Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

65/2018 Miðstræti

Árið 2018, miðvikudaginn 16. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 65/2018, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 20. apríl 2018 um að krefjast lagfæringar á skemmdri frárennslislögn.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. apríl 2018, sem barst nefndinni sama dag, kæra húsfélögin Miðstræti 8a og Miðstræti 8b þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að gefa kærendum frest til 30. apríl 2018 til að gera við skemmda frárennslislögn. Gera kærendur kröfu um að ákveðið verði með úrskurði að þvingunarúrræðum verði ekki beitt gagnvart þeim. Jafnframt gera kærendur kröfu um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 7. maí 2018.

Málavextir:
Kærendur eru húsfélög fasteignanna Miðstrætis 8a og Miðstrætis 8b. Liggur frárennslislögn frá húsinu undir lóð Laufásvegar 7 áður en hún tengist stofnlögn. Í mars 2018 stíflaðist sá hluti lagnarinnar sem liggur undir lóðina að Laufásvegi 7 en kærendum hefur verið neitað um aðgengi að lögninni til að fá gert við hana, bæði af eigendum Laufásvegar 7 og 9. Afleiðing stíflunnar var sú að skolpblandað vatn lak inn í húsnæði að Laufásvegi 9. Með bréfi, dags. 20. mars 2018, fór Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fram á að kærendur létu lagfæra umrædda skólplögn tafarlaust og skyldi viðgerð lokið eigi síðar en 3. apríl s.á. Eftir bréfleg samskipti var ákveðið að framlengja umræddan frest og með bréfi, dags. 20. s.m., ítrekaði Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fyrri kröfu um að kærendur létu lagfæra umrædda skólplögn. Skyldi viðgerð lokið eigi síðar en 30. s.m. Var í bréfinu jafnframt vakin athygli á því að yrði ekki farið að kröfu heilbrigðiseftirlitsins gæti heilbrigðisnefnd látið fara fram lagfæringar á lögninni á kostnað eiganda. Kærendur lögðu fram kæru sína 27. apríl 2018 og hafði þá viðgerð ekki verið framkvæmd og þvingunaraðgerðum ekki beitt.

Málsrök kærenda:
Kærendur kveðast ekki geta unað því að eigendur Laufásvegar 7 og 9 stöðvi nauðsynlegar viðgerðir á frárennslislögnum kærenda. Aldrei hafi staðið á kærendum að gera við lagnirnar. Erfitt sé að samþykkja að vera knúnir með kúgun til að samþykkja afarkosti um m.a. óskyld mál eða vera neyddir til að leysa frárennslismálin með sértækum lausnum sem kosti margfalt á við hina gömlu og hefðbundnu leið frárennslisins, sem auk þess sé styst og hagkvæmust. Kærendur hafni jafnframt hvers kyns ábyrgð á skemmdum vegna lagnanna, enda verið meinað að grípa til eðlilegra og fyrirbyggjandi ráðstafana til viðgerða í haust er leið og nú aftur, til að koma í veg fyrir frekari skemmdir.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er krafist frávísunar kærunnar. Kærendur hafi fengið frest til 30. apríl 2018 til að gera við skemmda frárennslislögn á lóðinni nr. 8 við Miðstræti. Hafi jafnframt verið tekið fram að ef ekki yrði orðið við kröfunni gæti heilbrigðiseftirlitið látið fara fram lagfæringar á lögninni á kostnað lóðarhafa. Umræddur frestur sé liðinn og engin ný ákvörðun hafi verið tekin. Hafi kærendur því enga lögvarða hagsmuni af því að fá úr gildi ákvörðunarinnar skorið og beri því að vísa kærunni frá.

Niðurstaða: Í XVII. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir er fjallað um valdsvið og þvingunarúrræði samkvæmt lögunum. Í 1. mgr. 60. gr. kemur fram að til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum, reglugerðum, samþykktum sveitarfélaga eða eigin fyrirmælum samkvæmt ákvæðum þessum geti heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúi beitt nánar tilgreindum þvingunarúrræðum. Í 1. mgr. 61. gr. segir að þegar aðili sinni ekki fyrirmælum innan tiltekins frests geti heilbrigðisnefnd ákveðið honum dagsektir þar til úr sé bætt. Þá segir í 3. málsl. 1. mgr. 61. gr. að jafnframt sé heilbrigðisnefnd heimilt að láta vinna verk á kostnað hins vinnuskylda ef fyrirmæli um framkvæmd séu vanrækt og skuli kostnaður þá greiddur til bráðabirgða af viðkomandi heilbrigðiseftirliti en innheimtast síðar hjá hlutaðeigandi. Rísi ágreiningur um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir yfirvalda er heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 65. gr. laganna.

Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að ákvörðun sem ekki bindi enda á mál verði ekki kærð fyrr en málið hafi verið til lykta leitt. Tilefni máls þessa er bréf Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til kærenda, dags. 20. apríl 2018, þar sem skorað er á þá að lagfæra skólplögn sem liggur frá húsi þeirra. Er tekið fram að verkinu skuli lokið eigi síðar en 30. s.m. Í bréfinu segir jafnframt að verði ekki farið að kröfu heilbrigðiseftirlitsins geti heilbrigðisnefnd látið fara fram lagfæringar á lögninni á kostnað kærenda. Er til stuðnings þessa vísað ranglega til 27. gr. laga nr. 7/1998 en ekki núgildandi 61. gr. laganna. Ekki verður talið að bréfið feli í sér lokaákvörðun sem skotið verði til úrskurðarnefndarinnar heldur aðeins tilkynningu um að til álita komi að beita þvingunarúrræðum samkvæmt XVII. kafla laga nr. 7/1998, nánar tiltekið 3. málsl. 1. mgr. 61. gr. laganna, verði kærendur ekki við áskorun um að vinna ákveðið verk. Verður því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir