar er einkum gert ráð fyrir íbúðum og samfélagsþjónustu, auk verslunar, þjónustu og skrifstofustarfsemi. Meðal markmiða aðalskipulagsins er að þétta byggð, auka fjölbreytni innan núverandi miðkjarna og auka almennt nálægð íbúða og vinnustaða eins og unnt er. Hin kærða skipulagsbreyting er því í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulags, eins og gert er ráð fyrir í 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Þá er og fullnægt áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana.

Málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar var að öðru leyti í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Skipulagsbreytingin var auglýst til kynningar, framkomnum athugasemdum svarað, brugðist var við athugasemdum, breytingin síðan samþykkt og gildistaka hennar auglýst lögum samkvæmt. Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni á hið kærða byggingarleyfi stoð í gildandi deiliskipulagi. Með vísan til þess, og þar sem ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð við þá ákvarðanatöku, verður gildi leyfisins ekki raskað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. júlí 2016 um að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir RÚV-reit.

Hafnað er kröfu um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. desember 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir Jaðarleiti 2-8.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

38/2015 Laugavegur 12b og 16

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 19. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 38/2015, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 19. mars 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.4 fyrir lóðir nr. 12B og 16 við Laugaveg, Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. maí 2015, er barst nefndinni 26. s.m., kæra Kaffibarinn ehf., Bergstaðastræti 1, og Laugaberg hf., eigandi Laugavegs 12 og Bergstaðastrætis 1, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 19. mars 2015 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.4 fyrir lóðirnar nr. 12B og nr. 16 við Laugaveg. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 10. júlí 2015.

Málavextir: Á deiliskipulagsreitnum 1.171.4 standa hús sem flest eru byggð fyrir eða um aldamótin 1900. Vegna aldurs nýtur húsið á lóð nr. 16 við Laugaveg verndar, en á lóð nr. 12B eru tvö hús. Þar er gert ráð fyrir að eystra húsið víki og að í stað þess verði byggt þriggja hæða hús með kjallara og risi, en vestara húsið á lóðinni nýtur jafnframt verndar vegna aldurs.

Hinn 29. október 2014 var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur samþykkt að auglýsa framlagða tillögu um breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.4 vegna lóðanna nr. 12B og nr. 16 við Laugaveg. Í breytingunni fólst aukning á nýtingarhlutfalli beggja lóða ásamt hækkun vestara hússins á lóðinni nr. 12B um eina hæð og heimild til að byggja kjallara. Loks var gert ráð fyrir endurbyggingu bakhúss á lóðinni. Var tillagan auglýst í fjölmiðlum 14. nóvember 2014 með athugasemdafresti til 29. desember s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum. Hinn 5. febrúar 2015 héldu skipulagsfulltrúi Reykjavíkur og lögfræðingur umhverfis- og skipulagssviðs fund með kærendum þar sem farið var yfir skiptingu lóða nr. 12 og 12B við Laugaveg, undanþágu frá brunareglugerð og umferðarkvöð á lóðinni nr. 12. Sama dag óskaði skipulagsfulltrúi eftir umsögn Minjastofnunar Íslands. Umsögnin barst með bréfi, dags. 4. mars s.á., þar sem ekki var lagst gegn hækkun vestara hússins á lóðinni nr. 12B, en athugasemd var gerð við byggingu kjallara undir húsinu. Einnig var bent á að sérstakar ráðstafanir þyrfti um brunavarnir á milli Laugavegs 12 og 12B, kæmi til hækkunar á síðarnefnda húsinu. Var erindið tekið fyrir að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 11. s.m. þar sem fyrir lágu umsögn Minjastofnunar og umsögn skipulagsfulltrúa. Var tillagan samþykkt með breytingum sem lagðar voru til í umsögn skipulagsfulltrúa þar sem tillit var tekið til umsagnar Minjastofnunar. Sú afgreiðsla var staðfest af borgarráði 19. s.m. og tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 24. apríl 2015.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að ákvæða skipulagslaga nr. 123/2010 og skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 hafi ekki verið gætt við meðferð málsins. Ekkert samráð hafi verið haft við kærendur í skipulagsferlinu líkt og kveðið sé á um í gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð. Hafi kærendur fengið vitneskju um meðferð skipulagsbreytingarinnar hjá borgaryfirvöldum fyrir tilviljun, eftir að tillagan hafi verið auglýst og skammt hafi verið eftir af fresti til að koma á framfæri mótmælum. Grenndarkynning hafi heldur ekki farið fram. Hafi verið óhjákvæmilegt að hleypa kærendum að skipulagsvinnunni eins og mælt sé fyrir um í reglugerðarákvæðum, enda kynni að vera að kærendur hefðu viljað ná fram breytingum á skipulagi sinna eigin lóða til samræmis. Um viðkvæman skipulagsreit sé að ræða í hjarta miðborgarinnar þar sem mörg friðlýst og friðuð hús standi. Hafi því verið brýn ástæða til vandaðrar málsmeðferðar með þátttöku hlutaðeigandi aðila. Skriflegum athugasemdum hafi ekki verið ætlað að koma í stað þess samráðs sem sé mælt fyrir um í skipulagsreglugerð. Þá sé því mótmælt að umsögn Minjastofnunar Íslands, dags. 4. mars 2015 hafi einhverja þýðingu í málinu. Umrædd umsögn hafi ekki verið kynnt kærendum og þeir hafi því ekki haft tækifæri til að koma á framfæri sínum sjónarmiðum vegna hennar. Sé það skýrt brot gegn andmælarétti 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hafi fulltrúar stjórnvaldsins ekki kynnt sér aðstæður á skipulagsreitnum með skoðun á vettvangi, sbr. rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar.

Gert sé ráð fyrir margfaldri aukningu á byggingarmagni ofan jarðar frá því sem nú sé. Einnig sé ekki að sjá að farið hafi fram athugun á stærð lóða. Samkvæmt fylgigögnum kæru sé lóðin Laugavegur 12 alls 248,2 m2, en nýtt deiliskipulag miðist við að lóðin sé 243-244 m2 og jafnframt virðist vera gert ráð fyrir samsvarandi stækkun lóðar nr. 12B við Laugaveg. Líti út fyrir að uppgefnar stærðir lóðanna séu rangar, en svæðið á milli umræddra húsa sé í eigu kærenda. Þá sé þinglýst kvöð á Laugavegi 12 um frjálsan aðgang að austari hluta hússins nr. 12B. Forsenda kvaðarinnar sé gjörbreytt með hinu nýja skipulagi enda hafi hún miðast við húsbyggingar eins og þær hafi verið á þeim tíma, en ekki hótel eins og fyrirhugað sé að reisa. Ef aðgangsrétturinn eigi eftirleiðis að þjóna hótelbyggingu eða aðgengi við byggingarframkvæmdir íþyngi það báðum kærendum verulega. Forsendur kvaðarinnar séu með öllu brostnar ef reist yrði hótelbygging á Laugavegi 12B. Þá séu húsin að Laugavegi 12, 12B og 16 sambyggð. Húsgafl Laugavegs 12 standi hærra en Laugavegs 12B. Hin umdeilda skipulagsbreyting feli í sér verulega útlitsbreytingu þar sem gert sé ráð fyrir að húsin nr. 12B og 16 verði hækkuð. Jafnframt verði breyting á götumynd og húsaþyrpingu, sem teljist til byggingararfs, sbr. a-lið 1. mgr. 4. gr. laganna nr. 80/2012. Sé um einsdæmi í skipulagssögu Reykjavíkurborgar að ræða ef leyfa eigi einum aðila að breyta með þessum hætti útliti friðlýsts húss gegn mótmælum eigenda sambyggðra húsa. Með þessu sé gengið á eignarréttarlega hagsmuni kærenda.

Loks sé með hinni umdeildu skipulagsbreytingu gert ráð fyrir háum viðbyggingum sem muni verða á lóðamörkum kærenda. Á milli Bergstaðarstrætis 1, Laugavegs 12 og 12B sé útisvæði sem tilheyri Kaffibarnum og gegni veigamiklu hlutverki í rekstri hans. Annars vegar sé um að ræða útireykingarsvæði í portinu, sem sé einkar verðmætt í ljósi hertra reglna um bann við reykingum inni á skemmtistöðum. Á svæðinu sé gert ráð fyrir hávaða og því séu fyrirsjáanlegir árekstrar milli rekstraraðila hótelsins og rekstraraðila Kaffibarsins. Þá verði framkvæmdir á grundvelli breytts deiliskipulags umfangsmiklar og muni valda raski fyrir næstu nágranna. Verði ekki séð hvernig byggingarframkvæmdir geti farið fram öðruvísi en að freklega verði gengið á hagsmuni kærenda. Einnig hafi ekki verið hugað að brunahættu og brunavörnum. Hefði átt að gera kröfu um eldvarnarvegg á milli hinna fyrirhuguðu bakbygginga og Kaffibarsins. Þá eigi alveg eftir að huga að aðgengi fyrir lögreglu og slökkvilið.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að málsmeðferð hinnar kærðu skipulagsbreytingar hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Allir þeir sem hafi talið sig eiga hagsmuna að gæta hafi sent inn athugasemdir við auglýsta tillögu og hafi borist athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum. Þegar unnið hafi verið úr athugasemdum hafi nokkrir hagsmunaaðilar, m.a. kærendur, verið kallaðir á fund með umhverfis- og skipulagssviði. Megi helst lesa það úr málsrökum kærenda að þeir hefðu viljað koma fyrr að skipulagsvinnunni til að koma að sínum hugmyndum um stækkun á húsum þeirra. Á það sé bent að kærendur geti alltaf sent inn fyrirspurn eða umsókn til skipulagsfulltrúa með ósk um breytingu á deiliskipulagi, sem fengi lögbundna málsmeðferð. Mikið samráð hafi verið haft við kærendur og flestar athugasemdir teknar til greina við vinnslu deiliskipulagsins. Ekki hafi þurft að grenndarkynna skipulagstillöguna sem óverulega deiliskipulagsbreytingu skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga, enda hafi hún verið auglýst samkvæmt 41. gr. laganna. 

Byggingarmagn muni aukast samkvæmt tillögunni um 173 m2 á lóðinni nr. 12B við Laugaveg og um allt að 50 m2 á lóðinni Laugavegi 16. Það sé mat skipulagsyfirvalda að tillagan muni bæta götumynd Laugavegs og að hún breyti ekki skuggavarpi í götunni til hins verra. Fyrir liggi umsögn Minjastofnunar Íslands og sé það mat hennar að tillagan sé skref í rétta átt frá gildandi deiliskipulagi hvað varði aðlögun að mælikvarða í samhengi við friðlýst hús á aðliggjandi lóð. Sé í umsögninni lögð áhersla á að tvílyfta húsinu á vesturhelmingi lóðarinnar verði gert hátt undir höfði og að það verði gert á vandaðan hátt. Þegar komi að útgáfu byggingarleyfis sé hugað að atriðum líkt og brunaöryggi, aðgengi og atriðum er varði hávaða og ónæði og afstaða jafnframt tekin til þeirra atriða.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulagsbreytingar sem felur í sér aukningu nýtingarhlutfalls lóða nr. 12B og 16 við Laugaveg og hækkun hluta húss á lóðinni nr. 12B um eina hæð. Gera kærendur m.a. athugasemdir við að ekki hafi verið haft samráð við þá við meðferð málsins, ekki sé getið um atriði eins og brunaöryggi og að fyrirhuguð notkun falli ekki að starfsemi kærenda. Þá telja þeir að lóðarstærð sé ekki rétt tilgreind.

Í deiliskipulagi eru teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti og byggðarmynstur, sbr. 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi skal fara um breytinguna eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða, sbr. 1. mgr. 43. gr. sömu laga. Þó er heimilt að grenndarkynna óverulegar breytingar á deiliskipulagi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Mátu skipulagsyfirvöld hina kærðu deiliskipulagsbreytingu sem verulega og fór málsmeðferð hennar því eftir ákvæði nefndrar 1. mgr. 43. gr. laganna. Var hún auglýst í fjölmiðlum til kynningar, en ekki er kveðið á um í lögunum að einnig þurfi að grenndarkynna í slíkum tilvikum. Þá var málsmeðferð skipulagsbreytingarinnar að öðru leyti í samræmi við nefnda lagagrein. Að kynningartíma liðnum var athugasemdum svarað, leitað var eftir umsögn Minjastofnunar Íslands, tillagan send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda. Fundur var haldinn með hagsmunaaðilum, þ. á m. kærendum, eftir auglýsingu deiliskipulagstillögunnar, en áður en hún var samþykkt. Má fallast á að það samráð hefði átt að fara fram áður en samþykkt var að auglýsa nefnda tillögu, sbr. 3. mgr. gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. En þegar litið er til þess að kærendur komu að athugasemdum við auglýsta tillögu og að frekara samráð var haft við þá verður sá ágalli ekki talinn þess eðlis að raski gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Loks er hvorki að finna í lögum né reglugerðum ákvæði sem kveður á um að atriði líkt og brunaöryggi og aðgengi þurfi að liggja fyrir við deiliskipulagsgerð. Hins vegar er gert ráð fyrir að slík atriði liggi fyrir á aðaluppdrætti, sbr. 1. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, en það er jafnframt eitt af skilyrðum fyrir útgáfu byggingarleyfis að slíkir uppdrættir hafi verið samþykktir af byggingarfulltrúa, sbr. 2. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna.
 
Þá er hvorki að sjá að með hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun hafi verið gerðar breytingar á kvöð um aðgengi né á stærð umræddra lóða. Eru uppgefnar lóðarstærðir þær sömu og í gildandi deiliskipulagi og eru þær jafnframt í samræmi við upplýsingar frá fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Skal og á það bent að deiliskipulag getur ekki að lögum falið í sér ráðstöfun beinna eða óbeinna eignaréttinda. Enn fremur er í gildandi deiliskipulagi fyrir reitinn, sem tók gildi árið 2002, þegar gert ráð fyrir því að hús það á lóðinni nr. 12B sem stendur við hlið húss annars kærenda að Laugavegi 12 víki fyrir þriggja hæða nýbyggingu. Því er ekki að sjá að einnar hæðar hækkun þess húss á lóðinni nr. 12B sem stendur fjær húsi kæranda muni hafa í för með sér aukin grenndaráhrif gagnvart honum.

Loks telja kærendur að gert sé ráð fyrir hótelrekstri í húsunum sem hin kærða skipulagsbreyting tekur til. Í hinni kærðu ákvörðun er hins vegar hvergi um það getið hvers konar notkun sé fyrirhuguð í húsunum og koma þau rök kærendanna því ekki til frekari umfjöllunar í máli þessu. Þó skal á það bent að fasteignareigendur á tilteknu skipulagssvæði eiga að jafnaði rétt til þess að nota fasteign sína í samræmi við heimildir í gildandi skipulagi og þurfa þeir að sæta því að aðrir fasteignaeigendur geri slíkt hið sama, en samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 heyrir umrætt svæði undir miðborgarkjarna M1a, þar sem m.a. er gert ráð fyrir gistiþjónustu.

Með hliðsjón af öllu því sem að framan greinir verður ekki séð að neinir þeir annmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun að leiða skuli  til ógildingar hennar og verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.4 fyrir lóðir nr. 12B og 16 við Laugaveg.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

141/2016 Bræðraborgarstígur

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 8. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 141/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. október 2016 um að samþykkja leyfi til að fjarlægja bílskúr og byggja nýjan í hans stað á lóðinni Bræðraborgarstíg 23.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. október 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra I, Bræðraborgarstíg 23a, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. október 2016 að samþykkja leyfi til að fjarlægja bílskúr og byggja nýjan í hans stað á lóðinni Bræðraborgarstíg 23. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 3. nóvember 2016.

Málavextir:
Hinn 15. nóvember 2011 var samþykkt byggingarleyfi fyrir 36 m2 bílskúr, sem var 3,5 m á hæð, á lóðinni Bræðraborgarstíg 23 í stað bílskúrs sem fyrir var á lóðinni. Ekki var farið í þær framkvæmdir og féll byggingarleyfið af þeim sökum úr gildi. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 2. febrúar 2016 var tekin fyrir ný umsókn um leyfi til þess að rífa bílskúr á nefndri lóð og reisa í hans stað stærri bílskúr, innar á lóðinni og fjær lóðarmörkum. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 3. júní 2016 var samþykkt að grenndarkynna umsóknina, með athugasemdafresti frá 24. júní til 21. júlí s.á., og bárust athugasemdir frá kærendum. Tekin var afstaða til þeirra athugasemda og lagt til að fyrirhugaður bílskúr yrði lækkaður. Hinn 4. október s.á. var svo samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa leyfi fyrir 31,5 m2 bílskúr, 0,6 m frá lóðarmörkum kærenda.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er á því byggt að við málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi ekki verið farið að stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Á fyrri stigum málsins hafi andmæla- og upplýsingaréttur ekki verið virtur og ekki verið tekið tillit til óskar kærenda um frest til að kynna sér gögn máls og gera grein fyrir afstöðu sinni. Núverandi bílskúr sé notaður sem geymsla og hafi hann upphaflega verið reistur án heimildar. Því sé haldið fram í umsögn skipulagsfulltrúa að stækkun bílskúrs sé lítilsháttar, en um sé að ræða rétt tæplega tvöföldun á stærð skúrsins, úr 17 m2 í 31,5 m2, og mjög mikla hækkun. Núverandi bílskúr sé ekki 3 m hár eins og ranglega komi fram í umsögninni. Þar að auki sé verið að samþykkja nýtt bílastæði fyrir framan heimilaðan bílskúr og verði því bílgeymslur meðfram allri lóð kærenda.

Kærendur hafi óskað eftir því að fá að gera athugasemdir við staðsetningu bílskúrsins með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 16. september 2016. Í bréfinu hafi verið gerð tillaga um það að í stað þess að bílastæðið yrði fyrir framan bílskúrinn yrði það áfram við hlið hans. Þessi ósk kærenda hafi hins vegar verið virt að vettugi og aldrei tekin til umfjöllunar. Í tilkynningu Reykjavíkurborgar um afgreiðslu málsins sé lögð áhersla á að ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli samþykktar frá árinu 2011, en sú samþykkt sé fallin úr gildi. Nýtt mál verði að meta sjálfstætt. Því sé mótmælt sem fram komi í sama bréfi að kærendur hafi ekki fært fram rök fyrir þeim skaða og því ónæði sem fylgja muni umræddri byggingu. Það sé alrangt. Lóð kærenda sé mjög lítil og fái sitt fagurfræðilega gildi og verðmæti af því græna opna svæði sem þarna sé. Sú breyting sem felist í hinni kærðu ákvörðun muni jafnframt draga úr notagildi lóðarinnar þar sem upplifun verði ekki söm. Í framangreindu bréfi sé látið að því liggja að komið hafi verið til móts við athugasemdir kærenda, en það eigi ekki við rök að styðjast.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að öll málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið í samræmi við reglur skipulagslaga nr. 123/2010 og hagsmunaaðilum hafi verið kynnt fyrirliggjandi byggingarleyfisumsókn. Rétt sé að með tölvupósti hinn 30. júní 2016 hafi kærendur óskað eftir lengri fresti til að kynna sér umsóknina og koma með athugasemdir, en láðst hafi að taka formlega afstöðu til frestbeiðninnar. Ætla verði að þeirri beiðni hefði verið hafnað, enda hafi þess verið óskað að málinu yrði frestað þar til eftir að sumarleyfum kærenda lyki í lok ágústmánaðar, eða um sex vikur. Verði heldur ekki annað sé en að kærendur hafi haft nægan tíma til kynna sér gögn málsins, sem hafi borist þeim 27. júní s.á., og hafi þeir því haft fimm vikur til að kynna sér þau. Almennt sé orðið við óskum um framlengingu athugasemdafrests ef sérstakar ástæður komi til, s.s. að gögn hafi borist of seint, en almennt sé verði ekki framlengt lengur en sem nemi einni viku til tíu dögum. Allt að einu hafi kærendur komið að athugasemdum með tölvupósti 20. júlí 2016 og hafi þær verið teknar til umfjöllunar í umhverfis- og skipulagsráði lögum samkvæmt.

Engu breyti í máli þessu hvort bílskúrinn sem fyrir sé á umræddri lóð hafi verið reistur í óleyfi eða ekki, enda sé með samþykktinni veitt heimild til að rífa þá skúrbyggingu. Í umsögn skipulagsfulltrúa vegna athugasemda kærenda hafi komið fram að á árinu 2011 hafi verið samþykkt byggingaráform fyrir um 36 m2 bílskúr á lóðinni, sem ekki hafi verið byggður. Þar sé fyrir 17 m2 bílskúr, sem teljist frekar lítill samkvæmt byggingarreglugerð. Fallist hafi verið á athugasemdir kærenda við hæð skúrsins og hafi því verið lagt til að hann yrði ekki hærri en samþykkt hefði verið árið 2011, eða 3,5 m, en núverandi skúr væri sagður 3 m á hæð. Dýpt skúrsins ætti ekki að hafa áhrif á ásýnd frá aðliggjandi lóð. Bílskúrinn sé að auki færður fjær lóðamörkum en núverandi skúr, eða um 0,6 m. Ekki sé verið að samþykkja bílastæði á lóðinni en eðlilegt sé að hægt sé að leggja einni bifreið fyrir framan einfaldan bílskúr.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að samþykkja byggingarleyfi fyrir nýjum bílskúr á lóðinni Bræðraborgarstíg 23 í stað eldri bílskúrs sem skyldi fjarlægður. Á svæðinu er ekki í gildi deiliskipulag og var leyfið veitt að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt heimild í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Umsókn um greint byggingarleyfi var grenndarkynnt með lögmæltum fjögurra vikna athugasemdafresti skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Þó svo að láðst hafi að taka afstöðu til beiðni kærenda um framlengingu á athugasemdafresti verður ekki séð að það hafi valdið þeim réttarspjöllum. Þeir komu athugasemdum sínum að við grenndarkynninguna. Þær voru teknar til umfjöllunar og afstaða tekin til þeirra. Kærendum var síðan tilkynnt um niðurstöðu málsins í samræmi við fyrirmæli nefnds ákvæðis skipulagslaga.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum verður hinn nýi bílskúr samkvæmt leyfinu 31,5 m2 að flatarmáli með 2,10 m vegghæð og 3,50 m mænishæð. Skúr sá sem fyrir er á lóðinni og skal fjarlægður er 17,25 m2 að flatarmáli, með einhalla þaki, og 2,38 m hár þar sem hann er hæstur. Sá skúr er á mörkum lóða leyfishafa og kærenda, en heimilaður bílskúr mun standa 0,6 m frá nefndum lóðamörkum og um 2 m innar á lóð en sá eldri. Staðsetning bílskúranna er í norð-austur frá lóð kærenda. Að því virtu verður ekki ráðið að hinum nýja bílskúr fylgi merkjanlega aukin grenndaráhrif frá því sem fyrir var á lóð kærenda, svo sem aukið skuggavarp.

Nýtingarhlutfall lóðarinnar hækkar úr 0,41 í 0,44, eða um 7%, en nýtingarhlutfall á næstu lóðum er sambærilegt eða hærra. Þá eru fordæmi í hverfinu fyrir bílskúrum af svipaðri stærð og hér um ræðir. Hið kærða byggingarleyfi er því í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar. Verður kröfu kærenda þar að lútandi því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. október 2016 um að samþykkja leyfi til að fjarlægja bílskúr og byggja nýjan í hans stað á lóðinni Bræðraborgarstíg 23.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

46/2015 Borgartún

Með
Árið 2016, föstudaginn 14. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 46/2015, kæra á ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 17. mars 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kirkjutúns vegna lóðarinnar nr. 28 við Borgartún.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. júní 2015, er barst nefndinni 15. s.m., kæra W og H, íbúar í Sóltúni 11-13, þá ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 17. mars 2015 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kirkjutúns vegna lóðarinnar nr. 28 við Borgartún. Er þess krafist að hin kærða skipulagsbreyting verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 16. september 2015.

Málavextir: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 2. apríl 2014 var lögð fram umsókn um breytingu á deiliskipulagi Kirkjutúns vegna lóðar nr. 28 við Borgartún. Í breytingunni fólst að fyrirhugaðri byggingu á lóðinni yrði breytt úr þjónustubyggingu í íbúða- og þjónustubyggingu, hæðum fjölgað um eina og fyrirkomulagi bílastæða breytt. Var samþykkt að auglýsa framlagða tillögu til kynningar og var hún auglýst í fjölmiðlum 14. maí með athugasemdarfresti til 25. júní 2014. Bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum og var þeim svarað í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 3. júlí s.á. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 13. ágúst 2014 var deiliskipulagsbreytingin samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa. Var hún send Skipulagsstofnun til skoðunar og 16. október 2014 bárust með bréfi athugasemdir frá stofnuninni. Á fundi ráðsins 25. febrúar 2015 var greint bréf Skipulagsstofnunar lagt fram ásamt lagfærðum deiliskipulagsuppdrætti í því skyni að bregðast við athugasemdum stofnunarinnar. Var skipulagsuppdrættinum með áorðnum breytingum hafnað með jöfnun atkvæðum nefndarmanna. Á fundi borgarstjórnar 17. mars s.á. var skipulagsbreytingin hins vegar samþykkt og tók hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 15. maí 2015.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að ekkert samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila eins og lög kveði á um. Skipulagsstofnun hafi m.a. bent á að vegna mikillar uppbyggingar á svæðinu hafi verið sérstaklega mikilvægt að samráð yrði haft við íbúa og aðra hagsmunaaðila umfram það sem lágmarkskröfur skipulagslaga um auglýsingu deiliskipulagsbreytinga kveði á um.

Þá sé byggingarmagn og hæð hússins á umræddri lóð aukið og það fært 1-2 m nær lóðarmörkum til suðurs. Jafnframt séu svalir leyfðar einn metra út fyrir byggingarreit en við það endurspegli stærð byggingarreitsins ekki raunverulegt umfang byggingarinnar. Því sé mótmælt að veita eigi leyfi til byggingar húss á lóðinni Borgartún 28a eins og gert sé ráð fyrir heldur eigi að framkvæma í þeim vistvæna anda sem hafður hafi verið að leiðarljósi við nýlegar framkvæmdir í Borgartúni og koma í veg fyrir svipað skipulagsslys og orðið sé með byggingu Mánatúns 7-17.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að hin kærða skipulagsbreyting hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Deiliskipulagstillagan hafi sætt auglýsingu skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga og grenndarkynnt frá 14. maí til 25. júní 2014. Að lokinni grenndarkynningu hafi tillagan verið send til Skipulagsstofnunar til yfirferðar skv. 1. mgr. 42. gr. laganna.

Í bréfi Skipulagsstofnunar frá 16. október 2014 hafi verið gerð athugasemd við fjögur atriði, þ.e. að Borgartún 28 og 28a sé annað hvort tilgreind sem ein eða tvær lóðir, einnig hafi vantað umfjöllum um hliðrun á byggingarreit nær lóðarmörkum til suðurs, þá hafi vantað skýringu af hverju flatarmál húss aukist um 750 m2 þegar einni hæð sé bætt ofan á og að lokum hafi vantað skilmála um salarhæð hússins. Jafnframt hafi komið fram í bréfi Skipulagsstofnunar ábendingar til skipulagsyfirvalda í Reykjavík um að hafa samráð við íbúa og aðra hagsmunaaðila umfram það sem skipulagslög kveði á um sem og að skipulagsuppdráttur hefði þurft að ná yfir aðliggjandi lóðir til suðurs, þ.e. það svæði sem breytingin gæti haft áhrif á og að heiti Borgartúns sé ranglega skráð Mánatún. Í framhaldi hafi verið brugðist við athugasemdunum og unnið að leiðréttingum á uppdrætti. Hafi síðan verið haldinn fundur með íbúum og hagsmunaaðilum í Borgartúninu sem umhverfis- og skipulagssvið hafi staðið fyrir. Hafi afgreiðsla málsins verið í samræmi við lög og venjubundna málsmeðferð. Skipulagsstofnun hafi yfirfarið gögn málsins að nýju og ekki gert athugasemdir við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda, þar sem breytt umsögn hafi ekki haft áhrif á fyrri afgreiðslu borgarráðs.

Þó að hæðum fyrirhugaðrar byggingar muni fjölga um eina verði heildarhæð hússins óbreytt þar sem munur sé á salarhæðum skrifstofubygginga og íbúðabygginga. Þá hafi tilfærsla á byggingarreit verið gerð til að hægt hafi verið að koma fyrir grænu svæði á lóð. Við það hafi þurft að breyta uppröðun bílastæða verulega og því fylgt hliðrun byggingarreits um tvo metra. Það að heimilt sé að svalir standi allt að einum metra út fyrir byggingarreit breyti ekki umfangi byggingarinnar þar sem svalir reiknist inn í nýtingarhlutfallið.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að næstu nágrannar hafi ítrekað óskað eftir því að niðurníddar skemmur á baklóðinni 28a við Borgartún yrðu fjarlægðar og nýbygging reist í þeirra stað. Vegna offramboðs á skrifstofuhúsnæði hafi eigendur lóðarinnar talið betra að byggja íbúðabyggingu með verslunar- eða skrifstofuhúsnæði á fyrstu hæð.

Þó svo að hæðum hússins muni fjölga um eina frá núgildandi deiliskipulagi verði heildarhæð hússins óbreytt. Skýrist það af mismikilli lofthæð skrifstofubygginga og íbúðabygginga. Umfang hússins aukist ekki og samkvæmt tillögunni muni byggingin ekki fylla út í byggingarreit. Í raun rúmist svalir innan byggingarreits en við það að veita heimild til að hleypa þeim út fyrir reitinn gefist meira svigrúm í hönnun íbúða. Þegar talað sé um umfang húss sé ekki hægt að leggja að jöfnu svalir og lokaðan húsvegg. Hafi deiliskipulagstillagan verið unnin eftir bestu vitund og í samráði við skipulagssvið Reykjavíkurborgar.
Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fara sveitarstjórnir með skipulagsvald innan marka sveitarfélags. Jafnframt bera þær ábyrgð á og annast gerð og breytingar á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 38. gr. og 43. gr. nefndra laga. Sveitarstjórnum er því gefið víðtækt vald til ákvarðana um skipulag innan marka sveitarfélags en þeim ber þó að fylgja markmiðum 1. gr. skipulagslaga, m.a. um skynsamlega hagnýtingu lands, að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi og um samráð við almenning við gerð skipulagsáætlana.

Í 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga er kveðið á um að sveitarstjórn skuli taka athugasemdir Skipulagsstofnunar til umræðu og gera nauðsynlegar breytingar hvað varðar athugasemdir um form deiliskipulags. Í gögnum málsins liggur fyrir að Skipulagsstofnun gerði athugasemdir við auglýsta skipulagstillögu með bréfi, dags. 16. október 2014. Vörðuðu umræddar athugasemdir m.a. að skerpa þyrfti á skilmálum tillögunnar er varðaði tilgreiningu á lóðum, hliðrun á byggingarreit og aukið byggingarmagn, auk þess sem skilmálar um salarhæð hafi vantað. Jafnframt hafi stofnunin talið mikilvægt að samráð yrði haft við íbúa og aðra hagsmunaaðila umfram það sem lágmarkskröfur skipulagslaga um auglýsingu deiliskipulagsbreytinga kveði á um. Var brugðist við þeim athugasemdum með því að skipulagsuppdráttur var lagfærður og haldinn var almennur opinn fundur um framkvæmdir og uppbyggingu í Borgartúni. Fólu greindar breytingar á skipulagsuppdrætti ekki í sér breytingar á efni hins kynnta uppdráttar. Var því ekki þörf á að auglýsa tillöguna að nýju skv. 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Loks hafi kærendur komið að athugasemdum á kynningartíma og þeim jafnframt gefið tækifæri á að mæta á opinn fund borgarinnar varðandi uppbyggingu á svæðinu. Verður því að telja að fullnægjandi samráð hafi verið haft við kærendur.

Hið umrædda skipulagssvæði er í aðalskipulagi Reykjavíkur skilgreint sem miðsvæðið M6a Borgartún, en þar er einkum gert ráð fyrir skrifstofum á sviði fjármála, ráðgjafar og stjórnsýslu, sem og stofnunum og þjónustu tengdum þeirri starfsemi. Íbúðir eru þó heimilaðar á efri hæðum bygginga. Meðal markmiða aðalskipulagsins er að þétta byggð, auka fjölbreytni innan núverandi miðkjarna og auka almennt nálægð íbúða og vinnustaða eins og unnt er. Hin kærða skipulagsbreyting er því í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulags eins og gert er ráð fyrir í 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Þá er og fullnægt áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana.

Málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar var að öðru leyti í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Skipulagsbreytingin var auglýst til kynningar, fram komnum athugasemdum svarað, brugðist var við athugasemdum Skipulagsstofnunar, breytingin síðan samþykkt og gildistaka hennar auglýst lögum samkvæmt. Þá verður ekki séð að grenndaráhrif fyrirhugaðrar byggingar verði að marki meiri en verið hefði vegna þeirrar byggingar sem heimilt var að reisa á umræddri lóð fyrir hina umdeildu deiliskipulagsbreytingu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarstjórnar Reykjavíkur frá 17. mars 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kirkjutúns vegna lóðarinnar nr. 28 við Borgartún.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson