Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

53/2004 Skólavörðustígur

Ár 2006, fimmtudaginn 1. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Sigurður Erlingsson verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 53/2004, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 6. september 2004 um að heimila breytingar á efri hæð hússins að Skólavörðustíg 22A í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. október 2004, kæra H og B, Skólavörðustíg 21, Reykjavík ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 6. september 2004 um að heimila breytingar á efri hæð hússins að Skólavörðustíg 22A í Reykjavík.

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik:  Með ákvörðun þeirri sem kærð er í máli þessu var heimilað að breyta efri hæð hússins að Skólavörðustíg 22A í kaffihús og stækka svalir þess.  Við frumathugun starfsmanna úrskurðarnefndarinnar á málinu kom í ljós að sorptunnur vegna fyrirhugaðrar starfsemi virtust staðsettar utan lóðamarka.  Var athygli byggingaryfirvalda vakin á þessu og í framhaldi af þeirri ábendingu var sótt um byggingarleyfi að nýju og var það leyfi veitt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 30. nóvember 2004.  Var sú ákvörðun staðfest í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 7. desember 2004. 

Kærendum var gert kunnugt um hið nýja byggingarleyfi.  Kærðu þau þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 21. janúar 2005.  Er því máli ólokið hjá nefndinni.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var nýtt byggingarleyfi veitt hinn 30. nóvember 2004 í stað leyfis þess frá 6. september 2004, sem kært er í máli þessu.  Verður að telja að við útgáfu leyfisins frá 30. nóvember 2004 hafi eldra leyfi frá 6. september fallið úr gildi og að kærendur eigi því ekki lengur lögvarða hagsmuni því tengda að fá skorið úr ágreiningi um lögmæti þess.  Verður málinu því vísað frá.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

        ___________________________          
           Hjalti Steinþórsson          

 

                                                                                                                                 ____________________________       _____________________________
Ásgeir Magnússon                                    Sigurður Erlingsson