Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

144/2016 Álftröð 1

Með

 
Árið 2018, föstudaginn 25. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 144/2016, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 27. september 2016 um að samþykkja heimild til að stækka bílageymslur um 39 m2 á lóð við Álftröð 1.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, dags. 2. nóvember 2016, til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála var framsend kæra eiganda, Álftröð 3, Kópavogi, dags. 30. október 2016, þar sem kærð er ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 27. september 2016 um að samþykkja heimild til stækkunar bílageymslu á lóð við Álftröð 1. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 1. desember 2016.

Málavextir:
Hinn 5. nóvember 2015 sóttu fasteignareigendur að Álfatröð 1 um byggingarleyfi til stækkunar á bílskúrum, stiga utanhúss fyrir íbúð á annarri hæð o.fl. Nefnd lóð er á svæði sem ekki hefur verið deiliskipulagt. Byggingarfulltrúi vísaði málinu til skipulagsnefndar sem ákvað að grenndarkynna umsóknina. Umsóknin var í framhaldinu grenndarkynnt með bréfi, dags. 22. desember 2015, og lauk kynningu 1. febrúar 2016. Á fundi skipulagsnefndar 21. mars s.á. var umsókninni synjað hvað varðar stækkun bílskúra en samþykkt að öðru leyti. Var sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarstjórnar 12. apríl 2016. Á fundi skipulagsnefndar 2. maí 2016 var umsókn lóðarhafa Álftraðar 1 um stækkun bílskúra á lóðinni úr 68,8 m2 í 107,8 m2, eða um 39 m2, synjað að nýju og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu 10. maí s.á. Umsókn sama efnis var enn á dagskrá skipulagsnefndar 20. maí 2016 og samþykkti nefndin á fundi sínum 30. s.m. að grenndarkynna erindið með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í samræmi við bréf, dags. 21. júní 2016, fór grenndarkynningin fram og lauk henni 25. júlí s.á. Tvær athugasemdir bárust innan athugasemdafrests þar sem fyrirhuguðum framkvæmdum var mótmælt.

Að lokinni grenndarkynningu gaf skipulags- og byggingardeild út umsögn, dags. 19. september 2016, þar sem kom fram að fyrirhuguð stækkun félli ekki að öllu leyti að yfirbragði núverandi byggðar þar sem stærð bílageymslna á götureitnum yrði yfir meðaltali. Neikvæð umhverfisáhrif af fyrirhugaðri stækkun yrðu þó lítil og ekki íþyngjandi. Var jafnframt á það bent að stækkunin yrði fordæmisgefandi fyrir götureitinn.
 
Skipulagsnefnd samþykkti umsóknina á fundi 19. september 2016 og var afgreiðsla nefndarinnar staðfest á fundi bæjarstjórnar 27. s.m.
Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er þess krafist að bílageymslan verði ekki stækkuð til austurs og að hæð byggingarinnar fari ekki yfir núverandi hæð lægri skúrs sem nú sé fyrir á umræddri lóð. Hækkun skúranna hefði mikla skerðingu í för með sér á fjallasýn í vestur frá stofu og palli fasteignar hennar við Álftröð 3. Þó að trjákrónur á lóð Álftraðar 1 byrgi sýn að hluta, séu trén einungis laufguð 1/3 hluta úr ári auk þess sem unnt sé að fella þau. Annað gildi um byggingar. Bendir kærandi á að eftir stækkun verði grunnflötur bílskúranna stærri en grunnflötur íbúðarhússins á lóðinni sem telja verði óeðlilegt. Þá sé vísað til þess að bílskúrarnir séu hvergi teiknaðir nema á afstöðumynd hjá byggingarfulltrúa og séu því væntanlega óleyfisbyggingar.

Málsrök Kópavogsbæjar: Bæjaryfirvöld benda á að þær breytingar sem um ræðir séu óverulegar og hafi ekki í för með sér verulega skerðingu grenndarhagsmuna kæranda. Markmið um þéttingu byggðar komi skýrt fram í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024. Þéttingin sé gerð í samræmi við heildaryfirbragð hverfanna og með þeim hætti að það hafi ekki verulega íþyngjandi áhrif á umhverfisþætti líkt og útsýni, nánd o.fl. Eigendur fasteigna geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem geti haft í för með sér breytingar á nánasta umhverfi þeirra. Ekki verði horft framhjá því að á lóðinni standi stór tré sem hafi áhrif á útsýni, bæði þegar þau eru laufguð og ekki.

Á umræddu svæði sé hefð fyrir stórum bílageymslum og þær séu stærri en almennt í öðrum hverfum. Álftröð 1 sé tvíbýli og því gert ráð fyrir tveimur bílageymslum. Líkt og fram komi í umsögn skipulags- og byggingardeildar sé stækkunin yfir meðaltali, en líta verði til þess að viðbyggingin sé ekki hærri en núverandi bílskúrar, stækkunin nái ekki nær lóðarmörkum en 3 m og umhverfisáhrif séu afar lítil. Því hafi verið talið að ekki væri um óeðlilega stækkun að ræða. Áréttað sé að umræddir bílskúrar séu teiknaðir á aðaluppdrátt sem samþykktur hafi verið á fundi byggingarnefndar Kópavogs þann 15. júní 1987 og eigi því stoð í lögformlegu byggingarleyfi.

Bent sé á að eigendur hafi unnið að því að fegra húsið að Álftröð 1 og muni bílskúrinn einnig fá yfirhalningu, þannig að umræddar breytingar hafi jákvæð áhrif á umhverfið og heildarásýnd lóðarinnar verði betri, lóðinni og hverfinu til mikils sóma.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að umræddur bílskúr standi langt inni á lóð hans, fjarri lóð kæranda, og að ekki standi til að hækka bílskúrinn. Vel sjáist á myndum að einungis örfá húsþök sjáist í fjarska á milli bygginga á Digranesveginum auk þess sem stofugluggi kæranda snúi í vestur. Því geti ekki verið um mikla skerðingu á hagsmunum kæranda að ræða.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar bæjarstjórnar Kópavogsbæjar að samþykkja heimild til stækkunar á bílageymslu á lóð við Álftröð 1. Ákvörðunin var tekin að undangenginni grenndarkynningu, en ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir umrætt svæði.

Samkvæmt 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þarf leyfi byggingarfulltrúa, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnunar, fyrir byggingu mannvirkis. Er kveðið á um það í 11. gr. sömu laga að nefndir aðilar tilkynni umsækjanda um samþykkt byggingaráforma enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Ef umsókn lýtur að mannvirkjagerð á ódeiliskipulögðu svæði eða vafi leikur á um að fyrirhugað mannvirki sé í samræmi við gildandi deiliskipulag skal leita umsagnar skipulagsfulltrúa eða skipulagsnefndar, sbr. 10. gr. laganna og gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Ef sótt er um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir eða um er að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi getur skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulags, enda hafi áður farið fram grenndarkynning skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Felur það lagaákvæði samkvæmt orðanna hljóðan m.a. í sér að skipulagsnefnd taki ákvörðun um hvort veita megi byggingarleyfi án deiliskipulags.

Hins vegar verður ekki litið fram hjá því að endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis er á hendi byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum laga um mannvirki. Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu samþykkti skipulagsnefnd umsókn um stækkun umræddrar bílageymslu á fundi sínum 19. september 2016 og var sú afgreiðsla nefndarinnar staðfest af bæjarstjórn 27. s.m. Að þeirri afgreiðslu lokinni var byggingarfulltrúa heimilt að lögum að veita umsótt byggingarleyfi. Leyfi hefur hins vegar ekki verið veitt samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað. Liggur því ekki fyrir lokaákvörðun í málinu, en skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Er því og við að bæta að skv. 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga skal grenndarkynning fara fram að nýju hafi byggingarleyfi á grundvelli grenndarkynningar ekki verið gefið út innan eins árs frá afgreiðslu sveitarstjórnar.

Með vísan til framangreinds verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                    Þorsteinn Þorsteinsson

 

29, 30 og 31/2018 Dunhagi

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 16. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 29/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. janúar 2018 um að veita byggingarleyfi  til að byggja eina hæð ofan á og viðbyggingu við núverandi hús á lóðinni Dunhaga 18-20, Reykjavík, ásamt  fleiru.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. febrúar 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra tilgreindir íbúar og húseigendur á Tómasarhaga 32 þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. janúar 2018 að veita byggingarleyfi vegna Dunhaga 18-20 í Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. febrúar 2018, er móttekið var sama dag, kæra tilgreindir íbúar og húseigendur á Hjarðarhaga 27 áðurnefnda ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. janúar 2018.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. febrúar 2018, sem barst nefndinni 27. s.m., kærir eigandi, Hjarðarhaga 44, framangreinda ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. janúar 2018.

Þar sem framangreind mál varða öll sömu ákvörðun og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verða síðargreind kærumál, sem eru nr. 30/2018 og 31/2018, sameinuð máli þessu.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 23. mars 2018.

Málsatvik og rök:
Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. janúar 2018 var samþykkt umsókn um leyfi til að byggja inndregna  hæð ofan á núverandi hús á lóðinni Dunhaga 18-20, byggja viðbyggingu við fyrstu hæð hússins og kjallara, minnka og fjölga íbúðum í húsinu úr 8 í 20, koma fyrir lyftu utan á því og sorpgerði fyrir verslunarrými innan í rými 0106. Afgreiðsla byggingarfulltrúa var staðfest í borgarráði 11. janúar 2018.

Kærendur benda á að hin kærða ákvörðun varði grenndarhagsmuni þeirra miklu. Útsýni skerðist og umferð, sem og skuggavarp aukist.  Lagaskilyrði hafi ekki verið til að fara með umsókn um hið kærða byggingarleyfi í grenndarkynningu. Framkvæmdin sé ekki í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 eða skilgreinda landnotkun, auk þess sem hún sé ekki í samræmi við byggðamynstur.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er m.a. bent á að byggingarleyfi í málinu hafi verið samþykkt að nýju á afgreiðslufundi 20. mars 2018 og að þar með hafi hið kærða byggingarleyfi frá 9. janúar s.á. fallið úr gildi.

Niðurstaða:
Í gögnum málsins kemur fram að eftir hina kærðu samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík á byggingarleyfi vegna Dunhaga 18-20 fór fram frekari málsmeðferð. Var samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 20. mars 2018 að veita byggingarleyfið að nýju á grundvelli sömu byggingarleyfisumsóknar. Í tilkynningu byggingarfulltrúa, dags. 10. apríl s.á., er og vakin athygli á að byggingarleyfisumsókn hafi verið endursamþykkt vegna nýrrar málsmeðferðar umhverfis- og skipulagsráðs á henni. Bent er á að nýr kærufrestur hafi tekið að líða við þá samþykkt og hygðust kærendur nýta sér kærurétt sinn væri nauðsynlegt að þyrfti að kæra að nýju til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt meðfylgjandi leiðbeiningum. Hafa kærendur nýtt sér þann málsskotsrétt með kærum til úrskurðarnefndarinnar og eru þau kærumál nr. 69, 70 og 71/2018.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Eftir að byggingarfulltrúi samþykkti að veita nýtt byggingarleyfi 20. mars 2018 hefur hin kærða ákvörðun ekki réttarverkan að lögum. Eiga kærendur af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Með vísan til framangreinds verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

 

65/2018 Miðstræti

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 16. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 65/2018, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 20. apríl 2018 um að krefjast lagfæringar á skemmdri frárennslislögn.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. apríl 2018, sem barst nefndinni sama dag, kæra húsfélögin Miðstræti 8a og Miðstræti 8b þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að gefa kærendum frest til 30. apríl 2018 til að gera við skemmda frárennslislögn. Gera kærendur kröfu um að ákveðið verði með úrskurði að þvingunarúrræðum verði ekki beitt gagnvart þeim. Jafnframt gera kærendur kröfu um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 7. maí 2018.

Málavextir:
Kærendur eru húsfélög fasteignanna Miðstrætis 8a og Miðstrætis 8b. Liggur frárennslislögn frá húsinu undir lóð Laufásvegar 7 áður en hún tengist stofnlögn. Í mars 2018 stíflaðist sá hluti lagnarinnar sem liggur undir lóðina að Laufásvegi 7 en kærendum hefur verið neitað um aðgengi að lögninni til að fá gert við hana, bæði af eigendum Laufásvegar 7 og 9. Afleiðing stíflunnar var sú að skolpblandað vatn lak inn í húsnæði að Laufásvegi 9. Með bréfi, dags. 20. mars 2018, fór Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fram á að kærendur létu lagfæra umrædda skólplögn tafarlaust og skyldi viðgerð lokið eigi síðar en 3. apríl s.á. Eftir bréfleg samskipti var ákveðið að framlengja umræddan frest og með bréfi, dags. 20. s.m., ítrekaði Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fyrri kröfu um að kærendur létu lagfæra umrædda skólplögn. Skyldi viðgerð lokið eigi síðar en 30. s.m. Var í bréfinu jafnframt vakin athygli á því að yrði ekki farið að kröfu heilbrigðiseftirlitsins gæti heilbrigðisnefnd látið fara fram lagfæringar á lögninni á kostnað eiganda. Kærendur lögðu fram kæru sína 27. apríl 2018 og hafði þá viðgerð ekki verið framkvæmd og þvingunaraðgerðum ekki beitt.

Málsrök kærenda:
Kærendur kveðast ekki geta unað því að eigendur Laufásvegar 7 og 9 stöðvi nauðsynlegar viðgerðir á frárennslislögnum kærenda. Aldrei hafi staðið á kærendum að gera við lagnirnar. Erfitt sé að samþykkja að vera knúnir með kúgun til að samþykkja afarkosti um m.a. óskyld mál eða vera neyddir til að leysa frárennslismálin með sértækum lausnum sem kosti margfalt á við hina gömlu og hefðbundnu leið frárennslisins, sem auk þess sé styst og hagkvæmust. Kærendur hafni jafnframt hvers kyns ábyrgð á skemmdum vegna lagnanna, enda verið meinað að grípa til eðlilegra og fyrirbyggjandi ráðstafana til viðgerða í haust er leið og nú aftur, til að koma í veg fyrir frekari skemmdir.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er krafist frávísunar kærunnar. Kærendur hafi fengið frest til 30. apríl 2018 til að gera við skemmda frárennslislögn á lóðinni nr. 8 við Miðstræti. Hafi jafnframt verið tekið fram að ef ekki yrði orðið við kröfunni gæti heilbrigðiseftirlitið látið fara fram lagfæringar á lögninni á kostnað lóðarhafa. Umræddur frestur sé liðinn og engin ný ákvörðun hafi verið tekin. Hafi kærendur því enga lögvarða hagsmuni af því að fá úr gildi ákvörðunarinnar skorið og beri því að vísa kærunni frá.

Niðurstaða: Í XVII. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir er fjallað um valdsvið og þvingunarúrræði samkvæmt lögunum. Í 1. mgr. 60. gr. kemur fram að til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum, reglugerðum, samþykktum sveitarfélaga eða eigin fyrirmælum samkvæmt ákvæðum þessum geti heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúi beitt nánar tilgreindum þvingunarúrræðum. Í 1. mgr. 61. gr. segir að þegar aðili sinni ekki fyrirmælum innan tiltekins frests geti heilbrigðisnefnd ákveðið honum dagsektir þar til úr sé bætt. Þá segir í 3. málsl. 1. mgr. 61. gr. að jafnframt sé heilbrigðisnefnd heimilt að láta vinna verk á kostnað hins vinnuskylda ef fyrirmæli um framkvæmd séu vanrækt og skuli kostnaður þá greiddur til bráðabirgða af viðkomandi heilbrigðiseftirliti en innheimtast síðar hjá hlutaðeigandi. Rísi ágreiningur um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir yfirvalda er heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 65. gr. laganna.

Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að ákvörðun sem ekki bindi enda á mál verði ekki kærð fyrr en málið hafi verið til lykta leitt. Tilefni máls þessa er bréf Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til kærenda, dags. 20. apríl 2018, þar sem skorað er á þá að lagfæra skólplögn sem liggur frá húsi þeirra. Er tekið fram að verkinu skuli lokið eigi síðar en 30. s.m. Í bréfinu segir jafnframt að verði ekki farið að kröfu heilbrigðiseftirlitsins geti heilbrigðisnefnd látið fara fram lagfæringar á lögninni á kostnað kærenda. Er til stuðnings þessa vísað ranglega til 27. gr. laga nr. 7/1998 en ekki núgildandi 61. gr. laganna. Ekki verður talið að bréfið feli í sér lokaákvörðun sem skotið verði til úrskurðarnefndarinnar heldur aðeins tilkynningu um að til álita komi að beita þvingunarúrræðum samkvæmt XVII. kafla laga nr. 7/1998, nánar tiltekið 3. málsl. 1. mgr. 61. gr. laganna, verði kærendur ekki við áskorun um að vinna ákveðið verk. Verður því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

41/2018 Þjóðhildarstígur

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 22. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 41/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. júní 2017 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu ofan á þak bílageymslu og skyggni framan við bílastæði við húsið að Þjóðhildarstíg 2-6 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. mars 2018, er barst nefndinni 11. s.m., kæra eigendur, Grænlandsleið 19, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. júní 2017 að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu ofan á þak bílageymslu og skyggni framan við bílastæði við húsið að Þjóðhildarstíg 2-6. Verður að skilja málskot kærenda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 18. apríl 2018.

Málavextir: Með umsókn, dags. 22. maí 2017, óskuðu eigendur Þjóðhildarstígs 2-6 eftir endurnýjun á byggingarleyfi, sem samþykkt hafði verið á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 2. júní 2015. Fól umsóknin í sér að byggð yrði létt viðbygging fyrir geymslu ofan á bílageymslu og skyggni framan við bílastæði við veitinga-, skemmti- og verslunarhúsið á lóð nr. 2-6 við Þjóðhildarstíg. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 6. júní 2017 var framangreind umsókn samþykkt.

Með tölvupósti, dags. 10. júlí 2017, fór annar kærenda fram á að fá upplýsingar um þau byggingaráform sem samþykkt hefðu verið á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. júní s.á. Einnig var óskað upplýsinga um hvort ekki ætti fyrir útgáfu byggingarleyfis að ganga frá lóð í samræmi við deiliskipulag og meðfylgjandi umsögn skipulagsfulltrúa frá 31. mars 2016 vegna umsóknar leyfishafa um samþykki reyndarteikninga, þar sem fram kom að frágangur á lóð væri ekki í samræmi við skipulag, og enn fremur hvort byggingarleyfi hefði verið gefið út. Svar barst 12. s.m. og var á þá leið að erindið um viðbyggingu sem spurt væri um hefði verið samþykkt á afgreiðslufundi 6. júní 2017. Ekkert byggingarleyfi hefði verið gefið út, en áformin væru gild í tvö ár eftir samþykkt þeirra. Hinn 21. nóvember 2017 var byggingarleyfi svo gefið út.

Málsrök kærenda:
Af hálfu kærenda kemur fram að hvorki hafi verið staðið við lóðarfrágang né gengið frá gróðurþekju sem eigi að vera á þaki bílageymslu og á þaki 1. hæðar. Ekki hafi verið gengið frá lóðinni eftir síðustu viðbyggingu sem hafi verið samþykkt 10. janúar 2006.

Veitingastaður hafi verið rekinn í umræddu húsi frá árinu 2004. Enn eigi eftir að fylla að bílageymslu. Grjót og möl ásamt illgresi blasi við út um glugga á húsi kærenda. Einnig hafi lóðin ítrekað verið notuð til aksturs, vöruflutninga, sem og lagningar bíla, allt gegn gildandi deiliskipulagi. Væntingar til leyfisveitanda um að gengið yrði frá lóðinni áður en byggingarleyfi yrði útgefið hefðu ekki staðist.

Óskað sé eftir því að gengið verði frá lóðinni samkvæmt deiliskipulagi og framkvæmdir við viðbygginguna stöðvaðar á meðan. Reynslan sýni að þegar umræddur eigandi hafi fengið að byggja viðbyggingu sé lóðarfrágangi samkvæmt teikningum og deiliskipulagi ekki sinnt. Einnig sé skjólveggur á lóðinni sem sé óleyfisframkvæmd og komi í veg fyrir að lóð falli að landi samkvæmt upprunalegum teikningum og gildandi deiliskipulagi.

Það margt sé óljóst varðandi lóðarfrágang að tilefni sé til að stöðva framkvæmd viðbyggingar og að úrbætur séu gerðar strax í þeim efnum. Reynslan sýni að eigandi hafi ekki haft hug á að sinna lóðarfrágangi eins og eigi að gera samkvæmt þeim teikningum sem kynntar hafi verið.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Af hálfu borgaryfirvalda kemur fram að á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 6. júní 2017 hafi umsókn um leyfi til að byggja létta viðbyggingu fyrir geymslu ofan á þak bílageymslu, auk skyggnis framan við bílastæði við veitinga-, skemmti- og verslunarhúsið á lóð nr. 2-6 við Þjóðhildarstíg verið samþykkt. Byggingarleyfið hafi svo verið gefið út 21. nóvember 2017.

Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komi fram að kærufrestur til nefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Kærendur hafi um langt árabil átt í reglulegum samskiptum við byggingarfulltrúa vegna ástands lóðarinnar Þjóðarhildarstígs 2-6, en þeir hafi verið ósáttir við notkun lóðarinnar sunnan megin við húsið fyrir akandi umferð. Reglulega hafi kærendur sent ábendingu til byggingarfulltrúa um alla umferð á lóðinni, meintar óleyfisframkvæmdir o.s.frv. Með tölvupósti til embættis byggingarfulltrúa 11. júlí 2017 hafi kærendur óskað eftir upplýsingum um hvort búið hafi verið að gefa út byggingarleyfi vegna málsins. Kærendum hafi verið svarað samdægurs af starfsmanni byggingarfulltrúa og efnislegt svar hafi borist daginn eftir.

Af framansögðu megi vera ljóst að kærendum hafi verið kunnugt um samþykktina í síðasta lagi hinn 11. júlí 2017, en kæra hafi ekki borist fyrr en átta mánuðum eftir að þeim hafi verið orðin ljós afgreiðsla hennar. Hafi þá verið liðnir tæpir fimm mánuðir frá útgáfu byggingarleyfis, en rúmir níu frá samþykkt byggingaráforma. Hafi því verið liðinn sá mánaðarfrestur sem tiltekinn sé í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 til þess að kæra ákvörðun þeirra stjórnvalda sem sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Niðurstaða: Í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Við mat á því hvort kærendur eigi þeirra hagsmuna að gæta af hinu kærða byggingarleyfi verður að líta til þess að hús kærenda stendur í rúmlega 30 m fjarlægð frá því húsi sem fyrirhuguð viðbygging mun standa á og liggur ofar í landi, en á milli er nokkur landhalli. Kjarrlendi og göngustígur er á milli húsanna. Fyrirhuguð 120 m2 viðbygging er þó í sjónlínu frá húsi kærenda. Hins vegar verður ekki séð að hagsmunir kærenda muni skerðast á nokkurn hátt að því er varðar landnotkun, skuggavarp eða innsýn, enda lóðirnar ekki samliggjandi. Útsýni kærenda mun sömuleiðis ekki skerðast, þó svo að ásýnd húss leyfishafa muni breytast með tilkomu viðbyggingarinnar. Í ljósi staðhátta verður ekki séð að sú útlitsbreyting muni í neinu skerða áhrif kærenda. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki séð að kærendur hafi einstaklegra hagsmuna að gæta af hinni kærðu afgreiðslu umfram aðra og verður kæruaðild þeirra ekki byggð á þeim forsendum. Þá hafa við meðferð málsins ekki komið fram aðrar ástæður af hálfu kærenda sem leitt geta til kæruaðildar þeirra samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Af gögnum kærumálsins, og kröfum kærenda í því, má ráða að meginástæða framkominnar kæru og ágreiningur þessa máls sé fyrst og fremst skortur á frágangi á lóð leyfishafa og notkun hennar. Að mati kærenda er ekki farið að deiliskipulagi eða útgefnum byggingarleyfum. Það er hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Getur og komið til kasta Mannvirkjastofnunar á grundvelli sömu heimilda, sbr. 18. gr. laganna. Ákvarðanir þessara aðila um að beita, eða synja um að beita, framangreindum úrræðum geta eftir atvikum verið kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Ásgeir Magnússon

 

18/2018 Efra-Sel

Með

Árið 2018, föstudaginn 11. maí, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 18/2018, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Rangárþings ytra frá 10. janúar 2018 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Efra-Sel 3e.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. febrúar 2018, er barst nefndinni 9. febrúar s.á., kærir umráðamaður Lækjarsels, þá ákvörðun bæjarstjórnar Rangárþings ytra frá 10. janúar 2018 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Efra-Sel 3e. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi ytra 12. febrúar 2018.

Málsatvik og rök: Með bréfi, dags. 25. október 2017, óskuðu eigendur Efra-Sels 3e eftir heimild til að deiliskipuleggja land fyrir byggingu íbúðarhúss, ásamt skemmu og gistiskálum tengdum ferðaþjónustu. Á fundi skipulags- og umferðarnefndar Rangárþings ytra 6. nóvember s.á. var umsóknin samþykkt og var lagt til að deiliskipulagstillagan yrði auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var hún og auglýst með athugasemdafresti frá 15. nóvember til 28. desember 2017. Einnig var óskað umsagnar Minjastofnunar, Vegagerðarinnar, Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og gerðu þær stofnanir engar athugasemdir við tillöguna. Hins vegar bárust athugasemdir innan frestsins frá aðilum á svæðinu, þ. á m. frá kærendum. Var þeim svarað og deiliskipulagstillagan samþykkt á fundi skipulagsnefndar 8. janúar 2018 og staðfest á fundi sveitarstjórnar 10. s.m. með fyrirvara um breytta aðkomu að lóðinni. 

Kærandi bendir á að deiliskipulagið sé ekki í samræmi við aðalskipulag Rangárþings ytra, en samkvæmt 12. gr. skipulagslaga sé það skilyrði að gildandi skipulagsáætlanir séu í innbyrðis samræmi. Þá hafi sveitarfélagið ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni, en við afgreiðslu málsins sé hvergi dregin athygli að aðalskipulagi. Einnig liggi fyrir umsókn um lögbýli fyrir Efra-Sel 3e sem sveitarfélagið hafi veitt jákvæða umsögn, en deiliskipulagstillagan beri ekki merki um fyrirhugaða starfsemi samkvæmt nefndri umsókn. Telja verði að vegur muni ekki þola þá umferð sem ferðaþjónusta hafi í för með sér allt árið um kring. Undarlag hans sé ekki frostfrítt og muni hann því skemmast með slíkri atvinnustarfsemi.

Af hálfu Rangárþings ytra er bent á að ekki sé búið að auglýsa gildistöku hins kærða deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda. Beðið sé eftir viðbrögðum eigenda Efra-Sels 3e um leiðréttingu eða lagfæringu á atriði sem athugasemdir hafi m.a. lotið að.

Niðurstaða: Einungis ákvörðun sem bindur enda á mál verður kærð til æðra stjórnvalds, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðun um deiliskipulag tekur ekki gildi fyrr en að undangenginni samþykkt sveitarstjórnar og að lokinni birtingu auglýsingar um gildistöku hennar í B-deild Stjórnartíðinda.

Hin kærða deiliskipulagstillaga var samþykkt af sveitarstjórn Rangárþings ytra 10. janúar 2018 og í kjölfarið send til lögboðinnar yfirferðar hjá Skipulagsstofnun í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt upplýsingum frá Skipulagsstofnun þá hefur hún ekki lokið yfirferð sinni vegna hinnar kærðu deiliskipulagstillögu. Eðli máls samkvæmt hefur auglýsing um gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar því ekki birst í B-deild Stjórnartíðinda. Þar til slík auglýsing hefur verið birt er málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagstillögu ekki lokið. Er enda ekki loku fyrir það skotið að Skipulagsstofnun geri athugasemdir um form- eða efnisgalla á deiliskipulagstillögunni, tillagan taki breytingum eða að hætt verði við gildistöku hennar.

Með hliðsjón af framangreindu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá nefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

19/2018 Efra-Sel

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 8. maí, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 19/2018, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Rangárþings ytra frá 10. janúar 2018 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Efra-Sel 3e.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. febrúar 2018, er barst nefndinni 9. febrúar s.á., kæra tilgreindir eigendur Lækjarsels 1, þá ákvörðun bæjarstjórnar Rangárþings ytra frá 10. janúar 2018 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Efra-Sel 3e. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi ytra 12. febrúar 2018.

Málsatvik og rök: Með bréfi, dags. 25. október 2017, óskuðu eigendur Efra-Sels 3e eftir heimild til að deiliskipuleggja land fyrir byggingu íbúðarhúss, ásamt skemmu og gistiskálum tengdum ferðaþjónustu. Á fundi skipulags- og umferðarnefndar Rangárþings ytra 6. nóvember s.á. var umsóknin samþykkt og var lagt til að deiliskipulagstillagan yrði auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var hún og auglýst með athugasemdafresti frá 15. nóvember til 28. desember 2017. Þá var einnig óskað umsagnar Minjastofnunar, Vegagerðarinnar, Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og gerðu þær stofnanir engar athugasemdir við tillöguna. Hins vegar bárust athugasemdir innan frestsins frá aðilum á svæðinu, þ. á m. frá kærendum. Var þeim svarað og deiliskipulagstillagan samþykkt á fundi skipulagsnefndar 8. janúar 2018 og staðfest á fundi sveitarstjórnar 10. s.m. með fyrirvara um breytta aðkomu að lóðinni. 

Kærendur benda á að á undanförnum árum hafi verið skipulögð frístundabyggð í landi Efra-Sels og hafi flest hús verið byggð eins langt frá þjóðvegi og hægt hafi verið. Margar lóðir séu komnar með samþykkta frístundabyggð og aðrar séu í umsóknarferli. Aðeins hluti svæðisins sé óskipulagt land sem sé enn í kerfinu skráð landbúnaðarland eftir margar eignaskiptingar. Bent sé á að hvergi í landi Efra-Sels sé land skilgreint sem íbúðabyggð í dreifbýli, sbr. aðalskipulag Rangárþings ytra. Sé hvorki farið að gildandi reglum aðalskipulags né athugasemdum flestra eigenda á svæðinu.

Af hálfu Rangárþings ytra er bent á að ekki sé búið að auglýsa gildistöku hins kærða deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda. Beðið sé eftir viðbrögðum eigenda Efra-Sels 3e um leiðréttingu eða lagfæringu á atriði sem athugasemdir hafi m.a. lotið að.

Niðurstaða: Einungis ákvörðun sem bindur enda á mál verður kærð til æðra stjórnvalds, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðun um deiliskipulag tekur ekki gildi fyrr en að undangenginni samþykkt sveitarstjórnar og að lokinni birtingu auglýsingar um gildistöku hennar í B-deild Stjórnartíðinda.

Hin kærða deiliskipulagstillaga var samþykkt af sveitarstjórn Rangárþings ytra 10. janúar 2018 og í kjölfarið send til lögboðinnar yfirferðar hjá Skipulagsstofnun í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt upplýsingum frá Skipulagsstofnun þá hefur hún ekki lokið yfirferð sinni vegna hinnar kærðu deiliskipulagstillögu. Eðli máls samkvæmt hefur auglýsing um gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar því ekki birst í B-deild Stjórnartíðinda. Þar til slík auglýsing hefur verið birt er málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagstillögu ekki lokið. Er enda ekki loku fyrir það skotið að Skipulagsstofnun geri athugasemdir um form- eða efnisgalla á deiliskipulagstillögunni, tillagan taki breytingum eða að hætt verði við gildistöku hennar.

Með hliðsjón af framangreindu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá nefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

15/2018 Efra-Sel

Með

Árið 2018, föstudaginn 4. maí, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 15/2018, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Rangárþings ytra frá 10. janúar 2018 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Efra-Sel 3e.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. janúar 2018, er barst nefndinni 3. febrúar s.á., kæra tilgreindir eigendur Efra-Sels 3b (Háasel), þá ákvörðun bæjarstjórnar Rangárþings ytra frá 10. janúar 2018 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Efra-Sel 3e. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi ytra 7. febrúar 2018.

Málsatvik og rök: Með bréfi, dags. 25. október 2017, óskuðu eigendur Efra-Sels 3e eftir heimild til að deiliskipuleggja land fyrir byggingu íbúðarhúss, ásamt skemmu og gistiskálum tengdum ferðaþjónustu. Á fundi skipulags- og umferðarnefndar Rangárþings ytra 6. nóvember s.á. var umsóknin samþykkt og var lagt til að deiliskipulagstillagan yrði auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var hún og auglýst með athugasemdafresti frá 15. nóvember til 28. desember 2017. Þá var einnig óskað umsagnar Minjastofnunar, Vegagerðarinnar, Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og gerðu þær stofnanir engar athugasemdir við tillöguna. Hins vegar bárust athugasemdir innan frestsins frá aðilum á svæðinu, þ. á m. frá kærendum. Var þeim svarað og deiliskipulagstillagan samþykkt á fundi skipulagsnefndar 8. janúar 2018 og staðfest á fundi sveitarstjórnar 10. s.m. með fyrirvara um breytta aðkomu að lóðinni. 

Kærendur benda á  að miklir ókostir og óhagræði muni fylgja þeirri starfsemi sem verið sé að heimila. Vegir og umhverfi muni aldrei þola þá umferð sem af slíkri starfsemi stafi. Engin atvinnu- eða landbúnaðarstarfsemi sé á þessu lokaða svæði, sem sé lokað frá Bjallarvegi með hliði frá alfaraleið. Þá hafi u.þ.b. allir landeigendur á svæðinu gert athugasemdir við fyrirhugaða breytingu.

Af hálfu Rangárþings ytra er bent á að ekki sé búið að auglýsa gildistöku hins kærða deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda. Beðið sé eftir viðbrögðum eigenda Efra-Sels 3e um leiðréttingu eða lagfæringu á atriði sem athugasemdir hafi m.a. lotið að.

Niðurstaða: Einungis ákvörðun sem bindur enda á mál verður kærð til æðra stjórnvalds, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðun um deiliskipulag tekur ekki gildi fyrr en að undangenginni samþykkt sveitarstjórnar og að lokinni birtingu auglýsingar um gildistöku hennar í B-deild Stjórnartíðinda.

Hin kærða deiliskipulagstillaga var samþykkt af sveitarstjórn Rangárþings ytra 10. janúar 2018 og í kjölfarið send til lögboðinnar yfirferðar hjá Skipulagsstofnun í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt upplýsingum frá Skipulagsstofnun þá hefur hún ekki lokið yfirferð sinni vegna hinnar kærðu deiliskipulagstillögu. Eðli máls samkvæmt hefur auglýsing um gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar því ekki birst í B-deild Stjórnartíðinda. Þar til slík auglýsing hefur verið birt er málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagstillögu ekki lokið. Er enda ekki loku fyrir það skotið að Skipulagsstofnun geri athugasemdir um form- eða efnisgalla á deiliskipulagstillögunni, tillagan taki breytingum eða að hætt verði við gildistöku hennar.

Með hliðsjón af framangreindu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá nefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

153/2016 Lokaúttektargjald

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 25. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 153/2016, kæra á gjaldtöku Reykjavíkurborgar vegna útgáfu lokaúttektarvottorðs vegna fasteignarinnar að Haukdælabraut 96 í Reykjavík
.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. nóvember 2016, er barst nefndinni 22. s.m., kærir A, þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að innheimta gjald fyrir útgáfu lokaúttektarvottorðs vegna fasteignarinnar að Haukdælabraut 96 í Reykjavík. Skilja verður kröfugerð kæranda svo að gerð sé krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 7. febrúar 2017 og 24. apríl 2018.

Málavextir: Hinn 15. september 2009 var samþykkt umsókn um leyfi fyrir byggingu hússins að Haukdælabraut 96 í Reykjavík. Mun Reykjavíkurborg hafa gefið út byggingarleyfi 25. janúar 2010 og var kæranda þá gert að greiða 141.704 kr., þar af 72.000 kr. fyrir „úttektir“. Við lokaúttekt á umræddri fasteign var gerð krafa um að kærandi greiddi fyrir þá úttekt og fyrir útgáfu lokaúttektarvottorðs. Mun kærandi hafa komið á framfæri athugasemdum við byggingarfulltrúa vegna fyrirhugaðrar gjaldtöku, en verið tjáð að skylt væri að innheimta nefnd gjöld. Í kjölfar þess kvartaði kærandi til umboðsmanns borgarbúa. Óskaði umboðsmaður borgarbúa skýringa á umræddri gjaldtöku hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar og bárust þær með bréfi, dags. 25. maí 2016. Í bréfinu kom fram að gjöld vegna lokaúttektar og lokaúttektarvottorðs féllu utan áfangaúttekta og hafi á þeim tíma þegar umsókn um byggingarleyfi hafi verið samþykkt verið lagt á þegar eigandi hafi óskað lokaúttektar. Hafi ekki verið byrjað að leggja á gjald fyrir lokaúttekt og lokaúttektarvottorð samhliða samþykkt á byggingarleyfisumsóknum fyrr en í ársbyrjun 2013. Þá var tekið fram að Reykjavíkurborg féllist á að fella niður gjald vegna lokaúttektar, en að ekki yrði hjá því komist að greiða fyrir lokaúttektarvottorð. Upplýsti umboðsmaður borgarbúa kæranda um þá niðurstöðu með bréfi, dags. 26. maí 2016, og að athugun hans á málinu væri lokið.

Í framhaldi af því mun hafa verið stofnað til gjaldtöku vegna lokaúttektarvottorðs hinn 1. júní 2016 og munu frekari samskipti hafa átt sér stað milli umboðsmanns borgarbúa, byggingarfulltrúa og kæranda vegna þess. Tók umboðsmaður borgarbúa mál kæranda fyrir að nýju og var niðurstaða hans kynnt kæranda með bréfi, dags. 20. júlí 2016. Í bréfinu vék umboðsmaður borgarbúa m.a. að þeim álitaefnum sem leysa þyrfti úr vegna þeirra afstöðu kæranda að byggingarfulltrúa væri óheimilt að innheimta nefnd gjöld. Taldi umboðsmaður borgarbúa að ekki væri hægt að leggja að jöfnu þá þjónustu er fælist í framkvæmd úttektar annars vegar og útgáfu vottorðs hins vegar. Væri það niðurstaða hans að um tvö aðskilin gjöld væri að ræða og að greiðsla fyrir úttektir sem slíkar fæli ekki jafnframt í sér greiðslu vegna lokaúttektarvottorðs. Benti umboðsmaður borgarbúa kæranda einnig á að ágreiningur að því tagi sem um ræddi ætti undir valdsvið úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og vísaði í því sambandi m.a. á heimasíðu nefndarinnar.

Málsrök kæranda:
Kærandi skírskotar til þess að skv. 53. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem við eigi í máli þessu, hafi verið heimilt að innheimta gjöld samhliða úttekt en að sú gjaldtaka yrði að endurspegla raunkostnað, enda um þjónustugjöld að ræða. Um heimild hafi verið að ræða, en ekki skyldu til innheimtu gjaldsins. Telja verði að gjald vegna lokaúttektarvottorðs hafi verið innifalið í þeirri þjónustu sem kærandi hafi greitt fyrir árið 2010. Slíkt sé venjan og bendi kærandi á sambærilegt mál hjá öðru sveitarfélagi máli sínu til stuðnings. Hafi borginni verið í lófa lagið að krefjast þessarar greiðslu árið 2010 ef til hennar ætti að koma eða þá að orða greiðslukvittunina með öðrum hætti. Augljóst sé að greiðslukvittunin eigi við um úttektir og ótækt sé ef stjórnvald geti síðan breytt reglum þannig að heimilt sé að leggja á aukin gjöld. Þá sé verið að innheimta of mikið fyrir umrætt vottorð en það sé unnið upp úr sjálfvirku tölvukerfi. Sé í raun ekki um þjónustugjald að ræða heldur skatt. Loks bendi kærandi á að hann hafi skotið málinu til úrskurðarnefndarinnar eins fljótt og mögulegt hafi verið, en honum sé ljóst að meira en mánuður hafi liðið frá bréfi umboðsmanns borgarbúa til sín.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Sveitarfélagið krefst þess aðallega að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en til vara að álagningin verði staðfest. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komi fram að kærufrestur til nefndarinnar sé einn mánuður frá því að kærandi varð kunnugt eða hafi mátt vera kunnugt um ákvörðunina. Hin umdeilda álagning hafi verið kærð þegar liðnir voru tæpir sex mánuðir frá því að gjaldið hafi verið lagt á. Fyrir liggi að samskipti hafi átt sér stað milli byggingarfulltrúa og kæranda eftir að gjaldið hafi verið lagt á. Í því sambandi sé vísað til bréfa, dags. 25. maí 2016, en þar sé m.a. til umfjöllunar hið umdeilda gjald. Kæranda hafi því verið fullkunnugt um álagningu á því tímamarki, en í síðasta lagi við greiðslu þess 18. ágúst s.á. Hafi honum verið í lófa lagið að kæra álagningu þá þegar við það tímamark, ella innan mánaðarfrestsins.

Byggingarfulltrúi hafi lagt gjald á vegna lokaúttektar skv. 4. gr. gjaldskrár fyrir úttektir og vottorð byggingarfulltrúans í Reykjavík 2009. Hafi gjaldskráin sótt stoð sína til 1. mgr. 53. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, núgildandi 1. mgr. 51. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Í 1. mgr. 53. gr. laga nr. 73/1997 hafi komið fram að sveitarstjórnum væri heimilt að innheimta gjöld vegna útmælinga, eftirlits, úttekta, yfirferða hönnunargagna og vottorða sem byggingarfulltrúi léti í té. Í núgildandi gjaldtökuheimild sé að finna efnislega samhljóða ákvæði. Segi í lögunum að sveitarstjórn ákveði gjalddaga framkvæmdaleyfis-, byggingarleyfis- og bílastæðagjalda og hvernig þau skuli innheimt. Sé innheimta gjaldsins því lögum samkvæmt.

Niðurstaða: Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefndina. Berist kæra að liðnum kærufresti ber að vísa henni frá skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, sbr. og það sem nánar kemur fram í málavaxtalýsingu, mátti kæranda vera ljóst efni hinnar kærðu ákvörðunar eftir að afstaða borgarinnar þess efnis að greiða yrði fyrir lokaúttektarvottorð lá fyrir í bréfi 25. maí 2016 og stofnað var til gjaldtöku 1. júní s.á. Svo sem að framan greinir kvartaði kærandi yfir hinni umdeildu gjaldtöku við umboðsmann borgarbúa. Lá afstaða umboðsmanns borgarbúa vegna málsins fyrir og var kynnt kæranda með bréfum, dags. 26. maí og 20. júlí 2016. Í síðargreinda bréfinu var á það bent á að ágreiningur að því leyti sem mál kæranda varðaði heyrði undir valdsvið úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Jafnframt því var upplýst hvar úrskurðarnefndin væri til húsa og að kæra þyrfti að vera skrifleg og undirrituð af hálfu kæranda. Þá var að því vikið að nánari upplýsingar mætti nálgast á heimasíðu nefndarinnar og vefslóð hennar gefin upp. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála barst kæra í máli þessu 22. nóvember 2016 eða ríflega fjórum mánuðum eftir að umboðsmaður borgarbúa hafði bent kæranda á að unnt væri að skjóta hinni umþrættu ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar og rúmum þremur mánuðum eftir að kærandi innti af hendi greiðslu gjaldsins. Var kærufrestur þá liðinn.

Þrátt fyrir að ekki hafi verið veittar upplýsingar um kærufrest í umræddu bréfi umboðsmanns borgarbúa er ljóst að eigi síðar en 20. júlí 2016 lágu fyrir kæranda leiðbeiningar um að unnt væri að skjóta ákvörðuninni til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Verður að telja að kæranda hafi verið í lófa lagið að gera reka að því að vísa málinu til úrskurðarnefndarinnar innan lögmælts kærufrests og ber kæran raunar með sér að kærandi var þess meðvitaður að kærufrestur væri liðinn. Verður með vísan til framangreinds ekki séð að fyrir hendi séu þau atvik eða ástæður er mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar á grundvelli undantekningarheimilda 28. gr. stjórnsýslulaga og ber því að vísa henni frá úrskurðarnefndinni með vísan til fyrirmæla 1. mgr. sama lagaákvæðis.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

117/2017 Starfsleyfi fyrir brennsluofni

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 25. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 117/2017, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra frá 7. september 2017 um að synja um endurnýjun á starfsleyfi fyrir brennsluofn.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. október 2017, er barst nefndinni 11. s.m., kærir B. Jensen ehf., Lóni, Akureyri, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra frá 7. september 2017 að synja um endurnýjun á starfsleyfi fyrir brennsluofn kæranda. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 8. desember 2017, krafðist kærandi þess að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til þessarar kröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra 27. nóvember 2017.

Málavextir: Kærandi rekur sláturhús og kjötvinnslu og er með starfsleyfi sem gefið var út af heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra 5. desember 2013. Gildir starfsleyfið til 12 ára. Heilbrigðisnefndin gaf einnig út starfsleyfi til kæranda fyrir brennslu sláturúrgangs í áhættuflokkum 1 og 2 í sérstökum brennsluofni hinn 25. ágúst 2016. Starfsleyfið var gefið út til eins árs og gilti fyrir brennslu á allt að 20 tonnum af sláturúrgangi á ári. Á starfsleyfistímanum bárust kvartanir frá íbúum í nágrenni ofnsins um lyktarmengun og reyk. Jafnframt var haldinn íbúafundur í Hlíðarbæ í Hörgársveit 25. janúar 2017 þar sem fram komu kvartanir af hálfu fundarmanna vegna ofnsins.

Kærandi sótti um framlengingu á framangreindu starfsleyfi og á fundi heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra 7. september 2017 var eftirfarandi bókað: „Ljóst er að reynslan af rekstri ofnsins m.t.t. nágranna hefur ekki verið góð þar sem margar og ítrekaðar kvartanir hafa borist heilbrigðiseftirliti vegna reykjar- og lyktarmengunar. Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra getur af þessum sökum ekki samþykkt veitingu á áframhaldandi starfsleyfi fyrir brennsluofn á núverandi stað.“

Kæranda var kynnt ákvörðun heilbrigðisnefndar með bréfi, dags. 18. september 2017, en með bréfi, dags. 22. s.m., fór kærandi fram á endurupptöku þeirrar ákvörðunar með vísan til þess að fyrir lægju niðurstöður mengunarmælinga sem framkvæmdar hefðu verið af Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Með bókun á fundi heilbrigðisnefndar 2. október s.á. var því hafnað að endurupptaka nefnda ákvörðun þar sem niðurstöður útblástursmælinga hefðu ekki legið til grundvallar niðurstöðu nefndarinnar um synjun á starfsleyfi.

Á fundi heilbrigðisnefndarinnar 7. nóvember 2017 kom fram að kærandi hefði haldið áfram að nota brennsluofninn þrátt fyrir að leyfi fyrir starfsemi hans væri útrunnið. Fól nefndin heilbrigðisfulltrúa að fylgja málinu eftir og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum skv. VI. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og stöðva rekstur ofnsins á núverandi stað, með aðstoð lögreglu ef með þyrfti. Var kæranda kynnt framangreint með bréfi, dags. 20. nóvember s.á. Með bréfi, dags. 14. s.m., fór kærandi fram á að fá heimild til að starfrækja brennsluofninn á meðan mál hans væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Var þeirri beiðni hafnað með bréfi Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, dags. 29. nóvember s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi kveður heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra hvorki hafa sinnt lögboðinni rannsóknarskyldu sinni né gætt andmælaréttar áður en hin kærða ákvörðun hafi verið tekin. Þá hafi nefndin ekki gætt jafnræðis í máli kæranda, en mikill fjöldi svipaðra brennsluofna sé í notkun um land allt.

Þegar ákvörðunin hafi verið tekin hafi legið fyrir að beðið væri niðurstöðu mælinga Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á útblæstri hins umdeilda brennsluofns. Engu að síður hafi verið ákveðið að synja kæranda um starfsleyfi fyrir ofninn. Nú liggi fyrir drög að mælingu sem styðji það sem kærandi hafi alla tíð haldið fram, að mengun frá brennsluofninum sé innan eðlilegra og löglegra marka. Ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar hafi því verið byggð á ófullnægjandi og/eða röngum upplýsingum. Með bréfi, dags. 22. september 2017, hafi þess verið krafist, með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að heilbrigðisnefndin endurupptæki stjórnvaldsákvörðun sína og breytti henni með þeim hætti að gefið yrði út starfsleyfi fyrir brennsluofninn. Þeirri kröfu hafi ekki verið svarað.

Málsrök heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra: Heilbrigðisnefndin bendir á að samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir gefi heilbrigðisnefnd út starfsleyfi. Í ákvæðinu segi m.a. að gefa skuli út starfsleyfi til tiltekins tíma og að heimilt sé að endurskoða eða breyta starfsleyfi, svo sem ef mengun af völdum atvinnurekstrar sé meiri en búist hafi verið við þegar leyfið hafi verið gefið út eða ef breyting verði á aðalskipulagi viðkomandi sveitarfélags. Mengun eða breyting á skipulagi séu því málefnalegar ástæður fyrir því að starfsleyfi sé ekki veitt að nýju eftir að gildistíma ljúki. Fyrir liggi kvartanir um ólykt sem borist hafi heilbrigðiseftirliti og sem bornar hafi verið fram á íbúafundi í Hörgársveit. Þótt ekki sé byggt á breyttu skipulagi í synjuninni hafi verið horft til þess. Byggð sé að færast nær starfsstöðinni, sbr. auglýst deiliskipulag í Hörgársveit, og séu því enn meiri líkur á því að íbúar þar komi til með að verða fyrir óþægindum.

Þá sé vísað til reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, en markmið reglugerðarinnar sé að koma í veg fyrir og draga úr mengun af völdum atvinnurekstrar. Í reglugerðinni sé ólykt skilgreind sem mengun þótt hún sé ekki skaðleg. Því geti útblástursmælingar einar og sér ekki leitt til þess að veita skuli starfsleyfi, ef ekki sé hægt að koma í veg fyrir lyktarmengun. Kæranda hafi verið veitt starfsleyfi til eins árs, frá 25. ágúst 2016. Horft hafi verið á starfsleyfistímann sem reynslutíma. Á gildistíma starfsleyfisins hafi borist kvartanir um reyk- og lyktarmengun frá íbúum og rekstraraðilum í nærliggjandi götum og einnig á íbúafundi. Kvartanir hafi allar verið á þá leið að mikil lyktarmengun stafaði af brennslu í ofninum, sem ónáðaði íbúa. Þegar umsókn um endurnýjun á starfsleyfi hafi verið könnuð hafi framangreindar kvartanir og staðfesting á lyktarmengun orðið til þess að ekki hafi verið hægt að verða við því að starfsleyfið yrði endurnýjað. Kæranda hafi í tíma verið bent á að honum væri heimilt að færa brennsluofninn á iðnaðarlóð, fjær íbúabyggð, án þess að litið yrði á hann sem móttökustöð fyrir úrgang. Meðalhófs hafi því verið gætt í máli kæranda.

Heilbrigðisnefnd mótmæli þeirri staðhæfingu kæranda að hún hafi  vanrækt að sinna rannsóknarskyldu sinni við töku hinnar kærðu ákvörðunar.  Sé í þessu sambandi á það bent að kvartanir hafi verið skráðar og staðfestar. Þá hafi niðurstaða útblástursmælingar ekki haft áhrif á niðurstöðuna þar sem kvartanir einar og sér, sem og lyktarmengun, hafi leitt til umræddrar synjunar. Kærandi hafi hins vegar átt að vera búinn að senda niðurstöður útblástursmælinga fyrir nokkrum mánuðum samkvæmt skilyrðum starfsleyfisins og því hafi hann ítrekað verið beðinn um þær niðurstöður. Heilbrigðisnefndin bendi á að kærandi hafi sent inn umsókn og því hafi verið óþarfi að veita honum sérstakan andmælarétt. Í umsókn sinni hafi kærandi getað komið að sjónarmiðum sínum og rökum ef hann hefði séð ástæðu til. Heilbrigðisnefndin mótmæli því að jafnræðisreglan hafi verið brotin við meðferð málsins. Hvert og eitt tilvik þurfi að skoða út frá aðstæðum hverju sinni, nálægð við íbúðabyggð, mengun frá hverjum og einum brennsluofni og kvörtunum sem berist. Því sé hvert og eitt mál einstakt, sem meta þurfi með vísan til eðlis og aðstæðna hverju sinni.

Að öllu framangreindu virtu verði að telja að ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar um synjun á endurnýjun starfsleyfis kæranda vegna brennsluofns við starfsstöð hans hafi verið lögmæt og studd málefnalegum rökum. Engir annmarkar hafi verið á málsmeðferð eða efni hinnar kærðu ákvörðunar sem raskað geti gildi hennar. Ítrekað sé að kæranda standi enn til boða að flytja brennsluofninn á iðnaðarlóð, þar sem ekki sé hætta á því að íbúar verði fyrir ónæði vegna lyktarmengunar.

Niðurstaða: Samkvæmt 6. gr. í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal allur atvinnurekstur, sbr. viðauka I-V, hafa gilt starfsleyfi sem Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefndir gefa út. Samkvæmt 5. gr. laganna setur ráðherra reglugerð til að stuðla að framkvæmd mengunarvarnaeftirlits og skulu þar m.a. vera almenn ákvæði um starfsleyfi fyrir allan atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun, sbr. 1. tl. nefndrar lagagreinar. Reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun er nr. 785/1999. Markmið hennar er m.a. að koma í veg fyrir og draga úr mengun af völdum slíks atvinnurekstrar, koma á samþættum mengunarvörnum og að samræma kröfur og skilyrði í starfsleyfum. Í fylgiskjali 2 með reglugerðinni er talinn upp sá atvinnurekstur sem heilbrigðisnefnd veitir starfsleyfi fyrir, ásamt liðum 6.4 til 6.6 í I. viðauka. Heilbrigðisnefnd er þannig ætlað það hlutverk að veita starfsleyfi, að teknu tilliti til þeirra markmiða reglugerðarinnar sem snúa að mengunarvörnum. Ber nefndinni að fara að þeim málsmeðferðarreglum sem í reglugerðinni eru tilgreindar, sem og í lögum nr. 7/1998 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Kærandi rekur sláturhús og kjötvinnslu í samræmi við starfsleyfi sem gefið var út af heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra 5. desember 2013. Eins og segir í málavaxtalýsingu ákvað kærandi að setja upp brennsluofn fyrir sláturúrgang við starfsstöð sína og var það niðurstaða heilbrigðisnefndar að gefa út sérstakt starfsleyfi fyrir rekstri ofnsins. Var starfsleyfi gefið út til kæranda fyrir brennslu sláturúrgangs í áhættuflokkum 1 og 2 hinn 25. ágúst 2016. Starfsleyfið var gefið út til eins árs og gilti fyrir brennslu á allt að 20 tonnum af sláturúrgangi á ári.

Á meðal gagna málsins er bréf frá Umhverfisstofnun, dags. 24. apríl 2015, þar sem veittar eru leiðbeiningar varðandi starfsleyfisskyldu brennsluofns við sláturhús til að brenna áhættuvefi úr dýrum. Þar kemur fram að hafi brennsluofn 10 tonna afkastagetu á dag eða minna telji Umhverfisstofnun að líta beri á starfrækslu hans sem hluta af starfsemi viðkomandi sláturhúss og því beri að fella sértæk starfsleyfisskilyrði fyrir brennsluofninn inn í starfsleyfi fyrir sláturhúsið sjálft.

Eins og áður kom fram er sá atvinnurekstur sem heilbrigðisnefnd veitir starfsleyfi fyrir skv. reglugerð nr. 785/1999, sbr. lög nr. 7/1998, talinn upp í fylgiskjali 2 með reglugerðinni, ásamt liðum 6.4 til 6.6 í I. viðauka, sbr. lið 1. mgr. 9. gr. í reglugerðinni. Samkvæmt lið 6.5 í I. viðauka skal gefa út starfsleyfi til handa stöðvum þar sem förgun eða endurvinnsla skrokka og úrgangs af dýrum fer fram og afkastageta er meiri en 10 tonn á dag. Þar er augljóslega um miklu meiri afköst að ræða en umsókn kæranda gerir ráð fyrir. Rekstur ofnsins er hluti af rekstri sláturhúss hans en eingöngu er brenndur úrgangur frá því í ofninum. Í reglugerðinni er ekki gert ráð fyrir að stöð sem afkastar minna en liður 6.5 segir til um sé starfsleyfisskyld ein og sér. Synjun heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra um endurnýjun á starfsleyfi fyrir brennsluofn var þannig ekki til þess fallin að hafa áhrif á lögvarða hagsmuni kæranda, sbr. skilyrði þar um í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Enda var útgáfa slíks starfsleyfis ekki lögboðin. Verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Loks skal bent á að ef til beitingar þvingunarúrræða hefur komið hafa þær ákvarðanir ekki verið kærðar til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kæru á ákvörðun heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra frá 7. september 2017 um að synja um endurnýjun á starfsleyfi fyrir brennsluofn er vísað frá úrskurðarnefndinni.

44/2018 Grensásvegur 16A

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 25. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 44/2018, kæra á ákvörðunum byggingarfulltrúans í Reykjavík um að veita leyfi til að byggja tveggja hæða bílageymslu á lóðinni Grensásvegi 16A, Reykjavík, og til að byggja tvær hæðir ofan á núverandi hús á lóðinni ásamt fleiru.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. mars 2018, er barst nefndinni 14. s.m., kærir Fróði ehf., eigandi 1. hæðar og kjallara húss nr. 37 við Síðumúla, Reykjavík, byggingarleyfi frá 8. janúar og 14. febrúar 2018 fyrir Grensásveg 16A. Gerir kærandi þá kröfu „að felld[ar] verði úr gildi samþykktir á byggingarleyfisumsóknum nr. BN053105 og BN0525[44], sem og staðfesting borgarráðs Reykjavíkur frá 17. ágúst 2017 á þeim samþykktum og að hin kærðu byggingarleyfi verði felld úr gildi.“

Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum hinna kærðu byggingarleyfa verði frestað þar til niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggi fyrir. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til þessarar kröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 4. apríl 2018.

Málavextir: Á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. júlí 2017 voru samþykktar fjórar byggingarleyfisumsóknir vegna Grensásvegs 16A. Um var að ræða umsókn um að byggja tvær hæðir ofan á núverandi hús og tvær hæðir ofan á matshluta 3, umsókn um leyfi til að rífa matshluta 3, merktan 0101, bílastæðahús, umsókn um leyfi til að byggja nýja tveggja hæða bílageymslu, matshluta 4, í stað eldri bílageymslu, og umsókn um leyfi til að byggja 4. hæð ofan á Síðumúla 39, og tvær hæðir ofan á vestari hluta bílageymslu. Framangreindar ákvarðanir byggingarfulltrúa voru samþykktar af borgarráði 17. ágúst 2017.

Byggingarleyfi til niðurrifs á matshluta 3 á umræddri lóð, þ.e. bílageymslu, var gefið út 26. júlí 2017 og var veiting þess kærð af kæranda með bréfi, dags. 25. ágúst 2017. Með úrskurði uppkveðnum 1. desember s.á., í máli nr. 27/2017, var kröfu kæranda um ógildingu greinds byggingarleyfis hafnað og var einnig hafnað kröfu hans um ógildingu á deiliskipulagi svæðisins.

Byggingarleyfi til að byggja tveggja hæða bílageymslu var gefið út 8. janúar 2018 og leyfi til að byggja tvær hæðir ofan á núverandi hús ásamt tveimur hæðum ofan á matshluta 3 var gefið út 14. febrúar s.á. Hefur kærandi nú komið að kæru vegna nefndra leyfa, svo sem áður greinir.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda kemur fram að hann hafi fengið upplýsingar um útgáfu umræddra byggingarleyfa, sem nú sé krafist ógildingar á, þann 16. febrúar 2018 með tölvupósti til tilgreinds lögmanns og sé kæra því fram komin innan þess frests sem getið sé um í 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að kröfum kæranda í máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kæran sé allt of seint fram komin. Kærufrestur, samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sé einn mánuður frá því að kæranda hafi orðið kunnugt, eða mátt vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra eigi. Kærandi hafi bæði kært deiliskipulagið og takmarkað byggingarleyfi og hafi hann verið upplýstur um stöðu mála. Á fundi 25. september 2017, sem m.a. byggingarfulltrúi og lögmaður kæranda hafi setið, hafi verið upplýst um að byggingarleyfið hefði verið samþykkt og megi ætla að kæranda hafi verið það ljóst fljótlega eftir fundinn. Þá megi nefna að hin kærðu byggingarleyfi hafi verið samþykkt sama dag og byggingarleyfi til niðurrifs hafi verið samþykkt og kærandi hafi kært á sínum tíma.

Kæra hafi borist úrskurðarnefndinni tæpum fimm mánuðum eftir greint tímamark, eða 16. mars 2018, og hafi kærufrestur þá verið löngu liðinn. Undanþáguákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem heimili að mál sé tekið til efnismeðferðar að liðnum kærufresti, beri að túlka þröngt og verði þau ekki talin eiga við í þessu máli. Beri því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er á það bent að tilvitnuð kæra lúti að ákvörðunum byggingaryfirvalda um samþykkt á umsóknum leyfishafa sem teknar hafi verið 18. júlí 2017 á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa, staðfestar af umhverfis- og skipulagsráði 16. ágúst 2017 og staðfestar í borgarráði 17. s.m. Á fundum þessum hafi verið afgreiddar umsóknir um byggingarframkvæmdir á umdeildri lóð við Grensásveg 16/Síðumúla 37-39. Hinn 25. ágúst 2017 hafi kærandi kært ákvörðun byggingarfulltrúa frá 18. júlí 2017 um útgáfu leyfis til niðurrifs til úrskurðarnefndarinnar. Nefndin hafi hafnað kröfu kæranda með úrskurði 1. desember 2017  í máli nr. 27/2017. Líta beri á ákvörðun byggingarfulltrúa frá 18. júlí 2017 og staðfestingu borgarráðs Reykjavíkur frá 17. ágúst s.á. sem þær stjórnvaldsákvarðanir sem í raun sæti kæru í þessu máli, en ekki afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 8. janúar og 14. febrúar 2018 á grundvelli 13. og 14. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Um þetta virðist kærandi reyndar sammála enda tilgreini hann sérstaklega staðfestingu borgarráðs í kröfugerð sinni. Þessari túlkun hafi einnig verið beitt hjá úrskurðarnefndinni í sambærilegum málum, sbr. t.a.m. máli nr. 32/2007, Suðurströnd, og nr. 52/2013, Hesteyri.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda hafi orðið kunnugt eða mátt vera kunnugt um ákvörðunina. Kærufrestur þessi sé skemmri en almennt samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Ástæða þess sé, eins og segi í greinargerð með lögum nr. 130/2011, að „brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst. Eftir því sem framkvæmdir eru komnar lengra áður en ágreiningur um þær verður ljós skapast meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga.“

Niðurstaða: Samkvæmt 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Er í máli þessu deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúa að veita tvö byggingarleyfi fyrir Grensásvegi 16A, en áður hefur kærandi komið að kæru vegna byggingarleyfis fyrir niðurrifi mannvirkis á sömu lóð.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu voru teknar fyrir fjórar byggingarleyfisumsóknir vegna Grensásvegar 16A á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. júlí 2017 og bókað um afgreiðslu þeirra. Í gögnum kærumáls nr. 94/2017, er sameinað var máli nr. 27/2017 og úrskurður var kveðinn upp í 1. desember 2017, er að finna tölvupóst frá 22. ágúst s.á. Viðtakendur póstsins eru sá stjórnarmaður í stjórn kæranda sem skráður er forráðamaður hans í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og báðir þeir lögmenn sem komið hafa fram fyrir hönd kæranda hjá úrskurðarnefndinni. Í tölvupóstinum tekur sendandi fram að honum virðist framkvæmdir vera að hefjast þannig að hann hafi farið „að grafa“ og fundið efni sem síðan var afritað í tölvupóstinum. Þar eru afritaðar upplýsingar um embættisafgreiðslufund byggingarfulltrúans sem haldinn var 11. júlí 2017 og þar á eftir eru afritaðar bókanir um afgreiðslur byggingarfulltrúa á umsóknum um byggingarleyfi vegna Grensásvegar 16A frá 18. s.m., m.a. þær sem hér er um deilt.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Svo sem að framan er rakið liggur fyrir að frá 22. ágúst 2017 var kæranda ljóst efni þeirra umsókna sem samþykktar voru af byggingarfulltrúa 18. júlí s.á., en samþykkt byggingarleyfisumsókna er stjórnvaldsákvörðun sem kærð verður til úrskurðarnefndarinnar skv. 59. gr., sbr. og 11. gr. mannvirkjalaga. Gat kærandi í kjölfar þess aflað sér samþykktra aðaluppdrátta til að kynna sér nánar efni hinna kærðu ákvarðana. Kæra málsins tiltekur að kærð séu byggingarleyfi útgefin 8. janúar og 14. febrúar 2018. Útgáfa byggingarleyfis veitir leyfishafa heimild til að hefja framkvæmdir í samræmi við þegar samþykkta umsókn þegar viðbótarskilyrði 13. gr. mannvirkjalaga eru uppfyllt, s.s. um frekari hönnunargögn og greiðslu gjalda. Útgáfa byggingarleyfanna ein og sér felur hins vegar ekki í sér kæranlega stjórnvaldsákvörðun, enda hefur efnisinnihald leyfanna þá þegar verið samþykkt af byggingarfulltrúa í samræmi við 11. gr. laganna. Eru samþykktir byggingarleyfisumsóknanna og útgefin byggingarleyfi í kærumáli þessu og samhljóða að öllu leyti. Kemur og fram í kæru að þess sé krafist að felldar verði úr gildi samþykktir á byggingarleyfisumsóknum þar að baki. Verður af öllu framangreindu að telja að kæranda hafi hinn 22. ágúst 2017 mátt vera kunnugt um þær ákvarðanir sem kærðar verða til úrskurðarnefndarinnar, í skilningi nefndrar 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Var kærufrestur því liðinn þegar kæra kom fram í málinu 14. mars 2018, meira en hálfu ári síðar.

Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Tiltekið er í athugasemdum með 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé svo sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum. Skal og á það bent að í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 er tekið fram í athugasemdum með 2. mgr. 4. gr. að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga. Segir nánar að brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra áður en ágreiningur um þær verði ljós skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga. Sjónarmið um réttaröryggi og tillit til hagsmuna leyfishafa liggja því þarna að baki og hefur byggingarleyfishafi eðli máls samkvæmt ríkra hagsmuna að gæta í málinu.

Með hliðsjón af þeirri vitneskju kæranda sem áður hefur verið vísað til, sem og þeim sjónarmiðum sem að framan hafa verið rakin, verða hin kærðu byggingarleyfi ekki tekin til efnismeðferðar að liðnum kærufresti á grundvelli undantekningaákvæða 28. gr. stjórnsýslulaga, heldur verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli ákvæðisins þar um.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.