Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

27/2003 Staldrið

Ár 2006, miðvikudaginn 30. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 27/2003, kæra Stekks ehf. á samþykktum skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 26. febrúar 2003 og skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 4. mars 2003 um breytingu á deiliskipulagi mislægra gatnamóta Reykjanesbrautar, Stekkjarbakka og Smiðjuvegar.  

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. maí 2003, sem barst nefndinni hinn sama dag, kærir Þórólfur Jónsson hdl., f.h. Stekks ehf., Stekkjarbakka 2, Reykjavík, eiganda verslunarinnar Staldursins við Stekkjarbakka, samþykktir skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 4. mars 2003 og skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 26. febrúar 2003 um breytingu á deiliskipulagi mislægra gatnamóta Reykjanesbrautar, Stekkjarbakka og Smiðjuvegar.  Voru framangreindar samþykktir staðfestar á fundi borgarráðs hinn 11. mars 2003 og fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 11. mars sama ár.     

Kærandi krefst þess að hinar kærðu samþykktir verði felld úr gildi.

Málavextir og málsrök:  Áform um gerð mislægra gatnamóta við Stekkjarbakka, Reykjanesbraut og Smiðjuveg voru sett fram í Aðalskipulagi Kópavogs 1992 – 2012 og í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016.  Með úrskurði skipulagsstjóra ríkisins, dags. 4. ágúst 2000, um mat á umhverfisáhrifum tveggja mislægra gatnamóta á Reykjanesbraut var fallist á framkvæmdina og staðfesti umhverfisráðherra niðurstöðu skipulagsstjóra með úrskurði hinn 8. desember 2000.  Gildistaka deiliskipulags, er sýndi nánari útfærslu gatnamóta Reykjanesbrautar, Stekkjarbakka og Smiðjuvegar og vegtengingar við þau, var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 2. janúar 2001.  Var sú deiliskipulagsákvörðun ekki kærð til úrskurðarnefndarinnar. 

Í desember árið 2002 ákváðu skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur og skipulagsnefnd Kópavogs að auglýsa breytingu á deiliskipulagi mislægra gatanamóta Reykjanesbrautar, Stekkjarbakka og Smiðjuvegar.  Var tillaga að breytingu auglýst frá 30. desember 2002 og var frestur til að skila inn athugasemdum til 10. febrúar 2003.  Nokkrar athugasemdir bárust, þar á meðal frá kæranda.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur hinn 26. febrúar 2003 var breytingin samþykkt og staðfest í borgarráðs hinn 4. mars 2003.  Sama deiliskipulagsbreyting var samþykkt í skipulagsnefnd Kópavogs hinn 4. mars 2003 og staðfest í bæjarstjórn hinn 11. sama mánaðar.  Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 13. maí 2003.

Með hinum kærðu ákvörðunum voru gerðar breytingar á deiliskipulagi umrædds svæðis sem samþykkt var á árinu 2000.  Fólu breytingarnar m.a. í sér að útlit gatnamannvirkja á svæðinu var sýnt á skipulagsuppdrætti, hringtorg við Smiðjuveg fært til suðurs, göngubrú byggð yfir Reykjanesbraut ásamt breytingum á gönguleiðum. 

Kærandi hefur kært framangreindar samþykktir til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.    

Af hálfu kæranda er vísað til þess að með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu sé á ólögmætan hátt dregið mjög úr þeim vegtenginum sem liggi að versluninni Staldrinu við  Stekkjarbakka.  Sé skerðingin svo mikil að tilefni sé til að ætla að rekstrargrundvelli hennar sé stefnt í mikla hættu.  Sé samþykktin kærð í því skyni að tryggja að vegtengingar verði auknar til að koma í veg fyrir að reksturinn leggist af, sem myndi hafa verulegt tjón í för með sér fyrir kæranda.          

Kæran byggi á því að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé ólögmæt, enda feli hún í sér ólömæta röskun á eignarráðum og atvinnufrelsi kæranda og fari því í bága við þau ákvæði stjórnarskrárinnar sem tryggi honum atvinnufrelsi og eignarréttarvernd.  Þá brjóti hún gegn ákvæðum stjórnsýslulaga um jafnræði, meðalhóf og rannsóknarskyldu stjórnvalds ásamt ákvæðum skipulagsreglugerðar um samvinnu skipulagsyfirvalda við hagsmunaaðila.

Hinn 2. júní 2003 ritaði framkvæmdarstjóri úrskurðarnefndarinnar skipulags- og byggingaryfirvöldum í Reykjavík og Kópavogi bréf vegna kærunnar og óskaði eftir viðhorfum þeirra til hennar og gögnum er verið gætu til upplýsingar við úrlausn málsins.  Með bréfi bæjarverkfræðings Kópavogs, dags. 19. júní 2003, segir eftirfarandi:  „Hér er um að ræða kæru vegna vegtenginga að Staldrinu.  Staldrið er það langt innan lögsögu Reykjavíkurborgar og kæruatriði þess eðlis að málið snertir varla hagsmuni Kópavogsbæjar.  Þess vegna mælir undirritaður með því að skipulagsnefnd vísi til væntanlegrar umsagnar Reykjavíkurborgar.“  Var framangreint samþykkt á fundi skipulagsnefndar Kópavogs hinn 2. júlí 2003.  Engin gögn hafa borist úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg, hvorki nauðsynlegir skipulagsuppdrættir og samþykktir né andmæli borgarinnar vegna framkominnar ógildingarkröfu.  Hefur úrskurðarnefndin af sjálfsdáðum aflað sér nauðsynlegra gagna og telur málið tækt til úrlausnar þrátt fyrir framangreint. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var á árinu 2000 samþykkt deiliskipulag að mislægum gatnamótum Reykjanesbrautar, Stekkjarbakka og Smiðjuvegar.  Var gildistaka þess auglýst í B-deild Stjórnartíðinda og kemur það skipulag ekki til endurskoðunar í máli þessu.  Hin kærða deiliskipulagsbreyting frá árinu 2003 fól ekki í sér breytingu á áður ákvörðuðum vegtenginum nærri verslun kæranda og verður ekki séð að hún snerti með nokkrum hætti hagsmuni hans.  Af þessum sökum á kærandi ekki þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni sem að stjórnsýslurétti eru taldir skilyrði aðildar kæru til æðra stjórnvalds og verður kærumálinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar ásamt því að nefndinni hafa ekki borist umbeðin gögn eins og að framan er getið.     

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

   ___________________________    
Hjalti Steinþórsson

 

_______________________                 __________________________
Ásgeir Magnússon                                 Þorsteinn Þorsteinsson