Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

108/2015 Suðurnesjalína 2 Hafnarfjarðarbæ

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 28. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 108/2015, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 10. júlí 2015 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. nóvember 2015, er barst nefndinni 30. s.m., kæra eigendur jarðanna Landakots, Stóru Vatnsleysu, Minni Vatnsleysu, hluti af eigendum Heiðarlands Vogajarða og hluti af eigendum Stóra Knarrarness, Sveitarfélaginu Vogum, þá ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 10. júlí 2015 að veita Landsneti hf. framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málavextir: Forsaga málsins er sú að á árinu 2009 sendi Landsnet Skipulagsstofnun til meðferðar frummatsskýrslu um Suðvesturlínur, styrkingu raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi. Stofnunin auglýsti nefnda skýrslu til kynningar og að kynningartíma liðnum skilaði Landsnet til hennar endanlegri matsskýrslu, dags. 10. ágúst 2009. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 17. september s.á.

Með bréfi til Skipulagsstofnunar, dags 26. nóvember 2013, óskuðu eigendur jarðanna Landakots, Hvassahrauns, Stóru og Minni Vatnsleysu, nokkrir eigenda Heiðarlands Vogajarða og tveir eigenda Stóra Knarrarness eftir endurskoðun fyrrnefndrar matsskýrslu Landsnets að því er varðaði Suðurnesjalínu 2. Með ákvörðun sinni 23. júní 2014 hafnaði Skipulagsstofnun þessari beiðni landeigendanna, sem og ósk þeirra til vara um endurskoðun á áliti stofnunarinnar á matsskýrslunni. Nefnd ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndarinnar, en kæran var síðar afturkölluð.

Orkustofnun veitti Landsneti leyfi 5. desember 2013 til að reisa og reka raforkuflutningsvirkið Suðurnesjalínu 2 á grundvelli 2. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Um er að ræða 220 kV háspennulínu frá tengivirki við Hamranes í Hafnarfirði, um Voga, Reykjanesbæ og Grindavíkurbæ, að tengivirki við Rauðamel, um 5 km norðan við Svartsengi. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en kærumálinu vísað frá í kjölfar dóms Hæstaréttar 13. október 2016, í máli nr. 796/2015, þar sem ákvörðunin var felld úr gildi.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra veitti Landsneti heimildir til eignarnáms á jörðum kærenda í febrúar 2014, en þær ákvarðanir voru felldar úr gildi með dómum Hæstaréttar í málum nr. 511, 512, 513 og 541/2015, uppkveðnum 13. maí 2015. 

Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar 10. júlí 2015 var tekin fyrir umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi vegna Suðurnesjalínu 2. Var bókað að grenndarkynnt hefði verið skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Athugasemdatíma væri lokið og athugasemdir hefðu borist. Meirihluti skipulags- og byggingarráðs samþykkti umsótt framkvæmdaleyfi og gerði framlögð svör við athugasemdum að sínum. Á fundi bæjarráðs 16. s.m. var fundargerð skipulags- og byggingarráðs lögð fram til kynningar í bæjarráði í umboði bæjarstjórnar. Á fundi sínum 20. október 2015 fól skipulags- og byggingarráð umhverfis- og skipulagsþjónustu að auglýsa framkvæmdaleyfið skv. 14. gr. skipulagslaga. Fundargerð ráðsins var lögð fram til kynningar á fundi bæjarstjórnar 28. s.m. Var leyfið og auglýst 30. s.m. Auk Hafnarfjarðar veittu sveitarfélögin Grindavík, Reykjanesbær og Vogar Landsneti framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2, sem öll voru kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Kærumáli þessu var frestað á meðan á rekstri dómsmáls stóð vegna framkvæmdaleyfisins sem veitt var af Sveitarfélaginu Vogum, en leyfið var fellt úr gildi með dómi Héraðsdóms Reykjaness 22. júlí 2016, í máli nr. E-1121/2015. Niðurstaða héraðsdóms var staðfest með dómi Hæstaréttar 16. febrúar 2017, í máli nr. 575/2016. Kærur til úrskurðarnefndarinnar vegna þeirrar leyfisveitingar hafa verið afturkallaðar.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að hin kærða leyfisveiting varði með beinum hætti stjórnarskrárvarin eignarréttindi þeirra, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 1. gr. 1. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Hvorki kerfisáætlun Landsnets á árunum 2006-2013 né áform um Suðvesturlínur hafi sætt umhverfismati áætlana skv. lögum nr. 105/2006, sbr. tilskipun 2001/42/EB. Þar sem slíkt mat hafi ekki farið fram lögum samkvæmt sé einfaldlega ólögmætt að veita framkvæmdaleyfi og verði þegar af þeirri ástæðu að fella það úr gildi.

Matsskýrsla framkvæmdarinnar sé haldin svo verulegum ágöllum að framkvæmdaleyfi geti ekki átt í henni stoð. Leyfisveitanda hafi verið skylt að kynna sér matsskýrsluna og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sbr. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Af því leiði að ágallar á mati á umhverfisáhrifum framkvæmdar komi einnig til skoðunar, en umfjöllun í matsskýrslu um aðra mögulega valkosti hafi verið verulega ábótavant. Aðrir valkostir fyrir Suðurnesjalínu 2, en lagning 220 kV línu með 690 MVA flutningsgetu, hafi ekki verið lagðir fram, en samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sé skylt að gera grein fyrir öllum valkostum og bera þá saman. Ljóst sé að aðrir kostir standi til boða en lagning 220 kV loftlínu. Einkum sé lagning línunnar í jörð álitlegur kostur og hafi kærendur frá upphafi óskað eftir að sá valkostur yrði skoðaður til hlítar. Umfjöllun um jarðstrengi í matsskýrslu sé hins vegar annmörkum háð. Hún sé almenn og ónákvæm. Áhersla sé lögð á kostnaðarmun sem ekki hafi þýðingu við sambanburð á umhverfisáhrifum mismunandi kosta, en auk þess standist ekki hin almenna umfjöllun um kostnað vegna jarðstrengja. Ummæli í matsskýrslu um endingartíma jarðstrengja sé ósönn og órökstudd. Loks sé villandi mynd dregin upp og lítið gert úr kostum jarðstrengja. Hvað jarðrask varði hefði mátt kanna þann möguleika að leggja jarðstreng innan þess svæðis sem þegar hafi verið raskað vegna Reykjanesbrautar og Suðurnesjalínu 1, eða meðfram Reykjanesbraut eða núverandi línuvegi.

Í matsskýrslu og tillögu að matsáætlun segi að Landsnet hafi verið með ýmsa valkosti til athugunar en eftir samráð við sveitarfélög á línuleiðinni hafi einn kostur verið eftir, þ.e. lagning 220 kV loftlínu. Kærendum og öðrum hagsmunaaðilum hafi ekki verið hleypt að borðinu við þetta samráð. Gengið hafi verið á svig við rétt almennings til að hafa áhrif á ákvarðanatöku í umhverfismálum, sbr. 6. gr. Árósasamningsins og tilskipun 2011/92/ESB, einkum 2.-6. mgr. 6. gr. Auk þess veiti 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. mgr. 1. gr. 1. samningsviðauka mannréttindasáttmálans, kærendum og öðrum landeigendum ríkan rétt til þátttöku í ákvörðunum sem til standi að taka um eignir þeirra, og þá frá upphafi þegar allir valkostir séu opnir og enn mögulegt að hafa áhrif á ákvarðanatöku. Þessa hafi ekki verið gætt.

Það sé meginregla að allar framkvæmdaleyfisskyldar framkvæmdir skuli eiga sér stoð í deiliskipulagi. Hafi ekki verið lagaskilyrði til að viðhafa grenndarkynningu, en ekkert deiliskipulag sé í gildi á umræddu svæði. Umfjöllun í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 fullnægi ekki þeim kröfum 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 að þar sé fjallað á ítarlegan hátt um umfang, frágang og áhrif Suðurnesjalínu 2 á umhverfið.

Framkvæmdaleyfið hafi ekki verið lagt fyrir og samþykkt á fundi bæjarstjórnar líkt og áskilið sé í 13. gr. skipulagslaga og 1. mgr. 3. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi. Í 1. mgr. 70. gr. samþykktar nr. 772/2013 um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar segi að skipulags- og byggingarráð fari meðal annars með mál sem heyri undir skipulagslög og geti bæjarstjórn falið ráðinu fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Í 2. mgr. 7. gr. erindisbréfs skipulags- og byggingarráðs, sem samþykkt hafi verið í bæjarstjórn Hafnarfjarðar 7. desember 2011, segi að samþykktum, reglugerðum og gjaldskrám sem hljóta eigi staðfestingu ráðherra, skuli vísað til bæjarstjórnar, ásamt afgreiðslu erinda sem kveðið sé á um í skipulagslögum. Málinu hafi hins vegar ekki verið vísað til bæjarstjórnar til endanlegrar ákvörðunar og leiði það til ógildingar.

Suðurnesjalína 2 hafi verið klofin frá Suðvesturlínum og geti ekki talist vera sama framkvæmd og sú sem sætt hafi mati á umhverfisáhrifum ásamt Suðvesturlínum.

Loks séu verulegir annmarkar á málsmeðferð sveitarfélagins, m.a. hafi skort á að það sinnti rannsóknarskyldu sinni og gætti meðalhófs.

Athugasemdir leyfishafa:
Leyfishafi bendir á að kærendur hafi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta tengdri hinni kærðu ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þeir séu ekki búsettir í Hafnarfirði og séu jarðir þeirra innan Sveitarfélagsins Voga, sem taki ákvörðun um veitingu framkvæmdaleyfis innan síns lögsagnarumdæmis. Beri því að vísa kærunni frá.

Leyfisveitandi skuli fjalla um og taka afstöðu til þess hvort tiltekin framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt skuli hann kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og kanna hvort framkvæmdin sé sú sem lýst sé í matsskýrslu. Þá skuli leyfisveitandi taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sbr. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga. Hafnarfjarðarbær hafi uppfyllt þessar lögbundnu kröfur við veitingu framkvæmdaleyfisins og séu því engar forsendur til ógildingar þess. Það falli hins vegar utan valdsviðs sveitarfélaga að skera úr um hvort áætlanir leyfishafa skuli sæta umhverfismati áætlana skv. lögum nr. 105/2006 þess efnis, en þó sé bent á að framkvæmdin hafi sætt slíku mati um leið og aðalskipulagstillaga hafi farið í slíkt mat. Þegar mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram hafi engin krafa verið gerð um að kerfisáætlun skyldi sæta umhverfismati áætlana.

Matsskýrsla Suðvesturlína sé ítarleg og í viðauka 6 við hana sé 50 bls. skýrsla um jarðstrengi. Ekki sé gert ráð fyrir því að fjallað sé um aðra framkvæmd en þá sem ráðast eigi í og þá kosti sem raunhæfir séu. Lagning 220 kV jarðstrengs milli Hafnarfjarðar og Suðurnesja sé allt önnur framkvæmd heldur en lagning 220 kV háspennulínu, bæði hvað varði kostnað og tæknilega útfærslu. Horft sé til framtíðar við framkvæmdir í flutningskerfinu og sé kostur við háspennulínur að flutningsgetu þeirra megi auka með einföldum hætti. Athygli sé vakin á stefnu stjórnvalda hvað varði lagningu jarðstrengja, sbr. þingsályktun þar um. Forræði framkvæmdaraðila á framkvæmdum sé áréttað og að ekki sé á valdsviði sveitarfélaga að fjalla um mögulegar útfærslur framkvæmda. Þá séu ekki gallar á matsskýrslu Suðvesturlína og álit Skipulagsstofnunar liggi fyrir.

Ekki verði af framkvæmd sem Suðurnesjalínu 2 nema ráð sé gert fyrir henni á skipulagsáætlunum sveitarfélaga. Sé því ljóst að framkvæmdaraðili hafi ávallt samráð við sveitarstjórn þess sveitarfélags sem framkvæmdin liggi um. Að auki hafi kærendur nýtt sér heimildir laga til að koma á framfæri skoðunum sínum.

Sveitarfélagið hafi kosið að grenndarkynna, umfram lagalega skyldu sína, til þess að tryggja vandaða málsmeðferð við útgáfu framkvæmdaleyfisins. Jafnframt hafi verið tekin rökstudd afstaða til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar og málsmeðferð verið í samræmi við stjórnsýslulög.

Umsókn Landsnets hafi verið í stöðugri umfjöllun og undirbúningi bæjarstjórnar, skipulags- og byggingarráðs, sem og skipulags- og byggingarfulltrúa, í um 14 mánuði, þar til samkomulag hafi verið gert milli aðila 9. júlí 2015. Leyfisumsókn Landsnets hafi verið til umfjöllunar með ýmsum hætti og hafi verið fjallað um málið á lokastigum í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, sbr. umræður á fundi hennar 10. júní s.á. vegna fundargerðar skipulags- og byggingarráðs frá 2. s.m. Bæjarráð hafi haft umboð bæjarstjórnar til fullnaðarafgreiðslu í sumarleyfi hennar. Hafi ráðið tekið fyrir umsókn Landsnets á fundi sínum 8. júní 2015 og þá samþykkt samkomulagið við Landsnet. Á fundi skipulags- og byggingarráðs 20. október s.á. hafi umhverfis- og skipulagsþjónustu verið falið að auglýsa leyfið og hafi fundargerð fundarins verið lögð fram í bæjarstjórn 28. s.m. Ágreiningur ríki um túlkun á 2. málsl. 2. mgr. 7. gr. erindisbréfs skipulags- og byggingarráðs, en allan vafa um heimildir þess til fullnaðarafgreiðslu málsins hljóti að verða að túlka leyfishafa í hag. Sé enda ekki nokkur vafi á að bæjarráð í umboði bæjarstjórnar hafi samþykkt framkvæmdina og bæjarstjórn fjallað ítrekað um hana.

Suðvesturlínur feli í sér áfangaskiptar framkvæmdir og hafi leyfishafi ekki gert nokkra þá breytingu á framkvæmdinni Suðurnesjalína 2, sem leitt geti til þess að nýtt mat á umhverfisáhrifum þurfi að fara fram.

Ríkir almannahagsmunir krefjist þess að raforkuflutningskerfið verði styrkt frá Hafnarfirði til Suðurnesja. Um sé að ræða veikan hluta flutningskerfisins, bæði með tilliti til flutningsgetu og afhendingaröryggis. Suðurnesjalína 1, sem nú þjóni svæðinu og rekin sé á 132 kV spennu, sé fulllestuð í dag.

——-

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur ekki látið málið til sín taka fyrir úrskurðarnefndinni þrátt fyrir að vera gefinn kostur á því með bréfi, dags. 30. nóvember 2015. Þá hafa gögn ekki borist frá sveitarfélaginu, en fullnægjandi gögn lágu fyrir nefndinni svo að úrskurður yrði upp kveðinn.

——-

Færð hafa verið fram frekari sjónarmið í máli þessu sem ekki verða rakin nánar hér með hliðsjón af síðar til komnum atvikum málsins.

Niðurstaða: Ágreiningur máls þessa snýst um framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2, sem samþykkt var af skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðar 10. júlí 2015. Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í kærumáli nr. 109/2015, þar sem greind ákvörðun var felld úr gildi með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 575/2016. Þar sem hin kærða ákvörðun hefur ekki lengur réttarverkan að lögum er ljóst að kærendur hafa ekki hagsmuni af efnisúrlausn málsins. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna atvika sem nánar eru rakin í málavaxtalýsingu.
 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

105/2015 Rauðarárstígur

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 23. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 105/2015, kæra á afgreiðslu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 13. nóvember 2015 á erindi kæranda vegna hávaða á vinnustað hans við Rauðarárstíg 10 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. nóvember 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir A, Hjallabraut 6, Hafnarfirði, þá afgreiðslu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 13. s.m. að aðhafast ekki vegna erindis hans frá 11. s.m. þar sem krafist var stöðvunar framkvæmda vegna hávaða í nágrenni vinnustaðar hans að Rauðarárstíg 10. Er þess krafist að heilbrigðiseftirlitinu verði gert að afgreiða umrætt mál efnislega og taka afstöðu til kröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 15. desember 2015.

Málsatvik og rök: Kærandi kvartaði til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur með tölvubréfi, dags. 11. nóvember 2015, vegna hávaða frá höggbor og sprengingum sem bærist inn á vinnustað hans að Rauðarárstíg 10, en framkvæmdirnar voru á lóð við Laugaveg 120. Krafðist kærandi þess að framkvæmdirnar yrðu stöðvaðar tafarlaust, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða, sbr. 4. gr. og 15. tölul. 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Kærandi kveður framkvæmdir þær sem hann hafi kvartað yfir hafa staðið vikum saman. Nánast á hverjum degi hafi verið unnið með höggbor frá morgni til kvölds og þá hafi á reitnum verið öflugar og ærandi sprengingar. Hann hafi krafist þess að framkvæmdirnar yrðu stöðvaðar þegar í stað, en kvörtun hans hafi verið svarað á þann veg að heilbrigðiseftirlitið myndi ekkert aðhafast í málinu. Þegar stjórnvöldum berist erindi sem heyri undir starfssvið þeirra beri þeim að bregðast við með því að rannsaka málið og taka í kjölfarið ákvörðun í því í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur kveður ekki hafa verið tilefni til að aðhafast frekar í málinu en gert hafi verið, þar sem það hafi þegar verið framsent því stjórnvaldi, þ.e. byggingarfulltrúa, sem gripið hefði getað til aðgerða ef skilyrði byggingarleyfis og aðrar kröfur hefðu ekki verið virtar og þá mögulega stöðvað framkvæmdir. Um hafi verið að ræða tímabundnar framkvæmdir sem tækju enda. Framkvæmdin væri unnin á grundvelli takmarkaðs byggingarleyfis, útgefnu af byggingarfulltrúanum í Reykjavík, sem sjái jafnframt um eftirlit með byggingarleyfisskyldum framkvæmdum. Vegna þessa hafi það verið afstaða heilbrigðiseftirlitsins að það skorti heimildir til þess að beita þeim þvingunarúrræðum sem því væru veitt með lögum, en í reglugerð nr. 724/2008 um hávaða sem heilbrigðisnefnd framfylgi sé ekki að finna viðmiðunarmörk varðandi hávaða frá tímabundnum framkvæmdum.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í greinargerð Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í málinu kemur fram að framkvæmdir þær með höggbor og sprengingum, er kærandi kvartaði yfir og krafðist stöðvunar á, hafi verið tímabundnar. Mun þeim hafa lokið fljótlega eftir að greinargerðin barst úrskurðarnefndinni, eða um áramót 2015/2016. Staðfesting þessa hefur borist frá embætti byggingarfulltrúans í Reykjavík. Með lokum hins hávaðasama hluta framkvæmdanna var tilefni erindis kæranda, og þar með kæruefni, ekki lengur til staðar.

Með bréfi, dags. 10. febrúar 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir skýringum frá kæranda um það hvort og þá hvaða lögvarða hagsmuni hann teldi sig hafa af úrlausn kærumálsins í ljósi þess að þeim tímabundnu hávaðasömu framkvæmdum sem kvörtun hans hefði lotið að væri lokið. Var kæranda veittur frestur til 24. s.m., en engar athugasemdir hafa borist frá honum.

Að teknu tilliti til alls framangreinds verður ekki séð að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um kröfu sína og verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við ákvæði fyrrgreindrar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

 

73/2014 Suðurnesjalína 2 Reykjanesbæ

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 28. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 73/2014, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Reykjanesbæjar frá 20. maí 2014 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. júlí 2014, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur jarðanna Landakots, Stóru Vatnsleysu, Minni Vatnsleysu, hluti af eigendum Heiðarlands Vogajarða og hluti af eigendum Stóra Knarrarness, Sveitarfélaginu Vogum, þá ákvörðun sveitarstjórnar Reykjanesbæjar frá 20. maí 2014 að veita Landsneti hf. framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjanesbæ 5. september 2014.

Málavextir: Forsaga málsins er sú að á árinu 2009 sendi Landsnet Skipulagsstofnun til meðferðar frummatsskýrslu um Suðvesturlínur, styrkingu raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi. Stofnunin auglýsti nefnda skýrslu til kynningar og að kynningartíma liðnum skilaði Landsnet til hennar endanlegri matsskýrslu, dags. 10. ágúst 2009. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 17. september s.á.

Með bréfi til Skipulagsstofnunar, dags 26. nóvember 2013, óskuðu eigendur jarðanna Landakots, Hvassahrauns, Stóru og Minni Vatnsleysu, nokkrir eigenda Heiðarlands Vogajarða og tveir eigenda Stóra Knarrarness eftir endurskoðun fyrrnefndrar matsskýrslu Landsnets að því er varðaði Suðurnesjalínu 2. Með ákvörðun sinni 23. júní 2014 hafnaði Skipulagsstofnun þessari beiðni landeigendanna, sem og ósk þeirra til vara um endurskoðun á áliti stofnunarinnar á matsskýrslunni. Nefnd ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndarinnar, en kæran var síðar afturkölluð.

Orkustofnun veitti Landsneti leyfi 5. desember 2013 til að reisa og reka raforkuflutningsvirkið Suðurnesjalínu 2 á grundvelli 2. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Um er að ræða 220 kV háspennulínu frá tengivirki við Hamranes í Hafnarfirði, um Voga, Reykjanesbæ og Grindavíkurbæ, að tengivirki við Rauðamel, um 5 km norðan við Svartsengi. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en kærumálinu var vísað frá nefndinni í kjölfar dóms Hæstaréttar 13. október 2016, í máli nr. 796/2015, þar sem ákvörðunin var felld úr gildi. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra veitti Landsneti heimildir til eignarnáms á jörðum kærenda í febrúar 2014, en þær ákvarðanir voru felldar úr gildi með dómum Hæstaréttar í málum nr. 511, 512, 513 og 541/2015, uppkveðnum 13. maí 2015. 

Á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar 15. maí 2014 var tekin fyrir og samþykkt umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi vegna Suðurnesjalínu 2. Var umhverfis- og skipulagssviði falið að ganga frá framkvæmdaleyfi. Á fundi bæjarstjórnar 20. s.m. var afgreiðsla bæjarráðs samþykkt og er sú ákvörðun kærð í máli þessu. Framkvæmdaleyfi var gefið út 16. júní s.á. og auglýst sama dag. Auk Reykjanesbæjar veittu sveitarfélögin Grindavík, Hafnarfjörður og Vogar Landsneti framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2, sem öll voru kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Kærumáli þessu var frestað á meðan á rekstri dómsmáls stóð vegna framkvæmdaleyfisins sem veitt var af Sveitarfélaginu Vogum, en leyfið var fellt úr gildi með dómi Héraðsdóms Reykjaness 22. júlí 2016, í máli nr. E-1121/2015. Niðurstaða héraðsdóms var staðfest með dómi Hæstaréttar 16. febrúar 2017, í máli nr. 575/2016. Kærur til úrskurðarnefndarinnar vegna þeirrar leyfisveitingar hafa verið afturkallaðar.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að hin kærða leyfisveiting varði með beinum hætti stjórnarskrárvarin eignarréttindi þeirra, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 1. gr. 1. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Í 13. og 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 séu settar fram kröfur sem fylgja þurfi við yfirferð og útgáfu framkvæmdaleyfis. Sveitarstjórn skuli fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir, auk þess að kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila og kanna hvort framkvæmdin sé sú sem þar sé lýst. Beri síðan að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Sé markmiðið að sveitarstjórn taki upplýsta ákvörðun um útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli allra þeirra upplýsinga sem liggi fyrir um umhverfisáhrif viðkomandi framkvæmdar, eins og segi í athugasemdum við ákvæði 2. mgr. 14. gr. frumvarps þess er orðið hafi að skipulagslögum. Séu gerðar ríkar kröfur til rannsóknarskyldu sveitarfélaga áður en ákvörðun sé tekin um útgáfu framkvæmdaleyfis. Viðamikil gögn hefði þurft að skoða að teknu tilliti til nefndra skyldna og sé því sem næst óhugsandi að sveitarfélagið hafi getað sinnt þeim skyldum á þeim stutta tíma sem liðið hafi frá því að umsókn um framkvæmdaleyfi barst 8. maí 2014 þar til hún var samþykkt á fundi bæjarráðs 15. s.m. Þessi málsmeðferð sé jafnframt í grófri andstöðu við þá rannsóknarskyldu sem hvíli á sveitarfélaginu við afgreiðslu beiðna af þessu tagi, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsrök Reykjanesbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að landeigendur í Sveitarfélaginu Vogum hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð um lögmæti ákvörðunar Reykjanesbæjar um veitingu framkvæmdaleyfis, eins og krafa sé gerð um í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Breyti engu þótt framkvæmdin nái til fleiri en eins sveitarfélags og framkvæmdaleyfi hvers sveitarfélags um sig sé skilyrði fyrir heildarframkvæmdinni. Því skuli vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni.

Ekkert hafi staðið því í vegi að gefið yrði út framkvæmdaleyfi vegna lagningar Suðurnesjalínu 2. Niðurstaða sveitarfélagsins hafi verið í samræmi við gildandi svæðisskipulag, aðalskipulag og álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Sveitarfélagið hafi tekið mið af heildarniðurstöðu álitsins við mat á því hvort veita skyldi framkvæmdaleyfi og ekki hafi verið þörf á sérstakri greinargerð um atriði í álitinu sem sveitarfélagið hafi ekki fallist á því þau hafi ekki verið til staðar. Telji sveitarfélagið að framkvæmdin sé brýn, aðkallandi og í þágu almannahagsmuna jafnt og íbúa sveitarfélagsins. Veiting framkvæmdaleyfisins hafi verið í samræmi við álit Skipulagsstofnunar og tekið hafi verið tillit til þeirra skilyrða er þar hafi verið bent á.

Lagning Suðurnesjalínu 2 í lofti sé að miklu leyti afturkræf framkvæmd og raski jarðvegi ekki mikið, m.a. í ljósi þess að hægt sé að nýta núverandi slóðir að miklu leyti. Sérstaklega mikilvægt sé að taka mið af þessari staðreynd þar sem hraunið sem línan komi til með að liggja í gegnum sé nútímahraun, sem njóti sérstakrar verndar, og yfir vatnsverndarsvæði.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að veiting framkvæmdaleyfis sé í fullu samræmi við álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Óumdeilt sé að fyrirhugaðar framkvæmdir, sem leyfi hafi verið veitt fyrir, byggi á gildandi Svæðisskipulagi Suðurnesja 2008-2024 og Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2008-2024, sem og niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum. Ríkir almannahagsmunir krefjist þess að raforkuflutningskerfið verði styrkt á umræddu svæði. Um sé að ræða veikan hluta flutningskerfisins, bæði með tilliti til flutningsgetu og afhendingaröryggis. Suðurnesjalína 1, sem nú þjóni svæðinu og rekin sé á 132 kV spennu, sé fulllestuð í dag. Framkvæmdin sé því brýn, aðkallandi og í þágu almannahagsmuna. Þá komi aðrar leiðir, sem miði að því að styrkja flutningskerfið, ekki til greina, en 220 kV jarðstrengslausn sé ekki tæknilega eða kostnaðarlega fýsileg á þessu spennustigi. Hún komi eingöngu til athugunar á styttri vegalengdum og við sérstakar aðstæður, t.d. ef um sé að ræða einstæðar umhverfisaðstæður eða þétta íbúðabyggð. Auk þess myndi slík framkvæmd skilja eftir sig breiða raskaða rás í hrauni, en eldhraun njóti sérstakrar verndar náttúruverndarlaga. Rask vegna loftlínu yrði umtalsvert minna og óafturkræft rask yrði minna en af lagningu jarðstrengja. Línan muni fylgja mannvirkjabelti Reykjaness.

——-

Færð hafa verið fram frekari sjónarmið í máli þessu, sem ekki verða rakin nánar hér með hliðsjón af síðar til komnum atvikum málsins.

Niðurstaða: Ágreiningur máls þessa snýst um framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2, sem samþykkt var af sveitarstjórn Reykjanesbæjar 20. maí 2014. Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í kærumáli nr. 75/2014, þar sem greind ákvörðun var felld úr gildi með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 575/2016. Þar sem hin kærða ákvörðun hefur ekki lengur réttarverkan að lögum er ljóst að kærendur hafa ekki hagsmuni af efnisúrlausn málsins. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna atvika sem nánar eru rakin í málavaxtalýsingu.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

2/2014 Suðurnesjalína 2

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 24. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2014, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 5. desember 2013 um að veita Landsneti hf. leyfi til að reisa og reka flutningsvirkið Suðurnesjalínu 2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. janúar 2014, sem barst nefndinni 7. s.m., kæra Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, þá ákvörðun Orkustofnunar frá 5. desember 2013 að veita Landsneti hf. leyfi til að reisa og reka flutningsvirkið Suðurnesjalínu 2. Er gerð krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Orkustofnun verði gert að meta flutningsþörf fyrir raforku á línuleiðinni. Jafnframt er þess krafist að framkvæmdaraðili líti til fleiri valkosta við kerfisútfærslu línunnar, þ.m.t. til jarðstrengja.

Gögn málsins bárust frá Orkustofnun 5. febrúar 2014.

Málsatvik og rök: Mati á umhverfisáhrifum Suðvesturlína, styrkingu raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi, lauk með áliti Skipulagsstofnunar, dags. 17. september 2009. Hinn 21. desember 2012 sótti Landsnet um leyfi til Orkustofnunar til að reisa og reka raforkuflutningsvirkið Suðurnesjalínu 2 og 1. febrúar 2013 birti Orkustofnun auglýsingu í Lögbirtingablaði þar sem þeim aðilum er málið varðaði var gefið færi á að kynna sér umsóknina og koma á framfæri skriflegum sjónarmiðum sínum til 1. mars s.á., sbr. 3. mgr. 34. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Bárust athugasemdir, m.a. frá Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands, sem eru annar kærenda málsins. Orkustofnun veitti Landsneti leyfi 5. desember 2013 til að reisa og reka flutningsvirkið Suðurnesjalínu 2 og hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, eins og áður greinir.

Hinn 24. febrúar 2014 tók ráðherra ákvörðun um að heimila Landsneti að framkvæma eignarnám á hluta af jörðum nánar tiltekinna landeigenda vegna lagningar Suðurnesjalínu 2. Sú ákvörðun var felld úr gildi með dómum Hæstaréttar uppkveðnum 12. maí 2016, í málum nr. 511/2015, 512/2015, 513/2015 og 541/2015.

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 796/2015, uppkveðnum 13. október 2016, var hin kærða ákvörðun Orkustofnunar felld úr gildi.

Kærendur vísa m.a. til þess að við umrædda leyfisveitingu hafi Orkustofnun brotið gegn rétti Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands til að andmæla athugasemdum Landsnets vegna athugasemda samtakanna. Sé vísað til 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar um. Með broti á andmælarétti hafi einnig verið brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, sbr. 11. gr. þeirra. Þá hafi rannsóknarregla 10. gr. laganna verið brotin, en ekki verði annað séð en að leyfisveitingin byggi eingöngu á framlögum gögnum Landsnets og athugasemdum fyrirtækisins við innsendar athugasemdir. Ekki hafi verið tekið tillit til nýrra upplýsinga eða gagna frá öðrum aðilum, sem þó hafi borist stofnuninni. Sé bent sérstaklega á gögn varðandi lagningu jarðstrengja og tilheyrandi kostnað. Þá hafi rökstuðningur Orkustofnunar ekki fullnægt 22. gr. stjórnsýslulaga. Loks hafi stofnunin, með því að samþykkja rekstur 220 kV loftlínu, ekki sinnt lögboðnu eftirlitshlutverki sínu og hafi rök stofnunarinnar fyrir svo mikilli flutningsgetu ekki verið nægileg. Hafi hún ekki lagt sjálfstætt mat á raunverulega þörf á raforkuflutningi á línuleiðinni eða skoðað aðra valkosti, s.s. jarðstrengi.

Af hálfu Orkustofnunar er bent á að með auglýsingu í Lögbirtingablaði hafi öllum þeim aðilum er málið varðaði verið gefinn kostur á að kynna sér umsókn Landsnets um flutningsvirki. Hafi annar kærenda og tilgreindir landeigendur komið að athugasemdum vegna hennar, og hafi þeim fylgt gögn sem Landsnet hafi átt rétt á að tjá sig um samkvæmt andmælareglu stjórnsýslulaga. Andmæli Landsnets hafi hvorki leitt í ljós nýjar upplýsingar né gögn sem kallað hafi á að réttur yrði veittur til að andmæla þeim. Afstaða og rök aðila hafi legið fyrir í málinu og hafi því ekki þurft að veita þeim frekar færi á að tjá sig, enda augljóslega óþarft, sbr. niðurlag 13. gr. stjórnsýslulaga. Einnig hafi fulls jafnræðis verið gætt og öllum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Sé því þess vegna vísað á bug að jafnræðisregla 11. gr. stjórnsýslulaga hafi verið brotin. Þá sé og ljóst að Orkustofnun hafi ekki brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. sömu laga heldur farið vandlega yfir og metið sjónarmið aðila, eins og stjórnvöldum beri skylda til að gera svo tryggt sé að mál sé nægilega vel upplýst áður en stjórnvaldsákvörðun er tekin. Tilvísun kærenda til greinaskrifa og skýrslna vegna jarðstrengja hafi ekkert nýtt fram að færa og rök Landsnets fyrir uppbyggingu 220 kV háspennulínu séu málefnaleg og taki bæði tillit til núverandi þarfa og aðstæðna í kerfinu, sem og framtíðarþarfar. Á grundvelli rannsóknar stofnunarinnar á gögnum málsins hafi verið tekin rökstudd ákvörðun með vísan til 9. gr. raforkulega nr. 65/2003, en skv. 22. gr. stjórnsýslulaga skuli í rökstuðningi vísa til þeirrar réttarreglna er ákvörðun stjórnvalds byggi á. Stofnunin hafi greint frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi hafi verið við mat hennar, m.a. með vísan í þróun og stefnumörkun atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum, virkjunarkosti í nýtingarflokki rammaáætlunar á Reykjanesi og álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Loks verði ekki séð af kæru á hvern hátt Orkustofnun eigi að hafa vanrækt eftirlitsskyldu sína.

Leyfishafi bendir á að í kæru komi fram að kærendum hafi verið kunnugt um hina kærðu ákvörðun, en kæra hafi verið móttekin 7. janúar 2014, þ.e. að liðnum kærufresti. Þá sé  því mótmælt að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og séu fullyrðingar þess efnis ekki studdar neinum gögnum. Bent sé á að það falli ekki undir verksvið úrskurðarnefndarinnar að fjalla um eftirlitshlutverk Orkustofnunar á grundvelli laga nr. 65/2003 og sama eigi við um ýmis önnur atriði í kæru. Brýn þörf og almannahagsmunir kalli á byggingu Suðurnesjalínu 2 þar sem allur raforkuflutningur fari um aðeins eina línu sem þegar sé fulllestuð. Sú meginregla gildi í stjórnsýslurétti að ekki sé réttmætt að ógilda stjórnvaldsákvörðun nema unnt sé að sýna fram á verulega annmarka á málsmeðferð hennar, sem telja verði að hafi haft áhrif á niðurstöðu stjórnvaldsins. Enga slíka annmarka sé að finna á málsmeðferð Orkustofnunar.
——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu sem ekki þykir ástæða til að rekja hér nánar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti leyfis til að reisa og reka flutningsvirkið Suðurnesjalínu 2, en Orkustofnun tók ákvörðun um útgáfu þess 5. desember 2013. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 7. janúar 2014, en dómsmál til ógildingar nefndrar ákvörðunar var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu birtri 21. mars s.á. Meðferð kærumálsins var frestað á meðan á rekstri dómsmálsins stóð og svo sem greinir í málavaxtalýsingu lauk því á þann hátt að hin kærða ákvörðun var felld úr gildi, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 796/2015 frá 13. október 2016.

Þar sem hin kærða ákvörðun hefur ekki lengur réttarverkan að lögum hefur það enga þýðingu, hvorki með tilliti til einstaklingsbundinna hagsmuna né almannahagsmuna, að fá frekar skorið úr um lögmæti hennar. Verður kærumáli þessu þegar af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna framangreindra ástæðna.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

73/2015 Gagnheiði

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 23. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 73/2015, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 1. júlí 2015 um að beita ekki þvingunarúrræðum vegna framkvæmda í atvinnuhúsnæði að Gagnheiði 19, Selfossi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. september 2015, er barst nefndinni 7. s.m., kærir ÞGÁ trésmíði slf., Selfossi, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar sveitarfélagsins Árborgar frá 1. júlí 2015 að beita ekki þvingunarúrræðum vegna framkvæmda í atvinnuhúsnæði að Gagnheiði 19 á Selfossi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Sveitarfélaginu Árborg 30. október 2015.

Málsatvik og rök: Árið 2009 fékk einn eigenda í fjöleignarhúsinu Gagnheiði 19 byggingarleyfi fyrir gerð innkeyrsludyra í séreign sína. Ekki var ráðist í framkvæmdir og féll byggingarleyfið því úr gildi ári eftir útgáfu þess skv. þágildandi 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Sótt var um byggingarleyfi fyrir sömu framkvæmd á árinu 2013 en hún fékkst ekki samþykkt þar sem samþykki meðeigenda skorti. Þrátt fyrir það munu framkvæmdir hafa byrjað og eru nú fyrrgreindar innkeyrsludyr í séreign umsækjanda. Einn sameigenda fjöleignarhússins gerði í kjölfar þess þá kröfu á hendur sveitarfélaginu að innkeyrsludyrnar yrðu fjarlægðar. Skipulags- og byggingarfulltrúi sveitarfélagsins aflaði álits tveggja byggingatæknifræðinga af því tilefni og var niðurstaða þeirra sú að framkvæmdirnar hafi ekki teljandi áhrif á burðarvirki hússins. Einnig var öllum eigendum hússins að Gagnheiði 19 tilkynnt um málið og þeim veittur andmælaréttur. Athugasemdir bárust og á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 1. júlí 2015 var tekin sú ákvörðun að ekki væri tilefni til þess að beita þvingunarúrræðum skv. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Sú ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 7. ágúst 2015, og fór hann fram á rökstuðning fyrir henni með bréfi, dags. 20. s.m. Umbeðinn rökstuðningur barst honum með bréfi, dags. 21. september s.á. Var ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar í kjölfarið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.

Kærandi tekur fram að á árinu 2009 hafi eigandi rýmis 103 í húsinu að Gagnheiði 19 fengið útgefið byggingarleyfi, að því er virðist m.a. á grundvelli fundarboðs húsfundar en ekki með samþykki sameigenda. Fram komi í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús að ytra byrði húss sé sameign allra eigenda þess. Engu að síður hafi verið ráðist í framkvæmdir og umþrættar innkeyrsludyr settar á húsið án þess að lögboðið samþykki sameigenda lægi fyrir.

Sveitarfélagið tekur fram að þegar til álita komi að beita þvingunarúrræðum laga um mannvirki sé hvert tilvik metið sjálfstætt, m.a. með tilliti til meðalhófs, enda sé um íþyngjandi heimildarákvæði að ræða. Skipulags- og byggingarfulltrúi hafi skoðað umdeilda framkvæmd ásamt sérfræðingum og hafi það verið niðurstaða þeirra að breytingarnar hefðu ekki haft umtalsverð áhrif á burðarvirki hússins og að ekki stafaði hætta af þeim. Ekki verði séð að umræddar breytingar á húsnæðinu valdi kæranda óþægindum, ónæði eða skaða. Um sé að ræða iðnaðarhúsnæði þar sem nágrannar verði almennt að þola umferð vinnuvéla, bifreiða o.fl. Á umræddu húsnæði hafi þegar verið innkeyrsludyr, þannig að gera megi ráð fyrir að notkun þess hafi ekki tekið breytingum frá því sem áður hafi verið.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar að hafna kröfu kæranda um beitingu þvingunarrúrræða til að knýja fram að innkeyrsludyr á ytra byrði hússins að Gagnheiði 19 yrðu fjarlægðar.

Í 2. mgr. 55. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 kemur fram að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða brjóti hún í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun, krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu er heimilt að vinna slík verk á hans kostnað. Sambærilegt ákvæði er að finna í 2. mgr. gr. 2.9.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, þar sem leyfisveitanda eru veittar sömu heimildir. Í nefndri reglugerð er leyfisveitandi skilgreindur sem það stjórnvald sem gefur eða á að gefa út byggingarleyfi samkvæmt reglugerðinni. Er jafnframt tekið fram að þar sé um að ræða byggingarfulltrúa viðkomandi sveitarfélags eða Mannvirkjastofnun, sbr. 48. tl. gr. 1.2.1. í nefndri reglugerð.

Samkvæmt ótvíræðu orðalagi tilvitnaðra ákvæða mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar er byggingarfulltrúum, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun, falið það vald að taka ákvörðun um hvort umræddum þvingunarúrræðum verði beitt í hverju tilviki eða ekki. Til þess ber og að líta að í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum kemur fram að lögð sé til sú grundvallarbreyting frá fyrri lögum að sveitarstjórn staðfesti að meginreglu ekki lengur ákvarðanir byggingarfulltrúa og að tilvist byggingarnefnda verði háð gerð sérstakrar samþykktar viðkomandi sveitarstjórnar. Ekki liggur fyrir í málinu að slík samþykkt hafi verið gerð af hálfu Árborgar eftir gildistöku laga um mannvirki og er slík samþykkt ekki á skrá hjá Mannvirkjastofnun í samræmi við fyrirmæli 6. mgr. 7. gr. nefndra laga.

Svo sem áður er lýst tók skipulags- og byggingarnefnd þá ákvörðun að beita ekki þvingunarúrræðum vegna hinna umþrættu framkvæmda, en ekki liggur fyrir að byggingarfulltrúi hafi tekið slíka ákvörðun í málinu. Var hin kærða ákvörðun því ekki tekin af þar til bæru stjórnvaldi samkvæmt áðurgreindum ákvæðum mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar. Verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni, með vísan til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem ekki liggur fyrir í málinu ákvörðun sem bindur endi á mál og borin verður undir úrskurðarnefndina.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

88/2015 Fjarðargata

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 9. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 88/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 12. ágúst 2015 um að veita byggingarleyfi fyrir breyttri hagnýtingu á rými 0107 á fyrstu hæð hússins að Fjarðargötu 19, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. október 2015, er barst nefndinni 12. s.m., kærir húsfélagið Fjarðargötu 19 þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 12. ágúst 2015 að veita byggingarleyfi fyrir breyttri hagnýtingu á rými 0107 í fjöleignarhúsinu að Fjarðargötu 19. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 18. nóvember 2015.

Málavextir: Í fjöleignarhúsinu að Fjarðargötu 19 eru 26 eignarhlutar. Á jarðhæð eru verslunar- og þjónusturými en á efri hæðum íbúðir. Sá eignarhluti sem hér um ræðir er merktur 0102 í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands en honum hefur verið skipt upp í þrjú rými, þ.e. 0104, 0106 og 0107.

Hinn 12. ágúst 2015 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa samþykkt að veita byggingarleyfi fyrir breyttri hagnýtingu á rými 0107. Í breytingunni fólst að skrifstofurými yrði breytt í veitingastað. Við afgreiðslu málsins hjá byggingarfulltrúa lá fyrir jákvæð umsögn Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis. Byggingarfulltrúi tilkynnti kæranda um afgreiðslu málsins með bréfi, dags. 4. september s.á. Mótmælti kærandi ákvörðuninni með bréfi, dags. 28. s.m., og krafðist þess að byggingaryfirvöld stöðvuðu framkvæmdir þar sem meðferð málsins hefði verið ólögmæt, enda hefði samþykki kæranda ekki legið fyrir. Var erindið tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 30. s.m. og bókað að það væri lagt fram. Var kæranda tilkynnt um bókun byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 2. október s.á.

Á fundi skipulags- og byggingarráðs 6. október 2015 var erindi kæranda lagt fram og bókað að skipulags- og byggingarráð vísaði til samþykktar afgreiðslufundar skipulags- og byggingarfulltrúa 12. ágúst s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að á sínum tíma hafi hann veitt samþykki fyrir uppskiptingu eignarhluta 0102 í þrjú rými gegn ákveðnum skilyrðum er vörðuðu rekstraraðila, affall og sorpmál. Jafnframt hafi kærandi samþykkt að heimilað yrði að innrétta einn hluta fyrir sölustað veitingakeðjunnar Subway en enga aðra starfsemi. Við afgreiðslu hinnar kærðu ákvörðunar hjá byggingarfulltrúa hafi ekki legið fyrir samþykki kæranda til að breyta hagnýtingu eignarhlutans úr skrifstofurými í veitingastað. Hafi verið gerðar athugasemdir við hina umdeildu breytingu en byggingaryfirvöld hafi ekki tekið tillit til þeirra.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að í húsinu við Fjarðargötu 19 hafi alla tíð verið gert ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi á götuhæð hússins. Húsið sé jafnframt staðsett á skilgreindu miðsvæði í aðalskipulagi, þar sem fyrst og fremst sé gert ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að kæranda hafi borist tilkynning um samþykki hinnar kærðu ákvörðunar með bréfi frá byggingarfulltrúa, dags. 4. september 2015. Hafi kæran borist úrskurðarnefndinni 12. október s.á. og sé hún því of seint fram komin.

Þá hafi kærandi ekki tilgreint með hvaða hætti sé verið að raska hagsmunum hans með hinni kærðu ákvörðun. Heimilt sé að breyta hagnýtingu séreignar án samþykkis annarra eigenda hafi hún ekki í för með sér verulega meiri röskun en fyrir var, sbr. 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Loks sé gert ráð fyrir verslunar- og þjónusturými á fyrstu hæð hússins, auk þess sem svæðið sé skilgreint í aðalskipulagi sem miðsvæði. Sú starfsemi sem gert sé ráð fyrir með hinni kærðu ákvörðun sé í samræmi við skipulag svæðisins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um byggingarleyfi sem heimilar breytta hagnýtingu rýmis í eignarhluta á jarðhæð í fjöleignarhúsinu við Fjarðargötu 19.

Líkt og rakið er í málavöxtum var kæranda tilkynnt um afgreiðslu byggingarfulltrúa og honum leiðbeint um kæruleiðir. Kærandi mótmælti í kjölfarið umræddri afgreiðslu og komu mótmælin fram innan kærufrests. Taldi hann um ólögmæta ákvörðun að ræða þar sem ekki hefði legið fyrir samþykki húsfundar. Á þeim forsendum krafðist kærandi þess að framkvæmdir yrðu stöðvaðar. Að teknu tilliti til þess að kærandi er húsfélag húss þess sem byggingarleyfið lýtur að, sem og til efnis athugasemda hans, verður að líta svo á að í greindum mótmælum hafi falist beiðni um að málið yrði tekið til meðferðar á ný, sbr. 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þegar fyrir liggur beiðni um endurupptöku máls skal það stjórnvald sem tekið hefur hina upprunalegu ákvörðun í skjóli stjórnsýsluvalds síns taka afstöðu til þess hvort efni séu til endurupptöku hennar. Ekki verður ráðið af fyrirliggjandi gögnum að byggingarfulltrúi hafi tekið afstöðu til endurupptökubeiðni kæranda heldur gefur bókun á afgreiðslufundi hans þvert á móti til kynna að erindið hafi verið lagt fram án þess að það hafi hlotið þar afgreiðslu í kjölfarið. Samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttar verður mál ekki endurskoðað samtímis af kærustjórnvaldi og því stjórnvaldi sem ákvörðunina tók. Með hliðsjón af því að fyrir byggingarfulltrúa liggur óafgreidd beiðni um endurupptöku verður því ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Það athugist að skv. 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 rofnar kærufrestur þegar aðili óskar eftir endurupptöku máls innan kærufrests og byrjar hann ekki að líða að nýju nema endurupptöku verði synjað. Verði mál hins vegar tekið upp að nýju byrjar kærufrestur að líða frá töku nýrrar ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

39/2015 Látrabjarg

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 9. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 39/2015, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 13. maí 2015 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Látrabjarg í Vesturbyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. maí 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir A, Löngufit 14, Garðabæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 13. maí 2015 að samþykkja deiliskipulag fyrir Látrabjarg. Skilja verður málskot kæranda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust frá Vesturbyggð 31. júlí 2015 og í janúar 2017.

Málavextir:
Hinn 10. desember 2012 var á fundi bæjarstjórnar Vesturbyggðar tekin fyrir skipulagslýsing vegna deiliskipulagsvinnu fyrir Látrabjarg. Gerði lýsingin ráð fyrir að deiliskipulagssvæðið næði yfir land þriggja jarða, Hvallátra, Breiðavíkur og Keflavíkur. Var tilgreint í lýsingunni að deiliskipulagssvæðið væri samkvæmt gildandi aðalskipulagi Vesturbyggðar skilgreint sem hverfisverndarsvæði. Það væri á náttúruminjaskrá hjá Umhverfisstofnun og myndu áherslur á verndun Látrabjargs og aðliggjandi svæða setja svip sinn á deiliskipulagsgerðina. Var samþykkt að auglýsa lýsinguna til kynningar og bárust athugasemdir á kynningartíma hennar. Veittu Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, Veðurstofa Íslands, Minjastofnun Íslands og Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða umsögn um lýsinguna. Þá var haldinn opinn kynningarfundur um málið á Patreksfirði. Tillaga að deiliskipulagi umrædds svæðis ásamt umhverfisskýrslu var í tvígang auglýst til kynningar og veittur frestur til að koma að athugasemdum. Kom kærandi að athugasemdum og gerði kröfu um að mörk umrædds svæðis yrðu skilgreind nánar. Umsagnir bárust frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða, Ferðamálastofu, Kirkjugarðaráði, Minjastofnun Íslands, Samgöngustofu og Vegagerðinni vegna tillögunnar.

Skipulags- og umhverfisráð tók málið fyrir 19. janúar 2015 og færði til bókar að fjallað væri um athugsemdir sem borist hefðu við tillögu að deiliskipulagi Látrabjargs, en um væri að ræða aðra umræðu. Gerðar hefðu verið breytingar til að koma til móts við athugasemdir, en þær væru ekki þess eðlis að þörf væri á að endurauglýsa skipulagstillöguna skv. skipulagslögum nr. 123/2010. Var lagt til við bæjarstjórn að hún yrði samþykkt sem bæjarstjórn og gerði á fundi sínum 21. janúar s.á. Í kjölfar þess var tillagan send Skipulagsstofnun til lögboðinnar meðferðar, sbr. 42. gr. skipulagslaga.

Kærandi ítrekaði erindi sitt með tölvupósti til bæjarstjóra 31. janúar 2015 og gerði jafnframt athugasemd við málsmeðferð skipulagstillögunnar. Svarbréf skipulagsfulltrúa barst kæranda 2. febrúar s.á. Með tölvupósti 4. s.m. óskaði kærandi þess að upplýst yrði hvort athugasemdir hans yrðu teknar til athugunar við frekari umfjöllun málsins. Þá var bent á að skipulagsnefnd virtist ekki hafa verið kynnt athugasemd kæranda.

Með bréfi Skipulagsstofnunar til Vesturbyggðar, dags. 19. febrúar 2015, var gerð athugasemd við að birt yrði auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda. Var málið tekið fyrir að nýju hjá skipulags- og umhverfisráði 17. mars s.á. og því frestað þar til skipulagshönnuður hefði farið yfir framkomnar athugasemdir stofnunarinnar og gert viðeigandi lagfæringar á uppdráttum og greinargerð. Málið var til umfjöllunar að nýju á fundi ráðsins 11. maí 2015 og 13. s.m. tók bæjarstjórn það fyrir. Var fært til bókar að fyrir lægi leiðrétt greinargerð, dags. í febrúar 2014, en með viðbótum frá 22. apríl 2015. Hefði verið tekið tillit til athugasemda Skipulagsstofnunar. Var deiliskipulagið samþykkt með áorðnum lagfæringum og skipulagsfulltrúa falið að afgreiða það skv. 42. gr. skipulagslaga. Tillagan svo breytt var send Skipulagsstofnun og með bréfi hennar, dags. 15. maí 2015, var ekki gerð athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins. Birtist auglýsing þar um í B-deild Stjórnartíðina 18. maí 2015. Með tölvubréfi skipulagsfulltrúa til kæranda, dags. 26. s.m., var athugasemdum hans svarað.

Málsrök kæranda: Kærandi telur sig eiga hagsmuna að gæta í máli þessu sem einn eigenda jarðarinnar Láganúps. Við meðferð skipulagstillögunnar hafi lög um upplýsingaskyldu verið þverbrotin þar sem athugasemdum hans við kynningu hennar og svör við þeim hafi ekki fengið lögformlega meðferð. Farið hafi verið fram á að mörk umrædds svæðis yrðu skilgreind nánar með því að sett yrði í texta deiliskipulagsins landamerkjaskráning jarðanna Breiðavíkur og Láganúps frá árinu 1886, eins og þau séu skráð hjá sýslumannsembættinu á Patreksfirði. Sveitarfélagið hafi kosið að hunsa þær óskir. Þá hafi skráning fornminja við skipulagsgerðina ekki verið réttilega unnin.

Málsrök Vesturbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að ákveðið hafi verið að afmarka deiliskipulagssvæðið í samræmi við það svæði sem skilgreint hafi verið af Umhverfisstofnun á árinu 2004 sem náttúruminjar og skráð sé á náttúruminjaskrá. Í gildandi náttúruverndaráætlun sé gerð tillaga að friðlýsingu þessa svæðis. Deiliskipulagstillagan hafi að öllu leyti verið unnin í samræmi við stefnumörkun í Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018. Mörk svæðisins miðist því ekki við skilgreind landamerki jarða og ekki sé með deiliskipulaginu verið að taka afstöðu til landamerkja einstakra jarða. Vegna mistaka hafi athugasemd kæranda ekki verið tekin til sérstakrar umfjöllunar með öðrum athugasemdum sem borist hefðu og verið hafi til umfjöllunar á fundum skipulags- og umhverfisráðs 19. janúar 2015 og bæjarstjórnar 21. s.m. Henni hafi hins vegar verið svarað með tölvupósti skipulagsfulltrúa.

Greinargerð fornleifafræðings og fornleifaskráning sé í viðauka við deiliskipulagstillöguna. Í samráði við Minjastofnun Íslands hafi verið gerð ítarleg fornleifaskráning, svonefnd deiliskráning, á fyrirhuguðum framkvæmdasvæðum innan deiliskipulagssvæðisins. Vettvangsvinna hafi verið byggð á heimildasöfnun, sem farið hafi fram árið 1997, og verið hluti af svæðisskráningu fornleifa í öllu sveitarfélaginu, auk þess sem rætt hafi verið við staðkunnuga um fornminjar á svæðinu.

Niðurstaða: Í greinargerð hins kærða deiliskipulags er tekið fram að skipulagssvæðið nái til þriggja jarða í Vesturbyggð, þ.e. Hvallátra, Breiðavíkur og Keflavík. Tekur deiliskipulagið samkvæmt þessu ekki til lands jarðarinnar Láganúps, en kærandi kveðst vera einn af  eigendum hennar. Afmarkast skipulagssvæðið á sama hátt og svæði sem skilgreint var sem náttúruminjar árið 2004 og er á náttúruminjaskrá hjá Umhverfisstofnun. Í deiliskipulaginu eru m.a. skilgreindar lóðir og byggingarreitir í Breiðavík og á Hvallátrum. Gert er ráð fyrir að Örlygshafnarvegur færist upp fyrir þorpið á Hvallátrum og útfærðir eru áningastaðir við Bjargtanga, Brunna og víðar.

Jörðin Láganúpur á landamerki að jörðinni Breiðavík, en nokkur fjarlægð er frá íbúðarhúsum að Láganúpi að mörkum deiliskipulagssvæðisins. Þá liggur fyrir að heimilaðar framkvæmdir samkvæmt umræddu skipulagi, svo sem við Breiðavík, eru ekki til þess fallnar að raska grenndarhagsmunum gagnvart umræddri jörð eða hafa áhrif á nýtingarmöguleika hennar sökum fjarlægðar. Þá skipar deiliskipulag ekki eignarréttindum manna á skipulagssvæðinu eða ákvarðar landamerki jarða.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki séð að hin kærða ákvörðun snerti einstaklingsbundna lögvarða hagsmuni kæranda með þeim hætti að honum verði játuð kæruaðild í máli þessu og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrrgreinda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

94/2015 Suður Mjódd

Með
Árið 2017, miðvikudaginn 8. febrúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 94/2015, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 12. nóvember 2015 um að samþykkja breytingar á deiliskipulaginu Suður- Mjódd.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. október 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir P, Réttarbakka 1, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 12. nóvember 2015 að samþykkja breytingar á deiliskipulaginu Suður- Mjódd. Verður að skilja málskot kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. september 2016, er barst 20. s.m., gerir sami aðili þá kröfu að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þar sem heimild til framkvæmda felst ekki í skipulagi þótti ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda og verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar.
 
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 2. desember 2015.

Málsatvik og rök: Hinn 15. apríl 2015 var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Suður-Mjódd. Í tillögunni fólst heildarendurskoðun á eldra deiliskipulagi, m.a. uppbygging á frjálsíþróttavelli, íbúðum og stofnunum, ásamt auknu byggingarmagni. Var tillagan auglýst í fjölmiðlum 29. maí s.á. með athugasemdarfresti til 10. júlí s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kæranda.

Að lokinni kynningu var tillagan lögð fram að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 2. september 2015 og hún samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 28. ágúst s.á, þar sem athugasemdum var svarað. Var afgreiðslan staðfest af borgarráði 17. s.m. Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 12. október s.á., voru gerðar athugasemdir við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 4. nóvember s.á. var bréf Skipulagsstofnunar lagt fram auk umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 2. s.m., og uppdrátta, dags. 12. mars s.á., sem uppfærðir voru 2. nóvember s.á. Í umsögninni kom fram að greinargerð og uppdrættir hefðu verið lagfærðir í samræmi við athugasemdir Skipulagsstofnunar og lagðir fyrir umhverfis- og skipulagsráð og borgarráð til samþykktar. Var umsögnin samþykkt á greindum fundi umhverfis- og skipulagsráðs og sú afgreiðsla staðfest á fundi borgarrráðs 12. nóvember 2015. Deiliskipulagstillagan tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda þar um 17. desember s.á.

Kærandi skírskotar til þess að á svæði ÍR sé gert ráð fyrir 250 bílastæðum, en áhorfendasvæði í fjölnota íþróttahúsi sé fyrir 1500 manns og sami fjöldi sé skráður í áhorfendastúku. Hafi ekki verið gefin haldbær rök fyrir svona fáum stæðum. aðeins sé talað um lágmarkskröfur á fjölda bílastæða, en raunin sé oft að það þurfi fleiri bílastæði en lágmarkskröfur geri ráð fyrir.  Jafnframt sé það fásinna að segja að Breiðholtsbraut sé utan skipulagssvæðis þar sem aukið byggingarmagn og starfsemi muni hafa mikil áhrif á umferð um Breiðholtsbraut og nærliggjandi götur. Þá sé stækkun elliheimilis vanhugsuð þar sem ekki verði hægt að uppfylla hljóðvist þar sem byggingin liggi með fram Breiðholtsbraut. Ekki sé getið um hvernig eigi að leysa hljóðvistarmál, enda segi ekkert um hver umferðarþunginn verði eða sé. Þá sé ekkert tillit tekið til tengingar Álfabakka við Hlíðardalsveg í Kópavogi.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að gerðar verði ráðstafanir vegna hljóðvistar til að uppfylla reglugerðarákvæði um hljóðvist innanhúss. Geri megi ráð fyrir einhverri aukningu á umferð vegna fyrirhugaðra framkvæmda, en erfitt sé að áætla umferð. Hvað varði bílastæði þá sé almennt lögð áhersla á samlegðaráhrif bílastæða á íþróttasvæðum og svæðum fyrir verslun og þjónustu. Sé því hægt að nýta bílastæði í Norður-Mjódd og á öðrum svæðum í göngufjarlægð frá íþróttasvæðinu. Tenging Álfabakka til Kópavogs sé óbreytt samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Að lokum sé á það bent að skipulagsvald sé hjá sveitarfélögum. Ekkert hafi komið fram í kæru sem bendi til þess að ekki hafi verið heimilt að skipuleggja svæðið með þessum hætti og sé vandséð hvaða hagsmuni sé verið að skerða með henni.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni.

Í kæru eru gerðar athugasemdir sem virðast að megni til byggja á gæslu almannahagsmuna, s.s. skorti á bílastæðum við íþróttasvæði og hljóðvist í fyrirhuguðum byggingum, svo og stækkun á byggingu fyrir þjónustuíbúðir aldraðra, sem kærandi telur að sé vanhugsuð. Jafnframt telur kærandi að umræddar breytingar muni hafa í för með sér aukna umferð. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands á kærandi lögheimili að Réttarbakka 1 í Reykjavík, sem staðsett  er norðan Breiðholtsbrautar. Hin kærða ákvörðun tekur hins vegar til svæðis sunnan við greinda umferðargötu og er í kæru ekki getið um nein þau mögulegu grenndaráhrif sem framkvæmd hinnar kærðu ákvörðunar gæti haft í för með sér á fasteign kæranda. Þá verður ekki séð að aukning umferðar í þéttbýli um fjölfarna umferðargötu geti haft í för með sér þau áhrif á kæranda umfram aðra íbúa Breiðholts að hann geti talist eiga beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.

Að framangreindu virtu verður ekki séð að hin kærða deiliskipulagsákvörðun snerti þá lögvörðu hagsmuni kæranda að skapi honum kæruaðild. Þá eiga undantekningartilvik nefndrar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 ekki við í málinu. Þar sem ekki þykir sýnt fram á kæruaðild í málinu verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

12/2017 Reykjanesvitabraut

Með
Árið 2017, miðvikudaginn 8. febrúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 12/2017, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjanesbæjar um að veita framkvæmdaleyfi vegna fyrsta áfanga bílastæðis við Reykjanesvitabraut 1, Reykjanesbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. janúar 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Vitavörðurinn ehf., eigandi Reykjanesvita-íbúðarhúss, Reykjanesi, þær ákvarðanir skipulagsfulltrúa Reykjanesbæjar frá 18. janúar 2017 að samþykkja veitingu framkvæmdaleyfis annars vegar og hins vegar að gefa það út vegna fyrsta áfanga bílastæðis við Reykjanesvitabraut 1 í Reykjanesbæ. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Reykjanesbæ 7. febrúar 2017.

Málsatvik og rök: Auglýsing um gildistöku nýs deiliskipulags fyrir Reykjanesvita var birt í B-deild Stjórnartíðinda 26. maí 2016. Gerir deiliskipulagið ráð fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu með það að markmiði að Reykjanesviti og nágrenni verði miðstöð ferðamannastaða á Reykjanesi. Hinn 18. janúar 2017 samþykkti skipulagsfulltrúi Reykjanesbæjar framkvæmdaleyfi fyrir gerð fyrsta áfanga bílastæðis á deiliskipulagssvæðinu og munu framkvæmdir hafa hafist samdægurs.

Kærandi bendir á að deiliskipulag það sem hið kærða framkvæmdaleyfi styðjist við hafi verið kært til úrskurðarnefndarinnar, en úrskurður hafi ekki verið uppkveðinn. Umrætt deiliskipulag fullnægi ekki lagakröfum að því er varði form og efni. Telji kærandi þá annmarka svo verulega að ógildingu valdi. Fallist úrskurðarnefndin á að rök standi til þess að ógilda deiliskipulagið leiði sú niðurstaða jafnframt til þess að síðari ákvarðanir, sem á því séu byggðar, séu jafnframt ógildar. Þá telji kærandi enga heimild til þess að gefa út framkvæmdaleyfi með áritun á umsókn um framkvæmdaleyfi. Ekki liggi fyrir að skriflegt leyfi hafi verið gefið út í samræmi við 11. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi.

Sveitarfélagið tekur fram að vegna formgalla við samþykkt og útgáfu framkvæmdaleyfis 18. janúar 2017 hafi það verið afturkallað skv. heimild í 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Áður en framkvæmdir hefjist að nýju beri að sækja aftur um framkvæmdaleyfi til bæjaryfirvalda. Þar sem kærandi eigi ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins vænti sveitarfélagið þess að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Þess megi geta að ekkert hafi verið unnið á svæðinu síðustu tvær vikur.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Eins og að framan greinir þá hefur hin kærða ákvörðun verið afturkölluð og er því ljóst að hún hefur ekki lengur réttarverkan að lögum. Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

69/2016 Hótel í landi Rauðsbakka

Með

Árið 2017, fimmtudaginn 26. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 69/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 7. apríl 2016 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir hótel á jörðinni Rauðsbakka.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. júní 2016, er barst nefndinni 22. s.m., kærir V, eigandi Berjaness, Hvolsvelli, þá ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 7. apríl 2016 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir hluta úr jörðinni Rauðsbakka. Með bréfi, dags. 26. júní s.á., er barst nefndinni 27. s.m., kærir H, eigandi Miðbælisbakka, Hvolsvelli, sömu ákvörðun Rangárþings eystra og er það mál nr. 72/2016. Verður að skilja málskot kærenda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 24. nóvember 2016, er barst nefndinni sama dag, og bréfi, dags. 30. s.m., er barst nefndinni 1. desember s.á., kæra sömu aðilar jafnframt þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins frá 1. júlí s.á. að samþykkja byggingarleyfi fyrir hóteli á deiliskipulagssvæðinu. Eru þau mál nr. 156/2016 og nr. 158/2016. Verður að skilja málskot kærenda svo að gerð sé krafa um að jafnframt þessi ákvörðun verði felld úr gildi.

Verða greind kærumál, nr. 72/2016, 156/2016 og 158/2016, öll sameinuð máli þessu þar sem þau eru samofin og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Með tölvupósti 11. nóvember 2016 krefst annar kærenda þess að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Rangárþingi eystra 17. ágúst og 8. desember 2016.

Málavextir: Jörðin Rauðsbakki, landnúmer 163709, er um 58 ha að stærð samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Þar af er 9,9 ha ræktað land og á jörðinni er véla- og verkfærageymsla frá árinu 1971 skráð sem eini húsakosturinn. Tiltekið er um landið að það sé jörð í byggð. Er jörðin og skráð sem lögbýli, en er ekki merkt sem eyðibýli í lögbýlaskrá. Þar kemur jafnframt fram að jörðin sé ekki í ábúð, en hún mun hafa verið í eyði síðan 1965. Jörðin er staðsett undir Eyjafjöllum og nær hið kærða deiliskipulag til 5,7 ha svæðis innan hennar, sem liggur um 1.600 m suður af þjóðvegi 1.

Á fundi skipulagsnefndar Rangárþings eystra, sem haldinn var 1. október 2015, var tekin fyrir umsókn eiganda Rauðsbakka um heimild til að vinna deiliskipulag fyrir hluta af jörðinni. Meðfylgjandi var lýsing fyrirhugaðrar deiliskipulagsáætlunar, dags. 10. september s.á. Samkvæmt lýsingunni var gert ráð fyrir gististað eða hóteli með 1-2 hæða húsum og allt að 1.500 m2 byggingarmagni á deiliskipulagssvæðinu. Skipulagsnefnd lagði til við sveitarstjórn að umsóknin yrði samþykkt og að framlögð lýsing yrði kynnt fyrir almenningi, Skipulagsstofnun og öðrum umsagnaraðilum skv. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á fundi sínum 8. október s.á. samþykkti sveitarstjórn tillögu nefndarinnar. Kynningartími lýsingarinnar var frá 20. nóvember 2015 til 4. janúar 2016.

Að lokinni kynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar að nýju hinn 4. febrúar 2016. Umsagnir höfðu borist frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og Veðurstofunni. Að þeim fengnum var unnin deiliskipulagstillaga og mælst til þess að hún yrði auglýst ásamt umhverfisskýrslu í samræmi við 41. gr. skipulagslaga. Hinn 11. s.m. samþykkti sveitarstjórnin að auglýsa deiliskipulagstillöguna og var athugasemdafrestur tillögunnar frá 16. febrúar til 29. mars s.á. Á sama fundi sveitarstjórnar var samþykkt að skipta svæði því sem deiliskipulagstillagan náð til, alls um 5,7 ha að flatarmáli, úr landi Rauðsbakka landnr. 163709.

Hinn 7. apríl 2016 samþykkti skipulagsnefnd svör við innkomnum athugasemdum, svo og breytta deiliskipulagstillögu m.t.t. til þeirra. Var þó gerður fyrirvari um jákvæða umsögn Fiskistofu, sem svo barst 4. maí s.á. Hinn 8. apríl s.á. samþykkti sveitarstjórn framangreind svör og breytta tillögu og jafnframt að breytt deiliskipulagstillaga yrði send Skipulagsstofnun til yfirferðar skv. 42. gr. skipulagslaga. Stofnunin gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt deiliskipulagsins að því tilskyldu að horfið hefði verið frá þeim landskiptum sem samþykkt hefðu verið í sveitarstjórn 11. febrúar s.á., enda næði 5,7 ha lóð ekki þeim stærðarmörkum lands sem aðalskipulag gerði kröfu um. Hinn 14. júní 2016 birtist svo auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt deiliskipulaginu er gert ráð fyrir allt að 1.300 m2 byggingu með 7,0 m hámarkshæð og allt að 30 gistirými á jörðinni Rauðsbakka.

Hinn 1. júlí 2016 samþykkti byggingarfulltrúi Rangárþings eystra byggingarleyfi fyrir 28 herbergja, 1.235,7 m2, hóteli með stoð í hinu kærða deiliskipulagi.

Málsrök kærenda: Kærendur telja ljóst að fyrirhuguð bygging hins kærða hótels muni hafa verulega röskun í för með sér fyrir þá sem næst búi eða dvelji. Byggingin sé svo einkennilega staðsett að það trufli útsýni á svæðinu og sé líkast því að vinna hafi verið lögð í að velja þann stað þar sem byggingin myndi hafa mest truflandi áhrif gagnvart nágrönnum. Það sé sérstakt áhyggjuefni kærenda hversu mikið hótelið myndi rýra verðmæti Miðbælisbakka, en nefna megi að fyrir u.þ.b. ári hafi Rangárþing eystra veitt eiganda leyfi til að leigja bæinn út til ferðamanna. Rólegt umhverfi, kyrrð og fuglasöngur, ásamt útsýni til allra átta, sé aðalsmerki þessa staðar. Verði hótel hins vegar reist á þeim stað sem fyrirhugað sé að það rísi verði þetta liðin tíð og staðurinn missi aðdráttarafl sitt. Megi þá búast við umferð hópbifreiða og fólksbifreiða á öllum tímum sólarhringsins. Svo ekki sé minnst á að það færist í vöxt að þyrlur lendi við hótel í umræddri sveit. Byggingarreitur hótelsins sé áætlaður í rúmlega 200 m fjarlægð frá íbúðarhúsinu að Miðbælisbökkum.

Þá hafi verið bent á að með því að færa byggingarreitinn norðar, nær bænum á Rauðsbakka eða jafnvel norður fyrir bæinn, þá myndu þessi fyrirséðu vandamál hverfa að miklu leyti og sátt kæmist á. Fleira styðji nauðsyn þess. Fyrst megi nefna að aðkomuleiðir í lönd annarra landeigenda á svæðinu liggi um fyrirhugað byggingarstæði og fáist ekki séð á uppdrætti að ný leið komi í staðinn. Þarna sé einnig eina leiðin sem sé öllum hlutaðeigandi fær að Miðbælisfjöru, en fyrirhuguð bygging myndi loka þessum leiðum. Þá furði kærandi sig á því hve litlar kröfur byggingaryfirvöld geri til grunnþátta, svo sem neysluvatns og frárennslis. Um aldaraðir hafi verið erfitt að ná til neysluvatns á þessu svæði. Þá sé rotþró áhyggjuefni, en mikið vatn muni fara í hana frá hótelinu og jarðvegurinn taki svo við. Stutt sé í Svaðbælisá þar sem veiddur sé matfiskur.

Ekki hafi farið fram grenndarkynning og nágrönnum með því gert ljóst hvað væri á ferðinni, en sjö metra há bygging á mjög umdeildum stað gagnvart þremur nágrönnum hljóti að kalla á sérstaka kynningu. Gagnrýnivert sé að svör við athugasemdum séu tekin saman af fyrirtæki í Reykjavík, sem hafi sjálft séð um hönnun skipulagsins og gerð uppdrátta af staðnum. Þá beri að hafa í huga að þegar svona rekstur sé kominn á verði hann ríkjandi innan stórs radíuss frá hótelinu og það sem fyrir er víki. Græðgishyggjan meti einskis ræktun túna eða tilfinningar þeirra sem fyrir séu á svæðinu. Kærendum sé ekki kunnugt um að fram hafi farið athugun á því hvort álagablettir eða sérstakir sagnablettir séu á þessu svæði. Kærendur vísi aukinheldur til þess að svæðið sem um ræðir sé komið yfir þau 5 ha mörk sem fram komi í 6. gr. jarðalaga nr. 81/2004 og þurfi því að liggja fyrir leyfi ráðherra fyrir breyttri landnotkun.

Þá vísi kærendur til þess að byggingarstjóri framkvæmdanna hafi fullyrt að möguleiki væri á tvöföldun hótelsins. Það myndi hafa í för með sér enn frekari malartöku úr Svaðbælisá með tilheyrandi raski á lífríki hennar, og koma verður í veg fyrir það.

Óljóst eignarhald á landinu sem byggingarreiturinn sé á sé meginástæða þess að með öllu sé óþolandi að þarna verði gefið leyfi fyrir hótelbyggingu. Þó taki kærendur fram að þeir geri sér grein fyrir því að deilur um eignarhald á landi heyri ekki undir úrskurðarnefndina.

Málsrök Rangárþings eystra: Sveitarfélagið telur málsmeðferð deiliskipulags Rauðsbakka hafa í einu og öllu verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010.

Hvað varði samþykkt byggingarleyfis þá hafi það verið mat sveitarfélagsins að malartaka vegna framkvæmdanna úr Bakkakotsá hafi ekki verið leyfisskyld af hálfu sveitarfélagsins, þar sem um hafi verið að ræða efnistöku til eigin nota. Hins vegar hafi landeigandi Rauðsbakka sótt um leyfi fyrir efnistökunni til Fiskistofu, líkt og kveðið sé á um í 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Fiskistofa hafi heimilað efnistökuna með leyfi, dags. 22. júlí 2016.

Hvað varði umferðarleið um land Rauðsbakka að Miðbælisfjöru þá sé gert ráð fyrir henni bæði á deiliskipulagsuppdrætti og í greinargerð. Einnig komi fram í svörum til þeirra er gert hafi athugasemdir við deiliskipulagið á auglýsingartíma að framkvæmdaraðili hyggist halda aðgengi að strandlínu opnu og óhindruðu. Samkvæmt samtali við eiganda jarðarinnar Rauðsbakka hafi hann ekki í hyggju að loka aðgengi að Miðbælisfjöru. Þá hafi engar breytingar verið gerðar á samþykktu deiliskipulagi fyrir svæðið og bygging hótelsins sé í samræmi við samþykkt byggingarleyfi, dags. 11. júlí 2016, og aðaluppdrætti, dags. 13. mars s.á., samþykkta af byggingarfulltrúa 1. júlí s.á.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að fyrir liggi að hið kærða byggingarleyfi taki til byggingar 30 herbergja hótels. Í því sé vísað til samþykkts uppdráttar, dags. 18. mars 2016, þar sem stærð hótelsins sé sýnd og annað sem við komi skipulagi, þar með lega rotþróar og staðsetning vatnsbrunns. Hugleiðingar annars kærenda um hugsanlega stækkunarmöguleika komi þessu máli ekkert við. Byggingarleyfi og auglýst skipulag taki aðeins til 30 herbergja hótels og það sé sú framkvæmd sem unnið sé að.

Leyfishafi telji kæranda eiga ekki land að Svaðbælisá og eigi því engra hagsmuna að gæta vegna malartöku. Leyfi hafi verið fengið hjá Fiskistofu fyrir malartöku vegna núverandi framkvæmda í ánni í landi leyfishafa. Þá taki leyfishafi fram að ekkert liggi fyrir um stækkun umrædds hótels.

Leyfishafi mótmæli þeim staðhæfingum sem fram komi í kæru varðandi aðkomu að Miðbælisfjöru. Ekkert liggi fyrir um það hver réttur kæranda sé til nýtingar hlunninda í fjörunni eða að gömul þjóðleið hverfisins að umræddri fjöru liggi um lóð hótelsins. Hins vegar liggi fyrir að eigandi jarðarinnar Rauðsbakka muni eftir sem áður heimila umferð um land sitt eins og verið hafi þannig að hægt verði að komast að fjörunni. Liggi fyrir að allar jarðir í hinu svokallaða hverfi þarna í kring hafi sjálfstæðan aðgang að umræddri fjöru um lönd sín.

Niðurstaða: Með hinu kærða deiliskipulagi er gert ráð fyrir allt að 30 herbergja og 1.300 m2 hóteli á skika úr jörðinni Rauðsbakka. Jafnframt er kærð ákvörðun byggingarfulltrúa sveitarfélagsins frá 1. júlí s.á. um að samþykkja byggingarleyfi fyrir hóteli með stoð í hinu kærða deiliskipulagi.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Hið kærða deiliskipulag gerir ráð fyrir byggingu hótels og hefur byggingarleyfi verið veitt fyrir því. Hótelið mun verða staðsett í um þriggja kílómetra fjarlægð frá íbúðarhúsinu á jörðinni Berjanesi, sem er í eigu annars kærenda. Liggja og aðrar jarðir á milli hótelsins og Berjaness. Sá kærandi vísar til almennra atriða varðandi efnistök og málsmeðferð deiliskipulagsins og breyttra forsendna byggingarleyfis, án þess að færa fram rök fyrir því hvernig hinar kærðu ákvarðanir hafi áhrif á hans einstaklegu lögvörðu hagsmuni. Þó rekur kærandinn atriði sem hann telur sýna fram á óljóst eignarhald á landi því sem deiliskipulagið tekur til. Úr slíkum ágreiningi verður ekki leyst fyrir úrskurðarnefndinni, eins og kærandi raunar tekur fram, og er ekki hægt að fallast á að mögulegur erfðaréttur hans veiti honum kæruaðild í máli þessu. Þá er ljóst að fasteign kæranda er ekki í þeirri nálægð við deiliskipulagssvæðið, og að aðstæður að öðru leyti eru ekki með þeim hætti, að framkvæmdir með stoð í hinu umdeilda deiliskipulagi geti haft þau áhrif á grenndarhagsmuni hans að skapi honum þá einstaklegu lögvörðu hagsmuni sem gerðir eru að skilyrði fyrir kæruaðild, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður máli þessu, hvað þann kæranda varðar, af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni, en mál þess kæranda sem er eigandi Miðbælisbakka tekin til meðferðar.

Eins og fram kemur í 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skulu gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi og er stefna aðalskipulags bindandi við gerð deiliskipulags, sbr. 6. mgr. 32. gr. þeirra laga. Í gr. 4.3.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er fjallað um viðfangsefni og efnistök aðalskipulags. Er meginviðfangsefni þess stefnumörkun sveitarstjórnar um landnotkun og þróun byggðar og skal í skipulagsgögnum gera grein fyrir og marka stefnu um tilgreind málefni og setja þau fram með ákvörðunum um landnotkun eftir því sem við á. Meðal þeirra málefna er landbúnaður, sbr. e-lið greinarinnar, og er þar átt við: „Þróun landbúnaðar og megináhrifaþættir. Helstu einkenni landbúnaðarsvæða, þ.e. búrekstrar sem þar er stundaður, þ.m.t. ferðaþjónusta og önnur atvinnustarfsemi sem tengist búrekstrinum. Helstu atriði sem varða mannvirkjagerð. Gera skal sérstaklega grein fyrir ræktuðum svæðum innan landbúnaðarsvæða. Stefna um hvar og hvernig þörfum landbúnaðarstarfsemi verður mætt. Stefna um hvaða atvinnustarfsemi önnur en hefðbundinn landbúnaður er heimil á bújörðum og viðmið um aðstæður og umfang.“ Í gr. 6.2. í reglugerðinni er nánar kveðið á um stefnu um landnotkun og skal hún sýnd með einum landnotkunarflokki. Skal sá flokkur tiltekinn fyrir reitinn sem sé ríkjandi, en umfang annarrar landnotkunar tilgreint í skilmálum. Í greininni er landnotkunarflokkurinn landbúnaðarsvæði nánar skilgreint sem svæði fyrir landbúnað og mannvirki sem tengjast búrekstrinum, með áherslu á búfénað og matvæla- og fóðurframleiðslu, sbr. q-lið greinarinnar.

Í samræmi við framangreind reglugerðarákvæði er í kafla 4.17.3 í Aðalskipulagi Rangárþings eystra 2012-2024 fjallað um eðli og umfang annarrar atvinnustarfsemi á landbúnaðarsvæðum. Segir þar m.a: „Eins og fram hefur komið er á landbúnaðarsvæðum heimilt að nýta byggingar sem fyrir eru á jörðinni og reisa nýbyggingar fyrir atvinnustarfsemi, sem fellur vel að búrekstri og nýtingu viðkomandi jarðar og ekki hefur neikvæð áhrif á umhverfi sitt, án þess að gera þurfi grein fyrir þeirri landnotkun á aðalskipulagsuppdrætti. Fyrst og fremst er átt við atvinnugreinar sem eru eðlileg viðbót við búreksturinn og stoðgreinar við landbúnað, sem áfram verður meginlandnotkun á svæðinu. Þetta á t.d. við um almenna ferðaþjónustu s.s. „ferðaþjónustu bænda”, gistiaðstöðu og greiðasölu í tengslum við hana en einnig ýmsa athafnastarfsemi sem fellur vel að og er eðlileg viðbót við hefðbundna starfsemi á landbúnaðarsvæðum.“ Enn fremur segir: „Markmiðið er að gefa kost á nýtingu þess húsakosts sem fyrir er á viðkomandi bæjum með minni háttar viðbótum og breytingum án þess að breyta þurfi aðalskipulagi, auðvelda bændum að skjóta fleiri stoðum undir búreksturinn og tryggja áframhaldandi nýtingu jarðanna.“

Jörðin Rauðsbakki, sem hið kærða deiliskipulag og byggingarleyfi taka til, er á landbúnaðarsvæði í flokki I samkvæmt landnotkunarflokkun aðalskipulags sveitarfélagsins. Samkvæmt texta aðalskipulagsins er heimilað að reisa nýbyggingar fyrir atvinnustarfsemi, allt að 1.500 m2 að eldri húsum meðtöldum, á jörðum yfir 15 ha, ef starfsemin fellur vel að búrekstri og er þar fyrst og fremst átt við atvinnugreinar sem eru eðlileg viðbót við búrekstur og stoðgreinar við landbúnað.

Í hinu kærða deiliskipulagi er tekið fram að jörðin Rauðsbakki hafi verið í eyði síðan 1965. Tún séu hins vegar nytjuð og önnur svæði séu nýtt til beitar. Einnig er tiltekið að á jörðinni sé ein 56,1 m² verkfærageymsla. Eru upplýsingar þessar í samræmi við það sem fram kemur í fasteignaskrá Þjóðskrár, svo sem nánar er rakið í málavöxtum. Þykir því ljóst að á jörðinni sé ekki rekið bú. Þegar virt er hvernig hið kærða deiliskipulag samræmist ákvæðum aðalskipulags og skipulagsreglugerðar verður að líta til þess að framkvæmd skipulagsins felur sér í byggingu hótels og rekstur þess án nokkurra sýnilegra tengsla við búrekstur. Er enda vandséð að með því sé stutt við þann landbúnað sem stundaður er á jörðinni, þ.e. ræktun túna og búfjárbeit sem ekki er haldið á jörðinni. Þá er ekki um það að ræða að verið sé að nýta húsakost sem fyrir er, s.s. nefnt er sem markmið í nefndu aðalskipulagi. Verður að telja þá starfsemi komna út fyrir þau mörk sem setja verður um starfsemi á svæðum, sem fyrst og fremst eru ætluð til landbúnaðarnota, enda er önnur starfsemi undantekning frá þeirri meginreglu og lýtur hún þröngum skorðum eðli máls samkvæmt. Með vísan til þessa er ekki hægt að telja deiliskipulag fyrir hótel, sem er ekki í tengslum við starfræktan landbúnað og fyrirhugað er að byggja á jörð sem er í eyði, vera í samræmi við aðalskipulag sveitarfélagsins, sbr. einnig ákvæði skipulagsreglugerðar.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja hið kærða deiliskipulag slíkum annmörkum háð að varði ógildingu þess.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Kæra eiganda Miðbælisbakka vegna byggingarleyfisins barst úrskurðarnefndinni 1. desember 2016, en hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa var tekin 1. júlí s.á. og byggingarleyfið gefið út 11. þess mánaðar. Hinn 19. júlí s.á. gerði byggingarfulltrúi úttekt á botnplötu, 30. ágúst s.á. gerði hann úttekt á sökklum og 13. september s.á. gerði hann úttekt á frárennslislögnum undir plötu. Með tilliti til þessa og nálægðar heimilis kæranda við verkstað getur honum ekki hafa dulist að byggingarleyfi hafði verið samþykkt og gefið út. Verður kæru hans vegna samþykktar byggingarleyfisins af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Rétt er þó að benda á, vegna athugasemda um malartöku úr árfarvegi Svaðbælisár í byggingarleyfiskæru eiganda Miðbælisbakka, að hið kærða byggingarleyfi tekur ekki til hennar. Önnur leyfi hafa ekki verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, en undir rekstri málsins hefur komið fram að Fiskistofa hefur veitt leyfi til greindrar malartöku, sbr. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Er sú ákvörðun eftir atvikum einnig kæranleg til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt 36. gr. nefndra laga.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfum eiganda Berjaness.

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 7. apríl 2016 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir hótel á jörðinni Rauðsbakka.

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfu um ógildingu á samþykkt byggingarfulltrúans í Rangárþingi eystra frá 11. júlí 2016 á byggingarleyfi fyrir hóteli á jörðinni Rauðsbakka.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson