Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

63/2006 Suðurhús

Með

Ár 2006, miðvikudaginn 11. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 63/2006, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. júlí 2006 um að veita leyfi til að byggja viðbyggingu úr timbri ofan á húsið á lóðinni nr. 4 við Suðurhús. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. ágúst 2006, er barst úrskurðarnefndinni hinn 10. sama mánaðar, kærir Eiríkur Elís Þorláksson hdl., f.h. A og H Suðurhúsum 2, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. júlí 2006 að veita leyfi til að byggja viðbyggingu úr timbri ofan á húsið á lóðinni nr. 4 við Suðurhús og til nýtingar bílgeymsluþaks fyrir svalir. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá kröfðust kærendur þess að kveðinn yrði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinni kærðu ákvörðun þar til niðurstaða lægi fyrir í kærumálinu, en með úrskurði, uppkveðnum 23. ágúst 2006, var þeirri kröfu hafnað.

Málsatvik og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 12. apríl 2005 var lögð fram umsókn um leyfi til að byggja 29,7 m² viðbyggingu úr timbri ofan á húsið á lóðinni nr. 4 við Suðurhús og var beiðninni vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 15. sama mánaðar var lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa og með vísan til hennar var ekki gerð athugasemd við erindið.  Í kjölfarið tók byggingarfulltrúi erindið til afgreiðslu og samþykkti það á fundi hinn 10. maí 2005.  Framkvæmdir hófust ekki innan árs frá samþykktinni og var á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 4. júlí 2006 lögð fram umsókn um endurnýjun byggingarleyfisins og var hún samþykkt.

Hinn 3. ágúst 2006 fóru kærendur máls þessa fram á það við Sýslumanninn í Reykjavík að lögbann yrði lagt við framkvæmdum byggingarleyfishafa.  Beiðni kærenda var tekin fyrir hjá sýslumanni hinn 4. sama mánaðar og hafnaði hann, þann sama dag, kröfu um lögbann.  Synjun sýslumanns var kærð til Héraðsdóms Reykjavíkur, sem staðfesti hana með úrskurði hinn 17. ágúst 2006.  Skaut kærandi úrskurði héraðsdóms til Hæstaréttar, sem staðfesti hann með dómi, uppkveðnum 28. ágúst 2006.

Kærendur kærðu byggingarleyfið til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 9. ágúst 2006, svo sem að framan greinir.

Kærendur hafa og höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, sem þingfest var hinn 21. september 2006, þar sem krafist er ógildingar sömu ákvörðunar og kærð er í máli þessu.  Er það mál nú til meðferðar fyrir héraðsdómi.

Í kærumáli þessu fyrir úrskurðarnefndinni skírskota kærendur m.a. til þess að hin kærða ákvörðun sé ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag frá árinu 1991, því með henni verði flatarmál húss byggingarleyfishafa a.m.k. 270 m², en samkvæmt deiliskipulaginu sé aðeins heimilt að hús á svæðinu séu 250 m².  

Þá hafi engin grenndarkynning farið fram eins og skylt sé samkvæmt 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þrátt fyrir að um sé að ræða framkvæmdir sem teljist a.m.k. óveruleg breyting á deiliskipulagi.  Með hinu kærða byggingarleyfi fari nýtingarhlutfall lóðarinnar nr. 4 við Suðurhús úr 0,33 í 0,37 en samkvæmt deiliskipulaginu sé hámarksnýtingarhlutfall 0,34. 

Viðbyggingin muni skyggja mjög á hús kærenda, en svo hafi ekki verið áður.  Hún rísi beint til móts við stofu í húsi kærenda og skyggi verulega á sól inn í stofuna stærstan hluta dagsins.  Jafnframt séu gluggar á viðbyggingunni beint á móti stofuglugga kærenda, þannig að nú sé horft beint inn í stofu og eldhús til þeirra, sem áður hafi ekki verið mögulegt.  Nýting fasteignar þeirra verði mun minni en áður, ásamt því að þessar aðgerðir hafi áhrif til lækkunar á markaðsverðmæti fasteignarinnar.  Kærendur hafi mátt treysta því að ekki yrði byggt við húsið að Suðurhúsum 4, a.m.k. ekki án þess að unnið yrði nýtt deiliskipulag að svæðinu.  Framangreind rök leiði til þess að byggingarleyfið hljóti að verða úrskurðað ólögmætt. 

Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest.  Mótmælt sé að byggingarleyfið valdi kærendum tjóni.  Þá hafi afgreiðsla skipulagsbreytingar og hins umdeilda byggingarleyfis verið að öllu leyti í samræmi við formreglur skipulags- og byggingarlaga.

Borgaryfirvöld vísa til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 14. apríl 2005, þar sem fram komi að í gildi sé deiliskipulag, samþykkt í borgarráði hinn 10. september 1991.  Skilmálar fyrir hús af sömu gerð og hús byggingarleyfishafa séu þeir að heimilt sé að reisa einbýlishús á pöllum að hámarksstærð 250 m².  Heimilt sé að gera ráð fyrir aukaíbúð.  Þakhalli sé 15-25 gráður og að gert sé ráð fyrir tvöfaldri innbyggðri bílgeymslu í hverju húsi, ásamt því að við einbýlishús með aukaíbúð skuli reikna með þremur bílastæðum.  Þegar skoðuð sé nýting og uppbygging á lóðunum í götunni með sömu skilmála og lóð byggingarleyfishafa, sem séu sex talsins, komi í ljós að nýting lóðanna sé á bilinu 0,30-0,39 og að byggingarmagn á einni þessara lóða með bílgeymslu fari yfir 250 m².  Á lóðunum neðan við götu, sem séu níu, gildi aðrir skilmálar og þar sé hámarksbyggingarmagn 270 m² og nýting á bilinu 0,21-0,46.  Byggingarmagn á tveimur af þessum lóðum fari yfir 270 m².  Í skipulagsskilmálum komi ekki skýrt fram að tveggja hæða hús séu óheimil á þessum lóðum.  Uppbygging á lóðunum hafi orðið þannig að fjögur af sex húsum ofan götu séu tveggja hæða og af því megi ráða að túlkun á skilmálunum á þeim tíma sem gatan hafi byggst upp hafi verið sú að heimilt væri að byggja tveggja hæða hús.  Með viðbyggingunni fari byggingarmagn á lóðinni 19,7 m² yfir leyfilegt hámark sem sé óveruleg aukning.  Byggingarmagn hússins á lóðinni nr. 10 við Suðurhús sé 282 m² eða 32 m² yfir leyfilegu hámarki og séu því fordæmi fyrir því að yfirstíga leyfilegt byggingarmagn þessarar húsagerðar.  Í ljósi þess að uppbygging á svæðinu hafi orðið þannig að á flestum lóðanna séu tveggja hæða hús sé mælt með því að ekki verði gerð athugasemd við erindið.

Úrskurðarnefndin hefur ákveðið að taka af sjálfsdáðum sérstaklega til athugunar hverju það kunni að varða fyrir framgang kærumálsins að kærendur hafa höfðað dómsmál til ógildingar á hinni kærðu ákvörðun.  Hefur lögmanni kæranda verið gefinn kostur á að tjá sig um það álitaefni en engar athugasemdir hafa komið fram af hans hálfu.

Niðurstaða:  Eins og að framan er getið hafa kærendur höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem krafist er ógildingar á byggingarleyfi því sem um er deilt í kærumáli þessu.  Kærendur skutu málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags 9. ágúst 2006, með heimild í 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en höfðuðu síðar mál til ógildingar leyfinu og var dómsmálið þingfest hinn 21. september 2006.

Samkvæmt 60. gr. stjórnarskárinnar nr. 33/1944 skera dómendur úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda.  Í þessu felst að dómari er ekki bundinn af úrskurði stjórnvalds við úrlausn ógildingarmálsins og hefur niðurstaða úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála því enga þýðingu í dómsmálinu, en ekki verður litið svo á að nefndin komi fram sem álitsgjafi þegar mál hefur verið höfðað fyrir dómstólum um sakarefni sem nefndin hefur til meðferðar.  Verður ekki séð að kærendur eigi einstaklega og lögvarða hagsmuni því tengda að úrskurður gangi í kærumálinu um réttarágreining, sem borinn hefur verið undir dómstóla, og fullnægir málatilbúnaður kærenda fyrir úrskurðarnefndinni því ekki lengur skilyrðum 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um aðild máls fyrir nefndinni.  Verður kærumáli þessu því vísað frá.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

            ___________________________         
                          Hjalti Steinþórsson                          

 

 

_______________________         ________________________
Ásgeir Magnússon                        Þorsteinn Þorsteinsson

              

 

 

65/2006 Dimmuhvarf

Með

Ár 2006, föstudaginn 6. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 65/2006, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs frá 4. júlí 2006 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 17 við Dimmuhvarf og á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 16. ágúst 2006 um að veita leyfi fyrir byggingu einbýlishúss á lóðinni að Dimmuhvarfi 17. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. ágúst 2006, er barst nefndinni hinn 15. sama mánaðar, kærir S Dimmuhvarfi 23, Kópavogi, þá ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 17 við Dimmuhvarf og ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi um að veita leyfi fyrir byggingu einbýlishúss á lóðinni að Dimmuhvarfi 17.  Ekki kemur fram í kærunni til hvaða ákvarðana hún taki en kærandi hefur síðar staðfest að um sé að ræða þær ákvarðanir sem að framan eru nefndar.

Gerir kærandi þær kröfur að ákvarðanir um hina kærðu deiliskipulagsbreytingu og hið kærða byggingarleyfi verði felldar úr gildi.  Jafnframt er gerð krafa um úrskurð til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi. 

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs hinn 16. maí 2006 var tekið fyrir erindi varðandi breytingu deiliskipulags vegna lóðarinnar nr. 17 við Dimmuhvarf.  Í breytingunni fólst hækkun á aðkomuhæð um 1,2 metra.  Skipulagsnefnd samþykkti að senda málið í kynningu til lóðarhafa Grundarhvarfs 16, 18, 20, Melahvarfs 13 og Dimmuhvarfs 15, 19, og 21.  Náði kynningin því ekki til kæranda máls þessa.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 4. júlí 2006 var tillagan tekin fyrir að nýju ásamt athugasemd lóðarhafa að Dimmuhvarfi 21, dags. 19. júní 2006.  Skipulagsnefnd frestaði málinu og óskaði eftir því við bæjarskipulag að tekin yrði saman umsögn vegna innsendrar athugasemdar.  Með vísan til umsagnar samþykkti skipulagsnefnd breytinguna á fundi sínum hinn 13. júlí 2006 og var sú ákvörðun staðfest í bæjarráði hinn 10. ágúst 2006.  Byggingarfulltrúi samþykkti umsókn um byggingarleyfi hinn 16. ágúst 2006 sem staðfest var í bæjarráði hinn 24. ágúst 2006.
 
Kærandi krefst ógildingar hinna kærðu ákvarðana með þeim rökum að málsmeðferð deiliskipulagsbreytingarinnar hafi ekki verið lögum samkvæmt og því sé hið kærða byggingarleyfi í andstöðu við skipulag svæðisins.  Kæranda hafi ekki verið veitt færi á að koma athugasemdum sínum að varðandi hið breytta deiliskipulag vegna lóðarinnar að Dimmuhvarfi 17 ásamt því að skipulagsuppdráttur sé ekki í samræmi við lög og reglugerðir.  

Af hálfu Kópavogsbæjar er gerð krafa um frávísun málsins.  Kærandi eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta í máli þessu en samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997 geti þeir einir skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.  Í máli því sem hér um ræði ráðist hagsmunir þeirra sem kæruaðild eigi af grenndarsjónarmiðum.  Við grenndarkynningu í málinu hafi kæranda ekki verið kynnt breytingin þar sem skipulagsnefnd hafi talið að hann ætti ekki hagsmuna að gæta.  Hafi sú ákvörðun verið á því byggð að breytingin hafi engin áhrif á grenndarhagsmuni kæranda þar sem hús hans standi neðar í götu og verði hann því ekki fyrir neinum grenndaráhrifum af breytingunni, auk þess sem hús séu á milli húss kæranda Dimmuhvarfi 23 og Dimmuhvarfi 17. 

Kæranda var veitt færi á að tjá sig um frávísunarkröfu Kópavogsbæjar og ítrekaði hann og rökstuddi frekar fyrri sjónarmið sín til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttarins er það talið skilyrði aðildar að kærumáli fyrir æðra stjórnvaldi að kærandi eigi verulegra og einstaklegra hagmuna að gæta í málinu.  Er þessi regla nú áréttuð hvað varðar málskot til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, svo sem ákvæðinu var breytt með lögum nr. 74/2005.

Kærandi hefur ekki tilgreint með hvaða hætti hinar umdeildu ákvarðanir varði einstaklega hagmuni hans heldur byggir hann máltilbúnað sinn alfarið á því áliti sínu að þær séu ekki í samræmi við þau lög og reglugerðir er við eigi. 

Þegar litið er til þess að um 80 metrar eru frá húsi kæranda að fyrirhugaðri nýbyggingu og að á bak við hana eru hærri hús séð frá húsi kæranda, svo og þess að nýbyggingin stendur innar í götunni en það, verður að fallast á með Kópavogsbæ að kærandi eigi ekki þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni í málinu sem eru skilyrði aðildar að kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Hefur kærandi ekki heldur bent á neina slíka hagmuni og verður kærumáli þessu því vísað frá nefndinni vegna aðildarskorts.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

 

37/2003 Hringbraut

Með

Ár 2006, miðvikudaginn 30. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari. 

Fyrir var tekið mál nr. 37/2003, kæra á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 20. maí 2003 á tillögu að deiliskipulagi vegna færslu Hringbrautar í Reykjavík, þar sem m.a. var gert ráð fyrir vegtengingu frá Umferðarmiðstöðvarreit að gatnamótum gömlu Hringbrautar og Smáragötu og gerð hringtorgs við þau gatnamót. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. júní 2003, er barst nefndinni hinn 19. sama mánaðar, kæra A, Smáragötu 16, E, Laufásvegi 74, H, Smáragötu 11, S, Smáragötu 13, V, Smáragötu 14, K, Hringbraut 10 og E, Sóleyjargötu 31, öll í Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 20. maí 2003 að samþykkja tillögu að deiliskipulagi vegna færslu Hringbrautar í Reykjavík, þar sem m.a. var gert ráð fyrir vegtengingu frá Umferðarmiðstöðvarreit að gatnamótum gömlu Hringbrautar og Smáragötu og gerð hringtorgs við þau gatnamót.  Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu skipulagsákvörðun.

Málsatvik og rök:  Hinn 20. maí 2003 samþykkti borgarráð Reykjavíkur auglýsta deiliskipulagstillögu fyrir Hringbraut að Þorfinnsgötu, þar sem gert var ráð fyrir færslu hennar til suðurs í samræmi við áætlun aðalskipulags um færslu Hringbrautar sem verið hefur í aðalskipulagi um árabil.  Í tillögunni var m.a. gert ráð fyrir vegtengingu frá Umferðarmiðstöðvarreit að gatnamótum gömlu Hringbrautar og Smáragötu og skyldu götur þessar tengjast með hringtorgi.  Tillagan var tekin fyrir að nýju á fundi borgarráðs hinn 21. október 2003 og samþykkt að nýju eftir gildistöku aðalskipulagsbreytingar er snerti fyrirhugaðar framkvæmdir við færslu Hringbrautar.  Tók deiliskipulagstillagan gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 20. nóvember 2003. 

Kærendur gerðu athugasemdir við fyrrgreinda vegtengingu og hringtorg og töldu að með því væri verið að beina umferð frá Umferðarmiðstöðvarreitnum að íbúðarbyggð að óþörfu.  Aðrar betri lausnir lægju fyrir svo sem tenging við nýja Hringbraut, tenging við fyrirhuguð göng undir Þingholtin og við núverandi Vatnsmýrarveg.  Með umdeildu skipulagi sé að ástæðulausu verið að taka verðmætt byggingarland undir umferðarmannvirki og auka umferð að gömlu Hringbraut og rýra þannig vistfræðilegt gildi færslu hennar.  Kærendur hafa fært fram ítarlegri rök í máli þessu, sem ekki verða rakin frekar hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Greinargerð vegna kærumáls þessa hefur ekki borist frá borgaryfirvöldum og úrskurðarnefndinni hafa ekki borist gögn er mál þetta varða þrátt fyrir beiðni þar um, sem upphaflega var komið á framfæri í bréfi, dags. 15. ágúst 2003.  Þrátt fyrir þetta telur úrskurðarnefndin rétt að taka málið til úrskurðar, en nefndin hefur að eigin frumkvæði aflað gagna er málið varða.  Auk þess fylgdi samantekt borgaryfirvalda um athugasemdir og svör eftir kynningu tillögunnar kæru kærenda. 

Í nefndri samantekt kemur fram að við færslu Hringbrautar, fjær íbúðarbyggð, muni umferð um gömlu Hringbraut stórminnka, íbúum til hagsbóta.  Hún verði safngata, er taki við umferð frá aðliggjandi götum, en eðlilegt og nauðsynlegt sé að tengja Umferðarmiðstöðvarreit við götuna.  Litlar líkur séu á að umferð stórra bíla fari um umdeilt hringtorg enda megi ætla að sú umferð beinist inn á tengingar við stofnbrautakerfi borgarinnar svo sem inn á hina nýju Hringbraut. 

Niðurstaða:  Við umdeilda breytingu á legu Hringbrautar færðist hún fjær fasteignum kærenda og má ljóst vera að umferð um gömlu Hringbrautina, sem fasteignir kærenda standa í námunda við, minnki verulega með tilkomu hinnar nýju stofnbrautar og það þótt umdeild vegtenging Umferðarmiðstöðvarreits með hringtorgi sé höfð í huga.  Jafnframt verður að líta til þess að samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi er gerð vegtenging frá greindum Umferðarmiðstöðvarreit inn á hina nýju Hringbraut. 

Með hliðsjón af þessum málsatvikum þykir umdeild deiliskipulagsákvörðun ekki snerta einstaklega, verulega og lögvarða hagsmuni kærenda með þeim hætti að þeir eigi kæruaðild um þá ákvörðun að stjórnsýslurétti.  Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og sökum þess að úrskurðarnefndin hefur ekki fengið í hendur frá borgaryfirvöldum umbeðin málsgögn sem ber að átelja. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

___________________________               _____________________________
Ásgeir Magnússon                                      Þorsteinn Þorsteinsson.

27/2003 Staldrið

Með

Ár 2006, miðvikudaginn 30. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 27/2003, kæra Stekks ehf. á samþykktum skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 26. febrúar 2003 og skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 4. mars 2003 um breytingu á deiliskipulagi mislægra gatnamóta Reykjanesbrautar, Stekkjarbakka og Smiðjuvegar.  

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. maí 2003, sem barst nefndinni hinn sama dag, kærir Þórólfur Jónsson hdl., f.h. Stekks ehf., Stekkjarbakka 2, Reykjavík, eiganda verslunarinnar Staldursins við Stekkjarbakka, samþykktir skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 4. mars 2003 og skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 26. febrúar 2003 um breytingu á deiliskipulagi mislægra gatnamóta Reykjanesbrautar, Stekkjarbakka og Smiðjuvegar.  Voru framangreindar samþykktir staðfestar á fundi borgarráðs hinn 11. mars 2003 og fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 11. mars sama ár.     

Kærandi krefst þess að hinar kærðu samþykktir verði felld úr gildi.

Málavextir og málsrök:  Áform um gerð mislægra gatnamóta við Stekkjarbakka, Reykjanesbraut og Smiðjuveg voru sett fram í Aðalskipulagi Kópavogs 1992 – 2012 og í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016.  Með úrskurði skipulagsstjóra ríkisins, dags. 4. ágúst 2000, um mat á umhverfisáhrifum tveggja mislægra gatnamóta á Reykjanesbraut var fallist á framkvæmdina og staðfesti umhverfisráðherra niðurstöðu skipulagsstjóra með úrskurði hinn 8. desember 2000.  Gildistaka deiliskipulags, er sýndi nánari útfærslu gatnamóta Reykjanesbrautar, Stekkjarbakka og Smiðjuvegar og vegtengingar við þau, var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 2. janúar 2001.  Var sú deiliskipulagsákvörðun ekki kærð til úrskurðarnefndarinnar. 

Í desember árið 2002 ákváðu skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur og skipulagsnefnd Kópavogs að auglýsa breytingu á deiliskipulagi mislægra gatanamóta Reykjanesbrautar, Stekkjarbakka og Smiðjuvegar.  Var tillaga að breytingu auglýst frá 30. desember 2002 og var frestur til að skila inn athugasemdum til 10. febrúar 2003.  Nokkrar athugasemdir bárust, þar á meðal frá kæranda.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur hinn 26. febrúar 2003 var breytingin samþykkt og staðfest í borgarráðs hinn 4. mars 2003.  Sama deiliskipulagsbreyting var samþykkt í skipulagsnefnd Kópavogs hinn 4. mars 2003 og staðfest í bæjarstjórn hinn 11. sama mánaðar.  Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 13. maí 2003.

Með hinum kærðu ákvörðunum voru gerðar breytingar á deiliskipulagi umrædds svæðis sem samþykkt var á árinu 2000.  Fólu breytingarnar m.a. í sér að útlit gatnamannvirkja á svæðinu var sýnt á skipulagsuppdrætti, hringtorg við Smiðjuveg fært til suðurs, göngubrú byggð yfir Reykjanesbraut ásamt breytingum á gönguleiðum. 

Kærandi hefur kært framangreindar samþykktir til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.    

Af hálfu kæranda er vísað til þess að með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu sé á ólögmætan hátt dregið mjög úr þeim vegtenginum sem liggi að versluninni Staldrinu við  Stekkjarbakka.  Sé skerðingin svo mikil að tilefni sé til að ætla að rekstrargrundvelli hennar sé stefnt í mikla hættu.  Sé samþykktin kærð í því skyni að tryggja að vegtengingar verði auknar til að koma í veg fyrir að reksturinn leggist af, sem myndi hafa verulegt tjón í för með sér fyrir kæranda.          

Kæran byggi á því að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé ólögmæt, enda feli hún í sér ólömæta röskun á eignarráðum og atvinnufrelsi kæranda og fari því í bága við þau ákvæði stjórnarskrárinnar sem tryggi honum atvinnufrelsi og eignarréttarvernd.  Þá brjóti hún gegn ákvæðum stjórnsýslulaga um jafnræði, meðalhóf og rannsóknarskyldu stjórnvalds ásamt ákvæðum skipulagsreglugerðar um samvinnu skipulagsyfirvalda við hagsmunaaðila.

Hinn 2. júní 2003 ritaði framkvæmdarstjóri úrskurðarnefndarinnar skipulags- og byggingaryfirvöldum í Reykjavík og Kópavogi bréf vegna kærunnar og óskaði eftir viðhorfum þeirra til hennar og gögnum er verið gætu til upplýsingar við úrlausn málsins.  Með bréfi bæjarverkfræðings Kópavogs, dags. 19. júní 2003, segir eftirfarandi:  „Hér er um að ræða kæru vegna vegtenginga að Staldrinu.  Staldrið er það langt innan lögsögu Reykjavíkurborgar og kæruatriði þess eðlis að málið snertir varla hagsmuni Kópavogsbæjar.  Þess vegna mælir undirritaður með því að skipulagsnefnd vísi til væntanlegrar umsagnar Reykjavíkurborgar.“  Var framangreint samþykkt á fundi skipulagsnefndar Kópavogs hinn 2. júlí 2003.  Engin gögn hafa borist úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg, hvorki nauðsynlegir skipulagsuppdrættir og samþykktir né andmæli borgarinnar vegna framkominnar ógildingarkröfu.  Hefur úrskurðarnefndin af sjálfsdáðum aflað sér nauðsynlegra gagna og telur málið tækt til úrlausnar þrátt fyrir framangreint. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var á árinu 2000 samþykkt deiliskipulag að mislægum gatnamótum Reykjanesbrautar, Stekkjarbakka og Smiðjuvegar.  Var gildistaka þess auglýst í B-deild Stjórnartíðinda og kemur það skipulag ekki til endurskoðunar í máli þessu.  Hin kærða deiliskipulagsbreyting frá árinu 2003 fól ekki í sér breytingu á áður ákvörðuðum vegtenginum nærri verslun kæranda og verður ekki séð að hún snerti með nokkrum hætti hagsmuni hans.  Af þessum sökum á kærandi ekki þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni sem að stjórnsýslurétti eru taldir skilyrði aðildar kæru til æðra stjórnvalds og verður kærumálinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar ásamt því að nefndinni hafa ekki borist umbeðin gögn eins og að framan er getið.     

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

   ___________________________    
Hjalti Steinþórsson

 

_______________________                 __________________________
Ásgeir Magnússon                                 Þorsteinn Þorsteinsson

 

4/2006 Hverfisgata-Hávegur

Með

Ár 2006, þriðjudaginn 15. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2006, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Siglufjarðar frá 23. september 2004 um deiliskipulag Hverfisgötu – Hávegar á Siglufirði.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. janúar 2006, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir Grímur Sigurðsson hdl., f.h. J, Melabraut 23, Hafnarfirði, eiganda húseignarinnar að Hverfisgötu 15, Siglufirði, ákvörðun bæjarstjórnar Siglufjarðarkaupstaðar frá 23. september 2004 um deiliskipulag Hverfisgötu – Hávegar á Siglufirði.  

Kærandi krefst þess að úrskurðarnefndin fallist á að brotið hafi verið á rétti hans ásamt því að Siglufjarðarkaupstað beri að greiða honum bætur.  

Málavextir og málsrök:  Hinn 23. september 2004 var á fundi bæjarstjórnar Siglufjarðarkaupstaðar eftirfarandi fært til bókar:  „Bæjarstjórn Siglufjarðar samþykkir fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi fyrir Hverfisgötu – Háveg.  Samþykkt með 9 samhljóða atkvæðum.“  Var auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 25. febrúar 2005. 

Hinn 14. júlí 2005 ritaði kærandi bréf til Skipulagsstofnunar og óskaði eftir því að stofnunin kannaði hvort málsmeðferð bæjaryfirvalda hafi verið lögum samkvæmt.  Svarbréf Skipulagsstofnunar til kæranda er dagsett 21. júlí sama ár. 

Með bréfi, dags. 10. ágúst 2005, setti kærandi fram kröfu um bætur úr bæjarsjóði vegna tjóns á fasteign hans að Hverfisgötu 15 sem rekja mætti til framkvæmda á grundvelli deiliskipulagsins.  Þeirri kröfu var hafnað með bréfi, dags. 22. september 2005. 

Hinn 22. desember 2005 leitaði kærandi til umboðsmanns Alþingis og með bréfi, dags. 30. desember 2005, tilkynnti umboðsmaður honum að hann myndi ekki fjalla um kvörtunina þar sem æðra stjórnvald hefði ekki kveðið upp úrskurð í málinu. 

Kröfur sínar styður kærandi þeim rökum að málsmeðferð við gerð og undirbúning hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar hafi ekki verið í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 ásamt því að málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotnar. 

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. febrúar 2006, var óskað eftir því við bæjarstjórn Siglufjarðarkaupstaðar að bæjaryfirvöld lýstu viðhorfum sínum til kærunnar ásamt því að láta nefndinni í té nauðsynleg gögn er málið vörðuðu.  Hvorugt hefur borist úrskurðarnefndinni.  Eigi að síður telur nefndin, eins og málið liggur nú fyrir, að það sé tækt til úrskurðar.
 
Niðurstaða:  Fyrir liggur að auglýsing um gildistöku hins kærða deiliskipulags birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 25. febrúar 2005.  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sæta þær ákvarðanir sveitarfélaga, sem þar er getið, kæru til úrskurðarnefndarinnar og er kærufrestur einn mánuður frá birtingu ákvörðunar, sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu svo sem er í hinu kærða tilviki.  Auglýsing um gildistöku hinnar kærðu skipulagsákvörðunar birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 25. febrúar 2005 og var því liðið nokkuð á tíunda mánuð frá lokum kærufrests er kærandi skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar.  Verður ekki séð að neinar þær ástæður séu fyrir hendi er réttlæti að úrskurðarnefndin taki kærumál þetta til efnisúrlausnar svo löngu eftir lok kærufrests og ber því samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarnefndin getur ekki tekið afstöðu til þess hvort réttur hafi verið brotinn á kæranda nema í tengslum við efnisúrlausn máls.  Þar sem málið sætir frávísun kemur krafa kæranda þar að lútandi ekki til álita.  Þá er það ekki á valdsviði nefndarinnar að kveða á um bætur vegna tjóns er kærandi kann að hafa orðið fyrir, en mælt er fyrir um heimtu slíkra bóta í 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Verður kærumálinu því vísað frá í heild sinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna og málafjölda hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

____________________          _______________________
  Ásgeir Magnússon                    Þorsteinn Þorsteinsson

53/2004 Skólavörðustígur

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 1. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Sigurður Erlingsson verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 53/2004, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 6. september 2004 um að heimila breytingar á efri hæð hússins að Skólavörðustíg 22A í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. október 2004, kæra H og B, Skólavörðustíg 21, Reykjavík ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 6. september 2004 um að heimila breytingar á efri hæð hússins að Skólavörðustíg 22A í Reykjavík.

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik:  Með ákvörðun þeirri sem kærð er í máli þessu var heimilað að breyta efri hæð hússins að Skólavörðustíg 22A í kaffihús og stækka svalir þess.  Við frumathugun starfsmanna úrskurðarnefndarinnar á málinu kom í ljós að sorptunnur vegna fyrirhugaðrar starfsemi virtust staðsettar utan lóðamarka.  Var athygli byggingaryfirvalda vakin á þessu og í framhaldi af þeirri ábendingu var sótt um byggingarleyfi að nýju og var það leyfi veitt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 30. nóvember 2004.  Var sú ákvörðun staðfest í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 7. desember 2004. 

Kærendum var gert kunnugt um hið nýja byggingarleyfi.  Kærðu þau þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 21. janúar 2005.  Er því máli ólokið hjá nefndinni.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var nýtt byggingarleyfi veitt hinn 30. nóvember 2004 í stað leyfis þess frá 6. september 2004, sem kært er í máli þessu.  Verður að telja að við útgáfu leyfisins frá 30. nóvember 2004 hafi eldra leyfi frá 6. september fallið úr gildi og að kærendur eigi því ekki lengur lögvarða hagsmuni því tengda að fá skorið úr ágreiningi um lögmæti þess.  Verður málinu því vísað frá.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

        ___________________________          
           Hjalti Steinþórsson          

 

                                                                                                                                 ____________________________       _____________________________
Ásgeir Magnússon                                    Sigurður Erlingsson

 

33/2006 Brákarbraut

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 1. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Sigurður Erlingsson verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 33/2006, kæra á ákvörðun bæjaryfirvalda í Borgarbyggð um að hefja framkvæmdir við gerð bílastæða fyrir rútur og stærri ökutæki vestan Brákarbrautar í Borgarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. maí 2006, kærir I, Brákarbraut 11, Borgarnesi ákvörðun bæjaryfirvalda í Borgarbyggð um að hefja framkvæmdir við gerð bílastæða fyrir rútur og stærri ökutæki vestan Brákarbrautar í Borgarnesi.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt krefst hann þess að umræddar framkvæmdir verði stöðvaðar.

Málsatvik:  Undanfarið hefur verið til meðferðar breyting á deiliskipulagi gamla miðbæjarins í Borgarnesi.  Deiliskipulagsbreytingin var samþykkt í bæjarstjórn 12. janúar 2006 til auglýsingar.  Engar athugasemdir bárust á kynningartímanum, en málsmeðferð var skv. 1. mgr. 26 gr. skipulags- og byggingarlaga.

Í breytingunni sem auglýst var felst m.a. að hætt er við niðurrif gamla Mjólkursamlagsins, auk ýmissa breytinga á bílastæðum, byggingarreitum o.fl.  Jafnframt er fellt niður leiksvæði norðan Brákarbrautar.

Fyrir liggur að eftir auglýsingu skipulagstillögunnar ákvað bæjarráð, á fundi 27. apríl 2006, að gera breytingar eða lagfæringar á auglýstri tillögu hvað varðar fyrirkomulag götu og bílastæða við Brákarbraut.  Var sú ákvörðun staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 11. maí 2006.  Hefur Skipulagsstofnun framangreindar skipulagsákvarðanir til meðferðar og hafa þær enn ekki tekið gildi.

Framkvæmdir við bílastæði fyrir rútur og stærri ökutæki vestan Brákarbrautar og við breytingu á legu götunnar munu hafa hafist í byrjun maí 2006 og eru þær tilefni kæru þeirrar sem hér er til meðferðar.  Liggur fyrir að ekkert formlegt framkvæmdaleyfi var veitt fyrir framkvæmdunum, en þær munu vera í samræmi við þá tillögu að breyttu fyrirkomulagi sem samþykkt var í bæjarráði hinn 27. apríl 2006.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á því byggt að hvorki hafi átt sér stað lögformleg stjórnsýsluleg umfjöllun um breytinguna né framkvæmdina.  Í gildandi deiliskipulagi sé gert ráð fyrir leik- og útivistarsvæði þar sem nú sé verið að gera umrædd bílastæði.  Eins sé útlit fyrir að ekki eigi að ganga frá bílastæðum við enda „Pakkhúsins“ að Brákarbraut 15 eins og deiliskipulagið geri ráð fyrir og þar með sé fækkað um helming bílastæðum fyrir smærri bíla á deiliskipulagssvæðinu.  Gerð sé athugasemd við að íbúum eða öðrum sem málið varði hafi ekki verið gefinn kostur á að gera athugasemdir við svo veigamiklar breytingar á gildandi deiliskipulagi.  Þá hafi umræddar framkvæmdir ekki fengið lögformlega umfjöllun í stjórnkerfi bæjarins.

Málsrök Borgarbyggðar:  Af hálfu Borgarbyggðar virðist aðalleg á því byggt að aðeins hafi verið um óverulega lagfæringu á fyrirkomulagi bílastæða að ræða sem ekki hafi gefið tilefni til sérstakrar málsmeðferðar umfram það að ákvörðun hafi verið tekin um lagfæringuna í bæjarráði og hún síðan staðfest í bæjarstjórn.  Svæði það sem lagt hafi verið undir  umrædd bílastæði sé ekki lengur skilgreint sem leiksvæði og því sé kæran ekki á rökum reist hvað það varði.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var ekki veitt formlegt framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdum þeim sem voru tilefni kæru í máli þessu.  Aðeins hefur verið vísað til þess að þær hafi átt stoð í ákvörðun bæjaryfirvalda um lagfæringu á skipulagsákvörðun sem enn er til meðferðar hjá Skipulagsstofnun og ekki hefur tekið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda svo sem áskilið er.  Það liggur því hvorki fyrir kæranleg ákvörðun um framkvæmdaleyfi né endanleg skipulagsákvörðun sem sætt gætu kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og verður máli þessu því vísað frá nefndinni.    

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________         
                  Hjalti Steinþórsson                                 

 

 
_____________________________                  ____________________________                 
           Ásgeir Magnússon                                             Sigurður Erlingsson

 

28/2006 Strandgata

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 1. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Sigurður Erlingsson verkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 28/2006, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá  14. desember 2005 um að veita byggingarleyfi fyrir nýju húsi að Strandgötu 39, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. apríl 2006, er barst nefndinni sama dag, kæra F, R og A, eigendur húsnæðis að Mjósundi 1 og Strandgötu 37 og 37b,  þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 14. desember 2005 að veita byggingarleyfi fyrir nýju húsi að Strandgötu 39 í Hafnarfirði.  Bæjarstjórn Hafnarfjarðar staðfesti þá ákvörðun hinn 10. janúar 2006. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar.  Jafnframt krefjast þeir að skemmdir sem orðið hafi á fasteignum þeirra verði bættar.

Málsatvik:  Hinn 29. september 2005 sótti lóðarhafi að Strandgötu 39 í Hafnarfirði um leyfi til að byggja fjöleignarhús undir atvinnustarfsemi á nefndri lóð og var byggingarleyfi samþykkt á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 14. desember 2005.  Hinn 8. mars 2006 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi umsókn lóðarhafa um niðurrif húss þess sem fyrir var á lóðinni að Strandgötu 39. 

Til stuðnings kröfum sínum hafa kærendur bent á að umdeilt byggingarleyfi brjóti í bága við gildandi deiliskipulag og muni fyrirhuguð nýbygging rísa að hluta inni á lóð Mjósunds 1 og svalir komi til með að snúa að lóðum nr. 37 og 37b við Strandgötu og skerða þar með nýtingarmöguleika þeirra lóða og rýra verðgildi fasteigna kærenda.  Framkvæmdir á lóðinni að Strandgötu 39, sem kærendum hafi ekki verið gert aðvart um, hafi valdið þeim verulegu tjóni.  Það stór sjái á lóðinni að Mjósundi 1 og steyptur jarðvegsburðarveggur milli lóðanna að Mjósundi 1 og Strandgötu 37b hafi hrunið ásamt loftnetsstaur og tengingum sem á honum voru.  Grindverk Mjósunds 1 við lóðarmörk Strandgötu 41 sé meira og minna brotið auk þess sem þvottasnúrur hafi verið rifnar niður og rabarbaragarður í horni lóðarinnar sé á bak og burt.  Lóðin að Strandgötu 37b sé stórskemmd og steyptur bílskúrsveggur að Strandgötu 37 hruninn að hluta ásamt steyptum skjólvegg við verönd og sprungur hafi myndast í veggjum  íbúða. 

Af hálfu bæjaryfirvalda í Hafnarfirði hefur verið upplýst að samkomulag hafi náðst við lóðarhafa að Strandgötu 39 um að leiðrétta teikningar í samræmi við nýtt mæliblað og umdeilt byggingarleyfi verði afturkallað.

Niðurstaða:  Fyrir liggur að hið kærða leyfi fyrir nýbyggingu að Strandgötu 39 var afturkallað á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar hinn 26. apríl 2006 með vísan til 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og var sú ákvörðun staðfest í bæjarstjórn hinn 16. maí sl.

Eins og málum er komið verður ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar eða til kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda enda hefur ákvörðunin ekki lengur réttarverkan að lögum.  Þá verður ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um bætur vegna umdeildra framkvæmda en slík álitaefni falla utan verksviðs úrskurðarnefndarinnar.  Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________  
     Hjalti Steinþórsson         

 

 ____________________________         ______________________________
  Ásgeir Magnússon                                       Sigurður Erlingsson

 

38/2004 Akranes

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 1. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Sigurður Erlingsson verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 38/2004, kæra á breyttu deiliskipulagi miðbæjarreits á Akranesi frá 11. maí 2004.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála er barst nefndinni hinn 29. júní 2004, kæra R og J, bæði til heimilis að Dalbraut 21, Akranesi þá ákvörðun bæjarstjórnar Akraness frá 11. maí 2004 að breyta deiliskipulagi miðbæjarreits á Akranesi. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir og málsrök aðila:  Á fundi bæjarstjórnar Akraness hinn 11. maí 2004 voru samþykktar breytingar á deiliskipulagi svokallaðs miðbæjarreits á Akranesi. Fól hin breytta skipulagsákvörðun m.a. í sér að á svæðinu, þar sem áður hafði eingöngu verið gert ráð fyrir verslun og þjónustu, var nú einnig gert ráð fyrir íbúðarbyggð.  Var þannig gert ráð fyrir samtals fjórum lóðum, tveimur fyrir 10 hæða íbúðarhús, lóð fyrir verslunarmiðstöð og lóð verslunarinnar Skagavers. 

Tillaga að breyttu deiliskipulagi var auglýst frá 28. janúar 2004 til 28. febrúar 2004 og var frestur til að skila athugasemdum til 12. mars sama ár.  Margar athugasemdir komu fram vegna tillögunnar, m.a. frá kærendum.  Á fundi bæjarstjórnar Akraness hinn 11. maí 2004 voru breytingar á deiliskipulaginu samþykktar og birtist auglýsing um gildistöku þess í B-deild Stjórnartíðinda hinn 9. júlí 2004. 

Á fundi bæjarstjórnar Akraness hinn 12. apríl 2005 var á ný samþykkt breyting á deiliskipulagi miðbæjarreits sem fól í sér breytta staðsetningu beggja  íbúðarhúsanna sem fyrirhugað var að reisa á reitnum, auk breytinga á fyrirkomulagi bílastæða og bílageymslu.  Þá var og gerð breyting á byggingarreit verslunarmiðstöðvarinnar hvað varðar lögun hans og staðsetningu.  Birtist auglýsing um gildistöku breytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 12. maí 2005.  Hefur þeirri deiliskipulagsákvörðun bæjaryfirvalda á Akranesi ekki verið skotið til úrskurðarnefndarinnar.

Eins og að framan greinir gera kærendur þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi.  Vísa þau m.a. til þess að breytingin geri ráð fyrir mannvirkjum sem séu í engu samræmi við umhverfi sitt, bæjaryfirvöld hafi ekki tekið afstöðu til mótmæla sem sett hafi verið fram þegar tillaga að breytingunni hafi verið auglýst ásamt því að óupplýst sé um skuggavarp bygginga þeirra er rísa muni á svæðinu. 

Af hálfu Akraness er þess krafist að kærunni verði vísað frá sökum þess að hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun hafi verið breytt.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið liggur fyrir að bæjarstjórn Akraness hefur með samþykkt sinni hinn 12. apríl 2005 breytt hinni kærðu ákvörðun í grundvallaratriðum og hefur af þeim sökum ekki lengur þýðingu að fjalla um lögmæti hennar.  Eiga kærendur hér eftir ekki lögvarða hagsmuni því tengda að fá efnisúrlausn í kærumáli þessu svo sem áskilið er í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessi er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

   _____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

____________________________                               ___________________________  
         Ásgeir Magnússon                                                         Sigurður Erlingsson

 

 

51/2003 Eddufell

Með

Ár 2006, miðvikudaginn 24. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 51/2003, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá  30. júlí 2003 um að fresta afgreiðslu umsóknar um leyfi fyrir veitingastað með ballskákborðum á efri hæð hússins nr. 8 við Eddufell.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. ágúst 2003, er barst nefndinni sama dag, kærir Sævar Guðlaugsson f.h. R ehf., Byggðarenda 4, Reykjavík eiganda húsnæðis að Eddufelli 8, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 30. júlí 2003 að fresta afgreiðslu umsóknar kæranda um leyfi fyrir veitingastað með ballskákborðum á efri hæð hússins að Eddufelli 8. Ákvörðunin var staðfest í borgarráði hinn 12. ágúst 2003.  Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt leyfi til umbeðinna breytinga.

Málsatvik:  Hinn 7. maí 2002 var á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa tekin fyrir fyrirspurn um hvort leyft yrði að opna veitingastað ásamt sportbar með billjardborðum á fyrstu hæð í húsinu nr. 8 á lóðinni nr. 2-8 við Eddufell og var tekið jákvætt í erindið.  Formleg umsókn um greindar breytingar var síðan til umfjöllunar á fundi skipulags- og byggingarnefndar 30. júlí 2003 en afgreiðslu hennar frestað með með vísan til 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þar sem deiliskipulagsvinna stæði yfir fyrir umrætt svæði.  Kærandi sætti sig ekki við þessa ákvörðun og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar.

Bendir kærandi á að umrætt húsnæði standi autt og ekki hafi verið unnt að leigja það að óbreyttu.  Frestun á jákvæðri afgreiðslu umsóknar hans valdi honum því fjárhagslegu tjóni.

Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kærenda í máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar um frestun á afgreiðslu málsins verði staðfest.  Heimilt hafi verið að fresta afgreiðslu málsins skv. 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Frestunin hafi byggst á því að verið var að vinna deiliskipulagstillögu vegna Fellagarða, en lóðin Eddufell 8 sé á því svæði.  Sú deiliskipulagsbreyting hafi verið samþykkt í skipulagsráði 22. júní 2005 og staðfest í borgarráði 30. júní s.á að undangenginni aðalskipulagsbreytingu.  Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins hafi birst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 21. júlí 2005.  Í hinu nýja deiliskipulagi sé heimilt að breyta húsinu Eddufelli 8 í íbúðarhús með bílageymslu fyrir 14 bíla í kjallara og heimilað að byggja tvær íbúðarhæðir ofan á húsið.  Deiliskipulagsbreyting þessi hafi ekki verið kærð.  Kærandi í máli þessu hafi hins vegar gert bótakröfu á hendur Reykjavíkurborg sem byggi á fyrrgreindu ákvæði 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga og af því verði ráðið að kærandi hafi talið heimilt að afgreiðslu málsins væri frestað á grundvelli greinds ákvæðis.  Kærandi hafi því enga lögvarða hagsmuni af því að fá úr því skorið hvort skipulags- og byggingarnefnd hafi verið heimilt að fresta afgreiðslu málsins.  Frávísunarkrafa Reykjavíkurborgar varðandi þá kröfu kæranda að úrskurðarnefndin heimili umræddar breytingar sé á því byggð að umfjöllun um slíka kröfu sé utan valdsviðs nefndarinnar.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að fresta afgreiðslu umsóknar kæranda um breytta notkun húsnæðis að Eddufelli 8, en slík frestun er heimiluð í 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 í allt að tvö ár, m.a. ef breytingar á deiliskipulagi standa yfir.  Verði fasteignareigandi fyrir tjóni í slíkum tilfellum á hann rétt til bóta.

Fyrir liggur að breyting á  deiliskipulagi umrædds svæðis tók gildi hinn 21. júlí 2005 og er þar gert ráð fyrir að greint húsnæði sé nýtt til íbúðar.  Kærandi hefur ekki kært þá deiliskipulagsákvörðun en hefur farið fram á bætur á grundvelli fyrrgreindrar 6. mgr 43. gr.  Að þessum atvikum virtum þykir kærandi ekki lengur hafa hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar og verður málinu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

___________________________
                          Hjalti Steinþórsson                                 

 

 

_____________________________             ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                      Aðalheiður Jóhannsdóttir